Ívar Jónsson Samvinnuhreyfingar Bandaríkjanna, Bretlands, Íslands og Svíþjóðar - tilvikarannsókn -

Rannsóknaraðstoðarmenn: Signý Sigurðardóttir Hrannar Magnússon

Bifröst 2003 Höfundarréttur/Copyright © Ívar Jónsson Efnisyfirlit

Formáli i

1. Kafli Inngangur – rökfræði samvinnufélaga 1 Hvað eru samvinnufélög? 1 Efnahagsleg nauðhyggja 5 Hugmyndin um ‘nýja hagkerfið’ 6 Hin nýja svæðastefna 8 Heimsvæðing 8 Hlutverk samvinnufélaga í nútímasamfélögum 9 Rökin með og á móti samvinnurekstri 10 i. Efnahagsleg rök 10 ii. Stjórnmálaleg rök 15 iii. Samfélagsleg rök 16 Efnisskipan í þessari skýrslu 16

2. Kafli Samvinnuhreyfingin á Bretlandi 17 Inngangur 17 Jarðvegurinn – Bretland á tímum iðnbyltingarinnar 17 Hugmyndafræðin 19 Stofnun fyrsta kaupfélagsins í Rochdale 1844 22 Samvinnuhreyfingin á Bretlandi 30 Lagarammi 30 Uppbygging hreyfingarinnar 34 Staðan í dag 58

3. Kafli Samvinnuhreyfingin í Svíþjóð 65 Inngangur 65 Rætur samsvinnuhreyfingarinnar í Svíþjóð 65 Frá verkamannahringjum til samvinnufélaga 67 Samband samvinnufélaga stofnað 68 Samvinnufélög í Svíþjóð í dag 69 Af hverju samvinnufélög? 74 Lokaorð 77

4. Kafli Samvinnuhreyfingin í Bandaríkjunum 79 Inngangur 79 Rekstrarform í Bandaríkjunum 79 Kostir samvinnufélagsformsins 82 Umsvif samvinnufélaga í Bandaríkjunum 82 Rætur hreyfingarinnar 85 Hin nýja kynslóð samvinnufélaga í Bandaríkjunum 87 Svona eru nýju kynslóðar samvinnufélög stofnuð 96

5. Kafli Íslensk samvinnuhreyfing á tímamótum 97 Inngangur 97 Rætur samvinnuhreyfingarinnar á Íslandi 97 Megin tímabilin í sögu íslenskrar samvinnuhreyfingar 98 i. Verðkröfufélögin 1830-70 99 ii. Verslunarfélögin 1870-1882 99 iii. Bernskuár kaupfélaganna 1882-1902 99 iv. Þroskaskeið samvinnufélaga 1902-1918 102 v. Iðnvæðingarskeið samvinnufélaga 1919-1945 104 vi. Blómaskeið samvinnufélaga 1946-85 112 vii. Samdráttarskeið samvinnufélaga 1986-2000 123 viii. Nýsköpun samvinnufélaga 2000-x Staða samvinnuhreyfingarinnar á Íslandi á nýrri öld 138 Sóknarfæri samvinnufélaga 147 Viðauki 1 Skráð samvinnufélög á Íslandi í ágúst 2002 eftir atvinnugreinum 156 Viðauki 2 Dóttur- og hlutdeildarfélög samvinnufélaga 2002 161 Viðauki 3 Eignaraðilar að ýmsum fyrirtækjum sem samvinnufélög eiga hlut í 162 Viðauki 4 Dótturfélög kaupfélaga 165

6. Kafli Samanburður - lokaorð 167 Inngagnur 167 i. Sögulegar rætur 167 ii. Umfang hreyfinganna 168 iii. Viðbrögð við breyttu efnahags- og stjórnmálaumhverfi 171 Formáli

Tildrög þessarar skýrslu eru þau að stjórn Sambands íslenskra samvinnufélaga fór þess á leit við Viðskiptaháskólann á Bifröst, að unnin yrði skýrsla um stöðu samvinnuhreyfinganna á Íslandi og í nágrannalöndunum. Dr. Ívar Jónsson, prófessor tók verkið að sér og skilgreindi rannsóknarsnið rannsóknarinnar. Til samanburðar við íslensku hreyfinguna voru systurhreyfingarnar á Bretlandi og í Bandaríkjunum og Svíþjóð valdar. Rannsókna af þessu tagi hefur ekki áður verið gerð og því var að ýmsu leyti rennt blint í sjóinn. Við val á þessum ólíku tilvikum var haft í huga að saga og samfélagsleg umgjörð hreyfinganna er mjög mismunandi í löndunum fjórum, en á undanförnum árum hafa þær allar farið í gegnum feril samdráttar. Skýrslan gerir grein fyrir ólíkum viðbrögðum hreyfinganna við þessum aðstæðum. Til verksins voru ráðnir tveir rannsóknaraðstoðarmenn, þ.e. Hrannar Magnússon viðskiptalögfræðinemi og Signý Sigurðardóttir rekstrarfræðingur. Þau fengu það verkefni að afla gagna um hreyfingarnar í Svíþjóð og á Bretlandi og setja saman skýrslur í samræmi við rannsóknarsnið rannsóknarinnar. Þau lögðu mikla vinnu og metnað í þetta verk og er þeim þakkað þeirra framlag. Ýmsir aðilar hafa lesið hluta af drögum að skýrslunni og ber sérstaklega að þakka Jóhannesi Geir Sigurgeirssyni, Sigurði Markússyni og Þóri Páli Guðjónssyni, núverandi og fyrrverandi stjórnarmönnum í Sambandi íslenskra samvinnufélaga, fyrir athugasemdir þeirra. Skýrslan í heild er þó alfarið á ábyrgð undirritaðs.

Bifröst 15. mars 2003.

i 1. Kafli

Inngangur – rökfræði samvinnufélaga

Samvinnufélög eru mikilvæg í nútíma hagkerfum. Sem dæmi má nefna að í Evrópusambandslöndum eru um 180.000 samvinnufélög með um 80 milljónir meðlima og um 3.2 milljónir starfsmanna. Umsvif samvinnufélaga í Bandaríkjunum eru mikil á mörgum sviðum efnahagslífsins. Þar í landi eru 47 þúsund samvinnufélög rekin með um 100 milljónir viðskiptavina eða um 40% íbúanna. Í þessum kafla verða samvinnufélög skilgreind og hlutverk þeirra skoðað í ljósi þeirrar efnahags- og samfélagsumræðu sem áberandi er í dag. Þá verður fjallað um rökin með og á móti samvinnurekstri og loks gerð grein fyrir efnisskipan þessarar skýrslu.

Hvað eru samvinnufélög?

Samvinnufélög eru þekktust sem samtök neytenda sem stofna og reka félag um verslum með vörur fyrir félagsmenn. Samvinnufélög eru líka starfandi á ýmsum öðrum sviðum þjónustu. T.a.m. eru þau víða um lönd starfandi á sviði heilbrigðisþjónustu, barnagæslu, öldrunarþjónustu, sérfræði- og ráðgjafarþjónustu o.fl. Víða eru til lánasjóðir sem reknir eru í samvinnufélagsformi og húsnæðissamvinnufélög eru t.d. mikilvæg á norrænum húsnæðismarkaði. Framleiðslufélög bænda eru víða afar sterk og sömu sögu er að segja um birgjafélög og sölufélög. Loks eru til verkamannasamvinnufélög, þ.e. fyrirtæki sem starfsmennirnir eiga sjálfir. Flóra samvinnufélaga er mikil, en hvað er það sem sameinar öll þessi félög? Það eru nokkrar grundvallar reglur sem mótað hafa skipulag þeirra allt frá því þær voru samþykktar í samvinnufélaginu sem stofnað var af 28 mönnum í vefnaðarbænum Rochdale nálægt Manchester í Englandi árið 1944. Fyrsta reglan var lýðræðisleg stjórnun sem byggð var á þeirri forsendu að sérhver meðlimur félagsins hefði eitt atkvæði óháð því hversu stóran hlut hann eða hún ætti. Önnur reglan fólst í opinni félagsaðild því hver sem er gat gerst félagi hvenær sem var gegn því að greiða aðildargjald sem var haft mjög lágt. Þriðja reglan var að vextir skyldu vera lágir sem

1 greiddir voru fyrir lánsfjármagn. Fjórða reglan fólst í því að hagnað af rekstrinum skyldi greiða meðlimum í hlutfalli við umfang viðskipta þeirra við félagið. Fimmta reglan fólst í kröfunni um að í öllum viðskiptum skyldi vera greitt út í hönd. Sjötta reglan krafðist þess að aðeins yrði verslað með ósvikna vöru, Sjöunda reglan fól félaginu það verkefni að mennta og fræða meðlimi. Áttunda reglan krafðist stjórnmálalegs og trúarlegs hlutleysis (J. Birchall 1997: 7).

Á myndinni eru 13 af upphaflegum stofnendum Rochdale félagsins (Co-operative Wholesale Society)

Í stórum dráttum fylgja nútíma samvinnufélög sömu grunnreglum og Rochdale-félagið gerði upprunalega og hafa þessar reglur víða um lönd verið greipt í lög um samvinnufélög sem lögð eru til grundvallar samvinnurekstri. Það er einkum reglan um að hver meðlimur hefur eitt atkvæði óháð því hversu mikill hlutur viðkomandi er í félaginu sem höfð er í hávegum enn þann dag í dag. Sömu sögu er að segja um stjórnmálalegt og trúarlegt hlutleysi félaganna. Reglan um að afrakstrinum sé skipt upp milli meðlima í hlutfalli við umfang viðskipta þeirra er enn við lýði. Reglan um að aðildargjöld skuli vera svo lág að hver sem er geti gerst félagi er ekki jafn mikilvæg í dag og hún var í upphafi. Hin svokölluðu ‘nýju kynslóðar samvinnufélög’ sem fjölgaði hratt á tíunda áratug síðustu aldar í Bandaríkjunum og hafa náð útbreiðslu í Evrópu á síðustu árum, byggjast á annarri reglu en lágmarks aðildargjöldum (sjá kaflann um samvinnuhreyfinguna í Bandaríkjunum síðar í þessari

2 skýrslu). ‘Nýju kynslóðar samvinnufélögin’ byggja á þeirri reglu að bændur kaupa dýran afhendingarrétt á afurðum sínum sem þeir/þær leggja inn í afurðavinnslustöðvar sem reknar eru í samvinnufélagsformi. Afhendingarrétturinn er jafnframt hlutabréf í félaginu og hafa félagar rétt til að selja þau, en þeir fá arð af rekstri vinnslustöðvarinnar í samræmi við umfang afhendingarréttar síns. Þessi nýju félög eru því lokaðri en hefðbundin samvinnufélög. Þrátt fyrir að þau séu lokaðri en hin eldri félög halda nýju félögin í heiðri öðrum grunnreglum samvinnufélaga. Á Íslandi segir í lögum um samvinnufélög að þau séu öllum opin því félagatala er óbundin. Stofnfé er ekki fastákveðin fjárhæð og félagsmenn og aðrir félagsaðilar bera ekki persónulega ábyrgð á heildarskuldbindingum félagsins (Lög um samvinnufélög nr. 22/1991). Í lögunum segir að samvinnufélögum sé heimilt og skylt að bera heitin kaupfélag (skammstafað kf.), samvinnufélag (svf.), pöntunarfélag (pf.) eða framleiðslusamvinnufélag (fsf.). Þó mega hlutafélög, sem stofnuð eru uppúr kaupfélögum halda orðinu kaupfélagi óstyttu í nafni sínu. Starfssvið samvinnufélags geta verið margvísleg skv. lögunum um samvinnufélög. Þau útvega félagsmönnum og öðrum vörur og hvers konar þjónustu til eigin þarfa. Auk þess vinna og selja þau afurðir sem félagsmenn framleiða í eigin atvinnurekstri. Loks er samvinnufélögum almennt ætlað að annast starfsemi er miðar á annan hátt að því að efla hag félagsmanna. Samvinnufélögum er leyfilegt að starfrækja innlánsdeildir sem taka við innlögum frá félagsmönnum og viðskiptaaðilum til ávöxtunar sem rekstrarfé félagsins. Það er skýrt tekið fram í lögunum að óheimilt er innlánsdeild að veita lán í eigin nafni og hún telst hvorki innláns- né lánastofnun í skilningi laga um Seðlabanka Íslands (sama: 2. gr.). Möguleikar samvinnufélaga á að stunda starfsemi á fjármálamarkaði er þannig skertur samkvæmt lögum. Samvinnufélög eru öllum opin. Þegar þau eru stofnuð er skylt að kveðja til stofnfundar á því starfssvæði eða starfssviði sem félaginu er ætlað að ná til og skal boða stofnfundinn með opinberri auglýsingu og með þeim hætti að ætla megi að berist til allra þeirra sem hag geti haft af þátttöku í starfsemi félagsins. Auk einstaklinga geta stofnendur samvinnufélags verið félög eða stofnanir. Lágmarksfjöldi félaga er 15 í samvinnufélagi (sama, 4. gr.), en í lögunum um samvinnufélög er einnig heimild fyrir því að þrjú eða fleiri samvinnufélög stofni samband samvinnufélaga í samvinnufélagsformi (60. gr.).

3 Um réttindi og skyldur félagsmanna segir m.a. að félagsaðild sé heimil öllum þeim sem starfa vilja í félaginu og hlíta samþykktum þess. Gildir það einnig um lögaðila sé svo ákveðið í samþykktum félagsins (sama: 15. gr). Félagsaðild fellur brott þegar félagsaðili fullnægir ekki lengur ákvæðum félagssamþykkta um félagsaðild. Aðalfundur félagsins getur þó sett reglur um undanþágur frá þessu. Félagsréttindi eru ekki framseljanleg og erfast ekki. Hlutdeild félagsaðila í óskiptum stofnsjóði eða A-deild stofnsjóðs samvinnufélags er ekki framseljanleg og hún stendur ekki til fullnustu fjárkröfum skuldheimtumanna hans (sama: 17. gr.). Þessar síðast nefndu kvaðir hafa þau áhrif að samvinnufélög eru staðbundnari og minna hreyfanleg en gengur og gerist um fyrirtæki. Kvaðir þessar koma einnig í veg fyrir að mögulegt sé að stofna samvinnufélög á borð við hin bandarísku ‘nýju kynslóðar samvinnufélög’ sem hafa framseljanlegan afhendingarrétt sem jafnframt er stofnfé í félaginu. Félagsaðilar bera ekki ábyrgð á heildarskuldbindingum félagsins umfram greiðslu aðildargjalds og með eignaraðild að sjóðum félagsins. Í samvinnufélögum á Íslandi er myndaður stofnsjóður á grunni aðildargjalda félagsmanna eða félaga ef um samband samvinnufélaga er að ræða. Í stofnsjóðinn rennur sá hluti hagnaðar, sem aðalfundur ákveður, eftir að dregið hefur verið frá tap, sem ekki hefur verið jafnað, og eftir að fé hefur verið lagt í sjóði félagsins samkvæmt lögum eða félagssamþykktum. Stofnsjóðnum má skipta upp í A-deild og B-deild og geta einungis félagsaðilar átt séreignarhluta í A-deild stofnsjóðs. B-deildinni er ætlað að afla fjármagns frá utanaðkomandi aðilum sem kaupa hlut í deildinni og fá þeir í hendur samvinnuhlutabréf í samræmi við það. Óskiptur stofnsjóður eða A-deild hans er árlega verðbættur og vaxtareiknaður miðað við almenna sparisjóðsvexti og verðbætur í samræmi við almennar verðbreytingar í þjóðfélaginu (sama: 37. gr.) Það eru aðeins aðilar sem greiða aðildargjald sem hafa atkvæðisrétt í samvinnufélögum og því hafa eigendur hluta í B-deild stofnsjóða ekki atkvæðisrétt (sama: 42. gr.), en arður er greiddur af hlutum í B-deild samkvæmt samþykktum félagsins og ákvörðun aðalfundar hverju sinni, en samvinnubréf eru gefin út fyrir hvern hlut og eru aðilar frjálsir að því að framselja samvinnubréf sín (sama: 44.gr.). Sú kvöð er lögð á samvinnufélög að þau greiði tíunda hluta tekjuafgangs í sérstakan varasjóð þar til hann nemur tíunda hluta af óskiptum stofnsjóði eða A-deild stofnsjóðs (sama: 54. gr.).

4 Loks skal frá því greint að í 53. gr. laganna um samvinnufélög er þeim heimilað að úthluta tekjuafgangi til félagsmanna í hlutfalli við viðskipti þeirra, að svo miklu leyti sem söluverð til félagsmanna hefur verið ofan við kostnaðarverð eða útborgað verð fyrir framleiðsluvörur eða þjónustu félagsmanna hefur reynst neðan við endanlegt fullnaðarverð. Þó skal ávallt tekið tillit til sanngjarnra greiðslna í stofnsjóð félagsins. Með þessum sömu skilyrðum er framleiðslusamvinnufélagi einnig heimilt að ráðstafa tekjuafgangi til félagsmanna í samræmi við vinnuframlag hvers og eins. Í lögunum er þessi gamla grunnregla því heimild en ekki skilyrði. Af þessari upptalningu má sjá að þrátt fyrir langa sögu samvinnufélaga eru grundvallar reglur þeirra enn í heiðri hafðar. Á síðustu árum hafa þau átt undir högg að sækja í hugmyndafræðilegri umræðu á Vesturlöndum. Sú umræða hefur einkennst mjög af efnahagslegri nauðhyggju. Við skulum nú beina sjónum okkar að þessari umræðu og skoða hana í ljósi hlutverks samvinnufélaga í Vestrænum samfélögum.

Efnahagsleg nauðhyggja

Í samfélagsumræðunni nú á dögum er gjarnan rætt um ‘hið nýja hagkerfi’. Hugmyndin um hið nýja hagkerfi er gjarnan sett fram eins og um óhjákvæmilega þróun sé að ræða. Sagt er að ný tækni og heimsvæðing leiði óhjákvæmilega til þess að samfélög, stjórnmál og stjórnmálakerfi taki á sig ný form sem hæfa hinu nýja hagkerfi. Fullyrt er að þær þjóðir sem ekki eru nægilega fljótar til að aðlaga sig að kröfum tímans munu tapa í samkeppninni um nýjar fjárfestingar og ný fyrirtæki og þær munu því dragast aftur úr í velferðarkapphlaupinu. Umræðan einkennist mjög af efnahagslegri nauðhyggju og gildir það jafnt um þá sem eru til hægri og þá sem eru til vinstri í stjórnmálum. Hugmyndir svipaðar þeim sem hér eru nefndar hafa oft komið áður fram í sögunni og er þá skemmst að minnast kenninga Daniel Bell (2000) um endalok hugmyndafræðinnar sem hann setti fram á sjötta áratugnum. Að hans mati var stéttabarátta að líða undir lok á Vesturlöndum vegna þess að efnhagsleg velferð jókst stöðugt og millistéttirnar í ýmis konar þjónustugreinum stækkuðu stöðugt. Átökin sem áður voru svo hörð milli verkafólks og atvinnurekenda heyrðu sögunni til. Ámóta hugmyndir komu fram í undir lok síðustu aldar í kenningum Francis Fukuyama (1993) um endalok sögunnar. Í hans einföldu heimsmynd er mannkynssagan smættuð niður í átök markaðshyggju og marxisma sem náðu hámarki sínu í

5 kaldastríðinu og enduðu í hruni áætlanabúskapar Austur-Evrópskra hagkerfa. Sigur markaðshyggjunnar markar endalok sögunnar að hans mati.

Hugmyndin um ‘nýja hagkerfið’

Sú einfalda mynd af þróun samfélaga sem birtist í umræðunni um ‘Hið nýja hagkerfi’ er af sama toga og kenningarnar um lok hugmyndafræðinnar og sögunnar. Slík hugsun endurspeglar tilhneigingu Vesturlandabúa til að skoða heiminn í ljósi eigin hugmyndafræði, heimspekihefðar og eigin sögu og gera ráð fyrir að “lögmál” sem greind eru í þessari sögu gildi um öll önnur samfélög. Þessi löghyggja á rætur sínar að rekja til anda upplýsingastefnu 18. aldar og hefur gjarnan orðið Vesturlandabúum tilefni til að dæma menningu annarra menningarsvæða og landa úrelta. Menn líta þá gjarnan svo á að lönd utan Vesturlanda séu stödd á eins konar biðstofum heilsugæslustöðva mannkynssögunnar og bíði þess að vestrænir sérfræðingar og vísindamenn veiti þeim lækningu og flýti þroska þeirra svo þau geti sem fyrst orðið sambærileg við samfélög Vesturlanda. Af þessu tagi eru kenningar t.d. Rostows (1962) um ‘nútímavæðingu’ og “flugtak” þróunarlanda, sem komu fram á sjötta áratugnum og eru enn í hávegum hafðar. Í hinni einföldu samfélagsmynd sem hér er lauslega rakin sést mönnum yfir margt. Í fyrsta lagi eru fleiri öfl í samfélagsþróuninni en andstæðir hagsmunir stétta og andstæðir hagsmunir ríkisvalds og markaða. Kynþáttaátök eru viðvarandi átakagrundvöllur jafnt í vestrænum sem öðrum samfélögum. Jafnframt eru átök kynja viðvarandi uppspretta hagsmunaátaka í vestrænum samfélögum. Umhverfismál eru vaxandi grundvöllur átaka sem skipar mönnum í ólíkar stjórnmálahreyfingar og hópa jafnt innan sem utan hefðbundinna stjórnmálahreyfinga. Í öðru lagi er ákaflega mikill munur á markaðskerfum Vesturlanda. Félagsleg umgjörð markaða hvað varðar tekjudreifingu, velferðarkerfi, skipulag vinnumarkaða, umhverfislöggjöf o.fl. er afar ólík eftir löndum. Menning og saga landanna er mismunandi og mótar hagkerfi þeirra og samfélög á ólíkan hátt. Það er í raun réttara að tala um markaðskerfi í fleirtölu fremur en eintölu (sjá R.J. Holton 1992 og J. Gray 1999). Allt þetta sýnir hversu vafasamt er að taka útgangspunkt í efnahagslegri nauðhyggju og gera ráð fyrir að markaðskerfi séu einsleitt fyrirbæri. Vaxandi vitund fræðimanna um margbreytileika hagkerfa á síðari árum hefur leitt til þess að menn þróa nú líkön og kenningar um viðskipti sem horfa á fleira en markaði í þrengstu

6 merkingu, þ.e. framboð og eftirspurn. Viðskipti eiga sér stað oftar en ekki í formi viðvarandi skipta á aðföngum og upplýsingum sem erfitt er að skýra út frá forsendum hagfræðinnar um ‘hinn hagsýna mann’ (homo oeconomicus) sem ávallt leitast við að hámarka ánægju sína með lágmarks tilkostnaði og hvers viðskipti eru fullkomlega skynsamleg og ópersónuleg. Þessi einfalda hugmynd um hámarksleitandi, skynsaman mann sem á í ópersónulegum viðskiptum á mörkuðum kom fram á 18. öld þegar markaðir voru smáir í litlum þorpum landbúnaðarsamfélagsins (sjá R.J. Holton 1992 og J. Gray 1999). Slík hugmynd um efnahagslega gerendur og markaði er mjög villandi þegar litið er til viðskipta á Vesturlöndum samtímans, þar sem samstarf kaupenda og seljenda framleiðsluaðfanga og afurða varir í langan tíma og traust þeirra í millum er lykilatriði í árangri. Fleira kemur til. Samstarf fyrirtækja og margs konar rannsóknarstofnana og háskóla er lykilatriði fyrir fyrirtæki í hátækniiðnaði og innviðir hagkerfisins skipta sköpum fyrir öfluga nýsköpunarstarfsemi fyrirtækja. Hér er ekki aðeins átt við innviði eins og samgöngukerfi og þá sérstaklega tíðar flugsamgöngur, heldur einnig fjarskiptakerfi á borð við breiðband og gervihnattatækni. Loks skiptir aðgangur fyrirtækja að vel menntuðu vinnuafli og uppsafnaðri staðbundinni þekkingu miklu máli fyrir vöxt fyirirtækja. Sömu sögu er að segja um opinbert stjórnkerfi sem styður við bakið á atvinnustarfseminni í samfélaginu. Í stuttu máli má segja að sú mynd af viðskiptum sem gerir ráð fyrir að viðskipti séu aðeins í formi samkeppni á mörkuðum og að í efnhagsstarfsseminni verði menn annað hvort að velja milli markaða eða ríkisrekstrar er úrelt. Veruleikinn einkennist bæði af margháttuðu samstarfi milli fyrirtækja og samstarfi milli fyrirtækja og opinberra aðila. Aðilar vinnumarkaðarins og stjórnmálamenn taka höndum saman nú á dögum og þróa samráðskerfi (partnership) þessara aðila til að ná sem bestum árangri í atvinnuþróun. Þannig stofna þessir aðilar svæðabundin þróunarfélög og þróunaráætlanir. Fyrirtækjaklasar og samstarfsnet fyrirtækja leika þar lykilhlutverk (Ívar Jónsson 2002b). Þessar nýju áherslur hafa breytt landslaginu í byggða- og svæðamálum svo nú er gjarnan talað um ‘hina nýju svæðastefnu’ (new regionalism) Þessar forsendur ber að hafa í huga þegar hlutverk samvinnufélaga í hagkerfum samtímans er greint.

7 Hin nýja svæðastefna

Á undanförnum árum hefur orðið hröð þróun í starfsumhverfi sveitarstjórna. Þetta á bæði við um sveitarstjórnir á Íslandi og í Evrópu. Í megin dráttum má segja að þróunin hafi falist annars vegar í auknu sjálfstæði sveitarfélaga og flutningi á verkefnum frá ríki til sveitarfélaga og fjölgun sjálfstjórnarsvæða í löndum Evrópu (Keating 1998). Hins vegar hafa fjárfestingar alþjóðlegra fyrirtækja og erlendra aðila aukist og sveitarstjórnir hafa samfara þeirri þróun leitast við að skapa skilyrði fyrir slíkri fjárfestingu. Sveitarstjórnir og héraðsstjórnir innan Evrópusambandsins hafa þannig í æ ríkari mæli lagt áherslu á að fjárfesta í nýrri grunngerð atvinnulífsins sem laðar að fyrirtæki með hátt virðisaukningarstig og starfsfólk með háar tekjur. Þannig hefur verið lögð áhersla á að fjárfesta í upplýsingatækni auk rannsóknarstofnana, háskóla og frumkvöðla- og þekkingarmiðstöðva sem freistað geta erlendra og innlendra fyrirtækja í vali þeirra á staðsetningu starfsemi sinnar. Á Íslandi hefur þessi þróun verið hægari en í Evrópu, en þó hafa fjölmörg sveitarfélög verið sameinuð á undanförnum árum og svæðum eins og t.d. Eyjafirði hefur tekist með öflugri uppbyggingu Háskólans á Akureyri að laða að fjárfestingu hátækni fyrirtækja á borð við Íslenska erfðagreiningu. Frumkvöðlasetrum fjölgar á landsbyggðinni og atvinnuþróunarfélög taka virkan þátt í stofnun nýrra sprotafyrirtækja. Reykjavíkurborg hefur áætlanir um að byggja tæknigarð í samvinnu við Háskóla Íslands til að laða að hátæknifyrirtæki. Bæjarstjórnarmenn í Kópavogi og Garðabæ hafa einnig viðrað sömu hugmyndir í tengslum við þróun sinna byggðalaga.

Heimsvæðing

Á síðustu árum hefur efnahagsleg nauðhyggja verið þrálát í umræðunni um heimsvæðingu (globalisation). Formælendur hennar á Íslandi hafa verið stórorðir um stórkostleg tækifæri sem liggja í ‘útrás’ fyrirtækja. Formælendur heimsvæðingar hafa verið gagnrýndir fyrir að fullyrðingar þeirra um umfang heimsvæðingar eigi aðeins að hluta til stoð í veruleikanum. Bent hefur verið á að þegar litið er til síðustu aldar í heild og horft er til þróunar milliríkjaverslunar og fjárfestinga milli landa kemur í ljós að umfang þeirra sem hlutfall af þjóðarframleiðslu Vesturlanda var svipuð í síðustu áratugum aldarinnar og fyrstu áratugum hennar. Milliríkjaverslun og fjárfestingar erlendis eru fyrst og fremst innan þriggja svæða, þ.e. Evrópu, Asíu og Suður- og

8 Norður Ameríku. Þróunin bendir ekki til að milliríkjaverslun og fjárfestingar erlendis séu landfræðilega jafn dreifðar og heimsvæðingarsinnar halda fram. Auk þess er þessi starfsemi f.o.f. bundin við þrjár atvinnugreinar, þ.e. bílaiðnað, raftækjaiðnað og banka- og tryggingastarfsemi. Einnig sýna rannsóknir að heimsframleiðsla vex hraðar en heimsverslun, en það er ekki í samræmi við kenningar um aukna heimsvæðingu. Þetta er hins vegar í samræmi við þá staðreynd að um 80% framleiðslunnar á Vesturlöndum er fyrir heimamarkað en ekki erlendan markað (L. Weiss 1998). Það er vert að skoða hlutverk samvinnufélaga í hagkerfinu og samfélaginu í ljósi þeirrar nauðhyggju sem hér hefur verið fjallað um.

Hlutverk samvinnufélaga í nútímasamfélögum

Á Ísland hefur umræða um samvinnufélög verið þeim afar óhagstæð á undanförnum árum. Svo virðist sem fall Sambands íslenskra samvinnufélaga hafi verið mörgum sönnun þess að samvinnufélög heyri sögunni til og að svokallað markaðskerfi hafi leyst félagsleg form rekstrar af hólmi hvort sem um er að ræða opinberan rekstur eða samvinnurekstur. Kreddur af þessu tagi eru fjarri veruleikanum. Í fyrsta lagi er hlutverk samkeppni milli einkafyrirtækja og svokallaðra markaðslögmála stórum ýkt, þar sem fákeppni er ráðandi í “markaðskerfinu” en ekki samkeppni. Þetta á enn frekar við á Íslandi en flestum öðrum löndum vegna þess hversu örsmátt íslenska hagkerfið er (Ívar Jónsson 1995: 4. kafli). Í öðru lagi er margháttað samstarf fyrirtækja í nýsköpunarstarfi, hvort sem það er takmarkað við tiltekið landssvæði, land eða alþjóðlegt, forsenda efnahagsþróunar í nútíma hagkerfum. Í þriðja lagi eru hugmyndir inngangsbóka í hagfræði um að markaðskerfið leiði til almenns efnahagslegs jafnvægs, sem einkennist af því að þjóðarframleiðsla sé í hámarki, hreinn hugarburður eða “kenningarleg forsenda” sem hagfræðingar gefa sér. Þessi kenningarlega forsenda er gagnslaus þegar skýra á þróun hagkerfa frá einni gerð til annarrar (J.A. Schumpeter 1983). Eins og J.M. Keynes (1989) sýndi fram á fjórða áratug síðustu aldar getur jafnvægi skapast á mörkuðum án þess að afköst hagkerfisins séu í hámarki, en það ræðst af væntingum atvinnurekenda og fjárfesta. Framkvæmdir opinberra aðila og peninga- og skattastefna hefur áhrif á væntingar og getur fært hagkerfi frá jafnvægi sem einkennist af miklu atvinnuleysi til jafnvægisstigs þar sem framleiðsluþættir eru betur nýttir. Í fjórða lagi hefur alþjóðavæðing leitt til þess að opinberir aðilar þurfa að beita sér í ríkari mæli en áður

9 fyrir samstarfi fyrirtækja og stofnana hins opinbera til að tryggja samkeppnishæfni fyrirtækja viðkomandi lands eða svæða þess (Ívar Jónsson 1991). Hlutverk hins opinbera hefur því vaxið að inntaki fremur en að mikilvægi þess hafi minnkað. Segja má að alþjóðavæðingin hafi leitt til svæðavæðingar. Vöxtur samráðskerfa og aðstæður í hagkerfum samtímans hafa skapað nýjar forsendur fyrir samvinnufélög og aukið þörfina fyrir þetta rekstrarform að nýju. Við skulum nú skoða lítillega rökin með og á móti samvinnurekstri.

Rökin með og á móti samvinnurekstri i. Efnahagsleg rök Hægri menn og ýmsir hagfræðingar hafa um árabil haldið því fram að samvinnufélög séu dæmd til að verða undir í samkeppni á mörkuðum vegna þess að skipulagsforsendur þeirra grafi undan samkeppnishæfni þeirra. Þessar niðurstöður koma mörgum spánskt fyrir sjónir í ljósi þess að í nútíma hagkerfum er samvinnuhreyfing afar sterk og markaðshlutur samvinnufyrirtækja er mikill á mörgum mörkuðum og þá sérstaklega í tengslum við landbúnaðarframleiðslu. Ekki er óalgengt að markaðshlutdeild samvinnufélaga sé yfir 40% á slíkum mörkuðum eins og kemur fram í þessari skýrslu. Við skulum nú gaumgæfa betur röksemdafærslu hagfræðinganna. Í grunndráttum eru röksemdir hagfræðinga þær að forsenda þess að hámarkshagkvæmni gæti í rekstri er að eignarréttur sé skýr og möguleiki starfsmanna til að fullnægja eigin þörfum eða hagsmunum á kostnað fyrirtækisins sé í lágmarki. Kenningar byggðar á fyrr nefndu forsendunni hafa verið nefndar ‘eignarhaldskenningar’ (property right theories), en þær sem byggja á seinni forsendunni eru kallaðar ‘umboðskenningar’ (agency theory) því litið er svo á að starfsmenn eins og t.d. stjórnendur hafi umboð frá eigendum fyrirtækjanna til að ráðstafa fé þeirra. Eignarhaldskenningasinnar og umboðskenningasinnar halda því fram að samvinnufyrirtæki einkennist af óskýrum eignarrétti og háum umboðskostnaði (þ.e. að starfsmenn eigi auðvelt með að fullnægja eigin hagsmunum á kostnað fyrirtækisins). Þessar tvær forsendur leiða svo til þess að skilvirkni samvinnufyrirtækja hljóti ávallt að vera minni en einkafyrirtækja þar sem eignarréttur er skýrari og umboðskostnaður lægri. Óskilvirkni samvinnufyrirtækja er sagður þrenns konar: Í fyrsta lagi er um að ræða tæknilega óskilvirkni (technical

10 ineffeciency) sem felst í því að ekki er nægur hvati til nýsköpunar, en það leiðir til þess að samkeppnishæfni samvinnufyrirtækja er minni en einkafyrirtækja. Hvati til nýsköpunar er sagður lítill þar sem afrakstur rekstrarins er sameign meðlimanna og meðlimirnir eru margir. Vilji og geta meðlimanna til að þrýsta á stjórnendur er því minni en ella og kostnaður við að hafa eftirlit með störfum þeirra meiri en ella. Í öðru lagi eru samvinnufyrirtæki sögð einkennst af ráðstöfunar óskilvirkni (allovative inefficiency). Hún felst í því að fjárfestingar skila ekki hámarks afrakstri vegna þess að eigin áhætta þeirra sem taka ákvarðanir um fjárfestingar er í lágmarki og erfitt er að dreifa áhættunni vegna þess hversu þröngt markmið samvinnurekstrarins eru skilgreind. Í þriðja lagi, er bent á stærðarbundna óskilvirkni (scale inefficiency). Fullyrt er að samvinnufyrirtæki eigi erfitt með að hagnýta sér stærðarhagkvæmni vegna þess að skorður eru settar á hversu mikið fé hver og einn meðlimur getur lagt í fyrirtækið og kostnaður við eftirlit með stjórnendum eykst í takt við fjölgun meðlima (J. Nilsson 2001: 330). Þessar þrjár gerðir óskilvirkni eru sagðar ástæður þess að samvinnufyrirtæki hljóti óhjákvæmilega að verða undir í samkeppninni við einkafyrirtæki. Samvinnufyrirtæki ættu því að deyja út með tímanum í markaðshagkerfi. Sú hefur ekki orðið raunin og því má spyrja hvers vegna? Ein skýringin getur verið að samvinnufélög inna af hendi þjónustu sem talin er samfélagslega mikilvæg og hið opinbera styrkir þessa starfsemi t.d. með lágum sköttum eða vöxtum á lánum eins og víða er gert í nágrannalöndunum. Þetta kann að vera rétt í mörgum tilfellum, en ekki öllum. Í mörgum tilfellum eru kostir samvinnufélaga meiri en einkafyrirtækja. Það er því verðugt verkefni að skýra undir hvaða kringumstæðum samvinnurekstur er vænlegri kostur en einkarekstur. Til er hagfræðikenning sem beita má til að skýra undir hvaða kringumstæðum samvinnurekstur getur verið vænlegur kostur. Hér er átt við ‘viðskiptakostnaðarkenninguna’ (transaction-cost theory) O.E. Williamson (1975). Samkvæmt kenningum hans fela öll viðskipti í sér kostnað í þeim skilningi að leit að aðföngum á hagstæðu verði og leit að birgjum sem eru áreiðanlegir í viðskiptum er kostnaðarsöm. Sömu sögu er að segja um leit að söluaðilum fyrir framleiðsluafurðir. Það er einnig kostnaðarsamt að viðhalda viðskiptasamböndum. Þessi kostnaður getur orðið svo mikill að hagstæðara er fyrir fyrirtækið að framleiða sjálft aðföngin og/eða stofna eigin söludeild. Viðskiptakostnaðarkenningin á vel við um ástæður þess að t.d. bændur stofna samvinnufélög. Bændur eru landfræðilega mjög dreifðir, fjárfestingar þeirra eru

11 miklar í bústofni, byggingum og tækjum og framleiðsla þeirra er gjarnan mjög sveiflukennd vegna óvissu í veðurfari. Spurn eftir afurðum þeirra er einnig oft sveiflukennd. Þeir selja afurðir sínar aðilum sem hafa yfirleitt einokunar eða fákeppnistöðu á markaðnum og því er samningsstaða bænda veik. Af þessum ástæðum er viðskiptakostnaður bænda mikill. Með því að stofna samvinnufélag um afurðavinnslu og sölu afurða lækkar viðskiptakostnaður hvers bónda í samanburði við það ef hann eða hún ætti viðskipti við afurðavinnslur upp á eigin spýtur (J. Nilsson 2001: 332). Það er sælt að vera sjálfstæður og óháður eins og Bjarti í Sumarhúsum dreymdi um, en það er dýrt. Í tilfellum sem þessum virðist samvinnurekstur vænlegri leið en einkarekstur. Auk þess felur samvinnurekstur í sér hægt er að framleiða meira magn afurða miðað við fjármagn sem fjárfest er í vélum og vinnuafli. Betri skilyrði fyrir stærðarhagkvæmni skapast því miðað við það ef hver og einn væri að framleiða í eigin horni. Segja má að röksemdir viðskiptakostnaðar, umboðskostnaðar og eignarhalds vegi salt þegar kostir samvinnurekstrar eru bornir saman við einkarekstur. Á meðan samvinnufyrirtækið er lítið yfirvinnur sparnaðurinn við viðskiptakostnað umboðskostnað, því meðlimirnir hafa nægilegt yfirsýn yfir reksturinn til að geta veitt stjórnendum og starfsfólki aðhald. Hvatinn til úrbóta í rekstrinum af hálfu meðlima er þó alltaf lítill svo lengi sem hlutafé hvers meðlims er takmarkað. Eftir því sem fyrirtækið stækkar yfirvinnur umboðskostnaður og kostnaður (þ.e. tekjutap) vegna skorts á rekstrarumbótum ávinninginn af lægri viðskiptakostnaði sem er því samfara að stofna samvinnufélag. Ein leið til að leysa þetta vandamál er að auka mikilvægi eignarhalds. Dæmi um slíka lausn er stofnun svokallaðra ‘nýju kynslóðar samvinnufélaga’ líkt og í Bandaríkjunum, en á síðustu 20 árum hefur orðið sprenging í stofnun slíkra félaga þar í landi. Um þá þróun er fjallað nánar í kafla 4. Helsta sérkenni þessara nýju félaga er að þau er lokuð hvað aðild varðar og bændur kaupa sér aðild að þeim með því að kaupa afhendingarétt á afurðum til þeirra, en þessi afhendingarréttur er afar dýr og hann er framseljanlegur. Bændur hafa því mikla hagsmuni af því að veita stjórnendum og starfsmönnum viðkomandi samvinnufyrirtækis mikið aðhald í rekstrinum og tryggja að nýsköpun og rekstrarumbætur séu í hámarki. Fleiri rök en þau sem að ofan voru nefnd eru fyrir stofnun samvinnufyrirtækja. Markaðsbrestir eru mikilvæg ástæða þess að slík fyrirtæki eru stofnuð. Annars vegar sinnir markaðskerfið illa dreifbýlum svæðum hvað varðar framboð á vörum og

12 þjónustu. Hins vegar er fákeppni og einokun á mörkuðum viðvarandi vandamál á mörgum mörkuðum. Fákeppni er enn alvarlegra vandamál í örsmáum hagkerfum eins og því íslenska samanborið við stærri hagkerfi (Ívar Jónsson 1995). Samvinnufyrirtæki eru því oft stofnuð af brýnni þörf ekki síður en sem mótvægi við ofurvald einstakra fyrirtækja á markaði. Íslensk samvinnuhreyfing spratt upp á 19. öld sem mótvægi við ægivald kaupmanna. Í dag eru mörg merki þess að fákeppni og samþjöppun efnahagslegs og stjórnmálalegs valds einstakra fyrirtækja muni verða svo mikil að forsendur skapast fyrir stofnun nýrra samvinnufélaga eða að þau sem fyrir eru geti eflst. Samfélagsleg ábyrgð samvinnufyrirtækja verður þá mikil, en hún skapar velvilja meðal viðskiptavina. Í ljósi aukinna fjárfestinga íslenskra fyrirtækja erlendis og þarfar á atvinnusköpun eykst að sama skapi þörf fyrir byggðafestufélög eins og t.a.m. KEA á Akureyri hefur skilgreint sig. Innan Evrópusambandsins og í löndum eins og Svíþjóð er sérstaklega litið til samvinnufélagsformsins og atvinnulausir hvattir til að stofna slík félög til að skapa atvinnu. Draga má saman umræðuna um efnahagsleg rök með og móti samvinnufélögum í eftirfarandi töflu.

Megin gerðir samvinnufélaga í ljósi eignarhalds- og fjárfestingahagsmuna*

Mikil I II Hefðbundin samvinnufélög Frumkvöðla samvinnufélög Samvinnufélagið sem samfélag Samvinnufélagið sem félag einstaklinga - Minniháttar eignarhalds- vandamál - Minniháttar eignarhalds- vandamál - Mótvægi við markaðsbresti mikið - Mótvægi við markaðsbresti mikið Virkni eiganda fyrirtækis III IV Ofvaxin samvinnufélög Fyrrverandi samvinnufélög Fjarlægð við upprunaleg markmið Umbreytt í fjárfestingafélög og/eða mikil hlutafélög

- Mikil eignarhalds vandamál - Minniháttar eignarhalds- vandamál - Mjög lítil geta til að vinna gegn - Enginn vilji til að leiðrétta Lítil markaðsbrestum markaðsbresti Væntingar fjárfestis Ekki Miklar um arðsemi og miklar afskipti * Byggt á J. Nilsson 2001: 348.

13 Séð frá sjónarhorni meðlima samvinnufélaga eru vandamálin mest í tengslum við þriðju tegundina af samvinnufélögum, þ.e. ofvaxin samvinnufélög. Þar fer saman að virkni og eftirlit meðlima með rekstrinum er lítið og hann vinnur ekki sem skyldi gegn markaðsbrestum einokunar og fákeppni. Samvinnufélög sem breytt hefur verið í fjárfestingafélög tryggja meðlimum hámarks arð, en þau eru ekki trygging gegn fákeppni og einokun á mörkuðum. Hefðbundin samvinnufélög sem eru smá og meðlimir hafa nægilega yfirsýn og þekkingu til að geta veitt stjórnendum og starfsmönnum aðhald. Þau vinna einnig gegn markaðsbrestum og tryggja þannig bætta þjónustu og lægra verð. Frumkvöðla samvinnufélög, sem eru lokuð samvinnufélög og hefur hratt í Bandaríkjunum á síðari árum, eru þau einu sem fela sér bæði mikið aðhald meðlima að rekstrinum og miklar væntingar um arðsemi. Fjallað er um slík félög í þessari skýrslu í kaflanum um samvinnufélög í Bandaríkjunum. Sá ljóður er á þeirri kenningarlegu umræðu sem rakin hefur verið hér að ofan að hún heyrir undir fræðilega nálgun sem kölluð hefur verið ‘fullkomnunarafstaða’ (perfectionism). Þetta heiti er notað yfir þá sem gefa sér að ávallt sé möguleiki á fullkominni samkeppni á mörkuðum og að fjármagn geti færst óhindrað milli markaða. Ef ekki er jafnvægi á mörkuðum gefa menn sér að ‘markaðshindranir’ komi í veg fyrir það (J. Eatwell og M. Milgate 1983: 5 og 261). Þessar forsendur eiga illa við á Íslandi þar sem flestir markaðir einkennast af mikilli tilhneigingu til fákeppni og einokunar. Við slíkar aðstæður er það styrkur samvinnufélaga umfram einkafyrirtæki að neytendur geta haft beinni afskipti af ákvarðanatöku samvinnufyrirtækja en gerist í einkafyrirtækjum. Samvinnufélögin geta þannig varið betur hagsmuni neytenda jafnvel þótt þau séu ‘ofvaxin’. Að sama skapi eru ‘fyrrverandi samvinnufélög’ sem breytt hefur verið í fjárfestingafélög eða hlutafélög ekki til hagsbóta fyrir neytendur ef starfsemi þeirra leiðir ekki til aukinnar samkeppni á markaðnum. Almennt gildir þó að þegar fákeppni og einokun ríkir á mörkuðum þarf eftirlit opinberra aðila að vera öflugt til að vinna gegn markaðbrestum. Þegar litið er til sögu íslenskra samvinnufélaga má segja að saga þeirra hefjist á seinni hluta nítjándu aldar og þróast sem hefðbundin samvinnufélög. Svo virðist sem að þegar komið var fram á níunda tug síðustu aldar hafi þau verið farin að líkjast þeim flokki samvinnufélaga sem hér er nefndur ‘ofvaxin samvinnufélög’. Þessi þróun er skýrust þegar litið er til sögu Sambandsins, en það var að mestu lagt niður á fyrri hluta tíunda áratugarins eftir að það var gert upp og eignir þess gengu upp í skuldir. Á tíunda áratugnum tóku ýmis samvinnufélög að selja deildir sýnar. Um leið var þeim

14 breytt í það sem hér er kallað ‘fyrrverandi samvinnufélög’ og urðu þau þá eignarhalds- og fjárfestingafélög. Þessi saga er rakin í kaflanum um íslenska samvinnuhreyfingu, en það eru Kaupfélag Suðurnesja og Kaupfélag Eyfirðinga Akureyri, sem riðu á vaðið og hafa verið leiðandi í þessari þróun. Samvinnuhreyfingin hefur þannig þróast gegnum öll form samvinnufélaga, nema form frumkvöðla samvinnufélaga. ii. Stjórnmálaleg rök Sagan sýnir að efnahagsleg starfssemi og velferð er ekki eina markmið samvinnufélaga. Réttlætishugsun liggur einnig að baki stofnunar margra slíkra félaga. J.S. Mill (1902), einn helsti frömuður frjálshyggjumanna, var afar jákvæður gagnvart tilraunum með samfélagstilraunir samvinnumanna í riti sínu The Principles of Political Economy, 2. bók, 1.kafli, sem fyrst kom út 1848. Í smáum samfélögum sem stofnuð eru í anda Fouriers og Owen hvatning til vinnu mun meiri en kapítalísku samfélagi samtíma Mill. Hann segir þetta stafa af því að “...sérhver einstaklingur myndi hafa mun meiri vissu fyrir því að uppskera ávinninginn af aukinni verkþekkingu eða vinnusemi, líkamlegri eða andlegri, en í núverandi samfélagsskipan. Ávinning sem fellur aðeins í skaut þeirra sem mesta forréttindastöðu hafa eða þeirra sem heppnari eru en gengur og gerist” (sama: 132). Réttlátari dreifing tekna eða ávinnings vinnunnar er þannig röksemd fyrir samvinnufyrirkomulagi. En fleiri stjórnmálaleg rök eru einnig mikilvæg. Í samvinnufélögum er valdið dreift, því innan þeirra eru völd ekki háð því hversu mikið hlutafé hver og einn meðlimur á í félaginu: Sérhver meðlimur hefur eitt atkvæði. Í markaðskerfinu er tilhneiging til þess að auður safnist á fáar hendur og þar sem jafnframt er tilhneiging til að auður og völd fara saman eru líkurnar miklar á því að samfélagsleg völd auðmanna verði meiri en annarra. Svo lengi sem samvinnufélög vinna gegn markaðsbrestum og samþjöppun auðmagns vinna þau lýðræðinu gagn. iii. Samfélagsleg rök Í anda þeirra raka sem nefnd voru hér að ofan að samvinnufélög eru meðal þeirra tækja sem vinna gegn valdsamþjöppun og fyrir lýðræði, eru þau samfélagslegu rök að samvinnufélög geta stuðlað að samfélagslegri samkennd, trausti og samfélagslegri ábyrgð. Samvinnufélög eru nátengd þeim nærsamfélögum sem þau spretta úr. Landfræðilegur hreyfanleiki þeirra er minni en einkafyrirtækja, sem oft eru

15 eign eins eða fárra einstaklinga sem flytja starfsemi sína þangað sem hagnaðar er von hverju sinni. Kjarninn í ímynd samvinnufélaga felst í því að þau eru sprottin úr nærsamfélaginu og eru hluti af framtíð þess. Saga þeirra og ímynd er því oft forsenda trausts í efnahagslegu tilliti. Nú á dögum, þegar nokkuð hefur bráð af þeirri oftrú sem hefur verið á óheftan markaðsbúskap síðastliðna tvo áratugi er mönnum að verða ljóst að valkostirnir í skipulagi efnahagsstarfseminnar eru ekki einfaldlega bara valið á milli ríkisrekstrar og markaðar sem einkennist af samkeppni milli óháðra fyrirtækja. Efnahagsstarfssemin er mun flóknari og í raunveruleikanum er um að ræða margslungið samstarf sem er ekki aðeins milli fyrirtækja innbyrðist, heldur einnig milli opinberra aðila og fyrirtækja. Í þessu samhengi er styrkleiki samvinnufyrirtækja mikill því þau hafa oft á tíðum þá samfélagslegu ábyrgð sem opinberir aðilar sækjast eftir. Samvinnufyrirtæki geta því leikið lykilhlutverk í að skapa það traust og samstarfsvilja milli allra þessara aðila sem þarf til að byggja upp fyrirtækjaklasa sem eru forsenda atvinnusköpunar og nýsköpunar á héraðsvísu (Ívar Jónsson 2002b). Samvinnufyrirtæki geta þannig leikið lykilhlutverk í eflingu nærsamfélaga.

Efnisskipan í þessari skýrslu

Í stærstu dráttum er efnisskipan í þessari skýrslu sem hér segir. Í næsta kafla, kafla 2, er fjallað um sögu breskrar samvinnuhreyfingar og stöðu hennar í dag. Saga samvinnuhreyfinga í öðrum löndum dregur nokkurn dám af sögu bresku hreyfingarinnar því hún var víða fyrirmynd annarra samvinnuhreyfinga. Í kafla þrjú er fjallað um stöðu sænsku samvinnuhreyfingarinnar í dag og sögulegar rætur hennar raktar. Fjórði kaflinn fjallar um stöðu bandarískrar samvinnuhreyfingar og er þar nokkuð greint frá ‘samvinnufélagaæðinu’ og hinni ‘nýju kynslóð samvinnufélaga’ sem skapað hefur forsendur fyrir því að samvinnufélög hafa snúið vörn í sókn þar í landi. Í fimmta kafla er saga íslenskrar samvinnuhreyfingar rakin í grófum dráttum og gerð grein fyrir afdrifum Sambands íslenskra samvinnufélaga. Jafnframt er hlutverk samvinnufélaga á Íslandi skoðað í ljósi ólíkra þróunarleiða í atvinnuþróun. Í lokakaflanum eru loks helstu niðurstöður teknar saman og megindrættirnir í samvinnuhreyfingum þessara fjögurra landa bornir saman.

16 2. Kafli

Samvinnuhreyfingin á Bretlandi*

Inngangur

Í þessum kafla verður sjónum beint að samvinnuhreyfingunni á Bretlandi. Í því sem hér fer á eftir er fyrst og fremst dregin upp stöðumynd af Samvinnuhreyfingunni á Bretlandi árið 2002. Hver er staða bresku samvinnuhreyfingarinnar árið 2002? Hver hefur þróun hennar verið síðastliðin 10 ár? Hverjar eru framtíðarhorfur hennar? Farið er ofan í sögu upphafsins, í hverskonar samfélagi hreyfingin varð til og hvaða hugmyndafræði stendur að baki henni, ekki síst í þeim tilgangi að gera sér grein fyrir því hvaða orsakir lágu að baki því að þessi hugmynd varð svo útbreidd sem raun ber vitni. Umræðan í þessum kafla er fyrst og fremst staðreyndalýsing um stöðuna í dag, en hugmyndir um framtíðarhlutverk hreyfingarinnar eru einnig reifaðar. Tilgangurinn er fyrst og fremst að gefa mynd af Samvinnuhreyfingunni á Bretlandi eins og hún er í dag með það að markmiði að reynsla þeirra og hugmyndafræði geti nýst Íslendingum við þróun og útfærslu samvinnustefnunnar í framtíðinni. Lítum nú á söguna og í framhaldi af því, það sem er að gerast á Bretlandi á þessu sviði.

Jarðvegurinn – Bretland á tímum iðnbyltingarinnar

“Ímyndum okkur að við gætum valið hvar og hvenær lifðum. Hugsum okkur einnig að þú hafir enga tryggingu fyrir því að fæðast inn í efnaða fjölskyldu. Hvað gætirðu tekið til bragðs? Eitt er víst – þú myndir ekki vilja fæðast á Bretlandi á árinu 1800. Fyrir fátæka – en þeir voru meirihlutinn – var þetta tímabil verst allra tíma” (J. Birchall 1994: 1)

* Þessi kafli er byggður á drögum Signýjar Sigurðardóttur rekstrarfræðings að rannsóknarskýrslu um bresku samvinnuhreyfinguna og er þeim lítið eitt breytt hér. 17 “Byltingar vaxa upp úr reiði fólks; hreyfingar vaxa upp af vonum þess” (J. Bailey 1955: 9). Þessi setning á vel við hér í upphafi umfjöllunar um bresku samvinnuhreyfinguna, þessarar hreyfingar sem rekur upphaf sitt aftur til nítjándu aldar og enn lifir góðu lífi í byrjun þeirrar tuttugustu og fyrstu. Það er hætt við að við Vesturlandabúar, sem erum vön starfsaðstæðum eins og þær gerast nú, eigum erfitt með að ímynda okkur aðstæður þær sem verkamönnum nítjándu aldar var boðið upp á. Við eigum erfitt með að ímynda okkur það harðræði sem þá þótti sjálfsagt mál, lág laun verkamanna virtust lögmál. “Í byrjun nítjándu aldar höfðu vinnuaðstæður verkafólks festst á stigi fátækramarka” (sama: 10).

Það er þó allt of mikil einföldun að taka mark á öllum þeim ótölulega fjölda sagnfræðibóka sem lýsa iðnjöfrum á Bretlandi nítjándu aldar sem mönnum “hins illa”. Iðnbyltingin var “bylting” eins og orðið ber með sér. Tilkoma vélvæðingar og fjöldaframleiðslu hafði gríðarlegar breytingar í för með sér á högum og lifnaðarháttum fólks. Fólk flykktist úr sveitum til borga og sá hraði sem fylgdi breyttum lifnaðarháttum hlaut að ala af sér vandamál á ýmsum sviðum. Kapítalisminn hafði haldið innreið sína, fjármagnið varð leiðandi afl “Kapítalismi iðnaðarsamfélagsins þróaði sitt eigið siðferði. Hann gróf undan fyrra þjóðskipulagi og krafðist þess að fá að hans eigin viðmið, efnahagsleg og siðferðileg, ríktu í samfélaginu” (sama: 10).

Maðurinn lætur stjórnast af því markmiði einu að búa til fjármagn fjármagnsins vegna en ekki í þeim tilgangi að fullnægja öðrum þörfum. Þessi umbylting á hugsunarhætti mannsins – söfnun fjármagns án annars frekari tilgangs er einkennandi fyrir það sem við köllum kapítalisma nútímans og má að sumu leyti líkja við trúarbrögð (M. Weber 1974: 53). Í þessu umhverfi þar sem fjármagnið ræður gangi mála eru aðstæður verkamanna oft hræðilegar og lítil von um betra líf eins og vel kemur fram í aðfararorðum kaflans hér að framan. Með því er þó ekki fullyrt að aðstæður verkamannanna hafi verið miklu verri en þær voru áður, þær voru öðruvísi, vélvæðingin bjó til nýjar aðstæður fólks sem ekki þekktust áður, um það eru sagnfræðingar sammála þó enn deili þeir um hvort aðstæður þeirra hafi verið betri eða verri en fyrr á öldum (Ashton, T., S. o.fl. 1963 og F. Engels 1999).

18 Hugmyndafræðin

England var í fararbroddi iðnvæðingarinnar í lok átjándu aldar og allt fram á tuttugustu öld. Þar var gróskan mest, og þar voru líka uppi menn sem veltu mikið fyrir sér því sem var að gerast, þannig var einnig mikil gróska í hugmyndafræði viðskipta á þessum tíma. Adam Smith, oft nefndur “faðir hagfræðinnar” gaf út hina frægu bók sína Þjóðarauðinn eða “Wealth of nations” 1776. Þessi bók náði strax mikilli útbreiðslu og varð nokkurs konar biblía auðvaldsstefnunnar. David Ricardo setti fram kenningar sínar um “hið járnharða launalögmál” og hélt því fram að verð vara sveiflaðist kringum þann kostnað sem greiddur er í formi launa við framleiðslu varanna1. Enn einn hagfræðingur, T.R. Malthus, skrifaði bókina An Essay on the Principle of Population (1798), þar sem hann færði rök fyrir því að fátækt verkamannanna væri náttúrulögmál sem ekki þýddi að berjast gegn því þeim fjölgar hraðar en sem nemur framleiðniaukningu í hagkerfinu. Í byrjun 19. aldar voru þannig komin fram helstu hagfræðirit frjálshyggjunnar sem réttlættu tilvist auðvaldskerfisins.

Robert Owen Það er langur vegur frá að menn hafi verið á eitt sáttir um nauðsyn þess að skipuleggja samfélög og hagkerfi með þeim hætti sem frjálshyggjan boðaði og boðar enn. Einn hugmyndafræðingur þessa tíma var Robert Owen (1771-1858). Hann var þó ekki aðeins hugmyndafræðingur heldur var hann einnig maður framkvæmda. Þannig varð hann verksmiðjuforstjóri einungis 19 ára gamall og fékk sem slíkur það orð á sig að vera einhver færasti verksmiðjuforstjóri landsins (Jón Sigurðsson í Yztafelli 1945: 27). Um aldamótin var hann forstjóri stærsta bómullarfélagsins í Manchester, þar komst hann í kynni við hin aumlegu kjör verkamanna og ásetti sér að verja ævinni til að bæta hag þeirra. Owen kvæntist dóttur verksmiðjueiganda rétt upp úr aldamótunum. Verksmiðjan í New Lanark var stofnuð af Arkwright, sem nefndur hefur verið “frumherji stóriðjunnar”. Þessi verksmiðja varð tilraunastofa Roberts Owen fyrir sósíalískar hugmyndir hans. Hann kom hugmyndum sínum í framkvæmd. T.d. hækkaði hann aldur þeirra barna sem störfuðu í verksmiðjunum, stytti vinnudaginn, hækkaði launin og bætti aðstæðurnar en á sama tíma skilaði reksturinn hagnaði.

1 Sjá Jónas Jónsson frá Hriflu (1915) um tengsl markaðsverðs og vinnugildis.

19 Hann hafði ekki einungis áhuga á verksmiðjurekstrinum heldur voru hugmyndir hans samfélagslegar. Hann stofnaði skóla fyrir börn og fullorðna, endurbætti gömul hús verkamannanna og byggði ný, keypti land fyrir ræktun matvæla og var í einu og öllu velviljaður landshöfðingi þorpsins (J. Bailey 1955: 12-13). Siðferði íbúanna hafði ekki verið á háu stigi, þjófnaður og drykkjuskapur voru daglegt brauð. Robert Owen trúði því að orsakanna væri að leita í slæmum aðstæðum manna og því lagði hann áherslu á að bæta úr því. Hámark ágóðans af verksmiðjurekstrinum ákvað hann 5%, ef hann yrði hærri skyldi það sem umfram var notað í endurbætur (Jón Sigurðsson í Yztafelli 1945: 28-29). Árangur verka hans vakti athygli innanlands og víða um heim. Robert Owen skapaði tengsl á milli lands, vinnuafls og fjármagns á þann hátt sem ekki hafði verið gert áður. Sjálfur taldi hann hugmyndir sínar sýna fordæmi sem kapítalistar á eftir honum hlytu að fylgja. Hans niðurstaða var að karakter manna væri afleiðing umhverfisins sem þeir lifðu í og á því byggði hann hugmyndir sínar (Birchall, J. 1994:18). Bættar aðstæður í New Lanark þýddu bætt samfélag betri einstaklinga en ekki nóg með það heldur taldi hann sig hafa sýnt fram á að sanngjörn meðferð á verkamönnum leiddi til bættrar framleiðni í verksmiðjunni. Hann var sannfærður um að samvinna en ekki samkeppni gæfi fyrirheit um iðnað framtíðarinnar. Hann var í raun svo sannfærður um að hugmyndir hans væru það eina rétta að hann taldi þá vinnuveitendur heimska sem ekki tækju upp hugmyndir hans. Hann boðaði fagnaðarerindið víða en ekki féllu hugmyndir hans alls staðar í góðan jarðveg. Owen tók fátækt almennings og atvinnuleysi í kjölfar Napóleonsstyrjaldanna mjög nærri sér og taldi sig hafa sýnt fram á með New Lanark að þessar aðstæður fólks væru óþarfar. Hann taldi rangt að eyða almannafé í atvinnuleysisbætur, þegar yfirvöld gætu á sama tíma notað fjármagnið til að byggja upp samfélög, fæða, klæða og mennta almenning. Þessi samfélög yrðu sjálfbær með tímanum og fjármagninu yrði vel varið. Hann útfærði síðar þessar hugmyndir sínar til alls þjóðfélagsins, að hans mati voru þessar hugmyndir mótvægi við frjálsa samkeppni. Þorp byggð á samvinnu borgaranna út um allt land myndu breiðast út um allan heim og þau myndu skipta á umfram framleiðsluvörum við hver við önnur og myndu þannig verða vísirinn að nýjum heimi. Hann reyndi að finna hugmyndum sínum hljómgrunn á þingi með litlum árangri. Robert Owen er upphafsmaður “sósíalismans” eins og við þekkjum hann (Kellner, P. 1998: 4). Margir urðu til þess að halda hugmyndum hans á lofti og mörg

20 félög voru stofnuð á fyrri hluta nítjándu aldar sem byggðu á hugmyndum hans, flest urðu þau þó skammlíf. Það er athyglisvert að velta því upp hér að ástæðu þess telur höfundur bókarinnar “The British Co-peration movement” vera þá að til þeirra var ekki stofnað af þörf heldur miklu fremur vegna drauma forsprakkanna um betri heim. “Þeim mistókst aðallega vegna þess að þau spruttu ekki öðru fremur úr raunverulegri og knýjandi þörf þeirra sem gengu í þau, heldur draumum boðberanna. Hvað sem öðru líður þá var samfélagsvitund þeirra ekki nægilega þroskuð” (J. Bailey 1955: 16).

Vert er að hafa þessa staðhæfingu í huga árið 2002 þegar verið er velta fyrir sér framtíðarhorfum samvinnuhreyfingarinnar. Owen gerði sér grein fyrir því að verslanir voru nauðsynlegur hluti þess að dreifa vörum innan samfélagsins, en þar með var hlutverk þeirra líka upptalið. Hann sá engan annan tilgang með verslunum en þennan eina. Verslun var aldrei hluti af hugmyndum hans og hann hafði ekki áhuga á hreyfingu sem byggði á henni. Samfélag gat að hans mati byggt verslun en verslun gæti ekki skapað samfélag. Þannig hafnar hann í raun og veru þeim hugmyndum Adams Smiths að markaðurinn, kaup og sala, geti verið drifkraftar þjóðfélagsins eða grunnurinn að “auðlegð þjóðanna”. Owen var sósíalisti en hann var ekki maður ríkisrekstrar. Hann hafði engar væntingar um að það væri sérstök þörf á að byggja undir ríkið, heimurinn sem hann vildi skapa var samfélag þar sem það yrðu aðildarfélagarnir sjálfir sem væru við stjórnvölinn (sama: 16-17). Þetta er hugmynd sem ekki er síður athyglisverð fyrir okkur seinni tíma fólk að velta fyrir okkur. Í dag er mikið talað um “nærsamfélög” að við eigum að geta haft sem mest áhrif á umhverfið og stofnanir í nánasta umhverfi. Kannski erum við smátt og smátt að nálgast hugmyndir Roberts Owen, a.m.k. virðist það ekki fjarri lagi við fyrstu sýn.

William King Annar hugmyndafræðingur þessa tíma og kannski sá sem mest áhrif hafði á stofnun fyrsta kaupfélagsins er William King. Hann hóf útgáfu tímarits um samvinnustefnuna “The Co-operator” sem hann gaf út mánaðarlega. Hugmyndir hans byggðu á hugmyndum Owens en þó var hann ekki sammála honum í öllu. Til að mynda sá hann smásöluverslun sem leið til að byggja upp samvinnufélagsformið, það væri betra að byrja smátt en byrja ekki yfirleitt. Tímarit hans var skrifað á tungumáli sem fólkið skyldi og náði ótrúlegri útbreiðslu. King talaði fyrir stofnun verslana sem

21 byggðu á hugmyndafræði samvinnunnar og urðu þessar hugmyndir hans vel kynntar á meðal íbúa Bretlands á þessum tíma. William King gagnrýndi m.a. hugmyndir Adams Smiths og Malthusar. Hann hafnaði alfarið hugmyndum hins síðarnefnda en hafði meiri samúð með hugmyndum Smiths þó hann væri ekki sammála honum. Hann sá fyrir sér að verkamenn næðu stjórn á framleiðslunni og myndu framleiða fyrir eigin þarfir. Þeir myndu vinna 8 stunda vinnudag og mundu eftir það hafa tíma til að mennta sig og skemmta. Eins og Robert Owen hafði hann háleitar hugmyndir um framtíðina, grípum niður í skrif Birchalls “Leiðin að þessu markmiði eða meðalið er samvinna. Fjármagni verður að safna, að hluta til með vikulegum áritunum, að hluta til með ágóða af verslun. Því næst má finna vinnu fyrir alla meðlimi þar til allir hafa fengið atvinnu. Þá hefur samvinnufélagið efni á að greiða sjúkragreiðslur, það getur keypt land til að lifa á og fengið atvinnulausum meðlimum þann starfa að rækta það og afla fæðu. Loks verður nægt fé fyrir ellilífeyri og menntun barnanna og nýtt samfélag fæðist innan samfélagsins óháð kapítalistunum og velferðarframlögum ríkisins” (J. Birchall 1994: 27-8)

Hér skal látið staðar numið við hugmyndafræðinga þessa tíma en vegna þess hversu mikil áhrif hugmyndir þeirra hafa á samvinnuhreyfinguna enn þann dag í dag er nauðsynlegt að gera nokkra grein fyrir þeim hér. Víkjum nú að stofnun fyrsta kaupfélagsins, snjókorninu sem kom öllu þessu af stað í upphafi.

Stofnun fyrsta kaupfélagsins í Rochdale 1844

“Leiðin til árangurs er oft sú að greina mistökin” (J. Bailey 1955: 17)

Það var ekkert eitt upphaf að samvinnuhreyfingunni. Það voru mörg upphöf, mörg mistök og allt þar til 1844, fáar tilraunir sem gengu upp. Flest samvinnufélaganna sem stofnuð voru fyrir 1830 duttu upp fyrir en þrátt fyrir það lifði hugmyndafræðin af allt þar til hún tók á sig formlega mynd árið 1844 (sama: 17). Það virðist ekki orðum aukið að Rochdale á Bretlandi um 1840 hafi verið hræðilegur staður. Meðal dánaraldur íbúa var 21 árs, sem er styttri ævi en íbúar þriðja heimsins í dag mega búast við og 6 árum skemur en meðaltal Bretlands þessa tíma. Íbúar bæjarins höfðu lifað á framleiðslu bómullar um aldir og við tilkomu iðnvæðingarinnar voru bómullarverksmiðjur staðsettar þar. Bærinn var óþrifalegur og sífelldur reykjarmökkur grúfði yfir. Rochdale var sérstakur staður að því leyti að þar mundu margir íbúanna eftir betri tíð. Átjánda öldin var gullöld handvefaranna, fjölskyldurnar lifðu góðu lífi af handvefnaði í bland við smábúskap.

22 Verksmiðjuframleiðsluleiðslan breytti algjörlega aðstæðum þessa fólks. Það var ekki nóg með að þeir þyrftu að sætta sig við að vinna í verksmiðjunum heldur varð mikil samkeppni um vinnuna, en iðnaðarframleiðslan dróg að verkafólk m.a. frá Írlandi sem undirbauð markaðinn. Í Bolton bæ í nágrenni Rochdale er skjalfest að tveimur árum fyrir tilkomu fyrsta kaupfélagsins var þar 60% atvinnuleysi (J. Birchall 1994: 35-8). “Undir lok árs 1843, á einum af þessum röku, dimmu, óyndislegu dögum, sem enginn Frakki fengist til að hugnast – þessir dagar þegar nóvember nálgast og ekkert er eftir af dagsbirtunni og sólin hefur algerlega gefist upp á að skína, annað hvort af viðbjóði eða í örvæntingu – hittast nokkrir fátækir, atvinnulausir vefarar, matarlausir og algerlega uppgefnir á samfélagsástandinu, til að reyna að komast að því hvernig þeir geti bætt vinnuaðstæður sínar. Iðnjöfrar höfðu auðmagnið og kaupmenn vörurnar. Hvernig gætu þeir komist af án þeirra? Áttu þeir að lifa á fátækraframfærslu? Þá yrðu þeir háðir öðrum. Áttu þeir að flytja burt? Það var eins og að flytja burt þann glæp að vera fæddur fátækur. Hvað ættu þeir að taka til bragðs?” (G. J. Holyoake, 1907: 7-8).

Þannig kemst George Jacob Holyoake að orði þegar hann lýsir fyrsta fundi þeirra vefaranna í Rochdale, þessir menn höfðu engu að tapa og allt að vinna. Sumir þeirra höfðu tekið þátt í stofnun kaupfélaga áður sem lagt höfðu upp laupana. Þeir voru ákveðnir í að læra af mistökum frumherjanna eða eins og segir hér í upphafi kaflans – “leiðin til árangurs er að læra af mistökum annarra”, það var þeirra leiðarljós. Í ágúst 1844 var kallað til fundar, í desember sama ár var félagið stofnað “the Rochdale Society of Equitable Pioneers” með fjármagn upp á 28 pund, félagsmenn voru 28, hver og einn skrifaður fyrir einum hlut. Verslunin var opnuð á Toad Lane, úrvalið samanstóð af smávegis af smjöri, sykri, hveiti, haframjöli og fáeinum kertum. Það var allt og sumt sem þessir menn höfðu fjármagn til að kaupa fyrir þennan fyrsta opnunardag. Í fyrstu höfðu þeir opið tvö kvöld í viku þar sem félagsmenn störfuðu á bak við búðarborðið. Ári seinna gátu þeir haft opið á hverju kvöldi og bættu te og tóbaki við úrvalið í versluninni. Tekjur þeirra fyrsta árið voru 710 pund, félagsaðildin hafði vaxið í 74, fjármagnið í 181 pund og hagnaður þeirra var 22 pund. Árið 1952 voru sambærilegar tölur félagsins tæp 1,5 milljón punda í tekjur, félagsmenn voru orðnir 29.603, fjármagnið rúmlega 501.000 pund og hagnaðurinn tæplega 48.000 pund (J. Bailey 1955: 17-18). Hvers vegna tókst þeim það sem öðrum hafði mistekist áður? Hver var lykillinn að velgengi þeirra? Skoðum hugmyndir þær sem félagið byggði, hugmyndir sem enn eru grundvöllurinn að samvinnufélögum út um allan heim.

23 Búðin við Tad Lane Fyrsta búð Rcohdale félagsins. Á innfelldu myndinni er Charles Howarth ritari reglna felagsins

Reglur félagsins og hugmyndafræði Markmið félagsins voru skýr: “Tilgangur félagsins er að tryggja hag félagsmanna, og bæta kjör þeirra, með því að safna nægilegu fé, í eins sterlingspunds hlutum, til þess að framkvæma eftirfarandi áform: S Að reisa verslun, er selji matvæli, klæðnað og aðrar nauðsynjavörur. S Að byggja eða kaupa hús handa félagsmönnum, sem óska eftir að hjálpast að því að bæta kjör sín S Að reka framleiðslustarfsemi, til þess að bæta úr atvinnuleysi og bágbornum launakjörum. S Til þess að tryggja enn betur hag félagsmanna, skal kaupa jarðeignir, eða taka á leigu og rækta þær til atvinnubóta félagsmönnum. S Svo fljótt, sem auðið er, skal félag þetta leitast við að endurskipuleggja framleiðsluhætti, fræðslustarfsemi og stjórnarhætti, stofna innlendar sjálfshjálparnýlendur og styðja önnur félög, sem stefna í sömu átt.” (Jón Sigurðsson í Yztafelli 1945: 40-41).

24 Eins og hér má sjá höfðu frumherjarnir uppi háleit markmið og þeirra áætlun var ekki einungis sú að opna verslun heldur ætluðu þeir sér ekkert minna en að breyta heiminum. Það þarf ekkert að efast um í smiðjur hverra þeir leituðu, þessar hugmyndir eru mjög í anda Roberts Owen og William King. Hugmyndirnar voru þeirra, nú var verið að koma þeim í framkvæmd. Það hversu vel þeim tókst til byggist ekki síst á því að þeir lærðu af mistökum þeim sem fyrirrennarar þeirra höfðu gert áður. Þeir settu félaginu reglur sem farið skyldi eftir:

S “Félögin eru opin öllum S Lýðræðisleg stjórnun, einn maður eitt atkvæði, óháð eignarhluta í félagi S Karlar og konur skulu hafa jafnan atkvæðisrétt í félögum S Útdeiling ágóða til félagsmanna í réttu hlutfalli við viðskipti þeirra við félagið S Fastir takmarkaðir vextir á fjármagn S Hlutleysi í stjórnmálum og trúmálum S “Ekta” ófalsaðar vörur skulu seldar á gangverði S Staðgreiðsla á öllum vörum S Útbreiðsla menntunar S Reglulegir fundir skulu haldnir til að félagsmenn geti rætt starfsemina S Bókhald skal haft í hávegum, endurskoðað og lagt fyrir félagsmenn”2

Það var ekki að ástæðulausu að reglurnar voru settar, hver og ein þeirrra byggir á rökum. Reglan um lýðræði eða einn mann eitt atkvæði þótti svo sjálfsögð þar sem stofnendurnir voru allir sósíalistar, að hún var ekki skrifuð niður í byrjun, það var leiðrétt ári síðar. Sú regla er enn einkennandi fyrir samvinnufélög og gerir þau frábrugðin hlutafélögum (og/eða einkahlutafélögum) þar sem atkvæðavægi fer eftir eignarhlut í félagi. Reglan um að félögin skyldu opin öllum var mikilvæg þar sem hún gerði öllum sem áhuga höfðu á að taka þátt í ævintýrinu möguleika á að gera það, með því einu að skrá sig fyrir hlut (J. Birchall, Johnston 1994: 54 – 56). Öllum var jafnframt heimilt að versla við félögin, það var ekki gerð krafa um það að vera félagsmaður til að geta átt viðskipti við þau, munurinn var þó sá að ef þú varst félagsmaður fékkst þú

2 Hér er tekið mið af þremur bókum (J. Birchhall 1994 bls. 54, J. Bailey 1955 bls. 20 og Jón. Sigurðsson í Yztafelli 1945: 46), en enginn þeirra tekur upp nákvæmlega sömu reglurnar. Allar koma

25 greiddan út ágóða af viðskiptunum sem þú fékkst ekki ef þú varst utan félags. Það var heldur ekki skylda að félagsmenn versluðu einungis við félagið, raunar kom fram tillaga um að breyta því – að skylda alla félagsmenn til að kaupa í sinni búð, en það var fellt með miklum meirihluta. “Frumherjarnir héldu fast við þá meginreglu, að fullkomið athafnafrelsi skyldi ríkja innan félagsins og hver sjálfráður um verzlun sína” (Jón Sigurðsson í Yztafelli 1945: 40-42). Reglan um fasta vexti þýddi að vextir breyttust ekki eftir því hvort félaginu gengi vel eða illa, og takmarkaðir þýddi að félagið greiddi aðeins vexti þegar það þyrfti nauðsynlega á fjármagni að halda til eigin vaxtar og þróunar. Í fyrstu voru fastir vextir 3,5% síðar var sett hámark 1954 5%. Þá var einnig sett fram hámark á eignarhlut í félagi, 1945 var það ákveðið 4 pund, það hækkaði í 100 pund með fyrstu lögunum um samvinnufélög (Industrial and Provident Societies Act) 1952. Sannfæring frumherjanna var sú að það kæmi sér betur að félögin væru í eigu margra lítilla aðila en fárra sterkra. Enn og aftur er þessi regla frábrugðin því sem við á um almenningshlutafélög þar sem ekkert hámark er á eignarhlutum. Reglan um staðgreiðslu virðist ströng miðað við þá tíma sem þetta gerist á þegar fátæktin var ógurleg, en hún var einmitt talin mjög mikilvæg þar sem það hafði riðið mörgum kaupfélögum á undan að fullu að lána félagsmönnum auk þess sem það þótti á þessum tíma mjög slæmt að skulda (J. Birchall 1994: 56-9). Það að skulda þýddi að þú varst ekki sjálfstæður heldur háður öðrum, því var haldið fast í þessa grundvallarreglu, verslunin átti aðeins viðskipti gegn staðgreiðslu og skuldir urðu aldrei til í félaginu (sama: 57-8). Reglan um úthlutun ágóða eftir viðskiptum við félagið varð fræg regla og er enn þekkt á meðal margra Breta.3 Enn er þessi regla frábrugðin almenningshlutafélögum þar sem greiddur er arður á það fjármagn sem þú leggur inn, í þessu félagi fékkstu greitt eftir því hversu mikil viðskipti þú áttir við félagið alveg óháð því hversu mikinn eignarhlut þú áttir í því. Þessi regla varð einkennandi fyrir svokölluð “neytenda-samvinnufélög” (sama: 57-8) og hefur haft mikið að segja um þá miklu útbreiðslu sem hreyfingin náði. Þetta voru raunverulegir peningar sem skiptu fólk þessa tíma miklu máli og í raun virðist þetta fyrirkomulag hafa skipt almenning miklu máli langt fram eftir

þær þó inn á allar þessar reglur en reglurnar urðu til smátt og smátt en voru ekki allar fullmótaðar strax í upphafi, þá voru þær ekki heldur allar skráðar.

26 tuttugustu öld, í bók J. Birchalls, Co-op the people´s business, bls. 58, má sjá mynd af langri biðröð eftir “divi” árið 1940. Reglan um að selja einungis “ekta”, ófalsaðar vörur var tilkomin vegna þess hversu vörufölsun var algeng á þessum tíma og sérstaklega þótti óhætt að selja hvað sem var í fátækrahverfunum (Jón Sigurðsson í Yztafelli 1945: 44). Þá var ákvörðun um að selja á gangverði mikilvæg þar sem frumherjarnir gerðu sér grein fyrir því að “...það er ekki hægt að berjast gegn auðmagninu án auðmagns” og “ Til að vera öruggir verðum við að hafa hagnað af sölunni. Ef við seljum sykur án hagnaðar verðum við að bæta okkur það upp með því aðhylma yfir að við seljum aðrar vörur dýrari fyrir bragðið. Við munum ekki halda fram að við seljum vörurnar ódýrar en aðrir, við munum halda fram heiðarleika” (G. J. Holyoake 1907: 11 og 30).

Reglan um hlutleysi í stjórnmálum var mikilvæg frá upphafi þar sem frumherjarnir þó þeir væru allir sósíalistar, tilheyrðu þeir hver sinni hreyfingunni. Þá var einnig gert ráð fyrir hlutleysi í trúmálum þar sem þeir voru heldur ekki allir sammála á því sviði. Á tímabili þegar mikill vöxtur varð í félaginu gerðust margir strangtrúaðir aðilar að félaginu og höfðu þeir m.a. uppi kröfur um að fundarsalnum væri lokað á sunnudögum ásamt ýmsu fleiru í “kristilegum” anda. Þetta líkaði frumherjunum illa og í kjölfarið var samþykkt árið 1850 að öllum félagsmönnum væri frjálst að bera upp þau mál sem þeir vildu og sem þeir hefðu tilkynnt um með viðeigandi fyrirvara, öll málefni löglega framborin skyldu lögleg málefni fundanna. Að síðustu skal nefna regluna um útbreiðslu menntunar. Hún mun hafa verið skráð 1854 þegar stofnaður var sérstakur sjóður til að standa straum af menntun félagsmanna og fjölskyldna þeirra. Hér voru frumherjarnir enn og aftur trúir hugmyndafræðingunum; Robert Owen - að einungis með frekari menntun væri hægt að hafa áhrif á fólk og William King – að einungis með því að kenna þeim undirstöðuatriði verslunar gætu þeir orðið góðir verslunarmenn. Árið 1848 settu þeir upp lesstofu og sérstaka bókadeild eftir að hafa keypt bókasafn. Árið 1850 ráku þeir eigin skóla og voru með kennslu fyrir fullorðna. Árið 1860 höfðu þeir útfært regluna á þann veg að sérhvert útibú skyldi hafa sína eigin lesstofu og bókasafn (J. Birchall 1994: 62).

Hér verður látið staðar numið við að greina frá sögulegum bakgrunni bresku smvinnuhreyfingarinnr. Svo mjög hafa þessi fyrstu skref frumherjanna litað það sem

3 Sú er þetta ritar varð vör við að það var í öllum tilfellum það fyrsta sem fólk hafði á orði þegar minnst var á gerð verkefnis um Co-op á Bretlandi – “divi” er eitthvað sem fólk man enn eftir.

27 gerst hefur síðan að það var talið nauðsynlegt að rifja það upp hér. Það á eftir að vekja athygli margra við áframhaldandi lestur hversu stutt frá þessum fyrstu skrefum samvinnuhreyfingin er komin hugmyndafræðilega. Áður en lengra er haldið er rétt að láta koma fram hvernig þessar meginreglur frumherjanna hafa þróast og birtast í meginreglur samvinnufélaga sem samþykktar voru af Alþjóðasamtökum Samvinnufélaga (ICA) árið 1995.

Skrifstofur Alþjóðasamtaka Samvinnufélaga í Genf

28 Meginreglur samvinnufélaga Samþykktar af Alþjóðasamtökum Samvinnufélaga (ICA) árið 1995.

1. regla – sjálfboðaliðahreyfing – opin öllum:

Samvinnufélög eru stofnanir sjálfboðaliða, opin öllum sem mögulega geta nýtt sér þjónustu þeirra og vilja samþykkja ábyrgðina sem aðild fylgir, án tillits til kyns, kynþáttar, þjóðfélagsstöðu stjórnmálaskoðana og/eða trúarskoðana.

2. regla – lýðræðisleg aðild:

Samvinnufélög eru lýðræðislegar stofnanir – stjórnað af félagsmönnum, sem taka virkan þátt í að móta stefnu félagsins og taka ákvarðanir. Kjörnir fulltrúar eru ábyrgir gagnvart félagsmönnum. Grundvallaratriði er að félagsmenn í samvinnufélögum hafa jafnan atkvæðisrétt óháð eignarhluta í félögunum þ.e. einn maður einn atkvæði.

3. regla – efnahagsleg þátttaka félagsmanna:

Félagsmenn stuðla að sanngjarnari og lýðræðislegri stjórnun fjármagns félaga sinna. Minnstur hluti fjármagnsins er almenn eign félagsins. Félagsmenn fá yfirleitt litla umbun, ef nokkra á fjármagn það sem þeir leggja inn vegna aðildar. Ef einhverjar eftirfarandi forsendur eru fyrir hendi úthluta félagsmenn umfram hagnaði:

− Vegna þróunar samvinnufélagsins

− Mögulega til að búa til varasjóð, sem að hluta til yrði óskiptanlegur

− Umbuna félagsmönnum á grundvelli viðskipta þeirra við samvinnufélagið

− Styðja aðra starfsemi sem samþykkt er af félagsmönnum

4. regla – sjálfstæð og óháð

Samvinnufélög eru sjálfstæð sjálfboðaliðasamtök stjórnað af félagsmönnum. Ef þau komast að samkomulagi við aðrar stofnanir þar með talið stjórnvöld, eða auka fjármagn sitt vegna ytri áhrifaþátta, þá gera þau það á lýðræðislegan hátt þar sem félagsmenn taka fullan þátt í ákvarðanatökunni.

5. regla – menntun, þjálfun og upplýsingagjöf

Samvinnufélög bjóða upp á menntun og þjálfun fyrir félagsmenn sína, kjörna fulltrúa, stjórnendur og starfsmenn þannig að þau geti miðlað á árangursríkan hátt þróun samvinnustefnunnar. Þau upplýsa almenning – sérstaklega yngri kynslóðina og leiðtoga þeirra um eðli og hag samvinnufélaga.

6. regla – samvinna á meðal samvinnufélaga

Samvinnufélög þjónusta félagsmenn sína á mjög áhrifaríkan hátt og styrkja Samvinnuhreyfinguna með því að vinna saman í gegnum staðbundin félög, landsfélög svæðisfélög og í alþjóðlegum samtökum.

7. regla – umhyggja fyrir samfélaginu

Samvinnufélög vinna að stöðugri þróun samfélags síns í gegnum stefnumörkun félagsmanna sinna.

Heimild: Annual Report & Financial Statements 2001. Co-operative Union Ltd. Incorporating ICOM - the worker co-op federation. Bls. 77

29 Samvinnuhreyfingin á Bretlandi

Allar götur frá 1875 hefur verið starfandi sérstök skráningarstofa (Chief Registrar) á Bretlandi sem hefur það starf með höndum að skrá fyrirtæki, stofnanir eða samtök þar sem ábyrgð félagsmanna er að einhverju leyti takmörkuð vegna þess að markmið starfseminnar eru samfélagsleg málefni af einhverju tagi. Þessi skráningarstofa heldur þannig utan um alla starfsemi undir merkjum samvinnuhreyfingarinnar. Starfsemi samvinnufélaga er mjög fjölbreytt og nær yfir vítt svið eða allt frá því að vera skömmtunarfélög einstakra svæða upp í tryggingafélög The Registry of Friendly Societies 2002: 2). Það er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því að þegar talað er um Samvinnuhreyfinguna á Bretlandi er raunverulega verið að tala um hreyfingu. Eins og við þekktum hana hér á landi þá var Samvinnuhreyfingin f.o.f. kaupfélögin og þau voru svo eigendur ýmis konar atvinnurekstri ýmist ein og sér eða í gegnum Samband íslenskrar samvinnufélaga. Aftur á móti á Bretlandi hefur samvinnufélagsformið alls ekki einskorðast í jafn ríkum mæli við kaupfélög heldur hefur hreyfingin þróast í margar áttir. Áður en lengra er haldið er nauðsynlegt að gera sér mynd af þessu, þ.e. hvers konar félagsskap við erum að tala um þegar við tölum um Samvinnuhreyfingu.

Lagarammi Samvinnufélög eru skráð undir lögum “the Industrial and Provident Societies Act. 1965”, síðast breytt árið 2002 (The Co-operative Party 2002). Hér undir eru skráð félög sem eru lögaðilar og annað hvort eru samvinnufélög (“bona fide”, sjá nánari skilgreiningar hér á eftir) eða starfsemi þeirra er hugsuð til hagsbóta fyrir samfélagið. Þessi félög má flokka niður í sjö tegundir allt eftir tegund viðskipta; Smásölu, heildsölu- og framleiðslufélög, landbúnaðarfélög, sjómannafélög, klúbbar, húsfélög og almenn þjónustufélög, (sjá frekari skilgreiningar hér á eftir). Eignir þessara félaga samanlagt (að frátöldum lánasjóðum “credit unions”) voru 30 nóv. 2001 61,3 milljarðar punda (The Registry of Friendly Societies 2002: 4). Þessu félagaformi hefur verið ætlað það hlutverk að tryggja almenna eignaraðild allra félagsmanna og um leið veita félagsmönnum og öðrum almenna þjónustu sem þeim er ætlað að sinna (The Industrial and Provident Societies Bill. Bill 14 of 2001-01). Breytingarnar sem gerðar voru á lögunum árið 2002 voru m.a. í þá átt að styrkja félagsformið enn frekar í sessi. Þannig þarf nú 75% félagsmanna að greiða

30 atkvæði til að þessum félögum verði breytt í hlutafélag og þar af þarf helmingur að samþykkja breytinguna. Með þessu er ætlunin að koma í veg fyrir að hægt sé að komast yfir þessi fyrirtæki á auðveldan hátt með yfirtöku en brögð hafa verið að því að það hafi verið reynt, sbr. orð breska þingmannsins Gareth Thomas sem sagði í þinginu við samþykkt laganna “Þessi félög og samtök veita mörgum samfélögum grundvallar, hágæða þjónustu, en ýmsir aðilar gætu hrifsað til sín eignir þeirra. Þessi löggjöf mun skapa öflugan og öruggan ramma sem mun tryggja þeim rekstrarforsendur sem nægja til þess að þau geti dafnað líkt og önnur atvinnustarfssemi (The Co- operative Party 2002).

Þá var samþykkt að veita þinginu lagaheimild til að breyta núverandi lögum og færa þau í nútímalegra horf til samræmis við hlutafélagalög. Það sem gerir þessi lög sérstök og aðgreinir þessi félög frá öðrum skráðum fyrirtækjum eins og hlutafélögum er að tilgangur félagsins verður að falla undir annað hvort að vera;

• “a bona fide co-operative society”.

Það er ekki til nein bein skilgreining á “bona-fide” fyrirtækjum en þó er skv. reglugerð tiltekið hvað fyrirtæki þarf að uppfylla til þess að geta kallast “bona- fide”. (Í frumvarpi til breytinga á lögunum eru “bona fide” einfaldlega kölluð samvinnufélög eða “co-operative” (The Industrial and Provident Societies Bill. Bill 14 of 2001-0: 9):

o Aðilar félagsins sem um ræðir skulu eiga sameiginlegar efnahagslegar, félagslegar og/eða menningarlegar þarfir og/eða áhuga. o Starfsemi félagsins verður að vera í þágu aðildarfélaga, þ.e. þeim til hagsbóta. Félagar verða með öðrum orðum að hafa hag af því að vera í félaginu. o Stjórnun félagsins verður að vera skipt jafnt á milli meðlima, þ.e. meginreglan – “einn maður – eitt atkvæði” skal höfð í heiðri. o Vextir á fjármagni skulu ekki vera hærri en nauðsynlegt er til að ná markmiðum félagsins. o Ágóða – ef dreift er meðal félagsmanna, þá skal honum dreift miðað við viðskipti þau sem viðkomandi aðili hefur átt við félagið o Aðild má ekki takmarkast við það markmið viðkomandi að auka verðmæti eigna.

31 Markmiðið er að tryggja sameiginlega áhuga á meðal aðildarfélaga sem byggist á einhverju öðru en fjármagni sem lagt er inn í félagið (The Registry of Friendly Societies 2002: 35-6). eða • Starfsemi þess á að vera til hagsbóta fyrir samfélagið sem það er stofnað innan, þ.e. markmið félagsins eru ekki eingöngu viðskiptalegs eðlis. Þá verður að vera einhver sérstök ástæða fyrir því að félagið skrái sig fremur undir þessi lög en sem venjulegt fyrirtæki.

Félag sem stofnað er undir þessum lið verður að hafa með höndum starfsemi til hagsbóta fyrir aðra en eingöngu meðlimi viðkomandi félags, þar skilur á milli þess að félög séu skráð “bona fide” eða hér undir (sama: 36).

Mörg þeirra atriða sem skilyrt eru til að geta skráð sig undir þessum lögum er beinlínis hægt að rekja til meginreglna samvinnufélaga eins og þau hafa verið uppfærð og samþykkt af Alþjóðasamtökum samvinnufélaga 1995, sbr. meginreglur samvinnufélaga hér framar. Skráning félags skv. þessum lögum þýðir að félagið er orðið fyrirtæki með takmarkaða ábyrgð. Það er orðið lögaðili og getur verið lögsótt og getur lögsótt aðra eins og við á (The Industrial and Provident Societies Bill. Bill 14 of 2001-01: 10-13). Þrítugasta nóvember 2001 voru 8.304 félög skráð skv. þessum lögum fyrir utan lánasjóði (credit unions) (The Registry of Friendly Societies 2002: 8).

Félagaform Félög sem falla undir viðkomandi lög geta byggst á mjög breiðum grunni en hafa verið flokkuð niður í átta meginflokka:

Smásölufélög (retail societies) - hér undir falla allar smásöluverslanir allt frá litlum búðum yfir í stórmarkaði og deildarskiptar verslanir.

Heildsölu og framleiðslufélög (Wholesale and productive societies) - Starfsemi þessara félaga er á mjög breiðu sviði. Hér undir falla starfsmanna-samvinnufélög (worker co-operative) eða innkaupafélög sem kaupa inn í miklu magni fyrir félaga

32 sína innan smásöluverslunar og framleiðslufélög sem framleiða og selja tilteknar vörur (t.d. skófatnað svo nefnd séu dæmi).

Landbúnaðarfélög (Agricultural societies) – félög sem hafa þann tilgang að sjá félagsmönnum sínum fyrir fræjum, áburði og dýrafóðri. Þá falla einnig hér undir félög sem sjá um að markaðssetja afurðir félagsmanna og skömmtunarfélög.

Veiðifélög (Fishing societies) - Þessi félög bjóða ýmsa þjónustu til sjómanna þar má nefna, útvegun veiðarfæra, hafnaraðstöðu og hjálp við markaðsetningu á fiski.

Klúbbar (Clubs) - Klúbbar sem skráðir eru hér undir bjóða upp á ýmsa skemmtun fyrir meðlimi sína. Margir þeirra eru tengdir Konunglegu bresku hersveitunum, klúbbum vinnandi manna eða Stofnanasambandinu (Institute Union (CIU)).

Almenn þjónustufélög (General service societies) - Hér undir falla t.d. tryggingafélög, félög sem stuðla að samvinnufélögum í iðnaði, verslun, íþróttum og félagslegum tilgangi, ásamt íbúafélögum. Þessi flokkur hefur raunar verið yfirtekin af húsfélögum og er nú talin þar undir (The Registry of Friendly Societies 2002: 8).

Húsfélög (Housing societies) - Um er að ræða marga flokka húsfélaga sem falla hér undir. Tilgangurinn sem flest skráð félög hafa er eftirfarandi:

- Að útvega félagsmönnum húsnæði, annað hvort með því að bjóða framkvæmdir út eða með því að stofna félög þar sem félagarnir ætla sjálfir að sjá um byggingarnar. - Að útvega því fólki húsnæði sem þarf á því að halda t.d. eldra fólki eða einstæðum foreldrum - Reka húsnæði sem áður var í eigu sveitarfélaga.

Lánasjóðir (Credit unions) - eru sameiginleg sparnaðar og útlánasjóðir, rekin eingöngu til hagsbóta fyrir aðildarfélaga. Það sem einkennir þau eru svokölluð sameiginleg félagsæeg einkenni einsog t.d. aðild að tilteknu stéttarfélagi, örorka o.s.frv. Aðilar að félögunum eiga saman hlut í félaginu. Meðlimir spara með því að fjárfesta í hlutum þess. Þessi sparnaður félagsmanna byggir undirstöður undir sjóð

33 þar sem lán eru tryggð til annarra meðlima á sanngjörnum vöxtum. Arður getur verið greiddur til aðildarfélaga og byggist þá á hlutdeild þeirra í hagnaði vegna útlánsvaxta. Lánasjóðir falla einnig undir sérstök lög um lánasjóði frá 1979 (sama: 36).

Í töflu hér á eftir má sjá hver þróunin hefur verið í fjölda þessara félaga, félagsmanna og eigna frá 1996 (athugið að bæta þremur núllum aftan við þrjá öftustu dálkana):

Samvinnufélög og skyld félög - samantekt 2000 GBP = Sterlingspund Fjöldi Fjöldi Sjóðir Heildar- félaga félagsmanna félagsmanna* eignir þús. GBP þús. GBP þús. 1Smásala 95 5.827 1.637.473 3.637.450 2Heildsala og framleiðsla 90 286 830.557 2.660.592 3Landbúnaðarfélög 817 1.101 229.784 601.400 4Veiðifélög 69 5 14.761 41.738 5Klúbbar 3.291 2.224 369.792 546.547 6Almenn þjónusta 991 632 2.122.094 26.459.715 7Húsfélög 3.029 166 9.170.312 27.336.139 8Lánasjóðir 687 322 202.591 214.524 Samtals 9.069 10.563 14.577.364 61.498.105

Öll félögin árið... 1996 10.601 9.128 12.032.099 41.528.416 1997 10.584 10.382 13.464.740 47.030.890 1998 10.420 9.541 15.431.504 53.774.041 1999 9.573 10.761 14.079.772 56.882.055 2000 9.069 10.563 14.577.364 61.498.105 *Samanlagðir eignarhlutir, innlegg, sparnaður og lán aðildarfélaga

Heimild: The Registry of Friendly Societies (2002) Report of the Chief Registrar 2000 – 2001 (Jan. 2002): 25. http://www.fsa.gov.uk/pubs/additional/rfsweb.pdf

Uppbygging hreyfingarinnar

Hér að ofan hafa verið taldir upp allir helstu flokkar samvinnufélaga í Bretlandi. Nú er komið að hreyfingunni sjálfri. Hvernig hún starfar, hver eru helstu málefni hvers flokks og hver hefur þróunin verið innan hverrar hreyfingar síðastliðin 10 ár?

Neytendasamvinnufélög (retail societies) “Neysla er megin markmið allrar framleiðslu: og taka verður tillit til hagsmuna framleiðandans aðeins að svo miklu leiti sem það er í samræmi við hagsmuni

34 neytandans. Þessi forsenda er svo augljós að fáránlegt væri að reyna að sanna hana (A. Smith 1776: 21)

Hér að ofan hefur ekki verið minnst á neytendasamvinnufélög en þau eru ekki sérstaklega skráð sem slík heldur eru smásölufélög og heildsölufélög neytendasamvinnufélög. Neytendasamvinnufélög eru félög einstaklinga sem taka sig saman um að kaupa og selja vörur til hagsbóta fyrir félagsmenn sína (The Worker Co- op Federation 2001:4), eða byggð upp eftir sömu hugmyndafræði og fyrsta kaupfélagið. Frá upphafi hafa neytendasamvinnufélögin verið langsterkasti hluti samvinnuhreyfingarinnar í Bretlandi. Um aldamótin 1900 voru félögin 1.439 með 1,7 milljónir félagsmanna en um miðja öldina 1953 voru þau orðin 988 með 11,2 milljónir félagsmanna (J. Bailey 1955: 29). Að hluta er talið að úthlutun hagnaðar til neytenda eftir viðskiptum þeirra við félögin svokallað “divi” (dividend) ásamt öruggum sparnaði hafi laðað félagsmenn að hreyfingunni lengst framan af J. Birchall 1994:72). Það má segja að samvinnuhreyfingin á Bretlandi á sínum tíma hafi verið frumkvöðull að því sem við þekkjum í dag í formi “fríkorts” og/eða vildarpunkta þegar við eigum viðskipti við ákveðin fyrirtæki, þetta fyrirkomulag hefur verið hluti af hugmyndafræði samvinnufélaga frá upphafi. Síðari hluta aldarinnar hefur félögunum fækkað stöðugt eins og hér má sjá og eru nú einungis 46 félög starfandi.

Fjöldi neytendasamvinnufélaga 1958 - 2000

932 859 801 743 680

539

357 282 260 237 225 206 145 112 102 87 79 64 54 52 48 46

1958 1962 1966 1970 1974 1978 1982 1986 1990 1994 1998

Heimild: The Report of the co-operative Commission Bls. 21.

Neytendasamvinnufélögin eða Co-op eins og þau eru kölluð í daglegu tali eru samt enn ein stærsta smásöluverslanakeðja Bretlands (The Co-operative Commission 2001: 14) og tvímælalaust enn burðarás samvinnuhreyfingarinnar þar í landi.

35 Markaðshlutdeild þeirra hefur farið stöðugt minnkandi og er nú að því er talið er komin niður fyrir 3% eða u.þ.b. 2,8%.

Áætluð hlutdeild samvinnufélaga í heildarveltu smásöluverslunar í Bretlandi

8,0

6,0 Matv ar a 4,0 Aðrar vörur

2,0 Samtals

0,0 1990 1991 1992 1993 1994 1995 1996 1997 1998 1999 2000

Heimild: Co-operative statistic 1990 – 2000.

Stærð félaganna er ákaflega misjöfn eða allt frá því að um sé að ræða nokkra tugi félagsmanna upp í rúmlega 5 milljónir. Stærstu félögin hafa frá upphafi verið Co- operation Retail Services Limited skammstafað CRS og Co-operation Wholesale Societies Limited skammstafað CWS. Þessi tvö félög sameinuðust á árinu 2000 og breyttu nafni sínu í the Co-operative Group (The Co-operative Group 2001: 5). Eftir sameiningu er nú meira en helmingur veltu samvinnuhreyfingarinnar á Bretlandi undir einum hatti og hvað varðar eignir er hlutdeild þess jafnvel enn meiri (The Co- operative Commission 2001: Annex 5).

Heildarvelta neytendasamvinnufélaganna í milljónum punda (GBP)

9000

7000

5000 Heimild: 3000 Co-operative Statistics 1990 1992 1994 1996 1998 2000 1999-2000 og 2000-2001

The Co-operative Group er stærsta neytenda-samvinnufélag í heiminum (The Co- operative Group 2001b. Starfsemi þessara félaga innifelur fjölbreytta tegund starfsemi eða smásöluverslun, útfararþjónustu, ferðaþjónustu, mjólkurframleiðslu og dreifingu, fjármálastarfsemi, en þar er um að ræða tvö sterk fyrirtæki

36 Samvinnubankann (the Co-operative Bank) og Samvinnutryggingar (the Co-operative Insurance Society - CIS) og ýmsa aðra starfsemi svo sem (stjórnun bændabýla), Syncro (verkfræðifyrirtæki), Rbert Howard (vinnuklæðnaður), Goliath (vinnuskófatnaður) og ACC (dreifingarfyrirtæki) (The Co-operative Group 2001c: 5). Eins og sjá má á mynd þá hefur hlutfall hverrar starfsemi fyrir sig haldist nokkuð stöðugt frá 1990, hlutföllin breytast þó nokkuð árið 2000 en það ár er í raun ekki samanburðarhæft þar sem það sýnir tölur eftir sameiningu fyrirtækjanna tveggja. Samvinnubankinn er þarna kominn inn með tölur fyrir útfararþjónustu og breytir það tölunum umtalsvert eins og sjá má.

Velta neytendasamvinnufélaga eftir flokkum 1990 1991 1992 1993 1994 1995 1996 1997 1998 1999 2000 Matvara 60% 61% 60 59% 60% 59% 57% 55% 56% 48% Aðrar vörur 16% 15% 15 14% 13% 13% 14% 15% 13% 10% Mjólkurvörur 10% 9% 7 7% 6% 5% 5% 4% 4% 5% Útfararþjónusta o.fl.* 3% 3% 3 3% 3% 4% 3% 4% 4% 15% Ferðaþjónusta 4% 5% 7 8% 8% 8% 10% 11% 12% 12% Vélasala 7% 7% 8 9% 10% 11% 11% 11% 11% 10% * Tölur frá bankanum hér gera þessar tölur ekki samanburðarhæfar. Heimild: Co-operative Statistics 1990 – 2000.

Mikil gróska á sér nú stað innan hreyfingarinnar á Bretlandi og má segja að hún berjist fyrir endurnýjuðu hlutverki þessa dagana. Í byrjun árs 2000 sendu nokkrir forsvarsmenn hreyfingarinnar bréf til Tony Blair forsætisráðherra þar sem farið var fram á stuðning við skipan nefndar til að fara ofan í saumana á starfsemi samvinnuhreyfingarinnar og hvernig mætti færa hana til nútímans, í bréfinu segir m.a. : “Verkalýðshreyfingin á Bretlandi hefur þrjá vængi: Verkamannaflokkinn, verkalýðsfélögin og samvinnuhreyfinguna. Allir þesir aðilar eiga þau sameiginlegu markmið að auka skilvirkni efnahagslífsins og félagslegt réttlæti... Í 150 ár hefur samvinnuhreyfingin leitst við að veita neytendum hágæða og siðferðislega æskilega þjónustu og leiast við að taka þátt í þeim nærsamfélögum sem hún er hluti afægja betur sögulegum markmiðum sínum... hún þarf að virkja samvinnumen. Á nýrri öld teljum við að hún þurfi að endurskoða markmið sín og skipulag til þess að fullnægja sögulegum markmiðum sínum og til að virkja samvinnmenn úr öllum röðum hreyfingarinnar. Hún þarf líka að virkja félaga verkalýðsfélaganna sem hafa sömu markmið og við og geta tekið þátt í að skilgreina glæsta framtíð samvinnuhreyfingarinnar með þekkingu sinni á viðskiptum og stjórnmálum (The Co-operative Commission 2001: 10).

37 Forsætisráðherra tók jákvætt undir erindi þeirra og í svarbréfi hans segir m.a.: “Það er mér sönn ánægja að verða við beiðni ykkar um að taka þáttt í að koma á og styðja fjárhagslega nefnd sem mun hafa það verkefni að rannsaka og koma með tillögur um gera samvinnuhreyfingu neytenda nútímalegri...Ég er einnig sammála því að samvinnuhreyfingin eigi að ná árangri bæði í viðskiptum og í því að auka stjórnmálalega menntun og efla þróun nærsamfélaga (sama: 5).

Nefndin var skipuð og skýrslan kom út í byrjun árs 2001 undir kjörorðunum “Yfirburðir samvinnu – sköpum kraftmikla fjölskyldu samvinnufyrirtækja” með mynd á kápu sem sýnir vel það sem átt er við. Hringnum er ætlað að sýna þá hugmyndafræði sem samvinnuhreyfingin á að byggja á samkvæmt ráðleggingum nefndarinnar. Félagsleg markmið tróna hæst, þau eiga að leiða af sér samkeppnisforskot sem aftur á að leiða til framúrskarandi fjárhagslegrar afkomu sem aftur á að gera hreyfingunni kleift að hafa félagsleg markmið að leiðarljósi. Hringurinn á að innifela þreföld skilaboð: o Að endurnýja sögulega hugmyndafræði hreyfingarinnar, þ.e. reglur hennar og félagsleg markmið þannig að hæfi nútímanum. o Sterk markaðssetning á samkeppnisforskoti samvinnufélaga á meðal landsmanna með slagorðum eins og “Árangur”, “Ábyrgð” og “Umbun”. o Skýr útdeiling ágóða í enduruppbyggingu og útþenslu, til samfélagsins og síðast en ekki síst á meðal félagsmanna (sama: 19). Það er ljóst á öllum skrifum um samvinnuhreyfinguna á Bretlandi að þessi skýrsla hefur haft mikil áhrif og ekki síst hefur það hleypt nýju blóði í umræðuna að Tony Blair forsætisráðherra skuli skrifa aðfararorð að skýrslunni en þar segir hann m.a.: “Ég trúi því ... að það sé mikilvægt að samvinnuhreyfingin haldi áfram að vaxa og dafna á nýrri öld. Þau gildi sem hún byggir á – gildi eins og samfélagsleg ábyrgð og áburgð gagnvart nærsamfélögum – eru einnig gildi Verkamannaflokksins og þau eru jafn raunhæf í dag og þau hafa alltaf verið”

Með þessum orðum er forsætisráðherra tvímælalaust að gefa hreyfingunni byr undir báða vængi. Hér segir hann afdráttarlaust að samvinnuhreyfingin og sú hugmyndafræði sem hún byggir á og hugmyndafræði Verkamannaflokksins eigi samleið. Farið verður nánar ofan í hugmyndir sem upp hafa komið í kjölfarið hér

38 síðar í þessum kafla en víkjum nánar að stöðu neytendasamvinnufélaga á Bretlandi nú um stundir. Eins og fram hefur komið hér að framan er margítrekað bæði í meginreglum alþjóðasambands samvinnufélaga og í lögum um samvinnufélög á Bretlandi að samvinnufélög verða að hafa félagsleg markmið að leiðarljósi fyrst og fremst til að geta með sanni kallast samvinnufélög. Þegar litið er á stóru neytendafélögin á Bretlandi þá er eðlilegt að spurt sé hvaða félagslegu hlutverki slík félög hafa að gegna gagnvart neytendum umfram önnur fyrirtæki í sömu atvinnugrein. Það liggur ekki í augum uppi við fyrstu sín. Fram kemur í skýrslu nefndarinnar að samvinnufélög séu annað og meira en viðskiptafélög “Þau eru sérstæðar skipulagsheildir vegna þess að þau ..hafa samvinnu- og samfélagsleg markmið sem þau leitast við að ná” (sama:12)

En er það eitt nægilegt að segja að þau séu öðruvísi vegna þess að þau séu samvinnufélög og hafi félagsleg markmið að leiðarljósi? Stundum hvarflar það að manni að menn séu að berjast fyrir því að viðhalda félagaforminu félagsformsins vegna en ekki vegna þess að það hafi upp á svo margt að bjóða umfram önnur félagaform. Það er athyglisvert í þessu sambandi að lesa úttekt Leigh Sparks á skýrslunni. Ráðleggingar nefndarinnar eru í 44 atriðum í 7 köflum en Sparks fjallar sérstaklega um þau atriði sem snúa að samvinnufélögum sem slíkum; að byggja undir samkeppnisforskot samvinnustefnunnar, ímynd hennar, vörumerki og félagaaðild (L. Sparks 2002: 8). Hann bendir m.a. á þá vafasömu fullyrðingu að ganga út frá því að samvinnufélagaformið í sjálfu sér þýði samkeppnisforskot eins og gert er í skýrslunni, en með því einu að ganga út frá því í fyrsta kafla skýrslunnar að endurnýja samkeppnisforskot samvinnufélaga gefa höfundar skýrslunnar til kynna að þeir gangi út frá því sem vísu að samvinnufélagaformið hafi forskot á keppinauta sína. Það er vafasamt á sama tíma og hreyfingunni hefur hnignað stöðugt í 40 ár á meðan önnur fyrirtæki hafa vaxið gífurlega. Hann bendir á að í skýrslunni sé gert ráð fyrir því að ná góðum fjárhagslegum árangri með því forskoti sem félagslegu markmiðin gefa hreyfingunni, á sama tíma og það er ekki skýrt út sérstaklega hvað félagslegu markmiðin þýða eða hvað stendur á bak við þau (sama: 10). Það kemur hvað eftir fram í skýrslunni að hreyfingin og vörumerki hennar (co-op) hefur á sér gamaldags og úrelta ímynd. Í þessu sambandi veltir Leigh Sparks því fyrir sér hvernig nefndin ætlar hreyfingunni að byggja upp vörumerkið og ímyndina með félagslegu markmiðin ein

39 að leiðarljósi, þ.e. sömu hugmyndafræði og ekki virðist hafa dugað til áratugina á undan án þess að skilgreina í hverju þau felast. “Skilgreina verður hvað örumerkið stendur nákvæmlega fyrir og þau gildi sem eru gerð að veruleika í gegnum vörumerkið. Án umbóta á þessu sviði er erfitt að erfitt að gera sér grein fyrir af hverju árangur muni nást” (sama: 10).

Í skýrslu nefndarinnar er lagt til að fjárhagsleg afkoma verði markmið númer eitt í komandi framtíð því án góðrar fjárhagslegrar afkomu komi hreyfingin ekki til með að geta staðið undir þeim félagslegu markmiðum sem hún setur sér. Fram kemur að ekki sé óalgengt að stóru verslanakeðjurnar nái hagnaði upp á 20% af veltu á meðan verslanir samvinnufélaganna samanlagt hafa vart náð 5%, gert er ráð fyrir að þessu þurfi að kippa í liðinn hið snarasta (sama: 16). Aftur virðist skortur á ráðleggingum um hvernig það á nákvæmlega að gerast, þar sem enn og aftur er ekki gert ráð fyrir neinu nýju í stefnumótuninni, félagslegu markmiðin eru forskotið sem hreyfing framtíðarinnar á að byggja á. Kjarninn í samvinnufélögum hlýtur alltaf að vera félagsaðildin ef tekið er mið af upprunalegri hugmyndafræði og einnig ef tekið er mið af lögunum sem þau starfa eftir. Starfsemi þeirra á fyrst og fremst að miðast við að vera til hagsbóta fyrir félagsmenn (The Co-operative Commission 2001: 16). Hvaða hag hafa félagsmenn af því að vera aðilar að neytendasamvinnufélögum Bretlands í dag? Eru félagsmenn yfirleitt þátttakendur í hreyfingunni? Er hreyfingin til sjálfs sín vegna eða hefur hún einhverju hlutverki að gegna gagnvart félagsmönnum sínum? Í könnun sem gerð var á 16 breskum neytendasamvinnufélögum kom í ljós að af þeim 12 sem svöruðu var innan við 1% mæting félagsmanna á fundum hjá 75% þeirra. Á milli 1 og 2% hjá 17% og á milli 2 og 5% hjá 8%. Og það sem þeim fannst merkilegast sem gerðu þessa könnun var að það skipti engu máli hversu stórt félagið var, hjá meira en 95% þeirra var talið að virk aðild félagsmanna færi minnkandi (sama: 16). Þessar tölur benda til að virk félagsaðild einstaklinga og lýðræði í þessum neytendasamvinnufélögum er ákaflega takmarkað. Þrátt fyrir öll fögru orðin um félagsleg markmið hreyfingarinnar þá er óljóst hvaða félagslegu markmið er verið að tala um eða í þágu hverra.

40 Samvinnusambandið – (Co-operative Union – CU)

The Co-operative Union eða Samvinnusambandið var stofnað árið 1970. Hlutverk þess er að samhæfa, upplýsa og leiðbeina aðildarfélögum og tala fyrir þeirra hönd. Þjónustan sem sambandið veitir aðildarfélögum sínum er m.a. að setja upp staðla fyrir þau að fara eftir og miða sig við hvað varðar frammistöðu í verslun, hvað varðar félagsleg markmið, hversu vel þau standa sig í því að vera samvinnufélög og á sviði reikningshalds. Það heldur auk þess utan um tölfræði hreyfingarinnar og ýmislegt annað sem viðkemur samskiptum einstakra félaga við yfirvöld (The Co- operative Union 2002). Hugmyndin að því í upphafi var að það yrði samband hvers konar samvinnufélaga, hvort sem það væru neytenda-samvinnufélög, starfsmanna-samvinnufélög, framleiðenda-samvinnufélög eða hvers konar samvinnufélög önnur “… Það þótti augljóst að það væri sá vettvangur þaðan sem boðskapurinn um verkalýðs- og neytendavöld yri boðaður” (J. Bircahll 1994: 91).

En vegna þess hversu sterk og útbreidd neytenda-samvinnufélögin urðu strax frá upphafi varð hlutverk sambandsins óhjákvæmilega að meira eða minna leyti í þágu þeirra (sama: 91-3). Nú árið 2002 má kannski segja að upphaflega markmiðið með stofnun sambandsins sé loksins að nást því það hefur augljóslega miklu hlutverki að gegna í allri þeirri þróun og umræðu sem nú er uppi um samvinnufélög og í því samrunaferli sem nú á sér stað innan hreyfingarinnar í Bretlandi (The Co-operative Union Ltd (2001: 9). Sambandið hefur skilgreint verkefni sín eftirfarandi: − Að bæta frammistöðu neytendafélaga í verslun − Að styðja starf faglegrar forystu samvinnufélaga − Að þjónusta og þróa starfsmanna-samvinnufélög og aðra starfsemi í lýðræðislegri eigu − Að viðhalda góðum samskiptum við stjórnvöld og þing og vinna að stuðningi þeirra við samvinnufélagsformið og meginreglur þess − Að þróa sterk og árangursrík tengsl við allar hreyfingar og stofnanir sem vinna undir merkjum samvinnustefnunnar á Bretlandi − Að koma samvinnustefnunni á framfæri á heimilum og í heiminum öllum − Að sjá um árlega ráðstefnu samvinnuhreyfingarinnar

41 Aðild að SÍS þeirra Breta eða Co-operation Union eiga öll stærri kaupfélögin á Bretlandi og sambandsfélög þeirra svo sem the Co-operative Group, the Co-operative Insurance Society - CIS, Co-operative Press, National Co-operative Chemists and Shoefayre og að síðustu gerðist samband starfsmanna-samvinnufélaga (ICOM - Industrial Common Ownership Finance) aðili að sambandinu í desember 2001. Þar með eru ýmsar stofnanir orðnar aðilar að sambandinu sem ekki voru þar áður, stofnanir sem eru í lýðræðislegri eigu margra aðila. Sambandið eða Co-operative Union er ekki í verslun eða viðskiptum. Það var upphaflega stofnað til að tengja saman félögin, til að hjálpa til við stofnun nýrra og til að útdeila þekkingu á meginmarkmiðum og starfsemi samvinnustefnunnar. Nú þegar hreyfingin er komin til ára sinna hafa markmiðin breyst og má segja að megin tilgangur Sambandsins nú sé að samhæfa, upplýsa og leiðbeina aðildarfélögum og tala fyrir þeirra hönd á alþjóðlegum vettvangi. Það hvernig samvinnufyrirtækjum er stjórnað þykir mjög mikilvægt innan Samvinnuhreyfingarinnar á Bretlandi og leitast er við að vera í fararbroddi fyrir góða stjórnunarhætti. Vegna þessa hefur Sambandið (CU) þróað reglur um bestu aðferðirnar (best practice) sem þeir uppfæra og gefa út árlega. Þá heldur það utan um samskipti við Alþjóðleg samtök samvinnufélaga (International Co-operation Alliance ICA) og við stjórnvöld fyrir hönd hreyfingarinnar (The Co- operative Union 2002).

Starfsmannasamvinnufélög (worker co-operatives)

“Það nægir ekki að menn vilji flýja kerfi sem þeim mislíkar, þeir verða að vita hvað þeir vilja og vilja það svo mjög að berjist fyrir því” (J. Bailey 1955: 66)

Starfsmanna-samvinnufélög (worker co-operatives) eru skilgreind sem fyrirtæki í eigu starfsmanna sinna og sem er lýðræðislega stjórnað af þeim (ICOM 1993: ix). Hugmyndin að starfsmanna-samvinnufélögum er eldri en hugmyndin að neytenda- samvinnufélögum. Eins og fram kom hér í upphafi hafði Robert Owen engan áhuga á neytendasamvinnufélögum þar sem hann sá verslun ekki geta orðið til þess að búa til samfélög heldur miklu fremur öfugt. Í samræmi við það var áhugi flestra frumkvöðla samvinnuhreyfingarinnar á seinni hluta 19. aldar miklu meiri á samvinnufélögum í eigu starfsmanna en neytenda. Þeir héldu því fram að það væri starfsmaðurinn sem byggi til verðmæti vara með vinnu sinni, ekki fjármagnið eða neytendur, og því ættu

42 þeir að stjórna framleiðslunni og eiga forgang á útdeilingu ágóða af framleiðslunni. Þrátt fyrir það átti þetta form eignarhalds á samvinnufélögum erfitt uppdráttar á Bretlandi og flestar tilraunir til að stofna starfsmanna-samvinnufélög á þessum tíma féllu um sjálft sig (Birchall 1994: 102). Hugmyndin hefur þó alltaf haldið lífi og má kannski segja að í dag sé mestur áhugi á þessari tegund samvinnufélaga. Enn og aftur má tengja það þeirri ríkisstjórn sem nú er við völd á Bretlandi en hún hefur mikinn áhuga á svokölluðum “social enterprises” eða félagslegum fyrirtækjum en starfsmanna-samvinnufélög falla undir þann flokk. Á síðasta ári kom út skýrsla þar sem farið var ofan í málefni félagslegra fyrirtækja. Tilgangur skýrslunnar var m.a. að vera nokkurs konar úttekt á því hvers konar fyrirtæki er um að ræða, hvers konar eignarform og hvort og hvað þessi fyrirtæki ættu sameiginlegt (D. Smallbone o.fl. 2001: 10). Í skýrslunni kemur fram hversu erfitt og umfangsmikið verkefnið er þar sem það er mjög mismunandi hvernig “félagsleg fyrirtæki” eru skilgreind. Þannig kemur fram að sumir gera ráð fyrir að eignarhaldið að fyrirtækjunum skipti máli þegar aðrir vilja meina að það séu miklu fremur markmið og tilgangur fyrirtækjanna sem geri þau að félagslegum fyrirtækjum, ekki eignarhaldið (sama: 13-17). Þessi vandi sýnir kannski best þann vanda sem við er að etja þegar kemur að því að gefa mynd af starfsmanna-samvinnufélögum í Bretlandi. Þau tilheyra þessum flokki “social enterprises” og í umfjöllun um þau gerir maður sér hreint ekki alltaf grein fyrir hvort þau fyrirtæki sem fjallað er um eru “samvinnufélög” eða ekki. Í viðtali við starfsmann ICOM (sjá hér á eftir) kom fram að hann hefur ekki hugmynd um hversu mörg starfsmanna-samvinnufélög eru starfandi á Bretlandi (síðasta skýrsla um þessi félög var tekin saman árið 1993, sjá hér síðar) né hversu margir starfa hjá þeim eða í hversu mörgum greinum þau er að finna, en einungis um 200 félög væru nú aðilar að samtökum starfsmannafélaga ICOM. Hann sagði ennfremur að hlutverk ICOM, samtaka starfsmanna-samvinnufélaga hefði fram að þessu verið nánast eingöngu lagalegs eðlis, þ.e. að leiðbeina aðilum sem hefðu hug á að stofna slíkt félag um hvernig ætti að gera það og hvað það þýddi. Hann kvaðst þó mjög bjartsýnn á að þetta kæmi til með að breytast nú í kjölfar samruna ICOM við Co-operative Union og sagði að tölulegar upplýsingar um stærð hreyfingarinnar á Bretlandi væri nú forgagnsverkefni. Hann taldi að umhverfið væri nú mjög jákvætt í garð þessara fyrirtækja og nefndi áhuga ríkisstjórnarinnar sérstaklega í því sambandi (G. Mitchell 2002).

43 Ef marka má skýrsluna sem vitnað er til hér að framan um “social enterprises” þá eru tölur mjög á reiki um hversu mörg slík fyrirtæki séu starfandi innan Bretlands. Ein skýrsla frá 1997 segir að 889 “félagsleg” fyrirtæki séu starfandi í landinu en í nýlegri skýrslu ríkisstjórnarinnar er talað um að þau séu 450 með samtals veltu upp á 18 milljónir punda. Meginmarkmið þessara fyrirtækja eru að bjóða upp á vörur og/eða þjónustu sem markaðurinn annars vegar og ríkið hins vegar eru annað hvort ekki viljug til eða ófær um að veita. Svo sem að þróa einhverja sérstaka færni, skapa atvinnu og síðast en ekki síst að hlúa að leiðum fyrir það fólk sem er félagslega einangrað til að það geti tekið þátt í samfélginu (Smallbone, D. o.fl. 2001: 18. Graham Mitchell, starfsmaður ICOM ítrekaði það álit sitt að flest starfsmanna-samvinnufélög hefðu félagsleg markmið að leiðarljósi miklu fremur en fjárhagsleg. Hans tilfinning var sú að flest þeirra væru stofnuð af fólki sem frekar tilheyrði vinstri væng stjórnmálanna og það væri mikið af svokölluðum “umönnunarfyrirtækjum” svo sem leikskólum, heimilum fyrir aldraða og slíkum fyrirtækjum (G. Mitchell 2002).

Samtök starfsmanna-samvinnufélaga (ICOM) ICOM eru samtök atvinnufélaga í almennri eigu. Þau eru samtök sem eru rekin án hagnaðar og hafa það hlutverk að efla og stuðla að fullkomnu eignarhaldi starfsmanna á fyrirtækjum í Bretlandi. Síðan 1971 hafa samtökin verið brautryðjendur að samvinnufélögum, sérstaklega hafa þau stuðlað að starfsmanna- samvinnufélögum. Þá hafa þau líka komið að þróun fleiri nýjunga á sviði samvinnufélaga svo sem auknum fjölda samvinnuhópa sem reka lítil fyrirtæki eða jafnvel aðstoðað einstaklinga til að koma á fót atvinnurekstri (ICOF 2002). Eins og áður sagði sameinaðist ICOM SÍS þeirra Breta eða Co-operative Union í desember 2001. Sá samruni þykir marka mikil tímamót í sögu samvinnufélaga þar sem þá hefur tekist að sameina krafta neytendasamvinnufélaga (consumer co-operatives) og starfsmanna-samvinnufélaga (workers co-operatives) í fyrsta skipti, eða eins og Pauline Green Chief Executive og General Secretary lætur hafa eftir sér “Sameining ICOM og Sambandsins hefur brúað 100 ára bil milli starfsmanna- og neytenda-samvinnufélaga og um leið skapað raunverulegt tækifæri til nýsköpunar og sóknar. Hún hefur einnig skapað nýja hugsun í Sambandinu og menningu sem leggur á herðar okkar þá skyldu að gera fleirum en nokkru sinni grein fyrir hvað við erum að gera og hvers vegna” (The Co-operative Union Ltd 2001: 3).

44 Landbúnaðar-samvinnufélög

“Sem neytendur getum við grætt á því að vangreiða launþegum fyrir störf þeirra; sem framleiðendur getum við komið okkur saman um halda verði háu á vörunum sem við seljum. Öll samvinnufélög geta stutt við bakið hvorum aðilanum sem er í efnhagslegum misgjörðum. Það er andi samvinnunnar einn sem tryggir að samvinnufélagsformið sé ekki misnotað” (J. Bailey 1955: 77).

Landbúnaðar-samvinnufélög eru tilorðin til að svara þrenns konar þörfum stofnenda. Í fyrsta lagi til að svara þörf bænda fyrir aðdrætti svo sem útsæði, áburð og búpening, svokölluð “supply-co-ops”. Í öðru lagi í þeim tilgangi að markaðssetja afurðir þeirra þ.e. markaðs-samvinnufélög. Og í þriðja lagi til frekari úrvinnslu landbúnaðarvara svo sem mjólkur í mjólkurafurðir eða svínum í kjötafurðir svo dæmi séu tekin, þ.e. svokölluð framleiðslu-samvinnufélög. Talið er að upphaflega hafi þetta form verið stofnað í Þýskalandi en frá upphafi hefur hreyfingin verið langsterkust í Danmörku (J. Birchall 1994: 174). Brautryðjandi þessa arms hreyfingarinnar á Bretlandi var Horace Plunkett. Honum var mjög umhugað um framtíð írskra bænda og helgaði líf sitt baráttu sinni fyrir stofnun og þróun samvinnu-landbúnaðarfélaga þar (Plunkett Foundation 2002). Útbreiðsla þessa forms gekk hægt og allt fram til 1930 voru það mestmegnis smábændur sem sáu sér hag í því að verða félagsmenn slíkra samvinnufélaga. Í kjölfar heimskreppunnar 1930 jókst þátttaka stórbænda og þeir fóru að sjá sér hag í því að verða þátttakendur. Árið 1938-39 voru 887 landbúnaðarfélög skráð á Bretlandi með rúmlega 243.000 félagsmenn, árið 1953 voru félögin orðin 697 með 358.000 félagsmenn (J. Bailey 1955: 79-80). Í súluritum hér á eftir má sjá þróunina í þessum flokki samvinnufélaga undanfarinn áratug. Súluritin sýna stöðu þeirra fyrirtækja sem skráð eru sem “Farmer Control Business” eða FCB en eru ekki í öllum tilfellum samvinnufélög, þó langflest þeirra séu það. Brögð hafa verið að því að einstaka félögum hefur verið breytt í einka- eða almenningshlutafélög en ef meginhlutverk félaganna hefur haldist óbreytt þ.e. að starfsemi þeirra er hugsuð fyrst og fremst til að þjónusta bændur og til hagsbóta fyrir þá, þ.e. markmiðið um hámörkun hagnaðar hefur ekki náð yfirhöndunni, þá er þeim haldið inni í þessum tölum. Súluritið sýnir t.d. 583 félög á árinu 2000-2001 en í raun eru samvinnufélögin 566, 17 félög hafa annað félagaform (Facts and Figures About Farmer-Controlled Businesses in the UK 2000/01: 183-5).

45 Þróun landbúnaðar-samvinnufélaga 1992 - 2001

660 643 350.000 640 300.000 620 594 250.000 600 583 Fjöldi félaga 580 200.000 558 561 563 Fjöldi félagsmanna 560 545 150.000 540 100.000 520 500 50.000 480 0 1992 1993 1994 1995 1996/7 1998/9 2000/01

Varðandi félagsaðildina verður að hafa í huga að einhverjir bændur eru félagsmenn í fleiri en einu félagi, en engar upplýsingar eru til um það hversu margir bændur á Bretlandi eru aðilar að mörgum félögum (sama: 186). Markaðshlutdeild félaganna er misjöfn eftir vöruflokkum eins og sjá má á mynd:

Markaðshlutdeild markaðs-landbúnaðar-samvinnufélaga eftir vöruflokkum 2000/2001

100% 100% 95% 100% 74% 58% 48% 54% 52% 50% 44% 38% 44% 33% 32%31% 33% 17% 11% 4% 4% 3% Ull Kál Epli Egg Mjólk Perur Baunir Baunir Rifsber Blómkál Olíufræ Sveppir Tómatar Kartöflur Gulrætur Jarðaber Kindakjöt Svínakjöt Salatblöð Nautakjöt Kornvörur Skrautjurtir

Markaðshlutdeild landbúnaðar- samvinnufélaga sem selja aðföng í landbúnaði sem hlutfall af heildarveltu aðdrátta 2000-2001

29% 28% 28% 21% 18%

Fræ Fóður Skordýraeitur

46 Plunkett Stofnunin

Plunkett stofnunin eða Plunkett Foundation í Oxford hefur verið starfandi í 80 ár og gegnir víðtæku hlutverki fyrir landbúnaðarfélögin. Meginhlutverk hennar er og hefur verið frá upphafi að styðja samvinnufélög í dreifbýli og þróun þeirra. Það hlutverk hennar hefur ekki eingöngu miðast við Bretland því stofnunin hefur m.a. stjórnað og tekið þátt í þróunarverkefnum til að koma á fót samvinnufélögum í yfir 50 þróunarlöndum í samstarfi við aðrar alþjóðlegar stofnanir svo sem Alþjóðabankann og Framkvæmdaráð Evrópusambandins (Plunkett Foundation 2002b). Nafn stofnunarinnar er kennt við Sir Horace Plunkett brautryðjanda að landbúnaðar- samvinnufélögum á Írlandi og náinn vin Roosevelt bandaríkjaforseta sem m.a. tók þátt í að hanna kerfi í Bandaríkjunum til stuðnings dreifbýlum svæðum (E. Parnell 2001). Stofnunin byggir starf sitt á hugmyndum hans en hann var frumkvöðull að þeirri hugmyndafræði að dreifbýlisbúar gætu bjargað sér sjálfir ef þeim væri leiðbeint á réttan hátt með stuðningi og sérfræðiþekkingu.

Stofnunin hefur skilgreint hlutverk sitt að:

− Vera leiðandi í stofnun og þróun landbúnaðarfélaga á Bretlandi og annarra fyrirtækja í eigu bænda. − Stuðla að þróun framsækinna viðhorfa til að fást við þjónustuskilyrði dreifbýlisins með stuðningi við stofnun þjónustustofnana í eigu íbúanna sjálfra svokallaðra “þjónustumiðstöðva dreifbýlisins” (community-owned rural services). − Vera aðili að Page: 47 [0]samsstarfi hagsmunaðila í dreifbýli (Rural Partnerships) um þróunarverkefni í freifbýli bæði innan Bretlands og erlendis (Plunkett Foundation 2002c).

Vandamálin sem stofnunin glímir við hljóma kunnuglega í eyrum Íslendinga, grípum aðeins niður í heimasíðu stofnunarinnar

“Þau vandamál sem samfélög dreifbýlisins eiga við að glíma eru mismunandi eftir löndum og taka bretingum í gegnum tíðina. Í mörgum heimshlutum er landbúnaðaur enn undirstaða hagkerfis dreifbýlisins. Þar af leiðandi getur ávinninningurinn af samvinnustarfssemi í landbúnaði verið mismunandi fyrir viðkomandi dreifbýlisheildir. Í Evrópusambandinu stendur landbúnaður fyrir

47 litlum og minnkandi hluta hegkerfis dreifbýlisins. Breytt lífsmynstur í dreifbýlinu hefur leitt til þess að þjónusta þar hefur verið lögð niður, en það hefur skapað ótta um einangrun og útilokun í samfélaginu. Mörg form efnahagslegrar sjálfshjálpar eru að koma fram sem gera samfélögum dreifbýlisins fært að eiga of reka þjónustu án aðstoðar fyrirtækja sem stjórnast af hagsmunum fjárfesta” (sama) Stofnunin hefur í gegnum tíðina einbeitt sér sérstaklega að tilteknum verkefnum eftir því hvar þörfin hefur verið mest hverju sinni. Þannig hefur m.a. starf hennar síðastliðinn áratug fyrst og fremst beinst að verkefnum í Mið- og Austur-Evrópu í kjölfar breytinga vegna falls kommúnismans í viðkomandi löndum. Nú í upphafi nýrrar aldar þegar breskur landbúnaður stendur frammi fyrir miklum erfiðleikum og dreifbýlinu hnignar stöðugt er markmið hennar að einbeita sér að ástandinu heima fyrir. Sú staðreynd að tekjur landbúnaðarins á Bretlandi hafa dregist saman um 27% á milli ára (1999-2000) þykir sýna þörf fyrir meiri útbreiðslu samvinnufélaga innan hans (E. Parnell 2001: 9). Stuðningur til að halda uppi þjónustustigi við íbúa í dreifbýli var eitt af 10 forgangsverkefnum ríkisstjórnarinnar árið 2000 og þeir gáfu út svokallaða “hvíta bók” með titlinum: Our Countryside: The Future, A Fair Deal for Rural . Skortur á aðgangi að húsnæði og samgöngum hefur ásamt öðrum þáttum átt þátt í þeirri hnignun sem orðið hefur í þjónustu á landsbyggðinni. Í hvítu bókinni er gengist við því að þetta sé eitt af þeim vandamálum sem við er að eiga og sem þörf er á að breyta til að draga úr svokallaðri félagslegri og efnhagslegri einangrun dreifbýlissvæða. Til að draga úr þessu er í skýrslunni mælt með því að stofnaðar verði svokallaðar “community owned services” þ.e. þjónustustofnanir í eigu íbúanna sjálfra. Þetta verkefni er á heimasíðu Plunkett kallað “Rural social enterprises” eða fyrirtæki í dreifbýli sem hafa félagsleg markmið að leiðarljósi. Þau hafa þann megintilgang að veita íbúunum þá þjónustu sem þeir þarfnast, fremur en að fjármagnið skili arði. Til að ná árangri verður þeim að vera vel stjórnað og það verður að vera jafnvægi á milli efnahagslegra og félagslegra markmiða. Þau fyrirtæki sem um er að ræða geta verið verslanir í eigu íbúanna, lánasjóði og/eða samgöngufyrirtæki í eigu íbúa (The Plunkett Foundation 2002d). Þetta verkefni er skilgreint sem eitt af meginviðfangsefnum Plunkett stofnunarinnar og hefur að þeirra mati þegar skilað árangri, þannig tala þeir um hljóðláta byltingu á heimasíðu sinni.

“Á mörgum dreifbýlissveiðum Bretlands eru fyrirtæki með félagsleg markmið orðin ríkjandi form grundvallarþjónustu... Styrkir og önnur form efnahagslegrar

48 aðstoðar eru í boði til að halda þorpsverslunum opnum, koma á nýrri þjónstu áætlanabifreiða og til að þróa staðbundna fæðuframleiðslu. En, hinir nýju aðilar sem framkvæma þessa opinberu aðstoð eru ekki einkafyrirtæki, heldur hópar íbúa á viðkomandi stöðum sem koma saman til að leysa eigin vandamál með því að stofna félagsleg fyrirtæki í eigu vðkomandi nærsamfélags” (The Plunkett Foundation 2002e). Því til staðfestingar benda þeir á að í nýrri skýrslu ríkistjórnarinnar um þjónustu við dreifbýlið (Ríkisstjórn Bretlands 2002) komi fram að á síðustu þremur árum hafi þjónustustig heldur batnað eða a.m.k. ekki versnað. Þeir vilja þakka þessa þróun því samstarfi sem tekist hefur á milli félagslegra fyrirtækja og sveitarfélaganna og leggja áherslu á að það verði kannað sérstaklega þar sem líkanið geti gefið fyrirheit um fyrirkomulag sem henti vel fyrir framtíðina og sem að ríkistjórnir geti lært af (The Plunkett Foundation 2002e).

Húsnæðis-samvinnufélög

Það upphaflega markmið Rochdale frumherjanna um að byggja eða kaupa hús handa félagsmönnum sínum gleymdist nánast í Bretlandi, og samvinnufélög með þetta markmið urðu ekki til þar fyrr en 1961, þá byggð á hugmyndafræði Svía en þetta félagaform er mjög sterkt þar sem og á hinum Norðurlöndunum J. Birchall 1994: 198). Um miðjan áttunda áratuginn voru húsnæðis-samvinnu orðin 450, flest á þéttbýlissvæðum eins og í London, Liverpool, Midlands, Manchester og á Norð- vestursvæðinu (North-West). Ástæður þess að þau voru stofnuð voru mjög misjöfn eftir því hvaða félag átti í hlut. Sumir gerðu það af þörf fyrir húsnæði á meðan aðrir gerðu það vegna áhuga á þessu félagaformi. Nú eru einungis 250 húsnæðis- samvinnufélög í Bretlandi. Mörg félaganna hættu starfsemi á tíunda áratugnum m.a. vegna lítils stuðnings við þetta félagaform og eins vegna ófullkomins lagalegs umhverfis (D. Clapham o.fl.: 6). Þrátt fyrir þessa stöðu mála er ljóst að breska samvinnuhreyfingin hefur engan veginn gefið þetta félagaform upp á bátinn, og í skýrslu The Co-operative Commission er lagt til að þetta félagaform verði eflt og m.a. lagt til stóraukið samstarf þessa flokks við neytenda-samvinnufélögin þar sem það er talið mikilvægt fyrir framtíðarhorfur hreyfingarinnar (The Co-operative Commission 2001: 74). Þá segir ennfremur í ráðleggingumn nefndarinnar að stjórnvöld þurfi að kynna þetta félagaform fyrir sveitarfélögum sem íhuga að færa þennan málaflokk í hendur einkaaðilum (sama: 8). Svo virðist sem þörf fyrir lausnir gæti átt vel við í þessum

49 málaflokki þar sem skortur á húsnæði er gríðarlegur í Bretlandi. Mörg húsanna voru byggð fyrir 100 árum síðan og 10% eru talin í slæmu ástandi. Verstu aðstæðurnar eru hjá einkaaðilum sem leigja út þar sem 1 af hverjum fimm húsum er talið óíbúðarhæft (D. Rodgers 1999).

Samtök húsfélaga (Confederation of Co-operative housing UK – CCH)

Samtök húsfélaga voru stofnuð á Bretlandi árið 1993. Þau eru opin öllum samvinnuhúsfélögum, húsfélögum sem stjórnað er af leigjendum og svæðisbundum samtökum samvinnuhúsfélaga. Markmið samtakanna eru:

− Að stuðla að stofnun húsnæðis-samvinnufélaga og húsfélaga undir stjórn leigjenda og gera þetta form að raunverulegum valkosti til að svara húsnæðisþörf − Að kynna áhuga manna á húsnæðis-samvinnufélaga og öðrum húsfélögum undir stjórn leigjenda − Að bjóða upp á vettvang fyrir samskipti á milli húsnæðis-samvinnufélaga innanlands.

Það er trú samtakanna að samvinnu-húsfélög muni því aðeins verða að raunveruleika ef til staðar er fjármagn til að þjálfa og upplýsa félagsmenn og ef til staðar eru stofnanir þar sem hægt er að leita sérfræðiaðstoðar. Tilgangur samtakanna er að svara þeirri þörf og stuðla að útbreiðslu þessarar hreyfingar. Þeir eiga aðild að Samvinnuráðinu og Samvinnusambandinu (Confederation of Co-operative housing UK 2002).

Lánasjóðir

Lánasjóðir (credit unions) voru fyrst stofnuð í Þýskalandi um miðja nítjándu öld, Ítalía fylgdi í kjölfarið fljótlega á eftir og fyrsta félagið var stofnað í Kanada um 1900, stofnandi þess stóð einnig fyrir stofnun fyrsta sjóðsins í Bandaríkjunum 1909. Árið 1978 voru félögin orðin 44.373 í heiminum öllum, en mjög fá þeirra voru í Bretlandi. Það var í raun ekki fyrr en um og upp úr 1970 sem hreyfingin tók að vaxa þar. Þegar fyrstu lögin voru sett árið 1979 voru einungis 59 sjóðir skráðir hjá samtökum

50 lánasjóða Í dag eru þeir nálega 800 í Bretlandi. Vöxturinn hefur verið gríðarlegur eða u.þ.b. 50 nýir sjóðir skráðir og u.þ.b. 20% aukning aðildarfélaga og fjármagns árlega.

Þróun lánasjóða í Bretlandi 1996 - 2000

800 350 000 700 300 000 600 250 000 500 200 000 Fjöldi sjóða 400 150 000 Fjöldi félagsmanna 300 200 100 000 100 50 000 0 0 1996 1997 1998 1999 2000

Lánasjóðir (Credit unions) eru samvinnufélög sem byggja á því að hvetja aðildarfélaga til að spara reglulega og gerir þeim kleift að taka lán á lægri vöxtum en í boði eru á venjulegum fjármagnsmarkaði. Mikið hefur verið talað um svokallaða félagslega einangrun (social exclusion) ákveðins hóps fólks á Bretlandi í tíð Verkamannaflokksins. Eitt af helstu stefnumálum hans er að vinna gegn þessari félagslegu eingangrun og er uppbygging lánasjóða hugsuð sem sérlegur liður í þeirri viðleitni þar sem litið er á fjárhagslega einangrun bæði sem orsök og afleiðingu að félagslegri einangrun.

Markmið lánasjóða eru skilgreind skv. lögum frá 1979 eftirfarandi:

• Að efla sparnað á meðal félagsmanna með því að búa til sparnaðarsafn.

• Að skapa grundvöll til lántöku félagsmanna á lágum og réttlátum vaxtakjörum.

• Að sjá um sparnað félagsmanna til hagsbóta fyrir þá.

• Þjálfun og kennsla félagsmanna á hlutverki peninga og í stjórnun sinna persónulegu fjármála.

Aðild er bundin við þá sem uppfylla kröfuna um sameiginleg tengsl (common bond) fyrir hvern einstakan láasjóð. Kröfur þessar geta byggst á ferns konar skilmálum; að viðkomandi búi í sama sveitarfélagi; að félagsmenn séu aðilar að eða séu saman í einhverri tiltekinni stofnun eða skipulagsheild; starfi saman á vinnustað; eða að

51 félagsmenn vinni saman að tilteknu viðfangsefni. Sameiginleg tengsl (common bond) er einstakt fyrir lánasjóði og byggist á þeirri einföldu hugmynd að félagsmenn þekki hver aðra og séu þess vegna færir um að þrýsta á hvorn annan um endurgreiðslu lána. Gert er ráð fyrir að vanskil séu innan við 1%. Flestir lánasjóðir hafa fram að þessu, að stórum hluta verið reknir af ólaunuðum sjálboðaliðum, sem bjóða upp á þessa þjónustu fyrir fólk sem ekki hefur aðgang að öðrum fjármálastofnunum. Í flestum lánasjóðum eru hámarkslán til félagsmanna 5.000 pund eða í hlutfalli við innlegg þeirra. Lánin þarf að greiða til baka á 2 árum ef þau eru ótryggð en á 5 árum ef þau eru tryggð (The Credit Union Taskforce). Hámarksvextir á lánum eru 1% á mán. eða 12,68% á ári á meðan samanburður við bankastofnanir sýnir á milli 20 og 30% vexti og u.þ.b. 15% fyrir yfirdrátt á bankareikningi. Sparnaður í breskum bönkum og byggingafélögum (sjá síðar) er að meðaltali á milli 2 og 6% (Davidman, M. 1996) á meðan lánasjóðum er heimilt að greiða að hámarki 8% en raunveruleikinn hefur sýnt að þeir greiða út að meðaltali á milli 1-5% vexti, starfsmanna-lánasjóðir að meðaltali 3-5% (en þeir hafa reynst mun sterkari en önnur í Bretlandi) en lánasjóðir sveitarfélaga 1-3%, sumir greiða raunar ekki út vexti fyrstu 3 árin og sumir raunar aldrei. Lánasjóður getur einungis samþykkt innlegg sem áskrift að hlut, með öðrum orðum þá getur þú einungis notað þjónustuna með því að gerast aðildarfélagi, lánasjóður er ekki eins og hvert annað fyrirtæki sem þú getur sótt þjónustu til. Flest lánanna eru undir 1.000 pundum (eða 130. – 150.000 kr) (sama). Þau eru fyrst og fremst hugsuð fyrir þá sem nauðsynlega þurfa á lágum upphæðum að halda til að brúa ákveðið bil þar til kemur a næstu útborgun svo sem til greiða fyrir frí eða vegna kaupa á bíl (sama). Framkvæmdastjóri samtaka lánasjóða tók undir þetta. Hann sagði að lánasjóðir væru fyrst og fremst hugsaðir í þeim tilgangi að fjármagna minni háttar upphæðir, eins og t.d. húsgagna- eða rafmagnstækjakaup, framkvæmdir á heimilum, frí og slíka hluti, þessi félög væru ekki hugsuð í samkeppni við banka, heldur miklu fremur sem viðbót við þá auk þess sem margir af viðskiptavinum þessara sjóða hefðu ekki aðgang að bankakerfinu. Hann sagði ennfremur að fyrir stuttu síðan hefði verið stofnaður lánasjóður starfsmanna Co-operative Union, þar væri nú að byggjast upp sjóður sem hann og aðrir starfsmenn gætu nýtt sér til að bjarga skammtímafjárþörf. Hann sagði ekki vafa leika á að mikil þörf væri fyrir þessa sjóði á Bretlandi en aftur bæri brýna nauðsyn til að kynna nýtt líkan þar sem það hefði sýnt sig að við stofnun þessara sjóða þýddi ekki að horfa til annars en hreinna og beinna

52 viðskiptasjónarmiða, það gengi ekki að stofna svona sjóð eingöngu með góðgerðar markmið í huga (Framkvæmdastjóri ABCUL 2002). Í rannsókn sem gerð var á árinu 1999 á lánasjóðum þéttbýlissvæða á Bretlandi komu í ljós margir veikleikar á uppbyggingu þeirra. Í fyrsta lagi voru þeir flestir mjög smáir með einungis nokkur hundruð félagsmenn og í öðru lagi var þeim meira og minna stjórnað af ólaunuðum sjálfboðaliðum sem höfðu mismikla þekkingu á viðfangsefninu. Afleiðingin varð sú að til urðu hundruð lítilla lánasjóða með litla fjárhagslega burði sem börðust fyrir því að halda starfseminni gangandi án raunverulegrar getu til þess. Margir þeirra höfðu t.d. bara opið nokkra klukkutíma í viku. Vegna þessa fengu þeir á sig þann stimpil að vera nokkurs konar fjárhagsstofnanir fátæka mannsins og það aftur fældi marga frá því að gerast aðilar. Þessi niðurstaða fyrrgreindrar skýrslu leiddi til þess að nauðsynlegt var talið að breyta fyrirkomulaginu, í stað þess að félagsleg markmið væru forgangsatriði þyrftu fjárhagsleg markmið að verða atriði númer eitt. Fjármálaráðuneytið kynnti nýtt líkan að stofnun lánasjóða þar sem litið var til þessa meginmarkmiðs (P. A. Jones 2001: 3- 4). Önnur rannsókn á lánasjóðum á Bretlandi var birt í lok árs 2001, nú á dreifbýlissvæðum. Niðurstöður þeirrar rannsóknar sýndu að upphaflegt markmið með stofnun þeirra lánasjóða sem spurðir voru var að bjóða svæðisbundna fjármálaþjónustu fyrir þá sem þurftu á því að halda eða voru í erfiðleikum með aðgang að fjármagni. Þrátt fyrir það kom í ljós að meirihluti félagsmanna var fólk með hærri tekjur, sem höfðu gerst meðlimir vegna þess að þeir vildu hjálpa fátækara fólki samfélagsins en ekki vegna þess að þeir gerðu sér vonir um að hafa sjálfir fjárhagslegt gagn af því að gerast félagar (sama: 51). Þá sýndi það sig einnig að mörg lánsfélaga voru í vandræðum vegna þess hversu lítil eftirspurn var eftir lánum hjá þeim. “Ljóst er að lítil eftirspurn eftir lánum lánasjóðanna er meiriháttar vandamál fyrir þá. Þeir geta aðeins með lánastarfssemi sinni aflað tekna til að greiða arð og byggt upp varasjóði. Án árangursríkrar lánastarfssemi eiga lánasjóðirnir ekki framtíð fyrir sér” (P. A. Jones 2001:62).

Það markmið þessara sjóða fram til þessa að einblína á aðstoð við fólk með lægri tekjur er talið hafa hamlað mjög uppgangi þeirra í Bretlandi, þar sem útbreiðsla þessa félagaforms í öðrum löndum hefur ekki einkennst af þessu atriði heldur hefur verið horft á markaðinn í víðara samhengi.

53 “Alþjóðlega séð hafa lánasjóðir náð árangri með því að höfða bæði til meðaltekjuhópa og lágtekuhópa, bæði sem innláns- og útlánsviðskiptamenn” (sama: 51).

Það hefur jafnframt komið í ljós að fátækt fólk er ólíklegra til að vilja gerast félagar vegna þess að sjóðirnir hafa á sér þennan stimpil að vera nokkurs konar góðgerðarstofnanir, fátækt fólk vill ekki sækja þjónustu hjá stofnunum sem einkennast af því heldur eru miklu líklegri til að sækja þjónustuna ef sjóðirnir bjóða þjónustu við allt “venjulegt fólk”. Enginn vill vera stimplaður “fátækur” opinberlega. Þrátt fyrir að komið hafi ljós nauðsyn þess að þessir sjóðir væru reknir með hrein viðskiptasjónarmið, þ.e. að þeir þyrftu að stækka og að þeir þörfnuðust launaðra starfsmanna kom í ljós andstaða þeirra sjálfboðaliða sem stjórna þeim í dag við það sjónarmið. Kjarni þessa vanda virðist sá að annars vegar eru menn uppfullir af félagslegum hugmyndum um hver markmið lánsfélaga skuli vera og vilja viðhalda þeim og hins vegar virðist augljóst að starfsemi þeirra gangi ekki upp án fjárhagslegra markmiða fyrst og fremst. Rannsóknin sýndi m.a. að 80% félagsmanna í einum þeirra sjóða sem skoðaður var, var fólk sem hafði sýnt mikinn áhuga á samvinnufélögum og samfélagslegum málefnum eða taldi sig skuldbundið þeirri hugmyndafræði (sama: 21). Í ljósi þess er athyglisvert að 79% þeirra sjálfboðaliða sem spurðir voru hvort hagnaður væri mikilvægt markmið svöruðu þeirri spurningu játandi en 21% þeirra voru mjög hikandi eða svöruðu spurningunni varfærnislega (sama: 60). Þrátt fyrir að rannsóknir hafi sýnt að tilgangur og markmið lánasjóða á Bretlandi hafi ekki gengið eftir sem skyldi eru þeir ekki á því að gefast upp á þessu félagaformi enda telja þeir enn að það skipti miklu hvað varðar aðgang fátæks fólks að fjármagni. Lánasjóðir eru sá hluti samvinnuhreyfingarinnar sem Samvinnunefndin í skýrslu sinni bindur hvað mestar vonir við að muni vaxa umtalsvert á næstu árum og því leggur hún áherslu á að lögð sé rækt við framþróun þeirra (the Co-operative Commission 2001: 35). Lánasjóðir hafa náð mikilli útbreiðslu víðast hvar um heiminn þannig er um helmingur Íra í slíku félagi og um 25% íbúa í Bandaríkjunum og Kanada. Aftur á móti eru einungis um 0,4% Breta enn aðilar að slíkum sjóðum, þrátt fyrir að 10-15 milljónum af almannafé hafi verið varið árlega til uppbyggingar slíkra sjóða nú um nokkurt skeið. Að mati nefndarinnar er sérlega mikilvægt að horfa til þess að talið er að 50-75% af því fjármagni sem rennur í gegnum þessa sjóði sé notað innan þess

54 svæðis þar sem þeir starfa. Þá sé þörfin augljóslega til staðar ekki síst í ljósi þess hversu mörg samvinnufyrirtæki af svipuðum toga svo sem byggingafélög (sjá umfjöllun síðar í kaflanum) hafi verið einkavædd á undanförnum árum (sama: 73). Hér verður látið staðar numið við umfjöllun um lánasjóði en þrátt fyrir að rannsóknir sýni að þeir hafi í raun ekki þjónað þeim markmiðum sem þeim hefur verið ætlað hingað til þá er ljóst að veruleg aukning hefur orðið á þessu félagaformi og eins og fram kom hér á undan eru lánasjóðir það félagaform sem samvinnuhreyfingin á Bretlandi lítur til með hvað mestri bjartsýni í komandi framtíð. Hvort það gengur eftir getur tíminn einn leitt í ljós.

Samtök lánasjóða (Association of British Credit Unions – ABCUL) Samtök lánasjóða (The Association of British Credit Unions Limited (ABCUL)) urðu til í þeirri mynd sem þeir eru í dag árið 1982. Samtökunum er stjórnað af einstaklingum sem kosnir eru árlega til starfans af fulltrúum allra lánasjóðanna. Hlutverk samtakanna er að stuðla að stofnun og þróun lánasjóða hvort sem er í eigu starfsmanna, samfélaga og/eða samtaka og að veita þeim þá þjónustu sem þau þurfa á að halda. Samtökin gegna þannig margþættu þjónustuhlutverki gagnvart sjóðunum en helstu verkefnin eru:

− Upplýsingagjöf, leiðbeiningar og fræðsla gagnvart einstökum sjóðum, bæði hvað varðar lög (lög um lánasjóðir frá 1979 Credit Unions Act 1979), reglugerðir og annað sem þeir þurfa að taka mið af.

− Að sjá um kynningarstarf fyrir hönd sjóðanna út á við – hvort sem er gagnvart fjölmiðlum, stjórnvöldum eða nefndum á þeirra vegum.

− Að sjá um samskipti við Skráningarstofu vinafélaga (Registrar of Friendly Societies)

− Ýmiss önnur þjónusta við einstaka sjóði.

Til stuðnings samtökunum eru svæðisbundnar hreyfingar á hverju svæði fyrir sig svokallaðar félagsdeildir. Hver og einn einstakur lánasjóður er aðili að ákveðinni félagsdeild. Hún hefur með höndum að miðla helstu upplýsingum og að vera honum til aðstoðar við þjálfun starfsmanna og fleira. Það eru nú 13 félagsdeildir á Bretlandi sem síðan eru aðilar að heildarsamtökunum. Samtökin - ABCUL eru meðlimir í

55 alþjóðlegum samtökum lánasjóða, World Council of Credit Unions, og sjá um alþjóðleg samskipti fyrir hönd félagsmanna á þessu sviði. Þá eru þau einnig meðlimir að Sambandinu, Co-operative Union (Co-operative Union 2002).

Samvinnuráðið ( Co-operative Council UKCC)

Breska Samvinnuráðið (United Kingdom Co-operative Council UKCC) er enn ein stofnunin sem ástæða er að minnast á. Þrátt fyrir að ólíkir flokkar innan Samvinnuhreyfingarinnar á Bretlandi hafi hver og einn myndað samtök sem hafa hvert og eitt sitt sérstaka hlutverk að sinna málefnum sinna félagsmanna og kynna þeirra starfsemi, þá eru tiltekin málefni sem öll félögin þurfa sameiginlega að fást við. Breska Samvinnuráðið hefur þetta hlutverk. Það var stofnað formlega 1991. Breska Samvinnuráðinu hefur verið stjórnað af Sambandinu CU frá því í janúar 2001 og er samstarf þessara aðila mjög náið (sama).

Samvinnuflokkurinn – (Co-operative Party)

Pólitískt hlutleysi var einn af hornsteinum hreyfingarinnar í upphafi og fyrstu 70 árin í sögu hennar var haldið tryggð við þá reglu. Hún þótti mikilvæg þar sem hreyfingin átti að vera opin öllum sama hvaða skoðanir þeir hefðu á öðrum málefnum. Ástand mála í aðdraganda fyrri heimsstyrjaldarinnar breytti þessu viðhorfi, matvælaskömmtun og herkvaðning voru áhrifaþættirnir sem skiptu sköpum (The Co- op Party 2002). Þrátt fyrir skort á matvælum hélt hreyfingin sig fast við að halda matvælaverði í lágmarki á meðan keppinautar hækkuðu verð og högnuðust mikið. Áður en skömmtun matvæla hófst tók hreyfingin upp skömmtun á meðal félagsmanna upp á sitt eindæmi til að reyna að tryggja öllum nauðþurftir. Þessi ákvörðun var ekki í þágu ríkisstjórnarinnar sem var umhugað um að viðskipti gengju sem eðlilegast fyrir sig. Þegar skömmtun var tekin upp á sykri var samvinnuhreyfingin ekki með fulltrúa á meðal nefndarmanna þrátt fyrir að þeir væru stærstu heild- og smásalar á sykri á þeim tíma, þá voru þeir líka útilokaðir frá nefndum sem skömmtuðu kol og hveiti. Þessar ráðstöfanir höfðu mikil áhrif á hreyfinguna þar sem þeim var skammtað miðað við það magn sem verslanir þeirra höfðu selt áður en skortur á matvælum fór að gera vart við sig sem var miklu minna en þeir þurftu á að halda þar sem verslun þeirra hafði

56 aukist mjög. Þetta leiddi til þess að margir af þeirra félagsmönnum þurftu að leita til keppinauta þeirra eftir nauðþurftum. Samvinnuhreyfingin hafði lengi átt margra óvildarmenn sem ekki líkaði velgengni hennar sem fengu nú uppreisn æru. “Nú þegar kaupmenn höfðu völdin byrjuðu þeir að ná til baka sínum hlut. Meðlimir samvinnufélaga voru útilokaðir frá úthlutunarnefndum vegna stríðsins, þrátt fyrir umfangsmikið framlag þeirra til vöruframboðs nefndanna (J. Birchall 1994: 113).

En þeir voru ekki einungis útilokaðir frá skömmtunarnefndum heldur voru nefndirnar sem kölluðu menn til herþjónustu einnig fullar af kaupmönnum sem höfðu horn í síðu hreyfingarinnar. Þeir gripu tækifærið og sendu marga af starfsmönnum hreyfingarinnar fyrst til herkvaðningar, þannig missti eitt félag 102 af 104 starfsmönnum sínum á sama tíma og starfsmenn keppinauta þeirra fengu að vera í friði. “Mörg staðbundin samvinnufélög ... sáu á eftir stærstum hluta starfsmanna sinna í herkvaðningu – stundum á einni nóttu. Kaupmennirnir höfðu ekkert slíkt vandamál (The Co-op Party 2002)

Til að bæta gráu ofan á svart lagði ríkisstjórnin nýjan skatt á ágóða samvinnufyrirtækja, sem fram að því hafði ekki verið litið á sem hagnað heldur ágóða félagsmanna af því að eiga viðskipti við félögin. Sumir vilja meina að allar ráðstafnir ríkisstjórnarinnar á þessum tíma hafi verið fjandsamlegar hreyfingunni á meðan aðrir telja einfaldlega að aðgerðir þeirra hafi fremur einkennst af fáfræði þeirra um hreyfinguna þar sem meðlimir ríkistjórnarinnar voru allir úr yfirstétt og höfðu enga þekkingu á þessari hreyfingu verkamanna eða hvað hún stóð fyrir (J. Birchall 194: 113). Allt um það, þessi atriði urðu til þess að hlutleysisreglunni var hent fyrir róða, aldrei aftur skyldi hreyfingin standa berskjölduð frammi fyrir óvinum sínum. Árið 1917 var tekin ákvörðun um að stofna stjórnmálaflokk og sækjast eftir þingsætum og komast í ríkisstjórn. Upphaflega nafnið var Co-operative Reprensentation Committee en var breytt fljótlega í Co-operative Party eða Samvinnuflokkinn. Fyrsti þingmaður flokksins var kjörinn árið 1918 (The co-op Party 2002). Þessi fyrsti þingmaður flokksins gerðist félagi í Verkamannaflokknum og vann með þingflokki hans á þingi, en það hafði vafist mjög fyrir félagsmönnum hreyfingarinnar að taka ákvörðun um að fylgja honum að málum. Árið 1921 var því enn hafnað að flokkurinn gerðist aðili að Verkamannaflokknum og ári síðar náði flokkurinn fjórum sjálfstæðum þingsætum til viðbótar, en í raun voru þeir allir undir verndarvæng

57 Verkamannaflokksins. Það var svo 1938 sem þessir tveir flokkar gerðu með sér formlegt samkomulag um samstarf. Þessir tveir flokkar vinna saman sem einn flokkur fyrir hverjar kosningar og Samvinnuflokkurinn kemur í raun fram sem hluti af Verkamannaflokknum á þingi. Þrátt fyrir það eru þeir sjálfstæður flokkur en halda ekki eigin flokksfundi heldur bera upp mál sín innan nefndar sem heyrir til Co- operative Union, þar sem sum félög neita enn að gerast beinir aðilar að Verkamannaflokknum (J. Birchall 194: 115-116). Í dag eru á þingi fyrir Samvinnuflokkinn 29 þingmenn (The Co-op Party 2002b). Ekki er að efa að flokkurinn er mjög mikilvægur fyrir hreyfinguna í heild sinni og á mikinn þátt í því að efla umræður um hlutverk hennar.

Staðan í dag Mikil gróska á sér stað innan Samvinnuhreyfingarinnar á Bretlandi þessa dagana og þar er af mörgu að taka. Fyrir það fyrsta hefur virðist samruninn innan hreyfingarinnar á undanförnum árum hafa fært þeim aukinn kraft. Þannig má víða sjá þess merki að talað er um samvinnufjölskylduna (co-operative family) og hvað hún stendur fyrir. Þá er ekki vafi á að stefna Verkamannaflokksins hefur á mörgum sviðum orðið til þess að efla umræðu og hugmyndir um áframhaldandi hlutverk hreyfingarinnar. Hér á eftir verður gerð nokkur grein fyrir því út á hvað þessar hugmyndir ganga og hversu langt þær eru komnar.

Útfærsla hugmyndafræðinnar Í fararbroddi um nýtt hlutverk hreyfingarinnar og framtíðarhorfur hennar er Co-operative Union eða SÍS þeirra Breta. Þeir hafa tekið forystu um að taka hugmyndir og ráðleggingar í skýrslu “Co-operative Commission” alvarlega og voru m.a. haldnar tvær ráðstefnur á árinu 2001 einungis með það að markmiði að glæða hugmyndirnar lífi og ræða framtíðarhlutverk hreyfingarinnar út frá þeim. Þar sagði Bob Burlton stjórnarformaður Co-op Union m.a. að “það standi frammi fyrir því áleitna verkefni að gera skýrsluna og ráðleggingar hennar að veruleika” (The Co- operative Union Ltd 2001b: 11). Það segir sína sögu um hversu lítið þeir hafa gert af því að ræða stöðu sína og framtíð að þetta var í þriðja skipti á 132 ára sögu Sambandsins sem slíkt var gert. Þá þykir samruni Co-op Union, sem fram að þessu hafa að mestu starfað í þágu neytenda-samvinnufélaga, og ICOM samtaka

58 starfsmanna-samvinnufélag marka tímamót í sögu hreyfingarinnar og hefur orðið til þess að glæða mjög umræðu um tilgang og starfsemi samvinnufélaga. Í Apríl 2001 var stofnuð svokölluð Samstarfseining (Co-ordination Unit) innan Co-op Union. Hún hefur þann tilgang að stuðla að sem mestu samstarfi félaga innan “samvinnu-fjölskyldunnar” (co-operation family), að halda utan um gögn og hugmyndir varðandi stefnuna, nokkurs konar hugmyndabanka, að sjá til þess að félagar úr ólíkum hreyfingum innan “fjölskyldunnar” komi saman og ræði áætlanir sínar og framtíðarverkefni og að síðustu að safna fé á meðal almennings til frekari þróunar samvinnustefnunnar á breiðum grunni (P. Green 2001: 3). Samstarfseiningin var stofnuð að frumkvæmi Co-op Union og “Association of Co-operative Support Organisations” til að mynda samstarfsvettvang innan og á milli ólíkra félaga innan hreyfingarinnar svo sem: starfsmanna-samvinnufélaga, húsnæðis-samvinnufélaga, lánasjóða, neytendafélaga, landbúnaðarfélaga og annarra samvinnufélaga. Samvinnu- flokkurinn eða Co-operative Party setti í gang umræðu undir kjörorðunum “Communicate – Mutuality” eða “samskipti – samstarf”, nokkurs konar hugmyndabanka (sama) sem m.a. er að finna á netinu. Þar er að finna margvíslegustu hugmyndir að “samvinnufélagavæðingu”, sem nánar verður vikið að hér á eftir. Á þessu má sjá að umræður um framtíðarhlutverk samvinnuhreyfingarinnar eru á fullri ferð og ekki hægt að sjá að þeir ætli sér að hverfa af sjónarsviðinu á næstunni. Eitt af því sem Co-operative Commission lagði til í skýrslu sinni var að Co-op Union yrði gert ábyrgt fyrir því að mæla félagslega og fjárhagslega frammistöðu félaganna árlega ásamt því að birta skýrslu um hvernig til hefði tekist og leggja niðurstöður fyrir sérstakt þing um málið (Co-operative Commission 2001: 4). Í nóvember 2001 var haldin á vegum Co-op Union ráðstefna með þátttöku allra félaganna þar sem Co-op Union leitaði eftir stuðningi félaganna við frammistöðumælingar fyrir þeirra hönd. Fimmtán af sextíu ráðleggingum Co- operative Commission fjölluðu um mikilvægi þess að einblína á frammistöðu einstakra félaga í ljósi þess hversu markaðshlutdeild þeirra hefur hnignað stöðugt. Co-op Union ákvað að þessi fimmtán atriði yrðu þeirra forgangsverkefni (The Co- operative Union Ltd 2001b: 11). Þar er að finna atriði eins og að félögin hvert og eitt setji sér metnaðarfull markmið um fjárhagslega frammistöðu, það markmið skuli a.m.k. innifela 10% ávöxtun fjármagns. Félögin skuli upplýsa félagsmenn sína um hversu vel hafi tekist til og um leið skuli þau bera sig saman við samkeppnisaðila sem og önnur samvinnfélög sem náð hafa góðum árangri. Co-op Union skuli gefa út

59 svokallaðar lykil kennitölur fyrir félögin þar sem frammistaða félaganna er lögð fram og borin saman við tiltekin metnaðarfull markmið sem sett eru til viðmiðunar, bæði hvað varðar fjárhagslega frammistöðu og félagslega. Lögð er áhersla á að fjárhagslegu markmiðin séu ekki síður mikilvæg en þau félagslegu þar sem þau félagslegu nái ekki fram að ganga án þess að fjárhagsleg markmið náist (The Co-operative Commission 2001: 4). Í umræðum félagsmanna á ráðstefnunni er að finna jákvæðar undirtektir manna um mikilvægi þessara ráðlegginga og mikilvægi þess að farið sé eftir þeim, en síður er þar að finna hvað á nákvæmlega að mæla eða eins og einn ráðstefnugesta orðar það “Þar sem við munum greiða atkvæði gegn tillögunni finnst mér heiðarlegt að útskýra hér hvers vegna. Við höfum satt best að segja ekkert á móti meginreglunni um vísitölur árangurs samvinnufélaga, en við höfum verið beðin um að greiða atkvæði um eitthvað sem við vitum ekki enn hvað er ... Þegar búið verður að ákveða í hverju þær munu felast, munum við ef til vill vilja nota þær og gera félögum okkar grein fyrir, en þar sem við vitum ekki í hverju þær felast og hvað þær munu mæla, er okkur um megn að styðja tillöguna á þessari stundu. Þessa athugasemd vil ég nú gera (June Le Feuvre 2001: 18).

“Mutual - Mutualism” “Umræðurnar um ‘Þriðju leiðina’ snúast um að ná árangri sem eru til hagsbóta fyrir fjöldann en ekki hina fáu. Þær snúast um að þróa hugmyndir sem ganga þvert á gömlu skiptinguna milli opinbera- og einkageirans. Hinn nýji mutalismi felst bæði í grundvallargildum samvinnufélaga og leitast við að finna leiðir til að raungera þessi gildi. Ég hlakka til að fylgjast með hvernig þessar umræður þróast” (Tony Blair Forsætisráðherra Breta og fomaður Verkamannaflokksins)

Mikil umræða hefur átt sér stað um eignarhald á Bretlandi eins og raunar einnig hér heima. Hér á landi virðist sú umræða þó að mestu leyti hafa einskorðast við einkafyrirtæki annars vegar og ríkisfyrirtæki hins vegar, nema ef vera skyldi að umræðan um Sparisjóðina hafi minnt okkur á að annað eignarform sé til. Á Bretlandi er uppi hávær umræða um að til séu aðrir möguleikar í stöðunni en þessir tveir og þar kemur samvinnufélagaformið til sögunnar sem “þriðja leiðin”. Á sama tíma og við Íslendingar virðumst enn líta á “einkavæðingu” sem lausn allra vandamála fyrirtækja eru Bretar orðnir fráhverfir þeirri stefnu. Þeir hafa reynslu af einkavæðingu ríkisfyrirtækja á tímum Thatchers og þeir hafa einnig á undanförnum árum upplifað margar yfirtökur einkaaðila á fyrirtækjum sem voru áður rekin undir samvinnufélagsforminu. Þannig hafa mörg byggingafélög (building societies), sem rekin voru með þessu sniði, en tilheyrðu þó ekki samvinnuhreyfingunni sem slíkri,

60 verið einkavædd. Á fjórum árum frá 1995 til 1999 var níu slíkum félögum breytt í hlutafélög og tóku þau með sér tvo þriðju þeirra eigna sem heyrðu undir þennan flokk árið 1994. Það sama hefur gerst með mörg tryggingafyrirtæki. Þessi “demutualisation” eins og það er kallað þegar samvinnufélögum og sambærilegum fyrirtækjum er breytt í einkafyrirtæki hefur orsakað mikla umræðu manna á meðal um þann óvænta gróða sem þannig hefur orðið til og sýnist sitt hverjum. Brögð hafa verið að því að einstaklingar hafa gerst félagsmenn einungis með það að markmiði að geta safnað nægilega mörgum atkvæðum til þess að geta að lokum selt þau með miklum gróða. Það hversu lítið fjármagn þarf til að gerast félagsmaður hefur gert þetta mögulegt. Þannig hafa nýjir félagsmenn einungis með skammtíma gróðasjónarmið að markmiði getað eyðilagt félög sem stofnuð voru á grunni samvinnuformsins (The Industrial and Provident Societies Bill. Bill 14 of 2001-02: 18-19). Samvinnuhreyfingin hefur ekki farið varhluta af þessu þar sem einn af stjórnendum Samvinnuheildsölunnar C.W.S. reyndi á árinu 1997 að komast yfir hana á þennan hátt fyrir 1,2 milljarða króna. Áður hafði honum tekist að komast yfir framleiðslufyrirtæki í eigu CWS - Hobson. Ætlunin var að komast yfir heildsöluna og selja síðan hverja einingu fyrir sig. Tilboðið mistókst m.a. vegna þess að upplýsingar láku út, en það er ljóst að þessi tilraun varð víti til varnaðar fyrir Samvinnuhreyfinguna í heild sinni (The Industrial and Provident Societies Bill. Bill 14 of 2001-02: 18). Þessir atburðir og sú mikla umræða sem fylgt hefur í kjölfarið hefur ekki síst gefið Samvinnuhreyfingunni og hugmyndafræði hennar byr undir báða vængi. Samvinnuflokkurinn eða Co-operative Party hefur hleypt af stokkunum hugmyndabanka um hugmyndafræði sem þeir kalla “New Mutualism” eða “nýju samstarfshyggjuna”. Hún er keimlík samvinnuhugmyndafræðinni, en hefur þann kost að hljóma gamaldags eins og orðið samvinnufélag gerir í hugum margra. Umræðu um nýju samstarfshyggjuna má finna má á netinu (sjá: http://new- mutualism.poptel.org.uk/). Fyrstur til að ríða á vaðið varð Peter Kellner pólitískur greinahöfundur London Evening Standard. Í ritgerð sinni “New Mutualism – The Third Way” færir hann rök fyrir því að “mutualismi” eða samvinnufélagsformið sé “þriðja leiðin” sem Verkamannaflokkurinn byggi hugmyndafræði sína á en sem ekki hafi verið skilgreint nákvæmlega fyrir hvað standi. Kellner segir Mutualisma leitast við að bjarga grundvallar gildum samvinnu og þeim meginreglum sem lögðu grunninn að

61 samvinnuhreyfingunni úr klóm hugmyndafræðilegs sósíalisma. Hinn nýi mutalismi er ekki hugmyndafræði í sama skilningi og marxismi eða hugmyndafræði hins frjálsa markaðar. Samkvæmt honum er eignarhald á framleiðslutækjunum ekki höfuðatriðið. Hann lítur á samfélagið fremur sem lifandi heild en vélræna. Það sem skiptir máli er hvernig valdi er beitt fremur en hvort það eigi tilteknar viðurkenndar rætur (P. Kellner: 5) Hann veltir fyrir sér hlutverki ríkisins og hlutverki einkafyrirtækja og hvort hlutafélög séu nauðsynlega skilvirkari en önnur form atvinnurekstrar. Kellner veltir einnig upp þeirri spurningu hvernig samræma megi einkahagsmuni og hagsmuni almennings og hvert sé skilvirkasta form opinberra afskipta (sama: 5). Þessar spurningar eiga erindi við okkur Íslendinga sem allra aðra nú á tímum sem og raunar á öllum tímum, en er til eitthvað svar við þeim? Að hans mati og margra annarra hugmyndafræðinga er ekki vafi að það sé þörf fyrir meiri fjölbreytileika eignarhalds en “einka” versus “ríki” og þeir færa rök fyrir því að samvinna (mutualism) sé meðal mikilvægustu eignarhaldsformanna “... kennismiðir halda því fram að samvinnuformið geti leyst mörg flókin vandamál sem snerta verkaskiptingu hins opinbera og einkafyrirtækja á sviði opinberrar þjónustu. Lausnin byggist á eignarhaldsformi sem leiðir til þátttöku íbúa nærsamfélaga um leið og opinberar eignir eru hagnýttar í þágu nærsamfélaganna” (The Industrial and Provident Societies Bill. Bill 14 of 2001-02: 20).

Rökin fyrir því eru m.a. þau að einkavæðing annars vegar og ríkisforsjá hins vegar hafi einfaldlega ekki reynst nægilega vel sem einu mögulegu eignarformin. Mörg ríkisfyrirtæki voru einkavædd á Bretlandi á tímum Thatchers eins og t.d. lestarnar, rafmagnið, vatnið, gasið og síminn. Það sem þessi fyrirtæki eiga sameiginlegt er að þau eru einokunarfyrirtæki, það er engin samkeppni innan greinarinnar. Þá eiga þau það líka sameiginlegt að þau veita öll þjónustu sem neytendur krefjast að sé veitt og ekki nóg með það heldur gera miklar kröfur til að séu í lagi. Einkavæðing lestanna t.d. hefur greinilega ekki orðið til að leysa þeirra vandamál og lesa má margar greinar þar sem ónógu viðhaldi er kennt um slys sem orðið hafa á undanförnum árum. Þeir hinir sömu kenna einkavæðingunni um, markmiðið um hámörkun hagnaðar sem ávallt sé í fyrsta sæti þegar fjárfestar eigi í hlut verði til þess að önnur mikilvægari atriði séu látin sitja á hakanum. Sem lausn á þessum vandamálum vilja ýmsir fræðimenn að horft sé til samvinnufélagsformsins. I. Hargreaves, C. Mills og J. Michie (2001: 10) tilheyra

62 þessum hópi fræðimanna og færa rök fyrir því halda því að það samvinnufélagsformið sé eignarform sem hefur margfaldan ávinning í för með sér. Það sé þess eðlis að ekki sé einungis horft til skammtímasjónarmiða heldur horft til lengri tíma á sama tíma og leitast sé við að veita neytendum þá þjónustu sem þeir þarfnast á hverjum tíma, einfaldlega vegna þess að það séu félagsmennirnir sjálfir sem séu við stjórnvölinn. Þá sé það ekki síður mikilvægt að samvinnufélagsformið gangi út frá því að horft sé til fleiri hagsmunaaðila en fjármagnseigenda, þ.e. neytenda og starfsmanna, aðila sem óhjákvæmilega verði út undan við ákvarðanatöku fyrirtækjanna þar sem fjármagnið sé ávallt í fyrsta sæti. I. Hargreaves, C. Mills og J. Michie viðurkenna að stjórnendur fyrirtækja taki hagsmuni starfsmanna og neytenda með í reikninginn í ákvörðunum sínum. Ef þeir gerðu það ekki myndu þeir grafa undan rekstrinum. En veruleikinn er sá að þeir gera það aðeins að svo miklu leiti sem þeir neyðast til þess til að ná meginmarkmiðum fyrirtækisins. Þegar allt kemur til alls munu og verða stjórnendur alltaf að gera það sem er nauðsynlegt til að ná eins góðum árangri í rekstrinum og mögulegt er, þ.e.a.s. að hámarka hagnað og um leið að hámarka verð eignarhluta hluthafanna í fyrirtækinu (sama: 12-13). Þá vilja þeir meina að rökin fyrir því að ríkisfyrirtækin voru einkavædd á sínum tíma hafi einfaldlega ekki haldið í raunveruleikanum, en þau hafi verið m.a.: þörf fyrirtækjanna fyrir auðveldari aðgang að fjármagni, að nýta fjármagnsmarkaðinn til að ná fram aukinni afkastagetu, að gera stjórnendur ábyrga og geta greitt þeim hærri laun til að örva þá til betri verka, og að síðustu að veita almenningi tækifæri til að gerast hluthafar í fyrirtækjunum – og um leið örva fjárfestingu þeirra og sparnað. Raunveruleikinn hafi sýnt aðra niðurstöðu: fjármagnið hafi einfaldlega reynst þessum fyrirtækjum of dýrt og t.d. sé almennt viðurkennt í dag að fjarmagn sé og dýrt til að fjárgfesta í vatnsveitum (sama: 15). Fjármagnsmarkaðurinn hafi einfaldlega reynst ófær um að auka afkastagetu þessara fyrirtækja sbr. vandræði lestarfyrirtækjanna, það að verðlauna stjórnendur með hærri launum hafi kostað ómælda óánægju almennings, markmiðið um dreifða eignaraðild almennings hafi í raun þýtt eignaraðild fárra sterkra hluthafa sem hafi eignast meirihluta. Þetta sýni einfaldlega að rökin fyrir einkavæðingunni hafi ekki gengið upp og allir séu óánægðir. Meginástæða óánægjunnar sé sú að almenningur sjái eigendur þessara fyrirtækja ávaxta sitt fjármagn vel á meðan þeir sjálfir séu mjög óánægðir með þjónustuna sem þeir geta þó ekki verið án.

63 Hvernig kemur samvinnufélagsformið til skjalanna í þessu sambandi að þeirra mati? Samvinnufélagsformið er hugsað sem valkostur við hlið einka- og ríkisfyrirtækja. Það byggir á almennri eignaraðild félagsmanna á fyrirtækjum sem eru í þjónustu við þá. Þjónusta við almenning er eitthvað sem samfélagið þarf á að halda og það eru einstaklingar og stofnanir sem mynda samfélögin. Allir þurfa á rafmagni, gasi, vatni og samgöngum að halda, ekki einungis fyrir sig persónulega heldur til að samfélagið sem viðkomandi lifir í starfi eðlilega. Þjónusta við almenning þjónar því samfélögunum, því sé rökrétt að byggja undir hana innan þeirra. Ólíkt því sem á við um fyrirtæki þá gefi félagsaðild hverjum einstaklingi einungis eitt atkvæði algjörlega óháð því verðmæti sem stendur að baki aðildinni. Félagsmenn eigi enga kröfu á greiðslu arðs heldur eigi ágóðinn að renna til samfélagsins í betri gæðum eða ódýrari þjónustu. Hlut sinn í samvinnufyrirtækinu eiga einstaklingarnir því fyrir hönd samfélagsins og meginmarkmiðið með starfseminni er ekki hámörkun hagnaðar heldur að bjóða bestu mögulegu þjónustu á sem lægstu verði til hagsbóta fyrir félagsmenn (sama: 16-17).

64 3. Kafli

Samvinnuhreyfingin í Svíþjóð*

Inngangur

Saga samvinnufélaga í Svíþjóð rekur sig alveg aftur á miðja nítjándu öld, þó samvinnuhreyfing sú er setti mikinn svip á tuttugustu öldina hafi ekki myndast fyrr en um aldamótin. Þrátt fyrir að miklar þjóðfélagslegar breytingar hafi orðið á nítjándu öld í Svíþjóð voru þær hægfara, sérstaklega á fyrri hluta aldarinnar. Verslun var með einokunarfyrirkomulagi lungann af öldinni og þeir vísar að samvinnufélögum sem mynduðust á öldinni voru einkum einhverskonar viðbrögð við einokunarversluninni. Í þessum kafla verður fjallað um rætur sænsku samvinnuhreyfingarinnar og fjallað um stöðu hennar í dag.

Rætur samsvinnuhreyfingarinnar í Svíþjóð

Á fyrri hluta 19. aldar hafði Svíþjóð orðið fyrir afar takmörkuðum áhrifum af þeirri tækniþróun sem svo mjög setti svip sinn á sérstaklega Bretland og Frakkland á þeim tíma. Yfir 90% Svía bjuggu á landsbyggðinni og störfuðu við landbúnað sem þjónaði aðeins innanlandsmarkaði. Landbúnaðurinn tók þó nokkrum breytingum á valdatíma Karls XIV Jóhanns 1818-1844 sem reyndar var franskur og því undir áhrifum af þróun í heimalandi sínu. Karl Jóhann var áhugasamur um uppbyggingu landbúnaðar og lagði grunninn að hinum dreifðu sjálfstæðu bændabýlum sem hafa einkennt sænskar sveitir æ síðan. Hann gerði eignarrétt bænda mögulegri og skýrari og leysti þannig upp skipulag sem einkenndist af lénum og þorpum. Bændurnir nýttu sér eftir sem áður þau samlegðaráhrif sem þorpin veittu og öfluðu sér aðfanga í sameiningu.

* Þessi kafli er byggður á drögum Hrannars Magnússonar viðskiptalögfræðinema að rannsóknarskýrslu um sænsku samvinnuhreyfinguna og er þeim lítið eitt breytt hér.

65 Þetta var fyrsti vísir að pöntunarfélögum í Svíþjóð. Þótt Karl Jóhann hafi verið umbótasinnaður í landbúnaði var hann íhaldsamur í öðrum efnum. Öll verslun var í algerum höftum og konungsveldið í raun algert þrátt fyrir tilvist þingsins;“rigsdagen”. Andóf og lýðræðiskröfur fóru þó vaxandi og má nefna stofnun “Aftonbladet” árið 1830 sem þáttaskil í þeim efnum. Rétt er að nefna að á valdatíma Karls Jóhanns voru sett lög um grunnskóla í Svíþjóð sem losuðu ægistak kirkjunnar á menntun í landinu og leiddu þannig óbeint til umbóta í framtíðinni. Það var ekki fyrr en sonur Karls Jóhanns, Óskar I tók við völdum að hreyfing fór að verða í frjálsræðisátt. Óskar var frjálslyndur og hafði meðal annars skrifað bækur um nauðsyn umbóta í fangelsismálum. Árið 1846 varð frjálst að eiga iðnfyrirtæki og samkeppni þeirra á milli varð möguleg. Þetta var forsenda iðnbyltingar enda höfðu t.a.m. hestvagnar áður aðeins verið smíðaðir af þeim iðnmeisturum sem höfðu einkaleyfi á hverjum stað. Einokunarverslun ríkti áfram á smásölumarkaði en smásala var þó leyfð í dreifbýlinu ef meira en þrjár sænskar mílur (30 km) voru til næsta verslunarstaðar. Þessi glufa varð kveikjan að stofnun verslunarfélags á svæðinu milli Uppsala og Enköping. Þar voru menn ósáttir við vöruverð hjá kaupmönnum og stofnuðu hlutafélag samkvæmt nýlegum hlutafélagalögum til að kaupa inn vörur í heildsölu í Stokkhólmi, sigla með skútum til Öresundsbro, sem var utan þriggja mílna markanna úr öllum áttum og dreifa vörunni þar. Hlutafélagsformið varð fyrir valinu þar sem það var eina félagsformið með takmarkaðri ábyrgð á þessum tíma. Takmark félagsins var hins vegar ekki fjárhagslegur ávinningur hluthafa, heldur aðgengi að vöru á sanngjörnu verði. Þetta gaf svo góða raun að félagið óx mjög hratt á komandi árum. Reyndar svo mjög að það gekk af sjálfu sér dauðu. Með tímanum urðu flutningar til Öresundsbro svo miklir að þeir útheimtu gufuskip. Skipið tók einnig farþega og urðu verslunarferðir til Stokkhólms svo vinsælar að tilgangur og tilvist verslunarfélagsins urðu að engu. Sá félagskapur sem hafði einna mest áhrif á þróun samvinnufélagsformsins og verkalýðshreyfingar í Svíþjóð á seinnihluta nítjándu aldar var sprottinn úr óhefðbundnum grunni. Með tækniframförum nítjándu aldar varð magnframleiðsla á sterku áfengi möguleg og náði brennivínið á skömmum tíma mjög traustri fótfestu í sænskri menningu og neyslumynstri. Ungur maður, Lars Olson að nafni varð strax tuttugu og tveggja ára gamall stærsti dreifingaraðili óhreinsaðs brennivíns í Svíþjóð með um helmings markaðshlutdeild. Hann tók þá upp nafnið LO Smith og haslaði sér völl í fullvinnslu áfengis á Reimershólma við Stokkhólm og fleiri stöðum. Hann var

66 metnaðarfullur og tæknisinnaður og stóð öðrum framleiðendum langt framar í framleiðslu hreinsaðs áfengis, “absolut rent brännvin”. Hann haslaði sér því völl í útflutningi og skapaði sér mikið ríkidæmi. Á þessari leið sinni hafði hann verið í stöðugri baráttu við einokunarverslun og í raun skömmtun á áfengi, sem sett var á í Stokkhólmi árið 1877 og á flestum þéttbýlisstöðum í Svíþjóð í kjölfarið. Ákveðnar krár fengu að selja áfengi og fengu þannig umtalsvert markaðsforskot, enda var brennivínsstaup þegar orðið nauðsynlegur hlutur af máltíð hins almenna Svía.

Frá verkamannahringjum til samvinnufélaga Kráareigendur nutu þó ekki ágóða af áfengissölunni, en hann rann óskiptur til einokunarverslunarinnar. Þeir urðu því að byggja afkomu sína á veitingasölunni. Fljótlega fóru gæði þess matar er boðinn var á þessum stöðum að versna, enda tryggði brennivínssalan næg viðskipti óháð gæði matarins. Þeir staðir sem ekki gátu boðið upp á áfengi höfðu afar lélega samkeppnisstöðu þar sem þeir urðu að vera vel samkeppnisfærir í verði til að upphefja brennivínsskortinn. Þetta fyrirkomulag varð til þess að gæði þess matar sem verkamönnum bauðst t.a.m. eftir vinnudag urðu sífellt lélegri í öfugu samhengi við verðþróun. LO Smith ákvað að sameina áhuga sinn á samfélagslegum umbótum baráttu sinni við einokunarverslunina og beitti sér fyrir og studdi stofnun “hringa” verkamanna sem áttu að virkja samtakamátt þeirra í samningum um reikningskjör við veitingamenn og sniðgengu þá sem ekki samdist við. Árið 1883 höfðu verið stofnaðir 20 hringir í Stokkhólmi með 18.000 félagsmenn. Hver hringur skiptist niður í svæðadeildir. Hringirnir höfðu innra stjórnkerfi sem sameinaðist í einni sameiginlegri miðstjórn. Á landsvísu höfðu fljótlega verið stofnaðir á milli 400 og 500 hringir. LO Smith kynnti í hreyfingunni hugmyndir um bætt lífskjör með samtakamætti, mögulega kjarasamninga og stofnun neytendasamvinnufélaga á grundvelli hringanna. Hann hafði einnig hugmyndir um stofnun einna landssamtaka. Þessi þróun varð aldrei að raunveruleika og LO Smith dró fljótlega úr þátttöku sinni og fjárhagslegum stuðningi við hreyfinguna. Flestir hringirnir lögðu því upp laupana, en nokkrir störfuðu áfram sérstaklega á landsbyggðinni og urðu í mörgum tilfellum grunnurinn að stofnun neytendasamvinnufélaga. Þó þessi fjöldahreyfing hafi dáið út var hún jarðvegur fyrir frjó skoðanaskipti um þjóðfélagslegar umbætur og samtakamátt hinna smærri í þjóðfélaginu. Hreyfingin

67 var því undanfari bæði þeirra samvinnu- og verkalýðshreyfingar sem náðu síðar svo góðum grundvelli í Svíþjóð. Þegar hringjahreyfingin dó út upp úr miðjum níunda áratug nítjándu aldar voru starfandi um 400 neytendafélög eða pöntunarfélög í Svíþjóð. U.þ.b. helmingur þeirra starfaði í samræmi við hlutafélagalöggjöfina en hin félögin störfuðu sem eins konar sameignarfélög í hálfgerðu lagalegu tómarúmi, með nokkurri óvissu um stöðu sína. Til að bæta úr ástandinu var sett á laggirnar nefnd sem að lokum skilaði af sér tillögum að fyrstu samvinnulöggjöfinni; “lagen om ekomomiska föreningar” sem tóku svo gildi árið 1895. Þessi löggjöf hefur síðan verið grundvöllur öflugrar starfssemi samvinnufélaga í Svíþjóð allt fram á okkar tíma. Löggjöfin er í grunnin afar svipuð þeirri íslensku. Félagsformið er nokkuð stíft skilgreint og hinar bresku “Rockdale- reglur” í raun lögfestar. Þetta styrkti félagsformið í sessi, en hefur hin síðari ár nokkuð hamlað þróun félaganna.

Samband samvinnufélaga stofnað Á árunum fyrir aldamótin fór samvinnuhreyfingin að taka á sig form. Í nýju lagaumhverfi urðu forsendur sambands samvinnufélaga til þar sem nú störfuðu þau sem lögaðilar og félagarnir báru ekki persónulega ábyrgð. Aðdragandi stofnunar KF (Kooperativa förbundet) var ekki með öllu átakalaus. Árið 1889 var flokkur sósíaldemókrata stofnaður og voru margir áhrifamenn innan hans þeirrar skoðunar að uppbygging samvinnuhreyfingar ætti að vera í nánum tengslum við flokkinn og jafnvel undir hatti hans. Aðrir samvinnumenn og sósíaldemókratinn Axel Danielson lögðu áherslu á mikilvægi pólitísks sjálfstæðis hreyfingarinnar og urðu þeirra skoðanir að lokum yfirsterkari, en í fullri sátt við sósíaldemókrata. Samvinnufélögum fjölgaði á fyrstu árum 20. aldar og KF styrkti stöðu sína að sama skapi. Með staðgreiðslu og samtakamætti náðu samvinnuverslanir vöruverði verulega niður og varð það þyrnir í augum ýmissa samkeppnisaðila og byrgja. Fyrst reyndi verulega á samtakamáttinn árið 1909 þegar smjörlíkisframleiðendur höfðu tekið sig saman við nýstofnuð samtök sjálfstæðra verslunareigenda um að selja ekki til samvinnufélaga. Viðbrögð KF voru þau að gefa út eingreiðsluskuldabréf til félaga sinna og náðu með því á örskömmum tíma að fjármagna eigin smjörlíkisverksmiðju. Ári síðar gáfust framleiðendurnir upp á viðskiptabanninu, enda hafði samkeppnin lækkað verð til þeirra verulega. KF seldi verksmiðjuna fljótlega, enda hafði hún

68 þjónað tilgangi sínum, bæði í smjörlíkisstríðinu og með því að sýna fram á samtakamátt og viðbragðsflýti samvinnumanna. Vöxtur og margþætt þróun KF á tuttugustu öldinni var slíkur að ekki verður gerð grein fyrir á nokkrum síðum. Einnig varð til mikill fjöldi samvinnufélaga sem ekki falla undir KF, ýmist neytendafélög eða framleiðslufélög. Því er rétt að líta næst á umfangið í dag.

Samvinnufélög í Svíþjóð í dag.

Þegar fjallað er um samvinnufélög í Svíþjóð er nauðsynlegt að gera sér góða grein fyrir stöðu þeirra í dag og hvernig og hvers vegna þau eru í þeirri stöðu. Einnig er nauðsynlegt að gera sér góða grein fyrir ólíkri uppbyggingu þessara félaga, bæði hvað varðar félagsformið sjálft og markaðsstöðu þeirra. Þrátt fyrir að samvinnufélög í Svíþjóð séu í innri uppbyggingu áþekk, vegna nokkuð afgerandi löggjafar eru þau stofnuð í mjög margvíslegum tilgangi og eru þ.a.l. í raun ólík. Þetta gerir líka að verkum að þau eru að miklu leiti ótengd hvort öðru, þ.e. engin samtök samvinnufélaga ná yfir allan þann fjölda félaga sem í Svíþjóð starfa. Því er mjög erfitt að fá fullkomna heildarmynd af samvinnufélögum nema á afmörkuðum mörkuðum.

Tegundir félaga. i. Neytendafélög Langfjölmennustu samvinnufélög í Svíþjóð eru neytendasamvinnufélög. Þeim má skipta í þrjá megin flokka: Félög á almennum neytendamarkaði, félög á húsnæðismarkaði og félög á trygginga- og fjármálamarkaði.

Félög á almennum neytendamarkaði. Mjög mikið hefur gerst á undanförnum árum í sænskri samvinnuverslun. Um áramótin 1999/2000 ákváðu samvinnuverslunarfélögin í Danmörku, Noregi og Svíþjóð að stofnsetja COOP-Norden AB, til að sameina og samhæfa smávöruverslunina í löndunum. Þetta var gert í kjölfar aukinnar og harðnandi samkeppni. COOP-Norden er með samanlagða markaðshlutdeild í löndunum upp á um 30%. Þetta skiptist þannig að í Svíþjóð er markaðshlutdeildin um 24%, í Noregi 25% og í Danmörku 38%. COOP-Norden AB tók til starfa í janúar 2002 og er móðurfélag yfir smásöluverslunina í löndunum. Hið sænska KF (Kooperativa

69 förbundet 2002) á 42% eignarhlut í félaginu, eftir að hafa lagt COOP-Sverige inn í félagið. Áður átti KF þriðjung. Þær heimildir sem stuðst er við varðandi tölulegar upplýsingar um samvinnufélög í Svíþjóð eru frá árinu 1999 þar sem engin samantekt hefur verið gerð síðan þá, en það er fyrir þann tíma sem COOP vörumerkið var tekið upp. Þess vegna verður að hafa hugfast að stærstur hluti þeirra verslana sem KF rak á þeim tíma er nú rekinn undir COOP vörumerkinu. Nú eru reknar undir COOP vörumerkinu; COOP- Forum sem er stærsta stórmarkaðakeðja Svíþjóðar, en hún virðist byggð á hugmyndinni að baki hinni bandarísku Wal-Mart keðju (Gierts og Strömberg 1999), COOP-Konsum sem eru meiri hverfaverslanir, COOP-Komiform, sem eru líkamsræktarstöðvar og fleira tengt heilsueflingu og COOP-Bank, sem er nýr á markaði. KF hefur samtals um 2.700.000 félaga sem eru í um 90 svæðafélögum. Ársveltan var um 33 milljarðar sænskra króna 2001. Félagar í KF njóta nokkurra sérkjara hjá þessum fyrirtækjum og er það í formi lægra verðs og aukinnar þjónustu, miðað við aðra viðskiptavini. Félagsaðild er öllum frjáls, enda slíkt lögbundið í Svíþjóð, og félagsaðild er vanalega aðeins háð um 100 sænskum krónum lagi, þó er það að einhverju leiti misjafnt eftir svæðum . COOP-Bank á að vera ódýr kostur sem getur boðið góð kjör í tengslum við félagsaðild. KF- félagar hafa um nokkurt skeið notað rafrænt afsláttar-/söfnunarkort, en með stofnun COOP-Bank er mögulegt að sameina það debet- og kreditkorti. Með þessu er vörumerkið styrkt í sessi og viðskiptavinir verða væntanlega trúrri fyrir vikið. Það er ljóst að Samvinnuverslunin hefur tekið miklum stakkaskiptum á undarförnum árum og því gefur eftirfarandi tafla vísbendingu um umfang verslunarinnar í dag. Ekki reyndist unnt að fá jafn ýtarlegar upplýsingar um nýliðin ár. Þó er ljóst af ársreikningum KF samsteypunnar fyrir árið 2001 að heildarveltan var um 33 milljarðar sænskra króna, sem er fjórðungi lægri fjárhæð en taflan gefur til kynna fyrir 1997. Ekki er þó full víst að um sambærilegar tölur sé að ræða þar sem um sitt hvora heimildina er að ræða.

70 Velta KF 1980-1997

Ár 1980 1985 1990 1995 1996 1997 Domus 7.385 8.418 7.980 2.910 2.685 2.400 Stórmarkaðir 2.456 4.722 8.474 15.682 14.493 14.097 Obs! 616 840 1.234 875 810 747 Hverfaverslanir 9.824 16.128 12.334 12.857 20.799 21.443 Lágverðverslanir - - - 1.302 1.389 1.557 Fagverslun 66 189 1.375 4.431 4.129 4.193 Veitingarekstur - - - 390 350 309 Annað 339 714 872 - - 134 Samtals 20.686 31.011 32.269 38.447 44.655 44.880

Markaðshlutdeild neytendasamvinnufélaga í %

1993 1994 1995 1996 1997 Dagvara 21,0 20,5 20,4 19,8 19,7 Sérvara 15,4 14,0 13,2 12,5 11,9 Hlutdeild alls 18,7 17,8 17,6 16,8 16,4

OK olíufélagið er líka áberandi. Í samstarfi við Q8 eru þeir stærstir á smásölumarkaði með olíu og bensín. OK og Q8 reka bensínstöðvar undir vörumerkinu OKQ8. OKQ8 AB er í helmingseigu OK á móti Kuwaitska ríkisolíufélaginu. Félagar í OK eru um 1.600.000 talsins og ársvelta var 7,3 milljarða sænskra króna 2001. OK olíufélaginu var ýtt úr vör af danska OK félaginu og var því sérstaklega framan af í sterkum tengslum við það félag, en er sænskt samvinnufélag að forminu til. Fonus er samband samvinnufélaga og sér um útfaraþjónustu. Fonus er með um 30% markaðshlutdeild. Á árinu 1998 var stigið sögulegt skref er norsk samvinnufélög á þessu sviði gengu inn í Fonus og varð þá til fyrsta samnorræna samvinnufélagið. Síðan hafa verið tekin stærri skref í þessa átt, eins og að ofan er getið. Í Svíþjóð eru mörg fleiri neytendasamvinnufélög af smærra taginu en mjög erfitt er að fá heildaryfirsýn yfir veltu þessara félaga, þar sem opinberar tölur taka aðeins til fjölda félaga og félagsmanna, en ekki veltu.

ii. Húsnæðissamvinnufélög Húsnæðissamvinnufélög eru mjög stór í Svíþjóð. Þau verður að flokka niður í þrjá flokka eftir því hvernig búsetufyrirkomulagið er. Í fyrsta lagi eru félög byggð á

71 eignarrétti. Þau eru vanalega félög íbúðaeigenda sem miða að sameiginlegum framkvæmdum, s.s. gatnagerð, bílastæðum, ljósleiðurum o.þ.h. Þessi félög eru ekki mjög umfangsmikil og lítið er til af heimildum um þau, enda eflaust mörg þeirra tiltölulega óvirk þegar framkvæmdum er lokið. Til marks um fjölda slíkra framkvæmda voru þær um 5000 á árunum 1984-1988 (Kooperativ årsbog 1999: 230). Í öðru lagi eru félög byggð á búseturétti. Búseturéttur er ráðandi búsetuform í Svíþjóð, sérstaklega í stærri samfélögum. Í þessum geira eru bæði sjálfstæð eignar- búsetufélög, stofnuð af fasteignaeigendum eða fyrirtækjum og félög á e.k. samvinnuformi. Dregið hefur úr vægi þessarar misjöfnu skilgreiningar á undanförnum árum, þar sem þessi félög hafa í auknum mæli ruglað saman reitum. Búsetufélög með samvinnuformi eru helst þessi: SKB með 6.331 íbúðir, HSB með 381.500 íbúðir, Riksbyggen með 190.144 og SBC með 88.000 íbúðir. Í þriðja lagi eru félög byggð á leigurétti. Erfitt er að meta hversu stór hluti þessara félaga eru á samvinnuformi, en í Kooperativ årsbok 1999 eru leiddar líkur að því að um ca. 1% hlutdeild á búsetusamvinnumarkaði sé að ræða iii. Fjármálafélög Á fjármálamarkaði er í raun aðeins eitt samvinnufélag sem eitthvað kveður að að ráði, en það er tryggingafélagið Folksam. Folksam hefur mjög stóra markaðshlutdeild á sænskum markaði, sérstaklega í heimilis- og húsnæðistryggingum en þar hefur Folksam um 1/3 markaðshlutdeild. Folksam er í stjórnunarlegum tengslum við stærstu sambönd samvinnufélaga eins og KF, OK, HSB og Riksbyggen, en þessir aðilar tilnefna í stjórn ásamt verkalýðshreyfingunni. Folksam hefur einnig verið að sækja inn á lífeyrismarkaðinn að undanförnu. Af öðrum félögum er helst að nefna lífeyrissjóð samvinnumanna og nýstofnaðan COOP banka. iv. Framleiðendasamvinnufélög Í Svíþjóð eru framleiðendasamvinnufélög (production cooperatives) langumfangsmest í landbúnaði, en þar eru þau mjög umfangsmikil sérstaklega í nokkrum greinum. Til að gera sér grein fyrir umfangi þeirra í Svíþjóð miðað við önnur lönd er líklega best að skoða eftirfarandi töflu:

72 Markaðshlutdeild samvinnufélaga í landbúnaði í ESB á árinu 1998 í%

mmmmmm Dýraóður, Mjólkur- Ávextir og Kjöt- áburður, iðnaður grænmeti iðnaður útsæði o.fl. Kornvara Austurríki 90 0 50 0 60 Belgía 50 70-90 20-30 0 Danmörk 93 20-25 66-93 64-59 87 Finnland 94 0 68 40-60 0 Frakkland 49 35-50 27-88 50-60 75 Þýskaland 55-60 60 30 50-60 0 Grikkland 20 12-51 5-30 49 Írland 100 0 30-70 70 69 Ítalía 38 41 10-15 15 15 Luxemburg 80 0 25-30 75-95 70 Holland 82 70-96 35 40-50 Portúgal 83-90 35 0 0 0 Spánn 35 15-40 20 0 20 Svíþjóð 99 60 79-81 75 75 Bretland 98 35-45 20 20-25 20

Af töflunni má marka hversu samvinnufélög eru sterk í landbúnaðargeiranum í Svíþjóð miðað við flest önnur lönd í Evrópusambandinu. Þó verður að hafa í huga að sænskur landbúnaður er búinn að og er að fara í gegn um mikla umbrotatíma vegna inngöngu Svía í ESB. Reyndar var orðið ljóst í lok 9. áratugar síðustu aldar að stærstur hluti sænsks landbúnaðar væri rekinn á óhagkvæman máta vegna mikilla afskipta ríkis af rekstrinum í formi reglugerðarverks og styrkja. Því var í upphafi tíunda áratugarins sett í gang 5. ára áætlun um endurskipulagningu sænsks landbúnaðar, svo hann mætti verða samkeppnishæfari. Áætlunin fólst einkum í því að draga skyldi úr ríkisstyrkjum og opinberum afskiptum. Eftir að umsókn Svía um inngöngu í ESB varð að raunveruleika var þessi áætlun endurskoðuð og datt að mestu leiti upp fyrir, þar sem mönnum þótti óeðlilegt að draga úr ríkisstyrkjum í Svíþjóð þar sem landbúnaður væri svo mjög styrktur innan sambandsins. Það sýndi sig síðan að samkeppnisstaða sænsks landbúnaðar var ekki of sterk þegar í sambandið var komið, því samkeppnin varð hörð og óvægin. Því hafa sænsk fyrirtæki á þessum markaði farið í gegnum nokkuð viðamikla endurskipulagningu á undanförnum árum og enn er nokkuð í land að henni sé lokið. Því er nokkuð fróðlegt að skoða greiningu Jerker Nilssons prófessors í hagfræði við sænska landbúnaðarháskólans (SLH) í Uppsölum á stöðunni og möguleikum samvinnufélaga í samkeppninni. Þrátt fyrir að þar sé aðeins fjallað um framleiðslusamvinnufélög ættu röksemdirnar að eiga að minnsta kosti að nokkru leiti við um samvinnufélög almennt.

73 Í greiningu sinni á markaðnum ber Nilson saman ólíkar gerðir samvinnufélaga og möguleika þeirra. Hafa verður í huga að hann einblínir á það sem hann kallar framleiðslusamvinnufélög, sem eru oftast útfærslur á samlögum í hans greiningu. Hann metur m.a. möguleika nokkurra gerða samvinnufélaga sem ekki er hægt að stofna samkvæmt sænskri löggjöf, sem er nokkuð stíf hvað varðar félagsformið og virðist að því leiti svipa til íslenskrar löggjafar. Að mati Nilssons hamlar þetta samkeppnismöguleikum samvinnufélaga mjög, þar sem félagsformið þurfi að geta aðlagast þeim mörkuðum sem unnið er á.

Af hverju samvinnufélög?

Þegar staða og möguleikar samvinnufélaga á markaði eru skoðaðir er grunnforsenda að gera sér grein fyrir því af hvaða sökum eitt félagsform er valið fram yfir annað. Ákvörðun um félagsform getur verið á ýmsum forsendum, en ætla má að e.k. tískusveiflur ráði þar nokkru um, þ.e. reynsla þeirra sem eru starfandi á markaði hverju sinni móti hugmyndir um möguleg félagsform. Því er nauðsynlegt til að markaðurinn sé eins skilvirkur og mögulegt er að menn séu upplýstir um kosti og galla mismunandi félagsforma og samhengi þeirra við ólíka markaði. Í riti Jerker Nilson prófessors við hagfræðistofnun sænska landbúnaðarháskólans og Thomas Björklund við markaðsdeild sama háskóla, “Kan kooperationen klara konkurrensen?” eða “Stenst samvinnan samkeppnina?” er lögð áhersla á að félagsform sé valið fyrst og fremst á efnahagslegum forsendum. Að eigendur gerist félagsmenn af efnahagshvata, þ.e. að efnahagslegur ávinningur sé meiri með aðild að ákveðnu félags formi framar öðru eða því að standa utan félaga. Þarna er fyrst og fremst litið til stöðu framleiðendasamvinnufélaga í Svíþjóð, stöðu þeirra undanfarin ár og framtíðarmöguleikum. Áhersla er lögð á að íhaldssemi á félagsformið félagsformsins vegna sé engum til góðs, nauðsynlegt sé að aðlaga sig markaðnum. Þar sem þessi greining á markaðnum og félagsforminu er margþætt er nauðsynlegt að gera grein fyrir helstu þáttum hagfræði, markaðsfræði og kenningum á svið stjórnunar og stefnumótunar sem óhjákvæmilega eru mikilvægar í slíkri greiningu.

74 Markaðsstrategía.

Eftir farandi mynd lýsir grunnforsendum þess að ná markaðsforskoti:

Tegund markaðsforskots

Lágverð Aðgreining

Víður Almenn Almenn almennur lágverðsstefna gæðastefna markaður

Besta virði

Markaðsstefna Þröngur Sérhæfð Sérhæfð markaður lágverðsstefna gæðastefna

Þarna má sjá hvernig Michael E. Porter (1990: 39) skilgreinir þá markaðsstefnu sem hentar hverri markaðsgerð. Þá er að skilgreina hvernig félagsform er hentugast til að framfylgja hverri stefnu. Ef horft er á það út frá sjónarhorni samvinnufélaga er hægt að flokka þau félög sem ekki teljast hefðbundin samvinnufélög á svipaðan máta:

Aðkoma eigenda

Ytra Fjármagn fjármagn notenda

Samvinnu- Samvinnufélög Lokuð félög með séreign samvinnufélög

Félagsgerð Hlutafélög Dótturfélög Hlutafélagavædd samvinnufélaga Samvinnufélög

75 Þessir flokkar samvinnufélaga auk þeirra hefðbundnu eru nokkuð ólíkir innbyrðis eins og sjá má í næstu töflu: Eiginleikar Tegundir samvinnufélaga Hefðbundin Samvinnu- Dótturfélög Lokuð Hlutafélaga- samvinnu- félög með samvinnu- samvinnu- vædd félög séreign félaga félög samvinnufélög Innganga Frjáls Frjáls Misjafnt Takmörkuð Misjafnt félaga Séreign Nei Fyrir fjárfesta Fyrir fjárfesta Já Já Virðisvöxtur Nei Fyrir fjárfesta Já Já Já hluta Félagar-notk. Félagar-notk. Eftir eign og Atkvæðaréttur Jafn Fjárfestar- Eftir eignarhluta Fjárfestar-eign notkun eign Félagar í gegn Ákvörðunar- Félagar Félagar um Félagar Fjárfestar taka móðurfélag Utanaðkoman Sjaldan, án di Nei Já Já Já atkvæðaréttar þátttakendur Jafnt í gegn Stofnframlag Jafnt Jafnt um Eftir notkun Eftir eignarhluta móðurfélag Félagar-notk. Félagar-notk. Eftir eign og Arðgreiðslur Eftir notkun Fjárfestar- Eftir eignarhluta Fjárfestar-eign notkun eign Hátt stig virðis- Takmarkað Já Já Já Já aukningar Fagleg stjórn Nei Ekki alltaf Já Já Já

Mismunandi starfsemi og uppbygging félagsformasamvinnufélaga hentar mismunandi markaðsgerðum. Þannig henta hefðbundin samvinnufélög helst á frumvörumarkaði þar sem tækifærin felast í verðleiðandi stefnu, en fjármagnsfélögin henta frekar á mörkuðum þar sem tækifæri eru til aðgreiningar eða sérhæfingar. Niðurstöður Nilssons og Björklund eru þær að samvinnan hafi vissulega forsendur til að standa sig í samkeppninni. En til þess þurfi menn að vera í stöðugri ytri og innri greiningu til að gera sér grein fyrir hvort félagsformið henti starfsseminni. Ef svo reynist ekki vera telja þeir mikilvægt að aðlaga annað hvort félagsformið að starfseminni eða starfssemina að félagsforminu. Til að hið fyrrnefnda sé mögulegt verður að vera nokkur innbyggður sveigjanleiki í félagalöggjöfinni. Samvinnufélög í Svíþjóð eru bundin nokkuð stífum lagaramma. Lögin um félagslega efnahagsstarfsemi eru byggð á Rochdale-reglunum svokölluðu í öllum meginatriðum og öll frávik frá þeim reglum eru ströngum skilyrðum háð. Þetta setur samvinnufélögum í Svíþjóð nokkuð þröngar skorður í aðlögun sinni að breyttum

76 markaði. Það er t.a.m. algert skilyrði þess að fá skattalega meðferð sem samvinnufélag í Svíþjóð að félagið sé opið nýjum meðlimum. Þetta gerir það að verkum að stofnum svokallaðra Nýrrar Kynslóðar Samvinnufélaga (hér eftir NKS) er ekki möguleg í Svíþjóð. Ein helsta forsenda slíkra félaga er lokuð félagaskrá. Gallinn við opna félagaskrá er fyrst og fremst sá að ef félagið er að greiða félagsmönnum sínum arð eða hærra afurðaverð en gengur og gerist á hinum almenna markaði, er hvati fyrir menn að gerast aðilar allt þar til þessi munur verður að engu. Félagið hefur því ekki stjórn á framleiðslumagni sínu. Reyndar er eitt félag starfandi í Svíþjóð sem flokka má sem samvinnufélag af nýrri kynslóð. Það félag, Lyckeby Stärkelsen (samlag sterkjuframleiðenda úr kartöflum), hefur komist að nokkru leiti í kring um sænska löggjöf vegna hefðar í þessari framleiðslugrein sem myndaðist fyrir lagasetningu um samvinnufélög og með því að gera samninga um framleiðslurétt og skyldur við félaga sína. Framleiðslunni er skipt upp í hluta sem eru boðnir út meðal félagsmanna. Síðan er framleiðslumagn á hlut ákveðið fyrir hvert ár. Þar sem um takmarkaðan fjölda hluta er að ræða eru verulegar inngöngu hindranir í félagið. Þetta gerði það að verkum að samlaginu tókst að mæta aukinni samkeppni frá Evrópusambandinu með sérhæfingu, bæði í framleiðslu og markaðsmálum, þar sem félagið var með innbyggða kvótastýringu sem átti mjög vel við framleiðslukvóta Evrópusambandsins (Germundsson, Per 1999). Per Germundsson kemst einmitt að þeirri niðurstöðu að tækifæri í sænskum landbúnaði á Evrópumarkaði verði best nýtt með því að eiga kost á slíkri félagagerð, sérstaklega til hagkvæmrar kvótastýringar. Það virðist nokkuð almennt viðhorf í samvinnugeiranum í Svíþjóð að löggjöfin setji þeim of þröngar skorður, allavega hvað varðar framleiðendageirann.1 Eins og áður segir leyfir sænsk löggjöf ekki lokaða félagsaðild samvinnufélaga. Hún leyfir heldur ekki framleiðsluskyldu félagsmanna. Þetta kemur algerlega í veg fyrir stofnun NKS með öllum þeim kostum sem slík félög geta haft, sérstaklega á miðstýrðum markaði landbúnaðarvara í Evrópusambandinu.

Lokaorð Samvinnufélög hafa verið í vörn í Svíþjóð á undanförnum árum, m.a. vegna breytinga á markaðsumhverfi með inngöngu í ESB. Þessar breytingar ásamt

1 Viðtöl við ýmsa á SLU og KOOPI o.fl.

77 markaðsþróun almennt hafa orðið til þess að sum samvinnufélög hafa brunnið inni með félagsform sem ekki lengur hentar þeim markaði sem þau starfa á. Eins hafa sum félög verið að færa sig yfir á markaði sem ekki henta félagsforminu fullkomlega. Því má draga þá ályktun að markviss stefnumótunarvinna, þar sem leitast er við að finna hið rétta samspil félagsforms og markaðar, ásamt jákvæðu lagaumhverfi sé forsenda áframhaldandi sóknar samvinnufélaga í Svíþjóð. Til að skapa samvinnufyrirrækjum svigrúm til aðlögunar eru lagabreytingar nauðsynlegar. Þessar lagabreytingar yrði þó að skoða í nánu samhengi við samkeppnislöggjöfina, þar sem sjónarmið samvinnufélaga t.d. í framleiðslu og samkeppnislaga fara ekki endilega saman. Markmiðið með slíkri löggjöf hlýtur alltaf að vera að hámarka þann ávinning sem samfélagið í heild hefur af viðskiptum.

78 4. Kafli

Samvinnuhreyfingin í Bandaríkjunum

Inngangur

Samvinnufélög eru mikilvæg í efnahagslífi Bandaríkjanna. Þau leika ekki aðeins mikilvægt efnahagslegt hlutverk, heldur eru þau einnig mikilvæg í samfélagslegum skilningi. Segja má að þau falli vel að ríkjandi hugmyndafræði í Bandaríkjunum um dreifingu valds og áherslu á að ákvarðanir séu teknar í nærsamfélaginu, þ.e. sveitarfélaginu og í héraði, alls staðar þar sem því verður viðkomið. Samvinnurekstur fellur einnig vel að ríkjandi hugmyndafræði þar í landi þegar litið er til áherslu á að samkeppni á mörkuðum virki og stórfyrirtækjum með fákeppni- eða einokunaraðstöðu sé veitt aðhald. Í þessum kafla verður fjallað um hlutverk samvinnufélaga í Bandaríkjunum og ljósi varpað á stöðu þeirra í dag. Einnig verður fjallað um nýsköpun samvinnufélaga eins og hún birtist í þeirri bylgju stofnunar nýrra samvinnufélaga sem hófst á tíunda áratug síðustu aldar og nefnd hefur verið “samvinnuæði”. Hér er átt við svokölluð “nýju kynslóðar samvinnufélög” sem einkum eru kennd við fylkin Minnesota og Norður-Dakoda.

Rekstrarform í Bandaríkjunum

Þegar Bandaríkin ber á góma er gjarnan haldið fram að þau séu leiðandi hagkerfi einkarekstrar og markaðsskipulags. Þá er sjaldan litið til þess að samvinnufélög leika mikilvægt hlutverk á markaðnum og að hið opinbera er umsvifamikið á ýmsum sviðum eins og hvað varðar fjármögnun þróunar og framleiðslu hergagna og rannsókna- og þróunarstarfssemi í vísindastofnunum. Bandaríska hagkerfið er því þrátt fyrir allt blandað hagkerfi sem einkennist af ólíkum rekstrarformum. Við skulum nú skoða lítillega helstu rekstrarformin. Einstaklingsfyrirtæki (sole proprietorship) er elsta og algengasta rekstarformið. Slík fyrirtæki eru í eigu eins einstaklings líkt og á Íslandi. Bændabýli og smáir matsölu staðir eru dæmi um slík fyrirtæki. Einstaklingsfyrirtæki eru

79 útbreiddust í landbúnaði af öllum atvinnugreinum í Bandaríkjunum. Eigandinn leggur fram stofnféð í fyrirtækið og ber ábyrgð á skuldum þess og afkomu. Hagnaður er einskattaður því aðeins eru tekinn skattur af tekjum eigandans en ekki fyrirtækinu sem slíku (Centre for the Study of Co-operatives). Sameignarfélag (partnership) er í eigu tveggja eða fleiri einstaklinga sem stjórna því. Dæmigert er að lögmannsskrifstofur og endurskoðunarskrifstofur í Bandaríkjunum séu rekin í formi sameignarfélaga, en sum bændabýli hafa þetta form, einkum þegar foreldrar og börn sameinast um reksturinn. Eigendur bera ábyrgð á skuldum og afkomu fyrirtækisins og hirða af því hagnað. Í sumum tilvikum eru aðrir aðilar hluthafar í slíku fyrirtæki, en hafa þá takmarkaða aðild að því og eiga aðeins kröfu á hluta af hagnaði en hafa engan rétt til afskipta af stjórnun þess og bera enga ábyrgð á skuldum þess. Hagnaður þessara fyrirtækja er einskattaður þar sem aðeins er greiddur skattur af persónulegum tekjum eigenda líkt og á við um einstaklingsfyrirtæki (sama). Þriðji flokkur fyrirtækja eru almenn hlutafélög (general corporation), en þau eru ólík þeim fyrirtækjum sem nefnd eru hér að ofan meginhluti hlutafjár fyrirtækisins er í eigu annarra en stofnenda þess eða þeirra sem reka fyrirtækið. Þessi fyrirtæki eru rekin eins og þau væru persóna, þ.e. þau eru sjálfstæður lögaðili. Líkt og persóna hefur fyrirtækið rétt til að eiga eignir, gera viðskiptasamninga, selja og kaupa vörur og þjónustu, lána fé og ber ábyrgð á skuldum og tjóni sem reksturinn kann að valda. Fjár til rekstrarins er aflað með sölu hlutabréfa og eigendur þeirra eru kallaðir hluthafar. Ólíkt þeim tveimur rekstrarformum sem nefnd voru hér að ofan er hagnaður fyrirtækisins tvískattaður, þ.e. með tekjuskatti á fyrirtækið og síðan einnig með fjármagnstekjuskatti sem hluthafar greiða af tekjum sínum af hlutafénu. Stærstur hluti efnahagsstarfsseminnar í Bandaríkjunum er í höndum fyrirtækja af þessu tagi (sama). Fjórði flokkur fyrirtækja eru fyrirtæki með takmarkaða ábyrgð (limited liability company). Slík fyrirtæki eiga sér langa sögu í Evrópu, en eru tiltölulega ný af nálinni í Bandaríkjunum. Þetta rekstrarform var komið á með lögum þar í landi 1977, en það er eins konar blanda af rekstarformunum þremur hér að ofan. 1988 fengu þessi fyrirtæki sömu skattastöðu og sameignarfélög og einstaklingsfyrirtæki og voru upp frá því einsköttuð. Hagnaður fyrirtækisins sem slíks er ekki skattaður heldur greiða eigendurnir tekjuskatt af tekjum sínum af fyrirtækinu. Eigendur fyrirtækja af þessu tagi er kallaðir “meðlimir”. Meðlimirnir stjórna sjálfir fyrirtækinu og hafa atkvæðisrétt í samræmi við eignarhluta þeirra í hlutafé félagsins, nema þeir ráði

80 sérstaka stjórnendur til að stjórna fyrirtækinu. Fjöldi meðlima er ekki takmarkaður, en fyrirtæki af þessu tagi geta ekki gefið út eða selt hlutabréf í nafni fyrirtækisins. Hagnaði eða tapi fyrirtækisins og ábyrgð meðlima á rekstrinum er skipt á meðlimi í samræmi við eignarhlut þeirra. Líftími fyrirtækjanna er takmarkaður og er venjulega 30 ár, en það getur verið breytilegt eftir fylkjum (sama). Fimmti flokkur fyrirtækja eru loks samvinnufélögin. Engin algild skilgreining er til á samvinnufélögum, en algengast er að líta á þau sem fyrirtæki sem eru skipulögð og stjórnað með lýðræðislegum hætti af því fólki sem notar vörurnar og þjónustuna sem þau veita. Einnig er eitt af höfuð einkennum samvinnufélaga að hagnaði af rekstrinum er skipt upp milli meðlima fremur á grundvelli hversu mikil viðskipti þeirra við samvinnufélagið hafa verið á tilteknu tímabili, t.d. ári, fremur en hversu mikið þeir hafa fjárfest í því. Félagið er rekið með hagsmuni meðlima að leiðarljósi fremur en að hámarka hagnað. Vert er að hafa í huga að samvinnufélög geta verið stofnuð jafnt af einstaklingum sem fyrirtækjum. Þrjár meginreglur greina skipulag samvinnufélaga frá skipulagi fyrirtækja sem hafa önnur rekstrarform: • Hagsmunir notandans eru í fyrirrúmi • Notandinn er eigandi fyrirtækisins • Notandinn stjórnar fyrirtækinu Til að tryggja að hagsmunir notandans séu í fyrirrúmi eru notendurnir jafnframt meðlimir samvinnufélagsins. Meðlimir eignast hlutdeild í hagnaði í réttu hlutfalli við hversu mikil viðskipti þeirra hafa verið á rekstrarárinu. Með aðra meginregluna að leiðarljósi er samvinnufélag skipulagt þannig að notendurnir eru jafnframt eigendur fyrirtækisins, en það felur í sér að þeir bera ábyrgð á því að fjármagna starfssemina. Þessi fjármögnun er með þrennum hætti, þ.e. í fyrsta lagi með beinu stofnfjárframlagi, í öðru lagi með því að veita samvinnufélaginu heimild til að ráðstafa hluta hagnaðar til að auka stofnfé meðlima fremur en að greiða út hlutann beint út til meðlima. Í þriðja lagi felst fjármögnunin í reglubundnu framlagi svo sem afhending á tilteknu magni aðfanga til félagsins á tilteknu tímabili eða kaup á tilteknu magni afurða félagsins yfir tiltekið tímabil. Þriðja meginreglan sem kveður á um að notandinn stjórni fyrirtækinu felur í sér að meðlimir samvinnufélagsins hafi atkvæðisrétt og kjósi stjórn félagsins og hafa atkvæðisrétt í kosningum um megin stefnumörkun félagsins. Almennt hafa allir meðlimir jafnan atkvæðisrétt óháð umfangi viðskipta þeirra við

81 félagið eða upphæð fjárfestingar þeirra í félaginu (D. Cobia 1989 og D. A. Frederick 1997). Samvinnufélög í Bandaríkjunum njóta margvíslegra sérréttinda í skattalegu tilliti, en um það verður fjallað í kaflanum um hin svokölluðu ‘nýju kynslóðar samvinnufélög’ eða ‘virðisaukningar samvinufélög’ hér að neðan. Af ofansögðu má sjá að mikill munur er á rekstrarformum þegar litið er til fjármögnunar, réttar á hlutdeild í hagnaði, ábyrgðar, valda þátttakenda í fyrirtækinu og skattalegrar meðferðar. Eftir að hafa borið rekstarform samvinnufélaga saman við önnur helstu rekstarform í Bandaríkjunum skulum við nú snúa okkur að því að greina ástæður þess að samvinnufélög eru stofnuð og skoða síðan umsvif og þróun samvinnufélaganna þar í landi.

Kostir samvinnufélagsformsins

Margar ástæður geta verið fyrir því að samvinnufélög eru stofnuð. Algengustu ástæðurnar eru þessar:

• Með því að stofna samvinnufélag bæta meðlimirnir samningsstöðu sína á markaðnum. T.d. stofna bændur samvinnufélög um sölu á afurðum sínum vegna þess að flutningsfyrirtæki og fyrirtæki sem vinna vörur úr þeim hafa einokunar eða fákeppnisstöðu á markaðnum. • Minnka má kostnað með því að stofna samvinnufélag um innkaup á aðföngum. Bændur og fleiri stofna oft slík félög og fá magnafslátt hjá birgjum. • Samvinnufélög eru oft stofnuð til að tryggja vörur og þjónustu sem annars væri ekki í boði. Klassísk dæmi í Bandaríkjunum eru samvinnufyrirtæki í raforkuframleiðslu, sem stofnuð hafa verið vegna þess að stórfyrirtæki í raforkuframleiðslu sinna ekki dreifbýlinu þar sem gróðavon er lítil. Í dag er t.d. u.þ.b. helmingur af raforkudreifingu í Bandaríkjunum á vegum samvinnufélaga. • Samvinnufélög gera framleiðendum kleyft að stofna sprotafyrirtæki og hasla sér völl á mörkuðum. T.d. hefur svokölluðum ‘nýju kynslóðar samvinnufélögum’ tekist að skilgreina og fara inn á nýja markaðskima eins og t.d. vísundakjöt. • Markmiðið með stofnun samvinnufélaga getur verið að auka gæði framleiðslunnar og þjónustu. • Auknar tekjur er augljóst markmið stofnunar samvinnufélaga.

Umsvif samvinnufélaga í Bandaríkjunum

Umsvif samvinnufélaga í Bandaríkjunum eru mikil á mörgum sviðum efnahagslífsins. Þar í landi eru 47 þúsund samvinnufélög rekin með um 100 milljónir

82 viðskiptavina eða um 40% íbúanna1 (J. Birchall 1997: 191). Samvinnufyrirtæki eru meðal 500 stærstu fyrirtækja Bandaríkjanna. Af þekktum fyrirtækjum má nefna Welch's, Land O'Lakes, Ocean Spray, Sunkist, Publix Supermarkets, ACE Hardware, Nationwide Insurance og fréttastofuna the Associated Press. Að minnsta kosti 20 samvinnufélög velta meira en 90 milljörðum íslenskra króna á ári. 1000 samvinnuraforkufyrirtæki þjóna 36 milljónum manna í 46 fylkjum Bandaríkjanna. Samvinnufélög í raforkuframleiðslu sjá 25 milljónum manna fyrir rafmagni og eiga meira en helming rafmagnslína í landinu. Meira en 50 milljónum Bandaríkjamanna er þjónað af tryggingarfélögum sem eru í eigu samvinnufélaga eða nátengd þeim. Heilsugæsluþjónusta sem rekin er í samvinnufélagaformi þjónustar 1,4 milljónir fjölskyldna þar í landi. Meira en 50000 fjölskyldar njóta þjónustu leikskóla sem reknir eru í samvinnuformi (Coopmonth 2002). Svona mætti lengi telja. Við skulum skoða bandarísk samvinnufélög nánar. Helstu flokkar samvinnufélaga í Bandaríkjunum eru landbúnaðarsamfélög, neytendasamvinnufélög, samvinnulánastofnanir, húsnæðissamvinnufélög og starfsmannasamvinnufélög. Landbúnaðarsamvinnufélagageirinn í Bandaríkjunum er sá stærsti í heiminum hvað varðar framleiðslumagn, en sá japanski er nánast jafn umfangsmikill. 1994 voru 4174 samvinnufélög í atvinnulífinu í eigu bænda, með nálægt fjórum milljóna meðlima og veltu upp á 89 milljarða dollara (u.þ.b. 8010 milljarðar íslenskra króna). Bændur reka vel skipulagt kerfi samvinnufélaga sem tryggja þeim aðföng, bankaþjónustu og markaðsfærslu á afurðum. Líkt og í Evrópu hefur efnahagsþróunin leitt til fækkunar samvinnufélaga síðan á níunda áratugnum, en öfugt á við það sem gerst hefur í Evrópu hefur samruni samvinnufyrirtækja ekki orðið til að þess að einkaaðilar hafi tekið fyrirtækin yfir, heldur hafa samvinnufélögin f.o.f. runnið saman í stærri einingar. Árið 1994 seldu 1600 birgjar í landbúnaði, sem reknir eru í samvinnufélagsformi u.þ.b. 29% af aðföngum landbúnaðarins, þar með talið 45% af áburði, 42% af olíu og bensíni og 21% af fóðri fyrir kvikfénað. Á afurðamarkaðnum eru 2200 samvinnusölufélög starfandi sem ráða 31% markaðarins, þar með talið 33% af markaði mjólkurafurða, 27% af korn- og matarolíumarkaðnum og 13% af ávaxta- og grænmetismarkaðnum. Auk þess má nefna að 240 landbúnaðarsamvinnubankar lána 25% allra lána til landbúnaðar. Loks má geta um 1000 samvinnuraforkufyrirtækja sem þjóna 36 milljónum manna í 46 fylkjum Bandaríkjanna og 700 samvinnusímafyrirtæki

1 Þessar tölur eru vafalaust eitthvað of háar því viðskiptavinirnir eru líklega tví- eða margtaldir.

83 (J. Birchall 1997: 199-200). Flest samvinnufélögin eru smá, en 80% fyrirtækjanna velta aðeins 14% af heildarveltu samvinnufélaga í landbúnaði. Þess ber þó að geta að meðal samvinnufélaga eru risar sem velta gífurlegum fjármunum: 1,6% samvinnufyrirtækjanna velta meiru en 250 milljónum dollara á ári og standa fyrir 57% tekna af sölu landbúnaðarafurða. Af slíkum stórfyrirtækjum má nefna Land O’ Lakes, Associated Milk Producers, Mid-America Dairymen, Sunkist Growers og Ocean Spray (sama: 200-1). Neytendasamvinnufélög eru fjölmörg í Bandaríkjunum. Þar í landi eru u.þ.b. 300 neytendasamvinnufélög í smásölugeiranum með hálfa milljón meðlima. Auk þess eru 3000 innkaupafélög með um 100 þúsund meðlimi. Velta samvinnufélaga og innkaupafélaga er meira en 500 milljónir dollara á ári (u.þ.b. 45 þúsund milljónir íslenskra króna). Flest neytendasamvinnufélaganna eru smá, en þó eru til stór fyrrtæki eins og Puget Consumers Co-op í Seattle sem rekur 7 búðir, hefur 45 þúsund meðlimi og veltir 43 milljónum dollara. Neytendasamvinnufélögin eiga nú í harðri samkeppni við verslunarkeðjur sem farið hafa inn á markað sem mörg þeirra lögðu grunn að, þ.e. markað lífrænt ræktaðra landbúnaðarafurða (sama: 207). Samvinnulánastofnanir eru algengar í Kanada, en minna er um þær í Bandaríkjunum. Árið 1916 setti Bandaríkjaþing lög um landbúnaðarbanka sem áttu að tryggja bændum aðgang að nauðsynlegu lánsfjármagni. Í dag eru sex landbúnaðarbankar sem lána bændum gegnum 228 svæðisbundna samvinnubanka í eigu bænda. Árið 1995 veittu þessar stofnanir 57 milljarða dollara í lán til meira en 400 þúsund bænda, en lánastofnanirnar eru ekki byggðar á innlánsreikningum heldur afla þeir sér fjár með sölu landbúnaðarskuldabréfa. Auk ofangreindra sjóða eru fjölmargir lánasjóðir (credit unions) í bandaríkjunum sem veita meðlimum sínum lán á lágum vöxtum. Hér er um ræða sjóði sem fólk sem tengist sameiginlegum böndum stofnar til að auka lánamöguleika sína, en oft á tíðum á það enga aðra valkosti í Bandaríkjunum (eins og víðar). Lánasjóðir af þessu tagi eru stofnaðir af starfsmönnum fyrirtækja, meðlimum stéttarfélaga o.fl. Í Bandaríkjunum er áætlað að séu um 12300 slíkir sjóðir sem þjóna um 70 milljónum meðlima og að eignir þeirra séu meira en 500 milljarða dollara virði. Þeir lána yfir 13% af lánum til almennings og 8% af innlánum almennings. Bill Clinton fyrrverandi

84 forseti Bandaríkjanna beitti sér fyrir lögum sem samþykkt voru 1993 og mæltu fyrir um að 100 nýjum svæðisbundnum lánastofnunum yrði komið á fót og hefðu að markmiði að þróa atvinnulífið í héraði. Líklegt er talið að svæðisbundnir lánasjóðir muni leika mikilvægt hlutverk í þeirri þróun (sama: 210). Húsnæðissamvinnufélög eru víða í Bandaríkjunum. Talið er að til slíkra félaga heyri um ein milljón íbúða. Flestar eru þessar íbúðir í New York eða um 600 þúsund að tölu, en um tvær milljónir manna búa í þessum íbúðum í borginni. Það eru einkum lágtekjufjölskyldur sem notfæra sér þennan valkost (sama: 214). Starfsmannasamvinnufélög (workers co-ops) eru fyrirtæki sem eru í eigu starfsmanna sjálfra. Í Bandaríkjunum eru um 150 slík samvinnufélög með 6500 meðlimum. Slík félög eru fjölbreytileg og spanna allt frá samvinnufélögum á sviði leigubílaaksturs til þekkingar- og hátæknifyrirtækja á sviði upplýsingatækni og ráðgjafastarfssemi. Auk þeirra er fjöldi fyrirtækja þar sem starfsmenn eiga hlut í fyrirtækinu sem þeir starfa við. Þau eru talin vera um 10 þúsund að tölu og eign starfsmanna í þeim er talin nema 60 milljörðum dollara (sama: 216).

Rætur hreyfingarinnar

Samvinnuhreyfingin í Bandaríkjunum á sér langa sögu, jafnvel lengri en sú evrópska. Fyrsta formlega samvinnufélagið var stofnað í Fíladelfíu 1752, næstum aldarfjórðungi á undan sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna. Þetta fyrsta samvinnufélag var brunatryggingarfélag kallað “Philadelphia Contributionship for the Insurance of Houses from Loss by Fire”. Benjamin Franklin var einn af stofnendum þess, en félagið er enn við lýði (D. Cobia 1989). Fyrsta formlega samvinnufélag bænda í Bandaríkjunum var stofnað 1811, en slíkt rekstrarform var ekki álitið vænlegt fyrr en eftir Borgarastyrjöldina þar í landi (1861-5). Fyrstu samvinnufélögin voru samvinnufélög bænda en markmið þeirra var að tryggja bændum ódýrari aðdrætti og þjónustu, en einnig stofnuðu þeir

85 framleiðslufélög eins og mjólkurbú og ostagerð. Það var ekki fyrr 1845 að fyrsta neytendasamvinnufélagið sá dagsins ljós, en það var stofnað í Boston að fyrirmynd Rochdale félaganna sem stofnuð voru árið áður á Bretlandi. Flest þessara samvinnufélaga lifðu stutt vegna stjórnmálalegs ágreinings innan þeirra, ónógs stofnfjár, slæmrar stjórnunar og vanþekkingar meðlimanna á grundvallarreglum samvinnurekstrar. Þegar komið var fram undir 1870 hafði samvinnufélögum fækkað mikið í Bandaríkjunum. Um aldamótin 1900 voru a.m.k 1223 samvinnufélög í Bandaríkjunum en þá urðu kaflaskipti í þessari sögu. Frá þeim tíma hafa samvinnufélög leikið mikilvægt hlutverk í Bandarísku efnahagslífi. Talað er um “bylgjur” í nútímasögu samvinnufélaga þar í landi. Fyrsta bylgjan sem hófst upp úr aldamótunum hefur verið kölluð “Rockdale áætlunin”, en með henni stofnuðu neytendur innkaupafélög til að kaupa vörur af samvinnufélögum í heildsölu. Heildsalinn aðstoðaði innkaupafélögin síðan við að þróa þau yfir í kaupfélög með því að aðstoða við stjórnun þeirra og veita fjármagni til þeirra. Um 1920 voru 2600 neytendasamvinnufélög í Bandaríkjunum, en 80% þeirra voru í byggðakjörnum með minna en 2500 íbúa. Velta kaupfélaganna var um 260 milljónir dollara um þetta leyti. Hinn mikli vöxtur kaupfélaganna olli heildsölunum vandræðum og allt kerfið hrundi áður en áratugur var liðinn (History of Cooperatives). Í heimskreppunni miklu á fjórða áratugnum reið yfir önnur bylgja samvinnufélaga bæði í þéttbýli og dreifbýli. Félögin voru studd af New Deal umbótaáætlun Franklin Roosevelts forseta, en áður, þ.e. 1929, kom ríkisstjórnin á fót sérstökum sjóði til styrktar samvinnufélögum í landbúnaði. Um 1930 voru skráð u.þ.b. 12000 samvinnufélög bænda í Bandaríkjunum Mörg þeirra samvinnufélaga sem stofnuð voru á þessum árum lifðu í meira en hálfa öld. Þriðja bylgjan, svokölluð “nýbylgja” hófst loks undir lok 7. áratugarins. Þessi samvinnufélög spruttu úr heimspeki og róttækum þjóðfélagshreyfingum 7. og 8. áratugarins og voru einkum stofnuð af ungu hugsjónafólki. Markmiðið var ekki að fylgja í fótspor gömlu samvinnufélaganna, heldur að koma á samfélagslegu jafnrétti. Flest félaganna framleiddu og seldu óunnar landbúnaðarafurðir sem seldar voru í stórum einingum. Rekstur félaganna var mjög fjölbreytilegur og tilraunakenndur. Sumar verslanirnar voru opnar fáeina klukkutíma á viku á meðan aðrar voru opnar alla daga. Sum voru rekin í sjálfboðavinnu, en önnur höfðu starfsfólk á fullum launum. Sum félögin voru rekin með sjálfsstjórnarfyrirkomulagi og atvinnulýðræði,

86 en önnur voru rekin með hefðbundnum hætti. Mörg félög greiddu félagsmönnum hagnaðarhlut í lok árs á meðan önnur veittu félagsmönnum afslátt þegar þeir versluðu hverju sinni. Nýbylgju-samvinnufélögin voru frumkvöðlar í lífrænum matvælaiðnaði, en þau áttu mörg hver erfitt uppdráttar af ýmsum ástæðum. Reksturinn var oft á tíðum óstöðugur og tilraunakenndur. Flest áttu við sömu vandamál og eldri félögin að etja, þ.e. skort á rekstrarfé og stuðningi frá meðlimum. Félögin áttu einnig erfitt með að mæta vaxandi samkeppni sem fylgdi í kjölfar vaxtar hins almenna lífræna matvælaiðnaðar. Hugsjónamennska var oft efnahagsjónarmiðum yfirsterkari. Loks skorti stuðning heildsala og illa gekk að sameina rekstrareininga og samvinnufélög (sama).

Hin nýja kynslóð samvinnufélaga í Bandaríkjunum

Á tíunda áratug liðinnar aldar varð mikil aukning í stofnun samvinnufélaga í Bandaríkjunum. Kalla má þessa þróun fjórðu bylgjuna eða “samvinnufélagaæði”, eins og margir hafa gert (W. Patrie 1998). Leiðandi í þessari þróun voru bændur í fylkjunum Minnesota og Norður-Dakota. Í Norður-Dakota einu er talið að á tímbilinu 1990 til 1999 hafi a.m.k. milljarði dollara, eða um 90 þúsund milljónum í íslenskum krónum talið, verið fjárfest á vegum samvinnufélaga. Þannig munu um 800 milljónir dollara hafa verið fjárfest í byggingum, tækjum og tólum og um 216 milljónum hafði þá verið fjárfest í stofnfé (Centre for the Study of Co-operatives). Samvinnufélög þau sem kölluð hafa verið nýju kynslóðarsamvinnufélög eru um margt öðru vísi en hefðbundin samvinnufélög.. Korn og sykurrófubændur hafa verið áberandi í þessum nýju samvinnufélögum, en nauta- og svínabændur eru einnig áberandi. Flest þeirra eru bændafélög. Bændur stofna framleiðslufyrirtæki sem vinnur vörur úr afurðum þeirra, en með þeim hætti fá bændur aukinn hlut í virðisaukningarferlinu. Sykurframleiðslufyrirtæki, kjötiðnaðarfyrirtæki o.fl. eru stofnuð með það að augnamiði að bændur fái aukna hlutdeild í matvælaframleiðslukeðjunni sem byrjar á búi bóndans og endar á matarborði neytandans. Þeir fá með þessum hætti sjálfir aukinn hluta af þeim tekjum sem áður runnu í vasa stórfyrirtækja og milliliða. Í þessum félögum kaupa bændur sér hlut í hinu nýja samvinnufélagi, en um leið skuldbinda þeir sig til að afhenda tiltekið magn afurða á ákveðnu tímabili. Talað er um að þeir kaupi sér afhendingarétt, en ef þeir standa ekki við sínar skuldbindingar tapa þeir fénu sem þeir leggja í félagið.

87 Fjárfestingin í stofnfé er mun meiri af hálfu bænda en venjulega gerist við stofnun samvinnufyrirtækja. Þeir taka því meiri áhættu en áður þekktist við stofnun samvinnufélaga en á móti kemur að hagnaðarvonin er mun meiri. Í sumum tilvikum, eins og gildir um The American Crystal Sugar, fá bændur fasta upphæð greidda með reglubundnu millibili nokkrum sinnum á ári og svo lokagreiðslu í árslok í samræmi við hversu mikill hagnaður hefur verið af starfsseminni. (W. Patrie 1998: 2). Draga má saman helstu einkenni hinna nýja samvinnufélaga í nokkur megin atriði: • Stofnfjárfestingar er krafist áður en gengið er frá afhendingarrétti • Samningar milli bænda og samvinnufélagsins eru tengdir upphæð stofnfjár hvers bónda sem ræðst af afhendingarrétt hans, þ.e. það magn sem félagið kaupir af bónda er í réttu hlutfalli við hversu mikið hann hefur fjárfest í félaginu • Félagið hefur rétt til að kaupa afurðir af öðrum ef bændur afhenda ekki umsamið magn afurða • Stofnfjárbréf bónda og um leið afhendingarrétt sinn hefur hann leyfi til að selja öðrum á markaðsverði. Stjórn félagsins verður þó að samþykkja söluna til að tryggja að áreiðanlegur aðili fái afhendingarréttinn. • Meðlimir samvinnufélagins fá árlega greiddar háar upphæðir í peningum (sama: 2). Hugmyndin um lokuð samvinnufélög og stofnfé sem líkist meira hlutafé í hlutafélögum en hefðbundnu stofnfé í samvinnufélögum féll í góðan jarðveg meðal bænda í Norður-Dakota. Það voru einkum yngri bændur sem gripu hana á lofti. Á átta árum frá 1990 til 1997 voru 67 ný samvinnufélög stofnuð í Norður-Dakota eða 8,4 á ári. Á öllu tímabilinu frá því fyrsta samvinnufélagið var skráð í fylkinu árið 1911 og fram til 1997 voru að meðaltali 5,5 samvinnufélög stofnuð á ári. Fjöldi nýstofnaðra félaga var því meiri en áður, en 1997 voru 474 samvinnufélög skráð í fylkinu. Stærð hinna nýstofnuðu samvinnufélaga var æði misjöfn og spannaði allt frá félögum með 15 meðlimi til félaga með meira en 2000 meðlimi. Sama gildir um upphæð fjárfestinga félaganna sem voru allt frá nokkur hundruð þúsund dollurum til 261 milljónar dollara sem samvinnufélagið Golden Growers fjárfesti í nýrri kornmyllu ásamt fyrirtækinu Pro-Gold. Það voru ekki einungis bændur sem stofnuðu samvinnufélög, heldur einnig lyfsalar sem vildu sameina innkaup á lyfjum frá

88 lyfjaframleiðendum og véla og raftækjaframleiðendur vildu stofna samvinnufélag og framleiða flugvélar (sama: 5). Algengast var að samvinnufélög væru stofnuð til að ná hagstæðari innkaupum á fóðri fyrir alinauta- og alisvínaræktendur, brauðgerðir, sölufélög grænmetisframleiðenda, sölufélög fiskeldisbænda, ostagerðir, pastaverksmiðjur, hveitiverksmiðjur, vinnslustöðvar fyrir vísindakjötsframleiðslu, alkóhólverksmiðjur, sýropsverksmiðjum o.fl. (sama: 6). En af hverju kviknaði þessi mikli áhugi á að stofna samvinnufélög meðal bænda? Margir ástæður liggja þarna að baki sem í stuttu máli má segja að séu félagslegs, stjórnmálalegs og efnahagslegs eðlis: i. Félagslegar ástæður. Af félagslegum ástæðum má nefna að samkvæmt rannsóknum er marktækur munur á þeim bændum sem fjárfesta í nýju kynslóðar samvinnufélögum og hinum sem ekki gera það. Þeir sem fjárfesta eru yngri, hafa styttri starfsreynslu í landbúnaði og eru menntaðri en hinir. Fjárfestarnir eru einnig tilbúnari en hinir til að taka áhættu, eiga stærri býli en hinir og verðmætara land. Fjárfestarnir hafa einnig aðra sjálfsímynd en hinir þar sem þeir líta frekar á framleiðslu sína sem hluta að matvælaiðnaði en hinir gera. Þessar rannsóknir voru gerðar á á bændum sem sóttu kynningarfundi í Norður-Dakota um nýju kynslóðar samvinnufélögin, en svör fengust frá 191 bónda sem tók þátt í að stofna slíkt félag á móti 127 sem ekki fjárfestu (D.W. Cobia 1997). Sem félagslega ástæðu má einnig nefna að sá hópur manna sem var drifkrafturinn á bak virkjun bændanna var samsettur af bændum og þróunarsérfræðingum á vegum fylkisins, sem höfðu mikla reynslu af félagsstörfum í landbúnaði og nutu traust og álits meðal bænda (W. Patrie 1997: 10). ii. Menningarlegar ástæður. Menningarlegar ástæður koma einnig við sögu. Samvinnumenning hefur löngum einkennt fylkin Minnesota og Norður-Dakoda. Innflytjendur frá Norður-Evrópu voru áberandi meðal innflytjenda í þessum fylkjum og þeir komu með þekkingu á samvinnurekstri með sér í farteskinu. Í þessum fylkjum hafði samvinnuhreyfingin ávallt verið mjög sterk og samvinnuandi ríkjandi (Centre for the Study of Co-operatives: Executive Summary). iii. Félagssálfræðilegarástæður. Loks má nefna þá miklu reiði sem blossaði upp meðal almennings í fylkinu eftir að tveir virtir prófessorar við Rutgers háskólann, Deborah og Frank Popper, birtu skýrslu árið 1987 þar sem þeir komust að þeirri niðurstöðu að nettó tap væri fyrir Bandaríkin að reka ríkisstyrktan landbúnað í norðurfylkjunum og

89 því bæri að leggja styrkjakerfið niður og breyta landsvæðunum í beitiland að nýju (sama). iv. Stjórnmálalegar ástæður: a) Þróun stoðkerfis. Ástæður fyrir auknum áhuga á samvinnufélagavæðingu voru ekki bara félagslegar og sálrænar. Aðgerðir stjórnvalda og opinberra aðila skiptu einnig miklu máli með tilliti til þróunar nauðsynlegs stoðkerfis atvinnustarfssemi í fylkinu. Norður-Dakota fylki eyddi fjórum árum í að þróa áætlun um atvinnuþróun í fylkinu og fylkisstjórnin lagði 1990 fram aðgerðaáætlun, þ.e. svokallaða “framtíðarsýn 2000” (Vision 2000). Til verksins fékk fylkisstjórnin m.a. David Birch, sérfræðing í smáfyrirtækjarekstri, við Tækniháskólann í Massachusetts (MIT). Rannsóknastofnun, Stanford Research Institute, var fengin til að taka viðtöl við framámenn í fylkinu og hún setti saman skýrslu um hvernig koma mætti á framförum í hagkerfi fylkisins. Fylkisstjórnin setti 1990 á fót “Landbúnaðarakademíu” sem skipulagði rannsóknarstarf og ráðstefnur sem höfðu að markmiði að greina efnahagslegar, skipulagslegar og lagalegar forsendur aukins hagvaxtar í fylkinu. Þetta starf lagði grunninn að nýjum lögum sem sett voru 1991, “Senate Bill No. 2058”, sem m.a. leiddi til þess að 22 milljónir dollara af hagnaði banka í eigu fylkisins (Bank of North Dakota) var eyrnamerktur efnahagsframförum í því. Löggjöfin gengur undir nafninu “Vöxtur í Norður-Dakoda” (“Growing North Dakoda”). Fjárfestingafélag í eigu fylkisins var stofnað og einnig vísinda- og tækniþróunarstofnun. Auk þess voru framlög til þróunarsjóða fylkisins aukin eins og North Dakoda Agricultural Products Utilization Commission (AgPUC) og Partnership in Assisting Community Expansion (PACE) (W. Patrie 1997: 7). Báðir sjóðirnir veita lán með vöxtum sem eiga að vera mun lægri en markaðsvextir eða allt niður að 1%. Skilyrði lánaveitinga er að lánin renni til fyrirtækja gegnum sveitarfélög eða lánastofnanir á þeirra vegum. AgPUC styrkir fyrirtæki í landbúnaði en PACE fyrirtæki í iðnaði og þjónustu. Síðar var annar sjóður stofnaður, MATCH, sem niðurgreiðir vexti til öflugra fyrirtækja sem hafa sýnt stöðugleika í rekstri yfir langt tímabil (Bank of North Dakoda 2002). b) Lánakerfi. Auk hins öfluga stoðkerfis sem Bank of North Dakoda stendur fyrir voru aðrir möguleikar einnig til sem tryggðu samvinnufélögum ódýr lán. Jafnvel áður en lögin voru sett á 1990 (“Vöxtur í Norður-Dakoda”), voru möguleikar á lánum á lágum vöxtum. Samvinnufélög á sviði símaþjónustu og raforkuframleiðslu höfðu áður fengið leyfi til að veita fyrirtækjum í dreifbýli vaxtalaus endurlán. Lán þessi voru afar vinsæl en hámarkslán var bundið við 400.000 dollara (W. Patrie 1997: 8). Loks má

90 nefna bankann St. Paul Bank for Cooperatives, sem um árabil veitti samvinnufélögum hagstæð lán. Bankinn rann saman við búnaðarbanka Bandaríkjanna, CoBank, 1999, en eignir CoBank nema um 22 milljörðum Bandaríkjadala (CoBank 2002). c) Skattalöggjöf. Með lögunum frá 1991 var sérstök stofnun sett á laggirnar, Agricultural Mediation Service, sem hafði að markmiði að veita bændum fjárhagslega aðstoð og rekstrarráðgjöf. Löggjöfin tryggði fyrirtækjum einnig undanþágu frá eignaskatti á nýjum byggingum og framleiðslutækjum í afurðaframleiðslu í landbúnaði fyrstu fimm ár eignanna (Centre for the Study of Co-operatives). Fleiri dæmi um aðgerðir á sviði skattalöggjafar má nefna sem styðja við bakið á bændum, en sumar þeirra beinast að því að efla samvinnurekstur. Árið 2001 samþykkti fylkisþing Norður-Dakota skattaafslátt til handa einstaklingum sem fjárfesta í afurðaframleiðslufyrirtækjum í landbúnaði sem eru rekin í samvinnurekstrarformi. Skattaafslátturinn nemur jafnvirði 30% af þeirri upphæð sem fjárfest er eða að hámarki 6000 dollara árlega (um 540 þúsund ísl. króna). Fjárfestar sem fjárfesta í slíkum fyrirtækjum eða fyrirtækjum með takmarkaða ábyrgð hafa rétt á skattaafslættinum aðeins ef um landbúnaðarafurðaframleiðslu er að ræða og bændur eiga meira en 50% stofnfjár í framleiðslufyrirtækinu (The New Rules Project 2002). Skattaívilnanir til handa samvinnufélögum eru ekki bundin við Norður- Dakoda fylki. Skattaleg sérmeðferð á samvinnufyrirtækjum er algeng í fylkjum Bandaríkjanna og einnig á sviði alríkisins. Árið 1998 samþykkti Bandaríkjaþing að fella niður skatt á sölutekjur þeirra sem selja hlut sinn í afurðavinnslustöðvum í landbúnaði. Skattaafslátturinn er bundinn annars vegar við að aðilarnir selji hlut sinn til samvinnufélags sem kaupir hráefni sín af meðlimum viðkomandi samvinnufélags og hins vegar að þeir fjárfesti jafnhárri upphæð í stofnfé eða hlutafé í fyrirtæki. Að sögn Landssambands samvinnufélaga bænda (National Council of Farmer Cooperatives) er markmiðið með löggjöfinni að efla sjálfshjálp bænda og hvetja þá til að ná stærri hlut í heildar verðmætasköpuninni í matvælaframleiðslu þar í landi (sama). Skattaívilnunum til handa samvinnufélögum er beitt í fleiri fylkjum Bandaríkjanna en Norður-Dakoda. Árið 1999 voru samþykkt lög í Iowa sem veita vinnslustöðvum í landbúnaði afslátt af tekjuskatti sem nemur 10% af nýjum fjárfestingum sem skapa ný störf í viðkomandi héraði. Samvinnufélög sem ekki greiða tekjuskatt til fylkisins fengu ekki þennan rétt. 2001 voru sett ný lög sem veita

91 samvinnufélögum sem framleiða etanól sambærilegan skattafslátt, þ.e. jafnvirði 10% af fjárfestingum þeirra í slíkri framleiðslu (sama). Fleiri dæmi má nefna. Árið 2001 voru samþykkt lög í Colorado sem lagði grunninn að Þróunarráði virðisaukningar í landbúnaði ( Value-Added Development Board) í Landbúnaðarráðuneyti fylkisins. Ráðið veitir styrki, lán og ábyrgðir og fjárfestir í fyrirtækjum. Það veitir einnig skattaafslátt til handa virðisaukandi samvinnufélögum í landbúnaði. Skattaafslátturinn er heimill meðlimum í slíkum samvinnufélögum og nemur allt að 50% af fjárfestingum viðkomandi meðlims eða frá 15000 dollurum til 1500000 dollurum á hvert fyrirtæki sem fjárfest er í. 4 milljónir dollara er varið til þessa á ári. 10% af upphæð skattaafslátta er eyrnamerkt fyrirtækjum sem hafa minna en eina milljón dollara í stofnfé. Önnur 10% af upphæðinni er ætlað til að veita til styrkja sem nema 50000 dollurum eða minna. Ef afgangur verður af heildarupphæð skattaafslátta skal honum varið til rannsókna á þróunarmöguleikum í landbúnaði, lána, styrkja og annars stuðnings við (sama). samvinnufélög og virðisaukandi starfsemi í landbúnaði í viðkomandi héraði (sama). Í Missouri voru sett lög síðla sumars 2002 sem eiga að hvetja til fjárfestinga í nýju kynslóðar samvinnufélögum. Lögin lögðu grunninn að Skattaafsláttaráætlun fyrir nýju kynslóðar samvinnufélög (The Missouri New Generation Cooperative Incentive Tax Credit Program). Skattaafslátturinn er sérstaklega veittur samvinnufélögum sem eiga eða þróa vinnslustöðvar sem framleiða landbúnaðarafurðir eða endurnýjanlega orkugjafa. Hann er aðeins ætlaður einstaklingum eða aðilum sem eru meðlimir í nýju kynslóðar samvinnufélögum. Afslátturinn getur numið allt að 50% af fjárfestingu meðlimsins eða 15000 dollara. Samkvæmt áætluninni geta bændur nýtt sér þennan rétt í allt að 8 ár og hafa einnig rétt til að yfirfæra hann og selja. Hámarksupphæð afsláttar er ein og hálf milljón dollarar á hvert fyrirtæki sem fjárfest er. Árið 2002 nemur heildaruppæð þessara skattaafslátta 3 milljónum dollara og 6 milljónum dollarar á ári frá 2003 til 2010 (sama). Ýmis samvinnufélög í landbúnaði hafa verið stofnuð til að framleiða endurnýjanlega orkugjafa. Dæmi um slíka orkugjafa er biodiesel, en það er jurtarolía sem framleidd er til brennslu í vélum í stað venjulegs dísels. Missourifylki samþykkti lög árið 2001 sem hvetja skólayfirvöld til að nota slíka olíu í skólarútur sínar. Átakið mun standa yfir frá 2002-2005. Fylkið greiðir muninn á kostaði vegna þess að biodiesel er notað í stað venjulegs dísels. Miðað er að lágmarksnotkun biodiesels sé 20% af orkunotkun skólarútanna (sama).

92 Samvinnufélög hafa verið stofnuð á fleiri sviðum endurnýjanlegrar orku. Framleiðsla á etanóli er styrkt í sumum fylkjum Bandaríkjanna af umhverfisverndar ástæðum. Framleiðsla á etanóli í smáum vinnslustöðvum í eigu bænda hefur aukist í Bandaríkjunum að tilstuðlan ríkisstjórnarinnar. Etanólið er unnið úr lífrænum hráefnum til nota sem orkugjafi í iðnaði og blöndunarefni í bensín. Seint á níunda áratugnum voru samþykkt lög í Minnesota sem lögðu grunninn að því að framleiðendum etanóls voru greidd 20 cent fyrir gallonið af alkahólinu og var í áratug greitt fyrir 15 milljónir gallona á ari hverju. Aðgerðirnar eru bundnar við smáfyrirtæki í fylkinu og hafa 12 samvinnufyrirtæki á þessu sviði verið stofnuð. Snemma árs 2000 gengu í gildi lög á Hawaii sem veita skattaafslátt vegna etanólframleiðslu þar. Sykurbændur not mólassa og annan afgang til framleiðslunnar. Framleiðendur sem framleiða milli 500000 gallon og ein milljón gallon af etanóli árlega fá 30% afslátt af tekjuskatti fyrirtækisins eða allt að 150000 dollurum. Afslátturinn eykst ef framleiðslumagnið er meira. Fyrirtæki sem framleiða meira en 15 milljón gallon á ári fá allt að 4,5 milljónir dollara. Ekki er veittur skattaafsláttur vegna fjárfestinga sem skapa framleiðslugetu sem er umfram 40000 gallon ári. Skattaafslátturinn er veittur fyrirtækjum í átta ár (sama). Wisconsin-fylki hefur svipað stefnu og Minnesota og hefur síðan á árinu 2000 greitt 20 sent fyrir gallonið eða allt að 15 milljónum gallona og er styrkurinn bundinn við að hráefnin séu upprunnin í hérað (sama)i. v. Efnahagslegar ástæður. Auk þeirra félagslegu og stjórnmálalegu forsendna fyrir “samvinnuæðinu” sem hér hafa verið taldar upp má nefna ýmsar efnahagslegar ástæður. Annars vegar verður að geta þess að í Norður-Dakoda eru ýmis ráðgjafafyrirtæki og lögmannsstofur sem hafa sérhæft sig í ráðgjöf við samvinnufélög. Þessi fyrirtæki hafa leikið lykilhlutverk í að meta sóknarfæri nýrra samvinnufyrirtækja og aðstoða þau við gerð viðskiptaáætlana. Kostir samvinnufyrirtækja eru almennt ekki þekktir meðal viðskiptafræðinga og ráðgjafa og þeir koma gjarnan í veg fyrir að viðskiptahugmyndir á grundvelli samvinnurekstrarformsins fái sanngjarna meðferð (W. Patrie: 5 og 7). Fleiri efnahagslega þætti má nefna sem ástæður þess að samvinnufélögum fjölgaði í landbúnaði í Bandaríkjunum á tíunda áratug síðustu aldar. Í fyrsta lagi var fjölgunin viðbrögð við langtíma iðnvæðingu landbúnaðarins. Iðnvæðingin fólst annars vegar í fækkun og stækkun bændabýla og hins vegar í lóðréttrum samruna í matvælaframleiðslugeiranum með samruna fyrirtækja og undirverktakaskipulagi.

93 Iðnvæðingin er talin muni leiða til meiri samkeppnishæfni á alþjóðamarkaði og að þörfum neytenda verði betur fullnægt um leið og dregur úr styrkjum hins opinbera. Jafnframt leiðir iðnvæðingin til þess að tækniþróun og nýsköpun í matvælaframleiðslu verður þróttmeiri (Centre for the Study of Co-operatives). Hagkerfi nútímans einkennast af meiri hreyfanleika en áður þar sem sérþörfum ólíkra neytendahópa og markaðskima er betur fullnægt (S. Lash og J. Urry 1994). Undirverktakakerfið hefur leitt til þess að bændur meðal annarra eru meðvitaðri en áður um að framleiðsla þeirra er hlekkur í langri keðju matvælaframleiðslunnar og að þeir eiga möguleika á að gera hlut sinn meiri í verðmætasköpuninni. Ein leiðin til þess er að stofna sjálfir samvinnufélög sem kaupa af þeim afurðir og framleiða sjálfir afurðir og selja á næsta stigi fyrir ofan í matvælaframleiðslukeðjunni. Þannig geta þeir fengið í eigin vasa tekjur sem áður runnu í vasa annarra milliliða. Í öðru lagi versnaði afkoma landbúnaðar í norður fylkjunum jafnt og þétt á áttunda og níunda áratugnum. Í Norður-Dakoda fækkaði fjölskyldubýlum bænda um 15% á 9. áratugnum. Fólksflótti í þéttbýli fór vaxandi og á níunda áratugnum fækkaði íbúðum í dreifbýli um 37000 manns á meðan íbúum í þéttbýli fjölgaði um 23000. Á sama tíma fækkaði íbúum fylkisins úr 652717 í 638800 (Centre for the Study of Co- operatives).

Línurit 1 Netto tekjur bændabýla í Norður-Dakoda að frádregnum opinberum styrkjum Milljónir dollara á verðlagi ársins 1990.

Heimild: Centre for the Study of Co-operatives

Áhugi fyrirtækja utan fylkisins á að fjárfesta í því hafði aldrei verið mikill og því óttuðust menn að ný atvinnutækifæri myndu ekki skapast í fylkinu. Eina leiðin til

94 að snúa þróuninni við töldu margir að væri að heimamenn myndu stofna samvinnufyrirtæki sjálfir og hefja framleiðslu. Sú varð og raunin. Í kjölfarið á þeirri miklu áherslu sem var í Bandarískum stjórnmálum á níunda og tíunda áratugnum á að draga úr viðskiptahindrunum og niðurgreiðslum í landbúnaði urðu bændur uggandi um sinn hag. Árið 1990 var gefin út opinber skýrsla á vegum fylkisstjórnar Norður-Dakoda sem sýndi fram á að um 30% af heildartekjum bænda væri tilkomnar vegna beinna styrkja frá hinu opinbera. Bændur fóru því að leita leiða til að draga úr hversu háðir þeir voru styrkjum. Samvinnufélagavæðingin var lausn sem margir vildu reyna (sama). Í þriðja lagi ber að hafa í huga að hlutur bænda í útsöluverði afurða hafði um langan tíma minnkað. Samkvæmt skýrslu frá Bandaríska landbúnaðarráðuneytinu, sem út kom 1998, minnkaði sá hluti í smásöluverði landbúnaðarvara sem bændur fá fyrir sínar afurðir úr 37% árið 1980 í 23% árið 1997. Rannsóknin byggði á vörukörfu með landbúnaðarvörum í stórmörkuðum. Við þetta er að bæta að á tíma bilinu 1977 til 1997 breyttist neyslumynstur almennings þannig að 1977 eyddu Bandaríkjamenn 38% af útgjöldum sínum í matvæli á matsölustöðum, en tuttugu árum síðar var talan komin í 46%. Rannsókn Landbúnaðarráðuneytisins sýndi að hlutur afurða bænda í útsöluverði á matsölustöðum var jafnvel minna en í stórverslunum, þ.e. 21%. Hlutur milliliða eins og vinnslustöðva, flutningsfyrirtækja, heildsala og smásala, hafði því aukist jafnt og þétt. Framleiðni hafði aukist í landbúnaði á löngu tímabili og offramboð á afurðum var vandamál. Á sama tíma jókst launakostnaður í vinnslustöðvum og dreifingu landbúnaðarvara. Niðurstaðan var að á sama tíma og verð afurða frá bændum lækkaði, hækkaði smásöluverðið. Með samvinnufélagavæðingunni vildu bændur rétta sinn hlut. Að lokum má nefna sem ástæðu fyrir því að nýju kynslóðar samvinnufélögin breiddust út var að til voru fordæmi sem sýndu að fýsilegt var að stofna slík félög. Fordæmið var sykurframleiðslufyrirtækið American Crystal Sugar Company, sem stofnað var 1899 og rak verksmiðjur í Kaliforníu, Nebraska, Minnesota og Norður- Dakoda. Rekstur fyrirtækisins gekk illa í byrjun áttunda áratugarins og lagði það niður margar framleiðslueiningar. 1300 bændur í Minnesota ákváðu að stofna samvinnufélag sem keypti fyrirtækið 1973 fyrir 86 milljónir dollara. Samvinnufélagið var stofnað að fyrirmynd samvinnufélaga í Kaliforníu. Bændur borguðu 100 dollara hver fyrir afhendingarréttinn á uppskeru einnar ekru lands. 20 árum síðar seldist afhendingarrétturinn á 2100 dollara.

95 Árangurinn af atvinnustefnunni í samvinnufélagavæðingunni í Norður-Dakoda var mikill. Árið 1997 var atvinnuleysi komið niður í 1,8%, atvinnusköpun í iðnaði fór vaxandi og meðaltekjur einstaklinga jukust jafnt og þétt (W. Patrie 1997: 7).

Svona eru nýju kynslóðar samvinnufélög stofnuð

Að lokum er ekki úr vegi að gera stuttlega grein fyrir hvernig menn hafa borið sig að við að stofna nýju kynslóðar samvinnufélög. Fyrsta skrefið felst í því að hópur manna kemur saman og skilgreinir sameiginlegt vandamál, t.d. að verð afurða þeirra hefur lækkað og eftirspurn hefur minnkað. Menn koma sér saman um grófa hugmynd um hvernig má leysa vandamálið, t.d. að vinna megi vöru fyrir tiltekinn markaðskima úr þeim afurðum sem þeir framleiða. Hópurinn leitar því næst til óháðs sérfræðings á sviði stofnunar og þróunar samvinnufélaga sem fær það hlutverk að gera úttekt á því hvort hugmyndin er raunhæf og í framhaldi af því að gera raunverulega viðskiptaáætlun. Annað skrefið, fjármögnunarskrefið, felst síðan í því að selja nægilega mikið af samvinnubréfum í félaginu, sem innihalda yfirlýsingu um afhendingarrétt viðkomandi hluthafa eða meðlims. Ef nægilegt stofnfé fæst eru miklar líkur á að nægilegt lánsfé fáist frá lánastofnunum til fyrirtækisins. Vinnslustöð eða verksmiðja er síðan byggð eða aðstaða keypt og framleiðsla hafin o.s.frv. (J. Birchall 1997: 203 og W. Patrie 1998).

96 5. Kafli

Íslensk samvinnuhreyfing á tímamótum

Inngangur

Í þessum kafla verður fjallað um sögu Íslenskrar samvinnuhreyfingar og stöðu hennar í dag. Í stórum dráttum má segja að samvinnufélögin þróist smám saman inn á skipulagshætti Fordismans, þ.e. fjöldaframleiðslu og fjöldaneyslu. Þessi þróun er sambærileg við það sem gerist á öðrum Vesturlöndum. Á síðustu árum hafa samvinnufélögin verið að feta sig inn á nýja braut þar sem smárekstur, hreyfanleiki og markaðskimar eru einkennandi. Þessi þróun er einnig svipuð því sem gerist í hagkerfum nágrannalandanna. Samvinnufélögin á Íslandi urðu snemma stórveldi í efnahagslegu tilliti. Kaupfélögin urðu öflug á sínum svæðum og Samband íslenskra samvinnufélaga varð gífurlega öflugt á landsvísu. Á tíunda tug síðustu aldar fór samvinnuhreyfingin í gegnum erfitt tímabil sem endaði með því að Sambandið var nánast lagt niður, en kaupfélögin tóku að laga sig að breyttum aðstæðum. Þrátt fyrir að Sambandið hafi sé ekki lengur sá burðarás sem það var áður eru kaupfélögin og fyrirtæki þeirra enn í dag öflug í íslensku atvinnulífi og grundvöllur byggðafestu víða um land. Í þessum kafla verður fjallað um sögu samvinnuhreyfingarinnar á Íslandi í grófum dráttum og lagt mat á stöðu hennar í dag.

Rætur samvinnuhreyfingarinnar á Íslandi.

Íslenskir bændur hafa löngum myndað samtök til að efla hag sinn og verjast áföllum. Sem dæmi má nefna að í þjóðveldislögum var hlutverk hreppa m.a. að bæta bændum tjón af völdum eldsvoða eða sóttar í búfé (Lýður Björnsson 1972: 38). Helsta hlutverk hreppa til forna var þó vafalaust að vera vettvangur samvinnu bænda um fjallskil, réttir og fátækraframfærslu (sama). Samstarf bænda var einnig skipulagt í Búnaðarfélögunum sem flest voru stofnuð á seinni helming 19. aldar. Þau höfðu umbætur í landbúnaði og öfluga menntun bænda að markmiði. Fyrsta búnaðarfélagið, Suðuramtsins húss- og bústjórnarfélag var stofnað 1837 og fyrsta

97 hreppabúnaðarfélagið sá dagsins ljós 1842, þ.e. í Bólstaðarhlíðar- og Svínavatnshreppum. Um svipað leyti og fyrstu Búnaðarfélögin sáu dagsins ljós tók einnig að bera á annars konar félagsskap bænda. Fyrstu verslunarfélögin voru stofnuð af bændum í Rangárvallasýslu 1830 og í Suður-Þingeyjarsýslu fjórtán árum síðar. Það var mánudaginn 4. nóvember 1844, rúmum mánuði áður en Rockdalefélagið var stofnað í Englandi, að “14 helstu og greindustu bændur í Hálshreppi” áttu fund með sér til þess að ræða um stofnun verslunarfélags í sveitinni. Litlu síðar var viðlíkur fundur haldinn í Ljósavatnshreppi (Arnór Sigurjónsson 1944: 13). Árið 1848 var Verzlunarfélagið í Reykjavíkurkaupstað stofnað, en öll þessi félög urðu skammlíf. Það var ekki fyrr en á sjöunda áratug 19. aldar sem öflug verslunarfélög voru stofnuð og verulega fór að kveða að verslun í höndum Íslendinga. Húnvetningar stofnuðu verslunarfélag um 1860 og Félagsverzlunina við Húnaflóa í október 1869. Í kjölfarið var Gránufélagið stofnað í júní 1870 af Eyfirðingum og Þingeyingum og Veltan var stofnuð um sama leyti í Reykjavík og nágrenni (Einar Laxnes 1974). Verslunarfélögun áttu á brattan að sækja þegar leið á áttunda áratuginn, m.a. vegna skuldasöfnunar bænda, skorts á varasjóðum, kólnandi veðurfars, skipstapa o.fl. Verslunin við Húnaflóa, sem skipt hafði verið upp í tvö verslunarfélög lagði upp laupana 1877 og 1878 og 1880 varð Gránufélagið að veðsetja verslun sína dönskum lánadrottni, F. Home (sama 85 og 116). Þrátt fyrir erfiðleika í byrjun urðu verslunarfélögin fyrirmynd að þeim verslunarfélögum sem stofnuð voru á níunda áratugnum og síðar og voru gjarnan nefnd kaupfélög.

Megin tímabilin í sögu íslenskrar samvinnuhreyfingar

Ekki verður hér fjallað ítarlega um sögu íslenskrar samvinnuhreyfingar. Þess í stað verður stiklað á stóru í megin tímabilum þessarar sögu. Til hægðarauka má greina sjö megin tímabil, þ.e. tímabil verðkröfufélaga 1830-1870, verslunarfélaga 1870- 1882, bernskuár kaupfélaganna 1882-1902, þroskaskeið samvinnufélaga 1902-1918, iðnvæðingarskeið samvinnufélaga 1919-45, blómaskeið samvinnufélaga 1946-1986, samdráttarrskeið samvinnufélaga 1986-2000 og nýsköpun samvinnufélaga 2000-x

98 i. Verðkröfufélögin 1830-70 Verslunarfélögin sem stofnuð voru um miðbik 19. aldar voru um margt ólík þeim kaupfélögum sem síðar þróuðust. Gunnar Karlsson (1977: I: 4), sagnfræðingur hefur nefnt þau ‘verðkröfufélög’ því starf þeirra fólst aðallega í því að bændur í sveit eða kirkjusókn tóku sig saman um að semja sameiginlega við kaupmenn um verð á vörum. Bændur gátu á þeim tíma valið að versla við fleiri en einn kaupmann og sums staðar voru fleiri en ein verslun í kaupstað eins og oft hagaði til t.d. á Akureyri. Þegar komið var fram á sjöunda áratuginn voru bændur farnir að átta sig á því að verðkröfufélögin bættu hag bænda lítið þegar fram í sótti, því kaupmenn hækkuðu verð á innfluttum vörum til samræmis við hækkunina á verði á afurðum bænda (Gunnar Karlsson 1977: II: 1). Menn tóku að leita nýrra leiða og horfðu til stofnunar stórhlutafélaga í því sambandi og má segja að hinu fyrsta tímabili verslunarsamtaka bænda, verðkröfufélagatímabilinu, hafi verið lokið. Við tók annað tímabilið þegar verslunarfélögin voru stofnuð um 1870 og minnst var á hér að ofan. ii. Verslunarfélögin 1870-1882 Tímabil verslunarfélaganna fólst í stofnun nýrra verslunar- og pöntunarfélaga sem settu svip sinn á verslun landsmanna á áttunda áratug nítjándu aldar. Hér er átt við félög eins og Félagsverslunina við Húnaflóa sem stofnuð var 1870 og hafði athafnasvæði sem teygði sig allt frá Skagafirði og suður í Mýrarsýslu og Borgarfjörð. Sunnanlands hófst verslunarfélagahreyfingin 1869 með pöntunarfélagi á Seltjarnarnesi, en upp úr því spruttu pöntunarsamtök sem Sigfús Eymundsson ljósmyndari og bóksali skipulagði og teygði það arma sína allt frá Reykjanesi og vestur í Dalasýslu. Í Reykjavík var einnig stofnað annað verslunarfélag sem verslaði í Veltunni í Veltusundi og var kallað Veltan. Þetta félag var hlutafélag og var stofnað 1873 (sama: 3). Gránufélagið náði mestri útbreiðslu og verslaði allt frá Skagafirði, austur um land og suður í Skaftafellssýslu. Verslunarfélagavæðingin virðist hafa náð mikilli útbreiðslu á skömmum tíma, en þó var mestur hluti Vestfjarða og Suðurland undanskilinn í þessari sögu (sama: 3). iii. Bernskuár kaupfélaganna 1882-1902 Um 1880 var þessum kafla í verslunarsögunni lokið og við tímabili verslunarfélaganna tók þriðja tímabilið, tímabil kaupfélaganna. Um 1880 varð mikill uppgangur í sauðasölu og má segja að hún hafi skapað jarðveg fyrir þau kaupfélög

99 sem stofnuð voru á árunum sem fylgdu. Lifandi sauðfé var flutt út til Bretlandseyja og fékkst greitt fyrir það í gulli og silfri. Sauðaskip á vegum Gránufélagsins hafði komið til Húsavíkur 1880, en á sýslunefndarfundi skömmu síðar töldu bændur sig geta tekið þessi mál í sínar hendur. Jakobi Hálfdánarsyni var falið að safna pöntunum og sauðfjárloforðum frá bændum og samdi hann við skoska sauðakaupmanninn Slimon um að taka þátt í viðskiptunum. Árið 1881 kom sauðaskip Slimons og tók fullfermi af sauðfé en skildi eftir mjölvöru og 32 þúsund krónur. Í kjölfarið var Kaupfélag Þingeyinga stofnað formlega á aðalstofnfundi 20 febrúar 1882 til að halda utan um þessi viðskipti (Gunnar Karlsson 1997: I: 8). Félagið var stofnað sem pöntunarfélag í hlutafélagsformi og greiddi hver félagsmaður aðeins 10 kr svo að sem flestir gætu tekið þátt, hversu fátækir svo sem þeir væru. Hver félagsmaður hafði rétt til að panta vörur fyrir allt að 200 kr og var félaginu skipt í deildir með 10-20 félagsmönnum í hverri, en fulltrúi veitti hverri deild forstöðu. Fulltrúarnir mynduðu fulltrúaráð sem hafði æðsta úrskurðarvald í félaginu og hafði það eitt atkvæðisrétt á aðalfundi sem halda skyldi í febrúar ár hvert. Aðrir félagsmenn máttu sækja aðalfund en höfðu ekki atkvæðisrétt. Á aðalfundinum var svo þriggja manna stjórn kosin (sama: 10-11). Það er athyglisvert að kaupfélagið er stofnað sem pöntunarfélag neytenda, en ekki sem útflutningsfyrirtæki framleiðenda, enda hvergi minnst á sölu eða útflutning í lögum þess. Þó er ljóst að forsenda umfangsmikilla viðskipta á þessum tíma var sauðasala (sama: 11). Pöntunarfélög höfðu áður verið stofnuð, m.a. Verzlunarfélagið í Reykjavíkurkaupstað sem stofnað var 1848, sem byggðu á jöfnum atkvæðisrétti félagsmanna og skiptingu ágóða í samræmi við umfang viðskipta félagsmanna í stað þess hversu mikið hlutfé þeirra var. Fallast má á niðurstöðu Gunnars Karlssonar (1977) að ef þessi tvo skipulagsatriði eru lögð til grundvallar skilgreiningar á samvinnurekstri var Kaupfélag Þingeyinga ekki fyrsta samvinnufélagið (sama: 16).

100 Það sem gerði þetta félag sérstakt var að ýmsir meðlimir þess voru meðvitaðir um að það gæti verið tæki til að umbreyta samfélaginu, en það hlutverk var ekki skrifað í lög þess. Rochdale félagið og alda þeirra félaga sem stofnuð voru í kjölfar þess höfðu í byrjun byggt á hugmyndafræði Robert Owens, en löngu áður en Kaupfélag Þingeyinga var stofnað var þetta hlutverk félaganna úr sögunni og sömu sögu er að segja af þeim dönsku samvinnufélögum sem líklega voru fyrirmynd Þingeyinga (sama: 12-14). Það er þó ljóst að ýmsir áhrifamenn félagsins voru sér meðvitaðir um þjóðfélagslegt hlutverk kaupfélaga eins og kemur fram í skrifum Benedikts á Auðnum frá 1889: “Ég er alltaf að sannfærast um að kaupfélögin eru hið rétta framtíðarform verslunarinnar. Þau eru demokratiskt verslunarform í stað hins aristóratíska auðmannsveldis. Það þarf ekki kapitalista eða kapitöl til að reka verslun (kaupskap). Kaupskapur, jafnt sem landsstjórn og iðnaðarmál, getur heyrt undir almenn félagsmál, já miklu fremur en hin hærri pólitík, enda er kaupskapur síðasti liður í allri atvinnu og snertir því alla, jafnvel meira en landsstjórnarmál. ... Misskilningur að kaupskapur þurfi að vera og eigi að vera atvinna einnar stéttar. Kaupskapur er réttur hvers einstaklings, svo dýrmætur að engri stétt er trúandi fyrir honum né heldur fyrir vörusöfnun og forðabúrum, það getur allt heyrt undir almenna félagsstjórn sem allir hafa atkvæði um, og verslun er eins og hvað annað enginn leyndardómur heldur félagslegt starf sem hver þroskaður maður getur skilið og tekið þátt í.” (Benedikt á Auðnum, bréf frá 1889. Tilvitnun í Gunnar Karsson 1977: II: 13).

Það má líklegt teljast að ekki hafi allir félagsmenn verið sömu skoðunar og Benedikt, en slíkar skoðanir voru mikilvægar eins og sést af greinum í blaði kaupfélagsmanna, Ófeigi, sem fór að koma út 1890 (sama: 14) og einnig í tímaritinu Rétti, sem kom út eftir aldamótin. Þetta sést einnig af bókakosti Héraðsbókasafns Þingeyinga á Húsavík um aldamótin, en safnið hafði að geyma mikið af bókum og tímaritum sem í dag myndu teljast heyra til ‘social anarkisma’, eða frjálslyndrar félagshyggju (Ívar Jónsson 2001 og 2002a: 35-6).

101 Árið 1895 héldu 9 fulltrúar frá 6 kaupfélögum fund í Reykjavík, en allir þessir fulltrúar voru þingmenn á Alþingi. Á fundinum var stofnaður félagsskapur sem kallaður hefur verið Samband íslenskra kaupfélaga. Í fyrstu grein sambandslaganna segir: “Tilgangur sambandsins er sá, að vinna að útbreiðslu og eflingu kaupfélagsskaparins hér á landi, að auka sem mest kunnugleika og traust hinna ýmsu kaupfélaga (pöntunarfélaga og verzlunarfélaga) sín á milli og koma á samvinnu milli félaganna í hinum ýmsu áhugamálum þeirra”. Megin hlutverk sambandsins var samkvæmt lögunum að annast fræðslu og kynningarstörf, kynna kaupfélögin fyrir þjóðinni og stuðla að útbreiðslu þeirra (Gísli Guðmundsson 1943: 10). Sambandið hóf að gefa út nýtt tímarit 1896, Tímarit kaupfélaganna og birti það margar greinar hugmyndafræðilegs eðlis og voru m.a. birtar greinar sem áður höfðu birst í Ófeigi. Tímaritið kom aðeins út í tvö ár og var þá sambandið úr sögunni 1897 (sama: 11). Kaupfélagshreyfingin sem af Kaupfélagi Þingeyinga spratt var því öðrum þræði þjóðfélagsumbótahreyfing þó svo hún hafi ekki verið það formlega. Með stofnun Framsóknarflokksins 1916 og nánum tengslum flokksins og kaupfélaganna varð þetta hlutverk félaganna enn skýrara. Straumhvörf urðu í sögu kaupfélaga þegar Kaupfélag Þingeyinga stofnaði söludeild og búð á hennar vegum 1890 (Gunnar Karlsson 1977: II: 9). Þá var orðið ljóst að kaupfélagið var ekki skammætt ævintýri eins og verslunar- og pöntunarfélögin höfðu áður verið heldur ein af grunnstoðum atvinnulífsins. iv. Þroskaskeið samvinnufélaga 1902-1918 Kaupfélögum fjölgaði jafnt og þétt á síðustu áratugum 19. aldar og svo fór að 1902 var Samband íslenskra samvinnufélaga (SÍS) stofnað til að samræma innkaup kaupfélaganna, ná hagstæðari samningum við heildsala og halda utan um útflutning kaupfélaganna. Til starfseminnar skuldbundu kaupfélögin sig til að greiða 2% af vöruumsetningunni (Gísli Guðmundsson 1943: 15). Það voru Kaupfélag Þingeyinga, Kaupfélag Norður-Þingeyinga og Kaupfélag Svalbarðseyrar sem stofnuðu Samband íslenskra samvinnufélaga á Yztafelli 20. febrúar 1902. Samvinnufélögum fjölgaði jafnt og þétt á næstu árum og áratugum og ný kaupfélög voru stofnuð. Hér verður ekki gerð grein fyrir þeirri miklu sögu, enda ekki rúm fyrir sögu einstakra félaga í þessari skýrslu. Fyrstu þrjú árin bættust engin kaupfélög í SÍS, en 1905 gekk Kaupfélag Eyjafjarðar í sambandið þá nýstofnað. Þetta var kaupfélag í útsveitum beggja vegna

102 Eyjafjarðar, en í innsveitum Eyjafjarðar starfaði Kaupfélag Eyfirðinga sem var eldra, en það hafði ekki gengið í Sambandið á þessum tíma. KEA gekk ekki í SÍS fyrr en 1908, en þá var Sambandið raunar nefnt Sambandskaupfélag Íslands (Árni Kristjánsson 1967: 14). KEA var stofnað 19. júní 1886 á Grund í Eyjafirði af nokkrum bændum í innsveitum fjarðarins. Í upphafi var það kallað Pöntunarfélag Eyfirðinga eða fram til 1887 þegar það var Kaupfélag Eyfirðinga og var svo allt til 1894. Frá þeim tíma og fram til 1906 er það aftur nefnt Pöntunarfélag Eyfirðinga, en upp frá því Kaupfélag Eyfirðinga (sama: 9-10).

Myndin er frá 1909. Hvíta húsið fyrir miðju er hús KEA í elsta formi þess (úr bókinni Kaupfélag Eyfirðinga Akureyri 80 ára)

Árið 1913 voru félögin í sambandinu orðin 9 og 15 voru þau að tölu 1918 . Milli áranna 1918 og 1919 fjölgaði félögunum um 9 og voru orðin 24 að tölu. Árið eftir gengu 8 félög til viðbótar í SÍS og sjö bættust í hópinn 1921 og voru þau þá orðin 39. Sambandsfélögum átti enn eftir að fjölga á næstu árum eins og sést á töflunni hér að neðan (sama: 13,19, 22, 24-5, 52, 54, 104-6).

103 Fjöldi aðildarfélaga í SÍS 1902-42

50 45 40 35 30 25 20 15 10 5 0 19 19 19 19 19 19 19 19 19 19 19 19 19 19 18 19 19 19 02 05 09 13 18 19 20 21 23 30 31 35 36 37 38 39 40 42 Fjöldi aðildarfélaga 3 4 8 9 1524323938383739404246474850 Heimild: Gísli Guðmundsson 1943: 13,19, 22, 24-5, 52, 54, 104-6

Þrátt fyrir að félögum í SÍS hafi fjölgað hægt fyrstu árin verður ekki það sama sagt um samvinnufélögin í heild. Árið 1909 voru talin vera 29 samvinnufélög í landinu, en í SÍS voru aðeins 9 félög árið 1913 (Gísli Guðmundsson 1943: 22). Árið 1927 voru 52 samvinnufélög í landinu, en þá voru 38 félög í SÍS (sama: 104). Fjölgunin sem verður milli áranna 1932 og 1939 má aðallega rekja til þess að 1937 var samábyrgðarákvæðið fellt niður úr samvinnulögunum (Gylfi Gröndal 1984: 41), en mörg félög vildu ekki bera ábyrgð á tapi Sambandsins sem gæti stafað af óráðsíu einstakra félaga innan þess. v. Iðnvæðingarskeið samvinnufélaga 1919-1945 Í kjölfarið á fjölgun samvinnufélaga og vexti SÍS urðu kaflaskil 1921 þegar sett voru sérstök lög um samvinnufélög. Árið 1896 voru sett lög á Alþingi sem leyfðu sveitarstjórnum að ákveða og leggja útsvar á kaupfélög og pöntunarfélög. Mikil óánægja var meðal samvinnumanna að bæjarstjórnir hefðu þannig vald yfir afkomu samvinnufélaga og samþykkti aðalfundur SÍS 1920 að skipa þriggja manna nefnd til að vinna að tillögum um lagabreytingar. Í nefndina voru kosnir þeir Ólafur Briem, Jónas Jónsson frá Hriflu og Þórólfur Sigurðsson. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að rétt væri að setja samvinnufélögum sérstök lög og var borið fram frumvarp þess efnis á Alþingi 1921 og “lög um samvinnufélög nr. 36, 27. júní 1921” voru þar samþykkt. Í lögunum er kveðið á um að innganga í samvinnufélög sé öllum frjáls og að hver félagsmaður hafi eitt atkvæði óháð umfangi eigna eða viðskipta í félaginu, en

104 tekjuafgangi er skipt í samræmi við viðskiptamagn þeirra. Hluta tekjuafgangs skal samkvæmt lögunum leggja í stofnsjóð sem er séreign félagsmanns eða 3% af verði aðkeyptra vara sem félagsmaður kaupir og í sameignarsjóð leggst a.m.k 1% af viðskiptaveltu. Sameignarsjóðum má ekki skipta við félagsslit, og eru þeir geymdir þar til annað samvinnufélag er stofnað á sama stað. Auk ofangreindra sjóðframlaga er samvinnufélögum skylt samkvæmt lögunum að leggja í varasjóð óskiptar tekjur félagsins auk alls arðs af viðskiptum utanfélagsmanna. Loks er í lögunum kveðið á um samábyrgð í þeim samvinnufélögum, sem hafa með höndum vörukaup fyrir félagsmenn (sama: 97). Samkvæmt lögunum frá 1921 greiddu samvinnufélög þaðan í frá skatt af lóðum og fasteignum eins og lög kveða almennt á um. Félögin greiða útsvar af arði af viðskiptum við utanfélagsmenn á sama hátt og kaupmenn á viðkomandi stað. Loks er félögunum gert að greiða allt að 2% í skatt af fasteignamatsverði þeirra sem félögin nota til sinnar starfssemi, þó ekki líknar- eða fræðslustarfssemi. Viðskiptin við félagsmenn eru þannig undanþegin útsvari, en í staðinn greiða félögin húsaskatt samkvæmt lögunum. Samvinnulögunum var breytt nokkuð 1937 og var þá skilyrðið um samábyrgð afnumið, en ábyrgð var upp frá því takmörkuð við stofnsjóð og 300 króna lágmarks ábyrgð (sama: 97-8). Jafnframt var afnumin skylda félagsmanna til að leggja 3% í stofnsjóð, en þess í stað var gert óheimilt að greiða félagsmönnum tekjuafgang fyrr en búið var að afskrifa eignir félagsins nægilega, leggja í sameignarsjóði og 3% í stofnsjóð. Árið 1938 var samvinnulögunum breytt þannig að fulltrúatala var bundin við heildarvöruskipti deilda við viðkomandi félag, en innan deilda gilti áfram reglan um að hver maður hafi eitt atkvæði (sama: 98). Með lögunum frá 1921 má segja að verði kaflaskipti þar sem samvinnufélögin eru nú viðurkennd sem sérstakt viðtekið rekstrarform að lögum og um leið mikilvæg stoð í samfélaginu. Hefst nú iðnvæðingarskeið íslenskra samvinnufélaga. Eins og kom fram í súluritinu hér að ofan yfir fjölda aðildarfélaga í SÍS 1902- 42, fjölgaði aðildarfélögum verulega eftir fyrri heimsstyrjöldina, en ef litið er til starfsmannafjölda er aukning umsvifa mun greinilegri. Vendipunkturinn er á tímabilinu 1930 til 1935 þegar starfsmönnum fjölgar úr 31 í 250 og þeir eru orðnir 438 árið 1940.

105 Fjöldi starfsmanna SÍS 1915-1940

500

400

300

200

100

0 1915 1920 1925 1930 1935 1940

Fjöldi starfsmanna 3232131250438

Heimild: Hagstofa Íslands Hagskinna.

Ástæður þessa gætu verið ýmsar. Öflug samvinnufélög gætu hafa gengið í SÍS á þessum tímabili, en svo er ekki ef marka má upptalningu Gísla Guðmundssonar (1943: 105-6). Önnur ástæða gæti verið fjölgun samvinnufélaga utan SÍS og að viðskipti við þau hefðu aukist. Svo virðist ekki vera því vörusala til annarra samvinnufélaga nam um 488 þúsund krónur 1930 og hún var svipuð árin á eftir eða til 1937 þegar þessi velta nam 705 þúsund krónum. Þessi vörusala féll niður í 153 þúsund árið eftir (Gísli Guðmundsson 1943:188). Fjölgun starfsmanna má eflaust rekja til aukningar sölu til félagsdeilda SÍS. Árið 1930 var sala til félagsdeilda 6276 þúsund krónur en 1940 var hún komin í 15449 þúsund kr og 23204 þúsund kr 1941. Aukningin í sölu til eigin þarfa var ekki eins mikil. 1930 var hún 43 þúsund kr., 1935 208 þúsund kr. og 1940 1044 þúsund krónur. Ári seinna var sala vegna eigin þarfa komin í 1705 þúsund kr. (sama: 188). Velta félagsdeilda jókst mikið eftir 1920 og endurspeglar fjárfestingar samvinnufélaganna í nýjum atvinnugreinum tengdum landbúnaði. Við skulum skoða nánar vöxt félagsdeilda SÍS fram til 1941.

106 Vörusala SÍS 1915-41 Milljónir nýkróna á verðlagi 2001 miðað við vísitölu neysluverðs án húsnæðis

3500

3000

2500

2000 Sala félagsdeilda Sala alls 1500 Eigin framleiðsla 1000

500

0 18 21 24 27 30 33 36 39 1915

Heimild: Gísli Guðmundsson 1943: 188. Á þessu tímabili voru deildir SÍS tvær, þ.e. Útflutningsdeild og Innflutningsdeild. Auk vaxandi umsvifa þessara deilda hóf SÍS að byggja upp iðnfyrirtæki í tengslum við landbúnaðinn. Iðnaðarsaga samvinnufélaganna hefst 1919 þegar Sambandið beitir sér fyrir garnaframleiðslu. Sambandinu hafði tekist að fá amerískt fyrirtæki til að senda hingað til lands tæki til garnahreinsunar og hafði maður að nafni Curry með höndum að hreinsa garnir fyrir ameríska fyrirtækið. Tveim árum síðar, þ.e. 1921, keypti SÍS tækin. Sambandið rak þó ekki garnahreinsunarstöðina heldur leigði það stöðina þýsku fyrirtæki sem keypti garnir af Sambandinu (sama: 166). Sambandið hafði fleiri járn í eldinum á þessum árum (sjá töflu hér að neðan um iðnarstarfsemi SÍS). Í desember 1923 stofnaði SÍS skinnaverksmiðju sem til að byrja með var rekin í sláturhúsi Kaupfélags Eyfirðinga. Sambandið sendi Þorstein Davíðsson til Bandaríkjanna 1921 til að læra gærurotun í skinnaverksmiðju Gærurotunarstöð SÍS á Akureyri nýbyggð 1929 (úr bókinni Kaupfélag Eyfirðinga Akureyri 80 ára) fyrirtækis sem SÍS átti í viðskiptum við. Þegar Þorsteinn kom til baka 1923 voru pantaðar vélar til að afulla gærur. Sumarið á eftir var svo byggt verksmiðjuhús á Akureyri. Engin framleiðsla var í verksmiðjunni 1927-9 því þá var hagkvæmast að selja gærur til loðsútunar. Þorsteinn

107 var þá sendur öðru sinni erlendis, en í þetta sinn til að kynna sér betur gæruverkun og meðferð skinna. Hann fór til Bandaríkjanna, Noregs og Þýskalands (sama: 168). Árið 1930 var stigið stórt skref í iðnaðarsögu samvinnuhreyfingarinnar þegar SÍS keypti ullarverksmiðjuna Gefjun, sem rekin var á bökkum Glerár á Akureyri og fylgdi verksmiðjustjórinn Jónas Þór kaupunum. Stór hluti framleiðslunnar var lopi. Síðar var dúkaframleiðsla aukin verulega og til þess keyptar vélar 1935-6. Í tengslum við ullarframleiðsluna voru 1931 stofnsettar saumastofur á Akureyri og í Reykjavík og í Vestmannaeyjum 1938. Um það leyti störfuðu 70-80 manns í verkstæðunum og var aðallega framleiddur alfatnaður karlmanna, en einnig einstakar flíkur, kvenkápur, skinnflíkur og skinnhúfur o.fl. (sama: 173). Árið 1932 var komið upp reykingarklefa í garnastöðinni og lét Sambandið upp frá því og um áratuga skeið reykja kjöt á hverju ári. Sama ár urðu nokkur kaflaskipti í iðnaðarsögu Sambandsins þegar Kaffibætisverksmiðjan Freyja og Sápuverksmiðjan Sjöfn voru stofnaðar á Akureyri (sama: 174). Verksmiðjur þessar voru stofnaðar í félagi af SÍS og KEA, en það sem var hér nýtt á ferðinni miðað við iðnað Sambandsins fram til þessa var að hráefnin voru innflutt. Kaffi- og sápuframleiðsla er enn stunduð af samvinnufyrirtækjum.

Iðnaðarstarfssemi SÍS á þriðja og fjórða áratugnum Stofnár Tegund iðnaðar 1921 Garnahreinsun í Reykjavík 1923 Skinnaverksmiðja á Akureyri 1930 Ullarverksmiðjan Gefjun á Akureyri 1931 Saumastofur Sambandsins á Akureyri og í Reykjavík 1932 Reykhús í húsi garnahreinsunarinnar í Reykjavík Kaffibætisverksmiðjan Freyja (SÍS í félagi við KEA) á Akureyri Sápuverksmiðjan Sjöfn (SÍS í félagi við KEA) á Akureyri 1935-6 Dúkagerð Gefjunar aukin verulega með nýjum vélum á Akureyri 1936 Skógerð og hanskagerð á Akureyri 1938 Saumastofa í Vestmannaeyjum

108 Þegar litið er til þeirra uppbyggingar á iðnaði sem Sambandið stóð fyrir og hér hefur stuttlega verið rakin, má segja að Sambandið sé hér að tileinka sér og færa sig inn á svið fjöldaframleiðslu. Færibanda- og fjöldaframleiðsla hafði náð fótfestu í Bandaríkjunum á þessum tíma, en í Evrópu stóð styr um þessa framleiðslutækni og voru það einkum iðnaðarmenn sem beittu sér gegn innleiðingu hennar í Evrópu. Það er athyglisvert að samvinnumenn leita fyrirmynda fremur í Bandaríkjunum en í Evrópu á þessum tíma. Fjöldaframleiðsla er önnur stoð þeirra framleiðslukerfa sem kölluð hafa verið ‘Fordismi’, en hin stoð Fordismans er fjöldaneysla (Ívar Jónsosn 1989). Eins og greint verður frá hér að neðan, var samvinnuhreyfingin fljót til að tileinka sér viðskipti tengd fjöldaneyslu á fjöldaframleiddum vörum og tók sú þróun stökk fljótlega eftir lok Seinni heimstyrjaldarinnar. Hér er einkum átt við innflutning á varanlegum neysluvörum. Það var ekki aðeins iðnaður samvinnumanna sem óx hröðum skrefum á millistríðsárunum. Umsvif Innflutningsdeildarinnar og Útflutningsdeildarinnar jukust einnig jafnt og þétt. Eins og komið hefur fram hér að ofan skipti sauðasalan á síðustu áratugum 19. aldar sköpum í sögu kaupfélaganna. Kjötsala ásamt annarri afurðasölu átti eftir aukast mikið allt fram á fjórða áratuginn, en heimskreppan setti strik í reikninginn. Eins og sést á myndinni hér að neðan dróg verulega úr saltkjötsútflutningi eftir 1932, en það ár settu Norðmenn toll á innflutt saltkjöt. Stóraukinn freðkjötsútflutningur kom til móts við samdráttinn í saltkjötsútflutningnum og var hann einkum til Bretlands, en einnig Danmerkur og Svíþjóðar (sama: 147).

Kjötútfutningur SÍS 1919-41

180000 160000 140000 120000 Útflutt freðkjöt, fjöldi skrokka 100000 Lifandi sauðfé 80000 Stórh. saltkjöt, tonn 60000 40000 20000 0 1919 1921 1923 1925 1927 1929 1931 1933 1935 1937 1939 1941

Heimild: Gísli Guðmundsson 1943: 190-191.

109 Samfara hinni miklu aukningu í útflutningi á freðnu kjöti átti sér stað mikil uppbygging frystihúsa á vegum samvinnuhreyfingarinnar. Kaupfélag Vestur- Húnvetninga byggði frystihús árið 1926 og í kjölfarið komu Kaupfélag Eyfirðinga og Héraðsbúa á Reyðarfirði 1927. Ári síðar komu Kaupfélag Norður-Þingeyinga á Kópaskeri og Kaupfélag Húnvetninga á Blönduósi sér einnig upp frystihúsum. Kaupfélag Skagfirðinga og Sláturfélag Skagfirðinga komu sér síðan upp frystihúsum 1929. Voru nú frystihúsin orðin sjö en 1942 hafði frystihúsum Sambandsfélaga fjölgað um 19 og voru þá 26. Auk þeirra frystihúsa sem talin voru hér að ofan, voru árið 1942 frystihús Sambandsfélaga á Hólmavík, Skagaströnd, Hofsósi, Húsavík, Þórshöfn, Vopnafirði, Svalbarðseyri, Borgarnesi, Dalvík, Hríseyri, Ólafsfirði, Fáskrúðsfirði, Patreksfirði, Stykkishólmi, Raufarhöfn, Þingeyri, Vík, Arnarhvoli og Sigtúnum (sama: 151). Þegar litið er til hinnar hröðu uppbyggingar frystihúsa á þriðja og fjórða áratugnum ber að hafa í huga að samvinnufélögin frystu ekki aðeins kjöt, heldur gerðu þau sig æ meira gildandi á sviði fiskframleiðslu og útflutningi á fiski. Þegar hér var komið sögu má segja að samvinnuhreyfingin hafi fest rætur í öllum þremur grundvallar atvinnugreinum íslensks atvinulífs, þ.e. landbúnaði, iðnaði og sjávarútvegi. Þessi þróun sést vel í línuritunum hér að neðan sem sýna sölu SÍS á freðnum og ísuðum fiski, skreið, saltfiski og saltsíld.

Freðfisk- og skeiðarsala SÍS 1931-41

1800 1600 1400 1200 Frystur og ísaður 1000 fiskur, tonn 800 Skreið, tonn 600 400 200 0 1931 1932 1933 1934 1935 1936 1937 1938 1939 1940 1941

Heimild: Gísli Guðmundsson 1943: 190-191.

Saltfisk- og saltsíldarsala SÍS 1919-41

110 Pk 140000 14000 Tonn

120000 12000

100000 10000

80000 8000 Saltfiskur, pk Saltsíld, tonn 60000 6000

40000 4000

20000 2000

0 0 1919 1921 1923 1925 1927 1929 1931 1933 1935 1937 1939 1941

Heimild: Gísli Guðmundsson 1943: 190-191.

Fisksala Sambandsins var æði sveiflukennd eins og línuritin bera með sér. Í upphafi fóru sambandsfélögin að selja gegnum SÍS vegna þess að áður höfðu þau selt fiskinn til einstakra fiskkaupmanna við lágu verði. Sambandinu tókst að fá betri verð í skjóli mikils sölumagns af fiski sem það fékk frá sambandsfélögunum. Hagur sambandsfélaganna batnaði með þessum hætti. Sambandið seldi þó fiskinn gegnum umboðssölu, fyrst 1930 í gegnum Kveldúlf hf og SÍF 1932, en SÍS gekk í SÍF við stofnun þess sama ár (sama: 160). Þegar sú þróun samvinnufélaganna sem hér hefur stuttlega verið rakin er skoðuð, verða menn að hafa í huga að ákveðnar stjórnmálalegar forsendur voru til staðar sem tryggðu að nauðsynlegt stoðkerfi var skapað af hálfu hins opinbera. Ríkisstjórn Framsóknarflokksins 1927-32, sem var minnihlutastjórn með stuðningi Alþýðuflokksins, stóð fyrir gífurlegum framkvæmdum í hafnargerð, byggingu vita og kaupum á strandferðaskipum (Ívar Jónsson 2002: 22-24). Svipaða sögu er að segja af ríkisstjórn Framsóknarflokks og Alþýðuflokks 1934-8 sem stóð fyrir mikilli uppbyggingu á hraðfrystingu fiskjar undir umsjá Fiskimálanefndar, en ýmis sambandsfélög komu sér upp aðstöðu til hraðfrystingar á þessum árum eins og nefnt var hér að ofan (Gísli Guðmundsson 1943: 161-2). Auk þeirrar sölustarfssemi SÍS sem getið hefur verið hér að ofan, stóðu sambandsfélögin fyrir margháttaðri framleiðslu sem seld var í gegnum Sambandið. Þessi framleiðsla og sala var þó í smáum stíl. Má í þessu sambandi nefna ýmis konar skinn eins og refskinn og selskinn, æðardún, rjúpur, prjónles, tólg, lýsi, hrogn o.fl. Einnig flutti Sambandið út ost til Þýskalands um tíma (sama: 162).

111 vi. Blómaskeið samvinnufélaga 1946-85 Eftir Seinni heimstyrjöldina fjölgaði aðildarfélögum SÍS enn og urðu þau flest 57 að tölu 1960 eins og kemur fram í töflunni hér að neðan. Fyrirtæki samvinnuhreyfingarinnar hösluðu sér völl á nýjum sviðum atvinnulífsins eftir stríð og voru aukin umsvif í þjónustu áberandi. Vöxtur SÍS endurspeglar vöxt samvinnuhreyfingarinnar, en þróun umsvifa SÍS má í grófum dráttum lesa úr töflunum hér að neðan.

Fjöldi aðildarfélaga SÍS 1955-1990 1955 56 1960 57 1965 56 1970 47 1975 44 1980 45 1990 26 Heimild: Heimild: Hagstofa Íslands, Tölfræðihandbók 1984 og Hagskinna

Velta SÍS 1965-1990 Í milljónum króna. Verðlag 2001. Vísitala neysluverðs án húsnæðis Heildarvelta Velta per starfsmann 1965 23500 17,3 1970 26520 22,2 1975 34611 22,5 1980 43915 24,1 1985 43199 24,0 1990 34086 36,6 Heimild: Hagstofa Íslands Hagskinna. Sú mikla veltuaukning per starfsmann sem átti sér stað um 1990 stafar af mikilli tekjuaukningu vegna sölu á deildum Sambandsins um þetta leiti. Um þann kafla í sögu Sambandsins verður nánar fjallað síðar í þessum kafla. Fjöldi starfsmanna SÍS 1915-1990

Fjöldi starfsmanna Sambands íslenskra samvinnufélaga

2000 1800 1600 1400 1200 1000 800 600 400 200 0 1915 1920 1925 1930 1935 1940 1945 1950 1955 1960 1965 1970 1975 1980 1985 1990

Heimild: Hagstofa Íslands Hagskinna.

112 Eins og áður sagði hóf samvinnuhreyfingin sókn á nýjum sviðum atvinnulífsins eftir Seinni heimstyrjöldina. Þannig var á árinu 1946 hafinn rekstur á þremur nýjum sviðum, þ.e. skiparekstur, olíuviðskipti og tryggingar. Til að koma á rekstri á nýjum sviðum voru ýmis samstarfsfyrirtæki Sambandsins stofnuð eins og Samvinnutryggingar, Olíufélagið, Samvinnubankinn, Osta- og Smjörsalan, Samvinnuferðir og Iceland Seafood Corporation. Hér á eftir verður stuttlega gerð grein fyrir þessari þróun íslensks samvinnurekstrar. Skipadeild Sambandsins var stofnuð þetta ár og fékk afhent fyrsta skip sitt, Skaftafell, á Ítalíu 12. ágúst 1946, en heimahöfn þess var Akureyri. Annað skip Sambandsins var Arnarfell sem afhent var í Svíþjóð 1949, en það átti heimahöfn á Húsavík (Samvinnan 1982: 42-3). Auk eigin skipa hafði Skipadeildin á leigu um 30 leiguskip á þessum tíma, en eigin skipum hennar átti eftir að fjölga á næstu árum. 1951 var kæliskipið Jökulfell keypt frá Svíþjóð, en heimahöfn ess var á Reyðarfirði (Samvinnan 1952: 73). Árið 1952 varð skipadeildin sjálfstæð deild innan SÍS (Samvinnan 1962: 39). 1953 var Dísarfell keypt til viðbótar (sama: 39) og ári síðar keypti Sambandið Helgafell og Litlafell (sama: 42) í samlagi við Olíufélagið hf. Tveim árum síðar, 1956, var olíuflutningaskipið Hamrafell keypt í félagi við Olíufélagið hf, en SÍS og Olíufélagið áttu skipið til helminga. Skipið kostaði 48,2 milljónir kr. og var 16700 smálestir. Þetta var langsamlega stærsta skip sem Íslendingar höfðu eignast fram til þess tíma (Samvinnan 1962: 49). Skipadeildin átti enn eftir að eflast næstu áratugi, eða þar til hún var tekin yfir af Samskipum 1991. Meðal skipa sem Skipadeildin eignaðist á sjöunda og áttunda áratugnum má nefna Mælifellið sem kom í stað Hvassafells 1964 (Samvinnan 1977: 41). Árið 1971 bættust Litlafell, Skaftafell og Hvassafell í flotann (sama: 45). 1973 var Dísarfellið nýja keypt í stað Arnarfells og nýtt Jökulfell kom í stað hins eldra (sama: 45), en Hamrafellið hafði verið selt 1966 (sama: 42). Olíufélagið hf var stofnað 1946, en það var aðeins að hluta til í eigu samvinnumanna (Samvinnan 1962: 36). Upphaflegt hlutafé Olíufélagsins hf. var

113 850.000 krónur. Þar af átti Samband íslenskra samvinnufélaga stærstan hlut, 240.000 krónur, Kaupfélag Eyfirðinga, Akureyri, 195.000 krónur og Skúli Thorarensen 100.000 krónur (Olíufélagið ehf. 2002). Í janúar 1947 keypti Olíufélagið öll hlutabréf Hins íslenska steinolíufélags af danska fyrirtækinu D.D.P.A. og greiddi fyrir þau tvær milljónir króna. Tók félagið strax við rekstri H.Í.S., sem þó var rekið sem sjálfstætt fyrirtæki til 1963. Skammt var stórra högga á milli og í apríl 1947 keypti Olíufélagið hf. Olíustöðina í Hvalfirði af Nefnd setuliðsviðskipta fyrir eina milljón og þrjúhundruð þúsund krónur. Að auki keypti félagið ýmsar eignir í Hvalfirði á móti Hval hf., en tæpum mánuði áður hafði félagið gert samning um olíusölu við 21 togarafélag. Sá samningur var félaginu mjög mikilvægur og tryggði því, þegar í upphafi, umtalsverðan hluta af markaðinum fyrir brennsluolíur. Olíufélagið var nú komið með sterka markaðsstöðu strax á öðru starfsári sínu. SÍS átti hlut í félaginu þar til 1992 að það seldi hlut sinn Olíufélaginu hf. Á árinu 2000 voru rekstrartekjur félagsins rúmir 14,6 milljarðar kr. Nafni Olíufélagsins var breytt á árinu 2002 og heitir það nú Ker hf. (Olíufélagið ehf. 2002). Fljótlega eftir Seinni heimsstyrjöldina haslaði samvinnuhreyfingin sér völl á sviði trygginga- og bankarekstarar, en hún hafði ekki áður beitt sér á þessum sviðum. Eignir samvinnufyrirtækja voru orðnar miklar og fjöldi samvinnumanna sem tryggja þurfti eigur sínar var einnig orðinn mikill. Árið 1946 voru Samvinnutryggingar stofnaðar (Samvinnan 1952: 34) og 1948 var Íslandsdeild líftryggingarfélagsins Andvaka keypt og sett undir stjórn Samvinnutrygginga (Samvinnan 1952: 35). 1950 hóf svo Líftryggingafélagið Andvaka starfsemi sína sem alíslenskt félag undir stjórn samvinnumanna (Samvinnutryggingar 1986). Árið 1989 urðu kaflaskipti í sögu Samvinnutrygginga þegar Vátryggingafélag Íslands hf. VÍS, var formlega stofnað 5. febrúar það ár. Að stofnun þess stóðu Samvinnutryggingar ásamt Brunabótafélagi Íslands, sem stofnað var 1917. VÍS keypti öll hlutabréf sænska tryggingafélagsins Skandía í Vátryggingarfélaginu Skandía hf. á árinu 1996 og Fjárfestingarfélaginu Skandía hf. Rekstur og efnahagur Vátryggingarfélagsins Skandía hf. var yfirtekinn frá og með 1. október 1996 og var nafni Fjárfestingarfélagsins Skandía hf. breytt í Fjárvangur hf. Fjárvangur hf starfaði áfram sem sjálfstætt fyrirtæki í óbreyttu formi til ársins 2000 þegar það var sameinað Samvinnusjóðnum við stofnun Frjálsa fjárfestingarbankans. Í lok árs 2000 seldi VÍS öll hlutabréf sín í bankanum.

114 Á árinu 1997 samdi Landsbanki Íslands við Eignarhaldsfélag Brunabótafélags Íslands hf. um kaup og kauprétt á eignarhluta þess í Vátryggingafélagi Íslands hf., samtals 44% eignarhlut (VÍS 2003). Í september 2002 voru hluthafar í félaginu Samvinnutryggingar gt (25.8%), Eignarhaldsfélagið Hesteyri ehf (25.0%), Landsbanki Íslands hf, aðalstöðvar (14.03%), Líftryggingafélag Íslands hf. (11.60%), Samvinnulífeyrissjóðurinn (9.145%), Eignarhaldsfélagið Andvaka gf (5.314%) og Ker hf. (4.455%) (Lánstraust 2003). VÍS er í dag annað stærsta tryggingafélagið á markaðnum (VÍS 2003). Velta fyrirtækisins á árinu 2001 samkvæmt ársreikningi var rúmir 9,2 milljarðar króna. 1963 var loks Samvinnubanki Íslands stofnaður upp úr Samvinnusparisjóðunum (Samvinnan 1977: 41). Samvinnubankinn rak fjölmörg útibú víða um land og var samvinnufyrirtækjum mikilvægur á tímum þegar aðgengi að fjármagni var erfiðleikum bundið og ríkisbankarnir stýrðust ekki síður af stjórnmálalegum hagsmunum en viðskiptahagsmunum. Á níunda áratugnum urðu samvinnufyrirtæki mjög skuldsett eins og reyndar einkafyrirtæki einnig. Raunvextir urðu jákvæðir á þessum árum og kaupfélögin og fleiri samvinnufyrritæki skulduðu SÍS miklar fjárfúlgur auk þess sem Sambandið gekkst í ábyrgðir fyrir félögin. Sambandið varð sjálft einnig mjög skuldsett og hóf að selja mikið af eignum sínum í byrjun tíunda áratugarins til að bæta skuldastöðuna og koma til móts við kröfur Landsbankans um skuldauppgjör. Um þetta verður fjallað síðar í þessum kafla. 1990 samþykkti stjórn SÍS að selja Landsbankanum Samvinnubankann og fleiri fyrirtæki. Sambandið skuldaði Samvinnubankanum mikið fé á þessum tíma, en 1989 voru skuldir þess við bankann taldar nema um 1,6 milljarð króna og skuld KEA var þá talin um 1,4 milljarða (Mbl. 17.09.1989)1. Að margra mati leiddi þessi sala til þess að Landsbankinn fékk afar góða vígstöðu gagnvart Sambandinu því Samvinnubankinn átti umtalsverð veð í eignum SIS sem Landsbankinn gerði kröfur til í framhaldinu. Það var á aðalfundi Samvinnubankans 27 apríl sem samþykkt var tillaga um að selja bankann Landsbankanum (Mbl. 28.04.1990). Á næstu árum voru útibú Samvinnubankans seld eða lögð niður og bankinn rann inn í Landsbankann á endanum.

1 Morgunblaðið verður framvegis skammstafað Mbl.

115 Vöxtur samvinnufélaga var ekki síður félagslegur en efnahagslegur. Fjöldi meðlima í samvinnufélögum jókst verulega á fjórða og fimmta áratugnum og var orðinn yfir 50 þúsund á sjötta áratugnum, eins og sést á myndinni hér að neðan. Fjöldi meðlima sem hlutfall af mannfjölda á Íslandi var nokkuð stöðugur á áratugunum eftir 1960, eða gróft sagt milli 15 og 20 prósent. Mestu munaði um fjölgun félaga í kaupfélögunum. Fjölgun félaga má ugglaust að hluta til rekja til þess að Sambandið og kaupfélögin brydduðu upp á ýmsum nýjungum og stóðu fyrir nýsköpun í verslunarháttum á árum áður.

Fjöldi meðlima samvinnufélaga 1920-90 Í þúsundum

Heimild: Hagstofa Íslands Hagskinna og Landshagir 1998.

Sem dæmi um nýsköpun í verslun má nefna að árið 1955 var Sjálfsafgreiðslubúð SÍS opnuð í Austurstræti, hin fyrsta sinnar tegundar á Íslandi sem varð langlíf (Samvinnan 1982: 45). Einnig opnuðu Kaupfélag Hafnarfjarðar og Kaupfélag Árnesinga kjörbúðir þetta sama ár. Fyrstur til að opna slíka búð var Jens Figved á horni Vesturgötu og Garðarsstræti árið 1942, en hún varð skammlíf (Samvinnan 1962: 77).

116 Meðal annarra nýmæla í samvinnuverslun má nefna að 1967 stofnaði Sambandið fataverslun við Austurstræti (Samvinnan 1977: 42). Á þessum tíma óx sérverslun með tískufatnað hratt og setti svokölluð unglingamenning stöðugt meiri svip á þjóðlífið. Kaupfélögin stækkuðu með tímanum og tóku mörg hver að hagnýta sér stórmarkaðaformið og Kjörbúð SÍS í Austrustræti tölvutæknina á áttunda áratugnum, en 1970 var verslun KRON stækkuð og sérvöruverslanir endurskipulagðar (Liverpool og Domus) (Samvinnan 1977: 43). Ári síðar keypti Sambandið mikið verslunar- og skrifstofuhúsnæði við Suðurlandsbraut (sama: 45). Sambandið var stórhuga á þessum árum og 1976 voru uppi áform um að reka stórmarkað í byggingu Birgðastöðvar Sambandsins við Sundin í Reykjavík, sem byrjað var að byggja 1974. Reykjavíkurborg blés af þessar hugmyndir um stundarsakir og neitaði Sambandinu um rekstrarleyfi fyrir þennan stórmarkað (sama: 46). Hugmyndin um stórmarkað á þessum stað varð að veruleika þegar Mikligarður var stofnaður nokkrum árum síðar. Samvinnuhreyfingin fór enn inn á nýtt þjónustusvið þegar Samvinnuferðir hf. voru stofnaðar 1975 (sama: 46). Fyrirtækið bauð landsmönnum um árabil ódýrar ferðir til sólarlanda. Fyrirtækið var starfsrækt í 26 ár og var meðal stærstu fyrirtækja landsins á sviði ferðaþjónustu, en þriðjudaginn 27. nóvember 2001 ákvað stjórn ferðaskrifstofunnar Samvinnuferða-Landsýnar að óska eftir gjaldþrotaskiptum. Í sama mánuði var fyrirtækið afskráð af hlutafélagalista Kauphallar Íslands. Hér hefur verið gefin gróf mynd af nýjum fyrirtækjum og atvinnustarfssemi sem samvinnuhreyfingin stóð að á blómaskeiði hennar á áratugunum eftir stríð. Samhliða þessari uppbyggingu hélt iðnaður samvinnufyrirtækja að dafna og á það bæði við um iðnað tengdan landbúnaði og sjávarútvegi. Fljótlega eftir stríð eða 1948 var rekstur Fataverksmiðjunnar Hekla hafinn (Samvinnan 1952: 35). Sjö árum síðar

117 var lokið við byggingu vörugeymsluhúss í Þorlákshöfn og sett þar upp fullkomin fóðurblöndunarstöð (Samvinnan 1977: 42) Mjólkurframleiðsla landsmanna óx jafnt og þétt og 1958 var svo komið að SÍS stofnaði sameignarfélagið Osta- og smjörsalan í félagi við Mjólkursamsöluna í Reykjavík, en fyrirtækið tók til starfa 1959 (Samvinnan 1962: 49). Osta- og smjörsalan óx og dafnaði á næstu áratugum og stóð fyrir mikilli vöruþróun. Á tíunda áratugnum opnaði hún sérverslanir með osta, m.a. á Skólavörðustignum og í Kringlunni í Reykjavík (Mbl. 26.10.1995). Á þrítugasta starfsári fyrirtækisins urðu táknræn kaflaskipti í sögu þess. Það var á árinu 1989, en þá var ostabúðinni á Snorrabraut lokað og búðin flutt á Bitruhálsinn í Reykjavík (Mbl. 26.07.1989). Á þessu þrítugasta starfsári sínu velti Osta- og smjörsalan um þremur milljörðum króna (Mbl. 29.03.1990). Það segir sína sögu um hversu þróttmikill vöxtur þessa fyrirtækis hefur verið að 1959 var ostasala þess um 400 tonn og smjörsalan um 800 tonn. 1996 náði ostasalan 3679 tonnum og viðbitið 1609 tonnum (Gylfi Gröndal 1998: 213). Osta- og smjörsalan hefur átt stóran hlut í þeirri miklu aukningu sem orðið hefur hér á landi í framleiðslu og neyslu á ostum á síðustu áratugum. Sem dæmi má nefna að 1959 var mannfjöldi á Íslandi 172 þúsund og ostaneyslan um 3 kg á mann. Tíu árum síðar var ostaneyslan 3,9 kg á mann. Mannfjölgun var um 18% á þessum tíu árum en aukningin í ostaneylu var 26%. 1979 hafði mannfjöldinn aukist um 10,8% á áratug, en ostaneysla var þá orðin 6,4 kg eða um 80% aukning. Fram til 1989 jókst mannfjöldinn um 12,4%, en ostaneyslan var þá 10,62 kg á mann og hafði á sama tíma aukist um 87% (Gylfi Gröndal 1998: 200). 1989 var velta Osta- og smjörsölunnar um 3 milljarðar króna eða um 5,3 milljarðar miðað við vísitölu neysluverðs á verðlagi janúar 2003. Tólf árum síðar, árið 2001, var velta fyrirtækisins 5006 milljónir króna (Frjáls verslun 2002: 74). Veltan var því 5 milljarðar og 78 milljónir króna á verðlagi janúar 2003. Fyrirtækið er stórfyrirtæki á íslenskan mælikvarða hvað veltu varðar, en við fyrirtækið starfa 93 starfsmenn í ársverkum talið (sama: 75). Osta- og smjörsalan er númer 52 af 300 stærstu fyrirtækjum landsins samkvæmt greiningu Frjálsrar verslunar (sama: 74). Eigndur Osta- og smjörsölunnar sf eru 10 að tölu í dag eins og sést í töflunni hér að neðan

118 Eigndur Osta- og smjörsölunnar sf Eignarhlutfall % Mjólkursamsalan í Reykjavík 10,44 Mjólkursamlagið Búðardal 1,531 Mjólkursamlag Ísfirðinga 0,139 Mjólkursamlag V. Húnvetninga 6,96 Mjólkursamlag Húnvetninga 5,567 Kaupfélag Skagfirðinga 15,311 Norðurmjólk 41,063 Mjólkursamlag Vopnfirðinga hf. 0,174 Kaupfélag Héraðsbúa 1,416 Mjólkurbú Flóamanna 17,399 Heimild: Osta- og smjörsalan 2003.

Fleiri fyrirtæki samvinnumanna voru stofnuð á þessum áum. Fimm árum eftir stofnun Osta- og smjörsölunnar, þ.e. árið 1963 var Ullarþvottastöð Sambandsins tekin í notkun í Hveragerði (Samvinnan 1977: 41), en í kjölfar aflabrests og samdráttar í íslensku efnahagslífi voru nokkur fyrirtæki Sambandsins lögð niður 1967, þ.e. Fataverksmiðjurnar Fífa á Húsavík og Vör í Borgarnesi og saumastofa Gefjunar á Akureyri. 1969 var ný loðsútunarverksmiðja byggð á Akureyri og verksmiðjuhúsnæði Iðunnar endurnýjað eftir bruna (Samvinnan 1977: 43). Á þessu ári tók einnig Skinnhúfuverksmiðjan Höttur til starfa í Borgarnesi (sama: 45). Þremur árum síðar eða 1972 hóf Kjötiðnaðarstöð Sambandsins í Reykjavík starfsemi sína (sama: 45). Ári síðar var Fóðurblöndunarstöð komið á við kornturnana í Reykjavík (sama: 45) og 1975 tók Sambandið við rekstri prjónastofunnar Dyngju á Egilsstöðum. Loks hóf á þessu sama ári Kjötiðnaðarstöðin framleiðslu á tilbúnum matarréttum (sama: 46). Hér að ofan var minnst á að Sambandið og kaupfélögin hösluðu sér völl í sjávarútvegi á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar. Eftir stríð varð mikill uppgangur í þessari atvinnustarfssemi en til marks um það jókst fiskútflutningur Sambandsins úr 9657 tonnum 1951 í 27435 tonn 1961.

119 Útflutningur SÍS á sjávarafurðum

30000 25000 20000 Aðrar sjávarafurðir en freðfiskur Tonn 15000 Freðfiskur 10000

5000 0 52 53 54 55 56 57 58 59 60 61 1951

Heimild: Samvinnan 1962.

Bandaríkin urðu helsti útflutningsmarkaður Íslendinga eftir stríð og þangað seldi Sambandið mikið magn af fiski. Í kjölfarið á þessum viðskiptum var fisksölufyrirtækið Iceland Products stofnað 1951 í Bandaríkjunum (Samvinnan 1977: 36). Upp úr 1975 var því breytt úr Iceland Products Inc. í Iceland Seafood Corporation, eins og það heitir enn í dag (Sigurður Markússon 2003). Vöxtur fiskútflutningsins olli ýmsum breytingum á starfsháttum Sambandsins og varð til þess að 1957 var Útflutningsdeildinni skipt í tvennt: landbúnaðarvörudeild og sjávarafurðadeild (Samvinnan 1962: 49). 1969 tók svo Félag Sambandsfiskframleiðenda til starfa. Þetta sama ár eignaðist Sambandið fiskréttarverksmiðju í Englandi, en hún var flutt til Reykjavíkur 1973 (Samvinnan 1977: 45). Sambandið hóf fljótlega innflutning á margvíslegum tækjum og tólum fyrir landbúnað, en eftir stríð varð veruleg aukning á vélainnflutningi þegar fjöldaneyslusamfélagið hóf innreið sína á Íslandi og m.a. fólksbílar urðu almenningseign. Véladeild Sambandsins var stofnuð 1946 (Samvinnan 1952: 34), en hún varð leiðandi í innflutningi á bifreiðum í landinu og flutti m.a. inn bíla frá General Motors, stærsta bílaframleiðanda Bandaríkjanna, og Opel í Þýskalandi.

120 Auk vélainnflutnings Véladeildar Sambandsins stóð Sambandið að stofnun Dráttarvéla hf. 1948 (Samvinnan 1952: 35). Fyrirtækið fékk mikilvæg umboð eins og Massey Ferguson dráttarvélar sem um áratugi voru allsráðandi í íslenskum sveitum.

Kaupfélögin og Sambandið hafa um langan tíma lagt áherslu á fræðslustarfsemi um samfélags og samvinnumál. Sambandið studdi við bakið á fyrirlestarahaldi og útgáfustarfsemi og kom á fót sérstökum samvinnuskóla. Sigurður í Ystafelli fór um landið og flutti fyrirlestra um samvinnumál síðla árs 1911 og á árunum 1912-15 flutti hann 107 fyrirlestra. 1907 hófst útgáfa Tímarits kaupfélaga og samvinnufélaga og var Sigurður ritstjóri, en frá 1925 hét tímaritið Samvinnan (Gísli Guðmundson 1943: 26-29). 1953 var Samvinnunni breytt í tímarit um samfélagsumræðu og menningarmál og tímaritið Hlynur var sett á laggirnar og fjallaði það um málefni samvinnuhreyfingarinnar og fyrirtæki hennar. Tímaritaútgáfu þessari hætti Sambandið 1985. Sambandið stóð að baki stofnunar Samvinnuskólans í Reykjavík 1918, en fyrsti skólastjóri hans var Jónas Jónsson frá Hriflu einn helsti hugmydafræðingur samvinnumanna á Íslandi fyrr og síðar. Skólinn var í fyrstu á Sölvhólsgötu í

121 Reykjavík en var 1955 fluttur á Bifröst í Borgarfirði. Sambandið keypti bókaútgáfuna Norðra á Akureyri 1952 (Samvinnan 1962: 37), en í samdrættinum 1967 var bókaútgáfan seld ásamt Bókabúð Norðra og Íslendingaútgáfunni (Samvinnan 1977: 42). Segja má að samvinnuhreyfingin hafi ekki aðeins vaxið og dafnað sem vettvangur atvinnurekstrar heldur hafi hún einnig gert sig æ meira gildandi í þjóðfélagsumræðu eftirstríðsáranna. Það var nokkuð í samræmi við að hún þróaðist með tímanum frá því að vera bændahreyfing yfir í það að vera hreyfing sem borin var uppi af flestum stéttum samfélagsins. Þetta sést vel af stéttargreiningu á meðlimum samvinnufélaganna sem gerð var 1951 (sjá myndina hér að neðan). Stærsti hópurinn voru verkamenn og sjómenn eða rúm 42%, en bændur og menn með landnytjar voru um 24%.

Heimild: Samvinnan 1952.

122 vii. Samdráttarskeið samvinnufélaga 1986-2000 Þegar komið var fram á níunda áratug síðustu aldar var starfssemi Sambands íslenskra samvinnufélaga orðin afar umfangsmikil. Deildir sambandsins voru þá orðnar 8, þ.e. Sjávarafurðardeild, Búvörudeild, Iðnaðardeild, Búnaðardeild, Verslunardeild, Skipadeild, Skipulagsdeild og Fjárhagsdeild (Samvinnan 1982: 65). Búnaðardeildin var stofnuð 1944, en 1957 hafði Útflutningsdeildinni verið skipt í tvennt: landbúnaðarvörudeild og sjávarafurðadeild. Loks var Fjárhagsdeildin stofnuð 1975. Níundi áratugurinn reyndist samvinnuhreyfingunni afar erfiður. Kaupfélögin áttu við mikinn rekstrarvanda að etja og SÍS varð að leggja niður fyrirtæki og draga verulega úr starfssemi sínni. Þetta sést vel af mikilli fækkun starfsmanna á milli áranna 1985 og 1990 eins og sést á súluritinu hér að neðan. Samdrátturinn kemur einnig fram í fækkun aðildarfélaga Sambandsins, en þeim fækkaði úr 45 árið 1980 í 26 árið 1990 (Hagstofa Íslands 1997).

Fjöldi starfsmanna SÍS 1960-1990

2000

1500

1000

500

0 1960 1965 1970 1975 1980 1985 1990 Fjöldi starfsmanna 1156 1362 1196 1537 1824 1798 931

Heimild: Hagstofa Íslands (1997) Hagskinna.

Fækkun starfsmanna Sambandsins endurspeglaði að einhverju marki vaxandi erfiðleika kaupfélaganna og minnkandi veltu iðnfyrirtækja samvinnumanna. Mestu munaði þó um að 1990 var ýmsum deildum Sambandsins breytt í hlutafélög eins og greint verður frá hér að neðan. Almennt fækkaði samvinnufélögum á sama tíma í landinu eins og sést á myndinni hér að neðan.

123 Fjöldi samvinnufélaga 1990-2000

160 152 150

138 140

130 127

118 120 113 109 110 103 103 100 97 96

90

80 1990 1991 1992 1993 1995 1996 1997 1998 1999 2000

Heimild: Hagstofa Íslands (2001) Landshagir (CD-útgáfa).

Vaxandi rekstrarvandamál samvinnufyrirtækja á níunda áratugnum endurspeglast m.a. í fækkun og samruna aðildarfélaga Sambandsins á þessum áratug. Á aðeins einum áratug milli 1980 og 1990 fækkaði aðildarfélögum SÍS um nærfellt helming eða úr 45 í 26. Fækkun aðildarfélaga Sambandsins stafaði bæði af því að kaupfélög voru lögð niður og ýmis önnur voru sameinuð. Fjárhagsleg staða Sambandsins versnaði verulega á tíunda áratugnum, raunar svo mjög að um miðjan áratuginn var SÍS horfið sem stórveldi í íslensku efnahagslífi og nýr kafli tekur við í sögu samvinnuhreyfingarinnar. Þróun mála endurspeglast í eiginfjárstöðu stöðu fyritækisins, en eignir þess minnkuðu úr því að vera bókfærðar 12.447 milljónir kr. 1989, ári síðar eru eignirnar metnar á 7.672 milljónir kr. (Mbl 07.06.1991). 1995 eru eignir Sambandsins 7 milljónir kr. (Mbl. 28.11.1995). Á yfirborðinu eru ástæður þessara sviptinga þær að deildir Sambandsins eru seldar og eignir ganga upp í skuldir. Við skulum skoða grófustu drætti þessarar sögu. Ljóst er að rekstrarerfiðleikar verslana kaupfélaganna fóru vaxandi á fyrri hluta níunda áratugarins. Landsbyggðarverslunin átti í miklum erfiðleikum, sérstaklega á þeim sviðum þar sem samvinnuverslunin var umfangsmikil, þ.e. dagvöruverslun og blönduð verslun2. Samkvæmt greiningu SESAM-hópsins, sem

2 Dagvörur eru mjólkurvörur, egg , mjöl, brauð, kjöt, fiskur, grænmeti, ávextir, kartöflur, sykur, kaffi, óáfengir drykkir, tóbak, snyrtivörur o.fl. Sérvörur eru fatnaður, vefnaðarvara, skó, húsgögn, raftæki, búsáhöld, tækjavörur, bækur, blöð, tímarit, ferðavörur og skartgripir (SESAM 1987: 10).

124 starfaði á vegum stjórnar Sambandsins 1986 og 1987 (SESAM 1987), dró verulega úr hlutfalli dagvöru og blandaðrar verslunar samanborið við sérvöruverslun í heildarveltu verslunar á landsbyggðinni (þ.e. utan höfuðborgarsvæðisins) á milli áranna 1980 og 1986. Árið 1980 var hlutfall kjöts, nýlenduvöru og blandaðrar verslunar 68,3% en þetta hlutfall var komið í 64,9% 1986. Á sama tímabili jókst sérvöruverslun sem hlutfall af veltu verslunar á landsbyggðinni úr 31,7% 1980 í 35,1% 1986 (SESAM 1987: Fylgiskjal 5). Á þessum árum átti sér stað mikill tilflutningur verslunar frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Landsbyggðin var þannig að tapa markaðshlutdeild til verslunar á höfuðborgarsvæðisins og þá sérstaklega í smásöluverslun. Þessi tapaða markaðshlutdeild var ekki hægt að skýra alfarið með fólksflóttanum af landsbyggðinni, því að á fyrri helmingi níunda áratugarins fjölgaði íbúum höfuðborgarsvæðisins um 10% á meðan verslun á svæðinu jókst um 20% (sama: 11). Helstu ástæður flutnings verslunar til höfuðborgarsvæðisins má rekja til langtíma þróunar eins og bættra samgangna, en einnig til aukinnar póstverslunar. Miklu munaði um aukna verðsamkeppni í kjölfarið á vexti Hagkaupa og Bónus verslana, en óhagstæður verðsamanburður á verðlagi höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar ásamt minna vöruframboði þar, gróf undan samkeppnisstöðu verslana á landsbyggðinni (sama: 11). SESAM-hópurinn lagði til í framhaldi af greiningu sinni að verslunin yrði í ríkari mæli sérgreind og upplýsingatækni yrði hagnýtt á sviði birgðahalds og við innleiðingu á strikatækni. Með sérgreiningu er átt við að verslanir sem tilheyra tiltekinni fyrirtækjasamstæðu eða verslunarkeðju eru staðlaðar hvað varðar nafn, merki, stærð, innra- og ytra útlit og vöruval. Niðurstaða SESAM-hópsins var að með sérgreiningu samvinnuverslana myndi þeim fækka og þær yrðu stærri og að sérvöruverslanir yrði reknar í eða við þéttbýliskjarna (sama: 28- 9). Tillögur SESAM-hópsins endurspegluðu þróun sem að nokkru leiti var þegar hafin í Reykjavík. KRON hafði rekið sérverslanir eins og Domus og Liverpool við Laugarveg, en 1983 stofnaði Verslunardeild Sambandsins ásamt KRON Miklagarð og átti KRON 52% hlut í fyrirtækinu. Árið 1988 hefst sérgreiningarþróunin fyrir alvöru. Um sumarið var rekstur Miklagarðs við Sund og Kaupstaðs/Miklagarðs í eigu KRON sameinaður (Mbl. 20.08.1988). Um haustið tók KRON JL-húsið á leigu og rak þá 11 verslanir, þ.e. JL, Mikligarður, Kaupstaður, Miðvangur, Kaupgarður og Eddufell. Allar voru þessar verslanir skýrðar Mikligarður. Við þetta bætast svo þrjár

125 litlar hverfaverslanir sem KRON rak í Reykjavík og tvær í Hafnarfirði (Mbl. 02.10.1988). Ári síðar var Miklagarði breytt í hlutafélag. 1990 var KRON og Mikligarður hf sameinað í almenningshlutafélag og hefðbundinn kaupfélagsrekstur var þar með afnuminn í Reykjavík. Um leið rann heildsöluverslun Verslunardeildar Sambandsins inn í Miklagarð. KRON var loks gert að eignarhaldsfélagi 1990 (Mbl. 06.02.1990). Upphaflega, þegar drög voru lögð að umbreytingu Miklagarðs í almenningshlutafélag 1990, voru uppi áform um að auka hlutafé þess úr 15 milljónum króna í 200 til 250 miljónir. Gert var ráð fyrir að Sambandið legði fyrirtækinu til 100 milljónir króna í hlutafé og KRON aflaði þess sem þá vantaði upp á í almennu hlutafjárútboði (Mbl. 06.02.1990 og 21.06.1990). Hlutafjárútboðið skilaði ekki tilætluðum árangri og því má segja að Sambandið hafi yfirtekið fyrirtækið. Í ársskýrslu Sambandsins fyrir árið 1993 kemur m.a. fram að þegar Mikligarður yfirtók hluta af rekstri Verslunardeildar Sambandsins um áramót 1990- 1991, tók Sambandið á sig að fullu uppsafnað tap af rekstri deildarinnar, sem þá var um 1320 mkr. Ennfremur sést að á þrem starfsárum Miklagarðs hf., um og eftir endurskipulagningu Sambandsins, lagði Sambandið fram nýtt hlutafé í Miklagarð, þ.e. 1990 102 milljónir kr., 1991 400 milljónir kr. og 399 milljónir kr. árið 1992 eða samanlagt 901 milljónir kr. á verðlagi hvers árs. Stór hluti af þessu hefur eflaust verið í formi skuldbreytingar (þ.e. skuld Miklagarðs við Sambandið breytt í hlutafé), en einhver hluti mun hafa verið í formi nýs fjár (Sigurður Markússon 2003) Miklagarði hf var ekki margra lífdaga auðið. Starfsmenn fyrirtækisins voru 350 1990 (Mbl. 06.02.1990), en þegar það varð gjaldþrota 10. júní 1993 voru þeir orðnir 440 og var þeim öllum sagt upp 29 mars. Þá voru verslanir Miklagarðs orðnar níu og voru fjórar þeirra reknar með nafninu Kaupstaður (Mbl. 30.03.1993 og

126 26.03.1994). Sambandið lagði mikið fé í Miklagarð og lagði t.a.m 200 milljónir króna til hans árið 1990, en tapaði a.m.k. helmingi þeirrar upphæðar vegna neikvæðrar eiginfjárstöðu fyrirtækisins á árinu (Mbl. 07.06.1991). Á aðalfundi Sambandsins 1990 kom fram að stjórnin hafði samþykkt að verja 400 milljónum kr. til hlutafjáraukningar í Miklagarði, enda hafði verið gert ráð fyrir því að verja 400-500 milljónum kr í félag um heildsölustarfsemi Sambandsins. Forsendur höfðu hins vegar breyst þar sem heildsölustarfsemin var orðin hluti af starfsemi Miklagarðs (Mbl. 07.06.1991). Tapið á rekstri Miklagarðs var mikið eða 396 milljónir 1991 (Mbl. 11.06.1992). Á árinu 1992 fór Sambandið fram á 400 milljón króna lán frá Landsbankanum til handa Miklagarði, en bankinn hafnaði beiðninni (Mbl. 19.09.1992). Segja má að þar með hafi dagar fyrirtækisins verið taldir, því Sambandið var orðið svo skuldsett að það var ekki fært um að bjarga Miklagarði. Árið 1992 var Sambandið orðið svo skuldsett vegna áralangs tapreksturs ýmissa deilda og fyrirtækja þess að helsti lánadrottinn Sambandsins, Landsbanki Íslands, ákvað að leysa til sín veð í eignum þess og gera upp skuldirnar (sama). Samkvæmt bráðabirgðaefnahagsyfirliti í lok ágúst 1992 námu eignir Sambandsins 6.249 milljónum en heildarskuldir voru 4.880 milljónum. Veltufjármunir námu 1.281 milljónum króna og voru nettóskuldir fyrirtækisins því 3.600 milljónir króna (sama). Á árinu 1991 hafði tap Sambandsins verið 1.320 milljónir krónur en sala á Holtagörðum við Sund minnkaði hallann um 952 milljónir. Árið áður var tap Sambandsins rúmar 900 milljónir krónur, en vegna mikils söluhagnaðar var endanleg afkoma 330 milljón króna hagnaður (Mbl. 11.06.1992). Skuldauppgjörið við Landsbankann hlaut að verða Sambandinu erfitt, en á móti 4.800 milljón króna heildarskuldum átti það þó enn miklar eignir 1992. Í byrjun ársins var hlutur Sambandsins í Olíufélaginu hf. metinn á tæpa 1,2 milljarða króna. SÍS átti dótturfyrirtækið Reginn hf. sem m.a. átti stóran hlut í Íslenskum aðalverktökum. Reginn var metinn á rúmar 700 milljónir króna. Þá átti SÍS eignarhlut í Sambandshúsinu við Kirkjusand sem metinn var á rúmar 500 milljónir króna. En Sambandið átti fleiri eignir. Í Samskipum hf. átti það hlutafé sem metið var á 900 milljónir króna. Í Íslenskum sjávarafurðum hf. var hlutur þess metinn á um 330 milljónir. Auk þess átti SÍS eignarhluta í öðrum dótturfélögum sem voru metnir á rúma 2,7 milljarða króna. Þetta voru fyrirtækin Íslenskur skinnaiðnaður hf., Jötunn hf., Efnaverksmiðjan Sjöfn hf. og Dráttarvélar hf. Þá átti Sambandið 94% hlut í Miklagarði. Hlutur Sambandsins í öðrum samstarfsfélögum var metinn á 219 milljónir

127 króna. Þar var um að ræða tæplega helmingshlut í Goða hf., sem metinn var á 133 milljónir, og Kaffibrennslu Akureyrar hf. sem metinn var á 86 milljónir. Mikilla tíðinda var að vænta þegar sala þessara eigna hófst. Í skuldauppgjöri sínu tók Landsbankinn yfir hluta af þessum eignum. Við skulum skoða málið nánar. Landsbankinn stofnaði eignarhaldsfélag, Hömlur hf, um eigur Sambands íslenskra samvinnufélaga í september 1992. Formlega var skuldum Sambandsins breytt í eignir Landsbankans með því að Sambandið seldi Hömlum hf hlutafé sitt í ýmsum fyrirtækjum sínum. Af mörgu var að taka eins og t.d. Reginn hf., hlut Sambandsins í Sameinuðum verktökum og Íslenskum aðalverktökum, Samskip og hlut Sambandsins í Íslenskum sjávarafurðum (Mbl. 03.10.1992). Hömlur hf og Sambandið gerðu með sér samning um að Hömlur keyptu 85% í Samskipum hf. á genginu 0,9 af nafnverði, en það jafngildi því að eignarhluti Sambandsins var seldur á um 720 milljónir króna. Þá keypti Hömlur Reginn hf., sem Sambandið átti alfarið eða 100%, fyrir mun lægra verð en bókfært verð var. Bókfært verð var í ársreikningum Sambandsins fyrir árið 1991 tæpar 716 milljónir króna. Sambandið átti um áramótin 1991-2 90% hlut í Samskipum, samkvæmt ársreikningi. Bókfært verð þess eignarhlutar var um það bil 855 milljónir króna, en Sambandið seldi Vátryggingafélagi Íslands 1992 nokkur prósent í skipafélaginu vegna skuldajöfnunar við VÍS (Mbl. 11.11.1992). Skuldauppgjör Sambandsins og Landsbankans 1992, sem framkvæmt var gegnum Hömlur hf, eignarhaldsfélag Landsbankans, má draga saman í töflu eins og gert er hér að neðan.3

3 Samantekt þessi byggir á greiningu Agnesar Bragadóttur í fjórðu grein hennar um endalok Sambandsins. Greining hennar byggir á leynilegum heimildarmönnum og upplýsingum og er því ekki sannreynanleg eða vísindaleg. Notast verður við hana til að gefa grófustu mynd af þessum málum þar til viðskiptasagnfræðingar sýna fram á annað sem sannara kann að reynast.

128 Skuldauppgjör Sambandsins og Landsbankans 1992 Nafnverð Hlutfall af Gengi Upphæð sem Upphæð sem greidd hlutabréfa hlutabréfum bréfa greidd var var skv samningi að sem keypt sem skv frádregnum Krónur voru í notað samningi viðskiptakröfum viðkomandi var við kröfum Sambandsins fyrirtæki % kaupin á hendur viðkomandi fyrirtækis Samskip hf 515422037 63,5 0,9 463879833 243602963 Íslenskar 100000000 15,1 1 100000000 150000000 sjávarafurðir hf Samvinnusjóður 50000000 14 1,04 52000000 Íslands hf Kaffibrennsla 19894000 30 2,26 44960440 12250000 Akureyrar hf Samvinnuferðir- 10219750 20 0,9 9197775 7669588 Landsýn hf Reginn hf 96000 98,5 96000 Kirkjusandur hf 113050000 100 1 808681787 670134049 413522551 Efnahverksmiðjan 180000000 156000000 Sjöfn hf Þróunarfélag 12875000 ? Íslands hf Miðvangur 22000000 ? Sparkaup 12,5 17000000 6500000 902009049

Ef marka má þær upplýsingar sem fram koma í töflunni hér að ofan tókst Sambandinu að greiða skuldir með eignatilfærslum sem námu yfir 900 milljónum króna4. Það telja margir vel sloppið eða eins og viðmælandi blaðamanns Morgunblaðsins úr röðum “Sambandsmanna” sagði:

”...í árslok 1988 námu skuldir Sambandsins 13,5 milljörðum króna en í dag (1995, innskot ÍJ), þegar nauðarsamningar Sambandsins eru á lokastigi, hljóði þeir upp á 364 milljónir króna. Sambandið hafi átt 90 milljónir króna upp í þá samninga þegar þeir hófust” (Agnes Bragadóttir 1995).

4 Að sögn blaðamanns Morgunblaðsins vakti furðu á sínum tíma, að aðilar urðu ásáttir um, að Hömlur tækju 98,5% hlut Sambandsins í Regin hf. á, eða einungis 96 þúsund krónur. Eigið fé Regins var metið í árslok 1991 á 716 milljónir króna en vegna niðurfærslu viðskiptakrafna upp á 719 milljónir króna, varð niðurstaðan 96000 kr (Agnes Bragadóttir 1995). Að sögn Sigurðar Markússonar, stjórnarformanns Sambandsins á þessum tíma, gætir misskilnings í umfjöllun blaðamannsins. Hafa verður í huga að auk þeirra 96.000 króna, sem til greindar eru sem verð fyrir Regin hf. í töflunni hér að ofan, fékk Sambandið fullnaðarkvittun fyrir uppgjöri á skuld sinni við Regin hf., sem var 719 miljónir kóna. Þannig skilaði salan í á Regin hf. í reynd 719.096.000 kr. til Sambandsins (Sigurður Markússon 2003).

129 Eignasala Sambandsins og niðurgreiðsla skulda

Fleiri heimildir en úttekt blaðamanns Morgunblaðsins hér að ofan varpa ljósi skuldauppgjör Sambandsins við Landsbankann. Í ársskýrslu Sambandsins fyrir árið 1994 er gerð grein fyrir breytingu á skuldastöðu á tímabilinu 1988 til septemberloka 1995, en í skýrslunni er einnig að finna efnahagsreikning pr. 30. september 1995. Taflan hér að neðan sýnir meginatriði úr þeirri greinargerð. Á þessum tíma var mikil verðbólga í landinu og eru fjárhæðir í tveim aftari talnadálkunum á verðlagi í september 1995. (Umreikningur byggður á byggingavísitölu).

Árslok Miljónir króna á Miljónir króna á Skuldalækkun á árinu verðlagi hvers árs verðlagi í sept. 1995 á verðlagi í sept. 1995 1988 8.648 14.103 1989 10.741 13.763 340 1990 5.832 6.757 7.006 1991 4.801 5.239 1,518 1992 436 471 4.768 1993 331 346 125 1994 34 35 311 1995 (30.9.) 11* 11* 24* * Í reynd voru skuldir aðeins um 1 m.kr., en 10 m.kr. höfðu verið lagðar til hliðar til þess að mæta kröfu sem var til umfjöllunar fyrir Hæstarétti. Rétturinn dæmdi síðar Sambandinu í vil.

Því fé, sem inn kom fyrir seldar eignir, var jafnóðum varið til greiðslu skulda og því má segja, að lækkun skulda haldist í hendur við sölu eigna. Af töflunni má ráða að tvö stærstu árin í eignasölu voru árið 1990 og 1992. Á árinu 1990 var öllum viðskiptadeildum Sambandsins, sex að tölu, breytt í jafnmörg hlutafélög, og yfirtóku hin nýju félög eignir og skuldir deildanna. Á fjórða ársfjórðungi 1992 áttu sér stað miklar eignasölur að frumkvæði Landsbankans, sem sjálfur keypti mikið af eignum. Heildarsöluverð þessara eigna var 3.288 m.kr. (á verðlagi ársins 1992) skv. lista í 14 liðum, sem lagður var fram og samþykktur á fundi í stjórn Sambandsins þann 12. nóv. 1992 (Sigurður Markússon 2003). Taflan hér fyrir neðan sýnir hvernig fénu, sem inn kom fyrir þessar eignir, var ráðstafað til greiðslu skulda:

130 Ráðstöfun á söluverði eigna Milj. króna á verðlagi ársins Greiddar innlendar skuldir við Landsbankann 762 Greiddar skuldir í Landsb. í erlendri mynt 970 Greiddar skuldir við erlenda banka 766 Greidd skuld við Regin hf. 719 Greidd skuld við Kirkjusand 64 Greidd ábyrgð vegna Kaffibrennslu 7 Akureyrar Samtals 3.288

Hverjir keyptu eignirnar? Stærsti einstaki eignaliðurinn í þessum sölum var um þriðjungshlutur í Olíufélaginu hf., sem félagið sjálft keypti á 1.048 m.kr. Samvinnusjóðurinn keypti eigin hlutafé fyrir 52 m.kr., og KEA keypti hlutabréf í Kaffibrennslu Akureyrar hf. fyrir 80 m.kr. og í Efnaverksm. Sjöfn hf. fyrir 160 m.kr., en hér var um að ræða helmingshlut Sambandsins í þessum tveim fyrirtækjum á Akureyri. Þá eru ótaldar ýmsar eignir fyrir 1.948 m.k., sem keyptar voru af Hömlum hf., sem var eignarhaldsfélag Landsbankans. Voru þær síðan seldar ýmsum aðilum á næstu mánuðum og árum. Vegna þess að hér var um háar fjárhæðir að ræða, sem ekki var reiknað með að yrðu á vegum Landsbankans til frambúðar, þótti bankanum hentugra að vista þær í sérstöku eignarhaldsfélagi, m.a. til þess að þær hefðu ekki áhrif á viðkvæm hlutföll í efnahagsreikningi bankans (sama).

Hvernig lauk skuldaskilum Sambandsins? Á árinu 1994 hafði Sambandið greitt um 98% af skuldum sínum og þótti þá ljóst að eignir hrykkju ekki til þess að greiða þau tvö prósent sem eftir voru, en það voru um 320 m.kr. Var þá fengið leyfi til þess að leita nauðarsamninga við lánardrottna og var þeim lokið 1. júní 1995. Greiddi Sambandið ¼ af þeim skuldum sem eftir voru og má því segja að Sambandið hafi greitt um 98,5% af þeim skuldum sem lagt var upp með, þegar skuldaskilin hófust á árunum 1989-1990 (sama). Í dag eru eignir Sambandsins ekki miklar. Í ársreikningi fyrir arið 2001 kemur fram að þá voru eignir þess samtals 31601184 krónur (PriceWaterhouseCoopers 2002).

131 Skuldauppgjörið var aðeins millikafli

Skuldauppgjörið við Landsbankann var aðeins millikafli í þeirri uppstokkun sem átti sér stað á Sambandinu í byrjun tíunda áratugarins þegar deildum þess var breytt í hlutafélög. Því má ekki gleyma að stærstur hluti þeirrar starfsemi sem Sambandið lagði grunninn að og þau fyrirtæki sem það rak um árabil voru ekki lögð niður í einu lagi heldur lifðu flest þeirra áfram í nýju formi og í höndum nýrra eigenda. Við skulum skoða afdrif deilda sambandsins eilítið nánar. Búnaðardeild Sambandsins var tekin yfir af nýrri deild Sambandsins, Jötunn, í apríl 1990 ásamt Bílvangi sf og Jötni hf. Fyrirtækið tók yfir sölu á bílum, vélum, rafbúnaði og fóðri. Starfsemi Jötuns var skipt í fimm megindeildir þ.e. bíladeild, véladeild, raftæknideild, fóðurdeild og þjónustudeild. Jötunn rak áfram fóðurblöndunarstöð Sambandsins við Sundahöfn og annaðist dreifingu fóðursins (Mbl. 24.04.1990). Jötunn varð hlutafélag í byrjun árs 1991. Rekstur Jötuns gekk brösuglega. Heildartap fyrsta starfsárs nam 27 milljónum króna, en tapið fyrstu 10 mánuðina 1992 var 50 milljónir. Í desember 1992 var 59 af 80 starfsmönnum sagt upp, en SÍS átti þá 95% hlutafjárins sem var 140 milljónir króna og eigið fé 80 milljónir króna (Mbl. 28.11.1992 og 16.12.1992). Í desember 1992 kom fulltrúi bílaframleiðandans General Motors til landsins og leitaði að nýjum umboðsaðila. Í janúar 1993 var gerður samningur milli Jötuns hf og Ingvars Helgasonar hf. um kaup á bíladeild Jötuns hf. ásamt tilheyrandi starfsemi varahlutadeildar og bílaverkstæðis. Ingvar Helgason hf. stofnaði nýtt fyrirtæki til að annast rekstur þessarar starfsemi. Með ráðahagnum komst Ingvar Helgasonar hf. yfir umboð General Motors og ennfremur Opel-bíla frá Þýskalandi og Isuzu frá Japan auk Massey Ferguson traktora, Furukawa-gröfur, Linde-vörulyftara og ýmiskonar heyvinnslutæki (Mbl. 20.01.1993). Sjávarafurðardeild Sambandsins var um áratugaskeið eða allt frá því hún var stofnuð 1957, eitt helsta fyrirtækið í sjávarútvegi Íslendinga. Sem dæmi má nefna að 1986 var hlutdeild Sambandsins 20% af sjávarútafurðaútflutningi Íslands (Óli Björn Kárason 1987). Sjávarafurðadeildinni var breytt í hlutafélag 14. desember 1990 þegar Íslenskar sjávarafurðir hf. voru stofnaðar, en fyrirtækið tók til starfa 1. janúar 1991. Hlutafé félagsins á stofndegi var 600 m.kr.og skiptist það nokkurn veginn að jöfnu á milli Sambandsins og framleiðenda í Félagi Sambandsfiskframleiðenda (SAFF). Hér var um að ræða séreignarsjóði Sjávarafurðadeildar, sem stóðu í þessari fjárhæð, þegar

132 breytingin í hlutafélag átti sér stað. Séreignarsjóðirnir voru myndaðir af hagnaði deildarinnar, þ.e.a.s. þeim hluta hans sem ekki var greiddur út til Sambandsins og viðskiptavina deildarinnar, félaga í SAFF. Við stofnun ÍS hf. var samþykkt heimild til að auka hlutaféð úr 600 í 700 milljónir króna (Sigurður Markússon 2003).. Íslenskar sjávarafurðir hf. keyptu hlut Sambandsins í Iceland Seafood Corporation, sölu- og framleiðslufyrirtæki Sambandsins og frystihúsanna í Bandaríkjunum. Hlutur ÍS nam um 60% af heildarhlutafé. ÍS keypti einnig hlut Sambandsins í Iceland Seafood Ltd. í Hull í Bretlandi en þar átti Sambandið 55% og framleiðendur 45% (Mbl. 15.12.1990). Þær rekstrarlegu hremmingar, sem Sambandið hafði lent í á árunum næst á undan breytingu aðaldeilda þess í hlutafélög, leiddu m.a. til þess að 1992 seldi það Samvinnulífeyrissjóðnum 30 milljónir af hlut sínum í ÍS og hafði raunar tveim árum áður selt þessum sama sjóði hæð í Sambandshúsinu á Kirkjusandi fyrir 119 milljónir króna. Sjóðurinn tók þessar eignir upp í skuld Sambandsins við hann (Mbl. 29.09.1992). Umsvif Íslenskra sjávarafurða jukust mikið á næstum árum. Sölufyrirtæki í Tokyo var sett up 1996 og í Madrid á Spáni 1997. Í ársbyrjun 1997 var söluskrifstofum í Hamborg og Boulogne-sur-Mer breytt í sjálfstæð hlutafélög og frá árinu 1998 var ÍS með sérstakan sölufulltrúa fyrir Austur-Evrópu, semaðsetur hafði í Vilnius í Litháen. Á þessum árum var keyptur ráðandi hlutur í ferskfiskfyrirtækinu Tros hf. Árið 1997 var starfsemi Iceland Seafood Corporation flutt frá Pennsylvaniu til Newport News í Virginíu þar sem ný 14.000 fermetra fiskréttaverksmiðja var opnuð. Á sama ári keyptu Íslenskar sjávarafurðir hf. franska fyrirtækið Gelmer S.A. í Boulogne-sur-Mer í Frakklandi, en fyrirtækð var og er umfangsmikið í vinnslu, framleiðslu og dreifingu sjávarafurða (Sigurður Markússon 2003). Kaflaskil urðu í sögu fyrirtækisins 29. desember 1999 þegar samþykktur var samruni Íslenskra sjávarafurða hf. og Sölusambands íslenskra fiskframleiðenda hf. undir nafninu SÍF hf. (SÍF 2003). Við samrunann varð til öflugasta fyrirtæki landsins á sviði útflutnings sjávarafurða, en þess má geta að Íslandssíld, sem sérhæfði sig í útflutningi saltsíldar, hafði sameinast SÍF í apríl 1999. . Árið 2000 var áætlað að hlutdeild SÍF í útflutningi sjávarafurða frá Íslandi væri um fjórðungur. SÍF er stærsti einstaki seljandi á saltfiski í heiminum. Árleg velta SÍF er um 50 milljarðar króna og er það fyrir vikið einhver stærsti seljandi sjávarafurða í heiminum. Í ársreikningi fyrir árið 2001 kemur fram að rekstrartekjur á

133 samstæðureikningi voru yfir 60 milljarðar króna það ár og eignir voru bókfærðar nálægt 26 milljörðum króna. Auk þess kemur fram að SÍF átti þá 21 dótturfélög, flest erlendis og með 100% hlutdeild í þeim flestum (sama).5 Iðnaðardeild Sambandsins varð öflugt fyrritæki og skinniðnaður var snemma mikilvægur starfsemi deildarinnar. Árið 1986 flutti Iðnaðardeildin út vörur fyrir 735 milljónir króna. Það ár fluttu Íslendingar út iðnaðarvörur fyrir 8.873 milljónir króna og var hlutdeild SÍS 8,3%. Ef ál er undanskilið var hlutur þess 15,5% (Óli Björn Kárason 1987). Eins og fram kom fyrr í þessum kafla hófst verkun skinna á Gleráreyrum á Akureyri árið 1923 og árið 1935 hófst sútun á skinnum hjá Skinnaverksmiðjunni Iðunni á sama stað. Þegar starfsemi Iðnaðardeildar Sambands íslenskra samvinnufélaga á Akureyri stóð í mestum blóma um miðjan níunda áratuginn voru ársverk hjá fyrirtækinu í ýmsum fatavefjar- og skinnaiðnaði um 800 alls og rúmlega 1000 manns á launaskrá í heilsdagsstörfum eða hlutastörfum. 1993 störfuðu um 100 manns hjá Foldu hf. sem var stofnað upp úr gjaldþroti Álafoss í október 1991. Alls misstu 190 manns atvinnu sína á Akureyri vegna Gjaldþrots Álafoss í júní 1991. Folda hf. var rekin með tapi 1992 og um 40 manns var sagt upp störfum skömmu fyrir áramótin það ár. Skóframleiðsla lagðist einnig niður á Akureyri í kjölfar gjaldþrots Striksins hf. í júlí 1992, en það félag keypti skóverksmiðju Iðunnar af Sambandinu árið 1988. Við það misstu 35 manns vinnu sína (Mbl. 12.06.1993) Íslenskur Skinnaiðnaður hf. var stofnaður árið 1990 og tók við rekstrinum af Iðnaðardeild SÍS þann 1. janúar 1991. Félagið var lýst gjaldþrota í júní 1993, en meginástæða gjaldþrotsins var gengisfall ítölsku lírunnar og breska pundsins, ásamt verulegum samdrætti á Ítalíumarkaði. Rekstrarfélag á vegum Landsbankans tók þá við rekstrinum uns Skinnaiðnaður hf. var stofnaður í október sama ár af samvinnufyrritækjum og fleirum á Akureyri6.

5 Um er að ræða þessi félög: SIF Canada Ltd.Kanada 100%; Evermart Ltd.Bretland 100%; SIF France s.a.Frakkland 100%; Saltskip hf.Í sland 100%; Gelmer-Iceland Seafood s.a.s.Frakkland 100%; Saltkaup hf.Í sland 100%; Nord Morue s.a.Frakkland 100%; Nor ð urhaf ehf.Í sland 100%; Nord Ocean Seafood s.a.s.Frakkland 100%; Núpar ehf.Ísland 100%; SIF Norway a.s.Noregur 100%; Tros ehf.Í sland 100%; SIF Iceland Seafood Ltd.Bretland 100%; Í salda hf.Í sland 100%; SIF Iceland Seafood GmbH Þý skaland 100%; Christiansen Partners a.s.Noregur 98%; SIF Italia s.r.l.Í tal í a 100%; SIF Spain s.l.Sp á nn 85%; SIF Iceland Seafood Corporation Bandar í kin 100%; SIF Hellas s.a.Grikkland 66%; SIF Iceland Seafood k.k.Japan 100% (SÍF 2003). 6 Skráðir stofnendur voru: Bjarni Smári Jónasson; Blikk- og tækniþjónustan ehf; Búnaðarsamband Eyjafjarðar; Framkvæmdasjóður Akureyrar; Hlutabréfasjóður Íslands hf; Iðnþróunarfélag Eyjafjarðar

134 Rekstur Skinnaiðnaðar hf gekk vel fyrstu árin og var hagnaður fyrirtækisins 97 milljónir króna 1994 og 68 milljónir á næsta ári á eftir. Í júlí á 1995 voru hlutabréf Skinnaiðnaðar hf. síðan skráð á Opna tilboðsmarkaðnum og þann 29. desember voru hlutabréfin síðan skráð á Verðbréfaþingi Íslands. Á fyrstu 30 mánuðum Skinnaiðnaðar fjórfaldaðist gengi hlutabréfa þess og ári eftir að þau voru skráð á verðbréfamarkaði hafði gengið hækkað um 70% (Mbl. 23.05.1996). Þrátt fyrir góða afkomu fyrstu árin dugði það ekki til og var fyrirtækið úrskurðað gjaldþrota 13. september 2001 (Lánstraust 2003). Skipadeild Sambandsins var ein mikilvægasta deild Sambandsins enda mikils um vert að tryggja öðrum deildum þess svo og kaupfélögunum ódýra flutninga til og frá höfnum landsins og til og frá landinu. Skipadeildinni var komið á fót 1946 eins og kom fram að ofan. Starfsemi Skipadeildarinnar var mikil og fluttu skip hennar t.d. 528 þúsund tonn 1987. Á sama ári var heildarflutningar Eimskipafélagsins samtals 902.000 tonn og höfðu aukist um 14% frá árinu 1986 (Mbl. 21.04.1988). Skipadeildin var síðust þeirra sex deilda Sambandsins sem seld var 1990 og var henni breytt í hlutafélagið Samskip 21. desember 1990. (Mbl. 20.12.1990). Stofnendur voru Dráttarvélar ehf, Samband íslenskra samvinnufélaga og Skafl hf. (Lánstraust 2003). Samskip hf. tók yfir skipastól skipadeildar Sambandsins, þ.e. fyrstiskipið Jökulfell, gámaskipin Dísarfell og Helgafell, stórflutninga- og olíuflutningaskipinu Stapafell sem Samskip eignaðist að hálfu á móti Olíufélaginu. Samskip yfirtóku einnig aðstöðu skipadeildarinnar að Holtabakka (Mbl. 20.12.1990). Umsvif Samskipa hf. hafa verið mikil um árabil og var velta samstæðunnar samkvæmt ársreikningi 2001 14.257.530.350 krónur og velta móðurfélagsins var 8.069.124.730 krónur (Samskip 2003). Til samanburðar má geta þess að velta samstæðu Eimskipa var 18.391.721 krónur og móðurfélagsins 15.419.348 krónur samkvæmt ársreikningi 2001 (Eimskip 2003). Hjá Samskipum hf. störfuðu 442 starfsmenn árið 2001, 178 hjá dótturfélögum innanlands og 185 hjá dótturfélögum erlendis. Samskip hf höfðu 9 skip í rekstri 2001, þ.e. m/s Arnarfell, m/s Helgafell, m/s Sæfara, m/s Herjólf, m/s Árfell, m/s Nordic Frost og m/s Blackbird, m/s Scandia, m/s

hf; Kaupfélag Eyfirðinga; Ormarr Örlygsson; Reynir Bjarnar Eiríksson; Samvinnulífeyrissjóðurinn; Starfsmannafél. ísl. skinnaiðnaðar; Stéttarsamband bænda; Svalbarðsstrandarhreppur; Útgerðarfélag Akureyringa hf. (Lánstraust 2003: Hlutafélagaskrá).

135 Nordic Ice. Samskip hf á 21 dótturfélög sem rekin eru á Íslandi og erlendis7 (Samskip 2003). Samvinnufélög utan Sambandsins Eins og kemur fram í síðasta hluta þessa kafla er langur vegur frá að samvinnurekstur hafi lagst af á Íslandi við það eitt að starfsemi Sambands íslenskra samvinnufélaga hafi að mestu verið af lögð. Rekstur kaupfélaga hefur haldið áfram og ýmis samvinnufélög sem ekki voru meðal aðildarfélaga SÍS hafa ekki látið bilbug á sér finna. Af slíkum fyrirtækjum má nefna Sláturfélag Suðurlands og sláturfélög víða um land, Mjólkursamsöluna, Mjólkurfélag Reykjavíkur, Mjólkurbú Flóamanna og mjólkursamlög víða um land, leigubílastöðina Hreyfil, húsnæðissamvinnufélögin sem bera heitið Búseti og fleiri samvinnufélög mætti nefna (sjá lista yfir skráð samvinnufélög 2002 í Viðauka 1aftan við þennan kafla). Auk þessara félaga má nefna hlutafélög sem samvinnuhreyfingin stofnaði eins og t.d. Osta- og smjörsöluna. Við skulum skoða þau sem þekktust eru af þessum félögum.

Sláturfélag Suðurlands. Sláturfélag Suðurlands (SS) er stofnað við Þjórsárbrú 28. janúar 1907 af 565 stofnendum. Á þeim tíma sem það var stofnað var söltun kjöts megin aðferðin við geymslu á kjöti. Félagið reisti sláturhús á fyrsta starfsári sínu á aðalmarkaðssvæðinu, í Reykjavík, og síðar á helstu stöðum á Suðurlandi. Árið 1908, þ.e. á öðru rekstrarári félagsins, var hafinn rekstur fyrstu matvöruverslunarinnar, Matardeildarinnar í Hafnarstræti. Verslunum SS fjölgaði smám saman og á tímabili voru umsvif verslunardeildar félagsins veruleg, en í dag rekur félagið enga verslun. Svipaða sögu er að segja af niðursuðu SS á kjöti 1920, en félagið reisti fullkomna niðursuðuverksmiðju árið 1929. Niðursuðan er nú aflögð.

7 Air Express á Íslandi ehf. Reykjavík 100%; Flutningamiðstöð Austurlands ehf. Egilsstaðir 100%; Flutningamiðstöð Norðurlands ehf. Akureyri 95,33%; Flutningamiðstöð Suðurlands ehf. Selfoss 100%; Flutningamiðstöð Vestfjarða ehf. Ísafjörður 100%; Flutningamiðstöð Vestmannaeyja ehf. Vestmannaeyjar 100%; Flutningamiðstöð Vesturlands ehf. Borgarnes 100%; Jonar A/S Kaupmannahöfn, Danmörk 100%; Jónar Transport hf. Reykjavík 100%; Landflutningar ehf. Reykjavík 100%; Mundill ehf. Reykjavík 100%; Samskip AB Varberg, Svíþjóð 100%; Samskip A/S Aarhus, Danmörk 100%; Samskip AS Bodö, Noregur 89,09%; Samskip B/V Rotterdam, Holland 100%; Samskip GmbH Bremen, Þýskaland 100%; Samskip Inc./BM-Int. Transport Inc. Norfolk, Bandaríkin 100%; Samskip Ltd. Immingham, Bretland 100%; Samskip Norge AS Moss, Noregur 100%; Samskip Russia GmbH Bremen, Þýskaland 100%; Samskip Scandinavia ehf. Reykjavík 100%.

136 Sláturfélagið hefur komið víðar við. Þannig hóf SS rekstur sútunarverksmiðju árið 1965 að Skúlagötu 20, Reykjavík, en síðar var verksmiðjan rekin á Grensásvegi 14. Rekstri sútunarverksmiðju var hætt á árinu 1988. Kaflaskil urðu í sögu félagsins þegar kjötvinnsla Sláturfélagsins var flutt til Hvolsvallar frá Reykjavík á árinu 1991 þar sem hún hafði verið frá upphafi. Stórgripa- og sauðfjársláturhús á Hvolsvelli var lagt niður og tekið undir kjötvinnsluna ásamt því að húsnæði hennar var stækkað til muna. Lokið var við 1.800 fermetra stækkun kjötvinnslunnar á Hvolsvelli á árinu 1998. Starfsstöð félagsins á Hvolsvelli er nú rúmir 8.000 fermetrar. Þetta er stærsta og fullkomnasta kjötvinnsla landsins. Á Fosshálsi í Reykjavík er vörudreifing, sala og skrifstofustarfsemi, en á árinu 1993 sameinaðist öll starfsemi félagsins á höfuðborgarsvæðinu á einum stað að Fosshálsi 1. Húsnæðið var síðan keypt á árinu 1997 og viðbót á árinu 1998, alls tæpir 3.700 fermetrar. Umsvif Sláturfélags Suðurlands eru mikil eins og sést í ársreikningum. Árið 2001 var velta SS um 3,5 milljarðar kr. Eignir eru um 3 milljarðar en skuldir miklar eða rúmlega 1700 milljónir kr. (Sláturfélag Suðurlands 2003)

Mjólkurbú Flóamanna tók til starfa 5. desember 1929 á Selfossi, en um sama leyti fluttist verslun héraðsins frá Eyrarbakka að Ölfusárbrú. Mjólkurbúið var frá upphafi og er enn samvinnufyrirtæki í eigu bænda. Það var stofnað af bændum í Flóanum, og hefur frá upphafi verið brautryðjandi í mjólkuriðnaði á Íslandi. Það er stærsta mjólkurbú landsins og er starfssvæði þess nær frá Hellisheiði í vestri og austur fyrir Hornafjörð. Í dag starfa við búið 128 manns og félagsmenn eru um 550. Fyrsta heila starfsár búsins var heildarinnlegg mjólkur 1,2 milljónir lítra. Mjólkurlítrarnir er nú um 40 milljónir lítra sem er um 40% af landsframleiðslunni. Flestir urðu innleggjendur mjólkurbúsins tæplega 1200 árið 1960 en mjólkurinnlegg varð mest 42,8 milljónir lítra árið 1985. Síðan þá hefur lítils háttar samdráttar gætt vegna framleiðslustýringar í landbúnaði. Þessi þróun endurspeglar almenna þróun í mjólkurframleiðslu, en hún hefur á undanförnum áratugum einkennst af fækkun framleiðenda eins og sést í línuritinu hér að neðan. Á sama tíma hefur framleiðslumagn mælt í meðalinnvigtun lítra af mjólk á hvern framleiðenda aukist. Mjólkurbú Flóamanna framleiðir 75 tegundir af mjólkurvörum en fjöldi vörunúmera er um 140. Vöruþróun og nýsköpunarstarfsemi hefur verið mikil og

137 margar af vörum búsins eiga sér ekki hliðstæðu erlendis. Það á til dæmis við um skyrið en Mjólkurbú Flóamanna hefur framleitt skyr og osta allt frá fyrstu árum þess. Nú er skyrið framleitt með ýmsum bragðefnum og ostaúrvalið er fjölbreytt (Mjólkurbú Flóamanna 2003). Árið 2001 var velta Mjólkurbús Flóamanna rúmir 3 milljarðar króna og starfsmenn voru 130 talið í ársverkum (Frjáls verslun 2002: 76-7). Mjólkurbú Flóamanna er stórfyrirtæki á íslenskan mælikvarða og var númer 74 í röðinni yfir 300 stærstu fyrirtæki landsins árið 2001 á lista Frjálsrar verslunar (sama: 76). MBF er þó ekki stærsta samvinnufyrirtækið í atvinnugreininni ‘mjólkurbú og ostagerð’. Mjólkursamsalan í Reykjavík (MS) er enn stærri, en hún var númer 42 á lista Frjálsrar verslunar. Velta MS var 5643 milljónir króna 2001 og var fjöldi starfsmanna 231 mælt í ársverkum (sama: 74). Saga MS er athyglisverð og mikilvæg í Íslandsögu 20. aldar. Mjólkursamsalan í Reykjavík tók til starfa 15. janúar 1935, en stofnun hennar var liður í viðleitni bænda og verkamanna til að bæta kjör almennings með samstöðu og skipulagningu. Þá var kreppuástand í landinu, atvinnuleysi og fátækt meðal almennings. Skipulagsleysi ríkti í mjólkursölumálum á höfuðborgarsvæðinu. Sjö mjólkurbú störfuðu og reyndu öll að selja vörur sínar í Reykjavík og Hafnarfirði. Hörð samkeppni ríkti og bændur fengu sífellt lægra verð fyrir mjólkina. Útsölustaðir fyrir mjólk voru á annað hundrað í Reykjavík, enda þótt íbúar höfuðstaðarins væru ekki nema um 30 þúsund. Auk þess gengu bændur í hús og seldu mjólkurafurðir sínar. Hreinlæti í meðferð mjólkur var oft ábótavant á þessum árum. Eitt af fyrstu verkum ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Alþýðuflokks undir forystu Hermanns Jónassonar, þ.e. “Stjórn hinna vinnandi stétta”, var að setja afurðasölulög. Með lögunum var landinu skipt í sölusvæði og var MS ætlað að sjá höfuðborgarsvæðinu fyrir mjólk og mjólkurafurðum. Mjólkursamsalan hefur vaxið yfir langan tíma og sprengt utan af sér húsnæði sitt. Hún var fyrst til húsa í gömlu mjólkurstöðinni við Snorrabraut 54, en 1949 var mjólkurstöðin að Laugavegi 162 vígð. Aðstaðan á Laugarveginum átti að duga til aldamóta, en reyndin varð önnur. 5 árum síðar var húsnæðið orðið of lítið. Þó var Mjólkursamsalan þarna í 36 ár. Í október 1980 var tekin ákvörðun um að hefja byggingarframkvæmdir við Bitruháls í Reykjavík og var starfsemin flutt í nýju bygginguna og skrifstofur 1986 (Mjólkursamsalan í Reykjavík 2003). Eins og sést í Viðauka 1 aftan við þennan kafla er Mjólkurbú Flóamanna og Mjólkursamsalan í Reykjavík aðeins tvö af 9 samvinnufélögum sem tilheyra

138 atvinnugreininni ‘mjólkurbú og ostagerð’. Auk Mjólkurbús Flóamanna og Mjólkursamsölunnar í Reykjavík voru eftirfarandi samvinnufélög í þessari atvinnugrein árið 2001: Mjólkursamsalan í Reykjavík, Mjólkursamlag Borgfirðinga, Mjólkursamlag Ísfirðinga, Mjólkursamlag Kaupfélags Skagfirðinga, Mjólkursamlag Kaupfélags Eyfirðinga, Mjólkursamlag Kaupfélags Þingeyinga, Mjólkursamlag Kaupfélags Héraðsbúa og Mjólkursamlag Kaupfélags A-Skaftfellinga Í þessari sömu skrá sést að mjög samvinnufélög eru skráð á Íslandi og að starfsemi þeirra er margvísleg. Við skulum nú gera tilraun til að átta okkur á umfangi og starfsviðum samvinnufélaga um leið og við snúum okkur að umfjöllun um hið nýja skeið í þróun samvinnuhreyfingarinnar á Íslandi. viii. Nýsköpun samvinnufélaga 2000-x Staða samvinnuhreyfingarinnar á Íslandi á nýrri öld. Það er ákaflega snúið mál að gera sér grein fyrir stöðu samvinnuhreyfingarinnar á Íslandi í dag. Upplýsingum um þessa hreyfingu er ekki kerfisbundið safnað eins og gert er í nágrannalöndunum þar sem fylgst er með þróun hins svokallaða ‘félagshagkerfi’ eða ‘þriðja hagkerfisins’ sem myndar grundvöll nútíma hagkerfa ásamt opinbera geiranum og einkageiranum. Við skulum samt gera tilraun til þessa og reyna að meta umfang samvinnufyrirtækja geirans. Þessum geira má skipta upp í tvö undirsvið, þ.e. eiginleg samvinnufyrirtæki og dóttur- og hlutdeildarfyrirtæki samvinnufyrirtækja. a) Umfang samvinnufyrirtækja. Geiri eiginlegra samvinnufyrirtækja samanstendur af skráðum samvinnufyrirtækjum. Eins og kemur fram í listanum yfir samvinnufyrirtæki aftan við þennan kafla voru þau 95 að tölu árið 2002. Af þessum 95 félögum eru 14 ekki í rekstri og því er 81 virkt samvinnufélag í landinu. 18 kaupfélög eru á listanum yfir virk samvinnufélög. Í tengslum við gerð þessarar skýrslu var leitað til þessara kaupfélaga til að fá upplýsingar um veltu þeirra og fjölda stöðugilda og veittu sum þeirra þessar upplýsingar. Upplýsinga um veltu var einnig aflað eftir öðrum leiðum, þ.e. í gagnabanka Lánstrausts og lista Frjálsrar verslunar yfir 300 stærstu fyrirtækin í landinu árið 2001. Miðað við þær upplýsingar sem fengust með þessum hætti um veltu samvinnufyrirtækja og birtast í töflunni aftan við þennan kafla kemur í ljós að velta fyrirtækjanna var rúmir 33,5 milljarðar króna árið 2001. Þessar upplýsingar eru

139 engan veginn tæmandi, en þegar litið er yfir listann má varlega áætla og gefa sér sem vinnutilgátu að á vanti a.m.k rúma 6 milljarða kóna. Heildartalan gæti því verið nær 40 milljörðum eða rúm 5% af vergri landsframleiðslu 2001. Umsvif samvinnufélaga eins og annarra fyrirtækja og annars rekstrar leiðir af sér margföldunaráhrif í hagkerfinu. Í hagrannsóknum er oft gert ráð fyrir að margfaldari geti verið á bilinu 2-3 eða jafnvel meira eftir því hversu opin hagkerfi eru. Ef við gefum okkur þessar forsendur má vænta þess að 10-15% af vergri landsframleiðslu megi rekja beint og óbeint til geira eiginlegra samfélaga. Geiri samstarfsfyrirtækja samvinnufélaganna hefur í gegnum tíðina verið umfangsmikill, því mörg þessara fyrirtækja hafa verið meðal stærstu fyrirtækja á Íslandi. Við skulum nú reyna að átta okkur á umfangi þessa geira. Í viðauka 2 aftan við þennan kafla er listi yfir fyrirtæki sem samvinnufélög áttu hlut í árið 2002. Upplýsinga um þetta fengust hjá kaupfélagsstjórum, á heimasíðum kaupfélaga og samvinnufélaga, gagnabanka Lánstrausts hf og víðar. Upplýsingar þessar eru ekki tæmandi, en gefa þó vísbendingar um mikilvægustu fyrirtækin. Þau eru 38 að tölu. Í mörgum þeirra eiga kaupfélögin afar lítinn hlut, en í öðrum þó nokkurn (sjá viðauka 2). Þegar heildar velta þessara 38 fyrirtækja er tekin saman, þ.e. þeirra sem upplýsingar hafa fengist um, er hún rúmlega 135 milljarðar króna.

Velta dóttur- og hlutdeildarfélaga samvinnufélaga 2001 Velta 2001 Velta 2001 Áburðarsalan Ísafold ehf Norðlenska matborðið ehf. 795,6 Ásgarður hf. eignarhaldsfélag 0,0 Norðurmjólk ehf 2500,0 Brú hf 0,982 Olíufélagið ehf/nú Ker hf 15964,0 Búr ehf. 3986,2 Osta og smjörsalan 5006,0 Búvélar hf Pöntunarfélag Eskfirðinga ehf. 4,3 Bújöfur-Búvélar hf 0 Samskip hf 14258 Element hf 169,7 S.Í.F. hf 60518,0 Fiskiðjan Skagfirðingur hf 2276,0 Samkaup hf 8296,0 Fjárvaki 26,7 Siggi og Gugga ehf 2,5 Hesteyri 2 ehf 8,4 Skinney - Þinganes hf. 3259,0 Húsgögn og innréttingar hf Sláturhús KS Ísgata h/f 40,0 Tækifæri hf 6,0 Ísrann ehf. 0,248 TN-Holding hf. 0,0 Kjötkaup hf. 114,5 Tryggingasjóður innlánsdeilda Leiðbeinigamiðstöðin ehf 10,0* Urðir hf* 6,0 Loðnuvinnslan h/f 1167,0 Útgerðarfélag Akureyringar hf 7096,0 Miðás hf. 182,4 Vátryggingafélag Íslands 9236,5 Mjólkursamlag KS Vélsmiðja KÁ hf 0,141314 MT-bílar ehf 80,0 Vörumiðlun ehf 181,0 Samtals 135191,2 *Ágiskun

140 Upplýsingarnar í töflunni hér að ofan eru ófullkomnar bæði vegna þess að hér er vafalaust ekki tæmandi listi yfir félög sem kaupfélög og samvinnufélög eiga hlut í og eins vegna þess að hlutdeild kaupfélaganna er í mörgum tilfellum mjög lítil. Við skulum nú taka af listanum þau félög sem kaupfélögin eiga lítinn hluta í, þ.e. Olíufélagið ehf/nú Ker hf, Samskip hf, S.Í.F. hf, Útgerðarfélag Akureyringar hf. og Búr hf. Þegar velta þessara félaga hefur verið dregin frá verður niðurstaðan 33366,2 milljónir króna eða rúmir 33 milljarðar króna. Nú er það svo, að mörg dóttur- og hlutdeildarfélaganna eiga samvinnufélögin með öðrum félögum og einstaklingum. Líklegt er því að ef hlutur samvinnufélaga í veltu þessara félaga væri reiknaður í samræmi við eignarhlutfall samvinnufélaganna í dóttur- og hlutdeildarfélögum myndi velta samvinnufélaga í þessum geira vera mun lægri en 33 milljarðar. Ef till vill er veltan þá í kringum 2/3 af þessari tölu eða um 22 milljarðar króna miðað við árið 2001. Auk þeirra félaga sem hafa verið nefnd hér að ofan eru ýmis önnur félög sem samvinnufélög eiga hlut í en hafa ekki verið reiknuð inn í 22 milljarða veltutöluna. Samvinnufélög eiga 29,53% hlut í Olíufélaginu hf (nú Ker hf, sjá viðauka 2). Velta fyrirtækisins 2001 var 15964,0 milljónir króna. Áætlaður hlutur samvinnufélaga í þessari veltu gæti því verið 4,714 milljarðar króna. Hlutur samvinnufélaga í SÍF hf er um 6,42%. Miðað við að velta SÍF var 60,518 milljarðar króna 2001 var hlutur samvinnufélaga 3885 milljónir króna. Ekki hafa fengist upplýsingar um hver hlutur samvinnufélaga er í Samskipum hf. Samkvæmt gagngrunni Lánstrausts hf á Ker hf 49,7% í Samskipum. Miðað við að samvinnufélög eiga 29,53% í Ker hf má segja að þau eigi 14,68% í fyrirtækinu. Velta Samskipa árið 2001 var 14,258 milljarðar króna og því má áætla að hlutur samvinnufélaga í þessari upphæð sé 2,093 milljarðar króna. Loks ber að nefna Kaupás hf, en VÍS á 4,78% í fyrirtækinu. Það velti 13,379 milljarðar árið 2001 og því heyra a.m.k. 639 milljónir til samvinnufélaga af þessari upphæð. Búr hf er 11% í eigu Ker hf, en ef samvinnufélög eiga 29,53% í Ker hf má segja að þau eigi 3,25% í Búri hf. Kaupfélag Borgfirðinga á 11,3% í Búri og Samland fyrirtæki KEA á 11 %. Samkaup hf sem eru 92,5% í eigu samvinnufélaga á 13,8% og því eiga samvinnufélög 12,77% í Búri hf. Samtals eiga samvinnufélög því 38,3% í Búri Hf. 2001 var velta fyrirtækisins 3,986 milljarðar krónur. Miðað við að samvinnufélögin eigi 38,3% í Búri hf er velta þeirra gegnum Búr 1526,7 milljónir krróna. Þegar þessar tölur eru teknar saman verður útkoman 12857,7 milljónir króna eða um 13 milljarðar króna.

141 16. janúar 2003 var skrifað undir samning nokkurra fyrirtækja tengdum samvinnufélögum og ríkisins um sölu á 45,8% hlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands hf. Um var að ræða fyrirtækin Egla hf., Vátryggingafélag Íslands hf., Samvinnulífeyrissjóðurinn og Eignarhaldsfélagið Samvinnutryggingar. Egla er hlutafélag í eigu þýska bankans Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGaA, Kers hf. og VÍS. Eignarhlutir samkvæmt samningnum skiptust milli kaupenda þannig að Egla hf. Eignaðist 71,2%,Vátryggingafélag Íslands hf. 12,7%, Samvinnulífeyrissjóðurinn 8,5% og Eignarhaldsfélagið Samvinnutryggingar 7,6%. Hlutur skiptist þannig að Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGaA á 35,6%, Ker á 35,2% og Vátryggingafélag Íslands 0,4%. Hlutur þýska bankans í Búnaðarbankanum er því samkvæmt samningnum 16,3%, hlutur Kers er 16,1%, samanlagður hlutur VÍS er 6,0%, hlutur Samvinnulíferyissjóðsins 3,9% og Eignarhaldsfélagsins Samvinnutrygginga 3,5%. Fyrir átti Kaupfélag Árnesinga 0,26% í bankanum. 29,76% Samvinnufélög eiga u.þ.b. 65,8% í VÍS (hlutur Ker hf reiknaður niður úr 4,45% í 1,5% því samvinnufélög eiga ca 29,5% í Ker hf). Hlutur samvinnufélaga í bankanum gegnum VÍS er því 3,948%. Samvinnufélög eiga u.þ.b. 29,5% í Ker hf og eiga því í gegnum Ker 4,75% í bankanum. Ef við gerum ráð fyrir að Samvinnulíferyissjóðurinn og Samvinnutryggingar séu alfarið samvinnufyrirtæki, má leiða að því rök að eignarhlutur samvinnufélaga í Búnaðarbanka Íslands hf sé 16,4%. Árið 2001 var velta Búnaðarbankans 22264 milljónir króna. Ef velta bankans verður svipuð næstu ár má segja að samvinnufélögin hafi náð tangarhaldi á 3642 milljónum króna með kaupunum. Við getum nú tekið saman þessa grófu greiningu á umsvifum samvinnufyrirtækja í íslensku hagkerfi. Greiningin bendir til þess að miðað við veltutölur frá 2001 hafi bein velta samvinnufyrirtækja, S-geirans, verið yfir 75 milljarðar króna. Ef við gerum enn ráð fyrir að margföldunaráhrif séu á bilinu 2-3 var bein og óbein velta 150-225 milljarðar. Niðurstöðurnar benda til að umsvif samvinnufélaga í hagkerfinu séu afar mikilvæg íslensku efnahagslífi, þrátt fyrir þann samdrátt sem varð á fyrri hluta tíunda áratugarins þegar deildir og eignir Sambands íslenskra samvinnufélag voru að mestu seldar.

142 Hér hefur verið gerð tilraun til að meta umfang samvinnufélaga í íslensku hagkerfi. Nálgunin er afar gróf, en niðurstöður eru nokkuð athyglisverðar og ættu að vera hvatning til að nákvæm greining verði gerð á þessum geira hagkerfisins. b) Starfssvið samvinnufélaga á Íslandi. Þótt umfang starfsemi samvinnufélaga á Íslandi sé mikið verður ekki sagt að hún sé að sama skapi fjölbreytileg. Þetta sést vel þegar listinn yfir eiginleg samvinnufélög í Viðauka 1 er skoðaður. Þar eru félögin flokkuð eftir atvinnugreinum í samræmi við flokkunarkerfi Hagstofu Íslands, ÍSAT. Í stórum dráttum má segja að annars vegar séu íslensk samvinnufyrirtæki einkum starfrækt á sviði matvælaframleiðslu sem tengd er landbúnaði og hins vegar á sviði hefðbundinnar þjónustustarfsemi. Á sviði slátrunar- og kjötvinnslu störfuðu 6 fyrirtæki árið 2002 sem rekin eru með rekstrarformi samvinnufyrirtækja. Þrjú samvinnufyrirtæki eru skráð í atvinnugreininni frysting fiskafurða og eitt er samvinnufélag útgerðarmanna. 9 samvinnufélög eru starfrækt á sviði mjólkurframleiðslu og ostagerðar og eitt fyrirtæki er á sviði húsdýrafóðurframleiðslu. Á Íslandi eru starfrækt 6 húsnæðissamvinnufélög og tvö byggingarsamvinnufélög. 5 samvinnufélög, þ.e. kaupfélög, reka stórmarkaði sem hafa meira en 400 m² verslunarrými og 10 samvinnufélög stunda blandaða smásölu. Þrjú samvinnufélög eru starfandi á sviði fjárfestingalánasjóða.8 Einnig eru 18 byggingarsamvinnufélög rekin í landinu. Þrjú eignarhaldsfélög eru rekin í samvinnufélagsformi, þ.e. Eignarhalsfélagið Andvaka gf, Samvinnutryggingar gt og Samband íslenskra samvinnufélaga. Loks má geta þess að samvinnusjónvarpsfélag er rekið á Hornafirði. Þegar litið er til landfræðilegrar dreifingar samvinnufélaga á kemur í ljós að 41 félag eða rúmlega helmingur eiginlegra samvinnufélaga er staðsettur á Stór- Reykjavíkursvæðinu. Upplýsingar sem þessar segja ekki mikið um efnahagslegt hlutverk þessara samvinnufyrirtækja, því ef frá eru talin fyrirtæki eins og Mjólkursamsalan í Reykjavík og Mjólkurfélag Reykjavíkur er langsamlega stærstur hluti veltu samvinnufélaganna utan Stór-Reykjavíkursvæðisins. Fjölbreytni dóttur- og hlutdeildarfyrirtækja eiginlegra samvinnufyrirtækja er meiri en móðurfyrirtækjanna (sjá Viðauka 2 og 3). Flest þessara fyrirtækja eru tengd

8 Þ.e. “credit unions” á ensku, en slíkir sjóðir eru algengir t.d. á Bretlandi eins og kom fram í kaflanum um samvinnuhreyfinguna á Bretlandi.

143 landbúnaðarframleiðslu, en í hópinn bætast fyrirtæki á þjónustusviði og nokkur eru í nýsköpunar- og þróunarstarfsemi. Á þjónustusviði eru öflug fyrirtæki eins og tryggingarfyrirtækið VÍS, verslunarfyrirtækin Samkaup og Búr og olíusalan Ker. Fyrirtæki KÁ á Selfossi, Brú hf, sem stofnað var árið 2000, á m.a. tvö hótel, þ.e. Hótel Selfoss og Hótel Vík í Mýrdal. Auk þess rekur Brú hf þrjú af hótelum Flugleiðahótela hf, þ.e. Flughótel í Keflavík, Hótel Flúðir og Hótel Kirkjubæjarklaustur. Samvinnufélög eiga hlut í sjóflutningafyrirtækinu Samskip sem aftur á Landflutninga og Jóna Transport. Sem dæmi um félög sem samvinnufélögin eiga hlut í og eru á sviði nýsköpunar- og þróunarstarfsemi má nefna Tækifæri hf og Urðir hf sem KEA á í ásamt Byggðastofnun o.fl. KEA á einnig í nýsköpunarfyrirtækinu MT-Bílar á Ólafsfirði. Kaupfélag Skagfirðinga á 51% í fyrirtækinu Element hf, sem er þróunar- og sölufyrirtæki á sviði viðskiptahugbúnaðar. Í starfsemi Kaupfélags Austur- Skaftfellinga er lánastarfsemi Innlánsdeildar vaxandi þáttur og sömu sögu er að segja um eigna- og fjármálaumsýslu. Sömu sögu er að segja af mörgum öðrum kaupfélögum eftir að þau hafa á síðustu árum dregið sig æ meira út úr smásöluverslun til að bæta rekstrarstöðu sína. Á síðustu 10 árum eða svo hafa kaupfélögin mörg hver dregið sig út úr smásöluverslun og komið henni í hendur dótturfyrirtækja. Með þessu móti hafa þau komið til móts við harðnandi samkeppni á þessum markaði og dregið úr áhættu í rekstri. Segja má að þessi þróun hafi hafist 1989 þegar Mikligarður við Sund var gerður að hlutafélagi. Kaupfélag Suðurnesja fór sömu leið þegar Samkaup tóku formlega við verslunarrekstri þess 1. janúar 1999, en stofndagur Samkaupa hf. var 15. desember 1998. 1999 sameinaðist KÁ Nóatúni og 11-11 verslununum í hlutafélaginu Kaupás hf, en KÁ seldi Eignarhaldsfélagi Alþýðubankans hf. hlut sinn í Kaupási árið 2000. Í ársbyrjun sama árs tók gildi samstarfssamningur Kaupfélags Héraðsbúa (KHB) og Samkaupa hf. um innkaupasamstarf. Í framhaldi af því var verslunum KHB á Seyðisfirði, Norðfirði, Eskifirði, Reyðarfirði og Fáskrúðsfirði breytt í Sparkaupsverslanir. Vöruhúsi KHB á Egilsstöðum var jafnframt breytt í Samkaup. Loks má nefna að á árinu 2001 sameinuðust Matbær ehf, áður verslunarsvið Kaupfélags Eyfirðinga og Samkaup hf. undir merkjum hins síðarnefnda. Kaldbakur fjárfestingarfélag hf. og Kaupfélag Suðurnesja eru í dag aðaleigendur en hluthafar aðrir eru um 260 talsins.

144 Samkaup reka nú verslanirnar KASKÓ í Keflavík, Kjötsel í Njarðvík, Nettó á Akureyri, Akranesi, í Mjóddinni í Reykjavík og í Kópavogi. Samkaup reka einnig Samkaup á Egilsstöðum, Grindavík, Hafnafirði, Ísafirði, Njarðvík og í Vesturbergi í Reykjavík. Sparkaup eru rekin í Bolungarvík, Eskifirði, Fáskrúðsfirði, Garði, Norðfirði, Reyðarfirði, Sandgerði, Seyðisfirði, Reykjavík og tvær Sparkaupsverslanir eru í Keflavík. Þá reka Samkaup verslanirnar Strax í Akureyri, Húsavík, Kópavogi, Mývatnssveit og Siglufirði. Auk þess er Valgarður rekinn á Akureyri. Loks má nefna að verslanir undir nafninu Úrval eru reknar á Akureyri, Dalvík, Húsavík og Ólafsfirði. Þessi stefna, að draga úr verslunarrekstri í smásölu felur ekki aðeins í sér aðlögun að harðnandi samkeppni, heldur einnig forsendur til endurskilgreiningar á vægi hefðbundinna markmiða samvinnuhreyfingarinnar. Eins og komið hefur fram að ofan var mikilvægasti rekstrarþáttur samvinnufélaganna að kaupa nauðsynja- og rekstrarvörur fyrir bændur og koma landbúnaðarafurðum á innlendan og erlendan markað. Í kjölfar þéttbýlismyndunar varð verslunarstarfsemin umfangsmeiri og ekki lengur bundin við bændur eina. Jafnframt óx iðnaðarstarfsemi og samvinnufélög hösluðu sér völl í útgerð og fiskvinnslu. Meginhlutverk samvinnufélaganna var þó alltaf að bæta hag félagsmanna á félagssvæði viðkomandi samvinnufélags og efla atvinnustarfsemi þar. Samfara því að kaupfélög hafa flest dregið sig út úr smásöluverslun á síðustu árum hefur þessi síðast nefndi þáttur í starfsemi samvinnufélag orðið mikilvægari, þ.e. að stuðla að eflingu atvinnustarfsemi á viðkomandi félagssvæði um leið og athafnasvæði hafa stækkað í kjölfar samruna og fækkunar kaupfélaga. Með það fyrir augum að efla atvinnustarfsemi, auka fjölbreytni og nýsköpun atvinnulífs á félagssvæðunum og draga úr áhættu í fjárfestingum hefur eigna- og fjármálaumsýsla orðið æ mikilvægari þáttur í starfsemi kaupfélaganna. Til að ná þessum markmiðum hafa sum kaupfélaganna stofnað eignarhaldsfélög til að sinna þessu hlutverki, að efla atvinnustarfsemi á félagssvæði sínu. Hér að ofan var minnst á að Kaupfélag Árnesinga lagði niður verslunardeild sína og tók þátt í stofnun Kaupáss hf. KÁ seldi síðan hlut sinn í Kaupási og lagði fjármagn í eignarhaldsfélagið Brú hf og Kaupfélag Suðurnesja stofnaði Samkaup hf um svipað leiti. Fyrirferðarmest í þessari eignarhaldsfélagaþróun er vafalaust stærsta kaupfélagið, Kaupfélag Eyfirðinga Akureyri. KEA stofnaði eignarhaldsfélagið Kaldbak hf. Félagið hóf starfsemi í ársbyrjun 2002 og var skráð á aðallista Kauphallar Íslands í desember sama ár. Skráð hlutafé var 1.488.429.469 krónur, en áætlað

145 markaðsverðmæti þess var 5.507.189.035 í ársbyrjun 2003 (Kauphöll Íslands). Þrír stærstu hluthafar félagsins 2002 voru KEA með 42% hlut, Samherji með 16,48% hlut og Lífeyrissjóður Norðurlands með 13,79% hlut. Kaldbakur hét áður Kaffibrennsla Akureyrar og var stofnað árið 1936, en heildareignir Kaldbaks voru metnar á um 8.394 m.kr. í september 2002 (Mbl. 1.8.12.2002) Eignarhaldsfélög samvinnumanna Eignarhaldsfélög samvinnumanna eru óvenjuleg að því leiti að eignaraðild er dreifð og hún er staðbundin. Þetta er styrkleiki samanborið við eignarhaldsfélög í eigu einkaaðila, því eignarhaldsfélög samvinnumanna hafa meiri tilhneigingu til að sýna félagslega ábyrgð í verki og halda fjármagni og fjárfestingum heima í héraði, sbr KEA svf. og Kaldbakur. Eignarhaldsfélög samvinnumanna öðlast samúð viðskiptavina í ríkari mæli en einkafélögin sem þekkt eru fyrir að flytja fjárfestingar milli landshluta eða til útlanda ef vindurinn blæs þannig í seglin. Eignarhaldsfélög samvinnumanna geta þannig lagt grunninn að þolinmóðu fjármagni á tímum þegar framlög til byggðamála eru hornreka í stjórnmálum samtímans. Jafnvel þótt eignarhaldsfélögin séu skráð á almennum verðbréfamarkaði er þessi samúð viðskiptavina fyrir hendi á meðan eignarhlutur samvinnufélagsins í því er nægilegur til að hafa völdin yfir eignarhaldsfélaginu. KEA er gott dæmi það sem hér hefur verið sagt. Félagið er almenningsfélag því á áttunda þúsund manns eru skráðir félagsmenn í Kaupfélagi Eyfirðinga - samvinnufélagi. Félagið er því fjöldahreyfing og hefur burði til að vera byggðafestufélag með afl til að efla byggð á félagssvæði sínu. Rúmlega 7000 félagsmenn í KEA svf. eignuðust 14,2% í fjárfestingafélaginu Kaldbaki hf. á grundvelli A-stofnsjóðs í byrjun árs 2002, en B-hluthafar eignuðust þá einnig 14,2% í Kaldbaki. Ári síðar er Kaldbakur fjárfestingarfélag hf. í eigu rúmlega 9.000 hluthafa. Stærstu hluthafar Kaldbaks voru þann 28 des. 2002 m.v. útgefið hlutafé: Kaupfélag Eyfirðinga svf. 38,92%, Samherji hf. 15,25%, Lífeyrissjóður Norðurlands 12,77%, Sjöfn hf. 8,06%, Vátryggingafélag Íslands hf. 1,23% og Ker hf. 1,1%. Byggðafestuáherslan endurspeglast í dóttur- og hlutdeildarfélögum KEA svf eins og sést í töflunni hér að neðan.

146 Dóttur- og hlutdeildarfélögum KEA svf Hlutdeildarupplýsingar skv. nýjustu fáanlegu upplýsingum um áramót 2002-3

Hlut- Hlut- deild deild Menningarsjóður KEA 100% Tækifæri hf ? Urðir hf ? Kaldbakur hf 38,9% Samherji hf 18% Hagræði hf - Lyf og heilsa 46% Sjöfn ehf 40%

Samkaup hf 49,9% Nýja kaffibrennslan ehf 50% Vatnsmýri ehf 60% Bústólpi hf 100% Norðlenska matborðið hf 58% Klettar ehf ? Hafnarstræti 83-85 hf 100% Hafnarstræti 87-89 hf 61,5% MT-bílar ehf 20% Norðurmjólk ehf 13% Heimildir: Sjá Viðauka 4 Byggðafestumarkmið KEA svf birtist einnig í nýjum áherslum á samstarf við Háskólann á Akureyri. Með samstarfsyfirlýsingu, sem var undirrituð síðla árs 2002, lýsti KEA vilja til þess að styðja ýmis verkefni innan Háskólans á Akureyri á næstu fimm árum með árlegum fjárframlögum sem svara til kostnaðar við eina stöðu prófessors við háskólann á ári. Í yfirlýsingunni er lögð áhersla á eflingu byggðar og tengingu við atvinnulíf, menningu eða náttúrufar félagssvæðis KEA (KEA 2003). Þessi nýja áhersla markar e.t.v. aukna áherslu á samstarf svæðisbundinna háskóla og atvinnulífs í þekkingarhagkerfi framtíðar (um tengsl byggðastefnu og háskóla sjá t.d. Ívar Jónsson 1991 og 1995 og Ívar Jónsson og Vífill Karlsson 2002).

Sóknarfæri samvinnufélaga Það má ljóst vera af umfjölluninni í þessum kafla, að samvinnuhreyfingin á Íslandi hefur farið gegnum afar erfiðan kafla í sögu sinni á síðustu 15 árum. Nú virðist sem nýr kafli sé að hefjast þar sem samvinnufyrirtækin eru ekki jafn skuldum vafin og þau voru áður og nýjar forsendur eru að skapast með tilkomu eignarhaldsfélaga samvinnumanna sem er viðbót við þann hefðbundna rekstur sem samvinnufélögin stunda enn. Efnahagslegar og samfélagslegar aðstæður eru í dag gerólíkar þeim sem ríktu fram á níunda tug síðustu aldar. Þegar sóknarfæri samvinnufélaga í efnahagslífinu eru

147 skoðaðar er vert að gera sér grein fyrir þeim forsendum sem hinar nýju aðstæður skapa. Þessar forsendur er bundnar við hugmyndafræðileg átök í samfélaginu ekki síður en efnahagslegar og félagslegar forsendur. Við skulum skoða málið nánar. Síðast liðin 15 ár a.m.k hefur markaðshyggja verið ríkjandi á Íslandi eins og í nágrannalöndunum. Megin boðskapur markaðshyggjunnar hefur verið að auka frelsi á vörumörkuðum jafn sem fjármagnsmörkuðum. Jafnframt hefur verið lögð áhersla á að lækka skatta fyrirtækja og dregið hefur verið úr umsvifum ríkisins á ýmsum sviðum. Verkefni hafa verið flutt til sveitarfélaga á sama tíma og útgjöld ríkisins hafa aukist á ýmsum sviðum, m.a. í heilbrigðisgeiranum. Innan ríkisgeirans er vaxandi áhersla á ‘einkaframkvæmd’ fremur en einkavæðingu, en einkaframkvæmd má alveg eins kalla ‘samvinnu- og einkaframkvæmd’ til að leggja áherslu á mögulega aukið hlutverk samvinnufélaga inna heilbrigðisgeirans og raunar opinbera geirans almennt. Erlendis hefur markaðshyggjan leitt til aukinnar alþjóðavæðingar hagkerfa á sama tíma og héraðsstjórnir hafa fengið aukið hlutverk í atvinnuþróun héraða. Um leið hefur ríkisvaldið beitt sér í ríkari mæli fyrir bættri inngerð á sviði samgangna, upplýsingatækni, menntunar og aðlögun rannsóknar- og þróunarstarfs að þörfum atvinnulífs og samfélags. Í grófum dráttum má segja að efnahags- og atvinnustefna síðari ára hafi falist í áherslum á alþjóðavæðingu og hátækni. Þessar tvær áherslur eru aðeins tvær af mörgum og ekki nauðsynlega þær raunsæjustu þegar litið er til þess hversu aðstæður eru ólíkar í hinum fjölbreytilegu héruðum nágrannalandanna. Þróunarleiðir á sviði efnahags- og atvinnustefnu má draga upp í mynd eins og gert er hér að neðan. Alþjóðavæðing

A. B. Fjölþjóðleg Fjölþjóðleg fyrirtæki fjárfesta í fyrirtæki fjárfesta í ódýru vinnuafli, orku rannsókna- og Lágtækni: og/eða hráefnum þróunarstarfsemi Hátækni: Hráefni- og lítt Upplýsinga- unnar vörur og og líftækni smáframleiðsla C. D. Þróun- og afurðir Þjónusta, hráefna– og framleiðsla smáframleiðsla, sem hátæknivara sem byggir á staðbundinni byggja á staðbundinni þekkingu þekkingu

Byggðavæðing

148 Þegar myndin er skoðuð sést að greina má fjórar megin leiðir, þ.e. A, B, C og D. Sú hugmyndafræði er mjög ríkjandi nú um stundir sem gerir ráð fyrir því að mestur hagvöxtur fylgi þróunarleið B, sem byggist á því að laða að fjölþjóðleg hátæknifyrirtæki eða að innlend fyrirtæki starfi náið með þeim. Þessi leið hefur skilað góðum árangri þar sem þess hefur verið krafist af hinum fjölþjóðlegu fyrirtækjum að þau eigi umfangsmikil viðskipti við innlend fyrirtæki og taki þátt í að þróa framleiðslu þeirra á hærra gæðastig sem leiðir til aukinnar virðisaukningar. Dæmi um góðan árangur af slíkri stefnu er Taiwan sem hefur sett fjölþjóðlegum fyrirtækjum skilyrði í lögum um það að tiltekið hlutfall aðfanga sem þau kaupa verði að kaupa af innlendum framleiðendum (S. Chan og C. Clark 1992: 49-50, 85-6 og 154). Það var ekki fyrr en á síðasta áratug sem menn áttuðu sig á því að fjárfestingar í ýmsum lágtæknigreinum geta verið jafn arðsamar og fjárfestingar í hátæknigreinum og áhættan er oft minni. Þannig á leið C sér marga málsvara og er oft bent á danska húsgagnaiðnaðinn sem dæmi (P. Maskell o.fl. 1998). Leið D er vel þekkt á Íslandi því fyrirtæki eins og DNG, Pólstækni og Marel eru öll vel þekkt dæmi hér á landi. Loks má nefna leið A, sem er leið erlendrar stóriðju, en hún getur verið árangursrík ef tekst að þróa innlendan iðnað og þjónustu sem þessi stórfyrirtæki þurfa á að halda. Hér á landi skapar erlend stóriðja mikilvægar forsendur hagvaxtar, en atvinnusköpun er tiltölulega lítil miðað við fjárfestingar að afloknu byggingatímabili verksmiðja, orkuveitna og vegagerðar. Formælendur alþjóðavæðingar og heimsvæðingar hafa verið gagnrýndir fyrir að fullyrðingar þeirra um umfang heimsvæðingar eigi aðeins að hluta til stoð í veruleikanum. Þegar litið er til síðustu aldar í heild og horft til þróunar milliríkjaverslunar og fjárfestinga milli landa kemur í ljós að umfang þeirra sem hlutfall af þjóðarframleiðslu Vesturlanda var svipuð í síðustu áratugum aldarinnar og fyrstu áratugum hennar. Milliríkjaverslun og fjárfestingar erlendis eru fyrst og fremst innan þriggja svæða, þ.e. Evrópu, Asíu og Suður- og Norður Ameríku. Þróunin bendir ekki til að milliríkjaverslun og fjárfestingar erlendis séu landfræðilega jafn dreifðar og heimsvæðingarsinnar vilja halda fram. Auk þess er þessi starfsemi f.o.f. bundin við þrjár atvinnugreinar, þ.e. Bílaiðnað, raftækjaiðnað og banka- og tryggingastarfsemi. Einnig sýna rannsóknir að heimsframleiðsla vex hraðar en heimsverslun, en það er ekki í samræmi við kenningar um aukna heimsvæðingu. Þetta er hins vegar í samræmi við þá staðreynd að um 80% framleiðslunnar á Vesturlöndum er fyrir heimamarkað en ekki erlendan markað (L. Weiss 1998). Það má því segja að umræðan um

149 heimsvæðingu hefur verið ýkjukennd, en þó verður að hafa í huga að samstarf smárra fyrirtækja hefur aukist í milliríkaviskiptum. Fjármagns- og verslunarfyrirtæki á Íslandi hafa fjárfest í auknum mæli erlendis á allra síðustu árum, sbr. Baugur og Kaupþing, en samvinnufélögin á Íslandi hafa ekki farið inn á þá braut. Markaðshyggja og alþjóðavæðing hefur mætt vaxandi gagnrýni á síðari árum. Sýnt þykir að aukið frelsi á mörkuðum er ekki eini aflvaki hagvaxtar. Það hvernig háttað er samstarfi fyrirtækja og opinberra aðila í héraði hefur áhrif á atvinnuþróun og vaxtarmöguleika. Áherslan er mikil á staðbundið stoðkerfi atvinnulífsins og samstarf fyrirtækja, stjórnmálamanna og rannsóknarstofnana ekki síður en samstarf í millum fyrirtækja (Ívar Jónsson 2002). Erlendis eru fyrirtækjaklasar oft hluti af stærra fyrirtækjaneti sem teygir sig út fyrir landamæri viðkomandi landa og tengja saman framleiðendur og söluaðila á alþjóðamarkaði. Áhugi manna hefur í æ ríkari mæli beinst að hlutverki héraðsbundinna fyrirtækjaklasa í atvinnuþróun og sem forsendu hagvaxtar í héraði. Stefnumörkun sem byggir á þessari hugsun fellur undir þróunarleiðir C og D í myndinni hér að ofan og gildir það jafnt um leið lágtæknivaxtar og hátæknivaxtar. Þessar tvær leiðir falla vel að markmiðum samvinnufélaga sem byggðafestufélaga. Sögulega séð hefur samvinnuhreyfingin á Íslandi fylgt stefnu af þessu tagi. Þannig hafa fyrirtæki samvinnufélaga myndað fyrirtækjaklasa í tengslum við afurðaframleiðslu landbúnaðar eins og sést skýrast þegar litið er á þróun kjöt- og mjólkurafurðaiðnaðar á Íslandi. Þegar leitað er svara við spurningunni um hver séu sóknarfæri samvinnufélaga á Íslandi, ert vert að hafa í huga mögulegar þróunarleiðir og greina valkosti í ljósi styrkleika samvinnufélaga á Íslandi, veikleika þeirra, ógnana í starfsumhverfi þeirra og tækifæri. Styrkleiki samvinnufélaga á Íslandi felst í nánum tengslum þeirra við almenning á félagssvæði þeirra. Styrkleikinn felst ekki aðeins í sögulegum rótum félaganna og hlut þeirra í atvinnuþróun svæðanna, heldur ekki síst í þekkingu á þeim hefðum og verklegri sérþekkingu sem oft er staðbundin. Tengslin milli stjórnenda fyrirtækja og annarra starfsmanna eru gjarnan náin í smáum byggðalögum, en þau eru enn nánari í byggðalögum þar sem samvinnufélög eru ríkjandi vegna fjárhagslegrar og félagslegrar þátttöku almennings í samvinnufélögum. Traust og upplýsingastreymi er því gjarnan mikið í samvinnufyrirtækjum og því nærsamfélagi sem þau eru staðsett í. Fjárhagslegur styrkleiki samvinnufélaga á Íslandi er víða mikill, þar sem þau eru oft á tíðum meðal stærstu eða eru stærsti atvinnuveitandinn í byggðarlaginu. Þetta

150 á við sumstaðar á Austurland og Norðurlandi-Vestra. Á Norðurlandi-Eystra á þetta óbeint við um fyrirtæki KEA svf á Akureyri. Á Suðurlandi á þetta við um Sláturfélag Suðurlands, Mjólkurbú Flóamanna og Brú hf, fyrirtæki KÁ. Samvinnufyrirtækin hafa styrk af ýmsum fyrirtækjum sem þeim eru tengd og mynda eins konar samvinnustoðkerfi þeirra. Um er að ræða fyrritæki í tryggingageiranum, olíuverslun og flutningum, en einnig mögulega bankageiranum eftir kaup þessara fyrirtækja á hlut í Búnaðarbankanum. Styrkleiki þessara félaga felst ekki síst í því að þau starfa á fákeppniomörkuðum. Veikleiki samvinnufélaga á Íslandi felst einkum í því að þau mæta almennri andúð og fordómum meðal almennings og þykja “gamaldags”. Í einstaka atvinnugreinum eins og slátrun og kjötvinnslu er reksturinn mörgum samvinnufélögum erfiður og þau skuldsett líkt og átti við um verslunarreksturinn á síðasta áratug. Hreyfingin er veikburða hvað varðar aðgengi að fjárfestinga- og rekstrarfjármagni. Kaup fyrirtækja tengd samvinnufélögum á Búnaðarbankanum nýverið gæti bætt þessa stöðu, en enn er óljóst hvort þessi fyrirtæki muni hafa nægileg völd í bankanum eftir að hinn erlendi samstarfsaðili þeirra selur hlut sinn í bankanum eins og ráð er fyrir gert. Veikleiki samvinnufélaga á Íslandi felst einnig í því að eignaraðild er afar dreifð og þátttaka í þeim áhættulítil. Skortur er á samvinnufélögum sem byggjast á því að hlutur hvers félaga er verðmikill líkt og gerist um hin nýju samvinnufélög í Bandaríkjunum, en þau félög einkennast af mikilli frumkvöðlastarfsemi og nýsköpun í atvinnulífinu. Veikleiki samvinnuhreyfingarinnar virðist einnig felast í því að eftir að Sambandið glataði forræði sínu og frumkvæði skortir hreyfinguna miðstöð hugmyndalegs samhæfingarafls líkt og breska systurhreyfingin hefur. Ógnanir í umhverfi samvinnufélaga á Íslandi felast einkum í því að frjálsræði í verslun með innfluttar landbúnaðarafurðir gæti aukist í náinni framtíð. Mörg samvinnufyrirtæki starfa á sviði framleiðslu landbúnaðarafurða og sú þróun gæti orðið þeim erfið ef forsendur til aðlögunar skapast ekki. Samþjöppun auðmagns hefur aukist í ýmsum atvinnugreinum á Íslandi á undanförnum árum, m.a. í verslun. Á smásölumarkaðnum eru tvö fyrirtæki markaðsráðandi Kaupás 13370 milljónir króna veltu 2001, Baugur 26480 milljónir 2000 (42158 milljónir 2001, aukning vegna aukinna umsvifa erlendis), en Samkaup

151 hf voru með 8,3 milljarða veltu 2001. Samþjöppunin hefur aukist á síðustu árum. Á dagvörumarkaðnum, þ.e . bæði smásölu- og heildsölustigið, voru 2/3 hlutar smásölumarkaðarins í höndum Baugs og Kaupáss árið 2000 og hafði markaðshlutdeild þeirra aukist úr 45% 1996. Samþjöppun í innkaupum matvöruverslana á vörum í ýmsum vöruflokkum, svo sem dósa- og pakkavörum, var þó meiri.9 Samkeppnisstofnun hefur áætlað að um 80-90% af slíkum vörum séu keyptar í gegnum tvö birgðahús sem langflestar matvöruverslanir hafa tengsl við. Samþjöppun á meðal birgja varð einnig nokkur á tímabilinu. Þannig sinntu innan við 10 innflytjendur stærstum hluta af innflutningi á dagvöru hingað til lands auk þess sem innlendum framleiðendum dagvöru hafði fækkað (Samkeppnisstofnun 2001). Ógnunin í verslunargeiranum er þó fyrst og fremst gagnvart dótturfélölum samvinnufélaga, þ.e. gagnvart Samkaupum hf og Búri hf, því kaupfélögin hafa flest dregið sig út úr smásöluversluninni. Tækifæri samvinnufélaga á Íslandi eru margvísleg. Íslensk samvinnufélög hafa ekki verið stórvirk á hátæknisviði, þ.e. fyrirtæki sem þróa vörur eða þjónustu sem byggir á upplýsinga- eða líftækni. Á þessu sviði hefur Kaupfélag Skagfirðinga þó haslað sér völl með fjárfestingu í fyrirtækinu Element. Einnig má nefna að KEA á í gegnum Kaldbak hf. aðild að líffræðilegum tilraunum með fiskeldi í Eyjafirði og í gegnum aðild Kaldbaks að fyrirtækinu Samherja og umfangsmikið laxeldi á Austurlandi (Sæsilfur hf). Hátæknisviðið virðist að mestu óplægður akur fyrir samvinnufélög. Staðbundin verkþekking í tengslum við landbúnaðinn og afurðaiðnað hans er mikil víða á Íslandi, ekki síst í samvinnufélögum. Danir eru meðal fremstu þjóða í framleiðslu og þróun á tækni fyrir afurðastöðvar landbúnaðar, en sá styrkleiki byggir á nánu samstarfi tækjafamleiðenda og afurðastöðva. Íslendingar hafa lítið sinnt þessu sviði. Þó hefur fyrirtæki samvinnumanna, Norðlenska matborðið ehf, átt náið samstarf við Marel hf um þróun og innleiðingu hátækni kjötvinnslulínu í kjötvinnslu fyrirtækisins á Húsavík. Þróun líftækni er ör í dag og að margra mati mikilvægasta hagvaxtarforsenda næstu áratuga (C. Freeman 1987). Hagnýting líftækni sem gæti byggt á samstarfi bænda, samvinnufélaga og rannsóknarstofnana er annar óplægður akur fyrir samvinnufélög.

9 Andspænis Baug hf í innkaupum stendur Búr ehf sem samvinnufyrirtæki eiga ásamt Kaupási o.fl. Kaupás hf á 25.5% í Búri ehf, Ker hf. 11%, Kaupfélag Borgfirðinga 11,3%, Samland sf 11,0% og Samkaup hf 13.8% (Lánstraust 2002).

152 Hagkerfi Vesturlanda hafa á síðustu tveimur áratugum þróast æ meir frá fjöldaneyslumörkuðum til sérhæfðra markaðskima þar sem þörfum neytenda sem einstaklinga er sinnt betur en áður var. Sjálfvirknitækni hefur gert smáframleiðendum kleyft að framleiða tiltölulega lítið magn af vörum í tilteknum vöruflokkum á sama tíma og þeir geta framleitt fleiri vöruflokka en áður var hægt. Eins og hefur komið fram að ofan hefur þessi leið verið farin með góðum árangri í ostagerð og framleiðslu mjólkurafurða. Einnig má benda á mikla fjölbreytni í framleiðslu kjötafurða og tilbúinna kjötrétta. Þróun framleiðslu vistvænna landbúnaðarafurða fyrir markaðskima hefur hins vegar farið hægt, en hún kann að verða afar mikilvæg í náinni framtíð ef frjálsræði í innflutningi á landbúnaðarafurðum eykst sem verður að teljast líklegt. Slík framleiðsla gæti einnig átt möguleika á erlendum mörkuðum í framtíðinni. Í dag eru um 20 bændur sem stunda lífrænan búskap á Íslandi, en 10 þeirra eru í sauðfjárrækt, 2 í nautagriparækt og aðrir í matjurtarækt (Landbunadur.is 2003). Eins og kom fram í kaflanum um bandarísku samvinnuhreyfinguna hefur frumkvöðlasamvinnufélögum, ‘nýju kynslóðar samvinnufélögunum’ þar tekist að komast framhjá milliliðum með þessu móti í markaðsfærslu afurða og selt meira beint til neytenda en áður og náð þannig stærri hluta af virðisaukningunni í heildar fæðuframleiðsluferlinu. Einnig er selt meira beint til matsölustaða, en mun algengara er að almenningur borði á matsölustöðum fremur en heima eins og áður var reglan. Þessi þróun er þegar farin af stað einnig á Íslandi. Leið bandarísku nýju kynslóðarfélaganna er nánast óþekkt á Íslandi, þó eru til dæmi þessi að lífrænt lambakjöt sé selt á netinu. Hér er átt við að Hagfiskur ehf. hefur ásamt fleirum hafið sölu á lífrænt ræktuðu lambakjöti í samstarfi við Kjötframleiðendur hf. og sex sauðfjárbændur af Norður-, Austur- og Suðurlandi (Mbl. 24.10.2002). Eins og fram kom að ofan hafa hin bandarísku ‘nýju kynslóðar samvinnufélög’ sprottið upp á margvíslegum sviðum úrvinnslu úr landbúnaðarafurðum. Kostir þessara félaga er að þeim virðist takast vel að greina markaðskima og standa fyrir nýsköpun í framleiðslu og markaðssetningu á fjölbreyttara úrvali vörutegunda en áður var. Hugsanlegt er að fá slíkum samvinnufélögum á Íslandi í hendur framleiðslukvóta á kjöti og mjólk og myndu bændur þá kaupa afhendingarrétt í eigin úrvinnslustöðvum. Mögulega yrðu kvótar þá bundnir við landssvæði og fjöldi samvinnufélaga takmarkaður til að tryggja stærðarhagkvæmni. Bændur myndu geta selt afhendingarrétt sinn á markaði með samþykkt stjórnar samvinnufélagsins eins og gert er í Bandaríkjunum. Bændur hefðu þá verulega hagsmuni af því að stöðug nýsköpun á

153 sér stað og hagnaðarvon þeirra yrði mikil. Ókostir þessa fyrirkomulags eru samfélagslegir því vænta má að margir bændur myndu ekki geta keypt afhendingarrétt og hann myndi safnast á fáar hendur, nema ef spurn á mörkuðum eftir afurðum ykist umtalsvert. Fyrirsjáanlegt yrði því að umbætur í velferðarkerfinu þyrfti til að koma í veg fyrir örbirgð manna. Í því sambandi gæti komið til greina að bændur fengju eftirlaunabætur fyrir núverandi eftirlaunaaldur eins og gert er erlendis þar sem viðurkennt er að hið opinbera beri ábirgð á félagslegum afleiðingum umfangsmikilla breytinga sem þessara (sbr. margvísleg “förpensionering” í Svíþjóð). Rekstur Innlánsdeilda samvinnufélaga og lánasjóða eru einnig svið sem íslensk samvinnufélög hafa tileinkað sér í minna mæli en erlendis. Einkavæðing bankakerfisins á Íslandi gæti þrengt aðgengi almennings að lánsfé, en það gæti skapað forsendur fyrir slíkri starfsemi fái innlánsdeildir leyfi til að stunda útlánastarfsemi gegn lágum vöxtum. Vaxandi stéttaskipting gæti einnig leitt til spurnar eftir slíkri starfsemi líkt og gerst hefur erlendis. Í Bandaríkjunum eru samvinnufélög umsvifamikil á sviði rafmagnsframleiðslu. Ýmislegt bendir til að samvinnufélög gætu orðið arðbær á þessu sviði á landssvæðum sem eru langa vegu frá aðal orkuframleiðslu- og dreifingarstöðvum raforku. Stafar það af orkutapi við flutning á raforku eftir raflínum um langan veg. Orkuframleiðsla í samvinnufélagsformi sem byggir á samstarfi um sírennslistöðvar og beislun vindorku gæti reynst arðbært á sumum landssvæðum. Erlendis eru starf samvinnufélaga á sviði velferðarkerfisins öflugt, t.d. á Bretlandi, í Kanada og Bandaríkjuum. Samvinnufyrirtæki gætu gert sig gildandi á Íslandi eftir því sem einkaframkvæmd á sviði opinberrar þjónustu eykst bæði í heilbrigðis- og menntakerfinu. Útbreiðsla upplýsingatækninnar hefur aukið spurn eftir menntuðu vinnuafli. Á undanförnum áratug hefur fólksflutningur af landsbyggðinni verið mikill til höfuðborgarsvæðisins. Raunverð íbúða þar hefur hækkað verulega. Líklegt er að þessi þróun muni halda áfram, en um leið er þörfin fyrir ódýrt húsnæði mikið. Samvinnuhúsnæðisfélög gætu nýtt sér þessa auknu þörf fyrir ódýrara húsnæði og aukið starfsemi sína á höfuðborgarsvæðinu í framtíðinni. Neyslumynstur almennings er jafnframt að breytast mikið nú á tímum og vaxandi eftirspurn er eftir þjónustu á sviði tómstunda- og frítíma. Samvinnufélög hafa lítið starfað á þessu sviði ef Samvinnuferðir eru frátaldar. Sóknarfæri fyrir

154 samvinnufélög bænda og eignarhaldssamvinnufélög gætu leynst í útleigu tækja og þjónustu sem tengist háfjallaferðum og jöklasprangi. Almennt má segja að lokum að tíminn vinni með samvinnufélögum. Það stafar af því að vaxandi samþjöppun auðs og valda einkafyrirtækja í Íslensku atvinnulífi skapar andúð á fyrirtækjum sem ná fákeppni eða jafnvel einokunarstöðu í hagkerfinu. Í Bandaríkjunum njóta samvinnufélög velvilja þar sem þau veita fákeppnifyrirtækjum aðhald í samkeppni og neytendum vernd. Samfélagsleg ábyrgð verður því stöðugt mikilvægari í orðspori fyrirtækja og þar hafa samvinnufélög og önnur byggðafestfélög forskot. Spurningin er hvort almenningur vilji “fákeppni fyrir fáa” eða “fjármagn fyrir fjöldann”.

155 Viðauki 1

Skráð samvinnufélög á Íslandi í ágúst 2002 eftir atvinnugreinum ÍSAT atvinnugreinaflokkun Hagstofu Íslands Heimild: Hagstofa Íslands.

ÍSAT Heiti atvinnugreinar Heiti Velta Heimild nnafjöldi Starfsma Heimild Kennitala Póstfang Póstnr póststöð 2001 Milljónir kr

15110 Slátrun, vinnsla og Sláturfélagið Napi svf 6409932009 Hænuvík innri 1 451 Patreksfjörður geymsla kjöts, þó ekki alifuglakjöts 15110 Sölufélag A-Húnvetninga svf 570 * 43 * á 6402697079 Húnabraut 39 540 Blönduós 15110 Sláturhús KEA 5906850119 Hafnarstræti 91-95 600 Akureyri 15110 Sláturfélag Austurlands fsf 6709012890 Kaupvangi 6 700 Egilsstaðir 15110 Sláturfélagið Búi svf 5709013460 Heppuvegi 6 780 Höfn í Hornafirði

15130 Kjötiðnaður Sláturfélag Suðurlands svf 3468,2 ** 6002692089 Fosshálsi 1 110 Reykjavík

15201 Frysting fiskafurða Samvinnufélag Hvalfjarðar 5502692369 Stóra-Lambhaga 301 Akranes 15201 Frystihús KEA Hrísey 5301820619 Hafnarstræti 91-95 600 Akureyri 15201 Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga 1343 ** 120 * á 6801697649 Skólavegi 59 750 Fáskrúðsfjörður **15 0 s

15510 Mjólkurbú og ostagerð Mjólkursamsalan í Reykjavík 5643 * 231 * á 4702693679 Bitruhálsi 1 110 Reykjavík 15510 Mjólkursamlag Borgfirðinga 4702697319 Engjaási 310 Borgarnes 15510 Mjólkursamlag Ísfirðinga 4702694489 Sindragötu 2 400 Ísafjörður 15510 Mjólkursamlag Kaupf Skagfirð 4702693089 Ártorgi 1 550 Sauðárkrókur

156 15510 Mjólkursamlag Kaupf Eyfirðinga 4702697159 Hafnarstræti 91-95 600 Akureyri 15510 Mjólkursamlag Kaupf Þingeyinga 4702692199 Héðinsbraut 4 640 Húsavík 15510 Mjólkursamlag Kaupf Héraðsbúa 4702694729 Kaupvangi 39 700 Egilsstaðir 15510 Mjólkursamlag Kaupf A-Skaft 4702695889 Hafnarbraut 4-6 780 Höfn í Hornafirði 15510 Mjólkurbú Flóamanna 3153 * 130 * á 4602690599 Austurvegi 65 800 Selfoss

15711 Framleiðsla húsdýrafóðurs Mjólkurfélag Reykjavíkur svf 941 * 35 * á 4702696429 Korngörðum 5 104 Reykjavík

45200 Húsbyggingar og önnur Búmenn, húsnæðissamvinnufélag 6604992299 Suðurlandsbraut 54 108 Reykjavík mannvirkjagerð 45200 Byggingasamvfél stm Rafmv Rv 6107830589 Suðurlandsbraut 34 108 Reykjavík 45200 Straumsvík,byggingasamvinnufél 6606720369 Miðvangi 116 220 Hafnarfjörður 45200 Búhöldar,húsnæðissamvfél (svf) 6305002140 Hásæti 11b 550 Sauðárkrókur 45200 Húsnæðissvf Skagafjarðar hsf 6203023410 Sæmundargötu 7a 550 Sauðárkrókur 45200 Búseti svf,húsnæðissamvinnufél 16,099 *** 5604840119 Skipagötu 14 600 Akureyri 45200 Búseti svf,húsnæðissamvinnufél 5,124 sama 4602891069 640 Húsavík 45200 Búseti svf,húsnæðissamvinnufél 2,137 sama 6002892929 Egilsbraut 1 740 Neskaupstaður

50500 Bensínstöðvar Kaupfélag Árnesinga 1761 6801695869 Austurvegi 3-5 800 Selfoss

51110 Umboðsverslun með hráefni úr landbúnaði, lífdýr, hráefni til vefjariðnaðar og hálfunna vöru Þingborg svf 5009912089 Þingborg 801 Selfoss

51310 Heildverslun með ávexti Sölufélag garðyrkjumanna svf 6402696939 Súðarvogi 2f 104 Reykjavík og grænmeti

51651 Heildverslun með Samvinnufélag útgerðarmanna 5502690319 Hafnarbraut 6 740 Neskaupstaður veiðarfæri og fiskvinnsluvélar

157 52111 Stórmarkaðir með minnst Kaupfélag Borgfirðinga 1517 ** 101 ** á 6801696679 Borgarbraut 58-60 310 Borgarnes 400 m² verslunarrými 52111 Kaupfélag Húnvetninga 6801696329 Húnabraut 4 540 Blönduós 52111 Kaupfélag Skagfirðinga 5483 * 418 * á 6801695009 Ártorgi 1 550 Sauðárkrókur 52111 Kaupfélag Eyfirðinga 6009 * 341 * á 6801692769 Hafnarstræti 91-95 600 Akureyri 52111 Kaupfélag Austur-Skaftfellinga 447 * 36 * á 6801693229 Hafnarbraut 4-6 780 Höfn í Hornafirði

52120 Önnur blönduð smásala Kaupfélag Suðurnesja 53,2 ** 0 ** 6801691019 Hafnargötu 62 230 Keflavík 52120 Kaupfélag Kjalarnesþings 6801696759 Háholti 24 270 Mosfellsbær 52120 Kaupfélag Króksfjarðar 6801692849 380 Króksfjarðarnes 52120 Kaupfélag Bitrufjarðar 6801697219 Óspakseyri 500 Brú 52120 Kaupfélag Hrútfirðinga 6801693819 Borðeyri 500 Brú 52120 Kaupfélag Steingrímsfjarðar 302,8 ** 20 * á; 6801695949 Höfðagötu 3 510 Hólmavík ** s 52120 Kaupfélag Vestur-Húnvetninga 387 * 47 * á 6801691879 Strandgötu 1 530 Hvammstangi 52120 Kaupfélag Þingeyinga 6801692099 Garðarsbraut 5 640 Húsavík 52120 Kaupfélag Vopnfirðinga 231 * 19 * á 6801691959 Hafnarbyggð 6 690 Vopnafjörður 52120 Kaupfélag Héraðsbúa 2094 * 128 * á 6801696249 Kaupvangi 6 700 Egilsstaðir

52410 Vefnaðarvöruverslun Handprjónasamband Íslands svf 6211770289 Skólavörðustíg 19 101 Reykjavík

63210 Bílastöðvar; önnur Hreyfill svf 6401693549 Fellsmúla 26 108 Reykjavík þjónusta tengd flutningum á landi 63210 Ökuleiðir svf 6508750289 Hafnargötu 56 230 Keflavík

65120 Rekstur banka og Tryggingasjóður innlánsdeilda 6809891099 Sóltúni 26 105 Reykjavík sparisjóða 65221 Fjárfestingarlánasjóðir Lánasjóður Bæjarleiða svf 7101695279 Langholtsvegi 115 104 Reykjavík 65221 Lánasjóður atvinnubifrstjóra 7101693499 Fellsmúla 24-26 108 Reykjavík

158 65221 Stofnlánadeild samvinnufélaga 7011780339 Austurstræti 11 155 Reykjavík

70201 Leiga íbúðarhúsnæðis Aðalból byggingasamvf BSAB 6007770259 Háteigsvegi 7 105 Reykjavík svf

70321 Starfsemi húsfélaga Byggingasamvfél barnakennara 4501695879 Laufásvegi 81 101 Reykjavík íbúðareigenda 70321 Byggingasamvfél framreiðslum 5809670199 Þarabakka 3 101 Reykjavík 70321 Byggingasamvfél stm Háskóla Ísl 4501695799 Suðurgötu Hásk. Ísl 101 Reykjavík 70321 Byggingasamvfél póstmanna 4501692429 Grettisgötu 89 105 Reykjavík 70321 Byggingasamvfél stm ríkisstofn 4601694379 Grettisgötu 89 105 Reykjavík 70321 Byggingasamvfél stm S.Í.S. 4601692679 Skógarhlíð 12 105 Reykjavík 70321 Byggingasamvfél 4601694029 Borgartúni 18 105 Reykjavík verkamanna/sjóm 70321 Röðull,byggingarsamvinnufélag 5402696299 Laugavegi 114 105 Reykjavík 70321 Byggingasamvfél stm S.V.R. 4601694889 Nesvegi Sækambi 107 Reykjavík 70321 Byggingasamvfél B.H.M. 5907830219 Lágmúla 7 108 Reykjavík 70321 Byggingasamvfél stm 4601693649 Bitruhálsi 1 110 Reykjavík Mjólkursams 70321 Byggingasamvfél lögreglumanna 4501692779 Fannafold 115 112 Reykjavík 70321 Byggingasamvfél múrara 4501696179 Starengi 94 112 Reykjavík 70321 Byggingasamvfél símamanna 4501690999 Thorvaldsensstr. 4 150 Reykjavík 70321 Byggingasamvfél stm stjórnarráð 4601694969 Lindargötu 150 Reykjavík Arnarhvoli 70321 Byggingasamvfél 4501692189 Hátröð 9 200 Kópavogur atvinnuflugmann 70321 Byggingasamvfél Kópavogs 4501692939 Hamraborg 14a 200 Kópavogur 70321 Byggingasamvfél Hafnfirðinga 5205810229 Vallarbarði 1 220 Hafnarfjörður 70321 Garður,byggingasamvinnufélag 5701696029 600 Akureyri

74150 Rekstur eignarhaldsfélaga Eignarhaldsfélagið Andvaka gf 26,092 *** 4201697019 Ármúla 3 108 Reykjavík

159 74150 Rekstur eignarhaldsfélaga Samvinnutryggingar gt 5502690589 Ármúla 3 108 Reykjavík 74150 Rekstur eignarhaldsfélaga Samband íslenskra samvinnufél 5502694309 Glerárgötu 28 600 Akureyri

74840 Önnur ótalin viðskipti og Kaupfélag Borgf-fjárreiðudeild 5406932189 Egilsgötu 11 310 Borgarnes sérhæfð þjónusta 91330 Önnur ótalin Mjólkurbú Borgfirðinga svf 5704962049 Skálpastöðum 1 311 Borgarnes félagastarfsemi 92200 Starfsemi útvarps- og Sjónvarpsfélag Hornafjarðar svf 5002872929 Víkurbraut 4 780 Höfn í Hornafirði sjónvarpsstöðva

98000 Ótilgreind starfsemi Búseti svf,húsnæðissamvinnufél 128,433 *** 5611840709 Skeifunni 19, 3.hæð 108 Reykjavík 98000 Auðhumla svf 6806002950 Óseyri 2 603 Akureyri Alls 33581,61 1669 Félög með enga starfsemi 2002 97000 Félagsverslun gullsmiða svf 5401696409 Laugavegi 30 101 Reykjavík 97000 Kaupfélag Dýrfirðinga 6801696599 Klapparstíg 29 101 Reykjavík 97000 Vinnan byggingarsamvinnufélag 5001750369 Unnarstíg 2 101 Reykjavík 97000 Byggingasamvfél ungs fólks Rv 4807760629 Háaleitisbr. 58-60 108 Reykjavík 97000 Gallerí Hönd svf 5506942209 Bjarnarbraut 8 310 Borgarnes 97000 Kaupfélag Stykkishólms 6801694709 340 Stykkishólmur 97000 Blossi svf,Bolungarvík 4812760209 Brautarholti 26 355 Ólafsvík 97000 Rán svf 6502810209 Hjallastræti 30 415 Bolungarvík 97000 Dynjandi svf,pöntunarfélag 6301871259 Mjólkárvirkjun 465 Bíldudalur 97000 Sláturfélag Arnfirðinga svf 5407760249 Fremri-Hvestu 465 Bíldudalur 97000 Mjólkursamlag KVH/KFHB 4702693919 Höfðabraut 27 530 Hvammstangi 97000 Verslunarfélag Austurlands svf 4102861229 Helgafelli 2 701 Egilsstaðir 97000 Kaupfélag Stöðfirðinga 6801690989 Hafnarbraut 40 780 Höfn í Hornafirði 97000 Þór svf,kaupfélag,Hellu 7102692979 Bergþórshvoli 2 861 Hvolsvöllur * Frjáls verslun (2002); ** Ársreikningar fyrirtækisins eða upplýsingar forstjóra/kaupfélagsstjóra; á aftan við stjörnur merkir ársverk, en s merkir stöðugildi; *** Miðast við árið 2000 Heimild: Lánstraust.

160 Viðauki 2 Dóttur- og hlutdeildarfélög samvinnufélaga 2002 Velta 2001 í milljónum króna Áburðarsalan Ísafold ehf 0 Ásgarður hf. eignarhaldsfélag 0,0 Brú hf 0,982 Bújöfur-Búvélar hf 0 Búr ehf. 3986,2 Búvélar hf Element hf 169,7 Ferðaskrifstofa Vesturlands hf 8,2 Fiskiðjan Skagfirðingur hf 2276,0 Fjárvaki 26,7 Hesteyri 2 ehf 8,4 Húsgögn og innréttingar hf 0 Ísgata h/f 40,0 Ísrann ehf. 0,248 Ker hf 16206,0 Kjötkaup hf. 114,5 Leiðbeinigamiðstöðin ehf 10,0 Loðnuvinnslan h/f 1167,0 Miðás hf. 182,4 Mjólkursamlag KS MT-bílar ehf 80,0 Norðlenska matborðið ehf. 795,6 Norðurmjólk ehf 2500,0 Olíufélagið ehf/nú Ker hf 15964,0 Osta og smjörsalan 5006,0 Pöntunarfélag Eskfirðinga ehf. 4,3 S.Í.F. hf 60518,0 Samkaup hf 8296,0 Siggi og Gugga ehf 2,5 Skinney - Þinganes hf. 3259,0 Sláturhús KS TN-Holding hf. 0,0 Tryggingasjóður innlánsdeilda Tækifæri hf 6,0 Urðir hf 6,0 Útgerðarfélag Akureyringar hf 7096,0 Vátryggingafélag Íslands 9236,5 Vélsmiðja KÁ hf 0,141314 Vörumiðlun ehf 181,0 137147,4

161 Viðauki 3 Eignaraðilar að ýmsum fyrirtækjum sem samvinnufélög eiga hlut í Velta 2001 Milljónir kr. Vátryggingafélag Íslands 9236,5 Eignaraðilar Eign i %: Eignarhaldsfélagið Hesteyri ehf 25.0 Landsbanki Íslands hf,aðalstöðv 14.03 Eignarhaldsfélagið Andvaka gf 5.314 Ker hf 4.45 Líftryggingafélag Íslands hf 11.60 Samvinnutryggingar gt 25.8 Samvinnulífeyrissjóðurinn 9.14

Samskip hf 14258 Eigendur/Hluthafar: Eign i %: Hekla hf 0.00 Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga Olíuverslun Íslands hf 10.50 Ker hf 49.70 Kaupfélag Þingeyinga 0.01 Þróunarfélag Íslands hf 5.90 Kaupfélag Suðurnesja El ehf Kaupfélag Rangæinga

Olíufélagið ehf/nú Ker hf 15964,0 Eigendur/Hluthafar: Eign i %: Kaupfélag Þingeyinga 0.14 Samvinnulífeyrissjóðurinn 13.25 Vogun hf 4.83 Líftryggingafélag Íslands hf 0.4 Kaupthing Luxembourg S.A 0.98 Landsbanki Íslands hf,aðalstöðv 3.06 Fiskveiðahlutafélagið Venus hf 0.67 Kjalar ehf 11.39 Vátryggingafélag Íslands hf 13.29 Samvinnutryggingar gt 2.43 Norvik hf 22.53 Sund ehf 7.05 J&K Eignarhaldsfélag ehf 3.02 Starfsmannafélag Olíufélagsins 1.65 Kaupfélag Borgfirðinga 0.42

162 SÍF hf 60518 Eigendur/Hluthafar: Eign i %: Fiskiðjusamlag Húsavíkur hf 0.17 Hlutabréfasjóðurinn Auðlind hf 1.99 Síldarvinnslan hf 3.10 Mundill ehf 6.68 Guðmundur Runólfsson hf 0.15 Vátryggingafélag Íslands hf 5.95 Búnaðarbanki Íslands hf 2.64 Burðarás ehf 14.04 Ker hf 7.14 Skeljungur hf 1.96 Hraðfrystihús Eskifjarðar hf 0.73 Eimskipafélag Íslands hf 16.8 Sjóvá-Almennar tryggingar hf 5.19 Íslandsbanki hf 5.27 Tryggingamiðstöðin hf 1.83 Lífeyrissjóður verslunarmanna 4.94 Samvinnulífeyrissjóðurinn 2.42 Fjárfestingarfél Straumur hf 12.4 Framleiðendur ehf 6.59

Samkaup hf 8300 Eigendur/Hluthafar: Eign i %: 300 other shareholders 8.50 Kaldbakur fjárfestingafélag hf 49.50 Kaupfélag Suðurnesja 42.00

Búnaðarbanki Íslands hf 22264 Eigendur/Hluthafar: Eign i %: Hlutabréfasjóður Búnaðarb hf 0.30 Kaupþing banki hf 1.42 Kaupfélag Árnesinga 0.26 Ferradis Holding SA 2.77 Fjármálaráðuneyti 9,11 Hauck & Aufhäuser 16,3 Privatbankiers KGaA Ker hf 16,1 VÍS hf 6 Samvinnulíferyissjóðurinn 3,9 Samvinnutryggingar 3,5 VVIB hf. (Sjodur 6) 0.93 Hlutabréfasjóðurinn Auðlind hf 0.53 Lífeyrissjóðir Bankastræti 7 3.32 Búnaðarbanki Íslands hf 3.07 Vátryggingafélag Íslands hf 0.84 Eftirlaunasj starfsm Búnaðarb 3.25

Kaupás hf 13379 Landsbanki Íslands hf,aðalstöðv 19.12 Frjálsi fjárfestingarbankinn hf 5.46 Vátryggingafélag Íslands hf 4.78 Þróunarfélag Íslands hf 33.90

163 Þróunarfélag Íslands hf 293 Eigendur/Hluthafar: Eign i %: Samtök iðnaðarins 1.27 Samvinnulífeyrissjóðurinn 2.46 Lífeyrissjóðurinn Framsýn 13.2 Sameinaði lífeyrissjóðurinn 13.96 Þróunarfélag Íslands hf 16.65 Lífeyrissjóðurinn Lífiðn 4.9 Lífeyrissjóður verslunarmanna 14.97 Lífeyrissjóðir Bankastræti 7 10.6 Tryggingamiðstöðin hf 0.14

Búr ehf 3986,2 Eigendur/Hluthafar: Eign i %: Kaupás hf 25.5 Ker hf 11.0 Kaupfélag Borgfirðinga 11.3 Samland sf 11.0 Samkaup hf 13.8

164 Viðauki 4 Dótturfélög kaupfélaga Velta Dótturfélög/ Hlut-deild Velta 2001 Dótturfélög/ Hlut-deild Velta 2001 Umreiknuð Dótturfélög/ Hlut-deild 2001 í hlutdeildar-félög hlutdeildarfélög velta hlutdeildar- milljónu dótturfélaga/ miðað við félög m króna hlutdeildarfélaga eignar- dótturfélaga/ hlutfall hlutdeildar- félaga Norðurland Kaupfélag Menningarsjóð 100% Eyfirðinga svf ur KEA Tækifæri hf 6 (ár 2000) Urðir hf Kaldbakur hf 52% Samherji hf 18% 13043 2347,74 Hagræði hf - Lyf 46% og heilsa Sjöfn ehf 40% Mjöll hf 60% Harpa hf 45% Samkaup hf 49,90% 8300 4141,7 Nýja 50% 183,55 91,8 kaffibrennslan ehf Vatnsmýri ehf 60% Bústólpi hf 100% Norðlenska 58% 795,64 461,5 matborðið hf Klettar ehf Hafnarstræti 83- 100% 85 hf Hafnarstræti 87- 61,5% 28,281 17,4 89 hf (1996) MT-bílar ehf 20% 7060,1 Norðurmjólk 13% ehf

Kaupfélag Fiskiðjan Skagfirðinga Skagfirðingur hf Fiskiðja Sauðárkróks ehf Element hf Fjárvaki Vörumiðlun 181 ehf Leiðbeinigastö ðin ehf Hesteyri 2 ehf Sláturhús KS Mjólkursamlag

Vestfirðir Kaupfélag 302,8 Steingrímsfjarðar Eimskipafélag Íslands hf Norðlenska matborðið ehf Olíufélagið hf Útgerðarfélag Akureyringa hf S.Í.F. hf

165 Kaupfélag 67,8 Bitrufjarðar Kaupfélag 148 Króksfjarðar Norðlenska matborðið ehf Vesturland Kaupfélag 1517 Borgfirðinga Ker hf Ferðaskrifstofa 8,211 Vesturlands hf

Austurland Kaupfélag Siggi og Gugga 100% 2,5 Héraðsbúa ehf Pöntunarfélag 99,95% 4 Eskfirðinga ehf. Kjötkaup hf. 50% 114 Miðás hf. 36,48% 182 TN-Holding hf. 25,69% 0 Ásgarður hf. 9,99% eignarhaldsfélag Búr ehf. 8,02% 3986,2 Olíufélagið hf. 0,59% 15964 Skinney Þinganes 1,66% 3259 hf. Norðlenska 1,66% matborðið hf. Tryggingasjóður 11,10% innlánsdeilda Osta og 1,39% 5006 smjörsalan

Kaupfélag 446 Skinney – 0,60% 3259 0,60% Austur- Þinganes hf. Skaftfellinga Kaupfélag 1343 Loðnuvinnslan h/f 41.9% 1167 Fáskrúðsfirð- inga Ísgata h/f 22,90% 40

Suðurnes og Kjalarnes Kaupfélag 53,2 Suðurnesja Samkaup hf 44,3 8296

Suðurland Kaupfélag 1761 Árnesinga Brú hf 57,4 0,982 ár 2000

Vélsmiðja KÁ hf 0,1 Búvélar hf (í eigu Bújöfur- 75 KÁ, Vélasm. KÁ Búvélar og einstaklinga) hf Áburðarsalan 0 ár 1999 Ísafold ehf Ísrann ehf. 0,248 Húsgögn og 0 ár 2000 innréttingar hf Heimildir:Heimasíður fyrirtækjanna, kaupfélagsstjórar, gagnabanki Lánstrausts hf og Frjáls verslun 2002.

166 6. Kafli

Samanburður - lokaorð

Inngangur

Í þessari skýrslu hefur verið gerð grein fyrir sögu og stöðu samvinnuhreyfinga Bandaríkjanna, Bretlands, Íslands og Svíþjóðar. Sú rannsókna sem liggur að baki henni hefur öðru fremur verið ‘könnuðarlegs eðlis’ (explorative) því farið hefur verið inn á svið sem ekki hefur áður verið kannað hér á landi og lítið verið kannað erlendis. Samanburðarrannsóknir á samvinnuhreyfingum eru enn sem komið er fágætar. Sú þekking sem safnað hefur verið saman í þessari skýrslu er einkum þrenns konar. Í fyrsta lagi hefur verið gerð fyrir sögulegum bakgrunni hreyfinganna. Í örðu lagi hefur verið fjallað um umfang þessara hreyfinga og í þriðja lagi hefur verið greint frá því hvernig þær hafa brugðist við harðnandi samkeppni á mörkuðum og breyttu stjórnmálalegu umhverfi á síðustu tveimur áratugum. Hér verða megin niðurstöður á þessum þremur sviðum dregnar saman. i. Sögulegar rætur. Í grófum dráttum má segja að sá megin munur er á sögu þessara fjögurra hreyfinga að í Bandaríkjunum og á Íslandi eru samvinnufélögin í upphafi fyrst of fremst hreyfingar bænda. Á Bretlandi og í Svíþjóð spruttu hreyfingarnar upp í þéttbýlinu og iðnaðarborgum og voru upphaflega pöntunar- og neytendafélög verkamanna. Þessar ólíku sögulegu forsendur hafa gert það að verkum að tengsl hreyfinganna við stjórnmálahreyfingar eru mismunandi. Á Íslandi tengdist hreyfingin sterkum böndum stjórnmálaflokki bænda, þ.e. Framsóknarflokknum. Á Bretlandi og í Svíþjóð er hreyfingin tengdari flokkum jafnaðarmanna og njóta stuðnings þeirra. Á allra síðustu árum hefur vaxið áhugi að nýju á að styrkja þessi tengsl á Bretlandi og hefur Tony Blair forsætisráðherra Breta verið framarlega í flokki þeirra sem efla vilja tengslin. Í Bandaríkjunum hefur samvinnuhreyfingin frá upphafi verið mun óháðari

167 megin stjórnmálaflokkum, enda stjórnmálakerfið ólíkt hinu Evrópska að því leiti að ákvarðanataka er mikil í nærsamfélögum. Í Bandaríkjunum voru neytendasamvinnufélög í anda bresku Rochdale félaganna ekki stofnuð fyrr en um aldamótin 1900. Á Íslandi fór pöntunarfélögum og kaupfélögum í þéttbýli ekki að fjölga fyrr en eftir aldamótin líkt og í Bandaríkjunum. Það var raunar ekki fyrr en á fjórða og fimmta áratugnum sem skriður komst á stofnun kaupfélaga í sjávarþorpum og Reykjavík (sjá upptalningu í Samvinnunni 1952). Samvinnuhreyfingin í Bandaríkjunum sker sig frá hinum þremur hreyfingunum að því leiti að hún er enn þann dag í dag f.o.f. bændahreyfing. ii. Umfang hreyfinganna. Þegar litið er til umfangs samvinnuhreyfinganna kemur í ljós að markaðsstaða þeirra er mjög sterk í ýmsum geirum viðkomandi hagkerfa. Árið 2000 voru yfir níu þúsund samvinnufélög á Bretlandi með yfir 10,5 milljónir meðlima, en eignir félaganna voru þá metnar á yfir 61 milljarð sterlingspunda. Í Svíþjóð eru um 2,7 milljónir meðlima í um 90 svæðafélögum. Ársveltan var um 33 milljarðar sænskra króna 2001. í Báðum þessum hreyfingum njóta meðlimir lægra verðs á vörum og þjónustu samvinnufyrirtækjanna. Meðlimirnir safna þá punktum of fá ýmist greitt til baka fyrir þá í peningum eða hafa úttektarheimildir (líkt og ESSO, Flugleiðir o.fl. bjóða upp á). Í Bandríkjunum eru um 47 þúsund samvinnufélög með um 100 milljónir viðskiptavina eða um 40% íbúanna. Samvinnufélög bænda eru þar öflugust enda er landbúnaðarsamvinnufélagageirinn í Bandaríkjunum sá öflugasti í heiminum með yfir fjögurþúsund samvinnufélög, nálægt fjórum milljónum meðlima og árlega veltu sem nemur um 89 milljörðum dollara. Í Bandaríkjunum njóta samvinnufélögin margvíslegra skattaívilnana, en talin leika jákvætt efnahagslegt og samfélagslegt hlutverk. Á Íslandi var umfang samvinnurekstrar mikið á síðustu öld eða allt fram á tíunda áratuginn. Þá dróg verulega úr umfanginu í kjölfar þess að deildir Sambands íslenskra samvinnufélaga voru gerðar að hlutafélögum og eignarhlutur Sambandsins síðan seldur í skuldauppgjöri þess. Samvinnufélagageirinn er þó enn umfangsmikill í dag. Í landinu voru 95 samvinnufélög skráð árið 2002 og voru 81 þeirra í virkum rekstri. Af þessum 81 félögum voru 18 kaupfélög. Í þessari skýrslu hefur verið varlega áætlað að velta samvinnufyrirtækja, sem svo eru skráð, hafi verið um 40 milljarðar króna 2001. Í skýrslunni hefur velta samstarfs- og dótturfyrirtækja samvinnufélaganna verið tekin saman og hlutdeild samvinnufélaganna reiknuð í

168 samræmi við eignarhlut þeirra í þessum félögum. Þá kemur í ljós að hlutdeild samvinnufélaganna í þessari veltu var um 35 milljarðar 2001. Velta samvinnufyrirtækjanna og dótturfyrirtækja þeirra, þ.e. S-geirans, var því gróft áætluð um 75 milljarðar króna 2001. Samvinnuhreyfingarnar í löndunum fjórum eru öflugar, en starfssvið þeirra er mismunandi. Í eftirfarandi töflu er varpað ljósi helstu starfssvið hreyfinganna. Í samanburðinum kemur fram að íslensk samvinnuhreyfing hefur ekki haslað sér völl á ýmsum sviðum sem eru mikilvæg í hinum samanburðarlöndunum. Hér er átt við skort á samvinnufélögum í velferðarþjónustu, orkuframleiðslu og þjónustu sérfræðinga. Jafnframt eru samvinnufélög á sviði lánasjóða (credit unions) afar veik á Íslandi. Í Bandaríkjunum og á Bretlandi eru slíkir sjóðir afar mikilvægir og telur breska hreyfingin að miklir vaxtarmöguleikar séu á þessu sviði í framtíðinni. Samvinnubankar bænda eru fjölmargir í Bandaríkjunum og öflugur samvinnubanki er rekinn á Bretlandseyjum. Í Svíþjóð var nýlega stofnaður samvinnubanki af samvinnuhreyfingunni. Á Íslandi er enginn samvinnubanki, en eignarhlutur samvinnufélaga í Búnaðarbankanum er rúmlega 16%. Íslensk samvinnuhreyfing er því veik á fjármagnsmarkaðnum. Í þessari stöðu hafa mörg kaupfélög umbreytt starfsemi sinni og dregið sig út úr beinum rekstri í verslun, stofnað hlutafélög og einbeitt sér því að byggja upp eignarhaldsfélög. Markmiðið með slíkum eignarhaldsfélögum er byggðafesta, þ.e. að stuðla að því að fjárfestingar í atvinnulífi séu á félagssvæði viðkomandi samvinnufélags.

169 Starfssvið samvinnuhreyfinga Bandaríkin Bretland Ísland Svíþjóð Landbúnaðar- Yfir 4000 samvinnufélög í eigu bænda. Um 4 Yfir 230 þúsund félagsmenn eru 17 félög í landinu skráð árið 2002 á Félögin hafa sterka markaðsstöðu á mörgum samvinnufélög milljónir meðlima og velta félögin um 89 í yfir 580 félögum. sviði sláturhúsa, mjólkurbúa o.fl. mörkuðum, s.s. 99% í mjólkuriðnaði, 60% á milljörðum dollara Markaðshlutdeild félaganna er Velta þeirra gæti hafa verið 15-20 ávaxta og grænmetismarkaði, 80% í gjarnan yfir 50% og 100% á milljarðar 2001 kjötiðnaði, 75 á fóður og áburðarmarkaði og sumum mörkuðum ávaxta 75% á kornvörumarkaði Neytenda- 300 neytenda með hálfa milljón meðlima. Velta Hefur fækkað úr 859 árið 1960 í Velta 15 skráðra kaupfélaga var Félagar í KF eru um 2,7 milljón og velta var samvinnufélög um 500milljónir dollarar á ári 46 árið 2000. Velta þeirra var þá a.m.k. 19 milljarðar 2001. Auk þess um 33 milljarðar sænskra króna 2001. um 10 milljarðar punda var velta Samkaupa um 8,3 milljarðar Markaðshlutdeild í dagvöru var 19,7% 1997 2001. og 11,9% í sérvöru Félagar í olíuverslunarfélaginu OK eru 1,6 milljón og var velta þess 7,3 milljarðar Samvinnu- Um 12300 lánasjóðir (credit unions) þjóna 70 687 lánasjóðir árið 2000 með Þrír fjárfestingalánasjóðir skráðir Upplýsingar skortir lánastofnanir milljónum manna. Lána yfir 13% af lánu m til yfir 325 þúsund félaga. sem samvinnufélög 2002 almennings og hafa 8% af innlánum almennings Samvinnubankar 240 landbúnaðarsamvinnubankar lána 25% allra Samvinnubankann (the Co- Ekkert félag Coop-bank var stofnaður í maí 2002. lána til landbúnaðar. Árið 1995 veittu 6 operative Bank) Eigendur eru Kooperativa Förbundet (45%), landbúnaðarbankar 57 milljarða dollara í lán til Skandia Liv (35%) og Telia (20%) meira en 400 þúsund bænda gegnum samvinnubanka þeirra Húsnæðis- Um ein milljón íbúða í eigu samvinnufélaga, þar Um 1975 voru um 450 slík 9 slík félög skráð 2002 og var velta U.þ.b. 666 þúsund íbúðir. Íbúafjöldi gæti samvinnufélög af 600 íbúðir í New York með um tvær milljónir félög, en nú eru þau um 250. þeirra a.m.k. 151 milljón krónur 2001 verið meira en 1,5 milljón eða yfir 15% af íbúa þjóðinni Starfsmanna- Um 150 félög með um 6500 meðlimum 450 félög með samtals veltu upp A.m.k eitt félag skráð 2002, þ.e. Upplýsingar skortir samvinnufélög á 18 milljónir punda Hreyfill svf. Samvinnufélög í Heilsugæsluþjónusta sem rekin er í Mörg starfsmannasamvinnufélög Ekkert félag COOP-Komiform, sem eru velferðarþjónustu samvinnufélagaformi þjónustar 1,4 milljónir eru umönnunarfélög eins og líkamsræktarstöðvar. Ýmis félög tengd fjölskyldna. Meira en 50000 fjölskyldar njóta leikskólar, heimili fyrir aldraða heilsueflingu Leikskólar eru víða þjónustu leikskóla sem reknir eru í o.fl. samvinnufélög, en upplýsingar skortir um samvinnuformi starfsemi félaganna á öðrum sviðum velferðarkerfisins Samvinnufélög Slík félög eru nefnd í skýrslunni en frekari T.d. Syncro (verkfræðifyrirtæki. Ekkert félag Upplýsingar skortir sérfræðinga upplýsingar vantar Meiri upplýsingar skortir Orkuframleiðsla 1000 samvinnuraforkufyrirtækja sem þjóna 36 Upplýsingar skortir Ekkert félag Upplýsingar skortir milljónum manna í 46 fylkjum Bandaríkjanna og 700 samvinnusímafyrirtæki Sjá 25 milljónum manna fyrir rafmagni og eiga meira en helming rafmagnslína í landinu Tryggingafélög Meira en 50 milljónum Bandaríkjamanna er Samvinnutryggingar (the Co- Samvinnufélög eiga u.þ.b. 2/3 í VÍS Folksam er lang stærst þjónað af tryggingarfélögum sem eru í eigu operative Insurance Society - sem velti 9,2 milljörðum króna 2001 tryggingasamvinnufélaga með um 1/3 samvinnufélaga eða nátengd þeim CIS). Meiri upplýsingar skortir markaðshlutdeild 170 iii. Viðbrögð við breyttu efnahags- og stjórnmálaumhverfi Samvinnuhreyfingar samanburðarlandanna hafa allar farið í gegnum tímabil samdráttar síðan á níunda árartugnum. Viðbrögð þeirra hafa verið mismunandi, en í grófum dráttum má segja að þau séu tvenns konar. Annars vegar eru viðbrögð við þróun markaða, þ.e. harðnandi samkeppni og heimsvæðingu. Hins vegar eru viðbrögð við samfélagsþróun síðustu tveggja áratuga, .þ.e. vaxandi skauthverfing og stéttaskipting í löndunum og hræðsla við nýfrjálshyggju sbr. nýju kynslóðar samvinnufélög í Bandaríkjunum. Í Bandaríkjunum leiddi hræðslan við vaxandi heimsvæðingu og að niðurskurður yrði verulegur á styrkjum til landbúnaðarins á níunda áratug síðustu aldar til þess að vakning varð meðal bænda um að leita nýrra leiða i landbúnaði. Þetta var á tímum Ronald Reagans og nýfrjálshyggju stjórnar hans, en á áratugnum á undan höfðu tekjur bænda jafnt og þétt dregist saman og hlutfall þess hluta af heildarútsöluverði landbúnaðarvara til neytenda sem bændur fengu í sinn hlut hafði einnig dregist verulega saman.Úr þessu umhverfi spratt ‘samvinnufélagaæðið’ sem einkenndist af stofnun svokallaðra ‘nýju kynsslóðar samvinnufélaga’ sem eru lokuð samvinnufélög. Þau eru gjarnan vinnslustöðvar sem byggjast á því að bændur kaupa afhendingarrétt fyrir afurðir búa sinna tiltölulega dýru verði og fá háar arðgreiðslur í staðinn. Þeir/þær geta svo selt afhendingarréttinn á markaði og hafa margir hagnast umtalsvert á því. Þessi nýju samvinnufélög hafa losnað undna ægivaldi verslunar- og þjónustukeðja á markaðnum og getað sinnt neytendum beint. Þau hafa einnig getað einbeitt sér að tilteknum markaðskimum og jafnvel þróað nýja markaði. Leið bandarísku hreyfingarinnar hefur þannig veið að aðlaga samvinnufélagaformið að breyttum markaðs- og stjórnmálaaðstæðum. Bretland stefna Sambandsins er að samvinnufélögin hvert og eitt setji sér metnaðarfull markmið um fjárhagslega frammistöðu, það markmið skuli a.m.k. innifela 10% ávöxtun fjármagns. Félögin skuli upplýsa félagsmenn sína um hversu vel hafi tekist til og um leið skuli þau bera sig saman við samkeppnisaðila sem og önnur samvinnufélög sem náð hafa góðum árangri. Mikil áhersla er á að byggja undir samkeppnisforskot samvinnustefnunnar, ímynd hennar, vörumerki og félagaaðild. Þannig er lögð áhersla á að félagsleg ábyrgð og náin tengsl við nærsamfélögin eða byggðirnar, sé mikilvæg forsenda til að ná samkeppnisforskoti sem byggir á velvilja almennings. Jafnframt er áhersla á að samvinnurekstrarformið sé vænlegur valkostur við einkarekstur og ríkisrekstur á mörkuðum þar sem einokun og fákeppni er ríkjandi.

171 Sænsk samvinnuhreyfing er afar sterk á mörgum sviðum eins og fram kemur í töflunni hér að ofan. Hún hefur þó farið gegnum sársaukafullan samandrátt í starfsemi sinni líkt og hreyfingarnar í samanburðarlöndunum. Þetta á sérstaklega við um fækkun neytendafélaga í strjálli byggðum Svíþjóðar. Ólíkt hinum hreyfingunum hefur sú sænska brugðist við harðnandi samkeppni og heimsvæðingu með alþjóðavæðingu. Þetta hefur gerst með þeim hætti að hún hefur gengið inn nýja norræna hreyfingu samvinnufélaga COOP-Norden. Það var um áramótin 1999/2000 að samvinnuverslunarfélögin í Danmörku, Noregi og Svíþjóð ákváðu að stofnsetja COOP-Norden AB, til að sameina og samhæfa smávöruverslunina í löndunum. COOP-Norden er með samanlagða markaðshlutdeild í löndunum upp á um 30%. Þetta skiptist þannig að í Svíþjóð er markaðshlutdeildin um 24%, í Noregi 25% og í Danmörku 38%. COOP-Norden AB tók til starfa í janúar 2002 og er móðurfélag yfir smásöluverslunina í löndunum. Hið sænska KF (Kooperativa förbundet 2002) á 42% eignarhlut í félaginu, eftir að hafa lagt COOP-Sverige inn í félagið. Áður átti KF þriðjung. Sænska hreyfingin beitir nú fyrir sig COOP vörumerkinu eins og t.d. COOP COOP-Forum sem er stærsta stórmarkaðakeðja Svíþjóðar, hverfaverslanirnar COOP- Konsum og COOP-Komiform, sem eru líkamsræktarstöðvar og fleira tengt heilsueflingu. Loks hefur hreyfingin nýlega stofnað nýjan banka COOP-Bank.

172 Heimildaskrá

Agnes Bragadóttir (1995) ‘Endalok Sambandsins’ í Morgunblaðinu 29. mars 1995, Reykjavík: Árvakur.

Arnór Sigurjónsson (1944) Íslenzk samvinnufélög hundrað ára, Reykjavík: Snælandsútgáfan.

Ashton, T.S., Hacker, Louis, Hayek, F.A., Hutt, W.H. (1963) Capitalism and the Historians: University of Chicago Press.

Árni Kristjánsson (1967) Kaupfélag Eyfirðinga Akureyri 80 ára, Akureyri: Kaupfélag Eyfirðinga Akureyri

Bailey, J. (1955) The British Co-operative Movement, London: Hutchinsons’ University Library.

Bank of North Dakoda (2002) Commercial Loan Programs, http://www.banknd.com/ls/ls_commercial6.jsp, lesið 25.09.2002.

Bell, D. (2000) The End of Ideology: On the Exhaustion of Political Ideas in the Fifties, Harvard: Harvard University Press.

Birchall, J. (1994) Co-op the People´s Business, Manchester: Manchester University Press.

Birchall, J. (1997) The international co-operative movement, Manchester, Manhester University Press.

Björklund, T. og Nilsson, J. Kan kooperationen klara konkurrensen?, bók þessi verður gefin út síðar á árinu.

Blair, T (1998) ‘Forwords’ í Kellner, P. New Mutualism The Third Way, London: Co-operative Party.

Centre for the Study of Co-operatives at the University of Saskatchewan: New Generation Cooperatives on the Northern Plains http://www.umanitoba.ca/afs/agric_economics/ardi/index.html, lesið 27.08.2002

Chan, S. og Clark, C. (1992) Flexibility, Foresight and Fortuna in Taiwan’s Development, London: Routledge.

Clapham, D., O´Neill, P. og Bliss, N. Tenant Control and Social Exclusion.

CoBank (2002) CoBank, http://www.cobank.com/index.htm, lesið 25.09.2002.

Cobia, D. (ed.) (1989) Cooperatives in Agriculture, Englewood Cliffs, New Jersey: Prentice Hall.

173 Cobia, D., W. (1997) New Generation Cooperatives: External Environment and Investor Characteristics, http://www.wisc.edu/uwcc/info/cobia.html, lesið 27.08.2002. Confederation of Co-operative housing UK (2002) Heimasíða, http://www.cch- uk.org/cch/about.html.

The Co-op Party (2002), http://www.co-op-party.org.uk/history.htm.

The Co-op Party (2002b), http://www.co-op-party.org.uk/repsingovt.htm

The Co-operative Commission (2001) The Report of the Co-operative Commission (January 2001).

The Co-operative Group (2001b) Social accountability report 2001 http://www.pdf.co-operative.co.uk/pdfs/Coopsoci.pdf

The Co-operative Group (2001c) Interim Report, http://www.pdf.co-operative.co.uk/pdfs/Coop_Interim.pdf

The Co-operative Union Ltd (2001) Incorporating ICOM – the worker co-op federation. Annual Report & Financial Statements 2001.

The Co-operative Union Ltd (2001b) Special One Day Congress Proceedings 2001, Nov. 2001.

The Co-operative Party. News Release 10/07/02. http://www.co-op-party.org.uk/images/newlawprotectmuts.pdf

The Co-operative Union (2002) Heimasíða, http://www.co-op.co.uk/index.html

Coopmonth (2002) http://www.ag.ndsu.nodak.edu/qbcc/NDCCC/coopmonth.htm, lesið 05.11.2002.

The Credit Union Taskforce, http://www.hm- treasury.gov.uk/consultations_and_legislation/consult_credit/consult_credit_taskforce .cfm

Davidman, M. (1996) ‘Credit Unions’ Co-op study 2.

Eatwell, J. og Milgate, M (1983) Keynes’s Economics and the Theory of Value and Distribution, London: Dockworth.

Eimskip (2003) Heimasíða, http://www.eimskip.is.

Einar Laxnes (1974) Íslandssaga a-k, Reykjavík: Bókaútgáfa menningarsjóðs og Þjóðvinafélagsins.

Engels, F. (1999) The Conditions of the Working Class in England (fyrst birt 1845), London: Penguin.

174 Facts and Figures About Farmer-Controlled Businesses in the UK 2000/01, 2001 Directory.

Fannar Jónsson og Ívar Jónsson (1992) Innri hringurinn og íslensk fyrirtæki, Reykjavík: Félags- og hagvísindastofnun Íslands.

Feuvre, J. (2001) Special One Day Congress Proceedings 2001, Co-operative Union Ltd. Nov. 2001.

Framkvæmdastjóri ABCUL (2002), viðtal.

Frederick, D., A. (1997) Co-ops 101: An Introduction to Cooperatives, U.S. Department of Agriculture, http://www.rurdev.usda.gov/rbs/pub/cir55/cir55rpt.htm, lesið 29.08.2002.

Frjáls verslun (2002) 300 stærstu, 8. tbl. 2002, Reykjavík, Heimur hf.

Fukuyama, F. (1993) The End of History and the Last Man: Avon Books.

Gierts, E. Og Stömberg, B., U. (1999) Samverkan till egen nytta: boken om konsumentkooperativ idé och verklighet i Sverige, Stockholm: Prisma.

Gísli Guðmundsson (1943) Samband íslenskrar samvinnufélaga 1902-1942, Reykjavík: Samband íslenskrar samvinnufélaga.

Green, P. (2001) (Chief Executive and General Secretary) ‘Review of the year’ Co- operative Union Ltd. Incorporating ICOM – the worker co-op federation. Annual Report & Financial Statements 2001.

Germundsson, Per. (1999) New Generation Cooperatives i Sverige, Uppsala: SLU.

Gunnar Karlsson (1977) Upphaf samvinnuhreyfingarinnar á Íslandi; Útvarpserindi til flutnings í febrúar 1977, 3 erindi, Bifröst: Samvinnuskólinn á Bifröst.

Gylfi Gröndal (1984) Kaupfélag Borgfirðinga 80 ára, 1904-84, Borgarnes: Kaupfélag Borgfirðinga.

Gylfi Gröndal (1998) Að breyta mjölk í mat. Osta- og smjörsalan 40 ára 1958- 1998, Reykjavík: Osta- og smjörsalan.

Hagstofa Íslands (1997)Hagskinna, Reykjavík: Hagstofa Íslands.

Hagstofa Íslands (1998) Landshagir, Reykjavík: Hagstofa Íslands.

Hargreaves, I., Mills, C. and Michie, J. (2001) Ownership Matters: New Mutual Business Models: Mutuo.

History of Cooperatives, http://www.cooplife.com/coophist.htm, lesið 20.09.2002.

175 Holyoake, G., J. (1907) Self-Help by the People the history of the Rochdale Pioneers,

ICOF (Industrial Common Ownership Finance Ltd) (2002) Heimasíða, http://www.icof.co.uk/icom/index.htm

ICOM (1993) Co-operative Businesses in the UK, Directory.

The Industrial and Provident Societies Bill. Bill 14 of 2001-01. Research Paper 02/08 23 January 2002. http://www.parliament.uk/commons/lib/research/rp2002/rp02-008.pdf

The Industrial and Provident Societies Bill (2001). Bill 14 of 2001-02.

Ívar Jónsson (1990) ‘Háskólinn á Akureyri - markmið og leiðir’ í Degi 6. september 1990.

Ívar Jónsson (1991) 'Keynes' General Theory and Structural Competitiveness' í Þjóðmál, Reykjavík: Félags- og hagvísindastofnun Íslands.

Ívar Jónsson (1995) West Nordic Countries in Crisis: Neo-Structuralism, Collective Entrepreneurship and Microsocieties Facing Global Systems of Innovation, Copenhagen: Copenhagen Business School.

Ívar Jónsson (2001) ‘Societal Paradigms and Rural Development -A Theoretical Framework for Comparative Studies-’ í L. Granberg, I. Kovách and H. Tovey The Green Ring, Aldershot: Ashgate 2001.

Ívar Jónsson (2002a) Towards a New Social Economy: On Ruralism and the Struggle of the Cooperative Movement in Iceland in the Pre-War Era, Research Paper nr. 1: Bifröst School of Business, Research Paper Series. http://nepal.vefurinn.is/Nepal_Skrar/Skra_0000892.PDF.

Ívar Jónsson (2002b) Nýsköpun og svæðisbundnir fyrirtækjaklasar, Rannsóknarskýrsla nr. 4 2002, Bifröst: Viðskiptaháskólinn á Bifröst

Ívar Jónsson og Vífill Karlsson (2002) Borgarbyggð og Bifröst – Sambúð háskóla og byggðrlags. Skýrsla unnin fyrir Borgarbyggð og Viðskiptaháskólann á Bifröst',

Jón Sigurðsson í Yztafelli (1945) Samvinnufélög í norðurálfu

Jónas Jónsson frá Hriflu (1915) ‘Markaðsverð’ í Réttur, nr. 1.

Jones, P. A. (2001) From Small Acorns to Strong Oaks a study into the development of credit unions in rural England, December 2001.

Kaupfélag Austur-Skaftfellinga (KASK) (2003), Heimsíða, http://www.kask.is

176 Kaupfélag Eyfirðinga Akureyri (KEA) (2003), Heimsíða, http://www.kea.is

Kaupfélag Héraðsbúa (2003), Heimsíða, http://www.khb.is

Kaupfélag Skagfirðinga (KS) (2003), Heimsíða, http://www.ks.is

Kauphöll Íslands (2003) Heimasíða, http://www.icex.is/vsm_vthi/owa/disp.birta?pk=2785.

Kellner, P. (1998) New Mutualism The Third Way, London: Co-operative Party.

Keynes, J., M. (1989) The General Theory of Employment, Interest, and Money: Harvest Books.

Kooperativ årsbog 1999, Stockholm: FKS.

Kooperativa förbundet (2002) Heimasíða, http://www.kf.se/se/articles/article.jhtml?menuLocation=1&utilLocation=116&article Id=397&pageIndex=1

Landbunadur.is (2003) http://www.landbunadur.is/landbunadur/wgsamvef.nsf/199a414bd98db66c00256ab10 04967c2/fd355e693dd0a51400256c300001855c?OpenDocument&Highlight=0,_2dig mcskhdpq0_.

Lánstraust (2003) Hlutafélagaskrá, http://www.lt.is.

Lash. S. og Urry, J. (1994) Economies of Signs and Space, Sage, London: Publications

Lýður Björnsson (1972) Saga sveitarstjórna á Íslandi, fyrra bindi, Reykjavík: Almenna Bókafélagið.

Lög um samvinnufélög nr. 22/1991.

Maskell, P. O.fl. (1998) Competitiveness, Localised Learning and Regional Development: Specialisation and Prosperity in Small Open Economies (Routledge Frontiers of Political Economy, No 13), London: Routledge.

Mill, J., S. (1902) The Principles of Political Economy (fyrst gefin út 1848), New York: Longmans, Green and Co. (sjá einnig netútgáfu: http://www.ecn.bris.ac.uk/het/mill/prin.htm.

Mjólkurbú Flóamanna (2003) Heimasíða, http://www.mbf.is .

Mjólkursamsalan í Reykjavík (2003) heimasíða, http://www.ms.is

Morgunblaðið (Mbl), ýmis ár, Gagnagrunnur Morgunblaðsins, http://safn.mbl.is/

177 The New Rules Project (2002) Federal Tax Provisions, http://www.newrules.org/agri/coopown.html, lesið 04.11.2002.

Nilsson, J. (2001) ‘Organisational principles for co-operative firms’ í Scandinavian Journal of Management, 17 (2001): Pergamon.

Óli Björn Kárason (1987) ‘Sambandið og Kaupfélögin með hærri tekjur 1986 en ríkissjóður’ Morgunblaðið 27.08.1987, Reykjavík: Morgunblaðið.

Olíufélagið ehf.(2002) http://www.esso.is, lesið 18. desember 2002.

Osta- og smjörsalan (2003) heimasíða, http://www.ostur.is.

Parnell, E. (2001) Supporting Rural Co-operation – the role of the Plunkett Foundation. Journal of Co-operative Studies Vol. 34 No. 1 April 2001.

Patrie, W (1998) Creating ‘Co-op Fever’; A Rural Developer’s Guide To Forming Cooperatives: USDA, http://www.rurdev.usda.gov/rbs/pub/jul98/FEVER.htm

The Plunkett Foundation (2002) Heimsíða, http://www.plunkett.co.uk

The Plunkett Foundation (2002b) Heimsíða, http://plunkett.co.uk/whatwedo/poldev/whatwedo.htm

The Plunkett Foundation (2002c) Heimsíða, http://www.plunkett.co.uk/whoweare/mission/mission.htm

The Plunkett Foundation (2002d) Heimsíða, http://www.plunkett.co.uk/whoweare/commserv/communit.htm

The Plunkett Foundation (2002e) Heimsíða, http://www.plunkett.co.uk/news/news-rur.htm

Porter M., E. (1990) The Competitive Advantage of Nations, London: The MacMillan Press Ltd.

PriceWaterhouseCoopers (2002) Samband íslenskra samvinnufélaga, ársreikningur 2001, Reykjavík: PriceWaterhouseCoopers.

The Registry of Friendly Societies (2002) Report of the Chief Registrar 2000 – 2001 (Jan. 2002), http://www.fsa.gov.uk/pubs/additional/rfsweb.pdf

Rodgers, D. (1999) ‘New Mutualism’ The Third Estate, January 1999.

Rostow, W.W. (1962) Process of Economic Growth: W W Norton & Co.

Ríkisstjórn Bretlands (2002), www.countryside.gov.uk/ruralservices.

Samband íslenskra samvinufélaga (1995) Ársskýrsla 1994, Reykjavík: Samband íslenskra samvinufélaga.

178 Samkeppnisstofnun (2001) Matvörumarkaðurinn Verðlagsþróun í smásölu 1996- 2000, Reykjavík: Samkeppnisstofnun.

Samskip (2003) Heimasíða, http://www.samskip.is.

Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði (2003) heimasíða, http://www.sam.is .

Samvinnan, XLVI. árgangur 6.. hefti, 1952, Reykjavík: Samband íslenska samvinnufélaga.

Samvinnan, LIV. árgangur 5.-6. tbl, 1962, Reykjavík: Samband íslenska samvinnufélaga.

Samvinnan (1977), Samband íslenskra samvinnufélaga 75 ára 1902-1977, Reykjavík: Samband íslenska samvinnufélaga.

Samvinnan, 76. árgangur 1.-2. tbl, 1982, Reykjavík: Samband íslenska samvinnufélaga.

Samvinnutryggingar (1986) Gjallarhorn, Afmælisútgáfa, Samvinnutryggingar gt í 40 ár, 1946-1986, Reykjavík: Samvinnutryggingar gt.

Schumpeter, J., A. (1983) Theory of Economic Development: An Inquiry into Profits, Capital, Credit, Interest and the Business Cycle: Transaction Publishers.

SESAM (1987) Skýrsla til Sambandsstjórnar frá starfshópi um endurskipulagningu samvinnuverslunarinnar, (SESAM var vinnuhópur sem stjórn Sambandsins skipaði 1986, en heiti útgefanda og útgáfustað vantar í skýrsluna).

Sigurður Markússon (2003) Athugasemdir við fyrsta uppkast að 5. kafla þessarar skýrslu.

SÍF (2003) Heimasíða, http://www.sif.is.

Sláturfélag Suðurlands (2003) Heimasíða, http://www.ss.is.

Smallbone, D., Evans, M., Ekanem, T. og Butters, S. (2001) Researching Social Enterprice Final report to the Small Business Service, July 2001

Sparks, L. (2002) ‘Being the Best? Co-operative Retailing and Corporate Competitors’ í Journal of Co-operative Studies Vol. 35. No. 1 April 2002.

Smith, A. (1776) An Inquiry into the Nature and Causes of the Wealth of Nations.

VÍS (2003) Heimasíða, http://www.vis.is.

Weber, M. (1974) The Protestant Ethic and the Spirit of Capitalism.

Weiss, L. (1998) The Myth of the Powerless State: Cornell University Press.

179 Williamson, O., E. (1975) Markets and Hierarchies: Analysis and Anti-Trust Implications: A Study in the Economics of Intrnal Organisation, New York: Free Press.

180