MA ritgerð

Hagnýt þjóðfræði

„Þú mundir ekki setja Comic Sans á Kauphöllina“ Skilningur, áhrif og túlkun leturformsins

Sigrún Sigvaldadóttir

Ólafur Rastrick júní 2021

„Þú mundir ekki setja Comic Sans á Kauphöllina“ Skilningur, áhrif og túlkun leturformsins

Sigrún Sigvaldadóttir

Lokaverkefni til MA–gráðu í hagnýtri þjóðfræði Leiðbeinandi: Ólafur Rastrick 40 einingar

Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Félagsvísindasvið Háskóla Íslands júní 2021

„Þú mundir ekki setja Comic Sans á Kauphöllina“ Skilningur, áhrif og túlkun leturformsins

Ritgerð þessi er lokaverkefni til MA í hagnýtri þjóðfræði og er óheimilt að afrita ritgerðina á nokkurn hátt nema með leyfi rétthafa. © Sigrún Sigvaldadóttir, 2021

Reykjavík, Ísland, 2021

Útdráttur Þetta 40 eininga verkefni í hagnýtri þjóðfræði var leið til að skilja og meta notkun og áhrif leturs á nýjan hátt. Verkefnið skiptist í tvo megin hluta. Annars vegar er það hagnýti hluti þess sem byggir á leturtöflu með letursýnishornum úr íslenskum bókum og sýningu hennar í opnu og aðgengilegu rými Þjóðminjasafnsins. Með gerð töflunnar fékkst ákveðin mynd og yfirsýn sem sett var í sögulegt samhengi með umfjöllun í ritgerðinni. Hins vegar fólst rann- sóknarhluti verkefnisins í að skoða hvaða áhrif mismunandi leturnotkun hefur á lesendur og kanna hvernig skilja má ólíkt tákn- og myndmál leturforma, háð efnistökum textans ásamt þeim stað og þeirri stund sem lesturinn á sér stað. Með það að markmiði að rannsaka hvort bókstafir innihaldi frekari frásögn með formgerð sinni umfram hljóðtákn sitt mótuðust aðferðir og gögn rannsóknarhluta verkefnisins. Gögnum var safnað með tvennskonar hætti. Í fyrsta lagi var letursýnishornum safnað frá mismunandi tímum og þau sett í töflu með tímaás sem skiptist eftir árhundruðum og aðgreiningu í fimm bókmenntaflokka. Á þann hátt sýnir leturtaflan sögulega þróun og breytingar á helstu letureinkennum í íslenskum bókum, frá elstu handritum til prentaðra bóka okkar tíma. Í öðru lagi byggðust gögn rannsóknarinnar á 14 viðtölum. Athyglinni var beint að viðbrögðum viðmælenda við ólíkum leturgerðum og hvernig þeir skildu og túlkuðu leturformin. Í því samhengi var tilfinning fyrir mismunandi letri og notkun þess skoðuð. Það var gert með tilliti til tæknibreytinga og efnisnotkunar en fyrst og fremst líkt og titill rannsóknarinnar ber með sér, með tilliti til skilnings, áhrifa og túlkunar ólíkra leturforma. Með uppsetningu letursýnishorna í tímaröð og samanburði þeirra úr nokkrum bókmenntaflokkum fékkst ákveðin mynd af notkun og breytingum leturs í rituðum heimildum frá upphafi bókagerðar á Íslandi. Viðtölin og greining þeirra veittu síðan skilning á hugmyndir, tilfinningar og viðhorf lesenda til mismunandi leturnotkunar.

4 Abstract This 40 unit MA project in practical Ethnology was a way to understand and re-evaluate the use and effect of typefaces. On the one hand is the practical part which is a typeface table with samples from Icelandic books and its exhibition in an open public space within the National Museum of Iceland. By creating the table, a certain overview was gained and put in historical context with further coverage in the thesis. On the other hand, the research part of the project was intended to explore the effect that different uses of typefaces has on readers and examine how various symbols and typeface imagery can be understood, depending on the text's content, as well as the site and time the reading takes place. By analysing if letters contain further narration by its forms rather than their sound- symbol, the methodology and data of the research part were realised. The data was collected in two different ways. Firstly, by collecting typeface samples from five separate groups of literary genres, from different times. The samples were then layouted onto the typeface table with a time axis and split up by different centuries. Then the type table shows historical evolution and development of the main typeface characteristics in Icelandic books from the oldest manuscripts up until printed books of our times. Secondly the data of the research contained 14 interviews. The attention was on the responses of the interviewees to different typefaces and how they understood and interpreted the typeface forms. In that context the feeling for different typefaces and its use was analysed in relation to technical changes and different use of materials but first and foremost as the title of the research says, with regard to understanding, impact and interpretation of various typefaces. By layouting the typeface samples in a timeline and their comparison from different groups of literary genres, a clear picture was obtained of use and development of typefaces in written documents from the beginning of the literary era in Iceland. The interviews and their analysis provided understanding of ideas, emotions and views of readers towards different use of typefaces.

5 Formáli Þegar ritgerðarsmíðinni er senn lokið eiga margir vinir og ættingjar margfaldar þakkir skilið fyrir stuðning og hvatningu í gegnum námið. Leiðbeinanda mínum Ólafi Rastrick þakka ég fyrir góða leiðsögn og ánægjulegt samstarf. Ég vil þakka viðmælendum mínum fyrir að deila reynslu og upplifun sinni um viðfangsefnið. Einnig vil ég þakka öllum þeim sem ég átti samtal við um verkefnið, gáfu mér góð ráð og lásu ritgerðina yfir. Eiginmanni mínum Birgi Snæbirni Birgissyni þakka ég óendanlega, hann hefur stutt mig og staðið með mér eins og klettur í gegnum allt námið frá upphafi til enda.

6

Efnisyfirlit

1 Inngangur ...... 9 1.1 Mynd- og hljóðtákn ...... 11 1.2 Uppbygging ritgerðar ...... 12

2 Rannsóknin ...... 14 2.1 Gögn ...... 16 2.1.1 Leturtafla ...... 17 2.1.2 Viðmælendur ...... 18 2.2 Samantekt ...... 23

3 Samræður ...... 24 4 Bókaletur á Íslandi ...... 33 4.1 Handritamenning ...... 34 4.1.1 Fram til 1100 ...... 34 4.1.2 1100–1200 ...... 35 4.1.3 1200–1300 ...... 36 4.1.4 1300–1400 ...... 38 4.1.5 1400–1500 ...... 39 4.2 Prentlistin kemur til landsins ...... 40 4.2.1 1500–1600 ...... 40 4.2.2 1600–1700 ...... 42 4.2.3 1700–1800 ...... 45 4.2.4 1800–1900 ...... 46 4.2.5 1900–2020 ...... 48 4.3 Leturgerðir latínuleturs ...... 50 4.4 Samantekt ...... 54

5 Skilningur, áhrif og túlkun ...... 55 5.1 „Vildi bara spalta og klístur“ / Tæknin og tíðarandinn ...... 56 5.2 „Flóknara og flúraðra“ / Læsileiki og skilningur ...... 62 5.3 „Hvað er sagt og hvernig það er sagt“ / Áhrif og tilfinningar ...... 70 5.4 „Það ber einhvern tón með sér“ / Tákn- og myndmál leturs ...... 77 5.5 Samantekt ...... 85

7 6 Sýnileg leturssaga ...... 86 6.1 Sýningar og safnastarf ...... 87 6.2 Form sýningar...... 88 6.3 Aðdragandi og undirbúningur sýningar ...... 89 6.4 Sýningarhönnun ...... 91 6.5 Samantekt ...... 94

7 Lokaorð ...... 96 Heimildaskrá ...... 101 Myndaskrá ...... 109 Viðauki...... 110

8 1 Inngangur

Engin konungshöll eða íbúðarhús milljarðamærings hefur notið þúsundasta hluta þeirrar skreytandi ástar sem bókstafirnir hafa notið í rás menningarsögunnar. Þetta helgast í fyrsta lagi af sælunni frammi fyrir hinu fagra og vottar þeim virðingu. (Benjamin, 2008: 222)

Þennan texta má finna í upphafi greinarbúts þýska heimspekingsins Walter Benjamin (1892–1940) „Aldargömul stafrófskver“. Þar lýsir Benjamin aðdáun sinni á bókstöfum og þeirri virðingu sem við höfum veitt þeim í gegnum tíðina. Í texta sínum líkir hann bókstöfum við súlur hliðs sem þarf að ganga inn um til að skilja hvað þeir hafa að geyma. Hann segir jafnframt að óhóflegar skreytingar þeirra geti þó valdið ungum lesendum óþarfa erfiðleikum og líkir þeim þá við hlið sem bera sömu yfirskrift og Dante las á hliðum vítis (Benjamin, 2008: 222). Benjamin vísar þar til orða Dante í Gleðileiknum guðdómlega þar sem Dante, í för sinni um handanheima, lýsti yfirskrift hliðanna á þá leið að þau væru leiðin til landa þjáninga og þrotlausrar pínu og ef inn um hliðin sé gengið sé öll von úti. Dante taldi þetta hljóma harkalega en fékk þau svör að láta þurfi sem ekkert sé og ekki megi sýna af sér neinn heigulshátt ef gengið er inn um hliðin (Alighieri, 2018: 53). Með vísun til orða Dante má ætla að Benjamin telji það nægjanlega flókið fyrir unga lesendur að stauta sig í gegnum stafrófið þó ekki sé verið að breyta bókstöfunum með óhóflegum skreytingum, aðeins í þeim tilgangi að gera þá aðlaðandi án þess að huga að læsileika þeirra. Í sjálfu sér eru bókstafir einfaldir og þjóna fyrst og fremst því hlutverki að standa hver um sig fyrir ákveðið hljóðgildi. Það leiðir hugann að því hvort ekki sé þá best að hafa bókstafina sem einfaldasta til að auðvelda lestur og hvort einhver tilgangur felist í því að hafa þá mismunandi og með síbreytilegu útliti. Ætla má að flestir venjist ákveðnum formum og táknum sem móta hvern staf og má af því ráða að lesendum finnist best að lesa með letri sem þykir einfalt, þeir þekkja vel og verður þeim tamt. Á þann hátt getur útlit bókstafa sem lesendur venjast orðið þeim sjálfgefið, það verður venjulegt eða eins og þeim finnst það alltaf hafa verið og það ætti alltaf að vera. Bæði prentað letur bóka og bókaskrift fyrri alda sem skrifuð var með markvissum hætti hafa þróast og tekið breytingum í gegnum tíðina án þess að lesendur séu almennt meðvitaðir um þróun þess. Markmið þessa verkefnis er að sýna hvernig letur í lesmáli

9 íslenskra bóka hefur þróast frá upphafi ritunar til okkar daga og að kanna hvort breytileg leturnotkun hafi áhrif á skilning og upplifun lesenda. Rannsóknin felst í því að taka saman letursýnishorn úr íslenskum bókum og setja fram sögulegt yfirlit með gerð leturtöflu ásamt því að taka viðtöl þar sem umfjöllunarefnið beinist að mismunandi leturnotkun. Með töflunni má átta sig á einkennandi leturgerðum frá hverjum tíma fyrir sig og í hvers konar bókmenntum ákveðin letur voru ríkjandi hverju sinni. Umræðuþráður viðtalanna beindist aftur á móti að áhrifum, gildi og merkingu mismunandi leturnotkunar. Viðtölin voru tekin við tvo hópa til að fá viðhorf fólks sem kemur að letri á ólíkan hátt, annars vegar sem almennir lesendur sem nálgast letur sem neytendur og hins vegar við grafíska hönnuði sem þekkja vel til leturvinnslu. Leitað var svara við spurningum um mismunandi skilning á breytilegri og ólíkri notkun með því að beina sjónum að tákn- og myndmáli leturformsins og hvaða áhrif það hefur á læsileika, skilning og túlkun textainnihaldsins. Með greiningu viðtala ásamt gerð leturtöflunnar hef ég rakið mig í gegnum söguna ekki aðeins með það í huga hvernig útlit leturs hefur tekið breytingum heldur einnig hvers vegna og á hvaða hátt táknmynd, skilningur og áhrif þess getur jafnframt tekið breytingum samhliða nýjum viðhorfum og ólíkum gildum innan samfélagsins. „Það er til Helvetica og það er til Times New Roman, þarf að skoða það eitthvað nánar?“, er spurning sem ég fékk, frá ónefndum aðila, þegar ég útskýrði verkefni mitt í upphafi rannsóknar. Það má vera rétt en fjölmargar leturgerðir hafa mótast með tímanum og fengið sín sérkenni og nöfn. Sum letur hafa orðið algengari en önnur líkt og ofangreind letur sem margir þekkja og fljótt á litið ættu þau að nægja til að koma flestu lesefni til skila. Ástæða fyrir ólíkri leturnotkun virðist því ekki alltaf augljós, né heldur hvers vegna eða í hvaða tilgangi letur hefur tekið breytingum. Í framhaldinu má því spyrja hvers vegna letur er ekki alltaf eins mótað? ef megintilgangur þess er að skila merkingu hljóðanna og hvort mismunandi útlit leturs hafi einhvern tilgang? Þessar vangaveltur leiddu mig að spurningu rannsóknarinnar sem er: Að hvaða marki og hvernig lesum við í ólík tákn- og myndmál leturformsins; hefur letur áhrif á læsileika, skilning og túlkun textans? Þessum spurningum verður svarað með vísun í leturtöfluna og með greiningu á viðbrögðum viðmælenda á mismunandi letursýnishornum úr íslenskum bókum af ýmsum gerðum og frá ólíkum tímum.

10 1.1 Mynd- og hljóðtákn Ef sagan er skoðuð má sjá að ekki er sjálfgefið að bókstafir séu eins og þeir líta út í dag, það er að táknmyndin A standi fyrir hljóðtáknið a, B fyrir bé og svo framvegis. Til eru ótal gerðir leturtákna fyrir fjölda ólíkra tungumála sem eru í stöðugri þróun en ýmislegt er á reiki um uppruna þeirra og ljóst að saga þeirra ræðst af því sem hefur varðveist. Tilurð latneska stafrófsins, sem er notað á Íslandi í dag, hefur verið rakin aftur um 5000 ár, eða þar um bil, til samískra mála í Mesópótamíu fyrir botni Miðjarðarhafs þar sem fundist hafa þrykk fleygrúna í leirtöflum (mynd 1.1). Líkt og fleiri eldri leturgerðir byggja fleygrúnir á myndmáli þar sem hvert tákn stendur fyrir samhljóm með ákveðna merkingu bak við táknið (Rosen, 2015: 11). Mikil bylting í ritun varð þegar Fönikíumenn tóku upp stafróf um 1200 f.Kr., kerfi sem byggir á hljóðtáknum (mynd 1.2), stafróf þeirra innihélt þó einungis samhljóða svo lesandi þurfti að vita hvar sérhljóðar ættu að vera (Carlevaro, 2019). Fyrsta fullmótaða stafrófið má rekja til Grikkja (mynd 1.3) allt aftur til 1100 f.Kr., eftir að þeir kynntust og tóku upp samhljóðastafróf Fönikíumanna (Coulmas, 1990: 158). Þegar Grikkir tóku táknkerfið í sína notkun var megin breytingin sú að þeir bættu inn táknum fyrir sérhljóða og bókstafir stafrófs þeirra urðu tákn fyrir stök hljóð en að öðru leyti eru þeir merkingalausir (Þorsteinn Þorsteinsson, 1994: 496). Gríska stafrófið barst til Etrúríu á Ítalíu þar sem útlit táknanna (mynd 1.4) tók nokkrum breytingum og í höndum Rómverja tók það á sig þá mynd sem er vel þekkt í dag og er kallað latínuletur (mynd 1.5) (Þorsteinn Þorsteinsson, 1994: 499). Upphaflega innihélt latínuletrið aðeins hástafi en um árið 800, í tíð Karlamagnúsar Franka- konungs, tóku lágstafir að mótast. Að tilstuðlan Karlamagnúsar hafði kennari að nafni Alcuin, gjarnan kenndur við Jórvík, stofnað klausturskóla í Frakklandi. Alcuin hafði lært skrift sem nefnist Uncial (mynd 1.6) og þróaðist á N-Englandi og Írlandi sem hástafaletur þar sem nokkrir bókstafir voru farnir að taka á sig form lágstafa, á þeim byggði Alcuin lágstafaletur til notkunar meðfram hástöfum líkt og algengast er í dag (Ogg, 1950: 168–9). Mynd- og hljóðletur hefur tekið á sig ýmis form og mótast með tungumáli og notkun hvers málssamfélags en þróun þess er hægt að setja fram á ótal vegu eftir því hvar borið er niður og á hvaða tímum. Á næstu síðu má sjá hvernig rekja má þróun fleygrúnar sem tákn fyrir uxa til hástafsins A. Samhliða hástafanotkun í latneska stafrófinu bættist síðan við notkun lágstafa, sambærilegt því sem finna má í elstu handritum sem rakin eru til Íslands.

11

1. Rekja má notkun fleygrúna (e. cuneiform writing) allt til 3000 f.Kr. Tákn fyrir uxa (e. ox) frá tímum Forn-Babýlon (Coulmas, 1990: 72 og 74). / 2. Stafróf Fönikíumanna (e. phoenician letters) má rekja allt til um 1500 f.Kr. Táknið er samhljóði og stendur fyrir uxa (e. ox) (Coulmas, 1990: 163). / 3. Stafrófi Forn-Grikkja (e. alphabet) er yfirleitt rakið til um 800 f.Kr. en rök hafa verið færð fyrir tilurð þess í kringum 1100 f.Kr. (Coulmas, 1990: 158). Táknið stendur fyrir sérhljóðann A. / 4. Stafróf Etrúra á Ítalíu mótaðist frá gríska stafrófinu fram til um 700 f.Kr. þegar Rómverjar tóku það í notkun (Ogg, 1950: 104). / 5. Rómanska latínuletrið var hástafaletur (e. majuscular). A úr áletrun Trajansúlunnar í Róm frá 114 sem var höggvin í stein. / 6. Uncial (e. uncial) má sjá í 9. aldar handritum frá frönsku klaustri sem tengist Alcuin frá Jórvík (British Library, 2020). / 7. Notkun hástafa og lágstafa bókstafa í karlungaskrift (e. caroline minuscule) má finna í 9. aldar handritum frá Frönsku klaustri sem tengd eru Alcuin frá Jórvík (British Library, 2020). (mynd 1)

Bókstafir hafa tekið breytingum í gegnum tíðina en grunnform margra þeirra hefur haldið sér í þúsundir ára eins og sjá má í dæminu hér að ofan. Þróun þeirra má rekja til nýrra hugmynda, verkfæra, efnisnotkunar og tækni auk fleiri þátta sem hafa áhrif á útlit þeirra. Óhjákvæmilegt er að hafa tæknibreytingar í huga þegar þróun bókstafa er skoðuð, þannig má sjá breytingar sem tengjast notkun ólíkra efna svo sem skinni, pappír, bleki og fleiru sem hefur áhrif á form og útlit þeirra. Það er einnig mikilvægt að skoða þróun þeirra samhliða nýjum hugmyndum og síbreytilegum viðhorfum innan samfélaga, má þar nefna listastefnur, tískufyrirbæri, hagkvæmnisjónarmið og fleira sem getur sömuleiðis haft áhrif á útlit bókstafanna og þar með á lestur og upplifun lesenda líkt og vikið verður að síðar.

1.2 Uppbygging ritgerðar Hér að framan hefur grunnur verkefnisins verið lagður og rannsóknarspurning þess sett fram. Í næsta kafla verður gerð grein fyrir nálgun rannsóknarinnar, aðferðum hennar lýst og sagt frá gögnum sem liggja til grundvallar. Rannsóknargögnin eru leturtafla sem byggir á letursýnishornum úr íslenskum bókum og viðtöl við almenna lesendur og grafíska hönnuði. Í lok kaflans eru viðmælendur rannsóknarinnar kynntir. Þriðji kafli ritgerðarinnar er samræðukafli, þar er rannsóknarefnið sett í fræðilegt samhengi og fjallað um greiningar- hugtök sem liggja til grundvallar. Í fjórða kafla er gefið yfirlit sögu skriftar- og letureinkenna sem finna má í íslenskum bókum, þar segir frá breytingum og einkennum leturtegunda frá upphafi ritunar á Íslandi til okkar tíma. Kaflinn byggir á leturtöflunni og umfjöllun sem gefur ákveðna mynd af þróun og breytingum leturnotkunar. Stuðst er við valin letursýnishorn úr töflunni ásamt upplýsingum sem styrkt eru með sögulegri umfjöllun. Í fimmta kafla er

12 skilningur, áhrif og túlkun leturnotkunar greind með gögnum rannsóknarinnar og sett í samhengi við fræðilega umræðu. Ásamt leturtöflunni var gagna aflað með viðtölum við grafíska hönnuði sem gáfu fræðilega sýn á notkun leturs og einnig með viðtölum sem tekin voru við tíu manna úrtak almennra lesenda til að auka skilning á þeim áhrifum sem letur hefur á tilfinningu fólks fyrir textainnihaldi. Kaflinn skiptist í fjóra hluta sem hver um sig tekst á við að skilgreina og svara rannsóknarspurningunni. Í fyrsta hluta er skoðað hvernig letur hefur tekið breytingum í takt við tíðarandann og tækniþróun. Annar hluti kaflans greinir frá mismunandi læsileika og skilningi á ólíkum leturtegundum. Þriðji hluti hans fjallar um áhrif og tilfinningar sem mismunandi letur getur kallað fram. Fjórði og síðasti hlutinn tekst á við myndmál leturs og hvernig hægt er að lesa í letur sem tákn. Í sjötta kafla ritgerðarinnar er sjónum beint að hugmynd og gerð sýningar sem byggir á leturtöflunni. Sagt er frá hugmyndavinnu, gagnaöflun, útfærslu og staðsetningu sýningar. Að lokum greinir sjöundi kafli frá helstu atriðum og niðurstöðu rannsóknarinnar.

13 2 Rannsóknin Hugmyndum um læsileika og hvernig best má vinna með letur ber ekki alltaf saman. Viðtekin fræði hafa tekið breytingum í gegnum tíðina og er þetta verkefni vissulega viðbót í þá rannsóknarflóru sem um ræðir. Til samanburðar og stuðnings verkefni mínu er því hægt að vitna í fjölmargar rannsóknir, bækur og greinar sem fjalla um útlit og notkun leturs sem takast jafnt á við tæknilegar úrlausnir og notendagildi þess. Að auki mun starf mitt í grafískri hönnun nýtast. Það felst fyrst og fremst í að setja texta og myndefni fram á aðgengilegan og skiljanlegan hátt fyrir fjölbreytta hópa lesenda með ólíkar þarfir og væntingar. Þá er meðal annars mikilvægt að hafa í huga hversu læsilegt letur er, hvaða tilfinningu það kallar fram og hvernig lesendur túlka efnið út frá leturgerðinni en þetta eru jafnframt þeir þættir sem rannsóknin beinir sjónum að. Með það í huga, hvort bókstafir innihaldi frekari frásögn með formgerð sinni umfram hljóðtákn sitt mótast aðferðir og gögn sem liggja til grundvallar rannsóknarhluta verk- efnisins. Hér er lagt upp með að skoða hvaða skilning fólk leggur í mismunandi bókaletur og hvort það hafi áhrif á lestur. Með aðferðum eigindlegra rannsókna (e. qualitative) flétta ég saman minni þekkingu, greinaskrifum fræðifólks auk gagna sem aflað er með viðtölum og letursýnishornum úr íslenskum bókum. Almennt vísar eigindleg aðferðafræði til vinnu með frásagnir, ritaðar heimildir og athafnir fólks. Þá er gagnaöflun mikilvægt skref sem leiðir að túlkun og skilningi rannsakandans með það að markmiði að átta sig á atferli og gjörðum almennings (Taylor, Bogdan & DeVault, 2016: 7). Rannsóknin er leið til að skilja og meta notkun og áhrif leturs á nýjan hátt með greiningu gagna sem aflað er með viðtölum og letursýnishornum úr íslenskum bókum. Þar veita viðtölin og greining þeirra skilning á hugmyndir, tilfinningar og viðhorf lesenda til mismunandi leturnotkunar. Með uppsetningu letursýnishorna í tímaröð og samanburði þeirra úr nokkrum bókmennta- flokkum fæst ákveðin mynd af notkun og breytingum leturs í rituðum heimildum frá upphafi bókagerðar á Íslandi. Frumgögn rannsóknarinnar eru því tvennskonar. Í fyrsta lagi hefur völdum sýnis- hornum leturs verið safnað saman frá mismunandi tímum og eftir bókmenntaflokkum. Letursýnishornin eru sett upp í töflu með tímaás sem skiptist eftir árhundruðum með aðgreiningu fimm bókmenntaflokka. Leturtaflan sýnir þróun og breytingar á helstu letur- einkennum í íslenskum bókum allt frá elstu handritum til prentaðra bóka okkar tíma. Fjallað verður nánar um leturtöfluna, gerð hennar og hlutverk í rannsókninni í kafla 2.1.1 og í 6.

14 kafla er farið yfir hugmyndavinnu, úrvinnslu og sýningu töflunnar sem er hluti af lokaskilum verkefnisins. Í öðru lagi byggir rannsóknin á 14 viðtölum þar sem viðmælendur voru spurðir um áhrif og skilning á fjölbreytilegu útliti leturs. Athyglinni var beint að viðbrögðum viðmælenda við ólíkum leturgerðum og hvernig þeir skildu og túlkuðu leturformin. Í því samhengi var tilfinning fyrir mismunandi letri og notkun þess skoðuð með tilliti til tækni- breytinga og efnisnotkunar en fyrst og fremst, líkt og titill rannsóknarinnar ber með sér, með tilliti til skilnings, áhrifa og túlkunar viðmælenda á margvíslegum leturformum. Í kafla 2.1.2 má sjá nánari umfjöllun um viðtölin, aðdraganda þeirra, greiningu og kynningu viðmælenda. Meðal aðferða við þjóðfræðirannsóknir eru opin viðtöl, vettvangsathuganir, umræður og þátttaka rannsakanda. Þrátt fyrir að þær beini sjónum sínum fyrst og fremst að viðhorfum og hegðun fólks er gildi efnisheimsins ekki undanskilin. Rannsóknir á efnismenningu beina sjónum okkar að áhrifum veraldlegra hluta sem hafa merkingu í daglegu lífi og snerta tilfinningar fólks. Þess vegna mun ég skoða letur með efnisheiminn í huga í formi letursýnishorna því letur á sér ekki stað nema á efniskenndum flötum líkt og á blaðsíðum bóka, hvort sem þær eru úr skinni, pappír eða öðru efni. Letursýnishorn frá liðnum tímum jafnt sem nútímanum voru því höfð til stuðnings í viðtölunum þrátt fyrir að rannsóknin beindist að samtímafrásögn viðmælendanna. Til að öðlast skilning og meðvitund um nútímann getur einnig verið mikilvægt að skoða og afmarka liðinn tíma eins og Konrad Kösling (1997: 270) bendir á í grein sinni „The Passion for the Whole: Interpreted Modernity or Modernity as Interpretation“. Þannig má átta sig betur á sögulegu samhengi og breytingum leturformsins þegar sýnishorn bóka eru skilgreind frá ólíkum tímum með tilliti til efna, verkfæra og skrifflata allt frá upphafi ritunar á Íslandi til dagsins í dag. Með söfnun letursýnishorna og uppsetningu leturtöflunnar á tímaás má átta sig á breytingum og sögulegu samhengi. Með viðtölunum var aftur á móti fengist við áhrif, skilning og myndmál leturs þegar persónuleg nálgun og viðhorf viðmælenda voru greind. Rannsóknin mótaðist af skilningi og tilfinningu viðmælenda gagnvart leturnotkun og þeirri merkingu sem þeir gerðu grein fyrir út frá sínum hugmyndum. Í bók sinni Doing Sensory Ethnography bendir Sarah Pink á að það geti verið gott að líta á rannsókn sem ferli hugsana og gjörða sem eiga sér einnig stað út frá tilfinningu rannsakandans (Pink, 2015: xii). Hann þurfi alltaf að vera meðvitaður, því niðurstaðan byggi jafnframt á viðhorfum rannsakanda og verði á endanum túlkun hans (Pink, 2007: 23). Ég hafði því ávallt í huga mína stöðu sem

15 grafískur hönnuður og þau áhrif sem hún hefur á undirbúning, vinnslu og framsetningu verkefnisins. Það átti ekki síst við þegar viðtölin voru tekin, því þá þurfti ég að gæta þess að hafa ekki áhrif á viðhorf og skoðanir viðmælenda minna. Tveimur ólíkum aðferðum var beitt við gagnaöflun rannsóknarinnar í þeim tilgangi að auka skilning og til að geta vakið upp fleiri spurningar sem birtust með ólíkum sjónar- hornum á viðfangsefnið. Mannfræðingurinn Clifford Geertz skrifar í grein sinni „Thick Description: Toward an Interpretive Theory of Culture“ um hugtak breska heimspekingsins Gilbert Ryle og talar þar um marglaga lýsingu (e. thick description). Hugtakið vísar til þess að rannsóknin beinist ekki aðeins að yfirborði viðfangsefnisins, hún fer einnig á dýptina þegar ólíkum aðferðum og nálgunum er beitt (Geertz, 1973: 312). Einnig er aðferð sem vísar í fjölþætta gagnaöflun (e. bricolage) höfð til hliðsjónar við söfnun gagna og úrvinnslu þeirra. Með henni er nýjum og fjölbreyttum aðferðum beitt með samsetningu ólíkra efniviða og aðferða til að skilja margbreytileika lífsins. Hún sameinar ólíkar aðferðir og gögn úr mörgum áttum sem býður upp á samtal alþýðumenningar, hámenningar og sögulegra atburða og fleira sem hægt er að tvinna saman við fræðilega gagnaöflun (Löfgren: 2014: 79–80). Sýnishorn leturtöflunnar og greining viðtala leiða rannsóknina með vísun í sögulegar heimildir, hversdagsmenningu og tilvitnun í hönnuði sem hafa með skrifum sínum, á fyrri hluta og fram yfir miðja 20. öldina, skoðað fagurfræðileg og samfélagsleg gildi leturnotkunar. Á þann hátt er tekist á við það hvernig mismunandi letur getur haft áhrif á læsileika, skilning og túlkun textans.

2.1 Gögn Hér að neðan er greint frá gögnum rannsóknar, fyrst frá gerð og tilgangi leturtöflunnar og síðan frá viðmælendum tveggja hópa sem falla annars vegar undir hóp starfandi grafískra hönnuða og hins vegar undir hóp almennra lesenda. Með öflun gagna er tekist á við sögulegar jafnt sem samtíma heimildir með söfnun letursýnishorna. Þar að auki er fengist við hversdagslegar frásagnir jafnt sem fagleg sjónarmið með viðtölum tveggja ólíkra hópa. Rannsóknin miðar að því að flétta gögnum saman við margbreytilegar heimildir sem síðan sameinast og mynda nýja sýn á viðfangsefnið.

16 2.1.1 Leturtafla Til grundvallar liggur uppsetning leturtöflu til að auka skilning á mismunandi leturnotkun bóka og setja þróun bókaleturs í sögulegt samhengi. Taflan byggir á söfnun letursýnis- horna sem nýtast einnig við undirbúning og til stuðnings í viðtölunum. Auk þess eru sýnishornin úr töflunni til leiðbeiningar í sögulegu yfirliti 4. kafla ritgerðarinnar. Að lokum er leturtaflan sett upp til sýningar í opinberum rýmum í stærðinni 120 x 420 cm. Nánari umfjöllun um gerð leturtöflu, sýningu, staðsetningu og tilgang hennar má sjá í 6. kafla. Drög að gerð töflunnar hófst með gagnaöflun sem fól í sér söfnun letursýnishorna úr íslenskum bókum ásamt upplýsingum um heiti leturs, skrásetningartíma, efnisflokka bókanna og fleira. Viðfangsefni hennar er letur íslenskra bóka í þúsund ár, þar sem ég skoða hvernig letur hefur verið notað frá elstu handritum til prentaðra bóka í dag. Með gerð töflunnar er því þróun og breytingar leturs gert sýnilegt þar sem sjá má valin letursýnishorn í tímaröð með skiptingu milli fimm bókmenntaflokka. Sagan er skráð á sjónrænan hátt í máli og myndum með uppsetningu töflunnar þar sem leitast er við að sýna breytingar og mismunandi notkun leturs á ólíkum tímum. Í bók sinni Doing Visual Ethnography segir Sarah Pink (2007: 13) að sjónrænn þáttur geti verið mikilvægur í eigindlegum rannsóknum þó hann sé ekki megin viðfangsefnið. Á þann hátt getur myndræn framsetning sýnishorna og uppsetning töflunnar ásamt texta ritgerðar- innar unnið saman og gefið nýjan og dýpri skilning á verkefnið í heild sinni (s.b. Pink, 2007: 6). Myndir geta sagt ákveðna sögu til jafns við ritaðan texta og skapað með því nýja hugsun. Samkvæmt Pink (2007: 14) byggja rannsóknir einnig á sýnilegri menningu (e. visual culture) sem skoða má sem sýnilegt tungumál (e. visual language). Hún hefur bent á að þegar sjónrænum atriðum er veitt athygli við rannsóknir og birtingu á niðurstöðum, má varpa nýju ljósi á samfélagstengsl og efnismenningu (Pink, 2007: 17). Letur er sjónrænt fyrirbæri og er hluti af því sýnilega í samfélaginu og má skilgreina sem sýnilega menningu. Með því að skoða þróun leturs og hvernig það hefur, á meðvitaðan og ómeðvitaðan hátt, skilið eftir sýnilega menningu er hægt að vísa til og skilgreina ákveðin tímabil, mismunandi sam- félagsgerðir o.s.frv. Breytileg notkun og útlit leturs getur skilað sér í auknum skilningi menningar og samfélagsgerðar með hliðsjón af samanburði frá ólíkum tímum, fjölbreyttri notkun verkfæra, breyttum stefnum og tískustraumum sem taka breytingum samhliða menningarlegri framvindu.

17 Taflan er fyrst og fremst hugsuð til að sýna yfirlit breytinga og þróunar leturs í gegnum tímann þar sem hægt er að átta sig á notkun þess með tilliti til bókamenntaflokka. Skipting flokkanna markast af: Íslendingasögum, kvæðum, lögbókum, kristilegum bókum og matreiðslubókum. Megin tilgangur þess að skipta tímatöflunni upp með ákveðnum flokkum bóka er að skoða hvort notkun leturs sé sú sama eftir innihaldi bóka og um leið hvort sjá megi tengsl leturnotkunar við ákveðna samfélagshópa út frá efni bókanna. Þannig er ekki aðeins hægt að sjá hvenær nýjar leturgerðir koma fram, þar er einnig hægt að átta sig á leturnotkun milli bókamenntaflokka á hverjum tíma fyrir sig. Með leturtöflunni er notkun leturs sett í sögulegt samhengi á sjónrænan hátt og gefur rannsókninni með því ákveðna dýpt og aukinn skilning. Sögulegur samanburður getur opnað augu okkar á því sem er talið sjálfgefið í samtímanum eins og Orvar Löfgren hefur bent á og segir hann að sjá megi fleiri rannsóknir samtímans með sögulegum tilvísunum þar sem samhengi nútímans og sögulegar tilvísanir vinna saman að niðurstöðum (Löfgren, 2016: 128). Því er leturnotkun bóka frá gerð handrita í upphafi ritaldar á Íslandi til nýlegra bóka sett fram sem söguleg tilvísun til samanburðar við leturnotkun í dag. Þannig geta letursýnishorn frá ólíkum tímum vakið upp spurningar og hugmyndir sem hefðu ekki komið fram ef eingöngu væri unnið með samtíðargögn, þrátt fyrir að rannsóknin beinist fyrst og fremst að viðhorfum og tilfinningum lesenda gagnvart leturnotkun í dag. Hafa ber í huga að letursýnishorn töflunnar verða aldrei tæmandi og hægt er að setja töfluna upp á marga vegu. Framsetning hennar gefur þó vísbendingu um almenna þróun á notkun leturs og þar með ákveðna heildarmynd af leturnotkun í bókum á Íslandi. Frumgerð leturtöflunnar er lögð fram sem fylgigagn í pdf skjali með ritgerðinni en taflan mun verða endurskoðuð og bætt, ef við á, fyrir hverja uppfærslu og nýjar sýningar.

2.1.2 Viðmælendur Gagnaöflun rannsóknarinnar fól einnig í sér viðtöl við grafíska hönnuði og almenna lesendur. Lagt var upp með djúpviðtöl (e. in-depth interview), þar sem hugmyndir viðmælenda voru dregnar fram í samtali fremur en að byggt væri á svörum við formlegum spurningalista (Taylor, Bogdan & DeVault, 2016: 102). Markmiðið var að kanna tilfinningu og skilning fólks á leturformum þar sem horft var til þess hvaða áhrif ólík letur hafa á skilning og upplifun á textainnihaldi. Viðmælendur skiptust í tvo hópa, annars vegar fjóra grafíska hönnuði sem hafa starfað við hönnun í minnst 30 ár og hins vegar tíu einstaklinga

18 á ólíkum aldri sem ég skilgreini sem almenna lesendur. Viðtölin voru tekin á tímabilinu frá október 2018 til desember 2019. Fyrri hópur viðmælenda minna starfar við grafíska hönnun. Ég lagði upp með að ræða við hönnuði sem hafa starfað við fagið allt frá miðjum níunda áratuginum og þekkja bæði gamla og nýja tíma innan þess, því umtalsverðar breytingar urðu um og upp úr 1990 þegar tölvur ruddu sér til rúms og höfðu mikil áhrif á leturvinnslu. Fag grafískra hönnuða felur í sér fjölþætta vinnu, meðal annars uppsetningu leturs, myndvinnslu og fleiri þætti fyrir grafíska miðla. Ég taldi þó mikilvægt að viðmælendur innan hópsins hefðu sérstakan áhuga á leturvinnslu sem á ekki endilega við um alla grafíska hönnuði. Hópurinn sem fellur undir þær skilgreiningar sem ég legg til grundvallar á vali mínu er ekki stór og voru því ekki margir viðmælendur sem komu til greina. Ég óskaði því eftir ábendingum fagfólks í kringum mig sem hefur einnig starfað lengi við grafíska hönnun og þekkir vel til þess hóps sem ég leitaði að. Þannig byggðist val mitt á veltiúrtaki (e. snow- balling), sem ræðst af tengslaneti rannsakanda og viðmælenda (Braun & Clarke, 2013: 57). Upphaflega sá ég fyrir mér að ég ætti ekki að þekkja viðmælendur mína en það reyndist útilokað því ég hef sjálf starfað við fagið frá árinu 1986 og á þess vegna margt sameiginlegt með hópnum. Frá þessum tíma hefur þó grafískum hönnuðum fjölgað talsvert og er þetta fjölmennur hópur í dag en á níunda áratugnum voru þeir mun færri svo það má segja að ég þekki allflesta sem komu til greina eða er málkunnug þeim. Ég hafði því í huga að það getur flækt málið þegar rannsakandi er of náinn verkefni sínu, enda mikilvægt að vera meðvituð „um eigin afstöðu, sjónarhorn og hlutverk“ (Snæfríður Þóra Egilsson, 2006: 107). Ég þekki einnig vel til rannsóknarefnisins, eins og áður hefur komið fram, og var því einnig meðvituð um stöðu mína sem spyrjandi og varaðist að verða ekki þáttakandi í viðtölum. Það getur samt sem áður verið mikill kostur að hafa bakgrunn og þekkingu á rannsóknarefni sínu. Þannig átti ég auðvelt með að skilja viðmælendur þegar notuð voru fagorð eða vitnað var í heiti leturs sem er ekki vel þekkt eða aðgengilegt. Rannsakandi sem þekkir viðkomandi fagmál getur því átt auðveldara með að skilja frásögn viðmælenda og þarf síður nákvæmar útskýringar á faglegum hluta hennar. Það gæti leitt viðtalið annað og umræðan næði ekki að fara á flug um málefnið sjálft en færi þess í stað að fjalla um viðfangsefnið á almennum nótum. Í upphafi hvers viðtals benti ég þó á að þrátt fyrir að viðmælendur mínir teldu mig þekkja umræðuefnið vel, væri mikilvægt að fá þeirra sjónarhorn og viðhorf á leturnotkun og vinnslu. Því rannsakendur eigindlegra aðferða hafa

19 áhuga á skilningi og gjörðum fólks (Taylor, Bogdan & DeVault, 2016: 9). Það var því mikilvægt að vera góður hlustandi án þess að setja fram eigin skoðanir eða sjónarmið þrátt fyrir að þekkja vel til umræðuefnisins. Annar hópur viðmælenda minna var valinn með það í huga að vera hópur lesenda með ólíkan bakgrunn og á ólíkum aldri. Þegar viðtölin voru tekin var aldur þeirra á bilinu 21 til 74 ára og unnu þau við ólík störf. Þennan hóp skilgreini ég sem almenna lesendur því þau nálgast letur fyrst og fremst sem neytendur en koma allajafna ekki að vinnslu eða uppsetningu þess. Eins og með fyrri hópinn var veltiúrtaki beitt við val viðmælenda og byggðist það einnig á tengslaneti rannsakanda og ábendingum. Í viðtölunum gætti ég þess að leita einungis eftir tilfinningu fyrir leturnotkun og hvaða áhrif mismunandi letur hafði á viðmælendur en spurði ekki um sögulega þekkingu eða hvort þau þekktu leturvinnslu. Í viðtölum við báða hópana skoðaði ég hvort mismunandi letur getur haft áhrif á skilning textans með tilliti til mismunandi notkunar og hvernig túlka má ólík form þess. Viðtölin byggðu á opnum spurningum, þar sem viðmælendur fengu að tjá skilning sinn, viðhorf og reynslu með sínum orðum (Taylor, Bogdan & DeVault, 2016: 102). Tveir spurningarammar voru notaðir sem útgangspunktur í viðtölunum, annar fyrir grafísku hönnuðina en hinn fyrir viðmælendur lesendahópsins. Auk opinna spurninga sem ég hafði meðferðis á blaði, hafði ég nokkrar bækur frá ýmsum tímum sem hægt var að skoða þegar við átti. Í viðtölunum við báða hópana var leturnotkun rædd út frá ýmsum hliðum ásamt öllu því sem viðmælendur höfðu fram að færa varðandi efnið. Þegar ég ræddi við viðmælendur lesendahópsins hafði ég til viðbótar útprentuð sýnishorn á A4 blöðum með nokkrum leturgerðum. Sýnishornin byggðust á textabrotum úr fimm bókum og tveimur handritum. Auk þeirra voru sýnishorn með sömu textabrotum sett upp á samsvarandi hátt en með öðrum leturgerðum en eru í upprunalegu bókunum. Sýnishornin voru unnin á þann hátt að letur var sett upp á sama hátt og er í bókunum fimm á A4 síðu og þeim til samanburðar voru sömu textabrot sett í samskonar uppsetningar en með þremur ólíkum leturgerðum á nýjum síðum. Einnig voru sýnishorn með tveimur handritum þar sem bakgrunnur hafði verið hreinsaður burt og voru því með svörtu letri á hvítum bakgrunni. Öll sýnishornin voru prentuð á hvítan ljósritunarpappír í stærðinni A4 svo athyglin færi eingöngu á mismunandi leturgerðir en ekki á annað sem viðkemur áferð bókanna. Sýnishornin eru númeruð frá 1–7c, og eru sýnileg í viðauka aftast í ritgerðinni.

20 Þegar stuðst er við eigindlega aðferð er mikilvægt að byggja á aðleiðslu (e. induction) þar sem gagnaöflun og greining leiðir hugmyndir og skilning að niðurstöðu. Úrvinnsla og greining gagnanna var leið til að auka skilning á leiðandi þáttum sem hafa áhrif á notkun, upplifun og viðhorf viðmælenda til ólíkra leturgerða. Úrvinnsla viðtalsgagna hófst með skráningu viðtala. Atriði sem höfðu vakið athygli mína voru einnig skráð jafnhliða, því margt mátti skilja í fari viðmælenda sem ekki var orðað en mátti túlka í svipbrigðum og annarri líkamstjáningu. Þegar hvert viðtal hafði verið skráð var það kóðað (e. coding data) sem felst í því að fanga áhugaverða þætti og mynda yfirsýn og skipulag á leiðandi sjónarhorn rannsóknarinnar. Með kóðun gagnanna má vekja upp greinandi spurningar sem byggir á síendurtekinni mörkun þegar farið er fram og til baka um gögnin og þau grandskoðuð (Charmaz, 2014: 1). Það var þó ekki alltaf ljóst í upphafi rannsóknar hverju ég leitaði að en þegar ég fór í gegnum gögnin nokkrum sinnum myndaðist ákveðinn skilningur sem leiddi mig að niðurstöðu (s.b. Taylor, Bogdan & DeVault, 2016: 8). Í gögnunum leitaði ég að þemu þar sem viðbrögð og gildismat einstaklinganna fékk vægi til jafns við sameiginlega sýn viðmælenda sem leiðandi stef. Í anda grundaðra kenninga (e. grounded theory) er tekist á við það sem við heyrum, sjáum og skynjum á meðan við söfnum gögnum (Charmaz, 2014: 3). Því er gott að leggja af stað með opinn viðtalsramma þar sem sýn viðmælenda er höfð að leiðarljósi og mikilvægt að vera opin fyrir nýjum og ólíkum viðhorfum þátttakenda sem leiða að niðurstöðu. Í viðtalsgögnum lesendahópsins er vitnað í númer letursýnishorna 1–7c, sem áður voru nefnd, til stuðnings uppskriftum og gagnagreiningu þar sem við á. Hikorð og óþarfa endurtekningar viðmælenda beggja hópanna eru skráð í vinnslugögnum en tekin út í tilvitnunum ritgerðarinnar, ef þau hafa ekki áhrif á frásögnina.

Starfandi grafískir hönnuðir Hér eru viðmælendur innan hóps starfandi grafískra hönnuða taldir upp í stafrófsröð. Hildigunnur Gunnarsdóttir (1957) útskrifaðist úr grafíkdeild Myndlista- og handíða- skóla Íslands árið 1981, eftir það fór hún eitt ár í Danmark Design Skole og síðan til Hollands í Hakfort School for Kunsten. Hún hóf störf á auglýsingastofu í Reykjavík, fyrst sem sumar- afleysingarmaður meðfram námi og í fullu starfi eftir að námi lauk. Undanfarin ár hefur hún unnið sjálfstætt þar sem hönnun og uppsetning bóka er stór hluti af hennar verkefnum.

21 Finnur Malmquist (1964) útskrifaðist sem grafískur hönnuður frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1988. Hann hefur rekið eigin stofu til fjölda ára ásamt fleirum, auk þess hefur hann unnið á auglýsingastofum í eigu annarra. Soffía Árnadóttir (1955) lærði grafíska hönnun og útskrifaðist úr Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1983. Eftir að námi lauk hefur hún rekið eigin auglýsingastofu, unnið á stærri auglýsingastofum og stundað kennslu til margra ára. Í dag er hún með vinnustofu í rúmgóðu herbergi á heimili sínu. Stefán Grétarsson (1968) hóf feril sinn í starfskynningu á síðasta ári í grunnskóla, þaðan lá leiðin í Myndlista- og handíðaskóla Íslands þar sem hann útskrifaðist úr grafískri hönnun árið 1988. Síðan þá hefur hann unnið á nokkrum auglýsingastofum og hefur auk þess rekið auglýsingastofu ásamt fleirum til nokkurra ára.

Lesendahópur Hér eru viðmælendur innan lesendahópsins taldir upp í stafrófsröð. Assa Þorvarðardóttir (1993) er nemi í kynfræði, með BS gráðu í sálfræði. Áslaug Birna Hafstein (1948) kynnti sig sem eftirlaunaþega en lærði snyrtifræði og rak snyrtistofu um tíma og hefur einnig starfað sem ritari á Landspítalanum. Björg Örlygsdóttir (1976) starfar sem verslunarstjóri í tískuvöruverslun. Hún er með stúdentspróf og sagðist vera búin að læra hitt og þetta í háskóla. Guðrún Hálfdánardóttir (1966) starfar sem blaðamaður og fréttastjóri á Morgun- blaðinu og mbl.is. Hún útskrifaðist með MA-próf í blaða- og fréttamennsku og er með BA- próf í íslensku og fjölmiðlafræði auk náms í rekstrar- og viðskiptafræði. Helgi Kristjánsson (1988) er nemi í iðnaðarverkfræði og hefur rekið lítið garðyrkju- fyrirtæki ásamt félaga sínum undanfarin sumur. Helgi Þorgils Friðjónsson (1953) er menntaður myndlistarmaður og starfar sem slíkur ásamt því að kenna myndlist. Ingólfur Pétursson (1975) er veitingamaður og bareigandi. Hann útskrifaðist með BS gráðu í vörustjórnun og er einnig menntaður kjötiðnaðarmaður. Kjartan Ólafsson (1967) starfar sem kokkur og stjórnar veitingastað í þar sem hann hefur búið síðastliðin ár. Sigrún María Magnúsdóttir (1986) starfar sem leikskólakennari. Hún útskrifaðist með BS gráðu í kennslufræði og bætti við sig sérkennslu á meistarastigi.

22 Þorsteinn Gunnarsson (1980) er menntaður sem slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður og starfar sem slíkur.

2.2 Samantekt Hér að framan segir frá helstu aðferðum og gögnum rannsóknarinnar. Eigindlegum aðferðum var beitt þar sem kannað var hvernig fólk skynjar og túlkar mismunandi letur. Í kaflanum er sagt frá gögnum sem safnað var með tvennum hætti, annars vegar með gerð leturtöflu og hins vegar með viðtölum við 14 einstaklinga þar sem umfjöllunarefnið var notkun og tilfinning fyrir mismunandi letri. Meðal þeirra voru tíu viðmælendur skilgreindir innan hóps almennra lesenda og fjórir viðmælendur innan hóps grafískra hönnuða. Greining gagna var unnin með kóðun, yfirlegu og samanburði til túlkunar, úrvinnslu og afmörkunar á helstu þemum sem lýsa reynslu og upplifun einstaklinga á efni rannsóknarinnar.

23 3 Samræður Við fyrstu sýn má ætla að rannsóknir á letri tilheyri aðeins þeim sem vinna með textagerð eða bókstafi á einhvern hátt en það má einnig sjá fyrir sér að rannsókn leturs, sem komið er í fast form efnisheimsins, fjalli einnig um tilfinningar og upplifun. Því í megin atriðum ganga rannsóknir efnismenningar ekki út á að skoða hluti sem slíka, heldur beinast þær að merkingu og áhrifum sem efnisleg fyrirbæri hafa á fólk og þeim tilgangi sem þau hafa í samfélaginu. Ég mun bera saman frásagnir í rituðu máli með ólíkum leturgerðum úr bókum frá ýmsum tímum og skoða mismunandi skilaboð sem letur getur gefið og þar með haft áhrif á tilfinningu og skilning lesandans á innihald textans. Á samskonar hátt og við beitum mismunandi áherslum til að auðga merkingu talaðs máls má segja að mismunandi leturnotkun geti miðlað sjónrænum áherslum sem styðja við eða auka áhrif texta. Í þessum kafla er fjallað um fræðilega nálgun rannsóknarinnar og farið yfir helstu kenningar og hugtök sem stuðst er við. Með rannsóknum þjóðfræðinnar eru tengdar saman ólíkar nálganir er lúta að daglegu lífi og sjónarhorn hennar höfð í fyrirrúmi og efnistökum beint að þeim áhrifum sem fjölbreytt leturnotkun hefur á mannlíf og menningu. Tjáning á upplifun og reynslu fólks á sér oftar en ekki stað í töluðu máli eða rituðu sem skráður texti á pappír eða öðru efni. Ritmál er þó í raun ekkert annað en tákn á yfirborði flatar þar til það er notað á meðvitaðan hátt sem lykill að hljóðtáknum. Þannig talaði Walter J. Ong bókmenntafræðingur og heimspekingur um að bókstafir séu aðeins efniskenndir fulltrúar hljóðheimsins í formi ritaðs máls og eru í raun tilfallandi samlíking við hið talaða mál, þeir mynda því ekki hljóð og eru aðeins staðgenglar þeirra. Hann bendir á að skrifað orð hafi því enga merkingu nema í gegnum meðvitaðan hljóðheim manna, það sem lesandinn sér á blaði eru í raun ekki orð heldur tákn með fyrirfram gefna merkingu sem manneskja getur vakið upp með ákveðnum hljóðum (Ong, 2002: 73). Þannig hefur Ong einnig talað um að texti sé settur saman með ákveðnu kerfi sem við höfum tileinkað okkur með þróun tákna í formi bókstafa og er því einskonar gjörningur sem gerir okkur kleift að koma hugsunum og orðum á framfæri. Þrátt fyrir að verkefni mitt feli í sér að skoða mismunandi leturnotkun þá tel ég mikilvægt að styðjast við rannsóknir á tungumálum og munnlegum miðlum því eins og Ong (2002: 73) talar um, þá er tungumálið grunnur að rituðu máli. Það getur verið gott að skilja hvernig öll tjáning er merkingabær með hliðsjón af kenningum svissneska málvísindamannsins Ferdinand de Saussure. Hugmyndir hans leggja

24 upp með að tjáning byggi á reglum, lögmálum og siðvenjum hvers samfélags, með sam- stæðri heild merkinga sem mynda mynstur táknfræðinnar. Með kenningum sínum skapaði hann nýja hugsun sem tekur á notkun tákna sem við temjum okkur á ómeðvitaðan hátt og vísa til þess að öll tjáning, innan hvers samfélags, byggist á merkingabærum reglum og lögmálum sem hafa áhrif á hegðun okkar (Saussure, 1986: 68). Kenningar Saussure um táknfræði hafa haft mikil áhrif á rannsóknir á ýmsum sviðum og eru rannsóknir í þjóðfræði þar engin undantekning (Bogatyrëv og Jakobson, 1982: 174). Þannig má setja táknfræði í samhengi við frásagnir, hefðir, siði og flest annað þjóðfræðiefni. Hún mun einnig gagnast í þessari rannsókn um táknmynd leturs því sameiginlegur skilningur á táknfræði tungu- málsins á einnig við um skilning leturs þegar áherslur í texta eru táknaðar með feitu-, hallandi- eða annars konar leturgerðum til að koma ákveðnum boðum til skila. Það má segja að bækur séu fullar af texta sem við lesum og skiljum samkvæmt hljóðtáknum stafrófsins (sbr. Saussure, 1986: 67). En útlit og efnisáferð bóka, þar með talin leturnotkun, getur skapað tilfinningu sem skilar sér í frásögnina. Ákveðna samsvörun má sjá í orðum sænska þjóðfræðingsins Orvar Löfgren um heimilið. Hann segir heimilið ekki aðeins vera yfirfullt af efniskenndum hlutum það er einnig hlaðið áhrifum og tilfinningum sem sameinast þeim (Löfgren, 2014: 86). Þannig má líta á bækur líkt og heimili, sem innihalda efniskenndar blaðsíður hlaðnar tilfinningu sem skilar sér ekki aðeins með upphafi og endi frásagnarinnar, hún felst einnig í efniskenndum áhrifum þeirra. Hvort síðurnar eru úr skinni eða pappír, hvernig blekið er og hvaða verkfæri voru notuð til að rita textann ásamt fleiri þáttum, þá getur þetta allt haft áhrif á yfirbragð bókar og ekki síður á útlit og gerð letursins. Líklega er auðvelt að skilja efniskennd áhrif leturs ef við berum saman lestur bóka frá ólíkum tímum. Þannig getur önnur tilfinning skapast við lestur sömu frásagnar af gömlu handriti með fornaldarletri eða við lestur á nýlegri pappírsbók með letri sem við þekkjum og erum vön að lesa, jafnvel þó um sama texta sé að ræða. Mismun má jafnvel finna við lestur á 18. eða 19. aldar bókum sem settar eru með auðskiljanlegu en ögn frábrugðnu letri frá því sem yfirleitt er notað í dag. Þannig má sjá að varðveittar upplýsingar liðins tíma skila sér ekki aðeins með textainnihaldinu. Þær má einnig finna í frágangi bókar, uppsetningu texta og útliti leturs sem er háð efnistökum og verkfærum síns tíma og skilar tilfinningu og ákveðinni vitneskju um tímann þegar textinn var færður í fast form ritunar. Íslenska stafrófið telur 32 bókstafi sem byggja á latínuletri en frá upphafi ritunar á Íslandi hefur nokkrum nýjum stöfum verið bætt í stafrófið á meðan aðrir hafa fallið út og

25 enn aðrir hafa fengið nýtt form og hljóðgildi sumra hefur breyst. Útlit og form bókstafa hefur einnig tekið breytingum með notkun nýrra verkfæra, ritflata, miðla og þróun leturgerða. Ýmsar ástæður geta legið að baki fjölbreyttri notkun leturs. Þær geta verið háðar tíma, aðstæðum, efnum og tækjum sem voru til staðar þegar textinn var skráður. Því getur leturformið tekið breytingum með tilkomu tækninýjunga, nýrra hugmynda eða vegna áhersluauka textans með notkun á smáu og grönnu letri eða stóru og þykku. Með því einu að skoða leturnotkun má oft átta sig á tímanum þegar textinn var settur á prent eða hverju skrifari vildi koma á framfæri með leturnotkun sem viðbót við textainnihaldið. Í þessu samhengi má horfa til greinar franska bókmenntafræðingsins Roland Barthes (1991) „Frá verki til texta“. Þar talar hann um textainnihaldið sjálft sem verk en við hvern upplestur eða flutning verður það aldrei skilið á sama hátt. Verkið eða textainnihaldið verður alltaf túlkað út frá aðstæðum, tíma, vitneskju um rithöfundinn og fleiru sem hefur áhrif á lesandann hverju sinni. Á þann hátt má líta á ákveðið útlit stafagerða eða leturs sem verk og þar með einn af þeim þáttum sem getur haft áhrif á skilning textainnihaldsins. Því samkvæmt Barthes (1991: 185) þá hefur tákn ekki eina ákveðna merkingu eða „fyrsta stigs merkingu“, heldur á það sér endurtekin form flutnings sem verða skilin á margskonar hátt, eftir tíma og aðstæðum. Flutningur á rituðu máli á sér stað í formi lesturs hvort sem lesið er í hljóði, með upplestri, leiklestri eða söng. Ákveðin tjáning er þá notuð til að koma efniskenndum texta í form hljóðheimsins sem getur um leið tekið á sig ólíka mynd eftir því hver flytur hann, hvar og hvenær það á sér stað. Samkvæmt Saussure (1986: 73) hafa rituð mál aðeins 20– 40 letur- og hljóðtákn en tjáningarform og táknmál þeirra eru aftur á móti óendanlega mörg. Flutningur (e. performance) er umfjöllunarefni þjóðfræðingsins Ricahard Bauman (1975) í bók hans Verbal Art as Performance. Þar segir að hver og einn flutningur falli innan ákveðins ramma með skiljanlegri röð tjáskipta og að öll tjáningarform feli í sér athöfn sem skilin eru á grundvelli sameiginlegs táknmáls hvers samfélags (Bauman, 1975: 16). Þjóð- fræðingurinn Deborah A. Kapchan hefur einnig rannsakað flutning og segir í grein sinni „Performans“ að sjá megi flutning sem líkamlega frásögn (e. materialization) sem samanstendur af hugarfari, minningum og tilfinningum. Hjá henni kemur einnig fram að ritað mál sé aðeins staðgengill flutnings þar sem textainnihald fari frá einni túlkunarleið yfir á aðra (Kapchan, 2003: 122–123). Þegar upplestur ritaðs máls er skoðaður sem líkamlegur flutningur má sjá hvernig mismunandi leturnotkun getur kallað fram ólíka tjáningu og

26 flutning við lestur. Í því samhengi má gera ráð fyrir að fjölbreytt leturnotkun geti stafað af hugmyndum og tilfinningu þeirra sem vilja gefa textainnihaldinu mismunandi tilfinningu og áherslur. Á sama hátt og hver bókstafur er túlkaður sem ákveðið hljóðtákn (s.br. táknmynd bókstafarins A fyrir hljóðtáknið a o.s.frv.), má einnig skoða hvernig táknmynd ólíkra leturgerða getur skilað margbreytilegum áherslum, skilningi og tilfinningum fyrir textanum. Á þann hátt mun ég kanna hvort texti sé eingöngu lesinn og skilinn út frá hljóðtáknum bókstafa og mun ég sömuleiðis horfa til þess hvort lesturinn felist einnig í táknmynd letursins. Skilningur á táknmynd leturs getur meðal annars verið bundinn fyrri upplifun, fegurðarskyni eða sögulegum skilningi lesandans. Hugtak franska heimspekingsins Pierre Bourdieu um veruhátt (e. habitus) byggir meðal annars á að við sjáum hlutina samkvæmt því sem við höfum lært af umhverfi okkar og því sem uppeldi og menntun hefur fært okkur. Það á einnig við um listræna skynjun og þann hæfileika sem við öðlumst til að meta form og fegurð hlutanna jafnt sem tilgang þeirra (Bourdieu, 2007: 37). Í þeim skilningi má segja að auk þess að vera læsir á hljóðtákn bókstafa eru lesendur einnig læsir á táknmynd leturs út frá mismunandi formum og útliti þess. Túlkun ólíkra leturforma er þó háð skilningi lesenda og kemur fyrri reynsla því ávallt til með að hafa áhrif á skilninginn. Við lestur í táknmynd leturs til viðbótar við lestur hljóðtákna bókstafa sem er megin tilgangur þeirra, má segja að skilningur bókstafa sé þá farinn að vísa útfyrir upphaflegan tilgang sinn, því á þann hátt verður tvennskonar skilningur við lestur, annars vegar á textainnihaldið og hins vegar við lestur í táknmynd letursins. Bókstafir eru aðeins tákn fyrir hljóð og samsetning þeirra verður aðeins skilin ef við þekkjum tungumálið og notum það eins og Saussure (1986: 77) benti á. Algeng orð og orðanotkun getur því fallið út eða skilist á annan hátt í dag en þau gerðu áður fyrr, þau geta breyst með tímanum og eru háð því sem við lærum. Þetta getur átt við um orðanotkun og hugtök t.d. um verklag, veðurfar eða verkfæri sem hverfa fljótt úr málinu ef þau eru ekki í notkun. Þannig hverfur eða breytist einnig skilningur og hugmyndir um orðanotkun yfir letur með tímanum og við nýjar aðstæður. Nú á tímum tíðkast til dæmis orðanotkun um leturtegund sem stundum er nefnd fornt letur þegar verið er að vísa til gotneskra leturgerða. Leturtegundin var algeng í lesefni á miðöldum og á þeim tíma hafði hver leturgerð gotneska letursins sitt sérkenni og heiti. Í dag flokkast þau yfirleitt undir sömu orðanotkun sem vísar til fyrri tíma á meðan leturgerðir sem eru betur þekktar í dag njóta

27 ríkari skilnings og orðanotkunar um hvert sérkenni þeirra. Það er því ekki aðeins útlit og notkun leturs sem breytist með tímanum því hugmyndir og orðaforði um leturgerðir og vinnsluhætti eiga það einnig til að breytast að sama skapi. Það má segja að skriftin hafi verið ákveðið tækniundur fyrr á öldum þegar hún var aðeins á færi fárra sem skrifuðu handrit eftir fastmótuðum reglum stafanotkunar sem var háð skriftaráhöldum. Samkvæmt Ong er skriftin í raun afdrifaríkust þriggja tæknifyrirbæra sem gera okkur kleift að koma orðum og hugsun í fast form en á eftir henni kom prenttæknin og tölvur sem byggja á kerfi skriftarinnar. Hann segir að okkur kunni að þykja erfitt að hugsa um skrift sem tæknilegt fyrirbæri því hún er flestum sjálfsagður hlutur en til þess að skrifa þarf viðeigandi tæki og búnað svo framkvæma megi athöfnina, að skrifa (Ong, 2002: 80). Tæknibreytingar eiga sér stað með nýjum áhöldum og öðrum framförum bæði á verklagi og í hugsun, stundum með minniháttar uppgötvun eða hagræðingu sem verður til þess að umbylta kerfi, verklagi og þekkingu sem er til staðar. Með nýrri tækni hvort sem það voru betri pennar, nýjar prentvélar, endurbætt blek, betri pappír eða annað sem gat umbylt setningu textans á skrifflötinn, urðu til nýjar áferðir, aðrar áherslur og breytt útlit leturs. Það getur verið auðveldara að sjá hvernig hlutir breytast en aftur á móti er erfiðara að átta sig á því hvers vegna. Samkvæmt Löfgren (2014: 78) miðast samfélagsrannsóknir of oft við að skoða „hvernig“ í stað „hvers vegna“ og segir að það mættu vera fleiri rannsóknir með sögulegar tilvísanir til félagslegra stétta (Löfgren, 2014: 80). Útlitsbreytingar er auðvelt að sjá með samanburði sýnishorna í tímaröð líkt og sett er fram með leturtöflunni, þar sem áhersla er lögð á útlitseinkenni, ritunartíma og heiti leturs. Með greiningu rannsóknargagna er aftur á móti lögð áhersla á að kanna táknmynd, skilning og áhrif leturformsins við lestur. Verkefnið í heild sinni felur því í sér að fá heildarmynd leturs úr íslenskum bókum og handritum ásamt því að skoða hvers vegna það hefur tekið breyt- ingum bæði hvað varðar útlit og hugmyndir háð sögutíma og samfélagslegum gildum. Eitt af markmiðum ritgerðarinnar er að greina hvernig þróun og nýjungar geta verið afleiðingar fyrri gjörða. Það má skilja athafnir samfélagsins á margvíslegan hátt þar sem allar athafnir, bæði stórar og smáar, hafa tilgang og merkingu sem við sköpum okkur með ákveðnum hefðum. Skrift og prentun má sjá sem ákveðið ferli sem byggir á endursköpun tákna byggðum á gömlum hefðum. Finnski þjóðfræðingurinn Pertti Anttonen (2005) bendir á að hugtakið hefð (e. tradition) megi túlka á ýmsan máta og talar um að hefð, eða

28 það sem er hefðbundið, vísi oftast til einhvers sem er gamaldags og er þá andstætt því sem telst nútímalegt. Hann segir aftur á móti að þar sem nútíminn byggir á gömlum gildum, þá er nútíminn aðeins í nýjum búningi gamalla hefða. Richard Handler og Jocelyn Linnekin (1984: 275) hafa einnig farið inn á sömu braut og tala um hefð sem endurtúlkun á því sem var, þannig kemur hefðin alltaf til með að breytast og verður aðeins hluti af táknrænu ferli nútímans sem byggir á endursköpun eldri tákna og viðmiða. Hugmyndir þessara fræði- manna má færa yfir á notkun leturs því að á öllum tímum má segja að letur nýrra bóka séu samkvæmt nútímalegum gildum. Þrátt fyrir að lögun bókstafa hafi þróast hægt og rólega, þá mótast þeir af endurteknum athöfnum gamalla hefða. Jafnvel þegar form bókstafanna eru brotin upp með nútíma gildum og viðhorfum, byggja þau ávallt á grunni hefðbundinna formgerða sem taka mið af því að hljóðtákn þeirra þekkist við lestur. Læsileiki leturs er ekki mælanlegur með almennum hætti. Það sem einum finnst gott og þægilegt að lesa getur öðrum fundist óskýrt, truflandi eða óviðeigandi. Samkvæmt orðum Benjamins í inngangi ritgerðarinnar má ætla að við venjumst ákveðnum formum sem móta hvern bókstaf og því verður best að lesa með letri sem við þekkjum vel eða letri sem truflar ekki lesturinn. Það má þó segja að fjölbreytt leturnotkun hafi ákveðinn tilgang og viss hefð hafi skapast meðfram því um útlit leturforma þar sem sum letur þykja henta betur tilteknum gerðum bóka eða textainnihaldi á meðan aðrar leturgerðir eru settar í samhengi við ákveðin tímabil eða bókmenntir. Hefð eða venjur myndast gjarnan um notkun leturs sem aftur má setja í samhengi við orð Löfgren (2014: 90) um heimili og sjá má sem vef af venjum, þöglu samkomulagi og rótgrónum viðbrögðum á því hvernig við skiljum og gerum hlutina. Þetta þögla samkomulag má einnig greina þegar kemur að leturnotkun bóka sem snýr að því hvaða letur þykir eiga best við hverju sinni. Það getur til dæmis haft áhrif á það hvaða letur á við, háð því hver mun lesa bókina og hvar hún verður lesin. Ómeðvituð en fyrirfram ákveðin skilgreining á útliti leturs getur þannig ráðist af tilgangi og notkun, því einskonar hefð eða fyrirfram gefnar hugmyndir um leturnotkun má skynja þegar ákveðnir notendur eru hafðir í huga og við hvaða aðstæður texti verður lesinn. Hvort sem áhrif eru viljandi eða óviljandi kölluð fram með mismunandi leturnotkun getur það leitt af sér breytta sýn og viðhorf á því sem telst viðeigandi eða læsilegt letur hverju sinni. Notagildi og fagurfræði leturs getur falið í sér hagkvæmnissjónarmið, ólíkar skoðanir, tilfinningalega afstöðu eða annað sem hefur áhrif á smekk fólks. Leturgerðir geta stundum borið með sér sterkt myndmál. Sumt letur þykir hæfa barnaefni á meðan annað

29 letur hentar klassískum skáldsögum og enn annað hefur hugrenningatengsl við gamlar ritvélar svo fátt eitt sé nefnt. Kenningar um áhrif (e. affect theory) hafa notið aukinna vinsælda meðal þjóðfræðinga undanfarin ár, enda hægt að nýta þær við nánast hvaða rannsókn sem tengist mannlegri reynslu (Pink, 2015: xi). Áhrifakenningar ganga út á að greina og meta jákvæð og neikvæð tilfinningaleg hughrif sem eiga sér stað í samskiptum manna eða hughrif sem hlutir og umhverfi skapa hjá fólki (Woodward, 2007: 3). Rannsóknir á efnismenningu taka mið af áhrifum sem hlutir geta haft á okkur þegar þeir eru skoðaðir út frá hugsunum og frásögnum og þeim gildum sem við gefum þeim. Letur líkt og hlutir innan efnisheimsins geta þannig virst bera með sér ákveðnar tilfinningar; stundum gleði, alvarleika, hátíðleika eða aðrar tilfinningar. Sara Ahmed (2010: 29) talar um að þegar áhrif festast eða klístrast (e. sticky) við ákveðna hluti getur það viðhaldið tengingu milli hugmynda og gildi hluta. Þannig má einnig segja að hugmyndir um sumar leturgerðir geti verið það sterkar að ákveðnar táknmyndir og áhrif hafi fest sig við þær og fólk fer að setja þær í samhengi við ákveðinn tíma, bókmenntir eða annað. Það getur verið snúið að lýsa óáþreifanlegum hlutum líkt og áhrifum og tilfinningu. Þetta getur átt við um letur sem veitir sterka tilfinningu fyrir ákveðnu tímabili eða hvaða stefnu það tilheyrir. Þetta getur átt við um letur á bókakápu, plötualbúmi eða öðru efni sem gefur fólki tilfinningu fyrir innihaldi bókarinnar eða tónlistarstefnu plötunnar með leturnotkun. Þjóðfræðingurinn Maja Povianovic Frykman (2016: 85) segir persónulegar tilfinningar og áhrif geta borist og viðhaldist milli manna í gegnum upplifun og frásögn einstaklinga, þannig skilar tilfinning og áhrif sér til samfélagsins. Það getur því verið erfitt að fá fólk til að taka bók sem fjallar um bankahrunið alvarlega ef bókartitillinn er settur með feitu mjúklínu letri sem samfélagsleg vitund setur í samhengi við popptónlist áttunda áratugarins. Breski mannfræðingurinn Paul Connerton hefur tekist á við hugmyndir og minningar sem berast með samfélaginu í bók sinni How Societies Remember. Hann fjallar um samfélagsminni (e. social memory) og hvernig það viðhelst innan samfélagsins, þegar hugmyndir berast á milli manna með reglubundnum athöfnum og gjörðum sem móta skoðanir, skilning og gildismat fólks. Samkvæmt Connerton (1989: 2) byggist reynsla okkar og upplifun að miklu leyti á því sem við þekkjum og hugmyndum okkar af fortíðinni sem getur viðhaldist með ómeðvituðum minningum sem verða til með ýmsum athöfnum og daglegum gjörðum fólks. Hvernig það notar og vinnur með myndir, form, liti og annað

30 myndmál getur sagt margt um upprunatíma og samfélög. Það á einnig við um leturformið sem felur í sér ákveðið táknmál og frásögn sem fólk lærir að lesa í. Með markvissri notkun tákn- og myndmáls má ætla að hægt sé að hafa áhrif á mótun og skilning einstaklinga og þar með á viðhorf innan samfélagsins. Á sama hátt getur leturnotkun tengst ómeðvituðum hugrenningum og haft áhrif á skilaboð. Til dæmis má sjá hvernig hægt er mynda ný viðhorf með breyttri notkun og kollvarpa ríkjandi skoðun og viðhorfum lesenda, jafnvel á því hvaða letur þykir læsilegast. Líkt og þegar latneskar leturgerðir tóku við eftir að gotnesk letur höfðu verið ríkjandi í prentuðum bókum á Íslandi fram um miðja 19. öldina. Um tíma þegar breyting leturnotkunar gekk yfir urðu skiptar skoðanir á því hvor leturtegundin væri heppilegri en í dag þætti líklega flestum ekki við hæfi að hafa meginmál bókar setta með gotnesku letri. Bourdieu (2007: 46) hefur vísað í listheiminn til að útskýra hvernig smekkur manna getur breyst og hvað veldur því að eitthvað er upphafið á einni stundu en verður hallærislegt á annarri, hvort sem það á við um listir eða aðra neysluvöru. Bourdieu (2007: 47) talar um að listamaðurinn eða sá sem skapar sé sérfræðingur í að gera hið dulda sýnilegt, þannig er hann sérfræðingur í að hlutgera smekk og raungera hið mögulega. Með þessu lýsir hann miklu valdi þeirra sem framleiða og skapa og getu þeirra til að hafa áhrif á smekk fólks í hvaða efnum sem er. Leturnotkun er oft háð ómeðvituðum smekk neytenda og getur því verið gott að hafa vald á notkun þess og vita hverjum það er ætlað. Eins og Bourdieu hefur bent á, þá á þetta ekki aðeins við um hæfileika innan listarinnar heldur má einnig yfirfæra þetta á allan boðskap hvar sem er í neyslusamfélaginu. Á þennan hátt má setja þann sem vinnur með letur í stað listamannsins sem er sérfræðingur í að gera hið dulda sýnilegt og verður hann því sérfræðingur í að hlutgera smekk og raungera hið mögulega. Meðal starfa grafískra hönnuða er oft gert ráð fyrir neyslu á einn eða annan hátt og má því skilgreina verk þeirra sem töfraverknað þar sem hönnuður verður skaparinn og athöfn hans dæmigerður félagslegur verknaður (sbr. Bourdieu, 2007: 48). Í heimi hönnunar er tilgangurinn oft að vekja athygli á ákveðinni neysluvöru og getur notkun leturs átt stóran þátt í framsetningu vörunnar. Það getur því skipt sköpum að ná fram töfrum þar sem leturnotkun og smekkur lesandans mætast. Birtingamynd leturs má sjá sem klassík, gamaldags, nýtt, staðfast, ögrandi eða annað sem lesa má úr mismunandi formum þess. Roland Barthes (1991) talar um að textainnihald hafi aldrei eina endanlega merkingu því það verður ekki skilið á sama hátt í dag og þegar

31 textinn var lesinn fyrir tugum eða hundruðum ára. Á sama hátt má ætla að gamalt letur beri ekki með sér sömu merkingu í dag og það gerði áður, þó form þess og umgjörð textaflatarins standi óbreytt um aldur og ævi. Breytileiki leturs og ólík leturnotkun myndar mismunandi skilning sem væri ekki til staðar ef aðeins væri til eitt óbreytanlegt letur á öllu lesefni. Hvernig lesið var úr stafatáknum áður fyrr og hvernig lesið er úr þeim í dag felst í því sem við þekkjum og höfum lært um liðinn tíma og þann tíma sem við upplifum. Skilningur á táknmynd leturformsins skapast þó aðeins ef henni er gefin merking innan samfélagsins á hverjum tíma (sbr. Barthes, 1991: 174). Í þessu samhengi verður táknmynd leturs skoðuð og hvort og hvernig má tjá sig með mismunandi letri, til dæmis með notkun á letri sem tengja má við fyrri tíma eða með grönnu, sveru, hallandi eða hvers konar leturgerðum til áhersluauka sem getur um leið orðið hluti frásagnarinnar. Þannig verður breytt og mismunandi leturnotkun skoðuð, ekki aðeins út frá tæknilegum nýjungum og framförum á efni og áhöldum, hún verður fyrst og fremst skoðuð með hliðsjón af áhrifum, skilningi og táknsköpun sem á sér stað innan samfélagsins á hverjum tíma. Hér að ofan eru settar fram hugmyndalegar forsendur fyrir greiningu minni, annars vegar á sögulegri umfjöllun á leturnotkun sem fjallað er um í 4. kafla og einnig á skilningi, túlkun og upplifun viðmælenda á ólíkum leturgerðum sem er til umfjöllunar í 5. kafla. Í kaflanum hér að framan segir frá því hvernig líta má á texta bæði sem hljóðtákn þegar skilningur á hljóðgildi er gefinn með ákveðnu formi hvers bókstafs og einnig hvernig lesa má í táknmynd ólíkra forma sem verður til við drátt eða slátt bókstafa og getur ráðist af verkfærum og ritfleti eða vali á ólíkum leturgerðum. Sú hugmynd er því sett fram að skilningur textainnihalds skili sér ekki aðeins með hljóðtáknum bókstafa hana má einnig sjá í túlkun og áhrifum sem mismunandi leturnotkun getur haft á lestur. Skilningur texta- innihaldsins getur því einnig verið háður flutningi sem felst í því hver les, með hvaða hætti og hvar og hvernig hann á sér stað. Með það í huga er því jafnframt velt upp hvaða áhrif hægt er að hafa með leturnotkun með meðvitaðri notkun út frá smekk lesenda sem neytendur.

32 4 Bókaletur á Íslandi Þegar talað er um form bókstafa er flestum tamt að vísa í hljóðgildi þeirra og segja til dæmis „þetta er bé“ frekar en að segja „þetta er þverendaletur með hallandi hálegg og sverum belg í x-hæð“ og vísa þannig í leturgerðina án þess að leggja áherslu á hljóðgildið. Í þessum kafla eru leturgerðir skoðaðar út frá mismunandi formum og hvernig þróun og stöðugar breytingar þeirra geta sett svip sinn á bækur á ólíkum tímum. Þetta er skoðað með það í huga að kanna hvort einfaldir bókstafir innihaldi frekari frásögn með formgerð sinni, til viðbótar við hljóðgildið sem þeir standa fyrst og fremst fyrir. Til þess að átta sig á því hvort og hvernig leturnotkun hefur tekið breytingum er gerð grein fyrir helstu leturtegundum úr bókum sem hafa verið skrifaðar eða prentaðar á íslensku frá 12. öld og fram á okkar dag. Í kaflanum er leitast við að kortleggja skrift og leturgerðir í tímaröð sem telja má einkennandi fyrir ákveðin tímabil í íslenskri ritunarsögu. Umfjöllunarefnið beinist að útliti leturs, sérkennum, heiti, hvernig og á hvaða tímum það var helst notað og hvaða þróun og breytingar má rekja til verkþátta, tækniatriða og hugmynda innan samfélagsins. Nokkur letursýnishorn eru birt í kaflanum til að auka skilning á formi og útliti þess leturs sem er til umræðu hverju sinni. Sýnishornin og nokkur dæmi eru tekin úr leturtöflunni sem kynnt var í kafla 2.1.1 og fjallað verður nánar um gerð hennar í 6. kafla eins og fyrr segir. Leturtaflan er einnig lögð fram sem fylgigagn í pdf skjali með ritgerðinni því það getur verið gott að átta sig á þróun og breytingum þegar sjá má letursýnishornin í samhengi. Þar má sjá hvaða letur eru ríkjandi á hverjum tíma og í hvaða bókmenntaflokkum þau er helst finna. Í grófum dráttum má skipta bókagerð á Íslandi frá 11. öld til upphafs 21. aldar í tvö nokkuð jöfn tímabil. Fyrra tímabilið einkennist af handritum en það síðara eftir að prentun hófst hér um miðja 16. öld. Sýnishorn handrita sem stuðst er við byggja flest á bókum þar sem lærðir skrifarar voru að verki. Slík handrit voru skrifuð markvisst upp, oft til að fjölfalda ákveðna texta. Þannig fengust stundum nokkur eintök af samskonar bókum þótt þær væru ekki nákvæmlega eins í samanburði við prentaðar bækur. Þannig má skoða mörg handrit frá miðöldum sem markvissa bókagerð, skrifuðum með leturgerðum ætluðum bókum. Þess konar skrift flokkast ekki á sama hátt og persónuleg rithönd t.d. sendibréfa eða dagbóka því einkenni rithandar koma síður fram „þegar hver bókstafur er gerður eftir föstum reglum líkt og í prentletri“ eins og Björn K. Þórólfsson (1948–49: 131) bendir á í grein sinni „Nokkur orð um íslenzkt skrifletur“. Á Íslandi, eins og víða í Evrópu, voru handrit

33 þó áfram skrifuð upp hvert eftir öðru í talsverðu magni eftir að prentun hófst, enda voru það einkum kristilegar bækur auk lögbóka sem voru prentaðar í upphafi prentsögunnar. Að skipta letursögunni upp í tímabil er því ekki eins augljóst og ætla má en engu að síður gagnlegt til að átta sig á meginlínum rannsóknarinnar. Sú leið er því valin hér að skipta tímabilinu í aldir þar sem fjallað er um einkenni og helstu nýbreytni í leturgerð á hverri öld og hvaða samfélagsþættir höfðu áhrif á þær breytingar.

4.1 Handritamenning Hér verður greint frá ríkjandi leturgerðum úr varðveittum handritum fram til um 1500.

4.1.1 Fram til 1100 Héðan hafa engin handrit frá 11. öld varðveist og engar heimildir til um gerð þeirra eða ritun, hvorki með rúnum né latneskum bókstöfum. Það er þó þekkt að meðal norrænna þjóða tíðkaðist notkun rúnaleturs og má því telja nokkuð víst að þær hafi einnig verið notaðar á Íslandi við upphaf landnáms. Þórgunnur Snædal hefur bent á að fjölmörg dæmi um notkun rúna megi finna í Íslendingasögum og má því ætla að margir landnámsmenn hafi kunnað að rista rúnir (Þórgunnur Snædal, 1998: 17). Samkvæmt Teresu Dröfn Njarðvík er vart hægt að tala um að bókmenntir hafi verið skráðar með rúnaletri þó undantekningar séu þekktar, þrátt fyrir að rúnir hafi almennt verið notaðar um Norðurálfuna (Teresa Njarðvík, 2018: 4). Latína var mál kaþólsku kirkjunnar og ekki ólíklegt að latínuletur hafi verið tekið upp við kristnitöku á Íslandi. Bækur eða handritsbrot frá fyrstu árum eftir kristnitöku hafa ekki varðveist en þó má telja að bókagerð hafi fylgt í kjölfar hennar um aldamótin 1000, líkt og víða í Evrópu. Að sögn Teresu (2018: 16) tilheyrðu rúnir hversdags- leikanum og virðist rúnalestur hafa verið vel þekktur á Íslandi fram að miðri 18. öld og jafnvel lengur. Latínuletur varð almennt í bókagerð hér í byrjun ritmenningar en ritun rúnaleturs lagðist þó ekki af og má finna rúnir á munum og innan fjölda handrita. Styrkur kaþólsku kirkjunnar lá ekki síst í bókagerð sem breiddist út með kristinni trú og verður bókin eitt af lykilverkfærum hennar til að varðveita og bera áfram orð og helgisiði. Fljótlega tók bókin að þjóna þeim mikilvæga tilgangi að varðveita flókið kerfi kirkjunnar, þjóðir sem tóku upp kristni urðu að tileinka sér ritlist, bókagerð og lestur svo hægt væri að stunda trúarlega innrætingu, guðþjónustu og aðra kristilega þjónustu við almenning (Ólafur Halldórsson, 1989: 59). Prestar urðu því að tileinka sér bæði skrift og lestur.

34 Prestaskólar voru stofnaðir og bókagerð sett á laggirnar þar sem guðsorðabækur voru skrifaðar upp á latneska tungu til útskýringa á helgiathöfnum og hvernig þær mætti stunda.

4.1.2 1100–1200 Það getur verið erfitt að staðfesta aldur handrita en elstu varðveittu handritin frá Íslandi eru talin vera frá 12. öld, bæði rituð á latnesku og norrænu/íslensku. Aftur á móti er elsta heimild um ritun bóka á íslensku að finna í Íslendingabók sem Ari fróði Þorgilsson (1067– 1148) er talinn skrifa á árbilinu 1122–1133 (Vésteinn Ólason, 1989: 163). Afrit Íslendinga- bókar hefur þó aðeins varðveist í 17. aldar handriti í uppskrift Jóns Erlendssonar prests sem hann skrifaði upp að beiðni Brynjólfs Sveinssonar biskups í Skálholti. Yfirleitt er tekið mið af upphafi ritaldar Íslendinga með skrásetningu laga veturinn 1117–1118 sem segir frá í Íslendingabók. Ármann Jakobsson (2009: 53) prófessor í íslensku hefur bent á að telja megi að ritun bóka hafi byrjað fyrr, þrátt fyrir að heimildir um bókagerð sé ekki að finna fyrr en snemma á 12 öld. Það er þó erfitt að fullyrða eitthvað um upphaf ritunar á Íslandi því það hafa ekki mörg handrit varðveist frá þessari öld eða fyrr. Samkvæmt töflu um fjölda íslenskra miðaldahandrita eftir aldri, í samantekt Guðvarðar Más Gunnlaugssonar rannsóknarprófessors á Árnastofnun, eru einungis ellefu handritsbrot til frá 12. öld ef aðeins er talið það sem skrifað er á norrænu/íslensku en ekki á latínu (Guðvarður Már Gunnlaugsson, 2014: 128). Frá þessum tíma er þó ekki að finna heil handrit sem varðveist hafa heldur einungis handritsbrot og stakar síður. Útlit leturs ber oft einkenni verkfæra og efnisnotkunar bæði skriffærisins og skrif- flatarins. Þannig má sjá hvernig rómverska hástafaletrið og rúnir bera merki þess að hafa verið rist í hart yfirborð á meðan handrit miðalda voru skrifuð með fjaðurpenna á mjúkt bókfell sem bauð upp á sveigjanlegri og mýkri drætti. Það letur sem sjá má á elstu varð- veittu handritunum héðan bera sterk einkenni fjaðurpenna og bókfells og nefnist það karlungaskrift (mynd 1.7 og 2). Einkenni þess eru ávalar og sveigðar línur, þar sem sumir bókstafir eru jafn breiðir og þeir eru háir líkt og lágstafa „o“, „a“ og fleiri belgstafir sem ekki hafa leggi. Notkun karlungaskriftar var ríkjandi um stærstan hluta Vestur- og Mið-Evrópu frá 9. öld og fram á 12. öld og þess vegna, eins og Haraldur Bernharðsson (2013: 157) hefur bent á, er ekki ólíklegt að þetta hafi verið sú tegund latínuleturs sem Íslendingar fóru fyrst að nota. Eins og fyrr segir er karlungaskrift kennd við Karlamagnús (d. 814) konung Frankaríkis. Hann gerði sér grein fyrir því hve mikilvægt var að samræma skriftarkunnáttu

35 þegar kom að trúarlegum samskiptum og menningarþróun innan ríkis hans og kom hann því til leiðar að ákveðnar reglur um stafagerð voru settar í lok 8. aldar (Haukur Már Haraldsson, 1992: 12–13). Með karlungaskrift hófst notkun lágstafaleturs samhliða hástafaletri líkt og þekkist í dag. Þar sem lágstafir urðu einskonar staðgenglar rómversku hástafanna eins og Albert Derolez (2003: 53) handritafræðingur orðaði það í grein sinni „The Carolingian heritage“, en samhliða lágstafaletrinu voru hástafir áfram notaðir í fyrirsagnir og í byrjun setninga. Í máldaga Reykholtskirkju, einu elsta handritabroti sem varðveist hefur héðan frá 12. öld, má sjá dæmi um notkun lágstafaleturs karlungaskriftar þar sem hástafur er settur aftan við punkt (mynd 2).

Karlungaskrift, skrifað um 1130–50. Máldagi Reykholtskirkju / AA.2. (mynd 2)

Ætla má að ritað hafi verið í nokkrum áföngum á handritsbrotið og telur Guðvarður Már Gunnlaugsson (2007: 12) að færa megi rök fyrir því að elsti hluti þess sé frá um 1130–50 og sé þar með elsta varðveitta skjal ritað á íslensku. Handritsbrot máldagans hefur verið skrifað í sex lotum á um það bil 150 ára tímabili og eru rök fyrir aldursgreiningu byggð á stafsetningu, málfari og mannanöfnum sem koma fyrir en síðast og ekki síst með tilliti til skriftareinkenna sem eru breytileg í skjalinu eftir ritunartíma þeirra eins og segir í „Forspjalli“ Bergs Þorgeirssonar (2000: 7) í útgáfu Reykjaholtsmáldaga árið 2000 sem gefin var út í tilefni 1000 ára kristnitöku. Elsti hluti máldagans er ritaður með karlungaskrift sem er einkennandi letur fyrir elstu handrit sem varðveist hafa frá Íslandi fram undir lok 12. aldar.

4.1.3 1200–1300 Sjá má að leturnotkun í bókum tók nokkrum breytingum frá fyrstu handritunum til þeirra sem skrifuð voru fram um miðja 16. öld eða um það leyti sem prentun kom til sögu á Íslandi. Frá þessu tímabili má einkum tala um fjórar gerðir bókaleturs og ber þá helst að nefna karlungaskrift, frumgotneska skrift, gotneska textaskrift og árléttiskrift. Auk þeirra eru ýmis afbrigði blendingsskrifta sem bera einkenni og áhrif hvors annars. Þróun leturgerða á Íslandi má yfirleitt rekja til Evrópu, eins og sú sem átti sér stað um vestanverða Evrópu og barst hingað í lok 12. aldar og varð áberandi fram um miðja 13. öld. Ríkjandi skriftar-

36 einkenni þessa tíma, eða á fyrri hluta 13. aldar, hefur verið nefnd síðkarlungaskrift eða árgotnesk skrift sem vísar til millistigs karlungaskriftar og gotneskrar textaskriftar, en nú tala skriftarfæðingar um frumgotneska skrift (mynd 3) sem ákveðna skriftartegund (Guðvarður Már Gunnlaugsson, 2002: 65). Frá ávölum línum karlungaskriftar fór letur að þéttast og ummál þess að mjókka og hækka. Frumgotnesk skrift er heldur þéttari en karlungaskrift og tekur minna pláss á bókfelli sem ætla má að reynt hafi verið að nýta sem best. Breytt hlutfall bókstafa má einna helst sjá á „o“ og „a“ sem eru ekki eins kringluleitir og í karlungaskrift en frumgotneska skriftin hefur þó ekki tekið form hornóttra bókstafa sem einkennir gotneska textaskrift sem síðar tók við.

Frumgotnesk skrift, skrifað um 1220–1249. Heilagra manna sögur / AM 645 4to. (mynd 3)

Upp úr miðri 13. öld fara einkenni gotnesku skriftarinnar (mynd 4) að verða skýrari og er stundum talað um gotneska textaskrift eða gotneska settaskrift. Þegar talað er um textaskrift eða settaskrift er verið að vísa til þess að hver stafur fyrir sig er markvisst skrifaður með ákveðnum dráttum en þeir renna ekki saman líkt og í léttiskrift sem bíður aftur á móti upp á meiri hraða með tengingu bókstafa.

Gotnesk textaskrift, skrifað um 1240–1260. Lögbók Íslendinga, Grágás / GKS 1157 fol. (mynd 4)

Gotneska textaskriftin þróaðist frá latneska lágstafaletri karlungaskriftar og er í megin atriðum byggð á grunni þess með nýjum formum sem fyrst og fremst eru hugsuð sem bókaletur með tilliti til læsileika, skýrleika og ritunar (Derolez, 2003: 53). Guðvarður Már Gunnlaugsson (2002: 65) bendir á að sjá megi ákveðna samsvörun í þróun leturs frá þessum tíma samhliða breytingum í byggingarlist þar sem ávalar línur karlungaskriftar samsvara rómönskum byggingarstíl á meðan gotneska skriftin tekur inn skarpar línur gotneskrar byggingarlistar. Nýjungar í arkitektúr og listum sem kenndar eru við gotneskan stíl má rekja til N-Frakklands um miðbik 12. aldar (Gombrich, 1998: 185). Gotneska skriftin tók jafnframt að þróast þar og náði langmestri útbreiðslu meðal germanskra þjóða og segir

37 Björn K. Þórólfsson (1948–49: 128) að upphaflega hafi hún verið nefnd gotnesk skrift til háðungar af fornmenntamönnum sem töldu gotneska listastefnu frumstæða. Á Íslandi fer gotnesk textaskrift að verða nokkuð algeng undir lok 13. aldar og í stærri handritum var hún mikið notuð fram til um 1400 .

4.1.4 1300–1400 Mörg af glæsilegustu handritunum sem varðveist hafa frá Íslandi eru frá 14. öldinni. Talað hefur verið um þetta tímabil sem mikla handritagerðaröld þar sem nokkrar af stærstu og merkustu skinnbókum sem hafa varðveist voru skrifaðar á þessari öld (Vésteinn Ólason, 2002: 32). Skrift handritanna bar vitni um mikla kunnáttu og auðséð að atvinnuskrifarar voru að störfum. Fáguð leturgerð gotnesku textaskriftarinnar náði yfirhöndinni um alda- mótin 1300 þegar dráttur pennans gerir letrið mun hornóttara en latínuletrið (Björn K. Þórólfsson, 1948–49: 129). Einkenni skriftarinnar má sjá í þéttskrifuðum og köntuðum bókstöfum með skörpum hornum en hana má einkum finna í stórum og glæsilegum handritum lögbóka og helgibóka 14. aldar (mynd 5).

Gotnesk textaskrift, skrifað árið 1363. Lögbók Íslendinga, Jónsbók / AM 350 fol. (mynd 5)

Kristilegt efni, lögbækur og veraldlegar sögur eru meðal þess sem varðveist hefur frá þessum tíma. Einungis örfá brot af Íslendingasögum eru varðveitt frá 13. öld og er brot úr Egils sögu, aðeins á tveimur blöðum, elst þeirra frá því um 1250. Mun fleiri sagnahandrit er að finna frá 14. öld og eitt þeirra þekktasta er Möðruvallabók sem inniheldur ellefu Íslendingasögur í einni bók. Að sögn Vésteins Ólasonar (2002: 33) má rekja fjölbreytt efni handritanna til náinna tengsla kirkjunnar og nokkurra helstu höfðingja landsins þar sem kennsla og bókagerð kirkjunnar hafi stuðlað að góðri menntun meðal höfðingja og telur hann að veraldlegur áhugi hafi kallað á ritun sagna um land og þjóð á móðurmálinu. Varðveitt handrit frá 14. öld eru um það bil 300 (Guðvarður Már Gunnlaugsson, 2014: 128). Handritin eru misjöfn að stærð og gæðum en stór og glæsileg handrit 14. aldar bera vandaðri bókagerð vitni og í þeim má að finna gott bókfell, fallega skrift og myndlýsingar. Á það einkum við um handrit með sögum af heilögum mönnum, biblíuþýðingar og lögbækur sem oft á tíðum eru listilega skreyttar en þess gætir síður í sagnahandritum og

38 rímna- og kvæðabókum (Soffía G. Guðmundsdóttir og Laufey Guðnadóttir, 2002: 59). Þetta á einnig við um volduga settaskrift gotnesku skriftarinnar en hana er einkum að finna í kristilegum bókum og lögbókum en síður í handritum með almennara efni eins og Íslendingasögum, rímfræði, land- og þjóðlýsingum og fleiru sem skrifað var niður á bókfell.

4.1.5 1400–1500 Í byrjun 15. aldar lagðist bókagerð svo til af um tíma eftir að svartidauði reið yfir landið og nær þriðjungur landsmanna lést. Handritagerð fór síðan að aukast að nýju um miðja öldina og hefur fjöldi skinnhandrita varðveist sem skrifuð voru út 16. öldina. Handrit frá þessu tímabili eru þó ekki jafn glæsileg og 14. aldar handritin. Vegna plágunnar í byrjun aldarinnar höfðu skrifarar og bókagerðarfólk fallið frá og með þeim verkkunnátta; bækur urðu minni, skinnið verra og grófara og má sjá að hver skinnpjatla var gjarnan nýtt þrátt fyrir stór göt og rifur (LogS, 2001). Gotneska textaskriftin verður sjaldgæfari í handritum en léttari og hraðskrifaðri skrift fer að taka við af íburðarmikilli og seinskrifaðri settaskrift sem einkenndi fremur stóru og glæsilegu handritin. Nýtt bókaletur á borð við árléttiskrift (mynd 6) er heldur léttara og þróaðist sem millistig gotneskrar textaskriftar sem einkum var notuð við bókaskrif og léttiskriftar sem helst var notuð við bréfaskriftir. Ýmis önnur heiti eru einnig þekkt um árléttiskrift, svo sem gotnesk blendingsskrift og bastarðsskrift.

Árléttiskrift / blendingsskrift, skrifað um 1475–1499. Sagnahandrit / AM 556 a 4to. (mynd 6)

Samkvæmt áðurnefndri töflu Guðvarðar Más (2014: 128) er fjöldi varðveittra handrita aðeins 223 frá 15. öld sem eru heldur færri handrit en þau sem hafa varðveist frá 14. öld. Auk þess kann að hafa dregið úr bókagerð klaustranna eftir pláguna miklu, því hlutfall handrita sem innihalda veraldlegar bókmenntir hækkaði á öldinni í hlutfalli við þau sem eru kirkjulegs eðlis. Margir skrifarar voru ekki endilega tengdir kirkjunni þegar hér var komið við sögu og urðu æ fleiri þeirra þekktir undir nafni. Til eru frásagnir um skrifara eins og af „Jóni Þorlákssyni sem var svo mikilvirkur skrifari að eftir dauðann stirðnuðu þrír skriffingur hans aldrei“ (LogS, 2001).

39 4.2 Prentlistin kemur til landsins Hér verður tímabilið frá 16. öld til dagsins í dag rakið og fjallað um leturgerðir nokkurra handrita og letur sem einkennir prentaðar bækur fram á 19. öld. Að lokum er greint frá þeim miklu og hröðu breytingum sem áttu sér stað í leturnotkun á 19. og 20. öldinni og fram á þá 21.

4.2.1 1500–1600 Á Íslandi eins og víðar voru bækur skrifaðar hver upp eftir annarri og höfðu margir spreytt sig á að fjöldafalda texta á einhvern hátt fyrir tíma prentlistarinnar. Í bók sinni Ritlist, prentlist, nýmiðlar segir félags- og fjölmiðlafræðingurinn Þorbjörn Broddason (2005: 20) frá því að ýmsar tilraunir voru gerðar með „gerviskrift“ til fjölföldunar texta, því á þessum tíma var afritun bóka viðurkennd og arðbær atvinnugrein víða í Evrópu og augljós markaður til fyrir fjöldaframleiðslu þeirra. Heiðurinn af upphafi prentlistar hefur verið eignaður Þjóðverjanum Johannes Gutenberg þegar hann hóf að prenta bækur með lausaletri um miðja 15. öldina. Aðferðin var fyrst og fremst hugsuð til að fjölfalda handrit enda voru fyrstu prentuðu bækurnar ekki óáþekkar handritum (Steingrímur Jónsson, 1989: 91). Auk notkunar á lausstafaletri sem bauð upp á endurröðun letureininga þá byggðist afrek Gutenberg ekki síður á styrkleika málmblöndunnar í letureiningunum svo endurnýta mátti hverja þeirra nokkrum sinnum (Þorbjörn Broddason, 2005: 20). Prentlistin barst hratt frá Þýskalandi um alla Evrópu og var komin til Íslands um 1530. Fyrsta prentvélin á Íslandi var sett upp að Hólum í Hjaltadal að undirlagi Jóns biskups Arasonar, eftir að hann fékk Jón Matthíasson, sænskan prentara og prest, til að koma til landsins með prentvél sína (Þorbjörn Broddason, 2005: 22). Nokkrum árum síðar flutti Jón Matthíasson prentsmiðjuna með sér að Breiðabólsstað í Vesturhópi þar sem hann varð prestur árið 1535. Að Jóni Matthíassyni látnum tók Guðbrandur Þorláksson við prestsskap á Breiðabólsstað. Þar kynntist hann prentlistinni og áttaði sig fljótt á mikilvægi hennar, þegar þjóðtungan varð tungumál trúarinnar með siðbreytingunni. Guðbrandur gerðist annar biskup á Hólum eftir siðbreytingu og árið 1575 fékk hann prentsmiðjuna aftur að Hólum og með henni kom Jón Jónsson sem hafði tekið við prentvélinni af föður sínum Jóni Matthíassyni. Tímamótaverk prentlistarinnar, Biblían (Gutenberg Bible) er prentuð með gotnesku settletri sem nefnist Textura. Það er stílhreint og þétt, með skörp og hvöss horn. Fyrstu bækurnar sem prentaðar voru á Íslandi og fram til 1576 voru prentaðar með gotneska

40 letrinu Schwabach (mynd 7) sem kom upphaflega með prentvél Jóns Matthíassonar (Hallbjörn Halldórsson: 1948, 86). Letrið varð til á síðari helmingi 15. aldar og var nefnt eftir smábænum Schwabach í Þýskalandi (Haukur Már Haraldsson, 1992: 14). Það er heldur einfaldara og skýrara en prentletrið Textura.

Schwabach, gotneskt letur, prentað árið 1576 á Hólum. Katekismus, barnalærdómsbók. (mynd 7)

Ný gerð gotneska letursins hafði þróast og varð Fraktúra prentletur (mynd 8) ráðandi í Þýskalandi og löndum sem voru á þýsku menningarsvæði í prentlist á seinni hluta 16. aldar (Þorsteinn Þorsteinsson, 1994: 506). Árið 1577 fór Jón Jónsson prentari út fyrir land- steinana að útvega nýja pressu og nýtt letur fyrir prentsmiðjuna og ári síðar var lögbók prentuð á Hólum með nýju letri (Steingrímur Jónsson, 1989: 96). Í ferð sinni hafði Jón fylgst með straumum og stefnum í vestanverðri Evrópu í leturgerð og kom heim með Fraktúra í nokkrum stærðum auk fleiri gerða leturs. Í umfjöllun sinni í kaflanum „Prentaðar bækur“ um upphaf prentlistar á Íslandi segir fræðimaðurinn Steingrímur Jónsson (1989: 96) að lögbókin hafi verið veigamesta prentverkið á þessum tíma, fram að því höfðu prentaðar bækur verið trúarlegs eðlis en þetta verk hafi vissulega verið mönnum jafn nauðsynlegt. Fraktúra letrið má sjá í Lögbók Íslendinga sem prentuð var 1578 og nokkrum árum síðar í Biblíu Guðbrands sem tímasett er árið 1584 (Hallbjörn Halldórsson, 1948: 89). Þar er stærri gerð Fraktúra leturs haft í meginmáli og fyrirsögnum en Schwabacher notað í spássíu- greinum (Hallbjörn Halldórsson, 1948: 93).

Fraktúra, gotneskt letur, prentað árið 1578 á Hólum. Lögbók Íslendinga, Jónsbók. (mynd 8)

Eftir að prentun hófst í Þýskalandi má segja að leturgerðir sem slíkar hafi ekki breyst eins mikið og ætla mætti fyrst um sinn, því prentletur var upphaflega mótað eftir skrift handrita og líktist gotneskri settaskrift sem þá var mikið notuð þar. Prentlistin barst fljótlega til Ítalíu og hófst þar gerð prentleturs sem mótað var eftir latneskri skrift ítalskra húmanista þar sem þeir litu til handrita frá tímum Karlamagnúsar og tóku upp skriftareinkenni þess tíma (Már Jónsson, 2002: 227–8). Þannig virðast skriftareinkenni og prentletur hafa haldist

41 nokkuð í hendur þar sem prentun var tekin upp. Þetta mátti jafnframt sjá á Íslandi þegar prentun barst til landsins því gotneskt letur varð einkennandi á prentuðum bókum líkt og var í handritum á sama tíma. Þar sem prentlistin hóf innreið sína héldu menn handritagerð yfirleitt áfram og fór handrituðum bókum því ekki fækkandi til að byrja með. Að sögn Más Jónssonar sagnfræðings varð þó ákveðin stöðnun á 15. og 16. öld á Íslandi, bæði í gerð handrita og skrift þeirra, ólíkt því sem var að gerast í Evrópu (Már Jónsson, 2002: 227–8). Stafaði það af því að hér var notkun settaskriftar (mynd 9) enn nokkuð algeng í mörgum handritum fram til um 1700, á meðan skrift pappírshandrita í Evrópu varð léttari og fljótskrifaðri á sama tíma.

Settaskrift (léttiskrift), skrifað árið 1681. Lögbók Íslendinga, Jónsbók / ÍBV 1 4 to. (mynd 9)

Fjölgun bóka hvort sem á við prentaðar bækur eða handrit má rekja til aukins aðgengis að pappír sem gaf fleirum kost á að skrifa og eignast bækur. Uppfinningu pappírs má rekja til Kína allt að 2000 ár aftur í tímann. Það var þó ekki fyrr en á 11. öld sem kunnátta til pappírsgerðar barst til Grikklands og þaðan um Evrópu og á 14. öld varð gerð hans útbreidd um Evrópu og á sama tíma var hann talsvert hagkvæmari í innkaupum en bókfell (Þorbjörn Broddason, 2005: 16). Pappír barst heldur seinna til Íslands en um 1600 eftir að hann fór að flytjast að marki til landsins fór handritum í landinu einnig að fjölga til muna (Ólafur Halldórsson, 1989: 88). Krafa um auknar upplýsingar jók þörf fyrir fjölföldun bóka, pappír var því kærkominn og varð nær allsráðandi í bókagerð. Með honum fjölgaði uppskriftum bóka líkt og gerðist í Evrópu. Þrátt fyrir að prentun væri komin til sögunnar voru pappírs- handrit einnig framleidd, ef svo má segja, oft á tíðum af atvinnuskrifurum.

4.2.2 1600–1700 Með auknu framboði pappírs á 17. öld tóku menn að afrita skinnbækur fyrri alda af miklu kappi og hefur Björn K. Þórólfsson (1948–49: 138) sagt þann tíma „vera mesta uppskriftar- öld í íslenskri bókmenntasögu“. Jón Helgason (1958: 14) hefur einnig bent á það í bók sinni Handritaspjall að pappírsbækur 17. aldar séu veigamikill þáttur í varðveislu íslenskra fornbókmennta, því margar þeirra skinnbóka sem skrifað var eftir eru nú glataðar að hluta eða með öllu. Þeim fjölgaði sem tileinkuðu sér skilvirkari skriftartegundir en þó eru mörg

42 handrit þessa tíma skrifuð með vandaðri settaskrift. Guðvarður Már Gunnlaugsson (2002: 70) telur að margir skrifarar hafi ekki kunnað við að afrita miðaldahandrit með léttiskrift þar sem þau voru rituð með settaskrift og gripu því til skriftar með einkennum hennar. Með settaskrift var á vissan hátt verið að líkja eftir prentletri þar sem hver stafur var dreginn stakur, á meðan léttiskrift var fremur notuð við bréfaskriftir og til daglegs brúks. Notkun léttiskriftar má þó sjá á fjölda handrita þar sem hún var hraðskrifaðri og styttri tíma tók að skrifa upp hverja bók. Ýmis afbrigði sem millistig settaskriftar og léttiskriftar er að finna í mörgum pappírshandritum frá Íslandi og flokkast hún undir fjölmörg afbrigði blendingsskriftar (mynd 10).

Blendingsskrift, skrifað árið 1651 með hendi Jóns Erlendssonar. Gísla saga Súrssonar / AM 148 fol. (mynd 10)

Björn K. Þórólfsson (1948–49: 141) telur að sterk tilhneiging til að skrifa bækur með skýru letri sem einkennir mörg handrit frá þessum tíma megi rekja til þess að bækur veraldlegs efnis, að lögbókum undanskildum, fengust yfirleitt ekki prentaðar þrátt fyrir að prentsmiðja hafi verið starfrækt í landinu frá miðri 16. öld. Mestmegnis kirkjuleg rit og lögbækur höfðu, með örfáum undantekningum, verið prentaðar hér fram um miðja 17. öld. Í annað sinn var biblíuútgáfa kennd við Hólabiskup prentuð á Hólum, um hálfri öld eftir að prentun Guðbrandsbiblíu lauk (Sigurður Ægisson, 2015: 31). Hún var einnig prentuð með Fraktúra gotnesku prentletri (mynd 11).

Fraktúra, gotneskt letur, prentað árið 1644 á Hólum. Biblía, Þorláksbiblía. (mynd 11)

Samkvæmt rannsókn Steingríms Jónssonar (1997: 51–53) er meginmál varðveittra bóka sem prentaðar voru hér fram til 1650 með gotnesku letri í fjórum stærðum að undan- skilinni latneskri málfræðibók en hún er prentuð með latínuletri árið 1616 og er ein af fáum bókum frá þessum tíma sem ekki innihélt kristilegt eða lögfræðilegt efni. Einskonar hefð varð til um notkun leturtegunda á þessum tíma. Hún fólst í því að gotneskt letur var notað á íslenskan texta en latneskt letur var sett á annan texta og átti það einna helst við um latínutexta. Var þetta hvorki háð prentstað né því hvaða prentletur var tiltækt því bækur

43 með íslenskum texta voru einnig prentaðar í Danmörku og Þýskalandi og eitthvað af bókum á latínu voru prentaðar á Íslandi. Lærðum mönnum þótti ekki viðeigandi að nota gotneskt letur í latínutexta eða önnur ógermönsk mál, hvort sem um var að ræða handskrift eða prentað efni þar sem gotneskar leturgerðir voru mest notaðar af germönskum þjóðum en ekki mikið notaðar utan hinna þýsku ríkja og Norðurlandanna (Björn K. Þóroddsson, 1948– 49: 147–148). Óskráða, nánast ófrávíkjanlega reglu um notkun leturtegunda, má sjá dæmi um í grein Steingríms Jónssonar „Prentaðar bækur“, þar sem fram kemur að ein af nokkrum bókum Arngríms Jónssonar lærða var prentuð á Íslandi. Hún líkt og fleiri bækur Arngríms var skrifuð til varnar Íslendingum, vegna nokkuð kostulegra skrifa um land og þjóð af landkönnuðum þess tíma, eins og Steingrímur (1989: 102) bendir á. Bækur Arngríms eru á latínu sem var alþjóðlegt mál lærðra manna og kom sú fyrsta út í Kaupmannahöfn árið 1593, prentuð með latínuletri. Nokkru síðar var önnur bók hans Anatome Blefkeniana (líffærafræði Blefkens) prentuð á Hólum 1612 sem svar við riti Þjóðverjans Dithmars Blefken. Að þessu sinni var meginhluti bókarinnar prentaður með gotnesku letri en þar sem venjan var að latneskur texti væri prentaður með latínuletri, naut hún ekki þeirrar virðingar sem skildi og var því endurprentuð í Hamborg ári síðar (Steingrímur Jónsson, 1989: 103). Þá með latínuletur í meginmáli nema þar sem íslensk manna- og staðarnöfn komu fyrir var gotneskt letur sett. Dæmi um þetta má jafnframt sjá í málfræðibók sem var prentuð með latínuletri (mynd 12) í Skálholti árið 1695, þar voru einnig undanskilin örfá íslensk orð sem sett voru með gotnesku letri.

Latínuletur og gotneskt letur á íslenskum orðum, prentað árið 1695 í Skálholti. Málfræðibók. (mynd 12)

Prentsmiðjan á Hólum hafði verið starfrækt í um það bil eina og hálfa öld með viðkomu á Breiðabólsstað árin 1535–1575, eins áður sagði og að Núpufelli í Eyjafirði árin 1589–1591, þegar hún var flutt að Skálholti árið 1685. Þar var hún starfandi í tæplega 20 ár áður en hún var aftur flutt að Hólum árið 1703. Að mati Steingríms er tímabilið sem prentsmiðjan var starfrækt í Skálholti eitt hið merkasta skeið í íslenskri bókaútgáfu. Á það einkum við um árið 1688 þegar út komu Íslendingabók Ara fróða, Landnáma, Kristni saga og Grönlandia

44 Arngríms Jónssonar auk endurútgáfu tveggja kristilegra rita (Steingrímur Jónsson, 1989: 104). Í Skálholti undir stjórn Þórðar Þorlákssonar Skálholtsbiskups, voru gefin út á Íslandi fyrstu fornritin á prenti ásamt Alþingisbók, undanfara Alþingistíðinda.

4.2.3 1700–1800 Fjölbreytt efnisval prentaðra bóka hafði vissulega ekki verið mikið fram að þessum tíma. Höfðu kirkjuleg rit verið ríkjandi frá upphafi prentlistar á Íslandi eins og víða í Evrópu og bendir Þorbjörn Broddason á að meiri áhugi virðist hafa verið á gömlum textum og fremur lítil þörf fyrir nýja. Að hans sögn fóru menn þó að átta sig á því að nýja texta mætti setja á prent þegar kom fram á 18. öldina (Þorbjörn Broddason, 2005: 23). Um vestanverða Evrópu ruddi upplýsingastefnan sér til rúms og mikil framför varð víða í bókagerð. Olafur Olavius (1741–1788) var einn af frumkvöðlum upplýsingastefnunnar á Íslandi og birtist það meðal annars í stofnun hans á Hrappseyjarprentsmiðju (Steingrímur Jónsson, 1989: 107). Hann stundaði nám við Kaupmannahafnarháskóla og hafði þegar látið prenta nokkrar bækur á íslensku í Kaupmannahöfn þegar ritskoðun var aflétt í Danmörku árið 1770. Hann nýtti sér tækifærið og fékk leyfi til að stofnsetja prentsmiðjuna, þó með þeim skilmálum að Hólaprentsmiðja hefði einkarétt á útgáfu guðsorðabóka (Steingrímur Jónsson, 1989: 106). Í kjölfarið var Hrappseyjarprentsmiðja stofnsett 1773 og voru þar prentaðar nokkrar bækur af veraldlegum toga ásamt tímariti í anda uppfræðslunnar. Enn um sinn var gotneskt prentletur að mestu notað í báðum prentsmiðjunum þrátt fyrir að nægilegt magn latínuleturs hafi verið til í landinu svo setja mætti upp heila bók. Eitt af því fáa sem prentað var með latínuletri í Hrappseyjarprentsmiðju voru fyrstu tölublöð nýja tímaritsins Islandske Maanedstidender sem skráð var á dönsku en fljótlega var snúið frá því og gotnesk letur tekið upp fyrir þau sem á eftir komu (Kristín Bragadóttir, 2012: 12). Í Hrappsey voru einnig prentaðir Annálar Björns á Skarðsá. Þeir voru í tveimur gerðum, önnur bókin eingöngu á íslensku en hin með latneskri þýðingu andspænis íslenska textanum á hverri opnu. Ef bækurnar eru skoðaðar saman má sjá að eintökin eru bæði prentuð árið 1774 og það eintak sem eingöngu er prentað á íslensku er með gotnesku letri en í því sem er með latneska þýðingu á sömu opnu (mynd 13) er íslenski textinn hafður með gotnesku letri en latínan með latínuletri.

45

Gotneskt letur í efri línu og latínuletur í neðri línu, prentað árið 1774 í Hrappsey. Annálar Björns á Skarðsá. (mynd 13)

Það er því ljóst að latínuletur var til en menn hafa kosið að nota nær einungis gotneskt letur á íslenskan texta sem prentaður var hér á landi allt fram um miðja 19. öldina (Þorsteinn Þorsteinsson, 1994: 507). Í lok 18. aldar gengu móðuharðindin yfir landið og höfðu áhrif á mest alla starfsemi, þar á meðal bókagerð. Lægð var hjá báðum prent- smiðjunum, eigendaskipti áttu sér stað og þær sameinaðar að Leirárgörðum í lok aldarinnar undir stjórn Magnúsar Stephensen (1762–1833) (Svanur Jóhannesson, 2014: 17). Lauk þar samfelldri 270 ára sögu íslenskrar bókaútgáfu á vegum kirkjunnar og var allt prentverk landsins þar með komið í hendur félags af veraldlegum toga.

4.2.4 1800–1900 Nokkuð af bókum og fleira efni kom út að undirlagi Landsuppfræðingarfélagsins, þrátt fyrir að prentsmiðjurekstur ætti erfitt uppdráttar í byrjun 19. aldar. Prentsmiðjan var flutt frá Hrappsey til Viðeyjar með óbreyttum rekstri árið 1819 og var stiftsyfirvöldum falið að leita leiða svo að prentsmiðjan gæti svarað þörfum almennings (Prentsögusetur, 2020). Að lokum var prentsmiðjan flutt til Reykjavíkur árið 1844 og fékk þá nafnið Landsprent- smiðjan. Að sögn Þorsteins Þorsteinssonar (1994: 507) þóttu það straumhvörf þegar byrjað var að prenta Tíðindi frá Alþingi Íslendinga með latínuletri árið 1845 og upp frá því jókst notkun þess jafnt og þétt á innlendum texta. Síðasta biblíuútgáfan með gotnesku prentletri kom út árið 1859. Þegar leið á 19. öldina jókst prentað efni jafnt og þétt en Guðrún Ingólfsdóttir bókmenntafræðingur (2011: 33) hefur bent á að þrátt fyrir það ruddu prentaðar bækur handritum enn um sinn ekki alveg úr vegi, því ekki var óalgengt að pólitískar fréttir og slúður væri áfram í handskrifuðum pésum. Sigurður Gylfi Magnússon sagnfræðingur (2004: 141) hefur einnig fjallað um íslenska ritmenningu 19. aldar og telur handritamenningu eiga stærri hlut í sögunni en oft er haldið fram, því mun meiri áhersla hefur verið lögð á að rannsaka hina prentuðu menningu en handrit frá þessum tíma. Sigurður Gylfi (2004: 143)

46 telur að óhætt sé að nefna þá viðbót „prentsmiðju fólksins“, því framlag alþýðumanna sem skráðu jafnt munnmæli og rituðu upp gömul handrit er mun meira en flestir átta sig á. Þróun handskriftar og prentleturs hélst nokkuð jafnt í hendur nú sem áður og mátti sjá þess merki þegar gotneskt prentletur fór að víkja fyrir latnesku prentletri, átti það einnig við um skriftareinkennin. Björn K. Þórólfsson (1948–49: 150) bendir á að um miðja 19. öldina fara menn að leggja niður tegund rithandar sem nefnist fljótaskrift, komin af stofni gotneska letursins og í stað hennar er tekin upp tegund rithandar sem nefnist snarhönd og er í grunninn rithönd hinnar gömlu latnesku léttiskriftar fornmenntamanna með litlum breytingum. Þessi breyting átti sér ákveðinn aðdraganda eins og greina má í tímariti Fjölnis sem birti ónafngreinda grein „Um latínuletur“ árið 1845, þar sem mælst er til þess að allir taki upp latínuletur hvort sem um er að ræða ritað eða prentað letur. Segir þar að vart sé neitt skrifað né prentað „í mest öllum þeim hluta heimsins, er mestri menntun hefur náð“ öðruvísi en með latínuletri en gotneska letrið tíðkist ekki lengur við önnur mál en „þjóðversku“ (ónefndur, 1845: 31–32). Þar kemur einnig fram að gotneska letrið sé ekkert annað en afbakað latínuletur sem fékk á sig gotneska mynd í upphafi prentunar því á þeim tíma var það notað sem skriftarletur en nú hefur latínuletrið aftur náð sér á strik (ónefndur, 1845: 29). Vísar greinarhöfundur líklega til þess að á 12. öld í upphafi ritunartíma á Íslandi var latínuletur viðhaft áður en gotneskt letur tók svo til alfarið við í nokkrar aldir. Með auknu prentfrelsi, fjölgun prentsmiðja og meira leturúrvali mátti einnig sjá aukið úrval af prentuðu efni, jafnvel matreiðslubækur sem eru sérstaklega tileinkaðar kven- þjóðinni. Tvær fyrstu matreiðslubækurnar sem prentaðar voru á Íslandi bera hvor um sig letur síns tíma. Fyrsta bókin í þessum flokki Einfalt matreiðsluvasakver fyrir heldri manna húsfreyjur (mynd 14), kom út árið 1800 með gotnesku letri, líkt og tíðkaðist meðan prentsmiðjan var enn í Viðey. Hin var Ný matreiðslubók ásamt ávísun um litun, þvott o. fl. (mynd 15) sem kom út árið 1858 tæpum sextíu árum síðar, þá sett með latínuletri, þegar prentsmiðjan var staðsett í Reykjavík.

Gotneskt letur, prentað árið 1800 á Leirárgörðum. Einfalt matreiðsluvasakver fyrir heldri manna húsfreyjur. (mynd 14)

47

Latínuletur, prentað árið 1858 í Prentsmiðju Norður- og Austurumdæmisins. Ný matreiðslubók ásamt ávísun um litun, þvott o.fl. (mynd 15)

Þegar notkun latínuleturs fer að taka yfir í prentuðum bókum um miðja 19. öld hafði þróun þess staðið allt frá árinu 1465 eða skömmu eftir að prentun með lausstafaletri hófst í Þýskalandi. Prentun með latínuletri á sér því langa sögu og er rakin til tveggja þýskra klerka sem hófu að prenta með latínuletri í klaustri á Ítalíu. Nokkrar tegundir latínuleturs voru ríkjandi hér sem bókaletur frá miðri 19. öld og fram undir 21. öldina. Þær eiga það sameiginlegt að vera í flokki þverendaleturs (e. serif) sem dregur nafn sitt af þverum endum ofan og neðan við leggi bókstafanna, líkt og letrið sem sjá má á mynd 15. Eftir að latneskt prentletur var almennt tekið í notkun, sagði prentarinn og ritstjórinn Hallbjörn Halldórsson (1948: 81) að leturgerðum hafi fjölgað mikið og þær tekið talsverðum breytingum svo það sé vart hægt að tala um veruleg einkenni hvorrar tegundar um sig og því ekki lengur hjá því komist að tala um ákveðnar leturgerðir. Leturgerðum latneska prentletursins átti eftir að fjölga enn eftir því sem leið á 20. öldina, þar sem hvert letur hefur fengið sitt nafn og leturgerðir skilgreindar í ákveðna flokka sem taka oft mið af aldri leturs, höfundum þeirra eða öðru sem einkennir þau.

4.2.5 1900–2020 Talsverðar breytingar og framfarir höfðu átt sér stað í prentiðnaði á 20. öldinni. Í byrjun aldarinnar var enn verið að nota lausstafaletur sem byggir á því að setja hvern bókstaf fyrir sig í prentmót, líkt og hafði verið gert frá upphafi prentunar á 15. öld. Þessi aðferð gat haft áhrif á leturval, sérstaklega þegar mikið var að gera í prentsmiðjum líkt og Ingi Rúnar Eðvarðsson (1994) nefnir í bókinni Prent eflir mennt. Þar segir hann að stundum hafi vantað upp á einstaka bókstafi eða leturstílar gátu verið slitnir vegna mikillar notkunar, þess vegna var ekki alltaf hægt að nota letur sem óskað var eftir og urðu menn því að velja letur sem var á lausu eða innihélt nægjanlega marga bókstafi (Ingi Rúnar Eðvarðsson, 1994: 55). Ný tækni sem nefnist „linotype“, kom til landsins 1914 og leysti þetta vandamál af hólmi. Hún byggir á vélsetningu lausstafaleturs, að auki var hver textalína steypt í málm og línunum síðan raðað upp á síðu. Þrír kostir þessarar tækni eru nefndir í Prent eflir mennt sem eru umfram þá aðferð að handsetja letur; í fyrsta lagi varð ekki skortur á einstaka stöfum því

48 vélin steypti hverja línu jafnóðum, þannig gat hver bókstafur nýst strax aftur í næstu línu; í öðru lagi slitnaði letrið minna, því það var aðeins notað til að steypa línuna en ekki í prentunina sjálfa líkt og áður; í þriðja lagi jók aðferðin hraða setningar fyrir hverja síðu umtalsvert (Ingi Rúnar Eðvarðsson, 1994: 58). Það eru því óneitanlega nokkrir kostir sem vélsetning leturs hefur umfram handsetningu lausstafaleturs til prentunar. Árið 1886 var gefið fullt prentfrelsi í landinu. Með auknu frelsi til prentunar og leyfi í útgáfumálum fór því prentsmiðjum að fjölga um allt land. Í bók sinni Prentsmiðjueintök; Prentsmiðjusaga Íslands telur Svanur Jóhannesson upp 15 prentsmiðjur sem stofnsettar voru frá því að Landsprentsmiðjan var flutt til Reykjavíkur 1844 til aldamótanna 1900 og að auki 109 prentsmiðjur sem settar voru á laggirnar eftir það til ársins 2006 (Svanur Jóhannesson, 2014). Prentun bóka var ekki lengur helsta verkefni þeirra líkt og áður því tímarit og smærra prentverk varð stór hluti af viðfangsefnum prentara (Ingi Rúnar Eðvarðsson, 1994: 50). Aukinn hraði í prentun bauð upp á meira af prentuðu efni og fjölbreytileiki í efnisvali jókst til muna og hafði Hallbjörn Halldórsson orð á því árið 1943 í grein sinni „Prentlist“ að tilgangur prentunar lægi ekki lengur í því að hlúa að menningar- verðmætum, heldur til að koma helstu áhugamálum almennings sem fyrst til skila og á sem ódýrastan hátt; væri því fremur hugað að „miklum afköstum en vandaðri vinnu“ (Hallbjörn Halldórsson, 1943: 219–220). Það má vera rétt hjá Hallbirni að fjölbreytni í efnistökum og hraður vöxtur prentiðnaðarins hafi skilað misjöfnum gæðum og líklega ekki alltaf hægt að gera eins vel og ætlað var þegar huga þurfti að leturvali eftir því hvað var á lausu, eins og nefnt var hér ofar auk fleiri þátta sem gátu komið niður á prentgæðum. Umtalsverð bylting varð í prentiðnaði þegar ljósmyndatæknin var tekin í notkun í landinu um miðjan sjöunda áratuginn (Ingi Rúnar Eðvarðsson, 1994: 137). Aðferð sem nefnist ljóssetning eða offsetprentun, nýttist helst við prentun myndefnis til að byrja með. Um tíma var því ekki óalgengt að sjá offsetprentaðar svarthvítar- eða litmyndir límdar inn á síður bóka en textann aftur á móti prentaðan með hand- eða vélsettu lausstafaletri. Prentun með lausstafaletri byggist á því að leturflöturinn þrykkist örlítið ofan í pappírinn en offsetprentun skilar prentsvertunni hins vegar á yfirborð pappírsins en sú aðferð varð ekki almenn hér við prentun leturs fyrr en um og eftir 1970. Nýjar aðferðir yfirborðs- prentunar leturs hafa því aðeins verið í notkun á Íslandi í um það bil hálfa öld, á meðan notkun lausstafaleturs var viðhöfð í rúmar fjórar aldir. Þróun tölvutækninnar, samhliða nýjum prentaðferðum, hefur tekið hröðum framförum undanfarin ár og frá miðjum níunda

49 áratugnum fóru tölvur nánast alfarið að taka við allri setningu leturs. Hraðar framfarir með nýjum aðferðum og tækni hafa leitt af sér meiri gæði í efnisvali, betri prentun og auðveldað alla vinnslu með letur og aukið úrval þess til muna.

4.3 Leturgerðir latínuleturs Þrátt fyrir að prentaðar bækur með íslenskum texta megi nær eingöngu finna með gotnesku letri fram um miðja 19. öldina, hafði þróun latínuleturs þegar hafist á Ítalíu um sjöunda áratug 15. aldar eins og fyrr segir. Til að skilja betur þá þróun sem hafði átt sér stað frá þessum tíma til þess er það var tekið í almenna notkun á Íslandi, má sjá í bókarauka Þorsteins Þorsteinssonar Þættir úr letursögu hvernig skipta má latínuletri upp í nokkra megin flokka. Hér verða þeir flokkar nefndir sem helst eru settir í meginmál bóka og eru grunnur að prentleturgerðum sem eru notaðar í dag en eiga sér fyrirmynd allt frá 15. öld. Fyrst ber að nefna flokk leturs sem notaður var á Ítalíu í lok 15. aldar og nefnist feneyingar eða húmanistaletur (mynd 16). Á þeim tíma var á Ítalíu hafin endurreisn fornra fræða og byggðu prentarar letur sín á rithönd húmanista. Þar líktu þeir eftir skrift sem byggði á rómversku hástafaletri og lágstafaletri karlungaskriftar og er í meginatriðum leturgerð sem algengust er á bókum í dag (Þorsteinn Þorsteinsson, 1994: 517). Í bók sinni The Visual History of Type segir grafíski hönnuðurinn Paul McNeil (2017: 21) frá franska gullsmiðnum Nicolas Jenson sem lærði prentun í Þýskalandi áður en hann fór til Ítalíu og teiknaði þar latínuletrið Jenson árið 1470. McNeil segir letur hans hafa markað tímamót í prentsögunni og hefur það enn áhrif á leturhönnun í dag. Jenson setti læsileika í forgrunn þar sem jafnvægi bókstafa og rýmis á síðunni hafði einnig tilgang. Þennan leturflokk má einna helst þekkja á lágstafnum „e“ sem hefur skáhallandi þverstrik í miðju stafsins.

Feneyingar eða húmanistaletur. Letrið Centaur var teiknað 1914 af eldri fyrirmynd þessa flokks. (mynd 16 )

Annar leturflokkur fer að mótast um og upp úr 1500 sem kallast eldri antvíka eða endur- reisnarletur (e. old style). Samkvæmt Þorsteini eru letur frá þessum tíma oft talin einhver bestu bókaletur sem um getur og finnst honum áhugavert að bókaletur sem eru notuð enn í dag eigi sér fyrirmynd frá þessum tíma (Þorsteinn Þorsteinsson, 1994: 512). Þá ber ekki

50 síst að vitna til leturs sem nefnist Garamond (mynd 17) en það hefur verið endurteiknað nokkrum sinnum frá því það var fyrst teiknað til að aðlaga það tækninýjungum og að auki hefur það verið fyrirmynd fjölda annarra leturgerða. Letrið er nefnt eftir Claude Garamond einum af frægustu leturgerðarmönnum sem var uppi á fyrri hluta 16. aldar og þeim fyrsta sem helgaði sig leturframleiðslu en var sjálfur ekki prentari eins og fyrri leturgerðarmenn (Haukur Már Haraldsson, 1992: 23). Það sem aðgreinir þennan leturflokk helst frá húmanistaletri er að lágstafa „e“ hefur lárétt þverstrik en belgir bogalínubókstafa líkt og „o“ hafa enn skriftareinkenni fjaðurpenna með hallandi samhverfuás.

Eldri antíkva eða endurreisnarletur. Ein af endurteiknuðum útgáfum letursins Garamond frá 20 öld. (mynd 17)

Leturflokkur sem nefnist miðlungar eða milli antíkva (e. transitional) (mynd 18), þróaðist á barrokktímanum um miðja 18. öldina þegar letur var farið að taka á sig útlit teiknaðs leturs fremur en skriftar. Fram að þessum tíma hafði handskrift áhrif á form og útlit en letur innan þessa flokks er teiknað út frá skipulagðri uppbyggingu flatarmálsfræðinnar (McNeil, 2017: 73). Letur sem talið er marka upphaf þessa flokks var sérstaklega teiknað fyrir prentsmiðju Loðvíks XIV Frakklandskonung. Það mátti einungis nota í prentsmiðju hans og stranglega bannað að stæla letrið á nokkurn hátt sem stöðvaði þó ekki löngun manna til að teikna nýjar gerðir þess og leiddu til frekari þróunar (Þorsteinn Þorsteinsson, 1994: 524). Að mati Þorsteins (1994: 512) eru letur innan þessa flokks einnig meðal bestu bókaletra. Það sem greinir miðlunga einkum frá leturflokki eldri antíkvu er lóðréttur samhverfuás belg- bókstafa eins og til dæmis í „o“.

Miðlungar eða milliantíkva. Letrið Baskerville. (mynd 18)

Undir lok 18. aldar fór að mótast leturflokkur sem nefnist dídonar eða nýantíkva (e. didone) (mynd 19) og er hann kenndur við franska fjölskyldufyrirtækið Didots sem sá um prentun fyrir frönsku krúnuna (McNeil, 2017: 91). Framfarir í prenttækni og pappírsgerð buðu upp

51 á fínlegri línur og skarpari horn sem er eitt af einkennum flokksins og sjá má í þunnum og fínlegum þverendum sem mynda skörp horn á móti sverum leggjum. Í Evrópu tók leturnotkun mið af fagurfræði og einfaldleika á fyrstu áratugum 19. aldar, líkt og var í fleiri listgreinum. Þorsteinn Þorsteinsson segir að áhrifa iðnbyltingarinnar hafi verið farið að gæta í leturgerð og aukin þörf myndaðist fyrir fjölbreytt letur sem næði athygli manna og gæti nýst í auglýsingaskyni (Þorsteinn Þorsteinsson, 1994: 513). Í kjölfar dídona kom annar leturflokkur fram á sjónarsviðið sem fór að mótast á Englandi snemma á 19. öld og kallast egyptar (e. egyptian) eða iðnaðarletur (mynd 20). Einkenni hans er að lítill sem enginn þykktarmunur er á leggjum og þverendum, það má einnig sjá að belgbókstafir líkt og „o“ hafa sama sverleika allan hringinn og hafa misst öll einkenni rithandar. Þessir tveir flokkar eru ekki mikið notaðir í löngu meginmáli bóka en þeim mun meira í styttri texta og fyrirsögnum bóka líkt og dæmin hér sýna.

Dídonar eða nýantíkva. Letrið Bauer Didon, sambærilegt því sem sjá má í fyrirsögn bókarinnar Pipraðir páfuglar: Matargerðarlist Íslendinga á miðöldum, frá árinu 2007. (mynd 19)

Egyptar eða iðnletur. Letrið Revers Two, sambærilegt því sem sjá má í fyrirsögn þýddu bókarinnar Konungur valsanna um Johann Strauss, frá árinu 1948. (mynd 20)

Önnur afgerandi breyting í gerð bókaleturs mátti einnig sjá á fyrri hluta 19. aldar, þegar gróft prentletur sem dregur fagheiti sitt af því að vera án þverenda (e. sans serif) en er á íslensku yfirleitt nefnt steinskrift. Samkvæmt McNeil var það upphaflega teiknað sem hástafaletur með sverum og miklum leggjum, fyrst og fremst hugsað í fyrirsagnir eða auglýsingar en steinskrift varð ekki almennt bókaletur fyrr en um miðja 20. öldina (McNeil, 2017: 123). Ákveðin bylting í Evrópu á þriðja áratug 20. aldar boðaði notkun á einföldu letri og uppsetningu texta, ekki síst til að auka aðgengi texta og auðvelda lestur. Þjóðverjinn Jan Tschichold hafði mikil áhrif á þær hugmyndir með bók sinni Die Neue Typographie sem kom út árið 1928. Í enskri þýðingu bókarinnar sem kom út árið 1987 segir í inngangi að Tschichold hafi með skrifum sínum boðað nýja hugsun í leturvinnslu, þær hugmyndir voru í samræmi við ný viðhorf sem áttu sér stað innan samfélagsins og byggðust ekki síst á nýjum væntingum og þörfum einstaklinga (Kinross, 1987: xxxv). Tschichold sá fyrir sér nýtt

52 hlutverk bóka og sagði þær komnar í breytta og margskonar notkun sem taka ætti mið af og aðlaga hönnun þeirra að þörfum almennings (Kinross, 1987). Eitt af lykilatriðum nýrrar hönnunar var að hverfa frá notkun þverendaleturs sem hafði verið ríkjandi bókaletur og nota þess í stað steinskrift sem Tschichold sagði einfaldari og læsilegri í löngum texta. Líklega er eitt af þekktari letrum af gerð steinskriftar Helvetica (mynd 21), letur sem var teiknað í Sviss árið 1957 að fyrirmynd eldri gerða. Að sögn Paul McNeil var það fljótlega notað af mörgum hönnuðum módernismans og féll vel að hugmyndum eftirstríðsáranna um skýrleika og nákvæmni. Í dag er það vel þekkt meðal flestra þó það veki núorðið litla eða enga athygli þegar það er notað (McNeil, 2017: 347). Letur sem vekur litla athygli er sá eiginleiki sem menn vildu einnig ná fram þegar þverendaletrið Times New Roman, annað vel þekkt letur, var teiknað um 1930. Letrið var sérstaklega unnið fyrir breska dagblaðið The Times og átti að bera nútímalegt yfirbragð en jafnframt byggja á klassískum gildum. McNeil segir að Times New Roman hafi náð einstakri stöðu sem almennt letur, hvort sem það er í bókum eða öðru efni. Að hans sögn tengist það ekki ákveðnum tíma eða stefnu því það er látlaust og fágað líkt og upphaflega var ætlað (McNeil, 2017: 279). Þetta samræmist því sem Þorsteinn Þorsteinsson hefur bent á varðandi letur sem ætlað er til lesturs á miklu og fjölbreyttu efni þar sem hann segir að letur þurfi ekki aðeins að vera læsilegt, það þarf einnig að „vera ,ósýnilegt‘ ef svo má segja, svo látlaust og ,venjulegt‘ að enginn taki eftir því“ (Þorsteinn Þorsteinsson, 1994: 536). Times New Roman líkt og fleiri gömul og sígild þverendaletur hafa mörg hver verið endurbætt og aðlöguð nýrri tækni og þannig náð að festa sig í sessi sem góð og gild bókaletur. Hér má sjá hvernig tvær matreiðslubækur hafa verið settar upp, annars vegar með steinskriftarletrinu Helvetica (mynd 21) og hins vegar með þverendaletrinu Times New Roman (mynd 22).

Steinskriftarletrið Helvitica, sambærilegt því sem sjá má í uppskriftabókinni Súkkulaði: Það besta frá Nóa- Síríus, frá árinu 2005. (mynd 21)

Kartöflurnar eru soðnar og flysjaðar, settar í pott og stappaðar eða hrærðar í hrærivél.

Þverendaletrið Times New Roman, sambærilegt því sem sjá má í uppskriftabókinni Eldhúshandbókin, frá árinu 1998. (mynd 22)

53 Fjölbreytileiki leturs í meginmáli bóka hefur aukist umtalsvert og á það ekki síst við frá síðari hluta 20. aldar. Þróun og nýjar stefnur með tilkomu tölvunnar í lok aldarinnar urðu til þess að enn jókst gerð nýrra leturgerða sem henta vel sem meginmálsletur, auk fjölda annarra leturgerða sem eru fremur hugsaðar í fyrirsagnir og styttri texta. Nýir straumar frá Evrópu hafa löngum skilað sér í leturnotkun á Íslandi en straumar frá Bandaríkjunum fóru einnig að hafa mikið vægi í lok 20. aldar. Letursagan og áhrif leturs á hverjum tíma fyrir sig er ekki auðlesin, líkt og á við um flest annað sem gerist í samfélaginu, því stefnur og straumar eru ekki alltaf auðsýnilegir þegar samtíminn er skoðaður. Ef litið er aftur og sagan skráð er auðveldara að setja hluti í samhengi, sjá heildarmynd og einkenni hvers tíma. Þrátt fyrir að munur milli leturgerða sé ekki alltaf mikill, má gera ráð fyrir að flestir skynji hann á einhvern hátt. Tæknin hefur ávallt áhrif á útlit leturs en þörfin fyrir nýtt og framandi útlit sem getur skapað tilfinningu fyrir fágun, léttleika, ögrun eða hverju því sem leitað er eftir og virðist halda áhuga og spennu fyrir minnstu breytingum og lagfæringum. Notkun mismunandi leturs, þótt munurinn sé lítill, getur haft mikil áhrif á skynjun, skilning og upplifun lesenda, því leturnotkun getur veitt hverri bók ákveðið yfirbragð sem skilar sér í tilfinningu fyrir aldri bóka og gerð þeirra auk fleiri þátta sem fengist verður við í næsta kafla.

4.4 Samantekt Hér að framan hef ég sýnt fram á að útlit leturs í íslenskum bókum hefur tekið nokkrum breytingum á síðastliðnum þúsund árum. Með samantekt í máli og myndum eru einkenni leturs frá ákveðnum tímabilum gerð skil með letursýnishornum ásamt umfjöllun. Sérkenni og útlit leturs mótast að miklu leiti af tækniframförum og efnisnotkun en ég hef einnig leitast við að varpað ljósi á það hvernig menningarlegar stefnur og straumar hafa haft áhrif á leturnotkun og sett svip sinn á bækur sem einkenna tíðarandann hverju sinni. Sýnishornin gegna mikilvægu hlutverki í að sjá og skilja hvaða breytingar áttu sér stað og hvaða leturtegundir voru ríkjandi á hverjum tíma. Í lok kaflans greindi ég í stuttu máli frá þeim miklu breytingum sem áttu sér stað í leturgerð á 19. og 20. öldinni og fram á þá 21. og hægt er að rekja allt aftur til 16. aldar sunnar í Evrópu. Með umfjöllun og samantekt letursýnishorna hefur hægfara þróun bókaleturs í bókum frá upphafi ritaldar verið gerð skil. Þróunar sem ekki er auðséð nema með stuðningi, samantekt og yfirsýnar yfir tímabilið.

54 5 Skilningur, áhrif og túlkun

Þegar notkun leturs er sett fram í tímaröð, eins og sjá má í kaflanum hér á undan, er auðvelt að átta sig á útlitsbreytingum sem hafa átt sér stað. Þar er fyrst og fremst lögð áhersla á það hvernig letur má finna frá hverjum tíma fyrir sig. Aftur á móti er minni áhersla lögð á það hvers vegna letur tekur nýjum formum og hvaða áhrif það hefur. Framsetning 4. kafla miðast fremur við, líkt og margar samfélagsrannsóknir, að skoða „hvernig“ í stað þess að athuga „hvers vegna“ eins og Orvar Löfgren (2014: 78) hefur bent á og segir að meiri áhersla sé oft lögð á tækni og kunnáttu en á móti er minni áhersla á umræðu og túlkun (Löfgren, 2016: 127). Þessu líku veltir Ellen Lupton fyrir sér í formála bókarinnar Graphic Design Theory: Reading From the Field en þar spyr hún „Hvers vegna fræði?“ (e. Why theory?) og horfir til þess að hönnuðir hafa stundum tekið sér hlé á störfum sínum til að skrifa um fræði grafískrar hönnunar. Hún bendir á að almennt gengur ferill hönnunar út á að spyrja „hvernig?“: Hvernig virka tækin, hvernig leysir maður vandamálin, hvernig vinnur maður með prenturum o.s.frv., á meðan fræðin snúast frekar um að spyrja „hvers vegna?“ (Lupton, 2009: 6). Líklega má setja fram ótal tilgátur sem geta svarað spurningum um breytingar leturs og leturnotkun, þar sem svör og fræðileg sjónarmið geta mótast af samfélagshópum og sjónarhornum rannsakenda, og þar með haft áhrif á umræður, spurningar og niðurstöður rannsókna. Í þessum kafla eru settar fram hugmyndir um skilning og túlkun leturs og hvaða áhrif mismunandi leturnotkun hefur á lesendur. Hér tefli ég fram nokkrum sjónarmiðum til að svara rannsóknarspurningunni sem spyr að hvaða marki og hvernig lesum við í myndmál leturformsins og hvort mismunandi letur hafi áhrif á læsileika, skilning og túlkun textans. Áður en lengra er haldið er rétt að rýna betur í það hvað skilgreinir letur og hvað greinir það frá bókstaf. Helsti munurinn liggur í því að hver bókstafur segir til um ákveðið hljóðtákn á meðan letur segir til um gerð og útlit bókstafanna. Letur er skilgreint út frá gerð þess og formun, hvort það er með eða án þverenda, svert, hallandi eða annað sem gefur því sérkenni og skipar í því flokka, líkt og vikið var að í lok síðasta kafla. Bókstafir skila textanum orðrétt til lesenda en letur getur verið misþægilegt til lesturs og ólík letur geta skapað margvíslegar tilfinningar fyrir textanum sem oft er erfitt að útskýra. Mannfræðingurinn Mary Douglas hefur skoðað hvernig við getum séð hlutina ekki aðeins út frá fræðilegu sjónarmiði, heldur út frá reynslu, upplifun og skilningi fólks (Douglas, 1991: 287). Þannig

55 má einnig sjá letur ekki aðeins út frá hljóðtákni bókstafanna, heldur má einnig skoða það út frá táknmynd og áhrifum sem ólík form þess geta haft. Í þessum kafla er notkun leturs fyrst og fremst sett í samhengi við óskráðar reglur, reynslu og skilning fólks á táknmyndum þess. Kaflanum er skipt í fjóra undirkafla og í þeim horft til þess hvers vegna mismunandi letur er notað á lesefni og hvers vegna breytingar eiga sér stað, hvort sem þær eru smáar, stórar eða endurtekið stef frá fortíðinni. Um það eru settar fram hugmyndir sem vísa í tímann, tækni, læsileika, skilning, fegurð, áhrif, tilfinningar, ögrun og táknmyndir. Í hluta 5.1 er fjallað um breytingar leturs út frá tæknilegum atriðum, tímanum og tíðarandanum. Hluti 5.2 fjallar um læsileika leturs og skilning. Hluti 5.3 fjallar um áhrif og tilfinningar sem við skynjum við ólíka notkun leturs. Fjórði hluti 5.4 fjallar að lokum um táknmynd leturs og hvernig lesa má í fjölbreytilegar leturgerðir. Í kaflanum eru sjónarmið beggja viðmælenda- hópa greind og sett í samhengi við greinar fræðimanna. Til einföldunar var ekki mikið talað um einstaka leturheiti í viðtölum við lesendahópinn en áhersla lögð á fjórar leturgerðir og yfirleitt talað um þverendaletur, steinskrift, handskriftar- eða teiknimyndaletur og gotneskt letur. Þessar fjórar leturgerðir má sjá á mynd 23. Einnig eru textasýnishornin sem stuðst var við í viðtölum við lesendahópinn, í viðauka aftast í ritgerðinni eins og áður segir.

Þverendaletur, steinskrift, handskriftar-eða teiknimyndaletur og gotneskt letur. (mynd 23)

5.1 „Vildi bara spalta og klístur“ / Tæknin og tíðarandinn Þegar litið er til baka og sagan skrifuð er líklega auðveldara að sjá heildarmyndina og átta sig þannig á einkennum hvers tíma. Á sama hátt eru sögulegar breytingar á útliti og notkun leturs sýnilegri þegar frá líður og einnig hvað það er sem hefur áhrif á þær innan sam- félagsins hvort sem það er tæknilegs eðlis, tískustraumar, stefnur eða annað. Nokkuð víst er að tæknibreytingar hafa umtalsverð áhrif á samfélagið og eiga þær einnig stóran þátt í þróun hönnunar og leturvinnslu, hvort sem það snýr að verklegum hliðum eða hugmynda- fræðilegum þáttum líkt og Helen Armstrong (2009: 9) bendir á í inngangi bókar sinnar

56 Graphic Design Theory: Readings From the Field. Þetta er einnig áhugavert að skoða út frá hugmyndum Eric Gill sem hann setur fram í bók sinni An Essay on Typography árið 1931. Að hans mati eru það fyrst og fremst hugmyndir manna sem hafa áhrif á form letursins en ekki verkfærin eða efnið sem eru vissulega áhrifavaldar, hann segir að letur mótist fyrst og fremst af vitund og ásetningi mannsins en verkfærin komi í öðru sæti (Gill, 2013: 25). Ljóst er að tæknin hefur talsverð áhrif á nýjar hugmyndir og útlit, eins og sjá má í síðasta kafla. En hvaða letur þykir best til aflestrar eða skilar textanum á sem skilmerkilegastan hátt, ræðst ekki síður af hefðum, smekk, tíðaranda og fleiru sem getur haft áhrif á þær hugmyndir. Breytingar leturs má vissulega rekja til tækninýjunga en þær má einnig rekja til viðhorfsbreytinga sem eru ekki endilega háðar tæknilegum atriðum. Það mátti til dæmis sjá þegar háir leggir og hornóttir bókstafir gotneska letursins tóku við af mjúkum og ávölum línum latneskra leturtegunda um miðja 13. öldina og gotneskt letur varð ríkjandi um nokkurt skeið áður en latneska letrið sem þekkist best á bókum í dag var aftur tekið upp á 19. öld. Þetta er þróun sem getur verið erfitt að átta sig á eins og heyra mátti þegar viðmælendur lesendahópsins sáu sýnishorn leturs úr tveimur handritum, annars vegar frá 12. öld með karlungaskrift (latínuletur) og hins vegar frá 14. öld með gotneskri skrift. Viðmælendur lesendahópsins voru öll á einu máli og sögðu karlungaskrift læsilegri og líkari því letri sem notað er í dag og drógu því flest þá ályktun að 14. aldar handritið með gotnesku skriftinni væri eldra. Guðrún er líklega sú eina úr lesendahópnum sem var meðvituð um að handritið með karlungaskriftinni er eldra. Hún starfar sem blaðamaður og hafði verið í áfanga þar sem fjallað var um handritin þegar hún stundaði nám í íslensku við Háskóla Íslands fyrir nokkrum árum. Guðrún er þó meðvituð um að margir telji að handritið með gotnesku skriftinni sé eldra og telur það stafa af því að við sjáum frekar 13. og 14. aldar handrit með gotneskri skrift, þegar verið er að sýna gömlu handritin opinberlega en minna er sýnt af 11. og 12. aldar handritum með karlungaskrift. Þess vegna er ekki ólíklegt að flestir kannist frekar við gotnesku skriftina úr fornbókum því það er sýnilegra og vekur fremur athygli (SigS_2019_6). Það má einnig vera að minni sýnileiki handrita frá 11. og 12. öld orsakist af því að fá handrit eru til frá þessum tíma og eru þau yfirleitt ekki eins vegleg og glæsileg og handritin frá 13. og 14. öld. Það er heldur ekki óeðlilegt að ætla að karlungaskrift sé yngri en gotneska skriftin, vegna þess að karlungaskriftin (latínuletrið) er

57 ekki eins frábrugðið því letri sem við þekkjum í dag og því hljóti letur sem er framandi og ólæsilegra að vera eldra. Þrátt fyrir að letur séu stöðugt að breytast eru þau endurtekin form sem eru sífellt endurteiknuð og endurmótuð og að lokum felld innan ákveðinna leturgerða og heita. Þau má skilgreina sem steinskrift eða þverendaletur auk ótal stærri og minni blæbrigða sem skila sér í vinnslu og endursköpun forma sem aðgreina þau og gefa letri ákveðna tilfinningu og skilning. Þessi atriði stjórnast fyrst og fremst af hugviti manna (sbr. Gill, 2013: 25) en kemur einnig fram í þeim aðferðum sem beitt er við leturvinnslu á hverjum tíma, hvort sem letur er teiknað og skorið í höndunum eða teiknað og unnið í tölvu. Jafnvel þó verið sé að vinna letur undir sömu nöfnum, geta þau þróast og tekið á sig nýjan blæ vegna tækni- framfara sem hafa það að markmiði að bæta útlit og gæði. Þetta geta verið lítil atriði sem setja ákveðinn svip á letur þó þau séu ekki auðsjáanleg hverjum sem er eins og Stefán (SigS_2018_3) viðmælandi úr hópi hönnuða talaði um og sagði að jafnvel þó letur hafi sama heiti, geti verið gríðarlegur munur á þeim. Hann segist vera „mikill fíkill í letur“ og þá fer maður jafnvel að „skoða mismunandi skurð á Garamond, hvort þetta er Adobe Garamond eða Linotype Garamond“. Þannig vísar hann til framleiðanda leturs sem eru nokkuð margir í dag og segir að þessi atriði eigi ekki síst við um endurteiknuð klassísk letur sem komu upphaflega á markað á fyrri hluta síðustu aldar. Öll vinnsla getur sett svip sinn á letur og benti Stefán á að í dag koma út svokallaðar „Pro útgáfur“ sem eru unnar í þróuðu tölvukerfi. Það hafi þó ekki átt við í upphafi þegar farið var að vinna prentverk með stafrænum leturútgáfum því þá voru hvorki tölvurnar né letrið í þeim nógu gott fyrir prentvinnslu rifjaði hann upp og sagði frá fyrstu reynslu sinni af hönnun í tölvu.

Fyrstu digital útgáfurnar af þessum letrum voru alveg agalegar, þú veist alveg agalegar og þegar ég gerði einmitt fyrst fréttabréf fyrir Leikfélag Hafnafjarðar í Macintosh tvö, í PatchMaker 1, held ég, og félagi minn sko, þetta á aldrei eftir að, þetta er ömurlegt því ég vildi bara spalta og klístur, mér fannst það bara miklu miklu, bara þessi tölva á aldrei eftir að gera neitt, það er þarna íhaldspúkinn í mér. (SigS_2018_3)

Við tökum tækninni ekki alltaf fagnandi, því það getur orðið ákveðin afturför þegar nýjar aðferðir og tæki eru tekin í notkun. Stefán sagði að ef hægt sé að tala um afturför þegar farið var að vinna letur í tölvum til að byrja með, megi segja að ótrúlegar framfarir hafi átt sér stað síðan þá og fólk náð nokkuð góðum tökum á vinnslunni.

58 Þetta skilar sér ekki aðeins í letrinu sjálfu sem eru oft örlitlar útlitsbreytingar, þetta skynjum við einnig í allri umgjörð letursins, í stafabili, pappírsáferð, blekmagni og fleiru. ... tölvurnar eru svo óforskammaðar og svo rosalega réttar líka, þannig að það er svona sko að þú þarf eiginlega pínulítið að hafa fyrir því að setja hluti ekki rétt ... reglustikan er svo ógurlega þægileg, þannig að hérna [hann hlær] og hlutirnir hafa náttúrulega um leið orðið dálítið svona pínulítið vélrænir. (SigS_2018_3)

Það má segja að talsvert vald hafi náðst á leturvinnslu með tölvutækninni en ákveðin fullkomnun getur einnig leitt til vélrænna og stundum óáhugaverðra hluta líkt og Stefán benti á. En það má einnig tala um vélræna framsetningu á fyrri hluta síðustu aldar þegar megin listastefnur í Evrópu byggðust á einfaldleika og skýrum línum hvort sem um var að ræða arkitektúr stórra bygginga eða smáar einingar líkt og letur. Gill sem allt í senn var myndhöggvari, prentmyndasmiður (e. printmaker) og leturhönnuður, sagði að skrautlegt letur þyrfti að forðast, ekki síður en skrautlegar byggingar í iðnvæddu samfélagi og taldi það verkefni hönnuða að vinna með letur sem hentaði vélvæddum heimi (Gill, 2013: 13– 14). Hann sagði að það væri þó ekki vegna þess að okkur líkaði ekki skraut, heldur af þeirri ástæðu að tæki iðnaðarins og hraði réði ekki vel við skraut og flúr á þessum tíma (Gill, 2013: 12). Á þann hátt geta straumar og stefnur tekið mið af því sem tæknin hefur fram að færa og einnig af takmörkunum hennar. Aftur á móti getur hugvit og vald hönnuðar raungerst í því sýnilega með leturvali ef hann hefur verklegan skilning og nýtir hann til framsetningar (sbr. Bourdieu, 2007: 47). Það má sjá í einföldun leturforma sem vinna með því sem tæknin hefur fram að færa (sbr. Gill, 2013: 13–14) eða líkt og Stefán benti á þegar hlutir verða of fullkomnir viljum við stundum bakka og hverfa aftur til gömlu tímanna og fá tilfinningu fyrir ófullkomleika eða meiri mýkt í tilveruna. Með nýjum aðferðum og nýrri tækni hver svo sem hún er, getur vinnsla tekið ákveðið skref aftur á bak. Eins og sjá mátti á tíunda áratug síðustu aldar þegar tölvunotkun fór að taka við í grafískri hönnun. Finnur sem einnig er viðmælandi úr hópi hönnuða, minntist líka á upphafstíma tölvunnar og sagði það ekki nóg að hafa tölvu þegar unnið er með letur, því það skipti máli hvað er í henni og hvað hún getur. Vinnsluhraði þeirra hefur aukist gífurlega og um leið framleiðsla en aukið úrval leturs þarf ekki alltaf að vera til bóta (SigS_2019_10). Hann sagði að:

Þegar stafræna byltingin hefst þá missa menn sig alveg í að búa til letur, þú veist maður er að búa til letur og bara enga stund en síðan situr maður uppi með þú veist, 90 prósent af því er drasl, ólæsilegt drasl, það er kannski að batna núna undanfarin ár, áratug, vegna þess að tölvutækninni hefur farið svo hratt fram og þá er ég kannski

59 sérstaklega að tala um gæði á skjá, það sem hefur færst í aukana núna og þetta, hraðinn bæði varðandi að þróa fíngerða skjái og síðan náttúrulega sjálfar tölvurnar til þess að koma gögnunum á skjáinn að þetta high retina dæmi, núna skiptir engu máli þú veist hversu kúrfaðir fontarnir eru hannaðir þeir eru alltaf jafn skýrir, þannig að það er náttúrulega ævintýralegt. (SigS_2019_10)

Tölvutæknin hefur vissulega mikil áhrif á vinnslu og framsetningu leturs en hugmyndir og ætlanir hönnuðarins hafa þó ekki síður áhrif á útlit og notkun þess (sbr. Gill, 2013: 25). Við erum alltaf að prófa okkur áfram benti Stefán á, það er „hluti af ferlinu að læra“, þannig má segja að náminu ljúki aldrei þó maður „útskrifist úr einhverjum skóla“ (SigS_2018_3). Hann sagði að á námsárunum í Myndlista- og handíðaskóla Íslands hafi hann lært ákveðna stefnu í leturnotkun sem kom frá Bandaríkjunum, þar sem smekkur kennarans hafði gríðarleg áhrif á nemendur: „Svo einhvern veginn tekur við svona mótþrói þegar maður er orðinn örlítið eldri“. Hann fór að fylgja ákveðnum tískustraumum og taka inn hluti sem komu úr „snemm-digital bylgjunni“ og því sem var að gerast í Bretlandi um 1990. Þar heillaðist hann af hönnuði sem kom úr „einhverri pönksenu“ eins og hann sagði. Kantaða tímabilið tók síðan við og hann kolféll fyrir „bitmap hugsuninni“ (SigS_2018_3). Hann hefur alla tíð fylgst vel með því sem er að gerast í leturheiminum og er tilbúinn að taka við stefnum úr ólíkum áttum, þróa sig áfram og óhræddur að láta eitt taka við af öðru. Hildigunnur, annar viðmælandi úr hópi hönnuða, stundaði nám í Hollandi. Hún sagðist ekki hafa fundið eins mikið frjálsræði þar eins og hún þekkir frá Íslandi því í Hollandi var allt sem sneri að leturvinnslu mun „rótgrónara heldur en hér hjá okkur“ og nemendur þar voru í „fastari skorðum fyrir vikið“. Hún sagði Hollendinga „eiga miklu eldri hefð fyrir öllu þessu en við“.

Við bara gleypum allt einhvern veginn þannig séð, verðum fyrir áhrifum allsstaðar frá sem er líka ofsalegur kostur, já þú ert ekki með neinn bagga á bakinu, þú bara einhvern veginn, já þetta er bara svolítið áhugavert. ... Já eitthvað bara svona þú nálgast hlutina ekki með svona á klafa einhvers, einhverra hefða. (SigS_2018_2)

Það mátti þó greina ákveðna togstreitu hjá henni milli þess að fylgja viðurkenndum hefðum eða geta leyft sér að nálgast hlutina út frá nýjum og ólíkum áttum. Hvort við fylgjum hefðinni eða erum tilbúin að tileinka okkur allt það nýjasta fjallar Pertti Anttonen um í bók sinni Tradition through Modernity. Þar skoðar hann andstæðuhugtök sem vísa annars vegar til hefða og hins vegar til nútímaviðhorfa og bendir á að hefðbundið sé yfirleitt skilgreint sem afturhaldssemi og löngun eftir eilífum óbreytileika, á meðan nútímavæðing

60 leiðir af sér framför með stöðugum nýjungum og nýrri tækni (Anttonen, 2005: 40). Hildigunnur sér kosti og galla beggja hugmynda sem felast í öruggum og rótgrónum hugsunum Hollendinga á móti stefnulausu frelsi sem hún þekkir frá Íslandi og nýtur þess að hafa kynnst báðum viðhorfunum. Það mátti líka greina ákveðna togstreitu milli þess hefðbundna og nýrra strauma hjá Soffíu, viðmælanda úr hópi hönnuða. Hún hefur unnið með handskriftina (e. calligraphy) samhliða grafískri hönnun hátt í 40 ár. Soffía veit ekki alltaf hvar hún á að staðsetja sína vinnu og telur sig á einhvern hátt vera föst í hefðinni því hún vinnur mikið með það sem telst vera klassískt. Anttonen (2005: 40) bendir aftur á móti á að við getum verið föst í sjálfsgagnrýni vegna mikilla nýjunga og breytinga í samfélaginu og segir að hefðin fjalli ekki síður um nútímann vegna þess að í hvert sinn sem við notum hið hefðbundna erum við að staðsetja okkur í nútímanum og þá um leið að nútímavæða. Líkt og heyra mátti hjá Soffíu sem segist ekki vilja dragast aftur úr og verða gamaldags. Hún er meðvituð um að tíðar- andi og tíska er í öllu og sagði: „það er líka tíska í letri og það er eiginlega tíska í calligraphiu líka“. Hún nýtur góðs af áralangri reynslu en fylgist með bæði af miklum áhuga og til að ögra sér og er því stöðugt að finna sér ný letur sem eru aðgengileg í tölvum í dag og sagði:

Það er upp á töffheitin, vera inn og detta ekki út, svona fornaldar, einhvern veginn þannig, það skiptir máli líka. Mér finnst gaman að unga fólkinu og þessu töff dæmi sem þau gera með týpur og letur ... og stundum verð ég svona hálf öfundsjúk, ,ó af hverju gerði ég ekki svona´ eða ég segi það ekki, en verð svona þú veist, ég eflist við það skilurðu, einhvern veginn þannig. (SigS_2018_1)

Hún benti á að þó hún vinni á klassískum nótum þá sé hún líka nýjungagjörn og það skiptir hana máli að vita hvað aðrir eru að gera (SigS_2018_1). Þannig nær hún að vera í stöðugri endurnýjun þrátt fyrir að vinna á hefðbundnum nótum. Það virðist stöðugt bætast við af nýjum leturgerðum og fjöldi nýrra leturhönnuða hafa bæst í hópinn. Stefán segir að núorðið sé um að ræða val á „tugum þúsunda ef ekki hundruð þúsunda leturgerða“ sem eru aðgengilegar í dag og það „koma stöðugt ný letur á markað sem eru stef við einhver gömul“ eða „stef við eitthvað sem búið er að gera“ (SigS_2018_3). Þær eru ekki aðeins aðgengilegar innan raða hönnuða því tölvur eru einnig nokkuð algengar meðal almennings og í þeim ógrynnin öll af vefsíðum með fréttaveitum og allskyns afþreyingu auk ritvinnsluforrita sem bjóða upp á fjöldann allan af letrum.

61 Meðal viðmælenda lesendahópsins mátti heyra ýmsar skoðanir varðandi aukið leturframboð og fjölbreytni í notkun. Þeirra á meðal telur Ingólfur (SigS_2019_5) að fjölbreytileiki leturs feli í sér ákveðna þörf til að aðgreina sig eða textann á einhvern hátt. Því til stuðnings spurði hann „af hverju eru þeir með fullt af litum á bílum, af hverju eru ekki allir á rauðum?“ og benti á að það væri væntanlega hagkvæmara í framleiðslu ef allir bílar væru eins á litinn. Hann sagði að það þurfi þó ekki að vera eitthvað náttúrulögmál á bak við það að sum letur eigi betur við en önnur, þetta þróast á einhvern hátt og við förum að tengja saman sérstök „element“ við ákveðin atriði (SigS_2019_5). Kjartan er annar viðmælandi úr lesendahópnum og sagði að leturúrval hafi ekki verið svona mikið hér áður fyrr en í dag er boðið upp á nánast hvað sem er. Honum finnst þó mikilvægt að „setja rétt letur á réttan stað“ og sér ekki alltaf tilganginn í því þegar verið er að leika sér með letur (SigS_2019_4). Þessu voru flestir viðmælendur lesendahópsins sammála en áttuðu sig á notkunarmöguleikum sem ólík leturnotkun getur boðið upp á, þó það geti verið snúið að átta sig á því hvenær hvaða letur hentar best. Þrátt fyrir að læsileiki leturs sé líklega einn af lykilþáttunum þegar letur er valið í bækur hafa hugmyndir og smekkur fólks ekki síður en tæknilegar framfarir áhrif á leturval hverju sinni. Tíðarandinn og fagurfræðileg viðhorf virðast þannig ekki síður móta afstöðu fólks en það mikla úrval sem stafræna byltingin hefur leitt af sér. Það má því spyrja sig hvenær rétt letur er á réttum stað og hver ástæðan er fyrir fjölbreyttri leturnotkun, þegar hún er ekki endilega í þeim tilgangi að auðvelda lestur?

5.2 „Flóknara og flúraðra“ / Læsileiki og skilningur Það er ekki mikil merking í einu hljóði innan tungumálsins nema hljóðin sem á undan og á eftir koma hafi einnig merkingu, þannig byggjast tungumál upp á fleiri en einu hljóðtákni og mynda sameiginlega ákveðinn skilning, segir í greinasafni málvísindamannsins Ferdinand de Saussure (1986: 120). Á sama hátt er ekki mikil merking í einum bókstaf fyrr en fleiri eru settir saman eftir ákveðnum reglum. Þannig myndast merkingarbær orð og setningar því hver og einn bókstafur stendur fyrir ákveðið hljóðtákn sem við lærum að lesa í og skilja (Ong, 2002: 81). Hver bókstafur getur þó verið settur fram með ólíkum hætti með mismunandi leturnotkun. Það má því ætla að best sé að lesa með letri sem fólk þekkir vel, því þegar það lærir að lesa venst það ákveðnum leturformum sem verða þeim þjál og

62 auðskiljanleg. Eins og áður hefur verið vikið að má því segja að fjölbreytileiki leturforma geti falið í sér ákveðna hindrun fyrir lesendur sem skilar ólíkri upplifun. Í þessum hluta er horft til þess hvers vegna letur bóka er ekki alltaf haft á sama hátt til að auðvelda lestur og hvort mismunandi leturnotkun gefi þá textanum ólíkar merkingar. Í bók sinni Alphabetical: How Every Letter Tells a Story, bendir Michael Rosen (2015) á að rekja má margar ástæður til þess að stafróf taka breytingum. Megin ástæðuna telur hann vera þá að við sjálf breytumst, það geti verið af völdum búferlaflutninga, stríðsástands, nýrrar tækni, vinnu, tómstunda, ríkisstjórna, menntunar og margs fleira (Rosen, 2015: 8). Þetta getur einnig átt við um útlitsbreytingar leturs sem einnig má setja í samhengi við samfélagsbreytingar og rekja til tæknibreytinga, samskipta, nýrra viðhorfa, yfirvalda o.s.frv. sem síðan hefur áhrif á það hvernig leturformin þróast samhliða tækni, verkfærum, hvað telst viðeigandi eða heppilegt til lesturs svo eitthvað sé nefnt. Ef það er enginn vafi á því að bókstaf sé ætlað að vísa með skýrum hætti í hljóðtákn sitt, má einnig gera ráð fyrir, eins og Jan Tschichold (1987) skrifar í bók sinni Die Neue Typographie frá 1928, að texta sé ætlað að setja fram hrein og klár skilaboð til lesandans og því sé mikilvægt að prentun og framsetning hafi sem minnst áhrif á innihald textans. Tschichold segir að tilgangur leturs sé að senda skilaboð um merkingu orða án þess að hafa áhrif á textainnihaldið með afgerandi eða skrautlegum leturtegundum. Hann telur því mikilvægt að sá sem vinnur með letur (e. the typograpgher) þurfi að hafa í huga hvernig textinn verður lesinn og hvort það sé í samræmi við það hvernig textinn ætti að vera lesinn að hans mati (Tschichold, 1987: 67). Beatrice Warde (1900–1969) var á sínum tíma ein af fáum konum sem var lærð í prentiðnaði. Hún skrifaði einnig talsvert um leturvinnslu og hélt fjölda fyrirlestra sem höfðuðu til prentara, setjara, kennara og nemenda. Í grein sinni „The crystal boblet, or why printing should be invisible“ skrifar hún um leturnotkun í bókum. Hún eins og fleiri áhrifavaldar á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar, bentu á að einna mikilvægast væri að nota letur á sem hlutlausastan máta og brýnt sé að vinna texta á þann hátt að letrið verði „gegnsætt“ eða „ósýnilegt“. Þannig fer athygli lesandans ekki á letrið sjálft heldur beinist að innihaldi textans (Warde, 2009: 42). Með hugmyndir um hrein og klár skilaboð til lesandans er áhugavert að skoða hvenær letur hefur ekki áhrif á texta og hvenær það getur talist ósýnilegt. Samkvæmt Bourdieu má ætla að það sé háð því sem fólk lærir og aðlagast, því ómeðvitaðar hugsanir og skynjun einstaklinga mótast af félagslegum aðstæðum og því umhverfi sem það lifir í (Davíð Kristjánsson, 2007: 8). Á þann

63 hátt ætti leturupplifun einnig að mótast af því sem lesendur læra og venjast á að nota og verður því letur sem þeir þekkja best það letur sem telst venjulegt og ósýnilegt. Því má ætla að meta þurfi félagslegar aðstæður og við hvaða skilyrði textinn verður lesinn með tilliti til lesenda og hvernig þeir koma til með að meðtaka skilaboðin sem gefin eru í hvert skipti sem letur er valið, ef það á að verða gegnsætt eða ósýnilegt. Stór þáttur í hönnun og uppsetningu bóka ræðst að miklu leiti af leturnotkun en það er þó ekki ein ákveðin regla sem gildir um notkun þess á hverjum tíma. Margir þættir geta haft áhrif á það hvaða telst vera góður, læsilegur texti og hvernig uppsetning hans ætti að vera hverju sinni og getur letur, stærð og uppsetning þess haft talsverð áhrif á lesandann og hvaða tilfinningu hann fær fyrir textainnihaldinu. Stefán, einn af viðmælendum grafískra hönnuða, sagðist hafa mikinn áhuga á letri og hvernig setja megi breytingar og þróun þess í sögulegt samhengi. Hann bendir á að það séu „ýmsar kenningar um það hvað er læsilegt“ og segir að hönnuðir þurfi að hafa einhverja hugmynd um það hvernig efnið verður notað, það sé því nauðsynlegt að átta sig á þeim forsendum sem liggi fyrir (SigS_2018_3). Þar vísar hann til þess að læsileiki textans geti farið eftir því hver lesendahópurinn er og við hvaða aðstæður hann les tilteknar bækur. Þess vegna þarf að taka mið af væntanlegum lesendum þegar letur er valið, hvort það eru börn, unglingar, ferðamenn eða aðrir lesendahópar. Þetta er í samræmi við það sem Tschichold (1987: 67) benti á þegar hann sagði að textinn þurfi ekki aðeins að vera skýr og einfaldur því á sama tíma sé mikilvægt að hafa í huga hvernig hann verði lesinn. Finnur (SigS_2019_10), sem hefur lengi unnið við grafíska hönnun, sagði að bókin þurfi jafnframt að henta þeim aðstæðum sem henni eru ætlaðar og sagði „það eru náttúrulega alveg óheyrilega margir þættir sem koma inn í þessi mál í dag“, til að mynda er mikið talað um umhverfismál í þessu samhengi. Jafnvel þau hafa áhrif á leturval, því stundum getur verið mikilvægt að koma eins miklu efni og mögulegt er á eina síðu til að minnka prentflötinn og þar með pappír og blek. Það sama á við þegar fólk vill taka með sér bók í ferðalag, svo sem í flugvél, þá getur einnig átt við að hafa smærra letur og þéttara svo bókin verði minni og léttari sem getur þá komið niður á læsileika bókarinnar:

Pocket-bækur, þykkar doðrantsögur, þú kaupir þetta í Leifsstöð og þú ætlar að lesa á leiðinni út, þarna er troðið einhverjum 400 blaðsíðum þú veist tonn af milljónum lesefnum og einhvers staðar kemur þetta niður á gæðunum, er það prentið sjálft, er það lestrarhæfnin, maður gefst upp eftir 50 síður. (SigS_2019_10)

64 Með smáu letri í minni bókum er verið að koma til móts við þarfir neytanda. Það getur þó verið vandasamt að ganga ekki of langt þrátt fyrir vilja til að koma til móts við margvíslegar þarfir ólíkra hópa sem birtist stundum í því að vinsælar bækur eru gefnar út í nokkrum útgáfum með fjölbreyttar þarfir lesenda í huga. Viðmælendur innan lesendahópsins voru öll á einu máli um mikilvægi þess að hafa bókaletur skýrt og læsilegt. Þau voru einnig sammála um að stórt letur geti auðveldað lestur en þeim fannst það aftur á móti ekki hæfa alvarlegri bókmenntum, því bók með stóru letri yrði ekki tekin alvarlega. Áslaug, sem er komin á áttræðisaldur, segir þó að henni finnist gott að hafa stórt letur því með árunum hefur sjónin versnað en hún veit að það eru ekki margar bækur við hennar smekk með stóru letri (SigS_2019_7). Það getur þó verið ólík afstaða og viðhorf gagnvart því hvernig líta skuli á gæði og tilgang menningar sem getur falist í því hvaðan við öðlumst þekkingu og menningarlæsi (Bourdieu, 2007: 35). Þannig geta stærð og gerð leturs verið skilið og túlkað á mismunandi hátt líkt og heyra mátti hjá Helga sem er um það bil fimmtíu árum yngri en Áslaug. Hann talaði aftur á móti um að stórt letur henti yngri lesendum en benti jafnframt á að það hafi kannski ekki alltaf átt við því letrið í lestrarbókum fyrir byrjendur sé í svipaðri stærð og í gömlu handritunum en það sé nokkuð ljóst að handritin hafa verið fyrir „menntamenn eða konur sem hafa verið að stúdera þetta“ á sínum tíma (SigS_2019_3). Ekki voru heldur allir á sama máli um það hvers konar letur er þægilegast og henti best við almennan lestur og mátti heyra að ýmsar ástæður liggja þar að baki. Sumir töldu flæði textans betra ef þverendaletur er notað og þá einkum í löngum texta, á meðan aðrir töldu steinskrift mun einfaldara form sem geri lestur þægilegri og skilvirkari. Guðrún nefndi að hún sé vön að lesa bækur með þverendaletri og tekur það fram yfir ef hún hefur val (SigS_2019_6). Helgi Þorgils var á sama máli og telur auðveldara að lesa þverendaletur sem hann segir líklega hugsað „til þess að lesturinn renni betur“. Honum finnst þó steinskrift einfaldari og fallegri (SigS_2919_8). Sigrún sem hefur nýlega lokið námi við Háskóla Íslands sagðist einnig kjósa þverendaletur ef hún les skáldsögur en hún er þó farin að venjast steinskrift í lengri texta eftir skólagönguna því þá skilaði hún flestum verkefnum með steinskrift (SigS_2019_ 11). Það að Sigrún kjósi fremur þverendaletur en notaði samt sem áður steinskrift fyrir verkefnaskil er vegna þess að samhæft letur er í sniðmáti fyrir lokaskil verkefna í Háskóla Íslands. Þar er óskað eftir steinskriftinni Calibri en fram til ársins 2013 hafði það verið þverendaletrið Times New Roman. Árið sem það breyttist var ég sjálf að

65 ljúka BA námi og umgekkst nemendur sem voru einnig að ljúka sínu námi. Innan hópsins sem og utan hans mynduðust umræður um þessa breytingu og kom í ljós að ekki voru allir á sama máli. Hafði fólk skoðun á því hvort letrið er læsilegra en ekki síður á því hvort letrið væri fallegra eða hvort þeirra ætti betur við verkefni á þessu menntastigi. Umræða um notkun leturs og hvaða letur á best við er þó ekki nýtilkomin eins og sjá má í skrifum greinarinnar „Um latínuletur“ sem birtist í Fjölni árið 1845. Ritið kom út ári eftir að eina prentsmiðjan sem starfandi var í landinu var flutt úr Viðey til Reykjavíkur og notkun latínuleturs í íslensku lesefni jókst á kostnað gotneska prentletursins. Ónefndur greinarhöfundur Fjölnis fannst að taka ætti latínuletur alfarið upp því það væri mun læsilegra og sagði það „illa til fallið, að hafa tvö letrin í prenti, og verða svo að læra tvisvar að lesa“ (ónefndur, 1845: 29). Hann furðaði sig einnig á því að börnum skyldi enn vera kennt að „rita þrjár hendur: fljótaskrift, settletur og latínuhönd“ (ónefndur, 1845: 28) og vonaðist til þess að það breyttist fljótt því honum fannst nóg að börnum sé einungis kennd latínuskrift og skrifaði:

Það væri betur að svo væri; því mjer finnast þessi þrjú letur vera eins og þrír tígulkóngarnir í sömu spilunum og ekki til annars, enn trafala og tímaspillis. Það er sagt um djöfulinn, að hann hafi brugðið sjer í kóngulóarlíki og verið að vefjast fyrir pennanum hjá Marteini Luther. Hafi nú djeskotinn þorað til við Luther, þá má geta nærri, að hann muni stundum verða oss nærgöngull, smámennunum; því hann tekur það eptir guði, að vera hvergi fjarlægur sínum skepnum. Þessir fljótaskriptarstafir eru ekki ósvipaðir kóngulóm í vaxtarlaginu. (ónefndur, 1845: 28)

Greinarhöfundur furðaði sig á að gotneska letrið væri enn notað og til stuðnings því að latínuletur ætti fremur að nota vitnar hann í nokkur atriði úr Lestrarkveri handa heldri manna börnum (1830) samið af danska málvísindamanninum Rasmusi Rask (1787–1832) og prentað var að tilhlutan Hins íslenzka bókmenntafélags árið 1830. Úr lestrarkverinu nefnir hann meðal annars að latneska letrið sé fegurra en það gotneska sem reyni meira á augun við lestur vegna horna, króka og anga þess. Gotneska letrið sé jafnvel svo slæmt að læknar segja að þeir sem fáist við fjölbreytt og brotin letur sé hættara við augnveiki. Auk þess er latínuletur fremur notað í þeim heimshluta þar sem mest er menntun, eins og áður er vitnað til í 4. kafla (ónefndur, 1845: 29–30). Þarna nefnir hann nokkur atriði til stuðnings því að latínuletur sé fremur notað en gotneskt letur og setur það í samhengi við læsileika, útlit og menningarstig.

66 Greinarhöfundur setur þarna ákveðin tengsl milli notkunar leturtegunda og stétta- skiptingar eða menntunar. Það á ekki aðeins við þegar hann talar um leturnotkun milli heimshluta því hann setur einnig fram dæmi um tvo menn hér á landi sem hafa „varið jafn miklum tíma til að verða skrifandi“ og segir um þá:

Annar kann ekki nema latínuhönd, en skrifar hana ágæta vel, þó hann hafi alizt upp í sveit, og heiti ekki nema Halldór Sverrisson; en hinn skrifar þrjár hendur og allar illa, þó hann hafi alizt upp í kaupstað og heiti Jón — eða rjettara að segja: John — Anskotesen. Það er hvers girnd sem hann gerir; en heldur vildi jeg vera líkur Halldóri mínum. (ónefndur, 1845: 2)

Hér má greina nokkra kaldhæðni hjá greinarhöfundi sem vísar til ólíkra væntinga og mismunandi vægi menntunar eftir búsetu og stétt, þegar hann setur kunnáttu og notkun leturs í samhengi við menningarleg gæði. Eins og Bourdieu bendir á þá er allt menningar- legt atferli nátengt menntunarstigi, því áhugi og álit á bókmenntum, myndlist og tónlist getur verið í beinum tengslum við félagslegan uppruna og stéttarstöðu. Hann segir að líta megi á menningarþarfir sem afurð uppeldis og menntunar, andstætt „hugmyndafræði persónutöfra“ þar sem litið er svo á að smekkur fyrir viðurkenndri menningu felist í náttúrugáfu (Bourdieu, 2007: 34). Hvernig smekkur á letri mótast óháð hugmyndum um læsileika getur verið háð fyrir fram gefnum hugmyndum um leturnotkun sem við setjum í samhengi við misjafnlega metnar bókmenntir. Því má ætla að leturnotkun geti mótað viðhorf lesenda til lesefnisins og hvernig þeir meðtaka skilaboð textans út frá útliti, gerð og stærð leturs. Flestir viðmælendur lesendahópsins áttuðu sig fljótt á því um hvers konar bækur var að ræða út frá letrinu og uppsetningu textans þegar þau sáu letursýnishornin, þrátt fyrir að þau væru aðeins á hvítum ljósritunarpappír (sýnishornin má sjá í viðauka). Það má því segja að það séu óskráðar reglur eða hefð fyrir því hvers konar letur og uppsetning á við um ákveðna bókmenntaflokka. Þegar letur var stórt með góðu línubili skipti þó ekki máli hvort notað var þverendaletur eða steinskrift, viðmælendur töldu báðar gerðir klassískar og henta vel í lestrarbækur fyrir byrjendur. Stórt letur og gott línubil var samt ekki alltaf nóg með tilliti til læsileika textans fyrir börn. Þegar gotneskt eða handskriftar prentletur var sett í sömu stærð og uppsetningu var skilningur á efninu ekki sá sami, því þá fannst viðmælendum textinn geta innihaldið efni sem ætlað væri unglingum og tengdu letrið ekki lengur við barnabækur þrátt fyrir stærðina. Viðmælendur sögðust þó ekki vera vanir texta

67 sem settur er með gotnesku prentletri, það væri illlæsilegt þrátt fyrir að það væri stórt og töldu ólíklegt að bók með slíku letri væri gefin út í dag nema verið væri að vísa til fornbókmennta. Richard Handler og Jocelyn Linnekin (1984: 276) hafa bent á að óbreytanlegt samfélag hafi líklega aldrei verið til og hefðin geti tekið á sig nýja mynd samhliða breytingum samfélagsins. Við þurfum því að skilja hefð sem ferli túlkunar sem felur ávallt í sér táknrænan tilgang líðandi stundar (Handler og Linnekin 1984: 280). Þetta má til dæmis sjá á því hvernig ákveðin hefð getur myndast fyrir notkun leturs á ákveðnum árabilum eða í sumum bókmenntaflokkum sem þarf þó ekki að vera á sama hátt á öllum tímum. Áslaug benti á að við getum sagt til um bókaflokka eða aldur bóka aðeins út frá leturformunum (SigS_2019_7). Viðmælendur voru á sama máli um að leturformin geti gefið vísbendingu um liðinn tíma ekki síður en að setja má letur í samhengi við bækur ætlaðar ólíkum hópum, þrátt fyrir að letursýnishornin væru aðeins á hvítum A4 blöðunum. Gotneska letrið má telja hefðbundið letur á prentuðum bókum á Íslandi frá 16. til 19. aldar. Soffía taldi þó líklegt að það hafi aldrei verið sérstaklega þægilegt til aflestrar þrátt fyrir að margir hafi lært að lesa og skrifa með því. Hún sagði að fyrr á tímum, þegar letrið var sem mest flúrað, hafi það nær eingöngu verið fyrir „guðsorðafólk eða þá sem höfðu eitthvað lært“ (SigS_20018_1). Ákveðið samhengi má sjá með menntafólki og prestum frá fyrri tímum, því fram á 19. öld sáu prestar landsins um uppfræðslu og menntun barna með áherslu á lestur trúarrita (Loftur Guttormsson, 2008: 21–22). Samkvæmt sögu sem Soffía hafði heyrt var gotneska letrið haft svona ólæsilegt eða illlæsilegt til þess að „djöfullinn sjálfur eða skrattinn og hans útsendarar“ gætu ekki lesið það á myrkum miðöldum. Hún komst svo að orði:

Þá voru náttúrulega djöflar og skrattar í hverju horni og fólk gat engum treyst og þá gat skrattinn og hans menn, aðallega, sem voru margir, gátu ekki lesið eftir því sem gotneska letrið var flóknara og flúraðra því erfiðara var fyrir fólk að lesa biblíuna, einmitt út af því að því er haldið fram eða það er theoría, að allt pakk á jörðinni gæti ekki lesið guðsorð og maður hefði haldið að þetta væri svona, þetta getur verið, þetta er svolítið lógíst þegar þú hugsar um að þetta er virkilega illlæsilegt, nema fyrir guðsorðafólk eða þá sem höfðu eitthvað lært, skilurðu, gotneska letrið. (SigS_2018_1)

Hvort sem sagan segir til um að fólk hafi almennt verið ólæst eða verið sé að vísa til þess að letrið hafi viljandi verið gert ólæsilegt til að greina almenning frá menntafólki, má skynja stéttaskiptingu þar sem letrið hafði ákveðið aðgreiningargildi (sbr. Bourdieu, 2007: 46).

68 Menntun almennings varð almennari síðar og sagði Soffía frá ömmu sinni og systur hennar sem fæddar voru um aldamótin 1900 og voru stoltar af því að geta líka lesið bækur með gotnesku letri (SigS_2018_1). Þá voru kennslubækur með báðum gerðum leturs enn í umferð þó prentun og lestur á bókum með gotnesku letri hafi minnkað talsvert þegar kom fram á 20. öldina. Loftur Guttormsson hefur sagt að ákveðin togstreita hafi myndast um notkun gotneska og latneska letursins í kennslubókum eftir að Nýtt stafrófskver handa minnimanna börnum var gefið út árið 1853 með latnesku letri. Fram að því hafði kennsluefni barna almennt verið með gotnesku letri þrátt fyrir að mörgum hafi þótt það óþjált (Loftur Guttormsson, 2008: 23). Í skrifum Hallbjarnar Halldórssonar um miðja 20. öldina má þó sjá að honum fannst miður að ekki var lengur mikið um gotneskt letur í prentsmiðjum og sagði þær ekki lengur geta „prentað svo mikið sem sæmilegan lesbókar- kafla“ með gotnesku letri, þrátt fyrir að enn væri mælt fyrir um það í fræðslulögum að unglingar væru læsir á báðar tegundir leturs fyrir burtfararpróf úr barnaskóla (Hallbjörn Halldórsson, 1948: 100). Hallbjörn taldi eftirsjá í gotneskum leturtegundum í bókum ólíkt því sem ónefndur höfundur Fjölnis skrifaði og taldi óþarfa að læra tvisvar að lesa eða kunna að rita sama málið á þrjá vegu og spurði hvort það sé þá ekki líka ástæða til að tala sama tungumálið á þrjá vegu (ónefndur, 1845: 29). Hér má greina ólíkar skoðanir og gildismat á fjölbreyttri leturnotkun. Bæði má sjá kosti þess að þekkja og geta lesið fleiri en eina tegund leturs á meðan einfalt og læsilegt letur mætti teljast æskilegt í allar bækur. Það má þó einnig deila um það hvaða letur telst einfaldast og eigi best við hverju sinni. Það má vera ljóst að ekki eru allir alltaf sammála um leturnotkun eða læsileika þess. Því er vert að skoða hvenær telja má letur einfalt og skýrt og hvenær það truflar ekki skilaboð textans. Þorsteinn úr lesendahópnum benti á að það auðveldar honum lesturinn ef texti er settur upp með letri sem hann kannast vel við, því þá getur verið nóg að horfa á orðin í heild sinni og þá veit hann hvað stendur þar. Aftur á móti þegar notað er letur sem hann er ekki vanur að lesa þarf hann „að lesa hvern staf fyrir sig til þess að átta sig á hvert orðið er“. Hann sagði að það gæti því tekið aðeins lengri tíma ef maður þekkir letrið ekki vel (SigS_2019_9). Þetta kemur heim og saman við það sem Finnur (SigS_2019_10) benti á og sagði að við séum alltaf að læra og með aldrinum öðlumst við ákveðinn „þroska til að taka inn efni“ og að við lærum ekki aðeins að lesa staka bókstafi við lærum líka að sjá orðin sem eina mynd og meðtökum þau líkt og tákn án þess að lesa þau staf fyrir staf.

69 Við lesum það ekki við sjáum það sem mynd og margir hverjir gera það þannig að eftir því sem árin færast yfir þá eykst þroskinn við að taka inn táknin sem eina heild án þess að lesa orðið. Þannig að lesa heilan bálk það tekur með aðra skynjun heldur en bara að lesa orðið og eins og þú segir af hverju ekki sama leturtegund í öllu, vegna þess að þessi skynjun á öðrum hlutum í tengslum við framsetninguna á letrinu hafa meira að gera eftir því sem líður á eða þú veist þroskinn eykst, skynjunin þroskast og þú tekur annað með (SigS_2019_10).

Það má því segja að þegar letur er svipað í öllum textum, fara lesendur að þekkja letrið sem verður þeim bæði skýrt og einfalt. Það truflar ekki lesturinn og lesendur ná líklega að lesa hraðar með „einföldu“ letri á meðan „óvenjuleg og flókin“ letur geta dregið úr lestrar- hraðanum. Fjölbreytt leturnotkun getur aftur gefið ólík skilaboð þar sem lesendur fara að túlka leturformin og nýr eða annar skilningur á textanum getur myndast. Það getur því reynt á lestur og skilning táknamynda sem ákveðnar leturgerðir og framsetning þeirra bera í sér. Lesendur geta þó öðlast ákveðinn skilning með tímanum á myndmáli leturs og hvernig það getur haft áhrif á skilning og upplifun á textainnihaldið.

5.3 „Hvað er sagt og hvernig það er sagt“ / Áhrif og tilfinningar Þrátt fyrir að form bóka sé yfirleitt nokkuð hefðbundið, þarf að huga að nokkrum atriðum þegar þær eru unnar fyrir prentun svo sem stærð, kápuefni, pappír, litavali og fleiru sem við kemur útlitinu, þar með talið letrinu, stærð þess og rými á síðufletinum. Þetta eru allt þættir sem geta haft áhrif á tilfinningu og upplifun lesenda gagnvart sýnilegum og snertanlegum þáttum bókarinnar. Að því leyti hafa allir þættir hennar áhrif á viðtakandann en ekki aðeins textainnihaldið sjálft því það á einnig við um alla skynjun sem leynist í efnislegum hlutum hennar. Þar af leiðandi má segja að lesturinn felist einnig í tilfinningu fyrir útliti letursins ásamt öðrum þáttum bókarinnar sem geta haft jákvæð eða neikvæð hughrif hjá fólki. Í þessum hluta verður einna helst stuðst við áhrifakenningar. Um þær hefur Sara Ahmed skrifað fjölda greina sem fjalla um áhrif og hvernig þau geta fest sig við (e. sticky) ákveðna hluti sem viðhaldast í gegnum samband fólks við þá og þær hugmyndir og gildi sem það hefur gefið þeim. Hún setur samhengi milli áhrifa sem fólk finnur frá hvort öðru og heimfærir á áhrif sem hlutir geta haft á fólk eftir því hvernig það túlkar þá (Ahmed, 2010: 29). Á samskonar hátt er skoðað hvernig mismunandi letur bóka hefur áhrif á skynjun og upplifun við lestur. Beatrice Warde (2009: 40) hefur bent á að hvort sem um ræðir talað mál eða ritað er þau bæði flutningur orða þar sem hugsanir fara milli manna og á þannig stóran þátt í

70 siðmenningu okkar. Á meðan röddin er lykill að töluðu máli þá sagði Warde að líta megi á letur sem inngang að rituðu máli. Hún var á þeirri skoðun að mikilvægt sé að letur hafi sem minnst áhrif á lesandann til þess að beina ekki athyglinni frá innihaldi textans, eins og áður hefur komið fram. Því til stuðnings tók hún dæmi um þann mismun að drekka vín úr ógegnsæjum málmbikar eða að drekka úr gegnsæju kristalsglasi sem truflar ekki sýn neytandans á innihaldið. Í því samhengi bendir hún á að faglega og vel notað letur eigi ekki að trufla sýn lesanda á innihald textans, á sama hátt og röddin í fullkomnum upplestri truflar ekki skilning orða og hugmynda sem textanum er ætlað að miðla (Warde 2009: 41). Með hugmyndum sínum segir hún að góður hönnuður þurfi fyrst og fremst að gæta þess að hafa ekki of mikil áhrif á innihald texta með letri og uppsetningu svo skilaboðin komist óbrengluð frá höfundi til lesanda. En ef þetta er skoðað betur má einnig skilja orð hennar á þann hátt að hönnuður geti haft talsverð áhrif á lesendur með vali sínu á letri og uppsetningu textans. Warde talaði um að sjá megi samlíkingu í því hvort texti er fluttur með raddbeitingu talaðs máls eða leturnotkun ritaðs máls. Samsvörunin getur einnig falist í því að blæbrigði raddar og tónstyrks má gefa texta ritaðs máls með mismunandi leturnotkun og með því myndað ólík tilbrigði hljómblæs. Þegar texti er í munnlegum flutningi verður fólk fyrir ólíkum áhrifum eftir því hver flytur, hvernig hann er lesinn eða sunginn, hvort það er djúp karlmannsrödd eða lágróma barn. Í grein sinni „Performans“ talar Deborah Kapchan aftur á móti um að umbreyta megi hvers konar flutningi í fast form, hvort sem það er hreyfing, tónlist eða önnur tjáð smáatriði má gera þau skiljanleg með skráðum texta á pappír eða sambærilegum formum (Kapchan, 2003: 127). Með þeim hætti má sjá fyrir sér hvernig hægt er að skrá munnlegan og líkamlegan flutning í rituðu máli með áherslu á leturnotkun sem felur í sér val á leturgerð, stærð og þykkt. Hvert letur og einkenni þess geta þannig skilað ákveðnum áhrifum og tilfinningu sem lesandinn túlkar. Tilfinning og skilaboð sem letur og rýmið í kringum textann skilar er eitt af því sem Hildigunnur hefur mikinn áhuga á í starfi sínu sem grafískur hönnuður. Hún segir að texti standi alltaf fyrir sínu en „þetta er svolítið eins og leikstjórn“ og spurning hvar áherslur og þagnir eru settar (SigS_2018_2). Það er áhugavert að bera vinnslu leturs saman við flutning og leikhúsheiminn, hvernig hægt er að beita sömu hugsun á þessa ólíku miðla. Hún talar um rétt útlit eða rétt leiktjöld og að þessa líkingu megi nota hvort sem um er að ræða

71 leikverk á sviði eða texta á blaði því það er einnig hægt er að hugsa notkun og vinnu með letur sem ákveðna túlkun.

Þetta er nefnilega alltaf svolítið spurning um áherslur og þagnir eða eitthvað, já þú veist þetta er svona. Því í rauninni er texti bara einhvern veginn texti og svo er þetta einhvern veginn bara að lífga hann, já gefa honum eitthvað líf ... mér finnst ágætt að finna atmosferuna í svona hlutum, innihaldið og spila út frá því. Það er svona svolítið áhugavert við þetta fag, það kemur alltaf eitthvað nýtt og þetta er samvinna við aðra, kannski þá sem eru að skrifa texta, og hvernig já, maður getur líka haft mjög mikla skoðun á því hvað er sagt og hvernig það er sagt. (SigS_2018_2)

Hún segir að vinna með letur snúist ekki bara um að „móta form“. Þessu megi einnig líkja við „hálfgerða ritstjórn“ þar sem hægt er að breyta tilfinningu fyrir textanum með ólíku letri og segir „það eru öll þessi leyndu skilaboð í myndmáli eða framsetningu sem eru svo skemmtileg við þetta fag“ (SigS_2018_2). Hún hefur skoðun á því hvort eitthvað er gott eða vont og vill getað tekið þátt í því að breyta stemningunni og tilfinningunni fyrir textainnihaldinu því eins og hún benti á þá er „texti ekki bara texti“ og segir að með vinnu sinni leiti hún eftir tilfinningu og andrúmslofti textans sem hægt sé að spila út frá. Ahmed bendir á að tilfinningar byggi á reynslu sem við höfum safnað að okkur og orðið fyrir í gegnum árin. Við lærum af reynslunni bæði gagnvart því góða og slæma. Ákveðin tilfinning byggist upp gagnvart því sem við þekkjum frá fyrri reynslu og hefur þar með tilfinningaleg áhrif á okkur (Ahmed, 2004: 28). Þannig má skoða hvort sumt letur geti borið með sér ákveðnar tilfinningar líkt og gleði, alvarleika, hátíðleika eða annað. Ahmed (2010: 29) hefur einnig talað um að áhrif og tilfinningar geti fest sig við ákveðna hluti. Á sama hátt er hægt að sjá fyrir sér ákveðnar tilfinningar sem við tengjum við ákveðin letur því sumar leturgerðir geta verið nátengdar ákveðnum viðfangsefnum, hópum eða tímabilum í sögunni, jafnvel svo að það væri sérkennilegt að nota ákveðin letur nema verið sé að vísa í tilteknar stefnur eða sérkenni á einhvern hátt. Það er líklega auðveldara að átta sig á því hversu ómeðvituð áhrif letur getur haft ef tekið er dæmi um letur sem má ætla að eigi alls ekki við í ákveðnum tilfellum. Eins og Soffía (SigS_2019_1) benti á, þá færi maður varla að nota Comic Sans í biblíu eða bænabók og sagði að fólk mundi líklega átta sig á að það væri eitthvað skrítið við þess konar leturnotkun.

Já, bara að finna letrið finnst mér vera tilfinningalegt atriði, það er kannski af því ég er svona ástríðufull með þetta, en ég held að það sé lykilatriði, alveg eins og þú mundir aldrei setja þetta á banka, bankastofnun eða kauphöll. Þú mundir ekki setja Comic

72 Sans á Kauphöllina, skilurðu, það stendur ekki fyrir því, ég held að maður hafi tilfinningu fyrir því, þannig að það væri bara fatalt. (SigS_2019_1)

Hún talaði um fleiri leturgerðir sem þætti furðulegt að nota í ákveðnum tilfellum á meðan þær eiga betur við í öðrum, það sé þó engin regla sem segir til um það hvernig á eða má nota letur. Samkvæmt Ahmed höfum við ekki tilfinningu fyrir hlutum vegna þess sem þeir eru, tilfinningin byggir á því sem við þekkjum eða vitum um þá (Ahmed, 2004: 30). Þetta má einnig heimfæra á notkun leturs sem felst ekki í ákveðnum reglum heldur tilfinningu sem fólk skynjar þó það sé ómeðvitað, líkt og heyra mátti í frásögn Soffíu sem telur nokkuð víst að fólk hafi almennt tilfinningu fyrir leturnotkun. Í viðtölunum við grafísku hönnuðina var samhljómur um að jafnhliða starfinu þurfi að fylgja meðvituð tilfinning um leturnotkun. Hún snýst um að vera vel að sér í letursögunni, þekkja þróun og breytingar sem hafa átt sér stað og hvernig setja má letur í samhengi við ákveðin skilaboð og tímabil í sögunni. Stefán benti á að með ólíkri leturnotkun sé hægt að koma upplýsingum áfram á mismundi hátt, hann þó að það sé „ekkert endilega rétt að gera það svona eða rangt að gera það hinsegin“ (SigS_2018_3). Það er í raun hægt að nota hvaða letur sem er en merkingin getur samt sem áður verið ólík eftir því hvaða skilning fólk hefur á því. Stefán segir það vera vegna þess að það er ákveðin „sögn í letrinu per se [í sjálfu sér], það er meining á bak við það“ (SigS_2018_3). Þess vegna þarf að vera ákveðin tilfinning fyrir leturnotkun sem byggir á þekkingu, því sumt letur getur haft sterk áhrif þó lesendur séu ekkert sérstaklega að velta því fyrir sér hvaðan þau koma. Það mátti einnig heyra á hönnuðunum að eftir nám og mikla vinnu með letur öðlast maður ákveðinn skilning og þekkingu á merkingu og gildi þess. Fólk áttar sig ekki alltaf á þessu eða er meðvitað um merkingargildi leturs en flestir lesendur hafa samt ákveðna tilfinningu fyrir því, eins og Soffía benti á, og sagði að sem grafískur hönnuður sé hún að „leiða fólk inn í tilfinninguna“. Hún tók dæmi: Ef fólk „ætlar að sjá Moulin Rouge og þú gerir svolítið Moulin Rouge“ þá er verið að „leiða fólk inn í tilfinninguna og það fær tilfinningu“ fyrir tíðarandanum. Það koma alls konar tískusveiflur í letri en það er sennilega tíðarandi í öllu, leikhúsi, söng, músík og myndlist, „það koma alls konar sveiflur“ og hún bætti við „ef það væri ekki hreyfing þá væri þetta frekar“ leiðinlegt (SigS_2018_1). Almenningur hefur einnig tilfinningu fyrir sögu leturs, tíðaranda og hvort letur er gamalt eða nýtt, þannig læra allir að lesa í hlutina og það sem er í kringum okkur (sbr. Ahmed, 2004: 28). Soffía talaði um að „allt svona streymir inn í fólk, það skilar sér einhvern veginn þannig“, það fær

73 tilfinningu án þess að geta útskýrt hana nákvæmlega (SigS_2018_1). Framsetning leturs getur því verið ákveðið verkfæri í höndum hönnuða sem þekkja sögu þess vel. Þeir geta túlkað tíðaranda og stemningu sem verið er að setja fram því þeir vita að fólk hefur ákveðna tilfinningu og skilning á mismundi leturnotkun. Flestir eiga auðvelt með að setja matvæli í samhengi við stemningu og tilfinningar því allir tengjast þeim á einhvern hátt og hafa margir áhuga á matargerð eða framsetningu þeirra. Það er því áhugavert ef letur er skoðað út frá bragðskyni, ekki síst þegar það er notað til að túlka og lýsa matvælum, vinnslu og bragði. Þetta má sjá í matreiðslubókum sem margir kjósa að hafa inn á heimilum sínum, jafnvel þó ekki sé mikið eldað upp úr þeim þá nýtur fólk þess stundum að fletta þeim og skoða. Það les jafnvel innihaldslýsingar og eldunaraðferðir um leið og það leyfir bragðlaukunum að upplifa tilfinningu fyrir gómsætum réttunum. Skynjun bragðtegunda má síðan heimfæra á aðrar tilfinningar. Í grein sinni „Bitter after Taste: Affect, Food, and Social Aesthetics“ bendir Ben Highmore á að við líkjum tilfinningum stundum við bragðskyn, þær verða sætar, súrar eða bitrar því bragð er eitthvað sem allir þekkja og skilja og þess vegna er auðvelt að lýsa tilfinningum sínum með bragðtegundum (Highmore, 2010: 120). Ahmed hefur einnig notað þess konar samlíkingu og segir að hlutir geti veitt okkur hamingju þó þeir séu ekki lengur til staðar, því svipuð tilfinning getur framkallast við upprifjun. Hún segir til dæmis að það sé ekki aðeins ánægjan af að borða safaríkan ávöxt sem skapar góða tilfinningu, það séu einnig áhrifin sem er viðhaldið og verða til þess að við heillumst áfram af ávextinum. Þannig getur hlutur sem veitti okkur hamingju myndað svipaða tilfinningu með upprifjun þó hann sé ekki lengur til staðar (Ahmed, 2010: 31). Á sama hátt geta fallega myndskreyttar og vel upp settar matreiðslubækur vakið upp ánægjulegar tilfinningar og áhrif sem við höfum áður upplifað og koma fram við lestur bókanna. Textar matreiðslubóka eiga það margir sameiginlegt að uppsetning og leturnotkun þeirra er fjölbreyttari og ekki í eins föstum skorðum og langir meginmálstextar bóka sem innihalda hefðbundnara efni. Finnur benti á að hönnun matreiðslubóka sé því ekki hugsuð á sama hátt og skáldsagna eða fræðibóka. Þegar matreiðslubækur eru settar upp er hægt að hugsa hverja síðu eða opnu sem plakat vegna þess að við skoðum hverja uppskrift fyrir sig á meðan við lesum skáldsögu í ákveðinni röð síðu fyrir síðu (Sigs_2019_10). Það er því ekki óalgengt að sjá meiri fjölbreytileika í uppsetningu og leturvali matreiðslubóka sem byggir oft á tilfinningu fyrir bragðskyni og matarupplifun. Þess vegna áttu líklega flestir

74 viðmælendur lesendahópsins auðvelt með að lýsa tilfinningum og áhrifum sem mismun- andi leturnotkun hefur á ólíkar mataruppskriftir. Þau höfðu ákveðnar skoðanir og töluðu um að oft væru ólíkar uppskriftir túlkaðar með letri sem getur sagt til um hvers konar uppskriftir er að ræða, frá hvaða tíma þær eru, hvort þær eru fyrir hátíðarmat eða hversdagsmat og margt fleira. Það mátti þó heyra að viðmælendur lesendahópsins voru flestir á sama máli um að þverendaletur sé frekar notað í eldri og hefðbundnari upp- skriftum og fannst það ekki eins nýtískulegt og steinskrift. Eins og Assa sem telur steinskrift í matreiðslubókum einkennandi fyrir nýrri matreiðslubækur og var nokkuð viss um að matreiðslubækur sem eru eldri en 20 ára sé ekki að finna með steinskrift (SigS_2019_4). Kjartan, annar viðmælandi lesendahópsins, hefur unnið sem kokkur til fjölda ára segir að matargerð og allt í kringum hana sé mikið að breytast.

Matargerð er bara að breytast svo mikið núna og allt með henni þú veist allt settuppið, hvernig kokkar eru og hvaðan maturinn kemur og allt þetta, kokkabækur, þetta er allt að breytast. Þannig að þetta getur alveg passað inn í það, þannig að þeir mundu algjörlega reyna að brjóta niður reglurnar um þú veist, um textann í bókinni hvernig hann er settur upp. Það er verið að brjóta allar reglur með ljósmyndum í bókunum og hvað á að nota, hvaða hráefni er verið að nota og allt þetta. (SigS_2019_4)

Hann sér samhengi með breytingum í matargerð og gerð matreiðslubóka, á það jafnt við um hugmyndir kokkanna, hráefni, myndaval og hvernig uppskriftir eru settar upp. Það mátti einnig heyra að flestir viðmælendur innan leshópsins voru á sama máli um að matreiðslubækur hafi breyst undanfarin ár og það megi tengja nýjum áherslum í matargerð. Leturnotkun má setja í samhengi við uppskriftir og aldur þeirra eins og Þorsteinn vísaði til um leið og hann benti á uppskrift sem sett er með gotnesku letri og sagði að „innihald bókanna hefur svolítið að gera með það hvernig textinn lítur út“, hann sagðist gera ráð fyrir að bók með þess konar letri innihaldi gamlar uppskriftir eða þjóðlega rétti, til dæmis hvernig á að búa til slátur eða baka pönnukökur (SigS_2019_9). Hann vildi þó meina að bókin þyrfti ekki að vera gömul en gotneska letrið mætti nota til að mynda tilfinningu fyrir því að uppskriftirnar séu frá fyrri tímum (sbr. Ahmed, 2010: 31). Þetta er þó áhugavert því samkvæmt leturtöflu rannsóknarinnar eru til tvær bækur um matargerð á íslensku, prentaðar með gotnesku letri. Önnur er bók um smjör- og ostagerð og hin er matreiðslubók. Bókin um smjör- og ostagerð kom út árið 1780 en matreiðslubókin árið 1800. Uppskriftabækur sem komu út í kjölfarið, sú næsta ekki fyrr en árið 1858 og fram undir 20. öldina, voru allar settar upp með þverendaletri. Það er því ólíklegt að Þorsteinn

75 hafi séð gamla matreiðslubók með uppskriftum um sláturgerð eða pönnukökur með gotnesku letri. Líklega vísar letrið hins vegar til þess tíma þegar það var sem mest notað í bókum sem prentaðar voru þá á Íslandi og skapar þessa ímynd og vísar til matargerðar á sama tíma. Honum fannst þó ólíklegt að gotneskt letur væri notað í nútímalegri uppskrift- um til dæmis í sushi uppskriftabók og taldi að „það mundi aldrei ganga“ en aftur á móti er “steinskrift, alveg svona sushi“ að hans sögn (SigS_2019_9). Þorsteinn sá ákveðið samhengi með breytingum í leturnotkun og uppskriftum eins og Kjartan minntist á og fannst þeim líkt og fleiri viðmælendum steinskriftar letur eiga vel við mat sem við teljum nútímalegan. Ákveðin lífstíll, frásögn eða annað sem hefur áður verið túlkað með einkennandi leturgerðum getur myndað þá tilfinningu sem við höfum til þeirra. Ef ákveðið letur er margoft notað til að segja eitthvað eða lýsa einhverju sérstöku förum við ósjálfrátt að tengja þá leturgerð við tilfinningu, ástand eða tímabil sem við þekkjum eða höfum upplifað. Á þann hátt töluðu Kjartan og Björg (SigS_2019_2og3) um að bækur með letri sem líkir eftir handskrift geti vísað til þess að uppskriftabækur séu nýrri og unnar af yngra fólki. Björg tengdi letrið við krítartöflur sem eru algengar með matseðlum veitingastaða, til dæmis þegar réttur dagsins er krítaður á töflu. Hún skynjaði meiri léttleika og upplifir hand- skriftarletur ekki eins alvarlegt og margt annað letur og finnst hún frekar geta leyft sér að „slumpa“ hráefnum þegar verið er að elda eftir uppskriftum sem settar eru upp með letri sem líkist handskrift (SigS_2019_2). Það þarf þó ekki að vera útlit letursins heldur hvernig og hvar hún hefur séð það sem gefur tilfinningu fyrir léttleikanum. Áhrif sem fólk verður fyrir fylgir því, ekki bara sem einstaklingum, þau fylgja þeim einnig sem samfélagi líkt og franski félagsfræðingurinn Emile Durkheim benti á og segir að hugmyndir okkar og tilfinningar eigi ekki uppruna sinn hjá einstaklingum, þær komi frá samfélaginu. Þær byggi ekki á meðvitund hvers og eins, heldur þeirri meðvitund sem samfélagið hefur mótað og fólk hefur lært að meðtaka allt frá barnsaldri (Durkheim, 1982: 52–53). Einstaklingurinn er ekki upphaf þess alls, tilfinningin kemur utan frá og til hans í gegnum margar kynslóðir, lagskipt reynsla samfélagsins ef svo má segja. Þetta mátti greina í viðhorfum viðmælenda minna um leturnotkun uppskriftabóka sem var í meginþáttum samhljóma þó þau hafi hvert um sig ákveðnar skoðanir á því hvað þeim finnst girnilegast eða fallegast. Letur teiknimyndabóka er aftur á móti í huga flestra í mun fastara formi, þar sem teiknuðum persónum eru gefin orð í talbólum innan þar til gerðra ramma. Í þesskonar bókum fannst viðmælendum lesendahópsins fátt annað koma til greina en að nota letur

76 sem líktist handskrift. Helgi Þorgils benti á að þannig fái maður tilfinningu fyrir því að textinn sé skrifaður jafnóðum af teiknaranum (SigS_2019_8). Með því móti verða bækurnar persónulegri og færast frekar inn í teiknimyndaheiminn og tilfinning fyrir leik verður sterkari þegar handskriftarletur er notað. Þessu voru viðmælendur sammála og bentu nokkrir á að við notkun hefðbundnara leturs, líkt og þverendaleturs eða steinskriftar, verður upplifunin ekki sú sama því það tekur tilfinninguna fyrir leik, ævintýri og spennu úr sögunum (SigS_2019_4 og 9). Þannig sáu þau frekar fyrir sér myndasögu með steinskrift eða þverendaletri sem einhvers konar bækling sem segir til um það „hvernig maður á að haga sér í vinnunni“ eins og Assa orðaði það (SigS_2019_4). Aftur á móti kemur önnur tilfinning þar sem gotnesku letri er skipt út fyrir teiknimyndaletrið og talaði Björg um að það gæti gengið ef verið sé að skapa ákveðna stemningu í sögulegu samhengi sem vísar aftur í tímann (Sigs_2019_3). Þessu var Þorsteinn sammála og sagðist hafa séð myndsögur um goðheima, víkinga eða álíka efni, þar sem notað var gotneskt letur og fannst það eiga vel við þegar sögur fjallar um þess konar efni (SigS_2019_9). Viðmælendur innan lesenda- hópsins höfðu líkar tilfinningar til notkunar leturs í talbólum teiknimynda og voru sammála um að texti og myndmál leturs verði að ganga upp og tala saman ef sagan á að skiljast rétt. Það skiptir máli um hvað er verið að fjalla og hvað er verið að túlka, því letur má sjá sem einskonar myndlýsingu eða táknmynd sem við skiljum mörg hver á sama hátt. Ben Highmore (2010: 120) hefur bent á að við skynjum oft áhrif og tilfinningar út frá efnis- tengdri menningu og segir að tilfinningar blæði á milli fólks (e. bleed into each other) þegar það er náið eða býr í samfélagi. Við höfum áhrif á hvort annað og skynjum tilfinningar hvors annars sem getur skýrt sömu upplifun sem fólk hefur til ákveðinna leturtegunda. Hvernig og hvort við getum lesið í form leturs sem tákn- eða myndmál verður því skoðað betur í næsta hluta.

5.4 „Það ber einhvern tón með sér“ / Tákn- og myndmál leturs Eins og komið hefur fram í fyrri hlutum kaflans þá er röddin lykill að töluðu máli eins og Beatrice Warden (2009: 40) komst að orði en texti á blaði samsettur af bókstöfum er lykill að hljóðheimi manna eins og Walter J. Ong hefur bent á. Tungumál hafa ýmis raddbrigði, það er hægt að tala blíðlega eða hvasst, hvísla, hrópa eða syngja með ólíkum raddblæ. Þannig má beita ýmsum tónum til þess að auka við skilning og merkingu orðanna. En ritmál með samsetningu bókstafa er aðeins tákn með fyrirfram gefnum merkingum sem vísa til

77 ákveðinna hljóða (Ong, 2002: 73). Bókstöfum er því fyrst og fremst ætlað að skiljast sem hljóðtákn þar sem einfalt og skýrt letur ætti að skila ætluðum tilgangi best. Það er því vert að skoða hvort lesa má í tákn- eða myndmál sem mismunandi leturgerðir geta vísað til og hvort þær geta staðið fyrir áherslur og túlkun sem skilar margvíslegum raddbrigðum við lestur og ólíkum merkingum á innihald textans. Notkun á ólíkum leturgerðum sem túlka mismunandi efni er auðveldara að sjá fyrir sér í fyrirsögnum og á bókartitlum en líklega er tilgangurinn ekki jafn greinilegur þegar mismunandi letur í meginmáli bóka er notað. Þrátt fyrir að hver bókstafur sé háður ákveðnum reglum sem takmarkast af læsileika hefur fjöldi leturgerða verið unninn með mismunandi notkun í huga þar sem hver bókstafur getur tekið á sig ólíkar myndir þegar hann er teiknaður. Það er því áhugavert að skoða misflókin form bókstafa sem ákveðið tákn- eða myndmál þegar skilningur og myndmál vinna saman og bjóða upp á margvíslegan lestur og túlkun með fjölbreyttum leturgerðum. Rússneski bókmenntafræðingurinn og rithöfundurinn Viktor Shklovskíj (1893–1984) hefur umorðað margnotaðan frasa, eins og hann orðar það, og telur vera frá Alexander A. Potebnja, rússneskum heimspekingi og málvísindamanni, þar segir að skáldskaparlistin sé hugsun í myndum. Shklovskíj talar um að þannig megi skilja að tilgangur myndmáls sé ekki síst táknsköpun og að hún sé fyrst og fremst til að færa merkingu myndarinnar nær okkar skilningi en til þess verðum við þó að þekkja myndmálið því annars er það merkingalaust (Shklovskíj, 1991: 22). Í þessu samhengi má sjá að bókstafir eru merkingarbærir, fyrst og fremst sem hljóðtákn en ólíkar leturgerðir þeirra má sjá sem táknmynd með fyrir fram gefnum hugmyndum um myndmál sem vísar til þess sem fólk þekkir og skilur. Það getur þó verið snúið fyrir almennan lesanda að átta sig á eða útskýra hvaða táknmynd eða einkenni stendur að baki einni leturgerð fram yfir aðra. Líklega hefur fólk ekki orð eða lýsingar yfir mismunandi letur og er almennt ekki að velta leturvali bóka neitt sérstaklega fyrir sér. Þetta mátti greina hjá viðmælendum lesendahópsins því við fyrstu sýn voru flestir á einu máli um að sýnishornin úr bókunum væru mjög venjuleg og lítið um þau að segja. Þannig talaði Þorsteinn um að letur í skáldsögum sé „einhvern veginn allt eins“ og sagði að það væri hægt að ganga að því sem vísu. Eftir smá íhugun sagði hann að „ef það væri eitthvað annað letur eða mjög frábrugðið letur, þá væri eitthvað skrítið við það“. Í fyrstu átti hann ekki auðvelt með að skilgreina hvað hann ætti við en var þó meðvitaður um að mismunandi letur er oft milli bókaflokka og benti á að letur í myndasögum sé annars

78 konar og það mundi vekja athygli „ef maður sæi voða fínan texta“ svipaðan og er í skáldsögum í myndasögutexta, það kæmi á óvart og það „væri eitthvað skrítið við það“ og sagði að „það mundi örugglega hafa áhrif á upplifunina“ (SigS_2019_9). Yfirleitt fer einbeiting lesenda á textainnihaldið til að byrja með, eins og hér kom fram en það má þó ætla að lesendur átti sig fljótlega á tákn- og myndmáli letursins. Þrátt fyrir að Þorsteinn hafi ekki orð eða vissu um það hvers konar letur mætti ætla að eigi við hverju sinni, þá benti hann á að það virðist auðveldara að tala um og útskýra leturnotkun þegar letur er ekki eins og hann telur að það eigi að vera. Það getur verið gott að horfa til andhverfu þess sem telja má venjulegt eða rétt. Með þeim hætti má sjá hversu óviðeigandi hlutir geta verið ef þeir eru ekki eins og við teljum þá eiga að vera. Þannig getur aftur á móti það sem við teljum rétt verið svo sjálfsagt að maður sér enga leið til að hafa það á annan hátt. Þess vegna er áhugavert að velta því upp hvort hægt sé að nota letur rangt og hvort merking eða táknmynd þess breytist eða textinn skiljist á annan hátt eftir því hvaða letur er notað, hvort sem það er gert með vilja eða ekki. Dæmi um það hvernig hægt er að vinna með letur í þversögn við það sem má telja ríkjandi má sjá hjá grafíska hönnuðinum Herb Lubalin (1918–1981) í bókinni Herb Lubalin: Art Director, Graphic Designer and Typographer. Bókin er samantekt vina og starfsfélaga á verkum Lubalin og kom út eftir hans dag árið 1985. Í einu verka bókarinnar setur Lubalin (1985: 37) upp texta með fínlegu og flúruðu letri þar sem finna má ákveðinn hljóm sem er í andstöðu við orð textans. Þar leikur hann sér með mótsögnina í myndmáli letursins og orðum textans, ekki ólíkt því þegar ljót orð eru sögð með blíðum tón sem mynda tvöfalda merkingu eða þversögn orða og raddblæs. Finnur minntist á þetta dæmi úr bók Lubalin og sagði að erfitt sé að færa rök fyrir réttri eða rangri notkun á letri. Hann benti á að hægt er að notað „leturgerð til þess að birta skilaboð sem geta verið þvert á“ það sem stendur í textanum „vegna þess að letur er með karakter, það er hlýlegt, það er kalt, skýrt, óskýrt, það ber einhvern tón með sér“. Samkvæmt Finni er þetta tilfinning sem hönnuður þarf að vera sannfærður um, vegna þess að skilaboðin geta ráðist af því í „hvaða búning þú færir efnið, með hvaða leturvali“. Til stuðnings máli sínu vísar hann til þessa dæmis þegar Lubalin setti textann upp með letri sem er líkt og Finnur orðaði það „voða fallega flúrað og vel gert týpógrafíulega“ með setningu sem segir þér „að fara til helvítis“ en samt sem áður ferð þú að hlakka til vegna þess að myndmálið vísar í eitthvað allt annað og fallegra (SigS_2019_10). Með þeim hætti

79 er verið að nota ákveðna þversögn leturs og texta miðað við þann skilning sem flestir hafa til ákveðinna leturgerða og sýnir að skilningur á myndmáli letursins og uppsetningu hefur ekki síður áhrif á skilaboðin en orð textans. Stefán talaði einnig um að hægt sé að koma meiningu í letur og segja ýmislegt með því, jafnvel eitthvað sem vinnur gegn textainnihaldinu. Hann lagði jafnframt áherslu á að í sínu fagi skiptir máli að vera meðvitaður um það hvað maður gerir og vill segja.

Ef þú veist ekkert hvað þú ert að gera þá er það rangt en ef þú veist hvað þú ert að gera þó að niðurstaðan sé röng, þú veist resolution-ið er, ég elska þig, í einhverju svona vélrænum hryllingi, en þú veist ef það er gert með vilja ... þetta er ógurleg lumma að tala um að þú verðir að þekkja reglurnar áður en þú getur brotið þær ... en það er betra að hafa einhverja hugmynd um hvað þú ert að gera en í raun er ekkert rétt og ekkert rangt svo lengi sem ferlið að niðurstöðunni er rétt. (SigS_2018_3)

Hann segir að sem fagmanneskja geti hann ekki gert eitthvað bara af því hann hafi ekki tíma eða nenni ekki, því það sé í raun ekkert rangt og heldur ekkert rétt „nema þú getir útskýrt af hverju þetta var niðurstaðan“ (SigS_2018_3). Það má því spyrja hvernig hægt sé að átta sig á því hvort við erum að skilja táknmynd leturs rétt eða rangt ef niðurstaðan er sú að táknmynd þess má skilja á margskonar hátt. Eins og kom fram hér að ofan þá benti Shklovskíj á að lesandinn þarf að skilja merkinguna sem tákninu er ætlað að gefa, þess vegna er gott að hafa í huga hvort skilningur er alltaf og allsstaðar sá sami. Það getur því verið gagnlegt að skoða hugmyndir Roland Barthes (1991) um ólíkan skilning á orðum textans sem byggist á því að aðgreina „verkið“ frá „textanum“ þar sem „verkið“ (höfundarverkið) breytist ekki vegna þess að það er í föstu formi sömu orðaskipana og alltaf sama textainnihaldið hvenær sem það er endurritað (t.d. ákveðin skáldsaga sem er endurútgefin, jafnvel með margra ára millibili). Aftur á móti verður „textinn“ (flutningur verksins sem áheyrandi eða lesandi upplifir) ávallt skilinn á nýjan hátt við endurtekinn flutning lesanda. Það getur til að mynda átt við um lesendur á ólíkum aldri, við fjölbreyttar aðstæður og á öllum tímum. Barthes bendir á að textinn á sér ávallt endurtekið form við hvern flutning, þar sem skilningur verksins verður alltaf skilinn á mismunandi hátt því „textinn er fjölræður“ hann er opinn fyrir túlkun og hefur margar merkingar vegna þeirra fjölmörgu áhrifa sem verða við hvern flutning á upplestri hans (Barthes, 1991: 185–186). Utanaðkomandi aðstæður geta haft áhrif á textaflutning, hver les, hvar, hvernig, fyrir hvern og hvenær hann er fluttur verður merkingaskapandi og getur breytt skilningi á

80 „verkinu“. Samkvæmt hugmyndum Barthes má sjá letur fyrir sér sem verk því það verður ákveðinn áhrifavaldur í flutningi eða við lestur bóka. Þetta má til dæmis sjá ef gotneska prentletrið Fraktúra er skoðað sem „verk“, í þeim skilningi að það er komið í ákveðið útlit eða fast form sem teiknari eða höfundar þess mótaði og heldur sér þrátt fyrir að vera endurtekið notað. Eins og með önnur höfundarverk verður ólíkur skilningur við flutning vegna áhrifa sem letrið hefur á ólíkum tímum og stöðum. Á þann veg má vænta þess að ólíkur skilningur og tilfinning hafi orðið til við lestur á Egils sögu þegar hún var í nýútkominni bók með gotnesku letri árið 1782 en ef sagan væri lesin með sama gotneska letrinu í dag. Þrátt fyrir að form letursins sé óbreytt þá getur merking þess breyst eftir því hvar, hvenær og hvernig táknmynd þess er túlkuð og skilin, vegna fjölmargra utanaðkomandi þátta. Af nokkrum bókum sem ég hafði meðferðis í viðtölunum við grafísku hönnuðina vakti einna mesta athygli Gratuale, messusöngsbók prentuð í Hólaprentsmiðju 1749 á grófan pappír og bundin í leðurband með tréspjöldum. Aldur og útlit bókarinnar vakti athygli en það var ekki síst letrið sem vakti áhuga þeirra. Í lok viðtalsins við Hildigunni las hún nokkrar línur upphátt og áttaði sig á að það er ekki auðvelt að komast í gegnum texta bókarinnar sem er með gotnesku letri. Hún fann fyrir ákveðinni óþolinmæði en jafnframt virðingu gagnvart bókinni og sagði að „þetta er svo bundið tímanum“ (SigS_2018_2). Jafnvel fyrir þá sem vinna með ólík letur alla daga er letur bókarinnar ekki auðlæsilegt nema með smá tilsögn í byrjun, þar sem útlit þess er ólíkt því sem er notað í dag auk formgerða nokkurra bókstafa sem hafa breyst nokkuð. Viðmælendur innan lesendahópsins sáu ekki messu- söngbókina en það var gotneskt letur á útprentuðu sýnishorni sem ég sýndi þeim. Hjá viðmælendum lesendahópsins komu fram ýmsar hugmyndir um vísun gotneska letursins og sáu flestir fyrir sér eitthvað sem tengdist kirkjunni, ævintýrum, göldrum eða jafnvel unglingum. Þau áttu það þó sameiginlegt að finnast letrið vísa aftur í miðaldir eða jafnvel lengra aftur í tímann. Í vangaveltum sínum benti Ingólfur á að letur sé á einhvern hátt „myndrænt fyrirbrigði“ sem hægt sé að nota í hönnunartilgangi þar sem „sálrænar pælingar“ liggja að baki (SigS_2019_5). Á þann hátt vísar hann til þess að hægt sé að gefa ákveðin skilaboð með því að vinna með táknmál letursins, ef sameiginlegur skilningur fyrir finnst innan ákveðins hóps eða samfélags. Innan hvers málsamfélags þurfum við að þekkja tungumálið til að orðin fái merkingu, það sama má segja um merkingarmál táknfræðinnar (Saussure, 1986: 120). Þannig getum við einnig lesið í táknmynd letursins eða stafagerðarinnar út frá ákveðinni vitneskju sem

81 getur verið ólík eftir því hvar og hvernig hún er túlkuð. Á þann hátt gerði Kjartan ráð fyrir að bók með gotnesku letri hljóti að vera gömul en aftur á móti ef gotneskt letur er sett á nýja bók gerði hann ráð fyrir að það sé gert í þeim tilgangi að koma lesandanum í ákveðinn heim eða aftur í tímann (SigS_2019_3). Leturgerðin þarf á einhvern hátt að tengjast innihaldi bókarinnar, líkt og Assa sagði, þarf að vera auðsýnileg ástæða ef hún ætti að lesa bók með gotnesku letri, því það væri truflandi að hafa ósamræmi milli textainnihaldsins og þeirra skilaboða sem letrið gefur (SigS_2019_4). Samræmi milli texta og leturs getur þó breyst því samkvæmt Barthes (1991: 173) hverfur sjálfsmynd táknsins með tímanum og aðeins það svarthvíta stendur eftir án merkingar. Það er því í raun ekkert eitt sem segir okkur hvernig á að skilja hlutina, því merkingin getur breyst og skilist á ólíkan hátt með nýjum viðmiðum. Marglaga skilning má til dæmis sjá varðandi gotneska letrið sem setja má í samhengi við fleira en miðaldir og kirkjuna eins kom fram hjá viðmælendum lesendahópsins. Soffía hafði einnig bent á þetta og að hennar mati vísar nútímanotkun gotneska letursins frekar til þungarokks eða dauðarokks og sagði að hún mundi ekki nota það við uppsetningu bóka með kristilegu efni í dag:

Ef þú skrifar gotneskt eða setur upp bók með gotnesku letri, það væri pínu svona, hverjir lesa þetta, jú það eru heavy metalistar og kannski djöfladýrkendur ... nei ég segi svona ... þetta er kannski einmitt frá örófi alda tengt trú sem er teygjanlegt. (SigS_2018_1)

Barthes hefur útskýrt hvernig ný merking getur skapast á þann veg að þegar ákveðin staðreynd eða skilningur táknmyndar er ekki lengur til staðar, rofna tengslin og merkingin glatar uppruna sínum, hún verður skilin á annan hátt og upprunaleg merking gleymist eða víkur fyrir nýjum skilningi (Barthes, 1991: 173). Þetta má einnig sjá þegar kemur að skilningu eða táknmyndum leturs sem oft má rekja til ákveðinna samfélagsbreytinga eins og Soffía benti á þá voru kristilegar bækur nær allar prentaðar með gotnesku letri á Íslandi langt fram eftir 19. öldinni, á meðan veraldlegar bækur voru frekar prentaðar með latínuletri. Hún sagði að gotneska letrið hafi verið tengt við „kirkjuna á þessum tíma“.

Svo breytist þetta í nútímanum, kannski til að ögra í byrjun, kannski í byrjun bara til að ögra og svo kannski bara breytist það yfir í að vera og er orðið eitthvað allt annað en það var hér áður. (SigS_2018_1)

82 Með þessu vísar Soffía til þess að líklega er notkun gotneska letursins í dag ólík því sem var og annar skilningur hafður í huga nú en áður. Helgi Þorgils (SigS_2019_8) benti einnig á nýja notkun og skilning, sérstaklega hjá ungu fólki en hann telur þau ekki alltaf gera sér grein fyrir sögu letursins eða hvaðan það kemur. Hann segir unga fólkið sé á einhvern hátt meðvitað um að þau séu að hreyfa sig í tíma með notkun á gotneska letrinu þó þau átti sig ekki nákvæmlega á því hvert ferðinni sé heitið. Hann telur ekki ólíklegt að ungt fólk taki þetta upp af tilviljun eða til þess að koma með eitthvað nýtt og vera í andstöðu við ríkjandi gildi. Letur líkt og margt annað getur breyst og þróast með tímanum en stundum felst breytingin í að sækja aftur í tímann til að finna nýja og ögrandi merkingu. Barthes benti á að ný merking getur skapast ef sú fyrri glatast. En ef hún glatast aðeins innan ákveðins hóps eða fær annan skilning innan hans geta orðið til tvær merkingar sem verða í andstöðu hvor við aðra. Þetta má sjá varðandi gotneska letrið sem má bæði tengja miðöldum jafnt sem nútímanum með nýjan tilgang í huga, líkt og Soffía benti á að geti stundum verið til að ögra ríkjandi viðmiðum samfélagsins. Fegurð menningar eða listar getur legið í því að samsama sig hópnum og skilja þá sem maður tilheyrir (sbr. Dundes, 1989: 11). Á hinn veginn talar Bourdieu um að það geti skapað vonda tilfinningu og okkur fundist við standa fyrir utan hópinn ef við getum ekki lesið úr táknlyklum sem eru í kringum okkur (Bourdieu, 2007: 35). Það má í raun segja að allar stéttir hafi vald á táknlyklum sem tilheyra þeirra menningarkima. Öll samfélög, bæði stór og smá, byggja upp sitt eigið táknmál eða lykla sem verða jafnvel einkennandi fyrir þau og utanaðkomandi eiga jafnvel erfitt með að skilja. Á þann hátt má stundum lesa í einkenni hópa, tíðaranda eða þjóðerniskennd út frá tungumálinu, sérkennum stafrófsins og jafnvel út frá notkun á ákveðnum leturtýpum. Stefán er vel að sér í letursögunni og sér því betur en margir hvaða letur geta staðið fyrir ákveðna hópa og tímabil. Hann talaði um að fyrir honum væri til dæmis Akzidenz-Grotesk mjög þýskt letur en sagði að það sé kannski bara nafnið, því „auðvitað skiptir máli hvað barnið heitir“ og mundi honum ekki detta annað til hugar en letrið ætti sér þýskan höfund út af nafninu. Það sama má segja um Helvetica sem „er náttúrulega gamalt nafn yfir Sviss“ og því rökrétt að kenna það við Sviss. Sem hönnuður sagðist hann þó líklega vera of meðvitaður eða „sýktur“ af þessu en benti á að í mörgum tilfellum sé hægt „að lesa þjóðerni í gegnum letur“ og sagði til dæmis „ef maður skoðar franskt samfélag í gegnum letur, þá lítur það allt öðruvísi út en þýskt“ (SigS_2018_3). Þar má til dæmis sjá fyrir sér Art Nouveau sem dæmigert franskt letur en við gerum það ekki

83 nema þekkja söguna eða hafa fengið einhvers staðar vitneskju um að það sé upprunnið frá Frakklandi um aldamótin 1900. Það má þó gera ráð fyrir að það þekki ekki allir til samskonar sögu og setji því Art Nouveau letur í annað samhengi sem byggir á allt öðrum hugmyndum eða gildum. Eins og Bourdieu bendir á þá sjáum við hlutina samkvæmt því sem menntun hefur fært okkur og „gildir um þann hátt listrænnar skynjunar og hæfileikann til að skoða í og fyrir sjálft sig, sem form frekar en tilgang“ (Bourdieu, 2007: 37). Þannig má segja að þegar við erum farin að sjá letur út frá formum frekar en tilgangi þess, erum við farin að nota hæfileikann til að nýta listræna skynjun og ákveðinn lestur á form letursins sem vísar útfyrir hlutverk þess. Þannig erum við komin með tvennskonar skilning með lestri, annars vegar á hljóðtákn bókstafanna og hins vegar í lestur og skilning á táknmynd letursins. Í grein sem Katherine McCoy skrifaði ásamt David Frej árið 1988, segir að orðanotkun og orðaforði þurfi ekki að vera mikilvægari en notkun táknmynda (e. graphic object), mikilvægast sé að skilaboð milli flytjandans og viðtakandans skili sér, því það er ljóst að við lesum bæði í textann og myndmálið. McCoy skoðaði nýja nálgun á sambandi texta og myndmáls ásamt nemendum sínum í tilraunakenndum verkefnum sem náðu að ögra hönnunarsamfélaginu í lok áttunda og níunda áratugarins í Michigan í Bandaríkjum (Armstrong, 2009: 81). Í greininni skoða McCoy og Frej einnig samhengi milli þess sem er að gerast víðsvegar um heiminn bæði í arkitektúr, ljósmyndun og fleiri listgreinum og segja að listgreinar hafi áhrif hvor á aðra og leiði til sameiginlegra stílbreytinga sem endurtaki sig á vissan hátt. Þau benda á að oftar en ekki megi einnig sjá þróun hönnunar í samhengi við það sem er að gerast í öðrum listgreinum (McCoy og Frej, 2009: 82–83). Þróun leturs er því líklega enginn undantekning, þar líkt og með listir og aðra hönnun eiga breytingar sér stað vegna tækninýjunga en ekki síst vegna löngunar til að skapa eitthvað nýtt og auka fjölbreytni eins og sjá má í fjölbreytileika húsa, bíla og annars sem mætti hafa á sama hátt ef hagkvæmnissjónarmið væru alls ráðandi en þess í stað standa nýungar og breytingar sem tákn síns tíma. Í hvert sinn sem texti höfundarverksins er skráður er táknmynd leturs einnig skráð. Þar með skapar framsetning letursins einnig ákveðinn skilning samhliða höfundarverkinu. Verk hans verður því ekki aðeins röð orða sem birta merkingu þeirra, hún skilar sér einnig með framsetningu letursins. Barthes talar um að skilningur hvers og eins á höfundarverki felist ekki í uppruna þess, heldur ákvörðunarstað og segir að þannig megi sjá lesandann sem rými

84 þeirra skrifa sem textinn samanstendur af og að verkið eigi sér því aðeins framtíð ef lesandinn fær að túlka og njóta á sinn hátt, óháð þeirri goðsögn sem fylgir höfundi þess (Barthes, 1991: 179–180). Þetta skilar sér bæði í orðum textans og framsetningu letursins því þrátt fyrir að hlutverk bókstafa sé fyrst og fremst að koma hljóðtákninu til skila, þá myndar fjölbreytileiki leturs aukna táknsköpun sem skilur eftir sig túlkun fyrir lesendur við hvern flutning textans. Ný form bókstafa beina athyglinni ekki aðeins að orðum textans, þau beina athyglinni einnig að framsetningu hans, þar sem lestur í táknmynd skilað auknu hlutverki um með- vitund tímans, ólíkra samfélaga og allan annan fjölbreytileika sem á sér stað. Aðeins með því að veita hægfara þróun og ólíkri leturnotkun athygli má staldra við, vekja upp hugsanir og vitund um þátttöku og tilgang menningar sem hefur eitthvað að gefa og eitthvað að segja. Þannig má finna fyrir sameiginlegum skilningi og samkennd, því fólk fylgist með og óskar eftir athygli, það vill vera vakandi og geta ögrað til að auka og viðhalda meðvitund.

5.5 Samantekt Hér að framan var tekist á við spurningu rannsóknarinnar um túlkun, áhrif og skilning texta út frá mismunandi leturnotkun. Þrátt fyrir að bókstafir hafi haldið ákveðnum grunnformum sem vísa í hljóðtákn þeirra er ljóst að þeir hafa mótast á ýmsa vegu í gegnum tíðina. Einnig má sjá notkun fjölbreyttra leturforma til aukinnar tjáningar meðfram orðum textans. Það má vera ljóst að tækninýjungar jafnt og tíðarandi hafa sett mark sitt á útlit og breytingar leturs. Hugvit mannsins hefur þó haft mest að segja, hvort sem það á við um tæknilegar úrlausnir, hugmyndir um notkun nýrra forma eða endursköpun leturs frá fyrri tíð. Skoðað var hvers vegna bókaletur, sem við venjumst og auðveldar okkur lestur, er síbreytilegt þó bókstöfum sé fyrst og fremst ætlað að vísa til hljóðtákn síns með skýrum skilaboðum til lesandans. Sýnt var fram á að skilningur texta felst einnig í því hvernig lesa má í og skilja ólík form bókstafanna meðfram lestri á textainnihaldinu og varpar ljósi á tilfinningar sem ólík leturnotkun getur gefið og hvaða áhrif hún getur haft á lestur. Á það bæði við um hvernig má lesa orð textans ásamt því að lesa í og túlka útlit leturs út frá kunnáttu á táknmyndum og myndmáli sem það getur borið með sér. Ekki ósvipað þeirri hugmynd að setja ólík form leturs í samhengi við ýmis raddbrigði sem tungumálið hefur að geyma.

85 6 Sýnileg leturssaga Framlag verkefnisins felur í sér rannsókn á áhrifum, skilningi og túlkun mismunandi letur- forma sem sett er fram í ritgerðinni, ásamt sjónrænni útfærslu leturtöflu með sýnishornum úr íslenskum bókum rannsókninni til stuðnings. Í heild sinni fellur verkefnið undir hagnýta þjóðfræði þar sem lagt er upp með að breikka og dýpka umræðu viðfangsefnis og opna leiðir til að hafa jákvæð samfélagsleg áhrif með miðlun þess á ýmsan hátt (Jón Jónsson og Valdimar Hafstein, 2020). Fjölmargar leiðir má fara til hagnýtingar og kynningar verkefnisins en gerð sýningar er sú aðferð sem ég valdi. Hagnýtt gildi sýningarinnar er ætlað að veita yfirsýn á leturnotkun íslenskra bóka með vísan í sögulegt samhengi. Í þessu tilfelli má sjá kosti sýningarformsins þar sem letrið verður skoðað í nýju samhengi en ekki eins og við eigum að venjast þegar setið er með bók í einrúmi og einbeitingin fer að mestu á innihald textans. Þess í stað verður áherslan lögð á útlit og þróun leturs með óvenjulegri framsetningu sem getur vakið áhuga og nýjar spurningar um viðfangsefnið. Lokahnykkur verkefnisins er því uppsetning sýningar sem verður staðsett í opnu rými þar sem almenningur hefur greiðan aðgang og gefst tækifæri til að staldra við og skiptast á skoðunum um viðfangsefnið. Sýningunni er ætlað að opna augu fólks fyrir þróun og breytingum leturnotkunar bóka á Íslandi í um það bil 1000 ár. Með uppsetningu á töflunni er leturnotkun sett í samhengi og veitir yfirsýn yfir mismunandi leturgerðir sem byggja á sömu grunnhugsun þar sem ein breyting leiðir af annarri. Það má þó velta því upp hvort fortíðin þurfi endilega að vera leiðandi til framtíðar og hvort eitthvað vari að eilífu því órannsakaðar leiðir sem framtíðin býður upp á eru óendanlega margar, eins og Írski heimspekingurinn Charles Handy (1994: 63) hefur bent á. Þessu má jafnvel velta upp þótt aðeins sé verið að horfa til þess hvernig smáir hlutir líkt og letur mótast yfirleitt af fyrri gerðum. Handy álítur að framtíðin þarfnist rótfestu í fortíðinni því leyndardómur að jafnvægi tímans felist í því að leyfa fortíðinni og framtíðinni að mætast í nútíðinni (Handy, 1994: 63). Þannig helst fortíðin í hendur við það sem við gerum í dag og hefur áhrif á það sem við gerum síðar, því hugmyndin um fortíð, nútíð og framtíð verða ekki aðskilin hugtök, þau eru eitthvað sem snertir okkur alla daga. Á þann hátt má einnig skilja og átta sig betur á þróun leturforma og hvernig þau geta veitt ólíkar tilfinningar og skilning ekki aðeins vegna mismunandi forma þeirra heldur vegna ólíkra skilaboða sem eru háð þekkingu okkar. Með sýningunni vonast ég til að verkefnið verði aðgengilegt og sýnileiki þess skapi umræður og meðvitund um breytileika leturs og

86 margvísleg áhrif sem það getur haft þrátt fyrir að okkur finnist letur oft á tíðum vera svo til alltaf eins.

6.1 Sýningar og safnastarf Uppbygging og sýning leturtöflunnar byggir á starfsemi safna sem hafa safneign sína aðgengilega almenningi bæði með skrásetningu og sýningarhaldi. Til að átta sig betur á hugmyndinni sem liggur að baki safnastarfi er gott að virða fyrir sér skilgreiningu orðsins safn eða söfn sem er „eitthvað sem safnað hefur verið saman“, eða „stofnun þar sem safngripir eru geymdir“ svo sem bókasafn eða þjóðminjasafn (Árni Böðvarsson, 1993: 797). Sýningar hafa einnig verið stór hluti safnastarfs og löng saga formlegs safna- og sýninga- starfs þekkt en hefur þó tekið töluverðum breytingum í aldanna rás, á það bæði við um hverju er safnað, hvað er sýnt, hver setur sýningarnar fram og hverjir hafa aðgengi að þeim. Fyrstu veraldlegu safnastofnunina má rekja til Alexandríu allt til þriðju aldar fyrir Krist (Sigurjón B. Hafsteinsson, 2015: 7). Það var þó ekki fyrr en í lok 18. aldar í kjölfar frönsku byltingarinnar að söfn sem höfðu einungis verið aðgengileg yfirstéttinni voru opnuð almenningi (Bazin, 2012: 20). Aukin meðvitund safna um samfélagslegt hlutverk sitt ásamt aukinni þátttöku samfélagsins er sú breyting sem einna helst getur lýst safnastarfi undanfarinna áratuga. Það hafa Karp og Kratz (2014: 279) fjallað um í bók sinni Museum as Process og segja að breytingar safna séu í takt við breytingar í samfélaginu, þær hafi þó ekki alltaf komið til af sjálfu sér heldur vegna háværrar gagnrýni um aukna þátttöku allra samfélagsþegna. Robert R. Janes (2013: 281) hefur einnig bent á það í bók sinni Museums and the Paradox of Change að óhætt sé að segja að á síðastliðinni öld hafi hlutverk safna orðið að stöðum til að læra og afla sér vitneskju, ekki aðeins fyrir almenning, það eigi ekki síður við um menntastofnanir sem hafa mikilvæga þýðingu fyrir samfélagið. Janes (2013: 270) bendir einnig á að söfn eru eilíft að breytast, þau hafi hvorki upphaf né endi því þau eru í stöðugri þróun. Nú á tímum má sjá breytt hlutverk og nýjar áskoranir safna skapast með aukinni þátttöku samfélagsins, þannig geta söfn nýtt safneign sína til að koma ólíkum viðhorfum og skoðunum á framfæri með túlkun ólíkra einstaklinga og hópa á safnmunum. Í grein sinni „On ethics, activism and human rights„ talar Sandell (2011: 130–131) um hugarfars- breytingu sem hefur orðið undanfarna áratugi í tengslum við fræðslugildi safna, rann- sóknir, varðveislu og aðgengi fyrir fjölbreyttari hópa gesta og hvernig það hefur leitt til

87 aukins áhuga á fleiri og fjölbreyttari sýningum. Það má því segja að með aukinni þátttöku samfélagsins fylgi breytingar og áskoranir sem opna á nýja möguleika og fjölbreyttari leiðir til þátttöku og nýtingu safnkostsins sem hefur einnig nýst mér við gagnaöflun og gerð sýningar minnar.

6.2 Form sýningar Það má vera ljóst að mikil vinna liggur yfirleitt að baki stórum og glæsilegum sýningum sem ætlað er að standi lengi, jafnvel til nokkurra ára. Hún getur legið í rannsóknar- og þróunar- vinnu, aðlögun að húsnæði, sýningarhönnun, uppsetningu og kynningu. Janes (2013: 280) hefur bent á að það hafi þótt viðeigandi til langs tíma að halda stórar og langar sýningar um óákveðinn tíma á eign safna en þess konar sýningar eru þó ekki alltaf ákjósanlegar. Það mætti því hugsa sýningarstarf á fleiri vegu og bjóða til dæmis upp á smærri sýningar með viðkomu utanaðkomandi aðila eða almennings. Í því samhengi bendir Raymond A. Silverman safnafræðingur á, í inngangi bókar sinnar Museum as Process að samstarf við samfélagið geti verið gefandi og komið fram með áhugaverðar og óvæntar niðurstöður, þrátt fyrir flækjur og vandamál sem geta skapast við samstarfið (Silverman, 2015: 1). Aðgengileg gagnasöfn geta þannig boðið upp á samvinnu og möguleika á uppsetningu sýninga á þeirra efni. Aðkoma einstaklinga og smærri hópa getur því verið ákveðinn kostur fyrir safnið og aukið upplýsingar um efni ef þeim gefst tækifæri til að setja fram nýja sýn sem starfmenn safna þekkja ekki eða hafa enn ekki rannsakað. Það er þó ekki auðfengið fyrir hvern sem er að taka þátt í úthugsuðum og stórum vettvangi safnanna. Við undirbúning sýningar minnar kannaði ég því möguleika á litlum rýmum í húsnæði safna og stofnana, þar sem svæði við innganga, veitingasölur eða auð millirými komu til greina. Þessi svæði skoðaði ég með hugmyndir um gerð smásýningar sem auðvelt væri að setja upp, lítið mál að taka aftur niður og færa á nýjan stað. Á þann hátt gefst tækifæri til að setja hana upp á fleiri stöðum og skapa áframhaldandi sýnileika á efnið. Fyrsti sýningarstaður leturtöflunnar hefur verið fundinn staður og stund á Þjóðminjasafni Íslands á sýningarvegg sem nefnist „Torgið“ og verður hún sett upp 19. maí 2021. Staðsetning veggsins er inn af miðaafgreiðslu safnsins og markast af kaffihúsi og inngangi safnaverslunar. Þetta er rými sem öllum er frjálst að fara inn á þó það hafi ekki í huga að fá aðgang að grunnsýningu safnsins sem staðsett er á þremur hæðum hússins.

88 Hugmyndin er því að setja sýninguna upp í opnum rýmum, þar sem fólk getur staldrað við og hitt aðra með óformlegum hætti. Ólíkt því að mæta í afmarkaða sýningarsali þar sem fólk boðar sig með formlegum hætti til dæmis með því að greiða fyrir aðgang. Samkvæmt Sandell getur samtal sýningar við samfélagið haft í sér mikinn mátt, sér í lagi þar sem fólk fær tækifæri til að samsama sig og spegla við umfjöllunarefnið (Sandel, 2011: 139). Samtal sýningar við einstaklinga og smærri hópa, í opnu og aðgengilegu rým,i býður á þann hátt upp á óformlegt samtal sem getur náð til fjölbreyttari hóps sýningargesta en formlegar uppákomur. Færanleg, óhefðbundin en fyrst og fremst aðgengilegt sýning ætti á þann hátt að geta vakið áhuga og meðvitund hjá ólíkum einstaklingum og hópum á leturnotkun úr íslenskum bókum, þróun þess og hvernig framvinda leturs getur mögulega mótast áfram.

6.3 Aðdragandi og undirbúningur sýningar Rannsókn mín og sýning er framhald þeirrar umræðu sem þegar hefur átt sér stað á breytingum og notkun leturs, ég hef því leitað til fjölda rannsókna og fræða mér til stuðnings. Þróun og leturnotkun hefur verið sett í ýmis samhengi og tekist á um hana með skrifum fræðamanna, umfjöllun einstaklinga auk fjölda uppsetninga sýninga sem gengið hafa út frá ýmsum vinklum leturnotkunar. Með því að setja hluti og jafnvel tíma í ákveðin hólf og flokka, líkt og ég hef kosið að gera með skipulagðri uppröðun leturs, er ég að gera ákveðna tilraun til að koma röð og reglu á rannsóknina og auka með því yfirsýn. Skipulag og flokkun er sammannlegt fyrirbæri þó það sé ekki alltaf gert á sama hátt eins og Karp og Kratz (2014: 289) hafa talað um. Þau benda jafnframt á að ákveðin grundvallaratriði segi oftast til um það hvernig best sé að safna og flokka en það sué ekki til neinar leiðbeiningar sem segja nákvæmlega til um það hvað er réttast og ekki sé að finna neina eina aðferð sem hentar öllum (Karp og Kratz, 2014: 285). Innan safna er ákveðið utanumhald og stefna sem snýr að forsendum þeirra en það er mikilvægt að söfn átti sig á því hvernig þau geta nýst samfélaginu svo fólk hafi einnig tækifæri til að tjá sig og koma skoðunum sínum á framfæri (Watson, 2015: 228). Þessi hugsun er orðin við lýði víða á söfnum sem hafa gert viðkvæma safngripi sína sýnilega á stafrænu formi á opnum vefsíðum og gera með því safneign sína öllum aðgengilega. Á þann hátt var mér gert kleift að safna letursýnishornum úr handritum og gömlum bókum sem eru aðeins til í örfáum eintökum og gat því verið erfitt að nálgast nema með rafrænum hætti. Auk þeirra eru letursýnishorn úr aðgengilegum bókum almenningsbókasafna sem

89 auðvelt var að leita að í rafrænum gagnagrunni, þar sem finna má upplýsingar um safneign og nálgast síðan á söfnunum sjálfum. Af þeim söfnum sem nýttust mér best, ber fyrst að nefna tvö söfn sem veita aðgang að stafrænum gögnum. Á þeim eru handrit og prentaðar bækur sem hafa verið myndaðar síðu fyrir síðu og settar upp á vefsíður safnanna með upplýsingum um ártal og fleira. Annað safnið veitir aðgang að sögulegum handritum á vefsíðunni handrit.is, og hefur að geyma sameiginlega skrá yfir íslensk og norræn handrit sem varðveitt eru á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Árnasafni í Kaupmannahöfn (d. Arnamagnæanske Samling) og á handritadeild Landsbókasafns - Háskólabókasafns (Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn/1, 2020). Annað stafrænt myndasafn veitir aðgang að safneign sinni og býður upp á myndir af síðum gamalla íslenskra bóka á vefsíðunni baekur.is, það er rekið af Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni. Markmið safnsins er að birta á vefnum stafræna útgáfu af öllum íslenskum bókum sem gefnar voru út fyrir árið 1870. Helsta markmiðið með birtingu bókanna er að miðla íslenskri menningu með því að gera hana aðgengilega á vefnum, veita aukna þjónustu og tryggja um leið langtímavarðveislu gagna Háskólabókasafnsins (Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn/2, 2020). Að auki nýttust mér tvö bókasöfn sem bjóða upp á sameiginlegan leitarvef á leitir.is. Á vefnum má finna bækur og nálgast þær síðan á söfnunum, annars vegar í Þjóðarbókhlöðunni og hins vegar í útibúum Borgarbókasafnsins. Bækur úr einkasöfnum og mínu eigin safni nýttust einnig við söfnun letursýnishorna. Leturtaflan byggir á minni rannsóknarvinnu ásamt aðgengilegum letursýnishornum af gagnagrunnum áðurnefndra safna. Opinn aðgangur þeirra hefur nýst við gerð þessa verkefnis og getur einnig styrkt stöðu safnanna með aukinni meðvitund almennings á safneign og virkni þeirra. Sambönd og samstarf eru kjarninn í safnastarfi. Með samvinnu ólíkra hópa geta ný viðhorf og gildismat orðið til, þannig geta verkefni, fræðsla, þróun og sköpunarkraftur safnanna og samfélagsins unnið saman og mótað ný sjónarmið og viðhorf (Karp og Kratz, 2014: 279). Þrátt fyrir að ég vinni ekki innan ákveðins safns getur aðgengi að safneign safnanna sem nýttust styrkt stöðu og sýnileika þeirra allra. Söfn má sjá sem ákveðinn brunn eða geymslu þekkingar sem hefur verið safnað saman á einum stað, líkt og Silverman hefur bent á og segir að mikilvægi safna sé að rúma fjölþætta starfsemi svo þau geti mætt nýjum hugsunum og lifnaðarháttum, bæði vitsmunalegum og fræðilegum, í menningarlegu samfélagi (Silverman, 2015: 2). Á þann hátt getur aðgengi að safneign ekki

90 aðeins aukið fræðslugildi og víðsýni til samfélagsins það getur einnig haft gagnkvæm áhrif og aukið enn á gæði og sýnileika safnanna.

6.4 Sýningarhönnun Leturtaflan er uppistaða sýningarinnar þar sem letursýnishorn eru sett upp með áherslu á tímabil og bókmenntaflokka. Leturtaflan er grunnur rannsóknarinnar, úr henni eru sýnis- horn höfð til stuðnings í 4. kafla og nýttust þau einnig við gerð textablaða fyrir viðtölin sem greind eru fyrir 5. kafla. Að lokum er sýning töflunnar sett upp í stærðinni 120 x 420 cm og eru upplýsingar um heiti letursins, bækurnar og útgáfuár meðal þess sem lagt er til grundvallar með hverju letursýnishorni. Þar sem rannsóknin fjallar aðeins um leturformið en ekki um aðra þætti bókanna eru öll sýnishornin höfð á hvítum bakgrunni. Áferð skrif- flatarins hefur því verið hreinsaður burt til að leggja áherslu á form og einkenni letursins. Taflan er sett upp með hliðsjón af fimm bókmenntaflokkum til að auka sýn og skilning á leturnotkun í samræmi við innihaldi bóka. Flokkarnir fimm skiptast upp í lögbækur, kristilegar bækur, Íslendingasögur, kveðskap og matreiðslubækur. Á þann hátt má bæði sjá frá hvaða tímum leturdæmin eru og einnig hvaða bókmenntaflokkum þau tilheyra. Taflan sýnir því ekki aðeins hvernig letur tekur breytingum frá einum tíma til annars, þar má einnig bera sama leturnotkun innan ólíkra bókmennta og hvenær helstu breytingar áttu sér stað í hverjum bókmenntaflokki fyrir sig. Megin tilgangur þess að skipta leturtöflunni upp í ákveðna flokka bóka er því ekki aðeins að sjá hvernig letur hefur þróast heldur sýnir hún einnig hvort þróun leturs er sambærilegt eftir innihaldi bóka og um leið hvort setja megi leturnotkun í samhengi við ákveðna samfélagshópa. Það er því tilgangurinn með töflunni að fá yfirsýn og skilning á því hvernig þróun leturs hefur átt sér stað á um það bil tíu öldum og á hvaða tímum má merkja helstu breytingar innan hvers bókmenntaflokks. Sjónrænar heimildir geta haft sterk áhrif og stutt við ritaðar heimildir og öfugt. Það er því mikilvægt að allir þættir verkefnisins vinni saman þar sem upplýsingar úr ritgerðinni eru hafðar með letursýnishornum í töflunni ekki síður en að fá letursýnishorn úr töflunni inn í ritgerðina. Silverman hefur talað um að mismunandi skilningur og túlkun eigi ekki aðeins við um vitneskju sem hefur verið rituð í bækur, hún á einnig við um alla meðvitund og þekkingu sem fer á milli í tíma og rúmi, allt sem virðist lifa með og umlykja samfélög gegnum kynslóðir (Silverman, 2015: 3). Þessu fann ég fyrir í ferli verkefnisins þegar margir og ólíkir þættir höfðu áhrif á gerð þess. Það kom meðal annars skýrt fram í gagnrýni sem

91 ég fékk frá samnemendum mínum á söguhlutann í 5. kafla. Ég hafði sett nokkur letursýnishorn í kaflann sem vísa í umrædd letur hverju sinni en fékk ábendingu um að bæta enn fleiri sýnishornum inn í kaflann. Þessu varð ég sammála og mundi hversu mikilvægt var að komast vel af stað með söfnun og uppsetningu töflunnar til þess að hafa sýnilegt yfirlit leturnotkunar þegar ég hóf aðra þætti rannsóknarinnar. Ég bætti því fleiri sýnishornum úr töflunni inn í kaflann til að styrkja frásögn söguhlutans. Þar vinna myndir og útskýringar saman sem eykur skilning á því um hvers konar letur er að ræða hverju sinni þar sem textalýsing og myndlýsing styðja við hvort annað í þessum kafla, jafnt og öllum liðum verkefnisins. Allir tímar hafa sín viðmið og ekki er gott að vita hvað þykir mikilvægt að varðveita hverju sinni því gildismat hluta virðist vera ólíkt eftir tíma og menningu. Þannig má sjá hvernig ólíkt verðmætamat milli kynslóða miðaldarhandrita hefur leitt til þess að allmörg þeirra hafa glatast vegna annars gildismats um tíma. Mikið fé og vinna var upphaflega lagt í gerð handrita sem voru þá miklir dýrgripir. Á síðari hluta 17. aldar og í upphafi 18. aldar, þegar Árni Magnússon fór um landið og safnaði handritum, lágu mörg þeirra undir skemmdum, voru notuð í ýmsa nytjahluti eða þeim lítið sinnt. Í dag þykja þau enn á ný miklir dýrgripir og eru varðveitt við bestu aðstæður. Það ber því að hafa í huga að val á munum eða sýnishornum ræðst ekki aðeins af því hvað var skrifað eða prentað, það ræðst einnig af því hvað hefur varðveist, hvenær er safnað og hver tekur safnið saman. Varðveitt saga flestra tíma, hvort sem hún er skráður texti eða varðveitt efnismenning, einkennist oft af skráningu sigurvegarans eða þeirra sem staðið hafa upp úr í samfélaginu á hverjum tíma vegna veraldlegs eða félagslegs auðs. Silverman segir að hafa þurfi í huga að þekking sem fer á milli menningarheima og kynslóða sé aldrei skilin á sama hátt, því hún verði ávallt fyrir áhrifum af túlkun samtímans en hann bendir jafnframt á að markmið sýninga sé að skapa umræðu um þekkingu (Silverman, 2015: 4). Samhengið getur því skipt miklu máli, hvað er sýnt, hvar það er sýnt, hver setur sýninguna upp og með hverjum fólk deilir vitneskjunni. Það sem er sett inn á söfn getur haft áhrif á það hvernig fólk sér sjálft sig, hvernig aðrir sjá það og hvaða vitneskju og skilningi um samfélagið er viðhaldið (Ashley, 2012: 187). Fólk skilur hlutina á ýmsa vegu og túlkar hvert á sinn hátt. Nýr skilningur getur myndast á hverjum tíma í nýju samfélagi en með uppsetningu sýningar minnar er framsetning, meðvitund og umræða um þróun og breytingar leturs höfð að leiðarljósi, út frá þeim heimildum sem hafa varðveist og eru mér aðgengilegar.

92 Hvort sem sýningar fjalla um gamlar hefðir eða sígilda sögu, byggja þær ávallt á viðhorfum rannsakenda og þeirra sem vinna að gerð sýninganna. Ég stóð því frammi fyrir þeirri ákvörðun að velja letur sem telja má einkennandi fyrir hvert tímabil. Það var þó ekki alltaf augljóst hvaða leturdæmi voru bestu fulltrúarnir í sögu leturnotkunar. Ég þurfti oft að vega og meta hvaða dæmi komu helst til greina og stundum var erfitt að segja til um hvort niðurstaðan væri nákvæmlega sú eina rétta. Eins og Silverman (2015: 3) hefur bent á bera hlutir og viðfangsefni ávallt með sér marglaga þekkingu og alltaf má finna fleiri en eina hlið á hverju umfjöllunarefni. Leturnotkun í prentuðum bókum, sérstaklega fram um miðja 19. öldina, lá nokkuð ljós fyrir, því fjölbreytileiki leturnotkunar í þeim var ekki mikill. Aftur á móti var erfiðara að skilgreina letur í handritum og átti það ekki síst við um handrit sem skrifuð voru þegar líða tók á 15. öldina og þau sem eru yngri en það. Allflest varðveitt handrit frá 12. öld og fram á 15. öld komu þó til greina því þau voru að öllum líkindum rituð af lærðum skrifurum sem notuðu flestir fastmótaða settaskrift síns tíma. En um og eftir að prentun hófst fór að fjölga bókum sem innihalda fjölbreytt og persónuleg skriftareinkenni léttiskriftar sem ég leitaði ekki eftir. Gagnagrunnar á síðunum handrit.is og baekur.is fleyttu mér langt inn á 19. öldina í letursýnishornum úr handritum og prentuðum bókum aðgengilegum á rafrænu formi. Sýnishorn úr yngri bókum fann ég á bókasöfnum og einkasöfnum sem ég skannaði inn og setti í stafrænt form fyrir gerð töflunnar. Öll sýnishornin þurfa að vera í stafrænum myndaskjölum sem ég hreinsaði í myndvinnslu- forritinu Adobe Photoshop og setti í umbrotsforritið Adobe InDesign, þar sem þægilegt er að vinna með uppsetningu töflunnar og setja letursýnishorn á rétta staði ásamt texta- upplýsingum. Þegar letursýnishorn eru skönnuð upp úr bók eða handriti verður ritflöturinn einnig sýnilegur og sést þá nokkuð vel hvort letrið var á bókfelli, gömlum grófum pappír eða nýjum og verður með því ákveðin tilfinning fyrir tíðaranda sýnileg. Þannig getur til dæmis grófur ritflötur sem hefur þótt eðlilegur fyrr á tímum vakið athygli í dag. Trefjaríkur, grátóna pappír fyrstu prentbókanna skar sig ekki frá öðrum pappír á sínum tíma en gæti gert það ef við berum hann saman við sléttan og hvítan pappír nýrra bóka í dag. Þetta verkefni fjallar einungis um form og gerð leturs en ekki prentverkið í heild sinni. Ég ákvað því að hreinsa alla bakgrunna svo eftir stendur svart letur á hvítum fleti, til þess að athyglin beinist fyrst og fremst að mismunandi formum letursins.

93 Í grein sinni „Education, communication and interpretation“ talar Eilean Hopper- Greenhill um að skilningur sé ferli stöðugra breytinga og aðlögunar sem sjá megi í samspili vitneskju, hugmynda og gildismats, þar sem merkingargildi ræðst af því hvernig við túlkum fortíðina (Hooper-Greenhill, 2006: 13). Með það í huga hef ég sett saman sjónræna letursögu í tímaröð, meðvituð um að þetta er ekki eina rétta leiðin á framsetningu en hún gefur ákveðna yfirsýn og samhengi sem hægt er að vinna út frá og túlka. Því hef ég einnig í huga að hönnuðir sýninga hafa talsvert vald á sinni hendi, þegar þeir velja munum og minjum stað á sýningum, það veltur ekki síst á því sem sett er í forgrunn, hvað er ekki dregið fram og hvað er aukaatriði, allt hefur áhrif þegar kemur að áhorfandanum sem les í tákn sýningarinnar og mótar með sér nýja merkingu (Katla Kjartansdóttir, 2010: 116–117). Merking og túlkun getur aldrei verið endanleg (sbr. Hooper-Greenhill, 2006: 13) vegna þess að þýðing og skilningur skilar sér ekki alltaf á sama hátt frá sýningarhönnuði til áhorfenda, heldur getur það farið eftir samþættum áhrifum á útgangspunkti og forsendum sýningar og fyrirfram vitneskju og hugmyndum áhorfenda. Með aðlögun sýninga að fjölbreyttu samfélagi geta þær átt þátt í ákveðinni vitundar- vakningu og gefið okkur tækifæri til að sjá og skilja fortíðina á gagnrýninn hátt. Höfundar greinarinnar „Who authors the nation?“ hafa talað um að mikilvægi sýninga sé að gefa fólki tækifæri til að skilja og uppgötva fremur en að vera einhvers konar ábreiða eða hlífðar- skjöldur því söfn eru ekki einungis geymsla fyrir það liðna, þau eru einnig umboðsmenn breytinga um leið og þau segja frá og sýna muni sem geta varpað nýju ljósi á samtímann (Runnel of.l., 2011: 335). Þegar leturnotkun er sett í sögulegt samhengi má greina ný form, nýtt útlit og breyttar forsendur sem eru ákveðin framþróun en þó endurtekin stef frá fortíðinni sem varpa ljósi á það hvernig hlutir og gjörðir samfélagsins eru í raun alltaf að endurtaka sig. Með sýningu leturtöflunnar er því hugmyndin að opna umræðu og gefa fólki tækifæri á að átta sig á því hvernig hlutir og gjörðir innan samfélagsins geta stöðugt endurtekið sig þar sem liðnir atburðir skilja eftir sig fjölda tákna og tengja samfélag liðinna tíma við samtímann.

6.5 Samantekt Hér að framan segir frá sýningarhluta verkefnisins þar sem farið var yfir uppbyggingu og gerð leturtöflunnar. Sýningunni er ætlað að varpa ljósi á leturnotkun á Íslandi, sýna þróun leturs og skoða samhengi endurtekinna forma sem taka ákveðnum breytingum í takt við

94 samfélagslega þróun. Farið var yfir sýninga- og safnastarf og skoðað hvernig aukin með- vitund safna um samfélagslegt hlutverk sitt hefur styrkt starf þeirra undanfarna áratugi. Sýningin og öflun gagna var að hluta til unnin út frá gagnagrunni stærri safna sem veita aðgengi að safneign sinni með stafrænum hætti. Auk þess fengust gögn á almennum bókasöfnum og úr bókum í einkaeigu. Í lok kaflans var greint frá aðdraganda og undir- búningi sýningarinnar og hvernig skipulagi hennar er háttað. Farið var yfir nokkra þætti sem snúa að gerð og hönnun sýningarinnar sem saman standa af flokkun sýnishorna, myndvinnslu og samsetningu textaupplýsinga og útfærslu leturtöflunnar í fullri stærð.

95 7 Lokaorð When I came to the Basel School of Design the coarse Berthold Akzidens-Grotesk, so rarely used, was fast asleep in the type drawer under a blanket of dust. I woke it up. (Weingart, 2009: 80)

Svo hljóða lokaorð greinarinnar „My Way to Typography“ sem svissneski hönnuðurinn Wolfgang Weingart skrifaði árið 2000, þá með um fjörutíu ára reynslu að baki í grafískri hönnun. Hann er einna þekktastur fyrir aðkomu nýrrar stefnu eða bylgju innan fagsins á áttunda áratug síðustu aldar sem þekkt er undir nafninu The New Wave eða Swiss Punk Typography. Svissnesk leturfræði hafði mikil áhrif víða um heim á fjórða og fimmta áratugnum en Weingart fannst leturvinnslan þar vera orðin gamaldags og lítið orðið um nýjungar. Það varð honum því hvati til að vinna nýtt og meira spennandi námsefni þegar hann fór sjálfur að kenna, fljótlega eftir að hann lauk námi á sjöunda áratugnum (Weingart, 2009: 77). Hann kenndi grundvallarreglur í leturvinnslu en um leið hvatti hann nemendur sína til að vinna með letur á nýjan og óhefðbundinn hátt og skoða mörk læsileikans. Ásamt nemendum sínum komst hann að því að hægt væri að ganga ansi langt áður en texti verður ólæsilegur (Weingart, 2009: 78). Síðar fór hann að sjá endurtekningar hjá sjálfum sér og var enn á ný tilbúinn að fara gegn ríkjandi stefnum, hvort sem það var að brjóta gamlar hefðir eða hverfa aftur til þeirra. Eins og þegar hann kom í gamla skólann sinn í Basel, mörgum árum eftir að hann lauk kennslu. Þar sá hann gamalt og grófgert Berthold Akzidens-Grotesk steinskriftarletur liggja undir rykugri ábreiðu og fann hjá sér sterka löngun til að lífga það við og vinna með það á nýjan leik. Frásögn greinar Weingart lýsir togstreitu sem getur myndast um notkun leturs. Hún felst í því hvort koma eigi orðaskipan textans á sem skilmerkilegastan hátt til lesenda með einföldu og skýru letri eða hvort letur megi taka þátt í túlkun og frásögn textans með fjölbreyttri eða óhefðbundinni leturnotkun. Í upphafi ritgerðar minnar segir einnig frá þess konar togstreitu því þrátt fyrir löngun sem felst í að skreyta og flúra bókstafina, mega þeir ekki verða of flóknir því að bókstafir standa fyrst og fremst fyrir hljóðgildi sitt. Ég lagði því upp með þá hugmynd að fjölbreytt form leturs feli einnig í sér lestur á tákn- og myndmáli og með þeim hætti geti það haft áhrif á skilning textainnihaldsins. Letursýnishorn úr bókum og söguleg umfjöllun frá elstu varðveittu handritsbrotum til leturnotkunar í dag, gáfu mér yfirsýn yfir sögulegt samhengi sem jók skilning á formum og stílum sem rekja má til samfélagslegra þátta. Þannig setti ég breytingar og þróun leturs í

96 samhengi við tækninýjungar, nýjar kröfur jafnt og afturhvarfs til gamalla tíma en allar eiga þær það sameiginlegt að þær er hægt að rekja til hugsana og hugvits mannsins. Á það við, hvort sem um ræðir hugmyndir um notkun á einföldu letri sem skilar orðum textans án áreitis, til jafns og þegar flóknar og skrautlegar leturgerðir eru notaðar til að ná fram ákveðnum áhrifum. Þannig má einnig setja leturnotkun í samhengi við hugmyndir og tjáningu sem hefur táknræna merkingu út frá samfélagslegum gildum. Rannsóknarefnið var sett í samhengi við hugtök um hefð, táknfræði, áhrif, samanburð, samhengi, sviðsetningu og listfengi. Letur var skoðað með hugtökin í huga þar sem táknmynd textans skilur eftir sig ákveðna tilfinningu og merkingu um tímann ekki síður en textainnihaldið. Uppsetning leturtöflu og greining viðtala mótaði verkefnið sem tók á sig mynd, með sífelldri þróun, milli mín, gagna minna og fræðilegra nálgana. Sýnilegur hluti verkefnisins í formi leturtöflunnar verður að lokum settur upp í opnu rými til að auka samfélagslega vitund um þróun leturs í bókum. Rannsóknin hefur leitt í ljós að fjölbreytt leturnotkun getur skilað ólíkum skilningi og mismunandi áhrifum til lesandans. Túlkun og gildismat textans byggir ekki aðeins á innihaldi hans því táknmynd leturformsins hefur einnig áhrif á upplifun og túlkun lesanda. Skilningur leturforma getur þó verið háður því hvenær textinn er lesinn, hver les og fyrir hvern, hvar það á sér stað og með hvaða hætti. Samkvæmt viðmælendum lesendahópsins má átta sig á mismunandi leturnotkun eftir efnistökum bóka. Þrátt fyrir að þau séu almennt ekki að velta mismundi leturnotkun fyrir sér gátu þau lýst skilningi sínum á fjölbreyttri leturnotkun í samanburði á letri frá ólíkum tímum og leturnotkun í bókum ætluðum ólíkum lesendahópum. Þau töldu mikilvægt að notast við letur sem hentar efni bóka þó það sé ekki augljóst hvernig best sé að útskýra hvenær „rétt letur er á réttum stað“ eins og einn viðmælanda benti á. Það gat þó vafist fyrir viðmælendum lesendahópsins að útskýra hvenær rétt letur er notað en þeir voru nokkuð vissir þegar þeim fannst letur ekki eiga við. Vissulega eru margskonar og mislæsilegar leturgerðir til og tilgangurinn með fjöl- breyttu framboði er ekki alltaf auðséður eins og kom fram hjá viðmælendum lesenda- hópsins. Flestir innan hópsins bentu á að það væri sjálfsagt til einföldunar að nota aðeins eina eða tvær gerðir leturs sem gæti einfaldað textavinnslu og auðveldað lestur. Meðal þeirra kom þó fram að setja má fjölbreytta leturnotkun í samhengi við margt annað. Það væri til dæmis til einföldunar ef allir bílar og fatnaður væru alltaf eins, hvort sem það ætti

97 við um litanotkun, fatasnið eða annað en þau bentu á að sjá megi ákveðna táknsköpun og tjáningu sem myndast með fjölbreytileikanum og mismunandi leturnotkun. Það má meta mismunandi notkun og breytingar leturformsins út frá ólíkum þáttum. Þróun leturs á grundvelli tækninýjunga getur stundum verið nokkuð skýr þegar horft er til tækniframfara allt frá bættum skriffærum til stafrænnar byltingar. Það má þó ekki aðeins sjá merkjanlegan mun frá einu verkfæri til annars því oft hefur ný tækni markast af því að líkja sem best eftir fyrri aðferðum og útliti, hvort sem það var frá áferð sem myndast af dráttum fjaðurpennans yfir í þrykk blýskorinna leturstíla prentlistarinnar eða þaðan yfir í tölvuteiknað letur. Þróun leturformanna má ekki síður rekja til nýrra hugmynda og löngunar í ný og breytt form og framsetningu lesefnisins. En þrátt fyrir að þróun leturs miði í flestum tilfellum að auknum læsileika hafa ekki allir verið á sama máli um hvað sé hentugasta letrið. Fjölmargar ástæður geta legið þar að baki. Má þar nefna aldur, sjón, viðhorf, vana, aðstæður við lestur og margt fleira en ég hef sýnt fram á að jafnvel þessir þættir eru ekki metnir eins á öllum tímum og getur breytileg menning og tíðarandi átt stóran þátt í því hvaða letur telst viðeigandi og best hverju sinni. Mismunandi áherslur og fjölbreytileika leturformanna má sjá sem ákveðna táknmynd eða myndmál sem vinna má með til að túlka og koma til móts við fjölbreytileika lesefnis og ólíka lesendahópa. Ýmsar áherslur má setja á textainnihald með breytilegri leturnotkun. Hana má meðal annars setja í samhengi raddbeitingar, ef horft er til þess hvernig beita má röddinni með mismunandi áherslu og tónhæð í munnlegri frásögn. Á sama hátt er hægt að gefa til kynna áherslur og tilfinningar með fjölbreyttri leturnotkun sem getur haft áhrif á upplestur og skilning textans. Af svörum viðmælenda lesendahópsins er ljóst að lesendur skilja texta ekki aðeins út frá innihaldi hans, því skilningur hans felst einnig í ólíkri leturnotkun sem miðlar áhrifum, tilfinningum og skilningi til lesenda. Þannig geta lesendur túlkað texta ekki aðeins út frá orðum hans, túlkun þeirra er einnig háð þekkingu á sögulegu samhengi og táknmáli samfélagsins. Þannig má túlka orð textans með áhersluauka þar sem vitneskja um áhrif leturs getur verið verkfæri í höndum hönnuða sem þekkja frásögn formanna eftir áralanga reynslu og vinnu með leturframsetningu. Læsileiki textans er þó yfirleitt markmiðið þegar unnið er með letur en þróun þess og breytingar hafa samt sem áður ekki alltaf verið til bóta eins og kom fram hjá viðmælenda- hópi grafískra hönnuða. Þörfin fyrir nýjungar, frumleika og ögrun getur verið sterk og kemur ekki síður fram í leturnotkun en öðrum miðlunarleiðum. Þá má nefna endurnýjun

98 hugsana og hugmynda þar sem nýjungar jafnt sem gömul gildi, þekking eða viðhorf eru sótt aftur í tímann og endurtekin. Þess konar ferli mátti ekki síst greina í viðhorfum hönnuða sem margir hafa sterkar skoðanir og ástríðu fyrir leturvinnslu. Ákveðin festa og einbeiting á námsárum með elju og vilja til að nema af lærimeisturum sínum, getur síðar brotist fram í ögrun og þörf á framþróun á ákveðnum tíma en krafturinn og uppreisnarandi getur síðan hjaðnað með markvissari og staðfastari vinnu eftir því sem árin líða. Í stærra samhengi má sjá þróunarsögu leturs sem línulaga ferli þar sem ein hugmynd eða uppgötvun leiðir til bættra forma og myndar framþróun þar sem ný þekking og reynsla bætist jafnóðum við þegar tímanum vindur fram. Ef letur er skoðað með þetta í huga er hægt að sjá ferli sem hefur átt sér stað frá því menn fóru að skrásetja frásögn á myndrænan hátt. Þannig er hægt að sýna fram á þróun á því hvernig bókstafurinn A hefur tekið hugmynda- og útlitslegum breytingum sem koma til vegna hugvits, nýrra verkfæra og efna, líkt og sjá má á blaðsíðu 11 þar sem samhljóðatákn fyrir uxa mótast á löngum tíma og tekur á sig breytta og skýrari mynd fyrir sérhljóðann A eins og við þekkjum hann í dag. Tilraunir og hugmyndir sem eru ekki endilega á beinu brautinni, eiga sér einnig stað eins og greina mátti í viðtölunum við starfandi hönnuði og í skrifum hönnuða líkt og sjá mátti hjá Weingart í upphafi þessa kafla. Þar er ekki einungis verið að ræða um þróun sem leiðir til nýjunga og betrumbóta, þar má einnig greina löngun og þor í tilraunakennda vinnu sem reynir á mörk athyglinnar og þess læsilega. Margt af því má sjá sem skref aftur á bak, uppreisn eða ákveðna ögrun við ríkjandi leturnotkun. Sú tilraunastarfsemi hefur einnig leitt af sér nýjar uppgötvanir og nýjar leiðir sem marka áhrifaríka frásögn og farveg túlkunar sem gefur texta dýpri og áhrifaríkri merkingu. Það má sjá í tilraunum þegar ný tækni, verkfæri og efni koma til sögunnar en ekki síður þegar okkur finnst tæknin, agi og fullkomnun búin að taka yfir, þá verður ekki síður löngun til að brjótast út úr föstum formum fullkomleikans og hverfa aftur í tímann og taka hefðbundin og gamalgróin gildi upp að nýju. Ef horft er á þess konar ferli má ekki aðeins sjá beina stefnu fram á við, heldur línu sem tekur reglulegan baksnúning á leið sinni fram.

(mynd 24)

99 Samskonar þróun má einnig setja í samhengi við hvers konar hluti eða hugmyndir sem taka breytingum með tímanum, þar sem skref aftur á bak á sér gjarnan stað áður en haldið er áfram. Sýningarhluti verkefnisins greinir frá þróun leturs en fjallar ekki síður um að einfaldir og sjálfsagðir hlutir geta tekið breytingum í gegnum tímans rás án þess að við áttum okkur á því. Að skilja grunninn sem við byggjum á, getur fært okkur dýpri skilning á því sem er til staðar ekki síður en því sem er framundan. Það á ekki aðeins við um einfalda bókstafi sem eru auðskiljanlegir þegar við þekkjum þá vel en geta aftur á mót verið óþjálir og illlæsilegir þegar farið er út fyrir það sem við eigum að venjast. Fjölbreytileg leturnotkun lýsir löngun og þörf til að tjá sig, túlka hlutina og hafa áhrif. Oftast er tilgangurinn sá að gera textann læsilegan og skiljanlegan, stundum með því að láta letrið ekki vekja of mikla athygli svo það hafi ekki áhrif á innihaldið eða öfugt þegar reynt er að vekja athygli á textanum til að fanga áhuga og forvitni lesandans. Letursöguna má setja í stærra samhengi. Hún er í raun samhangandi við þróun sem má sjá í listum, arkitektúr og í fleiri greinum sem við notum til að tjá okkur, óháð því hvað er best fyrir okkur eða það sem kalla mætti best fyrir okkur til að skilja innihald texta á réttan hátt. Breytt útlit getur þannig vakið hjá okkur tilfinningu fyrir nýjum og upphöfnum hlutum, jafnvel þó það valdi erfiðleikum í að meðtaka efni þá getur það skapað nýja sýn. Við sem einstaklingar og sem samfélag varðveitum ekki án tilgangs, við varðveitum það sem við teljum að gagnist okkur. Við þurfum að sjá gildi hlutanna og að þeir tengist okkur á einhvern hátt núna eða síðar, annars lítum við á þá sem rusl eða óþarfa. Meðvitund um fortíðina eykur meðvitund um framtíðina, við getum ekki tekið okkur úr samhengi við önnur samfélög sama hvort þau eru framandi eða forn, því við erum aðeins lítill hluti hringrásar sem við deilum með fleirum. Meðvitund um nærumhverfið, um fortíð og framtíð bæði okkar eigin samfélags og annarra getur aukið samkennd og virðingu fyrir því sem var, er og því sem kemur á eftir okkur. Ef við fáum að kynnast því sem er liðið, veitir það tækifæri til að setja okkur í spor þess sem var og auðveldar okkur að sjá hvað við getum gert til að viðhalda gefandi samfélagi fyrir þá sem á eftir okkur koma. Þannig fáum við tækifæri til að átta okkur á því að við erum hluti af hringrás lífsins þar sem við þurfum að sjá, hlusta og meðtaka okkar eigin tilveru auk annarra sem með okkur eru, voru og verða í framtíðinni. Þannig lít ég á framlag mitt, þrátt fyrir að vinna aðeins með hið smáa, í þessu tilviki letur, sem hefur þó unnið stórkostleg afrek í smæð sinni og hógværð.

100 Heimildaskrá

Prentaðar heimildir

Ahmed, Sara. (2004). Collective Feelings: Or, The Impressions Left by Others. Theory, Culture & Society, 21(2), (25–42).

Ahmed, Sara. (2010). Happy Objects. Í Melissa Gregg og Gregory J. Seigworth (ritstj.), The Affect Theory Reader, (29–51). Durham og : Duke University Press.

Alighieri, Dante. (2018). Víti; Úr Gleðileiknum guðdómlega, (Einars Thoroddsens þýddi). Reykjavík: Guðrún útgáfufélag.

Anttonen, Pertti J. (2005). Tradition through Modernity: Postmodernism and the Nation- State in Folklore Scholarship. Helsinki: Finnish Literature Society.

Armstrong, Helen (ritstj). (2009). Graphic Design Theory: Reading from the Field. Í Helen Armstrong (ritstj.). : Princeton Architectural Press.

Ármann Jakobsson. (2009). Bókmenntir í nýju landi: Íslensk bókmenntasaga frá landnámi til siðaskipta. Reykjavík: Bjartur.

Árni Böðvarsson. (1993). Íslensk orðabók: Önnur útgáfa, aukin og bætt. Reykjavík: Mál og menning.

Ashley, Susan LT. (2012). Museum Volunteers: Between Precarious Labour and Democratic Knowledge Community. Í Jonathan Paquette (ritstj.), Cultural Policy, Work and Identity: The Creation, Renewal and Negotiation of Professional Subjectivities, (187–201). Farnham og Burlington: Ashgate Publishing.

Barthes, Roland. (1991). Dauði höfundarins. Í Garðar Baldvinsson, Kristín Birgisdóttir og Kristín Viðarsdóttir (ritstj.), Spor í bókmenntafræði 20. aldar, (Kristín Birgisdóttir og Kristín Viðarsdóttir þýddu, 173–180). Reykjavík: Háskólaútgáfan.

Barthes, Roland. (1991). Frá verki til texta. Í Garðar Baldvinsson, Kristín Birgisdóttir og Kristín Viðarsdóttir (ritstj.), Spor í bókmenntafræði 20. aldar, (Guðlaug Richter þýddi, 181–190). Reykjavík: Háskólaútgáfan.

Bauman, Richard. (1975). The Keying of Performance. Í Richard Bauman (ritstj.), Verbal Art as Performance (15–24). Prospect Heights: Waveland Press.

Bazin, Germain. (2012). From The Museum Age: Foreword. Í Bettina Messias Carbonell (ritstj.), Museum Studies: An Anthology of Contexts: Second Edition, (19–22). Oxford: Wiley-Blackwell.

Benjamin, Walter. (2008). Aldargömul stafrófskver. Í Ástráður Eysteinsson (ritstj.), Walter Benjamin; Fagurfræði og miðlun: Úrval greina og bókakafla, (Benedikt Hjartarson þýddi, 222–223). Reykjavík: Háskólaútgáfan, Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands.

101 Bergur Þorgeirsson. (2000). Forspjall. Í Guðvarður Már Gunnlaugsson (ritstj.), Reykjaholtsmáldagi, (5–6). Reykholt: Snorrastofa.

Björn K. Þórólfsson. (1948–49). Nokkur orð um íslenzk skrifletur. Árbók Landsbókasafns Íslands, 5–6, (116–152).

Bogatyrëv, Peter og Jakobson, Roman. (1982 [1929]). Folklore as a Special Form of Creativity. Í Peter Steiner (ritstj.), The Prague School: Selected Writings, 1919–1946, (32–46). Austin: University of Texas Press.

Bourdieu, Pierre. (2007). Aðgreining: Félagsleg gagnrýni smekkvísinnar. Í Davíð Kristinsson (ritstj.), Pierre Bourdieu: Almenningsálitið er ekki til, (Gunnar Harðarson þýddi, 33–43). Reykjavík: Omdúrman, Reykjavíkur Akademían.

Bourdieu, Pierre. (2007). Almenningsálitið er ekki til. Í Davíð Kristinsson (ritstj.), Pierre Bourdieu: Almenningsálitið er ekki til, (Egill Arnarson þýddi, 61–81). Reykjavík: Omdúrman, Reykjavíkur Akademían.

Bourdieu, Pierre. (2007). Myndbreyting smekksins. Í Davíð Kristinsson (ritstj.), Pierre Bourdieu: Almenningsálitið er ekki til, (Egill Arnarson þýddi, 45–59). Reykjavík: Omdúrman, Reykjavíkur Akademían.

Braun, Virginia og Clarke, Victoria. (2013). Successful Qualitative Research a Practical Guide for Beginners. Los Angeles: Sage.

Charmaz, Kathy. (2014). Constructing Grounded Theory. Los Angeles: Sage.

Connerton, Paul. (1989). How Societies Remember. Cambridge: Cambridge University Press.

Coulmas, Florian. (1990). The Writing Systems of the World. Oxford: Basil Blackwell.

Davíð Kristinsson. (2007). Inngangur. Í Davíð Kristinsson (ritstj.), Pierre Bourdieu: Almenningsálitið er ekki til, (7–31). Reykjavík: Omdúrman, Reykjavíkur Akademían.

Derolez, Albert. (2003). The Paleography of Gothic Manuscript Books: From the Twelfth to the Early Sixteenth Century. Cambridge: Cambridge University Press.

Douglas, Mary. (1991). The Idea of a Home: A Kind of Space. Social Research, 58(1), 287– 307.

Dundes, Alan. (1989). Folklore Matters. Knoxville: The University of Tennessee Press.

Durkheim, Emile. (1982). The Rules of Sociological Method and Selected Texts on Sociology and its Method, (W.D. Halls þýddi). Í Steven Lukes (ritstj.). New York: The Free Press.

Geertz, Clifford. (1973). The Interpretation of Cultures. New York: Basic Books.

102 Gill, Eric. (2013 [1931]). An Essay on Typography. London: Penguin Books

Gombrich, E.H. (1998). Saga listarinnar, (Halldór Björn Runólfsson þýddi). Reykjavík: Mál og menning.

Guðrún Ingólfsdóttir. (2011). „Í hverri bók er mannsandi“: Handritasyrpur - bókmenning, þekking og sjálfsmynd karla og kvenna á 18. öld. Í Ármann Jakobsson (ritstj. ritraðar), Studia Islandica, 62. bindi. Reykjavík: Bókmennta- og listfræðastofnun Háskóla Íslands: Háskólaútgáfan, 2011

Guðvarður Már Gunnlaugsson. (2002). Skrift. Í Gísli Sigurðsson og Vésteinn Ólason (ritstj.), Handritin: Ritgerðir um íslensk miðaldahandrit, sögu þeirra og áhrif, (63–71). Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar.

Guðvarður Már Gunnlaugsson. (2007). Sýnisbók íslenskrar skriftar. Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar í íslensku fræðum.

Guðvarður Már Gunnlaugsson. (2014). Brot íslenskra miðaldahandrita. Í Rósa Þorsteinsdóttir (ritstj.), Handritasyrpa: Rit til heiðurs Sigurgeiri Steingrímssyni sjötugum 2. október 2013, (121–140). Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Hallbjörn Halldórsson. (1943). Prentlist. Í Guðmundur Finnbogason (ritstj.), Iðnsaga Íslands, 2. bindi, (202–236). Reykjavík: Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík.

Hallbjörn Halldórsson. (1948). Letraval í prentsmiðjum á fyrstu öld prentlistarinnar á Íslandi. Árbók Landsbókasafns Íslands, 3–4, (79–103).

Handler, Richard og Linnekin, Jocelyn. (1984). Tradition, Genuine or Spurious. Journal of American Folklore, 97(385), (273–290).

Handy, Charles. (1994). The Age of Paradox. og Massachusetts: Harvard Business School Press.

Haraldur Bernharðsson. (2013). Fornar stólræður. Í Svanhildur Óskarsdóttir (ritstj.), Handrit úr fórum Árna Magnússonar, (156–157). Reykjavík: Den Arnamagnæanske Samling Nordisk Forskningsinstitut, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Opna.

Haukur Már Haraldsson. (1992). Þróunarsaga leturs. Reykjavík: Iðnú.

Highmore, Ben. (2010). Bitter after Taste: Affect, Food, and Social Aesthetics. Í Melissa Gregg and Gregory J. Seigworth (ritstj.), The Affect Theory Reader, (118–137). Durham: Duke University Press.

Hooper-Greenhill, E. (2006). Education, Communication and Interpretation: Towards a Critical Pedagogy in Museums. Í Eilena Hooper-Greenhill (ritstj.), The Educational Role of the Museum, (3–27). London og New York: Routledge.

103 Ingi Rúnar Eðvarðsson. (1994). Prent eflir mennt: Saga bókagerðar frá upphafi til síðari hluta 20. aldar. Í Jón Böðvarsson (ritstj. ritraðar), Safn til Iðnsögu Íslendinga, VIII. bindi. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag

Janes, R. Robert. (2013). Museums and the Paradox of Change: A Case Study in Urgent Adaptation. London og New York: Routledge.

Jón Helgason. (1958). Handritaspjall. Reykjavík: Mál og menning.

Kapchan, Deborah A. (2003). Performance. Í Burt Feintuch (ritstj.), Eight Words for the Study of Expressive Culture, (121–145). Urbana: University of Illinois Press.

Karp, Ivan og Kratz, Corinne A. (2014). The Interrogative Museum. Í Raymond A. Silverman (ritstj.), Museum as Process: Translating Local and Global Knowledges, (279–298). New York: Routledge.

Katla Kjartansdóttir. (2010). Mótmælastrengur í þjóðarbrjóstinu. Ritið, 10(1), (105–121).

Kinross, Robin. (1987). Introduction to the English-language Edition. Í Jan Tschichold: The New Typography: a Handbook for Modern Designers: The first English Translation of the Revolutionary 1928 document. Berkeley: University of California Press.

Kristín Bragadóttir. (2012). Hrappseyjarprentsmiðja. Bókasafnið, 36, (8–15). Köstling, Konrad. (1997). The Passion for the Whole: Interpreted Modernity or Modernity as Interpretation. Journal of American Folklore, 110(437), (261–76).

Locke, John. (1997). An Essay Concerning Human Understanding. London: Penguin Books.

Loftur Guttormsson (2008). Fræðsluhefðin. Kirkjuleg heimafræðsla. Í Loftur Guttormsson (ritstj.), Almenningsfræðsla á Íslandi 1880–2007, (21–35). Fyrra bindi: Skólahald í bæ og sveit, 1880–1945. Reykjavík: Háskólaútgáfan.

Lubalin, Herb. (1985). Art Director, Graphic Designer and Typographer. Í Gertrude Snyder og Alan Peckolick (ritstj.). New York: American Showcase.

Lupton, Ellen. (2009). Foreword: Why Theory? Í Helen Armstrong (ritstj.), Graphic Design Theory: Reading from the Field, (6–8). New York: Princeton Architectural Press.

Löfgren, Orvar. (2014). The Black Box of Everyday Life: Entanglements of Stuff, Affects, and Activities. Cultural Analysis 13, (77–98).

Löfgren, Orvar. (2016). Emotional Baggage: Unpacking the Suitcase. Í Jonas Frykman og Maja Povrzanović Frykman (ritstj.), Sensitive Objects: Affect and Material Culture, (125–151). Lund: Nordic Academic Press.

McCoy, Katherine og Frej, David. (2009 (1988)). Í Helen Armstrong (ritstj.), Graphic Design Theory; Readings from the Field, (81–83). New York: Princeton Architectural Press.

104 Már Jónsson. (2002). Fyrstu línur á blaðsíðum skinnhandrita: Fyrir ofan eða neðan efsta strik? Gripla XIII, 13, (217–230).

McNeil, Paul. (2017). The Visual History of Type. London: Laurence King.

Ogg, Oscar. (1950). The 26 Letters. New York: Thomas Y. Crowell Company.

Ong, J. Walter. (2002 [1982]). Orality and Literacy; The Technologizing of the Word. London og New York: Routledge.

Ólafur Halldórsson. (1989). Skrifaðar bækur. Í Frosti F. Jóhannsson (ritstj.), Íslensk þjóðmenning VI; Munnmenntir og bókmenning, (57–89). Reykjavík: Bókaútgáfan Þjóðsaga.

Ónefndur. (1845). Um latínuletur. Fjölnir 8, (28–33).

Pink, Sarah. (2007). Doing Visual Ethnography: Second Edition. London: Sage.

Pink, Sarah. (2015). Doing Sensory Ethnography: 2nd Edition. Los Angeles,: Sage.

Povizanovic Frykman, Maja. (2016). Sensitive Objects of Humanitarian Aid: Coporeal Memories and Affective Continuties. Í Jonas Frykman og Maja Povrzanović Frykman (ritstj.), Sensitive Objects: Affect and Material Culture (79–107). Lund: Nordic Academic Press.

Rask, Rasmus. (1830). Lestrarkver handa heldri mann börnum með stuttum skíringargreinum um stafrofið og annað þartil heyrandi, samið af Rasmúsi Rask, Prófessor í bókmenntafræði, bókaverði Háskólans og meðlim af ýmislegum lærðum Félögum. Kaupmannahöfn: Hið íslnezka bókmenntafélag.

Rosen, Michael. (2015). Alphabetical: How Every Letter Tells a Story. Berkeley: Counterpoint.

Runnel, P., Tatsi, T. og Pruulmann-Vengerfeldt, P. (2011). Who Authors the Nation? The Debate Surrounding the Building of the New Estonian National Museum. Í Knell, S.J., Aronsson, P., Amundsen, A.B., Barnes, A.J., Gosselin, V., Hughes, S.A., Kirwan, A. (ritstj.), National Museums; New Studies from Around the World, (325–338). London og New York: Routledge.

Sandell, Richard. (2011). On Ethics, Activism and Human Rights. Í Janet Marstine (ritstj.), The Routledge Companion to Museum Ethics: Redefining Ethics for the Twenty-First- Century Museum, (129–145). New York: Routledge. de Saussure, Ferdinand. (1986 [1916]). Course in General Linguistics, Ferdinand de Saussure, (Wade Baskin þýddi). New York: McGraw-Hill Book Company.

Shklovskíj, Viktor. (1991). Listin sem tækni. Í Garðar Baldvinsson, Kristín Birgisdóttir og Kristín Viðarsdóttir (ritstj.), Spor í bókmenntafræði 20. aldar, (21–42). Reykjavík: Háskólaútgáfan.

105 Sigurður Gylfi Magnússon. (2004). Fortíðardraumar: Sjálfsbókmenntir á Íslandi. Í Davíð Ólafsson, Már Jónsson og Sigurður Gylfi Magnússon (ritstj. ritraðar), Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar, 9. bindi. Reykjavík: Háskólaútgáfan.

Sigurður Ægisson. (2015). Íslenska Biblían: Ágrip rúmlega fjögurra alda sögu. Siglufjörður: Sigurður Ægisson.

Sigurjón Baldur Hafsteinsson. (2015). Ræktunarstarf byggðasafna. Í Sigurjón Baldur Hafsteinsson (ritstj.), Byggðasöfn á Íslandi, (7–17). Reykjavík: Rannsóknasetur í safnafræðum við Háskóla Íslands.

Silverman, Raymond A. (2015). Introduction: Museum as process. Í Raymond A. Silverman (ritstj.), Museum as process: Translating Local and Global Knowledges, (1– 18). London og New York: Routledge.

Snæfríður Þóra Egilsson. (2006). Á heimavelli: Að rannsaka eigin starfsvettvang. Í Rannveig Traustadóttir (ritstj.), Fötlun: Hugmyndir og aðferðir á nýju fræðasviði, (107–121). Reykjavík: Háskólaútgáfan.

Soffía G. Guðmundsdóttir og Laufey Guðnadóttir. (2002). Bókagerð á miðöldum. Í Gísli Sigurðsson og Vésteinn Ólason (ritstj.), Handritin: Ritgerðir um íslensk miðaldahandrit, sögu þeirra og áhrif, (45–61). Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar.

Steingrímur Jónsson. (1989). Prentaðar bækur. Í Frosti F. Jóhannsson (ritstj.), Íslensk þjóðmenning VI; Munnmenntir og bókmenning, (91–115). Reykjavík: Bókaútgáfan Þjóðsaga.

Steingrímur Jónsson. (1997). „Núpufellsbók“ Gömul, prentuð lögbók án útgáfustaðar og árs. Ritmennt, 2(1), (35–54).

Svanur Jóhannesson. (2014). Prentsmiðjueintök: Prentsmiðjusaga Íslands. Reykjavík: Hveragerði.

Taylor, S.J., Bogdan R. og DeVault, M.L. (2016). Introduction to Qualitative Research Methods: A Guidebook and Resource, 4th edition. New Jersey: John Wiley & Sons.

Teresa D. F. Njarðvík. (2018). Íslenskar rúnir, 1000 ára saga. Reykjavík: Almenna bókafélagið, BF–útgáfa.

Tschichold, Jan. (1987). The New Typography: a Handbook for Modern Designers: The first English Translation of the Revolutionary 1928 document, (Ruari Mclean þýddi). Berkeley,: University of California Press.

Vésteinn Ólason. (2002). Samfélag og bókmenning. Í Gísli Sigurðsson og Vésteinn Ólason (ritstj.), Handritin: Ritgerðir um íslensk miðaldahandrit, sögu þeirra og áhrif, (25–43). Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar.

Vésteinn Ólason. (1989). Bóksögur. Í Frosti F. Jóhannsson (ritstj.), Íslensk þjóðmenning VI; Munnmenntir og bókmenning, (161–127). Reykjavík: Bókaútgáfan Þjóðsaga.

106 Warde, Beatrice. (2009 [1930]). The Crystal Goblet, or Why Printing Should Be Invisible. Í Helen Armstrong (ritstj.), Graphic Design Theory; Readings from the Field, (39–43). New York: Princeton Architectural Press.

Watson, Sheila. (2015). Communities and Museums: Equal partners? Í Raymond A. Silverman (ritstj.), Museum as Process: Translating Local and Global Knowledges, (228–245). London og New York: Routledge.

Weingart, Wolfgang. (2009 [2000]). My Way to Typography. Í Helen Armstrong (ritstj.), Graphic Design Theory; Readings from the Field, (77–80). New York: Princeton Architectural Press.

Woodward, Ian. (2007). Understanding Material Culture. London: Sage Publications.

Þorbjörn Broddason. (2005). Ritlist, prentlist, nýmiðlar. Reykjavík: Háskólaútgáfan.

Þorsteinn Þorsteinsson. (1994). Þættir úr letursögu. Í Jón Böðvarsson (ritstj. ritraðar), Safn til Iðnsögu Íslendinga, VIII. bindi. Prent eflir mennt, (489–550). Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.

Þórgunnur Snædal. (1998). Íslenskar rúnir í norrænu ljósi. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags, 94, (5–33).

Vefheimildir

British Library. (2020). Sótt 18. júlí 2020 á: https://www.bl.uk/collection-items/alcuins- letter-collection

Carlevaro, Eva. (2019). Sótt 18. júlí 2020 á: https://blog.nationalmuseum.ch/en/2018/10/the-oldest-writing-in-switzerland/

Jón Jónsson og Valdimar Tryggvi Hafstein. (2020). Sótt 23. maí 2020 á: https://ugla.hi.is/kennsluskra/index.php?tab=nam&chapter=namskeid&id=70941720 210&namskra=0)

Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn/1. (2020). Sótt 3. júní 2020 á: handrit.is/is/

Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn/2. (2020). Sótt 3. júní 2020 á: baekur.is/about

LogS. (2001). Sótt 2. febrúar 2020 á: www.handritinheima.is/sagan/handritageymd/15- oldin.htm

Prentsögusetur. (2020). Sótt 1. ágúst 2020 á: https://prentsogusetur.is/upphaf- prentunar-a-islandi/#videy

107 Viðtöl

SigS_2018_1. Viðtal Sigrúnar Sigvaldadóttur við Soffíu Árnadóttur á vinnustofu/heimili viðmælanda, 5. október 2018. Upptaka og uppskrift í vörslu höfundar.

SigS_2018_2. Viðtal Sigrúnar Sigvaldadóttur við Hildigunni Gunnarsdóttur á vinnustofu viðmælanda, 15. október 2018. Upptaka og uppskrift í vörslu höfundar.

SigS_2018_3. Viðtal Sigrúnar Sigvaldadóttur við Stefán Snæ Grétarsson á vinnustað viðmælanda, 26. október 2018. Upptaka og uppskrift í vörslu höfundar.

SigS_2019_1. Viðtal Sigrúnar Sigvaldadóttur við Helga Kristjánsson á heimili viðmælanda, 4. júní 2019. Upptaka og uppskrift í vörslu höfundar.

SigS_2018_2. Viðtal Sigrúnar Sigvaldadóttur við Björgu Örlygsdóttur á heimili viðmælanda, 4. júní 2019. Upptaka og uppskrift í vörslu höfundar.

SigS_2018_3. Viðtal Sigrúnar Sigvaldadóttur við Kjartan Ólafsson á vinnustofu höfundar, 5. júní 2019. Upptaka og uppskrift í vörslu höfundar.

SigS_2018_4. Viðtal Sigrúnar Sigvaldadóttur við Össu Þorvarðardóttur á vinnustofu höfundar, 6. júní 2019. Upptaka og uppskrift í vörslu höfundar.

SigS_2018_5. Viðtal Sigrúnar Sigvaldadóttur við Ingólf Pétursson á vinnustað viðmælanda, 1. ágúst 2019. Upptaka og uppskrift í vörslu höfundar.

SigS_2018_6. Viðtal Sigrúnar Sigvaldadóttur við Guðrúnu Hálfdánardóttur á vinnustofu/ heimili viðmælanda, 3. ágúst 2019. Upptaka og uppskrift í vörslu höfundar.

SigS_2018_7. Viðtal Sigrúnar Sigvaldadóttur við Áslaugu Birna Hafstein á heimili viðmælenda, 4. ágúst 2019. Upptaka og uppskrift í vörslu höfundar.

SigS_2018_8. Viðtal Sigrúnar Sigvaldadóttur við Helga Þorgils Friðjónsson á vinnustofu/ heimili viðmælanda, 20. ágúst 2019. Upptaka og uppskrift í vörslu höfundar.

SigS_2018_9. Viðtal Sigrúnar Sigvaldadóttur við Þorstein Gunnarsson á heimili viðmælenda, 6. nóvember 2019. Upptaka og uppskrift í vörslu höfundar.

SigS_2018_10. Viðtal Sigrúnar Sigvaldadóttur við Finn Malmquist á vinnustað viðmælanda, 13. nóvember 2019. Upptaka og uppskrift í vörslu höfundar.

SigS_2018_11. Viðtal Sigrúnar Sigvaldadóttur við Sigrúnu Maríu Magnúsdóttur á heimili viðmælanda, 31. desember 2019. Upptaka og uppskrift í vörslu höfundar.

108 Myndaskrá

Mynd 1: Sjá: Samkvæmt heimildum bls. 13.

Mynd 2: Unnin eftir bók: (2007), Sýnisbók íslenskra skriftar: 2. útgáfa, (13). Guðvarð Má Gunnlaugsson.

Mynd 3: Unnin eftir skjali, sótt á: handrit.is/is/manuscript/view/en/AM04-0645.

Mynd 4: Unnin eftir skjali, sótt á: handrit.is/is/manuscript/view/is/GKS02-1157.

Mynd 5: Unnin eftir skjali, sótt á: handrit.is/is/manuscript/view/is/AM02-0350.

Mynd 6: Unnin eftir skjali, sótt á: handrit.is/is/manuscript/view/is/AM04-0556a#side_.

Mynd 7: Unnin eftir skjali, sótt á: baekur.is/bok/000603086/Katekismus.

Mynd 8: Unnin eftir skjali, sótt á: baekur.is/bok/000594412/Logbok.

Mynd 9: Unnin eftir skjali, sótt á: handrit.is/is/manuscript/view/IBR04-0001.

Mynd 10: Unnin eftir skjali, sótt á: handrit.is/is/manuscript/view/is/AM02-0148.

Mynd 11: Unnin eftir skjali, sótt á: baekur.is/bok/000036976/1/Biblia_thad_er_oll_heilog_Bindi_1.

Mynd 12: Unnin eftir skjali, sótt á: baekur.is/bok/000831442/Compendium_grammaticae

Mynd 13: Unnin eftir skjali, sótt á: baekur.is/bok/000043701/Annalar og baekur.is/bok/000043700/1/Annalar_Bindi_1.

Mynd 14: Unnin eftir skjali, sótt á: baekur.is/bok/000255754/Einfalt.

Mynd 15: Unnin eftir skjali, sótt á: baekur.is/bok/000430474/Ny_matreidslubok_asamt_avisun.

Mynd 16: Í vörslu höfundar.

Mynd 17: Í vörslu höfundar.

Mynd 18: Í vörslu höfundar.

Mynd 19: (2007). Unnin eftir bók: Pipraðir páfuglar: Matargerðarlist Íslendinga á miðöldum, (17). Sverrir Tómasson.

Mynd 20: Unnin eftir bók: (1948). Konungur valsanna um Johann Strauss.

Mynd 21: Unnin eftir bók: (2005). Súkkulaði: Það besta frá Nóa-Síríus, (16). Marentza Poulsen.

Mynd 22: Unnin eftir bók: (1998). Eldhúshandbókin, (42). Þráinn Lárusson.

Mynd 23: Í vörslu höfundar.

109 Viðauki

Á næstu síðum má sjá letursýnishornin sem stuðst var við í viðtölum við lesendahópinn. Þau byggðust á textabrotum úr fimm bókum og tveimur handritum. Auk þess voru sömu textabrot sett upp á samsvarandi hátt en með öðrum leturgerðum en eru í upprunalegu bókunum. Sýnishornin eru númeruð frá 1–7c. Letursýnishornin eru með þverendaletrinu Minion fengið úr lestrarbók fyrir byrjendur, steinskriftinni Helvetica fengið úr mataruppskriftabók og steinskriftinni Din fengið úr lista- verkabók, þverendaletrinu Garamond fengið úr skáldsögu, handskriftarletrið Blah Blah Upper fengið úr teiknimyndasögu og sýnishorn úr tveimur handritum annað frá 12. öld með karlungaskrift og hitt frá 14. öld með gotneskri textaskrift. Breytt textasýnishorn voru einnig sett með sömu eða sambærilegum letrum auk gotneska letrinu Sabbath Black.

110