Lokaverkefni til MA–gráðu

Þjóðfræði

Hughrif og handverk Langspilið í upphafi 21. aldar

Eyjólfur Eyjólfsson

Rósa Þorsteinsdóttir Júní 2020

Hughrif og handverk Langspilið í upphafi 21. aldar

Eyjólfur Eyjólfsson

Lokaverkefni til MA–gráðu í þjóðfræði Leiðbeinandi: Rósa Þorsteinsdóttir

40 einingar

Félagsfræði–, mannfræði– og þjóðfræðideild Félagsvísindasvið Háskóla Íslands Júní, 2020

Hughrif og handverk Langspilið í upphafi 21. aldar

Ritgerð þessi er lokaverkefni til MA-gráðu í þjóðfræði og er óheimilt að afrita ritgerðina á nokkurn hátt nema með leyfi rétthafa. © Eyjólfur Eyjólfsson, 2020

Prentun: Svansprent Reykjavík, Ísland, 2020

Útdráttur

Þessi 40 eininga meistararitgerð í þjóðfræði fjallar um hughrif og handverk tengt íslenska langspilinu. Ritgerðin byggir á eigindlegri rannsókn sem var unnin á tímabilinu frá september 2016 til október 2019. Viðmælendur rannsóknarinnar voru níu talsins og fóru viðtölin ýmist fram á Íslandi eða í Hollandi, en auk viðtalanna voru gerðar þátttöku- og vettvangsrannsóknir. Gagnasöfnun og greiningarferli tók mið af greiningaraðferð grundaðrar kenningar og skynrænni aðferðafræði. Hluti rannsóknarinnar var unnin í samstarfi við mennta- og menningarstofnunina Íslenska bæinn í Austur-Meðalholtum í Flóa en þar fór einnig fram sjálfs-etnógrafía.

Eina elstu heimild um langspilsleik er að finna í sjálfsævisögu séra Jóns Steingrímssonar frá 18. öld þar sem eldklerkurinn lýsir hughrifum sínum af langspilsleik Þuríðar Ásmundsdóttur á Bæ í Borgarfirði. Hughrif viðmælenda rannsóknarinnar af langspilstónum, rúmum tveimur öldum síðar, eru ekki ósvipuð þeim er séra Jón lýsir og verða hughrif samtíðarfólksins m.a. rædd út frá menningararfsorðræðu og kenningum á sviði þjóðtónlistarfræða.

Hagnýti þáttur ritgerðinnar fjallar um þróunar- og rannsóknarverkefnið Flóaspilin – langspilssmíðaverkefni sem fór fram í Flóaskóla veturinn 2018–2019. Smíðuð voru 18 með nemendum 5. og 6. bekkjar og um vorið þegar langspilin voru tilbúin, lærðu nemendurnir nokkur þjóðlög sem þau sungu við eigin langspilsundirleik á tveimur skipulögðum viðburðum. Eigindlegi rannsóknarhluti ritgerðarinnar er því skynfræðileg undirstaða langspilssmíðaverkefnisins en ritgerðin dregur fram að bæði hughrifin og handverkið sem langspilið tilheyrir er í eðli sínu fjölmenningarlegt. Þá sýnir rannsóknin að staðbundin menningareinkenni á borð við langspil geti nýst í þverfaglegum nálgunum í listgreinakennslu í grunnskólum þar sem nemendum gefst tækifæri til að kynnast öðrum menningarheimum um leið og þeir eignast hlutdeild í eigin menningararfleið.

3

Abstract

The thesis deals with affect and craft associated with the langspil, an Icelandic version of a drone-. It is a qualitative research which was executed during the period of September 2016 through October 2019. The methodology consisted of in-depth interviews, participant- observations and field research. For the analysis grounded theory approach was used alongside with sensory ethnographic methods.

One of the oldest sources about langspil-playing comes from the 18th century autobiography of The Reverend Jón Steingrímsson. There he describes how the sounds of madam Þuríður Ásmundsdóttir's langspil-playing affected his troubled state in the most soothing way. Though little is known about how the langspil might have sounded in the past, this research shows that contemporary langspil-playing has similar affect on the participants here as those described over two centuries ago. These present-day affects are discussed in relation to theories in cultural heritage, ethnomusicology and other related disciplines.

The applied aspect of the thesis is an account of a research project that was undertaken during the academic year of 2018–2019 at the Flóaskóli Elementary School in South-. The project was inspired by an earlier research done by ethnomusicologist David G. Woods in 1981. In collaboration with craft and music teachers at Flóaskóli, eighteen langspils were built with 5th and 6th grade students. Close to springtime, once the instruments were ready for use, the students learned a few Icelandic folk accompanied by their own langspil-playing. The combined aspects of the qualitative research and the applied research project show that the langspil's affect and craft is inherently multicultural. The langspil is not only a useful tool in giving students at elementary schools the opportunity to gain embodied knowledge about their own cultural heritage, but also to connect with other cultures.

4

Efnisyfirlit

Útdráttur ...... 3 Abstract...... 4 Efnisyfirlit ...... 5 Myndaskrá ...... 7 1 Inngangur...... 8 2 Sögulegt samhengi ...... 12 2.1 Langspilið sem menningararfur ...... 15 2.2 Sviðsettur menningararfur ...... 18

3 Rannsóknin ...... 21 3.1 Eigindlegar rannsóknaraðferðir ...... 21 3.2 Greiningaraðferð grundaðrar kenningar ...... 22 3.3 Skynræn aðferðafræði ...... 23 3.4 „Þetta er eilífðartónninn“ ...... 24 3.5 Viðmælendur ...... 25 3.6 Baðstofustundir víða um lönd ...... 28 3.7 Flóaspilin ...... 31 3.8 Sjálfs-etnógrafía ...... 32 3.9 Staða mín sem rannsakandi ...... 33

4 Langspilstónar ...... 36 4.1 Útópísk þáþrá og erfiður menningararfur ...... 36 4.2 Rólegheit og hugleiðslur ...... 44 4.3 Dægurmenning og „sándtrakk á íslensku sveitina“ ...... 55 4.4 Fjölmenningarleg langspilssmíði ...... 68 4.5 Samantekt ...... 75

5 Flóaspilin – Langspilssmíðaverkefni í Flóaskóla veturinn 2018–2019 ...... 76 5.1 Undirbúnings- og skipulagsvinna ...... 77 5.1.1 „Hugur - hjarta - hönd“ ...... 77 5.1.2 Íslenski bærinn ...... 79 5.1.3 Baðstofan og hljómurinn ...... 80

5 5.2 Elsta langspil landsins?...... 82 5.3 Vinnuferli langspilssmíðaverkefnisins...... 87 5.3.1 Fundur með Gunnlaugu og Sigríði Oddnýju – 9. maí 2018 ...... 87 5.3.2 Langspilskynning í Flóaskóla – 28. maí 2018 ...... 87 5.3.3 Samtöl við Hannes Lárusson – september 2018 ...... 88 5.3.4 Fundur með Maríu Marko smíðakennara – 3. október 2018 ...... 89 5.3.5 „Endar þetta ekki bara ofan í skúffu?“ – 5. október 2018 ...... 89 5.3.6 Fyrsti smíðatíminn – 17. október 2018 ...... 90 5.3.7 Kennslukönnun nemenda – 29. október 2018 ...... 91 5.3.8 Jákvæðni og dugnaður – nóvember og desember...... 92 5.3.9 Stilliskrúfurnar týndust í pósti ...... 92 5.3.10 Langspilssmíði í beinni – janúar og febrúar 2019 ...... 93 5.3.11 Mars – líming ...... 93 5.3.12 Nýr smíðakennari og viðarbæs – 1. apríl 2019 ...... 94 5.3.13 Prufubæsun – 2. apríl 2019 ...... 94 5.3.14 Bæsun og líkömnuð þekking – 3. apríl 2019 ...... 95 5.3.15 Annar í bæsun – 10. apríl 2019...... 96 5.3.16 Smíðadagur hjá Hansa Jóhannssyni fiðlusmiði – 26. apríl 2019 ...... 96 5.3.17 Flóaspilin strengd – 29. apríl 2019 ...... 97 5.3.18 Flóaspilin hljóma – 30. apríl 2019 ...... 97 5.3.19 Álftafjaðrir – 7. maí 2019 ...... 98 5.3.20 Þóra til bjargar – 11. maí 2019...... 99 5.3.21 60 ára afmæli Þjórsárvers – 24. maí 2019 ...... 99 5.3.22 Undirbúningur fyrir Langspilsvöku – september og október 2019 ...... 101 5.4 Langspilsvaka 2019 ...... 102 5.5 Maxímús Músíkús og Tasmanía ...... 105 5.6 Niðurstöður ...... 106

6 Lokaorð ...... 112 Heimildaskrá ...... 118 Viðauki 1 – Auglýsing um Langspilsvöku 2019 ...... 125 Viðauki 2 – Umfjöllun Bændablaðsins um Langspilsvökuna...... 126 Viðauki 3 – Umfjöllun Dagskrárinnar á Suðurlandi um Langspilsvökuna ...... 127 Viðauki 4 – Umfjöllun Morgunblaðsins um Langspilsvökuna ...... 128

6 Myndaskrá

Mynd 1 – Vöðlakot í kringum 1940 ...... 32 Mynd 2 – Framfarir í hundrað ár ...... 41 Mynd 3 – Gamla baðstofan í Austur-Meðalholtum ...... 81 Mynd 4 – Langspil Hilmars Arnar Hilmarssonar ...... 84 Mynd 5 – Kvöldvaka á Grímsstöðum á Fjöllum árið 1836 ...... 85 Mynd 6 – Mikka músar-hljóðop ...... 91 Mynd 7 – Toppstykki í vinnslu ...... 92 Mynd 8 – Grindur Flóaspilanna tilbúnar fyrir límingu ...... 93 Mynd 9 – 5. bekkur og Flóaspilin skömmu eftir límingu ...... 94 Mynd 10 – 5. og 6. bekkur með Flóaspilin ...... 100 Mynd 11 – Flóaspilin í sýningarskála Íslenska bæjarins ...... 102 Mynd 12 – Þátttakendur í langspilssmíðaverkefninu syngja og spila fyrir gesti ...... 104 Mynd 13 – Merkimiði Flóaspilanna ...... 105

Mynd 1 – Vöðlakot í kringum 1940. Í eigu Íslenska bæjarins.

Mynd 2 – Framfarir í hundrað ár [heilsíðuauglýsing]. Fréttablaðið, 16. apríl 2018, 23.

Mynd 3 – Gamla baðstofan í Austur-Meðalholtum. Í eigu höfundar.

Mynd 4 – Langspil Hilmars Arnar Hilmarsson. Í eigu Chris Foster.

Mynd 5 – Mayer, Auguste. Kvöldvaka á Grímsstöðum á Fjöllum árið 1836. Sótt 21. apríl 2020 á: https://kvennabladid.is/2018/02/11/plata-manadarins-februar-2018- gudrun-tomasdottir-islenzk-thjodlog/

Mynd 6 – Mikka Mús-hljóðop. Í eigu höfundar.

Mynd 7 – Toppstykki í vinnslu. Í eigu höfundar.

Mynd 8 – Grindur Flóaspilanna tilbúnar fyrir límingu. Í eigu höfundar.

Mynd 9 – 5. bekkur og Flóaspilin skömmu eftir límingu. Í eigu höfundar.

Mynd 10 – 5. og 6. bekkur með Flóaspilin. Höf.: Ragnar Kristján Gestsson. Í eigu höfundar.

Mynd 11 – Flóaspilin í sýningarskála Íslenska bæjarins. Í eigu höfundar.

Mynd 12 – Þátttakendur í langspilssmíðaverkefninu syngja og spila fyrir gesti. Í eigu höfundar.

Mynd 13 – Merkimiði Flóaspilanna. Í eigu höfundar.

7 1 Inngangur

Það sem m.a. heillar mig við þjóðfræði er þessi sérstaka tegund af greiningu eða stíl í skrifum sem einkennir skrif þjóðfræðinga. Þeir leggja út af því er virðist lítilfjörlegu smáatriði úr hversdeginum, eins og t.d. gallabuxum eða brandara, en við nánari greiningu kemur í ljós að þessir smámunir eru þrungnir merkingu og geta fært okkur nýjan skilning á okkur sjálfum, samfélagi okkar eða nútímanum. Það sem í fyrstu leit út fyrir að vera lítið og léttvægt verður í víðara samhengi afar þýðingarmikið.1

Alþjóðlegu þjóðfræðisamtökin (f. Société Internationale d´Ethnologie et de Folklore) hafa undanfarin ár verið ötul við að útbúa stutt myndskeið þar sem þjóðfræðingar fjalla um fræðigreinina og tjá sig um eftirminnilegar þjóðfræðilegar upplifanir (e. ethnological sensations). Tilvitnunin hér að ofan er fengin úr kynningarmyndbandi samtakanna um fagið þar sem Valdimar Tryggvi Hafstein er meðal þeirra þjóðfræðinga sem leggja orð í belg. Þessi orð Valdimars eiga vel við viðfangsefni þessarar rannsóknar sem hverfist um íslenska langspilið. Þó svo langspilið eigi ekki hlutdeild í dægurmenningu samtímans tilheyrði það hversdagsmenningu liðinna tíma. Þetta er hlutur sem lætur lítið yfir sér, bæði í sögulegu og nútímalegu samhengi, en með gleraugum þjóðfræðinnar verður hann að uppsprettu vangaveltna og nýrrar þekkingar.

Þjóðfræði er fræðigrein sem afmarkar sig ekki við hversdagsmenningu líðandi stundar, henni er tamt að greina og skoða gamla hluti og fyrirbæri því rætur hennar liggja djúpt í fyrri tíðar samfélögum til sjávar og sveita. Þó svo að ræturnar teygi sig oftar en ekki langt aftur í aldir er þjóðfræðin engu að síður, líkt og aðrar greinar félagsvísindanna, fremur ný af nálinni. Þjóðfræðin varð til á elleftu stundu, þegar gömlu bændasamfélögin tóku að nútímavæðast í kjölfar iðnbyltinga 18. og 19. aldar, og lifnaðarhættir sem höfðu haldist svo til óbreyttir í aldanna rás tóku að breytast. Fyrstu þjóðfræðingarnir voru því einhvers konar björgunarsveitir góðborgara sem fóru um byggð ból og björguðu vitneskju, sögum og hlutum frá glötun og gleymsku. Ellefta stundin hefur æ síðan verið eitt af einkennismerkjum þjóðfræðinnar því eitt af meginhlutverkum þjóðfræðinga enn þann dag í dag er að skrásetja munnmæli og önnur mannanna verk, og þá gjarnan gjörðir sem oftar en ekki fá litla eftirtekt fræðasamfélagsins eða almenna umfjöllun.

1 Sjá: Valdimar Tr. Hafstein, What is European Ethnology? [þýðing mín].

8 Árið 1975 birtist grein í The Journal of American Folklore þar sem bandaríski þjóðfræðingurinn Dell Hymes fjallar um eðli þjóðfræðinnar. Hann bendir á að áherslur þjóðfræðinnar á orðræðu og athafnir daglegs lífs gefi þjóðfræðinni ákveðið forskot á aðrar greinar félagsvísindanna, að vissu leyti að mannfræðinni undanskilinni.2 Þetta forskot markast m.a. af því hversu þjóðfræðin er upptekin af fagurfræði og tjáningu sem birtist gjarnan í handverki þar sem ríkir ákveðin formfesta. Hymes er á þeirri skoðun að starf þjóðfræðingsins markist af þeirri sýn að fegurð, formgerðir og merkingarbæra tjáningu megi finna á hverjum þeim stað þar sem fólki er fært, að öllu eða einhverju leyti, að deila gleði sinni og þjáningu.3

Þjóðfræðin stendur því jöfnum fótum innan veggja háskólans og utan hans, m.ö.o. þá er hún í senn bæði akademísk og empirísk. Það er ef til vill þetta flökkueðli þjóðfræðinga sem gerir greinina lausláta, þ.e.a.s. þjóðfræðin hikar ekki við að ganga í eina sæng með öðrum fræðigreinum – allt eftir þörfum rannsóknarefnisins hverju sinni því þjóðfræðingar líta gjarnan svo á að tilgangurinn helgi meðalið. Lauslætið hefur ef til vill ekki hjálpað til við að skapa greininni aukinn virðingarsess meðal sumra fræðimanna. Engu að síður hefur þetta háttalag það í för með sér að þjóðfræðin á í virku samtali við aðrar fræðigreinar og er þannig ófeimin við að skiptast á tækjum og tólum úr hinum ýmsu verkfærakistum jafnt utan sem innan akademíunnar.

Þessi rannsókn er engin undantekning á þessari tilhneigingu fræðigreinarinnar. Sótt er til hinna ýmsu kenningasmiða á sviðum eins og byggingarlist, mannfræði, markaðsfræði, safnafræði og sagnfræði. Því verður leitað í ýmsar áttir við að greina helstu viðfangsefni rannsóknarinnar en þau eru að kanna hvernig fólk upplifir hljóm og tóna langspilsins og hvort ástæða sé til að hampa slíku fyrirbæri og koma því áleiðis til komandi kynslóða.

Í raun mætti einnig flokka þessa rannsókn undir grein þjóðtónlistarfræða (e. ethnomusicology). Þjóðtónlistarfræði er afsprengi eða dótturgrein þjóðfræðinnar sem horfir til tónlistar á þjóðfræðilegum nótum, þar sem litið er á tónlistarsköpun sem eina af grunnþörfum fólks, líkt og mælt mál. Öll tjáning í tónum er því merkingarbær samkvæmt þjóðtónlistarfræðinni og gildir það sama um hljóðfærin. Eina þjóðtónlistarfræðilega

2 Hymes, Folklore's Nature and the Sun's Myth, 350. 3 Hymes, Folklore's Nature and the Sun's Myth, 346.

9 rannsóknin sem gerð hefur verið á íslenska langspilinu fór fram árið 1981 þegar hingað til lands kom bandaríski þjóðtónlistarfræðingurinn David G. Woods frá Háskólanum í Iowa- fylki í Bandaríkjunum. Woods rannsakaði:

[Í]slensk langspil í Reykjavík, á Selfossi, í Skógum, á Akureyri, Dalvík og Húsavík, samtals tuttugu og eitt hljóðfæri. Til rannsóknarinnar var veittur styrkur úr sjóðnum United States Educational Foundation in Iceland á vegum Senior Fulbright Research Fellowship. Tilgangurinn með verkefninu var að rannsaka nógu mörg af þeim langspilum sem fyrirfinnast á landinu, til þess að kanna sérstaklega þau atriði sem öðrum fremur einkenna smíði og gerð hljóðfærisins, einnig stillingu þess og leikmáta. Þau gögn sem þannig fengust, voru síðan notuð til þess að hanna nokkrar eftirlíkingar af íslenska langspilinu, svo og smíðispakka (enska „kit“, með teikningum og tilsniðnu efni) til kennslu og notkunar fyrir skólabörn. Á það skal sérstaklega bent, að uppeldis- og kennslufræðilegt notagildi þessarar rannsóknar felst í því að auka og dýpka heildarþekkingu nemenda á tónlist með því að kynna þeim sögu langspilsins, fá þá sjálfa til að smíða hljóðfærið og leika síðan á það.4

Í þessari rannsókn er því þráðurinn tekinn upp þar sem frá var horfið. Ráðist var í þróunarverkefni í Flóaskóla sem fram fór veturinn 2018–2019 þar sem smíðuð voru 18 langspil í samstarfi við smíðakennara skólans. Að smíðinni lokinni fengu nemendur kennslu í langspilsleik. Rannsóknin er því tvíþætt, hughrifarannsókn og hagnýtt rannsóknarverkefni. Hughrif viðmælenda eigindlegu rannsóknarinnar eru hugsuð sem skynfræðilegar undirstöður langspilssmíðaverkefnisins. Eigindlegi rannsóknarþátturinn gaf þannig færi á að líta til ýmissa þátta sem kunna að auka gildi og menningarlegar skírskotanir hins hagnýta þáttar.

Í næsta kafla verður horft um öxl og langspilið skoðað í sögulegu samhengi. Þá verður hljóðfærið einnig mátað við menningararfsorðræðu og hvernig það birtist okkur í nútímanum. Lagt verður út frá hinum ýmsu hugmyndum og kenningum um menningararf með sérstakri áherslu á sviðsetningu menningararfs.

Í þriðja kafla verður gerð grein fyrir rannsókninni. Fjallað verður um aðferðafræðina, frumforsendur rannsóknarinnar, val á viðmælendum, rannsóknarstaði og loks greint frá stöðu minni sem rannsakanda.

Fjórði kafli fjallar að mestu um hughrif. Þar verður greint frá upplifun viðmælenda af langspilsleik og hljómi hljóðfærisins, en einnig mun ég flétta inn í umræðuna vettvangsnótum um viðbrögð fólks þegar ég hef komið fram sem langspilsleikari við hin

4 Woods, Íslenska langspilið: Saga þess, smíði og notagildi til náms og kennslu, 112.

10 ýmsu tækifæri. Hrifin verða m.a. rædd út frá menningararfsorðræðu og kenningum á sviði þjóðfræði og þjóðtónlistarfræði. Í lok kaflans verða skoðanir viðmælenda á langspilssmíðaverkefni í grunnskólum viðraðar og þær ræddar m.t.t. fyrrnefndrar rannsóknar Woods, nýlegra rannsókna í fjölfaglegum kennslunálgunum og fjölmenningarlegra áherslna.

Í fimmta kafla verður fjallað um langspilssmíðaverkefnið í Flóaskóla. Kaflinn er að mestu í formi vinnuskýrslu um hagnýtan þátt rannsóknarinnar þar sem greint verður frá undirbúningi og vinnuferli verkefnisins. Þá verður fjallað um menningarstofnunina Íslenska bæinn í Austur-Meðalholtum í Flóahreppi sem hefur verið þungamiðja rannsóknarinnar. Staðurinn er ekki aðeins samstarfsaðili að verkefninu heldur hefur hann einnig verið uppspretta fagurfræðilegra og hljóðvistarlegra hugleiðinga við útfærsu verkefnisins. Sagt verður frá samstarfinu við stofnunina og fjallað verður sérstaklega um uppskeruhátíð verkefnisins, Langspilsvöku 2019. Hátíðin fór fram í gömlu baðstofu og nýjum sýningarskála staðarins þann 26. október síðastliðinn og var viðburðurinn lagður fram sem hluti af rannsóknarniðurstöðum. Í kjölfar umfjöllunar sem langspilssmíðaverkefnið hefur fengið í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum hafa ýmsir aðilar sýnt því áhuga og verður undir lok kaflans greint frá næstu langspilssmíðaverkefnum og samstarfsaðilum þeirra. Í niðurstöðum verða kostir og gallar vinnuferlisins skoðaðir og verður horft sérstaklega til viðbragða nemenda við hinum ýmsu verkþáttum. Fjallað verður um úrbætur fyrir næstu langspilssmíðaverkefni og þá verður einnig sagt frá næstu kynslóð langspila í Flóaskóla.

Í sjötta og lokakafla verður eigindlegi rannsóknaþátturinn tvinnaður saman við langspilssmíðaverkefnið með tilvísunum í hina ýmsu fræðilegu snertifleti ritgerðarinnar. Þá verður einnig fjallað um hvernig hughrif og handverk tengt langspilinu gætu einnig komið að gagni við að leggja nýjum og breyttum áherslum í námskrá tónlistarskóla lið – áherslum sem miða að endurbliki til tónlistarsköpunar fyrir 18. og 19. öld.

11 2 Sögulegt samhengi Íslenska langspilið er samtvinnað baðstofumenningu gamla bændasamfélagsins. Um svipað leyti og torfhúsum tók að fækka og lífshættir breyttust hafði áhugi fólks á hljóðfærinu þegar tekið að dvína. Blómaskeiði langspilsins lauk upp úr miðri 19. öld þegar nútímalegri hljóðfæri eins og harmóníum og harmónikkur urðu algengari almenningseign og í byrjun 20. aldarinnar tilheyrði langspilið liðnum tímum. Síðan þá hefur hljóðfærið að mestu vermt hillur og hvílt í glerkössum byggðasafna landsins. Ekki er heldur um auðugan garð að gresja þegar kemur að heimildum um langspil og langspilsleik en þó eru nokkrar gamlar heimildir þar sem finna má forvitnilegar lýsingar á fyrirbærinu. Í óútgefinni íslensk-latneskri orðabók sem Jón Ólafsson úr Grunnavík (1705–1779) tók saman telur Jón upp á lausum miða sem viðbót við flettiorðið „spil“ þau hljóðfæri sem algengust séu á Íslandi. Þetta eru hljóðfærin bumba, fiðla, fíól, harpa, clavier eða clavicordium, symfón og langspil.5 Það er hins vegar ómögulegt að geta sér til með vissu um spilamáta og hvernig hljóðfærin hafi hljómað í baðstofum landsins því ólíkt rímnakveðskap eru engar upptökur til af fyrri tíðar hljóðfæraleik.6 Hún er því áhugaverð lýsing eldklerksins Jóns Steingrímssonar (1728–1791) á langspilsleik í sjálfsævisögu hans ritaðri á árunum 1784–91:

Þá eg í minni Setbergsferð, hvar um áður er getið, hafði næturstað á Bæ í Borgarfirði, sá eg þar snoturt langspil, er þar hékk, og þarverandi húsmóðir, madame Þuríður Ásmundsdóttir, átti og brúkaði. Hún, sem gera vildi mér allt til þénustu og afþreyingar, bauð mér það til að slá upp á það. Og þá eg það reyndi, gat eg það ei fyrir innvortis angursemi og hugsun til fyrri daga, hvað þá hún sá, tók hún sjálf að spila á það ein þau lystilegustu lög, hvar við eg endurlifnaði og fékk þar af sérleg rólegheit.7

Jón sem var sjálfur lunkinn langspilsleikari er hér í tilfinningalegu uppnámi í kjölfar Móðuharðindanna og samkvæmt þessari lýsingu virðast langspilstónar madame Þuríðar vera hin besta huggun. Upp úr aldamótunum 1800 fóru heimsóknir erlendra ferðamanna til landsins að aukast og í ferðabókum er á nokkrum stöðum minnst á hljóðfæri og þá oftast langspils

5 Rósa Þorsteinssdóttir, Holur kassi og grófur strengur, 113-114. 6 Hildur Heimisdóttir, Langspil and Icelandic Fiðla, 18. 7 Jón Steingrímsson, Ævisaga síra Jóns Steingrímssonar eftir sjálfan hann, 315.

12 getið.8 Skoski steindafræðingurinn sir George Steuart Mackenzie (1780–1848) kom hingað til lands árið 1810 og ári síðar kom út ferðabók um Íslandsheimsóknina þar sem hann lýsir m.a. heimsókn sinni til Magnúsar Stephensens (1762–1833) á Innra–Hólmi. Líkt og eldklerkurinn fer Mackenzie jákvæðum orðum um upplifun sína af langspilsleik heimilisfólksins:

Við sátum undir borðum og vorum með hugann allan við að njóta góðgerðanna þegar ómur af tónlist barst okkur allt í einu að eyrum. Hnífar og gafflar voru þegar í stað lagðir niður og við horfðum fagnandi hver á annan. Þar eð við höfðum ekki heyrt neitt þess háttar áður á Íslandi, nema þegar sargað var ömurlega á fiðlu í danshúsinu í Reykjavík, var það okkur til mjög mikillar ánægju að heyra þennan viðkunnanlega óm af hljómþýðri tónlist. Eftir undrun okkar í fyrstu héldum við að tónlistin, sem barst af hæðinni fyrir ofan, væri frá piano-forte; en okkur var sagt að það væri íslenskt hljóðfæri, kallað langspil; og að hljóðfæraleikararnir væru sonur og dóttir hr. Stephensens, sem sjálfur var sagður leika mjög vel á þetta hljóðfæri. Langspilið, sem nú var flutt niður til að við gætum skoðað það, er gert úr mjóum trékassa, um þriggja feta löngum, bungulöguðum á öðrum endanum, þar sem hljómopið er, en hinn endinn er líkur fiðlu. Á því eru þrír látúnsstrengir, sem strekktir eru eftir því endilöngu, þar af eru tveir stilltir á sama tón og eina áttund neðar. Annar hinna fyrrnefndu liggur yfir lítilli brík með vírbútum þversum að ofanverðu. Þeim er komið fyrir þannig, að þegar strengnum fyrir ofan þá er þrýst niður með þumalnöglinni, eru mismunandi tónar myndaðir með boga sem strokið er þvert yfir; og hinir strengirnir gegna sama hlutverki eins og bordúnpípur á sekkjapípu … Þegar hljóðfærið er nálægt, er hljómur þess fremur harður; en frá nærliggjandi herbergi, sérstaklega í samleik tveggja, eins og fyrst þegar við heyrðum tónlistina, eru áhrifin mjög viðfelldin.9

Þessi lýsing Mackenzies á ómþýðum langspilsleik er heldur írónísk í ljósi þess að hér hljómar hann á heimili sjálfrar persónugervingar upplýsingastefnunnar.10 Magnús Stephensen virðist hafa látið framfarir á flestum sviðum mannlífsins sig varða og var tónlistariðkun alþýðunnar ekki undanskilin. Álit hans á söng og hljóðfæraleik Íslendinga var ekki upp á fiska eins og fram kemur í ýmsum skrifum hans. „… Vor fánýti saungur þeckir engann takt, án hvørs gód hliód og dírdlegir lofsaungvar greniast fram,“11 skrifar Magnús árið 1797 í tímaritinu Skemmtileg vinagleði og nokkrum árum síðar eða árið 1801 gefur hann út Messusöngs- og sálmabókina þar sem hann lýsir sálmasöng Íslendinga þannig að hver og einn „gauli í belg og kjeppist máta- og adgreiningar-laust, sumir ad grípa

8 Rósa Þorsteinsdóttir, Holur kassi og grófur strengur, 121. 9 Mackenzie, Travels on the Island of Iceland during the Summer of the Year MDCCCX, 146-147 [íslensk þýðing: Njáll Sigurðsson]. 10 Rósa Þorsteinsdóttir, Holur kassi og grófur strengur, 123. 11 Magnús Stephensen, Til lesaranna, xi.

13 hvørr fram fyrir annann og øndina á lopti, … og sumir ad draga seyminn í saung, hvørr ödrum lengur.“12 Á umbreytingaskeiði 19. aldar tók tónlistarlíf þjóðarinnar að breytast til muna og einn helsti brautryðjandi endurnýjunar íslenskrar tónlistar var dómorganistinn Pétur Guðjohnsen (1812-1877).13 Hann kenndi mörgum söng og harmóníumleik sem stuðlaði að útbreiðslu harmónía um landið.14 Pétur virðist hafa tekið í sama streng og upplýsingarfrömuðurinn, Magnús Stephensen, því hann var lítt hrifinn af hljóðunum sem gömlu hljóðfærin framkölluðu. Honum fannst t.a.m. tónar langspilsins óhreinir og taldi hljóðfærið „eyðileggja eyrun á blessuðu fólkinu“.15

Þó svo að gamaldags hljóðfæri hafi ekki átt upp á pallborðið hjá sigldum menntamönnum 19. aldarinnar voru aðrir sem sáu sig knúna til að finna þeim nýtt notagildi í breyttu tónlistarumhverfi. Árið 1855 gaf Ari Sæmundsen (1797-1876) út ritgerðina Leiðarvísir til að spila á langspil og til að læra sálmalög eptir nótum þar sem leiðbeint var um smíði hljóðfærisins, spilamáta og undirstöðuþekkingu í tónfræði. Af umfjöllun í Norðanfara frá 1877 að dæma virðist sem svo að leiðarvísi Ara hafi verið vel tekið og að hann hafi verið hið prýðilegasta hjálpartæki við að læra hin nýju sálmalög:

Þess [ritsins] var líka öll þörf, því víða var orðið mjög hræðilegt og sorglegt, að heyra hvaða ómyndir lögin voru orðin; og þó þessari bók, kunni að hafa verið margt ábótavant, tóku margir við henni fegins hendi og fóru kappsamlega, að læra sálmalögin eptir henni, á langspil, sem voru smíðuð eptir þeirri tilsögn, sem þar er gefin.16

Í tilsögn Ara eru langspilin með krómatísku gripabretti en ekki díatónísku eins og áður tíðkaðist. Þannig var mögulegt að framkalla bæði hvítar og svartar nótur hljómborða hinna nýju hljóðfæra og þar með allar nótur hins nýtískulegri sálmasöngs. En þrátt fyrir að langspilið hafi þannig að einhverju leyti gengið í endurnýjun lífdaga tóku vinsældir þess jafnt og þétt að dvína. Eflaust hefur aukinn innflutningur á orgelum, harmóníum og harmóníkum stuðlað mest að þessari þróun og segir séra Bjarni Þorsteinsson (1861–1938)

12 Magnús Stephensen, Evangelisk-kristileg Messu-saungs- og Sálma-Bók ad konúnglegri tilhlutun saman- tekin til almennilegrar brúkunar í Kirkjum og -húsum, 282-283. 13 Stefán Valmundsson, Hljóðfæri á Íslandi fram yfir aldamótin 1900, 9. 14 Davíð Ólafsson, Íslenzkar gátur, skemtanir, vikivakar og þulur, 272. 15 Hallgrímur Helgason, Tónmenntasaga Íslands, 51. 16 Um söng, o. fl., Norðanfari, 38.

14 í inngangi að þjóðlagasafni sínu að „um aldamótin (1900) eru langspil löngu gengin úr „móð“ og sjást nú varla nokkursstaðar, nema á einstöku söfnum utanlands og innan“.17

2.1 Langspilið sem menningararfur Síðan séra Bjarni lýsti langspilinu sem sjaldgæfum safngrip um aldamótin 1900 hefur söfnum landsins fjölgað til muna og samkvæmt fyrrnefndri rannsókn bandaríska þjóðtónlistarfræðingsins David G. Woods frá árinu 1981 eru langspil ekki svo óalgengur safngripur á minja- og byggðasöfnum landsins.18 En ætli gamla baðstofuhljóðfærið veki sérstaka eftirtekt eða forvitni safngesta? Holur trékassi með örfáum strengjum sem hvorki er hluti af óslitinni lifandi tónlistarhefð eða goðsögninni um frækna fortíð fornnorrænna manna19 er ef til vill ekki líklegt til að hreyfa við þorra upplifunarþyrstra safngesta. Langspilið hlýtir sömu reglum um varðveislu og aðrir gamlir munir safna – þau má ekki snerta. Langspilið tilheyrir jú menningararfi þjóðarinnar og hann þarf iðulega að brynja fyrir snertiþörf hins almenna borgara. Hljóðfæri sem áður hljómaði í dimmum baðstofum sveitanna hvílir nú gjarnan í glerkistum baðað halógenbirtu.

Slíkar áherslur á varðveislu menningararfsins má segja að sé hluti af hinni viðurkenndu orðræðu um menningararf. Fornleifafræðingurinn Laurajane Smith kallar þessa orðræðu „viðurkennda orðræðu um menningararf“20 og segir að hún „beini sjónum sínum að fagurfræðilega fullnægjandi efnislegum hlutum, stöðum, náttúrueinkennum og landslagi sem núlifandi kynslóðir verði að gæta, vernda og virða í þágu menntunar komandi kynslóða og mótunar á heildstæðri sjálfsmynd hennar sem byggð er á liðinni tíð“.21 Smith bendir einnig á að ein afleiðing hinnar viðurkenndu menningararfsorðræðu sé að með henni sé skilgreint hverjir séu réttmætir talsmenn fortíðarinnar.22 Meðal þeirra sem skipa þennan hóp fortíðarfulltrúa eru þjóðfræðingar og safnafræðingar sem starfa við að móta hugmyndir almennings um menningararf og miðla honum til komandi kynslóða. Það má því segja að þegar vörslumenn orðræðunnar ákveða að hafa hlut á borð

17 Bjarni Þorsteinsson, Íslenzk þjóðlög, 74. 18 Woods, Íslenska langspilið: Saga þess, smíði og notagildi til náms og kennslu, 113–114. Nánar verður fjallað um rannsókn Woods í undirkafla nr. 3.4. 19 Fjallað verður sérstaklega um goðsagnir í íslenskri þjóðernisstefnu í undirkafla nr. 4.4. 20 Íslensk þýð. á: „authorative heritage discourse“ (Sjá: Valdimar Tryggvi Hafstein, Menning í öðru veldi, 25). 21 Smith, The Discourse of Heritage, 29. 22 Sama heimild.

15 við langspil til sýnis á safni sé hann þannig gerður að menningararfi. Hann öðlast ákveðið fagurfræðilegt gildi og er jafnvel talinn mikilvægur fyrir sjálfsmynd þjóðarinnar og samband hennar við fortíðina. Langspilið verður því að menningararfi sem ætlað er að eiga erindi við kynslóðir framtíðarinnar. Þjóðfræðingurinn Valdimar Tr. Hafstein hefur bent á að þannig sé fólki kennt að ákveðnir hlutir séu mikilvægari en aðrir sem snertifletir við fortíðina – að kenna verði fólki að eiga menningararf.23

Þrátt fyrir göfug fyrirheit menningararfsorðræðunnar er samt ólíklegt að minjar á borð við langspilið öðlist sérstakan hljómgrunn meðal almennings í sínu hefðbundna varðveisluumhverfi. Hljóðfæri sem fær ekki að hljóma er lítið annað en skugginn af sjálfu sér. Það mætti því segja að langspil safnanna sé þögull menningararfur, óljós minning um eitthvað sem áður var. Hins vegar eru ekki allir sammála þessu viðtekna fortíðardekri menningararfsorðræðunnar og eru uppi raddir sem tala fyrir öðrum áherslum – að menningararfur snúist frekar um samband okkar við nútímann og framtíðina. Einn helsti talsmaður slíkra hugmynda er menningararfsfræðingurinn Rodney Harrison sem segir að:

Menningararfur hverfist ekki um fortíðina, hann fjallar fyrst og fremst um samband okkar við nútímann og framtíðina … Menningararfur er ekki hugsunarlaust samansafn hluta, staða og hefða sem við notum sem spegil nútímans, með áhangandi gildishlöðnum hugmyndum sem við kjósum að hafa meðferðis inn í framtíðina. Menningararfshugsun sem skapandi ferli með fortíð í nútíð fær okkur til að hugleiða hæfni okkar til að takast á við mótun framtíðarinnar á virkan og upplýstan hátt.24

Samkvæmt þessari skilgreiningu Harrisons á menningararfi er hann margslungnari en svo að hann snúist aðallega um hluti, staði og athafnir sem við speglum sjálfsmynd okkar í. Í þessu samhengi mætti jafnvel slá föstu að menningararfur á borð við langspilið gæti spilað meira spennandi hlutverk en almennur safngripur. Því eins og Harrison bendir á þá tökum við virka og upplýsta afstöðu til framtíðarinnar þegar við hugsum um menningararf sem skapandi þátt í tengingu við fortíðina.

Í ljósi þess sem Harrison boðar er langspilið upplagt dæmi um þessa vendingu á menningararfsorðræðunni. Undanfarin ár virðist sem svo að áhugi á þessu gamla bændahljóðfæri hafi aukist og það tekið að hljóma á ný. Það vill reyndar ekki svo til að

23 Valdimar Tr. Hafstein, Menningararfur, 315. 24 Harrison, Heritage, 4 [þýðing mín].

16 nýir strengir hafi verið strekktir í langspil safnanna og leikið sé á þau fyrir safngesti. Langspilin í glerkössunum eru jafn þögul sem áður og verða væntanlega enn um ókomna tíð. Það sem hér er vísað til eru hinir ýmsu áhugamenn um langspilsleik sem hafa tekið til við að smíða ný langspil og leika á þau. Tónlistarhópar hafa litið dagsins ljós sem annað hvort hafa langspil í forgrunni í tónlistarsköpun sinni eða nota það sem meðleikshljóðfæri.

Árið 1961 skrifar söngkonan Anna Þórhallsdóttir grein í Tímann þar sem hún rekur sögu langspilsins og telur hljóðfærið vanræktan þjóðararf.25 Átta árum síðar kom út í New York hljómplatan Folk Songs of Iceland þar sem hún flytur þjóðlög við eigin langspilsundirleik og verður ekki hjá því komist að telja útgáfuna til tímamóta í íslenskri tónlistarsögu.26 Minnast verður einnig á söngkonuna Guðrúnu Sveinsdóttur sem var sömuleiðis mikil áhugamanneskja um langspilsleik og lét ásamt Önnu til sín taka við að hefja langspilið aftur til vegs og virðingar.

Segja má að frumkvöðlastarf þeirra Önnu og Guðrúnar hafi rutt brautina fyrir næstu kynslóðir langspilsleikara. Sigurður Rúnar Jónsson eða Diddi fiðla hefur lengi verið einn af fánaberum íslensks tónlistararfs og ötull talsmaður langspilsins og íslensku fiðlunnar bæði á Íslandi sem og á erlendri grundu.27 Þá hafa hjónin Bára Grímsdóttir og Chris Foster sem skipa dúóið Funa vakið verðskuldaða athygli fyrir tónlistarflutning á íslenskum og norður– evrópskum þjóðlögum.28 Þau hjón fara heldur nýstárlegar leiðir í þjóðlagatúlkun sinni þar sem þau blanda gjarnan saman langspili og klassískum gítar.

Önnur heimilishljómsveit í svipuðum dúr eru Spilmenn Ríkínís sem skipuð er fjögurra manna fjölskyldu í vesturbæ Reykjavíkur. Árið 2009 gáfu Spilmennirnir út geisladiskinn Ljómalind sem hefur að geyma túlkun þeirra á tónlistardæmum úr íslenskum handritum og bókum. Hljóðfærin sem notuð eru til flutningsins eru af gömlu gerðinni – hljóðfæri sem voru algeng á Íslandi fyrr á öldum eins og sláttugilli, harpa, lýra, symfón og langspil. Langspilið er gjarnan haft í forgrunni ýmist sem meðleiks- eða einleikshljóðfæri. Mörgum kann að þykja hljómur þessara gömlu hljóðfæra æði óvenjulegur enda eru nútímahljóðfæri mun þróaðri en þau sem hér er getið. Hljómur þeirra sver sig í ætt við

25 Anna Þórhallsdóttir, Langspil, 11. 26 Anna Þórhallsdóttir, Folk Songs of Iceland [LP hljómplata]. 27 Hildur Heimisdóttir, Langspil and Icelandic Fiðla, 15. 28 Vefsíða Þjóðlagaseturs sr. Bjarna Þorsteinssonar. Bára Grímsdóttir and Chris Foster.

17 hljómheim miðalda sem einkennist m.a. af opnum fimmundum sem liggja undir einföldum laglínum í gömlu kirkjutóntegundunum.29 Þessi gamli hljómheimur virðist vesturbæísku Spilmönnunum hugleikinn en honum er svo lýst í geisladiskabæklingi Ljómalindar:

Sá hljómur sem verður til þegar sungið er og leikið á þessi gömlu hljóðfæri kveikir tilfinningu í brjóstinu, líkt og sofinn strengur sé sleginn á ný. Líkt því sem við göngum til móts við veruleika sem alltaf hefur búið með okkur en við þekktum þó ekki.30

Þessi lýsing Spilmannanna á hljómheimi gömlu hljóðfæranna má segja að tengist menningararfsáherslum Harrisons – að hér sé ef til vill ágætis dæmi um hvernig menningararfur snýst fyrst og fremst um tilvist okkar í nútímanum og hvernig við notum hann til að móta framtíð okkar. Hljómur gömlu hljóðfæranna virðist hér tilfinningablandin fortíðartenging sem hendir reiður á veruleikanum – sköpunarkraftur sem blæs nýju lífi í hugmyndir um fortíðina.

2.2 Sviðsettur menningararfur Ef segja má að áhugi á langspilsleik fari vaxandi þá er slík þróun væntanlega samstíga auknum áhuga fólks á menningararfi almennt. Valdimar Tr. Hafstein kallar þessa þróun „menningararfsvæðingu“ og bendir á að hún hafi „umbreytt ólíkustu hlutum, atferli og ummerkjum fortíðar í menningararf“.31 Valdimar bendir ennfremur á að sumir telja að þessi áhugi:

[S]é til marks um aukna sögulega meðvitund, aðrir tengja hann þróun ferðaþjónustu og enn aðrir álíta hann hluta af tíðaranda sem einkennist af þrá eftir horfnum heimi. Meðal annarra skýringa má nefna þjóðernishyggju og aukna áherslu á staðbundna sérstöðu sem andsvar við hnattvæðingu; lengri ævi fólks og breytt fjölskyldutengsl; hreyfanleika einstaklinga; famandgervingu fortíðarinnar í kvikmyndum og sjónvarpi; vaxandi hneigð til að líta á fortíðina sem varning o.s.frv.32

29 Síðustu aldir hefur evrópsk eða vestræn tónlist stuðst við hið svokallaða dúr- og moll-kerfi. Undanfari þess voru tóntegundir Gregorsöngs eða hinar svokölluðu kirkjutóntegundir. Gregorsöngur er kenndur við Gregorius I páfa sem ríkti á árunum 590-604 og er talinn hafa verið sá sem kom skipulagi á hinn rómversk- kaþólska kirkjusöng. Talið er að þessi hljómheimur hafi verið við lýði á Íslandi fram á 19. öld (sjá: Jón Þórarinsson, Íslensk tónlistarsaga 1000–1800). Nánar verður fjallað um hljómheim langspilsins og virkni þess í undirkafla nr. 4.3. 30 Spilmenn Ríkínís, Ljómalind, 8. 31 Valdimar Tr. Hafstein, Menningararfur, 314. 32 Valdimar Tr. Hafstein, Menning í öðru veldi, 24.

18 Vera má að langspilsleikur sé því að einhverju leyti fortíðarþrá – þrá eftir því að tengjast heimi eða „veruleika sem alltaf hefur búið með okkur en við þekktum þó ekki“.33 Hér er aftur vísað í upplifunartexta Spilmannanna því ef til vill er hann einmitt lýsandi fyrir tilfinninguna sem bærist í brjósti fólks þegar það samsvarar sig sterkt við menningararf.

Þó svo að menningararfur kunni að vera þrá eftir ímyndaðri eða framandgerðri fortíð er menningararfur eins og áður hefur verið minnst á fyrst og fremst um líðandi stund. Menningararfur er nútímafyrirbæri og það „að eiga menningararf er merki um að vera nútímamaður“.34 Það má því segja að fátt sé nútímalegra en að spila á langspil. Um leið og langspilsleikarinn mundar hljóðfærið og framkallar fyrstu tónanna er hann í sama mund að undirstrika „móderníseraða“ tilvist sína. Ef hins vegar langspilsleikur væri hluti af óslitinni þjóðlaga- eða tónlistarhefð væri merking hans væntanlega önnur. Svipað og sá sem kveður rímur, saumar út eða stundar glímu án þess að spá neitt frekar í það – honum yrði seint lýst sem nútímamanni.35

Nútímamaðurinn býr því til menningararf með því að ljá ákveðnum hlutum og athöfnum sérstaka merkingu. Menningararfur verður að einhvers konar brú milli fortíðar og samtíðar og því má segja hann sé í eðli sínu performatívur eða eins og þjóðfræðingurinn Bryndís Björgvinsdóttir bendir á þá verður menningararfur til „vegna þess að hann er sviðsettur“.36

Það ætti því kannski ekki að koma á óvart ef einhverjir hér á landi fyndu sig knúna til að sviðsetja langspilsleik á svipaðan hátt og þekkist í nágrannalöndunum. Ef til vill myndi það svala upplifunarþorsta og fortíðarhyggju nútímamannsins ef til væru sérlegir langspilsleikarar á vegum hins opinbera sem klæddust íslenskum þjóðbúningum og hefðu það hlutverk að leika og syngja íslensk þjóðlög við hátíðleg tækifæri. Mætti t.d. ímynda sér sveit langspilsleikara á Bessastöðum – konurnar ef til vill á faldbúning og karlarnir í vesti og hnébuxum úr vaðmáli. Hér væri ekki ósvipuð sviðsetning á menningararfinum og þekkist í Skotlandi þegar skærir tónar sekkjapípuleikara í köflóttum pilsum bergmála um byggð ból. Viktoría Englandsdrottning hefur án efa kunnað að meta hvella og forna tóna

33 Spilmenn Ríkínís, Ljómalind, 8. 34 Valdimar Tr. Hafstein, Menningararfur, 315. 35 Sama heimild. 36 Bryndís Björgvinsdóttir, „Þetta er fyrir tvöhundruð árum!“, 149.

19 sekkjapípunnar því árið 1843 bjó hún til sérstaka stöðu konunglegs sekkjapípuleikara.37 Staðan er enn við lýði og hefur enn sömu skyldum að gegna og á dögum Viktoríu en meðal þeirra er að blása í pípurnar undir glugga þjóðhöfðingjans í fimmtán mínútur frá klukkan níu hvern morgun.38 En þó svo að sérlega tilskipaðir langspilsleikarar kynnu að sóma sér vel við opinber veisluhöld á forsetasetrinu líkt og sekkjapípuleikarar í hallargörðum Englandsdrottningar er kannski ólíklegt að forsetahjónin myndu kæra sig um að verða vakin með langspilsleik hvern morgun.

Þó svo að slík hugmynd um sviðsetningu á menningararfinum gæti þótt yfirdrifin og myndi án efa falla í misgóðan jarðveg má segja að hér sé ágætis dæmi um hvernig menningararfur geti þjónað sem einhvers konar tímavél eins og Bryndís bendir ennfremur á í grein sinni.39 Það væru því ekki aðeins miðaldalegir langspilstónarnir sem myndu tengja fólk aftur til fyrri alda því handgerðir búningarnir myndu einnig leika mikilvægt hlutverk. Hér renna tónar, handverk og efni saman í eina heild og segja má að slíkur performans sé gott dæmi um sköpunarferli menningararfsins.

Safngripur á borð við langspil – gamall trékassi með hjartalaga hljóðopi og örfáum strengjum kann við fyrstu sýn vera harla ómerkilegur hlutur. En sem menningararfur öðlast hann aðra merkingu – lifnar í raun við og verður hluti af raunveruleika nútímamannsins sem speglar samtíð sína og framtíð í hugmyndum sínum um fortíðina. Eins og hér hefur verið rætt tengist langspilið flókinni og fjölbreyttri orðræðu um menningararf og öðlast þannig víðtækar skírskotanir. Þessar skírskotanir eða tengingar kristallast í performatívu eðli menningararfsins – sviðsetning þar sem hinir ólíklegustu hlutir og athafnir geta virkað sem tímavélar er gera fólki kleift að ferðast á ákjósanlega staði liðinna tíma. Menningararfur er líka pólitískt afl sem bæði getur sundrað og sameinað. Því má segja að kennsla um menningararf eigi ekki aðeins erindi á efri stigum menntakerfisins heldur einnig á grunnskólastigi og þar gæti langspilið gegnt ákveðnu hlutverki. Það má því finna ýmsa áhugaverða rannsóknarfleti er fyrirbæri á borð við íslenska langspilið er skoðað nánar og óhætt að fullyrða að gamla baðstofuhljóðfærið er heldur meira en þögull safngripur.

37 Sjá: McKay, A History of the Office of Piper to the Sovereign. 38 McKay, A History of the Office of Piper to the Sovereign, 188. 39 Bryndís Björgvinsdóttir„Þetta er fyrir tvöhundruð árum!“: Sviðsettur menningararfur, 159.

20 3 Rannsóknin Rannsókn þessi byggir á eigindlegri aðferðafræði en bæði gagnasöfnun og greiningarferli tók mið af greiningaraðferð grundaðrar kenningar (e. grounded theory approach) og skynrænni aðferðafræði (e. sensory ethnography). Markmið rannsóknarinnar er að kanna hvernig fólk upplifir hljóm og tóna langspilsins og um leið nýtingarmöguleika hljóðfærisins til tónlistarflutnings og til kennslu í grunnskólum. Það má því segja að um skynræna rannsókn sé að ræða þar sem viðfangsefnið kallar á notkun fjölbreyttra rannsóknargagna og marglaga skynræna greiningu. Rannsóknarferlið hófst með viðtölum sem ég tók við níu einstaklinga bæði á Íslandi og í Hollandi. Gerðar voru tvær þátttökuathuganir, önnur á haustdögum 2016 í Alþjóðlega grunnskólanum í Delft og hin í Flóaskóla vorið 2018. Þá voru gerðar vettvangsathuganir í tengslum við tónleika þar sem ég kom sjálfur fram sem langspilsleikari og einnig í starfi mínu sem umsjónarmaður Þjóðlagaseturs sr. Bjarna Þorsteinssonar á Siglufirði sumrin 2017-2019. Rannsóknargögn þátttöku- og vettvangsathugananna voru ýmist í formi dagbókarskrifa, vettvangsnótna, ljósmynda eða myndskeiða. Í þessum kafla mun ég gera grein fyrir aðferðafræði rannsóknarinnar, verklagi hennar og stöðu minni sem rannsakanda.

3.1 Eigindlegar rannsóknaraðferðir Það getur verið vandkvæðum háð að skilgreina eigindlegar rannsóknaraðferðir því þær styðjast við margvíslegar heimspekilegar og aðferðafræðilegar nálganir.40 Þó má segja að þessi tegund rannsókna miði fyrst og fremst að því að öðlast djúpstæðan skilning á upplifunum eða skynjunum fólks.41 Til þess eru notaðar ólíkar og fjölbreyttar aðferðir þar sem tilgangurinn helgar meðalið, eða m.ö.o. þá markast val á aðferðum í eigindlegum rannsóknum fyrst og fremst af sjálfu viðfangsefninu. Meðal helstu eigindlegra rannsóknaraðferða má nefna innihalds- og orðræðugreiningu, þátttöku- og vettvangsathuganir og viðtöl við einstaklinga og rýnihópa.42 Markmið eigindlegra rannsókna er því ekki gagnasöfnun og þekkingarsköpun sem nýtt er til alhæfinga. Þvert á

40 Hennink et al., Qualitative Research Methods, 8. 41 Hennink et al., Qualitative Research Methods, 9. 42 Sama heimild.

21 móti leitast þær við að útskýra eða öðlast djúpstæðan skilning á skoðunum og háttum fólks, sjálfsmynd þess og reynsluheimi.43

Í eigindlegum rannsóknaraðferðum er gengið út frá því að reynsluheimur eða veruleiki fólks sé félagsleg formgerð sem markast af félagslegum, menningarlegum, sögulegum og persónulegum þáttum.44 Margræðnin í veruleika fólks gerir það að verkum að viðbrögð viðmælenda við rannsóknarviðfanginu geta þ.a.l. verið æði margvísleg. Rannsakandinn þarf að vera við því búinn að þau kunni að virka bæði mótsagna- og þverstæðukennd. Þessi margræðni hefur það í för með sér að í eigindlegum rannsóknaraðferðum verður að gera ráð fyrir huglægri afstöðu viðmælanda. Þannig er ekki leitast við að draga eina ákveðna yfirvegaða ályktun af eigindlegum rannsóknum heldur er sett fram fjölradda lýsing sem varpar ljósi á persónulega og heildræna sýn á viðfangsefnið. Rannsakandinn er því eins konar vefari sem vefur heildstæða mynd úr mörgum marglitum þráðum og gerir okkur þannig kleift að öðlast dýpri og víðfeðmari skilning á hinum ýmsu fyrirbærum mannlífsins.

Huglægni rannsakandans er ekki síður mikilvægur þáttur í eigindlegum rannsóknaraðferðum. Með sjálfsrýni (e. reflexivity) eru þær kröfur gerðar til rannsakandans að hann sé fyllilega meðvitaður um sitt eigið gildismat, sjálfsmynd og hvaða hugmyndafræði hann aðhyllist. Slíkir þættir kunna að vera samgrónir sjálfi rannsakandans og því ríður á að sjálfsrýni sé viðhöfð á öllum stigum rannsóknarferlisins. Rannsakandinn skal íhuga reglulega þau áhrif sem hann eða hún kann að hafa á uppbyggingu rannsóknarinnar, vali á viðmælendum, staðsetningar, söfnun gagna, túlkun þeirra og framsetningu.45

3.2 Greiningaraðferð grundaðrar kenningar Þegar kom að úrvinnslu viðtalanna er snéru að upplifun viðmælenda af langspilsleik var stuðst við greiningaraðferð grundaðrar kenningar. Um þessa tegund greiningaraðferðar segja Monique Hennink, Inge Hutter og Ajay Bailey í bók sinni Qualitative Research Methods að hún hafi verið þróuð af bandarísku félagsfræðingunum Barney Glaser og Anslem Strauss á sjöunda áratug síðustu aldar og sé sú mest áberandi á sviði félagsvísinda

43 Hennink et al., Qualitative Research Methods, 17. 44 Hennink et al., Qualitative Research Methods, 15. 45 Hennink et al., Qualitative Research Methods, 20.

22 þegar kemur að úrvinnslu eigindlegra rannsóknargagna. Þau benda á að aðferðin leitist við að sameina aga vísindanna og sköpunarkraftinn sem felist í nýjum uppgötvunum – þetta sé því heillandi nálgun því um leið og hún haldi tryggð við margræðni og óþrjótandi túlkunarmöguleika eigindlegra rannsókna sé hún framkvæmd og unnin á vísindalegan hátt.46

3.3 Skynræn aðferðafræði Skynræn aðferðafræði hefur notið mikilla vinsælda í rannsóknum á sviði hug- og félagsvísinda undanfarin ár. Mannfræðingurinn Sarah Pink segir í bók sinni Doing Sensory Ethnography að þessar auknu vinsældir megi kalla sprengingu í notkun skynrænnar aðferðafræði því auk hug- og félagsvísindarannsókna er einnig tekið mið af skynrænum rannsóknaraðferðum í rannsóknum annarra fræðasviða eins og heilbrigðisvísinda, menntavísinda og listgreina.47 Í skynrænni aðferðafræði er útgangspunktur rannsakandans sá að upplifun og skynjun viðmælandans á tilveru sinni og umhverfi sé margræð. Því er mikilvægt að rannsakandinn sé meðvitaður um notagildi og kosti fjölbreyttra rannsóknargagna og sé einnig reiðubúinn til að beita mismunandi eigindlegum rannsóknaraðferðum. Til dæmis er erfitt eða ómögulegt að skrásetja fyrirbæri eins og lykt eða hvernig við skynjum mismunandi áferðir efna eða yfirborða. Rannsóknargögn verða því að vera fjölbreytt og auk texta má nefna ljósmyndir, hljóðupptökur og myndskeið sem dæmi. Rannsóknarniðurstöður í hefðbundnum eigindlegum rannsóknum eru gjarnan lagðar fram í rituðu máli, t.d. í formi bóka eða fræðigreina. Hins vegar kallar skynræn aðferðafræði á fjölbreytta framsetningu á niðurstöðum rannsókna allt eftir sjálfu rannsóknarviðfanginu. Kvikmynd, kynning á mismunandi lykt í formi innsetningar, ljósmyndasýning og tónlistarsköpun eru meðal þeirra miðla sem kunna að vera best til þess fallnir þegar kemur að framsetningu nýrrar þekkingar.48

Fjölbreytileikinn í skynrænum rannsóknargögnum kallar á að greiningarferlið sé í fyrirbæralegu samhengi við öflun gagna, m.ö.o. að rannsakandinn endurupplifi stað og stund gagnasöfnunarinnar í greiningarferlinu. Textavinnsla eða framsetning

46 Hennink et al., Qualitative Research Methods, 207. 47 Pink, Doing Sensory Ethnography, xi. 48 Pink, Doing Sensory Ethnography, 48.

23 rannsóknarinnar ætti því að vekja upp þær kenndir, hugmyndir eða minningar sem gögnin geyma. Rannsóknargögnin geta því verið nýtt sem minnisvörður sem hjálpa til við að kalla fram minningar og hugmyndaflæði á ýmsum stigum rannsóknarferlisins og þannig gert rannsakandanum kleift að endurupplifa skynrænan og tilfinningalegan veruleika rannsóknarinnar.49 Því má segja að greiningaferli sem tekur mið af skynrænni aðferðafræði sé samspil staðbundinnar gagnasöfnunar og svo þeirra hugrenningatengsla sem skapast við vinnslu gagnanna – skynrænna og líkamnaðra minninga um fyrirbæri eins og svipbrigði, tilfinningu, bragð, lykt, birtu og hljóð.50

3.4 „Þetta er eilífðartónninn“ Hljóð, eða öllu heldur tónar, eru leiðarstefið í þessari rannsókn. Frumforsenda rannsóknarinnar er hvernig mín eigin skynjun og annarra á langspilstónum opnaði á nýja möguleika, bæði á sviði tónlistarsköpunar og þjóðfræðirannsókna. Hugmyndin um að notast við eigindlegar rannsóknaraðferðir meðfram hugmyndum Woods kviknaði sumarið 2015 þegar ég ásamt tveimur öðrum tónlistarmönnum kom fram á tónleikum í sumartónleikaröð í Strandarkirkju við Engilsvík. Efnisskráin samanstóð af íslenskum þjóðlögum og sálmum sem ýmist voru sungnir við langspils- eða harmóníumundirleik. Hlutverk langspilsins á tónleikunum var frekar stórt því nokkur lögin voru leikin án söngs. Leikið var á tvö langspil samtímis, annað plokkað en leikið með boga á strengi hins. Ósungnu langspilslögin gáfu því tónleikagestum tækifæri á að hlýða á hljóðfærin ein og sér. Þetta var fyrsta skiptið sem ég kom fram á skipulögðum tónleikum sem langspilsleikari og því var bæði gagnlegt og gaman að viðtökur tónleikagesta voru jákvæðar og hvetjandi. Langspilið vakti sérstakan áhuga eldri karlmanns sem kom að tali við mig að tónleikunum loknum. Hann kynnti sig með nafni og sagðist heita Erlendur Haraldsson og minntist á að hann væri fyrrverandi prófessor í sálfræði við Háskóla Íslands. Hann sagði mér lítillega frá rannsóknum sínum á sviði dulsálfræði og andlegra fyrirbæra. Langspilsleikurinn virtist hafa haft sterk áhrif á hann því hann setti hljóminn í hljóðfærinu í samhengi við andleg orkusvið og þegar hann lýsti langspilstónunum nánar sagði hann: „Þetta er eilífðartónninn!“51

49 Pink, Doing Sensory Ethnography, 143. 50 Pink, Doing Sensory Ethnography, 148. 51 EE V.

24 3.5 Viðmælendur Þessi viðbrögð emeritus prófessorsins urðu til þess að ég fór að velta fyrir mér rannsóknaraðferðum sem gætu nýst við að kanna skynjun fólks á langspilinu. Það var síðan í námskeiðinu Eigindlegum rannsóknaraðferðum I á haustmisseri 2016 að ég fann þessari rannsóknarhugmynd farveg. Ég hófst þá handa við að huga að vali á viðmælendum en á þessum tíma var ég enn búsettur í Den Haag í Hollandi. Um nokkurt skeið stjórnaði ég Íslendingakórnum sem hafði bækistöðvar í Utrecht. Þetta var fámennur en góður hópur ungs fólks en flest þeirra voru í framhaldsnámi við Tónlistarháskóla borgarinnar. Það lá því beinast við að leita að fyrstu viðmælendum rannsóknarinnar í þessum litríka hópi tónlistarfólks.

Hér má segja að kenningar franska félagsvísindamannsins Pierre Bourdieus um veruhátt (e. habitus) og smekk komi að gagni við að varpa skýrara ljósi á þessa tilhneigingu mína í vali á viðmælendum. Í stuttu máli þá vísar hugtakið veruháttur til áunninnar tilveru með djúpar rætur í uppeldi, menntun og stöðu innan félagslegrar formgerðar.52 Hugtakið „smekkur“ lýsir þá neyslumynstri fólks sem grundvallast á veruhætti þess og á sér augljósar birtingarmyndir í þáttum eins og smekk fyrir listum og menningu.53 Það má því segja að ég hafi leitað til viðmælenda innan míns eigin veruháttar – eða öllu heldur á þeim sviðum þar sem veruhættir skarast og svipaðar hugmyndir um smekk ríkja.

Að vissu leyti var þetta meðvituð ákvörðun, ég ímyndaði mér að skynsamlegt væri að halda mér innan ákveðins þægindaramma þar sem þetta voru mín fyrstu skref í félagsvísindalegum rannsóknum. Ég taldi að tónlistarfólk frá Fróni með svipað menningarlegt bakland væri líklegt til að sýna rannsókninni áhuga og skilning. Ég leitaði því til þriggja meðlima Íslendingakórsins í Hollandi – þriggja íslenskra ungra kvenna sem koma úr ólíkum starfsstéttum en hafa allar stundað tónlistarnám, ýmist formlegt nám við tónlistarháskóla eða á eigin vegum hjá einkakennurum. Fyrsta viðtalið tók ég við Sólbjörgu Björnsdóttur sem starfar sem kennari og stuðningsfulltrúi við Alþjóðlega grunnskólann í Delft. Þar í borg býr Helga Kristín Friðjónsdóttir sem var annar viðmælandi minn en hún rekur eigin ferðaskrifstofu sem sérhæfir sig í menningartengdum ferðum til Íslands. Þriðji viðmælandinn var lögfræðingurinn Edda Kristjánsdóttir en hún lauk einleikaraprófi í

52 Edgerton & Roberts, Cultural capital or habitus?, 198. 53 Sjá Bourdieu, Almenningsálitið er ekki til.

25 flautuleik frá Tónlistarskólanum í Reykjavík áður en hún las lögfræði í New York-borg. Þessi fyrstu viðtöl voru unnin haustið 2016 í tengslum við fyrrnefnt námskeið í eigindlegum rannsóknaraðferðum. Auk viðtalanna fór fram vettvangsathugun í Alþjóðlega grunnskólanum í Delft en þar gegndi Sólbjörg hlutverki hliðvarðar. Hliðvörður er einstaklingur sem í krafti stöðu sinnar og tengsla getur opnað dyr fyrir rannsakandanum að ákveðnum hópum eða samfélögum.54 Vettvangsathugunin fór fram að morgni og tók um eina og hálfa klukkustund þar sem ég kynnti langspilið og lék á það fyrir tvo bekki. Sólbjörg sem hafði haft frumkvæðið að heimsókninni er eins og fyrr segir kennari við skólann og því hafði ég greiðan aðgang að kennurum og starfsfólki stofnunarinnar. Voru samræður á kennarastofunni ekki síður athyglisverðar en sjálf viðbrögð barnanna við langspilsleiknum.

Þegar greining og ígrundun á þessum fyrstu rannsóknargögnum hófst varð mér ljóst að mikilvægt væri að róa á önnur og ólík mið svo tryggja mætti að rannsóknin leiddi í ljós víðfeðmari þekkingu á upplifun fólks á langspilinu. Þó svo að í fyrstu þremur viðtölunum hefðu komið fram ólíkar hugmyndir og skoðanir á viðfangsefninu taldi ég það engu að síður vera gildisaukandi fyrir rannsóknina ef ég leitaði út fyrir minn eigin veruhátt og þægindaramma. Ég tók því til þess ráðs að nýta mér smáforritið Grindr – samfélagsmiðil sem er hannaður fyrir snjallsíma og ætlaður hinsegin karlmönnum er sækjast eftir stefnumótum og vinskap. Þar sem ég tilheyri sjálfur hinsegin-samfélaginu var ég þannig í vissum skilningi enn innan míns eigin veruháttar og fannst mér þ.a.l. auðveldara en ella að nálgast ókunnuga á þessum vettvangi hýrra fýra. Flestir þeirra sem ég nálgaðist tóku heldur fálega í málaleitan mína. Kannski ekki að ósekju þar sem eigindlegar rannsóknaraðferðir og langspilsleikur er líklega ekki það sem menn sækjast eftir sem umræðuefni í spjallþráðum smáforritsins. Þó var einn sem tók erindinu vel og sýndi því áhuga. Sá heitir Qian Hao og er kínverskur listamaður búsettur í Rotterdam. Þegar viðtalið við Qian fór fram á haustdögum árið 2017 var hann enn við nám við hönnunar- og margmiðlunardeild Piet Zwart mennta- og rannsóknarstofnunarinnar í sömu borg.

Viðtalið við Qian skapaði mikilvægar alþjóðlegar tengingar bæði á sviði alþýðutónlistar og listsköpunar. Qian er mikill áhugamaður um íslenska tónlist og þá

54 Hennink et al., Qualitative Research Methods, 92-93.

26 sérstaklega tónlist sem tilheyrir hinni svokölluðu krúttkynslóð.55 Hann setti langspilið gjarnan í samhengi við þessa tilteknu tónlistarstefnu en hún á miklu fylgi að fagna í Kína þar sem t.a.m. hafnfirska söngkonan og lagasmiðurinn Sóley Stefánsdóttir er stórstjarna samkvæmt lýsingum Qians.56 Þessar samlíkingar Qians á langspili og tónlistarsköpun krúttkynslóðarinnar leiddi mig til næsta viðmælanda. Sambýlismaður frænku minnar, Hannes Steindórsson fasteignasali í Reykjavík, hafði áður en ég hóf rannsóknina sýnt langspilinu áhuga á kvöldstundum í sumarbústað föðurbróður míns í Bláskógabyggð. Tónlist og flutningur söngvaskálda (e. singer-songwriter) höfðar sterkt til hans og þ.m.t. söngvaskálda er tilheyra kynslóð krúttanna. Mér fannst því upplagt að leita til Hannesar og ekki síður sökum þess að veruhættir okkar skarast lítið. Í viðtalinu við Hannes, sem fór fram haustið 2017, minntist hann sérstaklega á miðaldalegan blæ langspilshljómsins en fannst hann ekkert síður eiga heima á fjölum Kaffi Rosenbergs.57

Þetta samspil fornra og nútímalegra hugrenningatengsla Hannesar urðu til þess að mér varð hugsað til upphafspunkts rannsóknarinnar, þegar ég hitti Erlend Haraldsson sumarið 2015 í Strandarkirkju. Erlendur hafði sett langspilshljóminn í enn víðara samhengi en Hannes og það var ekki síst vegna þessa sem ég ákvað að hafa samband við Erlend fyrir næsta viðtal. Ég átti enn í fórum mínum nafnspjaldið sem Erlendur hafði afhent mér er við kvöddumst í Strandarkirkju og þegar ég hringdi í hann, mundi hann vel eftir téðum tónleikum og ummælunum sem hann lét þá falla um langspilstóninn. Við Erlendur hittumst svo aftur í ársbyrjun 2018 og staðfestust þá hinar dulrænu tengingar tónanna.58

Þau voru ekki síður dulræn hughrifin sem gerðu vart við sig er ég tók hús á rithöfundinum Þórunni Jörlu Valdimarsdóttur. Ég hafði hitt Þórunni Jörlu um sumarið 2017 í Alþýðuhúsinu á Siglufirði þar sem hún ásamt fleiri skáldum flutti frumsamin ljóð úr nýútkomnum ljóðabókum eða bókum sem enn voru á vinnslustigi. Ég kynntist Þórunni Jörlu örlítið þessa kvöldstund því við sátum saman við kvöldverðarborðið á undan ljóðalestrinum. Þórunn Jarla er sagnfræðingur að mennt og eru ritverk hennar gjarnan á

55 Meðal meðlima krúttkynslóðarinnar teljast hljómsveitir á borð við Sigur rós, Múm, Skakkamanage, Rúnk, Benni Hemm Hemm, Mugison, Amiina og Ólöf Arnalds (Atli Bogason, Af tilvist, dauða og pólitík, 16). 56 EE 4. 57 EE 5. Kaffi Rosenberg sem var vinsæll veitinga- og tónleikastaður til húsa að Klapparstíg 27 í Reykjavík. Staðnum var lokað í kjölfar gjaldþrots árið 2018 (sjá: Kaffi Rosenberg gjaldþrota, Viðskiptablaðið, 17.4.2018). 58 EE 6.

27 sagnfræðilegum nótum – ný sköpun á gömlum grunni. Þessi nálgun fannst mér ríma við viðfangsefni rannsóknarinnar og því kviknaði hugmynd að bjóða henni upp á örtónleika heima í stofu þegar vel stæði á.

Þórunn Jarla tók vel í hugmyndina og fór svo að ég fékk að hitta hana snemma árs 2018. Viðtalið við Þórunni Jörlu var ekki það eina sem kom til vegna sagnfræðilegra tenginga. Í einni af mörgum heimsóknum mínum til vina minna Arnar Magnússonar og Guðrúnar Mörtu Halldórsdóttur, tveggja af fjórum meðlimum fjölskylduhljómsveitarinnar Spilmanna Ríkínís, komst ég á snoðir um elsta varðveitta langspil landsins. Langspilið er talið vera frá 18. öld og er í eigu Hilmars Arnar Hilmarssonar allsherjargoða og tónlistarmanns. Snemma hausts 2017 hringdi ég í hann og tók hann vel í að hitta mig og segja frá langspilinu gamla. Viðtalið við Hilmar Örn var því ekki af skynrænum toga, heldur sagnfræðilegum, hugsað sem innlegg í kafla ritgerðarinnar þar sem fjallað er um langspilssmíðaverkefnið.

Níunda og síðasta viðtalið kom til á heldur óvæntan hátt. Vinkona mín og listamaðurinn Aðalheiður S. Eysteinsdóttir var tilnefnd til Eyrarrósarinnar fyrr í vetur fyrir menningarstarfsemi í Alþýðuhúsinu á Siglufirði og var því stödd á Suðvesturhorninu. Þegar við hittumst nokkur á veitingastað í miðbæ Reykjavíkur í tilefni tilnefningarinnar var ég í miðjum klíðum við að skrifa kafla ritgerðarinnar sem fjallar um bordún-tónlist. Í kaflanum er minnst á bordún-hátíðina The Arctic Drone Festival sem fram fór á Fosshótelinu á Húsavík í október á síðasta ári og þar sem ég var umkringdur fólki búsettu á Norðurlandi, gat ég ekki stillt mig um að spyrja út í þessa forvitnilegu hátíð. Þá kom í ljós að Aðalheiður hafði sótt hátíðina og tekið virkan þátt í því sem þar fór fram. Hún tók því afar vel í að veita stutt viðtal þá og þegar og rakti í smáatriðum upplifun sinni af þessari óvenjulegu tónlistarhátíð.

Þá ber þess að geta að viðmælendur rannsóknarinnar veittu allir leyfi fyrir nafnbirtingu.

3.6 Baðstofustundir víða um lönd Sögulegt samhengi íslenska langspilsins er baðstofa torfbæjanna. Það má því kannski segja að skynrænu viðtölin sjö hafi verið móderníseraðar baðstofustundir. Á undan viðtölunum lék ég þrjú stutt lög; Langspils-kvæðalag úr Skagafirði sem ég lék með boga, spunalag sem ég plokkaði af fingrum fram og svo mitt eigið lag, Fósturlandsins Freyja, þar

28 sem ég lék með boganum á alla þrjá strengina samtímis svo viðmælendur fengju hugmynd um hljómstyrk hljóðfærisins. Fyrir hverja heimsókn sendi ég viðmælendum einnig þrjár slóðir á Youtube-myndskeið með langspilsleik og bað þá um að hlusta á tóndæmin sem undirbúning fyrir viðtölin.59 Þannig gafst viðmælendum færi á að hlýða á langspilsleik með ýmsum mismunandi spilamátum. Viðtölin fóru öll fram á heimilum viðmælenda að undanskildu viðtalinu við Hilmar Örn sem fór fram á skrifstofu hans í miðstöð Ásatrúarfélagsins. Viðtalsramminn tók ekki miklum breytingum milli viðtala. Eftir fyrsta viðtalið fann ég að sumar spurningarnar voru heldur lokaðar og gerði ég bragarbót á því fyrir næstu viðtöl. Breytingarnar skiluðu betra flæði en að öllu jöfnu héldust viðtölin innan viðtalsrammans og því ekki hægt að segja að áherslur hafi breyst í viðtalsferlinu. Viðtölin tóku að jafnaði um fjörtíu mínútur en hver heimsókn varði í um tvær klukkustundir.

Þessar nútímalegu baðstofustundir voru bæði óvenjulegar og heimilislegar. Heimilislegar að því leyti að viðmælendurnir tóku mér allir mjög vel og sýndu mikla gestrisni. Hins vegar eru það óneitanlega heldur óvanalegar heimilisaðstæður nú til dags að leikið sé á langspil í stofu fólks – og kannski sérstaklega þegar aðeins einn áheyrandi er viðstaddur. Því má ætla að þessar aðstæður hafi haft áhrif á svör og viðbrögð viðmælendanna. Slík nánd hefur ef til vill orðið til þess að viðmælendur hafi séð sig knúna til að vera jákvæðari en ella í garð viðfangsefnisins. Hvað sem því líður þá er þessi tegund rannsóknaraðferða ekki ný af nálinni. Í mannfræðirannsóknum hafa hlutir til dæmis lengi verið notaðir sem tæki til að laða fram viðbrögð eða endurvekja minningar.60 Langspilið, óháð tónunum sem því fylgir, er eins og hver annar hlutur sem kallar fram mismunandi viðbrögð. Því hafði ég þann háttinn á að á undan langspilsleiknum leyfði ég viðmælendum að virða hljóðfærið fyrir sér og sagði stuttlega frá sögu þess. Það má því gera ráð fyrir að langspilið sem efnislegur hlutur hafi haft sín áhrif á skynjun viðmælenda á hljómi hljóðfærisins. Því má gera ráð fyrir að sjónrænn þáttur hlustunarinnar spili þarna hlutverk í heildarupplifun viðmælenda.

Pink bendir á að þegar unnið er með marglaga skynræna þætti verði viðtöl að staðbundnum viðburði (e. place-event). Viðburðurinn stendur fyrir utan hversdagsleikann

59 Sjá: Guðni Gíslason, Eyjólfur leikur á langspil í Vöðlakoti; Marta Guðrún Halldórsdóttir og Örn Magnússon leika Langspils-kvæðalag; Skotthúfan 2014, Fósturlandsins Freyja. 60 Sjá Hoskins, J. Biographical Objects: how things tell the stories of people's lives. London: Routledge, 1998.

29 og kann því að kalla á meira tilfinningalegt flæði milli rannsakanda og viðmælanda þar sem samskiptin eru gjarnan ákafari og innihaldsríkari.61 Þessi lýsing Pinks ríma skemmtilega við viðbrögð í kjölfar nokkurra tónleika þar sem ég kom fram bæði sem söngvari og langspilsleikari og nýtti til vettvangsathugana. Tónleikarnir voru ólíkt viðtölunum skipulagðir opinberir viðburðir þar sem mér gafst tækifæri á að skrásetja viðbrögð og ummæli tónleikagesta um langspilsleikinn. Þessir tónleikar fóru fram á tímabilinu 2015 til 2019 í nokkrum löndum; Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Frakklandi og á Íslandi. Þó svo að viðtölin og vettvangsathuganirnar í kjölfar tónleikanna hafi tekið mið af margræðri skynjun má segja að útgangspunktur þeirra sé hljóð – langspilstónar.

Rétt eins og hlutir sem hafa um langt skeið verið nýttir í skynrænum aðferðum eigindlegra rannsókna gildir það sama um hljóð. Gott dæmi um slíkar hljóðrannsóknir eru rannsóknir þjóðtónlistarfræðingsins Steven Felds. Í rannsóknum sínum á Kaluli- ættbálkinum í Papúu Nýju Guineu lýsir Feld því hvernig hann notaði upptökur sem hann gerði af hljóðum úr hversdagslífinu og umhverfishljóðum úr skóginum. Hann bauð síðan Kaluli-fólkinu að hlusta á hljóðin til að henda reiður á þeim og ræða þau. Markmiðið var að skapa einhvers konar skynjunarskál (e. pool of sensate material) – barmafulla skál af skynjunum Kaluli-fólksins sem síðan myndi gera honum kleift að öðlast vitneskju um hvernig ættbálkurinn túlkaði hljóðin og hvaða merkingu fólkið ljáði umhverfishljóðum sínum. Þessi rannsóknaraðferð Felds miðaði ekki aðeins að því að kanna hvernig fólkið upplifði hljóðin heldur gekk hún einnig út á að rannsaka merkingu og þýðingu sjálfra hljóðanna.62

Það má því segja að eitt af markmiðum þessarar rannsóknar sé að búa til einhvers konar skynjanasarp sem gefa ætti vísbendingu um nýtingarmöguleika langspilsins. Rétt eins og í hljóðrannsókn Felds meðal Kaluli-fólksins þá safnast saman í sarpinn skynjanir sem snúa ekki aðeins að upplifunum fólks á langspilsleik heldur einnig hvaða þýðingu þessi tiltekna tegund hljóðfæraleiks kann að hafa.

61 Pink, Doing Sensory Ethnography, 88. 62 Feld, Dialogic editing: interpreting how Kaluli read sound and sentiment, 428.

30 3.7 Flóaspilin Eins og fyrr segir eru stundaðar rannsóknir meðal ýmissa ólíkra fræðigreina sem taka mið af skynrænni aðferðafræði. Þeirra á meðal er markaðsfræði og þá sérstaklega rannsóknir sem snúa að neytendahegðun og vöruþróun.63 Slíkar rannsóknir hafa þótt sýna fram á að skynræn aðferðafræði spili lykilhlutverk þegar kemur að hagnýtu gildi rannsókna. Þær hendi reiður á hversdagslegum veruleika fólks og skapi þannig þekkingu um hvernig daglegt líf þess geti orðið ánægjulegra og skilvirkara. Þekking sem vöruhönnun af margvíslegum toga byggir á.64

Það má því segja að eigindleg rannsókn sem tekur mið af skynrænni aðferðafræði nýtist vel til þekkingarsköpunar um upplifun og skynjun fólks á langspilinu og þá ekki síst þegar litið er til hagnýtra þátta þess. Þessi rannsókn er að stórum hluta hagnýt því í kjölfar viðtalanna sem voru nýtt til að kanna hvernig langspilið gæti nýst í grunnskólum var ráðist í langspilssmíðaverkefni í Flóaskóla í Flóahreppi. Þessi hagnýti þáttur rannsóknarinnar er framhald af rannsókn Woods eins og getið var um í kaflanum hér á undan. Langspilssmíðaverkefnið fór fram veturinn 2018–2019 og nýtti ég ferlið sem þátttökuathugun þar sem rannsóknargögnin voru í formi vettvangsnótna, ljósmynda og myndskeiða. Þátttakendur voru 18 börn í 4. og 5. bekk og voru smíðuð jafnmörg langspil yfir veturinn. Í apríl 2019 var smíði lokið og langspilin tilbúin til notkunar. Þá hófst kennsla í langspilsleik þar sem nemendur lærðu um leið nokkur þjóðlög úr þjóðlagasafni séra Bjarna Þorsteinssonar.

Þá um vorið eða þann 24. maí komu börnin fram á 60 ára afmælisdagskrá félagsheimilisins Þjórsárvers þar sem þau sungu tvö lög við eigin langspilsundirleik. Til stóð að halda langspilshátíð um sömu helgi en þá fór fram sveitahátíðin Fjör í Flóa og því var ákveðið að fresta langspilshátíðinni fram á haustið. Helgina 26.–27. október sl. var svo blásið til Langspilsvöku á Íslenska bænum í Austur-Meðalholtum þar sem nýsmíðuðu langspilin voru höfð til sýnis en lokaatriði hátíðarinnar var söngur og langspilsleikur þátttakenda í langspilssmíðaverkefninu. Sýningin á langspilunum 18 fékk heitið Flóaspilin sem í kjölfarið festist einnig við sjálft langspilssmíðaverkefnið.

63 Pink, Doing Sensory Ethnography, 19. 64 Pink, Doing Sensory Ethnography, 21.

31 Eins og gera má ráð fyrir í rannsóknum er taka mið af skynrænni aðferðafræði eru rannsóknarniðurstöður ekki aðeins í formi texta. Bæði flutningur barnanna á 60 ára afmælisdagskrá Þjórsárvers og á Langspilsvöku eru lagðir fram sem hluti af niðurstöðum þessarar rannsóknar en gerð verður sérstaklega grein fyrir þeim í 5. kafla ritgerðarinnar sem fjallar um Flóaspilin.

3.8 Sjálfs-etnógrafía Þessi rannsókn er að einhverju leyti sjálfs-etnógrafía (auto-ethnography).65 Pink bendir á að skynræn þátttökuathugun sé svipuð sjálfs-etnógrafíu – aðferð sem gerir rannsakendum kleift að styðjast við eigin upplifanir og reynslu sem efnivið í akademískri þekkingarsköpun.66 Sjálfs-etnógrafían fór að mestu leyti fram á mennta- og menningarsetrinu Íslenska bænum í Austur-Meðalholtum í Flóa en þar hef ég búið síðustu tvo vetur í Vöðlakoti, gömlu baðstofuhúsi sem áður stóð í landi Gaulverjabæjar. Íslenski bærinn er samstarfsaðili að langspilssmíðaverkefninu og þar hefur gefist gott næði til greiningar rannsóknargagna og skrifa.67 Þá ber einnig að nefna að mín eigin hughrifum af langspilsleik og aðstæður þar sem ég hef komið fram sem langspilsleikari eru tvinnuð saman í umfjölluninni.

Mynd 1 – Vöðlakot í kringum 1940

65 Hugtakið hefur einnig verið þýtt sem viðbragðslýsing en hér verður notað sjálfs-etnógrafía. 66 Pink, Doing Sensory Ethnography, 97. 67 Nánar verður fjallað um rannsóknardvöl mína í Austur-Meðalholtum og tilkomu hennar auk aðkomu Íslenska bæjarins að langspilssmíðaverkefninu í undirkafla nr. 5.1.2.

32 Dvölin í Austur-Meðalholtum hefur gefið mér tækifæri til að líkamna þekkingu um sögulegar og hljóðvistarlegar tengingar hljóðfærisins – verða mér úti um líkamnaða þekkingu um það umhverfi sem er líkast því sem langspilið hefur verið hluti af. Vöðlakot er svokallað baðstofuhús, bárujárnsklætt timburhús sem var algengt í sunnlenskum sveitum sem síðasta þróunarstig torfbæjarhefðarinnar. Vöðlakot var hjáleiga úr landi Gaulverjabæjar og þegar það var byggt í kringum 1920 var það hluti af torfhúsaþyrpingu sem samkvæmt gömlum ljósmyndum og teikningum í eigu Íslenska bæjarins taldi sex burstir.68 Auk blámáluðu baðstofunnar í Vöðlakoti hef ég einnig haft aðgang að baðstofunni í gömlu torfhúsaþyrpingunni í Austur-Meðalholtum. Íslenski bærinn hefur þannig verið miðpunktur rannsóknarferlisins því þar hefur gefist kostur á að tvinna saman hughrif og handverk rannsóknarinnar.

3.9 Staða mín sem rannsakandi Eins og áður hefur verið getið kviknaði hugmyndin að þessari rannsókn þegar ég kynntist rannsókn Woods frá árinu 1981. Þó svo að rannsókn mín sé að hluta framhald af þeirri rannsókn er útgangspunktur hennar engu að síður mín eigin skynjun á langspilsleik. Því er mikilvægt að gera grein fyrir stöðu minni sem rannsakanda og afstöðu minni til viðfangsefnisins. Sjálfsrýni er jú eins og minnst hefur verið á í þessum kafla nauðsynlegur fylgifiskur eigindlegra rannsóknaraðferða og brýnt að hún sé viðhöfð á öllum stigum rannsóknarferlisins.

Frá unga aldri stundaði ég klassískt tónlistarnám. Ég lærði bæði flautuleik og söng við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og útskrifaðist með burtfararpróf í báðum fögum árið 2002. Sama ár hélt ég utan í framhaldsnám við Guildhall School of Music and Drama og lauk þaðan meistaraprófi árið 2005. Síðan þá hef ég starfað sem klassískur söngvari bæði á Íslandi og víða um lönd. Fyrsta sviðsreynsla mín var sem hundurinn Spakur í söngleiknum Kolrassa eftir dr. Þórunni Guðmundsdóttur og fáeinum árum síðar þreytti ég frumraun mína á fjölum Íslensku óperunnar sem Skáldið í Skuggaleik Karólínu Eiríksdóttur og Sjóns. Meðal annarra hlutverka á sömu fjölum má nefna Sellem í The Rake's Progress, Peppe í Pagliacci og Don Curzio í Brúðkaupi Fígarós sem var samstarfsverkefni við Þjóðleikhúsið síðasta haust. Þá tók ég þátt í frumflutningi óperunnar Ragnheiður eftir Gunnar Þórðarson

68 Samtal við Hannes Lárusson.

33 og Friðrik Erlingsson í Skálholti þar sem ég söng hlutverk Daða. Á Þjóðlagahátíðinni á Siglufirði söng ég hlutverk Spóans í frumflutningi ævintýraóperunnar Baldursbrá eftir Gunnstein Ólafsson og Böðvar Guðmundsson. Baldursbrá var síðar flutt í Hörpu snemma hausts 2015 í samstarfi við Íslensku óperuna. Í sama húsi fór ég á síðasta ári með hlutverk Loka Laufeyjarsonar í óperunni Þrymskviða eftir Jón Ásgeirsson og var í kjölfarið tilnefndur í annað sinn til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem „söngvari ársins“. Á óperusviðum erlendis hef ég farið með hlutverk hjá Opera North í Leeds, English National Opera í London og English Touring Opera.

Ég hef einnig verið virkur óratoríusöngvari bæði hér heima og víða um Evrópu. Ber helst að nefna tenórhlutverkin í Messíasi eftir Händel á tónleikaferðalagi um Norðurlöndin með Camerata Øresund og í Matteusarpassíu Bachs í Sant’Ambrogio basilíkunni í Mílanó. Á ljóðasöngssviðinu hef ég starfað með píanóleikurunum Önnu Guðnýju Guðmundsdóttur, Dalton Baldwin, Eugene Asti og Rudolf Jansen. Söng minn má einnig finna á nokkrum geisladiskaupptökum. Þar á meðal eru Íslands minni – lög Atla Heimis Sveinssonar við ljóð Jónasar Hallgrímssonar, Aldarblik – hátíðarútgáfa á íslenskum einsöngslögum í tilefni 100 ára kaupstaðarafmælis Hafnarfjarðarbæjar, ... og fjöllin urðu kyr – hátíðardagskrá flutt á 20 ára afmæli Mosfellsbæjar og upptaka BIS-útgáfunnar á Aftansöngvum (Vespers) Rachmaninoffs með Hollenska útvarpskórnum.

Eins og þessi upptalning gefur til kynna hefur klassískur tónlistarflutningur og þá aðallega söngur verið mitt helsta lifibrauð frá því ég útskrifaðist frá Guildhall School of Music and Drama. Starf klassískra söngvara getur verið afar krefjandi og einmanalegt og þrátt fyrir spennandi og fjölbreytt verkefni fór að gæta kulnunar í afstöðu minni til söngstarfanna í kring um árið 2013.

Snemma vors sama ár lauk ég við smíði á langspili undir handleiðslu Elisabet Mueller við strengjahljóðfæraverkstæðið Muziek en Ambacht í Utrecht í Hollandi. Þetta var mitt annað langspil en hið fyrra eignaðist ég árið 2009 þegar ég hélt upp á þrítugsafmælið mitt. Það var smíðað af heitmanni móður minnar, Ómari Strange, og föður hans Agli Ólafi heitnum Strange, og gáfu þau mér hljóðfærið í tilefni afmælisins. Langspilið sem ég smíðaði hjá Mueller var eftirgerð af langspili Arnar Magnússonar en mín fyrstu kynni af langspilsleik voru þegar Örn ásamt hinum meðlimum Spilmanna Ríkínís fluttu tónlistardagskrá í beinni útsendingu á Rás 1 þetta sama ár og ég varð þrítugur. Þannig

34 hófst langspilsdellan og þegar ég hafði loks lokið við smíðina á langspilinu sem var eftirgerð af hljóðfærinu sem hljómað hafði í útvarpinu fór ég þess á leit við Örn að hann tæki mig í einkatíma í langspilsleik.

Einkatímarnir hjá Erni virkuðu sem einhvers konar móteitur við kulnuninni, eins og ég hefði eignast tónlistarlegan hliðarveruleika. Þarna sinnti ég tónlistarsköpun sem var á allt öðrum forsendum en hin hefðbundna klassíska nálgun. Ég var ekki aðeins heillaður af langspilshljómnum heldur einnig handverkinu og sögulegum og þjóðfræðilegum tengingum. Einnig höfðaði sterkt til mín hugmyndafræðin sem Örn deildi með mér en hún einkenndist af afslappaðri og gáskafyllri nálgun í tónlistarsköpun en ég hafði áður komist í kynni við. Langspilstímarnir í Vesturbænum voru undanfari þess að ég skráði mig í þjóðfræði við Háskóla Íslands og hóf námið á haustmisseri 2014.

Síðan ég byrjaði að fikra mig áfram í langspilsleik hef ég komið fram á fjöldamörgum tónleikum hér heima og erlendis. Þetta hefur orðið að einhvers konar hliðarbúgrein sem ég hef sinnt meðfram þjóðfræðináminu og starfi mínu sem klassískur söngvari. Það fer því ekkert á milli mála að afstaða mín til viðfangsefnis rannsóknarinnar er harla huglæg. Í raun er ég að rannsaka eitt af mínum helstu hugðarefnum en þó tel ég að afstaða mín ætti ekki nauðsynlega að rýra gildi rannsóknarinnar. Eins og fyrr er getið er gert ráð fyrir huglægri afstöðu bæði rannsakanda og viðmælenda í eigindlegum rannsóknaraðferðum og því er mikilvægt að rannsóknarferlið og greiningarvinnan einkennist af gagnrýnu sjónarhorni, ekki síst þegar viðfangsefnið stendur rannsakandanum jafn nærri og raunin er í þessari rannsókn.

35 4 Langspilstónar Það var í strætó við Klambratúnið fyrir rúmum tíu árum síðan þegar langspilstónar hreyfðu fyrst við mér. Ég var að koma sunnan úr Hafnarfirði og átti erindi í verslunina 12 Tóna þar sem tónlistardagskrá og bein útsending á Rás 1 með Spilmönnum Ríkínís á vegum útvarpsþáttarins Hlaupanótunnar átti að fara fram. Ég var of seinn, en vagnstjórinn hafði stillt á gömlu Gufuna og þannig skáru skærir langspilstónarnir sig eftir sætaröðum vagnsins þegar Spilmennirnir hófu leikinn undir djúpum vélarnið Volvo-vagnsins. Þessi tónn sem fékk sér far með útvarpsbylgjum neðan af holtinu hreyfði við mér á einhvern undarlegan hátt. Mjór tónn sem í einfaldleika sínum var samt svo flókinn. Hann var jafn hversdagslegur og hann var hátíðlegur – notalegur á einhvern dularfullan nostalgískan hátt. Ekki laust við að ég hafi fundið fyrir svipuðum rólegheitum og lífskrafti og séra Jón Steingrímsson lýsti fyrir um tvöhundruð árum. Ég hraðaði mér úr strætisvagninum, hljóp upp Skólavörðuholtið og niður stíginn í átt að tónbúðinni. Þarna sat fjölskylduhljómsveitin kennd við Ríkíní við ljóst viðarborð girt af með svörtum hljóðnemastatífum merktum Ríkisútvarpinu. Stóískur söngurinn og hljóðfæraleikurinn fyllti loftið einhverjum dularfullum krafti. Hughrif sem eru ef til vill ekki svo ólík fyrsta kaffibolla morgunsins á fjallgöngu uppi á hálendinu. Allt eins og ég hefði uppgötvað eitthvað áður óþekkt á orkusviði mannlegrar tilvistar sem þó hafði verið hluti af tilverunni alla tíð. Það voru langpspilstónar Spilmannanna sem voru upphafið að ferðalaginu sem hér er rakið og því hefst þessi kafli á að bera saman mín fyrstu langspilshughrif við hughrif Spilamannanna af þessari tegund hljóms.

4.1 Útópísk þáþrá og erfiður menningararfur Í raun voru fyrstu hughrif mín af langspilsleik afar svipuð, ef ekki þau sömu og Spilmennirnir lýsa í geisladiskabæklingi Ljómalindar sem minnst var á í inngangi ritgerðarinnar. Hljómur sem „kveikir tilfinningu í brjóstinu, líkt og sofinn strengur sé sleginn á ný. Líkt því sem við göngum til móts við veruleika sem alltaf hefur búið með okkur en við þekktum þó ekki“.69 Þessar sterku tilfinningar eru óneitanlega heldur óræðar og því ekki svo auðvelt að henda reiður á þær. Það var því athyglisvert að bæði Sólbjörg

69 Spilmenn Ríkínís, Ljómalind, 8.

36 og Hannes tengdu langspilshljóminn við liðna tíma og í tilfelli Hannesar komu fram tengingar við miðaldir:

Já og varð alveg dolfallinn strax búinn að segja það oft við Lísu hvað mér finnst þetta geðveikt þúst bara hljómurinn (já) Uh ... það kemur í hugann svona miðaldir ... og ... og ró ... og ég tengi þetta einmitt soldið aftur í tímann þúst, rosa langt aftur í tímann.70

Þessi miðaldatenging er sérlega skemmtileg í ljósi þess að tónlistarsmekkur Hannesar virðist ekki teygja sig til miðalda. Tónlistarmenn á borð við Damian Rice og Johnny Cash eru í miklu uppáhaldi og einnig hljómsveitirnar U2 og Coldplay. Hins vegar þegar litið er til vestrænnar dægurmenningar og til sjónvarpsþátta og kvikmynda þar sem sögusviðið er af goðsagnakenndum toga, eins og Lord of the Rings, Game of Thrones, Vikings o.fl., er tónlistin oftar en ekki leikin á gömul hljóðfæri er svipar til langspilsins. Hljóðfæri sem tilheyra vestrænum þjóðlagahefðum og virðast vera vel til þess fallin að ljá forneskjulegu sögusviði aukna merkingu og skapa ákjósanlega stemmningu.71

Þó svo að Sólbjörg hafi ekki nefnt miðaldir sérstaklega í viðbrögðum sínum við langspilshljómnum má engu að síður finna líkindi með upplifun Hannesar sem teygði sig langt aftur í aldir. Bæði tengja þau langspilshljóminn við liðna tíma og í tilfelli Sólbjargar komust hughrifin á heldur draumkennt stig:

Mér líður alltaf eins og ég sé í draumi (...) Það er eins og þetta er mjög svona draumkennt og einhvers konar blanda (...) með náttúru og eins og svona þegar mann dreymir þá veit maður aldrei sko nákvæmlega hvað er að gerast það allt í einhverri svo hringiðu (...) þannig að mér líður einhvern, ég fæ alltaf svona nostalgíukast ... mér leið eins og ég væri einhvers staðar... uppá einhverjum hæðum og það er allt í bland einhvern veginn gras og vatn og lækir og draumur einhvern veginn svona já þetta er

70 EE 5. 71 Einfaldari gerðir alþýðuhljóðfæra á borð við langspilið eru mjög svipuð þeim hljóðfærum sem voru notuð á miðöldum bæði meðal alþýðu og efri stétta. Aðgreining alþýðumenningar og hámenningar fyrr á öldum var lengi framan af mjög óljós. Með tilkomu upplýsingarstefnunnar og iðnbyltingar 18. og 19. aldar fékk t.a.m. tónlistarsköpun nýtt hlutverk með sívaxandi borgarastétt. Alþýðuhljóðfærin og tilheyrandi alþýðutónlist sem áður hafði þjónað jafnt háum sem lágum urðu eftir í bændasamfélögum og smærri bæjum þegar smekkur borgarastéttarinnar varð jafnt og þétt vandlátari, samferða auknum völdum hennar sem áður höfðu tilheyrt aðlinum (sjá: Small, Musicking: the meanings of performing and listening og Burke, Popular Culture in Early Modern Europe). Það er því ekki að undra að framleiðendur og listrænir ráðgjafar sjónvarpsþáttaraða eða kvikmynda, þar sem sögusviðið sækir innblástur í fagurfræði miðalda, kjósi að nota hljómheim sem vegna hinnar borgaralegu aðgreiningar sker sig frá hefðbundinni kvikmyndatónlist sem sækir oftar en ekki í 19. og 20. aldar tónlistarstefnur.

37 allt í hringiðu allt í einu en ég já ég fæ algjört bara nostalgíukast þegar ég heyri langspil.72

Nostalgían eða þáþráin sem er hér samtvinnuð náttúrumyndum í viðbrögðum Sólbjargar ríma sterkt við lýsingu 10 ára drengs í þátttökuathuguninni sem fram fór í Alþjóðlega grunnskólanum í Delft. Hann sagði að langspilstónarnir kölluðu fram græn engi og víðáttur sveitarinnar, fjarri ys og þys borgarinnar – honum fannst eins og hann svifi yfir náttúrunni.73 Hér má því kannski segja að útópískur strengur sé sleginn. Svo virðist sem langspilstónarnir kalli fram fýsilegan hliðarveruleika – draumkenndar náttúrumyndir sveitanna auk hughrifa til liðinna tíma. Þjóðtónlistarfræðingurinn Owe Ronström hefur bent á að áhugi fólks á þjóðlagatónlist sé einmitt helst til kominn vegna slíkra hughrifa – hughrif sem kalla mætti útópíska þáþrá.74

Nýyrðið þáþrá sem er íslenskun á tökuorðinu nostalgíu (e. nostalgia) lýsir vel þessu flókna hugtaki. Þrá eftir liðnum tímum eða horfnum stöðum – minningar sem kunna að vera mjög óræðar því þær eru ekki endilega persónulegar. Þáþrá þarf því ekki að vísa til atvika sem hafa hent okkur sjálf í fortíðinni, heldur virðist hún einkum snúa að hugmyndum um samlifaða fortíð sem við öll söknum. Sagnfræðingurinn Karin Johannisson lýsir þáþrá sem blöndu af þróttleysi eða angurværð, sjálfsmeðvitaðri þrá og óhlutbundinni löngun.75 Þessi skilgreining Johannissons snertir ekki aðeins sjálfhverfu þáþránnar heldur einnig þverstæðu hennar. Sagnfræðingurinnn John Gillis hefur gert þverstæðu þáþránnar að umfjöllunarefni og segir að hin ljúfsára depurð þáþránnar (e. nostalgia’s melancholia) markist af því sem henni er ómögulegt að henda reiður á og skilgreinist út frá hversu erfiðlega henni tekst til við að nálgast sjálft viðfangsefnið.76 Þannig virðist þáþráin blasa við okkur sem óræður söknuður eftir hliðarveruleika sem er bæði fjarlægur og nálægur. Þegar við heimfærum hugmyndir um okkar eigin lífsgæði yfir til fortíðarinnar verður söknuðurinn hins vegar útópískur.77

72 EE 1. 73 EE Þ. 74 Ronström, On the Meaning of Practicing in the 21st Century, 14. 75 Johannisson, Nostalgia: en känslas historia, 11. 76 Gillis, Islands of the Mind: How the Human Imagination Created the Atlantic World, 122-3. 77 Johannisson, Nostalgia: en känslas historia, 148.

38 Því má ef til vill segja að langspilstónarnir kunni í þeim tilfellum sem hér eru rædd að daðra við einhvers konar fortíðarblæti – blæti (e. fetish) í þeim skilningi að ekki er litið heildrænt á viðfangsefnið heldur er það skoðað eða öllu heldur skynjað út frá sældarhyggjulegri (e. hedonistic) tilveru nútímamannsins. Til gaman og glöggvunar má til samanburðar nefna matarblæti. Segja má að einn þekktasti holdgervingur matarblætis sé hinn vinsæli sjónvarpskokkur Nigella Lawson.78 Algeng sena í þáttum Lawsons er þegar hún opnar háan og hágljáandi ísskápinn síðla kvölds eða um miðja nótt og dauf birtan innan úr kælirýminu fellur á glitrandi silkináttsloppinn er hún teygir aðra höndina í hitaeiningaríkt snarl. Nautnaglottið leynir sér ekki um leið og Lawson sporðrennir hnossgætinu og horfir beint í myndavélina með sakleysislegu augnaráði. Ef til vill einmitt vegna þess að undir niðri veit hún að hversdagslegt miðnætursnarl af þessu tagi er forboðið í hinu vestræna neyslusamfélagi – matarneysla sem virðist ekki taka afleiðingarnar með í reikninginn. Þó svo að tónar langspilsins falli kannski ekki beint undir forboðnar neysluvenjur er engu að síður gagnlegt og örlítið skemmtilegt að bera saman fortíðar- og matarblæti. Því rétt eins og í matarblætinu, sem birtist í næturbrölti Lawsons, tekur fortíðarblætið ekki með í reikninginn heildarmynd viðfangsefnisins. Langspilstónar nútímans eru án efa harla frábrugðnir þeim sem hljómuðu í myrkvuðum baðstofum torfbæjanna við aðstæður sem nútímamaðurinn þekkir ekki og myndi aldrei sætta sig við í híbýlum ætluðum til búsetu.

Langspilsleikur er ekkert frábrugðinn öðrum tegundum menningararfs að því leyti að hann er valkvæður. Rétt eins og hin útópíska þáþrá sem horfir til fortíðarinnar í nútímalegri bómull veljum við fyrirbæri úr fortíðinni sem henta hverju sinni við að ljá samtíma okkar og sjálfi merkingu. Eins og áður er getið þá eru engar upptökur til af fyrri tíðar langspilsleikurum og því vandkvæðum háð að ímynda sér hvernig sá leikur hafi hljómað. Tónlistarlegt uppeldi mitt og klassísk menntun lita án efa nálgun mína á langspilsleikinn og þannig má ef til vill líta svo á að þau hljóð sem verða til er ég leik á langspil séu eins langt frá einhvers konar upprunaflutningi og hugsast getur. Langspilsleikurinn minn er mín eigin persónulega túlkun og nálgun á menningarfræðilegt fyrirbæri. Engu að síður er gamla íslenska bændasamfélagið og þá sér í lagi baðstofan bæði sögulegt og hljóðvistarlegt samhengi hljóðfærisins. Ég átti því allt eins von á að

78 Rousseau, Food Media. Celebrity Chefs and the Politics of Everyday Interference, 101.

39 viðmælendurnir, að Qian undanskildum, myndu tengja langspilið og tónana við íslenska byggingararfinn og baðstofumenninguna, en sú varð ekki raunin. Að vísu tengdu bæði Helga Kristín og Sólbjörg langspilið við torfhúsaarfinn en sú tenging kom ekki fram fyrr en ég hafði spurt hvort þær tengdu hljóðfærið við íslenskan menningararf að einhverju eða sérstöku leyti.79 Þá var einnig áhugavert að Edda tengdi langspilið miklu frekar við Evrópu en Ísland:

... maður þekkir einhverjar svona tilvitnanir í að það hafi verið langspil í baðstofum, mér finnst algjör þögn aftur á móti sko þetta er ekki þegar ég heyri það svona núna hjá þér og þessum tóndæmum tekur það mig frekar til Evrópu og þá í einhverja svona renaissance endurreisn en ekki til Íslands þetta er ekki einhver íslensk taug sem að snertir.80

Hér má kannski segja að minn eigin spilastíll spili ákveðið hlutverk í upplifun viðmælendanna af langspilstónunum. Sem klassískt menntaður tónlistarmaður er ég undir miklum áhrifum af evrópskri tónlistarhefð. Langspilsspilamáti minn er því meira í ætt við þann sem tíðkast meðal tónlistarfólks sem sækir efnivið til evrópskrar endurreisnar- og snemmbarokktónlistar. Til samanburðar má nefna langspilsleik Þórðar Tómassonar fyrrum safnvarðar Byggðasafnsins að Skógum undir Eyjafjöllum. Bæði er stilling langspilsins hans og spilamáti af allt öðrum toga en þeirra langspilsleikara sem getið er í inngangskaflanum. Ef lýsa ætti í orðum langspilsleik Þórðar er hann meira í ætt við hljómheim íslenska kvæðasöngsins að því leyti að ekki er stuðst við hefðbundið tónmál eins og við þekkjum í vestrænni tónlistarhefð.81

Ef til vill er það einmitt langspilsleikur Þórðar sem minnir á að sögusvið langspilsins, torfbærinn, tilheyri ákveðinni tegund menningararfs sem nefndur hefur verið „erfiður menningararfur“. Safnafræðingarnir Sigurjón Baldur Hafsteinsson og Marta Guðrún Jóhannesdóttir benda á þegar þau vitna í skrif þjóðfræðingsins Sharon Macdonalds, að hugtakið um erfiðan menningararf megi skilgreina sem „arfleið sem margir myndu gjarnan vera án, jafnvel þótt þeir viðurkenni að [hann]82 sé hluti af sögu þeirra. Erfiður menningararfur er einnig líklegur til að kalla fram sterkar tilfinningar, vera stöðug

79 EE 1 og 2. 80 EE 3. 81 Sjá: Raddir Íslands [DVD mynddiskur]. 82 Þ.e. erfiður menningararfur.

40 uppspretta samræðna og laða að sér tiltölulega ólíka áhorfendur“.83 Þó svo að þessi skilgreining sé sett í samhengi við torfhúsaarfinn í skrifum þeirra Sigurjóns Baldurs og Mörtu Guðrúnar á hún engu að síður vel við langspilið sem má segja hafi verið samferða torfhúsunum í hnignunarferli þeirra. Um aldamótin 1900 eða um svipað leyti og „torfhús voru skilgreind sem vandamál og fengu á sig mynd erfiðs menningararfs“84 var langspilið orðið að hljóðum safngrip eins og áður er getið.

Birtingarmynd torf- Mynd 2 – Framfarir í hundrað ár húsanna í upphafi 21. Heilsíðuauglýsing í Fréttablaðinu þann 16. apríl 2018. aldarinnar er einkar áhugaverð með tilliti til þessarar skilgreiningar Macdonalds. Eins og Sigurjón Baldur og Marta Guðrún benda á hefur umræðan um torfhúsin allt frá aldamótunum 1800 verið lífleg. „Moldarkofar“, „torfkofar“ og „moldarhreysi“ eru meðal þeirra orða sem notuð voru til að lýsa arkitektúrnum sem þótti „tákn um afturhald, gamaldags hugsunarhátt, einstrengingshátt, vanmátt og andstöðu við framfarir“.85 Svo virðist sem þessi skoðun á torfhúsunum sé lífseig því enn í dag er gjarnan vísað í byggingararfleiðina þegar umræðan

83 Macdonald, Mediating Heritage, 127-8 Í Sigurjón Baldur Hafsteinsson og Marta Guðrún Jóhannesdóttir, Moldargreni og menningararfur, 195-6. 84 Sigurjón Baldur Hafsteinsson og Marta Guðrún Jóhannesdóttir, Moldargreni og menningararfur, 199. 85 Sigurjón Baldur Hafsteinsson og Marta Guðrún Jóhannesdóttir, Moldargreni og menningararfur, 196.

41 snýst um þjóðfélagslegar afturfarir eins og niðurskurð í heilbrigðismálum.86 Einnig eru torfhúsaburstirnar dregnar fram þegar undirstrika skal framfarir eins og heilsíðuauglýsingin í Fréttablaðinu frá Samtökum atvinnulífsins um Ársfund atvinnulífsins 2018 ber glöggt vitni um.87 Yfirskriftin er „Framfarir í hundrað ár“ og undir henni sýnir litríkt og listrænt myndmálið skikkjuklædda fjólubláa ofurhetju samtímans (væntanlega holdgervingur S.A.) á flugi með raunalegan kotbónda í fanginu. Bóndinn heldur á hokinni sauðkind og í munni hans má sjá glitta í hitamæli sem gefur til kynna háan hita. Fyrir neðan blasir við tveggja bursta torfbær í hvítu vetrarlandslagi þar sem heimilisfólkið stendur á hlaðinu hissa og til að bæta gráu ofan á svart vakir yfir bænum spúandi eldfjall. Svo virðist sem fjólublái framfarafulltrúinn hafi birst á ögurstundu og tekist með framtaki sínu að snúa gæfuhjóli bóndans við, því í efra vinstra horni auglýsingarinnar er önnur mynd af kotbóndanum þar sem bros hefur færst yfir andlitið og hann kominn í ný og betri föt.

Myndmál torfhúsanna birtist ekki aðeins í umræðunni um þjóðfélagslega afturför og framfarir. Má sem dæmi nefna merki Félags heimavinnsluaðila (Beint frá býli) og Ferðaþjónustu bænda. Burstir torfhúsanna prýða merki beggja þessara samtaka og er hér því áhugavert dæmi um þann farveg sem erfiður menningararfur kann að finna sér. Hér er vísað til gömlu torfhúsanna á allt öðrum nótum en þegar tekist er á um þjóðfélagsmál. Langspilið er hér aftur samferða torfhúsunum því merki Félags íslenskra hljómlistarmanna skartar langspili umvöfðu kransi úr laufum, gott ef ekki lárviðarkransi. Þetta upphafna myndmál er hins vegar sérlega áhugavert í ljósi þess að langspilið hefur lítið eða ekkert með sögu Félags íslenskra hljómlistarmanna að gera. Félagið var stofnað árið 1932 sem málsvari atvinnuhljómlistarmanna og tónlistarkennara.88 Því væri ef til vill eðlilegra ef merki félagsins vísaði í hljóðfærin sem spilað var á um það leyti er grunnurinn að íslensku tónlistarlífi, eins og við þekkjum það í dag, var lagður. Því þó svo að lítill hópur tónlistarmanna leiki á langspil telst það varla heldur góð og gild ástæða þess að nota langspilið sem samnefnara fyrir stétt sem kennir sig miklu frekar við vestræna tónlistarhefðir á borð við dægurlög, djass og klassíska tónlist. Auk þess virðist langspilið eiga það til, rétt eins og torfhúsin, að vera sett í samhengi við afturhaldssemi og löngu

86 Sigurjón Baldur Hafsteinsson og Marta Guðrún Jóhannesdóttir, Moldargreni og menningararfur, 193. 87 Sjá: Framfarir í hundrað ár, Fréttablaðið, 23. 88 Heimasíða Félags íslenskra hljómlistarmanna.

42 liðna tíma. Ágætis dæmi um sviðsetningu þar sem langspilið er dregið fram til að undirstrika þjóðháttaskotin undarlegheit er eftirminnilegt atriði í einum Fóstbræðraþætti þar sem Benedikt Erlingsson bregður sér í hlutverk hins hispurslausa Þjóðólfs. Þjóðólfur er eins og nafnið gefur til kynna forn í fasi og vílar það ekki fyrir sér að leika á langspil89 á foreldrafundi og fífla kennslukonu sonar síns með klámfengnum kvæðaskap við misgóðar undirtektir.90

Þau voru einnig misgóð viðbrögðin sem ég fékk við mínum eigin langspilsleik vorið 2016 jafnvel þó svo ég hafi sleppt öllum klúryrðum. Þá stóð Íslenski bærinn í Austur- Meðalholtum í Flóa fyrir dagskrá í tilefni sveitahátíðarinnar Fjör í Flóa og var ég fenginn til að sitja í nokkur skipti í gömlu baðstofu torfhússins þennan laugardag og leika nokkur lög á langspilið fyrir gesti og gangandi. Einum baðstofugestanna, konu um fimmtugt, fannst lítið til langspilsleiksins koma og spurði heldur örg er síðasti tónninn þagnaði: „Er ekki hægt að leika lag á þetta“?91 Lögin sem hljómuðu voru þjóðlög úr þjóðlagasafni séra Bjarna Þorsteinssonar og kannski var ergelsi konunnar því ekki beint að sjálfum langspilsleiknum heldur frekar að lagavalinu. Hins vegar voru viðbrögð karlmanns á sjötugsaldri við leik mínum í brúðkaupsveislu í desember 2018 meira afgerandi. Þetta var fjölmenn veisla í Félagsheimili knattspyrnufélagsins Hauka í Hafnarfirði og var ég beðinn um að syngja nokkur lög til brúðhjónanna á milli rétta við eigin langspilsundirleik. Ég kynnti langspilið örlítið fyrir gestum á milli laga en síðasta lagið var ástarlagið l'Amour de moy úr Bayeux-handritinu frá 15. öld. Lag sem ekki er ólíklegt að hafi verið flutt við undirleik á svipað hljóðfæri og langspil af sokkabuxnaklæddum trúbadorum er flökkuðu á milli franskra kastala og héraða.92 Í þögninni milli lagsloka og klappsins glumdi hávær rödd um allan salinn: „Hver hefur eiginlega gaman að þessu“?93 Vínandinn kann að hafa losað um málbein herramannsins og hann því átt auðveldara með að tilkynna þessa skoðun sína yfir salinn. Líkt og gengur og gerist á slíkum mannamótum sveif Bakkus yfir vötnum og

89 Þó svo að hljóðfærið sem Þjóðólfur leikur á líkist langspili að gerð og hljómi er ekki ólíklegt að það sé einhvers konar samsuða langspils og íslenskrar fiðlu. Íslenska fiðlan er heldur frumstæðara hljóðfæri en langspilið og almennt talið eldra hér á landi en hið síðarnefnda (sjá nánar um samanburð á langspilinu og íslensku fiðlunni: Jón Þórarinsson, Íslensk tónlistarsaga 1000–1800, 399-405). 90 Sjá: Fóstbræður, 3. þáttaröð, 4. þáttur. 91 EE V. 92 Gaunt et al., The Troubadours, 19. 93 EE V.

43 verður því ekki hjá því komist að minnast málsháttar samtíðarmanna hans um áhrifamátt vínandans: „In vino veritas“. Án vínsins má vel vera að hispurslausi herramaðurinn hefði ekki látið skoðun sína í ljós. Þetta eru engu að síður afar áhugaverð viðbrögð því fólk er upp til hópa kurteist og situr gjarnan á neikvæðum skoðunum af þessu tagi á meðan hlutaaðeigandi er nálægur. Hér má minna á orð Mcdonalds um að erfiður menningararfur sé „líklegur til að kalla fram sterkar tilfinningar“.94 Til samanburðar má nefna að á öllum ferli mínum sem klassískur söngvari hef ég aldrei fengið viðlíka viðbrögð hvað þá orðið vitni að viðbrögðum sem þessum. Ég hef komið fram við margvísleg tækifæri sem hafa ekki einskorðast við formlega tónleikasali eða aðstæður. Þessar sterku tilfinningar eru því til vitnis um áhrifamátt erfiðs menningararfs, hvort heldur sem tilfinningarnar eru af neikvæðum eða jákvæðum toga.

Það má því segja að þó svo að flókinn eða erfiður menningararfur sem hér hefur verið ræddur kunni að kalla fram frásagnir um óæskilega fortíð getur hann að sama skapi verið ákjósanlegur samnefnari eða minnisvarði. Þessi þverstæða er því einnig lýsandi fyrir eðli þáþrárinnar eins og hennar er getið hér á undan og má því segja að þau dæmi sem hér hafa verið nefnd um birtingarmyndir langspilsins í nútímanum rími vel við upplifanir viðmælendanna á langspilsleik. Þó svo að langspilið kunni að tilheyra erfiðum menningararfi og sé áminning um arfleið sem virðist í litlum tengslum við nútímann, blasir það einnig við okkur sem tenging við fýsilegan hliðarveruleika óháð landamærum.

4.2 Rólegheit og hugleiðslur Það voru hins vegar ekki bara sterkar tilfinningar sem langspilstónarnir kölluðu fram í viðbrögðum viðmælendanna. Eitt af þrástefjunum sem komu fram við greiningu gagnanna var einhvers konar ró. Í sambandi við hana var einnig minnst á hugleiðslu og í einu tilfellanna bar ekki á öðru en að einn viðmælendanna hefði komist í hugleiðsluástand þegar leikið var á langspilið. Þá var athyglisvert að Hannes var einn tveggja viðmælenda er tilgreindu sérstaklega hvaða spilamáti kallaði fram þessi rólyndishughrif:

94 Macdonald, Mediating Heritage, 127-8, Í Sigurjón Baldur Hafsteinsson og Marta Guðrún Jóhannesdóttir, Moldargreni og menningararfur, 195.

44 ... mér finnst það rosalega róandi ... sérstaklega þegar þú tókst bogann þá bara svona tilfinningin sem kemur þegar maður hlustar þúst hún er svo mjúk og góð ... þægilegt kósý róandi svona bara svona sándið.95

Þegar þessi orð voru látin falla voru um hundrað ár liðin síðan Davíð Stefánsson frá Fagraskógi lýsti stóískum áhrifum langspilsleik í ljóðabók sinni Svörtum fjöðrum sem kom út árið 1919. Líkt og Hannes þá minnist Davíð sérstaklega á bogann:

Nú skal leika á langspilið veika og lífsins minnast í kveld. Hjartanu orna við hljóma forna og heilagan jólaeld, meðan norðurljós kvika og blástjörnur blika og boganum mínum ég veld.96

Annar viðmælendanna er minntist sérstaklega á spilamáta í tengslum við róandi áhrif langspilsleiksins var Qian. „Það er mjög róandi (e. soothing) þegar þú spilar á það eins og gítar“97 sagði Qian þegar ég hafði plokkað lítið spunalag með fingrunum. Þessi spilamáti er ekki ólíkur þeim og þegar slegið er á strengina með kjuða. Hér má því aftur sjá líkindi með eldri hrifheimildum um langspilsleik og í þessu tilfelli 18. aldar heimildinni um langspilsleik madame Þuríðar Ásmundsdóttur á Bæ í Borgarfirði sem vitnað var til í inngangskaflanum. Þar segir séra Jón Steingrímsson að húsmóðirin hafi boðið honum að „slá upp á það“98 en sökum „innvortis angursemi og hugsun til fyrri daga“99 fékk hann sig

95 EE 5. 96 Davíð Stefánsson, Svartar fjaðrir, 109 [leturbreyting mín]. 97 EE 4. 98 Ekki er hægt með vissu að geta sér til um spilamáta húsmóðurinnar á Bæ í Borgarfirði. Af textanum að dæma er ekki ólíklegt að madame Þuríður hafi leikið á langpsilið með einhvers konar kjuða og því „slegið upp á það“. Ef litið er til spilamáta langspilsleikara dagsins í dag þá má t.d. nefna Spilmenn Ríkínís sem eiga það til að slá á langspilsstrengina með viðarkjuða annarri hendi (sjá: Raddir Íslands [DVD mynddiskur]). Einnig má finna dæmi um erlend og þróaðri sítarafbrigði eins og og þar sem strengirnir eru slegnir með kjuðum báðum höndum. 99 Hér vísar séra Jón til Skaftáreldanna og Móðuharðindanna er hófust með eldsumbrotum árið 1783 og stóðu til ársins 1785. Þetta voru gríðarlegar náttúruhamfarir og „einhver mestu eldgos sem orðið hafa á jörðinni síðustu árþúsundir. Eyjar risu úr hafi, jarðeldar loguðu úr jöklum, og hraun vall úr 25 km langri gossprungu suðvestur af Vatnajökli þar sem síðan heita Lakagígar. Hraunin lögðust yfir 580 ferkílómetra af landi, eitruð aska dreifðist yfir mestallt Ísland og gosmóða mengaði himinhvolfið. Gosinu og móðunni fylgdu kuldar og harðindi – Móðuharðindin“ (Björn Þorsteinsson, Íslandssaga til okkar daga, 249). Upphaf gossins var snemma í júní og lýsir séra Jón eldflóðinu úr Skaftárgljúfri svo að það hafi komið með „ógna framrás, brestum, undirgangi og skruðningum; svo þá eldurinn datt ofan í vatnskvikurnar eða rennsli, urðu svo harðir smellir sem mörgum fallstykkjum væri í senn afhleypt“ (Jón Steingrímsson, Í Skaftáreldar 1783–1784: ritgerðir og heimildir, 12).

45 ekki til þess. Húsmóðirin spilar því sjálf á langspilið og segir séra Jón að hann „endurlifnaði og fékk þar af sérleg rólegheit“.100

Langspilið hefur ekki verið nein nýlunda í baðstofum þeirra séra Jóns og madame Þuríðar því af lýsingum hans má allt eins gera ráð fyrir að langspilsleikur hafi verið hluti af heimilishaldi þeirra beggja. Auk þess benda heimildir til að langspilið hafa verið tiltölulega algengt hljóðfæri til sveita mest alla 18. öldina. Öðru máli gegnir um heimilishald Íslendinga í upphafi 21. aldar, og þá kannski sér í lagi þegar það teygir sig út fyrir landsteinana. Það var því ekki að undra að þegar ég tók hús á Helgu Kristínu, á blautum og köldum haustdegi í Delft, hafði hún aldrei áður heyrt hljóðin úr langspili. Engu að síður voru það svipuð rólegheit og í baðstofunni á Bæ sem einkenndu upplifun Helgu Kristínar og vöktu langspilstónarnir að auki hugrenningatengsl til fjarlægra heimsálfa:

Svona róandi rosalega, soldið exótískur, svona einmitt svona indverskur einhvern veginn eins og ég upplifi soldið svona einhverja ró bara, mjög mikla ró... það var soldið... já í rauninni mest það finnst mér einhvern veginn ... þetta var rosa líkt og indverskt sítar-tónlist.101

Þar sem þetta var í fyrsta skiptið sem Helga Kristín heyrði leikið á langspil fannst mér óneitanlega athyglisvert að henni hafi fundist hljómurinn minna á indverska sítarinn. Það lá því beinast við að spyrja hvort henni hafi fundist langspilsleikurinn vera í ætt við hugleiðslutónlist:

Já algjörlega, mér finnst það þegar maður tekur það kannski út úr langspils-settinu þúst þetta gamla og súrsuðu hrútspungarnir sko að þá finnst mér það algjörlega vera þannig svona bara ró ég held að kisurnar hafi líka fundið það þeir voru í rauninni urðu soldið svona dáleiddar sko (hlær).102

Það er eftirtektarvert að Kristín Helga tengir langspilstónana síður við íslensku bændamenninguna en horfir frekar til landsvæðis hvers sítar-afbrigði er gjarnan notað við hugleiðslu. Nefna má sem dæmi að streymisveitur eru uppfullar af indverskri sítar-tónlist sem ætluð er til slíkrar notkunar og hefur hugleiðslutónlist af þessu tagi verið notuð í klínískri endurhæfingu á krabbameinssjúklingum.103

100 Jón Steingrímsson, Ævisaga síra Jóns Steingrímssonar eftir sjálfan hann, 315. 101 EE 2. 102 Sama heimild. 103 DiScipio, Perceived relaxation as a function of restorative yoga combined with Reiki for cancer survivors, 117.

46 Óhætt er því að segja að áhrifa indverska sítarsins gætir víða í vestrænni menningu. Segja má að breska popphljómsveitin Bítlarnir hafi fyrst vakið heimsathygli á hljóðfærinu þegar meðlimir sveitarinnar hófu samstarf við indverska tónlistarmanninn og sítarleikarann Ravi Shankar. Í laginu Within You, Without You, sem gítarleikari sveitarinnar George Harrison samdi, fær sítartónlist Shankar að hljóma undir lagasmíð Harrions. Lagið var samið fyrir Sgt. Pepper hljómplötuna í kjölfar kynna Bítlanna á jógameistaranum Maharishi Mahesh Yogi í kringum árið 1966. Lagasmíðin þykir vera til vitnis um þau áhrif sem yfirskilvitleg hugleiðsla (e. transcendental meditation) hafði á þá félaga.104

Sítartónlist, hvort heldur sem hún tengist íslenskum baðstofum eða fjarlægum sveitum Indlands, virðist því vera vel til þess fallin að ýta undir eða hjálpa fólki við að komast í einhvers konar hugleiðsluástand. Það voru ekki aðeins heimiliskettir Helgu Kristínar sem virtust dáleiðast við langspilsleikinn heldur bar ekki á öðru en að svipað hugarástand hafi gripið Þórunni Jörlu þegar langspilstónarnir tóku að fylla stofuna hennar. Það voru ekki aðeins viðbrögðin sem gerðu stundina með Þórunni Jörlu heldur frábrugðna hinum sex. Í stað þess að bjóða mér til sætis þegar ég dró fram langspilið og hugðist leika fyrir hana bauð hún mér að setjast á fallegt gólfteppi í stofunni gegnt boldungsmiklum flygli. Þar sátum við hvort andspænis öðru með krosslagða fætur og fljótlega eftir að ég lagði hrosshárin á stálstrengina og langspilið tók að hljóma fann Þórunn Jarla sig knúna til að kyrja með. Bjartir litir veggjanna og innanstokksmunanna sköpuðu framandi andrúmsloft og var því kærkomin umgjörð fyrir þessa óvæntu hugleiðslustund. Kyrjunin varð til þess að úr varð langur spuni sem ágerðist jafnt og þétt og úr varð einhvers konar skáldkonuseiður. Sönghendingar skáldsins voru kjarnmiklar og fóru um vítt tónsvið. Þórunn Jarla kyrjaði og ég spilaði, og þegar mér varð litið til hennar í miðri tónhendingu fannst mér eins og ég sæi allt aðra konu þar sem hún sat gegnt mér í lótusstellingu með lokuð augun. Þessi stund var margþætt – ég sá ljóslifandi fyrir hugskotssjónum mínum austurlensk minni í bland við norræna forneskju. Þetta var sjamanískur samruni og mér varð sérstaklega hugsað til Þorbjargar lítil-völvu í Eiríks sögu rauða því hið seiðmagnaða síðdegi í gamla Vesturbænum minnti á atgervi og umhverfi hinnar fornu spákonu.105 Þetta var rannsóknarviðtal þar sem tónar komu í stað orða og satt best að segja ógleymanleg

104 Farber, Rock 'N' Roll Wisdom, 97. 105 Eiríks saga rauða, 206 - 208.

47 stund. Þegar ég spurði Þórunni Jörlu hvað hafi orðið til þess að hún brast í slíkan söng sagði hún afdráttarlaust að það hefði einfaldlega verið það sem langspilstónarnir hefðu kallað á og ég skynjaði að hún vildi ekki hafa um það fleiri orð.106

Þessi stef róar og hugleiðsluástands og tengingar við indverska tónlist ættu ekki að koma á óvart þegar langspilshljómur er settur í víðara tónlistarlegt samhengi. Langspilið er hluti af stórri fjölskyldu bordún-sítara (e. drone zither) og segja má að það sem einkenni hljóm og tónfall hljóðfæra af þessari gerð sé hinn svokallaði bordúnn. Tökuorðið bordúnn (þ. Bordun; f. bourdon; í. bordone; lat. bordunus) vísar til tóns eða tóna sem hljóma óbreyttir undir laglínuröddinni. Í óbirtri ritgerð tónlistarfræðingsins Smára Ólasonar um bordún segir að hugtakið sé:

gamalt alþjóðlegt tónlistarhugtak. Nú á dögum á það einkum við „liggjandi bassatón“, en merking þess getur þó verið töluvert víðtækari ... [T]alið er að blómaskeið þessa tónlistarháttar í upphafinni eða lærðri tónlist Vesturlanda hafi verið fyrir 1200 e. Kr., en í tónsköpun alþýðunnar er þetta tónlistarfyrirbæri mikið eldra, með nokkurri fullvissu má segja að það sé meira en 3000 ára gamalt ... Hugtakið bordún er fyrst og fremst notað í samtengingu við lagræna framþróun, en bordún má skýra sem stöðugan undirleik sem byggist upp á tóni, hljómi eða hávaða.107

Þá bendir Smári einnig á að blásturshljóðfæri séu algengustu bordún-hljóðfærin og að þekktust þeirra séu hljóðfæri samsett „úr mörgum pípum sem tengjast einum belg, svonefndar sekkjapípur“.108 Sekkjapípur eru afar hentugar til glöggvunar á þessu tónlistarlega fyrirbæri. Dæmigerður sekkjapípuleikur hefst á að spilmaðurinn blæs í loftbelg og virkjar þannig bordún-pípurnar (e. brimmer). Laglínan er svo leikin ofan á bordún-tónanna sem hljóma út allt lagið. Þannig virkar bordúnninn „sem óbreytanleg leiktjöld í kringum hreyfanlega laglínuna“.109 Þó svo að sekkjapípan sé nærtækt dæmi um bordún-hljóðfæri er engu að síður ólíklegt að fólk tengi ró og spekt við þetta einkennishljóðfæri Skota. Enda er hljómur sekkjapípunnar af allt öðrum toga en þeirra strengjahljóðfæra sem hér eru rædd, þó báðir hljóðfæraflokkar séu af ætt bordún- hljóðfæra.

106 EE 7. 107 Smári Ólason, Bordún, 1. 108 Smári Ólason, Bordún, 3. 109 Smári Ólason, Bordún, 1.

48 Bordúnninn er í raun lykilhugtak þegar þessi rólyndis- og hugleiðslustef viðtalanna eru krufin til mergjar. Annað orð yfir bordún er enska orðið drone, sbr. tónlistarstefnu er kallast á ensku drone music eða bordún-tónlist. Eins og nafnið gefur til kynna einkennist þessi tegund tónlistar af undirliggjandi bordún sem hljómar út allt lagið eða tónverkið. Þessi tónlistarstefna hefur einnig verið sett í samhengi við naumhyggju (e. minimalism)110 en einn helsti frumkvöðull á þessu sviði tónlistar er framúrstefnutónskáldið La Monte Young.111 Tónlistarfræðingurinn og fiðluleikarinn Adam Cadell lýsir tónverki Youngs The Dream House á þann veg að það kallaði fram djúpstætt hugleiðsluástand sem hann rakti til bordún-hljóms.112 Verkið var hluti af innsetningu Youngs í Chelsea-rými Dia- liststofnunarinnar í New York-borg og lýsir Cadell því svo að það hafi virkað á hann sem kyrrðarvin í skarkala stórborgarinnar. Cadell nefnir sérstaklega að þó svo að bordún- hljómurinn hafi verið magnaður upp í stórum hátölurum sem komið var fyrir í rýminu þá hafi hljóðstyrkurinn ekki komið í veg fyrir hin djúptæku hugleiðsluáhrif.113

Þessi afdráttarlausa lýsing á bordún-skynjun Cadells átti ýmislegt skylt við eftirtektarverða umfjöllun í The Reykjavík Grapevine um hérlenda bordún-hátíð. Það er því ekki aðeins í listastofnunum heimsborga sem bordúnn er meðvitað nýttur sem hughrifatæki því í október á síðasta ári fór fram hátíðin The Arctic Drone Festival á Fosshótelinu á Húsavík. Í upphafi umfjöllunarinnar segir að „hugsanlega megi líta svo á að bordúnninn sé frumgerð tónlistar, fyrsta endurtekna tónræna hljóðið. Í bordún-tónlist (e. drone music) er ekki breytt um tóntegund heldur verður tónlistin þannig að viðstöðulausu djammi (e. jam) sem flýtur ofan á notalegum tónnið“.114 Þetta var fyrsta skiptið sem hátíðin var haldin og stefnt er á að endurtaka hana að ári. Hátíðin stóð yfir í sólarhring og var tilgangurinn skýr, en hann var að skapa tuttuguogfjórar klukkustundir af stanslausri bordún-tónlist samferða jógaiðkun. Flytjendur voru úr ýmsum áttum og skiptust á að halda tónniðinum gangandi. Þá segir ennfremur í umfjölluninni að „sólarhringurinn hafi verið líkastur einhvers konar andlegum hvíldarstað jóga- og hugleiðsluiðkunar en þó með

110 Naumhyggja eða mínimalismi í tónlist einkennist af einföldu tónmáli eins og síendurteknum stefjum og hryn. Meðal helstu tónskálda auk Young sem tilheyra þessari tónlistarstefnu má nefna Philip Glass, Phill Niblock og Stephen Michael Reich (sjá: Gann, Thankless Attempts at a Definition of Minimalism). 111 Sjá: Cadell, Radically Quiet og Gann, Thankless Attempts at a Definition of Minimalism. 112 Cadell, Radically Quiet, 6. 113 Sama heimild. 114 Sveinbjörn Pálsson, Dozing in the Haze of the Drone, 16 [þýðing mín].

49 afslöppuðu móti ... Sumir töluðu um hugleiðsluástand og ró en aðrir upplifðu viðburðinn sem skynörvandi (e. psychedelic) ... Þetta voru tuttuguogfjórar klukkustundir af annarleika (e. otherness)“.115

Eftir lesturinn á þessari eftirtektarverðu umfjöllun sá ég mig knúinn til að leita uppi þátttakendur á hátíðinni sem gætu lýst upplifun sinni af sólarhringslanga bordúninum. Mér lék sérstaklega forvitni á að vita meira um hin skynörvandi hughrif og annarleika sem greinarhöfundur nefnir í umfjölluninni. Skömmu eftir lestur greinarinnar hitti ég nokkra góða vini frá Siglufirði á veitingastað í miðborg Reykjavíkur. Flestir í vinahópnum fást annað hvort við tónlist eða myndlist og því greip ég tækifærið og spurði sessunaut minn Andra Frey Arnarsson, tónlistarmann og tónskáld, út í hátíðina. Svo merkilega og skemmtilega vildi til að hann var einn af tónlistarflytjendunum á hátíðinni og það sem meira var sat einn hátíðargestanna einnig við borðið. Myndlistarkonan Aðalheiður S. Eysteinsdóttir sem búsett er á Siglufirði og stendur í stafni Alþýðuhússins sat andspænis mér og voru því hæg heimatökin. Ég gat því ekki stillt mig um að spyrja hana spjörunum úr enda í miðju kafi í bordúns-hugleiðingum. Í kjölfar spurningaflóðsins samþykkti hún góðfúslega viðtal þá og þegar. Aðalheiður lýsti fyrir mér í löngu og nákvæmu máli fyrirkomulagi hátíðarinnar og upplifun sinni af gjörningnum. Óhætt er að segja að hughrifin sem hún varð fyrir þennan sólarhring á Fosshótelinu á Húsavík hafi dregið dilk á eftir sér:

Ég var mætt þarna um tólfleytið og þá var það [festivalið] búið að vera yfirstandandi í tvo klukkutíma og ég kem mér fyrir þarna inn á gólfið á dýnu og var algjörlega tilbúin til að upplifa. Ég kom þarna með mjög opnum huga og algjörlega tilbúin í þetta og búin að undirbúa mig. Ég gisti á þessu hóteli og var undirbúin undir að vera þarna á þessari [jóga]dýnu að upplifa þangað til tólf á hádegi daginn eftir ... Á einum tímapunkti þá opnuðust allar flóðgáttir hjá mér og ég bara grét og grét og grét ég bara lá þarna á bakinu og grét þessum hljóðláta gráti og það fossuðu tárin úr augunum á mér og ég bara man það alveg þau bara spýttust. Ég leyfði þessu bara að gerast ég lá þarna bara í algjörri slökun með augun svona augun hálflokuð og tárin bara spýttust út og láku bara eins og fossar niður eftir öllu, niður í eyrun, inn í hlustirnar og út aftur og niður eftir hálsinum og niður á koddann. Og ég hugsaði ég reyndar var ekki svo mikið að hugsa á meðan á þessu stóð ég bara grét. Það er svo sjaldan sem maður grætur svona algjörlega umhugsunarlaust og maður hlær líka mjög sjaldan umhugsunarlaust. Maður er alltaf að gráta út af einhverju sérstöku eða maður hlær út af einhverju sérstöku og þarna grét ég bara umhugsunarlaust og það var bara algjör losun það var bara alveg rosalegt. Svo þegar ég var farin að jafna mig

115 The Reykjavík Grapevine, 20. útg. 2019, 16.

50 á þessum gráti og farin að anda eðlilega aftur bara þúst í svona þungum andardrætti, anda djúpt ofan í magann og semsagt blása út um munninn og anda inn um nefið. Ég var mjög meðvituð um öndunina og semsagt og ákvað að taka þetta alveg þannig að ég væri meðvituð um líkamann og meðvituð um öndunina og þá komst ég í jafnvægi aftur og þá byrjaði ég að sjá sýnir. Ég get svarið það ég er með lokuð augun en ég sé bara fyrir mér heila sýningu út frá ljóðum, ljóðaþýðingum eftir Þorstein Gylfason sem hann gaf mér í afmælisgjöf þegar ég var fertug. Ofboðsleg ástarljóð og svo deyr hann nokkrum árum seinna og ég gat aldrei unnið með þetta vegna sorgarinnar yfir að hafa misst Þorstein ... Þarna fara að sækja á mig alls konar hugsanir um hvað sé mér mikils virði, um hvað ég vilji hafa nálægt mér, hvað geri mig glaða ... ég fer að hugsa um þessa sýningu og hugsa lágmyndir. Þarna er ég sjálf að hefja nýtt líf eftir erfið veikindi þannig að ég er að feta ný spor þá hugsa ég að ég geri sýningu sem eru sjálfsmyndir.116

Skömmu eftir Húsavíkurhughrif Aðalheiðar eða þann 1. nóvember á síðasta ári var síðan opnuð sýningin Seiðandi dans í menningarrýminu Kaktus á Akureyri.117 Þar sýndi Aðalheiður téðar sjálfsmyndir – sýninguna sem hún sá fyrir sér undir seiðandi bordúninum í höfuðstað Þingeyinga nokkrum vikum áður. Það er því óhætt að segja að bæði lýsing Aðalheiðar hér að ofan og sá skammi tími sem það tók hana að setja saman og skapa fyrrnefnda sýningu sé til marks um afar kraftmikil og djúpstæð áhrif hughrifanna.

Þó svo að bordún-hughrif Aðalheiðar séu ekki tilkomin vegna langspilstóna má engu að síður sjá ákveðin líkindi milli skáldkonuseiðs Þórunnar Jörlu og hughrifa Aðalheiðar. Eftir því sem ég best veit þá blésu langspilstónarnir ekki anda nýs skáldverks í brjóst skáldkonunnar en viðbrögðin voru engu að síður ósjálfráð og tjáningarfull. Það er því óneitanlega bæði skemmtilegt og forvitnilegt að uppgötva þessi skýru tengsl á upplifunum viðmælenda minna á langspilstónum við alþjóðlega grein tónlistariðkunar sem enn sem komið er hefur ekki fengið íslenskt heiti. Hvort heldur sem bordún-tónlist hljómar undir formerkjum viðurkenndrar listastofnunar í einni af helstu heimsborgunum eða á litlu hóteli í norðlenskum smábæ virðast hughrifin afar svipuð. Því má allt eins draga þá ályktun að þessi tegund tónlistar sé ekki endilega háð hugmyndum okkar um smekk og félagslegar formgerðir. Bordúnninn í verki Youngs í Chelsea-rými Dia-liststofnunarinnar var án efa ætlaður öðrum markhópi en þeim er sóttu bordún-hátíðina á Fosshótelinu, enda er alþjóðlega viðurkennd menningarmiðstöð fyrir nútímalist vettvangur af allt

116 EE 9. 117 Sýningaropnun Seiðandi dans í Kaktus á Akureyri.

51 öðrum toga en hótel í norðlenskum smábæ. Hér má því sjá áhugaverð vensl hughrifa sem tengjast þvert á landamæri, þjóðfélagsstöðu og aðrar félagslegar formgerðir.

Það er því ekki úr vegi að gera tilraun til að henda reiður á þeim þáttum sem kunna að liggja til grundvallar á þessum afdráttarlausu rólyndis- og hugleiðsluáhrifum bordún- tónlistar. Lítið hefur verið skrifað um hrif og bordún en á sviði þjóðtónlistarfræða má finna ritrýndar greinar er fjalla um þá grein þungarokks sem kennd er við bordún (e. drone metal). Þess fyrir utan er ekki um auðugan garð að gresja. Mér fannst ég því hafa komist í feitt þegar ég rambaði á skrif eftir indverska tónlistarfræðinginn B. Chaitanya Deva þar sem sérstaklega er fjallað um bordún í sálfræðilegu og fagurfræðilegu tilliti. Í niðurlagi greinar sinnar „The Psychology of the Drone in Melodic Music“ sem birtist árið 1950 í Bulletin of the Deccan College Post-Graduate and Research Institute setur Deva fram eftirfarandi ályktun um sálræna og fagurfræðilega virkni bordúnsins:

Hlutverk bordúnsins er að leysa spennu og átök yfir í hvíld og ró. Þetta er eitt mikilvægasta lögmálið í tónlist. Bordúnninn nær þessu fram með því (i) að vera undirstaða fyrir ómstríðu sem leysist í ómþýðu, (ii) að vera grunnur þaðan sem hreyfing frá hvíld er leyst með hreyfingu til hvíldar (iii) að virka sem samþætting heillar laglínu í sálfræðilegt og fagurfræðilegt kerfi.118

Í þessu kerfi sem Deva vísar til rammar bordúnninn laglínuna inn í fagurfræðilegt kerfi, undirstaða sem haggast ekki á meðan laglínan hefur sig til flugs og flögrar um hið afmarkaða svið bordúnsins. Bordún-tónlist hefst í ró og leitar til baka í ró. Þannig mætti líkja þessu fagurfræðilega kerfi við hringrás – upphafspunkturinn og endastöðin renna saman. Spenna skapast við rofið þegar laglínan ferðast frá bordún-tóninum og leysist við heimkomuna.

Óhætt er að segja að þessi skilgreining Devu sé ekki framandi í þjóðfræðilegu tilliti. Hugmyndin um hringrás bordúnsins eins og hún er hér sett fram má hæglega setja í þjóðfræðilegt samhengi og þannig gera tilraun til að henda reiður á hinu meinta kerfi bordún-tónlistar. Segja má að hið sálfræðilega og fagurfræðilega kerfi bordún-tónlistar sem hér er rætt eigi sér þónokkrar samlíkingar með eðli þjóðsagna. Þess ber þó að geta áður en lengra er haldið að því fer fjarri að líkja megi saman rannsóknarsögu bordún- tónlistar og þjóðsagna. Þjóðsagnafræði á sér langa sögu og er umfangsmikil grein innan

118 Deva, The Psychology of the Drone in Melodic Music, 80 [þýðing mín].

52 þjóðfræðinnar, skrifin eru því æði mörg og mikil. Þessi samlíking snýr því fyrst og fremst að örfáum lögmálum en ekki að rannsóknarsögu þessara fyrirbæra.

Þegar horft er til eðli þjóðsagna ber kannski fyrst að nefna eitt helsta rit á sviði þjóðsagnafræði; Morfologija skazki eða Beygingarfræði ævintýra eftir þjóðsagnafræðinginn Vladimir Propp. Ritið kom út í Leningrad árið 1928 og hafði mikil áhrif á þjóðsagna- og bókmenntafræði eftir að það kom út á ensku árið 1958.119 Í ritinu kynnir Propp hugmyndir sínar um skiptingu rússneskra ævintýra í samhangandi einingar eða svokallaða frásagnarliði. Miðalda- og bókmenntafræðingurinn Vésteinn Ólason hefur bent á að frásagnarliðirnir leiði „frásögnina röklega til síns niðurlags eins og hlekkir í keðju“.120 Þannig má líkja þessu kerfi frásagnarliða Propps við keðjulega hringrás. Bordún- tónlist er því lík hinu hefðbundna og fastmótaða formi ævintýra að því leytinu til að þegar spenna myndast eða rof á sér stað leiðir það alltaf til lausnar. Því má segja að frásagnarliðir Propps séu svipað fagurfræðilegt kerfi og Deva bendir á með bordúninn. Bordúnninn rammar laglínuna inn, hún markast sífellt af undirliggjandi bordún sem helst alltaf óbreyttur. Rétt eins og frásagnarliðirnir sem skapa grundvöll sögunnar og eru þannig stöðugir og óbreytilegir frumþættir frásagna óháð gerandanum.121

Það er ekki aðeins í frásagnarliðum Propps sem sjá má fleiri líkindi með eðli þjóðsagna og bordún-tónlistar. Danski þjóðsagnafræðingurinn Axel Olrik kynnti árið 1908 á fjölfræðilegri ráðstefnu í Berlín ritgerð þar sem hann lagði fram kenningar sínar um frásagnarlögmál þjóðsagna (e. epic laws of folk narrative).122 Ólíkt kenningum Propps sem upphaflega voru aðeins ætluð rússneskum ævintýrum var lögmálum Olriks ætlað að vera alþjóðleg sem hægt væri að heimfæra á allar tegundir þjóðsagna eins og ævintýri, sagnir og goðsagnir og einnig þjóðlög.123 Ritgerðin kallast Principles for Oral Narrative Research eða Lögmál fyrir rannsóknir í þjóðsagnafræði og er eitt af grundvallarritum greinarinnar. Þessar kenningar Olriks hafa verið lífseigar og til merkis um það kom ritgerðin út í heild sinni í enskri þýðingu árið 1992 og var danski þjóðfræðingurinn Bengt Holbek einn helsti hvatamaður útgáfunnar.

119 Vésteinn Ólafsson, Frásagnarlist í fornum sögum, 168. 120 Vésteinn Ólafsson, Frásagnarlist í fornum sögum, 169. 121 Sama heimild. 122 Dundes, The Study of Folklore, 129. 123 Sama heimild.

53 Meðal helstu frásagnarlögmála Olriks er lögmálið um upphaf og endi. Þjóðsagan hefst í ró og endar í ró – hvorki byrjunin né endirinn kemur til með skyndilegum hætti.124 Þetta lögmál má auðveldlega færa beint yfir á bordún-tónlist sem hefur sömu einkenni um upphaf og endi eins og áður hefur verið getið. Hið sama gildir um andstæðulögmálið eða lögmálið um tvo á sviði. Andstæðuvensl eins og ungur og gamall, stór og smár, gott og illt, maður og skrímsli, eru lykilreglur í frásagnarhefðum þjóðsagna.125 Svipað er með bordún- tónlist sem í raun byggir á andstæðum, þ.e.a.s. laglína eða laglínur sem hreyfast ofan á undirliggjandi og óhreyfanlegum bordún-tóni. Því má einnig segja að þessi andstæða kyrrstöðu og hreyfingar sé aðaleinkenni bordún-tónlistar. Lögmálin um endurtekningu og síendurtekin mynstur eiga hér líka vel við. Eitt af einkennismerkjum bordún-tónlistar eru síendurteknir tónar eða stef, en í þjóðsögum er endurtekningin gjarnan bundin við töluna þrjá.126 Loks má nefna lögmálið um heildstæða uppbyggingu frásagna sem svipar til frásagnarliða Propp. Í slíkum frásögnum gerir hlustandinn ráð fyrir ákveðinni framvindu sögunnar. Sem dæmi má nefna minnið um þegar djöflinum eða óvætti er lofað ófæddu barni. Vegna hins fastmóta frásagnarforms veit hlustandinn mæta vel að púkinn fær ekki að eiga barnið, en hann veit hins vegar ekki hvernig sigrast verður á vandanum.127 Rétt eins og hið samþætta fagurfræðilega form bordún-tónlistar þar sem hið óvænta felst í ferðalagi laglínunnar og samspili hennar við kyrrstæðan bordún-tóninn. Hlustandinn veit ekki hvert laglínan fer en vegna bordúnsins verður tónmálið aldrei framandi, m.ö.o. þá helst hún innan ramma bordún-lögmálsins.

Með þessari samlíkingu má því renna stoðum undir framsetningu Devu á fagurfræðilegum og sálfræðilegum þáttum bordúnsins. Þjóðsögur sem hafa slípast til í munnmælum í aldanna rás og hafa verið farvegur alþýðufólks í hliðarveruleika eða handanheima virðast því eiga ýmislegt sameiginlegt með bordún-tónlist. Bæði fyrirbærin eru bundin kerfum sem tilheyra langri þróunarsögu og eru form þeirra fastmótuð, yfirveguð og fyrirsjáanleg. Þetta eru tjáningarform sem kalla á ró, en eru þó ekki spennulaus. Þau tilheyra bæði ákveðnu tímaleysi – formleysa í formfestu og eru þannig bæði róandi og örvandi í senn.

124 Dundes, The Study of Folklore, 131-132. 125 Dundes, The Study of Folklore, 136. 126 Dundes, The Study of Folklore, 133. 127 Dundes, The Study of Folklore, 139.

54

4.3 Dægurmenning og „sándtrakk á íslensku sveitina“ Rólegheit langspilstónanna voru viðmælendum einnig ofarlega í huga þegar hljóðfærið var sett í samhengi við dægurmenningu samtímans. Qian minntist sérstaklega á að þegar strengir langspilsins voru plokkaðir með fingrunum fannst honum það hafa róandi áhrif og hann tengdi tónana við evrópska þjóðlagatónlist og naumhyggjulega fagurfræði japönsku verslunarkeðjunnar Muji sem má finna víða um lönd og er algengar í Kína, heimalandi Qians:

Það er mjög róandi og þegar þú plokkaðir það [langspilið] eins og gítar þá kom í hugann þjóðlagatónlist og japönsku Muji verslanirnar. Sko, hugmyndin eða lífsstíllinn sem Muji gengur út frá einkennist af hreinleika, einfaldleika og rólegheitum. Í Muji- búðunum er spiluð tónlist sem er yfirleitt mjög afslöppuð og róandi og aðallega frá Evrópulöndum eins og Ítalíu, Spáni, Írlandi og Svíþjóð vegna þess að Kínverjar eru mjög hrifnir af þessari tegund tónlistar. Þess vegna er íslensk tónlist svo vinsæl í Kína því eins og þú veist þá eru ekki mörg græn svæði í kínverskum borgum, bara nýtískuleg háhýsi og lífið í þessum borgum einkennist af streitu og spennu, þess vegna hefur fólk þessa sýn af Íslandi, land þar sem er óspillt náttúra og afslappað andrúmsloft vegna fólksfæðarinnar, mjög friðsælt, eins og tónlistin.128

Þegar vefsíða og vefverslun Muji er skoðuð má glögglega sjá líkindi með fagurfræði verslunarkeðjunnar og vestrænni naumhyggju, og þá kannski ekki síst með sænsku alþjóðlegu húsgagnaverslunarkeðjunni Ikea.129 Þó svo að vörutegundir Muji séu heldur fleiri en hjá Ikea eru bjartir litir og einfaldleiki gegnumgangandi einkennismerki hönnunar Muji. Það ætti því kannski ekki að koma á óvart að asísk verslunarkeðja sem sækir innblástur í vestræna fagurfræði í vöruhönnun sinni spili evrópska tónlist í hátalarkerfum sölurýmanna til að ýta undir menningarhughrifin úr vestri. Það var einmitt í verslunum Muji þar sem Qian segist hafa komist í kynni við þjóðlagaskotna evrópska tónlist og þannig komist á snoðir um íslensku krútt-tónlistarstefnuna.130 Því er kannski ekki að undra að langspilstónarnir hafi minnt Qian á verslunarferðir í Muji í Kína því hin téða krútt-tónlist einkennist gjarnan af hægum hljómagangi og löngum undirliggjandi bordún-tónum, sbr. tónlist hljómsveitanna Sigur Rósar og Amiinu. Það er í raun ekki hægt að ímynda sér meiri andstæður en draumkenndar þjóðlagaskotnar tónhendingar og skarkala kínverskra

128 EE 4. 129 Sjá: Heimasíða Muji verslunarkeðjunnar. 130 EE 4.

55 stórborga. Þannig á Muji verslunarkeðjan ef til vill einhvern þátt í vinsældum Íslands sem áningarstaðar meðal kínverskra ferðamanna því rétt eins og Qian bendir á þá virðist Ísland vera ákjósanlegt mótvægi við kínverska stórborgartilveru. Krúttsins teygðu hljómar og tónar eru þannig í vissum skilningi loftbrú í norrænt norðrið.

Hið þjóðlagaskotna tónlistarval Muji verslananna með tilvísun til Evrópulanda tengist viðfangsefni sem lengi hefur verið eitt af meginviðfangsefnum þjóðtónlistarfræðinga – þ.e. tengsl tónlistar við tiltekin landsvæði og þjóðfélagshópa. Einn fremsti þjóðtónlistarfræðingur samtímans, Bruno Nettl, bendir á í bók sinni Folk and Traditional Music of the Western Continents að þó svo að þjóðlagatónlist sé í stöðugri þróun hafi þjóðtónlistarfræðingar engu að síður notað hljóð, söngstíla, hraða, laglínur, tónstiga og hinar ýmsu tónlistarlegu formgerðir til að tengja ákveðnar tegundir af þjóðlagatónlist við ákveðin landsvæði.131 Nettl bendir ennfremur á að þó svo að margvíslegir tónlistarstílar skarist í þjóðlagatónlist megi enn greina tónlist sem tilheyri munnlegri geymd, staðbundnum hljóðfærum og spilamáta, og þá sérstaklega í hinum svokölluðu þróunarlöndum.132

Þegar þjóðlagatónlist, eða heimstónlist eins og þessi tegund tónlistar er gjarnan kölluð, er skoðuð með tilliti til þriðja heims ríkja blasir við eftirtektarverð þverstæða. Fréttir af stríðum straumum flóttafólks frá stríðshrjáðum annars og þriðja heims ríkjum til suðurstranda Evrópu eru nánast daglegt brauð. Hér á Íslandi förum við ekki varhluta af bágborinni stöðu flóttafólks í leit að betra lífi og erum reglulega minnt á þennan nöturlega veruleika er fregnir berast af brottvísunum fólks um miðjar nætur. Það er því þverstæðukennt til þess að hugsa að haldgóð þekking á menningareinkennum á borð við heimstónlist frá framandi og fátækum löndum meðal velmegandi meðlima vestrænna millistétta þyki bera vott um fágaðan smekk og þannig notuð til félagslegrar aðgreiningar og upphafningar.133 Á þetta bendir þjóðfræðingurinn Gisela Welz í grein sinni „Promoting Difference: A Case Study in Cultural Politics“ og bendir ennfremur á að menningarneysla af þessu tagi sé það sem safnafræðingurinn Barbara Kirshenblatt-Gimblett hefur kallað

131 Sjá: Nettl, Folk and Traditional Music of the Western Continents. 132 Sjá: Nettl, The Study of Ethnomusicology: Thirty-One Issues and Concepts og Nettl et al., Excursions in World Music. 133 Welz, Promoting Difference: A Case Study in Cultural Politics, 88.

56 listræna endursviðsetningu á þjóðfræðilegum fyrirbærum (e. restaging of the ethnographic as art).134

Í grein sinni varpar Welz ljósi á fjölmenningarlegt mannlíf Frankfurt-borgar í Þýskalandi þar sem fólk er gjarnan á höttunum eftir nýstárlegum upplifunum. Sem dæmi um þessa tegund á sviðsetningu nefnir hún danssýningu á trúardönsum Súfista frá Konya- borg í Tyrklandi sem fór fram í gamla óperuhúsi borgarinnar. Að sögn Welz voru gestir hugfangnir af stöðugum hringsnúningum dansaranna með tilheyrandi sveiflandi pilsföldum en veittu hins vegar skýringum tyrknesks prófessors um trúarlegt inntak dansanna litla eftirtekt. Það sem skipti gesti gamla óperhússins mestu máli var hin fagurfræðilega fró sem fólst í framandi og furðulegu menningarfyrirbærinu.135

Það er einmitt þessi framandgerving sem er undirtónninn í framsetningu Kirshenblatt-Gimblett á hugtakinu um listræna endursviðsetningu á þjóðfræðilegum fyrirbærum. Samkvæmt henni skipta þjóðfræðileg (e. ethnographic) einkenni menningarfyrirbæra í slíkum tilfellum engu máli í framsetningunni. Þau séu jafnvel meðvitað sett til hliðar og fyrirbærinu stillt upp sem táknmynd sjálfs síns, án nokkurrar túlkunarfræðilegrar íhlutunar. Þannig verði handverksfólk eða alþýðulistamenn endurskilgreindir sem hreinir og klárir listamenn – litið á listsköpun þeirra án þjóðháttalegra eða þjóðfræðilegra formerkja. Kirshenblatt-Gimblett bendir engu að síður á að aðdráttarafl og séreinkenni á slíkri framsetningu sé ávallt framandleiki – rof á hversdagsleikanum og gluggi inn í hliðarveruleika.136

Segja má að slík framsetning þjóðfræðiefnis hafi átt sér stað í Louxor kvikmyndahúsinu í París í mars í hitteðfyrra á sunnudagssíðdegistónleikum þar sem ég kom fram sem langspilsleikari. Tónleikarnir fóru fram í fallegu barrými sem var rammað inn með steindum gluggum hvers mynstur dró dám af fagurfræði millistríðsáranna. Í gegnum marglita glerið sló kirkjulegri birtu yfir þéttsetinn salinn sem hefur átt sinn þátt í að skapa hið yfirvegaða og upphafna borgaralega andrúmsloft sem ríkti er ég gekk í salinn og hneigði mig með tvö langspil hvort í sinni hendi. Þrátt fyrir takmarkaða frönskukunnáttu gat ég með hjálp gestanna sagt örlítið frá hljóðfærunum og efnisskránni

134 Kirshenblatt-Gimblet, Destination Culture, 238. 135 Welz, Promoting Difference: A Case Study in Cultural Politics, 88. 136 Kirshenblatt-Gimblet, Destination Culture, 238-239.

57 sem samanstóð af íslenskum og enskum þjóðlögum auk franskra miðaldasöngva. Þetta var heldur lítið rými, áheyrendur hafa verið í kringum fimmtíu og nándin mikil. Það var því auðvelt að ná til gestanna, ekki síst þegar mér vafðist tunga um tönn og bað um frönskuhjálp úr sal. Þrátt fyrir þessa miklu nánd kom mér á óvart að áhorfendur sýndu afar lítil viðbrögð þegar ég talaði um þjóðlegan fróðleik sem tengdist íslensku þjóðlögunum. Það var ekki fyrr en ég tengdi langspilið við þeirra eigið sítarafbrigði, épinette des vosges, sem lifnaði yfir andlitum Parísarbúanna og sérstaklega þegar ég flutti fyrrnefnt lag, l'Amour de moy, úr 15. aldar Bayeux-handritinu. Lagið var flutt aftur í lok tónleikanna sem aukalag og var sérstök ósk eins gestsins. Eftir tónleikana gáfu nokkrir gestir sig á tal við mig og voru fyrst og fremst forvitnir um tengingu langspilsins við franska sítarafbrigðið. Þá var lítill drengur í fylgd föður síns sem var sérstaklega forvitinn um bordún-strengi langspilsins og þrátt fyrir ungan aldur spurði hann óvenju nákvæmra spurninga um tónfræðilega virkni þeirra.137

Það má því segja að langspilstónleikarnir í Louxor kvikmyndahúsinu hafi verið dæmigerð þjóðfræðileg endursviðsetning ef haft er til hliðsjónar hugtak Kirshenblatt- Gimblett. Af viðbrögðum Parísarbúanna að dæma varð gamla baðstofuhljóðfærið þannig fyrst og fremst áhugavert sem framandi hlutur og hljóðgjafi, og þá ekki síst þegar það var sett í samhengi við staðbundin menningareinkenni í Frakklandi. Langspilið fór þarna með aðalhlutverkið í hversdagslegu uppbroti þar sem upprunatengingar fóru frekar með hlutverk statista heldur en aukaleikara.

Í svörum tveggja viðmælenda brá fyrir svipuðum hugmyndum um endursviðsetningu. Vert er að benda á að þó svo að viðmælendur rannsóknarinnar hafi allir verið af íslensku bergi brotnir, fyrir utan einn, virðist langspilið engu að síður hafa verið þeim framandi. Sólbjörg var eini viðmælandinn sem hafði haft einhver kynni af langspilsleik í æsku og tengdi því langspilshljóminn við fyrri tíðar lifnaðarhætti.138 Þar fyrir utan tengdu viðmælendur hljóðfærið og hljóm þess í aðrar áttir en til gamla íslenska bændasamfélagsins. Það má því kannski segja að sú hefðleysa sem langspilið tilheyri hjálpi til eða ýti undir hugmyndir um listræna endursviðsetningu þess. Þegar Hannes var

137 EE V. 138 EE 1.

58 spurður hvort hann sæi fyrir sér að langspilið væri brúklegt í nútímanum svaraði hann á þessa leið:

Klárlega, ég sá það fyrir mér áðan þegar þú varst að spila þá sá ég fyrir mér að nú segi ég bara nákvæmlega eins og hugsa ég sá þig fyrir mér Rosenberg á sunnudagskvöldi bara alveg hljóð fólk bara með bjór og bara situr og hlustar þúst bara á sunnudegi ... þúst þó svo að mín tónlistarkunnátta eða þekking eða áhugi liggi allt annars staðar þúst ef þetta myndi poppa upp í nútíma samfélagi á Facebook þúst þá myndi ég fara og ég tengi þetta pínu við ... svona Damian Rice eða Ylju - stemmningu.139

Edda sá fyrir sér svipaða sviðsetningu þegar hlutverk langspilsins í nútímanum bar á góma og nefndi sérstaklega að hljóðfærið mætti ekki þróast í of hámenningarlega átt (e. highbrow):

Það væri hægt að intergrera þetta inní grasrótina aftur meðfram annars konar vakningu sem er í gangi eins og með það að fólk er að borða beint af býli og hérna ganga meira um landið ... þannig að það væri hægt að koma því inn hjá okkur held ég að þetta væri eitthvað sem að ... hljómaði áður sem hefur þagnað sem það náttúrulega gerði ... Ef þetta verður svona eitthvað svona highbrow sem á alveg rétt á sér út af fyrir sig en þá ertu ekki að ... það er svona munurinn á kannski kótelettunni í raspi og svo fara og borða einhvern góðan franskan rétt sko þúst franski rétturinn er kannski í raun betri en hitt fer meira inní sko ... minningarnar og það að upplifa eitthvað sem að ... tilheyrir því að alast upp sem Íslendingur (já einmitt) já ... saltkjöt og baunir ... ég held að hann [langspilshljómurinn] gæti bara sómt sér vel í einhverju eins og hérna einhverju svona Mugison lagi eða einhverju slíku.140

Hér sjá Hannes og Edda fyrir sér endursviðsetningu á langspilinu þar sem undirtónninn er alþýðlegur – höfði til sem flestra í stað þess að tilheyra þröngum hópum á borð við tónlistar- og fræðafólk. Þrátt fyrir hugmyndir þeirra um hið dægurmenningarlega samhengi langspilsins telur Edda að langspilið gæti engu að síður ljáð dægurmenningu samtímans þjóðlegan blæ – verið einhvers konar fulltrúi þjóðmenningarinnar en þó staðið traustum fótum í samtímanum. Í þessu samhengi benti Edda á að henni fyndist Ísland ekki eiga sér neinn sérstæðan hljóm eða „sánd“. Máli sínu til stuðnings nefndi hún til samanburðar Svíþjóð og þarlendar þjóðtónlistarhefðir:

Ég er að hluta alin upp í Svíþjóð þar finnst mér sko hérna ... þar er svo rosalega djúpt þetta sánd sko þessi þjóðlega fiðla og þessi sérstaki skali sem er hérna notuð til að kalla á kýrnar141 og svo verða það þessi lög og svo kemur það aftur og aftur í ... músíkinni þeirra og bæði í dægurlagatónlist og sænskum djass og maður þetta er

139 EE 5. 140 EE 3. 141 Hér á Edda við sænska kúakallið (s. kulning) sem svipar til jóðl-söngs.

59 alveg svona maður getur alveg rakið það og þetta alveg svona ekta sænskt en það vantar eitthvað alveg svona ekta íslenskt ... já það vantar þarna eitthvað, eitthvað hljóð sko ... eins og við höfum alltaf verið svona hljóðlausar bíómyndir, við höfum textana en við höfum ekki lagið ... já er í rauninni engin svona bein tenging við það en það væri kannski hægt að búa þær til sko fyrir nýjar kynslóðir (hlær) ég veit það ekki.142

Ef til vill má líta svo á að hér birtist samruni á tvenns konar þjóðfræðilegum sviðsetningum sem nú þegar hafa verið ræddar. Í inngangskaflanum var langspilið skoðað með tilliti til sviðsetningar menningararfs en í slíku tilfelli eru sögulegar og þjóðháttalegar skírskotanir útgangspunktur. Aftur á móti er sú tegund sviðsetningar sem Kirshenblatt-Gimblett setur fram án slíkra tenginga – sviðsetning með þjóðfræðilegri aftengingu. Hljómurinn sem Edda segir að vanti í íslenskan veruleika væri því ekki einskorðaður við menningararf heldur hluti af dægurmenningu. Hljómur með tengingu í menningararf eða þjóðmenningu en sé ekki háður henni – ekki endilega bundinn ákveðinni hefð heldur menningareinkenni með djúpar sögulegar rætur og laufgreinar sem flögra um eftir veðrum og vindum samtímans. Slíkur hljómur telur Edda geti haft í för með sér margskonar ávinning:

Þetta [sánd] fær mann til þess að einhvern veginn að læra... kennir manni að meta svona þetta þjóðlega ... þjóðlegan uppruna fólksins og að það hefur haft menningu ... já það hefur bara lagt stund á listir þó það hafi bara verið alþýðufólk, bændur og fjárhirðar (hlær).143

Edda minntist sérstaklega á að þó svo að á Íslandi megi auðveldlega henda reiður á alþýðlegar sönghefðir sem brjótast fram á ýmisskonar mannfögnuðum sé slíkur hljómur ekki nægilega afgerandi:

Svona soldið það sem maður heyrir er bara íslenskt hérna er það sem er sungið á þorrablótum og það sem er sungið í rútuferðum það er svona það sem resonerar fyrir manni, en þetta er þá ekki þetta hreina fjalla ... já kannski eina sem við eigum að þessu tagi er t.d. Yfir kaldan eyðisand og einhver svona [rímna]söngur sko, það er það eina sem við þekkjum sem er einhvern veginn svona ... eitthvað hljóð sem við getum tengt við landið og við okkur ... tengt þetta svona við sándtrakk ... það vantar sándtrakkið (hlær) á íslensku sveitina.

142 EE 3. 143 Sama heimild.

60 Þessar hugmyndir Eddu um einkennandi tónlist fyrir ákveðin landsvæði eru ekki ólíkar þeim er Herder hafði um tungumál þjóðríkja. Hann taldi að mikilvægustu forsendur þjóðernisins væru tungumálið því það endurspeglaði náttúrulegar aðstæður mannlegra samfélaga.144 Hið sama gilti um hefðir og venjur sem hann taldi eiga rætur í náttúrunni og væru því í eðli sínu afar mismunandi eftir svæðum og menningarheimum.145 Tónlistarsköpun var þar ekki undanskilin og var framlag Herders til þjóðlagasöfnunar útgáfan á Volkslied sem kom út árið 1775. Safnið var fyrst sinnar tegundar og með tilkomu þess varð hugmyndin um þjóðlagið til.146 Þjóðlög eða þjóðlagatónlist varð þannig partur af þjóðmenningarlegum einkennum sem endurspegluðu náttúru og mannlíf hvers svæðis eða þjóðríkis. Þessi tegund tónlistar hefur því oftar en ekki orðið að einhvers konar einkennistónlist þjóðríkja eða menningarsvæða og því er það ekki úr lausu lofti gripið að náttúruupplifun fólks kunni að kalla á tónlist eða „sándtrakk“ sem þá ljær umhverfinu aukið gildi eða dýpri merkingu.

Vissulega er rímnasöngur mjög afgerandi hljómheimur sem mætti án efa nýtast betur í íslenskum samtíma, bæði sem hefð og til frekari listsköpunar, sbr. listgjörninginn „Kveðið úr kirkjuturni“ á vegum Kvæðamannafélagsins Rímu í Fjallabyggð.147 Einhverra hluta vegna hefur rímnasöngur hins vegar ekki komist á þann stað í hugarvitund þjóðarinnar að

144 Guðmundur Hálfdanarson, Hvað er þjóð?, 19. 145 Guðmundur Hálfdanarson, Hvað er þjóð?, 19. 146 Ronström, On the Meaning of Practicing Folk Music in the 21st Century, 11. Guðmundur Hálfdanarson hefur bent á að kenningar Herders um þjóðmenningu og þjóðríki hafi verið ein helsta forsenda þjóðernisstefnunnar í Evrópu og að öll menningarleg þjóðernisstefna eigi rætur að rekja til kenninga hans með einum eða öðrum hætti. Þá hefur Guðmundur ennfremur bent á að þrátt fyrir þennan vafasama heiður hafi Herder alla tíð verið mikill afstæðishyggjumaður, afneitað kynþáttahyggjunni og staðið fastur á þeirri skoðun að Evrópubúar væru á engan hátt merkilegri eða fremri íbúum annarra heimsálfa (Guðmundur Hálfdanarson, Hvað er þjóð?, 20-21). Nánar verður fjallað um þjóðernisstefnu á bls. 65-66. 147 „Kveðið úr kirkjuturni“ er árlegur listgjörningur á Siglufirði á vegum Kvæðamannafélagsins Rímu. Nokkrar vikur hvert sumar síðan 2016 hafa Rímufélagar komið fyrir öflugum hátalara í turni Siglufjarðarkirkju þar sem spilaðar eru stuttar upptökur af kveðskap félagsmanna tvisvar á dag. Rímnasöngurinn ómar þannig um allan bæinn við góðar undirtektir bæjarbúa og vekur gjarnan forvitni ferðamanna. Upphafsmenn gjörningsins voru Siglfirðingarnir Örlygur Kristfinnsson myndlistarmaður og Gunnar Smári Helgason hljóðmeistari. Að sögn Örlygs kviknaði hugmyndin í kjölfar utanlandsferðar Rímufélagans Gústavs Daníelssonar sem þá rak Egils sjávarafurðir, en hann fór utan til að vera viðstaddur matvælakynningu í Kaupmannahöfn vorið 2016. Gústav hefur lagt það í vana sinn þegar hann tekur þátt í slíkum viðburðum á erlendri grundu að kveða fyrir viðskiptavinina og við kvöldverðarboð á fyrrnefndri matvælakynningu kvað Gústav vísu um ellina og yrkingar við forna stemmu. Eftir flutninginn vék danskur kvöldverðargestur sér að Gústavi og spurði hann hvort þetta hefði örugglega verið íslenskt þjóðlag sem hann hafði flutt því það hafi hljómað eins og bænakall múslíma. Fljótlega eftir heimkomuna þegar atvikið var rifjað upp kviknaði þannig hugmyndin að kveðskap úr kirkjuturninum sem Gunnar Smári var fenginn til að setja upp og útfæra (Sigurður Ægisson, Kveðið úr kirkjuturni, 30).

61 hann þyki vel til þess fallinn að kalla fram þau hughrif sem sú einkennistónlist sem Edda nefnir þarf að hafa til brunns að bera. Í raun er einkennistónlist þjóðríkja eða menningarsvæða svipað hughrifatæki og tónlistarnotkun stórfyrirtækja við framsetningu og auglýsingu á varningi. Rétt eins í lýsingum Qians á tónlistarnotkun Muji-verslananna þá er tónlistinni ætlað að skapa ákveðið andrúmsloft sem ljær ímynda- eða lífstílshönnun stórfyrirtækisins aukið vægi og gildi. Tónlist virðist einnig órjúfanlegur þáttur í auglýsingagerð og hafa rannsóknir sýnt að tónlist kunni að hafa afgerandi áhrif á vöruval neytenda.148

Í neyslusamfélögum þar sem sala og neysla á lífsstílsmiðuðum varningi er samtvinnaður úthugsaðri tónlistarsköpun kemur því ekki á óvart að tónlist sem þyki einkennandi fyrir staðbundna menningu og náttúru sé samtvinnuð ímyndarsköpun þjóðríkja. Gott dæmi um velheppnaða notkun á slíkri einkennistónlist má nefna skoska sekkjapíputónlist sem áður hefur verið minnst á. Óhætt er að segja að hvellir bordún- tónar sekkjapípunnar séu það samgrónir skoskri þjóðmenningu að nánast sé óhugsandi að ímynda sér skosk þjóðareinkenni án þeirra. Svipuð tengsl eru meðal ákveðinna þýskumælandi menningarsvæða og jóðl-söngs, sbr. sjónvarpsfrétt í kvöldfréttaþætti RÚV fyrr á þessu ári.149 Þetta var síðasta frétt fréttatímans og eins og venja er þá var hún af léttara taginu. Sagt var frá heimsmeistaramótinu í jólatrjáakasti (þ. Knutfest) í Weidenthal í Þýskalandi. Þetta var skemmtileg frásögn um árlega hefð sem að sögn fréttaþularins er einnig stunduð í Skandinavíu. Við lok fréttarinnar er þulurinn hafði lokið máli sínu tók við hefðbundinn jóðl-söngur.150 Undir jólatréssveiflum hinna glaðlyndu og einbeittu keppenda ómuðu afgerandi tónbil jóðlsins og voru tónstökkin í takt við háa hæð ráarinnar sem jólatrén svifu yfir.

Segja má að jóðl-söngurinn hafi þannig verið notaður til að skerpa á tilfinningu áhorfenda bæði fyrir landfræðilegri staðsetningu jólatrjáakastsins og þeim menningarheimi sem keppnin tilheyrir. Í þessu tilfelli virðist litlu máli skipta hvort jóðl- söngur sé viðhafður á téðu heimsmeistaramóti eða sé yfirhöfuð hluti af tónlistarhefðum

148 Sjá: Gorn, The Effects of Music in Advertising on Choice Behavior, og Vermeulen et al., Effects of Music in Advertising. 149 Sjá: Kvöldfréttir Ríkissjónavarpsins 7. janúar 2020. 150 Jóðl (þ. Jodeln, e. yodeling) er ákveðin tegund raddbeitingar þar sem vöðvar barkakýlisins og raddbandalokhljóð kalla fram snögg skipti milli brjóstraddar og höfuðraddar (í. falsetto) (Sjá: Vander Wel, Yodeling in American music).

62 Weidenthal-búa. Þarna er jóðl í hlutverki einkennistónlistar sem skapar ekki aðeins ákjósanlegt andrúmsloft fyrir fljúgandi grenitré heldur kallar fram menningarlegar skírskotanir. Jóðlið sem einkennistónlist dýpkar þannig frásögn fréttarinnar og skapar hugrenningatengsl við ákveðna þjóðmenningu og landsvæði. Sálfræðingurinn Diana Boer ásamt fleirum bendir á í grein sinni „Music, identity, and musical ethnocentrism of young people in six Asian, Latin American, and Western cultures“ að víðtækar þjóðtónlistarfræðilegar rannsóknir sýni að tónlist sé gjarnan notuð til að skapa eða skerpa á sjálfsmynd menningarsvæða og þjóðríkja um heim allan. Hún bendir ennfremur á að þetta sameiginlega sameiningartæki sé hins vegar bundið menningareinkennum hvers svæðis.151

Þessi útbreidda notkun á tónlist minnir á skrif bandaríska 19. aldar rithöfundarins Henry Wadsworth Longfellow sem var á þeirri skoðun að tónlist væri sammannlegt tungumál.152 Þó svo að hér hljómi gamalkunn klisja virðist hún nýlega hafa fengið byr undir báða vængi í nýlegri grein í hinu virta bandaríska vísindatímariti Science. „Universality and Diversity in Human “ er viðamikil rannsókn sem var unnin af stórum hópi vísindamanna við Harvard háskólann í Bandaríkjunum og studdist við gögn frá 315 löndum. Í niðurstöðunum segir m.a. að tónlist sé jú sammannlegt fyrirbæri (e. universal) og að vítt og breitt um jarðarkringluna lúti tónlist svipuðu táknkerfi og mynstri.153 Engu að síður er sérstaklega tekið fram að tónlistarsköpun og hlustun sé ekki stöðluð líffræðileg svörun (e. fixed biological response) sem helgist af einni ákveðinni frumgerð af virkni (e. prototypical adaptive function). Hins vegar sé tónlistarsköpun um allan heim bundin fjölbreyttum atferlismynstrum sem taki mið af þremur meginþáttum; formfestu (e. formality), örvun (e. arousal) og trúrækni eða trúhneigð (e. religiosity). Þá er einnig bent á að tónlist markist að öllu jöfnu af atferli sem tengist umönnun ungbarna, lækningum, dansi og ást.154

Þessi sammannlega virkni tónlistar kristallast ef til vill hvað best á þeim tímum þegar þessi orð eru skrifuð. Kórónaveiran sem veldur COVID-19 sjúkdómnum breiðist hratt um

151 Boer et al., Music, identity, and musical ethnocentrism of young people in six Asian, Latin American, and Western cultures, 2362. 152 Longfellow, Outre-Mer: A Pilgrimage Beyond the Sea, 202. 153 Mehr et al., Universality and Diversity in Human Song, 1/1. 154 Sama heimild.

63 heimsbyggðina með ófyrirsjáanlegum samfélagslegum og efnahagslegum afleiðingum.155 Í þessum fordæmalausu aðstæðum þar sem þorri manna heldur sig heimavið eiga orð Longfellows sjaldan eins vel við og nú. Á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum má daglega sjá myndskeið af tónlistarflutningi heima í stofu og fréttaflutning af íbúum stórborga sem flykkjast út á svalir syngjandi og leikandi á hin ýmsu hljóðfæri. Þó svo að tónlistarflutningurinn sem hér um ræðir sé jafn margþættur og hann er margur er sammannleg virkni hans sú sama. Rétt eins og Harvard rannsóknin bendir á þá taka tónar útgöngubanna borganna mið af mismunandi samfélagslegri formgerð og aðstæðum en undirliggjandi hvati er svipaður á hverjum stað.

Tónlist er því tæki sem bæði sameinar og sundrar. Má segja að þar felist máttur einkennistónlistar – vegna sammannlegrar virkni talar hún þvert á landamæri og menningarsvæði en einmitt þannig segir hún okkur hverjum við tilheyrum og hverjum við tilheyrum ekki. Í þessum skilningi er tónlist samfélagslegt lím, skapar samstöðu meðal ólíkra hópa og þegna þjóðríkja. Skilgreining Benedict Andersons á þjóðarhugtakinu á hér vel við. Í sinni víðlesnu bók Imagined Communities segir Anderson að hugtakið þjóð sé ímyndað pólitískt samfélag – það sé ímyndað því jafnvel meðal fámennustu þjóða sé ómögulegt að allir þjóðfélagsþegnar þekkist, hittist eða heyri hver af öðrum. Engu að síður finna meðlimir þjóðríkisins til hlutdeildar í hinni ímynduðu þjóðarheild.156 Hér spilar tónlist lykilhlutverk því eins og þjóðtónlistarfræðingurinn Martin Stokes hefur bent á þá er tónlistarsköpun þeim kostum gædd að hún kallar fram og hendir reiður á sameiginlegar minningar og staðbundinn reynsluheim af meiri ákefð, krafti og einfaldleika en þekkist í nokkurri annarri samfélagsvirkni.157

Einkennistónlist menningarsvæða og þjóðríkja er því margslungið fyrirbæri sem á sér ýmsar birtingarmyndir. Einkennistónlist er ekki aðeins hentug stemmningstónlist fyrir landkynningar og hópefli – hún kallar á sammannlega virkni bæði innan og utan þess svæðis sem hún tilheyrir. Einkennistónlist er einnig samtvinnuð þjóðmenningu sem endurnýjar sig í hvert skipti sem hún er flutt – hún er lifandi menningararfur – hluti af

155 Þegar þessi orð eru skrifuð þann 22. mars 2020 eru staðfest smit á Íslandi vegna COVID-19 veirufaraldsins samtals 568. Alls eru 532 manns í einangrun, 14 manns liggja á sjúkrahúsi, 36 manns hefur batnað, 6.340 manns eru í sóttkví og 1.066 manns hafa lokið sóttkví. Þá hafa alls 10.118 sýni verið tekin (sjá: www.covid.is). 156 Anderson, Imagined Communities, 5-6. 157 Stokes, Ethnicity, Identity and Music, 3.

64 lifandi hefð. Í þessu tilliti mætti því ætla að rímnasöngur og langspilsleikur væri vel til þess fallinn að vera tónlistarlegt einkennismerki íslenskrar þjóðmenningar. Bæði fyrirbærin tilheyra lifandi menningararfi með marglaga skírskotanir til fyrri tíðar lifnaðarhátta og eru auk þess aðgengileg alþýðleg tónlistarform.

Þrátt fyrir þessa augljósu kosti kemur kannski ekki á óvart að rímur og langspil séu ekki í forgrunni við landkynningu og sameiningu þjóðarinnar. Því eins og áður hefur verið getið má líta svo á að bæði rímnasöngur og langspilsleikur tilheyri erfiðum menningararfi – „arfleið sem margir myndu gjarnan vera án, jafnvel þótt þeir viðurkenni að [hann] sé hluti af sögu þeirra“.158 Hér er aftur vitnað í orð Macdonalds því eins og gera má ráð fyrir er erfiður menningararfur síður líklegur til vinsælda á tyllidögum þjóðríkis. Í þessu samhengi er því vert að skoða nýlegan einkennissöng Íslendinga sem jafnvel helstu ráðamenn þjóðarinnar hafa tekið upp á sína arma, og þá í bókstaflegri merkingu.

Húh-víkingaklappið með sínum afgerandi handahreyfingum virðist hafa náð að festa sig í sessi sem einn helsti einkennissöngur Íslendinga í kjölfar mikillar velgengni íslenska karlalandsliðsins á Evrópumótinu í knattspyrnu í Frakklandi sumarið 2016. Við heimkomu landsliðsins kom saman mikill mannfjöldi á Arnarhóli og hyllti drengina, m.a. með téðu víkingaklappi. Húh-ið vakti gríðarmikla athygli og í umfjöllun á fréttavef RÚV kom fram að 17 milljónir hefðu horft á landsliðið í gegnum samfélagsmiðla taka víkingaklappið ásamt tugum þúsunda stuðningsmanna.159 Húh-ið naut fljótt mikilla vinsælda og virðingar og hefur t.a.m. Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands leitt gesti í víkingaklappi við móttökur á Bessastöðum.160 Húh-ið hefur einnig ratað með ráðamönnum út fyrir landsteinana og ekki alls fyrir löngu vakti rímnasöngur og ekki síst víkingaklapp Steingríms J. Sigfússonar forseta Alþingis lukku og eftirtekt í heimsókn hans til nýsjálenska þingsins í Wellington.161

Í hugum margra er víkingaklappið því einkennisöngur sem kallar fram sameiginlegar minningar um mannfögnuð á Arnarhóli á björtu júlíkvöldi. Þó svo að víkingaklappið sé samtvinnað velgengni karlalandsliðsins á Evrópumótinu eru ástæður fyrir vinsældum þess án efa margþættar. Víkingaklappið er tegund söngs eða tónlistarflutnings sem

158 Macdonald, Mediating Heritage, 127-8 Í Sigurjón Baldur Hafsteinsson og Marta Guðrún Jóhannesdóttir, Moldargreni og menningararfur, 195-6. 159 Sjá: 17 milljónir hafa horft á „HÚH!“, fréttavefur RÚV, 6. júlí 2016. 160 Sjá: Guðni tók víkingaklappið á Bessastöðum, fréttavefur RÚV, 5. september 2016. 161 Sjá: Steingrímur J. fór með rímur og stýrði víkingaklappi, fréttavefur RÚV, 19. febrúar 2020.

65 grundvallast á samhæfni trommuleiks, handaklapps og raddhljóðs. Þetta eru kunnuglegir hljóðgjafar á íþróttaviðburðum og þar liggur væntanlega ein ástæða vinsælda þess. Húh- ið er einnig einfalt í framkvæmd og flutningi, allt sem þarf er boldungsmikil bumba og kjuði og áræðinn húh- og klappleiðari. Auk þess tekur víkingaklappið fljótt af og nánast allir sem vettlingi geta valdið geta tekið þátt.

Ef víkingaklappið er skoðað út frá kenningum á sviði þjóðtónlistarfræða og menningararfsfræða mætti benda á marga áhugaverða fleti sem gætu skýrt hylli þess. Í raun hefur víkingaklappið sem menningarlegt fyrirbæri það margar áhugaverðar og skemmtilegar fræðilegar skírskotanir að eitt og sér gæti það sómt sér vel sem meistaraprófsverkefni í þjóðfræði eða álíka fræðigrein. Því væri of langt mál hér að fara nánar í saumana á fyrirbærinu en þó er ástæða til að benda á og skoða lítillega myndskeiðið „Iceland Chant“ eftir breska kvikmyndagerðarmanninn David Schofield. Myndskeiðið eða öllu heldur örstuttmyndin er einhvers konar óður til víkingaklappsins og tilkomu þess. Í gegnum myndina hljómar húh-flutningur sem er leiddur af aðalleikaranum; húðflúruðum og hárprúðum kraftajötni íklæddum skotapilsi og stuttermabol með mynd af íslenska þjóðfánanum að framanverðu. Þar bregður einnig fyrir fólki á öllum aldri sem lýsir upplifun sinni af samstöðunni og gleðinni sem skapaðist í kringum Evrópumótið sumarið 2016. Einn þeirra sem ljær myndskeiðinu rödd sína er eldri sjómaður sem undir lok myndskeiðsins segir að „þegar klappið byrjaði þá fylltist ég stolti, ég fylltist stolti af því að vera Íslendingur og hvað við vorum að gera.“162 Víkingaklappið er þarna ekki aðeins sett í samhengi við hlutdeild Íslands á Evrópumótinu í knattspyrnu sumarið 2016 heldur má þar einnig koma auga á ýmis leiðarstef íslenskrar þjóðernisstefnu.

Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur segir í doktorsritgerð sinni Hið huglæga sjálfstæði þjóðarinnar að þjóðernisstefna í sinni einföldustu mynd feli í sér þá trú að eðlilegt sé að þjóðir myndi með sér fullvalda ríki. Þjóðernisstefna sé flókið hugtak sem menn skilji á mismunandi hátt og því auðvelt að misnota það í stjórnmálalegri umræðu.163 Eiríkur bendir einnig á að íslensk þjóðernisstefna sé ekki frábrugðin þjóðernisstefnum annarra landa að því leyti að hún byggist á sögulegri goðsögn:

162 Sjá: Schofield, Iceland Chant. 163 Eiríkur Bergmann, Hið huglæga sjálfstæði þjóðarinnar, 83.

66 Gullöld þjóðarinnar var samkvæmt goðsögninni á þjóðveldistímanum þegar Íslendingar voru frjálsir menn og sjálfs sín herrar. Þá hafi búið á Íslandi stolt og velmegandi menningarþjóð sem skrifaði heimssögulegar bókmenntir og átti í nánum samskiptum við fyrirmenni og höfðingja í öðrum löndum. Síðan hafi landið farið undir erlenda yfirstjórn og þá hafi farið að halla undan fæti. Árið 1262 gerðu Íslendingar samning, Gamla sáttmála, um að ganga í konungssamband við Noreg og síðar höfnuðu Íslendingar undir dönsku einveldi árið 1662 án þess að hafa nokkuð um það að segja. Síðan hafi hin forna menningarþjóð koðnað niður undir erlendri áþján.164

Það má því segja að víkingaklappið sé ekki bara að nafninu til tilvísun í hina téðu gullaldargoðsögn íslenska þjóðveldisins heldur einnig ímynd þess. Stælt og skeggprútt karlmennið í myndskeiði Schofields íklætt skotapilsi og stuttermabol vopnað bumbu og kjuða minnir óhjákvæmilega á staðalímynd fornnorrænna manna – vígreifa víkinga á leið til orustu. Mótvægið eru glöð börn sparkandi fótbolta og brosandi foreldrar sem tala um gleðina og samstöðuna sumarið 2016. Einsleit og hamingjusöm þjóðarímynd þar sem hvergi virðist bregða fyrir Íslendingi af erlendu bergi brotnu. Ef „Iceland Chant“ væri notað sem landkynning mætti vel líta svo á að hér byggi aðeins fólk ljóst á hörund og hár.

Eins og öll önnur menningarfyrirbæri er víkingaklappið marglaga og merking þess misjöfn meðal hópa og einstaklinga. Þó svo að forseti Íslands laumi nokkrum húh-um að í embættisverkum sínum er ekki verið að ýja að því hér að þannig slái hann á strengi þjóðernisstefnu og hið sama gildir um forseta Alþingis. Engu að síður er víkingaklappið eins og hér hefur verið bent á hlaðið táknmyndum íslenskrar þjóðernisstefnu sem vert er að gefa gaum. Það talar inn í goðsögn sem lifir góðu lífi og á sér margar birtingarmyndir í íslenskum nútíma. Goðsögnin um gullöld þjóðarinnar kann því að vera ein af ástæðum þess hversu lífseigt víkingaklappið hefur orðið og því má ætla að menningarlegar skírskotanir þess nái langt út fyrir knattspyrnuleikvanginn.

Menningarfyrirbærið húh-víkingaklapp er því gagnlegt samanburðartæki þegar langspilsleikur er skoðaður með tilliti til einkennistónlistar og þjóðlagatónlistarhefða. Því þó svo að þessi tónlistarform séu æði ólík liggja rætur þeirra í sameiginlegum menningararfi þjóðarinnar. Hér er einnig annað dæmi um hina valkvæðu virkni menningararfs. Húh-söngurinn afmarkar sig við tiltölulega stutt sögulegt tímabil – sögulega gullöld sem má segja sé hryggjarstykkið í íslenskri þjóðernisstefnu. Engu að

164 Eiríkur Bergmann, Hið huglæga sjálfstæði þjóðarinnar, 84-85.

67 síður er fátt við húh-sönginn sem minnir á þann hljómheim sem tónlistarfræðingar og flytjendur á sviði miðaldatónlistar hafa kallað fram.165

Því má ætla að langspilsleikur sé ólíklegur kandídat að svo stöddu sem einhvers konar einkennishljómur íslenska þjóðríkisins eða „sándtrakkið á íslensku sveitina“ eins og Edda komst að orði. 166 Langspilsleikur talar hvorki í reynsluheim né minnisbanka þjóðarinnar um gleðiríka og frækna hásumardaga í nútíð og liðinni tíð. Í menningararfslegu tilliti er langspilið gjarnan einn af fulltrúum svokallaðs niðurlægingaskeiðs í sögu þjóðarinnar. Þannig hefur langspilið verið samferða gömlu bændamenningunni og hluti af því menningarlega rofi sem skapaðist með breyttum lifnaðarháttum til sjávar og sveita upp úr aldamótunum 1900. Engu að síður virðast langspilstónar eiga erindi við íslenska dægurmenningu óháð þjóðfræðilegum eða menningararfslegum tengingum. En þó svo að langspilið verði ekki í bráð brúkað til að skerpa á og skrúfa upp þjóðarímynd Íslendinga virðist sem svo að hljómheimur þess sverji sig í ætt við íslenskar tónlistarstefnur sem njóta mikilla vinsælla á erlendri grundu. Þannig má kannski segja að langspilsins rólegheit séu, í einhverjum tilfellum, samofin hugmyndum fólks um Frónsins friðsæla mannlíf og hreinu fold.

4.4 Fjölmenningarleg langspilssmíði Þó svo að langspilið hafi hingað til hvorki verið áberandi í íslensku tónlistarlífi né dægurmenningu hafa komið upp hugmyndir um að það gæti sómt sér vel á fleiri stöðum en byggðasöfnum og nýst fleirum en einstaka tónlistarhópum. Slíka hugmynd er t.a.m. að finna í fyrrnefndri rannsókn þjóðtónlistarfræðingsins David G. Woods um íslenska langspilið. Þar lýsir Woods á greinargóðan hátt hvernig nýta mætti hljóðfærið í tónlistar- og smíðakennslu í grunnskólum. Hluti af rannsókn Woods var að hanna og útbúa smíðispakka (e. kit) ætlaðan til langspilssmíði fyrir grunnskólanemendur:

Í pakkanum var einfalt en vandlega valið smíðaefni og teikningar. Langspilinu var skipt í ellefu aðalhluta og var þannig frá þeim gengið að samsetning og smíði væri auðveld ... Gert er ráð fyrir að vinna við samsetningu og smíði hljóðfærisins, að meðtöldum tíma til límingar, sé innan við 10 klukkustundir ... Í tónlistarkennslu má nota langspilið þegar kennd eru grundvallaratriði tónlistar. Með því má kynna

165 Sem dæmi um flutning á íslenskri miðaldatónlist er byggir á tónlistarfræðilegum rannsóknum má nefna túlkun tónlistarhópsins Voces Thules á draumkvæðum úr Sturlungu sem kom út á geisladiski árið 2009 undir heitinu „Sék eld of þér“. 166 EE 3.

68 nemendum stillingu tónhæðar og lögmál hljóðeðlisfræði. Fjalla má um lögmál yfirtónaraðar í tengslum við athugun á afstöðu þverbanda og smíði hljómkassans. Nemendur geta kynnt sér hlutverk tónlistar í íslenskri menningu fyrri alda og lært sönglög frá þeim tímum. Langspilið er hægt að nota með ýmsum hætti til að kynna tækni á hljóðfæri sem hafa gripbretti, bogatækni strengjahljóðfæra, svo og við kennslu undirstöðuatriða í nótnalestri og tónheyrn.167

Eins og nefnt er í inngangi ritgerðarinnar var rannsókn Woods einn helsti hvatinn að baki þessarar rannsóknar og þá sér í lagi þessi tiltekna hugmynd Woods um langspilssmíði í grunnskólum. Mín eigin reynsla við langspilssmíði hjá Elisabet Mueller í Utrecht jók áhuga minn á að taka upp rannsókn Woods og skipuleggja langspilssmíðaverkefni í grunnskóla heima á Íslandi. Mér fannst því liggja beinast við að kanna afstöðu viðmælenda minna til slíks verkefnis og athuga hvort þar væri hljómgrunn að finna fyrir hugmyndum Woods. Óhætt er að segja að svörin hafi verið mjög jákvæð og fannst Helgu Kristínu t.a.m. slík hugmynd vera mjög spennandi og það að nemendur fengju að smíða hljóðfæri væri „bara æði“.168 Þá var athyglisvert að Edda minntist á slíkt smíðaverkefni að fyrra bragði þegar talið barst að möguleikum langspilsins í grunnskólakerfinu:

Já, ég meina hvers vegna eru litlir krakkar alltaf látnir fá sílafón169 og eitthvað af hverju ekki bara ... þau gætu jafnvel búið til einfaldar útgáfur af langspili í smíðum og síðan æft lag með það þetta er frekar einfalt og ef þau væru látin syngja ... Það á að gefa börnum brauð með það sem undirleik þá færu þau sennilega að fara upplifa þetta eitthvað sem tilheyrir vissum gömlum lögum.170

Auk hugmynda Eddu um langspilssmíði sá hún einnig fyrir sér svipaða þverfaglega kennslunálgun og Woods:

Já að hérna ég veit ekki hvort að sé ennþá skylda að fara í smíði t.d. (hlær) það væri alveg hægt að hafa verkefni sem tvinnar saman myndmennt og stærðfræði og tónlist og ljóð og íslensku og sagnfræði (hlær) ég meina þú getur búið til verkefni með langspili og allir eigi að læra um íslensk hljóðfæri fyrr og nú.171

Með því að tengja langspilssmíðaverkefnið við fleiri námsgreinar grunnskólans hefur Edda þannig víkkað út kennslufræðilegt gildi þess. Finnski kennslufræðingurinn Nina Mård

167 Woods, Íslenska langspilið: Saga þess, smíði og notagildi til náms og kennslu, 112. 168 EE 2. 169 Sílafónn eða tréspil er ásláttarhljóðfæri með hljómborði úr harðviðarnótum sem slegnar eru með kjuðum. Hér á landi eru sílafónar algengir í tónmenntakennslu í grunnskólum og í forskólakennslu í tónlistarskólum. 170 EE 3. 171 Sama heimild.

69 hefur bent á að slík samþætting námsgreina eða þverfagleg nálgun í kennslu hafi rutt sér til rúms víða um lönd og að árið 2014 hafi Finnar innleitt þverfaglegar kennsluaðferðir í aðalnámskrá grunnskóla.172 Þessar áherslur með tilliti til hljóðfærasmíði í finnskum grunnskólum eru meðal helstu viðfangsefna greinarinnar „The Finnish Five-String : Sustainably Designed for Musical Joy“. Þar er fjallað um þverfaglegt smíðaverkefni þar sem nemendur á yngra stigi í finnskum grunnskólum smíðuðu fimmstrengja kantele.173 Höfundar greinarinnar segja að í verkefni af þessu tagi læri nemendur um finnskan menningararf og menningarsögu, þeir læra gamalt handverk þar sem rými gefst til einstaklingsbundinnar hönnunar og síðast en ekki síst eignast nemendur hljóðfæri sem nýtist þeim í tónlistarnámi.174

Það kemur því ekki á óvart að Finnar hafi innleitt þjóðarhljóðfæri sitt kantele í aðalnámskrá grunnskóla með áherslu á samþættingu námsgreina. Í Finnlandi er sterk þjóðlagatónlistarhefð og við hina virtu Síbelíusarakademíu í Helsinki hefur verið starfrækt sérstök þjóðtónlistardeild frá árinu 1983.175 Með tilkomu deildarinnar var lagður grunnur að nýrri kynslóð tónlistarmanna sem hefur sérhæft sig í þjóðlaga- og heimstónlist og þannig hefur deildin einnig blásið nýju lífi í finnska þjóðtónlistarhefð.176

Einn þeirra þjóðtónlistarmanna sem hafa gert sig gildandi á þessu sviði tónlistar í Finnlandi er arkítektinn og sekkjapípuleikarinn Pedro Aibeo. Sumarið 2017 var Pedro á ferð um Ísland og kom við á Þjóðlagasetri sr. Bjarna Þorsteinssonar á Siglufirði þar sem ég starfaði sem umsjónarmaður. Einn helsti tilgangur ferðar hans var að kynna Heimstónlistarskólann í Helsinki (e. World Music School Helsinki) og leita að mögulegum samstarfsaðilum. Pedro er stofnandi og forstöðumaður stofnunarinnar og segir að helsta markmið skólans sé að kenna þjóðlaga- og heimstónlist með hjálp reglulegra þjóðdansasamkoma með dönsum frá hinum ýmsu heimshornum.177 Pedro hafði frá mörgu áhugaverðu og skemmtilegu að segja um finnsku þjóðtónlistarsenuna og lék mér

172 Mård, History in multidisciplinary education, 1. 173 Kantele er þjóðarhljóðfæri Finna og af sítarætt. Því svipar því til langspilsins en kantele eru mjög misjöfn að stærð og lögun. Þau sem ætluð eru til kennslu í grunnskólum eru einfaldari gerðir hljóðfærisins með fáum strengjum og eru því hentug til tónlistarkennslu fyrir börn (Sjá: Ruokonen et al., The Finnish Five- String Kantele: Sustainably Designed for Musical Joy). 174 Ruokonen et al., The Finnish Five-String Kantele: Sustainably Designed for Musical Joy, 86. 175 Ruokonen et al., The Finnish Five-String Kantele: Sustainably Designed for Musical Joy, 80. 176 Sjá: Hill, The Influence of Conservatory Folk Music Programmes. 177 Sjá: Heimasíða World Music School Helsinki.

70 því forvitni á að vita hvort honum væri kunnugt um kantelesmíði í finnskum grunnskólum. Pedro vissi sitthvað um þessa kennslunálgun í Finnlandi og benti mér á að kantele væri ekki aðeins algengt í tónlistarkennslu grunnskóla heldur væri hljóðfærið einnig áberandi í finnskri þjóðlagatónlist. Sú tegund kantele sem leikið væri á meðal fullorðinna kanteleleikara væri mun stærra og flóknara hljóðfæri en skólahljóðfærin, algengt væri að kanteleleikarar mynduðu kantelesveitir sem léku við hin ýmsu tækifæri. Pedro var því áhugasamur um langspilssmíðaverkefnið og framvindu þess. Hann benti mér sérstaklega á að hann teldi mikilvægt að nemendur væru ekki skikkaðir í slíkt verkefni. Kynni hans af kantelesmíðaverkefnum í Finnlandi hafði sannfært hann um að gæfulegra væri að slík verkefni væru valfög.178

Þessi ráðlegging Pedros var svipuð hugmyndum Eddu þegar kom að útfærslu á langspilssmíðaverkefninu:

Ég held að það sé alveg hægt að skipta út sílafóninum fyrir einhver svona þjóðlegri hljóðfæri því ekki það ... og þá yrði þessi hljómur partur af þegar þau læra að syngja íslenska tónlist með þetta sem undirleik ... án þess að það sé sko þá að það sé verið að þvinga uppá þau ... meira grípa í það kannski sjálf.179

Til að fá betri hugmynd um hvernig langspilið gæti nýst innan veggja kennslustofunnar var þungamiðja þátttökuathugunarinnar sem fram fór í Alþjóðlega grunnskólanum í Delft að leyfa börnunum að prófa hljóðfærið. Nemendum var boðið að spila á hljóðfærið bæði með því að strjúka strengina með boga og slá á þá með blýanti. Sökum þess hversu einfalt og meðfærilegt hljóðfæri langspilið er áttu börnin auðvelt með að framkalla áheyrilega tóna með báðum spilaaðferðum. Þessi tilraun vakti ómælda kátínu meðal nemendanna og tóku þau langflest hraustlega til verka er þau munduðu hrosshársbogann og blýantinn. Viðbrögð barnanna í Delft gáfu því vísbendingar um að langspil geti örvað sköpunarkraft nemenda á yngri stigum grunnskóla, hvort heldur sem er í leik eða námi.180

Eins og fyrr segir var Sólbjörg hliðvörður þátttökuathugunarinnar í Alþjóðlega grunnskólanum í Delft en hún starfar þar sem kennari og stuðningsfulltrúi. Sólbjörg er tónlistarmenntuð, stundaði söngnám bæði á Íslandi og í Hollandi og reynsla hennar sem kennari á alþjóðlegum vettvangi gaf því framlagi hennar til rannsóknarinnar ákveðið vægi.

178 Samtal við Pedro Aibeo á Þjóðlagasetri sr. Bjarna Þorsteinssonar á Siglufirði, 27. júní 2017. 179 EE 3. 180 EE Þ.

71 Sólbjörg taldi að þrátt fyrir að langspilssmíðaverkefni eigi uppruna sinn í íslenskum menningararfi eigi hann ekki síður við í alþjóðlegu samhengi:

Já en ég held líka að ef maður fengi eitthvað svona [verkefni] upp í hendurnar þá myndi maður sjá hversu frábært þetta er í rauninni ... það er tækifærið ... það er handverkið... svo er það tónlistin og svo alþjóðafræði þannig að ég hugsa að þetta gæti ekki bara átt sko við í íslenskum skólum heldur alþjóðlegum skólum til dæmis... þar sem mikill fókus er sko á alþjóðafræði.181

Langspilssmíðaverkefni er því, eins og Sólbjörg nefnir, tækifæri til að kynnast handverki og tónlistarsköpun sem tengir nemendur ekki aðeins við sinn eiginn menningararf og sögu heldur fær nemendur til að líta út fyrir landsteinana. Þessi fjölmenningarlegu stef rannsóknarinnar eiga sér samhljóm í aðalnámskrá grunnskóla er kemur að gildi list- og verkgreina:

Í list- og verkgreinum þroska nemendur með sér sjálfstætt gildismat þar sem lögð er áhersla á að kynnast og njóta list- og verkmenningar. Þátttaka og þjálfun í gagnrýnni umræðu um handverk og listir veitir nemendum einnig aðgang að menningarorðræðu samfélagsins. Í skapandi starfi og lausnaleit getur nemandinn haft áhrif á umhverfi sitt og tekið þátt í að móta menninguna ... Nemendur fá einstakt tækifæri til að kynnast og viðhalda eigin menningu og verklagi fyrri tíma, hlúa að menningararfleið sinni samhliða því að kynnast öðrum menningarheimum.182

Langspilið er hljóðfæri sem tilheyrir stórri fjölskyldu sítara. Afbrigði þessarar hljóðfærategundar má finna vítt og breitt um jarðarkringluna en meðal þeirra má nefna í Noregi, noordsche balk eða í Niðurlöndum, épinette des Vosges í Frakklandi, Scheitholt í Þýskalandi, kisfejes citera í Ungverjalandi, dulcimer í Appalachiafjöllum Bandaríkjanna og quanun í Mið-Austurlöndum.

Það var því athyglisvert að Helga Kristín tengdi langspilið til Suður-Asíu og fannst henni langspilsleikurinn vera „rosa líkur og indversk sítar-tónlist ... Þetta er svona melankólískt eða þannig soldið svona tregafullt.183 Svo skemmtilega vildi til að barnsfaðir Helgu Kristínar, sem er frá Pakistan, var í heimsókn þegar mig bar að garði og á meðan á viðtalinu stóð var hann af og til að sýsla í eldhúsinu. „Þetta hljóðfæri [langspilið] er ekki alvöru sítar ... þetta hljóðfæri er svipað sítar en þetta er þitt afbrigði“184 sagði

181 EE 1. 182 Mennta- og menningarmálaráðuneyti, Aðalnámskrá grunnskóla, 140-141. [Leturbreyting mín]. 183 EE 2. 184 Sama heimild.

72 barnsfaðirinn eftir að Helga Kristín hafði tengt langspilið við indverska sítarinn. Þá tengdi Qian einnig langspilið við heimahaga sína og sagði að þegar „þú byrjaðir að slá á það minnti það mig á kínverska hljóðfærið“.185 Hér á Qian við kínverska sítarafbrigðið og er óhætt að segja að langspilssmíði geti haft í för með sér fjölmenningarlega fleti sem t.d. mætti tvinna saman við landafræðikennslu. Á meðan á smíðaferlinu stendur væri því hægt að fara í einhvers konar heimstónlistarlegt ferðalag þar sem nemendur kynnast ólíkum menningarheimum í gegnum tónlist.

Þjóðtónlistarfræðingar hafa frá upphafi fræðigreinarinnar verið uppteknir af fjölmenningarlegu samhengi tónlistar. Fræðigreinin var lengi í ákveðinni andstöðu við áherslur vestrænna tónlistarháskóla – stofnanir sem lengi framan af einskorðuðu sig við vestræna klassíska tónlistarhefð. Undanfarna áratugi hefur víða átt sér stað vending í viðhorfi tónlistarháskóla til þjóðlaga- og heimstónlistar og í kjölfarið verið stofnaðar sérstakar þjóðlaga- og heimstónlistardeildir. Í greininni „The Influence of Conservatory Folk Music Programmes“ eftir þjóðtónlistarfræðinginn Juniper Hill er fjallað um slíkar deildir í vestrænum tónlistarháskólum. Í greininni lýsir Hill hvernig kennsla í þjóðlagatónlistarfræðum hjálpar til við að afbyggja ráðandi hugmyndafræði í listsköpun sem er ekki síst samtvinnuð menntastofnunum á borð við tónlistarháskóla. Hún bendir á að kennsla í þjóðlaga- og heimstónlist fái nemendur til að skapa nýjar áherslur og nálganir í tónlistarsköpun sem hafa áhrif langt út fyrir veggi stofnananna. Rannsókn Hills tók sérstakt mið af Þjóðlagadeild Síbelíusarakademíunnar í Helsinki en þar má segja að ríki fjölmenningarlegar áherslur eins og Kriistina Ilmonen, sem um árabil veitti deildinni forstöðu, lýsir:

Þjóðlagatónlist fjallar um það sama hvar sem er í heiminum ... Það er mikilvægt að gera nemendum grein fyrir því að þetta er samfélag án nokkurra landamæra þjóðríkja. Þeim á að vera gefinn kostur á að tengjast persónulega, tengjast þjóðtónlistarfólki víðs vegar um heiminn, ekki bara innan Finnlands eða innan Skandinavíu ... Fyrirbærið heimstónlist er ekki bundið markaðslögmálum, heldur er það heill heimur af hefðum, sem eru frábrugðnar hver annarri, en einhvern veginn samt allar eins. 186

185 EE 5. 186 Hill, The Influence of Conservatory Folk Music Programmes, 225 [þýðing mín].

73 Fyrsta sumarið mitt sem umsjónarmaður Þjóðlagaseturs sr. Bjarna Þorsteinssonar á Siglufirði kynntist ég þessari sýn Ilmonen af eigin raun þegar góðan gest bar að garði frá Bæjaralandi. Tónlistarmaðurinn Matthias Deger leit við á setrinu ásamt eiginkonu sinni og dóttur til að fræðast um þjóðlagahefðir á Íslandi. Þegar hann sá langspil hvíla á borði í aðalrými setursins fann hann sig knúinn til syngja bæverska þjóðlagið Schofiater við eigin langspilsundirleik. Tiltekið langspil er sérstaklega ætlað gestum setursins og þeir gjarnan hvattir til að prófa hljóðfærið. Þetta var því kærkomin uppástunga og þegar Deger tók til við að plokka strengi hljóðfærisins var ekki annað að sjá og heyra en hann væri þaulreyndur langspilsleikari. Í raun var þetta fyrsta skiptið sem Deger fór höndum um langspil en hann var hins vegar velkunnugur Scheitholt, þýska bordún-sítarafbrigðinu sem minnst var á hér á undan. Þegar hann fékk spurnir af langspilsleik mínum bað hann mig að leika með sér. Undir söng Degers um einmana bæverska hirðinn lékum við því báðir á langspil, hann plokkaði en ég strauk strengina með boga.187

Það var ekki aðeins óvenju fallegur jóðl-söngur og langspilsleikur Degers sem bjó til ógleymanlega músíkminningu, óvæntur samruni íslensks og bæversks menningararfs skapaði upplifun sem hefur orðið uppspretta margra vangaveltna. Rétt eins og Ilmonen lýsir hér á undan þá runnu tvær ólíkar hefðir saman, áreynslulaust. Bæverskur jóðl-söngur með undirleik tveggja langspila þar sem leikið var á annað með Scheitholt-legum spilamáta og hitt strokið með hrosshársboga að íslenskri venju skapaði menningararfslegan samruna. Mannfræðingurinn Carol Silverman segir í grein sinni um ýmis álitamál tengd menningararfi Róma-fólks að „víðsýnni viðhorf til menningararfs hjálpi til við að víkka út tilfinningu okkar fyrir afmarkaðri þjóðmenningu og taka fjölmenningu og margbreytileika opnum örmum“.188

Það má því segja að staðbundinn menningararfur á borð við langspil geti þjónað sem gagnlegt tæki til að finna samsvörun með þjóðmenningu víðs vegar um heiminn. Rétt eins og viðbrögð nokkurra barna í Alþjóðlega grunnskólanum í Delft gáfu til kynna er þau tengdu langspilstónana til hinna ýmsu landa. Einn nemandinn setti langspilsleikinn t.a.m. í samhengi við sænska þjóðlagatónlist en tveir drengir, hvor úr sínum bekknum, sáu fyrir

187 EE V. Langspilsleikur með Matthias Deger í Þjóðlagasetri sr. Bjarna Þorsteinssonar á Siglufirði, 28. júní 2017. Sjá: https://www.facebook.com/thjodlagasetur/videos/472073616459606/ 188 Silverman, Balkan Romani Culture, Human Rights, and the State, 141.

74 sér skoskar sekkjapípur. Því má segja að langspilið með sínum fjölþjóðlegu tengingum, gæti stuðlað að eða sáð fræjum fjölmenningarhyggju meðal grunnskólanemenda um leið og staðbundinn menningararfur er skoðaður í víðara samhengi.

4.5 Samantekt Í þessum kafla hafa hughrif af langspilsleik verið rædd í víðu samhengi og má segja að hugleiðsluáhrif séu ákveðið leiðarstef í þessum þætti rannsóknarinnar. Það er athyglisvert að samhljómur virðist því ríkja milli einnar elstu heimildar um langspilsleik og hughrifanna sem hér hafa verið rakin. Séra Jón Steingrímsson „endurlifnaði og fékk þar af sérleg rólegheit“189 þegar hann hlýddi á langspilsleik Þuríðar Ásmundsdóttur í baðstofunni á Bæ í Borgarfirði á seinni hluta 18. aldar. Langspilstónar rúmum tveimur öldum síðar hafa einnig kallað fram svipuð hughrif og séra Jón lýsir, rólegheitatilfinningar og lífskraft.

Auk hughrifa af langspilstónum var tekin til umfjöllunar skoðun viðmælenda rannsóknarinnar á langspilssmíðaverkefni í grunnskólum. Jákvæð viðbrögð og þær skynfræðilegu undirstöður sem sköpuðust í eigindlega rannsóknarferlinu voru mikilvægt veganesti fyrir þróunar- og rannsóknarverkefnið Flóaspilin sem fjallað verður um í næsta kafla. Þá voru bæði langspilstónarnir og langspilssmíðaverkefnið skoðað í alþjóðlegu samhengi. Sýnt var fram á að langspilið er ekki frábrugðið annarri alþýðumenningu sem tengist þvert á landamæri. Bæði hughrifin og handverkið sem langspilið tilheyrir er í eðli sínu fjölmenningarlegt. Atriði sem vert er að hafa í huga á tímum þegar þjóðernishyggju vex víða fiskur um hrygg.

189 Jón Steingrímsson, Ævisaga síra Jóns Steingrímssonar eftir sjálfan hann, 315.

75 5 Flóaspilin – Langspilssmíðaverkefni í Flóaskóla veturinn 2018–2019 Hér verður tekið til umfjöllunar langspilssmíðaverkefni í Flóaskóla veturinn 2018–2019 sem lauk með Langspilsvöku 2019 í Íslenska bænum. Gerð verður grein fyrir undirbúningi og vinnuferli langspilssmíðaverkefnisins þar sem stuðst verður við vinnudagbókarfærslur. Einnig verður greint frá gömlu langspili sem er í eigu tónskáldsins og allsherjargoðans Hilmars Arnar Hilmarssonar. Langspilið gamla hafði talsverð áhrif á undirbúningsferli smíðaverkefnisins og verður frásögn Hilmars Arnar um hvernig hljóðfærið komst í hans eigu látin fylgja með. Loks verður fjallað um Langspilsvökuna en viðburðurinn er hagnýti þátturinn í niðurstöðum rannsóknarinnar. Flóaspilin hafa vakið áhuga og eftirtekt bæði innan og utan landsteina og í lok kaflans verður fjallað um næstu langspilssmíðaverkefni og greint frá samstarfsaðilum og bakhjörlum.

Þessi kafli er lagður fram sem skýrsla um framkvæmd og vinnuferli verkefnisins. Hann er því ekki fræðileg úttekt á verkefninu þó svo að ekki verði hjá því komist að vitna í fræði er tengjast umfjölluninni á einstaka stað. Mér varð fljótlega ljóst við úrvinnslu rannsóknargagnanna að fræðilegt samtal um helstu þætti langspilssmíðaverkefnisins væri efni í aðra og mun stærri ritgerð. Slíkt fræðisamtal er afar áhugavert og spennandi viðfangs og þá sérstaklega með tilliti til kennslufræða er snerta þverfaglegar kennslunálganir í listgreinum og nýlegar kenningar í félagsvísindum á sviði handverks.190

Verkefnið hefur tvisvar hlotið styrk frá Uppbyggingarsjóði Suðurlands. Sjóðurinn styrkti langspilssmíðaverkefnið um 130.000 kr. og Langspilsvökuna um 250.000 kr., hljóða styrkirnir því saman upp á 380.000 kr. Þá hefur verkefnið notið góðs af velvild og greiðvikni bæði einstaklinga og fyrirtækja, en þeirra verður sérstaklega getið jafnóðum í umfjölluninni sem hér fer á eftir.

190 Meðal helstu fræðimanna á sviði handverks og handverksiðkunar (e. craft sciences) má nefna mannfræðinginn Tim Ingold og félagsfræðinginn Richard Sennett. Þá hefur Gautaborgarháskóli í samstarfi við aðrar menntastofnanir verið leiðandi í rannsóknum á þessu sviði. Háskólinn er samstarfsaðili rannsóknarmiðstöðvarinnar Handverkslaboratoriet í Mariestad í Svíþjóð þar sem lögð er áhersla á að rannsaka handverk með tilliti til þátta eins og listfengis, menningararfs, náttúru, garðyrkju og smíði (sjá: Handverkslabaratorium). Þá ber einnig að nefna að „haustið 2014 var stofnuð Rannsóknarstofa í listkennslufræðum við listkennsludeild Listaháskóla Íslands. Markmið hennar er að auka og efla rannsóknir og þróunarverkefni á sviði listnáms og listkennslu á öllum skólastigum í náinni samvinnu við starfsvettvang listkennara hverju sinni. Markmiðið er einnig að hvetja fólk til að eiga frumkvæði að rannsóknum og að skapa ákjósanlegar aðstæður til að miðla þekkingu og kynna niðurstöður rannsókna á sviðinu, m.a. með ráðstefnum og málþingum, útgáfu fræðigreina og fræðirita og með fyrirlestrahaldi (Kristín Valsdóttir, Framtíðarmúsík, 8).

76 5.1 Undirbúnings- og skipulagsvinna Þegar kom að vali á skóla fyrir langspilssmíðaverkefnið komu upp ýmsar vangaveltur. Ein hugmyndin var að leita til grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu því þar þekkti ég til skólastjóra sem höfðu sýnt verkefninu áhuga. Það var því freistandi og heppilegur valkostur. Aftur á móti leitaði hugur minn suður í Flóa þar sem ég hafði í mörg sumur verið í sveit sem strákur. Fyrsta sumarið fóðraði ég svínahjörð Gísla heitins Guðjónssonar í Hrygg I og sumrin þar á eftir mjólkaði ég kýrnar í Hraungerði hjá Guðrúnu Jónsdóttur og Guðmundi Stefánssyni. Sumrin í sunnlensku sveitinni urðu til þess að ég tengdist fólkinu og svæðinu sterkum böndum og hafa tengslin haldist þrátt fyrir margra ára búsetu erlendis. Ég ímyndaði mér að verkefni af þessu tagi, smíðaverkefni sem tengdist gamla bændasamfélaginu, ætti ef til vill meira upp á pallborðið hjá börnum í sveit en borg, þó svo að smíðahluturinn sem hér um ræðir sé á engan hátt meira áberandi í dreifðari byggðum landsins. Ég ákvað því að leita til gömlu sumarsveitarinnar og í mars 2017 hafði ég samband við Önnu Grétu Ólafsdóttur, þáverandi skólastjóra Flóaskóla.

5.1.1 „Hugur - hjarta - hönd“ Flóaskóli er lítill sveitaskóli sem staðsettur er hátt í sveit við ósa Þjórsár, skammt frá Villingaholti þar sem 17. aldar fornsagnaritarinn séra Jón Erlendsson bjó og starfaði.191 Á skólalóðinni stendur Þjórsárver, fjölnota félagsheimili og samkomusalur sem daglega er nýttur sem mötuneyti skólans. Flóaskóli var stofnaður árið 2004 við sameiningu þriggja grunnskóla í þremur sveitarfélögum; Gaulverjaskóla í Gaulverjabæjarhreppi, Villingaholtsskóla í Villingaholtshreppi og Þingborgarskóla í Hraungerðishreppi. Tveimur árum síðar sameinuðust fyrrnefnd sveitarfélög í eitt sem ber heitið Flóahreppur.192

Anna Gréta tók vel í erindi mitt en samskipti okkar urðu ekki löng því þetta sama vor lét Anna Gréta af störfum sem skólastjóri Flóaskóla og við henni tók Gunnlaug Hartmannsdóttir. Ég setti mig því í samband við Gunnlaugu þá um haustið og kynnti verkefnið að nýju fyrir henni. Gunnlaug var einnig jákvæð í garð hugmyndarinnar og lagði til að verkefnið gæti hugsanlega verið kennt annað hvort sem helgarnámskeið eða í vinnulotum – sex vikur í senn og fjórar klukkustundir hverja viku.

191 Þjóðmenning á kálfskinni, Tíminn 15. september 1974, 14. 192 Um Flóaskóla í Flóahreppi.

77 Þar sem ég var enn búsettur í Hollandi á þessum tímapunkti leist mér vel á tillögu Gunnlaugar um að vinna verkefnið í lotum. Ég sá því fram á að geta sinnt verkefninu með ferðum til Íslands nokkur skipti yfir veturinn. Við nánari athugun reyndust flækjustigin vegna fjarlægðar og ferðalaga mun fleiri en ég hafði reiknað með og því ákváðum við Gunnlaug í sameiningu að skynsamlegast væri að bíða með verkefnið fram á næsta vor eða þar til ég væri fluttur aftur heim til Íslands.

Þó svo að aðdragandinn að upphafspunkti verkefnisins hefði verið langur og um tíma óljós varð ég engu að síður mjög þakklátur og glaður þegar Gunnlaug samþykkti loks að láta slag standa. Enda er það ekki sjálfgefið að ókunnur þjóðfræðinemi sem hringir í skólastjóra frá fjarlægu landi með hugmynd um að smíða baðstofuhljóðfæri með nemendum skólans fái brautargengi. Ég komst síðar að raun um að áherslur langspilssmíðaverkefnisins ríma vel við einkunnararorð skólans, en þau eru „hugur - hjarta - hönd“. Einnig segir á vefsíðu Flóaskóla að meðal markmiða skólans sé að vera hjarta samfélagsins, að þjóna íbúum þess með þátttöku í margvíslegum viðburðum tengdum listum, íþróttum og menningu. Einnig er þess getið að mikilvægt sé að skólinn eigi í góðu samstarfi við íbúana og ýti undir framþróun í samfélaginu.193

Það voru ekki aðeins hugmynda- og kennslufræðilegar áherslur Flóaskóla sem gerðu hann að ákjósanlegum rannsóknarstað því einnig var stærð hans afar hentug. Fjöldi nemenda skólaárið 2018–2019 var rétt rúmlega hundrað sem auðveldaði framkvæmd á verkþáttum sem voru ekki bundnir við smíða- og tónmenntatíma, verkþættir á borð við límingu og aukaæfingar fyrir tónlistaratriðin. Ber einnig að nefna að frá haustinu 2018 hef ég gegnt starfi þverflautukennara við Tónlistarskóla Árnesinga sem er með höfuðstöðvar á Selfossi. Vegna hinna dreifðu byggða nærsveitanna eru einkatímarnir einnig kenndir í sveitaskólum. Veturinn 2018–2019 kenndi ég fjórum stúlkum og voru tvær þeirra í 4. og 5. bekk. Tónlistarkennslan við Flóaskóla á meðan á langspilssmíðaverkefninu stóð gaf mér því tækifæri á að vera í meiri samskiptum við bæði nemendur og kennara skólans. Þannig gat ég tvinnað saman einkakennsluna og langspilssmíðaverkefnið í heimsóknum mínum í skólann.

193 Um Flóaskóla í Flóahreppi, Heimasíða Flóaskóla.

78 Síðasta vor var staða tónmenntakennara við Flóaskóla auglýst laus til umsóknar. Eftir afar góða reynslu af síðasta vetri ákvað ég því að senda inn umsókn og var mér í kjölfarið boðin staðan. Ég tók því við tónmenntakennslunni síðasta haust en staðan hefur gefið mér einstakt tækifæri á að fylgja langspilssmíðaverkefninu eftir og hefur verið hafist handa við næsta langspilssmíðaverkefni skólans með nemendum 5. bekkjar.194

5.1.2 Íslenski bærinn Í kjölfar ákvörðunar minnar um að flytja heim á Frón fór ég að huga að húsnæðismálum. Um sama leyti hafði ég nýlokið við lestur á bókinni Walden eftir bandaríska rithöfundinn Henry David Thoreau.195 Í henni lýsir Thoreau tveggja ára dvöl sinni í bústað sem hann byggði sjálfur í skógi einum í námunda við Walden-tjörnina sem er skammt frá bænum Concord í Massachusetts-fylki í Bandaríkjunum. Lesturinn um einveru og meinlætalifnað Thoreaus talaði sterkt til mín á þeim tímamótum sem ég stóð á eftir margra ára búsetu í mannmörgum heimsborgum. Sumarið 2016 hafði ég reyndar fengið nasasjón af svipuðum lífsstíl og Thoreau tileinkaði sér við Walden-tjörnina þegar ég mér bauðst að reka kaffihús í Vöðlakoti, gömlu baðstofuhúsi, sem þá var nýuppgert og er eitt húsa Íslenska bæjarins í Austur- Meðalholtum í Flóa. Íslenski bærinn er menningar- og menntasetur sem hverfist um íslenska torfbæinn og græna byggingarlist. Staðurinn er allt í senn byggðasafn, húsaþorp, sýningarstaður, samkomustaður og leikvöllur.196 Viðfangsefnin eru því margvísleg og var einstaklega áhugavert og lærdómsríkt að dvelja sumarlangt á stað þar sem litið er á menningararf sem bæði fagurfræðilega tilvísun og upphafspunkt sköpunar.

Undir Thoreau-áhrifunum og hugsana til sumarsins í Vöðlakoti leitaði ég því til Hannesar Lárussonar og Kristínar Magnúsdóttur, eigenda Íslenska bæjarins, og fór þess á leit við þau að fá að leigja Vöðlakot í tvo vetur, eða þann tíma sem það tæki að framkvæma langspilssmíðaverkefnið og skrifa meistararitgerðina. Vöðlakotsvistin yrði þannig að tveggja vetra aðsetri eða „residensíu“ (e. residency) – rétt eins tíðkast gjarnan meðal lista- og fræðimanna þar sem kostur gefst á að öðlast víðari skilning á viðfangsefninu, íhuga og endurnærast. Hugmyndin um vetrarvist í kotinu snérist ekki

194 Nánar verður fjallað um næsta langspilssmíðaverkefnið við Flóaskóla í niðurstöðum kaflans. 195 Sjá: Thoreau, Walden. 196 Heimasíða Íslenska bæjarins.

79 aðeins um hentuga búsetu til fræðistarfa og nálægð við Flóaskóla, heldur hafði ég einnig hug á að gera Íslenska bæinn að samstarfsaðila að verkefninu. Ég taldi að bæði húsakostur og hugmyndafræði staðarins gæti komið að góðu gagni við útfærslu og framkvæmd þess. Þau Hannes og Kristín tóku vel í málaleitan mína og gáfu jákvæð viðbrögð þeirra verkefninu meira vægi og vigt. Á þessum mótunarstigum fann ég oft fyrir óöryggi og óvissu með hvernig best væri að haga málum. Einnig áttu efasemdaraddir til að óma í höfðinu um hvort svona verkefni væri yfir höfuð framkvæmanlegt og hvort ekki væri best að snúa sér að öðru og aðgengilegra rannsóknarefni. Því skipti aðkoma Íslenska bæjarins miklu máli fyrir framvindu verkefnisins og einnig áttu ráðleggingar Hannesar um hina ýmsu þætti er snéru að handverki eftir að slá tóninn um útfærslu þess. Með aðkomu Hannesar má með sanni segja að þar hafi verkefnið eignast hauk í horni því Hannes, sem er þjóðþekktur myndlistarmaður, er einnig ötull talsmaður gamals handverks og gildis þess í daglegu lífi og listrænni sköpun.

5.1.3 Baðstofan og hljómurinn Langspilið, bæði sem handverk og hljóðfæri, er samtvinnað baðstofumenningu gamla bændasamfélagsins. Torfbærinn á gamla bæjarhólnum í Austur-Meðalholtum er einn af fáum varðveittu torfbæjum landsins þar sem finna má smiðju, hlöðu, hjall, fjós og baðstofu.197 Torfhúsin og þá sérstaklega baðstofan er að sögn Hannesar mikilvæg heimild um gerð torfhúsa á 19. öld sem hvorki teljast til híbýla heldra fólks né snauðra kotunga.198 Baðstofan í Austur-Meðalholtum er því gott dæmi um vistarverur alþýðufólks í torfbæ sem markar síðasta þróunarstig sunnlenskra torfbæja.

Þó svo að engar heimildir séu til um að heimilisfólk í Austur-Meðalholtum hafi leikið á langspil199 gefur baðstofan þar engu að síður ágætishugmynd um hljóðvist í þessari tegund vistarvera. Spilastundirnar í gömlu baðstofunni í Austur-Meðalholtum hafa því dýpkað skilning minn á eðli, hljómi og sögulegum tengingum langspilsins. Hljóðfæri og hljómur þess markast ávallt af því rými þar sem það er látið hljóma. Í klassísku tónlistarnámi er lögð rík áhersla á að nemendur fái tækifæri á að leika eða upplifa tónverk í þeim hljómburði sem þeim er ætlað. Þannig öðlast nemendur ekki aðeins tilfinningu fyrir

197 Gamli bærinn, Heimasíða Íslenska bæjarins 198 Samtal við Hannes Lárusson. 199 Sama heimild.

80 Mynd 3 – Gamla baðstofan í Austur-Meðalholtum margvíslegum tegundum hljómburðar heldur þróa þeir með sér tilfinningu fyrir margþættu samspili hljóms og byggingarlistar. Þannig verður fagurfræði rýmis að órjúfanlegum þætti í upplifun tónlistar. Svissneski arkítektinn Peter Zumthor leggur mikið upp úr heildarupplifun fólks á rými í sýn sinni á byggingarlist. Hann lítur svo á að byggingar séu marglaga sköpunarverk sem tali sterkt til allra skilningarvitanna og hafi þannig mótandi áhrif á skynjun okkar.200

Ef marka má orð Zumthors eru byggingar því vel til þess fallnar að vekja með okkur margvísleg og margræð hughrif. Því má ætla að skynjun okkar og upplifun á tónlistarflutningi sé ekki aðeins háð sjálfum hljómburði rýmisins heldur einnig fagurfræðilegum þáttum. Það að hlýða á fjölradda söng endurreisnartímabilsins í Westminister Abbey í London, barokkaríur í Drottningholm-leikhúsinu í Svíþjóð eða valkyrjureið Wagners í Óperuhúsi Wagner-hátíðarinnar í Bayreuth í Þýskalandi gæfi þ.a.l.

200 Sjá: Zumthor, Atmospheres : architectural environments, surrounding objects.

81 tónlistinni og tónlistarflutningnum annað yfirbragð en ef hlustað væri á sama flutning í Eldborgarsal Hörpu.

Þannig má ætla að langspilsleikur í baðstofu kalli fram önnur hughrif en þegar tónarnir eru framkallaðir í öðrum tegundum rýma. Þetta samspil tóna og rýmis er ekki síður mikilvægt í ljósi þess að engar upptökur eru til af fyrri tíðar langspilsleik, ólíkt rímnasöng. Það er ekki aðeins dempuð og hlý hljóðvist í takmörkuðu rými baðstofunnar sem dýpkar skilning og vitneskju á hljóðfærinu, lykt af gömlum viði og lýsi og dauf baðstofubirtan leika einnig áhrifarík hlutverk. Þegar ljóstýra kolunnar tekur svo við af dagsbirtunni er rétt eins og skærir langspilstónarnir skeri í myrkrið og hleypi ímyndunaraflinu á flug.

Í ljósi þeirra hugmynda sem hér hafa verið viðraðar tel ég að þessi vitneskja um fagurfræðilegan og hljóðvistarlegan bakgrunn langspilsins hafi gefið rannsókninni og þá sérstaklega langspilssmíðaverkefninu dýpri og víðfeðmari skírskotanir. Eins og Woods bendir á snýst langspilssmíðaverkefni með grunnskólanemendum um mun fleiri þætti en einungis smíði og tónlistarsköpun í kennslustofum. Þetta er ferli sem miðar að auknu menningarlæsi barna, bæði með tilliti til staðbundinna einkenna og alþjóðlegra tenginga.201

5.2 Elsta langspil landsins? Löngu áður en ég fór að huga að vetrarvistinni í Vöðlakoti komst ég í kynni við langspil sem átti eftir að hafa mikil áhrif á langspilssmíðaverkefnið og einnig auka áhuga minn á sögusviði langspila. Í einum langspilstímanum hjá Erni Magnússyni sýndi hann mér eftirgerð af afar sérstöku langspili sem er í eigu Hilmar Arnar Hilmarssonar, tónskálds og alsherjargoða. Langspilið er talið vera frá 18. öld og eftirgerðin sem Örn var með undir höndum, og var smíðuð af Erni Sigurðssyni í Kópavogi, virtist mjög nákvæm eftirlíking þegar hún var borin saman við ljósmynd af frumgerðinni.202 Að sögn Arnar er talið að þetta sé elsta langspil landsins og á Kristján Eldjárn, í tíð sinni sem þjóðminjavörður, að hafa gert tilraunir til að gera langspilið að safnkosti Þjóðminasafnsins en án árangurs. Mér lék forvitni á að vita meira um þetta gamla hljóðfæri og ímyndaði mér að vitneskja um það gæti hugsanlega átt erindi í meistarprófsverkefnið. Ég hafði því samband við Hilmar

201 Sjá: Woods, Íslenska langspilið: Saga þess, smíði og notagildi til náms og kennslu. 202 Ekki er hægt að fullyrða um aldur langspilsins en sögusvið gamallar sagnar er fylgir hljóðfærinu eru Móðuharðindi 18. aldar.

82 Örn og tók hann vel í að hitta mig og segja mér frá hljóðfærinu. Við hittumst á skrifstofu hans í Ásatrúarfélaginu í Reykjavík og rakti hann ítarlega sögu langspilsins og hvernig það hafði komist í hans eigu:

Kristján heitinn Eldjárn taldi þetta vera elsta langspil sem hann vissi af og þetta langspil er búið að vera semsé í föðurættinni minni í ansi langan tíma og langamma mín Margrét Símonardóttir var svona sérstakur vörslumaður langspilsins. Þó ég muni eftir henni, hún deyr að vísu þegar ég er mjög ungur, þá er þetta saga sem hafði mikil áhrif á semsé föður minn og föðurbræður og föðursystur vegna þess að langspilið var svona ákveðinn helgigripur í öllu ættargóssinu. Ég bara man eftir að hafa alist upp við þessa sögu vegna þess að það sérkennilega gerðist að þegar ég fæðist ákveður fljótt Margrét að langspilið fari til mín. Ég er að vísu annar frumburðurinn í þessum níu ættliðum, ég á einn eldri frænda en sem sé, það var svona ákveðin matríarkía í gangi í familíunni þannig að það var aldrei efast um það að hún réði ákveðnum hlutum. Hún leggur svo á og mælir að faðir minn Hilmar Ólafsson arkítekt að hann sé vörslumaður og ég fái síðan langspilið þegar ég er orðinn ákveðið gamall. Þetta var bara eitthvað sem var vitað og ég vissi alltaf að langspilið myndi enda hjá og mér fannst það bæði spennandi og líka kvíðvænlegt. Þetta er fallegur gripur og langamma Margrét var ákaflega merkileg kona. Hún var svona dragonlady, Skagfirðingur og allt í öllu, ákaflega vel máli farin. Tók þátt í öllu félagsstarfi í Skagafirði og var síst sko eftirbátur mannsins síns sem þá var hreppstjóri. [Hún] var skörungur mikill og ég kynnist henni miklu meira bara í gegnum hluti sem ég fer að lesa mér til um þegar ég fer að kynnast Kvæðamannafélaginu Iðunni og kvæðamennsku. Hún semsé tekur að sér Friðmeyju, dóttur Símonar Dalaskálds, hún bara sér hana í sviphendingu finnst hún fallegt barn og fréttir að hún eigi erfitt og ákveður að ala hana upp. Og heldur upp á minningu Símons á sama hátt eins og hún var líka ákveðinn verndarengill Sölva Helgasonar, Sólon Íslandus kom alltaf við þarna í Skagafirðinum og átti gott og öruggt skjól þar, þannig að hún hélt upp á sérstaka menn og börn þeirra þannig að það er margt sem er svo flott við þessa konu.203

Sögnin um hvernig langspilið komst í eigu ættarinnar er ekki síður eftirtektarverð. Hilmar Örn nefnir að hann hafi ekki fundið neinar skriflegar heimildir um sögnina og því má ætla að hér birtist hún í fyrsta sinn á prenti:

Þetta er dáldið rómantísk saga og líka með ákveðinni sjálfsíroníu ættarinnar. Semsé sagan hefur fylgt þessu langspili sem ég hef heyrt allar götur og ég hef ekki getað því miður fundið heimildir fyrir nema í munnlegri geymd. Sagan segir að við Móðuharðindin að þá hafi ættmóðir mín, sem hafði þá væntanlega verið á Suðurlandi, hrakist norður í land og mætt þarna í Skagafjörðinn með einn grip í sinni eigu sem var þetta langspil. Hún sest þarna niður og væntanlega við hefðbunda kvöldvökur þá hafi hún leikið á langspilið og sungið og eða kveðið og það hafi gerst þau undur og stórmerki að ungur sonur á heimilinu hafi gjörsamlega heillast af þessum söng og þau hafi fellt hugi saman eftir þessar uppákomur hennar. Langspilið hafi þá farið inní þennan ættboga en nú veit ég ekki hvort þetta sé írónía frænku

203 EE 8.

83 minnar sko sem sagði að þetta hefði verið falskasta fólk á Íslandi (hlær) sem hefur aldrei getað sungið og mjög sérkennilegt við Skagafjörð þar sem er mikil söngmenning og mikil kóramenning.204

Þessi gömlu munnmæli urðu til þess að ég fór að velta fyrir mér hvort ekki væri bæði spennandi og skemmtilegt að nota téð langspil sem fyrirmynd fyrir langspilssmíðina í Flóaskóla. Gamla langspilið er heldur styttra og mjórra en yngri langspil, auk þess er form þess einfaldara og því aðgengilegra sem smíðaverkefni með börnum. Það var hins vegar ekki bara hentug stærð þess og form sem hafði áhrif á þessar vangaveltur því mér fannst þessi sögn eiga erindi við krakkana.

Mynd 4 – Langspil Hilmars Arnar Hilmarssonar

Litlu skiptir hér hvort sögnin sé írónía eða ekki, það sem vegur þyngst, að mínum dómi, er að kona leikur á langspilið og syngur, og því ómar hér femínískur undirtónn. Hvort heldur sem ættmóðir Hilmars Arnar hafi verið laglaus eða lagviss segir sögnin að það hafi verið hennar langspilsleikur og söngur sem varð þess valdandi að hinn ungi bóndasonur heillaðist af henni. Mikilvægt er að halda slíkum sögnum til haga og koma þeim áleiðis því óhætt er að segja að minnið um karlmann sem fíflar konu með söng og hljóðfæraleik sé mun algengara í vestrænum sagnaheimi.

204 EE 8. Téð ættmóðir Hilmars Arnar hét Una Þorkelsdóttir, fædd 1755 og dáin 1843 (Margrét Símonardóttir, Skagfirðingaþættir, skagfirzk fræði X, 39-40).

84 Til samanburðar má nefna sem dæmi þekkt steinprent eftir franska 19. aldar myndlistarmanninn Auguste Mayer (1805–1890) sem kom hingað til lands árið 1836 í vísindaleiðangri um Norðurslóðir sem franski náttúruvísindamaðurinn Joseph Paul Gaimard (1796–1858) stýrði.205 Á för þeirra um landið teiknaði Mayer sjötíu og tvo uppdrætti sem hann fullvann síðar í steinprent heima í Frakklandi. Fyrrnefnd mynd er af kvöldvöku á Grímsstöðum á Fjöllum þar sem miðpunktur mynduppbyggingarinnar er ungur karlmaður sem situr á kistli og leikur á langspil með boga. Við hlið hans situr prúðbúin kona á faldbúning sem virðist horfa á unga langspilsleikarann full aðdáunar. Sessunauturinn andaktugi er ekki eini kvenmaðurinn sem fylgist með langspilsleiknum því aðrar fjórar velklæddar konur standa eða sitja nærri. Þá eru einnig viðstaddir þrír karlmenn eða vinnuhjú auk drengs og hunds.206

Mynd 5 – Kvöldvaka á Grímsstöðum á Fjöllum árið 1836

Myndin sem Mayer dregur upp af kvöldvökunni á Grímsstöðum á Fjöllum er því athyglisverður samanburður við sögn Hilmars Arnar. Líkt og með sögnina skiptir ekki máli hvort téðir atburðir hafi í raun átt sér stað enda virðist Mayer hafa tekið sér talsvert skáldaleyfi þegar hann fullvann steinprentið. Kvöldvakan fer fram í rými sem virðist vera

205 Sjá: Árni Snævarr, Maðurinn sem Ísland elskaði. 206 Sjá: Auguste Mayer, Ísland við aldahvörf.

85 stórt hlóðaeldhús og heimilisfólkið ornar sér við opinn eldinn á meðan það hlýðir á langspilsleikinn. Þetta er stund sem í raun hefur farið fram í baðstofu bæjarins og má því ætla að Mayer hafi af fagurfræðilegum ástæðum fært kvöldvökuna yfir í rými sem minnti meira á bændahíbýli í hans eigin heimalandi.

Það sem skiptir hins vegar meira máli eru þær ólíku kynjaáherslur sem birtast í þessum tveimur frásögnum af kvöldvökum sem ekki ýkja langur tími skilur að. Mayer dregur fram vel þekkt minni í evrópskri menningarsögu sem má rekja til trúbadora miðalda er ferðuðust á milli héraða og mærðu hirðmeyjar. Þetta er lífseigt minni og algengt í samtímafrásögnum – stúlkan sem heillast af fagurgala undir þéttum gítarstrokum sjarmatröllsins.

Hér má segja að birtist eitt af hlutverkum þjóðfræðinga, að draga fram í dagsljósið alþýðumenningu fyrri tíðar sem kann að skipta nútímann máli, hafa áhrif á komandi kynslóðir og finna vitneskjunni frjóan og skapandi farveg. Gamlar sagnir eru ekki aðeins dægrastytting, þær eru hluti af sögu og sjálfsmynd þjóða og spila þannig ákveðið hlutverk í gangverki samfélaga. Rétt eins og mannfræðingurinn Karl Aspelund bendir á í niðurlagi greinar sinnar „Breytileg merking menningararfs“:

Örar breytingar á vinnulagi, fjölskylduskipan og þjóðfélagsháttum gera afturhvarf að aðlaðandi leið til að finna einkennum samfélagsins ákveðna kjölfestu. Handiðnir eru í öllum samfélögum kallaðar til þjónustu. Ef fortíðin verður ekki fundin í áþreifanlegum hlutum eða minningum má kalla hana fram með skapandi listum og með því að sækja í goðsagnir og þjóðsögur. Ný útgáfa af fortíðinni verður að lifandi reynslu sem öðlast nýtt gildi með hverri kynslóð þegar áþreifanleg einkenni að hætti formæðra og forfeðra endurnýja „merkingu“ og sjálfsmynd þjóðar.207

Langspilssmíðaverkefnið tvinnar saman bæði gamalt handverk og þjóðsögu, og er því samruni áþreifanlegs og óáþreifanlegs menningararfs. Þá má einnig benda á að ef rýnt er í steinprent Mayers má vel sjá líkindin milli langspilsins sem leikið er á á Grímsstöðum á Fjöllum og langspils Hilmars Arnar.

Það er því ekki aðeins skemmtilegt og forvitnilegt að draga fram og halda á lofti sögnum eins og þeirri sem hér hefur verið skrásett, það hefur ekki síður uppeldisfræðilegt og samfélagslegt gildi.

207 Karl Aspelund, Breytileg merking menningararfs, 105.

86 5.3 Vinnuferli langspilssmíðaverkefnisins Eftirfarandi undirkafli hefur að geyma útdrátt úr vinnudagbók og ljósmyndir frá vinnuferli langspilssmíðaverkefnisins. Verkþættir og vettvangsnótur voru skráðar jafnóðum í vinnudagbók meðfram ljósmyndum af verkferlinu. Vegna persónuverndarsjónarmiða verða nemendur ekki nafngreindir og ljósmyndirnar eru hópmyndir en ekki af einstaka nemanda.

5.3.1 Fundur með Gunnlaugu og Sigríði Oddnýju – 9. maí 2018 Fundaði með Gunnlaugu Hartmannsdóttur skólastjóra og Sigríði Oddnýju Stefánsdóttur umsjónarkennara um langspilssmíðaverkefni í Flóaskóla veturinn 2018–2019. Ýmis praktísk atriði rædd, eins og aldurshópur, hvernig og hvenær kennslan færi fram og lengd verkefnisins. Þegar ég hafði kynnt þeim helstu vinnslustig þess töldu þær 4. og 5. bekk hentugasta aldurshópinn en í Flóaskóla eru tveir árgangar að jafnaði samferða þegar kemur að valgreinum. Gunnlaug lagði til að árgangarnir ynnu verkefnið í svokallaðri lotukennslu en gæfist einnig tækifæri á að tengja verkefnið við aðrar námsgreinar – kennarar gætu þannig tekið mið af verkefninu og fjallað um skyld atriði í öðrum tímum. Þetta er einmitt eitt af megináherslum verkefnisins, að smíðin tengist sem flestum námsgreinum á einhvern hátt. Sigríður Oddný var áhugasöm um að tengja verkefnið samfélagsgreinum og þar gæti einmitt fjölmenningar- og þjóðfræðiþátturinn komið inn – t.d. hvernig alþýðumenning hinna ýmsu landa og álfa tengjast þvert á landamæri. Þetta var mjög hvetjandi fundur, bæði Gunnlaug og Sigríður Oddný voru áhugasamar og höfðu greinilega trú á verkefninu. Ákveðin var dagsetning fyrir langspilssmíðakynningu fyrir nemendur árganganna

5.3.2 Langspilskynning í Flóaskóla – 28. maí 2018 Gunnlaug skólastjóri kynnti mig fyrir börnunum og hélt utan um heimsóknina. Ég kynnti langspilið fyrir nemendum 4. og 5. bekkjar sem á næsta skólaári verða þá 5. og 6. bekkur. Þau voru einstaklega áhugasöm um hljóðfærið og virtust mjög spennt fyrir verkefninu. Það lifnaði sérstaklega yfir þeim þegar ég nefndi við þau að þau mættu mála spilið og höfðu miklar skoðanir á litavalinu. Kynningin var svipuð þeirri sem fór fram í Alþjóðlega grunnskólanum í Delft í október 2016. Ég lék þrjú lög fyrir börnin, hvert með sínum spilamáta og í lokin fengu þau að slá á strengina með blýanti og vakti það talsverða kátínu.

87 Á meðan á kynningunni stóð mundi ég eftir orðum Gunnlaugar um nemendafjölda árganganna, en alls eru nemendur 4. og 5. bekkjar átján talsins. Ég varð því örlítið uggandi yfir fjölda nemendanna því í slíku tilraunaverkefni hefði minni hópur verið meðfærilegri. Það var hins vegar hughreystandi þegar ég mér var kynnt kennsluskipulag valgreina nánar en þar er árgöngunum skipt á milli haust- og vorannar. Þetta þýðir að 5. bekkur mun sækja smíðatíma og 4. bekkur textíltíma á haustönn sem víxlast eftir áramót.

5.3.3 Samtöl við Hannes Lárusson – september 2018 Samtöl okkar Hannesar um langspilssmíðaverkefnið hafa verið uppbyggileg og hvetjandi. Hannes hefur sýnt verkefninu mikinn áhuga og hafa ráðleggingar hans skipt sköpum við útfærslu á handverksþáttum smíðinnar. Hannes hefur oftar en ekki minnst á mikilvægi þess að nemendur fái tækifæri til að kynnast gömlu handverki sem felst í slíku smíðaferli. Í rannsókn Woods er lagt upp með að hannaður sé smíðispakki og gengið frá honum þannig að samsetning og smíði sé auðveld og „að vinna við samsetningu og smíði hljóðfærisins, að meðtöldum tíma til límingar, sé innan við 10 klukkustundir“.208 Þessari nálgun er Hannes ósammála. Hans skoðun er sú að nemendur fái sem mest út úr verkefninu ef handverksþáttur þeirra sé sem stærstur, að smíðaferlið sé þannig skipulagt að börnin fái að leggja sitt mark á útfærslu hönnunarinnar og einnig að koma að sem flestum vinnslustigum smíðinnar. Þannig öðlist börnin hlutdeild í ferlinu og þyki meira til hljóðfærisins koma þegar upp er staðið. Þessi nálgun sem Hannes hefur talað fyrir kallar hins vegar á lengra smíðaferli og flóknari útfærslu en Woods leggur upp með. Í raun hefði bæði verið þægilegra og einfaldara að útbúa eftirgerð af smíðispakkanum sem Woods lét gera árið 1981 en þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir var mér ekki unnt að leita smíðispakkann uppi og virðist sem svo að hann sé týndur og tröllum gefinn.209 Ég ákvað því að fara eftir ráðleggingum Hannesar og geyma hugleiðingar um smíðispakkann – breyta verkefninu í rannsóknarferli þar sem áhugi, hæfni og þolrif nemendanna væri kannað.

208 Woods, Íslenska langspilið: Saga þess, smíði og notagildi til náms og kennslu, 112. 209 Í grein Woods segir að nákvæmar teikningar af öllum hlutum hljóðfærisins í smíðispakkanum séu að finna í Tónmenntakóla Reykjavíkur (Woods, Íslenska langspilið: Saga þess, smíði og notagildi til náms og kennslu, 126). Þáverandi skólastjóri Tónmenntaskólans, Stefán Edelstein, tjáði mér í símtali þegar ég falaðist eftir upplýsingum um smíðispakkann að honum væri ekki kunnugt um hvar hann gæti verið niðurkominn. Hann benti mér áfram á aðila sem kynnu að vita um afdrif smíðispakkans en sú leit bar heldur ekki árangur.

88 5.3.4 Fundur með Maríu Marko smíðakennara – 3. október 2018 Það hefur dregist að hefja langspilssmíðaverkefnið í haust sökum mikilla anna. Mér bauðst hlutverk Loka Laufeyjarsonar í óperunni Þrymskviðu eftir Jón Ásgeirsson en sýningar verða í Hörpu seinna í mánuðinum. Æfingar hafa gengið vel en þetta er stórt hlutverk og tímafrekt að læra og æfa. Einnig hefur tekið dágóðan tíma að koma sér fyrir í Vöðlakoti en nú er loksins komið að því að sinna verkefninu. Það var því mjög ánægjulegt að funda í dag með Maríu Marko smíðakennara. Allan septembermánuð hef ég hummað þennan fund fram af mér og var kominn með ónotatilfinningu, sér í lagi þar sem ég heimsæki Flóaskóla vikulega vegna flautukennslunnar og hitti Gunnlaugu skólastjóra, Sigríði Oddnýju og Maríu reglulega. Það var því talsverður léttir þegar ég fann hversu María var spennt fyrir verkefninu á fundi okkar á kennarastofunni. Við lögðum á ráðin með fyrstu vinnslustigin og hvaða verkþættir gætu hentað nemendunum. María lagði til að við byrjum í þriðju viku þessa mánaðar en þá verð ég að vera búinn að saga til efnið og setja saman eitt langspil svo krakkarnir sjái hvað sé í vændum. Ég lagði til að fyrsta vinnslustigið yrði að saga og skera út hljóðopið á toppstykkinu. Það ætti krökkunum að finnast skemmtilegt – draga í gegn munstur eins og hjarta, bókstaf eða eitthvað sem þau hanna sjálf, en þó innan skynsamlegra marka. Að því loknu verður svo hægt að líma langspilið saman. Mér leið vel eftir þennan fund, þakklátur fyrir að finna meðbyrinn og feginn að nú skuli verkefnið vera komið á skrið.

Um morguninn eins og aðra morgna í september hafa nemendur úr 5. og 6. bekk komið að tali við mig á göngunum og spurt mig hvenær við byrjum að smíða. Það sýnir sig hvað heimsóknin í vor hefur verið mikilvæg.

5.3.5 „Endar þetta ekki bara ofan í skúffu?“ – 5. október 2018 Fór í Efnissöluna og keypti við. Verslunin er 60 ára gamalt fjölskyldufyrirtæki, faðir og tveir synir sem reka það – skemmtilegri upphafspunktur á verkefninu heldur en BYKO, Húsasmiðjan eða Bauhaus. Þjónustan var öðruvísi en maður á kannski að venjast í markaðsmiðaðri verslun. Fjölskyldufaðirinn og væntanlega upphafsmaður fyrirtækisins tók á móti mér og leiddi mig í gegnum ferlið. Það er kannski ekki rétt að segja hann hafi beinlínis leitt mig áfram – hann virtist heldur tortrygginn og tók mér heldur fálega, ekki hýrnaði heldur yfir honum þegar ég sagði honum frá ástæðu viðarkaupanna. Um leið og

89 ég sýndi honum málin sagðist ég ekki viss hvernig best væri að reikna út magnið því ég vissi ekki í hvernig einingum viðurinn væri seldur. Hann benti mér á sex metra langar spýtur: „Þetta er oregon fura“, en það er viðartegundin sem ákveðið var að nota í verkefnið eftir ráðfæringar við Örn Magnússon organista og langspilsleikara í Reykjavík.

Á örskotsstundu var hann búinn að reikna út í huganum magnið fyrir 25 langspil. Í sama mund og ég hjálpaði hinum stóíska viðarsölumanni með fyrstu spýtuna af þremur á kerruborðið spurði hann: „Endar þetta ekki bara ofan í skúffu“? og glotti. Ég brást við með einhvers konar meðvirknishlátri, sagði eitthvað á þá leið að það kæmi svo sem ekki á óvart, ef spilin rötuðu fljótt ofan í djúpar geymsluskúffur eða skápa. Viðnum var trillað að sög mikilli og þar voru spýturnar sagaðar í 70 cm lengdir. Annar sonurinn sem var heldur glaðlegri en faðirinn hjálpaði til og var fús til að svala forvitni minni um fyrirtækið og hinar ýmsu og framandi viðartegundir sem umkringdu okkur.

Efniskostnaðurinn var 72.614 kr. en styrkurinn frá Uppbyggingasjóði Suðurlands (130.000 kr.) verður notaður til að greiða hann.

5.3.6 Fyrsti smíðatíminn – 17. október 2018 Rúmri viku fyrir fyrsta smíðatímann tók ég hús á Ólafi Sigurjónssyni listasmiði í Forsæti sem hafði fallist á að verða mér innan handar við að saga spýturnar og hefla í rétta þykkt. Bærinn Forsæti er rétt sunnan við Flóaskóla og þar rekur Ólafur trésmíðaverkstæði ásamt syni sínum. Ólafur var allur hinn hressasti og glaður að leggja sögun og heflun til verkefnisins. Honum leist mjög vel á verkefnið, fannst þetta spennandi framtak sem var kærkomin hvatning eftir efasemdadrungann í Efnissölunni. Um helgina smíðaði ég frumgerðina (e. prototype) og hafði til hliðsjónar eftirgerðina af 18. aldar langspilinu. Mestöll helgin fór í smíðina og þegar frumgerðin var að mestu tilbúin fannst mér verkefnið loks hafa tekið á sig efnislegt form. Nú var ég kominn með sjálfstraustið til að geta hafið verkefnið, komin frumgerð sem nemendurnir gætu miðað smíðaferlið við.

Fyrsti smíðatíminn fór vel af stað. Ég sýndi krökkunum í 5. bekk eftirgerðina af 18. aldar langspilinu og sagði þeim sögnina um formóður Hilmars Arnar. Þau hlustuðu á með athygli og loks sýndi ég þeim frumgerðina og bar hana saman við 18. aldar eftirgerðina. Mér fannst mikilvægt að setja smíðaferlið í sögulegt samhengi frá upphafi og einnig að þau hefðu efnislega tengingu við þjóðsöguna.

90 Fyrsta vinnslustigið gekk hins vegar ekki eins snurðulaust og sögustundin. Byrjað var á að hanna hljóðopið á framhlið langspilsins. Á langspilinu sem ég smíðaði hjá Elisabeth Mueller í Utrecht er hjartalaga hljóðop, rétt eins og á mörgum gömlum langspilum, og tveir nemendur sem höfðu áhuga á að saga út hjarta. Fjórir nemendur höfðu metnaðarfyllri hönnunarhugmyndir og teiknuðu heldur flókin munstur eins og vængi og abstrakt form sem líktust misstórum dropum. Þegar til kastanna kom reyndust blöð litlu bandsaganna of gróf, oregon-furan of stökk og framhliðar-hlutarnir of þunnir fyrir svo fína sögun. Því klofnuðu og brotnuðu þónokkrar af tilsöguðu framhliðarhlutunum. Eftir þennan fyrsta smíðatíma varð ljóst að oregon-fura er ef til vill ekki hentugasta viðartegundin í verkefni af þessu tagi því þó svo að hún sé áferðarfalleg er vandasamt að smíða úr henni, og þá sérstaklega fyrir krakka.

María lagði því til að borað væri fyrir götin með stórum flötum borum til að flýta fyrir ferlinu. Sumir héldu áfram að saga út hljóðopið en aðrir þáðu hjálp frá borvélinni. Við prófuðum fyrst að bora í nokkra framhliðarhluta sem höfðu brotnað til að sjá hvernig til tækist. Þá kom upp skemmtileg hönnunartillaga frá einni stúlkunni sem fólst í að bora tvö minni göt við á efri helming brúnar hringlaga hljóðopsins. Þannig urðu til útlínur sem svipa mjög til teiknimyndapersónunnar Mikka músar. Þá hugsaði ég með mér að þetta hlyti að vera í fyrsta skiptið sem Mikki mús væri settur í samhengi við

Mynd 6 – Mikka músar-hljóðop langspil.

5.3.7 Kennslukönnun nemenda – 29. október 2018 Í haust fór fram nemendakönnun sem er hluti af Skólapúlsinum.210 Gunnlaug skólastjóri kom að máli við mig á kennarastofunni í dag og nefndi að einn nemandi hafi nefnt

210 Skólapúlsinn er „vefkerfi [sem] veitir skólastjórnendum stöðugan aðgang að nýjum upplýsingum sem aflað er mánaðarlega um þætti sem tengjast virkni nemenda og líðan þeirra í skólanum og um skóla- og bekkjaranda. Niðurstöður um stöðu nemenda í 6.-10. bekk eru bornar saman við niðurstöður fyrri mælinga í skólanum og við landsmeðaltal sem gefur skýrar vísbendingar um þróun mála í skólanum og stöðu

91 langspilssmíðina sem einn þeirra þátta sem honum fannst „sérstaklega gott við skólann“.211 Þetta voru upplífgandi fréttir eftir byrjunarerfiðleikana.

5.3.8 Jákvæðni og dugnaður – nóvember og desember Á heildina litið hafa krakkarnir verið ótrúlega jákvæðir og duglegir við smíðina. Það kom mér sérstaklega á óvart hversu viljug þau voru við að saga út og raspa til toppstykkið, en það er stykkið fyrir stilliskrúfurnar. Smíðin við toppstykkið er stærsti verkþátturinn og tímafrekastur, en nemendur hafa ýmist verið þrjár eða fjórar kennslustundir að ljúka við stykkið. Við náðum Mynd 7 – Toppstykki í vinnslu að klára alla verkþætti fyrir límingu fyrir annarlok. Eftir áramót byrjar svo smíðin aftur á byrjunarreit með 4. bekk og þá búum við að reynslu haustannarinnar.

5.3.9 Stilliskrúfurnar týndust í pósti Þann 29. nóvember 2018 pantaði ég ukulele-stilliskrúfur fyrir langspilin. Chris Foster hafði bent mér á að skynsamlegra væri að nota slíkar stilliskrúfur í stað þess að smíða þær frá grunni, sem er afar tímafrekt. Auk þess er mun auðveldara að stilla langspilin með ukulele- stilliskrúfum heldur en hefðbundnum stilliskrúfum eins og á fiðlum og öðrum þess háttar strengjahljóðfærum. Ég pantaði skrúfurnar frá Kína í gegnum Ebay og áttu þær að berast í hús 29. janúar 2019. Mánuði síðar gafst ég upp á biðinni og pantaði hefðbundnar stilliskrúfur frá Thomann-hljóðfæraversluninni í Þýskalandi. Mér reyndist ómögulegt að finna ukulele-stilliskrúfur á sanngjörnu verði innan Evrópu og voru selló-skrúfurnar frá Þýskalandi mun hagkvæmari kostur.

nemenda í skólanum miðað við nemendur í öðrum skólum í landinu ... Grunnskólar víðs vegar á landinu eru skráðir í verkefnið en nemendur í 6.-10. bekk taka þátt“ (sjá: Vefsíðu Skólapúlsins). 211 Samtal við Gunnlaugu Hartmannsdóttur.

92 5.3.10 Langspilssmíði í beinni – janúar og febrúar 2019 Smíðin hefur gengið hægt en örugglega. Við María búum að reynslu haustannarinnar og því hafa flækjustigin verið mun færri á vorönninni. Hið sama er að segja um 4. bekk, þau eru ekki síður spræk við smíðina. Þetta er hins vegar mun meiri vinna en ég hélt, svo margt sem börnin geta ekki gert en við María reynum að hafa þau með í sem flestum verkþáttum. Þetta fyrirkomulag þýðir í raun að ég þarf að undirbúa langspilsmíðina í þaula fyrir hvern vikulegan smíðatíma. Það eru margir verkþættir sem krakkarnir ráða ekki við sem ég hafði ekki séð fyrir. Á þessu tímabili hef ég sérstaklega hoggið eftir performatívri virkni smíðastofunnar. Dyrnar eru ekki langt frá aðalnemendainngangi skólans og eiga því nemendur leið hjá stofunni oft á dag. Einnig snúa stórir gluggar smíðastofunnar út á leiksvæði nemendanna. Þannig er starfsemin sem fram fer í smíðastofunni svo til fyrir opnum tjöldum og oftar en ekki hafa nemendur, og þá sérstaklega þeir yngri, guðað á gluggana í frímínútum þegar ég hef verið að sinna langspilunum. Þessi forvitni þeirra hefur einnig þróast í stuttar heimsóknir þar sem nemendur, hvort heldur sem þeir eru þátttakendur í verkefninu eða ekki, líta við í smíðastofunni til að skoða og spyrja um langspilssmíðina.

5.3.11 Mars – líming Viðamesti verkþáttur vinnuferlisins hefur verið límingin. Ég ákvað að sjá alfarið sjálfur um að líma saman grindina, þ.e.a.s. toppstykki, botnstykki og hliðarspýturnar, þetta límingarferli tók heila Mynd 8 – Grindur Flóaspilanna tilbúnar fyrir límingu helgi. Þegar kom að límingu fram- og bakhliðar taldi ég brýnt að nemendurnir tæku þátt í þeim verkþætti því þá fékk hljóðfærið sitt eiginlega form. Við þessa límingu þarf mjög margar þvingur og fyrir hverja límingu höfum við notað allar tiltækar þvingur smíðastofunnar. Límingin tók alls níu daga því aðeins var mögulegt að líma tvö spil hvern dag. Ég sótti tvo nemendur í senn úr

93 kennslustund tvisvar um daginn, fyrir og eftir hádegi, og þau aðstoðuðu við límingarferlið með því að pensla lími ofan og neðan á grindina og festa þvingurnar.

5.3.12 Nýr smíðakennari og viðarbæs – 1. apríl 2019 Gunnlaug skjólastjóri sagði mér frá Ragnari Kristjáni Gestssyni sem tekur við af Maríu Marko í fæðingarorlofinu hennar. Ég hitti hann síðar um daginn og átti gott spjall um bók

Mynd 9 – 5. bekkur og Flóaspilin skömmu eftir límingu sem hann er að skrifa um eldsmíði. Verður gaman að kynnast honum betur og heyra meira af pælingunum hans. Viðkunnanlegur maður. Sagði mér að hann væri myndlistarmenntaður. Fór í BYKO og keypti viðarbæs, eftir nokkur samtöl við Maríu vorum við sammála um að bæs væri besta tegundin af lit til að mála langspilin. Þá sérstaklega svo spilin héldu viðaráferðinni. Keypti líka viðarvörn sem starfsmaðurinn hjálplegi sagði að væri góð sem undirlag fyrir bæsið, þó svo það sé kannski bara sölutrikk var líka gott að kaupa það fyrir börnin sem munu kjósa að mála spilin ekki heldur bera bara á þau. Samkvæmt Ragnari er fínt að setja fyrst viðarvörnina og svo olíu. Gerði nokkrar litaprufur heima í Vöðlakoti á litla viðarafganga frá smíðinni, þær komu vel út.

5.3.13 Prufubæsun – 2. apríl 2019 Fór um morguninn aftur í Flóaskóla til að sýna Maríu og Ragnari prufurnar og bæsið sem ég keypti. Þeim leist mjög vel á. Ragnar er mjög jákvæður og hvetjandi, hefur mikinn

94 áhuga á hvers kyns handverki, býr á Eyrabakka ásamt konu sinni og mörgum börnum. Hann hefur nú þegar sýnt verkefninu mikinn áhuga og komið með góðar ráðleggingar varðandi bæsunarferlið. Bæsaði eitt prufulangspilið blátt, það kom vel út. Samt fékk ég mikinn kvíða um kvöldið yfir að þetta gæti orðið algjört klúður í smíðatímanum daginn eftir. Það er svo margt sem gæti farið úrskeiðis því þó svo að prufurnar hafi komið vel út er ekkert víst að viðurinn í hinum spilunum taki eins vel við bæsinu.

5.3.14 Bæsun og líkömnuð þekking – 3. apríl 2019 Smíðatími – bæsun. Þurftum að pússa betur og ganga úr skugga um að límslettur væru pússaðar burt. Við náðum að bæsa þrjú spil og viðarverja þrjú. Tvö spil eru því eftir í 5. bekk. Spilin sem voru bæsuð komu mjög vel út. Rautt, fjólublátt og grænt. Þau sem voru bara viðarvarin komu líka mjög vel út. Það var magnað að sjá spilin lifna við á þennan hátt, sjá efnið taka á sig annað form, annað yfirbragð, umskipti. Virkilega gaman að sjá hvernig nýir viðartónar koma í ljós við bæsun. Bylgjur í viðnum sem áður voru ekki sýnilegar birtast í bæsuninni. Það var einnig sérstaklega gaman að fylgjast með hvað krakkarnir voru spenntir og glaðir, fannst greinilega spennandi og skemmtilegt að fá að velja litinn á spilið og líka hvort þau vildu hafa bæs-lit á því yfirhöfuð. Hjó sérstaklega eftir því þegar einhver þeirra sögðu „langspil“ – það var eins og orðið væri orðið hluti af orðaforðanum þeirra. Eins og þau höfðu líkamnað þetta orð og vitneskjuna um það. Þarna fór ég að hugsa um hvernig tónfallið í framburði orðanna gæti verið háð því hvernig samband við höfum við efnið og hugtökin sem við tjáum okkur um. Orðið „langspil“ hljómar kannski mjög íslenskt og alls ekki framandi, en það er yfirleitt ekki hluti af orðaforða og vitneskju barna, eða fólks almennt. Það var eitthvað við tónfallið í hvernig þau minntust á hljóðfærið, hvernig þau báru fram orðið – þetta var skemmtileg uppgötvun. Það var eins og orðið hefði komist inn á hversdagssviðið – eins og að langspilið væri orðið hluti af hversdagsmenningu barnanna. Mér fannst ekki aðeins merkilegt að heyra þetta heldur einnig að ég skyldi skynja þetta. Þetta er eitthvað sem ég hefði ekki búist við og var alls ekki eitthvað sem ég hefði getað ímyndað mér áður er ferlið hófst. Þetta er eitthvað sem ég verð að athuga betur í sambandi við málvísindi – hvort til séu einhver fræði um tónfall orðanna og hvernig við líkömnum þekkingu.

95 5.3.15 Annar í bæsun – 10. apríl 2019 Með hjálp Ragnars og Maríu náðum við að klára að bæsa eða viðarverja öll 5. bekkjar spilin. Við fengum krakka úr 6. bekk lánaða úr textíl, þ.e. þá sem vildu litabæsa. Fimm vildu viðarverja og því eru fimm spil eftir. Hafði hugsað mér að klára að bæsa, viðarverja og olíubera fyrir páska. Virkilega hvetjandi hvað börnin eru jákvæð. Eins og á degi sem þessum þegar geðið er stirt og kannski einhver vordrungi íþyngir manni – jákvæða orkan þeirra er mjög smitandi. Krakkarnir hafa í rauninni drifið þetta verkefni áfram, það er í gegnum þá sem áhugi minn hefur vaknað fyrir alvöru á þessu smíðaverkefni. Ég man alla kvíðahnútana sem ég hafði yfir að ráðast í þetta, rámar meira að segja í eina eða tvær andvökunætur. Mér fannst þetta um tíma óyfirstíganlegt, að smíða átján langspil með börnum á einum vetri. Smíðanámið hjá Elisabetu Mueller í Utrecht gat engan veginn búið mig undir þetta verkefni. Því hefur stuðningurinn og hvatningin bæði frá Maríu og Ragnari verið ómetanlegur.

5.3.16 Smíðadagur hjá Hansa Jóhannssyni fiðlusmiði – 26. apríl 2019 Hans Jóhannsson fiðlusmiður í Garðabæ hefur verið mér innan handar við ýmsar tæknilegar útfærslur á smíðinni. Toppstykkið var t.a.m. endurhannað eftir hans leiðsögn til að spara tíma við smíðina en án þess að tapa mikilvægum handverksþætti með krökkunum. Þar sem kónískir handborar fyrir stilliskrúfur (e. peghole reamer) eru ekki fáanlegir á landinu bauð Hans mér að koma á verkstæðið sitt í Garðabænum og nota verkfærin og aðstöðuna þar. Ég stóð daglangt við að handbora götin fyrir selló-stilliskrúfurnar frá Þýskalandi, alls fimmtíuogfjögur göt.

Hansi er mikið ljúfmenni og vildi allt fyrir mig gera. Hann útbjó fína aðstöðu á verkstæðinu þar sem ég hafði allt til alls, hann færði mér meira að segja reglulega kaffi. Þessi dagur minnti mig á langspilssmíðina hjá frú Mueller í Utrecht. Stilliskrúfurnar koma einstaklega vel út finnst mér. Yfirleitt tvær skrúfur að ofan og ein að neðan, sums staðar tvær að neðan ef ekki var pláss fyrir tvær á toppstykkinu. Þetta er skemmtileg tilviljun því þetta skrúfufyrirkomulag gera Flóaspilin enn líkari 18. aldar eftirgerðinnni. Auk þess hafa selló-stilliskrúfurnar mun meira fagurfræðilegt gildi en litlar ukulele-stilliskrúfur

96 5.3.17 Flóaspilin strengd – 29. apríl 2019 Farinn að finna til mikillar þreytu. Var í allan eftirmiðdag að þræða strengi í spilin. Keypti vitlausa strengi fyrir fimmundina, vafna, þeir slitnuðu oft þegar ég strengdi þá.212 Þarf að skipta, fá slétta stálstrengi sem slitna síður. Nú hanga spilin fallega á veggnum í smíðastofunni eftir að við Ragnar smíðuðum snaga. Þannig blasa þau við í meginrými smíðastofunnar og eru vel sýnileg þeim sem líta þangað inn. Unglingarnir, gaurar úr 10. bekk, voru forvitnir og litu við, ég sýndi þeim frumgerðina, spilaði bara fimmundina því laglínustrengurinn virkar ekki. Þeir virtust impóneraðir. Merkilega skemmtilegt að unglingarnir sýndu þessu áhuga, ákveðin viðurkenning kannski í því.

5.3.18 Flóaspilin hljóma – 30. apríl 2019 Stór dagur því nú færðist verkefnið úr smíðastofunni yfir í tónmenntastofuna. Guðmundur Pálsson fiðluleikari og tónmenntakennari hafði tekið vel í að fella langsspilstíma inn í tónmenntakennsluna. Það tók langan tíma að stilla spilin saman enda á eftir að taka nokkrar vikur þangað til langspilin fá sinn eðlilega hljóm. Guðmundur hjálpaði mér við stillivinnunna enda veitti ekki af. Það var mjög sérstök stund þegar spilin tóku að hljóma öll saman. Þetta var í raun fyrsta skipti sem ég heyrði svo mörg langspil leika samtímis. Ég fékk krakkana til að sitja í hring og þannig kenndi ég fyrstu handtökin. Þarna kom á daginn hversu hentugt langspilið er til svona kennslu því það tekur stuttan tíma að fá þau til að plokka eða slá á strengina í takt. Markmiðið er að læra þrjú lög úr þjóðlagasafni séra Bjarna Þorsteinssonar; Ný upp rann þín sumarsól, Dýravísur og Lysthúskvæði. Það kom mér skemmtilega á óvart hversu fljót þau voru að læra lögin og hversu sannfærandi þetta hljómaði við fyrstu tilraun. Undir laginu Ný upp rann þín sumarsól voru strengirnir plokkaðir í þrískiptum takti sem á mjög vel við þriggjastrengja langspil. Strengirnir voru síðan slegnir á áherslustöðum í Dýravísum og Lysthúskvæði.

Á heildina litið gekk tíminn mjög vel, krakkarnir voru fljótir að læra lögin en lengur mun taka að læra textana utan að. Tvær stúlkur í 5. bekk virtust heldur afhuga tónlistaræfingunni og smitaði neikvæðnin út frá sér. Það lifnaði hins vegar yfir annarri

212 Flóaspilin eru þriggja strengja langspil. Miðstrengurinn er fimmund eða fimm tónum hærri en grunntónninn eða dýpri strengurinn.

97 þeirra þegar ég spurði börnin hvort þau ættu í fórum sínum stórar og fallegar fjaðrir sem við gætum notað til að slá á strengina. Stúlkan sagðist eiga fullan stóran bréfpoka af álftafjöðrum og skyldi hún koma með pokann í næsta tónmenntatíma.

Svo skemmtilega vill til að þann 24. maí verður hátíðardagskrá í Þjórsárveri í tilefni af 60 ára afmæli félagsheimilisins. Gunnlaug spurði mig um daginn hvort mögulegt væri að þátttakendur í langspilssmíðaverkefninu myndu flytja tvö til þrjú lög við upphaf dagskrárinnar. Eftir tímann í dag er ég sannfærður um að börnin verði búin að ná það góðum tökum á spili og söng að þau muni geta glatt viðstadda með atriði á afmælinu.

5.3.19 Álftafjaðrir – 7. maí 2019 Rétt eins og fyrirkomulagið með aðrar valgreinar er bekkjunum kennt í sitthvoru lagi í tónmennt, en ólíkt smíðum og textíl sækja nemendur tónmenntatíma allan veturinn. Það gekk ekki vel með 6. bekk. Þau voru orðin mjög þreytt undir lok skóladagsins og kannski var neikvæðnin þess vegna meiri en venjulega. Svo virðist sem þau njóti sín síður í laginu Ný upp rann þín sumarsól, enda er það hægt og fljótandi og ekki jafn mikið stuð og Dýravísur og Lysthúskvæði. Hugsanlega væri betra fyrirkomulag að æfa oftar yfir vikuna og þá styttra, heldur en að helga heilan tónmenntatíma fyrir langspilsleik og söng. Einnig virðist sem svo að krakkarnir í 6. bekk séu jafnvel orðin of gömul fyrir svona verkefni sem gæti útskýrt neikvæðnina. Sumum virðist finnast þetta frekar hallærislegt, og þá sérstaklega stelpunum. Mun betur gekk í tónmenntatímanum með 5. bekk. Þau eru að jafnaði jákvæðari og viljugri til söngsins. Einn drengjanna er sérlega áhugasamur og spurði hvort þau fengju ekki að vera oftar með langspilin því honum þótti þetta svo skemmtilegt. Stúlkan sem sagðist ætla að mæta með álftafjaðrirnar stóð við orð sín og færði mér um tuttugu stórar og hvítar fjaðrir. Álftafjaðrirnar búa til einhvern galdur – þegar krakkarnir halda á marglitum langspilunum og slá á strengina með hvítum álftafjöðrum verður til mikið sjónarspil. Það verður spennandi að sjá viðbrögðin á afmælisdagskránni þegar átján álftafjaðrir hefjast á loft í gamla félagsheimilinu.

Það var einnig einstaklega ánægjulegt hvernig álftafjaðrastúlkan öðlaðist með framlagi sínu hlutdeild í verkefninu. Hingað til hafði hún verið einn fárra nemenda sem virtist mjög áhugalaus um smíðina. Það þurfti gjarnan að tala hana til svo hún héldi áfram við smíðina og þegar hún lét til leiðast átti hún í erfiðleikum með einbeitingu sem hafði

98 áhrif á vandvirknina. Mér fannst því ég skynja ákveðinn viðsnúning í viðmóti hennar til verkefnisins því ég þurfti ekki lengur að dekstra hana til að taka þátt í söngnum og spilinu.

5.3.20 Þóra til bjargar – 11. maí 2019 Hef orðið svolitlar áhyggjur yfir hversu hægt gengur að fá krakkana til að læra textana utan að. Við Gunnlaug ákváðum í sameiningu að nóg væri að flytja tvö lög í stað þriggja á afmælisdagskránni, Lysthúskvæði verður sleppt. Ég varð mjög feginn þegar Þóra Gylfadóttir umsjónarkennari 5. og 6. bekkjar féllst á að hjálpa til við að æfa lögin og textana á milli tónmenntatímanna sem eru aðeins einu sinni í viku. Þóra sem er góð söngkona er einnig vön að leiða börn í söng fyrir jólatréskemmtun og árshátíð skólans. Ég var mjög feginn að fá hana til liðs því ég hef mjög litla reynslu af söngkennslu af þessu tagi og var því spenntur að fá að fylgjast með hvernig hún bæri sig að.

5.3.21 60 ára afmæli Þjórsárvers – 24. maí 2019 Þessum degi mun ég seint gleyma. Ég var bæði stressaður og glaður á meðan ég stillti langspilin í anddyri Þjórsárvers, var kominn snemma svo ég hefði nægan tíma. Ég varð svakalega feginn þegar ég sá að allir nemendurnir mættu að undanskildum fjórum.

Þegar krakkarnir höfðu raðað sér í röð fyrir framan innganginn að samkomusalnum, prúðbúin með sitt eigið langspil í fanginu og álftafjöður haganlega komið fyrir í hári, fyrir ofan annað eyrað eða í flík var komið að stundinni sem ég hafði séð fyrir mér í marga mánuði. Við gengum inn í dimman og þéttsetinn samkomusalinn, sprittkerti loguðu á borðum en sviðsljósin lýstu um sviðið. Þjórsárver er dæmigert gamaldags félagsheimili með tilheyrandi ungmennafélagsanda og það var einhver dulúð í loftinu þegar ég horfði á eftir röðinni ganga inn í salinn.

99 Börnin stóðu uppi á sviði en ég var niðri á gólfi og stjórnaði söngnum og spilinu þaðan. Sviðið var nánast of lítið fyrir einfalda röð af fjórtán langspilsleikurum og þegar mér var litið yfir hópinn voru þau öll einbeitt þó svo að andlitin væru misglaðleg. Áður en við fluttum lögin tvö framkvæmdu krakkarnir svokallaða langspilsbylgju – hvert og eitt plokkaði alla þrjá strengina koll af kolli og þannig fengu viðstaddir að heyra hljóminn í hverju langspili fyrir sig. Ný upp rann þín sumarsól var flutt á undan Dýravísum – fyrst plokkað og svo strengirnir slegnir með fjöðrunum.

Mynd 10 – 5. og 6. bekkur með Flóaspilin

100 Á eftir afmælisdagskránni bauð Flóahreppur til kaffisamsætis í samkomusalnum og þá gafst tækifæri til að heyra hljóðið í viðstöddum. Margir foreldra þátttakenda sáu sér færi á að koma og voru viðbrögð þeirra afar jákvæð. Í raun hef ég ekki áður upplifað viðbrögð af þessu tagi sem voru blönduð miklu þakklæti og hrifningu, bæði yfir flutningi barnanna og yfir langspilssmíðinni. Mér þótti sérstaklega vænt um þegar eldri kona kom að máli við mig og lýsti ánægju sinni með framtakið sem hún taldi vera stórmerkilegt framlag til menningarlífs sveitarinnar.

5.3.22 Undirbúningur fyrir Langspilsvöku – september og október 2019 Upphaflega stóð til að heimsækja Íslenska bæinn á meðan á smíðaferlinu stóð síðasta vetur og fræðast um torhúsaarfinn og baðstofumenningu gamla bændasamfélagsins. Vegna ýmissa flækjustiga varð ekki af heimsókninni og þar sem Íslenski bærinn er samstarfsaðili að verkefninu áváðum við Hannes Lárusson, forstöðumaður staðarins, að blása til tónlistarhátíðar tileinkaðri langspilinu og langspilssmíðaverkefninu. Tónlistarhátíðin fékk heitið Langspilsvaka og var ráðgert að hún yrði samtvinnuð sveitahátíð Flóahrepps Fjör í Flóa í lok maí 2019. Þegar við áttuðum okkur á að nemendurnir yrðu uppteknir við að sinna sveitahátíðinni heima á bæjunum var brugðið á það ráð að fresta henni fram til haustsins og væri þá meiri tími til að skipuleggja stærri viðburð. Upp úr byrjun september fór ég að huga að æfingum fyrir atriðið á Langspilsvökunni. Nemendurnir höfðu færst upp um bekk og komst ég fljótt að raun um að langspilssmíðaverkefnið frá síðasta vetri ætti lítið upp á pallborðið hjá 7. bekk. Börn þroskast hratt og á einu sumri hafa sum þeirra þróað með sér viðmót sem oft er kennt við hina svokölluðu unglingaveiki. Það hefur því verið hægara sagt en gert að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið síðasta vor og afdráttarlaus neikvæðni nokkurra leiðandi einstaklinga í 7. bekk hefur sett stórt strik í reikninginn.

Ég hef reynt að skapa stemmningu fyrir viðburðinum með því að lýsa honum sem þeirra uppskeruhátíð – að þarna munum við koma saman, spila og syngja lögin sem við lærðum síðasta vor og fleiri til, og eftir atriðið slá til kökuveislu. Hægt og bítandi komu flest þeirra til og hægt var að rifja upp lögin sem þau lærðu fyrir afmælisdagskrána en mér tókst engan veginn að fá þau til að læra ný lög. Þeim fannst flestum þetta hinn mesti óþarfi og fannst furðulegt að teygja verkefnið fram á næsta skólaár.

101 5.4 Langspilsvaka 2019 Langspilsvakan fór fram helgina 26.–27. október 2019 í sýningarskála Íslenska bæjarins og í gömlu baðstofu torfbæjarins. Viðburðurinn var ekki aðeins lokaáfangi langspilssmíðaverkefnisins heldur var hann einnig metnaðarfull menningardagskrá. Tilgangur Langspilsvökunnar var því margþættur en helstu áherslur voru að stefna saman tónlistarfólki sem er leiðandi í þjóðlagatónlistariðkun, draga athygli að staðbundnum menningareinkennum svæðisins, vekja athygli á menningarlífi Flóahrepps og gefa nemendum í Flóaskóla tækifæri á að taka þátt í metnaðarfullri tónlistarhátíð í heimabyggð.

Mynd 11 – Flóaspilin í sýningarskála Íslenska bæjarins

102 Langspilsvakan hófst á laugardeginum með sýningu á Flóaspilunum í sýningarskála Íslenska bæjarins eða í sama rými og flestar uppákomur hátíðarinnar fóru fram. Hannes Lárusson og Bryndís Hrönn Ragnarsdóttir myndlistarmenn aðstoðuðu við uppsetningu sýningarinnar en langspilin fengu að hanga á norðurvegg hins svokallaða Kirkjurýmis sýningarskálans, umkringd gömlum stækkuðum ljósmyndum af torfbæjum. Langspilin voru að lokum merkt með nafni hvers nemanda á litlum hvítum miðum sem límdir voru á vegginn við hlið hvers langspils. Flóaspilin átján settu mikinn svip á hátíðina og urðu miðpunktur hennar. Gestir gáfu sér gjarnan góðan tíma til að berja langspilin augum og þeir áhugasömustu voru einnig forvitnir um hljóm hljóðfæranna. Milli atriða var því gripið í spilin og leikin nokkur tóndæmi. Þannig gafst því tækifæri á að bera saman hljóm Flóaspilanna og þó svo að þau séu öll svipuð að stærð og gerð er hljómur þeirra mjög misjafn. Þetta kom einnig glögglega í ljós í fyrrnefndri langspilsbylgju og því má segja að hvert Flóaspil hafi sinn eigin afgerandi karakter.

Dagskrá Langspilsvökunnar var eftirfarandi:

· Laugardagur 26. október.

14:00 – „Flóaspilin“ – Sýningaropnun á átján langspilum smíðuð af nemendum í Flóaskóla. Eyjólfur Eyjólfsson sagði frá langspilssmíðaverkefni í Flóaskóla og fjallaði um langspilið í sögulegu samhengi.

15:00 – Hannes Lárusson staðarhaldari í Austur-Meðalholtum sagði frá lífinu í gömlu baðstofunni. Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir las ljóð úr nýútkominni ljóðabók sinni og kvað frumsamdar rímur.

16:00 – „Sögur & söngloftið“ – Tónleikar með kirkjutónlistarlegu ívafi þar sem fjallað var um hljóðfærin sem hljómað hafa í kirkjum landsins frá kristnitöku til dagsins í dag. Flytjendur voru Björg Þórhallsdóttir sópran, Eyjólfur Eyjólfsson tenór og langspilsleikari, Elísabet Waage hörpuleikari og Hilmar Örn Agnarsson harmóníumleikari.

18:00 – Meðlimir úr Vökufélaginu kváðu rímur, sungu tvísöngva og léku á langspil og fleiri gömul hljóðfæri í gömlu baðstofunni.

20:30 – Þjóðlagatónleikar með fjölbreyttu verkefnavali. Flytjendur voru dúettinn Ingibjargir, Júlía Traustadóttir sópran og tónlistarhóparnir Gadus Morhua og Voces Thules.

103 22:00 – Þjóðdansaball – Atli Freyr Hjaltason tónlistarmaður, þjóðfræðinemi og þjóðdansari leiddi danspor ásamt Vökufélaginu.

· Sunnudagurinn 27. október.

14:00 – „Flóaspilin“ – Sýning á 18 langspilum smíðuð af nemendum í Flóaskóla.

15:00 – Nemendur úr Flóaskóla sungu og léku á eigin langspil.

Mynd 12 – Þátttakendur í langspilssmíðaverkefninu syngja og spila fyrir gesti

Greiðlega gekk að vekja athygli á Langspilsvökunni í fjölmiðlum. Bændablaðið, Dagskráin Fréttablað Suðurlands og Morgunblaðið birtu ítarlegar umfjallanir um viðburðinn ásamt ljósmyndum af nemendahópnum og langspilunum.213 Þá var hönnuð auglýsing sem var litaprentuð í A3-stærð og komið fyrir á vel völdum stöðum víðsvegar á Selfossi og í nærsveitum og einnig á höfuðborgarsvæðinu.214

Móttökur við Langspilsvökunni voru framar vonum. Allir dagskrárliðir hátíðarinnar voru vel sóttir að undanskildum þjóðdönsunum sem var síðasti dagskrárliður laugardagsins. Sama kvöld var hið árlega Kótelettukvöld í félagsheimilinu Þingborg sem hefur væntanlega haft áhrif. Lokaatriði og hápunktur helgarinnar var atriði nemendanna úr 6. og 7. bekk og var sérstaklega ánægjulegt hversu margir samsveitungar létu sjá sig,

213 Sjá: Viðauki 2-4. 214 Sjá: Viðauki 1.

104 bæði foreldrar þeirra barna sem mættu á viðburðinn og aðrir aðstandendur verkefnisins. Tíu af átján þátttakendum langspilssmíðaverkefnisins mættu til leiks, sex úr 6. bekk og fjórir úr 7. bekk. Tónlistaratriðið hófst með langspilsbylgju og því næst voru lögin tvö sem krakkarnir lærðu síðasta vor flutt; Ný upp rann þín sumarsól og Mynd 13 – Merkimiði Flóaspilanna Dýravísur. Auk þeirra lék ég gamalt kvæðalag Merkimiðinn var límdur á bakstykkið fyrir í útsetningu Arnar Magnússonar við undirleik neðan hljóðopið, svipað og tíðkast hjá strengjahljóðfærasmiðum. barnanna. Undir lok atriðsins var fjöldasöngur þar sem gestir sungu mansönginn eða fyrstu fimm vísurnar í Stúllurímum eftir Ragnar Inga Aðalsteinsson við sama lagboða og Dýravísur. Að atriðinu loknu var svo boðið til kökuveislu í boði Almars bakara á Selfossi og þá hýrnaði yfir andlitum barnanna sem sum höfðu verið heldur alvörugefin í aðdraganda atriðsins og einnig á meðan því stóð. Að lokum fengu börnin langspilin sín afhend til eignar en langspil þeirra nemenda sem sáu sér ekki fært að mæta héldu áfram að prýða veggi sýningarskálans.

Þó svo að ýmsir hnökrar hafi komið upp og ýmislegt í skipulagi hátíðarinnar sem betur hefði mátt fara er óhætt að segja að hátíðin hafi verið vel heppnuð. Því hefur verið ákveðið að endurtaka leikinn og halda næstu Langspilsvöku laugardaginn 24. október á þessu ári. Uppbyggingarsjóður Suðurlands hefur ákveðið að styrkja hátíðina aftur og í ár hljóðar styrkfjárhæðin upp á 300.000 kr. Hátíðin verður með svipuðu móti og í fyrra en í stað tveggja daga verður allri dagskránni komið fyrir á einum degi. Nú þegar hafa ýmsir af þekktustu þjóðtónlistarmönnum landsins boðað komu sína á Langspilsvöku 2020, þeirra á meðal er Ragnheiður Gröndal, Kristjana Stefánsdóttir, Bára Grímsdóttir, Chris Foster og tónlistarhópurinn Voces Thules. Þá verður einnig stefnt að tónlistaratriði með 5. bekkjar nemendum í Flóaskóla sem hafa á þessari vorönn verið að smíða aðra kynslóð Flóaspila.

5.5 Maxímús Músíkús og Tasmanía Það er ekki síst góðri fjölmiðlaumfjöllun um Langspilsvökuna að þakka að Flóaspilin hafa vakið eftirtekt á ýmsum stöðum. Einn þeirra aðila sem hefur sýnt langspilssmíðaverkefninu mikinn áhuga er Hallfríður Ólafsdóttir fyrsti flautuleikari í

105 Sinfóníuhljómsveit Íslands og höfundur bókanna um Maxímús Músíkús. Hún bauð mér til samstarfs um að þróa námsefni í langspilssmíði þar sem útgangspunkturinn væri músíkalska músin og uppátæki hennar. Þessu tók ég fagnandi og fyrr á þessu ári var samstarfverkefninu úthlutaður styrkur úr Starfmenntunarsjóði Félags íslenskra hljómlistarmanna að upphæð 1.000.000 kr. Verkefnið ber vinnuheitið Maxímús og baðstofan og stefnt er á að kennslubækurnar verði þrjár sem skiptast á milli námsára. Maxímús Músíkús hefur unnið hug og hjörtu íslenskra barna og farið víða um heiminn, bæði í formi bóka með meðfylgjandi hljóðbókum og í formi tónleika sem hljómsveitir halda með sögumönnum og myndum sem er varpað upp á skjá. Maxímús er því íslenskum börnum góðkunn og því kjörinn leiðsögumaður um heima íslenskrar náttúru og menningararfs. Kennsluefnið gengur einnig út frá að benda á alþjóðlegar tengingar eins og hvernig staðbundin menningarfyrirbæri á borð við langspil eiga sér svipaðar hliðstæður víða um álfur.

Þá hafa Flóaspilin ekki aðeins vakið áhuga innlendra aðila því þegar ástralska sópransöngkonan Allison Bell var stödd hér á landi fékk hún fregnir af verkefninu og hafði samband. Bell er búsett í Tasmaníu og þegar hún sagði skipuleggjendum tónlistarhátíðarinnar Ten Days on the Island frá langspilssmíðaverkefninu sýndu þau áhuga á að kanna möguleikann á bjóða mér þangað til að stýra svipuðu verkefni.215 Stefnt er á að verkefnið fari fram bróðurpart febrúarmánaðar 2021 og verður þetta væntanlega í fyrsta skiptið sem langspil verða smíðuð í þessum heimshluta.

5.6 Niðurstöður Vinnuferli langspilssmíðaverkefnisins hefði orðið af allt öðrum toga ef smíðispakki hefði verið hannaður og útbúinn áður en sjálf smíðin með nemendunum hófst, rétt eins og Woods leggur til. Slíkt ferli hefði sparað mikinn tíma og verið mun einfaldara í framkvæmd. Hins vegar hefði sérútbúinn smíðispakki ekki boðið upp á jafn lærdómsríkt vinnuferli með tilheyrandi flækjustigum. Með því að þenja þolrif bæði leiðbeinanda og nemenda hefur langspilssmíðaverkefnið í Flóaskóla veturinn 2018–2019 skapað vitneskju um hvaða verkþættir eru raunhæfir miðað við hæfni og úthald nemenda á miðstigi grunnskóla.

215 Nánari upplýsingar um hátíðina má finna á heimasíðu hátíðarinnar: www.tendays.org.au

106 Undir lok þriðja kafla ritgerðarinnar var minnst á finnska arkítektinn og sekkjapípuleikarann Pedro Aibeo sem taldi að heppilegra væri að kenna verkefni af þessu tagi sem valgrein – að nemendum væri ekki skylt að sækja slíkt námskeið. Rannsóknarferlið hefur sýnt að Aibeo hafði að vissu leyti lög að mæla því í margþættu vinnuferli sem þessu skiptir afar miklu máli að hópurinn sé samstilltur og áhugasamur. Eins og fram kom í vinnuskýrslunni voru nemendur að jafnaði jákvæðir og áhugasamir í smíðaferlinu, í raun vakti það á köflum furðu mína hversu mikla þrauseigju þau höfðu við flóknustu og tímafrekustu verkþættina, þá sérstaklega við röspun og pússun toppstykkisins. Annað var uppi á teningnum þegar verkefnið færðist úr smíðastofunni yfir í tónmenntastofuna. Þá reyndi á að halda nemendunum við efnið og gátu einstaka neikvæðnisraddir smitað út frá sér og haft afdrifarík áhrif á hópandann.

Óhætt er að segja að undir lok verkefnisins hafi viðmót nemendanna, og þá sérstaklega þeirra eldri, einkennst af áhugaleysi og neikvæðni. Þó verður að gera ráð fyrir að áhugi nemendanna kunni að hafa reynst meiri en raun bar vitni. Börn eru áhrifagjörn og getur ein neikvæðnisrödd leiðandi einstaklings sett tóninn fyrir allan hópinn. Þetta var raunin við undirbúning Langspilsvökunnar og ef til vill hafa neikvæðnisraddir eldri nemendanna orðið til þess að aðeins fjórir nemendur úr 7. bekk mættu til að taka þátt í tónlistaratriðinu á Langspilsvökunni.

Það kom mér því skemmtilega á óvart þegar tvær stúlkur úr langspilssmíðaverkefninu sem nú eru í 7. bekk tóku vel í að leika á langspilin sem þær höfðu smíðað í söngleikjauppfærslu sem sýnd var á árshátíð eldra stigsins í Þjórsárveri í nóvember síðastliðnum. Hugmyndina átti ég því ég hélt utan um tónlistarflutning uppfærslunnar og átti ég allt eins von á að stúlkurnar myndu þverneita. Atriðið var í formi rímnasöngs þar sem þær kváðu tvær vísur við langspilsundirleik. Skemmst er frá því að segja að atriði stúlknanna var ekki aðeins frábrugðið heldur vönduðu þær sig afar vel við flutninginn og uppskáru innileg fagnaðarlæti viðstaddra.

Það er því mikilvægt að oftúlka ekki viðmót nemendanna þó svo að áhugi þeirra hafi á yfirborðinu virst harla lítill undir lok verkefnisins. Langspil er í sjálfu sér framandi hlutur og því þarf ef til vill að leita leiða til að færa það nær nútímanum. Lagavalið þegar kemur að tónlistarkennslunni gæti t.d. tekið mið af þekktari lögum en þeim sem sungin voru í Þjórsárveri og á Langspilsvökunni. Ef börnin fengju að syngja lög sem þau þekkja úr

107 dægurmenningunni við eigin langspilsundirleik er ekki ólíklegt að sambandið við hljóðfærið tæki aðra stefnu. Hér spila heimilin stórt hlutverk og ber að geta þess að foreldrar barnanna voru að öllu jöfnu einstaklega hvetjandi og áhugasamir um verkefnið. Nokkrir foreldrar lýstu yfir mikilli ánægju með framtakið og hef ég hitt suma þeirra á förnum vegi þar sem þeir hafa minnst sérstaklega á hversu mikið langspilið hefur verið notað af öllum meðlimum heimilisins.

Þessi viðbrögð og áhugi nemenda á yngra stigi Flóaskóla varð til þess að ákveðið var í samráði við Gunnlaugu skólastjóra og Ragnar Kristján smíðakennara að ráðast í næsta langspilssmíðaverkefni – næstu kynslóð Flóaspilanna. Lykilþáttur í framhaldslífi verkefnisins er mikill og einlægur áhugi Ragnars Kristjáns á verkefninu og hefur hann verið mér mjög innan handar við útfærslu og hönnun. Ber þess þó einnig að geta að staða mín sem tónmenntakennari þetta skólaárið hefur gefið mér einstakt tækifæri á að fylgja langspilssmíðaverkefni síðasta vetrar eftir og fylgja því næsta úr hlaði. Ég hef markvisst notað langspilið í tónmenntatímum með yngra stigs nemendum 1.–4. bekkjar og þá sem undirleikshljóðfæri með söng á þjóðlögum og einfaldari lögum. Þannig hafa börnin kynnst hljóðfærinu hægt og bítandi en langspilið er einnig vel til þess fallið að flétta það saman við þjóðsögur og heimstónlistarkennslu eins og áður hefur verið minnst á.

Viðbrögð yngri nemendanna og sú eftirvænting sem hefur skapast fyrir langspilssmíði hefur sýnt að tilkoma nýs kennslugagns á borð við langspil er langtímaverkefni. Langspilssmíðaverkefnið með 4. og 5. bekk gaf vísbendingu um að undanfarinn verði að vera lengri svo börnin fái tækifæri til að þróa með sér bæði áþreifanlegt og hugmyndafræðilegt samband við hljóðfærið. Ef byrjað er strax í 1. bekk að kynna hljóðfærið og nota það markvisst í tónmenntakennslunni er langspilið ekki lengur framandi hlutur og orðið að líkamnaðri þekkingu barnanna þegar kemur að langspilssmíði í 4. eða 5. bekk. Þessar forsendur benda til að langspilssmíðaverkefni eigi erindi í námskrár og þurfi því ekki endilega að vera valfag eins og Aibeo benti á.

Þó má gera ráð fyrir að því eldri sem nemendur eru því heillavænlegra geti reynst að bjóða upp á valkvæða langspilstengda kennslu. Nú sækja nemendur 6. bekkjar sína síðustu tónmenntatíma skólagöngunnar því á næsta skólaári færast þeir af miðstigi yfir á unglingastig þar sem tónmenntakennsla er ekki hluti af námskrá. Í síðasta tónmenntatímanum áður en samkomubann vegna COVID-19 skall á skapaðist mjög

108 afgerandi afstaða meðal nemendanna gagnvart fyrirhugaðri kennslu í langspilsleik. Eins og minnst var á hér á undan voru viðhorf krakkanna gagnvart söng og leik á Langspilsvökunni ekki eins jákvæð og ég hafði vonast til og því ákvað ég í framhaldinu að hvíla langspilin vel fram yfir áramót. Þegar langspilin voru aftur komin í skólabygginguna og hægt var að hefjast handa við að kenna þeim að leika á langspilin settu nokkur börnin niður fótinn og mótmæltu. 6. bekkur telur tíu krakka og var um helmingur hópsins sem tjáði afgerandi afstöðu sína. Þessi óvæntu og heldur hvössu skilaboð komu mér í opna skjöldu. Nokkrum einstaklingum fannst nóg komið af langspili – þetta væri hrein tilætlunarsemi því þau væru nú þegar búin að koma fram á tveimur viðburðum vegna verkefnisins og tæki steininn úr ef þau þyrftu aftur að fara að munda spilin.

Uppákoman varð til þess að ég tilkynnti þeim þá og þegar að hin fyrirhugaða langspilskennsla félli niður, þeim væri velkomið að taka langspilin með sér aftur heim og að ég skyldi ekki minnast á langspil aftur það sem eftir væri vetrar. Þessi afdráttarlausu viðbrögð mín virtust koma jafnt flatt upp á þau og afstaða þeirra hafði hreyft við mér. Þó svo að ég hafði tekið vel eftir neikvæðnisröddum í haust átti ég ekki von á að meira en helmingur bekkjarins yrði svo afhuga verkefninu. Einn drengurinn í bekknum sýndi hins vegar viðbrögð við þessari ákvörðun minni sem voru ólík allra annarra. Hann færði húfuna sína niður fyrir augun, lagðist á grúfu upp við vegg og grét. Drengurinn er leiðandi afl í bekknum, vinsæll og virðist njóta hylli sumra stelpnanna. Uppákoman kom því miklu róti á hópinn og braut ég því upp kennslustundina og færði hana yfir í annað rými, en eftir var drengurinn sem grét viðstöðulaust. Mér gafst þá tækifæri til að ræða við hann um þá stöðu sem var komin upp og þá sagði hann mér að hann hafði hlakkað mikið til að fá að læra á langspilið sitt og því hefði þessi útkoma verið mikil vonbrigði.

Mér satt best að segja hlýnaði um hjartarætur við að heyra þessa afstöðu drengsins og til að bæta fyrir hvernig komið var bauð ég honum þá þegar að hann skyldi fá kennslu í langspilsleik með einhverjum hætti, annað hvort með einkatímum eða hóptímum með öðrum áhugasömum nemendum bekkjarins. Í kjölfarið var ákveðið í samráði við Gunnlaugu skólastjóra og Sigríði Oddnýju umsjónakennara 6. bekkjar að tónmenntakennsla það sem eftir væri vetrar yrði tvískipt – langspilsleikur annars vegar og verkefnavinna hins vegar.

109 Vegna COVID-19 frestuðust langspilstímar þangað til nú í byrjun maí og þegar þessi orð eru skrifuð hefur farið fram einn langspilstími með 6. bekk þar sem mættu fimm nemendur. Auk drengsins sem grét mætti annar drengur sem hefur lengi haft horn í síðu tónmenntakennslunnar og var það sérstakt ánægjuefni að hann skyldi sýna langspilsleiknum áhuga. Þá mættu einnig þrjár stúlkur en tvær þeirra eru í tónlistarnámi, önnur á píanó en hin nemandi minn á þverflautu. Það var því mikill áfangi fyrir langspilssmíðaverkefnið sem hófst í október 2018 að fá loks tækifæri til að nota langspilið í hljóðfærakennslu. Hingað til höfðu nemendurnir aðeins plokkað og strammað strengina undir söng og í einstaka tilfelli spilað á þá með fiðluboga. Á fundi okkar Sigríðar Oddnýjar um uppákomuna í síðasta tónmenntatímanum fyrir samkomubann minntist hún á að í samtali hennar við bekkinn hafi komið fram áhyggjuraddir um að aukin langspilskennsla hefði í för með sér meiri söng. Þ.e.a.s. áhuginn virtist vera minni ef ætlast var til af þeim að þau syngju um leið þau spiluðu. Ég bað hana því að koma því til skila að alls ekki væri ætlunin að syngja í þessum tímum, áherslan væri einungis á að læra nóturnar á gripabrettinu og æfa nokkur einföld lög.

Þessi skilaboð hafa væntanlega haft það í för með sér að helmingur bekkjarins skilaði sér í fyrsta tónmenntatímann eftir samkomubann, 5. maí sl. Þessi tími var einn mikilvægasti þátturinn fyrir niðurstöður rannsóknarferlisins því stundin leiddi í ljós hversu gagnlegt kennslugagn langspil getur verið í tónlistar- og tónmenntakennslu. Ég kenndi þeim fyrstu þrjár nóturnar á gripabrettinu, do-re-mí eða C-D-E, og studdist við nótur sem ég skrifaði upp á töflu í g-lykli. Þau lærðu að leika lagið Góða mamma gefðu mér og vakti það sérstaka athygli að nokkur þeirra byrjuðu að syngja með langspilsleiknum eftir að hafa náð tökum á laginu. Það ríkti mjög góður andi í hópnum og ber þess að geta að stúlkurnar tvær sem eru í tónlistarnámi voru mjög leiðandi í kennslustundinni. Nótnakunnáttan hefur hjálpað til við að læra lagið en undir hverja nótu skrifaði ég einnig nótnaheitið. Einnig þeir nemendur sem eru ekki í formlegu tónlistarnámi studdust við nóturnar og nótnaheitin á töflunni. Ég hafði gælt við þá hugmynd að kenna þeim lögin án nótna eða nótnaheita en áttaði mig fljótt á að slík nálgun væri ekki eins skilvirk.

Þessi fyrsti tónmenntatími eftir samkomubann var því kjörið tækifæri til að líta aftur og skoða langspilssmíðaverkefnið síðasta vetur í víðu samhengi. Vegna flækjustiga og ómælds tíma sem fór í sjálfa smíðina gáfust ekki jafn mörg tækifæri fyrir þverfaglega

110 nálgun eins og vonir stóðu til. Þó reyndi ég á stöku stað að læða inn fjölmenningarlegum þáttum eins og þegar 6. bekkur var að fjalla um Finnland í landafræði. Þá gafst tækifæri á að segja þeim frá kantele og skyldleika þess við langspilið. Mynd af kantele rataði síðan á landafræðispjöld sem nemendurnir útbjuggu með myndum og textum um helstu einkenni hvers lands.

Flækjustigin hafa engu að síður sýnt fram á að langspilssmíðaverkefni í grunnskólum bjóða upp á alls kyns útfærslur. Fyrirhugað er að hanna smíðispakka eins og Woods lagði upp með en þó með þeim áherslum að handverksþáttur nemenda sé meiri en bara líming. Hönnunin verður að taka mið af mismunandi útfærslum hvers listgreinakennara og þannig skapa svigrúm fyrir skapandi smíðaferli. Auk smíðispakka væri einnig ráð að útbúa vefsíðu þar sem hægt verður að nálgast smíðaleiðbeiningar af nýjum og gömlum langspilum. Ég tel því að framlag listgreinakennara til verkefnis af þessu tagi sé afar mikilvægt svo það megi halda áfram að þróast og er það ekki síður þýðingarmikið fyrir framdrátt verkefnisins að listgreinakennarar finni sig knúna til að útfæra smíðina og tónlistarkennsluna eftir hæfni og þörfum nemenda hvers skóla.

Það fer vel á að ljúka þessari yfirferð á langspilssmíðaverkefninu í Flóaskóla veturinn 2018–2019 á vitnisburði Ólafar Sigursveinsdóttur, sellóleikara í Sinfóníuhljómsveit Íslands og stjórnanda Íslenskra strengja, á tónlistarflutningi þátttakendanna á 60 ára afmælisdagskrá Þjórsárvers:

Það var sönn upplifun að verða vitni af börnum og langspilum þeirra í Þjórsárverum vorið 2019. Einnig að sjá Eyjólf kennara þeirra ná sambandi við börnin í gegnum þjóðlög. Allt var þetta einstök skemmtan! Bæði höfðu börnin greinilega gaman að söngnum og flutningnum; einbeiting, samhæfing og nákvæmni einkenndi flutninginn og hitt var að unun var á að hlýða! Ekki síst var einlægnin í íslensku þjóðlögunum að tóna við langspilin.

Það er alltaf spurning hvernig menning greipist í vitund barna, hvernig menningu er komið til skila með bestum hætti og hvernig leið barna liggur að því sem kallast menningarvitund. En þar sem húmanisma og tileinkun til að tjá er fundinn farvegur er þar ekki framtíðin? Mér fannst verkefni Eyjólfs í kjarna vera það sem getur aukið víðsýni barna og hjálpað þeim að komast í samband við gamla íslenska menningu með virkum hætti. Og þar með að komast í samband við sig sjálf.216

216 Sjá: Ólöf Sigursveinsdóttir, tölvupóstur.

111 6 Lokaorð Upphafsstef þessarar ritgerðar er hlutur sem lætur í fyrstu lítið yfir sér en eins og þessi ritgerð hefur sýnt þá er hann marglaga menningarlegt fyrirbæri. Íslenska langspilið er strengjahljóðfæri sem í efnislegu tilliti er lítið annað en aflangur einfaldur trékassi með örfáum strengjum strekktum eftir endilöngum búknum. Langspilið var hluti af hversdagsmenningu gamla bændasamfélagsins og þar hefur það að mestu dvalið, bæði í sögulegum og hugmyndafræðilegum skilningi. Langspilið er ekki hluti af lifandi þjóðtónlistarhefð hér á landi eins og dæmi eru um með hljóðfæri af svipaðri gerð í nágrannalöndunum og víðar. Það er því oft á tíðum framandi fyrirbæri í íslenskum samtíma en engu að síður hluti af menningararfi þjóðarinnar.

Langspilið varð samferða í hnignunarferli torfhúsanna og upp úr aldamótunum 1900 var það orðið að hljóðum safngrip. Í menningararfslegu tilliti er því óhætt að flokka langspilið undir erfiðan menningararf – fyrirbæri sem kann að vekja upp sameiginlegar hugmyndir þjóðarinnar um gamaldags hugsunarhátt og andstöðu við framfarir. 19. aldar heimildir um langspilsleik renna stoðum undir slík viðhorf en annað er uppi á teningnum þegar litið er til 18. aldar-hughrifa af tónum langspilsins.

Rúmum tveimur öldum eftir að séra Jón Steingrímsson lýsir hughrifum sínum af langspilsleik Þuríðar Ásmundsdóttur í baðstofunni á Bæ í Borgarfirði eru hughrif af langspilsleik ekki ósvipuð. Í eigindlegum rannsóknarþætti ritgerðarinnar voru dregin fram leiðarstef í viðbrögðum viðmælenda við langspilstónum sem einkenndust af rólegheitatilfinningu, hugleiðsluáhrifum og lífskrafti. Þau voru m.a. rædd út frá kenningum á sviði menningararfsorðræðu og þjóðtónlistarfræði. Eigindlega rannsóknin nýttist þannig sem skynfræðileg undirstaða fyrir hagnýtan þátt ritgerðarinnar sem fjallaði um þróunar- og rannsóknarverkefnið Flóaspilin – langspilssmíðaverkefni í Flóaskóla veturinn 2018–2019.

Í raun nýttust hughrif rannsóknarinnar ekki aðeins sem skynfræðileg undirstaða langspilssmíðaverkefnisins heldur voru þau einnig samtvinnuð öllu ferlinu, bæði við smíðina og tónlistarkennsluna. Ef skapa á nýja hefð er ekki nóg að sköpunarferlið hvíli aðeins á gömlum merg heldur þarf slík vinna að vera í stöðugu samtali við hugmyndafræði og fagurfræði samtímans. Mikka músar útfærslan hjá stúlkunni í 6. bekk þegar kom að hönnun á hljóðopi langspilsins er lýsandi dæmi um slíkt ferli. Þarna sýndi stúlkan hvernig

112 menningararfur er hluti af skapandi ferli og því í stöðugri endurnýjun. Disney- teiknimyndapersóna er nú orðin hluti af fagurfræðilegri útfærslu nokkurra nýrra langspila og þannig tóku börnin virkan þátt í að ljá gömlum hlut nýja merkingu og um leið leggja orð í belg menningararfsorðræðunnar.

Tilkoma Mikka músar í smíðaferlið renndi einnig stoðum undir fjölmenningarlegar áherslur langspilssmíðaverkefnisins. Þó að Mikki mús sé orðinn svo til órjúfa hluti af íslenskri alþýðumenningu nýtur hann engu að síður verndar strangra höfundarréttarlaga sem lögfræðingar Walt Disney-samsteypunnar víla ekki fyrir sér að beita. Það kæmi því ekki á óvart ef Mikka músar-hljóðopin brjóti í bága við fyrrnefnd lög og væri það efni í aðra meistararitgerð í þjóðfræði ef lögmenn úr Vestrinu knýðu á dyr hér í mýrinni. Hvað sem hugsanlegum brotum á höfundarrétti Walt Disneys og félaga líður þá er Mikki mús ekki aðeins fjölþjóðlegur dægurmenningarfulltrúi því hann er einnig fyrirtaks áminning um fjölmenningarlegar tengingar hughrifanna og handverksins sem tilheyra langspilinu.

Hughrif viðmælendanna minntu á að alþýðumenning, gömul og ný, tengist þvert á landamæri því langspilstónarnir sköpuðu hugrenningatengsl til staða eins og Skotlands, Írlands, Kína og Indlands. Þó svo að íslenska þjóðríkið hafi gefið hljóðfærinu titilinn þjóðarhljóðfæri er það engu að síður eitt af fjölmörgum afbrigðum bordún-sítara – stórri fjölskyldu strengjahljóðfæra sem teygir sig vítt og breitt um jarðarkringluna. Langspilsleikur tilheyrir einnig ævafornri tegund tónlistar sem kennd er við bordún. Þessi tónlistartegund hefur rutt sér til rúms í tónlistarsköpun framúrstefnu- og nútímatónskálda og einnig hefur bordún-tónlist að undanförnu verið notuð sem hughrifatæki í hugleiðslu og endurhæfingu.

Í fjórða kafla var bordún-tónlist borin saman við eðli þjóðsagna þar sem mátti finna ýmis líkindi. Bordún-tónlist lýtur svipuðu fagurfræðilegu og sálfræðilegu kerfi og uppbygging þjóðsagna en eitt skýrasta dæmið um hvernig kerfi þessara fyrirbæra skarast er að þau byrja bæði í ró og leita aftur í ró. Hið fagurfræðilega kerfi bordún-tónlistar einkennist einnig af þeim þætti að undirstaðan eða bassatónninn helst ávallt sá sami á meðan laglínan flögrar um afmarkað svið tónkerfisins. Þetta er tónlistarleg hringrás þar sem upphafspunkturinn og endastöðin renna saman – spenna skapast við rofið þegar laglínan ferðast frá bordún-tóninum og leysist við heimkomuna – m.ö.o. þá eru engar rangar nótur í bordún-tónlist.

113 Bordún-tónlist er þannig í ákveðinni andstöðu við agað námsumhverfi hefðbundinna tónlistarskóla. Námskrá þeirra er mjög bundin námsefni klassískra tónbókmennta217 – tímabili sem er í sögulegu samhengi heldur stutt – spannar í mesta lagi tæpar fjórar aldir. Auk þess má benda á að áherslur í klassísku tónlistarnámi einkennast af einhverju leyti af 19. aldar áherslum á upphafningu listamannsins og tónskáldsins.218 Þessar áherslur hafa fylgt mér í gegnum allt mitt klassíska tónlistarnám og tónlistarferil með öllum sínum kostum og göllum. Kynni mín af langspilinu hafa hins vegar orðið til þess að ég lít nú klassíska tónlistarsköpun öðrum augum. Rannsóknarvinnan tengd hughrifum og handverki langspilsins hefur orðið til þess að sjónarhorn mitt nær yfir víðara menningarsögulegt samhengi. Þjóðfræði tónlistarinnar hefur komið mér í skilning um þær órjúfanlegu tengingar sem eru milli klassískrar tónlistar og alþýðutónlistar. Í þessu þjóðfræðilega tilliti hefur sérstaklega verið áhugavert að líta aftur fyrir 18. og 19. öldina – áður en góðborgarar iðnbyltinganna mótuðu þær tónlistarhefðir sem enn eru í hávegum hafðar í vestrænum samfélögum.

Það er hér sem eigindlegi og hagnýti þáttur þessarar ritgerðar skarast hvað skýrast. Hughrif og handverk langspilsins eru kennslutæki sem gætu nýst sem framlag til að stokka upp og þróa hið gamla og fastmótaða kerfi. Slík vinna er nú þegar hafin eins og Kristín Valsdóttir við Rannsóknarstofu í listkennslufræðum við listkennsludeild Listaháskóla Íslands hefur bent á en sökum hinna fastmótuðu hefða hefur oft gengið treglega að breyta starfsháttum tónlistarskóla.219 Án efa eru margar ástæður sem liggja að baki því hversu hægt gengur að koma að nýjum áherslum í tónlistarnámi að en ein helsta ástæðan gæti verið ofuráherslan á hlustun.

Eitt helsta einkenni hins fastmótaða tónlistarnáms er sjálft tónleikaformið. Tónleikar þar sem einn eða fleiri flytja tónlist fyrir áhorfendur sem sitja, hlusta og klappa á réttum stöðum. Tónleikarformið er ekki ýkja gamalt, þetta er borgaraleg athöfn sem varð fullmótuð með tilkomu tónleikahúsanna á 19. öld og eru oftar en ekki þungamiðjan í starfi tónlistarskóla. Ef hins vegar litið er til þess tíma þegar tónlistarflutningur var hluti af félagslífi fólks, en ekki ástæða þess, má sjá að tónlist var samin meira með

217 Kristín Valsdóttir, Námsmenning og tónlistarnám, 116. 218 Sjá: Small, Musicking: The Meanings of Performing and Listening. 219 Kristín Valsdóttir, Námsmenning og tónlistarnám, 116.

114 tónlistarmanninn í huga en hlustandann. Tónskáldið gerði ráð fyrir að flytjandinn legði til verksins sínar eigin hugmyndir og þá í formi spuna.220

Þannig gæti langspilið ekki aðeins komið að gagni í tónmenntakennslu í grunnskólum heldur einnig í tónlistarskólum. Það er kennslugagn sem er ekki háð hugmyndafræði klassískrar tónlistar en tengist henni engu að síður sterkum böndum. Langspilið er því kjörið tæki til að horfa framhjá 19. aldar formfestu og varpa ljósi á leikinn sem felst í hljóðfæraleik þar sem höfuðáherslan er óheft ferðalag laglínunnar. Ferðalag þar sem engin nóta er rétt eða röng, heldur spunnin af fingrum fram innan fagurfræðilegs kerfis bordúnsins. Þá er handverkið, langspilssmíðin, einnig kjörið vinnuferli sem minnir á hversu alþýðumenning var og er í eðli sínu fjölbreytt og því í hrópandi andstöðu við fjöldaframleiðslu kapítalismans. Fjölbreytileiki Flóaspilanna bera þessum þáttum glöggt vitni bæði hvað varðar útlit og útfærslur og einnig hljóm. Þannig má henda reiður á þá einsleitni sem víða ríkir í samtímanum og hvernig menningarafurðir eru gjarnan steyptar í sama mótið. Það gefur tilverunni aukna vídd að líta aftur fyrir iðnbyltingu og horfa til þess tíma þegar handverk endurspeglaði margbreytileika mannlífsins.

Á Íslandi búum við við þann sögulega veruleika að hér ríkti bændamenning allt fram á 19. öld – menning sem hafði að mörgu leyti haldist óbreytt frá miðöldum. Langspilið er hluti af þessari lífseigu bændamenningu og var það að hluta til ástæða þess að ég ákvað að leita til sveitaskóla fyrir langspilssmíðaverkefnið. Tilfinning mín var sú að börn í sveit kynnu að vera móttækilegri fyrir verkefninu heldur en börn í borg – að nálægðin við gömlu menninguna kynni að vera þess valdandi að gamla baðstofuhljóðfærið væri síður framandi. Þessar hugmyndir mínar voru án efa litaðar af minni eigin sveitadvöl í Flóanum sem strákur og af kynnum mínum af hugmyndafræði og starfi Íslenska bæjarins í Austur- Meðalholtum í sömu sveit sumarið 2016. Rannsóknin leiddi hins vegar í ljós að þó svo að börnin hafi sýnt einstakan dugnað og elju við langspilssmíðina var langspilið alveg jafn framandi fyrirbæri fyrir þeim og nemendunum í Alþjóðlega grunnskólanum í Delft í Hollandi. Það er ekki ólíklegt að þessi framandleiki hljóðfærisins og lagavalið hafi haft sín áhrif á misgóðar undirtektir þegar kom að söng þjóðlaganna við eigin langspilsundirleik

220 Sjá: Small, Musicking: The Meanings of Performing and Listening.

115 að smíði lokinni. Þarna voru komnir saman þættir sem voru ekki aðeins nýlunda í Flóaskóla heldur einnig á landsvísu.

Það hefur verið einstaklega hvetjandi við vinnslu ritgerðarinnar að langspilssmíðaverkefnið í Flóaskóla hafi vakið áhuga leiðandi afla í námsgagnagerð í listgreinakennslu. Fyrir næstu langspilssmíðaverkefni mun von bráðar berast liðsauki frá annarri landsþekktri mús þegar Maxímús Músíkús hefst handa við langspilssmíði og langspilsleik. Með rausnarlegum styrk úr Starfmenntunarsjóði Félags íslenskra hljómlistarmanna verður ráðist í gerð þriggja vinnubóka sem munu dreifast yfir þrjú kennsluár. Efnið er ætlað 3., 4. og 5. bekk í grunnskólum og verður lögð áhersla á að kynna grunnskólabörn fyrir íslenskum menningararfi og náttúru með sérstakri áherslu á gamla og nýja tónlist og tónlistarsköpun. Þriðja og síðasta bókin mun fjalla um langspilið á aðgengilegan hátt þar sem einnig verða leiðbeiningar fyrir langspilssmíði og nótur af nokkrum einföldum lögum sem hægt verður styðjast við í langspilsleiknum.

Hér er því kominn vísir að endurkomu langspilsins á svið hversdagsleikans. Reyndar var slík vísbending þegar komin fram áður en músíkalska músin mætti til leiks. Á jólatréskemmtun í Þingborg í Flóa á vegum leikskólans Krakkaborgar kom að máli við mig móðir eins drengs úr 5. bekk sem hafði komið fram á Langspilsvökunni um tveimur mánuðum fyrr. Það var heldur þungt í henni hljóðið því hún hélt að börnin á heimilinu hefðu eyðilagt langspil drengsins því einn strengurinn hafði slitnað. Ég bað hana um að koma með langspilið í Flóaskóla því lítið mál væri að setja í nýjan streng. Henni var létt við þessi viðbrögð og sagði hún mér í kjölfarið að ástæða þess að strengurinn hafði slitnað væri sú að börnin hefðu keppst um að fá að spila á það og því fór sem fór í hamaganginum. Mér varð þá hugsað til fjölskylduföðurins í Efnissölunni og orðanna sem hann lét falla þegar ég hafði sagt honum í hvað spýturnar voru ætlaðar. Í þessu tilfelli í öllu falli hafði langspilið ekki ratað rakleiðis ofan í skúffu.

Hvort Flóaspilunum verði fundinn staður í geymsluhirslum eða haldi áfram að hljóma er erfitt að spá fyrir um. Eitt er þó víst að Flóaspilin er rannsóknarverkefni sem hefur fengið byr undir báða vængi og mun halda áfram að þróast. Þá hefur þessi ritgerð sýnt fram á að hughrif og handverk tengt langspilinu er ágætis dæmi um þá ábyrgð sem hvílir á herðum þjóðfræðinga. Þjóðfræðin varð til um það leyti þegar skerpa þurfti á landamærum í kjölfar breyttra samfélagsformgerða á 18. og 19. öld. Þjóðfræðiefni varð

116 þannig bæði að sameiningar- og aðskilnaðartæki í sjálfsmyndarsköpun þjóðríkjanna. Eins og dæmin sanna er þjóðfræðiefni fortíðarinnar því isflókið og vandmeðfarið. Langspilið er engin undantekning þar á og þó svo að það sé hluti af staðbundnum menningararfi þjóðarinnar er það ekki síður fjölmenningarlegt fyrirbæri.

Vöðlakoti í Austur-Meðalholtum í Flóa, 13. maí 2020

Eyjólfur Eyjólfsson

117 Heimildaskrá

Prentaðar heimildir Atli Bogason. Af tilvist, dauða og pólitík. Lesbók Morgunblaðsins, 1. nóvember 2008, 16.

Anderson, Benedict. Imagined Communities: Reflections on the Origin and Spread of Nationalism. 2. útg. London og New York: Verso, 1991.

Anna Þórhallsdóttir. Folk Songs of Iceland [LP hljómplata]. New York: Lyrichord Discs Inc., 1969.

Anna Þórhallsdóttir. Langspil. Tíminn, 29. ágúst 1981, 11.

Ari Sæmundsen. Leiðarvísir til að spila á langspil og til að læra sálmalög eptir nótum. Akureyri: H. Helgason, 1855.

Árni Snævarr. Maðurinn sem Ísland elskaði: Paul Gaimard og Íslandsferðir hans 1835– 1836. Reykjavík: Mál og menning, 2019.

Bjarni Þorsteinsson. Íslenzk þjóðlög. Kaupmannahöfn: S. L. Møller, 1906–1909.

Bryndís Björgvinsdóttir. „Þetta er fyrir tvöhundruð árum!“: Sviðsettur menningararfur. Í Menningararfur á Íslandi. Ólafur Rastrick og Valdimar Tr. Hafstein (ritstj.). Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2015, 141–160.

Björn Þorsteinsson. Íslandssaga til okkar daga. Reykjavík: Sögufélag, 1991.

Boer, Diana et al. Music, identity, and musical ethnocentrism of young people in six Asian, Latin American, and Western cultures. Journal of Applied Social Psychology, 43, 2013, 2360–2376.

Burke, Peter. Popular Culture in Early Modern Europe. New York: Harper & Brown, 1978.

Davíð Ólafsson. Íslenzkar gátur, skemtanir, vikivakar og þulur. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1888–92.

Davíð Stefánsson, Svartar fjaðrir. Reykjavík: Vaka-Helgafell, 1999.

Deva, B. Chaitanya. The Psychology of the Drone in Melodic Music. Bulletin of the Deccan College Research Institute, 10:1, 1950, 69–84.

Discipio, William J. Perceived relaxation as a function of restorative yoga combined with Reiki for cancer survivors. Complementary Therapies in Clinical Practice, 24, 2016, 116-122.

Dundes, Alan. The Study of Folklore. Englewood Cliffs: Prentice Hall, 1965.

Eiríks saga rauða. Í Íslendingasögur, Íslenzk fornrit, 4. bindi, 193-237. Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag, 1935.

118 Eiríkur Bergmann. Hið huglæga sjálfstæði þjóðarinnar: Áhrif þjóðernishugmynda á Evrópustefnu íslenskra stjórnvalda. Doktorsritgerð við Stjórnmálafræðideild. Dr. Baldur Þórhallsson (leiðb.) Reykajvík: Háskóli Íslands, 2009.

Farber, Barry A. Rock 'N' Roll Wisdom: What Psychologically Astute Lyrics Teach about Life and Love. Westport: Praeger Publishers, 2007.

Feld, Steven. Dialogic Editing: Interpreting How Kaluli Read Sound and Sentiment. Cultural Anthropology, 2:2, 2009, 190–210.

Fóstbræður [DVD], 3. þáttaröð 4. þáttur. Sena og Stöð 2, 2007.

Gann, Kyle. Thankless Attempts at a Definition of Minimalism Í Audio Culture: Readings in Modern Music Christopher Cox og Daniel Warner (ritstj.). New York: The Continuum International Publishing Group Ltd., 2006.

Gaunt, Simon og Sarah Kay. The Troubadours. Cambridge: Cambridge University Press, 1999.

Gillis, John. Islands of the Mind: How the Human Imagination Created the Atlantic World. New York: Palgrave Macmillan, 2004.

Gísli Ágúst Gunnlaugsson et al. Skaftáreldar : 1783–1784 : ritgerðir og heimildir. Reykjavík: Mál og menning, 1984.

Gorn, Gerald J. The Effects of Music in Advertising on Choice Behavior: A Classical Conditioning Approach. Journal of Marketing, 46:1, 1982, 94–101.

Guðmundur Hálfdanarson. Hvað er þjóð?. Í Íslenska þjóðríkið: Uppruni og endimörk. Adolf Friðriksson og Jón Karl Helgason (ritstj.). Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag og ReykjavíkurAkademían, 2001, 15–42.

Hallgrímur Helgason. Tónmenntasaga Íslands. Reykjavík: Skákprent, 1992.

Handverkslabaratorium. Eva Löfgren (ritstj.). Mariestad: Handverkslabaratoriet, 2011.

Harrison, Rodney. Heritage: Critical Approaches. New York: Routledge, 2013.

Hennink, Monique et al. Qualitative Research Methods. London: Sage, 2011.

Hildur Heimisdóttir. Langspil and Icelandic Fiðla: The History, Construction and Function of the Two Icelandic Folk-Instruments. Kandídatsritgerð, Det Jyske Musikkonsvervatorium, 2012.

Hill, Juniper. The Influence of Conservatory Folk Music Programmes: The Sibelius Academy in Comparative Context. Ethnomusicology Forum, 18:2, 2009, 207–241.

Hymes, Dell. Folklore's Nature and the Sun’s Myth. Journal of American Folklore, 88:350, 1975, 345-369.

119 Johannisson, Karin. Nostalgia: en känslas historia. Stockholm: Bonnier, 2001.

Jón Steingrímsson. Ævisaga síra Jóns Steingrímssonar eftir sjálfan hann. 2. útgáfa Reykjavík: Helgafell, 1945.

Jón Þórarinsson. Íslensk tónlistarsaga 1000–1800. Reykjavík: Tónlistarsafn Íslands / Menntamálaráðuneytið, 2012.

Karl Aspelund. Breytileg merking menningararfs: Skautbúningurinn, konurnar, landið og þjóðin. Í Menningararfur á Íslandi. Ólafur Rastrick og Valdimar Tr. Hafstein (ritstj.). Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2015, 73–116.

Kirshenblatt-Gimblett, Barbara. Destination Culture. Tourism, Museums, and Heritage. Berkeley og Los Angeles: University of California Press, 1998.

Kristín Valsdóttir (ritstj.). Framtíðarmúsík. Reykjavík: Listaháskóli Íslands í samstarfi við Háskólaútgáfuna og Rannsóknarstofu í listkennslufræðum, 2018.

Kristín Valsdóttir. Námsmenning og tónlistarnám. Í Framtíðarmúsík. Kristín Valsdóttir (ritstj.). Reykjavík: Listaháskóli Íslands í samstarfi við Háskólaútgáfuna og Rannsóknarstofu í listkennslufræðum, 2018, 115–135.

Longfellow, Henry W. Outre-Mer: A Pilgrimage Beyond the Sea. Boston: William D. Ticknor & Co, 1846.

Macdonald, Sharon. Mediating Heritage: Tour Guides at the Former Nazi Party Rally Grounds, Nuremberg. Tourist Studies, 6:2, 2006, 119–38.

Mayer, Auguste. Ísland við aldahvörf. Guðbrandur Jónsson (gaf út). Reykjavík: Bókfellsútgáfan, 1948.

McKay, Nevill T. A History of the Office of Piper to the Sovereign. Folk Music Journal, 7:2, 1996, 188–204.

Mackenzie, George S. Travels on the Island of Iceland during the Summer of the Year MDCCCX. Edinburgh: Thomas Allan and Company, 1811.

Magnús Stephensen. Evangelisk-kristileg Messu-saungs- og Sálma-Bók ad konúnglegri tilhlutun saman-tekin til almennilegrar brúkunar í Kirkjum og Heima-húsum. Leirárgørdum vid Leirá: Konunglega íslendska Lands Uppfrædíngar Félagid, 1801.

Magnús Stephensen. Til lesaranna. Skemmtileg vina-gleði, 1, 1797, v–xii.

Margrét Símonardóttir (tók saman). Skagfirðingaþættir, skagfirzk fræði X. Sauðárkrókur: Sögufélag Skagfirðinga, 1956.

Nettl, Bruno. Folk and Traditional Music of the Western Continents. New Jersey: Prentice Hall, 1965.

120 Nettl, Bruno. The Study of Ethnomusicology: Thirty-One Issues and Concepts. Urbana and Chicago: University of Illinois Press, 2005.

Nettl, Bruno et al. Excursions in World Music. New Jersey: Prentice Hall, 1992.

Raddir Íslands [DVD mynddiskur]. Siglufjörður: Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinssonar, 2009.

Rósa Þorsteinssdóttir. Holur kassi og grófur strengur: Heimildir um alþýðuhljóðfæri á ýmsum tímum fram til ársins 1900. Saga LV:2, 2016, 108–141.

Ronström, Owe. On the Meaning of Practicing Folk Music in the 21st Century. Puls, Journal for Ethnomusicology and Ethnochoreology, 4, 2019, 10–25.

Rousseau, Signe. Food Media. Celebrity Chefs and the Politics of Everyday Interference. London: Berg, 2012.

Ruokonen, Inkeri et al. The Finnish Five-String Kantele: Sustainably Designed for Musical Joy. Journal of Teacher Education for Sustainability. 16:1, 2014, 76–88.

Sigurður Ægisson. Kveðið úr kirkjuturni. Morgunblaðið, 29. september 2016, 30.

Sigurjón Baldur Hafsteinsson og Marta Guðrún Jóhannesdóttir. Moldargreni og menningararfur: Útrýming og arfleið torfhúsa. Í Menningararfur á Íslandi, gagnrýni og greining. Ólafur Rastrick og Valdimar Tr. Hafstein (ritstj.). Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2015, 193–218.

Silverman, Carol. Balkan Romani Culture, Human Rights, and the State. Í Cultural Heritage in Transit: Intangible Rights as Human Rights. Deborah Kapchan (ritstj.). Philadelphia: University of Pennsylvania Press, 2014, 125–147.

Small, Christopher. Musicking: The Meanings of Performing and Listening. Middletown: Wesleyan University Press, 1998.

Smári Ólason. Bordún. Óbirt ritgerð. 2001.

Smith, Laurajane. The Discourse of Heritage. Í Uses of Heritage. London og New York: Routledge, 2006, 11–43.

Spilmenn Ríkínís. Ljómalind [CD hljómdiskur]. Reykjavík: Smekkleysa, 2009.

Stefán Valmundsson. Hljóðfæri á Íslandi fram yfir aldamótin 1900. BA ritgerð í sagnfræði við Háskóli Íslands, Hugvísindasvið, 2009.

Stokes, Martin (ritstj.). Ethnicity, Identity and Music: The Musical Construction of Place. Oxford og New York: Berg, 1994.

Sveinbjörn Pálsson. Dozing in the Haze of the Drone: The Arctic Drone Festival creates 24-hours of otherness. The Reykjavík Grapevine, 20. útgáfa, 2019, 16.

121 Thoreau, H. David. Walden eða Lífið í skóginum. Elísabet Gunnarsdóttir og Hildur Hákonardóttir (þýð.). Reykjavík: Dimma, 2017.

Um söng, o. fl. Norðanfari, 16:19–20, 1877, 38–40.

Valdimar Tr. Hafstein. Menning í öðru veldi: Skipan menningararfsins. Í Menningararfur á Íslandi. Ólafur Rastrick og Valdimar Tr. Hafstein (ritstj.). Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2015, 19–39

Valdimar Tr. Hafstein. Menningararfur: Saga í neytendaumbúðum. Í Frá endurskoðun til upplausnar. Hilma Gunnarsdóttir, Jón Þór Pétursson og Sigurður Gylfi Magnússon (ritstj.). Reykjavík: Miðstöð einsögurannsókna, ReykjavíkurAkademían, 2006, 313– 328.

Vermeulen, Ivar og Camiel J. Beukeboom. Effects of Music in Advertising: Three Experiments Replicating Single-Exposure Musical Conditioning of Consumer Choice (Gorn 1982) in an Individual Setting. Journal of Advertising, 45:1, 2016, 53–61.

Voces Thules. Sé eld of þér. Sturlunga: Battle of Iceland. [CD hljómdiskur]. Voces Thules, 2009.

Welz, Gisela. Promoting Difference: A Case Study in Cultural Politics, Journal of Folklore Research, 30:1, 1993, 85–91.

Woods, David G. Íslenska langspilið: Saga þess, smíði og notagildi til náms og kennslu. Njáll Sigurðsson (þýð.). Í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags. Mjöll Snæsdóttir (ritstj.). Reykjavík: Hið íslenzka fornleifafélag, 1994, 109–12.

Zumthor, Peter. Atmospheres: Architectural Environments, Surrounding Objects. Basel, Boston og Berlín: Birkhäuser, 2006.

Þjóðmenning á kálfskinni. Tíminn, 15. september 1974, 14–15.

Vefheimildir

Aðalnámskrá grunnskóla. Reykjavík: Mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2013. Sótt 1. apríl 2020 á: https://www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=f7d55056- 989c-11e7-941c-005056bc4d74

Blaðamannafundur vegna COVID-19, 20. mars 2020. Sótt 22. mars 2020 á: https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/beinar-utsendingar-fra-bladamannafundum- vegna-covid-19/30205/901qms

Cadell, Adam. Radically Quiet. Sótt 4. febrúar 2020 á: https://www.academia.edu/25141699/Radically_Quiet

122 COVID-19 á Íslandi - Tölfræði. Sótt 22. mars 2020 á: https://www.covid.is/tolulegar- upplysingar

Um FÍH. Heimasíða Félags íslenskra hljómlistarmanna. Sótt 4. mars 2020 á: http://fih.is/um-fih/

Freyr Gígja Gunnarsson. Steingrímur J. fór með rímur og stýrði víkingaklappi. Fréttavefur RÚV, 19. febrúar 2020. Sótt 23. mars 2020 á: https://www.ruv.is/frett/steingrimur-j- for-med-rimur-og-styrdi-vikingaklappi

Guðni Gíslason. Eyjólfur leikur á langspil í Vöðlakoti. Fjarðarfréttir fréttamiðill Hafnfirðinga, 1. ágúst 2016. Sótt 6. maí 2020 á: https://youtu.be/tjmPhrbUVDM

Hjálmar Friðriksson. Guðni tók víkingaklappið á Bessastöðum. Fréttavefur RÚV, 5. september 2016. Sótt þann 23. mars á: https://www.ruv.is/frett/gudni-tok- vikingaklappid-a-bessastodum

Íslenski bærinn. Sótt 23. apríl 2020 á: http://islenskibaerinn.is/

Jóhann Bjarni Kolbeinsson. 17 milljónir hafa horft á „HÚH!“. Fréttavefur RÚV, 6. júlí 2016. Sótt þann 23. mars 2020 á: https://www.ruv.is/frett/17-milljonir-hafa-horft-a- huh

Marta Guðrún Halldórsdóttir og Örn Magnússon. Langspils-kvæðalag. Sótt 6. maí 2020 á: https://youtu.be/bEIPPgWfiGw

Mård, Nina. History in multidisciplinary education: a case study in a Finnish primary school. Education 3-13. 2020. Sótt 5. apríl 2020 á: https://doi.org/10.1080/03004279.2020.1737172

Mehr, Samuel A. et al. Universality and Diversity in Human Song. Science, 366, eaax0868, 2019. Sótt 21. mars á: https://science.sciencemag.org/content/366/6468/eaax0868

Muji verslunarkeðjan. Sótt 2. mars. 2020 á: https://www.muji.com/

Schofield, David. Iceland Chant. Sótt 24. mars 2020 á: https://vimeo.com/186023442

Skotthúfan 2014. Fósturlandsins Freyja. Sótt 6. maí 2020 á: https://youtu.be/O7vZOdEjyT8

Skólapúlsinn. Sótt 9. maí 2020 á: https://skolapulsinn.is/um/?page_id=98

Sýningaropnun Seiðandi dans í Kaktus á Akureyri. Sótt 27. febrúar 2020 á: https://www.fjallabyggd.is/is/mannlif/dagatal/naestu-vidburdir/syningaropnun- seidandi-dans-i-kaktus

Um Flóaskóla í Flóahreppi. Sótt 19. apríl 2020 á: https://www.floaskoli.is/um-floaskola

123 Vander Wel, S. Yodeling in American music. Grove Music Online. Sótt 15. mars 2020 á: https://doi.org/10.1093/gmo/9781561592630.article.A2225882

Valdimar Tryggvi Hafstein. What is European Ethnology? Áslaug Einarsdóttir (framl.). Háskóli Íslands og Háskólinn í Amsterdam, 2014. Sótt 2. maí 2020 á: https://vimeo.com/114098094

World Music School Helsinki. Sótt 7. maí 2020 á: http://worldmusic.school/

Rannsóknargögn

Hannes Lárusson. Samtöl um gamalt handverk, kennslunálganir, Flóaspilin og Vöðlakot. Haustmánuðir 2018.

EE 1. Viðtal Eyjólfs Eyjólfssonar við Sólbörgu Björnsdóttur, 23. september 2016. Í vörslu höfundar.

EE 2. Viðtal Eyjólfs Eyjólfssonar við Helgu Kristínu Friðjónsdóttur, 12. október 2016. Í vörslu höfundar.

EE 3. Viðtal Eyjólfs Eyjólfssonar við Eddu Kristjánsdóttur, 23. október 2016. Í vörslu höfundar.

EE 4. Viðtal Eyjólfs Eyjólfssonar við Qian Hao, 19. október 2017. Í vörslu höfundar.

EE 5. Viðtal Eyjólfs Eyjólfssonar við Hannes Steindórsson, 5. september 2017. Í vörslu höfundar.

EE 6. Viðtal Eyjólfs Eyjólfssonar við Erlend Haraldsson, 11. janúar 2018. Í vörslu höfundar.

EE 7. Viðtal Eyjólfs Eyjólfssonar við Þórunni Jörlu Valdimarsdóttur, 10. janúar 2018. Í vörslu höfundar.

EE 8. Viðtal Eyjólfs Eyjólfssonar við Hilmar Örn Hilmarsson, 6. september 2017. Í vörslu höfundar.

EE 9. Viðtal Eyjólfs Eyjólfssonar við Aðalheiði S. Eysteinsdóttur, 26. febrúar, 2020. Í vörslu höfundar.

EE V. Vettvangsnótur 2015–2020. Í vörslu höfundar.

EE vinnudagbók um Flóaspilin, veturinn 2018–2019. Í vörslu höfundar.

EE Þ. Þátttökuathugun í Alþjóðlega grunnskólanum í Delft, 13. október 2016. Í vörslu höfundar.

Ólöf Sigursveinsdóttir. Tölvupóstur. 11. maí 2020. Í vörslu höfundar.

124 Viðauki 1 – Auglýsing um Langspilsvöku 2019

125 Viðauki 2 – Umfjöllun Bændablaðsins um Langspilsvökuna

126 Viðauki 3 – Umfjöllun Dagskrárinnar á Suðurlandi um Langspilsvökuna

127 Viðauki 4 – Umfjöllun Morgunblaðsins um Langspilsvökuna

128