„Straight Edge“ Á Íslandi? Möguleg Samfélagsleg Áhrif Þessa Undirgeira Harðkjarnastefnunnar
Total Page:16
File Type:pdf, Size:1020Kb
BA-ritgerð Félagsfræði, 180 einingar „Straight edge“ á Íslandi? Möguleg samfélagsleg áhrif þessa undirgeira harðkjarnastefnunnar Stefán Oddur Hrafnsson Leiðbeinandi Arnar Eggert Thoroddsen Febrúar 2021 „Straight edge“ á Íslandi? Möguleg samfélagsleg áhrif þessa undirgeira harðkjarnastefnunnar Stefán Oddur Hrafnsson Lokaverkefni til BA-gráðu í félagsfræði Leiðbeinandi: Arnar Eggert Thoroddsen 12 einingar Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Félagsvísindasvið Háskóla Íslands Febrúar 2021 „Straight edge“ á Íslandi? Ritgerð þessi er lokaverkefni til BA-prófs í félagsfræði og er óheimilt að afrita ritgerðina á nokkurn hátt nema með leyfi rétthafa. © Stefán Oddur Hrafnsson, 2021 Rafræn útgáfa Reykjavík, Íslandi, 2021 Útdráttur Í þessari rannsókn verður menningarkiminn „straight edge“ skoðaður. Í upphafi verður skilgreint hvað menningarkimi er, hvaðan hugtakið kemur og hvernig rannsóknir, skilgreiningar og kenningar um menningarkima hafa þróast. Til að fá sem alþjóðlegasta mynd af menningarkimanum verður auk fræðilegra heimilda fjallað um viðtal sem höfundur átti við bandaríska félagsfræðiprófessorinn Ross Haenfler. Hann er einn fremsti fræðimaður sem hefur rannsakað „straight edge“. Hið órannsakaða er „straight edge“ á Íslandi sem skilgreina má sem harðkjarnasenu. Til að rannsaka „straight edge“ skoðaði höfundur blaða- og tímaritsgreinar um harðkjarnasenuna á Íslandi, og tók viðtal við fjóra einstaklinga sem skilgreina sig sem „straight edge“ á Íslandi. Viðtölin voru þemagreind og notuð til að afla aukinnar þekkingar á stöðu „straight edge“ á Íslandi og svara spurningum sem hafa sprottið upp varðandi þennan menningarkima. Niðurstöðurnar leiddu í ljós að fáir einstaklingar á Íslandi virðast skilgreina sig sem „straight edge“ og „hardline”-lífstíll hefur ekki náð fótfestu hér. Veganismi er hluti af lífstíl „straight edge” hér eins og annars staðar en viðmælendur tengdu „straight edge” ekki við pólitískar hreyfingar. Niðurstöðurnar voru þær að „straight edge“ á Íslandi og í Bandaríkjunum hefur þróast á svipaðan hátt, en er að sumu leyti ólíkt. Mismunandi menningarheimar eiga þar eflaust stóran hlut að máli, en einnig mannfjöldi. Þar sem svo fáir einstaklingar á Íslandi skilgreina sig sem „straight edge“ er líklegt að ýmsir eiginleikar sem koma fram í bandarísku „straight edge“-senunni komi ekki fram hér á landi. 3 Formáli Þetta hefur verið langt ferli, lengra en vanalegt er um BA-verkefni. Verkefnið er núna á þriðju önninni af ýmsum ástæðum en loksins er þetta komið. Ég hefði ekki getað gert þetta einn og því eru margir sem þarf að þakka. Til að byrja með vil ég þakka leiðbeinanda mínum, dr. Arnari Eggerti Thoroddsen. Án þín hefði rannsóknin og verkefnið ekki litið dagsins ljós. Ég þakka þér fyrir þrautseigjuna og skilninginn á þeim langa tíma sem ég þurfti til að klára þetta verkefni. Einnig vil ég þakka dr. Ross Haenfler fyrir að gefa sér tíma til að tala við mig, thank you so much. Og að lokum allir viðmælendur mínir, takk fyrir hversu opinskátt þið töluðuð við mig. Næst er það fjölskylda mín. Mamma mín, dr. Sigríður Sía Jónsdóttir, takk innilega fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig á minni skólagöngu og yfirlesturinn á þessu BA- verkefni á lokasprettinum. Pabbi minn, dr. Hrafn Óli Sigurðsson, takk fyrir að halda mér við efnið og leyfa mér ekki að hætta þegar mig langaði hvað mest til þess. Stjúpfeður mínir, dr. David Ekstrom og Birgir Karl Knútsson, ég þakka ykkur fyrir að hvetja mig áfram og styðja mömmu og pabba þegar ég reyndi hvað mest á þau. Bræður mínir, Gunnar Ingi Hrafnsson og Ævarr Freyr Birgisson, takk fyrir að vera þið. Tengdafjölskylda mín, takk fyrir að taka mér opnum örmum inn í fjölskylduna og að hvetja mig til að klára námið, stuðningur ykkar hefur verið mér ómetanlegur. Að lokum er það ein manneskja sem ég þarf að þakka. Frekar tvær en ein. Erla Mist mín. Takk fyrir að vera svona skilningsrík, hjartahlý og hvetjandi. Takk fyrir að fagna áföngum með mér og halda utan um mig þegar kvíðaköstin tóku völdin. Ég hefði ekki getað þetta án þín. Og litla krílið okkar, elsku pandan okkar, þú gafst mér lokakraftinn til að klára þennan áfanga. Nýr kafli í lífi mínu byrjar í mars þegar þú kemur í heiminn, og ég var búinn að lofa þér að ljúka þessu námi áður en þú kæmir inn í líf okkar mömmu þinnar. Ég elska ykkur, elsku Erla mín og panda, svo ólýsanlega mikið, og svo miklu meira en það. 4 Efnisyfirlit Útdráttur .................................................................................................................... 3 Formáli ....................................................................................................................... 4 Efnisyfirlit ................................................................................................................... 5 1 Inngangur .............................................................................................................. 6 2 Aðferð ................................................................................................................... 8 3 Menningarkimar .................................................................................................... 9 4 Ýmsir heimar „straight edge“ ............................................................................... 13 4.1 Saga „straight edge“ ......................................................................................... 13 4.2 „Hardline“ ......................................................................................................... 13 4.3 Pólitík „straigth edge“ ....................................................................................... 15 4.4 Veganismi .......................................................................................................... 17 4.5 Trúarafbrigði ..................................................................................................... 18 4.6 Karlar stjórna..................................................................................................... 19 4.7 „Hardcore“ á Íslandi .......................................................................................... 20 5 Niðurstöður ......................................................................................................... 22 5.1 Meðvitund ......................................................................................................... 22 5.2 Drykkjumenning ................................................................................................ 23 5.3 Kynjahlutfall ...................................................................................................... 25 5.4 Hópur ................................................................................................................ 25 5.5 Viðhorf til „hardline“ ......................................................................................... 26 5.6 Samantekt ......................................................................................................... 26 6 Umræður ............................................................................................................. 28 7 Lokaorð ................................................................................................................ 32 Heimildaskrá ............................................................................................................ 33 5 1 Inngangur Fyrsta rokkplatan sem ég man eftir að hafa eignast var Hybrid Theory með Linkin Park sem ég fékk í jólagjöf frá bróður mínum þegar ég var sex ára. Ég hljóp beint inn í herbergi og skellti diskinum í tækið og varð alveg heillaður af þessari tónlist. Þetta var um síðustu aldamót en sem unglingur kynntist ég þyngri tónlist hjá hljómsveitum eins og Lamb of God, Bullet for my Valentine, Amon Amarth og fleirum. Ég fann mig í þessari tónlist, reiðri tónlist, fullkominni fyrir ungling. Ég fylgdist lítið með íslensku tónlistarsenunni en þegar ég var um tvítugt deildi vinur minn lagi með nýju hljómsveitinni sinni, Une Misère. Ég ákvað að kíkja á það og varð heltekinn af laginu Overlooked/Disregarded og vildi fá meira beint í æð. Eftir nokkrar tilraunir komst ég á tónleika með þeim og upplifunin var mögnuð. Jón Már, söngvari hljómsveitarinnar, stóð uppi á sviði og talaði um edrúmennsku. Það kom mér alveg í opna skjöldu því að ég hafði alltaf haldið að til þess að vera í þungarokki þyrfti lífið að vera eitt stórt djamm. Þarna varð mér fyrst ljóst að til væru einstaklingar innan harðkjarnatónlistarstefnunnar sem kölluðu sig „straight edge“. En hvað er þetta „straight edge“ sem mætti þýða yfir á íslensku sem „á beinni braut“? „Straight edge“ snýst um tónlistina og „að halda líkamanum og huga hreinum frá víni, eiturlyfjum, nikótíni (og því að ríða öllu sem hreyfist)“ (Haenfler, 2014; Kuhn, 2010; Minor Threat, 1984). „Straight edge“ er menningarkimi (e. subculture) sem kom fram í byrjun níunda áratugarins. Almennt séð naut þessi kimi ekki mikilla vinsælda innan pönks en eftir að harðkjarnasenan (e. hardcore scene) þróaðist út frá pönkinu verður „straight edge“ vel þekkt og fer að láta að sér kveða innan harðkjarnasenunnar. Þegar rætt er um senur (e. scenes) er átt við hópamyndun einstaklinga með svipað áhugamál og félagslega tengingu. Harðkjarni er hins vegar heiti á tónlistarstefnu sem einkennist af hröðum hljóðfæraleik og sterkum, kraftmiklum söng og „straight edge“-senan er partur af henni. Hún hefur dreifst um heiminn og hafa þó nokkrar senur utan Bandaríkjanna orðið stórar, t.d. hafa Svíþjóð, Belgía og Pólland átt sterkar senur síðan á tíunda áratugnum. „Straight edge“ varð kannski aldrei almennt séð vinsæll lífstíll