Lokaverkefni til MA-prófs

í íslenskum bókmenntum

„Verði þér allt til sigurs og lukku“ Sagan af kóngabörnum í ljósi handrita og hefðar

Margrét J. Gísladóttir

Leiðbeinandi: Aðalheiður Guðmundsdóttir Febrúar 2020

Háskóli Íslands

Hugvísindasvið Íslenskar bókmenntir

„Verði þér allt til sigurs og lukku“

Sagan af kóngabörnum í ljósi handrita og hefða

Ritgerð til M.A.-prófs

Margrét J. Gísladóttir Kt.: 240964-5629

Leiðbeinandi: Aðalheiður Guðmundsdóttir Febrúar 2020

Ágrip Ritgerð þessi er lögð fram til meistaraprófs í íslenskum bókmenntum við Íslensku- og menningardeild Hugvísindasviðs Háskóla Íslands. Umfjöllunarefni ritgerðarinnar er „Sagan af kongabỏrnumm Sigurde og Signiju; Eijrnenn Triggva Karls Sijne“ sem er varðveitt í handritinu NKS 1802 4to á Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn. Að loknum inngangi er fjallað um önnur handrit sem hafa að geyma þessa sögu. Í þriðja kafla eru vangaveltur um uppruna aðalhandritsins, um skrifara þess, aldur sögunnar og mögulegan höfund hennar. Í fjórða kafla er gerð grein fyrir íslenskum sagnaarfi og stöðu sögunnar innan íslenskrar bókmenntasögu. Fimmti kaflinn fjallar um söguna sjálfa, uppbyggingu, sagnaminni og aðalsögupersónur hennar. Að lokum eru helstu niðurstöður hvers kafla dregnar saman. Ritgerðinni átta viðaukar: Uppskrift á A- gerð sögunnar eftir NKS 1802 4to, stutt umfjöllun um B-gerð sögunnar og þau handrit sem geyma hana, stutt umfjöllun um rímur og þau handrit sem innihalda rímur um Tryggva karlsson, greinargerð um leit að skrifara NKS 1802 4to, samanburðarlisti á sögum úr NKS 1144 fol. og AM 576 a–c 4to, yfirlit yfir persónur sögunnar, orðalisti úr NKS 1802 4to og að lokum er samanburður á texta úr NKS 1802 4to, ÍB 138 4to og SÁM 6.

3

Summary This thesis is submitted as a part of a Master’s degree in Icelandic Literature at the Faculty of Icelandic and Comparative Cultural Studies of the School of Humanities at the University of Iceland. The thesis deals with the story „Sagan af kongabỏrnumm Sigurde og Signiju; Eijrnenn Triggva Karls Sijne“, as it is preserved in NKS 1802 4to, which is located the at the Royal Library in Copenhagen, . After the introduction, there is a discussion on other manuscripts that contain the story. The third chapter holds speculations about the origin of the main manuscript, with questions about its scribe, the age of the story and its possible author. The fourth chapter deals with Icelandic literature and the status of the given work within Icelandic literary history. In the fifth chapter the story itself is explored, such as regarding construction, motifs and the heroes. Finally, the conclusion of each chapters is discussed. The thesis has eight appendices: A transcript of the A-version in NKS 1802 4to, a short discussion on the B-version of the saga and the relevant manuscripts, a short discussion on the rímur and the relevant manuscripts, a short report about the quest to find the scribe of NKS 1802 4to, a comparative list of titles of stories in NKS 1144 fol. and AM 576 a–c 4to, a list of characters of the story, a list of words from NKS 1802 4to and finally a comparison of short text from NKS 1802 4to, ÍB 138 4to and SÁM 6.

4

Þakkarorð Bestu þakkir fær Dr. Phil. Aðalheiður Guðmundsdóttir leiðbeinandi minn fyrir að benda mér á handritið NKS 1802 4to sem efni fyrir MA-ritgerð mína. Hún hefur sýnt mér þolinmæði við gerð þessarar ritgerðar, og jafnframt gefið góð ráð sem hafa nýst vel. Frá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum í Reykjavík fá góðar þakkir Dr. Phil. Haukur Þorgeirsson rannsóknardósent og Rósa Þorsteinsdóttir rannsóknarlektor fyrir veitta aðstoð varðandi handrit sem voru skoðuð og eru varðveitt hjá stofnuninni. Auk þess fær ljósmyndarinn Sigurður Stefán Jónsson bestu þakkir fyrir ljósmynd af AM 576 4to. Dr. Phil. Erik Petersen, Seniorforsker hjá handritadeild Konunglega danska bókasafnsins fær einnig kærar þakkir fyrir veitta aðstoð sumarið 2018. Þá fær starfsfólk Handritasafns Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns góðar þakkir fyrir veitta aðstoð. Að lokum þakka ég Snorra Kristjánssyni fyrir yfirlestur og góð ráð.

5

Efnisyfirlit Efnisyfirlit ...... 6 1 Inngangur ...... 8 1.1 Söguþráður ...... 10 2 Handrit ...... 11 2.1 Gerðir sögunnar ...... 13 2.2 NKS 1802 4to ...... 16 2.2.1 Lýsing á NKS 1802 4to ...... 18 2.2.2 Um stafrétta uppskrift af NKS 1802 4to ...... 21 2.3 ÍB 138 4to ...... 22 2.4 ÍB 165 4to ...... 23 2.5 Lbs 661 4to ...... 24 2.6 SÁM 6 ...... 25 2.7 Einkaeign 10 ...... 26 2.7.1 Rímur ...... 27 2.8 Lbs 1510 4to ...... 28 2.9 Böðvar Kvaran ...... 29 3 Tilurð NKS 1802 4to ...... 32 3.1 Peter Frederik Suhm (1728–1798) ...... 32 3.2 Hver skrifaði NKS 1802 4to? ...... 34 3.3 Aldur sögunnar eins og hún er skráð í NKS 1802 4to ...... 35 3.4 NKS 1144 fol...... 35 3.5 Útdráttur NKS 1144 fol...... 40 4 Sagnaarfur ...... 42 4.1 13. öld ...... 42 4.2 Íslensk sagnahefð um 1700 ...... 46 4.3 Lygisögur ...... 47 4.3.1 Einkenni ...... 48 4.3.2 Jón Þorláksson (1643–1712) ...... 49 5 Um Söguna af kóngabörnum ...... 52 5.1 Frásagnargerð og bygging ...... 52 5.2 Minni ...... 56 5.3 Persónur ...... 61 5.3.1 Tryggvi ...... 61 5.3.2 Ingibjörg ...... 65 6 Niðurstöður ...... 68 7 Heimildaskrá ...... 72 7.1 Handritaskrá ...... 72 7.2 Óprentaðar heimildir ...... 72 7.3 Vefheimildir ...... 72 7.4 Prentaðar heimildir ...... 74

6

Viðauki 1: Sagan af kóngabörnum ...... 81 Viðauki 2: Gerðir ...... 112 Viðauki 3: Rímur ...... 116 Viðauki 4: Skrifari ...... 119 Viðauki 5: Samanburður sögutitla úr NKS 1144 fol. og AM 576 a–c 4to ...... 121 Viðauki 6: Persónur úr Sögunni af kóngabörnum ...... 132 Viðauki 7: Orðalisti ...... 134 Viðauki 8: Samanburður á texta ...... 138

Töfluskrá Tafla 1. Listi yfir handrit sögunnar...... 13 Tafla 2. Aldur handrita, titlar og sögusvið...... 30 Tafla 3. Flokkun sagna samkvæmt handrit.is ...... 45 Tafla 4. Samanburður á sagna í NKS 1144 fol. og AM 576 a–c 4to...... 121 Tafla 5. Orðalisti úr NKS 1802 4to...... 134

Myndaskrá Mynd 1. Upphafssíða sögunnar í NKS 1802 4to...... 17 Mynd 2. Aukaseðill fremst í NKS 1144 fol. Ljósm.: Margrét J. Gísladóttir, júní 2018, Kaupmannahöfn...... 36 Mynd 3. NKS 1144 fol., 127r. Ljósm.: Margrét J. Gísladóttir, júní 2018, Kaupmannahöfn...... 39 Mynd 4. AM 576 b 4to, 15v. Ljósm.: Sigurður Stefán Jónsson, nóvember 2019, Árnastofnun Reykjavík...... 39 Mynd 5. NKS 1144 fol., 133v, skrifari Þorlákur Magnússon Ísfjörð. Ljósm.: Margrét J. Gísladóttir, júní 2018, Kaupmannahöfn...... 40

7

1 Inngangur Það má segja að arfleifð íslenskrar fortíðar liggi mikið til í þeim handritum sem hafa varðveist í gegnum aldirnar. Sum þeirra eru talin mikilvægari en önnur, sérstaklega skinnhandrit, á meðan síðari tíma afritanir hafa löngun ekki þótt merkilegur pappír. Þessi hugsun er þó að breytast, því það hefur komið í ljós að pappírshandrit hafa oft að geyma efni glataðra skinnhandrita og í sumum tilvikum eru þau hin eina varðveitta heimild ákveðins efnis. Að auki hefur virðing fólks færst í vöxt fyrir því efni sem var frumsamið á síðari öldum. Efni íslenskra handrita hafa þótt áhugaverð, og þá sérstaklega þau sem hafa að geyma Íslendingasögur. Lengi var álitið að hér væri um sannar sögur að ræða, en ávallt ber þó að hafa í huga að sögurnar voru skráðar niður að minnsta kosti 200 árum eftir liðinn atburð. Þó að Ari fróði Þorgilsson (1067–1148) hafi talið að menn ættu að hafa það sem „sannara reynisk“1 þá getur saga breyst þegar henni er viðhaldið í munnlegri geymd. Sumar sögur verða ítarlegri og lengri, á meðan aðrar einfaldlega glatast. Sagnahandrit fela þó ekki einungis í sér sögur af íslensku fólki, heldur einnig af konungum Norðurlanda, biskupum landsins, heilögum mönnum og meyjum, ásamt sögum af riddurum suðursins og köppum norðursins. Handrit má skoða á tvennan hátt, annars vegar handritið sjálft sem grip og svo hins vegar efni þess. Handritið NKS 1802 4to er viðfangsefni þessarar ritgerðar, og verður það fyrst skoðað sem gripur, en að því búnu er sagan sem það inniheldur skoðuð. Í öðrum kafla þessarar ritgerðar verður fjallað um NKS 1802 4to sem er frá síðari hluta 18. aldar ásamt þeim handritum sem innihalda söguna „Sagan af kongabỏrnumm Sigurde og Signiju; Eijrnenn Triggva Karls Sijne“2 eins og titill hennar er í NKS 1802 4to. Það handrit er ekki safnhandrit því það inniheldur einungis þessa einu sögu. Handritaskrár voru skoðaðar og tínd voru til þau handrit sem virðast tengjast nöfnunum Sigurði, Signýju og Tryggva. Þegar litið er nánar á titil sögunnar í þessum handritum kemur í ljós að hann er breytilegur, allt frá ofangreindum titli yfir í einfaldlega Sagan af Tryggva karlssyni3 (Lbs 661 4to). Hér hefur langur titill með þremur eiginnöfnum

1 Ari Þorgilsson, „Íslendingabók“, 3. 2 „NKS 1802 4to“, 1. Handritið er merkt með blaðsíðutali, en ekki blaðatali og verður hér eftir vísað til blaðsíðutals þessa handrits í sviga fyrir aftan hverja tilvitnun með nútímastafsetningu, sjá uppskrift í viðauka 1. 3 Í titlum þar sem vísað er í „Tryggva karlsson“ er „karlsson“ stundum skrifað „Karlsson“ eða „Kallsson“ og er því viðhaldið, en annars er „karlsson“ skrifað með litlum staf, enda tilvísunin við „karl í koti“ en ekki eiginnafnið Karl.

8

breyst yfir í stuttan titil með nafni einnar sögupersónunnar. Til þess að koma í veg fyrir að ákveðnar sögupersónur fái meira eða minna vægi í titli sögunnar, hefur verið farin sú leið að nota eftirfarandi samræmdan titil: Sagan af kóngabörnum.4 Í allt voru það ellefu handrit sem er innihélt söguna en þegar sagan var skoðuð nánar kom í ljós að um er að ræða tvær gerðir hennar, A- og B-gerð. Í þessum kafla fær handritið NKS 1802 4to þó ítarlegri umsögn þar sem það er aðalviðfangsefni þessarar ritgerðar og uppskrift þess er að finna í viðauka 1. Í þriðja kafla ritgerðarinnar verður leitast við að varpa ljósi á tilurð NKS 1802 4to ásamt uppruna sögunnar. Handritið er varðveitt í Konunglega danska bókasafninu og var upprunalega í safni Peters Frederiks Suhm (1728–1798). Önnur handrit sem hafa að geyma söguna eru varðveitt á Íslandi, og því var íhugað hvers vegna handrit með íslenskri sögu hafi verið til meðal handrita Suhms. Skrift handritsins var skoðuð með það fyrir augum að reyna að finna skrifara þess og var hún borin saman við skrift þekktra skrifara Suhms. Í handritinu NKS 1144 fol., sem er frá seinni hluta 18. aldar, er útdráttur úr Sögunni af kóngabörnum ásamt uppteiknaðri ættartölu helstu sögupersóna. Það sem gerir það handrit sérstakt er að það er afrit af AM 576 a–c 4to, sem er talið vera skrifað um og fyrir 1700. Þar kemur einnig fram að sagan sé sett saman af I.TH.S., en með því er mögulega komin tilvísun í höfund sögunnar. Í fjórða kaflanum verður skoðaður sá sagnaarfur sem sögur frá síðmiðöldum og fram á síðari aldir spretta úr. Allt frá miðöldum hafa fornaldar- og riddarasögur fundið sér leið inn í íslenskan sagnaheim ásamt fleiri bókmenntategundum.5 Þar er sögusviðið Norður-Evrópa á móti suðrinu, norrænar söguhetjur sem eru um margt ólíkar hinum mið-evrópsku riddurum og yfir öllu þessu ríkir ævintýrablær. Á síðari öldum, og reyndar allt frá síðmiðöldum, taka höfundar að blanda saman einkennum þessara bókmenntagreina svo að til verða eins konar blendingssögur, sem hafa stundum verið nefndar lygisögur. Flokkun slíkra sagna getur verið flókin eins og fram kemur í kafla 4.3 og eru fræðimenn ekki á eitt sáttir um hvernig flokka eigi slíkar sögur þar sem einkenni fornaldarsagna, riddarasagna og jafnvel ævintýra virðast hafa blandast saman. Í fimmta kafla ritgerðarinnar er sagan sjálf skoðuð. Þar verður skoðað hvernig sagan er byggð upp og litið yfir helstu minni hennar, sem eru afar mörg og eiga sér flest

4 Titillinn er notaður þegar vísað er í söguna í NKS 1802 4to. Samræmdur titill sögunnar á handrit.is er „Sigurðar saga og Signýjar – Sigurðar saga og Tryggva karlssonar.“ 5 Hér má t.d. nefna kristnar bókmenntir, svo sem helgisögur, predikanir og lofgjörðir, sjá nánar hjá Sverri Tómassyni í kaflanum „Kristnar trúarbókmenntir í óbundnu máli“ í Íslenskri bókmenntasögu I.

9

samsvörun í bæði fornaldar- og riddarasögum. Hér virðist sem höfundur sögunnar hafi raðað saman hinum ýmsum minnum og búið til nýja sögu, þar sem fóstbræðurnir Tryggvi og Sigurður ferðast frá Suður-Evrópu allt til Bjarmalands á vit trölla og lenda í ýmsum ævintýrum. Tryggvi er hin dökka hetja, kolbítur sem rís úr öskustó, bjargar Signýju úr haldi frá Galdrakóngi ásamt því að leysa systkinin Herloga og Ingibjörgu úr álögum stjúpunnar Æsu. Í lok sögunnar er haldið fjórfalt brúðkaup í Hólmgarðaríki og Tryggvi hefur náð sínum karlmannlega þroska.

1.1 Söguþráður Hér er útdráttur úr Sögunni af kóngabörnum, eins og hann er að finna í NKS 1144 fol.:6

Sagan af Sigurði og Signýju og Tryggva karlssyni:

Sigurður og Signý voru börn kóngsins á Púl, enn Tryggvi var sonur karls eins er bjó nærri kóngssetrinu á Púl. Sá karl hét reyndar Eiríkur, og var bróðir Þrándar kóngs sem Þrándheimur í Noregi er orðkenndur, föður Eiríks víðförla. Móðir Tryggva var Vigdís dóttir Baldurs, sonar Vila er var bróðir Óðins kóngs í Svíþjóð. Föðurbróðir Tryggva hét Knútur. Tryggvi var í barnæsku óskafífl, enn vitkaðist síðan, og varð þjónustumaður Sigurðar kóngssonar. Signý kóngsdóttur hafði með göldrum heillað kóngur af Ungaríu er Galdrakóngur hét, og í þeirri sömu ferð drepið föður Tryggva. Sigurður og Tryggvi frelsuðu Signýju úr Galdrakóngs höndum, og komu með hana til Hólmgarðs (Hólmgarðaríkis eður Garðaríkis). Þar réð fyrir kóngur sá er Hringur hét og var móðurbróðir Tryggva. Þessum Hringi kóngi trúlofaðist Signý til eiginkonu, en Sigurður handfesti sér Ásu dóttur Hrings kóngs. Þaðan sigldu þeir fóstbræður og villtust í stormi til Bjarmalands. Þar leysti Tryggvi úr ánauðum tvö systkin, börn Artus kóngs í Miklagarði er hétu Herlogi og Ingibjörg. Þau höfðu þar á Bjarmalandi um nokkra stund verið í tröllalíkjum af álögum stjúpmóður sinnar er Æsa hét og var reyndar eitt versta tröll ættuð af Bjarmalandi. Eftir þetta héldu þessir þrír stallbræður til Miklagarðs. Þar sátu þá að ríki þrír bræður, Steinhausi, Slanga og Hrotti er voru bræður Æsu síðari drottningar Artus kóngs og höfðu sest í ríkið eftir nefndan Artus kóng og Æsu. Þessa þrjá bræður drápu þeir stallbræður, og gaf Herlogi Tryggva upp ríkið í Grikklandi og systur sína Ingibjörgu. Eftir það héldu þeir allir samt til Púl. Var Sigurði þar kóngs nafn gefið eftir föður sinn dauðan. Síðan fóru þeir til Ungaria, og drápu Galdrakóng. Settist Herlogi þar að ríki, og varð kóngur og eignaðist Áslaugu dóttur Philips kóngs sem í Ungaria hafði ríki haft fyrir Galdrakóng. Sigurður fékk Ásu dóttur Hrings Garðakóngs og settist að ríki sínu á Púl. Hringur kóngur gjörði brullaup til Signýjar systur Sigurðar. Gefur að skilja í sögunni að Garðaríki hafi í þennan tíma kristið verið.

6 NKS 1144 fol., 263–67. Textinn er stafréttur en ekki stafbrigðaréttur.

10

2 Handrit Elstu íslensku handritin eru skinnhandrit. Það var í höndum fárra lærðra einstaklinga að vera skrifarar og í upphafi skráðu menn einungis það sem þótti mikilvægt. Eftir tilkomu pappírs jókst þorri þeirra sem fengust við skriftir enda pappírinn aðgengilegri og mun ódýrari en skinnið. Þau sagnahandrit sem varðveittust í gegnum aldirnar fela í sér vitnisburð um samfélag fólks á ákveðnum tíma, þá sem stóðu að gerð handritanna, skrifuðu þau, lásu og áttu í fórum sínum. Þannig bera handrit með sér sögu liðinna alda, og vitnisburð um handritin sjálf og efni þeirra. Varðveislusaga handrita er margvísleg7 og í eftirfarandi umfjöllun verður hún einungis skoðuð í tengslum við þau handrit sem um ræðir í þessari rannsókn. Fjöldi handrita sem hafa varðveist eru misjafnlega mörg eftir því frá hvaða tímabili þau eru. Elstu skinnhandrit eru færri en pappírshandrit og færri upprunaleg handrit hafa varðveist en afrit. Íslensk handrit eru flest geymd í safni Árna Magnússonar (bæði í Reykjavík og í Kaupmannahöfn) og í Handritasafni Landsbókasafns, en í gegnum tíðina hafa þó fundist handrit sem hafa verið skrifuð á íslensku eða skrifuð á Íslandi á ýmsum öðrum stöðum svo sem í Svíþjóð og Þýskalandi.8 Handritin má rekja aftur til 12. og 13. aldar, þegar farið var að skrifa lög, annála, sögur konunga og merkismanna og um þá atburði er þóttu áhugaverðir. Öll þessi bókmenntalega virkni varð þess valdandi að Íslendingar hafa verið nefnd bókmenntaþjóð. Tildrög þessarar skriftarástríðu verða ekki skýrð, en Jón Helgason (1899–1986) segir: „Eftir að kröftunum hafði einusinni verið beint inn á þessa braut, er haldið áfram alla tíð að yrkja og semja, tína saman og þýða, stundum bæði af hæfileikum og elju, oft mest af elju.“9 Þessi elja felst í því að margt er skrifað upp eftir öðru, hvort sem er eftir munnmælum, eldri uppskriftum og jafnvel prentuðum bókum og nýjar sögur verða til með endurröðun sagnaminna úr eldri sögum. Jón telur að mörg afrit eldri texta og þá sérstaklega söguhandrita njóti ekki mikillar virðingar og séu jafnvel „hvimleið“ útgefendum, þar sem þau eru „fjarlæg uppsprettunum, einatt afbökuð, nálega undantekningarlaust til einskis gagns í leitinni að réttum texta. Þau gera ekki annað en þvælast fyrir.“ Hann telur að þessi afrit beri með sér „þá löngun til að lesa og fræðast“ og að kynslóðir aldanna hafi ekki látið „neitt

7 Nánar má lesa um uppruna handritasafns Landsbókasafnsins í grein Ögmundar Helgasonar, „Handritasafn Landsbókasafns 150 ára, 1846–1996“; sjá ennfr. hinar ýmsu greinar um handrit Árna Magnússonar í Svanhildur Óskarsdóttir o.fl., 66 handrit úr fórum Árna Magnússonar. 8 Sjá nánar hjá Jóni Helgasyni, Handritaspjall, 7, 101–3. 9 Jón Helgason, Handritaspjall, 8.

11

andstreymi buga ást sína til bókarinnar“.10 Því telur hann að pappírshandrit 17. aldar eigi ríkan þátt í varðveislu íslenskra fornbókmennta.11 Einstök handrit hafa vakið meiri athygli en önnur. Það eru yfirleitt handrit sem fela í sér sögur og sagnir af fólki með sagnfræðilega tengingu. Sögur sem hafa verið afritaðar í fjölda handrita gefa til kynna vinsældir þeirra á meðan sögur sem varðveittar eru í fáum handritum virðast ekki hafa náð jafnmiklum vinsældum. Handrit sem hafa að geyma afrit af eldri handritum eru oftar en ekki álitin verri handrit, þar sem texti þeirra gæti hafa brenglast, ef til vill þar sem skrifari hefur ekki vandað verk sitt, gert villur eða jafnvel notað sína eigin sköpunargáfu til þess að betrumbæta eldri útgáfu. Fræðimenn hafa annað hvort leitast eftir upprunalegum texta, eða það sem þeim finnst vera besti textinn og þá er það iðulega sá elsti. Minni gaumur er því gefinn að yngri uppskriftum, þar sem þær eru taldar vera fjarri upphaflega texta.12 Þetta viðhorf um mismunandi gildi afskrifta má líklega rekja til Árna Magnússonar (1663–1739) sjálfs, þar sem að hann fargaði þeim bókum sem hafði margar villur að hans mati því að honum fannst þær „rugla fólk“ og koma „vitleysum á kreik sem yrði […] basl að kveða niður.“13 Jón Helgason telur þó að yngri uppskriftir geti komið að gagni þar sem frumritin eru glötuð,14 og í sumum tilvikum eru þau einu heimildirnar um að ákveðinn texti hafi verið skrifaður niður. Þess má einnig geta, að flestar sögur eru einungis varðveittar í afritum og því er elsta varðveitta afrit yfirleitt talið merkilegt, og gildi slíkra uppskrifta er ótvírætt. Hér verður fjallað um Söguna af kóngabörnum, hvort heldur sem er einstaka texta eða þau handrit sem varðveita hana. Þau handrit eru, samkvæmt Rudolf Simek og Hermanni Pálssyni,: NKS 1802 4to, ÍB 138 4to, ÍB 165 4to (18. Jh.), Lbs 661 4to, Lbs 1510 4to og Lbs 2203 8vo.15 Höfundur þessarar ritgerðar gerði nánari leit að sögunni, til dæmis með því að skoða handritaskrár með leitarorðunum: Sigurður, Signý og Tryggvi í Katalog over de oldnorsk-islandske håndskrifter i Det store kongelige bibliotek og i Universitetsbiblioteket (1900),16 Katalog over den Arnamagnæanske håndskriftsamling (1889–1894)17 þar sem engin handrit fundust undir þessum

10 Jón Helgason, Handritaspjall, 9. 11 Jón Helgason, Handritaspjall, 14. 12 Jón Helgason, Handritaspjall, 9. 13 Svanhildur Óskarsdóttir, „Með handrit á heilanum - Safnarinn Árni Magnússon“, 24; sjá einnig hjá Má Jónssyni, Árni Magnússon: Ævisaga, 302–305. 14 Jón Helgason, Handritaspjall, 102. 15 Simek og Hermann Pálsson, Lexikon der altnordischen Literatur, 337. 16 Í Kålund, Katalog over de oldnorsk-islandske håndskrifter er NKS 1802 4to á bls. 231. 17 Í Kålund, Katalog over den Arnamagnæanske håndskriftsamling.

12

leitarorðum, Skrá um handritasöfn Landsbókasafnsins (1918–1996)18 ásamt því að leita á handrit.is og veraldarvefnum. Í Skrá um handritasöfn Landsbókasafnsins fundust samtals sjö handrit; fimm eru nefnd hjá Simek og Hermanni, auk tveggja annarra, Lbs 2929 4to og Lbs 4447 4to. Á handrit.is fundust fimm handrit, þau sömu og hjá Simek og Hermanni auk tveggja annara, SÁM 6 og Einkaeign 10. Í þessum handritum bera sögurnar titla sem gefa til kynna að um sömu sögu sé að ræða, eða að minnsta kosti um sömu sögupersónur, til dæmis: Sagan af Tryggva Kallssyni, Sagan af Sigurði og Tryggva og Sagan af kóngabörnum Sigurði og Signýju. Allt eru þetta sögur sem eru varðveittar í mismunandi handritum frá mismunandi tíma. Í töflu 1 getur að líta lista yfir handrit sögunnar og hvar upplýsingar um þau er að finna:

Tafla 1. Listi yfir handrit sögunnar.

Simek og Handrit Skrá Landsbókasafnsins handrit.is Annað Pálsson 1. NKS 1802 4to X X 2. ÍB 138 4to X X X 3. ÍB 165 4to X X X 4. Lbs 661 4to X X X 5. SÁM 6 X 6. Lbs 2203 8vo X X 7. Einkaeign 10 X 8. Lbs 4447 4to X 9. Lbs 2929 4to X 10. Lbs 1510 4to X X 11. Böðvar Kvaran X

2.1 Gerðir sögunnar Þegar sagan í handritunum var lesin kom í ljós að hér er um tvær gerðir sögunnar að ræða, A- og B. B-gerð sögunnar má finna í þremur handritum, Lbs 2203 8vo, Lbs 4447 4to og Lbs 2929 4to. Það helsta sem aðgreinir þessar gerðir er að aðal sögusvið A- gerðar er Suður-Evrópa en í B-gerð er það England, Írland, Skotland og tröllaheimar sem nefnast Gandvík. Nöfn persóna eru ekki þau sömu, þó svo að ákveðnar persónur gegni sama hlutverki innan sögunnar. Í upphafi A-gerðar sögunnar kemur hvorki fram

18 Í Skrám um handritasöfn Landsbókasafnsins fundust handrit sem hafa að geyma söguna um Sigurð, Signýju og Tryggva: Lbs 661 4to (I:298–299), Lbs 1510 4to (I:536–538), Lbs 2203 8vo (II:425), ÍB 138 4to (II:765), ÍB 165 4to (II:769), Lbs 2929 4to (aukabindi I: 64) og Lbs 4447 4to (aukabindi IV:62).

13

heiti kóngs né hvar ríki hans er, en í B-gerðinni hefst sagan hins vegar á þá leið að kóngur og drottning Englands eru kynnt: „Sá kóngur réði fyrir Englandi sem Hringur hét, hann átti þá drottningu er Signý hét“19 og eru börn þeirra Sigurður og Ingibjörg, en í A-gerðinni heita börnin Sigurður og Signý. Í báðum gerðum kemur fram að í Garðshorni býr Tryggvi með foreldrum sínum; í B-gerð kemur strax fram heiti þeirra, Úlfur og Ísigerður, en í A-gerð kemur það ekki fram fyrr en í lokin að þau heita Eiríkur og Vigdís (bls. 49–50). Í B-gerðinni er það Hrólfur kóngur á Írlandi sem rænir Ingibjörgu, en í A-gerð er það Galdrakóngur í Ungaríu sem rænir Signýju. Í báðum gerðum kvænist Tryggvi Ingibjörgu. Meðal annarra frávika má nefna eftirfarandi: Í B-gerð fer móðir Hrólfs ekki í hlutverk kattar til að vekja upp hina dauðu, eins og móðir Galdrakóngs gerir, heldur fer hún sjálf í eigin persónu og er með fingurgull sem lýsir. Þeir fóstbræður lenda annars vegar á Bjarmalandi (A-gerð) og hins vegar í Gandvík (B-gerð) og hitta þar fyrir tröll og skessu. Í B-gerð sögunnar þurfa þau Sigurður og Ingibjörg að sofa til fóta hjá Haraldi og Þóru til þess að aflétta álögum þeirra systkina sem stjúpmóðir þeirra, Grímhildur, lagði á þau. Í gagnálögum Haralds þarf Grímhildur að standa með annan fótinn á konungshöllinni og hinni á kastala þeirra systkina og mun hún brenna upp að mitti en aldrei drepast fyrr en þau komast lífs af eða dauð verða. Í A-gerð er stjúpan Æsa sem leggur á Herloga og Ingibjörgu og er síðan rifin í sundur af ólmum hundum (bls. 36). Í B-gerð verður síðar mikill bardagi á milli Hrólfs (Írlands) og Haralds (Skotlands), Sigurðar (Englands) og Tryggva, þar sem Hrólfur er handtekinn og hengdur í lokin. Eins og góðri sögu sæmir verður þrefalt brúðkaup í lokin, þar sem Haraldur kvænist Helgu dóttur Hrólfs, Sigurður fær Þóru og Tryggvi og Ingibjörg ná saman; í A-gerð er hins vegar fjórfalt brúðkaup í lokin. Það eru mörg sameiginleg minni í A- og B-gerð, en samt með frávikum. Hér má nefna að í B-gerð drepur Tryggvi átta af hirðmönnum Sigurðar með eik, en í A-gerð drepur hann tvo menn Sigurðar með „soppi“. Móðir Tryggva gefur honum „guðvefjar skikkju“ sem hefur þrjár náttúrur og auk þess exi sem hefur einnig þrjár náttúrur í B- gerð, en í A-gerð fær hann slippu/úlpu og exi, en lesandi veit ekki af náttúru þeirra fyrr en á reynir. Í báðum gerðum kemur stjúpu- og álagaminnið fyrir, þar sem systkini verða fyrir álögum stjúpmóður sinnar sem kveður á um hvernig þau losna undan þeim; jafnframt er að finna gagnálög, þar sem fram kemur hvernig stjúpunni er refsað. Ekki

19 Lbs 2203 8vo, 1; Lbs 4447 4to, 59–60. Stafsetning er færð til nútímahorfs.

14

verður nánar fjallað um frávik og handrit B-gerðar í meginmáli þessarar ritgerðar, en greinargerð fylgir með í viðauka 2. Í eftirfarandi undirköflum verður gerð grein fyrir þeim handritum sem hafa að geyma A-gerð sögunnar. Til þess að uppfylla markmið ritgerðarinnar sem er að skoða söguna sjálfa, minni hennar, atburðarás og persónur, var NKS 1802 4to valið til grundvallar fyrir frekari rannsókn. Ein af ástæðum fyrir valinu var sú að þeir Simek og Hermann Pálsson velja „wichtiger oder alter Manuskripte“20 þegar þeir skrá röð handrita og þar sem þeir telja NKS 1802 4to fyrst upp, má áætla að þeim hafi fundist það handrit mikilvægara og eldra en hin handritin. Þess ber að geta að samkvæmt þeim hefur tvisvar sinnum verið vísað í söguna, í ritunum:21 Balor with the Evil Eye (1927) eftir A.H. Krappe (1894–1947)22 og Romance in Iceland (1934) eftir Margaret Schlauch (1898–1986).23 Auk þess eru minni sögunnar tekin inn í Motif-index of early Icelandic literature (1966) eftir Inger M. Boberg (1900–1957).24 Að lokum fjallar Aðalheiður Guðmundsdóttir um söguna í umræðu um stjúpuálög í Cand. Mag. ritgerð sinni, Úlfhams saga og þróun álagasendinga (1993),25 auk þess sem Davíð Erlingsson (f. 1936) vísar í hana í greininni „Sagan gerir mann“ (1992).26 Sá samanburður milli handrita er gerður var á frumstigi þessarar rannsóknar leiddi í ljós að NKS 1802 4to felur í sér góða og heillega gerð sögunnar og er vænlegast þeirra til útgáfu. Handritið fær því ítarlegri umfjöllun en önnur handrit, þar sem leitast verður við að lýsa því sem grip og skriftarlegum atriðum svo sem böndum og styttingum.

20 Þ.e. „mikilvæg og forn handrit“, sjá nánar hjá Simek og Hermanni, Lexikon der altnordischen Literatur, ix. 21 Simek og Hermann Pálsson, Lexikon der altnordischen Literatur, 337. 22 Tilvísun Krappe í Söguna af kóngabörnum Sigurði of nýju [svo] einninn Tryggva kallssyni tengist umfjöllun hans um það minni þegar kona, norn eða valkyrja endurlífgar dauða stríðsmenn svo að þeir geti haldið áfram að berjast. Vegna þess hve sagan er ung telur hann ekki ráðlagt að nota hana í rannsókn sinni, sbr. Krappe, Balor With The Evil Eye: Studies In Celtic And French Literature, 141; Krappe vísar í Jiriczek, „Zur mittelisländischen volkskunde“, 23 þar sem vísað er í handritið „Ny kgl. saml. 1802. 4°. paphs. d. 17. jhd. s. 14 fg.“ 23 Schlauch vísar í handritið Ny kgl. Sml. 1802 4to, þar sem að hún tekur dæmi úr Sigurðar sögu ok Signýjar við umfjöllun á ákveðnum efnisatriðum í bók sinni. Hér má t.d. nefna: um nafnið Óðinn, bls. 31; um það að vera í haldi hjá tröllum, bls. 61; um að elska prinsessu án þess að hafa séð hana, bls. 65– 66; um að brúði sé rænt og henni bjargað af brúðguma sínum, bls. 66; um lygisögur og kolbíta, bls. 98; um stjúpmæður, bls. 101; um að vera rænt af risa, bls. 105; um að geta sent frá sér óveður, bls. 122; um að vekja upp hina dauðu, bls. 138; og um kött með hvíta loppu, bls. 139, en þar vísar hún einnig í Krappe (1927), 23. Schlauch, Romance in Iceland. 24 Boberg, Motif-Index of Early Icelandic Literature. 25 Aðalheiður segir frá því hvernig Æsa lagði á Herloga og Ingibjörgu. Sjá nánar í „Úlfhams saga og þróun álagasendinga“, 126. 26 Í greininni fjallar Davíð um merkingu orðsins „saga“ en vísar í söguna þegar hann fjallar „stýri kattarins“, sjá nánar í „Sagan gerir mann: Hugleiðing um gildi og stöðu hugvísinda“, 341–42.

15

Önnur handrit fá styttri umfjöllun þar sem meðal annars verður getið um aldur þeirra og uppruna.

2.2 NKS 1802 4to Handritið NKS 1802 4to er pappírshandrit sem hefur að geyma eina sögu: Söguna af kóngabörnum Sigurði og Signiju; einnig Triggva karlssyni. Handritið er varðveitt í Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn. Þær upplýsingar sem eru gefnar um handritið á leitarsíðu bókasafnsins, REX, eru af skornum skammti. Titill sögunnar er skráður sem „Sagan af Konunga Börnum Sigurde ok Signyu, ok Tryggva Karlssyni.“ Þar kemur einnig fram að það sé frá árunum „16??–1831“ sem er afar ónákvæm tímasetning, að tungumálið sé danska (sem er ekki rétt, því að handritið er skrifað á íslensku) og að það tilheyri bókmenntum frá Íslandi. Jafnframt segir að handritið hafi komið úr bókasafni Peters Frederiks Suhm á tímabilinu 1788–1831. Í upplýsingunum safnsins er hvergi getið um mögulegan ritara handritsins, uppruna og eigendasögu þess eða höfund sögunnar.27 Í Katalog over de oldnorsk-islandske håndskrifter kemur fram að handritið Ny kgl. saml. (NKS) 1802 4to, sé 18. aldar pappírshandrit, 21,3 x 16,7 cm að stærð og 25 blaðsíður. Þar kemur einnig fram að upphafsstafur sögunnar sé skreyttur. Titill sögunnar er Af Kóngabörnum og Tryggva karlssyni og innan sviga stendur: „Sagann Af Konga Börnumm Sigurde og Signyu, Eyrnenn Triggva Karls Syne“ og síðan er tilvísun í staðsetninguna í safni Suhms nr. 545 4to.28 Í júní 2018 heimsótti höfundur þessarar ritgerðar Konunglega danska bókasafnið og skoðaði handritið, sem er varðveitt í öskju sem er bundin saman með hörborða. Á merkimiða sem fylgir stendur með prentletri: „Håndskrift afd.“ Síðan er handskrifað: „Ny kgl. Sml. 1802, 4° | Sagan af konun- | ga bórnum | Singÿu, ok Tryggva Karls- | syni“. Handritið er lítið, 213 mm á hæð og 167 mm á breidd, og á það hefur verið límdur þykkur brúnn pappír sem verður að kápu þess. Það eru þrjú kver bundin saman, og er hvert þeirra er fjögur tvinn, (bls. 1–16; bls. 17–32; bls. 33–48). Auk þess er eitt stakt blað sem er saumað með fyrsta kveri og eitt tvinn (bls. 49–50) þar sem sögulokin eru skrifuð á annað blaðið, þar sem hitt er límt á kápuna. Blaðsíður eru merktar með tölustöfum og hefst sagan á bls. 1 og endar á blaðsíðu. 50.

27 REX. Leitarsíða Det Kongelige Bibliotek. „Sagan af Konunga Börnum Sigurde ok Signyu, ok Tryggva Karlssyni.“ 28 Handritið er skráð nr. 701 í Kålund, Katalog over de oldnorsk-islandske håndskrifter, 231.

16

Pappírinn er brúnleitur og aðeins grófur viðkomu. Efri jaðar er dekkri, eins og pappírinn hafi orðið fyrir einhverjum skemmdum, sennilega af völdum raka sem hann hefur dregið í sig, en annars eru blaðsíður, almennt séð, frekar ljósar og hreinar. Þegar handritið er opnað, er á verso síðu skrifað efst með blýanti „Ny kgl. Saml. 1802, 4°“. Á recto síðu hefst sagan. Efst fyrir miðju er yfirskrift „A Könga

Bỏrnumm“ og við hægra spássíu er tölustafurinn „1“ undirstrikaður. Síðan er skrifuð með útflúruðum stöfum. Titill sögunnar er „Sagan af | kongabỏrnumm Sigurde | og Signiju; Eijrnenn Triggva- | karls Sijne+ |“, og tekur samtals fjórar línur. S-ið í „Sagan“ er útflúrað og a í „af“ hefur lítilsháttar flúr. Fyrir neðan titil er örlítið bil áður en texti sögunnar byrjar. Sagan hefst á orðinu „Þad“ og er Þ Mynd 1. Upphafssíða sögunnar í NKS 1802 4to. veglega skreytt. Þ-ið nær niður sem svarar 12 línum af þeim 13 sem texti sögunnar nær yfir á síðunni, sjá nánar á mynd 1. Hver verso síða er tölusett efst í vinstra horni en recto síðurnar efst í hægra horni. Það er yfirskrift fyrir miðju á hverri síðu. Á verso síðu er ýmist skrifað „A Köngs

Bỏrnumm“ eða „A Könga Bỏrnumm“ og á recto síðu er það „og Triggva kalls sijne“.

Skriftarflöturinn er um það bil 140–145 mm á hæð og 100–105 mm á breidd. Línurnar á blaðsíðum 2–33 eru 23–25 eða að meðaltali 24,1 lína, en frá blaðsíðu 34 breytist skriftin. Hún verður ögn hærri, flæðir meira og hallar aðeins til vinstri og þá verða línurnar að meðaltali 22,6 eða 21–23 línur á blaðsíðu. Á síðustu blaðsíðu sögunnar (bls. 50) eru 22 línur, en síðustu átta línurnar styttast smátt og smátt í enda hverrar línu, þannig að textaflöturinn mjókkar og síðasta línan er um það bil 3 cm fyrir miðju. Þar fyrir neðan er skrifað F.I.N.I.S. með hástöfum. Handritið hefur verið handfjatlað og lesið. Ákveðin orð og einstaka setningar hafa verið undirstrikaðar með blýanti og það hafa verið dregnar lóðréttar línur meðfram texta og aftast (bls. 50) hafa verið dregin upp tvö stór X.

17

2.2.1 Lýsing á NKS 1802 4to Það getur verið erfitt að áætla uppruna handrita, þar sem mörg þeirra eru án ártals og annarra upplýsinga, svo sem hver skrifaði þau. Sérstaklega á þetta við um skinnhandrit,29 en í mörgum tilvikum getur þetta átt við um pappírshandrit líka. Það eru ýmsar leiðir farnar til þess að finna uppruna handrita, svo sem að leita að hugsanlegu ártali, tímasetja skrift og skoða málfar- og stafsetningu og bera svo skrift saman við skrift þekkts skrifara. Það er auðveldara að geta sér til um aldur eldri handrita, svo sem skinnhandrita, þar sem málfarsbreytingar tóku lengri tíma á miðöldum en eftir siðbreytingu. Fleiri fara að skrifa niður sögur þegar pappír verður aðgengilegri og þegar mikið er skrifað, þá getur verið erfiðara að leita að uppruna handrita. Handritið NKS 1802 4to er án ártals og til þess að finna hvenær það var skrifað var skrift þess, málfar og stafsetning skoðuð. Handritið er skrifað með nokkurs konar kansellí- eða kansellíbrotaskrift, sem var iðulega notuð í fyrirsögnum, þótt einstaka handrit hafi verið skrifuð með skriftartegundinni eingöngu og sérstaklega í uppskriftum af eldri texta.30 Hún var algeng á Íslandi seint á 17. öld og fram á þá átjándu.31 Handritið er líklega skrifað í Kaupmannahöfn, en samt eru líkur á því að Íslendingur hafi skrifað það, þar sem að skriftartegundin er í samræmi við það sem tíðkaðist á Íslandi. Í kansellískrift er einhólfa a, sem er eins og í NKS 1802 4to; króka-r, ꝛ, er algengt, og birtist það einnig hér á stangli ásamt stafnum sem var almennt tákn fyrir f fram undir 1700.32 o og d minna á demant í lögun og staftáknið r er líkara x en r. Stafir tengjast lítið og þónokkuð er um flúr.33 Skriftin er skýr og auðlesin, en frá og með blaðsíðu 34 verður á henni smávægileg breyting. Hér virðist skriftin flæða meira þar sem stafirnir eru þéttari og virðast stundum tengjast meira en áður, auk þess sem hún hallar örlítið meira til hægri en mörg sömu skriftareinkenni haldast. Við fyrstu sýn virðist sem annar skrifari hafi tekið við, en sú er ekki raunin þegar betur er að gáð, heldur virðist flúr skriftarinnar hafa minnkað. Það má vera að skrifari hafi endurnýjað eða skorið penna sinn, því blekið er ljósara en áður, þar sem það er dökkbrúnt. Smám saman þéttist skriftin svo aftur og verður líkari því sem fyrr var, en þó enn með sama halla og frá blaðsíðu 34.

29 Jón Helgason, Handritaspjall, 15. 30 Sjá t.d. hjá Guðvarði Má Gunnlaugssyni í Sýnisbók íslenskrar skriftar, 147, 145. 31 Guðvarður Már Gunnlaugsson, „Skrift“, 70. 32 Guðvarður Már Gunnlaugsson, „Skrift“, 70. 33 Sjá nánar lýsingu og einkenni á kansellí- og kansellíbrotaskrift hjá Giovanni Verri í umfjöllun hans um skrifarann Ásgeir Jónsson (ca. 1657–1707) „Um rithendur Ásgeirs Jónssonar“, 238–39 og 240.

18

Greinamerkjasetning skrifara er ekki í samræmi við nútímavenjur, þar sem að hann gerir stundum punkt (.) þar sem væri gerð komma (,). Jafnframt gerir hann ekki greinarmun á hástöfum og lágstöfum, inni í málsgrein. Hér má nefna sem dæmi „ä herdumm Drötter og Dijra Umm bünïng. þvi […]“ (bls. 3, lína 7), þar sem hástafir koma fyrir inni í málsgrein, en síðan kemur lágstafur, þ, á eftir punkti (.). Persónunöfn eru yfirleitt skrifuð með upphafstaf, en það kemur fyrir að svo sé ekki, sem dæmi „triggvi“ (bls. 17, lína 21).34 Stundum virðist sem sumir stafir séu ávallt aðeins hærri heldur en aðrir lágstafir í sama orði, samanber s, til dæmis í „sömdu“ (bls. 1, lína 10). Frá því undir lok 16. aldar var algengara að skrifa staftáknið e í enda orðs í stað i,35 og er það almennt gert í handritinu. Hér er ekkert ð notað, heldur d, þar sem ð birtist ekki aftur fyrr en snemma á 19. öld, vegna áhrifa frá Rasmusi Rask (1787–1832).36 Hér er ck notað sem langt ‘k’, í „þickʃtijrndare“ (bls. 3, lína 2) og „Skrucka“ (bls. 26, lína 12). Stoðhljóð eru yfirleitt skrifuð, nema í einstaka orðum, til dæmis vantar u í „kongꝛ“ (bls. 19, lína 9). Staftáknið z kemur alloft fyrir og þá í eignarfallsendingum, sem dæmi „hanz“ (bls. 4, lína 17) og „skipbrotz“ (bls. 19, lína 8) eins og algengt var á 16. öld, en á 17. öld höfðu margir hætt að nota z.37 Staftáknið z hefur stundum hljóðgildi lokhljóðs og stendur þá fyrir hljóðsambandið ‘ds’, og má til dæmis vísa í orðin „hlioodz“ (bls. 44, línur 17 og 18) og „landzlijd“ (bls. 48, lína 9) og í „sunnz“ (bls. 17, lína 17). Víða eru tveir punktar yfir löngum sérhljóða. Hér má nefna ä sem hljóðið ‚á‘ „ä herdumm“ (bls. 3, lína 7) og ï í „Sïgurdur“ (bls. 2, lína 5) og yfir u, ü „ünga“ (bls. 2, lína 2–3), en slíkt var algengt á 17. öld.38 Stafurinn o kemur víða fyrir með punkti yfir, ȯ, og virðist þá annað hvort standa fyrir hljóðið ‘ö’ í „Bȯrn“ (bls. 1, lína 4), eða ‘ó’ í „kȯngs“ (bls. 1, lína 13). Einstaka sinnum er þó skrifaður broddur yfir o, ó, í „kvóllde“ (bls. 2, lína 9) og einnig í „Kónginn“ (bls. 9, lína 10), og verða þessi skriftareinkenni látin haldast í uppskrift. Á

öðrum stöðum er notað o með króki, ỏ, fyrir hljóðið ‘ö’ „vỏnduʃt“ (bls. 1, lína 7–8). Stafurinn o með tveimur punktum yfir, ö, er þó stundum notað fyrir ‘ó’, samanber. „könga“ (bls. 1, lína 6); í öðrum tilvikum er hljóðið ‘ó’ táknað með tvöföldum sérhljóða, svo sem í „Biooda“ (bls. 5, lína 6).

34 Um notkun upphafsstafa, sjá nánar hjá Stefáni Karlssyni, „Tungan“, 57. 35 Sjá nánar hjá Stefáni Karlssyni, „Tungan“, 58. 36 Stefán Karlsson, „Tungan“, 62. 37 Stefán Karlsson, „Tungan“, 59. 38 Jón Helgason, Handritaspjall, 23.

19

Tvö ll á undan d má segja að komi úr gamalli hefð, og má sjá í orðunum, „Galldra köngr“ (bls. 9, lína 2) og „kvóllde“ (bls. 2, lína 9).39 Orðið „karl“ (bls. 1, titill) er stundum skrifað „kall“ (bls. 2, lína 1) og „Eirninn“ (bls. 2, lína 1) í staðinn fyrir „einnig“ sem er tannmælt langt ‘n‘ sýnir samfall á rl/ll og rn/nn.40 Límingarstafurinn ꜳ birtist víða, til dæmis í orðinu „äſiꜳleg“ (bls. 1, lína 7). Annar límingur er sem i+j sé skrifað saman, og gæti litið út sem ÿ eins og í „Rijke sijnu“ (bls. 1, lína 3), en á einum stað í handritinu er staftáknið y notað, en það er í orðinu „ydiu“ (bls. 2, lína 4). Staftáknið u er auðkennt með lykkju eða hálfluktum hring fyrir ofan stafinn, það er ȗ eins og í „kongȗr“ (bls. 1, lína 2) og sums staðar er punktur yfir, „Ricd “ (bls. 1, lína 2–3). Þar sem hvorugt merkið hefur hljóðgildi, heldur eru aðeins notuð til aðgreiningar á u frá n og m, er þeim sleppt í meðfylgjandi uppskrift textans. Einstaka sinnum er þó notað fyrir hljóðið ‘ú‘ ásamt því að stafurinn er skrifaður með tvípunkti,

ü, og stendur þá fyrir hljóðið ‘ú’ í „h n“ (bls. 10, lína 6) og í „ün-|ga“ (bls. 2, lína 2–3), og er það látið halda sér í uppskrift. Skrifari hefur gert mistök við uppskrift sína og er þá helst að það vanti stafi eða bönd. Hér má nefna að það vantar strik yfir n, (n̄ ) í „anad“ (bls. 1, lína 5) og styttingu í orðinu „Trigg“ (bls. 34, lína 19) sem verður þá „Trigg⟨vi⟩“. Í uppskriftinni verða gerðar leiðréttingar á augljósum villum og viðbót auðkennd með oddklofa, ⟨ ⟩. Þó nokkuð er um bönd og styttingar í Sögunni af kóngabörnum. Orðið „fyrir“ er oftast skrifað sem „ “ og er leyst upp sem „fijrer“ í samræmi við rithátt skrifara.

Samtengingin „og“ er venjulega táknuð með „ “ og verður hér leyst upp sem „og“ (bls. 1 lína 8). Orðið „með“ er einnig bundið og þá sem „푚̅̅̅ʒ̅“ en er leyst upp sem „med“ 41 (bls. 1 lína 12). Algeng bönd eru -ra, -er / -ur bönd, auk nasal-banda, þar sem þverstrik er fyrir ofan n og m, „an̄ ad“ (bls. 1, lína 4). Í uppskrift eru bönd auðkennd með skáletri, „annad“. Á þó nokkrum stöðum er stafurinn p skrifaður með punkti, ṗ og er leyst upp

39 Úr eldri handritum má oft sjá ll skrifað á undan d og svo l á undan ð, og telja sumir að það sé ritvenja, en Jakob Benediktsson telur svo ekki vera, þar sem þessum rithætti er beitt reglulega í handritum og svo vegna ríms, sjá nánar í „Um tvenns konar framburð á ld í íslenzku“, 33; Stefán Karlsson, „Tungan“, 59. 40 Sjá nánar hjá Stefáni Karlssyni, „Tungan“, 52. 41 Í íslenskum handritum allt frá 14. öld hefur samtengingin „og“ verið bundin. Ef táknið z stendur sjálfstætt er það oft notað til að tákna latnesku samtenginguna „et“, en ef z er fyrir aftan orð eða staf, er það leyst upp sem „ed“ sbr. „med“. Björn K. Þórólfsson, „Nokkur orð um íslenzkt skrifletur“, 122–23.

20

úr lengingarmerkinu samkvæmt venju, sem „pp“. Styttingar á borð við stífingu er einnig að finna og eru auðkenndar með sviga, „k:s:“ (bls. 2, lína 9) verður „k(ongs)s(onar)“. Þau einkenni sem hér hafa verið talin upp geta ekki skorið úr um nákvæma tímasetningu, en ljóst er að NKS 1802 4to hafi verið skrifað seint á 17. öld og fram á þá 18., á tíma kansellískriftar. Árið 1771 fékk Suhm aðgang að safni Árna Magnússonar (Den Arnamagnæanske Samling)42 sem veitti honum tækifæri til að nálgast íslensk handrit. Suhm lést árið 1798 og ef NKS 1802 4to er skrifað upp eftir hans beiðni, er líklegt að það sé skrifað á tímabilinu 1771–1798.

2.2.2 Um stafrétta uppskrift af NKS 1802 4to Í viðauka 1 má finna uppskrift af NKS 1802 4to. Uppskriftin er stafrétt þar sem léttsamræmd stafsetning er notuð, en stafbrigði eru látin halda sér eins og kostur er (s, í, á, ó, ö, u, ú, au), ásamt skrifaravillum. Stafbrigði eru þó ekki sýnd í þeim tilvikum þar sem munurinn er einungis grafískur, eins og til dæmis á f og þar sem einungis er ritað hefðbundið f. Það sama má segja um króka-r, ꝛ, að einungis er notast við hefðbundið r í uppskrift. Í handritinu sjálfu eru notaðar fjórar gerðir af s-um: s (hefðbundið), ſ (hátt s), hrútshauss-s43 og ß (tvöfalt s) og eru þau látin halda sér, nema hrútshauss-s sem er skrifað upp sem hefðbundið s. Oftast virðist stafurinn s vera skrifaður hærri en aðrir lágstafir í upphafi orðs, en hér verður lágstafa-s skrifað, nema ef svo virðist sem um hástaf sé að ræða. Skrifari dregur oft upp einhvers konar kommu aftan og ofan við „st“ endingu, til dæmis „Vỏnduſt‘“ (bls. 1, lína 8–9); þessari kommu er sleppt í uppskriftinni, enda felur hún aldrei í sér hljóðamun. Á heildina hefur verið leitast við að halda tryggð við stafagerð og umgjörð textans, en þó hafa verið gerðar málamiðlanir til þess að auðvelda lestur sögunnar. Léttsamræmd stafsetning er notuð, þar sem upphafsstafir og greinarmerkjasetning hefur verið samræmd, en til þess að halda í séreinkenni textans þá eru hástafir sýndir þar sem að þeir koma fyrir innan málsgreinar. Upplausn banda eru auðkennd með skáletri og upplausn skammstafana er höfð innan sviga.44 Það eru öllu jafnan griporð á hverri

42 Sjá nánar í kafla 3.1. 43 Hrútshaus-s kemur fyrir fjórum sinnum: „sier“ (bls. 3, lína 22); „Sigurdar“ (bls. 4, lína 12); „kongs“ (bls. 47, lína 23) og „sem“ (bls. 50, lína 3). 44 Sjá nánar hjá Guðvarði Má Gunnlaugssyni, „Stafrétt eða samræmt?“, 202–4.

21

blaðsíðu sem er sleppt í uppskrift.45 Önnur skriftarleg einkenni eru látin halda sér. Í textanum eru hvorki greinaskil né kaflaskipti og er blaðsíðutal handrits merkt við upphaf hverrar blaðsíðu. Ef efasemdir hafa vaknað um einstaka stafi eða orð, er vísað í uppskriftir ÍB 138 4to og SÁM 6 til viðmiðunar. Textinn er gefinn út með Palemonas MUFI letri.46

2.3 ÍB 138 4to47 Handritið ÍB 138 4to er pappírshandrit, skrifað á Íslandi á síðari hluta 18. aldar. Samkvæmt upplýsingum á handrit.is er það skrifað á árunum 1750–1799 af óþekktum skrifurum,48 og er nefnt Sögubók:

1. Dínus saga drambláta. 2. Hrólfs saga Gautrekssonar. 3. Clarus saga. 4. Eitt ævintýri um völundarhússins bygging. 5. Nitidu saga. 6. Nikulás saga leikara. 7. Friðþjófs saga. 8. Adoníasar saga. 9. Sigurðar saga og Signýjar (bl. 188r–207r). 10. Elísar saga og Rósamundu. 11. Gunnars saga Keldugnúpsfífls. 12. Þorsteins þáttur bæjarmagns.49

Hér er Sagan af kóngabörnum innan um fornaldarsögur og riddarasögur, en samkvæmt handrit.is er hún undir lykilorðunum fornaldarsaga, Íslendingasaga og riddarasaga.50 Titill sögunnar er nánast sams konar og í NKS 1802 4to eða Sagan af kóngabörnum Sigurði og Signýju og Tryggva karlssyni, enda er nánast um sams konar texta að ræða.

45 Stundum er hluti orða / málsgreinar í lok blaðsíðu endurtekið í fyrstu línu á næstu blaðsíðu, auk þess sem notuð eru griporð, sbr. neðst á blaðsíðu 32 og upphaf blaðsíðu 33: „med meijar sijnar; Eijrn morgun i Dỏgun|kiemur [griporð]ǁ 33. Eijrn morgun i Dỏgun kemur Æʃa drottning“. Í uppskrift verður þetta: „med meijar sijnar; Eijrn morgun i Dỏgunǁ 33. kemur Æʃa drottning“. 46 Leturgerðina „Palemonas MUFI“ má finna á vefsíðu Medieval Unicode Font Initiative: https://folk.uib.no/hnooh/mufi/fonts/„Medieval Unicode Font Initiative“. 47 Handrit sem eru merkt ÍB koma frá handritasafni Hins íslenzka bókmenntafélags, Kaupmannahafnardeild, sjá nánar hjá Páli Eggerti Ólasyni, Skrá um handritasöfn Landsbókasafnsins, 1918, II:715. 48 Nr. 6293 hjá Páli Eggerti Ólasyni, Skrá um handritasöfn Landsbókasafnsins II, 765; handrit.is „ÍB 138 4to: Sögubók.“ Í handritinu ÍB 138 4to kemur fram að sagan um Hrólf Gautreksson hafi verið skrifuð á Hólum í Hjaltadal árið 1774, sjá nánar á síðu 92v. 49 Nr. 6293 hjá Páli Eggerti Ólasyni, Skrá um handritasöfn Landsbókasafnsins II, 765. Titlar samræmdir skv. handrit.is „ÍB 138 4to: Sögubók.“ 50 handrit.is „ÍB 138 4to: Sögubók.“

22

Eigandi ÍB 138 4to var Guðrún Björnsdóttir (f. 1766) á Hreimsstöðum í Hjaltastaðarsókn, N-Múlasýslu. Marteinn Jónsson (1832–1920) gullsmiður á Stafafelli, Bæjarhreppi, Austur-Skaftafellssýslu gaf síðan handritið árið 1860 til Hins íslenzka bókmenntafélags.51 Árið 1901 keypti Landsbókasafnið handritasafn Hins íslenzka bókmenntafélags, Kaupmannahafnardeildar (ÍB) og Reykjavíkurdeildar (ÍBR).52

2.4 ÍB 165 4to Handritið ÍB 165 4to er pappírshandrit og er skrifað árið 1778 með hendi P.J. í Selárdal.53 Handritið er sögubók í tveimur hlutum og eru postulasögur í fyrri hlutanum en í þeim síðari eru „[…] sögur af frægum fornmönnum. Samanteknar af fróðum fræðimönnum, nýlega páraðar af ókunnandi viðvæning. Anno Christi 1778“:54

1. Ambáles saga. 2. Ásmundar saga víkings. 3. Sigurðar saga og Signýjar (bl. 91v–99r). 4. Göngu-Hrólfs saga. 5. Hálfdanar saga Eysteinssonar. 6. Bærings saga. 7. Sigurgarðs saga frækna. 8. Fertrams saga og Platós. 9. Blómsturvalla saga. 10. Hrólfs saga Gautrekssonar. 11. Gautreks saga. 12. Þorsteins þáttur forvitna. 13. Þorsteins þáttur stangarhöggs. 14. Egils saga Skallagrímssonar.55

Hér koma saman Íslendingasögur og -þættir, fornaldar- og riddarasögur ásamt lausavísum, og er Sagan af kóngabörnum flokkuð undir efnisorðunum fornaldarsaga og riddarasaga.56

51 Páll Eggert Ólason, Skrá um handritasöfn Landsbókasafnsins, II, 765; handrit.is „ÍB 138 4to: Sögubók.“ 52 Landsbókasafn Íslands - Handritabókasafn, „Saga handritasafns - Landsbókasafn“; Guðvarður Már Gunnlaugsson, Sýnisbók íslenskrar skriftar, 144 og 150. 53 Það eru engar upplýsingar um P.J., hvorki hjá Páli Eggerti Ólasyni, Skrá um handritasöfn Landsbókasafnsins, II, 769, á handrit.is né í handritinu sjálfu. Þá var leitað hjá Páli Eggerti í Íslenzkum æviskrám, en þar var enginn sem gæti passað við P.J. Því næst var litið í Prestþjónustubók Selárdals og Laugardals 1735–1784 á vef Þjóðskjalasafns Íslands, án árangurs. Elsta Sóknarmannatal Selárdals er frá 1786, og bar sú leit heldur engan árangur. 54 ÍB 165 4to, 60r. 55 Nr. 6320 hjá Páli Eggerti Ólasyni, Skrá um handritasöfn Landsbókasafnsins, II, 769. Titlar samræmdir skv. handrit.is „ÍB 165 4to: Sögubók.“ 56 handrit.is „ÍB 165 4to: Sögubók.“

23

Eins og fyrr segir var handritið skrifað í Selárdal og var eigandi þess Jón Ísleifsson (án árs). Handritið barst Stiftsbókasafninu57 frá Ara Finnssyni (1818–1901) í Bæ á Rauðasandi árið 1861.58

2.5 Lbs 661 4to Handritið Lbs 661 4to er pappírshandrit og er talið vera skrifað á árunum 1843–1848 með hendi Þorsteins Þorsteinssonar (1792–1863) á Heiði.59 Þorsteinn var mikill bókasafnari og á Landsbókasafninu eru varðveitt á milli 50 og 60 handrit, eða um 16.000 blaðsíður, skrifaðar af honum.60 Handritið hefur að geyma 21 sögu, þær eru:

1. Bærings saga fagra. 2. Ambáles saga. 3. Cyrus saga Persakonungs. 4. Ajax saga frækna. 5. Líkafróns saga og kappa hans. 6. Starkaðar saga gamla. 7. Þorgríms saga konungs og kappa hans. 8. Hercúlíanus saga. 9. Ærustrik, er eftir fjandann liggur. 10. Dámusta saga. 11. Þáttur af Rómanus riddara. 12. Virgilíus saga. 13. Möttuls saga – Skikkju saga. 14. Böðvars þáttur bjarka. 15. Vilmundar saga viðutan. 16. Flóres saga konungs og sona hans. 17. Sigurðar saga og Signýjar – Sigurðar saga og Tryggva Karlssonar (bl. 214v– 228r). 18. Viktors saga og Blávus. 19. Amalíu saga keisaradóttur. 20. Listakonan. 21. Lukkunnar belti. 22. Efnisyfirlit.61

57 Vísir að Landsbókasafninu varð til árið 1818 að undirlagi Rasmusar Rask og nefndist þá Stiftsbókasafnið. Það var ekki fyrr en árið 1881 að það var nefnt Landsbókasafn Íslands þegar flutt var í hið nýja Alþingishús. Sjá nánar hjá Önnu Agnarsdóttur, „Aldahvörf og umbrotatímar“, 147–48. 58 Páll Eggert Ólason, Skrá um handritasöfn Landsbókasafnsins, II, 769; handrit.is „ÍB 165 4to: Sögubók.“ 59 Nr. 988 í Páll Eggert Ólason, Skrá um handritasöfn Landsbókasafnsins, I, 298–99. 60 handrit.is „Æviágrip: Þorsteinn Þorsteinsson“. 61 Nr. 988 í Páll Eggert Ólason, Skrá um handritasöfn Landsbókasafnsins, 1918, I:299. Titlar samræmdir skv. handrit.is „Lbs 661 4to: Sögubók.“

24

Í sögusafni Þorsteins fara saman riddara-, fornaldar- og almúgasögur ásamt öðru sagnaefni og samkvæmt efnisorði á handrit.is er Sagan af kóngabörnum sögð vera riddarasaga.62 Lbs 661 4to kemur úr safni Eggerts Briem (1840–1893) prests63 og var keypt 8. maí 1893 til Landsbókasafns. Það hefur verið ljósmyndað á vefinn handrit.is.

2.6 SÁM 6 Handritið SÁM 6 er pappírshandrit og er talið vera frá 19. öld.64 Skrifari er óþekktur en skriftin er fljótaskrift og eru sögurnar vel læsilegar þótt sums staðar þurfi að rýna vel í textann. Handritið er óinnbundið og er því varðveitt í kverum en fremstu síður eru illa farnar. Samkvæmt handrit.is eru sögurnar skráðar undir efnisorðinu riddarasögur, en eins og sjá má af eftirfarandi lista eru þetta riddarasögur, fornaldarsögur og ein Íslendingasaga:

1. Niklás saga leikara. 2. Sigurðar saga og Signýjar – Sigurðar saga og Tryggva Karlssonar (bls. 55–94 (bl. 29–48r)). 3. Partalópa saga. 4. Ketils saga hængs. 5. Grega saga. 6. Sagan af Remundi og Melusínu. 7. Sagan af Damusta. 8. Þjalar-Jóns saga. 9. Sagan af Drauma-Jóni og Hinriki jarli. 10. . 11. Þorsteins saga Víkingssonar. 12. Jarlmanns saga og Hermanns. 13. Víglundar saga. 14. Illuga saga Gríðarfóstra. 15. Bragða-Ölvis saga.65

Handritið var í eigu Sigmundar Erlingssonar (1830–1897) óðalsbónda í Vigur,66 samanber á blaði 1r: „Sigmundur Erlingsson á þessa bók.“ Landsbókasafnið keypti handritið af Jóhanni Gunnari Ólafssyni (1902–1979) bæjarfógeta á Ísafirði.67

62 handrit.is „Lbs 661 4to: Sögubók.“ 63 handrit.is „Æviágrip: Eggert Briem Ólafsson“. 64 handrit.is „SÁM 6: Sögubók.“ 65 handrit.is „SÁM 6: Sögubók.“ Titlar samræmdir skv. handrit.is 66 S[ighvatur] Gr[ímsson] Borgfirðingur, „Sigmundur Erlingsson“, 19. 67 handrit.is „SÁM 6: Sögubók.“

25

Texti sögunnar er nánast eins og í NKS 1802 4to þó breyting sé á notkun tíða, það er, að hér er notuð þátíð þar sem nútíð er notuð í NKS 1802 4to. Sums staðar vantar í textann en svo er hann ítarlegri í öðrum tilvikum68 auk óverulega breytinga, þar sem orðavíxl eru.

2.7 Einkaeign 10 Í Héraðsskjalasafni Borgarfjarðar í Borgarnesi er varðveitt handrit sem Jóhannes Jónsson (1798–1877), einnig nefndur Jóhannes blindi, frá Haukadalshreppi/Laxárdalshreppi í Dalasýslu, skrifaði. Hann hneigðist til fræðistarfa og skrifaði meðal annars rímnabækur.69 Á handrit.is er handritið skráð sem „Einkaeign 10“ Sögubók og er skrifað á árunum 1862–1867. Handritið hefur að geyma 23 fornaldar- og riddarasögur:

1. Hinkriks saga góðgjarna og Valentínus sonar hans. 2. Böðvars þáttur bjarka. 3. Kirjalax saga. 4. Völsunga saga – . 5. Ragnars saga loðbrókar. 6. Styrbjarnar þáttur Svíakappa. 7. Ásmundar saga kappabana. 8. Antons saga greifasonar. 9. Ásmundar saga flagðagæfu. 10. Sigurðar saga og Snjáfríðar. 11. Úlfars saga sterka. 12. Valdimars saga. 13. Illuga saga Gríðarfóstra. 14. Eiríks saga víðförla. 15. Sigurgarðs saga frækna. 16. Kára saga Kárasonar. 17. Þiðriks saga. 18. Sagan af Tryggva karlssyni, bl. 220r–229r. 19. Hálfdanar saga Brönufóstra. 20. Sörla saga sterka. 21. Saga af Amúratis kóngi. 22. Sigurgarðs saga frækna.

68 Hér má t.d. vísa í samtal Tryggva og Skrukku í afhelli hennar. Textinn er samskonar í NKS 1802 4to, 26 og ÍB 138 4to, 199r, en er ítarlegri í SÁM 6, 75–76, sjá nánar í viðauka 8. 69 Jón Guðnason, Dalamenn: Æviskrár 1703–1961, I:397.

26

23. Sigurgarðs saga og Valbrands.70

Upphaf sögunnar gefur til kynna að hér sé um að ræða A-gerð sögunnar, þar sem segir: „Þad er upp haf Þessarar Sőgu, ad kóngur Einn Rjedi firir Púl, Enn ei gjetur þeßi Saga um nafn hanz.“71 Í lok sögunnar er skrifað: „endar svo þessi saga eptir Rímunum þann 20da júní 1865 af J.J.s.“72 Textinn er með öðrum orðum skrifaður eftir rímum (Rímur af Tryggva karlssyni).

2.7.1 Rímur Samkvæmt Skrá um handritasöfn Landsbókasafnsins varðveita nokkur handrit rímur af Sögunni af kóngabörnum og innihalda flest þeirra rímur eftir Jón Einarsson (1803– 1876), bónda á Skárastöðum í Miðfirði. Talið er að Jón hafi ort að minnsta kosti átta rímnaflokka, en vitað er af fjórum með vissu:

1. Rímur af Hrólfi Sturlaugssyni. 2. Rímur af Konráði keisarasyni. 3. Rímur af Tryggva karlssyni. 4. Rímur af Þorgrími mikla.73

Rímurnar af Tryggva eru tólf og eru ortar árið 1854. Þær eru í handritum: Lbs 986 4to, Lbs 1660 4to, Lbs 985 8vo, Lbs 2511 8vo, Lbs 2846 8vo og Lbs. 2988 8vo.74 Söguþráðurinn virðist vera sá sami og í A-gerð sögunnar, samkvæmt eftirfarandi útdrætti Finns Sigmundssonar:

Tryggvi er kolbítur, sonur karls og kerlingar, sem síðar reynast af háum stigum. Kóngurinn í Púl á son og dóttur, Sigurð og Signýju. Kóngsmenn spotta Tryggva, en hann gefur því ekki gaum fyrr en karl faðir hans brýnir hann til hefnda. Tryggvi gerist margra manna maki að afli og hreysti. Hann fellir tvo kóngsmenn og gengur í þjónustu konungs í þeirra stað. Hann fer í hernað með Sigurði kóngssyni. Skip þeirra ferst í gerningaveðri, en Tryggvi syndir í land með Sigurð. Þeir hitta fyrir Galdra-kóng, sem hefir numið til sín Signýju systur Sigurðar og valdið óförum þeirra. Síðan segir frá margs konar ævintýrum þeirra Tryggva, baráttu við galdrahyski og annað illþýði. En að sjálfsögðu ber Tryggvi sigur úr býtum og gerist kóngur í sögulok.75

70 „Sagnahandrit Jóhannesar Jónssonar: Einkaeign 10“. Titlar samræmdir skv. handrit.is „Einkaeign 10: Sögubók“. 71 Jóhannes Jónsson, „Einkaeign 10: Sögubók“, 220r. 72 Jóhannes Jónsson, „Einkaeign 10: Sögubók“, 229r. 73 Finnur Sigmundsson, Rímnatal, 1966, II:78. 74 Finnur Sigmundsson, Rímnatal, 1966, I:477. 75 Finnur Sigmundsson, Rímnatal, 1966, I:477.

27

Frekari rannsókn á rímum og afleiddri prósagerð verður að bíða betri tíma, en um helstu handrit rímnanna er getið í viðauka 3.

2.8 Lbs 1510 4to Handritið Lbs 1510 4to er pappírshandrit og er hluti handrita sem hafa að geyma Fornmannasögur Norðurlanda (Lbs 1491–1510 4to) og telja 20 bindi. Það er skrifað á tímabilinu 1880–1905 af Magnúsi Jónssyni (1835–1922) í Tjaldanesi. Lbs 1510 4to, sem er 20. bindi safnsins, er skrifað á aldamótaárinu 1900 (sjá titilsíðu) og í því eru eftirfarandi sögur:

1. Tryggva saga karlssonar (bl. 5r–57v). 2. Ásmundar saga, Vilhjálms og Valtara. 3. Dínus saga drambláta. 4. Parmes saga loðinbjarnar. 5. Villifers saga frækna. 6. . 7. Úlfars saga sterka. 8. Hauks saga hugglaða og Úlfs konungs illa. 9. Hálfdanar saga Brönufóstra.76

Hér fara saman riddarasögur (þar með meykóngasögur) og að minnsta kosti ein fornaldarsaga. Magnús hafði enga formlega menntun og var bóndi á Tjaldanesi í Saurbæ. Hann skrifaði upp og endursagði margar sögur sem hann safnaði saman í safnriti sínu er hann nefndi Fornmannasögur Norðurlanda og er texti sumra sagna einungis til í handritum hans.77 Landsbókasafn keypti handritin Lbs 1491–1510 4to af Magnúsi sjálfum.78 Í formála Lbs 1510 4to hefur Magnús skrifað:

Sagan af Triggva karlssyni. Þá sögu hefi ek fengit frá Gísla Hjaltasyni í Búðardal, en hvar hann hefir fengit hana man hann ecki glöggt líklegast mun hún vera komin undan Jökli Snæfellsjökli – sem svo margt annat sem hann hefir þaðan fengit fyrr ok síðar. Þetta er sú eina Triggva saga sem ek hefi sét, eða heirt getið um at til væri í handriti. En bæði hefi ek sét ok heirt getið um rímur af Triggva týu at tölu at mick

76 Nr. 1820–39 hjá Páli Eggerti Ólasyni, Skrá um handritasöfn Landsbókasafnsins, I, 538. Titlar samræmdir skv. handrit.is „Lbs 1510 4to“. 77 Driscoll, „The long and winding road“, 56; sjá einnig hjá Driscoll, The Unwashed Children of Eve, 55–64. 78 Páll Eggert Ólason, Skrá um handritasöfn Landsbókasafnsins, I, 538.

28

minnir, en ecki veit ek eptir hvern þær eru ortar, þær eru þá – at ek held ecki mjök gamlar; sagan er at efni samhljóða rímunum.79

Hér nefnir Magnús að hann hafi fengið söguna frá Gísla Hjaltasyni (1830–1911) bónda í Búðardal80 sem man þó ekki hvar hann fékk hana en telur hana sé komna undan Jökli. Magnús segir jafnframt að hann hafi bæði séð og heyrt um Tryggva rímur sem hann heldur að séu ekki ýkja gamlar, sjá nánar um rímur í kafla 2.7.1. Þegar sagan er borin saman við NKS 1802 4to kemur í ljós að hún hefur tekið nokkrum breytingum en þó ekki svo að hún falli að B-gerð sögunnar. Frásögnin er ítarlegri og meiri skýringar eru gefnar lesendum/áheyrendum, svo sem þegar móðir Tryggva gefur honum úlpuna, þá fá lesendur strax að vita hverjir eiginleikar hennar eru, svipað og gerist í B-gerð.81

2.9 Böðvar Kvaran Í handritaskrá sem Einar G. Pétursson tók saman yfir þau handrit sem eru í einkasafni Böðvars Kvarans (1919–2002), kemur fram að undir kaflanum „Handrit í 4to“ er handrit merkt: Fornmannasögur Norðurlanda, 3. b. 1912, og er með rithönd Magnúsar Jónssonar í Tjaldanesi. Eftirfarandi sögur eru þar skráðar:

1. „Sagan af Natan Persíska.“ 2. „Saga Þorkels aðalfara.“ 3. „Sigurðar saga og Snjáfríðar.“ 4. „Sigurðar saga þögla.“ 5. „Sagan af Nítiðu drottningu frægu.“ 6. „Villifers saga hins frækna.“ 7. „Sagan af Tryggva karlssyni.“82

Þar sem Söguna af kóngabörnum er einnig að finna í Lbs 1510 4to, sem er skrifað af Magnúsi Jónssyni í Tjaldanesi, má gera ráð fyrir því að hér sé um svipaðan texta að ræða. Þar sem handritið er í einkaeign, hefur ekki gefist kostur á að skoða það við gerð þessarar ritgerðar.

79 Magnús Jónsson skrifar stafinn f sem bagga-f, en hann er hér skrifaður sem hefðbundið f; önnur skriftareinkenni eru látin halda sér. Hér er heldur ekki getið um línuskipti, Lbs 1510 4to, iii. 80 handrit.is „Æviágrip: Gísli Hjaltason“. 81 Matthew Driscoll hefur rannsakað Magnús í Tjaldanesi og handrit hans og nefnir sem dæmi að Magnúsi fannst ekkert athugavert við það að breyta og laga texta ef að honum fannst textinn ekki nægilega góður eða skýr, svo framarlega sem það raskaði ekki söguþræðinum, sjá nánar í, „The long and winding road“, 60. 82 Upptalning er skv. handritaskrá sem Einar tók saman um handrit Böðvars Kvaran, 7.

29

Í ritaskrá Einars er þess getið að Böðvar hafi átt rímur af Tryggva karlssyni „kvednar af Jóni Einarssyni árið 1854“. Þar kemur einnig fram að „[þ]essar Rímur á med Riettu Madme Sólrún Sæmundsdóttir á Hnausakoti, Guðmundur Gíslason Hnausakoti“.83 Um rímur var fjallað um í kafla 2.7.1.

Í þessum kafla hefur verið farið yfir þau handrit sem fela í sér Söguna af kóngabörnum. Það kemur í ljós að elstu handritin eru frá síðari hluta 18. aldar og þau yngstu frá upphafi 20. aldar. Efni sögunnar hefur orðið að rímum sem hefur aftur orðið að prósatexta sem fellur undir þá hringrás sem verður þegar söguefnið endurnýjar sig og birtist í mismunandi textum. Á svipaðan hátt og hringrás texta færist frá prósa yfir í rímur og jafnvel aftur í prósa, má velta fyrir sér áhrifum munnlegrar geymdar á söguefnið. Það eru þrjú handrit, NKS 1802 4to, ÍB 138 4to og SÁM 6 sem eru nánast samhljóða og því má efast um að sagan hafi varðveist algjörlega í munnlegri geymd þó svo að hún gæti hafa gert það til hliðar við hina bóklegu hefð. Heiti sögunnar hefur einnig breyst frá elsta handritinu yfir í það yngsta, frá því að vera Sagan af kóngabörnum Sigurði og Signiju; einnig Triggva karlssyni yfir í Sagan af Tryggva karlssyni. Af titlunum að dæma missa konungsbörnin aðalhlutverk sín og Tryggvi verður að aðalsöguhetju. Í sagnahandritunum er sagan innan um sögur sem eru flokkaðar sem fornaldar- og riddarasögur en þó ekki á milli samskonar sagna. Í töflu 2 má sjá lista yfir aldur handrita, hvernig titill þeirra hefur breyst og hvert sögusviðið er:

Tafla 2. Aldur handrita, titlar og sögusvið.

Handrit Aldur Titill skv. handriti Sögusvið Sagan af kóngabörnum Sigurði NKS 1802 Suður- 1. 1763–1798 og Signiju; einnig Triggva 4to Evrópa karlssyni Sagan af kóngabörnum Sigurði Suður- 2. ÍB 138 4to 1750–1799 og Signýju, einninn Tryggva Evrópa karlssyni Sagan af kóngabörnunum Suður- 3. ÍB 165 4to 1778 Sigurði og Signýju Evrópa Suður- 4. Lbs 661 4to 1843–1848 Sagan af Tryggva karlssyni Evrópa Sagan af Tryggva Karlssyni, Suður- 5. SÁM 6 1800–1900 Sigurði og Signýju Evrópa kóngsbörnum 6. Lbs 2203 8vo 1857–1859 Saga af Sigurði og Tryggva England

83 Handrit í 8vo, nr. 20 Einar G. Pétursson, „Handrit frá Böðvari Kvaran“, 17.

30

Suður- 7. Einkaeign 10 1862–1867 Sagan af Tryggva Kallssyni Evrópa 8. Lbs 4447 4to 1869 Sagan af Sigurði og Tryggva England 9. Lbs 2929 1880–1890 Sagan af Sigurði og Tryggva England Suður- 10. Lbs 1510 4to 1900 Tryggva saga karlssonar Evrópa Böðvar Suður- 11. 1912 Sagan af Tryggva karlssyni Kvaran Evrópa

Í næsta kafla verður leitast við að finna uppruna handritsins NKS 1802 4to, og að varpa ljósi á það hvernig íslensk saga endaði í safni Suhm. Hugsanlegur aldur sögunnar verður skoðaður í ljósi heildarvarðveislu efnisins, sem og fræðastarfsemi í Kaupmannahöfn.

31

3 Tilurð NKS 1802 4to Í þessum kafla verður sagt frá því hvernig Peter Frederik Suhm (1728–1798) fékk áhuga á íslenskri tungu og þá um leið fornum sögum. Í því samhengi verða uppruni og mögulegur aldur Sögunnar af kóngabörnum skoðaður með því að rýna í ýmis handrit. Þó að handrit séu talin vera frá ákveðnum tíma þá getur efni þeirra verið eldra, til dæmis þegar um er að ræða afrit af eldra handriti. Efnið gæti hvort heldur sem er verið sótt í heim munnmælasagna eða bókmennta. Aldur hennar er óljós, þar sem að keðju sagnahefðar hefur verið viðhaldið af kynslóðum sagnaþula, þar sem hver og einn leggur til brot af sínum reynsluheimi og því samfélagi sem hann dvelur í. Í mörgum tilvikum getur því verið hæpið að tala um einn höfund, nema ef til vill þann sem skráir söguna fyrst niður, og sú sögugerð verður til sem kemur til með að varðveitast. Í flestum tilfellum eru sögur frá fyrri öldum eftir óþekkta höfunda84 og er Sagan af kóngabörnum þar engin undantekning, þar sem nafn höfundar kemur hvergi fram.

3.1 Peter Frederik Suhm (1728–1798) Sagnfræðingurinn, rithöfundurinn, þýðandinn og umbótasinninn Peter Frederik Suhm (1728–1798) var af efnuðum ættum og lét sér ýmislegt varða er tengdist bókmenntum, listum, sagnfræði, stjórnmálum og vísindum.85 Hann þýddi auk þess Íslendinga- og fornaldarsögur á latínu, samanber Hervarar sögu og Heiðreks (1785), Víga-Glúms sögu (1785), Eyrbyggju sögu (1787) og Njáls sögu (1809). Þess má geta að Carl Christian Rafn (1795–1864) taldi Suhm vera einn af merkustu sagnariturum síns tíma.86 Suhm fæddist 18. október 1728 í Kaupmannahöfn. Hann var nemandi við Kaup- mannahafnarháskóla, en fór sínar eigin leiðir í námi. Hann var settur embættismaður en hélt áfram að læra og hafði áhuga á að skrifa sögu Danmerkur. Hann fór til Þrándheims ásamt Gerhard Schøning (1722–1780), er Schøning varð skólastjóri Dómkirkjuskólans (n. Trondheim katedralskole) árið 1751. Hjá honum lærði Suhm íslensku með því að lesa rit eftir Snorra Sturluson (1179–1241) og þar vaknaði áhugi hans á íslensku máli og íslenskum fornritum.87 Hann flutti aftur til Kaupmannahafnar árið 176588 og fór þá að leita leiða til þess að stækka bókasafn sitt og þá helst með íslenskum fornsögum. Það

84 Þetta kemur m.a. fram í umfjöllun Ólafs Halldórssonar um miðaldahandrit, en hið sama má segja um handrit síðari tíma, sjá nánar í, „Bókagerð - Skrifaðar bækur“, 82–84. 85 Suhm skrifaði og gaf út ýmsar bækur, bæði fagurfræðibókmenntir og sagnfræði, bls. 145–199. Hann skrifaði t.d. um sögu Danmerkur bls. 298–301, hann vildi að verslun við Ísland væri frjáls bls. 102 og var meðlimur í Det kongelige danske Videnskabernes Selskap, bls. 411, sjá Bruun, Peter Frederik Suhm. 86 Rafn, „Formáli“, I:vi. 87 Bruun, Peter Frederik Suhm, 40–41, 53, 229. 88 Bruun, Peter Frederik Suhm, 80, 90–91.

32

var lítið um slíkar útgáfur á þessum tíma og ein leið til að eignast þær var að fá handrit lánuð og láta skrifa þau upp. Árið 1771 varð hann meðlimur Árnasafns89 og fékk þá aðgang að safni Árna Magnússonar (1663–1730) og þar af leiðandi tækifæri til að láta skrifa upp íslensk handrit. Suhm fékk íslenska stúdenta í Kaupmannahöfn í lið með sér og skrifuðu þeir handritin upp til dæmis í skiptum fyrir mat.90 Sumar af þeim uppskriftum sem eftir liggja hjá Suhm eru einu eintök tiltekinna texta þar sem frumritin hafa eyðilagst eða týnst.91 Hér má nefna handritið NKS 1144 fol. sem Þorlákur Magnússon Ísfjörð (Th.M. Ísfjörð) (1748–1781) skrifaði upp eftir beiðni Suhms og er afrit af AM 576 a–c 4to, sjá nánar í kafla 3.4. Það eru handrit í safni Suhms með hendi Jóns Ólafssonar frá Grunnavík (1705– 1779).92 Það virðist sem að þeir tveir hafi aldrei hist, heldur hafi samskipti þeirra farið fram í gegnum milligöngumenn og þá aðallega Guðmund Helgason Ísfold (1732–1782) sem er einn þeirra sem skrifaði fyrir Suhm til að hafa ofan í sig.93 Jafnframt má nefna Grím Jónsson Thorkelin (1749–1829) er var vinur hans og aðstoðarmaður, og aðstoðaði við bókasafn hans þegar það var opið almenningi.94 Grímur skrifaði einnig upp handrit fyrir hann, samanber Sturlungasögu á latínu, Ny kgl. sml. 1235, fol.95 Suhm gaf út og styrkti ýmsar útgáfur af Íslendingasögum og fornaldarsögum Norðurlanda sem voru þýddar á latínu af honum sjálfum, íslenskum stúdentum og öðrum fræðimönnum.96 Suhm hafði vonast eftir því að safn hans yrði hluti af Hinu nýja konunglega bókasafni (Ny kongelig Samling (NKS)), sem var opnað almenningi í nóvember árið 1793. Bókasafn hans var afar stórt, en það taldi yfir 100.000 eintök árið 179897 og svo

89 Árni ánafnaði Kaupmannahafnarháskóla safn sitt ásamt því að stofna sjóð til að styrkja námsmenn. Eftir lát hans var safnið meira og minna í vanhirðu. Árið 1772 var Árnanefnd (Den Arnamagnæanske Kommission) sett á stofn til þess að sjá um Árnasafn og gefa út rit þess. Óskar Halldórsson, „Bókmenntir á lærdómsöld 1550–1770“, 300; Jón Helgason, „Árnasafn“, 12–13; Den Arnamagnæanske Samling, „Om kommissionen“. 90 Bruun, Peter Frederik Suhm, 229; Petersen, Det Kongelige Biblioteks Haandskriftsamling, 22; Jón Helgason, Handritaspjall, 102. 91 Jón Helgason, Handritaspjall, 101–2. 92 Þess er getið að Suhm hafi verið eigandi ákveðinna handrita eða að þau hafi komið úr safni hans, sbr. „eignaðist Suhm handritið“ bls. 127, „hefur Suhm átt hana“ bls. 209 og „í safni Suhm“ bls. 321. Í skrá Kålunds yfir íslensk handrit í Konunglega danska bókasafninu kemur fram að fjórar uppskriftir eru með hendi Jóns. Jón Helgason, Jón Ólafsson frá Grunnavík, 92 og 371. 93 Jón Helgason, Jón Ólafsson frá Grunnavík, 320; Páll Eggert Ólason, Íslenzkar æviskrár, II:153. 94 Petersen, Det Kongelige Biblioteks Haandskriftsamling, 23; Nyerup, Udsigt over Peter Friderich Suhms: Levnet og Skrifter, 99, 113. 95 Nr. 385 Kålund, Katalog over de oldnorsk-islandske håndskrifter, 142. 96 Bruun, Peter Frederik Suhm, 230–33. 97 Rasmus Nyerup (1759–1829) taldi að bókasafn Suhms hafi verið 100 þúsund bindi, Bruun, Peter Frederik Suhm, 379. Nyerup var bókavörður og skrifaði um ævi Suhms, sjá einnig Udsigt over Peter Friderich Suhms Levnet og Skrifter, tilligemed Valg af hans lærde Brevvexling (1798).

33

virðist sem að hann hafi ekki látið skrá allt það efni sem þar var að finna. Suhm seldi síðan Hinu nýja konunglega bókasafni handritasafn sitt með þeim skilyrðum að hann fengi leyfi til þess að nota það sér til yndisauka og til fræðilegra rannsókna.98 Safnið var síðan skráð og voru 953 númer skráð í folio, 1537 í 4to og 122 í 8vo, eða samtals 2612 safnmörk.99 Safn Suhms einkenndist mjög af afritum eldri handrita og því var það ekki talið eins verðmætt og þegar um frumhandrit var að ræða. En eins og gerist oft, þá átta fræðimenn sig á því að inni á milli er efni sem vert er að skoða, samanber NKS 1802 4to, sem inniheldur Söguna af kóngabörnum og er viðfangsefni þessarar ritgerðar. Suhm lést í Kaupmannahöfn 7. september árið 1798.

3.2 Hver skrifaði NKS 1802 4to? Það eru engar upplýsingar um skrifara NKS 1802 4to, hvorki í handritinu sjálfu né í skrá Kristians Kålund, Katalog over de oldnorsk-islandske håndskrifter.100 Við upphaf þeirrar rannsóknar sem hér er gerð, kom upp sú hugmynd að mögulega gæti Jón Ólafsson frá Grunnavík verið skrifari NKS 1802 4to. Ein af ástæðunum á bak við þá hugmynd er handritið Kall 613 4to sem er í Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn. Það er skrifað af Jóni veturinn 1750–1751 er hann dvaldist á Íslandi. Þar skrifar hann stafina i j stundum saman þannig að þeir líta út annað hvort sem y eða límingarstafurinn i+j sem er einnig í NKS 1802 4to.101 Hin ástæðan er sú að nokkur handrit í safni Suhms eru skrifuð með hendi Jóns. Tvö handrit af þeim er Jón skrifaði og voru skoðuð, það er AM 20 e–g & i fol.102 sem er að mestu skrifað af Jóni eftir 1750 og AM 267 8vo,103 voru borin saman við NKS 1802 4to. Það er margt líkt í skriftinni, en niðurstaðan er sú að líkurnar að Jón hafi skrifað NKS 1802 4to eru afar litlar. Sjá nánar í viðauka 4. Þó að Jón sé ekki skrifari NKS 1802 4to má ætla að annar Íslendingur sé skrifari þess þar sem margir skrifuðu fyrir Suhm. Hér má nefna Þorlák Magnússon Ísfjörð sem skrifaði NKS 1144 fol. (sjá kafla 3.4.), Guðmund Helgason Ísfold og Grím Jónsson Thorkelin, auk Jóns Johnsoniusar Jónssonar (1749–1826) er síðar varð sýslumaður og

98 Petersen, Det Kongelige Biblioteks Haandskriftsamling, 19–20; Jón Helgason, Handritaspjall, 101. 99 Petersen, 14, 19–22; Kålund, Katalog over de oldnorsk-islandske håndskrifter, l–li. 100 Nr. 701. Kålund, Katalog over de oldnorsk-islandske håndskrifter, 231. 101 Aðalheiður Guðmundsdóttir, „Inngangur“, liv og lix. 102 Nr. 35 í Katalog over den Arnamagnæanske håndskriftsamling, I:15–17. 103 Nr. 2482 í Katalog over den Arnamagnæanske håndskriftsamling, II:469–70. Árni Magnússon skrifar fyrri hluta handritsins, en Jón frá blaðsíðu 205.

34

var annar styrktarþegi Árnasjóðs.104 Hér verður þó látið staðað numið við leit að skrifara NKS 1802 4to, enda er það ef til vill ógerlegt að finna hann.

3.3 Aldur sögunnar eins og hún er skráð í NKS 1802 4to Eins og áður hefur komið fram, eru litlar upplýsingar um NKS 1802 4to og um leið engar nánari upplýsingar um söguna sjálfa, höfund hennar, hvar eða hvenær handritið var skrifað eða af hverjum. Handritið er líklega skrifað á síðasta fjórðungi 18. aldar105 eftir að áhugi P.F. Suhms á íslenskum handritum og fornum sögum hafði vaknað. Þar sem NKS 1802 4to er skrifað á íslensku og kemur úr bókasafni Suhms má álykta sem svo að Sagan af kóngabörnum sé úr einu þeirra handrita sem hann fékk að láni úr safni Árna. Það sem gæfi þeirri hugmynd byr, væri ef eldra eintak af sögunni hefði verið til, að minnsta kosti á þeim tíma. Elsta þekkta handritið af sögunni er ÍB 138 4to sem er talið vera frá því um miðja til síðari hluta 18. aldar (1750–1799). Það er ólíklegt að Suhm hafi fengið það að láni þar sem engar heimildir gefa til kynna að handritið hafi verið annars staðar en á Íslandi.106 Þá er einnig möguleiki að sagan sé til í handriti sem hefur hvorki verið skráð né rannsakað, eða að forrit NKS 1802 4to sé einfaldlega glatað.107 Í engum hinna varðveittu handrita er að finna nánari upplýsingar um söguna eða höfund hennar. Þar kemur heldur ekki fram hvort að skrifað sé upp eftir öðru handriti.

3.4 NKS 1144 fol. Við nánari leit að upplýsingum um uppruna sögunnar varð á vegi mínum handritið NKS 1144 fol. sem er varðveitt í Konunglega danska bókasafninu og ber heitið „A. Magnæi Excerpta ex Sagis islandicis. Ex cod. chart. bibl. Magnæi, No. 576, A. B.“ samkvæmt leitarsíðu Konunglega bókasafnsins.108 NKS 1144 fol. er pappírshandrit, skrifað á seinni hluta 18. aldar og er skrifari þess Th. M. Ísfjörð.109 Hér er átt við Þorlák Magnússon Ísfjörð er tók stúdentspróf árið 1770 frá Skálholti og fór til Kaupmannahafnar ári síðar. Á meðal þess að stunda nám við Kaupmannahafnarháskóla, þá skrifaði hann og vann fyrir Suhm. Eftir lagapróf árið

104 Petersen, Det Kongelige Biblioteks Haandskriftsamling, 10; Páll Eggert Ólason, Íslenzkar æviskrár, III:165. 105 Sjá nánar í kafla 2.2.1. 106 Sjá nánar í kafla 2.3. 107 Jón Helgason nefnir að það séu til dæmi um uppskriftir sem hafi komið að gagni, þar sem frumritin hafi tapast, sjá nánar í Handritaspjalli, 102. 108 REX. Leitarsíða Det Kongelige Bibliotek. 109 Nr. 297 í Kålund, Katalog over de oldnorsk-islandske håndskrifter, 120. Handritið NKS 1144 fol. var áður í handritasafni Suhms, sml. 571 fol.

35

1776 snéri hann heim til Íslands, þar sem hann var skipaður lögsagnari í Snæfellssýslu og varð síðar sýslumaður í Suður-Múlasýslu.110 Handritið er skrifað á árunum 1771– 1776 þegar Þorlákur var í Kaupmannahöfn, og í því eru útdrættir úr ýmsum sögum, samanber titilsíðu þess: „Excerpta | úr | Saugum.“111 NKS 1144 fol. er uppskrift af AM 576 a–c 4to og undir titli þess stendur: „Skrifud epter Exemplari | bus Chartacæis Bibliothecæ A. | Magnæi No. 576. Litt: A, | B, C.“112 Handritið er skrifað að beiðni Suhms, eins og sjá má á mynd 2, sem er af aukaseðli sem hefur verið settur fremst í handritið og er skrifaður af honum sjálfum.

Mynd 2. Aukaseðill fremst í NKS 1144 fol. Ljósm.: Margrét J. Gísladóttir, júní 2018, Kaupmannahöfn.

NKS 1144 fol. inniheldur yfir 140 útdrætti úr ýmsum sögum úr mismunandi bókmenntaflokkum, svo sem Íslendinga-, fornaldar-, riddarasögum og rímum.113 Þegar handritið er skoðað nánar kemur í ljós að í miðri Sigurgarðs sögu (bls. 254 (bl. 126v og 128r)) er tvöföld blaðsíða sem opnast út (bls. 255 (bl. 127r)), en þar er skráð niður nokkurs konar ættartala ásamt tengingum á milli ýmissa sögupersónunafna. Það kemur ekki fram úr hvaða sögu þessi ættartala er, en með annars konar skrift, ofarlega til vinstri, hefur verið skrifað: „höfer til p. 263.“ Nokkrum blaðsíðum aftar, eða á bls. 263– 267 samkvæmt handriti (eða á bl. 132r–134r), er útdráttur úr Sögunni af kóngabörnum þar sem sagan er titluð sem „Sagan af | Sigurde og Signiju | og | Tryggva Karlsſyne.“114 Þar sem NKS 1114 fol. er afrit af öðru handriti vaknaði upp spurning um áreiðanleika afskriftarinnar og því var AM 576 4to skoðað. Það er varðveitt á

110 Páll Eggert Ólason, Íslenzkar æviskrár, 1952, V:160. 111 NKS 1144 fol., titilsíða. 112 NKS 1144 fol., titilsíða. 113 Sjá viðauka 5. 114 NKS 1144 fol., 263–267 (132r–134r).

36

Árnastofnun í Reykjavík og er í þremur hlutum, a, b og c.115 Hluti a er sagður vera frá 17. öld og skrifaður af Einari Eyjólfssyni (1641–1695) sýslumanni í Gunnarsholti, Rangárvallasýslu. Einar samdi meðal annars skýringar á fornkvæðum116 og fékk Árni Magnússon eintak af Íslendingabók frá honum árið 1686.117 Fremst í a-hluta er aukaseðill sem á stendur: „Þeſſi blód eru mín og hefur Einar Eyjólfsſon giórt þeſſi extracta“ en Jón Ólafsson frá Grunnavík skrifaði efnisyfirlit.118 Hluti b er sagður vera frá um 1700 og „er útdrættir úr sögum og rímum unnir fyrir og af Árna.“119 Í c-hluta eru útdrættir „úr lygisögum og minnisgreinar um erlendar og íslenskar sögur“ og er mikið til með hendi Árna Magnússonar frá um 1690.120 Mörg handrit í safni Árna Magnússonar eru í slæmu ásigkomulagi121 og á það einnig við um AM 576 a–c 4to, sérstaklega hluta b og c. Það er óinnbundið, kverin eru laus, skriftin oft erfið aflestrar og molnað hefur úr því. Þegar það er borið saman við NKS 1144 fol. kemur í ljós að það vantar þó nokkuð margar sögur.122 Hér má einnig nefna að þær sögur sem eru í AM 576 b 4to eru í c-hluta NKS 1144 fol. og sögur sem eru í AM 576 c 4to eru í b-hluta NKS 1144 fol. Í viðauka 5 er efnisyfirlit NKS 1144 fol. borið saman við efnisyfirlit handritsins á heimasíðu Stories of all time og efnisyfirlit AM 576 a–c 4to frá handrit.is. Við nánari skoðun á AM 576 b 4to má finna samskonar opnu á síðu 15v, þar sem ein blaðsíðan er tvöföld og opnast út. Þar er uppdráttur af ættartölu og tengingu sögupersóna eins og er í NKS 1144 fol. Það lítur ekki út fyrir að ættartalan sé síðari tíma viðbót sem stungið hefur verið inn í kverið. Ofarlega á opnunni hefur verið skrifuð athugasemd,123 ásamt spurningarmerki, og þar er spurt hvort ættartalan sé úr Fertrams sögu og Plató sem er nokkrum blaðsíðum aftar. Þegar sú saga er lesin, kemur fram að

115 Höfundur þessarar ritgerðar skoðaði handritin AM 576 a-c 4to sumarið 2018, hjá Árnastofnun í Reykjavík. 116 Páll Eggert Ólason, Íslenzkar æviskrár, 1948, I:347–48; Skv. upplýsingum um Einar Eyjólfssson á handrit.is, er hann sagður fæddur árið 1651. 117 Már Jónsson, Árni Magnússon: Ævisaga, 76. 118 Nr. 1432, Katalog over den Arnamagnæanske håndskriftsamling, I:737; skv. handrit.is er handritið sagt vera frá 1660–1695 og er ljósmyndað á vef handrit.is. 119 Már Jónsson, Árni Magnússon: Ævisaga, 396. Sömu upplýsingar er að finna í Katalog over den Arnamagnæanske håndskriftsamling, nr. 1433, I:738; skv. handrit.is er handritið sagt vera frá 1690– 1710. 120 Már Jónsson, 396–97. Svipaðar upplýsingar er að finna í Katalog over den Arnamagnæanske håndskriftsamling, nr. 1434, I:738; skv. handrit.is er handritið sagt vera frá 1690–1710. 121 Guðvarður Már Gunnlaugsson fjallar nánar um ásigkomulag handrita í safni Árna Magnússonar í greininni: „Árni Magnússon’s initial collection“, 11. 122 Í skránni AM 477 fol. Catalogus Librorum Msstorum Arnæ Magnæi, sem Jón Ólafsson skrifaði, kemur fram að að efnisþættir eru færri, a.m.k. í a-hluta AM 576 4to. handrit.is. 123 Þar stendur skrifað: „Gísli Brynjólfsson hönd.“

37

Artus er konungur Frakklands og Ingibjörg er drottning hans og eiga þau þrjú börn, Fertram, Áslaugu og Plató. Síðar er Vilhjálmur konungur Russia nefndur ásamt syni sínum Maximan. Hér koma fram nöfn sem eru ekki í ættartölunni og auk þess er Ingibjörg sögð drottning Artusar, en af því má ætla að ættartalan sé ekki úr Fertrams sögu og Plató. Ættartalan fellur hins vegar vel við Söguna af kóngabörnum þar sem foreldrar Tryggva eru Eiríkur og Vigdís sem á ætt sína að rekja til Óðins. Bróðir Eiríks er Knútur og bróðir Vigdísar er Hringur. Konungur á Púl á systkinin Sigurð og Signýju sem giftist Hringi konungi Hólmgarðs og Sigurður kvænist Ásu dóttur hans. Í Fertrams sögu og Plató hefst sögusviðið í París, Frakklandi, og þar á eftir er Alexandria nefnd og Russia, en ekkert af þeim löndum koma við sögu í Sögunni af kóngabörnum. Niðurstaðan er sú að ættartalan úr NKS 1144 fol. fellur vel við nöfn og staði sem er að finna í útdrætti sögunnar í sama handriti. Um er að ræða nöfn sömu sögupersóna og tengingin þeirra á millum er samskonar og í Sögunni af kóngabörnum. Þegar ættartalan úr NKS 1144 fol. er borin saman við ættartöluna úr AM 576 b 4to kemur í ljós að þær eru sams konar, eins og nánar má sjá á myndum 3 og 4 hér fyrir neðan. Þar sem ættartalan er sú hin sama má telja líkur á því að útdrátturinn í NKS 1144 fol. hafi einnig verið í AM 576 b, 4to en sé nú glataður.124 Þetta bendir til þess að sagan hafi verið til í uppskrift frá því um eða fyrir aldamótin 1700 þegar AM 576 a–c 4to var skrifað. Þetta dæmi sýnir að elsta varðveitta handrit tiltekinnar sögu segir ekki endilega til um upprunalegan aldur hennar. Þvert á móti er það vitnisburður úr öðru handriti, sem er yngra en elsta varðveitta handritið, sem gefur vísbendingu um aldur hennar.

124 Peter A. Jorgensen telur að Þorlákur Magnússon Ísfjörð hafi ekki verið traustur skrifari, þar sem mörg blöð hafi tapast úr upprunalegum handritum úr hans fórum, (bls. 160–61), hann falsar uppskriftir með því að skrifa t.d. þ í stað ð til þess að láta líta út fyrir að það sé verið að nota eldra handrit (bls. 162) og jafnvel að hann hafi samið sögu og látið sem að hún sé gömul Íslendingasaga, Hafgeirs saga Færeyings (bls. 158), sjá nánar í „‘Hafgeirs saga Flateyings’: An Eighteenth-Century Forgery“.

38

Mynd 3. NKS 1144 fol., 127r. Ljósm.: Margrét J. Gísladóttir, júní 2018, Kaupmannahöfn.

Mynd 4. AM 576 b 4to, 15v. Ljósm.: Sigurður Stefán Jónsson, nóvember 2019, Árnastofnun Reykjavík.

39

3.5 Útdráttur NKS 1144 fol. Þegar útdrátturinn af Sögunni af kóngabörnum úr NKS 1144 fol. er borinn saman við söguna sjálfa, eins og hún er varðveitt í NKS 1802 4to, þá ber þeim saman. Útdrátturinn er með öðrum orðum úr þessari sömu sögugerð. Þar sem NKS 1144 fol. er afrit af eldra handriti, AM 576 a–c 4to, og samskonar teikning af ættartengslum er í báðum handritum, má gera ráð fyrir að útdrátturinn hafi einnig verið í AM 576 a–c 4to, en sé glataður. Þar sem talið er að AM 576 a–c 4to hafi verið skrifað um 1700, má gera ráð fyrir að sagan hafi verið þekkt á þeim tíma. Þetta leiðir hugann að því að margar sögur gengu í munnmælum áður en þær voru skrifaðar niður og því gæti vel hugsast að slíkt hið sama hafi átt við um Söguna af kóngabörnum. Handritið AM 576 b 4to er skrifað af eða fyrir Árna Magnússon. Þar sem útdrátturinn er ekki (lengur) varðveittur þar, er ómögulegt að geta sér þess til hvort hann hafi upphaflega verið skráður eftir eldra handriti eða frásögn eða hvort að Árni hafi skrifað hann sjálfur. Í beinu framhaldi af útdrættinum í NKS 1144 fol. er skrifuð klausa sem er nokkurs konar athugasemd eða gagnrýni um söguna sjálfa, sjá mynd 5.

Mynd 5. NKS 1144 fol., 133v, skrifari Þorlákur Magnússon Ísfjörð. Ljósm.: Margrét J. Gísladóttir, júní 2018, Kaupmannahöfn.

Hafi útdrátturinn verið í AM 576 b 4to, þá má velta því fyrir sér hvort að klausan hafi einnig verið þar. Þar sem útdráttinn vantar, er erfitt að svara því og jafnframt ekki hægt að segja til um hver hafi skrifað klausuna, en klausan er á þessa leið:

Þeſſe saga er úr máta | lígeleg, full med galldra verk- | aner og annad þeſs ſlags, er | og helldur laung en ſtutt. | Styllen í sỏgunni er nijlegur og | almúgalegur ólíkur þeim er | í forn sỏgum ſtendur, enn | líkur skrỏkſỏgum, ſem bỏrn | á Jslande ſegia hvort ỏdru til skemtunar. Sỏgu þeſſa hefur á vorum dỏgum diktad og ſkrifad I:Th:S.125

125 NKS 1144 fol., 133v–134r.

40

Hér kemur fram að sá sem skrifaði þessa umsögn virðist ekki hafa mikið álit á sögunni. Fyrir utan það að vera of löng, þá sé hún lygileg og líkari skröksögum en fornum sögum. Stíllinn beri keim af því að sagan sé nýleg og almúgaleg. Það er jafnframt gefið í skyn að slíkar sögur séu sagðar af börnum á Íslandi. Þessi umsögn vekur upp spurningar, svo sem varðandi þær bókmenntir sem voru í umferð um aldamótin 1700 og hvers konar sögur voru sagðar. Að auki getur höfundur athugasemdarinnar þess að sagan sé skrifuð á „vorum dögum“ sem gera má ráð fyrir að sé á seint á 17. öld og að I.TH.S. hafi „diktað“126 hana og skráð hana niður. Óvíst er hvaða nafn býr að baki skammstöfuninni, en nánar verður vikið að því í næsta kafla. Þar verður enn fremur litið þess bókmenntaarfs sem liggur að baki afþreyingarbókmenntum 17. og 18. aldar.

126 Skv. Íslenskri orðsifjabók merkir orðið: „semja, yrkja, skrökva upp, mæla fyrir.“; Skv. Íslenskri orðabók merkir orðið „semja, skálda, ljúga.“

41

4 Sagnaarfur Tjáning er ein af frumþörfum mannsins og af henni spretta sögur. Þegar viðburður á sér stað, þá segja aðrir frá og þeir sem voru ekki á staðnum fá að heyra. Því má segja að fréttaflutningur geti orðið að sögu og þegar smátt og smátt hleðst á frásögnina fer hún að taka á sig formgerð sagnaefnis. Sumar sögur hafa að geyma sannsögulegan kjarna, á meðan aðrar eru sprottnar úr ímynduðum heimi sagnamanns eða höfundar. Söguefni gengur manna á millum og getur varðveist í munnlegri geymd svo öldum skiptir, þar til einhver tekur sig til og skráir söguna niður eða byggir á henni nýja sögu. Þessi niðurskrifaða saga getur þó setið þögul í bókfellinu uns það er tekið fram og saga lesin upphátt og þannig farið aftur inn í heim munnlegrar geymdar. Það geta því verið margir höfundar að einni sögu og oft er ekki vitað um nöfn þeirra eða þess sem skráir hana niður. Með því að greina sögur kemur í ljós að þær eru margvíslegar og því hefur síðari tíma fræðimönnum þótt nauðsynlegt að flokka þær niður í ákveðnar tegundir eða greinar. Flokkun sagna verður í raun ekki til fyrr en á síðari tímum, þó svo að mörg eldri sagnahandrit hafi að geyma svipaðar sögur.127 Skiptar skoðanir eru þó á sumum þessara flokka og oft getur verið flókið að staðsetja ákveðna sögu innan flokkunarkerfisins. Flestir samþykkja þó að þær sögur er falla undir tegundarheitið Íslendingasögur séu yfirleitt frásagnir af átökum frækinna íslenskra kvenna og karla og að biskupasögur segi frá biskupum og reynsluheimi þeirra. Veraldlegt sagnaefni getur verið af ýmsu tagi, og til þess heyrir meðal annars sagnaarfur riddara- og fornaldarsagna.

4.1 13. öld Á 13. öld komu fram bókmenntir er náðu mikilli útbreiðslu í Evrópu, sérstaklega á 14. og 15. öld, og bárust alla leið til Íslands, til dæmis í formi þýddra riddarasagna. Hér má nefna Möttuls sögu, en norræn gerð hennar er talin vera frá 13. öld, og fjallar um líf riddara og hirðkvenna á gamansaman hátt. Hinar ævintýralegu sögur af riddurum og framandi heimi þeirra leiddu til þess að nýjar riddarasögur voru samdar, frumsamdar riddarasögur.128 Sem dæmi um slíka sögu má nefna Nitida sögu, er fjallar um riddara og leit þeirra að kvonfangi, en sagan fellur bæði undir flokk kvonbænasagna (e. bridal-

127 Sjá t.d. kafla 2 hér fyrir framan í umfjöllun um sagnahandrit, sem hvert um sig inniheldur sögur sem tilheyra tegundum sagna; Sjá einnig umræðu Aðalheiðar Guðmundsdóttur í „Inngangi“ að Úlfhams sögu, cxlvi-cliv. 128 Vésteinn Ólason, „Inngangur“, 19.

42

quest romance) og meykóngasagna.129 Slíkar sögur höfðu áhrif á þá grósku er var í íslenskri sagnaritun á þessum tíma. Á sama tíma voru skrifaðar sögur er síðar hafa verið nefndar fornaldarsögur og má segja að sagnasjóður um forna konunga Norðurlanda hafi mótað grundvöll þeirra.130 Yfirleitt er fjöldi þeirra sagna sem tilheyra fornaldarsögum í samræmi við þá skilgreiningu sem Carl Christian Rafn setti fram er hann gaf út Fornaldar sögur Nordrlanda (1829–1830). Þar tók hann saman sögur sem hann taldi eiga það sameiginlegt að hafa átt sér stað á Norðurlöndunum fyrir Íslands byggð eða frá þeim tíma áður en „áreiðanligar sagnir eru frá hafðar.“131 Því má bæta við að rætur fornaldarsagna liggja í munnlegri geymd og fornum kvæðaarfi.132 Torfi H. Tulinius setur meirihluta sagna úr þessum tveimur sagnategundum, fornaldar- og riddarasögur, undir sama hatt og nefnir þær íslenskar rómönsur.133 Aðalheiður Guðmundsdóttir hefur gagnrýnt þessa skilgreiningu hjá Torfa, það er, að flokka saman yngri fornaldarsögur og frumsamdar riddarasögur, þar sem þær eru greinilega af sitthvorri rótinni og hafi þróast í takt við annað sagnaefni, meðal annars Íslendingasögur.134 Matthew Driscoll telur að hugtakanotkun á þeim sögum sem hafa verið sagðar riddarasögur, fornaldarsögur og svo einnig lygisögur, sé flókin og oft ekki auðvelt að greina á milli sagna.135 Jürg Glauser segir að hugtakið riddarasögur sé ekki vísindalegt hugtak, heldur nokkurs konar, eins og hann segir sjálfur „collective term“ eða „yfirgripshugtak“, og að aðal punkturinn sé að riddarasögur standi fyrir sögur sem hafa verið þýddar eða aðlagaðar úr erlendu máli yfir á íslensku.136 Því er fjöldi þeirra sagna sem teljast til þessara flokka á reiki; allt fer eftir því hvernig sögurnar eru flokkaðar og frá hvaða tíma þær eru taldar vera og hver efniviðurinn er.137 Þessar sögur, það er riddara- og fornaldarsögur, hafa verið sagðar vera „millistig goðsagnar og raunsæisskáldsögu“ þar sem söguhetjan er mennsk, en hrærist í heimi þar

129 Sjá nánar hjá Torfa H. Tulinius í „Kynjasögur úr fortíð og framandi löndum“, 212, 229–33; Sjá einnig hjá Kalinke, Bridal-Queast Romances In Medieval Iceland, 66–108. 130 Torfi H. Tulinius,“ „Kynjasögur úr fortíð og framandi löndum“, 179–80; Aðalheiður Guðmundsdóttir, „Inngangur“, clvii. 131 Rafn, „Formáli“, I:v. 132 Aðalheiður Guðmundsdóttir, „Hvenær og af hverju urðu fornaldarsögur til?“ 133 Sjá nánar hjá Torfa H. Tulinius í „Kynjasögur úr fortíð og framandi löndum“, 218–44. 134 Sjá nánar hjá Aðalheiði Guðmundsdóttur, „Inngangur“, cl, og í nmgr. 192, cl–cli. Aðalheiður fer ítarlega í gegnum hugtakanotkun í samhengi fornaldar-, riddara- og lygisagna í „Inngangi“ að Úlfhams sögu, cxlvi-cliv. 135 Sjá nánar hjá Driscoll, „Late Prose Fiction (lygisögur)“, 190–92. 136 Glauser, „Romance (Translated riddarasögur)“, 374. 137 Sjá nánar hjá Stefáni Einarssyni, Íslensk bókmenntasaga 874-1960, 205; Sjá einnig hjá Driscoll, „Late Prose Fiction (lygisögur)“, 192–93.

43

sem önnur náttúrulögmál gilda en í veraldlegum heimi.138 Heimurinn virðist vera raunverulegur, en skyldleikinn við til dæmis ævintýri gerir hann ótrúverðugan. Þessi lýsing passar við Söguna af kóngabörnum, sem er að öllum jafnaði jarðbundin, en samt getur Tryggvi sett bæði Sigurð og Signýju „öðru megin í barm sér“ og þannig undir úlpu sína (bls. 12), og því virðist sagan vera lyginni líkust. Í Íslenskri bókmenntasögu rekur Torfi H. Tulinius hvað það er sem þýddar eða frumsamdar fornsögur eiga sameiginlegt, en það er:

[...] að sögusvið þeirra og sögutími á fátt skylt við veruleika íslenskra höfunda og lesenda […] heldur tengist framandi löndum og grárri forneskju. Hetjurnar eru oftar en ekki stærri, sterkari og vígfimari en getur þótt trúlegt, njóta stuðnings […] fjölkunnugra meyja og annarra góðra vætta en þurfa jafnframt að kljást við […] tröll, […] og forynjur.139

Hann telur jafnframt að heimur þeirra byggi „á fornum ævintýraminnum og minningum frá víkingaöld“ og sé settur saman „úr óljósum hugmyndum Íslendinga á 14. og 15. öld um fjarlæg lönd í suðri og austri og því sem þeir lærðu af lestri þýddra riddarasagna“. Við þetta má bæta „yngri ævintýraminnum“ sem gætu „hafa borist til landsins með ýmsum hætti til dæmis með kirkjunnar mönnum“140 og haft áhrif á þessar sögur. Þótt hér sé fjallað um sögur frá miðöldum á þessi hugleiðing einnig við um Söguna af kóngabörnum. Sögusvið fornaldarsagna eru norðlægar slóðir og að efni til fjalla þær um norrænar hetjur sem eiga oft í útistöðum við yfirnáttúrulegar verur og fjölkunnugt fólk,141 á meðan riddarasögur gerast í Suður-Evrópu þar sem riddarar fara fremstir í flokki.142 Í Sögunni af kóngabörnum eru framandi lönd, þar sem sagan hefst á suðlægum slóðum, í konungsríki föður Sigurðar og Signýjar, Púl,143 sem er í suðvesturhluta Ítalíu. Þeir fóstbræður Sigurður og Tryggvi ferðast til Ungaríu (Ungverjalands) og Grikklands, og má því segja að sögusviðið sé í suðurhluta Evrópu, en samkvæmt því ætti sagan að falla í flokk með riddarasögum. Jafnframt ferðast þeir fóstbræður til Hólmgarðsríkis og Bjarmalands, sem myndu teljast til norðlægra slóða, samanber sögusvið fornaldarsagna. Ímynd riddara felur oftar en ekki í sér konungborinn mann í brynju sem situr vel á hesti sínum og bjargar meyjum frá drekum og óvinum og verður því hetja sögunnar, en

138 Torfi H. Tulinius,“ „Kynjasögur úr fortíð og framandi löndum“, 220. 139 Torfi H. Tulinius, „Kynjasögur úr fortíð og framandi löndum“, 167. 140 Torfi H. Tulinius, „Kynjasögur úr fortíð og framandi löndum“, 240. 141 Aðalheiður Guðmundsdóttir, „The Narrative Role of Magic in the Fornaldarsögur“, 41. 142 Torfi H. Tulinius, „Kynjasögur úr fortíð og framandi löndum“, 167. 143 Skv. Íslenskri orðsifjabók, er „Púll k. † staðarnafn, einnig Púl h., ummyndun á héraðsheitinu Apulia á Ítalíu, lat. Āpūlia, líkl. leitt af þjóðflokksheitinu Āpūlī sem e.t.v. er af illyrískum toga og leitt af *ā̄̆ pa- ‘vatn’.

44

ímynd Tryggva virðist ekki falla undir þann flokk. Tryggvi er latur og liggur alla daga í eldaskemmu eins og kolbítur, en þegar hann stendur loks upp þá er hann bæði stór og sterkur og oftar en ekki er honum líkt við tröll eða risa (bls. 3, 4, og 17) sem á iðulega betur heima í fornaldarsögunum. Hann er þó engu að síður aðalsöguhetja sögunnar, bjargar öðrum úr vandræðum og berst gegn Galdrakóngi, berserkjum og öðru illþýði. Fjölkunnugar konur eru ýmist vondar eða góðar, annars vegar móðir Galdrakóngs og stjúpan Æsa, sem eru hvoru tveggja illvirkjar og svo hins vegar móðir Tryggva, er virðist búa yfir jákvæðum göldrum, þar sem hún gefur honum úlpu sem veitir vernd og exi sem bjargar honum á ögurstundu. Tryggvi og Sigurður ferðast ekki um á hestum eins og riddurum sæmir, heldur ganga eða sigla. Sigurður biður föður sinn um skip „og menn, kveðst vilja halda til annara landa að leita sér fjár og fremdar“ (bls. 7). Að þessu leyti minnir hann á unga menn í fornaldarsögum sem og í Íslendingasögum, sem „fara í víking“ til þess að öðlast þroska og sýna þannig fram á að þeir séu þess verðugir að taka við hlutverki föður síns þegar þeirra tími kemur. En þar sem íslensk bókmenntahefð byggir á munnlegum frásögnum af fornum köppum og úr fjarlægðri fortíð144 má segja að hér sé um að ræða norræna hefð sem er nálæg og suðræna hefð (sem dæmi riddarasögur) sem er fjarlæg íslenskum veruleika. Sagan hefur því einkenni fornaldar- og riddarasagna með ævintýrablæ. Þegar litið er á hvaða efnisorð/lykilorð eru notuð til að einkenna söguna í þeim handritum sem eru skráð á handrit.is þá er hún oftast flokkuð sem riddarasaga, en athuga skal að handritin NKS 1802 4to og Böðvar Kvaran eru ekki skráð á handrit.is, sjá töflu 3:

Tafla 3. Flokkun sagna samkvæmt handrit.is Handrit Fornaldarsaga Riddarasaga Íslendingasaga Óskilgreind ÍB 138 4to X X X ÍB 165 4to X X Lbs 661 4to X Sám 6 X Einkaeign 10 X Lbs 1510 4to X

144 Torfi H. Tulinius, „Kynjasögur úr fortíð og framandi löndum“, 168.

45

Rudolf Simek og Hermann Pálsson telja Söguna af kóngabörnum til ungra frumsaminna riddarasaga, með einkenni úr ævintýrum (þ. märchenhaften Elementen).145 Augljóst er að sagan er frumsamin, því að engar eldri samskonar sögur hafa fundist. Á hinn bóginn má segja að Simek og Hermann Pálsson noti hugtakið „ungar“ riddarasögur mjög vítt, því að vaninn er að líta á slíkar sögur sem miðaldabókmenntir, það er frá 14. og 15. öld.146 Sagan af kóngabörnum er hins vegar frá því seint á 17. öld eða um 1700 og því er mikilvægt að skoða hana í ljósi þeirra bókmenntastrauma sem einkenna tímabilið.

4.2 Íslensk sagnahefð um 1700 Tímabilið frá upphafi siðbreytingar, frá því um 1550 og til upphafs upplýsingaraldar í kringum 1770, hefur verið nefnt lærdómsöld í íslenskri bókmenntasögu. Trúarrit, bæði í bundnu og óbundnu máli, voru eiginlega einu ritin sem prentuð voru á Íslandi á þessum tíma. Ástæðan var sú að eina prentsmiðjan var staðsett á biskupssetrinu á Hólum, þar sem Guðbrandur biskup Þorláksson (um 1541–1627) réði ríkjum. Þó að prentverkið væri komið til sögunnar, var áfram mikil gróska í ritun handrita og þá sérstaklega eftir tilkomu pappírsins frá því um miðja 16. öld. Pappírinn var auðveldari í meðförum og ódýrari en bókfellið sem leiddi til þess að pappírinn nánast útrýmdi bókfellinu í kringum 1600.147 Veraldlegar bókmenntir voru afritaðar af skinnhandritum og yfir á pappír og jafnframt var nýtt efni skrifað niður. Í þeim tilvikum þar sem miðaldatextar voru skrifaðir upp á pappírshandrit gat verið þó nokkuð um villur, annað hvort að nýjar villur urðu til, eða að villur voru til staðar í skinnhandritunum. Önnur ástæða gæti verið sú að skrifarar lásu rangt úr forriti, orðum eða línum var sleppt eða þau endurtekin, eða þá að skrifari lagfærði og breytti texta eftir sínu höfði. Jón Helgason, sem telur pappírsuppskriftir oft á tíðum ónákvæmar og afbakaðar, segir að vísindamenn meti þau lítils, nema þeir séu „neyddir til“ en að almúginn hafi verið sáttur við léttari bækur með skrift samtímans.148 Hér má nefna sem dæmi fornaldar- eða riddarasögur, kvæði, deilurit og galdrarit, en meðfram því lögðu menn stund á sagnaritun og fornfræði. Fornmenntastefnan hafði jafnframt áhrif á ritað efni því ýmis fræðirit voru skrifuð á íslensku eða latínu og áhugi jókst á fornritum sem talin voru hafa fræðilegt gildi.149

145 Hjá Simek og Hermanni Pálssyni er sagan nefnd „Sigurðar saga ok Signýjar“ og einnig „Sigurðar saga ok Tryggva Karlssonar“ sjá nánar í Lexikon der altnordischen Literatur, 337. 146 Torfi H. Tulinius, „Kynjasögur úr fortíð og framandi löndum“, 240. 147 Björn K. Þórólfsson, „Nokkur orð um íslenzkt skrifletur“, 138; Óskar Halldórsson, „Bókmenntir á lærdómsöld 1550–1770“, 215–16. 148 Jón Helgason, „Árnasafn“, 12. 149 Sjá nánar hjá Óskari Halldórssyni í „Bókmenntir á lærdómsöld 1550–1770“, 215–316.

46

4.3 Lygisögur Eins og áður hefur komið fram, getur verið erfitt að flokka tilteknar sögur, sérstaklega þegar þær hafa einkenni mismunandi bókmenntategunda. Þær sögur sem hafa verið felldar undir hugtakið „lygisaga“ hafa ekki þótt merkilegar sem bókmenntir, hvort sem um er að ræða innlenda eða erlenda fræðimenn en þeir segja að slíkar sögur beri merki um hnignun frá gullaldarárum íslenskrar sagnaritunnar.150 Hugtakið má þó rekja til Sturlunga sögu þar sem skrifað er að Sverrir konungur hafi kallað þær sögur sem Hrólfur bóndi af Skálmarsnesi setti saman um Hrómund Gripsson, „lygisögur skemmtilegar.“151 Samkvæmt Þorgils sögu og Hafliða átti Hrólfur að hafa sagt söguna í brúðkaupi sem haldið var að Reykjahólum um Ólafsmessu árið 1119.152 Ef litið er nánar þá á hugtakanotkun Sverris konungs að sögur sem voru settar saman og sagðar til skemmtunar teljist til lygisagna, má segja að sú skilgreining falli vel að Sögunni af kóngabörnum. Þegar litið er á útdráttinn og athugasemdina í NKS 1144 fol. gefur skrifari til kynna að honum þyki sagan lygileg og líkari skröksögum og hæfa almúgafólki. Stefán Einarsson (1897–1972) telur að flestar þær sögur sem telja má til lygisagna hafi verið skrifaðar eftir siðaskiptin og hafi komið frá dönskum og þýskum alþýðubókum. Hann telur að þessar sögur hafi átt greiðan aðgang að hugarheimi fólks um framandi staði til þess að létta af sér þungum byrðum hversdagsleikans.153 Í svipaðan streng tekur Einar Ól. Sveinsson (1899–1989) er hann nefnir að breyting varð í íslenskum bókmenntum í samræmi við þær samfélagsbreytingar sem urðu eftir siðbreytinguna. Dönsk og þýsk áhrif urðu á tungumálinu og jafnframt á bókmenntum þar sem efni þeirra og stíll varð flóknari og þyngri.154 Þessi hugsun er þó ekki í samræmi við hugmyndir fornmennta- stefnumanna, sem töldu að það sem ætti helst að skrifa upp væru fornar sögur sem hefðu fræðilegt gildi. Jón Helgason nefnir að allt frá miðri 15. öld hafi ekki bara verið hnignun í gerð skinnhandrita heldur virtust sögurnar ekki vera eins vandaðar. Hann segir: „Smekkurinn hneigist enn meir en fyrr að ýkjusögum sem fenginn er staður langt úti í

150 Matthew Driscoll fjallar um nokkra fræðimenn sem þóttu lygisögur bera merki hnignunar frá gullöld íslenskra bókmennta. Sjá nánar í „Late Prose Fiction (lygisögur)“, 196–97. 151 Örnólfur Thorsson, Sturlunga saga, 22; Miðaldasagan um Hrómund Gripsson er nú glötuð, en til eru yngri rímur og afleidd prósagerð, sjá nánar hjá Driscoll, „Late Prose Fiction (lygisögur)“, 190. 152 Hér má þó gera efasemd um sannleiksgildi orða Sverris, þar sem hann varð ekki kóngur fyrr en árið 1177, og ekki fæddur fyrr en 33 árum eftir að hann á að hafa sagt þetta, og sagan skrifuð á 13. öld. Sjá nánar hjá Þorleifi Haukssyni, „Formáli“, xxiii–xxiv. Þetta hefur leitt til efasemda um ritunartíma og sannleiksgildi Þorgils sögu og Hafliða, en í það verður ekki farið í hér. 153 Stefán Einarsson, Íslensk bókmenntasaga 874-1960, 205, 210. 154 Einar Ól. Sveinsson, „Íslenzkar bókmentir eptir siðskiptin“, 130.

47

ókunnum löndum.“155 Þessi tilmæli hans eiga vel við athugasemdina í NKS 1144 fol. um Söguna af kóngabörnum því sagan er svo sannarlega ýkjusaga úr fjarlægum löndum. Matthew Driscoll nefnir að fornaldar- og riddarasögur hafi einnig verið sagðar vera lygisögur, þannig að ljóst er að hugtakið er loðið. Hann nefnir að með hugtakinu „late prose fiction“ sé átt við sögur er voru samdar á Íslandi frá seinni hluta þrettándu aldar eða snemma á fjórtándu öld og svo fram eftir öldum. Þessar sögur eiga að gerast á framandi stöðum, hafa riddaralegt umhverfi, mörg minni og yfirnáttúrulegt yfirbragð.156 Í umfjöllun sinni um birtingarmynd fornaldarsagnaefnis eftir siðaskipti talar Aðalheiður Guðmundsdóttir um fornaldarsögur síðari tíma, þar sem sagnaefnið hefur lifað áfram sem hluti af frásagnahefð fyrri alda og birtist í mismunandi tjáningarformum.157 Sé litið á lygisögur sem afsprengi miðaldasagna (eins konar fornaldar- og riddarasögur síðari tíma) er ljóst að Sagan af kóngabörnum fellur að þeirri flokkun. Hvort tegundarheitið lygisaga sé heppilegt eða ekki, er annað mál.

4.3.1 Einkenni Meðal helstu einkenna lygisagna er, að þær fá lánuð minni (mótíf) frá öðrum sögum og það sem hefur helst verið gagnrýnt varðandi það er að uppröðun minna er fyrirsjáanleg. Söguþráður er yfirleitt langur og flókinn, ólíkt ævintýrum eða þjóðsögum sem einkennast af einföldu frásagnarmynstri. Atburðir eiga það til að endurtaka sig, en þó með tilbrigðum. Að öðru leyti fylgja þær ákveðinni formgerð sem einkennist af leit hetjunnar eða því markmiði hennar að bjarga öðrum. Í upphafi getur hetjan verið niðurlægð og lítillækkuð og jafnvel hafist við í eldhúsi sem kolbítur. Vonda stjúpan kemur gjarnan við sögu, reynir að tæla stjúpsyni sína og eru vopn hennar álög.158 Samningar verða á milli aðila, hvort sem um er að ræða lof um giftingu eða að ganga í fóstbræðralag. Hið yfirnáttúrulega skipar hér stóran sess, dvergar, skessur og jötnar koma við sögu og kynngiveður er algengt. Bardagasennur fylgja einnig ákveðinni formúlu og einkennast af yfirdrifnum og löngum lýsingum; auðvitað er það hetjan og

155 Jón Helgason, Handritaspjall, 13. 156 Driscoll, „Late Prose Fiction (lygisögur)“, 190. 157 Aðalheiður Guðmundsdóttir, „Reflexes of the fornaldarsögur in Icelandic poetry“, 20–23. 158 Skv. Schlauch þá neita stjúpsynir stjúpunnar alltaf blíðuhótum hennar, sem gerist einnig í Sögunni af kóngabörnum, (bls. 33). Schlauch, Romance in Iceland, 99.

48

lið hennar sem stendur uppi sem sigurvegarar. Allar enda þær svo á sameiningu ríkja með brúðkaupi, og þá oftar en ekki með fleiri en einu.159 Þessi einkenni falla vel að Sögunni af kóngabörnum, fyrir utan, ef til vill, leitina. Hér má nefna að það eru tvö minni sem eru algeng í lygisögum, annars vegar „love for a princess one has never seen, and long quest to find her“160 sem virðist ekki eiga við hér. Við fyrstu sýn, lítur út fyrir að Tryggvi sé ekki að leita að neinu, heldur fylgir hann fóstbróður sínum sem ætlar í víking og að verða að manni. Víkingaferðir eru þó taldar þroskaferðir ungra manna en þar sem Tryggvi fylgir honum, þá verður sagan einnig um þroska hans. Þeir fóstbræður fara ekki í eiginlega brúðarleitarför þó svo að þeir finni Signýju systur Sigurðar, en þá er það ekki hún sem Tryggvi kvænist. Þeir finna þó kvonföng sín og endar sagan með brúðkaupi þeirra. Reyndar kvænist Tryggvi Ingibjörgu eftir að hafa sofið hjá henni einn vetur, en þá var hún undir álögum stjúpu sinnar sem skessa. Bardagalýsingar í lok sögunnar eru ítarlegar og ná frá blaðsíðu 38– 44, samanber lýsingar á merkjum og merkismönnum og hvernig þeir drepa hina þrjá bræður Æsu, Hrotta, Slöngu og Steinhausa. Í samræmi við þetta má segja að þegar komið er undir lok 17. aldar blanda höfundar ýmsu af því sem þeir hafa lesið og heyrt, og búa síðan til sína eigin sögu og leika sér þannig að ólíkum frásagnarheimi og tegundaeinkennum. Einar Ól. nefnir í því sambandi að svo virðist sem höfundar hafi „misst samband við veruleikann og gefið ímyndunaraflinu lausan taum. […] Skáldin [fara] í gandreið í ríki ímyndunaraflsins.“161 Þannig verður sögusviðið framandi og suðrænt og Sigurður og Tryggvi ferðast víða eins og aðrar hetjur riddarasagna, en efni sögunnar sver sig hins vegar mjög í ætt við fornaldarsögur þó að reyndar sé mikill ævintýrabragur á sögunni allri, sem er þó dýpri en í ævintýrum. Á þann hátt er Sagan af kóngabörnum því saga þar sem einkennum riddara-, fornaldarsagna og ævintýra er blandað saman og úr verður lygisaga eða skröksaga, rétt eins og fram kom í útdrættinum í NKS 1144 fol.

4.3.2 Jón Þorláksson (1643–1712) Eins og áður hefur verið nefnt þá jókst áhugi á þýðingum sagna úr erlendum tungumálum með komu fornmenntastefnunnar, svo sem úr þýsku og síðar nær eingöngu

159 Driscoll, „Late Prose Fiction (lygisögur)“, 198–203; Stefán Einarsson, Íslensk bókmenntasaga 874- 1960, 205–10. 160 Þessi minni birtast þó ekki í Sögunni af kóngabörnum, sjá einnig hjá Schlauch, Romance in Iceland, 65–66. 161 Einar Ól. Sveinsson, „Íslenzkar bókmentir eptir siðskiptin“, 133.

49

úr dönsku og er nafna þýðenda sjaldan getið. Hér er að mestu um að ræða alþýðubækur (þ. Volksbücher, d. folkeboger) sem eru eins konar skemmtisögur er fjalla um framandi staði og ævintýramennsku.162 Einn af þeim sem þýddi almúgabækur var Jón Þorláksson (1643–1712) sýslumaður.163 Hann stundaði nám í Hólaskóla og var að því loknu í þjónustu hjá hirðstjóranum Henrik Bjelke (1615–1683) í Danmörku. Hann kom heim til Íslands árið 1667 og bjó að Skriðuklaustri að Víðivöllum ytri frá árinu 1668 en flutti að Berunesi í Suður-Múlasýslu árið 1704 þar sem hann andaðist átta árum síðar. Hann var „í ritum talinn vel þokkaður“, „tíndi saman úr eldri ritum“, ásamt því að „honum er og eignað að hafa samið þáttu og sögur af fornmönnum, er finna má í handritum.“164 Það er vitað um að minnsta kosti tíu þýðingar eftir hann, og þar á meðal er Amlóða saga og þýðing norskra laga Kristjáns fimmta.165 Samkvæmt handrit.is eru 36 handrit tengd Jóni með einhverjum hætti, hvort sem hann er sagður eigandi þeirra, höfundur, þýðandi eða skrifari sagna.166 Jón var einn af þeim sem sendu Árna Magnússyni handrit og sem dæmi má nefna að Árni fékk Ármanns rímur eftir Jón lærða (AM 128 8vo) frá Jóni,167 og handritið AM 156 fol.168 Á seðli fremst í því handriti er skrifað „[…] Allar med hendi Sr Jons Erlends sonar i Villinga hollte. Ur bok sem eg feck frä Jone Thorlakssyne.“169 Í þessu tilviki er getið um uppruna handritsins og feril þess, að það hafi komið frá Jóni sem jafnframt var eigandi þess og að Jón Erlendsson prestur (d. 1672) í Villingaholti í Árnessýslu hafi skrifað það.170 Nafn Jóns passar vel við skammstöfunina I:TH:S, og þá sem: I[ón] TH[orláks] S[on] eða J[ón] TH[orláksson] S[ýslumaður] og auk þess passar tímatalið ef sagan er samin í kringum aldamótin 1700. Það má því vel álykta sem svo að hann sé líklegur höfundur sögunnar, þótt ekki sé hægt að fullyrða neitt um það.

162 Böðvar Guðmundsson, „Nýjir siðir og nýjir lærdómar - Bókmenntir 1550–1750“, 517–18; Óskar Halldórsson, „Bókmenntir á lærdómsöld 1550–1770“, 287; Vésteinn Ólason, „Sögur - Bóksögur“, 220. 163 Vésteinn Ólason, „Sögur - Bóksögur“, 221. 164 Páll Eggert Ólason, Íslenzkar æviskrár, 1948, III:315. 165 Böðvar Guðmundsson, „Nýjir siðir og nýjir lærdómar - Bókmenntir 1550–1750“, 518–19; Páll Eggert Ólason, Íslenzkar æviskrár, 1948, III:315. 166 handrit.is, „Æviágrip: Jón Þorláksson“. 167 Már Jónsson, Árni Magnússon: Ævisaga, 170. 168 Þegar Árni var á Íslandi árið 1707 fékk hann handrit frá um 170 einstaklingum, og er óljóst hvort um gjafir eða kaup var um að ræða. Hann vildi ná saman öllum þeim heimildum sem hann gat um íslenska sögu. Már Jónsson, Árni Magnússon: Ævisaga, 284–85. 169 Seðill úr handritinu með hendi Árna Magnússonar, AM 156 fol. 170 Páll Eggert Ólason, Íslenzkar æviskrár, 1948, III:105–6.

50

Í þessum kafla hefur verið skoðaður sá bókmenntaarfur er blómstraði á mið- og síðmiðöldum og hafði áhrif á þær sögur sem samdar voru síðar. Þótt vel sé hægt að skilgreina sögur eftir ákveðnu bókmenntakerfi getur það þó verið flókið. Áhrif siðaskipta eru mikil, prenttæknin kom til sögunnar, sem og pappír, sem ýtti undir það að fleiri fóru að skrifa. Höfundar notuðu eldri minni frá þeim sögum er þeir þekktu: Íslendinga-, fornaldar-, riddara- og ævintýrasögum og endurröðuðu þeim í nýjar formgerðir nýrra sagna. Þessar nýju sögur sem hafa verið nefndar lygisögur og skröksögur voru ekki byggðar á sönnum atburðum, heldur voru þetta skáldaðar sögur og hafðar til skemmtunar.171 Hér að framan var bent á þann möguleika að höfundur Sögunnar af kóngabörnum sé Jón Þorláksson sýslumaður sem diktaði saman sögu sem ber með sér einkenni riddarasagna, þar sem sögusviðið eru framandi staðir Suður-Evrópu, undir áhrifum fornaldarsagna þar sem tröllin ráða ríkjum og að lokum ævintýra þar sem stjúpmæður leggja á. Sagan gæti sem best fallið undir flokk lygisagna. Í næsta kafla verður farið í einkenni Sögunnar af kóngabörnum, svo sem frásagnargerð, minni og persónur.

171 Sjá nánar hjá Aðalheiði Guðmundsdóttir, „Inngangur“, cclix–cl.

51

5 Um Söguna af kóngabörnum Í þessum kafla verður fjallað nánar um Söguna af kóngabörnum eins og hana er að finna í NKS 1802 4to. Sagan hefst á orðunum „Það var eitt sinn …“ sem gefur til kynna að nú verði sagt frá einhverju er átti sér stað í óræðri fortíð. Þetta upphaf minnir einnig á byrjun ævintýra. Sögur hafa ákveðna formgerð og einkennast í sinni einföldustu mynd af upphafi, miðju og endi. Fyrst eru sögupersónur kynntar, svo gerast atburðir er leiða af sér ákveðna atburðarás og þá oft af völdum einhvers illvirkja. Söguhetjan bjargar málunum, illvirkjanum er refsað, hetjan kvænist og þá ríkir gleði og sátt í sögusamfélaginu. Til þess að fylla upp í formgerðina eru minni notuð, þannig að sögur geta verið lítið annað en samansafn minna sem er raðað saman á mismunandi hátt í þeim tilgangi að senda lesandann í ferðalag um framandi heima. Því verður fyrst litið á frásagnargerð og byggingu sögunnar ásamt því að skoða helstu minni hennar. Þegar sagan sjálf er skoðuð vakna upp ýmis áhugaverð umfjöllunarefni. Hér má nefna sem dæmi að áhugavert gæti verið að skoða þær landfræðilegu upplýsingar er koma fram í sögunni sem sýnir lærða þekkingu er lifað hefur lengi í alþýðlegri hefð.172 Út frá því samhengi mætti skoða hvernig ríki eru sameinuð með giftingu kóngsbarna. Álög og galdrar eru einnig spennandi viðfangsefni, ásamt þeim hlutum sem hafa sérstaka eiginleika svo sem úlpa Tryggva sem ekki bítur á járn, og veldur því að hann mæðist ekki á sundi.173 Hér gefst ekki svigrúm til að fara í öll áhugaverð efnisatriði, heldur verður litið nánar á Tryggva og Ingibjörgu.

5.1 Frásagnargerð og bygging Eins og áður hefur komið fram byggir Sagan af kóngabörnum á hefð fornaldar- og riddarasagna. En með tilliti til ritunartíma, formgerðar og þess mikla ævintýrablæs sem einkennir hana má fella hana undir flokk lygisagna, með þeim fyrirvara þó að rannsókn lygisagna er stutt á veg komin. Sagan er margþætt, bygging er flókin og efnislega er hún undir áhrifum ýmissa annarra sagna. Hún hefur mörg lög, það er, að margir þræðir fléttast saman í einni og sömu sögunni. Sagan er nokkurs konar rammafrásögn sem hefst á kynningu á fjölskylduaðstæðum þeirra Tryggva og Sigurðar og lýkur á því að þeir halda fóstbræðralagi sínu til dauðadags. Í sögunni er fjallað um ferðalag þeirra sem

172 Hér má nefna grein Judith Jesch og umfjöllun hennar um þekkingu miðaldamanna á landfræði og ferðalögum, „Geography and Travel“. 173 Hér má t.d. nefna greinar eftir Aðalheiði Guðmundsdóttur þar sem að hún fjallar um galdraminni og hlutverk þeirra í frásagnarformgerð fornaldarsagna, sjá nánar í „On Supernatural Motifs in the Fornaldarsögur“; og í „The Narrative Role of Magic in the Fornaldarsögur“. Sjá einnig í Schlauch, Romance in Iceland, 121–24.

52

leiðir þá til ýmissa landa, þar sem þeir lenda annað hvort í ævintýrum, heyra frásagnir annarra sögupersóna eða að Tryggvi minnist orða foreldra sinna sem hefur síðan áhrif á atburði þá er verða á vegi þeirra. Þannig má segja að þeir fóstbræður haldi utan um söguna jafnframt því að vera sem rauður þráður í gegnum hana. Hér er listi yfir þá atburði sem þeir lenda í og það sem þeir heyra frá öðrum:

1. Heima í Púl. Kynning á Sigurði, Signýju og Tryggva. a. Faðir Tryggva segir frá ófriði sínum við Galdrakóng. 2. Tryggvi er í konungshöll um veturinn og um vorið fara þeir Sigurður að sigla. Þeir lenda í hafvillu, koma að ókunnugu landi og hitta þar fyrir eina konu. a. Hún segir þeim að þetta sé ríki Galdrakóngs, en hann hafi farið og numið á brott kóngsdóttur eina er Signý heitir og drepið foreldra þeirra Sigurðar. 3. Þeir bjarga Signýju og fara á skóg. a. Tryggvi minnist orða föður síns um hvað hann skyldi gera ef hann væri villtur. 4. Þau finna Gullhól Galdrakóngs, vegna orða föður Tryggva. a. Tryggvi minnist orða móður sinnar um hvernig hægt sé að vekja hann með exinni. 5. Signý notar ráð móður Tryggva og vekur hann. a. Tryggvi minnist orða móður sinnar, um úlpuna: að á hana biti hvorki járn né yrði hann móður á sundi. 6. Eftir bardaga við illþýði það sem Galdrakóngur sendi á þá fóstbræður, kemst Tryggvi að því hvernig móðir Galdrakóngs lífgar það við. Hún kemur í gervi kattar og stingur lífgulli í munn þeirra.174 Tryggvi leggur á hana álög. Við sumarlok leggja þau af stað og koma að stórri móðu. a. Tryggvi minnist orða föður síns, að enginn komist yfir móðuna nema hann og bróðir hans, Knútur. b. Auk þess, að aldrei skyldi hann höggva mann með exi sinni, ef syngur í henni þegar hann lyftir henni til höggsins. 7. Tryggvi hleypur yfir móðuna. Þau koma að bæ einum og þar er Knútur föðurbróðir hans. Eru þeir þar um veturinn. Um vorið biður Tryggvi um skip og lendir síðar í sjávarháska. Tryggvi bjargar Sigurði og Signýju en Sigurður aðstoðar þau við að komast á land og fela sig undir þarabroki. Þau eru komin til Hólmgarðs. Þeir eru teknir og settir í myrkrastofu, en Signý í skemmu Ásu kóngsdóttur. Tryggvi er ósáttur, svo að hann ætlar að höggva höfuðið af kónginum. Það syngur í exinni og minnist hann þá orða föður síns og er þar kominn móðurbróðir Tryggva, Hringur. a. Hringur segir þeim sögu ættar þeirra og hvernig móðir Tryggva hafði verið hertekin og var það karl, faðir Tryggva sem keypti hana frjálsa.

174 Sjá nánar í Schlauch um endurlífgun þeirra dauðu, þar sem nornin kemur í formi kattar, Romance in Iceland, 138–39.

53

8. Það verður að samkomulagi að eftir tvö ár skuli Sigurður kvænast dóttur hans Ásu og Hringur muni giftast Signýju. Þeir fóstbræður fara í víking og heyja margar orrustur. Þeir lenda í hafvillu og hafna í Bjarmalandi, þar sem þeir hitta fyrir jötuninn Skrímni og flagðið Skrukku. Eftir vetursetu, á sumardeginum fyrsta, leysir Tryggvi þau úr álögum og eru þar komin systkinin Herlogi og Ingibjörg. a. Þau segja þeim fóstbræðrum ævisögu sína og hvernig stjúpa þeirra, Æsa, vildi leggja lag sitt við Herloga og þegar hann neitaði henni, þá lagði hún á þau.175 9. Þau fara öll til Miklagarðs. Steinhausi bróðir Æsu hafði tekið við stjórn og bræður hans, Slangi og Hrotti voru landvarnarmenn. Mikil orrusta verður á milli þeirra, þar sem þeir fóstbræður vinna að lokum. Eftir það fara þeir til heimaríkja hvers og eins. Tryggvi fer og nær í sverð föður síns, Minnung, og fer síðan til Ungariu til að hálshöggva Galdrakóng. a. Hér kemur fram hvernig Galdrakóngur nam ríkið og hvernig hann vildi kvænast Áslaugu en gat það ekki því fóstra hennar faldi hana fyrir honum. Eftir lát fóstrunnar, þá sá hann hvar Áslaug var, náði í hana og batt hana niður í stól og setti í ökklavatn. 10. Þau fara öll til Hólmgarðs þar sem fjórfalt brúðkaup er haldið og þeir Sigurður og Tryggvi sverjast í fóstbræðralag. a. Í lokin kemur ættartala Tryggva fram og að foreldrar hans hafi orðið fyrir kynngi Galdrakóngs.

Tímaröð sögunnar er rökrétt, þó svo að litið sé til baka, til að lesendur fái forsögu ákveðinna persóna í gegnum frásögn annarra sögupersóna. Í NKS 1802 4to er sögunni ekki skipt í kafla en auðvelt er að hugsa sér kaflaskipti þegar nýjar persónur eru kynntar til sögunnar. Eins og áður hefur komið fram (sjá kafla 4.3.1) er eitt af einkennum lygisagna endurtekningar atburða eins og algengt er í ævintýrum. Í Sögunni af kóngabörnum má nefna að lítið er um endurtekningar nema þó, að Tryggvi ber Sigurð og Signýju tvisvar í úlpu sinni, fyrst í barmi sér (bls. 12) og svo þegar hann kastar þeim á bak sér (bls. 16). Þótt endurtekningar eigi sér hér stað, hefur sagan í heild sinni ekki formgerð ævintýra, þó að einstökum efnisþáttum beri eðlilega saman við formgerð ævintýra. Hér má nefna að í ævintýrum er talan þrír mikilvæg, hvort sem fjallað er um persónur, hluti eða endurtekningu atburða (e. Epic Law of Three), samkvæmt hinum danska texta- og þjóðfræðingi Axel Olrik (1864–1917).176 Í sögunni kemur talan þrír fyrir, að minnsta

175 Ævisaga er sögð þeim sem leysa þau úr álögum, sjá nánar í Schlauch, 101. 176 Olrik tók eftir ákveðnum stöðugleika og formfestu í þjóðsögum og setti fram sem lögmál munnlegra frásagna (e. Epic Laws). Olrik, Principles for Oral Narrative Research, 52.

54

kosti tvisvar sinnum. Tryggvi fer þrisvar að heiman: þegar hann fer út að horfa á „þykkstirnaðn himinn“ (bls. 3), þegar hann fer aftur út og hleypur „réttsinnis utan skóg“ (bls. 3) og þegar hann fer til konungshallar (bls. 5); bræður Æsu eru þrír: Steinhausi, Slangi og Hrotti (bls. 36). Samkvæmt formgerðarfræðingnum Vladimir Propp (1895– 1970)177 felur fyrsti frásagnarliður ævintýra í sér að söguhetjan yfirgefi heimili sitt.178 Hér má skoða brotthvarf hetjunnar, sem er Tryggvi. Hann fer út og leggst undir skíðgarðinn að áeggjan föður síns, sem segir að hann hafi aldrei séð himininn jafn þykkstirnandi og nú (bls. 3). Það, að skoða stjörnubjartan himin, er ef til vill ekki það sem ýtir undir að ævintýrahetjur fari út úr húsi, en það er að sjálfsögðu ákveðið ferðalag út af fyrir sig; sérstaklega fyrir kolbít. Í ævintýrum er það eitthvað tiltekið atvik sem leiðir til þess að það verður ójafnvægi innan sögunnar og því fer söguhetjan að heiman og tekur á sig ferðalag. Hér er þetta svo lítið snúið, því að þeir fóstbræður eru lagðir af stað í víking þegar Galdrakóngur rænir Signýju og þeir vita ekki um brotthvarf hennar fyrr en konan sem býr „upp sæng“ segir þeim það (bls. 7 og 8–9). En samt er það Galdrakóngur sem er hinn illi áhrifavaldur, þar sem hann sendir tvisvar á þá kynngiveður svo að þeir villast (bls. 7–8 og 16). Eins og áður hefur komið fram hefur sagan á sínum tíma verið sett saman af höfundi – svo flókin sem hún er. Það eru því litlar líkur á að hún hafi gengið í munnmælum, að minnsta kosti sem heild, og augljóst er að hún hefur gengið manna á millum sem texti, samanber hve lík handritin NKS 1802 4to, ÍB 138 4to og SÁM 6 eru í uppskrift. Vissulega felur sagan í sér ýmis minni sem virðast hafa verið tekin beint upp úr öðrum sögum. Höfundarverkið felst þó meðal annars í því að flétta saman þræðina og skilja lesandann ekki eftir með ósvaraðar spurningar. Ekki er þó víst að þetta hafi tekist í öllum tilvikum. Hér má spyrja hvað verði um eikartréð sem Tryggvi tekur upp með rótum (bls. 3) og hvers vegna gerði hann ekkert með það? Í B-gerð sögunnar kastar hann eikinni í hirðsveina Sigurðar og drepur þá, en hér tekur hann eikina þar sem „það sé berlegt að hafa ei neitt i hendi, hvað sem að bera kunni“ (bls. 4). Þegar hann fer síðan í konungshöllina að hitta kóng og Sigurð, þá er hann enn með eikina í hendinni (bls. 6). Sverð föður Tryggva er „annað besta í heiminum“ (bls. 6) en þegar konan segir þeim fóstbræðrum hvernig Galdrakóngur og faðir Tryggva börðust,

177 Propp skoðaði 100 rússnesk undraævintýri sem A. N. Afanás’ev safnaði og gaf út 1855–1864, og byggði kenningar sínar á þeirri rannsókn. Þar tók hann eftir ákveðnu frásagnarmynstri sem birtist aftur og aftur í formi hlutverka (e. functions). Hann lagði fram fjórar kennisetningar og greindi 31 frásagnarlið sem koma þó ekki allir fyrir í hverju ævintýri. Propp, Morphology of the Folktale, 19–65. 178 Propp, 26.

55

þá var sverðið orðið að besta sverðinu (bls. 9). Hér má einnig velta því fyrir sér hvers vegna sverðið sé kynnt framarlega í sögunni, þar sem það er ekki notað fyrr en í lokin þegar Tryggvi heggur höfuðið af Galdrakóngi og um leið fá lesendur nafn sverðsins sem er „sverðið góða Minnung“ (bls. 46). Síðan má einnig spyrja hvað verður um barn Skrukku og Tryggva, þegar hamur Skrukku fellur af og eftir stendur Ingibjörg? Af þessu má væntanlega draga þá ályktun að annað hvort hefur höfundur sögunnar ekki náð að hnýta þessa lausu enda, eða þá að sagan, eins og hún er varðveitt í dag, hefur orðið fyrir einhvers konar skerðingu. Mögulegum svörum við þessum spurningum verður varpað fram síðar, en fyrst verða minni sögunnar skoðuð.

5.2 Minni Sagan af kóngabörnum byggir á fjölda sagna- og ævintýraminna. Mörg þeirra eru hefðbundin en önnur skera sig frá öðrum þekktum tilbrigðum. Hér hefur þeim verið gefin númer samkvæmt minnaskrá Inger M. Boberg:179

P253. Systkinin Sigurður og Signý kóngsbörn (bls. 1).

L131. Í eldaskemmu liggur óefnileg hetja, Tryggvi (bls. 2–3), …

L111. … sem er af lágum uppruna, kominn af karli og kerlingu í Garðshorni (bls. 2–6).

L114.1. Tryggvi er latur (bls. 2–6) …

F455.2.2. … en lítur út eins og tröll og er sterkur (bls. 4) …

F612.2. … og eftir að hafa verið sendur burt að heiman, drepur hann tvo leikmenn (bls. 2–6) …

L156 … þá sem hafa strítt honum (bls. 2–6)

D815.1. Tryggvi fær úlpu (slippu) frá móður sinni (bls. 3).

D1344.9.1. Síðar kemur í ljós að hún veitir honum vernd (bls. 11).

D1050./ Á úlpuna bíta eigi járn (bls. 14) … D1344.9.1.

D1384.4.1. … og í henni verður Tryggvi ekki móður á sundi (bls. 14).

F614.2. Tryggvi rífur tré upp með rótum (bls. 3–4).

179 Boberg, Motif-Index of Early Icelandic Literature. Allmörg þessara minna er einnig að finna í alþjóðlegri minnaskrá Thompsons, Motif-Index of Folk-Liturature, sbr. öll galdraminninn, (D. Magic), sem verða þó ekki tekin fyrir sérstaklega í þessari ritgerð.

56

N513.2. Faðir hans segir honum að hann muni fela sverð sitt í vatni (móðu) þegar hann hafi fengið banasár (bls. 4), og að…

D1654.4.1. … Tryggvi væri sá eini sem gæti fundið það (bls. 4).

D905. Þeir fóstbræður Sigurður og Tryggvi lenda í kynngiveðri (bls. 7–8) …

R138. … en bjargast eftir skipsbrot (bls. 7–8).

D1711.7. Þeir koma í borg þá er Galdrakóngur stýrir (bls. 10) …

K183.1. … og kynna sig sem Rafn og Krák (bls. 8) …

H1232.3. … fyrir konu sem segir þeim hvar Signý er niðurkomin (bls. 8–9).

R11.1. Þar sem Galdrakóngur hafði rænt Signýju (bls. 8).

Þeir fóstbræður bjarga henni og á flóttanum þá …

R242. … ber Tryggvi Sigurð og Signýju í barm sér (bls. 11–12).

H588. Tryggvi fer eftir torræðu ráði föður síns (bls. 12) …

J21. … sem reynist þeim vel (bls. 12), …

F942.1.1. … þar sem Gullhóll Galdrakóngs opnast fyrir þeim (bls. 12).

D1821.3.9. Galdrakóngur lítur í gaupnir sér (bls. 13) …

D1813.4. … og sér hvar þau eru niðurkomin (bls. 13).

D1364.0.2. Tryggvi getur aðeins vaknað ef ákveðin exi fellur á enni hans (bls. 12–13), …

D1364.2. … þar sem hann var stunginn með svefnþorni (bls. 13).

R169.5. Signý vekur hann og þar af leiðandi bjargar honum (bls. 13).

F610.3.4. Sigurður og Tryggvi berjast við illþýði og þar á meðal berserki (bls. 14).

E155.1. Dauðir bardagamenn rísa upp á nóttinni (bls. 14).

K1863. Tryggvi liggur í valnum ásamt hinum dauðu (bls. 14), og sér að …

G263.5 … norn lífgar þá við (bls. 15) …

E64.15. … með lífgulli sem er sett í munn þeirra (bls. 15) af …

G211.1.7./ … norn sem er í líki kattar, en Tryggvi bítur af henni loppuna (bls. 15)180 … G252.

180 Þó að Tryggvi bíti af kettinum loppuna, þá verður hún ekki aftur að konu sem vantar á hönd, sbr. D702.1.1.

57

G263. … og leggur á hana (bls. 15) …

M411.1. … og jafnframt á Galdrakóng (bls. 15).

D1821.3.9. Galdrakóngur lítur í gaupnir sér (bls. 16), …

D1813.4. … og sér hvar þau eru niðurkomin (bls. 16), og sendir á þau …

D905. … kynngiveður (bls. 16).

F717.2. Fyrir þeim verður eitruð tjörn (bls. 16).

F950. Drep í tá Tryggva læknast með lífgullinu (bls. 16).

Þau hafa vetursetu hjá Knúti og fá hjá honum skip er lendir síðan í hafvillu. Tryggvi notar úlpu sína til að hjálpa Sigurði og Signýju, en Signý sker gat á hana, þar sem henni verður of heitt og þá fatast honum sundið …

R138. … en þau bjargast (bls. 17–18).

F527.3. Tveir blámenn finna þau í fjörunni, en eru síðan hálshöggnir (bls. 18–20).

Q433. … þeir fóstbræður eru settir í myrkraklefa (bls. 18–20)…

N738. Það kemur í ljós að Hólmgarðskóngur er móðurbróðir Tryggva (bls. 18) …

P293.2. … sem kemur þeim til hjálpar (bls. 18–20).

Blámennirnir eru hálshöggnir af Tryggva og Sigurði og síðan …

Q421. … eru höfuð þeirra sett á stikur (bls. 20).

T135.8. Kóngur vill kvænast Signýju og Sigurður vill fá Ásu kóngsdóttur, þannig að samið er um tvö brúðkaup eftir tvö ár (bls. 20).

Þeir fóstbræður sigla síðan og lenda í mörgum orrustum. Í lok sumars vilja þeir til baka til Hólmgarðs en lenda í hafvillum og …

H1289.2. … koma að landi sem er Bjarmaland (bls. 22–36). (Það verður hlutverk þeirra að leysa systkinin Herloga og Ingibjörgu úr álögum).

P320.1. Fóstbræðurnir fá boð um vetursetu (bls. 22–23), og hitta fyrir…

F531.4.7.1. …flagð sem er í síðum skorpnum skinnstakki, en stuttum að aftan (bls. 23), 2. …

F531.1.6.3. … með sítt hár (bls. 23). 1.

F531.4.8. Skrímnir jötunn rær á tveimur steinum sem bátur væri (bls. 24), …

F531.6.1.2. … en hann er maður í álögum og er því hjálplegur (bls. 24–29).

58

V70.1. Sumardaginn fyrsta (bls. 27) fer Tryggvi að leita að Skrímni …

F531.4.5.2. … og finnur hann þar sem hann er með járnstöng í hendi (bls. 27).

D721.3. Álögin hverfa þegar hamurinn er eyðilagður (bls. 28–29).

P2731.1. Tryggvi er trúr fóstbróður sínum (bls. 29).

H11.1. Systkinin Herlogi og Ingibjörg kóngsbörn segja ævisögu sína (bls. 29–32).

A671 Móðir þeirra varð veik og sú sótt leiddi hana í helju (bls. 30).

P27.1. Kóngur faðir þeirra sat við haug hennar (bls. 30).

P16.3.1. Herlið réðst inn í konungsríkið, og kóngur varð örmagna (bls. 30).

T32. Kona kemur í tjald hans og ber á hann græðandi smyrsl (bls. 30–31).

J445.2. Gamall kóngur giftist yngri konu (bls. 32) …

P18.1. … en sú kona, Æsa, reynist vera flagð (bls. 30–32) … sem …

K2213.12. … drepur eiginmann sinn til þess að eignast nýjan (bls. 32), og með …

K2298. … svikulum ráðgjafa hans (bls. 32) …

K2213.8. … sem hún á vingott við, taka þau völdin (bls. 32).181

T481. Æsa, stjúpmóðir þeirra, reynir að lokka Herloga til lags við sig (bls. 32) …

… hann neitar, og þá …

M411.1.1. … leggur hún á þau álög (bls. 33), sem …

F455.2.2. … breyta þeim í hin afskaplegustu (bls. 33) …

D525. … tröll (bls. 33–36).

Álögunum verður ekki aflétt fyrr en hugdjarfur maður segir Skrímni að hann hafi sofið hjá systur hans, fyrir …

V70.1. … sumardaginn fyrsta (bls. 33).

P311. Fóstbræðralag á milli Tryggva, Sigurðar og Herloga (bls. 35).

D661. Æsu er refsað (bls. 36).

N513.2. Tryggvi nær í sverð föður síns (bls. 46) og …

181 Hér mætti setja síðustu sex minni undir eitt númer: K959.2.4. Þar sem að kona giftist kóngi, eftir að hafa í þykjustu reynt að græða hann og drepur hann í svefni, en tekur svo yfir kóngsríkið með ráðgjafa hans (bls. 31).

59

… drepur Galdrakóng en …

R75.2. … menn hans gefast upp (bls. 46–47) og …

R74. … ganga til liðs við Tryggva og Sigurð (bls. 46–47).

Galdrakóngur vildi eitt sinn kvænast mey er Áslaug hét.

P272.1. Fóstra hennar, sem bjó yfir göldrum, tók hana og …

D1980. … faldi hana fyrir Galdrakóngi, svo að hún varð ósýnileg (bls. 47).

Þegar fóstra hennar dó, þá sá hann Áslaugu og …

R11.1. … rændi henni (bls. 47).

R111.1.7. Þeir fóstbræður bjarga Áslaugu frá Galdrakóngi, þar sem hún hefur setið í 6 ár með fæturna í vatni, sem er refsing fyrir að vilja ekki giftast honum (bls. 47).

T136.1. Brúðkaupsveisla Hrings og Signýjar, Tryggva og Ingibjargar, Sigurðar og Ásu og Herloga og Áslaugar (bls. 48–50) var í tvo mánuði. Þar var …

T136.3. … mikil skemmtan (bls. 49), og …

T136.4.2. … gestir eru leystir út með gjöfum (bls. 50).

H10. Í lokin kemur í ljós …

D24.2. … að foreldrar Tryggva voru kóngur og drottning í hlutverki bónda og eiginkonu (bls. 49–50).182

Hér koma saman mörg minni og þegar þeim er raðað upp kemur meginsöguþráður Sögunnar af kóngabörnum í ljós. Sum minnin koma fyrir oftar en einu sinni. Önnur minni, til dæmis L131, þar sem söguhetjan dvelur í eldstæði eða öskustó (kolbítur), má finna í öðrum sögum svo sem í fornaldarsögunni Áns sögu bogsveigis;183 og hins vegar minnið N513.2, þar sem faðir felur sverð sitt á sinni dauðastund, sem má finna í sögunni um Þiðrek af Bern.184 Hér kemur einnig fram stjúpu- og álagaminnið þar sem að kóngur missir drottningu sína og kvænist yngri konu sem síðar reynist vera hið mesta flagð. Eftir að hún hefur drepið kónginn, þá reynir hún að ná í kóngsson sem hafnar henni og í kjölfarið leggur hún á hann og systur hans. Hann nær að kasta fram gagnálögum og

182 Hluta af þessum lista má einnig finna í gagnagrunni Medieval Scandinavian Motif Database, sem byggist á minnaskrá Bobergs. 183 Rafn, Fornaldar sögur Nordrlanda, II:326. 184 Bertelsen, Þiðreks saga af Bern, I:78.

60

þegar þau systkin losna undan álögum, þá hefnist henni fyrir grimmilega.185 Þetta minnir um margt á Hrafnistumannasögurnar, og þá sérstaklega Gríms sögu loðinkinna.186 Því má segja að höfundur sögunnar hafi fléttað saman ýmsum þekktum minnum fornaldar-, riddarasagna og ævintýra og aðlagað síðan sögu sína að sagnahefð sem einkennist af nýsköpun og endurvinnslu á eldri efnivið.

5.3 Persónur Sögupersónur í sagnabókmenntum síðari alda geta verið tiltölulega grunnar og lítið um tilfinningar, en þetta gæti vísað til sagnahefðar þar sem persónugerðir voru mikilvægari en tilfinningar.187 Heimur karla og kvenna birtist á ólíkan hátt þar sem sögurnar eru iðulega karllægari. Karlmenn sýna hreysti sína og dug ásamt því að ráða ríkjum utandyra, á meðan konur eiga að vera hljóðar og nær ósýnilegar innandyra. Þessar stöðluðu kynhlutverk birtast einnig í Sögunni af kóngabörnum en persónur eru þó með ýmsu móti, svo sem mennskar, fjölkunnugar og svo tröll, sjá nánar í viðauka 6. Birtingarmyndir og persónusköpun persónanna er misjöfn; nokkrar fá meira rými í lýsingum, aðrar hafa ákveðnum hlutverkum að gegna og sumar eru nafngreindar, þó að hlutverk þeirra virðist bæði óljóst og lítilvægt. Hér má sem dæmi nefna hertoga þann er Vilhjálmur heitir er Tryggvi setur yfir Grikkland á meðan hann er í burtu (bls. 45) en síðan er ekki fjallað meira um hann. Aftur á móti fær konan sem þeir fóstbræður hitta þegar þeir koma fyrst í borg Galdrakóngs og er „að búa upp sæng tígulega“ ekkert nafn. Hún er sú sem segir þeim fóstbræðrum að Galdrakóngur hafi rænt Signýju og drepið foreldra þeirra (bls. 8). Frásögn hennar er mikilvæg fyrir söguþráðinn þar sem að hún ákvarðar hvað þeir fóstbræður muni gera næst, það er, að bjarga Signýju. Karlar virðast því vera mikilvægari en konur af lægri stétt, þar sem þeir eru nafngreindir, þó svo að nafnlausar konur kunna hafa áhrif á söguþráðinn.

5.3.1 Tryggvi Torfi H. Tulinius nefnir í Íslenskri bókmenntasögu að til séu tvær gerðir af hetjum rómönsunnar. Annars vegar sé það hin tigna, fallega hetja sem elskar fagrar konur og er sú ást endurgoldin; þessi hetja berst karlmannlega, er hinn besti drengur og kann sér hóf. Hins vegar er það hin ófagra hetja sem er af lágum ættum, á í sérstöku sambandi

185 Nánar um stjúpu- og álagaminnið má lesa í grein Aðalheiðar Guðmundsdóttur, „Stjúpur í vondu skapi“. 186 Rafn, Fornaldar sögur Nordlanda, II:148–152. 187 Torfi H. Tulinius, „Kynjasögur úr fortíð og framandi löndum“, 226.

61

við náttúruöflin, nýtur lítillar kvenhylli og hefur meiri áhuga á holdlegum listum en andlegum. Hann liggur einnig í öskustó sem barn og er niðurlægður af öðrum karlmönnum. Iðulega er það móðir hans sem heldur verndarhendi yfir honum. Þegar hann kemur til vits og ára, leggur hann af stað í ævintýri og sýnir hvað í honum býr.188 Þessar hetjutýpur eru stundum nefndar dökka og ljósa hetjan. Ljósa hetjan er oft ljós yfirlitum, einhliða og gengur hreint og beint til verks, en dökku hetjurnar eru margbrotnari, og skapa oft sín eigin vandræði.189 Fyrri lýsingin virðist passa við Sigurð kóngsson. Hann og systir hans voru „væn og ásjáleg. Vöndust fremd og sóma hvort að sínu eðli“ (bls. 1). Hann er „ágætur og víðfrægur“ (bls. 2) og kom „á sig góðu mannorði“ (bls. 1). Fyrir honum er nóg að hitta fyrir Ásu dóttur Hrings Hólmgarðskóngs til þess biðja hana um að giftast sér, (bls. 20). Hjónabandssáttmálinn er þó endurtekinn á næstu blaðsíðu (bls. 21). Það er spurning hvort að hann sé „besti drengur“ þar sem að hann og menn hans gera grín að Tryggva og kalla hann: „fól og versta illmenni af heimsku“ (bls. 2). Því má segja að hann sýni á sér aðra hlið. Sennilega er það þess vegna sem að hann er ekki aðalsöguhetja Sögunnar af kóngabörnum þar sem hann fylgir ekki öllum lögmálum hinnar fögru og ljósu hetju. Síðari lýsingin fellur hins vegar afar vel við Tryggva. Í upphafi sögunnar liggur hann í eldaskemmu og „reykir“ (bls. 2).190 Foreldrar hans eru karl og kerling í Garðshorni sem gefur í skyn að hann sé af lágum ættum. Sigurður kóngsson og menn hans gera grín að honum og kalla að honum „með hæðni og spotti“ er þeir fara fram hjá eftir að hafa skemmt „sér á fuglaveiðum og dýra“ (bls. 2). Hér virðast þó að báðir foreldrar hans hafi áhyggjur af honum þar sem að þau „kváðu að aldrei mundi nokkur dugur í honum verða“ (bls. 2). En þegar hann leggur af stað á vit ævintýranna veita þau honum umhyggju og vernd, þar sem þau gefa honum ráð og hluti til þess að fást við þau vandamál sem munu koma upp á ferðalagi hans. Þannig verða Tryggvi og Sigurður að nokkurskonar andstæðum sem minnir á eitt af frásagnarlögmálum Olriks um lög um andstæður (e. The Law of Contrast).191 Hér er kóngssonur á móti kolbít, ásjálegur á móti stórum manni sem er oftar en ekki er líkt við

188 Torfi H. Tulinius, „Kynjasögur úr fortíð og framandi löndum“, 226. 189 Þó að hetjum Íslendingasagna hafi verið lýst sem dökkum eða ljósum, þá eiga þessar hetjulýsingar einnig við um hetjur úr öðrum bókmenntaflokkum, sjá nánar hjá Vésteini Ólasyni, „Íslendingasögur og þættir“, 71–72; Heimir Pálsson, Frásagnarlist fyrri alda: Íslensk bókmenntasaga frá landnámsöld til siðskipta, 143–45. 190 Skv. Schlauch þá segja þeir sem ólust upp sem kolbítar skilið við leti sína og heimsku þegar þeir standa upp og fara út í heim og enda sem sigurvegarar, sjá nánar í Romance in Iceland, 98–99. 191 Olrik, Principles for Oral Narrative Research, 50–51.

62

tröll. Þótt fram komi í lok sögunnar að Tryggvi sé af konunglegum ættum er þeim engu að síður teflt fram sem andstæðum í upphafi en enda sem jafningjar. Samskipti Tryggva við konur eru ekki fyrirferðamikil í sögunni fyrr en hann hittir fyrir Skrukku. Samskipti karlmanna og tröllkvenna hefur verið lýst sem „ögrun við manndóm karlanna“ þar sem að þær reyna að gera lítið úr þeim.192 Þar sem ófagra hetjan er frekar fyrir holdlegar listir en andlegar vill Tryggvi heldur liggja með henni en að sofa einn (bls. 26). Skrukka byrjar á því að gera lítið úr honum, og gefur í skyn að hann sé óreyndur sem barn þar sem hún segir „Barnalega lætur þú kallmaður […] mun mér ekki mein að vera þó ég liggi nærri þér soddann lítilmenni og pervísi sem þú ert.“ Samkvæmt sagn- og kynjafræðingnum Vern Bullough (1928–2006) felst ótti karlhetju í að mistakast og að standa sig ekki í karlmannlegu hlutverki og verður þetta til þess að ýta undir efasemdir hetjunnar um eigin manndóm.193 Tryggvi er þó ekki sáttur við tal hennar og telur sig vita hvað hann kann í slíkum listum og segir: „Að öðru mun þér verða en ég verði þér lítilmenni í rúminu […] hef ég hingað til ekki hatað kvenholdið.“ Hún segir: „Reyna má það“ og gefur þannig í skyn að hún sé sátt, þar sem þau viðhalda þessu háttalagi allan veturinn.194 Hann kann sín hvílubrögð, þar sem hún gengur með barn hans næsta vor og sýnir þannig fram á að hann stenst þær væntingar sem gerðar eru til karlmanna miðaldabókmennta.195 Jötnar, risar og tröll eru algengir í miðaldabókmenntum og hafa oftar en ekki afgerandi tengingu við náttúruöflin. Í mörgum sögum er ekki gerður greinarmunur á milli tegunda og eru heitin oft notuð á víxl, sem gerist hér.196 Hér má nefna að þegar Æsa leggur á Herloga og Ingibjörgu þá verða þau að „tröllum“ (bls. 33) en svo er hann sagður vera jötunn (bls. 24). Tröll og jötnar eru römm að afli, eru stór og mikil, hafa jafnvel yfirnáttúrulega kunnáttu og þar sem tröll eru, er yfirleitt hætta á ferð.197 Tryggvi er stór og er líkt við risa eða tröll á nokkrum stöðum. Þegar hann stendur loks upp til þess að fara út þá „er hann þá so digur og þrystinn að hann ber með sér á herðum Drötter og dyra umbúning“ (bls. 3), og með hurðarkarminn og þverbitann á herðum sínum virðist hann vera afar stór og mikill, svo að móðir hans heldur að hann sé risi (bls. 3);

192 Helga Kress, Máttugar meyjar, 119–20. 193 Bullough, „On Being a Male in the Middle Ages“, 34 og 41. 194 Textinn í SÁM 6 af samtali Tryggva og Skrukku er ítarlegri og seigir meira en texti NKS 1802 4to og ÍB 138 4to, sjá nánar í viðauka 8. 195 Ásdís Egilsdóttir, „Kolbítur verður karlmaður“, 90–91. 196 Sjá nánar um skilgreiningar á tröllum hjá Ármanni Jakobssyni, The Troll Inside You, 25–29; Aðalheiður Guðmundsdóttir, „Behind the cloak, between the lines“, 328–30. 197 Ármann Jakobsson, The Troll Inside You, 19.

63

að auki hleypur stúlka ein inn til að segja bónda að hún hafi séð risa koma (bls. 17); Sigurður segir við föður sinn að hann hafi séð tröll í skóginum (bls. 4); Tryggvi er mjög „tröllslegur“ þegar hann gengur til hallarinnar enda með eikartré í hendi (bls. 6). Svo virðist sem Tryggvi sé sterkur eins og tröll, þar sem hann kippir upp eikartré með rótum (bls. 3–4) sem gerir hann ógurlegan og tröllslegan þegar hann heldur á því. Afl hans sést einnig þegar hann kastar „soppi“ í átt til tveggja af mönnum Sigurðar sem höfðu kastað því til hans. Kast hans til baka er með þeim afleiðingum að þeir deyja (bls. 4). Stærð hans er þannig að hann getur sett Sigurð og Signýju í barm sér, til þess að verja þau kulda og volki (bls. 11, 12, 16, 17). Móðir Tryggva og Sigurður halda að hann sé risi eða tröll, en það er faðir hans (bls. 3) og faðir Sigurðar (bls. 4) sem benda á, að þetta sé ekki tröll heldur Tryggvi. Hér er áhugavert að það eru feðurnir sem þekkja Tryggva, en ekki móðir hans, né Sigurður sem hefur verið að gera grín að honum í gegnum tíðina. En um leið og hann er álitinn tröllslegur og ógnvænlegur, þá er hann einnig bjargvættur og hefur mikinn kraft sem hann notar til að bjarga Sigurði frá drukknun (bls. 8). Íslenskufræðingurinn Ásdís Egilsdóttir segir að karlkyns söguhetjur miðaldasagna hafi ákveðin hlutverk, það er, að þroskast og verða að þeim karlmanni sem móðir þarf ekki lengur að vernda og að aðrir karlmenn geri grín að. Þeir þurfa að standa undir ákveðnum væntingum og um leið sanna karlmennsku sína.198 Þess ber þó að geta að hlutverk söguhetja er breytilegt, allt eftir því á hvaða tímabili þeir eru staðsettir og hverskonar bókmenntategund saga þeirra er í. Leið þeirra að þroska, frá því að vera kolbítur er liggur í eldaskemmu þar til að þeir verða fulltíða menn, tengist þremur skyldum karlmanna samkvæmt Vern Bullough, en þær eru:199

1. að gera konu barnshafandi 2. að vernda þá sem eru tengdir honum 3. að sjá fyrir fjölskyldu sinni

Þessar skyldur passa vel við þroskasögu Tryggva. Hann gerir Skrukku barnshafandi (bls. 27) þó að fóstrið virðist hverfa með hamnum þegar Tryggvi leysir hana úr álögum (bls. 28). Því má velta því fyrir sér hvort það tilheyri heimi náttúruafla, það er að segja trölla, og eigi því ekki erindi í heim mannfólks. Hann verndar bæði Sigurð og Signýju, til dæmis með því að setja þau undir úlpu þá er móðir hans gaf honum eða í barm sér

198 Ásdís Egilsdóttir, „Kolbítur verður karlmaður“, 90-91, 97–98. 199 Bullough, „On Being a Male in the Middle Ages“, 34.

64

(bls. 11, 12, 16, 17). Hann gerir fóstbræðralag við Sigurð, Herloga og Hring ásamt því að eignast konungsdæmi, og þannig má segja að hann sjái til þess að fjölskylda hans sé vel haldin. Þess fyrir utan hefnir hann föður síns, með því að afhöfða Galdrakóng í lok sögunnar með sverðinu Minnungi (bls. 46) sem kynnt var í upphafi hennar. Hér má einnig velta því fyrir sér hvers vegna Tryggvi fékk ekki sverðið fyrr? Svarið gæti legið í því að í lok sögunnar hafi hann sannað karlmennsku sína og manndóm og því getað náð sverðinu.

5.3.2 Ingibjörg Þegar litið er á kvenpersónur miðaldasagna virðast þær hafa minna rými og vægi í meðförum höfunda sagnanna. Þær eru flestar mæður sem ala upp börn sín, eiginkonur sem gefa mönnum sínum ráð eða fallegar dætur sem sitja í skemmu og bíða eftir tilvonandi eiginmönnum. Þær eru því meira sýndar sem „þolendur en gerendur og því sjaldnar í aðalhlutverki“200 eins og Torfi H. Tulinius nefnir í Íslenskri bókmenntasögu. Jóhanna Katrín Friðriksdóttir segir hins vegar að birtingarmyndir kvenna í fornaldarsögum séu yfirleitt jákvæðar, því þær hafa bæði vitsmunalega eiginleika og getu sem skilgreinir þær sem menntaðar og tignarlegar yfirstéttakonur.201 Þó að þær fái hlutfallslega ekki jafn mikið rými í textanum sjálfum, miðað við það sem karlmenn fá, þá eru þær mikilvægar. Oftar en ekki koma þær sögunni á skrið, samanber konuna sem býr „upp sæng“ (bls. 8–10), og eru því áhrifavaldar atburðarásar. Þannig eru sumar konur sýndar sterkar á meðan karlar eru þá sýndir berskjaldaðri.202 Þær kröfur eru gerðar á þær, að þær þurfi að hegða sér á þann hátt sem miðaldasamfélagið segir til um: konur eru dætur feðra sinna og eiginkonur bænda sinna. Þær kóngsdætur sem birtast í Sögunni af kóngabörnum virðast raddlausar og hafa lítið vald yfir því hvað kemur fyrir þær; þær eru þöglar, Ása virðist ekki hafa neitt um það að segja að hún er gefin Sigurði (bls. 20); Signýju er rænt203 (bls. 8); Ingibjörgu er breytt í skessu (bls. 33) og Áslaug er sett í ökklavatn (bls. 47). Af þessum fjórum kóngsdætrum er Signý þó mikilvæg persóna, enda kemur nafn hennar fyrir í titli elstu uppskriftanna. Í raun er hún þó dæmigert viðfang, eins og fram kemur í umfjöllun þeirra Simeks og Hermanns Pálssonar:

200 Torfi H. Tulinius, „Kynjasögur úr fortíð og framandi löndum“, 228. 201 Jóhanna Katrín Friðriksdóttir, Women in Literature, 31. 202 Jóhanna Katrín Friðriksdóttir, Women in Old Norse Literature, 1. 203 Um meyjar sem hafa verið rændar af tröllum/galdramönnum má t.d. lesa í Schlauch, Romance in Iceland, 104–5.

65

Signý wird vom zauberkundigen König Galldri entführt und von ihrem Verlobten Sigurð und seinum Schwurbruder Tryggvi nach langen Kämpfen gegen die magischen Künste des Königs befreit.204

Hér virðist aðalþema sögunnar vera leit þeirra Sigurðar og Tryggva að Signýju eftir að Galdrakóngur rænir henni og hvernig þeir berjast gegn göldrum hans til þess að bjarga henni. Það er samt ekki svo, því þegar sagan er lesin, þá eru það þeir sem bjarga henni með því að gabba sendisveina Galdrakóngs (bls. 10–11). Þegar Ingibjörg er kynnt til sögunnar sem flagðið Skrukka, þá er hún fyrirferðamikil í orðum sínum, gerðum og klæðnaði. Hér má nefna að þegar henni er fyrst lýst, kemur fram að þeir fóstbræður hafi aldrei séð neina konu svona stóra og sterka og að klæðnaður hennar vekur eftirtekt:205

Í því kemur að þeim ein flagðkona so stór, að aldrei þykjast þeir heyrt hafa sagt frá annarri þvílíkri. Hún grípur þá fóstbræður upp sinn undir hvora hönd og hleypur með þá yfir klungurinn so sem sléttur völlur væri; Hún var so búin að hún var í skorpnum skinnstakki skósíðum í fyrir enn hann skrolldi á herðum upp á baki. Tága körfu hafði hún á höfði með slegið hár sem hests tagl væri. Ei þótti þeim hún so illileg sem hún var stórvaxinn til.206

Eftir að Tryggvi hefur leyst Herloga úr álögum fara þeir í helli Skrukku og sjá þar tröllkonuham sem skríður um gólfið, og er Ingibjörgu þá lýst sem svo að hún sé hin „fegursta mey“ sem „andvarpar þunglega“ (bls. 28–29). Kvenkynspersónum miðaldabókmennta er oft lýst í stuttum frösum sem er látið duga í gegnum sögurnar,207 samanber Signý í upphafi sem var „væn og ásjáleg“ (bls. 1). Því er það nóg fyrir áhorfendur að vita að hér er fögur mey sem mun síðan verða eiginkona Tryggva. Samtöl þeirra Tryggva og Skrukku eru nánast einu samtöl sögunnar, en þau gefa ákveðna innsýn inn í samskipti karls og konu í miðaldabókmenntum. Það eru ýmsar kenningar um þá reynslu þegar söguhetja hittir fyrir tröllskessu, svo sem hvað varðar fyrstu kynlífsreynslu hennar eða það tækifæri sem höfundur sögunnar fær til að fjalla

204 „Signý er numin á brott af hinum fjölkunnuga Galldra kóngi og frelsuð eftir langa baráttu gegn galdralistum hans af unnustanum Sigurði og fóstbróður hans Tryggva.“ Simek og Hermann Pálsson, Lexikon der altnordischen Literatur, 337. Þessi tilvísun er þó ekki alveg rétt, þar sem Sigurður er bróðir hennar og hún kemur til með að giftast Hringi kóngi í Garðaríki. 205 Aðalheiður Guðmundsdóttir hefur skoðað lýsingar tröllkvenna í ýmsum miðaldabókmenntum, sjá t.d. í töflu í „Behind the cloak, between the lines“, 336. 206 NKS 1802 4to, 22–23. Þessari lýsingu svipar til klæðnaðar Gríðar í Illuga sögu Griðarfóstra, Rafn, Fornaldar sögur Nordrlanda, III:653; og konunni er Grímur loðinkinni hittir fyrir í fjörunni í Gríms sögu loðinkinna, Rafn, Fornaldar sögur Nordrlanda, II:149; Sjá nánar hjá Aðalheiði Guðmundsdóttur í „Behind the cloak, between the lines“, 330–36. 207 Jóhanna Katrín Friðriksdóttir, Women in Old Norse Literature, 81.

66

um hluti sem almennt var ekki talað um.208 Hér má einnig nefna ótta við að standa sig ekki. Tryggvi sýnir hugrekki og óttaleysi að sofa hjá Skrukku um veturinn og jafnframt að segja bróður hennar, Skrímni, að hún sé barnshafandi. Hann þarf að standa undir eigin ábyrgð og sýna karlmennsku, og að launum verður Skrukka að fallegri mey, Ingibjörgu. Það sem við kemur Skrukku, bæði lýsing á klæðnaði hennar og rúmförum þeirra Tryggva, eru ekki einkenni sem falla vel að heimi kóngsdætra. Því má velta því fyrir sér hvort að skessur fái meira rými þar sem þær eru ekki mennskar? Þær eru nær náttúrunni og því óheflaðri í framkomu heldur en kóngsdætur sem eiga að sitja hljóðar í skemmu sinni, en með því móti geta þær lagt meira af mörkum til þroska karlhetjunnar, sem er það sem sagan snýst um.

Hér hefur verið farið í söguna sjálfa eins og hún birtist í NKS 1802 4to. Þegar minni hennar eru skoðuð kemur í ljós að þau eiga mörg hver samsvörun í öðrum fornaldar- og riddarasögum ásamt ævintýrum. Sagan virðist vera fléttuð saman af ólíkum þráðum sem ýtir undir þá hugmynd að hún sé verk tiltekins höfundar, eins og getið var í kafla 4.2.3, og þá sennilega Jóns Þorlákssonar. Hér hefur ekki gefist svigrúm til að skoða allar þær persónur sem birtast í sögunni, en Tryggvi er tekinn fyrir, enda söguhetja þessarar sögu, ásamt Ingibjörgu er síðar verður eiginkona hans. Hann er hin ófagra, dökka, hetja sem jafnvel móðir hans heldur að sé tröll. Honum er strítt í æsku þar sem hann liggur í eldstónni, og því mætti sennilega líkja honum við Öskubusku, en eins og í öllum ævintýrum þá þroskast söguhetjan og fær fagra kóngsdóttur að launum.

208 Aðalheiður Guðmundsdóttir í „Behind the cloak, between the lines“, 338–40; Helga Kress, Máttugar meyjar, 119–35.

67

6 Niðurstöður Sú rannsókn sem gerð var og lýst hefur verið í þessari ritgerð varð umfangsmeiri en gert var ráð fyrir í upphafi, þar sem höfundur þessarar ritgerðar hafði eitt handrit í höndunum, og eina sögugerð. Handritið er NKS 1802 4to, sem felur í sér Söguna af kóngabörnum Sigurði og Signýju; einnig Tryggva karlssyni. Það fyrsta sem var gert var að skoða Lexikon der altnordischen Literatur eftir Rudolf Simek og Hermann Pálsson og sjá hvaða önnur handrit innihalda söguna. Síðar voru Skrár um handritasöfn Landsbókasafnsins ásamt skrám Kristian Kålunds, Katalog over den Arnamagnæanske håndskriftsamling og Katalog over de oldnorsk-islandske håndskrifter skoðaðar ásamt rafrænum heimildum, til þess að finna önnur handrit sem innihalda söguna sem og að kanna hvort sagan hafi birst annars staðar. Það voru sex handrit skráð hjá Hermanni Pálsyni og Simek, sjö handrit í Skrá Landsbókasafnsins og á handrit.is voru fimm handrit skráð, en ekkert fannst í skrám Kristian Kålunds.209 Síðar kom í ljós að hér var um að ræða tvær gerðir, A- og B gerð. Helsti munur þar á er að í A-gerð gerist sagan meira í suðurhluta Evrópu, þar sem systkinin Sigurður og Signý ásamt Tryggva lenda í ýmsum ævintýrum en hins vegar gerist B-gerð á Englandi, Írlandi og Skotlandi, þar sem systkinin Sigurður og Ingibjörg ásamt Tryggva lenda í álíka ævintýrum.210 Þar sem NKS 1802 4to inniheldur A-gerð sögunnar, var henni fylgt eftir og nánari útlistun var gerð á handritinu. Leitast var við að rekja uppruna handritsins NKS 1802 4to, sem og sögunnar sjálfrar. Handritið er varðveitt í Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn og kom úr bókasafni P.F. Suhms er lést árið 1798. Í handritinu eru hvorki upplýsingar um aldur þess né skrifara, og heldur engar upplýsingar um uppruna sögunnar eða hvort hér sé um að ræða afrit af eldra handriti. Skrifari handritsins er enn ókunnur en líkur benda til þess að það sé skrifað á árunum 1771–1798 af íslenskum stúdent211 og væntanlega stafrétt eftir eldra forriti.212 Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að sagan gæti verið samin fyrir 1700, þar sem útdráttur úr henni er í NKS 1144 fol. sem er skrifað af Þorláki Magnússyni Ísfjörð, sennilega á árunum 1771–1776 er hann var í Kaupmannahöfn. Handritið NKS 1144 fol. er afrit af AM 576 a–c 4to sem er frá því um aldamótin 1700 og er að mestu skrifað af

209 Sjá nánar í kafla 2 og töflu 1. 210 Sjá nánar um B-gerð sögunnar í viðauka 2. 211 Sjá nánar í lok kafla 2.2.1. 212 Sjá uppskrift sögunnar í viðauka 1.

68

Árna Magnússyni. Í báðum þessum handritum er ættartala sögupersóna en útdráttur úr sögunni er í NKS 1140 fol. en ekki í AM 576 a–c 4to.213 Hér er dæmi um að yngri handrit hafi að geyma upplýsingar um það sem hefur glatast úr eldra handriti. Sagan hefur ekki komið út á prenti en það hefur komið í ljós að hún hefur verið þekkt,214 eins og sjá má af þeim handritum sem innihalda söguna.215 Ortar hafa verið rímur um söguna, Tryggva rímur, og í tíu af þeim þrettán handritum sem hafa að geyma rímurnar er Jón Einarsson frá Skárastöðum í Miðfirði skráður höfundur, en í hinum er höfundur óþekktur.216 Davíð Erlingsson (f. 1936) hefur þekkt söguna þar sem að hann vísar í hana í greininni „Sagan gerir mann“ er birtist í Skírni árið 1992. Þar veltir hann fyrir sér merkingu orðsins „saga“ og þeirri vídd sem það hefur í frásögn og sögusögn. Hann tengir hugtökin lygisögur og ævintýri við raunheim, en í umfjöllun hans um „stýri kattarins“ segir hann meðal annars:

Ef til vill líkt og ljóstýra sú sem ketta, móðir höfuðandskota hetjunnar í (óprentuðum) rímum út af ævintýrasögu af Tryggva karlssyni og kóngabörnum hafði í stýrinu [svo misminnir mig jafnan. Kettan hafði reyndar lýsigull eða þvílíkt í kló eða loppu, en það má einu gilda], þannig að til sást hvað hún hafði stað á náttarþeli, þegar hún var að vekja óvinaherinn upp frá dauðum (ef til vill sambærilegan við meinlokur, eða vindmyllur Dons Kíkóta).217

Hér er vísað í óprentaðar rímur og því um leið í söguna sjálfa. Það eru til dæmi þar sem að saga er glötuð, en lifir í rímum og stundum er það svo að sögur eru endursamdar aftur frá rímum. Það verður því hringrás frá prósatexta yfir í rímur og svo aftur yfir í prósatexta. Hér má líta á rímur Jóns Erlendssonar og söguna í handritinu „Einkaeign 10“ sem er samin eftir rímum.218 Það eitt og sér er áhugavert rannsóknarefni, það er hvaða áhrif formbreytingar hafa á efniviðinn. Með því að fylgja sögu NKS 1802 4to sem er varðveitt í Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn, liggur leiðin fljótlega heim til Íslands. Eins og fjallað er um í kafla 2, eru handrit er hafa að geyma söguna varðveitt á Íslandi. Ef útdráttur sögunnar og ummæli um hana í NKS 1144 fol. (bls. 263–267) eru lesin, kemur fram að Jón Þorláksson sýslumaður gæti mögulega verið höfundur hennar, þar sem bæði aldur hans

213 Sjá í viðauka 5. 214 Hér má nefna að fræðimenn hafa áður vísað í söguna og þá í handritið sjálft NKS 1802 4to, sjá nánar í kafla 2.1. 215 Sjá nánar í undirköflum í kafla 2. 216 Sjá nánar um rímur í viðauka 3. 217 Davíð Erlingsson, „Sagan gerir mann: Hugleiðing um gildi og stöðu hugvísinda“, 341–42. 218 Sjá í kafla 2.7.

69

og tímaskeið passar við líklegan aldur sögunnar.219 Annað sem styður þessa niðurstöðu er að, hann var í sambandi við Árna Magnússon og lét hann fá ýmis handrit og vel getur verið að Sagan af kóngabörnum hafi verið á einu þeirra. Ef að líkum lætur er sagan frá því um 1700 – um það leyti eða nokkru síðar en sögur sem hafa verið flokkaðar sem „lygisögur“ komu fram.220 Upprunalega handritið er inniheldur söguna er annað hvort glatað eða hefur ekki komið í leitirnar. Það má segja að sagan sé íslensk þó að höfundur leiti fanga í fornaldar- og riddarasögum samanber Hrafnistumannasögur, þar sem að heimurinn liggur allur undir, rétt eins og í frumsömdum riddarasögum, en er þó unnin upp úr íslenskum formúlum. Torfi H. Tulinius nefnir að „[í] þessum sögum gáfu íslenskir sagnaritarar ímyndunaraflinu lausari taum en í flestu öðru sem þeir festu á bókfell á miðöldum.“221 Sagan hefur verið skrifuð hér á landi af íslenskum skrifara, sem meðal annars má sjá af íslenskum nöfnum og tilvísun í þau minni sem eru þekkt úr þeim fornaldar-, riddarasögum og ævintýrum, er lifðu á meðal fólks þess tíma. Munnmælasögur einkennast af munnlegri geymd, þar sem heimildarmaður segir söguna og hún berst frá manni til manns þar til hún er skráð niður eða glatast úr minnum manna. Þar sem í þessu tilfelli eru það þrjú handrit, NKS 1802 4to, ÍB 138 4to og SÁM 6, sem eru nánast samhljóða, má áætla að Sagan af kóngabörnum hafi fyrst og fremst borist áfram í uppskritum handrita. Það eru þó líkur á að sagan hafi verið sögð í munnmælum við hlið hinnar bóklegu hefðar. Við vinnu á þessari ritgerð hafa vaknað upp fleiri spurningar og álitamál en hægt hefur verið að svara, og komast yfir í einni ritgerð. Hér má nefna hvernig hlutir hverfa úr sögunni, án frekari skýringa, eins og hvað verður um eik Tryggva og barn Skrukku/Ingibjargar. Ætli um sé að ræða meðvitaðar breytingar, eða féllu þessi atriði út við fyrri uppskrift, eða jafnvel yfirfærslu úr eldri rímum? Er markmiðið með eikinni að gera Tryggva meira ógnandi og ýta þannig undir styrk hans og afl? Barn þeirra Tryggva og Skrukku var getið þegar Ingibjörg var undir álögum og má þá spyrja sig hvort barnið tilheyri einungis tröllaheimi og eigi því ekkert erindi í samfélag manna? Tryggvi nær ekki í sverð föður síns, Minnung, fyrr en í lok sögunnar, og má þá áætla að sagan hafi verið þroskasaga hans, og því hafi hann ekki verið tilbúinn til að takast á

219 Sjá nánar í 4.3.2. 220 Sjá nánar í 4.3. 221 Torfi H. Tulinius, „Kynjasögur úr fortíð og framandi löndum“, 167.

70

við sverðið fyrr en í lokin. Ef til vill var ástæðan þó sú að halda lesendum áhugasömum allt til enda, og leyfa þeim sjálfum að fylla upp í eyðurnar. Annað, sem haglega væri hægt að framkvæma, er að gera ítarlegri rannsókn á samanburði og mismun á texta milli handrita. Í slíkri rannsókn mætti spyrja spurninga eins og: hvers vegna var samtal þeirra Tryggva og Skrukku í NKS 1802 4to stytt eða var það aukið í SÁM 6? Minni sögunnar mætti skoða nánar og bera saman við fornaldar- og riddarasögur. Eins mætti spyrja, hvað það er sem gerir sögu íslenska? Er nóg að hún sé skrifuð á íslensku eða á Íslandi eða þarf sagnaefnið að vera íslenskt? Þá má einnig spyrja hvort sagnaefnið sé íslenskt þegar að sögusviðið er Suður-Evrópa? Ýmis handrit sem hafa verið skrifuð á íslensku leynast víða og eru ekki bara á stofnunum Árna Magnússonar, hvort sem er hér á Íslandi eða í Danmörku, eða á handritasafni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, heldur einnig á öðrum stöðum.222 Í söfnum erlendra fræðimanna 18. aldar eru handrit sem eru skrifuð á íslensku og hafa íslenskt efni, og þar má nefna Söguna af kóngabörnum Sigurði og Signiju, eirninn Tryggva karlssyni. Hvernig stendur á því að slík saga finnst í safni Peters Frederiks Suhm og jafnframt í handritasafni Landsbókasafnsins? Til að geta svarað því þyrftum við líklega að vita meira um fjórða handritið, það er að segja glatað handrit sem NKS 1802 4to og ÍB 138 4to hafa verið skrifuð eftir. Lokaorð þessarar ritgerðar eru orð föður Tryggva er hann kveður hann á leið út í heiminn:

„Farðu nú vel og aldrei illa, verði þér allt til sigurs og lukku.“ (bls. 6)

222 Sjá nánar í kafla 2.

71

7 Heimildaskrá 7.1 Handritaskrá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Reykjavík. AM 576 a–c 4to. AM 156 fol. AM 477 fol. SÁM 6. Den Arnamagnæanske Samling í Kaupmannahöfn. AM 20 e–g & f, fol. AM 267 8vo. Handritasafn, Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn, Reykjavík. ÍB 138 4to. ÍB 165 4to. Lbs 661 4to. Lbs 1510 4to. Lbs 2929 4to. Lbs 4447 4to. Lbs 2203 8vo. Handritasafn, Konunglega danska bókasafnið í Kaupmannahöfn. NKS 1802 4to. NKS 1144 fol. Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar í Borgarnesi. Einkaeign 10: Sagnahandrit Jóhannesar Jónssonar.

7.2 Óprentaðar heimildir Aðalheiður Guðmundsdóttir. „Úlfhams saga og þróun álagasendinga.“ [Óútgefin Cand. Mag. ritgerð.] Háskóli Íslands, Reykjavík, 1993. Einar G. Pétursson. „Handrit frá Böðvari Kvaran“. [Óprentuð handritaskrá.] Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Reykjavík, 2015.

7.3 Vefheimildir Aðalheiður Guðmundsdóttir. „Hvenær og af hverju urðu fornaldarsögur til?“ Vísindavefurinn, 21. febrúar 2019. Sótt 27. desember 2019 af http://www.visindavefur.is/svar.php?id=77073.

72

Den Arnamagnæanske Samling. „Om kommissionen.“ Den Arnamagnæanske Kommission, 15. apríl 2009. Sótt 27. desember 2019 af https://arnamagnaeanskekommission.ku.dk/om/ handrit.is. „ÍB 138 4to: Sögubók“. Sótt 27. desember 2019 af https://handrit.is/en/manuscript/view/is/IB04-0138 handrit.is. „ÍB 165 4to: Sögubók“. Sótt 27. desember 2019 af https://handrit.is/is/manuscript/view/IB04-0165 handrit.is. „Lbs 661 4to: Sögubók“. Sótt 27. desember 2019 af https://handrit.is/en/manuscript/view/is/Lbs04-0661 handrit.is. „Sagnahandrit Jóhannesar Jónssonar: Einkaeign 10“. Sótt 27. desember 2019 af https://handrit.is/is/manuscript/view/is/Einkaeign-0010 handrit.is. „SÁM 6: Sögubók“. 2010. Sótt 16. júlí 2018 af https://handrit.is/en/manuscript/view/is/SAM-0006 handrit.is. „Æviágrip: Eggert Briem Ólafsson“. Sótt 27. desember 2019 af https://handrit.is/is/biography/view/EggBri001 handrit.is. „Æviágrip: Gísli Hjaltason“. Sótt 27. desember 2019 af https://handrit.is/en/biography/view/GisHja001 handrit.is. „Æviágrip: Jón Þorláksson“. Sótt 27. desember 2019 af https://handrit.is/is/biography/view/JonTho012 handrit.is. „Æviágrip: Magnús Jónsson“. Sótt 27. desember 2019 af https://handrit.is/en/biography/view/MagJon014 handrit.is. „Æviágrip: Þorsteinn Þorsteinsson“. Sótt 27. desember 2019 af https://handrit.is/en/biography/view/ThoTho026 Íslensk orðabók. Reykjavík. Sótt af https://snara.is/ Íslensk orðsifjabók. Reykjavík. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Sótt af https://www.malid.is/leit/dikta%C3%B0 Íslensk nútímamálorðabók. Reykjavík. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Sótt af http://islenskordabok.arnastofnun.is/ Íslenskt textasafn Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Sótt af http://corpus.arnastofnun.is/ Landsbókasafn Íslands - Handritabókasafn. „Saga handritasafns - Landsbókasafn“. Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn. Sótt 27. desember 2019 af https://landsbokasafn.is/index.php?page=saga-handritasafns

73

Medieval Scandinavian Motif Database. Sótt 25. nóvember 2019 af http://www.mesmo.gwi.uni- muenchen.de/index.php/home/reference/?r=K%C3%B3ngab MUFI. „Medieval Unicode Font Initiative“. Sótt 19. desember 2019. https://folk.uib.no/hnooh/mufi/fonts/ ONP: Dictionary of Old Norse Prose. Sótt af https://onp.ku.dk/onp/onp.php? REX. Leitarsíða Det Kongelige Bibliotek. Sótt af https://soeg.kb.dk/discovery/search?vid=45KBDK_KGL:KGL&lang=da REX. Leitarsíða Det Kongelige Bibliotek. „Sagan af Konunga Börnum Sigurde ok Signyu, ok Tryggva Karlssyni.“ Síðast skoðað 29. desember 2019 https://soeg.kb.dk/discovery/fulldisplay?docid=alma99122454642305763&co ntext=L&vid=45KBDK_KGL:KGL&lang=da&search_scope=MyInst_and_CI &adaptor=Local%20Search%20Engine&tab=Everything&query=lds01,exact, NKS%201802%20kvart,AND&mode=advanced&offset=0 Ritmálssafn Orðabókar Háskólans. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Sótt af https://ritmalssafn.arnastofnun.is/ Stories for all time: The Icelandic fornaldarsögur. Sótt af http://fasnl.ku.dk/browse- manuscripts/manuscript.aspx?sid=TgBLAFMAIAAxADEANAA0ACAAZgB vAGwALgA1 Stories for all time: The Icelandic fornaldarsögur.„Sagnahandrit Jóhannesar Jónssonar“. Sótt 19. desember 2019 af http://fasnl.ku.dk/browse- manuscripts/manuscript.aspx?sid=UwBhAGcAbgBhAGgAYQBuAGQAcgBp AHQAIABKAPMAaABhAG4AbgBlAHMAYQByACAASgDzAG4AcwBzA G8AbgBhAHIA0

7.4 Prentaðar heimildir Aðalheiður Guðmundsdóttir. „Stjúpur í vondu skapi“. Tímarit máls og menningar 56, tbl. 3 (1995): 25–36. ———. „Inngangur“. Í Úlfhams sögu, xiii–cclxxxi. Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar, 2001. ———. „On Supernatural Motifs in the Fornaldarsögur“. Í The Fantastic in Old Norse / Icelandic Literature. and the British Isles: Preprint Papers of the 13th International Saga Conference, Durham and York, 6th–12th August,

74

2006, ritstýrt af John McKinnell, David Ashurst og Donata Kick, I:33–41, 2006. ———. „The Narrative Role of Magic in Fornaldarsögur“. Arv. Nordic Yearbook of Folklore 70 (2014): 39–56. ———. „Behind the cloak, between the lines: Trolls and the symbolism of their clothing in Old Norse tradition“. European Journal of Scandinavian Studies 47, tbl. 2 (2017): 327–50. ———. „Reflexes of the fornaldarsögur in Icelandic poetry“. Í The Legendary Legacy: Transmission and reception of the Fornaldarsögur Norðurlanda, ritstýrt af Matthew James Driscoll, Silvia Hufnagel, Philip Lavender, og Beeke Stegmann, þýð. Aðalheiður Guðmundsdóttir og Jeffrey Cosser, 19–51. Danmörk: University press of Southern Denmark, 2018. Anna Agnarsdóttir. „Aldahvörf og umbrotatímar“. Í Saga Íslands, ritstýrt af Sigurði Líndal og Pétri Hrafni Árnasyni, IX:5–161. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag og Sögufélagið, 2008. Ari Þorgilsson. „Íslendingabók“. Í Íslendingabók Landnámabók, ritstýrt af Jakobi Benediktssyni, Íslensk fornrit, I:3–28. Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag, 1986. Ármann Jakobsson. The Troll Inside You: Paranormal Activity in the Medieval North. [Útgáfustaður er ekki getið]: Punctum Books, 2017. Ásdís Egilsdóttir. „Kolbítur verður karlmaður“. Í Miðaldabörn, ritstýrt af Ármani Jakobssyni og Torfa H. Tulinius. Reykjavík: Hugvísindastofnun Háskóla Íslands, 2005. Bertelsen, Henrik, ritstj. Þiðreks saga af Bern I. Samfund til udgivelse af gammel nordisk litteratur 34. Kaupmannahöfn: S. L. Möller, 1905. Boberg, Inger M. Motif-Index of Early Icelandic Literature. XXVII. Kaupmannahöfn: Munksgaard, 1966. Björn K. Þórólfsson. Rímur fyrir 1600. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka fræðafélag, 1934. ———. „Nokkur orð um íslenzkt skrifletur“. Árbók Landsbókasafn Íslands 1948– 1949, 1950, 116–52. Bruun, Christian. Peter Frederik Suhm. Kaupmannahöfn: Universitetsboghandler G.E.C.GAD, 1898.

75

Bullough, Vern. „On Being a Male in the Middle Ages“. Í Medieval Masculinities, ritstýrt af Clare A. Lees. Minneapolis: University of Minnesota Press, 1994. Böðvar Guðmundsson. „Nýjir siðir og nýjir lærdómar - Bókmenntir 1550–1750“. Í Íslensk bókmenntasaga, ritstýrt af Vésteini Ólasyni, 2. útg., II:379–521. 1993. Endurprentun, Reykjavík: Mál og menning, 2006. Davíð Erlingsson. „Munnmenntir - bókmenntir“. Í Íslensk þjóðmenning, ritstýrt af Frosta F. Jóhannssyni, VI:145–57. Reykjavík: Bókaútgáfan Þjóðsaga, 1989. ———. „Rímur“. Í Íslensk þjóðmenning, ritstýrt af Frosta F. Jóhannssyni, VI:330–55. Reykjavík: Bókaútgáfan Þjóðsaga, 1989. ———. „Sagan gerir mann: Hugleiðing um gildi og stöðu hugvísinda“. Skírnir 166, tbl. 2 (1992): 321–45. Driscoll, Matthew James. „The Long and Winding Road: Manuscript Culture in Late Pre-Modern Iceland“. Í White field, black seeds: Nordic literacy practices in the long nineteenth century, ritstýrt af Anna Kuismin og Matthew James Driscoll, 50–63. Helsinki: Finnish literature society, 2013. ———. „Late Prose Fiction (lygisögur)“. Í A Companion to Old Norse-Icelandic Literature and Culture, ritstýrt af Rory McTurk, 190–204. Oxford: Blackwell Publishing, 2005. ———. The Unwashed Children of Eve: The Production, Disseminatin and Reception of Popular Literature in Post-Reformation Iceland. Enfield Lock Middlesex: Hisarlik Press, 1997. Einar Ól. Sveinsson. „Íslenzkar bókmentir eptir siðskiptin“. Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga, 11. tbl. (1. janúar 1929): 127–71. Finnur Sigmundsson. Rímnatal I–II. Reykjavík: Rímnafélagið, 1966. Glauser, Jürg. „Romance (Translated riddarasögur)“. Í A Companion to Old Norse- Icelandic Literature and Culture, ritstýrt af Rory McTurk, 372–87. Oxford: Blackwell Publishing, 2005. Grímur Helgason og Lárus H. Blöndal. Skrá um handritasöfn Landsbókasafnsins, aukabindi III. Reykjavík: Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn, 1970. Grímur Helgason og Ögmundur Helgason. Skrá um handritasöfn Landsbókasafnsins, aukabindi IV. Reykjavík: Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn, 1996. Guðvarður Már Gunnlaugsson. „Skrift“. Í Handritin: Ritgerðir um íslensk miðaldahandrit, sögu þeirra og áhrif, ritstýrt af Gísla Sigurðssyni og Vésteini Ólasyni, 63–71. Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi, 2002.

76

———. „Stafrétt eða samræmt? Um fræðilegar útgáfur og notendur þeirra.“ Gripla 14 (2003): 197–235. ———. Sýnisbók íslenskrar skriftar. Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, 2007. ———. „Árni Magnússon’s initial collection“. Í Care and Conservation of Manuscripts 15, 2.–4. apríl 2014, ritstýrt af Matthew James Driscoll, 1–20. Kaupmannahöfn: Museum Tusculanum, 2016. Helga Kress. Máttugar meyjar: Íslensk fornbókmenntasaga. Reykjavík: Háskólaútgáfan, 1993. Heimir Pálson. Frásagnarlist fyrri alda: Íslensk bókmenntasaga frá landnámsöld til siðskipta. 4. útg. Reykjavík: Forlagið, 1992. Jakob Benediktsson. „Um tvenns konar framburð á ld í íslenzku“. Íslenzk tunga, tbl. 2 (1. janúar 1960): 32–50. Jesch, Judith. „Geography and Travel“. Í A Companion to Old Norse-Icelandic Literature and Culture, ritstýrt af Rory McTurk, 119–35. Oxford: Blackwell Publishing, 2005. Jiriczek, O. L. „Zur mittelisländischen volkskunde: Mitteilungen aus ungedruckten Arnamagnäanischen handschriften“. Zeitschrift für deutsche Philologie XXVI, 1894. Jorgensen, Peter A. „‘Hafgeirs saga Flateyings’: An Eighteenth-Century Forgery“. The Journal of English and Germanic Philology 76, tbl. 2 (1977): 155–64. Jóhanna Katrín Friðriksdóttir. Women in Old Norse Literature. New York: Palgrave Macmillan, 2013. Jón Guðnason, ritstj. Dalamenn: Æviskrár 1703–1961, I. Reykjavík: Jón Guðnason, 1961. Jón Helgason. „Árnasafn“. Lesbók Morgunblaðsins, 1. desember 1963, 12–13. ———. Handritaspjall. Reykjavík: Mál og menning, 1958. ———. Jón Ólafsson frá Grunnavík. Kaupmannahöfn: Jón Helgason, 1925. Kålund, Kristian, ritstj. Katalog over den Arnamagnæanske håndskriftsamling, I–II. Kaupmannahöfn: Kommissionen for det Arnamagnæanske legat, 1889–1894. ———. Katalog over de oldnorsk-islandske håndskrifter i Det store kongelige bibliotek og i Universitetsbiblioteket (udenfor den Arnamagnæanske samling) samt den Arnamagnæanske samlings tilvækst 1894–99) udgivet af

77

Kommissionen for det Arnamagnæanske legat. København: Gyldendalske Boghandel, 1900. Kalinke, Marianne. Bridal-Queast Romances In Medieval Iceland. Ithaca, London: Cornell University Press, 1990. Krappe, Alexander Haggerty. Balor With The Evil Eye: Studies In Celtic And French Literature. [New York], 1927. Lárus H. Blöndal. Skrá um handritasöfn Landsbókasafnsins, aukabindi II. Reykjavík: Landsbókasafn Íslands, 1958. Már Jónsson. Árni Magnússon: Ævisaga. Reykjavík: Mál og menning, 1998. Nyerup, Rasmus. Udsigt over Peter Friderich Suhms: Levnet og Skrifter. Tilligemed valg af hans lærde Brevvexling. Kaupmannahöfn: S. Poulsen, 1798. Oddur Gottskálksson. Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar. Ritstýrt af Sigurbirni Einarssyni, Guðrúnu Kvaran, Gunnlaugi Ingólfssyni og Jóni Aðalsteini Jónssyni. Reykjavík: Lögberg, 1988. Olrik, Axel. Principles for Oral Narrative Research. Þýð. Kirsten Wolf og Jody Jensen. Bloomington og Indianapolis: Indiana University Press, 1992. Ólafur Halldórsson. „Bókagerð - Skrifaðar bækur“. Í Íslensk þjóðmenning, ritstýrt af Frosta F. Jóhanssyni, VI:57–89. Reykjavík: Bókaútgáfan Þjóðsaga, 1989. Óskar Halldórsson. „Bókmenntir á lærdómsöld 1550–1770“. Í Saga Íslands: Undir einveldi, ritstýrt af Sigurði Líndal, VII:215–316. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag og Sögufélagið, 2004. Páll Eggert Ólason. Skrá um handritasöfn Landsbókasafnsins, I–II, aukabindi I. Reykjavík: Landsbókasafn Íslands, 1918 og 1947. ———. Íslenzkar æviskrár: Frá landnámstímum til ársloka 1940, I–V. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1948. Petersen, Carl S. Det Kongelige Biblioteks Haandskriftsamling. Kaupmannahöfn: Ejnar Munksgaard, 1943. http://www.kb.dk/permalink/2006/manus/693/. Propp, Vladimar. Morphology of the Folktale. Þýð. Laurence Scott. 2. útg. endurbætt. Austin: University of Texas Press, 2005. Rafn, C.C. „Formáli“. Í Fornaldar sögur Nordrlanda eptir gömlum handritum, ritstýrt af C. C. Rafn, I:v–xxviii. Kaupmannahöfn, 1829. ———. Fornaldar sögur Nordrlanda eptir gömlum handritum, II–III. Kaupmannahöfn, 1829–1830. Schlauch, Margaret. Romance in Iceland. London: Allen & Unwin, 1934.

78

S[ighvatur] Gr[ímsson] Borgfirðingur. „Sigmundur Erlingsson“. Þjóðviljinn, 21. október 1898. Simek, Rudolf og Hermann Pálsson. Lexikon der altnordischen Literatur. Stuttgart: Alfred Kröner, 2007. Stefán Einarsson. Íslensk bókmenntasaga 874-1960. Reykjavík: Snæbjörn Jónsson, 1961. Stefán Karlsson. „Tungan“. Í Stafkrókar: Ritgerðir eftir Stefán Karlsson gefnar út í tilefni af sjötugsafmæli hans 2. desember 1998, ritstýrt af Guðvarði Má Gunnlaugssyni, 19–75. Rit 49. Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi, 2000. Svanhildur Óskarsdóttir. „Með handrit á heilanum - Safnarinn Árni Magnússon“. Í 66 handrit úr fórum Árna Magnússonar, ritstýrt af Svanhildi Óskarsdóttur, Matthew James Driscoll og Sigurði Svavarssyni, 9–37. Reykjavík: Den Arnamagnæanske Samling og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum; Opna, 2013. Svanhildur Óskarsdóttir, Matthew James Driscoll og Sigurður Svavarsson, ritstj. 66 handrit úr fórum Árna Magnússonar. Reykjavík: Den Arnamagnæanske Samling og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum; Opna, 2013. Sverrir Tómasson. „Hlutverk rímna í íslensku samfélagi“. Ritið 5, tbl. 3 (2005): 77– 94. ———. „Kristnar trúarbókmenntir í óbundnu máli“. Í Íslensk bókmenntasaga, ritstýrt af Vésteini Ólasyni, 2. útg., I:421–79. 1993. Endurprentun, Reykjavík: Mál og menning, 2006. Thompson, Stith. Motif-Index of Folk-Liturature: A Classification of Narrative Elements in Folktales, Ballads, Myths, Fables, Mediaeval Romances, Exempla, Fabliaux, Jest-Books and Local Legends, I–VI. Bloomington og London: Indiana University Press, 1975. Torfi H. Tulinius. „Kynjasögur úr fortíð og framandi löndum“. Í Íslensk bókmenntasaga, ritstýrt af Vésteini Ólasyni, 2. útg., II:167–245. 1993. Endurprentun, Reykjavík: Mál og menning, 2006. Unger, Carl Rikard. Thomas Saga Erkibyskups: Fortælling om Thomas Becket Erkibiskop af Canterbury: To Bearbeidelser samt Fragmenter af en tredie. 1869. Verri, Giovanni. „Um rithendur Ásgeirs Jónssonar“. Gripla 22 (2011): 229–58.

79

Vésteinn Ólason. „Inngangur“. Í Íslensk bókmenntasaga, ritstýrt af Vésteini Ólasyni, 2. útg., II:9–21. 1993. Endurprentun, Reykjavík: Mál og menning, 2006. ———. „Íslendingasögur og þættir“. Í Íslensk bókmenntasaga, ritstýrt af Vésteini Ólasyni, 2. útg., II:25–164. 1993. Endurprentun, Reykjavík: Mál og menning, 2006. ———. „Sögur - Bóksögur“. Í Íslensk þjóðmenning, ritstýrt af Frosta F. Jóhanssyni, VI:161–227. Reykjavík: Bókaútgáfan Þjóðsaga, 1989. Þorleifur Hauksson. „Formáli“. Í Sverris saga, v–xc. Íslenzk fornrit 30. Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag, 2007. Ögmundur Helgason. „Handritasafn Landsbókasafns 150 ára, 1846–1996“. Ritmennt, tbl. 2 (1997): 9–34. Örnólfur Thorsson, ritstj. Sturlunga saga. Reykjavík: Svart á hvítu, 1988.

80

Viðauki 1: Sagan af kóngabörnum 1. Sagan af|kongabỏrnumm Sigurde|og Signiju; Eijrnenn Triggva|kals Sijne|Þad var

Eitt Sinn|ad kongur og Drottning Ri|cdu fijrer Rijke sijnu. Þꜹ attu|Tvo Bȯrn. Hiet

annad Sigu|rdur enn an⟨n⟩ad Signij. Þa|ug voru Bæde könga-|Bȯrn. Væn og Äʃiꜳleg.

Vỏn|duʃt fremd og Sȯma hvort|ad Sijnu Edle. Og komu|ꜳ Sig Godu Mannorde,

ſem|þeim Sömdi. Oluʃt nu̇ þann Veg upp i Rijke|fodurs sijnns. Umm hrijd med hefd

og prijde ;|Þeʃs er og Geted, ad nærre kȯngs Rijke Biỏǁ

2. Eirninn kall og Kielling I Gardshorne þau ȧttu|þann son er Triggvi hiet, hann lagdeʃt

ä ün-|ga alldre I Ellda skiemmu Forelldra sinna|og sætte ei annare ydiu223, enn ad

liggia wid|Øskuʃtỏ og Reijka. Kongßon Sïgurdur|reid ȧ skög, Optlega vid menn

fodurs sijnns;|og ʃkiemmti sier ä fugla veidumm og Dijra og vard|af þvi ȧgiætur, og

vijdfrægur. Þo giȯrdu menn|Sigurdar k(ongs)s(onar) haad og spiė ä hvorriu

Kvóllde|ad Triggva kalls sijne, og sogdu hann föl, og|veʃta Illmenne af heimſku og

Otierlegu at-|hæfe. Geingu Elld hu̇ſs glugga i hv rtſinn|er þeir hi föru, og kolludu

Inn til Triggva med|hædne og spotti. Enn hann liėt ʃem hvorke viſse|hann nie skijlldi,

umm þeirra athæfi. Lijda so|framm Stunder ad ei bar til fr sagna. Þeſs|er gietid ad

Karl og Kielling veittu sijne|sijnumm Triggva stoorar Tólur, ad hann

lidi|Kȯngsmonnumm ad giordalauʃt Gabb og spie,|er þeir honumm Iafnann veittu, og

Qvadu ad al-|drej mundi nockur Dugur i honum verda. Ecki|Gaf Triggvi sig ad þvi,

og hiellt framm ſama|athæfe; Eitthvort sinn toluduʃt þau vidǁ

3. Kall og Kiellïng. Og sagdi Kall: Alldrej hef eg|siėd þickʃtijrndare himin enn nu. Satt

er þad kall|minn sagde Kiell(ing) og Ecki gaade eg þess fijrr enn nu|þu sagder mier

þad. Þeſsa verdur a heijrſla Trigg(va)|I Elldhuʃe. Fijſeʃt hann mi g þetta ad skoda.

223 Eini staðurinn þar sem stafurinn y er notaður.

81

Skr-|uckaʃt224 fætur og vill ütg nga. Er hann þä so digur|og þrijʃtinn ad hann ber

med sier ä herdumm Drötter|ok Dijra Umbünïng225, þvi ei komʃt hann annars ut.|Fer

hann nu ut under Skijdgard, og Göner alla Noo|ttina uppi Sti rnurnar, þar til Dagar.

Þȧ kiemur Kiell|ïng ut, og sijneʃt henni ad Riʃe mikill liggi þar

under|Skijdgardenumm, og verdur hun nu hrædd og hleipur|Inn aptur til kalls sijns,

og seigiʃt sied hafa ögnar|legt Trȯll liggia ut under Skijd gardi þeirra.|Eij mun þad

Troll vera ʃeiger kall. Þvi þetta mun|vera Triggvi sonur ockar þö þier stoor sijneʃt,|og

mun hann ei hafa þolad frijunar ord226 Ockar,|og fared þvi ur Elldahüʃe: Far þu nü

utaptur|og Gef ad þeʃsu betur Gaumm. Geingur Kiell(ing) nu ut|aptur og sier ad þetta

er Triggvi sonur sinn. Hann|Rijs þ upp og hriʃtir sig Bidur hann nu modur ʃijna|ad

fä sier klædi. Enn hun færer hönumm Slippu227 ei|na og klædeʃt Triggvi henni, Rijs

hann þ |fætur og hleipur Riettſijnis228 ut skög. Finnur hann fijrer|sier Eijki trie

eitt. Þvi kippir hann upp medǁ

4. Rȯtumm og seiger vid sialfann sig, ad þad sie Berlegt229|ad hafa ei neitt i hendi, hvad

ſem ad bera Kunne. Ge-|ingur hann nu enn leingur framm i skögienn ad Eijk no-

|ckurre. Þar stidur hann sig ȧ framm og skigniʃt umm.|Sier hann nü hvar skammt i

Burtu eru XIIJ Menn| leijkvelli230 þeir senda Sopp231 i milli sijn. Eijrn|þeirra sender

Soppinn ad Triggva. enn hann tekur vid|med vinʃtri hende, og sender aptur med þeirre

hægre|ȧ eijrn þeirra og fieck hann þegar bana. Aptur ʃender|annar Soppinn ad Triggva,

en þad för ſomu leid ſem|fijrre, ad hann tȯk moti Soppnumm og sendi aptur|

annann so sä doo lijka; Sigurdur Kongs son|Tekur þä til orda og ſeiger. Tokumm heʃta

224 Sjá viðauka 7. 225 „Drötter ok Dijra Umbünïng“ er einnig að finna í ÍB 138 4to, 188v og Sám 6, 56. Sjá viðauka 7. 226 Frýjunarorð, sbr. frýjun: ögrun, sbr. viðauka 7. 227 slippu] úlpu, ÍB 138 4to,189r. Orðið „slippa“ finnst ekki í íslenskum orðabókum, sbr. viðauka 7. 228 Orðið er í ÍB 138 4to, 1893 og SÁM 6, 57. 229 „berlegt“ er einnig í ÍB 138 4to, 189r og SÁM 6, 57. Berlegur: greinilegur, skýr, glöggur. En hér sennilega í merkingunni: „hafa ekkert í hendi sér“ sbr. tóma eða bera hendi. Sjá viðauka 7. 230 Sjá viðauka 7. 231 Soppur, sbr. knöttur, bolti, sbr. viðauka 7.

82

vora þvij|hier eroß ei vært ad vera fijrer Trolli þeſsu. Þeir|giỏra nu so, og Rijda heim

til hallar. Seiger kongs|son nu Fodur ʃijnum, ad þeir hafe sied ȧ skögienumm|þann

Dag Troll miked og hafe þad drepid 2 menn hanz.|Ecki mun þad Tr ll vered hafa

ʃeiger kongur: helldur mun|þad Triggvi kallsʃon, og Ættlad ad launa ijckur|Gabb og

Spott, ſem þid h numm alljafnt Gi rt hafed,|og er þad oviturlegt ad leggia Illt til

ann⟨a⟩ra Ökiendra|sem menn vita ecki hvad sier meiga kunna. Vijkur|nu s gunne til

Triggva þegar kongson og menn hanz|flija af skögienumm heim til Borgar. Þȧ Geingur

Tr(iggvi)ǁ

5. eirninn heim ad Gards horni finnur hann nu fodur|Sinn og modur og seiger þeim hvad

i hafe skoriʃt, i ferd|hanz. Enn þau l ta vel ijfer þeʃsu. Þo seiger Kall|fader hanz: ad

eigi muni honumm þar hi þeim leingur|fridt verda, og Bidur hann fara heim til hallar

og|lijſa Wijgunumm. Enn Biooda sig Sigurdi Köngs-|sijni til þiönuʃtu i stad Beggia

þeirra ſem Drepner|voru, og ad veita h numm so mikid fijlgi ſem bäder|þeir. Eg hefi

tt Ofrid og orruʃtu ſeiger Karl I|m rg r vid eijrn köng. Og hefur hann alldreij

Getad|nie þorad mig ad Drepa, ȧ medann þu varʃt i|Ellda Skäla, þvi hann hefur haft

hrædda232 og Imeg-|uʃt ä þier, ad þu munder mijn hefna. Enn nü þu ert|burtu ur Ellda

Skälanum, mun hann hallda þig da|udann og vinna ä mier. Hvad ed sijnu verdur

framm|ad fara ſem auded verdur. Hier eru klædi Good|er Ieg vil gefa þier og vopn.

Enn sverd mitt er annad|Beʃta i heiminum. Þad m Ieg ei miʃsa medan|Ieg lifi, og

eg von Ofridar af kȯngi þeſsumm. Hann|kiemur hijngad, hvöria Nij rs noott ad

beriaʃt|vid mig. Hann er fullur flærdar og fi lkijngiz. Enn þä|Ieg finn mig Bana s r

feingid hafa, skal Ieg|kaʃta Sverdinu i moodu þeſsa er Rennur hi ko|ti mijnu. I lignu

þ ſem þar er i, og mæli eg soǁ

232 hrædda og] ÷ NKS 1802 4to, þvi hann hefur haft imeguſt á þier, ÍB 138 4to, 184v.

83

6. umm ad þvi naae einginn Utann þu Eirn. Meira kann|eg nu ei med þier til ad leggia.

Fardu nu vel og alld⟨r⟩ei|Illa. Verdi þier allt til sigurs og lucku. Kvedur|nu Triggvi

Fodur sinn og mödur og verdur þar mikill har|ma skilnadur af þeim Karli og Kierlingu.

Þvi þau|voru bædi Gỏmul ordinn. Enn Triggvi geingur nu gla-|dur og kätur og stefner

ad köngshollu. Hann hefur i hende|Eijk sijna er hann ur Skogienumm med rȯtumm

upp kipp-|ti, ʃem fijrr er sagt, og sijneʃt nü enn mj g Trolls-|legur. Hann bidur sier

Inngaungu leifeſs. Enn vard-|menn vilia ei lofa h numm þad. Söpar hann þeim|þȧ

fr sier ſem sorp være. Og geingur so Inn mitt|Hallar Golf og Kvedur kong og

Sigurd kongsſon þeir taka|seinnt mäle hanz, þä seiger Triggvi: Fijrʃt Einginn|spijr

mig hier ad nafni, mun Ieg sialfur seigia, og|heiti Ieg Triggvi sonur Karls og Kiellïngar

i Gards|horni nærʃta hefe Ieg Drepid 2 menn Sigurdar kon-|gsʃonar fijrer þad þeir

hæddu mig og spottudu fijrer saka|leiʃe. Og Bijdʃt eg nu til þionuʃtu vid Sig(urd)

kongss(on)|aptur i þeirra stad, og ad veita h num Eingu minna|fijlgi og mann skap

enn þeir bäder. Dauda ertu helldur|verdur seiger Sig(urdur) k(ongs)s(on). Ecki sijneʃt

mier so seiger kongur þvi|mier lijʃt ſ betur hafa er mann þennann hefur i fijlge|med

sier. Talaʃt nu so til fijrer Umm mæli köngs, ad|Sigurdur Kongsſon tekur vid Triggva,

og settʃt hannǁ

7. nu nidur i sæti hinna Tveggia, er hann ädur Drepid haf|di og er hann þar umm

veturinn. Lijkar kongi og Sig(urde)|kongssijni ſem og ollumm Utifr vel Wid hann

og Fær|hann Unnuʃtu hvȯrs manns233. Lijdur Veturinn enn kiemur|ad sumar

maalumm. Geingur þa Sigurdur kongsſon fijrer f |dur sinn og bidur hann umm Skip

og menn, og Kvedʃt vilia|hallda til an⟨n⟩ara Landa ad leita sier Fiaar og

fremdar234|kongur seigiʃt Ecki mundi letia hann þeſs. Og eru nu büinn|tvo skip

skrautleg med allri tilfæringu og volldu|lidi. Skijlldi Triggvi Kalls ʃon fara med

233 unnuʃtu hvȯrs manns] hvors manns lof ÍB 138 4to, 190v. 234 Fiaar og fremdar] æfintyra ÍB 138 4to, 190v.

84

Kongsijne og|vera ȧ hanz skipi. Enn ſem þeir voru albüner geingur k(ongs)s(on)|fijrer

födur sinn og Kvedur hann kurteijslega235; Kongur bidur|sijni sijnumm allra vijrdta og

skilia þeir med meʃtu blij|du. Lætr nu Sigurdur kongʃson i haf og Gefur ei vel|bijr.

Hefur hann bædi l nga og strijda Üti Wiʃt. Kiemur| fijrer þeim si far ölga og

hafvillur. Wita nu ei hvar|þeir eru komner edur hv rti heim þeir hallda. Geingur þad

lein|gi, þar til eijrn Dag, ad þȧ kiemur ʃo mikid Vedur og|Siafar megni, ad þeir f

Eingu Widrädid, og Rekur|nu Skipinn ſem Werda vill, þar til þau af ofvidri

og|stoorʃioo leiʃa i sundur trie fr trie og forgaanga236|enn menn aller tijnaʃt. Verdur

nu Triggva þad fijrer i þeſs-|umm vandrædumm, ad hann leggʃt til sunds og higgur

soǁ

8. lijfi sijnu Biarga skuli medann til vinnſt. Finnur|hann þȧ i Kafinu Sig(urd) kongsʃon

fijrer sier og leggr |Bak sier og Sijnder med hann leingi Nætur. Enn hvad leingi|vita

þeir eij, þvi þeir voru nær vitlauʃer ordner af siäfar|volki, þar til umm sijder, ad Triggvi

finnur Grunn fijrer fotum|sier Rijs hann þ af sundi og Ber Sig(urd) kongsson þar|til

þeir koma bader a Land. Setiaʃt þeir nu nidur lunir og|Daſader, af l ngu og stróngu

si far volki, og vita|ei nu̇ hvar ad komner eru. Si þeir nu̇ hvar lioos|er Bored skammt

fr þeim. Seiger Trigg(vi) vid :|Skulum wier ei fara epter liooʃe þeſsu!

Sig(urdur) seiger hann|r da skuli. Gi ra þeir nu ʃo fara Epter lioʃinu allt þar|til ad

þeir koma ad Eijrnri Borg. Þar lijdur liooʃed Inn|enn þeir g nga Epter. Si þeir þar

Eina konu i Borg|inni I hallar herbergi nockru og var hun ad büa|upp Sæng

Tijgulega, þeir heilʃa Upp hana enn hün|Tekur vel kvediu þeirra. Og spijr þ ad

nafni annar|kvadʃt Rafn enn annar Kr kr237 heita. Hun Bidur þa si-|tia. Enn þeir

ʃegiaʃt Eij lünir wera. Spijria þeir hana|hvȯr fijrer Borg þeirre r da Eigi. Eru þid þ

235 Sjá viðauka 7. 236 Sjá viðauka 7. 237 Í Göngu-Hrólfs sögu segir að bræðurnir Haraldur og Sigurður synir Játgeirs konungs á Englandi fóru huldu höfði um ýmis lönd og nefndu sig Krák og Hrafn, sjá nánar, Rafn, Fornaldar sögur Nordrlanda, III:350.

85

Okunner ʃeiger|konann ad þid vitid þad ecki þeir seigia nockra ʃtund hȯf|umm vier

hier wered og ei leingi og er þad Iþrött ockar|ad fara land af landi og si sidu h fdïngia

komumm238ǁ

9. vid hier i Borgina strax. Konann seiger: kóngur|rædur hier fijrer er Galldra köngr

heiter. Þeir Seigia: hvar|er hann, þvi vid si um hier Eingann mann? utann þig.|Hún

seigir, hann er Ridinn Skög dijra veidi og fug|la med alla sijna menn. þvi hann

ættlar nu nær hann ki|eimr heim ad drecka Brwd kaup til kongs dottur þeir|rar, Er

hann vann og sockti i nnr lȯnd. Rafn spijr hv|ỏrninn sȯckti hann hana? I Giær ʃȯckte

hann hana ⸠ kom hann|med hana ⸡239 ſeiger konann og fȯr hann i Ricki Fȯdur hennar

og drap for|elldra hennar, Kónginn og Drottninguna og tok hana ʃo|nauduga Burtu,

og heiter hun Signi. Atgiỏrfis-|madur er Galldra kongur ʃeiger Rafn: þad er hann vijʃt

ſeiger|konann þvi hann hefr tt strijd vid eijrn frægann kall i|mỏrg r; Enn hefur þö

Ecki sigrad hann fijrrenn I|þeſsari ferd: Seig mier meira af þeirra vid skiptumm|seiger

Rafn: konann ʃeiger ad hann Giỏrdi þri r Skialld|Borger i krijngumm hann og stȯck

hann ut ijfer tvær enn i|þeirre þridiu ʃeiger hun komu þeir hann spiȯta

l gumm240|þvi hann var þ ordinn Bædi s r og mȯdur. Alldrej þij|kiaʃt þeir hafa

vitad Gamlann mann ʃo vel veriaʃt ʃeiger|hun. Enda hafdi hann i hendi þad Beʃta ʃverd

ſem i he|iminumm er og þ hann s ad hann mundi deija fleig|di hann Sverdinu I

mooduna hvadann þad nærʃt alldrej.|og þijker Galldra kongi þad meʃt ad hann n di

þvi Ecki;ǁ

10. Enn hann hefur þo bariʃt Eptir þvi i mȯrg r. Ieg villdi|seiger Rafn Ieg hefdi vered

kominn honumm tid241 ad ʃtodar.|Ertu skijlldur honumm ʃeiger konann? Neij ſeger

Rafn, he|ldur þȯtti mier fremd i soddann manni lid ad veijta. Hann|atti son ʃeiger

238 komumm] tvítekið í NKS 1802 4to. 239 Hér er leiðrétting á spássíu sem er sett innan ⸠ xxx ⸡. Í handriti er strikað undir merktan texta. 240 Sjá viðauka 7. 241 tid] til ÍB 138 4to, 192r.

86

konann og l hann alltijd i Ellda Sk la.|Ecki þottuʃt menn vita afl hanz ſeiger hun.

Og var Gald|ra kongur alltijd hræddur vid hann. Þvi seiddi hann þ baada|Sigurd

Bröder Signijar og hann af landi burt so þeir skijl|du ſier ei mötʃtodu veita. Og Giordi

ad þeim kijngia|vedur. So þeir foru i sioo og t pudu lijfinu. Seiger hun og|Ottaʃt hann

nu Einga menn fijrʃt þeir eru dauder. Hvar|er kongs Unnnuʃta ʃeiger Rafn? Þrijr menn

voru ʃender|til Skipa Seigir konann, ad ʃækia hana heim i kon-|gs vagni. Vid

kunnumm ad leijka hlioodfæri ʃeiger|Rafn og ʃkulumm vier skiemmta henni

leidinne. Vijsar|nu konann þeim þ leid ʃem kongs Brüdur skijllde|umm fara. Og

skiliaʃt þeir so vid hana. Þeir G nga|nu leid ʃijna Sigurdur og Triggvi. Ünnz þeir mæta

ʃendi|m nnumm Galldra köngs med Brwdina, og heilʃa þeir|hvorier adra: Triggvi

ʃeiger þeim ord köngz ad hann|skipar þeim ad f mat og ʃijdann ad flitia Onnur

faung|af skipumm heim hid hradaʃta. Enn þeir Eigi Brwdinni|heim ad fijlgia. Giȯra

þeir nu so, og þora ei mötiǁ

11. ad briöta ordʃendingu kȯngs, og eri ʃundur barʃt med|þeim, Snua þeir Triggvi og

Sigurdur ut til skögar med Brwdi|na Signiju Sijʃtr Sigurdar. Og vard hün feiginn

þeirra|fundi. Enn sendimenn föru med flijti til skipa ad sæ|kia þad hiner hȯfdu umm

skilad. Og er þeir komu med þad|heim til hallar og finna Galldrakȯng spijr hann þä

ad|Brwde sinni. Enn þeir seigiaʃt hana i hendur feinged hafa ʃe|ndi mỏnnumm köngs.

Epter bodi hannz. Verdur hann nu ʃo ær|og ödur af Reidi ad hann drepr þ alla þri ;

I þeſsu|lijtr hann i Gupner242 ʃier, og sier hann nu af sinni Galldra|kunn ttu og Iþrött

ad þeir Triggvi og Sig(urdur) kongson eru |lijfi. Og hafa n d Brudi hannz. Seiger

hann nu sitt hid|sijdara werra ordid hinu fijrra, og ad alldrej mætte|hann nu upp

þadann Ohræddur vera meiga fijrer þeim þö ʃeigist|hann enn nockud bragda meiga

med konʃtrumm sijnumm.|Enn þad er nu fr Triggva Sigurdi og Signiju ad ʃeigia|ad

242 gupnir] gaupnir SÁM 6, 64. Sjá viðauka 7.

87

þau Räfa umm Skoginn ʃem verda vill. Kiemur nu| þau so mikid hȯrku vedur med

fiuki og froʃti ad ein|gumm manni var vært uti ad wera. Og seiger Trig(gvi)|ad þau

skuli fara under Ölpu sijna er moder hanz haf|di Gefid honumm, þ hün fann hann

under Skijdgardinum|ſem ädur er sagt. Og ſem konga Bȯrn hafa þar litla|stund under

vered Tekur þeim ad orna og finna þaug ad þa|ug hreʃsaʃt nockud. Spijr Triggvi þau

nu ad hvortǁ

12. þau vilie ei leita sier nockurs farborda og hial-|par. Enn þau bidia hann fijrer ad si

Seiger hann sier|lijtiʃt Ecki þar leingur ad sijtia i þvi lijku heliar Vedre|og Tekur

Sigurd og lætur ødru meiginn i Barm sier.|Enn Signiju Ødru meiginn. Geingur ʃo

ʃtad Iklæddur Øl|pu Mödur sinnar. Hann Geingur nu slijkt ſem Vegur hannz

ummlä|þö mædid veitti þar til hann raʃar umm Eina þüfu.|Hugſar hann nu til orda

fodur sijnnz. Þvi kall hafdi sa|gt hỏnumm ad Ef þad kiæmi nockurn tijma ȧ Æfe|hanz

ad hann Geingi og bꜹri þad nockud i Barminum ʃem|honumm þætti umm varda og

ef hann raʃadi skijllde|hann þriʃvar ʃinnumm G nga Sỏmu Spor þriű Aptur ä|Bak og

aframm. Giorir Triggvi nu ʃo og strax opnaʃt|fijrer hỏnumm höll Eijrn. Þar G nga þau

Inn oll þriw.|Þar voru Upp bunar 3. sængr og miỏg Wandadar i hool|numm var og

nög Gull og Silfur, Vijn og koʃtur, Vopn|og herklædi, og annad allt ʃem hondumm

skijlldi tilri|etta. Hier skulumm vid umm buaʃt seiger Triggvi, so|leingi ʃem oʃs audid

Verdur hierad Dvelia. Enn þad seigi eg|þier seiger243 Signi seiger Triggvi ad möder

mijn Gaf mier|øxe þeſsa ſem nu ber eg og sagdi hun mier ad ef|mig sækti nockurn

tijma so mikill svefn ad Ieg gi|æti Ecki vaknad þ mier lægi, þ skijldi binda|Øxina

Eijrn hỏrþr d ijfir hỏfdi mier og hagaǁ

13. So til ad hijrna hennar ditti Enni mier so Bloodvỏk|af ijrdi þ munda eg vakna.

Og ef ſo kann einhvorn|tijma til ad bera ȧ medann vid erumm hier samann þ |set

243 Bæði í ÍB 138 4to, 193r og SÁM 6, 64, þá vantar orðið „seiger“ og lítur setningin þannig út: „Enn þad seigi eg þier Signi seiger Triggvi“ og um leið verður hún skiljanlegri.

88

Ieg þier þeſsu Giætʃlu ad hafa. Leggiaʃt þau|nu aull fijrer sitt i hvoria Sængina umm

nottina. Enn|fiukhrijdinn tekur ad mijnka. Nu lijtur Ga|lldra kongur i Gupnir sier og

sier ad Triggvi og köngabỏ|rn eru kominn i Gullhool sinn Gooda, þorir hann nu ei ad

Triggva þar ad r da. Þvi kallar hann|til sijn kiellïnguna modur sijna og ʃeiger hun

skule|r d til Gefa. Enn kiellïng seiger: ad hann skuli str-|ax ad morgni senda þ ngad

Bl menn og Berʃer-|ki ad Drepa þau oll. Enn Ieg mun til si seiger hon|ad Triggvi

veiti ecki mikla mötʃtỏdu. Safnar nu|Galldrakongur þeſsu Illþijdi samann og var þad

ad tỏlu|vel fiỏgur hundrud; Hallda nu Bl menn ad hólnumm|og vaknar nú Sigurdur

vid Brak og Breʃti ʃem villdi hö|llinn ofann þau rijda. Sigurdur ⸠ Signij ⸡244vaknar

lijka. Enn Tr|iggvi hrijtur nu ʃem ȧkafaʃt og verdur hann ei vak|tur, þvi kiellïng

Galldrakongs möder hafdi stünged|honumm Svefnþorn245 umm nottina. Hugʃar nu

Sign(ij)|umm ord Triggva og feʃter nu Øxe hanz hỏr þræ-|di ijfer hỏfdi hannz, og

lætur falla so hijrnann gi-|orer Bloodvỏk i Enni hanz. Vaknar Triggvi þ og|sprettur

fætur og lijta þeir Sigurdur ut umm hölinnǁ

14. og si ad fiỏlldi Illþijdis er þar ad kominn med|Vopnumm og herklædumm. Tekur

Triggvi nu þau be|ʃtu herklædi sem i holnumm voru og sverd ad þvi sk|api og fær

Sigurdi. Enn si lfr vill hann vera i Ölpu|sinni þvi moder hannz hafdi sagt h numm

ad alldrej|Biti hana Ovina Iärn og alldrej ijrdi hann i henni|ȧ sundi mȯdur medann

ecki væri i sundur skorinn|af þeim honumm vel villdu. G nga þeir nu üt Tri|ggvi og

Sigurdur og snüa samann bỏkumm. Tokʃt þar|hin hardaʃta Orruʃta Verdur Triggvi

skeinuhættur|Illþijdi þeſsu. Eijrninn Dugar Sigurdur vel og lijkur|so umm kvolldid

ad þeir drepa þad allt. Fara þeir nu|Inni hölinn, og hefr Signi Matbued fijrer þ , þvi

af noo|gu var ad taka; Epter Snæding leggiaʃt þeir til ʃve-|fns. Enn umm morguninn

heijra þeir ſem fijrri Breʃte og|Dijnnki. Lijta þeir þ u̇t ur holnumm og sj ad Ill

244 Hér er leiðrétting á spássíu sem er sett innan ⸠ xxx ⸡ . 245 Sjá viðauka 7.

89

þijdi|þad allt ſem þeir Deiginum ädur Drepid hófdu Var |fætur komid og bued til

Bardaga moti þeim. Gein|gu þeir nu̇ ut og hegdudu øllu ʃem fijrra Daginn og

ʃoc|ktiʃt þeim nu̇ halfu verr enn fijrr. Þö G tu þeir umm|kvolldid drepid þad. Nu

g nga þeir Inni holinn og|snæda og er þeir eru Büner ʃegir Triggvi. Vaka mun|Eg i

Nött og vita hvad til Ber ad Troll og Bl menn þeſser|lifna upp aptr, og Beriaʃt vid

ockur. Geingur hann þ ut|I Olpu ʃinni og hefur ỏxe sijna i hendi og leggſt nidr246ǁ

15. i valinn medal hinna Daudu og|verdur hann einnkiſs var fijrr enn moti Deigi.

Sier|hann ad Kietta ein kolʃvȯrt nema hvijt Eijrnre lỏ|ppinni. Geingur ad valnumm

og Riettir þad hvijta i munn|einnz hinns Dauda, og fer hann þegar fætr og hriʃter

sig;|so Giorir hun audrumm og fer somu leid. Geingr hun nu̇ ad Triggva þvi hann

var þeim nærʃtur og rekur|þad hvijta lỏppinni uppi hann (En þad var raunar|lijf

Gull247). Triggvi bijtr þad af sem hvijtt var. Enn hỏgg-|ur øxinne ofann ä hrigg

Kiettunnar og ʃeiger: Læt eg þad|umm mællt ad þu̇ getir Ecki d id fijrr enn þu

kiemur|I kiỏlltu Galldra köngs. Og hann verdi faʃtur i stool|sijnumm þar til eg drep

hann, hvad langt ſem þar til lijdur.|Hleipur nu̇ kiettann þar til hu̇n kiemur i fang Gald-

|ra kongs, og dettur þ daud nidur og var þad moder|hanz. Enn honumm brȧ so vid

ad hann vard faʃtur i ʃæti|nu, sem hann i sat og bar nu ei til Tijdinda fijrʃt umm|sinn.

Sat Triggvi, Sigurdur og Signij i holnumm og|hỏfdu þar alls kinnz, Nægtir og mættu

Eingumm rä|ſumm þar framar. Nær ed Sumra tȯk seiger Triggvi:|mier leidiʃt hier

ad vera og vil eg vid fỏrumm hiedann og|leitumm oſs annara farborda ef skie mætti

ad hagur|vor kijnne ad batna. Köngabȯrn badu hann r da|og bua þau sig nu̇ øll burt

ur holnumm, og taka med|sier þadann þad þau villdu og Gatu med komiʃt,ǁ

16. G nga sijdann leid sijna. Enn Gall⟨d⟩ra kȯngur Sier nu i|Gupnir sier ad þaug eru i

burtu ur Gullhool hanns.|Giorer hann enn þaug kijngia vedur. Eingu minna|enn

246 og leggʃt nidr] tvítekið á bls. 15 í NKS 1802 4to. 247 Sjá viðauka 7.

90

hid fijrra so Engumm var vært uti ad vera. Te|kur Triggvi nu Sigurd og Signiju under

Ølpu sijna,|og kaʃtar bak ſier þvi er þaug ȯll B ru og geingur|so þanninn l ngan

vega. Þar til hann sier fijrer framan|sig Glampa nockurn. Þvi mijrkt var annar ʃtadar|I

krijngumm hann af Kijngia hrijdinni. Sier hann þad|er ʃtoor mooda og Tveir stȯrer

Steinar i. Hugſar|hann nu ad Fader hanz hafdi sagt hỏnumm af modu|þeſsare og þad

med ad alldrej hefdi nockur madur ijfer|hana komiʃt utan hann og Knütur broder sinn.

Lijka|hafdi hann sagt honumm ad hann skijlldi alldrei hỏggva|þann mann ʃem sijngi

i Øxe hannz þ hann hana ad|Hỏnumm reidde. Bidur nu̇ Triggvi Sigurd kongs

son|ad neita frækleiks sijnns og hlauppa ijfer Moduna.|Enn Sigurdur ʃeiger þeſs einga

von, ad hann sier þar til|Treiʃte. Hleipur þ Triggvi med alla Bijrdina sem|hægaʃt

ijfer umm. Enn er hann kom ad Backanumm hi-|nu meiginn, Slettiʃt ur Moodunne

skvetta T |hỏnumm og hliop þegar i Drep. Hann lagdi þȧ vid lijfgu|llid ʃem hann

beit framann af loppu Kiettunnar og|Drög ur allann Verk og Bölgu ʃem alldrej hefdi i

komid.|Batnar nu vedred og Ganga þaug nu øll ʃamann ogǁ

17. Ecki leingi, ädur þau finna fijrer sier Huʃa bæ lijtinn.|Þar stood üti stulka. Og er hun

ʃier til ferda komu|manna hleipur hun Inn ʃem hvataʃt og seiger Bönda|ad Riʃe mikill

fer ad Bæ hanz. Bȯndi vill ur Reck|iu færaʃt. Enn Triggvi Geingur fijrre Inn til hannz

og hei|lʃar honumm. Bondi tekur honumm og tala þeir samann.|Finʃt þad þ ad þar

var fijrer Knutur Fodurbroder Triggva|og bidur hann þeim med sier vera nærʃta vetur

og þad þi|ggia þaug; Umm vored bidur Triggvi Knut ad fa ʃier|Skip og menn og ʃeigiʃt

vilia þadann Burt hallda. Knü|tur Giorer nu̇ ʃo, og fær þeim velʃkipad Skip og

allann|farar Greida med meʃta Gȯdvilia. Helldur nu̇ Trigg-|vi og köngsbȯrn þadann i

haf, og f Enn hafvillr og mi|kinn Olguʃioo. Hrekiaʃt umm hafed allt Sumared. Þar|til

umm sijder ad af ofur ʃtörʃioo Leiʃer i sundur ski|pid Under þeim og Tijniʃt Menn og

fie. Leggʃt Triggvi enn|til Sunnz og finnur fijrer ſier kȯngs Bỏrn, Sigurd og

Sign(iju).|Stijngur hann þeim under Ølpu ʃijna og sijnder nu |kaft. Kongs Dotter

91

verdur heitt under Ølpunne. Vill nä|svolun, og skier Gat fijrer andliti sier

Olpuna.|Þȧ dregur so af Triggva ad honumm fataʃt sunded|og ʃeiger hann: annad

hvort er nu̇ Olpa mijn skiemd,|edur Galldra kongur Giorir nu̇ nogu mikla kijngi|ad

mier. Og i þvi kiennir hann Grunns med fotunum.|Bidur hann þa Sigurd varmann

undann Ølpunne ad248ǁ

18. hiälpa þeim ad landi, og Giorir Sigurdur so.|Var þad ei l ngt, þo vard Triggvi so

mattla|us Epter þad skorinn var Ülpann ad hann komʃt|þad ei hi lparlauʃt. Og er þau

voru oll i fiỏru|kominn voru þar þriu þara brok.249 Bidur Triggvi|ad leggia sig under

Eitt, og segir: Under hvȯrt|hinna skuli sig leggia sitt hvort þeirra siʃtʃtkina.|Eij viſsu

þaug hvar ad landi þaug voru kominn.|Holmgards kongur atte land þad, og hafdi ʃett

Bl |menn Tvo til ad veria og vakta fiỏru þ . Þeir|Geingu þar daglega umm, og er

þeir i þetta sinn|þar komu, s u þeir ad Raudt Skarlat stood|ut u̇r Eijrne þara

hrügunni. Þeir kippa þar i og|finna ad þar er giætlega frijd Iomfrw. Taka þe|ir hana

nu̇ og vilja færa kongi. Enn hun bidur þ ad|skilia Ecki vid sig broodur sinn og fooʃtra

sinn. Eru|þeir nu Bader tekner og heim til Borgar færder, og kaʃtad i|Mijrkva stofu.

Enn Signi er færd i Skiemmu til|kongs Döttur. Vill hun þ hvỏrki Eta nie Drec-|ka

fijrr enn hün veit hvad ordid er af Brodur sijnum|og föʃtra. Er þ skipad þ af Mijrkva

stofunni|ut ad leida, þvi köngr vill fijrer hvorn mun þeʃsarar|meijar f ʃier til

Drottningar. Er þȧ nauti beitt|fijrer annann Enda feʃtarennar. Enn annar Sïgur i

Mijrkvaǁ

19. Stofuna, og Dregr nauted þa upp, þvi þeir treis|tu sier ei ødruvijsi vid Triggva so

Stoor og Digur|var hann. Nü er þeir fielagar voru upp komnir og|nockud aflünir

G nga þeir ad hȯllu köngs og|hỏggr Triggvi i sundr hvỏriar dijr, þar til hann ki|emur

i holl fijrer kong og er hann Öfrirn og Illilegur|og spijr: Hvort hafe þier seiger hann,

248 ad] tvítekið á bls. 18 í NKS 1802 4to. 249 þara brok] þara brok ÍB 138 196r; þara bruk SÁM 6, 70. Þara brok, sbr. þara hrúga, sbr. viðauka 7.

92

l ted f nga|ockur skipbrotz menn. Slijkt hefdi alldrej Godur|köngr Giort. Grijpur

Triggvi þ i h r kongi og|vill hỏfudid af snijda. Enn ollumm vard billt vid og

hr|ꜹdduʃt lijka soddann störmenni. Enn er hann ættlar|til ad hoggva hvijn i Øxinni.

Hugʃar hann þa umm|r d fodur sijnnz og ʃeger ad kongr Skuli fijrʃt ʃeigia|ætt sijna.

Og er hann er fram ad telia finnʃt þad ad|k(ong)r er Mödur Brooder Triggva. Hafdi

hun vered|hertekinn enn Kall keipti hana af Rænïngium. Verdur|þȧ allt Gott þeirra I

Millumm þ vijſer verda umm|skijlldʃemi Sijna. Bijdur k(ong)r þeimm þar ad vera

med|Sier umm Veturenn. Enn Triggvi ʃeigeʃt þad so Einns|þiggia viliȧ, ad hann L ti

Drepa Bl menn þ er|þ hefdi lüna og þreitta I Mijrkva ʃtofu Inn ʃett, enn|k(ong)r

kvad aungva füʃa til vera vid þ ad fäʃt nema|Ef þeir villdu Si lfer til verda. Geingu

þeir þȧ Tr-|iggvi og Sigurdur ad Bl mȯnnumm og hiuggu afǁ

20. þeim hȯfudenn og settu Steingur ødrum til vid-|vỏrunar, ad fara ei so med

Skipbrotsmenn, eru|þeir þar umm Veturenn i Godu ijferlæti. Enn Sig|ni situr i

skiemmunni hi kongs Dottur og skiemmta|þær sier Daglega ad ijmmʃumm hlutumm.

Þa er ad|wore lijdur Bidur holmgards köngr sier til handa|Signijar Sijʃtur Sigurdar.

Enn h n gefur þad svar ad|Bröder sinn Sigurdur og Triggvi foʃtri sinn R di þar|meʃtu

fijrer, þvi hann hafe hi lpad þeim B dumm|ur morgumm lijfs h ʃka og eigi meʃt r d

sier.|Þar fijrer leitar nu kongr þeʃs vid þ og Giora þeir hon|umm þann koʃt med

þvi ad hann skuli Gipta Sigu-|rdi Dottur ʃijna, er Aaʃa hiet og skijlldi tveggia-|ara

freʃtur vera Brwd kaupa, og þeʃsu Iȧta nu̇|aller og lindir vel; Umm Wored g nga þeir

foʃtbr(ædur)|fijrer Holmgarda köng og bidia hann ad stijrkia ſig|med lid og skip ad

þeir vilie i hernad hallda. Hann|tekur þar vel under og lætur bwa 6 Skip hid

koʃtu|legaʃta. Med vopnumm og valed lid og leid er þ foʃt|brædur þar ad og Gefur

þeim skipinn ſo ſem þaug|þar til Buinn flutu. Þacka þeir foʃtbrædur kongi kurte|islega

hanns höfdinglega Giof og vidur hondlan og|kveda sier þ Ecki ad vanbunadi vera.

Enn kȯngur|seiger ad þeir Skuli Drecka dur med sier velferdar Øl,|og er nuǁ

93

21. Stofnud dur hin ȧgiætaʃta Veitʃla og ʃem h n|er albüinn Settʃt kȯngr i h ʃæti og

þeir foʃtbrædur|sinn hvỏria hond honumm og vill⟨d⟩iſsmenn og250 hijrd-|inn þar utj

fr . Fer nu̇ Veitʃlan fram med meʃtu|veralldar Gledi. Eru þ Iömfrurnar Innleiddar

med|meʃtu Veralldar Gledi og sinn Stooll settur han|da hvỏrri. Enn kȯngr hefur enn

ad niju upp Boon|ord Sitt, og Bidur Sier til handa Signijar k(ongs)d(ott)ur.|Eijrninn

Sig(urdur) Aaʃu köngs Dottur og ʃamþijctiʃt|þetta allt ad niju I Erkibiskups widurviʃt

og handa| upp leggïngu so ʃem fijrr var under Talad. Skijl-|du Iömfrürnar ʃaman

vera, og Brudkaupinn bijda|þar til þeir föʃtbrædur kiæmu ür hernadi aptr, og|Endaʃt

ʃo med Gledi þeſsi veitʃla. Kvedia þeir föʃtbr|ædur kong og Iómfrürnar og bidia hvỏrier

ødrumm|vijrdta og Velʃemda. Sigla þeir nu foʃtbrædr Tr|iggvi og Sigurdur sijna leid

haf üt, og fȯrʃt þeim|vel, ättu þeir margar Orruʃtur umm Sumared vid|Vijkïnga og

Illþijdi og hofdu Iafnann Sigur, enn kau-|pamenn og frȯma frægdar menn lietu þeir i

fridi þȧ ʃem|þeim villdu til beckni251 giỏra og er ʃo sagt, ad þeir|föʃtbrædur hefdi 60.

Skipa umm hauʃted. Nü ʃem |leid sumared Took Si far Ölga ad vaxa og kol-|na

vedur. Villdu þeir þ heim til Holmgarda haldaǁ

22. þvi þeir hofdu þ feinged of fi ar. Vard þa enn|sem fijrr, ad kom ȧ fijrer þeim hafvilla,

og hrỏktust|þeir vijda umm hafstrauma og Bl ar bilgiur, þar|til Eitt Sinn ad þeir

komu vid eitt Land. Þad var|med miklumm sniöfiollumm og hafum hỏmrumm.252

Ecki|s u þeir þar neinar hafner. Þvi vokudu þeir fijr|er utann Land þetta Nockra Daga

Ef hofn|nockra funded Giæti Sem þeir mættu skipumm|Sijnumm og fie i Vetrarlegu

koma; Eijrn Dag|sigla þeir i Goodu vedre Land framm og þo allnærre ad|Skimaʃt umm

Hafner. Setia þeir upp Bat ʃinn foʃtbrædur|vid klettana. I Einumm litlumm vog edur

250 vill⟨d⟩iſsmenn og] ÷ ÍB 138 4to, 197r. 251 þȧ ʃem þeim villdu til beckni giỏra] þa ſem ei ble[000] neitt vid þa ÍB 138 4to, 197v; þá ʃem þeim villdu til beckni giỏra og er ʃo sagt, ad þeir föʃtbrædur hefdi 60. Skipa umm hauʃted] ÷ SÁM 6, 72. Orðið „beckni“ finnst hvorki í íslenskum orðabókum né á vefsíðu ONP: Dictionary of Old Norse Prose. 252 sniöfiollumm og hafum hỏmrumm] hafum hỏmrum og sniofiöllum ÍB 138 4to, 197v; ſniöfiỏllum og háumm homrum SÁM 6, 72.

94

Vijk og g n|ga upp hamarinn. Skipinn eru n fram laugi|nni Øll og bijda þeirra.

Þeir Ganga nockud upp|Eptir hỏmrumm. Enn l ngt upp fijrer Ofann Sig Si

þeir|Eijrn mann miȯg Stoorvaxinn og af skaplegann.|Madur Sä kallar til þeirra og

spijria hvorier adra|ad heiti, þeir föʃtbrædur ʃeigia nȯfn sijn ⸌ſem⸍ voru, enn|hinn

Stoori madur ʃeigeʃt Skrijmner heita og r da|hier Landi. Hvar erumm vier ad komner

ʃeigia þeir?|Eda hvad heitir land þetta hid kletta mikla. Skr(ijmner)|ʃeigir: Landed

heiter Biarmaland og liggr þo Nor-|darlega I heimi. Edur Vilie þier hi mier Vetrar-

|viʃt þiggia? Þeir foʃtbrædur ʃeigiaʃt þad þiggia|villduǁ

23. Ef skipumm vorumm og fiėmunumm være öhætt, l t|ed mig si fijrer þvi seiger

Skrijmner. Enn fare þid med|mier. Ganga þeir nü Epter hỏnumm upp epter fialli|nu

og þijker þeim hann helldur skrefa Driügur.|Ganga þeir n so leingi ad hann fer

undann, enn þeir|a epter. Þar til þeir koma Upp Fiallid. Verdur|þä fijrer þeim Gi

mikil, og huxar nu Trigg-|vi med sier hvort Trütt muni ad Trwa Segg þe|ʃsumm. Og

i þvi hverfur hann þeim af aug sijn.|Þijkiaʃst þeir n Ovarlega Geinged hafa enn miỏg

er lidid Dag. So þeir treiʃtaʃt Ecki i Biortu ofann|aptur ad komaʃt til skipa sinna; I

þvi kemur|ad þeim ein flagdkona so Stoor, ad alldrej þijkiast|þeir heirt hafa Sagt fr

annare þvi lijkre. Hün|Grijpr þ foʃtbrædr upp sinn under hvỏrija hond og|hleipur

med þ ijfer klungurinn253 so ʃem Sliettur|vollur være; Hün var so büin ad hün var i

sk-|orpnumm Skinʃtacke Skooʃijdumm i fijrer Enn hann sk-|rolldi herdumm uppi

Bake. Taaga kỏrfu ha|fdi hun hỏfdi med sleiged h r ʃem heʃtz Tagl|være. Eij

þotti þeim hün So Illileg ſem hun var|störvaxinn til. Hün hleipur n þar til hün

kiemur ad|Störu hellirz Giỏgri. Þar snarar hun nidur Sigur|di, enn hleipr Inn med

Triggva. Inn ber h n hann iǁ

253 Klungur, sbr. grýtt, klettótt land, þyrnirunni, sbr. viðauka 7.

95

24. eirn afhellir, þar var Sæng vel büinn ʃem kongsij|ne vel hæfdi Bord og Becker vel um

büed og allt|var þar tijguglega og med fremdumm vendad. Hle|ipur nu Skieſsann

aptur ut og tekur Sigurd kon|gsʃon og flitur hann i annann Afhellir er þar eijr|ninn

allt vel til reidt. Ber nu sijdann mat ȧ bord fijrer|þ , og sambaud fædann þeirra

prijdilegu hijbijlum.|Alldrej m ttu þeir Triggvi og Sigurdur si ʃt nie saman|koma,

og ei viſsi hvȯr þeirra neitt umm annars hage,|þvi þ þeir villdu tg nga voru þeir

þar faʃter ſem|stȯdu, enn lauʃer nær þeir villdu reïka edur umm|Golf G nga. Kom

skieſsann mis til þeirra ad sk|iemmta þeimm Daginn med Tabli og annare

Dægur|stittingu. Nü er ad ʃeigia fr Skrijmner|Iỏtni ad þ hann hvarf þeim

foʃtbrædrumm vid gi|äna ȧ fiȧllinu ʃem adur er umm Getid fórr hann til ʃi f|ar. Tekur

Stein nockva Sinn og rær tveim ärumm|heldur sterklega, þar til hann finnur skipa

flota|og menn þeirra foʃtbrædra. Seiger hann þeim ad þeir sku|le Epter sier hallda og

So Giora þeir enn hann rær|undann, þar til klettarner Opnaʃt og Geingur Inn fagur

fi|ỏrdur. Þeir fara nü Inni fiardarbotn og er þar hin gi|ætaʃtaʃkipalega og Sliettur

Sandur. Rekavidur var þar|Sem hronn øllumm Fiỏrum.254 Enn upp fr Sliettlen-

|di fagurt Graʃe vaxed. Seiger n Skrijmner til man-|naǁ

25. þeirra Foʃtbrædra. Hier skulu þier nu fijrʃt fij|rer beraʃt, og Efna ijckur Sk la smijdi.

Mun|eg ad litlu ad stoda ijckur. Taka þeir n til sk|aala ʃmijdiſinnz og fijrʃt ad hlada

Veggina. Kiemur|Skrijmner Iỏtunn hvorrn Dag til þeirra og er heldur|stoorvijrkur ad

Bera Grioot og Vidi ad þeim,|og ad hi lpa til hvorrs ʃem med þurfti. Er eil |ngt adur

enn Skalinn er albüinn og velgiỏrdur ep|ter þeirra Villd og hỏfdu þeir þar hin beʃtu

hijbij|le. Seiger nu Skrijmner vid þ ad þeir Skuli bin|da og feʃta Skip sijn, so Vedur

og sioor Grande ecke|hvad ʃem Gangi. Giora þeir so og hi lpar Iotun|þeim

Eijrininn þar til og er ecki lijtil vijrkare i þvi|Starfi enn umm Skalaʃmijded. Vellter

254 Sjá viðauka 7.

96

hann i fiỏru-|na og utj Siooinn Stoorumm biȯrgumm þar þeir mattu|skipinn vid binda,

og er þeir hafa velumm bueʃtz|og loked þeſsumm storfumm, seiger hann vid þ ,

Takid|n skips b ta ijckar Daginn ijckur til skiem|tunar, og vitid hvỏrt ei varir

verded vid nockurn|Afla. Þeir Giỏra nu ʃo og var þar fiʃkur hvỏr|iumm Aungli, og

afle ijfer fliȯtannlegur þeim til ma|tar, af Allra handa fiʃka kijni. Voru þeir þar

n |fullʃæler, og hỏfdu nooga atvinnu kom Skrijm|ner Iỏtun Daglega til þeirra og

skiemmti þeim, ogǁ

26. Taladi vingiarnlega vid þ og sagdi þeim hvad|Widbar og þeir vita gijrntuʃt enn

eckiert þötti|ʃt hann vita af þeim foʃtbrædrumm edur hvad af þeim|orded være. Enn

Getur til ad Alfar edur Biargbü|ar muni þ Siedt hafa, og ad þeir muni alldrej|aptur

koma. Fijrʃta kvolld er Triggvi var|kominn I af heller Trollʃkeſsunnar Leider hün

hann|ad Tijgulegre Sæng og seiger ad hann þar h tta|skuli. Hvȯrt villtu nu helldur

Triggvi seiger hün|liggia hier Einn ʃamann edur eg liggi hi þier? Hi |þier vil eg

liggia seiger Triggvi. Skieſsa þeſsi hiet|Skrucka.255 Barnalega lætur þu kallmadur

ʃeiger|Skrucka og mun mier Ecki mein ad vera þö Eg|liggi nærre þier Soddann

lijtilmenni og pervijſe256|ſem þu ert. Ad odru mun þier verda enn Ieg ver|di þier

Lijtilmenni I Rüminu ʃeiger Triggvi og hefe|Ieg hijngad til ecki hatad kvenholldid.

Reijna|mȧ þetta ʃeiger Skrucka, h tta þaug nu bædi og|hallda þeſsu fram umm

veturinn og ber ei neitt|til Tijdinda. Þijker nu Triggva ecki annad ad enn|þad ad hann

veit ecki hvad orded er af Sigurdi föʃt-|brȯdur sijnumm og þr ir hvȯr þeirra annann

þvi hvȯr|ugur veit nockud til annars. Lijda nu ʃo framm ſtun|der. Eijrn morgun

vaknar Skrucka ʃnemma ſemǁ

255 Sjá viðauka 7. 256 lijtilmenni og pervijſe ſem þu ert] litelmenne ſem þu ert ÍB 138 4to, 199r og SÁM 6, 76. Sjá viðauka 7.

97

27. h n var von. Hún vekr þ Triggva og seiger:|Veitʃtu nu hvad l nngt ertil Sumars?

ſeiger hun:|hann svarar: Ecke er enn allnærre! Nu er|Sumardagur fijrʃte i Dag seiger

Skrucka og ä|eg Brooder þann Skrijmner heiter og veit hann alla|hluti ȧ sumardag

hinn fijrʃta ʃem hann vita vill.|Eijrninn þad ad þu hefur hi mier leiged i allann|vetur

og Barnad mig. Er hann nü leid hijngad|og ættlar ad Drepa þig, edur munntu þora

ad medg-|änga þetta fijrer honumm. Ieg mun ei ad einnz þora ad|medgänga þad seiger

Triggvi helldur og eijrninn ad|Seigia hỏnumm þad ad Fijrra bragdi, þ ättu aung|rar

Vægdar von af hỏnumm ʃeiger Skrucka. Þad fer|ſem m ʃeiger Triggvi enn eij ottaʃt

Ieg hann. Ef eg|hefi xe mijna i hendi. Sprettur Triggvi nu |fætr og klꜹdeʃt ølpu

Sinni, Tekur Oxe sijna sier I|hỏnd. Leitar nu vid utad g nga og er hann þ lꜹz|og

m vel ut fara. Hann Geingr þ leid sijna og ecki|Leingi ädur hann257 Ser Iotun

Stoorann fara ka|flega moti sier, og er þeir finnaʃt Seiger Trigg(vi)|vid hann: Ertu

Skrijmner I tun? ʃeig mier þad! So|er vijʃt Seiger Skrijmner: og hveʃsir nu augun

|Triggva og hriʃtir Iärn ʃtaung sijna, þ ʃeige eg|þier þad seiger Triggvi ad Ieg hefe

vered i Veturǁ

28. hi sijʃtur þinni Skrucku og leigid hi henni|hvỏria Noott og Barnad hana. Verdur

nu Skrijmner|so vid ad hann Dettur utaf til Iardar. Og liggr umm|stund Sem Væri

hann Daudur, enn fijrr enn varir|skrijdur af hỏnumm Iỏtun hamurinn og sier

Triggvi|nu ad þar liggur hi Iotunshamnum hinn fegurʃti|madur, og lidaʃt här hannz

ofann umm hann fagurt|Gullt ad lit. Grijpur nu Triggvi upp Iȯtun ha|minn og Brennir

upp til ſku, enn epter þad sæker|hann sier hreint vatn og Dreipir hinn frijda

mann.|Hann raknar þä vid fliött og spijr hvỏr er s ȧgiæ|ti herra ʃem mier hefur

biargad, og leiʃt af mijnum ä|naudumm. Triggvi heite eg ʃem hi þier ʃtend

seiger|Triggvi, edur hvad heiter þü? Herlogi heite eg|seiger hinn og Ertu f giæfur

257 hann] tvítekið í NKS 1802 4to.

98

lucku madur Triggvi|Enda hefur þier Einumm þeſsi sömi ættladur vered.|Gaungumm

vid nu ad heller Skrucku ʃeiger Herloge|þvi þarmun og þorf til vera. G nga þeir nu

ad he|llirnumm, og Inn i herbergi þad, ſem Triggvi hafdi|I vered umm Veturinn. Fer

Herlogi undann enn Triggvi| epter og er þeir koma inn si þeir Trȯll konu|ham

mikinn, Skrijda umm Golfid, enn fegurʃtu me|iju liggia i Rüminu. Verdur nu Herloga

ſo vid|þeſsa sijn,ǁ

29. ad hann fellur i aungvit, af þvi hann hafdi sig ei til|fulls aptur teked. Enn ofbaud hin

fijrri anaud. Ve-|rdur n Triggva þad til r ds ʃem fijrre ad hann Grijpur|Tröll skieſsu

haminn Leggur elld i hann og brennir hann|þar upp Biỏrtu b li. Tekur vijn og

dreiper meij-|una og sijdann Herloga. Meijan lijtr nú upp og and|varpar þünglega.

A mikillri Giæfu stundu kom|ʃtu hier ad landi ʃeiger258 hün Triggvi og miked Gȯtt

ei|gumm vid Herlogi Broder minn þier ad launa ad þu hefur|Leiʃt ockur ur þeim

þüngu Öskỏpumm, ʃem vid hỏfumm|I verid i 16 r. Hvad heiter þu hin fagra mær

ʃei|ger Tr(iggvi) edur hvỏrninn hafe þid ratad i Nauder þeſsar?|Ingibiỏrg heite Eg

Riettu Nafni ʃeiger mærinn. Enn til|Bords ʃkulum vier Nu øll ʃetiaʃt og Næra oʃs

heilnæ-|mu vijni ä medann vid Broder minn ʃeigiumm þier alla|nn þen⟨n⟩ann adburd.

So er mier Oglatt ʃeiger Triggvi ad|Eg m ei Vijn Drecka af þvi Eg harma

föʃtbröder|minn Sigurd Er hijngad kom med mier. Heill er hann höfi259 Seigir

Ingibiorg og Geingr hun þ ut fr þeim,|og kemur vonumm Br dara aptr og leider

Sigurd med sier.|Verdur þar mikill fagnadur Allra þeirra milli og ʃetiaʃt|nu øll til

Bords og næra sig Godu vijni og kräſum.|Tekur nu Herlogi ad ʃeigia framm ʃögu

ſijna þenn|ann h tt. Ad Mikla Gardi i Grichlandiǁ

258 Leiðrétt úr „seigerer“. 259 Heill er hann höfe] heill er hann ÍB 138 4to, 200r.

99

30. stiörnadi kongur ʃ er Artus260 hiet. Hann atti þ Drottn|ïngu er Eijrunlaug261 hiet.

Þaug attu 2 Bȯrn. Hiet|annad Herlogi og er eg þad. Enn annad Ingibjȯrg|og er þad

Sijſter mijn, ſem hier Situr n hi oſs.|Fȯr vel fram Rijkiſs ʃtiỏrn Fodurs ockar, þar

til|Eg var 9ᶸ vetra enn Sijʃter mijn 8. vetra. Kom|þ Sott i Landid og vard moder

mijn miỏg veik. Sú|Sott Leiddi hana i heliju ʃo hün Andadiʃt. Hormú-|du þad aller.

Enn Eijrna meʃt konguren fader ockar.|Var Orpinn ad henni haugur, og sat fader

ockar hvȯrn|Dag haugi Drottnïngar og Skiemmti ʃier vid hauka|sijna og lidu ʃo

fram ij r. Kom þ herʃaga I|Landed, og voru ad komner Vijkingar ſem rænntu og

sp|illtu øllu. Baud fader Ockar þ ut herlidi miklu|og hiellt möti Reifurumm

þeſſumm. Enn þeir friettu til hanz|og hielldu undann. Hann Ellti þ , og n di þeim

under|neʃi Einu. Þ liet hann ʃetia þar herbüder ʃijnar, og ba|rdiʃt vid þ i heila iij

Daga. Voru þeir Ecki audſo|cktir þvi þeir voru Bædi Trillder og Ramer ad Afli, þo

va|rd þad umm Sijder ad kongur vann og hafdi Sigurinn. Var hann|þö miỏg

Leikʃtijrdur Epter orruʃtuna. So hann l ep|ter Nockra Daga þvi hann var Gamall

ordinn.|Eijrn morgun er hann l þar i Tialldi ʃijnu, kiemur|til hannz kona med

Smijrʃlabauka marga.ǁ

31. Hun var i Grænumm fotumm og frijd ad si . H n bė|ddiʃt leifis ad Gänga Inn fijrer

köng. Henne er þeſs|unnt. Hün kvedur hann og tekur hann kvediu hennar|vel. Bijdʃt

h n þ til ad Græda köng, ef hann vilie|sier Goodu Launa. Kongur I tar þvi og lijʃt

vel konu|na tekur h n þ til ad smijria hann ur Eijnum bau-|knum. Og finnʃt

honumm Sier öllumm batna og lina ve|rker. Bidur hann hana þar vera enn hun læʃt

þad eij|vilia, og seiger sier þad Skammvinnt ad vera hiä|honumm Eina Nȯtt. Betra

hefdi h n ȧtt þ h n|hefdi vered samann vid köng sinn er hun att he|fdi. Kȯngr spijr

hana ad nafni enn h n kvadʃt|Æʃa heita og hafa vered Drottnïng Bl landskȯ|ngs enn

260 Artus] Artur ÍB 138, 200r. 261 Eijrunlaug] Ermetlaug ÍB 138, 200r; Erminlaug SÁM 6, 79. Sjá viðauka 7.

100

Tartara kȯngr hafe komid Bl land|ovỏrumm og Dreped kong Sinn og ʃeigeʃt h n

ha|fa med meʃtu naudüng burtu komïʃt og flued|undann þeim nöttu. Þvi Tartara

kongur hafe æt|lad sig nauduga ad Eiga. Hier er þ Vel komid|med ockur ʃeiger

kongurenn fader minn. Eg er Eckiu-|madur. Enn þu Ert Eckiu kona ʃeiger hann og

meigum|vid þ Vel Eigaʃt þvi Fader ockar Artus kongur hafdi|Gleimmt allre sorg

Epter Drottnïnguna möder ockar|Epter þad ad Æʃa hafdi makad hann og ʃmurt ürǁ

32. Bauk sijnumm. Æſa lietʃt Ecki Gijptaʃt vilia og|Seigiʃt meir þreija kong sinn. Enn þad

ad h n sk|ijlldi n þegar Gijptaʃt aptur; Þö Taladiʃt ʃo til|med þvi ad kongr Artus

hafde Epter leitnina ad Æ|ʃa Samþijckti þetta. Batnar köngi þ skiott og|heldur heim

aptr i mikla Gardsrijki262 med Brüdar|Efni sitt þetta. Leitʃt mȯrgumm miſiafnt

hana|Enn ockur sijʃtkijnumm þȯ veʃt ſo ſem Raun skarest263|ad vid hlutumm af

henni miked Illt; Hiellt Artus|kongr fader ockar þ Br dkaup ſitt til Æʃu og var

þad|Ecki leingi adur enn hun tök til ad Giȯraʃt stör og|r drijk, þ h n hafdi vid

Volldumm tekid. Vid In|gibiỏrg, ſeiger Herlogi tȯlldumm þad opt vid fodur|ockar,

ad hann skijlldi taka sier þ Drottnïngu ſem hann viſsi Einginn Deili . Og sogdumm

vid ad oc|kur litiʃt Ecki hana. H n tok þ og Eijrninn ad|Giỏraʃt Stör og ijbbinn

vid fodur ockar og tȯlld|umm vid hana. Eitt Sinn þar fijrer. Enn hun sagdiʃt ſk|ijlldi

Giegna ockur þȯ ʃeirna væri. Vard fader|ockar þ Br ddaudur i ʃænginni Nȯttina

Epter|Enn Æʃa tti vingott vid r dgiafa kȯngs og tóku|þaug ad sier Rijked og ttuʃt;

Eg var med leikʃv|einum mijnum I Turni þeim ʃem fader minn hafde mier|Smijda

l tid. Enn Ingibiorg Sijʃter mijn i Skiemmu|sinni med meijar sijnar; Eijrn morgun i

Dỏgunǁ

262 heldur heim aptr i mikla Gardsrijki] heldur heim i Miklagard i Rýke ſitt ÍB 138 4to, 201r; heldur heim SÁM 6, 81. 263 skarest] ÷ ÍB 138 to, 201r; varð SÁM 6, 81. Sjá viðauka 7.

101

33. kemur Æʃa drottning i Turn|minn ad Lucktumm dijrumm og þurfti hün Ecki lij-|kla.

Geingur h n ad sæng minni og ʃeiger: Vaker|þ nü Herlogi? Vaki eg Seigi Eg. Enn

Sofid hefe|Ieg til þeſsa; Illu Einu villda eg launa ijckur|Sijʃtkinum ʃeigir Æʃa. Fijrer

þad ad þid tolldud|mig fijrer kallskarnid hann fȯdur ijckar og hefe|Ieg nü Drepid

hann, þvi hann var til Einkiz gag|ns. Verdi þid nu Siʃtkijn ad hafa lijka

nockrar|meniar mijnar, og264 legg eg þad ijckur ad þid|verded ad hinumm

afʃkapleguʃtu Trỏllumm, og|fared i Biarmalands kletta þar ʃem Ieg hefe|uppaliʃt og

forfedur mijner hafa Bigdt, og skulu|þid alldreij ur þeʃſumm Alỏgumm komaʃt

nema|Einhvȯr Kappi, Vilie liggia I Rümi hi Skie|ʃsunne sijſtur þinni heilann Vetur,

og ſie ʃo hug|diarfur ad hann þori þier ad ʃeigia a Sumardag|hinn fijrʃta, þ Skulu

þid ur Älỏgumm þeʃʃum|komaʃt. Enn Annars Alldre ; Iafnann Grunadi|mig þad

Seiger Herlogi: Ad Illt Eitt mundu eg|og mijner af þier Hliȯta, Ennʃo Eg þacke þier

ad|Litlu, þ Legg Eg þad þig aptr, ad meige|So olijklega tilvera Ad vid Ingibiỏrg,

kom-ǁ

34. uʃtumm265 ur þeſsumm Anaudumm. Þaa Rijfi a sam|ri stundu hundar og þrælar

Fodurmijnns266 þig Su|ndur, og lidi Bein frȧ beini; halldeʃt nu hvor|ugt Seiger Æsa.

Ef þu so villt þvi Ieg giorde|ad Gamni mier. Neij:! Ecke so Seiger Herloge|Faadu

allar Skammir og þitt Gaman og ha|lldiʃt nu hvỏrtveggia. Gieck hun þȧ fraa|mier og

i Skiemmu Ingibiargar sijʃtur m(ijnar)|og mællti fijrer henne hinu sama. Hvurfum

vid|so hingad og hỏfum hier vered i þeſsumm|eimdar hætti sijdann. Og hafa hier

vered 16.|veturtoku menn. Og hofumm vid þä alla drepid|þvi einginn þeirra hefur

haft hug nie manndaad|ockur ad leijsa nema þu. Og ertu nu hinn Ätia|ndi. Vil eg nu

biooda þier sijʃtur mijna og rijki|mitt, þvi Eingumm manni Ä Ieg betra ad lau-|na

264 Hér breytist skriftin og verður aðeins opnari. 265 Hér er önnur breyting skriftar, blek er ljósara, og skriftin hallast aðeins til hægri, en skriftareinkenni halda sér. 266 Fodurmijnns] fȯdurs mijns ÍB 138 4to, 202r.

102

Enn þier, og þar med Vil eg fijlgia þier og|þioona So leingi sem þu villt. Þüngar þij|ki

mier þrautir ijckar vered hafa seiger Trigg⟨vi⟩|Enn Bod þitt Herlogi Vil eg med

þỏckum þiggia|og alldrej hefe Ieg Sied þȧ meij ʃem hugur minn|hafe til hallaʃt utann

Ingibiorgu eijna og vilǁ

35. eg giarnann hana eiga edur aungva konu|adra ella ä Æfe minni. Vil eg þu Herlogi

gä|ngir nu i Foʃtbrædralag med ockur Sigurde|og Gaangi Eitt ijfer oſs alla medann

Lifumm|og hefni hvor annars ef Vopndauder Verdumm.|Þad vil eg Seiger Herlogi.

Enn hvad skal nu ordid|af Skipumm vorumm og mỏnnumm ſeiger Triggvi?|Aller eru

þeir og þaug heiler höfe og Veltil|þaſsa267 seiger Herlogi og hefe Ieg i Vetur

lidʃinnt|þeim nockud so Aungvann breʃt haft hafa;|Taka þeir nu foʃtbrædur r

hellirnumm bijrder|sijnar af hinumm beʃtu faungumm þvi þä þꜹ|sijʃtkijn þängad

komu Var þetta þar fijrer|hafdi Æſa og lid hennar þvi ỏllu ʃtoled og ȧdur|þaangad

bored. Gaanga þau nu ỏll fiỏgur til|Skipa. Fagna Skipveriar þeim vel og büaʃt n |til

Burt ferdar. Hvort ʃskal nu hiedan hallda ʃei|ger Triggvi þaangad Sem þier lijʃt Seigia

þeir|Sigurdur og Herlogi, og viliumm Vier þier giar|nan fijlgia. Fijsn er mier ȧ268

Seiger Triggvi ad|Hallda til Miklagards og vita hvörnin þar|er ʃtadt edurǁ

36. hvad vier fȧumm þar a unned. Þad samþij|cktu þeir nu aller. Og binda nu Segl sijn

vid|raar, og Sigla þeir nu Foʃtbrædur aller og|meijann Ingibiỏrg med oll þeirra LX269

skip bu|rt frä Biarmalandß Klettumm, og lietta ei|Siglingunne fijrr enn þeir koma ad

Stolpa Sun|dum;270 og leggia Skipumm Sijnumm i hafner enn|setia herbüder Sijnar

ȧ landi uppi; Hafdi|nu þetta til bored ȧ Grichlandi Sijdann þaug|Herlogi og Ingibiorg

ȧ burt hvorfu, ad Æʃa|Drottning hafdi Dreiged ad sier frændur sijnar|og

Skijlldmenne, og feinged þeim hin beʃtu|lieni og ümm dæmi i landinnu enn hun Sialf

267 og Veltil þaſsa] ÷ ÍB 138 4to, 202v. 268 Fijsn er mier ȧ] Fisn er mier á ÍB 138 4to, 202v; fijſer mig SÁM 6, 84. 269 [sextíu] 270 Sjá viðauka 7.

103

var|nærʃtumm lidinn Sumardag hinn fijrʃta af olmum|hundumm Sundur Rifinn og

hiälpadu til þeſs|Kongs þrælar. Vard hun eingumm harmdaude,|utann Frændumm

Sijnumm. Brooder Æsu hiet|Steïnhauſe hann tok ad sier Rijked epter|Sijʃtur Sijna.

Brædur hannz tveir voru landvar|narmenn þar, hiet annar Slaangi enn annar|Hrotti.

Voru þeir aller hin meʃtu trỏllmenne.ǁ

37. Nu ʃenda þeir fóʃtbrædur 12 menn albriniada|ür herbudunumm til Borgarennar, ad

Skila|Eijrendumm Sijnumm til Steinhauʃa kongs|og er þeir koma ad hallardijrumm

gȧnga|þeir Inn diarflega, og mæla til Steinh-|auʃa er hann Situr i haʃæti, og

Brædur|hanns og adrer Berʃerker utjfr : Sittu|hvỏrke vel nie leingi Steinhauʃe

ʃeigia|sendimenn. Til þijn erumm vid sendir af þeim|villduʃtu kỏppumm og

foʃtbrædrumm, Trig⟨g⟩|va, Herloga, og Sigurdi sem hier eru ad|landi komnir ad þeir

biooda þier n med|Skomm og ʃneipu burt ur þeſsu Rijki ad ʃna|afa, Ellegar skulu

þid bijda hinns Veʃta ʃma|anar dauda aller. Þü og þeir þier filgia vil-|ia, og l t oſs

strax heijra svor þijn hier|til. Steinhauʃe skiekur sig nu allann og|Rijfur kiaptinn upp

ad eijrumm, og er hann|m mæla, seiger hann: Diarfare þræla he|fe Ieg alldrej heijrt,

enn fool þeſsi og standed|upp menn mijner og Drepid þ ; hlaupaǁ

38. þeir nu ur sætum ʃijnumm Marger og Sækia|ad Sendimỏnnumm enn þeir veriaʃt

Dreingil|ega þo fiellu Fiỏrir af þeim enn atta kom|uʃt til herbuda, og sogdu Eijrendeſs

lokinn|og Sijnar ferder ecki Sliettar; Enn sem|Sendi menn voru r hollenne komner

Sende Ste|inhauʃe herỏr a fioora Vegu fr borginne|og ad lid komi til sijn Strax þ

nött Ættmenn|hans og trỏllinn ʃem hia þeim voru, giỏrdu|Skipun hanns Viliulega.

Enn Lands lijduren|naudugur og þordi þo ei annad og kom og|rinni lids til

Borgarennar þeſsa nott og bij|ʃt n Steinhause til orruʃtu og Skipter|lide Sijnu i þriaar

Fijlkingar, fijrer ei|nri Vill hann Sialfur Vera og Skulu|þar vera C. Blaamenn og Vi

104

Mer271strijdz|manna. Fijrer adra fijlking Setur hann|Slaanga Brodur Sinn og skal

hann hafa|med sier V Mer272 manna Hrotta Brodur|Sinn Setur hann og fijrer þridiu

fijlkïng, og|er lid hanns IV Mer273 Manna, er nu miked|Brak og vidurbünïngur i

Borginni, alla|þȧ noot. Þeir föʃtbrædur i herbüdunummǁ

39. eru og echi ijdiulauʃer. Med þvi þeir siaa|ſier echi til fridar boded. Skicka þeir nü

eijr|ninn lidi sijnu i 3. fijlkïngar. Skal Sigurdur|fijlkia möte Slaanga med 3. þuʃunder

manna|enn Herlogi moti Hrotta, med adrar 3.|þüʃunder. Triggvi skal beriaʃt vid St-

|einhauſa, med þvi hann skal Rijkied eignast,|og hafa lijka 3. þuʃunder manna.

Var|Merke Triggva blaatt med Gijlltri274 Orni|markad. Merki Sigurdar Gullt med

Gij|lltri Stiỏrnu; Merki Herloga raudt,|med Gijlltu Leone, og er þeir hafa ummbü|eʃt

Setia þeir Vardmenn og Sofa af umm|nöttina; Strax ʃem Dagar er upp

loked|Borgarhlidumm, Rijdur fijrʃt ut Hrotte og|Ber merki hanns Jotun sȧ er

Tiỏrfe|heiter, og er hann er ut kominn ä Vỏllinn og|lid hanz. Lætur hann mikilega.

Hȯnumm i mö|ti Rijdur Herlogi med lid Sitt og bar me-|rki hanns Madur ʃȧ ʃem

Hỏgni hiet. Þä|Rijdur af Borginni Slaangi med lide ʃij|nu. Merki hanz bar Blaamadur

Sa er Svar|tur hiet. Mȯti hỏnumm Stefnir Sigurdur k(ongs)s(on)ǁ

40. og ber merki hanz madur sȧ er Halfdan heitir|þȧ Rijdur af Borginni Steinhauʃe kongr

og ber|merki hans Riʃi sꜳ er Svijngrani heitir, mo|ti honumm Rijdur Triggvi kallsſon

og Ber|merki hans kappi Sꜳ er Hrolfur heitir Sij|ga nu samann filkingar þarf nu ei

ad sỏk|kumm ad Spijria og Tekſt þar nu hinn hard|aʃti Bardagi. Med Vopna og Ludra

gänge;|Taka Berʃerkir ad Skijfa og hoggva nidur|lid þeirra föʃtbrædra. Enn þeir Sitia

ei helldur|audumm hondumm Rijda eina filking üt, enn,|adra Inn, og Drepa

Berſerske, er nu mïkill|adgängur, Þad Sier Herlogi ad Hrotti er|Stórhỏggur

271 [sex (þúsund)er] 272 [fimm (þúsund)er] 273 [fjórar (þúsund)er] 274 Gijlltri] giltre ÍB 138 4to, 203v.

105

monnumm Sijnumm og Skipar ad be-|ra merki Sitt fijrer sier þar ad sem Hrotti var

fijrer|og er Merkinn koma Samann. Taka merk|iſs menn ad Skiptaʃt hoggva Vid

ʃkiptumm hö|ggur Hogni til Tiorfa og veiter honumm|mikid Saar giegnumm

Brijniuna ofann i|læred, Olmaʃt þä Jỏtuninn er hann kienner|Saars aukannz, og Sæker

ad Hỏgna ogǁ

41. hỏggur til hanz hart og Stört, enn Hogni er ʃo|fimur ad hann kiemur ecki a hann

hoggi neinu|og Gaanga Vid ʃkipti þeirra Leingi. Þar til Iỏ|tuninn umm sijdir Reider

þad hogg i hialm hỏ|gna. ad hann klijfur hann ad endilỏngu. Grij-|pur þȧ annar madur

Herloga merked og ber|þad. Þetta sier Sigurdur kongs(on) ad merkiʃs-|madur

foʃtbroodurz hannz er felldur og Vill|hanns fijrer hvorn munn hefna, Rijdur hann þa

ad|Tiỏrfa Iotni, og i fijrʃta hỏggi hoggur hann un|dann honumm fötinn Vinʃtra, og

annad hỏggid|Greider hann a halʃinn so af fijkur hofuded.|N Beriaʃt þeir i annann

ʃtad Herlogi og|Hrotti, mꜳ þar siꜳ Storhỏgg og Sterk ȧ|Baadar sijdur. Er Hrotti ʃtör

hỏggvare -|enn Herlogi ʃo fimur ad ei maatti ȧ hann hỏ|ggi koma. Lijkur so vid

ʃkiptumm þeirra ad he|rlogi hoggur til Hrotta i hiälminn. So af tekur|Hiaalm bardid

og Vängafilluna. Snijr sverdid|So ꜳ hol vid Vidbeinid ad Hrotti fellur Daudur|nidur.

Er nu komed ad Kvelldi og halldedǁ

42. upp Fridʃkijlldi. Fer Steinhauʃe og menn hanz til|Borgar enn þeir foʃtbrædur til

herbuda sinna|og sem manntal er teked eru fallnar af þe-|im foʃtbrædrumm 2

þuʃunder, enn 12 00275 af Ber-|ʃerkiumm; Sofa þeir nu af hvorutveggiu umm|nỏttina.

Quiʃem276 Dagur lijser hallda aptur|hvorier i mȯte odrumm. Skipar Sig(urdur)

k(ongs)s(on) Ha|lfdani merkiʃsmanni Sijnum i mȯti Slaanga|og er merkinn Samann

koma borduʃt merk-|iſs menn hart og leingi. Lijcktar So ad Half|dan drepur Svart og

275 00] hundrud af SÁM 6, 87. 276 Quiʃem] og er ÍB 138 4to, 204v og SÁM 6, 87.

106

er hann þä Særdur eijr|ninn til Olijfis. Taka nu til ad Skiptaʃt hỏg|gumm vid277

Sigurdur kongsʃon og Slaangi er ad-|gangur þeirra hinn meʃti. Hoggur Sigurdur

k(ongs)s(on) þad|Hȯgg er kiemur ȧ haals Slanga So af fauk|Hofuded. Enn Saar hefur

Sigurdur mikid feingid|a Sijduna, og er n Bardagi þeʃsi miỏg äkafur|til kvȯllds. Hafa

þeir Triggvi og Herlogi þenna|nn Dag sem Leon framm geinged, og Dreped ni|dur

Berʃerki. Eijrninn Att Strijda Roomu278 vid|Svijngrana merkiʃsmann Steinhauʃa ogǁ

43. Drap Triggvi hann med meʃstri mannhættu er|nu hallded upp fridʃskijllde og fer nu

Stein-|hauʃe med lid sitt til Borgar. Enn foʃtbrædur til|Herbuda. Þridia daginn koma

en fijlkïngar|samann ȧ vijgvelli. Er nu Steinh(auʃi) Olmur og ær|sem VilluDijr i

Skögie og þijkiʃt hafa feinged mi|kinn manna miſsir. Oskrar hann nü ʃem Gradün|gur

og vedur Iỏrdena ad hniaanumm Drepur|hann hvad sem fijred verdur Bæde menn og

heʃta og|eirir Aungvu. Þad giȯrir Triggvi ad lijta og|Skipar ad Bera merki Sitt i moti

honumm var þei|rra Samkoma heldur Stoor koʃtleg og Sparde|hvỏrgi annann. Triggvi

var i Olpu Sinni og vo|med Oxe moodur Sinnar Eij Beit ȧ Olpüna er Tri|ggve i var

og enn þo Steinh(auʃe) feingi Saar og Skeinur|af Triggva þȧ giordi hann ei annad enn

hrækti þar i|og var þȧ þegar grooed. Attuʃt þeir vid hart og|leingi. Enn i annann ʃtad

voru þeir Sigurdur og Herl(ogi)|ad Beriaʃt vid lid Steinhauʃa og felldu þad nidur|Sem

hrijs i Skoogie. Olmaʃt nu Steinh(auʃe) hiꜳTrig⟨g⟩|va og verdur ad Gallta. Sæker nu

so hart ad Trig⟨g⟩|va ad hann mätti ei annad enn veria hendur Sijnarǁ

44. kiemur Triggvi hỏggi med axar Skallanum ä|milli Eijrna Galltarins, so hann Svimadi.

Lætur|hann þꜳ hvȯrt hỏggid gꜳnga ad odru þar til|hann hefur molad hvort hans bein

i sundur, og liet|þar Steinhauʃe lijf sitt med Illumm harm kvælumm;|Enn þeir

foʃtbrædur hofdu Dreped alla Blamenn og ber|ʃerki er Triggvi Eptir ʃkilldi hinn fijrra

277 Taka nu til ad Skiptaʃt hỏggumm vid] Taka nu til ad berjast ÍB 138 4to 204v; Skipta þeir nu hỏggumm SÁM 6, 88. 278 Roomu] Romu ÍB 138 4to, 204v; römu SÁM 6, 88“

107

Dag.|Er nu hallded upp frid⟨s⟩kijlldi, og monnumm grid|giefinn sem epter lifdu. Eiga

þeir n foʃtbrædur|frijdumm Sigri ad hröʃa. hofdu þeir miʃt þriar þu|ʃunder og

þriuhundrud manna, og rijda nu med|lid sitt til Borgar, og Verda Landzmenn

Herloga|feigner og Ingibjỏrgu. Laata þeir foʃtbrædur græ|da Saar Sijn og Manna sinna

og Grooa þau ad br|agdi. Og Sem þeir eru algröner Stefner Herlogi almenningi

t(il)|Landsþijng og sem allur þijngheimur er þar samannko|minn. Geingur Herlogi

fram ȧ Þijngid og kvedur sier hli|oodz og seiger enn framar: Þier vitid allur lijdur

þeſsa|Lands ad Ieg er Riettur Erfingi Rijkiſs þeſsa og|Giori Ieg ollumm vitannlegt, ad

Ieg hefi trú lofad Sij|stur mijna Ingib(jorgu) þeim edla kappa föʃtbrödur mij-|numm

Triggva, og Rijki þetta med henni til heim|ann fijlgiu‖

45. enn hỏnum til kongdomms og stiör|nar. Lijkar nü þetta ỏllum Vel, og er Triggvi til

kö|ngs tekinn þar ꜳ þijnginu ijfer allt Grichland og|under liggiandi lond. Þvi lands

lijdur sier og heijrer|hvor frægdar og Afburda madur ad Triggvi er framm|ijfer adra

menn. er nü mikil Veitʃla halldinn og Tri|ggvi til kongs Crijndur. Bijter hann nu üt

Gafum|og lienum279 sijnumm Villdiſs monnumm280 so ad ollumm Vellin|te, og ad

endadre Veitʃlunne Vilia þeir foʃtbrædur enn|n af Landi fara. Ingibijỏrg Vill og ecki

epter vera|nie vid Triggva kong Skilia og þvi fer hun med.|Setur kongr n Hertuga

eijrn til Lands ʃtiörnar sa hi|et Wilhialmur ȧ medann hann er r Landi. Taka þeir|þar

so miked lid sem þeir vid þurftu og hallda oll|umm sijnumm 60 Skipumm ur Landi

og utꜳ P l. urdu|Lands menn þar harla feigner Aptur komu Sigurdar|kongs Sonar og

var hann þar Almennilega til kongs|Tekinn um allt þad rijki. N talaʃt þeir vid

fö||ʃtbrædur hvort þadan hallda skuli Vijʃt villda eg|seiger Triggvi kongur heim ʃækja

Galldra köng hinn|Gamla i Ungaria rijki og Launa honumm Gamla lei|ke. Enn þeir

seigia hann raada Skuli og Vilie þeir|honumm Giarnann fijlgia. Eru nu skip úr‖

279 Gafum og lienum] gafum og giöfum ÍB 138 4to, 205v; giỏfum SÁM 6, 89. 280 Vildismaður, vildarvinur, sbr. viðauka 7.

108

46. landi Buinn. enn adur en þeir fara til Skipa vill|Triggvi kongur Gaanga ad Gardshorne

er med riettu|hiet StraumaDælld,281 og Sem hann kiemur þar sier|hann ad ollu er

umturnad Frꜳ þvi ſem var þȧ hann|þadann för. Vijkur hann nu ad modunne. Leggʃt

til Su|nds og kafar, og kiemur upp med Sverded Gooda Mi-|nnung.282 Fer n til

Skipa og leiʃa þeir föʃtbrædur af|Pul, og lietta ei fijrr en þeir koma i Ungariarijki|og

koma Skipum sijnumm i Gooda hỏfn Ganga ä|land med mikid lid og ad hỏfudborgine.

Fꜳ þeir þar|einga mötʃtodu af Lands lijdnumm. Nu Ganga|þeir foʃtbrædur þrijr Innj

hỏllina, og situr Gall-|dra kongur þȧ i sæti sijnu ad veniu. Þȧ Geingur Trig|gvi kongur

ad honumm og sijner honumm Sverded Minnü|ng spijr hann ad hvort hann þecki ecki

edur hafe he|ijrt Minnungs Gietid? Galldra kongur seiger sier ha|fe leingi hugur Riʃid

Vid honumm og eiginn gijrni|vered ȧ Minnüng. Og ʃkalltu n hannz umm

sijder|niȯta. Triggvi kongur hȯggur þꜳ hỏfud af Galldra|köngi og lijkur so hannz

Æfe. Biooda þeir n föʃt|brædur Landzmỏnnumm Tvo koʃti. Annann þann ad|gꜳnga

þeim til handa, enn annann ad hallda vid|þä Orruʃtu, og kijs Lijdurenn helldur þeim

til handa‖

47. ad gänga; Þꜳ er Galldra kongur kom fijrʃt i|þetta rijki, var hann Vijkïngur Mikill, og

hafdi med|sier mikid Illþijdi. hann kom ȧ ȯvart, og riedi|þȧ Rijkenu kongur sꜳ er

Philippus hiet, hann atti unga dottur er Aʃlaug hiet. Galldrakongur|mijrdti

Philippumm kong og tȯk so Under Sig Un|garia rijki. Enn föʃtra Aʃlaugar komʃt ȧ

bu|rt med hana og Villti so Siöner fijrer Galldra könge|ad hann Viʃsi alldreij hvar

Aʃlaug var ȧ medann|kiellïng lifdi til. Enn er kielling doo, þad var|umm þad leiti ad

hann miʃti Sginijar sijſtur Sigurdar|vard hann brꜳtt vijs hvar Aʃlaug var. Liet

taka|Hana og ætladi Sier ad eïga, enn hun villdi med|Eingu möti þvi liet hann setia

281 Sjá viðauka 7. 282 Minnung] Mummung ÍB 138 4to, 205v; Mimmung SÁM 6, 91. Sjá viðauka 7.

109

hana i Okk⟨l⟩avatn283|og hugdi ad pijna hana til ad Iataʃt sier, og sat|h n so i 6 ꜳr til

þeſsa tijma. Þeir foʃtbræ|dur Ganga nu umm eignir og hijbijli Galldra|kȯngs. Og i

einu herbergi finna þeir eina Iȯm|frw fagra. Og situr hun i Okkla-Vatni. Þeir|spijra

hana ad ætt og heiti, og seiger hun þeim þad.|Þȧ seiger Triggvi kongur Galldra kongur

er nu dꜹdur|og vil eg leita vid þig Iomfrw hvort þu villt eij|taka þier til herra og kongs

ijfer þetta Rijke‖

48. eirn Agiætann kȯngsʃon er Herlogi heiter og|er minn foʃtbrooder og mꜳttu þar siꜳ

hann|seiger Triggvi kongur: Eigi mun eg mier mann fremri|kiooʃa seigir Aʃlaug. Ef

Ieg þeſs koʃt Ætti. Leij|ſa þeir sijdann Iomfruna, og Iätar nu þeſsu braatt.|Klæder sig

nu sijnumm beʃta skrwda, og er hun þä|meija fegurſt. Er nu þijng stefnt, og lijʃer

Äs|laug þvi, ad hun vill Herloga Sier fijrer herra og eig|inn mann taka, lijkar þad

ollumm landz lijd vel,|og er Herl(ogi) þar ꜳ þijnginu til kongs tekinn,|og Crijndur

ijfer allt Ungaria rijki. Viliȧ fȯʃtbrædur|nu þadann hallda og i Hölmgardarijki. Setur nu

He|rlogi kongur hofdingia ijfer Rijki sitt i sinni fiærlæ-|gd. Enn Aʃlaug vill ei vid

Herloga kong skilia|og eru þær nu samann Nott og Dag Ingibi rg og|Aʃlaug. Sigla

nu kongar r Ungaria rijki og linna|ei fijrr en þeir koma til Hölmgarda Rijkis. Sen|der

nü hrijngur kongur epter köngumm og Iömfr numm og|er Efld ȧ mȯti þeim hin

ȧgiætaʃta Veitʃla, og|verda þar mikler fagnadar funder. Iomfrünumm er|n fijlgt i

Skiemmu til Signijar og Aaʃu, og voru|þær þar allar ʃamt med hinni meʃtu prijdi.

Kiemur|n kongunumm samann ad efna Brüdkaup|sijn ogǁ

49. skulu oll þeſsi Brwdkaup halldaʃt underei|ns. Er nu mikill Vidur büningur og bodid

øllu|stoormenni i naalægumm L ndumm. Barʃt n ad|brätt allt er hugurinn villdi til

mælaʃt og kiemur|Öt lulegur lijdur. Og eru Brüdkaupinn sett; Erki|biskup gefur fijrʃt

283 Okk⟨l⟩avatn] oklavatn ÍB 138 4to, 206r og 206v; Øklavatn SÁM 6, 92. Í Hálfdánar sögu Brönufóstra hittir Hálfdán konu sem er bundin í stól og fætur hennar eru í köldu jöklavatni, Rafn, Fornaldar sögur Nordrlanda, III:570. Sjá viðauka 7.

110

samann Hrijng Gardarijkiſs|kong og Signiju; þꜳ Triggva Miklagards|kong og

Ingib(i rgu); Sijdann Sigurd Puls kong og Äʃu,|þar epter Herloga Ungariaköng og

Aʃlau-|gu. Og skorti ecki i þeſsu Stȯra höfe og mik|lu Veitʃlu allra handa Glaum og

Gledi. Vijn|og Viʃtir med alls kinnz hlioodfærumm og strein|gia leijkumm, sem

verolldinn maatti framaʃt|veita. Þar med froodar Dæmi ʃ gur Ættartȯlur|og onnur

Skiemmtan. Ä medal annars kom|þar Ä lopt Ættartala Triggva mikla Gards|kȯngs og

var hann hv rgi nærri af so Lꜳgumm|stigumm, sem ad er kveded i Øndverdre

s g|unni. Þvi fader Triggva köngz er sig kalladi Karl i Gardzhorni hiet ad riettu nafni

Eijre|kur Brooder Þrändar köngs ʃem Þrandheimur I|Norveigi er vidkiendur. Saa

Þrandur var fader|Eijreks Vijdf rla. Enn kiellïng möder Triggǁ

50. va kȯngs hiet Wigdiis, dótter Balldurs, sonar|Vila sem var Brooder Oþinns kongs i

Svijþiöd. |Gardshorn sem nefnt er var eirn Sterkur kaʃtale|og hiet Straumadælld.

Hofdu þau Eijrekur|og Vïgdijs orded fijrer kijngiumm Galldraköngs og ætt|ludu þvi

ecki hvoriumm manni kunnug Gi ra|vankvædi Sijn. Og Stoodu nu Braudkaup

þeſsi|fullann og faʃtann maanud. Og ad þeim endudumm|voru Villdiſs menn Utleïʃter

med Störgi fumm,|og þeir minni hattar feingu og Giafer ad sijnu|leiti. Og endadeʃt

So þeſsi heimmz Glede med|stærʃtu velliʃt og herlegheitumm. Og er ad þe|im tijma

var komed ad þeim þötti þar til ma|al, hiellt hvȯr könganna heim i sitt rijki

med|sijnumm Drottningumm, Og hielldu sijnu|foʃtbrædralagie til Dauda dags.|Og

vogudu aungver ȧ nockurn|þeirra ad heria þvi þeir voru|aller ʃem eijrn madur.

Stijrdu|þeir sijnumm Rijkiumm vel|og leingi. Og endar so|þeſsa S gu.|F.I.N.I.S.

111

Viðauki 2: Gerðir Þegar Sagan af kóngabörnum er lesin í handritunum Lbs 2203 8vo, Lbs 4447 4to og Lbs 2929 4to, kemur í ljós að söguþráður er um margt frábrugðinn NKS 1802 4to. Í eftirfarandi samanburði er litið á minni eða efnisatriði úr B-gerð sem frávik við minni eða efnisatriði úr A-gerð og síðan stutt umfjöllun um handritin. Saga B-gerðar hefst svo: „Sá kóngur riedi fyrir Englandi sem Hríngur hiet, hann átti þá Drottníng er Signí hét.“284 Hér er Signý drottning, en ekki systir Sigurðar, heldur heitir systir hans Ingibjörg. Foreldrar Tryggva heita Úlfur og Ísigerður. Tryggvi drepur átta menn Sigurðar í skóginum með eikinni sem hann rífur upp með rótum. Móðir Tryggva gefur honum „guðvefjar skikkju“ sem hefur þrjár náttúrur og exin er hann fær í gjöf hefur einnig þrjár náttúrur. Þau landsvæði sem Tryggvi og Sigurður ferðast um eru önnur en í A-gerð sögunnar, en í B-gerð ferðast þeir frá Englandi til Írlands, frá Írlandi til Skotlands og þaðan til heimkynna trölla í Gandvík. Þar hitta þeir fóstbræður og Ingibjörg fyrir risa og skessu sem bjóða þeim, ásamt liði þeirra, heim í helli þeirra. Hér sefur Sigurður til fóta hjá risanum en Ingibjörg hjá skessunni, á meðan vakir Tryggvi. Hann sér tröllin haga sér illa um nóttina og þau fara úr tröllaham sem Tryggvi síðan brennir og álög þeirra leysast. Hér heita systkinin Haraldur og Þóra og eru börn Ólafs kóngs frá Skotlandi og voru undir álögum Grímhildar, en í A-gerð heita þau Herlogi og Ingibjörg og stjúpa þeirra heitir Æsa. Hinn illi Hrólfur kóngur á Írlandi er í hlutverki Galdrakóngs, en hann rænir Ingibjörgu og fer í bardaga við föður Hrings og Úlf. Móðir Hrólfs er afar fjölkunnug, en breytir sér þó ekki í kött þegar hún lífgar menn Hrólfs við, eins og í A-gerð, og er með fingurgull sem lýsir. Í lok sögunnar er Hrólfur handtekinn og hengdur, en í A-gerð heggur Tryggvi höfuðið af Galdrakóngi með sverði föður síns, Minnung. Sagan endar á þreföldu brúðkaupi: Haraldur kvænist Helgu dóttur Hrólfs, Sigurður kvænist Þóru og Tryggvi og Ingibjörg ná saman, en í A-gerð er það fjórfalt brúðkaup: Sigurður kvænist Ásu, Herlogi fær Áslaugu, Hringur fær Signýju og Tryggvi og Ingibjörg ná saman.

284 Upphaf þessara sagna er eins í Lbs 2203 8vo, 1 og 4447 4to, 59–60.

112

Lbs 2203 8vo Handritið Lbs 2203 8vo er pappírshandrit og er skrifað á árunum 1857–1859 með hendi Magnúsar Bjarnasonar (án árs) á Þorvaldsstöðum í Breiðdal, Suður-Múlasýslu.285 Handritið er rímna-, sagna- og kvæðakver og hefur að geyma eftirfarandi efni:

1. Rímur [8] af Jasoni bjarta eftir Jón Þorsteinsson úr Fjörðum. 2. Saga af Sigurði og Tryggva (bls. 1–42). 3. Saga af Márusi heimska. 4. Tvö kvæði eftir Guðbrand Einarsson. 5. Ríma af Valnytaþjófi eftir síra Jón Guðmundsson á Skeggjastöðum. 6. Kvæði eftir Ólaf Ólafsson í Heydölum, Sigurð Sigmundsson (Breiðdæling), Ólaf Erlendsson og síra Jón Hjaltalín.286

Handritið er varðveitt í Handritasafni Landsbókasafnsins. Fremst í handritinu stendur nafnið Sigmundur M. Long (1841–1924) ásamt ártalinu 1893, og því mætti gera því skóna að handritið hafi verið í eigu Sigmundar. Sigmundur fluttist til Vesturheims árið 1889, og var lengst af í Winnipeg og þekktur þar sem fræðasafnari.287 Þar sem handritið er merkt árið 1893, fjórum árum eftir að Sigmundur fluttist til Vesturheims, má geta sér þess til að hann hafi eignast handritið þar. Hann gaf Landsbókasafni handrit sín. Fremst í Lbs 2203 8vo stendur einnig: „Á þessu kveri | eru first | Rímur af | Jasini Bjarta | Sagan af Sigurði | og Triggva: og | Nikulási leikara | og Saga af Marusi | heimska, ásamt | Nokkrum kvæðu | m.“288 Upphafsorð sögunnar eru „Hier hefur upp sögu af Sigurde og Triggva þeÿm fóstbrædrum.“289 Af þessu má áætla að um sömu sögu sé um að ræða, en það er ekki svo. Á meðan ýmsir efnisþættir samsvara A-gerð sögunnar, er margt með öðrum hætti.

Lbs 4447 4to Handritið Lbs 4447 4to er pappírshandrit og inniheldur sögur sem voru skrifaðar á árunum 1868–1869. Í lok Sögunnar af kóngabörnum er skrifað „Gamlárskvỏld Árið

285 Reynt var að finna upplýsingar um Magnús Bjarnason á Þorvaldsstöðum, en þær fundust ekki. Hann er ekki að finna í Íslenzkum æviskrám eða á manntal.is og á handrit.is er einungis getið um nafn hans og bæjarheiti. 286 Nr. 4585 í Páll Eggert Ólason, Skrá um handritasöfn Landsbókasafnsins, II, 425. Handritið er ekki í gagnagrunni handrit.is. 287 Páll Eggert Ólason, Íslenzkar æviskrár, IV:204–5. 288 Lbs 2203 8vo, fremst. 289 Lbs 2203 8vo, 1.

113

1869.“290 Sögubókin er með hendi Erlends Sigurðarsonar (án árs) á Skála í Berufirði og hefur að geyma eftirfarandi sögur:

1. Sigurgarður frækni. 2. Álaflekkur. 3. Friðbert frækni. 4. Sigurður og Tryggvi (bls. 59–88). 5. Þorgrímur kóngur og kappar hans. 6. Starkaður gamli.

Erlendur Sigurðarson skrifaði fleiri handrit, t.d. Lbs 4065 8vo sem er merkt sem Rímnabók og Lbs 4066 8vo sem er sögð Sagnabók og rímnakver.291 Handritið var keypt árið 1970 af Guðjóni Guðjónssyni fornbóksala.292

Lbs 2929 4to Handritið Lbs 2929 4to er pappírshandrit, skrifað á árunum 1880–1889 að því að talið er. Það er mismunandi mikið skaddað á jöðrunum vegna bruna. Það hefur verið gert við það, og er handritið laust í kverum. Á handritinu eru tvær hendur, en er að mestu skrifað af Gísla trésmiði Árnasyni [án árs]293 á Fjarðaröldu í Seyðisfirði. Handritið er sögubók og sögurnar eru af:

1. „Sigurði og Tryggva (def. fremst).“ 2. „Ajax frækna.“ 3. „Vilhjálmi sjóð“ (m.h. Sigmundar Matthíassonar Longs). 4. „Artímund sterka Úlfarssyni.“ 5. „Raunum og reisu Juríns Jenssonar Prím.“ 6. „Halli að Horni og sonum hans.“ 7. „Cýrus keisara.“ 8. „Esópus og Sántus.“ 9. „Remundi Rígarssyni.“ 10. „Hálfdani Barkarsyni.“ 11. „Abúlkassem hinum ríka.“ 12. „Nítida frægu.“ 13. „Þorgrími og köppum hans.“

290 Lbs 4447 4to, 88. 291 Grímur Helgason og Ögmundur Helgason, Skrá um handritasöfn Landsbókasafnsins, aukabindi IV, 249. 292 Nr. 320 í Grímur Helgason og Ögmundur Helgason, Skrá um handritasöfn Landsbókasafns, aukabindi IV, 62. Handritið er ekki í gagnagrunni handrit.is. 293 Reynt var að finna upplýsingar um Gísla Árnason á Fjarðaröldu, en þær fundust ekki. Hann er ekki að finna í Íslenzkum æviskrám, á manntal.is eða á handrit.is.

114

14. „Ingvari Ölvissyni.“ 15. „Hring og Tryggva.“ 16. „Ásmundi Sebba-fóstra.“ 17. „Márúsi enum heimska.“ 18. „Gamlt ævintýri.“294

Hér er sagan af Tryggva og Sigurði á meðal riddarasagna og jafnvel almúgabóka. Það vantar fyrri hluta sögunnar í handritinu og hefst hún á blaðsíðu 19. Aftast við söguna, neðst á bls. 32, hefur verið skrifað: „Enduð þann 11. Marts 1889 [vantar] Árnasyni 68 ára gömul verandi á Seiðis[vantar].“295

294 Nr. 510 hjá Lárusi H. Blöndal, Skrá um handritasöfn Landsbókasafnsins, aukabindi I:64. Handritið er ekki í gagnagrunni handrit.is. 295 Lbs 2929 4to: 32.

115

Viðauki 3: Rímur Rímur eru frásagnarkvæði, eða epísk kvæði, sem lifðu samhliða íslenskri sagnamenningu í gegnum aldirnar og sem sagnaskemmtun þjóðarinnar. Orðið ríma er tökuorð í íslensku og Björn K. Þórólfsson (1892–1973) segir að merking orðsins feli í sér að „yrkja undir háttum með hendingar í lok vísuorða.“296 Rímur tilheyra mörgum greinum bókmennta og það sem þær eiga sameiginlegt, er bundið mál og flutningur. Þær þurfa að passa inn í ákveðið form, þar sem rímnaskáldið þarf ekki bara að endursegja sögu í bundnu máli, heldur þarf einnig að gæta þess að nota það skáldskaparmál og þá bragfræði sem tilheyra forminu. Rímur eru kveðnar og þannig fluttar af munni fram með ákveðnum tal-tóni sem getur haft sitt kvæðalag, til að áheyrendur kunni að meta þær. Þær voru einnig lesnar upp.297 Aðalmarkmið þeirra var þó að skemmta áheyrendum.298 Í hinu bundna máli birtast ýmsir þættir og hefðir sem einkenna þær, svo sem ákveðinn bragur, mál, stíll og frásögn. Í bragarháttum má finna erlend áhrif en skáldskaparmálið á sér innlendar rætur. Hér má nefna að kenningar koma úr gamla arfinum, svo einkum dróttkvæðum. Rímnaskáldin sóttu efni sitt í fornaldar- og riddarasögur ásamt í þær Íslendingasögur sem voru vinsælar og þeir þekktu til. Hér sneru þeir sögum yfir í bundið mál og yrktu um fjarlægar slóðir, þar sem hetjur unnu afrek, kóngsdætrum bjargað og furðuverur og vættir komu einnig við sögu,299 en hver ríma hófst iðulega á mannsöngi. Stundum getur upprunalega sagan verið glötuð, en rímurnar lifa og það geta sprottið nýjar sögur af rímum. Vitnisburð um vinsældir sagna, má bæði reikna af fjölda handrita og rímna sem hafa verið ortar um söguna. Rímnaflokkar eru eins og sögur, hafa upphaf og endi og í hverjum þeirra getur verið mismunandi fjöldi rímna (e.k. kafla) erinda, Tryggva rímur eru sagðar vera tólf. Flest bendir til þess að þær séu ortar af Jóni Einarssyni (1803–1876), bónda, skáldi og smið, á Skárastöðum í Miðfirði (Skárastaða-Jóni) árið 1854.300 Hér er listi yfir handrit sem hafa að geyma rímurnar:

296 Björn K. Þórólfsson, Rímur fyrir 1600, 49. 297 Davíð Erlingsson, „Munnmenntir - bókmenntir“, 148; Davíð Erlingsson, „Rímur“, 330–34; Sverrir Tómasson, „Hlutverk rímna í íslensku samfélagi“, 80–82. 298 Einar Ól. Sveinsson, „Íslenzkar bókmentir eptir siðskiptin“, 132. 299 Björn K. Þórólfsson, Rímur fyrir 1600, 236. 300 Páll Eggert Ólason, Íslenzkar æviskrár, III:100; Finnur Sigmundsson, Rímnatal, I:477.

116

1. Lbs 986 4to, með hendi Jóns Einarssonar, skrifað á árunum 1867–72, inniheldur rímur og ljóðabréf, tólf rímur af Tryggva.301 2. Lbs 1660 4to, með hendi Ólafs Jónssonar í Mávahlíð, skrifað á árunum 1868– 1869; tólf rímur af Tryggva sem eru sagðar ortar 1853, ásamt öðrum rímum og sögum.302 3. Lbs 985 8vo, með hendi Halldórs Jónssonar, skrifað 1870, merkt rímnabók. Hér eru tólf rímur af Tryggva karlssyni kveðnar af Jóni Einarssyni á Skárastöðum.303 4. Lbs 1776 8vo, handritið er skrifað með tveimur höndum, á síðara hluta 19. aldar og er hér brot úr Tryggva rímum.304 5. Lbs 2511 8vo, handritið er með hendi Jóhannesar Kjartanssonar á Hlaðseyri við Patreksfjörð og síðar að Grænhól á Barðaströnd, skrifað 1907–1915. Rímur af Tryggva karlssyni eftir Einar Jónsson á Skárastöðum.305 6. Lbs 2846 8vo, er skrifað af E. S. s., skrifað 1863 og hefur að geyma rímur Tryggva karlssonar eftir Einar Jónsson á Skárastöðum í Miðfirði.306 7. Lbs 2988 8vo, handritið er skrifað með hendi Gísla Gíslasonar í Kjós árið 1889 og er rímnakver. Tryggva rímur eftir Jón Einarsson á Skárastöðum.307 8. Lbs 3583 8vo, rímnabók með hendi Guðmundar Guðmundssonar frá Krossi, skrifað 1898–1899, tólf rímur af Tryggva karlssyni eftir Jón Einarsson frá Skárastöðum í Húnaþingi.308 9. Lbs 3838 8vo, rímnabók með hendi Sigurðar Árnasonar á Þóroddsstöðum í Hrútafirði, tólf rímur af Tryggva karlssyni eftir Jón Einarsson.309 10. Lbs 3879 8vo, handrit skrifað með tveimur höndum á síðari hluta 19. aldar, tólf rímur af Tryggva karlssyni, ortar 1854.310

301 Nr. 1303 í Páll Eggert Ólason, Skrá um handritasöfn Landsbókasafnsins, 1918, I:411; Finnur Sigmundsson, Rímnatal, I:477. 302 No. 1993 í Páll Eggert Ólason, Skrá um handritasöfn Landsbókasafnsins, 1918, I:577; Finnur Sigmundsson, Rímnatal, I:477. 303 Nr. 3365 í Páll Eggert Ólason, Skrá um handritasöfn Landsbókasafnsins, 1918, II:187–88; Finnur Sigmundsson, Rímnatal, I:477. 304 Nr. 4158 í Páll Eggert Ólason, Skrá um handritasöfn Landsbókasafnsins, 1918, II:349. 305 Nr. 617 í Páll Eggert Ólason, Skrá um handritasöfn Landsbókasafnsins, 1947, aukabindi I:79–80; Finnur Sigmundsson, Rímnatal, I:477. 306 Nr. 952 í Páll Eggert Ólason, Skrá um handritasöfn Landsbókasafnsins, 1947, aukabindi I:132; Finnur Sigmundsson, Rímnatal, I:477. 307 Nr. 829 Lárus H. Blöndal, Skrá um handritasöfn Landsbókasafnsins, aukabindi II:118; Finnur Sigmundsson, Rímnatal, I:477. 308 Nr. 1110 í Grímur Helgason og Lárus H. Blöndal, Skrá um handritasöfn Landsbókasafnsins, aukabindi III:152. 309 Nr. 896 í Grímur Helgason og Ögmundur Helgason, Skrá um handritasöfn Landsbókasafnsins, aukabindi IV:197. 310 Nr. 937 í Grímur Helgason og Ögmundur Helgason, Skrá um handritasöfn Landsbókasafnsins, aukabindi IV:207.

117

Í þremur handritum er höfundur ógreindur eða ókunnur:

1. Lbs 1332 8vo, hefur eina hönd, er skrifað 1840 og höfundur gæti verið Steindór, Bergþór, Halldór, Þorbergur, Þorsteinn eða Þórhallur. Hér eru níu Tryggva rímur karlssonar.311 2. Lbs 1776 8vo, hefur tvær hendur og er skrifað á fyrri hluta 19. aldar. Hér er brot úr Rímum Tryggva karlssonar.312 3. Lbs 4238 8vo, handritið er samtíningur og hafa skrifarar verið margir, skrifað á síðari hluta 19. aldar. Hér er brot úr Tryggva rímum karlssonar, eftir „ókunnan höfund.“313

311 Nr. 3714 í Páll Eggert Ólason, Skrá um handritasöfn Landsbókasafnsins, 1918, II:260. 312 Nr. 4158 í Páll Eggert Ólason, Skrá um handritasöfn Landsbókasafnsins, II:349. 313 Nr. 1296 í Grímur Helgason og Ögmundur Helgason, Skrá um handritasöfn Landsbókasafnsins, aukabindi IV:278.

118

Viðauki 4: Skrifari Jón Ólafsson (1705–1779) úr Grunnavík er best þekktur fyrir starf sitt með og fyrir Árna Magnússon, en var einnig einn þeirra sem skrifuðu texta fyrir P.F. Suhm. Í leit að skrifara NKS 1802 4to lá því beint við að bera rithönd hans saman við uppskrift sögunnar og kanna nánar samskipti þeirra Jóns og Suhm. Suhm fæddist árið 1728 og lést 1798 og bjó lengst af í Kaupmannahöfn. Jón fæddist árið 1705 á Íslandi og lést árið 1779 í Kaupmannahöfn. Hann fór til Kaupmannahafnar 1725 en var heima á Íslandi sumarið 1735. Það myndi teljast frekar ólíklegt að þeir hafi hist á þeim tíma er Jón var í Kaupmannahöfn í fyrra skiptið. Jón var í Noregi veturinn 1735–6 og fer svo til Kaupmannahafnar og þaðan til Íslands árið 1743. Þá er Suhm 15 ára og því ólíklegt að vegir þeirra hafi legið saman fyrir Íslandsför Jóns. Jón kemur til baka 1751 um svipað leyti og Suhm fer til Þrándheims og hann kemur til baka til Kaupmannahafnar árið 1765 með áhuga á íslenskum fornsögum og handritum. Ljóst er að Suhm hafði áhuga á að fræðast meira um fornsögurnar og jafnvel eignast þær. Þar sem fáir textar höfðu verið gefnir út á þessum tíma var ein leið til að eignast þær að fá handrit lánuð og láta að skrifa þau upp. Eftir að hann varð meðlimur Árnasafns, þá varð það auðveldara fyrir hann að fá íslensk handrit lánuð til þess að láta skrifa upp. Suhm og Jón úr Grunnavík voru samtímis í Kaupmannahöfn árin 1765– 1779 og samkvæmt Jóni Helgasyni, þá gerði Jón uppskriftir fyrir Suhm að hans beiðni, en samskipti þeirra fór helst fram í gegnum milligöngumenn og þá helst Guðmund Helgason Ísfold sem hefur verið nefndur.314 Eins og fyrr segir þá er stór hluti safnsins Ny kgl. samling í Konunglega danska bókasafninu kominn frá safni Suhms og þar eru nokkur handrit sem eru skrifuð með hendi Jóns. Tvö af þeim fjölda handrita sem Jón skrifaði og eru í Konunglega danska bókasafninu eru: Ny kgl. sml. 473, fol., Johannis Olavvi Runlogia, skrifað 1732 með safnmarkinu Suhms sml. 742, fol.315 og Ny kgl. sml. 1130, fol., Háttatal Snorra Sturlusonar, skrifað 1734 og með safnamarkinu Suhm sml. 675, fol.316 Þar sem þessi handrit hafa safnmark Suhms og eru skrifuð áður en Jón fór heim til Íslands árið 1735, má ætla að Suhm hafi eignast, með einum eða öðrum hætti, handrit sem Jón skrifaði áður en hann sjálfur fékk áhuga á íslenskum fornritum.

314 Jón Helgason, Jón Ólafsson frá Grunnavík, 320. Jón Helgason gefur enga heimild af þessum samskiptaháttum. 315 Nr. 168 í Kålund, Katalog over de oldnorsk-islandske håndskrifter, 88. 316 Nr. 283 í Kålund, Katalog over de oldnorsk-islandske håndskrifter, 117.

119

Í Den Arnamagnæanske Samling í Kaupmannahöfn voru skoðuð tvö handrit sem skrifuð voru af Jóni Ólafssyni, annars vegar AM 20 e–g & i fol., Materiale til udgaben af Knýtlinga saga317 sem er að mestu leyti skrifað af Jóni eftir 1750 og svo AM 267 8vo.318 Þegar skrift Jóns er borin saman við skriftina í NKS 1802 4to, má segja að líkurnar á að Jón hafi skrifað handritið séu litlar. Þó að margt sé líkt, svo sem að nota ij þá er pennaáferðin ekki sú sama, strokur og sveigjur beinast ekki í sömu átt. Hér má einnig nefna að Jón notar tvíhólfa a í límingarstafnum en skrifari NKS 1802 4to notar einhólfa a og upphafsstafurinn T er með öðru móti hjá Jóni en í NKS 1802 4to. Í töflu 3 er samanburður á þessum stöfum úr handritinu NKS 1802 4to og AM 267 8vo.

Tafla 4. Samanburður á stöfunum , ij og T úr handritunum NKS 1802 4to og AM 267 8vo.

NKS 1802 4to, bls. 1 og 2 AM 267 8vo, blað 252

ij

T

Niðurstaðan er því sú að það verður að teljast ólíklegt að Jón Ólafsson frá Grunnavík sé skrifari NKS 1802 4to.

317 Nr. 35 í Kålund, Katalog over den Arnamagnæanske håndskriftsamling, I:15–17. 318 Nr. 2482 í Kålund, Katalog over den Arnamagnæanske håndskriftsamling, II:469–70. Árni Magnússon skrifar fyrri hluta handritsins, en Jón frá blaðsíðu 205.

120

Viðauki 5: Samanburður sögutitla úr NKS 1144 fol. og AM 576 a–c 4to Í eftirfarandi töflu er listi yfir þá titla er höfundur þessarar ritgerðar skráði niður í júní 2018 úr handritinu NKS 1144 fol. og er hann borinn saman við efnisyfirlit NKS 1144 fol., samkvæmt upplýsingum á Stories for all time og AM 576 a–c 4to á handrit.is. Hér kemur fram, eins og rætt var um í kafla 3.4, að svo virðist sem b- og c-hluti AM 576 4to hafi ruglast, þannig að þær sögur sem ættu að vera í AM 576 b 4to eru í c-hluta NKS 1144 fol. og þær sögur í c-hluta AM 576 4to eru í b-hluta NKS 1144 fol. Þetta dæmi sýnir að ruglingur gæti gerst í meðförum þeirra er meðhöndla handrit og ekki er vitað hvort að Þorlákur M. Ísfjörð hafi gert mistök er hann skrifaði NKS 1144 fol. eða að ruglingur hafi orðið þegar AM 576 b–c 4to var skráð á handrit.is. Í NKS 1144 fol. er sagt frá sömu sögu oftar en einu sinni, og þegar Dínus saga drambláta, nr. 72 og 135, kemur fram í AM 576 c 4to er ekki vitað hvort átt sé við nr. 72 eða 135, og því er merkt við bæði. Það sama má segja um Sigurðar sögu þögla, nr. 84 og 122.

Tafla 4. Samanburður á heiti sagna í NKS 1144 fol. og AM 576 a–c 4to.

NKS 1144 fol. Stories for Handrit.is Handrit. Handrit. Titill319 Bls. all time AM 576 a is is NKS 1144 4to AM 576 AM 576 fol. b 4to320 c 4to321 Annotatio A Magnesi að exempl: Litt: A. Þessi blöð eru mín og hefur Einar Eyjólfsson gjört þessi extracta 1. Egils saga 3–5 1v–3r 1r–v Skallagríms- sonar 2. Hrólfs saga 6–17 3v–10r 2r–v kraka 3. Saga um Hákon Harn[00]son

319 Titlar samræmdir skv. handrit.is. * merkir annar titill eða að titill er ekki skráður á Stories for all time eða handrit.is. Stafir og stafsetning titla í NKS 1144 fol. er færð til nútímahorfs. 320 Titlar í efnisyfirliti á AM 576 b 4to á handrit.is er ekki blaðamerkt, heldur er einungis sagt að útdráttur úr sögum og rímum sé á blöðum 1r-36v. Titlar eru númeraðir frá 1.1-1.15, og er sú merking notuð hér. 321 Titlar í efnisyfirliti á AM 576 c 4to á handrit.is er ekki blaðamerkt, heldur er einungis sagt að útdráttur úr sögum og rímum sé á blöðum 1r-65v. Titlar eru númeraðir frá 1.1-1.18, og er sú merking notuð hér.

121

4. Úlfs saga 20 10v–11v Uggasonar 5. Bérsa saga* 23 (Bósa (Bósa saga) saga) 12r–16r 3r–v 6. Króka -reſs saga 31 16r–19r 3v

7. Ragnars saga 37 19r–28r loðbrókar 8. Sigurgarðs saga 55 28r–39r frækna 9. Hólmverja 57 (Harðar (Harðar saga* saga) saga) 29r–30r 4r 10. Njáls saga 59 30r–33v 4r–5r

11. Af Bæringi 66 (Bærings (Bærings fagra saga) saga) 33v–39r 5r–6v 12. Valdimars saga 77 39r–44r 6v

(Víga- Glúms saga) 7r–v 13. Búa saga* 87 (Kjal- (Kjal- nesinga nesinga saga) saga) 44r–50r 7v–9r 14. Af Jökla 99 (Jökuls (Jökuls Búasyni* þáttur þáttur Búasonar) Búasonar) 50r–52v 9r–11r 15. Eyrbyggjasaga* 105 10r

16. Búa saga 107 (Jökuls (Kjal- Andríðasonar* þáttur nesinga Búasonar) saga) 53r–54v 10r–v 17. Af Jökla 110 (Jökuls Búasyni* þáttur Búasonar) 55v–56r

122

18. Víga -Glúms 111 56r–58v 11r–v saga 19. Illuga saga 117 59r–59v Gríðarfóstra 20. Bérsa saga* 118 (Bósa saga) 59v–61r 21. Af Ragnari 122 (Völsunga (Völsunga kóngi loðbrók* saga og saga – Ragnars Ragnars saga saga loðbrókar) loðbrókar) 61r–65v 12r–13r 22. Hálfdanar saga 131 66r–67r 13r–13v Eysteinssonar 23. Göngu -Hrólfs 133 67r–69v 13v saga 24. Af Hákoni 138 (Hákonar Hárekksyni* þáttur Háreks- sonar) 69v–70r 25. Af Slysa Hróa* 140 (Hróa þáttur heimska) 70v–71r [Auðar síður] 142– 144 Hic incipit Exemplar 145 Lit. B. scriptum propria manu A.Magnæi* 26. Nítíða saga 145 73r–74v 1.1

27. Sálus saga og 149 75r–75v 1.2 Nikanórs 28. Vilhjálms saga 151 76r–76r 1.3 sjóðs 29. Falentíns og 152 76–77v Ursins saga 30. Perseus rímur 155 78r–78r 1.4

123

31. Apollonius saga 155 78r–78r

32. Flóvents saga* 155 (Flóres 1.5 saga konungs og sona hans) 78r–78v 33. Flóvents saga 156 78v–78v

34. Þjalar Jóns saga 156 78v–79r 1.6

35. Fortunatus 157 1.7 saga* 36. Vigoleis vom 157 Rat Ritters historia 1586* 37. Gabons saga og 157 79r–79r 1.8 Vigoleis 38. Sagan af Huga 158 (Huga saga skaplers* sterka og skaplers konungs) 79v–80r 39. Trójumanna 159 80r–80v saga 40. Inntak rímna af 160 (Rímur af Haraldi Haralldi kvenngjarna (al. Kvenn- kvennsama)* gjarna) 80v–80v 41. Virgilíus saga 160 80v–81r

42. Vilmundar saga 161 81r– 1.9 viðutan 81r**322 43. Vilhálms saga 161 82r–82r** sjóðs 44. Saga af 161 81r–81v** Theo- Theogene og gene Chariclia saga og Chariclia 1.10

322 ** merkir að skv. Stories for all times er þessi saga afrituð frá AM 576 c 4to. („Copy of AM 576 c 4to“).

124

45. Lykla -Péturs 162 81v– 1.11 saga 82r***323 46. Mageltnæ [ath.] 163 historie* 47. Melusinæ 163 (Melusina historie* saga) 82r–82v 48. Görg Wickram 164 82v–82v von Colmar 49. Þorbjörg digra 164 (Verse, kvað í dansinum eftir í Jarlmanns sögu Þorbjörgu digru) 82v–82v 50. Historia Arturi 165 83r–83r

51. Mabel rímur 165 83r–83r

52. Meistari Lucius 165 83r–83r Calus exemple 53. Visæ sunt miki 165 (List of [?] vitæ) 83r–83v 54. Registur uppá 166 83v–89v nokkur skrifuð æfintýr 55. Buddu saga

56. Um eirn hertekinn biskup 57. Um Heinrek 167 keisara 58. Um Bonifarium

59. Um eirn biskup Italia 60. Um Irmenþrúði konu 61. Æfintýr af ein- 168 um kóngssyni er var lærisveinn

323 *** merkir að skv. Stories for all time er þessi saga byggð á AM 576 b 4to. („Based on AM 576 b 4to“).

125

eins meistara er hét Mors 62. Æfintýr af 169 aðskilianlegum anonymis eru óteljande 63. Trönuþáttur, (Trönu Alftar rímur, þáttur) Brita þáttur, af 1.13 Illum, Verra, Verstum, Klerka rímur, (al. perperian þáttr), 5 að tölu af Sniðulfe bónda 64. Saga af Salomon 1.14 kóngi og Markolfi 65. Marcolfus paa 170 danske 66. Historie om Blankeflor paa danske rím Hafn 1542 67. Úr Flóres rímum 1.15

68. Titús Gisippus - vinavísur 69. Alexandri Magni saga – Blómsturvalla- saga 70. Kolbeinn (Sveins Grímsson í rímur mannsaung fyrir Múks- 7du Sveins sonar) Rímur 1.16 Múkssonar 71. Dínus saga 172 (Dínus saga dramb- láta) 1.17

126

72. Historia Septem 172 Sapientum Rome 73. Elís sagu – með Artus kóng 74. Von Hertz og Ernsten 1689 75. Von Margrass 173 Waltern 8vo 1685 76. Von Magelona 1690 8vo 77. Von Melusina 1692 8vo 78. Von, dem gehörnten Siegfried 1690 8vo 79. Von Hertz og Ernst in Bejern 1594 80. Apollonü historia Leipzig 1599 81. Grisilla paa tysk

82. Evriolus og Lúcretia paa tysk 83. Úr sögu 174 1.12 Sigurðar þögla 84. Sedentiana 175 Frakklands drottning 85. Svikarar í mannsaung Amicus og Amilius rímu 86. Upptalningar um svik á milli manna/kvenna úr ýmsum sögum

127

87. Meistari 177 Gallterius í Alexandris sögu 88. Ein Schoone historia van Malegus 1591 Hic inciis exemplar 179 Lit: C N=576, scriptum proprca manni A. Magnæi 89. Þiðreks saga 179 90r–93r

90. Sú fyrsta af 183 Artus kappa sögum er Yvent saga** 91. Því næst kemur 185 (Percevals Parcevals saga saga) Artus kappa** 93r–94r 92. Walvens þáttur 187 Artus kappa** 93. Artus 188 (Erex saga) kappa og hinnar 94v–95r vænu Evidæ** 94. Samsons saga 190 95v–98v fagra 95. Möttuls sagu al. 194 Skikkjusögu** 96. Kirialae ſögu 196

97. Adónías saga 197 99r–99v

98. Ála flekks saga 198 99v–100r

99. Ambrósíus saga 199 110–106v 1.1 og Rósamundu 100. Efni og inntak 213 107r–109r 1.2 úr Andra rímum 101. Efni úr Andra 214 rimum ófullkomið 102. 217 109r–110r

128

103. Blómsturvalla 219 110r–112r 1.3 saga 104. Úr Callinus 223 112r–114v rímum 105. Rímur af Hring 225 og Tryggva kallast Geðraunir þeirra** 106. Úr Landres 228 114v–116v rimum 107. Úr Pólistutors 232 116v–117r rímum 108. Úr rímum af 233 (On rímur Reinallde og af Rósu Reinhalldi) 117r–119r 109. Úr Grímallðs 237 119–121v rímum 110. Vilkens saga** 242 (Jóns þáttur Vilkems- sonar) 121v–122v 111. Úr sögu af 245 (Jóns saga riddara Jóni leikara) kölluðum 123r–123v Leiksveini 112. Jarlmanns saga 246 123v–125r 1.4 og Hermanns 113. Konráðs saga 249 125r–125r 1.5 keisarasonar 114. Mírmanns saga 251 125r–126r

115. Nikulás saga 253 126r–126v 1.18 leikara 116. Sigurgarðs saga 254 126v– 1.6 126v; 128r–128r 117. [Tvöföld 255 127 blaðsíða er opnast, ættartré úr Sigurðar sögu

129

og Signýjar, tilvísun í bls. 263] 118. Sagan af 256 (Sigurð- Sigurgarði garðs saga frækna og frækna) Valbrandi illa** 128v–129r 119. Sigurðar saga og 257 129r–130r Valbrands 120. Sigurðar saga 259 130r–130r turnara 121. Sigurðar saga 260 130v–132r 1.12 þögla 122. Sagan af Sigurði 263 (Sigurðar og Signiju og saga og Tryggva Signýjar) Karlssyne, 127r–127r; tilvísun í bls. 132r–134r 254 123. Af Tristran og 267 (Tristrams 1.7 Isönd ** saga og Ísoddar) 134r–135v 124. Tiodels saga 270 135v–136r riddara 125. Valdimars saga 271 136r–136v 1.8

126. Þjalar -Jóns saga 272 136v–138v 1.9

127. Rémundar saga 276 139v–141r keisarasonar 128. Jacobus de 279 141r–141v voragine in legenda Aurea in Pelagio 129. Úr rímum 280 141v–144r 1.10 Amíkus og Amilíus 130. Af Úlfari sterka 286 (Úlfars 1.11 og Önundi saga fagra** sterka) 144v–145v

130

131. Úlfs saga 288 145v–147r Uggasonar 132. Elís saga og 292 147v–148r Rósamundu (Julius ens gamla) 133. Dámusta saga 293 148r–149r

134. Dínus saga 296 149v–150r 1.17 drambláta 135. Esópus saga 297 150r–151v

136. Ferakuts saga 300 (Ferakuts (Ferakuts eða þættinum af saga) saga) Balant Amiral 151v–153r 1.12 137. Flóvent saga 303 153r–154r

138. [Vantar] (Flóres saga konungs og sona hans) 154r–155r 139. Fertrams saga 307 155r–157r 1.13 og Platós 140. 311 157r–157v

141. Griseldis saga 312 167v–168r 1.14

142. Helena 313– (Helenu þolinmóða (al: 314 saga) af Helenu 169r–169v einhendta)** Ásmund- ar rímur og Tryggva 1.15

131

Viðauki 6: Persónur úr Sögunni af kóngabörnum Í Sögunni af kóngabörnum birtast eftirfarandi persónur: Í Púl eru kóngur og drottning, foreldrar Sigurðar og Signýjar, (bls. 1). Í Garðshorni eru karl og kerling, foreldrar Tryggva, (bls. 1–2). Í lok sögunnar kemur fram að Garðshorn er „sterkur kastali“ er hét Straumdæld. Faðir Tryggva er Eiríkur bróðir Þrándar kóngs í Þrándheimi í Noregi sem er sagður vera faðir Eiríks víðförla.324 Móðir Tryggva er Vigdís dóttir Baldurs sonar Vila sem var bróðir Óðins kóngs í Svíþjóð, (bls. 49–50). Í Ungaríu býr Galdrakóngur. Hann rænir Signýju systur Sigurðar, drepur foreldra þeirra ásamt foreldrum Tryggva, (bls. 9–10). Hann rænir einnig Áslaugu dóttir Phillips fyrrverandi kóngs í Ungaríu, (bls. 47). Galdrakóngur hefur mátt til þess að kalla fram kynngiveður (bls. 10, 16) og líta í gaupnir sér til að sjá fyrir um hluti, (bls. 11, 13, 16). Móðir hans er ráðgjafi hans og kann ýmislegt fyrir sér, þar sem að hún getur breytt sér í kött og lífgað upp hina dauðu, með lífgulli, (bls. 15). Þar er einnig kona sem býr „upp sæng“ og veit hvað gerist í borg Galdrakóngs, því það er hún er segir þeim fóstbræðrum frá dauða foreldra þeirra og ráninu á Signýju (bls. 8–10). Áður en Galdrakóngur náði völdum í Ungaríu, bjó þar kóngur er Phillip hét og átti dóttur er Áslaug hét. Galdrakóngur drap Phillip og vildi eiga Áslaugu, en fóstra hennar villti um fyrir honum svo að hann sá ekki hvar hún var niðurkomin fyrr en fóstran lést, (bls. 47). Knútur föðurbróðir Tryggva og stúlka ein, búa í húsabæ einum (bls. 17). Í Hólmgarði býr Hringur kóngur, móðurbróðir Tryggva, ásamt dóttur sinni, Ásu, (bls. 18–21). Sigurður kvænist Ásu og Hringur fær Signýju. Í Bjarmalandi hitta þeir fóstbræður fyrir „stórvaxinn mann“ er Skrímnir heitir og „flagðkonu“ eina er Skrukka heitir. Í ljós kemur að það eru systkinin Herlogi og Ingibjörg í álögum, (bls. 22–35). Þau eru börn Artus kóngs og Eyrúnlaugar drottningar frá Miklagarði sem andaðist eftir mikla sótt. Víkingar herjuðu á landið og fór Artus í stríð. Eitt sinn kom kona inn í tjald hans, grænklædd, með marga bauka af smyrsli og bar á hann svo að Artus gleymdi fyrri konu sinni. Hér er komin Æsa, kona Blálandskóngs sem Tartarakóngur hafði drepið. Artus og Æsa giftust, þótt systkinin hafi mótmælt þeim ráðahag. Artus dó og Æsa átti vingott við ráðgjafa hans. Hún leggur

324 Skv. Sögunni af Eireki víðförla er faðir Eiríks, Þrándur kóngur af Þrándheimi, Rafn, Fornaldar sögur Nordrlanda, III:661.

132

síðar á þau systkinin að þau yrðu bæði að „hinum afskaplegustu tröllum“ í Bjarmalandi, (bls. 29–34) Æsa á þrjá bræður, Steinhausa, er tók við Miklagarði eftir hana, og landvarnarmennina Slanga og Hrotta sem voru hin verstu tröll, (bls. 36). Jafnframt koma fram í sögunni nafngreindir merkismenn þeirra Sigurðar, Tryggva, Herloga, Steinhausa, Slanga og Hrotta þegar hinn mikli bardagi á sér stað (bls. 40–41), auk ýmiskonar illþýðis, blámanna, trölla og landslýðs.

133

Viðauki 7: Orðalisti Þegar unnið var að uppskrift handritsins NKS 1802 4to komu í ljós ýmis sérstök orð og orðasambönd sem vöktu áhuga og því var nokkrum áhugaverðum orðum safnað saman í eftirfarandi orðalista. Hér kemur fram að mörg orðanna koma þegar fyrir í gömlum handritum. Stuðst var við vefsíðuna ONP: Dictionary of Old Norse Prose (ONP) og orðabækur á Málið.is auk annarra miðla. Í eftirfarandi orðalista er vísað í blaðsíðutal skv. handriti.

Tafla 5. Orðalisti úr NKS 1802 4to.

Orð Bls. Skýring Berlegt 4 Skv. Íslenskri orðabók er orðið „berlegur“ ao. og merkir: „greinilegur, skýr, glöggur.“ Skv. þessu er erfitt að setja orðið „berlegt“ í samhengi við setninguna: „Þvi kippir hann upp med Rȯtumm og seiger vid Sialfann Sig, ad þad sie Berlegt ad hafa ei neitt i hendi, hvad ſem ad bera kunne.“ Hér sennilega í merkingunni að hafa ekki tóma hendi. Orðið „berlegt“ er einnig í ÍB 138 4to, 189r og SÁM 6, 57. Drötter 3 Skv. Íslenskri orðsifjabók merkir orðið „drótt“: „þverbiti yfir ok Dijra dyrum (eða glugga).“ Elsta dæmið er frá 16. öld. Um- „Drötter ok Dijra Umbünïng“ er einnig að finna í ÍB 138 4to, bünïng 188v og Sám 6, 56. Eijrun- 30 Eijrunlaug] Ermetlaug ÍB 138, 200r; Erminlaug SÁM 6, 79. laug Nöfnin skiluðu engum niðurstöðum í leit á vefnum, Málið.is, Íslensku textasafni Stofnunar Árna Magnússonar eða á vefsíðunni ONP. Þess má geta að Ermin- er gamall forlíður í nöfnum, sbr. erminrekur og Ermingilda. For- 7 Skv. Íslenskri orðsifjabók merkir orðið „forysta, frumkvæði.“ gaanga Skv. ONP er elsta dæmið í Barlaams sögu ok Jósafats í Holm perg 6 fol (c1275), „Ec skal fylgia þer. Oc forgangu veita.“

Frijunar 3 Skv. Íslenskri orðsifjabók merkir orðið „frýjun“: „álösun, ord ögrun“. Skv. ONP er elsta dæmið úr Laxdæla sögu í AM 132 fol (c1330–1370). Skv. Íslenskri orðsifjabók og ONP, merkir orðið „klungur“: Klungur- 23 „grýtt, klettótt land, þyrnirunni.“ Skv. ONP er orðið „klungr“ í inn Barlaams sögu ok Jósafats í Holm perg 6 fol. (c1275).

Kurteijs- 7 Orðið má meðal annars finna í Þiðrek sögu af Bern í Holm. lega Perg. 4 fol. (c1275–1300). Leijkvelli 4 Orðið má meðal annars finna í Bærings sögu fagra í AM 58 4to (c1300–1325). Orðið er einnig í ÍB 138 4to, 189r og SÁM 6, 57.

134

Lífgull 15 Orðið „lífgull“ skilaði engum niðurstöðum í leit á, Málið.is, Íslensku textasafni Stofnunar Árna Magnússonar, ONP og í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans. Google leit skilaði hins vegar þremur niðurstöðum: í ljóði er birtist í Heimskringlu 27. des. 1922, forsíða; í ljóði í Degi 7. sept. 1944, bls. 3; í gagnagrunni Medieval Scandinavian Motif Database. „Lífgull“ er einnig að finna í ÍB 138 4to, 194v og Sám 6, 68. Lítur í 11, Skv. Íslenskri orðsifjabók merkir orðið: „gína yfir, ná út yfir“, gupner 13, og vísar í orðið „gaupn“, sem merkir: „íhvolfur (holur) lófi“. sér 16 Skv. OPN kemur orðið fyrir í Ólafs sögu helga í DB 8 (c1225– 1250), þar segir: „þa er sact at Olafr harallz son felle a kne oc sa i gaupnir ser. En i gaupna þessare […]“ Minnung 46 Sverð í eigu föður Tryggva, eitt það besta í heimi. Minnung] Mummung ÍB 138 4to, 205v; Mimmung Sám 6, 91. Skv. Íslenskri orðsifjabók er „Mímung(u)r, Mimmung(u)r: nafn á sverði.“ ONP er Mimmungr sverð Viðga í Mágus sögu jarls í AM 580 4to (c1300–1325) og því má áætla að orðið sé afbakað í handritunum. Okkla- 47 Orðið „ökklavatn“ skilaði einni niðurstöðu á Málið.is¸og þá í vatn Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. En hins vegar er sagt frá því í Hálfdánar sögu Brönufóstra að Hálfdán fór í afhelli og „sá hann konu sitja á stóli; hár hennar var bundit við stólbrúðirnar, fætr hennar voru í köldu jöklavatni.“325 Hér er sennilega um að ræða afbökun á orðinu jöklavatn. Okkavatn/okklavatn] oklavatn ÍB 138 4to, 206r og 206v; Øklavatn SÁM 6, 92. pervijſe 26 Skv. Íslenskri orðsifjabók er orðið frá 18. öld og merkir: „mjór og vesaldarlegur maður“. Orðið er ekki að finna í ONP. Þar sem orðið „pervijſe“ er hvorki í ÍB 138 4to 199r né í SÁM 6, 76, má gera hér ráð fyrir að skrifari NKS 1802 4to, hafi hér bætt við orði sem honum þótti við hæfi til að lýsa Tryggva seint á 18. öld. raun 32 Orðatiltækið „raun skarest“ finnst ekki. Hér hefur sennilega skarest orðið afbökun, en sem dæmi má nefna að „til skarar skríða“ er t.d. í Jómsvíkinga sögu í AM 291 4to (c1275–1300). Skared] vantar í ÍB 138 to, 201r; varð SÁM 6, 81. Merkingin er sennilega: „raun á varð.“ Riettſijnis 3 Skv. ONP er orðið í „réttsýnis“ í AM dipl fasc XIII 18 (1454) og er hér sennilega í merkingunni „réttsælis“. hronn 24 Skv. Íslenskri orðsifjabók merkir orðið „hrönn“: „[…] aflöng øllumm hrúga eða dyngja.“ Skv. ONP má finna orðið í AM 764 4to Fiỏrum (c1360–1380). sem hronn] vantar í ÍB 138 4to, 198v og SÁM 6, 74.

325 Rafn, Fornaldar sögur Nordrlanda, III:570.

135

Skrucka 26– Heitið Skrukka birtist í Allra flagða þulu sem er í Vilhjálms 28 sögu sjóðs, í AM 343 a 4to (c1450–1475). Þar er verið að telja upp 90 tröll sem eiga að standa kyrr þar til búið er að kveða þuluna. Skruckaʃt 3 Orðatiltækið kemur einnig í ÍB 138 4to, 188v og SÁM 6, 56. á fætur Skv. Íslenskri orðsifjabók merkir orðið skrukka „gömul hrukkótt kerling“. Hér er merkingin sennilega að staulast á fætur eins og gömul kerling. Slippa 3 Í Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar (1514/15–1556) er var prentað á Hólum árið 1540, stendur í kaflanum „Opinberanir S. Jóhannis“: „Sá var klæddur síðri slyppu […]“326 Orðið „slyppa“ er í Íslenskri orðsifjabók þar sem það merkir: „kápa, yfirhöfn.“ Þar er síðan vísað í orðin „slumpa og slympa“ og þá er merkingin „úlpa, yfirhöfn“. Skv. ONP er orðið í Thómass sögu erkibyskups í GKS 1008 fol (c1400), en þar segir „leggr hann af ser nidr guduef ok silkiklædi, enn tekr upp suarta skickiu ok huita slyppu med kanunka uigslu.“327 Í merkingunni: „korkjole, messesærk.“ Soppur 4 Orðið er einnig í ÍB 138 4to, 189r og SÁM 6, 57. Skv. ONP er orðið í Bósa sögu í AM 586 4to (c1450–1500), en þar segir „sló hann þá augat úr einum með soppinum,“ og skv. Íslenskri orðsifjabók merkir orðið: „knöttur, bolti.“

spiȯta 9 Orðatiltækið kemur einnig fyrir í ÍB 138 4to, 191v og SÁM 6, l gumm 62. Skv. ONP kemur fram að í Gulaþingslögum í Don Var 137 4to (c1250–1300) er mælt í lögum hvernig vopn menn skulu bera, fyrir utan breiðexi, sverð, skal vera spjót og skjöldur. Skv. Íslensku textasafni kemur orðið t.d. fyrir í Eyrbyggja sögu, Grettis sögu og Göngu-Hrólfs sögu.

Stólpa- 36 Elsta dæmi um orðið er að finna í Holm. Perg. 7 4to (c1300– 1325), „þeir toko hofn i Stolpa svndvm“ í Konráðs sögu sund keisarasonar. Það kemur fram í AM 624 4to, (c1500), Ævintýr (Dæmisögur): Exempla, að staðurinn er hjá Miklagarði: „til Mikklagarðs kemr hann ok leggr í Stólpasund nærri keisarans bryggju.“ Strauma 46, Orðið „Straumadæld“ eða „Strauma dæld“ skilaði engum Dælld 50 niðurstöðum í leit á, Málið.is, Íslensku textasafni Stofnunar Árna Magnússonar, ONP, í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans eða á Google. Svefn- 13 Orðið er einnig í ÍB 138 4to, 193v og SÁM 6, 66. þorn

326 Oddur Gottskálksson, Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar, 530. 327 Unger, Thomas Saga Erkibyskups: Fortælling om Thomas Becket Erkibiskop af Canterbury: To Bearbeidelser samt Fragmenter af en tredie., 317.

136

Skv. ONP er eitt elsta dæmið úr Völsunga sögu í NKS 1824 b 4to (1400–1425). Skv. Íslensku textasafni kemur orðið t.d. einnig fyrir í Göngu-Hrólfs sögu, Hæsna-Þóris sögu og Hrólfs sögu kraka. Þara 18 þara brok] þara brok ÍB 138 196r; þara bruk SÁM 6, 70. brok Skv. Íslenskri orðsifjabók merkir orðið „brúk“: „hrúga, dyngja, einkum í sams. þarabrúk h. ‚þaradyngja‘“. Skv. ONP er eitt elsta dæmið í Orkneyinga sögu í AM 325 I 4to (c1300).

Villdiſs 45, Skv. ONP er eitt af elstu dæmum í Magnúsar sögu lagaætis í menn 50 AM 325 X 4to (c1370). Skv. Íslenskri orðabók merkir orðið „vildismaður“: „vildarvinur“.

137

Viðauki 8: Samanburður á texta Textar NKS 1802 4to, bls. 26 og ÍB 138 4to, bl. 199r eru nánast eins, en texti SÁM 6, bls. 75–76 er ítarlegri um fimi Tryggva í rúmi Skrukku og hans hvílubrögð. Umframtexti er hér auðkenndur með skáletri. NKS 1802 4to, bls. 26 Fijrʃta kvolld er Triggvi var kominn I af heller Trollʃkeſsunnar Leider hün hann ad Tijgulegre Sæng og seiger ad hann þar h tta skuli. Hvȯrt villtu nu helldur Triggvi seiger hün liggia hier Einn ʃamann edur eg liggi hi þier? Hi þier vil eg liggia seiger Triggvi. Skieſsa þeſsi hiet Skrucka. Barnalega lætur þu kallmadur ʃeiger Skrucka og mun mier Ecki mein ad vera þö Eg liggi nærre þier Soddann lijtilmenni og pervijſe ſem þu ert. Ad odru mun þier verda enn Ieg verdi þier Lijtilmenni I Rüminu ʃeiger Triggvi og hefe Ieg hijngad til ecki hatad kvenholldid. Reijna mȧ þetta ʃeiger Skrucka, h tta þaug nu bædi og hallda þeſsu fram umm veturinn og ber ei neitt til Tijdinda. ÍB 138 4to, bl. 199r Fijrſta kvolld er Trig(gvi) var kominn i afheller Trollſkeßu Leider hun hann ad Tijgulegre sæng; og seiger hann þar hatta skule, hvort viltu s(eiger) Kerling liggia hier Einn ſamall edur eg ligge hia þier. Hi þier vil eg liggia s(eiger) Trig(gvi). Skießa þeße hiet Scrucka. Barnalega lætur þú s(eiger) Scrucka og mun mier Ecki mein ad vera þö eg liggir nærre þier ſoddann lijtilmenne ſem þu ert, ad odru mun þier verda s(eiger) Trig(gvi) enn eg verdi þier Lijtilmenne i Ruminu og hef eg hingad til ej hatad kvenholded. Reina má þetta s(eiger) Scrucka, h tta þaug nu bædi og halda þeßu aframm um veturinn og verdur ej neitt til tijdinda. SÁM 6, bls. 75–76 Fyrſta kvỏlld er Triggvi var kominn i afheller trỏllkonunnar leidde hun hann ad Tigulegre sæng, og ſagde hun þar hätta ſkyllde. Hvȯrt villtu nu helldur, ſagde hun, liggia hier einʃamall eda Ieg liggi hiä þier? Hiä þier vil eg liggia ſeger Triggvi, ſkiessa þesse hiet Skrucka. Barnalega lætur þú, ſagde hun, og mun mier ecki mein ad vera, þö eg ligge nærre þier ſoddann litilmenne og pervijſe, ſem þu ert, ad odru mun þier verda enn Ieg verde þier litilmenne i Ruminu ʃagde Triggvi. Eg hef nu hingad til ei hatad kvennhollded. Reinia mä þetta ʃagde ſagde328 Skrucka. og lättu mig þä ej vanta þad ſem þu ätt til ad leggia, ſo eg þurfe þig ej þar umm ad ſeija. Nei, nei, ſagde Triggvi nög ſkalltu fä og hafa ädur vid ſkilium. Hätta þaug nu bæde, og ſnijſt Triggvi fimlega ad Skieſsunne enn hun leggur ſig miuklega til lagz vid hann, med koſum og fadmlögum, og hallda þaug þeſum leik umm nöttina, og þar eftir hvỏria nött umm veturinn, ſkießan þikeſt ei þurfa ad ſeija honum umm hvilubrỏgden. Og ber nu ei til tidinda.

328 ſagde] tvítekið í SÁM 6, 76.

138