<<

Lokaverkefni til BA-gráðu

í félagsfræði

Áhrif fíkniefnanotkunar í rapptónlist á ungmenni

Hrafnkatla Ingólfsdóttir

Leiðbeinandi: Arnar Eggert Thoroddsen Júní 2021

Áhrif fíkniefnanotkunar í rapptónlist á ungmenni

Hrafnkatla Ingólfsdóttir

Lokaverkefni til BA–gráðu félagsfræði Leiðbeinandi: Arnar Eggert Thoroddsen 12 einingar

Félagsfræði–, mannfræði– og þjóðfræðideild Félagsvísindasvið Háskóla Íslands Júní, 2021

Áhrif fíkniefnanotkunar í rapptónlist á ungmenni

Ritgerð þessi er lokaverkefni til BA-gráðu í félagsfræði og er óheimilt að afrita ritgerðina á nokkurn hátt nema með leyfi rétthafa. © Hrafnkatla Ingólfsdóttir, 2021

Prentun: Háskólaprent Reykjavík, Ísland, 2021

Útdráttur

Notkun fíkniefna hefur löngum verið hluti af menningu rappsins en í vinsælum rapplögum má heyra hvernig fíkniefni og notkun þeirra er upphafin. Vinsældir rapptónlistarinnar hafa aukist verulega síðastliðin ár, einkum meðal ungmenna. Að mati margra er það mikið áhyggjuefni þar sem talið er að fíkniefnanotkun í rapptónlist kunni að hafa verulega slæm áhrif á unga hlustendur. Í þessari ritgerð verður samband rapptónlistar og fíkniefnanotkunar ungmenna skoðað með það að markmiði að kanna hvort upphafning fíkniefna í rapptónlist ýti undir notkun fíkniefna meðal ungmenna. Leitast verður við að svara spurningunni: ,,Hefur fíkniefnanotkun í rapptónlist áhrif á fíkniefnanotkun ungmenna?” og verður sjónum sérstaklega beint að misnotkun lyfseðilsskyldra lyfja, en síðastliðinn áratug hefur misnotkun ópíóíða aukist verulega, bæði meðal almennings og í menningu rappsins. Til að varpa ljósi á þau áhrif sem rapptónlistin hefur á ungmenni verður stuðst við fyrri rannsóknir um efnið sem sýna að aukið samneyti við rapptónlist eykur líkurnar á því að verða fyrir áhrifum hennar. Einnig verða settar fram fjórar kenningar sem skýra samband dægurmiðla og áhorfenda, þ.e. ræktunarkenningin (e. cultivation theory), dagskráráhrifin (e. agenda setting), fjölmiðlaneyslulíkanið (e. media practice model) og félagsnámskenningin (e. social learning theory). Niðurstöður benda til þess að fíkniefnanotkun í rapptónlist getur haft áhrif á ungmenni, en aðeins þau ungmenni sem hlusta á rapptónlist, eru rappaðdáendur og eiga sér fyrirmyndir úr menningu rappsins.

4 Formáli

Ritgerð þessi er 12 eininga (ECTS) lokaverkefni til BA-gráðu í félagsfræði 120 einingar (ECTS) með fjölmiðlafræði sem aukagrein 60 einingar (ECTS). Ritgerðin er skrifuð undir leiðsögn Arnars Eggerts Thoroddsen. Honum vil ég þakka fyrir góðar ráðleggingar varðandi ritgerðarskrif, ekki aðeins við gerð þessarar ritgerðar heldur einnig í gegnum allt námið. Hávari Sigurjónssyni vil ég þakka fyrir yfirlestur. Kærasta mínum, Magnúsi Hlíðdal Magnússyni, vil ég þakka fyrir góðar ábendingar varðandi rapptónlist og fyrir að hvetja mig áfram í gegnum ritgerðarskrifin. Fjölskyldan mín fær einnig hjartans þakkir fyrir ómetanlegan stuðning og þolinmæði í gegnum námið.

5 Efnisyfirlit

Útdráttur ...... 4 Formáli ...... 5 Efnisyfirlit ...... 6 1 Inngangur ...... 7 1.1 Uppbygging ritgerðar ...... 8

2 Fíkniefnavandinn ...... 9 2.1 Skilgreining ...... 9 2.2 Umfang og afleiðingar fíknivandans ...... 9 2.3 Orsök fíknivandans ...... 11

3 Rapptónlist og fíkniefnaneysla ...... 13 3.1 Fíkniefnanotkun í rapptónlist ...... 13 3.2 Notkun lyfseðilsskyldra lyfja í rapptónlist ...... 16

4 Fyrri rannsóknir ...... 19 4.1 Áhrif rapptónlistar á ungmenni ...... 19 4.2 Áhrif rapptónlistar á áfengis- og tóbaksnotkun ...... 20 4.3 Áhrif rapptónlistar á fíkniefnanotkun ...... 22

5 Áhrif fíkniefnanotkunar í rapptónlist á hlustendur ...... 24 5.1 Samband rapptónlistar og hlustenda ...... 24 5.2 Ræktunarkenningin ...... 25 5.3 Dagskráráhrifin ...... 26 5.4 Fjölmiðlaneyslulíkanið ...... 28 5.5 Félagsnámskenningin ...... 29

6 Niðurstöður ...... 31 7 Lokaorð ...... 33 Heimildaskrá ...... 34

6 1 Inngangur Síðustu áratugi hafa vinsældir rapptónlistarinnar farið sívaxandi og er tónlistin talin vera ein sú vinsælasta í dag, einkum meðal ungmenna (Peteet o.fl., 2020; Diamond, Bermudez, Schensul, 2006). Tónlist spilar stórt hlutverk í lífi margra og getur haft mikil áhrif á félagsmótun einstaklinga. Vinsæl dægurtónlist hefur í gegnum tíðina haft mikil áhrif á ungmenni og er rapptónlistin engin undantekning en sjá má áhrif hennar í t.d. klæðaburði og talsmáta unga fólksins sem endurspeglast af menningu rappsins (Forman og Neal, 2004; Herd, 2005). Þrátt fyrir miklar vinsældir hefur rapptónlistin verið gagnrýnd fyrir að fjalla mikið um fíkniefni og upphefja neyslu þeirra í vinsælum rapplögum en að mati margra er sú upphafning mikið áhyggjuefni (Harakeh og Ter Bogt, 2018). Margir telja að skilaboðin sem tónlistin sendir hlustendum geti ýtt undir misnotkun fíkniefna meðal ungmenna en fíkniefnavandinn er talinn vera eitt stærsta vandamál vestrænna samfélaga í dag og benda tölur til þess að vandinn er sívaxandi (Diamond o.fl., 2006; Helgi Gunnlaugsson og Rannveig Þórisdóttir, 1999; 2013). Síðastliðin ár hefur misnoktun lyfseðilsskyldra lyfja, þá einkum ópíatalyfja, aukist verulega og hefur ástandinu verið líkt við faraldur þar sem notkun lyfjanna hefur farið eins og eldur í sinu og dregið fjöldann allan af ungu fólki til dauða (Tettey, Siddiqui, Llamoca, Nagamine og Ahn, 2020). Lyfseðilsskyld lyf hafa einnig verið vinsælir vímugjafar í menningu rappsins og því vaknar upp sú spurning hvort samband sé á milli fíkniefnanotkunar í rapptónlist og fíkniefnanotkunar meðal almennings (Williams, 2020).

Í þessari ritgerð verður samband rapptónlistar og hlustenda skoðað. Tilgangur ritgerðarinnar er fyrst og fremst að kanna þau áhrif sem upphafning fíkniefna í rapptónlist hefur á ungmenni en mikilvægt er að greina þau skilaboð sem dægurmiðlar senda frá sér og áhrif þeirra á samfélagið þar sem dægurmenningin er hluti af lífi flestra (Diamond o.fl., 2006). Í þessari ritgerð verður því leitast við að svara eftirfarandi spurningu: ,,Hefur fíkniefnanotkun í rapptónlist áhrif á fíkniefnanotkun ungmenna?” Til að svara þeirri spurningu verður stuðst við fyrri rannsóknir sem skoða áhrif rapptónlistar á ungmenni, en einnig verða settar fram fjórar kenningar til að skýra þau áhrif sem rapptónlistin kann að hafa á fíkniefnanotkun ungmenna. Þær eru ræktunarkenningin (e. cultivation theory),

7 dagskráráhrifin (e. agenda setting), fjölmiðlaneyslulíkanið (e. media practice model) og félagsnámskenningin (e. social learning theory).

1.1 Uppbygging ritgerðar Uppbygging ritgerðarinnar en þannig háttað að í fyrstu verður hugtakið fíkn skilgreint og leitast verður við að draga fram skýra mynd af umfangi og afleiðingum fíknivandans. Þá verður einnig gerð grein fyrir helstu skýringum á orsökum fíknivandans, en með því að draga fram heildstæða mynd af fíknivandanum er hægt að átta sig betur á sambandi fíkniefna við menningu rappsins og þeim áhrifum sem rappið kann að hafa á fíkniefnaneyslu ungmenna. Í öðru lagi verður farið yfir útbreiðslu og umfang rapptónlistarinnar og samband hennar við notkun fíkniefna. Þá verður sjónum sérstaklega beint að notkun lyfseðilsskyldra lyfja í rapptónlist. Í þriðja lagi verða helstu niðurstöður fyrri rannsókna kynntar, en þar sem skortur er á rannsóknum um áhrif rapptónlistar á fíkniefnanotkun verða niðurstöður rannsókna sem skoða áhrif tónlistarinnar á aðra þætti einnig kynntar. Í fjórða lagi verður samband tónlistar og hlustenda skoðað og verða settar fram fjórar kenningar sem varpa ljósi á þau áhrif sem rappið kann að hafa á ungmenni. Niðurstöður fyrri rannsókna verða hafðar til stuðnings og hliðsjónar. Að lokum verða helstu niðurstöður dregnar saman og ritgerðarspurningu svarað.

8 2 Fíkniefnavandinn Fíkn er flókið og margslungið fyrirbæri (Kreek, Nielsen og LaForge, 2004) en í daglegu tali er hugtakið notað til að lýsa stjórnlausri og áráttukenndri hegðun. Almennt er þá átt við áráttukennda hegðun af ýmsum toga (Helga Sif Friðjónsdóttir, 2009; Oddi Erlingsson, 1998) en í þessari ritgerð verður einungis átt við vímuefnafíkn og verður sjónum sérstaklega beint að fíkn í ólögleg vímuefni, þ.e. fíkniefni og lyfseðilsskyld lyf sem notuð eru í þeim tilgangi að komast í vímu.

Í þessum kafla verður hugtakið fíkn skilgreint. Þá verður gerð tilraun til að draga fram skýra mynd af umfangi, afleiðingum og orsökum fíknivandans en mikilvægt er að skilja hugtakið í víðu samhengi til að skilja tengsl vandans við menningu rappsins og þau áhrif sem rapptónlistin kann að hafa ungmenni.

2.1 Skilgreining Skilgreiningar á hugtakinu fíkn (e. addiction) hafa verið breytilegar í gegnum tíðina og enn í dag hefur ekki náðst einróma niðurstaða meðal fræðimanna um hvað orsakar vímuefnafíkn. Í dag telja þó flestir fíkn vera sjúkdóm sem orsakast vegna lífsálfélagslegra (e. biopsychosocial) þátta (Saah, 2005; Helga Sif Friðjónsdóttir, 2009; Thio, Taylor og Schwartz, 2013). Sjúkdómurinn getur sprottið upp hvenær sem er á ævinni, er krónískur og því einungis hægt að meðhöndla hann og halda honum í skefjum með viðeigandi meðferð (Arnþór Jónsson, 2014). Fíknivandinn hefur þó ekki alltaf verið skilgreindur sem sjúkdómur. Þrátt fyrir að fíknitengda hegðun megi finna allt að 10.000 ár aftur í tímann (Singer, 2012) var hugtakið fíkn óþekkt innan læknavísinda á 18. öld. Það var ekki fyrr en á 19. öld sem heilbrigðisvísindin, sem og almenningur, fóru að þekkja ofneyslu vímuefna sem sjúkdóm (Helga Sif Friðjónsdóttir, 2009) og mætti segja að fíknisjúkdómurinn eins og við þekkjum hann í dag sé afurð sjúkdómsvæðingarinnar (Conrad og Schneider, 1980).

2.2 Umfang og afleiðingar fíknivandans Að mati margra er fíkniefnavandinn eitt stærsta vandamál vestrænna samfélaga í dag og bendir margt til þess að vandinn sé sívaxandi (Helgi Gunnlaugsson og Rannveig Þórisdóttir, 1999; 2013). Þá má nefna að tölur SÁÁ frá árinu 1994 sýna að um 18,5% innritaðra sjúklinga á Vogi glímdu við fíkn í ólögleg vímuefni samanborið við nær helming sjúklinga árið 2005, eða um 48,6% (Helga Sif Friðjónsdóttir, 2009).

9 Talið er að ungmenni sem byrja snemma að nota kannabis séu líklegri til þess að neyta annarra fíkniefna seinna á lífsleiðinni og séu þar af leiðandi líklegri til þess að þróa með sér fíknivanda (Turner-Musa, Rhodes, Harper og Quinton, 2008). Í Bandaríkjunum er kannabis vinsælasti vímugjafinn, að frátöldu áfengi, enda er vímuefnið löglegt að annað hvort fullu eða að hluta til í mörgum fylkjum Bandaríkjanna (Pawson og Kelly, 2013). Um 6% bandarískra ungmenna neyta kannabis á hverjum degi og um 6% nemenda í 8. bekk og 11% nemenda í 10. bekk hafa prófað kannabis einu sinni eða oftar (Siegel, 2018). Innlendar tölur frá árinu 2011 sýna að um 10% ungmenna hafa prófað kannabis a.m.k. einu sinni á ævinni. Tölur frá árinu 2013 sýna að um þriðjungur Íslendinga á aldrinum 18- 67 ára hafi einhvern tíman prófað kannabis á lífsleiðinni (Helgi Gunnlaugsson, 2018). Rannsóknir sýna að meðalaldur ungmenna á aldursbilinu 12-17 ára sem hafa notað kannabis, kókaín eða heróín er 14 ára (Christenson, Henriksen og Roberts, 2000). Þá sýna bandarískar tölur að um 16% 18 ára ungmenna hafa prófað önnur efni líkt og kókaín, MDMA og LSD, en talið er að um 27 milljónir Bandaríkjamanna, 12 ára og eldri, hafi neytt vímuefna af einhverju tagi síðastliðna 30 daga. Það gerir 1 af hverjum 10 íbúum Bandaríkjanna og voru um 22 milljónir þeirra kannabisneytendur og neyttu um 4,3 milljónir þeirra uppáskrifaðra verkjalyfja (Siegel, 2018).

Misnotkun á lyfseðilsskyldum lyfjum hefur aukist verulega undanfarin ár, bæði meðal almennings og í menningu rappsins, en vegna þess hve auðvelt hefur verið að nálgast lyfin á löglegan máta, þ.e. uppáskrifuð af lækni, hefur notkun lyfjanna farið ört vaxandi (Smiley, 2017). Róandi morfínskyld ópíatalyf eru verkjastillandi og eru því oftast notuð sem verkjalyf við skæðum verkjum. Ópíóíðar hafa slævandi áhrif á miðtaugakerfi líkamans og því hafa ópíatalyfin Oxycontin, Kódein, Fentanyl, Percocet o.fl. verið vinsælir vímugjafar þar sem í miklu magni valda lyfin vímu (SÁÁ, e.d.). Einnig hefur kvíðastillandi benzódíazepín-lyfið Xanax verið vinsæll vímugjafi, en lyfið er notað við miklum kvíða og hefur því róandi áhrif (Peteet o.fl., 2020; SÁÁ, e.d.). Lyfin eru verulega ávanabindandi og hafa mikla aukaverkanir en meðal þeirra eru ofskynjanir, sjón- og heyrnartruflanir, svimi, höfuðverkur og svefnleysi (Smiley, 2017). Í of stórum skömmtum geta lyfin valdið lömun á öndunarfærum eða hjartastoppi og dregið þannig fólk til dauða (SÁÁ, e.d.).

Ástandinu hefur verið lýst sem nokkurs konar faraldri (e. opioid crisis) í Bandaríkjunum þar sem misnotkun lyfjanna hefur farið eins og eldur í sinu (Tettey o.fl.,

10 2020). Frá árinu 1990 til 2001 jókst misnotkun ópíatalyfja úr 628 þúsund tilfellum árið 1999 í 2,4 milljónir tilfella árið 2001 (Compton og Volkow, 2006). Árið 2015 mátti rekja um 52 þúsund dauðsföll í Bandaríkjunum til ofneyslu lyfseðilsskyldra lyfja (Magnús Jóhannsson, Jón Pétur Einarsson, Jón Óskar Guðlaugsson og Ólafur B. Einarsson, 2018) en árið 2017 voru slík dauðsföll orðin um 70 þúsund og mátti þar af rekja 68% þeirra til ópíatalyfja. Þá voru þeir sem neyttu ópíatalyfja ekki af læknisráði um 10,3 milljónir talsins árið 2014 en árið 2017 voru þeir orðnir um 18 milljónir talsins. Á degi hverjum deyja u.þ.b. 130 Bandaríkjamenn vegna ofneyslu ópíóíða en frá árinu 1999 til ársins 2017 hafa dauðsföll vegna lyfjanna sexfaldast (Tettey o.fl., 2020).

Ópíóíðafaraldurinn hefur einnig náð mikilli útbreiðslu í Evrópu. Árið 2017 létust um 9400 einstaklingar vegna ofneyslu fíkniefna í Evrópu og er talið að rekja megi um 80% þeirra dauðsfalla til ópíóða (EMCDDA, 2019). Hérlendis má sjá svipaða aukningu, en árið 2018 létust 52 einstaklingar vegna ofneyslu fíkniefna og 39 þeirra vegna lyfjaeitrunar. Þetta er gríðarleg aukning frá árunum áður, en árið 2012 voru 24 lyfjatengd andlát og árið 2016 voru þau 25 (Dánarmeinaskrá, 2020). Samkvæmt könnun SÁÁ sem gerð var meðal innritaðra sjúklinga sjúkrahússins Vogs sumarið 2018 höfðu 52% innritaðra keypt lyfseðilsskyld lyf ólöglega. Flestir höfðu keypt sterk ópíóða verkjalyf eða róandi benzódíazepín-lyf og var lyfið Xanax vinsælast þar í flokki (SÁÁ, 2018).

Það má því sjá að afleiðingar fíknivandans eru verulega alvarlegar en vegna þess hve fíknivandinn er orðinn útbreiddur er hann ekki aðeins einstaklingsbundinn vandi heldur einnig samfélagslegur vandi þar sem áhrifin eru víðtæk (Helga Sif Friðjónsdóttir, 2009). En hvað orsakar vandann og hverjir leiðast helst inn á braut fíkniefnaneyslu?

2.3 Orsök fíknivandans Þar sem fíknisjúkdómurinn er margþættur og flókinn er erfitt að staðhæfa hverjir munu koma til með að þróa með sér vandann og hvers vegna (Kreek o.fl., 2004). Orsök fíknivandans eru þó talin vera sambland þriggja þátta, þ.e. líffræðilegra, sálfræðilegra og félagslegra þátta (Helga Sif Friðjónsdóttir, 2009; Saah, 2005).

Í fyrsta lagi er fíkn talin vera lífeðlisfræðilegur erfðasjúkdómur og í dag er það almenna skilgreiningin á fíknivandanum (Helga Sif Friðjónsdóttir, 2009). Fíknivandinn er þá talinn vera ólæknandi sjúkdómur þar sem ítrekuð neysla vímuefna á sér stað þrátt fyrir neikvæðar afleiðingar hennar (Arnþór Jónsson, 2014). Ein tilgátan er sú að fíknivandinn

11 sé tengdur erfðum og eru þeir einstaklingar sem erfa hið svokallaða fíknigen taldir vera líklegri til að þróa með sér fíknisjúkdóminn (Wang, Chen, Lee og Cheng, 2019; Bjarni Sigurðsson, 2018).

Aðrar tilgátur um orsök fíknivandans eru byggðar á sálfræðilegum skýringum. Ein tilgátan er sú að einstaklingar sækja í notkun vímuefna vegna sálrænna vandamála og eru þá vímuefnin notuð til að draga úr streitu og kvíða og deyfa andlega þjáningu (Bjarni Sigurðsson, 2018). Áföll og ofbeldi í æsku, sem og geðræn vandamál á við kvíðaraskanir og þunglyndi geta þá orsakað fíknivandann (Thio o.fl., 2013). Önnur tilgáta er sú að ákveðin persónuleikaeinkenni geta spilað inn í fíknihegðun fólks, en þeir sem eru uppreisnargjarnir, hvatvísir og athafnasamir að eðlisfari eru líklegri til að prófa fíkniefni en aðrir (Wang o.fl., 2019).

Fræðimenn félagsfræðinnar telja þó að fíkniefnaneysla sé að hluta til félagslega lærð og leika því félags- og umhverfisþættir lykilhlutverk í orsök fíknivandans þar sem einstaklingar eru afurð umhverfis síns (Thio o.fl., 2013). Fjölskylduaðstæður, vinahópar og stéttarstaða einstaklinga er því talin vera mikilvægur þáttur í orsökum fíknivandans. Þeir sem búa við bágar efnahagsaðstæður eða í samfélagi þar sem tíðni fíkniefnanotkunar er há eru því taldir líklegri til þess að neyta fíkniefna (Saah, 2005). Fjölskyldan og vinahópur eru einnig mikilvægur þáttur félagsmótunar, en rannsóknir benda til þess að börn sem alin eru upp við fíkniefnaneyslu séu líklegri til að verða fíkniefnaneytendur sjálf á sínum fullorðinsárum (Siegel, 2018).

12 3 Rapptónlist og fíkniefnaneysla Rapp/hip-hop tónlist, sem hér eftir verður nefnt rapp eða rapptónlist, er ein vinsælasta tónlistin í dag, einkum meðal ungmenna (Peteet o.fl., 2020; Diamond o.fl., 2006). Aukin fíkniefnanotkun í rapptónlist er að mati margra mikið áhyggjuefni og telja margir að skilaboðin sem tónlistin sendir frá sér geti haft verulega neikvæð áhrif á unga hlustendur (Harakeh og Ter Bogt, 2018).

Í þessum kafla verður farið yfir útbreiðslu og umfang rapptónlistarinnar og samband hennar við fíkniefnanotkun. Þá verður sjónum sérstaklega beint að notkun lyfseðilsskyldra lyfja í rapptónlist, en frá upphafi 21. aldar hefur misnotkun slíkra lyfja færst í aukana í menningu rappsins líkt og meðal almennings (Peteet o.fl., 2020).

3.1 Fíkniefnanotkun í rapptónlist Tónlist er mikilvægur þáttur í lífi margra, einkum meðal ungmenna, en talið er að u.þ.b. 66% ungmenna hlusti á tónlist daglega (Peteet o.fl., 2020). Tónlist er ekki bara afþreying heldur einnig félagslegt afl og getur hún sameinað fólk með sömu áhugamál, hugmyndir og skoðanir (Travis, 2013). Áhrif tónlistar eru því mikil og getur til að mynda tónlistarsmekkur einstaklings átt þátt í að móta sjálfsmynd, fatastíl og hegðun hans (Forman og Neal, 2004; Herd, 2005).

Vinsældir rappsins hafa aukist verulega síðastliðna áratugi og má meðal annars sjá þær vinsældir í klæðaburði og talsmáta unga fólksins sem endurspeglast af menningu rappsins (Sullivan, 2003; Herd, 2005; Tettey o.fl., 2020). Rappið, sem rekur uppruna sinn til menningar svartra Bandaríkjamanna, hefur teygt anga sína víða, þar á meðal til Íslands, en áður fyrr afmarkaðist hlustendahópur rappsins af nánast einungis svörtu bandarísku fólki (Bryant, 2008; Herd, 2005; Sullivan, 2003). Í dag er talið að rapptónlistin eigi sér aðdáendur af öllum kynþáttum og sýna tölur að um 60% hlustenda rappsins eru hvítir karlmenn (Peteet o.fl., 2020; Herd, 2005). Þess má geta að árið 2018 hlustuðu um 26% Bandaríkjamanna á rapptónlist sem gerði rappið að vinsælastu tónlistarstefnunni í Bandaríkjunum það ár (Metcalfe og Ruth, 2020). Rapptónlist er því orðin hluti af vinsælli dægurmenningu samtímans (Herd, 2005).

Eitt af aðaláhyggjuefnum almennings er hvernig rapptónlistin upphefur fíkniefnaneyslu og gefur þannig ungmennum þá hugmynd að fíkniefnin eru skaðlaus og skemmtileg fremur en hættuleg og ávanabindandi (Diamond o.fl., 2006). Textar rapplaga

13 er eitt helsta birtingarform fíkniefna í rapptónlist en í vinsælum rapplögum má sjá hvernig rapparar setja upp glansmynd af vímuefnanotkunar.

Þar má meðal annars nefna lagið Young, wild and free með Snoop Dogg, og Bruno Mars frá árinu 2011, en viðlag lagsins er: ,,So what we get drunk, so what we smoke weed, we’re just having fun”. Með öðum orðum vísar texti lagsins í það að ungmenni eigi að njóta lífsins og ekki að hafa áhyggjur af aðleiðingum vímuefnanna vegna þess að þau eru ung. Viðlag lagsins Next episode með Dr. Dre ásamt Snoop Dogg sem kom út árið 1999 er ,,Smoke weed everyday”, sem þýða mætti sem ,,Reyktu gras daglega”, og fjallar lagið mikið um fíkniefnanotkun og ofbeldi. Lagið I can’t feel my face með The Weeknd frá árinu 2015 fjallar um notkun hans á kókaíni en viðlag lagsins er: ,,I can’t feel my face when I’m with you [kókaín], but I love it”. Með öðrum orðum vitnar The Weeknd í deyfandi áhrif kókaíns og hversu mikið hann elskar áhrif þess (Smiley, 2017). Önnur lög sem upphefja notkun fíkniefna eru meðal annars Hate being sober með Cheif Keef ásamt 50 cent og Wiz Khalifa og Drugs you should try it með Travis Scott.

Fíkniefni hafa löngum verið hluti af menningu rappsins (Williams, 2020). Rappið á rætur að rekja til fátækrahverfa New York borgar á 8. áratug 20. aldar (Sullivan, 2003; Herd, 2005) en á þeim tíma var mikill meirihluti íbúa hverfanna, sem stundum hafa verið kölluð ghetto, svart fólk og var tíðni afbrota há, enda mikið um götugengi, ofbeldi og glæpi. Einnig var mikið um sölu og neyslu fíkniefna þar sem einfaldasta lausnin til að græða pening og deyfa sársauka var selja og neyta fíkniefna (Forman og Neal, 2004) eða eins og rapparinn Biggie segir í lagi sínu Juicy frá árinu 1994: ,,To all the people that lived above the building that I was hustling [að selja fíkniefni] in front of that called the police on me when I was trying to feed my daughter” og vísar hann þá í þann tíma þegar hann seldi fíkniefni til að eiga fyrir mat handa sér og dóttur sinni (Smiley, 2017). Samband rapptónlistar og fíkniefnanotkunar má því rekja til lágrar stéttarstöðu svartra í fátækrahverfum Bandaríkjanna, en rappið var í raun tjáningarform og sagði sögu þeirra um erfiða lífsbaráttu í samfélagi þar sem ofbeldi, glæpir og fíkniefnanotkun voru daglegt brauð (Formal og Neal, 2004; Herd, 2005; Williams, 2020).

Enn í dag neytir mikill meirihluti rappara fíkniefna af einhverju tagi og fjalla um neysluna í lögum sínum þrátt fyrir að koma ekki frá brotnum bakgrunni líkt og forverar þeirra (Travis, 2013). Rannsóknir sýna að notkun fíkniefna í rapptónlist hefur aukist

14 verulega síðastliðin ár en Smiley (2017) telur að miklar breytingar hafi átt sér stað á síðastliðnum áratugum á því hvernig fíkniefni eru sett fram í rapptónlist. Hann heldur því fram að rapparar hafi farið úr því að upphefja sölu á fíkniefnum í að upphefja neyslu og vímu fíkniefna. Með öðrum orðum hafa rapparar þróast úr því að einungis selja fíkniefni til að græða pening í það að neyta fíkniefna og dásama vímu þeirra.

Í rapptónlist er notkun fíkniefna oftar en ekki tengd við glæstan lífsstíl, auðæfi, frægð og frama (Diamond o.fl., 2006; Grube og Waiters, 2005). Niðurstöður rannsóknar sem skoðaði tilvísanir í fíkniefnið MDMA í 69 rapplögum frá tímabilinu 1996-2003 sýndu að um helmingur laganna sýndu neyslu fíkniefnisins í jákvæðu ljósi, einungis 15 lög í neikvæðu ljósi og 19 lög sambland af bæði jákvæðu og neikvæðu. Notkun MDMA var þá oftast í skemmtilegum aðstæðum, svo sem á skemmtistöðum, í samkvæmum, undir áhrifum annarra vímuefna eða í kynlífi (Diamond o.fl., 2006). Þekktir tónlistarmenn rappsins búa í stórhýsum, ganga um í dýrum merkjavörum, með dýra skartgripi og eiga nóg af peningum, eða a.m.k. samkvæmt textum laga þeirra (Metcalfe og Ruth, 2020). Rapparinn vísar í þennan glæsta lífstíl í laginu U.O.E.N.O frá árinu 2013: ,,This a thousand dollar pair of shoes and you don't even know it. This a thousand dollar cup of lean and you don't even know it. This a half a million dollar car, you don't even know it”. Með öðrum orðum greinir hann frá þeim háu upphæðum sem hann eyðir í skó, fíkniefni og bíla (Peteet o.fl., 2020), en ef eitthvað er að marka þann glæsta lífsstíl sem svo margir rapparar virðast njóta getur bág efnahagstaða varla verið meginástæða neyslunnar þó svo að eflaust einhverjir komi vissulega úr lágstétt og hafi átt erfiðan uppvöxt.

Innihaldsgreining á plötunni K.O.D frá árinu 2018 eftir rapparann J. Cole sýndi fram á að þunglyndi er meginorsök fíkniefnaneyslu meðal rappara. Þá getur álagið og streitan sem fylgir því að vera heimsþekktur tónlistarmaður, kerfisbundinn rasismi og önnur persónuleg áföll, svo sem erfið æska eða sambandsslit, leitt til þess að rapparar fari þá leið að deyfa andlega þjáningu með fíkniefnum. Þá segir til að myndi texti lagsins WRLD on drugs með Future og frá árinu 2018: ,,I need a fix. The world on drugs, can you give me some? I don't feel no pain 'cause this pill got me numb”. Með öðrum orðum vísar texti lagsins í það hvernig rapparar leita í fíkniefni til deyfa sársauka og láta sér líða betur. Niðurstöður rannsóknarinnar bentu einnig til þess að rappara leita sér síður sálfræðihjálpar vegna þess hve skammarlegt það þykir í menningu rappsins (Williams,

15 2020). Rapparinn Mac Miller nefndi í viðtali við The FADER árið 2016 að hann hafi byrjað að neyta fíkniefna vegna andlegrar vanlíðunar, en víman lét honum líða betur (FADER, 2016). Rapparinn The Weeknd, sem hefur mikið sungið um neyslu sína á fíkniefnum, segir í texta lagsins Love in the sky frá árinu 2013: ,,But I’m always getting high, cause my confidence is low” og viðurkennir þar að hann fái aukið sjálfstraust undir áhrifum fíkniefna (Smiley, 2017). Rappararnir Future, Lil Wayne og Soulja Boy hafa einnig talað um jákvæð áhrif fíkniefna í viðtölum, en þeir telja að víman gefi þeim aukna sköpunargáfu og hjálpi þeim að semja tónlist (Peteet o.fl., 2020).

Þrátt fyrir þær jákvæðu hugmyndir sem rappara hafa um fíkniefni hefur þó notkun þeirra dregið þó nokkra unga rappara til dauða síðastliðin ár. Í hópi þeirra má nefna rapparann Ole Dirty Bastard sem lést árið 2004, Pimp C árið 2007, Lil Peep árið 2017, Mac Miller árið 2018 og Juice Wrld í lok árs 2019 (Williams, 2020; Drugs.com, e.d.). Nýverið lést rapparinn DMX úr ofneyslu fíkniefna, eða þann 9. apríl 2021 (Sylvía Rut Sigfúsdóttir, 2021). Stór meirihluti þessara rappara lést vegna ofneyslu lyfseðilsskyldra lyfja (Williams, 2020).

3.2 Notkun lyfseðilsskyldra lyfja í rapptónlist Misnotkun á lyfseðilsskyldum lyfjum hefur aukist í menningu rappsins líkt og hjá almenningi (Peteet o.fl., 2020). Talið er að stærsti notendahópur lyfseðilsskyldra lyfja séu ungmenni á aldrinum 16-25 ára en sá aldurshópur er sá sami og hlustar mest á rapptónlist og því telja margir að tengsl séu þar á milli, þ.e. að umfjöllun um fíkniefni í tónlist hafi áhrif á fíkniefnanotkun almennings (Compton og Volkow, 2006; Peteet o.fl., 2020).

Í upphafi 21. aldar urðu miklar breytingar á fíkniefnaneyslu í rapptónlist, þar sem tilvitnanir í lyfseðilsskyld lyf jukust um 77% (Williams, 2020). Rannsókn frá árinu 2019 innihaldsgreindi 25 vinsælustu rapplög á Billboard árið 2007 annars vegar og árið 2017 hins vegar. Niðurstöður sýndu að á þessu 10 ára tímabili höfðu tilvísanir í lyfseðilsskyld lyf í rapplögum aukist um 36%, en árið 2007 vitnuðu aðeins 12% laganna í lyfseðilsskyld lyf samanborið nær helming laga árið 2017, eða um 48%. Þá mátti allra helst sjá aukningu á tilvitnunum í ópíatalyf en einnig í drykkinn ,,lean", sem hefur verið vinsæll vímugjafi meðal rappara síðastliðin ár (Peteet o.fl., 2020).

Lean, sizzurp eða purple drank má heyra rappara nefna í vinsælum rapplögum og má jafnvel sjá þá neyta drykksins í viðtölum og tónlistarmyndböndum (Tettey o.fl., 2020).

16 Drykkurinn samanstendur af hóstasafti, sem inniheldur mikið magn af prometazín og ópíatalyfinu kódein, gosdrykk, oftast sprite, og er nammi stundum bætt út í fyrir bragð (Peteet o.fl., 2020; Williams, 2020; Tettey o.fl., 2020). Drykkurinn getur verið verulega skaðlegur, bæði andlega og líkamlega, en í miklu magni getur hann valdið flogakasti og í versta falli dregið fólk til dauða (Agnich, Stogner, Miller og Marcum, 2013; Hart, Agnich, Stogner og Miller, 2014). Þess má geta að rappararnir Lil Peep og Mac Miller, sem létust vegna ofneyslu fíkniefna á síðastliðnum árum, voru miklir lean notendur (Tettey o.fl., 2020).

Í viðtali við rapparann Lil Baby frá árinu 2017 ræðir hann notkun sína á drykknum lean. Hann segist hafa byrjað að drekka lean vegna þess að eldri rapparar sem hann umgekkst í upphafi ferilsins drukku lean í miklu magni og því hafi hann gert hið sama (DJ Smallz Eyes 2, 2017). Rapparinn Lil Wayne, sem hefur í gegnum tíðina einnig verið mikill lean notandi, nefnir í viðtali við Tim Westwood árið 2009 að í raun hafi lean haft jákvæð áhrif á feril hans. Hann gengur svo langt að kalla lean ,,success potion”, sem þýða mætti sem ,,velgengnisdrykkur”, því á meðan hann var undir áhrifum drykksins samdi hann sína bestu tónlist, sat á toppi vinsældalista og vann til fjögurra Grammy verðlauna (TimWestwoodTV, 2009). Þess má þó geta að árið 2017 var Lil Wayne lagður inn á spítala vegna flogakasta sem talið er að megi rekja til notkunar hans á lean (Tettey o.fl., 2020).

Ýmsir rapparar hafa talað opinskátt um neyslu sína á lyfseðilsskyldum lyfjum í viðtölum og í rapplögum sínum. Í hópi þeirra má nefna rapparann Future, en eitt hans vinsælasta lag, frá árinu 2017, vitnar í tvö fíkniefni í viðlaginu: ,,Percocet, Molly, Percocet” (Peteet o.fl., 2020). Percocet er sterkt verkjalyf sem inniheldur mikið magn af ópíóíða og molly, eða MDMA, er örvandi fíkniefni (SÁÁ, e.d.). Lagið sat á toppi vinsældalista Bandaríkjanna árið 2017 (Billboard, 2017) og er með hátt í milljarð hlustana á Spotify (Spotify, e.d.) og um 470 milljónir áhorfa á YouTube (Future, 2017). Fleiri lög eftir Future sem vitna í fíkniefni eru til að mynda , ásamt Pharrell, og Casino frá árinu 2014 og Codeine crazy, einnig frá árinu 2014. Árið 2018 gaf Future út plötuna WRLD on drugs ásamt rapparanum Juice Wrld, en Juice WRLD lést af völdum fíkniefna árið 2019 (Drugs.com, e.d.). Platan fjallar mestmegnis um fíkniefni og notkun þeirra og inniheldur meðal annars lagið Oxy ásamt Lil Wayne en viðlag lagsins er ,,Oxy- oxy, Oxycontin” og vísar í ópíatalyfið Oxycontin. Í viðtali frá árinu 2019 nefnir Future að

17 eftir að hann hætti að misnota lyfseðilsskyld lyf fannst honum hann ekki geta opinberað edrúmennsku sína af ótta við að hlustendur færu að líta á tónlist hans með öðrum augum. Hann hafi þá fundið fyrir mikilli pressu að viðhalda ákveðnum karakter fyrir hlustendur sína (Genius, 2019).

Í laginu Slippery með Migos ásamt frá árinu 2015 eru ópíataverkjalyf einnig nefnd í viðlagi lagsins: ,,Pop a Perky [Percocet] just to start up, pop two cups of purple [lean eða purple drank] just to warm up” sem þýða mætti sem: ,,Fæ mér Percocet til að byrja með, fæ mér tvö glös af purple drank/lean til að hita upp.” Einnig er minnst á fíkniefnið Molly eða MDMA, kvíðastillandi lyfið Xanax og ópíatalyfið Oxycontin í texta lagsins. Lagið er með hátt í 500 milljónir hlustanir á Spotify (Spotify, e.d.) og rúmlega 400 milljónir áhorf á YouTube (Migos ATL, 2017). Önnur rapplög sem vitna í notkun lyfseðilsskyldra lyfja eru meðal annars Sippin of some sizzurp með Three 6 Mafia frá árinu 2000 og Up með og frá árinu 2018 (Williams, 2020). Það má því sjá að áhrif lyfseðilsskyldra lyfja á rappið eru mikil og hafa til að mynda rapparar á við Yung Lean, Joey Purp og Lil Xan byggt listamannanöfn sín á nöfnum vinsælla fíkniefna (Tettey o.fl., 2020).

18 4 Fyrri rannsóknir Þrátt fyrir að notkun fíkniefna hafi aukist verulega í rapptónlist síðustu ár hafa áhrifin sem tónlistin kann að hafa á fíkniefnanotkun ungmenna lítið verið skoðuð. Ýmsar rannsóknir hafa þó verið gerðar á fíkniefnanotkun í rapptónlist en flestar þeirra hafa aðeins innihalds- eða þemagreint texta laganna fremur en rannsakað áhrifin sem tónlistin kann að hafa á notkun fíknefna meðal hlustenda (Metcalfe og Ruth, 2020). Þó hafa ýmsar rannsóknir skoðað áhrif rapptónlistarinnar á aðra þætti, svo sem áhrif tónlistarinnar á ofbeldishegðun, heilsu og viðhorf ungmenna (Miranda og Claes, 2004; Wingood o.fl., 2003; Bryant, 2008; Sullivan, 2003). Þá hafa áhrifin sem rapptónlistin hefur á áfengis- og tóbaksnotkun ungmenna einnig verið skoðuð (Grube og Waiters, 2005; Harakeh og Ter Bogt, 2018).

Í þessum kafla verða niðurstöður helstu rannsókna kynntar en vegna þess hve lítið samband rapptónlistar og notkun fíkniefna meðal ungmenna hefur verið skoðað verða áhrif rapptónlistarinnar á aðra þætti einnig skoðuð og höfð til hliðsjónar. Með því að draga fram heildstæða mynd af þeim áhrifum sem rappið hefur á ungmenni er hægt að álykta þau áhrif sem tónlistin kann að hafa á fíkniefnanotkun ungmenna þrátt fyrir að skortur sé á rannsóknum um þau efni.

4.1 Áhrif rapptónlistar á ungmenni Að hlusta á rapptónlist hefur verið bendlað við ýmsar óæskilega hegðun, svo sem ofbeldi, glæpi og vímuefnaneyslu. Rannsóknir benda meðal annars til þess að rapptónlist ýti undir ofbeldishneigð meðal háskólanema og hafi slæm áhrif á heilsu ungmenna (Hart o.fl, 2014). Rannsóknir hafa einnig bent til þess að hlustendur rappsins séu líklegri til þess að hafa slæma framtíðarsýn og vera ófærir um að sýna ástúð og umhyggju til sinna nánustu (Altun, Bülbül og Türkkan, 2018). Þá sýna tölur að vinsældir rappsins hafa aukist meðal ómenntaðra og eru aðdáendur rappsins almennt yngri, fátækari, líklegri til þess að koma úr fátækrahverfum og vera einhleypir en aðdáendur annarra tónlistarstefna (Herd, 2005). Niðurstöður rannsóknar Miranda og Claes (2004) bentu til þess að rapptónlist hafi áhrif á frávikshegðun Fransk-kanadískra ungmenna. Samkvæmt niðurstöðum ýtti tónlistin meðal annars undir ofbeldi, þjófnað, götuglæpi og notkun vægra og harðra fíkniefna meðal ungmenna.

19 Þegar niðurstöður rannsókna sem skoða áhrif rappsins á ungmenni eru skoðaðar má sjá að aukið samneyti við rapptónlistina hefur aukin áhrif á ungmenni. Með öðrum orðum, því meira sem ungmenni hlusta á rapptónlist því meiri áhrif hefur hún á þau. Niðurstöður samanburðarrannsóknar Wingood o.fl. (2003) sýndu að þau ungmenni sem horfðu á rapptónlistarmyndbönd í auknum mæli síðastliðna 12 mánuði voru þrisvar sinnum líklegri til þess að hafa lamið kennara og 2,5 sinnum líklegri til að hafa verið handtekin. Þá höfðu 37,6% þátttakenda smitast af nýjum kynsjúkdóm, 44,2% höfðu neytt fíkniefna og 44,4% höfðu drukkið áfengi á síðastliðnum 12 mánuðum.

Rannsóknir sem skoða áhrif rappsins á viðhorf ungmenna sýna svipað mynstur. Rannsókn Bryant (2008) skoðaði áhrif rapptónlistarmyndbanda sem hlutgera konur á viðhorf svartra bandarískra ungmenna til ástarsambanda milli kynjanna. Flestir þátttakendur, eða um 42%, horfðu á rapptónlistarmyndbönd í a.m.k. 1-5 klukkustundir á viku og bentu niðurstöður til þess að því meiri tíma sem ungmennin eyddu í áhorf á tónlistarmyndbönd sem hlutgera konur því neikvæðara viðhorf höfðu þau til sambanda milli kynjanna. Rannsókn Sullivan (2003) skoðaði viðhorf ungmenna til rapptónlistar og hvaða áhrif þau töldu að tónlistin hafi á þau. Þátttakendur voru látnir meta hversu vel þeim líkaði tónlistin á skalanum 1-10 og var hún metin að meðaltali 7,89, en 22 þátttakendur gáfu henni hæstu mögulegu einkunn. Þá voru flestir sammála um að rappið sýndi raunhæfa mynd af félagslegum veruleika og voru þeir sem hlustuðu mikið á rapptónlist og gáfu henni háa einkunn líklegri til þess að trúa því að rappið segði sannleikann.

4.2 Áhrif rapptónlistar á áfengis- og tóbaksnotkun Vímuefnaneysla hefur löngum verið hluti af dægurtónlist (Williams, 2020). Þar má nefna kannabisnotkun í menningu rappsins, notkun örvandi alsælulyfja, þ.e. MDMA/e-pillur, á tónlistarhátíðum og skemmtistöðum og að ógleymdu tímabili rokktónlistarinnar á 7. áratug 20. aldar þegar notkun heróíns, kókaíns og ofskynjunarlyfja var ekki óalgeng meðal rokkstjarna (Smiley, 2017). Í gegnum tíðina hafa þekktir tónlistarmenn látið lífið vegna ofneyslu vímuefna, hvort sem það var af völdum fíkniefna, lyfseðilsskyldra lyfja eða áfengis. Í hópi þeirra þekktustu má nefna Michael Jackson, Elvis Presley, Amy Winehouse, Whitney Houston, Jim Morrison og Mac Miller (Drugs.com, e.d.). Í raun endurspeglar fíkniefnaneyslan í rapptónlist einungis þann veruleika (Williams, 2020) og því er vert að

20 skoða einnig rannsóknir sem varpa ljósi á samband rapptónlistar og notkun annarra vímuefna.

Lögleg vímuefni, þ.e. áfengi og tóbak, hafa einnig verið algeng í vinsælum rapplögum og tónlistarmyndböndum. Rannsókn frá árinu 2005 skoðaði birtingu áfengis, tóbaks og fíkniefna í tónlistarmyndböndum á sjónvarpsrásunum MTV og BET á þriggja vikna tímabili haustið 2001. Niðurstöður leiddu í ljós að um 66% laganna sýndu merki um notkun einhverja vímuefna, þ.e. áfengis, tóbaks eða fíkniefna, og 31% þeirra sýndu notkun fíkniefna. Af þeim tónlistarflokkum sem voru skoðaðar var rapptónlistin lang líklegust til þess að sýna neyslu ólöglegra vímuefna (Gruber, Thau, Hill, Fisher og Grube, 2005). Rannsókn sem skoðaði birtingarmyndir áfengis í Bandarískri dægurmenningu sýndi að áfengi var lang oftast nefnt í rapptónlist eða í 47% tilvika. Þá var athöfnin að verða drukkinn eða að neyta fíkniefna oftast tengd við auðæfi og glæstan lífsstíl og var aðeins í örfáum tilfellum talað um notkun áfengis og fíkniefna í forvarnarskyni (Grube og Waiters, 2005). Því má sjá að rappið upphefur ekki aðeins fíkniefni í vinsælum lögum heldur einnig önnur vímuefni.

Ýmsar rannsóknir benda til þess að áfengis- og tóbaks auglýsingar hafa áhrif á áfengis- og tóbaksnotkun ungmenna og sýna rannsóknir sem skoða áhrif rapptónlistarinnar á áfengis- og tóbaksnotkun ungmenna slíkt hið sama. Rannsókn Chen, Miller, Grube og Waiters (2006) benti til þess að rapptónlistin ýti undir misnotkun áfengis, notkun ólöglegra fíkniefna og ofbeldishneigðar meðal ungmenna. Niðurstöður bentu til þess að rekja mætti áhrifin til aukins samneyti ungmennanna við rapptónlist sem upphefur notkun vímuefna. Svipaðar niðurstöður mátti sjá þegar áhrif áfengisneyslu í tónlistarmyndböndum rapplaga á ungmenni voru skoðuð, en þau ungmenni sem horfðu á rapptónlistarmyndbönd voru 1,5 sinnum líklegri að drekka áfengi en þau ungmenni sem horfðu ekki á rapptónlistarmyndbönd (Grube og Waiters, 2005). Rannsókn Robinson, Chen og Killen (1998) skoðaði áhrif bandarískra dægurmiðla, þ.e. sjónvarpsefnis, tónlistarmyndbanda og tölvuleikja á áfengisnotkun ungmenna í 9. bekk í Kaliforníu. Niðurstöður leiddu í ljós að aukið áhorf á sjónvarpsefni og tónlistarmyndbönd meðal ungmenna hafði áhrif á áfengisnotkun þeirra en samkvæmt niðurstöðum 18 mánaða fylgnisrannsóknar byrjuðu 36,2% nemendanna að drekka á síðastliðnum 18 mánuðum. Þá sýndu niðurstöður að með hverri aukinni klukkustund sem ungmenni eyddu í áhorf á

21 tónlistarmyndbönd jukust líkurnar á að því byrja að drekka áfengi um 31%. Niðurstöður þessara rannsókna sýna, líkt og niðurstöður annarra rannsókna að aukið samneyti við rapptónlistina hefur aukin áhrif á ungmenni.

Hollensk rannsókn skoðaði hvort textar rapplaga sem vitna í vímuefnanotkun ýti undir löngun reykingafólks að reykja en niðurstöður rannsóknar bentu aftur á móti ekki til þess að tónlistin hafi nein sérstök áhrif. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu samt sem áður að reykingar ættu í sterkari tengslum við rapptónlist samanborið við t.d. popptónlist. Þó er vert að taka fram að þátttakendur voru ekki aðdáendur rappsins og voru því ekki í auknu samneyti við rapptónlist (Harakeh og Ter Bogt, 2018).

4.3 Áhrif rapptónlistar á fíkniefnanotkun Þó svo að rannsóknir sem hafa skoðað samband tónlistarsmekks og vímuefnanotkunar bendi til þess sterkt samband sé á milli rapptónlistar og fíkniefnanotkunar eru aðeins örfáar rannsóknir sem einblína einungis á þau áhrif sem rappið kann að hafa á fíkniefnanotkun ungmenna. Þær rannsóknir benda til þess að þeir sem hlusta á rapptónlist eru líklegri til þess að neyta fíknefna. Bandarísk rannsókn frá árinu 2013 skoðaði samband notkunar á ópíatadrykknum lean meðal háskólanemenda í suð-austur Bandaríkjunum við ýmsa tónlistarflokka, meðal annars rapptónlist. Niðurstöður rannsóknar leiddu í ljós að þeir sem hlustuðu á rapptónlist voru líklegastir til að nota lean, en um 6,5% þátttakenda höfðu notað lean og 30,1% þeirra hlustuðu á rapptónlist (Hart o.fl., 2014).

Niðurstöður rannsóknar Rigg og Estreet (2018) sýndu svipaðar niðurstöður. Markmið rannsóknarinnar var að skoða samband notkunar fíkniefnisins MDMA, (götuheiti: ecstasy, X, XTC, molly), stundum kallað alsæla eða e-pilla á íslensku, meðal svartra Bandaríkjamanna við rapptónlistina. Þátttakendur voru 100 talsins og höfðu notað MDMA a.m.k. einu sinni síðastliðna 90 daga. 94% þátttakenda voru einhleypir og 69% atvinnulausir. Rapptónlistin var uppáhalds tónlist flestra, eða í 79% tilvika og hlustuðu flestir á rapp í a.m.k. 4 tíma á dag. Niðurstöður leiddu í ljós að skilaboð í textum rapplaga höfðu veruleg áhrif á fíkniefnanotkun svartra Bandaríkjamanna en 82% úrtaksins töldu að tónlistin hafi haft áhrif á ákvörðun þeirra að neyta fíkniefnisins. Þeir þættir sem taldir voru leika lykilhlutverk í ákvarðanatöku þátttakenda að neyta MDMA voru annars vegar trúverðugleiki þeirra rappara sem neyttu fíkniefna og hins vegar hvernig fíkniefninu var

22 lýst, þ.e. vímunni og við hvaða aðstæður efnið var notað. Þá töldu þátttakendur að umfjöllun rappara um MDMA í viðtölum eða á samfélagsmiðlum skipti einnig miklu máli.

23 5 Áhrif fíkniefnanotkunar í rapptónlist á hlustendur Rannsóknir benda til þess að sterkt samband er á milli fjölmiðla (e. mass media) og neytenda, en meðal þeirra miðla sem taldir eru hafa mest áhrif á almenning eru dægurmiðlar, þ.e. sjónvarpsefni, tónlist og kvikmyndir. Fræðimenn deila um hver áhrif dægurmiðla eru á samfélagið og er í raun hægt að tala um tvö ólík sjónarhorn, annars vegar þeir sem telja að dægurmiðlar spili hlutverk í að móta félagslegan veruleika og hins vegar þeir sem telja að efni dægurmiðla endurspegli einungis okkar félagslega veruleika (Diamond o.fl., 2006).

Í þessum kafla verður samband rapptónlistar og hlustenda skoðað og farið verður yfir mögulegar skýringar á þeim áhrifum sem fíkniefnanotkun í rapptónlist kann að hafa á hlustendur út frá fjórum kenningum. Þá verða þrjár kenningar fjölmiðlafræðinnar sem skýra samband miðla og neytenda settar fram, þ.e. ræktunarkenningin, dagskráráhrifin og fjölmiðlaneyslulíkanið, en einnig verður kenningin um félagsnám lögð fyrir til að skýra þau áhrif sem miðlar hafa á áhorfendur. Niðurstöður fyrri rannsókna verða hafðar til hliðsjónar og stuðnings.

5.1 Samband rapptónlistar og hlustenda Niðurstöður fyrri rannsókna benda til þess að sterkt samband er á milli rapptónlistar og hlustenda og hafa til að mynda ýmis fyrirtæki nýtt sér áhrifin sem tónlistin hefur á hlustendur til auglýsinganotkunar. Með því að láta þekkta rappara nefna vöru í lagi sínu geta fyrirtæki komið henni á framfæri og hafa meðal annars skyndibitar, íþróttamerki og jafnvel áfengisframleiðendur nýtt sér vettvanginn á þann hátt (Herd, 2005). Þess má geta að eftir að Snoop Dogg gaf út lag sitt Gin & juice árið 1994 fór sala á drykknum snarhækkandi á skemmtistöðum Bandaríkjanna. Sömu sögu má segja um aðrar áfengistegundir, svo sem kampavínið Cristal og koníakið Hennessy og Courvoisier eftir að rappararnir Diddy, LL Cool Jay og Busta Rhymes nefndu vörumerkin í lögum sínum (Diamond o.fl., 2006). Eftir að lag Busta Rhymes, Pass the Courvoisier, rauk upp vinsældalista árið 2002 hækkaði sala á áfenginu um 30%. Það er því talið að rappið hafi mikil áhrif á skoðanir, hegðun og hugmyndir almennings á áfengi (Herd, 2005). En ef rapparar og tónlist þeirra hafa slík áhrif á áfengissölu og notkun áfengis meðal almennings bara við það eitt að nefna vöru í lögum sínum getur tónlistin ekki haft sömu áhrif á fíkniefnanotkun meðal almennings?

24 Sala á hóstasaft sem framleitt var af lyfjafyrirtækinu Actavis fór vaxandi eftir að þekktir rapparar fóru að nota lyfið í drykkinn lean. Ástæðan fyrir því að þetta sérstaka hóstasaft var notað í lean var vegna þess að það innihélt mikið magn af ópíóðanum kódein. Actavis er nefnt í þó nokkrum rapplögum og má þar nefna lagið Actavis með Soulja Boy ásamt Migos frá árinu 2015, Activist með Gucci Mane frá árinu 2013 og er viðlag lagsins ,,Actavis you are love (I’m on that purple drank)”, Purple coming in með Future frá árinu 2015 með viðlagið ,,That purple [lean] be coming in (Actavis)” og lagið New Choppa með Playboy Carti ásamt ASAP Rocky frá árinu 2017, en texti lagsins er ,,Actavis pouring up lean”. Það sem þessir textar eiga sameiginlegt er að þeir vitna allir í notkun hóstasaftsins í ópíatadrykkinn lean/purple drank. Lyfið var að lokum tekið af markaði árið 2014 og má því sjá að áhrif rappsins voru slík að fyrirtækið ákvað að hætta framleiðslu þess (Fanney Birna Jónsdóttir, 2013).

5.2 Ræktunarkenningin Fjölmiðlafræðingurinn George Gerbner (f. 1919 – d. 2005) setti fram ræktunarkenninguna (e. cultivation theory) en hún grundvallast á því að neytendur verða fyrir beinum áhrifum dægurmiðla. Samkvæmt kenningunni geta einstaklingar sem eru í miklu samneyti við dægurmiðla farið að sjá hinn félagslega veruleika eins og hann er kynntur fyrir þeim í gegnum dægurmiðla. Sú sýn sem dægurmiðlar veita getur gefið einstaklingum ranghugmyndir um hinn raunverulega veruleika og mótað þannig hugmyndir þeirra og hegðun (Mosharafa, 2015). Samkvæmt kenningunni gætu þau ungmenni sem hlusta mikið á rapptónlist sem upphefur fíkniefnanotkun farið að trúa því að fíkniefni séu skaðlaus.

Niðurstöður fyrri rannsókna benda til þess að aukið samneyti við rappið eykur líkurnar á því að verða fyrir áhrifum þess. Niðurstöður rannsóknar Sullivan (2003) bentu til þess að því meira sem ungmennin hlustuðu á rapptónlist því líklegri voru þau til þess að telja rappið birta raunhæfa mynd af samfélaginu og segja sannleikann. Þátttakendur greindu frá því að tónlistin kenndi þeim ýmislegt um lífið og töldu þau rappara segja hlutina eins og þeir eru. Niðurstöður rannsóknar Robinson o.fl. (1998) sýndu að með hverri klukkustund sem ungmenni horfðu á tónlistarmyndbönd jukust líkurnar á því að byrja að drekka áfengi um 31%. Niðurstöður rannsóknar Bryant (2008) bentu til þess að aukið áhorf á rapp tónlistarmyndbönd hefði verulega áhrif á viðhorf ungmenna til staðalmynda

25 kynjanna. Þátttakendur voru látnir horfa á rapp tónlistarmyndbönd þar sem konur voru sýndar kynferðislegar og undirlægar og rúmur helmingur þátttakenda taldi hegðun beggja kynja í myndböndunum vera eðlilega. Um 73% þátttakenda töldu að strákar vilji kærustur sem haga sér líkt og konurnar í myndböndunum og 71% þátttakenda töldu að stelpur vilji fremur kærasta sem haga sér eins og rappararnir gerðu í myndböndunum.

Niðurstöður þessara rannsókna mætti til að mynda skýra með ræktunarkenningunni þar sem aukin tengsl ungmenna við rapptónlist auka líkurnar á því að þau telji það sem rappið birtir þeim vera rétt og satt og getur þannig haft áhrif á hegðun þeirra, hugmyndir og skoðanir (Sullivan, 2003; Robinson o.fl., 1998; Bryant, 2008). Því má álykta að notkun fíkniefna í rapptónlist geti haft áhrif á þau ungmenni sem hlusta mikið á rapptónlist.

5.3 Dagskráráhrifin Önnur kenning sem vísar í samband miðla og neytenda er kenningin um dagskráráhrifin (e. agenda setting). Hún svipar verulega til ræktunarkenningarinnar þar sem hún telur einnig að miðlar hafi bein áhrif á neytendur, en leggur þó meiri áherslu á það hvernig miðlar beina athygli áhorfenda í ákveðnar áttir og geti þannig haft áhrif á hvaða málefni samfélagið telur vera mikilvæg. Þetta er gert með svokölluðum dagskrárramma (e. agenda framing) og geta áhrifin sem miðlar hafa á almenning verið meðvituð eða ómeðvituð (Devereux, 2014).

Textar rapplaga eru öflugt tól, en í gegnum tónlistina, í formi lagatexta, geta tónlistarmenn sett nokkurs konar dagskrárramma utan um það sem þeir telja vera mikilvægt eða vilja koma á framfæri og mætti segja að rapparar nýti sér þessa aðferð þegar þeir auglýsa vörur fyrir fyrirtæki í lögum sínum. Rapparar nota texta laga sinna til að lýsa sínum félagslega veruleika og hafa þeir til að mynda nýtt sér dagskráráhrifin til að vekja athygli á samfélagslegum vandamálum, svo sem kerfisbundnum rasisma og ójafnrétti (Williams, 2020). Með dagskrárrammanum gefa miðlar ungmennum skilaboð um hvað þykir vinsælt hverju sinni (Diamond o.fl., 2006). Með því að syngja um ákveðin fíkniefni eða ræða um þau í viðtölum gætu rapparar verið ómeðvitað að setja dagskrárramma utan um fíkniefnin sem þeir neyta og hafa þannig áhrif á hugmyndir og skoðanir hlustenda og mögulega ýtt undir fíkniefnanotkun meðal þeirra ungmenna sem hlusta á rapptónlist.

26 Notkun á fíkniefninu MDMA, eða e-pillunni eins og efnið er betur þekkt sem hérlendis, jókst við aldamótin meðal ungmenna (Diamond o.fl., 2006). Hér á landi var helsti neytendahópur e-pillunnar eldri grunn- og framhaldsskólanemar en árið 1995 höfðu 1,6% 10. bekkinga prófað efnið a.m.k. einu sinni og árið 2003 var hlutfall 10. bekkinga sem höfðu prófað e-pilluna orðið 3%. Fjölmiðlar gengu jafnvel svo langt að segja að í Reykjavík ríkti e-pillu æði (Jónas Orri Jónasson og Helgi Gunnlaugsson, 2014). Um svipað leyti fóru tilvitnanir í fíkniefnið einnig að aukast í rapptónlist og árið 2001 var MDMA/e-pillan talin vera vinsælasta fíkniefnið í rappinu. Notkun efnisins er talin örva kynferðislega löngun og unað, en efnið er stundum kallað skemmtistaða fíkniefnið (e. club drug) enda eru áhrifin alsæla og því vinsælt á skemmtanalífinu (Diamond o.fl., 2006).

Niðurstöður rannsóknar Rigg og Estreet (2018) bentu til þess að tilvísanir í MDMA í rapptónlist höfðu áhrif á ákvörðun 82% þátttakenda að prófa fíkniefnið og skipti það lykilmáli í ákvörðun þeirra hvernig fíkniefnið var sett fram í textum rapplaga. Einn þátttakandi rannsóknarinnar greindi frá því að jákvæðar lýsingar á notkun MDMA í rapptónlist hafði ýtt undir ákvörðun hans að prófa efnið. Samkvæmt umræddum þátttakenda er MDMA ekki flokkað sem hættulegt fíkniefni líkt og heróín eða kókaín vegna þess að efnið er oftast notað með öðrum fíkniefnum eða í skemmtanalífinu og getur því sá sem neytir MDMA haldið áfram að skemmta sér eftir að hafa innbyrt efnið. Hann hafði aldrei heyrt um neinn sem hafði orðið háður efninu eða látist af völdum þessu og hafði sú vitneskja látið honum líða betur með að prófa efnið sjálfur.

Tilvísanir í MDMA í rapplögum á tímabilinu 1996-2003 voru í nær helming tilfella sagðar á jákvæðan hátt og var neysla efnisins oftast með öðrum athöfnum, líkt og neyslu annarra vímuefna sem svo kannabis og áfengis. Þá var MDMA oftast notað á skemmtistöðum eða í kynlífi og var sjaldan rætt um neikvæðar afleiðingar efnisins (Diamond o.fl., 2006; Rigg og Estreet, 2018). Annar þátttakandi, sem heyrði fyrst um fíkniefnið í YouTube viðtali við rapparann 2 Chainz, lýsti því hvernig rapparinn hafi sagt reynslusögur um áhrif efnisins, bæði í kynlífi og á skemmtanalífinu, og þannig látið fíkniefnið hljóma spennandi og skemmtilegt. Þá greindi þátttakandinn frá því að lýsingar rapparans á vímunni hafi ýtt undir forvitni hans að prófa efnið sjálfur (Rigg og Estreet, 2018). Þessar niðurstöður gætu meðal annars skýrt þá aukningu sem varð meðal almennings á notkun fíkniefnisins MDMA. Þá hefur rappið sett nokkurs konar

27 dagskrárramma utan um MDMA um aldamótin sem varð til þess að vinsældir MDMA jukust meðal almennings.

Þó svo að skortur sé á rannsóknum um áhrif tilvísana í lyfseðilsskyld lyf í rapptónlist á notkun lyfjanna meðal almennings má ætla að áhrifin séu þau sömu þar sem svipað mynstur má sjá nú og sjá mátti um aldamótin. Í raun má sjá í gegnum tíðina hvernig fíkniefnanotkun samfélagsins endurspeglar ávallt vinsæla tónlist (Diamond o.fl., 2006). Niðurstöður rannsóknar Tettey o.fl. (2020) sýndi að lean var oftast notað með öðrum fíkniefnum eða í 37% tilvika og í 15% tilvika var lyfið notað í kynferðislegum aðstæðum. Það má því álykta að hvernig fíkniefni eru sett fram í textum rapplaga skiptir miklu máli og hafa lög sem upphefja fíkniefni og bendla notkun þeirra við aðrar athafnir aukin áhrif á fíkniefnanotkun ungmenna.

5.4 Fjölmiðlaneyslulíkanið Fjölmiðlaneyslulíkanið (e. media practice model) byggist á þeirri hugmynd að milli miðla og áhorfenda séu gagnvirk áhrif. Samkvæmt kenningunni velja ungmenni sér miðla sem þau telja að endurspegli sína eigin sjálfsmynd og hefur sá miðill sömuleiðis áhrif á mótun sjálfsmyndar þeirra (Harakeh og Bogt, 2018). Talið er að val ungmenna á miðlum byggist meðal annars á þeirra eigin persónueinkennum. Til að mynda eru ungmenni sem eru hvatvís, athafnasöm og uppreisnargjörn að eðlisfari talin líklegri til þess að hlusta á tónlist sem er hávær og kraftmikil og er rapptónlistin þar með talin (Mulder o.fl., 2010; Bogt o.fl., 2012). Einstaklingar með slík persónueinkenni eru einnig taldir vera líklegri til að þróa með sér vímuefnafíkn, en rannsóknir sýna einmitt að samband er á milli þess að hlusta á háværa og kröftuga tónlist, þ.e. rokk-, pönk-, rapp- og teknótónlist, og að neyta fíkniefna. Að hlusta á slíka tónlist gefur einstaklingum ákveðna útrás, sem væri einnig hægt að fá með hættulegri og kærulausri hegðun líkt og notkun vímuefna (Mulder o.fl., 2010).

Ýmsar rannsóknir benda til þess að ungmenni hlusta á rapptónlist vegna þess að textar laganna höfða til þeirra (Diamond o.fl., 2006; Harakeh og Bogt, 2018). Þátttakendur rannsóknar Sullivan (2003) töldu sig tengja við innihald vinsælla rapplaga þar sem lögin fjölluðu um félagslegan veruleika sem endurspeglaði þeirra eigin veruleika. Þau ungmenni sem hlusta því á rapptónlist og neyta fíkniefna líta svo á að tónlistin endurspegli líf þeirra fremur en að hafa áhrif á hegðun þeirra. Því mætti mögulega skýra samband rapptónlistar og fíkniefnanotkunar út frá persónueinkennum ungmennanna fremur en áhrifum frá

28 tónlistinni sjálfri þar sem þau ungmenni sem nota fíkniefni telja sig einungis tengja við rapptónlistina (Diamond o.fl., 2006). Fjölmiðlaneyslulíkanið byggist þó á gagnvirkum áhrifum miðla og áhorfenda og því má álykta svo að þrátt fyrir að ungir fíkniefnaneytendur hlusti á rapptónlist því þeir telja hana endurspegla sinn félagslega veruleika þá getur rappið samt sem áður átt þátt í að móta skoðanir og hugmyndir hlustenda og ýta undir notkun fíkniefna meðal ungmenna.

5.5 Félagsnámskenningin Sálfræðingurinn Albert Bandura (f. 1925) setti fram kenninguna um félagsnám (e. social learning theory) en hún grundvallast á því að öll hegðun einstaklinga er lærð í gegnum samskipti við aðra eða með því að fylgjast með samskiptum annarra. Það er því nánasta tengslanet einstaklingsins sem hefur mest áhrif á hegðun hans, þ.e. vinir og fjölskylda. Talið er að fyrirmyndir okkar úr dægurmenningu hafi einnig mikil áhrif á hegðun okkar og hugmyndir þar sem við fylgjumst með þeirra hegðun í gegnum miðla (Siegel, 2018). Samkvæmt þessari kenningu eru ungmenni sem hlusta mikið á rapptónlist þar sem fíkniefnanotkun er upphafin líklegri til þess að neyta fíkniefna sjálf þar sem þau læra hegðunina í gegnum fyrirmyndir sínar úr rappinu. Hugmyndir þeirra sem hlusta á rapptónlist litast því ómeðvitað af þeirri glansmynd sem rapptónlistin varpar á fíkniefni.

Niðurstöður rannsóknar Rigg og Estreet (2018) bentu til þess að það skiptir ekki aðeins máli hvernig fíkniefni eru sett fram í tónlist heldur einnig hverjir auglýsa þau. Einn þátttakanda rannsóknarinnar greindi frá því að það var ekki fyrr en rapparar sem voru mikilsverðir að hans mati, þ.e. fyrirmyndir hans, fóru að tala um notkun MDMA í lögum sínum að hann fór að gæla við þá hugmynd að prófa fíkniefnið sjálfur. Tónlistarmenn á við Lil Wayne, 50 Cent, Jay-Z, Rick Ross, French Montana og Kanye West eru taldir tískufrömuðir (e. trendsetters) og eiga sér marga aðdáendur. Því má ætla að það sem þessir listamenn syngja um í lögum sínum mun koma til með að verða vinsælt meðal hlustenda, þar á meðal fíkniefni.

Með aukinni tækni hefur tónlist ekki aðeins orðið aðgengilegri heldur einnig að mestu ókeypis. Streymiveitur á við Spotify, SoundCloud, YouTube o.fl. hafa auðveldað ungmennum að nálgast efni rapptónlistarinnar. Á YouTube geta ungmenni einnig nálgast viðtöl við rappara þar sem þeir ræða opinskátt um notkun sína á fíkniefnum. Til að mynda heyrði einn þátttakandi rannsóknar Rigg og Estreet (2018) fyrst um fíkniefnið MDMA í

29 viðtali við 2 Chainz á YouTube og byrjaði í kjölfarið að nota fíkniefnið. Þess má geta að YouTube er með um 1,5 milljarð mánaðarlegra notenda. Á samfélagsmiðlum á við Instagram og Snapchat geta ungmenni fylgst með sínum uppáhalds rappörum sem getur haft aukin áhrif á ungmennin (Travis, 2013; Peteet o.fl., 2020). Það er því ljóst að ungmenni verða fyrir félagsnámi frá menningu rappsins víðsvegar, ekki aðeins úr tónlistinni sjálfri.

30 6 Niðurstöður Fíkniefnavandinn er flókinn og margþættur og því eru áhrifin sem rapptónlistin hefur á fíkniefnanotkun ungmenna það einnig (Kreek o.fl., 2004). Þó svo skortur sé á rannsóknum um samband rapptónlistar og fíkniefnanotkunar ungmenna er ljóst að tónlistin hefur áhrif á ungmenni. Þær fáu rannsóknir sem gerðar hafa verið á áhrifum rapptónlistarinnar og fíkniefnanotkunar hafa sýnt að hlustendur rappsins eru líklegri til þess að neyta fíkniefna (Hart o.fl., 2014; Rigg og Estree, 2018) en erfitt er þó að segja til um hvort tónlistin orsaki neysluna eða hvort þau ungmenni sem neyta fíkniefna kjósa að hlusta á rapptónlist því þau telja tónlistina endurspegla þeirra félagslega veruleika. Því er einungis hægt að geta sér til um mögulegar ástæður þess sambands sem ríkir milli rapptónlistar og hlustenda.

Þegar helstu niðurstöður fyrri rannsókna eru skoðaðar og settar í samhengi við þær kenningar sem greint var frá í 5. kafla má sjá að ákveðnir þættir auka líkurnar á því að ungmenni verða fyrir áhrifum rapptónlistarinnar. Í fyrsta lagi sýna niðurstöður að aukið samneyti við rapptónlist eykur líkurnar á því að ungmenni verða fyrir áhrifum hennar (Wingood o.fl., 2003; Bryant, 2008; Sullivan, 2003). Það má því ætla að aðeins aðdáendur rapptónlistarinnar verða fyrir áhrifum hennar. Þessi niðurstaða myndi t.d. skýra hvers vegna niðurstöður hollensku rannsóknar Harakeh og Ter Bogt (2018) sýndu að vímuefnanotkun í rapptónlist hafði engin áhrif á löngun þátttakenda að reykja þar sem þátttakendur rannsóknarinnar voru ekki aðdáendur rappsins. Í öðru lagi sýna niðurstöður að miklu máli skiptir hvernig fíkniefni eru sett fram í rapptónlist. Ef notkun fíkniefna í vinsælum rapplögum eru við aðstæður sem telja mætti sem skemmtilegar, t.d. á skemmtanalífinu, í kynlífi eða með öðrum vímuefnum, aukast líkurnar á því að ungmenni fari að nota fíkniefni (Diamond o.fl., 2006; Rigg og Estreet, 2018). Í þriðja lagi skiptir það máli hverjir auglýsa notkun fíkniefna þar sem ungmenni taka upp hegðun vinsælla rappara sem þau líta upp til. Þekktir rapparar sem neyta fíkniefna geta því haft áhrif á fíkniefnanotkun aðdáenda sinna (Rigg og Estreet, 2018).

Í upphafi ritgerðar var rannsóknarspurningu varpað fram: ,,Hefur fíkniefnanotkun í rapptónlist áhrif á fíkniefnanotkun ungmenna?” Henni mætti svara sem svo að fíkniefnanotkun í rapptónlist getur haft áhrif á ungmenni, en aðeins þau ungmenni sem hlusta á rapptónlist, eru rappaðdáendur og eiga sér jafnvel fyrirmyndir úr menningu rappsins.

31 Þó svo að misnotkun lyfseðilskyldra lyfja hafi aukist á síðastliðnum árum bæði meðal almennings og í rapptónlist er enn óljóst hvort tónlistin hafi áhrif á notkun lyfjanna meðal almennings eða hvort tónlistin hreinlega endurspegli einungis samfélagslegan vanda sem nú þegar er til staðar. Í ljósi niðurstaðna mætti þó álykta svo að aukningin sem orðið hefur á misnotkun lyfseðilsskyldra lyfja meðal almennings mætti að hluta rekja til áhrifa frá rapptónlistinni, eða a.m.k. þeirri aukningu sem varð á notkun lyfjanna meðal hlustenda rappsins.

32 7 Lokaorð Í þessari ritgerð voru lagðar fram mögulegar skýringar á sambandi rapptónlistar og fíkniefnanotkunar ungmenna en ljóst er að framkvæma þarf fleiri rannsóknir um viðfangsefnið til að greina betur hversu sterkt sambandið er í raun og veru. Það kom á óvart við gerð þessarar ritgerðar hve lítið samband rapptónlistar og hlustenda hefur verið skoðað, hvað þá áhrif rapptónlistarinnar á fíkniefnanotkun ungmenna þar sem tónlistin er sú vinsælasta meðal ungmenna í dag og hefur verið talsvert lengi (Peteet o.fl., 2020). Því má ætla að hún leiki stórt hlutverk í lífi margra. Þar að auki benda ýmsar rannsóknir til þess að tilvísanir í fíkniefni í rapptónlist hafi aukist á síðustu árum (Smiley, 2017).

Vímuefnanotkun hefur í gegnum tíðina fylgt vinsælli dægurtónlist og endurspeglar fíkniefnanotkun í rapptónlist einungis hluta af þeim veruleika (Williams, 2020). Eðlilega var ekki rúm fyrir rannsakanda að skoða aðrar stefnur. Eins og skýrt hefur komið fram, þó að ekki sé hægt að fullyrða nákvæmlega um orsakir og afleiðingar í þessum efnum er mikilvægt að félagsfræðingar líti til tengsla þessara tveggja þátta, þ.e. dægurtónlistar og vímuefnaheimsins. Dægurmenningin umlykur vestrænt samfélag dag og nótt og áhrif hennar á einstaklinga jafnt sem hópa er eitthvað sem nauðsynlegt er að taka með í reikninginn þegar álykta skal um lýðheilsu, hóphegðun, stéttavitund o.s.frv.

______Nafn höfundar

33 Heimildaskrá

Agnich, L. E., Stogner, J. M., Miller, B. L. og Marcum, C. D. (2013). Purple drank prevalence and characteristics of misusers of codeine cough syrup mixtures. Addictive behaviors, 38(9), 2445-2449.

Altun, Z. D., Bülbül, K. og Türkkan, T. (2018). The relationship between university students' music preferences and drug abuse tendencies and personality traits. Universal journal of educational research, 6(12), 2931-2941.

Arnþór Jónsson. (2014, 27. nóvember). Fíkn er heilasjúkdómur. SÁÁ. Sótt 15. mars 2021 af https://saa.is/fikn-er-heilasjukdomur/.

Billboard. (2017, 6. maí). Hot 100 chart history: Mask off – Future. Sótt 28. apríl 2021 af https://www.billboard.com/music/future/chart-history/HSI/song/1015347.

Bjarni Sigurðsson. (2018, 18. október). Heilasjúkdómurinn fíkn. SÁÁ. Sótt 26. apríl 2021 af https://saa.is/heilasjukdomurinn-fikn/.

Bogt, T. F. T., Gabhainn, S. N., Simons-Morton, B. G., Ferreira, M., Hublet, A., Godeau, E., ... og the HBSC Risk Behavior and the HBSC Peer Culture Focus Groups. (2012). Dance is the new metal: Adolescent music preferences and substance use across Europe. Substance use & misuse, 47(2), 130-142.

Bryant, Y. (2008). Relationships between exposure to rap music videos and attitudes toward relationships among African American youth. Journal of black psychology, 34(3), 356-380.

Chen, M. J., Miller, B. A., Grube, J. W. og Waiters, E. D. (2006). Music, substance use, and aggression. Journal of studies on alcohol, 67(3), 373-381.

Christenson, P. G., Henriksen, L. og Roberts, D. F. (2000). Substance use in popular prime-time television. The Office.

Compton, W. M. og Volkow, N. D. (2006). Abuse of prescription drugs and the risk of addiction. Drug and alcohol dependence, 83, 4-7.

Conrad, P. og Schneider, J. W. (1992). Deviance and medicalization: From badness to sickness. Philadelphia: Temple, 277-292.

Dánarmeinaskrá. (2020). Lyfjatengd andlát 2008-2019. Sótt 30. apríl 2021 af https://www.landlaeknir.is/tolfraedi-og- rannsoknir/tolfraedi/danarorsakir/lyfjatengdandlat/.

Devereux, E. (2014). Understanding the media (3. útgáfa). London: Sage.

Diamond, S., Bermudez, R. og Schensul, J. (2006). What’s the rap about ecstasy? Popular music lyrics and drug trends among American youth. Journal of adolescent research, 21(3), 269-298.

34 DJ Smallz Eyes 2. (2017, 3. júlí). Lil Baby: I spend $5000 a week on lean addiction [myndband]. YouTube. Sótt 27. apríl 2021 af https://www.youtube.com/watch?v=kKD3Bc-avkY.

Drugs.com. (e.d.). Drug-related deaths – notable celebrities. Sótt 28. apríl 2021 af https://www.drugs.com/celebrity_deaths.html?sort=cause_of_death.

EMCDDA. (2019). Drug-related deaths and mortality in Europe. Sótt 28. apríl 2021 af https://www.emcdda.europa.eu/system/files/publications/11485/20193286_TD031 9444ENN_PDF.pdf.

The FADER. (2016, 5. febrúar). Mac Miller – Stopped making excused (documentary) [mynband]. YouTube. Sótt 1. apríl 2021 af https://www.youtube.com/watch?v=UQ3w99trVUk.

Fanney Birna Jónsdóttir. (2013, 25. nóvember). Actavis tekur hóstasaft af markaði vegna misnotkunar. Vísir.is. Sótt 29. apríl 2020 af https://www.visir.is/g/2013131129458/actavis-tekur-hostasaft-af-markadi-vegna- misnotkunar.

Forman, M. og Neal, M. A. (ritstjórar). (2004). That’s the joint!: The hip-hop studies reader. New York: Routledge.

Future. (2017, 5. maí). Future – Mask off (official music video) [myndband]. YouTube. Sótt 27. apríl 2021 af https://www.youtube.com/watch?v=xvZqHgFz51I.

Genius. (2019, 15. janúar). Future discusses ,,The WIZRD”, his ,,King’s dead” verse and quitting lean – For the record. YouTube. Sótt 1. apríl 2021 af https://www.youtube.com/watch?v=3HQ9ew63_QQ.

Grube, J. W. og Waiters, E. (2005). Alcohol in the media: content and effects on drinking beliefs and behaviors among youth. Adolescent medicine clinics, 16(2), 327.

Gruber, E. L., Thau, H. M., Hill, D. L., Fisher, D. A. og Grube, J. W. (2005). Alcohol, tobacco and illicit substances in music videos: a content analysis of prevalence and genre. Journal of adolescent health, 37(1), 81-83.

Harakeh, Z. og Ter Bogt, T. F. M. (2018). The effect of rap/hip-hop music on youth adult smoking: An experimental study. Substance use and misuse, 53(1), 1819-1825.

Hart, M., Agnich, L. E., Stogner, J. og Miller, B. L. (2014). ,,Me and my drank”: Exploring the relationship between musical preferences and purple drank experimentation. American journal of criminal justice, 39(1), 172-186.

Helga Sif Friðjónsdóttir. (2009). Hvað þurfa hjúkrunarfræðingar að vita um fíkn. Tímarit hjúkrunarfræðinga, 85(6), 38-43.

Helgi Gunnlaugsson og Rannveig Þórisdóttir. (1999). Iceland and the Nordic drug survey: Drug use public attitudes and youth. Young, 7(1), 19-25.

35 Helgi Gunnlaugsson. (2013). Fíkniefni, íslenskt samfélag og nýir kostir í stefnumótun. Stjórnmál og stjórnsýsla, 9(2).

Helgi Gunnlaugsson. (2018). Afbrot og íslenskt samfélag. Reykjavík: Háskólaútgáfan. Herd, D. (2005). Changes in the prevalence of alcohol use in rap song lyrics, 1979–97. Addiction, 100(9), 1258-1269.

Jónas Orri Jónasson og Helgi Gunnlaugsson. (2014). Siðafár í íslensku samfélagi? Koma e-töflunnar til Íslands. Stjórnmál og stjórnsýsla, 10(2), 367-384.

Kreek, M. J., Nielsen, D. A. og LaForge, K. S. (2004). Genes associated with addiction. Neuromolecular medicine, 5(1), 85-108.

Magnús Jónhannsson, Jón Pétur Einarsson, Jón Óskar Guðlaugsson og Ólafur B. Einarsson. (2018, 23. mars). Andlát vegna ofskömmtunar lyfja á Íslandi og í Bandaríkjunum. Embætti landlæknis. Landlæknir.is. Sótt 26. apríl 2021 af https://www.landlaeknir.is/um-embaettid/frettir/frett/item34655/andlat-vegna- ofskommtunar-lyfja-a-islandi-og-i-bandarikjunum.

Metcalfe, T. og Ruth, N. (2020). Beamer, Benz, or Bentley: Mentions of products in hip hop and R&B music. International journal of music business research, 9(1), 41-62.

Migos ATL. (2017, 4. maí). Migos – Slippery feat. Gucci Mane (official video) [myndband]. YouTube. Sótt 24. mars 2021 af https://www.youtube.com/watch?v=Hm1YfszJWbQ.

Miranda, D. og Claes, M. (2004). Rap music genres and deviant behaviors in French- Canadian adolescents. Journal of youth and adolescence, 33(2), 113-122.

Mosharafa, E. (2015). All you need to know about: The cultivation theory. Global journal of human-social science: A arts and humanities – psychology, 15(8), 22-37.

Mulder, J., Ter Bogt, T. F., Raaijmakers, Q. A., Gabhainn, S. N., Monshouwer, K. og Vollebergh, W. A. (2010). Is it the music? Peer substance use as a mediator of the link between music preferences and adolescent substance use. Journal of adolescence, 33(3), 387-394.

Oddi Erlingsson. (1998). Fíknihugtakið: vímuefnafíkn og atferlisfíkn. Geðvernd, 27(1), 20- 24.

Pawson, M. og Kelly, B. C. (2013). Consumption and community: The subculture contexts og disparate marijuana practices in jam band and hip-hop scenes. Journal deviant behavior, 35(5), 347-363.

Peteet, B., Roundtree, C., Dixon, S., Mosley, C., Miller-Roenigk, B., White, J., ... og McCuistian, C. (2020). ,,Codeine crazy”: A content analysis of prescription drug references in popular music. Journal of youth studies, 1-17.

36 Rigg, K. K. og Estreet, A. T. (2018). MDMA (ecstasy/molly) use among African Americans: The perceived influence of hip-hop/rap music. Journal of ethnicity in substance abuse, 1–11.

Robinson, T. N., Chen, H. L. og Killen, J. D. (1998). Television and music video exposure and risk of adolescent alcohol use. Pediatrics, 102(5), 54-54.

Saah, T. (2005). The evolutionary origins and significance of drug addiction. Harm reduction journal, 2(1), 1-7.

SÁÁ. (2018, 23. júlí). Verðkönnun: 52% keyptu lyfseðilsskyld lyf. Sótt 26. apríl 2021 af https://saa.is/verdkonnun-rumlega-helmingur-keypt-lyfsedilskyld-lyf/.

SÁÁ. (e.d.). Róandi ávanalyf. Sótt 27. apríl 2021 af https://saa.is/roandi-avanalyf/.

Siegel, L. J. (2018). Criminology: Theories, patterns and typologies (13. útgáfa). Lowell: Háskólinn í Massachusetts.

Singer, M. (2012). Anthropology and addiction: An historical review. Addiction, 107(10), 1747-1755.

Smiley, C. (2017). Addict Rap?: The shift from drug distributor to drug consumer in hip hop. Journal of hip hop studies, 4(1), 94-117.

Spotify [streymiveita]. (e.d.). Sótt 24. mars 2021 af https://www.spotify.com/us/. Sullivan, R. E. (2003). Rap and race: It's got a nice beat, but what about the message? Journal of black studies, 33(5), 605-622.

Sylvía Rut Sigfúsdóttir. (2021, 9. apríl). DMX látinn 50 ára að aldri. Vísir.is. Sótt 28. apríl 2021 af https://www.visir.is/g/20212095304d/dmx-latinn-50-ara-ad-aldri.

Tettey, N. S., Siddiqui, K., Llamoca, H., Nagamine, S. og Ahn, S. (2020). Purple drank, sizurp, and lean: Hip-hop music and codeine use, a call to action for public health educators. International journal of psychological studies, 12(1).

Thio, A., Taylor, J. og Schwartz, M. (2013). Devient behavior. Ohio: Pearson.

TimWestwoodTV. (2009, 14. október). Lil Wayne backstage part 3 [myndband]. YouTube. Sótt 1. apríl 2021 af https://www.youtube.com/watch?v=hAOSoG6IilY.

Travis, R. (2013). Rap music and the empowerment of today’s youth: Evidence in everyday music listening, music therapy, and commercial rap music. Child and adolescent social work journal, 30(2), 139-167.

Turner-Musa, J. O., Rhodes, W. A., Harper, P. T. H. og Quinton, S. L. (2008). Hip-hop to prevent substance use and HIV among African-American youth: A preliminary investigation. Journal of drug education, 38(4), 351-365.

37 Wang, S. C., Chen, Y. C., Lee, C. H. og Cheng, C. M. (2019). Opioid addiction, genetic susceptibility, and medical treatments: a review. International journal of molecular sciences, 20(17), 4294.

Williams, M. L. (2020). ,,Meditate, don’t medicate!” An analysis of addict rap, black men’s social issues, and J. Cole’s KOD album. Howard journal of communications, 31(5), 415-428.

Wingood, G. M., DiClemente, R. J., Bernhardt, J. M., Harrington, K., Davies, S. L., Robillard, A. og Hook III, E. W. (2003). A prospective study of exposure to rap music videos and African American female adolescents’ health. American journal of public health, 93(3), 437-439.

38