Són Tímarit Um Óðfræði
Total Page:16
File Type:pdf, Size:1020Kb
SÓN TÍMARIT UM ÓÐFRÆÐI 3. HEFTI RITSTJÓRAR KRISTJÁN EIRÍKSSON ÞÓRÐUR HELGASON REYKJAVÍK 2005 Són er helguð óðfræði og ljóðlist ÚTGEFENDUR OG RITSTJÓRAR Kristján Eiríksson Drafnarstíg 2 — 101 Reykjavík Sími: 551 0545. Netfang: [email protected] Þórður Helgason Hamraborg 26 — 200 Kópavogi Sími: 891 6133. Netfang: [email protected] RITNEFND Einar Sigmarsson, Kristján Árnason og Ragnar Ingi Aðalsteinsson YFIRLESTUR ALLRA GREINA Einar Sigmarsson, Kristján Eiríksson og Þórður Helgason FRÆÐILEGUR YFIRLESTUR EINSTAKRA GREINA Kristján Árnason, Ragnar Ingi Aðalsteinsson, Sigurborg Hilmarsdóttir PRÓFARKALESTUR Einar Sigmarsson PRENTLÖGN Pétur Yngvi Gunnlaugsson PRENTUN OG BÓKBAND Litlaprent © Höfundar MYND Á KÁPU Atli Rafn Kristinsson ISSN 1670–3723 Efni Sónarljóð . 4 Til lesenda . 5 Höfundar efnis . 7 Yelena Sesselja Helgadóttir (Yershova): Íslenskar lausa- vísur og bragfræðilegar breytingar á 14.–16. öld . 9 Olav H. Hauge: Tvö ljóð: Jöklasóley, Ævintýri. 29 Guðrún Ása Grímsdóttir: Jóðmæli . 31 Inger Hagerup: Skógarvillur . 58 Ragnar Ingi Aðalsteinsson: Ljóðstafurinn s í íslenskum kveðskap 59 Kristín Svava Tómasdóttir: litla stúlkan með eldspýturnar . 86 Þorsteinn Þorsteinsson: Þankabrot um ljóðbyltingar . 87 Kristín Svava Tómasdóttir: Tvö ljóð: hughreysting, án titils tvö . 139 Hjalti Snær Ægisson: Um ljóðabækur ungskálda frá árinu 2004 . 141 Kristín Svava Tómasdóttir: Vorkvöld í Vesturbænum . 160 Vésteinn Ólason: Um Birting . 161 Sónarljóð Heimvon eftir Rose-Marie Huuva Einar Bragi þýddi Eins og þegar eldur deyr í hlóðum yfirgefins tjaldstaðar um haust vindur slökkvir hinsta gneista í glóðum sópar af hellu silfurgráa ösku sáldrar henni yfir vatn og fjörð svo vil ég duft mitt berist burt með þeynum um beitilönd og þýfðan heiðamó falli sem skuggi á fjallavatnsins spegil finni sér skjól í hlýrri mosató heimkomið barn við barm þér, móðir jörð Til lesenda Lesendum gefst nú kostur á að bergja í þriðja sinn á miði Sónar. Eins og í fyrri heftum er efnið nokkuð fjölbreytt og frá ýmsum tímum þótt meiri áhersla liggi að þessu sinni á síðari tíma skáldskap. Í fyrsta skipti er nú reynt að standa við það fyrirheit, sem gefið var í fyrsta hefti, að fjalla um nýútkomnar ljóðabækur. Það gerir Hjalti Snær Ægisson í grein sinni „Um ljóðabækur ungskálda frá árinu 2004“. Són er að þessu sinni tileinkuð skáldinu Einari Braga sem lést fyrr á árinu og er Sónarljóð þessa rits eftir samísku skáldkonuna Rose- Marie Huuva í þýðingu hans. Þetta er ljóðið um dauðann og duftið og öskuna og hringrás lífsins. Einar Bragi Sigurðsson fæddist á Eskifirði 7. apríl 1921. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1944. Vorið 1945 kvæntist hann Kristínu Jónsdóttur frá Ærlækjarseli í Öxarfirði. Hann nam lista- sögu og leikhússögu við Háskólann í Lundi (1945–1946) og Stokk- hólmi (1950–1953). Hann stofnaði tímaritið Birting eldra 1953 og gaf það út í tvö ár. Þá var hann ábyrgðarmaður Birtings yngra 1955–1968 og ritstjóri ásamt Jóni Óskari, Thor Vilhjálmssyni og Herði Ágústssyni. Birtingur var barátturit fyrir nýjum stefnum í bókmenntum og listum og hafði meðal annars víðtæk áhrif á viðhorf manna til ljóðlistar. Í grein sinni um Birting í þessu hefti Sónar lýsir Vésteinn Ólason þeim nýju og fersku hugmyndum sem fram komu í ritinu. Bókmenntastörf Einars Braga eru mikil að vöxtum og margvísleg. Hann skrifaði Eskju, sögu heimbyggðar sinnar, í fimm bindum. Einnig samdi hann fjölda frásagnarþátta og gaf út bernskuminningar sínar, Af mönnum ertu kominn. Þá þýddi hann nokkrar skáldsögur og fjölda leik- rita. Ber þar hæst Hús Bernhörðu Alba eftir Federico Garcia Lorca og Leikrit Augusts Strindbergs og Leikrit Henriks Ibsens, hvors um sig í tveim bindum. Einna snarastur þáttur í ritmennsku Einars Braga er þó ljóðagerð. Hann var skeleggur baráttumaður fyrir endurnýjun forms- ins á 20. öld og má segja að hann hafi farið fyrir atómskáldunum svonefndu. Fyrsta ljóðabók hans, Eitt kvöld í júní, kom út 1950, Svanur á báru 1952, Gestaboð um nótt 1953, Regn í maí 1957, Hreintjarnir 1960 (2. 6 útgáfa 1962), Í ljósmálinu 1970, Ljóð 1983 (úrval) og Ljós í augum dagsins árið 2000 (úrval). Einar Bragi var stöðugt að fága ljóð sín og eru síðari ljóðabækur hans strangt endurskoðað úrval þeirra fyrri. Í eftirmála við Í ljósmálinu segist hann ánægður „ef takast mætti að ljúka einu boðlegu ljóði fyrir hvert ár ævinnar. Segja má, ég hafi alltaf verið að yrkja sömu bókina …“ Og bætir síðan við í lokin: „Ég hlýt því að biðja grandvara lesendur að taka aldrei mark á öðrum ljóðabókum mínum en þeirri seinustu og reyna að týna hinum, séu þeir ekki búnir að því.“ Í ljósi þessa er eftirtektarvert að sjá að í seinustu bók hans með frumsömdum ljóðum, Ljós í augum dagsins, eru aðeins fjörutíu ljóð. Hún kom út þegar fimmtíu ár voru liðin frá útkomu þeirrar fyrstu. Einar Bragi fékkst mikið við ljóðaþýðingar, einkum á síðari árum. Er ekki síst fengur að þýðingum hans á ljóðum eftir grænlensk sam- tímaskáld í bókinni Sumar í fjörðum (1978) og þýðingum hans á ljóðum Sama. Hefur hann gefið út sjö bækur með þýðingum samískra bók- mennta og kynnt skáldin og samískra menningu fyrir Íslendingum. Fyrsta bókin, Hvísla að klettinum, kom út 1981 og voru í henni bæði ljóð og laust mál. Síðan hefur hver bókin af annarri komið út með ljóðaþýðingum hans úr samísku: Bjartir frostdagar eftir Rauni Magga Lukkari (2001), Móðir hafsins eftir Synnøve Persen (2001), Kaldrifjaður félagi eftir Rose-Marie Huuva (2002), Handan snæfjalla eftir Paulus Utsi (2002) og Víðernin í brjósti mér eftir Nils-Aslak Valkeapää (2003). Seinasta bókin, Undir norðurljósum – samísk ljóð kom einnig út 2003. Í henni eru þýðingar á ljóðum fjórtán samískra samtíðarskálda og í eftirmála hennar kemur fram að hann hafi nú þýtt ljóð þrjátíu sam- ískra skálda auk sýnishorna „af jojktextum, þjóðsögum og ævintýrum frá fyrri öldum.“ Af framansögðu má fullyrða að enginn einn maður hafi kynnt mennigu Sama jafnrækilega á sína tungu eins og Einar Bragi hefur gert á íslensku. Það er því við hæfi að Sónarljóð þessa heftis sé sótt í þann mikla þýðingasjóð. Ljóðið „Heimvon“ í búningi Einars Braga birtist fyrst í Hvísla að klettinum 1981 og síðan árið eftir í Ljóðum, úrvali ljóða og ljóðaþýðinga skáldsins. Seinast birtist það nafnlaust í bókinni Kaldrifjaður félagi, þýðingu Einars Braga á ljóðabók Rose-Marie Huuva Galbma Rádna. Hér er ljóðið prentað eftir þeirri útgáfu en heiti þess úr fyrri bókum látið halda sér. Fyrir hönd Sónarsinna, Kristján Eiríksson Höfundar efnis Sónarljóð Heimvon er eftir samísku skáldkonuna Rose-Marie Huuva (f. 1951). Hún hefur starfað sem listiðnaðar- og textílhönnuður. Ljóðabók hennar Galbma Rádna (Kaldrifjaður félagi) kom út í íslenskri þýðingu Einars Braga árið 2002. Einar Bragi (1921–2005) ljóðskáld og rithöfundur. Höfundar greina Yelena Sesselja Helgadóttir (Yershova) (f. 1976) er með M.A.-próf í íslenskum bókmenntum frá Háskóla Íslands og stundar doktorsnám við sama skóla. Guðrún Ása Grímsdóttir (f. 1948) cand. mag. í sögu frá Háskóla Íslands 1979. Fastráðin við fræðistörf á Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi. Ragnar Ingi Aðalsteinsson (f. 1945) er M.Ed. í kennslufræðum frá Kenn- araháskóla Íslands og M.A. í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands. Hann er aðjunkt við Kennaraháskóla Íslands. Þorsteinn Þorsteinsson er bókmenntafræðingur og þýðandi. Hann vinnur við rannsókn á ljóðum Sigfúsar Daðasonar. Hjalti Snær Ægisson (f. 1981) er B.A. í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands og stundar framhaldsnám við sama skóla. Vésteinn Ólason (f. 1939) er forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi. Höfundar og þýðendur ljóða Inger Hagerup (1905–1985) var norsk skáldkona. Hún samdi fyrst og fremst ljóð, en einnig leikrit, barnabækur auk 3ja binda sjálfsævisögu. Olav H. Hauge (1908–1994) er eitt kunnasta ljóðskáld Norðmanna á 20. öld og liggja eftir hann fjölmargar ljóðabækur. Valdimar Tómasson (f. 1971) frá Litlu-Heiði í Mýrdal, verkamaður í Reykjavík. Kristín Svava Tómasdóttir (1985) er nýstúdent frá Kvennaskólanum í Reykjavík. Hún starfar við ræstingar og fæst við ljóðagerð. Yelena Sesselja Helgadóttir (Yershova) Íslenskar lausavísur og bragfræði- legar breytingar á 14.–16. öld* Bragfræðilegar breytingar á tímabilinu frá 1400 og fram að siðskipt- um, ásamt spurningu um uppruna rímnahátta, sem fylgir þessu tíma- bili líkt og skugginn, hafa verið efni í óþrjótandi umræðu alla 20. öld. Umræðan teygir sig einnig yfir á þriðja árþúsund en fyrir skömmu komu út tvö ólík rit sem bæði snerta breytingar í kveðskap 14.–16. aldar. Annað er aldamótaritið Поэзия скальдов (Skaldic Poetry) eftir Elenu Gurevich og Innu Matyushinu, yfirgripsmikil bók sem rekur sögu dróttkvæðs kveðskapar: bragfræði og setningaskipan, myndmál, hugmyndir fornmanna um kveðskap og skáldskapargáfu, breytingar á stökum kveðskapargreinum (lofkvæðum, mansöng, níði og kristi- legum kveðskap). Síðasti kaflinn fjallar um rímur í ljósi kveðskapar miðaldaskálda.1 Höfundur hans, Inna Matyushina, tekur meðal ann- ars dæmi um bragfræðileg líkindi í þessum kveðskapartegundum.2 Hitt er nýleg grein eftir Kristján Árnason, „Ferhend hrynjandi í fornyrðislagi og ljóðahætti“. Eins og titillinn ber með sér er nálgun höfundarins fyrst og fremst bragfræðileg. Viðfangsefni hans er ekki beinlínis uppruni rímnahátta en greinin hefur að geyma ítarlegan samanburð á hrynjandi edduhátta (fornyrðislags og ljóðaháttar) og ferhendu seinni tíma.3 * Þessi grein er vaxin upp úr þeirri rannsókn á lausavísum sem liggur til grundvall- ar meistaraprófsritgerð minni frá febrúar 2003, Rýnt í myrkrið í leit að litlum stjörnum: Íslenskar lausavísur frá 1400 til 1550. Ég þakka RANNÍS — Rannsóknarnámssjóði fjárhagslegan stuðning