<<

BA – RITGERÐ MANNFRÆÐI

SIGRÍÐUR KRISTÍN JÓNASDÓTTIR

ENDALOK OTTÓMANVELDISINS OG UPPGANGUR ÞJÓÐERNISHYGGJU. BORGIN BRENND.

LEIÐBEINANDI: KRISTJÁN ÞÓR SIGURÐSSON

Félags- og mannvísindadeild 1. janúar 2020

Endalok Ottómanveldisins og uppgangur þjóðernishyggju. Borgin Smyrna brennd.

Sigríður Kristín Jónasdóttir

Febrúar 2020

Lokaverkefni til BA-gráðu í mannfræði Leiðbeinandi: Kristján Þór Sigurðsson 12 einingar

1

Félags- og mannvísindadeild 1. janúar 2020

Endalok Ottómanveldisins og uppgangur þjóðernishyggju. Borgin Smyrna brennd.

Ritgerð þessi er lokaverkefni til BA í mannfræði og er óheimilt að afrita ritgerðina á nokkurn hátt nema með leyfi rétthafa. © Sigríður Kristín Jónasdóttir, 2020 Reykjavík, Ísland 2020

2

Félags- og mannvísindadeild 1. janúar 2020

Útdráttur.

Í þessari ritgerð verður fjallað um endalok Ottómanveldisins og uppgang þjóðernishyggju (e. nationalism) og hvaða þýðingu saga Ottómanveldisins hefur fyrir stöðuna í Miðausturlöndum í dag. Stuðst verður við kenningar fræðimanna tengdar þjóðernishyggju, landamærum, félagslega skilgreindum mærum (e. boundaries) og völdum. Einnig verður skoðuð aðkoma vestrænna ríkja og ábyrgð þeirra á styrjöldum og ranglátum sáttmálum sem fólk í löndum hins fallna Ottómanveldis hefur þurft að lifa við. Fjallað verður um fólksflutninga Tyrkja og Grikkja og fleiri minnihlutahópa og þá atburði í mannkynssögunni sem leiddu til þess að borgin Smyrna, í dag Izmir, á Anatólíuskaganum (Litlu Asíu) var brennd í september árið 1922 og fleiri þúsundir borgara voru drepnar, aðallega Grikkir og Armenar.

3

Félags- og mannvísindadeild 1. janúar 2020

Abstract This thesis discusses the emergence of nationalism and the demise of the and the meaning its history for the situation in the Middle East today. Theories of nationalism, borders, socially defined boundaries and power are applied. Also, the interference of Western powers and their part in conflicts and unjust agreements affecting the lives of people in the former Ottoman Empire have had to live with. The emigration of and Turks, and other minority groups, will be discussed, and the events that lead to the destruction of Smyrna (Izmir today) in , where thousands of people were killed. is one of the countries that need to reconsider its past and face difficult questions concerning the mass killings of , Greeks and other groups of the Ottoman Empire.

4

Félags- og mannvísindadeild 1. janúar 2020

Efnisyfirlit Útdráttur...... 3 Abstract ...... 4 Inngangur...... 6 1 Fræðileg umræða: Kenningar og hugtök ...... 7 1.1 Ríki, þjóð, ímyndað samfélag ...... 7 1.2 Orðræða, vald, mæri, mörk, stjórnvaldstækni ...... 10 1.3 Sjálfumleiki, etnerni, etnískir hópar ...... 11 2 Vettvangurinn: Grikkland, Tyrkland. Sögulegt samhengi...... 14 2.1 Grikkland hið forna ...... 14 2.2 Ottómanveldið ...... 15 2.3 Stofnun nútíma Grikklands, Balkanstríðin og fyrri heimsstyrjöldin ...... 18 2.4 Ungtyrkir og Mustafa Kemal (Atatürk) ...... 21 2.5 Smyrna og innrás Grikkja í Litlu Asíu (Anatólíu) ...... 22 2.6 „Tyrkland fyrir Tyrki “ ...... 24 3 Frásagnir og vitnisburðir...... 26 3.1 Levissi, bær sem nú heitir Kayaköy ...... 26 3.2 Vitnisburður Despina Papantoniou ...... 27 3.3 Frásögn Theodoru Kondou ...... 27 3.4 Viðtal Leylu Neyzi við Gülfem Kaatcilar Iren ...... 28 4 Niðurlag...... 30 HEIMILDASKRÁ ...... 33

5

Félags- og mannvísindadeild 1. janúar 2020

Inngangur. Það sem fjallað verður um í þessari ritgerð eru endalok Ottómanveldisins og uppgangur þjóðernishyggju og hvaða þýðingu saga Ottómanveldisins hefur fyrir stöðuna í Miðausturlöndum í dag. Við þessar breytingar urðu hugmyndir um þjóðerni, etnerni (e. ethnicity), trúarbrögð og sjálfumleika (identity) allt í einu mikilvægar. Hér þarf að hafa í huga hina löngu og merku sögu Ottómana í heild og skoða þarf ákveðna atburði sem áttu sér stað á lokaskeiði heimsveldisins, um fólksflutninga Tyrkja og Grikkja og fleiri minnihlutahópa. Einnig þarf að skoða þá atburði í mannkynssögunni sem leiddu til þess að borgin Smyrna, í dag Izmir, á Anatólíuskaganum (Litlu Asíu) var brennd í september árið 1922 og fleiri þúsundir borgara voru drepnar, aðallega Grikkir og Armenar, og þúsundir reknar í sjóinn. Í höfninni í Smyrnu voru herskip Frakka, Breta, Ítala, Japana og Bandaríkjanna sem gátu ekki hjálpað fólkinu sem drukknaði í höfninni. Undir lok 19. aldar stóð hið fyrrum glæsta Ottómanveldi (Tyrkjaveldi) höllum fæti. Ungtyrkir náðu völdum árið 1908 og börðust gegn soldáninum og fyrir breyttum stjórnarháttum. Útrýma skyldi minnihlutahópum sem stæðu í vegi fyrir altyrknesku ríki. Í fyrri heimsstyrjöldinni gafst færi til aðgerða sem miðuðu að því að fækka þeim í ríkinu. Opinberlega byggðust aðgerðirnar á brottflutningi hinna óæskilegu en hið raunverulega markmið var að drepa sem flesta. Aðgerðirnar fólu meðal annars í sér pyntingar og aftökur, auk þess sem fólkið var rekið fótgangandi langar vegalengdir, jafnvel um þúsundir kílómetra með þeim afleiðingum að margir létust. Karlmenn voru teknir í nauðungarvinnu. Algengt var að aldraðir og veikir voru drepnir á leiðinni því þeir hægðu á hópnum og líkin lágu meðfram vegum Anatólíu mánuðum saman.

Tyrkland er eitt þeirra ríkja sem hefur þurft að líta til fortíðar og svara erfiðum spurningum varðandi fjöldamorð tyrkneskra stjórnvalda á Armenum og Grikkjum og fleiri minnihlutahópum í Ottómanveldi. Fjallað verður um tvo stjórnmálamenn sem á þessum tíma höfðu mikil áhrif og þeirra er enn minnst í dag, en alþjóðaflugvellirnir í Aþenu ( Airport, 2019) og í Istanbúl (Istanbul Ataturk Airport, 2019) hafa verið nefndir eftir þeim. Þetta eru Elefþeríos Venizelos og Atatürk eða Mustafa Kemal. Vissulega hefur verið tilhneiging í Tyrklandi til að sjá fall Ottómana eingöngu sem tyrkneska upplifun. Það er næstum óþarfi að segja það en þetta var varla raunin. Fólk

6

Félags- og mannvísindadeild 1. janúar 2020 sem bjó í öðrum ríkjum heimsveldisins upplifði fall þess á kvalarfullan hátt. Palestínumenn, Sýrlendingar, Írakar, Armenar, Líbýumenn, Grikkir og fleiri þjóðir á Balkanskaga halda því margir fram að stórveldi Evrópu beri ábyrgð á styrjöldum og ranglátum sáttmálum sem fólk í löndum hins fallna Ottómanveldis hefur þurft að lifa við. Samt er sterkur ágreiningur um það hlutverk sem stjórn ríkisins gegndi í eigin sársaukafullu andláti. Ottómanveldið var mjög fjölmenningarlegt ríki sem þjóðernishyggja eyðilagði og má segja að flest seinni tíma átök í Miðausturlöndum eigi rætur sínar í því að vestræn þjóðernishyggja og sókn vestrænna ríkja í olíu sáði fræjum átaka og sundrungar á þessu svæði. Til að skoða og greina þetta efni er notast við kenningar fræðimanna eins og Ernest Gellner (1983) en hann skilgreinir þjóðernishyggju og hugtökin þjóð og ríki eru skilgreind, Benedict Anderson (2006) og umfjöllun hans um þjóð. Thomas Hylland Eriksen (1991, 1992, 1993, 1996, 2010, 2015) fjallar um hugtök eins og sjálfumleika (e. identity), þjóðernishyggju og fjölmenningarleg samfélög. Didier Fassin (2011) bendir á að í mannfræði sé algengt að aðgreina annars vegar landfræðileg landamæri (e. border) og hins vegar félagslega skilgreind mæri (e. boundary). Michel Foucault (1980,1994,2008) hugleiddi hugtökin vald, stjórnvaldstækni og sjálfumleiki og loks er vísað í Fredrik Barth (1969) og útskýringar hans á hugtakinu etnerni (e. ethnicity).

1 Fræðileg umræða: Kenningar og hugtök

1.1 Ríki, þjóð, ímyndað samfélag Ernest Gellner skilgreindi meðal annars hugmyndir um þjóðernishyggju (Gellner, 1983). Samkvæmt skilgreiningu Gellners er þjóðernishyggja pólitísk hugmyndafræði sem rekur uppruna sinn til iðnbyltingarinnar og þeirra samfélagslegu breytinga sem henni fylgdu. Hugmyndafræðin segir að hin pólitíska og hin menningarlega eining ætti að vera ein sú sama og ættu því þjóðir að stjórna sér sjálfar og þeir sem fari með stjórn þjóðríkisins eigi að vera sömu þjóðar og meirihluti þegna ríkisins. Ýmis þjóðríki standast ekki kröfur þjóðernissinna og aðal vandamálið er að þjóðríki ná ekki utan um alla þjóðina eða að innan þjóðríkja eru auk tiltekinnar þjóðar aðrar þjóðir og þjóðarbrot. Auk þess er mögulegt að þjóðir eigi sér ekkert þjóðríki og lifi innan fjölda

7

Félags- og mannvísindadeild 1. janúar 2020 annarra ríkja. Gellner snýr þjóðernishyggjunni að ríkinu og virkni þess. Í því samhengi bendir hann meðal annars á hlutverk þess til upplýsingar og menntunar. Ríkið á stóran þátt í að mynda svokallaða hámenningu þar sem það mótar og skipuleggur menntun, trúarbrögð og stjórnarfar. Gellner (1983) telur að læsi og menntun hafi legið til grundvallar uppgangi þjóðernishyggju og telur hann þetta vera afar mikilvægan þátt í mótun og hugsun þjóða. Hann hélt því fram að á fyrri tímum, til dæmis í landbúnaðarsamfélögum hafi stjórnvöld ekki teygt arma sína svo langt inn í daglegt líf fólks líkt og gerist í nútíma ríkjum. Trúarbrögð og menntun voru aðskildir þættir frá störfum ríkisins og það hafði þess vegna ekki sömu tökin á því að móta þjóðernishugmyndir þjóðarinnar. Breytt samfélagsgerð, segir hann, hafi skapað þörf fyrir margskonar sérhæfða kunnáttu sem leiddi til þess að menntun var talin nauðsynleg, en til að tryggja hana þurfti ríki að þróa og halda utan um eigið og ákveðið menntakerfi. Innan þeirra menntastofnana var börnum kennt að lesa og skrifa og það segir Gellner hafa leitt til þess að tungumál hafi þróast og staðlast, og þau orðið forsenda þjóðarmyndunar og þjóðernishyggju (Gellner, 1983). Þegar ríkið hóf að móta og skipuleggja menntun var tungumálið einnig aðlagað að menntakerfinu og mikil áhersla var lögð á móðurmálið. Baumann (1999) vildi líkja þjóðernishyggju við trúarbrögð og taldi hann fólk líta á sig sem hluta af trúarlegu samfélagi. Þjóðarvitund var mettuð af gildum þjóðernishyggju líkt og trúarbrögð, og taldi hann skólana hafa verið einskonar trúboðsstöðvar sem móta áttu þjóðarvitund. Baumann fjallaði einnig um þann kraft sem því fylgir og hvað fólk er tilbúið að gera í nafni þjóðarinnar (Baumann, 1999).

Til að útskýra kenningar Gellners betur er nauðsynlegt að skilgreina tvö megin hugtök en það eru hugtökin ríki og þjóð. Gellner (1983) byggir skilgreiningu sína á ríkinu á skilgreiningu Max Weber. Það er að ríki sé stofnun sem hefur einokun á lögmætri valdbeitingu innan ákveðins landsvæðis, en bendir þó á að til séu ríki sem uppfylli ekki þessi viðmið. Gellner bætir við þessa skilgreiningu öðru hlutverki ríkja sem er að hafa yfirumsjón með því að röð og regla ríki auk þess að halda utan um verkaskiptingu samfélaganna. Söguleg greining sýnir að stjórnunareiningar hafi myndast um það leyti sem þjóðfélög stækkuðu og með iðnvæðingunni hafi samfélög orðið svo margbrotin og stór að kröfurnar um verkaskiptingu hafi gert einhvers konar

8

Félags- og mannvísindadeild 1. janúar 2020 yfirumsjón nauðsynlega. Gellner telur að því sterkara sem ríkisvaldið er og miðstýring ríkja meiri því líklegra er að þjóðernishyggja blómstri (Gellner, 1983). Annað hugtak sem er mikilvægt þegar kemur að því að greina þjóðernishyggju er hugtakið þjóð. Lengi hefur verið reynt að skilgreina hugtakið og segja má að skilgreiningin á þjóð sé ennþá flóknari en skilgreiningin á ríki. Fjöldi fræðimanna hefur reynt að skilgreina það en án sameiginlegrar niðurstöðu. Gellner (1983) heldur því fram að tveir einstaklingar tilheyri sömu þjóðinni ef þeir deila sömu menningu. Það sem menning þýðir fyrir honum er kerfi samskipta, hugmynda, tákna, tengsla og hegðunarþátta. Gellner telur að tveir einstaklingar tilheyri aðeins sömu þjóð ef þeir líti sjálfir svo á. Ríkið á stóran þátt í að móta stjórnarfar, trúarbrögð og menntun og það telur Gellner vera afar mikilvæga þætti í mótun og hugsun þjóða og þar af leiðandi myndun þjóðernishugsana. Gellner segir frá skáldsögu eftir Chamisso en hún heitir Maður án skugga. Chamisso var franskur innflytjandi í Þýskalandi á tímum Napóleons. Fyrir höfundinn táknaði maður án skugga mann án þjóðar (Gellner, 1983). Benedict Anderson (2006) skilgreinir þjóð sem ímyndað pólitískt samfélag sem geti verið bæði takmarkað og fullvalda. Þjóðir eru ímyndaðar með takmörkum þar sem jafnvel þær stærstu eru innan skilgreindra landamæra og utan þeirra taka við aðrar þjóðir. Engin þjóð gerir tilkall til alls mankyns. Þær eru ímyndaðar fullvalda því hugtakið varð til á tíma þar sem gamlar hugmyndir um ættarveldi sem töldu sig fá vald sitt frá Guði voru að riðlast. Þær eru ímyndaðar sem samfélög því þjóðin er alltaf hugsuð sem allsherjar félagsskapur þrátt fyrir allskonar ójafnræði og misnotkun sem getur átt sér stað innan þjóðfélagsins. Anderson telur augljóst að endalok þjóðernishyggjunnar, sem svo lengi hafi verið spáð, sé ekki í augsýn.

Stöðugleika margra „gamalla þjóða“ sem taldar hafi verið í jafnvægi sé ógnað af undirliggjandi þjóðernishyggju hópa sem dreymir um viðurkenningu á eigin þjóð. Anderson heldur því fram að þjóð sé í raun lögmætasta gildið í pólitísku lífi samtímans (Anderson, 2006). Hugtakið þjóð er ekki náttúrulegt fyrirbæri frekar en þjóðríkið og þjóðernishyggja. Þjóðernishyggja er hugmyndafræði sem heldur því fram að landamæri ríkis eigi að vera þau sömu og landamæri menningarsamfélags. Þjóðernishyggjan getur verið herská bæði utan og innan landamæra ríkis og líta má á þjóðernishyggju sem hagsmunahyggju (Eriksen, 2015). Að mati Eriksen er samfélag

9

Félags- og mannvísindadeild 1. janúar 2020 félagslegt umhverfi þar sem þátttakendur skuldbinda sig siðferðislega og gera kröfur hver til annars. Hann bendir á að fyrirbærið menning lýsi best orðræðu samfélags, hverjar samskiptaleiðirnar eru í samfélaginu og hvernig vandamálin eru leyst. Menning er byggð á sameiginlegum lífsháttum í hverju samfélagi fyrir sig (Eriksen, 1992). Í grein Eriksen, Multiple traditions and the question of cultural integration (1992), vitnar hann í Durkheim og hugmyndir hans um samfélag sem siðferðislega samvinnu, kerfi félagslegra tengsla og hversu mikilvægt það er fyrir mannlegt líf. Samfélag sé í raun tilgangur lífsins. Eriksen hefur bent á að margir fræðimenn innan félagsvísinda haldi þeirri hugmynd fram að meðlimir hópa í mannlegu samfélagi hafi tilhneigingu til þess að greina á milli innherja og utanaðkomandi aðila. Manneskjan afmarki félagsleg mörk, þrói staðalímyndir um “hina” (e. others) og sé það gert til þess að viðhalda og réttlæta þessi mörk. Ef þetta er raunin þá getur etnerni (e. ethnicity) verið álitið alhliða einkenni mannkynsins eins og kyn og aldur á meðan hugtök eins og þjóðríki og þjóðernishyggja eru aðeins tengd við nútímann (Eriksen, 1996).

1.2 Orðræða, vald, mæri, mörk, stjórnvaldstækni Foucault (2008) sem var franskur sagnfræðingur og heimspekingur benti á að það væri mikið vald fólgið í orðræðunni og að hún skapaði ákveðna þekkingu, en hann sagði að það væru gagnvirk tengsl milli þekkingar og valda. Og með því að rýna í orðræðuna og þann veruleika sem tungumálið skapar þá áttum við okkur á því ósýnilega valdi sem býr að baki tungumálinu. Foucault (2008) benti á að tungumálið væri lifandi og síbreytilegt og að það hefði félagsleg og pólitísk áhrif. Tungumálið á mikinn þátt í því að móta hugmyndir okkar og skapa félagslegan veruleika okkar. Foucault (2008) sagði orðræðuna skapa hugmyndir en benti á að orðræðan tæki sífelldum breytingum. Hann taldi vald og þekkingu oftast haldast í hendur og hafa áhrif hvað á annað. Hann hélt því fram að vald væri ekki hlutur eða eitthvað stöðugt, heldur yrði vald til í samskiptum einstaklinga, hópa, hugmynda, hugmyndakerfa og orðræðu, þar sem tekist væri á um stjórn umræðunnar. Didier Fassin (2011) bendir á hvernig algengt sé í mannfræðinni að aðgreina annars vegar landfræðileg landamæri (e. border) og hins vegar félagslega skilgreind mæri (e. boundary). Hann leggur áherslu á að í raun sé ekki hægt að aðskilja þetta tvennt þegar við greinum stýringu fólksflutninga og upplifanir fólks af fólksflutningum. Fassin (2011) vitnaði í Foucault (2007) og það sem Foucault kallar

10

Félags- og mannvísindadeild 1. janúar 2020 stjórnvaldstækni (governmentality) en það er hugtak frá honum um vald og valdbeitingu yfirvalda um að ríkja yfir svæði og mannfjölda (Fassin, 2011). Skrif Michel Foucault um stjórnvaldstækni gengu út á að gera grein fyrir sögulegum breytingum í sambandi við ímynd og framkvæmd valds í ákveðnum samfélögum þar sem stjórnvöld fóru að einbeita sér að velferð þjóðarinnar. Stjórnvaldstækni nær ekki eingöngu yfir stofnanir sem snúa að pólitísku valdi, heldur er það tæki til að stjórna hegðun almennt. Samspil valds og þekkingar þróaðist á 18. og 19. öld og þau urðu óaðskiljanleg. Það var ekki lengur hægt að beita valdi nema með því að framleiða þekkingu. Mikilvægur liður í stjórnvaldstækni er hið svokallaða lífvald (e. biopower). Lífvaldið verður til á 18. öld þegar breytingar urðu á valdsgerð samfélagsins í Evrópu. Einvaldurinn hafði haft vald til þess að taka líf þegna sinna eða gefa þeim líf ef honum sýndist svo. Sverð einvaldsins var merki þessa valds. Vald hans tengdist því dauðanum: Hann stjórnaði í valdi þess að geta bundið enda á líf. Hið nýja valdskipulag beindist ekki að dauðanum með þessum hætti, heldur að lífinu: það miðaðist að því að hafa vald á hinum lifandi án þess að byggja það vald á rétti til að drepa (Garðar Árnason, 2004). Foucault (1994) taldi einnig að lífvald væri í grunninn byggt á aðferðum hinnar kristnu kirkju sem gerði ekki aðeins hegðun, heldur einnig hugsanir, langanir og þrár einstaklingsins að viðfangsefni sínu.

1.3 Sjálfumleiki, etnerni, etnískir hópar Sjálfumleiki (e. identity) verður til með aðgreiningu frá öðrum og einnig í gegnum spennu milli mismunandi hópa. Thomas Hylland Eriksen, norskur mannfræðingur (1993), segir hugmyndir um þjóðerni og etnerni (e. ethnicity) vera bundna við hugmyndina um „okkur“ og „hina“. Ef engin slík hugmynd væri til væri ekkert þjóðerni. Cohen (1993, 1994) segir að menningarlegur sjálfumleiki feli í sér annaðhvort arfleið og sögu eða viðleitni til þess að skapa slíkt sé það ekki fyrir hendi. Samkvæmt Foucault (vitnað til í Stuart Hall, 2001) er vert að huga að sjálfumleikanum í þeim tilgangi að tengja saman á nýjan leik og á nýjan hátt hinn félagslega geranda og hina orðræðubundnu iðkun. Þannig geta kenningar um sjálfumleika veitt mikilvæga innsýn inn í það hvernig orðræður skapa tiltekna félagslega gerendur. Foucault sagði sjálfumleika vera dýnamískt ferli, einstaklingurinn hafi ekki að geyma eðlislægan kyrrstæðan kjarna sem túlka mætti sem sjálfumleika heldur verður sjálfið til í viðvarandi samræðu sjálfsins við aðra. Eriksen (2010) segir flestar þjóðernisstefnur

11

Félags- og mannvísindadeild 1. janúar 2020 vera etnískar (e. ethnic) í eðli sínu enda séu hugtökin þjóð (e. nation) og etnerni (e. ethnicity) skyld hugtök. Það sem greini hinsvegar þjóðir frá þjóðernishópum (e. ethnic groups) séu tengsl þeirra við ríkið. Þjóðir eru pólitískar einingar sem gera tilkall til ákveðins landsvæðis þjóðríkis, með skýrt afmörkuðum landamærum. Það er ekki fyrr en þjóðernishópur gerir kröfu um sjálfstæði og stofnun ríkis, sem hann verður þjóð (Eriksen, 2010). Þjóðríkið er byggt upp með meira eða minna tilbúnum hugmyndum um þjóðlega menningu þar sem notast er við misraunhæfar hugmyndir í þeim tilgangi að höfða tilfinningalega til þjóðarinnar (Anderson, 2006; Baumann, 1999). Óljós fortíðarljómi er laðaður fram og upprunagoðsagnir tengdar ákveðnu landsvæði og þær sameiginlegu minningar sem þjóðin fær í arf hafa mótandi áhrif á samtímann. Eriksen (2010) segir að landakort ýti meðal annars undir þær hugmyndir að þjóðir séu sögulega afmarkaðar einingar og ýti þannig undir þjóðernishyggju, sem síðan veki upp sterkar tilfinningar og skapi hollustu gagnvart sögu þjóðarinnar, sem gegnir því hlutverki að réttlæta tilvist tiltekinnar þjóðar á tilteknu landsvæði. Samkvæmt hugmyndafræði þjóðernishyggjunnar þá eiga landamæri ríkja að samsvara menningarlegum landamærum þjóða. Þjóðernishyggjan leggur áherslu á menningarlega einsleitni og það hefur leitt til þess að gjarnan er litið á menningarlega fjölbreytni innan ríkja sem ákveðið vandamál. Eriksen segir þjóðernishyggju búa til tengsl milli nútímans og fortíðarinnar og lætur sem svo að það sé óslitinn þráður þar á milli sem tengi og sameini þjóðina. Fortíðin er notuð til að ýta undir þjóðernishyggju og þær sterku tilfinningar eru síðan yfirfærðar á ríkið (Eriksen, 2010).

Eriksen fjallar um að fjölmenningarleg samfélög þurfi að kljást við mörg vandamál og eitt þeirra er að um leið og allir borgarar frjálslynds lýðræðissamfélags eiga að hafa tilkall til sömu réttinda og tækifæra þá eiga þeir einnig að hafa rétt til þess að vera ólíkir eins og þeir eru margir. Sú krafa hefur heyrst í fjölmenningarsamfélögum að ólíkir þjóðernishópar innan þeirra eigi að geta viðhaldið sínum menningarhefðum og fengið að vera sýnilegir í almannarýminu eins og t.d. fjölmiðlum. Það er stór áskorun fyrir fjölmenningarsamfélög að gefa svigrúm fyrir menningarlegan mun en á sama tíma fara ekki gegn félagslegum og borgaralegum réttindum íbúa samfélagsins. Það gæti talist mótsagnakennt að krefjast jafnra réttinda og um leið réttinda til þess að vera öðruvísi. Það þarf að finna málamiðlun, fyrir ríki og þegna þess, þegar kemur að jafnrétti og svo

12

Félags- og mannvísindadeild 1. janúar 2020 fjölbreytileikanum. Eriksen (2010) kemur inn á hvernig ákveðnir þættir verða að koma til svo að fjölmenningarleg samfélög geti gengið upp. Samfélagsþegnarnir þurfa að hafa jafnan aðgang að menntakerfinu, vinnumarkaði og öðrum sameiginlegum stofnunum samfélagsins. Réttinum til þess að vera menningarlega öðruvísi fylgir oft sú staða að einstaklingar vilja mismikið taka þátt í þjóðfélaginu á ákveðnum sviðum og hafa eigin hugmyndir um hvernig samfélagið eigi að vera. Réttarkerfið hefur svo það hlutverk að afmarka hversu langt hægt er ganga með menningarlegan mun því lögin segja til um ákveðin gildi og reglur og allir borgarar þjóðríkisins, burt séð frá menningarlegum bakgrunni, þurfa að fara eftir lögum sem sett eru af stjórnvöldum. Þrátt fyrir að fólk deili ekki sama menningarlega bakgrunni þá er það partur af sama þjóðerni og þjóðríki. Að mati Eriksen þá eru öll ríki í dag fjölþjóðleg (og fjölmenningarleg) og sú hugmyndafræði sem heldur því fram að aðeins ein “tegund” af fólki eigi að búa saman á landsvæði er hættuleg (Eriksen, 1991).

Frumkvöðull í rannsóknum á etnerni var norski mannfræðingurinn Fredrik Barth. Árið 1969 gaf Fredrik Barth út bókina Ethnic Groups and Boundaries. Hann sagði að etnísk afmörkun skilgreini hóp frekar en sú menning sem hann tilheyrir. Það þarf því að skoða ytri mörk hópa fremur en kjarnann til að sjá hvað aðskilur tvo mismunandi etníska hópa. Það er hægt með því að skoða tengsl milli hópa sem myndast í samskiptum þeirra í félagslegum atburðum. Etnískir hópar eru ekki í eðli sínum fyrirfram ólíkir hver öðum í einangrun frá hver öðrum heldur skapast það í samskiptum þeirra á milli. Hann benti á að mæri eru mikilvæg í sjálfsmyndarsköpun einstaklinga og hópa og oft eru andstöðuvensl yfir mæri. Andstöðuvensl yfir mæri eru lykilatriði í sjálfsmyndarsköpun en líka forsenda fyrir stöðugleika sitt hvoru megin við mærin. Landamæri eru sköpuð, þau eru yfirleitt ekki náttúruleg og hafa gegnt lykilhlutverki í uppbyggingu þjóða og ríkja. Barth segir að etnerni sé hvorki líffræðilegt né upprunalegt, heldur skipulag félagslegs breytileika og lagar sig sífellt að breytilegum aðstæðum. Trú virðist algild og óháð mannlegum mætti, en sem samofin samfélagi og menningu er hún jafn síbreytileg og aðrir félagslegir þættir (Barth, 1969). Fassin (2011) segir fólksflutninga undanfarna áratugi hafa leitt í ljós tvær mótsagnir hnattvæðingar. Í fyrsta lagi segir Fassin að þó landamæri hafi annarsvegar opnast fyrir hringrás vöruflutninga og viðskipta þá hafi þau hinsvegar tekið að lokast fyrir fólki. Fassin talar

13

Félags- og mannvísindadeild 1. janúar 2020

í þessu samhengi um vegginn í kringum Vestrið sem búið er að skapa með þvingandi reglugerðum og sífellt hertari innflytjendalögum. Önnur mótsögn hnattvæðingar segir Fassin vera hin félagslegu landamæri og útilokun sem innflytjendur á Vesturlöndum verða fyrir. Fassin bendir á að skýr etnísk og trúarleg aðgreining hafi orðið reglan fremur en undantekningin og að etnískir minnihlutahópar séu sífellt minntir á erlendan uppruna sinn (Fassin, 2011).

Hér að ofan hef ég gert grein fyrir þeim fræðilega og kenningalega bakgrunni sem tengja má við þá atburðarás og þær breytingar sem sem áttu sér stað við fall Ottómansveldisins í lok fyrri heimsstyrjaldarinnar. Sú þróun leiddi af sér m.a. að hugmyndir um þjóðerni, etnerni, trúarbrögð og hvar og hverju fólk tilheyrir urðu mikilvægar, en þessar hugmyndir höfðu legið að mestu í dvala á tíma Ottómansveldisins, sem var bæði fjölþjóðlegt og fjölmenningarlegt. Hér á eftir mun ég gera grein fyrir vettvanginum þar sem þessi atburðarrás átti sér stað og þeim breytingum sem henni fylgdi, með eftirfylgjandi átökum og deilum, sem og nokkrum mikilvægum áhrifavöldum þessu tengdu.

2 Vettvangurinn: Grikkland, Tyrkland. Sögulegt samhengi.

2.1 Grikkland hið forna Grikkland hið forna vísar til hins grískumælandi heims í fornöld. Það er ekki eingöngu notað um landsvæði sem Grikkland nær yfir í dag, heldur einnig lönd þar sem grískumælandi fólk bjó í fornöld eins og Anatólíu eða Litlu Asíu sem er hluti Tyrklands í dag. Í byrjun fyrri heimsstyrjaldar var blómlegt samfélag Grikkja í Anatólíu. Grikkir höfðu búið þar allt frá tímum Hómers. Það voru tvær og hálf milljón Grikkja sem þar bjuggu, 2300 skólar, 200.000 nemendur, 5000 kennarar, 2000 grísk rétttrúnaðar kirkjur og 3000 grísk rétttrúnaðar prestar. En þrjár bylgjur brottvísana fækkaði þeim. Fyrsta stóra bylgjan var árið 1922 og á eftir fylgdu brottflutningar kristinna íbúa Tyrklands á árunum 1927-1935 og 1960-1965 (Lekka, 2007).

14

Félags- og mannvísindadeild 1. janúar 2020

2.2 Ottómanveldið Ottómanveldið eða Tyrkjaveldið var stórveldi sem stjórnað var af Tyrkjum (Ottómönum). Þeir komu frá Allai fjöllunum, sem í dag tilheyra Mongólíu. Ottómanar steyptu Austrómverska keisaradæminu (Býsansríki) af stóli með því að ná Konstantínópel á sitt vald árið 1453. Á blómaskeiði sínu, undir lok 17. aldar, náði ríkið í grófum dráttum yfir hluta þriggja heimsálfa frá Gíbraltarsundi í vestri til Kaspíahafs í austri og frá Austurríki í norðri og til Sómalíu í suðri. Hinu mikla landflæmi var stjórnað frá höfuðborginni Konstantínópel (Istanbúl), en einnig réðu þeir yfir Miðjarðarhafinu. Innan þessa mikla heimsveldis bjuggu fjöldamargar þjóðir, töluð voru óteljandi tungumál og fólkið skiptist í ýmsar trúardeildir. Fjölmenning og fjölbreytileikinn var gífurlegur í Ottómanveldinu. Samfélagssáttmáli Ottómana fól í sér ákveðna verkaskiptingu sem þeir kölluðu „hring réttlætisins“. Fólkið veitti stjórnvöldum, það er soldáninum, umboð. Honum til aðstoðar voru menn sverðsins og menn skriffæranna. Menn sverðsins (herinn) tryggðu öryggi þegnanna og eignaréttinn. Menn skriffæranna sáu til þess að lögum og reglum væri framfylgt (Magnús Þ. Bernharðsson, 2018). Flestir soldánarnir gáfu sjálfum sér titilinn kalífi, eða eftirmaður spámannsins, en soldánar Ottómansveldisins stjórnuðu í krafti þess að þeir væru verndarar súnní rétttrúnaðar. Kalífinn réð svo Shayk-al-Islam, yfirmann trúmála í heimsveldinu, sem bar ábyrgð á að ráða dómara í hvern bæ eða hrepp til að skera úr trúarlegum og veraldlegum ágreiningsefnum (Magnús Þ. Bernharðsson, 2018; Shaw, 1976).

Eitt grundvallarkerfið í heimsveldinu var hið svokallaða millet-kerfi en millet þýðir samfélag eða þjóð. Stjórnvöld tóku ákvæði Kóransins mjög alvarlega, meðal annars ákvæði þess efnis að umbera ætti „ahl al-kitab“, fólk ritningarinnar, sem meðal Ottómana voru múslímar, gyðingar og kristnir. Í Ottómanveldinu var fólki skipt upp eftir trú. Hver trúardeild var kölluð millet og fyrir hverju millet var ákveðinn trúarleiðtogi sem var þá fulltrúi þess samfélags gagnvart stjórnvöldum. Hvert millet bar ábyrgð á sínu fólki frá vöggu til grafar. Yfirleitt þýddi það að ef einhver fæddist til dæmis í gyðingafjölskyldu, bjó hann í gyðingahverfinu. Hann fylgdi þeim lögum og reglum sem hans millet ákvað. Yfirleitt giftist fólk innan milletsins og vann þar. Oftast stundaði fólk sömu atvinnugrein og faðir og afi höfðu unnið við. Ef upp kom deilumál innan milletsins var það leyst innan þess. Það var aðeins ef upp komu mál á milli

15

Félags- og mannvísindadeild 1. janúar 2020 milletanna sem embættismenn Ottómanveldisins gripu inn í. Hægt er að sjá millet kerfið í borgarskipulagi gamalla borga í Miðausturlöndum (Gingeras, 2016; Magnús Þ. Bernharðsson, 2018). Gyðingar og kristnir fengu töluvert sjálfræði undir stjórn Ottómana svo lengi sem þeir lutu stjórn þeirra. Lagalega voru þeir ekki jafnréttháir og múslímskir þegnar veldisins. Auk þess urðu þeir að borga hærri skatta og ýmiss konar skattaálögur sem múslímar voru undanþegnir. En þeir fengu trúfrelsi og vernd. Þetta umburðarlyndi byggðist á viðurkenningu á tilvist og nauðsyn fjölmenningar en ekki jöfnuði eða jafnrétti. Gyðingar og kristnir voru ekki sjálfstæðir en höfðu töluvert svigrúm ef þeir héldu sig innan ákveðinna marka (Gingeras, 2016; Magnús Þ. Bernharðsson, 2018). En það var ekki nóg að stjórna í gegnum millet kerfið og sveipa stjórn sína trúarlegum ljóma. Það þurfti að tryggja öryggi þegnanna og koma í veg fyrir uppreisn gegn stjórnvöldum.

Menn sverðsins voru áberandi og gegndu mikilvægu hlutverki. Fram á 19. öld var mikilvægasta einingin innan hersins hinir svokölluðu Jani sarí (nýi her) eða Janisarí, sem var eins konar þrælastofnun. Ottómanar söfnuðu liði í þennan her með því að leggja barnaskatt á kristnar fjölskyldur á Balkanskaganum, í Mið-Asíu og í Kákasusfjöllunum. Um kvótakerfi var að ræða, hver sýsla varð þannig að leggja til ákveðinn fjölda drengja á aldrinum sjö ára til tvítugs í þessa herþjónustu. Álíka kerfi gilti fyrir kristnar stúlkur. Þær fallegustu voru teknar í kvennabúr soldánsins, urðu hjákonur hans og ólu honum börn. Tæknilega séð voru Janisarí hermennirnir ekki þrælar, þar sem þeir fengu greitt fyrir vinnu sína og þurftu ekki að greiða skatt af tekjum sínum. En við inngöngu í herinn var fortíð þeirra þurrkuð út og þeir misstu öll tengsl við eigin fjölskyldu, þess í stað eignuðust þeir nýja fjölskyldu sem var herinn. Þeir voru neyddir til að taka upp íslamstrú og máttu hvorki giftast né búa utan hermannaskálanna nema með sérstöku leyfi. Í fyrstu var hersveit Janisaría mjög sigursæl og á 15. og 16. öld var hún álitin sú öflugasta í Evrópu. En smám saman urðu Janisaríar að stofnun innan ríkisins, urðu spilltir og tregir til breytinga. Sérstaklega var þeim illa við að innleiða nýja tækni og hernaðarstjórn (Gingeras, 2016; Magnús Þ. Bernharðsson, 2018).

Á 19. öld stóð Ottómanveldið frammi fyrir því í fyrsta sinn í sögu þess að í staðinn fyrir sigra og vöxt kom landmissir og ósigrar. Heimsveldinu stafaði nú veruleg ógn af

16

Félags- og mannvísindadeild 1. janúar 2020

Evrópuveldum þar sem í Evrópu höfðu orðið framfarir í hagstjórn og vísindum sem birtust fyrst og fremst í sterkum og glæsilegum herdeildum. Hafist var handa við að gera umtalsverðar breytingar sem kallaðar voru Tanzimat eða endurskipulagning. Breyta þurfti hernum og öryggismálum. Það var augljóst að Janisaríarnir stóðust ekki kröfur tímans enda höfðu þeir beðið lægri hlut í ýmsum bardögum í Grikklandi, Egyptalandi og á Balkanskaganum og við það misstu Ottómanar heilmikið landsvæði í Evrópu og Afríku (Gingeras, 2016; Shaw og Shaw, 1977). Umbætur í öryggismálum hófust í byrjun 19. aldar. Franskir hernaðarsérfræðingar voru fengnir til aðstoðar og í kjölfarið var ný herdeild stofnuð, Nizam al-jadid (hið nýja kerfi) sem beinlínis var sett til höfuðs Janisaríum. Ólíkt skartbúnum Janisaríum gengu hermenn Nizam al-jadid í evrópskum herbúningum. Meðlimir þessarar nýju sveitar voru venjulegir sveitastrákar víða að úr heimsveldinu. Þegar Janísaríarnir fréttu af þessum fyrirætlunum ákváðu þeir að myrða soldáninn og sú ráðagerð tókst. En morðið batt ekki enda á uppbyggingu nýrrar hersveitar. Í júní 1826 kom til átaka á milli þessara nýju herdeilda og Janisaríanna. Áætlað er að sex þúsund Janisaríar hafi verið drepnir og við það var bundinn endi á þessa sögulegu og mikilvægu stofnun (Gingeras, 2016; Magnús Þ. Bernharðsson, 2018).

Auk þess að innleiða breytingar í öryggismálum vildu Ottómanar líka gera breytingar í málefnum minnihlutahópa. Í byrjun 19. aldar áttu Evrópubúar æ víðtækari samskipti við Ottómanveldið. Stórveldi eins og Rússland og Frakkland efldu viðskiptatengsl sín við heimsveldið, sérstaklega við minnihlutahópana, Frakkar við kaþólsku milletin og Rússar við fylgjendur rétttrúnaðarkirkjunnar. Ottómanar sáu að stórveldi Evrópu nýttu stöðu minnihlutahópa sér í hag. Þess vegna ákváðu þeir að bæta lagalega stöðu þeirra. Árið 1839 gáfu þeir út Rósaherbergisyfirlýsinguna og Humayun yfirlýsinguna árið 1856. Með þessum yfirlýsingum var nánast bundinn endir á millet kerfið. Í staðinn fyrir að vera þegnar áttu kristnir og gyðingar innan Ottómanveldisins nú að vera ríkisborgarar með sömu réttarstöðu og múslímar gagnvart lögum. Skattlagningu var breytt þannig að minnihlutahópar voru ekki í hærra skattþrepi en múslímar, störf æðstu embættismanna stóðu ekki lengur einungis múslímum til boða og minnihlutahópar fengu nú að ganga í herinn án þess að skipta um trú. Mjög líklega var gripið til þessara ráðstafana of seint og kannski var fjölmenningarlegt heimsveldi

17

Félags- og mannvísindadeild 1. janúar 2020 tímaskekkja sem náði ekki að standa af sér þjóðernisbylgjurnar sem geisuðu víða um Evrópu á seinni hluta 19. aldar (Gingeras, 2016; Magnús Þ. Bernharðsson, 2018; Shaw, 1976). Vissulega hefur verið tilhneiging í Tyrklandi til að sjá fall Ottómana eingöngu sem tyrkneska upplifun. Það er næstum óþarfi að segja það en þetta var varla raunin. Fólk sem bjó í öðrum ríkjum heimsveldisins upplifði fall þess á kvalarfullan hátt. Palestínumenn, Sýrlendingar, Írakar, Armenar, Líbýumenn, Grikkir, þjóðir á Balkanskaganum og fleiri halda því margir fram að stórveldi Evrópu beri ábyrgð á styrjöldum og ranglátum sáttmálum sem fólk í löndum hins fallna Ottómanveldis hefur þurft að lifa við. Samt er sterkur ágreiningur um það hlutverk sem stjórn ríkisins gegndi í eigin sársaukafullu andláti. Tyrkneskir stjórnmálamenn og margir fræðimenn hafa kennt kristnum minnihlutahópum um ofbeldisverkin sem framin voru í falli heimsveldisins. Afkomendur armenskra og grískra ríkisborgara Ottómanveldisins eru ósammála þeim fullyrðingum (Gingeras, 2009, 2016). Að lokum leið Ottómanveldið undir lok við stofnun nútímalýðveldisins Tyrklands árið 1923. Við lok fyrri heimsstyrjaldarinnar höfðu bandamenn hernumið Konstantínópel og héldu soldáninum í stofufangelsi. Ríkisstjórnin sá sig knúna til að skrifa undir Sevres samkomulagið 1920 sem skipti stórum hluta Anatólíu á milli Grikklands, Ítalíu og Frakklands. Grískir þjóðernissinnar voru knúnir áfram af „mikilfenglegu hugmyndinni“ () að endurreisa Býsansríki hið forna. Til að hrinda henni í framkvæmd var nauðsynlegt að ná yfirráðum yfir stórum landssvæðum í vesturhluta Anatólíu (Shaw og Shaw, 1977; Yildirim, 1966).

2.3 Stofnun nútíma Grikklands, Balkanstríðin og fyrri heimsstyrjöldin Á 14. og 15. öld lagði Ottómanveldið (Tyrkjaveldið) undir sig allt Grikkland að undanskildum nokkrum eyjum sem Feneyingar héldu völdum yfir. Árið 1821 gerðu Grikkir uppreisn gegn yfirráðum Ottómana. Heimsveldin Bretland, Frakkland og Rússland tóku þátt í uppreisninni (Shaw og Shaw, 1977). Árið 1830 var Grikkland viðurkennt sem sjálfstætt konungsríki og prins Ottó sonur Lúðvíks konungs í Bæjaralandi varð konungur. Upphaflega náði þetta ríki aðeins yfir hluta af því svæði sem tilheyrir Grikklandi í dag. Gríska rétttrúnaðarkirkjan og grísk tunga áttu stóran þátt í því að halda þjóðinni saman í fjögur hundruð ára valdatíð Ottómana. Grikkland varð hluti af Evrópu undir verndarvæng Bretlands, Frakklands og Rússlands. Aþena varð

18

Félags- og mannvísindadeild 1. janúar 2020 höfuðborgin árið 1834. Ákvörðun var tekin um stofnun sérstakrar kirkjudeildar rétttrúnaðarkirkjunnar sem klauf sig að hluta til frá samkirkjulega patríarknum í Konstantínópel (Istanbúl). Sú ákvörðun olli reiði íhaldsafla en frjálslynd öfl studdu ákvörðunina. Biskupinn varð erkibiskup Aþenu og Grikklands og Ottó konungur varð yfirmaður kirkjunnar þrátt fyrir að hann væri kaþólskrar trúar. Ríkisreknir skólar voru stofnaðir og einnig var stofnaður háskóli í Aþenu árið 1837 en tilgangurinn með því var að efla sjálfumleika þjóðarinnar. Byggð var höll fyrir konunginn, en upphaflega stóð til að byggja hana á Akropólishæðinni. Fengnir voru þýskir verkfræðingar til að hanna byggingar í miðborg Aþenu (Koliopoulos og Veremis, 2010).

Þó að Ottómanveldið (Tyrkjaveldið) hafi misst Bosníu til Austurrísk-ungverska keisaradæmisins árið 1878, réðu þeir ríkjum á Balkanskaga fram til 1912 en þá voru Grikkir, Serbar, Svartfellingar og Búlgarar tilbúnir í stríð gegn þeim en þeir höfðu myndað svokallað Balkanskagabandalag. Eftir 500 ára yfirráð Ottómana (Tyrkja) á Balkanskaga voru þeir hraktir til baka, alla leið að hliðum Konstantínópel (Istanbúl). Eftir fyrra Balkanstríðið árið 1912 töldu Serbar og Grikkir að þeir myndu skipta Albaníu með sér, en þegar stórveldin hittust í London til að semja um lyktir stríðsins ákváðu þeir að sjálfstætt ríki Albaníu skyldi stofnað. Snéru Serbar og Grikkir sér því að Makedóníu, þar sem ekkert hafði verið ákveðið með það og ákváðu að skipta landinu með sér. Búlgarar óttuðust að þeir yrðu áhrifaminnstir á svæðinu og fóru því í stríð við fyrrum bandamenn sína árið 1913 sem kallað hefur verið seinna Balkanstríðið. Ottómanveldið glataði flestöllum evrópskum landsvæðum sínum vegna stríðanna tveggja (Hall, 2000; Keegan, 2000; Koliopoulos og Veremis, 2010).

Morðið á Franz Ferdinand ríkiserfingja Austurríkis og Sofíu eiginkonu hans í Sarajevó þann 28. júní 1914 hratt af stað afdrifaríkri atburðarás sem á endanum leiddi til þess að Evrópa logaði í ófriði. Orsakir stríðsins voru flóknar og margþættar. Austurríska-ungverska keisaradæmið var stórveldi. Það réð meðal annars yfir Bosníu og þeim löndum þar sem Króatía og Slóvenía eru nú. Stríðsyfirlýsing Austurríkis- Ungverjalands á hendur Serbíu þann 28. júlí 1914 markaði upphaf fyrri heimstyrjaldarinnar. Eftir að fyrri heimsstyrjöldinni lauk var stofnað konungsríkið Júgóslavía 1. desember 1918, en það voru Serbar, Króatar og Slóvenar sem stofnuðu það. Tvö stórveldi, Austurríska-ungverska keisaradæmið og Ottómanveldið höfðu

19

Félags- og mannvísindadeild 1. janúar 2020 riðað til falls eftir að hafa stýrt ríkjunum á Balkanskaga meira og minna síðustu aldirnar. Átökin höfðu leitt til þess að landsvæði fluttust ríkja á milli og með landvinningunum sátu minnihlutahópar eftir í hinum nýju ríkjum ( Hall, 2000; Keegan, 2000).

Elefþeríos Venizelos (1864 - 1936) var grískur stjórnmálamaður. Hann var forsætisráðherra Grikklands frá árunum 1910-1920 og 1928-1933. Í fyrri heimsstyrjöldinni leiddi Venizelos Grikki inn í hóp bandamanna (Bretland, Frakkland, Rússland og Ítalía frá árinu 1915 og síðar Bandaríkin) en löndin börðust gegn Miðveldunum (Þýskalandi, Austurríki-Ungverjaland, Tyrkjaveldi og Búlgaríu) (Papadakis, 2006). Það varð ágreiningur á milli Konstantíns 1. Grikklandskonungs (konungur frá 1913-1917 og aftur 1920-1922) og Venizelosar um það hvort Grikkland ætti að taka þátt í stríðinu og með hvorri fylkingunni, en konungurinn studdi Miðveldin (Shaw og Shaw, 1977). Djúpstæð gjá myndaðist í grísku samfélagi milli stuðningsmanna Venizelosar annars vegar og konungssinna hins vegar og átti hún eftir að leiða til stöðugs rígs og valdabaráttu. Þessi ágreiningur leiddi til hinnar svokölluðu „þjóðarsundrungar“ (εθνικός διχασμός) (Koliopoulos og Veremis, 2010; Βερμης, 2018). Venizelos lét fyrst á sér bera í alþjóðamálum þegar hann lék lykilhlutverk í að tryggja sjálfstæði Krítar og síðan sameiningu Krítar við Grikkland. Honum tókst að koma á efnahags og stjórnarskrárumbótum sem lögðu grunninn að nútímavæðingu Grikklands og endurskipuleggja land og sjóher landsins. Grikkir eignuðust nýtt herskip „Averof“ árið 1911 en skipið var smíðað á Ítalíu og voru Grikkir eina Balkanríkið með sterkan herskipaflota (Koliopoulos og Veremis, 2010).

Eftir sigur bandamanna í stríðinu urðu miklar breytingar. Þátttöku Ottómana í fyrri heimsstyrjöldinni lauk með undirritun Mudros-vopnahlésins þar sem þeir samþykktu að gefa eftir hernumin svæði í Jemen, Mesópótamíu, Sýrlandi og víðar við Miðjarðarhafið. Ottómanheimsveldið var fallið eftir fjögur hundruð ára sögu. Hinar ólíku þjóðir þess voru skildar eftir í höndum bandamanna sem ráðstöfuðu landssvæðum hins fallna heimsveldis. Venizelos tryggði Grikklandi mikla landvinninga, sérstaklega í Anatólíu (Litla-Asía) sem komst nærri því að uppfylla draum Grikkja um að sameina alla grískumælandi hópa í eitt ríki. Árið 1920 var svonefnt Sevres- samkomulag gert um skiptingu landssvæðisins. Sáttmálinn leyfði soldáninum að halda

20

Félags- og mannvísindadeild 1. janúar 2020 stöðu sinni og titli. Þátttaka Grikkja í því samkomulagi átti eftir að verða þeim dýrkeypt (Koliopoulos og Veremis, 2010). Í París tveimur dögum eftir undirskrift Sevres samkomulagsins var reynt að ráða Venizelos af dögum. Í hefndarskyni var pólitískur andstæðingur hans Íon Dragúmis myrtur í Aþenu. Venizelos efndi til kosninga 1. nóvember 1920 en tapaði og þá tók Konstantín 1. aftur við völdum (Koliopoulos og Veremis, 2010, Βερμης, 2018).

2.4 Ungtyrkir og Mustafa Kemal (Atatürk) Ungtyrkir voru stjórnmálaleg umbótahreyfing (1908-1918). Hún samanstóð af andófsmönnum sem höfðu verið sendir í útlegð frá Ottómanveldinu, herforingjum, embættismönnum og menntamönnum. Ungtyrkir börðust fyrir því að einveldi yrði afnumið og að stjórnarskrárbundinni ríkisstjórn yrði komið á. Þeir byrjuðu á félagsumbótum og nútímavæðingu af mikilli hörku og grimmd. Ágreiningur fór fljótt að myndast á meðal þeirra og mynduðust tvær fylkingar. Baráttunni milli þeirra lauk í janúar árið 1913 þegar önnur fylkingin framdi valdarán. Úr því varð til einræðisstjórn þremenningabandalagsins, Talaat Pasja innanríkisráðherra, Enver Pasja hermálaráðherra og Djemal Pasja flotamálaráðherra og fóru þremenningarnir með völd í Ottómanveldinu frá árinu 1913-1918. Á þeim tíma komu þeir á nánu samstarfi við þýska keisaradæmið (Shaw og Shaw, 1977). Otto Liman von Sanders (1855-1929) var þýskur herforingi í riddarasveit og sérlegur ráðgjafi í Ottómanhernum fyrir og í fyrri heimstyrjöldinni (Shaw og Shaw, 1977). Ástand hersins var mjög lélegt eftir Balkanstríðin. Árið 1914 voru um sjötíu þýskir liðsforingjar í Ottómanhernum en í lok stríðsins voru þeir átta hundruð eða fleiri (Karl, 2012). Von Sanders lýsti ferð sem hann fór í á bíl um Anatólíu en það var erfitt að komast yfir vegna þess að ekki var mikið um vegi og brýr. Hann fór um frjósöm héruð, hann lýsti fallegum grískum þorpum sem tyrkneska stjórnin átti seinna eftir að ræna og reka alla íbúana á brott. Von Sanders sagðist ekkert hafa haft með Grikki að gera, hann sagði það ósannindi að hann hefði ráðlagt stjórninni að hrekja þá úr landi. Hann minntist á skeyti sem hann sá sem var frá Konstantín 1. Grikkjakonungi til þýska sendiherrans í Konstantínópel en í skeytinu sagði konungurinn að „það hefði átt að henda öllum Grikkjum í sjóinn“ (Karl, 2012). Í þættinum Tímavélinni í gríska sjónvarpinu kom annað fram en þar voru tekin viðtöl

21

Félags- og mannvísindadeild 1. janúar 2020 við fólk sem upplifði það þegar Smyrna var hertekin, fyrst af gríska hernum og síðar að hersveitum Mustafa Kemal og borgin var brennd til kaldra kola (Vasilopoulos, 2007).

Í grein Baldurs Bjarnasonar í Skírni (1939) er fjallað um Mustafa Kemal (Atatürk) (1880-1938) en hann var fæddur í Þessalóniku í Makedóníu en þá tilheyrði borgin Ottómanveldinu. Faðir hans hét Ali Riza og var Albani að ætt. Móðir hans var af makedónskri bændaætt, sem var lítið eitt blönduð tyrknesku blóði. Hún hét Zabeida. Ali Riza var dökkhærður og svarteygur eins og Albanir flestir en Zabeida var ljós yfirlitum og bláeygð og bar á sér ættarmót Makedóníumanna sem margir eru ljósir yfirlitum. Drengurinn Mustafa var mjög líkur móður sinni í útliti (Baldur Bjarnason,1939). Faðir Mústafa lést þegar hann var sjö ára og fjölskyldan fluttist í kjölfarið út í sveit. Mústafa gekk í herskóla í Þessalóniku. Kennarinn gaf honum nafnið Kemal, sem þýðir þroski eða fullkomnun, vegna góðrar kunnáttu hans í stærðfræði (Hanioglu, 2011). Mustafa Kemal upplifði þær miklu breytingar sem áttu sér stað á þessum tíma þegar rákust á gamlar múslímskar hefðir og vestrænar veraldlegar hugmyndir og varð Þessalónika mjög fljótt vestræn borg. Vestrið varð bæði fyrirmynd og óvinur Mustafa Kemal. Hann hélt áfram hernámi og útskrifaðist úr herskóla í Konstantínópel árið 1905. Á þessum tíma var hann meðlimur í Ungtyrkjaflokknum en var þó oft gagnrýninn á stefnumál hans. Hann tók þátt í Ungtyrkjabyltingunni árið 1908. Glæsilegur ferill beið Mustafa Kemal innan hersins bæði fyrir og í fyrri heimsstyrjöldinni. Kemal var herforingi tyrkneskra herdeilda í Balkanstríðunum 1912- 1913 og einnig hafði hann getið sér gott orð í orrustunni um Gallipoli en herir bandamanna reyndu að leggja undir sig skagann og þar með að ná yfirráðum yfir siglingaleiðinni í gegnum Dardanellasund og ná Konstantínópel. Vel á annað hundruð þúsund manna féllu í þessari orrustu, þar á meðal nokkur þúsund hermenn frá Nýja Sjálandi og Ástralíu en her Ottómana undir stjórn Mustafa Kemal vann þar sigur (Hanioglu, 2011).

2.5 Smyrna og innrás Grikkja í Litlu Asíu (Anatólíu) Smyrna var alþjóðleg verslunarborg í Ottómanveldinu (Tyrkjaveldinu) við Eyjahafið og landssvæðið í kring var mjög frjósamt, meðal annars var þar ópíumrækt, tóbaksrækt, vínviður og fíkjutré. Fjölmörg þjóðabrot bjuggu í Smyrnu og á Anatólíuskaganum á þessum tíma og höfðu náð að lifa í sæmilegri sátt en í Smyrnu voru grísk hverfi,

22

Félags- og mannvísindadeild 1. janúar 2020 tyrknesk hverfi, gyðingahverfi og einnig hverfi Armena. Grikkir, Tyrkir, Armenar, gyðingar og fólk af ýmsu öðru þjóðerni stundaði blómleg viðskipti og atvinnu, meðal annars voru margir Bandaríkjamenn í Smyrnu. Íbúar Smyrnu voru um hálf milljón, flestir grískir og bjuggu miklu fleiri Grikkir í Smyrnu en í Aþenu. Gríska og franska voru aðal tungumálin. Höfnin í Smyrnu var einstök frá náttúrunnar hendi og Silkivegurinn byrjaði þar en hann tengdi Asíu og Evrópu (Horton, 1926). Í Smyrnu voru meðal annars tónleikasalir, kvikmyndahús, hótel, kaffihús, golfvöllur og fótboltavöllur en einnig mátti sjá úlfaldalestir inni í borginni hlaðnar varningi eins og austurlenskum teppum. Bandaríkjamenn byggðu meðal annars tóbaksiðnaðinn á tóbaki sem kom frá héraðinu en einnig voru austurlensk teppi seld til Bandaríkjanna. Gufuskip sigldu til New York og London frá Smyrnu (Ureneck, 2016; Horton, 1926; Milton, 2009).

Með stuðningi bandamanna sendi Venizelos her til Smyrnu árið 1919. Herinn lagði undir sig borgina og landssvæði í kring. Grikkir í Smyrnu tóku á móti gríska hernum sem bjargvættum en Tyrkir litu á þá sem innrásarlið. Þegar gríski herinn kom til Smyrnu og einnig þegar breski herinn tók Konstantínópel var það túlkað af Mustafa Kemal og fylgismönnum hans sem innrás inn í land múslíma og fengu þeir stuðning meðal annars frá múslímum á Indlandi. Segja má að við undirritun Sevres sáttmálans (1920) og innrás gríska hersins í Smyrnu, hafi það verið nokkurs konar dánarvottorð fyrir Ottómanveldið en á sama tíma fæðingarvottorð fyrir nútíma Tyrkland (Βερμης, 2018; Hanioglu, 2011; Koliopoulos og Veremis, 2010; Nicholas, 1991). Á árunum 1919 til 1922 börðust Grikkir við Tyrki á Anatólíuskaganum. Grikkir sóttu að Ankara og náði viðureignin hámarki með orrustunni við Sakaría-á. Blóðbaðið hófst 24. ágúst 1921 og stóð í þrjár vikur. Bæði Grikkir og Tyrkir lýstu yfir sigri (Ureneck, 2016). Tyrkir grófu skotgrafir og biðu. Þeir gerðu ráð fyrir að því lengri sem biðin yrði því linari myndu Grikkir verða. Tyrkir biðu nærri því í heilt ár. Á sama tíma viðurkenndu Frakkland, Ítalía og Sovétríkin stjórn Mustafa Kemal (október, 1921) sem löglega stjórn í Tyrklandi og andspyrnuher hans umbreyttist í þjóðarher Tyrkja og má segja að bandamenn Grikkja hafi brugðist þeim á ögurstundu. Bretar studdu enn Grikki (þó ekki fjárhagslega), Bandaríkjamenn og leyniþjónusta þeirra voru með umfangsmikla starfsemi í landinu, en þeir studdu hvorugan aðilann. Endanleg árás Tyrkja var 26. ágúst 1922 en þá réðust þeir á grísku vígin við Afium Karahissar. Grísku hermennirnir voru orðnir langþreyttir,

23

Félags- og mannvísindadeild 1. janúar 2020 margir búnir að berjast síðustu tíu árin. Mikið var um liðhlaupa í hernum og flúðu flestir til útlanda, margir fóru til Ameríku. Síðasta ákvörðun grísku stjórnarinnar fyrir tap hersins gegn Kemal var að færa herlið frá Anatólíu til Þrakíu en þar var her sem átti að ná Konstantínópel (Horton, 1926). Þetta veikti mjög stöðu gríska hersins í Anatólíu og töpuðu þeir stríðinu gegn Kemal. Helmingur gríska hersins var drepinn og þeir sem komust undan námu ekki staðar fyrr en þeir voru komnir um borð í skip sín í Smyrnu (Βερμης, 2018; Koliopoulos og Veremis, 2010; Ureneck, 2016). Kristnir íbúar úr sveitunum flúðu herlið Tyrkja og langar raðir flóttamanna mynduðust og allir vildu komast til Smyrnu sem þeir töldu öruggt skjól (Ureneck, 2016; Horton, 1926).

2.6 „Tyrkland fyrir Tyrki “ Eftir fyrri heimsstyrjöldina var Ottómanveldið hertekið af bandamönnum og með Sevressáttmálanum (1920) skiptu þeir landssvæðum á milli sín. Nokkrir herforingjar úr her Ottómanveldisins tóku að skipuleggja andstöðu við samkomulagið. Einn þessara herforingja var Mustafa Kemal. Hann stjórnaði andspyrnuhreyfingunni og tókst að mynda útlagastjórn þjóðernissinna í Ankara árið 1920 sem hafði það að markmiði að steypa stjórninni í Konstantínópel. Baráttan fyrir sjálfstæði Tyrkja var hafin, krafist var fullra yfirráða yfir landssvæði þar sem Tyrkir voru meirihluti íbúa. Slagorðið var „Tyrkland fyrir Tyrki “. Á vikulöngum fundi í Sívas og seinna í Ankara kom fram ný stjórnmálahreyfing sem kallaði sig Þjóðarsáttmála og lýsti sig hina raunverulegu ríkisstjórn landsins. Þannig voru tvær ríkisstjórnir í Tyrklandi, önnur í Konstantínópel en hin í Ankara. Eftir að Mustafa Kemal hafði tryggt sér völdin sneri hann sér að stórfelldum aðgerðum innanlands. Nýja stefnan, Kemalismi, lagði áherslu á lýðveldisþróun, þjóðernishyggju, veraldarhyggju, og afhelgun, popúlisma (e. populism), miðstýringu hagkerfisins og umbótastefnu. Íslam var ekki ætlað neitt hlutverk eða stöðu í tyrkneskum stjórnmálum. Með aðgerðunum í Tyrklandi átti ekki að binda endi á trúarbrögðin heldur að koma í veg fyrir áhrif trúarlegra stofnana á stjórnmál og menningu Tyrklands. Tyrkir máttu halda áfram að iðka trú sína. Ein róttækasta ákvörðun Mustafa Kemal var að leggja niður kalífadæmið. Kalífinn var sameiningartákn allra múslíma en tilheyrði ekki neinni einni þjóð. Embættið var tákn hins gamla tíma sem Mustafa Kemal vildi með öllu afnema. Þrátt fyrir tap í fyrri heimsstyrjöldinni unnu Tyrkir mikla sigra eftir stríð. Segja má að Tyrkir hafi verið fyrsta

24

Félags- og mannvísindadeild 1. janúar 2020 eiginlega mótstaðan við þá nýju heimsmynd sem stórveldin reyndu að innleiða eftir heimsstyrjöldina fyrri. Mustafa Kemal varð forseti nýja ríkisins en sem stjórnmálamaður starfaði hann nánast eins og herforingi eða einræðisherra. Stigskipting hersins var honum mjög að skapi og stjórnmálastarf hans tók mið af því. Herinn gegndi mikilvægu hlutverki við að standa vörð um Kemalisma og einnig gegndu yfirmenn úr hernum og nánir vinir Mustafa Kemal mikilvægum opinberum embættum (Horton, 1926; Hanioglu, 2011; Kili, 1980).

Riddaralið Mustafa Kemal kom til Smyrnu 9. september árið 1922. Erlendir ríkisborgarar töldu sig vera örugga í borginni. Árið 1922 voru langflestir íbúar Smyrnu kristnir, þeir voru m.a. grískir, armenskir, Evrópubúar og Bandaríkjamenn. Þeir trúðu því að herskipin í höfninni í Smyrnu sem þá voru tuttugu og eitt talsins myndu vernda kristna borgara þegar Tyrkir tækju við völdum í borginni (Milton, 2009). Þeir sem stjórnuðu orðræðunni í Smyrnu og sendu fréttir til bandarísku og bresku dagblaðanna voru fréttamenn sem fengu að fylgja bandaríska hernum, t.d. John Clayton og einnig Ward Price sem skrifaði fyrir London . Þeir minntust ekkert á þær þjóðarhreinsanir sem áttu sér stað í Smyrnu og nágrenni þar sem fleiri þúsundir voru drepnar, þar á meðal Chrysostomos, gríski biskupinn sem var pyntaður til dauða. Honum var hent út á götu af Noureddin Pasha yfirmanni tyrkneska hersins í Smyrnu og æstur múgurinn réðst á hann, dró hann inn á nærliggjandi rakarastofu, vöfðu hann í slá og og fláðu hann lifandi, stungu úr honum augun, skáru af honum nef og eyru, fyrir framan franska hermenn, en þeir höfðu fyrirmæli um að skipta sér ekki af innanríkismálum. Það átti það sama við með herskipin í höfninni. Áhafnir þeirra máttu ekki aðstoða Grikki eða aðra íbúa Smyrnu þeir gátu aðeins bjargað fólki frá sínu landi (Ureneck, 2016).

Eftir að hafa fjallað um þessa sögulegu og pólitísku ferla, mun ég greina frá nokkrum persónulegum frásögnum fólks sem lifði þessa atburði til að færa frásögninni, sem tengist stórpólitískum atburðum, persónulegan blæ. Það verður vitnað í nokkrar persónur þar sem þær greina frá reynslu sinni. Í lokin fylgir stutt frásögn eftir rithöfundinn , sem var sjónarvottur af atburðarásinni í Smyrnu.

25

Félags- og mannvísindadeild 1. janúar 2020

3 Frásagnir og vitnisburðir.

3.1 Levissi, bær sem nú heitir Kayaköy Fethiye er lítill og heillandi strandbær við suðvesturströnd Tyrklands og eru fjölsóttir áfangastaðir í grenndinni, svo sem Bodrum, Marmaris, Hisaronu og Antalya (sjá Magnús Þorkell Bernharðsson, 2018). Það er auðvelt að týna sér í Fethiye. Það á sérstaklega við þegar horft er til vesturs, yfir nesið og út á blágrænt hafið sem einkennir strandlengjuna. Allt er þar notalegt og náðugt. En þegar litið er til suðurs og upp til fjalla, í grænu fjallshlíðina beint fyrir ofan Fethiye, má sjá rústir, reyndar heilt þorp af rústum. Fram að heimsstyrjöldinni fyrri var í fjallshlíðinni blómstrandi smábær áður þekktur sem Levissi, nú Kayaköy. Þorpið var dæmigert fyrir svæðið og í raun ekki svo frábrugðið ótal öðrum þorpum og bæjum í Ottómanveldinu. Íbúar Levissi voru um tíu þúsund, bæði múslímar og sex þúsund kristnir grískumælandi sem tilheyrðu grísku rétttrúnaðarkirkjunni. Þeir höfðu lifað í sátt og samlyndi í Levissi allavega frá 14. öld og íbúarnir verið gildir þegnar Ottómanveldisins. Múslímarnir stunduðu aðallega landbúnað en kristnir voru mest iðnaðarmenn. En nú er bærinn rústir einar. Þar er ekkert líf lengur og þögn húsatóftanna er skerandi og andstæð hávaða og átökum fyrri heimsstyrjaldarinnar sem olli því að þetta þorp fór í eyði. Þar sem bærinn var langt frá höfuðborginni voru íbúarnir ekki svo uppteknir af þróun alþjóðastjórnmála. Þess vegna kom tilskipun um að allir grískumælandi íbúar þorpsins ættu að pakka saman föggum sínum og fara aftur „heim“, það er til Grikklands, eins og þruma úr heiðskíru lofti. Fyrirskipunin var liður í umfangsmiklum nauðungarflutningum milli Tyrklands og Grikklands sem samið hafði verið um á Lausanne ráðstefnunni 1923. Ríkisstjórnirnar töldu að Grikkir ættu að eiga heima í Grikklandi og Tyrkir í Tyrklandi. Þeir sem voru á röngum stað urðu að gjöra svo vel að flytjast búferlum (Magnús Þ. Bernharðsson, 2018; Warkentin, 2014). Þó að slíkar aðgerðir þættu ekki boðlegar nú á dögum voru stórfelldir nauðungarflutningar algengt stjórnunartæki í alþjóðastjórnmálum á fyrri helmingi 20. aldar. Áætlað er að um ein og hálf milljón hafi flutt frá Tyrklandi til Grikklands og um fjögur hundruð þúsund frá Grikklandi til Tyrklands. Eftir Balkanstríðin (1912-1913) voru kristnir hópar ekki lengur öruggir á mörgum stöðum í Anatólíu og eftir að fyrri heimsstyrjöldin braust út og Þjóðverjar og Ottómanstjórnin urðu bandamenn í stríðinu hófust ofsóknir gegn Grikkjum, Armenum og fleiri

26

Félags- og mannvísindadeild 1. janúar 2020 minnihlutahópum í Anatólíu. Á sama tíma streymdu múslímar sem hrakist höfðu burt frá Balkanskaganum í Balkanstríðinu til Anatólíu (Horton, 1926).

3.2 Vitnisburður Despina Papantoniou Despina Papantoniou var fædd í bænum Fethiye. Á árunum 1916-1917 ákváðu Tyrkir að flytja alla Grikki frá strandbæjum við Miðjarðarhafið vegna þess að þeir bjuggust við innrás gríska hersins og reiknuðu Tyrkir með því að kristnir íbúar bæjanna myndu aðstoða herinn. Flutningarnir hófust í október árið 1916. Despina sagðist hafa verið eina konan sem fór með manninum sínum og taldi hún það vera, af því hún var kennari. Eftir fimmtán daga ferðalag komu þau til Denizli, í um 170 km norður af Fethiye. Rigning, kuldi, snjókoma og sóttir gerðu útaf við fólkið. Hún sagði að þau hefðu búið í Denizli í tvö ár og unnið þar. Þegar samið var um vopnahlé í október 1918 var þeim leyft að fara aftur heim. Í september árið 1922 var enn gefin út fyrirskipun um að allir kristnir íbúar ættu að yfirgefa strandbæina. „Við fengum þrjá daga til að koma okkur í burtu“, sagði Despina Papantoniu. „Okkur var aðeins leyft að taka nokkra hluti með okkur. Við máttum hvorki taka gull né silfurpeninga eða skartgripi. Okkur tókst að kaupa okkur far með skipi sem sigldi til Ródos og þaðan vorum við send með grísku skipi til Grikklands“ (Achladi, 2008, bls. 556-559).

3.3 Frásögn Theodoru Kondou „Við bjuggum í þorpinu Kritzalia, í dag Asagikizitca, en þorpið er í 32 km fjarlægð suðaustur af Smyrnu, í dag Izmir. Fjölskyldan yfirgaf þorpið, við héldum að við kæmum aftur til baka. Við fórum til Smyrnu. Við bjuggum heima hjá vini föður míns. En einn daginn var hann og fjölskylda hans horfin án þess að láta okkur vita. En þá komu Tyrkirnir. Þeir réðust inn í húsið, drápu foreldra mína, frænku og frænda og þrjá bræður mína. Ég og tvær systur mínar sem voru tveggja og þriggja ára földum okkur og vorum við í felum í marga daga án matar og vatns. Lyktin af líkunum var orðin óbærileg. Rænt var og ruplað í húsinu. Móðir mín hafði ekki dáið samstundis og sagði hún mér að þegar myrkrið kæmi þá ætti ég að fara niður að sjó. Okkur tókst að komast í skip sem sigldi til Mytillíní og þaðan til Þessalóniku. Systur mínar voru settar á munaðarleysingjahælið Amalieio og ég var sett í vist á heimili. Önnur systir mín dó rúmlega tvítug en hin býr í Nea Erythraia. Ég giftist ágætis manni en minningarnar frá þessum hræðilegu atburðum hafa fylgt mér alla tíð “(Kondou).

27

Félags- og mannvísindadeild 1. janúar 2020

3.4 Viðtal Leylu Neyzi við Gülfem Kaatcilar Iren Tyrkneski mannfræðingurinn Leyla Neyzi (2008) segir í grein sinni frá viðtölum sem hún tók við tyrkneska konu að nafni Gülfem Kaatcilar Iren. Hún var fædd árið 1915. Viðtölin voru tekin á árunum milli 2001 og 2003. Gülfem Kaatcilar Iren og fjölskylda hennar bjuggu í Smyrnu. Á 19. öld var Smyrna aðal hafnarborgin á austurströnd Miðjarðarhafsins. Íbúarnir voru Evrópubúar( Levanten), múslímar, grísk-orþódox (Rum), Armenar og gyðingar, ásamt fleirum. Í Smyrnu bjuggu múslímar í heimi Evrópubúa (Levanten). Gülfem Kaatcilar Iren sagði frá bernskuminningum, meðal annars frá því þegar gríski og breski herinn komu til Smyrnu. Henni var minnistæður atburður sem gerðist á markaðinum í Karsiyaka. Þar voru menn sem reyndu að neyða Tyrkja til að hrækja á rauða fánann en hann neitaði því og þá drápu þeir hann. Hún sagði frá því þegar tyrkneski herinn (Kuvayi Milliye) sigraði gríska herinn og þegar Mustafa Kemal kom 9. til Smyrnu og var hylltur sem hetja. Það var nokkrum dögum seinna, 13. september, þegar Smyrna byrjaði að loga. Ekki eru allir sammála um það hverjir kveiktu í borginni. Frenk borgarhlutinn (Evrópuhlutinn) frægi brann. Mikið ofbeldi fylgdi í kjölfarið. Gülfem Kaatcilar Iren sagði að afi hennar hafi farið með fjölskylduna til Karsiyaka og þaðan hefðu þau fylgst með borginni brenna. Rauðir logarnir stigu upp úr svörtum og hvítum reyknum. Þegar afi hennar sá að eldur var kominn í þeirra hverfi sagði hann: Guð blessi ykkur, þökkum Guði fyrir að vera á lífi (Neyzi, 2008, bls. 116). Þegar Leyla Neyzi spurði Gülfem Kaatcilar Iren hverjir hefðu kveikt í Smyrnu byrjaði hún að rökræða málið. Hún sagði „það eru þrjú svör: Hinir sigruðu Grikkir, Armenar eða Tyrkir brenndu Smyrnu og hafa má í huga að Tyrkir gerðu ekkert til að slökkva eldinn“. Í mannkynssögubókum um Grikkland og Tyrkland er enginn vafi hver var sökudólgurinn. Í grískum og armenskum mannkynssögubókum er því haldið fram að Tyrkir hafi brennt borgina en í tyrkneskum mannkynssögubókum er sagt að Grikkir eða Armenar hafi gert það. Leyla Neyzi vitnar í Bilge Umar, tyrkneskan sagnfræðing og íbúa í Smyrnu. Hann skrifaði: Tyrkir og Armenar eru jafn ábyrgir fyrir brunanum og allar heimildir sýna að Grikkir kveiktu ekki í Smyrnu þegar þeir yfirgáfu borgina (Neyzi, 2008, bls. 117). Leyla Neyzi vitnar einnig í Falih Rifki Atray (1968), tyrkneskan blaðamann, sem var í nánu sambandi við Mustafa Kemal. Atray sagði að Noureddin Pasha yfirmaður í tyrkneska hernum bæri ábyrgð á brunanum. Atray spurði spurninga eins og af hverju brenndum við Smyrnu? Vorum við hræddir um að ef híbýli,

28

Félags- og mannvísindadeild 1. janúar 2020 hótel og barir yrðu eftir myndum við ekki losna við minnihlutahópana. Þetta var ekki bara eyðilegging heldur hafði þetta með óöryggi að gera. Þurfti sem sagt að brenna borgina til kaldra kola til að vernda tyrkneskan sjálfumleika og til að stofna nýja tyrkneska Smyrnu? Gülfem Kaatcilar Iren sagði: „Veistu hvað gerir mig reiða? Það er enginn sem leitar að ástæðunni fyrir því hvers vegna borgin var brennd. Það er reynt að fela það og fólki var innprentað að það hefði verið nauðsynlegt að gera það til hreinsa burtu óhreinindi. En þetta hefði ekki þurft að gerast og með nýjum innflytjendum byrjaði nýtt stríð“. Í lok greinarinnar talar Leyla Neyzi um að þó að gagnrýni á sögu Tyrklands sé að koma fram, þá skerða tyrknesk lög enn tjáningarfrelsi (Neyzi, 2008). Að lokum má vitna í bandaríska rithöfundinn Ernest Hemingway en hann var stríðsfréttamaður fyrir Toronto Star í stríðinu á milli Grikklands og Tyrklands. Hann fylgdist með stríðinu frá víglínu Grikkja en yfir greinum hans stóð: „Einhvers staðar á vígstöðvunum“ (Í návígi við dauðann alla ævi, 1961, bls. 11). Starf Hemingway hafði magnað með honum löngun til að gerast rithöfundur (Hemingway, 1995). Hann notaði meðal annars atburði sem gerðust í stríðinu í smásögum eins og „On the Quai at Smyrna“ sem birtust í smásagnasafninu In Our Time (Hemingway, 1996)

Á hafnarbakkanum í Smyrnu.

„Það var alveg furðulegt, sagði hann, hvernig þau öskruðu á hverju kvöldi í kringum miðnætti. Ekki veit ég af hverju þau öskruðu alltaf á miðnætti. Við vorum í höfninni og þau voru öll á bryggjunni. Og á miðnætti byrjuðu öskrin. Við beindum yfirleitt ljóskösturunum á þau til að þagga niður í þeim. Létum kastarana fara tvisvar eða þrisvar yfir hópinn og þá hættu þau.

Það versta, sagði hann, voru konurnar með dánu börnin. Við gátum ekki með nokkru móti látið þær gefa þau frá sér. Þær héldu á þeim látnum í meira en sex daga. Og létu þau ekki frá sér. Það var ekkert hægt að gera. En að lokum neyddist þú til að taka þau af þeim“ (Hemingway, 1996, bls. 1).

ON THE QUAI AT SMYRNA

„THE STRANGE thing was, he said, how they screamed every night at midnight. I do not know why they screamed at that time. We were in the harbor and they were all on the pier and at midnight they started screaming. We used to turn the searchlight on

29

Félags- og mannvísindadeild 1. janúar 2020 them to quiet them. That always did the trick. We'd run the searchlight up and down over them two or three times and they stopped it (Hemingway, 1996).

The worst, he said, were the women with dead babies. You couldn't get the women to give up their dead babies. They'd have babies dead for six days. Wouldn't give them up. Nothing you could do about it. Had to take them away finally “ (Hemingway,1996).

4 Niðurlag.

Það var Þjóðabandalagið sem skipulagði nauðungarflutningana og hinn frægi norski landkönnuður og diplómat Fridtjof Nansen hafði umsjón með þessu viðamikla verkefni (Gingeras, 2016; Koliopoulos og Veremis, 2010; Magnús Þ. Bernharðsson, 2018). Þá sem nú voru málefni flóttamanna aðkallandi á þessum slóðum. Lausn vandans var þó önnur en nú. Hún fólst í því að uppræta fjölmenningarsamfélög sem höfðu verið við lýði í Ottómanveldinu í meira en fimm hundruð ár. Allt í einu skipti það verulegu máli fyrir tyrknesk stjórnvöld hvernig sjálfumleika íbúarnir í Levissi höfðu og hvaða trúardeild þeir tilheyrðu. Örfáum árum áður voru þessir íbúar þegnar sem stjórnvöld héldu verndarhendi yfir, en nú höfðu þessir sömu íbúar stöðu útlendinga. Þar af leiðandi stafaði tyrkneska þjóðríkinu ógn af þeim (Gingeras, 2016; Koliopoulos og Veremis, 2010; Magnús Þ. Bernharðsson, 2018). Lausanne- samkomulagið gerði ráð fyrir mjög einfaldri skilgreiningu Grikkja og Tyrkja. Til grundvallar lágu trúarbrögðin og hvaða trúdeild þeir tilheyrðu. Tyrkir sem voru tyrkneskumælandi voru flestir súnní múslímar og Grikkir tilheyrðu grísku rétttrúnaðarkirkjunni. En í reynd var þetta ekki svo einfalt. Sjálfumleiki fólks á þessum slóðum var margslunginn og margskiptur. Grikkir sem bjuggu í Anatólíu höfðu fest þar djúpar rætur og höfðu þar af leiðandi sterk tengsl við landið sjálft, líferni og siði þar en ekki endilega við rómantískar hugmyndir um þjóðríkið. En krafan í byrjun 20. aldarinnar var sú að það sem skipti höfuðmáli væri þjóðríkið. Á þeim grundvelli átti að draga fólk í dilka (Gingeras, 2016; Koliopoulos og Veremis, 2010; Magnús Þ. Bernharðsson, 2018). Bók sagnfræðingsins Marks Mazower (2006), City of Ghosts (Borg drauganna), lýsir á eftirminnilegan hátt ástandinu í Þessalóniku þegar múslímar sigldu burt en kristnir flóttamenn komu í umvörpum og

30

Félags- og mannvísindadeild 1. janúar 2020 settust að í húsunum sem Tyrkirnir höfðu nýverið yfirgefið. Á mörgum stöðum áttu sér stað algjör umskipti (Mazower, 2006). Almennt séð hefur Ottómanveldið ekki fengið nægjanlega mikla athygli fyrir það sem í raun einkenndi það. Okkur hættir til að einblína á ofbeldið og átakatímabilin frekar en að álykta út frá því sem einkenndi tímabilið 1453-1923. En ástæða fyrir því að það er nánast enginn sem heldur uppi minningu Ottómanveldisins er að það leystist upp eftir fyrri heimsstyrjöldina og þess í stað tóku ung þjóðríki að þróast áfram. Sjálfstæðisbarátta þeirra og sjálfumleiki tóku mið af því að skilgreina sig í andstöðu við Ottómanveldið. En hafa ber í huga að þegar þessi ungu þjóðríki fengu sjálfstæði var sérstæð menning þeirra enn til staðar. Þegar Grikkir fengu sjálfstæði sitt frá Ottómönum töluðu þeir ennþá sitt tungumál og grískir söfnuðir voru enn starfandi þótt Grikkir hefðu verið í fjögur hundruð ár þegnar Ottómanveldisins (Magnús Þ. Bernharðsson, 2018).

Heimsstyrjöldin fyrri olli vatnaskilum í Miðausturlöndum. Það var afdrifarík ákvörðun hjá Ottómönum, sem myndað höfðu náin tengsl við Þjóðverja upp úr aldamótum, að ganga í bandalag með Miðveldunum og lýsa ásamt Austurríki- Ungverjalandi og Þjóðverjum stríði á hendur bandamönnum. Bretar, Frakkar og Rússar urðu því óvinir Ottómana og Miðausturlönd urðu þess vegna eitt stórt átakasvæði. Þetta voru mun mikilvægari tímamót og meira afgerandi fyrir Miðausturlönd en seinni heimsstyrjöldin. Stórveldin Bretland, Frakkland og Bandaríkin höfðu hagsmuna að gæta í Miðausturlöndum. Bretar og Bandaríkjamenn voru mjög meðvitaðir um olíulindir svæðisins. Bretar hættu að nota kol til að knýja skipin sín og þess í stað notuðu þeir olíu. Vegna þjóðaröryggis var þeim umhugað um áframhaldandi aðgang að ódýrum orkulindum (Magnús Þ. Bernharðsson, 2018). Frakkar höfðu ekki eins mikinn áhuga á olíulindum og sýndu þeir siglingaleiðum og hafnarsvæðum fyrir botni Miðjarðarhafs meiri áhuga. Upphaflega höfðu Rússar verið með í þessum samningaviðræðum. Hlutverk þeirra var frekar lítið en þeir fengu að fylgjast með. Rússar áttu þó mikilla hagsmuna að gæta í sambandi við að ná valdi yfir Svartahafinu af Ottómanveldinu og ekki síst að fá stjórn á Bosporussundinu, eina af mikilvægustu siglingaleiðum til Evrópu, sem tengir Svartahafið við Miðjarðarhafið (Magnús Þ. Bernharðsson, 2018). Fyrir heimsstyrjöldina fyrri þegar það landsvæði sem við þekkjum nú sem Írak tilheyrði Ottómanveldinu, höfðu stjórnvöld í Konstantínópel veitt

31

Félags- og mannvísindadeild 1. janúar 2020

Tyrkneska olíufyrirtækinu einkaleyfi til að leita að olíu á svæðinu í kringum Mosul. Eftir stríðið sögðu bandamenn sem sigurvegarar þessum samningum upp. Olíulindirnar í Írak urðu því herfang erlendra aðila. Nýir aðilar komu inn í fyrirtækið sem þá hafði fengið nafnið Íraska olíufélagið. Þeir sem áttu í fyrirtækinu voru Royal Dutch Shell, Anglo-Persian Oil Company, sem var í eigu Bretlands og var fyrirrennari British Petroleum (BP), Compagnie Francaise des Petroles, Standard Oil of Jersey (ESSO), Mobil, og armenski auðjöfurinn Calouste Gulbenkian. Fyrirtækið var því íraskt einungis að nafninu til þar sem eigendur þess voru mestmegnis erlend stórfyrirtæki (Magnús Þ. Bernharðsson, 2018).

Heimsvaldastefna í skjóli hernaðarmáttar, afskiptasemi og græðgi einkenndi aðkomu vestrænna ríkja. Sundurlyndi og spilling einkenndi Grikkland og óbreyttir borgarar þurftu að ganga í gegnum miklar raunir vegna hagsmunabaráttu ríkjanna. Árið 1948 samþykkti allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna ályktun „UNOSAPG“ (United Nations Office of the Special Adviser on the Prevention of Genocide), ráðstafanir gegn og refsingar fyrir fjöldamorð. Í sáttmálanum felast fordæming á þjóðarmorðum og skyldur gagnvart ríkjum til að refsa fyrir þau. Þrátt fyrir að atburðirnir í Smyrnu í september árið 1922 uppfylltu skilgreiningu sáttmála Sameinuðu þjóðanna frá 1948 á þjóðarmorði hefur verið erfitt að öðlast viðurkenningu alþjóðasamfélagsins á þeim sem slíkum. Vegur þar þyngst að Tyrkir hafa ekki viðurkennt þau sem þjóðarmorð. Fræðimenn hafa leitt að því líkur að ofsóknir á hendur kristnum hópum, aðallega Grikkjum og Armenum á Anatólíuskaganum og það refsileysi sem gerendur þess nutu í kjölfar þess, hafi haft áhrif þegar kom að framkvæmd þjóðarmorða og annarra voðaverka af hálfu þriðja ríkisins. Þetta gerðist árið 1922. Enn í dag er Grikkland áfangastaður margra flóttamanna. Flóttamenn takast oft á tíðum við þær breytingar að félagsleg staða þeirra í nýju landi er önnur en hún var í heimalandinu, sjálfsmynd þeirra breytist og samfélagið flokkar þá sem utanaðkomandi aðila. Í myndinni „ A Touch of Spice“ á grísku „ΠΟΛΙΤΙΚΗ κουζινα“ (Politiki kouzina), sem þýðir matargerð borgarinnar, en borgin er Konstantínópel, segir söguhetjan Fanis frá því að Tyrkir ráku hann og fjölskyldu hans úr landi af því að þau voru Grikkir en Grikkir tóku á móti þeim eins og þau væru Tyrkir (Boulmetis, 2003).

32

Félags- og mannvísindadeild 1. janúar 2020

HEIMILDASKRÁ

Achladi, E. (2008). Μάκρη και Λιβίσι: Δύο δίδυμες μικρασιατικές κοινότητες. Anderson, B. (2006). Imagined communities. Reflections on the origin and spead of nationalism. London: Verso.

Atatürk Airport. http://www.ataturkairport.com/?language=EN).

Atray, F.R. (1968). Çankaya bls. 324–25. Istanbul: Bateş.

Athens International Airport. https://www.aia.gr/traveler/). Barth, F. (1969). Ethnic groups and boundaries: The social organization of cultural differences. Long Grove: Waveland Press. Baldur Bjarnason. (1939). Mustafa Kemal Atatürk 1880-1938. Í Skírni. Háskólabókasafn http://timarit.is/view_page_init.jsp?gegnirId=000505748 Baumann, G. (1999). The multicultural riddle: Rethinking national, ethnic and religious

identities. London: Routleddge.

Βερεμης, Θ. (2018). Οι επεμβασεις του στρατου στην ελληνικη πολιτικη 1916-1936. Αθηνα: Εκδοσεις Αλεξανδρειa. Boulmetis, T. (leikstjóri). (2003). Politiki kouzina. Grikkland, Tyrkland. Cohen, A. (1993). Culture as identity: An anthropologist's view. New literary history, 24(1), 195-209. Cohen, A. (1994). Culture, identity and the concept of boundary. Revista de antropologia social, 3, 49.

Eriksen, T. H. (1991). Ethnicity versus nationalism. Journal of Peace Research 28(3), 263-278. Eriksen, T. H. (1992). Multiple traditions and the question of cultural integration. Ethnos, 57(1–2), 5–30. https://doi.org/10.1080/00141844.1992.9981443 Eriksen, T. H. (1993). Ethnicity and nationalism: Anthropological perspectives. London: Pluto Press.

33

Félags- og mannvísindadeild 1. janúar 2020

Eriksen, T. H. (1996). The epistemological status of the concept of ethnicity. Anthropological Notebook. Eriksen, T. H. (2010). Ethnicity and nationlism: Anthropological prospectives. London: Pluto Press. Eriksen, T.H. (2015). Small places large issues. An introduction to social and cultural anthropology,( 4. útgáfa). London: Pluto Press. Fassin, D. (2011). Policing borders, producing boundaries: The governmentality of immigration in dark times. Annual Review of Anthropology, 40, 213-226. Foucault, M. (1980). Power/Knowledge: Selected interviews and others writings 1972- 1977 (ritstjóri. Colin Gordon). Foucault, M. (1963/1994). The birth of the clinic: An archaeology of medical perception. New York: Random House Foucault, M. (2008). The incitement to discourse. Í Jaworski, A. og Coupland, N. (ritstjórar). The Discourse Reader (bls.491-498). London: Routledge. Garðar Árnason, (2004). Vísindi, gagnrýni, sannleikur. Hugleiðingar um Michel Foucault og vísindaheimspeki. Í Hugur, 1. tölublað. Sótt 29. desember 2019, af https://timarit.is/page/5694910?iabr=on#page/n209/mode/2up Gellner, E. (1983). Nations and nationalism. Oxford: Blackwell Publisher. Gingeras, R. (2009). Sorrowful shores: Violence, ethnicity and the end of the Ottoman Empire, 1912-1923. Oxford: Oxford University Press. Gingeras, R. (2016). Fall of the Sultanate. The Great War and the end of the Ottoman Empire 1908-1922. Oxford: Oxford University Press. Hall, R. C. (2000). The Balkan wars 1912-1913. Í Warfare and history. London: Routledge. Hall, S. (2001). Foucault: Power, knowledge and discourse. Í M. Wetherell, S. Taylor og S. J. Yates (ritstjórar), Discourse: Theory and practice: a reader. London: Sage. Hanioglu, M.S. (2011). Atatürk. An intellectual biograpy. Woodstock: Princeton University Press. Hemingway, E. (1925/1930 /1996). In Our Time. New York: Scribner. Hemingway, E. (1995). The snows of Kilimanjaro and others stories. New York: Simon og Schuster.

34

Félags- og mannvísindadeild 1. janúar 2020

Horton, G. (1926). The blight of Asia. An account of the systematic extermination of Christian populations by Mohammedans and of the culpability of certain great powers with the true story of the . Indianapolis: Bobbs-Merrill company. Í návígi við dauðann alla ævi. Morgunblaðið—146. tölublað (04.07.1961)—Tímarit.is. https://timarit.is/page/1336646?iabr=on#page/n10/mode/2up Karl, O.V. (2012). Liman von Sanders. Five years in Turkey (1. útgáfa). Luton: Naval og Millitary Press. Keegan, J. (2000). The First World War. Toronto: Vintage Canada. Kili, S. (1980). Kemalism in contemporary Turkey. International Political Science Review, 1(3), 381–404. https://doi.org/10.1177/019251218000100308 Kolluoglu Kirli, B. (2005). Forgetting the Smyrna fire. History Workshop Journal, 60(1), 25–44. https://doi.org/10.1093/hwj/dbi005 Koliopoulos, J.S. og Veremis, T.M. (2010). Modern Greece: A history since 1821. Chichester: Blackwell Publishing. Kondou, T. (Aşağıkızılca). resource center. Sótt 5. janúar 2020, af http://www.greek-genocide.net/index.php/quotes/testimonies/303-theodora- kondou-western-asia-minor. Lekka, A. (2007). Legislative provisions of the Ottoman/Turkish governments

regarding minorities and their properties. Mediterranean Quarterly, 18(1), 135–

154. https://doi.org/10.1215/10474552-2006-038

Magnús Þorkell Bernharðsson. (2018). Mið-Austurlönd. Fortíð, nútíð og framtíð.

Reykjavík: Mál og menning.

Mazower, M. (2006). Salonica, City of Ghosts: Christians, and 1430- 1950. New York, NY: Vintage. Milton, G. (2009). Paradise lost. Smyrna 1922: The destruction of Islam´s city of tolerance. London: Hodder og Stoughton. Neyzi, L. (2008). Remembering Smyrna/Izmir: Shared history, shared trauma. History and Memory, 20(2), 106–127. https://doi.org/10.2979/his.2008.20.2.106

35

Félags- og mannvísindadeild 1. janúar 2020

Nicholas, J. (1991). Christian television. An Interview with Marjorie Housepian – Dopkin. https://youtu.be/cIYuwn6DbYc Papadakis, N. E. (2006). Eleftherios K. Venizelos: A biography, national research foundation „Eleftherios K. Venizelos“ Chania. Powaski, R. E. (1991). Toward an entangling alliance: American isolationism, internationalism, and Europe, 1901-1950. Greenwood Publishing Group. Shaw, S. J. (1976). History of the Ottoman Empire and modern Turkey. 1. bindi. Empire of the Gazis: The rise and decline of the Ottoman Empire, 1280-1808. Cambridge: Cambridge University Press. Shaw, S. J. og Shaw, E. K. (1977). History of the Ottoman Empire and modern Turkey. Reform, revolution and republic. The rise of modern Turkey 1808-1975. 2. bindi. New York: Cambridge University Press. Yildirim, O. (1966/2006). Diplomacy and displacement reconsidering the Turco-Greek exchange of populations 1922-1934 í Middle East Studies. History, Politics, and Law. New York: Routledge. United Nations office on genocide prevention and responsibility to protect. Sótt á http://www.un.org/en/genocideprevention/

Ureneck, L. (2016). Smyrna, september 1922. The American mission to rescue victims of the 20th century´s first genocide. New York: HarperCollins Publishers.

Vasilopoulos, K. (2007). Tímavélin. Η Μηχανή του χρόνου. (Η Μικρασιατική καταστροφή. Α'μέρος, 2007). https://www.youtube.com/watch?v=SzxMhoHey58

Warkentin, E. (2014). Turkey’s religious ghost town. Sótt 1. desember 2019, af http://www.bbc.com/travel/story/20140626-turkeys-religious-ghost-town

36