Íslensk þjóðlög? Söfnun, útgáfa og viðtökur þjóðlagasafns Bjarna Þorsteinssonar, Íslenzk þjóðlög

Pétur Húni Björnsson

Lokaverkefni til MA–gráðu í þjóðfræði Leiðbeinandi: Rósa Þorsteinsdóttir

60 einingar

Félagsfræði–, mannfræði– og þjóðfræðideild Félagsvísindasvið Háskóla Íslands Febrúar, 2019

Ritgerð þessi er lokaverkefni til MA prófs í þjóðfræði og er óheimilt að afrita ritgerðina á nokkurn hátt nema með leyfi rétthafa. © Pétur Húni Björnsson, 2019

Prentun: Háskólaprent Reykjavík, Ísland, 2019

Útdráttur

Þjóðlagasafn sr. Bjarna Þorsteinssonar Íslenzk þjóðlög kom út á árunum 1906–09 á kostnað Carlsbergssjóðsins í Kaupmannahöfn. Safnið var fyrsta sjálfstæða þjóðlagasafnið sem út kom á Íslandi og söfnun sr. Bjarna sú viðamesta sem farið hafði fram á Íslandi á sínum tíma.

Söfnunarstarf Bjarna, útgáfuferli safnsins og viðtökur þess má greina mörg að meginviðfangsefnum þjóðfræðinnar. Hugmyndir um þjóðlega menningu og gildi hennar, nýtingu þjóðfræðaefnis sem grundvöll þ jóðernis, hugmyndir um upprunaleika og áreiðanleika munnlegrar geymdar og björgun hverfandi menningar á 11. stundu ber þar hæst.

Rannsóknin er að nokkrum hluta greining á menningarpólitík og erjum manna á milli í fámennissamfélaginu Íslandi en meginhluti hennar snýr að söfnunarstarfi Bjarna, útgáfu safns hans og viðtökum þess. Safnið fékk harkalega dóma frá málsmetandi mönnuum og hlaut í kjölfarið dræmar viðtökur. Það fékk hins vegar uppreist æru þegar leið á 20. öldina, ekki síst fyrir tilverknað erlendra tónlistarmanna sem komu til starfa á Íslandi á fjórða áratug aldarinnar.

— 4 — Formáli

Þessi rannsókn er 60 eininga lokaverkefni til MA gráðu í þjóðfræði, unnin undir handleiðslu Rósu Þorsteinsdóttur. Færi ég henni mínar bestu þakkir fyrir hjálpina og að umbera mig allan þennan tíma. Fjölskylda mín á skilið stórt knús fyrir þolinmæðina á lokasprettinum.

— 5 —

Efnisyfirlit

Útdráttur ...... 4 Formáli ...... 5 Efnisyfirlit ...... 6 1 Inngangur ...... 8 2 Aðferðafræði ...... 10 3 Hugtök og kenningar ...... 11 3.1 Hvað er þjóðlag? ...... 11 3.2 Óáþreifanlegur arfur ...... 12 3.3 Á 11. stundu ...... 13 3.4 Leitin að upprunanum ...... 14 3.4.1 Tilbrigði og staðbrigði ...... 16 3.5 Hámenning og lágmenning ...... 17 3.5.1 Menningarauðmagn ...... 18 3.5.2 Menningarlegt forræði ...... 19 3.6 Sköpun þjóðar ...... 20

4 Söfnun þjóðfræða á Íslandi fyrir 1900 ...... 21 4.1 Íslensk miðaldahandrit ...... 22 4.2 Hið íslenzka bókmenntafélag ...... 25 4.3 Hið konunglega norræna fornfræðafélag ...... 25 4.4 Jón Árnason og Magnús Grímsson ...... 27

5 Bjarni Þorsteinsson ...... 30 5.1 Umfjöllun og orðspor ...... 33

6 Söfnunarvinnan ...... 37 6.1 Forsendur söfnunarinnar ...... 37 6.2 Efnisskipan safnsins ...... 39 6.2.1 I. Lög úr handritum ...... 40 6.2.2 II. Lög úr prentuðum bókum ...... 45

— 6 — 6.2.3 III. Lög skrifuð upp eptir ýmsu fólki ...... 50 6.3 Úrvinnsla Bjarna ...... 57

7 Útgáfuferlið ...... 60 7.1 Styrkbeiðnir til Alþingis ...... 60 7.1.1 13. þing 1895 ...... 60 7.1.2 14. þing 1897 ...... 62 7.1.3 18. þing 1903 ...... 64 7.1.4 Um umræður á Alþingi ...... 72 7.2 Hið íslenska bókmenntafélag ...... 78 7.3 Aðkoma Carlsbergssjóðsins ...... 80 7.4 Dularfulla rímnalagahvarfið ...... 82

8 Viðtökur í bráð ...... 82 8.1 Dómar og umsagnir ...... 84 8.1.1 Axel Olrik ...... 84 8.1.2 Jónas Jónsson þingvörður ...... 86 8.2 Viðtökur almennings ...... 89 8.3 Hagnýting og frekari söfnun ...... 91 Erlend áhrif ...... 94

9 Umræða ...... 98 9.1 Hvað er þjóðlag? ...... 98 9.2 Á 11. stundu ...... 99 9.3 Leitin að upprunanum ...... 99 9.4 Menningarauðmagn og menningarlegt forræði ...... 100 9.5 Sköpun þjóðar ...... 102

10 Lokaorð ...... 105 11 Heimildir ...... 109

— 7 — 1 Inngangur Þessi rannsókn fjallar um þjóðlagasafn sr. Bjarna Þorsteinssonar Íslenzk þjóðlög sem út kom á árunum 1906–09 á kostnað Carlsbergssjóðsins í Kaupmannahöfn. Safnið er fyrsta sjálfstæða þjóðlagasafnið sem út kemur á Íslandi og söfnun sr. Bjarna sú viðamesta sem farið hafði fram á Íslandi á sínum tíma.

Bjarni stóð frammi fyrir ýmsum hindrunum í söfnunarstarfi sínu og viðleitni til útgáfu. Margar þeirra hindrana voru hans eigin sjálfskaparvíti, en aðrar voru tilkomnar fyrir tilverknað annarra þátta sem Bjarni tengdist lítið sem ekkert og bar enga ábyrgð á. Rannsóknin er því að nokkrum hluta greining á menningarpólitík og erjum manna á milli í fámennissamfélaginu Íslandi þótt meginhluti hennar snúi að söfnunarstarfi Bjarna, útgáfu safns hans og viðtökum þess.

Þegar söfnunar og útgáfu Íslenzkra þjóðlaga er skoðuð, orðræðan í kringum styrkbeiðnir Bjarna greind og viðtökur safnsins metnar má greina mörg meginviðfangsefni þjóðfræðinnar í gegnum tíðina. Hugmyndir um þjóðlega menningu og gildi hennar, nýtingu þjóðfræðaefnis sem grundvöll þjóðernis, hugmyndir um upprunaleika og áreiðanleika munnlegrar geymdar og björgun hverfandi menningar á 11. stundu ber þar hæst. Forræði þeirra sem móta menningarorðræðuna og hugmyndir um hámenningu og lágmenningu skipta hér töluverðu máli og kemur það skýrt fram í efasemdum um menningarlegt auðmagn og atbeina Bjarna, heimildarmanna hans og safnara, og síðar í því sem kalla má endurreisn safnsins á 20. öldinni.

Bygging ritgerðarinnar er með þeim hætti að fyrst er gerð grein fyrir aðferðafræðinni og þeim kenningum og hugtökum sem nota á í úrvinnslunni. Þá er greint frá söfnun og útgáfu þjóðfræðaefnis á Íslandi fyrir útgáfu Íslenzkra þjóðlaga 1906–1909 og dregin upp mynd af því umhverfi sem söfnun Bjarna og útgáfa fór fram í. Þá tekur við meginviðfangsefni ritgerðarinnar; Bjarni Þorsteinsson, þjóðlagasöfnun hans og útgáfa. Í þeim hluta er gerð grein fyrir Bjarna og reynt að draga upp þá mynd af honum sem birtist í skrifum og umfjöllun samtímamanna. Þá er fjallað um söfnunarstarf Bjarna,

— 8 — samsetningu safnsins eins og það var búið til útgáfu af hendi Bjarna, og heimildarmennina og safnarana sem hann hafði á sínum snærum. Útgáfuferlinu eru gerð skil og sérstakur gaumur gefinn að umræðum á Alþingi um styrkbeiðnir Bjarna til útgáfunnar, umræðum og ákvörðunum Hins íslenska bókmenntafélags og svo hvernig var á endanum staðið að útgáfu og dreifingu safnsins. Viðtökur safnsins meðal lærðra og leikra fyrst eftir útgáfu þess verða þá tekin fyrir þar sem ritdómar og blaðaskrif, og svo notkun safnins verða til umfjöllunar. Að lokum verður fjallað um hver örlög safnsins urðu á 20. öldinni og þá sérstaklega hvernig erlendir tónlistarmenn sem komu til starfa á Íslandi á fjórða áratug aldarinnar breyttu viðhorfum til þess.

— 9 — 2 Aðferðafræði Í viðleitni til að bregða upp mynd af því umhverfi sem Bjarni starfaði í og viðhorfum til hans og verka hans er töluvert leitað í prentaðar heimildir frá því um aldamótin 1900. Nokkuð var fjallað um Bjarna og verk hans á tónlistarsviðinu í dagblöðum og tímaritum á þeim tíma og bæði Alþingistíðindi og skýrslur Hins íslenska bókmenntafélags greina frá umfjöllun og umræðum um Bjarna, söfnun hans og útgáfu safnsins. Eins og gefur að skilja er töluvert af tilvitnunum í þeim þætti ritgerðarinnar. Helgast það fyrst og fremst af því að til þess að geta rýnt og greint umræðuna þarf að koma henni á framfæri og þá helst þannig að orðfæri og áherslur séu greinanlegar.

Tvær ævisögur Bjarna Þorsteinssonar hafa komið út. Árið 1961 gaf Siglufjarðarkaupstaður út bókina Ómar frá tónskáldsævi sem inniheldur aldarminningu Bjarna sem Ingólfur Kristjánsson tók saman1 og árið 2012 kom út bókin Eldhugi við ysta haf sem er ævisaga Bjarna skrifuð af Viðari Hreinssyni.2 Hafa báðar þessar bækur verið ákaflega notadrjúgar. Vorið 2015 skrifaði ég BA-ritgerð í þjóðfræði þar sem ég fjallaði um þjóðlagasöfnun og samvinnu þeirra Bjarna Þorsteinssonar og Benedikts Jónssonar á Auðnum í Laxárdal og styðst ég að sjálfsögðu að nokkru leyti við hana þar sem við á, án þess þó að hún sé hér endurbirt að neinu leyti. Vísast til þessara rita til frekari upplýsingar um líf og störf Bjarna og um söfnunarvinnu þeirra Bjarna og Benedikts sérstaklega.

1 Ingólfur Kristjánsson 1961 2 Viðar Hreinsson 2011

— 10 — 3 Hugtök og kenningar Margt í söfnunarstarfi Bjarna Þorsteinssonar, útgáfuferli safns hans og viðtökum þess er áhugavert frá þjóðfræðilegum sjónarhóli. Hér er farið yfir hugtök og kenningar sem ætlunin er að nota til þess að ræða efnið.

3.1 Hvað er þjóðlag? Þegar fjallað er um þjóðlög getur verið vandasamt að skilgreina nákvæmlega við hvað er átt enda er almennur skilningur á hugtakinu nokkuð á reiki og hefur verið það alla tíð frá því það varð til. Á 19. öld þegar skipuleg söfnun þjóðlaga hefst í Evrópu má sjá ýmsar skilgreiningar og hugmyndir um þjóðlög. Þau voru á tímabili talin sprottin frá frumþjóðunum, rétt eins og þjóðsögurnar og ýmislegt fleira þess kyns. Í tónlistarsögu sinni segir Jón Þórarinsson:

Það mun hafa verið almennt talið á 19. öld að þjóðlög væru til orðin í fyrndinni í eins konar „hópvinnu“ almennings, og vel má vera að stundum hafi þ ví verið þannig farið, – tónn hafi kviknað af tóni. Nú munu fleiri vera þeirrar skoðunar að flest þjóðlög, eins og önnur lög, eigi sér ákveðna höfunda í upphafi, þótt óþekktir séu. Þegar þau eru til orðin, gerist svo annað hvort, að almenningur – eða að minnsta kosti einhver hluti almennings – veitir þeim viðtöku, lærir þau og notar, eða þeim er hafnað og þau gleymast.3

Í íslenskum dagblöðum og tímaritum frá 19. öld má sjá talað um þjóðlög eða þjóðsöngva þegar átt er við lög sem hafa notið mikilla vinsælda um langan tíma, allskostar óháð því hvort þau séu eftir þekkta höfunda eða ekki. Enn í dag vilja margir fella þau lög sem eru þeim sérstaklega hjartfólgin undir skilgreininguna þjóðlag.4

Á sjöunda heimsþingi Alþjóða þjóðlagatónlistarráðsins (International Folk Music Council) í São Paulo í Brasilíu árið 1954 lagði Maud Karpeles fram skilgreiningu á þjóðlagi sem ráðið hafði komið sér saman um, en umræður um slíka skilgreiningu höfðu hafist á heimsþingi ráðsins í London tveimur árum fyrr. Skilgreiningin er í stuttu máli sú að þjóðlag sé lag sem hefur varðveist meðal ákveðins hóps fólks og þróast og tekið

3 Jón Þórarinsson 2012: 307 4 Bruno Nettl 2005: 358

— 11 — breytingum í munnlegri geymd yfir langan tíma, oft án þess að uppruni þess eða höfundur sé þekktur.5 Af þessu má ráða að uppruni lags skipti ekki höfuðmáli heldur geti hvaða lag sem er orðið hráefni í þjóðlag. Það hljóti þó alltaf að gerast með þeim hætti að lagið nái fótfestu meðal einhvers ákveðins hóps og mótist í munnlegri geymd innan hans. Munnleg geymd og þróun um langt skeið eru því lykilatriði í því að lag geti verið skilgreint sem þjóðlag. Hvaða lag sem er geti því orðið að þjóðlagi, rétt eins og hvaða þjóðlag sem er getur orðið að grundvelli frumlegrar sköpunar tónskálda.6

3.2 Óáþreifanlegur arfur Umfjöllunarefni þessarar rannsóknar fellur undir skilgreininguna óáþreifanlegur arfur. Til óáþreifanlegs arfs teljast siðir, venjur, hátíðir, handverk, munnlegur kveðskapur, sagnamennska, tónlist og ýmislegt fleira sem ekki á sér efnislegt form heldur er háð stöðugri sviðsetningu eða ástundun sem er hefðbundin og lærist gjarnan mann fram af manni munnlega eða verklega. Eins og gefur að skilja er óáþreifanlegi arfurinn ákaflega erfiður viðfangs. Munnleg og verkleg framkvæmd eða sviðsetning sem styðst lítið sem ekkert við skrifaðar heimildir er í raun hvergi til nema meðal þeirra sem kunna og framkvæma – oft nefndir hefðarberar – og því utan seilingar þeirra sem ekki þekkja til.7

Fyrir tíma upptökutækni var söfnun óáþreifanlegs arfs oftast fólgin í því að skrá það sem safna átti með einhverjum hætti. Hátíðum og hefðum var lýst skriflega, sögur sagnafólks voru skrifaðar niður og tónlist söngvara og kvæðamanna skráð á nótur og þar með varð til nýtt stig varðveislu. Sagnafólkið og tónlistarfólkið hafði varðveitt sína þekkingu innra með sér og miðlað henni til viðtakenda frá eigin brjósti og gjarnan með mismunandi hætti eftir því sem andinn blés í brjóst, eftir tilefni eða eftir því hvernig viðtakendahópurinn var samsettur hverju sinni. Með skriflegri skráningu efnisins var oftast um að ræða skráningu eins flutnings og með útgáfu efnis sem skráð var með slíkum

5 Maud Karpeles 1955: 6 6 Ibid. 7 7 Laurajane Smith 2006: 55; Rodney Harrison 2013: 114ff

— 12 — hætti varð oft til hugmynd um rétta eða endanlega gerð efnisins, nokkurskonar steingervingur af hefðinni.8

3.3 Á 11. stundu Þjóðfræðin fæst gjarnan við hluti sem talið er að séu í þann mund að hverfa eða óttast er að glatist og þannig hefur það orðið hlutskipti fræðanna að koma til skjalanna rétt áður en það sem rannsakað er verður gleymsku að bráð.9 Ástæðan fyrir því er auðvitað sú að meðal helstu viðfangsefna þjóðfræðinnar eru hlutir á borð við þjóðlegan fróðleik, athafnir, verklag og annað slíkt sem lærist mann fram af manni og þegar keðjan er í þann mund að slitna vakna hefðarberarnir, bæði virkir og óvirkir, auk þeirra sem þekkja framgang hefðarinnar í nærumhverfi sínu, til vitundar um að keðjan sé að slitna og hætta sé á að hefðin kunni að deyja og þekkingin að týnast.

Líkja mætti starfi þjóðfræðinnar við forvörslu þar sem unnið er markvisst að því að halda hefðum lifandi eða herma eftir þeim til þess að þekking eða hefðir tapist ekki að fullu. Það hefur oft sætt gagnrýni því upprunaleiki og áreiðanleiki þess sem bjargað er frá glötun með einhverjum hætti er oft talið skert og því talað um leifar eða uppvakninga þegar rætt er um slíkt.

Annar þáttur í þessu meinta björgunarstarfi hefur gjarnan verið ákveðin tilhneiging til verndunar. Oft hefur það fylgt með þegar hefðum eða öðru slíku er bjargað frá glötun, til dæmis með því að skrifa það niður eða hljóðrita, að því sé komið fyrir í frysti eða formalíni, í yfirfærðri merkingu, til að tryggja að það glatist ekki. Afleiðing þess hefur sjaldnast orðið viðgangur lifandi hefða heldur fremur tillærðar hefðir og uppvakningar.10

Á 19. öld var það trú sumra fræðimanna að það þjóðfræðaefni sem væri lifandi og/eða aðgengilegt á þeim tíma væru einungis leifar þess sem fyrr hefði verið. Sú skoðun var býsna útbreidd að rekja mætti þjóðfræðaefni eins og til að mynda sagnir, ævintýri, siði, hefðir og tónlist, aftur til einhverskonar frumþjóða sem hefðu verið hreinar og

8 Laurajane Smith 2006: 54–56 9 Barbara Kirshenblatt-Gimblett 1996: 249 10 Ibid.

— 13 — ómengaðar og allt þetta efni hefði orðið til þar, með einhverjum illskýranlegum hætti, og lifað með þeim í hreinni og upprunalegri mynd.11 Síðan hefði tíminn liðið og hver kynslóð sem bar þennan arf áfram hefði spillt honum og klúðrað með ýmsum hætti og nú væri svo komið að efnið væri orðið það spillt að það væri ekki nema skugginn af upprunalega efninu.12 Þessi hugmyndafræði var grundvöllur þróunar fjölmargra kenninga og aðferða sem byggja á formgreiningu og samanburði, þar á meðal sagnfræðilegu og landfræðilegu aðferðarinnar sem rætt verður um í næsta kafla.13

Önnur afleiðing þessarar hugmyndafræði varð sú að sumir fræðimenn lögðust gegn því að efni sem safnað var fengi að lifa áfram í höndum hefðbera, jafnvel hjá þeim sem þeir höfðu safnað efninu hjá. Þeir litu svo á að með því að leyfa hefðunum að lifa áfram væri hættunni á frekari spillingu og útvötnun efnisins boðið heim og hefðberarnir myndu þannig auka enn á eyðileggingu efnisins. Því væri fyrir mestu að skrá sem mest og reyna að koma höndum á sem flest áður en það spilltist enn frekar.14

3.4 Leitin að upprunanum Frá því í öndverðu hefur upprunaleiki og áreiðanleiki verið í brenndiepli þjóðfræðarannsókna. Mikil áhersla hefur verið lögð á að safna rétt og þjóðlagasafnarar hafa ítrekað það að þeir hafi skráð rétt eftir heimildarmönnum sínum, hafi engu breytt í orðalagi og engu hnikað til. Þegar efnið er metið og skoðað vakna spurningar um hvort það sé raunverulega af svæðinu þar sem þ ví var safnað. Er þ að kannski utanaðkomandi?15

Til að reyna að finna svör hafa verið þróaðar aðferðir og flestar byggja þ ær á einhverskonar samanburði, enda hefur samanburður hefur löngum verið meginaðferð margra fræðigreina. Ein meginrót þjóðfræðinnar sem fræðigreinar er í textafræði en hún byggir á greiningu og samanburði.16 Textafræði hefur verið stunduð svo vitað sé í yfir

11 Regina Bendix 1997: 27, 35, 39ff 12 Barbara Kirshenblatt-Gimblett 1996: 249; Alan Dundes 1969: 7–8 13 Alan Dundes 1989: 57–58 14 idem 1969: 7–8 15 Regina Bendix 1997: 7–9 16 Alan Dundes 1989: 57–58

— 14 — tvöþúsund ár. Vitað er að fræðimenn hafi unnið að því strax á 4. öld f.Kr. að taka saman og vernda forna texta.17 Sambærileg aðferðafræði hefur um langt skeið verið nýtt við Biblíurannsóknir og má segja að þeir fræðimenn sem fengust við slíkar rannsóknir hafi mótað fagið í þá mynd sem á því er enn í dag.18

Í textafræðirannsóknum er mikil vinna lögð í vandlega yfirlegu yfir einkennum eins og rithöndum og orðamun handrita, oftast í þeim tilgangi að leita uppi sameiginlegar eða einstakar ritvillur skrifara sem gátu bent til þess að eitt handrit hlyti að vera skrifað upp eftir öðru eða að handrit gætu talist runnin frá sama forriti um lengri eða skemmri veg. Úr þessum gögnum er sett saman svokallað stemma þar sem varðveitt handritin eru sett í ættartengsl við önnur handrit og handrit sem hugsanlega voru til, og líkur leiddar að því að skyldleiki handritanna sé svona eða hinsegin. Slíkt stemma leiðir svo gjarnan að einhverskonar frumriti eða forriti hinna handritanna sem er nær frumritinu en þau eru, og oft er aldursákvörðun byggð á forsendum mögulegs frumrits.

Finnski textafræðingurinn Julius Krohn (1835–1888) hefur verið talinn frumkvöðull í beitingu aðferða textafræðinnar við rannsóknir á þjóðfræðaefni þegar hann lagði grunninn að sögulegu-landfræðilegu aðferðafræðinni, sem einnig hefur verið kölluð finnski skólinn. Julius lagði grunn að aðferðafræðinni en sonur hans, þjóðfræðingurinn Kaarle Krohn (1863–1933) vann með honum síðar ásamt nemanda þeirra Antti Aarne (1867–1925) að því að fullmóta aðferðafræðina. Julius hafði rannsakað finnsk þjóðkvæði eins og Kalevala, greint erindi þeirra og borið saman en Kaarle vann aftur á móti með sagnaefni og leitaðist við að greina í sögunum minni og gerðir sem nota mætti til að skilgreina sagnaefnið svo hægt væri að bera það saman við annað efni.19 Aarne átti síðar eftir að gefa út fyrstu gerðaskrá þjóðsagna og hafði hún mikil áhrif á rannsóknir og greiningu þjóðsagna. Skráin var síðar aukin af bandaríska þjóðfræðingnum Stith Thompson (1885–1976) og eru sagnagerðirnar í skránni auðkenndar með númerum, oft

17 David C. Greetham 1994: 14, 47–48 18 Ibid. 14, 302–305 19 Leerssen 2018: 399; Jón Hnefill Aðalsteinsson 1989: 228‒290.

— 15 — með skammstöfuninni AT (Aarne-Thompson) fyrir framan. Thompson vann síðar minnaskrár þjóðsagna og gaf út í sex bindum á fjórða áratug 20. aldar.20

Sögulega-landfræðilega aðferðafræðin snýst um vandlegan og ítarlegan samlestur og samanburð gagna í þeim tilgangi að finna frumgerð þess sem rannsakað er. Aðferðafræðin felst í að safna saman öllum tilbrigðum sögu, raða þeim í aldursröð og eftir svæðum hvar henni var safnað svo bera megi saman sömu sögu frá mismunandi svæðum en frá sama tímaskeiði. Þá er sagan krufin til mergjar og minni hennar greind og öll tilbrigði hennar kóðuð. Hvert minni sem kemur fyrir í sögunni er rannsakað og reynt að greina upprunlegt form þess. Þá er hægt að setja saman „upprunalegu“ söguna. Eins og gefur að skilja er alls óvíst að sagan sem fundin er með þessum hætti hafi nokkurntíman verið til enda alls óvíst að þróunarferli sögunnar í munnlegri geymd hafi verið með einhverjum línulegum eða rökréttum hætti. Þessi aðferðafræði miðaði ekki að því að finna uppruna sagnanna heldur einungis upprunagerð þeirra.21

Norræn textafræði hefur í gegnum tíðina snúist að töluverðu leyti um þessa sömu leit að upprunatextum íslenskra miðaldabókmennta. Íslensku handritin hafa verið rannsökuð í þaula til þess að reyna að rekja slóðina að upprunalegu textunum og jafnvel höfundum þeirra. Á síðari hluta 20. aldar tóku rannsóknir á íslenskum handritum að breytast og snúa í dag orðið einnig að bókfræði og efnisfræði handritanna, og auknum áhuga á handritum sem áður voru talin lítilsverð þar sem samanburðarrannsóknir í þjóðfræðilegum anda hafa reynst vel. Almennt er þessi nýrri rannsóknarstefna kölluð nýja textafræðin og mætti segja að hún snúi meira að umhverfi textans frekar en að einblína á textann sjálfan.22

3.4.1 Tilbrigði og staðbrigði Aðferðafræði finnska skólans getur verið nytsamleg í þeim tilgangi að rekja för þjóðfræðaefnis um lönd og héruð og meta hvernig efnið tók á sig nýja mynd í hverju samfélagi sem það skaut rótum í og öðlaðist þegnrétt. Sænski þjóðfræðingurinn Carl von

20 Ibid. 245 21 Christine Goldberg 1984: 17; Jón Hnefill Aðalsteinsson 1989: 245 22 Svanhildur Óskarsdóttir 2012: 208

— 16 — Sydow var meðal þeirra fyrstu til að fjalla um útbreiðslu þjóðfræðaefnis út frá þessum sjónarhóli og notaði hann hugtök úr grasafræði til að skýra og skilgreina flökkuefnið. 23 Hann kallaði þjóðfræðaefni sem fluttist milli menningarsvæða eða samfélaga og tók á sig nýja mynd staðbrigði (ecotype/oikotype) og hélt því fram að í öllum meginatriðum mætti líkja því við jurtir sem bærust milli svæða og þyrftu að aðlaga sig nýju loftslagi og jarðvegi og spryttu síðan í breyttri mynd, eftir að hafa aðlagast nýjum aðstæðum. Með sama hætti gæti saga frá einu menningarumhverfi skotið rótum í nýju menningarumhverfi og miðlað sama sögukjarna með sömu eða sambærilegum minnum og efnisatriðum þó hlutverkaskipan sögupersóna kunni að hafa riðlast eða breyst, röð frásagnarliða breyst, eitthvað fallið út og annað komið í staðinn. Þannig sé enn um sömu sögu að ræða, að breyttu breytanda.24

Við þjóðlagasöfnun sína og rannsóknir í Austur-Evrópu varð Béla Bartók var við þetta sama; að þjóðlög hverrar þjóðar svæðisins væru mörg hver náskyld og hefðu tekið á sig nýja mynd á hverju svæði fyrir sig. Þessi lög voru í grundvallaratriðum þau sömu en tilbrigðin, eða staðbrigðin á hverjum stað, voru mjög fjölbreytileg og lög bættu við sig og auðguðust af einkennum á hverjum stað.25

3.5 Hámenning og lágmenning Þjóðfræðin fæst að miklum hluta við líf og störf alþýðunnar, hvort sem er í samtímanum eða fortíðinni. Siðir og venjur, sagnir, söngvar og hefðir ý miskonar sem lifa með ákveðnum hópum hafa löngum verið rannsóknarefni og meginviðfangsefni fræðigreinarinnar. Þjóðfræðin fæst því við það sem gjarnan hefur verið kallað lágmenning – menning alþýðunnar – frekar en opinbera eða viðurkennda menningu samfélagsins, sem einatt er menning efri stétta.

Í þessu sambandi hyggst ég nýta tvær kenningar eða kenningasett sem snúa að menningu. Annars vegar auðmagnskenningar franska mannfræðingsins Pierre Bourdieu

23 Valdimar Hafstein hefur fjallað um hversu mjög þjóðfræðingar hafa stuðst við og kenningar úr líffræði til að skýra og ræða viðfangsefni sín í gegnum tíðina. Sjá Valdimar Tr. Hafstein 2001: 7-32. 24 C. W. von Sydow 1934: 349 25 Béla Bartók 1946: 9–10

— 17 — (1930–2002), um menningarauðmagn og veruhátt, og hins vegar kenningar ítalska stjórnmálamannsins og heimspekingsins Antonio Gramsci (1891–1937) um menningarlegt forræði. Báðar þessar kenningar byggja á marxískum grunni og nýta sér eða þróa áfram kenningar Karls Marx um auðmagn. Kenningar Marx um menningu snérust að meginhluta til um verkalýð gagnvart auðvaldsstétt og hvernig auðvaldið, sem þáði vald sitt frá atvinnutækjunum sem voru í þeirra eigu og voru forsenda undirokunar verkalýðsins, hefði vald yfir menningunni. Gramsci og Bourdieu geta kallast póst- marxistar, þar sem þeir vinna úr og þróa áfram kenningar Marx. Kenningar Marx eru nokkuð svart-hvítar þar sem einni stétt er att gegn annarri en kenningar póst-marxistanna bæta við grátónunum milli þeirra afgerandi svart-hvítu andstæðna sem Marx dregur upp.

3.5.1 Menningarauðmagn Kenningar Pierre Bourdieu um veruhátt (e. habitus) og menningarauðmagn (e. cultural capital) hafa haft mikil áhrif í fræðaheiminum síðan hann setti þær fram.

Veruháttur er áunnið og líkamnað ástand einstaklings sem myndast af þeirri þekkingu og lífssýn sem einstaklingurinn býr að vegna þeirrar félagsmótunar sem hann verður fyrir allt frá fæðingu, vegna uppeldis, aðbúnaðar og umhverfis.26

Menningarauðmagn eru þeir menningarlegu þættir sem einstaklingur býr yfir, eins og siðir og venjur, smekkur, framkoma og annað slíkt. Menningarauðmagn getur verið innrætt eða lært og markast oftast af stétt og stöðu einstaklings og gerir honum kleift að þekkja og meta ýmsa þætti menningarinnar sem kunna að vera öðrum sem ekki býr að samskonar menningarauðmagni hulið.27

Einstaklingur getur tileinkað sér nýja hluti og aukið þeim við menningarauðmagn sitt og slíkt getur orðið hluti af veruhætti einstaklingsins, til dæmis með breyttum smekk eða því að venja sig af sumum hlutum eða á aðra.

26 Kenneth J. Guest 2013: 404 27 Ibid. 404–05

— 18 — Bourdieu hélt því fram að veruháttur væri svo samgróinn sjálfsmynd einstaklinga að tilhneiging væri til þess að líta á hann sem eðlisbundinn frekar en áunninn og lærðan. Þeir sem byggju við ákveðinn veruhátt hefðu tilhneigingu til þess að líta á hann sem sjálfgefinn og jafnvel meðfæddan. Slíkt ýtti undir stéttaskiptingu og félagslega misskiptingu þegar því væri ranglega haldið fram að sumir hópar væru í eðli sínu lakari en aðrir, hefðu lakari smekk og svo framvegis.28

3.5.2 Menningarlegt forræði Kenningin um menningarlegt forræði (e. cultural hegemony) er runnin frá ítalanum Antonio Gramsci (1891–1937). Gramsci var einn stofnenda ítalska kommúnistaflokksins og var formaður hans á tímabili. Hann var marxisti og var dæmdur til fangelsisvistar af fasistastjórn Mussolinis árið 1926 og sat í fangelsi til dauðadags. Meðan á fangelsisvistinni stóð hélt Gramsci dagbók og orðaði þar hugsun sína um pólitík og samfélagsmál.29 Grundvöllur hugmynda Gramscis um forræðið var vangeta kommúnista til þess að kollvarpa kapítalismanum. Trú þeirra var að kapítalisminn myndi á endanum verða sjálfum sér að aldurtila, en þeim fannst það ganga hægt og byltingarhugsjónir þeirra njóta minni hljómgrunns meðal almennings en þeim fannst þeir verðskulda. Gramsci greindi ástandið þannig að það sem við væri að eiga væru hugmyndir almennings um venjubundið og eðlilegt ástand og horf hlutanna í samfélaginu. Hugmyndirnar væru ekki sjálfsprottnar heldur tilbúnar og mótaðar af ríkjandi orðræðu um samfélagsgerðina og hvað teldist eðlilegt og jafnvel mögulegt. Orðræðan væri að mestu leyti mótuð af skólum, trúarbrögðum og fjölmiðlaumfjöllun og hefði tilhneigingu til þess að hnitast um hugmyndir og þarfir valdhafa, bæði ósjálfrátt og vegna þrýstings valdhafanna. Orðræðan hefði víðtæk og djúp áhrif á hugmyndir almennings og mótaði þannig og markaði athafnasvið hans. Þeir sem hefðu vald til þess að stýra orðræðunni, beint og óbeint, gætu með því stýrt því hvað teldist eðlilegt, venjulegt og eftirsóknarvert, og um leið hvað væri afbrigðilegt og bæri að forðast.30

28 Ibid. 410 29 Antonio Gramsci 1971 30 Paul Wake og Simon Malpas 2013: 234, 239

— 19 — Gramsci virðist ekki hafa ætlað að þróa altæka kenningu eða kenningakerfi heldur var hann að velta fyrir sér stöðu sinni og jafningja sinna gagnvart valdhöfunum sem héldu þeim niðri og höfðu komið honum í fangelsi. Kenningarnar eru því afrakstur greiningar Gramscis á samfélagsástandi hans eigin samfélags úr fjarlægð fangelsisins. Kenningarnar hafa orðið býsna áhrifamiklar og töluvert verið notaðar innan hug- og félagsvísinda, enda nýtast þær vel til þess að greina og meta orðræðu og valdahlutföll.

3.6 Sköpun þjóðar Hugmyndin um þjóðríki er tiltölulega ung. Löngum voru til þjóðflokkar og aðrir hópar sem heyrðu saman með einhverjum hætti og voru í langflestum tilfellum undir valdi konunga og keisara. Þegnar ríkja voru fyrst og fremst það og jafnvel fátt annað sem sameinaði þá en að tilheyra sama léni konungs eða keisara. Með rómantísku stefnunni í bókmenntum og listum komu fram nýjar hugmyndir um lönd og lýði þegar farið var að horfa inn á við og leita að þjóðlegum arfi innanlands til þess að leita uppi sameiginlegar rætur og uppruna fólksins sem myndaði ríkin. Þjóðernishyggja varð til og þjóðareining og greining einnar þjóðar frá annarri komst í forgrunn.31

Einn meginhugmyndafræðingur þessarar þjóðernisrómantísku stefnu var þýski heimspekingurinn Johann Gottfried Herder (1744–1803). Kenningar Herders um þjóðerni og þjóðerniskennd grundvallast á þeirri meginhugmynd að allir íbúar ákveðins lands sem deila tungumáli myndi í sameiningu þjóð. Hann hélt því fram að tungumál stjórnaði hugsun og hugmyndum fólks og að hefðir sem tíðkist innan hóps sem deilir tungumáli sé í raun grundvöllur þess að hópurinn geti kallast þjóð.32 Herder var þeirrar skoðunar að hinn sanni andi hverrar þjóðar byggi því í þjóðsögum, ævintýrum, þjóðkvæðum og öðru slíku alþýðlegu þjóðfræðaefni, sérstaklega því sem lifði á vörum hinnar fábrotnu og ómenntuðu alþýðu.33 Herder safnaði töluverðu af kvæðum og gaf út árið 1773 undir nafninu „Volkslieder“ eða þjóðkvæði, en sú nafngift var hans eigin. Hugmyndir Herders stangast nokkuð á við nútímahugmyndir um þjóðkvæði því í safninu voru ljóð eftir vin

31 Guðmundur Hálfdanarson 2001: 310. 32 Ibid. 33 Regina Bendix 1997: 27, 35, 39ff

— 20 — hans Göethe og þýðingar á Shakespeare, enda leit Herder á það sem svo að hann væri ekki einasta að safna og gefa út kvæði alþýðunnar heldur væri hann einnig að færa alþýðunni góðan kveðskap, þeim til uppeldis og eftirbreytni.34

Herder hafði mikil áhrif þá Grimmbræður, Jacob (1785–1863) og Wilhelm (1786–1859) þegar þeir tóku að safna þjóðfræðaefni á þýska málsvæðinu. Þeir voru sannfærðir fylgismenn hugmynda Herders og töldu víst að skapa mætti þjóðareiningu með því að draga fram og dýpka þekkingu á fornri menningu þjóðarinnar, og þá sérstaklega með þjóðfræðaefni.35 Þeir unnu að söfnun og útgáfu ævintýra (Kinder und Hausmärchen 1812), sagna (Deutsche Sagen 1816–1818) og fjölmargs annars þjóðfræðilegs efnis auk þess að efna í þýska orðabók sem kom á endanum út í samtals 32 bindum.36

Útgáfa þeirra Grimmbræðra á Kinder- und Hausmärchen hafði víðtæk áhrif og formáli safnsins sem lýsti meðal annars söfnun þjóðfræðaefnis af vörum alþýðunnar markaði tímamót í vísindalegri aðferðafræði þjóðfræðasöfnunar.37 Útgáfa ævintýrasafnsins hratt af stað sambærilegum söfnunum víða um Evrópu og einungis sex árum síðar kom út í Danmörku fyrsti hluti safns Just Mathias Thiele Danske Folkesagn og fljótlega í kjölfarið fylgdu bæði norsk og sænsk söfn af sama meiði.38

Rómantíska stefnan og þjóðernisvakningin skilaði sér fyrst til Íslendinga þegar nokkrir Hafnarstúdentar tóku sig saman og gáfu út tímaritið Fjölni 1835, þó það félli í fremur grýttan jarðveg meðal Íslendinga.39

4 Söfnun þjóðfræða á Íslandi fyrir 1900 Þegar rómantíska stefnan náði undirtökum í menningarlífi Evrópu á 19. öld fór að tíðkast að litið væri um öxl og reynt að henda reiður á fortíðinni með öðrum hætti en áður hafði

34 Ögmundur Helgason 1989: 112–14 35 Linda Dégh 1979: 84–85 36 Donald R. Hettinga 2001: 154–55 37 Jón Hnefill Aðalsteinsson 1989: 235–37 38 Ögmundur Helgason 1989: 113–14 39 Ibid. 114–15

— 21 — verið. Mikil bylgja þjóðernisvakningar gekk yfir Evrópu og töluvert var gert af því að undirbyggja þjóðernisvitund með söfnun fornra sagna, ævintýra, kvæða og söngva, auk söfnunar heimilda um hefðir, verklag og ótalmargt annað. Þessi bylgja náði vissulega til Íslands en Ísland var þó nokkuð sér á báti.

Á þeim tíma sem Bjarni hefur söfnun sína, 1880, hafði þegar farið fram allmikið starf við söfnun og útgáfu fornra mennta á Íslandi. Saga íslenskra þjóðfræðasöfunar og rannsókna er nokkuð frábrugðin sambærilegum söfnunum og rannsókum í öðrum Evrópulöndum. Stærsta ástæðan fyrir þ ví er tilvist miðaldahandritanna íslensku sem skipuðu öndvegissess í allri söfnun og rannsóknum fornfræðaefnis nánast óslitið frá 17. öld og fram til loka þeirrar 20.

Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar, stærsta safn þjóðsagna á Íslandi fram að því, kom út á árunum 1862–1864 og var því nokkuð vel tekið bæði af fræðimönnum og almenningi. Ólafur Davíðsson hafði verið drjúgur við söfnun allrahanda þjóðfræðaefnis á síðari hluta 19. aldar, meðal annars í samstarfi við Jón Árnason, frænda sinn. Safn þeirra frændanna, Íslenzkar gátur, skemtanir, vikivakar og þulur kom út meðan Bjarni vann að sinni söfnun, á árabilinu 1887–1903.

Það er því ljóst að Bjarni vann sitt söfnunarstarf ekki í tómarúmi og sambærilegt söfnunarstarf og það sem hann beitti sér fyrir hafði þegar verið unnið á ýmsum vettvangi. Enda gekk honum harla vel að safna og fá þá sem höfðu safnað sjálfir til að leggja sitt efni inn í safnið.

4.1 Íslensk miðaldahandrit Evrópskir húmanistar fengu áhuga á íslenskri menningu og sérstaklega íslenskum miðaldahandritum í kjölfar skrifa Arngríms Jónssonar lærða (1568–1648) í kringum aldamótin 1600. Á 16. og 17. öld komu út ýmis rit í Evrópu sem fjölluðu um Ísland í miður skemmtilegu ljósi og að undirlagi Guðbrands Þorlákssonar (1541–1627) Hólabiskups skrifaði Arngrímur Brevis commentarius de Islandia (Stutt greinargerð um Ísland) sem út kom 1593. Arngrímur gaf út Íslandssögu sína Crymogæu 1609 meðal annars til að svara aðdróttunum Dithmars Blefken sem hafði gefið úr ritið Islandia árið 1602 þar sem hann

— 22 — fór hörðum orðum um land og þjóð.40 Í þessum ritum sínum ræðir Arngrímur sögu Íslands og íslenskar bókmenntir og höfðu þau skrif töluverð áhrif á evrópska húmanista og kveikti hjá þeim mikinn áhuga á íslenskri menningu og íslensk handrit urðu eftirsótt af evrópskum fræðimönnum.41

Töluvert miklu af handritum var safnað saman á Íslandi á 17. og 18. öld, til að mynda af Brynjólfi Sveinssyni (1605–1675) Skálholtsbiskupi og Þormóði Torfasyni (1636–1719) en duglegastur allra safnara var Árni Magnússon (1663–1730).

Brynjólfur Sveinsson biskup var þekktur fyrir það að hafa allar klær úti við að afla sér handrita. Nokkur fjöldi handrita sem hann safnaði og eignaðist enduðu í höndum konungs, og þar með í Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn. Þar á meðal eru Konungsbók eddukvæða, Flateyjarbók, Grágás og Morkinskinna.42

Þormóður Torfason fór til Kaupmannahafnar til náms eftir útskrift úr Skálholtsskóla 1654 og varð fornritaþýðandi í þjónustu Danakonungs frá 1659. Hann fór í handritasöfnunarleiðangur til Íslands 1662 og flutti þá meðal annars með sér út handrit frá Brynjólfi. Þormóður varð síðar konunglegur sagnaritari í Noregi og bjó þar og starfaði til æviloka.

Árni Magnússon kynntist handritum og söfnun þeirra snemma en hann fór ungur í fóstur til móðurafa síns, Ketils Jörundssonar sem var einn mesti handritasafnari á sinni tíð. Árni útskrifaðist úr Skálholtsskóla 1683 og fór sama ár til Kaupmannahafnar og hóf nám í guðfræði. Hann varð samverkamaður Tomasar Bartholins (1659–1690) konunglegs fornfræðings árið 1685 og reyndist honum ómetanleg hjálp í að rýna í og lesa forn íslensk handrit, og þar með reyndist braut Árna mörkuð. Hann varð forfallinn og ástríðufullur safnari handrita og setti sig aldrei úr færi að hnusa uppi bækur og snifsi úr bókum hvar sem hann kom.43

40 Steingrímur Jónsson 1989: 102–03 41 Jón Helgason 1958: 17, 84–85; Svanhildur Óskarsdóttir, 2013: 13; Mats Malm 2002: 101–02 42 Ibid. 102; 2014: 19–20 43 Svanhildur Óskarsdóttir, 2013: 11–16; Jón Helgason 1958: 91

— 23 — Árni fór á vegum dönsku krúnunnar til Íslands árið 1702 í ýmsum erindagjörðum og vann meðal annars ásamt Páli Vídalín (1667–1727) að skráningu allra jarða á Íslandi auk þess að vinna að framkvæmd manntals árið 1703. Allan þann tíma sem Árni dvaldi á Íslandi í þessum embættiserindum vann hann ötullega að handritasöfnun og varð mjög vel ágengt. Árni kom sér upp bækistöð í Skálholti og var þar með handrit sín um langt skeið, að öllum líkindum vegna þess að hann gat gengið að góðum skrifurum vísum í Skálholti og gat fengið þá til að skrifa upp fyrir sig þau handrit sem hann hafði safnað.44

Árni virðist hafa safnað flestu sem hönd á festi, þar á meðal sagnaritum, annálum, máldögum og fornbréfum. Hann hafði aftur á móti lítinn áhuga á ritum með messu og tíðasöng nema þau snertu beinlínis íslenska dýrlinga, og þá sérstaklega Þorlák helga, eða innihéldu annan fróðleik um kirkjunar sem höfðu átt þau. Handrit að tónlist virðast ekki hafa verið í miklum metum hjá honum.45 Árni, eða safnarar á hans vegum, söfnuðu einnig sögnum og öðrum þjóðlegum fróðleik, en það var aldrei í forgangi hjá honum heldur var það frekar aukageta meðfram handritasöfnuninni.46

Árni og Þormóður Torfason voru miklir vinir og höfðu mikið samstarf sín á milli og skipust á handritum, og eftir að Þormóður lést keypti Árni handritasafn hans.47

Miðaldahandritin voru talin geyma íslenskan miðaldaarf – sagnfræði og frásagnir – allt frá landnámi fram til a.m.k. loka 14. aldar. Vissulega innihéldu handritin fleira en íslenskt efni, eins og konungasögur, fornaldarsögur sem gerðust fyrir landnám Íslands og riddarasögur sem augljóslega gerðust ekki á Íslandi, en í íslenskum rannsóknum var það löngum sett til hliðar og megináhersla lögð á Íslendingasögur og samtíðarsögur sem eru þær sögur sem skrifaðar voru skömmu eftir að þær áttu sér stað.48 Íslendingasögur gerast flestar á tímabilinu frá 930–1030 og eru skráðar frá 13. öld og síðar. Samtíðarsögurnar eru sögur sem gerðust á 12.–14. öld og voru skráðar nokkrum áratugum síðar.

44 Svanhildur Óskarsdóttir, 2013: 19, 25; Jón Helgason 1958: 92–93 45 Svanhildur Óskarsdóttir, 2013: 23–25 46 Jón Hnefill Aðalsteinsson 1989: 237–38; Sigurður Nordal 1971: xxiii–xxv 47 Svanhildur Óskarsdóttir, 2013: 17, 28 48 idem 2012: 204

— 24 — 4.2 Hið íslenzka bókmenntafélag Hið íslenska bókmenntafélag er elsta fræðafélag íslenskt. Það var stofnað árið 1816 að undirlagi málfræðingsins Rasmusar Kristjáns Rasks (1787–1832). Rask lét ekki nægja að stofna bókmenntafélag á Íslandi heldur stofnaði hann samskonar félag í Kaupmannahöfn þegar hann kom þangað frá Íslandi þá um vorið. Árið 1818 var Hið íslenzka bókmenntafélag sameinað Hinu íslenzka lærdómslistafélagi sem hafði verið stofnað árið 1779 af 12 íslenskum stúdentum í Kaupmannahöfn í þeim tilgangi að varðveita norræna tungu og hafði starfsemi þess verið að mestum hluta í höndum Jóns Eiríkssonar (1727– 1787) konferensráðs og bókavarðar við við konunglega bókasafnið í Kaupmannahöfn.49

Bókmenntafélagið hóf að gefa út tímaritið Skírni 1827 og hefur það komið út óslitið síðan og er elsta tímarit á Norðurlöndum. var fyrst í stað sem fréttamiðill en breyttist síðar í fræðirit.50 Bókmenntafélagið var einn mikilvirkasti útgefandi íslenskra fornbókmennta á 19. öldinni. Það lagði töluverðan metnað í að gefa út forna annála og safn fornbréfa sem varðveist höfðu, auk fjölda annarra rita og uppskrifta úr handritum. Auk þess voru til að mynda gefin út á árabilinu 1854-1885 Íslenzk fornkvæði sem Jón Sigurðsson og Svend Grundtvig tóku saman.51 Bókmenntafélagið gaf á árabilinu 1887– 1903 út þjóðfræðasafn Ólafs Davíðssonar og Jóns Árnasonar Íslenzkar gátur, skemtanir, vikivakar og þulur, fyrst með gátusafni Jóns og síðar komu fleiri hlutar sem Ólafur safnaði ásamt því að vinna úr handritum Jóns.52

4.3 Hið konunglega norræna fornfræðafélag Árið 1825 var Hið konunglega norræna fornfræðafélag stofnað í Kaupmannahöfn.53 Markmið félagsins var að auka þekkingu á fornri sögu og menningu Norðurlanda og réðist félagið þegar í viðamikla útgáfu íslenskra fornbókmennta. Fornmanna sögur, sem samanstóðu af konungasögum, komu út í 12 bindum frá árinu 1825 og á árunum 1829–

49 Jón Sigurðsson 1867: 13, 19–21 50 Ibid. 26–27 51 Ibid. 25ff 52 Ólafur Davíðsson og Jón Árnason 1887: II:5, III:3, IV:3 53 Finnur Jónsson 1927: 1

— 25 — 1830 komu út Fornaldarsögur Norðurlanda í þremur bindum og Íslendinga sögur í tveimur bindum.54 Útgáfa félagsins vakti töluverða lukku á Íslandi og gerðust um 900 Íslendingar áskrifendur.55

Fornfræðafélagið hafði verið stofnað í nánum tengslum við Fornminjanefndina sem hafði verið stofnuð 1807 og fékkst fyrst og fremst við varðveislu fornra minja og forngripa. Fornminjanefndin hafði sent út spurningalista til allra presta í Danmörku til að grennslast fyrir um fornminjar og hafði beitt sér fyrir söfnun gripa og vernd minja á grundvelli svaranna sem bárust. Nefndin sendi sama spurningalista til presta á Íslandi 1809 en sú könnun virðist annað hvort hafa misfarist eða ekki borið neinn árangur. Nokkrum árum síðar var Finnur Magnússon (1781–1847) prófessor skipaður í nefndina og varð hún í kjölfarið mun áhugasamari um Ísland og beitti sér fyrir friðun minja á Íslandi. Nefndin sendi biskupi og prestum á Íslandi aftur spurningalista 1817 þar sem meðal annars var spurt um fornleifar og sagnir tengdar þeim auk spurninga um sögusagnir um fornmenn, fornan átrúnað og hjátrú, og annað slíkt. Hið íslenska bókmenntafélag sendi árið 1838 spurningalista til sýslu- og sóknalýsinga til presta og þar var spurt með sambærilegum hætti um sagnir og annað þjóðfræðaefni og gert hafði verið í spurningalista Fornleifanefndarinnar.56

Á fundi Fornfræðafélagsins í júlí 1845 lagði breski fræðimaðurinn George Stephens fram tillögu um skráningu og varðveislu óútgefinna þjóðlaga og þjóðsagna á Íslandi. Stephens hafði unnið að slíkum söfnunum og skráningu í Svíðþjóð og lagði meðal annars til ráð um hvernig best væri að skrá það sem safnað var. Hann lýsti því hvernig best væri að skrá hvert efnisatriði á sérstakt blað þar sem skráð sé sem nákvæmast eftir heimildarmanni með orðskýringum ef þarf, auk þess sem nafn, aldur, staða og heimili heimildarmanns sé skráð. Þessari tillögu var feykivel tekið og undirbúningur hófst þegar í stað.57

54 Ibid. 6–10. Svörin hafa verið gefin út: Frásögur um fornaldarleifar 1817–1823. 2 bindi. Sveinbjörn Rafnsson bjó til prentunar. Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar, 1983. 55 Ibid. 7 56 Ögmundur Helgason 1989: 116–17 57 Ibid.

— 26 — Boðsbréf til íslendinga um fornritaskýrslur og fornsögur var gefið út 28. apríl 1846 af Fornleifanefndinni. Í því er sagt frá tilgangi verkefnisins og svo gerð grein fyrir því sem safna skyldi.58 Undir lok þeirrar upptalningar er þessi texti:

Óskanda væri, að lög á vísum og kvæðum væri skrifuð upp með nótum, ef kostr er á, einnig nöfn, aldr og heimili þeirra, sem sérhvað eina er tekið eptir; sömuleiðis að hvað eina, sem er sérstaks efnis, væri ritað sér í lagi á blað, ef því yrði við komið, svo sem minnst blandaðist saman ýmisleg efni, og svo hægra yrði að hafa greinilega niðurröðun á safninu.59

Þessi klausa er sérstaklega dregin út hér því í henni er í fyrsta sinn í boðsbréfinu minnst á tónlist og hvernig eigi að safna henni. Stephens hafði lagt töluverða áherslu á þjóðlög í tillögu sinni til Fornfræðafélagsins og rætt í henni um hvernig ætti að skrá lög og hljómfall vísna. Í úrvinnslu Fornfræðafélagsins og Fornminjanefndarinnar hafði tónlistinni greinilega verið ýtt skör neðar.

4.4 Jón Árnason og Magnús Grímsson Árið 1845, sama ár og George Stephens lagði söfnunartillögu sína fyrir Fornfræðafélagið, lögðu þeir Jón Árnason (1819-1888) stúdent og Magnús Grímsson (1825–1860) skólapiltur á ráðin um að hefja söfnun á „alþýðlegum fornfræðum“. Þeir skiptu með sér verkum þannig að Magnús safnaði sögum en Jón kreddum, leikjum, þulum, gátum og kvæðum.60 Sjö árum síðar var það sem Jón kallaði síðar sýnishorn af safninu gefið út af Einari Þórðarsyni prentara, undir nafninu Íslenzk æfintýri.61 Safnið hlaut dræmar viðtökur á Íslandi en vegnaði nokkuð betur hjá Íslendingum í Kaupmannahöfn.62

Í formála sínum fyrir Íslenzkum æfintýrum skrifuðu þeir Jón og Magnús um hvernig þeir hefðu hagað uppskriftum sínum:

58 Ibid. 119; Jón Sigurðsson 1843: i-viii. 59 Ibid. vij 60 Jón Árnason 1939: II:714 61 Ibid. 62 Hallfreður Örn Eiríksson 1980: 190

— 27 — Hvað safnið snertir, getum við þess, að það hefur einkum verið okkur hugfast, að aflaga ekkert í meðferðinni, heldur segja það með sömu orðum, og tíðast er manna á meðal, eins og við vonum, að hver maður sjái.63

Þessi lýsing þeirra félaganna er algerlega í takt við þá forskrift sem Jacob Grimm hafði gefið sem grundvallaratriði í sagnasöfnun í bréfi 1811. Þeir geta þó ekki hafa gert það meðvitað því engar líkur eru á að þeir hafi séð texta Jacobs því hann komst ekki á framfæri við almenning fyrr en síðar.64 Þeir Jón og Magnús voru innblásnir af safni þeirra Grimmbræðra og virtust vilja feta sem nákvæmast í þeirra fótspor en þeir höfðu lesið safnið í danskri þýðingu og því álitamál hvort vinnubrögð Grimmbræða hafi komist til skila til þeirra félaga í gegnum linsu danska þýðandans.65

Árið 1858 kom þýski lagaprófessorinn Konrad Maurer (1823–1902) til landsins. Árið áður hafði hann dvalið í Kaupmannahöfn að kynna sér íslenskt samtímamál, en hann hafði þá þegar lært fornmálið af bókum. Í Kaupmannahöfn hafði hann komist í kynni við Jón Sigurðsson og Guðbrand Vigfússon og væntanlega hefur hann fengið hjá þeim eintak af safni þeirra Jóns og Magnúsar.66 Meðan á dvöl hans á Íslandi stóð ferðaðist hann um og safnaði munnmælasögum meðal almennings og varð töluvert ágengt við það enda var hann vel mælandi á íslensku og viðræðugóður. 67 Þegar heim kom gaf Maurer það sem hann safnaði á Íslandi út undir nafninu Isländische Volkssagen der Gegenwart, vorwiegend nach mündlicher Überlieferung gesammelt, eða Íslenskar alþýðusögur á okkar tímum, safnað úr munnlegri geymd.68 Þetta sagnasafn Maurers kom út 1860 hlaut góðar viðtökur og fékk góða dóma, m. a. í franska tímaritinu Revue des deux mondes.69

Áður en hann fór utan lagði Maurer ríka áherslu á það við þá Jón og Magnús að þeir héldu söfnun sinni áfram, enda væri um auðugan garð að gresja. Maurer virðist hafa

63 Jón Árnason og Magnús Grímsson 1852: IV 64 Jón Hnefill Aðalsteinsson 1989: 240 65 Jón Árnason 1950: I:142 66 Jón Hnefill Aðalsteinsson 1989: 239 67 Hallfreður Örn Eiríksson 1980: 190–91; Konrad Maurer 1997: xxxiv–xxxv, xlix–l 68 Kom úr í íslenskri þýðingu 2015, sjá Konrad Maurer 2015: 296. 69 Hallfreður Örn Eiríksson 1980: 190–91

— 28 — gefið þeim undir fótinn með það að hægt væri að fá þjóðsagnasafn þeirra gefið út í Þýskalandi og staðfesti hann það í bréfi 25. mars 1859.70

Jón brást skjótt við og skrifaði hugvekju til vina sinna, skólabræðra og fræðimanna um allt land og bað þá að safna fyrir sig sem mest þeir mættu og lét yfirlit yfir það sem hann vildi helst að safnað væri. Jón Borgfirðingur birti hugvekjuna í Norðra í maí 1859 og Jón Árnason birti sjálfur ítarlegri hugvekju í Íslendingi í október 1861.71 Í inngangi þeim sem Jón skrifaði fyrir safninu, en birtist ekki fyrr en síðar, segist hann hafa fundið fyrir því þegar hann fór að fá viðbrögð við hugvekju sinni að bók þeirra Magnúsar hefði vakið meiri athygli þegar frá leið og hún hafi aukið jákvæðni manna í garð söfnunarinnar,72 en eflaust hefur söfnunarstarf Maurers gert töluvert til þess að liðka fyrir söfnun Jóns og Magnúsar í kjölfarið.73

Magnús féll frá 1860 og sinnti Jón söfnunarstarfinu einn eftir það. Hann naut liðsinnis Guðbrands Vigfússonar í Kaupmannahöfn og Konrads Maurer í München við úrvinnslu og frágang þess sem safnaðist, en þeir önnuðust yfirlestur og aðstoðuðu Jón einnig við breytingar sagna, auk þess sem Maurer las prófarkir að safninu þegar kom að prentun.74 Jón fylgdi fordæmi Maurers úr bók hans með alla flokkun og framsetningu sagnanna með sáralitlum breytingum og má því segja að Maurer hafi verið mikill áhrifa- og örlagavaldur þessa verkefnis.75

70 Jón Árnason 1939: II:714 71 J. J. Borgfirðingur 1859: 56; Jón Árnason 1861: 91-93. 72 Formáli Jóns er prentaður sem viðauki við endurútgáfu safnsins sem Ól. Sveinsson sá um og kom út 1930–1939. Jón Árnason 1939: II:714; Konrad Maurer 1997: xxxiv–xxxv 73 Hallfreður Örn Eiríksson 1980: 190–91 74 Jón Árnason 1939: II:714 75 Ibid. II:715–717

— 29 — 5 Bjarni Þorsteinsson Bjarni Þorsteinsson var fæddur á bænum Mel í Hraungerðishreppi á Mýrum 14. október 1861, sonur Þorsteins Helgasonar bónda og Guðnýjar Bjarnadóttur konu hans. Bjarni var elstur 13 barna sem þau Þorsteinn og Guðný eignuðust en fimm þeirra létust ung.76

Bjarni ólst upp hjá foreldrum sínum heima á Mel fram yfir fermingu. Hann var snemma námsfús, lærði að lesa 5 ára gamall og fór þá fljótlega að læra að draga til stafs.77 Bjarni varð góður skrifari með fallega rithönd sem sjá má bæði á handritum hans og sendibréfum, og þeim jarðarbókum og öðrum embættisbókum sem hann skrifaði. Bjarni varð snemma mikill grúskari og safnaði hann til dæmis örnefnum í landi Mels og svo smátt og smátt víðar umhverfis Mel.

Bjarni var alinn upp við söng og lærði snemma ýmis lög af móður sinni og öðru heimafólki á Mel.78 Hann fylgdi föður sínum í Staðarhraunskirkju þar sem hann var forsöngvari og hafði tekið við af Þórarni móðurbróður sínum, og var Þorsteinn reyndar bæði forsöngvari og meðhjálpari á þeim árum sem Bjarni var heima á Mel.79 Bjarni heyrði föður sinn og Helga föðurbróður syngja á á mannamótum ýmiskonar, við göngur og í réttum og í veislum.80

Rétt eftir fermingu er Bjarni sendur til Katrínar Ólafsdóttur frænku sinnar og eiginmanns hennar, séra Guðmundar Einarssonar á Breiðabólstað á Snæfellsnesi. Þar var hann í þrjú ár og lærði undir skóla hjá séra Guðmundi. Séra Guðmundur var alþingismaður á þessum tíma, menntaður og víðsýnn maður. Hann hafði verið í tengslum við Tómas Sæmundsson Fjölnismann meðan hann var kennari og skrifari hjá Eiríki Sverrissyni sýslumanni á Kollabæ í Fljótshlíð og hafði tileinkað sér frá honum sitthvað um menningu og framfaramál.81 Á Breiðabólstað sá Bjarni í fyrsta sinn nótnahefti

76 Viðar Hreinsson 2011: 15–30 77 Ibid. 27 78 Ibid. 28 79 Ibid. 34 80 Ibid. 30–32 81 Ibid. 38–39

— 30 — og kynntist í fyrsta sinn lærðri tónlist.82 Bjarni kynntist líklega einnig fræðagrúski þegar hann var á Breiðabólsstað. Í handritinu AM 970 4to er að finna efni sem Guðmundur tók saman en hluti þess var síðar notað af Jóni Árnasyni í þjóðsagnasafni hans og einnig af Ólafi Davíðssyni í Íslenzkum gátum, skemtunum, vikivökum og þulum.83

Skólaundirbúningurinn gekk vel og komst Bjarni í gegnum inntökupróf í Lærða skólann 25. júní 1877 og hóf nám þá um haustið.84 Hann bjó á heimavist skólans en þar sem hann var efnalítill og gat lítils fjárstuðnings vænst frá foreldrum sínum fékk hann styrki úr sjóðum skólans, meðal annars fyrir tilstilli Guðmundar, en Guðmundur efndi einnig til söfnunar meðal Mýramanna fyrir námskostnaði Bjarna.85 Bjarni þáði styrki úr Bræðrasjóði Lærða skólans og opinbera ölmusu meðan á náminu stóð en þegar lengra sótti í náminu gat Bjarni einnig aflað sér tekna með kennslu við skólann auk þess sem hann vann fyrir sér á sumrum með kaupamennsku.86

Í Reykjavík söng Bjarni með söngfélaginu Hörpu hjá Jónasi Helgasyni dómorganista og fór svo að læra á orgel hjá Jónasi.87 Sigfús Eymundsson leyfði honum að æfa sig á harmóníum í stofunni heima hjá sér og Björn M. Ólsen inspector veitti honum leyfi til að fara og æfa sig í klukkustund dag hvern.88 Bjarna gekk vel í tónlistarnáminu og á lokaári sínu í Lærða skólanum stundaði hann orgelnám, söng í Hörpu og stjórnaði kór skólans.

Annars bar ekki mikið á Bjarna á námsárunum. Hans er lítið sem ekkert getið í skrifum samstúdenta hans og virðist aldrei hafa komist þannig upp á kant í skólanum að það sé fært til bókar.89 Hann var þó oft valinn til þess að gegna ýmsum embættum við umsýslu og gæslu á vistinni og fékk bækur að launum.90 Bjarni virðist ekki hafa verið vinamargur en þó eignaðist hann góða vini sem hann hélt tengslum við eftir námsárin,

82 Ibid. 39–40 83 AM 970 4to 84 Viðar Hreinsson 2011: 40 85 Ibid. 30–41 86 Ibid. 56, 58 87 Ibid. 62 88 Ibid. 64–66 89 Ibid. 56, 69 90 Ibid. 60

— 31 — eins og Björn Gunnlaugsson Blöndal, Árna Beintein Gíslason og Steingrím Johnsen söngkennara.

Jón Árnason þjóðsagnasafnari var umsjónarmaður í Lærða skólanum á þeim tíma sem Bjarni var þar við nám og samtíða Bjarna við skólann voru þeir Jón Þorkelsson, Ólafur Davíðsson og Jónas Jónasson frá Hrafnagili sem allir áttu eftir að verða þjóðfræðasafnarar og eru, ásamt þeim Bjarna og Jóni, lykilmenn í söfnun þjóðfræðaefnis á Íslandi á 19. öld.91

Bjarni varð þingritari þegar Alþingi kom saman í fyrsta sinn við Austurvöll í nýbyggðu Alþingishúsi. Þing voru á sumrum og sinnti Bjarni þingritarastarfi til 1887, eða við fjögur þing því Alþingi kom saman annað hvert sumar.92 Á þeim tíma komst Bjarni í kynni við Lárus Blöndal alþingismann, en Lárus var föðurbróðir Björns Gunnlaugssonar, vinar Bjarna. Í kjölfar þeirra kynna réði Lárus Bjarna til sín sem sýsluskrifara norður að Kornsá í Vatnsdal.93 Bjarni og Sigríður dóttir Lárusar felldu hugi saman og áttu í leynilegu sambandi um nokkurt skeið.94

Svo virðist sem Bjarni hafi lítið haft samband við foreldra sína og fjölskyldu eftir að hann fór frá þeim til Breiðabólstaðar. Fjölskyldan fluttist búferlum frá Mel í Skutulsey 1881 eftir að bæjarhúsin á Mel urðu ónýt og árið 1884 fluttust þau á Kjalarnes.95 Þau hafa því verið í seilingarfjarlægð hvert frá öðru á þeim tíma sem Bjarni var við nám í Reykjavík, en þó virðist samgangur þeirra vera lítill sem enginn. Bjarni skrifast lítillega á við þau en það virðist allt hafa verið smávægilegt. Sjálfur sagði Bjarni að hann liti á sig sem einstæðing og að hann þekkti ekki systkini sín í sjón, hvað þá meira.96

Bjarni afréð að læra til prests og innritast í Prestaskólann árið 1886.97 Hann hafði viljað halda til náms erlendis og lesa lög, tungumál eða tónlist en hann átti þess ekki kost

91 Ibid. 86–87 92 Ibid. 76 93 Ibid. 88–90 94 Ibid. 94ff 95 Ibid. 83 96 Ibid. 97 Ibid. 101

— 32 — og því varð Prestaskólinn fyrir valinu. Bjarni virðist hafa verið meðvitaður um það að sem prestur væri líklegra að hann teldist samboðinn sýslumannsdótturinni, Sigríði Lárusdóttur Blöndal,98 en einnig virðist það hafa haft áhrif á ákvörðun hans að í prestsembætti myndi skapast svigrúm fyrir hann að sinna hugðarefnum sínum, sem voru þá þegar orðin þjóðlagasöfnun og tónsmíðar.

Bjarni lauk námi við prestaskólann 1888 og 30. september það ár vígðist hann til prests í Hvanneyrarsókn á Siglufirði og Kvíabekk á Ólafsfirði.99 Hann settist að á Siglufirði og bjó þar alla sína tíð.100 Hann kvænist Sigríði árið 1892 og eignuðust þau fimm börn.101

5.1 Umfjöllun og orðspor Þegar skyggnst er eftir Bjarna Þorsteinssyni í prentmiðlum í kringum aldamótin 1900 kemur fljólega í ljós að hann hefur snemma unnið sér nafn sem tónskáld og safnari. Árið 1892 má sjá auglýst sönghefti með útsetningum eftir Bjarna Þorsteinsson og upp frá því eru sönglagahefti hans auglýst reglulega í dagblöðum, bæði hér heima og í Kanada.102

Ein fyrsta umsögnin sem finna má um tónlist hans er um söngheftið XX SÖNGLÖG í Ísafold laugardaginn 28. október 1893 og er hún mjög jákvæð og þar segir: „síra Bjarni Þorsteinsson á Hvanneyri, er án efa söngfróðastur maður hjer á landi.“103

Bjarni sá um útgáfu Söngbókar Hins íslenska stúdentafélags sem út kom 1894. Árni Beinteinn Gíslason skrifar um bókina í Sunnanfara í október 1894 og er mjög ánægður, sérstaklega með tvísöngslögin sem Bjarni lét fljóta með. Hann gerir reyndar nokkrar athugasemdir við að Bjarni kalli sum lögin í bókinni íslensk þjóðlög en segir annars um innihald bókarinnar að þar sé að finna:

98 Ibid. 102 99 Ibid. 123–24 100 Ibid. 133ff 101 Ibid. 199ff 102 Þjóðólfur 1892 ; Ísafold 1892 103 v., Ísafold 1893: 281.

— 33 — hoppandi lög við húrrandi kvæði, þungbúin þjóðlög við raunalegar alþýðuvísur, og, meðal annars góðs, hreint og beint gáfulegar vitleysur í söng og kvæðum, eins og stúdentar þurfa til lífsins viðurhalds, stúdentarnir, sem eru, að minnsta kosti á Norðurlöndum, »nobelgarde« alls þess, sem heitir kvartettsöngur; og heima getur valla verið ræða um annan söng.104

Einnig er fjallað um Söngbókina í Þjóðólfi í október 1894 og er sá sem þar heldur á penna harla ánægður með bókina en ræðir nokkuð hve mikið er af lögum við drykkju- og gamankvæði, en telur þó að það sé ekki alvarlegt þar sem um græskulaust gaman sé að ræða og flestir ættu að geta haft gaman að. Hann er á sama máli og Árni Beinteinn í Sunnanfara um tvísöngslögin:

Einn höfuðkostur bókarinnar er þó ótalinn og það eru hin mörgu gömlu tvísöngslög og þjóðlög, sem prentuð eru aptan við bókina og þannig varðveitt frá glötun. Hefur séra Bjarni Þorsteinsson á Siglufirði, sem er mjög söngfróður maður unnið mest að því, og er mikillar þakkar vert. Gömul þjóðkvæði eru fjársjóðir, sem vér eigum að vernda frá glötun, en þau lifa bezt á vörum þjóðarinnar með því að lögin séu kunn og varðveitist. Alls eru 69 lög prentuð í bók þessari, og eru flest þeirra íslenzk.105

Það má sjá að tónlistarstarf hefur verið það sem Bjarni var sérstaklega þekktur fyrir eða helst er nefnt í tengslum við nafn hans þegar hans er getið. Í Stefni 21. ágúst 1899 eru til dæmis sagðar ferðafréttir og þar kemur eftirfarandi fram:

«Botnia» kom hingað 17. þ. m. Með henni kom síra Bjarni Þorsteinsson af Siglufirði, er dvalið hefir erlendis frá því í vor við að safna til íslenzkra laga, hafði hann gefið út og látið nótnaprenta sjer í hepti hátíðasöngva og í öðru hepti 6 sönglög.106

Árni Thorsteinsson tónskáld skrifar um Íslenzkan hátíðasöng og 6 sönglög í Eimreiðina í október árið 1900. Hann er ánægður með hátíðasönginn og segir hann bera vitni um smekkvísi og vandvirkni Bjarna. Hann nefnir að Bjarni hafi fengið J. P. E. Hartmann til

104 Árni Beinteinn Gíslason 1894 105 Þjóðólfur 1894: 186. 106 Stefnir 1899: 54.

— 34 — að líta á Hátíðasönginn og hann hafi lítið haft við hann að athuga, sem hljóti að vera gæðamerki.107

Valtýr Guðmundsson skrifar í blað sitt Eimreiðina í janúar 1901 um Bjarna Þorsteinsson undir fyrirsögninni „Sjálfmentað tónskáld“ og var það endurbirt í Lögbergi í Kanada 28. mars 1901. Þar rekur hann í stórum dráttum æviatriði Bjarna og nefnir helstu verk hans og hve vel honum hafi tekist upp á eigin spýtur að ná tökum á tónlist og hljómfræði. Hann vitnar til Hartmanns þess hins sama og Árni Beinteinn nefnir í umfjöllun sinni um Hátíðasönginn, og vitnisburð Hartmanns um hæfileika Bjarna á tónlistarsviðinu, þrátt fyrir litla menntun. Lokaorð Valtýs í greininni eru þessi:

Það væri óskandi að séra Bjarna gæfist kostur á að ljúka við þjóðlagasafn sitt og fá því komið á prent, því það gæti haft mikla þýðingu fyrir þjóðháttasögu landsins og líka orðið til þess að vekja eftirtekt annarra þjóða á oss.108

Valtýr lýsir hér viðhorfi sem ekki hafði verið ýkja algengt í umfjöllun um söfnun Bjarna eða um þjóðfræðasöfnun almennt á Íslandi. Ekki einasta vill hann meina að þjóðfræðaefnið skipti máli fyrir landið heldur geti það einnig vakið athygli erlendis. Það virðist einmitt gjarnan vera það sem fólk óttast mest, neikvæð athygli frá útlöndum sem þjóðfræðaefnið kann að vekja.

Bjarni Þorsteinsson virðist hafa verið hamhleypa til verka og tekist á hendur ýmis verkefni á fjölbreyttum sviðum. Hann varð snemma nokkuð áberandi sem prestur driffjöður ýmissa þjóðþrifaverka á Siglufirði.109

Það verður fljótlega ljóst af lestri heimilda að Bjarni var ekki mikið fyrir að vinna með öðrum eða deila ábyrgð þeirra verka sem hann tók að sér með öðrum. Þegar hann var skipaður í nefnd á vegum kirkjunnar um endurskoðun sálmabókarinnar tók hann hreinlega af skarið og endurskoðaði sálmabókina algerlega á eigin spýtur.

107 Árni Thorsteinson 1900: 135-36. 108 Valtýr Guðmundsson 1901: 63-65; 1901: 2. 109 Viðar Hreinsson 2011: 281ff

— 35 — Í Þjóðólfi 15. og 22. apríl 1904 segir Einar Brynjólfsson eftirfarandi í umfjöllun sinni um nýju sálmabókina sem þá var nýlega komin út:

Nei, eg var að gá að því, hvort enginn væri nefndur með séra B., sem vinnandi að verkinu með honum. Ekki var það sjáanlegt. Þá las eg formálann. Það var heldur ekki á honum að sjá. Svo eg gekk úr skugga um, að séra B. hefði e i n n búið bókina að öllu leyti til prentunar. Það gekk alveg yfir mig, að hann skyldi ekki hafa einhvern í ráðum með sér. Eg segi þetta ekki af vantrausti til séra B. — En varla gat honum dulizt, að þetta var vandasamt verk, sem óvíst er að allir vilji láta sér óviðkomandi. Að gefa út kirkjusöngsbók, er allt annað en að gefa út eitthvert kvæðasafn, eða sögur, sem enginn þarf að lesa fremur en hann vill. [...] Það væri líka ósanngirni að ætlast til þess, að einn maður gæti gert þetta óaðfinnanlega. Séra B. hefur heldur ekki tekizt það, að mínu áliti, þótt margt sé gott hjá honum.110

Þessi ummæli Einars eru líklega lýsandi fyrir það hvernig Bjarni vann og vildi vinna. Hann tók að sér verkefni og lagðist yfir það einn og sjálfur og vann það til enda á eigin spýtur.

Það sama hafði verið uppi á teningnum þegar Bjarni var skipaður í vinnuhóp á vegum kirkjunnar til endurskoðunar tónlags við hámessur kirkjuársins. Það fór á þann veg að Bjarni samdi sjálfur nýtt hátíðartón fyrir allar stórhátíðir kirkjuársins og gaf út undir nafninu Íslenzkur hátíðasöngur árið 1899.111

Á þeim tíma sem söfnun Bjarna stóð yfir má öðru hverju sjá minnst á hana í prentmiðlum. Sjaldnast er það ítarleg eða mikil umfjöllun heldur frekar minnst á söfnunina og væntanlega útgáfu eins og í framhjáhlaupi, eða í tengslum við þá styrki sem Bjarni aflaði sér, utanferðir hans og annað slíkt.

Í dagblaðinu Bjarka, sem Þ orsteinn Gíslason ritstýrði, birtist 12. janúar 1904 eftirfarandi ferðafregn:

110 Einar Brynjólfsson 1904: 66. 111 Viðar Hreinsson 2011: 244–48

— 36 — fór hjeðan á útleið 3. þ. m. Með honum var sr. Bjarni Þorsteinsson á Siglufirði á leið til Khafnar og verður þar þángað til í mars til þess að undirbúa þjóðlagasafn sitt; [...]112

Þetta er í kjölfar þess að Bjarna er veittur 1000 kr. styrkur á Alþingi 1903 og var hann þarna greinilega á leið til Kaupmannahafnar í þeim erindagjörðum að skrifa upp nótur úr handritum.

Reyndar er töluvert um að sagt sé frá ferðum fólks í prentmiðlum, aðallega í skipaferðum milli hafna landsins og sérstaklega ef um er að ræða millilandasiglingar. Þannig má sjá Bjarna bregða fyrir öðru hverju þar sem hann siglir milli hafna, og jafnvel er hans getið sem farþega um borð í skipum sem koma til hafnar á leið sinni til áfangastaðar hans. Af þessu má ráða að Bjarni hafi verið nokkuð þekktur í samfélaginu og er nafn hans iðulega nefnt meðal nafna fyrirmenna.

6 Söfnunarvinnan

6.1 Forsendur söfnunarinnar Bjarni gerir grein fyrir forsendum sínum fyrir þjóðlagasöfninni í inngangi sínum að Íslenzkum þjóðlögum. Þar ræðir hann að í æsku hafi hann kynnst alþýðusöng, jafnt í réttum sem í brúðkaupsveislum, auk þess sem faðir hans hafi verið forsöngvari í Staðarhraunskirkju. Þegar hann fór að heiman kynntist hann tónlist skrifaðri á nótum en þegar hann tók að kynna sér þá íslensku tónlist sem gefin hafði verið út á Íslandi fann hann fátt þeirra laga sem höfðu verið vinsælust á æskustöðvunum. Þegar hann spurðist fyrir um hverju þetta sætti fékk hann ýmis svör; að hver syngi þessi lög með sínu nefi og því ómögulegt að reyna að skrifa þau upp og gefa út, eða að þau væru ekki þess virði að eltast við að gefa þau út. Þetta varð þess valdandi að hann fékk áhuga á að spreyta sig við að skrifa upp innlendu lögin sem hann kunni og þau sem hann lærði af skólafélögum sínum og öðrum. Bjarni varð sýsluskrifari í Vatnsdal í Húnavatnssýslu og kynntist þar

112 Bjarki 1904: 3.

— 37 — sönghefð sem hann hafði ekki þekkt nema frá skólafélögum sínum frá svæðinu og skráði þar það sem hann heyrði. Síðar varð hann prestur á Siglufirði og kveðst hafa kynnst fjölda manna í Skagafirði, Eyjafirði og Þingeyjarsýslu sem gátu lagt honum til lög, enda var hann sífellt með allar klær úti á ferðum sínum að næla sér lög. Víða rakst hann á gömul lög í handritum sem hann leitaðist við að fá að skrifa upp eða fékk jafnvel gefin. Hann skrifaði fjölda manna um allt land, sem hann taldi að gætu hjálpað honum við söfnunina en það bar mjög misjafnan árangur.113

Það sem rak Bjarna af stað í söfnuninni var að hans sögn löngun hans til þess að kynnast þessari tónlist sem honum fannst afskipt:

[V]ið þetta vaknaði einmitt hjá mjer sú löngun og styrktist að mun, að kynna mjer betur þessi lög, þessi uppáhaldslög eldri mannanna, þessi olnbogabörn nýju söngmannanna, og að reyna að varðveita þau frá gleymsku og glötun; og jeg missti ekki sjónar á „gömlu lögunum“, sem svo voru kölluð, innan um allan þann sæg af nýjum, fallegum, útlendum lögum, sem jeg var svo að segja kafinn í alla mína skóla- og stúdentatíð.114

Bjarni gengst fúslega við því í formála og inngangi að mörg þeirra laga sem hann hafi safnað kunni að vera erlend. Hann segir hinsvegar að markmið hans hafi verið að safna sem flestu og ef hann var ekki alveg viss um uppruna leyfði hann laginu frekar að njóta vafans og vera með í safninu, enda væri betra að safna of miklu en of litlu.115 Hann nefnir sem dæmi að mörg þeirra kvæða sem þeir Jón Sigurðsson og Svend Grundtvig hefðu gefið út undir titlinum Íslenzk fornkvæði á árunum 1954–1885, væru mörg hver einnig til á erlendum tungumálum, og að allmargar sögur í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar væru af erlendum rótum runnar og væru til í erlendum útgáfum. Allt væri þetta samt kallað íslenskt og hann vildi að sama máli gegndi um tónlistina.116

Í upphafi inngangsins ræðir Bjarni um þjóðlög almennt og segir þar frá sínum skilningi á því hvað við er átt með orðinu þjóðlag:

113 Bjarni Þorsteinsson 1906: 15-17 114 Ibid. 16 115 Ibid. I–II, 6–7 116 Ibid. 5–6

— 38 — Þegar talað er um þjóðlög einhverrar þjóðar, er með því átt bæði við þau lög, sem að öllu leyti hafa myndazt hjá þjóðinni, án þess nokkur geti bent á stund eða stað, er lagið hafi myndazt, og einnig þau lög, sem þjóðin hefur algerlega gert að sinni eign, með þvi að hafa þau lengi og iðuglega um hönd og setja á þau sinn einkennilega blæ, jafnvel þótt lögin sjeu upprunalega utan að komin.117

Það er ekki ljóst hvort Bjarni hafi komist að raun um þessa skilgreiningu einn og sjálfur eða hvort hann hafði lesið sér til og fengið þetta annars staðar frá, en þessi skilgreining hans er mjög í takt við það sem tíðkast í dag, og er reyndar efnislega samhljóða þeirri skilgreiningu sem nefnd var í kafla 3.1.

6.2 Efnisskipan safnsins Þegar Bjarni tók ákvörðun um innihald og samsetningu safnsins má segja að hann hafi hugsanlega seilst ögn lengra en hollt var. Auk þess að gefa út þann sæg laga sem hann hafði safnað og fengið hjá öðrum tók hann ákvörðun um að ráðast í að skrifa upp eins mikið af tónlist úr handritum og hann kæmist yfir. Hann þurfti því að leggja á sig ferðir til Kaupmannahafnar og Stokkhólms til þess að komast í tæri við handritin sem þar eru geymd og það reyndist honum torvelt og kostnaðarsamt. Hann sótti um styrki til þess að ferðast í þessum erindagjörðum en fékk allmiklu minna en hann sóttist eftir.118 Frekar er fjallað um styrkbeiðnir Bjarna og umfjöllun um þær og afgreiðslu þeirra í kafla. 7.1.

Bjarni var í nokkrum vanda með hvernig hann ætti að raða efninu í safnið og ráðfærði sig við Ólaf Davíðsson í þeim efnum, enda Ólafur eflaust sá reyndasti á því sviði á þeim tíma. Niðurstaðan varð að skipta safninu í þrennt eftir því hvaðan Bjarni sótti lögin og í þeim hluta sem safnað var úr munnlegri geymd eru lögin flokkuð eftir heimildarmönnum, þá koma Passíusálmalög, tvísöngslög og rímnalög hvert fyrir sig í sérkafla ásamt ritgerðum um hvern flokk fyrir sig.119

Hér á eftir verður farið í gegnum Íslenzk þjóðlög frá upphafi til enda og gerð grein fyrir því hvað er þar að finna. Yfirferðin er fyrst og fremst hugsuð til þess að gefa hugmynd

117 Ibid. 1 118 Ibid. 17–18 119 Ibid. IV–V

— 39 — um það sem í safninu er og hvernig Bjarni meðhöldar það. Vísað er til síðutals í Íslenzkum þjóðlögum innan sviga í hverjum lið og með neðanmálstilvísunum til umfjöllunar Jóns Þórarinssonar, þar sem við á.

6.2.1 I. Lög úr handritum Meðal handrita sem Bjarni fór í gegnum og skrifaði upp úr eru handritin Melodia og Hymnodia Sacra ásamt Kvæðabók Ólafs á Söndum, en þau mega teljast meðal merkustu varðveittu tónlistarhandrita íslenskra. Auk þess skrifaði hann upp Þorlákstíðir í heild sinni og brot úr öðrum tíðum sem hann rakst á, og fjölmargt annað.

Þorlákstíðir120 Í handritinu AM 241a fol eru skráðar Þorlákstíðir, tíðasöngur sem syngja skal á messudegi heilags Þorláks. Bjarni fer í upphafi yfir sögu og helgi Þorláks Þórhallssonar biskups og skrifar upp nótur alls tíðasöngsins og leysir allan textann úr böndum og skrifar við. Bjarni segir handritið vera messubók úr Skálholtsdómkirkju og sé hún talin vera skrifuð einhvern tímann á árabilinu 1280–1330. (76–119)

Önnur handrit á Árnasafni Bjarni fann tónlist eða eitthvað tónlistarkyns í fjölmörgum handritum Árnasafns. Hér er listi yfir þau handrit sem hann tilgreinir auk upplýsinga um hvað hann sótti í hvert og eitt þeirra. Oft er um að ræða þekktan kaþólskan kirkjusöng sem Bjarni lætur venjulega vera að skrifa upp nema þá rétt til að gefa sýnishorn, enda sú tónlist sannarlega til annars staðar.

AM 241b fol (119–125) Í þessu handriti er að finna brot af Hallvarðstíðum og upphaf á tíðasöng Ólafs hins helga. Bjarni gerir grein fyrir sögu og helgi Hallvarðs og skrifar upp allar nótur.

120 Jón Þórarinsson 2012: 139–49

— 40 — AM 249g fol (126) Handritið segir Bjarni að sé frá síðari hluta 16. aldar og innihaldi rímtal eða kalendarium, en auk þess sé þar að finna samansafn af ýmsu efni, meðal annars lofsöng, Sanctus, sem Bjarni skrifar upp.

AM 175a 4to (127) Handritið er frá því um 1400 og inniheldur Kristnirétt Árna biskups en í eyðu er skrifað með annarri hendi stutt nótnalína með textanum Laus sit semper, sem Bjarni skrifar upp.

AM 266 4to (128–131) Í þessu handriti er texti um messugjörð og þar eru nótur sem sýna hvernig skal tóna ýmsa hluta messunnar á mismunandi messudögum. Bjarni skrifar upp 4 af 38 tilbrigðum við tónun Kyrie en skrifar upp að fullu Benedicamus, Kyrie eleison, Sanctus og Agnus Dei í samfellu.

AM 622 4to (131–132) Latneskir lofsöngvar bæði með og án nótna, innan um annað efni. Bjarni gefur sýnishorn, Jesus Christus, nostra salus.

AM 640 4to (132–134)121 Ærlækjarbók. Inniheldur Nikulásar sögu Bergs Sokkasonar og Nikulásartíðir. Bjarni drepur á sögu Nikulásar og vinsældir hans á Íslandi og skrifar upp brot af Nikulástíðum.

AM 670f 4to (134) Texti að tíðasöng Magnúsarmessu Eyjajarls. Engar nótur.

AM 678 4to (135–136) Skinnhandrit frá 13. öld sem inniheldur skipan tíðagjörða kirkjuársins á latínu. Nótur á fjórum síðustu blöðunum þar sem margsinnis er endurtekinn líkur texti um boðun Maríu við mismunadi lög. Bjarni gefur eitt dæmi, Missus est Gabriel.

AM 679 4to (136–137) Skinnhandrit frá 13. öld sem inniheldur skipan tíðagjörða kirkjuársins. Engar nótur.

AM 680 4to (137) Skinnhandrit frá 13. öld sem inniheldur skipan tíðagjörða kirkjuársins. Engar nótur.

AM 687b 4to (138–141) Tvö skinnblöð, illa farin. Ekki yngra en frá 1500. Inniheldur ógreinilegar tvísöngsnótur við latneska texta, bæði trúarlegt og veraldlegt.

121 Sverrir Tómasson 2014: 63–77

— 41 — AM 723b 4to (141–143) Pappírshandrit frá um 1700. Á þriðju síðu er Jubilus beatae Mariae Virginis Edur Jómfrúr Mariae Dans eftir Daða Halldórsson og hefst lagið á ljóðlínunni Guðs almáttugs dóttir dýr. Fjöldi kvæða er í handritinu, bæði eftir Daða og aðra.

AM 792 4to (143–145) Blanda af pappír og skinni með mörgum höndum, líklega frá 15. öld. Handritið er 236 blöð og eru nótur öðru megin á blaði 159. Bjarni reynir að ráða í þær og skrifar þær upp í heild.

AM 28 8vo (145–146) Skinnhandrit frá því um 1300, kallað Codex Runicus en það er allt skrifað með rúnum, 101 blað. Á næst síðustu blaðsíðu eru nótur við tvær hendingar úr dönsku þjóðkvæði frá 13. öld, skrifuðu með rúnaletri. Bjarni segist birta þetta vegna þess hve merkilegt þetta sé, ekki vegna þess að hann haldi að það sé íslenskt.

AM 76 8vo (146–147) Pappírshandrit frá síðari hluta 15. aldar, illa farið. Eitthvað af nótum við latneskan kirkjutexta. Bjarni skrifar upp tvö dæmi.

AM 80 8vo (147–155) Eitt blað frá klaustrinu á Munkaþverá í Eyjafirði, skrifað 1473 af Jóni Þorlákssyni. Bjarni telur þetta vera elsta handrit sem inniheldur nótur að tvísöng. Hann skrifar upp nótur að broti úr Agnus Dei og Credo in unum deum í heild sinni.

AM 98 8vo (155–158) Ritual-handrit frá 1200 eða fyrr, vel skrifað, á latínu með nótum á stöku stað. Bjarni tilfærir tvö dæmi; Beatus seruus og Vidimus stellam. Aftan við eru bundin nokkur yngri blöð sem einnig innihalda latneskan texta með nótum yfir textanum á stöku stað. Bjarni birtir upphaf textans með nótum, Dilexisti iusticam.

AM 102 8vo (158–174)122 Pappírshandrit frá 17. öld sem inniheldur sálma og andleg kvæði. Sjö síðustu blöðin eru með nótum að tví- og fjórrödduðum lögum. Bjarni skrifar upp níu lög og ræðir þau vandlega. Þykist jafnvel hafa fundið frumgerð lagsins Ísland, farsælda frón í tenórlínu eins fjórradda lagsins.

AM 204 8vo (174–175) Pappírshandrit frá 15. öld. Inniheldur nótur að einu lagi sem Bjarni skrifar upp, Marie suspirum.

122 Árni Heimir Ingólfsson, 2014: 37–49

— 42 — AM 240 8vo (175–179) Pappírshandrit frá um 1700 sem inniheldur afskrift að Kvæðabók Ólafs á Söndum. Bjarni birtir lista yfir upphöf kvæðanna 38 og segir þau öll vera í Melodia eða Hymnodia sacra nema eitt sem hann skrifar upp, Af hjarta gjarnan hugur minn er.

AM 461 12mo (179–180) Skinnhandrit frá 16. öld, uppskafningur. 72 blöð með ýmsu efni og eru nótur að latneskum lofsöngvum til Maríu á síðustu 4 blöðunum. Bjarni skrifar upp eitt sýnishorn, Aue sanctissima uirgo.

Handrit í Stokkhólmi Perg. 8vo Nr. 10 (180–183)123 Brot af íslenskri nótnabók á skinni. Með fylgja athugasemdir frá George Stephens frá 15. júlí 1844 þar sem hann segist hafa fundið þessi blöð utan um gamalt íslenskt söguhandrit á konungsbókhlöðunni í Stokkhólmi og telur hann þau vera úr gömlum íslenskum Grallara. Blöðin eru illlæsileg en Bjarni gefur sýnishorn af því sem læsilegt var, Meðtaki hann allra trúaðra bænir og Syngið þjer drottni nyjan söng.

Breviarium Nidrosiense (183–184) Hér ræðir Bjarni í tengslum við bókina Breviarium Nidarosiense frá 1519 um hvernig íslenskur kirkjusöngur á miðöldum hljóti að hafa komið frá biskupsstólnum í Niðarósi. Það sem Bjarna finnst athyglisverðast er að hvergi er minnst á Þorláksmessu eða Þorlákstíðir í bókinni og dr. Norberg sem Bjarni ræddi við og var sérfræðingur í kirkjusöng miðalda í Svíþjóð, hafði aldrei heyrt minnst á messur eða tíðir heilags Þorláks. Það finnst Bjarna benda sterklega til þess að Þorlákstíðir séu íslenskar.

Tíu handritabrot af landsbókasafninu í Reykjavík (184–195) Bjarni hafði fengið lánuð tíu handritabrot á landsbókasafninu til rannsóknar og hafði þau með sér til Kaupmannahafnar. Brotin innihalda kaþólskan kirkjusöng og fátt bitastætt fyrir Bjarna en hann skrifar þó upp 12 dæmi úr þeim. Brotin höfðu ekki fengið safnmark þegar Bjarni rannsakaði þau en þekkt safnmörk þeirra eru eftirfarandi: Lbs I – Lbs. fragm.

123 Árni Heimir Ingólfsson 2018: 7–33

— 43 — 40, Lbs II – Lbs. fragm. 19, Lbs III – Lbs. fragm. 33, Lbs IV – Lbs. fragm. 44, Lbs VI – Lbs. fragm. 37, Lbs VIII – Lbs. fragm. 45 og Lbs IX – JS fragm. 17. Brotin sem Bjarni kallar Lbs V, Lbs VII og Lbs X hafa ekki þekkt safnmark.

Katólskt Antiphonarium frá Hólum í Hjaltadal (195–206) Hér er um að ræða pappírshandrit sem Bjarna hafði áskotnast á Norðurlandi. Innihald þess er kaþólskur kirkjusöngur alls kirkjuársins, en bæði vantar framan og aftan á handritið. Bjarni ræðir um kaþólska kirkjusönginn, um Gregór mikla og Ambrósíus frá Mílanó. Bjarni birtir tíðasöng fyrir Þrettánda sem sýnishorn.

Melodia (206–315)124 Melodia er heiti pappírshandrits sem ber auðkennið No. 98 í Handritasafni Rasks. Það er skrifað um 1650 og inniheldur um 200 lög, bæði einradda og tvíradda. Bjarni nefnir að í formála þess standi „Nokkrir útlenzkir tónar með íslenzkum skáldskap“ en að eftir 93. lag stendandi „Allt hingað til Jóns Ólafssonar tónar, nema það síðasta“ og þykir Bjarna erfitt að samræma það fyrri fullyrðingunni að um sé að ræða útlenska tóna. Jón Ólafsson er sonur séra Ólafs Jónssonar á Söndum, en í Kvæðabók Ólafs á Söndum, sem er næsta handrit í þessari upptalningu, eru lög sem eru að miklum hluta þau sömu og í Melodiu og Bjarni segir að Jón Þorkelsson haldi því fram fullum fetum að í Kvæðabókinni séu lög eftir Ólaf sjálfan, sem og að í Melodiu sé nokkuð af þjóðlögum.

Bjarni skrifar upp 182 lög úr Melodiu auk þess að skrifa upp til samanburðar þrjú lög úr Kvæðabók Ólafs á Söndum sem eru að tilbrigði við lög í Melodiu. Í lok umfjöllunar sinnar vísar Bjarni á 23 sálmalög í Melodiu sem eru samhljóða lögum úr Hymnodia sacra eða Grallaranum.

Kvæðabók síra Ólafs á Söndum (315–325)125 Handritið ÍB 70 4to er pappírshandrit sem inniheldur Kvæðabók séra Ólafs Jónssonar á Söndum í uppskrift Hjalta Þorsteinssonar frá 1693. Í handritinu er að finna 21 lag og eru

124 Jón Þórarinsson 2012: 276–82 125 Ibid. 271–73

— 44 — 16 þeirra samhljóða lögum í Melodiu eða tilbrigði við lög þar, eitt lag úr Grallaranum en Bjarni skrifar upp fjögur lög sem eru sérstök í þessu handriti. Bjarni nefnir að í Kvæðabókinni séu öll kvæðin skrifuð upp í heild sinni en einungis fyrsta erindi hvers kvæðis í Melodiu. Melodia megi því kallast sönglagasafn með kvæðum en Kvæðabókin sé fyrst og fremst kvæðabók með nokkrum lögum.

Hymnodia sacra (325–391)126 Bjarni komst yfir þetta handrit í Skagafirði en það ber heitið Hymnodia Sacra og er skrifað upp af séra Guðmundi Högnasyni presti í Vestmannaeyjum árið 1742. Handritið inniheldur 110 lög og telur Bjarni að 87 þeirra séu innlend og skrifar þau upp og ræðir þau nokkuð vandlega. Handritið ber í dag safnmarkið Lbs 1927 4to.

Hrappseyjarkver (391–400) Svo nefnir Bjarni handrit sem hann fékk að láni hjá Þorvarði Jakobssyni í Sauðlauksdal. Handritið er 12mo og var orðið illa farið þegar Bjarni rannsakaði það og vantaði aftan á það. Bjarni fann í þessu handriti 21 lag og skrifar upp 15 þeirra, en 6 lög voru að mestu samhljóða lögum í Hymnodiu. Handritið ber í dag safnmarkið Lbs 2057 8vo.

Ýmislegur samtíningur 1852 (401–408) Þetta er yfirskrift 12mo bókar sem Bjarni fékk að gjöf frá Guðvarði Guðvarðarsyni á Á í Unadal. Í bókinni er ágrip af söngfræði, sem Bjarni segir ófullkomna og eflaust upprunna úr gamalli danskri söngfræði, og yfir 60 lög með bókstafanótum, þar á meðal lög sem Bjarni hafði aldrei séð fyrr. Bjarni fer yfir lögin sem hann telur íslensk og vísar til þeirra laga sem hann hafði þegar skrifað upp annars staðar og skrifar upp sjö lög sem ekki finnast annars staðar eða eru í mjög frábrugðinni gerð.

6.2.2 II. Lög úr prentuðum bókum Miðhluti bókarinnar er líklega sá sem mesta gagnrýni hefur hlotið, bæði strax í kjölfar útgáfunnar og síðar. Sá hluti inniheldur, eins og nafnið gefur til kynna, lög úr prentuðum bókum og þar fer Bjarni í gegnum bækur, allt frá Hólabókunum, Grallaranum og fleiri

126 Ibid. 282–84

— 45 — prentuðum bókum frá árnýöld og fram til samtíma síns. Bjarni ræðir um tilurð bókanna og í mörgum tifellum segir hann einungis frá því hvað er að finna í hverri bók og vísar til þess í öðrum bókum en þar sem hann rekst á lög sem hann hafði ekki fundið fyrr skrifar hann þau upp og birtir.

Hólabækurnar 1589 og 1619 (409–419) Hólabækurnar voru sálmabækur Guðbrands Þorlákssonar biskups sem prentaðar voru á Hólum og komu út 1589127 og í verulega bættri útgáfu 1619.128 Bjarni birtir fjögur lög úr útgáfunni frá 1589 og 15 úr útgáfunni frá 1619.

Grallarinn (420–451 129 Grallarinn eða Graduale er messusöngbók sem Guðbrandur Þorláksson biskup gaf út 1594 eftir Graduale sem danski biskupinn Niels Jesperssøn gaf út 1573. Grallarinn var mikið notaður í kirkjum landsins um alda skeið en hann var gefinn út 19. sinnum fram til 1779. Bókin hafði gríðarleg áhrif á messugjörð, en undirtitill hennar segir eiginlega allt sem segja þarf um hana: Ein Almenneleg messusaungs Bok, Innehalldande þann Saung og Cerimoniur sem i Kyrkiunne eiga ad syngiast og halldast hier i Landi, epter goodre og Christelegre Sidveniu, sem og vors Allra Naaduagasta Arfa-Kongs og Herra, Kyrkiu Ritual.

Bjarni fer yfir fyrstu útgáfu Grallarans (420–428) og þá sjöttu (428–429) en í þeirri útgáfu bættist við Grallarann ágrip af söngfræði sem Þórður Þorláksson biskup hafði tekið saman og átti eftir að fylgja öllum 13 útgáfum Grallarans upp frá því. Þórður hafði stundað tónlistarnám í Kaupmannahöfn og kom heim árið 1658 með hljóðfæri í farteskinu.130 Bjarni fer síðan yfir síðari útgáfur Grallarans og finnur þar til 26 lög, þar á meðal lög sem síðar komu út í bókum Péturs Guðjohnssens og Ara Sæmundssonar. Bjarni les þau saman og birtir tilbreytingar. (429–451)

127 Ibid. 214–22 128 Ibid. 222–27 129 Ibid. 222–32 130 Ibid. 388

— 46 — Ýmsar sálmabækur Þær bækur sem Bjarni fer yfir hér virðist hann hafa viljað hafa með fyrst og fremst til þess að gera safnið fyllra og eins nálægt því að vera tæmandi og honum var unnt. Hann finnur fá lög í þeim, en birtir þau sem hann telur innlend og finnast ekki annars staðar. Þar sem um er að ræða lög sem Bjarni hefur fundið annars staðar vísar hann til þeirra í umfjöllun sinni.

Í Davíðs saltara frá 1662 (451–452) eru tveir sálmar með nótum og birtir Bjarni annan þeirra sem hann hafði ekki fundið annars staðar, en finnst lagið ekki gott. Gerhardi hugvekjur (452–453) inniheldur fimm lög á nótum og Iðrunarsálmar Davíðs kóngs (453) tvö og eru það lög sem finnast annars staðar. Morgun- og kvöldsálmar (453–454) inniheldur eitt lag sem Bjarni hefur ekki fundið áður og birtir hann það. Appendix við Passíusálmana 1722 (454) inniheldur eitt lag, Hallgrímskver (455) tvö lög, Bernhardi krosskveðjur (455) eitt lag, Sálmabók íslensk, Hólum 1751 (457) og Sálma-flokkabók, Hólum 1780 (457) tvö lög hvort, allt lög sem Bjarni hafði fundið annars staðar. Höfuðgreinabókin, Hólum 1772 (457–461) inniheldur 40 lög og þar á meðal fimm lög sem Bjarni hafði ekki fundið annars staðar og birtir hann þau.

Laborde & Roussier: Essai sur la Musique ancienne et moderne (461–469) 131 Íslensk þjóðlög rötuðu fyrst á prent í frönsku tónlistarriti, Essai sur la musique ancienne et moderne sem kom út í París 1780. Þar var fjallað um forna og nýja tónlist af þeim Labourde og Roussier og þar er að finna fimm íslensk lög. Talið er að Jón Ólafsson úr Svefneyjum132 (1731–1811), bróðir Eggerts Ólafssonar fjölfræðings, sé heimildarmaður fyrir þeim og danska tónskáldið Johann Hartmann (1726–1793) hafi séð um að skrifa þau upp. Öll eru lögin við forna bragarhætti sem tíðkast höfðu á Íslandi, við fornyrðislag úr Völuspá, ljóðahátt úr Hávamálum, hrynhendu úr Lilju Eysteins munks frá 14. öld og svo við dróttkvæði. Þetta þykir benda til þess að megináherslan hafi verið á að finna lög við elstu bragarhættina og Jón hafi því verið beðinn um að syngja slík lög sérstaklega. Þessi ritgerð

131 Ibid. 308–20 132 Bjarni taldi að heimildarmaðurinn hefði verið Jón Ólafsson úr Grunnavík.

— 47 — fór ekki hátt á Íslandi fyrr en síðar og þykja þau lög sem þar er að finna vera hreinustu gersemar, enda eru sum þeirra hvergi varðveitt annars staðar.

G. Mackenzies ferðabók (470–475) Í ferðabók Mackenzies, Travels in Iceland 1810, sem kom út í Edinborg 1811, er að finna sex lög sem Mackenzie skrifaði upp úr bókum Magnúsar Stephensen, og fullvissaði Magnús hann um að lögin væru íslensk og mjög gömul.

Ari Sæmundsen (475–484)133 Bók Ara kom út á Akureyri 1855 og er tvískipt. Fyrri hluti hennar heitir Leiðarvísir til að spila á langspil og til að læra sálmalög eptir nótum en sá síðari Nótur með Bókstöfum til allra sálmalaga, sem eru í messusöngsbók vorri, og þar að auki til nokkurra fleiri Sálmalaga handa unglingum og viðvaningum. Bjarni ræðir bókina nokkuð og birtir úr henni átta lög.

Pjetur Guðjohnsen (484–489) Íslenzk sálmasöngsbók með nótum eftir Pjetur Guðjohnsen kom út 1861 og inniheldur 110 lög auk tónlags. Bjarni ræðir ítarlega um bókina og hugmyndir Péturs um varðveislu þeirra á Íslandi. Pétur segir 24 laganna 110 vera innlend og Bjarni tekur undir það og að þau sé öll að finna annars staðar í safninu.

Í lok kaflans nefnir Bjarni að í þríraddaðri bók Péturs sem synir hans gáfu út 1878, að honum látnum, hafi hann fundið eitt lag sem hann þekkti ekki og birtir hann það.

A. P. Berggreen (489–497) 134 Danska tónskáldið A. P. Berggreen gaf út þjóðlagasafn, Folkesange og Melodier, fædrelandske og fremmede, samlede og udsatte for Pianoforte, í fjórum bindum á árunum 1842– 1847. Í því er að finna sjö lög sem Pétur Guðjohnsen organisti skrifaði upp fyrir Berggreen og tvö lög sem Berggreen hafði sjálfur skrifað upp eftir íslenskum námsmanni í Kaupmannahöfn. Bjarni er fremur gagnrýninn á lagaval Péturs og Berggreens enda er

133 Ibid. 265–67 134 Ibid. 230

— 48 — ekkert laganna tvísöngslag og ekkert í lýdískri tóntegund, og því finnst Bjarna þetta ekki vera góð sýnishorn af íslenskri tónlist.

Konrad Maurer (497–500) 135 Hér ræðir Bjarni grein eftir Konrad Maurer, Über ein isländisces Lied auf Kaiser Friedrich den Rothbart sem hann hafði birt í tímaritinu Sitzungsberichte der königl. bayer. Akademie der Wissenschaften zu München árið 1867.136 Í greininni fjallar Maurer um kvæðið Keisari nokkur mætur mann sem hann hafði skrifað upp eftir ýmsum en þar sem hann skrifaði ekki nótur fékk hann Pétur Guðjohnsen til þess að skrifa upp fyrir sig lagið. Maurer fékk síðar annað lag við kvæðið frá öðrum heimildarmanni. Bjarni birtir bæði lögin úr grein Maurers og ræðir þau.

Ólafur Davíðsson (500–510) 137 Af hendi Ólafs Davíðssonar hefur Bjarni rúmlega 20 lög sem höfðu komið út í þjóðfræðasafni Ólafs og Jóns Árnasonar Íslenzkar gátur, skemtanir, vikivakar og þulur sem út kom á árunum 1887–1903, en það mun hafa verið í fyrsta sinn sem birt voru íslensk þjóðlög í íslenskri bók. Í safninu Ólafs fjallar hann um íslenska tónlist og tónlistarflutning í köflunum Saungur og hljóðfærasláttur, Rímnakveðskapur og Lotulengdarkapp.138

Thomas Laub (510–520) Laub var organisti og gaf út bókina Danske Folkeviser með gamle Meodier í Kaupmannahöfn 1899. Bjarni segist vera sammála Laub í því að lögin séu ekki endilega bundin við eitthvað eitt land eða þjóð á Norðurlöndum og því telur Bjarni óhætt að birta nokkur laganna sem hann þekkir úr safninu, við íslensk kvæði úr Íslenzkum fornkvæðum, sem Jón Sigurðsson og Svend Grundtvig tóku saman.

135 Ibid. 370–73 136 Konrad Maurer 1867 137 Jón Þórarinsson 2012: 321–23 138 Ólafur Davíðsson og Jón Árnason 1887: II:235–273, II:206–223, II:193–203

— 49 — 6.2.3 III. Lög skrifuð upp eptir ýmsu fólki Í þessum þriðja hluta bókarinnar er það efni sem í dag hlýtur að teljast verðmætasti skerfur safnsins. Fyrri hlutar bókarinnar fást við tónlist sem sótt var í handrit eða prentaðar bækur en þessi síðasti hluti fæst eingöngu við tónlist sem ekki var til annars staðar en í munnlegri geymd þegar söfnun Bjarna átti sér stað.

Af þeim fjölda heimildarmanna sem Bjarni tilgreinir eru sjö heimildarmenn sem hann tekur sérstaklega út og eru þeir allflestir vinir hans og kunningjar eða vinir og kunningjar vina hans og kunningja. Það er ekki óeðlilegt að söfnun hefjist með slíku þýði en víkki síðar út og stækki, en í tilfelli Bjarna virðist þessi hópur hafa lagt til stofninn í safnið og fáir viðlíka heimildarmenn bæst í heimildarmannahópinn. Á þessu eru tvær mikilvægar undantekningar, sem eru þeir Sigtryggur Guðlaugsson á Núpi og Benedikt Jónsson á Auðnum. Báðir þessir menn höfðu sjálfir af eigin hvötum safnað tónlist í nærumhverfi sínu þegar þeim fannst vera farið að sverfa að og að nýja tónlistin væri að taka yfir og bola þeirri gömlu burt, og nýtir Bjarni söfn þeirra.

Af orðum Bjarna sjálfs um heimildarmennina má sjá að hann bar til þeirra töluvert traust. Hann virðist ekki gera mikinn greinamun á heimildarmönnum út frá stétt þeirra og stöðu en þiggur það sem frá þeim kemur.

Bjarni birtir lög þessara heimildarmanna sinna sér en þeirra er þó víðar getið í safninu því mjög víða má sjá að Bjarni nefnir þau við önnur lög sem hann hafði fengið frá fleiri en einum heimildarmanni eða ef lögin þeirra falla í aðra sérstaka flokka, eins og Passíusálmalög eða rímnalög.

Úr Mýrasýslunni (521–536) Í Mýrasýslu voru æskustöðvar Bjarna og eðlilegt að henni sé helgaður kafli í safninu. Það fyrsta sem Bjarni skrifaði meðan hann var að reyna sig við að skrifa upp alþýðulög á nótur var það sem hann nam af vörum fjölskyldunnar og nágranna sinna á Mýrunum. Í upphafi ræðir Bjarni um sönglíf í sýslunni vestanverðri og nefnir menn sem honum eru minnisstæðir.

— 50 — Þessi kafli er að miklu leyti tónlist sem Bjarni skrifar sjálfur eftir eigin minni og sum þeirra segir hann vera alþekkt um allt land. Hann birtir 16 lög og gerir grein fyrir tilbrigðum sumra þeirra sem hann hafði fengið frá öðrum heimildarmönnum.

Björn Gunnlaugsson Blöndal (536–540) Björn Gunnlaugsson Blöndal var mægður Bjarna, sonur Gunnlaugs bróður Lárusar Blöndal sýslumanns á Kornsá. Björn var fæddur 1870 og lést 1906 og var því látinn þegar Íslenzk þjóðlög kom út. Hann gekk í Reykjavíkurskóla og svo prestaskólann og var prestur á Hofi á Skagaströnd og síðan á Hvammi í Laxárdal til æviloka. Bjarni skrifaði sjálfur upp lögin sem hann lærði af Birni. Frá Birni birtir Bjarni 5 lög.

Við vorum nokkur ár saman í skóla og einnig sem stúdentar í Reykjavík, og af honum lærði jeg fyrst tvísöng, að það gæti heitið því nafni. Jeg hafði reyndar heyrt og lært nokkur tvísöngslög á Mýrunum áður en jeg fór í skóla, en þar voru þau optast nær sungin einrödduð. Við Björn máttum heita þeir einu af stúdentum í okkar tíð, sem kunnum tvísöng, og sungum við hann opt. Hann hafði lært tvísöng af föður sínum Gunnl. sýslumanni Blöndal, bróður Lárusar, ágætum söngmanni. Þau lög, sem jeg lærði af Birni og ekki hafði lært áður, nótera jeg hjer, nema lagið Pjetur þar sat í sal, sem er nóterað á meðal Passíusálma-laganna. (536)

Hans Wingaard (541–547) Hans Wingaard var greinilega ekki alveg eins og fólk er flest, ef marka má lýsingar. Hann lagði alldrjúgan skerf til safnsins því mörg af þeim lögum sem Bjarni nefnir Hans sem heimildarmann fyrir hafa lifað allt fram á þennan dag, eflaust vegna skrásetningar og útgáfu Bjarna. Frá Hans birtir Bjarni 7 lög.

Veturinn 1887—88 bjó í nánd við mig í Reykjavík gamall karl, all-einkennilegur, sem hjet Hans Wingaard, smiður og rakhnífaslípari; hann var sonur síra Einars Sæmundssonar í Stafholti, og var talsvert gefinn fyrir söng; hann kom stundum inn til mín, og skrifaði jeg upp úr honum allt það af gömlum lögum, sem hann kunni og mundi, en hann var farinn að ryðga í sumum þeirra; mörg af lögunum hafði jeg þegar áður lært, en hin eru hjer nóteruð. Enn fremur lærði jeg af honum eitt eða tvö af gömlu sálmalögunum og verður þeirra síðar getið. (541)

— 51 — Úr Húnavatnssýslunni (547–567) Eins og fram hefur komið réðist Bjarni til Lárusar Blöndal sýslumanns á Kornsá í Vatnsdal skömmu eftir að hann útskrifaðist úr Lærða skólanum og var skrifari hans um skeið. Lárus varð síðar tengdafaðir Bjarna, en þau Bjarni og Sigríður Lárusdóttir Blöndal heimasæta á Kornsá felldu hugi saman á þessum tíma og giftust árið 1892, fjórum árumeftir að Bjarni hafði orðið sér úti um embættispróf úr prestaskólanum og vígst til prests á Hvanneyri á Siglufirði með embættisskyldur á Kvíabekk á Ólafsfirði. Það má sjá á auglýsingum og upplýsingum um prestaráðningar til kirkna landsins að Bjarni hafði hug á að fá brauð í Húnavatnssýslum, hugsanlega að áeggjan Sigríðar, til að vera nær hennar fólki.139 Af því varð þó aldrei og Bjarni sat á Siglufirði alla sína tíð með Sigríði sína.

Af þeim nefndu heimildarmönnum sem Bjarni tilgreinir sérstaklega eru bæði Björn Gunnlaugsson Blöndal og Rannveig Sigurðardóttir úr sýslunni auk þess sem Bjarni vitnar oft til Lárusar og Gunnlaugs Blöndal við lög í meginmáli bókarinnar. Þannig virðast Húnvetningar hafa haft mikil áhrift á skoðanir og smekk Bjarna á þjóðlagatónlist, eins og sjá má á umræðu hans um tvísönginn, sem Bjarni vill tengja Vatnsdalnum sterkum böndum, og um rímnakveðskapinn. Á 20. öldinni virðast kvæðamenn úr Húnavatnssýslu hafa verið atkvæðamestir í að koma fram og kveða við ýmis tilefni og varðveisla og viðhald kvæðamennsku að miklu leyti grundvallast á þeirra smekk og þekkingu.140

Úr Húnavatnssýslu birtir Bjarni 23 lög.

Rannveig Sigurðardóttir (567–571) Rannveig Sigurðardóttir hafði verið nágranni þeirra Blöndals-bræðra Lárusar og Gunnlaugs í Vatnsdalnum á sínum yngri árum og söng að sögn mikið með þeim. Þessi tengsl hafa eflaust orðið til þ ess að Bjarni hafði upp á henni og fékk Elías Bjarnason organista til að skrifa upp eftir henni lög, eins og Bjarni segir sjálfur í aðfararorðum kaflans sem inniheldur lög frá henni:

139 Þjóðólfur 1893: 99; Þjóðólfur 1893: 155. 140 Rækilega er fjallað um hlut húnverskra kvæðamanna í bæði Silfurplötum Iðunnar og Segulböndum Iðunnar. Sjá Gunnsteinn Ólafsson, 2004 ; Rósa Þorsteinsdóttir, 2018

— 52 — Rannveig Sigurðardóttir, gömul kona á Prestsbakka á Síðu, móðir prestsins þar, síra Magnúsar Björnssonar, hefur sent mjer töluvert af gömlum og góðum þjóðlögum, einkum sálmalögum, og þeim sumum harla sjaldgæfum nú orðið; hefur Elías Bjarnason, organisti í Hörgsdal, sett þau á nótur eptir því, sem hún söng þau. (567)

Frá Rannveigu skrifar Bjarni 5 lög.

Páll Melsteð (571–580) Páll Melsteð var sagnfræðingur og hafði verið sögukennari Bjarna í Lærða skólanum,141 en þar var hann stundakennari í sögu frá 1869 jafnframt því að vera málflutningsmaður í landsyfirdómi. Hafði áður verið sýslumaður Gullbringu- og Kjósarsýslu.142 Frá Páli birtir Bjarni 7 lög.

Hann er einn hinn fróðasti maður í mörgum greinum, og tæplega mun maður leita árangurslaust til hans í nokkuri grein íslenzkra fræða, eins og líka bók Ól. Davíðssonar: Ísl. Skemmtanir, ber ótvítrætt vitni um. Enda segir Ólafur og í innganginum að nefndri bók, bls. 34: „Páll Melsteð, skólakennari, hefur gjört mjer þann greiða, að lesa yfir kaflana um sundið og sögu glímnanna, og bætt við ýmsum fróðleik, eins og hans var von og vísa, einhvers fróðasta manns á Íslandi.“ Maður kemur heldur ekki að tómum kofunum hjá Páli, þegar tala er um íslenzk þjóðlög, hvort heldur tvísöngslög eða önnur, því hann var söngmaður dágóður á sinni tíð, og minnið í þeirri grein, sem öðrum, óbilandi, einkum þegar ræða er um tímann, sem fjær er, t. d. 1830–1860. Jeg hef fengið á blaði (frá Sæmundi sál. Eyjólfssyni) upp taldar flestar þær vísur og vers, er sungin voru, og flest í tvísöng, í Bessastaðaskóla á skólaárum Páls 1828—34. [...] Jeg gjörði mjer ferð til Reykjavíkur 1897, sumpart eða mestmegnis til þess að hafa tal af Páli Melsteð og fræðast af honum um tvísöngslög og íslenzk þjóðlög yfir höfuð. Söng gamli maðurinn fúslega fyrir mig og kvað nokkrum sinnum allt þess konar, sem hann kunni eða mundi í svipinn, og svaraði mjer þar að auki upp á margar spurningar. Flest af því marga, sem hann kunni og hafði kunnað síðan hann var í Bessastaðaskóla, hafði jeg þá þegar fengið nóterað eða lært annars staðar, og þótti mjer vænt um að heyra hann hafa lögin eins, eða nær því eins. Fáein lög nóteraði jeg þó upp eptir honum, sem jeg hafði ekki fengið áður, og eru þau lög til færð hjer á eptir; þar á meðal lagið: Nú grætur mikinn mög, sem svo fáir kunna nú orðið. Auk

141 Viðar Hreinsson 2011: 48 142 Páll Eggert Ólason 1948: IV:131–132

— 53 — þess nokkur kvæðalög, og eru þau nóteruð annars staðar, þar á meðal lagið hans Kvæða-Kela, merkilegt lag, og kvæðalag Jónasar sál. Hallgrímssonar. (571–573)

Benedikt Jónsson á Auðnum (581–595) Benedikt Jónsson á Auðnum í Laxárdal hafði um árabil skrifað upp tónlist sem hann kunni og vildi reyna að hefja hana aftur til vegs og virðingar meðal almennings með því að fá færa og vel menntaða tónlistarmenn til að útsetja hana og gera nútímalegri og/eða aðgengilegri fyrir yngri áheyrendur.143 Um þessa viðleitni Benedikts er nánar fjallað í kafla X. um þátt Björns Kristjánssonar. Frá Benedikt birtir Bjarni 11 lög.

Benedikt Jónsson, bóndi á Auðnum í Laxárdal í Þingeyjarsýslu, er sá maður, sem einna mest hefur hjálpað mjer við söfnun þjóðlaganna og einna ríkuglegastan skerf hefur lagt í safn þetta; hann er mjög vel menntaður maður og söngfróður vel. Kynntist jeg honum ekki fyr en 1898; en bæði á því ári og árinu á eptir safnaði hann og sendi mjer yfir 100 lög, þar af nálægt 60 rímnalög, — hitt lög við kvæði og sálmalög; fylgdu lögum þessum rækilegar athugasemdir, eptir því sem tök voru á. Meginatriði þessara athugasemda og hugleiðinga hans tek jeg hjer upp með hans eigin orðum; og get jeg það því fremur, sem jeg í öllum aðalatriðum er á sama máli og hann. (581)

Síra Sigtryggur Guðlaugsson (595–609) Sigtryggur Guðlaugsson prestur var bæði heimildarmaður og skrásetjari, þó ekki sé nefnt eftir hverjum hann hafi skráð er nefnt að hann hafi skráð eftir sínu fólki. Sigtryggur var menntafrömuður og stofnaði lýðháskóla á Ljósavatni sem hann stýrði á árunum 1903– 1905 og stofnaði þá ungmennaskólann að Núpi í Dýrafirði og var skólastjóri hans á árunum 1906–1929.144 Frá Sigtryggi birtir Bjarni 23 lög.

Síra Sigtryggur Guðlaugsson á Þóroddstað í Köldukinn [Neðanmáls: Síðar prestur í Dýrafirði.] hefur hjálpað mjer um mikið af lögum bæði við andlega og veraldlega texta. Hefur hann lært þau öll í Eyjafjarðar- og Suðurþingeyjarsýslum, eins og athugasemdirnar bera með sjer. Hafði hann skrifað mörg af lögum þessum upp á árunum 1882–86; er hann upp alinn fram í Eyjafirði meðal fólks, sem hafði miklar mætur á söng, ekki sízt þeim lögum, er innlend voru talin. Öll þessi lög sendi hann

143 Sveinn Skorri Höskuldsson hefur ritað ævisögu Benedikts og fjallar þar töluvert ítarlega um tónlistarstarf hans og þjóðlagasöfnun. Sjá Sveinn Skorri Höskuldsson 1993. 144 Ævisaga Sigtryggs kom út 1964 og er þar rætt um þjóðlagasöfnun hans. Sjá Halldór Kristjánsson 1964: 135–36

— 54 — mjer svo, hreinskrifuð í tveimur heptum, andlegu lögin í öðru en veraldlegu lögin í hinu; var mjög laglega og smekklega frá því öllu gengið, og er hann vel að sjer í söngfræði og lætur sjer annt um varðveizlu þjóðlaga vorra, þótt ungur sje, og eru þeir fáir, sem jeg á eins mörg góð lög að þakka eins og honum.(595)

Guðmundur Davíðsson (609–624) Guðmundur Davíðsson, bróðir Ólafs Davíðssonar þjóðfræðings og safnara, var bæði heimildarmaður og skrásetjari, og nefnir Bjarni að hann hafi skrifað upp mikið af lögum eftir Jórunni Waage. Frá Guðmundi birtir Bjarni 20 lög.

Guðmundur Davíðsson bóndi á Hraunum í Fljótum er sonur síra Davíðs Guðmundssonar prófasts á Hofi í Hörgárdal og bróðir Ólafs þess, sem opt er hjer nefndur og ritað hefur Ísl. skemmtanir o. fl. Guðmundur er vel að sjer um margt og ber þar á meðal töluvert skynbragð á söngfræði; hann er gefinn fyrir að safna eins og Ólafur bróðir hans einkum því sem þjóðlegt er og gamalt, hverju nafni sem nefnist. Frá honum hef jeg fengið töluvert af lögum, sem hjer eru nóteruð, bæði lög, er hann sjálfur kunni, og einnig lög, sem hann nóteraði eptir gamalli konu þar á Hraunum, Jórunni Waage, systur Eggerts sál. Waage í Reykjavík. Hún var upp alin á Suðurnesjum, greind kona og minnug, og kunni hún margt frá gömlum tímum; en hún var mjög dul og vildi fyrst alls ekkert þess kyns láta til sín heyra eða eptir sjer hafa. Tókst Guðmundi þó að ná því flestu eða öllu, er kerling kunni af gömlum þjóðlögum. Hún andaðist rjett fyrir jólin 1904, komin yfir sjötugt. (609)

Lög frá ýmsum (624–679) Í þessum kafla úir og grúir af allskonar lögum af nánast öllu tagi. Bjarni birtir 65 lög ásamt fjölda tilbrigða við sum þeirra og segir nokkuð ítarlega frá nokkrum lögum og heimildarmönnum. Þessi kafli er ósamstæðastur allra kafla safnsins, nokkurkonar botnlangi sem tók við öllu því sem hvergi átti heima annars staðar.

Gömlu sálmalögin (680–724) 145 Gömlu sálmalögin kallar Bjarni þau lög úr gömlu sálmabókunum sem sungin voru áður en nýrri tónlist komst inn í sálmabókina og áður en „hin marg-endurtekna umsteypa sálmabókanna á síðari hluta 19. aldar“ átti sér stað (680). Bjarni birtir 45 lög ásamt fjölda

145 Jón Þórarinsson 2012: 331–39

— 55 — tilbrigða við mörg þeirra og vísar til prentaðra útgáfna þeirra í sálmabókunum sem hann hafði þegar farið yfir.

Gömlu Passíusálmalögin (724–763) 146 Þessi kafli er í raun nokkurskonar hluti fyrri kafla, Gömlu sálmalögin, en Bjarni vildi halda lögunum við Passíusálmana saman. Passíusálmarnir eru 50 og hafa frá upphafi haft lagboða við hvern sálm. Sumir þeirra eru ortir undir sama bragarhætti og því eru ekki 50 lagboðar við þá. Bjarni birtir 38 lög og fjölmörg tilbrigði við mörg þeirra.

Tvísöngurinn (764–802) 147 Þessi kafli hefst á langri ritgerð Bjarna um tvísönginn á tæpum 12 síðum. Megininntak ritgerðarinnar er sú skoðun Bjarna að tvísöngurinn sé ævagamall og rekur hann rætur hans til Organum-söngs í Evrópu á miðöldum. Hann vill meina að tvísöngur hafi tíðkast á Íslandi í þúsund ár en sé á fallanda fæti nema helst í Húnavatnssýslu. Bjarni segist sjá fyrir sér að tvísöngurinn muni innan tíðar hverfa og með honum þúsund ára sönghefð. Bjarni birtir 42 tvísöngslög og þar af 2 rímnalög í tvísöng og 5 passíusálmalög.

Rímnalögin (803–917) 148 Þessi kafli er mjög langur og inniheldur alls 253 rímnalög. Bjarni raðar lögunum eftir bragarháttum og fer þar eftir Bragfræði íslenzkra rímna eftir Helga Sigurðsson sem út kom 1891. Helgi greinir 23 bragættir og í upphafi birtir Bjarni nafn hverrar bragættar og sýnir dæmi um hverja og eina. Þá tekur upptalningin við á ríflega 100 síðum. Bjarni fer mjög einkennilega leið við birtinguna því hann setur vísur að eigin vali við rímnalögin en virðist lítið sem ekkert skeyta um hefðbundnar lagboðavísur sem kunna að hafa verið fyrir þeim hjá kvæðamönnunum sem safnað var frá. Ekki einasta eru vísurnar að eigin vali heldur eru þær í stafrófsröð upphafsstafa, þannig að fyrstu lögin eru með vísum sem hefjast á A, þá B, og svo framvegis upp í Þ og Æ. Þetta kerfi hans riðlast reyndar víða og allskyns vísur fá að fljóta með, en almennt virðist þetta hafa verið reglan.

146 Ibid. 339–42 147 Ibid. 359–67 148 Ibid. 352–59

— 56 — 6.3 Úrvinnsla Bjarna Bjarni gerir rækilega grein fyrir því hvernig söfnun hans var háttað og hvernig hann vann úr þeim gögnum sem hann aflaði í formála Íslenzkra þjóðlaga. Þar gerir hann grein fyrir hvernig hann samræmdi lögin og færði þau öll í sömu tóntegundir til að einfalda samanburð þeirra og auka læsileika.

Þegar safnið er skoðað ítarlega finnst manni eins og Bjarni sé stundum kominn á fremsta hlunn með að vinna vísindalega úr efni sínu. Sumstaðar má sjá nokkuð ítarlegan samlestur gagna hjá honum þar sem hann birtir lag frá einum heimildarmanni og svo brot úr tilbrigðum sama lags frá öðrum. Það er þó mun algengara að hann nefni það að hafa einnig fengið lagið frá öðrum án þess að gera frekar grein fyrir því. Þá veltir maður fyrir sér hversu lík lögin þurftu að vera til þess að Bjarni teldi það vera sama lag. Auðvitað var hann að vinna með handskrifaðar nótur, jafnvel frá hinum og þessum, og alls ekki á samræmdu sniði. Textafræðileg úrvinnsla gagnanna með lesbrigðum laga frá mismunandi heimildarmönnum hefði þó alveg átt að vera möguleg. En þá er til þess að líta að nótur skrifaðar eftir munnlegum flutningi eru líklega aldrei nema mjög gróf nálgun á flutningnum og vafamál hversu áreiðanleg gögnin eru sem borin eru saman.

Vestræn nótnaskrift er afrakstur langrar þróunar í skráningu tónlistar á blað og hefur í fyllingu tímans orðið bæði nákvæm og lýsandi. Hins vegar hefur nótnaskriftin ekki alltaf reynst hentug til að skrá tónlist úr munnlegri geymd þar sem slík tónlist á það til að lúta öðrum lögmálum og reglum en lærð tónlist.149 Tónbil, taktur og áherslur eru oft annarskonar en í lærðri tónlist og jafnvel síbreytileg. Þannig vill það verða stærsti gallinn við uppskrift tónlistar úr munnlegri geymd að hún er aldrei annað en mynd af einum flutningi lags, eða hugsanlega vegið meðaltal nokkurra flutninga. Skrásetjarinn þarf að vera mjög fljótur að greina það sem hann heyrir og skrifa það niður og í mörgum tilfellum þarf hann einnig að greina sundur laglínu og skraut og leggja mat á hvort um sé að ræða forslög eða melismur sem koma til vegna þess texta sem sunginn er, það er að segja hvort

149 Leerssen 2018: 67

— 57 — lagið í þeim flutningi sé aðlagað að textanum sem valinn var en sé ekki með alveg sama hætti þegar texti er sunginn við lagið.150

Benedikt á Auðnum lýsir þessu ágætlega í bréfi til Bjarna:

Menn hafa því gripið til þess, sem var hægra og eðlilegra, nefnil. að viðhafa aðeins örfáa tóna (oftast stóra eða litla þríund) og bæta svo aftur fátækt tónanna upp með dynamiskum kunstum, hljómbreytingum, árherslum, slögum, trillum og öllum þeim tilbreytingum sem raddfærin leyfa, og væru kvæðamaðurinn góður kvæðamaður breytti hann stöðugt til eftir efni rímnanna, svo heita mátti að hann kvæði sína vísuna með hverju lagi. Þannig voru rímur kveðnar hér, og er ég sannfærður um að sumir kvæðamenn hafa framið talsverða, og allt annað en fyrirlitlega íþrótt með þessu. En það er annað en gaman að handsama þessi lög og koma þeim á pappír svo að þeim verði skiljanlegt sem ekki hafa heyrt þau eða eru rímnakveðskap ókunnugir, því aðeins aðaltónarnir eru tóm beinagrind þeirra, líflaus og stirðnuð.151

Gunnsteinn Ólafsson skrifaði upp nótur að elsta kveðskapnum sem varðveittur er í safni Kvæðamannafélagsins Iðunnar sem kom út í bókinni Silfurplötur Iðunnar 2004152 og Guðmundur Steinn Gunnarsson skráði nóturnar að stemmum Segulbanda Iðunnar sem út kom 2018.153 Þeir lýsa í formálsorðum sínum, hvor fyrir sínum uppskriftum, hve vandasamt það getur verið að skrifa upp flutning úr munnlegri geymd. Guðmundur Steinn orðar vandann með þessum hætti:

Hvernig er hægt að skrifa þetta þannig að það skiljist? Vandi þess sem skrifar eitthvað í líkingu við þetta er tvíþættur, ef nótnamyndin er of einföld verður útkoman bjánaleg höggorusta. Ef hún er of nákvæm, nær hún sennilega samt ekki fyllilega utan um flutninginn en í þokkabót getur enginn lesið hana, í sumum tilfellum er búið að taka einfaldan hlut og gera hann flókinn.154

Þeir Gunnsteinn og Guðmundur Steinn bjuggu við þann munað að hafa upptökur að því sem þurfti að skrifa og gátu hlustað aftur og aftur til að glöggva sig á laglínum og

150 Thomas Forrest Kelly 2014: 12–16 151 Sveinn Skorri Höskuldsson 1993: 540 152 Gunnsteinn Ólafsson, 2004 153 Rósa Þorsteinsdóttir, 2018 154 Ibid. 39–40

— 58 — flutningi. Bjarni og skrásetjarar laganna í safni hans höfðu bara flutninginn sjálfan, og stóðu þá frammi fyrir sama vandamáli og skrásetjarar tónlistar stóðu frammi fyrir allt þar til upptökutæknin ruddi sér rúms, að þurfa að fá heimildarmenn sína til að endurtaka sig nógu oft til að hægt væri að fá sannfærandi mynd af laginu, en þó ekki það oft að það stuðaði eða misbyði heimildarmanninum, og hefur það eflaust oft verið ákaflega vandratað einstigi að feta.155

Jón Þórarinsson framkvæmdi ítarlega greiningu á efni Íslenzkra þjóðlaga og taldi hann 1118 lög og lagabrot í safninu, 603 sem safnað var úr munnlegri geymd, 376 úr handritum og 139 úr prentuðum bókum. Jón greindi þetta nánar og eru niðurstöður hans þessar:

Sé flokkað eftir efni texta teljast vera í safninu 375 sálmalög, og eru 50 þeirra tengd Passíusálmunum sérstaklega, 148 eru við trúarljóð ýmisleg, og má vera að sumt af því séu sálmar. Enn koma hér til viðbótar 42 lög eða lagbrot, margt af því með latínutextum og á sjálfsagt heima í kaþólskum tíðasöng, og einnig eru þarna messu- söngvar (messusvör) frá síðari tímum. Má af þessu marka hve trúarþátturinn er ríkur í þeim arfi sem hér er varðveittur. Næst að tölunni til eru rímnalögin, 253 að tölu.156

Rannsókn á heimildarmönnunum leiddi í ljós að flestir voru af Norðurlandi og úr Mýrasýslu en þar sem fjölmargir þeirra voru prestar vill Jón meina að þetta gefi ekki alveg rétta mynd því prestar voru mikið á hreyfingu.157

155 Béla Bartók 1976: 10 156 Jón Þórarinsson 2012: 327–28 157 Ibid. 326–27

— 59 — 7 Útgáfuferlið

7.1 Styrkbeiðnir til Alþingis Bjarni sótti þrisvar um styrk til Alþingis vegna söfnunar sinnar og útgáfu safnsins. Hann sendi bænaskjal til Alþingis og bað um styrk til söfnunarinnar 1895, aftur árið 1897 og enn árið 1903. Styrkbeiðnirnar snéru fyrst og fremst að því að fá ferðastyrki til að rannsaka íslensk handrit á söfnum í Kaupmannahöfn og í Stokkhólmi, og á síðari stigum til útgáfu safnsins.

7.1.1 13. þing 1895 Á 13. þingi árið 1895 kom styrkbeiðni Bjarna til umræðu í neðri deild Alþingis í umræðum um fjárlög áranna 1896 og 1897, fimmtudaginn 8. ágúst. Klemens Jónsson, 1. þingmaður Eyjafjarðar, ræddi þar að fjárlaganefnd Alþingis hafi ekki getað fallist á styrkinn. Hann telji þó að hver sá sem lesi bænaskrá Bjarna skilji hve þarft verkefnið er:

Jeg orðlengi þetta ekki, því jeg vonast til að menn hafi lesið bænarskrána, sem er mjög ýtarleg, já, jafnvel heil ritgjörð, sem mælir betur fram með málinu, en jeg get gjört. Síra Bjarni getur þess þar, að það sje meining sín, að safna íslenzkum þjóðlögum, tvísöngslögum, kvæðalögum og rímnalögum, og skýrir, hverja þýðingu slíkt safn geti haft fyrir oss. Og jeg vona, að flestir játi, að þessu, sem hjer ræðir um, sje ekki síður áríðandi að safna en forngripum og þjóðsögnum og að mál þetta hafi afar mikla þjóðernisþýðingu.158

Jón Jónsson, 2. þingmaður Eyjafjarðar tók undir með Klemens og sagði, m.a.:

[J]eg vona að það fái góðan byr. Við höfum ekki ráð á, að láta þjóðlög vor glatast.159

Einnig tók til máls Þórður Thoroddsen, 1. þingmaður Gullbringu- og Kjósarsýslu, og er hann á sama máli og Jón, um mikilvægi þess að bjarga tónlistinni frá glötun:

158 Alþingistíðindi B 1895: 1061–62 159 Ibid. 1091

— 60 — Jeg er meðmæltur styrknum til Bj. Þorsteinssonar, og get þar skrifað undir með h. þm. Eyf. Menn verða að gá að því að hjer er um nokkuð sjerstakt að ræða, sem getur flogið burt á hverri stund, sem vera skal og týnzt, ef því er ekki safnað í tíma.160

Atkvæði í neðri deild Alþingis féllu þannig að styrkbeiðnin var felld með 11 atkvæðum gegn 10.

Þegar styrkbeiðnin kom til kasta efri deildar í 3. umræðu um fjárlög miðvikudaginn 21. ágúst, var það mat Jón Jakobssonar, 2. þingmanns Skagfirðinga, að þar sem styrkbeiðnin hefði svo naumlega verið felld í neðri deild ætti það ekki að hindra efri deild í að samþykkja hana. Í framsögu sinni um málið sagði hann:

Frá þessum manni liggur fyrir þinginu bænarskrá, sem jeg geng út frá, að h. þm. hafi kynnt sjer. Þar er sýnt fram á þá þörf, sem á því er, að safna saman í eina heild íslenzkum þjóðlögum. Í bænarskránni, sem er mjög ítarleg, er það tekið fram, að í handritum erlendis liggi talsvert af íslenzkum lögum órannsakað; en mest nauðsyn er á, að safna þeim lögum, sem enn kunna að lifa á vörum þjóðarinnar, því að nú eru síðustu forvöð að gjöra það, ef þau eiga ekki að glatast með öllu. Það er gamalt orðtak, að ekkert veki jafn kröptuglega gamlar endurminningar í mannlegu brjósti, sem ilmur blóma og gömul sönglög, og víst er um það, að gamlar þjóðvísur og þjóðlög hafa afarmikið gildi fyrir menningarsögu hverrar þjóðar og eru hinn bezti spegill tilfinningarlífs liðins tíma. Það leggja því allar þjóðir mjög mikla áherzlu á, að safna þjóðlögum sínum og hafa varið til þess miklu fje. Þar sem alþingi styrkir bæði forngripasafn og fornleifafjelag, má ætla, að það einnig vilji styrkja söfnun þjóðsöngva, því að þeir eru sömu tegundar.161

Enginn varð til þess að andmæla styrknum til Bjarna beinlínis en þó var Hallgrímur Sveinsson biskup, 2. konungskjörinn þingmaður, efins:

Viðvíkjandi 2. br. (þingskj. 437) skal jeg geta þess, að jeg að vísu játa, að það gæti verið gott og þarflegt, eins og svo margt annað, að safna íslenzkum þjóðlögum, en ekki get jeg verið á því, að það sje eiginlega sterkt aðkallandi nauðsynjamál. Jeg held þess

160 Ibid. 1173 161 Alþingistíðindi A 1895: 505–06

— 61 — vegna, að nú sje betra að hugsa um það, sem enn nauðsynlegra er og lofa þessu að bíða betri tíma, þegar landssjóður hefur ekki í svo mörg horn að líta.162

Síðan ræðir hann helst um hve erfitt það verði að manna stöðu séra Bjarna á Siglufirði ef hann fengi styrkinn og færi til Kaupmannahafnar í þessum erindagjörðum, og talaði þar greinilega biskupinn.

Síðar í umræðum um fjárlögin segir Hallgrímur:

Yfirhöfuð álít jeg það allt of þröngsýnt, að slá fastri þeirri reglu að vilja ekki veita neinum manni fje til þess, að framkvæma neitt annað en það, sem strax verður þreifað og horft á. Menn gætu hugsað sjer svo skammsýnt löggjafarþing, að jafnvel Thorvaldsen sjálfum hefði þar verið neitað um styrk til þess að nema myndasmíði.163

Þarna var hann reyndar að ræða um styrkveitingu til Bjarna Sæmundssonar til að læra fiskifræði. Þegar til atkvæðagreiðslu kom kaus Hallgrímur gegn styrkveitingu til Bjarna Þorsteinssonar en með styrk til Bjarna Sæmundssonar og greinilegt að í hans huga gilti ekki það sama um Bjarna og séra Bjarna.

Á endanum féllu atkvæði þannig að styrkbeiðninni var hafnað í efri deild með 8 atkvæðum gegn 3 og kom hún því ekki til kasta sameinaðs þings og var þar með úr sögunni.

Það er augljóst að þeir sem voru meðmæltir styrktarbeiðni Bjarna voru það á forsendum þjóðmenningar og einnig til að forða þjóðlögunum frá glötun. En það dugði ekki til.

7.1.2 14. þing 1897 Fyrir næsta þingi, 14. þingi 1897, lá aftur styrkbeiðni frá Bjarna Þorseinssyni. Hann hafði þá þegar fengið vilyrði fyrir því hjá kirkju- og kennslumálastjórn danska ríkisins að hún styrkti hann um 500 kr. ef hann fengi styrk frá Alþingi. Bjarni hafði farið fram á 1600 kr. en þingið gat fallist á að styrkja hann um 1000 kr.

162 Ibid. 509–10 163 Ibid. 511

— 62 — Aftur var það Klemens Jónsson, 1. þingmaður Eyfirðinga, sem mælti fyrir styrkbeiðninni í neðri deild þingsins í 2. umræðu um fjárlagafrumvarp fyrir árin 1898 og 1899 miðvikudaginn 4. ágúst, og sagði hann meðal annars:

Jeg vona annars að þessi styrkveiting mæti ekki mótspyrnu í þinginu; og jeg hef því fremur ástæðu til að vona þetta, þar sem hin danska kennslumálastjórn vill leggja fje fram til safnsins. En jeg tel sjálfsagt að stjórnin hafi boðið fjárframlag þetta af því að hlutaðeigandi umsækjandi hafi fengið mjög sterk meðmæli frá prófessor Hartmann, sem stendur manna fremst í söngfróðleik, og aðhyllist þingið eigi þessa fjárveitingu, þá hefir þingið þar með sýnt, að það stendur að baki hinni dönsku stjórn í því að efla innlendan þjóðlegan fróðleik, og er það eigi fagurt til afspurnar.164

Meira var ekki rætt um styrkbeiðni Bjarna í neðri deild og var hún samþykkt með 14 atkvæðum gegn 5.

Í efri deild kom styrkurinn til Bjarna nánast ekkert til umræðu. Við 2. umræðu efri deildar Alþingis fimmtudaginn 19. ágúst, kynnti Þ orleifur Jónsson, 2. þingmaður Húnvetninga, tillögur fjárlaganefndar og sagði þar:

Nefndin leggur einnig til, að styrkurinn til sjera Bjarna Þorsteinssonar falli burt, þótt hún álíti manninn hafa mikla þekkingu og vera vel hæfan til að safna íslenzkum þjóðsöngvum. En þar sem jeg er ekki að öllu samþykkur nefndinni í þessu, skal jeg ekki fara fleirum orðum um þennan lið.165

Hann fór ekki fleiri orðum um hann og það gerði heldur enginn annar og við atkvæðagreiðslu fór svo samþykktur var 1000 kr. „styrkur til sjera Bjarna Þorsteinssonar til að safna og gefa út íslenzka þjóðsöngva.“166

Líklegt má telja að frýunarorð Klemens Jónssonar um að Alþingi mætti ekki standa sig verr en danska stjórnin „í því að efla innlendan þjóðlegan fróðleik“ bitið á þingmenn.

164 Alþingistíðindi B 1897: 1034–35 165 Alþingistíðindi A 1897: 554 166 Alþingistíðindi C 1897: 18

— 63 — 7.1.3 18. þing 1903 Bjarni sendi styrkbeiðni til Alþingis 1903 til að fara aðra söfnunarferð til Kaupmannahafnar og ljúka þannig söfnuninni. Nokkuð meiri meðbyr var með honum á þessum tíma, enda safnið að verða fullklárað og sá fyrir endan á vinnunni við það. En umræður um styrkinn til Bjarna í þinginu urðu óvenju harðar og er varla annað hægt en að rekja þær nokkuð ítarlega, enda koma þar fram ýmis viðhorf og sjónarmið sem áhugavert er að skoða.

Í framsögu sinni um 14. grein fjárlagafrumvarps fyrir árin 1904 og 1905 sagði Pétur Jónsson, þingmaður Suður-Þingeyjarsýslu, meðal annars:

Þá er styrkurinn til síra Bjarna Þorsteinssonar. Nefndin fer fram á, að honum sé veittar 1000 kr. fyrra árið til þess að fara utan og fullkomna þar safn hinna íslenzku þjóðlaga, sem hann hefir haft með höndum að safna. — Það er stórt verk, sem hann er að ljúka við, og það er óhætt að fullyrða, að það hefir verið veittur styrkur til að safna ýmsu ómerkilegra dóti, en íslenzkum þjóðlögum. Söngfróðir menn, sem séð hafa það, hafa álitið þetta mjög mikilsvert safn, og talið það mjög heppilegt, að þessum þjóðlögum væri haldið til haga, sem allir sjá, að hafa mikla þýðingu fyrir menningarsögu vora og sönglist. Hann hefir nú verið að safna þessu um síðustu 20 ár, og langar til að leggja síðustu hönd á verkið, sem hann treystist ekki til af eigin ramleik, þar eð hann hefir unnið að þessu hjálparlítið allan þennan tíma,— Vona eg að hin háttv. deild taki vel í þetta.167

Fljótlega tók til máls Björn Kristjánsson, 1. þingmaður Gullbringu- og Kjósarsýslu, og var hann sérstaklega óánægður með að fjárlaganefnd hefði ákveðið að fella niður styrk til Sigfúsar Einarssonar til tónlistarnáms, en Sigfús stundaði um það leyti laganám í Kaupmannahöfn og hafði lagt stund á tónlistarnám meðfram því. Hann hafði farið fram á styrk til tónlistarnáms en fjárlaganefnd vildi ekki styrkja hann til þess ef það yrði til þess að hann hætti laganáminu. Um styrk til Bjarna Þorsteinssonar sagði Björn meðal annars:

Svo eg nú víki mér að séra Bjarna Þorsteinssyni, þá er það mikill vandi, að safna þjóðlögum. Það er ekki hægt að safna þeim eins og menn syngja þau, og setja þau á nútíma nótur án þess blær þeirra raskist; það verður að víkja frá því, hvernig þjóðin

167 Alþingistíðindi B 1903: 423–24

— 64 — sjálf syngur lögin, en til þess þarf smekkvísi og þekkingu. Það liggur í því, að þjóðin syngur lögin milli þeirra skala er nú tíðkast. Er það nauðsynlegt, að fara á heimilin og hlusta á þá menn, sem kenna lögin. Og hvernig á síra Bjarni Þorsteinsson, sem er þarna svo afskektur norður á Siglufirði, að geta það? Hann verður auðvitað að taka það gott og gilt, sem aðrir skrifa upp fyrir hann, sem miður eru fróðir. — Þess vegna skoða eg þetta safn þýðingarlítið, og þess vegna álít eg, að þingið 1897 hefði ekki átt að veita styrk til þess að safna þjóðlögum, nema maðurinn hefði verið látinn ferðast um í landinu. Eg hlýt því að greiða atkvæði móti styrknum. Þau lög, sem eru á söfnum í Danmörku, gæti maður, sem þar er, t. d. Sigfús Einarsson, skrifað upp. Eftir upplýsingum, sem eg hefi fengið, er það svo sem hálfs mánaðar verk, að taka afskrift af lögum þeim, sem á söfnunum eru. Gæti Sigfús gert það og sent Bjarna þau. Er það undarlegt, ef nefndin vill ekki slá þannig 2 flugur í einu höggi, að styrkja Sigfús Einarsson, og útvega séra Bjarna lögin á kostnaðarminni hátt. — Undir öllum kringumstæðum vildi eg óska þess, að séra Bjarni Þorsteinsson gerði ekki meira en safna lögunum, en seldi þau síðan Landsbókasafninu eða þinginu, því vitanlega er það mjög mikið vandaverk að gefa þau út, og rannsaka, hvort þau eru íslenzk. — Eg fyrir mitt leyti hefi ekki trú á því, að 600 íslenzk lög séu til. Eg vildi óska, að þingið styddi að því, að sönglist gæti lifað í þessu landi, og styddi ekki aðra til að leggja stund á hana en þá, sem eru vel hæfir til þess — En hæfasta álít eg nú Brynjólf Þorláksson og Sigfús Einarsson. Brynjólfur spilar bezt manna hér á landi á orgel. Sigfús er eðlilega bezt að sér í teori, og hafa báðir lært frá rótum hjá góðum kennara. En séra Bjarni hefir lært af sjálfum sér, og hversu góða hæfileika, sem maðurinn hefir, þá er ómögulegt t.d. að læra harmonifræði, nema á löngum tíma og hjá góðum kennara. – En þetta vantar séra Bjarna, hann vantar bæði kunnáttu og smekk sem eðlilegt er, því smekkurinn þroskast að eins undir stjórn góðs kennara. – Smekk séra Bjarna má meðal annars marka á því, hvernig hann fer með málið; hann leggur t.d. alt of oft árherzluna á önnur orð en hún á að hvíla á. Eg tek til dæmis: „Hún amma mín, það sagði mér um sólarlags bil.“168

Þarna er reitt hátt til höggs og lítið dregið undan. Mörgum rann til rifja að Björn leyfði sér að tala með þessum hætti og Stefán Stefánsson, 2. þingmaður Skagafjarðar, tók til varna fyrir Bjarna:

Úr því eg stóð upp, þá verð eg að víkja nokkrum orðum að háttv. 1. þm. K.G. (B. Kr.). Að vísu er þar ekki lambið að leika sér við fyrir þá, sem fáfróðir eru í söngmentinni, slíkur garpur sem hann er í þeirri grein. Það er nú langt frá mér, að eg ætli, eins og hann, að fara mikið út í mannjöfnuð, og bera saman hæfileika og kosti

168 Ibid. 442–44

— 65 — söngfræðinganna, er hér ræðir um. En eg get þó ekki stilt mig um að láta það í ljós, að mér þótti hann of harðorður um síra Bjarna Þorsteinsson. Það leit út fyrir, að í hans augum hefði síra Bjarni enga þá kosti til að bera, að takandi væri í mál að veita honum styrk sem söngfróðum manni; hann vantaði bæði smekk og þekkingu, og færi auk þess svo illa með málið, að það væri hneyksli. — Það er því ekki von, að þessi hv. þingm. sé fjárlaganefndinni þakklátur fyrir, að vilja veita síra Bjarna styrk, til að ljúka verki því, sem hann að dómi háttv. þingm. er al-ófær til að leysa af hendi. Engin furða þó hann gerðist harðorður; enda kvað hann nefndina taka meira tillit til þess, er ósöngfróðir menn segðu um síra Bjarna, heldur en þess, er söngfróðir menn vitnuðu um hina. En eg verð að segja, að eg veit af meiri mönnum en háttv. 1. þingm. K.-G. (B. Kr.), sem hafa alt aðra skoðun á síra Bjarna en hann, og verð eg að ætla, að eg og aðrir h. þingmenn hafi leyfi til að taka eins mikið mark á orðum þeirra manna, eins og því sem hann segir, að honum alveg ólöstuðum. Eg skal þessu til sönnunar nefna 3 nöfn. 1. Próf. Hartmann; hann hefir farið þeim orðum um síra Bjarna, að honum mundi hafa illa í eyrum látið, að hlýða á háttv. 1. þm. K.-G. (B. Kr.). — Um kirkju-músik síra Bjarna hefir hann sagt, að það væri aðdáanlegt, hve langt hann hefði komist í þeirri grein af eigin rammleik. 2. Frá öðrum manni, Gunnari Wennerberg, sem flestir víst kannast við, hefi eg séð mörg bréf, þar sem látin er í ljósi undrun yfir þekking síra Bjarna og smekk. 3. Þriðji maðurinn er dósent Hammerik; eftir hann hefi eg séð langa grein um síra Bjarna, og lokið mjög lofsorði á hann. Öllum þessum þremur mönnum ber saman um, að síra Bjarni hafi mjög mikla þekking í músik. Er nú ekki hart að heyra h. 1. þm. K. G. (B. Kr.) velta sér hér í deildinni yfir mann, sem fengið hefir aðra eins viðurkenningu og síra Bjarni? 169

Björn var skjótur til andsvara, og var ekki á því að hvika undan:

Háttv. 2. þm. Skagf. (St.St.) þótti eg helzt til harðorður í garð síra Bjarna Þorsteinssonar. Má vera að eg hafi verið harðorður. En hitt kannast eg ekki við, að eg hafi sagt neitt það, er ekki var satt og rétt. Því fer fjarri að eg beri nokkurn persónulegan kala til hans, enda voru orð mín ekki töluð í öðrum tilgangi en þeim, að skýra þetta mál; og heldur hefi eg dregið úr en hitt. Það lá í orðum háttv. þm., að hann teldi mig ekki óhlutdrægan dómara um verðleika síra Bjarna, og skírskotaði hann í því efni til meðmæla ýmsra útlendra listamanna svo sem próf. Hartmanns og Gunnars Wennerbergs. Um meðmæli þau, er síra Bjarni fekk frá Hartmann, er mér kunnugt; hann dáðist að honum fyrir það, hve langt hann hefði komist í söngment af sjálfum sér, án þess að hafa lært nokkuð. Það sama hefði eg sjálfur getað sagt. En hvað

169 Ibid. 458–59

— 66 — sýnir það? Það sýnir að eins að maðurinn er hæfileikamaður, en hitt sannar það alls ekki, að hann sé svo vel að sér í söngment, að honum sé felandi forusta hennar um land alt. Til þess þarf mann, er lært hefir tónfræði undir handleiðslu góðs kennara. Meðmæli G. Wennerbergs með síra Bjarna þekki eg ekki, en eg býst við, að líkt sé um þau, að þau feli ekki í sér annað en undrun yfir því, hvað maður út á Íslandi, án tilsagnar, hefir þó getað grafið sig niður í harmóníufræði; enda veit eg ekki betur en að hér sé að eins að ræða um vingjarnleg ummæli í prívatbréfi. Það sem þeim aðallega vill verða á, er ekki hafa lært harmóníufræði til hlítar, er að spreytast við að koma fram með sjálfstæðar hugmyndir. Þannig er líka um tónskáldskap síra Bjarna; enda hefir danska tónskáldið Aug. Enna komist svo að orði um hann, að hann væri »jagende efter Originalitet«. Einmitt þetta skaðar hann, og sýnir jafnframt, hversu mjög honum er ábótavant í harmóníufræðinni, einkum að því er smekk snertir. Eg fann einnig að því í ræðu minni í dag, hversu illa hann fer með málið, að því er áherzlu orða snertir. Svoleiðis áherzlu get eg ekki séð í nokkurri bók; það eru oft og einatt heil erindi, þar sem áherzlan lendir á áherzlulausum samstöfum, og má nærri geta, hvernig slíkt hljómar í söngnum, t.d. klukknanna, á kvöldin o.s.frv. Um þess háttar lýti geta útlendir kompónistar auðvitað ekki dæmt. Eg hefði annars búist við, að síra Bjarni hefði látið meðmælin fylgja með umsókninni, ef hann hefði haft nokkur. Hvað sem háttv. 2. þm. Skagaf. (St. St.) segir, þá verð eg að halda því fram, að ef þingið vill fara sérstaklega vel með þennan mann, þá ætti það að kaupa af honum handrit hans, og láta svo hæfari menn moða úr því á sínum tíma.170

Björn talaði meira og hélt eindregið áfram að ræða styrkveitingu til Bjarna í beinu samhengi við niðurfellingu styrksins til Sigfúsar Einarssonar.

Björn Bjarnarson, þingmaður Dalamanna, var á svipuðu máli og nafni hans Kristjánsson þegar hann kom til andsvara gegn því sem Stefán Stefánsson hafði rætt, en hann hafði minnst á að Björn Bjarnarson vantreysti Bjarna í þjóðlagasöfnuninni:

Að því er snertir síra Bjarna Þorsteinsson, þá neita eg því sem 2. þm. Skagf. bar mér á brýn, að eg hefði sýnt honum vantraust. En hins vegar læt eg ekki telja mér trú um, að hægt sé að finna 600 lög »original« hér á landi. Svo mörgum lögum er ekki hægt að hrúga saman, öðru vísi en að sama lagið, sungið í dúr á Vestfjörðum og í moll á Austfjörðum, reiknist fyrir tvö lög. Og slíkur misskilningur getur hæglega orðið, þegar menn, sem ekki kunna, eru fengnir til að notera lögin.

Þá tók Hannes Hafstein, 2. þingmaður Eyfirðinga, til máls:

170 Ibid. 464–66

— 67 — Mótbárur hv. þm. Dal. (B. B.) gegn styrkveitingunni til síra Bjarna Þorsteinssonar höfðu það til síns mikla ágætis, að þær snerta þó efnið að vissu leyti. Hann vefengdi það, að lög þau væri til, sem herra Bjarni Þorsteinsson hefir safnað, og vill fullkomna söfnun á, fyrir þann styrk sem hér er um að ræða. En röksemdir háttv. þm. Gullbrs. gegn þessari fjárveitingu fóru alveg framhjá efninu, að því er mér fanst, því þær hnigu eingöngu að hæfileikum umsækjanda sem tónskálds. Þingmaðurinn færði þær röksemdir á móti styrknum, að síra Bjarni vildi vera frumlegur og færi illa með árherzluna í íslenzkum ljóðum. Þessar röksemdir færði hr. þingmaðurinn fram með miklum þunga og óskeikulleik, eins og hann væri hæstiréttur í þessu máli. Það má vera, að þm. sé svo á sig kominn, að hann hafi æðri og meiri þekking en vér höfum haldið til þessa. En með allri virðingu fyrir þekkingu og söngsnilld þingmannsins, get eg ekki að því gert, að eg, sem leikmaður og ófróður í þessum efnum, hefi fengið þá trú, að t.d. gamli Hartmann og Gunnar Wennerberg væru líka karlar í krapinu, og bæði þessir menn, sem eg nú nefndi, og fleiri tónsnillingar hafa vottað, að verk síra Bjarna og hæfileikar hans væri á alt annan veg en háttv. þm vill segja okkur nú. Það er auðsætt, að þeir líta ekki svo á, að það að vera frumlegur, sé svo voðalega hættulegt eða slæmt. Þeir hafa hrósað honum mjög, og sagt að hann væri ágætum hæfileikum gæddur og efnilegur í alla staði að því er sönglist snertir. En sem sagt, hér er ekki að ræða um þennan mann sem kompónista, heldur sem safnara, sem vísindamann. Og á því sviði hefir hann sýnt stórmikla atorku, og væri það hin mesta vanvirða, að láta starf hans falla niður, fyrir misskilning, vantrú, mótkapp eða annað verra. En svo eg víki mér að háttv. þm. Dal. (B. B.) þá vil eg að eins segja, að eg er viss um að honum mundi fara eins og fyrirrennara hans Tómasi postula, ef hann fengi sama tækifæri eins og eg hefi haft, til þess að sjá og kynna sér safn síra Bjarna, þá mundi vantrúin hverfa, því hann mundi geta lagt sína músíkölsku fingur í nótnaförin og sannfært sig um, að hans um þessa margvíslegu »molla« og »dúra« og afkvæmi þeirra, er ekki á sem allra beztum rökum bygð. Einkanlega er eg viss um það, að ef hinn háttv. þm., sem eg þekki að samvizkusemi og skírleik, sæi athugasemdir þær eða ritgerðir, sem síra Bjarni hefir skrifað við lög þau, sem hann hefir sett í safnið, þá mundi hann ekki halda fram sem hann áðan sagði. Veit eg og háttv. , sem hefir séð þetta safn, mundi verða fyrstur manna til þess, ef hann væri í þingmannasætunum, að færa háttv. þm. Dal. og öðrum heim sanninn um, að hér er ekki um neinn hégóma að ræða. Háttv. forseti hefir miklu nákvæmar en eg kynt sér hið mikla og merkilega safn síra Bjarna Þorsteinssonar, og eg veit, að hann mun votta, að eg fer með rétt mál, er eg nefni það svo.171

171 Ibid. 474–474

— 68 — Það þykknaði einnig nokkuð í Árna Jónssyni, þingmanni Norður-Þingeyjarsýslu. Hann gat ekki fellt sig við það að menn héldu því fram að ekki væri hægt að finna menn um landið sem kynnu að skrifa og lesa nótur og sagðist þess fullviss að lögin sem Bjarni hefði safnað væru góð og gild. Að lokum sagði hann:

Hvað því viðvíkur, að síra Bjarni hafi fengið aðra til þess að skrifa upp lögin, þá held eg að ekkert sé athugavert við það, því auðvitað fær hann ekki aðra til þess en þá, sem hann veit að eru færir um það. Mér er einnig kunnugt um, að hann hefir sjálfur ferðast, bæði um Þingeyjarsýslu og víðar, til þess að safna þjóðlögum; og þar sem hann hefir unnið að þessu starfi í 20 ár, þá verður ekki sagt með réttu, að málefnið sé órannsakað eða lítt undirbúið.172

Eggert Pálsson, þingmaður Rangvellinga, gerði sitt til að bera klæði á vopnin og sagðist ætla að kjósa með styrkveitingum til þeirra Bjarna og Sigfúsar beggja, enda væri tónlist sú besta alþýðuskemmtun sem völ væri á og væri bæði siðferðilega bætandi og menntandi. 173

Að lokum talaði framsögumaðurinn, Pétur Jónsson, og sagði hann að óþarfi væri að mistúlka tillögur fjárlaganefndar með þeim hætti að styrkur til Bjarna væri á kostnað Sigfúsar, enda væru tillögurnar ótengdar að öllu leyti. Um ummæli um þjóðlagasafnið hafði hann þetta að segja:

Háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) og þm. Dal. (B. Bj.), hafa mælt á móti þessum manni, en þó hinn fyr nefndi sé að vísu maður smekkvís og söngfróður, þá dæmir hann þó um þjóðlagasafn síra Bjarna að mestu leyti sem blindur um lit, því að hann þekkir það alls ekki.174

Þegar til atkvæðagreiðslu kom var styrkurinn til Bjarna samþykktur af neðri deild með 15 samhljóða atkvæðum.

172 Ibid. 503–04 173 Ibid. 509–10 174 Ibid. 524–26

— 69 — Efri deild Í umræðum um fjárlagafrumvarpið í efri deild kynnti Björn Kristjánsson breytingartillögu við þá grein frumvarpsins sem snéri að styrknum til Bjarna Þorsteinssonar. Breytingin fólst í að fella styrkinn niður að fullu en til vara að færa hann úr 1000 kr. niður í 100 kr. Hann sagðist hafa gripið til þess að gera þetta þar sem ljóst væri að fella ætti styrkinn til Sigfúsar Einarssonar niður, og því væri eðlilegt að fella einnig niður styrkinn til Bjarna. Hann hélt áfram að efast um Bjarna og sagði meðal annars:

Eg skal taka það fram, að þessi maður hefir ekki ferðast fyrir 1000 kr. styrk þann, sem honum var veittur 1897, heldur hefir hann orðið að nota sér óhæfari menn til þess að safna þessum íslenzku lögum; enda sýnir þ að sig, að árangurinn er tortryggilega mikill, þar sem hann segist hafa safnað c. 600 þjóðlögum, og efast eg um, að það séu íslenzk þjóðlög að helmingnum til. Nú er farið fram á, að veita þessum manni styrk til að ferðast til K.hafnar til þess að safna íslenzkum þjóðlögum, en eg hefi bent á, að það mætti gera þetta á annan hátt. Annars skal eg ekki gera þessa breytt. mína að neinu kappsmáli, ef ekki verður raskað við styrknum til Sigfúsar Einarssonar. [...] [V]erð eg að leggja það til, að þingið samþykki styrkveitinguna til þessa manns; en ef hann verður feldur, þá álít eg sjálfsagt að fella styrkinn til síra Bjarna Þorsteinssonar, því að þótt hann fullkomnaði söfnun íslenzkra þjóðlaga og gæfi þau út á prenti, þá efast eg stórlega um, að margir söngvinir notuðu þá bók.175

Og aftur var það Stefán Stefánsson sem varð til andsvara:

Eg hefði nú ekki staðið upp, ef h. 1. þm. G.-K. (Bj. Kr.) hefði eigi neytt mig til þess með ræðu sinni og tillögu um það, að fella burtu 1000 kr. styrkinn til séra Bjarna Þorsteinssonar. Þessi liður hefir staðið óhaggaður frá því fjárlaganefndin tók hann upp og neðri deild samþykti hann. Styrkur þessi á að vera til þess að fullkomna og ljúka við mjög merkilegt safn, sem séra Bjarni hefir um mörg ár unnið að með mestu elju, en til þessa þarf hann að sigla til Kaupmannahafnar, til þess að rannsaka þar handrit og afskrifa. Það var rætt töluvert um styrk þenna við 2. umr. í Nd. af sama manni, sem nú hefir tekið hann fyrir. Þá hélt hann því fram, að 1000 kr. væru óþarflega há styrkveiting til starfs þessa, en kom þó ekki með brt. um að lækka styrkinn. Nú hefir hann aftur á móti komið með brt. í þá átt, að færa styrkinn niður í 100 kr. Þetta er því undarlegra, sem háttv. þm. (Bj. Kr.) var annað veifið að tala um, að 1000 kr. styrkurinn væri of lágur. Þetta alt sýnir, hve ráð h. þm. (Bj. Kr.) er á reiki í máli þessu. Eg reyndi við 2. umr. í Nd. að fara mjög varkárlegum og lofsamlegum orðum um h.

175 Alþingistíðindi A 1903: 396–98

— 70 — þm. (Bj. Kr.), af því að eg heyrði, að hann mundi bera miklu meira skyn á þetta mál en eg. En brt. hans ber vott um, að maðurinn hefir litla hugmynd um, hvað hann er að fara með, þar sem hann stingur upp á, að veita einar 100 kr. til að afskrifa íslenzk þjóðlög í Kaupmannahöfn. Það er auðséð, að hann heldur að þetta sé mjög auðunnið verk, sem hver og einn geti leyst af hendi. En eg get frætt h. þm. (Bj. Kr.) um, að það er langt frá, að svo sé; verkið er afarvandasamt, og ekki nema einstöku manna meðfæri. Hin gömlu lög eru rituð með alt öðrum nótum en nú tíðkast, og þarf samfara góðri söngfræðisþekkingu mikla sérmentun til að geta afritað lög þessi, svo rétt sé. Það á í raun og veru miklu betur við að kalla það verk þýðing en afritan. Þetta starf útheimtir svo mikla sérþekkingu, að jafnvel góðir söngfræðingar geta ekki lesið fornu lögin. Eg hefi fengið glöggar og áreiðanlegar upplýsingar um þetta nú fyrir skömmu. Dr. Jón Þorkelsson yngri hefir getið um eitt mjög merkilegt handrit í safni Árna Magnússonar, sem á eru ritaðar Þorlákstíðir. Til þess að afrita þetta eina handrit, mundi ekki veita af mörgum vikum fyrir vel æfðan sérfræðing; um aðra væri ekki að tala. Textinn við lög þessi er á latínu og bundinn mjög, svo að eigi ráða aðrir fram úr honum en góðir latínumenn. Nú vill svo heppilega til, að séra Bjarni Þorsteinsson er, jafnframt því að vera söngfræðingur og manna fróðastur um forna nótnaskrift, einn af vorum beztu latínumönnum, og hefir þegar fengist allmikið við þessa bundnu miðaldalatínu. Eg vona, að mönnum skiljist af þessu, að það sé allsendis rangt hjá háttv. 1. þm. G.- K. (B. Kr.), er hann heldur því fram, að það megi fá einhvern íslenzkan stúdent til að vinna verk þetta, og eg þykist hafa sýnt fram á, hvílík fjarstæða breyt.till. háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) er, með svo ljósum rökum, að eg skil ekki í, að nokkur háttv. þm. verði til þess að fallast á hana. Háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) sagði, að séra Bjarni Þorsteinsson hefði áður fengið oflítinn styrk til að leysa af hendi verk sitt. Þetta er satt, að í sjálfu sér hefir styrkurinn verið alt of lítill, en hann hefir verið svo óvenjulega vel notaður, að hann hefir fyrir þá sök komið að verulegu haldi. Það er ekki satt, að hann hafi látið aðra eingöngu safna fyrir sig íslenzkum þjóðlögum sjálfur hefir hann safnað miklu af þeim, og að öðru leyti stendur hann mjög vel að vígi með að fá safnað því sem hann nær ekki til sjálfur, á sem tryggilegastan hátt, því að hann stendur í sambandi við söngfróða menn um land alt.176

Við atkvæðagreiðslu var breytingartillaga Björns um að fella niður styrkinn til Bjarna felld með 27 atkvæðum gegn 2 og dró hann þá varatillögu sína til baka. Fjárlagafrumvarpið var þar með samþykkt og á því liðurinn: „styrkur til síra Bjarna

176 Ibid. 401–04

— 71 — Þorsteinssonar á Hvanneyri til þess að ferðast til Kaupmannahafnar og fullkomna þar söfnun íslenzkra þjóðlaga: 1000 kr.“177

7.1.4 Um umræður á Alþingi Þegar þessar umræður þriggja þinga um styrkbeiðnir Bjarna eru skoðaðar í heild koma fram ýmsir áhugaverðir fletir, bæði hvað varðar afstöðu manna og hugmyndir um söfnun þjóðfræða, skoðunum manna um forræði yfir þjóðlagaarfinum, og almennt um gildi hans.

Þeir sem voru á bandi Bjarna nefndu að aðrar þjóðir hefðu þegar lagt nokkuð á sig til að safna saman þjóðlagaarfi sínum og meti hann mikils, og að Bjarni hafi þegar unnið mikið verk við sína söfnun og því sé eðlilegt að aðstoða hann við að reka smiðshöggið á það. Alþingi styðji við ýmsar aðrar menningarstofnanir, eins og forngripasafn og fornleifafélag og það sé ekki minna virði að safna þjóðlögum en að safna forngripum og þjóðsögnum. Þannig hefur orðræða þeirra mjög skýra þ jóðræknislega skírskotun og Klemens Jónsson segir beinlínis í umræðunum 1895 „að mál þetta hafi afar mikla þjóðernisþýðingu“. Klemens er við sama heygarðshorn 1897 þegar hann notar styrk þann sem Bjarni hafði fengið vilyrði fyrir frá kirkju- og kennslumálastjórn danska ríkisins til að eggja þingmenn með því að segja að „aðhyllist þingið eigi þessa fjárveitingu, þá hefir þingið þar með sýnt, að það stendur að baki hinni dönsku stjórn í því að efla innlendan þjóðlegan fróðleik, og er það eigi fagurt til afspurnar.“ Í sömu andrá vísar hann til íslenskra þjóðsagna og segir safn íslenskra þjóðlaga engu minna mikilvægt, og tengir þannig við þá velvild sem þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar sem kom út 1862, naut.

Þó fyrstu styrkbeiðni Bjarna sé hafnað af þinginu er ekki teljandi andstöðu við hana að sjá í umræðunum, þó annað hafi komið á daginn í atkvæðagreiðslunum. Áhugaverð eru ummæli biskupsins Hallgríms Sveinssonar um að það geti verið gott og þarflegt að safna íslenskum þjóðlögum en það sé ekki aðkallandi og „að nú sje betra að hugsa um það, sem enn nauðsynlegra er og lofa þessu að bíða betri tíma, þegar landssjóður hefur

177 Alþingistíðindi C 1903: 367

— 72 — ekki í svo mörg horn að líta.“ Þetta er kunnugleg röksemd á öllum tímum og alltaf virðist vera hægt að benda á nauðsynlegri og þarfari hluti til að ráðstafa fjármunum í en menningu og annan hégóma sem má bíða þar til betur árar, en það virðist sjaldnast ganga eftir.

Það er ekki fyrr en í umræðum á 18. þingi 1903 sem vart verður mikillar og harkalegrar andstöðu við söfnunarstarf Bjarna, eða öllu heldur við Bjarna sem tónskáld. Bjarni hafði lagt sig fram um að koma sér á framfæri við tónlistarmenn í Danmörku og biðla til þeirra um aðstoð og umsagnir um verk sín sem hann sýndi þeim eða sendi. Þessar umsagnir notaði Bjarni sem meðmæli með styrkumsóknum sínum til Alþingis, og víðar, og það var meðal annars í trausti þ essara meðmæla sem hann hafði stuðning þ eirra þingmanna sem studdu hann.

Þó að flestir væru sammála um að safna ætti íslenskum þjóðlögum voru sumir efins um að Bjarni væri besti maðurinn í verkið, þrátt fyrir að hann væri þegar búinn að safna fjölda laga. Einnig ber á efasemdum um að íslensku þjóðlögin séu jafn mörg og merkileg og Bjarni hafði útlistað í greinargerð með bænaskjali sínu til þingsins.

Einn alþingismaður, Björn Kristjánsson, tók mjög afgerandi afstöðu gegn söfnun Bjarna og beitti ýmsum rökum til að styðja mál sitt. Hann taldi Bjarna ekki nógu menntaðan í tónlist til að geta sinnt söfnun af þessu tagi af nógu mikilli alúð, hann taldi af og frá að heimildarmenn Bjarna um landið gætu í raun skráð fyrir hann tónlistina sem þeir fundu í sínum heimahéruðum en sérstaklega fann hann að því að Bjarni væri of mikið að reyna að vera frumlegur sem tónskáld og væri ekki nógu vandvirkur við að fella texta að sönglögum þeim sem hann samdi. Það má segja að Björn sé að drepa umræðunni á dreif með því að tala um hæfileika Bjarna sem tónskálds, en vissulega vegur hann að Bjarna og gerir það sem hann getur til að rýra trúverðugleika hans.

Einhverjir þingmenn nefna það að ellefta stundin sé runnin upp og nú séu síðustu forvöð að bjarga því sem bjargað verður af vörum alþýðunnar. Einnig er nokkur áhersla á að handrit séu rannsökuð og tónlist sem skráð er í þeim fundin og skrifuð upp til að hún komist fyrir augu almennings.

— 73 — Þingmenn sem eru andsnúnir styrkveitingu til Bjarna virðast líta á það sem svo að starf hans snúist um stöðlun þjóðlaganna og endanlega skráningu þeirra og því sé það galli á söfnuninni að mögulega séu mörg afbrigði sama lags að finna í safninu. Björn Bjarnarson þingmaður Dalasýslu nefnir að hann telji að vegna fáfræði þeirra sem aðstoða Bjarna við söfnunina hafi sama laginu verið safnað oft og það því margtalið, enda sé ólíklegt að til séu 600 íslensk þjóðlög. Björn Kristjánsson tók undir efasemdir um fjölda laganna og sagði að þar sem Bjarni væri ekki nógu vel menntaður í tónlist væri hann ekki rétti maðurinn til þess að festa þessi lög á blað. Reyndar nefnir hann engin dæmi máli sínu til stuðnings önnur en að honum finnist ljóðið Kirkjuhvoll ekki falla nógu vel að laginu eftir Bjarna, án þess að það komi málinu nokkuð við, eins og Hannes Hafstein bendir á.

Í ýmsu tilliti virðist menn greina á um hvort Bjarni sé heppilegur safnari og skrásetjari þjóðlaganna. Fæstir frýja honum þekkingar og getu en þó gætir stundum tortryggni í hans garð eða verka hans og þá sérstaklega í máli Björns Kristjánssonar og þeirra sem fylgdu honum að máli í umræðunum.

Það er áhugavert að sjá hvernig afstaða manna getur verið margskipt og mismunandi. Þannig mátti sjá ýmsa ræða það að vissulega þyrfti að gera það sem hægt væri til að koma í veg fyrir að forn íslensk tónlist glataðist en um leið efuðust þeir hinir sömu um að það sem Bjarni hefði safnað væri í raun og veru forn íslensk tónlist. Það sem mönnum virðist hafa þótt erfiðast að takast á við var sá mikli fjöldi laga sem Bjarni hafði safnað. Einhverjum þótti fjöldinn benda til þess að söfnunin væri ekki ýkja vönduð, enda væri verið að hirða upp allar tilbreytingar og útúrsnúninga sem orðið hefðu á lögunum frekar en að einbeita sér að raunverulegum þjóðlögum, sem væru hin sönnu fornu íslensku þjóðlög. Þau hreinlega köfnuðu í þessum aragrúa tilbrigða sem Bjarni og heimildarmenn hans hefði skráð.

Bjarni virðist alltaf hafa getað treyst á stuðning þ ingmannanna „sinna“ ef svo má segja. Þingmenn Eyjafjarðar og Skagafjarðar styðja hann einarðlega, mæla fyrir styrkveitingum til hans og koma honum til varnar þegar á þarf að halda. Þannig eru báðir þingmenn Eyjafjarðar og báðir þingmenn Skagfirðinga í eldlínunni í umræðunum sem

— 74 — spunnust um styrkveitingarnar. Einnig eru þingmenn Þingeyjarsýslna duglegir við að styðja Bjarna og bera blak af honum í umræðunum. Ekki er þó víst að það hafi allt verið tilkomið vegna umsagna frá Wennerberg, Hartmann og Hammerich. Bjarni varð snemma áhrifamikill í embætti sínu á Siglufirði og nærsveitum og var drífandi og framkvæmdaglaður, og hafði eflaust átt ýmislegt saman að sælda við þessa þingmenn sem varð til þess að ávinna honum traust þeirra. Þeir Hannes Hafstein og Bjarni voru kunningjar og höfðu verið samtíða í Lærða skólanum og Klemens Jónsson einnig, en þeir Bjarni útskrifuðust saman.178 Klemens var sonur Jóns Borgfirðings, sem var kunnur fræðimaður, og bróðir Finns Jónssonar prófessors í Kaupmannahöfn. Finnur vann með Bjarna að handritagrúski ytra og átti síðar eftir að verða meðmælandi Bjarna gagnvart Carlsbergssjóðnum og sjá um að lesa prófarkir að Íslenzkum þjóðlögum.

Reyndar kemur ýmislegt áhugavert í ljós þegar rýnt er Alþingismannatal og tengsl þessara manna sem þarna koma við sögu skoðuð. Þórður Thoroddsen sem var meðmæltur styrk til Bjarna í neðri deild 1895 var mágur Theódóru Thoroddsen skáldkonu, dóttur Guðmundar á Breiðabólsstað, fóstra Bjarna. Þorleifur Jónsson sem kynnti tillögur fjárlaganefndar 1897 og var meðmæltur styrk til Bjarna, varð tveimur árum síðar faðir Jóns Leifs. Pétur Jónsson sem hafði framsögu um styrk til Bjarna 1903 var sonur Jóns á Gautlöndum, samverkamanns Jóns Árnasonar við þjóðsagnasöfnunina, og var formaður Kaupfélags Þingeyinga og náinn samstarfsmaður Benedikts á Auðnum. Og að lokum: Klemens Jónsson, einn helsti talsmaður Bjarna, var kvæntur Þorbjörgu systur Björns Bjarnarsonar, andmælanda Bjarna, sem var kvæntur Guðnýju systur Klemens Jónssonar.

Björns þáttur Kristjánssonar Björn Kristjánsson kemur á ýmsan hátt við sögu Íslenzkra þjóðlaga, bæði á söfnunartímanum og í aðdraganda útgáfu safnsins. Hann var aðsópsmikill áhrifamaður á sinni tíð og því er rétt að gera betri grein fyrir honum og tengslum hans við helstu presónur og leikendur sem hér eru til umfjöllunar.

178 Viðar Hreinsson 2011: 52, 77–78

— 75 — Björn Kristjánsson var fæddur 26. febrúar 1858 af efnalitlu fólki. Hann braust til nokkurra mennta þrátt fyrir kröpp kjör og lærði skósmíðar þ ó hugur hans stæði til tónlistar.179 Í sjálfsævisögu sinni sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins í átta hlutum á tímabilinu 29. ágúst til 17. október 1971 segir Björn frá því hver hans fyrstu kynni af tónlist voru þegar hann bankaði uppá hjá Benedikt Ásgrímssyni gullsmið og fékk að spila á harmóníum sem hann átti og hvernig hann í kjölfarið kom sér upp æfingarhljómborði úr spýtnabraki og æfði á það fingrasetningu og að spila fjórraddaða sálma úr orgelbók180. Björn fékk styrk til tónlistarnáms í Kaupmannahöfn 1879 og var þar við nám í orgel- og fiðluleik einn vetur.181 Þegar hann kom heim hélt hann áfram skósmíðum en meðfram því stjórnaði hann kórum og kom fram á tónleikum.182 Hann fór til frekara tónlistarnáms í Kaupmannahöfn árin 1882–83 og hugðist gera tónlistina að aðalstarfi.183

Þegar Björn kom heim að lokinni síðari námsvöl sinni í Kaupmannahöfn stóð hann fyrir ýmsum tónleikum, meðal annars með Steingrími Johnsen sem var tónlistarkennari Bjarna Þorsteinssonar í Lærða skólanum.184 Þeir félagar söfnuðu meðal annars í orgelsjóð Dómkirkjunnar og áttu drjúgan þátt í að hægt var að kaupa þangað gott pípuorgel.185

Fljótlega eftir að Björn kom heim leitaði Benedikt Jónsson á Auðnum til hans um að útsetja nokkur þjóðlög sem hann hafði skráð.186 Benedikt hafði áhyggjur af því að gamla tónlistin væri á undanhaldi fyrir nýrri tónlist og hafði hug á að fá lögin sem hann hafði skráð útsett svo þau yrðu aðgengilegri fyrir almenning og yrðu sungin á ný.

Þeir Benedikt og Björn voru í nokkrum samskiptum á árabilinu 1882–88 og Benedikt var nokkuð ánægður með flest það sem Björn vann fyrir hann. Í bréfaskiptum þeirra

179 Björn Kristjánsson 1971a: 2, 7 180 Ibid. 6–7 181 Ibid. 7 182 Ibid. 7, 12 183 Björn Kristjánsson 1971b: 10 184 Ibid. 185 Þórir Stephensen 1996: II:153 186 Sveinn Skorri Höskuldsson 1993: 531–33

— 76 — Benedikts og Björns má sjá að Björn hugði á útgáfu laganna sem Benedikt hafði skráð, hann vildi halda þessu starfi áfram og útsetja lögin og gefa svo út.187

Á þessum tíma var töluvert um að sauðfé væri selt á fæti til útlanda og voru nokkur umsvif í því að senda lifandi fé sjóleiðis til Bretlands og Danmerkur. Björn tók að sér umboðsmennsku fyrir slík viðskipti og stundaði það um skeið.188 Árið 1893 fengu bændur í nokkrum Kaupfélögum Björn til að hafa milligöngu um sauðasölu til Bretlands og leigði Björn skip til flutninganna og flutti fjölda fjár til Skotlands. Ýmsar hrakningar biðu Björns í Skotlandi og þegar skipið fékkst loks afgreitt í Leith var töluvert af fénu dautt. Vegna þessa spunnust miklar deilur og skaðabótamál milli Björns og þeirra sem höfðu varnað honum afgreiðslu í Leith, annars vegar, og kaupfélagsmanna, hins vegar.189 Langvinn ritdeila átti sér stað, þar sem Björn skrifaði tvö heil fylgiblöð með Ísafold 1894 undir titlunum Fjársölumálið og Fjársölumálið II til að rekja sína hlið mála, en verður það ekki rakið frekar hér.190

Benedikt var einn helsti hvatamaður að stofnun fyrsta kaupfélagsins hér á landi, Kaupfélags Þingeyinga, og hann er talinn höfundur heitisins „kaupfélag“ yfir það samvinnu- og samlagsform sem félagið notaðist við.191 Eitt af markmiðum kaupfélags var að gera bændur óháðari kaupmönnum en verið hafði en vöruskiptaverslun var rótgróin og fátítt að peningar væru notaðir í viðskiptum bænda og kaupmanna. Á þeim tíma var Björn Kristjánsson sífellt að auka umsvif sín í kaupmennsku og var síður en svo gefinn fyrir þá þróun sem kaupfélagavæðing sveitanna hafði í för með sér.

Þannig atvikaðist það að Björn og Benedikt, sem áður höfðu verið nánir samherjar í þjóðlagasöfnun og úrvinnslu, urðu svarnir andstæðingar og áttust hatrammlega við, bæði sjálfir og á forsendum þeirra félaga sem þeir voru lykilmenn í.

Í umræðum á Alþingi 1903, þegar Björn veittist að Bjarna Þorsteinssyni og þjóðlagasöfnun hans, má segja að þessar víglínur hafi komið glögglega í ljós. Pétur

187 Ibid. 188 Björn Kristjánsson 1971a: 12 189 Ibid. 12–13; Björn Kristjánsson 1971b: 6–7, 9 190 Björn Kristjánsson 1894a: ; Björn Kristjánsson 1894b: 191 Sveinn Skorri Höskuldsson 1993: 253–59

— 77 — Jónsson, þingmaður Suður-Þingeyjarsýslu og framsögumaður um fjárlagafrumvarpið í umræðunum á Alþingi, var formaður Kaupfélags Þingeyinga og náinn samstarfsmaður Benedikts á Auðnum, og hafði staðið í eldlínunni í baráttunni við Björn í Fjársölumálinu. Árni Jónsson, þingmaður Norður-Þingeyinga, sem tók til varna fyrir Bjarna og andmælti Birni í því að ekki væri hægt að finna fólk um landið sem gæti skrifað nótur og skrásett lög fyrir Bjarna, sat einnig í stjórn Kaupfélags Þingeyinga og var samherji Benedikts, og eflaust hafði hann Benedikt í huga þegar hann nefndi í umræðunum að honum væri kunnugt um menn í sínu kjördæmi sem væru færir um að skrifa upp lög með fullnægjandi hætti.

Af þessu má draga þá ályktun að baksagan um samskipti þessarra manna hafi haft mest að segja um hvernig umræðan á Alþingi 1903 þróaðist og hve heiftarlega Björn veittist að Bjarna og þjóðlagasöfnun hans. Í umræðunum nefnir Björn það að honum þyki of mikið látið með Bjarna og tónlistarhæfileika hans í umfjöllun fjölmiðla, og má sjá að honum finnst að aðrir tónlistarmenn, sem hann metur hæfileikaríkari, ættu fremur að njóta þeirrar hylli og velgengni sem Bjarni naut um það leyti. Björn hafði sjálfur viljað gefa út íslensk þjóðlög úr safni Benedikts á Auðnum en nú var það safn orðið hluti af safni Bjarna, og hugsanlega fannst Birni að Bjarni væri þar, ómaklega, að njóta ávaxta sinnar eigin vinnu fyrir Benedikt.

7.2 Hið íslenska bókmenntafélag Aðkoma Hins íslenska bókmenntafélags að útgáfu Íslenzkra þjóðlaga er fyrir margra hluta sakir áhugaverð. Bókmenntafélagið var á þessum árum í nokkurri deiglu. Unnið var að því að sameina Skírni og Tímarit hins íslenska bókmentafélags í eitt rit, undir nafni Skírnis, og á sama tíma var töluverður þrýstingur á það í Reykjavíkurdeildinni að Bókmenntafélagið yrði sameinað í eina deild, en fram til þess hafði félagið starfað í tveimur deildum; Hafnardeild í Kaupmannahöfn og svo Reykjavíkurdeild. Nokkur andstaða virðist hafa verið meðal félaga í Hafnardeildinni gegn þessum áformum.

Bjarni afhenti Hafnardeild Bókmenntafélagsins fullbúið handrit að safni sínu þegar hann dvaldist í Kaupmannahöfn vorið 1904. Hann kveðst hafa fengið „góðar vonir“ um að félagið myndi gefa safnið út en síðar um vorið var haldinn aðalfundur

— 78 — Hafnardeildarinnar og breyttist þá stjórnin. Ný stjórn var ekki jafn áfjáð í að gefa safnið út og sú fyrri og vísaði umfjöllun um það og ákvörðun um þátttöku í útgáfu þess til Reykjavíkurdeildarinnar. Reykjavíkurdeildin tók beiðni Bjarna um þátttöku í útgáfunni fyrir á fundi sínum 8. júlí 1904 og skipaði þriggja manna nefnd til að meta verkið og taka ákvörðun um aðkomu félagsins, eins og vaninn var að félagið gerði þegar beiðnir af þessu tagi komu inn á borð til þess. Greint var frá þessu skýrslum stjórna í Skírni:

— Til að dæma um rit Bjarna prests Þorsteinssonar um íslenzkan söng að fornu og nýju, sem boðið hefur verið Hafnardeildinni, en hún vísað til Reykjavíkurdeildarinnar, var kosin 3ggja manna nefnd: séra Jón Helgason, kaupm. Björn Kristjánsson og sagnfræðingur Jón Jónsson. —192

Í Þjóðviljanum 14. júlí 1904 eru sagðar fréttir af þessum fundi þar sem fleira kemur fram:

Síra Bjarni Þorsteinsson á Siglufirði hafði boðið Hafnardeildinni til útgáfu rit um íslenzkan söng að fornu og nýju, en Hafnardeildin vísaði því máli til R.víkurdeildarinnar. Getið var til að útgáfan myndi kosta 3–4000 kr. og gat forseti þess að stjórninni þætti félaginu ofvaxið að ráðast í slíkt, nema með styrk af almannafé. Allt um það var þó kosin nefnd til að yfirfara ritið, og hlutu kosningu síra Jón Helgason, Björn Kristjánsson kaupm. og Jón Jónsson sagnfræðingur.193

Það einkennilega í nefndarskipuninni var að í hana var skipaður Björn Kristjánsson kaupmaður og alþingismaður. Hinir nefndarmennirnir, séra Jón Helgason prestakólakennari og Jón Jónsson sagnfræðingur, voru fræðimenn báðir en hvorugur þeirra hafði formlega tónlistarmenntun. Björn Kristjánsson var á margan hátt tilvalinn matsmaður verks á borð við það sem Bjarni skilaði Bókmenntafélaginu. Hann var vel menntaður og hæfileikaríkur tónlistarmaður, þrátt fyrir að hafa lagt tónlistarferilinn til hliðar fyrir nokkru og snúið sér alfarið að kaupmennsku og viðskiptum. Hins vegar hefði mátt líta til þess að hann hafði beitt sér harkalega gegn styrkbeiðni Bjarna í umræðum á Alþingi og lýst ýmsum skoðunum sínum á Bjarna og safni hans, jafnvel þótt hann hefði þá ekki séð það sem safnast hafði.

192 Skírnir 1905: III–IV 193 Þjóðviljinn 1904:

— 79 — Þegar nefndin skilaði áliti sínu kom í ljós að hún hafði klofnað í tvennt. Meirihlutinn, sem skipaður var þeim sr. Jóni Helgasyni og Jóni Jónssyni sagnfræðingi var þeirrar skoðunar að Bókmenntafélagið ætti að gefa safnið út en minnihlutinn, sem var Björn Kristjánsson einn, var á því að safnið væri ekki þess virði að félagið gæfi það út.

Í matsgerð meirihlutans segir meðal annars að safnið „hafi mikinn og margbreyttan fróðleik að geyma og hann jafnframt svo einkennilega þjóðlegan að mörgu leyti, að við hljótum að telja það mjög æskilegt að þjóðlögum þessum yrði komið á prent, eigi síður en öðrum fornum, þjóðlegum fræðum, (t.d. þ ulum og þjóðkvæðum, gátum og skemmtunum), er fjelagið hefur áður gefið út. [...] Teljum við líklegt að safn þetta mætti verða til þess, að auka mjög þekkingu manna, bæði hjer á landi og erlendis, á hinum forna þjóðsöng vorum, er hingað til hefur verið svo lítill gaumur gefinn, og yfir höfuð að tala verða þjóð vorri til sóma.“194

Í áliti Björns kemur fram að hann hafi að vísu ekki haft tíma vegna anna til þess að kynna sér safnið að neinu ráði, en það sé samt niðurstaða hans að safnið sé lítils virði og alls ekki þess vert að vera gefið út. Hann leggst því alfarið gegn því að Bókmenntafélagið taki þátt í útgáfu þess.195

Bókmenntafélagið komst svo að þeirri niðurstöðu að það væri tilbúið til þess að standa að útgáfu safnsins í hlutum á 6–8 ára tímabili gegn því að Bjarni afsalaði sér öllum höfundargreiðslum vegna þ ess.196 Þetta var auðvitað fullkomlega óviðunandi fyrir Bjarna, enda hann þá þegar búinn að leggja töluvert mikinn tíma og peninga í að vinna að söfnuninni og að búa safnið í útgáfuhæft ástand. Hann tók því til við að leita fyrir sér annars staðar um fjármögnun útgáfunnar.197

7.3 Aðkoma Carlsbergssjóðsins Þegar Bjarni hafði orðið varð var við tregðu ráðamanna til að veita honum fjárhagslegan stuðning meðan á söfnuninni stóð setti hann sig í samband við stjórn menningarsjóðs

194 Bjarni Þorsteinsson 1906: VI–VII 195 Ibid. VII–VIII 196 Skírnir 1905: III–IV 197 Skírnir 1906: III

— 80 — danska bjórframleiðandans Carlsberg. Sjóðurinn hafði reynst mörgum menningarverkefnum öflugur bakhjarl á starfstíma sínum og stutt rannsóknar- og útgáfuverkefni fjölda Íslendinga og því mat Bjarni það sem svo að það væri reynandi að óska eftir styrk þaðan. Stjórnin fjallaði um beiðni Bjarna en mat það sem svo að söfnun hans uppfyllti ekki þau skilyrði sem sjóðurinn setti um verkefni svo þau teldust styrkhæf. Bjarni hélt þó áfram að sækja um og þá með fulltingi Hartmanns, Hammerich og Finns Jónssonar. Það gekk betur og eftirfarandi mátti lesa í Stefni 18. mars 1901 og í Lögbergi, blaði Íslendinga í Kanada í 25. apríl 1901:

Séra Bjarni Þorsteinsson á Siglufirði hefur fengið 600 kr. styrk til 3 ár af Carlsbergsjóði til að safna ísl. þjóðlögum.198

Samkvæmt gögnum Carlsbergssjóðsins virðist styrkurinn hins vegar hafa verið 300 kr. á ári í átta ár, samtals 2.400 kr.199 Dyr sjóðsins virðast hafa staðið nokkuð opnar fyrir Bjarna upp frá þessu því þegar hann stóð frammi fyrir afarkostum Bókmenntafélagsins vegna útgáfu safnsins, sótti hann um útgáfustyrk til sjóðsins. Sjóðurinn féllst á að styrkja hann um 1000 til 1500 kr en Bókmenntafélagið var enn á því að til þess að hægt væri að gefa safnið út yrði Bjarni að afsala sér höfundarlaunum. Eftir nokkrar samningaumleitanir fór það svo að um samdist milli Carlsbergssjóðsins og Hins íslenska bókmenntafélags að bókmenntafélagið legði fram 1000 kr. til útgáfu bókarinnar Norsk-isländska dopnamn ock fingerade namn från medeltiden eftir sænska fræðimanninn E. H. Lind sem sjóðstjórnin hafði áhuga á að gefin yrði út en reglur sjóðsins leyfðu ekki að sjóðurinn kæmi að sjálfur. Á móti tók sjóðurinn á sig allan kostnað við prentun og útgáfu þ jóðlagasafns Bjarna. Bókmenntafélagið samþykkti þ etta með því skilyrði að félagið fengi 500 eintök af Íslenzkum þjóðlögum á 75 aura eintakið, til að dreifa til félagsmanna sinna.200Á endanum nam útgáfukostnaður safnsins 5.801,14 kr. og greiddi Carlsbergssjóðurinn þann kostnað að fullu.201

198 Stefnir 1901: 7; Lögberg 1901: 26. 199 Steindór Steindórsson 2002: 102–03 200 Bjarni Þorsteinsson 1906: VIII–IX; Steindór Steindórsson 2002: 102–03 201 Ibid.

— 81 — 7.4 Dularfulla rímnalagahvarfið Bjarni segir frá sérkennilegu atviki sem kom upp í samskiptum hans við Bókmenntafélagið:

Þá verð jeg, þótt leiðinlegt sje, að minnast á eitt lítið atvik. Þegar handrit mitt var albúið til prentunar var það í 9 pökkum, og í síðasta og 9. pakkanum voru öll rímnalögin og ritgjörð um rímnakveðskap vorn. En einhvern tíma á tímabilinu frá því jeg afhenti stjórn Kaupmannahafnardeildarinnar handritið í apríl 1904 og þangað til stjórn Reykjavíkurdeildarinnar sendi mjer handritið aptur (til yfirlesturs eptir ósk minni) haustið 1905, glataðist þessi síðasti og 9. pakki með öllu úr handritinu og kom hann ekki fyrir, hvernig sem um hann var spurt og eptir honum var grennslazt, og auðvitað vildi enginn kannast við að hafa týnt honum. Til allrar hamingju hafði jeg eptirrit af flestiun rímnalögunum og meiri parti ritgerðarinnar um rímnakveðskapinn, og tók jeg því til að skrifa allt þetta upp að nýju. Svo var það löngu seinna, eptir að byrjað var á prentun bókarinnar, að hinn glataði rímnapakki kom til skila: hafði hann þá fundizt — að því er sagt var — inni í skáp á lestrarsal landsbókasafnsins.202

Heldur er þetta einkennilegt og engu líkara en einhver hafi látið þennan níunda pakka handritsins hverfa. Bjarni segir það ekki berum orðum en það má sjá glitta í það hjá honum ef lesið er milli línanna.

8 Viðtökur í bráð Þegar Íslenzk þjóðlög kom loks út var sagt frá því á ýmsum vettvangi. Þegar prentmiðlar frá þeim tíma eru skoðaðir má finna frásagnir af útgáfunni á nokkrum stöðum en tæpast er hægt að segja að nokkuð fjölmiðlafár hafi brostið á.

Í Ritfregnum í Skírni 1910 sagði Jón Helgason:

Þá er hið mikla þjóðlagasafn séra Bjarna á Siglufirði komið út, á 10. hundrað blaðsíður í stóru 8 blaða broti, — þetta safn, sem séra Bjarni hefir verið að vinna að í meira en 20 ár, og safnað til bæði utan lands og innan. Öll sú elja og ástundun, sem hér hefir verið starfað með, er blátt áfram aðdáanleg. Líklega hefir ekki einu sinni séra Bjarna

202 Bjarni Þorsteinsson 1906: IX

— 82 — sjálfan dreymt fyrir því, að svo mikið væri til af ísl. þjóðlögum, er hann byrjaði á þessu verki, enda allar líkur til, að hér sé samankomið á einn stað það sem til er af því tægi. Manni dettur í hug, hvort ekki hefði mátt fella eitthvað burt af öllu þessu, sem hér er tínt til, heildinni að skaðlausu, — og eins dettur efagjörnum sálum í hug, hvort séra Bjarni dragi ekki fullmikið inn undir hugtakið »íslenzk þjóðlög«, eða með öðrum orðum telji ýmislegt með til íslenzkra þjóðlaga, sem ekki er það í raun og veru (t. d. lögin úr bók Laubs organista, ýmis af sálmalögunum gömlu, meginið af kaþólska kirkjusöngnum). Um það skal engu spáð, hver áhrif safn þetta muni fá á sönglíf íslendinga á vorum dögum. Naumast verður alment farið að taka upp »gömlu lögin«, þótt einkennileg séu sum þeirra. Heldur væri það, að rímnakveðskapurinn lifnaði við aftur að einhverju leyti. En hvað sem þessu líður, þá á séra Bjarni skilið miklar þakkir fyrir verk sitt og óskum vér honum þess, að hið mikla safn hans megi fá sem beztar viðtökur utan lands og innan hjá þeim, sem vit hafa á hlutunum og þekkingu til að dæma um verkið meiri en sá, er þetta ritar.203

Í Ingólfi 7. júlí 1910 er skrifað ómerkt um safnið og hefst sú umfjöllun á upphrópun: „Nú eru þau komin!“ Svo nefnt að Carlsbergssjóðurinn hafi kostað útgáfuna og að bókin muni kosta 15 kr. en skuldlausir félagsmenn Bókmenntafélagsins geti fengið hana gefins. Eftir þessar upplýsingar er sagt frá samsetningu og stærð bókarinnar en í kjölfarið á því viðrar höfundur dálitlar efasemdir:

Sennilega er nafn bókarinnar ekki vel valið, því að mikið mun vanta á það, að allt það, sem þarna er saman komið, geti kallast „íslenzk þjóðlög“, í þeim skilningi, sem vant er að nota það orð. Hún hefði öllu fremur átt að heita íslenzk söngsaga — sbr. og orð höf. sjálfs í formálanum bls. I., — eða öllu heldur safn til slíkrar sögu, því að safn er þetta, frekar en nokkuð annað. Það er einkenni safnandans, að taka fremur of mikið en of lítið, þ. e. a. s. hirða allt í safnið, sem nokkur von er til að eigi þar heima, en sía eigi svo nákvæmlega, þótt sitt hvað annað slæðist með. Þetta einkenni er víst á þessari bók.

Þá nefnir höfundur nokkur dæmi um lög sem honum finnst að eigi ekki að hafa verið með í safninu, en endar svo umfjöllunina á þessum orðum:

Þetta bendir á það, að fleira kunni að vera, sem vinza þyrfti úr. En það eiga fræðimennirnir að gera, og þegar búið er að því, þá verður bókin vonandi mikið og gott forðabúr handa íslenzkum söngfræðingum og söngskáldum. Hún á nógan rétt á

203 Jón Helgason 1910: 359.

— 83 — sér, þótt hún sé aðeins safn, og vonandi verður henni veitt sú athygli, sem hún á skilið. Það er ekki svo oft sem við eignumst svo einkennileg stórvirki, sem þetta. Nú er að bíða þess, að einhverjir tali „eins og þeir, sem vald hafa“.204

Fróðlegt væri að vita við hverja höfundur á í síðustu setningunni.

8.1 Dómar og umsagnir Að frátöldum stöku ritfregnum virtust viðbrögð við útgáfu Íslenzkra þjóðlaga ekki sérstaklega mikil. Nokkrir dómar og ritrýnir birtust um safnið og er þar helst að geta umsagna tveggja þungavigtarmanna sem birtust á prenti árið 1910. Annars vegar er umfjöllun Andreas Heusler í Zeitschrift für deutsches Altertum und deutsche Literatur og hins vegar umfjöllun Axels Olrik í Danske Studier.

Þegar litið er til þeirrar stöðu sem þessir menn höfðu í fræðaheiminum má álykta sem svo að útgáfa safns Bjarna hafi sætt nokkrum tíðindum í alþjóðlegu samhengi. Andreas Heusler var á þessum tíma prófessor í norrænum textafræðum í Berlín og einn virtasti norrænufræðingur Þýskalands. Sennilegt má telja að áhugi hans á Íslenzkum þjóðögum hafi verið á forsendum hefðbundinna norræna fræða og vegna almenns áhuga hans á íslenskri menningu. Dómur Heuslers er fremur léttvægur og mætti jafnvel frekar kallast ritfregn en ritdómur. Hann ræðir að safnið sýni að á tónlistarsviðinu eigi Íslendingar ríkulegan arf og töluvert ríkulegri en menn hefðu þorað að vona, en hann finnur að því að ritgerðir Bjarna skuli ekki hafa verið hafðar á öðru tungumáli en íslensku til að auðvelda erlendum lesendum lesturinn.205

8.1.1 Axel Olrik Axel Olrik var á þeim tíma þegar hann ritdæmdi Íslenzk þjóðlög ritstjóri safnsins Danske folkeviser sem hann hafði tekið við af frumkvöðlinum Svend Grundtvig. Olrik var doktor í norrænni textafræði og hafði meðal annars stundað þjóðsagnasöfnun og rannsóknir með Moltke Moe, syni hins kunna Jørgen Moe, í Kristjaníu (nú Osló) og var þaulreyndur safnari þjóðfræðaefnis úr munnlegri geymd. Olrik útfærði nánar hugmyndir Moe um

204 Ingólfur 1910a: 106. 205 Andreas Heusler 1910: 238–39

— 84 — frásagnarfræði þjóðsagna og var meðal fyrstu manna til að greina þjóðfræðaefni með byggingarfræðilegum (strúktúralískum) aðferðum, mörgum áratugum áður en beiting slíkra aðferða komst í tísku, ef svo má segja.206

Axel Olrik var því sannkallaður þungavigtarmaður í fræðunum og eðlilegt að hann fjallaði um Íslenzk þjóðlög, enda sætti útgáfa bókarinnar nokkrum tíðindum þar sem lítið sem ekkert hafði verið fjallað um íslenska þjóðlagatónlist eða tónlistariðkun fram til þess. Umfjöllun Olriks birtist 1910 í tímaritinu Danske Studier sem hann ritstýrði sjálfur.207 Umfjöllunin er á 10 síðum og Olrik tíundar þar hvernig safnið er saman sett og hvernig safnað var til þess en reynist síður en svo ánægður með afraksturinn. Honum þykir Bjarni vinna klaufalega úr handritum og gagnrýnir sérstaklega röðina sem hann kýs að birta handritin í, er mjög gagnrýninn á að Bjarni taki upp latneskan messusöng í safn sitt og hefur hreinlega allt á hornum sér þegar hann fjallar um norrænu lögin sem Bjarni birtir. Hann spyr til dæmis hvort ekki hefði verið nær að láta safnið heita „gömul lög með íslenskum textum“ frekar en Íslenzk þjóðlög, svo djarftækur þykir honum Bjarni vera til erlendrar tónlistar.

Það rofar aðeins til þegar kemur að þriðja hluta bókarinnar, III. Lög, skrifuð upp eptir ýmsu fólki. Þar finnst Olrik að loksins sé eitthvað bitastætt að finna þó hann þykist sjá hér og þar glitta í tónlist sem hann þekkir frá Danmörku og Skandinavíu.

Í lokin skammar Olrik þá sem lögðu nafn sitt við verkið, Finn Jónsson, Hammerich og Hartmann, og spyr hvort þeir skrifi uppá vinnubrögðin sem sjá má í bókinni. Þess ber að geta að þessir þrír gerðu lítið annað en að hvetja Bjarna áfram við söfnunina og lesa stöku prófarkir, þannig að lítið var við þá að sakast.

Gjallarhorn sem gefið var út á Akureyri birti frásögn af ritdómi Olriks á forsíðu sinni 3. febrúar 1911 en annars er dómsins hvergi getið annars staðar svo finna megi.208

206 Alan Dundes 1999: 83–86 207 Axel Olrik 1910: 183–87 208 A., 1911

— 85 — 8.1.2 Jónas Jónsson þingvörður Mjög langur og ítarlegur ritdómur um Íslenzk þjóðlög eftir Jónas Jónsson þingvörð birtist í vikublaðinu Ingólfur í fimm hlutum dagana 14., 21. og 28. júlí og 5. og 11. ágúst 1910.209 Jónas var sérfræðingur í íslenskum kirkjusöng og var gríðarlega vel heima í sálmum og sálmabókum sem út höfðu komið á Íslandi frá öndverðu og markast ritdómur hans mjög af því áhugasviði hans og sérþekkingu hans á því sviði. Skömmu fyrir útgáfu Íslenzkra þjóðlaga hafði Jónas gefið út Passíusálma Hallgríms Péturssonar með nótum að þeim sálmalögum sem hann mat að Hallgrímur hefði viljað nota við sálma sína og hafði þeirri útgáfu verið vel tekið.

Jónas hefur ritdóm sinn á því að rekja söfnun þjóðlaga í Evrópu á 19. öld og ber afrakstur þeirra safnana saman við framtak Bjarna og metur það svo að sá samanburður sé ekki Bjarna í vil. Jónas vill meina að Bjarni sé hvorki nógu mikið menntaður í tónlist né nógu vel heima í rannsóknarsögu þjóðlagasöfnunar í Evrópu til þess að geta gert efninu fullnægjandi skil. Aftur á móti viðurkennir hann að Bjarni hafi ekki á miklu að byggja og væri í raun að skrifa grundvallarrit íslenskrar söngsögu. Enda nefnir hann það í upphafi hins eiginlega ritdóms, í kjölfar inngangsins, að safn Bjarna hefði átt að heita Safn til íslenskrar söngsögu frekar en Íslenskt þjóðlagasafn [svo] enda sé yfirferð hans um söngsöguna fróðleg og ítarleg

Jónas nefnir þann ljóð á ráði Bjarna að taka oft upp rannsóknir annarra og birta að óathuguðu máli, þar sem hann hefði sjálfur mátt rannsaka nánar það sem um er rætt. Þannig bendir hann á að Bjarni birti texta frá Pétri Guðjónsen nánast óbreyttan en Jónas vildi meina að Bjarni hefði gjarnan mátt raða niðurstöðunum í aðra röð sem hæfði tilgangi safnsins frekar en rannsóknum Péturs.

Eitt gladdi Jónas sérstaklega við lestur Íslenzkra þjóðlaga, en það var þegar hann áttaði sig á því að samlestur Bjarna á heimildum leiddi í ljós að Oddur á Reynivöllum hefði þýtt Franska reformeraða Psaltarann og haft við textann upprunalegu frönsku lögin, en ekki

209 Jónas Jónsson 1910

— 86 — samið lögin sjálfur, en uppruni laganna, sem eru í handritinu Melodia (Rask 98 8vo) hafði verið óþekktur. Eins og Jónas orðar það:

Þetta er ekki ómerkilegur fundur í bókmentasögu vorri og óvíst hvenær hann hefði komið fram í ljósið, ef séra Bjarni hefði ekki ritað í bókina, að minsta kosti mundi ég ekki hafa náð í þessa rúsínu þá.

Jónas gerir verulegar athugasemdir við meðferð Bjarna á gömlu mensúral nótunum sem hann hafði skrifað upp úr handritum með nútímanótnaskrift og taldi ljóst að Bjarni hefði ekki farið rétt með þær í sínum uppskriftum.

Margar af athugasemdum Jónasar ríma við það sem fram kom í kafla X þar sem rætt er um vinnubrögð Bjarna. Honum finnst Bjarni vera of djarftækur til heimilda annarra og ekki nógu vandfýsinn eða vandvirkur í úrvinnslu þeirra og framsetningu.

Greinilegt er að Jónas hefur yfirburðaþekkingu á íslenskum kirkjusöng frá öndverðu og fram á sinn dag og hann er óhræddur við að flíka þeirri þekkingu sinni í ritdómnum. Það gerir að verkum að dómurinn er mjög yfirgripsmikill og fróðlegur hvað sálma og kirkjutónlist varðar, en ekki nema að litlu leyti um Íslenzk þjóðlög, og þá frekar Bjarna og ritinu til hnjóðs. Jónas tilfærir fjölda dæma um það sem hann metur sem rangan lestur Bjarna á nótum úr handritum og prentuðum heimildum, og nefnir að hann hafi fundið mikinn fjölda laga sem sannarlega séu erlend en ekki íslensk, og alls ekki þjóðlög, að hans mati.

Undarleg má hún teljast fullyrðing Jónasar, sem kemur í kjölfar þess að hann segi Bjarna hvorki nógu fróðan né nákvæman og geri allt of mikið af því að endurtaka sig í textanum, en þar segir Jónas:

Góðir þjóðsöngvafræðingar skýra annaðhvort frá öllu, sem þeir þ ekkja og svo nákvæmlega sem unt er, eða sleppa öllum skýringum.

Ekki er víst að allir tónlistarfræðingar eða þjóðfræðingar myndu skrifa upp á þessa fullyrðingu, frekar en það sem Jónas segir í niðurlagi dómsins:

Síðari hluta bókarinnar hef ég lítið kynt mér og óvíst að ég geri það nokkurn tíma, því ég hef litla trú á því, sem skrifað er upp eftir ýmsum; þar er oft hætt við að hver syngi

— 87 — með sínu nefi og að sama lagið sé í rauninni ekki eins hjá öllum, og enda þótt það sé rakið í þriðja eða fjórða lið til Guðrúnar dyllihnúðu eða einhvers annars söngvara; tónaröðin getur breyzt í meðferðinni hjá þeim sem borið hafa hljóðið og víst er það, að mörg lög hafa þannig afbakast í meðferðinni, sum máske lagast og önnur líka orðið mesta afskræmi; til þess eru mörg dæmi hjá öðrum þjóðum og ekki ólíklegt að eins sé hjá oss. Höf. Þjóðlagasafnsins hefði átt að sleppa ýmsum heimildum sínum og fara meira eftir sínu eigin höfði og nótera lögin eins og hann kunni sjálfur eða fanst þau verða þjóðlegust. Slík heimildar nöfn eins og Árni gersemi, Gísli matur, Guðmundur póli, Guðrún dyllihnúða, Jónas grjótgarður og Sigurður skeggi þykja mér ekki prýða bókina. Margir hafa þó sent lög, sem prýðilega hafa kunnað að fara með þau, t. d. Benedikt Jónsson á Auðnum, Rannveig Sigurðardóttir á Prestsbakka, séra Sigtryggur Guðlaugsson o. fl.

Þarna kemur kannski einmitt í ljós að Jónas var sjálfur ekki vel heima í aðferðafræði við söfnun þjóðfræðaefnis þótt hann hefði á takteinum nöfn manna sem höfðu fengist við slíka söfnun í Evrópu og titla rita þeirra.

Kannski kemur kjarni skoðunar Jónasar á Bjarna og safninu fram í þessum orðum hans:

Séra Bjarni er góður að safna, en miður fær um að raða niður og ekki alstaðar nógu vandvirkur nótnalesari;

En að lokum þessa feykilega langa ritdóms (sem birtist eins og áður sagði í fimm tölublöðum Ingólfs) virðist Jónas sjá örlítið að sér eftir allt það niðurrif sem á undan var gengið og segir:

Ég býzt við að mörgum þyki ég hafa orðið of fjölorður um Þjóðlagasafnið og líklega ekki skrifað af nægilegri nærgætni um það og að mér þyki bókin lítilsvirði. En það er öðru nær, ég segi fyrir mig, mér þykir vænt um bókina, þó ég hefði óskað að hún hefði verið betur úr garði gerð. Hún er spor í áttina til að ransaka hvað vér eigum og vekja oss til að gefa söng vorum og sögu hans meiri gaum en verið hefir, því hvergi stöndum vér meira að baki öðrum þjóðum en í söngþekkingu allri og er það þó undarlegt með oss, sem alt viljum nema, að vér skulum svo lítið hafa skeytt þeim vísindum sem fremst eru allra vísinda og list sem fremst er allra lista. Ef bókin getur orðið til að vekja oss, þá á höfundurinn heiður og þökk fyrir hana.

— 88 — Líklegt er að margir hafa heykst á því að lesa allan dóminn í þaula og því fengið þá tilfinningu að Jónasi finnist bókin slæm og lítils virði, eins og hann nefnir sjálfur. Það kann að skýra að einhverju leyti það fálæti sem virtist mæta safninu í kjölfarið.

Jónas stóð fyrir útgáfu tímaritsins Hljómlistin sem kom út á árunum 1912–1913 og skrifaði þar heilmikið sjálfur um tónlist, sérstaklega um íslenska kirkjutónlist, og birti fjölda fróðlegra bréfa frá lesendum um tónlistarlíf í þeirra heimasveitum. Hann birti greinar í ýmsum tímaritum um tónlist og var greinilega víðlesinn og fróður.

8.2 Viðtökur almennings Eins og fram kom í kaflanum um aðkomu Hins íslenska bókmenntafélags að útgáfu safnsins hafði Bjarni samið við bókmenntafélagið um að það fengi 500 eintök af safinu við lágu verði til þess að dreifa til félagsmanna sinna. Þó Bjarni virðist ekki sérlega ánægður með þennan samning, ef marka má orð hans í formála Íslenzkra þjóðlaga, er líklegt að samningurinn hafi verið safninu til nokkurs framdráttar því með honum var tryggt að safnið kæmist í hendur töluverðs fjölda félagsmanna bókmenntafélagsins, og líklega var það sá hópur sem Bjarni þurfti helst að koma bókinni til.

Í Nýju kirkjublaði í maí 1915 má lesa það álit Þórhalls Bjarnarsonar (1855–1916) biskups að Íslenzkum þjóðlögum hafi verið mætt með kulda og fálæti – „með ískaldri þögninni“ – og finnst honum það miður.210 Eins og fyrr var rakið má teljast líklegt að fálætið sem safnið mætti hafi skapast af því umtali og umfjöllun sem það hlaut um og eftir útgáfu sína. Björn Kristjánsson hafði verið drjúgur við að rýra trúverðugleika Bjarna sem tónlistarmanns, bæði í umræðum á Alþingi og í greinargerð sinni til Hins íslenska bókmenntafélags vegna mögulegrar aðkomu Bókmenntafélagsins að útgáfu þess. Dómarnir sem birtust í kjölfar útgáfunnar voru einnig fremur neikvæðir og báru með sér að dómendum þætti Bjarni ekki hafa unnið nógu faglega að söfnuninni og ekki staðið sig nógu vel við ritstjórn og frágang safnsins, þó margt í safninu væri bitastætt og þess virði að varðveita. Allt vann þetta gegn Bjarna og safninu.

210 Þórhallur Bjarnarson 1915: 98–99

— 89 — Eins og ritdæmendur nefna er safnið býsna óárennilegt. Það er tæpar þúsund síður að stærð og þó það sé hluta- og kaflaskipt er það fremur óaðgengilegt hverjum þeim sem hyggst kynna sér það. Við nánari skoðun má komast upp á lag með að nota það og lesa, en vissulega hefði það gjarnan mátt vera skipulegar upp sett og frágengið. Nótnamyndirnar eru skýrar og umsagnir um lögin í flestum tilfellum greinagóðar, en vegna skipulagsins sem er á safninu er dálítið eins og vaðið sé úr einu í annað, í það minnsta í síðari hluta þess, sem eru lög skrifuð upp eftir ýmsum.

Tiltölulega almenn fákunnátta í tónlist meðal Íslendinga spilar auðvitað stóra rullu í viðtökum safnsins. Tónlistarskólar voru enn ekki komir til sögunnar og engu tónlistarnámi til að dreifa nema í einkatímum hjá organistum og öðrum þeim sem einhverra hluta vegna höfðu aflað sér þekkingar á tónlist, og svo sjálfsnám líkt og það sem Bjarni hafði stundað og Benedikt á Auðnum lagði stund á og boðaði öðrum. Íslenskir tónlistarmenn sem stunduðu nám eða jafnvel framhaldsnám í tónlist erlendis á þessum tíma voru afar fáir.

Bjarni virðist hafa áttað sig á þessu því árið 1929 gaf hann út nótnahefti sem heitir Íslenzk vikivakalög og önnur íslenzk þjóðlög: úrval sem í er að finna 20 vikivakalög, 23 sönglög, 30 rímnalög, 12 tvísöngslög og svo 6 þjóðlög útsett fyrir fjórar raddir. Fyrir heftinu er stuttur og greinagóður inngangur um íslensk þjóðlög og svo nokkuð ítarlegar upplýsingar um heimildir fyrir lögunum og textunum við þau.211 Árið 1931 kom svo út frá hendi Bjarna hefti með ágripi ritgerðanna úr Íslenzkum þjóðlögum undir heitinu Þjóðlegt sönglíf á Íslandi að fornu og nýju: ágrip.212 Í inngangstexta Íslenzkra þjóðlaga segist Bjarni vera meðvitaður um mikla stærð og óárennileik safnsins og nefnir að nú sé það í höndum annarra að vinna úr safninu og gera aðgengilegra:

síðar meir geta þeir, sem vilja, gert útdrætti úr safni þessu og gefið út svo mörg eða fá lög, sem þeir vilja, og útsett þau á einn eða annan hátt eptir eigin geðþótta.

211 Bjarni Þorsteinsson 1929 212 idem 1931

— 90 — En það stóð á því að aðrir gerðu þetta þannig að Bjarni gerði það sjálfur. Hugsanlegt er að einhverjir hafi haft hug á að gera slíkt en ekki viljað gera það meðan Bjarni var enn á lífi, af virðingu eða tillitssemi við hann.

8.3 Hagnýting og frekari söfnun Í kjölfar söfnunar Bjarna og útkomu Íslenzkra þjóðlaga urðu ýmsir til þess að safna tónlist og eitthvað kom út af þjóðlögum á nótum.

Sigfús Einarsson gaf út á árabilinu 1911–1914 þrjú nótnahefti, Alþýðu-sönglög I, II og III. Annað heftið ber undirtitilinn 17 íslensk þjóðlög útsett fyrir harmóníum og fyrir því er stuttur formáli höfundar:

Þjóðlögin okkar eru olnbogabörn. Við höfum engan sóma sýnt þeim og enga ræktarsemi. Við höfum borið þau út — allflest. Þá óhæfu verður að bæta fyrir. Af löngun þess er þetta hefti til orðið. — Einhver varð að ríða á vaðið. Ég hef ekki hirt um að rita lögin eftir útgáfum, sem til eru af þeim, — nótu fyrir nótu. Mér lék meiri hugur á hinu, að geta mér til þess, sem vakti fyrir hinum ókunnu höfundum laganna, en þeir komu ekki »orðum« að. Ég reyndi að botna, ef ekki var til nema upphafið (sbr. t. d. Hoffinn og Alfinn og Leggur reyki beint upp bæja). Breytingar mínar eru »orðabreytingar«, en ekki efnisbreytingar. Ég hef raddsett lögin fyrir harmóníum, af því að ég hygg, að þannig komi þau öllum almenningi að bestum notum. Lagboðarnir eru gamlir, margir hverir, og má sitthvað um þá segja. En það er ljóðskáldanna hlutverk að færa þá lakari í gerfi, sem fer þeim og lögunum betur, eða kveða nýjar vísur, ef þess er þörf.213

Sum laganna bera keim af uppskrifum Bjarna í Íslenzkum þjóðlögum án þess að vera alveg eins og gæti því allt eins verið að Sigfús hafi kunnað þau lög sem hann útsetti. Í hinum heftunum tveimur er einnig að finna útsetningar á þjóðlögum innan um frumsamda tónlist Sigfúsar, án þess að hann geti þess sérstaklega. Sigfús hefur greinilega gert nokkuð af því að útsetja þjóðlög en árið 1913 birtist í Skírni raddsetning Sigfúsar að laginu Móðir

213 Sigfús Einarsson 1912

— 91 — mín í kví kví án þess þó að höfundur sé skráður eða lagið sagt þjóðlag, eins og almennt hefur verið talið.214

Sveinbjörn Sveinbjörnsson (1847–1927) gaf út árið 1923 nótnaheftið Íslenzk þjóðlög fyrir solo rödd sem innhélt 20 lög útsett með píanóundirleik.215 Í því hefti birtast í fyrsta sinn á prenti nokkur ástsælustu íslensku þjóðlögin: Hættu að gráta hringaná, Sofðu unga ástin mín og Bí bí og blaka. Engin umfjöllun fylgir lögunum og því ekkert vitað um hvaðan Sveinbjörn fékk lögin.

Við endurútgáfu heftisins skrifaði Jón Þórarinsson formála og tónlistarlega greiningu laganna.216 Þar lætur hann að því liggja að Sofðu unga ástin mín sé ekki þjóðlag heldur hafi Sveinbjörn samið það sjálfur. Byggir hann það á því að hann telur bragarháttinn fátíðan og fornan en lagið nútímalegt. Ekki er gott að sjá hvers vegna Sveinbjörn hefði átt að láta eins og jafn prýðilegt lag og þetta væri þjóðlag frekar en að gefa það út undir eigin nafni, ef hann samdi það sjálfur. Jón skrifaði ævisögu Sveinbjörns sem kom út 1969 og hafði líklega mesta innsýn allra í líf og störf hans.217

Reyndar er áhugavert að Jón Þórarinsson birtir í tónlistarsögu sinni samanburð 12 laga úr Íslenzkum þjóðlögum sem Barbarósa-kvæði hefur verið sungið við, þar á meðal lögin sem Konrad Maurer lét skrifa upp fyrir sig og fyrr voru nefnd.218 Þetta kvæði er einmitt undir sama bragarhætti og ljóð Jóhanns Sigurjónssonar (1880–1919), Sofðu unga ástin mín, og því erfitt að fá það til að koma heim og saman að bragarhátturinn hafi verið fátíður ef finna má þennan fjölda tilbrigða laga við hann.

Jón Leifs (1899–1968) var tónskáld, hljómsveitarstjóri og píanóleikari. Hann fór til náms í Leipzig 1916 og var þar við nám við Conservatorium der Musik, en samtíða honum þar voru þeir Páll Ísólfsson (1893–1974) síðar dómorganisti og tónskáld, og Sigurður Þórðarson (1895–1968) kórstjóri og tónskáld. Jón lærði píanóleik en að útskrift lokinni ákvað hann að helga sig tónsmíðum og hljómsveitarstjórn. Jóni varð þokkalega

214 idem 1913: 376–77 215 Sveinbjörn Sveinbjörnsson 1923 216 Ibid. 217 Jón Þórarinsson 1969: 261. 218 idem 2012: 370–73

— 92 — ágengt í þeim efnum en þó var það ekki fyrr en hann kynntist íslenskum þjóðlagaarfi sem skáldaæðin opnaðist. Í viðtali við Matthías Johannessen komst Jón svo að orði:

Þá opnaðist fyrir mér heimur þjóðlaganna og ég þóttist kominn í tæri við lögmálin: Safn Bjarna Þorsteinssonar vísaði veginn, þó það væri gallað; hann sópaði inn í það allt sem hönd á festi... svo úr varð en heljarmikil hrúga. Það varð okkar hlutskipti að róta í þessari hrúgu. Það var erfitt verk og tímafrekt, en eftirtekjan sýnir, að það hefur borgað sig. Þarna voru lögmálin – þessi arfur, sem engin þjóð getur án verið. Tilviljun sennilega að ég fann þ au. En verður ekki margt af því stórkostlegasta til fyrir tilviljun?219

Jón gleypti í sig Íslenzk þjóðlög og tók að moða úr því sem hann fann þar árið 1922.220 Á sama tíma skrifaði hann greinina Íslenzkt tónlistareðli sem birtist í Skírni og reyndist sú grein sú fyrsta sem fjallaði um tónlist sem birtist í því tímariti.221 Í greininni ræðir Jón um þjóðlögin sem efnivið sem þurfi að vinna úr og sá efniviður átti eftir að endast honum út ævina.222

Jón kom ásamt Fílharmóníuhljómsveit Hamborgar til Íslands 1926 til tónleikahalds og lék sveitin meðal annars útsetningar Jóns á lögum úr Íslenzkum þjóðlögum. Eftir að hljómsveitin fór út að velheppnaðri tónleikaröð lokinni, urðu Jón og Annie kona hans eftir til þess að safna þjóðlögum.223 Þau hjónin höfðu farið norður í land árið 1925 og safnað þjóðlögum en í þetta sinn voru þau með meðferðis upptökutæki sem hljóðritaði á vaxhólka, sem Jón hafði fengið lánað hjá Erich von Hornbostel hjá Berlin Phonogramm- Archiv, og tók hann upp efni á 28 vaxhólka.224 Jón átti svo eftir að taka fleiri þjóðlög upp á vaxhólka, en hann safnaði einnig í Íslandsferðum sínum 1928 og 1933.225

Jón Leifs var ekki einn um að taka upp tónlist á vaxhólka, og reyndar ekki fyrstur til þess. Jón Pálsson (1865–1946) organisti, föðurbróðir Páls Ísólfssonar (og einn

219 Tilvitnun fengin frá Árna Heimi: Árni Heimir Ingólfsson 2009: 83 220 Ibid. 85–86 221 Jón Leifs 1922: 130–43 222 Árni Heimir Ingólfsson 2009: 90 223 Ibid. 111–15 224 Ibid. 103–104, 120–121 225 Ibid. 131–134, 177–178

— 93 — heimildarmanna Bjarna), hafði af mikilli framsýni útvegað sér upptökutæki og tók upp á vaxhólka á árunum 1903–1912226 og Jónbjörn Gíslason (1879–1969) hljóðritaði á vaxhólka á árunum um 1920, mest kveðskap. Öll þessi söfn eru til og aðgengileg á vefnum.227

Útsetningar Jóns Leifs á íslenskum þjóðlögum urðu sumar mjög vinsælar og hafa haft mikil áhrif. Jón setti í sumum útsetningum sínum saman rímnalög í nokkurskonar syrpur og hafa þau rímnalög sem hann setti saman verið nánast óaðskiljanleg síðan, ásamt þeim vísum sem Jón hafði við þau. Hani, krummi, hundur, svín, Gefðu ungum gæðingum, Austan kaldinn á oss blés, svo einhverjar séu nefndar. Siglingavísur og Dýravísur eru reglulega á efnisskrám íslenskra kóra, sérstaklega karlakóra.

Hallgrímur Helgason (1914–1994) tónskáld nýtti sér Íslenzk þjóðlög töluvert í sínum rannsóknum, en hann varð doktor í tónvísindum frá háskólanum í Zürich 1954 og snérist rannsókn hans um formgerð íslenskra kvæðalaga. Í doktorsritgerð hans, sem út kom í íslenskri þýðingu árið 1980, má sjá að mjög stór hluti þeirra rímna- og kvæðalaga sem hann greinir eru úr safni Bjarna, auk þess sem Hallgrímur notar stemmur sem hann safnaði sjálfur, mest í Borgarfirði.228 Auk þess var Hallgrímur ötull útsetjari íslenskra þjóðlaga. 229

8.4 Erlend áhrif Ákveðin vending varð í tónlistarlífi þjóðarinnar um og eftir Alþingishátíðina 1930. Meðan á undirbúningi hátíðarinnar stóð kom upp sú hugmynd að ráða erlendan hljómsveitarstjóra til þess að hafa yfirumsjón með tónlistarflutningi á hátíðinni og stjórna Hljómsveit Reykjavíkur, sem hafði þá starfað með hléum frá árinu 1921. Efnt hafði verið til samkeppni meðal tónskálda um samningu Alþingishátíðarkantötu við ljóð Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi. Mörg tónskáld tóku þátt, þeirra á meðal Bjarni Þorsteinsson, og varð Páll Ísólfsson hlutskarpastur í vali dómnefndar.

226 Þorsteinn Konráðsson 1946: 227 ismus.is 228 Hallgrímur Helgason 1980: ; Sævar Helgi Jónsson, 2011: 229 Ibid.

— 94 — Austurríkismaðurinn Franz Mixa (1902–1994), doktor í tónvísindum frá Vín, var ráðinn tónlistarstjóri hátíðarinnar og kom hann til landsins haustið 1929 og hófst þegar handa við að æfa Hljómsveitina. Mixa var svo ráðinn kennari við Tónlistarskólann í Reykjavík þegar hann var stofnaður árið 1930 og kenndi tónfræði og píanóleik.

Tónlistarfélag Reykjavíkur var stofnað 1932 af Ragnari Jónssyni (1904–1984) í Smára og Páli Ísólfssyni ásamt fleirum, fyrst og fremst til þess að vera bakhjarl Tónlistarskólans og Hljómsveitarinnar. Allt vann þetta saman því félagið rak skólann sem þjálfaði tónlistarmenn Hljómsveitarinnar og ól upp nýja tónlistarmenn. Félagið tók þegar að beita sér fyrir tónleikahaldi og ýmsum uppákomum í tónlistarlífinu.

Meðal þess sem félagið gerði var að leita eftir erlendum kröftum, bæði til tónleikahalds og til þess að spila með Hljómsveitinni og kenna í Tónlistarskólanum. Á vegum þess kom þó nokkur fjöldi tónlistarmanna til starfa á Íslandi til lengri eða skemmri tíma. Sumir fengu stöður á Íslandi og dvöldu hér lengur en aðrir. Pólitískt ástand í Evrópu var óstöðugt á þessum tíma og virðist það hafa gert að verkum að auðveldara var en ella að finna færa tónlistarmenn sem voru tilbúnir að koma til Íslands, bæði til að fylla stöður í Hljómsveitinni og kenna við Tónlistarskólann.

Meðal þeirra fjölmörgu tónlistarmanna sem hingað komu á fjórða áratugnum voru Victor Urbancic (1903–1958) og Robert Abraham (1912–1974). Þeir tveir, ásamt Mixa höfðu gríðarlega mikil áhrif á íslenskt tónlistarlíf og reyndar um leið á viðgang Íslenzkra þjóðlaga.

Victor Urbancic var austurrískur eins og Mixa og kom til Íslands fyrir milligöngu hans 1938. Melitta kona hans var gyðingur og þau sáu þann kost vænstan að fara frá Austurríki. Urbancic kenndi við Tónlistarskólann, varð tónlistarstjóri Þjóðleikhússins og tónlistarstjóri kaþólsku kirkjunnar í Reykjavík.230

Róbert Abraham Ottósson var af þýskum gyðingaættum og kom til Íslands árið 1935 og var fyrsta kastið á Akureyri þar sem hann kenndi tónlist og stofnaði og stýrði kór. Hann vann ötullega að því að læra íslensku og samlagast íslensku samfélagi og tók til

230 Árni Heimir Ingólfsson 2001: 4–5

— 95 — dæmis sjálfur upp föðurnafn sitt að íslenskum hætti.231 Róbert rannsakaði Þorlákstíðir og varði doktorsritgerð um þær við Heimspekideild Háskóla Íslands 1959. Þær rannsóknir hans sýndu fram á að tónlist tíðasöngsins átti sér fyrirmynd í enskum handritum dómínikanamunka frá 13. öld (þvert á það sem Bjarni hafði talið).232 Róbert kenndi við Tónlistarskólann, var söngmálastjóri Þjóðkirkjunnar og var mjög virkur í tónlistarlífinu.

Þessir menn voru fengnir til landsins til þess að á að kynna Íslendingum evrópska tónlistarmenningu en um leið voru þeir greinilega mjög meðvitaðir um íslenska menningu. Nefna má að Victor Urbancic setti upp Jóhannesarpassíu Jóhanns Sebastíans Bach árið 1943 með íslenskum kórum og einsöngvurum og, þrátt fyrir fremur skamma veru á Íslandi, sá Urbancic það í hendi sér að flutningurinn yrði áhrifameiri með íslenskum texta og því aðlagaði hann íslenskan kveðskap á borð við Passíusálma Hallgríms Péturssonar að kórköflunum og sótti þangað sambærilegan texta og Bach hafði skrifað sína tónlist við. Þ etta teljast til marks um hve Urbancic þótti eðlilegt að nýta íslenskan kveðskap með þessum hætti og leita þannig í íslenska menningu til að gera heimsmenninguna aðgengilegri fyrir Íslendinga.233

Annað dæmi er að finna í Tónlistarsögu Reykjavíkur eftir Baldur Andrésson (1897– 1972)234 þar sem hann segir frá námi Karls O. Runólfssonar (1900–1970) hjá Mixa:

Þegar frá leið varð stílbreyting á tónsmíðum Karls og má rekja hana til þess að hann fær rækileg kynni af ströngum kontrapunkt hjá kennara sínum dr. Mixa, og um leið myndast hjá honum alveg nýtt viðhorf til tónlistarinnar. Dr. Mixa benti honum á, að mörg íslenzk þjóðlög væru samin á þeim öldum, er strangur kontrapunktur var allsráðandi í tónlist, og þessvegna væru þau vel fallin til slíkrar raddsetningar í línum og hljómum. Karl fór þá að glíma við þjóðlögin okkar og raddsetti þau m.a. fyrir hljómsveit eingöngu og eru þær raddsetningar frumlegar og skemmtilegar.

Erlendu tónlistarmennirnir virtust umgangast þjóðlögin með öðrum hætti en Íslendingar höfðu átt að venjast og gerðu sjálfir, kannski að Jóni Leifs undanskildum. Þeir höfðu

231 idem 2001: 8–9 232 Jón Þórarinsson 2012: 143–44 233 Árni Heimir Ingólfsson 2001: 4–5 234 Baldur Andrésson, 2008

— 96 — hlotið tónlistaruppeldi í umhverfi sem gerði ráð fyrir því að þjóðlagaarfur væri nýttur í tónlistarsköpun og að honum væri haldið á lofti og þeir virtust nálgast og meðhöndla íslensk þjóðlög, hvort sem var úr þjóðlagasafni Bjarna eða öðrum söfnum, með þeim hætti. Má glögglega sjá áhrif þessarra listamanna á íslenska nemendur sína, en meðal nemenda þeirra eru fyrrnefndur Karl O. Runólfsson, Jón Nordal (1926), Jón Ásgeirsson (1928), Jón Þórarinsson (1917–2012) og Gunnar Reynir Sveinsson (1931–2008).235

Í nemendahópnum voru margir sem áttu eftir að verða öflug tónskáld og sumir mikilvirkir útsetjarar þjóðlaga. Jón Ásgeirsson er dæmi um slíkt tónskáld og má segja að í meðförum hans hafi þessi aðferðafræði fengið vængi. Jón hefur gert mikið af því að nýta íslenskra þjóðlagatónlist í tónlistarsköpun og útsetningum og sum af vinsælustu íslensku þjóðlögunum hafa öðlast vinsældir sínar vegna útsetninga Jóns eða hagnýtingar hans á stefjaefni úr íslenskum þjóðlögum.

235 Árni Heimir Ingólfsson 2001: 4–5

— 97 — 9 Umræða Á þeim tíma sem Bjarni vann að söfnun sinni og útgáfu var íslenskt samfélag í mikilli mótun. Fullveldi var skammt undan og ráðherra Íslands með nýtt hlutverk, Hannes Hafstein, var skipaður 1904, rétt í þann mund sem Bjarni var að reka smiðshöggið á verk sitt. Verkefni Alþingis voru stór og umfangsmikil, á þeirra tíma mælikvarða, og menningarverkefni voru ekki endilega fremst í röðinni þegar kom að fjárveitingum og stuðningi. Eins og sjá má af ummælum sumra þingmanna um og uppúr aldamótum fannst mönnum söfnun þjóðlaga ekkert sérstakt þjóðþrifamál, enda voru önnur verkefni í uppbyggingu innviða og annars slíks framar í goggunarröðinni. Þó má sjá ýmsa þingmenn tjá sig um að þeim þyki söfnun eins og sú sem Bjarni vann að vera raunverulegt framfaraverkefni og allra góðra gjalda vert.

9.1 Hvað er þjóðlag? Framtak Bjarna Þorsteinssonar færði söfnun þjóðlaga af stigi sérvisku og í átt að þeim fordæmum sem lágu í þeim söfnunarverkefnum sem þegar höfðu verið unnin á Íslandi. Ólafur Davíðsson hafði safnað smávegis af tónlist og fjallað eitthvað um flutning hennar, en Bjarni gerði töluvert meira; safnaði víðar og fjallaði með heildstæðari hætti um tónlistina og flutning hennar.

Hugsanlega mætti segja að Bjarni hafi að óþörfu gefið höggstað á sér og safninu þegar hann ákvað að birta í safninu uppskriftir á þekktum lögum, bæði úr sálmabókum og úr tiltölulega nýlegum prentuðum bókum. Þar má segja að hann stigi til baka yfir línuna sem hann dró sjálfur – að þekkt lag sem hefði tekið breytingum í munnlegri geymd mætti flokkast sem þjóðlag – til þess skilnings að lag sem er vinsælt meðal þjóðarinnar megi kallast þjóðlag.

Bjarni var mjög duglegur við söfnun sína og safnið er í raun ítarleg skrá yfir þá tónlist sem var að finna í gömlum prentuðum bókum og það sem þá hafði fundist í handritum.

— 98 — 9.2 Á 11. stundu Mjög víða má sjá hugmyndina um 11. stundina. Í skrifum og hugleiðingum Bjarna sjálfs og Benedikts á Auðnum, helsta heimildarmanns hans, má víða sjá hvernig ótti þeirra við að vera að glata tónlistinni sem þ ólust upp við rekur þá áfram í söfnuninni. Í umræðum á Alþingi dúkkar þessi sama hugmynd upp í umræðunum, og þá á báða bóga; að komið sé að 11. stundinni og engan tíma megi missa, eða að vissulega geti verið þarft að safna íslenskri tónlist en það sé ekkert forgangsatriði. Þannig eru flestir sammála um að hugsanlega sé eitthvað þarna sem sé þess virði að safna og varðveita, og þannig má í raun segja að menn séu sammála um markmið, þó þá greini á um leiðir.

9.3 Leitin að upprunanum Þegar rætt var um styrkbeiðnir Bjarna á Alþingi 1903 var hann þegar búinn að safna gríðarlegu magni þjóðlaga, bæði sjálfur og með hjálp heimildarmanna sinna. Þrátt fyrir það voru uppi efasemdaraddir um söfnun hans og getu hans til þess að vinna þetta verk, sem hann var þó þegar búinn að vinna að töluverðum hluta. Efasemdir þingmanna sem fram koma í umræðum á Alþingi voru að töluverðum hluta um að lögin sem Bjarni hefði safnað væru íslensk eða upprunaleg.

Ein rót þjóðfræðinnar sem fræðigreinar er í textafræði og á þessum tíma á Íslandi snérist hún að verulegu leyti um leitina að upprunalegum textum Íslendinga sagna og annarra fornra texta úr miðaldahandritum. Hugsanlega hefur kveðið enn rammar að þessum upprunahugmyndum á Íslandi vegna þ essa og því styttra í efasemdir um upprunann. Fram kemur í umræðum á Alþingi að einhverjir telja að Bjarna hafi ekki tekist að finna réttu lögin því hann hafi safnað svo mörgum afbökuðum gerðum þeirra.

Í dag myndi varla nokkur þjóðfræðingur ráðast í leit að upprunalegum gerðum þjóðfræðaefnis á forsendum til dæmis finnska skólans því leit að ur-formi sagna og annars þjóðfræðaefnis var og er tiltölulega gagnslítil iðja nema hún sé stunduð meðfram annarskonar rannsóknum.236 Dreifing og útbreiðsla þjóðfræðaefnis og mögulegar breytingar sem verða á því við flutning milli héraða, landa og menningarsvæða er

236 Christine Goldberg 1984: 16

— 99 — áhugavert rannsóknarefni og Íslenzk þjóðlög er uppfullt af kjörnum viðföngum slíkra rannsókna. Vitað er að Passíusálmalögin sem sungin voru á Íslandi og Bjarni safnaði eru staðbrigði þekktra erlendra sálmalaga og eflaust má finna fyrirmyndir fjölda stefja sem urðu að tvísöngslögum, rímnastemmum og kvæðalögum um sveitir landsins.

Stóri munurinn á slíkri rannsókn og rannsókn sem snérist einvörðungu um leit að upprunalegri gerð laganna er að gögn um staðbrigði og tilbrigði laganna á hverjum stað gætu dregið upp mun áhugaverðari mynd en ur-formið eitt gæti nokkurntíman gert. Dæmi um slíkt eru til að mynda lög sem safnað hefur verið á Íslandi sem sýna greinileg dæmi um ríka tilhneigingu íslenskra söngvara til þess að færa lög úr dúr í lýdíska tóntegund. Heyra má dæmi um slíkt á Ísmús hjá fólki sem fætt er undir lok 19. aldar, og styður það rækilega við fullyrðingar danska tónlistarfræðingsins Anguls Hammerich, í riti hans Studier over Islandsk Musik, um það að lýdíska tóntegundin mætti með réttu kallast íslenska tóntegundin, svo rammt kvað að henni á Íslandi á 19. öld.237 Þannig mætti segja að í slíkri rannsókn væri ferðalagið áhugaverðara en áfangastaðurinn.

9.4 Menningarauðmagn og menningarlegt forræði Ef Bjarni Þorsteinsson og lífshlaup hans er metið á forsendum auðmagnskenninga Bourdieu má segja að hann hafi ekki haft mikla forgjöf. Hann bjó reyndar að því að vera músíkalskur og koma af fólki sem lagði stund á alþýðutónlist. Bjarni kynntist þulum og kvæðalögum við móðurkné og fylgdi föður sínum forsöngvaranum í kirkju þar sem hann kynntist gömlum kirkjusöng. Einnig varð hann vitni að og lærði alþýðusöng í réttum og á mannamótum á Mýrunum og varð að öllum líkindum vitni að þjóðfræðasöfnun og grúski hjá fóstra sínum Guðmundi Einarssyni á Breiðabólstað. Það má því segja að hann hafi verið vel undir það búinn að skrá og safna alþýðutónlist og að hann hafi haft góðan skilning og innsýn í það sem í slíkri söfnun fólst. Það kemur fram nokkrum sinnum í umfjöllun um hann og safnið að hann hafi ekki lært að lesa og skrifa nótur fyrr en hann var 15 ára gamall og ekki notið mikillar tónlistarkennslu, og bæði látið að því liggja að það sé honum til vansa og að það megi teljast merkilegt hvað hann hafi náð undragóðum

237 Angul Hammerich 1900: 44.

— 100 — árangri á tónlistarsviðinu, allt eftir því hvort mælandi var með eða á móti Bjarna, ef svo má að orði komast.

Bjarni kom ár sinni þokkalega fyrir borð hvað varðar félagslegt auðmagn þegar hann afréð að læra til prests, og þá ekki síður þegar litið er til þess að hann sá beinlínis fyrir sér að með því að verða prestur gæti hann lyft sér upp félagslega og væri þannig samboðinn Sigríði Lárusdóttur Blöndal sem var sýslumannsdóttir og af góðum ættum. Það gekk eftir og þau fengu að giftast. Bjarni nýtur í kjölfarið oft mægða sinna við Blöndals-fólkið, umfram það sem hann hefði getað búist við einn og sjálfur.

Bjarni fann greinilega nokkuð til skorts síns á menningarauðmagni og gerði ýmislegt til þess að vinna hann upp. Hann á í nokkrum bréfaskriftum við erlenda fræðimenn og tónskáld og fær þá til að skoða og meta það sem hann safnar og einnig það sem hann hafði samið af tónlist. Hann virðist hafa verið fullkomlega meðvitaður um að upphefðin kæmi að utan og því verða erlendu meðmælin mjög fyrirferðarmikil í málflutningi hans í bænaskjölum þegar hann sækir um styrki til Alþingis og einnig er hann vann að því að fá Hið íslenska bókmenntafélag til þess að gefa safnið út. Nokkuð víst er að meðmæli þeirra Hartmann, Hammerich og Finns Jónssonar gerðu útslagið með að hann fékk útgáfustyrk frá Carlsbergssjóðnum.

En þegar allt kom til alls var það menntunarskortur hans í tónlist sem varð honum helst að fótakefli þegar kom að styrkbeiðnum og slíku. Auðvelt var fyrir Björn Kristjánsson og aðra sem voru á bandi hans að gera lítið úr Bjarna sem tónlistarmanni vegna menntunarskortsins, enda þótt menntaðir tónlistarmenn á Íslandi væru ekki ýkja margir á þessum tíma og Bjarni síður en svo hæfileikalaus þrátt fyrir menntunarskortinn. En af málflutningi Björns og og meðreiðarsveina hans má greina þ á grundvallarhug- mynd að Bjarni sé alls ekki nógu menntaður og vandaður tónistarmaður til þess að takast á við þetta verkefni. Ekki ber mikið á hugmyndum um hver væri betur til þess fallinn, en megináherslan er á menntunarskort, og jafnvel smekkleysi Bjarna sem tónskálds, frekar en nokkra uppbyggilega gagnrýni eða hugmyndir um úrbætur.

Það er merkilegt að sjá hve harkalega Björn gagnrýnir Bjarna í ljósi þess að bakgrunnur þeirra tveggja var ekki svo ólíkur. Báðir voru þeir af fátæku fólki komnir og

— 101 — höfðu þurft að vinna erfiðisvinnu frá því í æsku. Báðir höfðu farið ungir í fóstur og báðir urðu þeir heillaðir af tónlist og gerðu allt hvað þeir gátu til að geta lært tónlist. Stóri munurinn liggur í því að Björn fékk styrk til þess að fara til tónlistarnáms í Kaupmannahöfn og fór þangað í tvígang og fékk formlega tónlistarmenntun.

Á margan hátt virðist vera hægt að greina ákveðna vanþekkingu og hræðslu við tónlist og nótur meðal þeirra sem fjölluðu um söfnun Bjarna. Fáir alþingismenn eða Bókmenntafélagsfélagar virðast hafa verið færir um að lesa nótur og því var allt traust lagt á þann jafningja þeirra sem hafði mesta þekkingu á því sviði án þess að víðar væri leitað eftir áliti eða mati á safni Bjarna. Því voru trompin öll á hendi Björns Kristjánssonar og hann gat nýtt þau, og nýtti þau gegn Bjarna, miskunnarlaust.

Áhersla Bjarna á það að komast til Kaupmannahafnar til þess að sækja tónlist úr handritum í Árnasafni er áhugaverð í ljósi kenninga Gramscis um menningarlegt forræði. Bjarni virðist hafa þurft að bregðast við því menningarástandi sem hann starfaði í og hugsanlega má segja að hann hafi ekki treyst sér til þess að gefa safnið út án þess að hafa í því tónlist úr handritum. Bjarni hafi þannig séð þann kost vænstan að sækja þá tónlist sem mögulegt var að finna í handritum til þess að ljá safninu ákveðinn blæ eða sætta það inn í það menningarástand og rannsóknarhefð sem ríkti á hans tíma.

9.5 Sköpun þjóðar Ekki er gott að segja hversu mjög söfnun og útgáfa þjóðfræðaefnis – þeirra Jóns Árnasonar og Magnúsar Grímssonar, Ólafs Davíðssonar og Bjarna Þorsteinssonar – hafði áhrif á þjóðarímynd og þjóðareiningu Íslendinga, miðað við forsendur frumkvöðla rómantísku stefnunnar. Íslendingar bjuggu að sínum fornritum og þeim sagnaarfi sem þar var að finna og litu á það sem sagnfræðilegar heimildir um raunverulegt líf forfeðra sinna á söguöld og þjóðveldisöld. Töluvert var gert með hetjuskap og hugdirfsku þessara forfeðra og greinilegt að þjóðarímyndin var sprottin að töluverðu leyti úr þeim jarðvegi. Vegna þessarar eindregnu þjóðernismótunar á forsendum fornbókmenntanna og tiltölulega mikillar einangrunar landsins var ekki endilega mikil þörf á því á Íslandi að efna til þjóðfræðasöfnunar til að undirbyggja þjóðerni eða mynda grundvöll fyrir þjóðareiningu. Þjóðfræðaefni úr samtímanum eða nálægri fortíð náði tæpast máli sem

— 102 — sameiningartákn þjóðarinnar. Ungmenni og alþýðan drukku í sig þjóðsögurnar238 en menntastéttirnar virtust ekki alveg jafn heillaðar.239 Í bréfasafni Jóns Árnasonar sem Finnur Sigmundsson tók saman og gaf út árið 1950 má mjög víða sjá menn ræða við Jón eftir að safnið var komið út og menn höfðu kynnt sér það, að þeir telji sig geta lagt honum til samskonar „rugl“ og hann hafði gefið út eða að þeir séu að senda honum „drasl“ og annað slíkt þegar þeir eru að tala um sögurnar sem þeir hafa safnað fyrir hann.240

Þegar skipuleg þjóðfræðasöfnun hefst á Íslandi rétt fyrir miðja 19. öld ber mikið á andstöðu eða fordómum í garð efnisins sem safna átti, sérstaklega meðal presta og annarra í efri lögum samfélagsins sem Jón Árnason virkjaði til þess að safna fyrir sig. Menn töluðu um hjátrú og hindurvitni, kerlingabækur og rugl, og sumir vildu meina að útgáfa á efni af þessu tagi myndi ekki gera neitt annað en að kynda undir drauga- og andatrú og aðra hjátrú sem þeir þóttust halda að væri að deyja út.241

Segja má að upplýsingin hafi enn verið í algleymingi meðal íslenskra presta og menntamanna, og að barátta þeirra hafi mun frekar snúist um breytingu samfélagsins í anda upplýsingarinnar en rómantískrar þjóðernisstefnu. Prestar og menntamenn litu á það sem sitt hlutverk að leiða þjóðina frá hjátrú og hindurvitnum til rökhyggju og skynsemi. Þrá rómantíkurinnar um afturhvarf til eldri lífshátta og leitar að rótum í lífsháttum alþýðunnar var því í raun gjörsamlega á skjön við það.242

Í bréfaskriftum Jóns Árnasonar og Jóns Sigurðssonar forseta Hins íslenska bókmenntafélags um útgáfumál félagsins segir forseti að hann hafi talið að með því að dreifa þjóðsagnasafninu til félaga Bókmenntafélagsins myndi fara af stað skriða og gríðarleg magn efnis myndi safnast í kjölfarið. Hann segir að því miður hafi það ekki orðið jafn mikið og hann vonaði og í raun hafi félagið beinlínis tapað félagsmönnum vegna safnsins en enga grætt á því. 243

238 Ólafur Davíðsson og Jón Árnason 1887: II:4–5 239 Jón Árnason 1950: II:174–175 240 Ibid. II:54 og víðar 241 Hallfreður Örn Eiríksson 1980: 187 242 Ibid. 243 Jón Árnason 1950 II:174–175

— 103 — Þegar rómantíska bylgjan nær til Íslands hafði landið þegar áunnið sér ímynd erlendis sem Sögulandið og varð fyrir þær sakir nokkuð vinsæll áfangastaður manna í ævintýraleit sem vildu berja augum landið sem ól hetjur Íslendingasagnanna, koma á Þingvelli, að Heklu sem var lögum talin hlið vítis, og að Bergþórshvoli og Hlíðarenda.244

Íslendingar, eða kannski öllu heldur íslenskir menntamenn, sem höfðu lesið lýsingar gestanna, voru ekki ýkja ánægðir með þann vitnisburð sem þar var að finna. Íslendingar þóttu margir sóðalegir og einkennilegir í háttu og lýsingar á þeim oft fremur spaugilegar eða ógeðfelldar, eða hvort tveggja í senn.245 Sérstaða Íslands var nokkur gagnvart Evrópu og hugsanlega voru vitnisburðir á borð við þessa rót þess að Íslendingar urðu hörundssárir og viðkvæmir fyrir áliti útlendinga.

Íslenskt samfélag var á ýmsan hátt frábrugðið vestrænum evrópskum samfélögum og hugmyndir rómantískrar þjóðernisstefnu um undirbyggingu þjóðernis með söfnun þjóðfræða virðist hreinlega ekki getað átt við hér. Rómantískar rætur þjóðfræðasafnana í Evrópu byggjast allar að verulegu leyti á söfnun menntamanna í þéttbýli á þjóðfræðaefni frá minna menntuðu fólki og alþýðu manna í sveitum og dreifðari byggðum. Á Íslandi hafði varla nokkurntíman myndast nokkuð þéttbýli fyrr en á síðari hluta 18. aldar og efri- og menntastéttir fremur smáar og tiltölulega nýtilkomnar. Efnið sem safnað var stóð menntamönnunum á Íslandi hreinlega of nærri til þess að þeir gætu litið á það sem glataðan arf eða rætur sem þyrfti að grafa upp. Þeir höfðu sjálfir alist upp við að heyra samskonar sögur og ævintýri og safnað hafði verið, og það var í raun ekki um neitt raunverulegt rof milli þeirra og alþýðufólks til sveita að ræða sem þurfti að brúa með þjóðfræðaefni, líkt og menntaðir borgarbúar í Evrópu virtust upplifa.246 Kannski segir það sína sögu að útgáfu fyrsta safns Jóns Árnasonar og Magnúsar Grímssonar var mun betur tekið meðal Íslendinga í Kaupmannahöfn en á Íslandi.

244 Sjá Andrew Wawn 2000 245 Baring-Gould 2007: 23–40 246 Terry Gunnell 2012: 58–59

— 104 — 10 Lokaorð Barningur Bjarna Þorsteinssonar við að ljúka við þjóðlagasöfnun sína og gefa safnið út og sú umræða og atburðarrás sem varð í kringum það leiðir í ljós ýmsa áhugaverða þætti í menningarástandinu á Ísland á þeim tíma, stöðu Bjarna sjálfs gagnvart menningarelítunni og viðhorfum hennar til hans.

Bjarni naut greinilega nokkurrar hylli sem tónskáld og staða hans sem leiðtoga og áhrifamanns á Siglufirði er augljós. Hann naut stuðnings þingmanna úr nærsveitum Siglufjarðar sem margir hverjir voru vinir hans og skólafélagar, og hann virðist hafa getað gengið að stuðningi baklands Benedikts á Auðnum, kaupfélagsmannanna, vísum. Þegar umræður á Alþingi eru raktar er greinilegt að vinir og samverkamenn Benedikts styðja Bjarna og koma honum til varnar þegar á hann er ráðist.

Safn Bjarna virðist sjaldnast hafa verið metið á eigin forsendum, það er að segja á forsendum tónlistarinnar sem hann safnaði og mögulegum forsendum heimildarmannanna. Þess í stað var matskvarðinn sem lagður var á safnið síbreytilegur eftir menntun, sérsviði og forsendum þess sem lagði kvarðann að því. Axel Olrik sá þann ljóð stærstan á safninu að það innihéldi of mikið af lögum sem greinilega voru ekki íslensk og alls ekki íslensk þjóðlög, og að Bjarni hefði ekki verið nógu duglegur við að beita samlesturs- og samanburðaraðferðum textafræðinnar, sem var sérsvið Olriks, til að vinsa út það sem augljóslega ætti ekki heima í safninu. Aftur á móti lagði hann mun minna mat á það sem sannarlega var íslenskt í safninu.

Jónas Jónsson þingvörður tók svipaðan pól í hæðina og Olrik, en út frá sínu sérsviði, sem var íslenskur sálmasöngur. Í dómi sínum fer Jónas um víðan völl um eigin þekkingu og finnst það sem Bjarni safnaði jafnast illa á við það sem hann hefði sjálfur viljað sjá í safninu auk þess sem hann segir hreint út að hann hafi engan áhuga á þeirri tónlist sem safnað hafði verið af vörum almennings. Það er nokkuð skondið þegar litið er til þess hve mjög Jónas telur sig geta sagt Bjarna til í söfnun þjóðfræða að hann skyldi síðan ekki hafa minnsta áhuga á einmitt þeim hluta safnsins sem snérist einmitt um það. Það er sérstaklega áhugavert að Jónasi finnst að fundur Bjarna á upprunalegu frönsku lögunum við Franska reformeraða Psaltarann sæti tíðindum í íslenskri bókmenntasögu en ekki í

— 105 — íslenskri tónlistarsögu eða kirkjutónlistarsögu. Kannske er það einmitt dæmi um heljartök (forn)bókmenntanna á fræðunum að það virðist ekki hvarfla að Jónasi annað en að setja þetta beint samband við bókmenntirnar.

Upphefðin að utan Það er gömul saga og ný að á Íslandi virðist upphefðin alltaf koma að utan. Arfurinn virðist aldrei fá að að njóta sannmælis fyrr en hann hefur fengið einhverskonar vottun frá útlöndum. Í tilfelli þjóðsagnasafns Jóns Árnasonar var það Konrad Maurer sem sýndi Íslendingum fram á að hægt væri að safna þjóðsögum og að markaður væri fyrir þær væru þær gefnar út. Maurer hafði safnað íslenskum þjóðsögum, þýtt á þýsku og gefið út við góðan orðstír og Jón Árnason notfærði sér það í sinni söfnun, að geta vísað á erlenda fordæmið. Hann naut þess einnig að eftir að Maurer hafði farið um héröð við sína söfnun og vakið fólk til vitundar um hverskonar efni honum þætti bitastætt varð einfaldara fyrir Jón og safnara hans að koma í kjölfarið.

Bjarni bjó ekki við þann munað að geta siglt í kjölfar annarrar söfnunar en þó gekk honum nokkuð vel við sína söfnun. Hann hafði auðvitað aðgang að söfnum þ eirra Sigtryggs og Benedikts og naut þeirrar velvildar sem þeir nutu í sínum heimasveitum og víðar. Til þess að verða sér úti um þann hvata sem erlent orðspor skapar á Íslandi kom Bjarni sér í samband við málsmetandi tónlistarmenn í Danmörku og fékk þá til að skoða efni sitt, bæði það sem safnast hafði og þá tónlist sem hann hafði samið, og fékk hjá þeim umsagnir sem hann notaði svo til að auka traust á sér og söfnunarátakinu.

Það má heita sérkennilegt að þjóðlagasafnið hafi ekki verið fjármagnað með almannafé á Íslandi, og það á reyndar einnig við um þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar. Fjárveitingarvaldið var Alþingis en fjárveitingarnar létu á sér standa. Vissulega fékk Bjarni styrki fyrir ferðakostnaði til Kaupmannahafnar en þær upphæðir sem hann hlaut eru smávægilegar, til dæmis þegar þær eru metnar í samhengi við aðra hluti sem Alþingi lagði fé til á þessum tíma og lesa má um í gögnum þingsins.

— 106 — Þegar litið er til þess hvernig Bjarna tókst til við fjármögnun söfnunar sinnar og útgáfu kemur í ljós að Alþingi veitti honum tvisvar styrk, 1000 kr í hvort skipti. Samkvæmt rannsóknum Steindórs Steindórssonar frá Hlöðum nam útgáfukostnaðurinn um 5800 kr. Það er því borðleggjandi að Carlsbergssjóðurinn lagði töluvert meira til söfnunarstarfs Bjarna og útgáfu Íslenzkra þjóðlaga en Alþingi. Carlsbergssjóðurinn veitti Bjarna samtals 2.400 kr styrk meðan á söfnuninni stóð og svo um 5.800 kr til útgáfunnar, eða alls um 8.200 kr á móti 2.000 króna framlagi Alþingis.

Hið íslenska bókmenntafélag hafði staðið fyrir nokkuð umfangsmikilli útgáfu bæði íslensks fróðleiks og alþjóðlegs, auk þess að gefa út fornbréfasafn og annála frá öndverðu til ársins 1400. Það var því ekki óeðlilegt að Bjarni leitaði til félagsins um útgáfu safnsins síns. Félagið fór mjög einkennilega leið að því að meta verk Bjarna og gaf útgáfuna frá sér á mjög skrítnum forsendum. Enn má sjá töluverð líkindi með útgáfu Bjarna á safni sínu og á útgáfuferli Íslenzkra þjóðsagna og æfintýra Jóns Árnasonar á sjötta og sjöunda áratug 19. aldar. Í hvorugu tilfella tekur Bókmenntafélagið af skarið og gefur ritin út sjálft. Í báðum tilfellum verður útgáfa möguleg fyrir tilverknað fjármagns frá útlöndum – frá danska Carlsbergssjóðnum í tilfelli Íslenzkra þjóðlaga og frá J. C. Hinrichs'sche Buchhandlung í Leipzig í Þýskalandi sem annaðist útgáfu Íslenzkra þjóðsagna og æfintýra 1862. Í báðum tilfellum kom Bókmenntafélagið til skjalanna eftir að útgáfa hafði verið tryggð og keypti töluverðan fjölda eintaka á niðursettu verði til að dreifa til félagsmanna sinna. Reyndar varð það í báðum tilfellum til þess að útbreiðsla safnanna varð meiri og örari en hún hefði trúlega orðið ella, en þó situr eftir sá þanki að Hið íslenska bókmenntafélag hafi í raun ekki staðið sig sem skyldi.

Erlendu tónlistarmennirnir sem komu til Íslands á fjórða áratug 20. aldar umgengust þjóðlagasafn Bjarna með öðrum hætti en hafði tíðkast á Íslandi fram til þessa. Þeir báru með sér lærða, evrópska tónlist en tóku þó til við að hagnýta sér íslensk þjóðlög í verkum sínum og gerðu ýmislegt til þess að hampa íslenskri menningu í beinu samhengi við evrópska menningu. Þeim tókst að vekja athygli nemenda sinna og landsmanna á Íslenzkum þjóðlögum með því að notfæra sér það í sinni tónsköpun og ruddu þannig brautina fyrir aðra, og þá ekki síst nemendur sína.

— 107 — Þegar allt kemur til alls er ljóst að merkilegasta heimild okkar um íslenska tónlist fyrri tíma var gefin út af menningarsjóði dansks bjórbruggara og öðlaðist stöðu sína í vitund Íslendinga fyrir athygli og tilverknað erlendra tónlistarmanna sem komu til Íslands vegna ótryggs pólitísks ástands í Evrópu, og kenndu Íslendingum að meta þjóðlagaarf sinn.

— 108 — 11 Heimildir

Handrit

AM 970 4to.

Alþingistíðindi

Alþingistíðindi 1895. A. Umræður í efri deild og sameinuðu þingi. Alþingistíðindi. Reykjavík: Alþingi, 1895–1896.

Alþingistíðindi 1895. B. Umræður í neðri deild. Alþingistíðindi. Reykjavík: Alþingi, 1895– 1896.

Alþingistíðindi 1897. A. Umræður í efri deild og sameinuðu þingi. Alþingistíðindi. Reykjavík: Alþingi, 1897–1898.

Alþingistíðindi 1897. B. Umræður í neðri deild. Alþingistíðindi. Reykjavík: Alþingi, 1897– 1898.

Alþingistíðindi 1897. C. Þingskjölin. Alþingistíðindi. Reykjavík: Alþingi, 1897–1898.

Alþingistíðindi 1903. A. Umræður í efri deild og sameinuðu þingi. Alþingistíðindi. Reykjavík: Alþingi, 1903.

Alþingistíðindi 1903. B. Umræður í neðri deild. Alþingistíðindi. Reykjavík: Alþingi, 1903.

Alþingistíðindi 1903. C. Þingskjölin. Alþingistíðindi. Reykjavík: Alþingi, 1903.

Bækur

Árni Heimir Ingólfsson. Jón Leifs: Líf í tónum. Reykjavík: Mál og menning, 2009.

Baring-Gould, Sabine. Iceland: Its Scenes and . 2. útg. Oxford: Signal Books, 2007.

Bendix, Regina. In search of authenticity: The Formation of Folklore Studies. Madison, Wis.: University of Wisconsin Press, 1997.

— 109 — Bjarni Þorsteinsson. Íslenzk þjóðlög. Kaupmannahöfn: Carlsberg-sjóðurinn, 1906–1909.

Dundes, Alan. International Folkloristics: Classic Contributions by the Founders of Folklore. Rowman & Littlefield, 1999.

Antonio Gramsci. Selections from the Prison Notebooks of Antonio Gramsci. Ritstj. Quintin Hoare og Geoffrey Nowell-Smith, International Publishers co., 1971.

Greetham, David C.. Textual Scholarship: An Introduction. 1 útg., Routledge, 1994.

Guðmundur Hálfdanarson. Íslenska þjóðríkið: Uppruni og endimörk. Íslensk menning, ritstj. Adolf Friðriksson og Jón Karl Helgason. Reykjavík: Hið Íslenska bókmenntafélag, ReykjavíkurAkademían, 2001.

Guest, Kenneth J.. Cultural Anthropology: A Toolkit for a Global Age. W. W. Norton & Company, 2013-11-20.

Gunnsteinn Ólafsson, ritstj.. Silfurplötur Iðunnar. Reykjavík: Kvæðamannafélagið Iðunn og Smekkleysa, 2004.

Halldór Kristjánsson. Sigtryggur Guðlaugsson prófastur og skólastjóri á Núpi. Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs, 1964.

Hallgrímur Helgason. Íslenzkar tónmenntir: kvæðalög, forsaga þeirra, bygging og flutningsháttur. Reykjavík: Örn og Örlygur, 1980.

Hammerich, Angul. Studier over islandsk musik. København: C.A. Reitzel, 1900.

Harrison, Rodney. Heritage: Critical approaches. Milton Park, Abingdon; New York: Routledge, 2013.

Hettinga, Donald R.. The Brothers Grimm: Two Lives, One Legacy. Clarion Books, 2001.

Ingólfur Kristjánsson. Ómar frá tónskáldsævi: aldarminning prófessors Bjarna Þorsteinssonar prests og tónskálds í Siglufirði. Siglufjörður: Siglufjarðarkaupstaður, 1961.

Jón Árnason. Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri. II. bindi. Leipzig: J.C.Hinrichs, 1939 [1862- 1864].

— 110 — Jón Árnason. Úr fórum Jóns Árnasonar : sendibréf. I–II . Ritstj. Finnur Sigmundsson. Reykjavík: Hlaðbúð, 1950–1951.

Jón Árnason og Magnús Grímsson. Íslenzk æfintýri. Reykjavík: E. Þórðarson, 1852.

Jón Helgason. Handritaspjall. Reykjavík: Mál og menning, 1958.

Jón Sigurðsson. Hið íslenzka bókmenntafélag. Stofnan félagsins og athafnir um fyrstu fimmtíu árin. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1867.

Jón Þórarinsson. Sveinbjörn Sveinbjörnsson : ævisaga. Reykjavík: Almenna bókafélagið, 1969.

Jón Þórarinsson. Íslensk tónlistarsaga 1000–1800. Kópavogur: Tónlistarsafn Íslands, 2012.

Eddukvæði. Ritstj. Vésteinn Ólason Jónas Kristjánsson, I. bindi. Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag, 2014.

Thomas Forrest Kelly. Capturing Music: The Story of Notation. Har/Com útg., W. W. Norton & Company, 2014-11-03.

Encyclopedia of Romantic Nationalism in Europe. Ritstj. Joep Leerssen, Vol. I Amsterdam University Press, 2018.

Maurer, Konrad. Íslandsferð 1858. Þýð. Baldur Hafstað. Reykjavík: Ferðafélag Íslands, 1997.

Maurer, Konrad. Íslenskar alþýðusögur á okkar tímum. Þýð. Steinar Matthíasson. Ritstj. Rósa Þorsteinsdóttir. Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2015.

Nettl, Bruno. The Study of Ethnomusicology: Thirty-one Issues and Concepts, 2nd Edition. University of Illinois Press, 2005-12-30.

Ólafur Davíðsson og Jón Árnason. Íslenzkar gátur, skemtanir, vikivakar og þulur. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka bókmenntafjelag, 1887-1903.

Páll Eggert Ólason. Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940. Vol. I–V, 1948.

Rósa Þorsteinsdóttir, ritstj.. Segulbönd Iðunnar. Reykjavík: Kvæðamannafélagið Iðunn og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, 2018.

— 111 — Svanhildur Óskarsdóttir, ritstj.. Sextíu og sex handrit úr fórum Árna Magnússonar. Kaupmannahöfn, Reykjavík: Det Arnamagnæanske Institut, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Bókaútgáfan Opna, 2013.

Sigurður Nordal. Þjóðsagnabókin. I–III. Reykjavík: Almenna bókafélagið, 1971–1973.

Smith, Laurajane. Uses of Heritage. Routledge, 2006.

Sveinn Skorri Höskuldsson. Benedikt á Auðnum, íslenskur endurreisnarmaður. Reykjavík: Mál og menning, 1993.

Viðar Hreinsson. Bjarni Þorsteinsson: Eldhugi við ysta haf. Reykjavík: Veröld, 2011.

Wake, Paul og Simon Malpas. The Routledge Companion to Critical and Cultural Theory (Routledge Companions). Routledge, 2013-08-15.

Wawn, Andrew. The vikings and the Victorians : inventing the old north in nineteenth- century Britain. Cambridge: D. S. Brewer, 2000.

Þórir Stephensen. Dómkirkjan í Reykjavík. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, Dómkirkjan í Reykjavík, 1996.

Bókakaflar og greinar

Árni Heimir Ingólfsson. „Kvæða- og tvísöngsbók frá Vestfjörðum.“ Góssið hans Árna. Ritstj. Jóhanna Katrín Friðriksdóttir. Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, 2014. 37-49.

Bartók, Béla. „Why and how do we collect folk music?“ Béla Bartók Essays. Ritstj. Benjamin Suchoff. New York: St. Martin, 1976. 9-24.

Dundes, Alan. „The Anthropologist and the Comparative Method in Folklore.“ Folklore Matters. Knoxville: The University of Tennessee Press, 1989.

Jón Hnefill Aðalsteinsson. „Þjóðsögur og sagnir.“ Munnmenntir og bókmenning. Ritstj. Frosti F. Jóhannsson. Íslensk þjóðmenning. Reykjavík: Þjóðsaga, 1989. 228‒290.

— 112 — Malm, Mats. „Áhugi á íslenskum handritum á Norðurlöndum.“ Handritin. Ritstj. Vésteinn Ólason og Gísli Sigurðsson. Ritröð Þjóðmenningarhúss. Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi, 2002. 101-8.

Steindór Steindórsson. „Carlsbergsjóður og Ísland.“ Steindór Steindórsson frá Hlöðum - Aldarminning. Reykjavík: , 2002. 79-163.

Steingrímur Jónsson. „Prentaðar bækur.“ Munnmenntir og bókmenning. Ritstj. Frosti F. Jóhannsson. Íslensk þjóðmenning. Reykjavík: Þjóðsaga, 1989. 91-116.

Sverrir Tómasson. „„Bið fyrir mér dándikall.“ Ærlækjarbók.“ Góssið hans Árna. Ritstj. Jóhanna Katrín Friðriksdóttir. Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, 2014. 63-77.

Vefheimildir

Baldur Andrésson. “Tónlistarsaga Reykjavíkur.” 2008. .

“Ísmús – Íslenskur músík- og menningararfur.” .

Sævar Helgi Jónsson. “Dr. Hallgrímur Helgason 100 ára.” 3. nóvember 2011. .

Tímaritsgreinar

Árni Heimir Ingólfsson. „Tvö íslensk söngbókarbrot frá 16. öld í Stokkhólmi.“ Gripla 29 (2018): 7-33.

Bartók, Béla. „Þjóðkyn og þjóðlög.“ Tónlistin 5.1–2 (1946): 8-10.

Goldberg, Christine. „The Historic-Geographic Method: Past and Future.“ Journal of Folklore Research 21.1 (1984): 1-18.

Dégh, Linda. „Grimm’s Household Tales and its Place in the Household.“ Western Folklore 38.2 (1979): 83–103.

— 113 — Dundes, Alan. „The Devolutionary Premise in Folklore Theory.“ Journal of the Folklore Institute 6.1 (1969): 5–19.

Finnur Jónsson. „Hið konunglega norræna fornfræðafjelag 1825–1925.“ Ársrit Hins íslenska fræðafjelags í Kaupmannahöfn 9 (1927): 1-16.

Gunnell, Terry. „Clerics as Collectors of Folklore in Nineteenth-Century Iceland.“ Arv: Nordic Yearbook of Folklore 68 (2012): 45–66.

Hallfreður Örn Eiríksson. „Þjóðsagnasöfnun og þjóðfrelsishreyfing.“ Gripla 4 (1980): 186–97.

Heusler, Andreas. „Þorsteinsson, Bjarni: Íslenzk þjóðlög (isländische volksweisen).“ Zeitschrift für deutsches Altertum und deutsche Literatur 52.4 (1910): 238–39.

Jón Helgason. „Ritfregnir.“ Skírnir 84 (1910): 359.

Jón Leifs. „Íslenzkt tónlistareðli.“ Skírnir 96.1 (1922): 130–43.

Jón Sigurðsson. „Boðsbréf til Íslendinga um fornrita-skýrslur og fornsögur.“ Antiquarisk tidsskrift (1843–1845): i–viii.

Karpeles, Maud. „Definition of Folk Music.“ Journal of the International Folk Music Council 7 (1955): 6–7.

Kirshenblatt-Gimblett, Barbara. „Topic Drift: Negotiating the Gap between the Field and Our Name.“ Journal of Folklore Research 33.3 (1996)

Maurer, Konrad. „Über ein isländisces Lied auf Kaiser Friedrich den Rothbart.“ Sitzungsberichte der königl. bayer. Akademie der Wissenschaften zu München (1867)

Ögmundur Helgason. „Upphaf að söfnun íslenskra þjóðfræða fyrir áhrif frá Grimmsbræðrum.“ Árbók Landsbókasafns Íslands. Nýr flokkur (1989): 112–24.

Olrik, Axel. „Islandske folkemelodier.“ Danske studier (1910): 183.

„Skýrslur og reikningar.“ Skírnir 79.1 (1905): III–IV.

„Skýrslur og reikningar.“ Skírnir 80 (1906): III.

— 114 — Svanhildur Óskarsdóttir. „Expanding Horizons: Recent Trends in -Icelandic Manuscript Studies.“ New Medieval Literatures 14 (2012): 203–33.

Sydow, C. W. von. „Geography and Folk-Tale Ecotypes.“ Béaloideas 4.3 (1934): 344.

Valdimar Tr. Hafstein. „Biological Metaphors in Folklore Theory.“ Arv 57 (2001): 7–32.

Þórhallur Bjarnarson. „Síra Bjarni Þorsteinsson á Siglufirði.“ Nýtt kirkjublað 10.9 (1. maí 1915): 98–101.

Úr dagblöðum

A. „Þjóðlagasafn Bjarna Þorsteinssonar.“ Gjallarhorn 03. 02. 1911.

Árni Beinteinn Gíslason. „Söngbók hins íslenzka stúdentafjelags.“ Sunnanfari 1. október 1894.

Árni Heimir Ingólfsson. „Róbert A. Ottósson – Á flótta undan hakakrossinum, 3. hluti.“ Lesbók Morgunblaðsins 21. júlí 2001, 8-9.

Árni Heimir Ingólfsson. „Victor Urbancic – Á flótta undan hakakrossinum, 1. hluti.“ Lesbók Morgunblaðsins 7. júlí 2001, 4-5.

Árni Thorsteinson. „Bjarni Þorsteinsson: Íslenzkur hátíðasöngur og Sex sönglög.“ Eimreiðin 1. janúar 1900, 135-36.

Björn Kristjánsson. „Fjársölumálið.“ Ísafold 18. júlí 1894.

Björn Kristjánsson. „Fjársölumálið II.“ Ísafold 8. desember 1894.

Björn Kristjánsson. „Úr æviminningum Björns Kristjánssonar I.“ Lesbók Morgunblaðsins 29. ágúst 1971, 1-2, 6.

Björn Kristjánsson. „Úr æviminningum Björns Kristjánssonar II.“ Lesbók Morgunblaðsins 5. september 1971, 10-13.

Björn Kristjánsson. „Úr æviminningum Björns Kristjánssonar III.“ Lesbók Morgunblaðsins 12. september 1971, 6-7,9.

— 115 — „Bókmenntafélagið.“ Þjóðviljinn 14. júlí 1904.

„Ceres.“ Þjóðólfur 28. ágúst 1903.

Einar Brynjólfsson. „Sálmasöngbókin.“ Þjóðólfur 15. og 22. apríl 1904, 66.

„Fréttir.“ Stefnir 21. ágúst 1899, 54.

„Íslands fréttir.“ Lögberg 25. apríl 1901, 7.

„Íslensk þjóðlög.“ Ingólfur 7. júlí 1910, 106.

J. J. Borgfirðingur. „Hugvekja um alþýðlega fornfræði.“ Norðri 30. maí 1859, 56.

Jón Árnason. „Hugvekja um alþýðleg fornfrœði.“ Íslendingur 19. október 1861, 91-93.

Jónas Jónsson. „Um þjóðlagasafnið.“ Ingólfur 1910,

„Laura.“ Vestri 3. september 1902, 171.

„Mjölnir.“ Bjarki 12.01.1904, 3.

„Póstskipið „Botnía“.“ Þjóðólfur 11. ágúst 1899, 159.

„Prestaköll.“ Þjóðólfur 2. júní 1893, 99.

„Prestkosning.“ Þjóðólfur 18. ágúst 1893, 155.

„Síra Bjarni Þorsteinsson.“ Stefnir 18. mars 1901, 26.

„Sjálfmentað tónskáld.“ Lögberg 22. mars 1901, 2.

„Söngbók hins íslenzka stúdentafélags.“ Þjóðólfur 05. 10. 1894, 186.

„Strandferðaskipið „Ceres“.“ Þjóðviljinn 28. ágúst 1903, 143. v. „XX sönglög.“ Ísafold 28. október 1893, 281.

Valtýr Guðmundsson. „Sjálfmenntað tónskáld.“ Eimreiðin 01.01.1901, 63-65.

„XX sönglög.“ Ísafold 2. nóvember 1892,

„XX sönglög.“ Þjóðólfur 4. nóvember 1892,

Þorsteinn Konráðsson. „Tónlistarbraatryðjandi frá 19. öld.“ Vísir 3. ágúst 1946,

— 116 —

Nótur

Bjarni Þorsteinsson. Íslenzk vikivakalög og önnur íslenzk þjóðlög: úrval. (1929)

Sigfús Einarsson. Alþýðu-sönglög II:17 íslensk þjóðlög. (1912)

Sigfús Einarsson. „Móðir mín í kví kví.“ Skírnir 87 (1913): 376-77.

Sveinbjörn Sveinbjörnsson. Íslenzk þjóðlög fyrir solo rödd. (1923)

— 117 —