Lokaverkefni til MA-prófs í almennri bókmenntafræði

Verkfæri húsbóndans Birtingamyndir hins hvíta valdakerfis í sjónvarpsþáttaröðinni Dear White People

Sjöfn Hauksdóttir

Leiðbeinandi: Alda Björk Valdimarsdóttir Júní 2020

Háskóli Íslands Hugvísindasvið Almenn bókmenntafræði

Verkfæri Húsbóndans

Birtingamyndir hins hvíta valdakerfis í sjónvarpsþáttaröðinni Dear White People

Ritgerð til M.A.-prófs Sjöfn Hauksdóttir Kt.: 120291-3869 Leiðbeinandi: Alda Björk Valdimarsdóttir Mars 2020

Útdráttur

Saga Bandaríkjanna er flókin og margslunginn, en eitt sem gengur í gegnum hana eins og rauður þráður, frá tímum stofnfeðra hennar og til okkar daga eru kynþáttafordómar og samfélagsleg kúgun sem heldur svörtum niðri. Oft gleymist að líta á alla heildina þegar staða svartra í dag er skoðuð, og á þá ótalmörgu þræði kúgunnar sem vefa sér leið inn í flestallt í samfélaginu, frá formlegum stofnunum, til gamalla gilda, til menningar og fegurðardýrkunar sem og fjölskyldugerða. Hið hvíta valdakerfi er samofið net þátta sem stuðlar að kúgun kvenna og jaðarsettra hópa. Hugtakið getur virst yfirgripsmikið en í sjónvarpsþáttaröðinni Dear White People spilar það stórann þátt í framvindunni. Persónur þáttarins eru ungt, svart fólk sem tekst á við lífið innan hins hvíta valdakerfis. Ýmsar aukajaðarsetningar spila inn í sem vert er að skoða, og verður litið til hörundlsitafordóma, póstrasisma og póstfemínisma innan þáttanna. Sjónum verður beint að tveimur aðalpersónum þáttanna, þeim Sam og Coco, og stöðu þeirra sem ungra, svartra kvenna í samfélaginu. Einnig verður litið á aukapersónur þáttanna og hvernig aðrir þættir hins hvíta valdakerfis hafa áhrif á þær. Auk fræðilegrar samantektar og hugtakaskýringa verður litið til bandarískrar menningarsögu, sem spilar stóran þátt í ástandinu eins og það er í dag og hvernig það speglast í þáttunum. Notast verður við eftirlendurfærði, kenningar um staðalmyndir og sjálfsmyndir nýlenduþjóða og minnihlutahópa og litið til samtvinnun mismunabreyta og femínískra fræða.

1

Abstract

American history is complex but one aspect of it that is often overlooked is the country‘s history of racism and oppression of people of color. When people look at the state of affairs for black people in modern day America this historical background is often omitted. There are many threads of oppression that weave their way through the fabric of society, from the official government policies to beauty culture, family structure and everyday life. White supremacy is an all-encompassing system with strong historical roots that oppresses marginalized groups, be it people of color, queer people or women. In the television show Dear White People white supremacy is a looming factor in the lived experience of it‘s characters. The show focuses on young black people living their lives within those structures of white supremacy. Different aspects of marginalization play their part, for example colorism, postracism and postfeminism. The focus will be placed on the show‘s two main characters, Sam and Coco, and their lives as young black women in society. The supporting characters will also be explored and how white supremacy affects them for different reasons. We will look at variation of theory, definition of concepts pertaining to the research and take a look at American history and societal factors. We will employ postcolonial theory, theories on stereotypes and identity, intersectionality and feminist theory.

2

Efnisyfirlit

1 Inngangur ...... 5

1.1 Dear White People ...... 6 1.2 Fræði ...... 8

2 Uppfinning kynþáttar: Grímur, staðalmyndir og menningarnám ...... 11

2.1 Hin hvíta gríma ...... 14 2.2 Menningarnám: Negrófílía ...... 17 2.3 Virðingarpólitík ...... 20 2.4 Saga Bandaríkjanna í Dear White People: Sam White vekur athygli á vandanum ...... 24

3 Draugur Tómasar frænda: Birtingarmyndir svartra í sjónvarpi ...... 30

3.1 Svartar konur í sjónvarpi: ...... 33

4 Femínismi: Meginstraumsfemínismi er hvítur ...... 36

4.1 Svartar konur innan hins hvíta femínisma ...... 39 4.2 Svartur femínismi og samtvinnun mismunabreyta ...... 42 4.3 Póstrasismi og póstfemínismi ...... 45 4.4 „Kynþáttablinda“ og afneitun fordóma ...... 49

5 Hörundslitafordómar og valdakerfi fegurðar: ...... 53

5.1 Coco og Joelle, fórnarlömb hörundslitafordóma ...... 59 5.2 Hörundslitafordómar, jaðarsetning og eltingaleikur við ómögulega fegurð .. 64 5.3 Á jaðri kynþáttar: Sam ...... 66

6 Hvítir og svartir: Að elska kúgara sinn ...... 70

6.1 Hvít tár og hvítir bjargvættir ...... 74 6.2 Trevor King: Þöggun hins svarta sjónarhorns ...... 79

7 Lokaorð ...... 82 Heimildaskrá ...... 85 Netheimildir ...... 91 Myndefni ...... 95

3

4

1 Inngangur

19 júní 2019 markar 154 ára afmæli þess að öllum þrælum í Bandaríkjum Norður Ameríku var löglega veitt frelsi frá þrældómi1 og var umfangsmikið frumvarp um sanngirnisbætur (e. Reparations) tekið til skoðunar í hæstarétti Bandaríkjanna. Rithöfundurinn Ta-Nehisi Coates var einn þeirra sem talaði um mikilvægi frumvarpsins, bæði til að reyna að bæta stöðu þeirra svörtu Bandaríkjamanna sem eiga ættir sínar að rekja til þræla, sem og til að fá stjórnvöld Bandaríkjanna til að sýna iðrun í verki fyrir aldalangt óréttlæti og kúgun sem þrælahald hafði í för með sér. Þeir sem mæltu gegn sanngirnisbótum, sem eru hugsaðar til að styrkja stöðu afkomenda þræla í Bandaríkjunum, halda því fram að allir sem voru á lífi á tímum þrælahalds séu löngu látnir og því heimskulegt að dvelja við fortíðina, en Coates benti á að þrátt fyrir að þrælahald hafi formlega verið lagt af árið 1865 hafi önnur valdakerfi sem viðhéldu kúgun og undirokun svartra komið í stað þess og sum eru enn til staðar í dag.2 Coates, og þeir sem eru sammála honum, kenna hinu svokallaða hvíta valdakerfi (e. White supremacy) um hinn mikla mun á lífsgæðum og afkomu svartra og hvítra Bandaríkjamanna, en ber að nefna að munur á innkomu heimila svartra og hvítra er um 100.000 USD á ári3 Stórt hlutfall svartra bandaríkjamanna er í fangelsum, fáir svartir eru í valdastöðum og hafa síður aðgang að menntun en hvítir, svartir eiga erfiðara með að færast upp um stétt og lifa í heildina styttra.4 Einnig eru svartar konur þrisvar sinnum líklegri en hvítar til að deyja við barnsburð og svört ungabörn mun líklegri til að deyja í fæðingu en hvít.5 Vinsælt hefur verið að líta markvisst framhjá tölfræðinni um hvernig hallar á svarta Bandaríkjamenn og kenna öðru um en kerfisbundum rasisma. Auk þess hefur um langt skeið verið álitið svo, af stórum hluta hvítra, að rasismi sé einfaldlega ekki lengur vandamál, og ef einhver á erfitt uppdráttar sé það honum sjálfum að kenna en engu ósýnilegu valdakerfi. Kannast femínistar, og konur almennt, sennilega við að svipað sé upp á teningnum þegar kemur að réttindum kvenna. Við sjáum það á tölfræði og lifaðri reynslu að oft hallar á konur sökum kyns þeirra eingöngu og það gerir þeim erfiðara

1 Michael Vorenberg, Final Freedom: The Civil War, the Abolition of Slavery, and the Thirteenth Ammendment, Cambridge University Press, United Kingdom, 2004. 2 Ta-Nehisi Coates, „The Case for Reperations“ í We Were Eight Years in Power, An American Tragedy, 2017. 3 „The Black-White Wealth-Gap is Unchanged After Half a Century“ í The Economist, Washington DC, 2019. 4 Tressie McMillan Cottam, Thick And Other Essays, bls. 16, The New Press, New York, 2019. 5 Tressie McMillan Cottom, Thick And Other Essays, bls. 17, The New Press, New York, 2019.

5

uppdráttar að komast í valdastöður og að öðlast virðingu, auk þess sem konur verða oftar fyrir áreiti í daglegu lífi.6 Á sama hátt er oft mótmælt ef bent er á þennan tölfræðilega halla og því haldið fram að ef einhverjum konum gengur ekki jafn vel og körlum sé það þeim persónulega að kenna. Hið hvíta valdakerfi er ástæða bæði þess hvernig hallar á konur og svarta í nútímasamfélagi. Þrátt fyrir að valdakerfið tilheyri og sé nefnt eftir kynþætti valdhafanna eru fleiri atriði sem spila inní. Hið hvíta valdakerfi mótaðist til að viðhalda hinu hvíta kapítalíska feðraveldi sem hefur ríkt lengi vel7 og byggir allan samfélagsstrúktúr okkar. Bæði eru það sjáanlegir þættir sem og ósýnilegir og margt fléttast inn í. Til dæmis hin kapítalíska fegurðarþráhyggja og stigveldi fegurðar, líkamspólitík, rasismi, kvenhatur, stéttaskipting og viðhald elítunnar sem á að haldast hvít og karllæg. Hægt væri að skoða áhrif þessa valdakerfis í öllu samfélaginu, en ég ætla að byggja rannsókn mína á fyrstu tveimur þáttaröðum sjónvarpsþáttarins Dear White People eftir Justin Simien og skoða birtingarmyndir hins hvíta valdakerfis í þáttunum.

1.1 Dear White People Dear White People fjallar um svarta háskólanema í að mestu hvítum Ivy Leage8 skóla í Bandaríkjunum. Í seríu eitt kemur upp spenna í skólanum þegar upp kemst að háðsádeilutímarit skólans, Pastiche, ætlar að halda grímuball þar sem gestir eru hvattir til að klæða sig upp sem svart fólk. Fyrsta sería sjónvarpsþáttaraðarinnar er byggð á samnefndri kvikmynd frá 2014 eftir sama höfund. Kvikmyndin var svar Simiens við því að á tímum sem oft voru kallaðir póstrasískir (e. Post-Racial) og Bandaríkin höfðu kosið sinn fyrsta svarta forseta, Barack Obama, komst það upp að Ivy Leage háskólar voru í raun og veru að halda svokölluð Black-Face partý og gera með því lítið úr tilvist svartra með því að viðhalda neikvæðum staðalmyndum9 og menningarnámi.10 Þremur árum frá

6 Derald Wing Sue, Microaggressions in Everyday Life: Race, Gender and Sexual Orientation, John Wiley and Sons Inc., Bandaríkin, 2010, bls 5. 7 Samkvæmt bók Gerdu Lerner, The Creation of the Patriarchy, er upphaf hins hvíta valdakerfis ekki markað með einum atburði heldur hægu ferli yfir um 2500 ár, frá 3100 til 600 B.C, og hefur þróast á sama hátt en á mismunandi tímum milli samfélaga. Sjá Gerda Lerner, The Creation of the Patriarchy, 1986, bls 8. 8 Um er að ræða átta bandaríska einkaskóla sem eru mjög mikils virtir í Bandaríkjunum. Skólarnir sem um ræðir eru Yale, Harward, Brown, Princeton, Dartmouth, Columbia, Cornell og University of Pennsylvania. 9 Samantha Escobar, „13 Collage Parties That Prove Dear White People Wasn’t Exaggerating at All“ á vef The Gloss http://www.thegloss.com/culture/dear-white-people-review-racist-college-parties-blackface- mexican-stereotypes/ 10 Menningarnám (e. Cultural Appropriation) er hugtak sem kom fram á níunda áratug síðustu aldar til að gagnrýna eftirlendustefnu Vestrænna ríkja. Hugtakið hafði áður komið fyrir fyrr, til að mynda í verki

6

útgáfu myndarinnar átti viðfangsefnið enn við þar sem lítið hafði breyst í bandarísku samfélagi þegar kom að kynþáttaspennu og menningarnámi.11 Fyrsta sería þáttaraðarinnar samanstendur af tíu þáttum og einbeitir sér að sjö aðalpersónum, og er mismunandi aðila fylgt eftir í hverjum þætti. Þrjár aðalpersónanna fá þó tvo þætti um sig, en það eru þær Sam White, Coco Conners og Lionel Higgins, en Lionel myndar þráðinn sem heldur pólitískri framvindu þáttanna saman. Aðalpersóna þáttarins er þó óumdeilanlega Sam, baráttukona fyrir réttindum svartra og stjórnandi útvarpsþáttarins sem þáttaröðin dregur nafn sitt af. Í þáttunum um Sam (þáttur 1 og 10) og Coco (þáttur 4 og 9) er kafað ofan í þeirra persónulega líf, vinasambönd þeirra og ástarmálin, en þær eru báðar ungar svartar konur að reyna að finna út úr lífinu, skólanum, framanum og ástinni. Þær mæta hvor um sig mismunandi mótlæti, bæði vegna kyns síns, kynþáttar, hvernig þær koma fyrir og hvaða hugmyndafræði þær aðhyllast. Þrátt fyrir að það sé nokkuð ljóst að bæði kyn þeirra og kynþáttur spili inn í mótlætið sem þær mæta leggur serían ofuráherslu á kynþáttinn en enga á hvernig kvenleiki þeirra hefur áhrif á sjálfsmynd þeirra (??). Fellur það inn í langa hefð efnis um réttindabaráttu svartra sem upphefur og skoðar mótlæti gegn svörtum karlmönnum og gleymir að rannsaka aukajaðarsetningu og baráttu kvenna fyrir auknum réttindum.12 Í þáttaröðinni verða svörtu karlmennirnir í skólanum vissulega líka fyrir aðkasti vegna kynþáttar síns, en aðeins einn þeirra, Lionel, verður fyrir aukaaðkasti vegna þess að hann fellur ekki að samfélagslega viðurkenndum karlmennskuímyndum.13 Önnur sería þáttaraðarinnar kom svo út árið 2019, eftir að Obama, fyrsti og, enn sem komið er, eini svarti forseti Bandaríkjanna, lét af störfum og repúblíkaninn Donald Trump hafði verið kosinn forseti. Trump byggði framboð sitt á því loforði að „Gera Ameríku aftur frábæra“ (e. „Make America Great Again“) með því að úthúða innflytjendum, kallað mexíkóættaða menn nauðgara, og ýmissu fleiru rasísku14 til að

Kenneth Coutts-Smith frá 1976 „Some General Observations on the Problems of Cultural Colonialism“. Var hugtakið first aðeins notað innan akademíunnar en hefur í seinni tíð farið að vekja meiri athygli almennings. Menningarnám er það að þegar valdhafandi menningarhópur notar hluti, tákn eða tísku frá undirokuðum menningarhóp án þess þó að líta til sögu hlutanna heldur nota þá fremur sem framandi og exótíska skrautmuni. Veitir það meðlimum hins valdhafandi hóps tól til að þykjast vera framandi og öðruvísi án þess að þurfa að horfast í augu við þá mismunun sem minnihlutahópar mæta á degi hverjum. 11 Viðtal: Vann R. Newkirk II, Adrienne Green, Gillian B. White og Ta-Nehisi Coates, „How Insightful is Dear White People?“ á vef The Atlantic https://www.theatlantic.com/entertainment/archive/2017/05/dear- white-people-season-one-roundtable/526920/ 12 , „The Master’s Tools Will Never Dismantle The Master’s House“ í Sister Outsider, Bandaríkin, 1984, bls. 27-28. 13 Justin Simien, Dear White People, þáttaraðir 1 og 2. 14 Katherine Belew, Bring The War Home: The White Power Movement and Paramilitary Amercia, Harward University Press, United States, 2018, bls. 237.

7

höfða til fátækra, hvítra Bandaríkjamanna sem fannst á sér troðið.15 Í hinu nýja pólitíska umhverfi þar sem kynþáttahatur og hvítt ofstæki (e. white nationalism) verður sívinsælla, fólk kallar sig stolt nasista16 og hið svokallaða alt-righ17 rís, tekst þáttaröðin Dear White People á við rasisma og fordóma af auknum krafti. Önnur sería þáttarins beinir sjónum sínum einnig að sögu Bandaríkjanna og Ivy Leage háskóla, í stað þess að halda sig eingöngu í nútímanum. Saga Bandaríkjanna hefur bersýnilega mikil áhrif á hvernig komið er fram við og litið er á svart fólk á okkar tímum, enda farir Bandaríkjanna ekki beinlínis sléttar þegar kemur að meðferð á svörtu fólki.18 Þátturinn segir sögu skólans sem söguhetjur okkar ganga í, og með því sögu allra Bandaríkjanna, sem við munum líta til í þessari ritgerð til að setja hlutina í samhengi. Rétt eins og rasisminn og áherslurnar breyttust við forsetakosninguna breyttust áherslur þáttaraðarinnar á milli seríu eitt og tvö. Í þeirri fyrstu er það hófið þar sem hvítir eru hvattir til að klæða sig upp sem svarta (e. blackface-party), útvarpsþáttur Sam og viðnám hinna hvítu sem eru í fyrirrúmi, sem og lögregluofbeldi. Seinni þáttaröðin samanstendur einnig af tíu þáttum sem eru settir upp með sama fyrirkomulagi og þeir fyrri. Fyrsti þáttur seríunnar, sem og sá síðasti eru enn um Sam, aðalpersónuna okkar, og einhverjar af aukapersónum fyrri þátta verða aðalpersónur. Í seinni seríunni er haldið áfram með sama þráð, en aðalvandinn sem steðjar að svörtum nemendum skólans er sú áætlun skólayfirvalda að leggja niður Armstrong-Parker House, þá heimavist skólans sem hefur í gegnum tíðina verið tileinkuð svörtum nemendum. Aðalbaráttuefni þáttaraðarinnar er þvinguð aðlögun (e. forced integration) og saga skólans sem og Bandaríkjanna allra, sem er lituð kynþáttafordómum og draugum þrælahalds.

1.2 Fræði Póstrasismi og rasismi eru gagnrýndir harðlega í þættinum og leitast er eftir því að koma áhorfendum, sem og persónum þáttarins, til sjónar um að við lifum ekki á póstrasískum

15 Katherine Belew, Bring The War Home: The White Power Movement and Paramilitary America, Harward University Press, United States, 2018, bls. 238. 16 David Neiwert, Alt-America: The Rise of the Radical Right in the Age of Trump, Verso, London og New York, 2017. 17 David Neiwert, Alt-America: The Rise of the Radical Right in the Age of Trump, Verso, London og New York, 2017. 18 Paul Duggan, „Erected By Racists: Charlottesville Confederate Statues Still Stand – And Still Symbolize a Racist Legacy“ af vef The Guardian, 10. ágúst 2019, sótt 14. desember 2019. https://www.washingtonpost.com/history/2019/08/10/charlottesvilles-confederate-statues-still-stand-still- symbolize-racist-past/

8

tímum. Þátturinn gerir þó litla sem enga athugasemd við póstfemínískan heim þar sem álitið er að konur séu körlum jafnar. Í þættinum kemur femínismi fram sem hálfgerður brandari, annars er ekki neitt talað um hann, og þrátt fyrir að aðalpersónurnar séu konur er aldrei fjallað um hvernig kyn þeirra og feðraveldið hafa áhrif á líf þeirra. Baráttra svartra er í fyrirrúmi, en ekki er fjallað um þá auka jaðarsetningu sem fylgir því að vera bæði svört og kona, og hvað þá að vera einnig hluti af fleiri minnihlutahópum. Hlutir eins og lögregluofbeldi, sem svartir karlmenn verða gjarnan frekar fyrir en konur, er til að mynda í forgrunni, sem og smáreiti (e. Microaggresion) sem karlar og konur verða fyrir til jafns í þáttunum. Þátturinn skautar einnig framhjá því að skoða hvernig hörundslitafordómar (e. Colorism) eykur á jaðarsetningu og kúgun þeirra kvenna sem eru dekkri á hörund en ljósbrúnni kynsystur þeirra. En þátturinn tekst ekki bara á við vaxandi kynþáttaspennu í skólanum, hann er einnig eins konar rómantískur gamanþáttur.19 Á meðan aðalpersónurnar takast á við kerfisbundið óréttlæti eða jafnvel kjósa að taka sér frí frá því, eru þær venjulegir háskólanemar að lifa lífinu.20 Í þessari ritgerð verða tvær aðalpersónur þáttanna skoðaðar bæði út frá kynþætti þeirra og kvenleika. Til að gera þeim góð skil er einnig litið til þess sem aðskilur þær, til að mynda stéttar, litarhafts, tískuvals, makavals og fleiri þátta. Sjónum er beint að því hvernig þær velja, og hafa lært, að hegða sér sem svartar konur í hinu hvíta umhverfi skólans. Viðhorf til þeirra eru mjög ólík og verður þessi munur skoðaður með tilliti til hvernig þær bera sig í hinum hvíta heimi og hvernig heimurinn bregst við þeim og reynt að útskýra hvers vegna viðbrögðin eru eins og þau eru. Til að skoða þessa þætti er litið til sögu Bandaríkjanna, en saga svartra er þétt samofin stöðu þeirra í dag. Þar sem efnið sem liggur undir er sjónvarpsefni er einnig litið til framsetningu svartra í skemmtiefni, kvikmyndum og sjónvarpsefni Bandaríkjamanna frá upphafi Hollywood til okkar daga, með hliðsjón af bókunum Black Male Frames og The Evolution of Black Women in Televison: Mammies, Matriarchs and Mistresses. Til að skoða femínísku hliðina verður litið til femínískra fræða, „Sistahs are Doing it For Themselves“, The Media and Body Image og The Beauty Myth, sem beina sjónum sínum að kröfum sem gerðar eru til kvenna í dag á póstfemínískum tímum. Notast er við

19 Viðtal: Dee Lockett. „Justin Simien and the Cast of Dear White People on Why Everything is a Risk“ á vef Vulture, http://www.vulture.com/2017/04/dear-white-people-netflix-interview.html/ sótt 15. nóvember 2019. 20 Viðtal: Vann R. Newkirk II, Adrienne Green, Gillian B. White og Ta-Nehisi Coates, „How Insightful is Dear White People?“ af vef The Atlantic https://www.theatlantic.com/entertainment/archive/2017/05/dear- white-people-season-one-roundtable/526920/ sótt 17. nóvember 2019

9

skrif svörtu femínistanna , Toni Morrison og Audre Lorde, sem skoða hvernig hvítur meginstraumsfemínismi útilokar konur af öðrum kynþáttum en hvítum sem og fátækar eða lægri stéttar konur, lesbíur og konur sem tilheyra jaðarhópum, og kenninga Kimberlé Crenshaw um samtvinnun mismunabreyta. Einnig verður litið til fræða Frantz Fanon um hlutverk og tilfinningar svartra í hvítum heimi, kenninga Homi Bhabha og Ta- Nehisi Coates um staðalmyndir, sem og rannsókna fræðikonunnar Petrine Archer-Straw á negrophiliu fyrri tíma og hvernig hún birtist í dag. Til að skoða hlut hinna hvítu í jaðarsetningu svartra er litið til bókanna White Fragility: Why I’m No Longer Talking To White People About Race og So you want to talk about Race. Einnig verður lítið á kenningar hvíta femínistans Naomi Wolf um kúgun fegurðar, og hvernig kenningar hennar gleyma stigveldi hvítleikans í valdakerfi fegurðarinnar. Hugtökin sem eru nefnd til skoðunar í þessari ritgerð eiga það öll sameiginlegt að vera mikilvægir þættir í að viðhalda núverandi valdastöðu í samfélaginu og stuðla að því að einstaklingum er haldið niðri, ekki vegna þess hverjir þeir eru einir og sjálfir, heldur vegna þeirra minnihlutahópa sem þeir tilheyra. En öll eru þessi hugtök samofin og verða þau hvert um sig skoðuð sem þættir í að halda hinu hvíta valdakerfi í skorðum, með hliðsjón af bandarísku sjónvarpsþáttaröðinni Dear White People.

10

2 Uppfinning kynþáttar: Grímur, staðalmyndir og menningarnám „This is what happens when a country refuses to address its history of slavery.“21

Okkur hefur flestum verið kennt, bæði beint og óbeint, að það sé skýr líffræðilegur munur á kynþáttunum og að auðvelt sé að benda á hann. Þessi líffræðilegi munur útskýrir, samkvæmt gömlum kenningum, sjáanlegan mismun, til að mynda á augnlit, húðlit og hárgerð. Auk þessa útlitslega munar hefur okkur verið kennt að í hinum svokallaða líffræðilega mun milli kynþátta felist einnig persónueinkenni, eins og kynferði, íþróttafærni og hæfni í stærðfræði.22 Þessi hugmynd, að kynþáttur sé líffræðileg staðreynd sem feli í sér bæði útlitslega og andlega þætti, gerir það að verkum að það verður auðvelt að sjá aðskilnað milli kynþátta í samfélaginu sem eðlilegan. En kynþáttur er, rétt eins og kyngervi, félagsleg afurð fremur en líffræðileg.23 Raunveruleg vísindi hafa löngum sannað að enginn raunverulegur líffræðilegur munur er á fólki af mismunandi kynþáttum.24 Útlitsleg atriði falla auk þess ekki eftir beinum línum milli kynþátta, fólk getur verið með ýmsa augn- eða hár- eða húðliti en samt verið álítið hvítt, og fólk af afrískum uppruna getur verið jafn ljóst á hörund og evrópsk manneskja sem er álitin hvít, en samt verið álitið svart og þar fram eftir götum. Genetískur munur á fólki milli kynþátta er jafn smávægilegur og á milli fólks af sama kynþætti með mismunandi augnlit, og þætti flestum fáránlegt að áætla að bláeygt fólk sé almennt betra í stærðfræði en fólk með græn augu. En sú trú að mikill lífræðilegur munur sé á milli kynþátta á sér djúpar rætur í menningu okkar og þrátt fyrir að það hafi verið afsannað eins og áður sagði, hefur sú rétta trú að það sé enginn munur á okkur ekki orðið neitt sérstaklega vinsæl skoðun og við erum enn föst í þessari samfélagslega tilbúnu lygi, sem hyllir hvítum ofar öðrum. Og til þess að komast til botns í hvers vegna það er þarf að líta til þeirra afla sem gerðu það að verkum að þessi trú varð landlæg og hvers vegna nú- og þáverandi valdakerfi hafði hagsmuni í því að búa hana til. Það þarf að skoða þær fjárhagslegu og félagslegu aðstæður

21 Justin Simien, Dear White People, 1. Sería, þáttur 2. 22 Robin DiAngelo, „Racism and White Supremacy“ í White Fragility, bls. 15. 23 Robin DiAngelo, „Racism and White Supremacy“ í White Fragility, bls. 15. 24 Kristín Loftsdóttir, „Kjarnmesta fólkið í heimi: Þrástef íslenskrar þjóðernishyggju í gegnum lýðveldisbaráttu, útrás og kreppu“ Ritið, 9(2-3), 113-140, 2009.

11

sem lágu að baki þess að hinn hvíti maður fann upp kynþætti sér til ávinnings, og hvers vegna þessi gervivísindi manna frá 18. öld eru svo lífsseig.25 Kynþáttur var fundinn upp til að réttlæta kúgun, þrælahald og nýlendustefnu.26 Bandaríki Norður Ameríku voru stofnuð árið 1776 á þeirri grundvallarhugmynd að allir menn séu jafnir.27 En á meðan hvítir herramenn af evrópskum uppruna rituðu undir þá stefnuyfirlýsingu síns nýskapaða lands vildi svo til að þeir áttu margir hverjir heilmikið af þrælum og bjuggu á landi sem þeir sölsuðu undir sig með skipulagðri útrýmingu á frumbyggjum álfunnar.28 Til að passa að þessar staðreyndir sem gáfu þeim ókeypis vinnuafl, land og auð, stönguðust ekki á við þá hugmynd að allir menn í bandaríkjunum væru jafnir, lét Thomas Jefferson, sem sjálfur var þrælaeigandi, einn af stofnmeðlimum Bandaríkjanna, gera „vísindalegar“ rannsóknir á kynþáttunum svokölluðu.29 Þessar vísindalegu rannsóknir komu hvítu mönnunum vel, enda var spurningin sem leitast var við að svara ekki hvort hvíti maðurinn hefði yfirburði yfir aðra kynþætti heldur, hvers vegna hvíti maðurinn hefði yfirburði yfir aðra kynþætti.30 Þegar farið er af stað með svo leiðandi spurningu reynist auðvelt að sanna það sem lagt er upp með, þrátt fyrir að rökin væru uppspuni. Og enn þann dag í dag lifa þessar hugmyndir góðu lífi. Vonandi halda fæstir nú til dags að svart fólk sé heimskt og eingöngu fallið til erfiðisvinnu, en margir halda til dæmis að svart fólk sé af náttúrunnar hendi betra í íþróttum en hvítt fólk og að fólk af austur-asískum uppruna sé betra í stærðfræði en annað fólk.31 Og það eru eingöngu

25 Robin DiAngelo, „Racism and White Supremacy“ í White Fragility, bls. 15. 26 Robin DiAngelo, „Racism and White Supremacy“ í White Fragility, bls. 16 27 Robin DiAngelo, „Racism and White Supremacy“ í White Fragility, bls. 15. 28 Robin DiAngelo, „Racism and White Supremacy“ í White Fragility, bls. 15. 29 Robin DiAngelo, „Racism and White Supremacy“ í White Fragility, bls. 15. 30 Robin DiAngelo, „Racism and White Supremacy“ í White Fragility, bls. 16. 31 Model Minority: Í Bandaríkjunum, upp úr seinni heimsstyrjöld, varð sú hugmynd ríkjandi að fólk af austur-asískum uppruna væri „betri innflytjendur“ en fólk af til dæmis afrískum eða miðausturlenskum uppruna. Austur-asískt fólk á sér blóðuga og óhugnanlega sögu í Bandaríkjunum, rétt eins og flestir aðrir minnihlutahópar sem fluttu þangað. Til að byrja var það flutt inn sem ódýrt vinnuafl til að byggja járnbrautir, svo reyndu stjórnvöld að hindra frekari innflutning Austur-Asísks fólks með því að banna því inngöngu í land tækifæranna. Seinna voru Bandaríkjamenn af japönskum uppruna settir í fangabúðir á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar. Í kringum árið 1950 var svo ákveðið að austur-asískir innflytjendur væru ákjósanlegri en afrískir, suður-amerískir eða mið-austurlenskir til dæmis og fundin var upp sú lygi að fólk af austur asískum uppruna væri duglegt, vinnusamt og gott í stærðfræði. Margir myndu halda að það sé nokkuð jákvæð lygi, og vissulega hafa margir frá Austur-Asíu þessa eiginleika en það er ekki algildur sannleikur sem er sprottinn af genasamsetningu þeirra, heldur eingöngu persónulegur munur á fólki, rétt eins og margir svartir og hvítir eru vinnusamir á meðan aðrir eru latir. Skaðsemi þessara „jákvæðu“ staðalmynda er bæði sú að ósanngjörn pressa er sett á marga Asísk-Ameríska einstaklinga til að passa í mót sem hentar þeim ekki. Oft fá Asísk-Amerískir nemendur ekki hjálp frá kennurum og skólayfirvöldum þar sem álitið er að þeir séu frá náttúrunnar hendi betri námsmenn en aðrir og þannig geta þeir orðið útundan í skólakerfinu. Einnig grefur þessi hugmynd undan öðrum minnihlutahópum, sem verða þá að dæmi um vonda innflytjendur.

12

dæmi um svokallaðar „jákvæðar” staðalmyndir sem lifa góðu lífi í dag32, af þeim neikvæðu er enn meira33, og í næsta kafla verður fjallað meira um skaðleika staðalmynda. Rasismi er ekki eingöngu þessi gamla hugmynd um yfirburði hins hvíta kynþáttar, heldur á hann sér rætur í þeirri hugmynd að það sé í raun til eitthvað sem heitir hinn hvíti kynþáttur og að við séum ólíkar tegundir af fólki.34 Einnig ber að nefna að áhugavert er hvaða litir hafa verið gefnir kynþáttunum, því eins og glöggir menn sjá er svart fólk ekki svart, heldur fremur brúnt og hvítt fólk ekki hvítt heldur frekar ferskjulitað eða bleikleitt. Snemma voru neikvæðar og jákvæðar hugmyndir tengdar hugtökunum, ekki eingöngu þegar kom að kynþætti heldur einnig bókstaflega öllu. Svart er neikvætt og hvítt jákvætt.35 Í gegnum tíðina með þessum hugmyndum og gervivísindum sem byrjuðu með nýlendustefnu og þrælahaldi hefur kynþáttur svo orðið til, ekki sem náttúrulegt fyrirbæri heldur félagslegt.36 Því núna, þrátt fyrir að enginn líffræðilegur munur sé á hinum svokölluðu kynþáttum, hefur samfélagsgerðin verið sköpuð þannig að hún er hagstæð hvítu fólki ofar öllum öðrum. Michael Eric Dyson segir í inngangi sínum að bókinni White Fragility eftir Robin DiAngelo „Því sannarlega er hvítleiki uppspuni rétt eins og aðrir kynþættir, það sem í akademískri orðræðu er kallað samfélagsleg afurð, samfélagslega samþykkt mýta sem hefur sjáanlega áhrif, ekki vegna þess að hann sé til heldur vegna áhrifana sem hann hefur skapað. En hvítleiki gerir meira en aðrir kynþættir, hann er samfélagslegt flokkunartæki sem virkar hvað best þegar tilvist hans er hafnað.“ 37 Hið hvíta valdakerfi sem byggist á því stigveldi að hvítt sem kynþáttur sé a) til og b) æðri öðrum kynþáttum. Valdakerfið þarf á „hinu“ að halda til að bera sig saman við. Þannig skapar það svartan og óhreyfanlegan grunn sem hið sveigjanlega hvíta ber sig svo saman við.38 Með „hinu sveigjanlega hvíta“ er átt við að hvíti kynþátturinn lagar sig að tímunum, og það að vera hvítur hefur ekki alltaf þýtt það sama, á meðan það að vera svartur, sem sagt andstæða hins hvíta, helst stöðugt og óhreyfanlegt. Á tímabili voru Írar og Ítalar til að mynda ekki hvítir, en þeir voru svo teknir inn í samfélag hvítra þar sem

32 Robin DiAngelo, „Racism and White Supremacy“ í White Fragility, bls. 16. 33 Robin DiAngelo, „Racism and White Supremacy“ í White Fragility, bls. 16. 34 Michael Eric Dyson, Foreword í White Fragility, bls. ix. 35 Roland Leander Williams Jr., Black Male Frames: African Americans in a Century of Hollywood Cinema, 1903-2003 (Television and Popular Culture), Syracuse University Press, USA, 2015, bls 28. 36 Robin Diangelo, White Fragility, bls 32. 37 „To be sure, like the rest of race, whiteness is a fiction, what in the jargon of the academy is termed a social construct, an agreed-on myth that has empirical grit because of its effect, not its essence. But whiteness goes even one better: it is a category of identity that is most useful when its existene is denied.“ Robin DiAngelo, White Fragility. 38 Tressie McMillam Cottom, „In The Name of Beauty“ í Thick and Other Essays.

13

þeir þóttu ásættanlegri en fólk sem stóð fjær hvítleikanum. Sama má segja um Austur- Evrópubúa, til dæmis Pólverja, sem eru neðar á valdastiga hins hvíta stigveldis en til að mynda Englendingar og Danir, en teljast þó hvítir, sérstaklega þegar minna hvítt fólk er í boði til að bera saman við, svo sem miðausturlandabúar eða fólk af asískum uppruna.39 Áhugavert dæmi um þennan sveigjanleika hvítleikans eftir hentugleika er samfélagsgerð Suður-Afríku þar sem fólk er flokkað sem hvítt, svart eða litað, en sú skipting fer ekki eftir útlitslegum einkennum eða genetík heldur eftir stöðu einstaklingsins í samfélaginu.40

2.1 Hin hvíta gríma Árið 1952 gaf martíníski heimsspekingurinn og sálgreinandinn Frantz Fanon út bókina Black Skin, White Masks.41 Í henni skoðar hann sjálfsmynd svartra sem samfélagsleg afurð og hvernig hún er búin til. Hann beitir sálfræðilegri nálgun til að varpa ljósi á hvernig sambandi svartra við hvíta manninn er háttað og hvers vegna það veldur svörtum minnimáttarkennd að vera bornir samana við hina hvítu herra, auk þess sem hann setur sögu svartra í sögulegt samhengi og lýsir persónulegri reynslu sinni í bland við fræðin. Hann heldur því fram að sjálfsmynd svartra sé klofin, því hið svarta viðfang hefur misst sinn náttúrulega menningarlega bakgrunn og hafi verið þvingað til að taka upp menningu hvítu herraþjóðarinnar upp í staðinn. Ástæða þessarar þvingunnar er nýlendustefnan sem rændi ótalmargar svartar þjóðir menningu sinni og tungumáli. Afleiðingar hennar eru meðal annars minnimáttarkenndin í huga hins svarta viðfangs sem reynir að aðlaga sig að menningu nýlenduherrans, með misjöfnum árangri. Slík tilraun til aðlögunar er algengari og augljósari hjá menntuðu og svörtu fólki á uppleið í samfélaginu (e. Upwardly Mobile) sem hefur efni á stöðutáknum sem hvíta fólkið metur mikils, sem og aðgengi að menntun hvítra, og getur þar með lært að beita tungumáli nýlenduherrans sem sínu eigin, og beita því þar af leiðandi sem einni af hinum hvítu grímum, en Fanon leggur mikla áherslu á tungumálið sem þátt í kúgun svartra. Kaflinn “The Black Man and Psychopathology”42 í Black Skin, White Masks er tileinkaður dýpri sálgreiningu á svörtu fólki nýlenda og ræðir skort svartra viðfanga sem passa ekki inn í samfélagsstaðla sem hvítt samfélag hefur ákveðið. Fanon segir „Eðlilegt

39 Tressie McMillan Cottom, „Knowing your whites“ í Thick and Other Essays. 40 Deborah Gabriel, Layers of Blackness: Colourism in the African Diaspora, Imani Media, London. 2007. 41 Frantz Fanon, Black Skin, White Masks, Richard Philcox þýddi. Grove Press, New York, 2008. 42 Nafni kaflans var breytt úr Negro í Black Man, sem er pólitískt réttara að segja en lætur lesenda þó hugsa um karlmenn ósjálfrátt, fremur en allt svart fólk, konur meðtaldar.

14

svart barn sem hefur alist upp í eðlilegri svartri fjölskyldu mun verða óeðlilegt við hin minnstu kynni við hinn hvíta heim.“43 Ástæða þessarar tilfinningar er að í hvítu samfélagi hefur undirmeðvitund einstaklingsins verið mótuð á ónáttúrulegan hátt þannig að allir, jafnt svartir sem og hvítir, tengja það að vera svartur við að vera rangur. Þessu er miðlað með menningunni frá barnsaldri, til dæmis með myndasögum og teiknimyndum þar sem svart fólk er í hlutverki villimanna og illmenna. Þetta hefur þær afleiðingar að bæði hvít og svört börn læra að sjá svart fólk sem vont fólk. Hvítu börnin þurfa ekki mikið að velta þessu fyrir sér en svörtu börnin verða fyrir sálfræðilegu tráma sem endist þeim út lífið.44 Þar sem söguhetjur og aðalpersónur í þessum sömu teiknimyndum og barnaefni eru alltaf hvítar og á sama tíma góðar, læra svörtu börnin að til að vera söguhetja þurfi þau að ímynda sér sig sem hvít. Nígeríski rithöfundurinn Chimamanda Ngozi Adiche tekur dæmi um þetta í ræðu sinni „The Danger of a Single Story“45 þar sem hún greinir frá því að sem barn í Nígeríu hafi hún aðeins haft aðgang að breskum barnabókum, til dæmis verkum Enid Blython, og hafi þar af leiðandi, þegar hún fór sjálf ung að skrifa sögur, aðeins skrifað um ljóshærð börn sem léku sér í snjónum í enskum sveitum, þrátt fyrir að hafa enga persónulega reynslu af slíkum börnum eða upplifunum, en hún gat ekki ímyndað sér sitt nígeríska umhverfi og sjálfa sig sem sögusvið og söguhetjur, þar sem hún hafði aldrei lesið slíka bók.46 Slíkt hið sama er oft nefnt í femínískri umræðu þar sem söguhetjur bóka og bíómynda og flest alls meginstraumsefni, á það sameiginlegt að vera um karlmenn. Margar konur samsömuðu sig ekki með hjálparvana prinsessum en gátu heldur ekki ímyndað sér sig sem söguhetjur sem drífa framvindu áfram, þar sem kvenleiki þeirra skilur þær frá hetjunni.47 Þrátt fyrir að öll séum við manneskjur og ættum að geta samsamað okkur með aðalpersónu af hvaða kyni og eða kynþætti sem hún er, virðist meginstraumurinn ósammála. Fólk sem er jaðarsett á einn eða annan hátt er vant þvi að finna ekki spegilmynd af sjálfu sér í menningunni og hefur þjálfað sig til að sjá samsvaranir þar sem fáar eru, og byggja fremur á reynslu og persónuleika en hörundslit og kynþætti, kynferði eða líkamsgerð. En þrátt fyrir að það sé vel mögulegt er því ekki að neita að fólk hefur gott af og finnst gott að sjá sjálft sig í hlutverki hetju, eða bara einhvers staðar yfir höfuð.

43 Frantz Fanon, Black Skin, White Masks, bls 2. „A normal Negro child, having grown up in a normal Negro family, will become abnormal on the slightest contact of the white world.“ 44 Frantz Fanon, Black Skin, White Masks, bls 7. 45 Chimamanda Ngozi Adiche, The Danger of a Single Story, Random House, New York, 2018. 46 Chimamanda Ngozi Adiche, The Danger of a Single Story, Random House, New York, 2018. 47 Jennifer Siebel Newsom, Miss Representation, Girls‘ Club Entertainment, United States, 2011.

15

Bandaríski rithöfundurinn Ta-Nehisi Coates endurómar þessar hugmyndir Fanons um þann afbrigðileika sem fylgir því að vera svartur í hvítu samfélagi. Í greininni „American Girl“ sem fjallar um Michelle Obama, svarta konu sem ólst upp í Suður- Chicago segir:

Fyrir þá stóru hópa af fólki sem ólust upp eins og Michelle Obama— í vel starfandi, sjálfvirkum og einangruðum Afrísk-Amerískum heimi— er kynþáttavitund ekki lykilþáttur í meðvitundinni. Þú veist að þú ert svartur, en á sama hátt og hvítt fólk veit að það er hvítt. Þar sem allir í kring um þig líta út eins og þú tekurðu því bara sem sjálfsögðu og eðlilegu og ómerkilegu. Tæknilega séð veistu að þú ert í minnihlutahópi, en sú staða verður aðeins augljós þegar þú ferð út í hinn stærri heim og tekur eftir því að þar úti ertu virkilega öðruvísi.48

Fræðimaðurinn Homi K. Bhabha heldur áfram með þessar kenningar undir merkjum eftirlendufræða með skrifum sínum um staðalmyndir.49 Hann skoðar ekki eingöngu nýlendubúa heldur einnig nýlenduherrann og beitir þar sálfræðilegri nálgun. Samkvæmt honum verður sjálfsmynd nýlenduherrans til í gagnvirkum tengslum beggja aðila en herrann er háður „hinum“ í sköpun eigin sjálfsmyndar.50 Til að búa til „hina“ til að mæla sig út frá skapar herrann staðalmyndir um kynþætti aðra en hvíta. Með þessari staðalmyndasköpun býr herrann til sína eigin sjálfsmynd, þar sem staðalmyndin er gerð að andstæðu við hina hvítu og öðrum kynþáttum gefnir eiginleikar sem hinum hvíta herra þykja neikvæðir. Og margar af staðalmyndunum sem nýlenduherrar sköpuðu, til dæmis um fólk frá Asíu og Afríku, lifa enn góðu lífi í dag. Þessar kenningar hjálpa ekki eingöngu til við að varpa ljósi á Dear White People þar sem þær, sem og þátturinn, fjalla allar um svart fólk sem býr í nær eingöngu hvítum samfélögum, þar sem það er „hinir.“ Það er einnig hægt að útfæra öðrunina og tilbúninginn á „okkur“ og „hinum“ um konur sem minnihlutahóp. Ótal staðalmyndir eru til um konur, sumar hverra hafa lifað góðu lífi síðan á þessum sömu nýlendutímum. Margir eru tregir til að viðurkenna að sú sé raunin, og telja að þær konur eigi að kenna sjálfum sér um, ekki feðraveldinu, ef þeim finnst á sér brotið og oft er því haldið fram að konur sem haga sér „eins og karlar“ nái meiri árangri.

48 Ta-Nehisi Coates, „American Girl“ í The Atlantic, 2009. „In fact, for the legions of black people who grew up like Michelle Obama—in a functioning, self-contained African American world—racial identity recedes in the consciousness. You know you’re black, but in much the same way that white people know they are white. Since everyone else around you looks like you, you just take it as the norm, the standard, the unremarkable. Objectively, you know you’re in the minority, but that status hits home only when you walk out into the wider world and realize that, out there, you really are differen.“ 49 Homi K. Bhabha, „The Other Question...“ í Twentieth-Century Literary Theory, ritstj. K. M. Newton, St. Martin’s Press, New York, 1997.bls. 293-301. 50 Homi K. Bhabha, „The Other Question...“ í Twentieth-Century Literary Theory, bls. 293-301.

16

Konur verða „hinir“ þegar þær eru í karllægu umhverfi og menning okkar hefur um árabil haldið staðalmyndum um konur að okkur öllum frá barnsaldri, rétt eins og staðalmyndum um svarta. Og þegar aðili er hluti af báðum þessum minnihlutahópum verður öðrunin enn meiri, ekki er eingöngu mikið af staðalmyndum og lítið af raunverulegum persónum svartra og kvenna í boði í menningunni, oft gleymast svartar konur alveg, sem og margir aðrir sem tilheyra fleiri en einum minnihlutahóp. Issa Rae, svört kona sem framleiðir og leikstýrir vinsælu sjónvarpsefni segir meðal annars: „Þetta er ekki hreinn og beinn rasismi, heldur það að við erum ekki til staðar. Alheimsskilgreiningin á stúlku er hvít... ég sá ekki venjulega svarta stúlku í sjónvarpi fyrr en árið 2000.“51 Audre Lorde segir í ritgerð sinni „The Master's Tools Will Never Dismantle the Master's House“ að ólíklegt sé að hægt sé að leiða af sér alvöru samfélagsbreytingar þegar horft er á vandamálin með augum rasisma og feðraveldisins. Konur í öllum jaðarhópum þurfi að standa saman og læra um kúgun hverrar annarar út frá mismunandi kúgandi þætti. Það að þvinga minnihlutahópa til að beita aðferðum kúgarans til að berjast fyrir rétti sínum er, að hennar mati, leið kúgarans til að halda þeim í skefjum. “Því verkfæri húsbóndans munu aldrei jafna húsið hans við jörðu. Þau mega hugsanlega leyfa okkur að vinna hann tímabundið í hans eigin leik, en þau munu aldrei gera okkur kleift að ná fram raunverulegum breytingum.”52

2.2 Menningarnám: Negrófílía Auk þessarar öðrunar sést að hvítir vilja nema menningu svartra og nota hana sér til skemmtunar, nota samfélagslega sköpuðu staðalmyndina af svörtu fólki sem búning. Sú löngun er alls ekki ný af nálinni en á þriðja áratugnum í París kom fram bylgjan negrophilia53, sem má þýða sem þrá eða girnd eftir svörtu fólki og menningu þeirra, eða því sem hvítt fólk telur menningu þeirra. Fræðikonan Petrine Archer-Straw skrifaði bókina Negrophilia: Avant-Garde Paris and black culture in the 1920’s þar sem hún útleggur sögulegar rætur þessarar girndar og rekur til dagsins í dag. Í stuttu máli lýsir hún henni sem svo

51 Issa Rae, The Misadventures of an Awkward Black Girl, Simon and Schuster, Bandaríkin, 2015: „It’s not blatant racism, it is that we are not on the radar. The universal definition of a girl is white... 2000 is the first time I saw a normal black girl on TV.“ 52 Audre Lorde, „The Master’s Tools Will Never Dismantle The Master’s House“ bls 27-28. 53 Petrine Archer-Straw, Negrophilia: Avant-Garde Paris and black culture in the 1920’s, Thames and Hudson, London, 2000, bls. 20.

17

Sjálft hugtakið negrófílía lýsir girnd eftir svartri menningu sem var ríkjandi hjá avant-garde listamönnum og bóhem-týpum í París á þriðja áratugnum, þegar það þótti tákn um að vera nútímalegur og í tísku að safna afrískri list, hlusta á svarta tónlist og dansa við svart fólk. Rétt eins og í dag þykja ákveðnir hlutar af svartri menningu flottir, til dæmis hip hop, reggae, gangsta rap og ákveðnar hárgreiðslur.54

En jafnvel þó „negrophiles“ þriðja áratugarins í París hafi lýst yfir ást sinni á svörtu fólki bar framkoma þeirra þess þó merki að þeir litu í raun ekki á það sem fólk heldur staðalmyndir og upphófu það sem dýrslegt, frumstætt og einfalt, fjarri úrkynjun vestræns samfélags. En samband þeirra við hina svörtu einkenndist einnig af ótta, rétt eins og um villt dýr væri að ræða. Archer-Straw segir „Svart fólk var annaðhvort tekið í guðatölu eða það álitið djöflar á þann hátt að það var enginn eðlilegur millivegur í boði. Mér fannst það að skoða þessar sveiflur frá negrófílíu til negrófóbíu geta verið gagnleg leið til að sjá hvernig svart fólk hefur í gegnum tíðina verið dýrkað eða hatað.“55 Þessi sama blanda upphafningar á staðalmyndinni og ótta við hana er enn til staðar í dag.56 Þetta kemur einnig fram í Dear White People þar sem ekki líður á löngu frá Black-Face partýinu þar til svörtum nemenda er ógnað með byssu þar sem hvíta fólkið lítur á hann sem ógn, en í hinum svokölluðu póstrasisma-Bandaríkjum Obama-árana var ekki óalgengt að svartir menn væru skotnir af lögreglunni þrátt fyrir að hafa ekkert gert af sér. Það skipti engu máli hvort þessir svörtu menn hafi reynt að tileinka sér menningu hvítra eða ekki.57 Archer-Straw slær einnig á sama streng og Fanon og Bhabha um staðalmyndina sjálfa en hún segir að negrófílíu sé viðhaldið af vestrænni menningu til að fóðra staðalmyndir sem ýta undir hugmyndir um að hinir svörtu séu öðruvísi, dýrslegir og frumstæðir. Slík negrófílía segi þannig meira um hvíta fólkið en viðföng þeirra.58 Í fyrstu þáttaröð Dear White People er Coco ein fárra, ef einhverra, svartra nemenda sem mætir í Black-Face partýið og er klædd í búning staðalmyndarinnar. Hún er, þrátt fyrir að vera svört á hörund, einnig í búningi líkt og hvíta fólkið, þeim búningi sem hið hvíta samfélag býst við af henni. Coco er auk þess að taka þátt í staðalmyndum og blætingu kynþáttar síns, á sama tíma að taka þátt í kyngervingu kvenna almennt, en

54 Petrine Archer-Straw, „A Double-Edged Infatuation“ í The Guardian, 2000, bls. 20. 55 Petrine Archer-Straw „A Double-Edged Infatuation“ í The Guardian, 2000, bls. 20. 56 Anne Helen Peterson, Too Fat, Too Slutty, Too Loud: The Rise and Reign of the Unruly Woman, Plume, New York, 2017. 57 Derrick Jensen, The Culture of Make Believe, Context Books, New York, 2002. Í bókinni telur Jensen upp nöfn ótalmargra svartra bandaríkjamanna sem hafa verið skotnir af lögreglunni. Listinn inniheldur allt frá börnum til gamalmenna og fram kemur að svartir menn eru 21 sinni líklegri til að falla fyrir hendi lögreglu en hvítir. 58 Petrine Archer-Straw „A Double-Edged Infatuation“ í The Guardian, 2000, bls. 21.

18

líkami hennar, föt og sítt hár falla undir nútímamót af kynþokkafullri konu samkvæmt feðraveldinu.59 Þegar Sam gagnrýnir hana fyrir að taka þátt í Black-Face partýinu segir Coco: „You wanna be a freedom fighter? Go ahead. This may come as a shock to you but these people dont give a fuck about no Harriet motherfucking Tubman, they spend millions of dollars on their lips, their tan, their asses, Kanye tickets, because they wanna be like us. And they got to be for a night.“60 Hún veit að í nútímasamfélagi er kúl að vera svartur, rétt eins og það var árið 1920 í París og sættir sig við að hvítt samfélag fái svarta menningu lánaða. Archer-Straw segir „Aðdáun avant-garde hreyfingarinnar á hinu svarta sem það fékk í láni var til jafns saðning þarfarinnar fyrir hið „exótíska“ og „ekta“ (e. Real), eitthvað sem vantaði í menningu hvítra, og fjárhagslegur gróði á kostnað svartra.“61 Það eina sem hefur breyst í dag er ekki menningarnámið sjálft heldur staðalmyndin sem verið er að stela. Það er ekki lengur verið að stela hreinleika og afturhvarfi til náttúrunnar heldur því að vera töff, og það mjög oft í gróðaskyni. Það er ekki eingöngu innbyggða staðalmyndin um svarta sem ógn og “aðra” sem spilar inn stöðu kvennana í þættinum, heldur einnig fegurðarstaðlar hins vestræna samfélags sem upphefja hvítleika, og ef ekki hvítleika þá það sem kemst næst honum.62 Það að vera ekki hluti af valdahópnum er að þá getur valdahópurinn ákveðið að þú sért öðruvísi og eingöngu fígúra. En alltaf er verið að stela og viðhalda einhverri staðalmynd, þeim tilbúna karakter sem hinn hvíti maður hefur skapað hinum svarta, hvort sem sú tilbúna ímynd er af villimanni í frumskógi eða rappara með byssu. Það sama gildir um staðalmyndir um konur. Vel er hægt að sjá hversu mikill tilbúningur staðalmyndin er ef að er gáð, en ljóst er að svo lengi sem einhver staðalmynd um minnihlutahóp er til mun valdahópurinn aldrei líta á meðlimi minnihlutahópsins sem manneskjur, heldur eingöngu fígúrur.63

59 Sama heimild, bls. 21. Petrine Archer-Straw talar um höftin sem voru á svörtum kvenkyns listamönnum sem urðu að falla í ákveðið mót og var haldið í því hvort sem þær reyndu að brjótast út úr því eða ekki. „This was certainly the case for the black female entertainer, Josephine Baker, Paris's own Vénus noire and the predecessor of female performers such as Eartha Kitt and Grace Jones, who have also played on white fantasies of animal magnetism to further their careers. But despite her humanitarian concerns, she discovered that the admiration and success she gained from white society came at a cost. Even up to her death in 1975, at the age of 69, she remained typecast, singing and dancing a white man's tune.“ 60 Justin Simien, Dear White People, sería 1, þáttur 4. 61 Petrine Archer-Straw, „A Double-Edged Infatuation“, í The Guardian. 62 Maggie Wykes og Barrie Gunter, The Media and the Body Image: If Looks Could Kill, bls. 29, vitnað er í Orbach og sagt: „At the same time advertisements and media copy portray today’s (Super) woman (for none of us are merely women any more) in the same hackneyed and limited aesthetic. Slim, white and youthful. (Orbach, 1993: xxii)“ 63 Þátturinn inni í þættinum, sem nemendur Armstrong-Parker House horfa á í seríu tvö er Love and Hip Hop-útúrsnúningur sem hvítir nemendur hlægja að en ekki með. Lætur það svörtu nemendunum líða óþægilega, þar sem þeir eru að hlægja að menningu þeirra, ekki með henni.

19

2.3 Virðingarpólitík Bandaríski rithöfundurinn Ta-Nehisi Coates, sem skrifar rúmri hálfri öld eftir útgáfu bókar Fanons, er sammála kenningum hans um samband hvítra og svartra. Í bókinni We Were Eight Years in Power: An American Tragedy64 talar Coates meðal annars um virðingarverðan svartleika (e. black respectability) og hvernig það sem hvíti maðurinn óttast mest er ekki staðalmynd svartra, heldur að svartir brjótist frá staðalmyndinni, hagi sér á samfélagslega viðurkenndan hátt og komist þannig í valdastöður, samanber Barack Obama.65 Þrátt fyrir að með þessari tilraun til aðlögunar sé hið svarta viðfang að hegða sér eftir höfði nýlenduherrans er fátt sem gerir hvíta manninn jafn áhyggjufullan og svart viðfang sem hefur fullkomnað hina hvítu grímu, talar eins og hann ,og nær árangri í hinum vestræna heimi. Þegar hinn undirokaði, þrællinn, er kominn í valdastöðu, hvað gefur þá hinum hvítu rétt á að ríkja yfir þrælunum?66 Í kaflanum „Notes From the First Year“67 talar Coates um hvernig það varð viðtekið gildi eftir 2008 að álíta sem svo að Bandaríkin hefðu sagt algerlega skilið við kynþáttaerjur og kerfisbundinn rasisma fortíðarinnar. Barack Obama var kosinn 44. forseti bandaríkjanna, og varð þar með fyrsti svarti maðurinn til að gegna þeirri stöðu. Og ef forsetinn var svartur, gat þá verið að Bandaríkin væru rasískt land þar sem hvítt fólk hafði ósanngjarna forustu í lífinu? Margir töldu svo ekki vera. Margir frægir svartir einstaklingar tóku undir þá stefnu og töldu að öll vandamál sem steðjuðu enn að svörtu fólki í Bandaríkjunum væru ekki hvíta fólkinu og rasisma að kenna heldur þeim sjálfum. Einna mest áberandi í þessari skoðun sinni, sem á ensku er kölluð Respectability Politics og ég þýði hér sem virðingarpólitík, var leikarinn Bill Cosby.68 Cosby var sérstaklega harðorður í ræðum sínum þar sem hann sagði svörtu fólki að það skorti virðingu vegna þess að það ætti ekki virðingu skilið vegna hegðunar sinnar, rapptónlistar, hvað það skýrði börnin sín, hvernig það klæddi sig og spurði hvort það kæmi þeim á óvart að hátt hlutfall þeirra væri í fangelsi eða hefði fallið fyrir hendi lögreglunnar.69 Þannig er ábyrgðinni

64 Ta-Nehisi Coates, We Were Eight Years in Power: An American Tragedy, bls x. 65 Ta-Nehisi Coates, We Were Eight Years in Power: An American Tragedy, bls xv. 66 Ta-Nehisi Coates, We Were Eight Years in Power: An American Tragedy, bls xvi. 67 Ta-Nehisi Coates, We Were Eight Years in Power: An American Tragedy, bls 6. 68 Ta-Nehisi Coates, We Were Eight Years in Power: An American Tragedy, bls 10-20. 69 Coates segir: „This is a key tenet of respectability politics, the idea that black people can overcome systemic problems through individual changes in behavior. If you dress or talk a certain way you're more likely not only to be seen as a criminal but to be one, while the reverse is also true. This is why Cosby is mentioning style choices in the same breath as violent crime, because respectability politics holds the two as incontrovertibly linked.“ Sjá Ta-Nehisi Coates, We Were Eight Years in Power: An American Tragedy, bls xx.

20

varpað frá kúgaranum yfir á hið kúgaða viðfang, hvort sem viðfangið er ákveðinn aðili eða samfélag og menning svartra eins og það leggur sig. Og virðingarpólitík er ekki eingöngu leiðinlegt nöldur um hvernig fólk á að haga sér því það að fylgja henni ekki getur hreinlega kostað svart fólk lífið. Þó er vert að benda á að það að fylgja þessari hugsun er ekki endilega nóg til að komast lífs af í bandarísku samfélagi.70 Fólk notar hegðun svarts fólks sem afsökun fyrir óréttlæti og ofbeldi sem það verður fyrir, rétt eins og Bill Cosby sem telur fólk eiga skilið að vera í fangelsi ef það skýrir börnin sín ákveðnum nöfnum eða hegðar sér á ákveðinn hátt. Samfélagið samþykkir að líta á ákveðið svart fólk sem “gott svart fólk” og annað sem vont. Það sem skilur þar á milli er virðingarpólitíkin sem snýst í raun um að því „hvítari“ sem þú hegðar þér því meiri virðingu færðu. Athugun á vinnuumsóknum í bandaríkjunum hefur til að mynda sýnt fram á að ef umsækjandi hefur nafn sem hljómar svart fremur en nafn sem hljómar hvítt eru minni líkur á að hann fái vinnuna.71 Talið er jafnframt að náttúrulegt hár svartra kvenna á vinnustöðum í bandaríkjunum sé ófagmannlegt og óviðeigandi, það sé ekki bara litið niður á slíkt hár heldur eigi að banna það.72 Og þrátt fyrir að það sé langskaðlegast þegar hvítir sem eru í valdastöðu krefji svarta um ákveðið útlit og hegðun til að vera virðingar verðir er sömu fegurðar- og valdastöðlum oft gert hátt undir höfði innan samfélaga svarts fólks líka.73

70Ta-Nehisi Coates, “Inverse Nationalism: My response to Henry Louis Gates' argument against reparations” á vef The Atlantic, 26. apríl 2010. https://www.theatlantic.com/national/archive/2010/04/inverse-nationalism/39463/ sótt 1. mars 2020. 71 German Lopez, „Study: Anti-Black Hiring Discrimination is as Prevalent Today as it Was in 1989“, af vef Vox, 18. september 2017. Í greininni vitnar Lopez í rannsóknir á vegum Harward, Northwestern University og Institude for Social Research, þ ar sem rannsakendur litu á allar rannsóknir á mismunun í garð svartra starfsumsækjenda frá árunum 1989 til 2015 og komust að því að enn er erfiðara að fá vinnu í Bandaríkjunum ef nafnið manns hljómar „svart.” https://www.vox.com/identities/2017/9/18/16307782/study-racism-jobs 72 Catherine Saint-Louis, „Black Hair Still Tangled in Politics“ á vef The New York Times, 26. ágúst 2009. https://www.nytimes.com/2009/08/27/fashion/27SKIN.html sótt 1. mars 2020. 73 Öfugt við gender/race í DWP: The Cosby Show was also revolutionary in its depiction of womanism. Womanism is a term coined by author Alice Walker that centers mainstream in the lives of Black women in particular and women of color in general. Both subtle and overt, critics often focused on the show’s racial commentary, or lack thereof, far more than the gender politics. Jason Bailey for Slate.com explored “The Other Huxtable Effect” and commented, The program spent little time openly discussing the race of its protagonists, but it frequently returned to the experience of matriarch Clair as a woman who not only maintained a successful career while raising five children but who refused to suffer gladly any fools who questioned her ability to do so. If The Cosby Show’s racial politics were merely implied, its gender politics were clear, pointed, and decidedly progressive. Everyone was so busy making a fuss over the show’s blackness that relatively few noted, at the time, that Cosby had smuggled proud and vocal feminism into the country’s most popular family sitcom. Bls 44. Collins’s Black Sexual Politics (2005) examines the controlling images set forth in television associated with poor/working-class Black women (Florida Evans on Good Times, for example) in contrast with middle-class career Black women (Clair Huxtable on The Cosby Show). Collins states, To achieve middle-class status, African American women must reject this gender-specific version of authenticity in favor of a politics of respectability. They must somehow figure out a way to become Black

21

Troy Fairbanks, sonur skólastjórans, setur einnig upp, jafnvel enn fremur en Coco, hina hvítu grímu virðingarpólitíkur. Í fyrri seríunni er hann í framboði í skólapólitík og endar seríuna á að brjóta rúðu til að styðja baráttu svartra nemenda. Í seinni seríunni hefur hann varpað frá sér hvítu grímunni en með hana hegðaði hann sér á þann hátt sem hinir hvítu telja virðingarverðan. Eftir stendur Troy sem týndur einstaklingur sem veit ekki hver hann er í raun og veru án þessarar grímu, án þess að reyna að geðjast hvíta manninum í einu og öllu. Sam segir um Troy þegar hann spyr hver hann sé í raun: „When I strip away the fantasy of who you are, there is a little boy so eager to please that he’ll become whatever you want him to be.“74 Kannski er það þessvegna sem rithöfundurinn Jason Johnson í umfjöllun sinni um þáttinn kallar Troy málpípu virðingarpólitíkur en Coco fremur self-aware but self- loathing assimilation75, hún veit hvað hún er að gera og beitir tólum herrans til að reyna að komast áfram í lífinu – en rétt eins og Audre Lorde segir virkar það ekki. Troy virðist skorta sannfæringu og stefnu, hann er ekki að beita tólum herrans til að ná árangri heldur til að gera það sem hann heldur að faðir hans og svo samfélagið vilji að hann geri. Faðir Troy er eins konar málpípa hins hvíta samfélags sem segir syni sínum hvaða hegðun sé boðleg og hver ekki. Þegar Troy reynir fyrir sér í skopi með hvítu Pastiche vinum sínum segir faðir hans: „Troy why are you out there cooning76 for these white boys? Troy: Dad they’re my friends. Dean: Friends? They’re laughing at you not with you, fool!“77 Reggie segir um Troy: „You’re kind of like the black guy in the white sitcom. Everything you do and say seems designed to make them laugh.“ Og Troy svarar „I spent my whole life learning how to disarm white people and now my own wont trust me,“ Hann hefur þannig lagað líf sitt að því að vera sá svarti maður sem hvítt bandarískt samfélag getur sætt sig við. Hann hefur lært að tala á þann hátt sem þeir hvítu vilja. Hann nefnir svartleika sinn sem brandara en lætur annars eins og hann komi málinu ekki við, sé ekki hluti af sér. Þegar hann talar við hvíta félaga sinn Kurt Fletcher kemur í ljós að þeir voru í sama leikskóla og hafa fylgst að alla námsbrautina.

“ladies” by avoiding these working-class traps. Doing so means negotiating the complicated politics that accompany this triad of bitchiness, promiscuity, and fertility. Bls 44 74 Justin Simien, Dear White People, sería 2, þáttur 4. 75 Jason Johnson, „Can We Talk About This Thing Bothering Me About Dear White People?“ af vef The Root, 5. Nóvember 2017. https://www.theroot.com/can-we-talk-about-this-thing-bothering-me-about-dear- wh-1795083865/ sótt 2. janúar 2020. 76 Glöggir lesendur sjá að eftirnafn minstrel-show persónunnar Zip Coon er einnig notað sem niðrandi slangur fyrir svart fólk, rétt eins og nafn bróðurpersónu hans Jim Crow er notað sem nafn fyrir rasísk lög og aðskilnaðarstefnu. 77 Justin Simien, Dear White People, sería 2.

22

Kurt: „Free speech is more important than its content. Except all this alt right shit going on on campus right now. Has me yearning for yester-year when people were quietly racist. You know, like my pappy Flethcer.“

Troy: „He was at our kinder graduation. He was not quiet about it. At all.“78

Eini munurinn er að Kurt á heima í heimi hinna hvítu og þarf ekki að reyna að vera neitt sem hann er ekki, en Troy hefur, frá blautu barnsbeini, verið að reyna að falla inn í hinn hvíta heim og vera viðurkenndur sem jafningi hinna hvítu. Og samkvæmt því sem hann segir um afa Kurts hefur hið hvíta samfélag verið duglegt við að minna hann á að hann sé ekki velkominn. Áhugavert er að bæði Troy og Coco eiga aðallega hvíta vini, Troy Pastiche strákanna og Coco her af stelpum eins og Muffy. Í báðum tilfellum eru Troy og Coco nákvæmlega eins og þessir hvítu vinir sínir og haga sér eins, klæða sig eins og tala eins, en eru þó alltaf minnt á að þau séu ekki eins, ekki jöfn, eingöngu vegna húðlitar síns. Við sjáum á samtölum Troy við föður sinn að hann hefur ýtt syni sínum í þennan farveg, en það er sú leið sem hann fór sjálfur. Við sjáum í þætti fjögur í annarri seríu, sem fjallar um Reggie, hvernig Fairbanks skólastjóri aðlagar tungumál sitt (e.code-switch)79 til að falla betur í hóp hvítra samstarfsmanna sinna, og hann beitir sömu aðferðum og Troy til að fá viðurkenningu hinna hvítu. Hann virðist þó, líkt og Coco, meðvitaður um að þetta er leikur og gríma sem hann setur upp, gríma sem hann hefur beitt allt frá áttunda áratug síðustu aldar til að halda bæði stöðu sinni í hvítum Ivy Leage skóla og færast upp valda- og virðingarstigann þar, og til að halda lífi. Hann setur mikla pressu á Troy, ósanngjarna pressu, og hefur ákveðið hvaða leið hann skuli fara til að ná frama. En hann er bara að reyna að passa að syni sínum gangi vel í lífinu og telur leiðina til þess vera Cosby-leiðina. Hann telur hann þurfa að gera allt sem jafnaldrar hans gera og það þrisvar sinnum betur og bæla það í sjálfum sér sem hvíta samfélagið myndi ekki láta viðgangast. Þegar Troy hefur hugsað um líf sitt og skrefin sem hann hefur tekið til að komast þangað sem hann er skoðar hann mynd af sér frá framboðsdögum sínum og spyr „Could

78 Justin Simien, Dear White People, sería 2. 79 Code-Switch er það að aðlaga tungumál sitt til að henta herranum. Í Bandaríkjunum tala margir svartir Bandaríkjamenn útgáfu af ensku sem kallast African American Vernacular English. AAVE fylgir ströngum málfræðilegum reglum rétt eins og almenn enska, en er á ákveðna máta frábrugðin almennri ensku. Í kringum 1980 börðust svartir málfræðingar fyrir því að AAVE væri skilgreint sem mállýska og fengi virðingarverða stöðu þannig. Í gegnum tíðina hefur verið algengt að niðra svarta Bandaríkjamenn fyrir hvernig þeir tala, og þeir hvattir til að tala tungumál herrans, eða „hljóma hvítir.“ Margir svartir Bandaríkjamenn sem hafa menntað sig í hvítum stofnunum hafa lært að aðlaga mál sitt almennri ensku til að forðast útskúfun, og er það kallað að code-switch, þegar þeir skipta út sínu náttúrulega AAVE fyrir almenna ensku.

23

everyone see how sad I was?“ Og það er í fyrsta sinn sem áhorfandinn fær að vita hversu þungbær hin hvíta gríma var og er Troy. Undir lok þáttarins þegar Troy gagnrýnir föður sinn fyrir að kenna honum aðeins að nota fólk og að nota hann sjálfan sem eins konar framlengingu af sér og sínum skoðunum og draumum sýnir faðir hans honum plakat af Troy sjálfum síðan í framboðinu úr seríu eitt, þar sem einhver hefur dregið hring um andlitið á honum og skrifað orðin „Lock him up!“ á það, og bendir syni sínum á að þetta sé heimurinn sem hann sé að reyna að finna sjálfan sig í. Troy, og áhorfandinn, skilur að föður hans er í raun mjög annt um son sinn og vill ekki eingöngu að hann nái frama, heldur einnig að hann lifi til fullorðinsára og endi ekki í fangelsi, því þrátt fyrir alla þeirra peninga og menntun er Troy og verður svartur maður í Bandaríkjunum og faðir hans veit að það er hættulegt. Hann er ekki tilbúinn að taka þá áhættu að eitthvað slæmt komi fyrir son sinn og hann reynir að kenna honum leiðina sem virkaði fyrir hann og hefur komið honum til fullorðinsára.

2.4 Sam White vekur athygli á vandanum: Saga Bandaríkjanna í Dear White People „Look I didnt create the divide I’m just calling attention to it“80

Í útvarpsþættinum Dear White People bendir Sam á óréttlæti sem svartir nemendur mæta í skólanum, auk þess sem hún beinir sjónum sínum að vafasamri hegðun hvíts fólks í garð svartra. Þátturinn byrjar oft á því að Sam gefur hvítum samnemendum sínum ábendingar um hvað mætti betur fara í samskiptum þeirra við svart fólk. En þrátt fyrir að margir af svörtum samnemendum Sam séu ánægðir með þáttinn veldur hann henni víða óvinsældum, til að mynda hjá skoptímaritinu, Pastiche. Í upphafi fyrsta þáttar seríunnar segir sögumaður „Pastiche set out to take down Samantha White by throwing a politically incorrect party for all those burdened by her demands for racial sensitivity.“81 Með þessari einu setningu er útskýrt nákvæmlega hvers vegna Pastiche er að halda Black-Face partý og hvers vegna Sam er svona óvinsæl meðal margra. Þegar kynþáttaspenna kemur upp eru bæði skólayfirvöld og flestir aðrir tilbúnir að kenna Sam persónulega um að það sé rasísk spenna í skólanum.

80 Justin Simien, Dear White People, sería 1, þáttur 1. 81 Justin Simien, Dear White People, sería 1, þáttur 1.

24

Listener: I find your show offensive and racist, we need to come together at a time like this.

Sam: Are you a white male?

Listener: Why does that matter, race is a social construct.

Sam: I’ll take that as a yes. Look I didnt create the divide I’m just calling attention to it.82

Og Fairbanks skólastjóri, sem er svartur karlmaður, segir um Sam: „Her rhetoric is making it look like this is a powderkeg of racial unrest. Like a state school.“83 Og er þar með tilbúinn að kenna Sam um vandann fyrir það eitt að vekja athygli á honum fremur en að líta til hinna raunverulegu rasista. Það sem hinir hvítu eru óánægðir með er ekki að skólinn sé rasískur, heldur að einhver sé að benda á það, rétt eins og hvítu börnin í bók Fanons sem verða ekki fyrir sálfræðilegum skaða við að vera mötuð á svörtum neikvæðum staðalmyndum.84 Að þurfa að hætta að líta á svarta sem staðalmyndir eingöngu er það sem skapar þeim hvítu vanda, enda eru þeir, rétt eins og hinir svörtu, aldir upp við þær. Erfitt er fyrir marga hvíta nemendur að sjá hvers vegna það sem þeir taka sem sakleysislegu gríni fer svona fyrir brjóstið á Sam og öðrum svörtum nemendum. Enda eru þeir ekki vanir því að vera gerðir að staðalmynd fyrir kynþátt sinn, hvíta fólkið. Ekki er langt að sækja raunveruleg dæmi um viðkvæmni hvíts fólks við því að vera bent á að sumt sé ekki í lagi þegar kemur að meðferð á staðalmyndum minnihlutahópa. Ekki er lengra síðan en 2018 að þáttastjórnandinn Megyn Kelly kvartaði opinberlega í sjónvarpsþætti sínum yfir því að ekkert megi lengur, þar sem athygli hafði verið vakin á því, í bandarísku samfélagi, að það að mála sig eins og svarta manneskju (e. Blackface) sem grímubúning væri ekki í lagi.85 Ekki er nóg með að sögumaður slái þennan tón í upphafi fyrstu þáttaraðar, boðskortið sem Pastiche sendir út inniheldur orðræðu hvítra manna sem eru vanir að vera á toppi fæðupíramídans og eru ekki vanir að þeim sé bannað eitt né neitt. Á boðskortinu bjóða þeir hvítum nemendum að taka sér frí frá því að óttast að vera taldir rasistar og að “leysa sinn innri negra frá áralöngum þrældómi”86 Einnig er ljóst á því orðavali að hinir

82 Justin Simien, Dear White People, sería 1, þáttur 1. 83 Justin Simien, Dear White People, sería 1, þáttur 1. 84 Frantz Fanon, Black Skin, White Masks. 85 John Colbin og Michael M. Grynbaum, „Megyn Kelly’s ‘Blackface’ Remarks Leave Her Future at NBC in Doubt.“ Af vef The New York Times, 25. október 2018. https://www.nytimes.com/2018/10/25/business/media/megyn-kelly-skips-today-blackface-nbc.html. Sótt 10. nóvember 2019. 86 Justin Simien, Dear White People, þáttur 1.

25

hvítu menn hafa gert svart fólk að „hinum“ auk þess sem þeir telja byrði að þurfa að vera umburðarlyndir, á tímum þar sem svartir hafa mun meiri réttindi en þegar Fanon skrifaði bók sína.87 Í fyrstu seríu er lítið fjallað um skólann sjálfann og sögu hans en strax í upphafi annarar seríu beinir sögumaður þáttarins athygli áhorfenda að sögu skólans og hinnar svörtu heimavistar Armstrong-Parker. Hann segir „1837, Armstrong-Parker. Fyrrum þrælabústaðirnir Armstrong Hall og Parker House eru sameinaðar til að hýsa ethnic nemendur , sem þýddi á þeim tíma Íra og Ítala. Þeir bjuggu þar fram á miðjan þriðja áratug tuttugustu aldar en voru svo teknir inn í hið hvíta samfélag. 1965, Armstrong-Parker House verður heimavist svartra nemenda skólans, en ekki allir eru sáttir við það, sérstaklega ekki Donald Hancock, nemandi sem verður seinna ríkur velgjörðarmaður hægrisinnaðra stjo´rnmálamanna og skólans sjálfs.“88 Sögumaður segir áhorfendum hvernig mótmæli svartra nemenda gegn lögregluofbeldi, þar sem í ljós kom að Hancock fjölskyldan vildi leggja niður hina svörtu heimavist, náðu hámarki með eignaskemmdum og mótmælum. Í lok fyrstu seríu tók Troy Fairbanks málin í eigin hendur og notaði ofbeldi til að stöðva uppþot. Á sama tíma breyddist út eldur í Davis-House, annarri heimavist. Sögumaður segir: „Þessir atburðir voru álitnir afleiðingar mótmæla og uppþots þar sem svart fólk átti hlut í máli. Febrúar 1968, Martin Luther King tekur til baka “I Have A Dream” ræðuna sína og kallar hana barnalega. Hann segir að svart fólk ætti ekki að sækjast eftir því að vera veittur aðgangur að brennandi húsi, og á þá við hið hvíta samfélag sem stendur á heljarþröm ofbeldis og stríðs. Tveimur vikum seinna er hann myrtur.”89 Viku áður en önnur sería hefst, samkvæmt sögumanni sem sveiflast milli núverandi atburða í skólanum og sögunnar, voru þeir nemendur, sem eru hvítir, sem misstu heimili sitt í eldsvoðanum í Davis-House, fluttir inn í Armstrong-Parker, sem er með því ekki lengur svört heimavist heldur hefur nú verið þvinguð til samruna (e. Integration), og orð Dr. King um að vera tekin inn í brennandi hús hljóma á ný í hugum hinna svörtu nemenda90. Þarna strax í upphafi annarar seríu sjá áhorfendur þennan nýjan og alvarlegri tón í þættinum. Þrátt fyrir að fyrri serían hafi vissulega ekki verið neitt grín, og fjallað um

87 Ta-Nehisi Coates, We Were Eight Years in Power: An American Tragedy, One World, New York, 2017, bls 7. 88 Justin Simien, Dear White People, Sería 2 þáttur 1. 89 Justin Simien, Dear White People, Sería 2 þáttur 1. 90 Justin Simien, Dear White People, Sería 2 þáttur 1.

26

alvarlegt menningarnám og lítilsvirðingu sem rænir svart fólk mennsku sinni, sem og lögregluofbeldi gegn svörtum, sést að nú er alvaran enn meiri ef eitthvað er. Það að flétta söguna saman við nútímann er sterkur leikur, enda ekki hægt að líta á núverandi stöðu svartra í Bandaríkjunum án þess að líta til sögunnar, en hvítir Bandaríkjamann eru sérstaklega gjarnir á að skauta framhjá ljótri sögu landsins síns.91 Eins og afrískur nemandi skólans segir, að þetta sé það sem gerist þegar land neitar að horfast í augu við sögu sína um þrælahald92. Hvítt fólk nú til dags er mjög fljótt að benda á að allt sé betra núna og vandamál þrælahalds og Jim Crow laga heyri sögunni til. En það sem gleymist oft að skoða er það sem sumir hafa kallað nútímaþrælahald (e. Modern slavery) Bandaríkjamanna. Simien brúar bilið milli sögunnar og nútímans og sýnir áhorfendum hvernig hatrið finnur sér alltaf nýjar grímur til að fela sig á bak við. Í seríu tvö er heimurinn enn á móti aðalpersónunni Sam White, nú einnig í formi nettrölls, sem og almennra nemenda skólans sem eru, líkt og áður, ósáttir við að hún hafi dirfst að benda á mótlæti. Sam verður fyrir árásum þessa nettrölls á samfélagsmiðlinum Twitter, en það er ekki nýtt hatur heldur eingöngu ný birtingarmynd hins sama gamla haturs. Í hafsjó mótlætis er Sam buguð og á erfitt með að halda baráttunni áfram. Hún reynir þó að svara fyrir sig á Twitter og telur upp meginatriði úr blóðugri sögu Bandaríkjanna, atriði sem sögumaður veitir áhorfendum innsýn í í upphafi hvers þáttar. Það sem Sam segir frá í hnitmiðuðum tweetum er í stuttu máli að frá þeim tíma sem þrælahald var formlega lagt af, þrátt fyrir blóðug mótmæli margra, hefur hið hvíta valdakerfi gert allt sem í valdi þess stendur til að viðhalda þrælahaldi og undirokun, en alltaf undir nýju nafni hverju sinni til að geta neitað öllum sökum ef einhver bendir á hvað er í gangi. Til að byrja með voru það áðurnefnd Jim Crow lög, sem heita eftir rasískum minstrel-show karakter leiknum af hvítum manni í blackface93, og þegar svartir fengu kosningarétt gerðu hinir hvítu allt sem í þeirra valdi stóð til að halda þeim frá því að kjósa. Vinsæl aðferð, utan við bjúrókrasíu og fáránlegar kröfur, sem og að gera svörtum erfitt

91 Carol Anderson, White Rage, “Since 1865 and the passage of the Thirteenth Amendment, every time African Americans have made advances towards full participation in our democracy, white reaction has fueled a deliberate and relentless rollback of their gains. The end of the Civil War and Reconstruction was greeted with the Black Codes and Jim Crow; the Supreme Court's landmark 1954 Brown v. Board of Education decision was met with the shutting down of public schools throughout the South while taxpayer dollars financed segregated white private schools; the Civil Rights Act of 1964 and Voting Rights Act of 1965 triggered a coded but powerful response, the so-called Southern Strategy and the War on Drugs that disenfranchised millions of African Americans while propelling presidents Nixon and Reagan into the White House.“ 92 Justin Simien, Dear White People, Sería 1 þáttur 2. 93 Roland Leander Williams Jr., Black Male Frames, bls 14.

27

með að komast á kjörstaði, var að myrða svart fólk án dóms og laga fyrir að reyna að kjósa.94 Í bókinni The New Jim Crow skrifar Michelle Alexander um Cotton fjölskylduna sem dæmi um hvernig svartri fjölskyldu er kynslóð fram að kynslóð haldið frá því að kjósa. 95

Jarvious Cotton getur ekki kosið. Rétt eins og faðir hans afi, langafi og langalangafi hefur honum verið neitað um réttinn til að taka þátt í lýðræðislegum kosningum. Ættartré Cotton-fjölskyldinnar segir sögu margra ættliða svartra manna sem voru fæddir í Bandaríkjunum en var neitað um það lágmarksfrelsi sem lýðræði lofar – frelsisins til að kjósa þá fulltrúa sem munu semja lögin og reglurnar sem þeir þurfa að lifa eftir. Langalangafi Cottons gat ekki kosið því hann var þræll. Langafi hans var barinn til dauða af meðlimum Ku Klux Klan fyrir að reyna að kjósa. Afi hans gat ekki kosið vegna hótanna af höndum Ku Klux Klan. Faðir hans gat ekki kosið vegna kosningaskatta og prófa á lestrarhæfni. Í dag getur Jarvious Cotton ekki kosið vegna þess að hann, líkt og margir svartir bandaríkjamenn, hefur verið stimplaður sem glæpamaður og er á skilorði.96

Einnig héldu hinir hvítu svörtum aðskildum frá hvítu samfélagi, þeir máttu ekki versla á sömu stöðum og koma inn á veitingahús og fleira, og ef það mátti ekki viðhalda því með lögum var það gert með ólöglegu ofbeldi og hótunum.97 Ólöglegt var fyrir svart og hvítt fólk að giftast fram til ársins 1963 og jafnvel eftir að það var löglegt var enn litið niður á samlíf svartra og hvíta, enda enn litið á svarta sem óæðri hvítum og nær dýrum en fólki, og eimir svo sannarlega eftir af þeim skoðunum í dag. Sjáum við það til dæmis í umfjöllun um millikynþátta (e. Interracial) pör í fréttamiðlum98 sem og í vali á ástarviðföngum fyrir

94 Michelle Alexander, The New Jim Crow: Mass Incarceration in the Age of Colorblindness, The New Press, New York, 2010. 95 Jarvious Cotton cannot vote. Like his father, grandfather, great-grandfather and great-great-grandfather, he has been denied the right to participate in our electoral democracy. Cotton’s family tree tells the story of a several generations of black men who were born in the United States but who were denied the most basic freedom that democracy promises – the freedom to vote for those who will make the rules and laws that govern one’s life. Cotton’s great-great-grandfather coud not vote as a slave. His great-grandfather was beaten to death by the Ku Klux Klan for attempting to vote. His grandfather was prevented from voting by Klan intimidation. His father was barred from voting by poll taxes and literary tests. Today, Jarvious Cotton cannot vote because he, like many black men in the United States, has been labeled a felon and is currently on parole.95 96 Michelle Alexander, The New Jim Crow, bls 2. 97 Michelle Alexander, The New Jim Crow, bls 2. 98 Jessica Chia, „Ashley Graham is Tired of Being Told How to Feel About Her Body“ í Allure Magazine, 18. Júní 2019. Hvíta fyrirsætan Ashley Graham, sem er gift hinum svarta Justin Ervin, lýsir því hvernig fólk kemur illa fram við þau sem par eða við eiginmann hennar sökum húðlitar hans, og tekur sem dæmi að það hafi verið hrækt á hann vegna húðlitar hans.

28

svarta karlkyns leikara í Hollywoodmyndum99 og innan þáttarins er aldeilis erfitt fyrir Sam og hinn hvíta Gabe að vera par sökum rasískrar spennu frá öllum hliðum, þar á meðal frá Gabe sjálfum.100 Önnur formleg stefna Bandaríkjanna til að halda undirokun svartra áfram var aðskilnaður skóla fyrir svarta og hvíta. Erfitt var fyrir svarta að fá aðgang að skólum hvítra, sem voru undantekningalaust mun betur til kennslu fallnir sökum skorts á fjármagni og tækjum til kennslu í hinum svörtu stofnunum.101 Í ofanálag við allar lögbundnar leiðir kerfisins til að halda svörtum niðri er svo lögregluvald sem er misnotað til að myrða svarta borgara án dóms og laga og án þess að þeir hafi endilega brotið af sér, rétt eins og á tímum Ku Klux Klan. Lögreglan færir lítt haldbær rök fyrir því að það hafi stafað ógn af svörtum borgurum sem lögreglan skýtur, þrátt fyrir að fórnarlömbin séu allt frá krökkum102 til fjölskyldufeðrum103 sé fórnarlambið dökkt á hörund. Minnir það á áðurnefnd orð um hvernig valdakerfið beitir ofbeldi ef allar aðrar leiðir til að halda kúguðum viðföngum niðri bregðast. Einnig smærri, en þó nokkuð áhrifarík atriði, eins og að neita svörtu fólki um vinnu,104 að reka svarta úr vinnum fyrir að vera svart,105 að gera heilan hóp fólks að hættulegri staðalmynd, óæðri hinum hvítu. Þegar Sam reynir að vekja athygli á að þessir grafalvarlegu hlutir séu ástæða þess að hún reynir að vekja athygli á málefnum svartra eru viðmælendur hennar fljótir að þagga niður í henni og segja henni að hún sé að ýkja vandann eða hreinlega búa hann til.106

99 KC Ifenyi, „The Last Taboo: Will Smith, „Focus“ and Hollywood‘s Interracial Couples Problem.“ Af vef Fast Company, 3. Febrúar 2015. https://www.fastcompany.com/3043046/the-last-taboo-will-smith- focus-and-hollywoods-interracial-couples-problem/ sótt 10. febrúar 2020. 100 Justin Simien, Dear White People, Sería 1. 101 Michelle Alexander, The New Jim Crow, bls X. 102 Derrick Jensen, Walking on Water: Reading, Writing and Revolution, Chelsea Green Publishing Company, Vermont, 2004. 103 Oliver Laughland, „Eric Garner: No Charges Against White Police Officer Over Chokehold Death“ á vef The Guardian, 16. júlí 2019. https://www.theguardian.com/us-news/2019/jul/16/eric-garner-death- new-york-no-charges/ sótt 12. febrúar 2020. 104 German Lopez, „Study: Anti-Black Hiring Discrimination is as Prevalent Today as it Was in 1989“, af vef Vox, 18. september 2017 105 German Lopez, „Study: Anti-Black Hiring Discrimination is as Prevalent Today as it Was in 1989“, af vef Vox, 18. september 2017 106 Justin Simien, Dear White People, þáttur 1 sería 2

29

3 Draugur Tómasar frænda: Birtingarmyndir svartra í sjónvarpi “White people love slavery movies almost as much as actual slavery.”107

Í ljósi þess að Dear White People er sjónvarpsþáttur er vert að líta stuttlega til sjónvarps og afþreyingarsögu Bandaríkjanna og hvernig miðlar fjalla um svart fólk, en það hefur sjaldan verið gert án hjálpar staðalmynda og ímyndarinnar sem hvítir hafa um hegðun svart fólks. Í bókinni Black Male Frames: African Americans in a Century of Hollywood Cinema, 1903-2003 skrifar Roland L. Williams um hvernig Hollywood hefur sýnt svarta menn í sjónvarpi, svo gott sem frá upphafi sjónvarpsins og í heila öld. Samkvæmt honum eru fyrstu lýsingar bandaríkjamanna á svörtu fólki á sviði í Bandaríkjunum, fyrir tíma kvikmyndanna, í svokölluðum Minstrel Shows, sem hófu göngu sína snemma á 19. öld, og voru, um 1848, orðið vinsælt listform um öll Bandaríkin. Sýningarnar gátu verið í formi hina ýmsu listforma, svo sem dansatriða, söngs og gamanleikja, en áttu það sameiginlegt að vera oftast leikin af hvítum leikurum með svarta andlitsmálningu sem átti að líkja í ýktri grínútgáfu eftir fólki af afrískum uppruna (e. blackface). Leikritin fjölluðu svo um þetta ímyndaða svarta fólk og var það sett fram sem heimskt, latt og hjátrúarfullt.108 Þrælahald var löglegt allt fram til 1865 í Bandaríkjunum, og voru Minstrel sýningarnar gjarnar á að sýna svart fólk annaðhvort sem hamingjusama og heimska þræla eða uppreisnargjarna og hættulega fávita sem vildu ekki vinna. Vinsælustu og best þekktustu sýningarnar sem við munum eftir í dag eru karakter hvíta leikarans Thomas Dartmouth Rice, Jim Crow, sem var latur, heimskur og varla mennskur, en var þó vinalegur og skapgóður kjáni, enda sáttur við þrælahaldið109, og Zip Coon sem var frjáls svartur maður, hrokafullur og reyndi að sýnast gáfaður en var aðhlátursefni.110 Var þessum tveimur lýsingum á svörtum mönnum eftir höfði hvítra seinna lýst af Sterling Brown sem „hamingjusömum þrælum“ (e. contented slave) og „aumum frjálsum mönnum“ (e. wretched freeman)111 Williams segir að þessar fyrstu sviðsetningar á

107 Stephen Falk, You‘re The Worst, FX Productions, Bandaríkin, 2014-2019. 108 Roland Leander Williams Jr., Black Male Frames. 109 Roland Leander Williams Jr., Black Male Frames. 110 Ronald L. Williams Jr., Black Male Frames. 111 Roland Leander Williams Jr., Black Male Frames.

30

svörtum mönnum112 hafi lagt grunninn að því að sýna svart fólk á annan af þessum tveim vegum, að þeir gætu annað hvort verið hættuleg ógn eða auðmjúkir þjónar, og að þetta sé ríkjandi allt frá upphafi Hollywood til 2003.113 Fordómar spretta ekki upp úr engu í birtingarmyndum svartra í bandarísku afþreyingarefni, heldur langri sögu afmennskunar svarts fólks. Þrátt fyrir að þrælahald hafi viðgengist og verið nokkuð algengt frá upphafi siðmenningar, var það ný uppfinning Bandaríkjamanna að tengja saman litarhaft og þrældóm.114 Framan af voru það ætt og staða einstaklings eða þjóðerni sem hnepptu hann í þrældóm fremur en litarhaft. Meira að segja í Bandaríkjunum voru kynáttafordómar ekki eitthvað sem spratt upp af sjálfu sér. Við landnám í Bandaríkjunum unnu enskir landnemar sem og angólskir saman og allir menn áttu rétt á viðunandi lífi væru þeir virðingarinnar verðir.115 Algengt samfélagskerfi var svokallaðar skilorðsbundinn þrældómur (e. indentured servitude), en í því kerfi skráir einstaklingur sig til launalausrar vinnu í ákveðinn tíma og að þeim tíma loknum fær hann land og tækifæri til að vinna fyrir sjálfan sig sem frjáls maður í hinum nýja heimi, sama hver hann er.116 En land tækifæranna hafði ekki óþreytandi byrgðir af landi og tækifærum. Williams skrifar: „Milli 1607 og 1660 spruttu upp nýlendur frá Virginíu til Vermont. Á þessum tíma keypti skilorðsbundinn þrældómur einstaklingum af hvaða litarhafti sem er raunhæfan möguleika á að verða ríkir. En það var einn hængur á þessu skilorðsbundna þrældómskerfi. Samningarnir þeirra sem skráðu sig kláruðust og þeir héldu á braut, svo það var krónískur skortur á vinnuafli. Þrælahald var þar með praktísk lausn, svo árið 1661 samþykkti Virginía svart þrælahald.“117 Til að láta þetta ganga upp þurftu ríkjandi völd að telja almenningi trú um að svart fólk væri ekki jafn mennskt og hvítt, og því dekkra sem það væri því ómennskara væri það. Williams skrifar um dreifingu þessa

112 Frá Shakespeare, um 1600: Othello noble and obliging og Caliban, andstæðan eins og Jim og Zip. Misdökkir, misslæmir en þá neðan virðingu hvíta mannsins. Tvíhyggjan svart er slæmt og hvítt er gott er sköpuð, sem og tvíhyggjan að svartir geti annað hvort verið sáttir og þakklátir eða vanþakklátir uppreisnarseggir, fylgir okkur enn ídag og við sjáum í DWP á þeim meginmuni sem er á til að mynda Sam, hinnar góðu ljósu baráttukonu og Coco, hinum dökka tækifærissinna, eða hinum svarta og þar með hættulega Reggie og hinum hvíta Gabe, og jafnvel Troy fyrstu seríu sem er RP og hagar sér rétt og annarar seríu sem hagar sér eins og hann vill og er þar með vondur. 113 Roland Leander Williams Jr., Black Male Frames 114 Roland Leander Williams Jr., Black Male Frames 115 Roland Leander Williams Jr., Black Male Frames 116 Roland Leander Williams Jr., Black Male Frames 117 Roland Leander Williams Jr., Black Male Frames, bls 9 „Between 1607 and 1660, colonies sprouted from Virginia to Vermont. During this period, a brief bit of servitude bought individuals of countless shades a realistic crack at a rise from rags to riches. But the indenture system nevertheless posed a problem. The hands’ contracts ran out, and they went their own way, and in this way the system produced chronic labor shortages. Slavery struck planters as a practical solution, so in 1661 the Virginia Assembly approved black bondage.

31

hugsanarháttar sem fékk grunn sinn byggðan á áðurnefndum gervivísindum: „Sú skoðun sem skaut rótum og varð ríkjandi var sú að svartir væru rétt greindari en búfénaður. Hann breytti litarhafti þeirra úr eingöngu litarhafti í tegund.“118 og „Eftir 1660 tók hver nýlendan af annarri við að hneppa svarta í löglegan þrældóm með hjálp þessara hugsana um svarta sem aðra tegund. Hugsana sem gerðu það að verkum að það að svartir svæfu hjá hvítum væri jafn ónáttúrulegt og að leggjast með dýrum. Þrældómurinn gerði svarta í raun að búfénaði. Hann bannaði þeim að giftast, eiga eignir og fjölskyldur. Kerfið veitti þeim enga frekari vernd gegn misnotkun en húsdýrum. Þrælahald lét þrælana lifa eins og húsdýr en hinir hvítu voru vissir um að kerfið væri sanngjarnt þar sem þrælarnir voru svartir og þar með ekki mennskir.“119 Á heildina litið má sjá að rasisminn sem fylgir þrælkun svartra hefur langvarandi og víðtæk áhrif. Í fyrsta lagi dæmdi það svarta til hörmulegs lífs. Seinna notaði það

118 Roland Leander Williams Jr., Black Male Frames, bls 14. 119 Roland Leander Williams Jr., Black Male Frames, bls 27. After 1660, one colonial assembly after another enacted bondage for blacks with the help of thoughts that made whites in bed with blacks seem as unnatural as bestiality. Bondage reduced blacks to chattel. It barred them from marriage, property, and family. The system provided them with no more protection from brutality than livestock. It imposed the life of farm animals on slaves with assurance that the system was fair because the enslaved were black and thus not humanÍ bókinni les höfundur í samfélagsástand bandaríkjanna í gegnum hvað þeir láta svart fólk vera á skjánum. Hann tekur fyrir fimm fræga svarta leikara, frá mismunandi tímabilum, sem eru aðallega þekktir fyrir ákveðin hlutverk sem höfðu mikil áhrif á hugmyndir fólks á sínum tíma. Hann byrjar á að segja frá Sam Lucas, sem varð frægur sem Uncle Tom á skjánum. Síðan er það Paul Robeson sem líkamnar Harlem Renaissence hreyfinguna – sem kallast á við negrófílíu þriðja áratugsins í París – sem var oftast skykkaður í hlutverk eins og George Harris Því næst er fjallað um Sidney Poitier sem birtist í formi einskonar spámanns, hið nýja form hins gamla Tómasar frænda, svo fjallað um uppreisnarseggi í meðförum Denzel Washington og að lokum er vikið að Morgan Freeman sem endurvekur enn og aftur draug Tómasar frænda, eða Magical Negro During the first century of Hollywood cinema, each new generation favored a different black male stereotype, reflecting opinions that wavered between these two types. The first generation, which peaked around 1919, called for equal treatment of blacks and whites and cheered for black characters on screen who evoked Uncle Tom. For the second generation, which during the Great Depression affirmed the belief in separate treatment for blacks, figures like George Harris were the ticket. Following World War II, a generation sought equality for blacks and embraced black stars who projected the air of a shaman. Then, playing a figure with the nerve of a scoundrel turned blacks into stars during the penultimate generation of the first Hollywood century, which rose in the wake of the civil rights movement. The final generation in cinema’s first hundred years went for affording blacks and whites separate but equal accommodations, and moviegoers clamored for screen blacks evocative of both Tom and George. (bks26) the first century of Hollywood cinema every generation favored one black male stereotype over the other. In 1903, when Porter converted a Tom Show production into the first feature of the motion-picture industry, the Progressive Era, desirous to mix blacks and whites in the mainstream, preferred the black stereotype represented by Tom. The generation of the Great Depression leaned toward the segregation of blacks and took to the black image typified by George. Stirred by the civil rights movement, appealing for integration, postwar moviegoers fell for the shaman. The Black Power movement incited a retreat from mixing blacks with whites, and the scoundrel became a big attraction. A stress on multi- culturalism reminded the country of its mixture of blacks and whites, bringing the final crop of moviegoers in the first Hollywood century to favor the shaman over the scoundrel in a close race. When chances of blacks keeping company with whites loomed large, moviegoers were drawn to the contented type; and when a generation favored blacks and whites staying apart, viewers were attracted to the wretched kind. Roland Leander Williams Jr., Black Male Frames, bls 14.

32

leikhúsið til að sýna þá aðeins sem hamingjusama þræla eða hrokafulla og vanþakkláta frjálsa fyrrum þræla.120 Hollywood tók svo við og þröngvaði svörtum í afmörkuð og neikvæð hlutverk og hélt þeim lengi vel frá aðalhlutverkum, og allt það þrátt fyrir að saga fólks af afrískum uppruna í Bandaríkjunum hefjist með loforði um jafnrétti fyrir alla.121

3.1 Svartar konur í sjónvarpi When I was four I asked my mum when I would turn white because all the good people on TV were white122

Þrátt fyrir að bók Williams varpi ljósi á sögu svartra í sjónvarpi fjallar bókin eingöngu um staðalmyndirnar sem féllu á karlkyns svarta leikara og þar með alla svarta karlmenn. Lítillega er minnst á konur í aukahlutverkum í Black Male Frames, en lítið er kafað ofan í sögu svartra kvenna á skjánum. Bókin The Evolution of Black Women in Television: Mammies, Matriarchs & Mistresses gerir það hins vegar, og í stað þess að velja ákveðnar leikkonur til að sýna sköpum staðalmynda nefnir höfundurinn, Imami M. Cheers, ákveðnar staðalmyndir, sem hafa verið, og eru, ríkjandi þegar kemur að birtingarmyndum svartra kvenna í sjónvarpi.123 Þegar litið er til birtingarmynda svartra kvenna í sjónvarpi hefur meginþunginn legið á að skoða og reyna að vinna gegn lífsseigum staðalmyndum sem eiga rætur sínar í rasisma og kvenhatri.124 Áhugavert er að þátturinn Dear White People velur konur og jaðarhóp125 sem aðalpersónur sem drífa pólitíska framvindu og kröfu um réttlæti, en í raun er það oft þannig126 þrátt fyrr að sagan gleymi svo þeim hópum og einbeiti sér frekar að karlmönnum, hvítum og almennt þeim sem tilheyra sem fæstum minnihlutahópum.127 Mikið af efni um jafnrétti og baráttu einblínir eingöngu á

120 Roland Leander Williams Jr., Black Male Frames, bls 28. 121 Roland Leander Williams Jr., Black Male Frames, bls 28. 122 Reni Eddo-Lodge, Why I’m No Longer Talking to White People About Race, Bloomsbury Publishing, London, 2017, bls 85. 123 Imani M. Cheers, The Evolution of Black Women in Televison: Mammies, Matriarchs and Mistresses, Routledge, New York, 2018. 124 Imani M. Cheers, The Evolution of Black Women in Televison: Mammies, Matriarchs and Mistresses, bls 3. 125 Lionel er sú persóna sem drífur pólitíska framvindu áfram með rannsóknum sínum fyrir skólablaðið, en hann er samkynhneigður, svartur karlmaður. 126 Gillian B. White, „The Glaring Blind-Spot of the MeToo Movement“ á vef The Atlantic, 22. nóvember 2017. https://www.theatlantic.com/entertainment/archive/2017/11/the-glaring-blind-spot-of-the-me-too- movement/546458// sótt 10. febrúar 2020. 127 Henry Barnes, „Stonewall sparks boycott row after claims film whitewashes gay struggle“ á vef The Gueardian, 7. ágúst, 2015. https://www.theguardian.com/film/2015/aug/07/stonewall-boycott-claims- roland-emmerich-film-gay-whitewash-sylvia-rivera-marsha-p-johnson/ sótt 13. febrúar 2020.

33

kynþáttamisrétti og tekur ekki til skoðunar margþætta mismunun sem fólk sem tilheyrir fleiri en einum minnihlutahópi verður fyrir. Því er vert að líta aðeins til sögu svartra kvenna í sjónvarpi og afþreyingarefni Bandaríkjanna. Fjórar staðalmyndir eru lífsseigari en aðrar, en það eru Mammy128129, Tragic Mulatto, Sapphire130 og Jezebel131. Konurnar í Dear White People virðast ekki falla algerlega undir þessar tilteknu staðalmyndir. Þrátt fyrir að Sam sé hálf svört og hálf hvít mætti ekki segja að hún falli alveg undir „tragic mulatto“ staðalmyndina, en hún á þó í erfiðleikum með sjálfsmynd sína sökum stöðu sinnar á jaðri kynþáttar. Jason Johnson skrifar: Nemendurnir í Winchester eru ekki eingöngu persónur, þeir eru einnig tákn ákveðinna svartra hugmyndafræða. Reggie er hinn uppreisnargjarni svarti maður, Coco er sjálfshatandi en þó meðvituð aðlögun svartra að hvítu samfélagi, Troy er virðingarpólitík.132 Patricia Hill Collins skoðaði staðalmyndir Afrísk-Amerískra kvenna sem hafa viðgengist í meginstraumnum í bæði Black Feminist Thought: Knowledge, Consciousness, and the Politics of Empowerment (2000) og Black Sexual Politics: African Americans, Gender, and the New Racism (2005). Collins segir, “það að sýna afrísk-amerískar konur sem stereótýpískar mömmur, valdhafandi mæður, bótaþega, og „heitar mömmur“ ýtir undir kúgun svartra kvenna í Bandaríkjunum.”133 Collins talar um það sem hún kallar stýrandi birtingarmyndir (e. Controlling images) sem eru gerðar til þess að láta rasisma, kvenfyrirlitningu, fátækt og aðrar birtingarmyndir samfélagslegrar

128 From slavery through the Jim Crow era, the mammy image served the political, social, and economic interests of mainstream white America. During slavery, the mammy caricature was posited as proof that blacks—in this case, black women—were contented, even happy, as slaves. Her wide grin, hearty laugher, and loyal servitude were offered as evidence of the supposed humanity of the institution of slavery . . . The caricature portrayed an obese, coarse, maternal figure. She had great love for her white “family,” but often treated her own family with disdain. 129 one of the oldest and widely recognized stereotypes for Black women, as Bogle states, “is usually big, fat and cantankerous, bls 33. 130 Sapphire (angry) “Sapphire” character first appeared during the 1940s and 1950s on the Amos ’n Andy radio program, and contemporarily this image “implies that Black women’s anger, their justifiable response to societal injustice, is dangerous or funny,” bls 3. 131 According to the Ferris State University Jim Crow Museum of Racist Memorabilia, Mammy, tragic mulatto, jezebel - jezebel stereotype derived from a vast period in American history when African- American women were being sexually terrorized by slave owners, their family members, friends, slave overseers and vigilante mobs, namely the Ku Klux Klan, who “branded Black women as sexually promiscuous and immoral” in order to justify “sexual atrocities” such as rape and sexual assault 132 Jason Johnson, „The problem with Dear White People“ á vef The Root. „The students at Winchester aren’t just characters; they’re ciphers for certain black ideologies. Reggie is black male militancy, Coco is self-loathing but self-aware assimilation, Troy is respectability politics.“ 133 Patricia Hill Collins, Black Sexual Politics: African Americans, Gender and The New Racism, Routledge, New York, 2004: Collins segir, “portraying African-American women as stereotypical mammies, matriarchs, welfare recipients, and hot mommas helps justify U.S. Black women’s oppression.”

34

kúgunar líta út sem eðlilegan og óhjákvæmilegan hluta af daglegu lífi.134 Hún bendir á mikilvægi þess að leiðrétta þessar stýrandi birtingarmyndir með raunsannari birtingarmyndum Afrísk-Amerískra kvenna í sjónvarpi.135 Hún greinir þrjár nútímaútgáfur136 af þessum gömlu staðalmyndum svartra kvenna í sjónvarpi og nefnir þær nútímamömmur (e. modern mammies), svartar dömur (e. Black ladies) og menntaðar tíkur (e. educated bitches.)137 Collins skrifar að birtingarmyndir Afrísk-Amerískra kvenna í sjónvarpi sé í raun bein lýsing á hinu raunverulega ástandi í samfélagi Bandaríkjanna “Margmiðlar hafa skapað mjög stéttarmiðaða ímynd af svörtum konum sem hjálpar til við að skapa nýjan rasisma og viðhalda þeim gamla í litblindu (e. Color blind) Ameríku” Með þessu búa miðlarnir til ímynd af svörtum sem fólki af lágum stéttum (e. class-specific Blackness) sem býður upp á ákveðin fyrirfram skrifuð hlutverk fyrir raunverulegar svartar konur, til dæmis Svartar dömur (e. Black lady) og nútímafóstrur (e.modern mammy) og skapar þannig ákveðinn stað fyrir svartar konur sem erfitt er að brjótast út úr138 Tressie McMillan Cottom skrifar í Thick and Other Essays um þessar stýrandi birtingarmyndir Collins að þær hafi fest svo djúpar rætur í bandarísku samfélagi að það hafi mikil áhrif á raunverulegt líf svartra kvenna.139 Cheers bendir á að fram að níunda áratugi síðustu aldar voru þeir sjónvarpsþættir sem fjölluðu um svart fólk undir stjórn hvítra yfirmanna stúdíóa og sjónvarpsstöðva.140 Vinsælir þættir eins og Sanford & Son, The Jeffersons and Good Times, sem allir eru um svartar fjölskyldur, voru búnir til og framleiddir af tveimur hvítum karlmönum, Norman Lear og Bud Yorkin. Þrátt fyrir að leikararnir og sumir af þeim sem skrifuðu þættina væru svartir voru það þeir Lear og Yorkin sem réðu allri framvindu.141 Þessir hvítu framleiðendur og stjórnendur höfðu ákveðna sýn á svartar konur og sýndu þær í ljósi sem var varpað á þær út frá skoðunum hvíts miðstéttarfólks í Bandaríkjunum, en þær skoðanir voru þær að svartar konur í Bandaríkjunum væru aðallega húshjálpir eða

134 Patricia Hill Collins, Black Feminist Thought, bls 39. 135 Patricia Hill Collins, Black Sexual Politics, bls 45. 136 Collins’s examples of modern mammies and Black ladies are selected from series of the 1980s and 1990s, including The Cosby Show, in which Phylicia Rashad’s character appeared as the matriarch, Claire Huxtable. Collins focused on several additional prominent African-American actresses and their roles on dramatic series during the late 1990s and early 2000s, bls 3 137 Patricia Hill Collins, Black Sexual Politics, bls 45. 138 Imani M. Cheers, The Evolution of Black Women in Televison: Mammies, Matriarchs and Mistresses 139 Tressie McMillan Cottam, Thick and other essays, ritgerð 2 140 Imani M. Cheers, The Evolution of Black Women in Televison: Mammies, Matriarchs and Mistresses bls 2 141 Imani M. Cheers, The Evolution of Black Women in Televison: Mammies, Matriarchs and Mistresses bls 2

35

skemmtikraftar. 142 Þegar uppistandarinn Bill Cosby bjó svo til og framleiddi The Cosby Show sem var í sýningu frá 1984 til 1992, og A Different World frá 1989 til 1993, var hann fyrsti svarti Bandaríkjamaðurinn til að framleiða sjónvarpsefni með aðallega svörtum leikurum. Hans sýn á svart fólk var önnur en sýn hvíta mannsins og hann sýndi svörtu fjölskyldurnar í þáttum sínum sem duglegar, menntaðar, vel stæðar og með fjölskylduna í fyrirrúmi. Höfundur skrifar: Cosby sýndi gildi stolts og pan-Africanisma143 sem lagði grunninn fyrir næstu kynslóðir Afrísk-Amerískra rithöfunda, framleiðenda og leikstjóra.144 En ekki var björninn alveg unnin með Cosby. Frá 2005 til 2010 höfðu svartar konur svo gott sem horfið úr vinsælum fjölskyldugamanþáttum og í staðinn var þær helst að finna í svokölluðum raunveruleikaþáttum. Í stað þess að sýna svörtu konurnar sem höfuð fjölskyldu, líkt og hjá Cosby, voru þær nú sýndar sem háværar og reiðar ódannaðar hjákonur. 145 Í gegnum tíðina höfðu hvítar konur146 oft á tíðum verið sýndar sem hreinar og hógværar en svartar konur voru oft, og það jókst á þessum árum, sýndar sem andstæða hins hvíta hreinleika.147

4 Femínismi: Meginstraumsfemínismi er hvítur “If there is not the intentional and action-based inclusion of women of color, then feminism is simply white supremacy in heels.”148

Kannski er ekki skrítið að þátturinn Dear White People sem einbeitir sér að svörtu fólki og misrétti gegn því styðjist ekki beint við femínisma til að koma einhverju til skila. Femínismi, eins og við þekkjum hann, er hreyfing sem hófst með súffragettum á 20 öld, gekk í bylgum með mismunandi áherslum og hefur dottið í og úr tísku í einhverri mynd í

142 Imani M. Cheers, The Evolution of Black Women in Televison: Mammies, Matriarchs and Mistresses bls 2 143 Kwame Nkruma, Africa Must Unite, 1963. Pan-Africanismi er hreyfing sem varð til á tuttugustu öldinni og beytti sér fyrir því að sameina Afríku og gera álfuna sjálfstæða. 144 Imani M. Cheers, The Evolution of Black Women in Televison: Mammies, Matriarchs and Mistresses, bls 2 „Cosby established a standard of self-pride and pan-Africanism that laid the foundation for future generations of African-American writers, producers and directors.“ 145 Imani M. Cheers, The Evolution of Black Women in Televison: Mammies, Matriarchs and Mistresses, bls 50. 146 Editor: Sarah Gamble, The Routledge Companion To Feminism and Postfeminism, Routledge, London, 2001, bls 81. 147 Imani M. Cheers, The Evolution of Black Women in Televison: Mammies, Matriarchs and Mistresses bls 51. 148 Rachel Elizabeth Cargle, „When Feminism is White Supremacy in Heels“ í Harper‘s Bazaar, 16. ágúst 2018, sótt þann 20. mars 2020 af: https://www.harpersbazaar.com/culture/politics/a22717725/what- is-toxic-white-feminism/

36

langan tíma.149 Hreyfingin einbeitti sér að því göfuga markmiði að konur fengju mannréttindi á við mannréttindi karlmanna hvers tíma, en hefur réttilega verið gagnrýndur á síðustu árum fyrir útilokun sína á svörtum konum, lesbíum, transkonum, og öðrum jaðarsettum hópum kvenna, en hreyfingin var sérstaklega sniðin að hvítum miðstéttarkonum og tók svörtum konum síður en svo opnum örmum.150 En þrátt fyrir það eru mikil líkindi með jaðarsetningu svartra og svo kvenna af hinu hvíta valdakerfi og feðraveldi. Einnig er nútíminn gjarn á að útiloka og gleyma hlut hvítra kenna í þrælahaldi og rasisma en í bókinni They Were Her Property: White Women as Slave Owners in the American South, eftir bandarísku fræðikonunna Stephanie E. Jones-Rogers, er fjallað um hvernig oft er litið framhjá hlut hvítra kvenna í þrælahaldi og eign, en konur erfðu oft fremur þræla en lönd og peninga, og beittu alveg jafn mikilli kúgun og karlmennirnir.151 Áhugavert er að horfa til þess hvernig saga femínisma, eins og hún er oftast sögð, útilokar bæði hlut svartra kvenna sem lögðu hönd á plóg til að ná fram jafnrétti sem og hvernig hinar hvítu millistéttarkonur sem gerðu sig að andliti báráttunnar útilokuðu konur sem voru ekki hvítar og vildu eingöngu berjast fyrir eigin réttindum.152 skrifaði The Second Sex árið 1949153 og skilgreindi konuna sem samfélagslega tilbúið hitt (e. Other), sem lagði einmitt grunninn fyrir mikið af femínískum fræðiskrifum áttunda áratugarins.154 Hún skrifaði „Maður fæðist ekki, heldur verður, kona. Það eru ekki líffræðileg, sálfræðileg eða fjárhagsleg örlög sem bera ábyrgð á uppfinningu fígúrunnar sem hin kvenkyns mannvera er í samfélaginu. Það er öll samfélagsgerðin sem hefur skapað þessa veru, millibilsveru á milli karls og geldings, sem er lýst sem kvenlegri.“155 Þessi öðrun konunnar er, samkvæmt henni grundvöllur fyrir sköpun viðfanga, þar sem sjálfið getur eingöngu verið skilgreint í samhengi við eitthvað sem er andstæða þess. Þar sem karlmenn hafa tekið sjálfið fyrir sjálfa sig og gert konuna

149 Sarah Gamble, The Routledge Companion To Feminism and Postfeminism, bls. 3. 150 Anne Koedt,1971: Her counter-argument … however, renders invisible the specific oppressions of lesbian women just as the ‘double jeopardy’ of black women was masked within a feminist ‘sisterhood’ articulated largely by white, middle-class, heterosexual women. Increasingly, then, the charges of racism and heterosexism were leveled within feminism itself. Routledge, bls 28. 151 Stephanie E. Jones-Rogers, They Were Her Property: White Women as Slave Owners in the American South, Yale University Press, New York og London, 2019. 152 Stephanie E. Jones-Rogers They Were Her Property: White Women as Slave Owners in the American South, 153 Simon de Beauvoir, The Second Sex, 1949. 154 Sarah Gamble, The Routledge Companion To Feminism and Postfeminism, bls. 28. 155 Simone de Beauvoir, The Second Sex, BLS

37

að eilífu „öðru“156 hefur skilgreiningin kona ekkert gildi þar sem það er eingöngu tilbúin fantasía karlmanna. Og þar sem allar samfélagslegar birtingarmyndir konunnar sem við eigum, segir Beauvoir, hvort sem það er í goðsögum, trú, bókmenntum eða poppmenningu, eru tilbúnar af karlmönnum hafa konurnar sjálfar lært þessar skilgreiningar og lært að „láta sig dreyma í gegnum drauma karlmanna“157 Konan er þar með þvinguð til að samþykkja sjálfa sig sem aðra, fyrir karlmenn. Hún verður að gera sjálfa sig að viðfangi, að kasta af sér sjálfræði sínu. Það sama mætti segja um svarta, eins og Crenshaw og Collins benda á síðar, hið svarta er hitt (e. The other) þegar kemur að hvítum. Sjálfið er þeirra hvítu að skapa, hinir svörtu verða að vera tilbúningur hinna hvítu sem eru þeir sem skapa hugmyndirnar um þá, en þessi sköpun sjálfsins sem er í beinu samhengi við kröfur kúgarans, hvítra og karlmanna158, er rík í Dear White People, og sjást allar svörtu aðalpersónurnar berjast við sköpun sjálfsins innan þröngt afmarkaðs ramma sem þeim er veittur af hinu hvíta valdakerfi. Árið 1970 varð ákveðin sprenging í femínískum fræðiskrifum, eftir uppgang annarar bylgju femínísmans frá 1963, og mörg þeirra lykil fræðirita sem við notumst við í dag komu út. Kate Millett gaf út Sexual Politics, Shulamith Firestone The Dialectic of Sex og Robin Morgan ritstýrði ritsafninu Sisterhood is Powerful en þessar bækur komu allar út í Bandaríkjunum.159 Svipting var frá viðhorfum annarrar bylgjunnar. , sem skrifaði The Feminine Mystique, var ósammála Beauvoir og taldi lausnina á kúgun kvenna vera að finna innan ríkjandi valdakerfis.160 Ólíkt verkum Friedan áttu bæði Sexual Politics og The Dialectic of Sex rætur sínar í róttækum femínisma. Bók Millett gerði bæði frasann kynjapólitík (e. sexual politics) vinsælan og víkkaði út hugmyndina um feðraveldið, frá hinni upprunalegu merkingu sem átti við samfélag sem er stjórnað af eldri manni og viðgengst innan ættbálka og fjölskyldna, yfir á samfélagslega kúgun allra kvenna af höndum allra karlmanna.161 Millett kallar feðraveldið pólítískt valdakerfi og kyn stöðuflokk með pólitískri meiningu (e.‘status category with political implications’).162 Einnig kallar hún

156 Þetta hugtak um minnihlutahópa sem „annað“ kemur víða fyrir í skrifum bæði femínista um samfélagsstöðu kvenna sem og í skrifum svarts fólks um öðrun kynþáttanna. Einnig talar Edward Said um sköpun þess í mótvægi við hvítleikann í riti sínu Orientalism, og talar um að hinn hvíti maður skapi „annað“ í umfjöllunn sinni um asískt fólk til að skilgreina sjálft sig á kostnað „hinna“. 157 Simone de Beauvoir, The Second Sex, BLS 158 Þessi kenning er mjög forvitnileg þegar sá sem hefur kúgað aðra í einhver tíma og beitt ofbeldi eða hunsað mannréttindi, réttlætir gjörðir sínar með því að segja fórnarlambið vera veikt á einhvern hátt; ríkjandi hópar hegða sér þannig til að fá útrás fyrir þörf sína til að kúga. 159 Sarah Gamble, The Routledge Companion To Feminism and Postfeminism, bls. 28. 160 Sarah Gamble, The Routledge Companion To Feminism and Postfeminism, bls. 30. 161 Kate Millet, Sexual Politics, Doubleday & Co. Bandaríkin, 1970, bls 109. 162 Kate Millet, Sexual Politics, bls 109.

38

feðraveldi grunnform kúgunar, án þess væri ekki hægt að stunda aðra kúgun, svo sem kúgun og öðrun á grundvelli kynþáttar, pólitískra skoðana og samfélagsstöðu. Hún segir feðraveldi aðallega haldast við völd sökum hugmyndafræðilegrar stjórnunnar.163 Hún segir:

Maður er þvingaður til að komast að þeirri niðurstöðu að kynjapólitík, sem er tengd hagkerfinu og öðrum áþreifanlegum hlutum skipulags samfélagsins, er eins og kynþáttafordómar eða stéttaskipting, aðallega hugmyndakerfi eða lífsstíll sem hefur áhrif á hvern sálfræðilegan og tilfinningalegan anga tilverunnar. Hún hefur þannig skapað formgerð sem á rætur djúpt í fortíð okkar sem getur vaxið og dafnað eða hopað, en fólki hefur enn sem komið er ekki tekist að losna algerlega við.164

Líkt og Beauvoir hélt fram segir Millett að konur hafi líkamnað (e. internalized) hugmyndafræði kvenleikans, og þannig tekið sér stöðu sem óæðri karlmönnum. Þegar hugmyndafræðileg kúgun virkar ekki mun feðraveldið, rétt eins og hið hvíta valdakerfi þegar kemur að rasisma eða nýlenduhyggju, grípa til valds. Slíkt vald getur verið lagalegt, rétt eins og misbeiting valds gegn konum fyrir frjálsa kynhegðun eða skortur á réttindum til fóstureyðinga, persónulegt, eins og í kynbundnu ofbeldi, eða samfélagslegt, eins og með klámvæðingu.165

4.1 Svartar konur innan hins hvíta femínisma Í bókinni What A Girl Wants er Póstfemínismi gagnrýndur fyrir að virða að engu verk sem femínisminn vann fyrir konur.166 Bókin er skrifuð árið 2006 og vitnar höfundur í fyrirsagnir samtíma síns, til að mynda í grein um launamun kynjana þar sem segir „Í gegnum níunda og tíunda áratuginn voru konur af öllum fjárhagslegum stöðum samfélagsins – fátækar, miðstéttar-, og ríkar – hægt og bítandi að vinna á karlkyns samferðamenn sína á vinnumarkaðinum. Í kringum 1995 þénuðu konur meira en 75 cent fyrir hvern dollara á tímann sem menn unnu sér inn, en það reis frá 65 centum aðeins fimmtán árum áður.“167 Ekkert er minnst á kynþátt í þessari samantekt höfundar á því sem

163 Sarah Gamble, The Routledge Companion To Feminism and Postfeminism, bls. 31. 164 Sarah Gamble, The Routledge Companion To Feminism and Postfeminism, bls. 31. 165 Sarah Gamble, The Routledge Companion To Feminism and Postfeminism, bls. 31. 166 Diane Negra, What a Girl Wants? Fatasizing the Reclamation of Self in Postfeminism. Routledge, Bandaríkin, 2009. Bls 4. 167 Diane Negra, What a Girl Wants? Fatasizing the Reclamation of Self in Postfeminism. Routledge, Bandaríkin, 2009. wants Throughout the 1980s and early 1990s, women of all economic levels— poor, middle class and rich—were steadily gaining ground on their male counterparts in the work force. By the mid-1990s, women earned more than 75 cents for every dollar in hourly pay that men did, up from 65 cents just 15 years earlier

39

femínisminn hefur áorkað, hvað þá að minnst sé á að konur sem eru ekki hvítar þéna mun minna á tímann en hvítar konur, sem þéna þó ekki það sama og karlar.168 Höfundur skrifar að What a Girl Wants? sé um samtímamenningu sem hefur gleymt femínisma þrátt fyrir harða baráttu femínista.169 Póstfemínistinn er, samkvæmt bókinni, álitinn sjálfhverfur minnihlutahópur sem ógnar stöðugleika bandarísks samfélags.170 Með því að gera lítið úr, snúa út úr og misskilja viljandi pólitísk og samfélagsleg markmið femínisma líta póstfemínistar á femínismann sem stífan og alvarlegan, mótfallinn kynlífi og rómantík, erfiðan og ofstopafullan, samkvæmt What a Girl Wants. Í mótvægi við það býður póstfemínisminn upp á nautn og þægindi þess að endurheimta (e. reclaim) sjálfið óhindrað af kynjapólitík og gagnrýni valdakerfisins.171 Höfundur ætlar sér í bókinni að taka upp hanskann fyrir femínisma sem honum finnst vegið að, og svo má vel vera, en ekki er vegið að honum af réttum ástæðum. Femíníska hreyfingin er mjög útilokandi og einblínir aðeins á mjög lítinn hlut kvenna, þann hlut kvenna sem hún og samfélagið hefur skilgreint sem normið, hina „venjulegu“ konu. Hreyfingin er lítið sem ekkert gagnrýnd fyrir þessa útilokun af meginstraumnum, af þessum sömu hvítu konum sem græða á femínismanum en skilja konur sem tilheyra minnihlutahópum eftir. Juliet Mitchell sagði árið 1971 „Réttindabarátta svartra var sennilega sterkasti innblásturinn fyrir uppgangi réttindabaráttu kvenna.“172 og að svartar konur hefðu ennfremur verið aktívar í að stofna fyrstu róttæku femínismahópanna í Bandaríkjunum, eftir að hafa brennt sig á kvenfyrirlitningu réttindabaráttu svartra, sem var mjög miðuð að körlum, á sjöunda áratugnum. Árið 1970 birtist greinin „A Historical and Critical Essay for Black Women“, eftir Patricia Haden, Donna Middleton og Patricia Robinson í Voices from Women’s Liberation173 og sama ár greinin „Double Jeopardy“ eftir Francis Beale í safnritinu Sisterhood is Powerful, en í grein Beale er fjallað um þá tvöföldu byrgði kynþáttar og

168 Þegar Civil Rights Act var sett í lög árið 1964 var atvinnurekendum gert ólöglegt að mismuna fólki vegna kynþáttar. Þrátt fyrir það jafnaðist tekjumismunur ekki út. Stuttu eftir að lögin voru sett varð bilið aðeins minna þar til um miðjan áttunda áratuginn. Þá hægði á framförum í jafnrétti fyrir marga minnihlutahópa, þær hættu alveg eða gengu jafnvel til baka. Tali Kristal, Yinon Cohen og Edo Navot, "Benefit Inequality Among American Workers by Gender, Race, and Ethnicity, 1982-2015" í Sociological Science. 5: 461–488, Bandaríkin, 2018. 169 Diane Negra, What a Girl Wants? Fatasizing the Reclamation of Self in Postfeminism. Routledge, Bandaríkin, 2009. Bls 5. 170 Diane Negra, What a Girl Wants? Fatasizing the Reclamation of Self in Postfeminism. Routledge, Bandaríkin, 2009. Bls 171 Diane Negra, What a Girl Wants? Fatasizing the Reclamation of Self in Postfeminism. Routledge, Bandaríkin, 2009. Bls 2 172 Routledge bls. 28. „The Black Movement was probably the greatest single inspiration to the growth of Women’s Liberation.“ 173 Leslie Tanner, 1970, Voices from the Womans’ Liberation.

40

kvenleika sem svartar konur þurfa að bera.174 Í henni talar Beale um það sem hún kallar „Baráttu svartra kvenna upp á líf og dauða til að öðlast algert frelsi frá hvítu miðstéttar kvenréttindabaráttunni,“ og segir að „þar til kvenréttindabaráttan fer að beita andrasískum og andimperíalískum hugmyndum mun hún ekki eiga neitt sameiginlegt með baráttu svartra kvenna.“175 Stefnuyfirlýsing National Black Feminist Organization frá 1973 snerist um að að það væri hin skekkta karllæga mynd feðraveldisins sem gerði það að verkum að femínistahreyfingin væri svona hvít og miðuð að miðstéttarkonum. Þetta sjónarhorn breytti því þó ekki að svartar konur áttu erfitt með að treysta á hreyfingu sem talaði um systralag kvenna en gerði þær ósýnilegar innan hreyfingarinnar.176 Árið 1989 þegar svarta bráttukonan var í viðtali við Feminist Review, sagði hún að yfirgnæfandi meirihluti svartra kvenna hefði ekki fundið neina tengingu við femínistahreyfingu áttunda áratugarins.177 Bókinni The Routledge Companion to Feminism and Postfeminism er ætlað að vera grunnrit um femínisma. Í lýsingu hennar á sjálfri sér stendur: “For general readers as well as for students at all levels, this is an invaluable guide for anyone with a serious interest in feminism, its history and its future.“178 Í ritinu er farið yfir sögu hreyfinganna frá upphafi þeirra til ársins 2006.179 Áhugavert er samt að í sögu femínismans, er ekki minnst á svartar konur, eða kynþátt yfir höfuð, fyrr en á blaðsíðu 27, þegar búið er að fara yfir snemmbúinn femínisma, fyrstu bylgju femínisma og annarar bylgju femínisma, ef litið er framhjá setningu í sögu bandarísks femínisma sem segir að stuðningsmenn afnáms þrælahalds (e. Abolitionists) vildu ekki að konur berðust fyrir réttindum sínum því það

174 Sarah Gamble, The Routledge Companion To Feminism and Postfeminism, bls. 28. 175 Sarah Gamble, The Routledge Companion To Feminism and Postfeminism, bls. 29. „Black women’s ‘life-and-death struggle’ for total emancipation from the ‘basically middle-class’ white women’s liberation movement,“ og segir að „until the latter adopted an anti-imperialist and anti-racist stance it could have ‘absolutely nothing’ in common with the black woman’s struggle 176 Sarah Gamble, The Routledge Companion To Feminism and Postfeminism, bls. 29. 177 Angela Davis, Feminist Review. 178 Sarah Gamble, The Routledge Companion To Feminism and Postfeminism, inngangur. 179 Í inngangi bókarinnar segir: The Routledge Companion to Feminism and Postfeminism cannot lay claim to the distinction of being the first dictionary of feminism to be published. However, it appears at an apposite moment, a period in which ‘feminism’ is becoming an increasingly contested term. This is something this volume is intended to highlight, as indicated by the inclusion of the controversial term ‘postfeminism’ in its title. The introduction of the word ‘postfeminism’ into the popular lexicon has been taken to imply that we have somehow moved beyond the need for feminist activism, hence its linkage to the work of a disparate group of British and American writers, such as Naomi Wolf, Rene Denfeld and Natasha Walter, who argue in support of a change in the feminist agenda. Consequently it has come under extensive attack by feminists who still adhere to the tenets of the second wave as a betrayal of more than a century of feminist activism. Whether or not this is the case, the ‘traditional’ feminist versus the ‘post’ feminist debate is vociferous and ongoing, its fires stoked, no doubt, by a media only too willing to capitalise on the opportunity to portray it as a break in the massed ranks of the ‘sisterhood’.

41

gæti tekið athyglina frá réttindabaráttu svartra. Í kaflabútnum á blaðsíðu 27 „Diverging Views,“ sem er innan við blaðsíðu langur, er minnst á jaðarsetningu svartra kvenna og samkynhneigðra og að þær hefðu ekki verið velkomnar í hreyfingu meginstraumsfemínisma þrátt fyrir að hafa verið harðar baráttukonur fyrir kvenréttindum frá upphafi.180 Þannig segir bókin sögu femínismans út frá hinum hvítu gildum á 27 blaðsíðum og lítur svo í mjög stuttu máli á sögu þeirra kvenna sem stóðu utan hreyfingarinnar því þær voru ekki velkomnar innan hennar. Nafn kaflans, Diverging Views, eða sjónarhorn sem bregða frá heildinni, gefur til kynna að femínismi sé og verði miðstéttarhreyfing hvítra, gagnkynhneigðra kvenna og hinar laumi sér aðeins með. Þannig tekur bókin sjálf ákveðinn þátt í „öðrun“ kvenna sem tilheyra jaðarhópum. Ekkert er svo talað um konur með fatlanir, transkonur181 eða feitar konur, eða aðra jaðarsetta hópa. Þannig er bók sem á að kallst grunnrit sem fer yfir hreyfingu femínisma og póstfemínisma frá upphafi til okkar daga182 mjög miðað við baráttu hvítra kvenna. Bókin um póstfemínisma byggir svo á þessum hvíta, útilokandi femínisma sem grunnhreyfingu.183 Þó minnst sé á svartar konur og svartan femínisma fer lítið fyrir því og það verður aldrei meginumfjöllunarefni heldur haldið á jaðrinum, svo að ljóst er að barátta þeirra er ekki sett til jafns við hvítar konur. Kona, í augum meginstraums femínismans, er hvít, eins og margar svartar baráttukonur hafa bent á, og til að fræðast meira um svartan femínisma þarf að líta til rita sem sérstaklega taka fram að þau einbeiti sér að svörtum femínisma.

4.2 Svartur femínismi og samtvinnun mismunabreyta

Árið 1984 skapaði bandaríski félagsfræðingurinn Kimberlé Crenshaw hugtakið samtvinnun mismunabreyta (e. Intersectionality).184 Hugtakið er í dag nokkuð mikið notað í femínískum og hinsegin fræðum, en hefur þó ekki algerlega verið tekið inn í

180 Sarah Gamble, The Routledge Companion To Feminism and Postfeminism,, bls. 27-28. 181 Kimberley Crenshaw, Mapping the Margins: Intersectionality, Identity Politics and Violence against Women of Color 182 Á bakkápu bókarinnar segir: Routledge Companions are the perfect reference guides, providing everything the student or general reader needs to know. Authoritative and accessible, they combine the in- depth expertise of leading specialists with straightforward, jargon-free writing. In each book you’ll find what you’re looking for, clearly presented—whether through an extended article or an A–Z entry—in ways which the beginner can understand and even the expert will appreciate. 183 Diane Negra, What a Girl Wants: Fantasizing the Reclemaition of Self in Postfeminism, Routledge, Bandaríkin og Canada, 2009. 184 Kimberley Crenshaw, Mapping the Margins: Intersectionality, Identity Politics and Violence against Women of Color

42

meginstrauminn, enda meginstraumsfemínismi enn helst til hvítur og einsleitur. Grunnhugmyndin á bak við samtvinnun mismunabreyta er sú að hver manneskja sé ekki endilega aðeins partur af einum jaðarsettum hóp, heldur hugsanlega mörgum samtímis og að samtvinnun þessa jaðarsetninga af völdum fleiri en eins kúgandi þáttar hafi mikil áhrif á líf manneskjunnar. Má segja að Crenshaw hafi gefið því nafn, sem svartar fræðikonur, til dæmis bell hooks og Audre Lorde, 185 höfðu áður bent á í skrifum sínum um jaðarsettar konur og femínisma. Crenshaw skapaði hugtak sem nýtist vel í að skilja margslungið eðli stigveldis hins hvíta valdaekerfis. Hugtakið gerir það að verkum að vídd skapast í umræðuna um jaðarsetningu svo það verður ekki jafn auðvelt að staðsetja fólk innan pýramída stigveldisins. Hvítar konur hafa til dæmis forréttindi fram yfir svartar konur og svartir karlar meira vald en svartar konur, en þó ekki til jafns á við hvíta karla. Aðrar mismunabreytur eins og hinseginleiki og fatlanir geta svo einnig spilað inní. Bandaríski félagsfræðingurinn Patricia Hill Collins hefur sérhæft sig í sögu svartra í Bandaríkjunum með sérstakri áherslu á konur. Í bók hennar Black Feminist Thought: Knowledge, Conciousness, and the Politics of Empowerment frá árinu 1990 fjallar hún ítarlega um svartar konur og undirskipun í sögulegu samhengi ásamt hugmyndum um kynferði, aktívisma, þekkingarfræði og vald. Í bókinni tengir Collins saman samfélag og skrif svartra kvenna á bókmenntafræðilegan hátt og vinnur með hugtak Crenshaw um samtvinnun mismunabreyta. Í Black Feminist Thought fjallar Collins um svörtu konuna sem „hinn“ (e. Other) og hina hefðbundnu tvískiptingu, svart og hvítt – og hvernig þessi hugtök gætu ekki virkað ein og sér, þar sem hvítt þarf svart til þess að geta staðsett sig. Þannig vinnur hún með hugmyndir síðnýlendufræðinnnar sem birtast meðal annars í riti Edwards Said, Orientalism,186 og fræðimennirnir Fanon og Bhabha nota í skrifum sínum. Collins er í raun að skapa samþætt rit svartar þekkingarfræði og vísar einnig í svarta aktívista og rithöfunda eins og Audre Lorde, Angela Davis, Maya Angelou og Toni Morrison. Collins segir líf svartra kvenna vera seríu samningaviðræðna sem miða að því að samrýma þversagnir þeirra eigin skilgreindu sjálfsímyndir sem afrísk-amerískar konur og hlutgervingu þeirra sem „hinn“.187 Collins telur að með því að stuðla að valdeflingu

185 Audre Lorde, „The Master’s Tools Will Never Dismantle the Master’s House“ í Sister Outsider: Essays and Speaches, Crossing Press, Bandaríkin, 1984. 186 Edward Said, Orientalism, Pantheon Books, Bandaríkin, 1978. 187 Patricia Hill Collins, Black Feminist Thought, bls. 99.

43

svartra kvenna í gegnum sjálfskilgreiningar geti það hjálpað til við að streitast á móti ráðandi hugmyndafræði.188 Audre Lorde skrifar í ritgerð sinni "The Master's Tools Will Never Dismantle the Master's House" að það sé ekki hægt að koma af stað raunverulegri samfélagslegri breytingu á meðan litið er á rasisma í gegnum linsu feðraveldisins. Allar jaðarsettar konur þurfa að læra að standa saman og læra um kúgun hverrar annarar. Það að þvinga minnihutahópa til að nota tól kúgara sinna til að berjast fyrir réttindum sínum er, samkvæmt henni, akkúrat aðferð kúgarana til að halda minnihlutahópum niðri. Hún skrifar að verkfæri húsbóndans munu aldrei jafna hús hans við jörðu. Þau geti leyft okkur að vinna hann tímabundið á hans forsendum en þau muni aldrei koma af stað raunverulegri breytingu.189 Collins fjallar einnig um þennan tvöfaldan veruleika svartra kvenna, samband miðjunnar og jaðarsins þar sem svartar konur tileinka sér tungumál og siði kúgarans190. Í bók sinni Feminist Theory: From Margin to Center bendir Bell Hooks á þetta jaðarsamband og að mismunun kynjanna hafi, þrátt fyrir að vera kerfisbundin, aldrei ákvarðað algerlega örlög allra kvenna til jafns. Bell Hooks bendir einnig á að hin kúguðu viðföng sem vinna innan valdakerfis feðraveldisins (og um leið hins hvíta valdakerfis) til að ná og viðhalda völdum nái ekki endilega fram markmiðum femínisma.191 Það getur nýst sem táknrænt vald, en er ekki nóg til þess að ögra núverandi valdakerfum. Þeir einstaklingar sem tilheyra minnihlutahópum en vinna innan valdakerfisins hafa niðurrífandi (e. distructive) áhrif, þar sem staða þeirra getur eingöngu gagnast til að viðhalda núverandi valdakerfi192 eða huganlega unnið gegn femínískri baráttu í heild.193 Eftir uppgang póstfemínismans og póstrasismans á tíunda áratug síðustu aldar er þessi spá Hooks orðin sannari en nokkru sinni áður.

188 Patricia Hill Collins, Black Feminist Thought, bls. 101. 189 Audre Lorde, „The Master’s Tools Will Never Dismantle The Master’s House“, bls. 27-28. 190 Patricia Hill Collins, Black Feminist Thought, bls. 97. 191 bell hooks, Feminist Theory from Margin to Center, bls. 5. 192 Hugtakið um tókenisma kemur til hugar en í því fellst að einstaklingar í valdastöðum eða einstaklingar almennt sem vilja viðhalda nútíma samfélagsástandi og neita að viðurkenna að rasismi eða kvenfrirlitning séu enn vandamál geta bent á þá fáu aðila af minnihlutahópum sem eru í valdastöðum og sagt að fyrst þeir séu á þessum stað geti ekki verð til rasismi eða kvenfyrirlitning. Dæmi um slíka einstaklinga eru Margareth Thatcher, sem gerði konum um allan heim enga greiða þrátt fyrir að vera við völd, sjónvarpskonan Ophra Winfrey, og svo óskabarn póstrasismans Barack Obama. 193 Bell hooks, Feminist Theory: From Margin to Center, South End Press Classics, New York, 1984.

44

4.3 Póstrasismi og póstfemínismi Í bókinni Historicizing Post Discourses: Postracism and Postfeminism in United States Culture frá árinu 2016 skrifar fræðikonan Tanya Ann Kennedy um uppgang póstfemínisma og póstrasisma.194 Í upphafi bókar segir hún frá því að árið 1982 var Susan Bolton spurð hvers vegna nokkur kona nú til dags myndi titla sig femínista. Leiddi þessi spurning Bolton til að taka viðtöl við ungar konur um skoðanir þeirra á femínisma og skrifa greinina „Voices from the Post-feminist Generation“ í The New York Times, sem er nú oft vitnað til sem fyrsta dæmisins um póstfemínisma.195 Þessi spurning frá 1982 lifir enn góðu lífi í dag, og stutt er síðan konur sem eru í sviðsljósinu fóru sumar hverjar að titla sig femínista.196 Ekki eru nema örfá ár síðan áhrifamiklar og frægar konur eins og Björk, Taylor Swift, Madonna, Katie Perry og Beyonce titluðu sig frekar sem húmanista (e. humanists) og virtust ekki telja sig þurfa á femínisma að halda, sá titill væri úreltur og gagnaðist þeim ekki lengur.197 Og innan póstfemínískar hugmyndafræði er það viðtekin skoðun að konur hefðu haft góða ástæðu til að vera femínistar á öldum áður, þegar konur höfðu ekki kosningarétt og gátu ekki unnið úti, en nútímakonur (og á það við um konur á níunda og tíunda áratugnum og nú til dags) litu, og líta, margar hverjar á femínisma sem fyrrum gagnlegt tól sem hefur nú verið nýtt til fullnustu, en er orðinn úreltur og óþarfur.198 En póstfemínismi er aðeins einn af ýmsum „póst“ umræðum sem hafa skotið upp kollinum í miðlum, bókmenntum, pólitík og innan akademískra fræða undir lok 20. aldarinnar. Náskild „póst“ orðræða sem fór fyrst að gæta upp úr 1980 er hugmyndin um póstrasisma, og er, rétt eins og póstfemínismi, mjög drifin áfram af fjölmiðlum, og hefur farið stigvaxandi. Eftir að Barack Obama var kosinn forseti var orðræðan svo notuð meira og meira og varð að hálfgerðum viðteknum sannleika í ýmsum kreðsum samfélagsins.199 Póstrasisminn varð þó ekki til með Obama, en talið er að hugtakið hafi fyrst verið notað opinberlega árið 1971 í grein The New York Times um „Post-racial South“ þar sem var fjallað um að stjórnmálamenn og prófessorar teldu að rasismi Suðurríkja

194 Taylor Ann Kennedy, Historizising Post-Discourses. 195 Susan Bolton ,Voices from the Post-feminist Generation 196 Adrienne Trier-Bienniek, The Beyonce Effect: Essays on Sexuality, Race and Feminism, McFarland and Company Inc Publishers, North Carolina, 2016, bls. 1 197 Höfundar ekki getið „10 Celebrities Who Say They Aren’t Feminists.“ Huffington Post 12.07.13 https://www.huffpost.com/entry/feminist- celebrities_n_4460416?guccounter=1&guce_referrer=aHR0cHM6Ly93d3cuZ29vZ2xlLmNvbS8&guce_r eferrer_sig=AQAAAKA6NN1bL2T7wQDXu53Cj6TzC- AqvCqtUxQoCXS3FgBoqtoJFtdFN3n5u5S8PS08lLMAHcA53N9M_NuFQyxOMBuxxdeOwNUBtibTy PyC2oEmvY5mcYE-3OIzceHH2zjEkNV9HQ8WN4VVVMmHNVxiHPpID_hsQhafcp1eMy_PNUBy/ 198 Tanya Ann Kennedy, Historizing Post-Discorses: Postfeminism and Postracism in USA Culture, bls. 1. 199 Tanya Ann Kennedy, Historizising Post-Discourses, bls 2.

45

Bandaríkjanna myndi brátt líða undir lok.200 Áðurnefndir prófessorar töldu að með fólksfjölgun og hagvexti myndi rasismi ekki lengur vera vandamál, og blaðamaður tekur undir það. Póstrasismi í þessu samhengi er beintengdur við lok lögbundinnar aðskilnaðarstefnu í suðrinu, en ekki við samfélag þar sem enginn sér lengur kynþátt.201 Ekki var hugtakið póstrasismi sá eini sem var notaður í sömu merkingu, en undir lok tuttugustu aldar voru frasarnir „Post-Civil Rights,“ þar sem átt var við sögulega tímabilið eftir dauða Dr. Martins Luther King Jr,202 og „Colorblind“ mikið notaðir í sama tilgangi og merkingu og póstrasismi er í dag, Fræðimenn telja að póstrasismi sé 21. aldar útgáfa af hugmyndafræðinni um kynþáttalitblindu (e. Colorblindness)203 sem varð að samfélagslegu og pólítísku hugtaki á valdatíðum Jimmy Carter og Ronald Reagan.204 Annað dæmi um hvernig hugtakið var notað aðeins síðar kemur frá grein frá 1985 í Washington Post þar sem fréttamaðurinn George Will byggir á hugmyndafræði kynþáttalegrar litblindu (e. colorblindness.). Hann segir að flestir svartir leiðtogar gömlu mannréttindahreyfinganna afneiti nú þeim grundvallargildum sem leiddi þá í upphafi.205 Þeir afneiti þeirri hugmynd að kynþáttur ætti ekki að skipta máli, hvorki í daglegu lífi né í ákvörðunum ríkisins.206 Í greininni setur Will sig upp á móti kynþáttakvóta í ráðningum (e. affermative action) og heldur því fram að ástæða þess að hallar á svarta bandaríkjamenn liggi ekki í rasisma og hvítu valdakerfi heldur í hegðun einstaklinga.207 Er þetta sjónarmið sem varð, og er enn, algengt sjónarmið þegar kemur að póstrasisma. Póstrasisminn er byggður á hvítum valdastrúktúr og afneitar þeirri hugmynd að litarhaft svartra hafi áhrif á stöðu þeirra í samfélaginu. Margoft hefur verið sannað að stofnanabundinn rasismi (e. institutional racism) hafi víðtæk áhrif á lífsviðurværi og lífsgæði svartra, en samfélagið í heild er fljótt að afneita því undir merkjum

200 Tanya Ann Kennedy, Historizising Post-Discourses, bls 2. 201 Historizising Post Discourses 202 Historizising Post Discourses 203 Hugmyndin um colorblindness er sú að vinsælt varð að fólk segðist ekki sjá kynþátt eða hörundslit, og gat þar með ekki verið að taka þátt í rasískum hugsunagangi eða hegðun. Nokkuð augljóst er að við sjáum öll húðliti fólksins í kringum okkur, svo þetta hljóma ekki eins og mjög haldgóð rök fyrir að manneskja geti ekki verið rasisti á neinn hátt. 204 Historizising Post Discourses 205 Historizising Post Discourses „Most black leaders of the old civil rights groups now deny the principle that once animated those groups. It is the principle that race should be irrelevant to civic life and is inherently unacceptible as a basis for state action.“ 206 Historizising Post Discourses, Most black leaders of the old civil rights groups now deny the principle that once animated those groups. It is the principle that race should be irrelevant to civic life and is inherently unacceptible as a basis for state action, bls 2. 207 Historizising Post Discourses, bls 2. „The principal impedement to the improvement of blacks’ lives is not racism; and changes in the behaviour of individuals can do more than changes in government policy.“

46

póstrasisma.208 Í áðurnefndri grein vitnaði Will meðal annars í Glenn C. Loury, svartan háskólaprófessor, sem segir að aðalvandinn sé í raun persónleg vandamál sem svart fólk af lágstétt horfist í augu við. Vandinn sé gildi, framkoma og hegðun svartra einstaklinga.209 Samkvæmt kenningunni liggur vandamálið ekki hjá hvítum eða hjá samfélagsgerðinni, heldur eingöngu hjá svörtu fólki sem hefur ekki tekist að horfa á heiminn litblindum augum, eins og hinir hvítu hafa gert.210 Þannig er ábyrgðinni varpað á fórnarlömb rasisma, og við getum litið á rasisma sem tilbúning og vandamál svartra fremur en alvöru vandamál sem steðjar að samfélaginu. Það sama gildir um póstfemínismann, báðar þessar póst-hreyfingar virða baráttu fortíðarinnar sem góða og gilda og neita að trúa því að enn sé þörf á breytingum og baráttu. Hreyfingarnar eiga það sameiginlegt að fylgjendur þeirra geta jafnvel verið konur eða svartir, fólk sem tapar á þessum hugmyndum, en hefur verið talin trú um að samfélagið sé komið þangað sem það eigi að vera og jöfnum réttindum hafi verið náð. Í kaflanum um virðingarpólitík (e. Respectability Politics), sem er einn angi af hinu hvíta valdakerfi, verður nánar fjallað um leiðir sem eru farnar til að kenna kúguðum einstaklingum um eigin kúgun frekar en valdakerfum. Í bók sinni At This Defining Moment: Barack Obama’s Presidential Candidacy and the New Poitics of Race bendir Enid Logan á þetta bragð hvítra að láta sem svart fólk sé vandamálið, þeir sem geti ekki komist yfir kynþátt þegar hið fágaða hvíta samfélag hefur sett vandræði sem fylgdu rasisma fortíðarinnar til hliðar og séu núna í póstrasísku samfélagi.211 Það sama er satt um póstfemínisma, en hann sem hreyfing er samofin rasisma fortíðarinnar og póstrasisma nútímans. Kennedy segir að póstfemínismi reyni ekki eingöngu að líta á femínisma sem persónulegt val hvers og eins heldur taki einnig þátt í útilokun kynþátts (e. racial policing) sem heldur femínisma hvítum. Með því að einbeita sér að sögu hvíts femínisma lætur póstfemínisminn sem hann sé hlutlaus þegar kemur að kynþáttum, og hleypir aðeins að þeim konum af minnihlutahópum sem hafa mætt kröfum hins hvíta valdakerfis um fegurðarstaðla, virðingarpólitíkur og heterónormatífa hegðun. Með þessari meðferð á hinni hvítu uplifun sem sammannlegri upplifun okkar allra felur póstfemínismi sögu meiginstraums femínisma sem hvítrar

208 Historizising Post Discourses, bls 17. 209 Historizising Post Discourses, bls 2 „The principal challange is the “internal problems which the lower class blacks now face.” The problems are internal in the sense that they “involve at their core the values, attitudes and behaviours of individual blacks.” 210 Historizising Post Discourses, bls 2 211 Enid Logan, At This Defining Moment: Barack Obama’s Presidential Candidacy and the New Poitics of Race, bls. 92.

47

hreyfingar sem á rætur sínar í að vera á móti svörtum og upphefja einstaklingshyggju (e. Individualism)212 og með því að látast ekki sjá kynþátt213 sem part af jaðarsetningu kvenna.214 Ef skoðað er hvernig þessar póst-hreyfingar hafa áhrif á þáttaröðina Dear White People sést að serían tilheyrir án efa póstfemínískum heimi. Lítið sem ekkert er talað um baráttu kvenna. Gefið er að konur séu jafnar mönnum en við sjáum konurnar þó leggja heilmikið á sig til að vera fullkomnar konur innan feðraveldisins. Muffy er eina persónan sem fellur algerlega að staðalmynd hinnar póstfemínísku skvísu215 enda er hún hvít, rík, ung og falleg. En hún er einnig eina persónan sem hefur orð á feðraveldinu og kúgunum þess, en orðum hennar er þó breytt í hálfgert grín. Hún segir „Gloria Steinem would be rolling over in her grave if she saw us here. Everything we do is on the off- chance we get laid by a guy who might make one of us First fucking Lady someday so we actually have a chance of leaving our mark on this ass-backwards, patriarchal corporate republic we call a country. I took 60 mg of Adderall I promise I’ll be just fine.“216 Bæði það að hún haldi að Gloria Steinem sé dáin og að hún þurfi að afsaka skoðanir sínar með því að hún sé á lyfjum draga úr merkingu þeirra.217 Þegar femínismi síðan er nefndur, sem gerist ekki oft, er hann settur upp sem brandari og konurnar sem aðhyllast hann gerðar að staðalmynd um reiðar konur.218 Hinar tvær konurnar sem nefna femínisma koma ekki fram með þær skoðanir fyrr en í annarri seríu, en það eru þær Abigail og Brooke. Brooke kemur aðeins fyrir í fyrstu þáttaröðinni, en aðeins lítillega. Hún er svört, klár og upptekin af frama sínum, en er í báðum seríum, og þá sérstaklega þeirri seinni, ekki sett fram sem mjög viðkunnaleg persóna. Áhorfandinn gleðst ekki með henni og finnst hún of ákveðin, sjálfsörugg og hávær.219 Hún er þó með sterkustu kvenpersónum þáttarins, en hún er sjálfstæð svört kona á framabraut sem lætur skoðanir annarra ekki hafa áhrif á sig, auk þess sem hún á í heilbrigðu og skammlausu sambandi við eigin kynvitund og sig sem kynveru.220 Gallinn er að birtingarmynd hennar er ekki slík að áhorfendum líki vel við hana eða finnist skoðanir hennar góðar og gildar. Abigail,

212 Enid Logan, At This Defining Moment: Barack Obama’s Presidential Candidacy and the New Poitics of Race, bls 6 213 Enid Logan, At This Defining Moment: Barack Obama’s Presidential Candidacy and the New Poitics of Race, bls 6 214 Tanya Ann Kennedy, Historicizing Post Discourses, State University of New York Press, Albany, bls 6-7. 215 Young, Postfeminism, Introduction. 216 Justin Simien, Dear White People, sería 1, þáttur 4 217 Justin Simien, Dear White People, sería 1, þáttur 4. 218 Justin Simien, Dear White People, sería 1, þáttur 4. 219 Too Fat too slutty too loud ... heimild 220 Justin Simien, Dear White People, Sería 2, þáttur 6.

48

sem birtist ekki fyrr en í annari seríu, nefnir ekki að hún sé femínisti, en talar um að hún sé í áfanga um femínískar bókmenntir.221 Hún er að lesa Wuthering Hights, er hvít, og á erfitt með að aðlagast lífi á svartri heimavist þar sem hún þarf að bera virðingu fyrir tilfinningum svarts herbergisfélaga síns. Hún leitar til Coco, svartrar konu, til að fá ráð um hvernig hún eigi að bera sig að. Abigail á heilmikið ólært um samtvinnun mismunabreyta og minnihlutahópa, sem og um sín eigin forréttindi. Dear White People á sem sjónvarpsefni ýmislegt sameiginlegt með þeim þáttaröðum og bíómyndum sem falla undir flokk skvísubóka (e. Chick Lit)222 Konurnar sem eru aðalpersónur eru ungar, fallegar, grannar og allt lítur vel út. Fötin eru fullkomin, strákarnir eru sætir og peningar eru ekki vandamál. Þær njóta frama á sviðum sínum, Coco í námi og stúdentapólitík og Sam í aktívisma. Þær eru samt ekki fullkomnar, þær eru, eins og hin póstfemíníska skvísa er oft, stundum sjálfhverfar, eða með óvinsælar skoðanir og fara ekki alltaf rétt að öllu. Í fyrstu þáttaröð eru Coco og Sam vinkonur til að byrja með en verða svo óvinkonur og þáttaröðin endar þegar þær eru orðnar vinkonur aftur. Kannski er þátturinn þannig að gera tilraun til að sameina tvær skoðanir á öndverðum meiði, sem og ríginn milli ljósra og dökkra kvenna. Ástin, hvort sem hún er frá hvítum eða svörtum manni, tapar, en bæði Sam og Coco enda einhleypar og í síðustu senu þáttaraðarinnar sjáum við þær tvær sitja saman, sameinaðar á ný, eftir að hafa verið óvinkonur í allavega tvö ár. Hvorug kvennana velur að vera einhleyp, en Coco missir Troy því hann áttar sig á því að hún elskar hann ekki og Sam missir bæði Reggie og Gabe vegna þess hve treg hún er til að velja á milli þeirra. Án karlmanna er rígur þeirra leystur, alla vega tímabundið, en ekki er tekið á innri baráttu þeirra sem stafar af mismunandi stöðu þeirra sökum litarhafts og pólitískra skoðanna.

4.4 „Kynþáttablinda“ og afneitun fordóma Í bókinni Historicizing Post-Discourses bendir höfundur á einn hluta af umræðunni um póstrasisma, sem fjallað verður frekar um síðar, að það neikvæða við þessi sannindi um að enginn munur sé á kynþáttunum sé sá að fylgjendur póstrasisma hafi tekið þau sannindi til sín til að færa rök fyrir því að rasismi sé ekki til, og í framhaldi af því að fólk af öðrum kynþáttum en hvítum mæti ekki auknum erfiðleikum í nútímasamfélagi .

221 Justin Simien, Dear White People, sería 2, þáttur 6. 222 Chick Lit.

49

„...Bandarískir fjölmiðlar læstu tönnunum í þá hugmynd að ef kynþáttur er ekki líffræðileg staðreind er rasismi heldur ekki til: Íhaldsmenn hafa tekið þá staðreynd (að kynþáttur sé ekki til), byggða á mistúlkun á vísindum, og nýtt sér það til að láta sem hvítt valdakerfi og mismunun sökum kynþáttar sé í raun ekki til. „Við getum ekki verið með kynþáttafordóma því kynþættir eru ekki til“ segja þeir, og þrátt fyrir að það sé satt að líffræðilega sé kynþáttur ekki til hefur samfélagsgerðin gert hann og kynþáttafordóma og mismunun sem honum fylgir að veruleika.223

Þannig aðlagast hvítt valdakerfi sig að vísindum hverra tíma. Þegar það stóð til boða sköpuðu valdhafar gervivísindi til að búa til líffræðilegan mun til að réttlæta ranglæti, og núna, þegar hann hefur verið vísindalega afsannaður, beita nútímavaldhafar og hliðverðir sama valdastrúktúrs mótsvarinu við rangfærslum fortíðar til að viðhalda sömu gildum. Á þetta við um Bandaríkin rétt eins og Vestur Evrópu, þar sem hvíta fólkið á rætur sínar, en einnig í fyrrum og núverandi nýlendum vesturveldanna og svo gott sem öllum löndum heimsins, þar sem hnattvæðing hefur breytt út boðskap og gildi hinna vestrænu ríkja. Í þessari ritgerð er fjallað um bandarískt sjónvarpsefni og aðallega stuðst við verk bandarískra fræðimanna, svo kynþáttahyggjan og valdakerfið þar í landi eru í forgrunni. Þó ber ekki að líta á málefnið sem albandarískt, þar sem Ísland, meðal annara landa, sækir mikið magn afþreyingarefnis og menningu þangað og litast af þeirra skoðunum og áherslum. Einnig ber að nefna að því er ekki haldið fram að allt hvítt fólk telji að það sé hafið yfir aðra kynþætti og séu með fordóma gagnvart svörtu fólki, en slík hugsun getur verið lúmskari en flest hvítt fólk gerir sér grein fyrir. Hið hvíta valdakerfi nær nefnilega að plata alla, þar á meðal hvíta fólkið. Nú til dags telja langflestir sig alls ekki vera rasista, enda höfum við verið þjálfuð í að hugsa um rasista sem vondar manneskjur og að gott fólk sem meinar vel geti ekki verið rasistar.224 En rasistar eru ekki endilega fólk með hvítar hettur og hakakrossa, við gerumst öll sek um rasískan hugsunarhátt og hegðun því við erum alin upp í hvíta valdakerfinu.225 Rithöfundurinn Jason Johnson dregur athygli að þessu í grein sinni „Democrats Don’t Hate Trump as Much as They Love White Supremacy“ á vefsíðu The Root, en hann skrifar:

„Hvít yfirburðarhyggja (e. White supremacy) er sú trú að hvítt fólk sé gáfaðra, ærlegra og hæfara en fólk af nokkrum öðrum kynþáttum (sérstaklega svart

223 Tanya Ann Kennedy, Historicizing Post-Discourses, bls. 3. The U.S. media seized on the idea that if race is not a biological fact, then racism also does not exist: Conservatives have taken the point [that race does not exist], based on a misreading of science, and advanced it as far as possible, mostly to discredit ongoing or historical claims of supremacism, segregation and more passive forms of injustice. “We can’t be racist because race doesn’t exist,” so the refrain goes, and it continues unchecked today.“ 224 Robin Diangelo, „The Good/Bad Binary“ White Fragility. 225 Robin Diangelo, White Fragility, bls. 69.

50

fólk) og ættu af þeim ástæðum að stjórna flestöllu í samfélaginu. White Supremacy er eins og NFL: Það vill að hvítt fólk sé í öllum stjórnunarstöðum en hefur ekkert á móti því að svartir líkamar séu til staðar til að skemmta og veita nautn. Flestir Bandaríkjamenn, meðvitað eða ómeðvitað, eru white supremacists næstum ósjálfrátt. Við búum í landi þar sem menntun, menning og hagkerfið eru skipulögð til að staðla og styrkja stöðu hvíta fólksins á toppnum. Þrátt fyrir það eru mjög fáir Ameríkanar hvítir ofstækismenn (e. white nationalists). Meginþorri hinnar hvítu Ameríku lifir þægilega í kerfi þar sem hvítt fólk stjórnar hlutunum en þeir vilja ekki taka þátt í því ofbeldi sem þyrfti að beita til að reka alla óhvíta og svarta úr landi. Auk þess kunna þeir að meta mexíkóskan mat og Beyoncé. Vandinn er að það er ofurauðvelt fyrir white supremacists að taka ekki eftir því þegar landið þeirra breytist í white nationalist state.226

Enginn af hvíta fólkinu sem Jason Johnson talar um, hvíta fólkinu sem virðist ekki hafa neitt á móti svörtum en vill hafa hvíta í valdastöðum, bjóst við að Trump yrði forseti og að innflytjendur og þá sérstaklega múslimar og hörundsdökkt fólk yrði fyrir aðkasti. En hvers vegna sáu þau ekki hvað stefndi í? Í valdatíð Obama er, eins og áður sagði, ekki eins og enginn hafi verið rasisti, þvert á móti, en þá var þessi „góðlegi/vinalegi? rasismi” sem er settur fram í gríni hvað vinsælastur, rétt eins og umrædd black face partý sem voru haldin víða um Bandaríkin.227 Robin DiAngelo útskýrir þetta enn fremur og á persónulegri nótum í bók sinni White Fragility, Why it is so hard for white people to talk about race, en hún segir: „Ég ólst upp í hvítu valdakerfi þar sem ég tilheyri valdhafandi hópnum. Það að segja mér að koma eins fram við alla er ekki nóg til að vinna bug á þessari félagsmótum og er það gjörsamlega ómögulegt. Ég ólst upp í samfélagi sem kenndi mér að það væri enginn missir í skorti á fólki af öðrum kynþáttum en hvítum – heldur að það að það fólk væri ekki til staðar væri jákvætt, eitthvað sem maður ætti að eltast við og halda við – um leið og við létum sem svo væri ekki. Þetta viðhorf mótaði alla hluta af sjálfsmynd minni: áhugamál mín, hvað skiptir mig máli og hvað skiptir mig ekki máli,

226Jason Johnson, af vef The Root, https://www.theroot.com/i-finally-see-it-democrats-don-t-hate-trump- as-much-as-1826986900 White supremacy is the belief that white people are smarter, more ethical and more capable than any other race of people (especially black folks) and should therefore control most of society. White supremacy is like the NFL: It wants white people to run everything, but it has no problem with black and brown bodies being around for entertainment, pleasure and sport. Most Americans, consciously or not, are white supremacists almost by default. We live in a country where education, culture and the economic system are organized around normalizing and enforcing white people’s status of being on top. However, very few Americans are actually white nationalists. Most of white America is comfortable with white people running things, but they don’t want to engage in the violence that would be necessary to kick out all the brown and blacks folks; plus, they like salsa and Beyoncé. The problem is, it’s pretty easy for white supremacists to remain completely oblivious as a white nationalist state sprouts up in their front yard 227 Samantha Escobar, „13 Collage Parties That Prove Dear White People Wasn’t Exaggerating at All“ á vef The Gloss http://www.thegloss.com/culture/dear-white-people-review-racist-college-parties- blackface-mexican-stereotypes/ sótt 19. nóvember 2017

51

hvað ég sé og sé ekki, hverju ég laðast að og hvað fælir mig frá, hverju ég tek sem sjálfsögðum hlut, hvert ég get farið, hvernig aðrir bregðast við mér og hvað ég get hunsað. Flest okkar völdu ekki að vera félagsmótuð inn í kynþáttafordóma og hið hvíta valdakerfi. En því miður höfðum við ekkert val. Á meðan það er munur á hvernig þessum skilaboðum er miðlað til okkar og hvernig við tökum þau inn á okkur er ekkert sem hefði getað látið okkur algerlega missa af þessum skilaboðum og þessari félagsmótun. Nú er það á okkar ábyrgð að horfast í augu við hvernig þessi félagsmótun sýnir sig í okkar daglega lífi og hvernig við bregðumst við þegar henni er ógnað.228

228 Robin DiAngelo, White Fragility, bls. 69. My psychological development was inculcated in a white supremacist culture in which I am the superiour group. Telling me to treat everyone the same is not enough to override this socialization; nor is it humanly possible. I was raised in a society that taught me that there was no loss in the absence of people of color – that their absence was a good and desireable thing to be sought and maintained – while simultaniously denying that fact. This attitude shaped every aspect of my self-identity: my interests and investments, what I care about or don’t care about, what I see or don’t see, what I am drawn to and what I am repelled by, what I can take for granted, where I can go, how others respond to me, and what I can ignore. Most of us would not choose to be socialized into racism and white supremacy. Unfortunately, we didn’t have that choice. While there is variation in how these messages are conveyed and how much we internalize them, nothing could have exempted us from these messages completely. Now it is our responsibility to grapple with how this socialization manifests itself in our daily lives and how it shapes our responses when it is challenged.

52

5 Hörundslitafordómar og valdakerfi fegurðar: How you walk around with that skin and all of this and stay single. I’ve never understood.229

Það sem virkar best til þess að aðlagast hvítu samfélagi og kröfum hins hvíta herra er ekki að nota tungumálið og aðrar hvítar grímur, heldur að vera, í orðsins fyllstu merkingu, sem hvítastur. Og þar koma hörundslitafordómar (e. Colorism) inn. Í kaflanum „Mammies, Matriarchs and Other Controlling Images“ í bókinni Black Feminist Thought230 fjallar fræðikonan Patricia Hill Collins um hugmyndir svartra kvenna um fegurð og vitnar bæði í Mayu Angelou, skáld og aktívista, og Gwendolyn Brooks, einu víðlesnasta og áhrifamesta ljóðskáldi Bandaríkjanna á 20. öld. Í sjálfsævisögunni I Know Why the Caged Bird Sings (1969) skrifar Maya Angelou um það þegar hún áttaði sig á því að hún yrði aldrei talin falleg nema með því að vera, hvít.231 Árið 1972 skrifaði Brooks sjálfsævisögu og fjallaði um að snemma hafi hún uppgötvað stigveldi svartra kvenna, þær sem voru næst „hvítleikanum“ voru efst í stigveldinu.232 Í bókmenntum og myndum sem fjalla um svart fólk er ekki óvanalegt að fá meðvituð eða ómeðvituð skilaboð um að það að vera dökkur á hörund sé slæmt og náttúrulegt hár sé ljótt. Hvort sem það er gert með því að ráða dekkri konur í hlutverk þeirra vondu og eða þeim sem gengur verr, hugsanlega sökum undirliggjandi fordóma eða með því að skrifa hlutverk hinna vondu gagngert fyrir dekkri leikkonur. Í Dear White People er Coco, sem dökkri konu og fylgjanda respectability politics, stillt upp sem hálfgerðri andhetju. Sam er góða konan sem gerir hlutina rétt, og er svört rétt, enda ljósari á hörund, en Coco gerir allt vitlaust, enda er hún mjög dökk og aðhyllist óvinsæla kenningu meðal svartra baráttumanna.233 Ekki er nýtt af nálinni að stilla dekkri konunni upp sem vondri enda hafa allir gengist inn á staðalmyndina að svart sé vont frá barnæsku, og því minna svartur sem þú ert, því minna vondur ertu. Má sjá dæmi um þetta í rómantískum gamanþáttum eins og Insecure, þar sem dökka konan á í endalausum vanda

229 Justin Simien, Dear White People. 230 Patricia Hill Collins, „Mammies, Matriarchs and Other Controlling Images“ í Black Feminist Thought: Knowledge, Conciousness, and the Politics of Empowerment 231 Patricia Hill Collins, Black Feminist Thought: Knowledge, Conciousness, and the Politics of Empowerment, 90 232 Patricia Hill Collins, Black Feminist Thought: Knowledge, Conciousness, and the Politics of Empowerment, 91 233 Áhugvert er að Troy, hinni svörtu persónunni sem hagar sér á sama hátt og Coco, er ekki gagnrýndur á sama hátt fyrir hegðun sína og þátttöku í virðingarpólitík enda er hann bæði karlkyns og ljósari á hörund en hún.

53

með að krækja í mann234 og í hádramamyndum eins og Precious: Based on the Novel Push by Sapphire, en dramamyndin margverðlaunaða Precious, sem er, merkilegt nokk, byggð á bókinni Push eftir Sapphire, varð fyrir gagnrýni á sínum tíma þar sem allar þær persónur í bókinni sem voru dökkar á hörund með náttúrulegt hár og góðar, voru í kvikmyndaútgáfunni leiknar af konum sem voru ljósar á hörund og með vestrænar hárgerðir. Vondu konurnar í bókinni voru áfram dökkar á hörund og með náttúrulegt hár í myndinni.235 Sama stigveldi hvítleikans er gegnumgangandi í hinu raunverulega samfélagi og sést til að mynda á þeim svörtu konum sem verða stórstjörnur en þær geta aldrei orðið hvítar og þar með aldrei fallegar, en þær ljósu geta aðeins meira.236 Þetta á sér sterkar rætur í fegurðariðnaði menningar okkar, hinu hvíta valdakerfi sem er alls ráðandi. Dr. Tressie McMillan Cottom, skrifaði, árið 2013, grein um menningarnám hvítu poppstjörnunnar Miley Cyrus og hætturnar sem því fylgdu.237 Í greininni talaði hún um sjálfa sig, dökka svarta konu, sem ljóta og uppskar í kjölfarið mikla gagnrýni. Hvítar konur voru sárar yfir því að hún væri að halda því fram að þeim fyndist hún ljót og svartar konur sögðu hana uppfulla af sjálfshatri. En McMillan Cottom var ósammála. Báðir hópar voru, að hennar mati, ekki sáttir við að hún benti á það sanna í málinu þegar kom að fegurð og hvað fegurð þýðir í samfélaginu.238 Hún útskýrir í ritgerð sinni „In the Name of Beauty“ að fegurð snúist í raun um vald og höfuðstól (e. Capital). Ríkjandi fegurðarstaðlar upphefja hvíta kvenlíkamann og sem dökk svört kona er McMillan Cottam kirfilega staðsett utan slíkrar fegurðar. Það þýðir ekki að henni finnist hún sjálf ljót, en hún veit að í vestrænu samfélagi er fegurð valdakerfi sem ekki fá allir aðgang að. Og sem samfélag yfir höfuð tökum við því illa þegar svartar konur tala hreinskilnislega um allt það óréttlæti sem heimurinn beitir þær, eins og sést greinilega í Dear White People þegar Sam svo mikið sem opnar munninn. Það er auðveldara að taka þátt í lyginni og viðhalda núverandi

234 Í sjónvarpsþáttaröðinni Insecure er áhugavert að þar eru einnig tvær konur, bestu vinkonur í forgrunni. Önnur þeirra, sú sem er ljósari á hörund og með náttúrulegt hár á í ástarþríhyrningi með tveimur mönnum á meðan þeirri sem er mjög dökk á hörund og er með hárkollu gengur ómögulega að næla sér í mann, og er álitin vera að reyna of mikið. Hún er lögfræðingur sem vann sig upp úr fátækt svarts hverfis og klæðist íhaldssömum drögtum, sú ljósari kemur úr efnahagslega betri aðstæðum og leggur lítið upp úr virðingarverðum klæðaburði. 235 Felicia R. Lee, „To Blacks, Precious is Either „Demeaned“ Or „Angelic““ á vef The New Yotk Times, 20. Nóvember 2009. https://www.nytimes.com/2009/11/21/movies/21precious.html/ sótt 23. febrúar 2020. 236 Tressie McMillan Cottom, Thick and Other Essays, bls 34. 237 Tressie McMillan Cottom, „Brown Body, White Wonderland“ af vef Slate 29. ágúst 2013, https://slate.com/human-interest/2013/08/miley-cyrus-vma-performance-white-appropriation-of-black- bodies.html/ sótt 14. desember 2020. 238 Tressie McMillan Cottom, Thick and Other Essays, bls 34.

54

valdakerfi en að horfast í augu við óþægilegan sannleika. Hið hvíta valdakerfi kann ekki að meta það þegar hin mest kúguðu viðföng hans benda opinberlega á að hvíta valdakerfið sé við stjórnvölin og að áhrif þess hafa allt að segja um líf og líðan fólks. Svarti femíníski rithöfundurinn Morgan Jerkins, höfundur bókarinnar This Will Be My Undoing: Navigating the Intersections of Black, Female and Feminist, skrifar um fegurð og hvað hún þýði fyrir svartar og hvítar konur eftir að hafa farið á listasýninguna „Posing Modernity: The Black Model from Manet to Matisse to Today.”239 Hún tekur til greiningar málverkið Olympia eftir Manet, þar sem hvít kona hallar sér þægilega aftur á legubekk og svört þerna stendur fyrir aftan hana, fullklædd. Jenkins tekur fram að mikið er vitað um hvíta módelið á legubekknum en lítið sem ekkert um þernuna, annað en að hún heitir Laure. Á skilti við myndina stóð “Svarta þernan undirstrikar takmörkuð tækifæri fyrir svartar Parísarkonur á tímum Manets.”240 Hvítleiki aðalviðfangsefnis myndarinnar er gerður enn skýrari með því að setja svarta þernu á myndina til samanburðar, þar sem hvítt er ekki til án svarts og hvítleiki sem kynþáttur ekki til án valdbeitingar yfir hinum svarta kynþætti, það sem McMillan Cottom kallar „þá stöðugu og óbreytilega súlu sem svartleikinn er, þar sem hann stendur sem andstæða súlu hvítleikans.“241 Þernan Laure horfir ekki beint á málarann heldur á hvítu fyrirsætuna, herra sinn. Hún er ekki á myndinni til annars en að þjóna hinum hvíta herra, bæði beint, með því að færa henna blóm, og einnig óbeint með því að vera þessi svarta andstæða sem hvítleikinn þarf til að undirstrika eigin fegurð og yfirburði. Slíkt hið sama viðgengst í nútímanum, má nefna dæmi um áðurnefndu hvítu poppstjörnuna Miley Cyrus, sem notaði svartar konur sem bakgrunn fyrir menningarnám sitt á MTV, eða eins og McMillan Cottom segir „Miley var í sviðsljósinu, að reyna að twerka242 á meðan hún notaði svartar konur sem dansara í bakgrunninum sem leikmuni. Þær voru þar til að vera samanburður og upphefja hvítleika hennar.“243 Eða hvítu, bresku poppstjörnuna Lily Allen sem samdi lag sem átti að vera femínískt og upphefja konur en

239 Roberta Smith, “A Long Overdue Look at Black Models of Early Modernism” á vef The New York Times, 1. nóvember 2018, https://www.nytimes.com/2018/11/01/arts/design/black-models-olympia- columbia-university.html/ sótt 4. nóvember 2020. 240 Morgan Jerkins, This Will Be My Undoing: Living at the Intersection of Black, Female and Feminist in (White) America, Harper Perennial, Bandaríkin, 2018. 241 Tressie McMillam Cottom, Thick: And Other Essays: A steady pole that is blackness, standing in contrast to the opposite pole of whiteness 242 Dans sem á sér rætur í svörtum samfélögum Bandaríkjanna 243 Tressie McMillan Cottom, „In the name of beauty“

55

tók aðeins til skoðunar hvítar konur eins og hana sjálfa. Hún notaði einnig svartar konur sem kynferðisleg viðföng og hlutgerði þær í tónlistarmyndbandinu við lagið.244 Claude Manet notaði svartar konur stöðugt sem hluti í verkum sínum til að skilgreina það sem honum þótti viðeigandi fyrir kynþátt þeirra, stöðu og kyn. McMillan Cottom skrifar í “In The Name of Beauty,”„Ef fegurð spilar inn í hvernig fólk sér þig, hvernig stofnanir koma fram við þig, hvaða reglum þú þarft að fylgja og hvaða valkosti þú hefur, þá hlýtur fegurð einnig að vera fyrirfram ákveðin uppbygging mynstra, stofnana og samskiptamáta, sem virða þín persónulegu álit á fegurð einskis.“245 Það mynstur sem var, samkvæmt Jenkins, ríkjandi í sýningunni var það að nærvera svartra kvenna í listinni var beintengd við laka samfélagsstöðu þeirra í samanburði við hvítar konur. Ekki eingöngu vegna rasisma og kvenfyrirlitningar sem lituðu tíðarandann heldur einnig vegna fegurðar, sem er afsprengi þessara kúgandi tóla, og hvað hún þýddi þá og nú. Það var ekki tilviljun hvernig birtingarmyndir svörtu og hvítu kvennana voru í listinni heldur var það gagngert gert til að viðhalda samfélagslegri reglu. Jenkins heldur áfram að greina sýninguna og skoðar næst verkið Miss La La at the Cirque Fernando (1879) eftir Edgar Degas. Dökk, svört kona hangir í reipi með tönnunum. Andlit konunnar sést ekki, persóna hennar skiptir ekki máli heldur styrkur hennar. Jenkins skrifar: „Hvernig Degas ákveður að mála konuna hefur óneitanlega verið undir áhrifum kynþáttavísinda samtímans, sem var gjarn á að veita mælingar á ýmsum líkamshlutum til að „sanna“ að fólk af ákveðnum kynþáttum væri heimskara og dýrslegra en annað fólk.“246 Árið 1867 skrifaði rithöfundurinn, og vinur Degas, Edmond Duranty: “Það er þvílíkur munur á milli kynþátta mannanna, hinir svörtu, hinir gulu, hinir hvítu ... Risastórir kjálkar hinna svörtu hefur skilið þá eftir í félagslegri stöðu grimmra skepna.”247 Stór kjálki Miss La La gerði hana að úrvals sirkúslistamanni sem vekur áhuga borgaralegra (f. borgeouis) áhorfanda, og ekki getur hún opnað munninn til að tjá sig eða

244 Lily Allen, „Hard out there for a bitch“ Tónlistarmyndband. 245 Tressie McMillan Cottom „If beauty matters at all to how people perceive you, how institutions treat you, which rules are applied to you, and what choices you can make, then beauty must also be a structure of patterns, institutions, and exchanges that eat your preferences for lunch.“ 246 Morgan Jerkins „Of Blackness and Beauty“ á vef Longreads janúar 2019. „The angle at which Degas chose to immortalize her arguably had been informed by race science at the time, which promoted the measurements of body parts to “prove” that those of certain races were less intelligent and more savage than others.“https://longreads.com/2019/01/16/of-blackness-and-beauty/ sótt 14. mars 2020. 247 Morgan Jerkins „Of Blackness and Beauty“ á vef Longreads janúar 2019. “There are such differences among human races, the blacks, the yellows, the whites. … The enormous jaw of certain blacks has left their tribes in the social state of ferocious beasts.” https://longreads.com/2019/01/16/of-blackness-and- beauty/

56

mótmæla, því þá missti hún takið á reipinu. Jenkins skrifar að jafnvel þótt Degas gæti hafa þótt Miss La La aðlaðandi er mjög líklegt að hann hafi verið undir áhrifum kynþáttavísinda samtíma síns þar sem svört andlit voru álitin ljót í samanburði við „klassíska, hvíta fegurð.“248 Sjötíu árum áður hafði Sara Baartman, einnig þekkt sem “Hottentotta Venus” unnið í sirkús rétt eins og Miss La La, en ekki sem listamaður heldur viðundur sem var skoðuð vegna stórs rass síns. Hugtakið “Hottentotti” var upphaflega notað sem nafn fyrir Khoikhoi, hirðingja og frumbyggja í suðvestur Afríku, en varð með tímanum samheiti yfir villimennsku og frumstæði og er nú álitið rasískt og niðrandi.249 Eftir andlát Baartman var rassinum á henni komið fyrir á safni í Angers í Frakklandi. Á þessum tímum seint á nítjándu öld voru einu konurnar af afrískum uppruna sem höfðu aðgang að einhverri virðingu og völdum ljósar á hörund. Til að mynda Jeanne Duval, hjákona Baudelaire, en á myndum af henni fær hún sömu meðferð og hin hvítu módel, fremur en svörtu aukahlutirnir. „Það er ekki hægt að aðskilja ljósan hörundslit Duval frá útafliggjandi stellingunni, tákni um auð hennar. Þessi nálægð við hvítleikann, bæði vegna blandaðs uppruna hennar og ástarsambandi við hvítann Frakka, hefur veitt henni aðgang að fegurðinni, gert hana „fallega“.250 McMillan Cottom segir um þetta stigveldi „Hvítt fólk hefur, sem samtvinnað kerfi menningar og efnahagslegrar framleiðslu, sem hefur beitt nýlendustefnu gegn óhvítu fólki um allan heim í gegnum hervald og hugmyndafræðilegt stríð, hefur sagt að svart fólk sé dýrslegt... Það er engin hugmyndafræðileg undanþága frá hatri gegn svörtum fyrir svartar konur, nema í gegnum hörundslitafordóma. Múlattó, „blendingar“, gul, ljós – allt orð til að lýsa svörtu fólki sem lítur út fyrir að hafa einhverja genetíska tengingu við hvítleika. Svartar konur eru ekki fallegar fyrir utan einhvern hvítleika sem gæti verið í þeim.“251 Þarna kemur McMillan Cottom nálægt niðurstöðu

248 Morgan Jerkins „Of Blackness and Beauty“ á vef Longreads janúar 2019. Although Degas may have found Miss La La attractive, he very likely may have been influenced by the race science of his time, those ideas that posited black faces as ugly in comparison to “white classical beauty. 249 Morgan Jerkins „Of Blackness and Beauty“ á vef Longreads janúar 2019. https://longreads.com/2019/01/16/of-blackness-and-beauty/ 250 Jerkins „One cannot divorce Duval’s light-skinned complexion from her semi-reclining pose, a sign of her relative wealth. That proximity to whiteness, due in part to both her mixed-race parentage and her love affair with a white Frenchman, has made her, for all intents and purposes, “beautiful.” https://longreads.com/2019/01/16/of-blackness-and-beauty/ 251 McMillan Cottom: “White people, as a collective system of cultural and economic production that has colonized nonwhite people across the globe through military and ideological warfare, have said that black people are animalistic. … There is no ideological exception to anti-blackness for black women but through colorism. Mulatto, ‘mixed,’ high yellow light — all euphemisms for black people whose phenotype signals that they may have some genetic proximity to whiteness. But, by definition, black women are not beautiful except for any whiteness that may be in them.“

57

Naomi Wolf úr The Beauty Myth, en ekki af sömu ástæðum. Þær eru báðar sammála um að fegurð sé eitthvað sem í raun er ekki hægt að öðlast fullkomlega, McMillan Cottom vegna þess að fegurð er hvít og fyrir hvíta, og Wolf vegna þess að fegurðin biður alltaf um eitthvað aðeins meira. Mjórri, sætari, yngri, ríkari, og svo framvegis, en munurinn er að þó eltingarleikurinn við fegurð geti verið endalaus, þá er tæknilega séð hægt að öðlast hana ef maður er ung, hvít kona. McMillan Cottom skrifar: “Sumar af hvítu stelpunum í skólanum mínum voru ekki fallegar en þær gætu orðið það með breittum samfélagsstrúktúr...“252 McMillan Cottom segir að eftir útgáfu greinarinnar þar sem hún lýsti sér sem ljótri hafi hvítar konur verið mjög uppteknar af því að koma henni í skilning um að fegurð væri eitthvað sem hún gæti öðlast, að fegurð væri persónuleg. Hún skrifar að hvítar konur, sérstaklega hvítir femínistar, virtust þurfa að fá hana til að trúa því að fegurð sé demókratísk og aðgengileg. Fegurð hlaut að vera demókratísk. Ef hún var það ekki þá verður fegurð að verslunarvöru sem er dreift ójafnt og það sem verra er, af handahófi.”253 En fegurð er ekki deilt jafnt til allra og er ekki allra að öðlast, ekki eins og við lítum á fegurð nú til dags. 254 Og það að krefja svartar konur um að trúa því að fegurð sé allra ef maður leggi sig eingöngu fram, er fáránlegt. Það sést vel á dæmi Coco í þáttunum sem hefur greinilega lagt sig heilmikið fram til að líta fullkomlega út samkvæmt ríkjandi fegurðarstöðlum. Hún hefur augljóslega eytt bæði peningum, tíma og andlegri og líkamlegri vinnu í að líta út eins og hún gerir. Ef hún væri hvít, eins og Muffy, sem virðist leggja jafn mikið upp úr útliti sínu, myndi hún komast jafn langt innan valdakerfisins og Muffy gerir. En Coco er og verður dökk á hörund svo hún situr eftir úti í horni þakin dýrri snyrtivöru og aðkeyptu hári á meðan Muffy er boðið á stefnumót og veittur aðgangur að klúbbum sem Coco fær ekki að vera með í.255 Ófríðarhvítar konur hafa möguleikann á að öðlast þessa samfélagslega viðurkenndu fegurð allavega að einhverju leyti. Þær geta svelt

252 McMillan Cottom: “Some of the white girls in my high school weren't beautiful but they could achieve it with change of social structure...“ 253 McMillam Cottom „In The Name of Beauty“ í Thick and Other Essays, “White women, especially white feminists, need me to lean in to pseudo religious consumerist teachings that beauty is democratic and achievable. Beauty must be democratic. If it is not, then beauty becomes a commodity, distributed unequally and even worse, at random.” 254 Þetta með fegurðina er líka dálítið flókin umræða, vegna þess að fegurð hvítra kvenna getur vissulega verið valdatæki en hún er líka notuð gegn konum. Og konur sem einbeita sér of mikið af fegurð geta líka orðið fyrir barðinu á karlveldinu og femínistum. Tengist þetta líka umræðunni um the verkfæri húsbóndans. Svartir geti ekki fengið viðurkenningu hvítra á fegurð. Þeir geta ekki tekið upp hvít fegurðarviðmið, fegurð þeirra sé því aðeins mælanleg innan svarts samfélags og ekki einu sinni þar ef svartir vilja eða þurfa að taka upp þessi gildi. 255 Justin Simien, Dear white people sería 2, þáttur 5.

58

sig eða fitað, málað sig og greitt sér og eða beðið bara eftir að fegurðarformúlan breytist og þeirra útlit komist nær tískunni, en Coco getur ekki klætt sig úr húðinni.256

5.1 Coco og Joelle, fórnarlömb hörundslitafordóma Þegar áhorfandinn kynnist Coco betur, eftir að hafa hugsanlega líkað illa við hana framan af, kemst hann að því að ekki er allt svona svart og hvítt. Coco er mun dekkri á hörund en Sam og er annað hvort með hárkollu eða weave257 því náttúrulega hárið hennar er sú hárgerð sem er talin of svört í mörgum hvítum kreðsum.258 Auk þess passar Coco mjög vel upp á útlitið, er alltaf óaðfinnanlega til fara í fötum sem mætti lýsa sem íhaldssömum en smart, í andstæðu við föt Sam sem eru afslappaðri og aktívistalegri. Áhugavert er, með þetta í huga, að þegar hún klæðir sig upp í grímubúning svartra fyrir Black-Face partýið fer hún í föt sem hún veit að hið hvíta samfélag heldur að svart fólk klæði sig í, fremur en í sín venjulegu föt. Þannig er hún að klæða sig upp sem staðalmynd tilbúna af hinum hvítu. Almennt passar Coco vel inn í mynd Fanons af svörtu viðfangi sem reynir að tileinka sér siði nýlenduherrans, sem og ímynd Cosbys af konu sem er að gera hlutina rétt til að öðlast virðingu í hvítu samfélagi og ímynd feðraveldisins af réttri hegðun og útliti konu.259 Hún er með slétt hár, klædd á íhaldssaman og snyrtilegan hátt, er grönn en þó kvenleg, talar tungumál hinna hvítu og hefur meira að segja gengið svo langt að afneita sínu raunverulega nafni, Colandrea, til að aðlagast hvítu samfélagi.260 Coco er þannig

256 Morgan Jerkins „Of Blackness and Beauty“ á vef Longreads janúar 2019. „One black woman cannot overturn the former anonymity of Laure, whose body and positioning is set in the Western art canon. One black woman cannot overturn how white womanhood has been the nexus of femininity and beauty for hundreds of years. To ask a black woman to lean into a democratic beauty is to indubitably expect her to become an amnesiac.“ Eða eins og McMillan Cottom skrifar, „It is actually blackness, as it is refracted through the history of colonization, imperialism, and domination, that excludes me from the forces of beauty. … Big Beauty — the structure of who can be beautiful, the stories we tell about beauty, the value we assign beauty, the power given to those with beauty, the disciplining fear of losing beauty might possess — definitionally excludes the kind of blackness I carry in my history and my bones.“ https://longreads.com/2019/01/16/of-blackness-and-beauty/ sótt 14. mars 2020. 257 Samkvæmt heimildarmyndinni Good Hair kostar weave, sem er aðkeypt hár saumað inn í eigið hár, allt frá 1000-3500 dollara það þarf að skipta því út á þriggja mánaða fresti. Þannig er það að telja svörtum konum trú um að þær þurfi að eyða slíkum fjárhæðum í hárið á sér partur af fegurðarmýtunni sem heldur konum niðri, bæði andlega og fjárhagslega. 258 Althea Prince. The Politics of Black Woman’s Hair, Insomniac Press, New York, 2010, bls 11-12. 259 Catherine Saint Louis „Black Hair, Still Tangled in Politics„ í The New York Times, 2009. 260 Það sem Cosby hefur að segja um hefðir í nöfnum svartra: „What part of Africa did this come from? We are not Africans. Those people are not Africans, they don’t know a damned thing about Africa. With names like Shaniqua, Shaligua, Mohammed and all that crap and all of them are in jail.“ En þar tengir hann það að heita nöfnum sem „hljóma svört“ við að vera í fangelsi.

59

meðvitað að draga úr svartleika sínum261 og notar Sam það, sem og nafnið hennar, til að mynda gegn henni Coco: Coco. Sam: Real name Colandrea, C-o-l-a-n-d-r-e-a. For accuracy. Coco: Dont do it boo, not with that mess atop you head you like to pass off as natural, held together by bobby pins and prayer? Lord. Sam: You wanna go there? With half of india’s GDP atop your head? Coco: I just find her agenda to be a little more than self-serving blacker-than-thou propaganda.“262 Hvort sem Sam segir þetta það er til að draga úr virðingu Coco með því að tengja hana lægri stétt eða til að sýna fram á að Coco hafi afneitað rótum sínum.263 Tungumál og orðræða hinna hvítu nær þannig tökum á hinum svörtu sem taka svo sjálfir þátt í eigin undirokun.264 Coco kemur frá öðrum bakgrunni en Sam og veit hvernig lögregluofbeldi er af eigin hendi. Eftir að öryggisverðir beina byssu að Reggie er hún sú eina sem fer að gráta og á fundi eftir atvikið reynir hún að vara svarta samnemendur sína við því að vera með uppsteit gegn yfirvöldum, því hún hefur séð svarta menn skotna fyrir einmitt það.265 Og þar liggur hundurinn grafinn, ástæða þess að hún hefur gengist inn á þá hugmynd að virðingarpólitík muni bjarga svörtum er að hún hefur af eigin reynslu séð hvernig komið er fram við svart fólk sem gengst ekki inn á vald hvíta mannsins. Hún veit af fenginni reynslu að hún þarf að tileinka sér tungumál herrans til að vera tekin alvarlega, og jafnvel til að lifa af. Hún veit að náttúrulega hárið á henni er ekki viðurkennt sem fallegt, eða virðingarvert.266 Hún veit að stundum þarf hún að brosa og láta sig hafa kasjúal rasisma til að komast áfram yfir höfuð. Það sem hún veit ekki er að það er annar möguleiki en sá

261 “Whats your definition of good hair? Something that looks relaxed and nice. I think you’re trynna blend in your trying to make everybody comfortable, thats the relaxer it relaxes people“ segir Raven Symone í heimildarmyndinni Good Hair. 262 Justin Simien, Dear White People, þáttur 4. 263 “For black women, you’re damned if you do, damned if you don’t,” said Ingrid Banks, an associate professor of black studies at the University of California at Santa Barbara. “If you’ve got straight hair, you’re pegged as selling out. If you don’t straighten your hair,” she said, “you’re seen as not practicing appropriate grooming practices.” Segir í „Black Hair, Still Tangled in Politics“ eftir Catherine Saint Louis. 264 Frantz Fanon, Black Skin, White Masks. 265 Justin Simien, Dear White People, þáttur 8. 266 „There’s always this sort of pressure in the black community like oh if you have good hair you’re prettier or better than the brown skinned girl who wears the afro or the dreads or the natural hair style.“ segir leikkonan Nia Long í myndinni Good Hair.

60

sem hún hefur lært af reynslunni, og hugsanlegt er að fyrir konu eins og hana sé enginn annar möguleiki.267 En þrátt fyrir að Coco þurfi að leggja sig ofboðslega mikið fram til að ná korter í jafn langt og hvítar konur eða Sam, er enginn tilbúinn að viðurkenna það að hún þurfi að reyna, heldur er látið sem svo að hún hafi valið að gera sig að fífli. Það sem virðist verða henni að falli á tímum náttúrulegrar fegurðar268 þegar slík pressa er á að konur eigi að vera fullkomnar án þess að leggja sig fram, en enginn viðurkennir að náttúrulegt útlit Coco er jaðarsett.269 Hún þarf að reyna svo mikið til að vera korter í viðurkennd, en Sam ekki, og fellur þannig á kvenleikaprófinu að vera bara fullkomin, án þess að reyna. Sam kemst upp með að vera svört og stolt og á háum hesti yfir því því hún er minna svört, og þar með nær hinni fullkomnu ímynd hvítra um kvenleikann.270 Joelle, besta vinkona Sam, er einnig mjög dökk á hörund og er með síðar fléttur. Í fyrstu seríu fáum við lítið að vita um Joelle annað en það að hún er vön að vera alltaf í öðru sæti í samskiptum sínum við Sam, rétt eins og Coco lenti í þegar þær voru vinkonur. Í seríu tvö sjáum við einnig nýja hlið á vináttu hennar við Joelle. Í upphafi fyrsta þáttar annarar seríu reynir Joelle, besta vinkona Sam, að hjálpa Sam og hressa hana við og koma með gagnlegar tillögur fyrir þáttinn, en Sam hlustar ekki á hana og talar niður til hennar.271 Þetta er ekki alveg ný hegðun Sam gagnvart Joelle sem er vön að vera í skugga vinkonu sinnar, en öfugt við fyrstu seríu sem lét það líta svo út að það gerðist bara óvart og sjálfkrafa, sýnir sería tvö að Sam hjálpar til við að halda Joelle niðri. Í þætti 5, þar sem Joelle er aðalpersóna, sjáum við að hún var vön að vera í sviðsljósinu þar til Sam kom til sögunnar. Sama valdastrúktúr er haldið í vináttum Sam við báðar þær persónur sem eru góðar vinkonur hennar í þættinum, fyrst Coco og svo Joelle, þar sem Sam græðir á ljósri húð sinni og tengingu við hvítleika og evrópska fegurðastaðla bæði frá svörtu og hvítu samfélagi án þess að það sé nokkurn tímann minnst á hversu stóran þátt það spilar í velgengni hennar og hversu eftirsótt hún er af karlmönnum. Við sjáum að Sam þarf að glíma við að of margir menn elska hana á meðan bæði Joelle og Coco berjast við að ná sér í og halda í mann.272 Og það nær lengra en bara að ástarlífinu, sama gildir einnig um virðingu og frama.273 Við fáum einnig að vita að Joelle er skotin í Reggie, en Reggie sér

267 Catherine Saint Louis, „Black Hair, Still Tangled in Politics“ í The New York Times. 268 Maggie Wykes og Barrie Gunter, The Media and the Body Image: If Looks Could Kill, bls. 29. 269 Catherine Saint Louis, „Black Hair, Still Tangled in Politics“ í The New York Times. 270 Maggie Wykes og Barrie Gunter, The Media and the Body Image: If Looks Could Kill, bls. 4. 271 Justin Simien, Dear White People, Sería 2, þáttur 1. 272 Justin Simien, Dear White People, Sería 2, þáttur 1. 273 Justin Simien, Dear White People, Sería 2, þáttur 1.

61

bara Sam í fyrstu seríunni. Í annari seríu fær Joelle að vera aðalpersónan í einum þætti, þeim fimmta, og þar kynnist áhorfandi henni betur, og er það eini þátturinn þar sem hörundslitafordómar eru næstum því nefndir á nafn. Í þeim þætti sjáum við Joelle skara fram úr á öllum sviðum, þar á meðal námslega séð. Hún reynir meira og gengur betur en flestum en fær litla sem enga viðurkenningu. Henni er meira að segja sagt að “dial it back”274 þegar hún skarar fram úr í kórsöng.275 Strax í upphafi þáttarinnar um hana segir sögumaður „Joelle Brooks isn’t used to being second string.“276 Eru það nýjar fréttir fyrir áhorfendur fyrstu seríu sem hafa eingöngu séð Joelle sem eftirbát Sam, alla vega í augum allra sem verða á vegi þeirra. Sam á í erfiðleikum með að halda áfram með útvarpsþáttinn sinn og eftir stöðugan straum mótlætis fær hún Joelle til að vera meðstjórnanda í þættinum. Veggspjaldið sem auglýsir þáttinn hefur mun minni mynd af Joelle en Sam, en báðar líta þær á það sem mistök og hvorug reynir að laga það. Þegar kemur að þættinum sjálfum talar Sam stanslaust yfir Joelle og vill tala um sjálfa sig frekar en að hlusta á hana. Hvenær sem Joelle reynir að koma orði að grípur Sam fram í fyrir henni, og þrátt fyrir að Joelle sé bersýnilega ósátt segir hún ekkert. Seinna í þættinum þegar Trevor gagnrýnir þetta fyrirkomulag er Joelle þó fljót að koma Sam til varnar: „Trevor: Real sisters getting side kicked by these light skinned chicks. Joelle: Sams not like that on purpose, she’s my girl.“277 Svo hún kennir Sam ekki um að heimurinn sé spenntari fyrir henni en Joelle sökum húðlitar þeirra, sem er sanngjarnt, en hún heldur Sam þó ekki ábyrgri fyrir hversu mikið hún hunsar forréttindi sín. Í sama þætti á sér stað samtal milli Joelle og Rashid um Sam og hörundslit.

Joelle: Rashid, every time I bring a guy around here, they see my girl Sam and its like new phone who dis?

Rashid: What do you mean?

Joelle: Think about it. (Þegar Joelle segir „think about it“ strýkur hún húðina á sér sem merki um að menn velji frekar Sam vegna ljóss hörundslitar.)

Joelle: Its just that when I look in the mirror I see someone who‘s beautiful and talented and always the second one you think of. This world is not kind to the Kellys278

274 Justin Simien, Dear White People, 2 Sería, 5. þáttur. 275 Justin Simien, Dear White People, 2 Sería, 5. þáttur. 276 Justin Simien, Dear White People, 2 Sería, 5. þáttur. 277 Justin Simien, Dear White People, sería 2 þáttur 5. 278 Justin simien, Dear White People, sería 2 þáttur 5.

62

Og á þá við Kelly Rowland og Beyoncé Knowles, fyrrum meðlimi stúlknabandsins Destany’s Child. Beyoncé hefur náð ótrúlegum frama á sviði tónlistar síðan stúlknabandið hætti, en meira að segja faðir hennar, Matthew Knowles, sem er fyrrum umboðsmaður Desteny’s Child, hefur bent á að dóttir hans hafi að hluta til náð frama sínum þar sem hún er ekki mjög dökk á hörund, og bent á að fyrrum hljómsveitarsystir hennar Kelly Rowland, sem er mun dekkri, hefur ekki náð sama frama í Bandaríkjunum þrátt fyrir að vera alveg jafn hæfileikarík, og kennir Matthew litarhafti þeirra um.279 Matthew Knowles bendir einnig á í sama viðtali að hörundslitafordómar hafi lengi haft áhrif á frama svartra tónlistarkvenna, og nefnir sem dæmi Whitney Houston og hvernig hörund hennar var lýst til að auka vinsældir hennar.280 Ta-Nehisi Coates skrifar um hvíttun tónlistarmanna og áhrif þess á hinn almenna svarta hlustanda í grein sinni „I’m Not Black, I’m Kanye“ og nefnir hvíttun ofurstjörnunnar Michaels Jacksons sem ýkt dæmi um það sem var að gerast hjá flestum eða öllum stjörnum, en ýtt var á þær að líta hvítari út. Hann skrifar:

Michael Jackson var eingöngu ýktasta útgáfan af því sem var í tísku á árunum eftir disco. Því þegar ég hugsa um þann tíma hugsa ég um svarta menn á plötuumslögum, brosandi til mín með Jheri-krullur og bláar augnlinsur, og ég hugsa um svartar konur sem virtust, af einhverjum yfirnáttúrulegum völdum, allar vera á litin eins og ljósbrún umslög. Michael Jackson var hugsanlega að deyja úr löngun til að vera hvítur, en hann var ekki að deyja einn. Restin af okkur var þarna úti, fædd eins og hann hafði verið, neðst á valdapýramída landsins. Við vissum að við vorum tengd honum órjúfanlegum böndum og útlitsleg umbreyting hans voru útlitsleg endalok fyrir okkur. Því ef svarti guðinn sem gat látið uppvakninga dansa, sem sætti öflug stríð, sem breytti steini í ljós, ef honum gat ekki fundist hann sjálfur vera fallegur, hvernig í ósköpunum gætum við – dauðlegir menn, börn – nokkurntíman flúið það sem okkur hafði verið kennt um, munnana okkar, hárið okkar og húð, hvaða von gátum við haft um að rísa upp? Michael Jackson eyðilagði ekki eingöngu sitt eigið andlit, heldur studdi hann eyðingu allra andlita sem litu út eins og andlitið hans. Og þetta er kannski barnalegt, en ég velti því fyrir mér hversu öðruvísi líf Michael Jacksons hefði verið ef hann vissi hversu mikið svarta andlitið hans var tengt öllum svörtu andlitunum okkar, ef hann hefði vitað að með því að leggja sjálfan sig í rúst var hann að rústa hluta af okkur líka.281

279Alicia Adejobi „Beyonce‘s dad doubts she‘d be a superstar if she was dark skinned as he addresses colorism in music.“ 19. júní 2019. https://metro.co.uk/2019/06/19/beyonces-dad-doubts-superstar-dark- skinned-addresses-colourism-music-10015558/ sótt 20. janúar 2020. 280Alicia Adejobi „Beyonce‘s dad doubts she‘d be a superstar if she was dark skinned as he addresses colorism in music.“ 19. júní 2019 https://metro.co.uk/2019/06/19/beyonces-dad-doubts-superstar-dark- skinned-addresses-colourism-music-10015558/ sótt 20. janúar 2020. 281 Ta-Nehisi Coates, „I’m not black im Kanye“ á vef The Atlantic, „Michael Jackson was but the extreme of what felt in those post-disco years to be a trend. Because when I think of that time, I think of black men on album covers smiling back at me in Jheri curls and blue contacts and I think of black women who seemed, by some mystic edict, to all be the color of manila folders. Michael Jackson might have been dying to be white, but he was not dying alone. There were the rest us out there, born, as he was, in the muck of

63

5.2 Hörundslitafordómar, jaðarsetning og eltingaleikur við ómögulega fegurð

Coco er fyrsta manneskjan í sinni fjölskyldu til að fara í háskóla, en hún fékk tækifæri til þess vegna þess að ríkur hvítur maður sá hvað hún var klár, hjálpaði henni og styrkti, tók hana úr svarta umhverfinu og hún lærði að haga sér rétt. Coco hefur einmitt alltaf haldið að hún þurfi á karlmanni að halda, en hún á í leynilegu ástarsambandi við Troy, son áhrifamanns innan skólans og formann nemendafélagsins. Hún þrýstir á hann að opinbera samband þeirra með spurningunni „Jackie eða Marilyn?“282 Þegar hann er tregur til að gera samband þeirra opinbert og formlegt segir Coco „Quick to claim a girl like Sam.“283 og á þá við aðra stöðu Sam í samfélaginu en hennar eigin. Troy átti í sambandi við Sam fyrst og augljóst var að hann var stoltur af að kynna hana sem kærustuna sína, þrátt fyrir að þau hafi ekki átt mikið sameiginlegt. Coco, sem hann á heilmikið sameiginlegt með og er sammála honum þegar kemur að hegðun og aðlögun að hvítu samfélagi, vill hann þó halda leyndri, sem kemur inn á forréttindi Sam284 auk þess sem það að vera með ljósri konu, eða hvítri, vekur meiri öfund og virðingu en að vera með svartri. Ástæða þess að Coco vill opinbera samband sitt við Troy er þó ekki af rómantískum grunni sprottin. Í ljós kemur að Coco er með honum fyrir hagkvæmni og framapot, og þegar hann spyr hvað það er í fari hans sem henni líkar við285 hefur hún engin svör, enda er áhorfendum ljóst að hún hefur aðeins valið hann af hagkvæmnisástæðum fyrir eigin frama. Í grein sinni „Sistahs are doing it for themselves“ talar Lisa A. Guerrero um muninn á því hvað svartar og hvítar skvísur sækjast eftir, og telur svartar konur fremur vera að leita að frama og

this country, born in The Bottom. We knew that we were tied to him, that his physical destruction was our physical destruction, because if the black God, who made the zombies dance, who brokered great wars, who transformed stone to light, if he could not be beautiful in his own eyes, then what hope did we have— mortals, children—of ever escaping what they had taught us, of ever escaping what they said about our mouths, about our hair and our skin, what hope did we ever have of escaping the muck? Michael Jackson did not just destroy his own face, but endorsed the destruction of all those made in similar fashion. And maybe this, too, is naive, but I wonder how different his life might have been if Michael Jackson knew how much his truly black face was tied to all of our black faces, if he knew that when he destroyed himself, he was destroying part of us, too.“ 282 Suzanne Ferriss. „Fashioning Femininity in The Makeover Flick“ í Chick Flicks: Contemporery Women at the Movies, ritstj. Suzanne Ferriss og Mallory Young, bls 41. 283 Justin Simien, Dear White People, sería 1, þáttur 9. 284 Flestar svartar kvenstjörnur í bandaríkjunum eru fremur ljósar, sérstaklega þær sem eru kyntákn, til að mynda Beyonce, Kelly Rowland, og ef dökk kvenstjarna nær upp á stjörnuhiminin vekur það undrun, eins og til að mynda þegar leikkonan Lupita Nyongo var kosin fegursta kona ársins 2014. 285 Justin Simien, Dear White People, sería 1, þáttur 9.

64

virðingu og að sambönd þeirra við karlmenn séu ekki endilega til að giftast og verða húsmæður.286 Áður en Troy og Coco byrja saman fer Coco á stefnumót með hvítum manni sem segir henni undir rós að hún gæti aldrei orðið opinber kærasta hans sökum kynþátts hennar, en honum þyki þó spennandi að vera með henni.287 Einnig sjáum við Coco fara á ball sem gengur út á að menn bjóði konum upp. Á ballinu er hún sú eina af vinkonum sínum sem ekki er valin, en allar vinkonur hennar eru hvítar. Það eina sem skilur Coco frá þeim er hörundslitur hennar, en hún hefur gengið alveg jafn langt, ef ekki lengra, í að falla í mót hins ásættanlega kvenleika.288 Yfir höfuð hefur ekki verið hlaupið að því fyrir Coco að ná sér í mann, en hún stendur í eins konar einskismannslandi milli vals um svartan eða hvítan maka, en tölfræðilega er vitað að svartar konur eru taldar óákjósanlegasti kosturinn af mönnum af öllum kynþáttum, þar á meðal svörtum289 og þá sérstaklega dökkar konur.290 Þrátt fyrir að Sam sé líka svört á hún ekki í sama vanda þegar kemur að karlmönnum því svartleiki hennar sem ljósrar svartrar konu er séður sem annar en svartleiki Coco, enda stendur hún nær hvítleikanum sem gerir hana kynferðislega eftirsóttari.291 Í annari seríu fylgjumst við áfram með Coco feta sig upp valdastiga skólans. Hún nær loksins að verða forseti CORE, The Coalition for Racial Equality, en áttar sig á sama tíma á að hún er ólétt.292 Troy, faðir barnsins, hefur hætt að reyna að eltast við að hegða sér rétt og hefur týnt sér í vímuefnum og slugsi. Í upphafi þáttar talar Coco við mömmu sína í símann og við heyrum að fjölskyldan er fátæk. Mamma hennar vill ekki hlusta á Coco tala um skólann og sín mál og er upptekin, auk þess sem hún ávítar Coco fyrir að hringja aldrei í hana. Símtalasenan er skotin í gegnum glugga sem lætur Coco sjást óskýrt, hún er máð og bjöguð, enda virðist hin nýuppbyggða sjálfsmynd hennar sem háskólastelpu á framabraut ekki passa við þá Coco, eða Colandreu, sem hún er þegar hún talar við mömmu sína. Langt er á milli þessara tveggja veruleika Coco, sem er undirstrikað enn frekar þegar Muffy, hvíta, ríka vinkona hennar, kemur til hennar og Coco

286 Lisa A. Guerrero „Sistah’s are Doing it For Themselves“ í Chick Lit: The New Woman’s Fiction, 2006, bls. 92. 287 Justin Simien, Dear White People, sería 2, þáttur 4. 288 Maggie Wykes og Barrie Gunter, The Media and the Body Image: If Looks Could Kill, bls.14. 289 Aziz Ansari og Eric Klinenberg, Modern Romance: An Investigation, Penguin Books, New York, 2016. 290 Trina Jones, Shades of Brown: The Law of Skin Color, Colorism within the black communitiy, 49. Duke Law Journal, Duke, 2000, bls. 1487-1557. 291 Angela P. Harris, From Color line to Color Chart: Racism and Colorism in the New Century, í Berkley Journal of African-American Law & Policy, Volume 10, Issue 1, Berkley, California, 2008. 292 Justin Simien, Dear White People, sería 2,. þáttur 3.

65

er fljót að skella á mömmu sína með orðunum, „Bye mother, kisses,“ í annari tóntegund en hún hafði notað í símtalinu, og áður en Coco skellir á heyrum við mömmu hennar hvá, enda má gera ráð fyrir að mamman þekki ekki þessa nýju „virðingarverðu“ Coco, sem er að nýta sér tungumál hins hvíta herra til að vera viðurkennd og samþykkt af Muffy og hinu hvíta samfélagi í heild.293

5.3 Á jaðri kynþáttar: Sam Sam er hálf svört og hálf hvít, býr í svörtu heimavistinni (Armstrong-Parker House) og er aktívisti fyrir réttindum svarta. Aðrir sjá hana ekki sem hvíta en ekki endilega sem svarta heldur en það fyrsta sem við sjáum í seríunni er hvítt fólk að „aðra“ hana fyrir útlit sitt.294 Í annarri seríu, þegar Sam verður fyrir aðkasti af hálfu rasískra nettrölla beina þeir spjótum sínum aðallega að blönduðum kynþætti hennar. Það er ekki gripið úr lausu lofti, en börn sem eiga eitt svart og eitt hvítt foreldri hafa orðið fyrir miklu aðkasti víða í heiminum til langs tíma. Í Bandaríkjunum urðu blönduð börn fyrst til þegar þrælaeigendur nauðguðu kvenkyns þrælum sínum svo barn kom undir. Var barnið þá oft litið hornauga bæði af svörtum þrælum og hvítum herrum, þrátt fyrir að hafa sjálft ekkert til saka unnið. Sem dæmi um það í skáldskap skrifar Toni Morrison í Beloved að móðir aðalpersónunnar, Sethe, hafi kastað mörgum börnum sínum í sjóinn þar sem þau voru afkvæmi hvítra nauðgara en haldið Sethe því faðir hennar var svartur.295 Sem dæmi úr hinum raunverulega heimi má líta til ævi söngkonunnar Earthu Kitt, sem á svarta móður og hvítan föður sem nauðgaði móður hennar, og upplifði Eartha frá barnæsku mikla höfnun og útilokun sökum blandaðra gena sinna.296 Einnig skrifar fræðikonan Reni Eddo-Lodge um álit bresks samfélag á því sem þau kölluðu „half-cast“ börnum í bók sinni Why I’m No Longer Talking To White People About Race. Ástarsambönd svartra og hvíta voru mjög umdeild snemma á 20 öld, og í norðvesturhluta Englands voru þau álitin nógu truflandi til að það þyrfti að rannsaka þau297 auk þess sem margir álitu slík sambönd vera

293 Frantz Fanon, Black Skin, White Masks, bls 43. 294 Justin Simien, Dear White People, sería 2, þáttur 1. 295 Toni Morrison, Beloved, Alfred A. Knopf, Bandaríkin, 1987. 296 Adam Luck, „Eartha Kitt was scarred by her failiure to learn the identity of her white father.“ Á vef The Gueardian, 19. október 2013. https://www.theguardian.com/music/2013/oct/19/eartha-kitt-suffered-over- identity/ sótt 10. janúar 2020. 297 Reni Eddo-Lodge, Why I’m No Longer Talking To White People About Race, bls 19

66

samfélagsmein sem þyrfti að ráða niðurlögum á.298 Undir lok þriðja áratugarins rannsakaði mannfræðingurinn Rachel M. Flemming börn sem áttu svarta feður og hvítar mæður. Á tímum rannsóknarinnar, sem fór fram í hafnarborginni Liverpool, bjuggu um fimmþúsund svartir og kynþáttaerjur voru í hámæli.299 Eddo-Lodge skrifar „Það var í þessu samhengi sem Rachel Fleming fékk stuðning yfirvalda í Liverpool til að rannsaka Liverpool’s “wretched” – blönduð börn. Hún stofnaði Liverpool Association for the Welfare of Half-Caste Children árið 1927.“300 Muriel Fletcher, skilorðsfulltrúi, var fengin til að skrifa fyrstu skýrslu samtakanna. Sökum atvinnu hennar var hún í sambandi við fátækustu íbúa Liverpool og hafði það mikil áhrif á útkomu rannsóknarinnar.301 Árið 1930 gaf hún út The Report on an Investigation into the Colour Problem in Liverpool, og sést það á titlinum einum saman að rannsóknin var ekki gerð á hlutlausan hátt. Þrátt fyrir að hafa lítinn sem engan grunn til að byggja á komst Fletcher að þeirri niðurstöðu að svart sæði væri líklegra en hvítt til að innihalda kynsjúkdóma og að blönduð börn væru líklegri til að vera veikburða af þessum sökum.302 Hún taldi blönduð börn vera óhreinkuð sökum kynþáttar síns, auk þess sem hún flokkaði hvítar konur sem ákváðu að vera með svörtum mönnum í fjóra flokka til að útskýra ástæður þess. Flokkarnir voru: „Andlega veikir, vændiskonur, ungir og umstöðulausir og þeim sem fannst þeir þvingaðir í hjónaband sökum lausaleikskróga.“303 Börnin sem voru rannsökuð voru skoðuð og flokkuð, nefin á þeim voru mæld og andlitsdrættir þeirra svo dæmdir sem annað hvort „English“ eða „Negroid“304 Fletcher skrifaði einnig: „Betur gerðar mæður sáu eftir því að hafa fætt þessi börn í heiminn, fötluð sökum litarhafs síns.“ Undir áhrifum vinsællar mannkynbótastefnu samtíma síns álítur Fletcher sem svo að það að blanda kynþátunum saman væri svo hræðilegt að blönduð börn ættu litla sem enga framtíð fyrir sér.305 Mannkynbótastefnan var augljóslega rasísk, en hún áleit sem svo að hlutir eins og samfélagsstaða væru ákveðnir af genum hvers og eins, og taldi að þeir sem hefðu góð gen, sem sagt hinir ríku, ættu að vera hvattir til að fjölga sér á meðan aðrir, hinir fátæku, ættu að sleppa því. Rasismi er innbyggður í þessa stefnu: það að vera hvítur var ákjósanlegt, en hvers lags blöndun við aðra kynþætti var óhreinkandi fyrir genin, svo ástarsambönd hvítra við svarta

298 Reni Eddo-Lodge, Why I’m No Longer Talking To White People About Race, bls 19 299 Reni Eddo-Lodge, Why I’m No Longer Talking To White People About Race, bls 19 300 Reni Eddo-Lodge, Why I’m No Longer Talking To White People About Race, bls 19 301 Reni Eddo-Lodge, Why I’m No Longer Talking To White People About Race, bls 20 302 Reni Eddo-Lodge, Why I’m No Longer Talking To White People About Race, bls 20 303 Reni Eddo-Lodge, Why I’m No Longer Talking To White People About Race, bls 20 304 Reni Eddo-Lodge, Why I’m No Longer Talking To White People About Race, bls 21 305 Reni Eddo-Lodge, Why I’m No Longer Talking To White People About Race, bls 21

67

voru óásættanleg.306 Rannsókn Fletcher var hyllt við útgáfu og talin mjög gagnleg þrátt fyrir að byggja niðurstöður sínar ekki á raunverulegum staðreyndum heldur fremur á óskhyggju hvítra rasista. Nýleg rannsókn fræðimannsins Mark Christian á rannsókninni bendir á að áhrif hennar hafi verið neikvæð og skaðleg fyrir svarta og blandaða breska þegna og neikvæðra áhrifa hennar gætir enn í dag.307 Þegar kemur að aðkasti gegn Sam í þættinum sækja óvinir hennar þar með í langa sögu fordóma gegn blönduðu fólki. Eftir að Sam útleggur á málefnalegan og skýran hátt sum af dæmunum um rasisma gegn svörtum í sögu Bandaríkjanna svarar nettröllið fyrir sig með því að kalla hana „Half-breed bitch,“308 sem mætti útleggja á Íslensku sem „blendingstík“ og niðrar hana þar með bæði fyrir kynþátt hennar og kyn, en býður ekki upp á málefnaleg mótrök. Seinna póstar þetta sama nettröll fjölskyldumynd af Sam sem barni með foreldrum sínum, hvítum föður og svartri móður, og skrifar „Too bad your father ruined you by fucking a monkey.“309 kallast slík móðgun á við rannsókn Fletchers þar sem nettröllið álítur sem svo að faðir Sam hafi óhreinkað sín hvítu gen sem hann gaf dóttur sinni með því að gera hana blandaða. Rasisminn gegn móður Sam, það að kalla hana apa, er heldur ekki ný uppfinning, en hvítir rasismar hafa verið gjarnir á að líkja svörtu fólki við apa og draga þannig úr mennsku þeirra. Nýleg dæmi eru meðferð fjölmiðla á Obama-hjónunum Michelle og Barack sem hefur báðum verið líkt við apa310, og nýlegt mál bresks fjölmiðlamanns sem líkti nýfædda, breska prinsinum Archie við apa, en móðir hans á einmitt svarta móður.311 Almennt talar Sam um sig sem svarta eingöngu, en í eitt skiptið sem hún talar um að vera hálfhvít er besta vinkona hennar fljót að skjóta það niður:

Joelle: I have to unpack my BF having a secret bae.

Sam: Secret or white?

Joelle: Both.

Sam: You know im biracial so technically...

306 Reni Eddo-Lodge, Why I’m No Longer Talking To White People About Race, bls 21 307 Reni Eddo-Lodge, Why I’m No Longer Talking To White People About Race, bls 22 308 Justin Simien, Dear White People, sería 2 þáttur 1 309 Justin Simien, Dear White People, sería 2 þáttur 1. 310 Julia Jacobo, „West Virginia Mayor Resigns After Controversial Facebook Post About Michelle Obama“ á vef ABC News, 15. nóvember 2016, https://abcnews.go.com/US/west-virginia-mayor-resigns- controversial-facebook-post-michelle/story?id=43557844/ sótt 13. desember 2019. 311 Karla Adam, „British radio host fired for racist tweet comparing Archie Harrison to a chimp.“ Á vef The Washington Post, 9. maí 2019. https://www.washingtonpost.com/world/2019/05/09/british-radio- host-fired-tweet-comparing-royal-baby-archie-harrison-chimp/ sótt 14. desember 2019.

68

Joelle: Look dont. You‘re not Rashida Jones biracial you‘re Tracy Ellis Ross biracial, people think of you as black.

Sam: That‘s why I didnt say shit.

Joelle: No you didnt say shit because you keep talking about how we cant give up on our men, Sam we met in the comment section of the M article you wrote: Dont fall in Love with your oppressor, dating at Winchester.312

Má færa rök fyrir að Joelle hafi eitthvað til málanna að leggja, en þessi eyðing á bakgrunni Sam getur ekki verið gagnleg. Fólk virðist eiga erfitt með blöndun svartra og hvítra í dag og virðist sem svo að ef einstaklingur hefur einhver útlitseinkenni sem fólk sér sem svört sér það aðilann eingöngu sem svartan. Ef blandað fólk lítur svo út fyrir að vera hvítt er svarta hliðin á þeim útmáð. Dæmi um þetta eru einmitt leikkonurnar sem Joelle nefnir. Rashida Jones á svartan föður og hvíta móður og Tracy Ellis Ross á svarta móður og hvítan föður. Jones er með slétt brúnt hár og það sem mætti kalla vestræna andlitsdrætti, en Ellis Ross er með miklar svartar krullur og er nokkuð lík móður sinni, söngkonunni Diönu Ross.

312 Justin Simien, Dear White People 1. þáttur.

69

6 Hvítir og svartir: Að elska kúgara sinn En þrátt fyrir að Sam líti á sig sem svarta konu og að allir svartir standi jafnfætis í baráttunni tekst henni að hunsa ákveðin forréttindi sem hún hefur sem ljós kona.313 Og hún hefur aldrei mætt stórum hluta af mótlætinu sem Coco mætir, eins og að vera gagnrýnd og hædd fyrir hárið á sér. Hún á ekki í vandræðum með að komast á stefnumót, hvorki með svörtum né hvítum mönnum, en hún er, í seríu eitt, partur af ástarþríhyrningi milli hvíts og svarts manns, Gabe og Reggie. Val hennar á hinum hvíta Gabe sem maka veldur umróti og dregur úr valdi hennar og trúverðugleika sem rödd svartra háskólanema, þegar upp um það kemst.314 Áhugavert er hvernig þátturinn stillir ástarviðföngum Sam upp í samkeppninni um hana. Gabe er ljúfur og blíður og samband þeirra byggist á tilfinningum, auk þess sem þau hafa bæði áhuga á kvikmyndum og menningu. Síðar heldur Sam framhjá honum með Reggie eftir að Reggie verður fórnarlamb öryggisvarða skólans, vegna kynþáttar síns. Hún upplifir samstöðu með Reggie og veit að hann skilur hana og þau eru saman í baráttu svartra. Reggie er þannig í lífi Sam sem ofbeldi, óánægja og umrót, en þessi uppstilling á hinum hvíta manni sem ljúfum, siðmenntuðum og skilningsríkum og hinum svarta sem upprótsmanni er ekki ný af nálinni.315 Þess má geta að Reggie er fluggáfaður en Sam sér aldrei þá hlið á honum og það er ekki partur af umræðunni um hvorn hún ætti að velja. Reggie kann illa við Gabe vegna þess að hann er með stelpunni sem hann elskar, en er ekki einn þeirra sem dregur kynþátt Gabes mikið inn í ástæðu þess að hann kann ekki við makaval Sam. Gabe lítur hins vegar á Reggie sem agressívan og ofbeldisfullan, jafnvel hættulegan. Sem dæmi um það eiga þessi samskipti sér stað á milli þeirra:

Gabe: Hey man, I‘m just as pissed of as you are.

Reggie: not possible. Just cause you got a black chick on your arm doesn‘t mean you get to Miley Cyrus our pain.316

Gabe: Are you gonna hit me?

313 Evelyn Nakano Glenn, Shade of Difference: Why Skin Color Matters, Stanford University Press, Stanford, 2009. 314 Justin Simien, Dear White People, sería 2 þáttur 1. 315 Petrine Archer-Straw notar íþróttina box sem dæmi um þessa tilhneigingu til að gera samandurð, „Fights between white and black boxers create interest because they provide an arena in which the myth of black savagery can be explored and confirmed and even supported.“ 316 Hér er áhugavert að minnast aftur á poppstjörnuna Miley Cyrus, en hún klæðir sig upp í svart sem búning en getur svo farið úr honum þegar hún vill á meðan alvöru svart fólk getur ekki klætt sig úr húðinni þegar það vill að heimurinn hætti að líta á það sem ógn eða uppreisnarfólk.

70

Reggie: I should hit you for thinking I would hit you.“317

Reggie er alltaf álitin ógn af hvíta manninum sem er Gabe eða löggan eða samfélagið í heild.318 Þegar Gabe tekur viðtal við Reggie í seríu tvö segir Reggie: „I’m a good person who doesn’t pose a threat but they see me as one and that is a threat to me“319 Gabe er einnig sá sem hringir á lögregluna þegar rifrildi kemur upp í partýi, sem verður til þess að skólalögreglan beinir byssu að Reggie, sem hún álítur að sé ógn. Ástæða rifrildisins sem Reggie á í við hvítan vin sinn, er sú að hvíti maðurinn notar niðrandi orð um svart fólk og Reggie er ósáttur við það, en hvíti maðurinn neitar að taka tillit til Reggie þrátt fyrir að hafa verið bent á að hann sé að nota orð sem hefur langa og sögulega niðrandi merkingu gagnvart svörtu fólki.320 Þar sem skólaumhverfið er að mestu leiti hvítt komast aðalpersónurnar ekki hjá því að eiga í samskiptum við hvítt fólk. Í fyrstu seríunni er það eingöngu Gabe, elskhugi Sam, og Muffy, vinkona Coco sem eru hvítar persónur með eitthvað vægi í þáttunum, en í seríu tvö eftir að Armstrong-Parker House er sameinað hinu hvíta Davis House bætast fleiri hvítar persónur í leikinn. Strax í fyrsta þætti annarar seríu sjáum við þessa aukningu á hvítum nemendum í rými hinna svörtu.321 Í þættinum um Coco sjáum við svo að hún hefur aftur öðlast hálfgerða hirð af hvítum fylgjendum, rétt eins og í seríu eitt. Svo virðist vera að sem þáttakandi í virðingarpólitík (e. respectability politics) eigi Coco á sinn hátt auðveldara með að öðlast virðingu á einhvern hátt frá hvítum stúlkum sem hafa ekki velt rasisma mikið fyrir sér en öðrum svörtum nemendum, sérstaklega þeim sem aðhyllast skoðanir Sam og Reggie fremur en hennar. Er það kannski ekki skrítið þar sem Coco lagar sig að bestu getu eftir hvítu samfélagi og hugmyndum hins hvíta herra um virðingarverða hegðun, og fólk sem er mótfallið því og vill fremur berjast gegn ríkjandi stigveldi kann

317 Justin Simien, Dear White People, sería 1, þáttur 2. 318 Aðalkarlpersónurnar, Reggie, Troy og Lionel virðast hver standa fyrir eina tegund af svartri karlmennsku þar sem aðeins ein þeirra er ásættanleg. Reggie reynir ekki að aðlagast hvítu samfélagi og er álitin ógn, Lionel fellur hvorki undir hefðbundnar karlmennskuímyndir né ímyndir fólks um svarta karlmenn en Troy reynir að laga sig að heimi hvíta mannsins með mjög góðum árangri, en meira að segja það er ekki nóg til lengdar, og reynist honum svo erfið gríma að halda uppi til eilífðar. 319 W. Kamau Bell, The Awkward Thoughts of W. Kamau Bell, Randoum House LLC, New York, 2017, bls 34. 320 Ta-Nehisi Coates fjallar á áhugaverðan hátt um hvítt fólk og notun þess á rasískum orðum í viðtali þar sem hvít kona spyr hann hvernig hún geti fengið hvíta vini sína til að hætta að nota orðið. Rök hinna hvítu er að þeir séu bara að syngja með lögum svartra þar sem orðið kemur fyrir eða að nota það án þess að meina það, svo hvar sé þá skaðinn. Coates bendir á þá áhugaverðu staðreynd að það sé erfitt fyrir hvítt fólk að láta banna sér eitthvað þar sem það er vant að ekkert sé þeim óleyfilegt. Tengist það svo aftur við upphafsdeilu fyrstu seríu Dear White People þar sem hvíta fólkið er að sligast undan byrði þess að þurfa að sýna smá umburðarlyndi. 321 Justin Simien, Dear White People, sería 2, þáttur 1.

71

ekki við hegðun hennar. Og þrátt fyrir að hvítu konunum finnist Coco spennandi, þá er ekki þar með sagt að þær líti á hana sem jafningja sinn. Kannski líta þær meira á hana sem einskonar skemmtun, sem og brú yfir í hinn meira kúl svarta heim, á negrófílískan hátt.322 Á fjórðu mínútu þáttarins um Coco fer Muffy til dæmis yfir lista af spurningum sem hvítar stelpur vilja svör við frá Coco, til dæmis „Whats up with black people and the word ask“323 og Coco spyr hvort þau séu ekki með aðgang að google. Sem er spurning sem er oft viðeigandi þegar kemur að hvítum nemendum þáttarins, og hvítu fólki í heild, en við, líkt og Gabe og Abigail, erum mjög gjörn á að krefja hin kúguðu viðföng um svör fremur en að leita að þeim sjálf, og láta svart fólk þar með vinna auka andlega vinnu.324 Gabe er sérlega duglegur að gera þetta, en í annarri seríu, eftir að hann og Sam hætta saman, ákveður hann að gera heimildarmynd sem hann titlar Am I a Racist?325 Glöggir áhorfendur muna að Joelle benti Sam á að falla ekki fyrir kúgara sínum, það er, hvíta manninum, þegar hún komst að leynilegu sambandi Sam og Gabe í seríu eitt. Í seríu eitt sjáum við Gabe í ýmsum aðstæðum með svörtum samnemendum sínum þar sem honum finnst á sér troðið fyrir að þurfa að sýna umburðarlyndi og kann illa við að vera í minnihluta til tilbreytingar. Ef Gabe hefði hlustað á eitthvað sem Sam sagði, bæði í útvarpinu og við hann, hefði hann skýrt heimildarmyndina sína I Am a Racist, fremur en að varpa fram heimsspekilegri spurningu um hvort hann geti mögulega verið partur af að upphalda hvítu valdakerfi og láta svart fólk sjá um að fræða hann. Samfélagsmiðlaaktívistinn Ericka Hart hefur einmitt talað um hversu erfitt það er að berjast fyrir réttindum svartra en vera gift hvítri konu sem, líkt og Gabe, tekur eigin þægindi í umræðu um rasisma fram yfir raunverulegan sársauka svarts fólks.326 Þægindi Gabes eru þannig alltaf í fyrirrúmi, eins og við sáum þegar hann hringdi á lögregluna, sem og skortur hans á skilningi þess að umheimurinn kemur öðruvísi fram við svarta en hvíta. Þegar Black-Face hófið er heitast í deiglunni segir Gabe: „It’s 2017, I can‘t believe stuff like this would happen.“ og Reggie svarar: „Its almost like you and I attend two different schools.“327 Gabe virðist einnig upptekin af kynþætti fólks, til að

322 Petrine Archer-Straw, Negrophilia, bls 39. 323 Justin Simien, Dear White People, sería 2 þáttur 3. 324 Robin DiAngelo, White Fragility, bls 74. 325 Justin Simien, Dear White People, sería 2, þáttur 1. 326 Danielle Young, „Ericka and Ebony: Our Love is Not Complicit With The White System“ á vef The Root, 27. júní 2018, https://www.theroot.com/ericka-and-ebony-our-love-is-not-complicit-in-white-sy- 1827174424/ sótt 5. janúar 2020. 327 Justin Simien, Dear White People.

72

mynda sér hann Reggie sem ógn án nokkurrar ástæðu og í samtali við Joelle í annari seríu segir hann, þegar Joelle vill halda því leyndu að þau séu að hittast sem vinir: „What about me tells black women to hide me at all costs?“328 Í stað þess að gera ráð fyrir að ástæða leynimakksins sé að Joelle er besta vinkona Sam og vilji ekki særa hana gefur hann sér að ólíkur kynþáttur þeirra og hans sé ástæðan fyrir því að þær vilji ekki sjást með honum, en ekki af augljósum persónulegum ástæðum. Í viðtali Gabes við Reggie fyrir heimildarmyndina hans, sem Gabe þrýsti á Reggie til að birtast í þrátt fyrir að hafa sigað á hann lögreglunni og rænt hann þar með öryggistilfinningu sinni og geðheilsu, spyr Gabe: „So to the oppressive class, what’s the takeaway?“ og Reggie svarar: „You know what, if I’m being completely honest, I’m done seeing myself through other peoples eyes. I’m telling you what’s going on beneath my skin. That’s the takeaway. I don’t give a fuck about theirs.“329 Gabe vill að Reggie útskýri fyrir hvíta fólkinu svo það skilji og viti hvað rasismi er, þegar það væri kannski ekki úr vegi fyrir hina hvítu að glugga í sögubók eða lesa það sem hefur þegar verið skrifað um lifaða reynslu svarta. Það sem stendur upp úr í öllu þessu Gabe-máli er að Dear White People gagnrýnir ekki það sem hann er að gera. Hann fær lof fyrir að fara mýkri höndum um málefnið en Sam á meðan Sam er stöðugt gagnrýnd fyrir að skapa erfiðleika á meðan fólk klappar Gabe á bakið og finnst allt í lagi að hann hafi hringt á lögregluna. Þegar Sam á erfitt með að vera kærastan hans sökum kynþáttar hans ræður hann engan vegin við það hræðilega óréttlæti að vera dæmdur sökum kynþáttar síns. Enda er hvítt fólk vant því að þurfa ekki að hugsa um sig sem aðila af einum eða neinum kynþætti, þar sem hvítt hefur verið skilgreint sem normið, og allt sem er ekki hvítt er á einhvern hátt óeðlilegt eða rangt.330 Í báðum seríum fær Gabe heilan þátt um sig og þá erfiðleika sem fylgja því að vera hvítur og góður og er heimildarmyndin hans lofuð á kostnað vinnu Sam.331 Sam bendir þó sjálf á að hann sé að gera nákvæmlega það sama og hún, en hann er hvítur karlmaður og fær þess vegna lof fyrir. Svo virðist sem niðurstaða þáttarins sé að Gabe sé góður og frábær, þó hann sé í raun bara að nota svart fólk sem hann tekur viðtöl við til að þurfa ekki að vinna eigin rannsóknarvinnu. Hann, líkt og hvítu stelpurnar sem tilbiðja

328 Justin Simien, Dear White People. 329 Justin Simien, Dear White People. 330 Michael Eric Dyson, White Fragility, inngangur. 331 Justin Simien, Dear White People, þáttur 1 sería 2.

73

Coco, spyr fáránlega einfaldrar spurningar sem er auðvelt að finna svör við án þess að þvinga svart fólk til að mata allt ofan í hinn hvíta áhorfanda. Kurt Fletcher, stjórnandi tímaritsins Pastiche og aðalrasistinn úr seríu eitt fær líka hálfgerða uppreist æru, en hann veit núna að hann hagaði sér vitlaust og tók þátt í að stuðla að kúgun.332 Svo virðist sem þeir Kurt og Gabe, og þátturinn sjálfur vilji að þeir fái orðu fyrir að fatta að rasismi sé kannski til.

6.1 Hvít tár og hvítir bjargvættir Þegar Sam spyr Gabe „The first question has to be are you aware of your white savior complex?“ Segir Gabe einfaldlega: „I’m not gonna answear that.“ Og þar með er málið útrætt af hans hálfu og þáttarins, og Gabes sjálfs sem neitar svo algerlega að horfast í augu við að hann gæti verið þáttur af hinu hvíta valdakerfi að hann svarar ekki einu sinni spurningum eða veltir þeim fyrir sér ef þær eru honum ekki í hag, honum og þeirri mynd sem hann hefur byggt af sjálfum sér sem hinum góða hvíta manni.333 Samtal þeirra Sam og Gabe heldur áfram: Gabe: Is the culture awash with white savior narratives? Yes. Am I getting rewarded for doing the same thing as black people? Of course. I criticize that system constantly. Sam: While capitalizing on it. Gabe: All I did was have a conversation with our friend… Sam: Our? Gabe: I’m not allowed to be friends with Reggie? Sam: He’s not your friend he’s your subject. You realize you’re getting praise for doing exactly what my show does. Gabe: I’ve shouted out Dear White People in every piece. Sam: And somehow that’s worse. It just means you realize the similarity and you’re trying to cover your ass. Why make these shorts? No one is making you do this. Gabe: You don’t feel like people should hear a progressive message about race from a white person? Sam: I don’t believe people should exploit me and my friends for a grade. Gabe: I’m making art about what interests me.

332 Justin Simien, Dear White People, sería 2, þáttur 3. 333 Áhugavert er að líta á þetta hugtak um White Savior Complex, en samtökin No White Saviors sem starfar frá Kampala í Uganda hafa beitt sér fyrir því að stöðva þá útbreiddu skoðun hinna hvítu að svart fólk, og í þeirra tilfelli sérstaklega afrískt fólk, þurfi á hvítu fólki að halda sem bjargvættum.

74

Sam: You’re capitalizing on the fact that my message is more palatable coming from a person who looks like you. You’re Elvis. And I’m Chuck Berry. Gabe: So this is about recognition for you. Sam: No Gabe: And that’s fair. Black culture is mined for the benefit of white people. I agree with that. In fact I agree with you on all those issues that’s why I’m speaking out about them. Sam: And in return, reaping the rewards of the system you claim to be critiquing, a system that is not some distant separate thing, it is literally regular people, making decisions. Some decide to enable it and others don’t. Which one are you? Gabe: Wouldn’t silence be enabling it? Sam: There are ways to speak out that don’t scream look at me. Gabe: Your show is called Dear White People, here I am a white person who listens to you trying to weaponize my privilege in order to change things. Is that not what you’re hoping to accomplish? Sam: That’s not why you’re doing this you’re just doing this to get back at me.334 Þar með hefur Sam skotið sig í fótinn og hljómar eins og reið fyrrum kærasta, en það dregur úr þeim góðu punktum sem hún hafði í samtalinu við Gabe. Þrátt fyrir að þetta sé fullkomið tækifæri fyrir Gabe og áhorfandann til að skoða hegðun hans og hvað er vafasamt við hana, virðist þátturinn enn standa með honum. Margt sem hann segir fellur undir staðalmyndina um hinn hvíta bjargvætt, góða hvíta manninn, manninn sem heldur að gott fólk geti ekki verið rasistar og að það eitt að ýja að því að hann sé partur af valdakerfinu sé fáránlegt. Í stað þess að hlusta á svarta manneskju sem gæti gefið honum innsýn í hugarheim þeirra viðfanga sem hann segist vera að hjálpa með gjörðum sínum fer hann í vörn og neitar að hlusta. Gott dæmi um viðbrögð margra hvítu nemendanna við að heyra um rasisma, jafnvel þó það sé ekki verið að ásaka þau um hann persónulega, heldur hið hvíta valdakerfi, er í annari seríu. Þá eru nemendurnir í Amrstrong-Parker að horfa á sjónvarpið þar sem Carson, baráttumaður fyrir réttindum svartra, og Rikki Carter, Fox News fréttakona í anda Candice Parker335 rökræða. Carson: Societies vulnerable need safe spaces where they can thrive. Carter: A safe space does nothing but coddle people and put them in a victim mindset.

334 Justin Simien, Dear White People, sería 2, þáttur 8. 335 Svört kona sem vinnur fyrir Fox News og er hlutverk hennar aðallega að vera ósammála svörtu baráttufólki um réttindabaráttu svartra, sanngirnisbætur og að eitthvað sé að ríkjandi valdakerfi eins og það er.

75

Carson: Really? This entire country has been a safe space for the white and the privileged since its founding. Carter: So you’re saying we should forever be in a tit for tat because of what happened in the past? It’s regressive. Carson: Their past is our present, Rikki, and you know that. Okay why are you the highest paid person at Fox? Carter: You tell me. Carson: Because you’re a sideshow, that’s why. Alt-black woman defends alt-right. Why you think they pay the premium for it? Carter: So I’m well paid because Im black? Not because I’m talented? I thought you were for affirmative action. James: Where is the lie in what she said? Oh you don’t like her cause she disagrees with you Nemandi 1: I heard Carson was a hotep. Nemandi 2: No he supports women’s rights. He just hates Rikki. Hvít kona: Maybe I’m missing something but I kind of agree with her. Lionel: You might be missing the time when she advocated for white history month. James: Hey you’re taking her out of context. Clifton: Hey Reg, break it down for me. Isn’t she arguing for more diversity? Doesn’t she want us all to come together?336 Reggie: … for some of you people coming together means ignoring our experiences. Abigail: You people? Sam: Yes. You white people. It feels weird being reduced to a color, huh? Abigail: Yeah it does. Joelle: Some of us need our own space sometimes We’ve been through a lot we go through a lot. Carson: How many bestsellers are written about the white working class? Hm? They are the ones we need to protect. Now let their life expectancy and

336 Clifton, herbergisfélagi Reggies, lætur svartan mann útskýra fyrir sér án þess að vinna sína eigin vinnu.

76

income plummet to where black people have always been, but now they are in crisis. You know better than this Rikki. You do! Just address it!337

Skoðanir hvítu nemendanna sem búa í Armstrong-Parker House eru upp til hópa á andstæðum meiði við skoðanir svörtu baráttumannana sem búa þar.338 Vissulega eru einhverjir svartir nemendur sem eru einnig sammála Rikki Carter, enda reynir hið hvíta valdakerfi að telja öllum trú um að rasismi sé ekki til, ekki bara hvítum. Þrátt fyrir að hvítu nemendurnir séu sennilega að eigin mati alls ekki rasistar skortir þá samt ákveðinn skilning og raunsanna sýn á samfélagsástandið í Bandaríkjunum þegar kemur að kynþætti. Fræðikonan Rachel Elizabeth Cargle fjallar um þöggun bandarísks samfélag á kynþáttafordómum í grein frá 2018 sem hún titlar „How To Talk To Your Family About Racism on Thanksgiving“. Í upphafi greinar skrifar hún „Eitruð hugmyndafræði byrjar oft að mótast í kringum kvöldverðarborðið heima. Frændi segir rasískan brandara eða amma heldur því fram að útlendingahatur hennar sé bara hluti af hennar uppeldi. Þessar athugasemdir lita hvernig við tökum ákvarðanir á kjörstöðum, hvernig dómarar komast að niðurstöðum, hvernig kennarar kenna nemendum í skólastofum, hvernig fólk er ráðið til starfa og hvernig lögreglan tekur ákvarðanir og bregst við undir álagi.“339 Hún bendir þannig á að athugasemdir sem gætu virst smávægilegar og sakleysislegar lita skoðanir fólks, og þá sérstaklega hvíts fólks sem þarf ekki að upplifa rasisma á eigin skinni. Og þetta er ekki eingöngu vandi innan fjölskyldna heldur einnig í skólakerfinu. Cargle segir „Kynþáttur, þrælahald og neikvæðar hugmyndir um svart fólk: flestir velja að tala ekki um það. Sú hugmyndafræði að sópa þessum ljóta fæðingarbletti á amerískri menningu undir teppið hefur um langa hríð verið samþykkt aðferð til að „vernda“ nemendur í kennslustofum. En hverju erum við að vernda þá fyrir? Því málið er að nemendur sem læra ranga sögu verða svo að þeim sem semja lögin og stýra réttarkerfinu.“340 Hún skrifar að nýlegir atburðir í Washington, og á þá við rasisma sitjandi ríkisstjórnar hafi leitt fólk, og þá aðallega vinstrisinnað hvítt fólk, til að spyrja sig hvernig við enduðum eiginlega hérna. Cargle bendir á að óþægilegi sannleikurinn sé sá að við höfum alltaf verið hérna.

337 Justin Simien, Dear White People, sería 2 þáttur 10. 338 Robin DiAngelo, „The Good/Bad Binary“ í White Fragility. 339 Rachel Cargle, „How to Talk to Your Family About Racism on Thanksgiving.“ Af vef Harpers Bazaar, 21. nóvember 2019. https://www.harpersbazaar.com/culture/politics/a25221603/thanksgiving- dinner-conversation-how-to-talk-to-family-about-politics/ sótt 13. desember 2019. 340 Rachel Cargle, „How to Talk to Your Family About Racism on Thanksgiving.“ Af vef Harpers Bazaar, 21. nóvember 2019. https://www.harpersbazaar.com/culture/politics/a25221603/thanksgiving- dinner-conversation-how-to-talk-to-family-about-politics/ sótt 13. desember.

77

Hún skrifar „Sú Ameríka sem var stofnuð árið 1776 var hönnuð til þess að hjálpa ríkum hvítum mönnum sem komu sér fyrir á landi innfæddra sem þeir „fundu.“ Í dag sjáum við nútímabirtingarmyndir þessa sama feðraveldisviðhorfs sem hefur verið endurnýtt kynslóð eftir kynslóð, í kennslubókum.“341 Þegar kemur að því að kenna nemendum um lagalega sögu þrælahalds í stofnun landsins eru aðeins 52 prósent kennara sem nefna hana í skólastofum sínum. Eingöngu 53 prósent kennara kenna nemendum sínum um umfang þrælahalds utan við Suðurríkin. Eingöngu 54 prósent kennara ræða um áhrifin sem þrælahald hefur enn í dag á nútímasamfélag.342 Hún skrifar „Eitt er fyrir víst að það eru raunveruleg tengsl milli vaxandi rasískrar spennu dagsins í dag og skort okkar á að viðurkenna ljóta sögu landsins okkar – landsins sem er stofnað á morðum, útrýmingu, nýlendustefnu, þrælahaldi, aðskilnaðarstefnu og áframhaldandi kúgun á milljónum fólks sem er ekki hvítt.“343 Cargle heldur áfram og segir að hinn hvíti lesandi muni sennilega hugsa með sjálfum sér að hvít forréttindi (e. White privilege) hafi ekkert með hann að gera sem manneskju, en bendir á að hið hvíta valdakerfi og forréttindin sem fylgja því að vera hvítur í slíku samfélagi hafi áhrif á allt, bæði á kerfisbundinn hátt sem og á persónulegum nótum. Hún skrifar „Það tengist á allan hátt kerfisbundnum raunveruleika heimsins sem við lifum og hrærumst í. Heimi þar sem kynslóð eftir kynslóð kúgar svart fólk og hjálpar hvítu fólki af öllum samfélagsstigum. Þegar hvítt fólk afneitar hugmyndum um forréttindi með staðhæfingum eins og „En það var erfitt hjá mér líka“ kemur það málinu ekki við. Því sama hversu fátækur þú varst, sama í hvaða hverfi þú ólst upp, sama hvaða baráttu þú tengist, þú ert samt hvítur á meðan þú upplifir þetta mótlæti. Sem þýðir að samanborið við hvaða svörtu manneskju sem er sem lifir við svipaða lífsreynslu, græðir þú samt á jákvæðu viðhorfi samfélagsins til hvítrar húðar. Þú verður að átta þig á því að sama hversu „gott“ svart fólk er, sama hversu vel máli farin, hversu mikilli velgengni það nýtur, eða hversu vel menntað það er, þá er rasismi og ósanngjörn

341 Rachel Cargle, „How to Talk to Your Family About Racism on Thanksgiving.“ Af vef Harpers Bazaar, 21. nóvember 2019. https://www.harpersbazaar.com/culture/politics/a25221603/thanksgiving-dinner- conversation-how-to-talk-to-family-about-politics/ sótt 13. desember. 342 Rachel Cargle, „How to Talk to Your Family About Racism on Thanksgiving.“ Af vef Harpers Bazaar, 21. nóvember 2019. https://www.harpersbazaar.com/culture/politics/a25221603/thanksgiving-dinner- conversation-how-to-talk-to-family-about-politics/ sótt 13. desember. 343 Rachel Cargle, „How to Talk to Your Family About Racism on Thanksgiving.“ Af vef Harpers Bazaar, 21. nóvember 2019. https://www.harpersbazaar.com/culture/politics/a25221603/thanksgiving-dinner- conversation-how-to-talk-to-family-about-politics/ sótt 13. desember.

78

meðferð sökum húðlitar alltaf til staðar. Hvít forréttindi eru ekki nefnd til að niðra þig sem persónu, heldur til að minna þig á í hvernig heimi við búum í.“ 344

6.2 Trevor King: Þöggun hins svarta sjónarhorns Trevor King skýtur upp kollinum í fimmta þætti annarar seríu, þættinum um Joelle, sem ástarviðfang hennar. Framan af þættinum talar King um valdakerfi sem heldur svörtum niðri. Hann sýnir Joelle sögulega staði svartra nemenda Winchester og veit ýmislegt um sögu skólans sem sögumaður hefur verið að segja áhorfendum í byrjun þáttanna. Trevor segir: “When Winchester discovered its history was controversial they buried it.“345 Joelle fer með Trevor í Armstrong-Parker House, svörtu heimavistina, kallar Trevor hana „Pop- Woke“ sem er eitthvað sem þátturinn í heild hefur verið gagnrýndur fyrir að vera.346 Trevor er einnig jafn ósáttur við linkind aðalpersóna þáttarins, hinna svörtu akvívista, og virðist á sveif með þeim raunverulegu gagnrýnendum þáttarins sjálfs sem finnst Dear White People fara of mjúkum höndum um hinn hvíta áhorfenda og tilfinningar hans347. Allt sem Trevor segir er gott og gilt, en þátturinn lætur það ekki viðgangast því bæði getur hin dökka Joelle ekki náð sér í mann og þátturinn getur ekki stutt háværa rödd sem styður þá gagnrýni sem hann mætir. Joelle áttar sig mjög skyndilega á að Trevor er vafasamur, þegar hann segir henni að hún sé drottning sem eigi betra skilið. Hann er í framhaldinu afhjúpaður sem HOTEP348 og er á móti samkynhneigðum og ástarsamböndum svartra við hvíta, sem og kvenréttindum. Þar með verða skoðanir hans, meira að segja þær sem eiga rétt a sér, að engu því hann er augljóslega vond manneskja. En skoðanir Gabes og hvíta fólksins verða ekki fyrir sömu útskúfun frá þættinum. Trevor er skyndilega sýndur sem ofstækismaður, eins og þáttastjórnendur hafi áttað sig á að þeir hafi í smá stund gleymt að hugsa um tilfinningar hinna hvítu áhorfenda og passað sig í framhaldi að má út það sanna í því sem

344 Rachel Cargle, „How to Talk to Your Family About Racism on Thanksgiving.“ Af vef Harpers Bazaar, 21. nóvember 2019. https://www.harpersbazaar.com/culture/politics/a25221603/thanksgiving-dinner- conversation-how-to-talk-to-family-about-politics/ sótt 13. desember. 345 Justin simien, Dear White People, þáttur 5, sería 2. 346 Johnson, Jason. „Can We Talk About This Thing Bothering Me About Dear White People?“ af vef The Root, 5. Nóvember 2017. https://www.theroot.com/can-we-talk-about-this-thing-bothering-me- about-dear-wh-1795083865/ sótt 2. janúar 2020. 347 Johnson, Jason. „Can We Talk About This Thing Bothering Me About Dear White People?“ af vef The Root, 5. Nóvember 2017. https://www.theroot.com/can-we-talk-about-this-thing-bothering-me- about-dear-wh-1795083865/ sótt 2. janúar 2020. 348 Andfemínísk og hómófóbísk Black-Power hreyfing.

79

karakterinn hefur sagt áður.. Eftir að hafa skoðað sögu Bandaríkjanna er þó erfitt að sjá hvað í því sem Trevor segir, áður en því er snúið upp í eitthvað grín, er rangt. Jason Johnson segir um þessa tilhneigingu þáttarins til að virða hið hvíta sjónarhorn fremur en hið svarta:

„Gabe sem kyngerir Sam samstundis (með því að pósta mynd af henni eftir kynlíf á instagram), kann illa við að vera minnihluti í svörtum rýmum. Hann hringir á lögregluna því honum finnst honum ógnað sökum átaka svarts og hvíts nemanda í partýi, og krefst þess að Sam sýni honum meiri athygli sem kærasta á fundi sem er haldin til að veita Reggie stuðning eftir að hann var næstum myrtur af löggunum sem Gabe hringdi á. Sam nýtur hörundslitaforréttinda sinna án þess að velta þeim fyrir sér, sem veitir henni athygli svartra manna í skólanum, lýgur um sambandið við Gabe vegna þess að það gerir hana að hræsnara, setur sýnar eigin þarfir ofar öðrum og er sama um tráma Reggies. Í lokasenu fyrstu þáttaraðar, getur Sam ekki einu sinni svarað því hvers vegna hún er að mótmæla. Hún og Gabe eru lykilsamband þáttarins þegar kemur að rómantík. Ólíkt hegðunum Reggie, Coco, ogTroy sem er gert grín að, fá Sam og Gabe að gera það sem þau vilja án mikils mótlætis. Sú trú Sam að svartur aktívismi sé byrði er ekki eitthvað sem Joelle, Reggie eða neinn annar gagnrýnir. En eitthvað er þeirri trú gefið gildi því Gabe minnir hana stöðugt á að hún geti hætt að vera svört og verið bara með honum. Gabe er aldrei ávítaður af öðrum aðalpersónum fyrir neitt sem hann gerir, sama hversu slæmt sem það er. Tilfinningar hans eru álitnar jafn mikilvægar og upplifanir svarts fólks í þættinum, af hinum svörtu persónum í þættinum.349

Troy fær litla viðurkenningu og stuðning fyrir að geta ekki lengur verið virðingarverður svartur maður í augum samfélagsins og Sam er gagnrýnd manna mest á beinan hátt sem er þó ekki viðurkenndur. Joelle og Coco eru gagnrýndar á óbeinan hátt og þeim haldið niðri og femínískar konur eins og Brook og Abigail, sem og eina svarta hinsegin konan í þættinum, Kelsey, eru hafðar að háði og spotti.

349 Justin Johnson, á vef The Root: Gabe sexualizes Sam from the jump (posting her post-coitus pic on Instagram), privately resents being a minority in black spaces, calls the cops because he feels threatened by an interracial scuffle at a frat party, and publicly requests that Sam attend to their relationship at a meeting to comfort Reggie, who was almost killed by the cops whom Gabe called. Sam blithely basks in her color privilege, which gains her favor with men of color on campus, lies about a relationship that makes her a hypocrite, puts her needs above Reggie’s trauma and, in the climactic scene of the finale, can’t even explain the purpose of protesting. Sam and, to an equal extent, Gabe, the key relationship that runs throughout the show? Unlike Reggie’s, Coco’s or Troy’s behaviors, which are all poked fun at and are contrasted, Sam and Gabe run free, unchecked and unchallenged. Sam’s contention that black activism is burdensome is never challenged by Joelle or Reggie or anybody else on the show. If anything, it’s validated by Gabe constantly reminding her that she can opt out of her blackness by being with him. Gabe is never called out by the main characters for anything he does, no matter how egregious. His feelings are deemed just as important as the actual real-life experiences of black folks on the show. By. Other. Black. People

80

Trevor fær ekki þátt fyrir sig þar sem við sjáum hlutina frá hans sjónarhorni, þar sem hægt væri að útskýra hvers vegna hann hefur þessar skoðanir og vantreystir hvítu samfélagi svo mjög. Ekki að það þurfi sérþátt fyrir það, þátturinn hefur fram að þessu staðið sig ágætlega í að sýna óréttlætið sem svart fólk mætir daglega, en hann hefur þó sýnt hvernig hann fer með ljósari og hvítu persónurnar mýkri höndum en þær dekkri. Og rétt eins og Gabe er afsakaður fyrir sína vafasömu hegðun, sem og Troy sem kemur illa fram við alla en við afsökum það því hann er alinn upp undir pressu og er lítill í sér, en við sjáum ekki neina aðra hlið á Trevor. Það væri hægt að setja vafasamari skoðanir Trevors í samhengi, til dæmis fordóma hans gegn samkynhneigðum, sem er eitthvað sem hefur lengi verið ríkt í svörtu samfélagi og er eitthvað sem hægt væri að skoða frekar.350 En áhorfandinn er hvattur til að hunsa hugmyndir Trevors um hið hvíta valdakerfi og afskrifa hann sem gamaldags kjána sem skilur ekki baráttu kvenna og samkynhneigðra. Samt gerir þátturinn lítið úr femínisma og ekkert úr baráttu kvenna og aukajaðarsetningu. Samkynhneigðir eru aukapersónur, og kynhneigð þeirra og saga þess að vera hluti af minnihlutahópum hinsegin fólks og svartra er ekki skoðuð.

350 Damon Young „Hotep, Explained.“ Á vef The Root, 3. mars 2016. https://www.theroot.com/hotep- explained-1790854506/ sótt 21. mars 2020.

81

7 Lokaorð Saga Bandaríkjanna er flókin og margslunginn, en eitt sem gengur í gegnum hana eins og rauður þráður, frá tímum stofnfeðra hennar og til okkar daga eru kynþáttafordómar og samfélagsleg kúgun sem heldur svörtum niðri. Oft gleymist að líta á alla heildina þegar staða svartra í dag er skoðuð, auk þess sem oft gleymist að líta til þeirra ótalmörgu þráða kúgunnar sem vefa sér leið inn í svo gott sem allt í samfélaginu, frá formlegum stofnunum, til gamalla gilda, til menningar og fegurðardýrkunar og fjölskyldugerða. Hinir mörgu þræðir hins hvíts valdakerfis mynda saman búr. Því fjær sem þú ert því að vera gangkynhneigður hvítur karlmaður því erfiðara áttu uppdráttar, því aukajaðarsetning og samtvinnun mismunabreyta hefur gríðarleg áhrif. Femíníska fræðikonan Marilyn Frye skrifaði um kúgun sem fuglabúr. Hún skrifar:

Búr. Ímyndaðu þér fuglabúr. Ef þú horfir úr mikilli nálægð á aðeins einn vír í búrinu geturðu ekki séð hina vírana. Ef skilningur þinn á hvað þú ert að horfa á er ákvarðaður út frá þessu nána sjónarhorni, gætirðu litið á þennan eina vír og velt því fyrir þér hvers vegna fugl myndi ekki bara fljúga framhjá vírnum, burt. Í framhaldi, ef þú skoðaðir einn vír á dag með sömu nákvæmni frá sama sjónarhorni, myndirðu enn ekki sjá hvers vegna fugl myndi eiga í nokkrum vandræðum með að fara fram hjá vírunum og hvert sem hann vildi. Það er ekkert við vírana sem sýnir hvernig hver einstaki vír gæti skaðað fuglinn eða haldið honum föngum, jafnvel óvart. Það er engöngu þegar þú tekur skref afturábak, hættir að horfa á hvern vír fyrir sig eins og undir smásjá, og horfir á búrið í heild sem þú sérð hvers vegna fuglinn fer ekki neitt; og þá sérðu það um leið. Það tekur engar sérstakar gáfur, það er fullkomlega augljóst að fuglinn er umkringdur neti af kerfisbundið tengdum hindrunum, þar sem hver hindrun ein og sér gæti ekki haldið honum föngum, en þegar þeir eru settir saman í kerfi eru veggir þeirra jafn sterkir og dýflissa.351

Næstum ómögulegt er að skoða þátt eins og Dear White People sem fjallar um svarta í hvítu samfélagi á greinagóðan hátt án þess að kynna sér þessa ótalmörgu þræði sem saman loka persónurnar inni í misþröngum búrum kúgunar. Þátturinn reynir að kenna hvítum hluti en gangrýna má hann fyrir að ganga ekki nógu langt, og um leið þakka honum fyrir eitt og annað. Hinn sorglegi sannleikur er, eins og Sam sjálf bendir á, að áhorfendur eru líklegri til að hlusta á sömu skilaboð koma úr hvítum munni en svörtum, rétt eins og Gabe fær hrós en hún mótlæti. Þannig nær þátturinn kannski til einhverra hvítra áhorfanda, kannski er hann skrifaður fyrir hvíta og kannski er það þarft. Enn og aftur kennir svart fólk kúgurum sínum að sjá kúgunina og reynir að

351 Marilyn Frye „Oppression“ í Feminist Frontiers, ritstj. Vera Taylor, Nancy Whitier, Leila J. Rupp, McGraw-Hill Humanities, 8th Edition, Bandaríkin, 1983.

82

kenna okkur hvernig við getum bætt okkur. Enn og aftur þarf svart fólk að gefa af sér vinnu til að ala okkur upp, en má samt ekki ganga of langt, eins og Trevor því þá hættum við að hlusta. Eins og það að leyfa eingöngu ákveðna leið til að tjá sig (e. Tone Policing)352 á svörtum. Krafan er sú að hið kúgaða viðfang hagi sér eins kurteislega og mögulegt er, svo á það sé hlustað. Hið ljósa fólk og hið hvíta fólk stendur upp sem sigurvegarar á kostnað hinna dökku. Sterk svört sjónarhorn fá ekki að heyrast, hinn hvíti herra vill heyra um hvernig við eigum að lifa í sátt og samlyndi en ekki um hvernig hann gæti gert betur í framkomu sinni.353 Það að vera svartur og það að vera kona er hvort um sig að tilheyra hópi sem hefur verið beyttur valdi og er kúgaður. Innan beggja hópa eru háværar raddir um hvernig megi ná fram jafnrétti, sem og raddir sem halda því fram að jafnrétti hafi verið náð. Sumir halda því fram að til á fá virðingu og völd í heimi hvíta karlmannsins þurfi að spila eftir leikreglum hans. Innan femínismans eru ýmsir á því að þriðju bylgju femínismi, og póstfemínismi, séu á villigötum með því að nota til dæmis kynþokka, það sem hvítir karlmenn hafa ákveðið að sé kynþokkafullt sem valdeflandi tól.354 Sem kona þarftu að vera falleg, grönn, helst hvít og ung, til að ná frama og virðingu, rétt eins og Naomi Wolf bendir á sem tól til að halda konum niðri.355 Ferris og Young tala um að póstfemínismi sé hreyfing sem einblínir ekki á pólitíska baráttu,356 og höfundar The Illusion of Postfeminism segja „Postfeminism has never been defined. It remains the product of assumption.“357 Ta-Nehisi Coates segir að svipað eigi við um póstrasisma og heldur því fram að það sé í raun ekki neitt til með því nafni, það sé eingöngu lygi, rétt eins og hefur verið sagt um póstfemínisma – það sé enginn póstfemínismi því við lifum ekki á tímum jafnréttis.358 Virðingarpólitík er afurð póstrasisma og er lygi til að kenna svörtum um eigin kúgun. Coco er að reyna að nota tól hvíta mannsins til að komast áfram, eins og tól feðraveldisins um ásættanlegan kvenleika sem stjórna konum. Sam notar forréttindi sín

352 Tone Policing. Það að einbeita sér að því hvernig svart fólk talar fremur en að hlusta á það sem það er að segja. Þegar svartir, og þá sérstaklega svartar konur, trjá sig um óréttlæti á þeirra hlut er algengt að hinir hvítu neiti að hlusta og beri fyrir sig að aðilinn hljómi of reiður eða ókurteis, og beina athygli hllustandans þannig frá því sem hinn svarti aðili er að segja og gera lítið úr því. 353 Marilyn Frye, "Oppression", í Politics Of Reality – Essays In Feminist Theory, Crossing Press, Bandaríkin, 1983. 354 Naomi Wolf, The Beauty Myth, Vintage, New York, 1991, bls 10. 355 Naomi Wolf, The Beauty Myth, bls 10. 356 Vicki Coppock, Deena Haydon og Ingrid Richter, The Illusions of Post-feminism, Routledge, New York, 1995. 357 Suzanne Ferris og Mallory Young, Chick Lit: The New Woman’s Fiction, Routledge, New York, 2006, bls. 13. 358 Sarah Gable, „Postfeminism“ í The Routledge Companion to Feminism and Postfeminism, ritstj. Sarah Gable, Routledge, New York, 1998, bls 36.

83

til að gera lítið úr þeim sem hafa þau ekki; þó hún sé í baráttu við forréttindahóp er hún blind á sín eigin og á sama tíma eru þær báðar blindar á að sem konur standi þær höllum fæti í samfélagi karlmanna. Allir eru að nota verkfæri húsbóndans, meðvitað og ómeðvitað, í þeirri trú að það muni koma þeim áfram. En ef eitthvað mark er takandi á Audre Lord og Ta-Nehisi Coates er það barátta sem er dæmd til að falla um sjálfa sig.

84

Heimildaskrá

Alexander, Michelle. The New Jim Crow: Mass Incarceration in the Age of Colorblindness, The New Press, New York, 2012.

Andersson, Carol. White Rage, Bloomsbury Publishing, Bandaríkin, 2016.

Ansari, Aziz og Klinenberg, Eric. Modern Romance: An Investigation, Penguin Books, New York, 2016.

Archer-Straw, Petrine. Negrophilia: Avant-Garde Paris and Black Culture in the 1920’s, Thames and Hudson, London, 2000.

Belew, Katherine. Bring The War Home: The White Power Movement and Paramilitary America, Harward University Press, United States, 2018.

Bell, W. Kamau. The Awkward Thoughts of W. Kamau Bell, Random House LLC, New York, 2017.

Bhabha, Homi K. „The Other Question...“ í Twentieth-Century Literary Theory, ritstj. K. M. Newton, St. Martin’s Press, New York, 1997.

Bolton, Susan. „Voices from the Post-feminist Generation“ í The New York Times, 17 október 1982.

Coates, Ta-Nehisi, We Were Eight Years In Power: An American Tragedy. One World, New York, 2017.

Collins, Patricia Hill. Black Feminist Thought: Knowledge, Conciousness, and the Politics of Empowerment, Routledge, New York, 2000.

Collins, Patricia Hill. Black Sexual Politics: African Americans, Gender and The New Racism, Routledge, New York, 2004.

Coppock, Vicki, Haydon, Deena og Richter, Ingrid. The Illusions of Post-feminism, Routledge, New York, 1995.

85

Crenshaw, Kimberlé Williams. „Mapping the Margins: Intersectionality, Identity Politics and Violence against Women of Color“ í The Public Nature of Private Violence. ritstj. Martha Albertson Fineman, Rixanne Mykitiuk, bls 93-118, Routledge, New York, 1994.

Dabiri, Emma. Don‘t Touch My Hair, Penguin Random House, UK, 2019.

DiAngelo, Robin. White Fragility: Why It’s So Hard For White People to Talk About Race, Beacon Press, Bandaríkin, 2018.

Eddo-Lodge, Remi. Why I’m No Longer Talking to White People About Race, Bloomsbury Publishing, London, 2017.

Fanon, Frantz. Black Skin, White Masks. Richard Philcox þýddi. Grove Press, New York, 2008.

Ferris, Suzanne og Young, Mallory. Chick Lit: The New Woman’s Fiction, Routledge, New York, 2006.

Ferris ,Suzanne. „Fashioning Femininity in The Makeover Flick“ í Chick Flicks: Contemporary Women at the Movies, ritstj. Suzanne Ferriss og Mallory Young, 2008.

Forman Jr., James. Locking Up Our Own: Crime and Punishment in Black America, Farrar, Straus & Giroux, New York, 2017.

Foucault, Michel. „The Body of the Condemned“ (3 - 26) og „Panopticicm“ (195 – 202) í Discipline & Punish, Random House, N ew York, 1995.

Frye, Marilyn. „Oppression“ í Feminist Frontiers, ritstj. Vera Taylor, Nancy Whitier, Leila J. Rupp, McGraw-Hill Humanities, 8th Edition, Bandaríkin, 1983.

Frye, Marilyn. "Oppression", í Politics Of Reality – Essays In Feminist Theory, Crossing Press, Bandaríkin, 1983.

Gable, Sarah. „Postfeminism“ í The Routledge Companion to Feminism and Postfeminism, ritstj. Sarah Gable, Routledge, New York, 1998.

Gabriel, Deborah. Layers of Blackness: Colourism in the African Diaspora, Imani Media, London. 2007.

86

Genz, Stéphanie. „I’m Not a Housewife, but... Postfeminism and the Revival of Domesticity.“ í Feminism, Domesticity and Popular Culture, ritstj. Stacy Gillis og Joanne Hollows, Routledge, New York, 2009.

Glenn, Evelyn Nakano. Shades of Difference: Why Skin Color Matters, Stanford University Press, Stanford, 2009.

Guerrero, Lisa A. „Sistahs are Doin’ it for Themselves“ í Chick Lit: The New Woman’s Fiction, ritstj. Suzanne Ferris og Mallory Young, Routledge, New York, 2006.

Harris, Angela P. „From Color Line to Color Chart: Racism and Colorism in the New Century“ í Berkley Journal of African-American Law & Policy, Volume 10, Issue 1, Berkley, California, 2008. hooks, bell. Feminist Theory: From Margin to Center, South End Press Classics, Bandaríkin, 1984.

Jensen, Derrick. The Culture of Make Believe, Context Books, New York, 2002.

Jensen, Derrick. Walking on Water: Reading, Writing and Revolution, Chelsea Green Publishing Company, Vermont, 2004.

Kennedy, Tanya Ann. Historisizing Post-Discourses: Postfeminism and Postracialism in United States Culture, State University of New York Press, Albany, New York, 2017.

Jerkins, Morgan. This Will Be My Undoing: Living at the Intersection of Black, Female and Feminist in (White) America, Harper Perennial, Bandaríkin, 2018.

Jones-Rogers, Stephanie E., They Were Her Property: White Women as Slave Owners in the American South, Yale University Press, New York og London, 2019.

Jones, Trina, „Shades of Brown: The Law of Skin Color, Colorism Within the Black Community“, 49. Duke Law Journal, Duke, Bandaríkin, 2000.

Kristal, Tali, Cohen, Yinon og Navot, Edo. "Benefit Inequality Among American Workers by Gender, Race, and Ethnicity, 1982-2015" í Sociological Science. Bls. 461–488, Bandaríkin, 2018.

87

Lerner, Gerda. Black Women in White America: A Documentary History, Random House, New York, 1972.

Lerner, Gerda. The Creation of the Patriarchy (Women and History V.1) Osford University Press, Oxford og New York, 1986.

Loftsdóttir, Kristín. „Kjarnmesta fólkið í heimi: Þrástef íslenskrar þjóðernishyggju í gegnum lýðveldisbaráttu, útrás og kreppu.“ Ritið, 9 (2-3), 113-140, 2009.

Loftsdóttir, Kristín. (2009b). „Pure Manliness: The colonial project and Africa’s image in 19th century Iceland.“ í Identities: Global studies in culture and power, 16, bls 271-293.

Logan, Enid. At This Defining Moment: Barack Obama’s Presidential Candidacy and the New Politics of Race. New York UP, New York, 2011.

Lorde, Audre. „The Master’s Tools Will Never Dismantle the Master’s House“ í Sister Outsider: Essays and Speaches, Crossing Press, Bandaríkin, 1984.

Lorde, Audre. „Sexism: An American Disease in Blackface“ í Sister Outsider: Essays and Speaches, Crossing Press, Bandaríkin, 1984.

Losse, Kate. “Feminism’s Tipping Point: Who Wins from Leaning?” í Dissent Magazine, 26 March 2013.

Lott, Eric. Love and Theft: Blackface Minstrelsy and the American Working Class, Oxford Print, Oxford, 1993.

McMillan Cottom, Tressie. Thick and Other Essays, The New Press, New York, 2019.

Millet, Kate. Sexual Politics, Doubleday & Co., Bandaríkin, 1970

Morrison, Toni. Beloved, Alfred A. Knopf, Bandaríkin, 1987.

Negra, Diane. What a Girl Wants: Fantasizing the Reclemaition of Self in Postfeminism, Routledge, Bandaríkin og Canada, 2009.

Neiwert, David. Alt-America: The Rise of the Radical Right in the Age of Trump, Verso, London og New York, 2017.

88

Nkrumah, Kwame. Consciencism, Monthly Review Press, New York, 1965.

Oluo, Ijeoma, So You Want To Talk About Race, Seal Press, New York, 2018.

Peterson, Anne Helen, Too Fat, Too Slutty, Too Loud: The Rise and Reign of the Unruly Woman, Plume, New York, 2017.

Prince, Althea. The Politics of Black Woman’s Hair, Insomniac Press, New York, 2010.

Rae, Issa. The Misadventures of an Awkward Black Girl, Simon and Schuster Inc, New York, 2016.

Said, Edward. Orientalism, Pantheon Books, Bandaríkin, 1978.

Sapphire. Push, Alfred A. Knoopf, New York, 1997.

Trier-Bienniek, Adrienne. The Beyonce Effect: Essays on Sexuality, Race and Feminism, McFarland and Company Inc Publishers, North Carolina, 2016.

Vorenberg, Michael. Final Freedom: The Civil War, the Abolition of Slavery, and the Thirteenth Ammendment, Cambridge University Press, United Kingdom, 2004.

Wells, Juliette. „Mothers of Chick Lit?“ í Chick Lit: The New Woman’s Fiction, Routledge, New York, 2006.

West, Cornel. Race Matters, Beacon Press, Bandaríkin, 1993.

Wing Sue, Derald. Microaggressions in Everyday Life: Race, Gender and Sexual Orientation, John Wiley and Sons Inc., Bandaríkin, 2010.

Wolf, Naomi. The Beauty Myth, Vintage, London, 1991.

Wykes, Maggie og Gunter, Barrie. The Media and the Body Image: If Looks Could Kill, Sage Publications, London, 2005.

89

90

Netheimildir

Adam, Karla. „British radio host fired for racist tweet comparing Archie Harrison to a chimp.“ Á vef The Washington Post, 9. maí 2019. https://www.washingtonpost.com/world/2019/05/09/british-radio-host-fired-tweet-comparing-royal- baby-archie-harrison-chimp/ sótt 14. desember 2019.

Adejobi, Alicia. „Beyonce’s dad doubts she’d be a superstar if she was darker skinned as he addresses colorism in music.” Sótt þann 10. janúar 2020 af vef Metro UK: https://metro.co.uk/2019/06/19/beyonces-dad-doubts-superstar-dark-skinned- addresses-colourism-music-10015558/

Archer-Straw, Petrine. „Double-Edged Infatuation“ á vef The Guardian, 23. september 2000, sótt þann13. nóvember 2019 af: https://www.theguardian.com/books/2000/sep/23/features.weekend

Barnes, Henry. „Stonewall sparks boycott row after claims film whitewashes gay struggle“ á vef The Gueardian, 7. ágúst, 2015, sótt 13. febrúar 2020 af: https://www.theguardian.com/film/2015/aug/07/stonewall-boycott-claims-roland- emmerich-film-gay-whitewash-sylvia-rivera-marsha-p-johnson/

Cargle, Rachel Elizabeth. „How to Talk to Your Family About Racism on Thanksgiving.“ Af vef Harpers Bazaar, 21. nóvember 2019. https://www.harpersbazaar.com/culture/politics/a25221603/thanksgiving-dinner-conversation-how- to-talk-to-family-about-politics/ sótt 13. Desember

Cargle, Rachel Elizabeth. „How Racism and Patriarchy is Taught at Schools“ á vef Harper‘s Bazaar, 16. október 2018. https://www.harpersbazaar.com/culture/politics/a23732907/school-history- teaching-children-racism-patriarchy/ sótt 14. desember 2019.

Cargle, Rachel Elizabeth. „When Feminism is White Supremacy in Heels“ í Harper‘s Bazaar, 16. ágúst 2018, sótt þann 20. mars 2020 af: https://www.harpersbazaar.com/culture/politics/a22717725/what-is-toxic-white- feminism/

Chia, Jessica. „Ashley Graham is Tired of Being Told How to Feel About Her Body“ í Allure Magazine, 18. Júní 2019. https://www.allure.com/story/ashley-graham- cover-interview-2019

91

Coates, Ta-Nehisi. „American Girl“ á vef The Atlantic, febrúar 2009, sótt 4. desember 2017 af: https://www.theatlantic.com/magazine/archive/2009/01/american- girl/307211/

Coates, Ta-Nehisi „I’m not black I’m Kanye“ af vef The Atlantic, sótt þann 10. desember 2019 af: https://www.theatlantic.com/entertainment/archive/2018/05/im-not-black- im-kanye/559763/

Coates, Ta-Nehisi. “Inverse Nationalism: My response to Henry Louis Gates' argument against reparations” á vef The Atlantic, 26. apríl 2010, sótt þann13. desember 2019 af: https://www.theatlantic.com/national/archive/2010/04/inverse- nationalism/39463/

Coates, Ta-Nehisi. „This is How We Lost To The White Man: The Audacity of Bill Cosby’s Conservatism“ á vef The Atlantic, sótt þann 10. desember 2019 af: https://www.theatlantic.com/magazine/archive/2008/05/-this-is-how-we-lost-to- the-white-man/306774/ sótt 4. desember 2017.

Colbin, John og Grynbaum, Michael M. “Megyn Kelly’s ‘Blackface’ Remarks Leave Her Future at NBC in Doubt.” Af vef The New York Times, 25. október 2018. https://www.nytimes.com/2018/10/25/business/media/megyn-kelly-skips-today- blackface-nbc.html. Sótt 10. nóvember 2019.

Duggan, Paul. „Erected By Racists: Charlottesville Confederate Statues Still Stand – And Still Symbolize a Racist Legacy“ af vef The Gueardian, 10. ágúst 2019, sótt 14. desember 2019 af: https://www.washingtonpost.com/history/2019/08/10/charlottesvilles-confederate- statues-still-stand-still-symbolize-racist-past/

Escobar, Samantha. „13 Collage Parties That Prove Dear White People Wasn’t Exaggerating at All“ á vef The Gloss, sótt þann 19. nóvember 2017 af: http://www.thegloss.com/culture/dear-white-people-review-racist-college-parties- blackface-mexican-stereotypes/

Ifenyi, KC. „The Last Taboo: Will Smith, „Focus“ and Hollywood‘s Interracial Couples Problem.“ Af vef Fast Company, 3. Febrúar 2015. https://www.fastcompany.com/3043046/the-last-taboo-will-smith-focus-and- hollywoods-interracial-couples-problem/ sótt 10. febrúar 2020.

Jacobo, Julia. „West Virginia Mayor Resigns After Controversial Facebook Post About Michelle Obama“ á vef ABC News, 15. nóvember 2016, https://abcnews.go.com/US/west-virginia-mayor-resigns-controversial-facebook- post-michelle/story?id=43557844/ sótt 13. desember 2019.

92

Jerkins, Morgan. „Of Blackness and Beauty“ á vef Longreads janúar 2019. „The angle at which Degas chose to immortalize her arguably had been informed by race science at the time, which promoted the measurements of body parts to “prove” that those of certain races were less intelligent and more savage than others.“https://longreads.com/2019/01/16/of-blackness-and-beauty/ sótt 14. mars 2020.

Johnson, Jason. „Can We Talk About This Thing Bothering Me About Dear White People?“ af vef The Root, 5. Nóvember 2017. https://www.theroot.com/can-we-talk- about-this-thing-bothering-me-about-dear-wh-1795083865/ sótt 2. janúar 2020.

Lopez, German. Study: Anti-Black Hiring Discrimination is as Prevalent Today as it Was in 1989, af vef Vox, 18. september 2017. https://www.vox.com/identities/2017/9/18/16307782/study-racism-jobs Sótt 4. September 2019.

Laughland, Oliver. „Eric Garner: No Charges Against White Police Officer Over Chokehold Death“ á vef The Guardian, 16. júlí 2019. https://www.theguardian.com/us-news/2019/jul/16/eric-garner-death-new-york-no- charges/ sótt 12. febrúar 2020.

Lee, Felicia R., „To Blacks, Precious is Either „Demeaned“ Or „Angelic““ á vef The New York Times, 20. Nóvember 2009. https://www.nytimes.com/2009/11/21/movies/21precious.html/ sótt 23. febrúar 2020.

Luck, Adam. „Eartha Kitt was scarred by her failiure to learn the identity of her white father.“ Á vef The Gueardian, 19. október 2013. https://www.theguardian.com/music/2013/oct/19/eartha-kitt-suffered-over-identity/ sótt 10. janúar 2020.

McMillan Cottom, Tressie. „Brown Body, White Wonderland“ af vef Slate 29. ágúst 2013, https://slate.com/human-interest/2013/08/miley-cyrus-vma-performance- white-appropriation-of-black-bodies.html/ sótt 14. desember 2020.

Smith, Roberta. “A Long Overdue Look at Black Models of Early Modernism” á vef The New York Times, 1. nóvember 2018, https://www.nytimes.com/2018/11/01/arts/design/black-models-olympia-columbia- university.html/ sótt 4. nóvember 2020.

93

Saint-Louis, Catherine. „Black Hair Still Tangled in Politics“ á vef The New York Times, 26. ágúst 2009. https://www.nytimes.com/2009/08/27/fashion/27SKIN.html sótt 1. mars 2020.

White, Gillian B. „The Glaring Blind-Spot of the MeToo Movement“ á vef The Atlantic, 22. Nóvember 2017. https://www.theatlantic.com/entertainment/archive/2017/11/the-glaring-blind-spot- of-the-me-too-movement/546458// sótt 10. febrúar 2020.

Young, Damon. „Hotep, Explained.“ Á vef The Root, 3. mars 2016. https://www.theroot.com/hotep-explained-1790854506/ sótt 21. mars 2020.

Young, Danielle. „Ericka and Ebony: Our Love is Not Complicit With The White System“ á vef The Root, 27. júní 2018, https://www.theroot.com/ericka-and-ebony- our-love-is-not-complicit-in-white-sy-1827174424/ sótt 5. janúar 2020.

Viðtal: Dee Lockett. „Justin Simien and the Cast of Dear White People on Why Everything is a Risk“ á vef Vulture, http://www.vulture.com/2017/04/dear-white- people-netflix-interview.html sótt 15. nóvember 2017.

Viðtal: Vann R. Newkirk II, Adrienne Green, Gillian B. White og Ta-Nehisi Coates, „How Insightful is Dear White People?“ í The Atlantic, https://www.theatlantic.com/entertainment/archive/2017/05/dear-white-people- season-one-roundtable/526920/ sótt 15. nóvember 2017.

The Guardian „Beyoncé Unleases Black Panthers Homage at Supber Bowl 50“ 8. febrúar 2016 https://www.theguardian.com/music/2016/feb/08/beyonce-black-panthers- homage-black-lives-matter-super-bowl-50/ sótt 20. nóvember 2019.

Variety, https://variety.com/2019/music/news/mathew-knowles-beyonce-kelly-rowland- lighter-skin-tone-bias-1203247823/

The Economist https://www.economist.com/united-states/2019/04/06/the-black-white- wealth-gap-is-unchanged-after-half-a-century

Höfundar ekki getið „10 Celebrities Who Say They Aren’t Feminists.“ Af vef Huffington Post 12. ágúst 2013 https://www.huffpost.com/entry/feminist- celebrities_n_4460416?guccounter=1&guce_referrer=aHR0cHM6Ly93d3cuZ29vZ 2xlLmNvbS8&guce_referrer_sig=AQAAAKA6NN1bL2T7wQDXu53Cj6TzC- AqvCqtUxQoCXS3FgBoqtoJFtdFN3n5u5S8PS08lLMAHcA53N9M_NuFQyxOM BuxxdeOwNUBtibTyPyC2oEmvY5mcYE- 3OIzceHH2zjEkNV9HQ8WN4VVVMmHNVxiHPpID_hsQhafcp1eMy_PNUBy

94

Myndefni

Daniels, Lee. Precious: Based on the Novel “Push” By Sapphire. Bandaríkin, Lee Daniels Entertainment, Smokewood Entertainment, Harpo Films og 34th Street Films. 2009.

Duverney, Ava. 13th, Kandoo Films, Bandaríkin, 2016.

Rae, Issa. Insecure: 1-2 þáttaröð. Bandaríkin, HBO Entertainment, Issa Rae Productions, Penny For Your Thoughts Entertainment og Three Arts Entertainment. 2016-2017.

Rock, Chris. Good Hair. Bandaríkin, HBO Films, LD Entertainment og Nappy Productions. 2009.

Siebel Newsom, Jennifer. Miss Representation, Girls‘ Club Entertainment, United States, 2011.

Simien, Justin. Dear White People: 1. þáttaröð. Bandaríkin, Sister Lee Productions, Culture Machine, Code Red, Homegrown Pictures, Roadside Attractions og Lionsgate Television. 2017

Simien, Justin. Dear White People: 2. þáttaröð. Bandaríkin, Sister Lee Productions, Culture Machine, Code Red, Homegrown Pictures, Roadside Attractions og Lionsgate Television. 2017

95

Stephen Falk, You‘re The Worst, FX Productions, Bandaríkin, 2014-2019.

96