<<

BA ritgerð

Almenn bókmenntafræði og ritlist

Hin ljóðræna skynjun umbreytinga og hamfara. Um ljóð og list úr Norður Atlantshafinu

Steinunn Rósa Sturludóttir

Leiðbeinandi Ana Stanićević

Júní 2021

ÍSLENSKU- OG MENNINGARDEILD

Háskóli Íslands Hugvísindasvið Almenn bókmenntafræði og ritlist

Hin ljóðræna skynjun umbreytinga og hamfara

Um ljóð og list úr Norður Atlantshafinu

Ritgerð til B.A.-prófs. 10 ECTS

Steinunn Rósa Sturludóttir

Kt.: 110264-4029

Leiðbeinandi: Ana Stanićević

Maí 2021

Ágrip

Þessi ritgerð er þverfagleg og fjallar um líkindi ljóðabókar og myndskreytinga færeysku listakonunnar Önnu Malan Jógvansdóttur (f.1995) við texta og myndbönd tónlistakonunnar Bjarkar Guðmundsdóttur (f.1965). Báðar listakonurnar eru undir áhrifum hinnar grótesku, ókennilegu og írónísku dökku vistfræði sem gjarnan er kennd við heimspekinginn Timothy Morton (f. 1968). Timothy Morton er menntaður bókmenntafræðingur sem hefur síðustu ár fært sig yfir í heimspekina og látið sig umhverfismál mikið varða. Hann hefur gefið út fjölda rita og greina um dökku vistfræðina (e. Dark ecology), hlutmiðaða verufræði (e. Object Oriented Ontology) og sett fram fleiri hugtök þar sem leitast er við að skýra tilveru og stöðu mannsins á tímum umhverfisógnar af nýjum skala. Verk beggja listakvenna verða skoðuð með hliðsjón af helstu kenningum Mortons. Markmið ritgerðarinnar er að greina aðferðir sem Anna og Björk nota í verkum sínum til þess að ljá bæði dýrum og hlutum í heiminum rödd. Rýnt verður í myndmál þeirra beggja og hugmyndir þeirra um konu í náttúru og náttúru sem konu.

1

Efnisyfirlit

1. Forstig 3 2. Kórall – Hlutmiðuð verufræði 6 3. Öreindin ókennilega – Vistrýni 12 4. Sálin – Dökk vistfræði 17 5. Samruni – Ofurhlutir, möskvi 24 6. Sköp(un) – Töfraraunsæi 29 7. Umfrymi – Jaðartexti verka 35 8. Endastig 38 9. Heimildaskrá 40 10. Myndbönd Bjarkar 45 11. Viðauki - myndir 46

2

1. Forstig

Öll ljóð eru umhverfisleg því að í þeim felast rýmin sem þau eru skrifuð í og rýmin sem þau eru lesin í – tómarúm í kringum og á milli orðanna, þögnin í hljóðinu. ~Timothy Morton 1

Sagt er að hvert svæði og hver staður jarðarinnar hafi sín sérkenni sem hvergi annarsstaðar finnast og áhrif náttúrunnar eigi stóran þátt í því að móta einstaklinginn á hverjum stað. Hér á norðurhjara veraldar er náttúran hrjúf. Nóg er af myrkrinu, kulda og bleytu og norpandi á mörkum hins byggilega heims lærðum við að lifa með hinni óljúfu og dyntóttu náttúru. En um leið og hún er ógurleg er hún fögur og töfrandi, síbreytilegt ólíkindatól. Við erum minnt á það aftur og aftur hversu kviklynd náttúran okkar getur verið því á einu augabragði getur hún breyst úr blíðri álfkonu í grimma refsigyðju. Þegar hún er í sínum versta ham, gerum við okkur grein fyrir því hvað við skiptum litlu máli í stóra samhenginu. Það að geta alltaf átt von á jarðskjálfta, vindhviðu svo sterkri að hún feykir stórum bílum um koll eða öldu svo stórri að hún sökkvir hundruðum tonna af stáli, aurflóði, snjóflóði eða jafnvel eldgosi í bakgarðinum, gerir okkur svo smá. Eins og íbúar hér á norðurhvelinu draga dám af umhverfinu gera það einnig tvær listakonur sem hér verða til umfjöllunar. Hugtakið mannöld (e.anthropocene) er notað yfir þann tíma í sögu mannkyns sem liðinn er frá iðnbyltingu. Þetta er þó fræðilegt og sumir vilja miða við landbúnaðarbyltinguna fyrir 11.000 árum og enn aðrir miða við beislun kjarnorkunnar. Hvað svo sem er miðað við eru áhrif mannsins í heiminum eru orðin svo mikil að þeim er hægt að líkja við náttúruhamfarir á stærsta skala. Við horfum fram á sjöttu eyðingu lífs á jörðinni og getum engum um kennt nema okkur sjálfum. Þrátt fyrir að mannkynið sé loks að vakna til vitundar um gjörðir sínar og samfélagssáttmálar séu ritaðir til að bjarga því sem bjargað verður er harla fátt sem bendir til þess að við séum að snúa þróuninni við. Að við séum stödd í ómöguleika, vonlausu

1 Timothy Morton. 2010. Ecology as Text, Texta s Ecology, Oxford Literary Review 32-1,2010, 1-17.

3

verkefni. Margir binda þó vonir við vísindin og aðrir jafnvel við hið kapítalíska kerfi sem við höfum komið okkur upp og sennilega kom okkur í þennan vanda, að vísindin og kapítalið komi til bjargar. Aðrir benda á að mannkynið sé komið á ystu nöf, að við höfum ekki gert neitt til að snúa við hlýnun jarðar og að sú hlýnun og önnur áhrif mannsins á jörðina og líf hennar séu óafturkræf. Við þurfum að finna möguleikann í ómöguleikanum sem við búum við. Þar getur sýn listamannsins hjálpað þar sem vísindin hafa brugðist. Tónlistarkonan Björk Guðmundsdóttir hefur lengst af á sínum ferli unnið með hugmyndina um manneskjuna í náttúrunni og samspilið þar á milli. Náttúruvernd er henni hjartans mál og það sést auðveldlega í verkum hennar. Hún nálgast hana á mismunandi hátt, annars vegar sem reiði aðgerðasinninn á Volta eða hún nálgast hana blíð, full forvitni og ástríðu til að fræða eins og sést með Biophilia. Hægt er að segja að hún sé brautryðjandi í þeim vistfræðilegu hugmyndum sem eru að koma í ljós í verkum fjölda listamanna í dag. Kynslóðir hafa alist upp við list Bjarkar og áhrifa hennar gætir víða. Ung kona frá Færeyjum, Anna Malan Jógvansdóttir, gaf út ljóðabókina Korallbruni árið 2018. Bókin er ljóðabálkur og lýsir því þegar kona gengur í hafið og drukknar. Í ljóðunum tekst henni að vekja sterkar tilfinningar um hafið og náttúruna. Myndmálið og texti ljóðsins er áhrifamikið samspil. Líkami konunnar sekkur á hafsbotninn en vitund hennar heldur áfram að lýsa því sem verður. Sögu ljóðmælanda er ekki lokið þó að hjartað hætti að slá og dæla blóði út í æðarnar heldur fær lesandinn að fylgjast með framhaldslífi líkamans sem varðveitir og gefur. Þangað til hann leysist upp og sameinast sjónum. Við fylgjumst með umbreytingu ljóðmælanda frá einu formi í annað í óendanlegri hringrás lífsins. Ljóðin minna sterkt á sjónarspilið í myndböndum og textum Bjarkar sem geta stundum verið óþægileg en samt er eitthvað svo ókennilega fallegt við það að mörk náttúrunnar, ólíkra afla hennar og líkamans séu samofin. Í ferlinu sem það er að renna saman við lífrænan massa annarrar verundar getur fegurðin verið svo mikil. Mörk líkama, sálar, náttúru og jafnvel hluta, verða óljósari og spurningin vaknar; erum við ekki bara örsmár hluti af samhenginu öllu? Um ljóðabókina sína segir höfundurinn að Korallbruni sé leið hennar sjálfrar til þess að skrifa sig úr mennska lífsforminu og leyfa náttúrunni að taka völdin. Hún er innblásin af póst-húmanisma og náttúruheimspeki eins og reyndar

4

margir aðrir norrænir listamenn og skáld.2 „Hún sækist eftir því að minna lesandann á að við þurfum að endurskoða tilveru okkar hér á jörðinni. Að allir hlutar jarðarinnar eru ekki bara dauðir hlutir, heldur ómissandi hluti af tilverunni og sérstaklega okkur sjálfum.“3 Með ljóðabókinni vill Anna minna okkur á að við erum öll hluti af stærra samhengi og að við ættum að endurhugsa stöðu okkar hér á jörðinni. Auðvelt er að sjá líkindin með ljóðum og myndmáli Önnu og sjónlist og textum Bjarkar. Athyglisvert er að skoða hugmyndafræði Timothy Mortons í samhengi við list Önnu Malan og Bjarkar. Báðar þessar listakonur tala inn í hina myrku vistfræði þar sem ljótleiki, hryllingur og írónía eru allsráðandi. En í því öllu saman felst einhver óviðjafnaleg seiðandi fegurð. Timothy Morton er einn athyglisverðasti heimspekingur okkar daga. Hann er upphaflega menntaður í bókmenntum en hefur fært sig inná svið heimspeki og vistfræði síðustu ár. Hann hefur búið til hugtök til að skýra veruleika okkar eins og ofurhluti (hyperobjects), möskva (mesh) og raunhyggjutöfra (realistic magic) að hinni myrku vistfræði meðtalinni (dark ecology). Hann segir að allt í heiminum sé tengt mörgum, flóknum þráðum og að ekki sé lengur hægt að skipta heiminum upp í andstæður eins og mann og náttúru. Raunveruleikinn er bara einn flæktur möskvi (e.mesh). Við eigum engan heim því hlutirnir sem virkuðu sem ósýnilegt landslag, hafa verið leystir upp.4 Hann hefur sagt að sýn Bjarkar á veröldina hafi haft mikil áhrif á sig og Björk hefur ítrekað lýst aðdáun á hugmyndafræði Timothy og hugmyndinni um að við séum öll tengd saman. Þau eiga það líka sameiginlegt að vera spámenn okkar tíma.5 Það sést greinilega í bréfasamskiptum sem áttu sér stað á milli þeirra í aðdraganda sýningar Bjarkar í MoMA í New York árið 2015. Þau bréf eru mikilvægur vitnisburður um nálgun listar og vísinda í verkum þeirra.

2 Ana Stanićević. (2020). Um tilurð hnatta og handsaumaðra útgáfna. Ritið, tímarit Hugvísindastofnunnar, 20(2), 185-214. 3 Kinna Poulsen. (2018, 22. 04) A new poetry collection by Anna Malan Jógvansdóttir. Listaportal.com Þýðingar á ljóðum, texta og tilvitnunum í ritgerðinni eru mínar nema annað sé tekið fram. 4 Halla Harðardóttir. (2018, 02. 02). Þurfum að vera skapandi og bjartsýn. ruv.is. 5 Bjork´s new epic of love, machines, humans and nature: ´´The Gate´´. (2017, 20. 09). thealternative.org.uk.

5

2. Kórall – Hlutmiðuð verufræði

Það er engin ástæða til þess að ætla að Vera okkar hér á jörðu sé varanlegri en risaeðlanna. ~David Attenborough6

Í ljóðabókinni Korallbruna flakkar skynjun ljóðmælanda á milli vera og hluta:

Ég lofa því að leggir þú höfuðkúpu mína að eyranu heyrir þú nið hafsins7(3)

Þetta eru fyrstu línur ljóðabókarinnar. Höfuðkúpa ljóðmælanda þjónar sama hlutverki og kuðungur sem tekinn er upp á ströndinni. Báðir hlutir flytja hljóð hafsins. Eins og krabbinn sem einu sinni bjó í kuðungnum, er ljóðmælandinn orðin hafið. Í hafinu leystust þau upp, kona og krabbi, og vitund þeirra er allsstaðar. Hún er ekki lengur sýnileg en samt er hún. Hún sameinaðist krafti hins óbeislaða sem ekki verður fanginn í höfuðkúpu eða skel. Þó að hið líkamlega og snertanlega sé ekki lengur, er hún. Verufræði eða ontología er grein frumspekinnar sem fjallar um hvers konar hlutir eru til og reynir að komast að fyrirfram gefnum sannleika um veru sem veru. Um það hvaða hlutir eru til og hvað er sagt vera til.8 Í hlutmiðaðri verufræði eru hlutirnir aftur á móti sem miðpunktur. Fylgjendur hlutlægrar verufræði segja að allir hlutir séu jafnir og hafna því að maðurinn og reynsla hans og skynjun sé miðja alls. Jörðin og alheimurinn urðu til svo löngu á undan manninum og það er svo margt sem maðurinn hefur ekki möguleika á að skilja með skynfærum sínum eða tækninni. Það er mikilvægt að við séum meðvituð um það.9 Hlutmiðuð verufræði skoðar hlutinn frá sjónarhorni hlutarins.

6 The living planet. (1984) 7 eg lovi tað/ leggur tú mín skølt/móti oyranum/hoyrir tú havið suða. Úr bókinni Kórallbruna. Hér eftir verða tilvitnannir í bókina aðeins með blaðsíðutali. 8 Atli Harðarson. (1988). Verufræði. Hugur, tímarit um heimspeki, 1, 31-48. tímarit.is. 9 Kristján Guðjónsson. (2018, 02.02). Ofurhlutir, töfrar og vistfræði án náttúru. dv.is.

6

Eins og nafnið á breiðskífunni Biophilia10 gefur til kynna, er Björk að vinna með náttúruöflin við sköpun sína. Allt í náttúrunni er lagt að jöfnu: dýr, jarðefni, smáfrumur mannslíkamans og alheimsins sterkustu öfl. Textar, tónverk og búningar ná að spegla það. Í texta lagsins Cristalline sér hún að í demantinum er hægt að finna allt mögulegt. Hann er heill heimur:

orgelpípur, hljóðbylgjur suðandi dróni kristallaðar vetrarbrautir breiða úr sér eins og fingur mínir.11

„Listamaður finnur samhljóm með því sem er, sem að einhverju leyti er það sama og að hlusta á framtíðina“ segir Timothy Morton í bréfasamskiptum sínum og Bjarkar.12 Þeim verður tíðrætt um OOO (skammstöfun fyrir Object Oriented Ontology) eða hlutmiðaða verufræði. Sú heimspeki er stór hluti af heildarsýn þeirra beggja. Björk segir að tæknin hafi sál vegna þess að hún sé hluti af ferlinu sem listafólk notar til þess að tjá sig.13 Ein af ástæðunum fyrir því að list er svo mikilvæg, er að listin er rannsókn á orsakasamhengi, sem við vitum að felur í sér miklu meira en bara litlar kúlur sem rekast hver á aðra. Þannig að ávinningurinn af því að halda því fram að orsakasamhengi sé skynfræðilegt er að það gefur tækifæri til þess að ígrunda það sem við köllum vitund, samhliða því sem við köllum hluti. Í formála bókar sinnar um raunhyggjutöfra (e. Realistic Magic) þakkar Timothy Morton, Graham Harman sem er upphafsmaður hlutmiðaðrar verufræði. Harman lýsir henni þannig:

10 Tilhneiging manna til að hafa samskipti og tengjast náið öðrum lífsformum í náttúrunni; löngun eða tilhneiging til að eiga náin samskipti við náttúruna. https://www.merriam- webster.com/dictionary/biophilia 11 pipes up an organ/sonic branches/murmuring drone/crystalizing galaxies/spread out like my fingers 12 Björk Guðmundsdóttir og Timothy Morton. (2014). This Huge Sunlit Abyss From the Future Right There Next to You..., Í Björk Guðmundsdóttir og Klaus Biesenbach (ritstjórar), björk: archives. Thames & Hudson. 13 Kristjana Björg Guðbrandsdóttir. (2016. 10. 12). Exclusive interview with Björk: ‘‘The pain was a journey“. icelandmag.is

7

„Jafnvel þegar bæði málspekin og hinir svokölluðu afturhaldssömu andstæðingar hennar hrósa sigri hver yfir öðrum, er vettvangurinn – heimurinn – troðfullur af margvíslegum hlutum, og kraftur þeirra er óbeislaður og að miklu leyti afskiptur. Rauðar billjarðkúlur skella á grænum billjarðkúlum. Snjókorn glitra í ljósinu sem miskunnarlaust eyðir þeim; ónýtir kafbátar ryðga á hafsbotninum. Kvarnir þreskja hveiti og jarðskjálftar mylja kalksteinsklappir, risasveppir breiða úr sér í skógum Michigan. Á meðan mennskir spekingar takast á um möguleikann á „aðgangi“ að heiminum, bíta hákarlar í túnfiska og borgarísjakar skella á strandlengjum. Allar þessar verundir berast um alheiminn, og leggja blessun eða bölvun á allt sem þær snerta, farast án nokkurra ummerkja eða breiða mátt sinn víðar – líkt og ef milljón skepnur hefðu sloppið úr dýragarði tíbetskrar heimsfræði. Mun heimspekin halda áfram að hræra saman öpum, hvirfilbyljum, demöntum og olíu undir einum og sama hatti þess sem liggur fyrir utan?“14

Anna Malan lýsir því hvernig ljóðmælandi sameinast öðrum lífverum og hún öðlast vitund með gróðri hafsins: litríkar sænetlurnar hjúfra sig hópast á mig sjúga sig fastar á kalkið/ dansandi rauðar og gular í dökkbláum bylgjum sænetluhúðin mín bíður þolinmóð þar til smáfiskur syndir hjá snögglega fanga ég hann kreisti/hann vindur upp á sig óttasleginn ég drep hann með mínum loðnu brennihárum sem auðveldar mér að gleypa hann gegnum opið hreistur blautt kjöt bein

14 Sigrún Inga Hrólfsdóttir. (2016). Hlutmiðuð verufræði:Leikur hugsunar og efnis í heimspeki og list. [Háskóli Íslands, Hugvísindasvið, Heimspekideild, Lokaverkefni, Meistara.] Skemman.is. Sigrún þýðir og vitnar í Graham Harman.

8

verða að mauki15(44)

Ljóðmælandi ljáir fyrst ungu konunni rödd, en eftir að sænetlurnar festa sig við hana, færist vitundin líka í sænetlu sem lýsir því hvernig hún veiðir og étur lítinn fisk. Á meðan konan leysist smám saman upp tengist vitund hennar annarri vitund. Skýra línan sem lesandinn ætlar að sé á milli þeirra, hverfur. Nafn ljóðabókarinnar, Korallbruni kemur kannski spánskt fyrir sjónir. Hlýnun jarðar er varla að valda því að kórall brenni, en vegna hlýnunar sjávar hvítnar hann og deyr. Eins og skógarnir á yfirborði jarðar, er gróður sjávarins í hættu.16 Það er svo auðveldlega hægt að skilja hversvegna Morton leggur svo mikla áherslu á að fá listamenn til liðs við heimspeki sína. Listaverk, allskyns textar og ljóð koma heimspeki hans í orð og til fólksins. Skapandi hugsun er engin takmörk sett og í listum er allt leyfilegt og það gerir neytendum listarinnar trúlega auðveldara að skilja tengsl alls í heiminum. Í myndbandi17 við lag Bjarkar Hyperballad,18 koma margar Bjarkir fram. Fyrst sjáum við landslag sem kemur í ljós að Björk sjálf er hluti af. Upp af þeirri Björk rís svo almynd (e.hologram) af Björk, sem aftur gefur af sér stafræna útgáfu af Björk. Björk fer úr lífrænu formi í það ólífræna. Stafræna útgáfan brotnar í mola og hverfur af yfirborðinu. Allt er í möskva, tengist. Textinn við lagið er mjög tilvistarlegur og auðvelt er að greina einhverja tilvistarkreppu í honum eða depurð:

Við búum á fjalli alveg efst uppi svo fallegt útsýni af toppi fjallsins á hverjum morgni labba ég að brúninni hendi litlum hlutum ofan af bílahlutum,flöskum og hnífapörum

15 sjónoturnar krúpa litríkar/savnast á mær/súgva seg fastar á kálki/dansa reytt gult/í teimum djúpbláu bylgjunum/mín snónoturhúð bíðar tolin/inntil ein smáfiskur svimur/nót tætt/við eitt/fevni eg hann/kroysti/hann/vríggjar seg/ræðslusligin/eg doyvi hann/við mínum lodnu brennihárum/so eg lættari kann svölgja hann/gjögnum opið/roðsla/bleytt kjöt/bloytist til greyt 16 Mikey Slezak. (2017. 24. 05). Great Barrier Reef 2050 plan no longer achievable due to climate change, experts say. theguardian.com 17 Björk. (2007. 01. Júlí). Hyperballad. youtube.com. (Björk, youtube.com 2007) 18 Timothy hefur sagt að hann hafi fengið hugmyndina að orðinu Hperobject frá titlinum. Biesenbach. (2015):5

9

hvað sem ég finn [...]ég hlusta á hljóðin sem það gefur frá sér á leiðinni niður ég fylgi með augunum þangað til það skellur ég ímynda mér hvernig hljóð kæmu úr líkama mínum skellandi á steinunum og þegar hann stöðvaðist yrðu augu mín lokuð eða opin?19

Hér syngur Björk um tvo hluta af sér. Hún hefur sagt að textinn sé um það að vera í sambandi. Að vera í sambandi er eins og þú gefir sjálfa þig upp á bátinn. Djúpt niðri er hluti af þér sem vill gera eitthvað annað. Sá hluti þarf að fá útrás til þess að þú getir haldið áfram.20 Auðvitað er líka hægt að túlka textann sem samband þitt við sjálfa þig eða ofurhlutinn hamfarahlýnun. Viltu deyja, viltu lifa? Hvað gerist ef þú gefur bara eftir? Hvað gerist ef þú í stundarbrjálæði lætur þig falla? Sameinast öllu. Hvað verður af þér ef þú lætur þig hverfa inn í möskvann? Í texta og myndbandi leikur Björk sér með hugmyndina um líkamann í heimi tölvuleikja, hluta og náttúru. Í öðrum texta Bjarkar við lagið Oceania segir:

hver strákur er snákur er lilja hver perla er gaupa er stelpa fallegur samhljómur úr holdi gerður.21

Textabrot sem bendir á svo einfaldan hátt á þessa órjúfanlegu tengingu alls. Timothy sjálfur lýsir þessu prýðilega í pósti til Bjarkar: „ég elska kóral og hann er að deyja og hvítna upp, það er svo mikill heimur þarna niðri. ég hugsa um OOO eins og uppgötvun á risastóru glitrandi kóralrifi á OOOf mikilli dýpt þannig að flestri heimspeki yfirsést það. hákarlar fljóti um, anímónur með fálmara. hlutir sem gætu verið

19 We live on a mountain/right at the top/this beautiful view/from the top of the mountain/every morning I walk towards the edge/and throw little things off/like car parts, bottles and cutlery/or whatever i find lying around/...I listen to sounds they make/on their way down/I follow woth my eyes till they crash/I imagine what my body would sound like/slamming against those rocks/and when it lands/will my eyes be closed or open? (Morton setur ekki stóran staf í byrjun setningar í upprunalega textanum) 20 Björk. (2021). 21 Every boy is a snake, is a lily/every pearl is a lynx, is a girl/sweet like harmony made into flesh

10

lifandi, verið dauðir, verið plöntur, verið dýr, verið heil vera sem samt er búin til af hlutum sem passa ekki saman. við erum saumuð í þetta rif, trúðafiskar hreinsa úr nösunum á okkur á meðan við horfum upp á okkur horfa niður með neðansjávar sjónauka vísindanna“.22 Í þessu má sjá mikinn húmor, sem Timothy segir að við séum að glata, í baráttu okkar við hina hnattrænu hlýnun. Þó að ástandið sé alvarlegt, megum við ekki hætta að sjá hið spaugilega, íróníuna við aðstæðurnar sem við höfum sjálf komið okkur í.

22 Biesenbach. (2015):23.

11

3. Öreindin ókennilega – Vistrýni

„Ég fínstilli sálu mína, á alheimsins bylgjulengd“ ~Björk23

Hefðbundin vistfræðileg hugsun þjónar okkur ekki nógu vel í nýjum veruleika. Hverfum frá tvíhyggjunni og sjáum heiminn frá öllum mögulegum sjónarhornum og finnum hinn ómennska en jafnframt orkufulla heim. Óhefðbundin vistfræðileg hugsun samtengir þessa heima og þá sjáum við að heimurinn er ekkert nema möskvi þar sem samtenging hluta er ríkuleg. Hver eining í möskvanum er okkur framandleg því ekkert er til eitt og sér og ekkert er fyllilega „það sjálft“, hvorki við né hinn ókunnugi hluti. Skilin milli dauðra og lifandi eininga og skynjunarinnar verða óskýr, því ekkert er til eitt og sér og ekkert kemur frá engu. Manneskjan er vistfræðilega háð öðrum verum og hlutum.24 Í bók sinni Fjallið sem yppti öxlum, vitnar Gísli Pálsson í sovéska efnafræðinginn Vladimir I. Vernadsky: „Jarðefnin eru ekki aðskotahlutur í líkömum fólks, við erum grjót – gangandi talandi grjót. Mannfólkið er gert úr sömu efnum og plánetan og getur ekki dafnað án hennar. Um leið hefur mannfólkið áhrif á plánetuna, eins og aðrir jarðfræðilegir kraftar, ekki síst nú á mannöldinni“.25 Í ritgerð sinni, Das Unheimliche, skýrir Sigmund Freud hugtak eðli hugtaksins ,,hið ókennilega“ á tvo vegu. Það sem veldur manneskjunni ótta og hryllingi annars vegar og hins vegar merkingu hugtaksins. Hann segir að þetta tvennt leiði til sömu niðurstöðu sem er að ókennileikinn er hið óhugnanlega sem á rætur í hinu gamla og kunnuglega. Það er sálrænt ferli sem við upplifum einhverntíma á ævinni sem gengur útá að staðsetja okkur á gráu svæði andspænis einhverju sem við teljum okkur þekkja en svo komumst við að því að við þekkjum það alls ekki.26 Hugsunin um tilveru möskvans getur einmitt verið óþægilega ókennileg. Við getum ekki snert hamfarahlýnun jarðarinnar, en við vitum að

23 Björk, Atom Dance 24 Timothy Morton. (2012). Thinking Ecology: The Mesh, the Strange Stranger, and the Beautiful Soul. Tarp, 2 (1) 265-293. 25 Gísli Pálsson. (2017): 24-25. Fjallið sem yppti öxlum. Mál og menning. 26 Sigmund Freud. (2020): 59-88 The Uncanny. The Monster Theory Reader.

12

hún er til vegna þess að við finnum fyrir henni; bókstaflega á eigin skinni. Líkaminn birtist okkur sem ein heild, en er þrátt fyrir það bara samsettur úr óteljandi pínulitlum öreindum. Það er engin leið fyrir okkur að skilja hvernig allir hlutar eru tengdir. Við vitum bara að allt tengist og við horfumst í augu við hinn ókennilega ókunnuga (e. the strange stranger).27 Á vistfræðilega sviðinu truflar mannveran lífið á jörðinni í örvæntingarfullri og truflandi tilraun til þess að losa sig við truflun hins ókennilega.28 Þannig hefur hún neikvæð áhrif á jörðina, án þess endilega að ætla sér það. Útilokað er að finna tvö snjókorn sem eru nákvæmlega eins.29 Miðað við fjölda snjókorna sem falla í heiminum dag hvern, er það mögnuð tilhugsun. Ef horft er á mynd af snjókorni er það eins og að horfa á listaverk þar sem hver einasta lína er eins og úthugsuð. Heilan heim sem er svo brothættur og viðkvæmur að hann bráðnar við það eitt að snerta hold. Það er skrítið að hugsa um það og líftími þessara heima er svo stuttur, en það er líka spurning um sjónarhorn. Síðastliðið eitt og hálft ár höfum við verið illilega minnt á það, að við getum aldrei vitað hvað lífið hefur upp á að bjóða og við getum ekki alltaf losað okkur við það sem er óþægilegt. Hugmyndir okkar um umhverfið eru aldrei eins og við höldum að það sé. Vírusinn sem hefur herjað á okkur hefur sett líf okkar á annan endann. „Að vera lifandi gerir okkur næma gestgjafa vírusa“.30 Ef við lesum texta Bjarkar við lag hennar Virus, af breiðskífunni Biophiliu:

líkt og vírus þarfnast líkama líkt og vefir nærast á blóði finn ég þig einn daginn þörfin er rík eins og sveppur á trjábol meðan próteinið umbreytist ég banka á húðina þína og kemst inn uppfyllum öll skilyrði þú og ég

27 Morton. (2012): 277. 28 Morton (2016): 64. Dark Ecology. Columbia University Press. 29 Halldór Svavarsson og Þorsteinn Vilhjálmsson. (2001). Hver er innri gerð snjókorna? Eru engin tvö snjókorn eins?. Visindavefur.is. 30 Biesenbach. (2015): 6.

13

ég aðlaga mig, smitandi þú opnar fyrir mér segir velkomin eins og eldur þráir sprengiefni eins og byssuduft þarfnast stríðs gæði ég mér á þér,þú ert hýsillinn minn uppfyllum öll skilyrði, þú og ég þér tekst ekki að standast mig lukku kristallinn minn líkt og vírus, þolinmóður fangari bíð ég eftir þér mig hungrar í þig dásamlegi andstæðingur31

Í þessum texta, vísar Björk í þekkt sníkjulíf baktería,vírusa og sníkla í mennskri veru. Það getur verið hættulegt samband þar sem innrásarfrumur taka yfir frumur hýsilsins. Kveikjan að þessum texta var að Björk sjálf var á tímabili að berjast við candida-sveppinn32 sem fyrirfinnst í líkama okkar allra og er okkur venjulega ekki hættulegur, en í hann getur komið ofvöxtur sem hefur áhrif á lífsgæði okkar.33 Candida er gott dæmi um veru sem lifir í okkur og við getum ekki verið án. En þegar kemur ofvöxtur í hann, kemur það sér illa fyrir okkur. Þannig er umhverfi okkar eins og við, fullt af lífverum sem við sjáum ekki. Við erum þær og þær eru við. Í myndbandi Bjarkar við lagið sést hvernig vírusinn blandar sér við fallegu frumurnar og skemmtir sér svo mikið að hann smám saman tekur þær alveg yfir og í ærslaganginum drepur hann þær af ást.34 Ljóðmælandi í Korallbruna, verður bókstaflega sveppur:

ég er gul börkur hafsveppsins

31 Like a virus needs a body/As soft tissue feeds on blood/Some day I'll find you/the urge is here/likemushroom on a tree trunk/as the protein transmutates/I knock on your skin, and I am in/the perfect match, you and me/i adapt, contagious/you open up, say welcome /like a flame that seeks explosives/as gunpowder needs a war/i feast inside you, my host is you /the perfect match/you and i/ you fail to resist/my crystalline charm/like a virus, patient hunter/i'm waiting for you/i'm starving for you/my sweet adversary 32 Sudbery. (2011). 33 Dibben. (2011). 34 Björk. (2014).

14

á klöppinni35 48)

Bæði Anna og Björk eru hér að leika sér með hugmyndina um tengingu við aðrar verur. Þessi leikur verður bæði spennandi og fallegur. Ljóðmælandi náði upp á yfirborðið þar sem hún kitlar stein í öldugjálfrinu á meðan vírusinn elskaði frumuna svo mikið að hún dó. Í bók sinni, The Ecological Thought, bendir Morton lesendum sínum á að Darwin hafi fundið fyrir hinum sítengda möskva, þegar hann rannsakaði náttúrlegt val lífvera.36 „Vissulega er það furðuleg og fögur staðreynd – svokallað undur sem vér sjaldnast tökum eftir fyrir það hversu kunnuglegt það er – að öll dýr og allar plöntur, alls staðar og á öllum tímum, eru skyld innbyrðis“.37

Ljóðmælandi liggur á botninum:

beinagrindin hvít af hrúðurkörlum mínar æðar krabbadýr höfuðkúpan hárið verður þunnir slímugir brúnir strengir leita yfirborðsins þaralýsnar dansa í handarkrikanum brjóskþari 38(32-33)

Þegar hún hefur sokkið líflaus til botns, er eins og hún lifni við aftur, þegar pínulítil krabbadýr koma sér fyrir og lifandi gróðurinn tekur sér bólfestu í henni. Hér er

35 eg/eri/gul/skorpan/av/havsoppi/á/helluni 36 Morton. (2012):23 The Ecological Thought. Harvard University Press. 37 Darwin. (2014):214 Uppruni tegundanna. Hið íslenska bókmenntafélag. 38 Beinagrindin/hvít av gjari / mínir æðrar/krabbadjórini / skølturin/hárið grør/tunnir/slýggutir/brúnir/streingir/søkja skorpuna

15

gróteskan allsráðandi en samt er eitthvað fallegt við það hvernig ljóðmælandi lýsir samlífi, líkami hennar verður forðabúr litlu dýranna. Ljóðið fangar grundvallaratriði tilvistar og samvistar við önnur lífsform á afar næman hátt. Í texta sínum við lagið Claimstaker, sem er að finna á plötunni Utopia, ljáir Björk öðrum lífverum rödd sína:

Ég geng yfir jörðina eigna mér með skynjun minni með berki mínum merki hreiður mitt með söng (merki hreiður mitt) heyri bergmál í (bergmál í klettunum) ég sendi ljósgeisla gegnum vatn til að líkamnast ég anda að mér líkamanum skógurinn er í mér skógurinn er í mér ég hverf inn í hæðirnar þetta er heimili mitt39

Í textanum gefur Björk verum skógarins rödd; trénu sem gefur fuglinum skjól fyrir hreiðrið sitt og fuglinum sem merkir hreiðrið sitt. Tilfinningin fyrir værðarlegum, rökum skógi er rík hér og samhljómur með öllu lífi hans. Í nokkrum myndböndum Bjarkar eru hinar örsmáu lífverur líkamans, sem aðeins sjást með aðstoð rafeindasmásjár, í aðalhlutverki. Á Biophiliu er lagið Hollow og myndbandið við það sýnir okkur meðal annars blóðvef stækkaðan fjögurhundruð falt.40 Það er hreint og beint sláandi hversu myndin af honum er lík kápumyndinni framan á Korallbruna.41 Það væri alveg hægt að segja að fíngerðir þræðirnir séu gerðir af sama

39 I walk through this land/stake a claim/with my sense/with my bark/mark my nest with song (mark my nest)/hear the, the echo roma (echo from the cliff)/I draw laser line through lake/to take a physicalitiy/this forest is in me 40 Björk. (2012). 41 [Mynd 1], [Mynd 2]

16

listamanninum. Einnig er þar mynd af frumu á forstigi sem er eins og eftirlíking af sænetlu, sem birtist í ljóðinu. Áhugavert var að sjá hversu líkar þessar agnarsmáu lífverur eru dýrum sem finnast í hafinu.

17

4. Sálin – Dökk vistfræði

Þegar ég dey mun munurinn á milli þess sem ég er og þess sem ég lít út fyrir að vera hrynja. Ég smættist í birtingarmynd mína -pappír í ruslatunnu, minningar, lík. ~Timothy Morton42

Allt líf í heiminum upplifir tráma allt um kring. „Mannkynið bregst við með upphrópunum sem eykur á trámað. Þar liggur einmitt vandinn. - þú hristir ekki einhverja sem hefur misst foreldri sitt og öskrar á hana: skilurðu ekki vitleysingur að mamma þín var að deyja?! - En þannig högum við okkur nefnilega þegar við tölum við hvort annað um vistfræði“43 Morton spyr sig hvort við gætum kannski nálgast hamfarahlýnun öðruvísi. Kannski gætum við reynt að hætta að hlaða sekt á hvort annað og reynt að skipta ofsafengnum ásökunartóninum út fyrir forvitni, samþykki og húmor. Hættum að tala um að heimsendir sé væntanlegur því ef við gefum í skyn að heimsendir sé ekki kominn, er það vandamál. Segjum það eins og það er; heimsendir er núna, við þurfum strax að gera eitthvað í því.44 „Það þarf ekki að velkjast í vafa um súrnun sjávar og dauða sjófugla“ segir jöklafræðingur um bráðnun jökla og hækkun sjávarborðs og vistfræðingurinn um hnignandi gróðurmold, lækkandi grunnvatnstöðu, mengun og útdauða dýra.45 Vísindamenn hafa bent á að núna standi yfir sjötta útrýmingarskeið dýrategunda í jarðsögunni og þetta skeið hafi hafist fyrir 11.000 árum með mannöldinni.46 Við brennum olíu á hverri sekúndu sem jafngildir vatnsmagninu í Dettifossi alla daga ársins ár eftir ár, við losum mengun út í andrúmsloftið sem jafngildir því að 600 eldgos séu í gangi alla daga, dag og nótt, ár eftir ár. En jörðin kemst af án okkar. Jörðin er 4,54 milljarða ára

42 Morton. (2020) Efnisleiki, leikur. Ritið, tímarit Hugvísindastofnunar, 2020(1): 197-202 43 Markbereiter. (2018) 44 Morton. (2013). Hyperobjects: Philosophy and Ecology after the End of The World. University of Minnesota Press. 1796. 45 Andri Snær. (2019):66. Um tímann og vatnið. Mál og menning. 46 Sama heimild: 199.

18

gömul. Mannöldin hefur mögulega varað í 11 þúsund ár. Það jafngildir því að mannkynið hafi haft áhrif á jörðina í 0,2 sekúndur ef ævi jarðar er sólarhringur eða að mannöldin hefjist 1 og hálfa mínútu í miðnætti á gamlársdag ef ævi jarðar er 1 ár. Að við höfum áorkað öllum þessum vandamálum á svo stuttum tíma er beinlínis ótrúlegt og svo sláandi.

Heimsendir okkar er ekki framundan - við erum í miðjum heimsendi. Það segir Morton í bók sinni Hyperobjects. Heimsendir hófst í apríl árið 1784, þegar James Watt fékk einkaleyfi fyrir gufuvélinni sinni. Hún var notuð til þess að hraðar væri hægt að ná kolum upp á yfirborð jarðar, sem aftur voru brennd til þess að vélin gæti gengið. Hringrás kolefnisbrunans hófst. Vélarnar urðu vinsælar og útbreiðsla þeirra var ör. Mengunin í kjölfarið markar nýtt spor mannsins á jörðinni, vegna þess að tegundin hefur haft svo ofsafengin áhrif á lífríkið að það getur talist til nýs jarðsögulegs tímabils. Mannöldin.47 Aðrir vilja meina að annar maður hafi hafið nýtt tímabil í jarðsögunni, nefnilega J.Robert Oppenheimer og að geislun frá Trinity kjarnorkuspengingunni 16. júlí 1945 marki upphafspunkt mannaldarinnar. Að frá þeim degi sé fótspor mannkyns mælanlegt á öllu yfirborði jarðar, í öllum jarðvegi, grjóti og málmum.48 Hvað sem því líður er ljóst að mannskepnan sem tegund er orðin meiriháttar jarðfræðilegt fyrirbæri. En hvað eru ofurhlutir? Morton tekur sem dæmi allt frauðplastið í sjónum sem rifnar niður. Síðan er það étið af fisk sem aftur er étinn af okkur. Hvað erum við þá? Að einhverju leyti frauðplast. Ofurhlutir eru líka flókin fyrirbæri eins sjálft internetið sem enginn mannleg vera gæti haft yfirsýn yfir eða stjórnað. Eða geislavirkur úrgangur sem við erum alltaf að reyna að losa okkur við, en getum ekki, svo við felum hann af því að við þolum ekki að horfa á hann. Af völdum okkar hlýst hamfarahlýnun sem Morton kallar líka ofurhlut. Við erum alltaf í þessum hlut, það er engin miðja í hlutnum og það er enginn jaðar. Við getum ekki flúið úr þessum heimi/ofurhlut. Hann heldur því fram að mennskir íbúar jarðarinnar hafi gert sér smám saman grein fyrir því að nú deilum við í stað þess að drottna. Ómennskar verur og hlutir standa ekki lengur fyrir utan jöfnuna. Ofurhlutir eru eins og seigfljótandi slím og hluturinn/veran sem það snertir verður ósjálfrátt hluti af

47 Morton. (2013): 207. 48 Sama heimild: 124.

19

því.49 Það festist í ofurhlutnum því meira sem það reynir að frelsa sig. Ekkert ólíkt skordýri í köngulóarvef. Morton tekur annað dæmi sem er geislavirkt efni. Kjarnorkuúrgangur tekur gríðarlegan tíma að eyðast.50 Plútóníumið sem við framleiðum í dag, verður enn eitrað eftir tuttugu og fjögurþúsund ár! Ef við hugsum okkur frauðplastið sem við notum í kaffibollann sem við drukkum úr í gær þá verður bollinn ennþá til eftir fimmhundruð ár! Úrgangur okkar hefur meira að segja búið til nýja „berg“-tegund, sem eru plaststeinar, sem hafa fundist víða á ströndum jarðarinnar.51 Plútóníumið, plastið, útblásturinn, úrgangurinn flæðir um allt. Allt eru þetta hlutar af hinum risavaxna vef, möskvanum. Hlýnun jarðar er ofurhluturinn sem við erum föst í.52 Við komumst ekki hjá því frekar en litla flugan í köngulóarvefnum (sem einnig er fastur í ofurhlutnum). Heimurinn eins og við héldum að hann sé, er ekki. Við höfum aldrei verið miðpunkturinn og ef við ætlum að búa börnum okkar og barnabörnum þolanlega jörð að búa á, þá er brýnt að við hættum að hugsa um okkur sem miðpunkt alls. En hugsunin um hamfarahlýnun getur verið erfið fyrir mannveruna. Áhyggjurnar sem við höfum og vonleysið getur leitt til þunglyndis. Það eru ekki aðeins almennir borgarar sem finna fyrir þessu hamfaraþunglyndi, heldur er vísindafólk sem rannsakar hlýnun jarðar í hættu. Vísindakonan og nóbelsverðlaunahafinn Camille Parmesan,53 varð svo þunglynd að hún velti fyrir sér að hætta rannsóknum sínum alfarið.54 Timothy sjálfur hefur talað um sitt þunglyndi opinberlega. Á bloggsíðu hans, Ecology Without Nature, eru allmargar færslur þar sem hann nefnir það.55 Mörkin á milli fagurfræði og vísinda verða æ óskýrari og erfitt er að greina vandann og til þess að hjálpa okkur að skilja breytta stöðu okkar í heiminum er gott að nýta listina, því í listum eru engin höft. „List fær það hlutverk að efnisgera aðrar útgáfur

49 Sama heimild: 377-512. 50 Ágúst. (2002). 51 Gabriel De la Torre, Diana Salinas, Carlos Ortega, Luis Santillán. (2020). New plastic formations in the Anthropocene. sciensedirect.com. 52 Morton. (2013): 660-682. 53 Intergovernmental Panle on Climate Change – Facts. (2007). 54 Thomas. (2014). 55 Morton. (2018, 22. febrúar). Antidepressants. Ecology Without Nature.

20

af raunveruleikanum, með öðrum orðum að hlutgera framtíðina. Sem heimspekingur lít ég svo á að hlutverk mitt sé að halda opnum dyrum á vit framtíðarinnar“56 En hvernig getum við verið hluti af öllu þessu, verið flækt í eitthvað sem er ósnertanlegt? Hvernig getum við verið hluti af hlut? Í bók sinni vitnar Gísli einnig í bandarísku fræðikonuna Jane Bennett sem finnst að það þurfi að gera ráð fyrir því að efnislegir hlutir séu lifandi. Því stjórnmál nútímans eru alltaf að fjalla um nýtingu á auðlindum jarðarinnar án þess að jörðin hafi nokkuð um það að segja. Nýrrar sýnar er þörf og markmið hennar er „að gera grein fyrir öllu því iðandi efni sem er innan sem utan manneskjunnar; það muni auka skilning okkar á því að pólitískir atburðir geti tekið á sig nýja mynd ef tryggt sé að kraftarnir sem í hlutunum búa fái aukið vægi“.57 Ef við ætlum að lifa með ofurhlutnum hamfarahlýnun, þá verðum við að hverfa frá tvíhyggjunni og gefa öllu jafnt vægi. Að ná tökum á hlýnun jarðar, er orðið eitt af mest aðkallandi aðgerðum sem jarðarbúar standa frammi fyrir. Mengun af brennslu jarðefna er orðin svo mikil að talið er að ekki sé hægt að snúa afleiðingum hennar við. En ef við ætlum að reyna, er mikilvægt að við gerum það strax. Ákveðið neyðarástand hefur myndast í heiminum. Í rannsókn sem tímaritið Risk Analysis birti, sést að tuttugu og sex prósent svarenda sögðust vera þunglyndir vegna hamfarahlýnunar og tuttugu og fimm prósent fundu til sektarkenndar vegna hennar. Heil fimmtíu prósent voru áhyggjufull, en rétt á eftir voru þau sem fundu til reiði, sorgar, hjálparleysis og hræðslu.58 Mannkynið finnur greinilega til einhverrar tilvistarkreppu í þessu hamfaraástandi. Ekki batnar ástandið þegar sífellt er verið að skella upphrópunum í formi frétta á okkur, hvað eftir annað, mörgum sinnum á dag. Í byrjun ljóðabókar Önnu Malan er ljóðmælandi kominn niður að hafinu. Innra líf hennar er ekki látið uppi, það er lesandans að ímynda sér. Freistandi er að hugsa sér að hugur hennar sé þungur. Því fagurfræðilega má lítil mannvera sín ekki mikils mót hinu víðáttumikla hafi. Anna notar hafið til þess að ná fram tilfinningunni um einveru

56 Morton. (2020). 57 Gísli Pálsson. (2017): 195. 58 Smith. (2013). The Role of Emotion in Global Warming Policy Support and Opposition. onlinelibrary.wiley.com.

21

ljóðmælanda sem verður æpandi í huga lesandans.59 L´appel du vide eða kall tómsins er sérstakt fyrirbæri sem þekkt er.60 Að fá allt í einu mikla þörf til þess að láta sig falla:

hafið: „láttu mína sjávarrödd seiða þig“ ég legg fötin snyrtilega frá mér fóturinn snertir nístandi klöppina ég geng tæpt á kantinn

hafið: „dauðinn er sykursætur“.61(8)

Ljóðmælandi gengur í dauðann. Afhverju veit lesandinn ekki en tilfinningin um einveru ljóðmælanda og örvæntingu er sterk. Er það depurð eða þunglyndi sem hrífur konuna og verður til þess að hún ákveður að ganga í sjóinn? Texti Bjarkar við lagið Thunderbolt skilar sömu tilfinningu:

uppnæm við vatnsbrúnina köld froða á anga mínum hugur minn í hringiðu iðar eftir þrá [...] óreglulega skella öldur hvass vindur á andliti mínu komdu þrumuveður skafðu þessa hrúðurkarla af mér!62

Hana hungrar í tryllt eyðandi þrumuveður. Textinn er fullur af þrá, hungri og þörf. Hún kallar á náttúruöflin að skella á sér. Hana hungrar í nánd við náttúruöflin. Þó að hægt sé

59 Brady. (2003). Melancholy as an Aesthetic Emotion. Contemporary Aesthetics, 1.árg.(6). 60 Seigel. (2017). Why you feel the Urge to Jump. Nautilus. 65-71. 61 Havið: „lat mín sjóráma draga teg“/eg leggi klæðini/pent í ein bunka/fóturinn/hellan/mötast hvast/eg gangi/ut til kantin/havið: „deyðin er sukurtarasötur“ 62 Stirring at waters edge/cold froth on my twig/my mind in whirls/wanders around desire [...] waves irregularly striking/wind stern in my face/tunderstorm come/scrape these barnacles off me!

22

að greina þessa sömu þrá í byrjun Korallbruna, breytist tónninn og verður dekkri en sést hjá Björk, þegar ljóðmælandi hræðist snögglega og virðist sjá eftir öllu saman þegar það er of seint:

óttaslegin syndi ég að landi bora neglurnar í klöppina grjótið sker fingurna blóðið rennur hægt eftir myrkum meðan ég missi takið sekk vægðarlaust lengra og lengra burt frá sólargeislunum63(17-18)

Allt í einu grípur hana lífsvilji, en hún tapar stríðinu. Hinn svikuli elskhugi, sem er hafið sjálft, hefur gabbað hana:

að drukkna er sá rólegasti dauði sagði hafið mér

það var lygi64(15-16)

63 Ræðslusligin svimji eg/móti landi/bori neglirnar í helluna/grótið sker/fingrarnar/blóðið rennur/seigliga eftir dimmsvørtum/meðan/eg missi festið 64 At drukna/er tann róligasti deyðin/segði havið mær/ tað/var/lygn

23

5. Samruni - Ofurhlutir, möskvi

Við höfum svo margar skoðanir um það hvernig heimurinn er prjónaður saman og að einhverju leyti eru allir „raunveruleikar“réttir. Anna Malan Jógvansdóttir65

Ástandið sem hefur myndast á jörðinni hefur gert það lífsnauðsynlegt að við tileinkum okkur vistfræðilega hugsun. Vistfræði fjallar um stöðu hinna ýmsu vistkerfa á jörðinni og samband okkar við þau. Við mennirnir þurfum að gera okkur grein fyrir áhrifum okkar, hversu mikil þau eru og hvað við getum gert. Heimspeki Mortons snertir mörg fræðasvið. Það sem hann talar svo ákaft fyrir er að við eigum að brjóta niður stigveldið á milli mismunandi hluta í möskvanum sem er heimurinn okkar, milli manna, dýra, dauðra hluta, örvera, skáldaðra hluta og ofurhlutanna sem eru í þessu stóra lífhvolfi sem við erum öll hluti af. Við verðum að hugsa í stærra samhengi. Dökka vistfræðin gengur út á það að í rauninni vitum við ekkert hvað er í gangi. Við erum nú þegar komin fram af bjarginu. Heimsendir er er núna eða liðinn og við erum í rauninni að lifa hann af. Vísindin hafa sannað að þau geta ekki lengur reiknað út hvað muni gerast í framtíðinni. En hvernig getum við endurhugsað tilveru okkar hér á jörðinni? Hvaða aðferðir eru bestar og hvernig höfum við áhrif? Vísindin bjóða vissulega upp á lausnir, þar sem sérhæfingin skiptist niður í deildir. Vandamálið er að það þarf að takast á við heildina. Þá er gott að hafa skapandi hugsun því listin býr yfir frelsi til þess að hlusta á innsæið og flétta saman ólíkum þáttum tilverunnar. Þannig koma listirnar inn í myndina.66 Tilfinning okkar fyrir náttúrunni er gjarnan sú að við erum ekki lengur í sambandi við hana, vegna þess hve tæknin hefur fleygt okkur fram. Við getum spurt okkur hvað náttúran er, en svarið er ekki eins einfalt og ætla mætti. Rómantísku hugsuðurnir,

65 Úr viðtali við Önnu Malan Jógvansdóttur: https://youtu.be/tYXB-8Icm68 66 Kristján Guðjónsson. (2018).

24

rithöfundar og listafólk höfðu áhyggjur af breytingum í heiminum við upphaf iðnbyltingarinnar. Þeir höfðu óbeit á raunsæishyggju sem verið hafði við völd og fannst hún fjarlægja manneskjuna frá náttúrunni. Það sem þeir vildu reyna að gera var að tengja viðfangsefnið (manneskjuna) aftur við hið hlutlæga (náttúruna). Þó að þeir teldu sig hluta af náttúrunni, settu þeir hana upp á stall og gerðu hana þannig framandi. Þeir litu á náttúruna sem villt afl sem manneskjan drottnaði engu að síður yfir. Hún var ósnertanleg en njótanleg.67 Í dag er eina von okkar til þess að lifa af að endurhugsa stöðu okkar gagnvart náttúrunni, því hún lifir ekki bara fyrir utan okkur. Við erum náttúran. Morton segir að til þess að bjarga umhverfinu, þurfum við að færa okkur frá rómantísku hugmyndinni um náttúruna. Í staðinn ættum við að horfast í augu við þá staðreynd að vistkerfið er orðið þannig að það verður alltaf erfiðara og erfiðara að sjá mörk hins lífræna og hins ólífræna. Hann segir að við ættum að hætta að einblína bara á náttúruverndina en horfa á allt samhengið, allt vistkerfið upp á nýtt. Það er orðið of seint að fara tilbaka því ekki ætlum við að sleppa tækninni sem við höfum öðlast. Það mun ekki neinum takast að fá mannkynið til að hætta að nota rafmagn eða aka bíl, sú barátta myndi alltaf tapast. Við gætum hinsvegar breytt kerfisvillunni í heiminum. Við þurfum að hugsa veru okkar upp á nýtt og viðurkenna vandamálið eins og það er. Nú er plast og allkonar úrgangur komið í landfyllingar og þannig orðið að náttúru. Landfylling er orðin eins náttúruleg og tré. Náttúran er ekki bara „þarna“ (e. over yonder) hún er hér, og allt um kring. Hún er plast, hún er ryðgað járnstykki, hún er blað, hún er tré og hún er við. En við þurfum að breyta sambandi okkar og virða aðrar verur í heiminum. Þær eru, smáar sem stórar, jafn réttháar okkur.68 En við erum ekki nálægt því og svo lítið dæmi sé tekið, það þarf ekki nema eitt orð til að skýra það nánar: kjötiðnaður. Ljóðmælandi liggur á sjávarbotninum. Hún er litlu dýrin sem taka sér bólfestu í líkinu og gæða sér jafnframt á því:

krabbinn: „þegar hjartað er fullvaxinn snigill

67 Stone. (2006). Friedrich Schlegel, Romanticism, and the Re‐enchantment of Nature. Inquiry. 48(1), 3- 25. 68 Blasdel. (2017, 15. júní). A reckoning for our species': the philosopher prophet of the Anthropocene. theguardian.com

25

sekk ég klónum í slýið“ hafið: „krabbinn vill verða krabbahjarta“ krabbinn: „hefðir þú verið sterkari hefðir þú étið mig“69(29)

Dýr sjávarbotnsins nærast í og á líkinu. Við erum nefnilega öll hér fyrir hvert annað. Einnar veru dauði, er annarrar brauð. Kenning Mortons er að allar verur séu háðar innbyrðis og að allt hafi einhverskonar meðvitund, allt frá þörungum, til stórgrýtistil gaffla. Hann segir að erfðaefnið okkar, sjálft DNA-ið innihaldi verulegt magn erfðaefna úr vírusum. Okkur er þegar stjórnað af frumstæðri gervigreind sem er iðnaðarkapítalismi, sem segir okkur að langa í hluti sem við þurfum ekki.70 Bókmenntafræðingurinn Tom Bristow segir í bók sinni, The Anthropocene Lyric, að það sé ábyrgð akademíunnar að ögra þeirri hugsun sem við erum alin upp við (e.the inherited ways of thinking) og endurhugsa tilveru okkar hér í því rúmi sem við deilum með öðrum lífverum. „Hugtakið mannöld sýnir glöggt jarðfræðilegt fótspor okkar og þessi nýja sýn okkar á breytta tilveru býður upp á nýjan möguleika á textasmíð sem nýstárleg skynjun á heiminum sem meira og annað en bara mennskan heim, að nota hugmyndina um afleiðingar mannaldar til þess að endurhugsa yfirburði okkar.“71 Hugtakið mannöld segir ekki bara sögu eyðileggjandi afla mannkynsins heldur einnig hvernig við sem tegund höfum, blessunarlega, neyðst til þess að endurskoða hugmynd okkar um tegundina maður og setja jafnfætis þeim tegundum sem við deilum jörðinni með. Hvort sem það eru plöntur, dýr eða vélar því við erum allt þetta. Við erum ekki lengur ómeðvituð um þá staðreynd að hlýnun jarðar er homo sapiens að kenna, heldur erum við farin að gera okkur grein fyrir að við völdum þeim hamförum og þá er hálfur sigurinn unninn. Mörgum finnst þeir geta tekið undir það að maðurinn sé dýr og jafnvel gróður en erum við vélar líka? „Við erum orðin cyborg [...]flestir eru með stafræna útgáfu af sjálfum

69 krabbinn:/“tá hjartað er fullvaksin snigil seti eg klørnar í slýggið“/havið:/“krabbinn vil vera krabbahjartað“krabbinn:/“hefði tú verið sterkari/hevði tú etið meg“ 70 Blasdel. (2017). 71 (The frst section) reveals how a new collocation of person and place invite us to consider a fresh formation in lyric poetry that assembles ‘place perception’, ‘more-than-human worlds’, and ‘Anthropocene emotion’ to rethink the age of the human in terms other than autonomy and self- determination. (Bristow 2017)

26

sér. Í tölvupósthólfinu, á samskiptamiðlum og bókstaflega öllu sem við gerum.“ 72 Við það má einnig bæta að við látum setja vélahluti í okkur eins og gangráð, mjaðmakúlur, tennur og svo mætti lengi telja. Hvar eru mörk okkar sem homo sapiens? Hvenær getum við sagt að við séum vél? Í grein sinni í Tímaritinu Skírni, fjallar Úlfhildur Dagsdóttir ítarlega um myndbönd og texta Bjarkar. Þar er meðal annars lag Bjarkar, ( Allt er umkringt ást) til umfjöllunar. Í myndbandinu við lagið, tekur Björk á sig mynd vélmennis sem skapar annað Bjarkar-vélmenni, á meðan á því stendur flæðir hvítur, vatnskenndur vökvi um allt sem virðist tákna lífsorkuna eða blóð. Þegar vélmennið er fullgert, fallast verurnar tvær í faðma og elskast.73 Á meðan hljómar lag með exótískum strengjahljóðum, hægum takti og texta sem fjallar um ást:

þér hlotnast ást það verður hugsað um þig þér hlotnast ást þú verður að treysta því74

sem gerir það að verkum að: „[...]þetta hvíta og að því er virðist gerilsneydda og kalda umhverfi er hreinlega fyllt af ást“.75 Galdurinn í texta lagsins breytir þannig skynjun áhorfandans á myndbandið. Úlfhildur bendir einnig á að með því að setja allt þetta rennandi vatn í kaldan og vélrænan heiminn, verður náttúran tæknileg. Tæknin öðlast líf. Í staðinn fyrir að ganga út frá tækni og náttúru sem andstæðupari, blandar Björk þeim saman. Í myndbandi sínu við lagið The Gate, blandar Björk einnig saman náttúru og tækni.76 Myndbandið byrjar á skoti úr óviðjafnanlega fallegu ævintýralandi þar sem útgáfa af henni situr í undurfagurri bleikri veröld og spilar á flautu. Allt í kringum hana

72 „We have become cyborg“, "You have a digital version of yourself, a partial version of yourself online in the form of your emails, your social media, and all the things that you do.“ (Musk 2016) 73 Björk. (2007). 74 „you´ll be given love/you´ll be taken care of/you´ll be be given love/you have to trust it“ (ísl. texti Úlfhildur Dagsdóttir) 75 Úlfhildur. (2001). Myndanir og myndbreytingar: Um myndbönd Bjarkar. Skírnir,175(Haust), 391. 76 Björk. (2017)

27

fljúga litlar smáverur sem minna á vélar. Eftir nærskot af andliti Bjarkar, er farið í annan heim, þar sem önnur Björk og tölvugerð vera skjóta ljósboltum sem koma úr bringu þeirra á milli sín. Áhorfandinn skynjar þrána í hverjum tón og orði:

Gróið hjartasár mitt breyttist í hlið þaðan sem ég öðlast ást þaðan sem ég gef ást.77

Þetta er tilfinningaþrunginn texti sem Björk hefur áður sagt í viðtali að sé uppgjör hennar við hjartasorgina sem hún upplifði við skilnað sinn og er svo sýnileg á breiðskífu hennar sem hún tileinkaði sársaukanum við hjartasorgina.78 Í næstu línum úr ljóðabókinni er ekki verið að fegra neitt og raunveruleikinn er hér í öllu sínu fagra látleysi. Konan hefur þegar lifað sinn heimsendi en samt heldur saga hennar áfram. Eftir að ljóðmælandi hefur tapað stríðinu og drukknað er dauðinn og vonleysið í allri sinni grótesku við völd:

ligg á botninum húðin íshvít blóðsár augun stara blátóm 79(19)

77 My healed chest wound/transformed into a gate/where I receive love from/where I give love from 78 Björk. (2017). 79 Liggi á botninum/húðin íshvít/blóðsár/eygini stara/blátóm

28

6. Sköp(un) – Töfraraunsæi

„Að skapa þarfnast hugrekkis“ ~ Timothy Morton 80

Víða minnist ljóðmælandi á bringu sína, það minnir sterklega á mörg myndbönd Bjarkar.

Tvær marglyttur svífa niður finn purpuralitt slýið blautt, á harða brjóstkassanum festa sig á sitthvort rifbeinið verða að hafbrjóstum, svo hafið geti streymt í mér(38)

Ljóðmælanda verður tíðrætt um bringu sína og hvað gerist í rifbeina-„búrinu“. Hér lýsir hún því þegar tvær marglyttur festa sig í rifbeinin og búa til brjóst úr sjónum. Þetta minnir á myndband Bjarkar við lag hennar Oceania, þar sem marglyttur spretta út frá brjósti hennar og gæða þannig hafið lífi.81 Í textanum segir:

Sviti þinn er saltur vegna mín.82

Haf Bjarkar er kvengert og það gefur. Hún er móðirin og hún talar til sjávardýranna sem barnanna sinna. Benda má á framkomu Bjarkar á opnunarhátíð Ólympíuleikanna í Aþenu árið 2004, þar sem kjóllinn hennar er víðfemt, fagurt hafið. Hún syngur fyrir þjóðir heimsins sem væru þau börnin hennar.83 Ljóðmælandi Önnu auðgar líf hafsins með líkama sínum eftir að hafa gengið í hafið:

80 Biesenbach. (2015) 81 Björk. (2020). 82 Your sweat is salty/I am why 83 Olympíuleikarnir. (2017)

29

Ég sé hafið streyma eins og blóð gegnum bláu æðarnar undir hvítri húðinni Hafið: „ég syndi í þér þú skalt einnig synda í mér“ ég skil ég er tilneydd því sviti minn lyktar af salti tár mín bragðast sem salt84(7)

Eftir að hún drukknar og sekkur til botns koma dýrin:

grænbrúnir krabbar hópast setja klærnar í kalda kjötið þvinga brjóstkassann opinn

Dýrin taka sér bólfestu í hjartastað og „hjarta“ bætist við nöfn þeirra. Rödd ljóðmælanda færist í þau: snigilhjartað: „ég gref mig upp finn nýja strauminn vagga blíðlega ég er gul legg mín hrogn djúpt inn í þaraskógi ég er gul“85

84 Eg síggi havið streyma/sum blóðið gjögnum/bláu æðrarnar/undir hvítu húðini/havið: „eg svimji í tær tí mást tú eisini svimja í mær/skil tað/eg eri noydd, tí/mín sveitti luktar salt/míni tár smakka salt 85 Gágguhjarta: „gravi meg upp/føli nýggja streymin/skola eymt/eg/eri/gul/leggi míni rogn/djúpt inni í taraskógi/eg/eri/gul“

30

Krabbarnir opna hjarta hennar og fyrir innan kviknar líf. Náttúran er þar, ljóðmælandi er móðirin. Í myndbandi Bjarkar við lagið Jóga er íslenska náttúran í aðalhlutverki. Fyrsta skot myndavélarinnar er á hvítklædda Björk sem liggur flötum beinum á grárri Íslandsströnd, sem minnir á líkamann á sjávarbotninum í Korallbruna. Frá Björk er tekið flugið yfir hrikalegt og fagurt landslag sem blandast við tölvugrafík og erfitt er sjá hvað er tölvugert og hvað ekki. Textinn fjallar um sterkar tilfinningar, aumar taugar og læknandi hendur Jógu, vinkonu Bjarkar. Landslagið sem flogið er yfir minnir á æðakerfi, vefi, taugar og vöðva líkamans. Náttúran tekur á sig mannlega mynd. Í lok myndbandsins er tölvugerð Björk komin á háan fjallstind, myndavélinni er beint að bringu hennar, þar sem sporöskjulagað gat hefur myndast og fyrir innan er náttúran sjálf.86 Þarna, eins og svo oft áður, blandar Björk náttúrunni og sjálfri sér saman og erfitt er að sjá hvað er hvað. Það skiptir heldur ekki máli. Bringan er sá staður líkamans sem Björk leggur áherslu á. Breiðskífu hennar Vulnicura fylgdi kynningarmyndband (e. moving album cover). Þar leggur Björk mikla áherslu á bringuna. Myndbandið byrjar á að áhorfandinn sér konu eða steingerða veru sem liggur á bakinu yfir stein, en snertir jörðina með höndum öðrum megin og fótum hinum megin. Á bringu hennar er risastórt gap, sem minnir á píku. Úr henni vellur fjólublár vökvi, yfir alla veruna, sem smám saman verður lifandi Björk. Andlit hennar sést útum hettu sem liggur þétt að andlitinu og myndar eins, sporöskjulaga op. Gatið á bringunni minnkar smám saman og litlir þræðir vaxa út á börmunum. Fyrir innan er allt fullt af perlum. Björk stjórnar þráðunum og opið lokast fallega. Björkin sem liggur svona berskjölduð, með stórt sár, finnur leið til þess að loka hjartasárinu og eins og sést í myndbandinu, stendur upp heil og gengur burt.87

augnþarinn blundar munnþarinn gapir rautt andlitsþarinn svífur þungt 88 (31)

86 Björk. (2017) 87 bjork.fr. (2016, 12. September). Björk présente Vulnicura VR. bjork.fr. 88 Eygnatarin blundar/munntarin gapar reytt/andlitstarin sveimar tungt

31

Lesandinn fylgist með gróðri hafsins taka sér bólfestu á andliti ljóðmælanda. Þessar línur eru myndrænar, eins og allt ljóðið reyndar og minnir margt á myndbönd Bjarkar. Í myndbandinu við lagið Tabula rasa, svífur Björk um í tóminu, hægar hreyfingar, eins og þær séu í vatni.89 Hún er líkt og samvaxin gróðri. Breytist sitt á hvað og hægt er að sjá fyrir sér til dæmis blóm og fiðrildi. Svífandi fálmarar skjótast úr henni. Munnur hennar fyllist af einhverskonar gróðri. Búkur hennar tekur á sig mynd skapa. Grípum aftur í Korallbruna:

brjóst mín eru þung lýsa eldrauð/eru hafsólir með löngum þráðum skína gjósandi sem eldgos á botni hafsins90(40)

Þessar línur minna á myndband Bjarkar við lagið Cocoon þar sem Björk stendur nakin og rauðir þræðir sem koma úr brjóstum hennar, vefja sér utan um hana þar til hún er alveg hulin, eins og í púpu.91 Ljóðmælandi Korallbrunavverður eins og frjósamur garður fyrir gróður og dýr. Nokkurs konar hýði (e.cocoon)

úr grjótinu mínar brúnu greinar svífa í vatninu snúast í öldunum litlar blöðrur á endanum fljóta tilbúnar fylltar af eggjum og sæði mitt spírandi slím

89 Björk. (2019). 90 Míni bróst eru tung nú/skína eldreytt/eru havsólir/við langum træðrum/skyggja/goysandi/sum eldgos/á havsins botni 91 [Mynd 3]

32

af þaragræðlingum skapast í dökku leginu hægt breytist ég í þaraskóg92(41)

Í þessu textabroti minnir ljóðið á myndbandið við Notget, þar sem mölflugan Björk sekkur í svartan gróður sem líkist hári, síðan breytast litirnir í myndbandinu og allt umbreytist í grænleitan gróður sem minnir mjög á þang og annan sjávargróður.93 Það er viss forvitni og töfrar sem fylla lesandann þegar ljóðmælandi Korallbruna tærist smám saman upp. Það gróteska verður fallegt. Rotnandi lík á sjávarbotni verður eins og ævintýri. Allt í einu verður dauðinn ekki eins hættulegur og hræðilegur og ella.

Ég hef týnt uppruna mínum mig langar ekki að finna hann aftur fljóta með náttúrulögmálinu falla í faðm hafsins.94

Á þennan hátt byrjar texti Bjarkar í laginu Wanderlust. Hún lýsir því hvernig hún veit ekki hver eða hvað hún er og langar ekki að skilgreina sig lengur. Heldur vill hún/hann/það vera eitt, óskilgreint í hafinu; sem er beinlínis það sem ljóðmælandi Korallbruna fær að lokum að gera:

ég er hvít öldugjálfrið sem freyðir í blöðruþanginu ég er hvít ég er blá

92 Úr grótinum/mínar brúnligu greinar/fløða í vatninum/snara í aldurtutli/litlar blødrurø á endanum/flóta kýnsbúnar/fyltar av eggum og sáði/mítt spírandi slím/av taranýfødingi/skapast/í døkku lívmóðrini/seigliiga vaksi eg til taraskóg 93 [Mynd 4] 94 I have lost my origin/And I don´t want to find it again/Rather sailing into nature´s law/And be held by ocean´s paws

33

streymi langt burt frá landi95

Texti Bjarkar við lagið Aurora, er fullur af þrá eftir því að fá að sameinast:

Ég fell niður á hnén fylli munn minn af snjó líkt og hann bráðnar langar mig að renna saman við þig.96

Báðar beita þær Anna og Björk náttúrunni fyrir sig í textum sínum og upphefja hana um leið og tilfinningin fyrir ógninni er sterk og alltumlykjandi. Í ljóði Önnu er hún tilneydd til að sætta sig við dauða sinn og þó líkindi séu mikil við marga texta Bjarkar, eru textar Bjarkar miklu oftar fullir af þrá, ást og kynferðislegum krafti. Þegar ljóðmælandi Korallbruna sameinast hafinu er það líka vísun til kynferðislegs aðdráttarafls, eða er það hafið sem er elskhuginn sem eyðir? Þannig eru þær báðar að samþætta náttúru og konu og benda á aðdráttaraflið, kraftinn, eyðingarmáttinn en um leið hina ofboðslegu fegurð í hinu smáa sem stóra. Hvernig kona og náttúra eru eitt, hvernig allt er náttúran og náttúran er kona og hvernig allt tengist saman í ofurmöskva.

95 Eg eri hvít/aldututlið/sum/skúmar/millum/blødrutaran/eg/eri/hvít/eg/eri/blá/streymi/langt/vekk/frá/land 96 I tumble down on my knees/fill the mouth with snow/the way/it/melts/I wish/to melt into you

34

7. Umfrymi – Jaðartexti verka

„Við reyndum að búa til karakter sem var hluti af ímynduðum þjóðflokki“. ~Björk97

Í útgáfu verka, hvort sem það eru bækur, plötur eða önnur list, skiptir jaðartextinn miklu máli. Í greininni Um tilurð hnatta og handsaumaðra útgáfna eftir Önu Stanićević, segir að jaðartextinn sé skilgreindur eins og þröskuldur sem þarf að stíga yfir áður en gengið er inn í verkið. Hann gegnir stóru hlutverki fyrir viðtökur þess, því það er hann sem mætir lesanda/hlustanda/áhorfanda fyrst, er margt annað en sjálft verkið. Jaðartextinn er nefnilega ekki bara textinn og nafn höfundar og titill verksins heldur skiptir öll hönnun miklu máli.98 Búningarnir sem Björk hannar og klæðist á hverri breiðskífu teljast til jaðartexta. Hver breiðskífa á sína sérstöku Björk og að hönnun útlitsins koma margir þekktir listamenn. Óhætt er að segja að óskarsverðlaunakjóll Bjarkar sé einn þekktasti jaðartexti hennar. Svanakjóllinn margumræddi sást svo skömmu síðar á umslagi breiðskífunnar . Björk leggur gífurlega áherslu á jaðartexta verka sinna. Nærtækast er að nefna hennar áttundu breiðskífu Biophiliu. Á henni fór Björk í mikla þverfaglega samvinnu þar sem vísindi og tækni voru notuð að hætti Bjarkar á mjög nýstárlegan hátt. Hún vann meðal annars með David Attenborough að sérstöku kennsluefni og fékk fleiri til samvinnu við sig til þess að vinna að Biophilia smáforriti. Biophilia varð að risastóru verki, safni laga og texta sem tengjast öll sömu hugmyndinni, náttúrunni í öllum sínum myndum, mikið konseptverk þar sem náttúra, tónlist og tækni eru tengd saman.99 Þessi gjörningur talar einmitt inn í það sem Timothy Morton ræðir um í sinni heimspeki. Að listmennirnir geti hjálpað fólki að skilja betur samband sitt við alla aðra verund í heiminum, að öðlast vistvitund. Eins og hann segir í grein sinni Efnisleiki, leikur sem hann skrifaði í tilefni

97 Björk. (2015, 16. mars). Björk présente Vulnicura VR. bjork.fr. 98 Stanićević. (2020): 193. 99 Menntamálaráðuneytið.

35

sýningar Hrafnhildar Arnardóttur, Shoplifter: „Vistvitund felur í sér skilning á því að hlutir geta verið til á fleiri en einu tíðaplani, í fleiri en einni vídd“.100 Næstu breiðskífu Vulnicura tileinkaði Björk erfiðum skilnaði og forræðisdeilu. Allir búningar Bjarkar voru með sporöskjulaga op á bringunni sem táknaði hjartasorgina sem hún var að ganga í gegnum. Listamaðurinn James Merry hefur unnið með henni að gerð búninga og sérstaklega hefur hönnun hans á grímum Bjarkar vakið athygli, en hann byrjaði að vinna með henni við hönnun búninga á Vulnicura. Í viðtali á vefsíðu „Dazed“ segir hann að honum finnist stórkostlegt að aðstoða kameljónið Björk að ummyndast í nýjar og nýjar verur.101 Nýjasta breiðskífa Bjarkar Utopia er einnig konseptverk. Hér skiptir Björk alveg um gír og endurfæðist sem ævintýravera úr bleikri veröld. Björk sagði um vinnu við verkið að það hafi verið eins mikil paradís að vinna að því og Vulnicura var helvíti.102 Umslag breiðskífunnar er mikið listaverk útaf fyrir sig og mjög er vandað til verks. Framan á prýðir mynd af Björk, með enn eina grímuna sem er perlum skreytt og lögunin minnir mjög á ákveðið líffæri konu, sem vísar í paradís (e. bliss). Hægt er að sjá fuglaflautu á myndinni og það er engu líkara en að Björk sé flauta sjálf, því tvö göt eru á hálsi hennar. Í hálsakoti hvílir lítill fuglsungi. Hún birtist hér sem verndari fuglanna.103 Flautur eru áberandi á breiðskífunni og í myndböndum við lögin á henni. Á síðunni bjork.com er hægt að kaupa trékassa með margvíslegum tegundum af flautum, sem eru hannaðar sérstaklega til þess að kalla á fugla.104 Þegar hlustað er á breiðskífuna hljóma líka ógrynni fallegra, framandi fuglahljóða sem lipurlega er blandað í tónlistina. Hér hefur verið tæpt á stóru í jaðartexta sem fylgir útgáfu Bjarkar, því hverri breiðskífu fylgja margskonar hlutir. Eins og komið hefur fram, er Anna Malan myndlistarkona. Hún myndskreytti einnig ljóðabók sína Undirfloyma þar sem hún vinnur með sömu hugmyndina, konan í náttúrunni og náttúran í konunni. Þar eru útlínur kvenna fylltar af gróðri sem gætu verið taugakerfi, blóðvefir, mosi eða þang. Útlínur konu sem er fyllt þéttu neti rauðs gróðurs,

100 Morton. (2020) 101 Woodward. (2017, 27. nóvember). Meet the man behind Björk’s out-of-this-world masks. dazeddigital.com. 102 Merry. (2016, 7. mars). The Full Interview: Björk and Julia Davis. anothermag.com. 103 [Mynd 5] 104 https://shop.bjork.com/product/bjork-utopia-bird-call-boxset/

36

hárið mikið og blátt eins og hafið.105 Útlínur kvennanna eru óljósar. Á myndinni Gler er bakgrunnurinn ljós og í hjartastað konuformsins sem sést á myndinni, er rauður gróður sem vex út og frá líkamanum.106 Þar er aðra mynd að finna sem ber nafnið Haf, og er búkur konu sem er fylltur af sama rauða gróðrinum eða æða/tauga kerfi. Í bakgrunni sést sjávargróður í vatninu.107 Myndirnar minna á tilfinninguna í Korallbruna og smágerðan gróðurinn á forsíðunni. Nýjasta bók Önnu, Psykodrotningin sigur frá, er hennar fyrsta skáldsaga þar sem hún myndskreytir einnig. Jaðartextinn í Korallbruna er úthugsaður. Eins og nefnt er í kafla 1, vísar nafnið í kóral og hina hrikalegu eyðingu gróður sjávarins. Kápa bókarinnar er skreytt mynd af fíngerðum gróðri sem gæti verið úr náttúrunni en hann gæti líka verið vefur eða taugakerfi manneskju. Þannig tengir höfundur merkingu ljóðsins við útlit bókarinnar. Í prentun ljóðsins eru engir hástafir og enga punkta að finna. Þannig tengir höfundur ennfremur óendanleikann við texta bókarinnar. Síðasta lína ljóðsins svífur þannig inn í tómið:

eg eri blá108

105 [Mynd 6] 106 [Mynd 7] 107 [Mynd 8] 108 ég er blá

37

8. Endastig

Sólorka, vindorka, áfram veginn í samvinnu með náttúrunni – aðeins þannig náum við í hinn endann á 21. öldinni. ~Björk109

Í dag er fjórðungur allra dýra og plöntutegunda á jörðinni í útrýmingarhættu, allt að ein

110 milljón tegunda. Í dag fækkar skordýrum í heiminum um 2,5 prósent á hverju ári sem þýðir að innan 100 ára, verða þau útdauð ef ekkert verður að gert. Skordýr eru 80 prósent af öllum lífverum jarðarinnar. Mikið er í húfi því öll afkoma okkar byggir á því vistkerfi sem við tilheyrum.111 Í dag er talið að mannkynið sem er aðeins 0,01% af lífmassa jarðarinnar haf eytt 80% af villtum spendýrum jarðarinnar.112 Í dag er talað um að nú eigi sér stað, sjötta fjöldaútrýming tegunda. Mannkyninu hefur þegar tekist að raska 97 prósentum af vistkerfum jarðarinnar. Við stöndum frammi fyrir því að tilheyra einu tegund jarðarinnar sem ber ábyrgð á því að sjötta fjöldaútrýming tegundanna eigi sér stað. Spurningin er hvort við getum þá tekið á herðar okkar þá siðferðilegu ábyrgð sem við ættum að taka. Við höfum allt of lengi litið á okkur sem herra jarðarinnar og að hún og allar aðrar lífverur hennar eigi að þjóna okkar dyntum, en það er ekki svo. Algjör hugarfarsbreyting þarf að eiga sér stað. Það sem hefur háð okkur er að vandamálið er svo stórt að við sjáum það ekki. Það er ofurhlutur, það er hamfarahlýnun og eyðing vistkerfanna og gerir okkur svo smá að okkur finnst við ekki geta gert neitt og að það litla sem við mögulega gætum gert, skipti ekki máli. Í útvarpsþættinum Orðin sem við skiljum ekki, segir heimspekingurinn Sigríður Þorgeirsdóttir að við þurfum að hefja erótískt samband við náttúruna.113 Við eigum að

109 Stanley. (2011. 28. júlí). Björk: Violently Appy. dazeddigital.com. 110 Arnardóttir. (2019. 6. maí). Ein milljón plöntu- og dýrategunda í útrýmingarhættu. frettabladid.is. 111 Þorvaldur S. Helgason. (2021, 01. maí). Orðin sem við skiljum ekki. ruv.is. 112 Sverrir Norland. (2021): 48. Stríð og kliður. JPV Útgáfa. 113 Sigríður Þorgeirsdóttir. (2021, 01. maí). Orðin sem við skiljum ekki. ruv.is.

38

reyna að skilja dýrin og plönturnar, reyna að setja okkur í þeirra stað. Timothy Morton hittir naglann á höfuðið þegar hann segir að við ættum að fá listamenn í lið með vísindamönnunum til þess að skilja þessa miklu hamfaratíma sem við lifum. Til að aðstoða við að skilja en líka til að miðla og kenna. Við þurfum að vekja skynjun sálarinnar úr dvala og sækja þangað sem skynjunin leiðir okkur. Hann segir að list sé leiðin til þess að skilja þennan óraunverulega raunveruleika. Sem betur fer höfum við listakonur eins og Björk Guðmundsdóttur sem er brautryðjandi, hún undirbýr og frjóvgar jarðveginn sem úr spretta listakonur eins og Anna Malan Jógvansdóttir. Þær töfra okkur með skynjun sinni á jörðinni sem við búum á og fá okkur kannski til þess að skilja aðeins betur.

39

Heimildaskrá

Andri Snær Magnason. 2019. Um tímann og vatnið. Reykjavík: Mál og menning.

Anna Malan Jógvansdóttir.. 2018. KORALLBRUNI. Syðrugöta: Eksil.

Atli, Harðarson. 1988. „Hugur.“ timarit.is. 1. janúar. sótt 1. apríl 2021. https://timarit.is/page/4964569?iabr=on.

Ágúst, Valfells. 2002. Vísindavefurinn. 5. September. sótt 5. apríl 2021. http://visindavefur.is/svar.php?id=1318.

Biesenbach, Klaus. 2015. "björk:archives." In This Huge Sunlit Abyss From the Future Right There Next To You..., by Timothy Morton Björk. London: Thames and Hudson Ltd. sótt apríl 2, 2021. https://www.dazeddigital.com/music/gallery/20196/0/bjork-s-letters-with- timothy-morton.

Björk. 2021. wikipedia.org. apríl 6. sótt maí 8, 2021. https://en.wikipedia.org/wiki/Hyperballad.

Björk. 2017. youtube.com. september 15. sótt maí 5, 2021. https://youtu.be/DNjyubIuxck. (viðtal) bjork.fr. 2015. bjork.fr. mars 16. sótt maí 1, 2021. https://www.bjork.fr/family-moving- album-cover.

Blasdel, Alex. 2017. The Guardian. júní 15. sótt apríl 27, 2021. https://www.theguardian.com/world/2017/jun/15/timothy-morton-anthropocene- philosopher.

Bristow, Tom. 2017. The research gate. September. sótt mars 20, 2021. https://www.researchgate.net/publication/320841510_Tom_Bristow_The_Anthr opocene_Lyric_an_Affective_Geography_of_Poetry_Person_Place_Review/cita tions.

40

Darwin, Charles. 2004. Uppruni tegundanna. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag.

Dazed. 2020. dazeddigital.com.

Dibben, Nikki. 2011. Bjork.fr. Ágúst. sótt 04 23, 2021. https://www.bjork.fr/Virus.

Emely Brady, Arto Haapala. 2003. digitalcommons.risd.edu. Janúar. Accessed Apríl 23, 2021. https://digitalcommons.risd.edu/liberalarts_contempaesthetics/vol1/iss1/6.

Facts., Intergovernmental Panel on Climate Change -. 2007. nobelprize.org. Desember 10. sótt apríl 13, 2021. https://www.nobelprize.org/prizes/peace/2007/ipcc/facts/.

Freud, Sigmund. 2020. "The Uncanny." In The Monster Theory Reader, by Jeffrey Andrew Weinstock, 59-88. The University of Minnesota Press.

Gabriel De la Torre, Diana Salinas, Carlos Ortega, Luis Santillán. 2020. sciencedirect.com. September 6. Accessed 4 23, 2120. https://doi.org/10.1016/j.scitotenv.2020.142216.

Gísli Pálsson. 2017. Fjalið sem yppti öxlum. Reykjavík: Mál og menning.

Halla, Harðardóttir. 2018. ruv.is. 2. febrúar. sótt 19. 03 2020. https://www.ruv.is/frett/thurfum-ad-vera-skapandi-og-bjartsyn.

Kristjana Björg, Guðbrandsdóttir. 2016. icelandmag.is. 20. desember. sótt 30. Apríl 2021. https://icelandmag.is/article/exclusive-interview-bjork-pain-was-a- journey.

Kristján, Guðjónsson. 2018. timarit.is. 2. Febrúar. sótt 1. apríl 2021. https://timarit.is/page/7054882.

Lovísa, Arnardóttir. 2019. frettabladid.is.6. febrúar. sótt 8. maí 2021. https://www.frettabladid.is/frettir/ein-milljon-plontu-og-dyrategunda-i- utrymingarhaettu/

41

Markbreiter, Charlie. 2018. artspace.com. desember 14. sótt apríl 5, 2021. https://www.artspace.com/magazine/interviews_features/in_depth/an-interview- with-eco-philosopher-timothy-morton-on-art-and-the-hyper-object-55828.

Menntamálaráðuneytið. 2014. biophiliaeducational.org. sótt apríl 30, 2021. https://biophiliaeducational.org.

Merry, James. 2016. anothermag.com. 7. mars. sótt 6. maí 2021. https://www.anothermag.com/fashion-beauty/8449/the-full-interview-bjork-and- julia-davis.

Morton, Timothy. 2016. Dark Ecology. New York: Columbia University Press.

Morton, Timothy. 2018. Ecology Without Nature. february 22. sótt apríl 13, 2021. https://ecologywithoutnature.blogspot.com/2018/02/i-am-disabled.html#links.

Morton, Timothy. 2010. "Ecology as Text, Text as Ecology." Oxford Literary Review 1- 17. http://www.jstor.org/stable/44030819.

Morton, Timothy. 2020. "Efnisleiki, leikur." Ritið 197-202.

Morton, Timothy. 2013, Kindle. Hyperobjects: Philosophy and Ecology after the End of The World. London: University of Minnesota Press.

Morton, Timothy. 2012. The Ecological Thought. London: Harvard University Press.

Morton, Timothy. 2012. "Thinking Ecology: The Mesh, The Strange Stranger and the Beautiful Soul." Collapse Vol. VI 265-293.

Musk, Elon. 2016. youtube.com/Recode. june 2. sótt apríl 29, 2021. https://youtu.be/ZrGPuUQsDjo.

Poulsen, Kinna. 2018. listaportal.com. 22. 04. sótt 19. mars 2020. http://www.listaportal.com/english/2018/4/22/a-new-poetry-collection-by-anna- malan-jgvansdttir.

42

Seigel, Jessica. 2017. "Why you feel the Urge to Jump." Nautilus 65-71. sótt apríl 24, 2021. https://nautil.us/issue/46/balance/why-you-feel-the-urge-to-jump.

Sigrún Inga Hrólfsdóttir. 2016. "Hlutmiðuð verufræði: Leikur hugsunar og efnis í heimspeki og list." skemman.is. maí 6. sótt apríl 1, 2021. http://hdl.handle.net/1946/24285.

Slezak, Mikey. 2017. theguardian.com. 24. maí. sótt 6. maí 2021. https://www.theguardian.com/environment/2017/may/25/great-barrier-reef- 2050-plan-no-longer-achievable-due-to-climate-change-experts-say.

Smith, Nicholas. 2013. "The Role of Emotion in Global Warming Policy Support and Opposition." onlinelibrary.wiley.com. Nóvember 12. sótt apríl 13, 2021. https://doi.org/10.1111/risa.12140.

Stanićević, Ana. 2020. „Um tilurð hnatta og handsaumaðra útgáfa.“ Ritið, Tímarit Hugvísindastofnunar 185-214.

Stanley, Rod. 2011. dazeddigital.com. 28. júlí. sótt 6. maí 2021. https://www.dazeddigital.com/music/article/11007/1/bjork-violently-appy.

Stone, Alison. 2006. tandfonline.com. ágúst 21. sótt apríl 21, 2021. https://doi.org/10.1080/00201740510015338.

Sudbery, Peter E. 2011. proquest.com. október. sótt apríl 23, 2021. Bibliography Sudbery, Peter E. 2011. "Growth of Candida Albicans Hyphae." Nature Reviews.Microbiology 9 (10) (10): 737-48. doi:http://dx.doi.org/10.1038/nrmicro2636. https://www.proquest.com/scholarly- journals/growth-candida-albicans-hyphae/docview/89827.

Thomas, Madeleine. 2014. grist.org. október 28. sótt apríl 13, 2021. https://grist.org/climate-energy/climate-depression-is-for-real-just-ask-a- scientist/.

43

UK, The Alternative. 2017. thealternative.org.uk. september 20. Sótt mars 19, 2020. https://www.thealternative.org.uk/dailyalternative/2017/9/19/bjork-thegate- machines-love-nature.

Úlfhildur, Dagsdóttir. 2001. timarit.is. 1. september. sótt 31. mars 2021. https://timarit.is/issue/399341?iabr=on.

Woodward, Daisy. 2017. dazeddigital.com. 27. nóvember. sótt 6. maí 2021. https://www.dazeddigital.com/fashion/article/38197/1/meet-the-man-behind- bjorks-out-of-this-world-masks-james-merry-utopia.

Þorvaldur S. Helgason. 2021. ruv.is - Orðin sem við skiljum ekki. 1. maí. sótt 8. maí 2021. https://www.ruv.is/utvarp/spila/ordin-sem-vid-skiljum- ekki/31182/99bvn4.

Þorsteinn Vilhjálmsson, Halldór Svavarsson og. 2001. „Vísindavefurinn.“ visindavefur.is. 31. janúar. sótt 2. apríl 2021. http://visindavefur.is/svar.php?id=1312.

44

Myndbönd Bjarkar Guðmundsdóttur:

Björk. 2014. youtube.com. 2. september. sótt 8. maí 2021. https://youtu.be/6ADS- VUHSEM. (Vírus)

Björk. 2017. youtube.com. ágúst 14. sótt Mars 19, 2020. https://www.youtube.com/watch?v=Canm7glYFgg. (Ólympíuleikarnir)

Björk. 2020. youtube.com. febrúar 6. sótt mars 19, 2021. https://youtu.be/thnTE2e341g. (Oceania)

Björk. 2007. youtube.com. júlí 1. sótt maí 8, 2021. https://youtu.be/6CSiU0j_lFA. (Hyperballad)

Björk. 2012. youtube.com. mars 9. sótt maí 8, 2021. https://youtu.be/Wa1A0pPc-ik (Hollow)

Björk. 2019. Youtube.com. maí 10. sótt maí 8, 2021. https://youtu.be/mYbZw04ba78. (Tabula rasa)

Björk. 2009. Youtube.com. September 17. Sótt maí 9, 2021. https://youtu.be/loB0kmz_0MM. (Jóga)

Björk. 2017. Youtube.com. September. 27. Sótt maí 9, 2021. https://youtu.be/RIGgn1s3AvI (The Gate)

Björk. 2007. Youtube.com. September. 20. Sótt maí 9, 2021. https://youtu.be/u0cS1FaKPWY (All is full of Love)

45

Viðauki – Myndir

Mynd 1

Úr Hollow

46

Mynd 2

Kápumynd Kórallbruna

47

Mynd 3

Úr Coccon

Mynd 4

Úr Notget

48

Mynd 5

Plötuumslag Utopia

49

Mynd 6

Mynd af konu – Anna Malan Jógvansdóttir

50

Mynd 7

Gler – Anna Malan Jógvansdóttir

51

Mynd 8

Haf – Anna Malan Jógvansdóttir

52