<<

MA ritgerð

Þýðingafræði

Tungumál, ritmál og bókmenntir Norðmanna frá frumnorrænum tíma til nútímans Þýðingar á ritrýndu yfirlitsefni með greinargerð

Þórunn Sveina Hreinsdóttir

Leiðbeinandi: Gauti Kristmannsson Júní 2019

Háskóli Íslands

Hugvísindasvið Þýðingafræði

Tungumál, ritmál og bókmenntir Norðmanna frá frumnorrænum tíma til nútímans

Þýðingar á ritrýndu yfirlitsefni með greinargerð

Ritgerð til M.A.-prófs

Þórunn Sveina Hreinsdóttir Kt.: 100859-3949

Leiðbeinandi: Gauti Kristmannsson Maí 2019

Útdráttur Í ritgerðinni er fjallað um tungumál, ritmál og bókmenntir Norðmanna frá frumnorrænum tíma til nútímans. Norsk málsaga og þróun norsks ritmáls, frá frumnorrænum tíma, er stórbrotin saga sem nær yfir um það bil 18 aldir. Norskri málsögu er skipt eftir tímabilum í frumnorrænu, norrænu, norsku á síðmiðöldum (miðnorsku) og nútímanorsku. Norsk bókmenntasaga nær yfir 12 aldir, það er frá norrænum tíma til nútímans. Bókmenntasögunni er skipt í fjórtán tímabil strauma og stefna. Hún tekur til munnlegrar geymdar, og verka sem rituð eru á nokkrum ritmálum: norrænu, dönsku, bókmáli, nýnorsku og samísku. Ljóðlistin fær sérstaka umfjöllun fyrst almenna og síðan um evrópsk þjóðkvæði þar á meðal söfnun þeirra og varðveislu. Síðan er fjallað sérstaklega um fjóra norska 19. aldar fræðimenn, sem eiga það sameiginlegt að hafa brotið blað í sögu norsks ritmáls og bókmennta. Þeir eru: Ivar Aasen, frumkvöðull ritmáls sem byggt er á samræmdum norskum mállýskum. Knud Knudsen, hugmyndafræðingur ritmáls sem byggist á aðlögun dansks ritmáls að norskum framburði og málfræði. Aasmund O. , ljóðskáld og brautryðjandi í útgáfu á nýnorsku Aasens. Sophus Bugge, einn helsti fornkvæða og þjóðkvæðasafnari Norðmanna. Í kjölfarið fylgja þýðingar úr verkum þessara manna sem undirstrika enn frekar hugðarefni þeirra. Þar á meðal er þýðing á rómantísku náttúruljóði eftir Vinje.

1

Abstract This essay covers language, writing and literature of Norwegians, including history of the Norwegian poem, from early Nordic times to present day. Norwegian language history and evolution of writing of Norwegian people from early times is a magnificent saga that covers approximately eighteen centuries. The essay divides Norwegian writing by periods in early Norwegian, Nordic, medieval Norwegian and modern Norwegian. Fractions of translated poems is presented from a collections of letters from 1836 and 1849 by Ivar Aasen, about his ideals on creating new writing for the Norwegian people instead of the Danish writing that had been used for almost five centuries. That is followed by comprehensive review on history and covers about 12 centuries, from Nordic time to present day. The literature history is divided into fourteen era of different trends. The essay covers verbal sources and literature that are written in several languages: Nordic, Danish, Norwegian and Sami. Several authors are covered, with a list showing name and lifespan of each other from mid sixteen century. The poem in Norwegian literature history is covered specially is a short review. Also the essay shows a translated fragment from a historical travel journal, including a poem from Aasmund Olavsson Vinje.

2

Efnisyfirlit

I. hluti - Greinargerð

Inngangur ...... 9

Höfundar þýddu fræðigreinanna frá 21. öld ...... 10

1 Þýðingafræðihugtök og -kenningar ...... 11

1.1 Orðræðugreining ...... 11

1.2 Skoposkenningin ...... 12

1.3 Jafngildi ...... 12

1.4 Ýmis hugtök þýðinga ...... 13

1.5 Góðar þýðingar ...... 15

2 Greinargerð um markmálið ...... 16

2.1 Framsetning texta markmálsins ...... 16

2.2 Tilvitnanir og neðanmálsgreinar ...... 16

2.3 Sértæk vandamál og orðaval við þýðingarnar ...... 18

2.3.1 Þýðingar á textum um þýðingar og fræðin að baki ...... 18

2.3.2 Þýðingar á textum um norska málsögu ...... 18

2.3.3 Þýðing á texta um norska bókmenntasögu ...... 19

2.3.4 Þýðingar á textum um norska brautryðjendur frá 19. öld ...... 20

2.3.5 Þýðingar á textum eftir norska brautryðjendur frá 19. öld ...... 22

3

II. hluti - Þýðingar

3 Þýðingar á textum um þýðingar og fræðin að baki ...... 24

Þýðingar ...... 24

Meginreglur þýðinga ...... 24

Misræmi milli þýðinga ...... 25

Ákvarðanatökur við þýðingu ...... 26

Mismunandi tegundir þýðinga ...... 27

Þýðingafræði ...... 27

Að þýða orð fyrir orð eða merkingu fyrir merkingu ...... 28

Þýðingar sem nýtt rannsóknarsvið ...... 28

Rannsóknarsviðið fær nafn og skilgreiningu ...... 29

Þýðing er meira en bara texti ...... 30

Þýðing sem menningarlegur viðsnúningur ...... 31

4 Þýðingar á textum um norska málsögu ...... 31

Norsk málsaga ...... 31

Frumnorræna ...... 32

Norræna ...... 33

Miðnorska ...... 35

Nútímanorska ...... 36

4

5 Þýðing á texta um norska bókmenntasögu ...... 40

Norsk bókmenntasaga ...... 41

Stutt yfirlit ...... 41

Aðfaraorð ...... 44

800–1300: Norræna tímabilið ...... 45

1300–1550: Síðmiðaldir ...... 50

1550–1814: Dansk-Norskar bókmenntir ...... 50

1814–1850: Rómantíkin ...... 52

1850–1875: Frá rómantík til raunsæis ...... 54

1875–1890: Innreið nútímans ...... 56

1890–1905: Nýrómantík og módernísk sálfræði ...... 57

1905–1925: Nýtt raunsæi ...... 58

1925–1940: Menningarbundin átök og sálfræðilegt raunsæi ...... 60

1940–1945: Hernámið ...... 60

1945–1965: Eftirstríðsbókmenntir ...... 61

1965–1980: Módernismi og félagslegt raunsæi ...... 62

1980–1999: Hreinskilni og fjölbreytni ...... 64

Bókmenntir við þúsaldahvörf : Stöðugleiki og endurnýjun ...... 66

6 Þýðing á texta um ljóðlist ...... 69

Ljóðlist ...... 69

Saga ljóðsins ...... 70

Ljóðið í norskri bókmenntasögu ...... 71

5

7 Þýðing á texta um evrópsk þjóðkvæði ...... 72

Evrópsk þjóðkvæði ...... 72

Útbreiðsla ...... 72

Form og innihald ...... 72

Þjóðkvæðaflokkar ...... 73

Tímasetning ...... 73

Söfnun og afritun ...... 73

Formgerðarflokkun ...... 73

8 Þýðingar á textum um norska brautryðjendur frá 19. öld ...... 74

Ivar Aasen, [frumkvöðull nýnorskunnar] ...... 74

Knud Knudsen, málfarsumbótasinninn ...... 75

Knudsen og hljóðrétti rithátturinn ...... 76

Knudsen og fágað daglegt mál ...... 77

Var Knudsen fyrsti samnorskumaðurinn? ...... 78

Bókmálið sem ritmál ...... 79

Aasmund Olavsson Vinje, [ljóðskáld og brautryðjandi í útg. á landsmáli] ...... 80

Dølen. Vikublað ...... 81

Ferðaminningar frá sumrinu 1860 ...... 82

Ljóð Vinjes ...... 82

Greining ljóðsins „Ved Rondane“, eftir Aasmund O. Vinje ...... 83

No ser eg atter slike fjell og dalar ...... 83

Bragarháttur ...... 85

Ljóðatextinn...... 85

6

Sophus Bugge, [fornkvæða- og þjóðkvæðasafnari] ...... 85

Norrænufræðingurinn ...... 86

Rúnarannsakandinn ...... 88

Málvísindamaðurinn og þjóðkvæðasafnarinn ...... 90

Arfleifð Sophusar Bugges ...... 91

9 Þýðingar á textum eftir norska brautryðjendur frá 19. öld ...... 92

Ritmálið okkar, [1836, Ivar Aasen] ...... 93

Norskt ritmál, maí 1849, [Ivar Aasen] ...... 95

Æskilegt af eftirfarandi ástæðum ...... 95

Hindrandi aðstæður ...... 96

Hagstæðar aðstæður ...... 97

Krafan um breytingar á viðteknu formi „danska ritmálsins“, [1886, Knud Knudsen] ...... 97

Huldukona, 1861, Aasmund Olavsson Vinje ...... 99

Brot úr formála að Gamle Norske Folkeviser, [1858, Sophus Bugge] ...... 103

10 Skrá yfir höfunda og skáld frá miðri 16. öld til nútímans ...... 106

Heimildaskrá ...... 111

7

I. hluti

Greinargerð

8

Inngangur Þýðingafræði er vísindagrein sem fæst við kerfisbundnar rannsóknir á kenningum, lýsingu og beitingu þýðinga staðbundið og túlkunarlega. Þýðingafræði er auk þess nátengd mörgum öðrum fræðasviðum, þar á meðal bókmenntafræði, tölvufræði, sagnfræði, textafræði, heimspeki, táknfræði og málvísindum, ásamt fjölmörgum öðrum hugtökum vísinda og fræða (Transcultural Awareness in Translation Pedagogy. 2017:25). Þýðingar úr norsku er meginefni þessarar ritgerðar. Það eru þýðingar ritrýndra fræðigreina, birtar á 21. öld, eftir vísindamenn sem störfuðu eða starfa við hina ýmsu háskóla í Noregi. Ennfremur þýðingar á ýmsu efni sem skrifað var á 19. öld af fræðimönnum sem brutu blað í sögu norsks ritmáls og bókmennta. Í þessum fyrri hluta ritgerðarinnar er rætt um kenningar og hugtök á sviði þýðingafræða og um þær vandasömu ákvarðanir sem taka varð við þýðinguna hverju sinni. Síðan tekur við meginefnið (Sbr. II. hluti - Þýðingar). Fyrst koma þýðingar á tveimur stuttum fræðigreinum sem báðar fjalla um þýðingar og fræðin að baki þeim. Næst koma þýðingar á fjórum stuttum fræðigreinum um norska málsögu frá frumnorrænum tíma til nútímans. Við tekur þýðing á nokkuð langri fræðigrein sem fjallar um norska bókmenntasögu frá norrænum tíma til nútímans. Í framhaldi er þýðing á stuttu yfirliti um sögu ljóðlistarinnar, bæði í vestrænu samhengi og í norskri bókmenntasögu. Við tekur þýðing á umfjöllun um evrópsku þjóðkvæðin. Að lokum eru þýðingar á efni um og eftir fjóra norska 19. aldar fræðimenn sem brutu blað í sögu norsks ritmáls og bókmennta. Þeir eru: Ivar Aasen, Knud Knudsen, Aasmund Olavsson Vinje og Sophus Bugge. Aasen og Knudsen tengjast norskri málsögu að því leyti að hvor um sig lagði fram hugmyndir og tillögur um nýtt norskt ritmál í stað þess danska sem var ritmál Norðmanna í nær fimm aldir. Ritmálin nýnorska og bókmál eru frá þeim runnin. Vinje var fyrstur manna til að nýta sér ritmál Aasens í tímariti sínu Dølen. Bugge var einn helsti textafræðingur og málvísindamaður Noregs á sínum tíma. Í kjölfarið fylgja þýðingar á greinum og textabrotum úr verkum þessara manna. Þýtt er af því ritmáli sem þeir sjálfir nýttu sér á 19. öldinni. Þar á meðal eru hugðarefni þeirra Aasens og Knudsens um nýtt norskt ritmál. Ennfremur er brot úr ferðasögu eftir Vinje. Þar er að finna rómantískt náttúruljóð eftir hann í þýðingu höfundar þessarar ritgerðar (hér eftir skst. ÞSH) sem nefnir ljóðið

9

„Minningarnar merla“1 (á norsku heitir ljóðið: „Ved Rundarne“). Síðast en ekki síst er brot úr formála Bugges að riti hans Gamle Norske Folkeviser. Markmið þýðandans er að gefa lesandanum góða innsýn í vísindastörf og hugðarefni þessara norsku fræðimanna. Auk þess ættu þýðingarnar að geta orðið að nokkrum notum þeim sem hafa gott vald á íslensku og vilja dýpka þekkingu sína á sögu tungumáls, ritmála og bókmennta Norðmanna frá frumnorrænum tíma til nútímans. Meðfylgjandi er skrá yfir um það bil 200 norska rithöfunda og skáld frá miðri 16. öld til nútímans sem gefur nánari upplýsingar um nafn, líftíma og helstu bókmenntagreinar þeirra höfunda sem fjallað er um í ritgerð þessari einkum í kaflanum um norska bókmenntasögu. Á það skal bent að við lok hverrar þýðingar er tilvísun í heimildaskrá þar sem meðal annars má sjá vefslóð tiltekins texta á frummálinu.

Höfundar þýddu fræðigreinanna frá 21. öld Brynjulf Alver 1924-2009, var prófessor í þjóðfræði við Háskólann í Björgvin. Børge Nordbø 1977-, lauk MA í norrænni heimspeki frá Háskólanum í Ósló 2005. Cecilia Alvstad 1971-, er lektor í spænsku við Háskólann í Ósló. Dag Gundersen 1928-2016, var prófessor í norrænni málfræði við Háskólann í Ósló. Eric Papazian 1939-, er fyrrverandi dósent við Deild málvísinda og norrænna fræða við Háskólann í Ósló. Erik Bjerck Hagen 1961-, er bókmenntafræðingur og prófessor í almennum bókmenntum við Háskólann í Björgvin. Eva Refsdal 1981-, er málfræðingur og doktorsnemi í spænsku við Háskólann í Ósló. Hallvard Magerøy 1916-1994, var prófessor í íslensku við Háskólann í Ósló. Hans H. Skei 1945-, Dr.Phil. í bókmenntafræði árið 1980, var dósent 1985-1990 og prófessor 1990-2014 í bókmenntafræði við Háskólann í Ósló. Hilde Kathrine Thomassen 1976-, lauk MA í nýnorsku frá Háskólanum í Volda 2006. Jon Haarberg 1953-, er bókmenntafræðingur og prófessor í almennum bókmenntum við Háskólann í Ósló. Kjell Venås 1927-, Cand.Phil. í norrænni málfræði frá Háskólanum í Ósló árið 1960 og Dr. Phil. við sama skóla 1967. Klaus Johan Myrvoll 1981-, er doktorsnemi í norrænni heimspeki við Háskólann í Ósló. Sylfest Lomheim 1945-, Cand.Phil. frá Háskólanum í Ósló árið 1971, og prófessor frá 2003 við Háskólann í Ögðum. Øystein Rottem 1946-2004, var bókmenntafræðingur og bókmenntagagnrýnandi.

1 Athugasemd þýðanda (hér eftir skst. Aths. þýð.): Eins og glöggur lesandi skynjar ef til vill er heitið óbeint sótt til Gríms Thomsens, „endurminningin merlar æ“.

10

1 Þýðingafræðihugtök og -kenningar Hér er fjallað um ýmis þýðingafræðihugtök og -kenningar sem einnig nefnast íðorð þýðinga. Íðorð þýðir sérfræðiorð, fagorð, í tiltekinni fræði- eða atvinnugrein („Íslensk nútímamálsorðabók.“ 2013). Nafnorðið íð hefur verið til í íslensku máli frá fornu fari og merkir iðn, starf eða verk. Í tækniþróun nútímans hefur orðið til gríðarlegur fjöldi nýyrða, orðasambanda og skammstafana sem kallar á flokkun þeirra eftir sérfræðiorðum tiltekinnar fræðigreinar og til verður íðorðasafn (Guðrún Kvaran. 2006).

1.1 Orðræðugreining Orðræða telst vera félagsleg athöfn sem byggir á þremur meginstoðum: þekkingu, samskiptum og sjálfsmynd (The Discourse Reader. 2006:3). Merkingarbært mál er sett saman úr einingum, þ.e. orðum sem raðað er upp eftir ákveðnum grundvallarreglum sem þó veita talsvert frelsi og á [þann] hátt myndast nokkurs konar orðavefur. (Þórunn Blöndal. 2005:50).

Orðræðugreining (e. discourse analysis) er kunnuglegt hugtak úr ýmsum greinum málvísinda og beinist oft að því að greina tungumálið að baki orðanna, jafnt í ræðu sem riti (Roy, C. B. 2000:3). Texti er það sem verður til í mállegum boðskiptum og ætlað er tilteknum viðtakanda eða hópi viðtakenda í einhverjum tilgangi, sem liður í einhvers konar talathöfn. (Kristján Árnason. 2013:39)

Með því að nota tungumálið búum við til framsetningu á veruleikanum sem er aldrei aðeins hugleiðingar um núverandi veruleika, heldur hjálpar það til við mótun veruleikans. Þetta þýðir að tungumálið er ekki aðeins rás þar sem upplýsingum eða staðreyndum er komið á framfæri. Orðræðugreining byggir á formgerðarstefnu og „póststrúktúralískri“ heimspeki tungumála sem segir að aðgangur okkar að veruleikanum fari alltaf í gegnum tungumálið (Ryghaug, M. 2002). Orðræðustílfræði (e. discourse stylistics) fjallar um málnotkunina í heildstæðum textum þar sem áherslan er á félagslega virkni hennar. Hér er ekki aðeins átt við bókmenntaverk heldur einnig dagleg samtöl. Tekið er mið af sem flestum áhrifaþáttum mállegra boðskipta svo sem tilefni, umfjöllunarefni, málaðstæðum, mælandanum, viðtakandanum og sýnt hvernig þessir áhrifaþættir virka hver á annan og mynda í sameiningu samtal eða texta (Sveinn Y. E. 1999:6-7).

11

1.2 Skoposkenningin Skoposkenningin er kenning um aðferð til þýðingar (hugtakið skopos kemur úr grísku og merkir „tilgangur“) sem var sett fram af Hans Josef Vermeer í lok 8. áratugar 20. aldar (Mei, Z. 2010). Kjarni skoposkenningarinnar er að þýðingaraðferðin ákvarðist af tilganginum með þýðingunni. Þar skiptir máli hvort þýðandinn velur að leggja áherslu á merkingu eða form frummálsins. Einnig hvort hann ætlar að vera trúr frummálinu eða færa það nær lesandanum (Munday, J. 2001: 78-79). Samkvæmt skoposkenningunni á þýðandinn að kynna sér fyrst menningu, málhefð og heimssýn viðtakandans til að þýðingin falli sem best að væntingum hans (Nord, C. 1997:12). Skoposkenningin tekur mið af almennum viðmiðum frekar en menningarbundnum sem geta, í vissum tilvikum, takmarkað notagildi hennar. Með öðrum orðum þegar höfundur skrifar bókina, þýðandi þýðir hana og viðtakandi les hana eru þeir, hverju sinni og hver fyrir sig, staddir á ákveðnum stað og á ákveðnum tíma. Þeir eru manneskjur sem hafa skýrar hugmyndir um lífið og tilveruna og um leið inntak efnisins sem um ræðir. Þessar skýru hugmyndir þeirra eru oftar en ekki undir áhrifum frá því samfélagi sem þeir, hver um sig, lifa og hrærast í. Þessi menningarbundnu einkenni eru óneitanlega stór áhrifaþáttur þess hvernig rithöfundurinn skrifar, þýðandinn þýðir og lesandinn les (Oittinen, R. 2000:10-12).

1.3 Jafngildi Þýðingar eru ein tegund endurritunar sem gerir það mögulegt að varpa ímynd höfundar, í tengslum við tiltekið verk hans, yfir í aðra menningu og þar með út fyrir landamæri upprunamenningarinnar (Lefevere, André. 2013:31-32). Meginhlutverk þýðandans er að vera miðill sem viðheldur samfellunni á bláþræði jafnvægis milli þess áhrifaríka og hagkvæma, í ákveðnum tilgangi fyrir ákveðinn hóp viðtakenda sem tilheyra allir sama samfélaginu. Greiningin á tilgangi þýðingar er það sem mestu ræður um jafnvægið milli áhrifanna og hagkvæmninnar (Hatim, B. og Mason, I. 1997:9). Eugène Albert Nida greinir hugtakið jafngildi í tvo hluta áhrifajafngildi (e. dynamic equivalence) og formlegt jafngildi (e. formal equivalence). Í þýðingum þar sem leitast er við að ná fram áhrifajafngildi er ekki lögð mikil áhersla á að boðin í markmálinu

12

(eigin tungu) jafnist nákvæmlega við boð frummálsins, heldur á þau áhrif sem textatengslin skapa með fullkomlega eðlilegri tjáningu innan menningarheims lesandans. Krafan um að lesandinn beri skyn á menningarheim frummálsins til að hafa skilning á boðum markmálsins er þar af leiðandi ekki í fyrirrúmi. Auk þess eiga atriði eins og sjónarmið höfundar, kaldhæðni og sérviskulegur áhugi hans að birtast greinilega í áhrifajafngildisþýðingu (Nida, E. A. 1964:159-170). Formleg jafngildisþýðing er höll undir frummálið þannig að leitast er við að endurgera ýmsa formlega þætti textans eins og málfræðiþætti, samræmi í orðaflokkun og merkingu orða. Í þess háttar þýðingum er átt við samræmi eins og skáldskap fyrir skáldskap, kafla fyrir kafla, málsgrein fyrir málsgrein, hugtak fyrir hugtak og svo framvegis. Ásamt því að varðveita alla formlega vísa til dæmis greinarmerki, greinaskil, skáldleg frávik og samhæfingu orðaforða. Ákveðið samræmingarstig getur því verið mjög æskilegt í ákveðnum gerðum formlegra jafngildisþýðinga, til dæmis hvað varðar notkun sviga, hornklofa og semikommu, einnig skáletrun orðs sem annars vantar í texta frummálsins en er bætt við í texta markmálsins til að gera þýðinguna skiljanlegri. Formleg jafngildisþýðing, sem er samkvæm sjálfri sér, inniheldur augljóslega margt sem ekki er auðskilið fyrir almennan lesanda. Þess vegna verður neðanmálsskýring venjulega að fylgja þess háttar þýðingum (Nida, E. A. 1964:165-166). Ástráður Eysteinsson segir formlegt jafngildi fela í sér að markmið þýðandans sé að koma til skila bæði formi og inntaki textans á frummálinu (t.d. við þýðingu laga og annarra opinberra skjala). Hugtakið áhrifajafngildi segir hann að feli í sér að meginmarkmið þýðandans sé að koma til skila boðskap frummálsins þannig að hann falli sem best að málsamfélagi og menningu viðtakandans, með öðrum orðum lesandinn þarf ekki að skilja menningarþætti frummálsins til að skilja boð textans (Ástráður E. 1996:90).

1.4 Ýmis hugtök þýðinga Fræðiþýðingar eru þýðingar á fræðilegum texta. Um þær segir Guðrún Nordal að það sé ekkert áhlaupaverk að þýða fræðirit, þar sem þýðandinn sé krafinn um að finna orð sem fanga hugtök og blæ frummálsins enda hafi hvert tungumál sín sérkenni, orðaforða og málsnið (Guðrún N. 2005:9). Endurþýðingar kallast það þegar þýtt verk er þýtt aftur, til dæmis ef málfar hins þýdda verks þykir, í tímans rás, orðið bæði stíft og formlegt (Ridderstrøm, H. 2018). Höfundarleiðbeindar þýðingar er hugtak sem Guðmundur G. Hagalín 1898-1985 (þýðandi og rithöfundur) nefnir í eftirmála þýðingar sinnar á bókinni Maðurinn og

13

máttarvöldin, 1959 (Menneske og makten2, 1938). Þar segir að höfundarleiðbeindar þýðingar séu það þegar þýðandinn getur borið undir höfundinn það sem honum þykir vera torrætt eða erfitt viðfangs við þýðinguna (Guðmundur G. H. 1959:267-271). Þetta er vissulega góð ábending sem þó fellur um sig sjálfa ef ekki næst í höfundinn. Nytjaþýðingar eru þýðingar á tæknilegum textum og textum sem fjalla um ákveðnar faggreinar til að mynda þýðingar á handbókum, lögfræðilegum skjölum, vefsíðum og fjölmörgum öðrum gerðum nytjatexta (Ridderstrøm, H. 2018). Nýþýðingar eru þær þýðingar sem geta talist frumþýðingar það er að segja verkið sem stendur til að þýða úr frummálinu hefur ekki verið þýtt áður yfir á markmálið (Ridderstrøm, H. 2018). Orðréttar þýðingar eru bókstaflegar þýðingar sem eru trúar frummálinu þannig að merkingin kemst til skila án þess að laga þýðinguna að málfari og reglum viðtökumálsins, með öðrum orðum að þýða frá orði til orðs (Ástráður Eysteinsson og Weissbort, D. 2006:346). Trygve Greiff 1926-1988 (norskur rithöfundur og þýðandi) segir: „Að þýða frá orði til orðs án þess að staldra við til að ná fram mynd af veruleikanum sem að baki býr, getur leitt til furðulegrar niðurstöðu“.3 Það er mikilvægt að þýðandinn geri sér það full ljóst hvað höfundurinn er að segja og ekki síst hvernig hann segir það áður en hann hefst handa við sjálfa þýðinguna (Helga Kress 1985:108- 109). Óþýðanlegt merkir það þegar ógerlegt og tilgangslaust er að þýða texta orð fyrir orð [s.s. ljóðatexta]. Hrynjandi ljóðsins, samþjöppun tjáningarinnar, hljómur tungumálsins og fleira. skapar óyfirstíganleg vandamál. Oft er ómögulegt að þýða tónrænar hljóðarunur og ljóðræna hrynjandi úr einu máli yfir á annað og láta orðin samtímis þýða það sama (Ridderstrøm, H. 2018). Staðfærsla texta kallast það þegar þýðendur hafa aðlagað orðræðu frummálsins þannig að þeir staðfæra frásögnina [t.d. ef „Mall of America“ er þýtt sem „Smáralind“]. Trúfesti í þýðingum eða þýðingartryggð merkir það þegar þýðandinn leggur áherslu á að bæði orðbragð og hugsun höfundar skili sér í markmálinu. Þýðendasiðfræði snýr að þýðendum. Þeim ber að þjóna höfundinum, verkinu og frummálinu, en jafnframt ber þeim að þjóna lesendunum/áhorfendunum og markmálinu.

2 Aths. þýð.: Verkið Menneske og makten er eftir norska rithöfundinn Olav Duun 1876-1939. 3 Å oversette ord til ord uten å stanse for å fremkalle bildet av virkeligheten bakenfor, kan føre til besynderlige resultater.

14

Þýðendaþversögnin merkir annars vegar að þýðendur vekja mesta athygli þegar þeim mistekst, það er að segja þegar orðin stinga í augu og orðalag virðist óeðlilegt. Hins vegar merkir hún að þýðendur vekja minnsta athygli þegar þeim tekst vel til, það er að segja þegar tungumálið flæðir að því er virðist af sjálfu sér (Ridderstrøm, H. 2018).

1.5 Góðar þýðingar

Lýsing Norman Shapiro á góðri þýðingu: I see translation as the attempt to produce a text so transparent that it does not seem to be translated. A good translation is like a pane of glass. You only notice that it’s there when there are little imperfections - scratches, bubbles. Ideally, there shouldn’t be any. It should never call attention to itself. (Venuti, Lawrence. 1995:1)

Shapiro segist sjá fyrir sér þýðingu sem tilraun til að framleiða texta svo gegnsæan að hann virðist ekki vera þýddur. Hann gefur þá lýsingu á góðri þýðingu að hún sé eins og gegnsæ gluggarúða sem aðeins er gefinn gaumur ef í henni sjást örlitlar misfellur. Misfellur á borð við rispur eða loftbólur sem alla jafna eru þar ekki og ættu því aldrei að vekja athygli. Í veröld hnattvæðingar og sívaxandi samskipta þjóða á milli eru þýðendur ómissandi hlekkir í upplýsingakeðjunni. Starf þýðandans er í senn alþjóðlegt, fjölbreytt og spennandi. Það er vissulega grundvöllur góðrar þýðingar að þýðandinn hafi góða færni og fullan skilning bæði á tungumáli og efni textans, og ekki síður á móðurmáli sínu. Þó þessi atriði séu fyrir hendi tryggir það samt ekki góða þýðingu (Ástráður Eysteinsson. 1996:108). Karen Korning Zethsen segir í grein sinni „Oversættelsesstrategier“ að meðal þess sem skipti máli um góða þýðingu sé þekking á umfjöllunarefninu og menningu, gildum, siðum og venjum beggja þjóða. Einnig hæfni til að afla upplýsinga og sundurgreina, rýna og bera saman texta, ásamt beitingu aðferða við að þýða óþýðanleg menningarbundin hugtök, mælskubrögð og annað slíkt (Zethsen, K. K. 2001:43-48). Hér má að lokum nefna skemmtilega lýsingu Sigurðar Jónssonar frá Brún 1898-1970 (greinahöfundar, skálds og kennara) á því hvað séu góðar þýðingar. Þýðingar sem gera lesendur glaðari eða viðkvæmari, betri eða styrkari, vitrari eða siðferðilega heilli en þeir voru fyrir lesturinn. (Sigurður Jónsson frá Brún. 1967)

15

Það verður að segjast að þessi lýsing Sigurðar er ansi huglæg. Það á reyndar líka við um orðið góður sem er óneitanlega mjög huglægt og því kannski út í hött að tala hér um góðar þýðingar. Það gerist þó af og til að talað er um þýðingar sem ýmist góðar eða slæmar. Hins vegar ef spurt er: Hvað er góð þýðing? verður oft fátt um svör. Þó má álykta af því sem að framan segir að menn geti orðið sammála um ýmis afmörkuð og hlutlæg atriði sem séu forsenda góðrar þýðingar.

2 Greinargerð um markmálið Hér er lögð fram greinargerð um þýðingar nokkurra ritrýndra fræðigreina frá 21. öld og um þýðingar á textum og textabrotum frá 19. öld.

2.1 Framsetning texta markmálsins Ákveðið var að hafa samræmingu í framsetningu allra texta markmálsins (þýðinganna) þannig: Í stað aukins bils á milli lína (flestir textar frummálsins eru með auknu bili á milli lína til að afmarka greinaskil) yrði fyrsta lína eftir greinaskil inndregin, enda er slíkt í meira samræmi við það sem almennt tíðkast í íslensku ritmáli. Hvað varðar hliðarjöfnun texta frummálsins er hún yfirleitt vinstrijöfnuð. Ákveðið var að hafa alla texta markmálsins vinstrijafnaða. Þess má geta að þær norsku setningar sem höfðu semikommu voru lagaðar að íslenskri ritvenju, en semikomman er meira notuð í norskum textum en íslenskum. Öllum textum markmálsins er, á rökrænan hátt, skipt niður í kafla með millifyrirsögnum sem gefa góðar vísbendingar um efnið og innbyrðis tengsl efnisþátta. Reynt var að víkja sem minnst frá framsetningu texta frummálsins, hvað varðar kafla- og/eða millifyrirsagnir. Að öðru leyti þykja kaflarnir vera hæfilega langir og efnið skipulega fram sett. Samhengið á milli allra efnisþátta er í alla staði vel ásættanlegt. Að auki ber að geta þess hér að mörgum textum frummálsins fylgja myndir og er gjarnan umfjöllun um viðkomandi mynd í smáu letri við myndina. Sú ákvörðun var tekin að sleppa þýðingum slíkra texta þar sem ekki þótti henta að myndir fylgdu markmálinu. Á það skal bent að myndirnar er hægt að sjá á vefsvæði hverrar greinar.

2.2 Tilvitnanir og neðanmálsgreinar Reynt var að gæta samræmis milli tilvitnana og heimilda í heimildaskrá. Í meginmálinu er vísað í heimildir þannig (Höfundur ártal:bls.).

16

Ef um beina tilvitnun er að ræða í fræðilega hluta ritgerðarinnar er hún inndregin, með smærra letri og línubili, síðan er vísað í heimildina með eftirfarandi hætti. (Höfundur. ártal:bls.)

Tilvitnanir í textum frummálsins flæða með textanum í óbreyttri stærð hans og var ákveðið að því yrði haldið í textum markmálsins. Í flestum textum frummálsins eru tilvitnanir táknaðar þannig: «...». Í textum markmálsins greina íslenskar gæsalappir að „þýdda tilvitnun“ sem vísar í skáletraða neðanmálsgrein þar sem lesa má tilvitnunina á frummálinu. Fræðilegt orðfæri getur reynst mörgum lesendum ansi tyrfið og jafnvel valdið vonbrigðum hjá þeim sem þó skortir ekki fróðleiksfýsnina. Sama gildir þegar nefnd eru nöfn sem lesandinn þekkir ekki og á þá til að staldra við og spyrja: Hver er þessi einstaklingur, hvenær var hann uppi, var hann menntaður, við hvað starfaði hann, lét hann eitthvað merkilegt frá sér fara og svo framvegis? Það var því ákveðið að hafa í neðanmálsgreinum annars vegar útskýringar á ýmsum hugtökum og heitum sem ekki fer vel á að hafðar séu í meginmálinu og hins vegar nánari deili á fræðimönnum sem nefndir eru til sögunnar í þýddu greinunum. Það skal tekið fram að þeir fjölmörgu rithöfundar og skáld sem fjallað er um í ritgerð þessari eru ekki þar á meðal, að undanskildu því að viðkomandi einstaklingur fái umfjöllun bæði sem fræðimaður og höfundur verks. Megin ástæða þessa er að ákveðið var að fylgja texta frummálsins sem fjallar um norska bókmenntasögu. Honum fylgir sérstök skrá með upptalningu á þeim höfundum sem taldir eru skipta máli í norskri bókmenntasögu. Í þeirri upptalningu eru nokkuð margir höfundar nefndir sem annars er ekkert getið um í sjálfu meginmálinu. Eins er það að töluvert margir af þeim höfundum sem þó er getið um, eru ekki nefndir í umræddri skrá. Hér var tekin sú ákvörðun að hafa fremur skrá yfir alla höfunda sem nefndir eru í fræðigreininni Norsk bókmenntasaga (bls. 40-69) og byrja á höfundi frá miðri 16. öld, það er á Absalon Petersøn Beyer 1528-1575, í stað þess að byrja á höfundi frá miðri 17. öld, það er á sálmaskáldinu Dorothe Engelbretsdatter 1634-1716, eins og gert er í skránni sem fylgir texta frummálsins. Skráin, sem hér fylgir, er því nokkuð frábrugðin skrá frummálsins, en uppsetningin er þó svipuð. Að lokum skal á það bent að allflestum textum frummálsins fylgir heimildaskrá sem má nálgast á vefsvæði viðkomandi fræðigreinar.

17

2.3 Sértæk vandamál og orðaval við þýðingarnar Sértæk vandamál komu vissulega upp við þýðinguna, hvort heldur sem var þýðing yngri fræðitextanna, eða þýðing eldri textanna sem ritaðir eru annars vegar með dönsku ritmáli frá 19. öld, og hins vegar í bókmenntalegum frásagnarstíl sem ritaður er á landsmáli við lok 19. aldar. Hér verða nefnd nokkur dæmi um þær ákvarðanir sem teknar voru til að fylgja frummálinu, en jafnframt til að gera markmálið skiljanlegt og læsilegt lesendum þessa efnis. Ákveðið var að halda í orðfæri frummálsins eins og kostur var, án þess þó að ströngustu reglum um orðræðu hvers birtingartíma væri fylgt í hvívetna. Vissulega reyndust sumir textarnir oft erfiðir viðureignar, einkum í tengslum við að finna viðeigandi orðalag í mörgum sérlega flóknum orðasamböndum og setningum. Hér skal það helsta nefnt:

2.3.1 Þýðingar á textum um þýðingar og fræðin að baki

Þýðingar Aðeins tvö sértæk vandamál komu upp í þýðingu þessa kafla. Þau kölluðu bæði á að lokahluti setningar yrði ekki þýddur. Það kemur til af því að í báðum eftirtöldum setningum á íslensku er ekki þörf fyrir nánari útskýringu, samanber: — ... for eksempel når en ingrediensliste eller en tilberedningsanvisning står på mange språk på en pakke spagetti. Þýðingin varð: „Það er til dæmis þegar lesa má upplýsingar um innihald vöru eða um eldunarleiðbeiningar á mörgum tungumálum.“ — Iblant står flere oversettere bak en oversettelse, og når det skjer på frivillig basis, snakker man ofte om crowdsourcing, altså en slags oversettelsesdugnad. Ákveðið var að þýðingin yrði: „Stundum standa nokkrir þýðendur að baki þýðingar, en þegar það gerist á frjálsum grunni er oft talað um hópþýðingu (e. crowdsourcing).“ Í báðum tilvikum virðist merkingin skýr þó síðustu orðunum sé sleppt.

2.3.2 Þýðingar á textum um norska málsögu

Frumnorræna

— Synkopetiden mætti þýða #brottfallstíminn# en hentar ekki íslenskunni og var því ákveðið að nánari útskýring á hugtakinu yrði höfð í sviga, og var hún látin nægja: Omkring år 600 viser språket i runeinnskriftene overgang til en nyere språkform fordi de gamle stammevokalene begynte å falle bort (synkopetiden). „Um 600 e.Kr., þegar

18

brottfall eldri stofnsérhljóða hófst (áherslulausu stuttu sérhljóðarnir féllu brott úr miðhluta orðs), má í rúnaáletrununum greina umskipti yfir til nýrra málsniðs.“

Miðnorska — Sentraladministrasjon þýðir miðlæg stjórnsýsla, en þar sem verið er að ræða um eldra tímabil var þýðingin „landsyfirstjórn“ valin. Sbr. ... dansk stod sterkt fra om lag 1450 og var fra da av omtrent enerådende i brev fra sentraladministrasjonen. „Danskt ritmál var áberandi frá því um 1450 og var upp frá því næstum einrátt í bréfum frá landsyfirstjórninni.“

2.3.3 Þýðing á texta um norska bókmenntasögu

Norsk bókmenntasaga Hér varð að taka margar erfiðar ákvarðanir um bestu þýðinguna. Þar má nefna orð sem í norsku eru notuð um það sem í íslenskunni getur haft margar merkingar. Það veldur því að í íslensku fer oft betur að notuð séu mismunandi orð um sama hlutinn. Í því sambandi má nefna þýðingar á norska orðinu dikt sem var þýtt „ljóð“ ef við átti. Sbr. Etter 1840 får vi det såkalte «nasjonale gjennombruddet» der Welhavens dikt tar inn emner fra norsk folketro. „Eftir 1840 ber mikið á „þjóðlegri vakningu“. Welhaven byggir ljóð sín á norskri þjóðtrú ... .“ Merking þess er þó yfirleitt háð tengslum við ýmis önnur orð. Til dæmis er dikt, í kaflanum um norræna tímabilið, þýtt „kvæði“ svo sem eddukvæði og dróttkvæði (n. eddadikt og skaldedikt) og þar fram eftir götunum. — Gjennombrudd kemur fyrir í nokkrum orðasamböndum og virðist hafa margvíslegar merkingar eftir samhengi þess. Það veldur því að í íslensku fer oft betur að notuð séu mismunandi orð um sama hlutinn. Sbr. norska setningin hér á undan þar sem «nasjonale gjennombruddet» var þýtt: „þjóðleg vakning“. Einnig norska orðasambandið «det moderne gjennombrudd» sem var þýtt: „innreið nútímans“ og orðið gjennombruddsforfatterne sem var þýtt: „vinsælir höfundar tímabilsins“. Orðin módern (n. moderne) og prósi (n. prosa) eru viðurkennd sem slík á íslensku. Það kallar þó stundum á ólíka orðnotkun við þýðingu þeirra, meðal annars: — Det lå i Bjørnsons politisk-estetiske program å vise at moderne norske bønder hadde like verdige sjelsliv som middelalderens helter og konger. „Það var staðföst pólitísk og fagurfræðileg stefna Bjørnsons að sýna fram á að þeir norsku bændur sem voru uppi á hans tíma lifðu jafn auðugu andlegu lífi og hetjur og konungar miðalda.“

19

— Til den samme generasjonen hører også Knut Faldbakken og Bjørg Vik, som behandlet kjønnsrolleproblematikk og moderne samlivsproblemer med en mer tradisjonell fortellerteknikk. „Þessari sömu kynslóð tilheyra einnig Knut Faldbakken og Bjørg Vik sem fengust við málefni kynjanna og nútíma samlífsvandamál með hefðbundnari frásagnarmáta.“ — Fra nå av blir det norske hoffet et viktig arnested for tidens prosadiktning. „Á þeim tíma verður norska hirðin mikilvæg miðstöð samtíma sagnaritunar.“ Setninguna Skillet mellom en ”høy” og en ”lav” litteratur ble mer utydelig., er hægt að þýða #Aðgreining „hábókmennta“ og „lágbókmennta“ varð óskýr.#, en þýðingin: „Aðgreining fagurbókmennta og dægurbókmennta varð óskýr.“, þykir falla mun betur að texta markmálsins. Auk þess komu fyrir nokkur orð og orðasambönd, sem virtust í fyrstu ekki hafa augljósa merkingu og kröfðust þess af þýðandanum að hann fyndi merkinguna að baki orðanna. Þar á meðal eru tvö orðasambönd sem ákveðið var að þýða þannig: — den gode fortelling var þýtt „sígilda frásagnarformið“, því það orðasamband þykir falla betur að efnistökunum í markmálinu, en orðasambandið „hin góða frásögn“. — Forfatternes forfatter mætti þýða #höfundur höfundanna#, en þykir ekki falla vel að efnistökum markmálsins svo til varð þýðingin: „í fylkingarbrjósti“, sem hentar ágætlega.

2.3.4 Þýðingar á textum um norska brautryðjendur frá 19. öld

Ivar Aasen, [frumkvöðull nýnorskunnar] Vandamálið í þessum kafla var þýðing eftirfarandi setningarhluta: — som skaperen av nynorsk skriftspråk, som dialektforsker og for sin arbeidsmetode. Ráðlegast þótti að koma merkingunni til skila án þess að fylgja orðaröðinni strangt eftir, og þýðingin varð: „fyrir útfærslu á ritmálinunýnorska og þær aðferðir sem hann beitti við mállýskurannsóknir sínar.“

Knud Knudsen, málfarsumbótasinninn Fyrir komu vandamál við þýðingu orðsins fornorskning. Íslensk þýðing á orðinu er norskuvæðing, sem þó hentar illa í sumum tilvikum. Þar má meðal annars nefna: — en gradvis reform av det eksisterende danske skriftspråket i norsk retning, altså en fornorskning med norsk talemål som mønster. Þýðingin varð: „... hægfara umbætur á danska ritmálinu yfir til norsks ritmáls, það er að segja að aðlaga það norsku talmáli (n. fornorskning).“ Í eftirfarandi setningu má sjá dæmi um notkun orðsins norskuvæðing:

20

— Wergelands lite planlagte og lite systematiske fornorskning. var þýtt „Þau voru frábrugðin hinni lítt skipulögðu og ókerfisbundnu norskuvæðingu Wergelands.“ Í einni og sömu setningu, nokkuð langri, komu fyrir tvö sértæk vandamál. Annað vandamálið kallaði á að hluti hennar yrði ekki þýddur. Honum yrði einfaldlega sleppt þar sem sama merkingin kemst til skila. Hitt vandamálið var að skipta þessari sömu löngu setningu í tvær styttri, þannig: — maaske nærmest en Dansk Dialekt, modificeret i mange Dele deels ved Landets og Egnens ældre norske Dialekt, deels ved Bogsproget, eller maaskee omvendt, det norske Grund-sprog paa samme Maade modificeret ved Dansk, og ved Bogsproget, var þýtt „líkast danskri mállýsku lagaðri að ýmsu leyti að [...] eldri norskum mállýskum og bókmálinu. Nema öfugt sé, norska grunnmálið [...] lagað að dönsku og bókmáli.“

Sophus Bugge, [fornkvæða- og þjóðkvæðasafnari] Vandamál við þýðingu kaflans voru fá, utan tveggja langra og flókinna setninga: — Med utgangspunkt i nyere studier i hvordan ballader og eventyr kunne vandre på tvers av språk- og landegrenser, la han i 1870-årene frem en teori om at gude- og heltediktene var påvirket av gresk-romerske myter og jødisk-kristne legender. Þýðingin fór á þann veg að fyrst kemur þýðing síðari hlutans, síðan þýðing fyrri hlutans í nýrri setningu, þannig: „Á 8. áratug 19. aldar lagði hann fram kenningu um að goða- og hetjukvæðin væru undir áhrifum grísk-rómverskra goðsagna og gyðinglegra og kristinna helgisagna. Það byggði hann á nýlegum rannsóknum á því hvernig kvæði og ævintýri gætu flust til þvert á tungumál og landamæri.“ — Bugge lot dessuten publisere mange større arbeider om det ikke-indoeuropeiske språket etruskisk (i Italia), som han riktignok mente stod nær armensk og lykisk i en egen «anatolsk» språkgruppe innenfor indoeuropeisk. Orðalagið ekki-indóevrópska hentar illa íslenskunni og var merkingunni komið til skila þannig: „Hann lét auk þess gefa út mörg vönduð verk um tungumálið etrúsku (á Ítalíu), sem hann reyndar taldi að stæði nær armensku og eins lykísku, sem tilheyrir sérstakri undirætt anatólískra mála innan indóevrópsku málaættarinnar.“ Auk þess má nefna það hér að í texta frummálsins kemur filolog oft fyrir í umfjöllun um Sophus Bugge. Með hugtakinu filolog er, í víðtækum skilningi, átt við þá fræðigrein þar sem fengist er við rannsóknir á textum − rituðum á tilteknu tungumáli − út frá samtvinnuðum sjónarhóli sögulegra málvísinda og sögulegra bókmennta.

21

Textafræði/textafræðingur er talin góð og gild þýðing á norska orðinu filolog/filologi, og er hún notuð í markmálinu.

2.3.5 Þýðingar á textum eftir norska brautryðjendur frá 19. öld

Huldukona, 1861, Aasmund Olavsson Vinje Í þessum kafla er íslensk þýðing ÞSH á ljóði eftir Vinje. Þó ekki verði hér rætt í þaula um þær fjölmörgu ákvarðanir sem þýðandinn tók um bestu þýðinguna fyrir hvern braglið og hverja vísu − með rímskipan átthendunnar í huga − er vert að ræða stuttlega eftirfarandi: Ákveðið var að gefa ljóðinu íslenskt heiti. Í ljóðabók Vinjes, Diktsamling frá 1863, ber ljóðið nafnið „Ved rundarne“. Bein þýðing er #Við hringina#, svo gera má ráð fyrir að Vinje sé að vísa í orðalagið „í kringum“ (50 ár t.d.). Eftir miklar vangaveltur varð að lokum til nafnið „Minningarnar merla“, sem var valið. Eins og glöggur lesandi skynjar ef til vill er heitið óbeint sótt til Gríms Thomsens, „endurminningin merlar æ“. Vissulega fór töluverður tími í að þýða ljóðið. Áður en til þess kom var ákveðið að athuga á óðfræðivefnum Bragi hvort búið væri að þýða ljóðið, en það virtist ekki vera. Nokkrum mánuðum eftir að þýðingunni lauk átti ÞSH leið um óðfræðivefinn vegna námskeiðs í fornum kvæðum við Háskóla Íslands. Það fyrsta sem blasti við, þegar höfundarunan var valin, var hinn norski Aasmund O. Vinje - sjálfur höfundur ljóðsins. Í gögnum um hann kom í ljós íslensk þýðing Magnúsar Ásgeirssonar á ljóðinu sem ber heitið „Nú sé égftur a –“. Sú þýðing hafði ekki áhrif á þýðingu ljóðsins „Minningarnar merla“, enda hafði þýðandinn að fullu lokið við að þýða ljóðið áður en þýðing Magnúsar uppgötvaðist, fyrir tilviljun, líkt og fyrr segir.

22

II. hluti

Þýðingar

23

3 Þýðingar á textum um þýðingar og fræðin að baki

Höfundar efnis Cecilia Alvstad 1971-, er lektor í spænsku við Háskólann í Ósló. Eva Refsdal 1981-, er málfræðingur og doktorsnemi í spænsku við Háskólann í Ósló. Sylfest Lomheim 1945-, Cand.Phil. frá Háskólanum í Ósló árið 1971, og prófessor frá 2003 við Háskólann í Ögðum.

Þýðingar Í norsku bókmáli eru notuð tvö orð: oversetting (verknaðurinn þýðing) sem merkir að heimfæra texta úr einu ritmáli yfir á annað og oversettelse (afurðin þýðing) sem merkir það sem þýtt er til dæmis orð, texti eða bók. Það gerir mögulegt að greina á milli starfseminnar og afurðarinnar. Að þessu leyti er bókmál frábrugðið nýnorsku sem notar aðeins orðið omsetjing. Hið sama má segja um til dæmis ensku (translation), þýsku (Überszetzung) og frönsku (traduction). Það eru ekki aðeins skáldverk sem eru þýdd. Margvíslegir aðrir textar umhverfis okkur eins og í dagblöðum, á netinu, í auglýsingum og leikjum eru einnig þýddir. Það er ekki alltaf augljóst að um þýðingu sé að ræða, til dæmis þegar lesin er yfirlýsing frá alþjóðlegum stjórnmálamanni eða þegar prestur les úr Biblíunni. Stundum er þó ljóst að um þýðingu er að ræða. Það er til dæmis þegar lesa má upplýsingar um innihald vöru eða um eldunarleiðbeiningar á mörgum tungumálum. Þýðingafræði er sú fræðigrein sem fæst við rannsóknir á þýðingum. Þýðingafræði nefnist á bókmáli oversettelsesstudier og á nýnorsku omsetjingsstudium.

Meginreglur þýðinga Hugmyndin um hvað telst viðeigandi þýðing er háð tegund textans og hverjum hann er ætlaður. Við þýðingu notkunarleiðbeininga er mikilvægt að sá sem ætlar að nota tiltekna vöru geri það á réttan hátt. Þá getur það verið mikilvægara að þýðandinn hafi lagað textann að viðtökumálinu, en að allar upplýsingar séu gefnar á sama hátt á öllum tungumálum. Í þýðingu barnabóka er oft nauðsynlegt að aðlaga menningarbundna þætti, svo sem nöfn á fólki og matvörum, sem maður hefði ekki þurft að breyta ef bækurnar hefðu verið fyrir fullorðna.

24

Þegar þýða á söngtexta, sem á að flytja við sama lag og söngtexti frummálsins, verður þýðingin að „tóna“ við tónlistina. Formið skiptir þá meira máli en efnið. Hið sama getur átt við þegar ljóð er þýtt, en þar sem formið er ekki bindandi á sama hátt kemur það til kasta þýðandans að ákvarða að hve miklu leyti efnið ætti að hafa forgang fram yfir formið. Á norsku er hugtakið gjendiktning oft notað um þýðingu ljóða og í því sambandi er það ekki augljóst hvað aðgreinir þýðingu frá endursamningu, og bilið þar á milli er breytilegt frá einum tíma til annars. Á mörkum þess sem fellur innan eða utan skilgreiningar á hugtakinu þýðing er einnig talað um að endursegja, umrita, staðfæra og enduryrkja. Það er heldur ekki augljóst hvað er góð eða slæm þýðing, né hvað er rétt eða rangt. Við þýðingu verks þarf að taka mið af hvað er þýtt og fyrir hvern, ásamt gildandi stöðlum viðtökulandsins, en form slíkra staðla eru mismunandi innan ólíkra menningarheima og breytast auk þess með tímanum.

Misræmi milli þýðinga Þótt gera megi ráð fyrir að þýðing sé eða ætti að vera nokkuð svipuð frummálinu, er það sjaldnast raunin. Þvert á móti er það yfirleitt svo að þýðing skilur sig verulega frá frummálinu. På stedet mil er til dæmis norska þýðingin á titli skáldsögu eftir Ali Smith4 sem hefur enska titilinn There but for the sem ekki er auðvelt að þýða á norsku. Það sem gerir texta að þýðingu er ekki að hann segi nákvæmlega það sama og frummálið, heldur kemur markmálið (þýðingin) í staðinn fyrir frummálið. Þannig getur sami textinn haft margs konar þýðingar á einu og sama tungumáli. Til dæmis hefur skáldsaga Virginíu Woolf5 Út í vitann6 (e. To the Lighthouse) tvisvar verið þýdd yfir á norsku. Þýðing Merete Alfsens frá 1995 heitir Til fyret. Fyrsta þýðing verksins, kom út 1948 og var gerð af Peter Magnus, heitir De dro til fyret. Textarnir í þessum tveimur bókum eru ekki eins. Það er að hluta til vegna þess að norskan hefur breyst á þeim tíma sem leið milli þessara tveggja þýðinga, sem þó er langt í frá að vera eina skýringin. Merking orða og texta er ekki ótvíræð. Þýðendur verða því að taka margar ákvarðanir við þýðingu verks. Þýðendur taka hver um sig ólíkar ákvarðanir, sem leiða til ólíkra lausna í sérhverjum þýddum texta.

4 Ali Smith 1962- er ensk-skoskur rithöfundur. Í: Forsgren, Arne. 2009. 5 Virginia Woolf 1882-1941 var enskur rithöfundur. Í: Smidt, Kristian. 2018a. 6 Aths. þýð.: Útg. 2014 í þýðingu Herdísar Hreiðarsdóttur 1972-.

25

Til að skilja hvernig slíkt val hefur áhrif á þýdda texta, má bera saman tvær þýðingar á sama texta. Þá kemur í ljós að ekki aðeins er tungumál textanna mismunandi, heldur einnig stíll7 og innihald. Þetta er háð ákvarðanatöku þýðandans. Allur lestur felur í sér túlkun og túlkun hvers þýðanda skilar sér í þýðingunni. Sá munur sem er á mismunandi þýðingum eða á þýðingu og frummálinu getur stafað af ritskoðun eða hugmyndafræðilegri aðlögun. Þau umfjöllunarefni sem eru eða gætu verið túlkuð sem kynþáttafordómar eru til dæmis oft „milduð“ eða fjarlægð alveg ef um barnabækur er að ræða. Þetta á ekki aðeins við um þýðingar á milli mismunandi tungumála, heldur einnig þegar áður útgefnar barnabækur eru gefnar út í nýjum útgáfum. Í gegnum rannsóknir á því hvernig þýðendur á ólíkum tímaskeiðum hafa aðlagað texta má þannig læra margt um þær hugmyndir og þá mælikvarða sem hafa verið í gildi á ólíkum tímaskeiðum.

Ákvarðanatökur við þýðingu Það er almennt viðurkennt að þýðing sé krefjandi vegna þess að ekki er hægt að segja hvað sem er á hvaða tungumáli sem er. Enn meiri áskorun getur þó verið fólgin í því sem ekki er unnt að komast hjá að segja. Ef þýða á enska fornafnið you yfir á norsku verður, eftir sérstöku samhengi þess, að taka ákvörðun um jafngildið: er það du, dere, De eða Dem. Þannig þarf að ákveða hvort um er að ræða einn eða fleiri aðila, og einnig hvers konar félagsleg tengsl eru á milli þess sem talar og þess sem talað er við. Hið sama gildir til dæmis ef þýða á finnska kynhlutlausa fornafnið hän, sem á norsku merkir annaðhvort han eða hun. Þetta getur valdið vandamálum fyrir þýðanda í þeim tilvikum þar sem ekki er augljóst hvers hän eða you vísar til. Í skáldskap, getur það einnig verið svo að sagan er byggð upp á þann hátt að upplýsingar sem þessar ættu ekki að vera ljósar fyrr en síðar í sögunni. Tungumál sem víkja frá viðtekinni ritreglu er annars konar áskorun sem þýðendur bókmenntaverka standa frammi fyrir. Skáldlegt tungumál er oft tilraunakennt og getur þar með brotið reglur um hvað teljist rétt og hvað rangt. Þegar rithöfundur notar tungumál sem víkur frá almennri málvenju er eðlilegt að lesandinn túlki það sem hluta af fagurfræði höfundar. Ef þýðandi hins vegar notar afbrigðilegt tungutak er alltaf hætta á að lesandinn túlki það sem áhrif frá frummálinu og meti það svo að þýðandinn

7 „Hvað er stíll? Stíll er maður sjálfur, segja Frakkar. Þeir líta svo á að það segi eitthvað um manninn sjálfan hvernig hann hagar orðunum, byggir upp setningar og skipar þeim niður.“ Í: Sveinn Yngvi Egilsson. 1999.

26

hafi ekki fullt vald á málinu sem þýtt er á. Það verði þar með augljóst að textinn er þýðing. Nokkuð sem getur stangast á við viðhorf margra lesenda að hver þýðing eigi að vera eins og texti frummálsins. Það eru ekki aðeins þýðendurnir sem hafa áhrif á hvernig efnistök þýddrar bókar verða. Venjulega koma ritstjóri og prófarkalesari þar einnig við sögu. Rithöfundar geta líka haft áhrif á efnistök hins þýdda texta, til dæmis með því að senda frá sér leiðbeiningar til þýðenda sinna eða með því að svara fyrirspurnum sem þýðandi kann að hafa um textann.

Mismunandi tegundir þýðinga Stundum er verk þýtt gegnum þriðja tungumálið. Slíkt er oft kallað óbein þýðing og er gjarnan á milli tungumála sem ekki er algengt að þýtt sé á milli eða þegar skortur er á þýðendum milli tiltekinna tungumála. Verk eftir kínverska Nóbelsverðlaunahafann Mo Yan8 eru til á norsku, sem þýðingar á enskum þýðingum Howards Goldblatts. Í flestum tilvikum eru óbeinar þýðingar: þýðingar yfir á tungumál sem fáir nota, úr tungumáli sem nýtur álits sem menningarmál svo sem úr frönsku eða ensku. Algengast er að nota orðið þýðing um það sem þýtt er úr einu ritmáli á annað, en þó er líka vel hægt að þýða úr einu mæltu máli yfir á annað, úr ræðu á ritað mál, úr rituðu máli á ræðu. Afmarkaðri orð fyrir þessa starfsemi eru til. Þar á meðal talsetning, snartúlkun, ráðstefnutúlkun, lotutúlkun, dómtúlkun, táknmálstúlkun, fjölmiðlaþýðingar, staðfærsla (innleiðing), textun og aðdáendatextun. Stundum standa nokkrir þýðendur að baki þýðingar, en þegar það gerist á frjálsum grunni er oft talað um hópþýðingu (e. crowdsourcing) (Alvstad, C. ; Lomheim, S. og Refsdal, E. 2018).

Þýðingafræði Um miðja síðustu öld varð hugtakið þýðingafræði til, en það vísar til þess sem í víðasta skilningi hefur þýðingu sem rannsóknarviðfang. Fræðasviðið nær yfir kenningar og rannsóknir á þýddum textum, þýðingarferlinu og virkni þýdda textans í menningu viðtökulandsins.

8 Mo Yan er höfundarnafn Guan Moye 1955-,. Hann hlaut Nóbelsverðlaunin 2012. Í: Eifring, Halvor. 2018.

27

Að þýða orð fyrir orð eða merkingu fyrir merkingu Miðlæg spurning í þýðingafræðum hefur verið sú hvaða meginstefnu ætti að nota við þýðingu úr einu tungumáli yfir á annað. Ætti að nota þýðingastefnu sem felur í sér að þýða merkingu fyrir merkingu (frjálslega) eða orð fyrir orð (bókstaflega)? Það var árið 46 f.Kr. sem rómverski stjórnmálamaðurinn og rithöfundurinn Cíceró9 varði hugmynd sína um frjálsar þýðingar. Líkt og Cíceró voru flestir kenningasmiðir í þýðingafræði þýðendur sem notuðu formála að þýddum textum til að verja þá ákvörðun sem þeir höfðu tekið yfirleitt án tillits til hvað aðrir höfðu sagt og gert á undan þeim. Undantekning er Híerónýmus10 – oft nefndur „verndari þýðenda“ – sem árið 395 e.Kr. vísaði í Cíceró um frjálsa þýðingu, það er að þýða merkingu fyrir merkingu, í tengslum við þýðingu sína á Biblíunni yfir á latínu. Sú þýðing er þekkt undir nafninu Vúlgata. Hvort þýðing ætti að endurskapa texta frummálsins bókstaflega eða merkingarlega var áberandi í fræðilegri umfjöllun þar til um 1900, en málið var sérstaklega mikilvægt í tengslum við biblíuþýðingar. Í kringum 1700 varð fræðileg nálgun þýðinga markvissari. Menn höfðu enn sínar eigin aðferðir þar sem þýðendurnir, rétt eins og Cíceró og Híerónýmus forðum, voru uppteknir við að útskýra hvernig hægt væri að ná fram góðri og réttri þýðingu og réttlæta þannig eigin ákvarðanir. Þróunin var öll í þá átt að forðast bókstaflegar þýðingar og viðhalda í þess stað flæði upprunalega textans. Árið 1813 hélt guðfræðingurinn og þýðandinn Friedrich Schleiermacher11 því fram að þýðendur ættu helst að varðveita bæði efni og málfarslega uppbyggingu í þýðingunni, þannig að lesendur hennar séu ekki í vafa um að í raun sé um þýddan texta að ræða.12

Þýðingar sem nýtt rannsóknarsvið Þótt þýðingar, bæði munnlegar og skriflegar, hafi verið unnar frá örófi alda og þrátt fyrir að til séu ritaðar heimildir um þýðingafræðikenningar frá því fyrir okkar tímatal, er þýðingafræðin tiltölulega ungt rannsóknarsvið sem í vestrænni fræðahefð rekur upphaf

9 Marcus Tullius Cicero 106-43 f.Kr. var lögfræðingur. Í: Østmoe, Tor Ivar. 2018. 10 Sophronius Eusebius Hieronymus 347-419 e.Kr. var dýrlingur og kennari. Í: Halvorsen, Per Bjørn. 2014. 11 Friedrich Daniel Ernst Schleiermacher 1768-1834 var þýskur, prófessor og heimspekingur. Í: Svendsen, Lars Fr. H. 2018. 12 Schleiermacher lagði til við þýðendur að þeir velji á milli tveggja þýðingaraðferða: (1) færi lesandann til höfundarins, þ.e. geri ráð fyrir að lesandinn viti deili á höfundinum og frummálinu. (2) færi höfundinn til lesandans, þ.e. auðveldi lesendum að skilja merkinguna að baki textans. Í: Ástráður Eysteinsson, 1996:77.

28

sitt til síðari hluta 20. aldar. Þetta er einkum vegna þess að þýddir textar hafa, sögulega séð, ekki notið mikillar virðingar innan fræðasamfélagsins þar sem gert var ráð fyrir að fræðimenn og námsmenn gætu lesið trúarlega texta á frummálinu. Fyrir 1950 voru þýðingar einkum notaðar við kennslu erlendra tungumála. Nemendur voru beðnir um að þýða handahófsvaldar setningar af móðurmáli sínu yfir á erlenda málið með samskonar setningum. Á 7. áratug 20. aldar gengdu þýðingar hlutverki í svokölluðum samanburðarrannsóknum á sviði tungumála sem miðuðu að því að finna ólíka og líka kerfislæga uppbyggingu tveggja eða fleiri tungumála. Slíkar rannsóknir lögðu áherslu á hið mállega án tillits til félagslegra og menningarlegra þátta þýðinganna. Auk þess var gengið að því sem vísu að frummálið tæki markmálinu fram. Á þessum tíma höfðu margir fræðimenn mikinn áhuga á að finna almenna skilgreiningu á þýðingu og í þeirri umræðu var hugmyndin um jafngildi (e. equivalence) milli frummáls og markmáls talsvert miðlæg.

Áhrifajafngildi Biblíuþýðandinn og þýðingafræðingurinn Eugène A. Nida kynnti hugmynd sína um áhrifajafngildi (e. dynamic equivalence). Hann taldi að áhrifajafngildi fæli það í sér að samband lesanda og þýðingar væri í meginatriðum það sama og samband lesanda og frummáls. Nida taldi ekki unnt að ná þessu fram nema þýðandinn tæki tillit til skírskotana í menningu og orðræðu markmálsins. Á árunum þar á eftir varð hlutverk menningarinnar í málsamfélaginu mikilvægt fyrir frekari þróun þýðingafræðanna.

Rannsóknarsviðið fær nafn og skilgreiningu Á 7. og 8. áratugnum sýndu ýmsir fræðimenn áhuga á öðrum þáttum þýðingar en andstæðum og mismun milli tungumála. Vísindamenn eins og James S. Holmes, Jiří Levý, Anton Popovič og František Miko ræddu meðal annars um hvaða hlutverki þýðingar hafa gengt í bókmenntasögunni almennt og um stílfræðilegan mun milli þýddra texta og upprunalegra texta. Þessi tenging fól í sér fyrsta skrefið í átt að nýjum viðmiðum við rannsóknir á þýðingum. Sjálft hugtakið þýðingafræði (e. translation studies) var kynnt af Holmes á ráðstefnu árið 1972. Það hefur síðan verið viðurkennt sem eins konar stefnuyfirlýsing þar sem Holmes gaf jafnframt ábendingar um hvers konar starfsemi félli undir þetta hugtak. Hann greindi á milli hreinna (e. pure) og hagnýtra (e. applied) rannsókna. Á

29

meðan hinar síðarnefndu fjalla um þjálfun þýðenda, þýðingatæki og þýðingagagnrýni, snúast „hreinar“ þýðingarannsóknir um hugmyndafræði og lýsandi þætti samkvæmt skilgreiningu Holmes. Lýsandi eða túlkandi rannsóknir geta til dæmis tekið mið af framleiðslu þýðingar (lýst því hvernig þýðing er), hlutverki þýðingar (kannað hlutverk þýðingar í viðkomandi málsamfélagi) eða ferli þýðingar (lýst því hvað fram fer í þýðingarferlinu). Niðurstöður túlkandi rannsókna geta svo orðið grundvöllur þýðingafræðikenninga.

Þýðing er meira en bara texti Áður en Holmes kynnti hugtakið þýðingafræði á ráðstefnunni voru þýðingarannsóknir fyrst og fremst ætlaðar til að veita leiðbeiningar um hvernig þýðendur ættu að þýða. Holmes færði rök fyrir því að þýðendur rannsaki þýðingartengd fyrirbæri þeirra sjálfra vegna. Það hafði mikil áhrif á þróunina á 8. og 9. áratugnum. Fræðilegar spurningar, eins og hvað felst í raun og veru í þýðingum og í jafngildi, fengu minna vægi. Staðlaðar og hefðbundnar málfarslegar nálganir, sem gerðu ráð fyrir yfirburðum frummálsins fram yfir markmálið, urðu að víkja fyrir túlkandi rannsóknum þar sem þýðingar voru álitnar hluti af markmenningunni. Svonefndur hagræðingahópur (e. manipulation group) – honum tilheyrðu meðal annars Theo Hermans, André Lefevere, Susan Bassnett, José Lambert, Itamar Even- Zohar og Gideon Toury – hélt því fram að allar þýðingar fælu í sér ákveðna meðhöndlun á textum frummálsins. Bókmenntir sérhvers samfélags væru fjölkerfi (e. polysystem) þar sem sífellt ætti sér stað valdabarátta ólíkra hagsmunahópa. Það sé því ekki tilviljun sem ráði hvaða bókmenntaverk eru þýdd og hvernig þau eru þýdd. Mikilvægt atriði í þessu sambandi er að þýðingar tilheyra markmenningunni. Þýðendur og aðrir sérfræðingar (t.d. ritstjórar og prófarkalesarar) sem taka þátt í ferlinu þegar bók er þýdd og gefin út á nýju tungumáli munu því leitast við að þýðingin samsvari ríkjandi væntingum og stöðlum markmenningarinnar á hverjum tíma. Um sama leyti kynntu Katharina Reiß og Hans J. Vermeer hugtakið skopos (kemur úr grísku og merkir „tilgangur“) í hagnýtri þýðingarnálgun sinni. Skoposkenningin beinist að samskiptaáhrifum þýðingarinnar og gerir ráð fyrir að tilgangur þýðingar ákveði hvaða aðferðum þýðandinn muni beita til að ná fram viðeigandi þýðingu.

30

Þýðing sem menningarlegur viðsnúningur Þessum nýju viðmiðum í þýðingafræðirannsóknum fylgdi áhugi á því menningarbundna og pólitíska samhengi sem þýðingarnar eru birtar í og lesnar. Margir rannsakendur hafa því í seinni tíð einbeitt sér að því að kanna hvernig þýddu textunum er tekið í markmenningunni. Nú á tímum eru þýðingarannsóknir fyrst og fremst þverfagleg fræðigrein. Þverfagleg rannsókn á þýðingum getur meðal annars falið í sér þætti úr félagsfræði, kynjafræði, málnotkunar- og orðræðugreiningu og eftirlendufræði13. Meðal vísindamanna sem hafa starfað innan þessara fræða eru: Anthony Pym, Sherry Simon, Ernst-August Gutt, Mona Baker og Tejaswini Niranjana. Þýðingafræðingar sem hafa lagt sitt af mörkum frá 10. áratug 20. aldar eru meðal annarra Andrew Chesterman, Jeremy Munday og Lawrence Venuti. Frá þessum sama tíma hefur áhuginn á þýðingafræðum aukist og segja má að sprenging hafi orðið, einkum í túlkandi rannsóknum á þýðingum. Í Noregi fer fram kennsla í þýðingum og rannsóknir á þeim við Háskólann í Ósló, Háskólann í Björgvin, Viðskiptaháskóla Noregs, Tækni- og vísindaháskóla Noregs, Háskólann í Ögðum og Háskólann í Ósló-Akurshús (Alvstad, C. og Refsdal, E. 2018).

4 Þýðingar á textum um norska málsögu

Höfundar efnis Børge Nordbø 1977-, lauk MA í norrænni heimspeki frá Háskólanum í Ósló 2005. Dag Gundersen 1928-2016, var prófessor í norrænni málfræði við Háskólann í Ósló. Hallvard Magerøy 1916-1994, var prófessor í íslensku við Háskólann í Ósló. Kjell Venås 1927-, Cand.Phil. í norrænni málfræði frá Háskólanum í Ósló árið 1960 og Dr. Phil. við sama skóla 1967.

Norsk málsaga Norsk málsaga fjallar um þróun norskrar tungu frá frumnorrænu til nútímanorsku. Norskri málsögu er gjarnan skipt í eftirtalin fjögur tímabil, þó mörkin milli þeirra séu

13 „Eftirlendufræði [e. postcolonial studies] er fræðigrein sem einbeitir sér að menningu og sjálfsmynd fólks í fyrrverandi nýlendum, oft með sérstakri áherslu á þátt tungumálsins.“ Í: Jón Gunnar Þorsteinsson. 2005.

31

oft óljós. Frumnorræna 200-700, norræna 700-1350, miðnorska 1350-1525 og nútímanorska frá 1525.

Frumnorræna Frumnorræna er norrænt tungumál sem þekkt er af rúnaáletrunum frá því um 200–700 e.Kr. Frumnorræna er elsta tungumálið sem þekkt er í Noregi, Svíþjóð og Danmörku. Frumnorrænu rúnaáletranirnar eru skrifaðar með eldra rúnastafrófinu. Elstu áletranirnar eru jafnvel taldar vera eldri en frá 200 e.Kr. Sum frumnorræn orð eru tökuorð í samísku og finnsku, sem dæmi kuningas (á frumnorrænu: kuningaR, á norsku: konge). Frumnorrænu orðin eru frekar löng í samanburði við nútíma norræn tungumál. Þetta stafar aðallega af svokölluðum stofnsérhljóðum, sérhljóðum sem tilheyrðu orðstofni en féllu síðar brott: laukaR, løk, horna, horn, satido, satte. Þekking á frumnorrænu hefur mikla vísindalega þýðingu og hefur varpað nýju ljósi á sögu og þróun annarra germanskra mála.

Umskiptin frá frumnorrænu til norrænu (ca. 500 – ca. 700) Um 600 e.Kr., þegar brottfall eldri stofnsérhljóða hófst (áherslulausu stuttu sérhljóðarnir féllu brott úr miðhluta orðs), má í rúnaáletrununum greina umskipti yfir til nýrra málsniðs. Tungumálið á Eggjasteininum14, sem er talinn vera frá því um 700 e.Kr., hefur mörg orð án þessara sérhljóða. Þar má nefna nafnorðin fiskR og stain, og lýsingarorðið skorin í stað frumnorrænu orðmyndanna fiskaR, stainaR og skorinaR. Ásamt sérhljóðsbrottfallinu, brutust í gegn mismunandi tegundir hljóðvarps og klofningar sem breyttu einkennum málsins. Samtímis því sem endingar féllu brott varð beygingarkerfið mun fjölbreytilegra. Meðal annars urðu til orðstofnsbeygingar sem einnig fallbeygðust með og án hljóðvarps og klofningar. Einnig fengu afleidd orð oft annað sérhljóð en orðstofninn, svo sem nafnorðið lengd (á germönsku: langiþō) sem lýsingarorðið langr er dregið af. Gott dæmi um málþróunina frá frumnorrænu yfir til norrænu er orðið bernuR með rótarsérhljóðann e í öllum föllum. Það þróaðist yfir í bjǫrn í nefnifalli þannig að rót orðs varð fyrst fyrir áhrifum af klofningu og síðar af u-hljóðvarpi. (Sbr. Þegar áherslulausu stuttu sérhljóðarnir féllu brott úr miðhluta orðs og samhljóðar í enda orðs

14 Eggjasteinninn er rúnasteinn sem fannst á bænum Eggja í Sogndal í Sogn og Firðafylki í Noregi. Steinninn er legsteinn sem fannst í jörðu 1917 ásamt fátæklegu kumli. Þessi 1,5 metra langi rúnasteinn er nú varðveittur í menningarsögudeild Minjasafnsins í Björgvin (n. Museum). Í: Heyerdahl, Gerd Høst. 2018.

32

samlöguðust.) Í eignarfalli var áherslustutti sérhljóðinn a í endingu orðs, og klofningu fylgdi ekki hljóðvarp líkt og í norræna orðinu bjarnar. Frá því fyrir tíma víkinganna hafa tökuorð fylgt norrænunni. Það eru tökuorð eins og katt (frá síðlatínu: cattus) og øre (mynt, norræna: eyrir, frá latínu: aureus). Einnig tók norskan snemma upp orð úr keltnesku15 og frísnesku16 (Gundersen, D. ; Nordbø, B. og Venås, K. 2017).

Norræna Norræna var tungumál Norðmanna og þjóðanna í vestri sem byggðust frá Noregi á víkingatímanum. Norræna var notuð á tímum víkinganna og á miðöldum. Nútímanorska, íslenska og færeyska eiga rætur að rekja til norrænnar tungu. Umskiptin frá frumnorrænu til norrænu áttu sér stað á tímabilinu 500–700 e.Kr.

Eldri norræna (ca. 700 – ca. 1050) Snemma á miðöldum er grunnur lagður að þeim norrænu þjóðtungum sem síðar urðu til meðal þeirra er norska. Þá dreifðist norrænan til Íslands, Færeyja, Grænlands, eyjanna norður og austur af Skotlandi og til Írlands, Norður Englands og víðar. Nútíma íslenska og færeyska eru afsprengi norrænnar tungu. Við þekkjum hið norræna mál víkinganna af áletrunum með yngra rúnaletrinu sem hefur 16 tákn. Þessar áletranir eru á því tungumáli sem birtist til að mynda í Eggjasteinsáletruninni. Orðin hafa styst og beygingarmyndum fækkað. Einnig þekkjum við nokkuð til norsku frá þessum tíma af nöfnum og orðum sem tekin hafa verið upp í erlend mál. Í írsku og skosk-gelísku voru tekin upp nokkur norsk orð. Auk þess hafa dróttkvæði og eddukvæði, sem voru skrifuð niður síðar, varðveitt leifar af tungumáli víkinganna. Á þessum tíma virðist sem viðskeyttur greinir (hest-en) hafi þróast, h fellur brott í upphafi orðs fyrir framan r, l, n, til dæmis Róarr, laupa, nefi (n. Roar, løpe, neve og í. Hróarr, hlaupa, hnefi). Tökuorð koma einkum úr frísnesku svo sem akkeri (n. anker) úr sjómannamáli og sekkr (n. sekk) úr verslunarmáli, en tökuorðin hirð og stræti (n. gate) koma úr engilsaxnesku.

15 Keltnesk tungumál voru, á forsögulegum tíma, töluð í allri Mið- og Vestur-Evrópu. Flest eru útdauð en þau sem nú eru töluð takmarkast við ákveðin svæði á Bretaníuskaga í Frakklandi og á Bretlandseyjum þ.á.m. er írska, skosk-gelíska, velska og bretonska. Í: Oftedal, Magne og Rekdal, Jan Erik. 2016. 16 Frísneska tilheyrir vestur-germönskum hluta germanskra mála í indóevrópska málaflokknum og er nátengd ensku, en bæði málin tilheyra engil-frísneska málaflokknum. Í: „Frisisk.“ 2015.

33

Nöfn vikudaganna voru tekin upp á þessum tíma. Þau voru þýdd úr latínu yfir á germönsk mál og úr þeim yfir á tungumál Norðurlanda þar sem sérstakt nafn var tekið upp fyrir laugardag (á eldri norrænu: laugardagr). Töluvert af orðum sem eru upprunin úr latínu og grísku bárust inn í norskuna gegnum önnur germönsk mál. Það átti sér einkum stað við upptöku kristindóms á 10. öld og má í því sambandi nefna orð eins og kirkja, prestr og pína.

Yngri norræna (ca. 1050 – ca. 1350) Í Noregi er vafalítið skrifað á norrænu með latneska stafrófinu sem barst frá Englandi á 11. öld. Elstu varðveittu handritin (handskrifaðar skinnbækur) á norrænu eru brot frá tímabilinu 1150 til 1200. Frá því um 1200 hafa varðveist umfangsmeiri handrit frá mismunandi stöðum á landinu. Þegar Björgvin varð höfuðborg með konunglegri stjórnarskrifstofu fer hið ritaða mál að gegna stærra hlutverki, sérstaklega í störfum löggjafarvaldsins á tímum Magnúsar lagabætis17. Austurlandið var á þessum tíma í lausari tengslum við ríkið og varð minna áberandi í hefðbundnu ritmáli 13. aldar, þó hér og hvar bregði fyrir austlenskum máleinkennum í ritum. Sérstaklega mikilvægt fyrir mállýskumyndun á þessu tímabili norænunnar er samlögun sérhljóða og léttari áhersla veikra sérhljóða. Samlögun sérhljóða er að finna í elstu ritunum, fyrir 1200, sem víxlun á milli i og e og á milli u og o eins og lande - guði, tóko - funnu. Þesskonar víxlun er óljós í suðvestlensku og þekkist ekki í íslensku [Sbr. landi - guði, tóku - fundu]. Léttari áhersla veikra sérhljóða er afleiðing þess að sérhljóð í bakstöðu lyftist upp og fram með stuttri áherslu. Í „björgvinskum“ framburði er áherslustutt a snemma borið fram sem æ. Í austlensku á þessi stytting sér stað eftir langt fyrsta atkvæði, svo sem bitæ fyrir bíta, hestær fyrir hestar, en a er varðveitt í eldri norsku eftir stutt fyrsta atkvæði, svo sem lifa og hanar. Í nokkrum mállýskum hafa hljóðvarpsbreytingarnar að hluta til náð að þróast fyrir árið 1200. Léttari áhersla veikra sérhljóða líkt og í „björgvinsku“ hefur einnig átt sér stað, en síðar þó, í norðvestlensku mállýskunum frá Raumsdal að Ytra Sogni, í suðvestlensku mállýskunum (að stærstum hluta í Ögðum) og að hluta til í Austfold og hinu gamla norska Ranríki (Båhuslen). Auk þess fækkar öðrum áherslustuttum sérhljóðum. Fyrir utan þessa helstu þætti í mállýskunum munu nokkur önnur einkenni framburðar hafa þróast fyrir 1200. Þar má nefna að í stórum hluta austlenskunnar

17 Magnús Hákonarson 1238-1280 - sonur Hákons gamla - var konungur Noregs á árunum 1263–1280. Hann var kallaður lagabætir vegna umfangsmikillar vinnu við lagasetningu sem unnin var á valdatíma hans. Í: Salvesen, Helge. 2018.

34

(byggðir nálægt landamærum Svíþjóðar) hefur orðið einföldun tvíhljóða, svo sem hemr fyrir heimr, mer fyrir meir, høræ fyrir høyra, glømi fyrir gløymi. Á þessu tímabili urðu til, í suðaustlensku, orðmyndir eins og vann fyrir vatn, sogn fyrir sókn og vit fyrir hvít. Ennfremur eru þar notaðar orðmyndir eins og hafuer fyrir hefir, kommer fyrir kemr. Orðið kommer hefur fengið nýjan hjálparsérhljóða fyrir framan r, sem varð almennt einkenni samanber aker, fager (norræna: akr, fagr). Á 12. öld komu fram þýsk áhrif í kjölfar Hansakaupmanna. Á 13. öld eru tekin upp mörg þýsk tökuorð sem hafa aðlagast nútímanorsku svo sem frue, herre, klok, herberge, dans, prov og fleiri. Til er hjálparsérhljóði í austlenskum rúnaáletrunum þegar á 12. öld, en það er ekki fyrr en á 14. öld sem þetta er talið vera mikilvægt einkenni málsins. Í austlensku, norðvestlensku og þrændísku er þessi sérhljóði oftast e (maðer, ligger kemur af maðr, liggr). Í suðaustlensku er hann oftast a eða æ (maðar, liggær), og u í íslensku og að hluta til í suðvesturhluta Noregs (maður, liggur). Í kringum 1300 fékk Austurlandið mikilvægari stöðu í ríkinu. Ósló varð höfuðborgin og konunglega landstjórnin flutti þangað frá Björgvin árið 1314. Hinni gömlu ritmálshefð var nokkuð vel haldið á lofti af landstjórninni í Ósló, en samt þrengdu mörg mállýskuafbrigði sér inn í ritmálið eins og takr fyrir tekr, arfuingr fyrir erfingr, suæinær fyrir sveinar, orkæde fyrir orkaði, fimthæn fyrir fimtan, þátíðarmyndin trudde fyrir hið eldra trúði, persónufornafnið jek og fleira. Heimildirnar um tungumálið á 14. öld eru að mestu leyti afrit af eldri ritum, einkum lögum, en auk þess upprunalegar skinnarkir (Sbr. fornbréf) frá öllum landshlutum (Magerøy, H. ; Nordbø, B. og Venås, K. 2017).

Miðnorska Miðnorska, norskan á síðmiðöldum (ca. 1370–1525), brúar bilið frá norrænu til nútímanorsku. Svartidauði (1349–1350) hafði hörmuleg áhrif á bóklega kennslu og menningarlega hefð. Það er eðlilegt að tala um aðgreiningu í málinu nokkrum áratugum síðar, því nýjar kynslóðir ritfærra manna eftir svartadauða voru ekki eins formfastar og áður, og talmálið varð mun sýnilegra í ritmálinu. Jafnvel þótt hægt sé að greina skil í ritmálinu, gæti þróunin í talmálinu hafa verið mun jafnari. Setja má önnur skil við 3. áratug 16. aldar þegar ritaðar heimildir, einkum fornbréf og önnur skjöl, sýna að norska ritmálið víkur að mestu leyti fyrir því danska, en

35

þessi skil eru þó óljós. Danskt ritmál var áberandi frá því um 1450 og var upp frá því næstum einrátt í bréfum frá landsyfirstjórninni. Á hinn bóginn er norska notuð að hluta í fornbréf þar til um 1550 og fram undir 1600 í ákveðnum tilvikum. Á þessu tímabili taka mállýskurnar sennilega á sig þá mynd sem þær höfðu fram á 19. öld. Svokallað u-hljóðvarp fellur brott, þ verður að t eða d (tak, du), og ð (stendur fyrir th-hljóð) var fallið brott fyrir 1350. Munurinn á milli stutts, langs og ofurlangs rótaratkvæðis var jafnaður út í lang flestum landshlutum. Annaðhvort með löngum sérhljóða (mest einkennandi í vestlensku, t.d. gamal) eða með löngum samhljóða (mest einkennandi í austlensku, t.d. gammal). Brottfall á n í enda orðs og að hluta til á r í enda orðs og í áherslustuttum atkvæðum leiddi til orðmyndunar eins og mi, ho, soli (í stað: mín, hon, sólin) og gode, dei (í stað: góðir, þeir). Samlögun og einföldun í beygingarkerfinu hélt áfram. Tvöföldun ákveðins greinis (den gode mannen) varð áberandi. Sænsk áhrif voru sterkust í upphafi 15. aldar. Dönsku áhrifin jukust í takt við eflingu danskrar stjórnsýslu bæði miðlægt og svæðisbundið. Fjöldi tökuorða úr dönsku og þýsku festust í málinu. Prentlistin og siðaskiptin styrktu dönsk áhrif á norskuna (Gundersen, D. og Venås, K. 2018).

Nútímanorska Það tímabil sem tekur við af miðnorskunni nefnist nútímanorska. Þessu tímabili er hér skipt í eldri gerð af nútímanorsku sem nær að fyrri hluta 19. aldar og eftir það í nútímanorsku.

Eldri gerð af nútímanorsku (frá ca. 1525-) Þegar danskan tók við af norskunni sem ritmál hafði það engin stórvægileg áhrif á Norðmenn yfirleitt. Talmálið byggðist á mállýskunum, í bæjunum með dönskum blæ, sem í mismiklum mæli olli blæbrigðamun á framburði og orðaforða ólíkra samfélagshópa. Eftir 1550 verður til ný norsk bókmenntahefð með skrifum eftir menn á borð við Absalon Pederssøn Beyer18, Jens Nilssøn19 og Peder Claussøn20 á dönsku blendingsmáli undir áhrifum norskrar tungu. Þetta blendingsmál er grundvöllur nútíma ritmálsins bókmáls.

18 Absalon Pederssøn Beyer 1528-1575 var norskur sagnfræðingur og guðfræðingur. Í: „Absalon Pedersson Beyer.“ 2018. 19 Jens Nilssøn 1538-1600 var norskur biskup í Ósló, skáld og rithöfundur. Í: „Jens Nilssøn.“ 2009. 20 Peder Claussøn Friis 1545-1614 var norskur klerkur og hugvísindamaður. Í: „Peder Claussøn (Friis).“ 2018.

36

Um miðja 17. öld voru gefin út nokkur rit á landsbyggðamállýskunum. Árið 1646 gaf presturinn Christen Jenssøn út ritið Den Norske Dictionarium með orðaforða úr mállýskum, einkum frá Sunnfirði. Það er fyrsta norska orðabókin ef undan er skilið lögfræðiorðasafn Jens Bjelkes21 frá 1634. Með skrifum Ludvigs Holbergs22 virðist sem sú skoðun að ritmálið sé líka tungumál Norðmanna fái aukið vægi. Ritmál Holbergs er örlítið norskuskotið. Ríkisstjórnin í Kaupmannahöfn skrifaði tvisvar til embættismanna sinna í Noregi og bað þá um upplýsingar um tungumálið í umdæmum þeirra, fyrst um 1700 og síðar árið 1743. Upplýsingarnar voru að hluta til nýttar af dönskum orðabókarhöfundum. Þessar fyrirspurnir urðu til þess að auka áhuga á norskri tungu. Áhuginn jókst ört við rannsóknir á norskri sögu og norskum aðstæðum sem hófust með Gerhard Schøning23 og Johan E. Gunnerus, biskupi í Þrándheimi. Norskt talmál var skoðað gaumgæfilegar en áður (m.a. af Marcus Schnabel24) og mikilsvirt skáld nýttu sér norskar mállýskur í ljóðum sínum (Thomas Rosing de Stockfleth25, Edvard Storm26). Við skriftir notuðu Norðmenn, sem fyrr, marga þætti norskunnar. Á hinn bóginn má með nokkurri vissu greina, á seinni hluta 18. aldar, afbrigði norsks talmáls sem er undir töluverðum áhrifum af dönsku ritmáli. Þetta talmál virðist aðeins hafa verið viðhaft sem hátíðlegt tungumál meðal fólks af embættismannastétt. Atburðirnir árið 1814 ollu engum málsögulegum breytingum til skamms tíma. Í 33. gr. endurskoðaðrar stjórnarskrár þann 4. nóvember 1814 segir að „Allar ákvarðanir um norsk málefni sem og aðgerðir sem að þeim lúta skuli samdar á norsku“27. Þetta var þó aðeins spurning um heiti málsins. Tungumálið var danska og það vakti ákveðna

21 Jens Bjelke 1580-1659 var ríkiskanslari Noregs frá 1614 til dauðadags, vel menntaður og fjölhæfur, Í: „Jens Bjelke.“ 2017. 22 Ludvig Holberg 1684-1754 var dansk-norskur rithöfundur, sagnfræðingur, prófessor og helsti fulltrúi dansk-norskra bókmennta á 18. öld. Í: Sejersted, Jørgen Magnus. 2019. 23 Gerhard Schøning 1722-1780 var norskur sagnfræðingur, guðfræðingur og skólastjóri, stofnaði árið 1760 vísindafélag í Þrándheimi ásamt Johan E. Gunnerus 1718-1773 og Peter F. Suhm 1728-1798 sem fékk nafnið Konunglega norska vísindafélagið (n. Det Kongelige Norske Videnskabers Selskab) árið 1767. Í: Mardal, Magnus A. 2017b. 24 Marcus Schnabel 1744-1780 var norskur prestur og tungumálafræðingur, hafði sérstakan áhuga á norrænu og tengslum gömlu norskunnar við þær mállýskur sem talaðar voru í Noregi á hans tíma. Í: Arntzen, Jon Gunnar. 2009. 25 Thomas Rosing De Stockfleth 1742-1808 var norskur rithöfundur og lögfræðingur. Í: „Thomas Rosing De Stockfleth.“ 2017. 26 Edvard Storm 1749-1794 var norskt skáld, tók saman orðasafn byggt á mállýsku frá Guðbrandsdal í Noregi. Í: „Edvard Storm.“ 2009. 27 Alle Forestillinger om Norske Sager, saavelsom de Expeditioner, som i Anledning deraf skee, forfattes i det Norske Sprog.

37

gremju í Danmörku að kalla það eitthvað annað í Noregi. Henrik Wergeland28 kynnti fyrstur manna áætlun um aðlögun ritmáls að norsku (1833) með því að leggja til norska stafsetningu eins og Hugg, Vilje, Haga (í stað Hug, Villie, Have). Þekktast er þó rit hans Om norsk Sprogreformation (skrifað 1832, prentað 1835), þar sem hann leggur til að tekin verði upp orð úr mállýskunum til að auðga ritað mál.

Nútímanorska [frá ca. 1840-] Þjóðernisvakningin á fimmta áratug 19. aldar leiddi til málfarslegra umbóta á ýmsum sviðum. Þjóðsagnasöfnun og skráning þeirra Asbjørnsens og Moes29 stuðlaði að nýjum frásagnarstíl sem innleiddi norsk stílbrigði í hefðbundið ritmál. Á sama tíma hóf Knud Knudsen30, yfirkennari, að laga öll svið tungumálsins að norskri málhefð þar á meðal er orðaforði, orðasmíð, beyging, stafsetning og framburður. Árið 1848 birtist mikilvægt verk Ivars Aasens31 um norska þjóðtungu. Á grundvelli þessara verka, sem sýndu tengsl á milli eldri norsku og norskra mállýskna, byggði Aasen fyrirmynd sína að landsmálinu (fyrst sett fram í Prøver af Landsmaalet i Norge, 1853). Sem fyrirmynd hafði Aasen sérstaka hliðsjón af þeim mállýskum sem stóðu eldri norskunni næst, bæði beygingarlega og hljóðfræðilega séð, sem og í orðaforða. Frumkvöðlastarf Aasens í tengslum við norskt ritmál og hugmyndir Wergelands og Knudsens um hægfara aðlögun dönskunnar að norskunni leiddu til tveggja andstæðra tungumálastefna. Árið 1885 var landsmálið gert jafnrétthátt ríkismálinu sem opinbert mál þegar Stórþingið samþykkti eftirfarandi tilmæli til ríkisstjórnarinnar: „Ríkisstjórnin er hvött til að gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að norsk þjóðtunga, verði sem skólamál og opinbert mál, jafnrétthá því rit- og bókmáli sem nú tíðkast.“32 Samþykkt þessi er nefnd „Jafnstöðusamþykktin“ (n. jamstillingsvedtaket). Í barnaskólum var jafnstaðan endanlega staðfest með lögum um barnaskóla árið 1892, sem fólu skólayfirvöldum að ákveða hvort landsmál eða ríkismál yrði notað sem náms- og kennslumál í viðkomandi sveitarfélagi. Við kennaraskólana voru skrifleg próf á báðum málum innleidd með lögum árið 1902, en 1907 í menntaskólum.

28 Henrik Wergeland 1808-1845 var norskur rithöfundur, þjóðfélagsrýnir, ritstjóri, ríkisskjalavörður og rómantískt ljóðskáld. Í: Sejersted, Jørgen Magnus. 2018. 29 Peter Christen Asbjørnsen 1812-1885 og Jørgen Engebretsen Moe 1813-1882 voru norskir þjóðsagnasafnarar, en safn þeirra er þekktast norskra þjóðsagnasafna undir heitinu „Þjóðsögur Asbjørnsens og Moes“. Í: „Asbjørnsen og Moe.“ 2017. 30 Knud Knudsen 1812-1895 fær sérstaka umfjöllun á bls. 75-80. 31 Ivar Andreas Aasen 1813-1896 fær sérstaka umfjöllun á bls. 74-75. 32 Regjeringen anmodes om at træffe fornøden Forføining til, at det norske Folkesprog som Skole- og officielt Sprog sidestilles med vort almindelige Skrift- og Bogsprog.

38

Á 20. öld mótaðist þróunin af miklum réttritunarumbótum: Árið 1901 voru þær vegna landsmáls og 1907 vegna ríkismáls. Árið 1910 voru gerðar smávægilegar breytingar á landsmáli og á báðum málunum, fyrst árið 1917 og síðan 1938. Síðustu endurskoðanirnar fóru fram árið 1959, og fyrir bókmál 1981 og 2005. Auk nokkurra minni háttar endurbóta samkvæmt tillögum Norska málfarsráðsins (Norsk språkråd) (1972–2004). Fyrir ríkismál/bókmál hafa áhrifin verið þau að frá árinu 1907 er ritmálið norskt en ekki danskt. Þar sem misræmi er á milli sögulegrar stafsetningar og venjulegs framburðar, hafa bæði málin nálgast framburðarrithátt og landsmál/nýnorska hefur smám saman nálgast austlenska málfarið og landsbyggðamállýskurnar. Frá upphafi 20. aldar hefur verið unnið að því að minnka ónauðsynlegan mun ritmálanna tveggja. Norska málnefndin (Norsk språknemnd) (1952–1972) átti að stuðla að samleitni milli ritmálanna „á grundvelli norsks alþýðumáls“. Norska málfarsráðið skyldi „styðja við langtímaþróun sem leið til að samræma tungumálaafbrigðin“. Hvort tungumálið hefði aðeins eitt ritmál „samnorsku“33 eða ekki og hversu fljótt það ætti að gerast olli mikilli tungumáladeilu á millistríðsárunum og eftir síðari heimsstyrjöldina. Umbæturnar á bókmálinu árið 1981 opnuðu fyrir fjölda hefðbundinna ritreglna sem lokað hafði verið fyrir 1938 og eftir það hefur höfuðáherslan verið á styrkingu þess. Árið 2002 var nálgunarákvæði Norska málfarsráðsins fellt úr gildi af Stórþinginu. Árið 2005 var hluti vannýttra greina, einkum nálgunargreina, felldur úr reglugerðinni. Þó svo að tungumálaumbótaviðleitnin á 19. öld hafi fyrst og fremst einkennst af frumkvæði einstaklinga gagnvart stjórnvöldum og almenningi (I. Aasen, K. Knudsen, D.F. Knudsen34, Moltke Moe35 og fleiri) hefur starfið á 20. öld verið borið uppi af opinberum nefndum og sérstökum málfarsstofnunum á borð við Ríkismálssambandið (Riksmålsforbundet) (stofnað 1907), Norska málfarshópinn (Noregs Mållag) (stofnað 1906) og Norskt málsafn (Landslaget for språklig samling) (stofnað 1959). Helstu ákvarðanir eru nú sem fyrr teknar á Stórþinginu. Mótspyrna gegn hinni opinberu tungumálastefnu og sérstaklega gegn umboði og starfi Norskrar málnefndar leiddi til þess að íhaldssöm tungumálasamtök á báðum jöðrum hafa lengi staðið gegn hinni opinberu tungumálastefnu og fylgt eigin stefnu þvert á hina fyrrnefndu. Til að skapa

33 Orðið samnorsk er tillaga frá Moltke Moe um samruna norsku ritmálanna bókmáls og nýnorsku. Í: „Samnorsk.“ 2015. 34 David Faye Knudsen 1837-1922 var norskur málfræðingur, kennari, skólastjóri og höfundur fjölda kennslubóka. Í: „David Faye Knudsen.“ 2016. 35 Moltke Moe 1859-1913 - sonur Jørgens Moe - var þjóðháttafræðingur, þjóðsagnasafnari og prófessor í mállýskum, þjóðháttum og miðaldabókmenntum. Í: Kvideland, Reimund. 2009.

39

„tungumálafrið“ skipaði kirkju- og menntamálaráðherrann Helge Sivertsen36 Vogt- nefndina37 árið 1964. Meðal tillagna frá nefndinni var stofnun Norska málfarsráðsins sem var samþykkt. Í því sátu fulltrúar víða að, einnig frá tungumálasamtökunum. Árið 2005 var Norska málfarsráðið lagt niður og í stað þess tók við minni stofnun án stjórnar en stýrt af ráðuneytisskipaðri nefnd og stjórnarskrifstofu, svonefnt Málfarsráð (Språkrådet). Árið 1929 breytti Stórþingið hinu opinbera heiti á tungumálunum úr landsmáli í nýnorsku og úr ríkismáli í bókmál. Tungumálaþróunin á okkar tímum er undir miklum áhrifum af innstreymi tökuorða, einkum úr ensku og sænsku. Flutningar, hreyfanlegt vinnuafl, fjölmiðlar og aðrir þættir félagslegrar þróunar hjálpa til við að draga úr mismun á mállýskum. Hins vegar hafa stórar og hraðvirkar breytingar í skólum, á vinnustöðum og víðar skapað meira tungumálamisræmi milli þeirra sem eldri eru og hinna yngri, en einnig á milli fólks sem er á vinnumarkaði og fólks sem er það ekki. Tungumál fjölmiðlanna og hins opinbera hafa víðtækari áhrif á málsamfélagið á okkar tímum enn það gerði fram að aldamótum 1900. Sú tilhneiging er fyrir hendi að „flókin hugtök“ blandist saman við almennt mál sérstaklega á prenti, en einnig í stafrænum hljóð- og myndmiðlum. Á móti kemur einfaldari uppbygging svo sem með styttri setningum og einfaldari setningaskipan (Nordbø, B. og Venås, K. 2015).

5 Þýðing á texta um norska bókmenntasögu

Höfundar efnis Børge Nordbø 1977-, lauk MA í norrænni heimspeki frá Háskólanum í Ósló 2005. Erik Bjerck Hagen 1961-, er bókmenntafræðingur og prófessor í almennum bókmenntum við Háskólann í Björgvin. Hans H. Skei 1945-, Dr.Phil. í bókmenntafræði árið 1980, var dósent 1985-1990 og prófessor 1990-2014 í bókmenntafræði við Háskólann í Ósló. Øystein Rottem 1946-2004, var bókmenntafræðingur og bókmenntagagnrýnandi.

36 Helge Sivertsen 1913-1986 var norskur málfræðingur og stjórnmálamaður, gaf út námsbækur og skrifaði um menningartengd efni. Í: „Helge Sivertsen.“ 2016. 37 Vogt-nefndin var skipuð árið 1964 með prófessor Hans Vogt 1903–1986 sem formann og er nafnið þannig til komið. Nefndinni var ætlað að meta stöðu norskrar tungu og móta tillögur um lagasetningu eða ráðstafanir til að varðveita og þróa norskan tungumálaarf. Í: „Vogt Komiteen.“ 2015.

40

Norsk bókmenntasaga Í þessum kafla er þýdd, nokkuð löng, fræðigrein sem fjallar um norska bókmenntasögu. Hún tekur til munnlegrar geymdar og verka sem rituð eru á nokkrum ritmálum: norrænu, dönsku, bókmáli, nýnorsku og samísku.

Stutt yfirlit Elstu varðveittar rúnaáletranir eru taldar vera frá um það bil 150 e.Kr. Þegar latneska stafrófið var tekið í notkun á móðurmálinu í kringum 1100, var munnleg hefð víkingatímans, frá því um 800, skrifuð niður í formi eddukvæða, dróttkvæða og sagna. Mikið af þeim bókmenntum sem varðveist hafa voru skrifaðar af Íslendingum, en þær hafa orðið til í nánum tengslum við Noreg. Með útbreiðslu kristninnar þróaðist ritað mál á Norðurlöndum sem byggðist á latneska stafrófinu, en bæði bókmenntum og tungumáli hnignaði smám saman frá 1350–1500. Á tímabilinu 1537–1814 var Noregur undir danskri stjórn og voru þá allar bókmenntir í Noregi skrifaðar á dönsku. Bókmenntir frá þessum tíma eru skilgreindar sem „dansk-norskar bókmenntir“. Á 17. öld eru það einkum trúarleg ljóð, eftir Petter Dass og Dorothe Engelbretsdatter, sem standa upp úr. Á 18. öld hafði þankagangur upplýsingarinnar áhrif á dansk-norskar bókmenntir með Ludvig Holberg, rithöfund frá Björgvin, í broddi fylkingar. Á 8. áratug 18. aldar óx þjóðerniskennd mjög meðal norskra námsmanna í Kaupmannahöfn sem stofnuðu Norska félagið. Johan Nordahl Brun samdi þá það sem nefnt hefur verið fyrsti þjóðsöngur landsins, For Norge, Kiempers Fødeland. Í kringum 1814 risu norskar bókmenntir ekki hátt, en um 1830 kom Henrik Wergeland, ungur snillingur, fram með ástríðufull og að margra mati óhefluð og óskiljanleg ljóð. Rómantíkin hefur þar með náð til Noregs. Wergeland mætti fljótt öflugri andstöðu frá Johan Sebastian Welhaven sem hélt fram annars konar rómantískri ljóðlist: sígildri og formfastri, stílhreinni og tærri. Eftir 1840 ber mikið á „þjóðlegri vakningu“. Welhaven byggir ljóð sín á norskri þjóðtrú, Asbjørnsen og Moe gefa út þjóðkvæði og ævintýri, sagnfræðingurinn Peter Andreas Munch38 hefst handa við rannsóknir sínar á norskri miðaldasögu og Ivar Aasen rannsakar norskar mállýskur.

38 Peter Andreas Munch 1810-1863 var norskur sagnfræðingur, málvísindamaður og landfræðingur, prófessor í sagnfræði 1866-1875 og í fornleifafræði 1875. Í: „Peter Andreas Munch: historiker.“ 2018.

41

Um miðjan sjötta áratug 19. aldar kom fram á sjónarsviðið ný kynslóð skálda með Henrik Ibsen og Bjørnstjerne Bjørnson fremsta í flokki. Camilla Collett sendi frá sér Amtmandens døttre á tímabilinu 1854–1855 fyrstu norsku skáldsöguna sem flokkast undir þjóðfélagsádeilu. Aasmund Olavsson Vinje39 varð fyrstur skálda til að skrifa á hinu nýja landsmáli í tímaritið sitt Dølen, fyrst gefið út 1858, með sögulegu ferðafrásögnina Ferdaminne frá 1861 sem hápunkt. Bjørnson endurvakti norskan prósa (n. prosa) með Sigrúnu á Sunnuhvoli40 (Synnøve Solbakken. 1857) og öðrum bændasögum. Hann ruddi jafnframt brautina fyrir norska leiklist í Evrópu með samtímaleikritinu Gjaldþrotið41 (En Fallit. 1875). Ibsen varð bókmenntaleg heimsstjarna með meistaraverkunum Brúðuheimili42 (Et Dukkehjem. 1879) og Afturgöngur43 (Gengangere. 1881). Undir lok níunda áratugar 19. aldar var þróunin frá raunsæi yfir í örlagaþrungnari natúralisma með rithöfundinn Amalie Skram í farabroddi. Áratugurinn á eftir markar svo upphafið að því sem oft hefur verið kallað nýrómantísk viðbrögð gegn raunhyggju og samfélagslegum skáldskap 9. áratugarins. Skáldsaga Knuts Hamsuns Sultur44 (Sult. 1890) er dæmigerð fyrir þessa þróun. Hvað ljóðlist varðar gegndi Digte frá 1893, eftir Sigbjørn Obstfelder, svipuðu hlutverki. Bæði Hamsun og Obstfelder eru taldir frumkvöðlar norskra nútímabókmennta. Á fyrstu þremur áratugum 20. aldar döfnuðu báðar bókmenntastefnurnar – rómantíska stefnan og raunsæisstefnan – hlið við hlið. Varla er hægt að ræða um raunverulegar nútímabókmenntir sem ríkjandi stefnu fyrr en eftir síðari heimsstyrjöldina. Merkustu skáldsagnahöfundar millistríðsáranna – , Sigrid Undset, Cora Sandel og Olav Duun – byggðu verk sín fyrst og fremst á sálfræðilegu og félagslegu raunsæi. Ljóðskáldið Olaf Bull nýtti sér rímið og hrynjandina, en ljóð hans eru oft módernísk hvað varðar form og innihald og byggja á ákveðnu þema. Kristofer Uppdal er það skáld sem í ljóðum sínum sækir mestan

39 Aasmund Olavsson Vinje 1818-1870 fær sérstaka umfjöllun á bls. 80-83 40 Aths. þýð.: Útg. 1884 í þýðingu Jóns Ólafssonar ritstjóra 1850-1916. 41 Leikritið var sýnt 1928 hjá Leikfélagi Ísafjarðar. Í: „Leikhúsið: Gjaldþrotið eftir Björnstjerne Björnson.“ 1928. 42 Aths. þýð.: Útg. 1973 í þýðingu Sveins Einarssonar 1934-, var endurskoðuð 1998 fyrir Þjóðleikhúsið. 43 Aths. þýð.: Útg. Án árs, í þýðingu Bjarna Benediktssonar frá Hofteigi 1922-1968, var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu 1965. 44 Aths. þýð.: Útg. 1940 í þýðingu Jóns Sigurðssonar frá Kaldaðarnesi 1886-1957.

42

innblástur í þýskan expressjónisma45. , einn helsti fulltrúi norskra skálda í nútímaljóðlist eftirstríðsáranna, birti sín fyrstu ljóð 1933. Eftir stríðið skapaðist grundvöllur fyrir ruglingslegt og örvilnað tilfinningalíf módernismans og tilraunir með bókmenntaform. Enginn vissi lengur hvers vænta mátti af ljóði eða skáldsögu. Sögupersónur voru sundurleitar, sögufléttan skipti minna máli og ljóðlistin var ekki lengur falleg, hljóðræn og hjartnæm. , og voru brautryðjendur á sviði prósans og þau Rolf Jacobsen, Olav H. Hauge, og í ljóðlist. Eftir 1965 kom fram léttur og hófstilltur módernismi sem oft kallaðist á við dægurmenningu samtímans. er fulltrúi þessarar stefnu, bæði sem ljóðskáld og gagnrýnandi. Áttundi áratugurinn var tími pólitískra átaka og nýrrar gagnrýninnar raunhyggju. kom fram sem einn helsti skáldsagnahöfundur sinnar kynslóðar. Samtímis urðu glæpasögur og aðrar vinsælar bókmenntagreinar viðurkenndar. Aðgreining fagurbókmennta og dægurbókmennta varð óskýr. Á níunda áratugnum varð ákveðið afturhvarf. Málfars- og textarýni módernismans hófst að nýju sem var einkum vegna áhrifa frá póststrúktúralískum bókmenntakenningum, en þó líka vegna nýrra trúarlegra og frumspekilegra væntinga. er þar í „fylkingarbrjósti“, bæði sem ljóðskáld og lausamálshöfundur. kom einnig fram á sjónarsviðið á þessum sama tíma, og á tíunda áratugnum varð hann eitt mikilvægasta leikrita- og sagnaskáld þjóðarinnar. Ástandið eftir 1990 er margþætt og opið. Í auknum mæli tíðkaðist að einbeita sér að nærumhverfi sínu. Það á við um kaldhæðnislegan „naívista“ eins og Erlend Loe og nýjar kvenraddir eins og Hanne Ørstavik, og . Eftir árið 2000 efldist þessi tilhneiging og það varð algengt að skrifa bókmenntir sem fóru mjög nærri raunverulegum atburðum þar sem lifandi fyrrmyndir voru bæði í aðal- og aukahlutverkum. Hugtök eins og sjálfsæviskáldsögur, reynsluskáldsögur og sannsögur46 urðu lýsandi fyrir bókmenntastíl sem vakti athygli með óritrýndum frásögnum og skorti á skáldskap og umritunum, en heillaði með áreiðanleika sínum og heiðarleika. Gott

45 Expressjónismi á upptök sín í þýskri myndlist sem bæði tjáir tilfinningar og vekur tilfinningar hjá áhorfandanum. Í bókmenntum gildir það sama. Expressjónismi snýst um hið andlega og tilfinningalega í lífi mannsins. Í: Jón Gunnar Þorsteinsson. 2009. 46 Sannsögur er þýðing á orðinu sakprósa (n. sakprosa) sem er í víðtækum skilningi textar sem viðtakandinn hefur ástæðu til að skynja sem sanna tjáningu veruleikans. Í: Tønnesson, Johan. 2015.

43

dæmi um slíkan stíl er hið víðfræga sex binda verk Barátta mín47 (Min kamp) eftir rithöfundinn Karl Ove Knausgård. Í sögulegu ljósi eiga Samar auðuga munnlega bókmenntahefð sem enn er í fullu gildi. Munnleg frásagnarlist og joik-ljóð48 eru á meðal þeirra bókmenntaforma sem hafa gegnt og gegna enn miklu hlutverki í samískri bókmenntahefð. Það er fyrst á 20. öldinni að hægt er að tala um ritlist í samískum skáldverkum. Fyrir þann tíma eru samísk skáldverk, sem menn þekkja, uppskrifaðir joik-textar eða sögur sem eiga rætur í munnlegri frásagnarhefð. Við upphaf 20. aldar vex bókmenntum Sama fljótt ásmegin. Árið 1912 kom út fyrsta skáldsagan sem skrifuð er á tungumáli Sama. Höfundur hennar er Anders Larsen og ber sagan samíska heitið Beaivi-álgu (Dögun). Árið 1915 kom út fyrsta ljóða- og smásagnasafnið Muohtačalmmit (Snjóflyksa) eftir Pedar Jalvi. Kirsti Paltto var fyrsta konan sem gaf út bók á samísku, ljóðabókina Riđđunjárga, árið 1970. Árið 1991 fékk Nils-Aslak Valkeapää bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir verk sitt Sólin, faðir minn49 (Beaivi áhčážan).

Aðfaraorð Fyrir upphaf ritaldar á 12. öld var til ríkulegur kveðskapur í Noregi sem varðveittist í munnlegri geymd frá kynslóð til kynslóðar uns farið var að skrifa hann niður á 13. og 14. öld. Upphaf ritaðra bókmennta má einnig finna, jafnvel fyrir tíma víkinganna, í formi áletrana á rúnasteinum með táknum úr eldri gerð rúnastafrófsins. Varðveist hafa rúnaáletranir frá því um miðja 2. öld e.Kr. Meðal þekktra rúnasteina eru Tunesteinninn50 frá Austfold sem talinn er vera frá tímabilinu 200–450 e.Kr. og Eggjasteinninn frá Sogni frá því um 600 e.Kr. Rúnaáletranir gegndu þó aðeins að litlu leyti bókmenntalegum tilgangi. Þær voru fyrst og fremst notaðar í minningarskyni eða við trúarlegar töfraathafnir.

47 Aths. þýð.: Fyrsta bindið kom út 2017 í þýðingu Kristjáns Breiðfjörðs 1970- og Berglindar Rósu Bjarnadóttur 1971-. 48 Joik er þjóðlagatónlist Sama. Í henni skiptast á flutningur ljóðs og „sérhljóðasöngur“. Söngvarinn stoppar gjarnan sönginn jafn snögglega og hann hóf hann eða líkt og hann fari inn í sönginn og út úr honum, hvenær sem honum þóknast. Í: Gaski, Harald og Ledang, Ola Kai. 2018. 49 Aths. þýð.: Útg. 2004 í þýðingu Jóhanns Hjálmarssonar 1939-, þýddi úr norsku. 50 Tunesteinninn frá Austfold fannst 1627 í Tune. Árið 1857 var hann fluttur í Fornminjasafnið í Ósló. Á steininum er ein lengsta rúnanáletrun sem varðveist hefur. Rúnaáletrunin er á norrænu og er frá 200– 450 e.Kr. Í: „Tunesteinen.“ 2016.

44

800–1300: Norræna tímabilið Engar heimildir eru til um að skáldskapur hafi verið stundaður sem listgrein í Noregi fyrir víkingatímann (800-1066) þegar skáldin nutu virðingar í samfélaginu. Munnlegur skáldskapur þessa tíma nær bæði yfir ljóð og prósa. Kvæðunum má skipta í tvo meginflokka: eddukvæði og dróttkvæði.

Eddukvæði Höfundar eddukvæða eru óþekktir og við þekkjum kvæðin aðeins gegnum íslenska menningararfleifð frá 13. og 14. öld. Þeim má skipta í eftirtalda flokka: goðakvæði, hetjukvæði og heilræðakvæði. 1. Goðakvæðin hafa sérstöðu og er yrkisefnið sótt í norræna goðafræði með einn eða fleiri norræna guði í aðalhlutverki (t.d. „Þrymskviða“ og „Lokasenna“) eða þau fjalla um sköpun jarðarinnar, tilvist hennar og örlög (t.d. „Völuspá“). 2. Hetjukvæðin eru ljóðaflokkar sem byggja á samgermönsku söguefni (t.d. um Sigurð Fáfnisbana, Gjúkungana, Atla og Brynhildi), en þar koma líka fyrir norrænar sögupersónur (t.d. Helgi Hundingsbani). Hetjukvæðin eru í knöppu formi og fjalla á víxl um athafnir og samtöl. Grunntónninn er sorglegur. Munurinn á hetju- og goðakvæðum er ekki alltaf augljós. Goðin skerast líka í leikinn í hetjukvæðunum og flestar hetjurnar eiga sér guðlegan uppruna. 3. Heilræðakvæðin (t.d. „Hávamál“) eru lærdómsrík og jafnframt heimildir um siðferði og lífstíl norrænna manna. Rekja má uppruna hrynjandinnar í bragarháttunum til norrænnar tungu. Hún byggist á samblandi þungra og léttra atkvæða og reglubundinni ljóðstafasetningu51. Helstu bragarhættir eddukvæða eru fornyrðislag52 og ljóðaháttur53.

51 Stuðlar, oftast tveir í frumlínu, ásamt einum höfuðstaf í síðlínu mynda saman eitt braglínupar og við það verður til svokölluð ljóðstafasetning. Í: Ragnar Ingi Aðalsteinsson. 2013:83-84. 52 Fornyrðislag hefur ekkert rím né heldur fasta hrynjandi, það hefur óhrynbundin ris (óreglulega hrynjandi) og eru að jafnaði tvö ris (áhersluatkvæði) í hverri braglínu sem í eru að jafnaði fjögur atkvæði. Braglínur eru allar stuttar og eru oftast átta í hverju erindi, það er fjórar forlínur (1., 3., 5. og 7. ljóðlína) með einn til tvo stuðla í hverri línu fyrir sig og fjórar síðlínur (2., 4., 6. og 8. ljóðlína) með einn höfuðstaf í hverri. Í: Ragnar Ingi Aðalsteinsson. 2013:79-80. 53 Um ljóðahátt gilda sömu reglur og um fornyrðislag hvað varðar hrynjandi og rím. Braglínur ljóðaháttar eru frábrugðnar fornyrðislagi varðandi stuðlun og ris. Braglínur eru sex í hverju erindi með sérstuðlun í 3. og 6. línu þar sem stuðlarnir eru tveir og risin þrjú og þeim fylgir enginn höfuðstafur. Slíkt á sér enga hliðstæðu í öðrum fornum bragarháttum. Ljóðaháttur hefur eingöngu varðveist í íslenskri geymd. Í: Ragnar Ingi Aðalsteinsson. 2013:82.

45

Dróttkvæði Dróttkvæðin eru, ólíkt eddukvæðum, flest eftir nafngreind skáld sem sækja yrkisefni sitt í sögulega atburði. Við þekkjum til meira en 250 nafnkenndra skálda, þar af eru sjö konur, sem kvæði eða kvæðabrot eru varðveitt eftir í um það bil 5000 erindum. Meðal þekktra skálda eru Bragi Boddason (9. öld), Þorbjörn hornklofi (um 900), Eyvindur skáldaspillir (10. öld), Sighvatur Þórðarson (um 1000) og Einar Skúlasson (12. öld). Þennan skáldskap þekkjum við úr íslenskum handritum frá 13. og 14. öld. Skáldið var tengt hirð konungsins eða höfðingjans og hlutverk þess var að varpa dýrð á verkbeiðandann. Dæmigert dróttkvæði er því lofkvæði. Auk þess hafa varðveist fjölmörg ljóð um „hversdagslífið“, gjarnan í einu erindi sem þá kallast lausavísur. Helsti bragarhátturinn nefnist dróttkvæður háttur54, sem líklega hefur þróast út frá fornyrðislagi. Hann er bæði flóknari og vitsmunalega meira krefjandi en sá bragarháttur sem eddukvæðin eru undir. Hann lýtur formföstum reglum og er auðugur af tilbrigðum bæði hvað varðar atkvæðafjölda í braglínu, hrynjandi, innrím og fjölda áhersluatkvæða. Það sem er mest einkennandi fyrir málfarið eru hinar margháttuðu ljóðrænu lýsingar (kenningar55) sem byggjast að mestu á norrænni goðafræði. Í dróttkvæðum er orðaskipanin óvenjulega frjáls og má í þeim finna fjölmarga aðra bragarhætti en dróttkvæðan. Elstu hetjukvæðin er sá kvæðaflokkur norræns kveðskapar sem talið er líklegt að hafi orðið til í norsku umhverfi. Hlutar af Hávamálum kunna einnig að hafa verið samdir í Noregi og sama má segja um nokkur elstu dróttkvæðin. Við þekkjum nöfn margra norskra skálda, en smám saman urðu Íslendingar allsráðandi á þessu sviði. Eftir kristnitökuna í kringum árið 1000, voru dróttkvæðin talin séríslenskur kveðskapur. Hlutar af yngri eddukvæðunum kunna einnig að hafa orðið til á Íslandi. Í Noregi verða hins vegar til kvæði undir dróttkvæðum hætti og einnig undir eddukvæðaháttum allt

54 Braglínur dróttkvæðs háttar eru oftast 8 með efnislegri, reglulegri skiptingu við lok 4. línu og oftast með 6 atkvæði í hverri línu. Ennfremur byggir dróttkvæður háttur á „ljóðstafasetninu“. Öfugt við fornyrðislag er rím í dróttkvæðum, en þó ekki endarím. Hér er átt við svokallaðar skothendingar í frumlínum sem eru sniðrímaðar (t.d. ár/aur), og aðalhendingar í síðlínum sem eru alrímaðar (t.d. ís/rís). Í: Ragnar Ingi Aðalsteinsson. 2013:83-84. 55 Kenningar samanstanda af tveimur umrituðum nafnorðum. Hið fyrra nefnist höfuðorð og hið síðara kenniorð. Dæmi: „fiska jörð“ sett saman úr höfuðorðinu fiskur og kenniorðinu jörð. Jörð fiskanna er kenning og táknar sjór. Kenningar geta einnig verið tví- og þríkenndar. Tvíkennd kenning getur byggst á fyrri kenningu sem höfuðorði. Sbr. „fiska jörð“ og orðið á eftir er kenniorð. Dæmi: „fiskajarðar hestur“ sem merkir skip. Ef kenningin er þríkennd er höfuðorð oftast í eignarfalli og kenniorð þrjú eða fleiri. Dæmi: „leiftra ægis grundar viður“ sem merkir hér sjómaður. Í: Bragi Halldórsson og Knútur S. Hafsteinsson. 1994.

46

fram á 14. öld. Það sést meðal annars af áletrunum á steinum og trjám með yngra rúnaletrinu.

Sagnaskáldskapur Munnlegur skáldskapur víkingatímans nær líka yfir sögur í óbundnu máli. Við höfum takmarkaða hugmynd um hvernig sagnaskáldskapurinn var upphaflega. Eins og kvæðin hefur hann varðveist í munnlegri geymd sem fastlega má gera ráð fyrir að hafi tekið mun meiri breytingum en hinn bundni kveðskapur. Hluti þess sagnaskáldskapar sem skrifaður var niður frá lokum 12. aldar er samt talinn byggjast á þessum munnlega skáldskap víkingatímans. Sagnaskáldskapurinn skiptist í þrjár bókmenntagreinar: konungasögur, Íslendingasögur og fornaldar- og riddarasögur. Frægasta konungasagan er Heimskringla sem skráð var af Íslendingi eins og Íslendingasögurnar og margar fornaldarsögurnar og riddarasögurnar. Flestar sagnanna fjalla þó um norskar aðstæður frá þeim tíma þegar náin tengsl voru á milli Noregs og Íslands. Samhliða útbreiðslu kristindómsins þróaðist sérstakt ritmál á Norðurlöndum sem byggði á latneska stafrófinu. Þeir sem stóðu fyrir kristnitökunni fluttu með sér kristnar bókmenntir á latínu. Í kjölfarið hófu norskir menn að semja ritverk á latínu, en þó aðallega fyrir kirkjuhald, svo sem helgisiðatexta og helgisögur sem tengdust tilbeiðslu á innfæddum helgum mönnum, en Ólafur helgi56 var fyrstur þeirra. Síðar, undir lok 11. aldar, er talið að menn hafi nýtt sér latneska stafrófið við ritun á norrænum textum þó einkum lagalegum og trúarlegum. Stofnun erkibiskupsdæmis í Niðarósi árið 1152/1153 leiddi til bókmenntalegs uppgangs. Rit munksins Theodoricus’57 Saga Noregskonunga til forna (lat. Historia de antiquitate regum Norvagiensium) er frá því um 1180. Frá sama tíma er Ágrip af Noregskonunga sögum fyrsta yfirlitsritið á norrænu sem hefur líklegast verið ritað af Norðmanni. Það er nú eingöngu til í íslensku handriti frá 13. öld. Ein merkasta sagan um Noregskonunga – Sverris saga – var samin af Íslendingi58 í samvinnu við konunginn sjálfan.

56 Ólafur Haraldsson 995-1030 - þekktur sem Ólafur helgi - var konungur í Noregi frá 1015–1028. Í: Norseng, Per G. 2018. 57 Aths. þýð.: Upp á íslensku er nafn hans Þjóðrekur munkur. 58 Karli Jónssyni um 1145-1213. Hann var ábóti á Þingeyrum. Í: Stefansson, Magnus. 2009.

47

Frá tíma Sverris konungs59, um 1200, er til handritið Varnarræða gegn biskupunum (En tale mot biskopene60). Það er guðfræðilegt áróðursrit, skrifað af einum af mönnum konungs, sem vitnar um spennuna á milli kirkjuvalds og konungsvalds á norskum miðöldum. Á þeim tíma verður norska hirðin mikilvæg miðstöð samtíma sagnaritunar. Íslenskir sagnaritarar, þar á meðal Snorri Sturluson, dvöldu í lengri eða skemmri tíma í Noregi og íslensk sagnahandrit voru flutt til Noregs og afrituð þar. Norskir konungar fólu Íslendingum það verkefni að skrifa sögur. Frá tíma Hákonar Hákonarsonar61 er ritverkið Konungsskuggsjá62 eitt af öndvegisverkum norræna tímabilsins. Frásagnarformið er samtal á milli konungs og sonar hans og er skrifað í flóknum og taktföstum prósa. Ritið er kennslufræðilegt og lýsir menningarbundnum hugsjónum sinnar tíðar. Bæði að formi og efni á verkið sér hliðstæður í evrópskri frásagnarhefð. Í því er töluvert fjallað um þekkingu svo sem um stríðstækni, landafræði og samfélagið. Það veitir einnig innsýn í kaupmennsku, landsstjórn og siði við hirðina. Hákon Hákonarson kynnir einnig til sögunnar nýja bókmenntategund – riddarasögurnar – sem oftast voru þýddar úr frönsku (Tristrams saga). Þýsk arfleifð liggur til grundvallar hinu efnismikla safni hetjusagna í Þiðriks sögu frá miðri 13. öld. Aðrir prósatextar voru einnig þýddir, til dæmis Barlams og Jósafats saga, sem er kristin aðlögun gamalla búddískra goðsagna. Stórir hlutar Biblíunnar eru þýddir í Stjórn63. Mikilvægir þættir í bókmenntum tímabilsins eru veraldlegir og kirkjulegir lagatextar þar sem lög Magnúsar lagabætis, frá tímabilinu 1260–1279, eru hápunkturinn.

Alþýðuskáldskapur Ævintýrið er meðal fjölþjóðlegustu bókmenntagreina. Samt lítum við á þjóðsögur okkar sem dæmigerðar norskar bókmenntir, bæði vegna þess að þær eru aðlagaðar norskum aðstæðum og málfarið og frásagnarmátinn eiga sér djúpar norskar rætur.

59 Sverrir Sigurðsson um 1151-1202 var konungur Noregs 1177–1202. Í: Helle, Knut. 2009. 60 Aths. þýð.: Útg. 1961 í þýðingu Anne Holtsmarks 1896-1974. 61 Hákon Hákonarson 1204-1263 - þekktur sem Hákon gamli - varð konungur í Noregi um 1217, náði undir sig Grænlandi um 1261 og Íslandi um 1262. Í: „Hákon gamli Hákonarson.“ 2000. 62 Konungsskuggsjá (n. Kongespeilet) er norskt rit frá því um 1250–1260 og er varðveitt í bæði íslenskum og norskum handritum. Höfundur ritsins er óþekktur. Í: Jón Gunnar Þorsteinsson og Þorsteinn Vilhjálmsson. 2007. 63 Norræn þýðing Gamla testamentisins byggð á Vulgata. Í: Astås, Reidar. 2018.

48

Þjóðsögurnar greinast fyrst og fremst frá öðrum bókmenntum að því leyti að þær eiga uppruna sinn að rekja til munnlegrar geymdar og eru ekki samdar af nafngreindum höfundi. Í tímans rás hefur fólk endursagt texta sem það hefur áður heyrt. Þekkingu okkar á þjóðsögunum má fyrst og fremst þakka hinni umfangsmiklu söfnun og ritun sem átti sér stað, að evrópskri fyrirmynd, á 19. öld. Einnig finnast sagnaminni og sögur úr munnlegri hefð í norrænum sagnaskáldskap og ýmsum skriflegum heimildum frá tímabilinu 1200 til 1800. Þjóðsögurnar hafa á sér margvísleg form og stíltegundir. Í Noregi eru þær að mestu leyti eins og í öðrum löndum. Norskar þjóðsögur áttu sér evrópskar fyrirmyndir vegna þess að þær voru að miklu leyti fluttar inn frá Evrópu og síðan lagaðar að norskum aðstæðum. Helstu greinar alþýðuskáldskapar eru: þjóðkvæði, ævintýri, þjóðsögur, málshættir, rímur og þulur. Sérstök norsk tegund er lausavísan sem skiptist í forna lausavísu og nútíma lausavísu allt eftir því hvenær hún var ort.

Þjóðkvæði Elstu norsku þjóðkvæðin verða líklega til snemma á 13. öld. Þjóðháttafræðingar líta á Norðurlönd sem eitt þjóðkvæðasvæði en stærsti flokkur norrænna þjóðkvæða eru riddarakvæðin. Flest þeirra eiga uppruna sinn í evrópskum lénsveldum og bárust til Noregs frá Danmörku. Viðfangsefnið er oft óhamingjusöm ást Hagbarður og Signý64 (n. Bendik og Årolilja). Norskur að uppruna er hluti jötna- og hetjukvæða sem eiga sér samskonar fyrirmyndir og ævintýrin eða vestnorrænu fornaldarsögurnar. Jötna- eða huldufólkskvæði, eins og „Åsmund Frægdegjeva“ og „Liti Kjersti“, fjalla um að verða bergnuminn og um lausn konungsdætra úr álögum. Þekktasta og fremsta norska þjóðkvæðið er hins vegar trúarlegt, „Draumkvæðið“65, sem er í ætt við annan vinsælan vitrunarskáldskap frá miðöldum.

Lausavísur Lausavísan er norrænt form sem er yfirleitt eitt sjálfstætt erindi en umfjöllunarefnið er fjölbreytt. Hún gefur ráð um siði og venjur, oft í gamansömum tón, eða inniheldur lífsspeki af ýmsu tagi. Aðrar eru hreinar drykkjuvísur, svonefnd ölstef.

64 Aths. þýð.: Útg. 1897 í þýðingu Steingríms Thorsteinssonar 1831-1913, þýddi úr dönsku (á dönsku:Hagbard „ og Signe.“). 65 Aths. þýð.: Útg. 1951 í þýðingu Kristjáns Eldjárns 1916-1982.

49

Ævintýri Ævintýrið er eldra en þjóðkvæðin og eitt alþjóðlegasta bókmenntaformið. Ævintýri með sama eða skylt þema finnast í menningarsamfélögum sem eru mjög langt hvort frá öðru. Langflest norsku ævintýrin eiga sér hliðstæður í öðrum löndum. Hins vegar lítum við á þau eins og væru þau dæmigerð norsk, bæði vegna þess að þau eru löguð að norskum aðstæðum og að tungumálið og frásagnarmátinn eru svo samofin norskri þjóðarvitund, en ekki síst er það vegna þess að Asbjørnsen og Moe lögðu áherslu á þjóðernið við söfnun og ritun þeirra. Vera má að margar norskar þjóðsagnir eigi sér alþjóðlega fyrirmynd, en flestar fjallar þó um innlendar aðstæður og staðhætti. Í Noregi eru til dæmis til margar þjóðsögur um Ólaf helga og um ýmsa viðburði sem urðu þegar svartidauði geisaði.

1300–1550: Síðmiðaldir Á 14. öld fjarar skrifleg bókmenntastarfsemi að mestu út í Noregi. Norræna ritmálinu hnignar og við það verður einskonar „afturhvarf“ til munnlegs skáldskapar. Einkennandi fyrir tímabilið er endurnotkun á bókmenntum sem þegar voru til í bókaformi. Á síðmiðöldum gafst meira svigrúm fyrir hreinan skáldskap. Ævintýrasögur urðu þar með ríkjandi bókmenntagrein, þó fyrst og fremst á Íslandi. Fornbréf (í fyrstu voru þau rituð á latínu og frá 12. öld einnig á norrænu), jarðabækur og helgisiðabækur er nánast það eina sem varðveist hefur í handritum frá Noregi, reyndar aðeins í litlu magni. Sem einskonar hápunkt andlegs lífs í Noregi á miðöldum má nefna fyrstu tvær bækurnar, sem voru prentaðar (erlendis) til notkunar við helgihald í Noregi, Missale Nidrosiense og Breviarium Nidrosiense sem Erik Valkendorf66, erkibiskup, gaf út 1519.

1550–1814: Dansk-Norskar bókmenntir

Húmanismi og barrokkstíll Á 16. öld lagðist gamla norska ritmálið af. Í nokkur hundruð ár eftir það skrifuðu Norðmenn á dönsku. Bókmenntir 16. aldar sem byggðu á norskum grunni einkenndust af húmanisma. Með rithöfunda eins og Absalon Pederssøn Beyer (Om Norgis Rige) og Peder Claussøn Friis (Diur, Fiske, Fugle og Træer udi Norrig) í fararbroddi er lagður grunnur að sögulegum, staðbundnum bókmenntum í Noregi. Pederssøn Beyer lét meðal annars eftir sig dagbók sem veitir einstaka innsýn í norskt bæjarlíf á 16. öld og Claussøn

66 Erik Valkendorf 1465-1522 var erkibiskup af Niðarósi frá 1510 til dauðadags og er sagður hafa verið fremstur biskupa í umdæmi sínu. Í: Opsahl, Erik og Mardal, Magnus A. 2017.

50

Friis þýddi Heimskringlu og aðrar konungasögur. Frá 16. öld má einnig nefna Hamarsannál67 og staðbundnar lýsingar hins danskættaða Erik Hanssøn Schønnebøls á Lófót og Vesturáli (Lofodens og Vesteraalens Beskrivelse). Þýðingar Íslendingasagnanna og ýmsar staðbundnar bókmenntir voru ekki prentaðar vegna þjóðernishyggju sem menn töldu sig finna þar. Óslóar-húmanistarnir Jens Nilssøn, Hallvard Gunnarssøn og fleiri, sem voru ekki eins ögrandi í sinni þjóðernisstefnu, fengu prentuð rit erlendis, þó aðallega á latínu. Á 17. öld eru sögulegar og staðbundnar bókmenntir ríkjandi í Noregi, auk sálma, hugvekjubóka, húslestrabóka og tækifærisljóða. Bókmenntalega séð er þetta að mestu léttvægur skáldskapur. Undir lok aldarinnar komu þó fram tvö athyglisverð skáld. Prestsfrúin Dorothe Engelbretsdatter í Björgvin sem orti sálma í barokkstíl og náði mikilli hylli. Verk hennar Sjælens Sangoffer kom út árið 1678 í 24 upplögum. Norðurlandspresturinn Petter Dass blandaði saman sálmum og staðbundnum kveðskap. Í „trúfræðslusöngvum“ hans, vísum og tækifærisljóðum sem og í meistaraverkinu „Norðurlandstrómet“68 („Nordlands trompet“. Prentað að honum látnum 1739) sameinast kristnin djúpu innsæi og greinagóðum lýsingum á landsháttum og lífsskilyrðum við strönd Helgelands. Sem barrokkskáld var Dass mun heilsteyptari og jarðbundnari en samtíðarmenn hans, og sem fyrsta markverða skáldið eftir að miðöldum lauk hefur hann enn sterka stöðu í norskum bókmenntum. Skáldverk rituð á samísku eru til allt frá því á 17. öld, en elstu verkin eru að mestu leyti lestrarbækur og trúarlegar bókmenntir. Samar eiga sér álíka langa munnmælahefð í formi sagna og ævintýra og Norðmenn. Sérsamískt ljóðform er joik sem er samfelldur spuni orða og tóna. Upphaflega gegndi joik trúarlegu hlutverki, en gegn átroðningi frá samfélaginu gat það líka orðið pólitískt. Joik er einnig til sem ástarljóð og var oft flutt við brúðkaup, afmæli og þess háttar.

Upplýsingaöld og upphaf þjóðernishyggju Á 18. öld hefur upplýsingastefnan veruleg áhrif á danskt-norskt menningarlíf. Leiðtogi og fremsti rithöfundur sameiginlegra bókmennta Dana og Norðmanna er Ludvig Holberg, frá Björgvin, („faðir“ danskra og norskra bókmennta). Hann fór til náms í Kaupmannahöfn og settist þar að til frambúðar. Meðal verka hans eru háðsádeilukvæði,

67 Hamarsannáll - skrifaður á 16. öld af óþekktum skrifara - er sögulegt og menningarlegt skjal með nákvæmum lýsingum á uppbyggingu Hamars og nærliggjandi svæða á 13. og 14. öld. Í: „Hamarkrøniken.“ 2013. 68 Aths. þýð.: Inngangur verksins kom út 1977 í þýðingu Kristjáns Eldjárns.

51

sögur, heimspeki, bréfaskriftir, ritgerðir og hrífandi ferðaskáldsaga. Gamanleikir hans hafa gert einstaka lukku. Hann sótti innblástur í fornöldina, en einnig til franskra og enskra samtíðarithöfunda eins og Molière69 og Jonathan Swift70. Hann hafði gífurleg áhrif, bæði á sína eigin samtíð og síðari tíma. Klassísk hefð og forrómantískar tilhneigingar eru einkennandi fyrir sameiginlegar bókmenntir þjóðanna á síðari hluta 18. aldar. Þar má nefna dansk-norsku höfundana Peter Christopher Stenerson (Critiske Tanker over de riimfrie Vers) og Christian Braunmann Tullin (Maidagen), sem báðir þreyttu frumraun sína um 1760. Við lok 18. aldar fékk dansk-norski skáldskapurinn mállýskublandið ívaf meðal annars með dalavísum Edvard Storms. Mesta athygli vakti þó hópur norskra stúdenta í Kaupmannahöfn sem árið 1772 stofnaði Norska félagið (Det norske selskab). Þeir studdu frönsk-klassísku stefnuna gegn hinum nýju rómantísku straumum og ýttu undir vaxandi þjóðrækni og þjóðarvitund sem kom ekki síst fram í ættjarðarljóði Johans Nordahls Bruns „For Norge, Kiempers Fødeland“. Í þessu félagi voru meðal annarra bræðurnir Claus og Peter Frimann, Thomas Stockfleth, Claus Fasting og Jens Zetlitz. Saman þekja þeir talsvert breitt svið bókmenningar frá drykkjuvísum og mannlífslýsingum til sálmakveðskapar og hástemdra harmleikja, oft með fyrirmyndum í sögu þjóðarinnar. Einn félaganna sker sig nokkuð úr, það er hið kaldhæðna orðhnyttna norska skáld Johan Herman Wessel sem er einkum þekktur fyrir harmleiksskopstælinguna Kierlighed uden Strømper frá 1772. Norska félagið var leyst upp árið 1813. Pólitísk hugðarefni höfðu þrengt að bókmenntaiðkun félaganna. Það er í samræmi við almenna þróun þessa tíma. Á árunum fyrir 1814 komu ekki út nein athyglisverð skáldverk eftir Norðmenn.

1814–1850: Rómantíkin Rómantíkin mótar nýtt upphaf í evrópskri menningu með nýjar áherslur á hið einstaka og ósvikna, á tilfinningarnar, ímyndunaraflið, náttúruna og söguna. Þegar við auk þess tengjum rómantíkina hinu reikula og ófreska sjálfi, sem ekki getur beygt sig undir hefðbundnar reglur og borgaralegar dyggðir, stendur Henrik Wergeland upp úr sem hinn fullkomni norski rómantíker.

69 Jean-Baptiste Poquelin (Molière) 1622-1673 var franskur leikari, samdi gamanleikrit. Í: Kolderup, Trude og Winther, Truls Olav. 2016. 70 Jonathan Swift 1667-1745 var enskur, skrifaði háðsádeilusögur. Í: Smidt, Kristian. 2018b.

52

Á sambandstímanum71 voru frekar fáar bækur gefnar út í Noregi. Ekki urðu umtalsverðar breytingar á því við sambandsslitin 1814. Árið 1819 voru einungis gefin út 28 rit um efni af ýmsu tagi, þó einkum rit af trúarlegum og pólitískum toga. Á árunum 1814–1819 voru árlega gefin út um það bil fjögur skáldsagnaverk. Það er fyrst á fjórða áratugnum að útgáfa skáldverka hófst fyrir alvöru. Meðan rómantíkin blómstraði í danskri og sænskri ljóðlist var það litla sem skrifað var í Noregi eftir 1814 mótað af fornum fyrirmyndum. Bróðurparturinn er tækifæriskveðskapur. Þekktastur frá þessu tímabili er smásagnahöfundurinn Maurits Christopher Hansen. Hann skrifaði bæði ævintýralegar riddarasögur og raunsæjar þjóðlíflýsingar. Auk þess er hann talinn hafa skrifað fyrstu norsku glæpasöguna72. Það örlar á rómantískum einkennum í kveðskap Hansens, en þrátt fyrir það er ekki hægt að tala af alvöru um rómantíska bókmenntastefnu fyrr en um 1830 með verkum Wergelands. Í skáldskap hans sameinast rómantík og upplýsingastefna, pólitískt frjálslyndi og algyðistrú. Hann lagði fyrir sig flestar tegundir bókmennta, en þekktastur er hann sem ljóðskáld. Bæði sem skáld og þjóðfélagsrýnir tjáði hann sig á sérstakan og persónulegan hátt í ákveðinni andstöðu sinni við bókmenntaarfinn frá dansk-norska tímanum. Hann sá enga ástæðu til að greina á milli skáldskapar og samfélagslegra afskipta. Að því marki sem norsk rómantík hefur á sér raunsæa hlið er það fyrst og fremst vegna Wergelands og föður hans Nicolai Wergelands73 sem varði ljóðlist sonar síns í ritinu Retfærdig Bedømmelse af Henrik Werglands Posie[sic] og karakter frá 1833. Helsti andstæðingur Wergelands, Johan Sebastian Welhaven, brást hart gegn brotum Wergelands á viðteknum fagurfræðilegum reglum og gegn róttækri þjóðernisstefnu hans. Welhaven taldi að það væri nauðsynlegt að halda fast í menningarleg tengsl við Danmörku. Jafnframt lagði hann áherslu á skýrleika og samræmi í skáldskap sínum. Sú hugmynd hans að skáldin ættu að skynja falda merkingu hlutanna og miðla „hinu ólýsanlega“ er hugmyndafræðileg ásýnd norskrar rómantíkur. Welhaven taldi að „nautnin, sem listaverk veitir með skýrleika sínum sannleika og þrótti og svo framvegis, byggist eingöngu á hinu fullkomna formi“74. Ólíkt Wergeland, vildi hann að hinu pólitíska dægurþrasi yrði haldið utan við ríki

71 Aths. þýð.: Sá tími þegar Noregur var í stjórnarsambandi með Danmörku 1537–1814. 72 Fyrsta norska glæpasagan sem kom út 1839–1840 heitir Mordet paa Maskinbygger Roolfsen. Í: Moi, Morten. 2013. 73 Nicolai Wergeland 1780-1848 var prestur og stjórnmálamaður. Í: Mardal, Magnus A. 2018. 74 ... den Nydelse, et Kunstværk skjænker ved Klarhed, Sandhed og Livlighed o.s.v. skyldes ene og alene den fuldendte Form.

53

fegurðarinnar. Það fór þó svo að einnig ljóðlist Welhavens færði bókmenntirnar nær lifandi mannlífi og frá hefðbundinni mælskulist. Á fimmta áratug 19. aldar tengist Welhaven þjóðernisrómantískum öflum, þar sem aðdáun á forna norska stórveldistímanum sameinaðist dýrkun á sveitalífinu og hrifningu af norskri náttúru og þjóðlífi. Þjóðsagnasafn Asbjørnsens og Moes, þjóðkvæðasafn Magnus Brostrup Landstads, söguverk Peters Andreasar Munchs, söfnun Ludvigs Mathiasar Lindemans75 á þjóðlögum og rannsóknir Aasens á landsbyggðamállýskunum er skýrasta birtingarformið fyrir þennan viðsnúning til þjóðlegrar menningar sem litið var á sem sérnorska. Í bókmenntunum kemur þetta meðal annars fram í ljóðum Welhavens, Andreasar Munch og Jørgens Moes, og í þjóðlífs- og náttúrulýsingum Peters Christens Asbjørnsens.

1850–1875: Frá rómantík til raunsæis Upp úr 1850 sprettur fram ný kynslóð rithöfunda, með Henrik Ibsen og Bjørnstjerne Bjørnson í broddi fylkingar, sem í næstum hálfa öld var allsráðandi í norsku menningarlífi. Bjørnson, sem leit á sjálfan sig sem arftaka Wergelands, endurvekur norskan prósa með frásögnum af bændasamfélaginu svo sem í Sigrúnu á Sunnuhvoli (Synnøve Solbakken. 1857). Hnitmiðaður og öflugur, innblásinn bæði af fornsögunum og þjóðsögum Asbjørnsens, skrifar Bjørnson opinskátt um daglegt líf norskrar alþýðu. Hann lýsir því sem sést og heyrist, en lesandinn verður oftast nær að ímynda sér hvað liggur þar að baki. Það var staðföst pólitísk og fagurfræðileg stefna Bjørnsons að sýna fram á að þeir norsku bændur sem voru uppi á hans tíma lifðu jafn auðugu andlegu lífi og hetjur og konungar miðalda. Söguleg leikrit Bjørnsons, ekki síst Sigurd Slembe frá 1863, fjalla jöfnum höndum um félagslíf og viðfangsefni nútímamannsins og hina stoltu fortíð Noregs. Í lista- og menningarskáldsögunni Fiskerjenten frá 1868 er sagt frá viltu náttúrubarni sem að lokum verður leikari. Þar er að finna einhverja fyrstu bókmenntalegu lýsingu á frjálsri norskri nútímakonu. Bjørnson var virkur stjórnmálamaður og sá aldrei fyrir sér þjóðfélagslega uppreisn sem aðeins væri niðurrif þess sem fyrir var, heldur verkefni þar sem villt eðli yrði að lúta göfugasta metnaði menningarinnar. Sérstakan sess í skáldsagnagerð þessa tímabils skipar Camilla Collett – hinn mikli brautryðjandi í norskum kvennabókmenntum – með skáldsögu sinni Amtmandens

75 Ludvig Mathias Lindeman 1812-1887 var norskur organisti, tónskáld og þjóðlagasafnari. Í: Andersen, Rune J. 2018.

54

Døttre frá 1854–1855, sem telst vera fyrsta dæmið um raunsæjan vandamála- og ádeiluskáldskap í Noregi. Kvenrithöfundar hófu fyrir alvöru að láta til sín taka á þessum árum. Þær unnu einkum með prósann sem, ásamt leiklistinni, var á góðri leið með að taka við af ljóðlistinni sem ríkjandi bókmenntagrein. Milli 1850 og 1870 þreyttu þrettán konur frumraun sína sem rithöfundur. Ásamt Collett er Magdalene Thoresen, tengdamóðir Henriks Ibsens, einna áhugaverðust. Þróun í átt að nútíma raunsæisstíl má líka finna í prósum Aasmunds Olavssons Vinjes, fyrsta viðurkennda skáldsins sem skrifaði á hinu nýja landsmáli. Í greinaskrifum sínum í tímaritið sitt Dølen sameinar Vinje nákvæmar athuganir og skynsamlegar pólitískar skýringar í framsögn sem sveiflast á milli kaldhæðni og ljóðræns næmis. Vinje er meðal virtustu ljóðskálda 19. aldar. Meðal bestu verka tímabilsins eru tvö ljóðaleikrit eftir Ibsen. Það eru leikritin Brandur: sjónleikur í hendingum76 (Brand. 1866) og Pétur Gautur: leikrit í ljóðum77 (Peer Gynt. 1867), sem hvort á sinn hátt eru uppgjör við yfirdrifna þjóðernisrómantík. Í Brandi er harðorð gagnrýni á siðferðisvitund Norðmanna. Í leikritinu Pétur Gautur fylgjum við hinum stefnulausa Pétri Gaut frá fyrsta hvatvíslega svalli hans í Jötunheimum í gegnum röð furðulegra ævintýra í Norður-Afríku til mögulegrar frelsunar hans vegna ástar hinnar trygglyndu Solveigar. Þegar á þessum tíma hafði Ibsen þróað og „fínpússað“ mikið af sinni frægu óræðni: Það er erfitt að vita hvort við eigum að dást að eða fordæma hinn refsiglaða Brand. Pétur er í senn einstaklega heillandi og óáreiðanlegur ábyrgðarleysingi. Ibsen varð „svingsinn“ (n. sfinxen) í norskum bókmenntum. Menningargagnrýni hans var með þeim hætti að bæði frjálslyndir og íhaldsmenn gátu talið hann sinn mann. Hið sama gátu þeir sem mest mátu tvíræðni hans. Gamanleikurinn De Unges Forbund frá 1869 er að mestu leyti árás á róttæka stjórnmálamenn samtímans, þar á meðal Bjørnstjerne Bjørnson. Hið umfangsmikla leikverk Kejser og Galilæer frá 1873 fjallar um hetjulega baráttu kristnidómsins fyrir „að lifa af“ á 4. öld, en getur allt eins talist vörn heiðinna gilda fornaldar eða von um að fram komi „þriðja ríkið“78 sem færði sér í nyt og sameinaði bestu hliðar fornaldarinnar og kristindómsins.

76 Aths. þýð.: Útg. 1898 í þýðingu Matthíasar Jochumssonar 1835-1920. 77 Aths. þýð.: Útg. 1897 í þýðingu Einars Benediktssonar 1864-1940. 78 Aths. þýð.: Hér er að sjálfsögðu ekki átt við ljótan kafla í sögu mannkyns á 20. öld.

55

1875–1890: Innreið nútímans Bjørnson og Ibsen gerðu snemma tilraunir með borgaraleg samtímaleikrit. Bjørnson með leikþátt um hjónabandið De Nygifte frá 1865, og Ibsen með leikþáttinn De Unges Forbund frá 1869. Eftir að Bjørnson gefur út samtímaleikritið Gjaldþrotið (En Fallit. 1875) einbeita þeir sér báðir, í nokkurn tíma, að nákvæmari útfærslum þesskonar leikverka og gera vandamál hversdagsins að helsta umfjöllunarefni sínu. Georg Brandes hafði farið fram á slíkt árið 1871 þegar hann hóf fyrirlestra sína um helstu bókmenntastrauma 19. aldar. Áhrifin sem Brandes er talin hafa haft á Bjørnson og Ibsen gætu auðveldlega verið ýkt, en í áratug voru þeir allir þrír tiltölulega samstiga. Helstu leikverkin frá þessum tíma, sem Brandes nefndi síðar „innreið nútímans“ (n. det moderne gjennombrudd), eru Det Ny System frá 1879, En Hanske frá 1883 og Over Ævne I frá 1883 eftir Bjørnson, og Brúðuheimili (Et Dukkehjem. 1879) og Afturgöngur (Gengangere. 1881) eftir Ibsen. Í því síðast nefnda sameinar Ibsen gagnrýni á þjóðfélagið og djúpa sálfræðilega innsýn, setta fram sem greiningu á fortíðinni undir áhrifum frá gríska harmleiknum. Frá og með Villiöndinni79 (Vildanden. 1884) fara leikrit hans að verða mun táknrænni og boðskapurinn flóknari þar sem verk eins og Rosmershólmur80 (Rosmersholm. 1886) og Hedda Gabler81 (Hedda Gabler. 1890) eru nýr hápunktur. Bjørnson heldur sig við þjóðfélagsmál í verkinu Over Ævne II frá 1895, sem fjallar um stéttabaráttu og vinstrisinnaða hryðjuverkamenn, og í verkunum Paul Lange og Tora Parsberg frá 1898 sem fjalla um pólitíska menningu landsins og umræðuvettvanginn almennt. Gamanleikurinn Når den ny vin blomstrer frá 1909, er hjónabandsdrama og hans fyndnasta og gáskafyllsta verk. Samsvarandi hreyfing, í átt að þeim þjóðfélagsvanda sem er efst á baugi, á sér einnig stað í skáldsagnagerð. Á 9. áratug 19. aldar er blómaskeið raunsærra samtíðarskáldsagna. Helsta verk Jonas Lies er Familien paa Gilje frá 1883. Fjölskyldan er megin viðfangsefnið í hinum miklu samfélagsádeiluverkum Alexanders Kiellands Garman og Worse82 (Garman & Worse. 1880) og Worse skipstjóri83 (Skipper Worse. 1882). Samfélagsgagnrýni er áberandi í verkum rithöfundarins Arne Garborgs (Bondestudentar. 1883 og Mannfolk. 1886) sem eru skrifuð á landsmáli.

79 Aths. þýð.: Útg. 1995 í þýðingu Einars Braga 1921-2005. 80 Aths. þýð.: Útg. 1995 í þýðingu Einars Braga 1921-2005. 81 Aths. þýð.: Útg. 1991 í þýðingu Árna Guðnasonar 1896-1973. 82 Aths. þýð.: Útg. 1946 í þýðingu Sigurðar Einarssonar 1898-1967. 83 Aths. þýð.: Útg. 1946 í þýðingu Sigurðar Einarssonar 1898-1967.

56

Á síðari hluta 9. áratugarins ryður náttúruraunsæið sér til rúms. Það byggist á raunspekilegum vísindafyrirmyndum og miðlar ákveðinni sýn á manninn með megin áherslu á erfðir og umhverfi. Gott dæmi um slíkt hreinræktað náttúruraunsæi er skáldsagan Livsslaven frá 1882 eftir Jonas Lies. Margar af skáldsögum Garborgs frá 9. áratug 19. aldar mætti allt eins flokka undir náttúruraunsæi, eins og undir raunsæi. Smám saman fer að bera á tvenns konar náttúruraunsæi, annars vegar „hlutlægu“ sem setur sér það markmið að lýsa samfélagslegum aðstæðum eins hlutlægt og hófsamlega og hægt er, og hins vegar „huglægu“ sem á upptök sín í einstaklingseðli rithöfundarins. Slík einkenni koma skýrast fram í þeirri bóhemísku kröfu „að skrifa sitt eigið líf“. Hans Jæger er sá höfundur sem af mestri samkvæmni fylgir þessari stefnu. Víðtækustu og hlutlægustu þjóðfélagslýsingarnar finnum við í fjögurra binda skáldverki eftir rithöfundinn Amalie Skram, Hellemyrsfolket frá 1887–1898, höfuðritverki í skandinavískum natúralisma. Í hjónabandsskáldsögum Skrams sem eiga sér sjálfsævisögulegan bakgrunn (Constance Ring. 1885 og Forraadt. 1892) er líka að finna berorðar lýsingar á bláköldum veruleika samtímans.

1890–1905: Nýrómantík og módernísk sálfræði Á 10. áratug 19. aldar koma fram viðbrögð gegn raunhyggju og samfélagslegum skáldskap áratugarins á undan. Huglægari og innhverfari skáldskapur, sterkari einkenni hnignunar, eðlisdulúð og ný trúrækni eru bakgrunnur hugtaksins nýrómantík sem er hið hefðbundna heiti á tímabilinu. Vinsælir höfundar tímabilsins taka einnig mið af þessum nýju straumum. Í „þjóðsagnasöfnunum“ Trold frá 1891–1892 byggir Jonas Lie á þjóðsögum og goðsögum um yfirnáttúrulegar verur. Dæmigerð hnignunarsaga þessa tíma er skáldsaga Arne Garborgs Trætte Mænd frá 1891. Í mörgum síðari verkum sínum snýr hann sér að trúarlegum málefnum svo sem í skáldsögunni Fred frá 1891. Öflugasta uppgjör við bókmenntir 9. áratugar 19. aldar skrifast á Knut Hamsun. Í stað dæmigerðs samfélagslegs umbótaskáldskapar vildi hann að kæmi módernískur sálfræðilegur skáldskapur sem lýsti flóknu sálarlífi mannsins. Þessa stefnu kynnir hann í skáldsögu sinni Sultur (Sult. 1890), sem markar tímamót í evrópskum bókmenntum. Hvað varðar þema, persónusköpun og bókmenntalega tækni er Sultur fyrirmynd hins móderníska prósa (n. modernistiske prosadiktning) á 20. öld. Jafnvel ennþá „módernískara“ verk [eftir Knut Hamsun] er Leyndardómar84 (Mysterier. 1892). Á

84 Aths. þýð.: Útg. 1991 í þýðingu Úlfs Hjörvars 1935-2008.

57

þessum sama áratug eru ævintýraminni, dulhyggja og ómeðvitað innra sjálf líka mikilvægir þættir hjá Hans Kinck, öðrum brautryðjanda í endurnýjun prósans (n. prosafornyere). Þar má sérstaklega nefna hið vinsæla safn hans Flaggermusvinger frá 1895. Á 10. áratug 19. aldar á sér stað endurnýjun innan ljóðlistarinnar og sem bókmenntagrein fær hún meira vægi en á undangengnu tímabili. Ein helsta ljóðabók tímabilsins er Huliðsheimar85 (Haugtussa. 1895) eftir Garborg. Róttækari í verkum sínum eru þeir Vilhelm Krag og Sigbjørn Obstfelder. Obstfelder er af flestum talinn vera fyrsta nútímaljóðskáldið í Noregi með firringu sem áberandi þema og „frjálst ljóðform“. Þessi nýja tilraunaljóðlist er þó aðeins stunduð af örfáum skáldum í kringum aldamótin 1900. Segja má að sé heildarútgáfan fyrir 10. áratug 19. aldar sett undir einn hatt sé orðið nýrómantík nokkuð villandi hugtak. Fjölmörg höfundaverk voru skrifuð í anda 9. áratugarins og hinn kröftugi uppgangur átthagaskáldskapar fetar sig í átt að nýju tímaskeiði bókmenntanna. Að lokum ber að nefna þá staðreynd að á 10. áratugnum varð til fyrsta „gullaldartímabilið“ í norskum barnabókmenntum.

1905–1925: Nýtt raunsæi Skömmu eftir 1900 er aftur snúið til raunsæisstefnunnar, en þetta „nýja“ raunsæi tekur upp ýmsa undirstöðuþætti skáldskapar frá 10. áratug 19. aldar. Í röð víðfeðmra samfélagskáldsagna með frjóanga inn í nýja tíma og vegsömun gamla bændasamfélagsins ((Segelfos by. 1915) og Gróður jarðar86 (Markens Grøde. 1917), sem færði Knut Hamsun Nóbelsverðlaunin í bókmenntum [1920]), tengir Hamsun saman efnisleg meginviðmið nýraunsæisins: lýsingar á átökum milli gamallar bændamenningar og nýrra gilda og umgengnisvenja í auðvaldsstýrðum iðnaðarsamfélögum. Módernískur prósi annarra ríkja í Evrópu fer að mestu framhjá. Olav Duun sameinar sálgreiningu og þjóðlífsmyndir í röð skáldsagna með Namdalinn [í Norður-Þrændalögum] sem bakgrunn áður en hann gefur út sitt mikla sögulega sex binda verk Juvikfolket, kom út 1918–1923. Sigrid Undset dregur upp birtingarmynd af stöðu kvenna á tímabilinu áður en hún snýr sér að miðöldunum í sínu mikla þriggja binda skáldverki Kristín Lafranzdóttir87 (Kristin Lavransdatter. 1920– 1922). Verkið færði henni Nóbelsverðlaunin í bókmenntum [1928]. Mest að umfangi er

85 Aths. þýð.: Útg. 1906 í þýðingu Bjarna Jónssonar frá Vogi 1863-1926. 86 Aths. þýð.: Útg. 1960 í þýðingu Helga Hjörvar 1888-1965. 87 Aths. þýð.: Útg. 1987 í þýðingu Helga Hjörvar 1888-1965 og Arnheiðar Sigurðardóttur 1921-2001.

58

hið tíu binda verk Kristofers Uppdals Dansen gjennom skuggeheimen, kom út 1911– 1924, sem lýsir uppgangi verkalýðsstéttarinnar. Ásamt , sem einnig gaf út margra binda sögulegt skáldverk, er Uppdal í flokki fremstu rithöfunda verkalýðsbókmennta í Noregi. Á heildina litið spannar nýraunsæi prósinn stærra svið, bæði félagslega og landfræðilega, en bókmenntir fyrri tímabila. Þetta er að hluta til vegna þess að nýliðun í rithöfundastétt verður fjölbreyttari. Í þessu samhengi er oft talað um bókmenntalega kortlagningu landsins. Skáld eins og Matti Aikio (frá Finnmörku), Regine Normann og Andreas Haukland (frá Norðurlandi), Olav Duun, Kristofer Uppdal, Johan Falkberget, Peter Egge og Johan Bojer (frá Þrændalögum), Sven Moren (frá Trýsil), Gabriel Scott (frá Suðurlandi), Sigrid Undset og Oskar Braaten (frá Kristjaníu) hafa öll, hvert á sinn hátt, stuðlað að þessari kortlagningu. Mörg ljóðskáld þessa tímabils rækta með sér hughrif og lífsviðhorf sem minna á ljóðlist 10. áratugar 19. aldar, en gefa sig lítið sem ekkert að þeim formlegu tilraunum sem áttu sér stað á tímabilinu. Að Kristofer Uppdal undanskildum eru norsku skáldin nánast ósnortin af nýstárlegu innstreymi eins og expressjónisma, andstætt því sem segja má um dönsku og sænsku skáldin. Af nýrri kynslóð ljóðskálda komu fyrst fram , Arnulf Øverland og Olaf Bull sem ortu á bókmáli. Síðar komu fram ljóðskáld sem ortu á nýnorsku, meðal annarra Olav Aukrust, Olav Nygard og Tore Ørjasæter. Auk þess má nefna rithöfundana og Gunnar Reiss-Andersen sem skrifuðu á bókmáli. Fremstur í flokki verkalýðsljóðskálda er Rudolf Nilsen. Samískar bókmenntir tilheyra 20. öldinni. Fyrsta skáldsagan á samísku er eftir rithöfundinn Anders Larsen og nefnist Beaivi-álgu (Dögun) frá 1912. Þremur árum síðar gaf Pedar Jalvi út safn ljóða og smásagna: Muohtačalmmit (Snjóflyksa). Til frumkvöðla samískra ljóðskálda telst Paulus Utsi. Í hópi nýrra rithöfunda er Rauni Magga Lukkari. Bókamarkaðurinn óx til muna þrátt fyrir að hið skrifaða orð fengi samkeppni frá nýjum vinsælum miðlum á borð við kvikmyndir, hljómflutningstæki og útvarp. Vöxturinn stafaði meðal annars af því að læsi var orðið útbreiddara í öllum hópum samfélagsins. Mesta aukningin var í afþreyingarbókmenntum. Mest lesnu verk tímabilsins eru eftir höfunda með breiðan lesendahóp á borð við Rudolf Muus og Jon Flatabø, og glæpasögur eftir höfundana Sven Elvestad og Øvre Richter Frich.

59

1925–1940: Menningarbundin átök og sálfræðilegt raunsæi Ný kynslóð með nýjar hugsjónir, ekki síst hvað varðar sjálfa lífsýnina, fer að láta að sér kveða í upphafi 3. áratugar 20. aldar og ber síðar uppi menningarróttækni millistríðsárana. Undir áhrifum sálfræðinganna Sigmund Freud, Alfred Adler og Wilhelm Reich verður sálfræðilega skáldsagan höfuðbókmenntagrein og í raun allsráðandi á 4. áratug 20. aldar. Hér má nefna Sigurd Hoel, en sem ritstjóri bókaflokksins Den gule serie kynnti hann nýstárlegar franskar, enskar og amerískar bókmenntir sem byggðu á tilraunakenndu skáldsagnaformi og höfðu áhrif á hans eiginn prósa og ekki síður á sögur annarra rithöfunda 4. áratugarins. Ein róttækasta tilraunin var gerð af hinum dansk-ættaða Aksel Sandemose með verkinu En flyktning krysser sitt spor frá 1933. Hamsun var einnig í þessum hópi með seinni verkum sínum Umrenningar88 (Landstrykere. 1927) og Ringen sluttet frá 1936. Annar rithöfundur sem varð fyrir áhrifum var Gunnar Larsen. Cora Sandel stóð fyrir sömu róttæku gildin en með hefðbundnari frásagnarstíl í smásögum sínum og einnig í Alberte-trílógíunni, kom út 1926–1939. Sigurd Christiansen fæst meira við siðferðileg vandamál, og Ronald Fangen er mikilvægur kristinn og íhaldssamur andstæðingur menningarróttækninnar. Fremstu leikskáld millistríðsáranna eru Helge Krog og Nordahl Grieg. Menningarróttæklingurinn Krog útfærir bókmenntastíl Ibsens í verkum sínum Underveis frá 1931 og Opbrud frá 1936, á meðan Grieg tekst á við nýja uppsetningartækni í ádeiluleikritum sínum Afl vort og æra89 (Vår ære og vår makt. 1935) og Ósigurinn90 (Nederlaget. 1937). Meðal ljóðskálda sem yrkja í anda jafnaðarstefnunnar má nefna Arnulf Øverland. Á þessum tíma eru konur, í fyrsta skipti, viðurkenndar sem ljóðskáld með og Aslaug Vaa fremstar í flokki. Helstu ljóðrænu endurnýjunina er að finna hjá Rolf Jacobsen sem notar borgarlífið og nútímatæknina sem efnivið í ljóðum sínum.

1940–1945: Hernámið Staða bókmennta í síðari heimsstyrjöldinni einkenndist mjög af ritskoðun nasista. Í upphafi hernámsins störfuðu forlögin að mestu með hefðbundnu sniði, jafnvel þótt bæði útgefendur og rithöfundar lytu eigin ritskoðun. Bæði Tarjei Vesaas og Sigurd Hoel gáfu út bækur í upphafi stríðsins. Árið 1941 sendu nasistarnir frá sér fyrirmæli um „verndun

88 Aths. þýð.: Útg. Án árs, í þýðingu Stefáns Bjarmans 1894-1974. 89 Aths. þýð.: Útg. 1982 í þýðingu Jóhannesar Helga 1926-2001. 90 Aths. þýð.: Útg. Án árs, í þýðingu Sverris Kristjánssonar 1908-1976.

60

norskra bókmennta“91. Þar með var lagt bann við öllum bókmenntum sem nasistunum líkaði ekki. Smám saman voru nasistar settir í stöður eftirlitsfulltrúa hjá öllum helstu útgáfufyrirtækjum í Noregi og meirihluti rithöfunda var þar með settur í bann. Frá árinu 1944 komu nánast engin ný skáldverk út í Noregi. Norskar bókmenntir fóru í felur. Í ólöglegu dagblöðin voru prentuð baráttuljóð eða þeim dreift sem fjölriti. Þeir rithöfundar sem neyddir voru í útlegð gáfu út bækur sínar erlendis, einkum í Svíþjóð. Þaðan er merkasti útlagaskáldskapurinn bók Sandemoses Det gångna är en dröm frá 1944 (kom út á norsku 1946 [Det svundne er en drøm]). Þegar stríðinu lauk streymdu handritin inn til útgefendanna.

1945–1965: Eftirstríðsbókmenntir Fyrstu árin eftir að síðari heimsstyrjöldinni lauk voru gullár bókaútgáfu. Fjöldi titla næstum tvöfaldaðist samanborið við síðasta ár fyrir stríð, en smám saman fækkaði titlunum og salan minnkaði. Í skáldsagnagerð var aftur tekinn upp þráðurinn frá því fyrir stríð. Sögulegar skáldsögur, þjólífslýsingar og sálrænar raunsæissögur urðu ríkjandi bókmenntaform. Á 6. áratug 20. aldar verður uppsveifla í gerð smásagna. Annars einkennast eftirstríðsbókmenntirnar að mestu af reynslu fólks á stríðsárunum. Höfundar á borð við Sigurd Hoel Á örlagastundu92 (Møte ved milepelen. 1947) og Sandemose (Varulven. 1958) setja fram sálfræðilega greiningu á hugarfari nasista. Barnæska og uppvaxtarár eru nokkuð algengur efniviður, meðal annars í smásögum Johans Borgens og í bókum Torborgs Nedreaas Herdis-bækur sem komu út 1950–1971. Agnar Mykle, einn djarfasti rithöfundur eftirstríðsáranna, útfærir skoðanir menningarróttæklinganna í skáldsögunum Frú Lúna í snörunni93 (Lasso rundt fru Luna. 1954) og Sangen om den røde rubin frá 1956. Jens Bjørneboe skrifar félagslegar ádeiluskáldsögur (Jonas. 1955 og Den onde hyrde. 1960). Að afdrifaríkustu tilraunaverkunum standa skáld sem þegar hafa getið sér nafns eins og Sandemose, Vesaas og Borgen. Margar af skáldsögum Vesaas eftir stríð (Brannen. 1961 og Båten om kvelden. 1968) eru táknrænar og táknsögulegar í expresjónískum anda. Í helstu verkum hans, svo sem Fuglarnir94 (Fuglane. 1957) og

91 Aths. þýð.: Nasistar notuðu norrænan arf í áróðri sínum og goðsagnatilbúningi. Bókmenntirnar áttu að vera „arískar“. 92 Aths. þýð.: Útg. 1949 í þýðingu Jóns Sigurðssonar frá Kaldaðarnesi 1886-1957 og Lárusar Jóhannessonar 1898-1978. 93 Aths. þýð.: Útg. 1958 í þýðingu Jóhannesar Jónassonar úr Kötlum 1899-1972. 94 Aths. þýð.: Útg. 2009 í þýðingu Hjalta Rögnvaldssonar 1949-.

61

Klakahöllin95 (Isslottet. 1963), haldast táknsæið og raunsæið í hendur. Borgen útfærir sálrænu bókmenntahefðina í Lillelord-trílogíunni, kom út 1955–1957, einu meginverka norskra bókmennta eftirstríðsáranna. Til tilraunahöfunda teljast einnig þau og Bergljot Hobæk Haff. Í verkum Georgs Johannesens (Høst i mars. 1957) og Axels Jensens (Ikaros. 1957 og Line. 1959) fær ný uppreisnargjörn ungmennakynslóð sína talsmenn. Ljóð um stríð með hefðbundnu formi eru ríkjandi fyrstu árin eftir síðari heimsstyrjöldina. Bæði ljóðasafn Øverlands og Griegs slógu öll sölumet. Ásamt Øverland var André Bjerke á meðal hörðustu gagnrýnenda nútímaljóðlistar sem ruddi sér til rúms í kringum 1950 með Paal Brekke, Tarjei Vesaas, Gunvor Hofmo og Erling Christie fremst í flokki. Á 7. og 8. áratug 20. aldar er helsti forvígismaður þessarar stefnu. Olav H. Hauge byrjaði sem hefðbundið ljóðskáld, en smám saman skipaði hann sér í hóp helstu umbyltingarsinna eftirstríðsáranna.

1965–1980: Módernismi og félagslegt raunsæi Í kringum 1965 lætur ný kynslóð að sér kveða á bókmenntasviðinu og tekur harða afstöðu gegn raunsæishefðum í skáldsagnagerð og tákngildishlöðnum módernisma eftirstríðsáranna í ljóðlist. Áköfustu málsvarar hinnar nýju afstöðu voru ungu skáldin í Profil96-hópnum. Uppgjör við hinn tákngildishlaðna módernisma eftirstríðsáranna felst meðal annars í miklum efasemdum um „ofnotkun“ á líkingamáli og táknum, og kröfu um hlutbundnari og látlausari ljóðlist. Lykilmaðurinn í þessu sambandi var Profil-félaginn Jan Erik Vold, sem réðist gegn rómantískum „leifum“ í norskri ljóðlist. Að hans mati er ljóðskáldið ekki ófreskur snillingur heldur einstaklingur sem mótast af málvenjum umhverfisins, af daglegu máli, hrognamáli, auglýsingum og popptónlist. Auk Volds eru Einar Økland, Paal-Helge Haugen og mikilvægir fyrir þessa nýju strauma. Módernismi í skáldsögum var meðal annars útfærður af þeim Dag Solstad (Irr! Grønt, 1969) og Espen Haavardsholm (Munnene, 1968). Ýmsir svo sem Paal Helge Haugen (Anne, 1968), Einar Økland (Amatøralbum, 1969) og fleiri gerðu tilraunir með

95 Aths. þýð.: Útg. 1965 í þýðingu Hannesar Péturssonar 1931-. 96 Profil er nafn á norsku tímariti sem hóf göngu sína árið 1966. Markmiðið var meðal annars að kanna og kynna eiginleika alþjóðlegrar nútímavæðingar, sem á þeim tíma var lítt þekkt í Noregi. Tímaritið var álitið vera rödd nýrrar kynslóðar. Af því spratt upp sérnorskur módernismi sem í Noregi gengur undir heitinu ný-módernismi. Í: „Profil.“ 2012.

62

nýja tegund bókmennta, það er sögu sem sögð er í kjarnyrtum frásagnarstíl með sálrænum undirtóni (n. punktromanen). Höfundar eins og Øystein Lønn, Mona Lyngar, Liv Køltzow og hinn lítt eldri fengust einnig við mikilvægar prósatilraunir sem voru að vissu leyti undir áhrifum frönsku nýskáldsögunnar. Enn einn frumkvöðullinn er Tor Åge Bringsværd sem ásamt samstarfsmanni sínum Jon Bing innleiddi vísindaskáldsöguna í Noregi, og stuðlaði jafnframt að því sem hann kaus að kalla „fabúluprósa“97 (n. fabelprosa). Þessari sömu kynslóð tilheyra einnig Knut Faldbakken og Bjørg Vik sem fengust við málefni kynjanna og nútíma samlífsvandamál með hefðbundnari frásagnarmáta. Það móderníska uppgjör sem varð á 7. áratugnum tengist uppreisn ungmenna gegn valdboðun. Marxískar, populískar og feminískar tilhneigingar sem spruttu upp af þessu leiddu, á 8. áratugnum, til endurreisnar félagslega raunsæisins með áherslu á að lýsa aðstæðum verkalýðsstéttarinnar. Þessi pólitíska félagslega raunsæisstefna var fyrst og fremst borin uppi af rithöfundum sem höfðu tengsl við maoistasamtökin Arbeidernes Kommunistparti (AKP), með fyrrverandi Prófil-félaga eins og Solstad (25. Septemberplassen. 1974), Haavardsholm (Zink. 1971) og Tor Obrestad (tvær „verkfallsskáldsögur“ Sauda! Streik! 1972 og Stå på! 1976) fremsta í flokki. Þessum sama flokki tilheyrði einnig sem lagði sitt af mörkum með svæðisbundin sjónarhorn í „héraðs skáldsögum“ sínum (Kjærleikens ferjereiser. 1974). Á 8. áratug síðustu aldar þróuðust einnig sérstakar „kvennabókmenntir“ með náin tengsl við hina nýju kvennahreyfingu. Þau nöfn sem þar bar mest á eru Bjørg Vik, Liv Køltzow, Tove Nilsen, Toril Brekke og Gerd Brantenberg. Frásagnarlist „kvennabókmenntanna“ var yfirleitt hefðbundin ef undan er skilin Cecilie Løveid (Sug. 1979) sem fer út fyrir öll bókmenntaleg mörk. Samhliða félagslegu raunsæisstefnunni þróaðist módernískur prósi 7. áratugarins yfir í félagslega og pólitíska stefnu sem nefnd hefur verið félagslegur módernismi. Í þessu sambandi má helst nefna Kjartan Fløgstad sem endurvakti ádeiluskáldsöguna með sósíalískum tilvísunum meðal annars undir áhrifum suður-amerísks „töfraraunsæis“. Skáldsögurnar Dalen Portland frá 1977, fyrir hana hlaut Fløgstad bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs [1978], og Fyr og flamme frá 1980 eru á meðal þekktustu verka hans.

97 Aths. þýð.: Vísindaskáldsaga sögð með ævintýralegum blæ eða að gamalgróna ævintýraformið fær á sig vísindalegan blæ. Í þessu sambandi má meðal annars nefna Harry Potter og Hringadróttinssögu.

63

Meðal þeirra sem gerðu tilraunir með ádeiluskáldsögur eru Øystein Lønn (Hirtshals Hirtshals. 1975) og súrrealíski98 vísvitandi naíviski satíríski rithöfundurinn Arild Nyquist. Á 8. áratugnum náði Kjell Hallbing ótrúlegum sölutölum með framhaldsbókaflokknum Morgan Kane99. Bækur um sannsögulegt efni verða líka vinsælar og bækur um reynslu manna af síðari heimsstyrjöldinni njóta áfram hylli með bók Trygve Brattelis100 á toppnum, en hún lýsir lífinu í pólitískum fangabúðum. Á þessum sama áratug vöktu rithöfundarnir Dagfinn Grønoset og Leif Bryde Lillegaard verulega athygli með raunsæum lýsingum af „stritsögum“. Endurminningar þekktra stjórnmálamanna, íþróttamanna og annarra – allt frá endurminningum Einars Gerhardsens á 8. áratugnum til Gift med Gro frá 1996 eftir Arne Olav Brundtland – seljast yfirleitt í stærra upplagi en skáldverk. Á 8. áratugnum var fyrsta samíska forlagið stofnað. Það gaf aðallega út bækur á samísku, en líka norskar þýðingar úr samísku. Mörg samísk forlög voru stofnuð á 9. áratugnum, en þau hafa lognast útaf. Markaðurinn er lítill og útgefendur eru háðir opinberum stuðningi. Í flokki samískra bóka má nefna bækur, skrifaðar og útgefnar á norsku af Sömum, um málefni Sama. Fyrsta dæmið af slíkum toga eru bækur eftir rithöfundinn Matti Aikio. Meðal yngri samískra höfunda sem skrifa á norsku eru Annok Sarri Nordrå, Ailo Gaup og Aagot Vinterbo-Hohr. Enn sem fyrr er joikinn lifandi samísk hefð sem starfandi skáld færa sér í nyt, meðal annarra hinn finnsk-samíski Nils- Aslak Valkeapää sem hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 1991.

1980–1999: Hreinskilni og fjölbreytni Ólíkar stefnur og straumar hafa tekið á sig mynd á 9. áratugnum sem hefur meðal annars verið nefndur áratugur fjölbreytninnar, hreinskilninnar og ímyndunaraflsins. Þrátt fyrir tortryggni gagnvart raunsæisstefnunni fær „sígilda frásagnarformið“, án hugmyndafræðilegra yfirtóna, endurreisn með rithöfundum á borð við Karsten Alnæs, Ingvar Ambjørnsen, , , Herbjørg Wassmo og .

98 Súrrealismi er stefna bæði í bókmenntum og listum sem snýr einkum að því að frelsa hugsanir og hvatir manneskjunnar en ekki aga hana. Einungis þannig verður vanabundinni skynjun storkað og ímyndunaraflið kemst á flug. Í: Kristján Árnason. 2001. 99 Aths. þýð.: Framhaldsbókaflokkur sem kom út 1971–1995 í þýðingu Halls Hermannssonar 1917-1997 og fleiri. 100 Trygve Bratteli 1910-1984 var stjórnmálamaður og rithöfundur. Í: „Trygve Bratteli.“ 2018.

64

Smám saman varð uppgangur í smásagnagerð, með Kjell Askildsen sem mikilvægan brautryðjanda, við hlið rithöfunda eins og Laila Stien, Roy Jacobsen, Hans Herbjørnsrud og Øystein Lønn. Af yngri höfundum má nefna Merethe Lindstrøm, Terje Holtet Larsen, Rolf Enger og Frode Grytten. Hin alvarlega sakamálasaga dafnar sem aldrei fyrr, meðal annars hjá rithöfundunum Ambjørnsen og Saabye Christensen. Um 1990 sprettur upp fjöldi nýrra rithöfunda sem sameina glæpasögur öðrum bókmenntagreinum og má í því sambandi nefna Idar Lind, Pål Gerhard Olsen og Morten Harry Olsen. Á 10. áratugnum verður veruleg uppsveifla í norskum glæpasögum, fyrst og fremst vegna þess að hópur kvenna hefst handa við slíkan skáldskap, sem verður smám saman umfangsmikill, í formi bókaraðar með sömu söguhetjuna í öndvegi. Kim Småge var þar í fararbroddi, en var fljótlega fylgt eftir af Anne Holt, Karin Fossum, Unni Lindell, Kjersti Scheen, Magnhild Bruheim og mörgum öðrum. Á þessum tíma komu líka fram ýmsir karlkyns glæpasagnahöfundar sem hafa átt mikilli velgengni að fagna, sumir þeirra einnig erlendis. Það á ekki síst við Jo Nesbø, sem hefur átt ævintýralegri velgengni að fagna. Einnig er vert að nefna rithöfundana Jan Mehlum, Kjell Ola Dahl, Jørgen Gunnerud og fleiri. Spennusögur eða hrollvekjusögur sem standast alþjóðlegan samanburð hafa einnig fengið góða uppsveiflu, sérstaklega eftir árið 2000 með rithöfundum á borð við Tom Kristensen og Tom Egeland. Á 9. áratugnum fær ímyndunin aukið svigrúm í formi súrrealískra draumóra og hagnýtingar persónusköpunar og formgerðar úr goðsögum, ævintýrum og vísindaskáldsögum. Þetta á við um framangreinda höfunda sem og Gert Nygårdshaug, , Mari Osmundsen, Lisbet Hiide, , og fleiri. Bæði skáldskapur í formi ritraða og skáldskapur tengdur einu sérstöku þema fær sterka stöðu á áratugnum, og samtímis hallast margir höfundar að póstmódernismanum. Þeirra á meðal Jan Kjærstad og Jon Fosse, ásamt þeim Tor Ulven, , og . Sú síðast nefnda gerir tilraunir með sinn eigin sérstaka kvenritstíl eins og margir aðrir kvenrithöfundar sem fjarlægjast hefðbundinn stíl kvennabókmenntanna frá 8. áratugnum, þar á meðal eru þær Eva Jensen og Sissel Lie. Að mun hefðbundnari módernisma í anda Kafka101 stendur meðal annarra Peter

101 Kafka-stíll kenndur við Franz Kafka 1883-1924, var tékkneskur lögfræðingur og rithöfundur. – „Lesandi skynjar að Kafka er á sérstæðan hátt að fjalla um áleitin vandamál nútímans. Í verkum hans býr tilfinning eða grunur um varasamt vald eða kerfisbákn sem ógnar tilveru og sálarheill einstaklingsins. Nútímafólki finnst það kannast við slíkt. Þetta er ekki einungis veraldlegt eða félagslegt ógnarkerfi heldur einnig hugarfarslegt og veldur tilfinningu sektar og angistar eða kvíða.“ Í: „Réttarhöldin og veröld Kafka.“ 1995.

65

Serck. Bæði á 9. og 10. áratugnum eru rithöfundar fyrri kynslóðar (Carling, Haff, Nyquist, Vik, Lønn, Askildsen, Solstad, Fløgstad, Køltzow, Hoem og fleiri) í fullu fjöri og gefa út fjölda mikilvægra verka bæði raunsæ og í anda módernismans. Í ljóðlistinni eru eldri kynslóðirnar mest áberandi (Stein Mehren, , Paal-Helge Haugen, Jan Erik Vold, Eldrid Lunden og fleiri), en fjöldi nýrra skálda hafa bæst í hópinn. Margir af þeim sem komu fram á 8. áratugnum settu sterkan svip á áratugina þar á eftir (Kjell Erik Vindtorn102, Terje Johanssen, Tor Ulven, Sigmund Mjelve, , , Sigurd Helseth, Liv Lundberg og fleiri). Øyvind Berg, Anne Bøe, Gene Dalby, og Gro Dahle eru ný skáld frá 9. áratugnum. Bæði „eldri“ og yngri skáldin fjarlægjast pólitíska ljóðagerð. Hefðbundin ljóðræn viðfangsefni fá stærra rými, ásamt trúarlegri reynslu. Þar að auki er nú talað um eigin „líkamstjáningu“ og tortryggnin gagnvart táknum og myndlíkingum fer minnkandi. Með tilkomu nýja fjölmiðlaumhverfisins þrengist að leiklistinni og útgefnum leikritum er lítill gaumur gefinn. Áhugaverðustu framlögin koma frá höfundum sem taka nýja miðla í notkun og tileinka sér þá tækni sem hin ört vaxandi fjölmiðlaþróun býður upp á. Í þessu sambandi má nefna rithöfundana Cecilie Løveid og Jon Fosse. Leiklist Løveids hefur einnig vakið athygli erlendis.

Bókmenntir við þúsaldahvörf : Stöðugleiki og endurnýjun Þær frumraunir og tilraunir sem áttu sér stað í bókmenntum á 9. áratugnum verða á þeim 10. viðurkenndar sem viðtekið bókmenntaform. Hugmyndin um að langar frásagnir og ítarlegar umfjallanir heyrðu fortíðinni til, reyndist vera algjörlega röng. Tíundi áratugurinn varð svo að segja undirlagður af breiðum kynslóðaskáldsögum á borð við sögu Roy Jacobsen, Seierherrene. Bókmenntir 10. áratugarins reyndust vera opnar fyrir öllum textategundum og trúin á mikilvægi sögunnar, bæði til að skilja einstaklinginn og samfélagið, var að minnsta kosti ekki minni þótt póstmódernisminn hneygist til að grafa undan þeim möguleika að sönn og rétt frásögn geti fallið vel að umfangsmikilli sögu. Gott dæmi um þetta er verk rithöfundarins Jan Kjærstad. Hann skrifar þrjár ævisöguskáldsögur um ævi Jonas Wergeland (Forføreren, Erobreren og Oppdageren). Í þremur bókum er að mestu leyti sögð sama sagan, með sömu söguhetju, á mjög mismunandi vegu.

102 Aths. þýð.: Nafnbreyting Kjell Erik Vindtorns. Hann er skráður undir nafninu Triztan Vindtorn, í sérstakri höfundaskrá á bls. 109.

66

Á 10. áratugnum kom einnig fram ný tegund naívisma sem er meðal annars að finna hjá Erlend Loe og fjölda annarra rithöfunda sem flestir höfðu setið námskeið í ritlist. Þeir bjuggu til eins konar minimalískt bókmenntaform103 ef til vill innblásnir af smásagnahöfundum eins og Kjell Askildsen og Øystein Lønn. Sumir fræðimenn bókmenntasögunnar telja einnig að sjá megi tilhneigingu til að setja fjölskylduna og brostnar eða erfiðar aðstæður í nýju sambúðarformi sem miðdepil frásagnarinnar í nýlegum norskum bókmenntum. „Að finna sér búsetu“ – skapa sér heimili og félagsskap eða að minnsta kosti að láta náin tengsl dafna er lykilþáttur í verkum rithöfunda eins og Hanne Ørstavik, og það má einnig greina hjá Jonny Halberg, Nikolaj Frobenius og fleirum. Upp úr aldamótunum 2000 varð nokkuð algengt að skrifa bókmenntaverk sem fóru nærri raunverulegum atburðum með lifandi fyrirmyndir í aðal- og aukahlutverkum. Sjálfsæviskáldsögur, reynsluskáldsögur og sannsögur urðu bókmenntahugtök sem ógnuðu með ósíuðum frásögnum og skorti á skáldskap og umritun en heilluðu þó með áreiðanleika og heiðarleika. Hið heimsþekkta sex binda verk rithöfundarins Karl Ove Knausgårds Barátta mín (Min kamp) er mjög gott dæmi um slíkt. Vigdis Hjorth er nærri þessum sannsögubókmenntum í lýsingum sínum á róttæku og vel menntuðu fólki sem á oft í basli með að halda jafnvægi milli eigin hamingju og göfugra samfélagsverkefna. Heimildaskáldsagnagerð 7. áratugarins fékk aftur byr í seglin. Alþjóðleg velgengni rithöfundarins Åsne Seierstads með skáldsögu sem stendur utanvið allar bókmenntagreinar, það er sagan Bóksalinn í Kabúl104 (Bokhandleren i Kabul), var eitt fyrsta dæmið. Mesta endurnýjunarljóðskáld tímabilsins er Øyvind Rimbereid sem tengir málfarslegar tilraunir við endurómandi frásagnir af gömlum vinnuþjarki í olíubænum Stavanger (Jimmen) tæknivæddu atvinnulífi framtíðarinnar (Solaris korrigert) og hlutverki laganna í lífi fólks (Lovene). Ef nefna ætti bókmenntategundir sem hafa gengt lykilhlutverki eftir árið 1990 þá hlýtur það að vera glæpa- og spennusagan annars vegar og skáldævisagan hins vegar. Tölfræðileg gögn benda til þess að um 45% norskra og þýddra skáldverka, sem seld eru í bókaverslunum, séu glæpa- og spennusögur. Ævisöguleg verk eru gefin út í tilefni afmælis ýmissa mikilsvirtra skálda, með síauknum kröfum um vísindalega nákvæmni.

103 Bókmenntaform þar sem ekki er verið að teygja lopann í umhverfislýsingum, mannlýsingum, lýsingum á mannvirkjum og öðru slíku. Í: „Minimalisere.“ 2009. 104 Aths. þýð.: Útg. 2003 í þýðingu Ernu G. Árnadóttur 1948-.

67

Áhugi fyrir norskum bókmenntum hefur aukist erlendis, einkum fyrir samtímabókmenntum. Það er mikill áhugi fyrir glæpasögum og sumir höfundar hafa náð háum sölutölum í löndum eins og Þýskalandi og Frakklandi. Mikilvægara er þó ef til vill að verk helstu rithöfundanna hafa verið þýdd yfir á ensku sem hefur alltaf verið erfitt að koma í framkvæmd. Bækur eftir Lars Saabye Christensen, , Karin Fossum, Jo Nesbø, Jon Fosse, Åsne Seierstad og Bobbie Peers er nú hægt að nálgast í enskum og amerískum bókaverslunum. Það virðist sem stórkostlegur árangur rithöfundarins Josteins Gaarders, með bók sinni Veröld Soffíu105 (Sofies verden), hafi opnað markað fyrir norskar bókmenntir í mörgum löndum. Eftir árið 2000 hefur skáldsaga Per Petterson, Út að stela hestum106 (Ut og stjæle hester), verið lang vinsælust og eftirsóttust norskra bóka - ekki síst eftir að hann vann nokkur alþjóðleg bókmenntaverðlaun fyrir þá bók. Á undanförnum árum hefur Karl Ove Knausgård náð góðum árangri með bók sinni Barátta mín (Min Kamp) og Dag Solstad virðist vera að ryðja sér braut í hinum enskumælandi heimi. Eftir breytingar sem gerðar voru 2005 á fjölda ákvæða í bóksölusamningnum107 gamla, sem mestu réði um bókaveltu í Noregi, virðist sem sala á norskum skáldverkum í bókabúðum hafi farið upp á við. Spurning er hvort aukin sala snerti aðeins lítinn fjölda metsölubóka eða komi óþekktum höfundum og bókum líka til góða. Fyrir utan breytingarnar á gamla bóksölusamningnum, virðist sem skilyrðin fyrir skáldverk í Noregi séu óbreytt. Innkaupastefna fullorðins- og barnabókmennta er óbreytt, auk þess sem svonefndar sannsögur (n. sakprosa) eru komnar á markað. Ýmsar styrkveitingar eru einnig mikilvægar til að stuðla að betri starfsskilyrðum rithöfunda jafnvel þó tilhögun þeirra frá einum tíma til annars sé efni umræðu á meðal höfunda með mismunandi skoðanir á því hver á skilið að fá stuðning og hversu lengi hann skuli veittur. Vel gengur að selja og kynna norskar bókmenntir erlendis, meðal annars í gegnum NORLA108. Árið 2019 verður Noregur heiðursgestur bókasýningarinnar í Frankfurt. Það virðist vera raunin að bókmenntagagnrýnin gegni hérumbil sama hlutverki nú og hún gerði á fyrri árum þó því sé sífellt haldið fram að hún þjóni ekki lengur

105 Aths. þýð.: Útg. 1995 í þýðingu Aðalheiðar Steingrímsdóttur 1953- og Þrastar Ásmundssonar 1952-. 106 Aths. þýð.: Útg. 2008 í þýðingu Hjalta Rögnvaldssonar 1949-. 107 Samstarfssamningur, gerður 1960, milli bókaútgefanda og bókaverslana um fast verð á bókum. Í: Neraal, Anders ; Storsveen, Odd Arvid og Røhne, Berit. 2018. 108 NORLA er ríkisrekið fyrirtæki í Noregi, stofnað 1976, sem kynnir og miðlar norskum bókmenntum, jafnt skáldsögum sem fræðilegu efni, til erlendra ríkja. Í: Rottem, Øystein. 2013.

68

markmiði sínu, og þó bókmenntagagnrýni stóru dagblaðanna hafi dregist verulega saman.

Bókmenntahátíðir í Noregi Bókmenntahátíðir í Noregi eru oft bundnar við fæðingar- eða búsetustað þess höfundar sem þær eru helgaðar. Þær þjóna bæði faglegum og félagslegum tilgangi. Fjöldi hátíða eða höfundadaga hefur aukist á undanförnum áratugum. Hér verða þær helstu nefndar: Norsk bókmenntahátíð - Sigrid Undset dagar í Lillehammer Kafli - Alþjóðleg bókmennta og tjáningafrelsishátíð í Stavanger Ósló Comics Expo - Teiknimyndahátíðin í Ósló Hamsunsdagarnir á Hamarey Sönglaga og ljóðahátíðin í Haugasundi Petter Dass dagarnir í Alstahaug Björnsonshátíðin í Molda Ibsenshátíðin í Þjóðleikhúsinu í Ósló. Bókaiðnaðurinn hélt á hverju hausti, á tímabilinu 1988–1996, kynningu á norskri bókaframleiðslu í Ósló. Árið 2008 var slík bókakaupstefna haldin í húsakynnum „Vörusýningar Noregs“ (Norges Varemesse) í Lilleström. Síðan hefur hún verið haldin í miðborg Óslóar undir heitinu Óslóar-bókahátíðin allt fram til 2014 (Hagen, E. B.; Nordbø, B.; Rottem, Ø. og Skei, H. H. 2018).

6 Þýðing á texta um ljóðlist

Höfundur efnis Hans H. Skei 1945-, Dr.Phil. í bókmenntafræði árið 1980, var dósent 1985-1990 og prófessor 1990-2014 í bókmenntafræði við Háskólann í Ósló.

Ljóðlist Ljóðlist er ein þriggja megingreina bókmenntanna, hinar eru sagnalist og leiklist. Það getur oft virst erfitt að ákvarða hvað raunverulega skilur þessar þrjár bókmenntagreinar að. Þó má til dæmis halda því fram að ljóðið sé nátengt sönglist / tónlist. Ljóðrænir textar einkennast af ákveðnu andrúmlofti eða hljómfalli, en ekki af frásögn eða athöfn. Mikilvægust er hin sérstæða málleikni sem ljóðrænt kvæði býr yfir og lýsir skáldlegri afstöðu til veraldarinnar og tungumálsins sem efniviðar.

69

Ljóðlist hefur einnig verið lýst sem hinni „huglægustu“ af áður nefndum þremur bókmenntagreinum. Ljóðið er það skáldskaparform þar sem hugsanir og tilfinningar skáldsins koma hvað opinskáast fram. Mismunandi gerðir af ljóðum eru meðal annars vísa, sálmur, óður, lofkvæði, kantötur og tregaljóð. Á síðari tímum hefur hugtakið ljóðform víkkað út og eldri ljóðform hafa splundrast fyrir tilstuðlan margra nútímalegra tilrauna.

Saga ljóðsins Elsta ljóðlist í vestrænum bókmenntum er sú gríska, en þar í landi eru til textar sem taldir eru vera frá því um 800 f.Kr. Ástarljóð Saffóar, frá því um 600 f.Kr., skera sig úr sem einlæg og persónuleg ljóðlist þar sem kórsögvar og almennir söngtextar hefðu áður verið ríkjandi. Ákveðin vísnaform og bragfræðileg mynstur sem byggjast á lengd atkvæða urðu til og hafa verið fyrirmynd fyrir síðari ljóðlist. Fyrir rómverska ljóðagerð voru Grikkir augljós fyrirmynd, þar sem Hómerskviður109 voru fyrirmynd að Eneasarkviðu Virgils. Ljóð Hórasar og Ummyndanir Óvíðs eru talin til hins besta í ljóðlist fornaldarinnar. Frá miðöldum er til fjöldi ljóðasafna og einstakra ljóða á latínu, ásamt þjóðkvæðum á mörgum tungumálum og í mörgum löndum með keimlíkt efni sem ekki voru skrifuð niður fyrr en löngu seinna. Með ljóðskáldum eins og Petrarca sem nýtti sér mál alþýðunnar og samdi yfir 300 sonnettur fáum við einlæg ástarljóð sem bæði efnislega og formlega skipta miklu máli fyrir seinni tíma. Sonettan er eitt mikilvægasta formið í ljóðahefðinni, þó afbrigðin af henni séu allmörg. Flökkuvísur og ljóð farandsöngvara (trúbadora) eru mikilvægir þættir í miðaldaskáldskap. Eftir því sem bækur verða algengari með tilkomu prentlistarinnar og almennari lestrarfærni, verður til óendanlega stór fjöldi höfunda, og útgefinna ljóða sem eru fjölbreytileg að formi og efni. Ljóðlistin er mikilvæg bókmenntagrein á ýmsum tímaskeiðum. Blómaskeið hennar, þar sem hún nær hæstum hæðum, er rómantíska tímabilið um aldamótin 1800 með ljóðskáldum á borð við Goethe og Schiller í Þýskalandi og Wordsworth og Coleridge í Bretlandi og þeim sem á eftir koma, þeim Byron, Shelly og Keats. Með frönsku táknsæisstefnunni (e. symbolism), upp úr miðri 19. öld, varð til ný ljóðræn tjáning með Baudelaire og þeim sem á eftir honum komu. Ljóðlist 20. aldarinnar

109 Aths. þýð.: „Kviður Hómers“ komu út 1973 í þýðingu Sveinbjörns Egilssonar 1791-1852.

70

einkennist fyrst og fremst af fjölbreytni og tilbreytingu, þar sem ein „stefnan“ tekur við af annarri. Ljóðrænn módernismi er þó sameiginlegt hugtak, sem táknar viljann til að endurnýja, gera tilraunir og prófa nýjar aðferðir. Hann hefur beint eða óbeint haft umtalsverð áhrif á hefðbundna ljóðagerð á 20 öld.

Ljóðið í norskri bókmenntasögu Í norskum bókmenntum eru elstu kvæðin dróttkvæði og eddukvæði frá því um 700 e.Kr. og síðar, en þau voru skráð á 13. öld. Uppbygging kvæðanna lýtur ströngum reglum. Efnið er ekki aðeins frá íslenskum og norskum víkingatíma, heldur einnig úr evrópskum hetjusögum og norrænni goðafræði. Ríkuleg þjóðkvæðahefð fyrirfinnst þar einnig, en þó er mikill hluti hennar sameign með öðrum þjóðum. Fyrsta umtalsverða ljóðskáld Norðmanna er Petter Dass, en einnig ber að nefna samtíðarmann hans Dorothe Engelbretsdatter. Dönsk-norsku bókmenntirnar innihalda mikið af skáldskap eftir norska rithöfunda en flest af því hefur litla þýðingu. Þannig er það fyrst með rómantísku skáldunum Wergeland og Welhaven að norsk ljóðlist nær umfangi og stöðu sem einhverju skiptir. Á 19. öld var mikil gróska í ljóðlist sem einkum tengdist þjóðrækni og stoltri fortíð, þó líka hafi verið mikið ort um hugmyndir og hugsjónir. Eftir að Ivar Aasen sýndi fram á hversu vel nýja ritmálið – landsmál – hentaði til ljóðagerðar urðu smám saman til „landsmálsskáld“ sem teljast mikilvæg í norskri ljóðagerð. Vinje og Garborg eru helstu landsmálsskáldin, en bæði Bjørnson110 og Ibsen skipa þar líka sinn sess. Síðasti áratugur 19. aldar markaði hvörf í norskri ljóðagerð, til dæmis með ljóðum Sigbjørns Obstfelders. Módernisminn kom mjög seint til Noregs, í raun og veru fyrst eftir síðari heimsstyrjöldina. Norsk ljóðlist stóð traustum fótum allt frá árinu 1910 með nöfnum eins og Olaf Bull, Arnulf Øverland og Herman Wildenvey. Þekkt skáld frá 20. öld eru meðal annars Aslaug Vaa, Halldis Moren Vesaas, Paal Brekke, Rolf Jacobsen, Gunvor Hofmo og Olav H. Hauge (Skei, H. H. 2018).

110 Bjørnstjerne Bjørnson 1832-1910 hlaut Nóbelsverðlaunin 1903 fyrir fjölbreytilega ljóðlist. Í: „The Nobel Prize in Literature 1903.“ 2014.

71

7 Þýðing á texta um evrópsk þjóðkvæði

Höfundur efnis Brynjulf Alver 1924-2009, var prófessor í þjóðfræði við Háskólann í Björgvin.

Evrópsk þjóðkvæði

Útbreiðsla Greint er á milli sjö málsvæða, sem hvert um sig hefur sína sérstöku þjóðkvæðahefð: Hins skandinavíska, enska, þýska og rómverska málsvæðis, og balkneska, vestur slavneska og stór-rússneska málsvæðisins. Hið mikilvægasta og auðugasta er skandinavíska málsvæðið með um 700 gerðir þjóðkvæða. Flestar eru þær í Danmörku með um 540 tegundir, en rétt um 220 í Noregi.

Form og innihald Norrænu þjóðkvæðin eru erindaskipt með endarími og viðlögum. Kvæðin eru frásagnir, en viðlögin eru oftast ljóðræn. Atburðarásin er byggð upp sem staðreynd og án huglægs mats, með snöggum umskiptum og mikilli áherslu á helstu viðburðina. Form frásagnarinnar er annað hvort samtal eða þriðjupersónu frásögn. Bæði atburðarás og samræður eru mjög stílfærðar. Persónulýsingar fylgja ákveðnum uppskriftum og persónurnar gegna flestar því eina hlutverki að bera atburðarásina uppi. Vísnaform eru fábreytt. Algengust eru fjögurra lína erindi með rímmynstrinu axbx og lokaviðlagi. Til dæmis: Margjit gjeng i lio nord, Ho blæs i forgyllte honn, Høyrer 'a Jon i Vaddelio, Det aukar honom stor sorg. Det var mi og alli di som jala her unde lio. Tveggja línu erindin hafa rímmynstur xx og lokaviðlag eða skipt viðlag: eitt milliviðlag á eftir fyrstu línu og lokaviðlag. Til dæmis: Der var tvo syster i ei borg, Ved sande Den eine volde den andre sorg. Båra ber'e så vent eit viv frå lande. Yfirleitt hefur hver lína þrjú eða fjögur áhersluþung atkvæði. Breytileika þessa einfalda forms er náð með því að breyta lengd og uppbyggingu viðlaganna. Tungumálið er talsvert formlegt og lýtur svo ströngum reglum að hægt er að tala um sérstakt þjóðkvæðamál.

72

Þjóðkvæðaflokkar Norræna þjóðkvæðasvæðið skiptist í austnorrænt og vestnorrænt svæði. Austnorræna svæðinu tilheyra Danmörk, Svíþjóð og Finnland. Þar er miðstöð riddara- og sagnakvæða. Vestnorræna svæðið nær yfir Færeyjar, Noreg og Ísland. Sérstaklega í Færeyjum og Noregi er til fjöldi hetju- og jötnakvæða. Fyrir utan þessa þjóðkvæðaflokka eru til þjóðtrúarkvæði og helgikvæði (trúarleg þjóðkvæði), ásamt nýrri tegundum eins og dýra- og skemmtikvæðum. Þjóðkvæðin tilheyra fyrst og fremst munnlegri hefð. Nú á tímum þekkist þessi hefð aðeins á fáeinum stöðum í Færeyjum þar sem hún birtist í formi danskvæða. Algeng kenning er að færeyski sagnadansinn eigi sér franska fyrirmynd og að áður fyrr hafi þjóðkvæðin verið viðhöfð í hóp- eða hringdönsum, líka á hinum Norðurlöndunum.

Tímasetning Ekki er unnt að gefa upp nákvæma aldursgreiningu á norrænu þjóðkvæðunum aðra en þá að þau ná allt aftur til miðalda, ef til vill aftur til upphafs 13. aldar. Bragfræðilega séð brjóta þjóðkvæðin á hinni fornu vestnorrænu kvæðahefð. Almennt er talið að endarímið komi til Norðurlanda með þjóðkvæðunum, að það sé ekki upprunaleg norræn sköpun heldur ljóðlist sem komi utan frá, ef til vill frá Frakklandi.

Söfnun og afritun Ekki er til nein afritun norrænna þjóðkvæða frá miðöldum, aðeins smábrot. Í Danmörku og Svíþjóð eru til fáein uppskrifuð þjóðkvæði frá 16. öld, svokallaðar hetjukvæðabækur. Elsta norska afritunin er „Friarferdi til Gjøtland“ frá Sunnmæri 1612. Kerfisbundin söfnun þjóðkvæðanna hófst í Noregi á 5. áratug 19. aldar og hélst fram á 20. öld. Yfirgnæfandi hluti þjóðkvæðanna var skrifaður niður í Þelamörk, sem án efa hefur verið miðstöð þjóðkvæðagerðar í Noregi. Á meðal fremstu safnaranna eru Olea Crøger, Magnus B. Landstad, Jørgen Moe, Sophus Bugge, Hans Ross, Moltke Moe, Johannes Skar, Rikard Berge og Torleiv Hannaas. Á meðal laglínusafnara má sérstaklega nefna Olea Crøger og Ludvig M. Lindeman.

Formgerðarflokkun Algengt form flokkunar er norræna samstarfsverkefnið The Types of the Scandinavian Medieval Ballad. Í því er öllum þjóðkvæðum Norðurlanda gefið TSB-númer sem skipt er í sex eftirtalda flokka:

73

A Þjóðtrúarkvæði (e. ballads of the supernatural) B Helgikvæði (e. legendary ballads) C Sagnakvæði (e. historical ballads) D Riddarakvæði (e. ballads of chivalry) E Jötna- og hetjukvæði (e. heroic ballads) F Gamankvæði (e. jocular ballads) (Alver, B. 2011).

8 Þýðingar á textum um norska brautryðjendur frá 19. öld

Höfundar efnis Eric Papazian 1939-, er fyrrverandi dósent við Deild málvísinda og norrænna fræða við Háskólann í Ósló. Hilde Kathrine Thomassen 1976-, lauk MA í nýnorsku frá Háskólanum í Volda 2006. Jon Haarberg 1953-, er bókmenntafræðingur og prófessor í almennum bókmenntum við Háskólann í Ósló. Klaus Johan Myrvoll 1981-, er doktorsnemi í norrænni heimspeki við Háskólann í Ósló.

Ivar Aasen, [frumkvöðull nýnorskunnar] Ivar Aasen er þekktur bæði í Noregi og á alþjóðavettvangi fyrir útfærslu á ritmálinu nýnorska og þær aðferðir sem hann beitti við mállýskurannsóknir sínar. Með sjálfsnámi aflaði hann sér víðtækrar kunnáttu í allmörgum tungumálum og málfræði. Árið 1836 gerði Aasen áætlun um það hvernig hægt væri að koma upp norsku ritmáli í stað þess danska sem enn hélt velli í ríkjasambandinu með Svíþjóð [1814- 1905]. Fyrir honum var mikilvægt að tungumálið væri þjóðlegt en einnig að auðvelt væri að læra það og að það endurspeglaði talmál Norðmanna sjálfra, norsku mállýskurnar. Hið konunglega norska vísindafélag í Þrándheimi veitti Aasen styrk sem gerði honum kleift að ferðast um landið til að rannsaka talmálið í sveitum landsins. Á árunum 1842 til 1846 ferðaðist hann um landið, einkum um mállýskusvæðin í Vestur-Noregi og Mið-Noregi. Árið 1848 gaf Aasen út Det norske Folkesprogs Grammatik og 1850 Ordbog over det norske Folkesprog. Markmið hans var að búa til viðeigandi ritmálsstaðal og árið 1853 kom út bókin Prøver af Landsmaalet i Norge með tillögu um fyrirmynd að landsmálinu. Þessi tillaga var nokkuð umdeild vegna þess að í augum margra var hún undir of miklum áhrifum frá norrænunni og því ekki nógu nútímaleg. Aasen

74

endurskoðaði fyrri málfræðibók sína og gaf út undir heitinu Norsk Grammatik árið 1864, og orðabók sem fékk heitið Norsk Ordbog sem kom út 1873. Auk þessa er Norsk Maalbunad, útg. 1876, mikilvægt verk í málsögunni. Á ferðum sínum safnaði Aasen ekki bara tungumálasýnishornum, heldur einnig þjóðsögum. Alþýðuskáldskapurinn samtengdi, að hans mati, menningu Noregs að fornu og nýju. Hann gaf því út bæði ævintýri og þjóðsögur, auk ritverka á borð við Norske Ordsprog og Norsk Navnebog. Auk þess fékkst Aasen við skáldskap og má þar nefna söngleikinn Ervingen, sem var leikinn á fjölum norska þjóðleikshússins árið 1855, og ljóðabókina Symra [Vorboðinn, eða anemone-blómið.111 1863]. Frægasta ljóðið í þeirri bók er „Nordmannen“ sem flestir Norðmenn þekkja sem sönginn „Millom bakkar og berg“ („Ivar Aasen 1813-1896.“ Án árs).

Knud Knudsen, málfarsumbótasinninn Knud Knudsen hefur verið nefndur faðir ríkismálsins og afi bókmálsins. Í þessari ættrakningu mætti eins nefna hann föður eða afa samnorskunnar eða hugmyndarinnar um samnorskuna. Svo mikilvægt er framlag Knudsens til norskrar málsögu. Sjálfum fannst honum hann vera í skugga samtíðarmanns síns Ivars Aasens sem hann lýsti sem presti en sjálfum sér sem hringjara í þessum efnum. Spyrja má þó hvort hann hafi ekki verið mikilvægari fyrir þróun norskunnar en Aasen eða hver sem er annar. Forsendan fyrir framlagi bæði Knudsens og Aasens var þjóðernisrómantíkin og rökræður um málfarslegar umbætur á fjórða áratug 19. aldar. Þá varð það vandamál að ekki var til neitt sérstakt norskt ritmál svo notast var við hið danska. Henrik Wergeland ruddi brautina með því að nýta sér norsk orð og orðmyndir í skáldskap sínum sem P.A. Munch gagnrýndi hann fyrir í greininni „Norsk Sprogreformation“ árið 1832 og Wergeland varði, sama ár, í greininni „Om norsk Sprogreformation“. Hann lagði til hægfara umbætur á danska ritmálinu yfir til norsks ritmáls, það er að segja að aðlaga það norsku talmáli (n. fornorskning). Aasen lagði hins vegar til róttækari lausnir í greininni „Om vort Skriftsprog“112, skrifuð árið 1836 en fyrst prentuð 1909, að búa til nýtt ritmál sem byggðist á dreifbýlismállýskunum. Þar með voru lagðar til tvær leiðir að norsku ritmáli. Báðar voru virkjaðar og til urðu ritmálin bókmál og nýnorska.

111 Aths. þýð.: Þessi þýðing - á ljóðabókinni Symra - er fengin úr grein í Eimreiðinni frá 1897 á bls. 208, en þar fjallar Finnur Jónsson um Ivar Aasen. 112 Aths. þýð: Greinin er í íslenskri þýðingu Þórunnar S. Hreinsdóttur á bls. 93-95.

75

Asbjørnsen og Moe notuðust við ritmál sem var aðlagað norsku talmáli (n. fornorskningslinja) í ævintýra- og þjóðsagnaútgáfum sínum á fimmta áratug 19. aldar, einkum varðandi setningaskipan og orðaforða. Knudsen var á sama máli, en notaði þó sín eigin sérstöku afbrigði til að aðlaga ritmálið að norsku (n. av fornorskningstanken). Þau voru frábrugðin hinni lítt skipulögðu og ókerfisbundnu norskuvæðingu Wergelands.

Knudsen og hljóðrétti rithátturinn Það var fyrst á 19. öld að málvísindin gerðu talmálið að rannsóknarviðfangi sem smám saman varð meginviðfangsefnið. Þá varð mönnum ljóst að mælt mál var hið upprunalega algilda form tungumálsins og gegndi því stóru hlutverki í málsögunni. Þar með fóru menn jafnframt að huga að mállýskum. Mállýskufræði og hljóðfræði urðu þar með vísindagreinar. Í kringum 1800 setti Daninn Rasmus Rask113 fram skynsamlegri meginreglur fyrir réttritun, en orðsifjafræði og hefðir. Réttritunarreglur ættu að endurspegla samtíðarframburðinn þannig að samhljómur sé á milli bókstafs og hljóðs, það er „hljóðréttur ritháttur“ („ortofónískt“) eða hljóðréttar ritreglur. Þannig ætti að vera auðveldara að læra og nota ritmálið, en það mundi stuðla að aukinni alþýðumenntun. Þessi meginregla hefur gegnt mikilvægu hlutverki í norskri réttritun og er enn við lýði þegar við norskuvæðum erlend orð. Til dæmis, þegar við skrifum hljóðfræðilega jus frekar en að nota enska ritháttinn juice. Í Noregi var Knudsen meðal helstu stuðningsmanna þessarar hugmyndar í miklu ríkari mæli en Aasen, sem lagði meiri áherslu á orðsifjafræði, það er að segja hinar upphaflegu orðmyndir, í reynd hinar norrænu. Fyrsta grein Knudsens, frá 1845, fjallar um hljóðréttan norskan rithátt. Það tengist líklega því að hann var kennari og hafði sterka tilfinningu fyrir hinu hagkvæma. Í fyrstu opinberu réttritunarumbótunum, árið 1862, varð stefna Knudsens ofan á. Þær gerðu sambandið milli ritháttar og framburðar einfaldara og mun markvissara í erlendum orðum með því að fjarlægja c, ch og q og setja í stað þeirra /k/, en /f/ í stað ph. Einnig voru lengdarmerkingar einfaldaðar með því að fjarlægja hljóðlaus e (sem enn finnast í mannanöfnum eins og Hoel og Lie) og tvöföldun sérhljóða (t.d. í viis) sem vísar til langs sérhljóðs. Þar með fékk orðið vis tvennskonar merkingar við

113 Rasmus Kristian Rask 1787-1832 var danskur málvísindamaður, prófessor í tungumálum Austurlanda í Kaupmannahöfn 1831. Frumkvöðull að stofnun Hins íslenska bókmenntafélags. Í: „Rasmus Kristian Rask.“ 2017.

76

framburð þess. Með löngum sérhljóða merkir það skynsamur, en með stuttum sérhljóða merkir það öruggur. Þannig er það enn í dönsku, en í norsku var tvíræðnin afnumin í umbótunum árin 1907 og 1917. Vandamálið við hljóðréttan rithátt, er að framburður er breytilegur. Hvers konar framburð ætti rithátturinn að endurspegla? Knudsen hafði svar við þessu, að framburðurinn ætti að vera norskur, ekki danskur, en Aasen og Knudsen voru ekki sammála um hvaða norska talmál ætti að leggja til grundvallar. Ef ætti að búa til ritmál úr mállýskunum, eins og Aasen vildi, þyrfti annað hvort að velja eina mállýsku sem fyrirmynd eða búa til sameiginlegt málsnið. Aasen valdi síðari kostinn og það var einmitt þess vegna sem rökréttur, hljóðréttur ritháttur féll ekki að hugmyndum hans. Tillaga Knudsens var að ritunaraðferðin byggðist á því sem hann vildi nefna „norskur framburður á landsvísu“, en venjulega hugtakið var oftast „fágað daglegt mál“. Hvað svo sem það nú þýddi?

Knudsen og fágað daglegt mál Áður en Ivar Aasen hóf sínar kunnu ferðir árið 1840 var norskt talmál lítið þekkt og Aasen sinnti aðeins dreifbýlismállýskunum sem hann taldi vera hina hreinu norsku. Tilraun til heildrænnar lýsingar er að finna í grein eftir Jonas Anton Hielm114 frá 1832, þar sem hann gerir ráð fyrir þremur aðal mállýskum í Noregi: Í viðbót við ritmálið og tungumálið í fjallabyggðunum, höfðum við tungumálið í borgunum, sem hann taldi „líkast danskri mállýsku lagaðri að ýmsu leyti að eldri norskum mállýskum og bókmálinu. Nema öfugt sé, norska grunnmálið lagað að dönsku og bókmáli.“115 Það eru varla borgarmállýskurnar sem Hielm vísar hér til, heldur sama tungumálið og danskættaði presturinn Jacob Nicolai Wilse lýsir í frægri tilvitnun frá 1780: „Tungumálið sem fyrirfólkið í Kristjaníu talar er í senn fíngerðast í framburði og nálgast mest það aðalmál sem notað er við ritun.“116 Sem sé meiri ritmálsáhrif eða staðlað (n. standardisert) talmál meðal yfirstéttarinnar – danskt-norskt blendingsmál úr danska ritmálinu og norska talmálinu. Fyrst og fremst með dönskum orðum og orðmyndum, en aðallega norskri setningafræði (með tvöföldum greini og

114 Jonas Anton Hielm 1782-1848 var norskur lögfræðingur og stjórnmálamaður. Í: Mardal, Magnus A. 2017a. 115 … maaske nærmest en Dansk Dialekt, modificeret i mange Dele deels ved Landets og Egnens ældre norske Dialekt, deels ved Bogsproget, eller maaskee omvendt, det norske Grund-sprog paa samme Maade modificeret ved Dansk, og ved Bogsproget. 116 Det Sprog de fornemmere i Christiania tale, er baade det netteste i Udtale og nærmer sig meest til Hovedsproget som bruges i Skrift.

77

eignafornöfnum sem koma á eftir orðunum sem þau vísa til), norskum framburði (oftast borið fram /p, t, k/ þegar skrifað er /b, [d], g/) og einstaka norskum einkennum, oft frá suðausturhluta landsins, í orðmyndum og beygingum. Gustav Indrebø117 telur að þetta talmál hafi orðið til á tímabilinu 1650-1800. Að hluta til vegna þess að innfluttir danskir embættismenn tóku upp norskar áherslur í talmáli sínu og að hluta vegna þess að norska borgarastéttin sveigði talmálið í átt að ritmálinu. Didrik Arup Seip118 telur að það hafi átt sér stað á seinni hluta 18. aldar og að Ósló hafi haft afgerandi áhrif á þróun þessa talmáls. Í kringum 1900 fékk það heitið ríkismál. Í dag væri eðlilegra að nefna það (talað) bókmál, í samræmi við opinbera nafnið á ritmálinu sem það svarar til. Ástæðan fyrir því að Knudsen vildi að ritmálið endurspeglaði fágað daglegt mál var að hann taldi það raunhæfara en tilbúinn mállýskustaðal Aasens. Til staðar var viðvarandi framburður gjaldgengur á landsvísu, sem naut félagslegrar virðingar og reikna mátti með að lesendur tækju gildan sem ritmál. Vissulega var það mismunandi – og breytilegt – eins og önnur talmál í hljóðrænum smáatriðum, en að mestu var það í atriðum sem ekki komu fram í skrifuðu máli. Í orðaforða og málfræði var talsverð einsleitni og samræmi um allt landið. Það verður að segjast að þarna var Knudsen mjög raunsær, því það kom í ljós að norskuvæðing (n. fornorskninga) ritmálsins gekk vel svo lengi sem talaða bókmálið var lagt til grundvallar, en fékk mótbyr þegar reynt var að innleiða mállýskugrunn með hinum róttæku en valfrjálsu breytingum árið 1917, sem voru skyldubundnar árið 1938.

Var Knudsen fyrsti samnorskumaðurinn? Knudsen var á engan hátt mótfallin verkefni Aasens og taldi að þeir tveir væru sammála um markmiðið – norskt ritmál – en ekki um hraðann og leiðina. Honum þótti Aasen ganga of rösklega til verks, vildi fanga allt samstundis, á meðan hann vildi sjálfur fara „skref fyrir skref“ eins og hann orðaði það, án nokkurs „bráðræðis“. Þeir hefðu byrjað á sitthvorum endanum. Knudsen í þeim dansk-norska og Aasen í þeim norska, en þeir gætu mæst sé litið til lengri tíma. Meðal annars vildi Knudsen innleiða tvíhljóð, kvenkynsorðmyndir eins og boka og þátíðarmyndir eins og drukna, sem á

117 Gustav Indrebø 1889-1942 var norskur textafræðingur og sagnfræðingur. Í: Venås, Kjell. 2009. 118 Didrik Arup Seip 1884-1963 var norskur málvísindamaður, Dr.philos. 1916, prófessor í norska ritmálinu ríkismál og síðar í norrænum málvísindum við Háskólann í Ósló 1916–1954. Í: „Didrik Arup Seip.“ 2009.

78

þeim tíma voru ekki algeng í fáguðu daglegu máli. Í ritum sínum notaði hann orðmyndir eins og høg og låg ásamt orðum eins og skilna, kænsle, høve og døme, sem voru heldur ekki í fáguðu daglegu máli. Árið 1850, áður en landsmálið sá dagsins ljós, skrifaði hann hin þekktu orð: „Þessar tvær leiðir [Aasens og hans eigin] að raunverulegu norsku máli eru […] aðeins öðruvísi hvað upphafsreitinn og fyrsta spölinn varðar, síðan renna þær án efa saman.“119 Segja má að þarna sé komið upphafið að samnorsku hugmyndinni, sem sló í gegn sem pólitísk tungumálalausn eftir árið 1907. Jafnvel þótt samnorskuverkefnið sé nú opinberlega lagt af, má vel segja að Knudsen hafi þarna verið merkilega sannspár.

Bókmálið sem ritmál Sjónarmið Knudsens hlaut smám saman viðurkenningu stjórnvalda og rithöfunda, ekki síst vegna samkeppninnar frá landsmálinu sem varð opinberlega jafnrétthátt því norsk- danska árið 1885. Árið 1887 ákvað ríkisstjórnin að skólabörn ættu að nota fágað daglegt mál við upplestur, lesa til dæmis tog, broder sem /tok/, /bror/, og á tíunda áratug 19. aldar voru flestar þessara munnlegu reglna teknar inn í lestrarbók120 Nordahl Rolfsens. Með ritmálsumbótunum árið 1907 var hugmyndum Knudsens að lokum hrint í framkvæmd, tólf árum eftir andlát hans. Þá voru gerðar allróttækar umbætur á hinu hefðbundna ritmáli, að fyrirmynd hins mælta ríkismáls/bókmáls, líkt og Knudsen hafði boðað í 50 ár. Hvað varðar hljóðrænar áherslur frá mæltu bókmáli voru tekin inn p, t, k, eftir langa sérhljóða í mörgum orðum (t.d. ut, dyp, bak), að hluta til skyldubundið og að hluta til valfrjálst. Langur samhljóði í lok orðs var tvískrifaður (líkt og í landsmálinu) í ýmsum tilfellum, meðal annars í ball, bukk, hugg, foss, Finn og Odd (báðar breytingarnar voru samþykktar árið 1917). Mikilvægari eru breytingarnar á orðmyndum og beygingum: 1) Styttri myndir af algengum nafnorðum og sagnorðum voru innleiddar, en oftast þó sem valfrjálsar, til dæmis bro(de)r, fa(de)r, mo(de)r og bli(ve), dra(ge), ha(ve), si(ge), ta(ge). 2) Suðausturlenska fornafnsmyndin dere var innleidd í staðinn fyrir danskt I - jer í 2. persónu fleirtölu, og å varð valfrjálst við hlið at sem nafnháttarmerki.

119 Disse to Veje [Aasens og hans egen] til et virkelig norsk Sprog er […] kun forskjellige hvad Udgangspunkt og den første Strækning angaar; siden løber de uden-tvivl sammen. 120 Aths. þýð.: Lesebok for folkeskolen. 1892–1895.

79

3) Óákveðin fleirtala sem endar á -er var alhæfð í samkynsorðum, einnig þar sem danska hafði endinguna -e (t.d. heste > hester), og -Ø (þ.e. endingarleysi) var innleitt í staðinn fyrir danskt -e í mörgum hvorugkynsorðum (t.d. huse > hus), og var sú breyting sumpart skyldubundin, sumpart valfrjáls. Með öðrum orðum fengum við fleirtöluendingarnar -er og -Ø sem höfðu sömu dreifingu og í töluðu bókmáli og suðausturlensku. 4) Í a-sögnum (af gerðinni fiske) fengum við dönsk-norsku endinguna -et í stað dönsku endingarinnar -ede í þátíð (fiskede > fisket), og margar a-sagnir tóku upp beygingu e-sagna með þátíð og lýsingarhátt þátíðar sem enduðu á -de, -d eða -te, -t (svarede – svared > svarte – svart ; levede – leved > levte – levt). 5) Stuttum sagnorðum (af gerðinni nå) var skipað í sérstakan beygingarflokk með þátíð og lýsingarhátt þátíðar sem enduðu á -dde, -dd (boede – boed > bodde – bodd). 6) Í hvorugkyni lýsingarorða sem enduðu á -ig var t-inu sleppt (ærligt > ærlig).

Niðurstaðan var ritmál sem að mestu leyti svaraði til talaðs bókmáls, sem greindi sig skýrt frá dönsku og átti þar með skilið sitt eigið heiti - ríkismál, síðar bókmál. Þennan sigur náði Knudsen ekki að upplifa. Tíminn vann hins vegar með honum og gegn Aasen: Eftir 1850, með tilkomu iðnvæðingar og þéttbýlismyndunar, færðist þungamiðjan frá landsbyggðinni til bæjanna. Þannig fékk þéttbýlismálið og hið talaða bókmál stöðugt fleiri notendur og stöðugt meira vægi, en landsbyggðamálið stöðugt minna vægi. Þessi samdráttur landsbyggðarinnar og efling borganna er ein af ástæðunum fyrir því að leið Knudsens hefur tekist svona miklu betur en Aasens (Papazian, E. 2012).

Aasmund Olavsson Vinje, [ljóðskáld og brautryðjandi í útg. á landsmáli] Aasmund Olavsson Vinje er maðurinn á bak við Dølen sem er fyrsta tímaritið á landsmáli. Hann er auk þess eitt af virtustu og ástsælustu ljóðskáldum norsku þjóðarinnar. Vinje fæddist í Vinje í Þelamörk 6. apríl 1818 og lést 30. júlí 1870. Hann menntaði sig fyrst til kennara og var á árunum 1844–1848 bæði kennari og nemandi í borgaraskólanum í Mandal. Hann lauk stúdentsprófi árið 1850. Árið 1856 lauk hann lögfræðiprófi og 1857 öðlaðist hann löggildingu sem málflutningsmaður við yfirréttinn.

80

Vinje starfaði sem kennari í nokkur ár áður en hann hóf að yrkja ljóð og stunda blaðamennsku. Á námsárunum skrifaði hann greinar í ádeiluritið Andhrimner sem kom út vikulega. Á árunum 1851–1858 skrifaði hann fyrir Drammens Tidende. Árið 1858 setti hann á laggirnar sitt eigið tímarit, Dølen, sem hann gaf út allt þar til hann lést. Á árunum 1865–1868 var hann ritari í dómsmálaráðuneytinu. Árið 1861 gaf hann út Ferdaminni fraa Sumaren 1860. Hann skrifaði A Norseman's View of Britain and the British árið 1862. Seinna kom út Diktsamling frá 1864, hið sögulega kvæði Storegut frá 1866, og ljóðasafnið Blandkorn frá 1867. Meðal þekktra ljóða eftir Vinje eru „Kunnskap skal styra rike og land“, „Leitande etter Blåmann“, „Tyteberet“ og „Den dag kjem aldri at eg deg gløymer“.

Dølen. Vikublað Á árunum 1858-1870 gaf Vinje út átta árganga af tímaritinu Dølen. Það var hans persónulega málgagn og hann vísaði oft í sjálfan sig, eins og hann og blaðið væru eitt. Þegar hann hóf útgáfu á Dølen var hann einn af þeim fyrstu sem notaðist við ritmál Ivars Aasens – landsmál. Aasen var á meðal þeirra sem í lausamennsku skrifuðu greinar fyrir Dølen. Vinje nýtti sér, nokkuð frjálslega, ritreglur Aasens (n. Aasen- normalen), og hafði mikla ánægju af að setja fram nýjar hugmyndir. Dølen reyndist nýstárlegt og upplífgandi rit í norsku fjölmiðlaflórunni, ekki bara vegna tungumálsins. Vinje hafði sinn sérstaka blaðamannastíl sem er í dag álitinn gott fordæmi fyrir blaðamenn og stendur uppi sem framúrskarandi heimspekilegur greinahöfundur. Á milli ljóða, bókagagnrýni og ýmislegs annars konar efnis voru umfjallanir um pólitískt dægurþras stór þáttur af efni blaðsins. Greinarnar byrja gjarnan á nýrri frétt sem er síðan sett í stærra samhengi. Nýyrði Vinjes eru oft gamansöm norskuvæðing (n. fornorskingar) erlendra orða. Á þann hátt, ásamt einföldu orðfæri og léttum frásagnarmáta, gerði hann erfiðan þankagang skiljanlegri fyrir lesendurna. Þannig varð Dølen bæði alþýðlegt og víðsýnt. Það sem einkennir helst fræðigreinar Vinjes er það sem hann sjálfur kallar „tvísýnið“. Skrif hans eru full af einkennilega samansettum orðum úr ýmsum stílafbrigðum þannig að „sorgin og söngurinn“ gætu verið tvær hliðar á sama hlutnum. Hann skipti líka oft um skoðun á málefnum, sem bendir til þess að það hafi verið honum mikilvægara að kenna fólki að hugsa en að sannfæra það, um hvað það eigi að hugsa.

81

Ferðaminningar frá sumrinu 1860 Ferdaminni fraa Sumaren 1860121 kom fyrst út í tveimur heftum sem aukablað með Dølen. Fyrra heftið kom út í febrúar 1861 og fjallar um göngutúr frá Ósló og norður eftir austurlandinu gegnum Austurdalinn til Þrándheims þar sem hann var viðstaddur krýningu Karls 15. í dómkirkjunni í Niðarósi. Síðara heftið kom út í júlí sama ár og lýsir för suður um Romsdal, Dofrafjöll (n. Dovre) og Guðbrandsdal. Bókin samanstendur af litlum sjálfstæðum brotum sem vísa í staði sem Vinje heimsótti. Frásögnin er lifandi lýsing og skemmtileg aflestrar um allt frá jarðfræði, landbúnaði og búfjárrækt til félagsfræði og þjóðhagfræði. Þar má finna ljóð og búfræðilegar greinargerðir sem útskýra hvert annað. Þessi „samsuða“ sem einkennir bókina hefur opnað fyrir mörg mismunandi sjónarhorn. Sá sem les bókina – til að fá mynd af höfundinum – skynjar að Vinje hætti ekki sem kennari þó hann hafi hætt kennslu við skólann, heldur birtist hann í stærra sniði sem alþýðufræðari. Það skín í gegn að hann ferðaðist gagngert til að skynja „þjóðarsálina“ bæði menningarlega og efnahagslega. Jafnvel þótt bókin hafi yfirleitt verið lesin sem heimild og minningar höfundar, hefur verið sýnt fram á að hana má einnig lesa sem skáldsögu þar sem sögumaðurinn er tilbúin skopstæld hetja. Vinje var brautryðjandi sem göngugarpur og ferðamaður á fjöllum. Hann var geitasmali í æsku og hafði tekið margan sprettinn í fjöllum. Ferðin, sem sagan Ferdaminni ... fjallar um (n. Ferdaminni-reisa) kann að hafa leyst úr læðingi þrána eftir að komast aftur upp í fjöllin því frá 1863 varði hann 3–4 vikum í fjallgöngu á hverju ári, ýmist í Rondana eða Jötunheimum. Síðarnefnda nafnið er frá Vinje komið.

Ljóð Vinjes Vinje birti eigin ljóð bæði í Dølen og í öðrum blöðum. Sú staðreynd að um 60 prósent af þeim ljóðum sem hann gaf út voru prentuð í fyrstu tveimur árgöngunum af Dølen gæti bent til þess að Vinje hafi fundið köllun sína sem ljóðskáld þegar hann fór að skrifa á landsmáli. Árið 1863 sendi hann frá sér úrval ljóða í bókinni Diktsamling. Árið 1866 gaf Vinje út frásögn í ljóðformi sem heitir Storegut. Frásögnin fjallar um raunverulega atburði og fólk í þorpinu Vinje. Í grófum dráttum er hún um föðurinn Ólaf, son hans Storegut og þann hörmulega og óútskýrða atburð sem varð vegna

121 Aths. þýð.: Þar er m.a. ferðafrásögnin Huldukona, í þýðingu Þórunnar S. Hreinsdóttur á bls. 99-102.

82

skyndilegs dauða Storegut. Þriðja og síðasta ljóðabókin sem kom út meðan Vinje lifði heitir Blandkorn frá 1867. Það sem helst einkennir ljóð Vinjes er að þau eru einföld, skýr og hljómfögur. Við mörg ljóðanna hafa verið samin lög, meðal annars af Edvard Grieg. Stór hluti ljóðanna fellur undir svokallaðar heilræðavísur (n. visdomsdikt-tradisjon). Bragfræðilega hefur Vinje leitað fyrirmynda bæði í sígildri ljóðagerð og þjóðkvæðum (Thomassen, H.K. 2018).

Greining ljóðsins „Ved Rondane“, eftir Aasmund O. Vinje

No ser eg atter slike fjell og dalar Upphaflega hét ljóðið „No seer eg atter slike Fjøll og Dalar“. Í dag er málfræðilega samræmd útgáfa Olavs Midttun122 frá 1942 þekktust. Ljóðið var fyrst gefið út, árið 1861, án titils í kaflanum „Huldra“ í bókinni Ferdaminni fraa Sumaren 1860. Höfundurinn gaf það út aftur í Diktsamling árið 1864 undir titlinum „Ved Rundarne“ (eftir 1942 oftar nefnt „Ved Rondane“). Á 20. öld var það endurútgefið í fjölda söng- og lestrabóka fyrir skólastofnanir. Edvard Grieg samdi lag við ljóðið „Ved Rundarne“ árið 1880 (opus 33, tólf lög við ljóð Vinjes). Lagið hefur án efa stuðlað að því að gefa ljóðinu sinn sérstaka sess í huga þjóðarinnar. Önnur lög við ljóðið, eftir Ludvig Mathias Lindeman, Martin Andreas Udbye og Elling Holst, hafa ekki náð sömu vinsældum.

Minni og efniviður Í bókinni Ferdaminni ... er ljóðmælandinn staddur í Storfjelldal (nálægt Helaksetra). Eftir langa dagleið, kastar hann mæðinni í hlíðinni: „Ég settist á stein til að kasta mæðinni og þurkaði svitann af enni mínu.

No seer eg atter slike Fjøll og Dalar, som deim eg i min fyrste Ungdom saag, og sama Vind den heite Panna 'svalar; og Gullet ligg paa Snjo, som fyrr det laag. Det er eit Barnemaal, som til meg talar, og gjer' meg tankefull, men endaa fjaag Med Ungdomsminni er den Tala blandad: Det strøymer paa meg, so eg knapt kan anda.

122 Olav Midttun 1883-1972 var norskur textafræðingur, Cand.mag. 1910, dósent í nýnorsku við Háskólann í Ósló 1917–1934. Prófessor í nýnorskum skáldskap og málnotkun við Háskólann í Ósló 1940–1945 og 1947–1953. Í: „Olav Midttun.“ 2009.

83

Ja, Livet strøymer paa meg, som det strøymde, naar under Snjo eg saag det grøne Straa. Eg drøymer no, som fyrr eg altid drøymde, naar slike Fjøll eg saag i Lufti blaa. Eg gløymer Dagsens Strid, som fyrr eg gløymde, naar eg mot Kveld af Sol eit Glimt fekk sjaa. Eg finner vel eit Hus, som vil meg hysa, naar Soli heim mot Notti vil meg lysa.

Alt er som fyrr, men det er meir forklaarat, so Dagsens Ljos meg synest meire bjart. Og det, som beit og skar meg, so det saarat, det gjerer sjølve Skuggen mindre svart; sjølv det, som til at synda tidt meg daarat, sjølv det gjer' harde Fjøllet mindre hardt. Forsonad' koma atter gamle Tankar: det sama Hjarta er, som eldre bankar.

Og kver ein Stein eg som ein Kjenning finner, for slik var den, eg flaug ikring som Gut. Som det var Kjæmpur spyr eg, kven som vinner af den og denne andre haage Nut. Alt minner meg; det minner, og det minner, til Soli ned i Snjoen sloknar ut. Og inn i siste Svevn meg eigong huggar dei gamle Minni og dei gamle Skuggar.123

Það varð dimmara og dimmara. Ég ýmist gekk eða hljóp þessar endalausu flatir með stein við stein og berg og brúnir, og dalverpi sem líktust helst kyrrstæðum bylgjum.“ Á sínum tíma hélt Olav Midttun því fram að þessi áning hefði verið á ákveðnum stað og þar fékk hann, við svokallaðan Vinje-veg, reist minnismerki. Frá þeim stað má greina Høgronda124. Margt bendir þó til að ljóðið hafi ekki verið ort á staðnum, heldur síðar við skrifborðið án fjallasýnar. Samhengi ljóðsins bendir til að það standi upphaflega fyrir sögulega ævisögu: Skáldið situr á steini og er gagntekið af útsýninu og þeim bernskuminningum sem vakna með því, en hugsar um að það verði að halda áfram og finna náttból („... hús,

123 Aths. þýð.: Ákveðið var að skjóta hér inn 2. 3. og 4. erindi ljóðsins, þar sem það birtist, í heild, í íslenskri þýðingu Þórunnar S. Hreinsdóttur á bls. 100. 124 Aths. þýð.: Høgronda er tindur í fjallinu Rondana.

84

sem vill mér skýla“125) áður en myrkrið skellur á. Þegar ljóðið er hins vegar dregið út úr upphaflegu samhengi sínu skýrist „innri sýn þess“: minningar og hugleiðingar um lífið, sú sátt sem skáldið skynjar í fullvissunni um að dauðinn nálgist.

Bragarháttur Ljóð Vinjes er ein þekktasta norska ottava ríma (n. ottave rime): Hvert erindi er átta braglínur sem samanstanda af fimm mislöngum kveðum (með þunga og létta áherslu á víxl). Sex fyrstu línurnar eru víxlrímaðar (1., 3. og 5. lína ríma saman og 2., 4. og 6.). Tvær síðustu (7. og 8. lína) bera runurím. Þessar ólíku rímtegundir undirstrika andstæðuna í uppbyggingu hvers erindis, milli þess sem kalla má „lýsingu“ og „niðurstöðu“. Til grundvallar ljóði Vinjes liggur „tileinkun“ (þ. Zueignung) Goethes við Faust (þ. „Ihr naht euch wieder, schwankende Gestalten“ [Þau nálgast aftur, hin flöktandi form]).

Ljóðatextinn Að undanskildum viðbætta ljóðatitlinum eru báðar útgáfurnar (sú í Ferdaminni ... og sú í Diktsamling) eins í meginatriðum. Orðaskýringunni („glad“), sem upphaflega var við orðið „fjaag“ í fyrsta erindi sjöttu línu, er sleppt í Diktsamling. Að auki skiptir Vinje út nokkrum orðum (mot Notti > til Notti; ned i Snjoen > burt i Snjoen) og leiðréttir stafsetninguna á samtals 24 stöðum (Fjøll > Fjell; fyrr > før o.fl.). Ljóðið er oft birt í sýnisbókum með titlinum úr Diktsamling og textanum úr Ferdaminni ... (Haarberg, J. 2018).

Sophus Bugge, [fornkvæða- og þjóðkvæðasafnari] Sophus Bugge var norskur málvísindamaður. Hann var styrkþegi í samanburðarrannsóknum indóevrópskra málvísinda og sanskrít við Háskólann í Kristjaníu frá 1860, lektor við sama skóla „með kennsluskyldu í norrænu“126 frá 1864 og sérlegur (n. ekstraordinær) prófessor frá 1866 í samanburðarrannsóknum indóevrópskra málvísinda og norrænu. Sophus Bugge var einn helsti textafræðingur (n. filolog) og málvísindamaður Noregs á sínum tíma. Hann skilur eftir sig margvíslegar rannsóknir þar á meðal á norrænum og forngermönskum tungumálum, norrænni textafræði, norrænum

125 ... eit Hus, som vil meg hysa, 126 … med Forpligtelse til at foredrage Oldnorsk.

85

alþýðuskáldskap og samanburðarrannsóknir á indóevrópskum tungumálum með áherslu á latínu, oskísku og umbrísku, armensku, albönsku og lykísku (í Litlu-Asíu). Listinn yfir vísindagreinar hans telur yfir 200 titla. Mikilvægasta framlag Bugges var á sviði rúnafræða og eddu- og dróttkvæðarannsókna þar sem vísindalegt framlag hans var afar mikilvægt fyrir frekari faglega þróun. Rannsóknir Bugges einkennast af víðtækri yfirsýn og djúpri þekkingu, djörfung og frumleika, sem og ótrúlegum vilja til að endurskoða eigin sjónarmið. Táknræn eru orðin sem einn af nemendum hans, Halvdan Koht127, skrifaði í tilefni af 70 ára afmæli Bugges árið 1903, en þar segir hann: „[Bugge] hefur kennt okkur að leita sannleikans, sannleikans vegna, án annarlegra sjónarmiða og að sýna skilning og velvilja í garð andmælendanna.“128

Norrænufræðingurinn Framlag Sophusar Bugge til norrænna textafræða (n. norrønfilolog) var einkum bundið við rannsóknir á eddu- og dróttkvæðum. Á námsárum sínum í Kaupmannahöfn 1858-1860 undirbjó hann áætlun um textafræðilega útgáfu eddukvæðanna. Hann tók afrit af handritum eddukvæða og Íslendingasagna sem þeim tengjast. Hann gaf út þrjú smárit eftir norrænum handritum með sögulegu innihaldi (n. Norrøne Skrifter af sagnhistorisk Indhold) árin 1864-1865 (Saga af Hálfi ok Hálfsrekkum, Söguþáttr af Norna-Gesti, Völsunga saga) og 1873 (Hervarar saga). Eddukvæðin komu út 1867 undir heitinu Norrœn Fornkvæði. Þessi útgáfa var fyrsta raunverulega textafræðilega útgáfan af eddukvæðunum og ef til vill merkasta textafræðilega verkið sem Bugge vann að. Kvæðin eru afrituð stafrétt eftir handritunum með útskýringum á torskiljanlegum orðum og leturgerð. Útgáfan er ítarleg og inniheldur margar tillögur um leiðréttingar og tilraunir til að útskýra erfið orð og orðmyndir. Að því er varðar Vǫluspá, sem varðveitt er í tveimur mismunandi útgáfum, í Konungsbók eddukvæða (Codex Regius) og í Hauksbók, endursegir Bugge þær báðar ásamt eigin endurgerð. Þessi tryggð við upprunann gerir eddukvæða-útgáfu Bugges á margan hátt nútímalega og enn er hún ómetanlegt tæki rannsakenda eddukvæða.

127 Halvdan Koht 1873-1965 var norskur sagnfræðingur og stjórnmálamaður. Í: Svendsen, Åsmund. 2009. 128 [Bugge] har lært os at søge Sandheden for dens egen Skyld uden Sidehensyn og at tænke med Forstaaelse og Velvilje om Modstandere.

86

Á námstíma Bugges voru flestir vísindamenn sammála um að eddukvæðin væru eldri en frá víkingatímanum og goðsagnirnar í þeim væru enn eldri samgermönsk arfleifð. Á hinn bóginn voru rannsakendur ekki sammála um hvar kvæðin voru samin: Í Noregi: eins og sumir norskir sagnfræðingar héldu fram, þar á meðal þeir Rudolf Keyser129 og P.A. Munch. Í Suður-Skandinavíu (Danmörku): eins og hinn danski Svend Grundtvig130 hélt fram, ásamt fleirum. Vegna rannsókna sinna á rúnaáletrunum var Bugge orðinn sannfærður um að eddukvæðin gætu ekki verið samin á því frumnorræna máli sem hann fann þar, og að þau gætu ekki verið eldri en frá 9. öld. Hann benti meðal annars á bragreglur sem yrðu brotnar með því að fara aftur til frumnorræns tíma. Þessi tímasetning leiddi Bugge að nýjum ályktunum um bókmennta- og menningarsögulegan bakgrunn eddukvæðanna. Á 8. áratug 19. aldar lagði hann fram kenningu um að goða- og hetjukvæðin væru undir áhrifum grísk-rómverskra goðsagna og gyðinglegra og kristinna helgisagna. Það byggði hann á nýlegum rannsóknum á því hvernig kvæði og ævintýri gætu flust til þvert á tungumál og landamæri. Haustið 1879 kynnti Bugge ferskar kenningar sínar í fyrirlestri í Vísindafélaginu í Kristjaníu sem vöktu mikla athygli. Bugge hélt því fram að efniviður eddukvæðanna væri að mestu leyti: „Ummyndanir á frásögnum og skáldskap sem heiðnir og hálfheiðnir Norðurlandabúar í Vesturvegi hefðu heyrt ýmist á írsku eða ensku, frá munkum og mönnum, menntuðum í klaustrum og ættu rætur að hluta í grísk-rómverskri menningu og að hluta í gyðinglegri-kristinni menningu.“131 Bugge þróaði áfram kenningar sínar í bókinni Studier over de nordiske Gude- og Heltesagns Oprindelse, sem kom út í tveimur bindum árin 1881 og 1889. Þau voru þýdd á þýsku og gefin út í Munchen, samhliða norsku útgáfunni. Rannsóknirnar vöktu athygli og deilur um allan hinn menntaða heim. Sumir, eins og réttarsagnfræðingurinn Konrad von Maurer132 í München (sem bókin var tileinkuð) og norrænufræðingurinn Adolf Gotthard Noreen í Uppsölum, tóku afstöðu með Bugge, en hópur gagnrýnenda

129 Jakob Rudolf Keyser 1803-1864 var norskur sagnfræðingur, dvaldist á Íslandi 1825-1827 - sem styrkþegi til að nema norrænu, prófessor í sögu við Háskólann í Ósló 1837-1862. Í: „Rudolf Keyser.“ 2017. 130 Svend Hersleb Grundtvig 1824-1883 - sonur N.F.S. Grundtvig - var danskur þjóðsagnafræðingur, lagði grunninn að nútíma þjóðkvæðarannsóknum. Í: „Svend Hersleb Grundtvig.“ 2009. 131 Omforminger af Fortællinger og Digtninger, som hedenske og halvhedenske Nordboer i Vesten havde hørt, dels paa Irsk, dels paa Engelsk, af Munke og Mænd, uddannede i Munkeskolen, og som havde sin Kilde dels i den græsk-romerske, dels i den jødisk-kristne Kultur. 132 Konrad von Maurer 1823-1902 var þýskur, prófessor í norrænni réttarsögu frá 1868, skilur eftir sig brautryðjendaverk í ritgerðum um fornnorskan og íslenskan rétt. Í: „Konrad Von Maurer.“ 2009.

87

var stærri og mótbárurnar voru stundum óvægnar. Meðal annars kom hörð atlaga frá Karl Müllenhoff133, eftirmanni Jacobs Grimms og kennara Bugges meðan á námsdvöl hans í Berlín stóð árið 1859, en hann gagnrýndi Bugge fyrir „að vera ekki þjóðsagnafræðingur“. Svend Grundtvig varð sárreiður yfir tilraunum Bugges til að hrifsa frá Dönum hinni þjóðlegu eign þeirra á „hinum göfuga forna norræna skáldskap“. Markverðasta gagnrýnin kom frá Íslendingnum Finni Jónssyni134 sem benti á að norræn goðafræði, eins og henni er miðlað í eddukvæðunum, væri þekkt hjá norrænum skáldum þegar á níundu öld. Það væri því ólíklegt að verulegur hluti efnisinnihaldsins gæti verið kominn frá Bretlandseyjum. Bugge svaraði þessum hluta gagnrýninnar með bókinni Bidrag til den ældste Skaldedigtnings Historie frá 1894, þar sem hann reyndi að sýna fram á að dróttkvæðin gætu ekki verið eins gömul og menn hefðu haldið. Þeir voru þó ekki margir sem létu sannfærast í því máli. Bugge rannsakaði eddukvæðin áfram. Árið 1896 gaf hann út Helge-Digtene i den ældre Edda, deres Hjem og Forbindelser, þar sem hann hélt ótrauður áfram að rökstyðja kenningar sínar um að þessi skáldskapur hefði verið undir miklum áhrifum frá Bretlandseyjum.

Rúnarannsakandinn Framlag Sophusar Bugge á sviði rúnarannsókna var mjög mikilvægt fyrir heildarmyndina af sjálfum rúnunum og ekki síður fyrir túlkunina á hinum einstöku rúnaáletrunum. Bugge færði sannfærandi rök fyrir því að rúnaráletranirnar með eldra rúnaletrinu væru skrifaðar á sérstöku frumnorrænu tungumáli sem sé eldra en hið norræna bókmenntamál. Í greininni „Guldhorn-Indskriften“ frá 1865 setti Bugge fram nýja túlkun á áletruninni á öðru hinna tveggja frægu dönsku gullhorna – sem samanstóð af aðeins 23 línum – með þýðingum yfir á gotnesku, norrænu og fornensku. Bugge skrifar að hann muni ekki rökstyðja túlkunina nánar, en með þýðingunum sýnir hann fram á það óbeint að áletrunin sé ekki gotnesk eins og P.A. Munch og fleiri höfðu talið. Á hinn

133 Karl Viktor Müllenhoff 1818-1884 var þýskur málvísindamaður - rannsakaði m.a. eddukvæðin - prófessor í þýsku og bókmenntum í Kiel 1854 og í Berlín 1858. Í: „Karl Müllenhoff.“ 2017. 134 Finnur Jónsson 1858-1934 var textafræðingur, Dr.philos. 1884, prófessor í norrænum málvísindum við Kaupmannahafnarháskóla 1898–1928. Hann skilur eftir sig brautryðjendaverkin Den oldnorske og oldislandske litteraturs historie (3 bindi útg. 1894–1902, og ný útg. 1920–1924) og safnútgáfu dróttkvæða Den norsk-islandske skjaldedigtning (1912–1915). Í: „Finnur Jónsson.“ 2009.

88

bóginn hélt Bugge því fram að áletranirnar með eldra rúnaletrinu væru skrifaðar á germanskri mállýsku sem tungumálin á Norðurlöndunum höfðu þróast út frá og hann kallaði frumnorrænu. Á næstu árum birti Bugge nokkrar greinar þar sem hann þróaði og rökstuddi nánar kenningar sínar um frumnorræna málformið í eldri rúnaáletrununum. Óháð Bugge, og á næstum sama tíma, komst danski rúnafræðingurinn L.F.A. Wimmer135 að sömu niðurstöðu um tungumál áletrananna. Fram til ársins 1891 skrifaði Bugge fjölmargar greinar um ólíkar áletranir bæði eldri og yngri rúna. Þessar einstöku rannsóknir voru gefnar út í hinu mikla verki Norges Indskrifter med de ældre Runer, en fyrsta bindið var gefið út á árunum 1891– 1903. Þar sem sjón Bugges var orðin svo slæm að hann gat ekki lengur lesið varð Magnus Olsen136, nemandi hans og síðar eftirmaður, að taka að sér lesturinn og lýsinguna á nýjum rúnafundi frá árinu 1902. Fyrsta heftið í 2. bindi, sem innihélt viðbætur og leiðréttingar, var því skrifað af Magnus Olsen eftir fyrirmælum Bugges. Innganginn að öllu verkinu, „Runeskriftens Oprindelse og ældste Historie“, náði Bugge ekki að ljúka við áður en hann lést. Meginefnið var þó fullmótað og útgefið árin 1905 og 1913, einnig fyrir milligöngu Magnusar Olsens. Bugge rannsakaði ekki aðeins norskar rúnaáletranir, heldur lagði hann fram sérlega mikilvæga túlkun hinnar löngu og erfiðu áletrunar á Röksteininum137 frá Austur-Gautlandi í Svíþjóð. Einkennandi fyrir Bugge var að hann gat skipt um skoðun á því hvernig túlka ætti rúnaáletranirnar. Afskipti hans af áletruninni á Röksteininum eru dæmigerð að þessu leyti: Fyrsta túlkun hans var gefin út árið 1878. Hann kom svo með nýja túlkun árið 1888, nokkrum árum áður en hann hélt fyrirlestur í Vísindafélaginu í Kristianíu árið 1896, um „ólíka hluta áletrunarinnar á Röksteininum í Austur-Gautlandi“. Að lokum birti Magnus Olsen, árið 1910, óútgefna ritgerð Bugges Der Runenstein von Rök (313 blaðsíður). Við túlkanir á rúnaáletrununum naut auðugt hugmyndaflug og samtengingarhæfni Bugges sín til fulls. Þar gat hann skákað í skjóli djúprar þekkingar sinnar á þeim menningarheimi sem rúnaristurnar tilheyrðu og yfirgripsmikillar

135 Ludvig Wimmer 1839-1920 var danskur málvísindamaður, prófessor í norrænum málum við Kaupmannahafnarháskóla 1886–1910, lagði ásamt Sophus Bugge grunn að skilningi á hinu eldra rúnaletri og frumnorrænu máli. Í: „Ludvig Wimmer.“ 2015. 136 Magnus Bernhard Olsen 1878-1963 var norskur textafræðingur, prófessor í norrænu og bókmenntum við Háskólann í Ósló 1908–1948, var nemandi Sophusar Bugge og við andlát Bugges 1907 sá hann um útgáfuna á Norges indskrifter med de ældre runer sem hann lauk við 1924. Í: „Magnus Olsen.“ 2009. 137 Röksteininn er frá upphafi 9. aldar og eru í kringum 750 rúnir á steininum. Í: „Rökstenen.“ 2009.

89

vitneskju um germönsk og önnur indóevrópsk mál. Í seinni tíð hefur þurft að endurskoða eða falla frá mörgum af skýringum hans, en heildarframlag hans á sviði rúnarannsókna mun þó áfram standa sem brautryðjandaverk.

Málvísindamaðurinn og þjóðkvæðasafnarinn Tungumál og málvísindi eru samnefnari alls þess sem Sophus Bugge tók sér fyrir hendur. Sem fyrsti háskólaprófessorinn í samanburðarrannsóknum indóevrópskra mála lagði hann, með rannsóknum sínum, sinn skerf af mörkum til að kanna mikinn fjölda tungumála sem að hluta eða öllu voru útdauð. Efniviðinn í sína fyrstu vísindagrein sem hann gaf út árið 1852 – þá aðeins 19 ára gamall – sótti Bugge í norskar mállýskur: „Om Consonant-Overgange i det norske Folkesprog“. Innblásturinn frá nýlega útgefinni málfræði Ivars Aasens frá 1848 og orðabók frá 1850 er augljós, ekki síst af hugtakinu „det norske Folkesprog“. Allar götur síðan voru það einkum forn og framandi tungumál sem Bugge tókst á við. Helsta framlag hans varðandi norskt nútímamál var söfnun danskvæða í Efri- Þelamörk með opinberri styrkveitingu. Safnið birtist í bókinni Gamle norske Folkeviser138 frá 1858. Einkennandi fyrir útgáfu Bugges var áreiðanleiki textans: Hann birti nákvæmlega það sem hann hafði heyrt, án þess að fylla upp í eyður (n. lakuner) eða leiðrétta greinilegar málfarsvillur. Hann útskýrði einnig muninn á mismunandi útgáfum kvæðanna án þess að reyna að endurgera „frumtextann“ (n. urtekst). Að þessu leyti var Bugge á undan sinni samtíð og útgáfa hans er talin vera fyrirmynd vísindalegra vinnubragða. Bugge rannsakaði aðallega indóevrópsk mál, einkum forngermönsku tungumálin (þ.m.t. gotnesku og fornensku), ítölsku málin: latínu, oskisku og umbrísku, ásamt armensku, albönsku og lykisku (í Litlu-Asíu). Á námsárunum skrifaði hann auk þess grein um tungumál Sígauna, er frá 1857. Hann lét auk þess gefa út mörg vönduð verk um tungumálið etrúsku (á Ítalíu), sem hann reyndar taldi að stæði nær armensku og eins lykísku, sem tilheyrir sérstakri undirætt anatólískra mála innan indóevrópsku málaættarinnar. Bugge víkkaði sjóndeildahring sinn stöðugt og fylgdist vökull með rannsóknum. Það er dæmigert að þegar norski Austurlandafræðingurinn Jørgen Alexander Knudtzon taldi sig geta sannað að tvö bréfanna sem fundust í Tell-el-

138 Aths. þýð.: Brot úr formála bókarinnar er í íslenskri þýðingu Þórunnar S. Hreinsdóttur. á bls. 103-105.

90

Amarna í Egyptalandi væru rituð á indóevrópsku máli var það með stuðningi frá Bugge (og Alf Torp). Bréfin voru gefin út árið 1902 undir titlinum Die zwei Arzawa- Briefe : Die ältesten Urkunden in indogermanischer Sprache [Arzawa-bréfin tvö : Elstu frumgögn á indógermönnsku máli] með fimmtíu blaðsíðna framlagi frá Bugge. Seinni uppgötvanir í Litlu-Asíu staðfestu tilgátu Knudtzons. Tungumálið í bréfunum er þekkt sem hettitíska. Síðustu ár ævinnar hafði Bugge sérstakan áhuga á rannsókn norskra örnefna. Í fyrsta bindi hins mikla 19 binda verks Olufs Ryghs Norske Gaardnavne, bindin komu út 1897-1936, að mestu eftir andlát höfundarins, eru ótal tilvísanir í skýringartillögur Sophusar Bugges. Eftir fráfall Ryghs var vinnu við útgáfu bindanna deilt milli fremstu textafræðinga Noregs. Árið 1900 gaf Bugge út (í samstarfi við Albert Kjær) fyrri hluta bindisins um Kristjáns Amt (nú Upplönd). Ári síðar tók Bugge þátt í að gefa út ritgerð Ryghs Gamle Personnavne i norske Stedsnavne (í samstarfi við Karl Ditlev Rygh).

Arfleifð Sophusar Bugges Sophus Bugge, sem var fyrsti prófessorinn í samanburðarrannsóknum indóevrópskra tungumála við Háskólann í Ósló, verður að teljast frumkvöðul langrar og frækilegrar hefðar í sögulegum samanburði á sviði málvísindarannsókna. Þar sem vísindastarf hans og rannsóknir náðu yfir vítt og fjölskrúðugt svið varð aukin sérhæfing í textafræði og öðrum málvísindagreinum við háskólann næstu árin þess valdandi að nemendur hans mátti finna sem prófessora í mjög ólíkum námsgreinum. Meðal nemenda hans verða að teljast í fremstu röð Alexander Bugge139 (sagnfræðingur og sonur Bugges), Magnus Olsen (norrænufræðingur), Hjalmar Falk140 (germönskufræðingur), Alf Torp (indógermönskufræðingur) og Moltke Moe (þjóðfræðingur). Auk þess má nefna sagnfræðingana Gustav Storm og Halvdan Koht, fornleifafræðinginn Ingvald Undset, útgefandann William Martin Nygaard, indlandsfræðinginn Sten Konow og keltneskufræðinginn Carl Marstrander. Hvað varðar hugmyndir og fræðistörf Bugges, hefur mestur hluti þeirra fölnað nokkuð á þeim rúmu eitt hundrað árum sem liðin eru frá andláti hans. Annars er heldur ekki að vænta ef hugað er að því hve ung þau fög og fræðigreinar, sem hann

139 Alexander Bugge 1870-1929 var norskur, Dr.philos. árið 1899, prófessor við Háskólann í Kristjaníu 1903– 1912, fékkst fyrst og fremst við norska miðaldasögu. Í: „Alexander Bugge.“ 02 17. 140 Hjalmar Falk 1859-1928 var norskur textafræðingur, prófessor í germanskri málfræði við Háskólann í Ósló frá 1897, varð fyrir miklum áhrifum af starfi Sophusar Bugge og rannsakaði einkum fornt germanskt og norrænt málfar, goðsögur og þjóðsögur. Í: j„H almar Falk.“ 2009.

91

starfaði að, voru á þeim tíma. Engu að síður er enn vísað í hann einkum á sviði rúnafræða og frumnorrænnar málsögu og margar tillögur hans um túlkun á staðarnöfnum í bókinni Norske Gaardnavne eru ótrúlega slitsterkar. Fornkvæðaútgáfa hans frá árinu 1858 er enn fyrirmynd í nákvæmri endursögn eftir munnlegri geymd. Þótt fæstir norrænufræðingar í dag muni ganga eins langt og Bugge, í að sýna fram á erlend kristin áhrif á eddukvæðin, þá vakti hann upp umræðu sem hefur verið í gangi síðan og er enn virk. Þar að auki reiknast það Bugge til tekna að engum hefur tekist að sýna fram á að eddukvæðin séu eldri en frá víkingatímanum, eða að þau séu suðurskandinavísk. Hann setti eddukvæðunum skýr mörk, bæði í tímaröð og landfræðilega. Bugge var mjög áhrifamikill rannsakandi sem veitti viðfangsefnum sínum dýpt og breidd. Þverfagleg nálgun hans og opin vísindaleg afstaða gerir hann að fyrirmynd vísindamanna enn þann dag í dag. Vegir í heimabænum Larvík og í Stavanger, auk torgs í Ósló, eru nefnd eftir Sophus Bugge. Bygging við Hugvísindadeild Háskólans í Ósló ber einnig nafn hans (Myrvoll, K. J. 2018).

9 Þýðingar á textum eftir norska brautryðjendur frá 19. öld Hér fer á eftir þýðing efnis, úr ýmsum áttum, eftir fjóra norska brautryðjendur í ritmálum og bókmenntum Norðmanna. Þeir eru, eins og áður hefur komið fram, Ivar Aasen (1813-1896): Þýtt er úr bréfasafni hans frá 1836 og frá 1849, þar sem hann hugleiðir að skapa norskri alþýðu nýtt ritmál í stað þess danska sem hún hafði nýtt sér í næstum fimm aldir. Knud Knudsen (1812-1895): Þýtt er úr bókarkafla eftir hann frá 1886, þar sem hann leggur fram sínar hugmyndir um norskt ritmál. Aasmund Olavsson Vinje (1818-1870): Þýtt er úr ferðasögu eftir hann frá 1861, sem skrifuð er á ritmáli Aasens - landsmáli. Síðast en ekki síst er það Sophus Bugge (1833-1907): Þýtt er úr formála hans að Gamle Norske Folkeviser, frá 1858, í ritstjórn hans sjálfs. Í þýdda hluta formálans gerir hann almenna grein fyrir eðli, tilgangi og málfarslegri framsetningu útgáfunnar.

92

Ritmálið okkar, [1836, Ivar Aasen] 1. Nú þegar ættjörð okkar er aftur orðin það sem hún áður var, það er frjáls og sjálfstæð, hlýtur það að verða okkur mikilvægt að nota sjálfstæða og þjóðlega tungu, þar sem hún er tignasta kennileiti hverrar þjóðar. Svo lengi sem litið var á Noreg sem danskt hérað og Danir skipuðu flest embætti landsins – að ekki sé talað um að allir Norðmenn, sem nutu æðri menntunar, lærðu í Danmörku á dönsku þannig að danskt tal- og ritmál varð hér ríkjandi – var eðlilegt að tungumál þjóðar okkar lyti í lægra haldi. Þessi tími ósjálfstæðis er liðinn og við þurfum að sýna heiminum að á þessu merka sviði viljum við líka vera sjálfstæð. Nágrannalandið Svíþjóð hefur í þessu sambandi verið farsælla. Það hefur nú tungumál sem er, eins og búast mátti við hinum megin við fjöllin, svo fagurlega líkt hinni hreinu norsku þjóðtungu sem hvorki sést á pappír né heyrist nema hjá þeim þjóðfélagshópum sem lágt eru skrifaðir. Ættum vér að velja einn nauðugan kost af tveimur, væri nærtækara að hallast að sænsku en dönsku. Þessu til stuðnings má vísa í staðsetningu landanna og líkindi þjóðtungnanna. Slíkar aðstæður væru ekki óþjóðlegar, engin sambræðsla (svo notuð séu viðtekin hugtök). Það væru hin eðlilegu líkindi milli tveggja vaxtarsprota af sömu grein. Við þurfum aldrei að fara út fyrir landsteinana í leit að tungumáli. Við ættum að leita í hirslum okkar og finna það sem við sjálf eigum áður en við förum að fá lánað frá öðrum. Eins illa og það hæfir frjálsum manni að sníkja hjá öðrum það sem hann sjálfur á nóg af, eins illa hæfir það okkur að safna erlendum orðum fremur en nýta þau sem þekkt eru og notuð í byggðum landsins. 2. Þar sem öllum finnst það best sem þeir hafa alist upp við og allir ritfærir menn okkar kynslóðar eru svo nátengdir dönskum rithætti og eru – ef til vill frá barnæsku – vanir að fyrirlíta þjóðtungu okkar, má gera ráð fyrir að slíkar umbætur séu af flestum álitnar óæskilegar. Hins vegar eru þeir til – það má sjá í opinberum blöðum okkar og öðrum ritum – sem í fúlustu alvöru vilja fá tungumál okkar þannig mótað að með réttu mætti kalla það norsku. Hinn ómenntaði hluti þjóðarinnar, sem af þrælslund beygir sig undir ríkjandi ástand, hlýtur þegjandi að hafa lengi gert ráð fyrir slíku. Vissulega yrði að koma í veg fyrir stórfelldan misskilning og ósanngjarna málhreinsun. Það hefur alltaf valdið mér sárri beiskju þegar ég heyri þjóðtungu okkar traðkaða niður og fyrirlitna,

93

annaðhvort af dulinni fáfræði eða af vel meintri málhreinsunaráráttu. Eigum vér þá, hugsaði ég, að fórna þessum ómetanlega fjársjóði úr fortíðinni sem forfeður okkar í gegnum allar þrengingar sínar hafa dyggilega varðveitt og látið oss eftir sem heilaga arfleifð? Ætti tilvera hans, eins sanngjörn og hún er, að valda okkur deilum nú þegar við höfum aftur öðlast þjóðfrelsi? 3. Þó að tími og aðstæður, eins og áður sagði, gerði dönsku mállýskuna ríkjandi hér á landi, þá hefur tungumál okkar varðveist og eflst í sveitunum inn til dala og við strendur landsins. Þrátt fyrir að það hafi ekki gerst allstaðar í jafn ríkum mæli er eðlilegt að tíminn hafi einnig haft áhrif á þjóðtunguna. Þegar þess er gætt hversu dreifð byggðin er og hve lengi málið var ekki nýtt sem ritmál, ásamt öðrum fyrrnefndum aðstæðum, verður að telja það stórkostlegt að þessi þjóðareign sé enn nothæf á okkar tímum. Ef Noregur hefði, í gegnum aldirnar, haldið pólitísku sjálfstæði sínu hefði þjóðtunga okkar líka verið tunga almennings. Þar hefði viðmiðið verið mállýskur landsins, útgangspunkturinn sem málið snerist um. Við umbárum það hins vegar, af stakri þolinmæði í svo langan tíma, að okkur væri haldið niðri af öðrum. Þannig glataðist velgengni okkar og sæmd því við glötuðum tungumáli forfeðra okkar. Að endurheimta það er enn ekki ógerlegt. Þjóðarheiður okkar krefst þess og ánægjuleg breyting á stöðu lands okkar heimilar það. Bóndinn hefur þann heiður að vera frelsari tungumálsins og því ætti að hlusta á málfar hans. 4. Menn segja að endurreisn tungumáls sé eitthvað sem ekki geti átt sér stað í einu vetfangi heldur verði að gerast í tímans rás. Ég tel þau rök léttvæg í ríki sem hamingjusamlega er aftur frjálst og sjálfstætt og á sér enn móðurmál, þó það hafi ekki verið nýtt sem ritmál í langan tíma. Ég tel ekki heldur að sú skoðun eigi rétt á sér að nýja ritmálið yrði ruglingslegt fyrir byrjendur né að það verði fyrst um sinn erfitt fyrir flesta að skilja það eða að það valdi útlendingum auknum erfiðleikum. Auðvitað yrði að sjá til þess að allir innfæddir gætu skilið það. Því yrði að forðast öll staðbundin orð og orðatiltæki eins og kostur er. Það yrði auk þess ekki svo frábrugðið hinum tveimur norrænu tungumálunum að sá sem skilur annað þeirra þyrfti að leggja mikið á sig til að skilja það. – Þar að auki mundi endurreisn í tímans rás, eins og að framan segir, valda sífelldri uppbyggingu og niðurrifi vegna þess að tungumál sem skortir ákveðinn grundvöll mundi breytast fram og til baka svo ekki væri hægt að reiða sig á neina

94

ákveðna fastheldni. Auk þess óttast ég að hið þjóðlega muni að lokum víkja fyrir hinu útlenda. Að þjóðtungan muni umbreytast en ekki ritmálið. Að við, vegna skipulaðra umbóta eða aðlögunar, fengjum allt of flatt og lágkúrulegt tungumál eru röksemdir sem stafa af fordómum og vana. Við gerum okkur aðeins vonir um þjóðtungu sem hvert mannsbarn í landinu getur nýtt sér án erfiðleika. Stjórnarskrá okkar veitir okkur rétt til að óska þess. Hvers vegna ættum við að óttast þessa svokölluðu flatneskju málsins. Það er ekki flatneskja, það er norska. Setjum fordómana til hliðar og fyrirverðum okkur ekki fyrir það að nota okkar eigin þjóðtungu. 5. Tillaga. Það er ekki ætlun mín hér að gera einni af mállýskum okkar hærra undir höfði en öðrum. Nei, engin þeirra ætti að vera megintunga. Heldur yrði lagður grundvöllur að samanburði á þeim öllum. Til að slíkt yrði hægt þyrfti að útbúa orðasöfn fyrir helstu héruð landsins, með málfræðilegum upplýsingum og sérstökum orðskýringum. Til að semja slík orðasöfn þarf að hvetja menn sem ekki bara telja sig kunna, heldur kunna mál alþýðunnar í raun og veru. Orðasöfnin yrðu afhent félagsskap málfræðinga sem gerðu á þeim samanburð og veldu síðan úr þeim. Eftir að slík megintunga væri ákvörðuð, myndi þessi sami félagsskapur útbúa fullfrágengna norska orðabók með samsvarandi málfræði. Þessu nýja málsniði ætti ekki að þrengja né neyða upp á neinn. Fremur ætti að hvetja til notkunar þess, en eftirláta hverjum og einum að nota nýja eða gamla málið eftir eigin geðþótta (Aasen, I. 1836:7-11).

Norskt ritmál, maí 1849, [Ivar Aasen]

Æskilegt af eftirfarandi ástæðum Samstilling á mállýskum okkar sem einu ákveðnu tungumáli verður eina tungumálið sem hægt er að kalla norsku á landsvísu. Það verður að líta á það sem útskýringu á mállýskum okkar að safna saman öllu góðu efni ásamt því að laga það sem síðra er og skapa þannig fyrirmynd að framtíðarþróun mállýsknanna. Aðeins þannig er hægt að skilgreina þjóðerni okkar og tjá hugsanir þjóðarinnar. Þetta tungumál er arfur frá forfeðrum okkar og ætti því að vera í hávegum haft. Ef það er vilji okkar að líta á gömlu norsku hetjurnar sem forfeður okkar er vel við hæfi að snúa baki við þeim erlendu áhrifum sem við höfum verið svo heltekin af og

95

reyna að bjarga þeim arfi sem við, með eigin kæruleysi, vorum við það að glata að eilífu. Slíkt tungumál myndi að lokum vera mikill fengur fyrir þjóðina. Það yrði ekki aðeins miklu auðveldara að skilja, heldur myndi það einnig veita sérstaka ánægju því hugsanir þjóðarinnar og tilfinningar kæmu aftur til hennar í sínu eigin vel þekkta málsniði án þess að hafa þolað þýðingu þar sem upprunalegi ferskleikinn og frjó hugsun væru horfin. Þjóðtungan hefur að geyma eins frábært efni í ritmál og hægt er að óska sér. Við vandlega ígrundun mætti mynda úr henni tært og frábært ritmál. Mikið af þessu efni mun smám saman falla í gleymskunnar dá ef ritmál kemur þar ekki til hjálpar. Við höfum vissulega af miklu að missa. Það væri af því bæði skömm og skaði ef við misstum það frá okkur án tilrauna til að bjarga því. Jafnvel þó þetta tungumál fengi ekki að dafna yrði það samt mjög mikilvægt sem hluti af norrænum tungumálaflokki. Við getum ekki samsamað okkur öðrum Norðurlandabúum með þeim hætti einum að vera þiggjendur en bjóða ekkert. Sem betur fer höfum við meira að bjóða en þær gætu nokkurn tíma gefið okkur.

Hindrandi aðstæður Við höfum nú þegar tungumál sem allir opinberir fyrirlestrar eru haldnir á, er notað við opinbera kennslu og lögin okkar eru skrifuð á. Þetta tungumál er með valdi vanans orðið svo samgróið öllum skriffærum mönnum að þeir gætu ekki hjálparlaust án þess verið. Landsmenn virðast vera of fáir til að hafa sitt eigið tungumál. Maður ætti heldur að óska þess að það væri aðeins til eitt tungumál í ríkjunum þremur í stað þess að hvert um sig eigi sitt eigið mál, því nýjar bókmenntir fengju þannig of lítinn stuðning og væru einskis virtar í hinum löndunum. Tungumál okkar verður svo að segja að byggja upp frá grunni. Það yrði því erfitt að vinna því fylgi í landinu sjálfu. Mállýskurnar búa yfir svo ólíkum framburðarmyndum að hinn nýi ritháttur gæti tekið á sig hvaða mynd sem er og um það yrði þjóðin ekki sammála. Þjóðtunga okkar er í fyrsta lagi frekar ómótuð og óþægileg fyrir það málsnið sem mikilvægustu mál nútímans þarfnast. Það vantar orðfæri fyrir óhlutlægar og lýsandi hugsanir sem leika stærsta hlutverkið í þeirri opinberu umræðu sem

96

framundan er. Vilji menn ekki, nú fremur en áður, taka upp erlend orð þyrfti að búa til ný og um það yrði þjóðin heldur ekki sammála. Þjóðin sjálf myndi, enn sem komið er, ekki þola slíkar umbætur því hún telur sitt eigið tungumál vera of lágkúrulegt og hrjúft til að notast við í umfjöllun um mikilvæg málefni. Þeir sem ritfærir eru yrðu því líka mótfallnir af því að þeir sjá enga nauðsyn til þess að nema slíkt tungumál.

Hagstæðar aðstæður Endurbætur á málsniði og orðaforða vantar sárlega, ef okkur eiga einhverntímann að bjóðast góðar bækur. Maður mun fyrr eða síðar átta sig á óþægindunum af þessum stöðuga viðsnúningi, þessari almennu iðkun framandi hugsunarháttar og erlends orðfæris. Þjóðlegri skilningur á hlutunum mun koma til þar sem ekki aðeins norskra orða verður krafist heldur líka norsks tjáningarmáta og við það eykst áskorunin svo mikið að menn geta samtímis farið að huga að nýju norsku málsniði. Þjóðsögurnar okkar, ævintýrin, brandararnir, málshættirnir, leikirnir og söngvatextarnir eru fyrst núna að koma upp á yfirborðið og vekja á sér athygli. Mikið af efninu hefur hins vegar enn ekki litið dagsins ljós. Af þeirri ánægju sem þessi framgangur hefur valdið, er ljóst að nú er hagstæður tími til þjóðlegra umbóta. Aukin þekking á hinu forna máli stuðlar að því að auka áhugann á málefninu. Þekkingin á mállýskunum mun jafnframt gera sitt gagn á þessu sviði. Við búum við alvarlegan skort á bókum fyrir almenning, og í þeim efnum bíða ný verkefni. Vinsælar húslestrarbækur, söngbækur og barnabækur vantar. Þjóðvísur vantar. Smásögur okkar fjalla aðeins um framandi siðvenjur hins fámenna hóps yfirstéttarfólks á meðal okkar. Þar er engin raunsæ lýsing á lífi og hugsunarhætti hins venjulega Norðmanns. Leikbókmenntir vantar alveg. Hinar mörgu tilraunir til að innleiða nýja tegund af stafsetningu og taka upp norsk orð sýna þörf fyrir umbætur á þessu sviði (Aasen, I. 1849).

Krafan um breytingar á viðteknu formi „danska ritmálsins“, [1886, Knud Knudsen] Hér fylgir lítið kver eða barnafróðleikur um hvernig skrifa skal framtíðarnorsku með okkar „fágaða“ norska framburð á landsvísu sem grunn eða upphafsreit fyrir stigvaxandi eða hægfara ummyndun orðmynda, framburðar og beygingar orða, sem eru að langmestu leyti frá dönskunni komin, yfir til norsks bókmáls.

97

Þar sem þessi hluti bókarinnar vekur sennilega oft upp spurningar hjá skrifurum, sem hafa annaðhvort ekki lesið það sem áður er sagt eða gleymt því að hluta eða öllu, mun varla saka að nefna aftur eitt og annað sem nú þegar hefur verið sagt.

Inngangur Ætla má að frá upphafi hafi tilgangur sérhvers ritmáls verið það að hver bókstafur hefði sitt hljóðtákn sem vekti hjá lesandanum hugmyndina um hvernig hin rituðu orð hljóma í tali fólks. Það er að segja láta skriftina endurspegla orðin frá hljóði til hljóðs á sama hátt og nótunum er í tónlistinni ætlað að fá nótnalesandann til að hugsa um þær hljóðaraðir sem tónskáldið er að tjá með nótunum. Sá sem skrifaði, hefur því frá upphafi orðið að gæta þess vel að hann hafi alltaf skrifað réttan staf fyrir hvert hljóð í orði eða hvern tón í stafaröðinni en ekki einhvern annan. Með öðrum orðum: bókmálið hlýtur að hafa verið skrifað hljóðrétt („ortofónískt“) eins og á við um tónamálið. Þetta gildir hjá okkur og eins í öllum öðrum löndum. Með tímanum mun hljóðstöfun (hljóðrétt stafsetning) þó smám saman verða að lærðri stöfun (á fræðimáli: „orðsifjafræðilegri réttritun“). Upprunalegi framburðurinn mun með tímanum breytast, í sumum orðum að minnsta kosti, án þess að þeir sem skrifa hirði um að fjarlæga þann bókstaf í orðinu sem samsvarar ekki lengur framburði þess og setja í staðinn þann staf sem nú væri hinn rétti. Önnur frávik milli framburðar orðanna sem ritun þeirra virðist vilja leggja lesandanum í munn og þess framburðar sem þau hafa í sjálfri orðræðunni eiga rót sína í hugsun (tilhneigingu) þeirra sem skrifa. Það er að vilja gjarnan skjóta óviðkomandi bókstöfum inn í orðin. Með öðrum orðum líma eitt og annað við orðin í þeim tilgangi að þessi tilgerðarlegi bókstafur: 1) sé til prýði eða 2) sé til ábendingar fyrir lesandann um uppruna og merkingu orðsins og/eða 3) hjálpi til við að finna rétta framburðinn. Þegar slíkar breytingar á framburði eða ritun hafa viðgengist í langan tíma, ef til vill í nokkur hundruð ár, og venjur þjóðarinnar og fastheldni við hefðbundnar hugmyndir eru svo erfiðar viðureignar að þær gera að engu tilraunir einstaklinga til að brúa bilið milli ræðu og rits. Með öðrum orðum tilraunir til að hrista upp í hinu lærða illgresi (n. ugras) í bókunum og laga hina tillærðu stafsetningu að hljóðréttri stafsetningu eða í það minnsta í þá átt. Verði ekkert að gert kemur fram álíka brengluð mynd af ritmálinu og er í ensku, og að hluta til í frönsku. Sem sagt rangur ritháttur sem veldur endalausum erfiðleikum bæði hjá lesendum og þeim sem skrifa eða þurfa

98

að læra þessa fyrirskipuðu réttritun. Sérstaklega þó hjá almenningi og útlendingum sem læra að lesa „hinn fágaða landsframburð“ af bókunum, þrátt fyrir að í hverju eða öðru hverju orði gefi bókstafirnir í skyn ákveðin hljóð sem svo að segja enginn samtímamaður lesandans mundi gangast við. Sem betur fer hefur danska ritmálið reynst þjálla og ekki látið frávikin milli ritunar og málfars safnast upp líkt og raunin hefur orðið með enskuna. Danir hafa í gegnum tíðina leiðrétt smám saman með mildum úrræðum „umbótum“ (d. reformer) það sem villandi og rangt var orðið, áður en það hafði tekið af þeim völdin og fengið að vaxa og verða að þjóðarógæfu líkt og rangritun ritmálsins í Englandi sem fordómalausir Englendingar viðurkenna að sé raunin. Þegar danska þjóðin hafði, fyrir um 100 árum, lagt af framburðinn p-t-k á eftir löngum sérhljóða og vanist á að segja b-d-g í staðinn varð þessari breytingu á hljóðan orðanna, í gegnum nokkrar kynslóðir, fylgt eftir með samsvarandi breytingum á bókstöfun orðanna. Þannig var til dæmis orðið rope ritað robe (síðar raabe, með aa í stað gamla o-sins), møte ritað møde, riket ritað riget og svo framvegis. Þeim fjölda umbreytinga á orðmyndum, sem taldar eru upp hér á eftir, getur ekki fylgt svo ítarleg greinargerð að hún fullnægi algerlega bæði þeim sem ekki eru þegar sannfærðir, í það minnsta að hluta til, eða hafa þeim mun sterkari trú og traust á höfundi þessa kvers. Þessi litli hluti bókarinnar er því frekar minnismiði eða tafla fyrir höfundinn til að líta yfir þegar hann þarf að muna hvað hann þarf að leggja áherslu á sem talsmaður dansk-norska ritmálsins. Hér eru heldur ekki talin með öll atriðin, alveg niður í þau smæstu. Eitthvað mun koma fram síðar. Enn fremur getur hinn óþjálfaði létt sér erfiðið eitthvað, með því að skipta verkinu niður svo hann hafi ekki of mörg járn í eldinum í senn. Nákvæmari útfærslur er að finna í öðrum skrifum mínum, sérstaklega í „Det norske målstræv“ og í „Den landsgyldige norske uttale“ (Knudsen, K. 1886:100-103).

Huldukona, 1861, Aasmund Olavsson Vinje Á sunnudagseftirmiðdegi gekk ég þrjár mílur uppeftir bröttum furuvöxnum fjallshlíðum og norðvestur eftir hinum löngu fjallamýrum og flötum hvítum hreindýramosanum með varla eitt grænt strá. Það var svo kyrrt og stillt að ég heyrði aðeins minn eiginn andardrátt. Kvöldið nálgaðist og kólguský mynduðust svo að fjallatopparnir virtust hafa blágrænar hettur á höfði sem sólin lýsti upp af og til og litaði með sínum himneska eldi. Ég settist á stein til að kasta mæðinni og þurkaði svitann af enni mínu.

99

MINNINGARNAR MERLA Nú horfi' ég yfir fögur fjöll og dali, sem fyrst á bernskuárum mínum sá, af sama vindi blæs um ennið svali, og sama gullið yfir snjó þar lá. Það er sem barnsins tunga við mig tali, og trega fylli hug, sem forðast má. Með æskuminnum, er allt málið blandað: um mig það streymir, svo ég vart get andað.

Já, lífið streymir um mig, sem það streymdi, er stráið græna undir snjó ég sá. Mig dreymir nú sem fyrr mig ætíð dreymdi, er dýrðleg fjöllin bar við loftin blá. Ég gleymi dagsins önn, sem fyrr ég gleymdi, er glóð af bjarma sólar fékk að sjá. Ég finn með vissu hús, sem vill mér skýla, er vekur sól mér þörf, um nótt að hvíla.

Allt er sem fyrr, en dul þó djúpt mig hrærir, svo dagsins ljós mér virðist harla bjart. Og það sem beit og skar mig, svo það særir, það sýnist gera húmið minna svart, og það sem oft mér freistinguna færir, það fjallið dóma gerir minna hart. Ég sárar kenndir finn, og við mig sætti: að sama hjartað slær, af veikum mætti.

Og sérhver steinn er mér sem stólpi digur, um stólpa þann, sem barn ég forðum hljóp. Ef keppni væri, hvern ég spyr um sigur, af kollum þeim er mynda þennan hóp. Ég minnist alls, ég minnist, ó!, minn hugur, uns hlýjir geislar sólar hverfa' í gróp. Og fyrir svefninn langa, loks mig huggar, mín ljúfa minning, mínir gömlu skuggar.

100

Það varð dimmara og dimmara. Ég ýmist gekk eða hljóp þessar endalausu flatir með stein við stein og berg og brúnir, dalverpi sem líktust helst kyrrstæðum bylgjum. Frá fjallabaki til fjallabaks er mikið augnayndi og þegar komið er að endamörkum þessa þá tekur annað eins við, allt til enda. Þarna voru líka uppsprettur í sefgrasi með svo köldu og hreinu vatni að það gat talist til heilsubótar. Að flatmaga á þessum mjúka mosa og sjá svitadropana á enninu niðri á botni þessa tæra vatns og fá sér sopa eftir sopa og velta sér svo um þennan silkimosa. Já, þessari vellíðan verður ekki með orðum lýst því hún er líkust því að falla í yfirlið. Þegar vatnið er líkt og hér til fjalla er ekki að undra þótt að Múhameð, sem bjó í heitu landi, lýsti himnaríki með slíkum lindum. Né heldur að Biblían tali um lífsins vatn og um hjörtinn sem þyrstir eftir slíku vatni. Reyndar mun ég aldrei trúa því að svo tært vatn sé að finna í Arabíu og Gyðingalandi sem hér er til fjalla. Bæjarbúar ættu að fara fótgangandi þangað uppeftir og bragða á því. Síðan kom ég upp á hól og sá að það skein niður í dalinn frá opnum selsdyrunum og heyrði bjöllur hljóma og skvaldur. Enginn veit hvað fólk og hús er fyrr en hann hefur gengið slíkan fjallveg fram á kvöld. Ég fremur dansaði en hljóp og gekk hljóðlega niður eftir, bæði þreyttur og þyrstur og banhungraður var ég orðinn. Þegar ég kom niður í selið höfðu stelpurnar bundið beljurnar og voru að mjólka. Ég gekk inn í selið, tók af mér bakbokann og settist þétt við hvítan arininn sem lýsti og logaði svo vel. Rétt í þessu kom þar að ung stúlka klædd styttum köflóttum kjól úr fínu efni og skjannhvítum kjól undir sem var faldaður með kniplingum. Ég tel, þar sem hún kom frá því að mjólka í fjósinu, að það hafi verið best að vera hvítklæddur til að taka eftir óhreinindum. Ung og sterk, rjóð og fögur var hún svo ég starði sem heillaður á hana. Ég stóð þó loks upp, tók í hönd hennar og bauð gott kvöld. Ég sagði henni hver ég var og hvers ég óskaði. „Ó, ert þetta þú,“ sagði hún með sinni mildu röddu, sem líktist mýksta strengjasamhljómi. „Ég hef heyrt þín getið. Sestu! Þú hlýtur að vera þreyttur eftir ferðina.“ – Ég hef aldrei verið eins stoltur og glaður yfir því að vera þekktur, en ég var kvíðinn því ég átti ekki von á að svona gæti þetta gengið. Ég var sem bergnuminn af því að húsið og stúlkan og allt saman var ævintýri líkast. Nú mynntist ég Ketils Björnssonar og kvöldsins þegar hann mætti til Subsabudi. Þar fékk hann mat og allt það besta sem til var úr hendi stúlku, með heiðblá augu, sem var svo yndislega væn að hann sat sem stjarfur væri allt heila kvöldið og setti eitt og eitt einiberjasprek á eldinn

101

til að sjá betur þessa ásýnd. Þegar þau ætluðu að leggja sig sá hann að þetta var huldumey af því að halinn var það langur að í hann sást. Hann féll samstundis í öngvit og þegar hann að lokum vaknaði sá hann ekkert nema kolniða myrkrið í brekkunni utan við selið þar sem hann lá á lyngi og mosa, ískaldur og svangur og svo þreyttur að hann verkjaði í hvern lið. Þegar ég hafði gert mér það ljóst að ég var á meðal manna, drakk ég sæta mjólk úr skjannahvítri skál. Síðan fór ég með niður í fjósið og sýndi að ég var ekki minni karl en svo að ég gæti vel mjólkað. Ég sagði svo frá hinni vestlensku selstöðu minni og sumrinu þegar ég lá á fjalli og gætti fjár og svaf undir steinhellunum og einiberjarunnunum og inni í hlöðnum smákofum með torfþaki sem geiturnar reittu af þannig að ég sá upp í himininn frá mosafletinum. Stúlkurnar hlógu og ég með. Ég bar inn stóra mjólkurfötu og sigtaði mjólkina, setti svo trogið og kollinn upp á vegghilluna. Þá sagði önnur stúlkan að ég gæti allt eins verið vikapiltur. Síðan hrærði ég með skörungi í eldkatlinum á skorsteininum til að eldurinn lognaðist ekki út af. Eftir það fór ég eins og kettlingur á eftir stúlkunum þegar þær gengu út í mjólkurbúið vegna þess að ég vissi að þar flæddi rjómi og sæt mjólk. Anna, það vil ég kalla dótturina á bænum − huldukona var ég hræddur um − því mér fannst hún svo fín og prúðbúin að annað kæmi ekki til greina. Um miðnæturbil bauð Anna mér út í kompu nokkra. Þar stóð borð með hreinum dúk og allskonar mat á, rétt eins og væri þetta inni í miðjum bæ. Það var snafs með matnum og allt það besta sem völ var á. Ég sá þetta allt í speglinum á veggnum. Laufin, sem áður fylltu litla skorsteininn í kompunni, voru nú horfin. Eldur logaði svo að bjarma lagði bæði frá skorsteininum og ljósinu. „Drekktu,“ sagði Anna. „Ég veit að þig þyrstir, sjáðu til þess að þú borðir nóg. Ég veit að þú þarft þess.“ Borðið var án dúks og kanna með sætri mjólk og pípa var sett á borðið. Þvottaskál á fæti og hreint handklæði var þar líka. Ég bauð góða nótt og sá líkt og í gegnum vegginn á eftir Önnu sem sveif út um dyrnar líkt og ský í kvöldroða sem líður gegnum nóttina (Vinje, A.O. 1885:59-62).

102

Brot úr formála að Gamle Norske Folkeviser, [1858, Sophus Bugge]

Formáli Það er ekki ætlun mín í þessum formála að fara í rannsókn á fornum þjóðkvæðum Noregs, einkennum þeirra og sögu. Ég mun í fáum orðum gera grein fyrir eðli og tilgangi þessarar söfnunar, og flokkun og uppsetningu kvæðanna í útgáfunni, ásamt því að miðla nokkrum landfræðilegum og málfræðilegum athugasemdum. Um allt land lifa, í minni þjóðarinnar, kvæði sem hafa gengið á milli fólks um aldir. Enginn hluti landsins á í þeim eins ríkulegan auð og efri Þelamörk. Það er fyrst nú á tímum, þegar kvæðin virðast nálægt því að falla í gleymskunnar dá og að þeim er veitt verðug athygli, að byrjað er á að skrifa kvæðin upp og koma þeim fyrir sjónir almennings. Það er einkum M.B. Landstad sem, með sínu mikla safni „norskra þjóðsagna“ (útg. í Kristjaníu 1853), á mestan heiður af því að hafa kynnt almenningi þennan alþýðuskáldskap í einhverjum mæli og bjargað mörgum verðmætum verkum frá glötun. Áður hafði Jörgen Moe gefið út allnokkur merk kvæði af nákvæmni og trúfestu. Á ferðum mínum sumurin 1856 og 1857 um efri Þelamörk, með opinberum fjárstuðningi, hef ég verið svo heppinn að geta safnað saman mörgum gömlum og merkum kvæðum sem áður voru almenningi óþekkt. Auk þess hef ég náð í réttari, fullkomnari eða verulega frábrugðnar uppskriftir af áður útgefnu efni. Með vinsamlegum ábendingum úr öðrum skrám hafa söfn mín vaxið að magni. Ég hef ekki talið það vera rétt að fresta útgáfu þessa efnis alltof lengi. Á hinn bóginn væri óráðlegt að byrja nú á endanlegri, nánast fullkominni, útgáfu á hinum fornu þjóðkvæðum okkar. Sá mikli auður á þessu sviði, sem varðveist hefur í dreifðum byggðum landsins, er enn svo langt frá því að vera uppurinn. Ennþá er mikið hulið, já mjög mikið, örugglega meira en það sem hefur verið safnað hingað til og þá ekki aðeins í Þelamörk heldur einnig í flestum öðrum byggðum Noregs. Ég hef þess vegna hugsað mér að gefa smám saman út kvæðauppskriftir, sem ég hef undir höndum eða kemst síðar yfir, í aðskildum litlum söfnum. Það safn sem hér birtist í upphafi, er aðeins lítill hluti þess sem ég hef safnað. Nokkur athyglisverð kvæði hef ég ekki tekið með hér, vegna þess að ég geri mér vonir um að fá innan tíðar nánari upplýsingar um þau með því að kynna mér óbirtar færeyskar, danskar eða sænskar hliðstæður kvæðanna. Hins vegar treysti ég mér ekki að ákveða það nú hvenær ég geti skilað af mér nýrri ritröð.

103

Söfnin munu innihalda raunveruleg kvæði ásamt vísum og þulum. Aðeins alþýðuskáldskapur í þröngum skilningi er skráður hér. Kvæði á alþýðumáli sem ort eru af þeim sem skrifuðu þau verða ekki birt hér. Ég einskorða mig ekki við að birta uppskriftir sem eru óútgefnar. Áður prentaðir textar eru líka birtir hér ef útgáfa þeirra er ónákvæm eða virðist lítt þekkt, og eins ef birting þeirra telst af öðrum ástæðum æskileg. Það er ekki tilgangur minn hér að miðla kvæðunum í betrumbættu og hreinu formi til aflestrar fyrir almenning. Ég hef ekki með eigin viðbótum fyllt upp í eyður. Ég hef heldur ekki, án þess að nefna það sérstaklega, leiðrétt ritvillur og afbökuð orðasambönd. Ég hef ekki sameinað í eitt form mismunandi skrásetningar sama kvæðis, án þess að geta nákvæmlega hvað ég hef tekið af hverjum stað. Rétt er að geta þess hér að ég hef ekki viljað taka alls staðar upp samræmt málfar. Það sem fyrst og fremst er nauðsynlegt er fullkomlega traustur grunnur sem hægt er að byggja á með vissu. Helst vildi ég koma kvæðunum til skila á trúverðugan og nákvæman hátt, í heild sinni og í smáatriðum. Þannig fengju menn eins góða þekkingu og unnt er á því hvernig þau hljóma í munni fólksins. Þar sem um er að ræða sama kvæðið í mismunandi uppskriftum, hvað varðar efnisinnihald og orðalag, er hver uppskrift prentuð sérstaklega. Fyrst kemur sú sem virðist fullkomnust eða best og svo hinar í röð eftir tengslum þeirra við þá fyrstu. Hins vegar, þegar mismunandi skráningar sama kvæðis eru meira samhljóða eru þær sameinaðar í einn texta og eru frávikin útskýrð í athugasemdum. Að öllu leyti er litið framhjá óverulegum frávikum einstakra orða, orðmynda eða orðaraða. Ég hef í hvívetna fremur viljað taka of mikið með en of lítið. Rétt eins og það hefur verið ætlun mín að birta kvæðin á trúverðugan og nákvæman hátt, eins og þau hljóma úr munni fólksins, á hið sama við um málfarið. Hvorki er hróflað við orði né orðmynd án þess að það sé sérstaklega tekið fram. Ég hef ekki reynt að skrá öll kvæðin á sömu mállýskunni eða með samræmdu málfari sem myndað er upp úr ýmsum staðbundnum mállýskum og hinu forna norska máli. Ég hef heldur ekki athugað málfarslegt samræmi innan hvers kvæðis ef kvæðamaðurinn sjálfur hefur ekki gert það. Bæði úreltum og ónorskum — dönskum eða sænskum — orðatiltækjum og orðmyndum er haldið ef kvæðamaðurinn hefur notað þau, því þau eru mikilvæg vegna sögu kvæðanna. Við dönsk orð og orðmyndir í kvæðatextunum nota ég sama rithátt og venjulega er notaður við ritmálið.

104

Eiginleikar framburðarins í hinum dreifðu byggðum verða dregnir fram að því leyti sem mögulegt er. Ég hef haft til hliðsjónar athugasemdir Ivars Aasens í bókinni Pröver af Landsmaalet141 (S. III f.): „Ég geri ráð fyrir að þegar maður tekst á við tiltekna mállýsku, verði maður að taka talsvert tillit til framburðarins, en jafnframt að hafa upprunalega mynd orðanna í huga. Þeir eiginleikar, sem auðvelt er að lýsa með þekktum bókstöfum verða að birtast í rithættinum, en þá eiginleika sem reynist erfitt að lýsa og eru kannski villandi fyrir lesandann ætti fremur að tjá munnlega og aðeins vísa til í athugasemdum. Þar sem halda má orðmyndinni óbreyttri án þess að hún stangist á við framburðinn skal það gert. Þar sem framburður er óviss eða fer bil beggja verður líka að halda upprunalegri orðmynd. Hins vegar þar sem framburðurinn hefur ákveðin og skýr frávik frá upprunalegu myndinni skal framburðinum fylgt.“ Það er mér sönn ánægja að lýsa því hversu mikið ég á að þakka snilldarverkum þessa mikla tungumálamanns. Þau hafa verið mér ómissandi hjálpartæki til að læra tungumál almennings í heild og sérstaklega sem leiðarvísir til að skynja hljóðin og endurskapa þau skriflega. Já, ég hefði oftar en ég hef gert átt að fylgja eftir öruggum og skörpum hugmyndum Aasens í stað míns eigin óþjála eyra (Bugge, S. 1858:III-VI).

141 Aths. þýð.: Heitir á frummálinu: Pröver af Landsmaalet i Norge, útg. 1853.

105

10 Skrá yfir höfunda og skáld frá miðri 16. öld til nútímans Nöfn höfunda Líftími Helstu bókmenntategundir 16.-17. öld Absalon Petersøn Beyer 1528-1575 staðbundnar bókmenntir, dagbækur Erik Hanssøn Schønnebøl 1530-1595 staðbundnar bókmenntir Jens Nilssøn 1538-1600 kristilegar bókmenntir, ferðafrásagnir, dagbækur Peder Claussøn Friis 1545-1614 náttúrufræði (bókmenntir) Hallvard Gunnarssøn 1550-1608 kristilegar bókmenntir, ljóð 17.-18. öld Dorothe Engelbretsdatter 1634-1716 sálmar Petter Dass 1647-1707 sálmar, ljóð Ludvig Holberg 1684-1754 leikrit, ritgerðir 18.-19. öld Peter Chr. Stenerson 1723-1776 ljóð Christian Braunmann 1728-1765 ljóð, ritgerðir Tullin Johan Herman Wessel 1742-1785 leikrit, ljóð Johan Nordahl Brun 1745-1816 leikrit, sálmar, ljóð Claus Fasting 1746-1791 blaðagreinar, ljóð Claus Frimann 1746-1829 ljóð Edvard Storm 1749-1794 ljóð Jens Zetlitz 1761-1821 ljóð Maurits Christ. Hansen 1794-1842 smásögur, skáldsögur, ljóð 19.-20. öld Magnus Brostrup 1802-1880 sálmar, ljóð, söfnun og skráning þjóðkvæða Landstad Johan Sebastian Welhaven 1807-1873 ljóð, örsögur Henrik Wergeland 1808-1845 ljóð, leikrit Andreas Munch 1811-1884 ljóð, leikrit Peter Christen Asbjørnsen 1812-1885 söfnun og skráning þjóðsagna, náttúrubókmenntir Jørgen Moe 1813-1882 söfnun og skráning þjóðsagna, þjóðkvæði Camilla Collett 1813-1895 frásagnir, endurminningar, ádeilurit, blaðagreinar, ritgerðir Ivar Aasen 1813-1896 ljóð, leikrit, málvísindi Aasmund Olavsson Vinje 1818-1870 ljóð, blaðamennska, ferðalýsingar Magdalene Thoresen 1819-1903 frásagnir, leikrit, lýsingar Henrik Ibsen 1828-1906 leikrit, ljóð Amalie Skram 1846-1905 skáldsögur, smásögur, leikrit Jon Flatabø 1846-1930 frásagnir Alexander Kielland 1849-1906 skáldsögur, smásögur, leikrit, bréf Arne Garborg 1851-1924 skáldsögur, ljóð, leikrit, ritgerðir, blaðagreinar

106

Nöfn höfunda Líftími Helstu bókmenntategundir 19.-20. öld Hans Jæger 1854-1910 skáldsögur, stjórnmálaheimspeki Knut Hamsun 1859-1952 skáldsögur, ljóð Rudolf Muus 1862-1935 frásagnir, menningarsöguleg verk Hans E. Kinck 1865-1926 smásögur, skáldsögur, leikrit Sigbjørn Obstfelder 1866-1900 ljóð, smásögur, skáldsögur Regine Normann 1867-1939 skáldsögur, smásögur, frásagnir Peter Egge 1869-1959 skáldsögur, smásögur, leikrit Anders Larsen 1870-1949 skáldsögur Vilhelm Krag 1871-1933 ljóð, skáldsögur, leikrit Sven Moren 1871-1938 skáldsögur, barnasögur, ljóð Matti Aikio 1872-1929 blaðagreinar, skáldsögur, smásögur Øvre Richter Frich 1872-1945 spennusögur Johan Bojer 1872-1959 skáldsögur, leikrit, endurminningar Andreas Haukland 1873-1933 skáldsögur, ljóð Gabriel Scott 1874-1958 skáldsögur, frásagnir, barnasögur Olav Duun 1876-1939 skáldsögur, smásögur Kristofer Uppdal 1878-1961 skáldsögur, ljóð Johan Falkberget 1879-1967 skáldsögur, frásagnir Cora Sandel 1880-1974 skáldsögur, smásögur Oskar Braaten 1881-1939 skáldsögur, smásögur, leikrit Sigrid Undset 1882-1949 skáldsögur, smásögur Olav Aukrust 1883-1929 ljóð Olaf Bull 1883-1933 ljóð Olav Nygard 1884-1924 ljóð Sven Elvestad 1884-1934 smásögur, glæpasögur Herman Wildenvey 1885-1959 ljóð, endurminningar Alf Larsen 1885-1967 ljóð, ritgerðir Tore Ørjasæter 1886-1968 ljóð, leikrit Pedar Jalvi 1888-1926 ljóð Helge Krog 1889-1962 leikrit, ritgerðir Aslaug Vaa 1889-1965 ljóð, leikrit Arnulf Øverland 1889-1968 ljóð, ritgerðir Sigurd Hoel 1890-1960 skáldsögur, smásögur Sigurd Christiansen 1891-1947 skáldsögur, leikrit Ronald Fangen 1895-1946 skáldsögur, leikrit Gunnar Reiss-Andersen 1896-1964 ljóð Tarjei Vesaas 1897-1970 skáldsögur, smásögur, leikrit, ljóð Einar Gerhardsen 1897-1987 endurminningar Aksel Sandemose 1899-1965 skáldsögur, ritgerðir Gunnar Larsen 1900-1958 skáldsögur, ljóð

107

Nöfn höfunda Líftími Helstu bókmenntategundir 20.-21. öld Rudolf Nilsen 1901-1929 ljóð Nordahl Grieg 1902-1943 leikrit, ljóð, skáldsögur Johan Borgen 1902-1979 skáldsögur, smásögur, leikrit 1906-1987 skáldsögur, smásögur Rolf Jacobsen 1907-1994 ljóð Halldis Moren Vesaas 1907-1995 ljóð, unglingasögur Olav H. Hauge 1908-1994 ljóð Agnar Mykle 1915-1994 skáldsögur, smásögur Paulus Utsi 1918-1975 ljóð André Bjerke 1918-1985 ljóð, glæpasögur Leif B. Lillegaard 1918-1994 frásagnir, lýsingar Jens Bjørneboe 1920-1976 skáldsögur, leikrit, ljóð Dagfinn Grønoset 1920-2008 blaðagreinar, skáldsögur Gunvor Hofmo 1921-1995 ljóð Paal Brekke 1923-1993 ljóð, skáldsögur Finn Carling 1925-2004 skáldsögur, smásögur Bergljot Hobæk Haff 1925-2016 skáldsögur Sigmund Mjelve 1926-1995 ljóð Erling Christie 1928-1996 ljóð, ritgerðir Kjell Askildsen 1929- smásögur, skáldsögur Georg Johannesen 1931-2005 ljóð, ritgerðir Annok Sarri Nordrå 1931-2013 skáldsögur Axel Jensen 1932-2003 skáldsögur, smásögur Kolbein Falkeid 1933- ljóð Kjell Hallbing 1934-2004 spennusögur, smásögur, skáldsögur Stein Mehren 1935-2017 ljóð, ritgerðir, leikrit Bjørg Vik 1935-2018 smásögur, skáldsögur, leikrit Aagot Vinterbo-Hohr 1936- ljóð Arne Olav Brundtland 1936- skáldsögur Arild Nyquist 1937-2004 frásagnir, ljóð, smátextar Hans Herbjørnsrud 1938- smásögur Karsten Alnæs 1938- skáldsögur, smásögur Tor Obrestad 1938- ljóð, skáldsögur Jan Erik Vold 1939- ljóð, prósatextar Tor Åge Bringsværd 1939- skáldsögur, vísindaskáldsögur, barnasögur, leikrit Einar Økland 1940- ljóð, barnasögur, ritgerðir, prósatextar Eldrid Lunden 1940- ljóð Dag Solstad 1941- skáldsögur, smátextar Gerd Brantenberg 1941- skáldsögur Knut Faldbakken 1941- skáldsögur, smásögur

108

Nöfn höfunda Líftími Helstu bókmenntategundir 20.-21. öld Terje Johanssen 1942-2005 ljóð, örsögur Triztan Vindtorn 1942-2009 ljóð Herbjørg Wassmo 1942- skáldsögur, ljóð Sissel Lie 1942- skáldsögur, smásögur, barnasögur, leikrit Nils-Aslak Valkeapää 1943-2001 skáldsögur Kjersti Scheen 1943- barna- og unglingasögur, glæpasögur Rauni Magga Lukkari 1943- blaðagreinar Ailo Gaup 1944-2014 blaðagreinar, smásögur, skáldsögur, ljóð Jon Bing 1944-2014 skáldsögur, vísindaskáldsögur Kjartan Fløgstad 1944- ljóð, smásögur, skáldsögur, ritgerðir Liv Lundberg 1944- ljóð, skáldsögur Mona Lyngar 1944- skáldsögur, smásögur Espen Haavardsholm 1945- skáldsögur, smásögur, ritgerðir Jan Mehlum 1945- glæpasögur Karin Moe 1945- skáldsögur, ljóð Kim Småge 1945- smásögur, skáldsögur, glæpasögur, unglingasögur Liv Køltzow 1945- skáldsögur, smásögur Paal-Helge Haugen 1945- ljóð, skáldsögur, barnasögur Sigurd Helseth 1945- ljóð Gert Nygårdshaug 1946- ljóð, skáldsögur, glæpasögur Laila Stien 1946- smásögur, ljóð, skáldsögur, barnasögur, ljóðaþýðingar Svein Jarvoll 1946- skáldsögur, smásögur, ritgerðir, ljóð Kirsti Paltto 1947- skáldsögur, barna- og unglingasögur, smásögur Edvard Hoem 1949- skáldsögur, ljóð, leikrit Toril Brekke 1949- skáldsögur, smásögur Inger Elisabeth Hansen 1950- ljóð Cecilie Løveid 1951- leikrit, útvarpsleikrit, skáldsögur Helge Torvund 1951- ljóð, ritgerðir, ljóðaþýðingar, barnasögur Magnhild Bruheim 1951- glæpasögur, unglingasögur Mari Osmundsen (höf.n.) 1951- skáldsögur, smásögur Jostein Gaarder 1952- barna- og unglingasögur Lars Amund Vaage 1952- skáldsögur, smásögur Ole Robert Sunde 1952- skáldsögur, örsögur, ritgerðir Per Petterson 1952- skáldsögur, smásögur Ragnar Hovland 1952- skáldsögur, smásögur, barna- og unglingasögur Tove Nilsen 1952- skáldsögur, smásögur, barnasögur Tor Ulven 1953-1995 ljóð, skáldsögur, örsögur Jan Kjærstad 1953- skáldsögur, smásögur Lars Saabye Christensen 1953- skáldsögur, leikrit, ljóð

109

Nöfn höfunda Líftími Helstu bókmenntategundir 20.-21. öld Idar Lind 1954- glæpasögur, skáldsögur, unglingasögur, leikrit Karin Fossum 1954- ljóð, glæpasögur, skáldsögur Roy Jacobsen 1954- skáldsögur, smásögur Eva Jensen 1955- ljóð, örsögur, barnasögur Tom Kristensen 1955- glæpasögur Anne Bøe 1956- ljóð Ingvar Ambjørnsen 1956- skáldsögur, glæpasögur, smásögur Lisbet Hiide 1956- skáldsögur, smásögur Gene Dalby 1957- örsögur, ljóð Peter Serck 1957- skáldsögur, smásögur Unni Lindell 1957- ljóð, glæpasögur, barna- og unglingasögur Anne Holt 1958- glæpasögur Kjell Ola Dahl 1958- glæpasögur Jon Fosse 1959- skáldsögur, smásögur, ljóð, leikrit Pål Gerhard Olsen 1959- skáldsögur, glæpasögur, unglingasögur, leikrit Thure Erik Lund 1959- skáldsögur, örsögur, ritgerðir Tom Egeland 1959- glæpasögur, spennusögur Vigdis Hjorth 1959- skáldsögur, ritgerðir, unglingasögur Øyvind Berg 1959- ljóð Frode Grytten 1960- ljóð, skáldsögur, smásögur Jo Nesbø 1960- glæpasögur Morten Harry Olsen 1960- smásögur, skáldsögur, glæpasögur Rolf Enger 1960- blaðagreinar, smásögur Gro Dahle 1962- ljóð, örsögur, barnasögur Jonny Halberg 1962- smásögur, skáldsögur Merethe Lindstrøm 1963- skáldsögur Rune Christiansen 1963- ljóð, skáldsögur Terje Holtet Larsen 1963- skáldsögur, smásögur Nikolaj Frobenius 1965- skáldsögur Linn Ullmann 1966- skáldsögur Øyvind Rimbereid 1966- ljóð, skáldsögur, smásögur, örsögur, ritgerðir Karl Ove Knausgård 1968- skáldsögur Erlend Loe 1969- skáldsögur, barnasögur Hanne Ørstavik 1969- skáldsögur Åsne Seierstad 1970- blaðagreinar, skáldsögur Trude Marstein 1973- skáldsögur Bobbie Peers 1974- stuttmyndir

110

Heimildaskrá Aasen, Ivar. 1849, maí. „Om et norsk Skriftsprog-mai 1849.“ Í: Brev og dagbøker. Ved Reidar Djupedal. Band II. Sótt af http://www.aasentunet.no/iaa/no/ivar_aasen/brev_og_dagboker/nokre_skriftstyk ke_etter_ivar_aasen/Om+et+norsk+Skriftsprog%2C+Mai+1849.b7C_xlfI5n.ips. Aasen, Ivar. 1836. „Om vort skriftsprog. (1836).“ Í: Skrifter i samling. Trykt og utrykt III, bls. 7-11. Kristiania og Kjøbenhavn : Gyldendalske boghandel - Nordisk forlag. Sótt af http://www.aasentunet.no/filestore/Ivar_Aasen- tunet/Ivar_Aasen/Dikt_og_verk/Sentrale_verk/skrifter-i-samling-III.pdf. „Absalon Pedersson Beyer.“ 2018, 26. júní. Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/Absalon_Pedersson_Beyer. „Alexander Bugge.“ 2017, 22. mars. Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/Alexander_Bugge. Alver, Brynjulf. 2011, 14. júlí. „Ballade: episk folkevise.“ Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/ballade_-_episk_folkevise. Alvstad, Cecilian ; Lomheim, Sylfest og Refsdal, Eva. 2018, 29. júní. „Oversettelse.“ Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/oversettelse. Alvstad, Cecilia og Refsdal, Eva. 2018, 15. janúar. „Oversettelsesstudier.“ Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/oversettelsesstudier. Andersen, Rune J. 2018, 15. október. „Ludvig Mathias Lindeman.“ Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/Ludvig_Mathias_Lindeman. Arntzen, Jon Gunnar. 2009, 15. febrúar. „Marcus Schnabel.“ Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/Marcus_Schnabel. „Asbjørnsen og Moe.“ 2017, 2. nóvember. Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/Asbj%C3%B8rnsen_og_Moe. Astås, Reidar. 2018, 20. febrúar. „Stjórn.“ Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/Stj%C3%B3rn. Ástráður Eysteinsson. 1996. Tvímæli, þýðingar og bókmenntir. Reykjavík : Bókmenntafræðistofnun ; Háskólaútgáfan. Ástráður Eysteinsson og Weissbort, Daniel. 2006. Translation: theory and practice: a historical reader. USA : Oxford : University Press. Bragi Halldórsson og Knútur S. Hafsteinsson. 1994. Ljóðamál: kver um bragfræði og stíl ljóða. Reykjavík : Mál og menning.

111

Bugge, Sophus. 1858. „Forord.“ Í: Gamle Norske Folkeviser, bls. III-XII. S. Bugge (ritstj.). Kristiania : Feilberg og Landmarks Forlag. Sótt af http://runeberg.org/gamlenorsk/0009.html. „David Faye Knudsen.“ 2016, 17. október. Wikipedia. Sótt af https://no.wikipedia.org/wiki/David_Faye_Knudsen. „Didrik Arup Seip.“ 2009, 15. febrúar. Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/Didrik_Arup_Seip. „Edvard Storm.“ 2009, 15. febrúar. Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/Edvard_Storm. Eifring, Halvor. 2018, 28. október. „Mo Yan.“ Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/Mo_Yan. „Finnur Jónsson.“ 2009, 14. febrúar. Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/Finnur_J%C3%B3nsson. Forsgren, Arne. 2009, 15. febrúar. „Ali Smith.“ Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/Ali_Smith. „Frisisk.“ 2015, 14. ágúst. Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/frisisk. Gaski, Harald og Ledang, Ola Kai. 2018, 6. september. „Joik“. Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/joik. Guðmundur Gíslason Hagalín. 1959. „Nokkur orð um höfundinn og þýðinguna.“ Í: Olav Duun. 1959. Maðurinn og máttarvöldin. Guðmundur Gíslason Hagalín þýddi. Reykjavík : Almenna bókafélagið. Guðrún Kvaran. 2006, 7. mars. „Hvað merkir 'íð' í íðorðum?“ Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/?id=5690. Guðrún Nordal. 2005. „Um þýðingar.“ Í: Bakhtín, M.M. 2005. Orðlist skáldsögunnar. Úrval greina og bókakafla. Jón Ólafsson þýddi. Benedikt Hjartarson (ritstj.). Reykjavík : Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands. Gundersen, Dag ; Nordbø, Børge og Venås, Kjell. 2017, 26. nóvember. „Urnordisk.“ Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/urnordisk. Gundersen, Dag og Venås, Kjell. 2018, 3. apríl. „Mellomnorsk.“ Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/mellomnorsk. Haarberg, Jon. 2018, 29. maí. „No Ser Eg Atter Slike Fjell Og Dalar.“ Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/No_ser_eg_atter_slike_fjell_og_dalar.

112

Hagen, Erik Bjerck ; Nordbø, Børge ; Rottem, Øystein og Skei, Hans H. 2018, 13. september. „Norges Litteraturhistorie.“ Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/Norges_litteraturhistorie. Halvorsen, Per Bjørn. 2014, 24. ágúst. „Hieronymus: bibeloversetter.“ Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/Hieronymus_-_bibeloversetter. „Hamarkrøniken.“ 2013, 23. janúar. Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/Hamarkr%C3%B8niken. Hatim, Basil og Mason, Ian. 1997. The Translator as Communicator. New York : Routledge. „Hákon gamli Hákonarson.“ 2000, 29. desember. Sótt af http://notendur.snerpa.is/systaoggaui/hakongamli.htm. Helga Kress. 1985. „Úrvinnsla orðanna: Um norska þýðingu Ivars Eskeland á Leigjandanum eftir Svövu Jakobsdóttur.“ Tímarit Máls og menningar, 46(1), bls. 101-119. „Helge Sivertsen.“ 2016, 1. desember. Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/Helge_Sivertsen. Helle, Knut. 2009, 13. febrúar. „Sverre Sigurdsson.“ Norsk biografisk leksikon. Sótt af https://nbl.snl.no/Sverre_Sigurdsson. Heyerdahl, Gerd Høst. 2018, 28. maí. „Eggjasteinen.“ Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/Eggjasteinen. „Hjalmar Falk.“ 2009, 15. febrúar. Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/Hjalmar_Falk. „Ivar Aasen 1813-1896.“ Án árs. Bokselskap. E.N. Wiger (ritstj.). Sótt af http://www.bokselskap.no/forfattere/aasen. „Íslensk nútímamálsorðabók.“ 2013. Halldóra Jónsdóttir og Þórdís Úlfarsdóttir (ritstj.). Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Sótt af http://islenskordabok.arnastofnun.is/islob#lleit. „Jens Bjelke.“ 2017, 12. apríl. Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/Jens_Bjelke. „Jens Nilssøn.“ 2009, 15. febrúar. Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/Jens_Nilss%C3%B8n. Jón Gunnar Þorsteinsson. 2009, 26. mars. „Hvað er expressjónismi?“ Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=23768.

113

Jón Gunnar Þorsteinsson. 2005, 15. apríl. „Hvernig þýðir maður post-colonialism á íslensku?“ Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=4886. Jón Gunnar Þorsteinsson og Þorsteinn Vilhjálmsson. 2007, 7. desember. „Hvers konar rit er Konungsskuggsjá?“ Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=6949. „Karl Müllenhoff.“ 2017, 20. febrúar. Wikipedia. Sótt af https://en.wikipedia.org/wiki/Karl_M%C3%BCllenhoff. Knudsen, Knud. 1886. „Det dansknorske målstrævs krav på ændringer i „Skriftsprogets“ nedarvede form.“ Í: Knudsen, Knud. 1886. Hvem skal vinne? eller De historiske, dansknorske målstræveres standpunkt. Kristiania : Chr. H. Knudsen. Sótt af http://runeberg.org/hvemvinne/0120.html. Kolderup, Trude og Winther, Truls Olav. 2016, 26. desember. „Molière.“ Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/Moli%C3%A8re. „Konrad Von Maurer.“ 2009, 27. júní. Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/Konrad_von_Maurer. Kristján Árnason. 2001, 1. júní. „Hver er munurinn á dadaisma, súrrealisma og absúrdisma?“ Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=1668. Kvideland, Reimund. 2009, 13. febrúar. „Moltke Moe.“ Norsk biografisk leksikon. Sótt af https://nbl.snl.no/Moltke_Moe. Lefevere, André. 2013. Þýðingar, endurritun og hagræðing bókmenntaarfsins. María Vigdís Kristjánsdóttir (þýddi). Reykjavík: Þýðingasetur Háskóla Íslands. „Leikhúsið: Gjaldþrotið eftir Björnstjerne Björnson.“ 1928, 23. mars. Vesturland, 5(10), bls. 2. Sótt af http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=5007477. „Ludvig Wimmer.“ 2015, 16. september. Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/Ludvig_Wimmer. Magerøy, Hallvard ; Nordbø, Børge og Venås, Kjell. 2017, 26. nóvember. „Norrønt.“ Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/norr%C3%B8nt. „Magnus Olsen.“ 2009, 15. febrúar. Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/Magnus_Olsen. Mardal, Magnus A. 2018, 2. júlí. „Nicolai Wergeland: prest.“ Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/Nicolai_Wergeland_-_prest. Mardal, Magnus A. 2017a, 31. maí. „Jonas Anton Hielm.“ Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/Jonas_Anton_Hielm.

114

Mardal, Magnus A. 2017b, 25. apríl. „Gerhard Schøning.“ Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/Gerhard_Sch%C3%B8ning. Mei, Z. 2010. „On the translation strategies of english film title from the perspective of skopos theory.“ Journal of Language Teaching and Research, 1(1), bls. 66- 68. Sótt af http://search.proquest.com/docview/741383122?accountid=28822. „Minimalisere.“ 2009, 14. febrúar. Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/minimalisere. Moi, Morten. 2013, 21. október. „Maurits Hansen.“ Norsk biografisk leksikon. Sótt af https://nbl.snl.no/Maurits_Hansen. Munday, Jeremy. 2001. Introducing translation studies. Theories and applications. London : New York : Routledge. Myrvoll, Klaus Johan. 2018, 29. nóvember. „Sophus Bugge.“ Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/Sophus_Bugge. Neraal, Anders ; Storsveen, Odd Arvid og Røhne, Berit. 2018, 17. apríl. „Bokavtalen.“ Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/Bokavtalen. Nida, Eugène Albert. 1964. Toward a science of translating. With special reference to principles and procedures involved in Bible translating. Leiden : E.J. Brill. Nord, Christiane. 1997. Translating as a purposeful activity. Functionalist approaches explained, translation theories explained. Manchester UK : St. Jerome. Nordbø, Børge og Venås, Kjell. 2015, 9. nóvember. „Moderne Norsk.“ Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/moderne_norsk. Norseng, Per G. 2018, 29. nóvember. „Olav Den Hellige.“ Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/Olav_den_hellige. Oftedal, Magne og Rekdal, Jan Erik. 2016, 22. febrúar. „Keltiske Språk.“ Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/keltiske_spr%C3%A5k. Oittinen, Riitta. 2000. Translating for children. London : Garland Publishing. „Olav Midttun.“ 2009, 15. febrúar. Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/Olav_Midttun. Opsahl, Erik og Mardal, Magnus A. 2017, 31. janúar. „Erik Valkendorf.“ Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/Erik_Valkendorf. Papazian, Eric. 2012. „Sprakreformatoren-Knud-Knudsen.“ Spraaknytt. Sótt af http://www.sprakradet.no/Vi-og- vart/Publikasjoner/Spraaknytt/Arkivet/spraknytt-2012/Spraknytt- 22012/Sprakreformatoren-Knud-Knudsen/.

115

„Peder Claussøn (Friis).“ 2018, 3. júlí. Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/Peder_Clauss%C3%B8n_(Friis). „Peter Andreas Munch: historiker.“ 2018, 15. júní. Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/Peter_Andreas_Munch_-_historiker. „Profil.“ 2012, 4. júní. Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/Profil. Ragnar Ingi Aðalsteinsson. 2013. Íslensk bragfræði. Reykjavík : Bókmennta og listfræðastofnun Háskóla Íslands ; Háskólaútgáfan. „Rasmus Kristian Rask.“ 2017, 6. september. Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/Rasmus_Kristian_Rask. „Réttarhöldin og veröld Kafka.“ 1995, 11. júní. Morgunblaðið. Sótt af https://www.mbl.is/greinasafn/grein/206905/. Ridderstrøm, Helge. 2018, 12. apríl. „Oversettelsesteori.“ Í: Bibliotekarstudentens nettleksikon om litteratur og medier. H. Ridderstrøm (ritstj.). Sótt af https://edu.hioa.no/helgerid/litteraturogmedieleksikon/oversettelsesteori.pdf. Rottem, Øystein. 2013, 30. apríl. „Norla.“ Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/NORLA. Roy, Cynthia B. 2000. Interpreting as a Discourse Process. New York : Oxford University Press. „Rudolf Keyser.“ 2017, 12. apríl. Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/Rudolf_Keyser. Ryghaug, Marianne. 2002. „Å bringe tekster i tale – mulige metodiske innfallsvinkler til tekstanalyse i statsvitenskap.“ Norsk statsvitenskapelig tidsskrift, 4(18). Sótt af https://www.idunn.no/nst/2002/04/a_bringe_tekster_i_tale_- _mulige_metodiske_innfallsvinkler_til_tekstanalyse. „Rökstenen.“ 2009, 15. febrúar. Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/R%C3%B6kstenen. Salvesen, Helge. 2018, 6. september. „Magnus Lagabøte.“ Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/Magnus_Lagab%C3%B8te. „Samnorsk.“ 2015, 23. október. Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/samnorsk. Sejersted, Jørgen Magnus. 2019, 3. janúar. „Ludvig Holberg.“ Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/Ludvig_Holberg. Sejersted, Jørgen Magnus. 2018, 13. nóvember. „Henrik Wergeland.“ Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/Henrik_Wergeland.

116

Sigurður Jónsson, frá Brún. 1967. „Hugleiðingar um þýðingar.“ Sunnudagsblað Tímans. Skei, Hans H. 2018, 20. febrúar. „Lyrikk.“ Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/lyrikk#-Lyrikken_i_norsk_litteratur. Smidt, Kristian. 2018a, 28. júní. „Virginia Woolf.“ Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/Virginia_Woolf. Smidt, Kristian. 2018b, 4. apríl. „Jonathan Swift.“ Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/Jonathan_Swift. Stefansson, Magnus. 2009, 13. febrúar. „Karl Jónsson.“ Norsk biografisk leksikon. Sótt af https://nbl.snl.no/Karl_J%C3%B3nsson. Sveinn Yngvi Egilsson. 1999. Handbók um stílfræði. Tilraunaútgáfa. Reykjavík : SVE. Sótt af http://uni.hi.is/sye/files/2014/01/St%C3%ADlfr%C3%A6%C3%B0i-SYE- 1999.pdf. „Svend Hersleb Grundtvig.“ 2009, 14. febrúar. Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/Svend_Hersleb_Grundtvig. Svendsen, Åsmund. 2009, 13. febrúar. „Halvdan Koht.“ Norsk biografisk leksikon. Sótt af https://nbl.snl.no/Halvdan_Koht. Svendsen, Lars Fredrik Händler. 2018, 6. júlí. „Friedrich Schleiermacher.“ Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/Friedrich_Schleiermacher. The Discourse Reader. 2006. N. Coupland og A. Jaworski (ritstj.) (2. útg.). New York : Routldedge. „The Nobel Prize in Literature 1903.“ 2014. Nobelprize – Nobel Media AB. Sótt af http://www.nobelprize.org/nobel_prizes/literature/laureates/1903/. „Thomas Rosing De Stockfleth.“ 2017, 28. mars. Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/Thomas_Rosing_de_Stockfleth. Thomassen, Hilde Kathrine. 2018, 1. febrúar. „Aasmund Olavsson Vinje.“ Alkunne. Sótt af http://www.aasentunet.no/iaa/no/litteratur/forfattarar/vy/vinje_aasmund_olavsson/. Transcultural Awareness in Translation Pedagogy. 2017. J. Deconinck, P. Humble, A. Sepp, H. Stengers (ritstj.). Vín : Lit Verlag. „Trygve Bratteli.“ 2018, 21. mars. Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/Trygve_Bratteli.

117

„Tunesteinen.“ 2016, 1. desember. Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/Tunesteinen. Tønnesson, Johan. 2015, 13. febrúar. „Sakprosa.“ Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/sakprosa. Venås, Kjell. 2009, 13. febrúar. „Gustav Indrebø.“ Norsk biografisk leksikon. Sótt af https://nbl.snl.no/Gustav_Indreb%C3%B8. Venuti, Lawrence. 1995. The translator's invisibility. A history of translation. New York : Routledge. Vinje, Aasmund Olavsson. 1885. „Huldri.“ Í: Læsebog i det norske folkesprog for høiere skoler. A. Garborg og I. Mortensson-Egnund (ritstj.). Kristiania : Huseby og co. Sótt af https://www.nb.no/nbsok/nb/66720ee2edddc21769f0994a2be51988?lang=no#73. „Vogt Komiteen.“ 2015, 8. maí. Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/Vogt- komiteen. Zethsen, Karen Korning. 2001, október. „Oversættelsesstrategier.“ Anglo files: journal of English teaching, bls. 43-48. Þórunn Blöndal. 2005. Lifandi mál. Inngangur að orðræðu- og samtalsgreiningu. Reykjavík : Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands. Østmoe, Tor Ivar. 2018, 25. september. „Cicero.“ Store norske leksikon. Sótt af https://snl.no/Cicero.

118