<<

MA ritgerð

Félagsráðgjöf til starfsréttinda

Hamingja, velferð og sálfræðilegur auður Sjónarhorn sálfræði, AA samtakanna og félagsráðgjafar

Lora Elín Einarsdóttir

Leiðbeinandi Jóna Margrét Ólafsdóttir Félagsvísindasvið

Hamingja, velferð og sálfræðilegur auður Sjónarhorn sálfræði, AA samtakanna og félagsráðgjafar

Lora Elín Einarsdóttir 271284-4039

Lokaverkefni til MA-gráðu í félagsráðgjöf til starfsréttinda Leiðbeinandi: Jóna Margrét Ólafsdóttir

Félagsráðgjafardeild Félagsvísindasvið Háskóla Íslands Desember 2013

Hamingja, velferð og sálfræðilegur auður. Sjónarhorn sálfræði, AA samtakanna og félagsráðgjafar.

Ritgerð þessi er lokaverkefni til MA gráðu í félagsráðgjöf til starfsréttinda og er óheimilt að afrita ritgerðina á nokkurn hátt nema með leyfi rétthafa. © Lora Elín Einarsdóttir, 2013

Prentun: Háskólaprent Reykjavík, Ísland, 2013

Útdráttur

Þessi rannsókn fjallar um hamingju, velferð og sálfræðilegan auð frá sjónarhorni jákvæðrar sálfræði, AA sjálfshjálparsamtakanna og félagsráðgjafar. Markmið rannsóknarinnar er að svara því hvað rannsóknir benda til þess að hafi mest áhrif á velferð og hvort AA samtökin og félagsráðgjöf leggi áherslu á þessa sömu þætti. Umfjöllunin byggir að miklu leyti á kenningu sálfræðinganna Ed Diener og Robert Biswas-Diener um helstu áhrifaþætti velferðar en kenningin er í raun samantekt á niðurstöðum rannsókna undanfarinna áratuga á viðfangsefninu. Samkvæmt kenningunni eru mikilvægustu áhrifaþættir hamingjunnar tilhneiging fólks til að sjá það jákvæða í aðstæðum og atburðum, styðjandi og sterk sambönd, uppbyggilegar ákvarðanir, lífsstefna og lífstilgangur, andleg viðhorf og upplifun andlegra tilfinninga, fjárhagslegt öryggi, að fá líkamlegum þörfum sinnt og meðfæddir eiginleikar. Leiðbeiningar AA samtakanna til að ná bata frá alkóhólisma sem birtar eru í bók samtakanna Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur voru innihaldsgreindar út frá kenningu Diener og Biswas-Diener. Innihaldsgreiningin leiddi í ljós að AA samtökin leggja áherslu á sömu atriði og Diener og Biswas-Diener, fyrir utan áhrif meðfæddra eiginleika. Aðferðir, kenningar og siðareglur félagsráðgjafa voru þá skoðaðar með hliðsjón af helstu þáttum kenningar Diener og Biswas-Diener. Sá samanburður leiddi í ljós að félagsráðgjafar leggja áherslu á alla sömu þætti og Diener og Biswas-Diener.

3 Abstract

This study provides an overview of three different approaches to happiness, well-being and psychological wealth. The aim of the study was to compare the approaches of positive psychology with those of the fellowship of Alcoholics Anonymous (AA) and the social work profession’s. Diener’s and Biswas-Diener’s theory on psychological wealth was used to compare the different approaches. According to the theory, the crucial factors influencing well-being are; positively interpreting events, having strong and supportive relationships, making wise choices, having meaning and direction in life, the presence of spirituality, having basic physical needs met and genetic factors. To compare these factors to AA’s approach, AA’s book Twelve steps and twelve traditions was content analyzed using the factors of the theory as themes. The factors of the theory were then compared to theories, ethical guidelines and methods commonly used in social work. Both AA’s and social work’s approach to increase peoples well-being emphasizes all the same factors as the theory on psychological wealth, with the exception of the effects of genetic or inborn qualities, which AA does not discuss in its book Twelve steps and twelve traditions.

4 Formáli

Eftirfarandi rannsókn var framkvæmd á tímabilinu september til nóvember 2013 og fjallar um velferð frá sjónarhorni jákvæðrar sálfræði, AA sjálfshjálparsamtakanna og félagsráðgjafar. Rannsóknin er 30 eininga lokaverkefni í meistaranámi til starfsréttinda í félagsráðgjöf við Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands. Leiðbeinanda mínum, Jónu Margréti Ólafsdóttur, aðjúnkt við Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands, þakka ég fyrir góða ráðgjöf, leiðsögn og hvatningu. Öðrum kennurum deildarinnar og samnemendum vil ég einnig þakka fyrir samfylgd og handleiðslu gegnum allt námið. Sérstakar þakkir fá jarðeðlisfræðingurinn Kjartansson, heimspekingurinn Ylfa Björg Jóhannesdóttir, lýðheilsufræðingurinn Brynja Ásdís Einarsdóttir og markaðsfræðingurinn Steinar Þór Oddsson fyrir yfirlestur, stuðning og hvatningu.

5

Efnisyfirlit

Útdráttur ...... 3 Abstract ...... 4 Formáli ...... 5 Efnisyfirlit ...... 7 Inngangur ...... 11 1 Hvað felst í velferð samkvæmt sálfræði? ...... 15 1.1 Umfjöllunarefni þessa kafla ...... 15 1.2 Mikilvægi hamingju og velferðar ...... 15 1.3 Hvað felst í hugtakinu velferð? ...... 15 1.4 Hvað er jákvæð sálfræði? ...... 17 1.4.1 Hugmyndafræðilegar rætur jákvæðrar sálfræði ...... 18 1.4.2 Hvað er jákvæð sálfræði ekki? ...... 19 1.5 Gagnsemi jákvæðra tilfinninga ...... 19 1.6 Gagnrýni á jákvæða sálfræði ...... 21 1.7 Nokkrar nýlegar kenningar um velferð ...... 22 1.7.1 Kenning Tal Ben-Shahar ...... 23 1.7.2 Kenning Martin Seligman ...... 23 1.7.3 Kenning Ed Diener og Robert Biswas-Diener ...... 24 1.8 Sálfræðilegur auður ...... 25 1.8.1 Lífsstefna og merking ...... 26 1.8.2 Sterk og styðjandi sambönd ...... 28 1.8.3 Fjárhagur og fullnæging líkamlegra þarfa ...... 31 1.8.4 Tilfinningar sem varða andlega upplifun ...... 33 1.8.5 Meðfæddir eiginleikar ...... 34 1.8.6 Ákvarðanataka ...... 35 1.8.7 Jákvæðni í athygli, túlkun og minni ...... 36 1.9 Samantekt á nálgun jákvæðrar sálfræði til bættrar velferðar ...... 38

2 AA Samtökin ...... 41 2.1 Umfjöllunarefni þessa kafla ...... 41 2.2 Gildi þess að taka nálgun AA samtakanna til skoðunar ...... 41 2.3 Hvað er AA? ...... 42 2.3.1 Bakgrunnur AA samtakanna ...... 42 2.3.2 Hvernig starfar AA? ...... 43

7 2.4 Hvað felst í bataleið AA? ...... 44 2.5 Samanburðar á nálgun AA samtakanna og kenningu Diener og Biswas-Diener til bættrar velferðar ...... 45 2.5.1 Eigindleg aðferðarfræði ...... 46 2.5.2 Innihaldsgreining ...... 46 2.5.3 Styrkleikar og veikleikar eigindlegra aðferða og innihaldsgreiningar ...... 48 2.5.4 Siðferðileg álitamál ...... 48 2.5.5 Takmarkanir rannsóknarinnar ...... 48 2.6 Niðurstöður innihaldsgreiningar á 12 reynslusporum AA samtakanna ...... 49 2.6.1 Niðurstöður innihaldsgreiningar á þemanu andleg upplifun ...... 50 2.6.2 Niðurstöður innihaldsgreiningar á þemanu sambönd ...... 53 2.6.3 Niðurstöður innihaldsgreiningar á þemanu jákvæðni ...... 55 2.6.4 Niðurstöður innihaldsgreiningar á þemanu framtíðarstefna ...... 56 2.6.5 Niðurstöður innihaldsgreiningar á þemanu fjárhagur og líkamlegar þarfir .. 59 2.6.6 Niðurstöður innihaldsgreiningar á þemanu meðfæddir eiginleikar ...... 60 2.7 Samantekt á niðurstöðum samanburðarins ...... 61

3 Félagsráðgjöf ...... 65 3.1 Umfjöllunarefni þessa kafla ...... 65 3.2 Hvað er félagsráðgjöf? ...... 65 3.3 Velferð og félagsráðgjöf ...... 66 3.4 Áherslur á færni félagsráðgjafa ...... 67 3.5 Kenningarlegar áherslur félagsráðgjafar ...... 69 3.5.1 Sálgreining ...... 70 3.5.2 Sálfélagsleg einstaklingsvinna ...... 71 3.5.3 Mannúðarsálfræði ...... 71 3.5.4 Hugræn atferlismeðferð ...... 72 3.5.5 Kerfiskenningar ...... 72 3.5.6 Róttæk félagsráðgjöf ...... 73 3.5.7 Frelsandi og eflandi félagsráðgjöf ...... 73 3.5.8 Gagnreyndar aðferðir ...... 73 3.5.9 Gagnrýni á kenningarlega nálgun félagsráðgjafa ...... 74 3.6 Hvað er líkt og ólíkt með nálgun félagsráðgjafar og kenningu Diener og Biswas-Diener til bættrar velferðar? ...... 74 3.6.1 Viðhorf skjólstæðinga ...... 75 3.6.2 Mikilvægi sterkra og styðjandi sambanda ...... 76 3.6.3 Nálgun félagsráðgjafa á ákvarðanatöku í vinnu með skjólstæðingum ...... 77 3.6.4 Lífstilgangur og andleg viðhorf ...... 78

8 3.6.5 Fjárhagur og líkamlegar þarfir ...... 78 3.6.6 Áhrif erfða ...... 79 3.6.7 Niðurstaða samanburðar ...... 79 3.7 Samantekt á efni þriðja kafla ...... 80

4 Umræða og lokaorð ...... 81 Heimildaskrá ...... 87 Viðauki I – Siðareglur íslenskra félagsráðgjafa ...... 101 Siðareglur íslenskra félagsráðgjafa ...... 101

9

Inngangur Þessi rannsókn fjallar um hamingju, velferð og sálfræðilegan auð frá sjónarhorni jákvæðrar sálfræði, AA sjálfshjálparsamtakanna og félagsráðgjafar. Með því að fjalla um þrjú ólík sjónarhorn á hamingjuna er ætlunin að veita lesendum breiðari skilning og dýpri innsýn í viðfangsefnið heldur en fengist með því að fjalla aðeins um eitt sjónarhornanna. Tekið skal fram að farið verður með hugtökin velferð, sálfræðilegan auð og hamingju sem samheiti en nánar verður vikið að skilgreiningu hugtakanna í fyrsta kafla ritgerðarinnar.

Ástæðan fyrir efnisvali höfundar var persónulegur og faglegur áhugi höfundar á því. Sem nemi í félagsráðgjöf kemur það til með að vera hlutverk höfundar að stuðla að bættri velferð fólks, enda markmiðið með störfum félagsráðgjafa að stuðla að bættri velferð skjólstæðinga sinna (Alþjóðasamtök félagsráðgjafa, 2012). Að gefnu þessu markmiði er það mat höfundar að mikilsvert sé að félagsráðgjafar geri sér grein fyrir því hvaða þætti rannsóknir benda til þess að hafi sannarlega áhrif á velferð fólks. Þar sem að ekki er til nein samræmd skilgreining meðal félagsráðgjafa á því hvað felst í velferð var markmið rannsóknarinnar að varpa ljósi á það hvað felst í hamingjunni samkvæmt rannsóknarniðurstöðum síðustu ára og að skoða nálgun félagsráðgjafar með hliðsjón af þessum rannsóknum. Vegna þess hversu umfangsmikil AA (e. Alcoholics Anonyomous) sjálfshjálparsamtökin eru í íslensku samfélagi og vegna þess að stór hluti skjólstæðinga félagsráðgjafa nýtir sér aðstoð og aðferðir samtakanna var ákveðið að bera nálgun þeirra samtaka einnig saman við niðurstöður rannsókna á áhrifaþáttum hamingjunnar. Markmiðið með þeim samanburði var að bæta við þekkingu fagaðila á þessum aðferðum.

Víða hefur skapast hefð fyrir því meðal starfsstétta sem vinna að því að bæta velferð fólks, að rannsaka sjúkdóma, þjáningar og vandamál fremur en heilbrigði, hamingju og velferð (Peters, 2002; Berkman, 1996; Seligman, 2011). Meðal sumra þeirra fagaðila sem vinna að eflingu velferðar hafa vaknað efasemdir um að hefðbundnar aðferðir til að aflétta þjáningu geti líka stuðlað að því að fólk lifi í kjölfarið góðu og gefandi lífi. Sálfræðingurinn Martin Seligman lýsti þeim sem höfðu hlotið hefðbundna

11 sálfræðimeðferð hjá honum sem „tómum“ þegar þjáningu þeirra var aflétt og það vakti hjá honum löngun til að stuðla að framþróun aðferða sem ekki aðeins aflétta þjáningu heldur stuðla líka að hamingju fólks (Seligman, 2011, bls. 182).

Tilgangurinn með þessari rannsókn er að mæta þörf þeirra fagaðila sem vilja setja markið hærra en að aflétta þjáningum meðal skjólstæðinga sinna. Með því að styðjast við vísindalega aðferð til að skilja hvað felst í velferð er hægt að þróa gagnreyndar aðferðir í stað þess að hver og einn fagaðili þurfi að skilgreina velferð út frá eigin innsæi, tilfinningu og reynslu. Ætlunin með rannsókninni er að styrkja fagaðila í viðleitni sinni til að gera skjólstæðingum sínum kleyft að vaxa og dafna.

Mikil gróska hefur orðið seinustu 15 ár í rannsóknarstarfi á velferð innan sálfræði (Diener og Biswas-Diener, 2008) og byggir rannsóknin því að miklu leyti á rannsóknarniðurstöðum og kenningum sálfræðinga. Þessar rannsóknarniðurstöður og kenningar um velferð voru notaðar til að meta hvort AA (e. Alcoholics Anonymous), ein stærstu sjálfshjálparsamtök heims (O'Connor og Schottenfeld, 1998) og félagsráðgjöf, leggi áherslu á þá þætti sem rannsóknir og kenningar sálfræðinga benda til þess að skipti sköpum fyrir hamingju og velferð fólks. Rannsóknarspurningin er því: Hvað felst í velferð og hvað er líkt og ólíkt með nálgun, jákvæðrar sálfræði, AA sjálfshjálparsamtakanna og félagsráðgjafar til bættrar velferðar?

Uppbygging ritgerðarinnar er þannig háttað að henni er skipt í fjóra kafla. Fyrsti kafli ritgerðarinnar fjallar um sýn fræðimanna á hamingjuna með sérstaka áherslu á sálfræði. Sálfræðingar hafa nýlega sett á fót sérgrein innan síns fags, jákvæða sálfræði, sem er ætlað að rannsaka velferð. Fyrsti kafli ritgerðarinnar fjallar því að megninu til um jákvæða sálfræði með sérstaka áherslu á kenningu Diener og Biswas-Diener sem birt er í bókinni Happiness: unlocking the mysteries of psychological wealth (2008).

Annar kafli ritgerðarinnar fjallar um bakgrunn, hugmyndafræði og aðferðir AA sjálfshjálparsamtakanna. Kenning Diener og Biswas-Diener var notuð til að innihaldsgreina leiðbeiningar AA samtakanna til að ná bata frá alkóhólisma í bók samtakanna Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur (1981). Tilgangur innihaldsgreiningarinnar var að meta hvort AA samtökin legðu áherslu á sömu þætti og gert er í kenningu Diener og Biswas-Diener (2008).

12 Þriðji kafli ritgerðarinnar fjallar um félagsráðgjöf. Gert er grein fyrir hugmyndafræði, siðareglum og aðferðum félagsráðgjafa. Þessir þættir eru svo bornar saman við áhersluatriðin í kenningu Diener og Biswas-Diener.

Fjórði og síðasti hluti ritgerðarinnar tekur saman niðurstöður rannsóknarinnar og svarar rannsóknarspurningunni.

13

1 Hvað felst í velferð samkvæmt sálfræði?

1.1 Umfjöllunarefni þessa kafla Þessi kafli fjallar um hamingju og velferð. Greint verður frá sérgreininni „jákvæð sálfræði“ og farið yfir nokkrar skilgreiningar, kenningar og rannsóknarniðurstöður sem fræðimenn innan hennar hafa lagt fram. Sérstaklega verður fjallað um kenningu Diener og Biswas-Diener um sálfræðilegan auð og fjallað um nokkrar rannsóknir á helstu þáttum kenningarinnar.

1.2 Mikilvægi hamingju og velferðar Rannsóknir benda til þess að flestum þyki velferð, eða upplifun hamingjunnar, vera mikilvægt og eftirsóknarvert markmið og skiptir þá engu hvort upprunaland þess sem svarar sé Kína, Bandaríkin, Íran eða Brasilía (Diener og Oishi, 2000). Þetta mat fólks virðist ekki vera tilkomið vegna ólíks skilnings á hvað sé fólgið í hamingju né virðist það vera tilkomið af ólíkri merkingu orða og hugtaka milli tungumála (Oishi, Diener, Scollon og Biswas-Diener, 2004). Fólki um allan heim virðist, samkvæmt ofangreindum rannsóknum, einfaldlega þykja hamingja mikilvæg.

1.3 Hvað felst í hugtakinu velferð? Hugtökin hamingja, velferð, ánægja, farsæld, sálfræðilegur auður, lífsgleði og lífssátt vísa öll til þess ástands eða markmiðs sem sálfræðingar á borð við Freud (Akhtar, 2010), Maslow (Resnick, Warmoth og Serlin, 2001) og heimspekingar á borð við Aristóteles, Plató og Konfúsíus (Wenzel, 2010) hafa rætt og velt fyrir sér gegnum aldirnar.

Heimspekingar hafa gjarnan greint á milli annars vegar hedónískrar ánægju, sem vísar til jákvæðra tilfinninga líðandi stundar, og hins vegar farsældar (e. Eudaimonia) sem vísar til ánægju auk huglægrar upplifunar sem fylgir því að gera verðuga hluti og að hafa verðuga hluti í lífinu (Norton, 1976). Hægt er að njóta hedónískrar ánægju af því að vera innan um ánægjulegan félagsskap, að fá eða eiga efnislegar eigur og upplifa ánægjulegar athafnir (Kraut, 1979).

15 Hugtakið huglæg velferð (e. Subjective well-being) var fyrst sett fram af sálfræðingnum Ed Diener og mælir bæði hedóníska ánægju og huglæga lífsánægju (Diener og Biswas-Diener, 2008). Huglæg velferð hefur verið skilgreind sem mat einstaklings á eigin lífi með tilliti til ánægju og jafnvægis milli neikvæðra og jákvæðra tilfinninga (Keyes, Shmotkin og Ryff, 2002) eða hugrænt og tilfinningalegt mat einstaklings á eigin lífi (Diener, Lucas og Oishi, 2002). Þá er hugræna matið gjarnan nefnt lífsánægja (e. Life satisfaction) (Suh, Diener, Oishi og Triandis, 1998). Manneskja sem telur að sig búa yfir mikilli lífsánægju auk þess að upplifa oft jákvæðar tilfinningar og sjaldan neikvæðar tilfinningar telst búa yfir mikilli huglægri velferð (Diener, 1984).

Aristóteles var talsmaður farsældar (e. eudaimonia) en hann taldi það vera markmið mannsins að lifa í samræmi við anda sinn eða hið sanna innra sjálf (Kristján Kristjánsson, 2011; Rachels, 1997). Aristóteles taldi ekki nóg að manneskjunni liði vel til að hún teldist hamingjusöm heldur þyrfti hún að lifa í samræmi við hið sanna innra sjálf sem hefur að geyma bestu útgáfu hvers manns. Til að lifa í samræmi við sanna innra sjálfið yrði fólk að velja sér lífsmarkmið í samræmi við einstaklingsbundna styrkleika sína sem myndu þá fylla líf viðkomandi merkingu og tilgangi (Norton, 1976). Upplifun farsældar sem huglægt ástand væri að einstaklingi þætti hann færast í átt að sjálfsbirtingu (e. self-realization) með því að þróa það einstaka sem byggi innra með honum. Með því að finna fyrir eigin sjálfsbirtingu finndi einstaklingurinn í kjölfarið lífstilgang (Waterman, Schwartz og Conti, 2006; Norton, 1976). Hið góða líf eða farsæld Aristótelesar byggir því á gildum og siðferði en ekki eingöngu á upplifun einstaklings af ánægju (Diener, 2009). Hugmyndir Aristótelesar hafa átt vinsældum að fagna meðal fræðimanna á sviði jákvæðrar sálfræði, sér í lagi þeirra sem hafa talið ánægjustundir ófullnægjandi mælikvarða á raunverulega hamingju. Þá hefur farsæld verið aðgerðarbundin með mælingu hugtaksins „sálfræðileg velferð” sem er færni einstaklingsins til að takast á við umhverfi sitt, að upplifa tilgang í lífinu og að eiga í jákvæðum samböndum við annað fólk (Ryff og Singer, 2006). Mæld eru þá ytri atriði í lífi fólks á borð við „heilsu, lífsafkomu, menntun, tilfinningalegan og vitsmunalegan þroska og samskipti við annað fólk“ (Kristján Kristjánsson, 2011).

Þessar tvær gerðir ánægju, hedónísk ánægja og farsæld, er vel hægt að upplifa samtímis þar sem hedónísk ánægja er gjarnan líka til staðar þegar einstaklingur upplifir

16 farsæld. Það fylgir þó ekki alltaf hedónískri ánægju að upplifa farsæld (Waterman o.fl., 2006). Þó það geti stundum reynst vandasamt að greina hvort upplifun sé best lýst sem hedónískri ánægju eða sem upplifun farsældar bendir rannsókn Waterman o.fl. (2006) til þess að það sé mælanlegur munur á þessu tvennu og hægt sé að aðgreina hugtökin að einhverju leyti.

Orðið hamingja er í daglegu tali notað yfir öll ofangreind hugtök en vegna þess hversu ólíka merkingu fólk leggur í orðið hamingju og vegna þess að rannsóknarstarf krefst nákvæmrar skilgreiningar hafa fræðimenn sett fram ný hugtök eða orð sem eru þó í raun samheiti yfir hamingju (Seligman, 2011; Diener og Biswas-Diener, 2008). Þar sem ekki er þörf á slíkri nákvæmni í þessari rannsókn verður orðið hamingja, sálfræðilegur auður og velferð notað á víxl í ritgerðinni til að lýsa því góða ástandi sem fólk leitast eftir.

1.4 Hvað er jákvæð sálfræði? Flestar þær rannsóknir sem vísað er til í því sem eftir er af fyrsta kafla eru unnar af sálfræðingum eða vísað til í greinum og bókum sálfræðinga sem vinna eftir markmiðum jákvæðrar sálfræði. Jákvæð sálfræði er sérgrein innan sálfræði sem var stofnuð árið 1998 að frumkvæði sitjandi formanns amerísku sálfræðisamtakanna APA (e. American Psychological Association) Martin Seligman (Colman, 2010: Seligman og Csikszentmihalyi, 2000).

Áhersla hefur verið lögð á það í rannsóknarstarfi innan jákvæðrar sálfræði að auka þekkingu vísindamanna sem varðar jákvæðar upplifanir, jákvæða eiginleika fólks og þau atriði sem stuðla að framþróun þessara upplifana og eiginleika (Duckworth, Steen og Seligman, 2005). Með hugmyndafræði og aðferðum jákvæðrar sálfræði eru rannsakaðir styrkleikar og siðferðisdygðir í fari fólks og byggir jákvæð sálfræði á þeirri trú að fólk vilji rækta það besta í fari sínu, bæta og efla upplifun sína af ást, vinnu og leik, auk þess að vilja lifa fullnægjandi og tilgangsríku lífi (University of Pennsylvania, e.d.). Ekki er hægt að rannsaka „hið góða líf“ án þess að taka til skoðunar gildi og áhrif menningar og hefur því jákvæð sálfræði leitað innblásturs fyrir rannsóknir sínar og kenningar í skrifum siðfræðinga, heimspekinga og trúarbragða (Seligman og Peterson, 2004).

Markmið jákvæðrar sálfræði er að bæta við þekkingu fræðimanna á mannverunni sem heild (Kobau, Seligman, Petersen, Diener og Zack, 2011). Þar sem að talsvert er

17 þegar vitað um neikvæðar hliðar lífsins og hvernig hægt er að draga úr þeim er lögð áhersla á það innan jákvæðrar sálfræði að rannsaka jákvæðar hliðar lífsins. Að mati talsmanna jákvæðrar sálfræði er þekking fræðimanna á erfiðleikum og þjáningum dýrmæt, þeir vilja hinsvegar að góðar hliðar í lífi fólks njóti jafn mikillar athygli fræðimanna og rannsakenda. Þannig hafa þessir fræðimenn lagt áherslu á að þróa og rannsaka forvarnir fremur en meðhöndlun erfiðleika, og uppbyggingu jákvæðra eiginleika fremur en meðhöndlun neikvæðra eiginleika (Seligman og Csikszentmihalyi, 2000).

1.4.1 Hugmyndafræðilegar rætur jákvæðrar sálfræði Hugmyndafræðilegar rætur jákvæðrar sálfræði er að rekja til mannúðarsálfræði (e. Humanistic psychology) og hugmynda forngríska heimspekingsins Aristótelesar (Resnick, Warmoth og Serlin, 2001). Eins og fram kom í kafla 1.3 Hvað felst í hugtakinu velferð? taldi Aristóteles hamingjuna eða farsældina (e. eudaimonia) vera hið endanlega markmið með lífi fólks (Waterman, Schwartz og Conti, 2006). Samkvæmt Aristóteles leitar fólk hamingjunnar ekki fyrir aðrar sakir en að upplifa hana en það leitar annarra hluta á borð við auðs og velgengni til að upplifa að endingu hamingju (Waterman, Schwartz og Conti, 2006).

Mannúðarsálfræði, og þá sér í lagi verk Abraham Maslow, hefur haft mikil áhrif á jákvæða sálfræði (Rich, 2001). Maslow var til að mynda fyrstur til að nota hugtakið jákvæð sálfræði í bók sinni Hvatir og persónuleiki (e. Motivation and personality) sem var útgefin árið 1954 en í bókinni leggur Maslow til mjög svipaðar rannsóknaráherslur og Seligman hefur lagt til að jákvæð sálfræði stefni að (Resnick o.fl. 2001). Mannúðarsálfræði byggir á húmanisma, fyrirbærafræði og tilvistarstefnu en markmið sérgreinarinnar er að skilja manneskjuna, hvort sem er þjáningar og áföll eða þroska, drauma, siðferði, gildi og sköpunarkrafta (Rich, 2001; Resnick o.fl., 2001). Mannúðarsálfræði hefur lagt áherslu á að rannsaka upplifun heilbrigðra og skapandi einstaklinga, gilda, árangurs og ábyrgðar auk upplifana á borð við ást, hugrekki, stolt og trú (Rich, 2001). Lögð er auk þessa áhersla á mikilvægi sköpunar, tilvistarlegrar merkingar og andlegrar tengingar (Resnick, Warmoth og Serlin, 2001). Ljóst er af þessari upptalningu að margt er sameiginlegt með jákvæðri sálfræði og mannúðarsálfræði þar

18 sem báðar sérgreinar fjalla um ást, árangur, hugrekki, stolt, trú, vöxt, gildi, merkingu í lífinu, andleg málefni og sköpunarkrafta.

1.4.2 Hvað er jákvæð sálfræði ekki? Jákvæð sálfræði leggur áherslu á að rannsaka hið góða í lífi fólks ólíkt hefðbundinni sálfræði sem rannsakar geðsjúkdóma og aðra erfiðleika (Seligman og Csikszentmihalyi, 2000). Jákvæð sálfræði leggur þó ekki áherslu á það jákvæða á grunni einskonar afneitunar á hinu neikvæða (Hart og Sasso, 2011). Talsmenn jákvæðrar sálfræði telja ekki að það ætti eingöngu að rannsaka það jákvæða í mannlegri tilveru né er hún tilraun til að afneita því neikvæða í lífi mannsins (Diener, 2009).

Jákvæð sálfræði er ekki það sama og jákvæð hugsun þó slík hugsun geti verið einn margra áhrifaþátta á hamingju og velferð fólks (Caprara og Steca, 2006). Sálfræðingar sem vinna eftir kenningum um jákvæða sálfræði telja þó að jákvæð hugsun sé ekki alltaf til bóta þar sem neikvæðar hugsanir hafa mikilvægu hlutverki að gegna (Alloy, Abramson og Chiara, 2000). Til að mynda er fylgni milli bjartsýni og þess að vanmeta áhættur og getur jákvæð hugsun því verið hættuleg, til dæmis þegar flugmenn meta áhættuna sem felst í því að fljúga í óveðri (Peterson og Vaidya, 2003). Talsmenn jákvæðrar sálfræði eru heldur ekki þeirrar skoðunar að meiri hamingja sé ávallt af hinu góða (Diener og Biswas-Diener, 2008). Mátulegt magn neikvæðra tilfinninga getur verið merki um heilbrigði og skortur á neikvæðum tilfinningum getur verið einkenni um geðræn vandamál á borð við maníu eða siðblindu (Diener og Biswas-Diener, 2008).

1.5 Gagnsemi jákvæðra tilfinninga Danner, Snowdon og Friesen (2001) rannsökuðu jákvæðar tilfinningar 180 kaþólskra nunna eins og þær birtust í skrifuðum æviágripum þeirra frá tímabilinu 1931-1943. Æviágripin voru skrifuð sem hluti af umsókn kvennanna til að gerast nunnur. Það sem er áhugavert við rannsóknina frá vísindalegu sjónarmiði er hversu einsleitur hópurinn var með tilliti til neyslu vímuefna og áfengis, mataræðis, áhættutöku í kynlífi, efnahagsstöðu, aðgengis að læknisþjónustu og sögu um barneignir (Danner o.fl. 2001). Æviágripin voru innihaldsgreind með tilliti til jákvæðra tilfinninga en dæmi um orð sem lýstu jákvæðum tilfinningum samkvæmt innihaldsgreiningunni eru „hamingjusöm“,

19 „áhugasöm“, „elska“, „vona“ og „þakklát“. Niðurstöður innihaldsgreiningarinnar voru bornar saman við ævilengd nunnanna sem leiddi í ljós að þær sem voru minnst jákvæðar í tjáningu sinni voru 2,5 sinnum líklegri til að hafa þegar látist við framkvæmd rannsóknarinnar. Þær nunnur sem tjáðu flestar jákvæðar tilfinningar lifðu að meðaltali tíu árum lengur en hinar. Aðeins 54% minnst jákvæðu þátttakendanna náðu 85 ára aldri og aðeins 18% þeirra náðu 93 ára aldri. Til samanburðar náðu 79% þeirra jákvæðustu 85 ára aldri og 52% þeirra náðu 93 ára aldri (Danner o.fl. 2001).

Pressman og Cohen (2005) gerðu rannsókn að fyrirmynd nunnurannsóknar Danner o.fl. (2001) með því að innihaldsgreina ævisögur 96 sálfræðinga með tilliti til tilfinningalegrar tjáningar sálfræðinganna. Niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að þátttakendur sem tjáðu mesta jákvæðni lifðu að meðaltali 6 árum lengur en hinir þátttakendurnir (Pressman og Cohen, 2005).

Árið 2003 rannsökuðu Cohen, Doyle, Turner, Alper og Skoner áhrif skaps og tilfinninga í tengslum við það að smitast af kvefvírus. Cohen o.fl. (2003) fengu þátttakendur til að verja viku í einangrun á hóteli meðan þeir mældu líðan og ýmis kvefeinkenni. Fyrst mældu þeir líðan þátttakenda, smituðu þá svo af kvefvírus og mældu svo í kjölfarið helstu kvefeinkenni þátttakenda yfir vikudvölina. Þátttakendum var ekki leyft að fara af hótelinu né að fá heimsóknir meðan á tilrauninni stóð. Þeir gengust undir margvíslegar líkamlegar rannsóknir og að tilraun lokinni voru niðurstöðurnar þær að þeir sem tjáðu betri andlega líðan fyrir smit reyndust sýna færri og vægari kvefeinkenni meðan á tilraun stóð (Cohen o.fl. 2003).

Áhrif huglægrar velferðar ná til fleiri lífsþátta en heilsunnar, en rannsóknir benda til þess að hamingjusamir einstaklingar standa sig betur í starfi (Diener, Suh, Lucas, og Smith, 1999). Það kemur kannski ekki á óvart að hamingjusamir einstaklingar séu ánægðari í vinnu (Connolly og Viswesvaran, 2000; Tait, Padgett, og Baldwin, 1989; Weiss, Nicholas, og Daus, 1999) en það kæmi mögulega einhverjum á óvart að þegar hlutlausir aðilar mátu frammistöðu fólks í vinnu töldu þeir hamingjusamari einstaklinga standa sig betur (Staw og Barsade, 1993). Að sama skapi benda rannsóknir til þess að fylgni sé milli þess að fólk mælist með mikla huglæga velferð og þess að yfirmenn telji viðkomandi standa sig vel í starfi (Wright og Cropanzano, 2000). Hvort sem kom á undan, ánægjulega vinnan eða hamingjan, eru niðurstöðurnar áhugaverðar.

20 Sálfræðingurinn Barbara Fredrickson (2008) telur að hamingja orsaki ýmsa aðra jákvæða lífsþætti. Samkvæmt kenningu Fredrickson um uppbyggjandi og útvíkkandi áhrif jákvæðra tilfinninga (e. broaden and build theory) stuðla jákvæðar tilfinningar fólks að myndun tengsla við aðra og að því að fólk prófar frekar nýja hluti (Fredrickson og Branigan, 2005). Samkvæmt Fredrickson (2004) geta jákvæðar tilfinningar haft áhrif á hugsanir og gjörðir fólks, losað um neikvæðar tilfinningar auk þess að stuðla að sálrænni þrautseigju og fengið fólk til að prófa nýja hluti og efla færni sína.

Samkvæmt rannsóknum Fredrickson á áhrifum tilfinningalegs ástands á sköpunarfærni fólks reyndust þeir sem mældust ánægðari við upphaf tilraunarinnar standa sig umtalsvert betur. Ánægðari þátttakendur reyndust einnig opnari fyrir leikjum og nýjum upplifunum (Fredrickson, 2004). Af rannsóknum Fredrickson að dæma virðist betra skap og betri líðan hafa tengsl við að fólks sé opnara fyrir því að skynja og skoða nýja möguleika. Vellíðan gerir fólk færara um að tengjast öðrum, að sjá heildarmynd aðstæðna, og það eykur hugmyndaauðgi, framkvæmdagetu og sköpun þess (Diener og Biswas-Diener, 2008). Eftir því sem fólk er oftar í góðu skapi og að leik verður það færara í athöfnum leikjanna og tengdara fleira fólki. Góðar tilfinningar virðast því leiða af sér frekari vellíðan og byggja grunninn að mörgu því sem gerir lífið þess virði að lifa því (Fredrickson, 2004; Diener og Biswas-Diener, 2008).

Samkvæmt þessum rannsóknum virðist vera jákvæð fylgni milli hamingju fólks og þess að læra, skapa, tengjast fólki, búa við betra ónæmiskerfi, lengri lífslíkur og velgengni í starfi. Það er því til mikils að vinna, ef þessar niðurstöður standast frekari rannsóknir.

1.6 Gagnrýni á jákvæða sálfræði Jákvæð sálfræði hefur verið mjög umdeild meðal fræðimanna frá því að sérgreinin var stofnuð (Carstensen og Charles, 2003; Lazarus, 2003). Verður hér tæpt á nokkrum helstu gagnrýnisatriðunum.

Mannúðar sálfræðingar hafa frá stofnun jákvæðrar sálfræði sem sérgreinar innan sálfræði sett spurningarmerki við tilgang þess þar sem viðfangsefni jákvæðrar sálfræði byggja að stórum hluta á hugmyndum mannúðar sálfræðinga og telja þeir markmið

21 þessara tveggja sérgreina sambærileg (Wong, 2011; Resnick o.fl. 2001). Það greinir þó á milli þessarar tveggja sviða að mannúðar sálfræðingar láta sig neikvæðar hliðar mannlífsins varða meðan að jákvæð sálfræði lætur öðrum sálfræðingum eftir að fjalla um þær (Resnick o.fl. 2001). Þessi ákvörðun stofnenda jákvæðrar sálfræði hefur verið umdeild þar sem sumir telja að með þessu sé sérgreinin að afneita raunveruleika mannlegrar tilveru og kostum þess að neikvæðar tilfinningar á borð við sektarkennd, samviskubit, eftirsjá og reiði geta hvatt einstaklinga til þess að gera jákvæðar breytingar á lífi sínu og þar með haft góðar upplifanir í för með sér (Wong, 2011). Ryff og Singer (2003 í Wong) benda að sama skapi á að velferð byggir á því að sameina svið hins jákvæða og neikvæða og því lítið vit í því að ætla að einblína aðeins á annað sviðanna.

Jákvæð sálfræði hefur einnig verið gagnrýnd á grunni óljósra hugtaka þar sem jafnvel orðið jákvætt er ekki skýrt afmarkað (Haybron, 2000). Þá hefur mæling velferðar verið gagnrýnd fyrir að taka ekki með í reikninginn aðstæður fólks, sögulegt samhengi svara fólks sem tekur þátt í rannsóknum og ólíkan skilning fólks á hamingju (Wong, 2011). Þá benda Snyder og Lopez (2007) á að vaxtarverkir einkenna jákvæða sálfræði og þörf sé á frekari þróun og rannsóknarvinnu. Jákvæð sálfræði hefur verið gagnrýnd fyrir að leggja of mikla áherslu á gildi einstaklingsmiðaðra samfélaga í stað samfélagsmiðaðra samfélaga (e. collectivist cultures) (Leong og Wong, 2003).

1.7 Nokkrar nýlegar kenningar um velferð Þeir sálfræðingar sem aðhyllast áherslu jákvæðrar sálfræði á að rannsaka hið góða í lífinu hafa sumir hverjir lagt fram kenningar til að reyna að skýra rannsóknarniðurstöðurnar. Til eru fleiri kenningar en þær sem gert er grein fyrir hér á eftir, en þessar voru valdar með hliðsjón af því hversu áhrifamiklir og áberandi sálfræðingarnir sem hafa sett þær fram eru innan jákvæðrar sálfræði og í almennri þjóðfélagsumræðu um hamingjuna. Diener, Biswas-Diener, Tal Ben-Shahar og Seligman, eiga það sameiginlegt að hafa rannsakað velferðina í nokkra áratugi og skrifað bæði fjölda fræðigreina auk metsölubóka fyrir almenning um hamingjuna.

22 1.7.1 Kenning Tal Ben-Shahar Sálfræðingurinn Tal Ben-Shahar kenndi eitt fjölsóttasta námskeið Harvard háskóla og hefur gefið út fjölda bóka og greina um jákvæða sálfræði, meðal annars bókina Meiri hamingja: Leyndardómur gleði og varanlegrar lífsfyllingar (2009) sem hefur verið þýdd á íslensku. Kenning Ben-Shahar um hamingjuna byggir á skrifum Victor Frankl, sem taldi manninum nauðsynlegt að finna tilgang með lífi sínu, auk hugmynda Freud, sem taldi manninn knúinn til að leita vellíðunar (Ben-Shahar, 2009). Samkvæmt Ben-Shahar (2009) verður maðurinn bæði að upplifa ánægju og merkingu til að geta talist hamingjusamur. Ánægjan vísar til gæða í nútíð og merkingin eða lífstilgangurinn vísar til gæða í framtíð. Ánægja líðandi stundar felur að hans sögn í sér vellíðunartilfinningar en þær nægja ekki einar og sér til þess að gæða líf fólks hamingjunni. Til þess þarf fólk sértækan tilgang sem beinir því áfram og stýrir gerðum þess. Þegar líf fólks snýst eingöngu um að skapa ánægju í nútíð eða eingöngu að skapa framtíðaránægju er það ávísun á vanlíðan á annarri hvorri tímavíddinni. Það er því aðeins um sanna hamingju að ræða ef einstaklingur býr yfir ánægju í nútíð en býr einnig í haginn með framtíðarstefnu sinni. Ben-Shahar áréttar þó að sanna hamingju er ekki hægt að finna án einhverrar vanlíðunar og því sé þörf á að forgangsraða markmiðum til að stýra því hvernig fólk lifir dag frá degi (Ben-Shahar, 2009).

Þrátt fyrir ítrekaða leit fannst engin gagnrýni á kenningu Tal Ben-Shahar en mögulega er ástæða þess sú að kenningin byggir mest megnis á hugmyndum annarra eins og Ben-Shahar greinir sjálfur frá í bók sinni, til að mynda hugmyndum Freud og Victor Frankl (Ben-Shahar, 2009).

1.7.2 Kenning Martin Seligman Velferðarkenningin (e. Well-being theory) er kenning Martin Seligman um hvað gerir fólki kleift að blómstra. Kenninguna setti hann fram í bók sinni Flourish sem birt var árið 2011. Kenningin er endurbætt útgáfa af fyrri kenningu hans sem hann gaf út í bókinni Authentic happiness (2002) þar sem hann þrískipti hamingjunni. Áður hafði hann skipt hinu góða lífi í þrjár gerðir; líf byggt á nautnum, líf byggt á flæði og líf byggt á æðri tilgangi eða merkingu (Duckworth, Steen og Seligman, 2005).

Nýja kenningin hans byggir á fyrri kenningunni en tveimur áhrifavöldum hefur verið bætt við. Seligman hefur sett áhrifavaldana fram sem stafarununa PERMA en

23 rununa mynda fimm upphafsstafir þeirra atriða sem hann telur vera leiðina til að blómstra (Seligman, 2011).

Stafurinn P stendur fyrir jákvæðar tilfinningar (e. Positive emotions), E stendur fyrir virkni (e. Engagement) eða flæði, R stendur fyrir góð sambönd (e. Relationships), M stendur fyrir merkingu eða tilgang í lífinu (e. Meaning) og A stendur fyrir árangur (e. Accomplishment). Hvert og eitt atriðanna má að sögn Seligman (2011) mæla aðskilið frá hinum atriðunum og felur í sér fyrirbæri eða upplifun sem fólk leitast eftir að hafa í lífi sínu fyrir sakir sjálfs atriðsins, ekki til að nálgast eitthvað annað í kjölfarið. Þá er átt við að fólk leitast gjarnan eftir því að eignast síma, ekki fyrir þær sakir að eiga síma, heldur til að efla samskipti sín við annað fólk. Hinsvegar leitar fólk gjarnan eftir því að eiga góð sambönd við annað fólk fyrir þær sakir einar, ekki til þess að fá eitthvað annað í kjölfarið. Þó rétt sé að mörg góð sambönd leiði til jákvæðra tilfinninga leitar fólk gjarnan eftir því að eiga í góðum samböndum við fólk þrátt fyrir að það veiti því ekki vellíðan (Seligman, 2011).

Samkvæmt Huppert og So (2011) hefur velferðarkenning Seligman verið gagnrýnd á þeim grunni að hún tekur ekki til greina þætti á borð við persónulegan vöxt, sjálfssátt né sjálfræði. Sirgy og Wu (2009) gagnrýna velferðarkenningu Seligman fyrir að taka ekki til greina mikilvægi þess að jafnvægi ríki milli þeirra þátta sem Seligman telur vera mikilvæga hamingjunni.

1.7.3 Kenning Ed Diener og Robert Biswas-Diener Sálfræðingarnir Diener og Biswas-Diener settu fram kenningu árið 2008 sem þeir nefna sálfræðilegan auð eða sálfræðilegt ríkidæmi (e. psychological wealth) í bók sinni Happiness, unlocking the mysteries of psychological wealth. Báðir hafa þeir helgað líf sitt rannsóknum á hamingju. Ed Diener hefur lengst allra sálfræðinga rannsakað hamingjuna og byggir kenning hans og Biswas-Diener á margra áratuga rannsóknarstarfi. Biswas- Diener, sonur Diener, er þekktur fyrir að hafa ferðast um víða veröld í rannsóknum sínum á hamingjunni, til að mynda meðal ættbálka, sértrúarsöfnuða og almennt óaðgengilegra samfélaga á borð við samfélög kvenna sem stunda vændi eða samfélög heimilislausra einstaklinga (Diener og Biswas-Diener, 2008). Kenning Diener og Biswas- Diener á það sammerkt með kenningu Tal Ben-Shahar (2009) að hamingjunni er lýst sem ferli en ekki áfangastað (Diener og Biswas-Diener, 2008).

24 Helstu áhrifaþætti hamingjunnar má flokka í sjö svið eða þætti samkvæmt kenningu Diener og Biswas-Diener (2008). Þeir sjö þættir sem Diener og Biswas-Diener (2008) telja að hafa mest um það að segja hvort og í hversu miklum mæli fólk nýtur hamingjunnar eru 1) að búa yfir lífsstefnu sem byggist á gildum, merkingu í lífinu og verðugum markmiðum, 2) að eiga í sterkum og styðjandi samböndum við annað fólk, 3) að búa við sæmilegan fjárhag og að fá líkamlegum þörfum mætt, 4) að upplifa andlegar tilfinningar, 5) að hafa ákveðna meðfædda skapgerðareiginleika, 6) að geta tekið góðar ákvarðanir um atriði sem varða framtíðina og 7) að viðhafa jákvæðni í athygli, túlkun og minni.

Þrátt fyrir ítrekaða leit fannst engin gagnrýni á kenningu Diener og Biswas-Diener. Mögulega má skýra þennan skort á gagnrýni með því að kenningin er ekki sett fram sem eiginleg kenningu heldur sem upptalning á því sem rannsóknir benda ítrekað til að skipti sköpum fyrir hamingju fólks (Diener og Biswas-Diener, 2008). Það ætti því ekki að varpa rýrð á gildi kenningarinnar að hún þykist ekki vera annað en upptalning á helstu rannsóknarniðurstöðum seinustu áratuga.

1.8 Sálfræðilegur auður Sú kenning sem verður höfð til grundvallar allri frekari umfjöllun ritgerðarinnar um hamingjuna eða huglæga velferð er kenning Ed Diener og Robert Biswas-Diener um sálfræðilegan auð (e. psychological wealth).

Kenningin var valin á grunni þess að Ed Diener hefur lengst allra fræðimanna rannsakað huglæga velferð (og bjó til hugtakið) og ætti þar af leiðandi að vera einna best til þess fallinn að búa yfir djúpstæðum vísindalegum skilningi á hamingjunni. Sonur hans, sálfræðingurinn Robert Biswas-Diener, er þekktastur fyrir rannsóknir sínar á hamingju fólks víða um heim (Diener og Biswas-Diener, 2008). Bók þeirra Happiness, unlocking the mysteries of psychological wealth hefur unnið til verðlauna (Amazon, e.d.) og nær kenningin sem er sett fram í henni til víðtækra þátta í lífi einstaklinga.

Eins og fram kom í kafla 1.6.3 Kenning Ed Diener og Robert Biswas-Diener telja þeir Diener og Biswas-Diener helstu áhrifaþætti hamingjunnar vera 1) að búa yfir lífsstefnu sem byggist á gildum, merkingu í lífinu og verðugum markmiðum, 2) að eiga í

25 sterkum og styðjandi samböndum við annað fólk, 3) fjárhagur og að fá líkamlegum þörfum mætt, 4) að upplifa andlegar tilfinningar, 5) að hafa ákveðna meðfædda skapgerðareiginleika, 6) að geta tekið góðar ákvarðanir um atriði sem varða framtíðina og 7) að viðhafa jákvæðni í athygli, túlkun og minni.

Til samanburðar á áhrifaþáttum Diener og Biswas-Diener má nefna að yfirlitsrannsókn Dolan, Peasgood og White (2008) á rannsóknum um hamingjuna tilgreinir einnig helstu áhrifaþætti á hamingju fólks. Þau svið sem Dolan o.fl. (2008) greindu við rannsókn sína eru 1) tekjur, 2) erfðir og líffræðilegir persónueiginleikar (t.d. aldur, kyn, kynþáttur og persónuleiki) 3) félagslegir áhrifavaldar (t.d. menntun, heilsa, starfsval og atvinnustaða), 4) hvernig fólk ver tíma sínum, 5) viðhorf og trú gagnvart sjálfinu, öðrum og lífinu, 6) sambönd við annað fólk og 7) hið víðara hagfræðilega, félagslega og stjórnmálalega umhverfi sem viðkomandi býr við (Dolan, Peasgood og White, 2008). Kenning Diener og Biswas-Diener (2008) snertir á öllum þessum sviðum þó þeim séu gefin önnur í kenningunni.

Næstu kaflar munu gera nánari grein fyrir kenningu Diener og Biswas-Diener eins og henni er lýst í Happiness, unlocking the mysteries of psychological wealth (2008). Fyrst verður gerð stuttlega grein fyrir útskýringum Diener og Biswas-Diener á hverjum áhrifaþætti fyrir sig og því næst gerð samantekt á rannsóknum sem varða umræðuefnið út frá heimildaleit í gagnasöfnum Proquest, Ovid auk einstaka leitar í Google.

1.8.1 Lífsstefna og merking Samkvæmt kenningu Diener og Biswas-Diener hættir því fólki sem finnst lífið merkingarlaust og tilgangslaust til að líða illa (2008). Það er mat Diener og Biswas- Diener (2008) að fólki sé nauðsynlegt að finna til tilgangs til þess að geta liðið virkilega vel. Merkingu og tilgang finnur fólk með því að vinna til dæmis að verðugum markmiðum sem eru í samræmi við persónuleg gildi þeirra. Hægt er samkvæmt kenningunni, að upplifa mikla ánægju af því að vinna að verðugum markmiðum sem byggja á gildum, sem viðkomandi einstaklingum er annt um og varða meira en eigin stundaránægju. Til að hlúa að sálfræðilegum auði er því mikilvægt að fólk sé meðvitað um gildi sín og lifi lífinu í samræmi við þau (Diener og Biswas-Diener, 2008).

Samkvæmt Kirk og Kasser (2005) má skilgreina gildi einstaklinga sem víðtæka sálfræðilega hugsmíð sem hefur áhrif á áhuga, hegðun og persónulega velferð.

26 Rannsóknir benda til þess að bæði persónuleg gildi og ríkjandi samfélagsgildi hafa áhrif á velferð fólks (Basabe, Paez og Valencia, 2002; Sagiv og Schwartz 2000; Lima og Novo 2007). Það fer þó eftir gildunum hvort áhrifin eru góð eða slæm fyrir líðan og velferð fólks eins og nánar verður vikið að hér á eftir. Samkvæmt Lyubomirsky, Sheldon og Schkade (2005) stýra gildi fólks meðvitaðri hegðun þess og veita því tækifæri til þess að bæta eigin hamingju. Schwartz (1992) hefur leitast við að flokka gildi eftir gerðum eða uppruna. Samkvæmt honum eru gildi þau hugtök eða þær skoðanir sem varða hvað sé eftirsóknarvert að eiga eða gera óháð ákveðnum tímabundnum aðstæðum. Enn fremur leiðbeini gildin við val eða mat á hegðun eða atburðum og hægt er að flokka þau eftir mikilvægi (Schwartz, 1992). Telur Schwartz (1992) að hægt sé að flokka markmið gilda í tíu efnisflokka eftir því hvað gildin varða. Þessir flokkar snerta á; sjálfstæði í lífinu, þörfinni fyrir örvun og fjölbreytni, upplifun nautna, að ná árangri, að fá völd og stjórn, upplifun öryggis, að skapa ekki óánægju eða hneykslun meðal annarra, að virða og viðhalda hefðum, vernd og velferð ástvina og velferð allra, þar með talið náttúrunnar (Schwartz, 1992).

Kasser og Ryan (1996) aðgreina gildi í ytri (e. extrinsic) og innri (e. intrinsic) gildi. Innri gildi eru samkvæmt Kasser og Ryan (1996) þau sem beinast að persónulegum þroska, samböndum og samfélagsþátttöku en ytri gildi eru þau sem varða fjárhagslega sigra, ímynd og vinsældir. Rannsóknir benda til þess að þegar einstaklingur stjórnast af innri gildum auki það huglæga velferð viðkomandi meðan að ytri gildi geta dregið úr huglægri velferð (Kasser, 2002; Vansteenkiste, Duriez, Simons og Soenens, 2006; Kasser og Ahuvia 2002; Schmuck, Kasser og Ryan, 2000; Kasser og Ryan 1996; Sheldon, Elliot, Ryan, Chirkov, Kim og Wu, 2004).

Rannsóknir benda til þess að markmið séu misjafnlega vel til þess fallin að auka hamingju fólks (Garðarsdóttir, Dittmar og Aspinall, 2009). Markmið sem miða til dæmis að því að safna fjárhagslegum auð hafa neikvæða fylgni við huglæga velferð (Dittmar, 2008; Kasser og Kanner, 2004). Markmið sem fela í sér samkeppni (e. zero sum) þar sem aðeins einn getur grætt á því að markmiðið náist hafa neikvæða fylgni við huglæga velferð (Headey, 2008). Markmið sem fela í sér að fleiri njóta góðs af því að markmiðinu sé náð (e. non zero sum), eins og til að mynda markmið sem fela í sér að hjálpa öðrum og taka virkan þátt í samfélaginu, hafa fylgni við mikla huglæga velferð (Harlow og

27 Cantor 1996; Thoits og Hewitt 2001). Þeir sem stjórnast frekar af ytri gildum mælast samkvæmt rannsóknum Richins og Dawson (1992) með minni huglæga velferð en þeir sem stjórnast frekar af innri gildum. Auk þess virðist skipta máli að fólk geti valið eigin markmið og fái stuðning til sjálfræðis (Ratelle, Simard og Guay, 2013).

Samkvæmt rannsóknum Park, Park og Peterson (2010) virðist merking (e. Meaning) mikilvæg hamingjunni. Fylgni er milli þess að einstaklingum finnist þeir nú þegar hafa merkingu í lífinu og því að finna fyrir meiri lífsánægju, hamingju, þakklæti og sjálfstrausti (Park, Park og Peterson, 2010; Steger, Mann, Michels, og Cooper, 2009). Hinsvegar er fylgni milli þess að vera í leit að merkingu í lífinu og því að mælast með meira þunglyndi, kvíða, streitu og efnishyggju (Park o.fl. 2010; Steger o.fl. 2009). Benda þessar niðurstöður til þess að þeim sem ekki hafa fundið lífsmerkingu líði verr en þeim sem finna nú þegar fyrir merkingu í sínu lífi. Leitin að merkingu virðist þó vera mikilvæg þar sem fylgni er milli merkingar og aukinnar velferðar (Park o.fl. 2010; Steger o.fl. 2009).

Samkvæmt ofangreindum rannsóknum virðist margt benda til þess að merking og lífstilgangur skipti máli fyrir líðan og hamingju fólks.

1.8.2 Sterk og styðjandi sambönd Samkvæmt Diener og Biswas-Diener (2008) er eitt það mikilvægasta fyrir hamingjuna að eiga í sterkum og styðjandi samböndum við annað fólk. Samkvæmt kenningunni um sálfræðilegan auð veita sambönd fólki merkingu, huggun og afþreyingu. Þó fólk hafi mismikla þörf fyrir félagsskap er öllu fólki nauðsynlegt að elska og vera elskað til að því líði vel (Diener og Biswas-Diener, 2008).

Í rannsókn Caunt, Franklin, Brodaty og Brodaty (2013) á hvaða þætti fólk teldi hafa mest áhrif á hamingju þeirra kom í ljós að áberandi mikill meirihluti svarenda nefndi sambönd við annað fólk. Rannsókn Diener og Seligman (2002) leiddi einnig í ljós að það að eiga í fullnægjandi samböndum er það sem aðgreinir mjög hamingjusamt fólk frá öðru fólki. Rannsókn Camfield, Choudhury og Devine (2009) á hamingju fólks í Bangladesh leiddi það sama í ljós, fátt er fólki mikilvægara en sambönd.

Mikilvægi sambanda varðar bæði tilfinningalegt öryggi og fjárhagslegt öryggi (Camfield o.fl. 2009). Það hversu vel fólki finnst það vera félagslega tengt öðrum hefur mikil jákvæð áhrif á huglæga velferð þess (Helliwell og Putnam, 2004). Þátttakendur í

28 rannsókn Camfield o.fl. (2009) á hamingju fólks í Bangladesh nefndu ánægju, sjálfsmynd, tengsl, afþreyingu, virðingu, völd, ráðgjöf, tækifæri til að styðja og fá stuðning, og gott mannorð sem ástæður fyrir mikilvægi góðra sambanda. Rannsóknir benda til þess að góðum samböndum fylgi að meðaltali lengri lífslíkur (House, Landis, og Umberson, 1988). Fjölmargar rannsóknir benda til þess að þeir sem eru félagslega vel tengdir öðru fólki lifi lengur en annað fólk, jafnvel þegar tekið er tillit til breyta á borð við reykingar, offitu, áfengisneyslu, líkamsrækt, efnahagsstöðu, almennrar heilsu og nýtingu heilbrigðisþjónustu (Berkman, 1995).

Flest bendir til þess að sambönd hafi áhrif á líðan fólks og telur Layard (2005) að á eftir áhrifum erfða og persónuleikaþátta eru félagsleg tengsl fólks það sem mestu skiptir fyrir hamingju einstaklinganna. Rannsókn Glenn og Weaver (1988) bendir til þess að mikilvægasta samband fólks er sambandið við makann. Vináttusambönd gegna einnig mikilvægu hlutverki, en rannsókn Bibby á gildum ungmenna (2001) leiddi í ljós að 85% þátttakenda töldu vináttu mikilvæga. Í rannsókn Larson, Mannell, og Zuzanek (1986) á hamingju eldri borgara voru þátttakendur inntir eftir því nokkrum sinnum á dag hvað þeir væru að gera, með hverjum og hversu ánægðir þeir voru þá stundina. Rannsóknin leiddi í ljós að þátttakendum leið best þegar þeir voru innan um annað fólk og verst þegar þeir voru einir (Larson o.fl. 1986). Giftu fólki leið best þegar það var samtímis með maka sínum og vinum, næst best þegar það var aðeins með vinum sínum, nokkuð vel þegar það var samtímis með maka og börnum sínum en ánægjan var minni þegar það var eingöngu með maka eða eingöngu með börnum sínum (Larson o.fl. 1986).

Samkvæmt gögnum sem safnað var frá 35 þúsund manns í Bandaríkjunum á tímabilinu 1972 til 1996 (Myers, 2000) mælast bæði karlar og konur sem eru í hjónabandi að meðaltali ánægðari en fólk með aðra hjúskaparstöðu. Ekki er þó vitað hvort þessar niðurstöður megi skýra með því að hamingjusamara fólk sé líklegra til að ganga í hjónaband (Carr, 2004; Diener og Biswas-Diener, 2008). Yfirlitsrannsókn Glenn og Weaver (1988) benti þó til þess að hjúskaparastaðan sjálf skipti minna máli en ánægja fólks innan sambandanna (Glenn o.fl. 1988). Menningarleg gildi hafa þó áhrif á ánægju fólks með ólíka hjúskaparstöðu en rannsókn sem framkvæmd var í 42 löndum leiddi í ljós að þeir sem voru fráskildir mældust mun hamingjusamari í þeim löndum þar

29 sem viðhorf voru almennt jákvæðari gagnvart skilnuðum (Diener, Gohm, Suh og Oishi, 2000).

Sambönd geta þó falið í sér margskonar vandamál og vanlíðan (Perlman, 2007). Sem betur fer er það þó mat flestra að nánustu sambönd þeirra séu góð, að minnsta kosti ef marka má rannsókn Russell og Meegaard (1988). Greindu þeir svör 11 þúsund einstaklinga úr spurningakönnunum sem lagðar voru fyrir þátttakendur á tímabilinu 1972-1986. Niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að 96% aðspurðra lýstu hjónabandi sínu sem hamingjusömu og aðeins þrjú prósent töldu hjónaband sitt ekki vera sérlega hamingjusamt (Russell og Meegaard, 1988).

Sambönd geta falið í sér uppbyggingu og aukna velferð þar sem annað fólk getur veitt mikilvæga tilfinningalega og líkamlega aðstoð, hvort sem er með huggun eða aðstoð við búslóðaflutninga (Diener og Fujita, 2005; Diener og Biswas-Diener, 2008). Rannsókn Fowler og Christakis (2008) á áhrifum sambanda á hamingjuna leiddi í ljós að hamingja eða óhamingja fólks hefur áhrif á annað fólk sem það umgengst. Líðan fólks getur því versnað þegar það er innan um óhamingjusama einstaklinga (Fowler og Christakis, 2008).

En hvað er það þá sem styrkir sambönd? Samkvæmt sjálfræðiskenningu Ryan og Deci (2000), er mikilvægt fyrir vellíðan og lífsánægju fólks að búa yfir sjálfsákvörðunarrétti eða sjálfræði (e. autonomy), færni í að takast á við umhverfi sitt (e. competence) og góðum tengslum við annað fólk (e. relatedness). Rannsóknir benda til þess að fylgni sé milli þess að foreldrar styðji við sjálfræði barna sinna og þess að börn nái að aðlagast vel skólaumhverfi sínu, búi yfir þrautseigju og nái árangri (Duchesne, Ratelle, Larose, og Guay, 2007; Ratelle, Larose, Guay, og Senecal, 2005; Guay, Ratelle, og Chanal, 2008) og að þeim líði almennt vel (Chirkov, og Ryan, 2001; Downie, Chua, Koestner, Barrios, Rip, og M’Birkou, 2007; Niemiec, Lynch, Vansteenkiste, Bernstein, Deci, og Ryan, 2006). Rannsókn Ratelle, Simard og Guay (2013) á upplifun háskólanema af stuðningi maka við sjálfræði þeirra, leiddi í ljós að það magn stuðnings sem nemarnir töldu sig búa við hafði jákvæðna fylgni við vellíðan og lífsánægju þeirra.

Rannsóknir benda til þess að styrkja megi sambönd fólks með því að auka hlutfall jákvæðra athugasemda á kostnað neikvæðra athugasemda. Samkvæmt yfirlitsrannsókn Baumeister, Bratslavsky, Finkenauer, og Vohs (2001) virðist það vera í eðli fólks að taka

30 minna eftir því jákvæða en því neikvæða. Það þýðir að neikvæðar upplifanir vega þyngra í hugsun fólks en þær jákvæðu. Rannsókn Losada og Heaphy (2004) á viðskiptateymum flokkaði teymin í þrennt eftir gæðum teymisins, í teymi með mikil, meðal eða lítil gæði. Teymin voru flokkuð eftir hagnaði eða tapi þeirra, ánægju viðskiptavina og hvernig jafningjar, stjórnendur og liðsfélagar mátu teymin. Hlutlausir aðilar voru fengnir til að greina upptökur af vinnufundum teymanna með tilliti til þess hvort athugasemdir voru jákvæðar eða neikvæðar. Aðilunum sem greindu samskipti teymanna var ekki ljóst hvort teymin flokkuðust með mikil, meðal eða lítil gæði. Niðurstöðurnar sýndu fram á að hágæðateymin voru með umtalsvert meira hlutfall jákvæðra athugasemda en neikvæðra og starfsteymin sem voru metin lægst að gæðum höfðu hærra hlutfall neikvæðra athugasemda en jákvæðra (Losada og Heaphy, 2004). Niðurstöður rannsóknar Albuquerque, Lima, Matos, og Figueiredo (2013) á persónuleikaþáttum, líðan og atburðum benda til þess að það þurfi að minnsta kosti 2,9 jákvæða atburði síðustu 12 mánuði fyrir hvern neikvæðan, til þess að það drægi úr þunglyndi þátttakenda. Þetta hlutfall 2,9 jákvæðra atburða á móti neikvæðum virðist einnig hafa áhrif á hjarta og æðakerfi fólks þar sem rannsóknir benda til þess að fólk sem telur sig hafa upplifað fleiri jákvæða atburði seinustu 12 mánuði býr við betri hjartaheilsu (Fredrickson og Losada, 2005).

Samkvæmt ofangreindum rannsóknum virðist margt benda til þess að sambönd og gæði þeirra skipti máli fyrir líðan og hamingju fólks.

1.8.3 Fjárhagur og fullnæging líkamlegra þarfa Fjárhagur og heilsa hafa áhrif á hamingju fólks (Diener og Biswas-Diener, 2008). Fólk þarf að hafa fé milli handanna til að sinna líkamlegum þörfum sínum og til að geta leyft sér af og til munað. Þó margir aðrir hlutir skipti máli fyrir hamingjuna er ekki hægt að neita því að fjárhagur skiptir sköpum fyrir fólk. Frelsi undan fátækt er mikilvæg hamingju fólks en er ekki það eina sem skiptir máli enda nýtur jafnvel fólk sem lifir við sárustu fátækt lífsins þó það sé að meðaltali ekki eins hamingjusamt og ríkara fólk (Diener og Biswas-Diener, 2008).

Samkvæmt yfirlitsrannsókn Howell og Howell (2008) hafa fjölmargar rannsóknir sýnt fram á að einstaklingar sem búa við sterkari fjárhag eru að meðaltali ánægðari en þeir sem búa við veikari fjárhag og að almennt mælast efnaðar þjóðir hamingjusamari

31 en fátækari þjóðir (Cantril, 1965; Diener, Sandvik, Seidlitz, og Diener, 1993; Veenhoven, 1991, 1994; Zavisca og Hout, 2005). Fylgni er milli þess að lifa í fátækt og að búa við slæma heilsu, slæma menntun og slæmt aðgengi að þjónustu (Klasen, 1997). Fólk frá efnaðri þjóðum lifir einnig lengur, býr síður við vannæringu og minna er um ungbarnadauða meðal þess (Gillis, Perkins, Roemer, & Snodgrass, 1996). Fyrir utan hinar augljósu afleiðingu fátæktar, að eiga erfiðara með að fá grunnþörfum sínum og sinna nánustu fullnægt, getur fjárhagur haft áhrif á þarfir fólks til að finna til sjálfstæðis, færni og tengsla við annað fólk (Howell og Howell, 2008). Þessar þrjár þarfir eru settar fram í sjálfræðiskenningu (e. self-determination theory) Deci og Ryan (1985) en samkvæmt kenningunni hefur fólk þörf fyrir sjálfræði, færni og tengsl við annað fólk til að geta liðið vel. Rannsókn Reis, Sheldon, Gable, Roscoe og Ryan (2000) á áhrifum þessara þriggja þátta á huglæga velferð fólks sýndi fram á mikla fylgni þeirra við hamingjuna. Ef fólk fékk þessum þremur þörfum fullnægt var það líklegra til að mælast með mikla huglæga velferð (Reis o.fl. 2000). Deci og Ryan (1985) eru ekki einir um að leggja áherslu á þessar þrjár upplifanir umfram aðrar, samtökin Reclaiming youth international sem byggja á menningu innfæddra amerískra indjána til að aðstoða ungmenni í vanda leggja áherslu á sjálfræði, færni og tengsl auk þarfar einstaklings á að upplifa sig sem gjafmildan (Brendtro, 2002).

Heilsan er mikilvæg hamingjunni og er fylgni milli þess að telja sig vera við góða heilsu og þess að mælast með meiri huglæga velferð (Dolan o.fl., 2008; Layard, 2005; Rintala, Young, Hart, Clearman, og Fuhrer, 1992; Schulz og Decker, 1985). Hamingjusamt fólk er að sama skapi ólíklegra til að verða veikt (Graham, 2008; Layard, 2005). Sterkari fylgni er milli geðheilsu og meiri hamingju en milli líkamlegrar heilsu og meiri hamingju (Dolan, Peasgood, Dixon, Knight, Phillips, Tsuchiya og White, 2006). Talið er að það geti verið vegna þess að fólk aðlagast gjarnan alvarlegum líkamlegum veikindum eða fötlunum. Þó slíkir atburðir geti haft mjög slæm áhrif á hamingju fólks aðlagast það þeim gjarnan. Þegar fólk glímir við þunglyndi er mun ólíklegra að það aðlagist veikindunum (Graham, 2008). Við veikindi og fötlun fólks getur dregið úr gæðum félagslegra sambanda þar sem veikindi og fötlun geta minnkað getu fólks til að hjálpa öðrum og styðja aðra (Rook, 1990). Við áskynjun eigin heilsufarsvanda dregur það úr tilfinningalegu jafnvægi sem hefur áhrif á huglæga velferð fólks (Rintala o.fl. 1992; Schulz & Decker, 1985).

32 Ofangreindar rannsóknir styðja við kenningu Diener og Biswas-Diener um að fjárhagur fólks og fullnæging líkamlegra þarfa skipti máli fyrir líðan og hamingju fólks.

1.8.4 Tilfinningar sem varða andlega upplifun Andlegar tilfinningar eru samkvæmt Diener og Biswas-Diener (2008) þær tilfinningar sem auka tengsl fólks við hvert annað og þær tilfinningar sem varða það sem fólki finnst æðra eða stærra einstaklingnum. Þessar tilfinningar geta tengst fegurð náttúrunnar, skipulagi alheimsins eða andlegum hugmyndum. Þær tilfinningar sem auka á tengsl fólks eru að sögn Diener og Biswas-Diener (2008) til að mynda þakklæti, kærleikur, ást, samkennd og umburðarlyndi en þessar tilfinningar vekja auk þess vellíðan annarra en þeirra sem upplifa þær.

Upplifun andlegra tilfinninga, ástundun eða viðhorf til trúarlegra og andlegra efna eða andleg tilhneiging (e. spirituality) hefur verið skilgreind af Frey, Daaleman og Peyton (2005) sem samtengingu persónulegra hugmynda og gjörða sem varða tengsl viðkomandi við aðrar víddir og svið mannlegra eiginleika og heilsu. Andleg tilhneiging og andleg trú er samkvæmt Adegbola (2007) samofin líkamlegum, félagslegum og sálfræðilegum sviðum lífsins og eykur andlegt viðhorf eða ástundun andlegra málefna á jafnvægi mannlegrar tilveru. Gomez og Fisher (2005) skilgreina andlega tilhneigingu sem upplifun yfirskilvitlegs afls þar sem kjarni mannlegrar tilveru gengur til liðs við alheiminn. Um er að ræða samband einstaklingsins við eitthvað eða einhvern, sem er æðri manninum, hvort sem það er afl alheimsins, yfirskilvitlegur raunveruleiki, guð eða trúin á leyndardóma alheimsins (Gomez og Fisher, 2005). Andleg tilhneiging varðar þá upplifun einstaklinga að finna fyrir tengslum milli sjálfsins og æðri máttar (Leung, Cheung og Liu, 2011).

Fylgni er milli þess að upplifa andlega tengingu og þess að vera við betri heilsu, vera hamingjusamari og sáttari við lífið (Myers, 2000; Lodi-Smith og Roberts, 2007). Einnig er jákvæð fylgni milli andlegrar tilhneigingar og jákvæðra tilfinninga í garð félagslegra tengsla sinna (Teichmann, Murdvee og Saks, 2006). Rannsókn Leung o.fl. (2011) sem notaði andlegan mælikvarða (e. Spirituality Index of Well-being) Ellison (1983) leiddi í ljós að árangur í atvinnu hefur meiri jákvæð áhrif á líðan fólks eftir því sem það er minna andlega sinnað. Það merkir að árangur í atvinnu hefur minni merkingu fyrir hamingju þeirra sem eru meira andlega sinnaðir (Leung o.fl. 2011).

33 Ljóst er af ofangreindum rannsóknum andleg málefni hafa áhrif á velferð og hamingju fólks.

1.8.5 Meðfæddir eiginleikar Samkvæmt Diener og Biswas-Diener (2008) geta erfðir og eiginleikar einstaklinga haft áhrif á tilhneigingu þeirra til þess að hafa áhyggjur sem og tilhneigingu þeirra til að líða vel. Þrátt fyrir að fólk fæðist með misjafnar tilhneigingar sem hafa áhrif á hamingjuna benda rannsóknir til þess að margt sé hægt að gera til að hafa áhrif á hamingjuna. Lengi vel töldu fræðimenn að þrátt fyrir sveiflur í hamingju fólks væri lítið eða ekkert hægt að gera til að breyta líðan til lengdar. Eftir því sem langsniðsrannsóknum á velferð fjölgar virðist þessi fyrri ályktun ekki rétt, mögulegt er að breyta meðalhamingju fólks talsvert (Diener og Biswas-Diener, 2008).

Tvíburarannsókn Lykken og Tellegen (1996) mældi huglæga velferð (e. well-being scale) og persónuleika (með mælitækinu Multiphasic personality questionnaire) þátttakenda. Niðurstöður bentu til þess að um helmingur breytileikans í huglægri velferð þátttakenda var ekki hægt að útskýra með áhrifum persónuleika eða umhverfis (Lykken og Tellegen, 1996). Það var því mat rannsakenda að erfðir skýrðu líklegast um helming breytileikans (Lykken og Tellegen, 1996). Fleiri rannsóknir voru gerðar fyrir aldamótin 2000 þar sem skoðuð voru áhrif erfða á hamingjuna og allar sýndu að erfðir hefðu einhver áhrif en misjafnt var hversu mikil þau reyndust (sjá yfirlit í Diener, Suh, Lucas og Smith, 1999). Rétt eins og þessar eldri rannsóknir, sýndi nýleg rannsókn Weiss, Bates og Luciano (2008) á tengslum persónuleika og huglægrar velferðar 973 tvíburapara, fram á fylgni milli persónuleikaþátta og huglægrar velferðar. Persónuleikaþættirnir fimm (e. the big five) sem rannsókn Weiss notaðist við eru vel þekktir innan sálfræði og hafa verið mikið rannsakaðir (Goldberg, 1993). Persónuleikaþættirnir fimm nefnast úthverfa (e. extraversion), taugaveiklun (e. neuroticism), samvinnuþýði (e. agreeableness), samviskusemi (e. conscientiousness) og víðsýni (e. openness to experience). Huglæg velferð í tvíburarannsókn Weiss o.fl. (2008) mældist hæst hjá þeim sem voru með litla taugaveiklun og mikla úthverfu, víðsýni, samvinnuþýði og samviskusemi (Weiss o.fl. 2008).

Vegna þess hversu stórt hlutfall meðalhamingju fólks er ákvarðað út frá erfðum, hafa verið uppi efasemdir um að fólk geti framkallað varanlegar breytingar á því hversu

34 hamingjusamt það er að meðaltali (Headey, 2010). Þetta viðhorf endurspeglast í kenningunni um meðalhamingjupunkt fólks (e. set-point theory) sem gengur út á að þrátt fyrir tímabundnar sveiflur í því hversu hamingjusamt fólk er, þá færist líðanin á endanum aftur í sama meðalhorf (Caunt, Franklin, Brodaty og Brodaty, 2013). Til stuðnings þessari kenningu eru rannsóknir sem benda til þess að margar upplifanir valda aðeins tímabundinni breytingu á almennri líðan fólks, til að mynda aðlögun fólks að því að lamast eða vinna í happdrætti (Brickman, Coates og Janoff-Bulmann, 1978). Margt bendir þó til þess að kenningin um meðalhamingjupunkt fólks sé of mikil einföldun á veruleikanum og eftir því sem rannsóknum fjölgar á velferð og hamingju fólks bendir fleira til þess að kenningin eigi ekki við rök að styðjast (Headey, 2010). Til að mynda benda rannsóknir til þess að fólk aðlagast því ekki að hafa misst barn sitt óvænt (Wortman og Silver, 1987), né virðist fólk jafna sig alveg á því að verða ítrekað atvinnulaust (Clark, Georgellis, Lucas og Diener, 2004). Aðrar rannsóknir benda til þess að það er hægt að auka meðalhamingju fólks til lengri tíma, til að mynda virðist sumt fólk marktækt hamingjusamara eftir giftingu (Mehnert, Kraus, Nadler og Boyd, 1990) og rannsóknir benda til þess að hægt sé að auka meðalhamingju fólks til lengri tíma með því að fara í lýtaaðgerð (Wengle 1986; Frederick and Loewenstein, 1999).

Af ofangreindum rannsóknarniðurstöðum að dæma er ljóst að meðfæddir eiginleikar og persónuleikaþættir hafa áhrif á hamingjuna.

1.8.6 Ákvarðanataka Ákvarðanir sem varða framtíðina geta haft mikil áhrif á sálfræðilegan auð fólks (Diener og Biswas-Diener, 2008). Að geta tekið viturlegar ákvarðanir, sem eru í samræmi við langtímamarkmið fólks og sem stuðla að bættum hag þeirra, velta meðal annars á ákveðnum forspárskekkjum. Þannig leggur hugurinn á tíðum ofuráherslu á einstök atriði án þess að taka til greina heildarmynd aðstæðna. Að sama skapi ofmetur fólk áhrif mögulegra atburða á líðan þess (Diener og Biswas-Diener, 2008).

Mikilvægar lífsákvarðanir, á borð við þær sem varða val á framtíðaratvinnu, hvar fólk kýs að setjast að, hvort fólk kýs að eignast börn auk annarra svipaðra ákvarðana skipta miklu máli fyrir hamingju fólks (sjá yfirlit t.d. í Dolan, Peasgood, og White, 2008). Þessar ákvarðanir hafa afleiðingar í för með sér sem vara til lengri tíma. Felur ákvarðanatakan því í sér að fólk þarf að spá fyrir um hvað því muni líka vel og hvað

35 hentar því í framtíðinni. Áhrif slíkra ákvarðana eru mikil á hamingjuna. Rannsóknir hafa til að mynda sýnt fram að ólíkar gerðir atvinnu (Burke, Koyuncu, Fiksenbaum, og Demirer, 2009), atvinnuleysi (Lelkes, 2006), tekjur (Clark, Frijters, og Shields, 2007), barneignir (Lelkes, 2006; Schwarze og Härpfer, 2003) umhverfið sem fólk býr í með tilliti til tekjudreifingar (Hagerty, 2000), glæpatíðni (Ferrer-i-Carbonell og Gowdy, 2007) eða stjórnmálakerfis (Inglehart og Klingemann, 2000) hafa áhrif á huglæga velferð fólks.

Ákveðnar skekkjur í forspám fólks eru þekktar meðal sálfræðinga en þær sem Diener og Biswas-Diener (2008) nefna í umfjöllun sinni um hamingjuna hafa verið nefndar áhrifaskekkjur (e. impact bias) og áhersluskekkjur (e. focusing illusion). Áhrifaskekkjur lýsa sér á þann hátt að fólk getur ekki metið rétt hvaða áhrif hlutir muni hafa á það (Gilbert, Pinel, Wilson, Blumberg og Wheatley, 1998). Gilbert o.fl. (1998) rannsökuðu ímynduð áhrif þess að fá ekki vinnu og svo raunveruleg viðbrögð þess eftir að hafa fengið höfnunarbréf frá vinnu sem sóst var eftir. Niðurstöðurnar voru þær að fólk ofmat vanlíðan sína. Þátttakendur gátu gjarnan giskað rétt á það hvort tilfinningaleg viðbrögð yrðu góð eða slæm en ofmátu áhrifin (Wilson og Gilbert, 2003; Wilson, Wheatley, Meyers, Gilbert, Axsom og Focalism, 2000).

Ofangreindar rannsóknir á áhrifum ákvarðana styðja við kenningu Diener og Biswas-Diener sem telur að ákvarðanir skipta sköpum fyrir hamingju fólks.

1.8.7 Jákvæðni í athygli, túlkun og minni Samkvæmt kenningunni um sálfræðilegan auð hafa lífsviðhorf fólks og hugarfarslegar venjur mikil áhrif á hamingju fólks ( Diener og Biswas-Diener, 2008). Fólk sem hefur vanið sig á að beina sjónum sínum að neikvæðum upplifunum, veltir sér upp úr vandamálum, kvartar og túlkar heiminn á neikvæðan máta dregur úr hamingju sinni. Samkvæmt Diener og Biswas-Diener eiga hamingjusamir einstaklingar það til að túlka lífið á jákvæðan máta. Jákvætt viðhorf getur lýst sér í því að einstaklingur beinir iðulega sjónum að möguleikum, tækifærum, sigrum og jákvæðri túlkun á atburðum. Jákvætt viðhorf getur einnig birst í bjartsýni gagnvart framtíðinni og því að muna frekar jákvæðar upplifanir úr fortíð sinni. Lífsviðhorfi og túlkun fólks má breyta en til þess þarf að koma upp nýjum venjum. Leggja Diener og Biswas-Diener (2008) til að fólk leggi áherslu á að stýra athygli sinni, túlkun og minnist þess góða en ekki bara þess slæma. Mæla þeir Diener og Biswas-Diener með því að fólk beini athyglinni að því sem er gott, fallegt og

36 gengur vel, að fólk taki til greina við túlkun sína á atburðum lífsins að flest fólk er að gera sitt besta og þeir sem eiga við djúpstæð vandamál eiga skilið samúð. Hvað minningar fólks varðar mæla Diener og Biswas-Diener með því að fólk hugsi jákvætt um fortíð sína og leitist við að sjá það góða í liðnum atburðum og skapa þannig jákvæðar minningar (2008).

Áhersla Diener og Biswas-Diener (2008) á jákvæðni í hugsun og túlkun um atburði lífsins svipar til áherslu hugrænnar atferlismeðferðar. Hugræn atferlismeðferð hefur notið mikilla vinsælda meðal fagaðila undanfarin ár (Eiríkur Örn Arnarson, 2011) en meðferðin leggur áherslu á að leiðrétta ómeðvitaðar rangtúlkanir og neikvæðar hugsanir fólks (Beck, Rush, Shaw, og Emery, 1979; Westbrook, Kennerley og Kirk, 2011). Samkvæmt Beck o.fl. (1979) hættir fólki til þess að rangtúlka atburði sér í óhag og gengur meðferðin út á að þjálfa fólk í að fylgjast með eigin hugsunum og hvetja það til þess að túlka atburði á jákvæðari hátt. Dæmi um rangtúlkanir eru alhæfingar og hugmyndir sem byggðar eru á veikum rökum, „svart-hvítur“ hugsanaháttur þar sem hlutir eru metnir annað hvort alslæmir eða algóðir og ýkjur (Beck, 1976). Rannsóknir benda til þess að hugræn atferlismeðferð skili árangri í meðferð ýmissa geðrænna erfiðleika (sjá yfirlit í Driessen og Hollon, 2010). Hugræn atferlismeðferð hefur þó verið gagnrýnd á grunni þess að leggja of mikla áherslu á að meðferðaraðilar fylgi formúlu í vinnu sinni með skjólstæðingum og það á kostnað meðferðarsambandsins (Silverman, 1999). Hugræn atferlismeðferð hefur einnig verið gagnrýnd fyrir að svipta skjólstæðinga valdi (e. Disempower) sér í lagi meðlimi minnihlutahópa og að hugræn atferlismeðferð byggi um of á sérfræðistjórnun, leggi of mikla áherslu á vandamál frekar en styrkleika (Eamon, 2008). Einnig hefur hugræn atferlismeðferð verið gagnrýnd fyrir að stuðla að því að kúgaðir hópar aðlagi sig óréttlátu umhverfi og að vinna á móti félagslegu réttlæti (Van Den Bergh, 2002). Þrátt fyrir þessa gagnrýni benda rannsóknir til þess að um sé að ræða áhrifaríka aðferð til að glíma við ýmis geðræn vandamál og atferlisvanda (Westbrook, Kennerley og Kirk, 2007).

Birtar hafa verið rannsóknir undanfarinn áratug sem benda til þess að jákvæðni skipti máli fyrir líðan fólks. Eins og fram kom í umfjöllun kafla 1.7.2 Að eiga í sterkum og styðjandi samböndum við annað fólk virðist það vera í eðli fólks að taka síður eftir því jákvæða en því neikvæða (Baumeister, Bratslavsky, Finkenauer og Vohs, 2001). Þá

37 virðist hlutfall neikvæðni og jákvæðni einnig tengjast geðheilsu fólks (Schwartz, Reynolds, Thase, Frank, Fasiczka og Haaga, 2002) þar sem hlutfall jákvæðra hugsana og tilfinninga var mælt með sálfræðilegum matskvörðum. Niðurstöður rannsóknar Schwartz o.fl. (2002) bentu til þess að heilbrigðir einstaklingar hafa að lágmarki 2,5 jákvæða hugsun á móti hverri einni neikvæðri hugsun eða tilfinningu. Æskilegt er að vera með hærra hlutfall jákvæðra á móti neikvæðum tilfinningum eða hugsunum og best er ef hlutfallið er að minnsta kosti fjórar jákvæðar tilfinningar eða hugsanir á móti einni neikvæðri (4:1) (Schwartz o.fl. 2002). Gottman (1994) telur að nauðsynlegt sé að í samböndum hjóna sé hlutfall jákvæðrar á móti neikvæðrar líðunar 5:1. Ef hlutfallið er lægra fyrir jákvæðu tilfinningarnar er að mati Gottman (1994) líklegt að hjónabandið endi í skilnaði.

Rannsókn Fredrickson og Losada (2005) styður við mikilvægi jákvæðni. Rannsókn þeirra náði til 188 einstaklinga sem skráðu jákvæðar og neikvæðar tilfinningar sínar yfir 28 daga tímabil. Þátttakendur svöruðu einnig spurningalista um sálfræðilega og félagslega líðan sem mældi sátt við eigið sjálf, tilgang í lífinu, færni tengda umhverfinu, jákvæð samskipti við aðra, persónulegan vöxt og sjálfstæði (Fredrickson og Losada, 2005). Niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að einstaklingar sem mældust við mjög góða geðheilsu og líðan voru með jákvæðni hlutfall upp á 2,9:1 eða hærra (Fredrickson og Losada, 2005).

Af ofangreindum rannsóknum að dæma virðist jákvæðni í viðhorfi, túlkun og hugsun fólks hafa áhrif á líðan þess.

1.9 Samantekt á nálgun jákvæðrar sálfræði til bættrar velferðar Eins og fram hefur komið í þessum kafla fjallar jákvæð sálfræði um velferð og áhrifaþætti hennar. Velferð hefur verið skilgreind á fjölbreyttan hátt og fjölmörg orð hafa verið notuð yfir hugtakið til að mynda hamingja, hedónísk ánægja og farsæld.

Samkvæmt kenningu Diener og Biswas-Diener um hamingju eða sálfræðilegan auð eru sjö svið eða þættir sem hafa mest áhrif á hamingjuna eða velferðina og með því að hlúa að þáttum þeim tengdum er fólki mögulegt að auka hamingju sína. Þessir þættir eru 1) lífsstefna í samræmi við gildi og verðug markmið, 2) sterk og styðjandi sambönd við annað fólk, 3) fjárhagur og fullnæging líkamlegra þarfa, 4) upplifun andlegra

38 tilfinninga, 5) áhrif meðfæddra skapgerðareiginleika, 6) vönduð ákvarðanataka um atriði sem varða framtíðina og 7) það að viðhafa jákvæðni í athygli, túlkun og minni.

Þessi sjö áhrifasvið hafa verið studd fjölmörgum rannsóknum og var nokkrum þeirra rannsókna gerð skil. Ekki var þó mögulegt í svo stuttu yfirliti að gera öllum rannsóknarniðurstöðum ítarleg skil og er því áhugasömum bent á frumheimildirnar til frekari glöggvunar á vísindalegri þekkingu á hamingjunni.

Kenning Diener og Biswas-Diener leitast við að tilgreina þau svið lífsins sem mest hafa að segja um hversu hamingjusamur einstaklingur er. Kenningin er ekki tilraun til þess að greina nákvæmlega hvernig hægt er að stuðla að sem bestum árangri á hverju þessara sviða. Til að mynda eru styðjandi og sterk sambönd mikilvæg hamingjunni samkvæmt kenningunni um sálfræðilegan auð, en ekki er útskýrt í þaula hvernig hægt er að þróa með sér og stofna til styðjandi og sterkra sambanda. Til þess að taka til greina alla mögulega áhrifaþætti eða allar mögulegar breytur og hindranir á þróun sterkra og styðjandi sambanda þyrfti án efa að skrifa tugi bóka. Engu að síður er með kenningunni um sálfræðilegan auð sett fram ágætis tilgáta um hvaða svið lífsins mestu máli skipta og getur kenningin nýst sem gátlisti við vinnu félagsráðgjafa sem og annarra sem hafa að markmiði sínu að bæta velferð fólks.

Helsti ókostur kenningarinnar um sálfræðilegan auð er að hún hefur ekki sætt mikilli gagnrýni og er sett fram aftast í bók Diener og Biswas-Diener (2008) sem upptalning á áhrifaþáttum hamingjunnar en ekki sem formleg kenning. Mögulega væri því réttara að tala um upptalningu Diener og Biswas-Diener (2008) á atriðum sem vitað er að hafa áhrif á hamingjuna, eftir áratugalangar rannsóknir. Það hversu sterka tengingu kenningin hefur við rannsóknir er þó mikill kostur og verður hún því notuð til að skoða áherslur í bataleið AA og áherslur í starfsaðferðum félagsráðgjafa í næstu köflum.

39

2 AA Samtökin

2.1 Umfjöllunarefni þessa kafla Þessi kafli fjallar um starf og hugmyndafræði AA sjálfshjálparsamtakanna (e. Alcoholics Anonymous) og þeirra nálgun á að bæta velferð meðlima sinna. Nálgun AA samtakanna er borin saman við kenningu Diener og Biswas-Diener um sálfræðilegan auð (2008) sem lýst var í fyrsta kafla þessarar ritgerðar.

Uppbygging kaflans er á þá leið að fyrst er greint frá hugmyndafræðilegum bakgrunni, starfi og aðferðum AA og næst er gerð innihaldsgreining á leiðbeiningum bókarinnar Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur (1981) á því hvernig eigi að ná bata frá alkóhólisma með aðferðum AA. Innihaldsgreiningin var gerð til að auðvelda samanburð á aðferðum AA samtakanna og kenningu Diener og Biswas-Diener (2008).

Tilgangurinn með því að bera saman þessa áhrifaþætti við áhersluatriði í leiðbeiningum AA samtakanna á því hvernig á að ná bata frá alkóhólisma er að skoða hvort AA samtökin séu að hvetja til þess að alkóhólistar geri breytingar á sömu sviðum lísins og rannsóknir benda til þess að séu mikilvæg hamingjunni. Í fyrsta kafla þessarar ritgerðar var sýnt fram á að fjölmargar rannsóknir styðja við tilgátu Diener og Biswas- Diener (2008) um að þeir sjö þættir sem kenningin tilgreinir hafa talsvert að segja um velferð fólks. Það er því áhugavert að vita hvort AA samtökin leggi áherslu á sömu svið, hvort þau leggi meiri áherslu á nokkur þeirra og sleppi öðrum eða hvort lögð er áhersla á allt aðra þætti en í kenningu Diener og Biswas-Diener (2008).

2.2 Gildi þess að taka nálgun AA samtakanna til skoðunar AA samtökin gegna veigamiklu hlutverki í bata fjölda Íslendinga við áfengis- og vímuefnasýki og þessir einstaklingar eru oft skjólstæðingar félagsráðgjafa. Aðferðir og hugmyndafræði AA snerta þó ekki eingöngu við lífi þeirra sem glíma við afleiðingar áfengis- og vímuefnaneyslu. Á Íslandi hafa fjölmörg samtök aðlagað hugmyndafræði AA að sínum hugðarefnum, til að mynda við vinnu með aðstandendum vímuefnasjúkra og þeim sem kljást við matarfíkn, meðvirkni, söfnunaráráttu, átraskanir, sifjaspell, ástarfíkn,

41 kynlífsfíkn og fleira (Alanó klúbburinn, 2013). Flest samtakanna eru sjálfshjálparsamtök en stuðningsúrræðið Drekaslóð (Drekaslóð, e.d.) fyrir þolendur ofbeldis og Þjóðkirkjan (Skálholtsútgáfan, e.d.) hafa einnig aðlagað aðferðir AA að sínum úrræðum. Áhrif AA má greina enn víðar í samfélaginu en reglulegir AA fundir eru haldnir á meðferðarstofnuninni Vogi, fíknigeðdeild Landspítalans og á meðferðarheimilinu Krýsuvík (SAAS, 2008).

2.3 Hvað er AA? Alcoholics Anonymous eða „AA samtökin“ eru gríðarlega stór og fjölsótt sjálfshjálparsamtök fyrir alkóhólista (Davis og Jansen, 1998). Eina inntökuskilyrðið inn í AA samtökin er löngun til að hætta að drekka og er aðgangur ókeypis á alla fundi samtakanna (AA samtökin á Íslandi, 2007a). Ekki eru innheimt félagsgjöld en félagar standa sameiginlega undir kostnaði sem fellur til við að halda úti starfi samtakanna. Eina markmið samtakanna er samkvæmt fimmtu erfðavenju samtakanna að flytja boðskap samtakanna til annarra alkóhólista sem þjást (AA samtökin á Íslandi, 2007a). Þessi starfsviðmið eru tilgreind í tólf erfðavenjum samtakanna sem verður lýst í kafla 2.2.2 Hvernig starfar AA?

Samkvæmt heimasíðu AA samtakanna er alkóhólismi „stigversnandi sjúkdómur - líkamlegur og andlegur í senn. Alkóhólistarnir, sem við þekkjum, virðast hafa misst getuna til að hafa hemil á vínneyslu sinni.“ Annarsstaðar á heimasíðu AA samtakanna er tilgreint að samtökin búi ekki yfir neinni formlegri skilgreiningu á áfengisfíkn en „flestir okkar [hafa] fallist á þá skýringu, að sjúkdómurinn sé sambland af líkamlegum og andlegum þáttum.“ (AA samtökin á Íslandi, 2007c).

2.3.1 Bakgrunnur AA samtakanna AA samtökin voru stofnuð árið 1935 í Bandaríkjunum af þeim William Griffith Wilson (Bill) og Robert Holbrook Smith (Bob) sem höfðu háð langa baráttu við eigin áfengisvanda (Kurtz, 1979). Fyrstu árin var starf AA samtakanna nátengt kristilegu Oxford trúarsamtökunum og myndaði hugmyndafræði Oxford samtakanna grunninn að aðferðum AA til að leysa úr áfengisvanda meðlima sinna (Kurtz, 1979).

42 Oxford samtökin lögðu áherslu á að meðlimir samtakanna reyndu að stefna að algjörum hreinleika, algjörri óeigingirni, algjörum heiðarleika og algjörri ást. Til þess að ná þessu markmiði voru meðlimir hvattir til þess að gefast upp fyrir guði, að hlusta á leiðsögn guðs, að óska eftir leiðsögn hans, að gera yfirbót og að deila þessum hugmyndum með öðrum (Kurtz, 1988).

Meðlimir AA slitu tengsl sín við Oxford samtökin á árunum 1937-1939 á grunni þess að þeir vildu eingöngu einblína á það verk að aðstoða alkóhólista. Við það að AA sleit tengslum við Oxfordsamtökin varð einnig sú breyting á starfi samtakanna að meðlimir þeirra gerðu sér grein fyrir því að algert bindindi var skilyrði til þess að AA hugmyndafræðin virkaði fyrir alkóhólista til bata (Kurtz, 1988). Árið 1939 kom út bók AA samtakanna Alcoholics Anonymous en hún var skrifuð af stofnanda samtakanna William Wilson (Bill). Er bókin gjarnan kölluð stóra bókin (e. Big book) og er frumrit samtakanna. Árið 1952 skrifaði William Wilson aðra bók sem var titluð Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur en henni var ætlað að útskýra ítarlega bataleið og starfsreglur samtakanna. Aðferðin sem AA beitir við að ná fram bata frá áfengisfíkn er að vinna tólf reynsluspor en starfsreglur samtakanna kallast erfðavenjur (Kurtz, 1988).

2.3.2 Hvernig starfar AA? Til að forðast sundrung og að samtökin afvegaleiddust frá upphaflegum tilgangi sínum, að aðstoða alkóhólista til bata, voru skrifaðar tólf erfðavenjur samtakanna um hvernig reka skyldi samtökin (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981). Þær eru:

1. Sameiginleg velferð okkar situr í fyrirrúmi. Bati hvers og eins er undir einingu AA samtakanna kominn.

2. Í málum deilda er aðeins einn leiðtogi, kærleiksríkur Guð eins og hann birtist í samvisku hvers hóps. Forsvarsmenn okkar eru þjónar sem við treystum en ekki stjórnendur.

3. Til þess að gerast AA félagi þarf aðeins eitt: Löngun til að hætta að drekka.

4. Sérhver AA deild á að vera sjálfstæð nema í málum er varða aðrar deildir eða AA samtökin í heild.

5. Sérhver deild hefur aðeins eitt meginmarkmið: Að flytja alkóhólistum sem enn þjást boðskap samtakanna.

6. AA deild ætti aldrei að ljá öðrum samtökum eða málstað nafn sitt, fjármagn, fylgi, eða lausafé, svo eignir eða upphefð fjarlægi okkur ekki upphaflegum tilgangi.

43 7. Sérhver AA deild ætti að standa á eigin fótum og hafna utanaðkomandi fjárhagsaðstoð.

8. Félagar í AA samtökunum eru ætíð einungis áhugamenn, en þjónustustöðvar okkar mega ráða launað starfsfólk.

9. AA samtökin sem slík ætti aldrei að skipuleggja, en við getum myndað þjónustunefndir og ráð sem eru ábyrg gagnvart þeim sem þau starfa fyrir.

10. AA samtökin taka ekki afstöðu til annara mála en sinna eigin. Nafni þeirra ætti því að halda utan við deilur og dægurþras.

11. Afstaða okkar út á við byggist fyrst og fremst á aðlöðun en ekki áróðri. Í fjölmiðlum ættum við alltaf að gæta nafnleyndar.

12. Nafnleyndin er andlegur grundvöllur allra erfðavenja okkar og minnir okkur á að setja málefni og markmið ofar eigin hag (AA samtökin á Íslandi, 2007d).

Eins og sjá má af erfðavenjunum er eina markmið samtakanna að flytja boðskap samtakanna til þeirra sem enn þjást. Þetta er gert samkvæmt AA samtökunum á Íslandi með því að halda úti fundum, upplýsingasíma, vefsíðu og standa fyrir ýmiss konar fræðslu og útgáfustarfsemi. Meðlimir aðstoða hver annan á þann hátt að reyndari meðlimir bjóða nýrri meðlimum aðstoð við að ná fram bata (AA samtökin á Íslandi, 2007c).

2.4 Hvað felst í bataleið AA? Aðferð meðlima AA samtakanna til að ná fram bata frá áfengisfíkn er að vinna tólf reynsluspor AA samtakanna, sem gjarnan eru kölluð „tólf sporin“ eða „sporin“. Þau eru eftirfarandi:

1. Við viðurkenndum vanmátt okkar gagnvart áfengi og að við gætum ekki lengur stjórnað eigin lífi.

2. Við fórum að trúa að máttur okkur æðri gæti gert okkur andlega heilbrigð að nýju.

3. Við tókum þá ákvörðun að fela líf okkar og vilja umsjá Guðs, samkvæmt skilningi okkar á honum.

4. Við gerðum rækilega og óttalaust siðferðileg reikningsskil í lífi okkar.

44 5. Við játuðum misgjörðir okkar fyrir Guði, sjálfum okkur og annarri manneskju og nákvæmlega hvað í þeim fólst.

6. Við vorum þess albúin að láta Guð fjarlægja alla skapgerðarbrestina.

7. Við báðum Guð í auðmýkt að losa okkur við brestina.

8. Við skráðum misgjörðir okkar gagnvart náunganum og urðum fús til að bæta fyrir þær.

9. Við bættum fyrir brot okkar milliliðalaust svo framarlega sem það særði engan.

10. Við iðkuðum stöðuga sjálfsrannsókn og þegar út af bar viðurkenndum við yfirsjónir okkar umsvifalaust.

11. Við leituðumst við með bæn og hugleiðslu að styrkja vitundarsamband okkar við Guð, samkvæmt skilningi okkar á honum, og báðum um það eitt að vita vilja hans og hafa mátt til að framkvæma hann.

12. Við urðum fyrir andlegri vakningu er við stigum þessi spor og reyndum því að flytja öðrum alkóhólistum þennan boðskap og þessum meginreglum í lífi okkar og starfi (AA samtökin á Íslandi, 2007d).

2.5 Samanburðar á nálgun AA samtakanna og kenningu Diener og Biswas- Diener til bættrar velferðar Til að svara spurningunni, hvað felst í bataleið AA, og hvað er líkt og ólíkt með bataleið AA og kenningu Diener og Biswas-Diener um sálfræðilegan auð, var framkvæmd eigindleg innihaldsgreining á sporaleiðbeiningum bókarinnar Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur. Leiðbeiningar bókarinnar Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur (1981) eru 104 blaðsíður að lengd. Leiðbeiningarnar voru lesnar nokkrum sinnum, gerð var samantekt úr leiðbeiningunum og að nokkrum yfirlestrum loknum framkvæmd innihaldsgreining á textanum út frá þemum sem greind voru út frá kenningu Diener og Biswas-Diener um sálfræðilegan auð.

Textinn sem var innihaldsgreindur samanstendur mestmegnis af ráðleggingum, hugmyndum AA um alkóhólisma, viðvörunum AA til lesenda og hugmyndum AA um áætlaðar afleiðingar sporavinnunnar. Textinn er skrifaður frá sjónarhorni fyrstu persónu fleirtölu og eru allar leiðbeiningar settar fram út frá sjónarhorninu „reynsla okkar“.

45 2.5.1 Eigindleg aðferðarfræði Eigindleg aðferðarfræði byggir á þeirri sýn að veruleikinn sé háður túlkun fólks og leitast því eigindlegir rannsakendur við að skilja túlkun fólks á upplifunum sínum. Rannsakendur reyna með opnum huga að lýsa viðfangsefninu án fyrirfram gefinna hugmynda (Taylor & Bogdan, 1998). Algengar eigindlegar rannsóknaraðferðir eru viðtöl, rýnihópar og þátttökurannsóknir. Eigindlegir rannsakendur leitast við að öðlast djúpstæðan skilning á viðfangsefni sínu í samhengi við aðstæður og umhverfi þess (Bogdan og Bilken, 1998). Markmið eigindlegra aðferða er oftast nær að lýsa viðfangsefni sínu, skilgreina það eða meta það á nákvæman hátt (Silverman, 2008).

Vegna þess að rannsakandinn sem rannsakar með eigindlegum aðferðum túlkar sjálfur efni sitt, er hans fyrri reynsla, hugmyndir og skilningur, órjúfanlegur þáttur í niðurstöðunum. Því er um huglægt mat og túlkun rannsakandans að ræða. Því er mikilvægt að rannsakandinn geri sér grein fyrir mögulegum fordómum, skoðunum eða annarri afstöðu sinni til efnisins (Creswell, 2007). Var tekið tillit til þessara atriða við framkvæmd rannsóknarinnar.

2.5.2 Innihaldsgreining Algengt er að fólk rugli saman grundaðri kenningu og innihaldsgreiningu (Green og Thorogood, 2009) en grunduð kenning er kerfisbundin aðferð til að þróa kenningu um ákveðið fyrirbæri með ítrekaðri innihaldsgreiningu samhliða gagnasöfnun (Charmaz, 2006). Þó ætíð sé beitt innihaldsgreiningu þegar farið er eftir aðferð grundaðrar kenningar á það öfuga ekki við, hægt er að innihaldsgreina á marga vegu án þess að innihaldsgreiningin byggi á grundaðri kenningu (Charmaz, 2006).

Innihaldsgreining er tækni sem gerir rannsakendum kleift að koma auga á eiginleika efnis með hlutlausum og kerfisbundnum hætti (Holsti, 1969). Um er að ræða kerfisbundna aðferð til að þjappa miklu gagnamagni niður í viðráðanlegra magn, með því að flokka efnið eftir fyrir fram gefnum reglum (Stemler, 2001). Þessar reglur eru opnar og aðgengilegar öðrum sem gerir öðrum rannsakendum kleyft að endurtaka greininguna og þar með athuga hvort niðurstöður ólíkra greinanda séu sambærilegar (Stemler, 2001).

Fjölmargar gerðir innihaldsgreininga hafa verið þróaðar og er hægt að beita bæði megindlegum og eigindlegum aðferðum í innihaldsgreiningu (Hsieh og Shannon, 2005).

46 Megindleg innihaldsgreining getur falið í sér tölulega greiningu á því hversu oft ákveðin orð koma fyrir í texta meðan að eigindleg innihaldsgreining getur verið fólgin í því að texti er greindur eftir þemum sem spretta úr textanum sjálfum. Eigindleg innihaldsgreining getur líka byggt á kenningu (e. theoretical content analysis) sem stýrir sjónarhorni rannsakanda. Til að mynda getur texti verið innihaldsgreindur með hliðsjón af feminískum kenningum eða með hliðsjón af póstmódernískum kenningum og niðurstaðan yrði gjörólík (Hsieh og Shannon, 2005). Sú aðferð sem notuð var í þessari rannsókn var eigindleg innihaldsgreining út frá kenningu Diener og Biswas-Diener um sálfræðilegan auð (2008).

Til að auka réttmæti innihaldsgreininga eru gjarnan nokkrir sem greina efnið samtímis og niðurstöður þeirra svo bornar saman. Þegar fylgni milli niðurstaðna ólíkra greinanda er reiknuð með aðferð Kappa (Cohen, 1960) er 1 fullkomin fylgni og 0 engin fylgni milli greinanda. Ef að fylgnin er 0-0,2 telst vera örlítil fylgni, ef fylgnin er milli 0,21- 0,4 er hún sæmileg, milli 0,41 og 0,6 er hún nokkur, illi 0,61 og 0,8 telst hún mikil og ef hún er milli 0,81 og 1 telst hún vera næstum fullkomin (Stemler, 2001). Þessi rannsókn var aðeins greind af einum einstaklingi og því ekki hægt að fullyrða um réttmæti niðurstaðnanna.

Til að það sé mögulegt að endurtaka greininguna og sannreyna réttmæti innihaldsgreiningarinnar þarf efnið sem greint er að vera í varanlegu formi. Það merkir að hægt er að innihaldsgreina ljósmyndir og texta en ekki svipbrigði gangandi vegfaranda (nema svipbrigðin séu tekin upp á myndband). Til að minnka umfang efnisins sem greina á er leitað endurtekninga í efninu eða svo kallaðra þema. Þessi þemu, eða flokkar, eru þá notaðir til að lýsa efninu og túlka það (Neuman, 2006: Weber, 1990). Við val á flokkum eða þemum er mikilvægt að varast loðnar skilgreiningar sem geta fólgið í sér að flokkarnir skarast á einhvern hátt (Stemler, 2001). Mikilvægt er að vanda vel til flokkanna eða þemanna og getur val þeirra reynst mörgum vandasamt verk (Neuman, 2006). Til að útbúa þá flokka sem innihaldið er greint í þá lesa rannsakendur oft nokkrum sinnum yfir efni sitt til að öðlast betri skilning á því sem aftur gerir þeim kleyft að flokka það betur og vanda betur til vals þemanna (Altheide, 1987).

47 2.5.3 Styrkleikar og veikleikar eigindlegra aðferða og innihaldsgreiningar Eigindlegar aðferðir og þar með einnig eigindleg innihaldsgreining er aðferð sem hentar vel til þess að lýsa upplifunum og því hvaða merkingu eða skilning fólk leggur í ákveðna hluti (Neuman, 2006). Með eigindlegum aðferðum er hægt að fá djúpstæðan skilning á málefnum sem ekki er hægt að fá með megindlegum aðferðum. Svörin sem fást með eigindlegum aðferðum einskorðast ekki við einfalda kvarða eða tölur. Ekki er þó hægt að alhæfa nokkuð um algengi eða áreiðanleika niðurstaðna eða fyrirbæra sem koma í ljós í eigindlegum rannsóknum þar sem þær byggja á túlkun rannsakanda (Neuman, 2006). Helsti ókostur þess að beita eigindilegri innihaldsgreiningu er að um huglægt mat og túlkun rannsakanda er að ræða. Við val á þemum og mati á því hvað fellur innan hvers þema er eingöngu byggt á persónulegu mati rannsakanda. Þar sem túlkun og mat er einstaklingsbundin verður að taka niðurstöðum eigindlegra rannsókna með þessum fyrirvara (Neuman, 2006).

2.5.4 Siðferðileg álitamál Meðal þess sem rannsakendur þurfa að huga að við hönnun og framkvæmd rannsókna er hvort möguleiki sé á að rannsóknin geti skaði einhvern, sært, blekkt eða sé á einhvern hátt siðferðilega vafasöm (Neuman, 2006). Dæmi um atriði sem mikilvægt er að rannsakendur hugi að er að gæta trúnaðar og nafnleyndar þátttakanda. Þá ætti rannsakandi einnig að íhuga hvort niðurstöðurnar geti á einhvern hátt skaðað einhvern eða eitthvað (Neuman, 2006). Við vandlega íhugun voru engin siðferðileg álitamál sem höfundur gat komið auga á, þar sem engir einstaklingar urðu fyrir beinum áhrifum af framkvæmd þessarar rannsóknar og niðurstöðurnar ættu ekki að kasta rýrð á jákvæða sálfræði, AA samtökin né félagsráðgjöf.

2.5.5 Takmarkanir rannsóknarinnar Takmarkanir rannsóknarinnar voru meðal annars þær að að eingöngu voru greindar leiðbeiningar bókarinnar Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur í útgáfunni frá 1981 í stað þess að greina 2010 útgáfu bókarinnar ásamt AA bókinni (e. Alcoholics Anonymous). Sú ákvörðun að nota fyrri útgáfu Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur var tekin á grunni þess að höfundur taldi ekki líklegt að miklar og veigamiklar breytingar hefðu orðið á merkingu textans milli útgáfa og á grunni þess að leiðbeiningar AA bókarinnar hvað

48 viðkemur reynslusporunum eru ekki jafn ítarlegar, nákvæmar og ríkulegar og í bókinni Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur.

Það takmarkar að sama skapi gildi niðurstaðnanna að það kom aðeins ein manneskja að innihaldsgreiningu efnisins svo ekki er hægt að meta áreiðanleika niðurstaðnanna.

2.6 Niðurstöður innihaldsgreiningar á 12 reynslusporum AA samtakanna Til að bera saman reynsluspor AA samtakanna og áhrifaþætti hamingjunnar samkvæmt kenningu Diener og Biswas-Diener (2008) um sálfræðilegan auð var framkvæmd innihaldsgreining á leiðbeiningum bókarinnar Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur. Markmiðið með innihaldsgreiningunni var að koma auga á það hvað væri mögulega líkt og ólíkt með reynsluporunum tólf og áhersluþáttum kenningar Diener og Biswas-Diener um sálfræðilegan auð eins og hún er kynnt í bókinni Happiness: Unlocking the mysteries of psychological wealth (2008).

Útbúin voru sex þemu upp úr sjö áhrifaþáttum Diener og Biswas-Diener (2008). Áhrifaþættir hamingjunnar samkvæmt kenningu Diener og Biswas-Diener (2008) eru 1) að búa yfir lífsstefnu sem byggist á gildum, merkingu í lífinu og verðugum markmiðum, 2) að eiga í sterkum og styðjandi samböndum við annað fólk, 3) lágmarks fjárhagur og að fá líkamlegum þörfum mætt, 4) að upplifa andlegar tilfinningar, 5) að hafa ákveðna meðfædda skapgerðareiginleika, 6) að geta tekið góðar ákvarðanir um atriði sem varða framtíðina og 7) að viðhafa jákvæðni í athygli, túlkun og minni (Diener og Biswas-Diener, 2008).

Þemun sem notuð voru í innihaldsgreininguna eru 1) jákvæðni, samanber áhrifaþátt nr. 7 í kenningu Diener og Biswas-Diener, 2) framtíðarstefna, samanber áhrifaþætti nr. 1 og 6 í kenningu Diener og Biswas-Diener, 3) sambönd, samanber áhrifaþátt nr. 2 í kenningu Diener og Biswas-Diener, 4) andleg upplifun, samanber áhrifaþátt nr. 4 í kenningu Diener og Biswas-Diener, 5) fjárhagur og líkamlegar þarfir, samanber áhrifaþátt nr. 3 í kenningu Diener og Biswas-Diener, og 6) meðfæddir eiginleikar, samanber áhrifaþátt nr. 5 í kenningu Diener og Biswas-Diener.

49 Eins og sjá má var sviði ákvarðanatöku og lífsstefnu úr kenningu Diener og Biswas- Diener (2008) skeytt saman í eitt þema þar sem báðir áhrifaþættir varða framtíðina og hvernig stefnt er að henni. Ljóst var höfundi af fyrri yfirferðum á texta AA bókarinnar að minnst var fjallað um fjárhag og meðfædda eiginleika en ákveðið var þó að hafa þessi þemu með til að gæta nákvæmni. Þemunum og niðurstöðum þeirra er gerð nánari skil hér á eftir og greint fá niðurstöðum innihaldsgreiningarinnar eftir þemum.

2.6.1 Niðurstöður innihaldsgreiningar á þemanu andleg upplifun Hér verður gerð grein fyrir niðurstöðum innihaldsgreiningarinnar á texta bókarinnar Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur (1981) með hliðsjón af þemanu andleg upplifun. Þemað andleg upplifun byggir á umfjöllun Diener og Biswas-Diener um mikilvægi þess að upplifa tilfinningar sem tengjast trú eða andlegum upplifunum og hugsunum (2008). Þessar tilfinningar varða tengsl við æðri mátt eða alheiminn og að fyllast lotningu yfir fegurð náttúrunnar. Einnig varðar þessi þáttur þær tilfinningar sem bæta tengsl við annað fólk á borð við þakklæti, umhyggju og umburðarlyndi (Diener og Biswas-Diener, 2008). Umræða sem fellur undir þetta þema í greiningu tólf spora leiðbeininganna er sú sem snertir á trú eða fullyrðingum um æðri mátt eða tengsl við æðri mátt.

Við greiningu textans kom í ljós að andleg upplifun er aðalmarkmið tólf spora AA. Árangur reynslusporanna er samkvæmt AA andleg vakning en megingildi andlegrar vakningar er að verða fær um að gera, finna og trúa því sem viðkomandi gat ekki áður (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 106). Samkvæmt AA er nauðsynlegt að æðri forsjón hafi afskipti af alkóhólistanum til að hann geti losnað við drykkjuástríðuna (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. bls. 21) en sérstaklega er tekið fram að þessi æðri máttur eða guð sé skilgreindur af hverjum og einum (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 34). Hvatt er til þess að gefa því tækifæri að trúa á einhvern æðri mátt og bent á að lágmarkstrú sé nægjanleg til að losna við áfengisástríðuna (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 28). Margir trúi til að mynda á AA deildina sína þar sem hún sé þeim æðri í því að meðlimir hennar hafa þegar leyst úr drykkjusýki sinni (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 27).

Við það að losna við áfengisástríðuna gjörbreytist lífið samkvæmt AA en í leiðbeiningum AA um vinnslu annars sporsins kemur fram að hver sá sem lendir í því að missa trú sína á einhverjum tímapunkti í lífinu upplifir mikla innri baráttu (Tólf

50 reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 29). Þegar áfengisfíknin hefur brotið alkóhólista niður neyðast þeir þó til að leita aftur í trúnna (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 29) sem veitir innri styrk og frið (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 116). Samkvæmt AA er nauðsynlegt að endurskoða eigin trúarhugmyndir eða deyja annars úr alkóhólisma (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 30).

Til að öðlast trú þarf samkvæmt AA auðmýkt, skynsemi (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 30) og traust, en varast ber ögrun og þrjósku (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 32). Til að ná árangri á andlega sviðinu þarf samkvæmt AA að leggja eitthvað á móti, hreinsa til í hugskotum og biðja um að vilji guðs nái fram að ganga en ekki eigin vilji alkóhólistans (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 33). Rétt beiting viljastyrks alkóhólista er að mati AA að láta þeirra vilja lúta handleiðslu guðs (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 40). Samkvæmt AA mun guð gera alkóhólista heilbrigða að nýju ef þeir snúa sér til hans af auðmýkt og með opnum huga (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 33). Nauðsynlegt er að mati AA að alkóhólistinn taki ákvörðun um að vinna eftir bataleið AA og búi yfir fúsleika til að sigrast á sjálfshyggjunni sem varnar guði að komast inn í líf viðkomandi (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 34), en það eina sem þarf er byrjun sama hversu lítilfjörleg hún kann að vera (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 35). Samkvæmt AA hefur trúin reynst meðlimum þeirra styrkur en ekki veikleiki (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 38) og við tilfinningarót er mælt með því að biðja guð um ró og að fara með æðruleysisbænina (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 41). Máttur bænarinnar kemur í ljós við reynslu, því er mælt með að gera tilraun til að biðja þrátt fyrir innri mótþróa (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 96). Mælt er með því að ráðfæra sig við annan aðila ef alkóhólistinn telur sig finna fyrir beinni leiðsögn frá guði og varað er við því að ætla sér að sleppa samskiptum við fólk og ráðfæra sig eingöngu við guð (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 60). Bænin lyftir samkvæmt AA hug og hjarta til guðs og felur í sér hugleiðslu (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 102) en rétt bæn er sú sem biður um skilning á því sem er viðkomandi fyrir bestu og mátt til að framkvæma það (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 102).

51 Trúin ein er þó ekki nægileg til að koma lífi alkóhólista á réttan kjöl, alkóhólistinn þarf að gera siðferðileg og óttalaust reikningsskil á lífi sínu með því að skoða hvernig óheflaðar eðlishvatir hafa valdið vandræðum í hans og annarra lífi (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 43). Með því að viðurkenna misgjörðir sínar öðlast alkóhólistinn getuna til að fyrirgefa og vera fyrirgefið (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 58). Við að deila misgjörðunum með öðrum einstaklingi í fimmta sporinu finna margir AA meðlimir í fyrsta skipti fyrir nálægð guðs og finna fyrir því að þeir losni úr fyrri einangrun (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 62). Með sjötta sporinu er tilgangurinn svo að láta guð lækna skapgerðarveilur alkóhólistans og það er gert með því að finna fúsleika til að gera hreint fyrir sínum dyrum og öðlast auðmýkt sem fylgir þeirri skelfilegu útreið sem áfengið hefur veitt þeim (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 64).

Til að guð fyrirgefi syndir AA meðlima verða þeir að leggja sitt af mörkum með því að vera fúsir til að vinna í eigin hag og reyna „að taka framförum í ræktun hugarfarsins“ (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 65). Fyrirgefning er í þessu skyni mikilvæg (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 78) en það getur auðveldað alkóhólistum að fyrirgefa öðrum og tileinka sér umburðarlyndi og náungakærleik við að gera sér grein fyrir að allir menn eru að einhverju leyti sjúkir á geði (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 92). Alkóhólistinn þarf samkvæmt AA að treysta frekar á guð en eigið ágæti og finna auðmjúka þörf fyrir að leita að og gera guðs vilja (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 72). Guði þarf að skipa í æðsta sess en ekki líta á hann sem varaskeifu sem leitað er í þegar erfiðleikar steðja að (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 75). Auðmýktin færir fólk nær guði (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 76) að mati AA og stuðlar að hugarró og æðruleysi auk þess að byggja styrkleika úr veikleika (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 74). Guðsríki er samkvæmt AA æðsti veruleikinn og hugleiðsla er spor út í sólskinið (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 98). Hugleiðsla er samkvæmt AA fyrsta tilraun alkóhólista til andlegra stellinga og er könnunarflug upp í andans ríki (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 101). Hugleiðsla er samkvæmt AA einstaklingsbundið ævintýri með það að markmiði að bæta vitundarsamband við guð, náð, visku og kærleika (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 101). Markmiðið með bættu vitundarsambandi alkóhólistans við guð er að líf hans breytist til hins betra og færi

52 viðkomandi nýja lífsvisku og sameiningarkennd (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 105).

2.6.2 Niðurstöður innihaldsgreiningar á þemanu sambönd Hér verður gerð grein fyrir niðurstöðum innihaldsgreiningarinnar á texta bókarinnar Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur (1981) með hliðsjón af þemanu sambönd. Þemað sambönd byggir á umfjöllun Diener og Biswas-Diener um mikilvægi þess að búa við sterk og styðjandi sambönd (2008). Umræða sem fellur undir þetta þema í greiningu tólf spora leiðbeininganna er til dæmis staðhæfingar um mikilvægi annars fólks, góðra sambanda og viðleitni til þess að bæta eða styrkja sambönd.

Við greiningu textans í Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, kom í ljós að talsverð áhersla er lögð á mikilvægi sambanda. Mestar þjáningar alkóhólista hafa hlotist af erfiðleikum í samböndum og samskiptum þeirra við annað fólk að mati AA (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 53 og 80) og leitast AA samtökin því við að kenna meðlimum sínum rétta umgengni við fólk og draga úr einmanaleika þeirra (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 117). Meðlimir AA leitast einnig við að hughreysta, leiðbeina og deila reynslu sinni með hver öðrum af rósemi, raunsæi, hreinskilni og auðmýkt (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 46).

Erfiðleikarnir í samböndum alkóhólista eru samkvæmt AA tilkomnir vegna þess að alkóhólistar eiga erfitt með tengsl við annað fólk og vilja í eigingirni og sjálfsdýrkun sinni annað hvort ráða yfir öðru fólki eða treysta um of á það (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 53). AA hvetur til þess að alkóhólistar skoði hvar þeir hafa valdið sér og öðrum skaða, hvernig þeir hafa gert það og hversu miklum skaða þeir ullu (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 47). Alkóhólistar hafa að mati AA sjaldnast bætt fyrir misgjörðir sínar gagnvart öðru fólki eða gefið öðrum án þess að krefjast einhvers í staðinn (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 33). Þessi sjálfshyggja skapar samkvæmt AA ótta, reiði, sundrung og ófrið og er sjálfshyggjan „kremjandi ógnvaldur, sem allt leggur í rústir að lokum“ (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 37). Samkvæmt AA eru alkóhólistar sem hafa ekki gert upp fortíð sína gjarnan gagnteknir af beiskju, öfund og hatri og þurfa aðstoð til að greiða úr flækjum í samböndum þeirra við annað fólk (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 39).

53 Mælir AA með því að alkóhólistar deili dýpstu leyndarmálum og mestu skömm sinni með skilningsríkri, trúverðugri, traustri og reyndri manneskju til að losna við einmanaleika og einangrunarkennd sína (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 56). Við það muni alkóhólistarnir í fyrsta skiptið finnast þeir vera hluti af heild sem skilur þá (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 57). Með því að viðurkenna galla sína fyrir skilningsríkri og traustri manneskju markar það upphafið á sönnum tengslum við guð og menn samkvæmt AA (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 58). Með því að deila reikningsskilum fjórða sporsins með öðrum einstaklingi geta alkóhólistar fengið sanna mynd af sér, ráð og leiðsögn auk getunnar til að temja sér „heilbrigða hugsun, traustan heiðarleika og sanna auðmýkt“ (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 59). Við þetta hverfi auk þess uppsafnaðar tilfinningar „jafnskjótt og hulunni er svipt af þeim“ (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 62).

Samkvæmt AA fjallar áttunda og níunda sporið um samskipti við annað fólk. Alkóhólistinn rifjar upp í áttunda reynslusporinu hvenær hann hefur komið illa fram og í því níunda fer hann að bæta fyrir skaða sem hefur komið til vegna árekstra milli eðlishvata hans og annarra (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, 77). Með þessari yfirbót er unninn lokaáfanginn út úr einangruninni sem skilið hefur alkóhólista frá öðru fólki (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, 82).

Samkvæmt AA ber að gæta varúðar í samböndum við aðra þar sem oft þurfi ekki nema eina skammarræðu eða vanhugsaða ásökun til að úr hljótist langvarandi erfiðleikar (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 93). Hvatt er til þess að sýna öllum góðvild, réttsýni, kurteisi og hjálpsemi í stað þess að „bera eigingjarna ást til fárra“ (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 93). Alkóhólistum ber samkvæmt AA að varast að ásaka aðra og líta þess í stað í eigin barm (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 46) en „það gagnar lítt að mæna á flísina í auga náungans“ (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 78). Varar AA við því að alkóhólistar fari að segja öðrum hvernig þeir eiga að lifa (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 119) og AA varar einnig við því að setja algjört traust á aðra manneskju til að veita viðkomandi leiðsögn og vernd (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 43). Þannig tekur AA fram að engin fullorðin manneskja ætti að vera tilfinningalega háð foreldrum sínum (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 38). Bent er á mikilvægi þess að alkóhólistinn

54 taki ábyrgð á eigin lífi, neyði ekki eigin hvatir upp á aðra og geri ekki of miklar kröfur til annarra um tillitssemi, vernd og ást (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 44). Varað er við því að alkóhólistar leyfi sér bresti á borð við slúður um annað fólk (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 67) og mælt með því að gefa öðrum án þess að vænta endurgjalds (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 106).

2.6.3 Niðurstöður innihaldsgreiningar á þemanu jákvæðni Hér verður gerð grein fyrir niðurstöðum innihaldsgreiningarinnar á texta bókarinnar Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur (1981) með hliðsjón af þemanu jákvæðni. Þemað byggir á umfjöllun Diener og Biswas-Diener um mikilvægi þess að sjá björtu hliðarnar á öllum málum, að fólk beini athygli sinni að því sem gengur vel, minnist liðinna atburða í jákvæðu ljósi og að það túlki atburði á sem jákvæðastan máta (2008). Umræða sem fellur undir þetta þema í greiningu tólf spora leiðbeininganna er sú sem varðar það að líta atburði eða upplifanir jákvæðum augum þar sem í flestum tilfellum væri líka hægt að líta sömu hluti neikvæðum augum.

Við greiningu textans kom í ljós að AA hvetur meðlimi sína til að líta suma hluti bjartari augum, eins og hvatt er til í kenningu Diener og Biswas-Diener um sálfræðilegan auð (2008). Til að mynda hvetur AA meðlimi sína til að líta á niðurlæginguna sem felst í að viðurkenna ósigur á alkóhólisma sínum „allt öðrum augum“ (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 21), á þann hátt að með ósigrinum eru stigin fyrstu skref viðkomandi í átt til frelsis og styrks (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 21). Á bls. 26 í sporaleiðbeiningunum (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981) er hvatt til þess að alkóhólistinn taki því með jafnaðargeði, að hann þurfi að trúa á æðri mátt til að vinna bataleið AA og er jafnframt bent á að það sé ekki jafn erfitt og hann heldur, eina sem þurfi er að opna huga sinn af einlægni.

Það er þó varað við því að líta of léttvægt á eigin misgjörðir, á bls. 79 (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981) er hvatt til þess að taka þeim alvarlega og gera ekki lítið úr þeim. Samkvæmt bókinni (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 88) kemur fram tillaga að jákvæðu viðhorfi til sporavinnunnar, að fyrstu níu sporin eru undirbúningur undir ævintýri nýs lífs. Að sama skapi er hvatt til þess að líta á björtu hliðarnar í sjálfsrannsókn alkóhólistanna þar sem þeir eru hvattir til að sjá það góða í eigin gjörðum dags daglega (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 93). Hvatt er

55 til þess að líta á sársauka drykkjuskaparins sem undanfara þess að losna úr viðjum alkóhólisma og að stormur geðshræringa hafi verið undanfari æðruleysisins (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 94). Aðalstefi tólfta sporsins er lýst sem lífsgleði (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 106) sem er óneitanlega jákvæð sýn.

2.6.4 Niðurstöður innihaldsgreiningar á þemanu framtíðarstefna Hér verður gerð grein fyrir niðurstöðum innihaldsgreiningarinnar á texta bókarinnar Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur (1981) með hliðsjón af þemanu framtíðarstefna. Þemað framtíðarstefna byggir á umfjöllun Diener og Biswas-Diener um mikilvægi þess að hafa stefnu í lífinu sem byggir á gildum og mikilvægi þess að vanda ákvarðanir sem snerta framtíðarvelferð viðkomandi (2008). Mikilvægt er samkvæmt kenningunni um sálfræðilegan auð, að hafa verðug markmið sem stefnt er að og að njóta þess að vinna að þeim. Þessi markmið þarf að velja af visku, taka til greina heildarmynd hluta í stað þess að byggja markmiðin á hvatvísi. Tekið er fram að markmið sem fela í sér að fleiri njóti góðs af þeim skili sér frekar í hamingju en þau sem byggja á samkeppni (Diener og Biswas-Diener, 2008). Umræða sem fellur undir þetta þema samkvæmt greiningu höfundar á tólf spora leiðbeiningum AA, er sú sem snertir á merkingu og tilgangi lífsins, markmiðum og ákvarðanatöku.

Við greiningu textans í Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, kom í ljós að talsverð áhersla er lögð á mikilvægi þess að vinna að verðugum markmiðum, finna fyrir lífstilgangi, taka viturlegar ákvarðanir og „flana ekki að neinu“ eins og það er orðað á bls. 86 í Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur (1981). Samkvæmt AA er viðurkenning alkóhólistans á því að geta ekki drukkið áfengi traust bjarg til að byggja hamingjusamt og tilgangsríkt líf á (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 21). Með því að vinna sporin, leggja stöðuga rækt við þau og móta lífsvenjur sínar í samræmi við sporin geta alkóhólistar náð að lifa ánægjulegu, nytsömu og áfengislausu lífi (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 40). Við það að gera sjálfsrannsókn, hugleiðslu og bæn að daglegri venju myndar alkóhólistinn sér „óhagganlegan lífsgrundvöll“ (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 98) að mati AA. Nauðsynlegt er samkvæmt AA að alkóhólistar læri að gefa án þess að ætlast til endurgjalds og treysta á guð til að veita sér innri styrk og frið (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 116).

56 Hvað verðug markmið varðar, telur AA að markmið alkóhólista ætti að vera að stefna að „andlegri og siðferðilegri fullkomnun“ (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 68) en með þeirri stefnu gengur alkóhólistinn „til móts við vilja guðs“ (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 68). Aftur á móti kemur síðar fram í bókinni að markmiðið með sporavinnunni sé „að stefna að framför en ekki fullkomnun“ (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 91). Markmið alkóhólista ætti samkvæmt texta bókarinnar að lifa í fullkomnum friði, samvinnu og bræðralagi við alla menn og konur (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 77).

Samkvæmt AA ætti aldrei að gera það að meginmarkmiði að svala náttúrulegum frumhvötum mannsins (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 70) heldur að huga að skapgerðarrækt og þroska með sér andleg verðmæti (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 71). Dæmi um andleg verðmæti eru heiðarleiki, umburðarlyndi og kærleikur til guðs og manna (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 72) auk fórnfýsi og hugarróar (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 107). Það séu varanleg lífsgildi sem feli í sér sannan lífstilgang mannsins (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 72). Efnisleg gæði og fullnæging líkamlegra þarfa er til þess eins að gera „fólki kleyft að lifa og starfa“ (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls 71) og má ekki vera á kostnað skapgerðarræktarinnar (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 72). Efnishyggjuleg fullnæging samræmist ekki tilgangi lífsins (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 71) samkvæmt AA textanum.

AA telur nauðsynlegt að alkóhólistar treysti á guð og sleppi tökum á ástæðulausum ótta um skort og skuldir, í þeim málum sem varða fjárhag og efnisleg gæða, til að þeir geti lifað æðrulausu og gagnlegu lífi (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 120). Að mati AA ber sérstaklega að varast að taka ákvarðanir út frá eigingjörnum ótta því það skili sér í jafnvægis- og ráðaleysi (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 76).

Með sporavinnunni breytast markmið alkóhólista samkvæmt AA, úr því að vera leit að valdi, frægð, frama, sjálfsáliti, lofi, efnislegum gæðum og að vera fremri öðrum, í að veita þjónustu með glöðu gleði, að standa við gerðar skuldbindingar, sætta sig við eða leysa vanda með guðs hjálp, gefa kærleika af heilum hug og losna undan einangrun og einmanaleika (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 124). Samkvæmt AA

57 eru þetta hinar „varanlegu, lögmætu og sönnu lífsnautnir“ (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 124) og sannur metnaður er það að þrá innilega að lifa gagnlegu lífi og að gangast í auðmýkt undir guðs náð.

Þyngsta prófraunin á sporavinnuna er hvort viðkomandi geti haldið sér ódrukknum, í tilfinningalegu jafnvægi og lifað tilgangsríku líf sama hvað dynur á (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 88). Til að geta tekið framförum í lífinu þarf samkvæmt AA að stunda sjálfsskoðun, viðurkenna það sem hún leiðir í ljós og mæta erfiðleikum með þolinmæði. Með sjálfsrannsókn ætlar AA alkóhólistanum að fá nýja sýn, framtak og náð (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 98), en tilgangur þess að viðurkenna misgjörðir sínar fyrir annarri manneskju er að alkóhólistinn finni að hann sé að stefna í átt að því að lifa „sönnu og tilgangsríku lífi án áfengis“ (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 62). Til að alkóhólistinn geti orðið hamingjusamur telur AA að hann verði að öðlast meiri auðmýkt (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 69) en án auðmýktar muni líf viðkomandi fá „lítt gagnlegan tilgang“ (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 70).

Samkvæmt AA gengur skapgerðarmótun út á að uppgötva, viðurkenna og lagfæra veilur í eigin persónu en afrakstur þess að lagfæra þær er að sofna með góðri samvisku (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 95). Mikilvægt er að iðrast vondra verka, sýna einlægt þakklæti og finna fúsleika til að reyna betur (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 95). AA mælir með því að alkóhólistar sýni ávallt stillingu, leggi heiðarlegt mat á hvers kyns uppákomur, viðurkenni eigin sök í öllum málum og fyrirgefi öðrum þeirra sakir (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 91). Hugleiðslu og bæn er ætlað að veita alkóhólistanum markmið, sefa ótta og veita leiðsögn og fullvissu um að það verði í lagi með viðkomandi (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 105).

Hvað vandaða ákvarðanatöku varðar, mælir AA með því að meðlimir taki ákvörðun um að láta vilja sinn og líf lúta handleiðslu guðs í öllum lífsins málum (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 35). AA telur ekki vænlegt til árangurs að taka ákvarðanir upp á eigin spýtur, sérstaklega í upphafi sporavinnunnar, þar sem gáfur og viljastyrkur alkóhólista nægja ekki til að stjórna lífinu á réttan hátt og tryggja velgengni (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 37). Rétt beiting viljastyrksins sé að taka

58 ákvörðun um að lifa eftir bataleið AA en að mati AA eiga öll vandræði alkóhólista rætur að rekja til þess að beita viljastyrknum ekki rétt (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 40). Þegar hafist er handa við að bæta skaða sem alkóhólistarnir hafa valdið öðrum mælir AA með því að viðhafa góða dómgreind og fara að engu óðslega (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 84). Mælt er með því að bera flókin mál undir félaga eða andlega ráðgjafa (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 86 og bls. 59). Ef guð er beðinn um ráð er mælt með því að biðja um að fá að vita hvað er viðkomandi fyrir bestu og hver vilji guðs sé (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 102) en varast að telja sig fá ráð beint frá guði eða æðri mætti um einstaka mál (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 60).

2.6.5 Niðurstöður innihaldsgreiningar á þemanu fjárhagur og líkamlegar þarfir Hér verður gerð grein fyrir niðurstöðum innihaldsgreiningarinnar á texta bókarinnar Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur (1981) með hliðsjón af þemanu líkamlegar þarfir. Þemað fjárhagur og líkamlegar þarfir byggir á umfjöllun Diener og Biswas-Diener um mikilvægi þess að geta séð sér efnislegan farborða og fullnægt líkamlegum þörfum (2008). Umræða sem fellur undir þetta þema í greiningu tólf spora leiðbeininganna er sú sem snertir á fjármálum og eðlishvötum alkóhólistans.

Við greiningu textans um vinnslu tólf reynslusporanna, kom í ljós að þó AA telur að líkamlegar hvatir og þarfir séu eðlilegar „guðs gjafir“ (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 42) er lögð meiri áhersla á að líkamlegar hvatir geti verið uppspretta mikilla vandræða. Þannig leggur AA mikla áherslu á að setja andlegar þarfir í forgang og varar við því að leggja of mikla áherslu á fullnægingu líkamlegra eðlishvata. AA telur að meginmarkmið lífsins megi ekki vera að svala náttúrulegum frumhvötum, efnisleg gæði og hvatir séu til þess gerðar að gera fólki kleift að lifa og starfa en eiga ekki að vera keppikefli og endanlegt lífstakmark þess (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 70).

Öll reynslusporin krefjast þess að alkóhólistar beiti sér öndvert eðlishvötum sínum og dragi úr sjálfshyggju sinni (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 55) þar sem að lausbeislaðar hvatir eru grundvallarorsök skaðlegrar drykkju (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, 44). Þessar hvatir eru þær sem varða kynlíf, þörfina fyrir félagsskap auk líkamlegs og tilfinningalegs öryggis. AA lýsir hvötunum sem réttmætum og

59 sannkölluðum guðs gjöfum (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 42) en telur að þegar eðlishvatirnar lenda í röngum farvegi valdi þær fólki mikilli óhamingju (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 43) eða nánast öllum þeim alvarlegu tilfinningalegu vandræðum sem til eru (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 42). Mikilvægt er að mati AA að horfast í augu við þessar afleiðingar og það hvernig hegðun alkóhólistans á sviði fjárhagslegs öryggis hefur eyðilagt fyrir honum (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 52). Fjárhagslegt öryggisleysi veldur alkóhólistum hugsýki (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 39) en bataleið AA breytir viðhorfi alkóhólista til peninga og efnislegra gæða svo þeir fara að treysta á guð og sleppa ástæðulausum ótta við skort og skuldir (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 120).

AA viðurkennir að það að eiga fyrir mat sé nauðsynlegt (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 98) og að það geti verið vandasamt að ráða fram úr þeim málum þar sem þörf er á því að bæta fyrir fjárhagslegar misgjörðir ef því fylgir hætta á að missa starfið og þar með fjárhagslegt öryggi í kjölfarið (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 86). AA heldur því þó fram að atvinnutekjur flestra AA manna séu tiltölulega háar (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 114), en mikilvægt er að minnast þess að Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur var fyrst gefin út árið 1953. Rétt viðhorf til peninga samkvæmt AA er að þeir séu þjónn fólks, ekki húsbóndi og séu tæki til að sýna gagnkvæman kærleika og þjónustu (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981, bls. 122).

2.6.6 Niðurstöður innihaldsgreiningar á þemanu meðfæddir eiginleikar Hér verður gerð grein fyrir niðurstöðum innihaldsgreiningarinnar á texta bókarinnar Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur (1981) með hliðsjón af þemanu meðfæddir eiginleikar. Þemað meðfæddir eiginleikar byggir á umfjöllun Diener og Biswas-Diener um áhrif erfða á getu fólks til að upplifa hamingju (2008). Umræða sem fellur undir þetta þema í greiningu tólf spora leiðbeininganna er sú sem snertir á meðfæddum eiginleikum.

Við greiningu textans kom í ljós að hvergi er minnst á meðfædda eiginleika nema í umræðu er varðar meðfæddar eðlishvatir. Gert er grein fyrir þeirri umfjöllun í kafla 2.5.5 Niðurstöður innihaldsgreiningar á þemanu fjárhagur og líkamlegar þarfir.

60 2.7 Samantekt á niðurstöðum samanburðarins Það sem er líkt með leiðbeiningum um vinnslu tólf reynsluspora AA og kenningu Diener og Biswas-Diener, er að bæði reynslusporin og kenningin um sálfræðilegan auð fjalla um hvernig fólk eigi að lifa góðu lífi og hvaða atriði skipti höfuðmáli í þeirri viðleitni að bæta líf og líðan fólks. Bæði bataleið AA og kenning Diener og Biswas-Diener leggja áherslu á svipaða þætti í viðleitninni til að bæta lífið þó ólíkum þáttum sé gert misjafnlega hátt undir höfði.

Greina má í hugmyndafræði þessara tveggja nálgana áherslu á að fólk tileinki sér jákvætt viðhorf til atburða, erfiðleika, lífsins og annars fólks eins og fjallað er um mikilvægi þess að hafa lífstilgang, að byggja breytni á gildum, vinna að markmiðum sem taka til greina hag margra og að vanda til ákvarðana. Ekki er þó fjallað sérstaklega um það að njóta ferlisins samkvæmt hugmyndafræði AA textans eins og kenning Diener og Biswas-Diener (2008) leggur áherslu á.

Báðar nálganir lýsa mikilvægi þess að eiga í góðum samböndum við annað fólk en muninn er helst að finna í því að AA textinn fjallar mun ítarlegar um það hvernig eigi að stuðla að góðum samböndum en bók Diener og Biswas-Diener. AA fjallar að sama skapi meira um það hvernig eigi að rækta andlegar tilfinningar heldur en Diener og Biswas- Diener gera í bók sinni (2008). Báðar umfjallanir eiga það þó sameiginlegt að telja andleg mál og viðhorf til mikilvægra þátta í lífinu.

Báðar nálganir eru sammála því að það sé skaðlegt velferð einstaklingsins að leggja of mikla áherslu á fjárhag en Diener og Biswas-Diener virðast leggja aðeins meiri áherslu á nauðsyn þess að búa við fjárhagslegt öryggi. Á bls. 226 í bók Diener og Biswas- Diener (2008) Happiness, unlocking the mysteries of psychological wealth taka höfundar fram að eins mikið og þeir vildu að þeir gætu eingöngu lagt áherslu á jákvætt viðhorf og andlegan þroska er staðreyndin sú að fólk lifir í efnislegum heimi og til að geta hlúð að líkamlegum þörfum og heilsunni sé nauðsynlegt að eiga peninga (Diener og Biswas- Diener, 2008). AA textinn tekur í sama streng, að nauðsynlegt er að eiga fyrir mat, en tekur jafnframt fram að flestir AA félagar lifa við ágætis kjör og að fjárhagslegt öryggi megi aldrei vera forgangsraðað hærra í lífsins önn en andlegri verðmætasköpun.

Athyglisvert er að Friðarbæn Frans frá Assísí er bæði að finna í Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur (1981) og í bók Diener og Biswas-Diener Happiness, unlocking the

61 mysteries of psychological wealth (2008). Innihald bænarinnar mætti flokka í þemun jákvæðni, framtíðarstefna, sambönd og andleg upplifun, en bænin er svohljóðandi:

Drottinn, ger þú mig að farvegi friðar þíns,

svo að ég færi kærleika þangað sem hatur er,

fyrirgefningu þangað sem móðgun er,

einingu þangað sem sundrung er,

trú þangað sem efi er,

von þangað sem örvænting er,

gleði þangað sem harmur er,

ljós þangað sem skuggi er.

Veit þú, Drottinn,

að ég sækist fremur eftir að hugga en láta huggast,

skilja en njóta skilnings,

elska en vera elskaður,

því að okkur gefst ef við gefum,

við finnum sjálf okkur ef við gleymum okkur sjálfum,

okkur fyrirgefst ef við fyrirgefum

og fyrir dauðann fæðumst við til eilífs lífs.

Amen. (Bústaðarkirkja, e.d.)

Þrátt fyrir að margt sé líkt með áhersluatriðum reynsluspora AA samtakanna og kenningarinnar um sálfræðilegan auð er líka margt ólíkt. Það sem greinir bataleið AA frá kenningu Diener og Biswas-Diener er helst að bataleið AA byggir á sameiginlegri reynslu örfárra einstaklinga meðan að kenning Diener og Biswas-Diener byggir á niðurstöðum

62 þúsunda einstaklinga víðs vegar að úr heiminum, frá ólíkum samfélögum innan sinna landa, sem hafa tekið þátt í rannsóknum á velferð eða hamingju (Diener og Biswas- Diener, 2008).

Reynsluspor AA eru leiðbeiningar um breytta hegðun til betra lífs (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981) meðan að kenning Diener og Biswas-Diener (2008) er það ekki. Kenningin um sálfræðilegan auð veitir ekki ítarlega leiðsögn um hvernig hægt sé að efla eigin hamingju heldur tilgreinir einfaldlega hvaða atriði hafa mest að segja um tilvist hamingjunnar í lífi fólks samkvæmt rannsóknum undanfarinna áratuga (Diener og Biswas-Diener, 2008). Diener og Biswas-Diener gera heldur enga tilraun (2008) til þess að flokka vægi eða forgangsraða þáttunum í kenningu sinni en það gerir AA í sporavinnunni. Samkvæmt AA er mikilvægast að hlúa að andlegum atriðum gegnum sjálfsrannsókn, bæn og hugleiðslu og nauðsynlegt er að þetta sé gert í samvinnu við og í félagsskap annars fólks (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981). Því virðast andlegir þættir og sambönd skipa mikilvægasta sessinn í bataleið AA, en mikilvægi jákvæðs viðhorfs og fjárhagslegs öryggis fær minna vægi í umfjölluninni.

63

3 Félagsráðgjöf

3.1 Umfjöllunarefni þessa kafla Umfjöllun þessa kafla er félagsráðgjöf og velferð. Bornar eru saman áherslur félagsráðgjafar við áherslur úr kenningu Diener og Biswas-Diener (2008) um sálfræðilegan auð sem lýst var ítarlega í fyrsta kafla ritgerðarinnar. Í kaflanum er farið yfir skilgreiningar á félagsráðgjöf og nálgun félagsráðgjafa að því að bæta velferð. Farið er yfir það hvernig félagsráðgjöf lætur sig varða þau atriði sem Diener og Biswas-Diener nefna mikilvæg fyrir velferð folks.

3.2 Hvað er félagsráðgjöf? Á Íslandi eru félagsráðgjafar með lögverndað starfsheiti (Lög um heilbrigðisstarfsmenn nr. 34/2012) og eru því hluti af heilbrigðisstétt landsins. Flestir félagsráðgjafar hérlendis starfa á sviði félagsþjónustu sveitarfélaga, heilbrigðisþjónustu, við fötlunarmál eða við stjórnun og fræðslu (Sigrún Júlíusdóttir, 2004). Félagsráðgjafar vinna að bættri velferð fólks í formi einstaklingsvinnu, fjölskylduvinnu, hópavinnu eða samfélagsvinnu (Thompson, 2009). Til að mega kalla sig félagsráðgjafa þarf að sækja um leyfi til landlæknis en skilyrði fyrir veitingu leyfisins er að hafa lokið MA námi í félagsráðgjöf (Reglugerð um menntun, réttindi og skyldur félagsráðgjafa og skilyrði til að hljóta starfsleyfi og sérfræðileyfi. nr. 1088/2012).

Félagsráðgjöf hefur verið skilgreind af Alþjóðasamtökum félagsráðgjafar (e. International federation of social work, IFSW) sem:

Það fag sem stuðlar að breytingum og lausnum í vandamálum manna og valdeflingu og frelsun fólks til að bæta velferð. Með beitingu kenninga um mannlega hegðun og félagsleg kerfi grípur félagsráðgjöf inn í [líf fólks] á þeim stöðum sem fólk tekst á við umhverfi sitt. Mannréttindi og félagslegt jafnrétti eru grunnatriði í félagsráðgjöf. (Lausleg þýðing höfundar) (Alþjóðasamtök félagsráðgjafar, 2012)

Félagsráðgjöf er launað faglegt starf sem miðar að því að leysa úr vandamálum fólks, hvort sem er barna eða fullorðinna (Oko, 2008). Lausnir félagsráðgjafa geta verið fólgnar í því að veita margvíslega þjónustu, beita íhlutunum, hvetja til virkni og þátttöku

65 skjólstæðinga og getur vinna félagsráðgjafans verið í formi einstaklingsvinnu, hópavinnu eða samfélagsvinnu (Oko, 2008). Meðal þeirra verkefna sem félagsráðgjafar takast á við eru ráðgjöf, fræðsla, rannsóknir og samfélagsvinna en samkvæmt Sigrúnu Júlíusdóttur er markmiðið með félagsráðgjafarstarfinu að vinna að bættri líðan skjólstæðinga auk félagslegs og tilfinningalegs jafnvægis þeirra (Ása Fanney Þorgeirsdóttir, Jóna Eggertsdóttir, Rannveig Gunnarsdóttir, 2008).

Skjólstæðingar félagsráðgjafa eiga það margir hverjir sameiginlegt að glíma við skort, veikindi, fötlun, ofbeldi og búa alla jafna við lítil völd, lítið fjármagn og lítið öryggi (Jones, 2002). Vegna þess hversu flókin og vandmeðfarin sum vandamálin eru er nauðsynlegt að félagsráðgjafar búi yfir víðtækri þekkingu og færni (Trevithick, 2005).

Þar sem félagsráðgjafar gegna gjarnan hlutverki málsvara og gæta réttar skjólstæðinga sinna er mikilvægt að þeir kunni skil á lögum og reglum samfélagsins. Félagsráðgjafar þurfa að auki að þekkja hvaða formlegu og óformlegu bjargráð samfélagið hefur upp á að bjóða. Til að ná þessum markmiðum þurfa félagsráðgjafar að fylgjast með tíðarandanum og mæta síbreytilegum þörfum samfélagsins (Ása Fanney Þorgeirsdóttir, o.fl. 2008).

3.3 Velferð og félagsráðgjöf Markmið félagsráðgjafa er bætt velferð skjólstæðinga sinna samkvæmt siðareglum Alþjóðasamtaka félagsráðgjafa (e. International federation of social workers) (2012) og Samtökum bandarískra félagsráðgjafa (e. National association of social workers) (2008). Samkvæmt Námsstefnu og faglegum stöðlum (e. Educational policy and accreditation standards, EPAS) Alþjóðaráðs um félagsráðgjafarnám (e. Council on social work education, CSWE) stuðla félagsráðgjafar að velferð fólks og samfélaga með því að skoða ávallt aðstæður fólks í samhengi við umhverfi þess. Þeir leitast ávallt við að bera virðingu fyrir fjölbreytileika mannflórunnar og byggja þekkingu sína á vísindalegri athugun. Þeir bæta velferð fólks með því að vinna að félagslegu og efnahagslegu jafnrétti, framgöngu mannréttinda, upprætingu fátæktar og með því að bæta lífskjör fólks (Alþjóðaráð um félagsráðgjafarnám, 2008).

Þó það sé ekki sagt berum orðum í siðareglum íslenskra félagsráðgjafa (Félagsráðgjafafélag Íslands, e.d.a) að velferð sé hið endanlega markmið starfa þeirra

66 má lesa það úr innihaldi þeirra. Samkvæmt siðareglum íslenskra félagsráðgjafa (siðareglurnar má sjá í heild sinni í Viðauka I) er kjarninn í störfum félagsráðgjafa „virðing fyrir manngildi og sérstöðu hvers einstaklings og trú á getu hans til að nýta hæfileika sína til fullnustu“ (Félagsráðgjafafélag Íslands, e.d.a). Áhersla er lögð á lausn vandamála, verndun mannréttinda og mikilvægi félagslegs jafnréttis. Enn fremur er lögð áhersla á að félagsráðgjafar sýni skjólstæðingum sínum ávallt heiðarleika og virðingu án manngreiningarálits og virði ávallt sjálfsákvörðunarrétt og trúnað skjólstæðinga sinna (Félagsráðgjafafélag Íslands, e.d.a). Það má því segja að félagsráðgjafar stuðla að velferð fólks með því að reyna að tryggja að hver einstaklingur njóti virðingar, fái lausn vandamála sinna auk þess að búa við mannréttindi, félagslegt jafnrétti, sjálfsákvörðunarrétt og trúnað um persónuleg mál sín.

3.4 Áherslur á færni félagsráðgjafa Óháð því á hvaða starfsvettvangi félagsráðgjafar starfa er það sameiginlegt með þeim öllum að þeir þurfa að búa yfir víðtækri þekkingu og færni (Thompson, 2009). Vegna þess hversu víðtæka þekkingu félagsráðgjafar þurfa að búa yfir hafa kröfur um nám félagsráðgjafa aukist síðustu ár (Sigrún Júlíusdóttir, 2006). Nám til starfsréttinda í félagsráðgjöf krefst nú fimm ára háskólanáms og er samkvæmt Sigrúnu Júlíusdóttur náminu ætlað að veita:

..traustan almennan undirbúning fyrir ábyrgðarstörf í málefnum sem snerta velferð fólks á ólíkum lífsskeiðum við síbreytilegar aðstæður. Félagsráðgjafar geta hlotið sérhæfingu á sviði félags- og heilbrigðismála og í skóla- og réttarkerfi. Öll þessi svið snerta beint og óbeint velferð barna í fjölskyldunni og í samfélaginu (Háskóli Íslands, e.d.).

Meðal þess sem félagsráðgjafar þurfa að þekkja til eru áhrif ólíkra lífsskeiða á líf fólks og er lögð áhersla á kennslu lífskeiðakenninga í námi félagsráðgjafa (Háskóli Íslands, 2013- 2014a). Þarfir fólks og væntingar þeirra sjálfra sem og annarra til þeirra eru ólíkar eftir því hvar á lífssbrautinni fólk er statt og því mikilvægt að félagsráðgjafar geri sér grein fyrir áhrifum lífsskeiða (Cournoyer, 2010).

67 Það er að sama skapi mikilvægt að félagsráðgjafar þekki til trúar og andlegra málefna, félagslegra ferla og stofnana auk áhrifa valds, ólíkra samskipta og áhrifa umhverfis (Thompson, 2009). Mikilvægi tungumáls og samskipta er hvað augljósast í vinnu með fólki af ólíkum málsvæðum og með fólki sem hefur ekki sama móðurmál (Kadushin og Kadushin, 2013). Mikilvægi tungumálsins er ekki jafn augljóst þegar aðilar tala sama mál en talar hratt, óskýrt eða notar flókin hugtök sem gerir öðrum erfitt um vik að skilja hann. Raddbeiting og líkamstjáning er ekki síður mikilvægt í samskiptum fólks. Áhrif valds getur að sama skapi gleymst en fólki getur reynst erfitt að tjá sig á heiðarlegan og hreinskilinn hátt við einhvern sem hefur völd yfir honum. Að vera á heimavelli innan öryggis eigin heimilis getur haft mikil áhrif á samskipti fólks þar sem skrifstofa félagsráðgjafa getur vakið óöryggiskennd meðal skjólstæðinga (Kadushin og Kadushin, 2013).

Mikilvægt er að félagsráðgjafar búi yfir skipulagsfærni til að tryggja að vinna þeirra sé markviss og fagleg. Þegar markvissum vinnubrögðum félagsráðgjafa er ábótavant er hætt við að starfið verði ófaglegt eða jafnvel skaðlegt skjólstæðingum. Með því að vera ávallt meðvitaðir um það á hvaða stigi mál er statt getur félagsráðgjafi skýrt það fyrir skjólstæðingum sínum og öðrum sem málið varðar. Með stigi máls er átt við hvar í ferli málið er statt, til að mynda má ætla að flest mál hefjist á rannsókn og mati, því næst sé beitt íhlutunaraðferð, málið endurskoðað, því lokið og loks endurmetið (Thompson, 2009).

Ætlast er til þess að félagsráðgjafar búi yfir samskiptafærni og komi fram við skjólstæðinga sína af virðingu (Thompson, 2009). Þar sem félagsráðgjafar glíma við lausn vandamála er hætta á því að þeir gleymi styrkleikum og einblíni á veikleika skjólstæðinga sinna (Nash, Munford og O-Donoghue, 2005), en mikilvægt er að þeir hugi líka að styrkleikum skjólstæðinga hvort sem skjólstæðingurinn er einstaklingur, fjölskylda, hópur eða samfélagið í heild sinni (Thompson, 2009).

Stór hluti félagsráðgjafarstarfsins er að afla upplýsinga, meta þær og gera áætlun um íhlutun og þjónustu. Þessar aðgerðir þarf félagsráðgjafinn að geta gert skipulega af nærgætni, þolinmæði og sjálfsöryggi. Mikilvægt er að félagsráðgjafar hafi innsýn í hlutverk eigin og annarra tilfinninga og kunni að bregðast við þeim. Einnig er mikilvægt að félagsráðgjafar geti sýnt auðmýkt, þrautseigju, komið efni frá sér á skýran og

68 skiljanlegan máta, unnið með öðrum fagaðilum og leyst úr ágreiningsmálum þegar þau koma upp (Trevithick, 2005).

3.5 Kenningarlegar áherslur félagsráðgjafar Félagsráðgjöf byggir starfsaðferðir sínar á fjölmörgum kenningum og hefur hefð skapast fyrir því að þeir blandi saman því besta úr ólíkum kenningum og aðferðum og aðlagi þær að störfum þeirra og þörfum (Farley, Smith og Boyle, 2009). Samkvæmt tíundu grein íslensku siðareglnanna kemur fram að félagsráðgjöfum ber að beita „heildarsýn“ og fræðilegum kenningum í starfi sínu auk þess að byggja það á rannsóknum og starfsreynslu. Tíunda grein siðareglna íslenskra félagsráðgjafa tekur einnig fram að mikilvægt sé að félagsráðgjafar viðhaldi þekkingu sinni, endurnýji hana og fylgist vel með nýjungum í starfi (Félagsráðgjafafélag Íslands, e.d.a). Félagsráðgjafar hafa því siðferðislega og faglega skyldu til að þekkja helstu kenningar fagsins sem samræmast gildum félagsráðgjafa og til að beita þessum kenningum í störfum sínum (Thompson, 2009). Að sama skapi ber þeim að endurnýja þekkingu sína og fylgjast með mikilvægum nýjungum á sviði félagsráðgjafar.

Fagleg heildarsýn (e.holistic view) vísar til þess að félagsráðgjafar leitast við að skoða einstaklinginn ávallt í samhengi við umhverfi sitt með því að greina hin ólíku svið sem hafa áhrif á líf skjólstæðingsins. Með áherslu á að fá heildarsýn á aðstæður skjólstæðinga sinna er því átt við að félagsráðgjafi reyni að fá sem skýrasta mynd af tengslum skjólstæðings við samfélagið í heild sinni (Farley, Smith og Boyle, 2009). Meðal þeirra fræðikenninga sem félagsráðgjafar styðjast við í viðleitni sinni til að öðlast heildarsýn er vistfræðilíkanið (e. ecological approach) og kerfiskenningar (e. Systems theory) sem verður greint frá hér á eftir.

Samkvæmt yfirlýstri námsstefnu og faglegum stöðlum (e. Educational policy and accreditation standards, EPAS) Alþjóðaráðs um félagsráðgjafarnám eru auk þessa sex gildi sameiginleg félagsráðgjöfum sem geta leiðbeint þeim í störfum sínum. Þessi gildi eru mikilvægi þjónustu, félagslegs jafnréttis, virði og gildi hverrar manneskju, mikilvægi sambanda, heilindi, færni, mannréttindi og vísindalegar rannsóknir (Alþjóðaráð um félagsráðgjafarmenntun, 2008).

69 Samkvæmt Teater (2010) ber félagsráðgjöfum að beita kenningum er þeir nálgast, meta og beita íhlutunum eða aðferðum með skjólstæðingum sínum. Þær kenningar sem félagsráðgjafar byggja starf sitt og íhlutanir á koma samkvæmt Teater (2010) úr sálfræði, félagsfræði og félagsráðgjöf en að mati Oko (2008) koma þær helst úr sálfræði, félagsfræði og líffræði.

Hlutverk kenninga er annars vegar að útskýra og auka skilning fólks á aðstæðum eða vandamálum og hins vegar að leiðbeina félagsráðgjöfum um hvaða aðferðir ætti að beita eða hvað best sé að gera til að leysa úr vandamálum eða bæta aðstæður skjólstæðinga (Oko, 2008). Hlutverk kenninga í starfi félagsráðgjafa er að útskýra, sjá fyrir um og meta aðstæður og hegðun (Teater, 2010). Þá leiðbeina kenningar félagsráðgjöfum einnig um hvernig bregðast má við aðstæðum og vandamálum með hliðsjón af einstaklingsbundinni sögu, vandamálum og markmiðum skjólstæðinga. Félagsráðgjafar geta gert það með margvíslegum aðferðum eða nálgunum og geta kenningar leiðbeint félagsráðgjöfum um það hvaða aðferð er líkleg til að vera áhrifarík við gefnar aðstæður til að ljúka verkefnum eða ná markmiðum (Teater, 2010).

Samkvæmt Coulshed og Orme (2006) beita allir félagsráðgjafar kenningum við störf sín að einhverju marki hvort sem þeir eru meðvitaðir um það eða ekki. Þegar félagsráðgjafar byggja störf sín eingöngu á ályktunum eða persónulegri reynslu eiga þeir á hættu að skaða skjólstæðinga sína með ófaglegri vinnu sinni (Oko, 2008)

Helstu kenningar félagsráðgjafar eru samkvæmt Thompson (2009) sálgreiningarmeðferð (e. psychodynamic therapy), sálfélagsleg einstaklingsvinna (e. psychosocial casework), mannúðarsálfræði (e. humanistic psychology), hugræn atferlismeðferð (e. cognitive behavioral therapy), kerfiskenningar (e. systems theory), róttæk félagsráðgjöf (e. radical social work) og frelsandi eða eflandi félagsráðgjöf (e. emancipatory social work). Listinn er ekki tæmandi og byggja félagsráðgjafar á talsvert fleiri kenningum. Engu að síður verður þessum kenningum sem Thompson (2009) nefnir nú stuttlega lýst.

3.5.1 Sálgreining Félagsráðgjafarvinna á grunni sálgreiningar var mjög áhrifarík á seinustu öld og byggði á hugmyndum Freud (Thompson, 2009). Freud taldi að hægt væri að skilja vandamál einstaklinga með því að skoða varnarhætti þeirra. Freud þrískipti persónuleika fólks í

70 frumsjálfið eða „þaðið“ (e. Id), sjálfið (e. Ego) og yfirsjálfið (e. Superego) (Baumeister, Dale og Sommer, 1998). Fólgið í frumsjálfinu eru samkvæmt Freud dýrslegar hvatir, fólgið í yfirsjálfinu er samviskan og gildi samfélagsins og fólgið í sjálfinu er skynsemin. Hlutverk sjálfsins í kenningu Freud er að sætta dýrslega hlutann í sér við samvisku sína. Þessi kenning hafði mikil áhrif á meðferðavinnu fagaðila og hafa varnarhættir verið rannsakaðir og kenningar Freuds þróaðar áfram (Baumeister, Dale og Sommer, 1998). Félagsráðgjafarvinna sem byggir á hugmyndum sálgreiningar leitast við að styrkja sjálf skjólstæðinga sinna til að setja hömlur á kröfur frumsjálfsins. Þessi nálgun á skjólstæðingavinnu er ekki lengur ráðandi en á enn dygga stuðningsmenn úr röðum félagsráðgjafa (Thompson, 2009).

3.5.2 Sálfélagsleg einstaklingsvinna Sálfélagsleg einstaklingsvinna (e. psychosocial casework) félagsráðgjafa er ekki lengur áhrifarík innan félagsráðgjafar en hún byggir á grunni sálgreiningar en bætti við því félagslega (Thompson, 2009). Þessi nálgun leggur áherslu á að greina og skilja tilfinningar og ómeðvitaða þætti sem stýra hegðun fólks. Aðferðin byggir á grunni sálgreiningu Freud en með viðbótum frá kenningu Erikson, tengslakenningu Bowlby og fleiri kennismiða (Frost, 2008). Samkvæmt Frost (2008) hefur þessi aðferð lítt verið notuð undanfarin 30 ár innan félagsráðgjafar.

3.5.3 Mannúðarsálfræði Mannúðarsálfræði, einnig stundum nefnd húmanísk sálfræði (e. Humanistic psychology), leggur áherslu á félagslegar og sálfræðilegar hindranir sem valda vandamálum í lífi fólks (Thompson, 2009). Samkvæmt sjónarhorni mannúðar sálfræðinga er maðurinn góður og hneigist aðeins til hins illa þegar aðstæður valda því að hann getur ekki náð árangri. Hlutverk félagsráðgjafa sem starfa í anda mannúðar er að frelsa fólk undan þessum hindrunum svo þeirra náttúrulega góða sjálf geti náð fram að ganga. Þessi nálgun hefur aldrei verið ráðandi en áhrifa hennar gætir víða innan félagsráðgjafarstéttarinnar (Thompson, 2009). Fjallað var nánar um áherslur mannúðarsálfræði í kafla 1.4.1 Hugmyndafræðilega rætur jákvæðrar sálfræði.

71 3.5.4 Hugræn atferlismeðferð Hugræn atferlismeðferð (e. Cognitive behavior therapy) byggir á atferlisfræðum (e. Behaviorists) og hugrænum (e. Cognitive) nálgunum sálfræðinga (Westbrook, Kennerley og Kirk, 2007). Lögð er áhersla á að breyta hegðun og hugsun skjólstæðinga með aðferðum sem hafa verið þróaðar af sálfræðingum (Nichols, 2013). Vandamál eru metin með tilliti til aðstæðna, hegðunar, hugsana, tilfinninga og líkamlegra einkenna. Samkvæmt hugrænni atferlismeðferð hafa tilfinningar stjórn á hugsun sem hefur áhrif á hegðun. Til að breyta hegðun þarf því að hafa áhrif á hugsanir og tilfinningar (Westbrook o.fl. 2007). Meðal þess sem meðferðaraðilar reyna að gera með hugrænni atferlismeðferð er að leiðrétta ómeðvitaðar rangtúlkanir fólks og neikvæðar hugsanir þess í eigin garð og annarra. Með þessu móti er ætlunin að bæta líðan fólks og breyta túlkun þess á atburðum lífsins. (Beck, Rush, Shaw, og Emery, 1979; Westbrook, Kennerley og Kirk, 2011).

3.5.5 Kerfiskenningar Félagsráðgjafarstarf á grunni kerfiskenninga byggir á þeirri sýn að samfélag sé byggt upp af mörgum kerfum sem vinni saman sem heild og hlutverk félagsráðgjafa er að bæta samskiptin á milli kerfanna (Farley o.fl. 2009). Kerfin hafa innbyrðis áhrif á hvert annað en dæmi um kerfi eru fjölskyldan, vinnustaðurinn, skólar og stofnanir. Fjölskyldumeðferðarvinna byggir að stórum hluta til á kerfiskenningum (Thompson, 2009). Samkvæmt kerfiskenningum er ekki hægt að skilja einn fjölskyldumeðlim nema í samhengi við alla fjölskylduna þar sem hver meðlimur hefur áhrif á hvern annan (Lesse og Pope, 2011). Fjölskyldan er þó ekki eina kerfið sem viðkomandi er hluti af, einstaklingurinn er hluti af starfsstað, ætt og hverfi svo nokkur kerfi séu nefnd. Með því að skilja samskiptin milli kerfa er hægt að grípa inn í þau og breyta til hins betra (Lesse og Pope, 2011).

Vistfræðikenning Bronfenbrenners (e. Ecological systems theory) er kerfiskenning sem leggur áherslu á að skoða fimm kerfi sem kallast nærkerfi (e. microsystem), millikerfi (e. mesosystem), stofnanakerfi (e. exosystem), lýðkerfi (e. macrosystem) og tímakerfi (e. chronosystem). Gott dæmi um nærkerfi er fjölskyldan, millikerfi getur verið vinnustaður eða skóli, stofnanakerfi eru þær félagslegu aðstæður sem einstaklingur býr

72 við, lýðkerfið er til að mynda lagaumhverfi landsins og tímakerfið vísar til þess lífskeiðs sem einstaklingur er á (Bronfenbrenner, 1979).

Kerfiskenningar eru ráðandi nálgun í störfum félagsráðgjafa þar sem þeir nýta sér kenningarnar til að fá skýra mynd af aðstæðum skjólstæðinga sinna (Farley o.fl. 2009).

3.5.6 Róttæk félagsráðgjöf Róttæk félagsráðgjafarvinna (e. Radical social work) spratt upp úr ósætti félagsráðgjafa við þær nálganir sem tóku ekki til greina áhrif félagslegra þátta á borð við stétt, fátækt og skort (Thompson, 2009). Samkvæmt róttækri félagsráðgjöf eiga félagsráðgjafar að berjast fyrir bættu samfélagi og breytingum á kerfinu sem þeir vinna innan (Ferguson og Lavalette, 2007). Þessi nálgun naut mikilla vinsælda frá 1960 til 1980 en nýtur lítillar hylli í dag (Thompson, 2009). Félagsráðgjafar sem unnu í anda þessara kenninga aðstoðuðu skjólstæðinga sína við að verða meðvitaðir um tengsl vandamála þeirra við félagslega og stjórnmálalega þætti svo þeir gætu tekið þátt í að berjast fyrir samfélagslegum breytingum (Thompson, 2009).

3.5.7 Frelsandi og eflandi félagsráðgjöf Frelsandi og eflandi nálgun í félagsráðgjafarstörfum (e. Emancipatiry social work) byggir á hugmyndum róttækrar félagsráðgjafar (e. Radical social work) að því leyti til að lagt er upp úr mikilvægi félagslegra þátta þar sem flestir skjólstæðingar eru líklegir til að verða fyrir einhvers konar fordómum í samfélaginu. Félagsráðgjafar sem starfa í anda frelsandi og eflandi nálgana reyna því að valdefla (e. Empower) skjólstæðinga sína svo þeir geti tekist á við erfiða stöðu sína. Valdeflingu hefur bæði verið lýst sem ferli og íhlutun (Browne, 1995) en markmiðið með valdeflandi nálgun er að styrkja skjólstæðinginn og trú hans á eigin getu (Greene, Lee og Hoffpauir, 2005). Valdeflandi félagsráðgjafarstarf er ætlað að efla sjálfstraust og sjálfsvirðingu skjólstæðinga en með því móti hvetur valdeflandi félagsráðgjafarstarf til styðjandi og uppbyggilegs meðferðarsambands milli skjólstæðings og félagsráðgjafa (Schalock og Verdugo, 2001).

3.5.8 Gagnreyndar aðferðir Þó gagnreyndar aðferðir séu ekki ein nálgun og því ekki með í upptalningu Thompson hafa þær verið mikið til umræðu meðal félagsráðgjafa undanfarin ár (Videka og Goldstein, 2012) og því vert að gera stuttlega grein fyrir þeim. Með gagnreyndum

73 aðferðum er átt við þær aðferðir fagaðila sem byggja á rannsóknum auk faglegrar reynslu (Halldór S. Guðmundsson, Atli Hafþórsson, Hervör Alma Árnadóttir og Sólveig Ása Árnadóttir, 2012). Samkvæmt Halldóri S. Guðmundssyni o.fl. (2012) er nauðsynlegt að félagsráðgjafar leitist við að beita gagnreyndum aðferðum ef þeir vilja tryggja að fagaðilar veiti skjólstæðingum sínum bestu mögulegu aðstoð sem völ er á hverju sinni. Við beitingu gagnreyndra aðferða er byggt á kenningum og bestu þekkingu hvers tíma þó hún sé ekki endanleg eða fullkomin. Gagnreyndar aðferðir taka mið af bestu kenningum hverju sinni og halda áfram að þróast eftir því sem nýrri og betri upplýsingar fræðasamfélagsins berast. Beiting gagnreyndra aðferða er viðleitni til að tryggja gæði starfsaðferða meðal fagaðila og byggir á þeirri trú að rannsóknir geta haft hagnýtt gildi fyrir starfandi félagsráðgjafa (Halldór S. Guðmundsson, o.fl. 2012).

3.5.9 Gagnrýni á kenningarlega nálgun félagsráðgjafa Samkvæmt Goppner og Hamalainen (2007) er helsti ókostur kenningarlegs grunns félagsráðgjafa að litla samfellu er að finna meðal kenninganna sem félagsráðgjafar beita. Þær eru mjög margar og ólíkar án skipulags kerfis (e. systematic structure) og er því þekkingargrunnurinn í mörgum bútum. Gerðar hafa verið tilraunir til þess að koma á sameinaðri kenningu (e. integrated theory) en það hefur ekki tekist sem skyldi og telja Goppner og Hamalainen (2007) því mikilvægt að í stað þess að byggja störf sín á kenningum annarra faggreina þurfi kenningar félagsráðgjafa að spretta upp úr rannsóknum félagsráðgjafa sjálfra. Með lengingu félagsráðgjafarnáms hefur rannsóknum félagsráðgjafa fjölgað og því ekki útilokað að með tímanum þróist fagið í þá átt sem Goppner og Hamalainen (2007) telja æskilegast.

3.6 Hvað er líkt og ólíkt með nálgun félagsráðgjafar og kenningu Diener og Biswas-Diener til bættrar velferðar? Eins og fram kemur í umfjölluninni hér á undan mynda fjölmargar kenningar grunn að hugmyndafræði og aðferðum félagsráðgjafa. Þá eru ótaldar allar þær aðferðir sem félagsráðgjafar beita í vinnu sinni, til að mynda fjölskyldumeðferð, frásagnarnálgun, lausnarmiðuð nálgun, notendasamráð svo fáein dæmi séu nefnd. Hægt er að finna samhljóm með mörgum aðferðum þeirra og áhersluatriðum í kenningu Diener og Biswas-Diener. Dæmi um það er að félagsráðgjafar vinna „að lausn félagslegra og

74 persónulegra vandamála og sporna við félagslegu ranglæti“ (Félagsráðgjafafélag Íslands, e.d.a) sem getur falið í sér öll áhersluatriði Diener og Biswas-Diener (2008). Það sem af er þessum kafla verður fjallað hvort og hvernig félagsráðgjafar nálgast þá sjö þætti sem Diener og Biswas-Diener tilgreina sem mikilvæga velferð fólks.

Áhersluþættir Diener og Biswas-Diener (2008) eru eins og tilgreint var í fyrsta og öðrum kafla ritgerðarinnar 1) tilhneiging fólks til að sjá það jákvæða í aðstæðum og atburðum, 2) tilvist styðjandi og sterkra sambanda, 3) vandaðar ákvarðanir, 4) lífsstefna og lífstilgangur, 5) andleg viðhorf og upplifun, 6) lágmarks fjárhagur og að fá líkamlegum þörfum sinnt auk 7) ákveðinna meðfæddra eiginleika. Hér á eftir er vikið að tengslum félagsráðgjafar við þessa þætti en andlegum málefnum og lífstilgangi var skeytt saman í eitt í umfjölluninni þar sem gildi, lífstilgangur, trú og andleg málefni eru oft nátengd atriði í lífi fólks.

3.6.1 Viðhorf skjólstæðinga Diener og Biswas-Diener (2008) benda á það í bók sinni Happiness: unlocking the mysteries of psychological wealth að rannsóknir benda til þess að jákvætt viðhorf hafi fylgni við bætta velferð fólks. Þeir telja því mikilvægt að fólk reyni að túlka liðna, líðandi og ókomna atburði lífsins í jákvæðu ljósi (Diener og Biswas-Diener, 2008). Félagsráðgjafar leggja áherslu á að nálgast viðhorf skjólstæðinga sína af virðingu og heiðarleika eins og sjá má í siðareglum þeirra (Félagsráðgjafafélag Íslands, e.d.a). Félagsráðgjafar leggja mikla áherslu á að koma á traustu meðferðarsambandi við skjólstæðinga sína með því að mæta þeim þar sem þeir eru staddir og sýna viðhorfum, skoðunum og tilfinningum þeirra ávallt virðingu (Guðbjörg Hermannsdóttir og Svava Stefánsdóttir, 2006).

Rannsóknir benda til þess að traust meðferðarsamband sé mjög mikilvægt til að meðferð skili árangri (Duncan, Miller, Wampold og Hubble, 2010) og „eru breytingar á viðhorfum hugsunum og hegðunum undir áhrifum meðferðarsambands félagsráðgjafans og skjólstæðingsins” (Farley, Smith og Boyle, 2009, bls. 65). Til þess að skapa traust meðferðarsamband telja félagsráðgjafar mikilvægt að sýna skjólstæðingum hlýtt viðmót og reyna ekki að ná fram breytingum án þeirra vilja og áhuga (Kadushin og Kadushin, 2013).

75 Af þeim aðferðum sem félagsráðgjafar beita má nefna tvær sem leggja sérstaka áherslu á að draga fram jákvæða sýn fólks en það eru frásagnaraðferðir (e. Narrative method) og lausnarmiðuð meðferð (e. Solution-focused therapy). Frásagnaraðferðir byggja á því að fá skjólstæðinga til að segja frá vandamálum sínum og skapa nýja merkingu og raunveruleika upp úr þeim (Freeman, Epston og Lobovits, 1997). Með því að eiga í samræðum um vandamálin er hægt að þróa frásögnina í átt að sögu sem vekur von í stað vonleysis (Nichols, 2013). Þannig eru skjólstæðingar hvattir til þess að sjá vandamálið ekki sem hluta af þeirra sjálfsmynd heldur sem eitthvað sem þeir eru að takast við á ákveðnum tímapunkti í sínu lífi (Nichols, 2013). Félagsráðgjafar sem beita lausnarmiðaðri meðferðarnálgun leggja áherslu á að vinna með það sem vel gengur og það sem jákvætt er í fari og lífi skjólstæðinga sinna (Nichols, 2013). Þessi nálgun gengur út á að ekki sé nauðsynlegt að skilja orsakir vandamála og að fólk er fært um að leysa úr vandamálum sínum ef það leysir úr neikvæðri afstöðu til aðsteðjandi vanda eða neikvæðu viðhorfi sínu gagnvart því (Nichols, 2013). Af þessum tveimur nálgunum sem félagsráðgjafar beita í störfum sínum er ljóst að félagsráðgjafar vinna með viðhorf skjólstæðinga sinna og telja mikilvægt að þróa jákvætt viðhorf í garð vandamála.

3.6.2 Mikilvægi sterkra og styðjandi sambanda Samkvæmt kenningu Diener og Biswas-Diener (2008) eru sambönd mikilvæg velferð fólks og þá sér í lagi sterk og styðjandi sambönd. Þessu eru félagsráðgjafar sammála enda eitt af kjarnaatriðum í hugmyndum og aðferðum félagsráðgjafa eins og farið verður yfir hér á eftir. Skilgreining Alþjóðasamtaka félagsráðgjafa (2012) á félagsráðgjöf tekur fram að félagsráðgjöf grípur inn í líf fólks á þeim stöðum sem fólk tekst á við umhverfi sitt og tekur Alþjóðaráð um félagsráðgjafarmenntun sérstaklega fram að meðal gilda félagsráðgjafa er mikilvægi sambanda (2008). Samkvæmt Farley, Smith og Boyle (2009) er lögð megin áhersla í starfi félagsráðgjafar á „að draga úr vandamálum í mannlegum samböndum og á að bæta líf [fólks] með bættum mannlegum samskiptum“. Félagsráðgjöf leggur áherslu á að vinna með persónulega og félagslega þætti í lífi

76 skjólstæðinga sinna og reynir að aðstoða skjólstæðinga sína við að leysa úr vandamálum í samböndum sínum og í þeim vandamálum sem upp koma í samskiptum þeirra (Thompson, 2009). Mikilvægi sterkra og styðjandi sambanda endurspeglast einnig í áherslu félagsráðgjafa á traustu meðferðarsambandi við skjólstæðinga sína (Kadushin og Kadushin, 2013). Félagsráðgjöf hefur stundum verið aðgreind frá sálfræði eða geðlæknisfræði vegna áherslu hennar á að sjá einstaklinginn ætíð í samhengi við félagslegt umhverfi sitt í stað þess að einblína á innri þætti hvort sem það eru hugarfarslegir þættir eða líkamlegir (Farley, Smith og Boyle, 2009). Af þessari áherslu félagsráðgjafa á félagslega þætti má sjá hversu mikil áhersla er lögð á sambönd fólks í störfum félagsráðgjafa.

3.6.3 Nálgun félagsráðgjafa á ákvarðanatöku í vinnu með skjólstæðingum Diener og Biswas-Diener (2008) benda á það í kenningu sinni að ákvarðanir fólks geta haft mikið um velferð þess að segja. Samkvæmt siðareglum Alþjóðasamtaka félagsráðgjafa (2012) er sérstaklega tekið fram að mikilvægt sé að virða sjálfsákvörðunarrétt fólks. Félagsráðgjöfum ber að virða og vernda rétt fólks til að taka eigin ákvarðanir óháð gildum og lífsstíl þess svo lengi sem það skaðar ekki aðra (Alþjóðasamtök félagsráðgjafa, 2012). Samkvæmt Freddolino, Moxley og Hyduk (2004) geta þó verið undantekningar á því að sjálfsákvörðunarréttur sé virtur til að mynda í þeim tilvikum þar sem einstaklingar eru ófærir um það og þeim eða öðrum stafar hætta af því. Getur þá komið í hlut félagsráðgjafa að gegna hlutverki málsvara einstaklinganna (Freddolino, Moxley og Hyduk, 2004). Þetta getur til að mynda átt við um mjög fatlaða einstaklinga og er þá mikilvægt að sá sem fer með ákvarðanavald fyrir einstaklinginn gæti þess að vernda viðkomandi fyrir líkamlegri, fjárhagslegri eða tilfinningalegri misnotkun (Freddolino, Moxley og Hyduk, 2004). Almennt er þó lagt mikið upp úr „notendasamráði“ í nálgun félagsráðgjafa til ákvarðana sem varða skjólstæðinga sína, en sú nálgun kveður á um mikilvægi þess að hvetja til virkrar þátttöku og ákvarðana skjólstæðinga um þá hluti sem varða þeirra líf (Popple, 1995). Er þetta einnig nátengt valdeflingu skjólstæðinga sem er sú áhersla innan félagsráðgjafar á að efla og styrkja skjólstæðinga í að nýta styrkleika sína til lausnar á eigin vandamálum og finna til eigin getu (Greene, Lee og Hoffpauir, 2005).

77 3.6.4 Lífstilgangur og andleg viðhorf Samkvæmt kenningu Diener og Biswas-Diener hafa andleg viðhorf og lífstilgangur fólks áhrif á velferð þess. Sem fræðigrein byggir félagsráðgjöf þekkingu sína á vísindalegum grunni (Hoyt, 2008). Það er þó engin ein skilgreining á andlegum viðhorfum eða lífstilgangi innan félagsráðgjafar (Barker og Floersch, 2010).) Barker og Floersch (2010) gerðu rannsókn á viðhorfi og skilgreiningum félagsráðgjafa á því hvað væri andlegt (e. Spiritual) og var það almennt álit þeirra að erfitt væri að skilgreina hugtakið en það væri jafnframt mikilvægt að velta því fyrir sér. Hugtakið er nátengt trú (e. Religion) en þó ekki samheiti þar sem hægt er að hafa andlegar þarfir án þess að þær séu trúarlegar. Við vinnu með skjólstæðingum sínum töldu þátttakendur rannsóknarinnar mikilvægt að nálgast andleg málefni og trú út frá gildum félagsráðgjafar auk þess að mæta skjólstæðingum þar sem þeir væru staddir. Samkvæmt Barton, Grudzen og Zielske (2003) er andlegt viðhorf (e. Spirituality) það sem færir lífinu merkingu og það sem mótar gildi fólks. Voru þátttakendur í rannsókn Barker og Floersch (2010) sammála því að hægt er að skilgreina andleg málefni út frá lífsmerkingu og gildum en þeir tóku einnig fram að skilgreining andlegra málefna tengist einnig skoðunum, tengingu, menningarlegum þáttum, guði, von, ást og náttúru. Félagsráðgjafar leggja almennt áherslu á að nálgast viðhorf skjólstæðinga sinna af virðingu og heiðarleika eins og tilgreint er í siðareglum þeirra (Félagsráðgjafafélag Íslands, e.d.a). Félagsráðgjafar leggja áherslu á að virða ólík trúarbrögð og lífsviðhorf skjólstæðinga sinna og hafa í huga þarfir minnihlutahópa sem koma oft frá öðrum menningarheimum með ólíkum trúarbrögðum og trúarlegum siðum (Farley, Smith og Boyle, 2009). Hefur Ísland ekki farið varhluta af þessari þróun og var stofnað fagráð innan Félagsráðgjafafélags Íslands árið 2011 sem lætur sig sérstaklega varða málefni fjölmenningar (Félagsráðgjafafélag Íslands, e.d.b).

3.6.5 Fjárhagur og líkamlegar þarfir Diener og Biswas-Diener (2008) benda á það í kenningu sinni að fjárhagur og fullnæging líkamlegra þarfa er mikilvæg velferð fólks. Sögulegar rætur félagsráðgjafar má rekja til fátækraraðstoðar og er því löng hefð fyrir því að félagsráðgjafar láti sig fátækt og líkamlegar þarfir varða (Farley o.fl. 2009). Þessi áhersla er enn ríkjandi í félagsráðgjöf (Ferguson og Lavalette, 2007) og sættu félagsráðgjafar sem störfuðu með efnaðri

78 samfélagsmeðlimum mikilli gagnrýni um miðbik síðustu aldar á grunni þess að þeir væru að skorast undan skyldu félagsráðgjafa að sinna þeim sem minna mega sín (Epple, 2007). Siðareglur íslenskra félagsráðgjafa leggja sérstaka áherslu á að sporna við félagslegu ranglæti (Félagsráðgjafafélag Íslands, e.d.a) og siðareglur Alþjóðasamtaka félagsráðgjafa (2012) tilgreina mikilvægi þess að félagsráðgjafar láti sig alla samfélagslega mismunun og óréttlæti varða, þar með talið óréttláta dreifingu auðlinda. Það er því ljóst að fátækt og fjárhagslegt öryggi skjólstæðinga er félagsráðgjöfum mjög mikilvægt málefni.

3.6.6 Áhrif erfða Samkvæmt kenningu Diener og Biswas-Diener (2008) hafa erfðir áhrif á velferð fólks. Þrátt fyrir að persónuleiki og ýmsir kvillar eru bundnir erfðum leggja Diener og Biswas- Diener þó áherslu á að talsvert megi gera til að bæta velferð fólks þrátt fyrir að ekki sé hægt að hafa áhrif á alla áhrifaþætti velferðar (2008).

Félagsráðgjafar eru meðvitaðir um mikilvægi líkamlegra og erfðra þátta og styðjast við kerfiskenningar og vistfræðilíkan (e. Ecological model) Bronfenbrenners við vinnu sína með skjólstæðingum sínum (Farley o.fl. 2009). Samkvæmt vistfræðilíkaninu og kerfiskenningunum skoðar félagsráðgjafi bæði innri og ytri þætti í fari skjólstæðinga, og hefur í huga að ýmsir líkamlegir kvillar geta verið orsök vandamála. Til að mynda taka Farley o.fl. (2009) dæmi, í bók sinni Introduction to social work, af barni sem á við hegðunarvanda að stríða vegna ógreindrar lesblindu. Vegna lesörðugleikanna gat barnið ekki staðist væntingar kennara og foreldra svo úr urðu átök og vandamál.

Meðal þess sem kennt er í félagsráðgjafarnámi til starfsréttinda í Háskóla Íslands (2013-2014b) er greining geðrænna vandkvæða en til orsaka geðrænna vandkvæða teljast ýmsir erfðir þættir. Af þessu má sjá að félagsráðgjafar eru meðvitaðir um áhrif erfðaþátta og taka áhrif þeirra til greina við störf sín með skjólstæðingum sínum.

3.6.7 Niðurstaða samanburðar Af ofangreindum samanburði að dæma er ljóst að félagsráðgjöf sem fag lætur sig varða alla sömu þætti og nefndir eru mikilvægir velferð fólks í kenningu Diener og Biswas- Diener. Má greina í kenningum, aðferðum og siðareglum félagsáðgjafa áherslu á að huga að viðhorfi fólks og mikilvægis þess að fólk sjái það jákvæða í aðstæðum og

79 atburðum. Þó leggja félagsráðgjafar áherslu á að sýna ólíkum viðhorfum virðingu og gera sér grein fyrir því að til að nokkuð breytist hjá skjólstæðingum þeirra í kjölfar vinnu þeirra með þeim er nauðsynlegt að skapa gott og traust meðferðarsamband. Það sama á við um lífsstefnu fólks og andleg viðhorf, félagsráðgjafar telja mikilvægt að virða sjálfsákvarðanarétt, viðhorf og skoðanir skjólstæðinga sinna. Félagsráðgjafar leggja áherslu á að huga að samböndum skjólstæðinga sinna við umhverfi sitt og annað fólk og reyna að styðja þá í töku vandaðra ákvarðana. Sögulega hefur félagsráðgjöf barist fyrir mannréttindum og hefur unnið mikið með fátækum, fötluðum og öðrum sem búa við einhvers konar erfiðleika og leggur félagsráðgjöf mikla áherslu á að bæta kjör þeirra.

3.7 Samantekt á efni þriðja kafla Þriðji kafli fjallar um félagsráðgjöf, hvað felst í starfi félagsráðgjafa og hverjar eru áherslur fræðigreinarinnar. Um er að ræða heilbrigðisstarf sem hefur að markmiði að stuðla að velferð fólks og samfélaga (Alþjóðasamtök félagsráðgjafa, 2012). Félagsráðgjafar vinna að velferð fólks á fjölbreytta vegu, til að mynda með einstaklingsvinnu, hópavinnu eða samfélagsvinnu (Farley o.fl. 2009). Félagsráðgjafar leggja áherslu á að stuðla „að lausn félagslegra og persónulegra vandamála og sporna við félagslegu ranglæti“ (Félagsráðgjafafélag Íslands, e.d.a) en til þess að geta það þurfa þeir að þróa með sér fjölbreytta færni og viðamikla þekkingu á samfélaginu og hinum fjölmörgu úrræðum sem það hefur upp á að bjóða (Thompson, 2009). Við samanburð á áhersluþáttum Diener og Biswas-Diener (2008) og áhersluþáttum félagsráðgjafar er ljóst að félagsráðgjafar taka alla þættina til greina í vinnu sinni að lausnum vandamála skjólstæðinga sinna.

80 4 Umræða og lokaorð Markmið þessarar rannsóknar var að gera grein fyrir því hvað felst í velferð og bera saman nálgun jákvæðrar sálfræði, AA sjálfshjálparsamtakanna og félagsráðgjafar til bættrar velferðar. Með því að taka til umfjöllunar þrjú ólík sjónarhorn var ætlunin að veita dýpri skilning og innsýn inn í hvað felst í hugtakinu velferð en fengist hefði með því að fjalla aðeins um eitt eða tvö sjónarhornanna.

Tilgangur þess að taka velferð fólks til rannsóknar var að veita félagsráðgjöfum sem og öðrum áhugasömum lesendum yfirlit yfir hvað felst í vísindalegri þekkingu manna á velferð og hvaða þættir hafa helst áhrif á hana.

Þar sem sálfræði hefur nýlega stofnað sérgrein, jákvæða sálfræði, sem hefur að meginmarki að rannsaka og efla velferð og hamingju fólks var sagt frá tilurð sérgreinarinnar, hugmyndafræði hennar og nokkrum nýlegum kenningum hennar. Kenning Diener og Biswas- Diener um sálfræðilegan auð var tekin til ítarlegrar skoðunar en samkvæmt henni eru mikilvægustu áhrifaþættir hamingjunnar 1) tilhneiging fólks til að sjá það jákvæða í aðstæðum og atburðum, 2) tilvist styðjandi og sterkra sambanda, 3) vandaðar ákvarðanir, 4) lífsstefna og lífstilgangur, 5) andleg viðhorf og upplifun, 6) lágmarks fjárhagur og að fá líkamlegum þörfum sinnt 7) tilvist ákveðinna meðfæddra eiginleika (Diener og Biswas- Diener, 2008). Þessir sjö þættir í kenningu Diener og Biswas-Diener voru bornir saman við nálgun AA samtakanna til að ná bata frá alkóhólisma sem byggir á því að alkóhólistar vinni tólf reynsluspor samtakanna. AA samtökin voru stofnuð árið 1935 (Kurtz, 1979) og eru ein stærstu sjálfshjálparsamtök heims (O'Connor og Schottenfeld, 1998). Áhrifa þeirra gætir víða hérlendis og því mikilvægt að fagaðilar þekki til þeirra aðferða sem samtökin beita. Samanburðurinn á áhersluþáttum Diener og Biswas-Diener og bataleiðar AA leiddi í ljós að áhersluþætti Diener og Biswas-Diener má finna víða í leiðbeiningum um vinnslu reynslusporanna í bók AA samtakanna Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur (1981). Nálgun AA samtakanna leggur mikla áherslu á andleg málefni og sambönd. Nokkur áhersla er að sama skapi lögð á viðhorf og lífstilgang en minni áhersla er lögð á mikilvægi fjárhagslegs öryggis og ekkert er minnst á áhrif erfða í bataleið AA.

81 Að loknum samanburði á kenningu Diener og Biswas-Diener og bataleiðar AA samtakanna var litið til félagsráðgjafar. Félagsráðgjöf er heilbrigðisstarf sem krefst fimm ára háskólamenntunar og byggir á mannréttindasjónarmiðum auk fjölmargra fræðikenninga (Félagsráðgjafafélag Íslands, e.d.a). Markmiðið með störfum félagsráðgjafa er að stuðla að velferð fólks og samfélaga en það er gert með ýmsu móti, til að mynda með einstaklingsvinnu, hópavinnu og samfélagsvinnu (Farley o.fl. 2009). Til að bera saman nálgun Diener og Biswas-Diener við nálgun félagsráðgjafar og því að bæta velferð var litið til helstu kenninga og aðferða sem félagsráðgjafar beita í störfum sínum. Yfirferð á kenningum, aðferðum og siðareglum félagsráðgjafa leiddi í ljós að félagsráðgjafar telja mikilvægt að huga að öllum sömu þáttum og tilgreindir eru í kenningu Diener og Biswas-Diener. Það liggur því fyrir að þeir þættir sem jákvæð sálfræði, AA sjálfshjálparsamtökin og félagsráðgjöf telja mikilvæga velferð fólks eru þeir sömu, þó með þeirri undantekningu að AA samtökin virðast ekki taka til umfjöllunar áhrif erfða í leiðbeiningum þeirra til að ná bata frá alkóhólisma (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981). Meðal helstu veikleika rannsóknarinnar má nefna skort á öðrum greinanda fyrir innihaldsgreiningu á leiðbeiningum AA textans en samkvæmt Neuman (2006) er ákjósanlegast að bera saman greiningu tveggja eða fleiri greinenda þegar aðferðum innihaldsgreiningar er beitt. Þar sem samanburðurinn milli kenningar Diener og Biswas- Diener (2008) og leiðbeininga AA samtakanna um vinnslu reynslusporanna (Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur, 1981) byggði á eigindlegri innihaldsgreiningu er ekki hægt að alhæfa um niðurstöðurnar þar sem þær og val á þemum byggði á túlkun rannsakanda (Neuman, 2006). Að sama skapi hefði verið æskilegt að innihaldsgreina leiðbeiningar AA bókar AA samtakanna í stað þess að innihaldsgreina eingöngu bók samtakanna Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur. Þá hefði einnig verið áhugavert að gera grein fyrir rannsóknum á árangri AA samtakanna til að bæta velferð meðlima sinna og að gera grein fyrir þeirri gagnrýni sem samtökin hafa sætt.

Með því að fjalla um þrjú ólík svið, það er að segja jákvæða sálfræði, AA sjálfshjálparsamtökin og félagsráðgjöf, var ekki mögulegt að fjalla jafn ítarlega um hvert og eitt sviðanna eins og ef aðeins eitt þeirra hefði verið tekið fyrir. Með því að fjalla um þrjú svið í stað aðeins eins veittist lesendum þó víðara sjónarhorn á málefnið.

Einn helsti styrkleiki rannsóknarinnar er að lögð var mikil áhersla á að finna nýjustu kenningar og rannsóknir sem völ var á, sér í lagi á sviði jákvæðrar sálfræði. Jákvæð sálfræði

82 er í mjög örum vexti og kenningarnar sem kynntar voru í fyrsta kafla aðeins nokkurra ára gamlar. Gallinn við að styðjast við svo nýtt efni reyndist þó vera að litla sem enga gagnrýni var að finna á nýjustu kenningarnar. Aðeins fannst gagnrýni á velferðarkenningu Seligman en hún var fyrst sett fram árið 2002 í bókinni Authentic Happiness og endurbætt útgáfa svo birt árið 2011 í bókinni Flourish.

Það sem var áhugavert við niðurstöður rannsóknarinnar var að þrátt fyrir að kenning Diener og Biswas-Diener, bataleið AA samtakanna og hugmyndafræði félagsráðgjafa spratt upp úr mjög ólíkum jarðvegi virðast nálganir þeirra á að bæta líf fólks eiga það sameiginlegt að telja sambönd, viðhorf, lífsstefnu, fjárhag og andleg málefni mikilvæg.

Rannsóknarniðurstöðurnar gætu haft hagnýtt gildi fyrir þá félagsráðgjafa sem vinna með einstaklingum sem eru meðlimir í AA samtökunum eða samtökum sem byggja á hugmyndafræði þeirra. Fyrir þá félagsráðgjafa sem þekkja lítið til aðferða og hugmyndafræði AA samtakanna gæti samanburðurinn og yfirlitið yfir starf AA samtakanna eflt þá og styrkt í starfi sínu með því að stuðla að aukinni þekkingu þeirra og auknum skilningi þeirra á því sem er líkt og ólíkt með aðferðum og nálgunum AA og félagsráðgjafa.

Það sama á við um samantekt ritgerðarinnar á rannsóknum á hamingjunni. Markmiðið með starfi félagsráðgjafa er að bæta velferð fólks (Alþjóðasamtök félagsráðgjafa, 2012) og siðareglur félagsráðgjafa kveða á um að félagsráðgjafar skuli byggja þekkingu sína á niðurstöðum rannsókna og kynna sér nýjungar í fræðunum (Félagsráðgjafafélag Íslands, e.d.). Það er því er óhætt að fullyrða að mikilvægt sé að félagsráðgjafar viðhaldi vísindalegri þekkingu sinni á velferð. Þessi ritgerð veitir innsýn í stöðu vísindalegrar þekkingar manna á velferð og getur þar af leiðandi haft hagnýtt gildi fyrir félagsráðgjafa og aðra sem vilja dýpka skilning sinn á hamingju, velferð og sálfræðilegum auði.

______Lora Elín Einarsdóttir

83

85

Heimildaskrá

AA samtökin á Íslandi. (2007a). Velkomin á heimasíðu AA samtakanna. Sótt 10.október 2013 af http://aa.is AA samtökin á Íslandi. (2007b). AA í samfélaginu. Sótt 10.október 2013 af http://aa.is/pages.php?idpage=337 AA samtökin á Íslandi. (2007c). Hvað er AA? Sótt 10.október 2013 af http://aa.is/pages.php?idpage=336 AA samtökin á Íslandi. (2007d). Grundvöllur AA samtakanna eru tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur. Sótt 10.október 2013 af http://aa.is/pages.php?idpage=10236 Adegbola, M. A. (2007). The relationship among spirituality, self-efficacy, and quality of life in adults with sickle cell disease. Óbirt lokaritgerð: Háskólinn í Texas, Arlington. Akhtar, S. (2010). Happiness: Origins, forms, and technical relevance. American Journal of Psychoanalysis, 70(3), 219-44. doi:http://dx.doi.org/10.1057/ajp.2010.13 Alanó klúbburinn. (2013). 12 spora samtök á Íslandi. Sótt 12.október 2013 af http://www.alano.is/?page_id=10 Albuquerque, I., de Lima, M. P., Matos, M. og Figueiredo, C. (2013). The interplay among levels of personality: The mediator effect of personal projects between the big five and subjective well-being. Journal of Happiness Studies, 14(1), 235-250. doi:http://dx.doi.org/10.1007/s10902-012-9326-6 Alloy, L., Abramson, L. og Chiara, A. (2000). On the mechanisms by which optimism promotes positive mental and physical health. Í J. Gillham (ritstjóri), The science of optimism and hope: Research essays in honor of Martin E.P. Seligman (bls. 201-212). Philadelphia: Templeton Foundation Press. Altheide, D. L. (1987). Ethnographic content analysis. Qualitative Sociology, 10, 65-77. Alþjóðasamtök félagsráðgjafa. (2012). Statement of ethical principles. Sótt 28.október 2013 af http://ifsw.org/policies/statement-of-ethical-principles/ Amazon. (e.d.). Happiness: unlocking the mysteries of psychological wealth. Sótt 5.nóv 2013 af http://www.amazon.com/Happiness-Unlocking-Mysteries-Psychological- Wealth/dp/1405146613 Ása Fanney Þorgeirsdóttir, Jóna Eggertsdóttir, Rannveig Gunnarsdóttir. (2008). Ágrip af sögu Stéttarfélags íslenskra félagsráðgjafa. Í Rannveig Gunnarsdóttir, Anna S. Jónsdóttir, Sigurrós Sigurðardóttir (ritstjórar), Félagsráðgjafatal (bls. 11-48). Reykjavík: Félagsráðgjafafélag Íslands. Barker, S. L. og Floersch, J. E. (2010). Practicioners’ understandings of spirituality: Implications for social work education. Journal of Social Work Education, 46(3), 357-370. Basabe, N., Paez, D. og Valencia, J. (2002). Cultural dimensions, socio-economic development, climate and emotional hedonic level. Cognition and Emotion, 16, 103–126.

87 Baumeister, R.F., Bratslavsky, E., Finkenauer, C. og Vohs, K.D. (2001). Bad is stronger than good. Review of General Psychology, 5(4), 323-70. Baumeister, R. F., Dale, K. og Sommer, K. L. (1998). Freudian defense mechanisms and empirical findings in modern social psychology: reaction formation, projection, displacement, undoing, isolation, sublimation, and denial. Journal of Personality, 66(6), 1081-1124. Beck, A.T. (1976). Cognitive therapy and emotional disorders. New York: International Universities Press. Beck, A. T., Rush, A. J., Shaw, B. F. og Emery, G. (1979). Cognitive therapy of depression. New York: The Guilford Press. Ben-Shahar, T. (2009). Meiri hamingja: Leyndardómur gleði og varanlegrar lífsfyllingar. Reykjavík: Undur og Stórmerki. Berkman, B. (1996). The emerging health care world: Implications for social work practice and education. Social Work, 41(5), 541-51. Berkman, L. F. (1995). The role of social relations in health promotion. Psychosomatic Medicine, 57, 245-254. Bibby, R. W. (2001). Canada's teens: Today, yesterday and tomorrow. Toronto, ON: Stoddart Bogdan, R. C. og Bilken, S.K. (1998). Qualitative Research in Education (3. Útgáfa). Needham Heights, MA: Allyn og Bacon Brendtro, L. K. (ritstjóri) (2002). Reclaiming youth at risk. Our hope for the future. Bandaríkin: Solution tree press. Brickman, P. D., Coates, D. og Janoff-Bulmann, R. (1978). Lottery winners and accident victims: Is happiness relative? Journal of Personality and Social Psychology, 36, 917–927. Bronfenbrenner, U. (1979). The ecology of human development. Cambridge, MA: Harvard University Press. Browne, C. V. (1995). Empowerment in social work practice with older women. Social Work, 40(3), 358-64. Burke, R. J., Koyuncu, M., Fiksenbaum, L. og Demirer, H. (2009). Time affluence, material affluence and well-being among turkish managers. Cross Cultural Management, 16(4), 386-397. doi:http://dx.doi.org/10.1108/13527600911000357 Bústaðarkirkja. (e.d.). Friðarbæn heilags Frans frá Assisí. Sótt 16.október 2013 af http://www.kirkja.is/frodleikur/baenir-og-vers/fridarbaen-heilags-frans-fra-assisi Camfield, L., Choudhury, K. og Devine, J. (2009). Well-being, happiness and why relationships matter: Evidence from bangladesh. Journal of Happiness Studies, 10(1), 71-91. doi:http://dx.doi.org/10.1007/s10902-007-9062-5 Cantril, H. (1965). The pattern of human concern. New Brunswick, NJ: Rutgers University Press. Caprara, G. V. og Steca, P. (2006). The Contribution Of Self? Regulatory Efficacy Beliefs In Managing Affect And Family Relationships To Positive Thinking And Hedonic Balance. Journal of Social and Clinical Psychology, 25(6), 603-627.

88 Carr, A. (2004). Positive psychology: the science of happiness and human strengths. Hove: Brunner-Routledge. Carstensen, L. L. og Charles, S. T. (2003). Human aging: Why is even good news taken as bad? Í L. G. Aspinwall og U. M. Staudinger (Ritstjórar). A psychology of human strengths (bls. 75-86). Washington, DC: American Psychological Association. Caunt, B. S., Franklin, J., Brodaty, N. E. og Brodaty, H. (2013). Exploring the causes of subjective well-being: A content analysis of peoples' recipes for long-term happiness. Journal of Happiness Studies, 14(2), 475-499. doi:http://dx.doi.org/10.1007/s10902-012- 9339-1 Charmaz, K. (2006). Constructing grounded theory: a practical guide through qualitative analysis. London: Sage Publications. Chirkov, V. I. og Ryan, R. M. (2001). Parent and teacher autonomy-support in Russian and U.S. adolescents. Common effects on well-being and academic motivation. Journal of Cross-Cultural Psychology, 32, 618–635. Clark, A., Frijters, P. og Shields, M. A. (2007). A survey of the income happiness gradient. Journal of Economic Literature, 1, 39-65. Clark, A. E., Georgellis, Y., Lucas, R. E. og Diener, E. (2004). Unemployment alters the set point for life satisfaction. Psychological Science, 15, 8–13. Cohen, J. (1960). A coefficient of agreement for nominal scales. Educational and Psychological Measurement, 20, 37- 46. Cohen, S., Doyle, W. J., Turner, R. B. Alper, C. M. og Skoner, D. P. (2003). Emotional style and susceptibility to the common cold. Psychosomatic Medicine, 65, 652–7. Colman, J. (2010). Optimal Functioning: A Positive Psychology Handbook. Sótt 10.september 2013 af http://www.amazon.com/Optimal-Functioning-Positive-Psychology-Handbook- ebook/product-reviews/B004ISLQCQ Connolly, J. J. og Viswesvaran, C. (2000). The role of affectivity in job satisfaction: A meta- analysis. Personality and Individual Differences, 29, 265–281. Coulshed, V. og Orme, J. (2006). Social Work Practice: An Introduction (4. Útgáfa). Basingstoke: Palgrave Macmillan. Cournoyer, B. (2010). The social work skills workbook (6.útgáfa). Belmont, CA: Brooks/Cole, Cengage Learning. Creswell, J.W. (2007). Qualitative inquiry & research design: Choosing among five approaches (2. Útgáfa). Thousand Oaks: Publications. CSWE. (2008). Educational policy and accreditation standards. Sótt 20.október 2013 af http://www.cswe.org/File.aspx?id=13780 Danner, D. D., Snowdon, D. A. og Friesen, W. V. (2001). Positive Emotions In Early Life And Longevity: Findings From The Nun Study. Journal of Personality and Social Psychology, 80(5), 804-813. Davis, D. R. og Jansen, G. G. (1998). Making meaning of alcoholics anonymous for social workers: Myths, metaphors, and realities. Social Work, 43(2), 169-82.

89 Deci, E. L. og Ryan, R. M. (1985). Intrinsic motivation and self-determination in human behavior. New York: Plenum. Diener, E. (1984). Subjective well-being. Psychological bulletin, 95, 542-575. Diener, E. (2009). The science of well-being : the collected works of Ed Diener. Bandaríkin: Springer. Diener, E. og Biswas-Diener, R. (2008). Happiness: unlocking the mysteries of psychological wealth. Malden, MA: Blackwell Pub. Diener, E. og Fujita, F. (1995). Resources, personal strivings, and subjective-well-being: A nomothetic and idiographic approach. Journal of Personality and Social Psychology, 69, 926–935. Diener, E., Gohm, C. L., Suh, E. og Oishi, S. (2000). Similarity of the relations between marital status and subjective well-being across cultures. Journal of Cross - Cultural Psychology, 31(4), 419-436. Diener, E., Lucas R. E. og Oishi, S. (2002). Subjective well-being: the science of happiness and life satisfaction. Í C. R., Snyder og S. J. López (ritstjórar), Handbook of positive psychology (bls. 463-73). Bandaríkin: Oxford University Press. Diener, E. og Oishi, S. (2000). Money and happiness. Income and subjective well-being across nations. Í E. Diener og E. M. Suh (ritstjórar). Culture and subjective well-being. Bandaríkin: MIT press. Diener, E., Sandvik, E., Seidlitz, L. og Diener, M. (1993). The relationship between income and subjective well-being: Relative or absolute? Social Indicators Research, 28, 195-223. Diener, E. og Seligman, M. E. P. (2002). Very happy people. Psychological Science, 13, 80-83. Diener, E., Suh, E. M., Lucas, R. E. og Smith, H. L. (1999). Subjective well-being: Three decades of progress. Psychological Bulletin, 125(2), 276-302. Dittmar, H. (2008). Consumer society, identity, and well-being: The search for the 'good life' and the 'body perfect'. Í R. Brown (ritstjóri), European Monographs in Social Psychology Series. London og New York: Psychology Press. Dolan, P., T. Peasgood, A. Dixon, M. Knight, D. P., Tsuchiya, A. og White, M. (2006). Research on the relationship between wellbeing and sustainable development. (Lokaskýrsla fyrir UK Department for Environment, Food and Rural Affairs). Sótt 20.september 2013 af www.sustainable-development.gov.uk/ publications/pdf/WellbeingProject3A.pdf. Dolan, P., Peasgood, T. og White, M. (2008). Do we really know what makes us happy? A review of the economic literature on the factors associated with subjective well-being. Journal of economic psychology, 29(1), 94-122. Downie, M., Chua, S. N., Koestner, R., Barrios, M.-F., Rip, B. og M’Birkou, S. (2007). The relations of parental autonomy support to cultural internalization and well-being of immigrants and sojourners. Cultural Diversity and Ethnic Minority Psychology, 13(3), 241– 249. Drekaslóð. (e.d.) Hópastarf. Sótt 24.september 2013 af http://drekaslod.is/index.php?option=com_content&view=article&id=13&Itemid=7

90 Driessen, E. og Hollon, S. D. (2010). Cognitive Behavioral Therapy for Mood Disorders: Efficacy, Moderators and Mediators. Psychiatric Clinics of North America, 33(3), 537–555. doi:10.1016/j.psc.2010.04.005 Duckworth, A. L., Steen, T. A. og Seligman, M. E. (2005). Positive Psychology In Clinical Practice. Annual Review of Clinical Psychology, 1(1), 629-651. Duchesne, S., Ratelle, C. F., Larose, S. og Guay, F. (2007). Adjustment trajectories in college science programs: Perceptions of qualities of parents’ and college teachers’ relationships. Journal of Counselling Psychology, 54(1), 62–71. Duncan, B. L., Miller, S. D., Wampold, B. E. og Hubble, M. (2010). The heart and soul of change: delivering what works in therapy (2. útgáfa). Washington, DC: American Psychological Association. Eamon, M. K. (2008). Empowering vulnerable populations: Cognitive-behavioral interventions. Chicago, IL: Lyceum Books. Eiríkur Örn Arnarson. (2011, 30.ágúst). Hugræn atferlismeðferð. Fréttablaðið. Sótt 25.október 2013 af http://www.visir.is/hugraen-atferlismedferd/article/2011708309993 Ellison, C.W. (1983). Spiritual well-being: conceptualization and measurement. Journal of Psychology and Theology, 11, 330-40. Epple, D. M. (2007). Inter and intra professional social work differences: Social works challenge. Clinical Social Work Journal, 35(4), 267-276. Farley, O.W., Smith, L.L. og Boyle, S.W. (2009). Introduction to social work (11. útgáfa). Boston: Pearson/Allyn and Bacon. Ferguson, I. og Lavalette, M. (2007). Dreaming a great dream: Prospects for a new, radical social work. Canadian Social Work Review, 24(1), 55-68. Ferrer-i-Carbonell, A. og Gowdy, J.M. (2007). Environmental degradation and happiness. Ecological Economics, 60(3), 509–516. Félagsráðgjafafélag Íslands. (e.d.a). Siðareglur félagsráðgjafa. Sótt 20.október 2013 af http://www.felagsradgjof.is/Stjorn/Sidareglur_islenskra_felagsradgjafa Fowler, J. H. og Christakis, N. A. (2008). The dynamic spread of happiness in a large social network. British Medical Journal, 337, a2338. Freddolino, P. P., Moxley, D. P. og Hyduk, C. A. (2004). A differential model of advocacy in social work practice. Families in Society, 85(1), 119-128. Frederick, S. og Loewenstein, G. (1999). Hedonic adaptation. Í D. Kahneman, E. Diener, og N. Schwarz (ritstjórar), Well-being: The foundations of hedonic psychology (bls. 302–329). New York: Russell Sage. Fredrickson, B. L. (2004). The Broaden-and-build Theory Of Positive Emotions. Philosophical Transactions of the Royal Society B: Biological Sciences, 359(1449), 1367-1377. Fredrickson, B. L. (2008). Promoting positive affect. Í M. Eid og R. J. Larsen (ritstjórar). The science of subjective well-being. New York: Guilford Press. Fredrickson, B. L. og Branigan, C. (2005). Positive emotions broaden the scope of attention and thought-action repertoires. Cognition og Emotion, 19, 313–32.

91 Fredrickson, B. L. og Losada, M. F. (2005). Positive affect and the complex dynamics of human flourishing. American Psychologist, 60, 678. Freeman, J. C., Epston, D. og Lobovits, D. (1997). Playful approaches to serious problems: narrative therapy with children and their families. New York: W.W. Norton. Frey, B. B., Daaleman, T. P. og Peyton, V. (2005). Measuring a dimension of spirituality for health research. Research on Aging, 27(5), 556-557. Frost, L. (2008). Why teach social work students psychosocial studies? Social work education, 27(3), 243-261. Garðarsdóttir, R. B., Dittmar, H., og Aspinall, C. (2009). It's Not The Money, It's The Quest For A Happier Self: The Role Of Happiness And Success Motives In The Link Between Financial Goals And Subjective Well-Being. Journal of Social and Clinical Psychology, 28(9), 1100- 1127. Gilbert, D. T., Pinel, E. C., Wilson, T. D., Blumberg, S. J. og Wheatley, T.P. (1998). Immune neglect: A source of durability bias in affective forecasting. Journal of Personality and Social Psychology, 75(3), 617-638. Gillis, M., Perkins, D. H., Roemer, M. og Snodgrass, D. R. (1996). Economics of development. New York: W. W. Norton and Company. Glenn, N. D. og Weaver, C. N. (1988). The changing relationship of marital status to reported happiness. Journal of Marriage and the Family, 50, 317–324. Goldberg, L. R. (1993). The structure of phenotypic personality traits. American psychologists, 48, 26-34. Gomez, R. og Fisher, J.W. (2005). The spiritual well-being questionnaire: testing for model applicability, measurement and structural equivalencies, and latent mean differences across gender. Personality and Individual Differences, 39(8), 1382-93. Goppner, H. J. og Hamalainen, J. (2007). Developing A Science Of Social Work. Journal of Social Work, 7(3), 269-287. Gottman, J. M. (1994). What predicts divorce? The relationship between marital processes and marital outcomes. Hillsdale, NJ: Erlbaum. Graham, C. (2008). Happiness and health: Lessons–and questions–for public policy. Health Affairs, 27, 72–87. Green, J. og Thorogood, N. (2009). Qualitative Methods for Healthcare Research. Bandaríkin: Sage Press Greene, G. J., Lee, M. Y. og Hoffpauir, S. (2005). The languages of empowerment and strengths in clinical social work: A constructivist perspective. Families in Society, 86(2), 267-277. Guay, F., Ratelle, C. F. og Chanal, J. (2008). Optimal learning in optimal contexts: The role of self-determination in education. Canadian Psychology, 49, 233–240. Guðbjörg Edda Hermannsdóttir og Svava Stefánsdóttir. (2006). Félagsráðgjöf á kvennasviði. Í Sigrún Júlíusdóttir og Halldór Sig. Guðmundsson (ritstjórar), Heilbrigði og heildarsýn. Félagsráðgjöf í heilbrigðisþjónustu (bls. 199-210). Reykjavík: Háskólaútgáfan og RBF.

92 Hagerty, M. R. (2000). Social comparisons of income in one’s community: Evidence from national surveys of income and happiness. Journal of Personality and Social Psychology, 78(4), 746–771. Halldór S. Guðmundsson, Atli Hafþórsson, Hervör Alma Árnadóttir og Sólveig Ása Árnadóttir. (2012). Viðhorf til gagnreyndra aðferða: Forprófun íslenskrar útgáfu EBPAS. Rannsóknir í félagsvísindum XIII. Reykjavík: Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands Harlow, R. E. og Cantor, N. (1996). Still participating after all these years: a study of life task participationin later life. Journal of Personality and Social Psychology, 71, 1235–1249. Hart, K. E. og Sasso, T. (2011). Mapping the contours of contemporary positive psychology. Canadian Psychology/Psychologie canadienne, 52(2), 82–92. doi:10.1037/a0023118 Haybron, D. M. (2000). Two philosophical problems in the study of happiness. The Journal of Happiness Studies, I, 207-225 Háskóli Íslands. (2013-2014a). Lífsskeiðakenningar og þroskaferli. Sótt 16.nóvember 2013 af https://ugla.hi.is/kennsluskra/index.php?tab=nam&chapter=namskeid&id=10063120140 Háskóli Íslands. (2013-2014b). Greining geðrænna vandkvæða. Sótt 16.nóvember 2013 af https://ugla.hi.is/kennsluskra/index.php?tab=nam&chapter=namskeid&id=10063020136 Háskóli Íslands. (e.d). Nám í félagsráðgjöf. Sótt 30.október 2013 af http://www.hi.is/felagsradgjafardeild/nam_i_felagsradgjof Headey, B. (2008). Life goals matter to happiness: A revision of set-point theory. Social Indicators Research, 86(2), 213-231. doi:http://dx.doi.org/10.1007/s11205-007-9138-y Helliwell, J. F. og Putnam, R. D. (2004). The social context of well-being. Philosophical Transactions of the Royal Society of London.Series B, Biological Sciences, 359(1449), 1435-1446. Holsti, O.R. (1969). Content Analysis for the Social Sciences and Humanities. Reading, MA: Addison-Wesley. House, J. S., Landis, K. R. og Umberson, D. (1988). Social relationships and health. Science, 241, 540–545. Howell, R. T. og Howell, C. J. (2008). The relation of economic status to subjective well-being in developing countries: A meta-analysis. Psychological Bulletin, 134(4), 536. Hoyt, C. A. (2008). What if the spirit does not move me? A personal reconnaissance and reconciliation. Social Work, 53(3), 223-31. Hsieh, H.F. og Shannon, S. E. (2005). Three Approaches to Qualitative Content Analysis. Qualitative Health Research, 15(9), 1277–1288. doi:10.1177/1049732305276687 Huppert, F. A. og So, T. T. C. (2011). Flourishing Across Europe: Application of a New Conceptual Framework for Defining Well-Being. Social Indicators Research, 110(3), 837– 861. doi:10.1007/s11205-011-9966-7 Inglehart, R. og Klingemann, H. D. (2000). Democracy and happiness. Í E. Diener, E.M. Suh (ritstjóri), Genes, culture, culture and subjective wellbeing. Bandaríkin: MIT Press.

93 Jones, C. (2002). Social work and society. Í R. Adams, L. Dominelli og M. Payne (Ritstjórar), Social work themes: Issues and critical debates (2. útgáfa). Basingstoke: Palgrave/Open University Press. Kadushin, A. og Kadushin, G. (2013). The social work interview: a guide for human service professionals (5.útgáfa). New York: Columbia University Press. Kasser, T. (2002). Sketches for a self-determination theory of values. Í E. L. Deci, og R. M. Ryan (ritstjórar), Handbook of self-determination research (bls. 123-140). Rochester, NY: University of Rochester Press. Kasser, T. og Ahuvia, A. (2002). Materialistic values and well-being in business students. European Journal of Social Psychology, 32, 137–146. Kasser, T. og Kanner, A. D. (ritstjórar) (2004). Psychology and consumer culture: The struggle for a good life in a materialistic world. Washington, DC: American Psychological Association. Kasser, T. og Ryan, R. M. (1996). Further examining the American dream: Differential correlates of intrinsic and extrinsic goals. Personality and Social Psychology Bulletin, 22, 280-287. Keyes, C. L., Shmotkin, D. og Ryff, C. (2002). Optimizing well-being The empirical encounter of two traditions. Journal of personality and social psychology, 82, 1007-1022. Kirk, W. B. og Kasser, T. (2005). Are psychological and ecological well-being compatible? the role of values, mindfulness, and lifestyle. Social Indicators Research, 74(2), 349-368. doi:http://dx.doi.org/10.1007/s11205-004-8207-8 Klasen, S. (1997). Poverty, inequality and deprivation in South Africa: An analysis of the 1993 Saldru survey. Social Indicators Research, 41, 51-94. Kobau, R., Seligman, M. E. P., Peterson, C., Diener, E., Zack, M. M., Chapman, D. og Thompson, W. (2011). Mental Health Promotion in Public Health: Perspectives and Strategies From Positive Psychology. American Journal of Public Health, 101(8), e1–e9. doi:10.2105/AJPH.2010.300083 Kraut, R. (1979). Two conceptions of happiness, Philosophical Review, 87, 167-196. Kristján Kristjánsson. (2011). Jákvæð sálfræði gengur í skóla: hamingja, skapgerðarstyrkleikar og lífsleikni. Ráðstefnurit Netlu: Menntakvika 2011 sótt 20.september 2013 af http://hdl.handle.net/1946/12376 Kurtz, E. (1979). Not-God: A history of Alcoholics Anonymous. Bandaríkin: Hazelden. Kurtz, E. (1988). A.A.: the story. San Francisco: Harper & Row. Larson, R., Mannell, R. og Zuzanek, J. (1986). Daily well-being of older adults with friends and family. Psychology and Aging, 1, 117–126. Layard, R. (2005). Happiness: Lessens from a new science. London: Penguin Books. Lazarus, R. S. (2003). Does the positive psychology movement have legs? Psychological Inquiry, 14, 93-109. Lelkes, O. (2006). Knowing what is good for you. Empirical analysis of personal preferences and the „objective good“. The Journal of Socio-Economics, 35, 285–307.

94 Leong, F. T. og Wong, P. T. P. (2003). Optimal functioning from crosscultural perspectives. Í W. B. Walsh (Ritstjóri), Counseling psychology and optimal human functioning (bls. 123- 150). Mahwah, NJ: Erlbaum. Leung, A. S. M., Cheung, Y. H. og Liu, X. (2011). The relations between life domain satisfaction and subjective well-being. Journal of Managerial Psychology, 26(2), 155-169. doi:http://dx.doi.org/10.1108/02683941111102182 Lima, M. L. og Novo, R. (2007). Bem estar subjectivo e social em Portugal e na Europa. In J. Vala (ritstjóri), Contexto e atitudes sociais na Europa. Portúgal: ICS. Lodi-Smith, J. og Roberts, B.W. (2007). Social investment and personality: a meta-analysis of the relationship of personality traits to investment in work, family, religion and volunteerism. Society for Personality and Social Psychology, 11(1), 68-86. Losada, M. og Heaphy, E. (2004). The role of positivity and connectivity in the performance of business teams: A nonlinear dynamics model. The American Behavioral Scientist, 47(6), 740-465. Lykken, D.T. og Tellegen, A. (1996). Happiness is a stochastic phenomenon. Psychological Science, 7, 186–189. Lyubomirsky, S., Sheldon, K. M. og Schkade, D. (2005). Pursuing happiness: The architecture of sustainable change. Review of General Psychology, 9(2), 111–131. Lög um heilbrigðisstarfsmenn nr. 34/2012. Mehnert, T., Kraus, H. H., Nadler, R. og Boyd, M. (1990). Correlates of life satisfaction in those with a disabling condition. Rehabilitation Psychology, 35, 3–17. Myers, D. (2000). The funds, friends and faith of happy people. American Psychologist, 55, 56–67. Nash, M., Munford, R. og O’Donoghue, K. (2005). Social work theories in action. Bandaríkin: Jessica Kingsley Publishers. Neuman, W. L. (2006). Social research methods: qualitative and quantitative approaches (6. útgáfa). Boston: Pearson/AandB. Nichols, M. P. (2013). Family therapy: concepts and methods. Boston: Pearson. Niemiec, C. P., Lynch, M. F., Vansteenkiste, M., Bernstein, J., Deci, E. L. og Ryan, R. M. (2006). The antecedents and consequences of autonomous self-regulation for college: A self- determination theory perspective on socialization. Journal of Adolescence, 29, 761–775. Norton, D.L. (1976). Personal Destinies. Bandaríkin: Princeton University Press. O'Connor, P.,G. og Schottenfeld, R. S. (1998). Patients with alcohol problems. The New England Journal of Medicine, 338(9), 592-602. Oko, J. (2008). Understanding and using theory in social work. Exeter: Learning Matters. Oishi, S., Diener, E., Scollon, C. N. og Biswas-Diener, R. (2004). Cross-situational consistency of affective experience across cultures. Journal of Personality and Social Psychology, 86, 460-472. Park, N., Park, M. og Peterson, C. (2010). When is the search for meaning related to life satisfaction? Applied Psychology: Health and Well-Being, 2, 1–13.

95 Pendakis, A. (2013). Joking seriously: The artful political science of Besti flokkurinn. Mediations, 26(1), 71-83. Perlman, D. (2007). The best of times, the worst of times: The place of close relationships in psychology and our daily lives. Canadian Psychology, 48(1), 7-23. Peters, R. M. (2002). Nurse administrators' role in health policy: Teaching the elephant to dance. Nursing Administration Quarterly, 26(4), 1-8. Peterson, C. og Vaidya, R.S. (2003). Optimism as virtue and vice. Í E.C. Chang og L.J. Sanna (ritstjórar), Virtue, vice, and personality: The complexity of behavior (bls. 23-37). Washington, D.C.: American Psychological Association. Popple, K. (1995). Analysing community work: its theory and practice. Bretland: Open University Press. Pressman, S. D. og Cohen, S. (2005). Does positive affect influence health? Psychological Bulletin 131, 925–71. Rachels, J. (1997). Stefnur og straumar í siðfræði (Jón Á. Kalmansson þýddi). Reykjavík: Háskólaútgáfan. Ratelle, C. F., Larose, S., Guay, F. og Senecal, C. (2005). Perceptions of parental involvement and support as predictors of college students’ persistence in a science curriculum. Journal of Family Psychology, 19, 286–293. Ratelle, C. F., Simard, K. og Guay, F. (2013). University students' subjective well-being: The role of autonomy support from parents, friends, and the romantic partner. Journal of Happiness Studies, 14(3), 893-910. Reglugerð um menntun, réttindi og skyldur félagsráðgjafa og skilyrði til að hljóta starfsleyfi og sérfræðileyfi. nr. 1088/2012 Reis, H. T., Sheldon, K. M., Gable, S. L., Roscoe, R. og Ryan, R. (2000). Daily well-being: The role of autonomy, competence, and relatedness. Personality and Social Psychology Bulletin, 26, 419-435 Resnick, S., Warmoth, A., & Serlin, I. A. (2001). The Humanistic Psychology And Positive Psychology Connection: Implications For Psychotherapy. Journal of Humanistic Psychology, 41(1), 73-101. Rich, G. J. (2001). Positive Psychology: An Introduction. Journal of Humanistic Psychology, 41(1), 8–12. doi:10.1177/0022167801411002 Richins, M. L. og Dawson, S. (1992). A consumer values orientation for materialism and its measurement: Scale development and validation. Journal of Consumer Research 19, 303– 316. Rintala, D., Young, M. E., Hart, K. A., Clearman, R. R. og Fuhrer, M. J. (1992). Social support and the well-being ofpersons with spinal cord injury living in the community. Rehabilitation Psychology, 37, 155-163. Rook, K. S. (1990). Stressful aspects of older adults' social relationships: Current theory and research. Í M. A. Stephens, J. H. Crowter, S. E. Hobfoll, og D. L. Tennenbaum (ritstjórar), Stress and coping in later-life families (bls. 173-192). New York: Hemisphere.

96 Russell, C. og Megaard, I. (1988). The general social survey, 1971-1986: The state of the American people. New York: Springer-Verlag. Ryan, R. M. og Deci, E. L. (2000). Self-determination theory and the facilitation of intrinsic motivation, social development, and well-being. American Psychologist, 55(1), 68–78. Ryff, C. D. og Singer, B. (2003). Ironies of the human condition: Wellbeing and health on the way to mortality. Í L. G. Aspinwall og U. M. Staudinger (Ritstjórar), A psychology of human strengths (bls. 271-287). Washington, DC: American Psychological Association. Ryff, C. D. og Singer, B. H. (2006). Know Thyself and Become What You Are: A Eudaimonic Approach to Psychological Well-Being. Journal of Happiness Studies, 9(1), 13–39. doi:10.1007/s10902-006-9019-0 SAAS. (2008). Um SAAS. Sótt 15.október.2013 af http://saas.is/index.php/home/um-saas Sagiv, C. og Schwartz, S. (2000). Value priorities and subjective wellbeing: Direct relation and congruity. European Journal of Social Psychology, 30, 177–198. Samtök bandarískra félagsráðgjafa. (2008). Code of Ethics of the National Association of Social Workers. Sótt 28. október 2013 af http://www.socialworkers.org/pubs/code/code.asp Schalock, R. L. og Verdugo, M. A. (2001). Outcome-based evaluation. New York: Plenum Publications. Schmuck, P., Kasser, T. og Ryan, R. M. (2000). Intrinsic and extrinsic goals: their structure and relationship to well-being in German and U.S. college students. Social Indicators Research, 50, 225–241. Schulenberg, S. E., Strack, K. M. og Buchanan, E. M. (2011). The meaning in life questionnaire: Psychometric properties with individuals with serious mental illness in an inpatient setting. Journal of Clinical Psychology, 67(12), 1210-1219. doi:http://dx.doi.org/10.1002/jclp.20841 Schulz, R. og Decker, S. (1985). Long-term adjustment to physical disability: The role of social support, perceived control, and self-blame. Journal of Personality and Social Psychology, 48, 1162-1172. Schwartz, R.M., Reynolds, C.F.,Thase, M.E., Frank, E., Fasiczka, A.L. og Haaga, D.A.F. (2002) Optimal and normal affect balance in psychotherapy of major depression: Evaluation of the balanced states of mind model. Behavioural and Cognitive Psychotherapy, 30, 439– 450. Schwartz, S. H. (1992). Universals in the content and structure of values: Theory and Empirical tests in 20 countries. Í M. Zanna (ritstjóri), Advances in experimental social psychology, 25, 1–65. New York: Academic Press. Schwarze, J. og Härpfer, M. (2003). Are people inequality averse, and do they prefer redistribution by the State? (Endurskoðuð lokaskýrsla Institute for the Study of Labour, IZA DP No. 974). Seligman, M. E. (2002). Authentic happiness: using the new positive psychology to realize your potential for lasting fulfillment. New York: Free Press. Seligman, M. E. (2011). Flourish. North Sydney, N.S.W.: Random House Australia.

97 Seligman, M. E. P. og Csikszentmihalyi, M. (2000). Positive Psychology: An Introduction. American Psychologist 55(1), 5–14. doi:10.1037/0003-066X.55.1.5. PMID 11392865. Seligman, M.E P, Park, N. og Peterson, C. (2004). The Values In Action (VIA) classification of character strengths. Ricerche di Psicologia. Special. Positive Psychology, 27(1), 63-78. Sheldon, K. M., Elliot, A. J., Ryan, R. M., Chirkov, V., Kim, V. og Wu, C. (2004). Self- concordance and subjective well-being in four cultures. Journal of Cross Cultural Psychology, 35(2), 209–223. Sigrún Júlíusdóttir. (2004). Rannsókn á fræðastörfum íslenskra félagsráðgjafa. Í Úlfar Hauksson (ritstjóri). Rannsóknir í félagsvísindum V: félagsvísindadeild (bls. 343-359). Reykjavík: Háskóla Útgáfan og félagsvísindastofnun Íslands. Sigrún Júlíusdóttir. (2006). Félagsráðgjöf í heilbrigðisþjónustu – eitt sérfræðisviða. Í Sigrún Júlíusdóttir og Halldór Sig. Guðmundsson (ritstjórar), Heilbrigði og heildarsýn. Félagsráðgjöf í heilbrigðisþjónustu. Reykjavík: Háskólaútgáfan og RBF. Silverman, D. (2008). Doing Qualitative Research (2.útgáfa). Thousand Oaks: Sage Publications. Silverman, W. H. (1999). If it’s tuesday with depressive symptoms it must be cognitive- behavioral therapy. Psychotherapy: Theory/Research/Practice/Training, 36, 317-319. Sirgy, M. J. og Wu, J. (2009). The pleasant life, the engaged life, and the meaningful life: What about the balanced life? Journal of Happiness Studies, 10, 183–196. Skálholtsútgáfan. (e.d.). Tólf sporin andlegt ferðalag. Sótt 12.október 2013 af http://skalholtsutgafan.is/?p=utgefid-efni&flokkur=42 Snyder, C. R. og Lopez, S. J. (2007). Positive psychology: The scientific and practical explorations of human strengths. Thousand Oaks, CA: Sage. Staw, B. M. og Barsade, S. G. (1993). Affect and managerial performance: A test of the sadder-but-wiser vs. happier-and-smarter hypothesis. Administrative Science Quarterly, 38, 304–331. Steger, M.F., Mann, J.R., Michels, P. og Cooper, T.C. (2009). Meaning in life, anxiety, depression, and general health among smoking cessation patients. Journal of Psychosomatic Research, 67, 353–358. Stemler, S. (2001). An overview of content analysis. Practical Assessment, Research & Evaluation, 7(17). Sótt 16.október 2013 af http://PAREonline.net/getvn.asp?v=7&n=17 Suh, E., Diener, E., Oishi, S. og Triandis, H. C. (1998). The shifting basis of life satisfaction judgements across cultures: Emotions versus norms. Journal of personality and social psychology, 74(2), 482-493. Tait, M., Padgett, M. Y. og Baldwin, T. (1989). Job and life satisfaction: A reevaluation of the strength of the relationship and gender effects as a function of the date of the study. Journal of Applied Psychology, 74, 502–507. Taylor, S. og R. Bogdan (1998). Introduction to qualitative research methods: A guidebook and resource (3. Útg.). New York: John Wiley and Sons. Teater, B. (2010). An introduction to applying social work theories and methods. Maidenhead, England: McGraw-Hill/Open University Press.

98 Teichmann, M., Murdvee, M. og Saks, K. (2006). Spiritual needs and quality of life in Estonia. Social Indicators Research, 76(1), 147-63. Thoits, P. A. og Hewitt, L. N. (2001). Volunteer work and well-being. Journal of Health and Social Behavior, 42, 115–131. Thompson, N. (2009). Understanding social work: preparing for practice (3. útgáfa). Basingstoke: Palgrave Macmillan. Tólf reynsluspor og tólf erfðavenjur. (1981). Reykjavík: AA–útgáfan. Trevithick, P. (2005). Social work skills: A practice handbook. (2.útgáfa). Berkshire: Open University Press. University of Pennsylvania. (e.d.). Positive psychology center. Sótt 10.október 2013 af http://www.ppc.sas.upenn.edu/ Van Den Bergh, N. (2002). Feminist social work practice: Where have we been…Where are we going? Í N. Van Den Bergh (Ritstjóri), Feminist practice in the 21st century (bls. xi– xxxix). Washington, DC: National Association of Social Workers. Vansteenkiste, M., Duriez, B., Simons, J. og Soenens, B. (2006). Materialistic values and well- being among business students: Further evidence of their detrimental effect. Journal of Applied Psychology, 36, 2892–2908. Veenhoven, R. (1991). Is happiness relative? Social Indicators Research, 24, 1-34. Veenhoven, R. (1994). Correlates of happiness: 7,836 findings from 603 studies in 69 nations: 1911-1994. Óbirt lokaritgerð: Erasmus Háskóla, Rotterdam, Hollandi. Videka, L. og Goldstein, E. (2012). 50 years and the future of agency-based clinical social work practice: Introduction to the special issue. Clinical Social Work Journal, 40(2), 119- 126. doi:http://dx.doi.org/10.1007/s10615-012-0396-z Waterman, A. S., Schwartz, S. J. og Conti, R. (2008). The Implications Of Two Conceptions Of Happiness (Hedonic Enjoyment And Eudaimonia) For The Understanding Of Intrinsic Motivation. Journal of Happiness Studies, 9(1), 41-79. Weber, R. P. (1990). Basic content analysis (2. Útgáfa). Newbury Park, CA: Sage. Weiss, A., Bates, T. C. og Luciano, M. (2008). Happiness is a personal(ity) thing: The genetics of personality and well-being in a representative sample. Psychological Science, 19(3), 205-210. doi:http://dx.doi.org/10.1111/j.1467-9280.2008.02068.x Weiss, H. M., Nicholas, J. P. og Daus, C. S. (1999). An examination of the joint effects of affective experiences and job beliefs on job satisfac- tion and variations in affective experiences over time. Organizational Behavior and Human Decision Processes, 78, 1–24. Wengle, H. (1986). The psychology of cosmetic surgery: A critical overview of the literature 1960–1982. Part 1. Annals of Plastic Surgery, 16, 435–443. Wenzel, C. H. (2010). The ethics of confucius and aristotle: Mirrors of virtue. Philosophy East and West, 60(2), 303-306. Westbrook, D. E., Kennerley, H. og Kirk, J. (2011). An introduction to cognitive behaviour therapy: Skills and applications (2. útgáfa). Los Angeles: Sage.

99 Wilson, T. og Gilbert, D. (2003). Affective forecasting. Í M. Zanna, (ritstjóri), Advances in experimental social psychology, 35, 345–411. Wilson, T., Wheatley, T., Meyers, J., Gilbert, D. og Axsom, D. (2000). Focalism: A source of durability bias in affective forecasting. Journal of Personality and Social Psychology, 78, 821–836. Wong, P. T. P. (2011). Positive psychology 2.0: Towards a balanced interactive model of the good life. Canadian Psychology, 52(2), 69-81. Wortman, C. B. og Silver, R. C. (1987). Coping with irrevocable loss. Í G. R. Vanderbos og B. K. Bryant (ritstjórar), Cataclysms, crises, catastrophes: Psychology in action. Washington, DC: APA. Wright, T. A. og Cropanzano, R. (2000). Psychological well-being and job satisfaction as predictors of job performance. Journal of Occupational Health Psychology, 5, 84–94. Zavisca, J. og Hout, M. (2005). Does money buy happiness in unhappy Russia? Sótt 10.október 2013 af http://iseees.berkeley.edu/bps/publications/2005_01-zavi.pdf.

100 Viðauki I – Siðareglur íslenskra félagsráðgjafa

Siðareglur íslenskra félagsráðgjafa Tilgangur Grundvöllur félagsráðgjafar er virðing fyrir manngildi og sérstöðu hvers einstaklings og trú á getu hans til að nýta hæfileika sína til fullnustu. Markmið félagsráðgjafar er að vinna að lausn félagslegra og persónulegra vandamála og sporna við félagslegu ranglæti. Félagsráðgjafi vinnur gegn mannréttindabrotum hvar svo sem þau eiga sér stað.

Frumskyldur 1. Félagsráðgjafi rækir starf sitt án manngreinarálits og virðir réttindi hverrar manneskju. Félagsráðgjafi kemur fram við skjólstæðing af heiðarleika, virðingu og leitast við að byggja upp gagnkvæmt traust.

2. Félagsráðgjafi upplýsir skjólstæðing um réttindi hans og skyldur, einnig um úrræði og hjálparmöguleika. Félagsráðgjafi gerir sér far um að virða og verja rétt hvers einstaklings til einkalífs og sjálfsákvörðunarréttar, svo fremi að það valdi öðrum ekki skaða. Geti skjólstæðingur ekki sjálfur gætt hagsmuna sinna, ber félagsráðgjafa að gæta þess að réttur hans sé ekki fyrir borð borinn.

3. Félagsráðgjafi gætir trúnaðar um þau mál sem hann verður áskynja í starfi sínu. Undantekningu frá þagnarskyldu má einungis gera samkvæmt lagaboði eða af brýnni nauðsyn.

4. Félagsráðgjafi gerir skjólstæðingi grein fyrir trúnaðarskyldu, upplýsingaöflun, skráningu máls og hvernig farið er með gögn. Félagsráðgjafi sér um að einstaklingur eigi jafnan aðgang að því sem skráð er í máli hans.

5. Félagsráðgjafi aflar ekki upplýsinga um skjólstæðing frá öðrum án samþykkis hans, nema þar sem lagaskylda býður að það sé gert. Þá skal einungis afla þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru til að vinna að málinu. Fari upptaka fram verður að afla skriflegs samþykkis skjólstæðings. Heimilt er að víkja frá trúnaðarskyldu, ef skjólstæðingur fer skriflega fram á að ákveðin persóna eða stofnun fái upplýsingar.

6. Ef skjólstæðingi er gert að þiggja þjónustu félagsráðgjafa gegn vilja sínum skal félagsráðgjafi upplýsa hann um hver réttur hans er og útskýra markmið vinnu sinnar og afleiðingar, eftir því sem við verður komið.

7. Félagsráðgjafi notar ekki störf og fagþekkingu sína til að skaða, undiroka eða kúga skjólstæðing, né á nokkurn hátt notfæra sér að hann á undir högg að sækja. Félagsráðgjafi notfærir sér ekki tengsl við skjólstæðing sjálfum sér til persónulegs eða faglegs framdráttar.

101 8. Félagsráðgjafi stofnar ekki til eða á í kynferðislegu sambandi við skjólstæðing sinn eða annan þann sem er honum háður vegna starfs hans, t.d. nemanda.

Ábyrgðar- og hæfnisskyldur 9. Félagsráðgjafi ber ábyrgð á eigin hæfni og þeim störfum sem hann innir af hendi í samræmi við það, sem starfsheiti hans felur í sér samkvæmt lögum. Félagsráðgjafi stundar fræðslu- og rannsóknarstörf.

10. Félagsráðgjafi stundar starf sitt með faglega heildarsýn að leiðarljósi og byggir á fræðilegum kenningum, niðurstöðum rannsókna og starfsreynslu í félagsráðgjöf. Félagsráðgjafi viðheldur þekkingu sinni og endurnýjar hana. Hann fylgist vel með nýjungum í starfi og uppfyllir þau skilyrði sem gerð eru til starfsins á hverjum tíma.

11. Félagsráðgjafi hlýðir samvisku sinni og sannfæringu. Félagsráðgjafi getur synjað að framkvæma félagsráðgjafaverk, sem hann treystir sér ekki til að bera faglega ábyrgð á.

12. Félagsráðgjafi á frumkvæði að því að þróa nýjar hugmyndir í félagsráðgjöf og að hrinda þeim í framkvæmd. Félagsráðgjafi skal í ræðu og riti vera málefnalegur og nákvæmur. Hann reynir að tryggja eins og mögulegt er, að það sem hann lætur frá sér fara, bæði skriflegt og munnlegt, misskiljist ekki eða mistúlkist öðrum til miska.

13. Félagsráðgjafi framkvæmir ekki félagsráðgjafaverk undir áhrifum áfengis, lyfja eða annarra efna sem slæva dómgreind hans og athygli.

Félagslegar skyldur 14. Félagsráðgjafi kynnir menntun sína og störf með tilhlýðilegum hætti. Félagsráðgjafi skýrir frá því þegar hann kemur fram opinberlega hvort hann kemur fram fyrir eigin hönd sem einstaklingur, sem fagmanneskja, fyrir hönd fagfélags síns eða þá stofnun sem hann starfar við.

15. Félagsráðgjafi er ávallt meðvitaður um markmið þeirrar starfsemi sem hann tekur þátt í og vinnur á grundvelli gildandi laga, reglna og fyrirmæla, stríði þ að ekki gegn siðfræði félagsráðgjafar.

16. Félagsráðgjafi miðlar þekkingu sinni sem víðast, til annarra félagsráðgjafa, félagsráðgjafanema, annarra fagmanna og alls almennings.

17. Félagsráðgjafi vinnur að því að skapa traust almennings á félagsráðgjöf og faglegri hæfni félagsráðgjafa.

Systur/bróðurlegar skyldur 18. Félagsráðgjafi gerir ekkert í starfi sem rýrir orðstír stéttarinnar eða félagsráðgjafar sem starfs- og fræðigreinar.

19. Félagsráðgjafi virðir hæfni, skyldur og ábyrgð annarra félagsráðgjafa og annarra fagstétta ásamt því að treysta annarri fagþekkingu þegar það á við. Komi upp faglegur

102 ágreiningur skal félagsráðgjafi reyna að miðla málum svo að niðurstaða fáist með hagsmuni skjólstæðinga að leiðarljósi.

20. Félagsráðgjafi sem veit um brot starfsfélaga síns gegn siðareglum félagsráðgjafa bregst við með ábendingu, umræðu og stuðningi við hann, svo leiðrétta megi. Beri það ekki árangur skal málinu vísað til yfirmanns viðkomandi stofnunar þar sem starfsfélaginn starfar eða til Embættis landlæknis.

103