Háskóli Íslands Hugvísindasvið Heimspeki

Veganskur vísdómur Rökgreining og innsæi sameinast fyrir velferð dýra

Ritgerð til BA-prófs

Áskell Jónsson Kt.: 1808852509

Leiðbeinandi: Henry Alexander Henrysson Maí 2019 ÁGRIP

Ritgerðin fjallar um veganisma, annmarka hans og ágæti. Athyglinni verður sérstaklega beint að því sem ég kalla „gráu svæðin“ í veganisma, sem eru sérstakar áskoranir fyrir þessa hugmyndafræði. Grá svæði eru t.d. grisjun stofna sem eru að stækka of hratt, gæludýrahald, meindýravarnir og framtíð ræktaðra tegunda (þ.e.a.s. tegunda sem hafa verið ræktaðar en geta ekki sjálf lifað af í náttúrunni).

Gráu svæðin hafa verið notuð af andstæðingum veganista sem uppgjöf eða aðgerðaleysi gagnvart siðferðisvandanum. Gráu svæðin hafa sömuleiðis verið hunsuð of lengi af veganistum sjálfum sem benda frekar á önnur augljósari vandamál og ýta á undan sér átökum við þessar flóknari áskoranir. Það má segja sem svo að gráu svæðin séu ákveðið öngstræti fyrir veganista og andstæðinga hans.

Í ritgerðinni verður því haldið fram að ástæðan fyrir „öngstrætinu“ sé skortur á „hinu mannlega“ í umræðunni. Hið mannlega tengist hlutum eins og tilfinningum (e. feelings), innsæi (e. intuition) og huglægni (e. subjectivity). Ofuráhersla á rökgreiningu hefur tilhneigingu til að horfa framhjá þessum tilteknu fyrirbærum.

Hugmyndin er að hið mannlega geti hjálpað til við að leysa vandann (a.m.k. að hluta) sem veganska hugmyndafræðin og veganska hreyfingin er að kljást við. Þá er einnig vonast til að afraksturinn geti stuðlað að ígrundaðri umræðu milli veganista og andstæðinga þeirra. Það virðist ákjósanlegt sérstaklega í ljósi þess að veganismi er að mörgu leyti mikilvæg siðferðileg meginregla þrátt fyrir talsverða annmarka.

1 EFNISYFIRLIT

Ágrip 1

Inngangur 3

I. HLUTI — FORSENDUR 1. Hvað er veganismi? 5

2. Næringargildi, umhverfisáhrif og mismunandi þarfir 8

II. HLUTI — SIÐFERÐISVANDINN 3. Skynjun, upplifun, þjáning, virðing 11

4. Hagsmunir, eiginleikar og tegundahyggja 15

III. HLUTI — ÁSKORANIR OG ÚRLAUSNIR 5. Gráu svæðin og hugmyndafræðilegir annmarkar 20

6. Mismunandi sjónarhorn og tengsl í siðfræði 25

7. Innsæi í siðfræði 28

Lokaorð 32

Heimildaskrá 36

2 Inngangur

Þessi ritgerð varð til vegna vaxandi stefnu í samtímanum sem ber heitið „veganismi“. Að mörgu leyti er um heimspekilega stefnu að ræða. Stefnunni hefur smám saman vaxið fiskur um hrygg á umliðnum árum og vinsældir veganisma virðast vera að færast í aukanna.1 2 3 Það er tímabært fyrir heimspekinga að bregðast við því með því að spyrja spurninga, ræða málin, greina rökin og leita að ásættanlegri niðurstöðu. Veganismi er sú ástundun að neita sér um dýraafurðir, sérstaklega þegar kemur að mat, samkvæmt þeirri heimsmynd sem hafnar alfarið að dýr séu neysluvara. Sú manneskja sem fylgir þessari stefnu kallast „vegan“. Íslensku hugtökin „grænkerahyggja“ og „grænmetishyggja“ hafa stundum verið notuð yfir þessa stefnu en þau virðast heldur til einblína á fæðu úr jurtaríkinu. Tökuorðin vegan og veganismi fela í sér mun meira en bara grænmetisfæði. Þess vegna virðist við hæfi að nota tökuorðin frekar en þau íslensku þótt nýyrðin séu í sjálfu sér ágæt. Í grófum dráttum er veganismi sérstæð stefna sem hefur það að meginmarkmiði að tryggja velferð dýra þar sem raddir veganista tala fyrir þau dýr sem ekki geta tjáð sig á mannamáli. Er siðferðilega ámælisvert að drepa dýr? Ef svo er, er þá veganismi lausn á vandamálinu eða er hægt að fara aðrar og betri leiðir? Þessar spurningar verða rauði þráðurinn í ritgerðinni og vonandi verður hægt að svara þeim almennilega í lok hennar. Siðferðilegar spurningar eins og þessar spretta fram þegar við skoðum framleiðslu dýraafurða og neyslu á þeim. Hér er ekki einungis átt við hvernig framleiðslunni er háttað heldur líka hvort hún eigi yfir höfuð rétt á sér. Fæðuöflun felur ávallt í sér siðferðileg viðmið sem verða til í menningu okkar. Þessi viðmið þarf að skoða, vandlega og reglulega til að skilja ástæður þeirra og rætur. Veganismi á þess vegna margt sameiginlegt með mannréttindahreyfingum fortíðar. Líkt og hvítt fólk þurfti að breyta viðhorfum sínum til þess að blökkumenn fengju viðurkenningu og karlmenn breyttu viðhorfum sínum til þess að auka jafnrétti kynjanna þarf mannkynið nú að breyta viðhorfum sínum fyrir viðurkenningu annarra dýra.

1 Olivia Petter, „Seven per cent of British people have gone -based,“ The Independent https://www.independent.co.uk/life-style/food- and-drink/vegans-uk-rise-popularity-plant-based-diets--figures-survey-compare-the-market-a8286471.html 2 Dan Hancox, „The unstoppable rise of veganism: how a fringe movement went mainstream,“ The Guardian https:// www.theguardian.com/lifeandstyle/2018/apr/01/vegans-are-coming-millennials-health-climate-change-animal-welfare 3 Janet Forgrieve „The Growing Acceptance of Veganism,“ Forbes https://www.forbes.com/sites/janetforgrieve/2018/11/02/picturing-a- kindler-gentler-world-vegan-month/#11156d2d2f2b

3 Það þarf að skoða hversu heildstæð hugsunin er bak við þessi viðmið. Veganismi er siðferðisafstaða gegn núverandi viðmiðum en það þýðir ekki að veganismi sé undanskilinn því sem þarf að skoða vandlega. Þegar betur er að gáð má sjá vankanta á rökfærslum, bæði meðal þeirra sem hafna siðferðisvandanum en einnig meðal þeirra sem viðurkenna hann. Ef veganismi er góð og heildstæð hugmyndafræði þá ætti hann að gefa greinagóð svör við siðferðilegum álitamálum, ekki bara við þeim sem virðast augljós, heldur líka við þeim óljósu — þó svo að þau séu vandmeðfarin og flóknari í framkvæmd. Þegar á reynir verður fyrst hægt að sjá hversu heildstæð hugsunin er sem veganismi byggir á.

Ritgerðinni er skipt í eftirfarandi eftirfarandi hluta og kafla. Fyrsti hluti (forsendur) inniheldur tvo kafla, annars vegar kafla um veganisma og mismunandi tegundir hans og hins vegar kafla um næringargildi, umhverfisáhrif og mismunandi þarfir. Annar hluti (siðferðisvandinn) telur sömuleiðis tvo kafla. Fyrsti kafli fjallar um um skynjun, upplifun og þjáningu þar sem virðing fyrir einstaklingum í dýraríkinu kemur í ljós. Svo kemur kafli um hagsmuni, eiginleika og tegundahyggju. Hér er átt við mismunandi hagsmuni og mismunandi eiginleika en líka sameiginlega hagsmuni og sameiginlega eiginleika. Þriðji hluti (áskoranir og lausnir) telur þrjá kafla. Fyrsti kaflinn fjallar um svokölluð „grá svæði“ sem eru áskoranir fyrir veganisma. Grá svæði í veganisma eru t.d. grisjun stofna sem eru að stækka of hratt og framtíð ræktaðra tegunda (þ.e.a.s. tegunda sem hafa verið ræktaðar en geta ekki sjálf lifað af í náttúrunni). Gráu svæðin hafa of oft verið hunsuð af veganistum. Gráu svæðin hafa líka verið notuð af andstæðingum veganista sem uppgjöf eða aðgerðaleysi gagnvart siðferðisvandanum. Næstu tveir kaflar fjalla um hvernig mögulega er hægt að bregðast við þeirri uppgjöf í umræðunni sem gráu svæðin hafa (að hluta) orsakað. Málamiðlun hefur, að er virðist, sjaldan verið reynd í umræðunni milli veganista og gagnrýnenda stefnunnar. Sömuleiðis virðist „hið mannlega“ í umræðunni vera hunsað eftir fremsta megni, það af báðum fylkingum. Hið mannlega tengist hlutum eins og tengslum, tilfinningum, innsæi (e. intuition) og huglægni (e. subjectivity). Ofuráhersla á rökgreiningu hefur tilhneigingu til að horfa framhjá þessum tilteknu fyrirbærum. Að lokum verða færð rök fyrir því að veganismi sé í raun ófullkomin hugmyndafræði fyrir velferð dýra þrátt fyrir mikla kosti. Þetta sést þegar veganisma er stillt upp gegn helstu áskorunum hans (gráu svæðunum). Þá má sjá að hugmyndafræðin sjálf stendur í vegi fyrir

4 hagsmunum dýranna, það er að segja í vegi fyrir markmiðum hugmyndafræðinnar sjálfrar. Það er svo sem ekkert nýtt að hugmyndafræði standi í vegi fyrir markmiðum sínum ef hún er tekin of bókstaflega. En það þýðir ekki að hugmyndafræðin sé gagnslaus. Meðvitund og áminning um annmarkana er lykilatriði. Einn megintilgangur ritgerðarinnar er að skilningur á þeim áskorunum sem veganismi stendur á móti geti að hluta hjálpað til við að leysa vandann sem veganska hugmyndafræðin og veganska hreyfingin er að kljást við. Þá er einnig vonast til að afraksturinn geti stuðlað að ígrundaðri umræðu milli veganista og andstæðinga þeirra.

I. HLUTI: FORSENDUR 1. Hvað er veganismi?

Fólk sem aðhyllist veganisma kallast almennt vegan grænmetisætur. Þessi hópur grænmetisæta borðar engar afurðir dýra, hvorki líkama þeirra, mjólk né egg. Að sama skapi forðast vegan alla nýtingu varnings sem prófaður hefur verið eða unninn að einhverju leyti úr dýrum, t.a.m. leður, ull, silki og snyrtivörur sem innihalda dýraafurðir eða hafa verið prófaðar á dýrum. Á matseðlinum eru engar dýraafurðir og þar af leiðandi ekkert kjötsoð, ostar og aðrar mjólkur vörur, majónes sem inniheldur egg, hunang eða vörur sem innihalda gelatín svo dæmi séu tekin.4 — Samtök grænmetisæta á Íslandi (stofnuð 4. maí 2013)

Veganismi hefur verið ástundaður í meira en tvö þúsund ár þrátt fyrir að hugtökin veganismi og vegan séu frekar nýleg. Meðal fyrstu heimilda um vegan-pælingar má t.d. finna hjá Gautama Búdda (um 563 f.Kr.–483 f.Kr.). Philip Kapleau skrifaði bók um viðhorf Búdda gagnvart dýrum og hér vitnar hann í Gautama sjálfan: „Til að sporna við þjáningu skyni gæddra vera þá ætti bodisattva,5 sem ræktar með sér samkennd, að neita sér um kjöt“.6 Hér er Búdda þó aðeins að tala um kjöt og þrátt fyrir að líkamar dýra séu kannski aðalatriðið þá gengur veganismi talsvert lengra en það eins og kom fram í inngangi. Það gæti hafa verið arabíska skáldið Al’ma’arri (973–1057) sem var raunverulega fyrsti veganistinn en hann samdi ljóðið „Ég er hættur að stela frá náttúrunni“:

4 Samtök grænmetisæta á Íslandi, „Hvað er grænmetisæta?“ http://graenmetisaetur.org/fraedsla/hvad-er-graenmetisaeta 5 „Bodisattva“ er uppljómuð vera sem frestar því að dvelja í „nirvana“ vegna samkenndar sinnar gagnvart öðrum verum sem eru ekki uppljómaðar. „Nirvana“ er ástríðulaust ástand sem einkennist af algjörri hugarró og er hið æðsta ágæti og „lokamarkmið“ í búddisma. 6 Philip Kapleau, To Cherish All LIfe: A Buddhist Case for Becoming a Vegitarian, (New York: The Zen Center, 1981), 82.

5 Þér hafið mein á skilningi yðar og trú. Kom til mín, svo þér getið hlýtt á öldur sannleikans. Lát vera þá fiska sem hafið hefur. Ekki freistast til að eta slátruð dýr, eða mjólkina tæru, hvítu, þeirra mæðra, sem er ætluð afkvæmum, ekki hefðarfrúm. Ekki syrgja grunlausa fugla með eggjastuldi; því óréttlætið er hinn versti glæpur. Sjá af hunangi sem iðnar flugur safna hjá blómum og ilmandi plöntunum; þær standa ekki vörð um hunangið af ástæðulausu, þær safna ekki hunangi fyrir örlæti og gjafir. Ég skola hendur mínar af öllu þessu; og óska þess að hafa séð sannleikann áður en hár mitt varð grátt! … 7

Ef við spólum fram til ársins 1806 þá má sjá fyrstu merkin um veganisma eins og við þekkjum hann í dag, þ.e.a.s. sem eiginlega hreyfingu. Það var þegar Dr. William Lambe og Percy Bysshe Shelly urðu meðal þeirra fyrstu til að neita sér um egg og mjólkurvörur af siðferðisástæðum.8 Veganismi eins og við þekkjum hann í dag dregur skýrar línur: „Látum dýr og dýraafurðir alveg í friði.“ Það mætti líkja veganisma við lífsreglu eða meginreglu en það er þó mikilvægt að minnast þess reglulega af hverju reglur eða boðorð verða til eins og áður kom fram. Tilgangur veganisma virðist samt sem áður skýr; að standa vörð um velferð dýra. Rétt er að ítreka að veganismi (ásamt öðrum tegundum grænmetishyggju) er ástundun en ekki merkimiði. Þess vegna mætti segja að stefnan eigi sér rætur í fyrstu hugmyndum um dýravernd. Það má teljast öruggt að það hafi gerst löngu fyrir þær heimildir sem við höfum. Vegan samfélagið sem slíkt (e. ) var hins vegar ekki stofnað fyrr en fyrir u.þ.b. sjötíu árum síðan. Hugtökin „vegan“ og „veganismi“ urðu til á sama tíma. Vegan samfélagið var að hluta til stofnað til að aðgreina mismunandi hópa innan grænmetishyggjunnar. Þessir hópar eru meðal annars grænmetisætur og vegan. Sumar grænmetisætur leyfa sér hunang, aðrar leyfa sér mjólkurvörur, enn aðrar leyfa sér egg og svo framvegis.9 Að neita sér um eitt og annað af þessum lista er ástundun veganisma/grænmetishyggju og tilgangurinn er í flestum tilfellum velferð dýra.

7 Al’ma’arri, þýð. Áskell Jónsson úr enskri þýðingu Reynold Alleyne Nicholson, Studies in Islamic Poetry, (London: Cambridge University Press, 1921), 134-135. 8 The Vegan Society, „History“, https://www.vegansociety.com/about-us/history 9 Á heimasíðu Samtaka grænmetisæta á Íslandi má finna útlistun á mismunandi skilgreiningum innan stefnunar, http://graenmetisaetur.org/ fraedsla/hvad-er-graenmetisaeta

6 Nýyrðin grænmetishyggja og grænkerahyggja virðast hafa verið innleidd af þessum mismunandi hópum grænmetisæta og á meðan stendur veganismi ennþá svolítið sér á báti. Veganistar (samkvæmt skilgreiningu) neita sér um allar dýraafurðir. Sumir veganistar ganga jafnvel svo langt að neita sér um gæludýrahald og að fara á hestbak. Veganismi hafnar nefnilega því að dýr séu neysluvara (e. commodity). Veganismi gæti þó réttlætt gæludýrahald á þeim grundvelli að gæludýr séu ekki endilega í eigu fólks heldur meira eins og lífsförunautar sem þurfa umönnun. Gæludýrahald er bersýnilega ekki jafn stórt siðferðismál og t.d. kjötframleiðsla þrátt fyrir að fæðuöflun fyrir gæludýrin og umönnun þeirra geti verið siðferðilega ámælisverð. Hvað sem því líður virðist vera nokkuð greinilegur munur á veganisma og öðrum tegundum grænmetishyggju. Munurinn liggur kannski aðallega í því hversu langt fólk kýs að ganga í breytni sinni fyrir velferð dýra og veganismi ætti samkvæmt skilgreiningu að ganga lengst í þeirri viðleitni. Skilgreiningarnar eru misjafnlega heilagar meðal veganista. Skilgreiningar eru sömuleiðis aldrei fullkomnar þótt þær geti verið hjálplegar. Það var einmitt hugsunin bak við Vegan samfélagið sem varð til í nóvember 1944 þegar hélt fund meðal grænmetisæta sem voru þá og þegar byrjaðar að neita sér um mjólkurafurðir. Á þessum fundi var samfélagið stofnað og hugmyndir um nýyrði settar á borðið. Að lokum var fallist á orðið „vegan“ sem vísar einfaldlega í byrjun og enda orðsins „vegetarian“.10 Einfalt, þjált og skýrt:

Veganismi er sú ástundun að neita sér um dýraafurðir, sérstaklega þegar kemur að mat, samkvæmt þeirri heimspeki sem hafnar alfarið að dýr séu neysluvara. Sú manneskja sem fylgir þessari stefnu kallast vegan.

Til að flækja málið aðeins meira þá hafa stundum verið flokkaðar mismunandi tegundir af veganisma vegna þess að forsendur fólks eru misjafnar. Þessar forsendur eru í megindráttum þrjár:

(i) „Grænkerahyggja“ (e. plant-based/dietary veganism) þar sem hvatinn fyrir breytni er aðallega tengdur mataræði og heilsufari. (ii) „Umhverfisveganismi“ (e. environmental veganism) þar sem umhverfissjónarmið eru meginforsendan fyrir breytni vegna þess að framleiðsluferli dýraafurða er talið orkufrekt, ósjálfbært, óumhverfisvænt og sérstaklega slæmt fyrir loftslagið og þar með slæmt fyrir lífríki jarðar í heild sinni. (iii) „Veganismi“ (e. veganism/ethical veganism) þar sem velferð dýra og siðferðileg breytni er meginforsendan.

10 The Vegan Society, „History“, https://www.vegansociety.com/about-us/history

7 Útkoman eða breytnin af þessum þremur mismunandi tegundum ætti í raun að vera sú sama þrátt fyrir ólíkar áherslur. Í þessari ritgerð verður athyglinni einkum beint að þriðju og síðustu tegundinni. Siðfræðin í ritgerðinni tengist vissulega hinum tveimur líka (a.m.k. umhverfisveganisma) en þar sem þetta er fyrst og fremst ritgerð um siðlega breytni verður síðasta skilgreiningin í brennidepli. Síðasta skilgreiningin virðist sömuleiðis vera sú sem flestir veganistar aðhyllast sem ætti ekki að koma á óvart í ljósi þess hvernig hreyfingin varð til á fimmta áratugnum. Oftast tengjast allar þessar tegundir á einn eða annan hátt enda hafa þær allar sína kosti að bera.

2. Næringargildi, umhverfisáhrif og mismunandi þarfir

Áður en lengra er haldið þarf að fara yfir það sem er ávallt talin ástæða þess að menn borða dýr og dýraafurðir. Ástæðan er næringargildi og því hefur verið haldið fram að næringargildi dýraafurða (sbr. hefðbundið blandað fæði) sé annað hvort (i) lífsnauðsynlegt fyrir mannfólk eða í það minnsta (ii) betra en sú næring sem fæst með því að borða eingöngu plöntur og sveppi (s.s. veganfæði). Niðurstöður næringarfræði eru vissulega umdeildar og það er ekki tilgangur ritgerðarinnar að fara djúpt í þá sálma enda ónauðsynlegt. Það verður þó að taka næringargildi til greina þar sem það gefur okkur ákveðnar grunnforsendur. Þessar grunnforsendur eru reyndar svo mikilvægar að það virðist ómögulegt að halda áfram með viðfangsefnið ef þær eru ekki afgreiddar á fullnægjandi hátt. Það mætti til dæmis gefa sér þá forsendu að ef næringargildi veganfæðis sé ábótavant hvað varðar lífsnauðsynlega næringu þá sé ekkert siðferðilega rangt við það að borða dýraafurðir. Þegar næringargildi miðast við líf eða dauða þá virðist siðferðisvandinn ekki vera til staðar, ekki nema að svo miklu leyti að dýrin eiga skilið virðingu, lágmarks þjáningu, ferðafrelsi og kannski möguleikann á því að sleppa frá veiðimanninum í sínu náttúrlega umhverfi. Hér verður þó að benda á þá staðreynd að hefðbundinn húsdýrabúskapur uppfyllir hvergi nærri þær aðstæður sem væru til fyrirmyndar í þeim efnum. Hvað sem því líður þá hlýtur lífsnauðsynlegt næringargildi að trompa siðferðisvandann sem hér um ræðir. Er eitthvað siðferðilega ámælisvert við það að drepa dýr í fæðutilgangi? Nei, ekki ef það er lífsnauðsynlegt. Dýrasiðfræði verður þá frekar að fjalla um það hvernig væri siðferðilega best

8 að haga þeirri fæðuöflun sem við þurfum frá dýraríkinu. Þörfin er lykilatriði fyrir siðferðisvandann. Málið flækist hins vegar ef næringargildi dýraafurða er í raun ekki lífsnauðsynlegt. Þá erum við að setja dýrin í þjáningarferli sem er í raun óþarfi. Af hverju ættum við að valda dýrum þjáningu? Flestir virðast reyndar viðurkenna að veganfæði sé nægilega gott til að lifa heilsusamlegu lífi en það er ansi stór hópur fólks sem vill ekki viðurkenna að veganfæði sé jafn gott næringarlega séð og það fæði sem inniheldur dýraafurðir. Hafa ber í huga að „jafn gott“ er ófullnægjandi lýsing á mjög flóknu næringargildi þar sem mismunandi fæðutegundir hafa mismunandi kosti og galla. Næringarlegar ástæður fyrir fæðuvali heyrast t.d. oft hjá íþróttafólki sem eru sömuleiðis fólk sem leitar að bestu mögulegu næringu. Íþróttafólk þrífst á því að hreyfa sig og keppa við annað fólk í íþróttum. Við finnum fyrir orkunni sem góður matur gefur og öll viljum við það allra besta sem er náttúran hefur upp á að bjóða. Ef veganfæði er hvorki „það besta“ né „jafn gott“ og hið venjulega blandaða fæði þá getum við varla þvingað veganfæði upp á fólk með siðferðilegum rökum. Það virðist við fyrstu sýn hvorki raunhæft, gagnlegt né siðlegt. Svo verður líka að taka til greina fólk sem á í erfiðleikum með ofnæmi og getur ekki fengið þá næringu sem það þarf frá plöntuflórunni. Þetta fólk lendir ekki í sama siðferðisvanda og við hin. Enn fremur gæti verið til fólk sem þarf lífsnauðsynlega á dýraafurðum að halda (t.d. í veganskri framtíð), þau þyrftu kannski að fá niðurgreiðslu á dýraafurðum, að því gefnu að þær séu orðnar úreltar, lítið framleiddar og mjög dýrar í framleiðslu. Hvernig standa samt málin ef veganfæði er í raun næringarlega séð jafn gott og venjulegt blandað fæði? Nú gjörbreytist málið og siðferðisvandinn verður allt í einu mun augljósari. Ef dýrin eru sett í þessar aðstæður einungis fyrir hluti eins og matarmenningu og bragð þá virðist það í fyrstu sýn mjög ámælisvert. Eins og áður kom fram þá virðist næringargildi trompa siðferðisvandann. En raunverulegur siðferðisvandi sem hallast augljóslega í eina átt hlýtur að trompa matarmenningu og bragð í þessu tilfelli. Þessu eru reyndar ekki allir sammála og það er að hluta til skiljanlegt en rökin með matarmenningu og bragði halda mjög illa í siðferðilegu samhengi. Matarmenning skiptir okkur máli og bragð skiptir okkur líka máli en stóra spurningin er: Hvort skiptir okkur meira máli? Siðferðileg álitamál kalla oft eftir breyttri menningu og það er skiljanlegt. Sársauki og þjáning einstaklinga getur mögulega gengið framar hefðbundnum siðvenjum. Hér mætti hafa í huga byltingar í mannréttindabaráttu fortíðar og samtíðar.

9 En er það virkilega raunin að næring í veganfæði geti verið jafn góð og hvað annað? Fólk á veganfæði virðist sannarlega lifa eðlilegu og heilsuhraustu lífi. Það er t.d. fjöldi íþróttamanna í heimsklassa sem hafa tekið veganisma fagnandi. Lewis Hamilton núverandi heimsmeistari í Formúlu 1 hafði þetta að segja um veganfæði: „Mér hefur aldrei liðið betur, líkamlega og andlega. Allt árið hefur mér liðið vel andlega en ég tók stórt skref varðandi líkama minn með breyttu mataræði“.11 Venus Williams, ein fremsta tenniskona heims sagði að veganfæði hefði bjargað ferlinum hennar þegar hún átti við heilsuvandamál að stríða.12 Patrick Baboumian sem er heimsmethafi í kraftlyftingum sagði þetta um veganfæðið: „Ég varð þyngri, ég varð sterkari, ég vann Evrópumeistaratitilinn í kraftlyftingum, ég setti þrjú heimsmet, blóðþrýstingurinn lækkaði og ég var fljótari að jafna mig eftir æfingar þannig að ég gat æft meira“.13 Hér mætti líka benda á niðurstöðu rannsóknar sem sýndi skipulagt veganfæði vera það besta sem völ er á:

Niðurstöður rannsóknar í sambandi við líkamsþyngd, næringargildi, gæði næringar og magn eru í samræmi við núverandi vísindi varðandi vel úthugsuð mataræði versus hefðbundin blönduð mataræði. Rannsóknin tók til greina allar helstu tegundir mataræðis ásamt mismunandi aðferðum með téð mataræði (hvort sem það var ráðlagt mataræði ríkisstjórnar BNA eða svokallað Miðjarðarhafsmataræði) og niðurstaðan sýndi ítrekað veganfæði vera það hollasta sem völ er á.14

Það virðist nokkuð ljóst að veganfæði getur sannarlega verið álíka gott og hið hefðbundna fæði sem inniheldur dýraafurðir (a.m.k. í flestum tilfellum). Þar að auki býður jörðin okkar upp á næstum ótakmarkað magn af mat úr plönturíkinu. Plöntufæði má nálgast næstum hvar sem er í heiminum, á auðveldari, ódýrari og umhverfisvænni hátt.15 16 17 Veganismi er siðferðisafstaða og viðbragð gegn ákveðnum siðferðisvanda en hvað gerir þetta að siðferðisvanda og hvernig getur veganismi tekist á við allt sem fylgir honum? Það er fjöldi fólks sem sér alls ekki að í neyslu dýraafurða kunni að leynast eitthvað siðferðilega

11 Will Sabel Courtney, „Lewis Hamilton Credits His F1 Success This Year to Going Vegan“, The Drive http://www.thedrive.com/ accelerator/15402/lewis-hamilton-credits-his-f1-success-this-year-to-going-vegan 12 Ian McMahan, „How Venus Williams roared back at 37: diet, brains and bloody mindedness,“ The Guardian https:// www.theguardian.com/sport/blog/2017/jul/17/venus-williams-longevity-diet-wimbledon-tennis 13 Susie East, „‘Vegan Badass’ muscle man pumps iron, smashes stereotypes,“ CNN https://edition.cnn.com/2016/07/06/health/vegan- strongman-patrik-baboumian-germany-diet/index.html 14 Peter Clarys, Tom Deliens, Inge Huybrechts, Peter Deriemaeker, Barbara Vanaelst, Willem De Keyzer, Marcel Hebbelinck, Patrick Mullie, „Comparison of Nutritional Quality of the Vegan, Vegetarian, Semi-Vegetarian, Pesco-Vegetarian and Omnivorous Diet,“ https:// www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC3967195/ 15 C. Leitzmann, „Nutrition ecology: the contribution of vegetarian diets,“ https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/12936962? dopt=Abstract&holding=npg 16 D. Pimentel, M. Pimentel, „Sustainability of meat-based and plant-based diets and the environment,“ https://www.ncbi.nlm.nih.gov/ pubmed/12936963?dopt=Abstract&holding=npg 17 L. Reijnders L, S. Soret, „Quantification of the environmental impact of different dietary protein choices,“ https:// www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/12936964?dopt=Abstract&holding=npg

10 ámælisvert. Hvernig stendur á því? Það er líka fjöldi fólks sem sér ýmislegt í meðferð okkar á dýrum sem stærsta siðferðisbrest samtímans.

II. HLUTI: SIÐFERÐISVANDINN 3. Skynjun, upplifun, þjáning, virðing

(i) Skynjun

The question is not, Can they reason? nor, Can they talk? but, Can they suffer?18 — Jeremy Bentham (1748-1832, enskur heimspekingur, hagfræðingur og lögfræðingur)

Það eru allir eru sammála um það að vel skuli koma fram við önnur dýr, sérstaklega í ljósi þess að dýr eru skyni gæddar verur. Siðferðisvandinn birtist einmitt best þegar við hugsum um skynjunareiginleika og tilfinningar, þ.e. möguleikann á því að skynja umhverfi sitt, finna til sársauka, hræðslu o.s.frv. Skynjun (e. sentience) hefur stundum verið notuð til að greina á milli ákveðins eiginleika og rökhugsunar (e. reason). Skynjun er í það minnsta nokkuð aðgreinilegur eiginleiki frá öðrum eiginleikum meðvitundar, aðgreinilegur frá t.d. rökhugsun, sköpun, vitsmunum og sjálfskilningi. Indversk heimspeki og trúarbrögð hafa í árþúsundir lagt áherslu á ákveðin atriði fyrir samband manna og annarra lifandi vera. Sérstaklega mætti nefna ahisma sem þýðir „ekki meiða“ (e. not to injure) og „samkennd“ (e. compassion).19 Ahisma er þess vegna nátengt hugmyndinni um „ofbeldisleysi“ (e. non-violence) sem er persónuleg ástundun meinleysis gagnvart okkur sjálfum og annara skyni gæddra vera. Þetta er í samræmi við þá trú að ofbeldi gagnvart mönnum og öðrum dýrum sé með öllu óþarfi. Þessi trú styður ákveðna viðurkenningu sem allar skyni gæddar verur hafa í hindúisma, jaínisma og búddisma. Það mætti eflaust færa rök fyrir því að þessi viðurkenning orsaki hina miklu grænmetisfæðis- menningu austurlanda fjær en það væri efni fyrir aðra og stærri ritgerð.

18 Jeremy Bentham, ritsj. J. H. Burns, H. L. A. Hart og F. Rosen, An Introduction to the Principles of Morals and Legislation (The Collected Works of Jeremy Bentham) (Oxford: Clarendon Press, 1996), 283, neðanmálsgrein. 19 E. Szücs, R. Geers, T. Jezierski, E. N. Sossidou, D. M. Broom, „ in Different Human Cultures, Traditions and Religious Faiths,“ https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC4093044/

11 Skynjun er algjört lykilatriði í dýrasiðfræði samtímans þar sem hún er mikilvægt skilyrði þegar við tölum um þjáningu (e. suffering) og þess vegna grundvöllur til að virða réttindi annara dýra. Það að finna til sársauka skiptir óumdeilanlega miklu máli en þegar betur er að gáð þá virðist það alls ekki fullnægjandi. Dýr eru vitaskuld ennþá ræktuð og drepin í massavís þrátt fyrir þessa vitneskju, vitneskju sem er svo gott sem óumdeild á 21. öldinni.

(ii) Upplifun

Skynjun er einnig forsenda fyrir möguleikanum á upplifun (e. experience) sem getur reynst mikilvægur þáttur þegar við tölum um siðferðilegt gildi. Heimspekingurinn hefur ítrekað þetta með því að segja önnur dýr hafa gildi svo fremi sem þau eru „viðfang lífs“ (e. subject of a life).20 Hér á hann við dýr sem upplifa sig lifandi, að þau eigi þar af leiðandi skilið viðeigandi réttindi, að minnsta kosti þau réttindi á að fá almennt að haga lífi sínu í friði. En af hverju eru skynjun og upplifun mikilvæg? Líklega vegna þess að við skiljum það sjálf sem manneskjur, við deilum þessu með öðrum dýrum og við höfum viðurkennt þessa eiginleika í manneskjum. Önnur dýr hafa samt engin sérstök réttindi þrátt fyrir viðurkenningu okkar á þessum eiginleikum. Veganistar vilja bersýnilega breyta þessu en það virðist langt í land hjá þeim. Réttindi okkar mannanna ná hins vegar utan um þetta og reyndar miklu lengra, jafnvel þótt eiginleikar sem þessir hverfi einhverra hluta vegna. Við missum ekki réttindi okkar þótt við föllum í dá. Við höfum meiri réttindi en önnur dýr þrátt fyrir skort á skynjun og upplifun. Einstaklingar (fólk og önnur dýr) sem upplifa sig sem lifandi verur hafa þar að auki áætlanir, hagsmuni og þar af leiðandi möguleikann á því að ná markmiðum sínum sem og möguleikann á þeirri þjáningu og þeim áskorunum sem fylgja lífinu. Að geta upplifað sig sem lifandi veru styður þess vegna grundvöllinn þegar réttindi einstaklinga eru ákveðin — réttindi sem ættu þá kannski að trompa „rétt“ annara í að brjóta á þeim að óþörfu. Lög um velferð dýra hljóma reyndar í samræmi við svona gildi og túlka þau viðurkennd viðmið í samfélaginu:

Markmið laga þessara er að stuðla að velferð dýra, þ.e. að þau séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma, í ljósi þess að dýr eru skyni gæddar verur. Enn fremur er það markmið laganna að þau geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt. — Lög um velferð dýra, 1. gr.21

20 Tom Regan, The Case For (London: Routledge, 1988), 243. 21 Lög um velferð dýra, 15. apríl 2018, https://www.althingi.is/lagas/148b/2013055.html

12 Það er raunar ótrúlegt að hugsa til þess hversu stutt það er síðan menn fóru að viðurkenna vitundarlíf annara dýra. Á 19. öld voru hundar negldir við borð með hamri og nöglum fyrir krufningu í vísindaskyni.22 Lengi vel var því haldið fram að dýr væru sálarlausar verur sem væru lítið annað en einhvers konar vélar. Í dag er öldin önnur og sem betur fer hefur viðhorfið breyst hvað þetta varðar. Það finnst varla sú manneskja í dag sem talar gegn því að vel ætti að koma fram við önnur dýr. Samhliða þessari viðhorfsbreytingu hefur samt framleiðsla á kjöti og dýraafurðum aukist til muna síðustu áratugi.23 Ástæðurnar fyrir þeirri kaldhæðni verða ekki til umfjöllunar í þessari ritgerð. Það mætti kannski ætla að eiginleikar til að skynja, upplifa og þjást væru fullnægjandi rök til að hætta alfarið að neyta dýraafurða en málið virðist reyndar ekki svo einfalt. Þjáningin vegur vissulega þungt þegar siðferðisvandinn er veginn og metinn en hvernig standa málin ef við tökum þjáninguna „út fyrir sviga“?

(iii) Þjáning

Jonathan Latimer, nemandi í Oxford vann árið 2018 verðlaun fyrir ritgerð sína í hagnýttri siðfræði. Ritgerðin hans fjallar um þjáningu dýra í framleiðslubúskap. Hann talar fyrir því í ritgerðinni sinni „Why We Should Genetically ‘Disenhance’ Animals Used in Factory Farms“ að menn ættu að genabreyta dýrum (þeim sem eru ræktuð til matar) svo þau finni ekki til sársauka.24 Þessi grein hjá Latimer er sérstaklega athyglisverð í ljósi þess að heimspekingurinn , sem er jafnframt sá maður sem hefur talað einna mest gegn núverandi meðferð okkar á dýrum, sagði þetta um þjáningu:

Ef vera þjáist þá getum við ekki litið framhjá því […] Ef vera getur ekki upplifað þjáningu, ánægju eða hamingju þá þurfum við ekki taka neitt til greina.25

Genabreytingar af því tagi sem Latimer lýsir verða eflaust mögulegar í framtíðinni en þessi tillaga hans vekur ónotalegar tilfinningar sem er vandasamt að bera kennsl á. En hver veit nema það komi alls engar ónotalegar tilfinningar fram. Kannski finnst einhverjum þetta bara fullkomlega réttmæt aðgerð. Latimer er reyndar persónulega ekki svo „tilfinningalaus“ og

22 Hugh LaFollette, ritstj., Ethics in Practice: An Anthology, Fourth Edition. (Chichester: John Wiley & Sons, Inc,, 2014), bls. 169. 23 Philip K. Thornton, „Livestock production: recent trends, future prospects,“ https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC2935116/ 24 Jonathan Latimer. „Why We Should Genetically ‘Disenhance’ Animals Used in Factory Farms.“ http://blog.practicalethics.ox.ac.uk/ 2018/03/oxford-uehiro-prize-in-practical-ethics-why-we-should-genetically-disenhance-animals-used-in-factory-farms/ 25 Peter Singer, „All Animals are Equal,“ Ethics in Practice: An Anthology, Fourth Edition, ritstj. Hugh LaFollette (Chichester, John Wiley & Sons, Inc., 2014) 175.

13 eflaust er minnihluti fólks tilbúinn í svona genabreytingaframkvæmd án þess að hika. Hvað sem því líður þá er þessi ónotalega tilfinning til staðar (a.m.k. hjá mörgum) og hún ber keim af dulúð og togstreitu. Þetta gæti verið einhvers konar togstreita milli annars vegar innsæis og tilfinninga og hins vegar rökhugsunar. Röklega séð ættum við nefnilega að samþykkja þessa fullyrðingu hjá Singer (a.m.k. prima facie) og samþykkja tillögu Latimers, að því gefnu að röklega sé hægt að „reikna út“ siðferðileg vandamál. Hins vegar þegar betur er að gáð virðist þetta verulega trufla eitthvað innra með okkur. Það virðist ráðlegt að hlusta á þessar tilfinningar í stað þess að hunsa þær. Það minnsta sem við getum gert er að velta þessum tilfinningum betur fyrir okkur.

(iv) Virðing

Það verður að teljast líklegt að veganistar séu almennt algjörlega á móti svona þróun í framleiðslubúskap, kannski út af prinsippástæðum, kannski af kreddunni einni saman en hvernig sem litið er á málið þá er eitthvað mjög undarlegt við hugmyndina að kalla eftir svona genabreytingum á siðferðilegum forsendum og ástæðan er alls ekki augljós. Ritgerð Latimer er frábært innlegg í umræðuna því þetta sýnir hversu mikilvægt einhvers konar siðferðilegt innsæi er í siðfræði. Þjáning virðist enn fremur vera ófullnægjandi forsenda (a.m.k. ein og sér) til þess að skera úr um hvað skuli gera eða ekki gera. Vangeta til að finna fyrir þjáningu getur haft ýmsa kosti en það virðist erfitt að réttlæta genabreytingu sem hamlar einstaklinga í að finna fyrir þjáningu lífsins, ekki einungis vegna þess að þjáningin er mikilvægur hluti af lífinu sem slíku heldur líka vegna þess hversu mikilvægur partur hún er fyrir einstaklinginn sem slíkan sem er eins konar vera sem leitar að eins konar lífsfyllingu. Það mætti jafnvel segja að þjáningarlaus einstaklingur upplifi umtalsverða þjáningu vegna skorts á henni. Latimer bendir reyndar réttilega á að genafikt sé ekki siðferðilega fullkomið. Hann vill samt meina að það sé skárra (tímabundið) en tilgangslaus þjáning dýranna. Kjarni málsins er að drápið sjálft er tilgangslaust ef þörfin er ekki til staðar. Þar að auki hringir siðferðilegt innsæi okkar ákveðnum viðvörunarbjöllum: Virðing gagnvart einstaklingum má alls ekki hverfa og friðhelgi gagnvart náttúru dýranna skiptir máli. Þegar virðing gagnvart einstaklingum hverfur þá er hægt að réttlæta hvað sem er. Við gætum t.d. aldrei sætt okkur við að fólk yrði sett í gegnum svona ferli þótt þjáningin hverfi úr siðferðisjöfnunni. Væri það orðið siðferðilega réttmætt ef gyðingar í Auschwitz hefðu fengið lyfjagjöf sem forðuðu þeim frá þjáningunni sem fylgdi? Þessi spurning virðist einungis athyglisverð fyrir þær sakir að hún bendir á

14 togstreitu, annars vegar milli viljans til að komast að röklegri niðurstöðu og hins vegar þess innsæis sem hringir viðvörunarbjöllum.

4. Hagsmunir, eiginleikar og tegundahyggja

(i) Hagsmunir

Við viljum mörg meina að við séum einhvers konar „dýravinir“ og að dýrin skuli fá að sýna sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt. Það er samt sem áður mjög augljóst að við gerum mikilvægan greinarmun (gildismun) á mönnum og öðrum dýrum. Önnur dýr upplifa sannarlega alls konar vanlíðan, ótta, sársauka og sjúkdóma. Þetta er að miklu leyti á ábyrgð okkar mannanna. Það virðist þess vegna ljóst að við höfum ólíkar hugmyndir um hvað sé „góð meðferð“. Meðferðin er sömuleiðis mjög misjöfn meðal mismunandi menningarheima. Við gerum ekki bara greinarmun á mönnum og dýrum heldur gerum við líka mikilvægan greinarmun á mismunandi tegundum dýra. Það er t.d. tabú að borða hunda (a.m.k. í Evrópu) en það virðist almennt vera í lagi að borða hesta (a.m.k. á Íslandi). Ástæðan fyrir þessum mun er mismunandi gildismat sem er háð tíma, menningu og hefðum. Ein leið til að meta gildi og réttindi einstaklinga er að skoða og skilja hagsmuni (e. interests) einstaklinga. Hagsmunir eru hlutir sem við höfum áhuga á, eitthvað sem okkur varðar: fyrst og fremst líf okkar og frelsi. Mannréttindi halda uppi vörnum fyrir hagsmuni okkar. Þetta skýrist kannski einna best með spurningum eins og þessari: Finnst okkur í lagi að loka fólk inni, drepa það og borða? Nei, auðvitað ekki. Einföld útskýring á því gæti hljóðað einhvern veginn svona: „Við sem samfélag höfum ákveðið að morð á fólki er slæmt vegna þess að fólk vill almennt séð ekki vera drepið, fólk vill forðast óþarfa þjáningu og fólk vill vera frjálst“. Í dag er þetta óumdeilt og við þurfum varla lengur að spyrja af hverju. Það þarf heldur varla að spyrja að því hvort önnur dýr hafi þessa sömu hagsmuni eða ekki. Það er augljóst að önnur dýr vilja ekki þjást að óþörfu og þau vilja auðvitað líka vera frjáls og halda lífi sínu. Jafnvel þótt við skiljum dýrin takmarkað þá ættum við að skilja þetta eða í það minnsta að leyfa þeim að njóta vafans. Fólk vill sömuleiðis vera andlega hraust og flest viljum við lifa í góðu samfélagi með góðu fólki. Allt þetta, ásamt fæðu og húsaskjóli er grundvöllur fyrir okkur til að dafna sem manneskjur. Þetta eru góðar og gildar ástæður fyrir því að farið var að skrá niður og virða

15 mannréttindi. Veganismi tekur þessa hugmynd og talar fyrir því að færa út mengi réttinda til einstaklinga í dýraríkinu. Ástæður fyrir þess konar útvíkkun eru t.d. eins og áður kom fram, möguleikinn á því að skynja umhverfi sitt, upplifa sig sem lífveru og möguleikinn á því að þjást. Þar að auki mætti virða gildi einstaklinga í dýraríkinu út frá sameiginlegum hagsmunum. Þetta er sú forsenda sem veganismi vinnur með þegar gildi einstaklinga í dýraríkinu er skoðað. Reyndar viljum við mannfólkið ýmislegt fleira sem önnur dýr hafa takmarkaðan áhuga á, t.d. menntun og kosningarétt. Í samfélagi mannskepnunnar bíða nefnilega ýmis flókin verkefni sem við viljum ólm takast á við með mismunandi hætti. Við setjum okkur alls kyns markmið, bæði persónuleg og samfélagsleg. Mannréttindi eru eins konar sáttmáli sem er ákjósanlegur fyrir okkur öll og sömuleiðis grundvöllur fyrir frekari íhugun um endurmat, úrbætur og framfarir. Sem betur fer göngum við út frá þeirri forsendu að líf fólks hafi gildi. Á meðan við lifum þá þykir okkur lífið almennt vera betra en dauðinn. Það mætti kannski kalla þessa frumforsendu „virðing fyrir lífinu í sjálfu sér“ sem við hlúum svo að með mannréttindum.

(ii) Eiginleikar

Tegundin homo sapiens gæti samt að haft einhverja eiginleika sem ráða úrslitum og útskýra aðgreininguna milli okkar og annara dýra sem veldur því að hagsmunir þeirra (líf, frelsi og óþörf þjáning) skipta minna (eða engu) máli. Eins og áður hafði komið fram þá var sálin í mannfólki lykilatriði hérna áður fyrr en önnur dýr þóttu ekki endilega vera þess verðug að búa yfir sál. Í dag virðist fólk almennt efast meira um sálina. Sálin hefur reyndar ekki horfið úr umræðunni en umræðan er ekki lengur mannhverf. Manneskjan hefur ekki lengur „einkarétt“ á sálinni og við höfum reyndar aldrei haft hann nema kannski á miðöldum. „Heilagur kjarni“ einstaklinga virðist úrelt hugmynd þrátt fyrir að lífið sjálft hafi gildi í sjálfu sér. Það er allavega orðið alveg ljóst að maðurinn er dýrategund eins og önnur dýr og ef sálin er í raun og veru til þá á hún líklega heima í öllum lifandi verum, að minnsta kosti í öllum lifandi dýrum. Hvernig sem við lítum á stöðuna þá er erfitt að nota fyrirbæri eins og sál til að aðgreina okkur frá öðrum dýrum. Þess þá heldur virðist óásættanlegt að nota sálarrök sem réttlætingu fyrir því að taka líf einhvers að óþörfu. Mannfólkið hefur samt sem áður eiginleika sem eru tegundinni sérstakir. Það mætti til dæmis nefna sérstaka vitsmuni, rökhugsun, sjálfræði, tungumál, siðferðilega samvisku, frjálsan vilja, ábyrgð og eflaust margt fleira. Heimspekingurinn Jeff McMahan er meðal þeirra sem

16 velti þessum eiginleikum fyrir sér og hann bendir á vandamál sem birtist þegar við notum þessa eiginleika til aðgreiningar. Vandamálið er sá fjöldi fólks sem skortir eitt eða fleira af þessum atriðum.26 Upptaldir eiginleikar eru þess vegna varhugaverður mælikvarði fyrir þau skilyrði sem hið siðlega samfélag krefst. Það er einmitt eitt af því sem veganismi bendir á: Mannfólk hefur kannski einhverja eiginleika sem önnur dýr hafa ekki en sérstakir eiginleikar mannverunnar eru ekki fullnægjandi til að réttlæta hegðun okkar gagnvart öðrum dýrum. Við virðum líka réttindi annars fólks þrátt fyrir skort á þessum eiginleikum. Við virðum aðra einstaklinga miklu frekar vegna þess að við eigum sameiginlega eiginleika með þeim. Það eru einmitt eiginleikar sem önnur dýr hafa líka (að miklu leyti). Það er samt erfitt að halda því fram að menn og dýr hafi nákvæmlega sama gildi, sérstaklega ef við ætlum á annað borð að vega og meta gildi einstaklinga. Það hlýtur að vera eitthvað eitthvað sem þetta gildi stendur á, „eitthvað merkilegt“, annars lendum við í flatlendi gildismats þar sem allt er algjörlega jafnt í óaðgreinanlegri merkingarþoku. Þá er allt eins hægt að pakka siðfræðinni saman og viðurkenna frumskógarlögmálið. Tegundin homo sapiens hefur augljóslega mjög merkilega eiginleika s.s. möguleikann á því að öðlast (með aldri og þroska) sérstaka eiginleika sem eru tegundinni sérstakir og það gefur mannfólki sannarlega sérstakt gildi. Þessi möguleiki er þó aðallega mikilvægur gagnvart okkur sjálfum og öðru mannfólki í mannlegu samfélagi. Það væri þó hægt að færa rök fyrir því að rökhugsun, vitsmunir og ábyrgð geti verið mannlegir eiginleikar sem hafa ákveðið gildi gagnvart öðrum dýrum, þ.e.a.s. ef þessir eiginleikar koma öðrum dýrum að einhverju gagni. Þessir sérstöku mannlegu eiginleikar eru verðmætir en þeir hafa samt litla þýðingu þegar við horfum yfir dýraríkið í heild sinni og metum grunngildi einstaklinga í dýraríkinu í sjálfu sér.

(iii) Tegundahyggja

Við erum önnur tegund og það er augljóst, sérstaklega þegar við greinum erfðaefni okkar. Er það kannski aðgreiningin sem okkur vantar til að réttlæta meðferð okkar á dýrum? DNA hjá mönnum og öðrum dýrum er reyndar þegar betur er að gáð merkilega svipað, sérstaklega ef við skoðum aðra mannapa.27 Þar að auki er erfitt að sjá hvernig erfðafræðilegur uppruni hefur áhrif á siðferðilegt vægi. Hvernig myndi okkur til dæmis líða ef önnur tegund (t.d. af

26 Jeff McMahan, „Animals,“ A Companion to Applied Ethics (Blackwell Companions to Philosophy), ritstj. R. G. Frey og Christopher Heath Wellman (Oxford: Blackwell Publishing, 2005) 525-526. 27 Kate Wong, „Tiny Genetic Differences between Humans and Other Primates Pervade the Genome,“ https:// www.scientificamerican.com/article/tiny-genetic-differences-between-humans-and-other-primates-pervade-the-genome/

17 annari plánetu) tæki völdin af okkur? Geimveruinnrásin er hugsunartilraun sem Mark Rowlands útlistar í bók sinni Animal Rights: Moral Theory and Practice.28 Hugsunartilraunir eins og þessi geta verið misjafnlega hjálplegar en hún varpar þó vissulega upp mikilvægum spurningum:

Ímyndum okkur að geimverur komi til jarðar og taki völdin af okkur. Geimverurnar gætu t.d. verið alætur en kjötið af okkur er samt einhvern veginn girnilegra, sérstaklega barnakjötið. Geimverurnar vilja sömuleiðis nýta hráefnið af okkur sem allra best. Skinnið af okkur væri notað í skó og hárið okkar fer í loðkraga á úlpum. Vitaskuld væri best að troða mannfólkinu í sem minnsta bása í framleiðsluferlinu, kveða niður lífsviljann í okkur og gefa okkur vel að borða svo við yrðum feit. Kjöt af ungum feitum börnum selst best. Þetta væri allt saman mjög hagstætt fyrir framleiðsluferlið. Það væri sömuleiðis betra ef geimverurnar sem neyta okkar vissu sem minnst af framleiðsluferlinu. Firring frá veruleikanum þýðir betri sölutölur. Sannleikurinn um voðaverkin gæti framkallað óhagstæða samkennd og vitundarvakningu í geimverusamfélaginu. Við mannfólkið myndum að sjálfsögðu ekki segja þetta sanngjarnt. Við eigum a.m.k. rétt á því að lifa, vera frjáls og laus við óþarfa þjáningu. Geimverurnar þurfa líka ekkert að borða okkur, þær geta vel lifað á grænmeti.

Tilgangurinn með þessari hugsunartilraun er að sýna hversu litlu það virðist skipta hvaða tegund einstaklingur tilheyrir þegar við tölum um hluti eins og gildi og réttindi, sérstaklega þegar frelsi, þjáning og virðing eru annars vegar. Það virðist mjög erfitt að rökstyðja grundvallarréttindi mannfólks án þess að taka önnur dýr með í reikninginn. Peter Singer tók í verkum sínum upp hugtakið „tegundahyggja“ (e. ) sem er orðið algengt í umræðunni um dýravelferð. Hann segir hugtakið hafa fyrst komið fram hjá breska sálfræðingnum Richard D. Ryder árið 1970.29 Tegundahyggja metur einmitt gildi og réttindi einstaklinga út frá tegundinni sem einstaklingarnir tilheyra. Veganistar og talsmenn dýraverndunarsamtaka hafa gjarnan notað þetta hugtak í sínum málflutningi. Tegundahyggju hefur verið líkt við kynþáttahyggju og kynjamisrétti. Þessi samanburður er byggður á meintu misrétti einstaklinga í dýraríkinu og að misréttið sé tegundatengt (þess vegna tegundahyggja). Mörgum dýraverndunarsinnum þykir tegundin sem slík einmitt ófullnægjandi forsenda fyrir þeim réttindum sem við mennirnir höfum haldið uppi. Hugsunartilraunin hér að framan gaf þetta sannarlega í skyn.

28 Mark Rowlands, Animal Rights: Moral Theory and Practice, Second Edition (Miami, Palgrave Macmillan, 2009), 8. 29 Peter Singer, „All Animals are Equal,“ Ethics in Practice: An Anthology, Fourth Edition, ritstj. Hugh LaFollette (Chichester, John Wiley & Sons, Inc., 2014) 179.

18 En er tegundahyggja ekki bara óumflýjanleg eðlislæg (náttúruleg) hlutdrægni? Við erum bersýnilega dýr og okkar tegund tekur höndum saman í að lifa af í náttúrunni. Af hverju ættum við að taka aðrar tegundir inn í siðfræðikerfin okkar? Það væri hægt að benda á fæðukeðjuna og halda því fram að við sem manneskjur ættum ekki að „upphefja“ okkur yfir önnur dýr með því að yfirgefa stöðu okkar í fæðukeðjunni. En er fæðukeðjan sem slík siðferðileg réttlæting? Það er hæpið, sérstaklega ef þörfin er ekki til staðar. Fæðukeðjan þarf heldur ekkert endilega að skiptast í tegundir. Yfirburðir fólks yfir öðru fólki geta vel verið innan fæðukeðjunnar. Að drepa og borða annan mann gæti jafnvel talist „náttúruleg“ hegðun í einhverjum skilningi orðsins (að minnsta kosti við ákveðnar aðstæður) en það tengist engan veginn ákjósanlegu siðferði. „Þetta hefur alltaf verið svona“ og „við höfum alltaf borðað kjöt.“ Þessar staðhæfingar eru réttar en þetta segir lítið um hvernig hlutirnir ættu að vera heldur meira hvernig þeir eru og hafa verið. Þetta er svolítið eins og að benda á staðreynd. Sumum virðist það nægileg réttlæting. Innan heimspekinnar eru svona rök tengd við svokallaða „náttúrurökvillu“ (e. the naturalistic fallacy). Vandamálið við náttúrurökvilluna er frekar augljóst. Það eru óteljandi óhugnanlegir hlutir sem hafa átt sér stað og stund í gegnum tíðina. Og sumir þeirra virðast eiga sér náttúrulegar skýringar og byggja á eðlishvötum. Það að benda á staðreyndir um morð, nauðganir, stríð og skemmdarverk segir lítið annað en þetta: Slæmir hlutir hafa gerst í mannkynssögunni en það þýðir samt ekki að menningarlegar og náttúrulegar staðreyndir séu til þess fallnar að réttlæta hvað sem er. Á sama hátt getum við ekki réttlætt hvað sem er á þeirri forsendu að það sé „náttúrulegt“. Svokölluð „vísun til náttúru“ (e. appeal to nature) er raunar önnur tegund af rökvillu. Það væri t.d. hægt að neita fólki um lífsnauðsynleg lyf á þeim forsendum að vilja „náttúrulegan bata“. Það er þó ekki hægt að líta algjörlega framhjá menningarrökum. Matarmenning, listmenning, arkitektúr, hefðir, siðir og annað í þeim dúr hefur vissulega gildi. Sú þjóð sem væri algjörlega snauð þessum menningarlegu þáttum væri afar fátækleg. Við getum litið til sögu Íslendinga. Dásamleg þjóð í dásamlegu landi. Lopapeysurnar eru glæsilegar, íslenska sauðkindin er harðjaxl og matarmenningin er sérstök! Siðferðisvandinn er hins vegar að koma smátt og smátt í ljós með auðveldara aðgengi í alls konar matarvöru. Við þurfum ekki lengur sauðkindina sem hjálpaði okkur að nema landið. Við þurfum ekki lengur að borða sviðakjamma og hrútspunga. Við þurfum ekki lengur lopapeysur og það er í raun dálítið fáránlegt að halda því fram að heil þjóðmenning standi og falli með þessum hlutum. Vandamálið sem fylgir framleiðslu dýraafurða er annars eðlis en menningararfur tengdur

19 dauðum hlutum. Dauðir hlutir eiga sér t.d. ekki hagsmuni. Þar að auki er ullarframleiðsla ekki jafn stórt siðferðismál og kjötframleiðsla. Það er t.d. vel hægt að rýja kindur án þess að senda þær eða lömbin þeirra í sláturhús. Veganistar eru nokkuð á báðum áttum varðandi þetta dæmi en þó eru flestir á því að í ullarframleiðslu sé verið að nýta dýr. Peter Singer kom með ágætan punkt þegar hann fjallaði um það sem við köllum náttúrulegt: „Aðferðir sem hafa löngum verið taldar náttúrlegar og óumflýjanlegar geta breyst í óréttmæta fordóma“.30 Þetta virðist sannarlega eiga við þegar við horfum aftur í tímann á misrétti kynþáttahyggjunnar og misrétti meðal kynjanna. Sagan heldur áfram að endurtaka sig ef við trúum ekki á breytingar. Kannski er ekki svo galið tengja tegundahyggjuna við svipaða fordóma. Singer virðist vera sammála því og hann leggur til að við stækkum réttindamengið til annara tegunda á sama hátt og við höfum gert innan okkar tegundar.31 Þetta er akkúrat það sem veganistar hafa gert og það sem veganismi snýst um.

PARTUR III: ÁSKORANIR OG ÚRLAUSNIR 5. Gráu svæðin og hugmyndafræðilegir annmarkar

Nú þegar veganismi hefur verið útskýrður og siðferðisvandinn útlistaður þá virðist veganska hugmyndafræðin standa vel að vígi, sérstaklega ef við tökum forsenduna um fullnægjandi næringu í plöntufæði gilda. Veganismi sem hugmyndafræði er samt þrátt fyrir það ekki laus við áskoranir. Það eru einmitt þessar áskoranir sem hafa stundum verið hunsaðar af talsmönnum hreyfingarinnar. Það kann að eiga sér skiljanlegar og réttmætar ástæður en það þýðir þó ekki að það sé ásættanlegt að horfa framhjá stærri áskorunum. Hér og nú verða tekin fyrir tvö grá svæði (áskoranir) sem veganismi þyrfti að takast á við. Það eru (i) hreindýrastofninn á Íslandi og (ii) íslenska sauðkindin. Gráu svæðin eru eins og nafnið gefur til kynna, „óljósari“ siðferðisvandamál þar sem flækjustig málsins veldur hugmyndafræðinni ákveðnum erfiðleikum. Stærri áskorun þýðir jafnan umdeildari vandi og afleiðingin er oft uppgjöf í umræðunni. Það er óásættanlegt fyrir alla aðila innan umræðunnar. Að takast ekki á við áskorun gráu svæðanna getur orsakað a.m.k. fjóra slæma hluti:

30 Sama rit, 172. 31 Sama rit, 172-179.

20 (i) Umræðan fjarar út: Veganistar eiga það til að afvegaleiða umræðuna frá gráu svæðunum yfir á hrottafullan framleiðslubúskap sem enginn er tilbúinn að samþykkja. Veganistar vilja skiljanlega ráðast á vandann þar sem neyðin er mest áður en flóknari mál eru tekin fyrir en á sama tíma grefur þetta undan umræðunni. (ii) Hugmyndafræðin virkar ótrúverðug: Þegar veganistar taka ekki áskoruninni sem gráu svæðin bjóða upp á þá grefur það undan trúverðugleika hugmyndafræðinnar sem slíkar. (iii) Siðferðisvandinn hunsaður: Minni trúverðugleiki gagnvart hugmyndafræðinni getur orsakað minni trúverðugleika gagnvart öðrum augljósari atriðum innan dýrasiðfræðinnar. Andstæðingar veganista nýta sér fjölþætt grá svæði fyrir aðgerðarleysi á siðferðisvandamálinu í heild sinni, ekki bara á gráu svæðunum. (iv) Klofningur tveggja fylkinga: Allt að ofanverðu skapar gremju sem ýtir undir frekari klofning milli hópanna tveggja í umræðunni. Klofningurinn gæti orsakað hægari breytingar, breytingar sem veganistar tala fyrir og vonast eftir.

(i) Hreindýrastofn Íslands

Skoðum hreindýrastofn Íslands. Segjum sem svo að hætt verði að veiða hreindýr á Íslandi. Fæða fyrir hreindýrin á veturna er takmörkuð fyrir hreindýrastofninn í heild sinni. Ef stofninn stækkar of hratt, til dæmis þar sem engir náttúrulegir óvinir eru til staðar, þá lendir hann fljótt í fæðuskorti og hor og hann gæti jafnvel dáið út. Þetta gerðist þegar 29 hreindýrum var komið fyrir á eyjunni St. Matthew’s árið 1944. Á tæplega 20 árum hafði stofninn stækkað í um 6000 dýr. Svo kom harður vetur og dýrin dóu næstum út, aðeins um 40 dýr voru á eyjunni árið 1966. Stofninn var svo alveg dáinn út um árið 1980. Vísindamenn telja að það hafi verið vegna fæðuskorts.32 Er þá komin réttlæting fyrir því að skjóta hreindýr á Íslandi? Rökin með hreindýraveiðum eru a.m.k. talsvert sterkari en rökin með framleiðslubúskap. Fyrir það fyrsta þá eru hreindýrin ekki í sínu „náttúrulega“ umhverfi, það vantar rándýr fyrir jafnvægi stofnsins. Við mennirnir höfum gengið í verkið í stað þeirra úlfa sem hreindýrin hafa venjulega í sínu náttúrulega umhverfi. Það að hreindýrin eigi ekki heima hérna eru ekki nægilega góð mótrök fyrir veganista, það þarf að taka á vandamálinu eins og staðan er í dag.

32 David R. Klein, ''The Introduction, Increase, and Crash of Reindeer on St. Matthew Island'', Alaska Cooperative Wildlife Research Unit, University of Alaska http://dieoff.org/page80.htm

21 Það mætti kalla það mistök að hafa flutt þau til landsins en það leysir hins vegar ekki vandamál samtímans og mistök fortíðar eru ekki rök gegn veiðum í dag. Ábyrgðin er okkar og það virðist í fljótu bragði vera best fyrir stofninn að hann sé grisjaður. Væri hægt að flytja þau aftur úr landi og leysa vandamálið þannig? Það væri vægast sagt umdeild aðgerð og varla raunhæf. Þar að auki er erfitt að sjá af hverju það væri betra fyrir hreindýrin að flýja undan og vera étin af úlfum í öðru landi en að vera skotin og borðuð af mönnum á Íslandi. Ef við setjum okkur í spor hreindýranna þá er munurinn í það minnsta mjög óljós. Einhver gæti bent á að úlfarnir væru „náttúrulegri“ en við mennirnir. Maðurinn er samt ekkert síður partur af náttúrunni og úlfar né er það sem er „náttúrulegt“ það sama og gott eins og áður kom fram. En er það okkar hlutverk að stíga inn í náttúruna með veiðum? Getum við ekki bara leyft hreindýrunum að útkljá þetta mál sjálf, að láta náttúruna sjá um þetta sjálf ? Því miður bendir margt til þess að þau fari sér að voða og deyi út á Íslandi ef við gerum ekkert. Það er erfitt að réttlæta það að standa hjá aðgerðalaus. Aðgerðarleysi gagnvart siðferðisvandanum virðist jafnframt siðferðilega ámælisvert í sjálfu sér. Annar slæmur möguleiki væri að skjóta öll dýrin þannig að stofninn hverfi alveg og siðferðisvandinn þar með talinn. Þessir tveir möguleikar eru slæm útkoma fyrir alla aðila. Þeir eru slæmir fyrir veganistann sem vill sjá dýrin og stofninn dafna (vera í jafnvægi), slæmir fyrir hreindýrin sjálf og slæmir fyrir veiðimennina sem vilja sjá þau áfram á Íslandi og nýta þau til matar. Það væri þó hægt að hætta veiðum sem myndi þýða stækkun á stofninum og við gætum kannski hjálpað hreindýrunum með því að gefa þeim fæðu á veturna. Það myndi þó líklega bara þýða eitt: Ennþá meiri stækkun stofnsins og engin lausn á vandamálinu. Ein möguleg lausn fyrir veganista er að fanga öll hreindýrin, setja þau í girðingar og stjórna stærð stofnsins með kerfisbundnum hætti. Þá væri hægt að hætta veiðum án þess að stofninn lendi í hungursneyð með tilheyrandi þjáningu. Vandamálið við þetta er frelsisskerðingin til ferðalaga og fjölgunar. Það ekki augljóst að það sé hreindýrunum fyrir bestu þrátt fyrir að grisjun með skotvopnum sé ekki lengur til staðar. Þetta væru mikil inngrip mannsins í líf dýranna og það er sannarlega varhugavert. Dýragarðar eru og munu sennilega ávallt vera mjög umdeildir staðir fyrir villt dýr og þrátt fyrir ákveðið öryggi þá virðist frelsi úti í náttúrunni mun fýsilegri kostur þrátt fyrir ákveðnar hættur. Veganistar og dýraverndunarsinnar hafa sömuleiðis ávallt talað fyrir því að villt dýr eigi að fá að vera frjáls í sínu náttúrulega umhverfi eftir fremsta megni og hafnað rekstri á dýragörðum í nokkurri

22 mynd. Ísland er kannski ekki hið náttúrlega umhverfi fyrir hreindýrin en þau eru hér í dag og þau spjara sig ágætlega, í raun spjara þau sig of vel vegna þess að rándýrin eru ekki til staðar, nema maðurinn. Það að láta dýrin alveg vera virðist vera sú lína sem veganismi vill taka, þegar hugmyndafræðin er tekin bókstaflega. Það virðist hins vegar ekki vera hreindýrunum fyrir bestu, sérstaklega ef þau deyja út á einu bretti í þjáningarfullri hungursneyð. Hér má þess vegna sjá mögulegan árekstur hugmyndafræðinnar við markmið sín. Þetta er vandamál fyrir veganisma og sérstaklega ef hreyfingin neitar að skoða málamiðlanir.

(ii) Íslenzka sauðkindin

Hvað verður um íslensku sauðkindina í veganskri framtíð? Ef við hættum að nýta bæði kjöt og ull þá mun stofninn skiljanlega minnka mikið. Það að stofninn minnki er kannski ekki svo slæmt fyrir einstaklingana og tegundina í sjálfu sér. Minnkun stofnsins væri líka frábært fyrir flóru Íslands sem hlýtur mikinn skaða af lausagöngu fjár, fyrir utan kolefnissporið sem er stærra en margan grunar.33 Það er líka mikilvægur munur á „minni stofn“ og „útþurrkun stofns“. Við gætum til samanburðar fært nokkuð sannfærandi rök fyrir því að mannkynið telji of marga einstaklinga og fækkun fólks sé af hinu góða án þess að sú fækkun sé þvinguð fram með valdi. Hér gæti skipt máli hvernig minnkun sauðfjárstofnsins fer fram en minnkun í sjálfu sér virðist ekki svo mikið vandamál, þvert á móti. Hversu mikilvægir eru samt hlutir eins og menning, í þessu tilfelli sauðfjármenning? Það má sýna því skilning að fólki þyki vænt um hluti eins og tiltekna menningu en hér þarf maður að vera meðvitaður um eitt lykilatriði: Menning þjáist ekki en einstaklingar innan menningar geta þjáðst, þjóð þjáist ekki en einstaklingar innan þjóðar geta þjáðst, hugmyndir þjást ekki en einstaklingar með hugmyndir geta þjáðst. Það má vera að fólk þjáist við ákveðnar hugmyndir eða brotthvarf þeirra (t.d. við brotthvarf menningar/hefða/siða) en líkamleg þjáning og dauði einstaklinga hlýtur að vega meira en tilfinningar og hugmyndir í þessu tilfelli. Við þurfum miklu frekar að hugsa um lausnir fyrir sauðfjárbændur (einstaklingana) í veganskri framtíð heldur en að bjarga sauðfjármenningu. Sömuleiðis þurfum við að hugsa um einstaklingana sem við köllum sauðfé.

33 Birna Sigrún Hallsdóttir, Stefán Gíslason, „Losun groðurhusalofttegunda fra sauðfjarbuum a Íslandi og aðgerðir til að draga ur losun“, Umhverfisráðgjöf Íslands ehf. (Environice) https://www.environice.is/wp-content/uploads/2018/01/GHL-saudfe-Environice-LOKA.pdf

23 Hugmyndir geta samt vissulega verið stórkostlega mikilvægar, jafnvel svo mikilvægar að þær bjargi lífum einstaklinga. Þetta gætu t.d. verið hugmyndir um réttlæti, jafnrétti, virðingu og svo framvegis. Veganismi byggir á ákveðinni hugmynd sem hefur hrint af stað hreyfingu sem hefur það að markmiði að bjarga lífi einstaklinga í dýraríkinu. Hugmyndin um sauðfjármenningu hefur vissulega sögulegt gildi. Einstaklingarnir (menn og sauðfé) innan þeirrar menningar hafa í raun stuðlað að íslensku þjóðinni eins og hún er í dag. Sögulegt gildi sauðfjármenningar verður þrátt fyrir það ekki nægileg réttlæting fyrir áframhaldandi ástand. Sauðfjárbændur hafa sannarlega lagt allt í sölurnar fyrir sitt líferni og það þyrfti vissulega að styrkja þá í veganskri framtíð, t.d. með ríkisstyrkjum svo þau geti fært sig úr sauðfjárrækt yfir í grænmetisrækt. Sauðfjárbændur eru einstaklingar sem þarf að huga að en hvað verður um hina einstaklingana? Hvað verður um íslensku sauðkindina sem getur varla bjargað sér án mannsins? Íslenska sauðkindin er harðgerð en íslenski veturinn er ennþá harðari. Kindurnar væru í verulegum vandræðum yfir veturinn án þess að hafa húsaskjól og aðstoð frá bændum. Hvað getur vegansimi tekist á við þetta vandamál? Segjum sem svo að stofninn minnki niður í nokkur dýraathvörf þar sem dýrin fá húsaskjól, umönnun, ást og hvað eina innan nýrrar veganskrar menningar. Ef við ætlum ekki að skerða ferðafrelsi þeirra á sumrin, hvernig ætlum við að halda stofninum í skefjum? Ófrjósemisaðgerðir? Minna ferðafrelsi með girðingum? Girðingar til að aðgreina ær frá hrútum? Hvernig sem þessar aðgerðir og úrlausnir kunna hljóma, þá yrðu framkvæmdirnar óásættanlegar fyrir hugmyndafræðilega fullkomnun. Það er vonlaust að sjá þær smella beint inn í veganisma sem tekur ekki að sér neinar málamiðlanir.

(iii) Hugmyndafræðilegir annmarkar

Það væri hægt að nefna fleiri grá svæði í veganisma sem styðja vankanta hugmyndafræðinnar, t.d. meindýravarnir og gæludýrahald. Það er hins vegar ekki ætlunin að telja það allt saman upp. Lærdómurinn með gráu svæðunum sem voru skoðuð hér að ofan er í raun bara þessi: Hugmyndafræði, sé hún tekin of bókstaflega, hefur sín takmörk. Hugmyndafræðilegur veganismi er ekki undanskilinn hvað þetta varðar. Það að meitla hugmyndafræðilegar línur í stein er í eðli sínu takmarkandi og við ættum að vera meðvituð um það. Þetta er ekki þó ekki óyfirstíganlegt vandamál, sé sæmilegur skilningur á þessu. Vandamálið við vegönsku hreyfinguna er sá að hugmyndafræðilegir annmarkar virðist oft á tíðum vera hunsaðir. Það er raunverulegt vandamál fyrir umræðuna um veganisma.

24 Úrlausn fyrir veganisma má hins vegar jafnvel finna í hlutum eins og sérstökum tengslum milli ákveðinna einstaklinga eða huglægum tilfinningum gagnvart okkar nánustu. Þetta verður útskýrt í komandi köflum. Fyrst þarf að kafa aðeins ofan í þau sjónarhorn, bæði einstaklingsmiðuð sjónarhorn (huglæg) og sameinuð sjónarhorn (huglæg/hlutlæg), til að skilja betur það sem siðfræðin hefur upp á að bjóða fyrir veganisma.

6. Mismunandi sjónarhorn og tengsl í siðfræði

Við getum talað um „hlutlægt (e. objective) sjónarhorn“ eða hlutlægan dóm þegar við metum gildi, eins konar yfirsýn eða sameiginlegt sjónarhorn — yfir einhvers konar heild (t.d. samfélag, mannkyn, dýraríkið, o.s.frv.). Þetta sjónarhorn hefur gefið góða raun í að meta fyrir fram gildi einstaklinga jafnt, að allt fólk skipti jafn miklu máli í sjálfu sér. Þetta er gert til að forðast huglæga þætti eins og fordóma í lagagjöf. Gildismat verður samt ávallt til frá (a.m.k.) tveimur mismunandi sjónarhornum þar sem hitt sjónarhornið er huglægt (e. subjective). Huglæg sjónarhorn koma frá ákveðnum einstaklingum. Sjónarhorn einstaklinga eru auðvitað mjög misjöfn en svoleiðis sjónarhorn skipta líka máli. Við getum líka reynt að skilja huglægt sameiginlegt sjónarhorn tegundar. Dæmi um það gæti verið almennt sjónarhorn mannkyns á önnur dýr. Það gæti verið t.d. „matur“ eða einfaldlega „fiskur“. Það er erfiðara að skilja huglægt sjónarhorn dýraríkisins í heild sinni en við gætum samt sagt: Við erum öll dýr, við erum flestöll með heila og taugakerfi sem skynja upplifun á lífinu og þjáningu þess, við erum flestöll skyni gæddar verur og þetta sameinar okkur í dýraríkinu. Það er hins vegar orðið dálítið langsótt að skilja huglægt sjónarhorn lífríkisins í heild sinni. Við gætum reynt að skilja hagsmuni plantna og skoðað hlutina út frá vistfræðilegu sjónarhorni en það er erfiðara að skilja siðfræðileg gildi einstaklinga í vistfræðilegu samhengi. Við ættum þó að gera okkar allra besta í því að skoða og skilja mismunandi vistkerfi, rannsaka sjaldgæfar tegundir, bæði meðal dýra og plantna og breyta hegðun okkar í samræmi við það fyrir heilbrigðara lífríki á jörðu. Hvernig sem við lítum á málið (sjónarhornin) þá virðist mannfólk samt skipta meira máli en önnur dýr, ekki í sjálfu sér heldur innan mannlegra samfélaga þar sem siðferði og siðfræði hefur skotið rótum. Siðfræðin er sömuleiðis takmörkuð fræðigrein sem er ástunduð af takmörkuðum einstaklingum með takmarkað sjónarhorn á tilveruna í heild sinni. Þegar við ætlum að vega og meta gildi einstaklinga þá virðist ómögulegt að horfa algjörlega framhjá

25 þessu atriði í jöfnunni. Við höfum okkar sameiginlega huglæga sjónarhorn sem tegund. Mannfólk hefur einfaldlega fleiri (skiljanlega) hagsmuni en önnur dýr sem gerir mennina „verðmætari“ í einhverjum skilningi orðsins. Siðferðileg greining sem þessi er auðvitað mannhverf, greind frá mannlegu sjónarhorni en það er sjónarhornið sem við höfum og skiljum. Okkar huglæga sjónarhorn er þó, eins og áður kom fram, aðeins hálf sagan af heildinni og þrátt fyrir mannlega greiningu frá mannlegu sjónarhorni þá er erfitt að sjá hvernig þessi munur á mönnum og dýrum verður fullnægjandi sem réttlæting fyrir status quo meðferð okkar á dýrum. Skilningur á mismunandi sjónarhornum gerir nálgun Peter Singer svolítið þröngsýna og takmarkandi. Hér er átt við takmörk mannfólks í þeirri miklu kröfu sem Singer gerir til okkar mannlega eðlis. Þetta virðist við fyrstu sýn vera algjör afneitun á dýrinu sem við erum í raun. Tegundahyggjulaus einstaklingur felur í sér hlutlægt siðferði í huglægu dýraríki. Menn eru jafnmikil dýr og önnur dýr þrátt fyrir siðmenntun okkar mannanna. Við höfum ávallt sýnt þess merki að vera breysk, þrátt fyrir siðmenntun. Með því að skilja þá staðreynd þá ættum við einnig að skilja hversu (siðferðilega) takmarkaðar verur við erum þegar á reynir. Við höfum okkar huglægu fordóma og það er ekkert rangt við það að gangast við þeim og sætta sig við ef það ýtir okkur ekki út í öfgar og ofbeldi. Það að vera meðvituð um slíkar tilhneigingar ætti ekki að koma fram sem uppgjöf gagnvart siðfræðinni. Þvert á móti ætti meðvitund um þetta frekar að hjálpa okkur í að taka siðferðilega réttar ákvarðanir og forðast öfgar. Öfgar og ofbeldi geta brotist út ef tegundahyggja fer of langt og það gæti útskýrt það sem er að gerast í dag. Ofbeldi getur líka brotist út ef við horfum algjörlega framhjá huglægum fordómum okkar, ef við búum til algjört flatlendi siðferðisgilda, ef við dæmum annað fólk fyrir að hið gagnstæða, ef við teljum fólk siðlaust fyrir sín huglægu sjónarmið og ef við bregðumst við af hörku. Það er verknaðurinn sjálfur, í þessu tilfelli dráp á dýrum sem skiptir máli, ekki hvað við köllum hann, hvort sem það er tegundahyggja eða eitthvað annað. Það er mikilvægt að maðurinn þekki sín takmörk, takmörk sín í að meta alla einstaklinga jafnt. Við gætum aldrei lifað sem einstaklingar án þess að hafa huglæga afstöðu gagnvart okkar nánustu og þar með taldir eru huglægir fordómar gagnvart þeim sem standa okkur fjær. Við höfum einfaldlega sterkari tengsl við fjölskylduna okkar en aðrar fjölskyldur og við höfum einfaldlega sterkari tengsl við menn en dýr. Téðir náttúrulegir fordómar gætu raunar verið akkúrat það sem við þurfum til að vera siðferðilegar verur. Það er hugmyndin — að það sé siðferðilegt gildi í þeim tengslum sem við höfum við aðra einstaklinga, hvort sem það

26 er maður eða annað dýr. Tengslin eru samskipti sem bjóða upp á þekkingu um hvernig skal haga sér í samfélagi. Útkoman hefur stundum verið kölluð „óskráðar reglur“ samfélagsins. Ef við samþykkjum samlíkingu Singers um að tegundahyggja sé hliðstæða kynþáttahyggju þá ættum við líka að samþykkja að hún sé hliðstæða þjóðernishyggju. Þetta vandamál ætti ekki að vera óyfirstíganlegt. Heimsborgarahyggja er til að mynda hugmyndafræði þar sem stefnan er sú að allir einstaklingar hafi sömu réttindi og sömu reglur gildi fyrir alla, óháð kyni, útliti eða þjóðerni. Sameiginlegi þátturinn á að vera hið mannlega, ekki hið þjóðlega. Hjá Singer er sameiginlegi þátturinn hið dýrslega, ekki tegundarlega. Heimsborgarahyggja og veganismi eiga það sameiginlegt að stefnurnar vilja víkka út siðferðismengi sitt. Veganismi vill ná utan um allt dýraríkið. Heimsborgarahyggjan vill ná utan um allt mannfólk. Svona stækkun hljómar eins og falleg hugmynd en hún er þó ekki laus við vandamál. Heimspekingurinn Samuel Schefflers hefur gagnrýnt heimsborgarahyggju þar sem hann bendir á vandamál hvað þetta varðar. Þetta vandamál hefur verið kallað „klípan hennar Nussbaum“ (e. Nussbaum’s dilemma):

Við þurfum annað hvort að gera eins og Nussbaum sem er að færa rök fyrir því að sérstök athygli gagnvart okkar nánustu sé árangursrík leið fyrir mannkynið í heild sinni eða gera ráð fyrir því að okkar nánustu séu einfaldlega meira virði en aðrir.34

Það er alls ekki erfitt að færa rök fyrir fyrra atriðinu, það að veita okkar nánustu sérstaka athygli er árangursrík leið fyrir mannkynið í heild. Að hugsa vel um sjálfan sig og sína nánustu er grundvöllur og forsenda fyrir gott líf, ekki bara fyrir mann sjálfan heldur líka okkar nánustu og þar með samfélagið í heild sinni. Í nánum samböndum við annað fólk verður til eitthvað sem mætti kalla „siðferðisuppsprettu“ sem býður upp á siðferðilega þekkingu. Við lærum að vera siðferðisverur með því að lifa með öðrum. Við lærum hvað má og hvað má ekki gera. Við fetum okkur áfram, lendum í vandamálum, vinnum úr þeim og höldum áfram. Aðrar dýrategundir gera þetta reyndar á furðulega svipaðan hátt og við. Hvað sem því líður gerir góður einstaklingur samfélaginu gott. Góð samfélög eru sömuleiðis góð fyrir nærliggjandi samfélög og svo framvegis. Seinna atriðið skiptir ekki svo miklu máli svo fremi sem við viðurkennum mannlega þáttinn í okkur, dýrið sem býr innra með okkur, fordómana sem eru sannarlega til staðar í okkur öllum. Þurfum við að færa rök fyrir því að okkar nánustu séu meira virði en aðrir? Er

34 Samuel Scheffler, „Conceptions of Cosmopolitanism,“ Boundaries and Allegiances: Problems of Justice and Responsibility in Liberal Thought, (Oxford: Oxford University Press Inc., 2001) 118.

27 það ekki bara staðreynd? Okkur þykir einfaldlega meira vænt um fólkið sem við þekkjum heldur en fólk sem við þekkjum ekki. Við höfum tamið okkur um að meta manneskjur jafnt og það er gott í lagalegu samhengi en við högum okkur ekki siðferðilega eftir því. Það er ekki siðferðilegt vandamál að veita okkar nánustu sérstaka athygli. Við höfum mun sterkari tengsl til Íslands en til annara landa. Við höfum sömuleiðis sterkari tengsl til Noregs heldur en til Ástralíu. Við höfum sterkari tengsl til Vesturlanda heldur en til Afríkulanda. Á sama hátt höfum við sterkari tengsl við tegundina okkar heldur en aðrar tegundir. Við „verðleggjum“ okkar nánast fólk og okkar nánustu tegundir hærra en það sem stendur okkur fjær. Er það ekki einmitt væntumhyggjan sem veldur því?

Þetta eru auðvitað alhæfingar en þær virðist hafa ýmislegt til síns máls. Það kann að hljóma óréttlátt í einhverjum skilningi orðsins en eitt er víst: Þetta er alveg örugglega óumflýjanlegt. Við losnum ekki við okkar huglæga og hlutdræga sjónarhorn. Þetta sjónarhorn skapar (að hluta til) þá siðferðisvitund sem við höfum og ræktum með okkur. Svo höfum við okkar hlutlæga yfirlit sem tekur mið af hinu huglæga en heldur því í skefjum. Okkar huglæga sjónarhorn hefur nefnilega hlutdrægni á meðan hlutlæga yfirlitið ætti ekki að hafa það. Hlutlægt yfirlit segir samt bara hálfa söguna. Við þurfum huglæg sjónarhorn með í för til að stuðla að ákjósanlegu siðferði og það kann að vera það sem umræðuna innan veganisma hefur skort fram að þessu.

7. Innsæi í siðfræði

Innsæishyggja í siðfræði var í hávegum höfð á Bretlandseyjum frá fyrri hluta 18. aldar til þriðja áratugs 20. aldar. Endurreisn innsæishyggjunar varð að veruleika í lok 20. aldar eftir talsverða lægð á fjórða áratugnum.35 Það eru ólíkir straumar innan innsæishyggjunnar en það er þó sérstaklega eitt innan hennar sem heimspekingar eru nær ávallt sammála um: Allir klassískir innsæishyggjumenn halda því fram að grunnforsendur siðfræðinnar séu sjálfljósar (e. self-evident). Það þýðir þó ekki að þær séu augljósar. Hér að framan hefur verið fjallað um nokkur atriði sem tengjast gildismati. Þar hefur verið gefið í skyn að það sé einhvers konar innsæi sem siðferðilega afstöðu hefur skort. Það

35 Philip Stratton-Lake, „Intuitionism in Ethics.“ The Stanford Encyclopedia of Philosophy https://plato.stanford.edu/archives/win2016/ entries/intuitionism-ethics

28 þarf að útskýra hvers konar innsæi það er. Það þarf einnig að útskýra af hverju innsæi af því tagi er svona mikilvægt. Færa þarf rök fyrir því að innsæi sé í fyrsta lagi ákjósanlegt og í öðru lagi nauðsynlegt — sem partur af góðu siðferði. Innsæi er samt vandmeðfarið hugtak. Það eru a.m.k. tvær ástæður fyrir því: Sú fyrri er að innsæi, sé það eitthvað sem við getum skilið, er og verður alltaf óljóst fyrirbæri og þess vegna ekki auðskiljanlegt. Því til viðbótar er innsæi einnig bókstaflega margir mismunandi hlutir í einu og á sama tíma. Ef við tökum bókstaflegu merkinguna, „inn-sæi/í-sæi“, „að sjá inn á við“ þá segir það okkur lítið sem ekkert sem skiptir máli í siðfræðilegu samhengi. Viðeigandi innsæi tengist siðferðishugsun á órjúfanlegan hátt og svoleiðis innsæi á sér a.m.k. fjögur einkenni:

(i) Siðferðilegt innsæi inniheldur getspeki, þ.e. næman skilning, það að vera getspakur, viðbúinn aðstæðum, svolítið eins og næmt viðbragð (e. responsibility/the ability to respond), hæfileikinn til að bregðast við. Þetta gerir innsæi að viðbragðseiginleika með tafarleysi (e. immediacy). (ii) Siðferðilegt innsæi er hugsæi, þ.e. hæfileiki til að afla sér siðferðilegrar þekkingar sem gerir innsæið einnig að uppsprettu þekkingar. Það mætti kannski kalla það „tafarlaust siðferðisminni“ — eiginleiki til að sækja siðferðilega þekkingu en líka eiginleiki til að afla sér þekkingar. (iii) Siðferðilegt innsæi er eins konar eðlisávísun, meðfæddur og órjúfanlegur eiginleiki hjá manninum en sömuleiðis eiginleiki sem önnur dýr hafa og jafnvel fleiri tegundir í lífríkinu líka. Þetta er s.s. eiginleiki sem við getum hvorki losað okkur við eða lifað án. Þetta er órjúfanlegur partur af okkar náttúru. (iv) Siðferðilegt innsæi er eitthvað annað en rökhugsun. Innsæi er s.s. eitthvað annað en lærdómurinn sem við fáum hjá rökhugsun, kannski einmitt vegna þess að innsæið er tafarlaust. Rökhugsun er hins vegar ígrundun sem er háð meiri tíma.

Innsæið er einhvers konar óáþreifanleg samblanda þessara atriða. Rétt er að nefna að rökhugsun og innsæi eru ekki andstæður þrátt fyrir ákveðna spennu þeirra á milli. Spennan er þó af hinu góða. Spennan er aðeins til staðar svo fremi sem bæði fyrirbæri fá vægi og þau þurfa vissulega bæði sitt vægi. Til að setja þetta í myndmál mætti segja að rökhugsun haldi innsæinu í skefjum og öfugt. Annað heldur hinu í skefjum en þau þurfa líka á hvoru öðru að halda. Þegar allt kemur til alls virðast þau bæði jafn mikilvæg fyrir lausnir siðferðilegra vandamála. Sé raunin önnur, að annað sé mikilvægara en hitt, þá er varla hægt að færa

29 sönnur á það og niðurstaða þeirrar sönnunar væri harla áhugaverð né eftirsóknarverð. Það væri hins vegar eftirsóknarverð hugmynd að fá þekkingu á siðfræði í báðum þekkingaruppsprettum, í innsæi en líka í rökhugsun. Hvers vegna þarf innsæi að vera með í siðferðilegri greiningu? Hér mætti telja upp a.m.k. sex atriði. Það er í fyrsta lagi ekki hægt að horfa framhjá innsæinu, brjóstvitinu, hugsæinu. Við getum ekki bælt innsæið niður. Sama hversu rökhugsandi við þykjumst vera, sama hversu mikið við þvingum allt innsæi til hliðar, sama hversu mikið við reiknum út siðferðileg álitamál með rökhugsun einni saman, þá getum við aldrei lokað algerlega á eitthvað sem býr innra með okkur, eitthvað sem vaknar þegar við skynjum óréttlæti, einhver grundvallar tilfinning innra með okkur, eitthvað sem fær okkur til að krauma af reiði þegar augljóst óréttlæti birtist, eitthvað sem fær okkur til að bregðast við hið snarasta. Réttlætiskenndin er óumflýjanlegur partur af okkar náttúru. Það að loka á hana mun einungis bæla niður það sem er okkur eðlilegt og það verður að teljast líklegt að svoleiðis bæling muni springa út í einhverju sem ættum að forðast. Innsæið er jafn óumflýjanlegt og það er mannlegt. Sama hversu mikið við þykjumst elska öll dýr í heiminum jafnt þá kemur hin mannlega náttúra í ljós þegar á reynir. Við stöndum helst með þeim sem standa okkur næst, líkamlega og andlega.

(i) Innsæi er óumflýjanlegt, við getum ekki bælt það niður. (ii) Innsæi er mannlegt, við ættum að taka það í sátt til að skilja það betur og þar með skilja okkur sjálf betur.

Við bælum ekki siðferðilegt innsæi niður og það er í raun nokkurs konar uppspretta siðferðishugsunar okkar. Það væri einungis sú siðfræði sem skrifuð væri á blað á fjallstindi hjá manneskju sem hefði aldrei komist í kynni við aðra menn eða önnur dýr sem myndi ekki taka tillit til þess. Hér er ekki átt við reynslu af eða rannsóknir á innsæi, heldur þær vísbendingar sem vakna innra með okkur þegar við finnum fyrir óréttlæti. Tilfinningin sem vaknar er vísbendingin sem hér er reynt að draga fram. Það er hin óljósa en samt nauðsynlega þekking sem við þurfum á að halda sem siðferðisverur. Það er þessi ónotalega tilfinning sem vaknar þegar við heyrum um hugmyndir og um að jafnvel sé mögulegt að rækta eiginleika til þjáningar úr dýrum. Ónotatilfinningin er einhvers konar siðferðiskennd.

30 (iii) Innsæi er þekkingaruppspretta í báðar áttir, bæði sem minni sem safnar siðferðisreynslu… (iv) …en líka sem forsenda fyrir tafarlaust viðbragð í samræmi við þá reynslu.

Ónotatilfinning vaknar sömuleiðis við aðrar röklegar alhæfingar: Ég átti samtal við mann um daginn sem sagði að ef hann hefði fjarstýringu í höndunum sem myndi útrýma mannkyninu af plánetunni þá myndi hann ýta á takkann. Það væri best fyrir lífríkið á Jörðu. Þessi fullyrðing virðist fullkomlega rökrétt en líklega er það innsæi okkar sem fær okkur til að hugleiða fleiri hliðar þessa máls. Slík sýn á vandamálin byggir á algjöru flatlendi siðferðisgilda. Heildin er metin en ekkert annað er metið sem er nánast það sama og tómhyggja. Það lifa fáir í samræmi við svoleiðis tómhyggju enda virðist það hvorki ráðlegt né eftirsóknarvert. Öfgafullar hugmyndir sem þessar eiga sér uppsprettu í algjörri rökhyggju eða í fullkominni andstæðu hennar. Það mætti t.d. líkja ótakmörkuðu innsæi (algjörri huglægni) við svokallað frumskógarlögmál þar sem heildarhugsun er hvergi skiljanleg og allir einstaklingar hugsa einungis um sitt í náttúruvalinu. Rökhugsun er ekki slæm og innsæið er ekki slæmt. Það virðist samt sem áður slæmt að sjá annað drottna algerlega yfir hinu, á þann hátt að annað hvort fær algjört vægi sem orsakar alhæfingar fyrir niðurstöður. Flóknar siðferðilegar spurningar sem tengjast sjálfljósum gildum hafa ekki augljós svör. Annað hvort „já“ eða „nei“ eru ekki svör sem hafa þjónað heimspekinni vel. Hvað eigum við að gera við hreindýrastofninn? Er réttlætanlegt að halda gæludýr? Væri dapurt að láta íslensku sauðkindina deyja út? Niðurstöður sem annað hvort útrýma hreindýrunum eða hunsa vandamálið (og láta hreindýrin útrýma sér sjálf) eru varla það sem siðfræði á að færa okkur. Við viljum bregðast við siðferðisvandanum og til þess þarf umræðu, málamiðlun og úrvinnslu. Það gerist ekki án rökhugsunar. Samvinna rökhugsunar og innsæis gera siðfræðina skiljanlegri.

(v) Innsæi stuðlar að jafnvægi milli rökhugsunar og innsæis: Innsæi heldur rökhugsun í skefjum og öfugt. Þetta er mikilvægt fyrir hugmyndafræðilega árekstra. (vi) Innsæi gerir siðfræðina skiljanlegri: Viðurkenning á innsæi í siðfræði getur verið hjálpleg fyrir flókin siðferðismál. Málamiðlun verður ásættanleg með því að viðurkenna innsæi.

31 Huglæg sjónarmið, tilfinningar og eðli (sem og tilheyrandi fordómar) þurfa ákveðna viðurkenningu svo hægt sé að taka innsæi inn í siðfræðina. Þessi huglægu sjónarmið hafa ekki fengið viðurkenningu í veganisma, a.m.k. ekki að neinu viti. Veganismi hefur í raun talað gegn innsæinu og gegn sérstökum tengslum milli þeirra sem standa okkur næst. Þetta er valkvætt úrræði hjá hreyfingunni en úrræðið virðist hafa skapað öngstrætið sem einkennir umræðuna. Á meðan veganistar hafna mismunandi gildismati í dýraríkinu, hafna sérstökum tengslum, hafna fordómum og í raun fordæma sjálfir téða fordóma sem eru öllum mönnum og dýrum eðlislægir þá virðist hreyfing ekki komast almennilega úr sporunum, nema kannski með heift í krafti fjöldans. Það má vera að þetta hafi hleypt hreyfingunni af stað í byrjun, með Singer í broddi fylkingar, en í dag ber þetta úrræði keim af úreltu kænskubragði. Viðurkenningin á þessum mannlega hluta í okkur hafnar hins vegar hugmyndafræðilegri fullkomnun og viðurkennir annmarka hennar. Þetta opnar dyrnar fyrir málamiðlun þegar raunveruleg vandamál eru í deiglunni. Við ættum að geta tekist á við hreindýrastofn Íslands og íslensku sauðkindina eins vel og mögulegt er, með veganska meginreglu til hliðsjónar við praktískar aðgerðir, án þess að hugmyndafræðin sem slík standi í vegi fyrir ákjósanlegum og nauðsynlegum aðgerðum. Þegar við hættum að leggja okkur að jöfnu við önnur dýr og annað fólk þá fyrst verður hægt að grípa til aðgerða, án þess að hugmyndafræðin standi í vegi fyrir því, sem er einmitt það sem veganismi, að mínu mati, ætti að standa fyrir. Velferð dýranna er nefnilega mikilvægari en hugmyndafræðin sjálf. Málamiðlun eykur möguleikann á samvinnu milli tveggja hópa sem hafa klofnað verulega undanfarin ár. Þetta yrði sannkallaður ávinningur fyrir vegönsku hreyfinguna og tilgang hennar. Fleira fólk myndi eflaust skoða boðskap hreyfingarinnar þegar dogmatísk afstaða hennar er linuð. Auðmýkt fylgir því að efast skynsamlega um sinn eigin boðskap. Fólk getur alltaf haft rangt fyrir sér en sá vísdómur finnst aldrei ef fólk neitar að hlusta á andstæðinga sína í rökræðu.

Lokaorð

Mér sýnist við vera að færast nær þeim veruleika að dýraafurðir verði meira og minna óþarfi. Það þýðir þó ekki að dýraafurðir verði í raun algjörlega 100% óþarfar í framtíðinni en við virðumst sannarlega færast nær þeim veruleika frekar en hitt. Þessi veruleiki er þó aðeins í dag sýnilegur í vitund og vitneskju en síður í neyslu og breytni. Vitund og vitneskja virðast þó

32 ávallt vera undanfari breytinga sem koma síðar, komi þær yfirhöfuð. Vaxandi veganismi virðist meira og minna haldast í hendur við næringarlegar forsendur sem eru ennþá umdeildar þrátt fyrir að niðurstöður vísinda bendi kannski í ákveðna átt. Það er líka vissulega munur á því sem er umdeilt í samfélaginu og á því sem er umdeilt í vísindasamfélaginu. Það tók t.d. langan tíma fyrir mannfólk að minnka reykingar þrátt fyrir þá uppgötvun að reykingar hafi krabbameinsvaldandi áhrif. Sambærilegar uppgötvanir um kjöt sem rannsóknir og yfirvöld styðja gætu sömuleiðis haft mjög hæg áhrif á breytni.36 37 Það eru fleiri og fleiri að tileinka sér veganisma í heilsufarskyni. Viðurkenning á næringargildi plöntufæðis virðist vaxandi þrátt fyrir bakslög. Fólk er ennþá að læra á þetta nýja mataræði og það hefur vissulega sýnt sig að gáleysi með plöntufæði getur endað illa.38 Það er erfitt að spá fyrir um framtíðina en sumt virðist augljósara en annað. Það er margt sem bendir til minna kjötáts í framtíðinni. Jörðin hefur takmarkað svigrúm fyrir áframhaldandi orkufrekan og mengandi kjötiðnað. Aukinn framleiðsluhraði á dýraafurðum hefur sömuleiðis haft hroðalegar afleiðingar fyrir dýrin. Mikil vitundarvakning um ógeðfelldar framleiðsluaðferðir þar sem dýr þjást með ósköpum hefur orsakað viðbrögðin í veganisma.

Við deilum hagsmunum með öðrum dýrum sem við getum ekki hunsað. Þrátt fyrir það virðist tegundahyggja vera óumflýjanleg upp að vissu marki. Eins og áður kom fram virðist bæði óraunhæft og óþarft að láta eins og hún geti horfið. Hún virðist jafnvel mikilvæg til að við getum yfirhöfuð ræktað með okkur siðferðiskenndir. Siðferði verður ekki til án samskipta við aðra einstaklinga. Þeir einstaklingar sem standa okkur næst eru yfirleitt fjölskyldumeðlimir, ættingjar og nærsveitungar. Það er þess vegna mjög eðlilegt að tilfinningar okkar gagnvart þeim séu sterkari en til fólks hinu megin á hnettinum. Það sama má segja um þau dýr sem standa okkur næst. Þetta þýðir ekki að fólk og önnur dýr hinu megin á hnettinum séu eitthvað minna mikilvæg í sjálfu sér en þetta þýðir samt að okkar nánustu eru mikilvægari fyrir okkur. Hlutdrægni okkar í þessu samhengi er ásættanleg og návist milli einstaklinga er raunar forsenda siðferðisræktar. Hlutlægni og huglægni sameinast fyrir siðferðilegt samræmi. Staðhæfingar um algjört fordómaleysi eru óraunhæfar og algjört frelsi frá tegundahyggju er það líka. Tegundahyggja er gildishlaðið hugtak og andstæða hennar er óraunhæf tilraun til einhvers konar útópíu. Fólk virðist alltaf hafa tilhneigingar til hleypidóma

36 Landlæknir, „Takmörkum neyslu á unnum kjötvörum,“ Embætti landlæknis https://www.landlaeknir.is/um-embaettid/frettir/frett/ item27935/takmorkum-neyslu-a-unnum-kjotvorum 37 Landlæknir, „Ráðleggingar um mataræði,“ Embætti landlæknis https://www.landlaeknir.is/radleggingar 38 Jennifer Scott, „Why I gave up being vegan“ BBC https://www.bbc.com/news/uk-41158365

33 og það er varhugavert að telja sér trú um eitthvað annað. Að ljúga að sjálfum sér getur sömuleiðis ekki verið gott. Að viðurkenna sín eigin takmörk (fordóma) ýtir ekki undir ofbeldi. Að viðurkenna sín takmörk er forsenda fyrir aukna meðvitund, meðvitund sem getur vel stuðlað að ræktun siðferðisdyggða. Svoleiðis dyggðir fela í sér viðvörun um óréttlætið hjá mismunandi kynþáttum, kynjum og dýrum þrátt fyrir okkar eðlislægu fordóma. Að horfast í augu við dýrið í sjálfum sér er viðurkenningin á þessum takmörkum. Við ættum sömuleiðis að viðurkenna uppsprettu siðferðisins sem birtist í nánum tengslum. Hvernig væri siðferðisrækt án þess að taka sumar tegundir fram yfir aðrar og hvar liggja mörkin? Væri hægt að rækta siðferðiskennd ef maður kæmist aldrei í kynni við annað fólk? Það væri ekki hægt nema með því að vinna úr minningum sem urðu til við mannleg samskipti. Einstaklingurinn einn og sér býr ekki til neitt siðferði í sófa heimspekingsins. Ég hafna ekki þeim möguleika að það sé hægt að rækta einhvers konar siðferði við aðrar tegundir en það er bersýnilega mun erfiðara. Undantekningar eru til en þær sanna regluna. Reglan í þessu samhengi er einfaldlega sú að raunhæf markmið um siðferðisviðmið eru ákjósanleg. Það er raunhæft að tengjast því sem við könnumst best við. Við könnumst við alls konar kenndir í öðrum dýrum og við ættum að taka mark á því. Við ættum að gera það af því að við erum dýr sem skilur náttúrulega hlutdrægni. Mörkin eru ekki skýr en þau þurfa ekki að vera fullkomin. Innsæið gefur okkur vísbendingar og leiðbeiningar um það sem vantar upp á.

Við ættum að tileinka okkur nýtt viðhorf gagnvart dýrum sem viðurkennir að þau eru okkur framandi. Í stað þess að hugsa um dýr sem eitthvað sem skortir mannlega eiginleika, þá ættum að skilja hvernig dýrin eru með alls konar dularfulla eiginleika sem við höfum ekki. Við höfum haft fókusinn á röngum stað og Tom Regan lýsir því vel með þessum orðum:

„Það sem við eigum sameiginlegt hefur meira gildi en það sem aðgreinir okkur. […] Við erum öll að upplifa það að vera á lífi og við hugsum meðvitað um velferð okkar. Við viljum, trúum, finnum til og minnumst. Allir þessir þættir lífsins, ásamt ánægju, sársauka, þjáningu, fullnægju, gremju, tilvist og að lokum dauða—skipta máli fyrir líf okkar sem einstaklingar. […] Þetta á bæði við um menn og dýr. Við sem upplifum líf okkar hljótum að hafa innra gildi“.39

Er siðferðilega ámælisvert að drepa önnur dýr? Svarið hlýtur að vera já. Það sama á við um ömurlega og meiðandi meðferð á dýrum. Sú staðreynd að við viljum sjá góða meðferð á dýrum hlýtur sömuleiðis að sýna okkur að önnur dýr hafa sitt eigið gildi. Þetta gildi, innra

39 Tom Regan, The Case For Animal Rights (London: Routledge, 1988), 196.

34 gildi eða ekki, ætti að virða og standa vörð um eins og frekast er unnt. Þetta þýðir þó ekki að öll dýr séu jöfn og að öll dýr eigi skilið sömu réttindi. Það sem hefur gerst á undanförnum árum við aukinn áhuga og skilning á veganisma er að fólk mun leitast við að virða tilveru og hagsmuni dýra eins og mögulegt er. Þróunin mun verða sú að veganismi verður sífellt viðteknara siðferðisviðmið. Næstu skref í þessari þróun er að veganistar viðurkenna að mögulega þurfi að milda alhæfingar um hvaða ákvarðanir beri að taka í ljósi forsenda hugmyndafræðinnar. Undantekningar frá meginreglum verða alltaf til staðar. Sönnunarbyrðin mun færast í þá átt að slíkar undantekningar þarf að útskýra sérstaklega (samanber stöðu hreindýra á Íslandi) fremur en að virðing og vernd dýra sé undantekningin.

35 HEIMILDIR

Olivia Petter. „Seven per cent of British people have gone plant-based.“ The Independent, birt 3. apríl 2018, https://www.independent.co.uk/life-style/food-and-drink/vegans-uk-rise-popularity-plant-based-diets- veganism-figures-survey-compare-the-market-a8286471.html (skoðað 9. maí 2019).

Dan Hancox. „The unstoppable rise of veganism: how a fringe movement went mainstream.“ The Guardian, birt 1. apríl 2018, https://www.theguardian.com/lifeandstyle/2018/apr/01/vegans-are-coming- millennials-health-climate-change-animal-welfare (skoðað 9. maí 2019).

Janet Forgrieve. „The Growing Acceptance of Veganism.“ Forbes, birt 2. nóvember 2018, https:// www.forbes.com/sites/janetforgrieve/2018/11/02/picturing-a-kindler-gentler-world-vegan-month/ #11156d2d2f2b (skoðað 9. maí 2019).

Samtök grænmetisæta á Íslandi. „Hvað er grænmetisæta?“ http://graenmetisaetur.org/fraedsla/hvad-er- graenmetisaeta (skoðað 9. maí 2019).

Philip Kapleau. To Cherish All Life: A Buddhist Case for Becoming a Vegetarian. New York: The Zen Center, 1986.

Reynold Alleyne Nicholson. Studies in Islamic Poetry. London: Cambridge University Press, 1921.

The Vegan Society. „History.“ https://www.vegansociety.com/about-us/history (skoðað 9. maí 2019).

Will Sabel Courtney. „Lewis Hamilton Credits His F1 Success This Year to Going Vegan.“ The Drive, birt 24. október 2017, http://www.thedrive.com/accelerator/15402/lewis-hamilton-credits-his-f1-success-this- year-to-going-vegan (skoðað 9. maí 2019).

Ian McMahan. „How Venus Williams roared back at 37: diet, brains and bloody mindedness.“ The Guardian, birt 17. júlí 2017, https://www.theguardian.com/sport/blog/2017/jul/17/venus-williams-longevity-diet- wimbledon-tennis (skoðað 9. maí 2019).

Susie East. „‘Vegan Badass’ muscle man pumps iron, smashes stereotypes.“ CNN, birt 6. júlí 2016, https:// edition.cnn.com/2016/07/06/health/vegan-strongman-patrik-baboumian-germany-diet/index.html (skoðað 9. maí 2019).

Peter Clarys, Tom Deliens, Inge Huybrechts, Peter Deriemaeker, Barbara Vanaelst, Willem De Keyzer, Marcel Hebbelinck, Patrick Mullie. „Comparison of Nutritional Quality of the Vegan, Vegetarian, Semi- Vegetarian, Pesco-Vegetarian and Omnivorous Diet.“ National Center for Biotechnology Information (NCBI), birt 24. mars 2014, https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC3967195/ (skoðað 9. maí 2019).

Claus Leitzmann. „Nutrition ecology: the contribution of vegetarian diets.“ National Center for Biotechnology Information (NCBI), birt í september 2003, https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/12936962? dopt=Abstract&holding=npg (skoðað 9. maí 2019).

D. Pimentel, M. Pimentel. „Sustainability of meat-based and plant-based diets and the environment.“ National Center for Biotechnology Information (NCBI), birt í september 2003, https://www.ncbi.nlm.nih.gov/ pubmed/12936963?dopt=Abstract&holding=npg (skoðað 9. maí 2019).

36 L. Reijnders L, S. Soret. „Quantification of the environmental impact of different dietary protein choices.“ National Center for Biotechnology Information (NCBI), birt í september 2003, https:// www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/12936964?dopt=Abstract&holding=npg (skoðað 9. maí 2019).

Jeremy Bentham. An Introduction to the Principles of Morals and Legislation (The Collected Works of Jeremy Bentham) Ritstjórar J. H. Burns, H. L. A. Hart og F. Rosen. Oxford: Clarendon Press, 1996.

E. Szücs, R. Geers, T. Jezierski, E. N. Sossidou, D. M. Broom. „Animal Welfare in Different Human Cultures, Traditions and Religious Faiths.“ National Center for Biotechnology Information (NCBI), birt í nóvember 2012, https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC4093044/ (skoðað 9. maí 2019).

Tom Regan. The Case For Animal Rights. London: Routledge, 1988.

Alþingi. Lög um velferð dýra. úr lagasafni: Íslensk lög 15. apríl 2018. Útgáfa 148b. Tóku gildi 1. janúar 2014. Breytt með l. 11/2014 (tóku gildi 4. febr. 2014) og l. 102/2016 (tóku gildi 1. jan. 2017), http://www.althingi.is/ altext/lagasofn/nuna/2013055.html (skoðað 9. maí 2019).

Hugh LaFollette. Ethics in Practice: An Anthology, Fourth Edition. Ritstjóri Hugh LaFollette. Malden, MA: Wiley- Blackwell, 2014.

Philip K. Thornton. „Livestock production: recent trends, future prospects.“ National Center for Biotechnology Information (NCBI), birt í 27. september 2010, https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/ PMC2935116/ (skoðað 9. maí 2019).

Jonathan Latimer. „Why We Should Genetically ‘Disenhance’ Animals Used in Factory Farms.“ University of Oxford, birt 6. mars 2018, http://blog.practicalethics.ox.ac.uk/2018/03/oxford-uehiro-prize-in- practical-ethics-why-we-should-genetically-disenhance-animals-used-in-factory-farms/ (skoðað 9. maí 2019).

Peter Singer. „All Animals are Equal,“ Ethics in Practice: An Anthology, Fourth Edition. Ritstjóri Hugh LaFollette. Malden, MA: Wiley-Blackwell, 2014.

Jeff McMahan. „Animals.“ A Companion to Applied Ethics (Blackwell Companions to Philosophy). Ritstjórar R. G. Frey og Christopher Heath Wellman. Oxford: Blackwell Publishing, 2005.

Kate Wong. „Tiny Genetic Differences between Humans and Other Primates Pervade the Genome.“ Scientific American, birt 1. september 2014, https://www.scientificamerican.com/article/tiny-genetic-differences- between-humans-and-other-primates-pervade-the-genome/ (skoðað 9. maí 2019).

Mark Rowlands. Animal Rights: Moral Theory and Practice, Second Edition. Miami: Palgrave Macmillan. 2009.

David R. Klein. „The Introduction, Increase, and Crash of Reindeer on St. Matthew Island.“ Alaska Cooperative Wildlife Research Unit, University of Alaska, College http://dieoff.com/page80.htm (skoðað 9. maí 2019).

Birna Sigrún Hallsdóttir, Stefán Gíslason. „Losun groðurhusalofttegunda fra sauðfjarbuum a Íslandi og aðgerðir til að draga ur losun“. Umhverfisráðgjöf Íslands ehf. (Environice) https://www.environice.is/wp-content/ uploads/2018/01/GHL-saudfe-Environice-LOKA.pdf (skoðað 9. maí 2019).

Samuel Scheffer, „Conceptions of Cosmopolitanism,“ Boundaries and Allegiances: Problems of Justice and Responsibility in Liberal Thought, Oxford: Oxford University Press Inc., 2001.

37 Philip Stratton-Lake, „Intuitionism in Ethics.“ The Stanford Encyclopedia of Philosophy, birt 21. des. 2016 https://plato.stanford.edu/archives/win2016/entries/intuitionism-ethics/ (skoðað 9. maí 2019)

Landlæknir. „Takmörkum neyslu á unnum kjötvörum.“ Embætti landlæknis, birt 29. okt. 2015 https:// www.landlaeknir.is/um-embaettid/frettir/frett/item27935/takmorkum-neyslu-a-unnum-kjotvorum (skoðað 9. maí 2019)

Landlæknir. „Ráðleggingar um mataræði.“ Embætti landlæknis, 20. nóv. 2017 https://www.landlaeknir.is/ radleggingar (skoðað 9. maí 2019)

Jennifer Scott. „Why I gave up being vegan.“ BBC, birt 5. sept. 2017 https://www.bbc.com/news/ uk-41158365 (skoðað 9. maí 2019)

38