<<

Hugvísindasvið

„Hold loðir yðr í klóm“

Hrafnar og heiðin minni

Ritgerð til BA-prófs í íslensku

Aðalheiður Elfríð Heiðarsdóttir

Maí 2015 Háskóli Íslands

Hugvísindasvið Íslenska

„Hold loðir yðr í klóm“

Hrafnar og heiðin minni

Ritgerð til BA-prófs í íslensku

Aðalheiður Elfríð Heiðarsdóttir Kt.: 190287-3279

Leiðbeinandi: Ármann Jakobsson Maí 2015

Ágrip Í heiðnum sið voru hrafnarnir Huginn og Muninn þekktir á miðöldum fyrir hlutverk sín sem boðberar Óðins og fjölmiðlar miðaldanna. Nöfn þeirra koma víða að, meðal annars í ýmsum kvæðum og ritum. Hins vegar hefur minna borið á umfjöllun annarra hrafna þessa tíma og samband þeirra við goðheima og heiðinn sið því lítið rannsakað. Til umfjöllunar í ritgerðinni eru hrafnar og mismunandi birtingarmyndir þeirra í bókmenntum á 13. og 14. öld. Þróunarsaga fuglanna verður ekki skoðuð heldur einungis litið til þessa tímabils. Ekki verður einvörðungu litið til hrafna Óðins heldur verða ónafngreindir hrafnar mismunandi rita og kvæða teknir fyrir líka og þeirra birtingarmyndir skoðaðar. Helstu rit sem notuð eru til heimilda um hrafna á þessu tímabili eru meðal annars valin eddukvæði úr Eddukvæðum í útgáfu Gísla Sigurðssonar, dróttkvæðið Haraldskvæði | Hrafnsmál, Snorra- í útgáfu Finns Jónssonar og Íslendingabók: Landnámabók í útgáfu Jakobs Benediktssonar. Í inngangi er minnst lauslega á hrafna Óðins, Hugin og Munin, og hlutverk þeirra sem fjölmiðla miðalda. Síðan er meginviðfangsefni ritgerðarinnar, ásamt köflum hennar, kynnt til sögunnar og að lokum sett fram rannsóknarspurning. Kannað verður hvort hlutverk hrafna hafi ef til vill verið stærra í lífi fólks á 13. og 14. öld en hingað til hefur verið talið. Tilgangurinn er því að rýna í samband fuglanna við goðheima og hvernig það samband birtist í kvæðum og lausamáli. Einnig verður litið til þess hvernig þetta samband hafi haft áhrif á fólk þessa tíma.

Efnisyfirlit 1. Inngangur ...... 5

2. Heimildir ...... 6

3. Snorra-Edda og skáldamál ...... 8

4. Eddukvæði ...... 13

5. Haraldskvæði | Hrafnsmál ...... 19

6. Landnáma ...... 21

7. Niðurstöður ...... 24

Heimildaskrá ...... 27

1. Inngangur

Huginn og Muninn fljúga hverjan dag jörmundgrund yfir. Óumk eg of Hugin að hann aftur né komi-t þó sjámk meir um Muninn (Gísli Sigurðsson 1998:74).

Huginn og Muninn eru þekktustu hrafnar íslenskra miðaldabókmennta, þeir voru boðberar Óðins og unnu sem nokkurs konar fjölmiðlar þess tíma. Þeir fóru um heim allan, sáu hvað gerðist og fluttu Alföður fréttirnar. Aðrir hrafnar í miðaldabókmenntum hafa ekki þótt jafn áhugaverðir og virðist sem hræfuglar vígvallanna og fyrirboðar orustna hafi því fallið í skuggann af hinum nafnkunnu hröfnum Óðins. Í eftirfarandi ritgerð verða skoðaðir hrafnar og litið til hinna ýmsu birtingarmynda þeirra í miðaldakveðskap. Fyrstur er kafli með fróðleik um þær heimildir sem helst er stuðst við, næst á eftir verður fjallað um hrafna í Snorra-Eddu og skáldamáli. Þá verða valin eddukvæði athuguð, einnig dróttkvæðið Haraldskvæði | Hrafnsmál og að lokum verður litið til Landnámu áður en niðurstöður verða dregnar saman. Meginviðfangsefnið er að sýna fram á tengsl hrafna við goðheima. Athuguð eru einnig hlutverk Hugins og Munins og hvernig þeir virtust stuðla að því að fólk tengdi hrafna við goðheima hvenær sem þeir sáust. Leitað verður svara við þeirri spurningu hvort tengsl milli hrafna og goðheima hafi ávallt verið til staðar í miðaldaritum frá 13. og 14. öld og skoðuð birtingarmynd þess sambands í (ákveðnum) ritum og kvæðum. Einnig verður hugað að því hvernig þessi tengsl hrafna við goðheima hafði áhrif á fólk miðalda.

5

2. Heimildir Áður en ritað var á skinn og seinna meir pappír á Íslandi, geymdist allur kveðskapur og sögur í manna minnum. Þulið var upp á mannamótum eða á heimilum og vitneskjan fluttist frá kynslóð til kynslóðar. Vitanlega var ekki hægt að halda kvæðunum og sögunum án breytinga því með hverju árinu, og mismunandi þulum eða bragarháttum, gat innihaldið breyst. Sumt gleymdist, annað var skreytt á nýjan máta og jafnvel var bætt inn í kvæði til að auðveldara væri að muna þau. Eftir að ritun á forníslenskri bókmenntasögu hófst, flokkuðu fræðimenn miðaldakveðskap í eddukvæði og dróttkvæði. Ferlið var þó ekki án vandkvæða því margur kveðskapurinn á heima í báðum flokkum og ekki alltaf auðvelt að greina þar á milli (Vésteinn Ólafsson, 2006a, bls. 52). Eddukvæðin hafa talist standa nærri þjóðkvæðum þar sem fjallað er um atburði sem gerst hafa á forsögulegum tímum. Viðfangsefni þeirra eru almenn og fjarlæg í tíma; fjallað er um fornar hetjur, goðin og goðheima. Ýmis fróðleikur fyrirfinnst því innan þessa flokks frásagnar- og fræðslukvæða sem sögðu frá lífi og venjum goðanna úr heiðinni trú. Eddukvæðin eru talin bera vitni um aldarlangt líf kvæðagreinar sem varðveittist í munnlegri geymd. Viðfangsefni dróttkvæðanna eru á hinn bóginn nær skáldunum í tíma og þau eru gjarnan notuð til að lýsa einhverjum sem er enn á lífi eða sem hefur látist nýlega. Þá er jafnan fjallað um fólk sem flestir, ef ekki allir, hafa heyrt minnst á; svo sem konunga eða kappa sem fallið hafa í hetjulegum bardögum. Ef dróttkvæði eru vandlega skoðuð má gjarnan sjá merki þess að yfirstéttin borgaði skáldunum vel fyrir verkin og hlaut lofgjörð í kvæðaformi í staðinn. Líkt og áður var nefnt gat verið lítill munur á þessum tveimur flokkum kvæða. Bragarhættir og skáldskaparmál eddukvæðanna er einfaldara en dróttkvæðanna sem eru flóknari að gerð og skipulagi. Hins vegar geta efni kvæðanna oft tengt þessa tvo flokka en einnig valdið vandræðum í flokkuninni. Hér má nefna kvæði sem fjallar um goðin en er þó sett saman að dróttkvæðum hætti og flokkast þá sem dróttkvæði. Á hinn bóginn má nefna kvæði sem hefur form eddukvæðis en fjallar um nýlátinn höfðingja og er þá flokkað sem eddukvæði, jafnvel þótt efnið vísi til nýlegs atburðar og hafi ekkert með goðheima að gera. Eddukvæði eru í flestum tilvikum frásögukvæði eða dramatísk að gerð. Þau eru því oftast samblanda af frásögn og samtali eða hrein eru samtalskvæði. Finna má mörg dæmi um slíkt en eitt hið frægasta frásagnar- og fræðslukvæðið er Völuspá sem byrjar á þessa leið:

6

Hljóðs bið eg allar kindir, meiri og minni mögu Heimdalar vildu að eg Valföður vel fyr telja forn spjöll fira þau er fremst um man (Gísli Sigurðsson 1998:3).

Hér er ályktað að völva sé mælandi og ávarpi Óðin. Kvæðið segir frá endalokum heimsins en einnig upphafi hins nýja. Dróttkvæði eru á hinn bóginn oft lýrísk og lýsa persónulegri afstöðu skáldsins í stað þess að fræða fólk um almenna hluti hins hversdagslega lífs. Frásagnarkvæði í þessum flokki koma þó einnig fyrir, líkt og Haraldskvæði þar sem hrafn talar við valkyrju og segir frá orustum. Eddukvæðin hafa ekki nafngreinda höfunda, þau virðast oftast hafa borist frá einni kynslóð til annarrar í munnlegri geymd og því erfitt að vita hvaðan þau eru upprunnin. Hins vegar eru mörg dróttkvæðanna merkt höfundum (Vésteinn Ólason, 2006a, bls. 52-54). Íslendingasögur, sem taldar eru ritaðar á 13. og 14. öld (Vésteinn Ólason, 2006b, bls. 39), eru á hinn bóginn lausamálsrit og teljast ekki til kveðskapar. Þó hefur verið litið á þær sem nokkurs konar sambland af drótt- og eddukvæðum. Sögurnar eru lausamálsfrásagnir á sinni þjóðtungu, þær segja frá hversdagslegum atburðum í lífi fólks og goðin koma einnig þar við sögu. Íslenska þjóðfélagsgerðin endurspeglaðist gjarnan í sögunum og byggt er bæði á munnlegum og bókmenntalegum þáttum (Byock, 1990, bls. 21-23). Í Snorra-Eddu, riti frá 13. öld eftir Snorra Sturluson, má finna margan fróðleikinn um goðin, hagi þeirra og háttalag. Höfundur veitir ríkulega innsýn í veröld fjarlægrar fortíðar þar sem heiðinn siður ríkir. Snorra-Edda nýtist sem hið ágætasta lærdómsrit ef fólk vill fræðast um norræn trúarbrögð, í skáldskap eða heimssýn forn norrænna manna. Ritið skiptist í fjóra hluta: Prologus, Gylfaginningu, Skáldskaparmál og Háttatal. Ritsmíðin var unnin eftir að kristin trú barst til Íslands og þar af leiðandi er Snorra-Edda uppfull af kristnum áhrifum, þó fróðleikur ritsins sé mestmegnis sprottinn úr heiðni. Það þótti mikilvægt að nýta sér hin fornu trúarbrögð til fróðleiks um eldri

7 tíma því sá fróðleikur veitti innsýn í eldra samfélag og lifnaðarhætti forvera okkar (Ármann Jakobsson, 2009, bls. 93-94). Landnáma sem stuðst verður við var gefin út í ritinu Íslendingabók Landnámabók á vegum Jakobs Benediktssonar. Margt sem fyrirfinnst í Landnámu má telja til endursagnar Íslendingasagna. Þó má benda á að hin elsta gerð Landnámu, sem er glötuð í dag, var talin eldri en Íslendingasögurnar. Þetta rit segir frá landnámi Íslands og þeim köppum sem settust hér að og einnig koma goðin og heiðnir siðir fyrir. Þessi framangreindu rit ná að mestu yfir sama tímatalið; 13. og 14. öldina. Því verður ekki fjallað um þróun hrafnsins í sögu heiðinnar trúar, og seinna meir kristni, heldur verður einvörðungu litið til þessa tímaskeiðs. Sýnt verður fram á hvað þessi rit hafa sameiginlegt þegar kemur að hlutverkum og birtingarmyndum hrafna og sambands þeirra við goðheima.

3. Snorra-Edda og skáldamál Áhugaverðasti kafli Snorra-Eddu er vafalaust Gylfaginning. Þar segir frá konunginum Gylfa, sem er fróður maður og valdamikill, en hann vill afla sér vitneskju um goðin og goðheima því hann fýsir að vita hvers vegna þau hafi svo mikil völd í heiminum. Hann fer í ferðalag til Ásgarðs í dulargervi en goðin vita þá þegar erindi hans og bregða fyrir sig sjónhverfingu. Gylfi gengur inn í háa höll og hittir fyrir Óðin sem birtist honum í líki þriggja manna sem bera nöfnin Hár, Jafnhár og Þriðji. Spyr Gylfi þessa þrjá tíðinda án þess að vita í raun við hvern hann mæli. Hann vill vita hver sé fremstur goðanna áður en hann spyr margra spurninga um goðheima. Ekki stendur á svörunum og er honum sagt að Óðinn sé æðstur allra og að hann sé einnig þekktur sem Alfaðir því hin goðin eru sem börn hans (Finnur Jónsson, 1931, bls. 10). Óðinn var sagður mjög vitur og hann vissi allt það sem gerðist í heiminum hverju sinni. Tvær ástæður þóttu aðallega liggja að baki hinnar miklu visku hans. Önnur var sú að hann hafði drukkið úr Mímisbrunni þar sem Mímir, guð mikillar og djúprar speki, hafði safnað saman hinum ýmsu vísindum. Óðinn þurfti þó að gefa annað auga sitt til að fá sopann góða en honum þótti það lítil fórn fyrir viskuna sem honum hlotnaðist í staðinn. Hin ástæða þekkingarinnar var sú að tveir hrafnar sátu á öxlum hans og hvísluðu að honum helstu tíðindum heimsins. Hrafnar þessir voru nefndir Huginn og Muninn. Þeir eru án efa þekktustu hrafnar miðalda vegna hlutverks þeirra sem boðberar Óðins. Á hverjum degi flugu þeir um heiminn allan og sneru svo aftur til húsbónda síns í dagslok og deildu með honum hverri þeirri frétt og atburði sem þeir höfðu orðið vitni

8 að. Segir svo í Gylfaginningu: „Hrafnar ii. sitia a ꜹxlum honvm ok segia ieyro honvm avll tiþinde, þꜹ er þeir sia eþa heyra;. . . “ (Finnur Jónsson 1931:42). Kemur hér fram að hrafnarnir tveir eru helsta þekkingarveita Óðins. Þau tengsl sem þegar hafa verið nefnd milli Alföður og hrafnanna eru talin gefa góða skýringu á því hvers vegna Óðinn hafi verið nefndur hrafnaguð. Í Skáldskaparmálum Snorra-Eddu kemur einnig fram að Refr nokkur hafi kveðið um hrafnaás og vísar þar í Óðin (Finnur Jónsson, 1931, bls. 88). Nöfn þeirra Hugins og Munins hafa lengi þótt merkileg og eru þess verð að skoða nánar. Hugmyndin um tengsl hrafnanna tveggja við Alföður hefur komið fram í hinum ýmsu kenningum, jafnvel þótt nöfnin tvö séu ekki alltaf nefnd. Þau hafa vafalaust ekki verið mótuð fyrr en á 9. eða 10. öld en þó hefur Óðinn verið tengdur hröfnum mun lengur en það. Myndir frá 6. og 7. öld sýna meðal annars að hann hafi sést í fylgd tveggja fugla og því er ástæða til að halda að þar séu hrafnarnir tveir sem um ræðir (Simek, 1993, bls. 132-133). Út frá nöfnunum hefur verið ályktað að fuglarnir eigi að vera sem persónugerðir, vitrænir hæfileikar Óðins. Líkt og hugur og minni hans, hrafnarnir honum ætíð og skilja ekki við hann, nema takmarkaðan tíma í senn Nöfnin hafa verið skýrð hvort um sig og má rekja þau til orðanna hugr og munr. Sagt er frá Hugin og Munin sem fljúga hvern dag yfir jörðina og að þeir séu taldir vera hugur og minni Óðins holdi klædd (Turville-Petre, 1964, bls. 229-230). Hægt er að finna málfræðileg dæmi sem styðja þessa merkingu nafnanna. Það kemur meðal annars fram í Íslenskri orðsifjabók (Ásgeir Blöndal Magnússon, 1989, bls. 386 og bls. 640) að Huginn sé af sama stofni og hugur eða hugsun en Muninn sé aftur á móti tengdur sögninni að muna og af því væri hægt að leiða að nafn hans vísaði til minnis Óðins. Hæfileikinn að geta sent hug sinn eða hugsun eitthvert án þess að líkaminn fylgi á eftir hefur gjarnan verið tengdur við shamanisma eða seið. Óðinn var þekktur fyrir að nota seið og hann hefur verið kallaður galdramaður mikill í ýmsum ritum og sagt að hann hafi kunnað mikið fyrir sér; bæði sem seiðkarl og brellumeistari. Ekki er því ástæða til að ætla annað en að hann hafi getað sent hug sinn yfir víða veröld, klæddan í fjaðurham hrafna, til að afla sér margs konar vitneskju (Ármann Jakobsson, 2009, bls. 120). Í eddukvæðinu Grímnismálum, og í Gylfaginningu, má greina áhyggjur Óðins:

. . .Óumk eg of Hugin að hann aftur né komi-t þó sjámk meir um Munin (Gísli Sigurðsson 1998:74).

9

Hér segir hann frá því að hann óttist að Huginn og Muninn snúi ekki aftur til sín. Þó er ekki vitað hvort hann á við hrafnana tvo eða hug sinn og minni. Þykir þetta góð vísbending um hætturnar sem steðja að þeim sem stunda shamanisma en einnig vísbending um tenginguna milli huga hans og minni og hrafnanna sem fljúga óravegu frá honum. Huginn og Muninn koma aftur fyrir í Gylfaginningu eftir að búið er að kynna þá sem boðbera Óðins framarlega í kaflanum. Þá er sagt frá dauða ássins Baldurs en hann var drepinn fyrir slysni af Heði hinum blinda. Æsir syrgðu Baldur mikið því hann var uppáhald flestra og heittelskaður sonur Óðins. Útför hans var mikilfengleg en hann var brenndur á skipi sínu sem þá var stærsta skip heimsins. Talið er upp hverjir sóttu brennuna og er þar nefndur fyrstur Óðinn og „með honvm for Friɢ ok valkyrivr ok hrafnar hans. . .“ (Finnur Jónsson 1931:66). Sú staðreynd að þessi tiltekni hópur fari fremstur í röðinni að útför Baldurs, þykir undirstrika enn fremur samband þeirra við dauðann. Viðtakendur fallinna manna fara eftir allt fremstir í röðina til að kveðja hinn látna. Valkyrjurnar og hrafnar Óðins tengjast dauðanum náið, líkt og Alfaðirinn sjálfur; sem er guð orusta og dauða. Meðal annars segir í Egils sögu Skalla- Grímssonar að her sé kallaður skógur Óðins eða „Óðins eiki“ (Sigurður Nordal 1933:188) og í Ágripi af Nóregskonunga sögum er sagt frá því að þeir sem falli í bardögum fari til Óðins (Bjarni Einarsson, 1985, bls. 86). Hrafnarnir eru á hinn bóginn hræætur sem fylgja bardagamönnum eftir í von um að fá æti í gogginn þegar vopnin syngja og valkyrjurnar ráða því hverjir sigra og hverjir fari til Valhallar eftir dauðann. Víða er minnst á hrafna sem hræætur og í Eyrbyggja sögu segir frá bardaga þar sem „hrafn naut hræva“ ( Ól. Sveinsson og Matthías Þórðarson 1935:42). Fuglarnir svörtu voru einnig nefndir vígafuglar, eða fuglar orustuvallarins, og komust þá enn í tengingu við goðheima þar sem þeir vofðu yfir hinum dauðu og litu á dráp sem gjafir frá hermönnum. Í Droplaugarsona sögu, sem finna má í Austfirðingasögum, segir frá Helga Droplaugarsyni sem hefur unnið hreystiverk í bardaga. Merkilegt er að skoða 5. vísu, þar sem segir hvernig hann færir hröfnum fallna menn að gjöf:

Helgi vann með herjum, hjǫrr gall at valfalli, vítt kn ttu þat þjóðir,

þegns verk í styr fregna,

10

þás gnývirðir gerði Gǫndlar stígs at vígi, heiðr at Hildar veðri hrafns rr, þría sára (Jón Jóhannesson 1950:174).

Þetta kvæði má túlka á tvenna vegu. Annað hvort hafi Helgi viljað færa hröfnum hina föllnu sem gjafir eða viljað heiðra Óðin með drápunum. Hinir föllnu voru oft nefndir Hugins barr, fæða hrafna, vegna ásóknar fuglanna í hræ. Einnig koma fyrir í Eyrbyggja sögu heitin: hrafn-vín sem merkir blóð og Munins tugga sem merkir hræ. (Einar Ól. Sveinsson og Matthías Þórðarson, 1935, bls. 47). Hér má því sjá á ný tengingu við goðheima þar sem nafn annars hrafna Óðins hefur verið notað sem samheiti yfir aðra hrafna. Tengsl fuglanna við hina dauðu voru við hæfi því Óðinn var guð hermanna en einnig hinna föllnu eins og áður hefur komið fram. Í Gylfaginningu segir meðal annars að hann og ásynjan skiptu með sér valnum, hinum föllnu, á vígvöllum:

halfan val hon kys hverian dag, en halfan Oþinn a (Finnur Jónsson 1931:31).

Þeir föllnu menn sem voru valdir sérstaklega af Óðni, eða valkyrjum hans, fengu það hlutverk að ganga í her dauðra manna sem Óðinn réði yfir. Þessir menn kölluðust og þeir áttu að berjast fyrir Alföður í Ragnarökum; þegar heimurinn færist. Bardagamenn töldu einnig til heilla að sjá hrafna áður en haldið var til orustu. Þá var álitið að Óðinn styddi við bakið á þeim og hrafnarnir færðu þær fregnir að sigur væri vís (Turville-Petre, 1964, bls. 59). Dæmi um slíkt má meðal annars finna í Ágripi af Nóregskonunga sögum. Hákon nokkur jarl blótar til goðanna og sér tvo hrafna. Telur hann þá vera senda af valkyrjum og hann tekur því sem tákni að þessi dagur hafi verið valinn til bardaga. Svo segir í vísu 81:

Ok haldboði hildar hrægamma sá ramma. Týr vildi þá týna teinlautar fjǫr Gauta (Bjarni Einarsson 1985:118).

Eftir að Hákon sá hrafnana, sem eru nefndir hrægammar í vísunni, vill hann halda til orustu og drepa Gauta.

11

Hrafnar skreyttu gjarnan gunnfána norrænna hetja. Ástæða þess var sú trú að þeir segðu ekki einungis til um sigur heldur gætu líka tryggt hann (Turville-Petre, 1964, bls. 59). Í Orkneyinga sögu segir frá Sigurði jarli og móður hans sem er fjölkunnug. Mikill bardagi er yfirvofandi en hún gefur syni sínum merki sem hún hefur unnið lengi að. Þetta merki gerir þann sem það er borið fyrir sigursælan en það verður bani þess sem merkið ber. Það var „gǫrt í hrafns mynd, ok þá er vindr blæss í merkit, þá var sem hrafn beindi fluginn“ (Finnbogi Guðmundsson 1965:25). Sigurður vann bardagann en þrír menn sem höfðu borið merkið voru felldir. Í Heimskringlu Snorra Sturlusonar er Óðni lýst í Ynglinga sögu sem miklum manni og höfðingja yfir þeirri borg sem kallaðist Ásgarður. Óðinn er farsæll hermaður og sigursæll og hann eignaðist mörg ríki og fór víða. Menn trúðu því að hann ætti vissan sigur í öllum bardögum. Það var siður að hann legði hendur sínar yfir höfuð manna áður en þeir færu í orustur og blessaði þá. Töldu menn þessa blessun færa þeim mikla lukku og velgengni á orustuvellinum. Trúað var blint á þennan Óðin og ef eitthvað bjátaði á kölluðu menn á hann til að öðlast sálarró. Óðinn þessi kunni ýmislegt fyrir sér og gat meðal annars blindað óvini sína í orustum og segir einnig frá því að hann hafi getað skipt um ham þegar honum þóknaðist (, 1966, bls. 4-7). Hér má greinilega sjá hvernig goðið úr Gylfaginningu er orðið að manni en heldur þó kröftum sínum. „Hann átti „hrafna ii, er hann hafði tamit við mál ; flugu þeir víða um lǫnd ok sǫgðu honum mǫrg tiðendi“ (Snorri Sturluson 1966:7). Líkt og goðið á þessi maður tvo hrafna sem auka visku hans dag frá degi, en þó eru fuglarnir í Ynglinga sögu ekki nefndir á nafn. Heimskringla segir einnig frá að Óðinn kunni þá íþrótt sem kallast seiður og þeim seið fylgdi mikill kraftur. Með honum gat hann meðal annars spáð fyrir um framtíðina, ráðið mönnum bana og tekið vitið frá þeim. Hins vegar fylgdi því mikið ef karlmaður lagði stund á seið og þótti sú íþrótt ekki karlmannleg. Hugtakið ergi hefur mjög fjölbreytilegt merkingarsvið. Það telst vera andstæða hins karlmannlega og sanna og einnig bendir það til skorts á karlmennsku og þykir enn fremur tengjast hinu kvenlega sterkum böndum. Hægt er meðal annars að tala um ergi ef karlmaður klæðist kvenmannsfötum eða ef tveir karlmenn stunda kynmök. Þá var ergi einnig notað um lauslátt kvenfólk. Hugtakið lýsir hegðun sem þykir andstæð því sem talið var eðlilegt fyrir hvort kynið um sig (Ármann Jakobsson, 2008, bls. 55-57).

12

4. Eddukvæði Í eddukvæðum bregður fyrir nöfnum Hugins og Munins og sjást þeir einna helst sem bein tenging við Óðin og goðheima. Einnig er minnst á hrafna almennt í kvæðunum og þar má sjá þrenns konar hlutverk fuglanna: þeir eru boðberar, vígafuglar og hræætur. Í einungis einu eddukvæðanna, Grímnismálum, eru báðir hrafnar Óðins nefndir á nafn en eftir það er einungis minnst á Hugin í hinum kvæðunum. Einnig er nafn hans oftar nefnt í ýmsum dróttkvæðum. Til fróðleiks og útskýringar má benda á að nafn Hugins er oftar en ekki notað sem samheiti yfir aðra hrafna innan kvæðamáls. Turville-Petre (1964, bls. 58) segir meðal annars að þar sem Huginn var nafn yfir einn hrafn þá gat það hæglega yfirfærst á alla hrafna í kveðskap. Nafn Munins er einnig notað á þá vegu en þó ekki í jafn miklum mæli þegar kemur að eddukvæðum. Hægt er að finna ýmsar heimildir um slíka notkun nafns Hugins, meðal annars í Egils sögu Skalla-Grímssonar þar sem Egill kallar blóð Hugins varra, eða sæ Hugins, og vísar þar til allra hrafna sem hræfugla og blóðsvallara. Bardagar voru einnig oft kallaðir veislur Hugins og samheitið því aftur notað yfir hrafna upp til hópa. Greinilega má sjá að hér er um hrafna almennt að ræða því þegar menn voru vegnir flykktust fuglarnir að í leit að æti. Hrafnar eru tvímælalaust helstu hræfuglar Íslands því ekki er um marga aðra fugla að ræða sem sækja jafn stíft í hræ hér á landi (Sigurður Nordal, 1933, bls. 58). Simek (1993, bls. 132 og bls. 173) hefur þó einnig bent á að í eddukvæðunum sé Huginn fremur samheiti yfir hrafnana tvo en í dróttkvæðum séu hins vegar nöfnin Huginn og Muninn notuð sem samheiti yfir hrafna almennt. Ber því að hafa það í huga hverju sinni þegar lesin eru hin fornu rit. Rætt hefur verið hvernig hrafnar birtast á mismunandi vegu og hvernig hægt er að tengja þá við goðheima og Óðin. Mikilvægt er að hafa í huga hvernig lesendur túlka sambandið við goðheima í hvert skipti sem þeir sjá hrafna í texta. Við lesturinn er brýnt að finna út af hverju og undir hvaða nöfnum hrafnar birtast og hvernig hægt sé að lesa í tilvist þeirra. Ekki er alltaf greinilegt hvenær hrafnar hafa fengið yfirnáttúruleg hlutverk, eða sýna á beinan hátt tengsl við Óðin eða hin goðin, en við náinn lestur textans er þó yfirleitt fljótlegt að sjá slíkt. Hver tenging þarf ekki að vera stór, hvert dæmi getur verið agnarsmátt. Ef litið er til þeirra eddukvæða þar sem hrafnar birtast þá er hægt að skoða frekar þessar birtingarmyndir og taka mismunandi dæmi. Eddukvæðin sem verða til frekari umfjöllunar eru: Grímnismál, Helgakviða Hundingsbana I, Helgakviða Hundingsbana II, Reginsmál, Fáfnismál, Sigurdrífumál, brot af Sigurðarkviðu og Guðrúnarkviða II.

13

Grímnismál er hið fjórða eddukvæða í Konungsbók og ritinu Eddukvæði í útgáfu Gísla Sigurðssonar (1998). Kvæðið segir frá sonum Hrauðungs konungs; Agnari og Geirröði. Þeir tveir eru fóstraðir af karli nokkrum og kerlingu og líkur eru á að þar sé um að ræða og Óðin. Þegar drengirnir eru komnir á fullorðinsár, veðja þau tvö um hvort Geirröður, sem nú er orðinn konungur, sé nískur við gesti sína eða ekki. Óðinn bregður sér í dulargervi til að hitta hann en þá hefur Frigg þegar varað Geirröð við því að bráðum komi til hans fjölkunnugur maður. Þegar Óðinn hittir svo konunginn er hann pyntaður milli elda þar til Agnar, sonur Geirröðar, aumkar sig yfir hann og gefur honum að drekka. Þá segir Óðinn loks deili á sér. Þegar Geirröður uppgötvar við hvern er að eiga bregður honum við, stekkur á fætur en hrasar og fellur á sverð sitt og deyr. Í 20. vísu kvæðisins eru hrafnarnir Huginn og Muninn nefndir og um þá er sagt að þeir fljúgi dag hvern yfir jörmundgrund, eða hina miklu jörð eins og það útleggst á nútímaíslensku. Í síðari hluta vísunnar kemur fram, eins og áður var sagt, að Óðinn óttist að Huginn og Muninn, hugur hans og hugsun (hugur og minni), komi ekki aftur til hans (Gísli Sigurðsson 1998:74). Engar nýjar upplýsingar fást í Grímnismálum, aftur er sagt frá því hvernig þeir ferðast fyrir jörðina hvern dag og huga að öllu því sem gerist. Enn er þeirra helsta hlutverk að vera sem fjölmiðlar Alföður. Í lok hvers dags snúa hrafnarnir svo aftur til goðheima og flytja Óðni öll þau tíðindi sem þeir hafa orðið vitni að og auka þannig dag frá degi við visku hans. Þær upplýsingar sem liggja fyrir í þessu kvæði gefa sterklega til kynna að ekki sé almennt um samheiti að ræða, heldur sé hér um að ræða hrafna Óðins og því er gefin bein tenging við goðheima án neinnar dulúðar eða getgátna um hverjir þessir fuglar hafi verið. Í hinum kvæðunum er það þó ekki jafn einfalt og ekki alltaf auðvelt að átta sig á því hvort um er að ræða einn, tvo eða fleiri hrafna þegar nafn Hugins birtist. Næsta eddukvæði þar sem minnst er á Hugin er Helgakviða Hundingsbana I. Helgakviðurnar eru þrjár: Helgakviða Hundingsbana I, Helgakviða Hjörvarðssonar og Helgakviða Hundingsbana II. Kviðurnar þrjár í Konungsbók fjalla um hetju að nafni Helgi sem er endurborinn tvisvar. Einnig koma fyrir valkyrjurnar Sigrún, Sváva og Kára. Í kvæðinu er augljós hetjudýrkun og upphafning Helga sem minnir á stíl dróttkvæða. Hið fyrsta kvæðanna þriggja markar upphaf hetjukvæða í Konungsbók og það er 56 erinda frásagnarkvæði undir fornyrðislagi. Kviðan segir frá fæðingu og æsku Helga af ætt Völsunga. Í 5. vísu er Borghildur að eiga son sinn og mælir hrafn við annan að nú sé fæddur maður „sá er varga vinur“ (Gísli Sigurðsson 1998:165) en merkir það að hann sé

14 vinur úlfa því hann gefi þeim að éta með því að vega aðra menn. Spáir fuglinn því við fæðingu Helga að hér hafi fæðst mikill kappi og hermaður. Talið var að fuglarnir, sem nærðust á hræjum fallinna manna, gleddust ávallt yfir því að nýir kappar væru fæddir og færu fljótlega að mála jörðina rauða með blóði fjandmanna sinna. Mögulega er hér um að ræða þá Hugin og Munin, þar sem þeir voru fuglar spádóma og fyrirboða. Þegar kemur að enda þessa sama kvæðis, eða 54. vísu, er Huginn nefndur á nafn. Þar heilsar valkyrjan Sigrún Helga meðan úlfur hennar étur „af Hugins “ (Gísli Sigurðsson 1998:176). Líkt og áður hefur verið nefnt var barr Hugins fallnir menn á vígvöllum og því greinileg tenging hér milli hrafna sem náæta og hrafna Óðins sem tóku glaðir til matar síns af líkum dauðra manna. Helgakviða Hundingsbana II er þriðja og jafnframt síðasta kvæði Helgakviðnanna í Konungsbók. Hér má enn og aftur sjá hrafna koma fyrir sem hræfugla og einnig vígafugla er hafa tengingu við goðheima. Segir frá Völsungum og nefndur er ófriður milli Sigmundar konungs Völsungssonar, föður Helga, og hermanns mikils sem ber nafnið Hundingi. Helgi drap Hunding og fékk þaðan viðurnefnið Hundingsbani. Hann sigldi svo með her sinn að Brunavogum þar sem þeir hittu fyrir Sigrúnu valkyrju. Þau ræða saman en hún spyr Helga í 7. vísu hvar hann hafi háð orustu og þar með alið hrafna á líkum óvina sinna (Gísli Sigurðsson, 1998, bls. 194). Merkilegt er hvernig Sigrún orðar spurninguna því hún segir:

Hvar hefir þú, hilmir, hildi vakta eða gögl alin Gunnar systra? (Gísli Sigurðsson 1998:194).

Gunnur er hér valkyrjuheiti og kallar Sigrún þær valkyrjur systur sínar. Gögl valkyrja merkir hrafnar og þar má því sjá tengingu hrafna við goðheima, vígvelli, valkyrjur og sterka tengingu við Óðin. Alfaðirinn stendur nærri þeim dauðu og þá sérstaklega þeim sem falla í bardögum. Hann bíður þeirra í Valhöll þar sem þeir ganga í her hans sem einherjar. Óðinn er því herforingi mikilla skara dauðra manna. Hann er einnig þekktur fyrir að vera ábyrgur fyrir velgengni manna í orustum og oftar en ekki finnst mönnum sem Óðinn hafi svikið sig ef þeir falla á vígvellinum. Grimm segir í riti sínu Teutonic Mythology (1882, bls. 147) að þessum guði sigurs hafi fylgt tveir úlfar og tveir hrafnar sem átu hina föllnu. Fólk á þessum tímum lifði lífi sínu samkvæmt því sem það hélt að goðin ætluðust til af því. Fyrirboðar og yfirnáttúruleg dýr hafa þar af leiðandi ekki þótt

15 annað en eðlileg fyrirbæri (Simek, 1993, bls. 190). Seinni hluti Helgakviðu Hundingsbana II segir frá dauða Helga og komu hans til Valhallar þar sem hann hittir fyrir Óðin. Alfaðir gefur honum tækifæri til að fara aftur í land hinna lifandi svo hann geti hitt Sigrúnu í síðasta skipti. Hún gengur svo í hauginn til Helga og minnist á átfreka hauka Óðins og meinar þá hrafna í almennum skilningi:

Nú em eg svo fegin fundi okkrum sem átfrekir Óðins haukar er val vitu . . . (Gísli Sigurðsson 1998:204).

Helgakviða Hundingsbana II þykir bera skýr dæmi um samband Alföður og goðheima við hrafna í þeirra mörgu mismunandi hlutverkum; hvort sem um ræðir Hugin og Munin eða hrafna almennt. Bent hefur verið á að fuglarnir svörtu hafi samband við valkyrjur og þeir hafa einnig verið tengdir Óðni með því að vera kallaðir átfrekir haukar hans (Gísli Sigurðsson, 1998, bls. 204). Dæmi um hvernig Óðinn tengist bardögum og vígum má finna í kvæðinu Reginsmálum. Meðal annars gefur hann góð ráð varðandi hernað og segir líka frá góðum fyrirboðum ungra manna áður en haldið er til orustu. Einnig kemur fram að hinir dauðu séu gjafir handa hröfnum og talað er um þá föllnu sem fæðu þeirra. Hlutverk þeirra sem náæta er mikilvægt því það færir þá nær Óðni, goði víga og herforingja dauðra manna (Turville-Petre, 1964, bls. 59). Í þessu kvæði hittir Sigurður Fáfnisbani Óðin undir dulnefninu Hnikar. Sigurður hefur siglt af stað til að hefna sín á sonum Hundingja fyrir dráp föður síns. Óveður mikið reið yfir en það bjargaði Sigurði að hann hitti fyrir Hnikar þennan sem stígur um borð og lægir storminn áður en skipið sekkur. Hnikar þylur svo upp fyrir Sigurð ýmis ráð fyrir uppvaxandi stríðsmenn. Hann kynnir sig í 18. vísu með orðunum:

Hnikar hétu mig, þá er Hugin gladdi. . . (Gísli Sigurðsson 1998:227).

Óðinn gefur hér upp eitt af sínum mörgu viðurnefnum og notast jafnframt við nafn annars hrafna sinna til að veita deili á sér. Hvort sem um Hugin sjálfan er að ræða eða einungis samheiti yfir alla hrafna, sýnir þetta fram á mikilvægt samband milli hans og fuglanna svörtu sem voma yfir hinum föllnu á vígvöllum. Í 20. vísu er athyglisvert að

16 sjá þegar Óðinn segir að það viti á gott fyrir hermenn að sjá hrafn á leið til orustu. Augljóst er hvernig Alfaðirinn vísar hér til þeirrar staðreyndar að hann er hrafnaguðinn og ef menn sjái hrafna fyrir orustur þá viti þeir að hann fylgist með og mun styðja skildi þeirra og sverð (Gísli Sigurðsson, 1998, bls. 227). Hins vegar er ekki einungis um víg á orustuvöllum að ræða þegar kemur að því að heiðra Óðin með drápum eða blóðsúthellingum. Í síðustu vísu Reginsmála er sagt frá hvernig blóðörn var dreginn fólki í nafni Óðins. Að rista blóðörn var sú athöfn að skera rifin frá hryggnum og draga þar út lungun og leggja þau yfir herðar manna. Útskýrt er hvernig hinn látni var gefinn „Óðni til sigurs sér“ (Gísli Sigurðsson 1998:229). Dráp sem slíkt, ofbeldisfullt og kvalafullt sem það var, var því talið til heiðurs honum og þótti sjálfsagt að hann gleddist yfir þeirri athöfn. Í enda vísunnar er meðal annars sagt: „og Hugin gladdi“ (Gísli Sigurðsson 1998:229) en það er enn önnur tilvísun í hrafna Óðins og tengingu þeirra við Alföðurinn og víg manna. Kvæðið Reginsmál gefur góða hugmynd um sambandið á milli Óðins og hrafna því þar er goðið sjálft látið segja að fuglarnir séu góðir fyrirboðar fyrir orustur. Einnig sýnir kvæðið tengingu Óðins og hrafnanna við bardaga og pyntingar. Umdæmi þeirra nær því greinilega yfir víðara svið heldur en fallna menn á vígvöllum eða fyrirboða. Vissulega fólst dauði í blóðerninum en það sem skipti máli var verknaðurinn sem var til heiðurs Alföður. Dauði mannsins sem pyntaður var skipti ekki öllu máli í þessu samhengi. Kvæðið Fáfnismál hefst á inngangi í óbundnu máli þar sem Sigurður vegur Fáfni á Gnitaheiði. Koma þar á eftir 22 vísur með samtali þeirra beggja þar sem Fáfnir er í dauðateygjunum. Eftir dauða Fáfnis, bragðar Sigurður á hjartablóði hans en skilur þá skyndilega fuglsraddir. Igður kvaka kringum hann og vara við vélum Regins, fóstra hans. Í vísu 35 segir fjórða igðan við Sigurð:

Horskur þætti mér ef hafa kynni ástráð mikið yðvar systra, hygði hann um sig og Hugin gleddi, þar er mér úlfs von er eg eyru ség (Gísli Sigurðsson 1998:239).

17

Hér telur igðan að Reginn sé úlfur í sauðagæru og viturlegt væri að drepa hann. En sá verknaður gleddi hrafninn Hugin. Það má túlka orð hennar á tvo mismunandi vegu: annars vegar þannig að Óðinn gleddist yfir mannsdrápi og Huginn hér einungis nefndur sem vísun í goðið, eða þá að vísað sé til hins fallna manns sem gjöf til hrafna (Gísli Sigurðsson, 1998, bls. 239). Hvort sem um samheiti allra hrafna er hér að ræða eða hrafninn Hugin, þarf ekki að skipta öllu máli. Það sem er mikilvægt er samband hrafna við hina dauðu og goðheima. Hrafnar koma einnig fyrir í Sigurdrífumálum og broti af Sigurðarkviðu en þó er ekki getið um þá Hugin og Munin. Sigurdrífumál fjalla um Sigurð Fáfnisbana. Sagt er frá atburðum sem gerast eftir að hann vó Fáfni. Hann fer á og hittir þar valkyrjuna Sigurdrífu sem kennir honum rúnafræði og speki sem ungar hetjur eins og Sigurður eiga að kunna (Gísli Sigurðsson, 1998, bls. 251). Í Sigurdrífumálum er í fyrstu vísu talað um „hrafns hrælundir“ (Gísli Sigurðsson 1998:243) þar sem hrælundir vísa í völl sem er þakinn hræjum. Hér er vísað til hrafnsins sem hræætu og honum eignaður sá völlur sem þakinn er föllnum mönnum. Í því hlutverki er hægt að sjá sambandið við Óðin; þar sem hinir dauðu tengja hann og hrafna rétt einu sinni enn. Brotið af Sigurðarkviðu segir frá dauða Sigurðar. Í 11. vísu kallar hrafn hátt:

Ykkur mun Atli eggjar rjóða. . . (Gísli Sigurðsson 1998:257)

Hér hefur hrafninn fengið það hlutverk í kvæðinu að vera slæmur fyrirboði um dauða Gunnars og Högna sem sviku Sigurð og stóðu fyrir drápi hans. Á þeim tímum sem ritað hefur verið um goðin og sögur þeirra hefur ef til vill ekki þótt mikið tiltökumál að hrafnar gætu talað við fólk vegna þess að allir hafa þekkt Hugin og Munin og hlutverk þeirra sem boðbera. Ráða mætti af þessu kvæði að annar hvor þeirra hrafna Óðins hafi talað við Högna og Gunnar, því ef til vill var guð orusta ekki samþykkur svikum eða vélabrögðum. Guðrúnarkviða II fjallar um dráp Niflunga. Gullið sem Fáfnir lá á í ormslíki var tekið af Gunnari og Högna og varð af því ófriður milli Gjúkunga og Atla. Mikið er um átök í kvæðinu og í 29. vísu kveður Guðrún að hún geti eigi glaðst né fengið von síðan

. . . sárla drukku hrægífur, Huginn hjartblóð saman (Gísli Sigurðsson 1998:299).

18

Nafn Hugins kemur hér fram sem annað hvort vísun í fuglinn sjálfan eða sem samheiti. Í ljósi aðstæðna þykir líklegra að almennt sé um hrafna að ræða þar sem hrææturnar hafa flykkst að þegar Sigurður var veginn. Einnig má benda á, til frekari styrkingar á tengslum hrafna við goðheima, að úlfar, hrægífur, eru sagðir drekka blóðið með hröfnunum og er þekkt að Óðinn hafði tvo úlfa sér við hlið. Hér gæti því verið um að ræða tengingu þeirra úlfa við hrafna hans eða þá að hér sé verið að tala um úlfana sem valkyrjur riðu á til vígvalla.

5. Haraldskvæði | Hrafnsmál Mörg kvæði sem ort voru á miðöldum hafa einungis varðveist í bútum. Haraldskvæði eða Hrafnsmál, dróttkvæði sem talið er vera ort á 9. öld, er engu öðruvísi því það er hvergi geymt í heild sinni heldur hefur það verið sett saman úr mörgum brotum sem geymst hafa í hinum ýmsu ritum. Kvæðið gengur undir tveimur nöfnum, hefur verið eignað þremur skáldum og er geymt í fjórum lausamálstextum sem taldir eru vera frá um 13. öld. Fyrstu vísurnar er einungis að finna í Fagurskinnu en samtals hefur það rit að geyma 20 vísur dróttkvæðisins. Þar er sagt frá örlæti Haralds hárfagra og lýsingar gefnar af hirð hans. Í Heimskringlu er að finna sjö vísur kvæðisins. Í Flateyjarbók er einnig að finna sjö vísur þess og síðan tvær í Snorra-Eddu (Ármann Jakobsson, 2009, bls. 79-83). Nöfnin Haraldskvæði og Hrafnsmál hafa hvergi fundist í miðaldatextum en þau eru lýsandi heiti sem fræðimenn hafa valið kvæðinu vegna innihalds þess. Upphaf kvæðisins er sem kynning en þar er sagt hvar hvít og haddbjört mey ræðir við hrafn einn og spyr hann hvar hann hafi hafst við fyrst hann snúi aftur „með dreyrgu nefi“ (Bjarni Einarsson 1985:60). Þessa mey, sem talin var valkyrja, leikur forvitni á að vita hvers vegna goggur hrafnsins er litaður blóði og vill vita hvort hann færi tíðindi af orustu. Hrafn þessi segir meyjunni að hann komi frá orustu og hann segir tíðindi af konungi einum sem nefndur er Haraldur. Talið hefur verið að um Harald hárfagra, Harald hárfagra Hálfdánarson, sé þar að ræða; enda vísurnar innlimaðar í sögu hans í Fagurskinnu og Heimskringlu. Raunar koma fyrir vísur í kvæðinu þar sem hvergi er minnst á hrafn eða Harald en í ljósi þess á hvaða vegu kvæðið byrjar þá þykja nöfnin hæfa vel. Erfitt getur þó verið að eigna sumar vísur kvæðinu vegna þess hversu ólíkar þær eru innbyrðis (Ármann Jakobsson, 2009, bls. 80). Valkyrjan vill vita hvernig orustan sem hrafninn fylgdist með fór og tala þau um víg og bardaga. En hins vegar er í seinni hluta kvæðisins fjallað um kvennamál Haraldar og

19 hún vill einnig vita hvernig háttalag sé innan hallar hans (Ármann Jakobsson, 2009, bls. 84). Í þriðju vísu spyr valkyrjan hrafninn hvaðan hann komi með blóðugan gogg og hold manna í klóm sér. Orð hennar sýna skýrt hvert hlutverk hrafna var í orustum og á vígvöllum: þeir voru hrææturnar og vígafuglarnir; þá mátti ávallt finna þar sem menn höfðu fallið. Fuglarnir svörtu fylgjast með bardögum og vofa yfir valnum rétt eins og Óðinn gerir sjálfur þegar hann sækir einherja sína. Þessi lýsing valkyrjunnar á hrafninum sýnir hversu vel slíkur fugl hæfir goði dauðans. Hann svarar valkyrjunni í fjórðu vísu með eftirfarandi orðum:

Haraldi vér fylgðum syni Halfdanar, ungum Ynglingi, síðan ór eggi kómum (Bjarni Einarsson 1985:60).

Athyglisvert er að sjá hvernig hrafninn segist hafa fylgt Haraldi allt frá því að fuglinn sjálfur kom úr eggi. Hér virðist Haraldi hafa verið fenginn hrafn sem átti að fylgja honum gegnum lífið og fuglinn svarti virðist standa fyrir það að vera boðberi tíðinda af Haraldi og hans högum. Einnig tekur hrafninn það að sér að éta þá sem Haraldur fellir og hægt er því að segja að hann fylgi Haraldi eftir vegna þess að sá síðarnefndi er mikill kappi. Blóð- og náslóð fylgir þeim mönnum sem taldir voru kappar á miðöldum og hrafninn veit að nóg verður um kræsingarnar kringum þennan mann. Hægt er að tengja þetta við Óðin og hans hrafna, Hugin og Munin, því þeir hafa ávallt fylgt Alföður eftir og tengjast honum í gegnum valinn. Bein vísun er í hrafn Haraldskvæðis sem vígafugls og fugls orustu þegar valkyrjan mælir:

Hold loðir yðr í klóm, hræs þefr gengr ór munni . . . (Bjarni Einarsson 1985:60).

Líkt og áður hefur verið nefnt var Óðinn goð dauðra manna og oft var litið svo á að hinir dauðu væru sem gjafir gefnar honum og hröfnum til heiðurs. Ágætis dæmi um samband Alföður við hrafna sem viðtakendur hinna dauðu er að finna í Skjaldedigting þegar Helgi trausti Ólafsson kveður:

Ásmóðar gafk Óðni arfa þróttar djarfan; guldum galga valdi

20

Gauts tafn, en ná hrafni (Finnur Jónsson 1973:94).

Hér segir Helgi frá þegar hann var nýbúinn að drepa Þorgrím Ásmóðsson og telur að með drápi sínu hafi hann gefið Óðni hinn látna mann en hræið hafi verið gefið hröfnum til átu. Annað gott dæmi um slíkt fyrirfinnst í Gísla sögu Súrssonar þar sem segir í 34. vísu:

Sték of einn, áðr ynni árflognis mik sáran, hrælækjar gafk hauki, huggendr, munins tuggu (Björn K. Þórólfsson og Guðni Jónsson 1943:106).

Hrælækjar vísar í valinn, haukur og árflognir vísa í hrafn. Bardagamaðurinn segist hér hafa satt hrafna á hræjum. Merkilegt er að hrafninn í Haraldskvæði veiti þessari mey allar þær upplýsingar sem hana fýsir að vita. Mætti helst hugsa til þess að fuglinn gegni hér sama hlutverki og Huginn og Muninn sem hafa það að vinnu að flytja Óðni fréttir og tíðindi alls staðar að úr heiminum. Hins vegar má einnig benda á að líkt og völva þylur hrafninn upp vitneskju sína eftir að vera spurður tíðinda. Allt frá því á fornöld og fram til hámiðaldar var haldið að ýmsar konur hefðu forspárhæfileika, þann eiginleika að segja frá hinum ýmsu atburðum er gerst hefðu eða ættu eftir að gerast, og voru þær tignaðar sem völvur. Þær voru spurðar spurninga og þuldu upp vitneskju sína frammi fyrir áheyrendum. Fréttaflutningur fuglsins minnir því óneitanlega á hlutverk völvanna (Simek, 1993, bls. 263-264).

6. Landnáma Hrafnar voru þó ekki einungis þekktir sem viðtakendur hinna dauðu eða holdi klædd vitund Óðins. Mörg dæmi fyrirfinnast einnig um fuglana í öðrum hlutverkum sem eru ekki síður mikilvæg hvað varðar samband þeirra við goðheima. Þar má nefna hin ýmsu blót sem haldin voru til heiðurs hröfnum. Einnig voru fuglarnir oft séðir sem fyrirboðar um góða hluti eða slæma. Dæmi um hrafn sem góðan fyrirboða, eða tákn frá Óðni, má nefna úr Ólafs sögu Tryggvasonar, þegar Hákon jarl nam land við Gautasker og blótaði þar mikið. Vildi hann vita hvort goðin væru honum hliðholl fyrir þann bardaga sem var í vændum. Eftir blót hans fljúga tveir hrafnar yfir og krunka hátt og mikið. Hákon tekur þessu sem góðum fyrirboða og telur að hrafnarnir séu sendir af Óðni. Alfaðir á því að

21 hafa samþykkt blótið og þá ákveður jarlinn samstundis að þetta sé góður dagur fyrir bardaga og heldur af stað með allt sitt lið. Líkt og áður hefur verið nefnt þá hefur gjörðum Hákonar ekki einungis verið stjórnað af trú hans á stuðning Óðins, heldur einnig þeirri staðreynd að hann hefur talið návist hrafnanna vera fyrirboða um sigur hans í orustunni (Bjarni Aðalbjarnarson, 2002, bls. 260). Hér áður hefur Hákon jarl verið nefndur og Fagurskinna sem heimild um þetta blót en svo merkilega vill til að þar sá hann hrafnana sem sendiboða valkyrja en ekki Óðins. Í Landnámu er ritað um fund Íslands og þar er meðal annars fjallað um mann að nafni Flóka Vilgerðarsonar. Hann fékk seinna meir viðurnefnið Hrafna-Flóki. Viðurnefni þetta fékk hann eftir að „Hann fekk at blóti miklu ok blótaði hrafna þrjá, þá er honum skyldu leið vísa. . .“ (Jakob Benediktsson 1986:37). Hröfnunum var seinna meir, þegar nær dró landi, sleppt einum af öðrum „ok er hann lét lausan enn fyrsta, fló sá aptr um stafn; annarr fló í lopt upp ok aptr til skips; enn þriði fló fram um stafn í þá átt, sem þeir fundu landit“ (Jakob Benediktsson, 1986, bls. 36). Þátttaka hrafnanna í fundi Íslands er hluti gamallar frásagnarhefðar þar sem fuglar hafa tekið þátt í landafundum. Sem dæmi má nefna Nóa á Örkinni sem notaði dúfur til hins sama og hrafnar voru notaðir í Landnámu. Blót Flóka til hrafnanna er talið dæmigert fyrirbæri úr norrænum jarðvegi. Í ýmsum heimildum norrænnar trúar hefur komið fram að hrafnar hafi tengst guðsdýrkun og þá sérstaklega hafi þeir tengst Óðni. Dæmi um slíkt má taka úr Ynglingasögu í fjórðu útgáfu Heimskringlu I, þegar konungurinn heldur mikið blót og gefur Óðni son sinn til þess að hann verði sjálfur langlífari (Bjarni Aðalbjarnarson, 2002, bls. 48). Einnig er rætt um blót í Flateyjarbók I þegar Hallfreðr vandræðaskáld kveður fyrir Ólaf konung:

lata allir ytar blot firir roda nu er ek neyddr fra Niardar nidium Krist at bidia (Flateyjarbók I 1944:363).

Hér virðist hann barma sér yfir kristnitökunni og tilbeiðslu Krists í stað hinna gömlu goða. Talið er að blót á miðöldum, jafnt fyrir sem eftir kristnitökuna, hafi verið til þess ætluð að efla goðmögnin; hin æðri máttarvöld sem réðu yfir mönnum og athöfnum þeirra á þeim tímum. Tilgangurinn var því sá að ná sambandi við annan heim sem ekki

22 var byggður mönnum heldur goðunum. Menn nýttu sér þessi blót til að biðja um hjálp eða til að sýna hinum æðri goðum virðingu sína. Ávallt þurfti að færa fórnir í einhvers konar formi til að ná sambandi við goðin; hvort sem gefinn var matur, vopn eða aðrar eigur. Blóðfórnir voru þó mikilvægastar og hið æðsta form þeirra voru mannfórnir en mikill heiður þótti að blóta fólki. Talið var að slíkt gleddi goðin og þá sérstaklega Óðin sem var goð dauðans. Einnig var blótað ef vel gekk í orustum því annars átti fólk á hættu að fá reiði goðanna yfir sig fyrir að vanþakka þá hjálp sem þeim hafði verið veitt (Simek, 1993, 39-40). Hrafnarnir sem Hrafna-Flóki blótaði til eru séðir hér sem tengiliðir til að ná sambandi við Óðin og með því að blóta til þeirra er óbeint verið að blóta Óðni til heilla og biðja hann um að líta til þeirra sem vilja ná sambandi við hann. Þetta blót styður áðurnefndar túlkanir þess að Óðinn sé hrafnaguð og tengdur hröfnum á mun sterkari hátt en hin goðin. Blótið taldist vissulega hafa verið til heilla því ferðin til lands var vel heppnuð (Jón Hnefill Aðalsteinsson, 1997, bls. 23-24). Líklega er einnig hægt að túlka söguna á þann veg að Óðinn hafi tekið sér líki hrafnanna og tengst blóti Hrafna-Flóka beint (Turville-Petre, 1964, bls. 60). Hrafnablót sem slíkt, þar sem fuglarnir gegna hlutverki fulltrúa Alföðurs, er því ekki fráleitt fyrirbæri og getur ennfremur sýnt fram á tengsl hræfuglanna svörtu og goðheima (Jón Hnefill Aðalsteinsson, 1999, 263-264). Huginn og Muninn endurspeglast í þessum þremur hröfnum Hrafna-Flóka á þá vegu að tengslin milli fuglanna og goðheima eru skýr. Hrafnarnir voru með blótinu notaðir til að ná beinu sambandi við goðheima. Einnig höfðu þeir það hlutverk að vísa skipsmönnum leið að landi en í þá daga var ekki notast við áttavita og ekki var hægt að nota kort þar sem Ísland var ekki kortlagt. Sú staðreynd að mennirnir treystu fuglunum á þennan hátt og létu þá leiða sig áfram, sýnir að þeir litu upp til þeirra og hefðu jafnvel lýst þeim sem yfirskilvitlegum dýrum en það sýnir fram á sterkt samband fuglanna við goðin. Án efa hefðu menn ekki treyst svo blint á villt dýr nema af góðri ástæðu.

23

7. Niðurstöður Birtingarmyndir hrafna á 13. og 14. öld virðast hafa verið margs konar. Annars vegar var litið á þá sem vígafugla, blóðþyrstar hræætur, og birtingarmyndir þeirra í kvæðum og sögum ekki fallegar. En hrafninn var hins vegar einnig talinn tengiliður milli goða og manna sem fyrirboði, spáfugl og sendiboði. Gylfaginning Snorra-Eddu kynnir til leiks þá Hugin og Munin sem hina nafntoguðu hrafna miðalda og boðbera Óðins. Nöfn þessara tveggja hrafna voru síðan notuð sem samheiti yfir aðra hrafna og því þótti ástæða til þess að ætla að hrafnar Óðins hafi birst í mannheimum í líki venjulegra hrafna. Huginn og Muninn eru ástæða þess að Óðinn er kallaður hrafnaguð og orsök þess að hrafnar voru ávallt tengdir Óðni og goðheimum. Snorra-Edda er góð heimild um hvers vegna hrafnar þóttu mikilsverðir fyrr á öldum. Heiðnir menn heiðruðu goðin öll en Óðinn þótti þó hinn æðsti þeirra og vitrastur. Þar sem hann var kallaður guð hrafna og oft tengdur við fuglana svörtu þá hefur ekki þótt mikil ráðgáta hvers vegna fuglarnir hafi verið taldir mikilsverðir og boðsendarar goðheima. Fuglarnir eru þekktir sem útsendarar Óðins og ávallt hefur verið talin ástæða til að ætla að Óðinn sjálfur væri kominn í gervi þeirra. Eddukvæðin sem fjallað var um segja frá hröfnum sem fyrirboðum, hræætum og vígafuglum. Þar má sjá samheiti yfir hrafna notuð en einna helst er hægt að bendla þá hrafna við Óðin á beinan hátt vegna víga og fallinna manna. Goð dauðans fylgdist með bardögum og þótti vitað mál að hann réði því hverjir sigruðu eða töpuðu. Hrafnar sem birtust mönnum á vígvöllum, eða nokkru áður en orustur hófust, voru því strax tengdir hrafnaguðinum og þóttu þeir hafa þann sama hæfileika og hann hafði; að hafa áhrif á sigur. Þeirra helsta hlutverk innan eddukvæðanna virtist þó vera sem neytendur fallinna manna og fulltrúar Óðins sem goði dauðans. Hrafnar koma fyrir í mismunandi hlutverkum í ýmsum dróttkvæðum og í hverri birtingarmynd er hægt að bendla þá við goðheima. Sérstaklega er þetta áberandi í dróttkvæðinu Haraldskvæði | Hrafnsmál en þar kemur fyrir hrafn einn sem talar við unga mey sem líklega hefur verið valkyrja og segir hann henni tíðindi af Haraldi hárfagra. Kvæði þetta er mikilvægt fyrir rannsókn á hröfnum og tengingu þeirra við Hugin og Munin; því kvæðið er eitt fárra þar sem nafnlaus hrafn gegnir stóru hlutverki. Mikilvægt er að skoða á hvaða hátt þessi fugl geti tengst goðheimum en svarið liggur hjá þeim föllnu mönnum sem hrafninn hefur heimsótt, jafnvel á sama tíma og Óðinn sjálfur vomaði yfir líkum þeirra.

24

Í ýmsum fornritum er möguleiki á að kynnast hröfnum, meðal annars í hlutverkum góðra fyrirboða, þá jafnan áður en til bardaga er haldið; líkt og kom fyrir hjá Hákoni jarli í Landnámu og Fagurskinnu. Fyrirboðar sem slíkir eru ávallt bendlaðir við goðheima því talið er að Óðinn standi að baki vígamönnum og orustum. Jafnframt fyrirfinnast hrafnar sem koma á beinu sambandi við goðheima þegar þeim er blótað til heilla. Gott dæmi um slíkt má einnig finna í Landnámu. Þar er hins vegar að finna tvenns konar mögulegar birtingarmyndir hrafna eftir blótið. Í fyrsta lagi er sá möguleiki fyrir hendi að Óðinn hafi birst Hrafna-Flóka í fuglslíki, en á hinn bóginn gætu hrafnarnir hafa verið útsendarar Óðins. Enda þótt Flóki hafi blótað hröfnunum í Landnámu til heilla er eðlilegt að líta svo á að hann hafi framið svokallað Óðinsblót; þar sem hrafnar tengdust guðsdýrkun í norrænni trú og þá einkum í sambandi við dýrkun á Alföður. Líkt og bent var á í Snorra-Eddu var hann nefndur hrafnaguð og hafði sérstakt samband við hrafna. Innan hinna ýmsu rita og kvæða hefur Óðinn einnig verið bendlaður við hrafna, svo sem á vígvöllum. Þar sem Óðinn var goð dauða og orusta var litið á drápin sem verknaði honum til heiðurs. En að sama skapi voru hinir föllnu menn gjafir til hrafnanna sem æti þeirra. Niðurstaðan er því sú að hrafnar á miðöldum hafi alltaf haft vissa tengingu við goðheima í þeim ritum sem skoðuð voru. Hvort sem það samband sjáist á vígvöllum eða annars staðar. Hrafnar boðuðu þetta samband því Alfaðir var þekktur sem hrafnaguðinn og því var hann á einn eða annan hátt tengdur við alla þá hrafna sem nefndir eru í ritum og kvæðum. Vitað var að Óðinn gat skipt um ham og að hann notaði seið og því var ekki óalgengt að fólk á 13. og 14. öld teldi hann geta birst í líki fuglanna svörtu. Einnig voru Huginn og Muninn vel þekktir og þótti ástæða til að ætla að þeir hefðu birst fólki og síðan hefðu þeir horfið aftur til Óðins til að bera honum tíðindi. Goðheimar endurspegluðust því í þeirri mynd sem hrafnarnir birtust hverju sinni; hvort sem þeir voru hræætur, boðberar, fyrirboðar eða fuglar orusta. Sambandi fuglanna við goðheima á 13. og 14. öld voru því engin takmörk sett. Hvort sem hrafnar svifu yfir höfðum manna á sumardegi eða kroppuðu í hold fallinna hermanna, var ástæða til að ætla að þar væru komnir útsendarar og tengiliðir við Óðin og goðheima. Heiðin trú byggði að miklu leyti á því innbyggða valdi; fólk gat aldrei vitað hvenær eða hvort fylgst væri með því. Greinilega má því sjá hvernig fleiri hrafnar en Huginn og Muninn þjónuðu sem tenging við goðheima og Óðin. Ef hrafn sást á flugi fyrir orustu þótti það góðs viti og var það túlkað sem skilaboð frá Óðni um að hann fylgdist með hermönnunum. Talið var

25 að ef blótað væri til hrafna þá myndi Óðinn veita blessun sína yfir ferðalög eða víg. Flest dæmin um hrafna sem tengingu við hið yfirnáttúrulega má finna á vígvöllum. Hrææturnar vofa yfir hinum föllnu, kroppa í bláleitt holdið og taka við þeirri gjöf sem drápið færði þeim. Þessi tenging hrafnanna við hina dauðu þykir sýna fram á samband þeirra við Óðin sem gjarnan var kallaður bardagaguð eða guð hinna dauðu. Goðsögulegu hrafnarnir Huginn og Muninn urðu til þess að aðrir hrafnar voru taldir tengiliðir við goðheima. Ef hermaður sá einn hrafn á vappi, eða flugi, lá beint við að álykta að þar væri annar hrafna Óðins kominn og þar með hafði fuglinn fengið trúarlegan mátt sem tengiliður við æðsta goðið. Heiðnir menn virtust líta á alla hrafna sem tengingu eða skilaboð frá goðheimum og virtist ekki skipta máli ef einn eða fleiri hrafnar sáust.

26

Heimildaskrá Ármann Jakobsson. (2009). Illa fenginn mjöður. Lesið í miðaldatexta. Reykjavík: Bókmenntastofnun, Háskólaútgáfan.

Ármann Jakobsson. (2008). Hversu argur er Óðinn? Seiður, kynferði og Hvamm-Sturla. Í Torfi H. Tulinius (ritstj). Galdramenn. Galdrar og samfélag á miðöldum, (51 – 72). Reykjavík: Hugvísindastofnun Háskóla Íslands.

Ásgeir Blöndal Magnússon. (1989). Íslensk orðsifjabók. Reykjavík: Orðabók Háskólans.

Bjarni Aðalbjarnarson (útg). (2002). Heimskringla I. (Íslenzk fornrit, 26. bindi). Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag.

Bjarni Einarsson (útg). (1985). Ágrip af Nóregskonunga sögum. (Íslenzk fornrit, 29. bindi). Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag.

Björn K. Þórólfsson og Guðni Jónsson (útg). (1943). Vestfirðingasögur. (Íslenzk fornrit, 6. bindi). Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag.

Byock, J.L. (1990). Íslendingasögur og kenningar um formgerð frásagna: munnleg hefð og bóksögur í ljósi samfélagsgerðar. Þýð. Gísli Sigurðsson. Tímarit Máls og menningar, 51, 2:21-39.

Einar Ól. Sveinsson og Matthías Þórðarson (útg). (1935). Eyrbyggja . (Íslenzk fornrit, 4. bindi). Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag.

Finnbogi Guðmundsson (útg). (1965). Orkneyinga saga. (Íslenzk fornrit, 34. bindi). Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag.

Finnur Jónsson. (1931). Edda Snorra Sturlusonar. København: Gyldendal.

Finnur Jónsson. (1973). Den norsk-islandske Skjaldedigtning. B I-II. (1. bindi). Kaupmannahöfn: Rosenhilde og Bragger.

Flateyjarbók I. (1944). (1.bindi). Sigurður Nordal ritaði formála. Flateyjarútgáfan: Prentverk Akraness H.F.

Gísli Sigurðsson. (1998). Eddukvæði. Reykjavík: Mál og menning.

27

Grimm, J. (1882). Teutonic mythology. James Steven Stallybrass (þýð). Bindi I. London: George Bell and Sons.

Jakob Benediktsson (útg). (1986). Íslendingabók: Landnámabók. (Íslenzk fornrit, 1. bindi). Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag.

Jón Hnefill Aðalsteinsson. (1997). Blót í norrænum sið: rýnt í forn trúarbrögð með þjóðfræðilegri aðferð. Reykjavík: Háskólaútgáfan.

Jón Hnefill Aðalsteinsson. (1999). Blótminni í Landnámabók. Í Haraldur Bessason og Baldur Hafstað (ritstj), Heiðin minni: Greinar um fornar bókmenntir (bls. 257-282). Reykjavík: Heimskringla.

Jón Jóhannesson (útg). (1950). Austfirðingasögur. (Íslenzk fornrit, 11. bindi). Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag.

Sigurður Nordal. (1933). Egils saga Skalla-grímssonar. (Íslenzk fornrit, 2. bindi). Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag.

Simek, R. (1993). Hugtök og heiti í norrænni goðafræði. Heimir Pálsson (ritstj.). Ingunn Ásdísardóttir (þýð). Reykjavík: Heimskringla.

Snorri Sturluson. (1966). Heimskringla: Nóregs konungasögur. (3.bindi). Finnur Jónsson (útg). Oslo: Universitetsforlaget.

Turville-Petre, E.O.G. (1964). Myth and religion of the North: the religion of ancient Scandinavia. London: Weidenfeld & Nicolson.

Vésteinn Ólason. (2006a). Kveðskapur af fornum rótum – eðli og einkenni. Í Vésteinn Ólafsson (ritstj), Íslensk Bókmenntasaga I, (bls. 47–72). Reykjavík: Mál og menning.

Vésteinn Ólason. (2006b). Íslendingasögur og þættir. Uppruni íslendingasagna. Í Vésteinn Ólafsson (ritstj), Íslensk Bókmenntasaga II, (bls. 39-52). Reykjavík: Mál og menning.

28