MA ritgerð

Miðaldafræði

Að gera eitthvað frábært en annar fær heiðurinn Vínlandsfarar í menningarlegu minni frá elstu heimildum til 1705

Bjarni Ólafsson

Júní 2021

SAGNFRÆÐI- OG HEIMSPEKIDEILD

Háskóli Íslands

Hugvísindasvið Miðaldafræði

Að gera eitthvað frábært en annar fær heiðurinn

Vínlandsfarar í menningarlegu minni frá elstu heimildum til 1705

Ritgerð til M.A.-prófs 30 ECTS

Bjarni Ólafsson Kt.: 3006943069

Leiðbeinandi: Sverrir Jakobsson Júní 2021

Ágrip

Rannsóknin snýr að Vínlandsförunum í menningarlegu minni frá miðöldum til ársins 1705. Raktar eru birtingarmyndir Bjarna Herjólfssonar, Leifs Eiríkssonar og Þorfinns karlsefnis í ritverkum tímabilsins. Sérstök athygli er veitt umtali um landafundina og skiptingu heiðurs, sérstaklega milli Bjarna og Leifs heppna. Auk þess verður stuttlega gerð grein fyrir tengslum Ólafs sögu Gunnlaugs Eiríks sögu rauða og Þorvalds þætti víðförla, en vegna þessara tengsla við Gunnlaug Leifsson munk í Þingeyrarklaustri, virðist líklegast að Eiríks saga rauða var skrifuð af aðila sem hafði greiðan aðgang að verkum hans og deildi markmiðum hans við söguritun. Ímynd Leifs heppna fór í gegnum miklar og áþreifanlegar breytingar á tímabilinu. Líklega var Leifur ekki þekktur sem kristniboði á 12. öld, það breytist á fyrrihluta 13. aldar og ímynd Leifs kristilegri. Á nýöld hygluðu fræðimenn afrekum Leifs fremur en Bjarna með orðavali sínu. Íslenskir fræðimenn 17. aldar áttuðu sig vel á tengslunum milli Ameríku og Vínlandsferðanna. Þessar upplýsingar voru þó aldrei settar í samhengi við tilkall til heiðurs fyrr en Þormóður skrifaði bók sína um Vínland. Hvergi er minnst á Bjarna Herjólfsson í varðveittum íslenskum miðaldaritum utan Flateyjarbókar. Söguþráður Vínlandssagnanna, heimsmynd miðaldamanna og lítil útbreiðsla Grænlendinga sögu höfðu áhrif á hve minning hans var fyrirferðalítil.

1

Abstract

This thesis studies the Vínland explorers in cultural memory, from the Middle Ages until 1705. It aims to analyze how the explorers Bjarni Herjólfsson, Leifur Eiríksson and Þorfinnur Karlsefni are presented throughout the period and how honor is divided between them, especially between Bjarni and Leifur. An observation on connections between the monk Gunnlaugur Leifsson, Þorvalds þáttur víðförla, Ólafs saga Tryggvasonar and Eiríks saga rauða is also briefly discussed and a case will be made that the author of Eiríks saga rauða had superb access to the literary work produced in Þingeyrar monastery. The image of Leifur goes through major changes in the medieval period. While Leifur is heavily associated with Christianity in the 13th and 14th century, clues in certain sources give us no reason to believe that this saga tradition was dominant in the 12th and early 13th century. Bjarni’s position in cultural memory was never strong due to factors related to the saga narrative, the medieval world view, and little influence of on other medieval sources. During the Modern period, writers tended to favor Leifur’s discoveries as more important compared to Bjarni’s, mostly with word chose and language.

2

Efnisyfirlit

Inngangur ...... 4 1 Hvað er menningarlegt minni? ...... 8 2 Miðaldaheimildir ...... 15 2.1 Miðaldaheimildir raktar...... 15 2.2 Hvað vitum við um Bjarna Herjólfsson?...... 39 2.3 Persónulýsingar og ættir ...... 41 2.4 Nafngiftir og landafræðikunnátta ...... 48 3 Nýöld ...... 52 3.1 Grönlandia Arngríms lærða ...... 52 3.2 Grænlandsannáll ...... 56 3.3 Thomas Bartholin og Johan Peringskiöld ...... 59 3.4 Þormóður Torfason og Historia Vinlandiæ ...... 60 Niðurstöður ...... 64 Heimildaskrá ...... 72

3

Inngangur

Meðal Íslendinga er Leifur heppni, vel þekkt persóna, helst fyrir það stórvirki að hafa fundið Ameríku um 500 árum á undan Kólumbusi (1451–1506). Afrek Leifs eru líka kunnug meðal erlendra söguáhugamanna, og er nafn Leifs oft það fyrsta sem kemur upp í umræðunni þegar þeir ólmir vilja sýna höfundi hve fróðir þeir eru um afrek víkinga. Það mætti segja að persóna Leifs heppna sé í dag söguleg táknmynd fyrir siglingarafrek norrænna manna, landafundi og sérstakrar tengingar Norðurlandana og Ameríku. Nútímaáhugamenn um fornsögurnar eiga nokkuð auðvelt með að flækja þessa einföldu hetjusögu af Leifi sem fyrsta fundarmanni Ameríku. Þar sem Bjarni Herjólfsson, samkvæmt Grænlendinga sögu, fann landið fyrst, en hann sigldi meðfram austurströnd heimsálfunnar og færði fréttir um þessi nýju lönd til Leifs heppna á Grænlandi. Ólíkt öðrum fræknum sögupersónum Vínlandsagnanna, á borð við Leif heppna, Eirík rauða, Þorfinn karlsefni og Guðríði Þorbjarnardóttir, hefur verið minni vilji til að halda minningu Bjarna Herjólfssonar sérstaklega á lofti. Ólíkt öðrum þekktum Vínlandsförum á Bjarni Herjólfsson sér engar styttur, minnisvarða og engir hátíðardagar eru tileinkaðir minningu hans. Engar flugstöðvar bera nafn hans eða mynd. Ekki heldur bækur, myndasögur, hótel, ölstofur, bjórtegundir, frímerki, söfn, verðlaun, teiknimyndafígúrur, textabútar bandarískra rapplaga, kaffibollar, hjólastígar, rokkalbúm og svo mætti lengi telja. Bjarni virðist vera, að minnsta kosti samkvæmt Vínlandssögunum tveimur, jafn líklegur og Leifur heppni til að hafa fundið Ameríku fyrstur norrænna manna. Samt hefur hann staðið að mestu utan við sviðsljós heimssögunnar. Ekki skal þó tala minningu Bjarna of mikið niður, hægt væri að tína saman nokkur dæmi þar sem henni er haldið á lofti, til að mynda í nöfnum íslenskra farartækja 20. aldar og síðustu tvo áratugi hefur honum verið meðvitað haldið á lofti sem bæjarhetju á Eyrarbakka. Það er þó ekki jöfn skipti ef minning hans er borin saman við Leif, eða jafnvel Guðríði og Þorfinn karlsefni. Ýmsir söguáhugamenn hafa tekið eftir þessu grimma ójafnvægi. Þar á meðal einn notandi vefsins Urban dictonary, sem er vefur þar sem notendur geta útskýrt eða skáldað upp slangur og nýyrði. Samkvæmt einum notenda vefsins væri hægt kalla einhvern „bjarni“ ef manneskjan: „gerir eitthvað frábært en annar fær

4 heiðurinn af því.”1 Þetta misvægi heiðrunar virðist sérstaklega áhugavert í ljósi þess að sagnfræðingar og aðrir áhugamenn í dag gætu fært afar gild rök um að Grænlendinga saga sé að minnsta kosti jafn óáreiðanleg /eða áreiðanleg um raunverulega atburði Vínlandsferðanna og Eiríks saga rauða. Eflaust mætti bera minningu Bjarna Herjólfssonar saman við Náttfara, sem á að hafa fylgt Garðari til Íslands og varð eftir við Skjálfanda. Þessi leiðangur Garðars á að hafa átt sér stað á undan Ingólfi, hinum viðurkennda fyrsta landnámsmanni. Náttfari naut þó ekki hylli sem fyrsti landnámsmaður Íslands fyrr en seint á síðustu öld. Ekki er hægt að segja að ævintýri Náttfara þyki sérstaklega traust í heimildum. Áhugavert er þó hvernig persóna Náttfara hefur orðið fyrirfarameiri á síðustu öld. Staða Náttfara sem hugsanlegur þræll í sumum heimildum hefur komið í veg fyrir að persóna hans gæti þótt virðingarverð og þannig hefur Ingólfur verið ákjósanlegri sem fyrsti landnámsmaðurinn. Með auknum stéttarstjórnmálum á 20. öld var aftur á móti hægt að hampa honum og benda á óréttlætið sem olli því að hann fékk ekki þann heiðurssess sem hann átti skilið.2 Einnig mætti bera Bjarna saman við geimfarann Michael Collins, sem sat í geimfarinu Columbia á sporbaug um tunglið á meðan Neil Armstrong og Buzz Aldrin stigu þar fyrst fæti. Nafn Collins er mun minna þekkt samanborið við hina tvo geimfarana. Samkvæmt báðum Vínlandssögunum á Leifur að hafa verið fyrstur til að lenda á Vínlandi, Þorfinnur karlsefni fetaði svo í fótspor hans á meðan Bjarni Herjólfsson varð eftir í skipinu þegar hann átti leið hjá. Aðrar persónur Vínlandssagnanna hafa gengið í gegnum tímabil tískusveiflna þar sem umfjöllun um þær minnkar og eykst eftir tímabilum. Guðríður Þorbjarnardóttir væri gott dæmi um slíkt og það var ekki fyrr en á 20. öld sem minningin um hana fór að ryðja sér til rúms.3 Tilgangur þessarar ritgerðar verður að rannsaka meðvitaða og ómeðvitaða hetjudýrkun fortíðarmanna á persónum Vínlandssagnanna. Ekki skal miskilja þemu ritgerðarinnar að hér sé verið að berjast fyrir áróðurskenndri söguendurskoðun með það markmið að koma minningu Bjarna Herjólfssonar fram í sviðsljósið. Svo Bjarni

1 Vef. Theurer, „bjarni“. Mín þýðing á: „A person that does something amazing but another gets the credit. An Icelandic slang named after Bjarni Herjólfsson , the first known european to site America, but Leif Ericksen and Chris Colombus get all the credit. [Seinna fylgir dæmi] Many think Milton wrote some of Shakespears plays and is a bjarni“. 2 Sjá: Gunnar Benediktsson, „Náttfari. Fyrsti landnámsmaðurinn“. Einnig má sjá: Vef. Helgi Þorláksson, „Hvers vegna hefur Náttfara ekki verið hampað sem fyrsta landnámsmanninum?“. 3 Sjá: Sigríður Helga Þorsteinsdóttir, Biskupsmóðir í páfagarði. 5 geti tekið sinn réttmæta sess í alþýðumenningu og túristabæklingum. Ekki er þó hægt að komast hjá því að það sé, að einhverju leyti áhugaverð og óhjákvæmileg hliðarafurð ritgerðarinnar, þar sem minning hans verður eitt áhersluatriða. Ritgerðin á að varpa ljósi á af hverju sumir fortíðarmenn verða að hetjum á meðan aðrir falla í skugga þeirra. Af hverju hefur Bjarni Herjólfsson fengið svo lítinn hróður samanborið við aðrar persónur Vínlandssagnanna, þá aðallega í samanburði við Leif Eiríksson. Má greina einhverja þróun í birtingarmyndum þessara persóna í menningarlegu minni frá elstu heimildum til ársins 1705? Það ár gaf Þormóður Torfason út bók sína Historia Vinlandiæ antiqvæ sive partis Americæ septentrionalis. Seinna fjölgar útgefnum ritum um Vínlandsferðirnar nokkuð og því hentar vel við að afmarka rannsóknina við þetta tímabil. Það er svo sannarlega ekki aðeins gjörðir þekktra persóna í fortíðinni sem skapa söguna og þá glansmynd sem skapast af persónum. Áhrif á mannkynssögunna er ekki einstefnugata þar sem fortíðin mótar sífellt samtímann. Samtíminn hefur jafn mikla möguleika á að endurrita fortíðina í sögu hverrar kynslóðar. Til að svara spurningunum um útdeilingu heiðurs er vert að fylgja umræðunni um Vínlandssögurnar frá elstu varðveittu handritum miðalda til samtímans. Athugað verður sérstaklega hvernig fjallað var um Leif heppna, Þorfinn karlsefni og Bjarna Herjólfsson. Guðríður Þorbjarnadóttur er fyrirferðarmikil persóna í Vínlandssögunum og raunar mikilvægari en Bjarni og Leifur fyrir gang söguþráðsins. Nú þegar hefur verið skrifuð meistararitgerð um Guðríði, út frá áherslum menningarlegs minni, svo ekki verður fjallað miklum þunga um hana. Í rannsókninni verða kenningar þýsku fræðimannanna Aleidu Assmann og Jan Assmann hafðar til hliðsjónar. Þau hafa verið fyrirferðarmikil síðustu áratugi á sviði minningarfræða og kenninga um menningarlegt minni. Þegar nálgunum tengdum menningarlegu minni er beitt af sagnfræðingum eru atburðirnir sjálfir ekki venjulega rannsakaðir, heldur er lögð áhersla á hvernig er minnst á umrædda atburði. Það verður því minningin um Vínlandsfarana og hvernig áhersluatriði þeim tengdum breytast í aldanna rás. Verður fjallað stuttlega um kenningar Aleidu og Jan Assmann í fyrsta kafla. Ekki verður komist hjá því að minnast á hve flókið það er í raun og veru að fjalla um heiðurinn sem fylgir því að uppgötva Ameríku og vafamál sem því gætu fylgt. Tvímælalaust væri réttast að segja að fyrsta fólkið til að finna Ameríku hafi verið fólkið sem hélt yfir Beringsund til Alaska. Ólíkir þjóðflokkar hafa komið þá leið 6

í nokkrum bylgjum síðustu 27.000 ár eða svo. Jafnvel meðal þessara þjóðflokka mætti segja að það hafa verið gerðar margar uppgötvanir. Hver og ein þessara bylgja þjóðflutninga fól í sér uppgötvun frá mismunandi sjónarhorni hvers þjóðflokks. Að sama skapi má segja að frá sjónahorni norrænna manna hafi Bjarni, Leifur og Karlsefni fundið Ameríku. Að auki frá sjónarhorni meginlands Evrópu má segja að Giovanni Cabot (d. um 1500) og Kólumbus hafi fundið Ameríku.4 Ef til vill mætti líka breyta kröfunum þannig að ekki er nóg að sjá löndin, og gera sér grein fyrir legu þeirra, heldur er nauðsynlegt að stíga þar fæti til að teljast réttmætur uppgötvari. Ef sú leið verður fyrir valinu er hægt að útiloka Bjarna úr keppninni. Á móti mætti spyrja hvort Galileo Galilei hafi ekki uppgötvað Satúrnus vegna þess að hann gekk þar aldrei um? Einnig má spyrja hvort orð eins og „uppgötvanir“ og „Ameríka“ eigi að beita af léttúð í samhengi norrænnar menningar á miðöldum, þar sem hvorugt orðið var til í hugum þeirra sem áttu í hlut og skrifuðu handritin. Í miðaldaritum er rætt um Vínland, og , eða eyjur nálægt Afríku í stað þess að nefna Ameríku. Orðtakið að „uppgötva“ fyrirfinnst hvergi í norrænum heimildum, heldur er sögnin „að finna“ mest notuð í samhengi við landafundi. Til að flækja málefnið enn frekar má taka með í reikninginn vitneskju meintra uppgötvunarmanna. Allir sem hafa verið nefndir hér fyrir ofan höfðu ekki hugmynd um hve stórtækar uppgötvanir þeirra voru í raun og veru, og að hér væri um að ræða stóra og einangraða heimsálfu. Enginn þjóðflokkur sem ferðaðist yfir Beringsund fyrir mörg þúsund árum hafði aðstöðu til að láta sig dreyma um hugmyndir á borð við heimsálfur, enda forgangsröðun þeirra fyrst og fremst að lifa af sem safnarar og veiðimenn. Sömuleiðis gátu Norðurlandabúar ekki gert sér í hugarlund að hér var um að ræða óþekkta heimsálfu heldur var talið í varðveittum ritum að Vínland væri einhvers konar útnári af Afríku. Á sama hátt taldi Kólumbus að hann hafi lent á afskekktum eyjum Asíu. Gamla heimsmynd Evrópumanna gerði aðeins ráð fyrir þremur heimsálfum: Evrópu, Afríku og Asíu, en tregi var til að víkja frá því kerfi.5 Með þessi ofangreindu atriði í huga væri hægt að færa markið svo að fyrstu fundarmenn Ameríku væru ekki þjóðflokkarnir sem gengu yfir Beringssund til Alaska, Leifur heppni eða Kólumbus heldur ítalski kortagerðarmaðurinn og landkönnuðurinn Amerigo Vespucci (1454–1512). Vespucci fær venjulega heiðurinn

4 Hugmynd tekin frá: Már Jónsson, „Sannleikar sagnfræðinnar“, bls. 446–448. 5 Sjá: Sverrir Jakobsson, „Vínland and wishful thinking: Medieval and modern fantasies“. 7 af því að vera sá fyrsti sem ritaði um þá hugmynd að hér væri um að ræða nýjan heim.6 En Vespucci kom hvorki fyrstur, annar né þriðji til Ameríku, hvort sem það væri frá sjónahorni norrænna manna eða suður Evrópumanna í kringum aldamótin 1500. Satt að segja er það mat þess sem hér skrifar að spurningin um hvar hinn „sanni heiður“ liggur fyrir að hafa uppgötvað Ameríku, sem fræðileg spurning er bæði gamaldags og gildishlaðin. Eins og sýnt hefur verið fram á hér má færa markið að vild þar til við fengin er sú niðurstaða sem telst ásættanleg. Engin áhersla verður lögð á þess konar mat hér í rannsókninni. Til að fara stutt yfir efnisskiptingu rannsóknarinnar. Þá mun í 1. kafla gert grein fyrir hugmyndafræðilegum bakrunni rannsóknarinar. Fjallað um kenningar um menningarlegt minni og stiklað verður á stóru um þróun kenningarinnar á 20. öld. Að lokum verður gert grein fyrir nálgun Jan Assmann og Aledia Assmann á menningarlegt minni sem mest verður stuðst við. Í 2. kafla verður fjallað um Vínlandsfaranna í miðaldaritum, birtingarmyndir persónanna í Vínlandssögunum sem og öðrum heimildum verða krufnar. Einnig verður fjallað um stöðu landafræðiþekkingar á miðöldum og rætt verður hvernig það kann að hafa haft áhrif á viðmót fólks til einstaka landkönnuða. Í 3. kafla verður umtal um Vínlandsferðirnar á nýöld til umræðu. Gerðar verða athuganir á hvernig fjallað er um landkönnuði og hvaða þættir kunna hafa legið að baki framsetningar á Vínlandssögunum á tímabilinu.

1 Hvað er menningarlegt minni?

Í rannsókninni verður stuðst við hugtökin menningarlegt minni (e. cultural memory) og sameiginlegt minni (e. collective memory) í tengslum við landkönnuði fyrri tíma. Hugtakið sameiginlegt minni var mótað af franska heimspekingnum og félagsfræðingnum Maurice Halbwachs (1877–1945) á 3. áratug síðustu aldar. Kenning Halbwachs var innblásin af hugmyndum samtímamanna hans. Hann dró lærdóm af heimspekingnum Henri Bergson (1859–1941) sem fjallaði um minni einstaklinga7 og kynntist hugmyndum um framvindu sameiginlegrar vitundar samfélaga frá félagsfræðingnum Émile Durkheim (1858–1917), sem var kennari

6 Mckay, Hill, Buckler og fleiri, A history of world societies, bls. 261 og 439–441. 7 Olick, „From collective memory to the sociology of mnemonic practices and products“, bls, 151–155. 8

Halbwachs.8 Í upphafi 20. aldar og eftir fyrra stríð jókst áhugi fræðimanna á því að rannsaka minningar einstaklinga og þjóða. Gera má ráð fyrir að afdrifaríkar minningar frá Stríðinu mikla hafi ýtt undir áhuga á að fást við þetta efni.9 Í dag hefur kenningin um sameiginlegt minni verið tekin upp inn í fræðaheiminn og innan greina á borð við sagnfræði, heimspeki, þjóðfræði, kvikmyndafræði, félagsfræði og sálfræði eru rannsóknir stundaðar þar sem kenningar um sameiginlegt minni eru hafðar til hliðsjónar. Sagnfræðingar, sem beita hugtakinu, leitast gjarnan eftir því að skoða hvernig minning fortíðar varðveitist, hvernig ólíkir hópar, á ólíkum tímum velja minningar til að halda á lofti og hvaða minningar eða atburði fortíðar hópar velja helst að tengja sjálfsmynd sína við hverju sinni.10 Ýmis dæmi eru um hvernig þessi atriði hafa breyst í tímans rás með samfélagsþróun, hentugleika og aðstöðu hópa. Þetta sameiginlega minni hópa samkvæmt Hallbwachs átti sérstaklega vel við fjölskyldur, trúarhópa og stéttir. Kenninguna er í raun hægt að yfirfæra á alla hópa sem upplifa tiltekna atburði sameiginlega, allt frá minnstu einingum, yfir í heilu þjóðirnar. Ólíkt einstaklingsminningum geta þessar sameiginlegu minningar flust á milli til fólks innan sama hóps, á milli kynslóða, og ef til vill tekið breytingum kynslóð frá kynslóð. Upprifjun og samtöl um minningar getur haft áhrif á aðra einstaklinga sem upplifðu sömu atburði, enda minningar ekki eins skorðaðar og fastar í sessi eins og margir halda þar sem ýmsir þættir geta haft áhrif á hvernig einstaklingar muna eftir fortíðinni. Sem dæmi má nefna að þeir sem upplifðu Heimaeyjargosið árið 1973 eigi sameiginlegar minningar um atburðina og skiptast á upplifunum sínum t.d. í formi samtals, texta og ljósmynda. Næstu kynslóðir Vestmannaeyinga myndu seinna upplifa Heimaeyjargosið, á vissan hátt, í gegnum minningar og túlkun foreldra þeirra af atburðunum, og þeirra börn á eftir þeim og svo framvegis. Þessi afmarkaði hópur á þá í þeim skilningi sameiginlegar minningar um þessa atburði, sem hefur áhrif innan hópsins. Ýmis atriði í kenningu Halbwachs um sameiginlegt minni voru enn þokukennd á fyrri hluta 20. aldar. Eins og hvernig afmörkun milli minninga einstaklinga og hópa væri hagað. Hópar í bókstaflegum skilningi geta auðvitað ekki átt samskonar líffræðilegt minni og einstaklingar. Ef manneskja miðlar minningum

8 Misztal, „Durkheim on Collective Memory“, bls. 123–124. 9 Þorsteinn Helgasson, „Minning sem félagslegt fyrirbæri. Fyrri hluti: Minning, saga menning“, bls. 78. 10 Þorsteinn Helgasson, „Minning sem félagslegt fyrirbæri. Fyrri hluti: Minning, saga menning“, bls. 76. 9 sínum er miðlunin nánast alltaf bundin í einhvers konar samhengi eða frásögn. Hver eru þá tengsl munnlegar sögu og sameiginlegra minninga? Er enn hægt að tala um sameiginlegar minningar þegar allir þeir sem upplifðu tiltekna atburði eru látnir? Margar af upphaflegu forsendum og niðurstöðum Halbwachs á fyrrefndum spurningum þykja nú barn síns tíma. Áhugi á sameiginlegu minni jókst aftur upp úr 1970, þar sem skrif franska sagnfræðingsins Pierre Nora (f. 1931) komu hugmyndum Halbawchs aftur inn í umræðuna. Meðal annars setti Nora upp ákveðnar andstæður milli sagnfræði og minninga, þar sem hin formfasta heimildabyggða sagnfræði er túlkuð sem tortímandi sameiginlegra lífrænni minninga, það er minningar óháðar sagnaritun. Með því að festa ákveðnar sögur í bækur í nafni fræðilegra vinnubragða þarf ekki lengur minnast þeirra á rótgróinn, hefðbundin og lífrænari hátt. Hin fræðilega skriflega saga tekur þannig yfir hina hefðbundnu leið sem hópar hafa munað sína sögu. Skrifum Nora fylgdi aukin áhugi fræðimanna sem gáfu sína sýn á ýmsar af þeim spurningum og gráu svæðum sem fylgja minningarfræðum.11 Samhliða hugtakinu um sameiginlegt minni hefur þróast annað hliðarhugtak sem nefnt hefur verið menningarlegt minni. Til eru ólíkar skilgreiningar á menningarlegu minni, en flestir taka undir að hér sé að ræða um menningarlega afurð sem verður til meðal hóps sem deilir tíma og stað. Í þessari rannsókn er verið að rannsaka hvernig minning fortíðarinnar hefur verið haldið uppi í tíma og rúmi og þykir því viðeigandi að skoða nánar menningarlegt minni. Kenningar hjónanna Jan Assmann og Aledia Assmann á sviði minninga verða notaðar til að veita fræðilegan bakgrunn. Assmann hjónin skipta minningum upp í þrenns konar flokka. Fyrst er það minni sem við öll könnumst við, líffræðilegt einstaklingsminni, sem við eigum sjálf út af fyrir okkur. Næst kemur samskiptaminni sem ræktað er í samræðum okkar við samtímafólk. Síðast en ekki síst kemur menningarlegt minni. Á öllum þessum stigum eru minnin opin kerfi, sem hægt er að hafa áhrif á. Þau eru þó ekki óendanlega opin, einstaklingurinn sjálfur þarf ávallt að finna einhverja tengingu við tiltekna minningu, þar sem tengingin er ekki til staðar er um að ræða þekkingu ekki minningu. Í stuttu máli má segja að minningar, í skilningi Jan Assmann, eru ávallt þekking með tengingu í sjálfsmynd, hvort sem það sé sjálfsmynd persónu eða hóps.12 Mikil skörun

11 Þorsteinn Helgasson, „Minning sem félagslegt fyrirbæri. Fyrri hluti: Minning, saga menning“, bls. 73–74. 12 Sjá: Assmann, „Communicative and Cultural Memory“. 10 var á milli þessara þriggja flokka að mati Assmanns og ekki hægt að setja upp jafn sterkar andstöður líkt og Nora gerði ráð fyrir. Jan Assmann áleit svo að bæði samskiptaminni (e. communicative memory) og menningarminnið tilheyrði sameiginlega minninu. Samskiptaminni er minni sem nær ekki lengra en manneskjur lifa, það er um það bil þrjár kynslóðir, eða um 80 ár. Samskiptaminnið er algengast að finna í spjalli milli fólks við hversdagslegar aðstæður. Þeir sem hlýða á minningar annarra munu síðar deila sínum eigin minningum og upplýsingar flæða greitt milli aðila, sem hefur áhrif á minni og vitneskju þeirra sem upplifðu sömu atburði og þá í kring sem upplifðu þá ekki. Hópurinn, sem á í þessum samræðum, gæti verið jafn lítill og fjölskyldueining, bæjarfélög eða upp í stærri hópa eins og heilar þjóðir. Samskiptaminnið er ekki formfast líkt og stakir textar, ljósmyndir eða staðlaðar athafnir eru, og á það því auðvelt með að taka skjótum breytingum.13 Þrátt fyrir sambærilega þætti, greindi Jan Assmann samskiptaminnið á milli munnlegrar sögu, enda getur munnleg saga varðveist lengur en 80 ár. Augljóst er þó að munnlegar söguhefðir hefjast ekki sjálfkrafa um 80 árum eftir að tilteknir atburðir eiga sér stað, er því vissulega einhver skörun á milli þessara flokka sem Assmann teiknar upp. Hið menningarlega minni má finna í dauðum hlutum eins og ritverkum, minnisvörðum, styttum, listum, stöðum og fleira í þeim dúr. Einnig leynist menningarminni í annars konar menningarafurðum eins og athöfnum, hátíðardögum, bendingum, munnlegum söguhefðum, ljóðum og fleira.14 Hlutverk menningarlegs minnis í samfélaginu getur til að mynda verið að skapa samstöðu meðal hópa eða þjóða. Vel er hægt að nota menningarminni í pólitískum tilgangi eða veita hópum eða stofnunum göfugleika með því að tengja við frækna fortíð. Menningarlegt minni mótast alltaf í samhengi við eigin tíma og stað og ber merki um ákveðna atburði eða sögu úr fortíðinni. Þessir atburðir eða föstu punktar fortíðar kallar Assmann minningarmörk (e. figures of memory). Minningarmörk, hugtak sem mætti að vissu marki einfalda í atburðir fortíðarinnar, atburðir sem minningar eru til um. Minningarmörkin hreyfast að sjálfsögðu ekki til í tíma. Atburðir fortíðar eða sköpun tiltekins texta verður ávallt bundið við sinn eigin tíma. Þessum

13 Sjá: Assmann og John Czaplicka, „Collective memory and cultural identity“. 14 Þorsteinn Helgasson, „Minning sem félagslegt fyrirbæri. Fyrri hluti: Minning, saga menning“, bls. 85. 11 minningarmörkum er hægt að gleyma eða halda á lofti. Þegar minningarnar um atburði eru rifjaðar upp fer oft fram endurmat (e. retrospective contemplation), þar sem skilaboð eða dómur um tiltekna atburði geta breyst í aldanna rás. Finna þarf þá aftur hvernig tiltekin atriði úr fortíð eiga erindi við breytta tíma og breyttrar sjálfsmyndir hópsins.15 Samkvæmt módeli Jan Assmanns fylgir menningarminnið ávallt staðlaðara formi samanborið við samskiptaminnið. Hér má þó nefna margar undantekningar að mínu mati. Munnleg saga gæti verið jafn breytileg, ef ekki breytilegri eftir að fólkið sem upplifði atburðina er ekki lengur til staðar til að leiðrétta tiltekin mistök. Það gefur sögumönnum mun meira pláss til að bæta við og færa í stílinn. Módel Assmanns getur þó átt vel við á ýmsa aðra vegu. Til að mynda eru ýmis listaverk, minnisvarðar og myndastyttur að mestu óbreytanleg. Ritverk miðalda veittu sögum aukna formfestu en auðvitað gátu textar oft tekið miklum breytingum og margir ritstjórar miðalda voru óhræddir við að breyta verkum sem þeir voru skrifuð upp eftir fyrirmyndum, eins og snert verður á hér í ritgerðinni. Menningarlegt minni skiptist einnig í flokka eftir virkni þess samkvæmt módeli Assmanns. Hópar minnast bæði virkt og hlédrægt. Virkt menningarlegt minni er hluti af viðurkenndri hefð (e. canon) og getur tekið mismikið pláss innan hefðarinnar. Virkar minningar eru ræddar til dæmis á borgargötum, í skólum, í nýútgefnum ritum, og í túristabæklingum. Aftur á móti eru hlédrægar (e. passive) menningarminningar og það sem þeim viðkemur, geymd á skjalasöfnum, gagnabönkum og í geymslum. Á sama hátt er hægt að gleyma minningum á virkan og hlédrægan hátt. Við virka gleymsku minninga er það gert viljandi, umræður um málefnið gætu verið ritskoðaðar, gerðar tabú, bækur og skjöl jafnvel eyðilögð. Óvirk gleymska er mun algengari og náttúrulegri, en þá er minningum glatað vegna vanrækslu.16 Bæði hópar og einstaklingar geta ekki munað allt, og er því náttúrulegt að hlutir gleymast, ef til vill af því að áherslur hins menningarlega minnis snúa að öðru. Enginn getur varðveitt fortíðina eins og hún var og alla þá atburði og minningar sem þar leynast. Eins og flestir átta sig á jafngildir sagan/sagnfræðin (e. history) ekki fortíðinni. Við sagnfræðingar erum í sífelldu að reyna að endurskapa nánast glataða og óendanlega fókna fortíð í hvert sinn sem við hugsum, ræðum og

15 Assmann, „Communicative and Cultural Memory“, bls. 117. 16 Sjá: Assmann, „Canon and archive“. bls. 97–107. 12 skrifum um hana. Kynslóðir verða í sífellu að endurskapa fortíðina með samtíma sinn sem viðmið og endurmeta þannig eldri sögur hópsins og skapa nýjar til að taka við af þeim eldri. Í þessu sífellda endurmati er ákveðið hvaða minningum skal halda á lofti, hverju skal bæta við, hvað skuli bælast og hverju skal gleyma. Dæmi um þetta geta verið viðmót og áherslur sem birtist í sagnfræðiritum sem er ávallt hluti af menningarlegu minni og rit taka augljóslega mið af þeim tíma sem þau voru prentuð/skrifuð, rétt eins og aðrar menningarminningar. Jafnvel sérfræðingar fortíðarinnar, sagnfræðingar og fornleifafræðingar, geta ómögulega tekið hlutdrægni samtímans fyllilega úr sambandi þegar skrifa á um fortíðina. Öðrum leikmönnum sem gera fortíðina að umhugsunarefni sínu fylgir sami baggi. Ef við flytjum umræðu um menningarlegt minni yfir á Vínlandsferðir fortíðarinnar þá myndi samræðuminnið aðeins eiga heima hjá þeim sem upplifðu atburðina á þeim tíma sem landkönnuðirnir voru á lífi. Eftir það tekur menningarminnið við, fyrst í gegnum munnlegar frásagnir af ferðum þeirra, og seinna í skriflegu formi. Þessar sameiginlegu minningar, séðar frá okkur í nútímanum, tóku breytingum á öllum þessum fyrstu stigum. Fyrst á samræðustiginu, þar sem minni gat reynst breyskt, stolt gat þvælst fyrir og sagan orðið ýktari. Seinna þegar frásagnir af Vínlandi rata inn á vettvang munnlegrar sögu, og miðlaðar af fólki sem ekki átti þátt í atburðunum, eru frásagnirnar orðnar hluti af menningarlegu minni. Venjulega er álitið, í samhengi norrænna fornsagna, að munnlegar hefðir hafi ekki verið algjörlega formfast frásagnarform. Hæglega má ímynda sér að munnlegar frásagnir taki auðveldlega breytingum og þróast með samfélaginu sem man þær. Einnig má ímynda sér að breytingar urðu tíðari eftir að vitni um tiltekna atburði voru ekki lengur til staðar til að leiðrétta frásögnina eða móðgast vegna ósannra efnistaka. Á sama tíma mætti telja þemu munnlegra frásagna sem fyrsta stig formbindingar menningarlegs minnis, þar sem ákveðin þemu geta þróast í að verða ómissandi hluti af munnlegri frásögn. Þessi þemu má finna með því að bera saman Vínlandssögurnar tvær, en hér verður stuðst við tilgátu Ólafs Halldórssonar, en hann telur að sögurnar hafi verið ritaðar niður óháðar hvor annarri út frá munnlegum hefðum. Nú á það ekki aðeins við um augljós þemu, líkt og að Þorfinnur karlsefni heimsækir Vínland. Heldur gæti þetta verið þemað í kringum til dæmis griðunginn sem vekur upp ótta meðal skrælingja. Þetta atriði má finna í báðum Vínlandssögum en 13 er útfært á ólíka vegu. Í Grænlendinga sögu var griðungurinn látinn fara fyrir liði Karlsefnis þegar orrusta við skrælingjana virtist óumflýjanleg og gefið í skyn að skrælingjarnir hræddust dýrið. Á meðan í Eiríks sögu rauða er það griðungurinn sem riðst fram úr rjóðri, vekur upp ótta skrælingjana og bindur enda á vinsamlega kaupstefnu, sem að lokum leiðir til orrustu. Annað atriði gæti verið kraftmikill persónuleiki Freydísar Eiríksdóttur sem er settur upp sem andstæða hinnar prúðu Guðríðar, en þessi persónueinkenni eru í einni sögunni til ills og í annarri til góðs. Þessi þemu munnlegrar sögu hafa trúlega í fyrstu þótt eftirminnileg og seinna ómissandi þar sem þessi atriði hafa passað vel með öðrum þáttum sögunnar. Sum önnur efnisatriði, sem sögurnar eiga sameiginlegt, bera þess augljós merki um að vera viðbót sem gerð var afar seint í ferlinu. Dæmi um slíkt væri spádómur Guðríðar og göfugleiki ættar hennar. Í síðasta kafla í báðum Vínlandssögunum voru ættir eftirfarandi biskupa reknar til Snorra Þorfinnssonar: Þorlákur Runólfsson Skálholtsbiskup (1118–1133), Björn Gilsson Hólabiskup (1147–1162) og Brandur Sæmundsson Hólabiskup (1163–1201). Annað hvort getum við dregið þá ályktun að fólk til forna hafi búið yfir yfirnáttúrulegri hæfni til að spá fram í tímann, eða að spádómurinn um göfugleika ættar Guðríðar sé ekki eldri en vígsla umræddra biskupa. Vínlandssögurnar hafa varðveist í þremur handritum frá miðöldum, það er Hauksbók, Flateyjarbók og Skálholtsbók. Þegar hér er komið við sögu getum við í nútímanum verið viss um að Vínlandssögurnar sjálfar og vitneskja þeirra um Bjarna, Leif og Þorfinn gátu ekki tekið breytingum lengur. Þessar yngri menningarminningar grófu undan þörf fyrir að muna eldri munnlega sögu og féll hún í vanrækslu, og á endanum, í varanlega gleymsku. Í raun mætti segja að hugtakið sem Jan og Aleida Assmann kalla minningarmörk eigi jafn vel við Vínlandssögurnar eins og atburði Vínlandsferðanna. Þar sem Vínlandssögurnar tvær eru að mestu formfastar, óbreytilegar og í þær sækja hópar sem túlka og nýta þær á þann hátt sem hentar hverju sinni. Sjálfar Vínlandsferðirnar eru auðvitað löngu liðnar, gleymdar og óbreytanlegur hluti fortíðarinnar. Þegar við viljum vísa í atburði landkönnunar í kringum árið 1000 er raunar alltaf fyrst og fremst leitað í Grænlendinga sögu og Eiríks sögu rauða, ásamt öðrum heimildum sem eru þó af skornum skammti. Þannig á vissan hátt eru Vínlandssögurnar á sama tíma bæði minningarmörk og menningar minningar.

14

2 Miðaldaheimildir

2.1 Miðaldaheimildir raktar Elsta ritaða heimild um landafundi norrænna manna í Norður-Ameríku er komin frá Adam af Brimum, en í landalýsingu fjórðu bókar hans um sögu erkibiskupsdæmi Hamburg-Bremen, sem samin er á seinni hluta 11. aldar, er minnst á Vínland. Þar ræðir Adam meðal annars um stöðu Íslands, Norður-Noregs og Grænlands. Í landalýsingu hans er sagt að Noregur sé nyrsta byggða ból og norðar er ekkert að finna nema það úthaf sem umlykur alla veröldina. Út frá Noregi er að finna ýmsar eyjur, þar á meðal Thule, sem Adam segir að sé nú kölluð Ísland. Grænland er í riti hans talin eyja og er landfræðileg lega hennar sett í samhengi við fjöll Svíþjóðar, þ.e.a.s. að Grænland standi upp úr hafinu í vestri, til móts við fjöll Skandinavíu í austri. Þessi lýsing virðist kannski langsótt til að skýra landafræðilega stöðu Grænlands en hún er að miklu leyti rétt. Enda er suðuroddi Grænlands á um það bil sömu breiddargráðu og Osló. Þriðja eyjan er Hálogaland, en hér hefur Adam gert mistök að telja hluta Norður-Noregs aðskilin meginlandinu. Síðasta eyjan sem hann nefnir er eyjan Vínland. Þar segir: „Það heitir Vínland vegna þess að þar vex villtur vínviður sem framleiðir gott vín. Það vex líka ósáið korn á þessari eyju.“ Þetta er allt og sumt sem Adam hafði að segja um landkosti Vínlands. Hann nefnir ekki hverjir uppgötvuðu landið, en hann heldur áfram og segir að ef haldið sé lengra en Vínland sé þar ekki að finna neitt land sem henti búsetu, og hafið þar væri fullt af ís og myrkri. Heimildarmaðurinn sem Adam nefnir varðandi þessa lýsingu af eyjum Atlantshafsins er Sveinn Ástríðarson Danakonungur (f. 1019 – d. 1076).17 Ætla má að Danakonungur hafi haft góða aðstöðu til að fá fréttir frá Norður-Atlantshafi, annað hvort með milligöngu Íslendinga, Norðmanna eða beint frá Grænlendingum. Íslendingabók Ara fróða (1068–1148) er rituð á fyrri hluta 12. aldar og er því elsta íslenska ritið þar sem minnst er á Vínland. Aðeins var þar talað um Vínland í framhjáhlaupi, í sömu andrá og rætt var um landnám á Grænlandi. Í Íslendingabók segir:

17 Mín þýðing á enskri þýðingu bókarinnar: History of the archbishops of Hamburg-Bremen, bls. 219. Upphaflegi textinn var skrifaður á latínu hann má finna hér: Sverrir Jakobsson, „Vínland and wishful thinking: Medieval and modern fantasies“, bls. 495. „quae dicitur Winland, eo quod ibi vites sponte nascantur, vinum optimum ferentes. Nam et fruges ibi non seminatas habundare non fabulosa opinione.“ 15

Þeir fundu þar manna vistir bæði austr ok vestr á landi ok keiplabrot ok steinsmíði þat, er af því má skilja, at þar hafði þess konar þjóð farit, er Vínland hefir byggt ok Grænlendingar kalla Skrælingja. […] at því er sá talaði fyr Þorkeli Gellissyni á Grænlandi, er sjálfr fylgði Eiríki inum rauða út.18

Í raun virðist það yfirhöfuð tilviljun að minnst var á Vínland í Íslendingabók en það var gert til að útskýra uppruna þeirra heimskautaþjóðar sem skildi eftir sig minjar á Grænlandi. Þessi tenging er rökrétt miðað við þá tilfinningu sem Íslendingar höfðu fyrir kynþáttum vestanhafs. Einnig fyrirbyggir þetta allan misskilning að lesandi gæti haldið að minjarnar sem norrænir menn fundu á Grænlandi kunni að hafa komið frá Evrópubúum, á borð við írska papa sem áður voru nefndir. Þetta er afar áhugaverð heimild um bæði Vínland og Grænland á marga vegu ef hún er sett í samhengi við fólksflutninga til og frá Grænlandi.19 Hvernig sem þekking Ara fróða á heimskautaþjóðum var fengin þá má draga þá ályktun á þessu innskoti að munnlegar frásagnir af Vínlandi hafi verið þekktar á Íslandi þegar Íslendingabók var rituð. Því annars hefði innskotið um þess konar þjóð „er Vínland hefir byggt ok Grænlendingar kalla Skrælingja“ kallað á mun ítarlegri skýringar. Vínlandsfarar voru ekki nefndir í Íslendingabók og ekki heldur var minnst á meintan þátt Leifs og Ólafs Tryggvasonar um kristniboð á Grænlandi (sem segir frá í Kristni sögu, Ólafs sögu Tryggvasonar og Eiríks sögu rauða). Það er þrátt fyrir að strax í næstu línu sé landnámi á Grænlandi lýst og nefnt að Ólafur Tryggvason hafi komið kristni á í Noregi og Íslandi, en trúboðinn Þangbrandur er nefndur í því

18 Íslenzk fornrit I, „Íslendingabók“, bls. 13–14. 19 Manna vistunum sem þarna er lýst tilheyrðu kannski Dorset menningunni, en Fyrri-Dorset menningin hvarf frá Grænlandi í kringum Kristsburð. Landnám Seinni-Dorset menningarinnar var um 100/150 árum áður en Eiríkur rauði nam þar land, en sú þjóð var umsvifamest á norðvestur horninu og var það við landnám Eiríks rauða helsta byggða bólið á Grænlandi. Vel mögulegt er að fyrstu kynni Evrópumanna af þjóðflokkum Norður-Ameríku hafi ekki orðið á Grænlandi, eins og náttúrulegt væri að halda, heldur á meginlandi Norður-Ameríku. Inúítar sem enn byggja Grænland komu ekki til Grænlands fyrr en á tímabilinu 1200–1300 e.Kr. en líkt og aðrar þjóðir Norður-Ameríku voru þeir kallaðir skrælingjar. Inúítarnir áttu svo eftir að binda enda á veru Seinni-Dorset þjóðarinnar á Norðvestur-Grænlandi. Afar erfitt er að segja með fullri vissu að Norrænir menn kynntust fyrst hinnum svo kölluðu „skrælingjum“ á meginlandi Norður-Ameríku fremur en á Grænlandi. Heimildir eru fyrir því í Historia Norwegiae að norrænir menn urðu á endanum kunnugir Dorset þjóðinni á Grænlandi, þótt þær upplýsingar hefðu kannski ekki skilað sér til Ara fróða. Kannski mat Ari fróði málefnið svo að betra dæmi um skrælingja væri ekki lítt þekkt skrælingjaþjóð á Norðvestur-Grænlandi heldur væru það skrælingjaþjóð Vínlands sem þorri fólks hafði fengið að kynnast í gegnum munnmælasögum. Ari fróði kunni að hafa heyrt eitthvað um skrælingja þjóðir á norðurhluta Grænlands þegar Íslendingabók var skrifuð, en vegna þess að skrælingjaþjóð Vínlands var ofar í hugum fólks var það betri samlíking. Vel má vera að þetta sé langsótt hugmynd og einfaldasta/líklegasta útskýringin væri sú að Ari fróði, ólíkt riturum Historia Norwegiae, hafi ekki verið kunnur tilvistar Seinni-Dorset þjóðarinnar á Grænlandi. 16 samhengi.20 Athyglisvert er að bera saman þessa hluta Íslendingabókar við Historia Norwegiae, sem samin var á seinni hluta 12. aldar, en þar var talað um norræna byggð á Grænlandi og að fyrir norðan hana búi heiðingjar sem minni á dverga. Engin annar þjóðflokkur en Dorset fólkið kemur hér til greina, þar sem þjóðflokkur Inúíta var ekki sestur að á Grænlandi þegar heimildin var skrifuð. Í Historia Norwegiae segir:

Þetta land, uppgötvað, numið og fært til kaþólskrar trúar af Íslendingum, markar vestri mörk Evrópu, og snertir næstum eyjarr utan við Afríku, þar sem úthafsstraumar streyma inn. Lengra norður af Grænlendingum hafa veiðimenn rekist á dverga sem þeir kalla skrælingja.21

Líklega tilheyrði Vínland þeim eyjum sem liggja nálægt Afríku í þeirri þriggja heimsálfu heimsmynd sem fræðimenn miðalda felldu landafundi Grænlands og Vínlands inn í.22 Í Historia Norwegiae var hvergi minnst á fundarmenn Vínlands eða Vínland sjálft. Ekkert var minnst á Leif sem kristniboða heldur var þar sagt að Grænland hafi verið fært til kristni af Íslendingum.23 Í varðveittum Landnámugerðum koma persónur Vínlandssagnanna fyrir á nokkrum stöðum. Ari fróði er talinn aðal höfundur bæði Íslendingabókar og frumgerð Landnámabókar. Öll frumrit hans eru glötuð og eftir standa nokkrar ólíkar Landnámugerðir sem allar eru misbreyttar og viðbættar. Styrmisbók elsta Landnámugerð hægt er að einhverju leyti hægt að gera grein. Styrmisbók var samin líklega í kringum árið 1220 af Styrmi fróða Kárasyni (d. 1245). Texti hennar er þó glataður en fræðimenn síðustu alda hafa lagt mikið kapp í að vita meira um hvað þar stóð frá tengdum varðveittum Landnámutextum sem ritaðir voru upp í mismiklu marki eftir Styrmisbók. Almennt er talið að Melabók hafi staðið Styrmisbók næst og í henni má finna þann texta sem stóð hvað næst Styrmisbók. Melabók dregur nafn sitt af Melamönnum, en ættartölur þeirra eru raktar í bókinni, talið er að þeir hafi ritað hana á fyrri hluta 14. aldar. Úr Melabók eru aðeins til fáein blöð og virðist sem hlupið er yfir orð og kafla í henni. Getur því verið strembið að bera saman Melabók við betur

20 Íslenzk fornrit I, „Íslendingabók“, bls. 14. 21 Historia Norwegie, bls. 54–55. Mín þýðing á ensku þýðingunni en enska textann má finna í sama riti. Latneski texti Historia Norwegie segir: „Que patria a Telensibus reperta et inhabitata ac fide catholica roborata terminus est ad occasum Europe, fere contingens Affricanas insulas, ubi inundant occeani refluenta. Trans Viridenses ad aquilonem quidam homunciones a uenatoribus reperiuntur, quos Screlinga appellant.“ 22 Sjá: Sverrir Jakobsson, „Vínland and wishful thinking: Medieval and modern fantasies“. 23 Historia Norwegie, bls. 54–55. 17 varðveitta texta Sturlubókar og Hauksbókar. Sturlubók var sett saman af Sturlu Þórðarsyni (d. 1284) byggði að einhverju leiti á Styrmisbók en tók líka inn efni úr ýmsum öðrum áttum. Er því erfitt að vera viss um hvaða atriði Sturlubókar byggi á glataðri Styrmisbók. Haukur Erlendsson lögmaður (d. 1334) byggði svo Landnámu Hauksbókar (samin 1302–1310) á bæði Sturlubók og Styrmisbók.24 Í bæði Landnámu Sturlubókar og Hauksbókar var landnám Grænlands til umræðu og hafa þær klausur greinilega rittengsl við þá texta sem fylgja bæði upphafi Grænlendinga sögu og upphafi Eiríks sögu rauða. Þar var rætt um atburði sem einnig koma fram í Eyrbyggjasögu þar sem setstokkar verða að deiluefni. Þar á eftir ræða Sturlubók og Hauksbók um skipaflota landnámsmanna Grænlands og þar á eftir kom Herjólfur Bárðarsson, faðir Bjarna til sögu, einnig tilurð Hafgerðardrápu sem fylgir með Grænlendinga sögu. Bjarni Herjólfsson sjálfur var hvergi nefndur í Landnámu, aðeins ættingjar hans. Auk Herjólfs voru handfylli annarra landnámsmanna Grænlands nefndir, sem og Þorkell farserkur, systrungur Eiríks rauða, en hann byggði Hvalseyjarfjörð. Leifur er nefndur og er sagður taka við búi í Bröttuhlíð, en ekki er minnst á Vínlandsferðir í því samhengi, eða systkini Leifs.25 Í þeim hluta Landnámu þar sem ætt Þjóðhildar eiginkonu Eiríks rauða er rekin kemur fram athyglisverður munur á gerðum Landnámabóka, það er á Hauksbók/Sturlubók borið saman við þá hluta sem við höfum af Melabók. Í Melabók segir um Þjóðhildi: „Þeira dóttir var Þjóðhildr, er átti Eiríkr hinn rauða, er nam Grænland. Síðan átti Þorbjǫrgu…“ Á meðan sagði í hliðstæðum texta Hauksbókar og Sturlubókar: „Þeira dóttir var Þjóðhildr, er átti Eiríkr rauði, þeira son Leifr enn heppni á Grænlandi. Jǫrundr hét son Atla…“26 Í Landnámabók Hauksbókar/Sturlubókar var áherslan á son Þjóðhildar, Leif hinn heppna, á meðan sviðsljósinu í Melabók var beint að eiginmanni hennar, Eiríki hinum rauða, og landnámi Grænlands. Hér virðist Landnámuritarar leggja ólíkt gildismat þegar kemur að fjölskyldunni að Bröttuhlíð. Fornari textinn leggur áherslu á Eirík og landnámið og þeir yngri á Leif. Tengja mætti þessa áherslubreytingu við minningu Leifs heppna sem verður fyrirfarameiri eftir því sem líður á 13. öld í tengslum við kristniboð á Grænlandi, eins og verður til umræðu aftur seinna. Það má sjá í betur varðveittum Landnámabókum Sturlubókar og Hauksbókar

24 Íslenzk fornrit I, „Formáli eftir Jakob Benediktsson“, bls. L–LIV. 25 Íslenzk fornrit I, „Landnámabók“, bls. 130–135. 26 Íslenzk fornrit I, „Landnámabók“, bls. 163. 18 að minnst var á Vínland í framhjáhlaupi þegar rætt var um Ara Hvítramannalands fara. Sá Ari var langafabarn Úlfs skjálga Högnasonar, landnámsmanns á Reykjanesi og forföður Reykhólamanna. Samkvæmt þessum hluta Landnámu liggur Vínland nálægt Hvítramannalandi. Líkt og hinir handsömuðu Skrælingjar lýsa í Eiríks sögu rauða. Í Landnámabók segir:

Hann varð sæhafi til Hvítramannalands; þat kalla sumir Írland et mikla; þat liggr vestr i haf nær Vínlandi enu goda; þat er kallat sex dægra sigling vestr fra Írlandi. Þaðan náði Ari eigi brutt at fara ok var þar skírðr.

Heimildarmaðurinn fyrir þessu er aftur Þorkell Gellison, föðurbróðir Ara Fróða. Ari fróði er sjálfur langafabarn Ara Hvítramannalandsfara.27 Ætla má að sá hluti hafi verið hluti af frum-Landnámabók Ara fróða, vegna vísunar í heimildarmann Ara Þorkel Gellisson. Vínland hlítur af textanum að dæma hafa verið þekktara meðal fólks samanborið við Hvítramannaland/Írland hið mikla, þar sem Vínland var notað til að skýra legu Hvítramannalands. Hér má því sjá að í bæði Íslendingabók og Landnámabók ritar Ari fróði um Vínland eins og landið þarfnist engra frekari útskýringar. Þetta viðmót Ara fróða, að ekki þurfi að útskýra Vínland sérstaklega, má einnig tengja við ferð Leifs heppna til Vínlands í Eiríks sögu rauða. Þar er Vínland ekki nefnt þegar Leifur lendir þar heldur er aðeins lýst landkostum. Gert var ráð fyrir að lesendur vissu um hvaða land var að ræða af landkostum sem þar koma fram. Þannig birtist það lesendum í bæði Hauksbók og Skálholtsbók.28 Landnáma Sturlubókar geymir stutta frásögn um Guðríði Þorbjarnadóttur og Þorfinn Karlsefni, ekki er þar minnst á Vínland í samhengi við þau. „Son Vífils var Þorbjǫrn, faðir Guðríðar, er átti Þorsteinn, sonr Eiríks ens rauða, (en síðar Þorfinnr karlsefni; frá þeim eru) byskupar komnir: Björn, Þorlákr, Brandr.“29 Hægt er að leiða líkur af því að hér sé á ferðinni viðbót sem ekki var hluti af glataðri frum-Landnámu Ara fróða en Brandur Sæmundsson varð ekki biskup fyrr en Ari fróði var allur. Svipaðan en mun styttri texta má finna í Melabók, þar var ekki minnst á biskupana, eða son Eiríks rauða heldur stendur einfaldlega: „Þeirra dóttir var Guðríðr, er átti

27 Íslenzk fornrit I, „Landnámabók“, bls. 161–162. 28 Íslenzk fornrit IV, „Eiríks saga rauða“, bls. 210–214 og 415–417. 29 Íslenzk fornrit I, „Landnámabók“, bls. 141. Jón Jóhannesson taldi líklegt að Sturla hafi tekið upptalningu biskupana úr Grænlendinga sögu. 19

Karlsefni“, svo var farið í allt aðra sálma.30 Vel má vera að Sturlubók hefði tekið hjónaband Guðríðar og Þorsteins ásamt upptalningu á biskupunum beint úr annarri Vínlandssögunni, en þessi atriði koma fram í báðum. Í Landnámu Hauksbókar er minnst á Vínland í litlum hluta sem geymir aukna umfjöllun um Þorfinn karlsefni. Karlsefni var þar sagður hafa fundið Vínland. Þessa klausu um Karlsefni og fund Vínlands er ekki að finna í öðrum Landnámu ritum. Öruggt er að hér sé um að ræða innskot frá Hauki lögmanni, enda fær hann þarna tækifæri til að rekja eigin ætt til föður síns, Erlend „sterka“ Ólafsson. Í Landnámu Hauksbókar segir: „þeira son var Þórðr hesthǫfði, faðir Karlsefnis, er fann Vínland hit góða, fǫður Snorra, fǫður […] móður herra Erlends sterka.“31 Þarna er skrifað að Þorfinnur hafi fundið Vínland, en líklega í þeim skilningi að hann væri einn af landafundarmönnum Vínlands. Viðmót sem væri í takt við andrúmsloft landkönnunar í Eiríks sögu rauða, og öðrum fornsögum sem snúast um siglingar til tiltölulega nýfundina landa. Þó tiltekið land sé fundið munu menn samt leita hans og finna endurtekið. Slíkt viðmót er líka í takt við aðrar heimildir þar sem landaleit var til umfjöllunar, til dæmis á borð við upphaf Landnámabókar. Þar er lesendum tjáð að Hrafna-Flóki og félagar hafi fundið Ísland þó bæði skipverjar og lesendur viti að þeir fetuðu í fótspor annarra.32 Leifur heppni var líklegast nefndur í Ólafs sögu Tryggvasonar úr vinnslu Gunnlaugs munks sem er nú glötuð. Þessi Ólafs saga Tryggvasonar fyrst talin hafa verið samin á latínu að grunni af Oddi Snorrasyni munki frá Þingeyrum rétt undir lok 12. aldar, þessi Ólafs saga Odds hefur varðveist til okkar daga. Gunnlaugur Leifsson (d. 1218/1219),33 klausturfélagi hans jók svo við verk Odds í sinni eigin Ólafs sögu Tryggvasonar.34 Frá sjónarhóli nútímans séð eru þessi skrif Gunnlaugs líklega þau fyrstu þar sem fjallað var um Leif Eiríksson, Ólaf Tryggvasson og kristnun Grænlands sem hluti af einni heild. Sennilegast er að þessi hugmynd um kristniboðarann Leif Eiríksson hafi fyrst verið bókfest af Gunnlaugi munki og Vínlandssögurnar tvær voru skrifaðar um svipað leiti, þá innan við fáeina áratugi. Þessi goðsaga um kristniboðarann Leif hefur verið rædd sem vísbending um aldur frumritunar Vínlandssagnanna. Í Eiríks sögu rauða var

30 Íslenzk fornrit I, „Landnámabók“, bls. 141. 31 Íslenzk fornrit I, „Landnámabók“, bls. 241. 32 Íslenzk fornrit I, „Landnámabók“, bls. 36–38. 33 Ártöl ólík eftir annálum, sbr.: Storm, Islandske Annaler indtil 1578, bls. 125, 184, 326 og 487. 34 Jón Jóhannesson, „Aldur Grænlendinga sögu“, bls. 149–159. 20

Leifur upphafinn sem kristniboðari á meðan í Grænlendinga sögu var þetta meinta stórafrek í lífshlaupi hans ekki til umfjöllunar. Það getur varla verið að höfundur Grænlendinga sögu hafi talið að Leifur ætti stóran hlut í kristnun Grænlands. Enda ritari Grænlendinga sögu óhræddur við að hrósa Leifi óspart. Þar hefði fallið vel að öllu hrósi sem Leifi er gefið að bæta við því að hann hafi einnig rutt veginn fyrir kristni. Í Eiríks sögu rauða var skrifað um Leif sem kristniboðara í texta sem líkist bæði hliðstæðum hluta frá Ólafs sögu Tryggvasonar hinni mestu úr inngangi að Grænlendinga sögu í Flateyjarbók, Ólafs sögu Tryggvasonar úr Heimskringlu og litlum hluta af Kristnisögu. Textarnir um þetta efni eru ekki vélrænar eftirmyndir af hvor öðrum, en eru þó nægilega líkir að ætla megi að þeir byggi á sameiginlegri eldri heimild, en hvort sú heimild sé Ólafs saga Gunnlaugs eða önnur/aðrar er engin leið að sanna með óyggjandi hætti.35 Hér fylgja textar ofantaldra rita. Þessi stutta klausa úr Eiríks sögu rauða geymir raunar öll helstu atriði sem flestir tengja við Leif Eiríksson í dag. Hér má sjá textann eftir Hauksbók:

Þeir Leifr sigldu brott ór Suðreyjum ok tóku Nóreg um haustit. Fór Leifr til hirðar Óláfs konungs Tryggvasonar. Lagði konungr á hann góða virðing ok þóttisk sjá, at hann mundi vera vel menntr maðr. Eitt sinn kom konungr at máli við Leif ok sagði: „Ætlar þú til Grænlands í sumar?“ „Þat ætla ek,“ sagði Leifr, „ef þat er yðvarr vili.“ Konungr svarar: „Ek get, at þat muni vel vera, ok skaltu þangat fara með ørendum mínum, at boða þar kristni.“ Leifr kvað hann ráða skyldu, en kvezk hyggja, at þat ørendi myndi torflutt á Grænlandi. Konungr kvezk eigi þann mann sjá, er betr væri til fallinn en hann, „ok muntu giptu til bera.“ „Þat mun því at eins,“ segir Leifr, „ef ek nýt yðvar við.“ Lætr Leifr í haf ok er lengi úti ok hitti á lǫnd þau, er hann vissi áðr enga ván til. Váru þar hveitiakrar sjálfsánir ok vínviðr vaxinn.36

Í Ólafs sögu Tryggvasonar úr Heimskringlu (samin sirka 1220–1235) er fyrst fjallað um Leif í stuttlega í kafla 86 og aftur í kafla 96. Líkt og í klausunni úr Eiríks sögu rauða koma þar fram öll helstu atriði sem reglulega eru tengd við persónu Leifs heppna í dag. Hér fylgir með klausa um togstreitu milli hins nýja siðar og Eiríks rauða sem hélt í heiðni, en þar uppnefnir Eiríkur prestinn sem Leifur á að hafa flutt með sér frá Noregi:

35 Um samanburð á fundum Leifs og Ólafs Tryggvasonar má sjá: Ólafur Halldórsson, Grænland í miðaldaritum, bls. 382–389. 36 Íslenzk fornrit IV, „Eiríks saga rauða“, bls. 210–212. 21

Leifr, sonr Eiríks rauða. Þess er fyrstr byggði Grænland, var þetta sumar kominn af Grænlandi til Nóregs. Fór hann á fund Óláfs konungs ok tók við kristni ok var um vetrinn með Óláfi konungi. [Kaflaskipti] „Ólafr konungr sendi ok þat sama vár Leif Eiríksson til Grænlands at boða þar kristni, ok fór hann þat sumar til Grænlands. Hann tók í hafi skipsǫgn þeira manna, er þá váru ófærir ok lágu á skipsflaki, ok þá fann hann Vínland it góða ok kom um sumarit til Grænlands ok hafði þannig með sér prest ok kennimenn ok fór til vistar í Brattahlíð til Eiríks, fǫður síns. Menn kǫlluðu hann síðan Leif inn heppna. En Eiríkr, faðir hans, sagði, at þat var samskulda, er Leifr hafði borgit skipsǫgn manna, ok þat, er hann hafði flutt skémanninn til Grænlands. Þat var presturinn.37

Í Kristni sögu (líklega samin sirka 1240) er frásögninni um Leif troðið inn í kafla um för Hjalta og Gissurar til Íslands:

Margir menn löttu þess Hjalta, en hann gaf sér ekki um þat. Þat sumar fór Óláfr konungr or landi suðr til Vindlandz. Þa sendi hann ok Leif Eiríksson til Græna landz at boða þar trú. Þa fann Leifr Vínland hit goða. Hann fann ok menn á skipflaki í hafi. Því var hann kallaðr Leifr inn heppni. Gizurr ok Hjalti kómu þann dag…38

Ólafs saga Tryggvasonar hin mesta / inngangur að Grænlendinga sögu í Flateyjarbók (samin milli 1387–1394) greinir frá fundi Ólafs og Leifs í Niðurósi, þessi klausa minnist ekkert á kristniboðun á Grænlandi, heldur aðeins að Leifur sjálfur hefði þáð skírn af konungi:

Þá er sextán vetr váru liðnir frá því, er Eirekr rauði fór at byggja Grænland, þá fór Leifr, Eireks, utan af Grænlandi til Noregs. Kom hann til Þrándheims um haustit, þá er Ólafr konungr Tryggvason var kominn norðan af Hálogalandi. Leifr lagði skipi sínu inn til Niðaróss ok fór þegar á fund Ólafs konungs. Boðaði konungr trú honum sem öðrum heiðnum mönnum, er á hans fund kómu. Gekk konungi þat auðveldliga við Leif. Var hann þá skírðr ok allir skipverjar hans.39

Einnig má sjá frásögn AM 194 sem minnist líka á tengingu Leifs við kristniboð og Ólaf Tryggvason, en hún var rituð um sama leiti og Flateyjarbók. AM 194 er til umfjöllunar á blaðsíðu 33 og má sjá samskonar textabút þar. Historia Norwegiae, sem er að grunni frá 12. öld, fjallaði nokkuð um kristniboð Ólafs Tryggvassonar, voru þar talin upp fjögur eylönd sem hann átti þátt í

37Íslenzk fornrit XXVI, „Ólafs saga Tryggvasonar“, bls. 334 og 347–348. 38 Ólafur Halldórsson, Grænland í miðaldaritum, bls. 78. 39Flateyjarbók I, „Ólafs saga Tryggvasonar hin mesta“, bls. 478. 22 að kristna, þ.e. Hjaltlandseyjar, Orkneyjar, Færeyjar og Ísland.40 Sagt var að Grænland hafi verið kristnað í hinn kaþólska sið af Íslendingum í þessari sömu heimild.41 Varla væri hægt að túlka þetta sem svo að Íslendingurinn Leifur Eiríksson hefði kristnað Grænland, þar sem Leifur, myndi fremur teljast sem Grænlendingur fyrir norskum sagnariturum. Í Íslendingabók var kristniboðun Ólafs Tryggvasonar til umræðu strax eftir kaflann um landnám Grænlands. Þar var Ólafi Tryggvasyni samt eingöngu gefinn heiðurinn fyrir að kristna Noreg og Ísland.42 Þó ætti það ekki að vera neinn útúrdúr, af skipulagningu textans að dæma að nefna að Ólafur hafi líka sent son Eiríks rauða til Grænlands, rétt eins og sagt var að Þangbrandur hefði verið sendur til Íslands. Kannski vissi Ari fróði ekki mikið um kristnun Grænlands, eða kannski var atburðarrásin að kristnun Grænlands einhver önnur, lengri, óljósari og flóknari en hann kærði sig um að fjalla um í svo stuttu riti. Síðarnefndi möguleikinn virðist hér líklegri. Kristniboðunnar tengingarnar vantar í eldri útgáfu Ólafs sögu Odds, Historia Norwegiae, Íslendingabók og Grænlendinga sögu. Grænlendinga saga segir lítið af nákvæmni um kristni á Grænlandi. Af varðveittum heimildum að dæma virðist því kristniboðarinn Leifur Eiríksson birtast okkur fyrst á 13. öld. Tímasetningar passa ágætlega við áætluð skrif á Ólafs sögu Gunnlaugs sem talin er hafa verið samin í kringum aldamótin 1200.43 Því er tælandi niðurstaða að segja að umtal um meint kristiboð Leifs heppna hafi fyrst og fremst orðið til í hugarheimum Gunnlaugs munks. Hvort sem Gunnlaugur fann upp á því sjálfur að tengja Leif og Ólaf saman, eða hvort Gunnlaugur hafi leitað í munnlegar heimildir um málefnið skiptir ekki höfuð máli. Ef munnleg hefð lá þar á baki liggur í augum uppi að sú munnlegahefð var ekki ráðandi á Íslandi eða Norðurlöndum, eins og sést á mismunandi útgáfum af persónu Leifs og vitnisburði eða þögn annarra heimilda um kristnun Grænlands. Hugmyndin um hinn kristna Leif, vin Ólafs Tryggvasonar er ekki sjáanleg í eldri varðveittum heimildum, en vex fljótt ásmegin eftir því sem líður á 13. og 14. öld. Ætla má að Gunnlaugur hafi haft áhuga á því að auka hlutverk Leifs og Ólafs Tryggvasonar og má setja í samhengi við tengingar Gunnlaugs í Þorvaldsþátt víðförla, þar sem ábyrgðinni af kristnun Íslands er dreift á fleiri herðar samanborið við þá

40 Historia Norwegie, bls. 95. 41 Historia Norwegie, bls. 55. 42 Íslenzk fornrit I, „Íslendingabók“, bls. 14. 43 Íslenzk fornrit IV, „Formáli eftir Ólaf Halldórsson“, bls. 392. 23 frásögn sem birtist í Íslendingabók.44 En þar eru Norður- og Vesturland komin með sína fyrirmyndar höfðingja sem kepptust við að kristna landið. Gunnlaugur munkur hefur verið nefndur sem höfundur elstu gerðar af Þorvalds þætti víðförla sem rituð var á latínu, en síðar hafi sagan verið endursamin í þeirri mynd sem hún hefur varðveist til okkar daga.45 Jafnvel þó við viljum ekki slá því á föstu að eigna Gunnlaugi munki Þorvalds þátt víðförla skiptir það raunar ekki höfuðmáli fyrir þessa ritgerð. Þar sem tengsl hans við verkið eru sterk og má þá áætla að það hafi verið samið af tengdum aðila, ef það var ekki samið af honum. Ýmis augljós líkindi eru með Eiríks sögu rauða og Þorvalds þætti víðförla. Gunnlaugur munkur er nefndur tvisvar sem heimildarmaður í Þorvalds þætti víðförla, fyrst vegna keppni milli Friðreks biskups og berserkjar. Hið seinna er fyrir laxveiðihyl við Mánafoss sem bjargaði nýkristnuðu fólki frá sulti. Ýmsar ástæður geta verið fyrir því að ástæða þótti til að skrifa sögur um fleiri aðila sem tengdust kristniboðun á Íslandi en Ari fróði nefndi í sínu riti, kannski hefur tilhneiging til að finna fyrir hvern landshluta forna og kristnar fyrirmyndir í fortíðinni. Í Þorvals þætti víðförla var veraldlegum höfðingjum skipt í tvo hópa, annar sem stendur ávalt með guði, kirkjunni og þjónum þeirra á meðan hinn hópurinn er settur fram sem heiðinn, fáfróður og óvinir hins góða og sómasamlega. Finna má ýmis líkindi milli Eiríks sögu rauða og Þorvalds þátt víðförla og mætti vel velta vöngum yfir því hvort sögurnar hafi að uppruna verið settar saman af tengdum -eða sömu aðilum. Það má sjá svipaðan helgisögu/kristniboðssögu brag á Eiríks sögu rauða líkt og í Þorvalds þætti Víðförla. Bæði rit byggja á heimildum sem lagðar voru út af Gunnlaugi Leifssyni munki og sýna fram á góða staðkunnáttu á Vesturlandi. Í báðum sögum er mikill áhugi á kristniboðun og því þemað um andstæðu kristni og heiðni, göfugleika kristinna manna og þeirrar ólukku sem fylgir heiðnum mótherjum þeirra, sem í Eiríks sögu rauða væri helst Þórhallur veiðimaður. Í báðum sögum er í upphafi heiðin spákona, kennd við Þór, sem spáir vel fyrir kristilegri merkishetju. Þessi líkindi gætu útskýrst að einhverju leiti sem algengar klisjur í fornbókmenntum. Vel má samt vera að þeir sem þekktu vel til Gunnlaugs og hans verka hafi deilt svipuðu viðmóti og markmiðum við sögusköpun. Eitthvað sem gerði það að verkum að þeir sem vel þekktu vel til verka Gunnlaugs og deildu hans sýn á sögusköpun voru líklegri til að skapa rit á borð við Eiríks sögu rauða.

44 Sjá: Sverrir Jakobsson, „Conversion and Cultural Memory in Medieval “. 45 Íslendinga sögur, „Formáli eftir Guðna Jónsson“, bls. IX–X. 24

Til að tengja þessa hugmynd aftur við kristniboð Leifs Eiríkssonar þá má álykta að Ólafs saga Gunnlaugs hafi verið rituð í umhverfi (eða af hópi) þar sem tilhneiging var fyrir því að bæta við lista göfugra upphafsmanna kristni á Norðurlöndum. Fyrir utan þá tilhneigingu, virðist einnig rökrétt að Gunnlaugur hafi haft fræðilegan áhuga á því að rita um hverjir ættu heiðurinn af kristnun Grænlands einfaldlega þar sem ekki hafði verið gert grein fyrir þeirri sögu fyrir daga Gunnlaugs. Í íslenskri sagnahefð virðist engin viljaskortur á því að gefa Ólafi Tryggvasyni mikið hlutverk þegar kemur að kristniboðun. Í konungasögum frá 12. öld,46 ásamt Historia Norwegie kemur fram að kristniboð Ólafs Tryggvasonar næðu ekki aðeins til héraða Noregs, heldur einnig til eyja Atlantshafsins.47 Þegar leita þurfti að áhrifavöldum á kristnun Grænlands á seinni hluta í kringum aldarmótin 1200 var Ólafur Tryggvason augljós valkostur. Einnig hefur verið hvati til staðar til að auka við heiður og afrek Ólafs Tryggvasonar í hans eigin sögu. Tengingarnar við höfðingjasoninn Leif Eiríksson gætu hafa fylgt vegna þeirrar tilhneigingar að finna staðbundna höfðingja til að verða kristniboðunarhetjur í sínu héraði. Rétt eins og Þorvaldur víðförli, Koðrán Eilífsson, Ólafur á Haukagili og Þórvarður Spak-Böðvarsson eru settir upp sem forhetjur kristni í sínum landshlutum þá voru Ólafur Tryggvason og Leifur heppni settir upp sem upphafsmenn kristni á Grænlandi. Áhugi var greinilega á kristniboðunarsögum í Þingeyjarklaustri þar sem Gunnlaugur skrifaði Ólafs sögu sína. Einnig eru vísbendingar um að sögusagnir um Vínland hafi verið vel þekktar á dögum Ara fróða. Greinilega er líka að áhugi var um Vínland þegar Ólafs saga Gunnlaugs og Vínlandssögurnar voru skrifaðar. Það að skrifa Leif inn í hlutverk kristniboða mætti kannski líta á sem bragð áróðursmeistara, ef við ímyndum okkur Gunnlaug munk sem slíkan. Leifur hefur ef til vill verið þegar þekktur úr munnmælum, á sama hátt og hugtök á borð við „Vínland“ og „skrælingjar“ voru þekkt á 12. öld. Ef höfðingjasonurinn Leifur hefur einnig verið þekktur fyrir tengingar við fyrrgreind hugtök, auk ferðalaga og ævintýra, hentar vel að líma kristilegar hetjudáðir við þessa persónu, sem þá þegar var vel metinn fyrir ótengdar veraldlegar gjörðir. Rétt eins og íþróttamaðurinn Guðjón Valur var notaður sem fyrirmynd til að stuðla að hollum morgunverði, var hægt að nota ímynd Leifs sem kristna fyrirmynd. Hið paradísarkennda Vínland mátti þá einnig tengja við kristni og kristniboð á Grænlandi.

46 Íslenzk fornrit XXV, „Ólafs saga odds“. 47 Historia Norwegie, bls. 95. 25

Vínlandssögurnar tvær eru einu heimildirnar sem gefa ítarlega umfjöllun um landafundi Vínlands í kringum árið 1000. Báðar sögurnar segja frá svipuðum persónum, sem á svipaðan hátt, fást við svipaða hluti, á svipuðum stöðum og á svipuðum tímum. Með öðrum orðum eru sögurnar svipaðar. Þær eru sammála í helstu þemum en víkja hvor frá annarri í smáatriðum. Þessi líkindi milli sagnanna, án þess að greina megi rittengsl þeirra á milli, er eitt af áhugaverðustu einkennum þeirra. Verða aðalega niðurstöður Ólafs Halldórssonar um tilurð Vínlandssagnanna hafðar til hliðsjónar ásamt mínum eigin hugmyndum. Það haft fyrir satt að upphafleg gerð beggja Vínlandssagna hafi verið rituð á fyrstu áratugum 13. aldar.48 Samkvæmt Ólafi var það aðallega sameiginleg munnleg hefð sem útskýrir líkindin milli sagnanna.49 Ólafur útilokaði samt ekki að ritarar Vínlandssagnanna hefðu haft aðgang að glötuðu riti sem ætlað var að upphefja Björn Gilsson (1100–1162), biskup á Hólum, svo hann yrði tekin í dýrlingatölu, sem var tilraun sem reyndar ekki gekk upp. Hluti af þessari tilraun var áróðurskennd fræðsla um göfugleika ættmenna hans, þ.e. Þorfinn og Guðríði.50 Þær vangaveltur Ólafs um tilvist rits um Björn Gilsson eru þó óþarfar og stendur kenning Ólafs án þess að treysta á þennan óþekkta texta. Og að mínu mati ef tengja á sköpun Vínlandssaganna við glataðan texta væri nærtækara að nefna Ólafs sögu Gunnlaugs. Önnur sviðsmynd um smíði og tengingar Grænlendinga sögu og Eiríks sögu rauða væri tilgáta Jóns Jóhannessonar, sem hélt því fram að Grænlendinga saga væri eldri og hefði verið höfundi Eiríks sögu rauða kunn. Ástæður tímamarkanna telur hann vera m.a. vegna þess að Eiríks saga rauða virðist hafa orðið fyrir áhrifum af kristniboðunar ímynd Leifs heppna sem gert er ráð fyrir að megi rekja til Ólafs sögu Gunnlaugs. Ólafur Halldórsson hafði efasemdir að taka ætti afstæðan aldur Grænlendinga sögu gagnvart Ólafs sögu Gunnlaugs svo trúverðugan og taldi varasamt að draga svo stórar ályktanir vegna þögn Grænlendinga sögu um ákveðin atriði. Margt annað kemur ekki vel saman í sviðsmynd Jóns Jóhannesarsonar um háan aldur Grænlendinga sögu gagnvart Eiríks sögu rauða. Þessi punktur Jóns, um að tilurð Vínlandssagnanna megi skoða með tilliti til áætlaðra skrifa í Ólafs sögu Gunnlaugs er að mínu mati verðmætur. Og á margan hátt virðist Ólafs saga Gunnlaugs líklegri breyta þegar kemur að sköpun

48 Ólafur Halldórsson, Grænland í miðaldaritum, bls. 398–400 og 452. Einnig má sjá: Íslenzk fornrit IV, „Formáli eftir Ólaf Halldórsson“ , bls. 390–395. 49 Ólafur Halldórsson, Grænland í miðaldaritum, bls. 369–375. 50 Íslenzk fornrit IV, „Formáli eftir Ólaf Halldórsson“ , bls. 385–386. 26

Vínlandssagnanna samanborið við huldurit skapað til heiðurs Birni biskupi. Ég myndi samt túlka þessa athugun Jóns á annan hátt en hann gerði sjálfur. Ég tel að vel sé hægt að nota misræmi um kristniboð í Vínlandssögunum sem röksemdarfærslu til að styðja við niðurstöður Ólafs Halldórssonar um að Vínlandssögurnar séu ritaðar um sama leyti, út frá ólíkum munnlegum hefðum á fyrri hluta 13. aldar. Það myndi útskýra flest atriði í sköpun saganna. Þar sem á þessum tíma var kristna ímynd Leifs nýtilkomin og ekki orðin alþekkt og ráðandi sagnahefð þegar sögurnar voru fyrst skrifaðar. Ekki er heldur von á því að fréttir um tilætluð og tilbúin ritverk breiðist hratt út, hægt er því að ímynda sér að tveir menn samtímis, eða með nokkur ára millibili, byggðu Vínlandssögu sína á ólíkum sagnahefðum hvað varðar Leif heppna. Af stærstum hluta gefur kenning Ólafs trúverðuga lausn á uppruna sagnanna. Þar skiptir mestu máli hvernig tvær sögur verða jafn líkar án þess að greinileg rittengsl sé að finna í sögunum, annað en það sem báðar sögur eiga sameiginlegt með Landnámu. Vel má ímynda sér að skrifarar sagnanna hafi unnið á svipuðum tíma í ólíkum landshlutum og ekki þekkt verkefni hins. Þetta hafi átt sér stað á tímabili þar sem jarðvegurinn var bæði plægður og tilbúin fyrir verk sem fjallaði um Vínlandsferðirnar. Þessi tímasetning ritun saganna útskýrir líka af hverju höfundur Grænlendinga sögu vissi ekki af, eða ákvað að hunsa, kristniboðs-útgáfu persónu Leifs Eiríkssonar, á svipuðum tímum og að höfundur Eiríks sögu rauða gefur frásögninni byr undir báða vængi. Eitthvað sem ekki yrði mjög erfitt að gera ef við myndum tímasetja sögurnar báðar á fyrstu tveimur áratugum 13. aldar, þegar Ólafs saga Gunnlaugs ætti enn hafa verið nýlegt verk. Á tíma sem kristniboðunar þema í tengslum við ímynd Leifs hafði ekki náð fullu flugi. Þar sem sennilegasta kenningin um tilurð Vínlandssagnanna lýtur að því að þær hafi verið skrifaðar á svipuðum tíma af ótengdum aðilum tengist það öðrum punkti sem áður hefur komið fram. Það er, að leiða má líkur aftur að því að munnlegar sögur um Vínland hafi verið vel þekktar á Íslandi og að áhuginn á því efni hafi ekki farið minnkandi eftir daga Ara fróða. Ef nægilega mikill áhugi var á málaflokknum á fyrstu áratugum 13. aldar til þess að ekki aðeins ein heldur tvær ritaðar sögur hafi orðið til úr þessari munnlegu hefð þá er hægt að gera ráð fyrir að forsendur til

27 sköpunar Vínlandssögu hafi verið sterkar á fyrri hluta 13. aldar. Kannski hefur lestur einhvers á Ólafs sögu Gunnlaugs vakið áhuga á því að rita Eiríks sögu rauða.51 Má einnig ætla að tíðar samgöngur milli Íslands og Grænlands á 13. öld gæti einnig hafa gert það að verkum að sögur sem snéru í vesturátt til höfuðbóla Grænlendinga hafi verið í takt við tíðarandann.52 Aðalpersónurnar eru þær sömu í báðum Vínlandssögunum, en margar aukapersónur birtast aðeins í annarri sögunni. Til dæmis er Bjarna Grímólfsson einungis að finna í Eiríks sögu rauða og hann gegnir ekki mikilvægu hlutverki fyrir meginsöguþráðinn, þó hann fái að láta ljós sitt skína í hliðarsögu, sem virðist andsvar við öðrum miðaldatextum sem fjalla um forgangsröðun við björgunaraðgerðir.53 Á sama hátt má nefna hinn þýska Tyrki sem fylgir Leifi heppna til Vínlands í Grænlendinga sögu. Hans helsti tilgangur í sögunni virðist vera að fullvissa lesendur um að þessi hópur Grænlendinga hafði í raun fundið vínber. Þar sem glöggir lesendur gætu annars hafa velt því fyrir sér af hverju norrænir menn búsettir á Grænlandi, ásamt skoskum þrælum, hefðu svo góða greiningarhæfileika á suðrænum berjategundum. Skosku þrælarnir sem Ólafur Tryggvason gaf Leifi, þau Haki og Hekja, eiga að hafa verið með í för Leifs til Vínlands í Eiríks sögu rauða, þau voru reyndar ekki nefnd í þeirri ferð. Þau fá hins vegar virk hlutverk þegar Þorfinnur Karlsefni heldur í sína för. Þrælarnir koma svo alls ekki við sögu í Grænlendinga sögu. En í báðum sögunum fá flestar persónur almennt litla umfjöllun og persónusköpunin sjálf er fremur grunn. Í sögunum er samhljóða frásögn um að Eiríkur rauði hafi ekki haldið til Vínlands sökum þess að hestur hans misstígur sig og fær næsta kynslóð að vera einráð í könnun nýju landanna í vestri. Í Eiríks sögu rauða er þessu falli af hestinum blandað saman við atriði varðandi fésjóð sem Eiríkur vildi geyma. Guðríði er lýst í báðum sögum sem hinni fyrirmyndarkristnu konu, hún er ekkja áður en hún giftist Þorfinni karlsefni og fylgir honum til Vínlands. Þar eignast þau soninn Snorra, seinna setjast hjónin að í Skagafirði. Sögurnar greinir á um bústað þeirra og fjölda eiginmanna Guðríðar áður en hún giftist Karlsefni. Í seinni tíð hefur þessi athyglisverða kvenpersóna gjarnan verið kölluð Guðríður víðförla, en hún er aldrei kölluð „víðförul“ í Vínlandssögunum sjálfum, eða neinum íslenskum

51 Þar sem Eiríks saga rauða minnist bæði á kristniboðarann Leif og sagan hefur líkindi við verk sem tengd eru við Gunnlaug munk, þ.e. Þorvalds þátt víðförla eins og áður hefur verið til umfjöllunar. 52 Bjarni Ólafsson, Ráðgátan um endalok norrænnar byggðar á Grænlandi, bls. 9–10. 53 Ólafur Halldórsson, Grænland í miðaldaritum, bls. 357. 28 umfjöllunum um söguna sem ég veit af þar til á 20. öld. Svo raunar mætti segja að Guðríður hafi ekki orðið „víðförul“ fyrr en í fyrsta lagi í kringum seinni heimstyrjöld.54 Freydís Eiríksdóttir kemur fram í báðum sögum en gegnir þar ólíkum hlutverkum. Í báðum sögunum er hún kvenpersónan sem er sett upp í andstöðu við Guðríði. Á meðan Guðríður er undirgefin körlunum í kringum sig og leyfir þeim að ákveða örlög sín, þá er Freydís sjálfstæðari, hörð í horn að taka og á fremur kraftlítinn eiginmann. Í Grænlendinga sögu framkvæmir Freydís Eiríksdóttir mikil ódæðisverk á meðan í Eiríks sögu rauða kemur hið harða eðli Freydísar til góða og fær hún lof fyrir að hræða burt hóp skrælingja. Núningur milli kristinna og heiðinna manna er áberandi í Eiríks sögu rauða, og kemur m.a. fram að Eiríkur sé mótfallinn þeim sið sem sonur hans færir til Grænlands. Miklu rými er varið í umfjöllun um ólukku Þórhalls veiðimanns sem lýst er sem helsta talsmanni heiðninnar, en hann er settur upp sem höfuðandstæðingur Þorfinns í leiðangri þeirra. Þetta þema skortir algjörlega í Grænlendinga sögu. Liðið fólk gengur aftur í báðum sögunum þegar Þorsteinn Eiríksson og Guðríður Þorbjarnadóttir heimsækja Vesturbyggð. Þar deyr Þorsteinn Eiríksson sóttdauða en rís svo upp til að eiga hið hinsta samtal við ekkju sína. Í Grænlendinga sögu er það Þorsteinn sem spáir fyrir Guðríði, en í Eiríks sögu rauða fær hún aðalatriði spádómsins fyrst frá Þorgerði lítilvölvu. Ekkert er fjallað um Þorgerði lítilvölvu í Grænlendinga sögu. Landkönnunarsagan líkt og aðrir hlutar eru sammála í helstu þemum. Í fyrri hluta sagnanna, eins og þær hafa verið varðveittar, er fjallað um könnun og landnám Grænlands. Í fyrri hluta Eiríks sögu rauða er meðal annars fjallað um Guðríði Þorbjarnardóttur, ættir hennar og bónorð, sem er hafnað af föður hennar á þeim grundvelli að piparsveinninn sé af þrælaættum líkt og feðginin, sem komin voru af Vífli leysingja Auðar djúpúðgu. Í Grænlendinga sögu hefst frásögn af landafundum á því að Bjarni snýr aftur til Eyrarbakka frá Noregsferð sinni en fréttir þá af því að faðir hans hefur siglt til Grænlands. Bjarni ákveður þá að sigla til Grænlands með hásetum sínum en segir

54 Athugun á tímarit.is leiddi í ljós engar niðurstöður þar sem Guðríður er sögð vera víðförul fyrir árið 1939 í íslenskum dagblöðum og tímaritum. Þá er það reyndar ekki orðið viðurnefni líkt og í dag heldur er hún einfaldlega sögð vera víðförul. Sjá skrif frá árinu 1939: Björn Þórðarsson, „Eiríks saga rauða. Nokkrar athuganir“, bls. 77–78. Þetta rímar vel við meistararitgerð Sigríðar Helgu Þorsteinsdóttir þar sem fyrstu tilvitnanirnar sem segja Guðríði vera víðförla koma upp í kringum Seinni Heimstyrjöld. Sjá: Sigríður Helga Þorsteinsdóttir, Biskupsmóðir í páfagarði, bls. 95 og 114. 29 jafnframt að ferðin sé óviturleg þar sem enginn þeirra hafi áður siglt til Grænlands. Þeir höfðu siglt í þrjá daga þegar blása tók úr norðri og mikil þoka lagðist yfir, og eftir að þoku lyfti sigldu þeir í einn dag til áður en þeir sáu land. Bjarni áleit þetta land ekki vera Grænland og siglir í nánd við landið, sem var ófjöllótt, skógi vaxið með smáum hæðum. Þeir sigldu í tvo daga til og sáu þá annað land sem var slétt og viði vaxið. Eftir þrjá daga af frekari siglingum komu þeir auga á þriðja landið sem var hátt og fjöllótt með jöklum, þeir sáu að þetta þriðja land var eyland og tóku þá stefnuna frá landinu. Fjórða landið sem þeir komu að var Grænland og þar kemur Bjarni á fund föður síns. Bjarni steig aldrei á land og gaf engum stað nafn samkvæmt sögunni. Leifur Eiríksson heyrir af landafundum Bjarna og kaupir skip hans og heldur í sinn eigin leiðangur. Fyrst dregur til tíðinda þegar þeir sigla framhjá landi sem Bjarni hafði áður lýst og gefur Leifur því nafnið Helluland. Því næst finna þeir annað land skógi vaxið með hvíta sanda, og er því landi gefið nafnið Markland. Þriðja landið sem verður á vegi þeirra er nefnt Vínland vegna landkosta. Á leið til baka bjarga þeir strandaglópum og Leifur fær í kjölfarið viðurnefni sitt. Þorvaldur Eiríksson heldur næst í leiðangur í kjölfar bróðir síns og er skotinn með ör af skrælingjum, og er sagt að hann hafi verið grafinn á Kjalarnesi/Krossnesi. Þorsteinn Eiríksson fýsti næst að fara af stað og sækja lík hans og flytja heim. En hans leiðangur komst aldrei í návígi við Vínland, þeir lentu í hafvillum allt sumarið áður en þeir loks skiluðu sér til Vesturbyggðar. Þar gekk sótt sem dróg Þorstein til dauða. Því næst var röðin komin að Karlsefni sem hélt í sinn þekkta leiðangur ásamt Guðríði Þorbjarnardóttir og föruneyti. Eftir þá ferð komst Karlsefni að þeirri niðurstöðu að ekki væri hægt að njóta gæða Vínlands vegna óvinveittra skrælingja. Næst á eftir kemur Freydís Eiríksdóttir með sinn leiðangur ásamt íslensku bræðrunum Finnboga og Helga en hann leysist upp vegna erja milli fylkingana, sem stöfuðu af illu eðli Freydísar og fjöldamorð eru framið á flokki íslensku bræðrana. Landkönnunarsagan sem finna má í Eiríks sögu rauða svipar mjög til þeirrar sem finna má í Grænlendinga sögu en allnokkru munar varðandi smáatriði. Í Eiríks sögu rauða er það Leifur Eiríksson sem finnur Vínland fyrir slysni á leið sinni frá Ólafi Tryggvasyni í Noregi til Grænlands. Lýsingin sem Leifur hefur af Vínlandi er afar stutt og ekkert er minnst á fleiri lönd. Líkt og í Grænlendinga sögu eru leiðangrar Þorsteins - og Þorvaldar Eiríkssonar til óheilla. Þorsteinn Eiríksson hélt út á skipinu sem Þorbjörn Vífilsson, faðir Guðríðar, hafði tekið með sér til Grænlands. Leiðangur Þorsteins reikaði um höfin og fann ekkert nýtt, heldur komust þeir í sýn við Ísland og 30 sáu „fugl af Írlandi“. Þegar Þorsteinn snýr heim úr þessari misheppnuðu ferð giftist hann Guðríði og heldur með henni á bú sitt í Vesturbyggð. Dregur sótt hann til dauða og draugagangur fer af stað. Næst kemur Þorfnnur Karlsefni frá Íslandi til Grænlands, giftist Guðríði ekkju Þorsteins og heldur í landkönnunarleiðangur á tveimur skipum með miklu föruneyti. Þorvaldur Eiríksson og Freydís Eiríksdóttir fara ekki í sína eigin ferð líkt og í Grænlendinga sögu heldur slást í för með Karlsefni. Sá leiðangur finnur og nefnir Helluland. Næst finnur leiðangurinn skógi vaxið land sem þeir kalla Markland, og eyju sem þeir kalla Bjarnarey. Tveimur dögum seinna finna þeir aftur land og finna þeir þar kjöl af skipi á nesi einu og kalla Kjalarnes og finna mátti nálægt langa samfella strandlengju sem fékk nafnið Furðustrandir. Þegar þeir höfðu siglt lengra voru Haki og Hekja send í land til að kanna það og komu þau aftur með vínber og sjálfssáið hveiti. Landið er ítarlega kannað og skipin tvö skiljast að. Þórhallur veiðimaður, sem einungis er nefndur í Eiríks sögu rauða fer fyrir öðru skipinu sem ætlar að sigla í norðurátt en blæs af leið og ferst undan Írlandi. Þorvaldur Eiríksson er álíka óheppinn í báðum Vínlandssögunum, en hann og menn hans í Eiríks sögu rauða rekast á einfæting norðan við Furðustrandir sem skýtur ör í kvið hans sem leiðir Þorvald til dauða. Það síðasta sem fréttist af skrælingjum í sögunni er að lið Karlsefni mætir fimm skrælingjum, þar af voru tveir piltar sem voru handsamaðir, en aðrir úr skrælingjahópnum sukku í jörð niður. Piltarnir tveir voru skírðir og þeim kennt norrænt mál. Þeir sögðu svo mannræningjum sínum frá því að konungar stjórnuðu Skrælingjalandi og einnig að annað land nálægt væri kallað Hvítramannaland, þar sem menn ganga um í hvítum klæðum og æpa hátt. Kom föruneytið svo heim til Grænlands og var hjá Eiríki rauða um veturinn. Hauksbók er eldra handrit Eiríks sögu rauða og dregur nafn sitt af Hauki Erlendssyni lögmanni (d. 1334). Stór hluti Hauksbókar er ritaður með hans hendi og ættartölur rekja þar ætt hans til Þorfinns karlsefnis og Guðríðar Þorbjarnardóttir. Talið er að Hauksbók hafi verið rituð á árunum 1302–1310.55 Með því að bera saman annað handrit sem inniheldur Eiríks sögu rauða, (Skálholtsbók AM 557, 4to), ályktaði Ólafur Halldórsson að forrit Hauksbókar hafi verið ritað um miðja 13. öld. Þessi greining byggir aðallega á ritvillum og athugunum á því hvernig þær urðu til, en með því að setja sig í spor skrifaranna sem reyna að lesa úr handritum má sjá hvernig stafir og tímabundnar tískusveiflur skriftar kunna að vera misskildar. Ekki er ljóst hver titill

55 Stefán Karlsson, „Aldur Hauksbókar“, bls. 114–121. 31

Eiríks sögu rauða var í huga Hauks lögmanns, þar sem titill sögunnar er ekki greinilegur í handritinu. Engar vísbendingar benda til þess Haukur hafði aðgang að Grænlendinga sögu í vinnslu bókarinnar, t.d. er hvergi í Landnámu hlutanum eða annarstaðar í Hauksbók skotið inn þekkingu sem aðeins er að finna í Grænlendinga sögu. Þó Haukur hefði aðgang að Grænlendinga sögu þykir mér ólíklegt að hann hefði látið hana fylgja með í Hauksbók í heilu lagi fyrir ýmsar ástæður.56 Í Hauksbók er reynt að skapa sögu rit þar sem ættir hefðarfólks á Íslandi eru tengdar við þungamiðju heimssögunnar. Það er í Austurlöndum nær og Miklagarði.57 Haukur lætur Grænland skipa stæðilegan sess í Hauksbók og hefur því með bæði Eiríks sögu rauða og Fóstbræðrasögu með í bókinni. Reyndar birtast þættir sem tengjast Grænlandi í öfugri tímaröð, en þeir standa bak í bak í Hauksbók. Framar er Fóstbræðrasaga þar sem Þorkell Leifsson höfðingi í Brattahlíð hefur hlutverk, og ef við myndum lesa bókina frá upphafi til enda myndum við fá ákveðna Stjörnustríðsmynd af sögu höfðingja Brattahlíðar. Áhugi Hauks við að tengja Ísland við heimsöguna, og ættir íslenskra höfðingja við það sem hann sá sem miðpunkt heimsins er fyrirferðamikill í verkinu. Og í stíl við önnur verk miðalda sem tengdu sína eigin þjóð og ætt við við fornar hetjur Litlu Asíu. En af hverju hefur Grænland svo stóran sess í riti Hauks lögmanns? Til að nefna það augljósa þá á Haukur ættir að rekja ætt sína til Þorfinns og Guðríðar, og biskupanna. Því gæti Eiríks saga rauða hafa haft persónulegt gildi fyrir hann, enda gerir Haukur sér far um að draga fram hlut Karlsefnis í Landnámu hluta Hauksbókar, eins og áður kom fram. Ættrakningar Hauks lögmanns útskýra þó ekki stöðu Fóstbræðrasögu, sem er eina Íslendingasagan sem er tekin inn í Hauksbók. Útskýringin gæti verið sú að þegar Hauksbók var rituð hafði Grænland verið í tiltölulegan skamman tíma undir

56 Bæði hefði Eiríks saga rauða trúlega verið Hauki lögmanni áhugaverðari samanborið við Grænlendinga sögu. Þar er að finna meiri efni með fræðilegan keim sem Haukur hafði áhuga á, t.d. landalýsingar, lýsingar af framandi kynþáttum, lýsingar frá heiðnum athöfnum og þar er einnig Noregskonungur tengdur við kristnun Grænlands, stórmerkilegur atburð í sögulegu ljósi. Einnig fjallaði Eiríks saga rauða mun meira um forfeður Hauks. Þorbjörn, Guðríði og Karlsefni samanborið við Grænlendinga sögu þar sem hlutfallslega er meira fjallað um niðja Eiríks. Kostnaðurinn á bakvið það að skrifa upp eina sögu, jafnvel sögu eins stutta og Grænlendinga sögu hefur verið töluverður. Hefðu því flestir í þeim aðstæðum að hafa tvær keimlíkar sögur valið þá sem þeim þótti hentugri hverju sinni. Það að ein bók innihaldi tvær keimlíkar sögur hefur ekki þekkst á þessu tímabili að mér vitandi. T.d. hefur engin varðveitt bók innihaldið bæði Ólafs sögu odds ásamt annarri Ólafs sögu Tryggvasonar, eða að ein bók innihaldi tvær gerðir af Fóstbræðrasögur hlið við hlið, enda væri markhópurinn fyrir slíkt aðallega fræðimenn seinni alda. 57 Sverrir Jakobsson, „Hauksbók and the construction of an Icelandic world view“, bls. 28. 32

Noregskonungi, um þrjá til fjóra áratugi. Þessi Grænlands hluti Hauksbókar hefur kannski verið að hluta til ætlaður til að fræða þegna konungs um þetta fjarlæga skattland og nálægar eyjar þess.58 Sverrir Jakobsson bendir á vísbendingar séu um að Haukur hafði áhuga á þessum Grænlandstengdu ritum aðallega vegna sögulegs heimildargildis þeirra.59 Í bæði Fóstbræðra sögu og Eiríks sögu rauða má finna mikilvægar upplýsingar um landafræði og örnefni. Þar er ekki aðeins Grænlandi er lýst heldur einnig löndum sem voru kunn handan Grænlands og atburðum sem gerðust þar. Kannski sá hluti af sögunni hafi að mati Hauks átt heima með öðrum hlutum Hauksbókar sem lýstu atburðum úr öðrum heimshornum, væri ritið því með fróðleik um sögu frá Miðausturlöndum, Bretlandi, Skandinavíu, Íslandi, Grænlandi og Vínlandi. Því væri orðin til bók sem fjallaði um kjarnaatriði sögunnar í Miðausturlöndum, Evrópu og fram á hjara veraldar.60 Í landalýsingu sem er að finna í handritinu AM 194 8vo er minnst á Vínland, Markland og Helluland ásamt Þorfinni karlsefni og Leifi heppna. Þeir sem stóðu að gerð þessa tiltekna handrits eru Ólafur Ormsson prestur og Brynjólfur Steinraðarsson og það er talið ritað á Geirrauðareyri (e. Narfeyri) á Snæfellsnesi árið 1387.61 Eða um svipað leiti og Flateyjarbók var skrifuð. Í AM 194 segir:

Suður frá Grænlandi er Helluland, þá er Markland; þá er eigi langt til Vínlands hins góða, er sumir menn ætla að gangi af Afrika, og ef svo er, þá er úthaf innfallanda á milli Vínlands og . Það er sagt að Þorfiðr karlsefni hjoggi húsasnotrutré og færi síðan að leita Vínlands hins góða og kæmi þar er þeir ætluðu það land og náðu eigi að kanna og engum landskostum. Leifur hinn heppni fann fyrstur Vínland, og þá fann hann kaupmenn í hafinu illa stadda og gaf þeim líf með guðs miskunn. Og hann kom kristni á Grænland, og óx þar svo, að þar var byskupsstóll settur, þar er í Görðum heitir.

Ritið heldur áfram þar sem rætt er um legu Bretlandseyja og fleira. Það má greina vott af varkárni þegar höfundur segir okkur frá Vínland „er sumir menn ætla að gangi af Afrika“. Í þessum fáu línum sem snúa að landafundunum í vestri er þar tekið fram að Leifur hinn heppni „fann fyrst landið“, ásamt því er vísað í björgunarafrek hans og

58 Þessa hugmynd um að tengja saman valdatöku Noregskonungs og áhuga Hauks lögmanns á Fóstbræðrasögu og Eiríks sögu rauða er komin frá Sverri Jakobssyni í samtali um efnið. 59 Sverrir Jakobsson, „Hauksbók and the construction of an Icelandic world view“, bls. 28–29. 60 Fyrir meira um sköpun Hauksbókar má sjá: Sverrir Jakobsson, „Hauksbók and the construction of an Icelandic world view“. 61 Guðvarður Már Gunnlaugsson, Sýnisbók íslenskrar skriftar, bls. 66. 33 kristniboðun. Þorfinnur karlsefni er einnig nefndur og minnst er á húsasnotrutré hans.62 Hlutann um húsasnotrutréð er aðeins að finna í Grænlendinga sögu, en hlutinn um kristniboðun Leifs er komin úr öðrum heimildum, þá t.d. Ólafs sögu Tryggvasonar, hugsanlega Eiríks sögu rauða eða öðrum óþekktum heimildum. Allavega er hér verið að blanda saman atriðum sem birtast okkur ekki sameiginlega í neinu varðveittu handriti, sem er vissulega áhugavert. Orðalag textans „þat er sagt“ virðist benda til þess að handritsgerðarmenn þekktu aðeins hlutann um húsasnotrutréð af sögusögnum. Ekkert er minnst á Bjarna Herjólfsson í AM 194 8vo. Áhugavert er að aðeins er getið um fyrsta fundarmann Vínlands, en ekkert er minnst á fyrstu fundarmenn Marklands og Hellulands, en ef Ólafur Ormsson og Brynjólfur Steinraðarson höfðu aðgang að Eiríks sögu rauða hefðu þeir getað séð að það var leiðangur Þorfinns karlsefnis sem fann og nefndi þau Markland og Helluland. Þessar fáu línur í AM 194 8vo virðast halda hróðri Þorfinns á lofti til jafns við Leif og eru nöfn þeirra þau einu sem eru tengd við Vínland. Þær upplýsingar sem koma fram um Leif í AM 194 var almennt viðurkennd og þekkt saga meðal lærða manna á Íslandi á seinni hluta 14. aldar, eitthvað sem sjá má af framgangi annarra sagnaritara sem störfuðu um svipað leiti í um 150 kílómetra fjarlægð, það eru ritarar Flateyjarbókar í Víðidal. Vel má ímynda sér hvernig heimildarmenn gætu hafa tilviljanakennt munað eftir ákveðnum hlutum úr Grænlendinga sögu, sem bendir kannski til að frásögnin af Bjarna var almennt ekki svo ofarlega í menningarlegu minni á seinni hluta 14. aldar. Einnig kann að vera að ritarar hafi forðast að minnast á lítt þekktan landkönnuðinn Bjarna Herjólfsson til að flækja og lengja ekki stuttan texta að óþörfu, en í því tilviki gildir það sama. Hlutur Bjarna var greinilega atriði sem mátti gleymast á seinni hluta 14. aldar, ólíkt hlut Leifs og Karlsefnis. Grænlendinga saga hefur aðeins verið varðveitt í einu skinnhandriti, þ.e. í Flateyjarbók Gks. 1005 fol., sem talin er vera í rituð á milli árana 1387–1394. Í Flateyjarbók er sagan ekki heil heldur í tveimur hlutum, skotið inn í Ólafs sögu Tryggvasonar hin mesta. Í Flateyjarbók er fyrri og styttri hluti Grænlendinga sögu kynntur sem Þáttur Eiríks rauða á meðan seinni hlutinn er kynntur sem Grænlendinga þáttur. Í seinni tíð voru þessir tveir hlutar settir saman í eitt og árið 1935 fengu þeir

62 Alfræði Íslenzk I, bls. 12. 34 heitið Grænlendinga saga í útgáfu Mattíasar Þórðarssonar.63 Hefur það heiti á sögunni haldist allar götur síðan. Sagan er því ekki til heil í neinu handriti frá miðöldum, heldur er hún sett saman sem slík af útgefendum á seinni öldum. Í vissum skilningi má því segja að að hin nútíma Grænlendinga saga nútímans sé hreinn seinni tíma tilbúningur. Nokkur rök eru þó fyrir því að þessir tveir þættir í Flateyjarbók skapi eina heild og eigi heima saman. Að minnsta kosti hluti sögunar um siglingu Bjarna frásögnin og síðan ferð hans til Eiríks jarls, en frásögnin um Bjarna skiptist milli hlutana tveggja. Hægt væri þó að setja spurningamerki við innganginn en textinn þar er finna má í Landnámu og Eiríks sögu rauða. Stærra spurningamerki væri hægt að setja við hvort hlutinn um skírn Leifs og fund hans með Ólafi Tryggvasyni hafi alltaf verið hluti Grænlendinga sögu, eða hvort sá hluti tilheyri eingöngu Ólafs sögu Tryggvassonar. Mun líklegra er að skírn Leifs hafi ekki verið til umræðu í eldri glötuðum gerðum af Grænlendinga sögu.64 Í innganginum er lesendum einnig gert ljóst þegar settstokkarnir koma til umræðu að um það mál má líka lesa í „sögu Eiríks“. Er því ljóst að ritarar Flateyjarbókar þekktu að minnsta kosti til beggja Vínlandssagnanna, þó þeir hafi ekki endilega haft aðgang að báðum við vinnslu Flateyjarbókar.65 Í fyrri hluta Grænlendinga sögu má finna eftir Þátt Þiðranda ok Þórhalls sem fjallar um kristniboð á Íslandi á dögum Ólafs Tryggvasonar, ferðir Þangbrands og lýkur þættinum á því að konungur tekur fjóra íslenska höfðingjasyni í gíslingu. Í kjölfarið hefst Þáttur Eiríks rauða, snýr þá frásögnin að Eiríki og fundi Grænlands. Sú byrjun hefur skýr rittengsl við efni sem finna má í Landnámu. Kannski hafa ritarar Flateyjarbókar leitað hér í Landnámu til að skeyta við upphaf Grænlendinga sögu, en ómögulegt er að segja til um það hvernig upphaf Grænlendinga sögu hafi litið út eins og það kom fyrir sjónir skrifurum Flateyjarbókar, og ekki ljóst hvort. Rittengslunum lýkur svo eftir línuna: „Það sumar fór Eiríkur að byggja land það, er hann hafði fundið og hann kallaði Grænland, því að hann lét það menn mjög mundu fýsa þangað, ef

63 Jón Jóhannesson, „Aldur Grænlendinga sögu“, bls. 149–159. 64 Erfitt er að fullyrða með vissu að sú flétta með skírn Leifs hafi aldrei verið hluti af heilsteyptri Grænlendinga sögu, það er ef Grænlendinga saga stóð einhvertímann óháð Ólafs sögu Tryggvasonar í glötuðum eldri handritum. Líklegast virðist þó að kristnitaka Leifs, sem og trúmál Grænlendinga hafi aldrei verið til umræðu í Grænlendinga sögu, þar sem lítil umfjöllun um trúmál er að finna utan við innganginn. 65 Flateyjarbók I, „Ólafs saga Tryggvasonar hin mesta“, bls. 477. 35 landið héti vel.“66 Í kjölfarið kemur í Flateyjarbók stuttur kafli um Leif heppna, skírn hans í Noregi og fund hans við Ólaf Tryggvason. Textinn um fund stórmennana var ekki vélrænt tekinn frá öðrum varðveittum textum, enda þótt þessi fundur eigi sér efnislega hliðstæðu í öðrum eldri textum þá er orðalag um margt ólíkt. Textinn minnist ekkert á trúboð, heldur aðeins skírn Leifs. Einnig er ekkert minnst á það hvernig Leifur kemst frá Noregi. Heldur birtist hann óvænt í Bröttuhlíð. Textann um skírn Leifs má sjá hér fyrr í ritgerðinni á blaðsíðu 21. Eftir að skilið hefur verið við Leif í Noregi kemur kafli um Bjarna Herjólfsson og ferð hans meðfram ströndum þriggja óþekktra landa. Eftir það er gert hlé á ævintýrum Bjarna og þáttur um dráp Guðröðar konungs. Frásögnin af ferð Bjarna til Noregs hefst svo aftur seinna og er þá sagan kynnt sem Grænlendinga þáttur. Nokkurt samhengi er á áhuga sagnaritara að auka við Ólafs sögu Tryggvasonar hinnar mestu með innskoti Grænlendinga sögu og tilhneigingu þeirra til að bæta við innskotum um fleiri efni í Ólafs sögu Tryggvasonar hinnar mestu s.s. Færeyinga sögu og fleiri. Hefur sagnaritara þótt ástæða til að auka við Ólafs sögu Tryggvassonar vegna þeirra tenginga sem hér hefur verið rökstutt að komi fyrst fram í týndri Ólafs sögu Gunnlaugs þar sem innskot um skírn Leifs fylgir. Í sögu sem leggur mikla áherslu á arfleifð Ólafs Tryggvassonar sem kristniboðskonungs og postula Norðurlanda er það rökrétt að nota Vínlandssögurnar til að undirstrika víðfeðm áhrif Ólafs Tryggvasonar. Af hverju var Grænlendinga saga valin fremur en Eiríks saga rauða í Flateyjarbók? Um það er erfitt að fullyrða, einfaldasta og líklegasta svarið er að ritararnir höfðu ekki aðgang að Eiríks sögu rauða. Eiríks saga rauða hefði á ákveðinn hátt passað betur inn í Flateyjarbók. Vegna frásagnar af kristnun Grænlendinga og áhersla á kristniboð í þeirri sögu væri hægt að tengja við bein afskipti Ólafs Tryggvasonar. Aftur á móti mætti líka segja að Grænlendinga saga passi betur með umfjöllun um Ólaf Tryggvason, þar sem Grænlendinga saga fjallar mun meira um Leif heppna, bandamann konungsins en sagnahefð 13. og 14. aldar tengdi Leif og Ólaf sterkum böndum. Grænlendinga saga var einnig styttri og það kann að hafa verið metið sem kostur. Líklegast hefur tilviljanakenndur aðgangur að handritum þó ráðið mestu um val á Vínlandssögu.

66 Flateyjarbók I, „Ólafs saga Tryggvasonar hin mesta“, bls. 477–478. Og Íslenzk fornrit I, „Landnámabók“, bls. 130–135. 36

Ef við gerum ráð fyrir því að Grænlendinga saga hafi upphaflega ekki innihaldið frásagnir af Ólafi Tryggvasyni virðist sem afar áhugaverð atburðarrás hafi átt sér stað. Mætti þar segja að ímyndin um hinn kristna Leif, hafi náð svo mikilli fótfestu í menningarlegu minni að skrifarar Flateyjarbókar bæti einfaldlega við hinum kristna Leif fremst í söguna. Ekki skipti máli að skrifarar Flateyjarbókar þekktu nokkrar heimildir sem voru á skjön hvor við aðra. Það er, eina heimild þar sem Leifur fór aldrei á fund konungs, Grænlendinga sögu, og aðrar sem hann gerði einmitt það, Eiríks sögu rauða og Ólafs sögu Tryggvason. Til að leysa úr þessari þversögn bættu ritarar Flateyjarbókar einfaldlega við það sem þeim fannst vanta uppá Grænlendinga sögu og skeyta því skírn Leifs fremst við söguna. Meta mætti þetta sem vitnisburð um fótfestu ímyndar hins kristna Leifs í menningarlegu minni 14. aldar. Þeir fluttu ekki inn öll atriði af yngri og kristilegu ímynd Leifs, það vantaði trúboðs hlutann. Hægt væri að ímynda sér ýmsar ástæður fyrir því að þetta síðasta atriði var ekki nefnt, kannski var það talið að ef heimkomu og trúboð Leifs yrði bætt við þá myndi þurfa breyta texta Grænlendinga sögu um of. Því var valið að fara ákveðna millileið, þar sem Leifur getur tekið skírn frá konungi í Noregi án þess að það hafi of mikil áhrif á söguþráðinn. Ýmislegt við tengingu fyrri hlutans við megintexta Grænlendinga sögu þykir ekki sérstaklega snyrtilega afgreitt og opnar á gloppur í söguþræðinum, t.d. utanferð Bjarna Herjólfssonar til Eiríks jarls og ónefnd heimkoma Leifs heppna til Grænlands, utanferð Bjarna til Noregs verður til umfjöllunar í kafla 2.2. Kannski var sýn ritarana á hvernig fyrri og seinni hluti Grænlendinga sögu ættu að passa saman óljós og mistök voru þar að leiðandi gerð í ritunarferlinu. Mistök sem ættu þá uppruna sinn, að hluta, vegna vilja ritara til að bæta við afrekaskrá Leifs því sem ekki kom fram í Grænlendinga sögu og vilja til að tengja söguna við Ólafs Tryggvason. Það getur verið áhugavert að skoða vísanir til Vínlandssagnanna í samhengi við stöðu Grænlands gagnvart hinum Norðurlöndunum. Þegar Flateyjarbók var rituð var Grænland orðið hluti af sama konungsveldi og Íslendingar. Samskipti milli Grænlands og konunga Skandínavíu voru afar lítil á þeim tíma sem Flateyjarbók var rituð. Ekki komu lengur vígðir biskupar til Garða og heimildir benda flestar til þess að viðskipti og reglulegur samgangur milli Grænlands og umheimsins hafi minnkað mikið á seinni hluta 14. aldar.67 Með öðrum orðum þá hafði grænlenskt samfélag

67 Sjá: Bjarni Ólafsson, Ráðgátan um endalok norrænnar byggðar á Grænlandi, bls. 9–10. Og 37

þegar Flateyjarbók var rituð aldrei verið Íslendingum/Norðmönnum jafn óviðkomandi frá því að Grænlendingar gengu Noregskonungi á hönd. Samtímis virðist sem Grænlandstenging Ólafs Tryggvasonar hafi lifað góðu lífi í menningarlegu minni Íslendinga og þeim tengingum var haldið á lofti í Flateyjarbók. Yngsta miðaldarhandritið sem geymir Eiríks sögu rauða er Skálholtsbók AM 557, en hún er talin hafa verið skrifuð af Ólafi Loftssyni ásamt tveimur óþekktum skrifurum einhvertímann á árunum 1405–1420.68 Lítið er vitað um önnur atriði eins og t.d. hvar handritið var ritað. Ólafur Loftsson var sonur Lofts ríka, hirðstjóra og auðmanns. Á margan hátt er Skálholtsbók dæmigert barn síns tíma þegar kemur að smekk og efnisvali. Þar er riddarasögum, styttri þáttum og Íslendingasögum blandað saman.69 Ólafur Halldórsson færði rök fyrir því að fyrirmynd Eiríks sögu rauða í Skálholtsbók hafi verið rituð á seinni hluta 13. aldar, byggt á samanburði við Hauksbókar textann og með hliðsjón af sennilegum mistökum við afritun. Þó þetta handrit sé mun yngra en Hauksbók, hefur það þótt koma einkennum forritsins betur til skila en eldra handritið Hauksbók, þar sem meiru var breytt orðalagi í þeim tilgangi að gera textann knappari og hnitmiðaðri, t.d. setja sérnöfn í stað fornafna og fleira. Í Skálholtsbók virðist samt sem áður vera meira um klaufavillur sem koma í ljós þegar textarnir tveir eru bornir saman.70 Í Skálholtsbók ólíkt Hauksbók, hefur heiti sögunnar varðveist og er Eiríks saga rauða þar kölluð „Saga Eiríks rauða“. Engin leið er að segja til um það hvenær sagan fékk þennan titil. En áhugavert er að með því er Eiríkur settur í forgrunn sögunnar. Þar sem hann kemur fremur lítið við sögu, og þó börn hans hafa áberandi hlutverk þá er sagan af Guðríði Þorbjarnardóttur og Þorfinni karlsefni rauði þráður frásagnarinnar. Aftur á móti var hefð fyrir því að tengja titla Íslendingasagna við ættir, en Eiríkur rauði er mikilvægur í upphafi sögunnar og á marga niðja sem koma við sögu, en Þorfinnur/Guðríður eiga aðeins einn afkomanda sem er nefndur í sögunni. Miðað við varðveislu Vínlandssagnanna virðist sem sögur um Grænland og hið fjarlæga Vínland hafi haldið áfram að vera efni sem talið var að einhverju marki eiga erindi við lesendur allt frá 13. öld og þar til eftir Svartadauða á 15. öld. Á þessu sama tímabili breytist margt í samskiptum milli Íslands og Grænlands eins og áður

Guðmundur J. Guðmundsson, Á hjara veraldar. 68 Mårtenson, Studier i AM 557 4to, bls. 310. 69 Mårtenson, Studier i AM 557 4to, bls. 299. 70 Íslenzk fornrit IV, „Formáli eftir Ólaf Halldórsson“, bls. 334–348. 38 kom fram. Þrátt fyrir minnkandi samskipti, og að Grænland hafi aldrei verið íslenskum hagsmunum jafn óviðkomandi, voru handritsgerðarmenn áhugasamir um að skrifa niður sögur sem snéru að Grænlandi og Vínlandi á 15. öld. Eftir á að hyggja er Skálholtsbók rituð á athyglisverðum tíma, það var um þetta leiti sem síðasta þekkta heimsóknin til Grænlands á miðöldum fór fram á árunum 1408-1410. Eftir þessa síðustu heimsókn átti norrænt samfélag á Grænlandi eftir að líða undir lok og rof verður á tengslum í samgangi milli Grænlands og annarra Norðurlanda í um 300 ár.71 Ef eitthvað má lesa í það er það trúlega aðeins vitnisburður um þann mannlega fasta sem fær okkur til að forvitnast um það sem er handan hafsins hverju sinni. Fyrir okkur Íslendinga hefur það verið risavaxni nágranninn í vestri sem heillar og er Íslendingum ávallt áhugavert umhugsunarefni. Eitthvað sem við sjáum endurspeglað í heimildum miðalda og fjölda þeirra sagna sem nota Grænland sem sitt sögusvið.

2.2 Hvað vitum við um Bjarna Herjólfsson? Stutta svarið við spurningunni hér fyrir ofan er harla lítið. Ekkert bendir til þess að höfundur Grænlendinga sögu hafði skriflegar heimildir sem minnast beinlínis á Bjarna Herjólfsson sjálfan. Er persóna hans því byggð á munnlegum heimildum og/eða hugarflugi höfundar Grænlendinga sögu. En nokkur atriði er hægt að taka saman um ættmenn Bjarna. Minnst er á ættmenn hans í Landnámu í bæði Sturlubók og Hauksbók. Minnst er á Herjólf Bárðarson eldri og Bárð Herjólfsson (Langafa og afa Bjarna Herjólfssonar) í Landnámu Sturlubókar. Ingólfur Arnarson, frændi þeirra, á að hafa gefið þessum feðgum land milli Vogs og Reykjaness. Í Landnámu Hauksbókar er ekkert minnst á Bárð Herjólfsson og aðeins talað um Herjólf Bárðarson yngri. Í Landnámu er hvergi sagt talað um hvar Herjólfur Bárðarson bjó, en í Grænlendinga sögu er sagt að hann hafi fyrst búið á Drepstokki áður en hann flutti til Grænlands. Sá bær stóð vestan Eyrarbakka, og hét seinna Refstokkur eða Rekstokkur.72 Ólafur Halldórson taldi líklegt að Bjarni Herjólfsson (reyndar líka stafað Herjúlfsson í Flateyjarbók) og Bjarni Grímólfsson frá Eiríks sögu rauða ættu uppruna sinn í sömu munnlegu hefðinni. En þessi munnlega hefð fyrir persónu Bjarna breyttist á einhverjum tímapunkti. Vel má ímynda sér ástæður þess í Eiríks sögu, þar sem Leifur finnur Vínland fyrstur manna á leið til Grænlands frá Noregi er í raun engin þörf fyrir Bjarna að fara í sína eigin ferð. Hvernig „Herjólfsson“ breytist í

71 Sjá: Guðmundur J. Guðmundsson, Á hjara veraldar. 72 Ólafur Halldórsson, Grænland í miðaldaritum, bls. 329. 39

„Grímólfsson“ er ekki gott að segja til um, en augljós líkindi eru þarna í nöfnunum.73 Í Eiríks sögu rauða er Bjarni Grímólfsson breiðfirskur maður sem gerir út skip ásamt austfirðingnum Þórhalli Gamlasyni og fara þeir samferða skipi Karlsefnis til Bröttuhlíðar. Reyndar virðist höfundur gleyma samverkamanninum Þórhalli um leið og hann er nefndur, hann aldrei framar nefndur í sögunni. Seinna verður Bjarni Grímólfsson samferða Karlsefni til Hóps á Vínlandi og gætir hann búðarinnar með Guðríði á meðan Karlsefni og Snorri Þorbrandsson sigldu víðara um sumarið. Skipstjórnandinn Bjarni Grímólfsson fær loks virkt hlutverk í hliðarsögu undir lok sögunnar sem snýr að forgangsröðun við mannbjargir. Tenging Bjarna Herjólfssonar við Eirík jarl kemur nokkuð spánskt fyrir sjónir í Grænlendinga sögu. Í Flateyjarbók segir:

Fór Bjarni nú til föður síns ok hættir nú siglingu ok er með föður sínum, meðan Herjúlfr lifði, ok síðan bjó hann þar eftir föður sinn74[Kafla skipti] Þat er nú þessu næst, at Bjarni Herjúlfsson kom utan af Grænlandi á fund Eireks jarls, ok tók jarl við honum vel. Sagði Bjarni frá ferðum sínum, er hann hafði lönd sét, ok þótti mönnum hann verit hafa óforvitinn, er hann hafði ekki at segja af þeim löndum, ok fékk hann af því nokkurt ámæli. Bjarni gerðist hirðmaðr jarls ok fór út til Grænlands um sumarit eftir. Var nú mikil umræða um landaleitan. Leifr, son Eireks rauða ór Brattahlíð, fór á fund Bjarna Herjúlfssonar ok keypti skip at honum ok réð til háseta.75

Augljóslega getur Bjarni ekki bæði hætt siglingum og búið hjá föður sínum það sem eftir var og ferðast til Noregs strax í næsta kafla. Eiríkur jarl hefur heldur ekkert með framgang söguþráðarins að bæta. Það væri rökréttara ef Eiríkur rauði legði dóm á Bjarna í Bröttuhlíð, og svo strax í kjölfarið hæfust umræður um landaleitan. Ólafur Halldórsson lagði til að hér hafi „jarl“ kannski verið mislesið fyrir „rauði“. Nánar tiltekið að styttingin fyrir „jarl“ sé miskilin fyrir styttinguna fyrir r með boga.76 Til að þessi hugmynd Ólafs gangi upp verðum við að gera ráð fyrir því að Jón Þórðarson, einn af skrifurum Flateyjarbókar, hafi breytt orðalagi allrar klausunnar verulega frá forritinu, líklega þá í tilraun til að gera textann skýrari, svo Bjarni birtist ekki óvænt í forstofu jarlsins, líka hefði „kom utan af Grænlandi“ fallið að fundi í Bröttuhlíð. Svo gera þarf ráð fyrir nokkuð veigamiklum misskilningi. Við þetta má bæta að ef eldri gerðir Grænlendinga sögu tengdu Leif ekki við

73 Ólafur Halldórsson, Grænland í miðaldaritum, bls. 374–375. 74 Flateyjarbók I, „Ólafs saga Tryggvasonar hin mesta“, bls. 480. 75 Flateyjarbók II, „Ólafs saga Tryggvasonar hin mesta“, bls. 20. 76 Ólafur Halldórsson, Grænland í miðaldaritum, bls. 334–335. 40

Ólaf Noregskonung og ef Eiríkur jarl átti aldrei heima í sögunni væri engin þörf fyrir frásögn um heimkomu Leifs frá Noregi. Og ef Bjarni hittir Eirík rauða í stað Eirík jarls getur Bjarni látið af siglingum líkt og sagt var. Þá væri búið að laga helstu formgalla fyrri hluta sögunnar eins og sagan birtist okkur í Flateyjarbók. Leifur gæti keypt sitt fyrsta skip af Bjarna án þess að vekja upp spurningar lesendans um hvaða skip Leifur tók frá Noregi til Grænlands. Því verður sennilega aldrei svarað hvort Eiríkur jarl var nefndur í eldri gerðum Grænlendinga sögu. En eftir þennan hluta Grænlendinga sögu snýr umfjöllun Flateyjarbókar fljótt að þessum sama Eiríki jarli í Ólafs sögu Tryggvassonar. Þögn heimilda um Bjarna Herjólfsson er hins vegar mikil. Raunar birtist hann hvergi í heimildum miðaldaritum utan Flateyjarbókar.

2.3 Persónulýsingar og ættir Þegar við veltum því upp af hverju aðeins sumir landkönnuðir voru í hávegum hafðir á miðöldum virðast svörin við því liggja að miklu leyti í Vínlandssögunum sjálfum. Höfundarafstaða í báðum sögum hefur tilhneigingu til að skapa hetjuljóma í kringum persónur Leifs, Guðríðar og Þorfinns sem ekki er greinilegur þegar kemur að öðrum persónum á borð við Bjarna Herjólfsson. Að minnsta kosti var persónu hans ekki hrósað eins einhliða. Förum nú ögn dýpra í meðferð sögunnar á persónunum. Í Grænlendinga sögu fær Leifur afar jákvæða kynningu. Ef litið er framhjá inngangskafla er Leifur fyrst nefndur fremstur í röð niðja Eiríks rauða. Í hvorugum Vínlandssögunum fer mikið fyrir persónukynningum og lýsingum ólíkt ýmsum öðrum Íslendingasögum. Leifur fær þó eina slíka persónulýsingu þar sem mannkostum hans er lýst í kaflanum um fyrsta leiðangur hans til Vínlands, þar segir: „Leifur var mikill maður og sterkur, manna skörulegastur að sjá, vitur maður og góður hófsmaður um alla hluti.“ Einnig kom hógværð hans og virðing fyrir foreldrum í ljós fyrr í sögunni þegar hann leitaði til föður síns til að stýra leiðangrinum til Vínlands. Það undirstrikar líka að hér er um að ræða áframhald á afrekum ættarinnar. Guðríður ráðfærir sig við Leif varðandi tilvonandi hjónavígslu við Þorfinn. (Í Eiríks sögu rauða leyfir hún Eiríki að ákveða þetta málefni fyrir sína hönd.) Í sögulok leggur Leifur siðferðislegan dóm yfir voðaverk systur sinnar og spáir illa fyrir um afkvæmi hennar. Þannig er Leifur settur á stall sem siðferðislegt yfirvald sögunnar. Í Eiríks sögu rauða fær Leifur líka mjög jákvæða umfjöllun. Leifur er í fyrstu kynningu sagður efnilegur, en ekki eins mannvænn og Þorsteinn bróðir hans. Þorsteinn deyr síðan sóttdauða og skilur Leif eftir sem vænasta eftirlifandi son Eiríks

41 rauða. Leifur er talsmaður bæði stöðugleika og feðraveldis í samskiptum sínum við Þórgunnu í upphafi sögunnar þar sem hann neitar að verða við beiðni barnsmóður sinnar og hafa hana með til Grænlands, því það var ekki vilji frænda hennar. Þess í stað skilur Leifur hana eftir með gjafir. Reyndar beitir Leifur líka þeirri spaugilegu afsökun að hann og liðsmenn hans séu of liðfáir til að nema Þórgunnu á brott með sér. Sögumaður segir okkur að síðar hafi Þorgils, óskilgetinn sonur Leifs, skilað sér til Grænlands og Leifur gengst við faðerni hans, þessi Þórgils varð „eigi kynlaus maður“, en eins og svo oft í Íslendingasögunum geta efnilegir afkomendur verið mælikvarði á dýrðleika forfeðrana. Í Noregi hafði Ólafur Tryggvason gott álit á Leifi samkvæmt Eiríks sögu rauða: „Lagði konungr á hann góða virðing ok þóttisk sjá, at hann mundi vera vel menntr maðr.“77 Leifur tók fljótt skírn og þegar Ólafur biður Leif um að boða fyrir sína hönd kristni á Grænlandi ljáir Ólafur sendiboða hluta af giftu sinni. En „gifta“ og/eða „hamingja“, hefur stundum verið þýdd sem heppni eða sem einhverskonar örlagamáttur/lífslukka.78 Þessi gifta sem konungur ljáir Leifi er af allt öðrum toga en við hugsum t.d. heppni nú á dögum, sem byggist á tilviljanakenndu hlutkesti. Sjá má beina tilvitnun úr Eiríks sögu rauða fund Leifs og Ólafs í Noregi um þetta atriði á blaðsíðu 21. Á fundi sínum með konungi telur Leifur að erindi kristindómsins verði torflutt á Grænlandi. Þá stappar Ólafur Tryggvason stálinu í hann, fullvissar Leif um að engin sé betur fallinn fyrir þetta verkefni og hann muni „giftu til bera“ og Leifur svarar að það sé einungis vegna þess að hann njóti stuðnings konungsins, líkt og Leifur búist við að konungur styðji sig með giftu sinni. Dæmi eru um það í öðrum konungasögum að konungar voru beðnir af fylgjendum sínum að ljá hluta máttar síns áður en þeir héldu í verkefni fyrir hönd konungs. Slíkt dæmi má finna í Ólafs sögu helga þegar Hjalti Skeggjason segir við Ólaf helga að hann og menn hans þurfi á hamingju konungsins að halda áður en þeir halda í sendiför til Svíakonungs.79 Ef þessari túlkun á Eiríks sögu rauða er haldið til streitu mætti í raun rekja þá heppni sem Leifur naut til Ólafs Tryggvassonar. Þetta setur líka meinta hafvillu Leifs í lofsamlegt samhengi. Leifur villtist ekki tilviljunarkennt og fann þannig Vínland heldur var þar gifta konungs sem stýrði örlögum kristniboðaras. Kannski hjálpaði máttur konungs líka þegar Leifur fann strandaglópa á skeri og fékk í kjölfarið

77 Íslenzk fornrit IV, „Eiríks saga rauða“, bls. 210. 78 Sjá: Sommer, „The norse concept of luck“. 79 Flateyjarbók II, „Ólafs sögu helga“, bls. 131–132. 42 viðurnefnið heppni. Það gefur landafundinum helgisvip að Leifur hafi í erindagjörðum fyrir guð og konung fundið stað sem líktist paradís á jörð, þar sem sjálfsáið hveiti og vínber var að finna. Líkt og Leifi hafi verið ætlað af æðri máttarvöldum að finna landið sem líktist paradís, að sá veraldlegi heiður sem Leifur hlaut úr krafsinu hafi í einhverjum skilningi verið verðlaun konungs og skaparans fyrir að skírast og sinna kristniboði. Þorfinnur fær einnig afar jákvæða umfjöllun í Grænlendinga sögu. Í fyrstu kynningu hans er látið nægja að kynna ættmenni hans og nefna að hann hafi verið stórauðugur af fé, honum er einnig lýst sem jafnaðarmanni og sagt frá því að hann heiti fylgismönnum sínum að jafnt skuli skipta þeim gæðum sem áskotnast úr Vínlandsferðinni.80 Þegar Karlsefni fer fyrir flokki sínum í viðskiptum við skrælingja virðist hann nánast forspár í ákvörðunartöku sinni og sér nánast alltaf fyrir næstu skref í samskiptum við þá.81 Seinna þegar Þorfinnur og Guðríður halda til Noregs með varning sinn segir að þau hafi veirð í góðu yfirlæti hjá hinum göfgustu mönnum þar í landi. Sögu Þorfinns lýkur þegar hann selur hússnotrutré sitt í Brimum fyrir hátt gjald. Bjó hann eftir það í Glaumbæjarlandi og sagður hið mesta göfugmenni, einnig er minnst á ættboga þeirra hjóna.82 Í Eiríks sögu rauða kemur fram álíka jákvæðni í garð Þorfinns. Hann er kynntur þegar hann stígur inn á sögusviðið og er sagður ættgóður, auðugur, og þykir vera fardrengur góður. Fljótlega eftir kynninguna komast Eiríkur rauði og Karlsefni að farsælli niðurstöðu um að Karlsefni skyldi kosta til jólahátíðar í Bröttuhlíð. Sú veisla var sögð sú sköruglegasta sem sést hafði.83 Þegar haldið er í Vínlandsferðina er Karlsefni vitur og ráðagóður leiðtogi sem glapræði þótti að hlusta ekki á. Eitthvað sem Þórhallur veiðimaður fær að kenna á þegar hann leiðir sig og skipsfélaga sína til glötunar, eftir að hafa skilið við Karlsefni og kveðið vísu þar sem hann undrast það að þurfa drekka vatn en ekki vín í þessari ferð. Fékk Þórhallur óhagstætt veður og „rak þá upp við Írland“ og voru menn hans mjög þjáðir, en þar lauk ævi Þórhalls veiðimanns.84 Ef við berum þessar beinu og óbeinu lýsingar saman við þá meðferð sem

80 Flateyjarbók II, „Ólafs saga Tryggvasonar hin mesta“, bls. 27. 81 Flateyjarbók II, „Ólafs saga Tryggvasonar hin mesta“, bls. 28–29. 82 Flateyjarbók II, „Ólafs saga Tryggvasonar hin mesta“, bls. 32. 83 Íslenzk fornrit IV, „Eiríks saga rauða“, bls. 219–220. 84 Íslenzk fornrit IV, „Eiríks saga rauða“, bls. 226. 43

Bjarni Herjólfsson fær sést fljótt að hann stendur ekki jafnfætis við Leif og Þorfinn. Í upphafi er honum þó lýst með jákvæðum hætti.

„Bjarni […] var hinn efnilegsti maður. Hann fýstist utan þegar á unga aldri. Varð honum gott bæði til fjár og mannvirðingar og var sinn vetur hvort, utan lands eða með föður sínum. Brátt átti Bjarni skip í förum.

Sagan kemur lesendum þó fljótt í skilning um það að Bjarni er ekki aðalhetjan í þessarar sögu. Þegar Bjarni ætlar að halda til Grænlands virðist hann fyllast efa um ferðina og gefur lesendum neikvæða forspá um óvænta útkomu. Bjarni segir: „Óviturleg mun þykja vor ferð þar sem engi vor hefir komið í Grænlandshaf.“ Eftir það missa Bjarni og hásetar hans áttir í þoku og norðanvindi en finna að lokum land. Bjarni er settur í andstöðu við forvitna og nafnlausa háseta sem vildu ganga á land í þrígang. Í annað skipti sem Bjarni neitar að fara á land segja hásetar hans þá skorta bæði vatn og við. Bæði er hægt að lesa þennan meinta skort sem uppgerðan eða bókstaflegan, en það breytir því ekki að hásetar Bjarna voru ekki ánægðir með svar hans. „Að öngu eruð þér því óbirgir“ svaraði Bjarni, en af þessu svari fékk Bjarni „nokkuð ámæli af hásetum sínum.“ Hjá hinu þriðja landi var Bjarni enn aftur spurður af hásetum sínum, en í það skipti er nóg fyrir Bjarna að svara því að landið sem nú sést til sé „ógagnvænlegt“.85 Gagnvart Bjarna er því ekki um ræða sama traust og borið er til Leifs og Karlsefnis í þeirra leiðangrum, þeir eru ekki gagnrýndir á sama hátt af ónafngreindum fylgdarmönnum sínum. Þvert á móti sýnir sagan okkur glapræði þess að fylgja ekki Karlsefni þegar Þórhallur veðimaður, eini maðurinn sem gagnrýnir Karlsefni og kemur eingöngu fyrir í Eiríks sögu rauða, lætur lífið. Þórhallur var heiðinn, svartur og þursalegur, ódæll, þursalegur, illorður og fýstist jafnan hins verra.86 Þórhallur er skapaður sem mótvægi til að undirstrika prúðmennsku Þorfinns. Bjarni Herjólfsson á sér enga nafngreinda fylgismenn, á meðan Leifur í Grænlendinga sögu og Þorfinnur karlsefni í báðum Vínlandssögunum hafa hóp af hæfum og nafngreindum bandamönnum sér til aðstoðar, á borð við Snorra Þorbrandsson, Þorvald Eiríksson, Freydísi Eiríksdóttir, Guðríði Þorbjarnardóttir, Haka, Hekju, Bjarna Grímólfsson, Tyrkir suðurmann og fleirum. Eftir að Bjarni Herjólfsson hefur lokið ferð sinni meðfram þremur óþekktum

85 Flateyjarbók I, „Ólafs saga Tryggvasonar hin mesta“, bls. 478–480. 86 Íslenzk fornrit IV, „Eiríks saga rauða“, bls. 222. 44 löndum býr hann á Herjólfsnesi og lætur af siglingum, en það stöðvar ekki sögumanninn frá því að koma Bjarna til Eiríks jarls í Noregi.87 Þar segir um heimsóknina: „tók jarl við honum vel. Sagði Bjarni frá ferðum sínum er hann hafði lönd séð og þótti mönnum hann verið hafa óforvitinn er hann hafði ekki að segja af þeim löndum og fékk hann af því nokkuð ámæli.“88 Seinna þegar Bjarni er með öllu úr sögunni og Leifur hefur keypt af honum skipið er Bjarni samt sem áður ekki sloppinn við gagnrýni. Þegar Leifur steig fæti á fyrsta landið sem varð á vegi leiðangursins mælir hann við áhöfn sína: „Eigi er oss nú það orðið um þetta land sem Bjarna að vér höfum eigi komið á landið. Nú mun eg gefa nafn landinu og kalla Helluland.“89 Með öðrum orðum, Leifur lýsir því yfir að hann og fylgismenn hans hafi nú gert betur en Bjarni, því þeir hafa nú stigið á land. Það er aðallega tveir staðir þar sem jákvætt viðmót birtist í garð Bjarna í sögunni, það er í kynningu hans og þegar jarl tekur vel á móti honum. Aftur á móti er hann iðulega látinn þola neikvæða gagnrýni í sögunni, bæði af sjálfum sér og svo ítrekað af hásetum sínum, loks er hann sagður óforvitinn og fær ámæli frá mönnum í hirð Eiríks jarls og eftir að Bjarni er úr sögunni er hann ekki laus við ámæli þar sem persóna hans er notuð sem mælistika til að auka hróður Leifs og félaga hans þegar þeir lenda á Hellulandi. Sú hugmynd sem margir lesendur virðast hafa af Bjarna Herjólfssyni virðist ef til vill vera af stressuðum meðalmanni, sem þrátt fyrir ágæti sitt, hefur ekki hugrekkið til að rísa upp og mæta hinu óvænta. Að minnsta kosti virðist það, eftir því sem höfundur þessarar ritgerðar hefur heyrt í kringum sig hjá þeim áhugamönnum sem hafa gaman af því að kryfja Íslendingasögurnar. Ef persónan Bjarni Herjólfsson er einungis hugarsmíð höfundar, og á sér ekki fyrirmynd í raunverulegri fortíð, er persóna hans í raun fullkomlega hönnuð fyrir hlutverk sitt í sögunni. Sögu sem hefur það helsta hlutverk að upphefja Þorfinn, Guðríði og Leif, í bland við skemmtisögur og fræðslu um framandi lönd. Með því að gera Bjarna Herjólfsson að svo miklu meðalmenni er höfundur mögulega að skapa persónu sem er hentugur til þess að koma söguþræðinum af stað og skapa forvitni hjá lesendum fyrir nýju löndunum sem seinna eru heimsótt. Einnig verður meðalmennska Bjarna óbeint til að upphefja stórmenni sögunnar. Það mætti jafnvel segja að

87 Sjá meira um þversögn Grænlendinga sögu í kafla 2.2. 88 Flateyjarbók II, „Ólafs saga Tryggvasonar hin mesta“, bls. 20. 89 Flateyjarbók II, „Ólafs saga Tryggvasonar hin mesta“, bls. 21. 45 framvinda sögunnar þarfnist persónu á borð við Bjarna, það er, ef ætlun höfundar var að láta landaleitan Leifs hefjast í Bröttuhlíð líkt og gerist í Grænlendinga sögu, þarf Leifur ástæðu til að leggja í leiðangurinn og finna Vínland. Það skapar einnig spennu og stigmögnun í sögunni að Bjarni skuli sjá þrjú ókönnuð lönd. Ráðgátan hefst með Bjarna og forvitni viðtakenda er vakin, og er svo fullnægt seinna með ferðum Leifs, sem finnur paradísarkennt land og byggir bústað og Þorfinns sem kannar landið frekar og verslar/berst við þá innfæddu. Bjarni er ekki hafinn til skýjanna sem stórmenni svo hann dragi athyglina í burtu frá hinum, en hann er heldur ekki settur fram í of neikvæðu ljósi. Það væri heldur ekki við hæfi að upphafið af sögum um hið paradísarkennda Vínland, stað sem tengdist fæðingu forfaðirs nokkurra biskupa og afrekum stórmenna, hæfist á umfjöllun um lítilmenni. Mætti á þann hátt segja að persónusköpun Bjarna í Grænlendinga sögu hafi hentað söguheildinni vel. Bjarni er fínn, en ekki frábær. Bjarni á sér ættir, en ekki of góðar ættir. Bjarni hefur ekki það bolmagn í krafti persónu sinnar, samfélagsstöðu eða ættar til að fá á sig hetjulegt yfirbragð, hljóta upphafningu og keppa við merkari persónur Grænlendinga sögu. Þorfinnur, Guðríður og Leifur eru hins vegar heiðruð óspart og fer aldrei á milli mála að þetta eru aðalhetjur sögunar. Staða Leifs í samfélagsstiganum er að mörgu leyti langt umfram Bjarna. Leifur er sonur höfðingja sem kunnur var fyrir landkönnun. Þessi staða hans gefur honum mikið forskot í þessari keppni um heiður. Það virðist líka ljóðrænt að sonur landkönnuðsins hafi haldið fjölskylduhefðinni áfram og kannað ný lönd. Guðríður og Þorfinnur karlsefni hafa sömuleiðis ákveðin ljóma vegna afkomenda sinna, biskupanna. Með öðrum orðum, ef fólk vill velja sér hetjur til að setja á stall skemma ekki fyrir forréttindi sem felast góðum ættum, sterkri samfélagsstöðu eða glæstri arfleifð. Bjarni Herjólfsson hefur ekkert af þessu til brunns að bera, faðir hans var ekki mikill höfðingi, heldur ákvað að fylgja í kjölfar Eiríks vestur, forfeður hans á Íslandi þáðu land á Reykjanesi af Ingólfi Arnarsyni. Niðjar Bjarna eru aldrei nefndir og eru löngu gleymdir, grafnir og kannski grafnir upp aftur í fornleifarannsóknum í kirkjugarðinum í Herjólfsnesi. Hægt er að öðlast ögn jákvæðari sýn á háttalag Bjarna ef rýnt er betur í textann framhjá hinu augljósa og yfirborðskennda. Hæglega væri að fá ímynd af ábyrgum skipstjórnanda sem þarf að taka erfiðar ákvarðanir með takmarkaðar auðlindir og tíma. Upphaflega ætlaði Bjarni aðeins að sigla til Íslands og eyða þar vetrinum hjá 46 föður sínum. Breyttist sú áætlun fljótt í það sem átti að vera lengri áframhaldandi sigling til Grænlands með snertilendingu á Íslandi. Lesendur gætu gert sér í hugarlund að skip Bjarna hafi ekki verið fullvistað fyrir svo langa ferð. Bjarni kemur til Eyrar um sumarið, líklega með skip sitt hlaðið varningi til að selja á Íslandi, en faðir hans hafði haldið til Grænlands um vorið. Fréttir af búflutningum föður síns koma Bjarna í opna skjöldu og hann „vildi eigi bera af skipi sínu. Þá spurðu hásetar hans hvað er hann bærist fyrir en hann svaraði að hann ætlaði að að halda siðvenju sinni og þiggja af föður sínum veturvist“.90 Þessi reyndi kaupskipaskipstjóri hafði fyrr ákveðið að ferðin til Íslands yrði hans síðasta þetta siglingatímabil, því má álykta að tímasetningin hafi gert það að verkum að fljótlega yrði veður ekki hagstætt til siglinga í Norður-Atlantshafi. Hér er því um ákveðna svaðilför að ræða, enda virðist hann viðurkenna það fyrir sjálfum sér þegar hann kveður ferðina „óviturlega“. Bjarni setur stefnuna á land sem hann þekkir aðeins frá sögusögnum, með takmarkaðar vistir sem áttu eingöngu nægja fyrir ferð frá Noregi til Íslands ofan á það er farið að síga á siglingartímabilið. Með öll þessi atriði í huga er Bjarni skiljanlega áhyggjufullur þegar skipi hans hefur blásið af leið og hann sér óþekkt lönd. Nú hafði ferðaáætlun Bjarna breyst tvisvar með stuttu millibili. Hið ábyrga í stöðunni var að hefja leit að næstu öruggu höfn, án tafa, til að eyða þar vetrinum. Þessi túlkun á landafundunum í Grænlendinga sögu er ekki langsóttur, til dæmis hefur höfundur sögunar gott álit á persónu og hæfileikum Bjarna og lýsir honum með jákvæðum hætti, bæði úr eigin munni og óbeint með áliti jarls. Þegar Leifur heldur seinna í leiðangur sinn í Grænlendinga sögu var það af ásettu ráði og því hefur verið hægt að skipuleggja leiðangurinn út frá því. Hlutverk Bjarna í sögunni þarf því ekki endilega að vera af stressuðum meðalmanni sem ekki reyndist nægilegt mikilmenni að grípa gæsina meðan hún gafst, heldur af ábyrgum skipstjóra sem kom skipi sínu í örugga höfn eftir að hafa lent í hafvillu. En vegna óheppilegra aðstæðna og skilningsleysis sögupersóna og lesenda Grænlendinga sögu hefur Bjarni Herjólfsson þurft að þola gagnrýni sófasérfræðinga síðasta árþúsundið. Bjarni er að mörgu leyti góður og hæfur leiðtogi, en á hinn boginn þarf hann að þola gagnrýni úr ýmsum áttum, fyrir ákvarðanir sem varla var hægt að rengja.

90 Flateyjarbók I, „Ólafs saga Tryggvasonar hin mesta“, bls. 479. 47

2.4 Nafngiftir og landafræðikunnátta Í Eiríks sögu rauða er það tekið fram að Leifur hafi fyrstur fundið nýtt land í vestri og að þar hafi verið að finna vínber. Landið fékk þó ekki heiti fyrr en Karlsefni undirbjó leiðangur sinn. Hægt er þó að gera ráð fyrir því að vegna landskosta hafi lesendur sögunar strax verið meðvitaðir um hvaða land er hér um að ræða. Því þurfti ekki beinlínis að segja lesendum að Leifur hefði lent á Vínlandi. Frásagnir um Vínland voru vel þekktar í íslensku samfélagi á 12. og 13. öld, líkt og fyrr hefur komið fram, og því hefur ekki þurft að nefna Vínland sérstaklega á nafn þegar það birtist. Þetta gaf líka viðtakendum sögunar tækifæri til að fylla sjálfir inn nafn landsins í eyðuna. Nöfnin á löndunum sem Leifur og Karlsefni heimsóttu hafa verið lesendum afar augljós, enda eru nöfn á helstu kennileitum Vínlandssagnanna frá þeim komin, með nokkrum undantekningum. Í tilfelli Bjarna Herjólfssonar er þó ekki hægt að segja neitt um nöfn og nafngiftir er því erfitt að finna réttu orðin fyrir fund hans. Hann sigldi framhjá þremur óþekktum löndum, sem gefið er til kynna að speglist í löndunum þremur sem Leifur gefur nöfn. Að hve miklu leyti er hægt að fá heiður fyrir það sem ekkert heitir og er ekki hægt að skilgreina? Ef litið er til tungumálsins mætti segja að Bjarni hafi nánast ekki fundið neitt. Aðeins í tilfelli Hellulands var vísað til þess innan sögunar að þetta væri sama landið og Bjarni sigldi framhjá. Ekki er hægt að segja að Bjarni hafi fundið Vínland, þar sem aldrei er bókstaflega staðfest með fullri vissu í sögunni að nafngiftir Leifs og lönd Bjarna séu algerar hliðstæður. Þó fagurfræði sögunar og sú ímynd landanna sem kynnt er í Grænlendinga sögu hljóti að hafa gefið lesendum þá tilfinningu um að löndin þrjú sem Leifur nefndi séu sömu lönd og Bjarni hafði áður fundið. Ef við myndum bregða okkur í búning einhvers á 19. og 20. öld, sem vill beita kerfisbundinni bókstafstúlkun til að finna kennileiti Vínlands á borð við Hóp og Straumfjörð er engin ástæða til að halda að lönd Bjarna og nafngiftir Leifs falli saman. Með stuttu yfirliti á landakort er auðvelt að túlka þessi þrjú sérstöku lönd Bjarna á ótal vegu og spyrja sig að því hve stór þessi þrjú lönd hafi verið og hvernig voru þau afmörkuð. Frá sjónarhóli nútímans þykir þetta ef til vill ekki ofurmikilvægt atriði að löndin þrjú hafi ekki fengið nafn þegar Bjarni sigldi framhjá. Í huga nútímamanna er aðeins ein heimsálfa sem kemur til greina. Það sem taldist mikilvægasta afrekið í

48 nútímanum var að finna heimsálfuna Ameríku, en ekki aðeins afmarkaðan hluta hennar. Grófa hugmynd er hægt að fá um heimshlutana sem Bjarni sigldi meðfram með stuttu yfirliti yfir hnattlíkan. Frá því sjónarhorni, ef rétt skal vera rétt, er Bjarni Herjólfsson þar með orðinn fyrsti evrópski fundarmaður Ameríku, sbr. Grænlendinga sögu. Á miðöldum var þó engin slík heimsálfa til í hugarheimi Evrópumanna og engin augljós yfirheiti sem hægt var að nota. Einu þekktu heimsálfurnar voru Evrópa, Asía og Afríka.91 Það næsta sem kemst samheiti yfir það sem við þekkjum í dag sem Ameríku í miðaldarheimildum er það sem finna má finna í Historia Norwegia, þar sem gert var lesendum grein fyrir að fyrir utan Grænland væru „eyjur nálægt Afríku“. Afríka er að sjálfsögðu álfa sem þá var kunn flestum lærðum mönnum. Að finna eyjar fyrir utan þá heimsálfu þótti kannski ekki eins byltingarkennt. Nema kannski ef þessar afrísku eyjar hefðu einhverja sérstaka eiginleika eða gæfu af sér nyt, en Vínland hafði sérstakan sess sökum landkosta sinna og var þar með afar eftirminnilegt. Eins og sagt er í Grænlendinga sögu siglir Bjarni framhjá óþekktum löndum og Leifur gefur seinna löndunum þremur nöfn. Þessar nafngiftir Leifs mætti marka sem ákveðna vígslu hinna nýju landa inn í tungumálið sem og menningarheim viðtakenda. Rétt eins og Kólumbus fann Hispaniola og San Salvador, fann Leifur Vínland, á meðan Bjarni fann eitthvað nafnlaust og ógreinilegt. Í Eiríks sögu rauða er það sameiginlegur leiðangur Karlsefnis, Guðríðar, Snorra Þorbrandssonar, Þórhalls veiðimanns og Eiríks-niðja sem finnur og gefur nöfn Hellulands og Marklands. Aldrei er talað sérstaklega um fundarmenn Marklands og Hellulands í sérstöku heiðursljósi. Í Landnámu hluta Hauksbókar, þar sem vísað er í Eiríks sögu rauða, er Karlsefni nefndur sem fundarmaður Vínlands, þó hann hafi verið annar til að lenda þar samanborið við Leif. Karlsefni veitist hins vegar ekki neinn sérstakur heiður fyrir að vera ótvírætt, samkvæmt Eiríks sögu rauða, einu heimild Hauks lögmanns um málefnið eftir því sem við best vitum, fyrsti fundarmaður Hellulands og Marklands. Það virðist ekki sérstaklega minnistætt að minnast á slíkar dáðir, heldur er aðeins rætt um fundarmenn Vínlands í slíkum dýrðarljóma.92 Kannski má gera ráð fyrir því að engin hafi haft áhuga á því að heiðra fundarmenn gæðasnauðra landa. Eða að minnsta kosti gæðasnauðra samanborið við hið paradísarlega Vínland. Þó raunar mætti segja að Markland hafi alls ekki verið

91 Sjá: Sverrir Jakobsson, „Vínland and wishful thinking. Medieval and modern fantasies“. 92 Sjá: Kafla 2.1 í ritgerðinni. 49 gæðasnautt fyrir Grænlendinga.93 Vínland var ávallt efst í umræðunni. Vínland var staðurinn sem fangaði athygli fólks þegar kom að landafundum út frá Grænlandi. Önnur lönd skiptu minna máli. Aldrei er minnst á fundarmenn Marklands eða Hellulands óháð stærra samhengi Vínlandsfundana fyrr en við nálgust eigin öld, og þá aðeins í afar takmörkuðum mæli. Talað var um hina norrænu fundarmenn Vínlands á miðöldum og svo breyttist umræðan frá því að landafundasagan snerist um nýja eyju, Vínland, yfir í það að snúast um að finna nýju heimsálfu Ameríku. Orðræðan um þessar „Ameríkuferðir“ miðalda hafði jafnan snúist um tilteknar persónur, þar sem Leifur Eiríksson og Þorfinnur karlsefni voru fremstir í flokki og þeir heiðraðir ítrekað af mörgum þeim heimildum sem varðveist hafa. Því gerðist það að mörgu leyti samfara breyttri landakunnáttu þegar Vínlandi var skipt út fyrir Ameríku fylgir heiðursljómi Leifs Eiríkssonar og Karlsefnis með. Eðlilegt er að tregi ríki til að endurskoða goggunarröð hetjudáða sem miðaldarit höfðu þegar kynnt fyrir lesendum. Enda eru Leifur og Þorfinnur frábærar hetjur og mikill hvati og hefð fyrir því að halda uppi minningu þeirra áfram. Ef til vill tengjast ofantöld atriði því viðmóti sem birtist hjá Þórmóði Torfasyni, en það er til umræðu í kafla 3.4. Ótengt Þórmóði hafa flestir áhugamenn trúlega einhver tímann hef ég rekist á orðræðu í sem fer eitthvað á þessa leið: „Víkingarnir fundu Ameríku fyrst, sem þeir kölluðu Vínland.“ Ekki þarf ekki að leita langt til að finna dæmi um efni unnið fyrir almenning að Vínland sé jafnað við Ameríku.94 Heimildir segja okkur að Leifur hafi fundið Vínland, á meðan Bjarni í Grænlendinga sögu fann aðeins þrjú óþekkt lönd. Liggur því augum uppi að í því samhengi sé Leifur betri kostur til að uppgötva Ameríku, þar sem gert er samasemmerki er stundum gert milli Vínlands og Ameríku. Það er líka kostur að hugtakið Vínland hafi svo mikinn heiðursljóma úr fornsögnum, þá er hægt að jafna hugtakinu Ameríku við eitthvað sem hefur sambærilegan heiðursljóma. Ekki væri á sama hátt hægt að beita Marklandi eða Hellulandi. Í samhengi við ofangreindar hugmyndir um mikilvægi nafngifta skulum við

93 Um nyt sem talið er að Grænlendingar hefðu notið af meginlandi Ameríku árhundruði eftir aldamótin þúsund væri meðal annars hægt að sjá: Ljungqvist og Charpentier, „The significance of remote resource regions for Norse “. 94 Ekki ætla ég að vísa til mikilla heimilda um þessa orðræðu hefð enda ætti hún að vera augljós flestum sem hafa litið yfir eitthvert magn af efni tengdum Vínlandsferðunum sem ætlað er ensku mælandi almenningi. Ætla ég að láta nægja að vísa í eftirfarandi grein frá Smithsonian Magazine sem dæmi um slíka orðræðu. Sjá: Vef. Linden, „The : A Memorable Visit to America“. 50 gera eftirfarandi hugsunartilraun. Hliðarveruleiki þar sem eftir lýsingu Grænlendinga sögu hefðu landafundir Bjarna, Leifs og Karlsefnis hefðu orðið upphaf að straumhvörfum í sögunni á borð við landafundi Kólumbusar árið 1492. Hugmyndin um meginland Ameríku hefði ratað inn í landfræðilega heimsmynd Norðurlandabúa strax á 11. öld. Væri má ímynda sér að rakning þeirra sagna sem ritaðar voru á 13. öld myndi oft hefjast á því að Bjarni Herjólfsson siglir meðfram óþekktum ströndum. Sem staðfest yrði svo fljótlega að tilheyrðu afmarkaðri heimsálfu. Þetta myndi gefa sagnariturum miðalda mikinn hvata til að rekja fund nýja heimsins með því að ræða Bjarna og ferðalög hans. Þar sem hægt væri að segja með góðri samvisku að Bjarni hafi fyrstur séð og siglt meðfram ströndum þekktrar heimsálfu, það er Ameríku, þar sem finna mætti Vínland og fleira athyglisvert, gætu sagnaritarar rekið söguna og átt gott yfirheiti fyrir þau lönd sem Bjarni sigldi meðfram. Strax var hægt að setja ferðir Bjarna í samhengi við merkilega uppgötvun. Ekki myndi spilla fyrir að ekki væri hægt að segja nákvæmlega frá því hjá hvaða löndum Bjarni sigldi framhjá og hvort Vínland hefði verið meðal þeirra, þar sem Vínland væri skilgreint sem hluti af hinum stóra landmassa Ameríku. Þessi hugsunartilraun er aðallega framkvæmd til að sýna fram á mikilvægi þess að hafa hugarheim og tungumál fortíðarinar í huga þegar könnuð er staða þessara hugtaka og landkönnuða í menningarlegu minni. Þar sem engin hugmynd var til um að finna mætti nýjar heimsálfur var aðeins hægt að tala um þrjú óþekkt lönd. Miðaldaritarar höfðu takmarkaðan áhuga á því að minnast fundarmanns ónefndra landa, sem voru ekki hluta af stærra fyrirbæri, en þar að auki var hægt að finna aðrar eftirminnilegar vísanir um að Leifur Eiríksson væri fyrsti fundarmaður Vínlands. Landi með sjálfssprotnu hveiti og villtum vínvið. Í seinni tíð kom meiri áhugi á því að skipta beinlínis út Vínlandi fyrir annað land sem var þótti jafn verðugt að finna, það er Ameríku.95 Þegar loksins var hægt setja Vínlandssögurnar í samhengi við Ameríku var það orðið of seint fyrir heiðursljóma Bjarna að ná neinu flugi. Bjarna hafði þegar verið vísað til sætis í goggunarröð heiðurs, yfirhöfuð fékk hann reyndar aldrei neitt rými í umræðunni þar til Arngrímur skrifar Grönlandia, sem verður til umræðu í næsta kafla. Vegna umræðuhefðar sem myndaðist á miðöldum virðist tregi til að endurskoða hlutskipti Bjarna og skilning á landafundum hans hefur haldist alveg til okkar daga þrátt fyrir þann breytta landafræðiskilning sem opinberaðist um mitt árþúsundið.

95 Það að skipta beinlínis út Vínlandi fyrir Ameríku í orðræðu á meira við um síðustu aldir fremur en tímabilið sem ritgerðin nær til. 51

3 Nýöld

3.1 Grönlandia Arngríms lærða Arngrímur Jónsson lærði (1568–1648) samdi Grönlandiu á latínu í kringum árið 1600 en ritið var ekki gefið út á íslensku fyrr en árið 1688, og ekki á dönsku fyrr en árið 1732.96 Ólíkt Grænlandsannál, sem verður til umræðu í næsta undirkafla, eru upplýsingar Arngríms lærða um Vínlandsferðirnar aðallega komnar úr Grænlendinga sögu. Annars þekkti Arngrímur ýmsar íslenskar heimildir á borð við Króka-Refs sögu, Fóstbræðra sögu. Einnig hefur hann þekkt til sama fróðleiks og í Konungsskuggsjá. Að auki hefur Arngrímur þekkt einhverjar gerðir Landnámu. Einnig hefur Arngrímur þekkt til erlendra heimilda sem ekki verður gert grein fyrir hér. Eftir minni bestu vitund, eftir að hafa skoðað Grönlandia gaumgæfilega, er ekkert sem bendir til þess að Arngrímur hafi þekkt til Eiríks sögu rauða á þeim tíma sem Grönlandia var rituð. Þær upplýsingar, sem eru sameiginlegar með Grönlandia og Eiríks sögu rauða, eru líklega fengnar úr öðrum heimildum. Til dæmis í inngangi Grænlendinga sögu í Flateyjarbók og Landnámu. Ef Arngrímur hafði einhvern aðgang að Eiríks sögu rauða, er það ekki sjáanlegt í texta Grönlandia. Megináherslan í Grönlandia er að lýsa og fræða lesendur um Grænland. Landafundirnir vestan Grænlands fá umfjöllun í síðustu köflunum. Arngrímur nefnir fyrst Herjólf og Herjólfsnes í öðrum kafla, ásamt fleiri kennileitum og landnámsmönnum. Ekkert er þar minnst á son Herjólfs, fremur en í Landnámu. Síðan fær efni Grænlendinga sögu sérstaka umfjöllun í níunda og tíunda kafla. Níundi kafli ber heitið: „Um Helluland/ Markland oc Vínland.“97 Í fyrstu málsgrein kaflans lýsir Arngrímur umfjöllunarefninu fremur stuttlega en er ekki viss hvort þessar lendur séu eyjur eða hálfeyjur. Þar segir: „at skýra frá þeim eyjum (eður halfeyjum) sem þar í þeim grænlenska sæ hafa fundnar verit, af Grænlands innbyggjurum.“ Annar kafli ber heitið: „Önnur ferð af Grænlandi til Vínlands“, þá er það vísun í ferðir þeirra sem vísuðu í fótspor Leifs.98 Bjarna Herjólfssyni var, í takt við Grænlendinga sögu, lýst sem manni sem sigldi mikið í kaupskipaferðum. Bjarni fær fyrst jákvæða umfjöllun hjá Arngrími, trúlega fyrsta jákvæða umfjöllunin sem Bjarni hefur fengið. Raunar er þetta líka eina

96 Sigríður Helga Þorsteinsdóttir, Biskupsmóðir í páfagarði, bls. 38. 97 Arngrímur Jónsson, Grönlandia, bls. 33. 98 Arngrímur Jónsson, Grönlandia, bls. 35. 52

þekkta umfjöllun um hann í varðveittum heimildum að undanskilinni Flateyjarbók. Í Grönlandiu segir um ferðir Bjarna (sem reyndar var kallaður „Beörn“ eða „Björn“):

Herjólfur hét maðr íslenskur ok sonur hans Björn er hvert sumar var í farferðum landa í millum, en sem hann var eitt sinn í Noregi, kom Herjólfi í hug at færa bú sitt til Grænlands. Hann gerði svo […] en sem Björn kom aftur frá Noregi, vildi hann ekki (sem hann var vanur) létta skip sitt á Íslandi heldr leita sinna föðurs […] hafði þó engan mann á skipi með sér þann leiðina vissi […] hann hafði og hvorki leiðarsteina né neinn vísir, svo sem sjá má af sögu þessari. En það er sagt að hann hafi aðeins af sólargangi skynjað átta deilingar og af almanna rómi hugfesti hann ferðina. (Sú var hugprýði hinna fyrri manna). Hann lét í haf og sigldi til vesturs […] þá brá veðri […] sáu þeir land áleingdar, og svo þeir nálguðust landið, sáu þeir at þar voru sléttur miklar enn fjöll engin, með miklum skógum. Þeir komu ekki uppá landið […] og áður þeir fundu Grænland sáu þeir tvö eylönd og sigldu fram hjá báðum. Næsta sumar sigldi Björn til Noregs […] og sagði Eyríki jarli er þá réði fyrir Noregi frá þessum nýju löndum er hann hafði séð, en ekki kannað. Þessi saga virðist honum til ámælis, að hann hefði ekki framar at segja af þeim löndum er hann hafþi fundið og sigldi hann þaðan aftur til Grænlands. Leifur son Eiríks rauða, er fyrstur fann Grænland, vildi gjöra að dæmum föður síns og ekki láta þessi lönd lengi ókönnuð vera.99

Hvaðan Arngrímur fær hugmyndina um að Bjarni hafi þótt svo hæfileikaríkur í að skynja áttir eftir sólargangi er ekki gott að segja. Reikna má með að flestir hæfir sjófarendur miðalda hafi getað skynjað áttir eftir himintunglunum að vissu marki. Hvergi er þó gefið í skyn, í Grænlendinga sögu, að Bjarni þótti sérstaklega framarlega á þessu sviði, beint eða óbeint. Arngrímur skrifaði um fyrsta landið sem Bjarni og hásetar hans sáu og segir það hafi verið slétt og skógi vaxið. Markland og Helluland lætur Arngrímur sér nægja að segja að á leið til Grænlands „sáu þeir tvö Eylönd og sigldu framhjá báðum.“ Ekki er minnst á í Grænlendinga sögu sjálfri að tvö af löndunum séu eylönd aðeins að síðasta landið (Helluland) var eyland samkvæmt Grænlendinga sögu. Hér er spurning hvort Arngrímur sé að mislesa Grænlendinga sögu eða hvort honum þyki einfaldlega líklegra að um hafi verið að ræða eyjur fremur en meginlönd og miðli því þannig til lesenda. Arngrímur hafði þegar slegið varnagla í upphafi kaflans um að nýju löndin kunni að vera bæði eyjur eða hálfeyjur. Arngrímur miðlaði ekki frásögn Grænlendinga sögu, um efasemdir Bjarna um viturleika ferðarinnar og þekkingarleysis hans á siglingaleiðinni, á neikvæðan hátt.

99 Arngrímur Jónsson, Grönlandia, bls. 33–34. 53

Fremur dregur hann upp rómantíska mynd af fortíðinni eins og hún leggur sig og rammar inn ævintýri Bjarna sem dæmi um hugprýði manna fyrr á öldum. Um fundinn við Eirík jarl segir Arngrímur að „þessi saga virðist honum til ámælis, at hann hefði ekki framar að segja af þeim löndum er hann hafði fundið.“100 Ekkert er minnst á að Bjarna hafi fundist ferðin óviturleg. Ámælin sem Bjarni fékk frá hásetum sínum, þegar Leifur lýsir því yfir að hafa gert betur en Bjarni þegar hann lendir á Hellulandi. Arngrímur leggur ekki sjálfur neinn neikvæðan dóm á Bjarna, heldur nefnir einungis ámælin sem Bjarni fær í viðurvist jarlsins, og eru í raun einu neikvæðu ummælin sem Bjarni hefur fengið í Grönlandiu. Þegar kom að ferð Leifs var lagt áherslu á ætt hans og að hann hafi viljað feta í fótspor föður síns og ekki láta „þessi lönd ókönnuð.“ Óbein mannlýsing er dregin upp af Leifi og Eiríki þegar glæpir Freydísar koma til umræðu. Þar er hún sögð „drepa í illsku og slægð […] í öllu ólík [föður sínum og bróður], ill og öfundsjúk drambsöm og hinn mesti kvennskratti.“101 Áhugavert er að Eiríkur rauði er flokkaður þarna með góðmenninu Leifi. Eins og kemur fram í fornsögunum eru hvorki Eiríkur eða faðir hans hafi verið ókunnir manndrápum, en þau manndráp hafa ef til vill ekki verið framin af illsku og slægð. Arngrímur túlkar Grænlendinga sögu svo að sum af löndum Leifs séu þau sömu og Bjarni hafi séð áður. Í fyrstu tvö skiptin þegar Leifur finnur land og nefnir bendir Arngrímur á hvar það var í röðinni í siglingu Bjarna, það er fyrir Helluland og Markland. Ekki er það þó gert með beinum orðum um Vínland. Af hverju gerir Arngrímur ekki ráð fyrir því að þriðja land Leifs hafi áður verið fundið af Bjarna líkt og hann gerði með Helluland og Markland? Bjarni, eins og honum er lýst af Arngrími, ætti að hafa verið nægilega verðug hetja til að hljóta heiðurinn af því að finna Vínland fyrstur manna, sérstaklega hvað varðar siglingavit hans og hugprýði. Ef til vill er það aðeins tilviljun að Arngrímur sleppir því að gefa í skyn að síðasta land Bjarna hafi verið Vínland Leifs heppna. Einnig gæti verið að Arngrímur hafi verið að slá varnagla með þögn sinni um þetta atriði. Eldri heimildir sem Arngrímur kann hafa þekkt til, á borð við Ólafs sögu Tryggvasonar, höfðu þegar beinlínis sagt Leif vera fyrsta fundarmann Vínlands. Svo með því að jafna ekki þriðja landi Leifs við fyrsta landi Bjarna var Arngrímur mögulega að festa í sessi það stigveldi heiðurs sem hann kann að hafa þekkt frá

100 Arngrímur Jónsson, Grönlandia, bls. 34. 101 Arngrímur Jónsson, Grönlandia, bls. 39. 54

öðrum heimildum. Líklegast hefur þögn Arngríms um þetta atriði ekki verið vandlega ígrunduð, heldur orðaði hann þetta meira af varkárni, enda er slíkt varfærnislegt orðalag algengt í söguumfjöllun þar sem unnið er með óljósar upplýsingar. Strangt til tekið er ekkert rangt við lestur Arngríms á Grænlendinga sögu er varðar lönd Bjarna og Leifs. Ekkert í Grænlendinga sögu segir lesendum með ótvíræðum hætti að löndin sem Bjarni finnur séu þau sömu og Leifur heimsækir síðar. Samt sem áður er eftirtektarvert að Arngrímur skuli afdráttarlaust gera ráð fyrir að Bjarni hafi fyrstur séð Markland og Helluland, sem minni sómi þótti að finna, en skilur Vínland eftir sem túlkunaratriði. Á meðan í Grænlendinga sögu er þess getið, með beinum orðum, að fyrsta land Leifs og síðasta land Bjarna sé það sama (Helluland).102 Annars virðist Arngrímur hafa haft lítinn áhuga á að upphefja tiltekna einstaklinga sem fundarmenn Ameríku, ólíkt seinni tíma fræðimönnum. Arngrími ætti því að hafa staðið nokkuð á sama hvaða maður ætti mestan heiður skilinn. Aðalmarkmið hans virðast hafa verið að fræða og miðla vitnisburði fornsagna um Grænland, nágrenni þess og göfugleika íbúana sem þar lifðu. Um tvo bræður Leifs sem létust í sínum ferðum var skrifað lítið um og eftir það var komið að Vínlandsferð Þorfinns og félagsskapar hans. Karlsefni er lofaður sem bæði sanngjarn og góður leiðtogi líkt og í sögunni sjálfri. Minnst er á hússnotru hans, heimili hans á Norðurlandi og glæstir niðjar hans nefndir. Arngrímur bætir við undir lokin að þessi saga sé af Þorfinni komin, í takt við lokaorð Grænlendinga sögu.103 Arngrímur lærði var vel lesinn og hafði kynnt sér landafræðilýsingar frá Nýja heiminum og vísar hann t.d. í erlend rit um Hispania Nova, yfirráðasvæði Spánar vestanhafs. Hispania Nova kemur til umræðu í tilraun til að veita samhengi á landalegu norrænna kennileita á borð við Grænland og Skrælingjaland. Seinna bætti hann við upplýsingum úr íslenskum heimildum sem nefna Grænlands óbyggðir og Svalbarða sem finna má milli Grænlands og Finnlands.104 Arngrímur virðist því hafa góða hugmynd um að lönd Grænlendinga sögu tengdust nýja heiminum. Arngrímur gerir samt enga tilraun til að upphefja landafundina sjálfa eða staðsetja Vínland í nýja heiminum í einhverskonar samkeppni um heiður eins og síðar

102 Flateyjarbók II, „Ólafs saga Tryggvasonar hin mesta“, bls. 21. 103 Arngrímur Jónsson, Grönlandia, bls. 40. 104 Arngrímur Jónsson, Grönlandia, bls. 5–7. 55 var algengt. Frekar leggur hann áherslu á að upphefja aðra hluti fortíðar, svo sem hugrekki, siglingarvit, göfugleika og athyglisverða atburði á Grænlandi til forna.

3.2 Grænlandsannáll Grænlandsannáll er varðveittur í nokkrum pappírshandritum sem hafa að geyma safn af miðalda- og nýaldatextum sem tengjast Grænlandi með einum eða öðrum hætti. Stærstur hluti annálsins var talinn hafa verið settur saman af Jóni Guðmundssyni lærða (1574–1658) á dögum hans á Ströndum fyrir árið 1616. Síðar endurritaði Björn Jónsson á Skarðsá (1574–1655) annálinn og má rekja öll varðveitt handrit til hans. Björn hefur líka verið ábyrgur fyrir ýmsum viðbótum við efnið. Hauksbók er mikilvæg heimild annálsins og miklu rými er í upphafi varið í samantekt (að hluta bein uppskrift) af Eiríks sögu rauða í bland við Landnámu. Síðan tekur við ýmist efni, svo sem bútar úr Landnámu, ágrip af annálum, ættartölur Hauks lögmanns, landafræðitengt efni og fleira. Ekki hefur verið notast við skinnhandrit sjálfrar Hauksbókar sem fyrirmynd þeirra handrita sem nú eru varðveitt, heldur samantektir úr handritinu. Líklega hefur Jón lærði fengið aðgang að Hauksbók og skrifað upp eftir hluta til sem notað var sem í frum-Grænlandsannál áður en hann flutti frá Vestfjörðum.105 Ekkert bendir til þess Jón lærði og Björn á Skarðsá hafi þekkt til Grænlendinga sögu og Bjarna Herjólfssonar, enda er hann hvergi nefndur í Grænlandsannál. Samkvænt titli sem birtist í Grænlandsannál er Eiríks saga rauða kennd við Þorfinn karlsefni og kölluð: „[his]toría Þorfinns karlsefn[is] Þórðarsonar“.106 Hvaðan þessi titill á uppruna sinn er óþekkt, þar sem titill sögunnar vantar í Hauksbók sem samantekt Grænlandsannáls byggir á. Titill sögunnar í Grænlandsannál opnar á þann möguleika að hafi sagan verið kennd bæði við Þorfinn og Eirík rauða á miðöldum. Sérstaklega ef við veðjum á að titillinn í Hauksbók (sem skrifaður var rauðu letri en hefur máðst burt) hafi enn verið greinilegur þegar frumeintak Grænlandsannáls var útbúið. Hægt væri að flytja sæmileg rök fyrir það efni til hliðsjónar af umfjöllunarefni Eiríks sögu rauða, sem fjallar mest um Guðríði og Þorfinn. Aftur á móti er sagan í Skálholtsbók kennd við Eirík rauða. Einnig er vitað að ritarar Flateyjarbókar, sem þekktu báðar Vínlandssögur, voru þeirrar skoðunar að hún væri kennd við Eirík rauða.

105 Ólafur Halldórsson, Grænland í miðaldarritum, bls. 147, 207 og 290. 106 Ólafur Halldórsson, Grænland í miðaldarritum, bls. 3. 56

Ef titillinn var enn sjáanlegur á 17. öld hefur sagan gengið undir tveimur titlum á miðöldum og er hún því réttnefnd í Grænlandsannál. Önnur sviðsmynd væri sú að titillinn „historía Þorfinns“ séu viðbrögð 17. aldar manna við því að sagan virtist vera án titils í Hauksbók og hefur því sagan verið nefnd eftir viðfangsefni sínu. Enda réttast að kenna söguna við annað hvort Þorfinn eða Guðríði ef taka á mið af umfjöllun sögunar.107 Ekki er hægt að vita með vissu um hvor svipmyndin er rétt og því erfitt að draga dóm af því með tilliti til menningarlegs minnis. Við höfum tvær óháðar heimildir frá miðöldum (Skálholtsbók og Flateyjarbók), þar sem þessi Vínlandssaga er kennd við Eirík, hallast ég því að því að sagan hafi alltaf verið nefnd eftir fyrsta landnámsmanni Grænlands og að Þorfinns historía/saga sé tilkomin vegna þess að titillinn var ógreinilegur í Hauksbók á 17. öld. Einnig verðum við að hafa í huga að sá sem skrifaði Grænlandsannál úr Hauksbók hafði þá heimild undir höndum sem einblínir meira á Þorfinn og ættmenna Hauks lögmanns þegar tækifæri gefst, auk þess eru Þorfinnur og Guðríður fyrirferðarmestu persónur sögunnar. Ætti því ekki að koma á óvart að nafn Þorfinns hafi þótt hentugt ef Jón lærði/Björn á Skarðsá og Árni Magnússon gáfu sögunni nýjan titil í handritum sínum á 17. öld. Fremst í Grænlandsannál er kafli úr Eiríks sögu rauða úr Hauksbók. Skotið er inn kafla þar sem segir frá því að Herjólfur Bárðarson hafi numið land á Herjólfsnesi. Sá hluti kemur úr Landnámu, hluta Hauksbókar, en vantar í Eiríks sögu rauða. Ekkert er sagt um Bjarna, son Herjólfs. Í tengslum við það, með því að blanda saman Landnámu og Eiríks sögu rauða úr Hauksbók, myndast fljótt þversögn varðandi íbúa Herjólfsness sem ekki var gefinn gaumur. Eftir Eiríks sögu er haft að Þorkell, góður bóndi með ónefnt föðurnafn, hafi verið ábúandi á Herjólfsnesi og tók þar á móti Guðríði Þorbjarnardóttur. Aftur á móti samkvæmt Landnámu hlutanum, sem felldur var inn í „[his]toría Þorfinns karlsefn[is] Þórðarsonar“, ættu lesendur að búast við að íbúi Herjólfsness væri Herjólfur.108 Þessi sama þversögn ætti einnig að blasa við þeim sem væru minnugir og læsu Hauksbók spjaldanna á milli.109 Annað sem vekur athygli við þessa samantekt sem byggir á Eiríks sögu rauða er að ekki þótti nægilega skýrt að Leifur hafi lent á Vínlandi. Þar sem bætt hefur verið við innskotinu „(Þetta hefur verið Vínland hið góða, sem þeir Þorfinnur karlsefni

107 Íslenzk fornrit IV, „Formáli eftir Ólaf Halldórsson“, bls. 338–341. 108 Ólafur Halldórsson, Grænland í miðaldaritum, bls. 7 og 12. 109 Hauksbók, bls. 35 og 429. 57 fundu síðar, því öllum þeim merkjum ber saman.)“.110 Við þessa útskýringu missir textinn nokkuð fagurfræðilegan sjarma sinn. Hvernig ættum við að túlka þetta innskot sem reynir að útskýra fyrir lesendum það sem ætti að vera augljóst? Sennilegasta skýringin er að sá sem ritaði þessa útgáfu Eiríks sögu rauða var ekki áhugasamur um fagurfræðilegt gildi textans, heldur vildi ritari fremur leggja áherslu á að matreiða staðreyndir sögunnar ofan í lesendur. Einnig hefur ritarinn talið að ekki þótti nægilega skýrt í augum 17. aldar lesenda að þeir áttuðu sig á að hér væri Vínland til umræðu. Sögur um Vínland voru ekki lengur ofarlega í menningarlegu minni á þessu tímabili. Minna þurfti því lesendur á að Leifur fann Vínland. Á fáeinum stöðum í Grænlandsannál er minnst á Nýja heiminn og nokkur hugtök honum tengd. Í einum kafla, þar sem Krosseyjar og Frísland eru til umræðu, er athygli vakin á enska skipstjóranum Martein Gray. Hann hafði viðkomu í nokkrar vikur á Reyðarfirði og tjáði landsmönnum vilja sinn til að sigla til „Americam.“ Í kjölfarið er nefnd landatafla sem Gray átti, „en í töflunni stóð Terra nova eður Turnovia.“111 Terra nova var það nafn sem Nýfundnaland hafði á kortum frá 16. og 17. öld.112 Þessu næst er sagt frá því að séra Erlendur Þórðarson hafi í útlöndum komist yfir landatöflu sem sýnir Hvítramannaland „sem liggur gagnvart Vínlandi hinu góða.“ Sú tafla: „hafði haldið fróðlega um þessa alla landaklasa og rætur Marklands, Einfætingalands og Litla Hellulands, samt og Grænlands, vestur þangað sem sérdeilis til tók sú góða Terra Florida.“113 Það vekur athygli, eitt og sér, að þegar íslenskir menntamenn komust í tæri við erlend landakort fylltu þeir inn í það kennileiti sem þeir þekktu úr íslenskum fornbókmenntum. Kennileiti Eiríks sögu rauða voru greinilega álitin tilheyra „Americam“ í kringum aldamótin 1600. Eina tilraunin til að staðsetja Leif og Þorfinn í nýja heiminum var sú sem bent var á hér fyrir ofan þar sem Hvítramannaland á landatöflunni var sagt liggja gagnvart Vínlandi, líkt og kom fram í Eiríks sögu rauða og Landnámu. Engin tilraun var gerð í Grænlandsannál til að vekja athygli á því að þessi nýi heimur var ekki jafn nýr fyrir áhugamenn íslenskra fornbókmennta. Höfundar Grænlandsannáls gerðu sér þó vel grein fyrir tengslunum milli nýja heimsins og Eiríks sögu rauða. Engin tilraun var gerð til vitundarvakningar um að hetjur fornsagnanna ættu skilið einhvern heiður fyrir að hafa ferðast til Ameríku.

110 Ólafur Halldórsson, Grænland í miðaldaritum, bls. 16–17. 111 Ólafur Halldórsson, Grænland í miðaldaritum, bls. 64. 112 Ólafur Halldórsson, Grænland í miðaldaritum, bls. 279. 113 Ólafur Halldórsson, Grænland í miðaldaritum, bls. 64. 58

Krafa um heiður átti einmitt eftir að verða seinni tíma fræðimönnum hugleikin. Slíkt tilkall myndi bíða þar til Þórmóður Torfason skrifar sína bók um Vínlandsferðirnar árið 1705.

3.3 Thomas Bartholin og Johan Peringskiöld Fyrsti erlendi fræðimaðurinn sem notfærði sér texta Vínlandssagnanna á prenti var hinn danski Thomas Bartholin (1616–1680). Hann naut aðstoðar Árna Magnússonar við gerð 700 blaðsíðna bókar sinnar Antiquitatum Danicarum de causis contemptæ a Danis adhuc gentilibus mortis sem kom út árið 1681.114 Í bókinni fylgir lítill hluti af Eiríks sögu rauða. Í hluta bókarinnar er minnst á spákonur og fjölkynngi. Þar birtist stutt umfjöllun um spákonuna Þorbjörgu lítilvölvu og heimsókn hennar á Herjólfsnes. Þar framkvæmdi Þórbjörg seið með aðstoð Guðríðar Þorbjarnadóttur. Textinn er prentaður bæði á frummálinu og á latínu. Bartholin virðist ekki hafa haft sérstakan áhuga á Guðríði eða öðrum persónum Vínlandssagnanna, heldur var þessi kafli í bókinni vegna söfnunar Bartholins á textum sem tengdust fjölkynngi í heiðni.115 Í verki sænska fornfræðingsins Johan Peringskiöld (1654–1720), Heims Kringla, Eller Snorre Sturlusons Nordländske Konunga Sagor, má finna efni Heimskringlu ásamt öðru tengdu efni. Peringskiöld takmarkar hlutverk sitt við útgáfu norræna textans með sænskri og latneskri þýðingu, en leggur ekki í endursögn eða dýpri umfjöllun líkt og Arngrímur lærði og Þormóður Torfason gerðu. Uppruni þeirra texta sem Peringskiöld vann mest með er/eru kominn frá Kringlu/Jörfaskinnu,116 en áhugavert er að Peringskiöld lætur fylgja með meginhluta Grænlendinga sögu úr Flateyjarbók, þrátt fyrir takmarkaðar tengingar við þau handrit sem Peringskiöld notaði hvað mest. Þetta kemur sérstaklega spánskt fyrir sjónir, fyrir þá sem þekkja kaflann um kristnun Leifs og Grænlands úr ólíkum heimildum. Peringskiöld notaði kaflann um kristnun Grænlands úr Heimskringlu þar sem, ólíkt Flateyjarbók eða Eiríks sögu rauða og Kristni sögu, var minnst á „skémanninn“ sem Leifur átti að hafa flutt með sér til Grænlands. Eftir það er farið beint að segja frá siglingu „Biórn

114 Sigríður Helga Þorsteinsdóttir, Biskupsmóðir í páfagarði, bls. 40. 115 Bartholin, Antiquitatum Danicarum de Causis Contemptæ a Danis Adhuc Gentilibus Mortis Libri Tres ex vetustis codicibus & monumentis hactenus ineditis congesti, Bockenhoffer, bls. 688–693. 116 Þormóður Torfason, The history of ancient , bls. 7. Þormóður nefnir bæði Kringlu og Jörfaskinnu þegar hann nefnir verk Peringskiölds í inngangi sínum. Ekki kann ég skil á úr hvor handritinu uppskriftir Peringskiölds voru að mestu upprunar úr, það skiptir ekki höfuð máli fyrir þessa rannsókn. 59

Heriulfsons“, eins og hann heitir í sænsku þýðingunni.117 Frásögnin um landnám Eiríks rauða úr Flateyjarbók er sleppt. Peringskiöld hefur ákveðið að vel væri við hæfi að bæta við meginhluta Grænlendinga sögu við doðrant sinn, enda er Grænlendinga saga hluti af Ólafs sögu Tryggvassonar hinni mestu í Flateyjarbók. Betra hefur þótt að láta texta Flateyjarbókar, um kristnun Grænlands, víkja fyrir þeirri útgáfu þar sem fjallað er um „skémanninn.“ Frá sjónarhorni Peringskiölds hefur þetta verið augljóst val, að velja skémanns-textann, þar sem megináhersla verksins finnst ekki í texta Flateyjarbókar. Heims Kringla, Eller Snorre Sturlusons Nordländske Konunga Sagor var fyrsta bókin þar sem Vínlandssaga í heild sinni kom út á prenti.

3.4 Þormóður Torfason og Historia Vinlandiæ Historia Vinlandiæ antiqvæ sive partis Americæ septentrionalis eftir Þormóð Torfasson (1636–1719) var gefin út árið 1705 á latínu og kynnti efnið fyrir breiðari hópi evrópskra fræðimanna og áhugafólks. Líklega hefur útgáfa Peringskiölds á Grænlendinga sögu nokkrum árum áður orðið Þormóði hvati til að gefa út bók um efnið. Historia Vinlandiæ sker sig nokkuð frá bæði efni Grænlandsannáls og Grönlandiu Arngríms lærða. Þormóður var sá fyrsti í langri röð fræði- og áhugamanna sem hafði það yfirlýsta markmið að gera norrænum mönnum hátt undir höfði fyrir að hafa uppgötvað Ameríku. Strax í inngangi lagði Þormóður línurnar fyrir lesendur um að norrænir menn Grænlands ættu ekki aðeins heiðurinn af því að vera þeir fyrstu til að uppgötva Ameríku heldur ættu þeir einnig heiðurinn af því að reka fyrsta kristna söfnuð álfunnar. Hann túlkaði sem sagt heimildirnar svo að kristnir söfnuðir hefðu á tímabili verið reknir í Hvítramannalandi, sem finna mætti í Ameríku. Þessi hugmynd Þormóðs, um kristna söfnuði Ameríku á miðöldum, voru seinna endurrómaðir í ýmsum ritum allt fram á 20. öld. Þormóður lýsir þessu yfir rétt eftir að dýrðarsaga Kólumbusar og Vespuciusar var til umræðu og sett í samhengi við tilköll annarra landkönnuða sem vildu skjóta Kólumbusi ref fyrir rass. Til að mynda velsku þjóðsagnapersónuna Madoc, sem átti að hafa fundið Ameríku á 12. öld, og feneysku Zeni bræðurrnir, sem áttu að hafa fundið Ameríku á 14. öld.118 Í formála Historia Vinlandiæ segir:

„Af verki mínu verður það gert ljóst að engin af þessum ofantöldu (jafnvel þó það sem sagt er um Zeni bræðurnar sé satt) gætu krafist þess heiðurs að

117 Heims Kringla I, bls. 325–350. 118 Þormóður Torfasson, The history of ancient Vinland, bls. 6–8. 60

vera þeir fyrstu til að uppgötva Ameríku, né afkomendur þeirra geta á réttlátan og sanngjarnan hátt krafist þess fyrir þeirra hönd. Grænlendingarnir, landnemar frá Íslandi, og að vissu leiti Íslendingar sjálfir, stálu þessum heiðri af þeim báðum, og einnig frá Madoc, […] Þeir tryggðu sér ekki aðeins fyrir sig sjálfa þann ódeyjandi heiður og dýrð fyrir að hafa uppgötvað og fljótt numið land á Vínlandi, heldur einnig […] boðað kristna trú í nálægu landi Albania [Hvítramannaland] eður Írland hið mikla…“119

Þormóður endursegir fyrst Grænlendinga sögu og í seinni hluta bókarinar endursegir hann efni Eiríks sögu rauða. Hann heldur sig í flestum tilfellum við að endursegja staðreyndir sögunnar. Hann dregur ekki upp eins rómantíska mynd af einstökum þáttum fortíðarinnar líkt og Arngrímur. Þormóður ver miklu rými undir lok bókarinnar til að ræða mögulega staðsetningu Vínlands eftir lýsingum sólargangs sem birtist í Vínlandssögunum. Ræðir hann þar þýðingaratriði varðandi skiptingu miðaldamanna á sólarhringnum. Þetta var efni sem samtímamenn Þormóðs og þeir sem eftir honum komu höfðu mikinn áhuga á. Í formálanum lýsir Þormóður innihaldi bókarinnar og lagði þar mat á hlut Bjarna og Leifs:

Í Flateyjarbók er sagt að Bjarni hafi séð nýju löndin en hann lenti þar ekki, Íslendingurinn sem kannaði og gaf löndunum nöfn var Leifur, Björn á Skarðsá er þögull þegar kemur að þætti Bjarna, en annað kemur þar fram, það er örlítill skoðanamunur á því hvort Leifur kom til nýju landana á leið heim frá Noregi, eða hvort hann sigldi frá Grænlandi sérstaklega í þeim tilgangi að kanna þau.120

Í fyrsta kaflanum um landafundi Bjarna færir Þormóður ögn í stílinn og minnist á öll þau ámæli sem lögð voru á hann í Grænlendinga sögu. Kaflaheitin sem hann gefur eru einna áhugaverðust í annars jarðbundinni endursögn Vínlandssagnanna. Fyrstu tvo kafla Þormóðs mætti færa til íslensku á eftirfarandi hátt: „Fyrst orðið vart við Vínland

119 Mín þýðing af ensku þýðingu verksins. Þormóður Torfasson, The history of ancient Vinland, bls. 6– 8. Frumtextann má sjá hér á latínu: Þormóður Torfason, Historia Vinlandiæ antiqvæ sive partis Americæ septentrionalis. bls. 0. „Ex præsenti autem opusculo manifestum erit, neminem horum (etjamsi ea, qvæ de Zenis traduntur, vera essent, de qvibus infra,) apertæ primitus Americæ laudem sibi, nec posteritatem illis jure meritoqve asserere potuisse: cum illam gloriam Gronlandi, Islandiæ cives colonici, ipsiqve ex parte Islandi, utrisqve & Madocho qvidem ante sesqvi & qvodexcurrit, seculum, omnium primi præripuerint, atqve adeo ut non modo detectæ, raptimqve etiam insessæ, latéqve tandem celebratæ Vinlandiæ, perqve vicinam ei Albaniam, seu Magnam Irlandiam, decantatæ religionis Christianæ…“. 120 Mín þýðing af ensku þýðingu verksins sjá: Þormóður Torfason, The history of ancient Vinland, bls. 9. Frumtexta Þormóðs má sjá hér á latínu: Þormóður Torfason, Historia Vinlandiæ antiqvæ ive partis Americæ eptentrionalis. bls. b5.: „Codex Flateyensis visas nec aditas novas terras Biarnio Islando: inspectas Leifo, nominibusq; infignitas tradit. Biornus de Skardsa, de de Biarnio tacet, cætera confitetur: levis est dissensus, an eas in reditue Norvegia Leifus adierit, an ex Gronlandia ad eas inspiciendas solverit.“. 61 og seinna uppgötvað“. Annar kafli heitir heitir: „Vínland uppgötvað af Leifi“, með beinni skírskotun í nafn fyrri kaflans og gerir lesendum þannig ljóst hver á heiðurinn fyrir að uppgötva Vínland.121 Áhugaverður greinamunur er þarna gerður á, milli þess að „detectæ“ (verða var við / greina) og „inventæ“ (uppgötva). Samkvæmt þessu verður Bjarni „var við Vínland“, á meðan Leifur „uppgötvar“ Vínland. Ólíkt Arngrími túlkar Þormóður fyrsta nafnlausa land Bjarna sem Vínland. Þetta er túlkun á sögunni sem sætir ekki miklum tíðindum og liggur í augum uppi að stærri hluti lesenda myndi líta á fyrsta landið sem Bjarni sá sem Vínland. Greinarmunurinn sem Þormóður býr til með orðalagi sínu, muninum á að „verða var við“ og að „uppgötva“, er einn áhugaverðasti hluti bókar Þormóðs í þessu samhengi. Þormóður skilgreinir Bjarna ekki sem landkönnuð eða aðalpersónu í landaleitinni, heldur sem einhvers konar leiðsögumann. Svipaður hugsunarháttur virðist því vera að verki við flokkun Þormóðs og hefðbundna miðlun fornsagnanna í nútímanum, þar sem Bjarni Herjólfsson er stundum komin í hlutverk leiðsögumannsins á 20. og 21. öld. Bjarni er þar einhver sem vísar Leifi leiðina að uppgötvun nýrra landa.122 Þó í því felist augljós þversögn, þar sem ef Bjarni á að geta leiðsagt öðrum um hvernig á að finna ný lönd hlýtur hann fyrst að hafa fundið þau sjálfur. Hægt er að reyna setja sig í fótspor Þormóðar og ímynda sér hvað liggur að baki í þessum greinarmun. Ein útskýring gæti verið sú að Þormóður hafi einfaldlega haft þá skoðun að sjófarendur sem stigu ekki á land voru ekki raunverulegir landkönnuðir. Þá útskýringu þarf ekki að ofhugsa að óþörfu og væri slík túlkun jafngild í nútímanum og á 18. öld. Þeim sem hér skrifar telur þó líklegri útskýringar fyrir þessum greinarmun Þormóðar vera aðrar og ögn flóknari. Ekki má gleyma því að það er yfirlýst markmið Þormóðar, í formála bókarinnar, að hafa áhrif á söguskoðun Evrópumanna gagnvart landafundum Ameríku. Þó að Þormóður sé fræðimaður blasti við honum að í áróðurskenndri fræðslu borgar sig ekki að flækja hlutina um of. Með því að upphefja ekki Bjarna Herjólfsson sem landkönnuð í Grænlendinga sögu, til jafns við Leif heppna, færist athyglin óumdeilanlega yfir á einn aðila. Einnig þarf að hafa í huga að Leifur var óumdeilanlegur fyrsti fundarmaður Ameríku í Eiríks sögu rauða sem fjallað

121 Þormóður Torfason, Historia Vinlandiæ antiqvæ sive partis Americæ septentrionalis, bls. 1 og 3. Mín þýðing á: „De detectæ primum Vinlandiæ, ejusá, deinceps inventæ, occasione.“ Og: „De Vinlandia inventá á Leifo.“ 122 Um þetta má finna ótal dæmi, til dæmis má sjá: Sverrir Sveinn Sigurðsson, “Hver fann Ameríku”. 62 var um í köflum 8–14 í verki Þormóðs. Hægt væri að ímynda sér að ef Þormóður hefði hampað Bjarna fyrir að uppgötva Ameríku, í Grænlendinga sögu, væru efasemdarmenn þessara afreka ekki aðeins í vafa um landafundi norrænna manna, heldur einnig í vafa um hvaða norræna fundarmann mætti benda á. Ofan á þetta mætti bæta við að sumir myndu ekki endilega meta Bjarna gildan sem landkönnuð þar sem hann steig ekki á land í Ameríku. Þessir þættir ásamt öðrum, sem farið hefur verið yfir í kafla 2.3, það er, að Leifur heppni hafi bæði aukið bolmagn í krafti ættar sinnar og jákvæðar umfjöllunar sagnanna, gerði hann að mun markaðsvænari kost samanborið við Bjarna Herjólfsson. Þessi greinarmunur milli Bjarna og Leifs ætti því að hafa hentað Þormóði nokkuð vel, bæði til að einfalda afrekssöguna og beina athyglinni að þeim hetjum sem bæði stigu á land og fjallað var um í fleiri heimildum.

63

Niðurstöður

Líklegast er að Leifur Eiríksson hafi verið þekktur úr munnlegri sagnahefð áður en Vínlandssögurnar voru ritaðar þar sem hlutverk hans var einungis á hinu veraldlega sviði en ekki því andlega. Heimildir benda til þess að Vínland hafi verið ofarlega í menningarlegu minni 12. og 13. aldar. Í raun svo ofarlega að hugtök á borð við „Vínland“ eða „skrælingjar“ mátti nefna stuttlega og þurfti ekki frekari útskýringar fyrir lesendum. Að öllum líkindum hefur Leifur Eiríksson verið á einhvern hátt tengdur sögum um Vínland og skrælingja í þessum munnmælasögum og þykir það líklegra en ef Leifur hafi sprottið fram fullskapaður, eins og Aþena úr höfði Seifs, í Vínlandssögunum tveimur.123 Heimildir sem endurspegla nánar menningarlegt minni 12. aldar og fyrri hluta 13. aldar minnast ekkert á kristnu ímynd Leifs heppna þegar fjölskylda hans, Grænland og kristniboð eru annars til umræðu. Á 13. öld virðist sagnahefðin hafa breyst og Leifur heppni er þá álitinn hafa stundað trúboð og hafa sterk tengsl við Ólaf Tryggvason Noregskonung. Líklegast er að þessar breytingar á ímynd Leifs séu tilkomnar vegna glataðrar Ólafs sögu Gunnlaugs sem talin er hafa verið rituð eitthvað í kringum aldarmótin 1200. Þessi yngri sagnahefð um Leif heppna breiddist út í kjölfarið og endurrómar í varðveittum ritum á borð við: Eiríks sögu rauða, Kristni sögu, Ólafs sögu Tryggvasonar í Heimskringlu, landalýsingu AM 194 og í innganginum að Grænlendinga sögu í Flateyjarbók.124 Ímynd Leifs heppna í menningarlegu minni breytist því og tengist í auknum mæli kristni þegar líður á 13. öld. Áberandi staða Leifs í menningarlegu minni 13. og 14. aldar má reka til Ólafs sögu Gunnlaugs.125 Hvort Gunnlaugur eða félagar hans í Þingeyrarklaustri fundu upp á trúboðanum Leifi, eða hvort þeir hafi haft munnlegar heimildir fyrir efninu, skiptir ekki öllu máli. Því ef leitað var til lítt útbreiddra munnlegra sagna um málið er það ljóst að sú sagnahefð var ekki ráðandi á Íslandi né í Noregi á 12. öld eða fyrstu áratugum 13. aldar. Þó þessi yngri sagnahefð um trúboð Leifs komi líklega fyrst fram á fyrstu

123 Sérstaklega í ljósi þematískra tengsla milli Vínlandssaganna án rittengsla. Um þetta hefur áður verið fjallað. Sjá: Ólafur Halldórsson, Grænland í miðaldaritum, bls. 369–375. 124 Í Flateyjarbók er aðeins getið um skírn Leifs hjá Ólafi Tryggvasyni í Noregi, en ekkert er sagt um trúboð hans á Grænlandi í Flateyjarbók. 125 Um þessa athugun hefur verið skrifað áður. Sjá: Jón Jóhannesson, „Aldur Grænlendinga sögu“. 64

áratugum 13. aldar er ekki þar með sagt að frásögn Grænlendinga sögu byggi í heild sinni á eldri og áreiðanlegri munnlegum heimildum samanborið við Eiríks sögu rauða. Engin leið er að leggja áreiðanleikamat á flesta aðra þætti Vínlandssagnanna. Með samanburði má sjá á Vínlandssögunum hvað tvær sögur geta reynst ólíkar, jafnvel þó þær byggi á sömu munnlegu hefð. Svo jafnvel þó við getum bent á eitt dæmi um yngri sagnahefð innan Eiríks sögu rauða er best að fara varlega í að draga frá því of margar ályktanir. Ákveðin þematísk líkindi eru á milli Þorvalds þáttar víðförla og Eiríks sögu rauða. Einnig hafa bæði þessi verk haft tengsl við Gunnlaug munk sjálfan eða áætlaðan texta Ólafs sögu Gunnlaugs. Líklegt verður því að teljast að Eiríks saga rauða hafi því verið samin af einhverjum, sem þekkti vel til Gunnlaugs, hafði góðan aðgang að verkum hans og deildi ákveðnum viðhorfum, áhugasviðum og markmiðum til söguritunar. Þar með mætti álykta að Þingeyrarklaustur, eða nærliggjandi sveitir, komi sterklega til greina sem ritunarstaður Eiríks sögu rauða. Eldri ágiskanir hafa horft mest til Breiðafjarðar hvað varðar ritun Eiríks sögu rauða og leggja meðal annars áherslu á staðhætti sem fram koma í Eiríks sögu rauða, sem og tengsl frásagnarinnar við Eirbyggju og Breiðafjörð. Eldri athuganir um það efni eru enn gildar. Gera má ráð fyrir því að samgangur hafi verið milli menningarsetrana Þingeyrarklausturs og Helgafellsklausturs, samgangur hugmynda og þekkingar þar á milli hefur líklega vegið þungt í þessum efnum. Nærliggjandi sveitir við Þingeyjarklaustur geta því í þessu tilfelli breytt úr sér allangt til vesturs. Líklegasti ritunartími Grænlendinga sögu og Eiríks sögu rauða þykir mér hafa verið á tímabilinu 1200–1240. Fyrir þessa ritgerð sem snýr að menningarlegu minni, má einnig gera ráð fyrir að Vínlandssögurnar voru samdar á fyrri hluta 13. aldar, eftir eða um svipað leyti og Ólafs saga Gunnlaugs var samin, þar sem ofur nákvæmur ritunartími skiptir ekki höfuð máli fyrir niðurstöðurnar. Þá var yngri ímynd Leifs ekki orðin ríkjandi í menningarlegu minni landsmanna. Ein af þeim rökum sem styðja þennan ritunartíma er misræmi Vínlandssagnanna um trúarleg afrek Leifs.126 Ef við gerum ráð fyrir því að Eiríks saga rauða hafi verið rituð af einhverjum í Þingeyrarklaustri, eða aðila vel tengdum Gunnlaugi og klaustrinu má vel sjá fyrir sér að þessi yngri ímynd Leifs hafi fljótt fengið byr undir báða vængi. Á meðan

126 Eins og áður hefur komið fram hefur Jón Jóhannesson áður skrifað um þessa yngri ímynd Leifs heppna, en Jón mat, aðallega út frá birtingarmynd Leifs, að Grænlendinga saga hlyti að vera töluvert eldri en Eiríks saga rauða, sem þarf ekki að vera ef tekið er tillit til þess að hugmyndir sem geymdar eru í miðaldahandritum dreifast almennt hægar samanborið við prentuð verk. 65 sagnaritari Grænlendinga sögu, staðsettur annarstaðar á landinu, hafði um svipað leiti ekki heyrt af mikilvægi Leifs fyrir kristnun Grænlands. Af varðveittum hlutum Melabókar að dæma virðist hún ósnert af áhrifum Vínlandssagnanna á meðan bæði Sturlubók og Hauksbók urðu fyrir miklum áhrifum. Athuganir á misræmi Melabókar og Sturlubókar/Hauksbókar stemma einnig við áætlaðan ritunartíma Vínlandssagnanna á fyrstu áratugum 13. aldar og tilvistar ólíkra sagnahefða um Leif heppna. Landalýsingarhluti AM 194, ritaður á Narfeyri á Skógarströnd 1387, er eina ritið þar sem upplýsingar úr frásögn Grænlendinga sögu birtast í varðveittum miðaldaheimildum fyrir utan Flateyjarbók. Ritarar þekktu trúlega frásögn Grænlendinga sögu aðeins frá munnlegum heimildum. Seinni hluti klausunnar er öll í takt við hina yngri sagnahefð um Leif heppna og því uppruninn úr annarri átt. Ekkert er minnst á Bjarna Herjólfsson í heimildinni, þó ritarar hafi þekkingu á öðrum atriðum Grænlendinga sögu. Texti AM 194 bendir til þess að frásögn Grænlendinga sögu og minning Bjarna hafi ekki verið áhrifamikil í íslenskri söguvitund á seinni hluta 14. aldar, þrátt fyrir að um þetta sama leyti hafi honum verið gerð skil í Flateyjarbók. Almennt virðist því alls ekki fara mikið fyrir Bjarna í rituðum heimildum og verður að álykta út frá því, ásamt þeim vísbendingum sem birtast í AM 194, að staða hans í menningarlegu minni landsmanna hafi aldrei verið sérlega sterk. Auk þess má álykta að Bjarni hefði eflaust fallið í varanlega gleymsku, ásamt Grænlendinga sögu, ef ekki hefði verið fyrir varðveislu Flateyjarbókar. Í inngangi Flateyjarbókar bæta ritarar við yngri sagnahefð um Leif sem frá þeirra sjónarhorni hefur líklega talist til almennrar söguþekkingar, sem sárlega vantaði inn í Grænlendinga sögu, svo hægt væri að skeyta henni saman við Ólafs sögu Tryggvasonar hina mestu. Hér kom því upp þversögn frá sjónahorni ritara Flateyjarbókar, þar sem heimildir sem þeir þekktu (Grænlendinga saga, Eiríks saga rauða og Ólafs saga Tryggvasonar) voru ósammála um afrek Leifs heppna á trúarlega sviðinu. Þessi þversögn var afgreidd í inngangi og frásögnin færð nær þeirri söguskoðun sem ríkjandi var á tímabilinu. Ljóst er að þarna hefur verið gerð tilraun til að samræna tvær ólíkar sagnahefðir um Leif heppna sem stóðu í þversögn hvor við aðra. Þegar komið er á nýöld eru aðallega þrjú ritverk eftir Íslendinga sem halda minningu Vínlandsfaranna á lofti. Það eru Grönlandia eftir Arngrím lærða, Grænlandsannáll fyrst ritaður af Jóni lærða / síðar endurritaður og betrumbættur af 66

Birni á Skarðsá og Historia Vinlandiæ eftir Þormóð Torfason. Í Grönlandiu fá helstu persónurnar nokkra upphafningu, þar á meðal Bjarni sem er fær jákvæða umfjöllun. Arngrímur gefur Leifi einnig góða meðferð og mestan heiðurinn af því að finna Vínland þar sem hann kýs að túlka ekki fyrsta land Bjarna sem Vínland heldur lætur Arngrímur ósagt hvort þriðja landið sem Leifur heimsótti og fyrsta landið sem Bjarni sigldi framhjá séu eitt og sama landið. Arngrímur á þó ekki í erfiðleikum með að slá því á föstu að Bjarni hafi siglt meðfram bæði Hellulandi og Marklandi, lönd sem ekki var eins mikill heiður í að finna. Þar sem engin staðaheiti eru nefnd í ferð Bjarna má túlka löndin þrjú sem hann fann á ólíka vegu. Hér tel ég líklegast að Arngrímur hafi verið að slá varnagla með þögn sinni, eitthvað sem algengt er í söguritun þegar unnið er með óljósar upplýsingar, en hann hefur ef til vill viljað fara varlega í að ræna heiðrinum af fundi Vínlands af Leifi þar sem hann kann að hafa heyrt frá öðrum heimildum að Leifur væri fyrsti fundarmaður Vínlands. Jafnvel þó það liggi í augum uppi að frásögn Grænlendinga sögu gefur sterklega í skyn að Bjarni hafi siglt framhjá Vínlandi. Bæði Arngrímur lærði og Björn á Skarðsá settu kennileiti Vínlandssagnanna í samhengi við kennileiti nýja heimsins sem þeir höfðu frá erlendum heimildum. Arngrímur slær varnagla í upphafi umfjöllunarinnar um Vínland þar sem hann lýsir óvissu um hvort löndin séu hluti af meginlandi eða ekki, eða með orðum Arngríms: "eyjur eður hálfeyjar.“ Engin tilraun var gerð af Arngrími eða riturum Grænlandsannáls að lýsa því yfir að norrænar söguhetjur Vínlandssagnanna ættu að teljast fyrstu fundarmenn Ameríku. Þormóður var fyrsti fræðimaðurinn sem fær tækifæri til að meta landafundina með tilliti til frásagna beggja Vínlandssagnanna. Auk þess er hann sá fyrsti til að krefjast þess að Íslendingar (og Grænlendingar127) eigi heiðurinn af uppgötvun Ameríku. Þormóður gerir enga tilraun til að meta aðra Vínlandssöguna áreiðanlegri. Þormóður túlkaði Grænlendinga sögu á þá leið að löndin sem Bjarni sigldi framhjá og löndin sem Leifur heimsótti væru þau sömu. Þormóður gaf þó ekki í skyn að Bjarni ætti heiðurinn af því að hafa uppgötvað Vínland heldur notaði Þormóður orðalagið „að verða var við Vínland,“ á meðan er Leifi strax í kjölfarið veittur heiðurinn að því að „uppgötva Vínland,“ en með þessu orðalagi gerir Þormóður greinarmun á

127 Þegar Historia Vinlandiæ var gefin út trúðu margir að Eystribyggð væri enn í byggð á Grænlandi og þar mætti finna afkomendur Eiríks rauða og annarra landnema. Eystribyggð hafði raunar farið í eyði meira en 200 árum áður en Historia Vinlandiæ var gefin út. 67 hlutverkum persónanna.128 Þessi orðalagsmunur, sem Þormóður skapaði, þjónaði heildarsvipnum í verki hans afar vel. Leifur fékk upphafningu sem óumdeildur fyrsti fundarmaður Ameríku samkvæmt báðum Vínlandssögum. Ef Þormóður taldi Bjarna ekki alvöru landkönnuð vegna þess að hann lenti ekki, kemur slíkt viðmót ekki fram í bók hans. Að ramma inn hlutverk Bjarna á þennan hátt þjónar því yfirlýsta markmiði sem Þormóður setti sér í upphafi bókar sinnar Historia Vinlandiæ. Það er, að taka af allan vafa lesenda um að norrænar hetjur ættu heiðurinn af því að uppgötva Ameríku. Þetta styrkir einnig stöðu Leifs til að keppa við Kólumbus og aðra mögulega keppinauta um heiðurinn af því að uppgötva Ameríku. Í áróðurskenndri fræðslu borgar sig ekki að flækja um of, heldur er betra að lyfta upp einni hetju til að verða verðugur norrænn keppinautur um titilinn fyrsti fundarmaður Ameríku á alþjóðlegum vettvangi. Finna má samlíkingu í framsetningu Historia Vinlandiæ á Bjarna Herjólfssyni og þeirri mynd sem birtist fólki í fræðsluefni, ætlað almenningi nútímans, þar sem Bjarni er kominn í hlutverk eins konar leiðsögumanns, sem vísar Leifi heppna veginn til að uppgötva Ameríku, jafnvel þó í því felist augljós þversögn. Þar sem Bjarni gat varla vísað vegin til nýrra landa sem hann hafði ekki fundið áður. Afrek Bjarna og Leifs virðast að mestu sambærileg. Það hlýtur eitthvað meira að liggja á baki við þessa tilhneigingu heimilda til að hygla stöðugt Leifi, annað en tilviljanakennd túlkun á löndunum sem Bjarni sigldi framhjá, eða hvort menn teljist aðeins sem alvöru landkönnuðir ef þeir stíga á land. Liggja ástæður þessa viðmóts að miklu leyti í Vínlandssögunum sjálfum. Bjarni er, ólíkt Leifi/Karlsefni, ekki settur upp sem hetja í sögunum, þvert á móti mætti segja að hann sé nokkuð seinheppinn. Aðeins birtist jákvætt viðmót til Bjarna á tveimur stöðum, það er þegar jarl tekur á vel á móti honum og þegar sögumaður gefur álit sitt á Bjarna. Sögumaður segir að hann hafi verið: „hinn efnilegasti maður. [… sem varð] gott bæði til fjár og mannvirðingar“ en sú ákvörðun að fara ekki á land olli því að sófasérfræðingar innan sögunnar bæði gagnrýna og móðga hann. Auðvelt er að fá jákvæðari sýn á gjörðir Bjarna með því að líta á hann sem ábyrgan leiðtoga sem kom sér og sínum mönnum í örugga höfn við krefjandi aðstæður.129 Það er undir túlkun lesenda komið hverju sinni hvernig á að meta þessi atriði. Flestir áhugamenn hafa í gegnum tíðina sannmælst persónum Grænlendinga sögu fremur en sögumanninum um ágæti Bjarna og ekki hefur tíðkast að sýna ákvörðunartöku hans mikinn skilning til þessa.

128 Sbr. kafla 3.4 í ritgerðinni. 129 Sbr. kafla 2.3 í ritgerðinni. 68

Landafræðikunnátta miðalda og orðalag landalýsinga Grænlendinga sögu gerði það einnig að verkum að erfitt var að vera fullviss hvaða lönd Bjarni hafði siglt framhjá, þar sem það var aðeins staðfest í tilfelli Hellulands, en þó gefið sterklega í skyn að hin löndin væru Vínland og Markland. Ameríka/nýi heimurinn var ekki til sem hugtak á miðöldum og þess vegna erfiðara að gera Bjarna sérlega hátt undir höfði, stranglega til tekið fann Bjarni aðeins óþekkt lönd. Á meðan Leifur heppni gefur löndum sínum nöfn og vígir þar með hina nýju staði inn í tungumálið svo fólk gat ávallt verið visst um hvaða lönd hann fann, að minnsta kosti sem staði í hinu menningarlega landslagi fremur en hinu landfræðilega. Á meðan Bjarni, með tilliti til tungumálsins og landafræðiþekkingar miðalda, fann eitthvað í líkingu við ónefndar/ónefndan eyjar/skaga við Afríku sem samrýmdist landafræðikenningum miðalda frá 12. öld. Ólíkt Bjarna eru bæði Leifur heppni og Þorfinnur karlsefni sífellt settir fram á mjög jákvæðan og óumdeildan hátt í sagnaritum. Þeir höfðu líka meira félagslegt bolmagn í krafti stöðu sinnar, höfðinglegra ætta og annarra afreka óskyldum Vínlandi. Allir þessir þættir skemmdu ekki fyrir Leifi og Karlsefni og gætu hafa haft áhrif á hvernig minningin um persónurnar hefur hrærst um í menningarlegu minni miðalda og hvernig hún er seinna framsett af fræði- og áhugamönnum nýaldar. Til að draga saman ástæður þess að Bjarni var ekki dreginn inn í sviðsljós heimssögunnar má helst nefna eftirfarandi atriði: Grænlendinga saga var áhrifalítið verk á miðöldum samanborið við Eiríks sögu rauða. Í öðru lagi má nefna meðferð Vínlandssagnanna á persónum þar sem Bjarni á erfitt með að keppa við aðra landkönnuði sem hafa bæði meira félagslegt bolmagn og standa honum framar í metorðaröð sögunnar. Í þriðja lagi gerði heimsmynd miðalda ráð fyrir því að Bjarni hafi siglt framhjá þremur ónefndum löndum sem ekki var hægt að staðsetja með nöfnum eða yfirheitum á borð við „nýi heimurinn“ eða „Ameríku“. Var því takmarkaður hvati að halda honum ofarlega í menningarlegu minni fyrir hans takmarkaða þátt í fundi Vínlands, landsins sem mestur sómi þótti að finna. Í fjórða lagi endurómuðu þessi fyrri viðmót og goggunarröð heiðurs frá miðöldum yfir til nýaldar, og þar sem menn fóru varlega við að endurskipuleggja þessa heiðursröð. Að lokum hafði Þormóður hag af því í sinni fræðslu að vísa markaðsvænni persónu Leifs heppna til öndvegis, þar sem hann gat keppt við heiður Kólumbusar og annarra landkönnuða. Á síðustu öld eftir fornleifauppgröftinn á L'Anse aux Meadows varð það fullsannað og viðurkennd speki vestanhafs, að norrænir menn hefðu fundið Ameríku 69 en meðal almennings varð það fyrst og fremst Leifur heppni sem fann Ameríku. Fræðimenn nútímans hafa enga ástæðu til að standa í áróðurskenndri fræðslu líkt og Þormóður stóð í á 17. öld. Yfir höfuð hefur fræðiritun í takt við þjóðernislega upphafningu orðið mun fyrirferðarminni á síðari áratugum 20. aldar. Íslenskir fræðimenn þurfa ekki lengur að leita til göfugrar fortíðar til að upphefja stöðu þjóðarinnar sem þjóð meðal þjóða. Sömuleiðis hafa fræðimenn einnig lagt minni áherslu á heiður einstakra persóna, þar sem fornsögunum, persónum og gjörðum þeirra er ekki tekið jafn bókstaflega af fræðimönnum nútímans og var gert á 19. öld og á fyrri hluta 20. aldar. Til að mynda láta fræðimenn sér oft nægja að segja að norrænir menn hafi fundið Vínland, á meðan í augum almennings hefur það alltaf verið fyrst og fremst Leifur heppni sem fann Ameríku. Í nútímanum mætti ímynda sér að áhugi gæti myndast fyrir að endurmeta afrek Bjarna Herjólfssonar þar sem margar forsendur þess að honum var lítið hyglað í fortíðinni eru brostnar. Það er: Eiríks saga rauða er ekki lengur þekktari en Grænlendinga saga og önnur Vínlandssagan er ekki talin áreiðanlegri en hin. Landafræðiþekking nútímans segir okkur að Bjarni átti að hafa siglt meðfram ströndum Norður-Ameríku samkvæmt frásögn Grænlendinga sögu. Í dag þykir merkilegra að hafa fundið Ameríku fyrstur manna samanborið við að finna Vínland fyrstur manna. Ekki þarf lengur að markaðsetja landafundina í leit að viðurkenningu erlendis og hunsa má forskot keppinauta hans þegar kemur að félagslegu/ættfræðilegu bolmagni í takt við aukna stéttarvitund 20. aldar. Það mun koma í ljós á næstu áratugum hvort fólk muni hafa áhuga á því að endurmeta minningu Bjarna Herjólfsson. Bjarni gæti hæglega tekið sér sess meðal annarra hetja fornsagnanna sem fóru í gegnum jákvætt endurmat á 20. öld, persóna á borð við Náttfara, Hallgerði langbrók, þræla Hjörleifs og Guðríði víðförlu. Það er heldur ekki óumflýjanlegt að sagan hafi tekið þá stefnu sem hún gerði og ollið því að Leifur heppni fékk einn þá stöðu að vera álitinn táknmynd norrænna landafunda Ameríku. Ekki hefði mikið þurft að bregða út af til að breyta núverandi söguvitund umtalsevert, til dæmis tilviljanakenndar ákvarðanir við frumritun Vínlandssagnanna, endurritun þeirra á miðöldum og túlkun einstakra áhrifavalda á efnisatriðum. Ef þessir þættir hefðu gengið á annan veg má vel ímynda að Bjarni ætti stærri sess í söguvitund nútímans. Til eru nokkrar prýðilegar styttur af Leifi heppna, Þorfinni karlsefni og Guðríði víðförlu. Aftur á móti er, mér vitandi, aðeins til eitt líkneski af Bjarna Herjólfssyni, en það er snoturt timburlíkneski á sýningu 70

Vínlandssetursins í Búðardal. Vel mætti ímynda sér að vegleg stytta af Bjarna Herjólfssyni myndi sóma sér vel á Eyrarbakka nálægt æskuslóðum landkönnuðarins.

71

Heimildaskrá

Prentaðar heimildir:

Alfræði Íslenzk I. COD. MBR. AM. 194, 8vo, Kristian Kaalund gaf út (Kaupmannahöfn: Samfund til udgivelse af gammel nordisk litteratur: 1908).

Arngrímur Jónsson, Grönlandia. Eður Grænlands saga (Skálholt: útgefanda ekki getið: 1688).

Assmann, Aleida, „Canon and Archive“, Cultural memory studies. Ritstýrt af Astrid Erll og Ansgar Nünning (Berlín og New York: Walter de Gruyter: 2008), bls. 97–107.

Assmann, Jan og John Czaplicka, „Collective memory and cultural identity“, New German critique, 65 (1995), bls. 125–133.

Assmann, Jan, „Communicative and cultural memory“, Cultural memory studies. An international and interdisciplinary handbook, Astrid Erll og Ansgar Nünning ritstýrðu (Berlín og New York: Walter de Gruyter: 2008), bls. 109–118.

Bartholin, Thomas, Antiquitatum Danicarum de Causis Contemptæ a Danis Adhuc Gentilibus Mortis Libri Tres ex vetustis codicibus & monumentis hactenus ineditis congesti (Kaupmannahöfn: Johan Philip Bockenhoffer: 1689).

Bjarni Ólafsson, Ráðgátan um endalok norrænnar byggðar á Grænlandi, ritgerð til BA-prófs í sagnfræði. Leiðbeinandi: Sverrir Jakobsson (2017).

Björn Þórðarson, „Eiríks saga rauða. Nokkrar athuganir“, Skírnir 113,1 (1939), bls. 60–79.

Flateyjarbók I-IV, Sigurður Nordal gaf út (Reykjavík: Flateyjarútgáfan: 1944–1945).

Ljungqvist, Fredrik Charpentier, „The Significance of Remote Resource Regions for Norse Greenland“, Scripta Islandica 56 (2005), bls. 13–54.

Guðmundur J. Guðmundsson, Á hjara veraldar. Saga norrænna manna á Grænlandi (Reykjavík: Sögufélag: 2005).

Guðvarður Már Gunnlaugsson, Sýnisbók íslenskrar skriftar (Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum: 2007).

Gunnar Benediktsson, „Náttfari. Fyrsti landnámsmaður Íslands“, Réttur 15,2 (1930), bls. 113–122.

Hauksbók. Udgiven efter de Arnamagnæanske håndskrifter NO. 371, 544 og 675,4 samt forskellige papirshåndskrifter. Finnur Jónsson og Eiríkur Jónsson gáfu út (Kaupmannahöfn: Det kongelige nordiske oldskrift-selskab: 1892–1896).

72

Heims Kringla. Eller Snorre Sturlusons Nordländske Konunga Sagor I, Johan Peringskiöld gaf út (Stokkhólmur: Literis Wankiwianis: 1697).

Historia Norwegie, Inger Ekrem og Lars Boje Mortensen gáfu út (Kaupmannahöfn: Museum Tusculanum press: 2006).

History of the archbishops of Hamburg-Bremen, Francis Tschan gaf út (New York: Columbia university press: 1959).

Íslendingasögur VII. Húnvetningasögur II, Guðni Jónsson gaf út (Reykjavík: Íslendingasagnaútgáfan: 1978).

Íslenzk fornrit I. Íslendingabók; Landnámabók, Jakob Benediktsson gaf út (Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag, 1968).

Íslenzk fornrit IV. Brands þáttr Örva; Eiríks saga rauða; Grænlendinga saga; Grænlendinga þáttr; Með viðauka Ólafs Halldórssonar: Eiríks saga rauða. Texti Skálholtsbókar AM 557 4to, Einar Sveinsson, Matthías Þórðarson og Ólafur Halldórsson gáfu út (Reykjavík: Hið íslenska fornritafélag: 1985).

Íslenzk fornrit XXV. Færeyinga saga; Ólafs saga Odds, Jónas Kristjánsson og Þórður Ingi Guðjónsson gáfu út (Reykjavík: Hið Íslenzka fornritafélag: 2006).

Íslenzk fornrit XXVI Heimskringla I, Bjarni Aðalbjarnarson gaf út (Reykjavík: Hið íslenska fornritafélag: 1941).

Mårtenson, Lasse, Studier i AM 557 4to. Kodikologisk, grafonomisk och ortografisk undersökning av en isländsk sammelhandskrift från 1400-talet (Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum: 2011).

Már Jónsson, „Sannleikar sagnfræðinnar“, Skírnir 166,2 (1992), bls. 440-450.

McKay, John, David Hill, John Buckler og fleiri, A history of world societies. Eighth edition (Boston og New York: Palgrave Macmillan: 2009).

Misztal, Barbara, „Durkheim on collective memory“, Journal of classical sociology 3,2 (2003), bls. 123-143.

Olick, Jeffrey, „From Collective Memory to the Sociology of Mnemonic Practices and Products “, Cultural memory studies. Astrid Erll og Ansgar Nünning ritstýrðu (Berlín og New York: Walter de Gruyter: 2008), bls. 151–161.

Ólafur Haldórsson, Grænland í miðaldaritum (Reykjavík: Sögufélag: 1978).

Páll Bergþórsson, Vínlandsgátan (Reykjavík: Mál og menning: 1997).

Sigríður Helga Þorsteinsdóttir, Biskupamóðir í páfagarði. Mynd Guðríðar Þorbjarnardóttur í skáldskap og veruleika, ritgerð til MA-prófs í íslenskum fræðum. Leiðbeinandi: Jón Karl Helgason. Háskóli Íslands (2008).

73

Sigurður Jónsson, „Stefna Árborgar í ferðamálum kynnt. Nota Bjössa á mjólkurbílnum og Bjarna Herjólfsson“, Morgunblaðið 127 (2002), bls. 20.

Sommer, Bettina Sejbjerg, „The norse concept of luck“, Scandinavian Studies, 79, 3 (2007), bls. 275–294.

Stefán Karlsson, „Aldur Hauksbókar“, Fróðskaparrit 13 (1964), bls. 114–121.

Islandske Annaler indtil 1578, Gustav Storm gaf út (Oslo: Det Norske historiske kildeskriftfond: 1888).

Sverrir Jakobsson, “Hauksbók and the construction of an Icelandic world view”, Saga-Book 31 (2007), bls. 22–38.

Sverrir Jakobsson, “Vínland and wishful thinking. Medieval and modern fantasies”, Canadian journal of history 47,3 (2012), bls. 493–514.

Sverrir Sveinn Sigurðsson, “Hver fann Ameríku”, Morgunblaðið 107,10, B (2003), bls. 8–9.

Þorsteinn Helgasson, „Minning sem félagslegt fyrirbæri. Fyrri hluti: Minning, saga, menning“, Saga 52,2 (2014), bls. 58–87.

Þórmóður Torfason, Historia Vinlandiæ antiqvæ sive partis Americæ septentrionalis (Kaupmannahöfn: Þórmóður Torfason: 1705).

Þórmóður Torfason, History of ancient Vinland (New York: John G. Shea: 1891).

Vefheimildir:

Vef. Helgi Þorláksson, „Hvers vegna hefur Náttfara ekki verið hampað sem fyrsta landnámsmanninum?“, Vísindavefurinn (2008), sótt 15.4.2021 https://www.visindavefur.is/svar.php?id=48331#.

Vef. Linden, Eugene, „The vikings: A memorable visit to America“, Smithsonian magazine (2004), sótt 15.4.2021 https://www.smithsonianmag.com/history/the- vikings-a-memorable-visit-to-america-98090935/.

Vef. Theurer, Ernie, „bjarni“, Urban dictionary (2008), sótt 15.4.2021 https://www.urbandictionary.com/define.php?term=bjarni.

74